Færsluflokkur: Umhverfismál

Gallað auðlindamat

Verkefnastjórn um Rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúruauðlinda skilaði af sér áfangaskýrslu um 3. áfanga Rammaáætlunar 31. marz 2016, og segja má, að um snemmbúið aprílgabb hafi verið að ræða vegna þeirra einhæfu sjónarmiða, sem þar tröllríða húsum. Hér verða leidd að því rök, að skýrsluna skorti vísindalegan trúverðugleika og sé jafnvel meira í ætt við fúsk en vísindi. 

Verkefnastjórn í öngstræti:

Segja má, að Verkefnastjórnin hafi illilega skotið sig í fótinn með skýrslunni og þar með staðfest gagnrýni á tilvistarrétt sinn og það fyrirkomulag, sem nú er við lýði um frummat á auðlindanýtingu á landi hér.  Skýrslan er einhliða mat á "verndargildi" nokkurra staða, en sleppt er í þessum áfanga að leggja mat á samfélagslegt og efnahagslegt gildi nýtingar af öðrum toga en fyrir ferðaþjónustu og útivist. Þá er sleppt frummati á tugum virkjanakosta, sem Orkustofnun lagði fyrir Verkefnastjórn að leggja frummat á. Verkefnastjórn þessi er nú komin í öngstræti, enda getur hún ekki sinnt hlutverki sínu með núverandi aðferðarfræði.

Ný umhverfisógn:

Nú er reyndar komið í ljós, að stærsta ógnin við náttúru landsins er fólgin í skipulagslítilli áníðslu og átroðslu óhefts ferðamannafjölda.  Þessu hefur fráfarandi Landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, lýst á áhrifamikinn hátt þannig, að ferðageirinn sé nú að ræna framtíðarkynslóðir landinu. Það er ámælisvert, hversu hægt gengur að koma við nægilegum mótvægisaðgerðum gegn landspjöllunum.  

Orkustofnun taki við:

Núverandi aðferðarfræði við frummat á nýtingu landkosta stenzt ekki gagnrýni, og er þess vegna réttast að leggja téða Verkefnastjórn niður og fela t.d. Orkustofnun að gera tillögu til Alþingis um þjóðhagslega hagkvæmustu nýtingu náttúrunnar.  Ein af ástæðum þess, að núverandi fyrirkomulag er ótækt, er sú, að Verkefnastjórn gizkar á virkjunartilhögun, þar sem forhönnun virkjunar er sjaldnast fyrir hendi, þegar Verkefnastjórn þessi fjallar um hana.  Eina raunhæfa matið á jákvæðum og neikvæðum áhrifum virkjunar er mögulegt, eftir að forhönnun hennar hefur farið fram.  Þá á sér reyndar stað umhverfismat, svo að mat Verkefnastjórnar á frumstigum málsins er meira eða minna út í loftið og jafnvel óþarft, en nauðsynlegt og nægjanlegt er téð umhverfismat. 

Með núverandi tækni hafa verkfræðingar yfir að ráða fjölbreytilegum ráðum til að draga úr umhverfisáhrifum mannvirkja og orkubeizlunar.  Að slá virkjanakostum á frest eða jafnvel að slá þá út af borðinu er ótímabært fyrr en verkfræðingar hafa fengið að spreyta sig á því viðfangsefni að hámarka hagkvæmni orkubeizlunar að teknu tilliti til sjálfbærni, afturkræfni og að halda umhverfisraski innan ásættanlegra marka að dómi flestra.

Hið síðast talda er háð huglægu mati.  Nú vill svo til, að nýlega var gerð könnun á meðal ferðamanna, sem ferðazt höfðu um landið, á viðhorfum þeirra til orkunýtingar á Íslandi og flutningi hinnar sjálfbæru orku um landið.  Niðurstaðan var sláandi m.v. áróður, sem haldið hefur verið að fólki hérlendis um, að ekki fari saman að nýta og njóta, heldur muni virkjanir og flutningslínur skaða ferðaþjónustuna.  97 % svarenda töldu orkunýtingu landsmanna vera umhverfisvæna og til fyrirmyndar.  3 % svarenda tók ekki afstöðu, en enginn taldi umhverfisspjöll hafa verið framin á virkjunarstöðum og línuleiðum.  Staðfestir þessi viðhorfskönnun, að það er röng aðferðarfræði að stilla skipulegri nýtingu lands fyrir ferðaþjónustu upp sem andstæðu og ósamrýmanlega virkjunum og flutningslínum.  Þessir tveir þættir eru vel samrýmanlegir, og slík samnýting skilar augljóslega hámarksarði inn í þjóðarbúið.

Ný vinnubrögð: 

Það er brýnt að taka strax upp gjörbreytta aðferðarfræði við undirbúning nýtingar, sem tekur mið af þessu. Hér er um verkfræðilegt og hagfræðilegt úrlausnarefni að ræða, sem aldrei getur orðið barn í brók undir formerkjum fordómafullra verndunarviðhorfa ásamt ofstækislegri afstöðu gegn flestum framkvæmdum.  Þetta er næsta náleg hugmyndafræði í landi, sem er í stöðugri landfræðilegri mótun. 

Í frétt Morgunblaðsins 2. apríl 2016,

"Verðmæti náttúru og minja ræður",

er eftirfarandi haft eftir Stefáni Gíslasyni, formanni Verkefnastjórnar 3. áfanga Rammaáætlunar, og varpar tilvitnunin ljósi á þá meingölluðu aðferðarfræði, sem nú er lögð til grundvallar við frummatshuganir á landnýtingarkostum:

"Forsendurnar fyrir flokkun svæða í vernd eru alltaf verðmæti náttúru og menningarminja, en ekki útfærsla virkjana eða önnur nýting.  Ef hins vegar svæði fer ekki í verndarflokk, er farið að athuga, hvort útfærslur virkjana hafi meiri eða minni áhrif á verðmætin."

Þessi lýsing á starfsháttum Verkefnastjórnar um Rammaáætlun sýnir meinsemdina í hnotskurn.  Það er þegar í upphafi girt fyrir möguleikann á að nálgast skynsamlega og hófsamlega niðurstöðu úr fleiri en einni átt, af því að í upphafi er ekkert þekkt, nema náttúran.  Gróðurfar og náttúrumyndanir er hægt að rannsaka og leggja mat á verndargildi út frá, hversu algeng einkennandi náttúrufyrirbrigði staðarins eru, en þegar kemur að fegurðarskynjuninni, er hins vegar um smekksatriði að ræða.

 Látum það vera, en hin hlið málsins, önnur nýting en að skoða, er jafnvel enginn gaumur gefinn, og sé virkjanakostur íhugaður, þá er ekki fyrir hendi nein vitneskja um hann, sem hægt sé að reisa heildstætt mat á á þessu stigi.  Þessi aðferðarfræði er óþörf og ótæk, af því að önnur betri er til, og þar af leiðandi verða vinnubrögðin allsendis ófullnægjandi, og mega kallast fúsk. 

Þau eru fúsk í samanburði við vinnubrögð, sem vænta má, þar sem grunnforsendan er sú að nálgast viðfangsefnið með hlutlægum hætti víðar að með það að markmiði að ná hámarksverðmætum út úr náttúruauðlindinni á sjálfbæran og afturkræfan hátt.  Í flestum tilvikum fela slík vinnubrögð í sér málamiðlun, þ.e. farin er einhver millileið, allir hagsmunaaðilar slá af ýtrustu kröfum, og bezta þekkta tækni er hagnýtt til að lágmarka umhverfisrask við tiltekna hagnýtingu.

Afleiðing núverandi skelfilegu vinnubragða er sú, sem lesa mátti um í téðri frétt:

"Þrjú stór vatnasvið voru flokkuð í verndarflokk, eins og fram kom í blaðinu í gær, auk vesturkvísla Þjórsár.  Það eru Skjálfandafljót, Héraðsvötn og Skaftá.  Á þessum svæðum var tilkynnt um alls 10 virkjanakosti, sem þá koma ekki til greina, verði þetta niðurstaðan."

Hér er þjóðarhag fórnað á altari hégóma, fordóma og þröngsýni, og hagur Norðlendinga algerlega fyrir borð borinn.  Norðanmenn eru settir í raforkusvelti, því að á Norðurlandi ríkir nú þegar orkuskortur, og Landsnet kemst hvorki lönd né strönd með áform sín um samtengingu Suðurlands og Norðurlands og er reyndar að krebera við að tengja Reykjanes syðra við landskerfið. Þar hefur Hæstiréttur reyndar hafnað eignarnámsheimild ráðherra, af því að undanfarandi rannsóknarskyldu var ekki nægilega vel sinnt, og er það vel. Um allt eru of miklir hagsmunir í húfi til að slá megi af kröfum um beztu faglegu vinnubrögð, og við svo búið má ekki standa.  Fleirum blöskrar nú en blekbónda. 

Ráðherra er óánægður: 

Ein þeirra, sem ekki hefur getað orða bundizt af þessu tilefni, er iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Frá því greindi Fréttablaðið 6. apríl 2016 undir fyrirsögninni:

"Segir verkefnastjórn vaða í villu":

"Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði á vorfundi Landsnets í gær, að tillögur verkefnisstjórnar rammaáætlunar í síðustu viku um flokkun virkjanakosta í þriðja áfanga rammaáætlunar væru "ágætt dæmi um skort á skilningi á samspili orkumála og loftslagsmála".

Þessa fullyrðingu byggði Ragnheiður Elín á því, að tillögurnar byggja á niðurstöðum tveggja faghópa af fjórum; þeim, sem fjalla um náttúruverðmæti, menningarminjar auk ferðaþjónustu og hlunninda, en ekki þeim faghópum, sem fjalla um samfélagsleg og efnahagsleg áhrif."

Það má geta sér þess til, að síðast nefndu faghóparnir hafi ekki treyst sér á jafnveikum forsendum og fyrir hendi voru til að gefa út nokkra greinargerð, sem gagn væri að, enda verður ekki séð, eins og áður segir, að unnt sé að meta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif virkjana fyrr en forhönnun þeirra er tilbúin.  Þá er hægt að reikna út orkuvinnslugetuna og orkuvinnslukostnaðinn og leggja raunhæft mat á umhverfisrask.  Það er reyndar ekki heldur hægt, svo að nokkurt vit sé í, að meta áhrif á náttúruverðmæti, menningarminjar og ferðaþjónustu, fyrr en virkjanatilhögun er tilbúin til lögformlegs umhverfismats.  Ferlið er gagnslaus hringavitleysa, sem er til þess eins fallin að sóa opinberu fé og afvegaleiða undirbúning að skynsamlegri og fjölþættri nýtingu, svo að ferlið einskorðast við ferðamennsku, jafngæfuleg og slík einhliða nýting hefur nú reynzt á mörgum stöðum.

Púkinn á fjósbitanum: 

Þeir eru auðvitað til, sem fagna ófaglegum og þröngsýnislegum niðurstöðum. Púkinn fitnar á fjósbitanum. Engum þarf að koma á óvart, að þar fór formaður Landverndar, Snorri Baldursson, fremstur í flokki og ritaði laugardaginn 2. apríl 2016 grein í Morgunblaðið, þar sem hann taldi, að þessi vitlausa niðurstaða styddi við draumsýn sína um þjóðgarð á öllu miðhálendinu, þjóðgarð, sem mundi spanna 40 % landsins undir einni miðstjórn, sem yrði vafalaust íþyngjandi fyrirkomulag fyrir ýmiss konar starfsemi, sem er þó jafnrétthá ferðaþjónustunni:

"Góðu tíðindin fyrir Landsvernd og önnur náttúruverndar-, útivistar- og ferðaþjónustusamtök, sem brenna fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, eru, að tillaga verkefnisstjórnar staðfestir í raun eindregið mat þessara samtaka, að miðhálendið sé mun verðmætara villt en virkjað."

Hvernig hafa þessi samtök komizt að niðurstöðu, sem engar efnislegar forsendur eru á þessari stundu til að komast að ?  Það eru augljóslega engar vitrænar rannsóknir að baki þessu "mati", heldur er um huglægt mat fólks í þessum samtökum að ræða, sem engum þarf að koma á óvart.  Hér skal ekki ganga svo langt að segja, að þetta "mat" sé einskis virði, en það er alls ekki hjálplegt til að ná fram málamiðlun á grundvelli hlutlægrar aðferðarfræði til að nálgast niðurstöðu úr mörgum áttum til að finna út hagkvæmustu nýtinguna, sem mjög sennilega er fólgin í fjölþættri og hófstilltri nýtingu. 

Téður Snorri hélt enn í burtreiðar að þessu tilefni, og í þetta sinn til að snupra orku- og ferðamálaráðherrann fyrir hóflega gagnrýni hennar á vinnubrögð Verkefnastjórnar.  Nefndist sú grein: "Falskur söngur iðnaðar- og viðskiptaráðherra".  

Hér verða aðeins 3 atriði greinarinnar gerð að umræðuefni:

  1. Snorri skrifar: "Ný kerfisáætlun Landsnets á auk þess að tryggja flutning raforku um allt land".  Staðhæfingin er rétt svo langt sem hún nær, en sá er hængurinn á, að Landsnet er langt á eftir tímaáætlun með veigamikla þætti í framkvæmd þessarar Kerfisáætlunar, m.a. vegna hatrammrar andstöðu Snorra Baldurssonar og skoðanasystkina hans.  Þar af leiðandi er Norðurland í raforkusvelti, og er nú boðið upp á friðun allra helztu óvirkjaðra vatnsfalla Norðurlands. 
  2. Snorri skýtur sjálfan sig í fótinn með þessum skrifum: "Engar rannsóknir liggja fyrir um, að það sé hagfelldara fyrir samfélag og efnahag þjóðarinnar og heimsins að virkja vatnasvið á miðhálendinu en að friða þau í þjóðgarði.  Þess vegna er söngur ráðherrans falskur." Hvernig væri nú að leyfa raunhæfum rannsóknum á þessu að fara fram með beztu aðferðum nútímans í stað þess að setja mikilvægar orkulindir í verndarflokk nánast að óathuguðu máli, og reka síðan skefjalausan áróður fyrir stofnun eins þjóðgarðs á öllu miðhálendinu ?  Það eru nefnilega með sama hætti engar rannsóknir fyrir hendi, sem benda til, að "hagfelldara (sé) fyrir samfélag og efnahag þjóðarinnar og heimsins" að friða vatnasvið á miðhálendinu. 
  3. Snorri Baldursson heldur því fram í téðri Fréttablaðsgrein, að "í orkunýtingarflokki rammaáætlunar verði alls um 1400 MW, gangi tillögur verkefnisstjórnar eftir."  Nú veit enginn, hvort þetta afl er rétt metið eða hvort hagkvæmt verði að virkja það allt, enda drjúgur hluti jarðvarmi, þar sem ekki er á vísan að róa.  Þó að þetta mat væri nærri lagi, þá dugar það hins vegar alls ekki fyrir fyrirsjáanlega rafvæðingu hér innan lands á tímabilinu til 2050, þegar ljúka þarf íslenzku orkubyltingunni með notkun rafmagns úr endurnýjanlegum lindum í stað jarðefnaeldsneytis.  Uppsett afl, 1400 MW, má áætla, að gefi 10 TWh/a (terawattstundir á ári) af orku, sem er um 55 % af núverandi raforkunotkun.  Almenningsnotkunin nemur um þessar mundir tæpum 4 TWh/a, og aukist hún að jafnaði um 2,0 %/ár fram til 2050, verður viðbótar þörf almennings þá 4,0 TWh/a.  Fjögur kísilver munu þurfa um 4,0 TWh/a til viðbótar við það, sem þeim hefur þegar verið tryggt.  Rafvæðing allra farartækja á landi, láði og í lofti, mun ekki þurfa minna en 4,0 TWh/a.  Þarna er komin viðbótar orkuþörf, aðeins næstu 35 árin, upp á 3 x 4 = 12 TWh/a, sem er 20 % yfir því, sem Snorri telur til reiðu.  Þá hefur viðbótar orkuþörf núverandi orkusækins iðnaðar og annarrar orkukræfrar stóriðju, nýrra málmvinnslufyrirtækja o.þ.h., ekki verið tekin með í reikninginn.  Ef brautryðjandi áfangar nást í þróun kjarnorku, klofnings eða samruna, verður væntanlega engin slík viðbótar eftirspurn orku hérlendis, en annars gæti hún hæglega orðið.  Téð uppsett afl Snorra Baldurssonar, formanns Landverndar, hrekkur a.m.k. hvergi til. 

Samantekt:

Stjórnkerfi undirbúnings að nýtingu náttúruauðlinda á landi þarfnast endurskoðunar strax til að koma í veg fyrir tjón af völdum núverandi aðferðarfræði, sem getur ekki gefið góða raun.  Ágæt ríkisstofnun er fyrir hendi á þessu sviði, sem hæglega má fela hlutverk Verkefnastjórnar um Rammaáætlun að breyttu breytanda.  Stefnan á að vera sjálfbær og afturkræf nýting náttúruauðlindanna, sem er líkleg til að hámarka fjárhagslegan hag samfélagsins til langframa af nýtingunni.  Meginstefið verður þá vafalítið fjölþætt nýting, þar sem málamiðlunar hefur verið gætt á milli hagsmunaaðila, t.d. í ferðaþjónustu og í raforkugeiranum.

 


Erfitt að mæta eftirspurn ?

Þrátt fyrir, að ISAL kaupi um þessar mundir um 25 MW minna af Búðarhálsvirkjun en gert var upphaflega ráð fyrir, þá er afgangsorkuskortur í landinu og forgangsorkuskortur á næsta leyti.  Á sama tíma eru litlar virkjanaframvæmdir í gangi m.v. fyrirsjáanlega orkuþörf á næstu 5 árum.  Þetta ástand og horfur gefur til kynna, að ástand orkumála landsmanna sé fjarri því að vera, eins og bezt verður á kosið (það er "suboptimal"), enda hefur umræðunni um aðalatriðin verið drepið á dreif.

Í Fréttablaðinu 3. marz 2016 var frétt af því, að illa gengi að koma raforkusamningi á koppinn á milli hreinkísilframleiðandans Silicor Materials Inc., SM, og Landsvirkjunar o.hf, og er síðast fréttist, stóð allt í stampi á milli fyrirtækjanna. Framleiðsla SM er orkukræf, því að full afköst, aðeins 19 kt/ár af kísli hæfum í sólarhlöður, krefjast 80 MW afls að jafnaði eða yfir 4,0 MW/kt, en t.d. áliðnaðurinn þarf innan við 2,0 MW/kt.  SM hefur þegar tryggt sér helminginn, 40 MW, af ON, en vantar rúmlega 20 MW til viðbótar til að hefja rekstur. 

Landsvirkjun virðist ekki vera aflögufær um þetta lítilræði eftir samningana við United Silicon í Helguvík um 35 MW og við PCC á Bakka um um 58 MW, og við hafa síðan bætzt samningar við Thorsil í Helguvík.  Vegna seinlætis og rangra áherzlna í rekstri virðist stjórn Landsvirkjunar vera að glutra niður tækifæri til að laða að Grundartanga fjárfestingu að upphæð miaISK 120 í uppsetningu á starfsemi, sem ekki þarfnast umhverfismats að dómi Umhverfisstofnunar, þar sem nýtt verður framúrstefnulegt ferli við framleiðslu á hreinkísli, sem hæfur er í sólarhlöður. Hér verður nú vitnað til upphafs téðrar fréttar:

"Gengur illa að tryggja sér raforku":

"Silicor Materials staðfestir, að viðræður við Landsvirkjun um kaup á þeim 20-25 MW, sem fyrirtækið vantar til að hefja rekstur fyrirhugaðrar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga ganga illa og staðfestir jafnframt áhuga á verkefninu frá nágrannaþjóðum. 

Ræða Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns atvinnuveganefndar, á Alþingi á mánudag vakti athygli.  Þar gerði Jón vinnu við Rammaáætlun að umtalsefni og meinbugi, sem hann sér við hana.  En í ræðu sinni vék hann að verkefni Silicor á Grundartanga.

"Við höfum mörg rætt mjög spennandi kost í orkutengdri starfsemi, sem er verksmiðja Silicor á Grundartanga, mengunarlaus verksmiðja, sem notar um 80 MW, skapar um 450 störf, útflutningsverðmæti eru miaISK 100 á ári.""

Það er augljóst af þessari stöðu mála, að undirbúningsferli virkjana á Íslandi er allt of þunglamalegt og óþarflega langdregið.  Það er þjóðinni dýrkeypt, að fyrirhyggjuleysi og kraftleysi virkjunaraðila skuli vera svo yfirþyrmandi, að myljandi hagkvæm orkusala í bandaríkjadölum og uppsöfnuð 20 ára útflutningsverðmæti, sem nema allri núverandi landsframleiðslu Íslands, skuli vera að fara forgörðum.  Þetta er enn ein skýr vísbending um það, að stokka þarf upp og straumlínulaga skipulag raforkumála á Íslandi með endurskoðun raforkulaga, yfirtöku Orkustofnunar á hlutverki Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun og nýrri eigendastefnu fyrir Landsvirkjun. 

Á þessu ári, 2016, munu framkvæmdir við um 100 MW og 350 GWh/ár virkjun í Þjórsá, Búrfell 2, hefjast.  Ef nauðsynlegrar framsýni hefði gætt hjá forystu Landsvirkjunar, hefðu þessar framkvæmdir hafizt þegar í kjölfar Búðarhálsvirkjunar árið 2013, og hefði þá afl frá henni verið tiltækt þegar í vetur, 2016-2017, og komast hefði mátt hjá aflskerðingum, sem eru atvinnulífinu feiknarlega dýrar og kalla í sumum tilvikum á kyndingu katla með olíu, sem er hneisa á Íslandi.  Það er óskiljanlegt, að jafnvel baunateljarar skuli ekki hafa áttað sig á, að fjárfestingar til að komast hjá afl- og orkuskorti margborga sig. 

Í hnúkana tekur, þegar forkólfar Landsvirkjunar vakna upp við vondan draum vegna kröfu um endurnýjun umhverfismats að hluta fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá.  Þar er endemis fyrirhyggjuleysi á ferðinni, því að forkólfarnir máttu vita, að slíks yrði krafizt.  Þegar hefjast hefði þurft handa við þessa umhverfisvænu 95 MW vatnsaflsvirkjun, lendir Landsvirkjun hins vegar í töf, svo að framkvæmdir geta í fyrsta lagi hafizt árið 2017.  Tímabilið 2017-2020 verður fyrirsjáanlega mikið fjárhagstap hérlendis vegna orkuskorts, þar eð þá munu hin nýju kísilver fara fram á viðbótar raforku vegna aukningar á framleiðslugetu.

Stutt lýsing á virkjunartilhögun Hvammsvirkjunar er gefin í frétt Morgunblaðsins, 1. marz 2016:

"Nýtt matsferli hafið fyrir Hvammsvirkjun":  

"Framkvæmdin við Hvammsvirkjun felur í sér, að reist verði stífla í farvegi Þjórsár ofan Minnanúpshólma og stíflugarðar á austurbakka árinnar.  Þannig verður um 4 km2 Hagalón myndað.  Stöðvarhús verður að mestu byggt neðanjarðar nærri norðurenda Skarðsfjalls í Landsveit, í landi Hvamms, en húsið mun standa 5 m yfir yfirborði jarðar. 

Frá inntaksmannvirkjum við Hagalón munu 2, 190 m langar, þrýstivatnspípur liggja að virkjuninni.  Frá virkjun mun vatnið fyrst renna um jarðgöng og síðan í opnum skurði niður í Þjórsá neðan við Ölmóðsey.  Landsvirkjun áformar að hefja framkvæmir árið 2017."

Þessi lýsing ber með sér, að hönnuðirnir hafa lagt sig í líma við að lágmarka umhverfisáhrif af virkjuninni og jafnframt að nýta fallhæðina sem bezt.  Önnur ástæðan, sem tilfærð var fyrir endurmatinu, var, að rannsaka þyrfti áhrif virkjunarinnar á ferðamennskuna í héraðinu, sem aukizt hefur síðasta áratuginn, eins og annars staðar í landinu. 

Það, sem m.a. hrjáir ferðamannaiðnaðinn, er hörgull á áhugaverðum, manngerðum áningarstöðum fyrir ferðamenn. Alls staðar í heiminum eru umhverfisvænar virkjanir vinsælir áningarstaðir ferðamanna.  Það er engum blöðum um það að fletta, að Hvammsvirkjun mun hafa alla burði til að laða til sín ferðamenn, og vonandi verður gert ráð fyrir myndarlegri gestamóttöku við verkhönnun virkjunarinnar, þar sem hægt verður að leiða forvitna ferðamenn í allan sannleika um allar hliðar virkjunarinnar með nútímalegum hætti, t.d. eins og gert er á Hellisheiðinni.

Hitt atriðið, sem tilfært var sem ástæða endurmats, voru áhrif virkjunarinnar á landslag, en þeim hefur verið haldið í skefjum með því að hafa virkjunina að miklu leyti neðanjarðar, fella hana að öðru leyti vel að landslaginu og með því að halda stærð inntakslónsins í lágmarki m.v. hið mikla flæði í Þjórsá. Vatnsmiðlanir ofar í ánni gera þetta kleift.

Það er ekki aðeins iðnaðurinn, sem kallar á aukið rafmagn.  Þar eiga um 2 milljónir erlendra ferðamanna á ári einnig hlut að máli og fyrirsjáanleg orkubylting, sem gæti valdið því, að árið 2030 yrðu í landinu um 70 þúsund rafmagnsbílar, sem þyrftu a.m.k. 300 GWh/ár af raforku og 100 MW afl. Viðbótar aflþörf má reyndar helminga, ef stofnað verður til hagkvæms næturtaxta fyrir almenning. Þetta er aðeins rúmlega 20 % þess fartækjafjölda, sem reikna má með, að þurfi rafhleðslu við í lok orkubyltingarskeiðsins, um 2045.  Það má ætla, að þörf fyrir nýjar virkjanir vegna minni brennslu jarðefnaeldsneytis, mannfjöldaaukningar og aukinnar iðnaðarframleiðslu nemi a.m.k. 600 MW á tímabilinu 2015-2030 og a.m.k. 1500 MW á á tímabilinu 2015-2045. 

Núverandi uppsett afl virkjana á Íslandi er um 2500 MW, svo að þessi mikla aukning mun augljóslega útheimta miklar skuldsettar fjárfestingar og þar af leiðandi minni arðgreiðslur virkjanafyrirtækja til eigenda sinna á næstunni en rætt hefur verið fjálglega um undanfarið.  Arðgreiðslur geta ekki hafizt af alvöru fyrr en hægir á uppbyggingunni. Hins vegar á skuldsetningin alls ekki að vera með ríkisábyrgð, heldur á forsendum frjálsrar samkeppni. 

Það er rentusækni í orkugeiranum, þar sem færri fá úthlutað virkjanaleyfum en vilja, fákeppni ríkir á raforkumarkaðinum og einokun á hitaveitumarkaði hvers svæðis.  Þar sem hvorki ríkir frjáls samkeppni á ílags- eða frálagsenda starfsemi orkufyrirtækjanna, er eðlilegt að hið opinbera innheimti af þeim auðlindarentu með einum eða öðrum hætti.  Hæstiréttur hefur nú þegar fellt þann úrskurð, að sveitarfélögum sé heimilt að leggja fasteignagjald á vatnsréttindi.  Landsvirkjun móast við að samþykkja gjaldflokkinn, sem sveitarfélag, sem hagsmuni á vegna Fljótsdalsvirkjunar, hefur ákveðið.  Fasteignagjald af vatnsréttindum er vissulega ígildi auðlindargjalds og að sama skapi ætti ríkissjóður að innheimta gjald af jarðgufuöflun í þjóðlendum. 

Hér að ofan er ekki um meira virkjað viðbótar afl að ræða en hugmyndir Englendinga snerust um, að hægt yrði að ráðstafa inn á sæstreng til Bretlands.  Sú viðskiptahugmynd er fallin í vota gröf, enda á Ísland engar orkulindir afgangs, sem keppt munu geta við t.d. þóríum-kjarnorkuver á Englandi eða yfirleitt keppt á frjálsum raforkumarkaði á Englandi án niðurgreiðslna úr brezka ríkissjóðinum vegna gríðarlegs kostnaðar við flutning raforku um sæstreng á milli Íslands og Bretlands.       

 

 


Fjárfestingar í ferðageira og orkumannvirkjum

Þrír háskólakennarar hafa misstigið sig illilega með því að rita grein í Morgunblaðið þann 15. marz 2016, sem vart samræmist fræðimannsheiðri slíkra. Þeir gera lítið úr hagkvæmni raforkuvirkjana landsmanna, en þeim mun meira úr fjárfestingum fyrir ferðamannaiðnaðinn án þess að færa sannfærandi rök fyrir sínu máli. Er hulin ráðgáta, hvernig Landsvirkjun, stærsta raforkufyrirtækið og langstærsti söluaðili orku til stóriðju á Íslandi, getur verið með eiginfjárhlutfall 40 %, framlegð MUSD 332 upp í nettóskuldir MUSD 2190 (6,6 ár að greiða upp eftirstöðvar skulda) og hagnað 2014 upp á MUSD 78,4 eða miaISK 10,2, ef fjárfestingar fyrirtækisins hafa ekki verið arðsamar. Í grein háskólakennaranna vantar öll rök gegn því, að orkuiðnaður og ferðaþjónusta geti lifað hlið við hlið í landinu í sátt og samlyndi, en fordómarnir fá aftur á móti að leika lausum hala. 

Nú verður gripið niður í villugjörnum texta háskólakennaranna Arnar D. Jónssonar, Edwards H. Huijbens og Bjarna Frímanns Karlssonar, í grein þeirra:

"Rangar áherzlur í opinberri fjárfestingu".

"Helztu röksemdir síðustu ár fyrir því, að opinberir aðilar fari í stórtækar fjárfestingar í raforkuframleiðslu, hafa verið, að draga þurfi úr slaka og koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang."

Þetta er rangt.  Helztu rökin fyrir virkjunum, línulögnum og stórsölu raforku til iðnaðar, hafa alla tíð verið að afla gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið á sjálfbæran, afturvirkan og arðsaman hátt, og þannig að bæta kjör landsmanna. Þetta gerist með sköpun traustra og varanlegra starfa af fjölþættu tagi allt árið um kring.  Í heild verða líklega til 3 störf fyrir hvert 1 starf hjá þessum iðnfyrirtækum, svo að atvinnuleysið hefur jafnan minnkað á framkvæmdatímanum, og þegar þessi fyrirtæki hefja störf.  Eftirminnilegast er þetta á árabilinu 1967-1972, þegar virkjað var við Búrfell og ISAL-verksmiðjan var reist í Straumsvík í kjölfar efnahagsáfalls þjóðarinnar með hvarfi síldarinnar, sem þá hafði verið mesta tekjulind landsins. 

Þessi saga endurtók sig, þegar kerskáli 3 var reistur í Straumsvík 1996-1998 með stækkun rafveitu og steypuskála, og 2010-2013 með breytingum á ISAL-verksmiðjunni til að gera kleift að auka framleiðsluna enn í kerskálunum þremur með gömlu kerunum að breyttu breytanda og að auka verðmæti hennar í steypuskála með því að framleiða sívalninga fyrir þrýstimótun í stað völsunarbarra.

"Rúmum þriðjungi allra fjárfestinga hins opinbera árið 2016 á að verja í innviði fyrir frekari stóriðju, sæstreng eða önnur raforkustórvirki, sem alls er óljóst um, hvort af verði, og arðsemi í bezta falli umdeild.  Þessar fjárfestingar munu binda hendur okkar strax, en tekjurnar, algjörlega óvissar, skila sér á löngum tíma, sem mælist í áratugum."

Hér er ritað af þröngsýni um efnivið, sem háskólakennararnir þrír hafa ekki á valdi sínu. Það er út í hött að telja upp sæstreng til Bretlands í sömu andrá og virkjanir og línulagnir, "raforkustórvirki", fyrir innlenda stóriðju.  Hvað hafa þessir háskólakennarar í höndunum, sem styður það, að nýgerðir raforkusamningar við tvö kísilver séu e.t.v. óarðsamir ?  Það lætur nærri, að vinnslukostnaður raforku í Þeistareykjavirkjun m.v. uppsett afl 90 MW, nýtingartíma uppsetts afls 8000 klst/ár og ávöxtunarkröfu fjármagns 8,0 %, sé 36 USD/MWh.  Hafa háskólakennararnir þrír áreiðanlegar heimildir fyrir því, að umsamið raforkuverð sé lægra ?  Það er óboðlegt, hvort sem háskólakennarar eða aðrir eiga í hlut, að dylgja með þessum hætti á opinberum vettvangi í því skyni að kasta ryki í augun á almenningi.

Landsvirkjun hefur þegar gert raforkusamning við PCC á Bakka, United Silicon í Helguvík og Thorsil í Helguvík, og samningar standa yfir við hreinkísilframleiðandann á Grundartanga.  Langtímasamningar við iðnfyrirtæki hafa hingað til verið gerðir með kauptryggingarákvæði um 85 % af orkunni.  Það væri stílbrot af Landsvirkjun að brjóta þá hefð, og það er engin ástæða til að ætla samningamönnum hennar það að óreyndu að semja um lakari afhendingarskilmála en áður.  Hvers vegna þá að skrifa Morgunblaðsgrein, þar sem látið er að því liggja, að Landsvirkjun muni skaðast vegna þess, að orkukaupandinn hætti við, eða hvað í ósköpunum er átt við með því, að tekjurnar séu óvissar og skili sér á löngum tíma ? 

Líklega hafa háskólakennararnir gefið sér einhverja dómadags vitleysu um orkusöluna.  Ef umsamið orkuverð er hærra en 36 USD/MWh, sem er ekki ólíklegt, þar sem viðmiðunarverð Landsvirkjunar er 43 USD/MWh, þá fær hún hærri ávöxtun af fjárfestingu sinni, eftir að orkusalan hefst, en 8,0 % á ári.  Þetta er dágóð ávöxtun m.v. öruggar tekjur af fjárfestingu, og Landsvirkjun fær lán á mun hagstæðari kjörum en þetta til Þeistareykjavirkjunar.  Þess vegna er vægast sagt undarlegt að taka svo til orða, að fjárfestingin skili sér seint og illa.  Hins vegar mun virkjunin mala eiganda sínum gull, þegar lánin vegna hennar hafa verið upp greidd. Þremenningarnir fiska í gruggugu vatni, en það er augljóslega ekki mark á þeim takandi, enda engar röksemdir reiddar fram, sem vatni halda. Eiga þeir eitthvert dulið erindi við lesendur ?  Eru þeir á svo lágu plani, að þeir í sameiningu telji sig þurfa að rakka niður eina atvinnugrein landsmanna til að upphefja aðra ?

Þá skrifa þremenningarnir:

"Frá hruni hefur ferðaþjónusta Íslendinga innanlands sem utan borið uppi gjaldeyrisöflun landsmanna"

Hér er nú farið dálítið frjálslega með, því að það er aðeins frá árinu 2014, sem brúttó gjaldeyrisöflun ferðaþjónustu hefur siglt fram úr brúttó gjaldeyrisöflun sjávarútvegs og iðnaðar, hvors um sig, og töluverðan gjaldeyri þarf að nota í þessa öflun, t.d. að kaupa þotur og kaupa á þær eldsneyti, kaupa bílaleigubíla og eldsneyti á þá, og flytja inn heilmikinn viðurgjörning, sem ferðamenn síðan kaupa hér. Það, sem skiptir máli, er virðisaukinn, sem hver atvinnugrein skapar, og þar hallar á ferðaþjónustuna, þó að veltan sé mikil. 

Fróðlegt er að virða fyrir sér, hvernig heildarvelta af rekstri gististaða og veitingasölu og þjónustu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum hefur þróazt á árunum 2008-2015 í milljörðum króna m.v. verðlagsvísitölu í árslok 2015. Prósentutölur eru aukning veltu frá fyrra ári:

  • 2008 miakr  75
  • 2009 miakr  75    0 %
  • 2010 miakr  77    3 %
  • 2011 miakr  84    8 %
  • 2012 miakr  91    8 %
  • 2013 miakr 102   13 %
  • 2014 miakr 119   16 %
  • 2015 miakr 137   15 % 

Ef ofangreindar tölur Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 12. marz 2016 eru reiknaðar út frá nettóvirðisaukaskattgreiðslum fyrirtækjanna, er þó hættulegt að draga of miklar ályktanir af þeim vegna mikilla fjárfestinga undanfarið í þessum greinum og þar með hás innskatts, 24 %, á meðan útskattur er aðeins 11 %. Allt ber þó að sama brunni.  Virðisaukaskattgreiðslur ferðaþjónustu eru óeðlilega lágar m.v. sömu veltu í öðrum greinum, og þær vaxa ekki í sama takti og fjölgun ferðamanna nemur. Ekki er lengur markaðsleg þörf fyrir yfirvöld á að sérmeðhöndla þessa starfsgrein skattalega, heldur rétt að flytja hana í heilu lagi í almenna VSK-þrepið, sem nú er 24,0 %.

Áfram vaða þremenningarnir elginn:

"Ljósleiðaravæðing landsins, sem metin er á um 6 milljarða, myndi skipta sköpum fyrir forsendur ferðaþjónustu.  Fjárfesting í samþættingu samgönguinnviða mundi einnig breyta miklu fyrir greinina.  Auk þessa verður þó að koma til hugarfarsbreyting í atvinnumálum landsmanna, þar sem búið er í haginn fyrir sjálfbær, framlegðardrifin einkafyrirtæki, en þar er ferðaþjónustan einmitt ásamt t.d. skapandi greinum og hugbúnaðargerð."

Í þessa upptalningu þríeykisins vantar hinar 2 meginútflutningsgreinarnar, þ.e. sjávarútveg og iðnað, því að þar eru auðvitað sérlega "framlegðardrifin einkafyrirtæki." Hins vegar að taka með "skapandi greinar" í þessu sambandi orkar tvímælis, því að slík starfsemi er í mörgum tilvikum niðurgreidd eða öðru vísi studd fjárhagslega af hinu opinbera, og stendur varla á eigin fótum. Með því að hætta að halda skattalegum hlífiskildi yfir ferðaþjónustu, skapast fjárhagsgrundvöllur hjá hinu opinbera til þeirrar innviðauppbyggingar, sem ferðaþjónustan kallar á og þremenningarnir nefna hér að ofan.

Undir lokin fatast þremenningunum enn flugið og kóróna þá upphafningu ferðaþjónustunnar á kostnað stóriðju.  Þetta er óttalega leiðigjörn og barnaleg árátta sumra umhverfispostula, en skilar auðvitað engu, enda gerð af vanefnum, eins og þessi rýni hefur leitt í ljós.  Klykkt er út með eftirfarandi metingsútgáfu þremenninganna:

"Grundvallarmunurinn á ferðaþjónustu og stóriðju er sá, að ferðaþjónustan byggist ekki á því að stórauka vöruútflutning með ríkistryggðum, erlendum lánum upp á hundruð milljarða á örfáum árum, sem mögulega verða ekki endurgreidd án aðkomu hins opinbera."

Landsvirkjun hefur keypt ríkisábyrgð á sín lán hingað til, og hefur þess vegna fengið hagstæðari lánskjör en ella væru í boði á fjármálamarkaðinum.  Þetta hefur aukið samkeppnishæfni Landsvirkjunar, því að vinnslukostnaður hennar í USD/MWh lækkar umtalsvert við hvert eins prósents lækkun á vöxtum lána, sem hún tekur.  Þetta leiðir til lægra raforkuverðs í landinu og/eða aukins hagnaðar Landsvirkjunar.  Að gera því skóna, að áhætta í rekstri ríkissjóðs aukist teljandi við þetta er fráleitur málflutningur og órökstuddar dylgjur, sem sæma ekki háskólakennurum.  Ástæðan er sú, að í stóriðjusamningum Landsvirkjunar eru kauptryggingarákvæði, sem skuldbinda orkukaupandann til að kaupa að lágmarki 85 % umsaminnar orku á hverju ári, og er krafa þessi forgangskrafa í þrotabú orkukaupandans.  

Af samkeppnisástæðum hefur verið rætt um að fella þessa ríkisábyrgð á nýjum lánum niður, og er líklegt, að svo verði gert innan tíðar, ef það er ekki um garð gengið nú þegar, svo að þessar fáránlegu áhyggjur þremenninganna ættu senn að verða úr sögunni. 

"Ferðaþjónustan skapar þjónustutekjur, sem nota má strax til að ráðast í vegagerð, ljósleiðaravæða landið og auka öryggi og efla upplifun með smíði og hönnun metnaðarfullra mannvirkja á helztu áfangastöðum."

Með þessum texta er enn fiskað í gruggugu vatni með þokukenndum dylgjum um það, að orkusala til stóriðju skili ekki tekjum strax til samfélagsins.  Auðvitað gerir hún það, og ekki er skattspor fyrir hverja fjárfesta krónu í virkjunum minna en af hverri krónu í fjárfestingum ferðaiðnaðarins, þegar að er gáð.  Skattskil af ferðaþjónustu til uppbyggingar á m.a. þeim innviðum, sem téðir höfundar telja upp hér að ofan, hafa einmitt verið til sérstakrar skoðunar Ríkisskattstjóra undanfarið, svo að það er óskiljanlegt, að þessir seinheppnu og mistæku metingshöfundar fyrir hönd ferðageirans skuli hafa fundið þörf hjá sér til að kasta steinum úr glerhúsi með þessum hætti og verða sér um leið til minnkunar. 

Það lýsir vanþroska og nauðhyggju að efna til rígs á milli atvinnugreina.  Í tilvitnaðri grein er reynt að upphefja ferðaþjónustuna á kostnað orkuiðnaðar, en það misheppnast algerlega vegna blöndu vanþekkingar og fordóma. Þar sem hagsmunir náttúruverndar, ferðaþjónustu og orkunýtingar, skarast á ákveðnu svæði, er lausnin sú að gera kostnaðar- og ábatagreiningu fyrir viðkomandi svæði með mismunandi sviðsmyndum.  Það er tilgáta höfundar þessa pistils, að í flestum tilvikum muni blanda af þessum þremur þáttum skila þjóðinni hámarks ábata, og eitt útilokar ekki annað, ef rétt er á haldið.

  

    

 


Ferðaþjónusta á krossgötum

Öryggismál ferðamanna á Íslandi eru í skötulíki, og þar eru útlendingar auðvitað berskjaldaðri en innfæddir, þar sem aðstæður á Íslandi eru flestum ferðamönnunum framandi. Í fréttum hefur verið greint frá atburðum, þar sem legið hefur við stórslysi, og þá má nærri geta, að heildarfjöldi slíkra hér um bil slysa skiptir hundruðum á árinu 2016.  Þetta er þriðja heims ástand, og má furðu gegna, að ekki skuli hafa verið gerð gangskör að róttækum úrbótum á helztu ferðamannastöðunum enn þá, því að frá árinu 2013 hefur verið ljóst, að róttækra aðgerða er þörf. Ekki vantar nú silkihúfurnar, sem um þessi mál eiga að véla. 

Í Fréttablaðinu, föstudaginn 11. marz 2016, var t.d. frétt um algert aðbúnaðar- og eftirlitsleysi á einum aðalferðamannastað landsins, við Gullfoss.  Þetta er gjörsamlega fyrir neðan allar skriður, og engu er líkara en beðið sé eftir næsta stórslysi áður en þessum vinsæla ferðamannastað verður hreinlega lokað af öryggisástæðum, a.m.k. að vetrarlagi.  Lausnin blasir þó við. 

Gera þarf eiganda/umráðaaðila viðkomandi staðar ábyrgan fyrir öryggi gesta og umgengni þeirra við staðinn, um leið og honum er veitt heimild til að innheimta komugjald af hverjum ferðamanni, enda hafi hann eftirlitsmenn og leiðbeinendur á staðnum og veiti a.m.k. fyrstu hjálpar aðstoð og hreinlætisþjónustu auk þess að koma upp og viðhalda göngustígum og útsýnispöllum, þannig að engum stafi bein hætta af heimsókninni og allir geti notið heimsóknarinnar, kvíðalausir. 

Af þessu komugjaldi þarf síðan að innheimta fullan virðisaukaskatt, og er þar með komið auðlindagjald í ríkissjóð, og sveitarfélagið fær fasteignagjöld af aðstöðusköpun og jafnvel útsvar af starfsmönnum. 

Nú verður vitnað til fréttarinnar um hið hættulega ástand við Gullfoss, sem virðist vera í boði ríkisstofnunar, eins og fram kemur í fréttinni:

"Flughálir svellbunkar liggja bókstaflega yfir öllu við Gullfoss þessa dagana.  Ferðamenn flykkjast að í þúsundatali á hverjum degi, en ekkert er gert til að draga úr hálkunni á leið þeirra að útsýnisstaðnum.  Lögregluborða hefur þó verið komið fyrir til að hindra aðgang að stígnum, sem liggur lokaspottann að fossinum."

"Þessa stund, sem stoppað var við Gullfoss, virtust margir gestir þar komnir vel af léttasta skeiði.  Var með ólíkindum, að þeir skyldu allir hafa staðið í fæturna alla leið að handriðunum, sem hægt var að styðja sig við á meðan fossinn var skoðaður úr fjarska."

"Um árabil hefur verið rætt um, að úrbætur þurfi við Gullfoss.  Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, segir fossinn í umsjón Umhverfisstofnunar, sem annist þar hálkuvarnir, söltun og söndun.  Ekki var sandkorn að sjá á svæðinu, þegar Fréttablaðið var þar á ferð.  Ekki náðist í fulltrúa Umhverfisstofnunar í gær."

Andvaraleysi og ábyrgðarleysi umsjónaraðila og ábyrgðaraðila staðarins er algert.  Það er vítavert og sætir sennilega refsingu að lögum, ef einhver kærir, svo að ekki sé nú talað um, ef slys verður, er leiðir til tímabundinnar eða varanlegrar örorku, t.d. beinbrots.  Langlundargeð hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni sætir tíðindum, því að í raun væri réttast, að sýslumaður mundi loka ferðamannastöðum, þar sem lífi og limum gesta er augljós hætta búin, eins og við Gullfoss við vissar aðstæður.

Ferðamálafulltrúi sýslunnar á svæðinu er greinilega gjörsamlega ráðþrota, en einhver myndi kalla slíkan málflutning holtaþokuvæl í þessari stöðu:

""Þetta er mjög erfið staða að eiga við í alla staði.  Það virðist einhvern veginn ekki vera hægt að landa þessu almennilega", segir Ásborg. "Við í ferðaþjónustunni erum núna í svo nýjum aðstæðum.  Það var ekki svona ofboðslegur fjöldi hér áður fyrr á þessum tíma.""

Þetta er óboðlegur málflutningur, og ef hann er talinn vera gjaldgengur, þá mun þetta ástand vara þar til staðnum verður hreinlega lokað.

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, velkist ekki í vafa um, hvað er til ráða, og gefur yfirvöldum ráðleggingar í "Kynningarblaði um fjárfestingu í ferðaþjónustu", dagsettu 27. febrúar 2016:

"Framleiðni er lægri í ferðaþjónustu en hjá atvinnulífinu í heild.  Ef greinin heldur áfram að vaxa án þess að það breytist, munum við ekki njóta ávinningsins í formi bættra lífskjara.  Lykilverkefni stjórnvalda er því að styðja við framleiðnivöxt í greininni.  Það verður gert með því að horfa í meiri mæli á verðmæti hvers ferðamanns heldur en fjölda þeirra.  Þar skiptir máli að stýra ferðamannastrauminum og að auka tekjur af hverjum ferðamanni með fjárfestingu í tekjuskapandi verkefnum. 

Viðskiptaráð hefur talað fyrir því, að tekin verði upp aðgangsgjöld á vinsælustu áfangastöðunum.  Það dregur úr átroðningi, dreifir álagi á fleiri ferðamannastaði, eykur tekjur á hvern ferðamann og skapar hvata til að fjárfesta og byggja upp."

Yfirvöld hafa brugðizt í því að skapa nauðsynlega lagaumgjörð til æskilegrar framleiðniaukningar í ferðamannageiranum. Samt eru ágæt fordæmi, og nefnir Björn Brynjúlfur Bláa lónið til sögunnar um vel heppnaða náttúrunýtingu með aðgöngugjaldi fyrir gesti.  Bláa lónið er sem kunnugt er affallsvatn frá jarðgufuvirkjun í Svartsengi og er hluti af auðlindagörðum Hitaveitu Suðurnesja.  Bláa lónið er lýsandi dæmi um það, hversu afskaplega vel orkunýting og ferðaþjónusta geta haldizt í hendur, og þetta fordæmi má vera til eftirbreytni um allt land, þó að mörgum innfæddum blöskri nú aðgangseyririnn. 

Alls staðar, þar sem virkjanir á Íslandi eru opnar ferðamönnum til sýnis og fróðleiks, eru þær vinsælir viðkomustaðir.  Sömu sögu er að segja úr öðrum löndum, t.d. Bandaríkjunum, þar sem stórar vatnsaflsvirkjanir eru á meðal vinsælustu ferðamannastaða, og virkjaðir fossar, t.d. Niagara, hafa engan veginn misst aðdráttarafl sitt, því að um aðalferðamannatímann er um 30 % upprunalegs meðalrennslis hleypt á fossana, og verður upplifunin þá mjög nálægt því, sem væri við upprunalegt meðalrennsli. 

Það væri mikill bjarnargreiði við viðleitnina til aukinnar framleiðni í ferðamannaiðnaðinum, svo að ekki sé nú minnzt á tekjustreymið af auðlindanýtingu landsins almennt, að breyta öllu miðhálendi landsins, 40 % af heildarflatamáli þess, í einn þjóðgarð, ef með þjóðgarði er átt við að útiloka landgræðslu, almennilega vegagerð, virkjanir og loftlínu- og jarðstrengjalagnir, á svæðinu.  Slík tillaga mundi jafngilda því að varpa stríðshanzka að fjölmörgum aðilum, t.d. aðliggjandi sveitarfélögum, sem hafa fjölbreytilegri hugmyndir um sjálfbæra og þjóðhagslega hagkvæma nýtingu hálendisins en hrossatront og skakstur á niðurgröfnu þvottabretti í rykmekki.  Sum þeirra segja farir sínar ekki í sléttar í viðskiptunum við núverandi þjóðgarða.

Það er mun vænlegri leið til sátta að láta markaðinn úrskurða um það, innan marka lögformlegs umhverfismats, í stað einstrengingslegrar forsjárhyggju misviturrar miðstjórnar, hvernig hagnýtingu náttúrunnar verður háttað.  Þegar meiri reynsla kemst á stjórnsýslu og opinberan kostnað af Vatnajökulsþjóðgarði, stærsta þjóðgarði Evrópu, og meiri upplýsingar verða tiltækar um kosti og galla slíkra risaþjóðgarða, mætti hugsa sér þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta stórmál.

Hvað sagði hinn mæti hagfræðingur, Björn Brynjúlfur, um Bláa lónið ?:

""Þar er rukkaður aðgangseyrir, sem skilar sér í hvata til uppbyggingar.  Núna er þar í gangi uppbyggingarverkefni fyrir um miakr 6,0.  Til samanburðar nam fjárfesting ríkissjóðs í ferðaþjónustu í heild sinni Mkr 25 árið 2014 samkvæmt Hagstofunni (sem er 0,4 % af téðri fjárfestingu Bláa lónsins - innskot BJo).  Þetta er stærsta ástæða þess, að fjárfesting í greininni er lág.  Á meðan við rukkum ekki ferðamenn fyrir aðgang að vinsælustu ferðamannastöðunum, fáum við ekki tekjur, sem nýtast til að byggja þá upp.  Við njótum því ekki ávinnings af náttúruauðlindum okkar", útskýrir Björn Brynjúlfur."

Hér er komið að kjarna málsins.  Framleiðnin í ferðamannaiðnaðinum er lág, af því að ferðamaðurinn er ekki rukkaður fyrir aðgang að náttúruperlum, og þar af leiðandi er aðstaðan til móttöku þeirra fyrir neðan allar hellur víðast hvar, jafnvel stórhættuleg, heilsuspillandi og gróðureyðandi.  Það er flotið sofandi að feigðarósi varðandi umhverfisspjöll af völdum of mikils ágangs ferðamanna og fjölda þeirra í viðkvæmum náttúruperlum.  Þegar um slíka "ofnýtingu" náttúruauðlindar er að ræða, er lausnin sú alls staðar að hefta aðgengið og taka skattgjald af þeim, sem inn á svæðið er hleypt, sbr fiskveiðiauðlindina. 

Þegar um er að ræða ágreining um nýtingu á náttúrunni, er hægt að láta markaðinn höggva á hnútinn með því að láta hagsmunaaðilana bjóða í nýtingarréttinn til ákveðins tíma, t.d. 40 ára.  Þannig gætu ferðaþjónustufyrirtæki og virkjunarfyrirtæki t.d. boðið í einhvern virkjunarstað á miðhálendinu, svo að dæmi sé tekið. 

Þjóðhagslega hagkvæmast er þó, að mati blekbónda, að virkja, ef a.m.k. 10 %/ár raunávöxtun er tryggð af fjárfestingunni með orkusölu, og selja ferðamönnum síðan aðgang að virkjuninni og veita þeim þar góðan viðurgjörning.  Dæmin sýna, að slíkur "auðlindagarður" hámarkar afrakstur auðlindarinnar og sjálfbær virkjun og ferðamennska fara ágætlega saman. Að stilla virkjunarfyrirtækjum og ferðaþjónustufyrirtækjum upp sem andstæðingum er bábilja, sprottin út úr hugskoti einsýnna ofstækismanna. 

Það er jafnvel hægt að fara svipaða tilboðsleið með loftlínuleiðir, þar sem landnýtingin er umdeild, t.d. yfir Sprengisand.  Þar gæti Landsnet, ef það hreppir tímabundinn nýtingarrétt á loftlínu- og jarðstrengjaleið, verið með myndarlega sýningu á nýstárlegu mannvirki, spanspóluvirki, sem nauðsynlegt er að setja upp með um 25 km millibili til að unnt sé að reka 220 kV jarðstreng án þess að setja raforkukerfi landsins á hliðina vegna spennusveiflna. Slík mannvirki munu aðeins spanna örlítinn hluta hálendisins og megnið af því verða áfram "ósnortin víðerni". 


Mývatn

Nýjasta birtingarmynd ofálags á íslenzka náttúru af völdum ferðaþjónustunnar er "eyðilegging" Mývatns.  Botni vatnsins er lýst sem eyðimörk, þar sem ljós nær ekki niður af völdum bláþörunga og gerla. Ofálag ferðamannafjöldans á innviði samfélagsins kemur fram á fleiri sviðum, t.d. í heilbrigðisgeiranum, og verður hreinlega að taka upp beina gjaldtöku af erlendum ferðamönnum fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi, svo að 2,0 milljónir slíkir kollsigli ekki læknisþjónustu 334 þúsund manna þjóðar.  Verður þá vonandi hægt að fjölga starfsfólki og mæta vaxandi eftirspurn án íþyngjandi útláta fyrir ríkissjóð Íslands. Slíka gjaldtöku af ferðamönnum er bráðnauðsynlegt að taka upp á fjölförnum stöðum, þar sem náttúran á undir högg að sækja, til að fjármagna mótvægisaðgerðir.  Við Mývatn, þar sem neyðarástand ríkir, kemur til greina að leggja sérstakt aðstöðugjald á fyrirtækin til að fjármagna mótvægisaðgerðir til bjargar náttúruverðmætum. 

Blágerlar dafna vel, þar sem ofgnótt er af köfnunarefni og fosfór.  Köfnunarefni í umframmagni gæti borizt eftir skurðum af túnum bænda og fosfórinn frá byggðinni og í sérstökum mæli frá hótelum og veitingastarfsemi. Afrennsli skurðanna í Mývatn hlýtur að hafa verið efnagreint m.v. allar rannsóknirnar, sem sagðar eru hafa farið fram við Mývatn, svo að það er þá vitað, hvort veita þarf skurðvatninu um hreinsistöð. 

Það lýsir ótrúlegu sleifarlagi, að hótel- og veitingarekstur skuli heimilaður í hjarta einnar viðkvæmustu náttúruperlu Íslands án þess að krefjast skilyrðislausrar beitingar beztu fáanlegu hreinsitækni á skolp frá þessari starfsemi og í ljósi aðstæðna tafarlausra aðgerða að viðlagðri sviptingu rekstrarleyfis.  Fram hefur komið, að nýjasta hótelið muni vera útbúið slíkri hreinsitækni, og mismunun eftir aldri starfseminnar er auðvitað ótæk í þessu sveitarfélagi sem öðrum. Þessi stjórnsýsla þeirra, sem véla með umhverfisvernd á staðnum og á vegum ríkisins er til háborinnar skammar.

Kostnaðaráætlun verkfræðistofu um nægjanlegar úrbætur í skolpmálum á vegum sveitarfélagsins mun hljóða upp á Mkr 300, sem í samhengi við heildarfjárfestingarþörf á ferðamannastöðum er lítil upphæð.  Framkvæmdasjóður ferðamannastaða ætti að koma að fjármögnun með sveitarfélaginu strax, og það er komið meira en nóg af því, að viðkomandi ábyrgðaraðilar lóni og góni út í loftið á meðan óafturkræft umhverfisslys á sér stað við Mývatn.

Um mengunarvarnir sitja atvinnuvegirnir ekki við sama borð.  Iðnaðinum er gert að setja upp beztu fáanlegu hreinsivirki á skaðlegar gastegundir og loftborið ryk ásamt beztu skolphreinsun og standa undir kostnaðinum sjálfur. 

Útgerðirnar búa við strangar mengunarvarnarkröfur um alla losun frá skipum. 

Virkjanafyrirtæki, sem eiga og reka jarðgufuorkuver hafa barizt við að þróa aðferðir til að draga úr losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið að kröfu yfirvalda, og þau hafa einnig þróað aðferðir til að vinna CO2, gróðurhúsalofttegundina koltvíildi, úr afgasinu.

Hvernig stendur á því, að ferðaþjónustan kemst upp með stórfellda mengun og landeyðingu, sem líkja má við "hernað gegn landinu" á nútímavísu ?  Ferðaþjónustunni líðst að fara sínu fram, eins og starfsemin sé enn í reifum og fjöldi erlendra ferðamanna enn 0,2 milljónir á ári, en ekki 2,0.  Frumkvæðisleysi er stórkostlegur ljóður á ráði hennar sjálfrar, og sofandaháttur einkennir hegðun allra viðkomandi yfirvalda á þessu sviði. 

Náttúruverndarsamtök eru sem stungin líkþorni, þegar ferðaþjónustan er annars vegar, enda hafa þau í fávísi sinni löngum bent á ferðaþjónustu sem mun heppilegri atvinnugrein í umhverfislegu tilliti en t.d. iðnað.  

"O, sancta simplicitas", varð Rómverjum stundum að orði um "heilaga einfeldni". Það er kominn tími til að taka þessa atvinnugrein úr bómull og meðhöndla hana sem stórkostlega umhverfisvá og ógn við innviði landsins án alvarlegra mótvægisaðgerða. Engisprettufaraldur gæti einhverjum dottið í hug um ferðamannastrauminn. 

Enginn veit með vissu, hvort breytingarnar á Mývatni eru afturkræfar, og líklega eru þær það ekki að öllu leyti, t.d. brotthvarf kúluskítsins, sem var stóráfall að missa í alþjóðlegu samhengi.  Iðnaðarandstæðingar fjandsköpuðust lengi vel út í Kísiliðjuna við Mývatn og gerðu hana að blóraböggli breytinga í Mývatni til hins verra. Þeir höfðu sitt fram í nafni umhverfisverndar, og verksmiðjan var rifin, sem jafngilti einhæfara atvinnulífi og tekjumissi fyrir íbúana í grennd við vatnið og tekjumissi fyrir sveitarfélagið. 

Vöxtur ferðaþjónustunnar kann að einhverju leyti að hafa bætt þetta upp.  Að fjarlægja verksmiðjuna reyndist engu breyta um óheillaþróun Mývatns, enda einkenndist málflutningur iðnaðarandstæðinga af móðursýkislegum upphrópunum um, að náttúran yrði að njóta vafans.  Sams konar upphrópanir um ofnýtingu ferðaþjónustu á viðkvæmustu náttúruperlu Íslands hafa ekki farið hátt. 

Það er dæmigert, að þeir, sem að þessu sinni skáru upp herör um mótvægisaðgerðir, voru veiðiréttareigendur og veiðiréttarhafar í Mývatni og Laxá.  Sannast hér enn, að hinir raunhæfustu umhverfisverndarsinnar eru jafnan handhafar afnotaréttarins, en ekki "atvinnumótmælendur og aðgerðasinnar" með dulið erindi.  Náttúruverndarsamtök virðast ekki hafa haft sig mikið í frammi til verndunar Mývatni, síðan verksmiðjan var fjarlægð, enda málflutningur þeirra orðinn meira en lítið vandræðalegur, þar sem þeir urðu berir að því enn einu sinni að mála skrattann á vegginn.  Náttúruverndaráhugi sumra virðist bundinn við tilburði til að koma höggi á iðnaðinn, virkjanafyrirtækin, orkuflutningsfyrirtækið og Vegagerðina, og þvælast fyrir öllu, er til framfara horfir, undir yfirvarpi umhverfisverndar. Menn eigi fremur að gera "eitthvað annað", og nú er vitað, að eitthvað annað er að stússa við ferðamenn, sem löngu er vitað, að er sóðalegast allra starfa fyrir náttúruna.  

Allir helztu atvinnuvegir landsmanna utan ferðaþjónustu virðast hafa staðið sig með stakri prýði í umhverismálum síðan um 1990, og verður nú stiklað á stóru í þeim efnum. 

Þann 6. maí 2016 birtist frétt frá Umhverfisstofnun í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Minnkandi losun frá stóriðjunni":

"Árið 2014 var losunin (landsins alls - innsk. BJo) 4597 kílótonn (4597 kt = 4,6 Mt - innsk. BJo) af CO2 ígildum, sem er 26,5 % aukning frá árinu 1990, en losunin hefur þó dregizt saman um 10,7 % frá árinu 2008.  Þennan samdrátt í losun má einkum rekja til minni losunar frá stóriðju, þar sem myndun PFC (aðallega CF4 og C2F6, sem eru sterkar gróðurhúsalofttegundir og myndast t.d. við spennuris í rafgreiningarkerum álvera - innsk. BJo) í álverum hefur minnkað vegna betri framleiðslustýringar, en einnig vegna minni losunar frá fiskisipum."
Með hugbúnaðarþróun fyrir kertölvur álveranna og iðntölvum aðveitustöðva álveranna fyrir straumstýringar kerskálanna ásamt markvissri þjálfun rafgreinanna við að vinna bug á spennurisum, sem þó enn myndast, hafa íslenzku álverin náð stórkostlegum árangri í baráttunni við myndun gróðurhúsalofttegunda og t.d. ISAL sum árin verið bezt í heimi á þessu sviði.  Þess vegna hefur verið hægt að auka framleiðsluna og samt að draga úr myndun koltvíildisjafngilda áliðnaðarins.
 
Ísland er með einna mestu losun koltvíildis á mann í heiminum, og nam hún 13,97 t/íb árið 2014 og hafði þá dregið úr henni frá viðmiðunarárinu 1990, þegar hún nam 14,20 t/íb, eða um 1,6 %.  Þetta er jákvætt, en lítið, og sýnir, hversu mikilvægt er að taka losunarmál Íslands á gróðurhúsalofttegundum föstum tökum.  Ef Íslendingum tekst, með því að notfæra sér tækniþróunina á hagfelldan hátt, að ná markmiði sínu um 40 % minnkun losunar árið 2030 m.v. 1990, og ef landsmönnum fjölgar að jafnaði um 1,5 %/ár, þá verður losun á hvern íbúa komin niður í 5,4 t/íb og verður þá aðeins 38 % af gildinu 1990.  Þetta yrði vel viðunandi áfangi, en endanlegt markmið hlýtur að vera 0 nettó losun 2050.
Hér að neðan er tafla, sem sýnir helztu losunaraðilana og hlutdeild þeirra árin 2014 og 2013:
 
Losunargeiri            2014     2013
  • Iðnaður              45 %     47 %
  • Samgöngur            17 %     18 %
  • Landbúnaður          16 %     15 %
  • Sjávarútvegur        10 %     11 %
  • Úrgangur, hiti/rafm. 12 %      9 %

Hlutdeild samgangna minnkar þrátt fyrir fjölgun farartækja og aukna notkun.  Þetta stafar af sífellt sparneytnari sprengihreyflum og vaxandi hlutdeild umhverfisvænna ökutækja.  Þessi þróun þarf  þó að verða hraðari 2016 - 2030 og hlutdeild umhverfisvænna bifreiða að vaxa úr 1,4 % nú í um 30 % 2030 og 100 % 2050. 

Landbúnaður er með hátt hlutfall vegna metanmyndunar frá dýrunum, sem fer fjölgandi vegna aukinnar kjötneyzlu í landinu, sem erlendir ferðamenn standa að mestu undir.  E.t.v. verður í einhverjum mæli unnt að fanga þetta metan, sem er 22 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2, en hagkvæmast er samt fyrir landbúnaðinn að fara út í stórfelldar mótvægisaðgerðir, t.d. með skógrækt og endurheimtur votlendis.

Sjávarútvegur hefur tekið forystu á Íslandi í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.  Sú forysta er svo ótvíræð, að atvinnugreinin þarf ekki að fara í neitt sérstakt átak til að standa við markmiðið um 40 % minnkun losunar árið 2030 m.v. árið 1990.  Greininni dugir einfaldlega að halda þeim takti, sem hún hefur haft að þessu leyti á árabilinu 1990-2014.  Þannig hefur losun fiskiskipa dregizt saman á þessu tímabili um 34 % vegna fækkunar togara, sparneytnari véla og bætts veiðibúnaðar.  Meiri fiskigengd á Íslandsmiðum að undanförnu hefur verið meðvirkandi í, að á tímabilinu 1990-2013 minnkaði olíunotkun fiskiskipa um 68´000 t eða 29 %.  Afköst hvers togar hafa á sama tímabili 4,5 faldast í tonnum talið á fiskveiðiárinu.  Þarna leggjast á eitt fjárhagslegur hvati og fjárhagsleg geta til framleiðniaukandi fjárfestinga. 

Fiskimjölsverksmiðjurnar eru í bókhaldi um gróðurhúsalofttegundir taldar með iðnaðinum.  Fjárfestingar í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja á Íslandi nema undanfarinn áratug um miakr 60.  Það er bæði synd og skömm að því, að ekki skuli unnt að nýta þessar fjárfestingar að fullu vegna takmarkana á aflflutningi til verksmiðjanna.  Það verður að ryðja sérlunduðum sérhagsmunum úr vegi til að ráða bót á þessu á þessum áratugi, ef landsmenn eiga að eygja möguleika á að standa við skuldbindingar sínar árið 2030 frá París í desember 2015.

Nýfallinn dómur Hæstaréttar um heimildarveitingu iðnaðar- og viðskiptaráðherra til eignarnáms á landi undir Suðvesturlínu sýnir, að Landsnet verður að rannsaka af alvöru tæknilegar, fjárhagslegar og umhverfislegar afleiðingar beggja valkostanna, loftlínu og jarðstrengja, við verkefnisundirbúning, fyrir samningaumleitanir við landeigendur og, ef allt um þrýtur, heimildarumsókn um eignarnám á landi.  Þar dugir ekkert hálfkák lengur.

 

 


Um hagkvæmni tengiltvinnbíla

Þar sem raforkuvinnslan fer alfarið fram á sjálfbæran hátt í endurkræfum, innlendum virkjunum, eins og á sér stað á Íslandi og að mestu leyti í Noregi einnig og í nokkrum öðrum ríkjum, t.d. í Suður-Ameríku, þar er mestur þjóðhagslegur og mengunarlegur ávinningur af því að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi í samgöngutækjunum.  Olíulandið Noregur hefur tekið frumkvæði við rafvæðingu bílaflotans, enda eldsneytisverð óvíða hærra en þar. Rafmagnsverðið sveiflast þar eftir framboði og eftirspurn, og þess vegna er þar hagstætt að endurhlaða rafgeymana að næturþeli. Hérlendis nam fjöldi alraf- eða tengilrafbíla aðeins 1,4 % af heildarbílafjöldanum (án vinnuvéla) í árslok 2015, og þetta hlutfall þarf að nema a.m.k. fjórðungi 2030, ef takast á að ná markmiðum Íslands um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 %.   

Þar sem raforkuverðið er tiltölulega lágt, eins og enn er á Íslandi, þó að sigið hafi á ógæfuhliðina undanfarin 2 ár í þeim efnum, og samkeppnisforskot Íslands hafi rýrnað við mikla orkuverðlækkun erlendis og raforkuverðhækkun hérlendis til almennings og nýrrar og gamallar stóriðju, er enn hægt að sýna fram á fjárhagslega hagkvæmni þess fyrir þá, sem eru að hugleiða kaup á nýjum bíl, að festa næst kaup á tengiltvinnbíl, nema þeir sætti sig við þá drægni hreinna rafmagnsbíla á einni hleðslu, sem nú eru á boðstólum.  Um drægnina verða menn þó að hafa í huga, að hún er m.a. háð aksturslagi og útihitastigi. 

Grundvöllur þessarar hagkvæmni er, að ríkið hefur fellt niður vörugjald og virðisaukaskatt af bifreiðum, þar sem innflytjandi getur sýnt fram á nettó losun koltvíildis undir ákveðnum mörkum í venjulegum akstri.  Ekki er gert upp á milli raftvinnbíla,  tengiltvinnbíla, metan, metanólbíla og hreinna rafbíla, enda sé gasið eða metanólið unnið úr sorpi eða m.a. úr koltvíildi andrúmslofts.  Algengt upp gefið losunarbil tengiltvinnbíla er 30-40 g/km af CO2 í blönduðum akstri, þar sem benzínnotkun er upp gefin 1,6 l/100 km.  Þessi uppgefna eldsneytisnotkunartala framleiðenda er tilbúningur, enda ræðst eldsneytisnotkun t.d. tengiltvinnbíla alfarið af því, hversu hlutfallslega mikið er alfarið ekið á rafgeymum, hversu mikið alfarið á eldsneyti, og hversu mikið er ekið í tvinnhami, þegar bæði rafhreyfill og bensínvél knýja bifreiðina áfram. 

Í bílaframleiðslulandinu Þýzkalandi hefur ríkisstjórnin sett fram markmið um, að árið 2030 verði 5 milljón rafbílar í landinu.  Á íslenzkan mælikvarða er þetta ekki háreist markmið, eins og sést á því, að með sama hlutfalli við núverandi höfðatölu Þýzkalands og Íslands samsvarar þetta markmið aðeins tæplega 21 þúsund bílum á Íslandi.  Til samanburðar má geta þess, að íslenzka ríkisstjórnin hefur kynnt mjög háleitt áfangamarkmið um bílaflota landsmanna, þ.e. að árið 2020 verði umhverfisvænir bílar orðnir 10 þúsund talsins. Hér er átt við metangasbíla, metanólbíla, hvers konar tvinnbíla og rafmagnsbíla. 

Búast má við, að á árinu 2016 fjölgi þessum bifreiðum um 700 (4 % af nýskráðum fólksbílum og jeppum) og verði þá við árslok um 4000 talsins (ef þeir voru 1,4 % af flotanum í árslok 2015). Á árabilinu 2017-2020 þurfa landsmenn þá að eignast að jafnaði um 1500 slíka bíla á ári, sem er um 9 % af heildarfjölda nýrra bíla árið 2015.  Þetta þýðir, að árlega þarf á næstu árum að bætast við bílaflotann tvöfaldur sá fjöldi umhverfisvænna bíla, sem væntanlegur er til landsins 2016.  Á áratugnum 2021-2030 þarf aukningin að verða enn hraðari, til að mögulegt verði að ná Parísarmarkmiðinu um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, eða a.m.k. 6000 nýir umhverfisvænir bílar á ári, sem jafngildir, að meira en 1/3 nýrra bíla verði umhverisvænn.

Allt veltur á því, hvað kaupendur nýrra bíla telja bezt þjóna sínum hagsmunum. Þar kemur fjölþætt mat til skjalanna.  Drægni rafmagnsbíla á hverri fullri hleðslu rafgeyma er enn Akkileshæll rafbílanna, því að hún er enn innan við helmingur af drægni hefðbundinna eldsneytisbíla á einum tanki og "hraðfylling" tekur meira en tífalt lengri tíma.  Ágæt lausn hefur komið fram á þessum tímabundnu vandkvæðum, þar sem eru tengiltvinnbílar, en þeir komast margir hverjir yfir 900 km á rafmagni og eldsneyti.  Þeir eru mjög sparir á eldsneytið, ef þeim er ekið í tvinnhami rafhreyfils og sprengihreyfils, því að þá er hemlunar-og jafnvel varmaorku frá sprengihreyflinum breytt í raforku, sem hlaðið er inn á rafgeymana.  Einn framleiðandi meðalstórs tengiltvinnbíls að eiginþyngd um 1615 kg gefur upp meðalbenzínnotkun 1,5-1,7 l/100 km, en það er væntanlega við kjöraðstæður og nauðsynlegt að mæla við dæmigerða notkun og íslenzkar aðstæður, svo að væntanlegir kaupendur geti reitt sig á slíkar upplýsingar, þegar þeir taka ákvörðun. 

Rafmagnsnotkunin er yfirleitt vanmetin í upplýsingum framleiðenda.  Einn framleiðandinn gefur t.d. upp raforkunotkun 114-124 Wh/km, en mælingar, þegar nánast einvörðungu er ekið á rafmagnshami við útihitastig 5°C+/- 5°C sýna raunnotkun með töpum við endurhleðslu 260 Wh/km, sem er meira en tvöfalt uppgefið gildi, þó að lestun hafi verið langt undir leyfilegum mörkum. Samt sem áður er kostnaður þessarar orkunotkunar aðeins um 3,6 kr/kWh hérlendis á heimilistaxta, en mun lækka verulega, ef næturtaxti verður innleiddur, en slíkt yrði allra hagur. 

Eitt af því, sem fælt hefur væntanlega kaupendur nýrra bíla frá rafmagnsbílum, er kostnaðarmunurinn, sem á þeim er og sambærilegum bílum með eldsneytisvél.  Í Þýzkalandi, framleiðslulandi þess tengiltvinnbíls, sem hér er til skoðunar, er verðmunurinn verulegur tengiltvinnbílnum í óhag eða 62 %.  Minni rekstrarkostnaður, aðallega viðhalds- og orkukostnaður, verður að vega þennan mun upp, ef kaup á tengiltvinnbílnum eiga að borga sig.  Í Þýzkalandi er raforkuverð meira en tvöfalt raforkuverðið til almennings á Íslandi, en benzínverðið er þar reyndar hærra líka m.v. núverandi gengisskráningu. Það er mjög lítill peningalegur hvati í Þýzkalandi til kaupa á tengiltvinnbíl, en á Íslandi er hann verulegur og mun væntanlega vaxa. 

Á Íslandi hafa stjórnvöld komið tímabundið mjög til móts við bílakaupendur, sem velja vilja umhverfisvænan bíl, metan-, metanól-, rafmagns- eða tengiltvinnbíl, með því að fella niður vörugjald og virðisaukaskatt af slíkum bílum.  Afleiðingin er sú fyrir viðmiðunarbílana í þessu dæmi, að tengiltvinnbíllinn er aðeins 6,4 % dýrari en sams konar bíll með benzínvél einvörðungu. 

M.v. forsendur, sem hér hafa komið fram og 200 kr/l eldsneytis, má reikna út, að kaup á tengiltvinnbíl í stað sams konar eldsneytisbíls borgi sig á innan við 4 árum.   

Frá sjónarmiði heildarinnar snýst málið ekki síður um aukin loftgæði í þéttbýli og minni losun gróðurhúsalofttegunda.  Það er til marks um, hversu nauðsynlegt er að gefa hraustlega í í þessum efnum, þó að árið 2020 yrðu 10´000 umhverfisvænir bílar í landinu, þá mundi losun gróðurhúsalofttegunda frá umferð á landi aðeins verða um 1,6 % minni en árið 2013.

Til þess að hraða orkuumbreytingunni er tímabært að setja í byggingarreglugerð, að hleðsluaðstaða skuli vera við hvert íbúðarhús, jafnmargir tenglar og nemur fjölda íbúða.  Þá er mikilvægt að setja upp hleðsluaðstöðu við gististaði og á fjölförnum ferðamannastöðum.     


Stjórnsýslubotnlangi

Blekbóndi þessa vefseturs telur miklum vafa undirorpið,  að flokkun og röðun nýtingarkosta íslenzkrar náttúru sé bezt háttað með núverandi fyrirkomulagi Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun, VuR.  Hefur blekbóndi gengið svo langt að halda því fram á þessu vefsetri og í grein í tímaritinu Þjóðmálum, að vegna óheppilegrar skörunar fræða- og athafnasviða Orkustofnunar, OS, og VuR, mundi það verða fallið til að straumlínulaga stjórnsýsluna á sviði frumrannsókna á náttúrunni og mats á þeim rannsóknum m.t.t. orkunýtingar eða friðunar, sem undanfarið hefur verið seinvirk, að fela OS núverandi hlutverk VuR og leggja VuR niður sem slíka.  VuR hefur með starfsemi sinni gengisfellt sjálfa sig sem farveg sáttar á milli ólíkra sjónarmiða um sjálfbæra og afturkræfa nýtingu náttúruauðlinda. Þar með er hún komin á leiðarenda. Aldrei verður á allt kosið, og allar niðurstöður munu vekja úlfúð um skeið.  Þess vegna er nauðsynlegt, að skýr málefnaleg rök, reist á haldgóðri þekkingu á öllum hliðum málsins, liggi til grundvallar flokkun á nýtingarkostum náttúrunnar. 

Nú gerðist það 27. febrúar 2016, að í Fréttablaðinu birtist hógvær og vönduð grein eftir Orkumálastjóra, Guðna A. Jóhannesson, um málefni VuR og OS:

"Allir sáttir - en um hvað ?"

Að mati blekbónda er svo komið eftir upplýsingar Orkumálastjóra, m.a. í þessari grein, að þing og ríkisstjórn eru nauðbeygð til að grípa til þeirra ráðstafana, sem duga til að setja "Rammaáætlun" í ásættanlegt stjórnsýslulegt ferli, en af grein Orkumálastjóra er ljóst, að VuR er haldin óviðunandi meinlokum og óhlutlægni, jafnvel slagsíðu:

"Stjórnsýsla, sem bregst við erfiðum málum með því að kippa þeim út úr hinu eðlilega stjórnsýslulega ferli og stinga þeim niður í skúffu, er ekki vanda sínum vaxin.  Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar er að stjórna ferli, þar sem allir virkjanakostir eru greindir af faghópum og flokkaðir í tillögu, sem síðan er kynnt í umsagnarferli, þar sem allir hafa aðkomu.  Ráðherra leggur síðan þingsályktunartillögu fyrir alþingi til umfjöllunar og ákvörðunar. 

Með því að hafna því að taka virkjanakost til meðferðar er verkefnisstjórnin að koma í veg fyrir faglega umfjöllun faghópa, aðkomu fólks og fyrirtækja að umsagnarferlinu og síðast en ekki sízt alþingis Íslendinga. Slíkt valdarán fámennrar klíku þekkist sem betur fer ekki í okkar heimshluta og engar líkur á, að löggjafinn hafi haft slíkt í huga, þegar lög um rammaáætlun voru sett."

Langt er síðan önnur eins ádrepa hátt setts embættismanns um jafnalvarlegar brotalamir í stjórnsýslu landsins hefur sézt opinberlega á prenti.  Orkumálastjóri hefur lög að mæla, þegar hann nefnir Verkefnisstjórn um Rammaáætlun fámenna klíku, sem framið hafi valdarán með því að stinga undir stól ósk Orkustofnunar um endurskoðun á flokkun/röðun á grundvelli tillögu að breyttri virkjunartilhögun.  Þetta brot í starfi er næg ástæða, og alls engin tylliástæða, til að lýsa vantrausti á Verkefnisstjórnina og leysa hana frá störfum.  Í kjölfarið ætti að færa hlutverk hennar undir Orkustofnun.  Það er æskilegt að afmarka nánar störf faghópanna, svo að þeir risti ekki jafndjúpt og hingað til, því að rannsóknir á nýtingarkostum eru síðari tíma mál umhverfismats, forhönnunar og verkhönnunar.  Með því að raða verkþáttum í rétta röð má draga úr tvíverknaði og spara tíma og nýta viðeigandi innviði, sem þegar eru fyrir hendi í Orkustofnun. Niðurstaða á hæpnum forsendum áður en forhönnun fer fram, er svo mikilli óvissu undirorpin, að hún getur hæglega leitt til rangrar ákvörðunar um niðurröðun. 

Orkumálastjóri heldur áfram:

"Það var frá upphafi veikleiki í starfi verkefnisstjórnarinnar, að staða hennar og ábyrgð innan stjórnsýslunnar var ekki vel skilgreind.  Orkustofnun hefur frá upphafi gert athugasemdir við vinnulag verkefnisstjórnar.

Fyrstu tillögur að starfsreglum verkefnisstjórnarinnar voru mjög í rétta átt, en voru ekki nægilega skýrar til þess að taka af öll tvímæli í þeim atriðum, sem ágreiningur var um.  Þær bárust ekki Orkustofnun til umsagnar, og því hafði stofnunin ekki möguleika á að koma með sínar athugasemdir áður en þær voru gefnar út."

Orkumálastjóri bendir hér á meingallaða stjórnsýslu, þar sem Orkustofnun var sniðgengin.  Þeir, sem stóðu að því, hafa verið meðvitaðir um skörunina á verkefnasviðum OS og Verkefnisstjórnarinnar, VuR, og hvílíkt örverpi sú síðar nefnda er í stjórnsýslunni.  Þegar þannig háttar til, veltur vönduð stjórnsýsla á persónunum, sem í hlut eiga, og meirihlutinn í núverandi Verkefnisstjórn, sem mun vera frá fyrri hluta árs 2013, veldur engan veginn hlutverki sínu.  Til að rökstyðja það nægir að vísa í tilvitnaða grein Orkumálastjóra hér að ofan. 

Á meðal áforma núverandi ríkisstjórnar við myndun hennar var að straumlínulaga stjórnsýslu ríkisins.  Téð Verkefnisstjórn, VuR, er utan við meginfarveg stjórnsýslunnar og er eins og sepi utan á Orkustofnun án þess að OS geti hlutazt til um starfsemi hennar, sumpart eins og botnlangi á meltingarveginum.  Sem kunnugt er hleypur oft bólga í botnlanga meltingarvegarins, og líkaminn verður í raun betur settur án botnlangans en með hann innanborðs.  Botnlangabólga getur leitt til dauða líkamans, og með núverandi Verkefnisstjórn er svo mikil slagsíða á málsmeðferð, að raunhæfir orkurannsóknarkostir verða færri en efni standa til.  Slíkt leiðir til glataðra tækifæra til atvinnusköpunar og verðmætasköpunar. Mál er, að linni.

 

 


Ekkert er öruggt

Uggvænleg tíðindi berast af erlendum fjármálamörkuðum vestan hafs og austan.  Spár um fjármálakreppu 8 árum eftir hámark síðustu alþjóðlegu kreppu skjóta mönnum skelk í bringu, þegar bjarg á borð við Deutsche Bank er sagt riða vegna hárra skulda og gríðarlegra tapa á afleiðuskuldbindingum, Credit Default Swaps, CDS.  Væntanlega hafa undanfarið átt sér stað mikil útlánatöp stórra banka vegna efnahagserfiðleika þróunarríkjanna, og er Kína þar þyngst á metunum. Botnverð á hrávörumörkuðum síðan 2014 hafa valdið töpum á "fjármálagjörningum" bankanna á borð við CDS. 

Þrátt fyrir "rífandi gang" í íslenzka hagkerfinu hefur erlend óáran smitazt hratt yfir á íslenzkan verðbréfamarkað, sem reyndar efldist mjög árið 2015, en menn töldu þó eiga talsvert inni 2016.  Hvað við tekur hérlendis á kosningaári 2016 til Alþingis er enn á huldu, en skoðanakannanir á viðhorfum landsmanna boða meiri óvissu en oft áður.  Ástæðan er sú, að fari svo sem horfir, að Píratar verði með stærsta þingflokkinn að kosningum loknum, er forseti, hver sem hann nú verður, líklegur til að fela "kapteini Pírata" fyrst stjórnarmyndunarumboðið.  Það yrði í fyrsta sinn í heimssögunni, að forkólfi stjórnleysingja (anarkista) yrði falin ríkisstjórnarmyndun, og yrði vafalítið ávísun á skrípaleik og öngþveiti í stjórnmálum landsins. 

Hvort kapteinninn telur vænlegra að koma málefnum sínum til framkvæmda með borgaralegu flokkunum eða "vinstra mixinu", veit enginn, en það skýtur skökku við, ef "uppreisnarflokkurinn" ætlar að leggja lag sitt við forræðishyggjuflokkana í stað þess að berjast með borgaralegum öflum og fá "báknið burt". 

Píratar og kerfissnatar hljóta eðli sínu samkvæmt að fara saman eins og olía og vatn, og yrði það undirfurðuleg samsuða og hefði í för með sér snöggan stjórnmálalegan dauðdaga fyrir píratahreyfinguna. Hér verður að bæta því við, að verstu kerfissnatarnir hljóta að vera aðdáendur Evrópusambandsins, því að þar er versta "búrókratí", sem heimurinn hefur kynnzt frá falli Ráðstjórnarríkjanna 1991.

Við þessar óvissu aðstæður í alþjóðlegum fjármálaheimi og innlendum stjórnmálaheimi er ómetanlegt, að kjölfesta finnist í atvinnulífinu.  Þrátt fyrir áföll blómstraði sjávarútvegurinn 2015 og er tvímælalaust orðin kjölfesta íslenzks efnahagslífs, þótt ekki sé nú umsetningin mest í gjaldeyri talið.  Stærsta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, slítur nú barnsskónum sem risinn á leikvanginum, en á eftir að sanna sig sem sjálfbær og viðvarandi risaatvinnugrein.  Ferðaþjónustan á Íslandi nútímans gengur á náttúruauðlindina með náttúruspjöllum, eins og fráfarandi Landgreæðslustjóri hefur bent á, og er þess vegna ósjálfbær atvinnugrein.  Sé gríðarleg losun hennar á gróðurhúsalofttegundum meðtalin, verður ljóst, að ferðaþjónustan leikur lausum hala í hagkerfinu, skilur eftir sig gríðarlegt kolefnisspor, og þess vegna þarf hún að búa sig undir háa kolefnisskattheimtu. 

Við þessar aðstæður er fáheyrt, að þessi atvinnugrein skuli telja sig þess umkomna að setja sig upp á móti sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og uppsetningu nauðsynlegra flutningsmannvirkja til að flytja þessa orku á milli landshluta, þó að 97 % erlendra ferðamanna líti með velþóknun á mannvirki tengd þessari nýtingu á Íslandi, 3 % tóku ekki afstöðu, og enginn lýsti sig andvígan.  Það er tóm vitleysa hjá forkólfum náttúruverndarsamtaka og ferðaiðnaðarins, að sá síðast nefndi mundi verða fyrir tjóni vegna nýrra virkjana og flutningslína.  Allt fer þetta ágætlega saman.  Nýtum og njótum !  

  Eftirfarandi tíðindi gat að líta í Fiskifréttum, 4. febrúar 2016:

"Útflutningur sjávarafurða á árinu 2015 jókst um tæpan 21 milljarð kr frá árinu áður eða um 8,5 % að því, er fram kemur í upplýsingum á vef Hagstofunnar.

Árið 2015 fluttu Íslendingar út sjávarafurðir fyrir tæpa 265 miakr, en árið 2014 nam þessi útflutningur 244 miakr. 

Alls voru fluttar út vörur frá Íslandi fyrir 626,3 miakr FOB á síðasta ári, og var verðmæti vöruútflutnings um 36 miakr eða 6,1 % hærra, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður. 

Iðnaðarvörur voru 52,9 % alls vöruútflutnings, og var verðmæti þeirra 6,8 % hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna útflutnings á áli.

Sjávarafurðir voru 42,2 % alls vöruútflutnings.  Aukning varð einkum vegna útflutnings á fiskimjöli.  Verðmæti mjöls jókst um 85 % á milli ára."

Hér eru mjög jákvæð hagtíðindi á ferð af árinu 2015.  Þrátt fyrir mótlæti af völdum tapaðs Rússlandsmarkaðar, minni loðnuveiði og efnahagsstöðnunar víða í heiminum, tókst sjávarútveginum að auka verðmætasköpun sína og gjaldeyrisöflun. Sannar það styrk vöruþróunar og markaðssetningar sjávarútvegsins, og sennilega má þakka þetta líka veðurfyrirbrigðinu El Nino, sem dró mjög úr ansjósugengd í Suður-Ameríku og hækkaði þar með mjölverð í heiminum.  

Eiginfjárhlutfall sjávarútvegsins er um þriðjungur af heildareign, svo að efnahagurinn er traustur, þó að hann beri merki mikilla fjárfestinga. Þær eru undirstaða framtíðarteknanna.  Íslendingar eru í 3. sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir Evrópu og eiga að njóta sannmælis sem slíkir í samningum um deilistofnana.  Evrópusambandið verður að láta af kúgunartilburðum sínum gagnvart Íslandi um auðlindir hafsins.  Hafrétturinn er Íslands megin, og með  vísindin að vopni, lögum og þrautseigju, mun sanngjörn hlutdeild Íslands af makríl og öðrum slíkum stofnum verða viðurkennd. Nýr og efnilegur utanríkisráðherra Íslands skrifaði þann 16. apríl 2016 góða grein í Morgunblaðið, þar sem hún fagnaði því, að Sameinuðu þjóðirnar hefðu nýlega samþykkt mikinn hluta af umráðakröfum Íslendinga til landgrunnsins út af Reykjanesi.   

Alls starfa um 8´000 manns í greininni við veiðar og vinnslu, og voru launagreiðslur alls 82 miakr og bein opinber gjöld 25 miakr árið 2014. Beint og óbeint þiggja vart færri en 25´000 manns laun af greininni eða um 14 % af vinnuaflanum.  Greinin er talin standa undir um fjórðungi landsframleiðslunnar.

Iðnaðurinn, utan matvælaiðnaðar, er með stærstu hlutdeildina í vöruútflutninginum, og nemur hún yfir helmingi.  Að iðnaðurinn nái að auka verðmætasköpun sína á sama tíma og álmarkaðir eru í algerri ládeyðu, vitnar um ótrúlegan kraft og sýnir, að fjölbreytni útfluttra iðnaðarvara hefur vaxið gríðarlega síðast liðinn áratug. 

Þó að herði að efnahagi fólks, verður það alltaf að borða.  Um allan heim, og ekki sízt á helztu mörkuðum Íslendinga fyrir matvæli, er vaxandi meðvitund almennings um mikilvægi heilnæmrar fæðu fyrir heilsufarið.  "Fish from Iceland" hefur ímynd matvöru úr hreinu umhverfi, sem verður að varðveita.  Að síun skolps frá hreinsistöðvum frárennslis á Íslandi standist ekki gæðasamanburð við danskar og sænskar hreinsistöðvar, hvað agnir úr plasti og öðru snertir, eru þess vegna vonbrigði, því að þetta eru vísast heilsuskaðleg efni. Hér þarf hið opinbera, aðallega sveitarfélögin, að bæta frammistöðu sína.   

Fregnir berast nú um, að Norðmenn séu búnir að skrínleggja áform um olíuleit á norðurslóðum, þ.á.m. á Drekasvæðinu, en engin slík tíðindi eru frá fyrirtækjum, sem Össur Skarphéðinsson, þáverandi olíumálaráðherra Íslands, úthlutaði leitar- og vinnsluleyfum á íslenzka Drekasvæðinu.  Fáfnir offshore, leitarfyrirtæki, á nú mjög erfitt uppdráttar, en í þessu fyrirtæki hafa a.m.k. 2 íslenzkir lífeyrissjóðir fest fé.  Eru það auðvitað hrapalleg mistök og forkastanlegt af lífeyrissjóðum að kasta fé á glæ í "rússneska rúllettu", sem samræmist heldur ekki markmiðum Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna frá desember 2015 um hámarkshitnun andrúmslofts 2°C, en til þess verður að láta "óbrennanlegt jarðefnaeldsneyti" liggja, þar sem það er.  Er ekki að spyrja að gáfnafari og gæfu íslenzkra vinstri manna, þegar kemur að stefnumörkun í hinum örlagaríkari málum.

 

 

 


Norð-austurleiðin

Nokkrir stjórnmálamenn o.fl. hafa gert mikið úr þeim viðskiptatækifærum fyrir Íslendinga, sem siglingar um Norður-Íshafið norðan Rússlands frá Austur-Asíu til Evrópu og Norður-Ameríku, gætu falið í sér. Fulltrúar Íslendinga frá Bessastöðum til Rauðarárstígs í Reykjavík, þar sem Utanríkisráðuneytið er til húsa, hafa gert mikið úr því, að á Íslandi gætu orðið umskipunarhafnir fyrir flutninga eftir Norð-austurleiðinni og eldsneytisbirgðastöð fyrir risaflutningaskip. 

Fyrrverandi húsbóndi við Rauðarárstíginn, sá sem afhenti fulltrúa Evrópusambandsins, ESB, umsókn Íslands um aðildarviðræður, sem Nestor íslenzkra jafnaðarmanna telur nú hafa verið grundvallaða á rangri stefnu, sigldi þeim viðræðum í strand og lagði umsóknina í dvala fyrir Alþingiskosningar 2013. Téðum utanríkisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur varð tíðrætt um Norðurslóðir og nefndi sjálfan sig iðulega "olíumálaráðherrann" og skrifaði iðulega um olíumálaráðherrann í 3. pers. et. og átti þá við herra Skarphéðinsson.  Nú vilja flestir hætta við olíubrambolt á íslenzka hluta Drekasvæðisins vegna umhverfisáhættu.  Hugsanlegar birgðir þar eru "óbrennanlegar" m.v. hámarkshækkun hitastigs andrúmslofts jarðar 2°C. "Olímálaráðherrann" hafði þó enn ekki tekið sinnaskiptum, er síðast fréttist, þó að flokkur hans, sem er á útleið, af því að öll helztu stefnumál hans voru tóm vitleysa og gjörðirnar, þegar hann sat í ríkisstjórn, eintóm mistök, samkvæmt opinberum játningum aflátsformanns. 

Fleiri fara fjálglegum orðum um Norð-austurleiðina en Íslendingar.  Í viku 04/2016 var haft eftir Robert J. Papp, sérlegum fulltrúa Bandaríkjastjórnar vegna Norðurslóða, í Morgunblaðinu, að "vegna opnunar Norð-austurleiðarinnar væri horft til mögulegrar umskipunarhafnar í Tromsö eða á Íslandi", eins og það var orðað í Baksviðsumfjöllun Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 29. janúar 2016.

Í sömu umfjöllun kom þveröfugt sjónarmið fram frá markaðsaðilum, og er það ekki í fyrsta sinn, sem staðreyndir markaðarins fylgja ekki loftköstulum stjórnmála- og embættismanna.  Ættu hinir síðar nefndu að halda sig meira við raunveruleikann og gefa minni gaum opinberlega að draumsýnum sínum. 

Anne H. Steffensen, forstjóri samtaka danskra skipaútgerða, "Danmarks Rederiforening", sagði eftirfarandi á Norðurslóðaráðstefnu í Tromsö í janúar 2016:

"Markaðurinn mun að óbreyttu ekki velja Norð-austurleiðina.  Til að hún borgi sig umfram aðrar siglingaleiðir þarf rétta blöndu af flutningsgetu, meiri sjóflutningum og flutningsgjöldum, sem eru nógu há til að stytting borgi sig.  Nú eru flutningsgjöldin mjög lág og efnahagsástandið erfitt.  Skipaumferðin er ekki nógu mikil til að Norð-austurleiðin borgi sig.  Með hliðsjón af lækkun olíuverðs og efnahagslegum samdrætti víða um heim er erfitt að sjá, að það breytist í fyrirsjáanlegri framtíð."

""Ávinningur þess að sigla Norð-austurleiðina er ekki nægur til að hún keppi við Súez-skurðinn", segir Steffensen og bendir á, að árið 2013 fór 71 skip um Norð-austurleiðina, en aðeins 20 árið 2014."

Niðurstöðu Steffensens má skoða í því ljósi, að sé siglt frá Singapúr til Hamborgar lengist siglingaleiðin, sé farið norðurfyrir í stað Súez, um rúmlega 1350 km eða um 16 %.  Sé siglt frá Hong Kong til Hamborgar styttist leiðin um 990 km eða 11 %, sem er ekki nóg við núverandi olíuverð til að vega upp á móti kostnaði við ísbrjót og hærri tryggingariðgjöldum fyrir Norð-Austurleiðina.  Sé hins vegar siglt frá Yokohama í Japan til Hamborgar styttist leiðin um rúmlega 4150 km eða 38 %.  Þessi mikla stytting gefur kost á að minnka hraða skips úr 15 hnútum í 9 hnúta, og við það næst 78 % eldsneytissparnaður.  Eldsneytiskostnaður er 30 % - 60 % flutningskostnaðar.  Sé miðað við, að hægari sigling norður fyrir taki sama tíma og sigling um Súez, má reikna með nokkrum sparnaði norðurleiðina vegna lágs olíuverðs og þrátt fyrir ýmsan viðbótar kostnað, þegar siglt er frá Yokohama, en flutningar þaðan eru fremur litlir í samanburði við flutningana frá hinum höfnunum tveimur, og miðað við efnahagshorfur í Japan er umtalsverð aukning á vöruútflutningi þaðan til Evrópu/BNA ólíkleg.

Sveitarstjórnarmenn á landinu norð-austanverðu o.fl. hafa sumir tekið risastóra umskipunarhöfn inn í aðalskipulag sveitarfélaga sinna á grundvelli væntinga, sem búið er að skapa um flutninga Norð-Austurleiðina.  Þeir hafa líka mænt vonaraugum til olíu-og gasvinnslu á Drekasvæðinu og þjónustu í landi við hana.  Allt eru þetta vísast gyllivonir í fyrirsjáanlegri framtíð og ráðlegast að eyða ekki meiri tíma og fjármunum að svo stöddu í undirbúning fyrir slíkan vonarpening, heldur snúa sér að öðru, eins og Þingeyingar hafa nú gert með myndarlegri hvalaskoðunarútgerð og samningi við þýzka fyrirtækið PCC um kísilframleiðslu á Bakka. 


Rafgeymar og rafbílar

Framleiðsla og sala á rafbílum hefur enn ekki fengið byr í seglin, þótt að því hljóti senn að koma.  Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu byrleysi, lognmollu.  Þróun eldsneytisverðs frá miðju ári 2014, þegar hráolíuverð var yfir 100 USD/fat, til marz 2016, þegar verðið er rúmlega 30 USD/fat, en að vísu spáð hækkandi, tefur fyrir orkubyltingunni, og sú töf er e.t.v. hluti skýringarinnar á því, að ekki hefur verið dregið úr framboðinu, þótt eftirspurn hafi dvínað. Olíuframleiðendur sjá nú sína sæng út breidda. Nú eru olíubirgðir í heiminum í hámarki eða 1,3 mia föt (milljarðar tunnur), en það er um tveggja vikna olíunotkun heimsins.

Rafmagnsverð í heiminum hefur lækkað, nema á Íslandi, þar sem það hefur hækkað, nema til fyrirtækja með rafmagnssamninga, þar sem orkuverð er tengt markaðsverði á afurðum þeirra.  Hefur verið bent á það á þessu vefsetri, að á íslenzka fákeppnismarkaðinum, þar sem ríkisfyrirtæki hefur ríkjandi stöðu gagnvart öðrum orkuvinnslufyrirtækjum, sé þessi öfugþróun með öllu óviðunandi, þar sem hún veikir mjög samkeppnisstöðu íslenzkra fyrirtækja, sem öll nota raforku, en í mismiklum mæli þó.  Þessi öfugsnúna þróun raforkuverðs hérlendis tefur jafnframt fyrir orkubyltingunni, t.d. skiptum úr eldsneytisknúnum fartækjum í rafknúin fartæki. Sú nývæðing er ein af forsendum þess, að Ísland nái markmiði sínu um losun gróðurhúsalofttegunda 2030. 

Dreifingarfyrirtæki raforku eru einokunarfyrirtæki hvert á sínu svæði, og fyrir því eru þjóðhagsleg rök að koma í veg fyrir offjárfestingu í dreifikerfum á fleiri en einni hendi.  Fyrir vikið vantar nýbreytnihvata fyrir dreififyrirtækin, og t.d. hefur hvorki frétzt af snjallmæalaáformum né áformum þeirra um gjaldskrárbreytingu vegna aukins álags á dreifikerfin af völdum hleðslu rafgeyma rafmagnsbíla, sem árið 2030 gætu hafa náð 90 þúsund bíla markinu.  Að öðru jöfnu hefst endurhleðsla flestra rafbíla á tímabilinu kl. 1700-2000, þegar notkun dagsins lýkur.  Á þessu tímabili er álagstoppur í raforkunotkun flestra heimila, og við hleðsluna má búast við tvöföldun heimilisálagsins og yfir 100 MVA ofan á toppinn árið 2030 á landsvísu.

Það stefnir í óefni um allt land, ef engar ráðstafanir verða gerðar til úrlausnar.  Það er hægt að fjárfesta sig út úr vandanum, skipta um dreifispenna, bæta við jarðstrengjum, efla háspennulínur og virkja.  Þetta er óhagkvæm leið til að mæta toppi í 3-4 klst á sólarhring. 

Mun skynsamlegra er að beina þessu aukna álagi yfir á lágálagstímabil dreifiveitna, sem er nóttin.  Það geta dreifiveiturnar gert með innleiðingu næturtaxta, sem sé í heildina u.þ.b. helmingi lægri en dagtaxtinn að því tilskildu, að vinnslufyrirtækin og flutningsfyrirtækið sjái sér hag í verulegri lækkun orkutaxta sinna að næturlagi. Þar með mundi megnið af hleðsluálagi bílarafgeyma færast yfir á tímabilið 0000-0600 og einvörðungu jafna álag dreifiveitnanna.  Eina fjárfestingin væri fólgin í endurnýjun orkumæla, en nýju orkumælarnir, stundum nefndir snjallmælar, þyrftu að hafa tvö klukkustýrð teljaraverk. Í mörgum tilvikum er hvort eð er tímabært að endurnýja raforkumælana og setja þá upp örtölvustýrða mæla með aflmælingu (kW, kVA)), raunorkumælingu (kWh) og launorkumælingu (kVArh) á tveimur tímabilum hvers sólarhrings og jafnvel með fjaraflestrarmöguleika. Með þessu móti væri hægt að takmarka toppálag heimila og fyrirtækja með því að beita hárri gjaldskrá fyrir afltöku umfram umsamin mörk.  Það er t.d. gert í Noregi, þar sem hár toppur skapast í kuldatíð vegna rafmagnskyndingar húsnæðis.  Er þá dregið úr afli rafmagnsofna á meðan eldað er o.s.frv.  Þetta er hægt að gera sjálfvirkt eða handvirkt.

Tækniþróun rafgeyma hefur verið tiltölulega hæg, og hefur þetta tafið fyrir orkubyltingu í samgöngugeiranum.  Nú eru komnir fram á sjónarsviðið liþíum rafgeymar, sem hafa meiri orkuþéttleika, kWh/kg, en nikkel-kadmíum geymar, svo að ekki sé minnzt á gömlu blý-brennisteinssýrurafgeymana.  Eru yfirleitt liþíum geymar í rafbílum nú orðið. 

Spurn eftir liþíum jókst gríðarlega á 4. fjórðungi 2015, svo að augnabliksverðið ríflega tvöfaldaðist, úr 6000 USD/t af liþíum-karbonati í 13800 USD/t frá nóvemberbyrjun til desemberloka.  Er þetta eina hráefnið, sem vitað er um verulega hækkun á árið 2015. Er hún til vitnis um aukna framleiðslu liþíum rafgeyma, enda eykst framleiðsla rafbíla og tengiltvinnbíla, þó að eftirspurnin sé óþarflega lítil enn, þó að það standi til bóta. 

Það eru að vísu fleiri kaupendur liþíum-geyma en rafbílaframleiðendur.  Þannig er farið að tengja rafgeyma við sólarhlöður til að geyma sólarorkuna og nota sem raforku að nóttu, eða þegar skýjað er.  Stofnkerfisrekendur, t.d. í Suður-Kaliforníu, eru farnir að setja upp risastór liþíum-rafgeymasett, allt að 1,0 GW, til að anna álagstoppum og til að koma fyrirvaralaust inn á netið við brottfall vinnslueininga, við bilun, eða þegar hægir á vindmyllum. 

Lönd með þekkta liþíum auðlind í jörðu eru eru talin upp hér á eftir.  Hlutfallslegt þekkt magn í hverju landi af vinnanlegum liþíum-samböndum er einnig sýnt:

  • Bólivía      23 %
  • Chile        19 %
  • Argentína    16 %
  • BNA          14 %
  • Kína         14 %
  • Ástralía      4 %
  • Önnur        10 %

Það eru þó ekki stórviðskipti með liþíum, því að rúmtak liþíum rafgeyma er aðeins að 5 % liþíum, og kostnaður þess er aðeins 10 % af kostnaði rafgeymanna.  Heimsviðskipti með liþíum nema aðeins miaUSD 1,0 á ári.  Efnið er samt nauðsynlegt í hinar léttu rafhlöður snjallsíma, fartölva og handverkfæra.  Að hálfu fjárfestingarbankans Goldmans Sachs er notuð líkingin "nýja bensínið" um liþíum.  Það er enginn hörgull á liþíum í jörðunni, og það er endurvinnanlegt, en að gera það nýtilegt er seinlegt og dýrt.

Kínversk yfirvöld hafa komið auga á mikilvægi liþíums í baráttunni við loftmengun.  Þau hvetja mjög til rafvæðingar fartækjanna, einkum strætisvagna og langferðabíla, rútna.  Á fyrstu 10 mánuðum 2015 næstum þrefaldaðist sala nýrra rafmagnsfartækja í samanburði við sama tímabil árið áður, og seldust 171´000 slík farartæki, sem svarar til árssölu rúmlega 205´000 rafmagnsfartækja.  Þetta var þó aðeins 1,0 % af heildarfjölda nýrra farartækja í Kína.  Kínverski bílamarkaðurinn er þannig sá stærsti í heimi, og með þessu áframhaldi verða fljótt seld flest ný rafmagnsfartæki í Kína, enda er kínverski markaðurinn stærsti bílamarkaður í heimi með yfir 20 milljónir seldra nýrra bíla á ári.

Á Íslandi voru árið 2015 seldir 15´420 fólks-og sendibílar.  Af þeim voru um 2,0 % alrafknúnir eða tengiltvinnbílar, þ.e. rúmlega 300 talsins.  Betra væri, að Íslendingar tækju Kínverja sér til fyrirmyndar og tvöfölduðu innfluttan og seldan fjölda slíkra bíla árlega 2016-2019, þannig að eigi síðar en 2020 nemi innflutningur raf- og tvinnbíla yfir 30 % af heild. Til þess þarf þó kraftaverk. Stjórnvöld ættu að lyfta þakinu, sem nú er MISK 6,0, fyrir innkaupsverð á farartækjum, sem seld eru hérlendis án vörugjalds og virðisaukaskatts, séu þau dæmd umhverfisvæn, og fella þessi gjöld af stórum tækjum á borð við almenningsvagna og langferðabíla til að flýta fyrir rafvæðingu þessara orkufreku tækja. Tryggingafélög bjóða lægri iðgjöld af umhverfisvænum farartækjum, og frítt er fyrir þau í bílastæði í Reykjavík.  Þeim fylgja þess vegna ýmis hlunnindi, en þau eru enn þá dýrari í innkaupum en sambærilegir jarðefnaeldsneytisknúnir bílar þrátt fyrir niðurfellingu innflutningsgjalda.   

Árið 2030 gæti heildarfjöldi allra farartækja á íslenzkum vegum numið 300´000.  Raunhæft markmið ætti að vera, að 30 % þeirra verði rafknúin eða af tengiltvinngerð.  Þá þarf að meðaltali að flytja inn 6000 slíka bíla á ári, sem er tæplega 40 % af núverandi heildarinnflutningi.    Til að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050, er þessi áfangi nauðsynlegur, en þá þarf nú heldur betur að slá undir nára, víða.

Það vekur athygli, hversu lítið rafmagnsbílum og tengiltvinnbílum er hampað af bílaumboðum hérlendis, þó að talsvert úrval sé nú þegar af slíkum farartækjum, og hversu litla athygli flest bílaumboðin vekja á hagkvæmni þessara bíla fyrir kaupendur nýrra bíla. Bílainnflytjendur þurfa almennt að átta sig á því, að á Íslandi er jarðefnaeldsneyti dýrt, en rafmagnið er ódýrt miðað við það, sem algengast er í hinum vestræna heimi. T.d. virðast kaup á tengiltvinnbíl geta borgað sig á innan við 4 árum vegna lægri rekstrarkostnaðar, þó að hann sé nokkru dýrari en sambærilegur eldsneytisbíll. Þetta er þó nauðsynlegt að sannreyna við íslenzkar aðstæður með mælingum.   

Auk þess er raforkuvinnslan á Íslandi umhverfislega og fjárhagslega sjálfbær, en um hvort tveggja gegnir víða öðru máli.  T.d. í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum (BNA) hefur a.m.k. 60 % raforkuvinnslunnar mikla mengun í för með sér á formi fínna sótagna, örryks, auk myndunar gróðurhúsalofttegunda, og vind- og sólarorka er stórlega niðurgreidd af skattgreiðendum, einkum í Þýzkalandi.  Það er þess vegna meira hagsmunamál og umhverfisverndarmál á Íslandi en víðast hvar annars staðar, að innleiðing rafmagnsbíla, með tvinnbíla sem millilausn, gangi bæði fljótt og vel. 

Til að innleiðingin gangi snurðulaust verða orkuyfirvöld að leggja hönd á plóginn og laða orkuvinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtækið og einkum dreifiveitur og söluaðila raforkunnar, rafvirkjameistara og rafmagnshönnuði, til samstarfs, svo að rafkerfið verði í stakk búið að mæta auknu álagi og nóg verði af viðeigandi tenglum með sölumælingu í borg, bæjum og þorpum, bílageymslum og á bílastæðum fjölbýlishúsa og við flugvellina, svo að dæmi séu nefnd, til að skortur á innviðum verði ekki til trafala við þessa mikilvægu innleiðingu.

Segja má, að fjölgun rafbíla og tvinnbíla sé ótrúlega hæg m.v. hið rausnarlega framlag ríkissjóðs að gefa eftir bæði vörugjöld og virðisaukaskatt á þessum bílum. Vanburða innviðir og e.t.v. efasemdir um nýja tækni í þessum geira eiga sinn þátt í því. Eftirgjöf gjaldanna er auðvitað tímabundin á meðan framleiðslukostnaður umhverfisvænu bílanna er hærri en hefðbundinna eldsneytisbíla og á meðan verið er að koma viðskiptum með þessa bíla á skrið. Þó væri sennilega ráðlegt af stjórnvöldum að marka stefnu til lengri tíma, t.d. áratugar, um þessi gjöld, svo að fjárfestar sjái sér fært að setja fé í innviðauppbygginguna, og geti verið sæmilega öruggir um ávöxtun fjár síns á því sviði.      

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband