Færsluflokkur: Dægurmál

Efling Alþingis

Fyrsti kafli Stjórnarsáttmálans á eftir Inngangi heitir "Efling Alþingis".  Þar er þó ekki snert við málaflokki, hvar niðurlæging Alþingis er mest, heldur látið svo heita, að eflingu Alþingis megi helzt verða það til framdráttar, að fá að skipa í margvíslegar þverpólitískar nefndir.  Er óhætt að fullyrða, að þarna er heldur betur sleginn falskur tónn í upphafi téðs sáttmála:

"Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða settir á fót þverpólitískir hópar í samráði við viðkomandi fagráðherra, m.a. um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, orkustefnu, stjórnarskrá, framkvæmd og endurskoðun útlendingalaga og framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga."

Það er skrýtið að setja þetta í stjórnarsáttmála, því að í þessari romsu um fyrirhugaðar nefndarskipanir ráðherranna felst engin stefnumörkun.  Það getur varla orðið til eflingar Alþingis, að þingmenn fái að sitja í nefndum eða að koma að skipan slíkra. 

Það gæti t.d. orðið til eflingar Alþingis að fara að ráði Vigdísar Hauksdóttur, fyrrverandi Alþingismanns, að efla lagaskrifstofu Alþingis, sem rýna mundi lagafrumvörp m.t.t. þess, hvort þau kunni að stangast á við stjórnlög eða önnur lög og hvort afnema megi að skaðlausu eldri lög samhliða gildistöku nýrra.

Þá hefur það vafalaust á sínum tíma verið hugsað til eflingar Alþingis, að þingmenn skyldu rýna val dómsmálaráðherra á dómurum, t.d. við Landsrétt, sem mest er í umræðunni nú, og samþykkja val ráðherrans eða að breyta því.  Með því liggur í augum uppi, að þingið, yfirboðari ráðherrans, tekur af honum ábyrgðina, sem hann annars ber samkvæmt Stjórnarskrá.  Í þessu sambandi er þá ekki lengur aðalatriði, hvernig ráðherra komst að niðurstöðu sinni.  Að matsnefndin skyldi ekki veita ráðherranum neitt svigrúm um val, er áfellisdómur yfir ábyrgðarlausri matsnefnd, en ráðherrann sinnti rýniskyldu sinni innan þess þrönga tímafrests, sem henni var settur í lögum.  

Á meðal Alþingismanna má virkja betur sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum með því að efla aðstoð við þá á Alþingi í stað þess að kaupa að rándýra sérfræðiþjónustu. Þetta væri til þess fallið að spara fé og að efla sjálfstæði þingsins.  

Þó yrði eflingu og virðingu Alþingis það mest til framdráttar, ef ákveðið yrði, að nóg væri komið af því að gegna "stimpilhlutverki" á Íslandi fyrir tilskipanir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, og fyrir lög frá þingi ESB, s.k. Evrópuþingi, sem er rangnefni.  Á 24 ára skeiði aðildar Íslands að EES-Evrópska efnahagssvæðinu, hefa að jafnaði á hverju ári verið tekin 460 lög í íslenzka lagasafnið og reglugerðir í opinbera reglugerðasafnið hérlendis.  Þetta eru að öllum líkindum meiri afköst en afköst þings og embættismanna í málum af innlendum uppruna.  Þetta flóð frá búrókrötum í Brüssel hefur tekið út yfir allan þjófabálk og gert íslenzka embættismenn að þjónum ESB og svipt íslenzka þingmenn raunverulegu löggjafarvaldi í miklum mæli. 

Hafa ber í huga, að flestar gerðir ESB, sem teknar eru inn í EES-samninginn, hafa kostnað í för með sér fyrir hið opinbera, fyrir atvinnulífið og þar með að lokum fyrir þjóðina alla.  Hversu mikill þessi "skriffinnsku- og eftirlitskostnaður" í raun er, er afar mikilvægt að leggja mat á.  Við þetta þarf að bæta beinum útlögðum kostnaði vegna aðildarinnar að EES-samninginum, og taka þar með ferðir og uppihald vegna s.k. samráðsfunda EFTA og ESB, sem ekki verður séð, að neinu handföstu hafi skilað, ásamt þýðingarkostnaði á 11´000 "gjörðum" á 24 árum.

Þennan kostnað þarf að bera saman við ávinninginn, sem er t.d. fólginn í meintum mismuni á viðskiptakjörum Íslands, Noregs og Liechtenstein við ESB annars vegar og hins vegar kjörum í viðskiptasamningi Svisslands og ESB eða bera saman við nýgerðan viðskiptasamning Kanada við ESB. 

Blekbóndi ætlar hér að gerast svo djarfur að varpa fram þeirri tilgátu, að EES-samningurinn sé fjárhagslega óhagstæðari, svo að hafið sé yfir allan vafa. Með uppsögn EES-samningsins og gerð tvíhliða viðskiptasamnings, sem samningur Kanada og ESB gæti verið fyrirmyndin að, losna þjóðþing Noregs og Íslands við gagnrýni um, að þau brjóti stjórnarskrár landanna með því að taka viðurhlutamiklar gerðir ESB upp í lagasöfn sín.  

Þar er nú að komast í eldlínuna "Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB".  Óhætt er að segja, að hann feli í sér stórfellt fullveldisframsal fyrir bæði Ísland og Noreg, því að með samþykkt hans færa þjóðþingin miðlægri orkustjórnsýslustofnun ESB, sem nefnist því sakleysislega nafni "Agency for the Cooperation of Energy Regulators-ACER" völd yfir raforkuflutningsmálum ríkjanna, þ.e. yfir meginhluta Orkustofnunar og alfarið yfir Landsneti hérlendis.  Út frá hagsmunamati fyrir Ísland og Noreg er þetta allt of langt gengið.  "Þriðji orkumarkaðslagabálkur" ESB er í viðamiklum og áferðarfallegum umbúðum og þjónar sjálfsagt hagsmunum meginlandsríkja Evrópu, en aðstæður í orkumálum Noregs og Íslands eru gjörólíkar aðstæðum á meginlandinu, og hagsmunir þessara tveggja Norðurlands samræmast ekki orkuhagsmunum meginlandsins.  Vonandi átta nægilega margir Alþingismenn sig á því í tæka tíð.    

 

 


EES-samningurinn verður sífellt stórtækari

Þann 23. janúar 2018 voru mótmæli fyrir framan Stórþingsbygginguna í Ósló vegna fyrirætlunar norsku ríkisstjórnarinnar um að fá Stórþingið til að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn með einföldum meirihluta atkvæða.  Þessi mótmæli sýna, að það getur hitnað í kolunum í Noregi, og þá einnig á Íslandi, ef mörgum finnst, að verið sé að afhenda ESB "erfðasilfrið".  

Norska stjórnarskráin áskilur, að 75 % atkvæða í Stórþinginu þurfi til að samþykkja fullveldisframsal norska ríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar, sé ekki um hefðbundinn þjóðréttarlegan samning að ræða. Ríkisstjórnin skákar í því skjólinu, að fyrirmælin um að framkvæma ákvarðanir ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators-orkustjórnvaldsstofnun ESB) komi frá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, en ESA verður aðeins ljósritandi milliliður í blekkingarskyni fyrir EFTA-ríkin, sem þannig þurfa ekki að taka við fyrirmælum beint frá ESB, er varða bæði hagsmuni ríkisins, lögaðila og einstaklinga í Noregi, á Íslandi og í Liechtenstein, sem væri skýlaust stjórnarskrárbrot.  

Það er norska verkalýðshreyfingin, sem hélt þennan útifund við þinghúsið, og það var ekki að ófyrirsynju.  Raforka var gerð að markaðsvöru í Noregi með orkulögum árið 1991.  Þeim svipar til íslenzku orkulaganna frá 2003, sem sett voru eftir upptöku Annars orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn að hálfu Alþingis.  Með þessum lögum er raforkan gerð að markaðsvöru í stað þess að vera "þjóðareign", eins og náttúruauðlindirnar, sem nýtt sé landsmönnum um allt land til hagsbóta, ekki sízt til að tryggja byggð um landið allt.  

Þegar Noregur varð hluti af "Nord Pool"-norræna orkumarkaðinum 1993, sem nú spannar einnig Eystrasaltslöndin, myndaðist uppboðsmarkaður fyrir raforku í Noregi. Hann hefur þó ekki haft mjög mikil áhrif, af því að verið hefur offramboð raforku á "Nord Pool" svæðinu.  Seinna var lagður öflugur sæstrengur til Hollands, og í kjölfarið hafa stór iðnfyrirtæki með langtíma samninga um raforku séð sér hag í að draga úr starfsemi sinni og selja orkukaupaheimildir sínar á markaði með umtalsverðum hagnaði.   

Þetta leiddi til uppsagnar starfsfólks og sums staðar til lokunar verksmiðjanna.  Ef ACER nær tangarhaldi á raforkuflutningsmálum Noregs, mun útibú hennar í Noregi, "Reguleringsmyndighet for energi", skammstafað RME, taka við stjórn hluta Orkustofnunar Noregs, NVE, Statnetts, norska Landsnets og raforkumarkaðarins, og fella "Nord Pool" inn í raforkumarkað ESB, enda eru öll aðildarlönd "Nord Pool" innan EES. Þá mun stálbræðsla við Stuttgart geta keypt "græna" orku frá Noregi á meginlandsverði.  Er ekki að efa, að þá mun verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum í Noregi, er raforkureikningur hans tvö-þrefaldast.

Samkeppnisskilyrði norskra fyrirtækja munu hríðversna, sem auðvitað kemur illa niður á atvinnuástandinu í Noregi, ekki sízt, þar sem undan fæti hallar hjá olíuiðnaðinum.  Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að norsk verkalýðsfélög skyldu boða til mótmælafundar framan við Stórþingsbygginguna í Ósló 23.01.2018.  

 Í meginatriðum mun hið sama eiga við á Íslandi og í Noregi, ef ACER ákveður, að aflsæstreng skuli leggja á milli Íslands og meginlandsins, hugsanlega með viðkomu á Bretlandi.  Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi verða ekki virt viðlits varðandi slíkt sæstrengsverkefni, ef í ACER verður tekin sú ákvörðun að auka hlutdeild "grænnar" raforku í ESB með útflutningi raforku frá Íslandi til ESB. Það er einmitt hlutverk ACER að auka raforkuflutninga á milli landa vafningalaust og án tafa að hálfu yfirvalda í hverju landi, sem kynnu að hafa aðra skoðun en meirihlutinn í ACER. 

Völd ACER og útibús hennar á Íslandi verða næg til að skipa Landsneti fyrir verkum um að tengja sæstrenginn og að gera kleift að flytja næga raforku að honum, e.t.v. að afli um 1200 MW, sem er tæplega helmingur aflgetu núverandi virkjana á Íslandi.  

Geta má nærri, að þrýstingur virkjanafyrirtækja um rannsóknar-, byggingar- og starfsleyfi fyrir nýjar virkjanir mun vaxa mjög eftir innleiðingu þessa fyrirkomulags í von um skjótfenginn gróða, sem þó er ekki víst, að vari lengi.  Orkulindirnar hafa að vísu ekki verið teknar eignarnámi eða keyptar með þessu fyrirkomulagi ESB, en ráðstöfunarréttur þeirra hefur verið fluttur úr landi til ACER í Ljubljana, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn.  Hugnast meirihluta Alþingismanna þessi framtíðarsýn ?  Er ekki ráð að staldra við og sjá, hvernig málin þróast í Noregi ?

 

 

 


Skattar og stjórnarsáttmálinn

Ísland er háskattaland.  Við því er að búast vegna norrænnar (samstöðu) menningar þjóðarinnar, sem þar býr, stærðar landsins og fámennis.  Það er viðtekin hugmyndafræði í landinu um, að æskilegt sé að nýta landið allt og hafið í kring og að til þess þurfi megnið af láglendinu að vera í byggð.  Þessu fylgja dýrir innviðir af öllu tagi, og þeir verða ekki til né þeim við haldið án atbeina hins opinbera.  Þar með er komin uppskrift að mikilli "samneyzlu", en um leið möguleikar á að nýta gæði landsins alls og sjávarins.  Byggð í landinu öllu veitir jafnframt tilkalli þjóðarinnar til landsins alls siðferðilegt réttmæti, sem getur orðið þýðingarmikið nú og á næstu árum, þegar við sjáum holskeflu hælisleitenda skella á ströndum Evrópu, sumpart vegna ófriðar, sumpart vegna stjórnleysis/rotinna þjóðfélaga og sumpart vegna afleiðinga loftslagsbreytinga.  Marga þeirra má sem sagt kalla "umhverfisflóttamenn", því að ein ástæðan fyrir því, að þeir hafa flosnað upp úr heimkynnum sínum, eru skaðlegar breytingar á lífríkinu í kjölfar loftslagsbreytinga. Það verður enginn friður um það í Evrópu að taka við ógrynni framandi fólks úr frumstæðum heimkynnum, jafnvel í miðaldalegum trúarfjötrum.   

Íslenzku þjóðinni, sem verður æ blandaðri (meiri genafjölbreytni ?), hefur fjölgað vel frá aldamótum.  Nemur fjöldi ríkisborgara hérlendis nú um 350 k (=þúsund) og enn fleiri búa hér, vinna hörðum höndum (þótt einstaka séu afætur) og greiða skatta og skyldur til samfélagsins.  Það eru því fleiri til að standa undir samneyzlunni en áður, en á móti kemur, að ríkisreksturinn og annar opinber rekstur hefur þanizt út til góðs og ills.  Ráðstöfunartekjur almennings hefðu því aðeins aukizt jafnmikið og raun ber vitni um, að hagvöxtur hefur verið mikill, um 7,2 % 2016 og 4,5 % 2017.  

Samhliða útþenslu ríkisbáknsins hefur skattbyrðin aukizt gríðarlega.  Heildarskatttekjur ríkisins sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu), að teknu tilliti til greiðslna til almannatrygginga, nema nú 33 %.  Aðeins Danmörk og Svíþjóð búa við hærra hlutfall innan OECD eða 46 % og 34 %.  Meðaltal OECD er aðeins 25 %.  Athygli vekur, að Noregur og Bretland, þar sem samneyzla hefur verið talin töluverð, eru aðeins með 27 %.  

Það, sem er uggvekjandi í þessu sambandi, er, að íslenzka þjóðin er enn tiltölulega ung með um 13 % fólksfjöldans yfir 66 ára aldri, en t.d. Þjóðverjar með um tvöfalt fleiri eldri borgara að tiltölu en Íslendingar, ná að halda téðu skatthlutfalli niðri í 23 %.  Það er alveg ljóst, að það verður meiri háttar verkefni á næstu árum og áratugum að viðhalda hér kaupmætti ráðstöfunartekna, en heildarlaunatekjur landsmanna að meðaltali eru nú hvergi hærri í Evrópu en á Íslandi, nema í Alparíkinu Sviss. Jöfnuður tekna og eigna er jafnframt hvergi meiri í Evrópu.

Til að varðveita eftirsóknarverðan efnahagsstöðugleika og félagslegan stöðugleika (með lóðréttum hreyfanleika á milli stétta) er nauðsynlegt að leggja nú höfuðáherzlu á viðhald kaupmáttar í stað hárra prósentuhækkana á laun, sem aðeins grafa undan velferðinni við núverandi aðstæður, að lækka árleg vaxtagjöld ríkisins um a.m.k. miaISK 40 á kjörtímabilinu, og að auka útflutningstekjur landsmanna um u.þ.b. 50 miaISK/ár.  

Tekjur ríkisins af innheimtu tryggingagjalds árið 2017 námu um miaISK 87.  Þessar ríkistekjur eru meiri en af tekjuskattsinnheimtu af fyrirtækjum og meira en helmingur af tekjuskatti einstaklinga.  Þær eru miklu meiri en þörf er á til að standa straum af þeim útgjöldum ríkisins, sem samsettu tryggingargjaldi er ætlað að fjármagna.  Vegna bágborinnar samkeppnisstöðu margra fyrirtækja, einkum hinna minni með tiltölulega há launaútgjöld af heildarútgjöldum sínum, hefði verið eðlilegt útspil við frágang fjárlaganna í desember 2017 að lækka almenna tryggingargjaldið um 0,5 % og bíða síðan með 0,5 % - 1,0 % frekari lækkun uppi í erminni til að geta greitt fyrir gerð kjarasamninga.

Í merkri baksviðsgrein Morgunblaðsins 26. október 2017, "Skattabylgjan bitnar á fyrirtækjum",

birti Baldur Arnarson viðtal við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann Efnahagssdviðs Samtaka atvinnulífsins-SA, þar sem hún kvað mikið verk óunnið við að vinda ofan af skattahækkunum, sem dembt var yfir þjóð í sárum á árunum eftir Hrun.  Skattkerfið hafi þá "verið gert flóknara og óhagkvæmara fyrir fyrirtækin".  Ásdís kveður "einkenna gott skattkerfi, að það sé einfalt, fyrirsjáanlegt, skilvirkt og gagnsætt".  Þrepskipt skattkerfi og flókið samspil skattheimtu og bótakerfis fullnægir ekki þessum skilyrðum Ásdísar.  Greiðslur almannatrygginga ættu að njóta skattfrelsis, enda eru þær lágmarksgreiðslur. 

"Því [að] háar skattaálögur á fyrirtæki og heimili hafa um leið áhrif á samkeppnishæfni þjóðarbúsins.  Þótt stigin hafi verið mikilvæg skref í rétta átt hér á landi, er þörf á frekari umbótum í skattkerfinu.  Um 240 skattabreytingar frá árinu 2007 endurspegla ekki mikinn fyrirsjáanleika í skattkerfinu.  

Stöðugleiki skiptir miklu máli fyrir íslenzk fyrirtæki sem og heimilin í landinu. Þar er lykilatriði, að hægt sé að ganga að því vísu, að ekki sé ráðizt í miklar breytingar milli kjörtímabila."

"Stjórnvöld geta ekki lengur treyst því, að áfram verði verulegur vöxtur á tekjuhliðinni samfara miklum hagvexti.  Með skattstofna í botni og umsvif ríkisins með því mesta, sem þekkist, er eðlilegt að spyrja, hvaða leiðir á að fara, þegar til bakslags kemur í hagkerfinu."

Með skattheimtu í botni, illu heilli líka á sparnað, sbr illa ígrundaða hækkun fjármagnstekjuskatts, og útgjöld hins opinbera jafnframt í methæðum, munu stjórnvöld standa frammi fyrir tveimur valkostum, þegar slær í baksegl hagkerfisins: annaðhvort að gera sársaukafullan uppskurð á opinberum rekstri, sem þýðir að minnka umsvif hans, eða að hækka álögur enn meir á fyrirtæki og einstaklinga, sem þá þegar eru að draga saman seglin.  Slíkt mun auka atvinnuleysið, dýpka efnahagslægðina og getur skapað langvinna kreppu.  Þetta er hættan við núverandi stefnu í ríkisfjármálum, þegar ríkisútgjöld eru aukin mikið á toppi efnahagssveiflunnar án þess að verja auknum skatttekjum til að lækka ríkisskuldirnar enn hraðar.  Þess vegna er ráðdeild í ríkisrekstri lífsnauðsynleg fyrir lífskjör almennings, og þess vegna voru tillögur stjórnarandstöðunnar um enn meiri aukningu ríkisútgjalda án sparnaðar annars staðar við afgreiðslu fjárlagafrumvarps 2018 í senn óskynsamlegar og óábyrgar og hefðu komið sem bjúgverpill í andlit þeirra, sem sízt skyldi, ef þær hefðu hlotið brautargengi.  Ríkissjóður er ekki góðgerðarstofnun.   

 

   


Að þvælast fyrir atvinnulífinu

Suma stjórnmálamenn skortir algerlega skilning á mikilvægi öflugra fyrirtækja fyrir hag verkafólks og allra annarra launamanna, raunar líka fyrir hag sveitarfélaga, ríkissjóðs og þjóðfélagsins alls.  

Þeir einblína á skattheimtu ríkissjóðs af fyrirtækjunum og skilja ekki, að tekjustreymið til ríkissjóðs frá þeim á sér marga farvegi, enda fer þar öll verðmætasköpun hagkerfisins fram, og hörð skattheimta er fallin til að minnka skattstofninn og þar með heildartekjur ríkissjóðs.  

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er dæmi um svona stjórnmálamann.  Hún var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lungann úr árinu 2017, en vann þessum greinum aðallega ógagn, enda slær hjarta hennar í Berlaymont í Brüsselborg, eins og kunnugt er, þar sem rekin er sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna, sem fæstir Íslendingar vilja nokkuð með hafa.  

Dæmi um þetta er, þegar hún í janúar 2017 neitaði að liðka fjárhagslega til fyrir Hafró um einar MISK 10, svo að stofnunin gæti sent rannsóknarskip á miðin í leit að loðnu.  Útgerðarmenn hlupu þá undir bagga með Hafró, loðna fannst, og þúsundfaldra verðmæta var aflað á við leitarkostnaðinn.  

Síðsumars sama ár neitaði þessi ráðherra að framlengja afslætti á veiðigjöld, sem runnu út 31. ágúst 2017, með þeim afleiðingum, að veiðigjöld útgerðanna tvöfölduðust yfirleitt og þrefölduðust hjá sumum.  Auðvitað hefði ráðherrann átt að nota árið 2017 til að endurskoða reikniregluna.  Það er ekki flókið mál að leiða fram tiltölulega einfalda tvískipta reiknireglu, sem tekur mið af verði óslægðs fiskjar upp úr sjó, þar sem annar hlutinn tekur ekki mið af afkomu, heldur er aðgangsgjald að miðunum, en hinn hlutinn er afkomutengdur, tekur tillit til auðlindarrentunnar, eins og sýnt hefur verið á þessu vefsetri:

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2206667 

Núna nema veiðigjöldin 12 % - 14 % af aflaverðmæti, og í augum uppi liggur, að við allar aðstæður er þetta allt of há gjaldtaka af útgerðunum, um þrefalt það, sem eðlilegt getur talizt í núverandi árferði.

  Forsætisráðherra hefur sagt, að sú endurskoðun, sem nú er hafin, sé miðuð við að taka gildi á næsta fiskveiðiári, sem hefst 1. september 2018.  Þetta er algerlega óviðunandi hægagangur, því að á meðan blæðir útgerðunum út.  Er það þjóðhagslega hagkvæmt ?  Á að drepa útgerðirnar, svo að stjórnmálamenn geti komið sem bjargvættir í byggðirnar með ríkisstuðning upp á vasann ?  Silaháttur stjórnvalda getur verið óþolandi og er í sumum tilvikum stórhættulegur fyrir jafnvægi í atvinnugreinum og byggðafestu í þessu tilviki, þar sem sjávarútvegur er undirstaða byggðar meðfram ströndinni.

Þeim fáránlega boðskap hefur verið haldið á lofti, að einvörðungu verði lækkuð veiðigjöld á litlum og meðalstórum útgerðum. Þetta er í raun boðskapur um, að nú skuli innleiða pólitíska spillingu í íslenzka sjávarútveginn, þar sem vissir stjórnmálamenn ætla að innleiða mismunun útgerðanna eftir stærð þeirra.  Í kjölfarið hæfist örugglega fíflagangur á borð við skiptingu útgerða til að lenda í hagstæðari gjaldflokki eftir stærð.  Þessi mismunun er afspyrnu heimskuleg og óréttlát, og hún stenzt ekki stjórnarskrárvarinn atvinnufrelsisrétt allra.  Stjórnsýslulög yrðu einnig brotin með þessu athæfi, því að með ómálefnalegum hætti væri skattheimtuvaldi beitt til að mismuna lögaðilum í landinu.  

Að umræða af þessu tagi skuli gjósa upp á meðal stjórnmálamanna, sýnir svart á hvítu, að þeir hafa sumir hverjir ekkert vit á atvinnurekstri og ættu að halda afskiptum sínum af honum í algjöru lágmarki.  Í þessu tilviki má spyrja, hvar þeir hafa eiginlega verið, því að megnið af afurðum íslenzks sjávarútvegs fer á markað erlendis, og íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin eru yfirleitt mun minni en þau, sem þau keppa við á erlendum mörkuðum.  Ef ræða á um stærð, þá skiptir þetta stærðarhlutfall meginmáli í þessu samhengi, en ekki innlendur stærðarsamanburður.

Til að varpa ljósi á, að stjórnmálamenn blóðmjólka nú íslenzkar útgerðir með fáránlega háum veiðigjöldum, skal vitna í Morgunblaðið, 3. janúar 2018, bls. 40, þar sem viðtal birtist við Skjöld Pálmason, framkvæmdastjóra Odda hf á Patreksfirði:

"Við stöndum hreinlega ekki undir þessari skattbyrði, sem þarna er sett á okkur.  Eins og þetta er í dag, þá fara um 12 til 14 % af aflaverðmætinu í veiðigjöld.  Það er gríðarlega mikið, þegar hagnaður þessara fyrirtækja fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, er nánast enginn.  Þessi peningur er bara ekki til, því miður."

Hér er verið að lýsa grimmdarlegri rányrkju hins opinbera, sem grefur ekki einvörðungu undan hag eigenda fyrirtækjanna, heldur atvinnuöryggi starfsfólksins og afkomu  viðkomandi sveitarfélaga.  Stjórnvöld verða hið snarasta að snúa af stórhættulegri braut vanhugsaðs gjaldkerfis.  

 "Jafnvel þótt árið 2015 hafi verið sæmilegt rekstrarár, þá var ekki mikill gróði í fyrirtækjunum.  Fjárfestingarþörf fyrirtækja í bolfiskvinnslu var mikil á þessum tíma og er það enn í dag, þar sem menn hafa ekki getað ráðizt í nauðsynlega endurnýjun."

"Þó að verið sé að endurnýja að miklu leyti skipaflota stóru útgerðanna, sem flestar hverjar eru í uppsjávarveiðum, þá hafa venjuleg bolfiskfyrirtæki alls ekki getað fjárfest í nauðsynlegum tækjum og tólum, sem þó er búið að hanna og þróa til að koma okkur framar í samkeppni við aðrar þjóðir.  Ef litið er yfir vertíðarflotann, þá eru þetta meira eða minna fjörutíu ára gömul skip."

Stóru útgerðirnar hafa góðu heilli fjárfest, enda er samkeppnishæfni þeirra í gæðum, framleiðni og kostnaði algerlega háð beitingu nýjustu tækni.  Nú þurfa þær að hafa upp í fjárfestingarnar, og enn þurfa þær að fjárfesta fyrir tugi milljarða ISK á næstu árum í stórum skipum og sjálfvirkum vinnslulínum með vatnsskurðarvélum, ofurkælingu og annarri nýrri tækni.  Minni útgerðir hafa samkvæmt lýsingunni hér að ofan ekki treyst sér til að fjárfesta, af því að framlegð þeirra hefur verið allt of lítil. 

Það er hvorki rekstrargrundvöllur né sanngirnisgrundvöllur fyrir því, að fyrirtæki með litla eða enga framlegð borgi auðlindargjald, því að hjá þeim er augljóslega engin auðlindarenta.  Af þeim ætti einvörðungu að taka hófstillt aðgangsgjald að miðunum, þar til þau hafa rétt úr kútnum, en það geta þau aðeins með fjárfestingum.  Í þessu felst auðvitað engin mismunun í gjaldheimtu eftir stærðarflokkum, því að stórar útgerðir geta líka lent í lágri framlegð, ef illa árar.   

 

 

 


Ríki, borg og húsnæðismálin

Húsnæðiskafli stjórnarsáttmálans frá nóvember 2017 er kyndugur.  Þar stendur í upphafi:

"Öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, er ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags.  [Hér er líklega átt við fjárhagslegt húsnæðisöryggi, en öryggi húsnæðis má ekki síður tengja við verkfræðilega hlið húsnæðis, heilsusamlegt húsnæði eða burðarþolslega traust, t.d. gagnvart jarðskjálftum-innsk. BJo.]  

Í því samhengi skiptir hvað mestu, að hagstjórn stuðli að áframhaldandi lækkun vaxta. [Af þessu er ljóst, að ríkisstjórnin óskar eftir lækkun vaxta.  Nú hefur fyrsta vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands eftir stjórnarskiptin farið fram, og hélt hún stýrivöxtum sínum óbreyttum, 4,25 %.  Ríkisstjórnin fer ekki vel af stað, hvað þetta varðar, því að hún er með þenslufjárlög 2018, þar sem hún stefnir á að auka ríkisútgjöldin hlutfallslega meira en nemur árshagvexti 2017 og 2018 samkvæmt áætlun. Þá hækkar hún verð á vöru með viðbótar gjaldtöku, sem fer rakleitt inn í vísitölu neyzluverðs. "Er hun inte klog ?"  Útgjöld ríkisins eru áformuð um miaISK 25 of há árið 2018 til að "hagstjórn stuðli að áframhaldandi lækkun vaxta"-innsk. BJo.]

Hingað til hafa ríkisstjórnir aðallega örvað eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðarins, en hér örlar þó á skilningi á því, hvert núverandi vandamál húsnæðismarkaðarins er.  Það er of lítið framboð nýrra íbúða, síðan hagkerfið tók að rétta úr kútnum árið 2011. 

Í sveitarfélögum, þar sem húsnæðisverð er yfir kostnaði við nýtt húsnæði, getur ríkið lítið annað gert til að örva framboðið en að selja sveitarfélögunum land í eigu ríkisins, sem þau geta breytt í lóðir.  Það hefur ríkið gert á undanförnum árum, t.d. í Vatnsmýrinni og á Vífilsstöðum í Garðabæ.

Öðru máli gegnir í sveitarfélögum, þar sem húsnæðisskortur ríkir, en verðið er enn undir húsnæðiskostnaði.  Þessi staða er uppi t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem vaxandi starfsemi fiskeldisfyrirtækja hefur valdið langþráðri fjölgun fólks og góðum kaupmætti. Til úrlausnar getur ríkið stofnað nýjan lánaflokk innan Íbúðalánasjóðs með það hlutverk að veita íbúðakaupendum/húsbyggjendum hagstæðari lán en almennt gerist á markaðinum og/eða veitt lántakendum, sem festa kaup á húsnæði í slíkum sveitarfélögum, rétt til að draga vaxtagreiðslur vegna öflunar húsnæðis frá tekjum á skattframtali til að örva byggingaráhugann, þar til húsnæðisverðið fer upp fyrir stofnkostnað nýs húsnæðis.    

Það er óþarfi hjá höfundum húsnæðiskafla stjórnarsáttmálans að kvarta undan skorti á greiningum og gögnum um húsnæðismarkaðinn, a.m.k. hvað höfuðborgarsvæðið varðar. Helgi Vífill Júlíusson birti baksviðs í Morgunblaðinu 13. desember 2017 viðtal við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs SA, þar sem mjög greinargóðar upplýsingar um framboð og eftirspurn á húsnæðismarkaðinum komu fram:

"Við sjáum ekki betur en framboðsskorturinn muni fara vaxandi á næstu þremur árum, ef miðað er við talningu Samtaka iðnaðarins og áætlaða íbúðaþörf á næstu árum.

Að okkar mati er húsnæðisvandinn fyrst og fremst framboðsskortur, og ef fram fer sem horfir, mun skorturinn aukast á næstu árum.  Það þarf því að grípa til einhverra ráða strax til að auka framboð íbúða til að unnt sé að mæta væntri íbúðaþörf.  Að öðrum kosti mun skortur á framboði einfaldlega ýta undir frekari hækkun íbúðaverðs að öðru óbreyttu.

Á það hefur verið bent, að þétting byggðar sé tímafrek aðgerð [og dýr-innsk. BJo], og fyrstu vísbendingar þess efnis eru nú að koma fram. Ef miðað er við 2 síðustu talningar Samtaka iðnaðarins, þá er að hægja á áætluðu framboði um 800 íbúðir fram til ársins 2020.  Það virðist ganga hægar að koma nýju framboði á markaðinn.  

Lítið atvinnuleysi og skortur á vinnuafli leiðir til fjölgunar á erlendu vinnuafli.  Það, sem af er þessu ári, eru aðfluttir umfram brottflutta nú þegar 7000 manns."

Á höfuðborgarsvæðinu verða aðeins fullgerðar um 1200 íbúðir árið 2017, en hefðu þurft að vera a.m.k. 3000 til að fullnægja þörfinni, og þörf er fyrir 10´000 íbúðir á 3 ára tímabili, 2018-2020.  Með horfum á enn meira sleifarlagi, sem nemur 300 íb/ár, á höfuðborgarsvæðinu, er hins vegar útlit fyrir uppsafnaða þörf fyrir a.m.k. 7000 íbúðir við árslok 2020. 

Sleifarlagið hefur leitt til 93 % hækkunar íbúðaverðs síðan 2011.  Á sama tíma hafa laun hækkað um 65 % og vísitala neyzluverðs um 22 %.  Mjög mun hægja á raunlaunahækkunum úr þessu, en með sama ráðslagi munu verðhækkanir á íbúðum halda áfram langt umfram hækkun kaupmáttar.  Það er afleitt útlit fyrir kaupendur fyrstu íbúðar og eiginlega óásættanlegt fyrir stjórnvöld í landinu, sbr stjórnarsáttmálann.  

Þessa hörmulegu stöðu verður að skrifa aðallega á klúður borgaryfirvalda í skipulags- og lóðamálum.  Þau hafa einbeitt sér að þéttingu byggðar, en ekki gætt að því að viðhalda nægu lóðaframboði með því að brjóta nýtt land undir byggð.  Borgaryfirvöld láta hér stjórnast af hugmyndafræði, sem byrgir þeim sýn á raunveruleikann.  Raunveruleikinn er sá, að það er ómögulegt að fullnægja þörfinni fyrir nóg af fjölbreytilegum íbúðum á sanngjörnu verði án þess að byggja upp úthverfi með allri þeirri þjónustu, sem þau útheimta.  Núverandi borgarstjórnarmeirihluti er ekki starfi sínu vaxinn.  Hann skortir þekkingu, nauðsynlega yfirsýn og þjónustulund við borgarbúa, þar sem hann situr uppi í fílabeinsturni og leggur á ráðin um að troða löngu úreltri og óviðeigandi hugmyndafræði sinni upp á lýðinn.     

 

 


Stjórnarsáttmálinn og samgöngumálin

Eina verkefnið, sem nefnt er á nafn í þessum kafla sáttmála ríkisstjórnarinnar og kannski í sáttmálanum öllum, er Borgarlínan, sem tengja á saman miðlæga hluta sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.  Þetta illa ígrundaða verkefni, sem borgarstjórn og skipulagsyfirvöld borgarinnar hafa haft forgöngu um, er einfaldlega allt of dýrt m.v. notagildið fyrir íbúana. Það er dæmigert um mistök stjórnmálamanna, sem láta hugmyndafræðina hlaupa með sig í gönur.  

Það er þó eðlilegt að taka nú þegar frá land fyrir slíka samgönguæð í aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins, en það væri fljótfærnislegt af ríkinu að leggja fram fé á þessu kjörtímabili, 2017-2021, í framkvæmd, sem engin fyrirsjánleg þörf verður fyrir fram undir 2040, ef nú verður farið í aðrar nærtækari og hagkvæmari framkvæmdir.  Það er miklu nær, að Reykjavíkurborg láti af þvergirðingshætti sínum gegn mislægum gatnamótum og leyfi Vegagerðinni að höggva með skilvirkasta mögulega hætti á hættulega og dýra umferðarhnúta með því að hanna og reisa mislæg gatnamót á "stofnbrautum í þéttbýli", sem hún er ábyrg fyrir innan borgarmarkanna.  Er þar fyrst til að taka gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, og núverandi tengingar Miklubrautarinnar eru öryggislega og afkastalega stórlega ámælisverðar.  Þrengingar gatna og stöðvunarljós umferðar við gangbrautir á fjölförnum brautum á borð við Kringlumýrarbraut og Suðurlandsbraut eru aðferðir til að minnka afköst samgönguæða, sem þegar eru of lítil.  Undirgöng ættu fyrir löngu að vera komin á þessa staði.    

Nýr samgönguráðherra hefur gefið þá þröngsýnislegu yfirlýsingu, að gjaldtaka á nýjum leiðum út frá höfuðborgarsvæðinu sé ekki á stefnuskrá hans.  Verði þetta ofnan á, er það til þess eins fallið að seinka fyrir öðrum samgönguframkvæmdum á vegum ríkissjóðs.  Yfirlýsingin gengur þvert á stefnumörkun í samgönguáætlunum til 4 ára og til 12 ára, þar sem segir um Sundabraut:

"Leitað verði leiða til að fjármagna Sundabraut í samstarfi við einkaaðila".

Þá er yfirlýsing ráðherrans undarleg í ljósi þess, að á kjörtímabilinu þarf að taka ákvörðun um ný Hvalfjarðargöng.  Á ekki að leyfa erlendum ferðamönnum að taka þátt í fjármögnun þessa þarfa verkefnis, eins og þeir hafa lagt sitt að mörkun til að flýta uppgreiðslu lána vegna fyrri Hvalfjarðarganga ?  Hvað segja Framsóknarmenn á landsbyggðinni við því, ef taka á framkvæmdakraft úr ríkissjóði frá bráðnauðsynlegum umbótum á landbyggðinni með fordild um, að ríkissjóður verði að standa að fjármögnun allra samgönguumbóta á höfuðborgarsvæðinu, jafnvel þótt vegfarendur hafi þar í sumum tilvikum valmöguleika um gamla eða nýja leið ?

Fréttaskýring Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu 7. nóvember 2017,

"Sundabrautin "föst í forminu"", hófst svona:

"Nú eru liðnir rúmlega 7 mánuðir [frá 21. marz 2017] síðan Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að að taka upp viðræður við ríkið um Sundabraut.

Til upprifjunar er um að ræða braut, sem liggja mun frá Sundahöfn, yfir eyjar og sund og upp á Kjalarnes.  Þetta yrði mesta og dýrasta samgöngumannvirki landsins.  Að verkinu koma Vegagerðin sem framkvæmdaaðili, ríkissjóður sem greiðandi og Reykjavíkurborg sem landeigandi og skipulagsaðili.  

Morgunblaðið kannaði stöðu málsins, og er skemmst frá því að segja, að ekkert hefur gerzt, frá því að borgarstjórn gerði sína samþykkt í marz.  Ekki er hægt að skilja annað á svörum við fyrirspurnum Morgunblaðsins en þeir embættismenn, sem um málið fjalla, séu "fastir í forminu"."

Þessi samþykkt borgarstjórnar frá marz 2017 er hreint yfirvarp að hálfu meirihluta hennar fyrir algeru aðgerðarleysi í málefnum Sundabrautar, sem stafar af áhugaleysi eða beinni andstöðu við verkefnið.  Málsmeðferð meirihluta borgarstjórnar á þessu framfaramáli er hneyksli, sem sýnir, hversu forstokkað afturhald hefur hreiðrað um sig í borgarkerfinu.  Borgarstjórinn fer undan í flæmingi í stað þess að eiga ærlega fundi með Vegagerðinni um þessa mikilvægu samgöngubót. 

Borgarstjórinn hefur klúðrað nægu framboði húsnæðis í Reykjavík með ofuráherzlu á þéttingu byggðar, og nú klúðrar hann samgöngumálum borgarinnar með ofuráherzlu á Borgarlínu í stað mislægra gatnamóta og Sundabrautar.  Lóðaklúðrið hefur sprengt upp húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu algerlega að óþörfu, og samgönguklúðrið veldur óþarflega mörgum umferðarslysum og lengir ferðatíma vegfarenda óþægilega og óþarflega mikið til kostnaðarauka fyrir samfélagið, svo að ekki sé nú minnzt á óþarfa mengun, sem umferðartafir valda.  

Umferðin gegnum Hafnarfjörð er gríðarlega þung, og nemur fjöldinn um torgið á mótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu nærri 50´000 bílum á sólarhring, sem þýðir, að tvöfalda verður hið fyrsta Reykjanesbraut frá mislægum gatnamótum við Kaldárselsveg að mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg. Að gera öll gatnamót Reykjanesbrautar í Hafnarfirði mislæg á næstu 8 árum er mun meira aðkallandi viðfangsefni en að hefjast handa við ótímabæra Borgarlínu, sem virðist vera hugsuð í tengslum við járnbrautarlest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og umferðarmiðstöðvar í Reykjavík (Vatnsmýri).

  "Fluglestin" er einnig algerlega ótímabært verkefni, enda hugarórar einir, að nokkrum fjárfesti detti í hug í alvöru að setja miaISK 100-200 í verkefni, sem mun eiga fjárhagslega erfitt uppdráttar á næstu áratugum. Frumkvöðlar "fluglestarinnar" fóru verulega fram úr sér, enda heyrist ekki frá þeim, nema um háfleyg áform, en einkafjármagn í þetta verkefni lætur á sér standa (í svipaðan tíma eða lengur en nemur þörfinni fyrir Borgarlínu).  

Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur, MBA, reit merka grein um umferðarmál á höfuðborgarsvæðinu í Morgunblaðið, 26. október 2017,

"Samgöngubætur á Reykjanesbraut",

þar sem sagði m.a.:

"Um síðustu aldamót gerði verkfræðistofan VST (nú Verkís) frumdrög að vegstokki við Lækjargötu og Kaplakrika.  Kostnaður var áætlaður miaISK 2,4-2,7.  Uppfærð kostnaðaráætlun til verðlags í dag er í kringum miaISK 8.  Þetta er dýr framkvæmd og ekki fjárveiting í hana í gildandi samgönguáætlun.  Kostnaður við vegstokk við Lækjargötu og Kaplakrika er þó aðeins 12 % - 14 % af áætluðum kostnaði við borgarlínuna.  Sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hljóta því að geta sammælzt um, að þessi framkvæmd verði sett framarlega í forgangsröðina.  

Þá væri raunhæft að reikna með því, að Reykjanesbraut gæti orðið tvöföld með mislægum gatnamótum milli Keflavíkur og Miklubrautar innan 10 ára."

Það verður að mótmæla því harðlega, að ofangreindar umbætur á Reykjanesbraut verði látnar sitja á hakanum vegna óðagots við að hefjast handa við Borgarlínu.  Borgarlína kemst ekki í nokkurn samjöfnuð við Reykjanesbrautarumbætur, hvað fækkun slysa og tímasparnað vegfarenda varðar, og er þar að auki miklu dýrari.  Alþingismenn verða að kynna sér þessa hlið málsins gaumgæfilega hjá Vegagerðinni við næstu endurskoðun 4-ára og 12-ára vegaáætlunar. Það er kominn tími til að heimskuleg hugmyndafræði víki fyrir faglegu mati á staðreyndum og forgangsröðun reistri á slíku mati. 

Í lok tilvitnaðrar greinar sinnar horfði Þórarinn Hjaltason fram í tímann til 2040:

"Ef horft er til lengri framtíðar, t.d. til ársins 2040, þá tel ég raunhæft að gera ráð fyrir samfelldum tvöföldum vegi frá Keflavíkurflugvelli að Borgarnesi um Vesturlandsveg og austur fyrir Selfoss um Suðurlandsveg.  

Sundabraut er eðlilegur hluti af leiðinni um Vesturlandsveg.  Fyrir höfuðborgarsvæðið myndu Reykjanesbraut og Sundabraut hafa mikla þýðingu sem meginstofnvegur frá norðri til suðurs í gegnum svæðið."

Þetta þykir blekbónda vera eðlileg og raunhæf framtíðarsýn fyrir samgönguæðar um það stóra, samfellda atvinnusvæði, sem hér um ræðir.  Verði hún að veruleika ásamt því að greiða fyrir umferð með mislægum gatnamótum eða veggöngum á öllum helztu gatnamótum á Miklubraut og fjölgun akreina samkvæmt viðmiðunum Vegagerðarinnar um ökutækjafjölda á sólarhring, þá verður leyst úr umferðarhnútum höfuðborgarsvæðisins með viðunandi hætti fram til 2040.  Þetta er góður valkostur við Borgarlínuna, sem reist er á fölskum forsendum, mun engan vanda leysa, en skapa alvarlegan fjárhagsvanda og umferðarvanda með þrengingu gatna.  Þar er dæmi um verkefni, sem ótímabært er að setja á 12 ára Vegaáætlun Alþingis.  

 

 

 

 

 

 


Ný ríkisstjórn: umhverfis- og auðlindamál

Orkumál landsins eru fléttuð inn í kafla sáttmála "Fullveldisríkisstjórnarinnar", sem ber heitið "Umhverfis og auðlindamál".  Þessi kafli hefst svona:

"Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.  Skoðaðir verða möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum."

Að setja þetta sem markmið á kjörtímabilinu 2017-2021 orkar mjög tvímælis.  Þetta er stórmál, sem þarf lengri meðgöngutíma, enda hagsmunaaðilarnir mjög margir, t.d. sveitarfélög með skipulagsvald á hluta af miðhálendinu, virkjunarfyrirtæki, Landsnet, hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu og útivistarsamtök.  Hætt er við, að afar torvelt, jafnvel ógjörningur, verði að nýta náttúruauðlindir í þjóðgarði með öðrum hætti en að upplifa þær með leyfi.  

Brýnt er fyrir ferðaþjónustufyrirtækin og flesta ferðalanga, að vegagerð verði komið í nútímalegt horf með upphækkuðum og klæddum vegi um Kaldadal, Kjalveg (allan) og Sprengisand.  Mun fást leyfi til þess í þjóðgarði ? Þetta er ekki einvörðungu hagsmunamál ferðaþjónustunnar, heldur allra vegfarenda og flutningafyrirtækja á milli landshluta.  Álag á hringveg 1 mundi minnka, umferðaröryggi aukast og leiðir styttast. Ekki sízt er slíkt hagsmunamál Norður- og Austurlands.    

Þjóðgarður er dýr í rekstri með fjölda starfsfólks.  Verður miðhálendisþjóðgarður byrði á ríkissjóði eða verður selt inn ?  Það verður alls ekki séð, að nauðsyn beri til að gera þetta að forgangsmáli nú, en öfgafullir umhverfisverndarsinnar bera þetta mjög fyrir brjósti nú um stundir.  Kannski verður með víðsýnni löggjöf hægt að finna á þessu sáttaflöt, sem flestir geta sætt sig við, en fyrst þarf að sýna fram á gagnsemi aðgerðarinnar. 

Vatnajökulsþjóðgarður mun nú þegar vera stærsti þjóðgarður í Evrópu.  Norðmenn og Svíar eiga víðfeðm óbyggð víðerni innan sinna landamæra.  Hvers vegna hafa þeir ekki stofnað þjóðarða þar, sem spanna mest allar óbyggðirnar ?

Næsta grein í þessum kafla stjórnarsáttmálans fjallar um orkumál.  Stefnumörkun þar er þó tiltölulega rýr í roðinu, en í grein síðar vísað til, að "langtímaorkustefna [verði] sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka.  Í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda [fyrir] orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf.  Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af orkustefnunni."

Þetta er gott og blessað, og með síðustu málsgreininni er gælum Landsvirkjunar við sæstreng til Bretlands kastað á ruslahauga sögunnar, því að í ljós mun koma, að orkuskiptin og almenn aukning raforkuþarfar fólks og fyrirtækja þarfnast alls þess afls, sem leyfilegt verður að virkja samkvæmt Rammaáætlun.

Nú háttar hins vegar þannig til, að á döfinni er að innleiða þriðju tilskipun ESB í orkumálum á öllu EES-svæðinu.  Téð tilskipun færir forræði orkumála frá rétt kjörnum valdhöfum ríkjanna til orkumiðstöðvar ESB, ACER, sem getur ákveðið að styrkja einkafyrirtæki til að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands og skikkað Landsnet til að tengja hann við stofnkerfi landsins.  Tilskipunin kveður á um stofnun raforkukauphallar í hverju landi, og með þessu móti verður hægt að bjóða í raforku frá Íslandi, hvaðan sem er innan EES.  Skylt verður að taka hæsta tilboði.  Ef Alþingi samþykkir þessa tilskipun sem lög, mun það framvísa fullveldi landsins yfir raforkumálum sínum til Brüssel og ACER.  Þar með verður tómt mál að tala um íslenzka orkustefnu, og eigendastefna Landsvirkjunar verður lítils virði.  Hvers vegna er ekki minnzt á þetta stórmál í stjórnarsáttmálanum ?  Vefst það fyrir stjórnarflokkunum að taka einarða afstöðu gegn innleiðingu þriðju orkutilskipunar ESB á Íslandi ?  

Með því, sem skrifað er um flutnings- og dreifikerfi raforku má líta svo á, að ríkisstjórnin skuldbindi sig til að standa við bakið á Landsneti við aukningu á flutningsgetu meginflutningskerfisins í þeim mæli, sem dugar til að leysa úr bráðum, staðbundnum orkuskorti á landinu og til að "tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt".  

Þetta má túlka þannig, að ríkisstjórnin muni styðja, að reist verði 220 kV lína frá Blöndu austur um Skagafjörð og til Eyjafjarðar og þaðan um Kröflu til Fljótsdalsvirkjunar og austur að Hryggstekk í Skriðdal með 220 kV jarðstreng um "viðkvæmustu" svæðin í þeim mæli, sem tæknin leyfir.  

"Ekki verður ráðizt í línulagnir yfir hálendið", segir þar.  Ef hér er átt við loftlínu yfir Sprengisand, er þessi stefnumörkun í samræmi við það, sem blekbóndi hefur haldið fram á þessu vefsetri, þ.e. að skynsamlegt sé að leggja jafnstraumsjarðstreng frá virkjanasvæði Þjórsár/Tungnaár yfir Sprengisand til tengingar við meginflutningskerfi Norð-Austurlands.  Samkvæmt núverandi kostnaðaráætlunum Landsnets verður þetta aðeins lítils háttar dýrara en hinn valkosturinn, sem er að leggja 220 kV loftlínu frá t.d. Sigöldu um Suð-Austurland og að Hryggstekk í Skriðdal og loka 220 kV hringnum að vestan með 220 kV línu frá Brennimel við Grundartanga um Vatnshamra, Glerárskóga, Hrútatungu, Laxárvatn og til Blöndu.  Allir valkostir gera ráð fyrir 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun að Kröflu og þaðan til Eyjafjarðar og annarri 220 kV línu frá Blöndu um Skagafjörð til Eyjafjarðar til að tryggja Mið-Norðurlandi næga raforku.  

Umhverfislega hefur DC-strengurinn kosti umfram loftlínuna, aflstýringarlega gefur hann möguleika á meiri stöðugleika raforkukerfisins við álagsbreytingar og bilanir en loftlínan, og í stöðugum rekstri gefur hann möguleika á að bezta aflflutningana m.t.t. lágmörkunar afltapa í stofnkerfinu. Að öllu virtu er DC-jarðstrengur yfir Sprengisand ákjósanlegri en langar 220 kV loftlínur, sumpart um áhrifasvæði eldgosa og um ferðaleiðir náttúruunnenda.      

Vestfirðir hafa setið á hakanum varðandi afhendingaröryggi raforku, svo að ekki er vanzalaust.   Hluti af lausninni á þessu viðfangsefni er, að Landsnet færi 66/33 kV flutningskerfi sitt á Vestfjörðum í jörðu, eins og tæknilega er fært. Þessi aðgerð styðst við stjórnarsáttmálann, og Landsnet ætti þess vegna að setja þessa aðgerð á framkvæmdaáætlun næstu ára hjá sér, enda skapa Dýrafjarðargöngin mikilvæga leið fyrir tengingu á milli suður- og norðurfjarðanna um jarðstreng.    

Þetta mun þó ekki duga, heldur er hringtenging raforkuflutningskerfis Vestfjarða nauðsynleg forsenda fyrir viðunandi afhendingaröryggi raforku þar.  Til að slík hringtenging komi að gagni, þegar truflun verður á Vesturlínu, sem er oft á ári, þarf að reisa nýja aðveitustöð í Ísafjarðardjúpi, t.d. á Nauteyri, og tengja virkjanir inn á hana, sem gera Vestfirðinga sjálfum sér nóga um raforku.  Frá Nauteyri þarf síðan tengingu norður til Ísafjarðar, m.a. um sæstreng, og inn á Vesturlínu eða alla leið að Mjólká.

Höskuldur Daði Magnússon skrifar baksviðsgrein í Morgunblaðið 2. desember 2017:

"Pólitískur ráðherra, ekki fagráðherra":

"Ráðherra [Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra] hefur þegar velt því upp, hvort skynsamlegt sé að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi.  Nefndi hann í viðtali á Rás 2, að skynsamlegt væri að bera saman kosti þess að reisa umrædda virkjun og að stofna þjóðgarð.  Hann sagði jafnframt, að sú skýring, að virkjunin myndi auka raforkuöryggi á Vestfjörðum væri langsótt.  "Það, sem þarf að laga varðandi raforkumál á Vestfjörðum, er að tryggja betur afhendingaröryggi orku.  Þar myndi ég vilja sjá, að horft yrði til, hvaða möguleikar eru til staðar [d. til stede] til að setja raflínur í jörð á þessu svæði.""

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar kemur greinilega með böggum hildar inn í ríkisstjórnina, og það á ekki að láta hann komast upp með það múður (bolaskít), sem hann ber hér á borð. Vestfirðingar hljóta að taka á honum, eins og þeirra hefur löngum verið von og vísa. Það er orðinn kækur hjá afturhaldssinnum, sem ekki bera skynbragð á mikilvægi nýrrar raforkuvinnslu fyrir vaxandi samfélag, að stilla stofnun þjóðgarðs á virkjanasvæði upp sem valkosti við virkjanir.  Verðmætasköpun í þjóðgarði er fátækleg í samanburði við verðmæti, sem sköpuð eru með starfsemi á borð við laxeldi, sem auðvitað þarf stöðugan aðgang að raforku á hagstæðu verði.  

Guðmundur Ingi, nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, vill troða þjóðgarði upp á Vestfirðinga, en þeir hafa ekki beðið um hann, svo að hátt fari.  Hér kennir óþolandi forræðishyggju, yfirgangs og frekju gagnvart dreifbýlisfólki, sem nú sér mikil tækifæri í fiskeldi.  Er Lilja Rafney, Alþingismaður í NV, að biðja um þjóðgarð á Vestfjörðum í stað virkjunar ?  Ekki gerði hún það í kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar 28. október 2017, svo að áberandi væri.

Sú staðreynd, að vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum, t.d. Hvalárvirkjun, auka afhendingaröryggi raforku þar, er ekki langsótt, eins og ráðherrann heldur fram, heldur auðskilin þeim, sem ekki stinga hausnum í sandinn.  Þegar 132 kV línan Hrútatunga-Glerárskógar-Mjólká bilar, sem gerist oft í illviðrum, þá fá Vestfirðir enga raforku frá stofnkerfi Landsnets, heldur verður þá að keyra olíukyntar neyðarrafstöðvar, t.d. nýlega neyðarrafstöð Landsnets í Bolungarvík, og  hrekkur ekki til.  Það er auðvitað lágreist framtíðarsýn fyrir ört vaxandi atvinnulíf Vestfjarða að verða að reiða sig á olíukyntar neyðarrafstöðvar oft á ári, sem ekki anna álaginu.  

Þá er í sáttmálanum boðað, að sett verði lög um vindorkuver og að samdar verði leiðbeiningar um skipulag og leyfisveitingar fyrir sveitarfélög, þar sem áform eru uppi um uppsetningu vindorkuvera.  Hér þarf að taka tillit til séríslenzkra aðstæðna fyrir burðarþol og styrk vindmyllumannvirkja, þar sem vindhviður geta orðið sterkar.  Þá þarf að huga að fuglavernd, hávaða, landslagsáhrifum og tæknilegum og viðskiptalegum tengiskilmálum við raforkukerfið í þessu sambandi. Á íslenzkan mælikvarða geta  umhverfisáhrif af vindmyllugörðum verið veruleg, og vinnslukostnaður raforku og tengikostnaður við raforkuflutningskerfið sömuleiðis.  Hins vegar má oftast hafa af þeim full not, þegar vindur blæs, því að þá má spara vatn í miðlunarlónum vatnsaflsvirkjana.

Í þessum kafla er síðan grein um fráveitur:

"Gera þarf átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, en veruleg þörf er á uppbyggingu í þessum málaflokki."  

Þetta er mjög tímabært.  Það er ekki fullnægjandi að grófsía og dæla svo soranum út fyrir stórstraumsfjöru.  Það þarf fínsíun niður í 5 míkron, t.d. til að fanga megnið af plastögnum  áður en þær fara í sjóinn.  Þá þarf að gera kröfu um þriggja þrepa hreinsun frá starfsemi, þar sem meðaltal skolps á einhverju 3 mánaða tímabili ársins, sem endurtekur sig á ársfresti, fer yfir s.k. 50 persónueiningar.

Lokagreinin í umhverfis- og auðlindakaflanum er merkileg fyrir ýmsar sakir:

"Dýralíf á Íslandi er hluti af íslenzkri náttúru, sem ber að vernda.  Náttúran er auk þess stærsta aðdráttarafl Íslands fyrir ferðamenn.  Endurskoða þarf löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum."

Hér er boðuð aukin friðun villtra dýra á Íslandi, en þörf á því virðist vera sett í samband við vinsældir Íslands á meðal erlendra ferðamanna.  Þetta er ósiðlegt viðhorf.  Íslenzku fánuna ber ekki að vernda til að viðhalda straumi erlendra ferðamanna, heldur fyrir hana sjálfa og íbúa landsins af spendýrstegundinni "homo sapiens".  Þar að auki er þetta vandmeðfarið, eins og margt annað, sem snertir náttúruvernd, og nægir að nefna offjölgun álfta og gæsa í landinu, sem valdið hefur bændum búsifjum. Þá þykir staðbundin friðun refs orka tvímælis fyrir jafnvægi í náttúrunni. Friðun rjúpu kann að vera tímabær vegna gríðarlegs skotkrafts, sem fylgir nútímalegum vopnabúnaði.  Allt er bezt í hófi.  

 

 

 


Áform ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum

Heilbrigðismálin hafa orðið bitbein í stjórnmálabaráttunni.  Loddarar hafa reynt að nýta sér sárar tilfinningar margra, sem orðið hafa fyrir heilsubresti eða orðið vitni að slíku. Lítið hefur verið gert úr þjónustu heilbrigðiskerfisins, þótt hlutlægir mælikvarðar bendi til, að það veiti býsna góða þjónustu í samanburði við heilbrigðiskerfi annarra landa. Það er hins vegar alveg sama, hversu miklu fé er sturtað í þennan málaflokk; glötuð góð heilsa verður í fæstum tilvikum að fullu endurheimt, og í sumum tilvikum verður hinum óumflýjanlegu endalokum aðeins frestað um skamma hríð með miklum harmkvælum sjúklingsins.

Talsverður hluti kostnaðar heilbrigðiskerfisins fer í að fást við afleiðingar slysa, og þar hefur læknum og hjúkrunarfólki tekizt frábærlega upp við að tjasla saman fólki á öllum aldri. Risavaxinn ferðamannageiri hefur valdið mikilli álagsaukningu á heilbrigðiskerfið, og gjald fyrir þessa þjónustu á auðvitað að endurspegla kostnaðaraukann og má ekki draga úr öðrum framlögum til geirans.

Íþróttirnar taka sinn toll og er ljóst, að of mikið álag er lagt á s.k. afreksfólk í íþróttum, sem slitnar langt um aldur fram.  Afreksfólkið er þannig að sumu leyti eins og þrælar nútímans, þótt sumir í þessum hópi auðgist vel. Ástundun íþrótta er engu að síður ein af þeim forvörnum, sem hægt er að beita gegn vesældómi, heilsuleysi og glapstigum í nútíma þjóðfélagi, þótt íþróttameiðsli séu of algeng og kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið.  Það er auðvitað svo, að betra er heilt en vel gróið, og þess vegna er því fé og tíma vel varið, sem til hvers konar slysavarna fer. Þar hafa fyrirtæki í erlendri eigu á Íslandi, t.d. álverin, farið á undan með fögru fordæmi, og stórgóður árangur hefur náðst til sjós, þótt gallaður sleppibúnaður björgunarbáta hafi kastað skugga á öryggismálin þar.  

Nú eru tæplega 300 þúsund landfarartæki skráð í notkun í landinu, og þau taka allt of háan mannlegan toll.  Fé, sem varið er til umbóta á umferðarmannvirkjum, ætti allt að miða að því að auka öryggi í umferðinni, og það er leiðarstef Vegagerðarinnar, þótt henni beri lögum samkvæmt að velja lausnir m.t.t. stofnkostnaðar og viðhaldskostnaðar, eins og eðlilegt má telja.  Tafir, sem orðið hafa á gerð nútímalegs vegar á sunnanverðum Vestfjörðum á milli Þorskafjarðar og Patreksfjarðar, stinga algerlega í stúf við þá stefnu í slysavörnum, sem hinu opinbera ber að hafa, því að þar er yfir fjallvegi að fara, sem eru varasamir að sumarlagi og stórhættulegir að vetrarlagi.  Ábyrgðarhluti þeirra, sem tafið hafa þær framkvæmdir, er mikill. Ferli umhverfismats, leyfisveitinga og kæra er hringavitleysa, sem yfirvöld verða að straumlínulaga eftir að hafa leitt téðan vegarundirbúning til lykta.   

Hugmyndafræðilegur dilkadráttur hefur afvegaleitt umræðuna um heilbrigðisþjónustuna hérlendis.  Í stað þess að snúast um gæði og skilvirkni í ráðstöfun opinbers fjár til þessa kostnaðarsama málaflokks þá hafa sumir stjórnmálamenn dregið umræðuna niður á hugmyndafræðilegt plan um það, hvort þjónustuaðilinn er opinber stofnun eða einkarekið fyrirtæki, þótt hvort tveggja sé fjármagnað úr opinberum sjóðum. Þetta er nálgun viðfangsefnisins úr öfugri átt, þar sem sjúklingurinn verður hornreka. Með því að láta umræðuna hverfast um þetta, hafa öfgasinnaðir stjórnmálamenn tekið heilbrigða skynsemi í gíslingu, og sjúklingar og skattborgarar eru hin raunverulegu fórnarlömb.  Hugmyndafræðileg öfgahyggja á ekki heima í heilbrigðisgeiranum né við stjórnun hans. Það ber nauðsyn til að styrkja faglega stjórnun þess bákns, sem hann er á íslenzkan mælikvarða. 

Þannig er það óviðunandi stjórnsýsla á þessu sviði, að í meira en eitt ár nú skuli enginn sérfræðilæknir hafa fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands.  Þetta hamlar því, að hámenntaðir og reynsluríkir læknar komi heim, setjist hér að og fái tækifæri til að beita þekkingu sinni til farsældar fyrir sjúklinga hér á landi, innlenda sem erlenda, og til góðs fyrir íslenzka ríkiskassann, því að ekkert er jafndýrt í heilbrigðisgeiranum og biðlistar hins opinbera kerfis, svo að ekki sé nú minnzt á fáránleikann, sem felst í því að senda sjúkling í aðgerð utan, þótt hérlendis sé aðstaða og mannskapur, en samning við Sjúkratryggingar Íslands vantar.  Fáránleikinn felst í því, að hugmyndafræði á röngum stað leiðir til þess, að Sjúkratryggingar Íslands greiða margfaldan innlendan kostnað til einkarekinnar stofu í Svíþjóð eða annars staðar ásamt ferða- og dvalarkostnaði sjúklings og fylgdarliðs.  Hugmyndafræði á röngum stað leiðir með öðrum orðum til bruðls með skattfé vegna tilskipunar ESB, sem gildi tók á EES-svæðinu 1. júní 2016. 

Landsspítalinn hefur ekki aðstöðu til að ráða íslenzka, fullnuma lækna sumpart vegna þess, að aðstaða hans er ófullnægjandi, þar sem ákvörðun um úrbætur í málefnum hans dróst úr hömlu á árunum eftir Hrun, en nú hefur ákvörðun verið tekin um að fullnýta Landsspítalalóðina við Hringbraut undir nýbyggingar. Framkvæmdir við s.k. meðferðakjarna, sem er hin eiginlega nýja sjúkrahúsbygging, hefst á næsta ári, 2018, en það eru a.m.k. 4 ár, þar til starfsemi getur hafizt þar, og þangað til verður að brúa bilið með einkarekinni þjónustu, ef vel á að vera, enda sé hún ekki dýrari fyrir stærsta greiðandann, ríkissjóð, en aðgerðir á Landsspítalanum. 

Hvaða máli skiptir það skattborgarana, hvort fjárfestar fá smáumbun fyrir að festa fé sitt í þessum geira, ef hvorki ríkissjóður né sjúklingarnir bera skarðan hlut frá borði ?  Hér er hræðileg fordild á ferð, sem fráfarandi Landlæknir og núverandi forstjóri Landsspítalans eru ekki saklausir af að hafa alið á.  Með slíku framferði liggja hagsmunir sjúklinganna óbættir utan garðs.

Til að styrkja stjórnun Landsspítalans, sem er stærsti vinnustaður á Íslandi, þarf að setja yfir hann stjórn, sem tali máli hans út á við og hafi samskipti við fjárveitingarvaldið og fjölmiðla eftir þörfum og sinni stefnumörkun fyrir spítalann til skamms og langs tíma í samráði við heilbrigðisráðherra, en framkvæmdastjórn hans sinni daglegum rekstri og faglegri þróun háskólasjúkrahússins.  

 

Kaflinn í stjórnarsáttmálanum, núverandi, um heilbrigðismál hefst þannig:

"Íslenzka heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það, sem bezt gerist í heiminum.  Allir landsmenn eiga að fá notið [sic!] góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu."

Það er ómögulegt að henda reiður á fyrri málsgreininni.  Hvað á að leggja til grundvallar fyrir bezt í heimi ?  Barnadauða ?  Hann er nú þegar minnstur á Íslandi, enda er aðbúnaður og mannskapur allur hinn bezti á sængurkvennadeild Landsspítalans og eftirfylgnin heima fyrir til fyrirmyndar.  Bjóða þyrfti upp á gistiaðstöðu fyrir barnshafandi konur utan af landi, sem búa ekki við þá þjónustu í heimahéraði, sem þær þurfa á að halda. Þessi þjónusta kæmi þeim bezt, sem ekki eiga frændgarð á höfuðborgarsvæðinu, t.d. konum af erlendu bergi brotnu.   

Lífslengd ?  Langlífi á Íslandi er á meðal þess hæsta, sem þekkist á jörðunni, eða 82,5 ár, og verða konur 2,6 árum eldri en karlar, sennilega af því að þær lifa heilnæmara lífi. Japanir verða allra þjóða elztir, 1,4 árum eldri en Íslendingar, enda róa Japanir ekki í spikinu, heldur éta hollmeti á borð við hrísgrjón og sjávarafurðir sem undirstöðufæði.

Það á ekki að vera stefnumið heilbrigðiskerfisins að lengja ævina sem mest, heldur að bæta líðanina.  Það er æskilegt, að boðuð "heilbrigðisstefna" fyrir Ísland marki stefnu um líknardauða fyrir frumvarp til laga um þetta viðkvæma efni, sem taki mið af því, sem hnökraminnst virkar erlendis.  Það nær í raun og veru engri átt að nota tækni læknisfræðinnar til að treina líf, sem er líf bara að nafninu til og varla það.  Slíkt er áþján fyrir alla viðkomandi og felur í sér kostnaðarlega byrði fyrir opinberar stofnanir, sem engum ávinningi skilar.  Þróunin hefur gert öfgakennda framfylgd Hippokratesareiðsins ósiðlegan við vissar aðstæður, svo að kenna má við misnotkun tæknivæddrar læknisfræði og opinbers fjár.   

Sennilega er eitt skilvirkasta úrræðið til að viðhalda góðri heilsu og að bæta hana að stunda heilbrigt líferni.  Hvað í því felst er útlistað með s.k. forvörnum og leiðbeiningum til eflingar lýðheilsu.  Þessi grein þarf að koma inn í námsefni grunnskóla um 12 ára aldur, svo að æskan skilji, mitt í hömlulítilli neyzlu, að líkaminn er ekki sorptunna, sem tekur við rusli og eitri án alvarlegra afleiðinga. 

Af ráðleggingum má nefna að halda sig frá fíkniefnum, stunda einhvers konar líkamsrækt og gæta að matarræðinu, halda sig frá sætindum og borða mikið af  grænmeti og ávöxtum.  Íslendingar eru of þungir, bæði líkamlega og andlega.  Á Íslandi eru 58 % fullorðinna íbúa yfir kjörþyngd, sem er allt of hátt hlutfall og hærra en að jafnaði í OECD, og það stefnir í óefni með ungviðið, þar sem 18 % 15 ára unglinga eru of þungir.  Þetta bendir til kolrangs mataræðis og hreyfingarleysis.  Í Japan eru aðeins 24 % fullorðinna yfir kjörþyngd.

Ekki er vafa undirorpið, að með virkri aðstoð við fólk við að breyta um lífsstíl er unnt að lækka útgjöld til lyfjakaupa og sjúkrahúsvistar.  Með starfsemi á borð við þá, sem fram fer á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands-HNLFÍ, er hægt að forða fólki frá örorku eða a.m.k. að draga úr örorkunni, sem að óbreyttu væri óhjákvæmileg.  Fjöldi "útbrunninna" einstaklinga og fólks með áfallastreituröskun eða ofvirkni hefur fengið bót meina sinna á HNLFÍ í Hveragerði.  Það er ekki vanzalaust, að heilbrigðisyfirvöld skuli ekki hafa kynnt sér starfsemi HNLFÍ nægilega til að öðlast skilning á þeim sparnaði, sem í því felst fyrir ríkissjóð, að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í kostnaði við vist og meðhöndlun skjólstæðinga HNLFÍ í þeim mæli, að almenningi verði áfram fjárhagslega kleift að dvelja þar í 3-6 vikur í senn, eftir þörfum, eins og verið hefur undanfarin ár.  Nú er svo komið, að HNLFÍ telur sig vart eiga annarra kosta völ en að krefjast hækkunar á eigin framlagi umsækjanda eða að draga stórlega úr þjónustunni, sem veitt er og flestir telja vera til mikillar fyrirmyndar.  Hefur nýr heilbrigðisráðherra nægan skilning á framtaki frjálsra félagasamtaka til að bæta þjónustu við skjólstæðinga heilbrigðisgeirans og til að lækka heildarkostnað samfélagsins af slæmu heilsufari ?  Það mun bráðlega koma í ljós, hvort þekking og víðsýni ráðherrans er nægileg fyrir hið háa embætti.   

Það hefur verið rætt um sem allsherjar lausn á heilbrigðisvanda þjóðarinnar, sem að miklu leyti er sjálfskaparvíti, að hækka framlög úr ríkissjóði til heilbrigðisgeirans.  Þetta stendst ekki skoðun sem gott úrræði.  Árið 2016 námu útgjöld til heilbrigðismála í Bandaríkjunum (BNA) 10 kUSD/íb og á Íslandi 4,4 kUSD/íb, en íslenzka heilbrigðiskerfið skorar hærra á ýmsa mælikvarða en hið bandaríska, t.d. þá, sem nefndir eru hér að ofan.  Að meðaltali nema þessi útgjöld 4,0 kUSD/íb í OECD.  Íslendingar eru líklega að fá meira fyrir jafnvirði hvers USD, sem í heilbrigðiskerfið fer, en að meðaltali á við um þjóðir innan OECD og vafalaust mun meira en Bandaríkjamenn.

Til að sýna, hversu villandi er að bera saman útgjöld þjóða til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu), þá var íslenzka hlutfallið 2016 8,6 % VLF, en 9,0 % VLF að meðaltali í OECD.  Samt voru útgjöldin á Íslandi 10 % hærri á íbúa á Íslandi en að meðaltali í OECD.  Eitt það vitlausasta, sem hægt væri að setja í heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar, væri, að framlag ríkissjóðs til þessa málaflokks skuli vera hærra en hámarkið á Norðurlöndunum, sem árið 2016 var 11,0 % x VLF (í Svíþjóð).  

Það, sem skiptir sköpum hér, er, hvernig kerfið er skipulagt, og hvernig því er stjórnað.  Það fer vafalítið bezt á því hérlendis að hafa blandað kerfi ólíkra rekstrarforma, sem standa fjárhagslega jafnfætis gagnvart aðilanum, sem kaupir megnið af þjónustunni, okkar ríkisrekna tryggingakerfi.  

 

 

 

 


Sámur, fóstri, og raforkumál á Vestfjörðum

Í nóvember 2017 kom út geysimyndarlegt fríblað, 2. tölublað, 3. árgangs, í 44´000 eintökum, dreift um allt land, nema höfuðborgarsvæðið og Vesturland.  Blaðið er afar fróðlegt og hefur að geyma aðsendar greinar um fjölbreytileg málefni, s.s. orkumál og atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum,  aflaukningu í vatnsaflsvirkjunum, hækkun sjávaryfirborðs, nokkur þjóðareinkenni landsmanna, loftslagsmál, sorporkustöð á Vestfjörðum og fiskeldi. Hefur blaðið hlotið verðskuldaða athygli og að því gerður góður rómur.

Blekbóndi þessa vefseturs á þarna eina grein, sem hann nefnir "Fjötra eða framfarir" og finna má sem fylgiskjal með þessum pistli. Þar er sett upp sviðsmynd fyrir Vestfirði árið 2040, ef snurðulaus  uppbygging atvinnulífs fær að eiga sér stað þar, þ.e. raforkuskortur og samgönguskortur eða léleg gæði á rafmagni og vegasambandi og tregða við leyfisveitingar hamla ekki fullri nýtingu á fiskeldisburðarþoli Vestfjarða. 

Að teknu tilliti til títtræddra orkuskipta mun atvinnuuppbygging og íbúafjölgun á Vestfjörðum útheimta á tímabilinu 2016-2040 aflaukningu um 80 MW og orkuaukningu um 400 GWh/ár, ef sú sviðsmynd höfundar, sem þar er sett fram, gengur eftir.  

Það verður þess vegna nægur markaður fyrir Hvalárvirkjun, 55 MW, á Vestfjörðum og er þörf á  Austurgilsvirkjun, 35 MW, líka, svo að Vestfirðir verði sjálfum sér nægir með raforku.  Öðru vísi verður raforkuöryggi Vestfjarða ekki tryggt, því að bilanatíðni Vesturlínu er há, og varla þykir fjárhagslega hagkvæmara og umhverfisvænna að leggja aðra Vesturlínu til viðbótar þeirri, sem fyrir er.

Þegar nýjar virkjanir á Vestfjörðum eru vegnar og metnar, er nauðsynlegt að hafa í huga, að þar stafar þeim ekki sú hætta af náttúruvá, sem virkjunum og línum víða annars staðar á landinu er búin.  Elías Elíasson, verkfræðingur og fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, skrifaði um aðsteðjandi hættu að raforkuafhendingu á landinu í Morgunblaðsgrein, 5. desember 2017,

"Rétt stefna í orkumálum":

"Í orkulögum eru ákvæði um það, hve vel skuli tryggja notendur raforku gegn truflunum í flutningskerfi.  [Þar eru lög núna brotin á Vestfirðingum - innsk. BJo.]  Hins vegar eru engin ákvæði um, hve vel skuli tryggja gegn því, að stærstu miðlunarlón tæmist.  Þar hefur Landsvirkjun sín viðmið, en hið opinbera ekki.  Ljóst er, að ef annaðhvort Hálslón eða Þórisvatn tæmist alveg, þá kemur upp neyðarástand.  Þetta getur gerzt, ef rennsli fallvatna verður miklu minna en það viðmið, sem Landsvirkjun notar í áætlanagerð sinni.  Þessu geta valdið atburðir, tengdir landinu sjálfu og gerð þess, sem ekki fara framhjá neinum, og má þar nefna:

  • Hamfaraflóð tengt eldgosi undir jökli ógna flutningsvirkjum og orkumannvirkjum.
  • Eldvirkni skemmir virkjun eða breytir farvegi vatnsfalla.
  • Öflugt eldgos, eitt eða fleiri í einu, veldur kólnun á lofthjúpi jarðar. Umskipti í veðurfari þarf hins vegar að staðfesta með mælingum í nokkurn tíma. 
  • Breytingar á streymi hlýsjávar kringum landið færa kalda sjóinn nær og kæla landið.  
  • Golfstraumurinn hægir á sér vegna aðstæðna í hafinu.  

Á Vestfjörðum stafar virkjunum og línum einna minnst ógn af náttúrunni af öllum stöðum á landinu.  Þannig þarf þar ekki að óttast tjón af völdum hamfaraflóða, öskufalls, hraunrennslis eða jarðskjálfta.  Af þessum sökum ætti í nafni þjóðaröryggis að leggja áherzlu á virkjanir á Vestfjörðum.  Samkvæmt áætlun frá 2016 nemur virkjanlegt, hagkvæmt vatnsafl á Vestfjörðum, að núverandi virkjunum meðtöldum, tæplega 200 MW, sem er um 8 % af núverandi virkjuðu afli til raforkuvinnslu á landinu.  Vestfirzkar virkjanir munu aldrei anna stóriðjuálagi, en þær mundu nýtast almenningi vel í neyð, og í venjulegum rekstri er nægur markaður fyrir þær á Vestfjörðum og um landið allt með flutningi um Vesturlínu inn á stofnkerfið.  

Í lok greinar sinnar skrifaði Elías:

"Hér er um að ræða áhættuþætti, sem að nokkru leyti eru sérstakir fyrir Ísland, en að nokkru sameiginlegir með Evrópu og Grænlandi.  Íslenzka orkukerfið er sérstaklega viðkvæmt vegna víðáttu jöklanna hér, og hve miklu munar á rennsli og þar með orkugetu, ef þeir fara að vaxa í stað þess að minnka.

Hér þarf því að fara fram viðamikil og heildstæð athugun og áhættumat til að ákveða, hvort við eigum að:

  • leggja áherzlu á að halda orkuverði lágu, eins og almenningi var á sínum tíma lofað.  [Til þess þarf að halda áfram að virkja fyrir stóriðju, sem þá kostar stækkun raforkukerfisins og greiðir í raun  orkuverð niður til almennings, eins og verið hefur.  Samkvæmt Rammaáætlun og áætlaðri orkuþörf orkuskipta og vaxandi þjóðar virðist orkulindir skorta fyrir þennan valkost - innsk. BJo.]
  • Hægja á uppbyggingu til að ná upp arðgreiðslum. [Þessum valkosti má líkja við að éta útsæðið, og hann samrýmist ekki núverandi stefnu stjórnvalda um að ljúka orkuskiptum fyrir árið 2040 - innsk. BJo.]
  • Taka frá það, sem eftir er af auðlindinni, til okkar eigin þarfa, eins og orkuskipta. [Þetta er nærtækasti kosturinn, eins og málin horfa nú við, og spannar m.a. aukningu á núverandi stóriðju í þeim mæli, sem rekstrarleyfi fást og orkusamningar takast um - innsk. BJo.]
  • Koma upp meiri stóriðju.  [Þetta verður ekki raunhæfur kostur að óbreyttu - innsk. BJo.]

Það er sameiginlegt þessum valkostum, að þeir útiloka afar umdeilt verkefni, sem er að virkja og leggja línur að endamannvirki sæstrengs, sem Landsvirkjun o.fl. hafa haft hugmyndir um að selja raforku inn á og kaupa raforku frá, þegar hér verður skortur.  Er þá ekki átt við tiltölulega viðráðanlegt verkefni tæknilega séð, sem er sæstrengur til Færeyja, heldur á milli Skotlands og Íslands, um 1200 km leið á allt að 1200 m dýpi.  Sá strengur mundi hafa jafna flutningsgetu í sitt hvora átt og mundi umturna núverandi raforkukerfi og verðmyndun raforku í landinu vegna stærðar sinnar, um 1200 MW, sem væri næstum 50 % viðbót við núverandi kerfi.  

Sláið á tengilinn hér að neðan til að lesa umrædda grein í Sámi, fóstra.

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Laxeldi í lokuðum kvíum

Til að festa núverandi góðu lífskjör í sessi hérlendis verður að auka útflutningsverðmætin um að jafnaði 50 miaISK/ár að núvirði næstu 2 áratugina, ef tekið er mið af mannfjöldaspá og breytingu á lýðfræðilegri samsetningu þjóðarinnar (vaxandi hlutfallslegur fjöldi aldraðra af heild eykur samfélagslegan kostnað).  

Ísland hefur að ýmsu leyti sterka stöðu til að verða vaxandi matvælaframleiðsluland.  Hlýnandi loft og sjór gefur meiri vaxtarhraða bæði jurta og dýra.  Fyrir matvæli er vaxandi, vel borgandi markaður, og Íslendingar geta við markaðssetningu sína teflt fram miklum hreinleika lofts og vatns og nægu af hreinu vatni og umfangi samkvæmt vísindalegri ráðgjöf, m.ö.o. sjálfbærri matvælaframleiðslu.    

Laxeldi hefur á þessum áratugi gengið í endurnýjun lífdaganna við Ísland með tilstyrk Norðmanna, sem ásamt Kínverjum eru umsvifamestir á þessu sviði í heiminum.  Þeir eru líka í fremstu röð, hvað öryggi og tækni við sjókvíaeldi á laxi varðar.  

Nú býðst hérlandsmönnum að kynnast nýrri tækni á sviði laxeldis í lokuðum sjókvíum, sem Norðmenn hafa verið með í þróun síðan 2007.  Á vegum fyrirtækisins AkvaFuture AS hófst árið 2014 eldi á laxi í lokuðum sjókvíum á viðskiptalegum grunni.  Stefnir fyrirtækið á slátrun 2,0 kt á árinu 2017 og 6,0 kt árið 2019.  Þetta er nýmæli, því að áður voru uppi efasemdir um, að hægt væri að ala lax upp í sláturþyngd í lokuðum sjókvíum.

Norðmenn sjá þann meginkost við lokaðar sjókvíar, að í þeim veldur laxalús ekki teljanlegu tjóni, en hún er mikill skaðvaldur í opnum kvíum úti fyrir Noregsströnd, og geta orðið 20 % afföll þar í kvíum af hennar völdum, þegar verst gegnir, samkvæmt Rögnvaldi Guðmundssyni, framkvæmdastjóra AkvaFuture AS í viðtali við Fiskifréttir, 9. nóvember 2017, undir fyrirsögninni:

"Vilja ala lax í stórum stíl í Eyjafirði".

Í umræðunni hérlendis hefur laxeldi í opnum sjókvíum verið gagnrýnt harkalega, einkum af veiðiréttarhöfum villtra laxastofna, og þeir hafa m.a. bent á þessa úrbótaleið, sem Rögnvaldur Guðmundsson hefur nú þróað, enda kveðst hann ekki vita til, að nokkur lax hafi sloppið úr lokuðum sjókvíum á 10 ára tilraunaskeiði.  

"Miklir möguleikar eru á að nýta eldistæknina víðar en í Noregi, að sögn Rögnvaldar. Innanverður Eyjafjörður sé í því ljósi talin ákjósanleg staðsetning fyrir lokaðar eldiskvíar, því að þar er bæði skjólgott og hafstraumar miklir og stöðugir."

Það er gleðiefni, að frumkvöðull laxeldis í lokuðum sjókvíum í Noregi skuli nú hafa sótt um starfsleyfi fyrir slíkum rekstri í Eyjafirði, sem er einmitt einn þeirra fjarða, sem íslenzk lög leyfa sjókvíaeldi í.  Áætlun Rögnvaldar kveður á um að hefja sjókvíaeldi þar vorið 2019, og fyrsta framleiðslan þaðan berist á markað á fyrsta ársfjórðingi 2021. 

Þar sem úrgangur frá kvíunum, sem til botns fellur, verður aðeins um 30 % af því, sem gildir um opnar sjókvíar, má telja fullvíst, að burðarþolsmat fyrir lokaðar kvíar hljóði upp á meira en 20 kt í Eyjafirði áður en lýkur, en það er lífmassinn, sem sótt er um leyfi fyrir.  Þar sem bein störf eru um 7 á kt, verður þarna um 140 bein störf að ræða við framleiðslu, slátrun og pökkun.  Óbein störf í Eyjafirði gætu orðið 160 vegna þessarar starfsemi og annars staðar 140, samkvæmt norskri reynslu, svo að alls gæti þessi starfsemi skapað 440 ný störf.  Þetta myndi styrkja Eyjafjörð mikið sem atvinnusvæði.  

Verðmætasköpun hvers beins starfs í laxeldi er í Noregi talin jafngilda MISK 37, svo að verðmætasköpun téðra 20 kt í Eyjafirði mun nema 5,2 miaISK/ár, eða um 0,2 % af VLF.  Útflutningsverðmætin gætu numið 16 miaISK/ár.  Þetta er aðeins tæplega þriðjungur af nauðsynlegri árlegri aukningu útflutningsverðmæta, sem sýnir í hnotskurn, að landsmenn munu eiga fullt í fangi með að ná fram nauðsynlegri aukningu útflutningsverðmæta á næstu áratugum til að viðhalda hér óskertum lífskjörum og efnahagsstöðugleika.

Staðsetning þessa brautryðjandi laxeldis í Eyjafirði er ágæt.  Hann er tiltölulega fjölmennt atvinnusvæði, og þar vantar ný atvinnutækifæri í náinni framtíð.  Þá mun geta tekizt áhugavert samstarf laxeldis og fræðasamfélagsins á Akureyri, sem er umtalsvert.  Um þennan þátt sagði Rögnvaldur í téðu viðtali:

"Það er mat fyrirtækisins [AkvaFuture AS], að laxeldi í lokuðum eldiskvíum falli vel að áætlunum sveitarfélaganna á Eyjafjarðarsvæðinu.  Staðsetningin sé [er] því ákjósanleg, þar sem fyrir er öflugt háskólasamfélag og þjónustustig iðnfyrirtækja er hátt.  Ljóst er, að AkvaFuture mun nýta sér sjávartengt háskólasamfélag á Akureyri í sínu þróunarstarfi og nýsköpun."

Það er ekki ólíklegt, að laxeldi geti vaxið um a.m.k. 85 kt/ár frá því, sem nú er.  Það jafngildir aukningu  útflutningstekna um a.m.k. 70 miaISK/ár, sem dreift á 10 ár gefur 7 miaISK/ár eða 14 % af þeirri meðaltals árlegu aukningu, sem nauðsynleg er.  Fleira verður þess vegna að koma til skjalanna. Laxeldið verður samt mikilvægur þáttur í vextinum framundan.    

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband