Færsluflokkur: Umhverfismál
6.3.2016 | 11:09
Græningjar sveigja til vinstri
Sagt er, að Samfylkingin sé í andarslitrunum. Farið hefur fé betra, verður þá sumum að orði. Það er ekki séríslenzk þróun, að jafnaðarmannaflokkar skreppi saman um þessar mundir. Þessa þróun má sjá um alla Evrópu, og græningjar álfunnar hafa séð sér leik á borði að sækja inn í tómarúmið, sem jafnaðarmenn skilja eftir sig á vinstri vængnum. Þá skapast náttúrulega svigrúm fyrir hægri græna, og einmitt það sáum við í Þýzkalandi, þegar Angela Merkel, kanzlari og leiðtogi CDU-Christliche Demokratische Union, sem er miðju-hægri flokkur og svipar til Sjálfstæðisflokksins á Íslandi, tók þýzka græningja á orðinu í kjölfar Fukushima-kjarnorkuslyssins í Japan 2011 og gleypti við stefnu þeirra um að loka þýzkum kjarnorkuverum í síðasta lagi árið 2022. Þessi stefna er reyndar tímaskekkja nú, þegar megináherzluna verður að leggja á að stöðva aukninguna í styrk koltvíildis, CO2, í andrúmsloftinu, og það verður hreinlega ekki hægt, nema með því að fjölga kjarnorkuverum á kostnað kolakyntra raforkuvera.
Jesse Klaver heitir nýr formaður hollenzkra græningja, sem nú reynir að blása nýju lífi í flokk, sem í kosningum árið 2012 féll úr tæplega 7,0 % fylgi í rúmlega 2,0 % fylgi. Eftir honum hefur "The Economist" þetta, 23. maí 2015:
"Sú tilfinning hefur grafið um sig í Hollandi, í Evrópu, á Vesturlöndum, að við fáum engu breytt um nokkurn skapaðan hlut, að þetta sé bara, eins og heimurinn er. Það er þó ekki rétt. Við reistum þessa veröld, stein eftir stein, og það, sem þið reisið sjálf, því getið þið og breytt."
Aukið fylgi hollenzkra vinstri grænna geta þeir þakkað Verkamannaflokkinum, sem gekk í eina sæng um ríkisstjórn með mið-hægri Frjálslyndum og ber með þeim ábyrgð á aðhaldsstefnu um ríkisfjármálin. Það hefur skapað Klaver tækifæri til ákafs áróðurs fyrir lausatökum á ríkisfjármálum. Honum verður tíðrætt um skattaundanskot fjölþjóðafyrirtækja. Á slíkum áróðri gegn erlendum stórfjárfestum ber og hérlendis á vinstri slagsíðunni. Hann vill setja lög um lágmarkslaun, og hann hefur boðið franska hagfræðinginum Thomas Piketty að ávarpa hollenzka þjóðþingið.
Í Þýzkalandi hefur samsteypustjórn CDU/CSU og SPD (þýzkra jafnaðarmanna) valdið vafa hjá kjósendum um, hvað jafnaðarmenn standa eiginlega fyrir. Frank Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýzkalands, nýtur þó vinsælda á með Þjóðverja. Málsmeðferð ríkisstjórnarinnar í Berlín er þó tekin að reita af henni fylgið, og spennandi verður að fylgjast með afstöðu kjósenda í væntanlegum þýzkum fylkiskosningum.
Í Frakklandi hafa jafnaðarmenn gengið á bak fyrri loforða sinna og reyna nú að draga saman seglin í ríkisrekstrinum. Þess vegna yfirgáfu græningjar ríkisstjórnina frönsku. Franska ríkisstjórnin hraktist frá ofurskattlagningu, 75 %, á hátekjufólk, og nú eru þeir að hörfa frá stolti sínu, 35 klukkustunda vinnuviku, vegna bágborinnar samkeppnishæfni fransks atvinnulífs.
Þrátt fyrir rek brezka Verkamannaflokksins til vinstri fyrir kosningatap sitt 7. maí 2015, þá skilgreindu þarlendir græningjar sig sem staðfastan vinstri flokk og fjórfölduðu fylgi sitt upp í 4 %. Verkamannaflokkurinn brezki er lamaður vegna innanflokkserja eftir kjör vinstri mannsins Corbyns í formannssætið. Hins vegar ætlar þjóðaratkvæðagreiðslan um veru eða brotthvarf Bretlands að reynast Íhaldsflokkinum býsna örlagarík.
Í Austurríki lyfti andóf við miðjumoði í ríkisstjórn græningjum upp í 12 % fylgi í þingkosningum 2013.
Í Svíþjóð eru græningjar í ríkisstjórn með jafnaðarmönnum, í fyrsta sinn, og hafa fengið framgengt nýskattlagningu á kjarnorkuver, svo að framtíð þeirra er teflt í tvísýnu. Sænska ríkisstjórnin hefur annars verið aðgerðalítil, en tók þó loks af skarið gagnvart hömlulausu innstreymi flóttafólks, þegar allt var komið í óefni.
Bágstödd hagkerfi og mikið atvinnuleysi eru ekki fylgislegt kjörlendi fyrir flokka, sem einblína á umhverfisvernd. Versnandi kjör virðast fæla kjósendur frá miðjuflokkum og til lítilla hugsjónaflokka, en þar fljóta yfirleitt ofan á hatrammir Evrópusambandsandstæðingar og þeir, sem hamla vilja innstreymi innflytjenda, t.d. brezki UKIP-Sjálfstæðisflokkurinn og franska Þjóðfylkingin-FN. Græningjar vilja yfirleitt ekki hömlur á aðstreymi innflytjenda, og þeir eru Evrópusambandssinnar.
Hérlendis svipar pírötum nokkuð til græningja í Evrópu, en þeir eru þó ólíklegir til að leita til vinstri við Samfylkinguna. Líklegra er, að vinstri grænir blási dálítið út, þegar Samfylkingin veslast upp, enda njóta vinstri grænir nú meira fylgis í skoðanakönnunum en Samfylkingin. Píratar á Íslandi bera keim af gömlu stjórnleysingjunum, enda hafa þeir lýst sér sem andkerfisflokki. Stefnumálin flækjast ekki fyrir pírötum, heldur eru þeir uppteknari af naflaskoðun, innanflokks valdabáráttu og titlatogi. Í einu orði má lýsa slíku fólki sem naflaskoðurum, og verður ekki séð, hvaða erindi slíkir eiga á vettvang stjórnmálanna. Kannski er þessi "póstmoderníski" snykur pírata styrkur þeirra og svar við firringunni.
Sjálfstæðisflokkurinn ætti að taka sér stöðu sem raunhæfur, þ.e. "no nonsense", umhverfisverndarflokkur og einblína í því sambandi á minnkun og útjöfnun losunar gróðurhúsalofttegunda, sem er stærsta umhverfisverndarmálið nú á Íslandi og á alþjóðavísu, og á Íslandi má enn bæta við uppblæstri lands og stækkun stærstu eyðimerkur Evrópu sem meginviðfangsefni á sviði umhverfisverndar. Þar er hægt að setja þjóðinni metnaðarfullt markmið um að verða fyrst Evrópuþjóða til að ná 0 nettó losun gróðurhúsalofttegunda eigi síðar en árið 2045, m.a. með stórfelldri ræktun auðna, sem kostuð væri af kolefnisgjaldi og/eða koltvíildisskattheimtu (samhliða lækkun annarrar skattheimtu til mótvægis).
Til alls þessa eru raunhæfar efnahgslegar og tæknilegar forsendur nú þegar fyrir hendi eða verða fyrirsjánlega tiltækar í tæka tíð. Stefnumörkun af þessu tagi mun hafa jákvæð áhrif á hagkerfið, sem verður óháð innflutningi á jarðefnaeldsneyti, og mun skapa arðsama atvinnu við landgræðslu og skógrækt í hinum dreifðu byggðum landsins.
24.2.2016 | 10:22
Raunir stjórnlaganefndar
Það á ekki af tilraunum til breytinga á Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að ganga. Ástæðuna telur blekbóndi vera ranga aðferðarfræði við þetta verkefni. Nú síðast hefur nefnd á vegum stjórnmálaflokkanna skilað af sér örverpi, þótt í löngu máli sé með viðhengjum, eftir meðgöngutíma, sem er lengri en fílsins.
Vænlegra til árangurs væri að fela t.d. þremur valinkunnum stjórnlagafræðingum að breyta tilgreindum greinum Stjórnarskráarinnar eða að bæta við nýjum greinum um afmörkuð efni. Löglærður sérfræðingahópur fengi með öðrum orðum afmarkað verkefni, og með þessu móti væri nokkurn veginn tryggt, að texti draganna væri lögfræðilega skotheldur, hefði nógu greinilega merkingu til að reisa lagasetningu á eða dæma eftir, og að innbyrðis samræmi væri á milli gamalla og nýrra greina í Stjórnarskrá. Blekbóndi hefur efasemdir um, að allt þetta sé uppfyllt með núverandi drögum stjórnlaganefndar.
Drög þessa vinnuhóps sérfræðinga, sem vart þyrfti meira en 3 mánuði til að skila af sér ákvæðum um forseta lýðveldisins, þjóðaratkvæðagreiðslur, auðlindir og umhverfis- og náttúruvernd, yrðu lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og samþykktar, eitt þing eða tvö, eftir því hvor núgildandi aðferða yrði valin.
Drögin, sem birtust frá téðri stjórnlaganefnd 19. febrúar 2016 á vef forsætisráðuneytisins eru óviðunandi fyrir þær sakir, að þau vekja fleiri spurningar en svör hjá leikmanni. Ástæðan er afar ómarkvisst og óljóst orðalag, nánast orðagjálfur, sem á ekkert erindi í grundvallarlög þjóðar. Textinn á að vera knappur, en ekki orðskrúð, og hann á að vera traustur og einhlítur, svo að hægt sé að reisa á honum lagasetningu og dóma, en ekki hægt að teygja hann og toga. Það mátti vera ljóst, að sú aðferðarfræði, að stjórnmálaflokkarnir skipuðu sitt handgengna fólk í Stjórnarskrárnefnd, mundi enda með hrossakaupum og loðmullu, sem mundu gera afraksturinn að mestu ónothæfan.
Ein tillaga nefndarinnar af þremur fjallar um auðlindir til lands og sjávar. Þar er enn sáð efa um eignarhaldið með orðalaginu, að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslenzku þjóðinni, en ríkið hafi eftirlit og umsjón í umboði þjóðarinnar. Eigandinn er í móðu samkvæmt þessum texta, því að þjóðin er ekki lögaðili og getur ekki verið eigandi að lögum. Er ríkið þá eigandi auðlindanna ? Það er ekki skýrt, enda fæli slíkt í sér þjóðnýtingu, sem jafna má við það, sem kommúnistar framkvæmdu, þar sem þeir hrifsuðu til sín völdin. Texti í Stjórnarskrá á að vera einhlítur, en ekki svo margræður, að setja þurfi á langar greinargerðir í tilraun til að útskýra hann.
Út yfir allan þjófabálk í auðlindagreininni tekur þó með eftirfarandi málsgrein:
"Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimild til nýtingar auðlinda, sem eru í eigu íslenska ríkisins eða þjóðareign".
Það á sem sagt ekki undantekningarlaust að taka "eðlilegt gjald". Hvaða skilyrði þurfa þá að vera uppfyllt, svo að taka megi óeðlilegt gjald ? Hvað í ósköpunum er eðlilegt gjald ? Það eru vart færri en 300´000 skoðanir í landinu á því, hvað sé eðlilegt gjald fyrir heimild til auðlindanýtingar, svo að við blasir, að þessi texti er gjörsamlega ótækur í stjórnlög.
Það verður að afmarka viðfangsefnið með einhlítum hætti, svo að eitthvert vit verði í framsetningunni, t.d. með eftirfarandi hætti:
Hafi verið sýnt fram á með óyggjandi hætti, að fyrir tilverknað lagasetninga og/eða reglugerða stjórnvalds, eða með annars konar stjórnvaldsaðgerðum, hafi tiltekin auðlindanýting orðið í senn sjálfbær og hagkvæmari fyrir nýtingaraðilana en ella, þá er stjórnvöldum heimilt að leggja á gjald fyrir nýtingarheimildir, sem þó mega ekki vera hærri en 5,0 % af verðmæti hráefnis úr auðlindinni (t.d. verðmæti óslægðs fiskjar upp úr sjó) eða af verðmæti hrávöru úr auðlindinni (t.d. úr orkulindum). Slíkt nýtingargjald auðlindar skal þó ekki leggja í ríkissjóð, heldur í sérstakan sjóð, sem stendur straum af kostnaði við eftirlit og rannsóknir á vegum ríkisins á auðlindinni ásamt afkomujöfnun nýtingaraðila, ef brestur verður á náttúruauðlindinni.
Nefndin setti í öðru lagi fram tillögu að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Sú grein er meingölluð að formi og innihaldi. Það er óráðlegt að innleiða í stjórnlög ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að endurskoða í nokkru ákvæðin um forseta lýðveldisins, því að hann hefur synjað lögum staðfestingar, eins og kunnugt er, á grundvelli umdeilds ákvæðis í Stjórnarskrá.
Í nýju drögin vantar ennfremur varnagla, þannig að við getum setið uppi með mikinn kostnað vegna tíðra þjóðaratkvæðagreiðslna, sem eru fallnar til að valda óstöðugu stjórnarfari, sem er mjög dýrkeypt. Núverandi hlutverk forseta lýðveldisins er óþarflega veigalítið, og þess vegna væri skynsamlegt að auka vægi embættisins. Það má t.d. gera með því að kjósendur beini tilmælum aðeins til forsetans um þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsett lög og hann taki ákvörðunina.
Samkvæmt drögum stjórnlaganefndarinnar eru mikilvægir lagahópar undanþegnir ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, en þar ættu engar undantekningar að vera, ef virða á beina lýðræðið að fullu, og það er óhætt með téðum varnagla.
Þá vantar í tillögu stjórnlaganefndar ákvæði, sem heimilar kjósendum að taka frumkvæði að lagasetningu. Heimila ætti minnst 20 % kjósenda að setja fram þá ósk við forseta lýðveldisins, að hann fái forseta Alþingis það verkefni að leggja fyrir Alþingi frumvarp um tilgreint efni. Ef forseti lýðveldisins er óánægður með afgreiðslu þingsins á þessu frumvarpi, getur hann valið um að endursenda lögin með athugasemdum óstaðfest til þingsins eða að senda þau í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Önnur lög verður hann að lokinni rýni að staðfesta eða senda þau til Hæstaréttar eða Stjórnlagaráðs, ef það hefur verið stofnað, ef hann hefur efasemdir um, að lögin standist Stjórnarskrá. Ef Hæstiréttur úrskurðar þau í ósamræmi við Stjórnarskrá, endursendir forseti Alþingi lögin með fram komnum athugasemdum, en séu þau úrskurðuð í samræmi við Stjórnarskrá, verður forseti að staðfesta lögin með undirskrift sinni. Forseti er þannig verndari Stjórnarskrárinnar, sem með réttu á að vera réttindaskrá íbúa landsins.
Nefndin sendi ennfremur frá sér drög að ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd, sem eru sama markinu brennd og annað frá téðri nefnd, þ.e. þau uppfylla ekki grundvallarskilyrði um skýrleika stjórnlagatexta. Þar stendur t.d., að almenningi sé heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Þessi texti vekur fleiri spurningar en svör. Verður mér t.d. heimilt að slá niður tjaldi innan girðingar á óræktuðu landi, eða jafnvel í skógræktarlandi, hjá landeiganda, eða verður það í lagi, ef ég held mig utan girðingar, en þó á einkalandi ?
Þar sem landsmenn vænta nú 2,0 milljóna ferðamanna á næsta ári, verður alls ekki séð, að umhverfis- og náttúruvernd í landinu sé þjónað með ákvæði af þessu tagi. Miklu nær er að bregðast nú með vitrænum hætti við þessari vá, eða tækifæri, með raunhæfu ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd í Stjórnarskrá, t.d. eftirfarandi:
Umsjónaraðilum þjóðlendna og ríkisjarða og einkaeignaraðilum ber að hafa með höndum náttúruvernd á svæðum, sem þeir eru ábyrgir fyrir, nema sýnt hafi verið fram á sjálfbærni og afturkræfni nýtingarinnar, annað sé tilgreint í lögum eða framkvæmdaleyfi sé fyrir hendi, og gera ráðstafanir til að hefta ágang, sem viðkomandi sérfræðistofnanir ríkisins meta skaðvænlegan fyrir umhverfi og náttúru. Ef viðkomandi öryggisyfirvöld telja gestum vera hætta búin á téðum svæðum, ber umráðaaðila tafarlaust að gera viðhlítandi úrbótaráðstafanir.
Til að standa straum af kostnaði við téðar ráðstafanir, er umráðaaðila heimilt að heimta aðgangseyri að viðkomandi stöðum, enda sé þegar sjáanleg virðisaukandi aðstöðusköpun og þjónusta við gesti.
Verk stjórnlaganefndar tók lengri tíma en góðu hófi gegnir. Samt varð afraksturinn dapurlegur, enda ekki gæfulega staðið að skipan nefndarinnar. Hér hefur téður afrakstur verið gagnrýndur, og aðrar tillögur sama efnis sendar forsætisráðuneytinu. Miklu vænlegra er að fela stjórnlagafræðingum að setja fram pottþéttan, lögfræðilegan texta til breytinga á tilteknum greinum í Stjórnarskránni og sem viðbótar greinar í Stjórnarskrá en að láta fulltrúa stjórnmálaaflanna karpa þangað til moðsuða verður til.
Ríkuleg aðkoma þingsins að stjórnlagabreytingum er tryggð, því að samkvæmt gildandi Stjórnarskrá þarf núverandi Alþingi að samþykkja breytingar með einföldum meirihluta atkvæða og næsta Alþingi einnig, og á yfirstandandi kjörtímabili dugar aukinn meirihluti á Alþingi til staðfestingar ásamt þjóðaratkvæðagreiðslu.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2016 | 11:49
Orkumál vestan hafs og austan
Það eru miklar mótsagnir fólgnar í aðgerðum ýmissa stórþjóða o.fl. í baráttunni við loftslagsbreytingar af völdum uppsöfnunar koltvíildis af manna völdum í andrúmsloftinu. Ein afdrifaríkasta mótsögnin er sú að loka kjarnorkuverum án fullnægjandi öryggislegra raka í mörgum tilvikum á sama tíma og varið hefur verið háum fjárhæðum úr vasa skattborgaranna til að niðurgreiða orku frá getulitlum orkuverum á borð við vindrafstöðvar og sólarhlöður. Hefur þetta leitt til aukins rekstrar á kolakyntum orkuverum, eins og nú skal rekja á grundvelli greinar í The Economist, "Half-death", þann 31. október 2015.
Pennsylvanía-ríkið í Bandaríkjum Norður-Ameríku, BNA, er nú aftur miðdepill orkuvinnslu í BNA, og kjarnorkuverið "Three Mile Island" í fylkinu er á ný í sviðsljósinu, en þar varð kjarnorkuslys fyrir mörgum árum, og var þá öðrum kjarnakljúfi virkunarinnar lokað.
Gríðarlegt gasflæði úr setlögum Marcellus-svæðisins í ríkinu á síðustu árum hefur valdið svo miklu verðfalli á raforku sums staðar í BNA, að kjarnorkuver standa í ströngu í verðsamkeppninni. Kjarnakljúfurinn, sem enn er í rekstri á "Three Mile Island" er í miklum vandræðum, ekki af öryggisástæðum, heldur af fjárhagsástæðum vegna lækkunar verðs á orkumörkuðum Bandaríkjanna, BNA.
Í BNA og í Evrópu hafa almennar vöruverðslækkanir aukið vandræði kjarnorkuvera, sem voru ærin fyrir eftir kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan árið 2011. Tækniþróun í BNA við gasvinnslu úr setlögum, aukið framboð í Evrópu á niðurgreiddri raforku frá endurnýjanlegum orkulindum og fremur lítil spurn eftir raforku í báðum þessum álfum, hefur valdið mikilli lækkun á heildsöluverði raforku. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að draumfarir sæstrengsunnenda á Íslandi hafa breytzt í martröð, og áætlanir Landsvirkjunar um miklar raunhækkanir raforkuverðs á áratuginum 2010 - 2020 hafa fallið um sjálfar sig án þess, að Landsvirkjun hafi þó aðlagað verðlagsstefnu sína að breyttum aðstæðum. Afleiðingin er sú, að Landsvirkjun er að verðleggja Ísland út af alþjóðlegum raforkumarkaði. Þetta blasir við, en stjórnendur Landsvirkjunar berja hausnum við steininn. Þetta er til vitnis um ótrúlega klúðurslega stjórnun og setur samkeppnishæfni Íslands við útlönd í uppnám. Má hún alls ekki við bergþursahætti af þessu tagi eftir launahækkanir án tengsla við framleiðniaukningu atvinnuveganna.
Raforkuverðlækkanir á alþjóðamörkuðum hafa m.a. orðið til þess, að eigendur kjarnorkuveranna eiga erfitt með að greiða fyrir breytilegan kostnað þeirra, og hafa þeir þá neyðzt til að loka þeim. Hið öfugsnúna er, að þessi þróun hefur magnað gróðurhúsavandann, því að skarð kjarnorkuveranna hefur verið fyllt með orkuverum knúnum jarðefnaeldsneyti. Að bæta við algengustu endurnýjanlegu orkulindunum hefur ekki leyst vandann: þegar vindur blæs ekki og sólin skín ekki, þá eru kjarnorkuverin enn þá bezt fallin til að standa undir grunnálagi stórra rafkerfa án myndunar koltvíildis. Í stað þeirra hafa menn reist gas- og kolaknúin orkuver. Hvað rekur sig á annars horn í baráttunni við hlýnun jarðar, og allt virðist ekki vera með felldu.
Kínverjar hafa með fyrirhyggjulausri iðnvæðingu sinni bakað sér alvarleg heilsufarsvandamál með mengun lofts, láðs og lagar. Ofan á þetta bætast öfgar í veðurfari með vatnsleysi á stórum svæðum. Þeir sjá nú þann grænstan að reisa kjarnorkuver og ætla að þrefalda uppsett afl þeirra á tímabilinu 2016-2020, og önnur nýmarkaðsríki feta í fótspor þeirra. Vonandi verður Indland þeirra á meðal, en engin teikn eru þó enn á lofti um það.
Í Japan var lokað 41 af 43 kjarnorkuverum eftir Fukushima-slysið. Í Þýzkalandi var lokað nokkrum kjarnorkuverum að skipun ríkisstjórnarinnar í Berlín eftir sama slys og ákveðið að stöðva rekstur hinna eigi síðar en 2022. Í Frakklandi hefur verið ákveðið að lækka 75 % hlutdeild kjarnorku niður í 50 %, sem er ákvörðun, sem virðist vera tímaskekkja. Allt er þetta ávísun á hömlulitla aukningu á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og sýnir forgangsröðun stjórnmálamanna, þegar þeir ganga út úr ráðstefnusölum orðagjálfursins um gróðurhúsaáhrifin. Með því að berjast þannig á tvennum vígstöðvum í einu er kröftunum dreift í óskynsamlegum mæli, svo að útilokað verður að hindra hlýnun andrúmslofts jarðar yfir 1,5°C-2,0°C, sem orðagjálfur ráðstefnusalanna þó snýst um.
Í heiminum eru nú starfrækt 394 kjarnorkuver samkvæmt "World Nuclear Industry Status Report" og hefur fækkað um 37 eða tæplega 9 % frá 2010. Í OECD-ríkjunum koma nú 18 % raforkunnar frá kjarnorkuverum, en voru 24 %, þegar mest var árið 1997, en utan OECD er þessi hlutdeild miklu lægri eða 8 %.
Fleiri lokana má vænta á næstunni, einkum á eldri kjarnorkuverum með aðeins einum kjarnaofni, sem eru vinnukrefjandi, jafnvel þó að þau framleiði ekki mikið. Í BNA standa verin verst að vígi, þar sem frjáls markaður er við lýði, t.d. í Norð-Austri og Mið-Vestri, þar sem kjarnorkuverin verða að keppa við orkuver, sem nota aðra orkugjafa, um að selja ódýrustu orkuna. Í Suðurríkjunum, t.d. í Georgíu, þar sem markaðnum er stjórnað af yfirvöldum, gengur kjarnorkuverunum betur, því að þar er þeim tryggt visst lágmarksverð á orkunni. Í krafti slíkrar afkomutryggingar var kjarnorkuverið í Watts Bar í Tennessee fyrsta nýja kjarnorkuverið til að hefja vinnslu 22. október 2015 í 20 ár. Sama fyrirkomulag er við lýði á Bretlandi, þar sem kjarnorkuverinu Hinkley Point C hefur verið tryggt verð að jafngildi 150 USD/MWh af ríkisstjórninni.
Sem dæmi um fall raforkuverðs í BNA undanfarin misseri má taka orkufyrirtækið Entergy, sem er með höfuðstöðvar í New Orleans. Það tilkynnti 13. október 2015, að það hygðist loka kjarnorkuverinu Pilgrim í Massachusetts sumpart vegna þess, að vinnslukostnaður þar, 50 USD/MWh, væri orðinn hærri en orkuverð markaðarins, sem hefði fallið í 45 USD/MWh.
"The Nuclear Energy Institute" í BNA gaf nýlega upp, að árið 2014 hefði meðalvinnslukostnaður rafmagns í kjarnorkuverum BNA numið 24 USD/MWh. Meðalvinnslukostnaður þá með kolum nam 30 USD/MWh, með gasi 45 USD/MWh og með olíu 240 USD/MWh. Á grundvelli þessara upplýsinga um markaðsverð og vinnslukostnað í BNA er alveg kostulegt, að Landsvirkjun á Íslandi skuli enn ríghalda í þá fordild, að viðmiðunarverð hennar í nýjum langtímasamningum við stóriðju,43 USD/MWh, sé samkeppnishæft. Því fer víðs fjarri, því að það er löngu viðurkennd staðreynd, að vegna flutningskostnaðar á hráefnum til Íslands og fjarlægðar frá mörkuðunum býr Ísland við óhagræði, sem verður að vega upp með öðru móti, t.d. lægra orkuverði, e.t.v. 10 USD/MWh lægra en á meginlandi Evrópu og í BNA. Á þessum grundvelli má hiklaust draga þá ályktun, að gagnrýnisraddir á Landsvirkjun um, að stjórnendur hennar séu með óraunsærri verðlagsstefnu sinni að verðleggja íslenzka fallvatnsorku út af markaðinum, hafi rétt fyrir sér. Það einkennilega í þessu máli er, að vinnslukostnaðarins vegna í íslenzkum vatnsaflsvirkjunum er engin þörf á að spenna verðið í nýjum samningum svona hátt, þar sem jaðarkostnaður þeirra er nálægt 30 USD/MWh. Hvers konar "græðgisvæðing" er þá hér á ferðinni hjá ríkisfyrirtækinu ?
Evrópski raforkumarkaðurinn er að mestu leyti frjáls, og þar sem kol og gas hafa lækkað í verði, hefur raforkan lækkað líka. Á íslenzka fákeppnismarkaðinum hækkar hins vegar raforkuverðið og upp úr öllu valdi til nýrrar stóriðju, enda er búið að framkalla afl- og orkuskort í landinu með illa dulbúnu framtaksleysi, á meðan vaðið er á súðum um vindmyllur og sæstreng til Bretlands. Þetta er gjörsamlega ólíðandi hegðun, og Landsvirkjun, sem risinn á markaðinum, gefur tóninn. Með óþarfa hækkun raforkuverðs rífur Landsvirkjun niður samkeppnishæfni íslenzks iðnaðar, dregur úr aukningu verðmætasköpunar og rýrir lífskjörin í landinu, kaupmátt og atvinnutækifæri, sem ekki er hægt að láta átölulaust. Langlundargeð fulltrúa eigenda Landsvirkjunar er með eindæmum og fer að verða þeim fjötur um fót.
Árið 2014 nam vinnsla kjarnorkuvera í ESB 883 TWh og hafði frá 1997 dregizt saman um 50 TWh eða rúm 5 %. Þá nam vinnsla vindorkuvera 250 TWh, og hefur nánast öll aukningin orðið frá 1997 eða 15 TWh/ár, og frá sólarhlöðum komu þá 98 TWh, og hefur nánast öll aukningin orðið síðan 2007 eða 14 TWh/ár. Hin nöturlega staðreynd er sú, að í Þýzkalandi og sumum Norðurlandanna hefur aukning endurnýjanlegrar raforkuvinnslu þrýst niður heildsöluverði raforku með alvarlegum afleiðingum fyrir andrúmsloftið. Studdir af hinu opinbera með niðurgreiðslum, fá vindrafstöðva- og sólarhlöðueigendur meiri tekjur en eigendur kjarnorkuvera, þegar orkuverðið er lágt. Þetta hefur leitt til þess, að í kjarnorkuverum hefur vinnslan verið minnkuð eða þau hreinlega stöðvuð, en í staðinn hafa komið kolakynt og gaskynt orkuver, þegar vinds eða sólar nýtur ekki við, og megnið af tímanum eru þau rekin á dræmum afköstum og oft engum afköstum.
Í Svíþjóð hefur orkuverð á markaði stundum undanfarið lækkað undir vinnslukostnað kjarnorkuvera. Þau standa samt enn undir helmingi grunnorkuþarfar Svíþjóðar. Það hefur gert þeim enn erfiðara fyrir, að ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja hefur lagt viðbótar skatt á kjarnorkuverin, sem annars konar orkuver sleppa við. Þessi stjórnargjörningur stríðir auðvitað gegn baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda og margir segja gegn heilbrigðri skynsemi. Ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja gasprar um, að í stað kjarnorkuvera landsins komi vindrafstöðvar og sólarhlöður, en það er innantómt fjas og í raun óleyfilegur barnaskapur af stjórnvöldum að halda slíku fram.
Án þess að auka hlut kjarnorkuvera með svipuðum hætti og Kínverjar hafa tekið ákvörðun um, munu Vesturveldin ekki geta staðið við markmið sín um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Lokanir kjarnorkuvera beggja vegna Atlantshafs sýna tvískinnunginn, sem uppi er að hálfu stjórnvalda í loftslagsmálum. Þau hafa valið að ráðstafa skattfé með óskilvirkum hætti með því að niðurgreiða raforku frá nýjum endurnýjanlegum lindum í stað þess að skattleggja orkuver, sem brenna jarðefnaeldsneyti.
Úr því að stjórnvöld víðast hvar á Vesturlöndum virðast ekki sjá sér fært að ýta undir smíði nýrra kjarnorkuvera, er eina vonin um að takast muni að halda hlýnun andrúmslofts jarðar í skefjum, sú, að þróun nýrra orkulinda til raforkuvinnslu muni heppnast í tæka tíð. Það bendir reyndar sitthvað til, að þóríum-kjarnorkuver muni reynast bjargvætturinn, en geislunarhættan frá þeim er mun minni en frá hefðbundnum kjarnorkuverum, og úrgangurinn hættir að vera hættulega geislavirkur á um hálfri öld í stað nokkurra þúsunda ára. Þessi orkuver geta verið að stærð frá 100 kW og upp í a.m.k. 1000 MW og munu þess vegna henta til margvíslegra nota, allt frá samgöngutækjum til orkuvera.
11.2.2016 | 11:01
Akkilesarhæll rafbíla
Mikið er skeggrætt um orkubyltingu á sviði samgangna og af mismiklu viti. Ekki er þó örgrannt um á alþjóðavettvangi, að hagsmunaaðilar á sviði jarðefnaeldsneytis drepi málinu á dreif. Flestir telja samt, að rafmagn muni knýja öll samgöngutæki áður en lýkur, en þar er enn sá hængurinn á, að orkuþéttleiki rafgeymanna, kWh/kg, er ófullnægjandi til að vera fullkomlega boðlegur valkostur við jarðefnaeldsneytið. Hafa menn þá nefnt eldsneytishlöður (e. fuel cells), sem nota vetni sem orkulind, og kjarnorkuofn, sem notar t.d. frumefnið þóríum sem orkulind, sem valkosti við rafgeymana. Nú er hins vegar í sjónmáli önnur vænleg lausn, sem greint verður frá hér. Frásögnin er reist á grein í "The Economist", 23. maí 2015, "Sheet lightning":
Það er ekki tekið út með sældinni einni saman að þróa rafbíl, sem sé jafningi bíla af svipaðri stærð, en knúnir bensíni eða dísilolíu. Liþíum-jóna rafgeymarnir, sem notaðir eru til að geyma orkuna, sem síðan knýr rafbílana, eru næstum nógu ódýrir og endast næstum nógu langa vegalengd til að vera fullgildir í þessari samkeppni, en eru ekki alveg nógu góðir enn. Ef rafgeymarnir fá ekki hleðslu frá rafala bíls, sem knúinn er bensínvél, þá komast rafbílar yfirleitt aðeins 50-250 km án endurhleðslu.
Rafbíll án bensínvélar til stuðnings er varla boðlegur fyrr en drægnin nær 500 km. Með beztu tækni tekur hleðsla rafgeyma upp í 80 % af fullri hleðslu ekki skemmri tíma en 20 mín. Það þarf betri rafgeyma en þetta, en þeir hafa látið standa á sér. Það hefur af einhverjum ástæðum ekki verið sett nægilegt fé í rannsóknir og þróun á sviði nýrrar orkutækni hingað til, svo að róttæk breyting yrði frá eldsneytistækninni.
Margir hafa reynt og mistekizt, en vonin er samt ódrepandi. Nýjasta tilraunin er með kolefnissambandið grafen, undraefni okkar tíma. Frumkvöðullinn, Lu Wu í Vísinda- og tæknistofnuninni í Gwangju í Suður-Kóreu, telur, að verði hægt að færa grafen-verkefnið af tilraunastigi og yfir á framleiðslustig, þá hafi vandamál rafbílanna verið leyst, og björninn gæti unnizt árið 2016.
Reyndar er það, sem dr Lu og kollegar eru að vinna að, ekki rafgeymir, heldur ofurþéttir; tæki, sem sameinar eiginleika raflausnar í rafgeymi og eðliseiginleika þéttis, sem er að varðveita rafhleðslu þar til þörf er á rafstraumi. Rafhleðslur eru geymdar á efnisyfirborði þéttis sem stöðurafmagn, en stöðurafmagn ofurþéttisins er hins vegar háð raflausninni á milli þéttisflatanna. Þéttisvirknin við upphleðslu þéttis veldur því, að orkuupphleðslan tekur mun skemmri tíma en efnaferlið, sem fer af stað í rafgeymum við endurhleðslu þeirra.
Þéttar eru síður en svo nýir af nálinni, en grafenið auðveldar til muna gerð ofurþéttis. Grafenið er með stórt yfirborð eða 2,675 m2/g. Þar liggur hundurinn grafinn, því að á öllu þessu yfirborði er hægt að geyma mikinn fjölda rafhleðslna, sem jafngildir þá háum orkuþéttleika. Þannig getur einn ofurþéttir skákað liþíum-rafgeymum í orkuþéttleika, kWh/kg, sem gerir gæfumuninn. Um kostnað við gerð ofurþéttis er ekki vitað, en sé dregið dám af kostnaðarþróun á öðrum sviðum tækniþróunar, fellur sá kostnaður í kr/kWh um 75 % fyrstu 4 árin, eftir að fjöldaframleiðsla hefst.
Það er ljóslega ýmislegt í gangi í vísindaheiminum, og hækkun olíuverðs og gasverðs, sem búizt er við árið 2017, mun einungis flýta fyrir þróun tækni, sem snurðulaust getur leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi á öllum sviðum orkuvinnslu, og er kominn tími til eftir 250 ára "yfirburðastöðu" þessa eldsneytis sem grundvöllur efnalegrar velferðar, sem nútímamenn vita, að er ekki sjálfbær. Með því að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi í samgöngutækjum með sjálfbærri tækni batna loftgæði í þéttbýli stórlega, og útblástur gróðurhúsalofttegunda minnkar til muna.
4.2.2016 | 10:57
Loftmengun er líka umhverfisvá
Mikil athygli hefur undanfarna mánuði beinzt að vánni, sem bíður mannkyns af völdum uppsöfnunar koltvíildis í andrúmsloftinu, en loftmengun hefur þá fallið í skuggann. Þetta eru þó skyld mál, og uppruninn að miklu leyti sá sami: kolakynt raforkuver, en frá þeim koma 2/3 allrar raforku í Kína, þar sem loftmengun er mikið böl.
Þegar 40´000 - 50´000 manns söfnuðust saman í París til að spjalla saman um (daginn og veginn og) loftslagsvandann og til að rífast um, hverjir ættu að bera þyngstu byrðarnar í viðureigninni við téðan vanda, svo gáfulegt sem það nú er, þá lá sótmökkur yfir Peking, og skyggnið var innan við 200 m. Valdhöfunum er orðið órótt, því að ný miðstétt krefst meiri lífsgæða.
Sums staðar í höfuðborg alþýðulýðveldisins var styrkur örryks við þrítugföld heilsuverndarmörk. Afleiðingar gegndarlausrar rafvæðingar og iðnvæðingar án umhverfislegrar fyrirhyggju og umhyggju fyrir náttúru landsins, sem maðurinn á að vera hluti af, hefur nú komið hrottalega niður á lífsgæðum í landinu og er þungur baggi á heilsufari og lífsgæðum í Kína.
Almenningur í Kína hefur í áratug haft þungar áhyggjur af vatnsmengun og loftmengun í landinu, og það er að renna upp fyrir leiðtogum Kommúnistaflokks Kína, að mengun er orðið stórpólitískt mál, sem ógnað getur stöðugleika í landinu og völdum Kommúnistaflokksins. Forystumenn flokksins hafa þess vegna söðlað um og sett umhverfisvernd í öndvegi, en það tekur langan tíma að snúa stóru skipi, og þess vegna tóku Kínverjar ekki á sig neinar skuldbindingar í París í desemberbyrjun 2015, heldur létu duga yfirlýsingu um, að árið 2030 mundi losun Kínverja á gróðurhúsalofttegundum ná hámarki. Margt bendir þó til, að vegna knýjandi þarfar og brýnnar nauðsynjar á að bæta loftgæðin í stórborgum Kína, verði gripið miklu fyrr í taumana og hámarkinu hafi jafnvel þegar verið náð. Kínverska ríkisstjórnin ætlar þó ekki að fórna hagvextinum á altari "græna goðsins", heldur hefur stefnan verið sett á nýja tækni, þóríum-kjarnorkuver, sem sameina eiga hagvöxt og umhverfisvernd. Allt að 1000 vísindamenn vinna nú að þróun þessarar nýju og umhverfisvænu kjarnorkutækni í Kína og munu væntanlega eigi síðar en 2020 koma fram með frumsmíði fyrir venjulegan rekstur. Þá verður dagrenning nýrra og heilnæmari tíma.
Um 2/3 hlutar aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum síðan árið 2000 stafar af kínverska hagkerfinu. Síðasta 5-ára plan kínverska kommúnistaflokksins gerir ráð fyrir að draga úr kolefnislosun sem hlutfall af verðmæti þjóðarframleiðslu um fimmtung árið 2020. Það verður gert með því að auka að sama skapi hlutdeild kolefnisfrírrar raforkuvinnslu. Kínverjar eru að þessu leyti á réttri braut, og það skiptir allan heiminn miklu.
Það á að koma á laggirnar viðskiptakerfi með kolefnislosunarheimildir í Kína árið 2017, og það eru umræður í flokkinum um að leggja á kolefnisskatt, og þar með tæki Kína vissa forystu á meðal hinna stærri ríkja heims í þessari viðureign. Hvers vegna var ekki rætt af neinni alvöru um kolefnisskatt í París 30. nóvember til 12. desember 2015 ?
Kína hefur, eins og önnur ríki, haft þá stefnu "að vaxa fyrst og hreinsa upp seinna". Nú hafa stjórnvöld landsins rekið sig á annmarka og hættur samfara þessari stefnu og hefa dengt miklu fjármagni í hreina orkugjafa og þróun nýrrar tækni á sviði mengunarlausra orkugjafa, sem er rétta aðferðin við að fást við þennan brýnan vanda að mati blekbónda.
Stefnubreyting kínverska ríkisins er líkleg til að verða öðrum þróunarríkjum til eftirbreytni, t.d. Indlandi, og þá er ekki loku fyrir það skotið, að hindra megi aukningu koltvíildis í andrúmslofti um 1200 Gt frá 2015, en samkvæmt kenningunni um hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda mun slík aukning hafa í för með sér 1,1°C hlýnun, sem ofan á hlýnun frá 1850 gerir 2,0°C meðalhitastigshækkun á jörðunni.
Samkvæmt rannsóknum á borkjörnum úr Grænlandsjökli er mesta hitastigshækkun á jörðunni síðast liðin 100´000 ár 2,0°C. Þar með er vitað, að slík hækkun er afturkræf. Það veit hins vegar enginn, hvort meiri hækkun, t.d. 3°C, verður afturkræf. Ef ekki koma fram róttækar tæknibreytingar á sviði sjálfbærrar raforkuvinnslu fyrir upphaf næsta áratugar, eru því miður afar litlar líkur á, að viðbótar losun haldist undir 1200 Gt CO2.
Loftgæði í Evrópu eru mun meiri en áður og mun meiri en í Kína. Þó berast fregnir, t.d. nýlega frá Mílanó, um hættulega mikinn styrk örryks í andrúmslofti. Með minni iðnaði og löggjöf um hreinsun útblásturs síðan á 6. áratug 20. aldar hefur tekizt að draga úr styrk mengunarefna á borð við SO2, örryks og níturoxíða. Samt deyja 400´000 Evrópumenn árlega fyrir aldur fram vegna slæmra loftgæða samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar Evrópu. Árið 2010 mat þessi stofnun árlegan heilsufarskostnað vegna mengunar í Evrópu á bilinu miaEUR330 - miaEUR940, sem er 3 % - 7 % af þjóðarframleiðslu ríkjanna, sem í hlut eiga. Þetta er gríðarlegur baggi, og þess vegna er til mikils að vinna. Á Íslandi verða nokkur dauðsföll árlega af völdum ófullnægjandi loftgæða, aðallega vegna umferðar á götum þéttbýlis, en einnig eiga jarðvarmavirkjanir í minna en 40 km fjarlægð frá þéttbýli hlut að máli. Allt stendur þetta þó til bóta.
Á íslenzkan mælikvarða nemur þetta árlegum kostnaði miaISK 60 - miaISK 140, sem sýnir í hnotskurn, hversu gríðarlega alvarlegt vandamál mengun er. Á Íslandi er þó loftmengun minni en víðast hvar í Evrópu, svo að kostnaður af hennar völdum er aðeins brot af umreiknuðum evrópskum kostnaði.
90 % evrópskra borgarbúa verða fyrir mengun yfir hættumörkum, eins og þau eru skilgreind af WHO-Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Hæstu níturoxíðgildin eru í London, í Tyrklandi er örrykið PM10 (styrkur örryks, þar sem þvermál rykagna er undir 10 míkrometrum) vandamál í mörgum borgum, en versta mengunin er þó í Austur-Evrópu vegna mikils fjölda úreltra kolakyntra orkuvera þar.
Á Íslandi eru mengunarvarnir í góðu lagi. Styrkleiki örryks frá umferð og H2S frá jarðfufuvirkjunum fer þó stundum yfir ráðlögð heilsufarsmörk. Þegar rafbílum fjölgar á kostnað eldsneytisbíla, einkum dísilbíla, og nagladekkjum fækkar vegna framfara í gerð vetrardekkja, mun draga úr mengun frá bíla- og strætisvagnaumferð. Virkjunarfyrirtækin vinna nú að þróun aðferða til að draga úr losun hættulegra gastegunda út í andrúmsloftið. Heimur batnandi fer.
1.2.2016 | 10:21
Þrjár aðferðir til að létta samgöngutæki
Líklega eiga hraðstígustu framfarirnar á sviði efnistækni í samgöngutækjageiranum nú um stundir sér stað við þróun framleiðslutækni fyrir koltrefjar. Mest ber á þessu við hönnun og smíði flugvéla, en nú einnig í vaxandi mæli í bílaiðnaðinum.
Um árabil hafa koltrefjar verið notaðar í litlu magni í geimför og hernaðartæki, þar sem kostnaður hefur ekki skipt höfuðmáli. Flugvélaiðnaðurinn hefur um skeið notað efnið, en framleiðsluferlið hefur verið hægfara, og hefur það staðið notkun koltrefja fyrir þrifum.
Nú hafa verkfræðingar í bílaiðnaðinum komið auga á kosti koltrefja til að létta bílana, og hjá BMW (Bayerische Motoren Werke) hefur mönnum tekizt að þróa framleiðsluaðferð, sem er nú á þröskuldi fjöldaframleiðslu. Þarf 50 % minni orku við framleiðslu hvers bíls af i3 gerð og 70 % minna vatn, en hörgull er á vatni víða ekki síður en sjálfbærri orku. Þarna minnkar BMW umhverfisspor sitt umtalsvert.
Í spánýrri verksmiðju BMW í Leipzig í Þýzkalandi er hvorki rafsoðið né logsoðið, engin hnoð eru notuð, engar skrúfur og engir boltar. Einingar eru límdar saman.
Þetta er haft eftir þýzka verkfræðinginum Ulrich Kranz í The Economist 5. desember 2015, en Kranz stjórnar deild BMW í Leipzig, sem framleiðir i3 og i8 rafmagns- og tvinnbíla. Þeir hafa ekki verið kynntir tilhlýðilega til sögunnar á Íslandi. Kynningu á rafmagnsbílum og tengiltvinnbílum er almennt ábótavant hjá bílaumboðunum á Íslandi.
Koltrefjarnar mynda burðarvirkið í bílunum, en útlits vegna er ytra byrði haft úr hefðbundnu plasti. Ekki er þörf á neinni tæringarvörn og sprautun verður einfaldari og ódýrari en þar sem málmar eiga í hlut.
Með því að nota koltrefjarnar hefur Kranz og félögum tekizt að vega svo upp á móti miklum þunga rafgeymanna, að bílþunginn er jafnvel minni en jafnstórra bíla með sprengihreyfil. Burðarvirki bílanna er sterkara en stál, en samt a.m.k. 50 % léttara en sambærilegt stálvirki og u.þ.b. 30 % léttara en ál. Lítill vafi er á, að hér er tónninn sleginn fyrir alla bílaframleiðendur, sem berjast við að draga úr útblæstri eldsneytisknúinna bifreiða og lengja drægni rafbílanna.
Gríðarleg þróun hefur átt sér stað í framleiðsluhraða koltrefja, og að sama skapi hefur spurn eftir efninu vaxið að hálfu bílaiðnaðarins. Árið 1980 tók 3000 klst að framleiða koltrefjar fyrir meðalbíl, en árið 2010 var þessi tími kominn niður í um 10 klst. Á sama 30 ára skeiði hefur eftirspurn bílaiðnaðarins vaxið úr fáeinum kg í 5000 t, og síðan 2010 hefur eftirspurnin hafizt á flug, og notkun bílaiðnaðarins á koltrefjum árið 2025 er spáð að ná allt að 50´000 t, þ.e. að tífaldast á 15 árum. Koltrefjarnar hafa hafið innreið sína í fjöldaframleiðsluferli bíla.
Þetta er þó aðeins brot af notkun bílaiðnaðarins á stáli og áli í um 100 milljónir farartækja fyrir vegi á ári. Framleiðendur þessara málma fyrir bílaiðnaðinn girða sig nú í brók (og það er engin heybrók) til að mæta samkeppni frá koltrefjunum. Stálframleiðendur hafa þróað hástyrks stálplötur, sem eru þynnri, sterkari og léttari en hefðbundnar stálplötur í bíla. Álframleiðendur þróa ný melmi, sem eru sterkari, auðformanlegri og léttari en fyrri melmi. Þá hefur verið þróuð aðferð til að sjóða saman ál og stál.
Koltrefjarnar hafa náð mestri útbreiðslu í flugvélaiðnaðinum. U.þ.b. helmingur af heildarþunga tómrar Boeing 787 Dreamliner, Airbus A380 og A350, stafar af koltrefjum. Léttari flugvél brennir minna eldsneyti og losar þá frá sér minna af koltvíildi. Þær geta flutt fleiri farþega eða meiri fragt og flogið lengra en áður á sama eldsneytismagni. Þetta þýðir fleiri farþegakílómetra per líter eldsneytis, sem er mælikvarði á eldsneytisnýtni farþegaflugvéla. Ekki er að efa, að hinar nýju Boeing farþegaþotur Flugleiða, sem áformaðar eru í rekstur árið 2018, munu verða smíðaðar að talsverðu leyti úr koltrefjum, enda eiga þær að spara a.m.k. 20 % eldsneytis á farþegakm m.v. núverandi flota félagsins.
Það er hægt að koma við hagræðingu við framleiðsluna, því að plöturnar geta verið stærri en álplöturnar, og þess vegna er þörf á færri samsetningum. Flugvélaframleiðendur hafa stytt framleiðsluferli koltrefjanna, en það er samt enn óþarflega seinvirkt og dýrt fyrir fjöldaframleidda bíla.
Þessi þróun lofar ekki einvörðungu góðu fyrir eldsneytisnýtni fartækjanna, heldur lofar hún góðu fyrir væntanlega fartækjakaupendur, þ.m.t. væntanlega bílakaupendur, sem munu njóta ávaxtanna af harðari samkeppni birgja bílaframleiðendanna.
10.1.2016 | 11:08
Iðnaðurinn og gróðurhúsaáhrifin
Orkukræfi iðnaðurinn á Íslandi notar um 14 TWh/a af raforku um þessar mundir. Ef þessi raforka væri unnin erlendis, eru mestar líkur á, að hún kæmi frá gasorkuverum, 20 %, og kolaorkuverum, 80 %. Þá mundi sú orkuvinnsla valda losun á um 11,5 Mt/a af koltvíildi, CO2, út í andrúmsloftið, en til samanburðar er losun Íslands um þessar mundir um 4,5 Mt/a samkvæmt Kyoto bókhaldinu og iðnaðarins um 2,1 Mt/a. Í ljósi hættunnar á stjórnlausri hlýnun jarðar er helzta umhverfislega röksemdin fyrir staðsetningu stóriðju á Íslandi, að þar með hægir á hlýnun jarðar sem svarar til minni losunar koltvíildis á hverju ári upp á a.m.k. 11 Mt/a. Heimslosunin er talin nema um 40 Gt/a, svo að þetta framlag Íslands er dropi í hafið eða tæplega 0,03 %.
Á Íslandi kemur þessi orka frá vatnsorkuverum, 70 %, og jarðgufuverum, 30 %, og veldur losun á CO2, sem nemur um 0,4 Mt/a, aðallega frá hinum síðar nefndu. Mismunurinn er 11,1 Mt/a CO2, sem er um 2,5-föld heildarlosun Íslands um þessar mundir samkvæmt Kyoto-bókhaldinu. Þetta er mikilvægasta framlag Íslands til að draga úr gróðurhúsaáhrifunum til þessa, en er ekki metið landinu til tekna í fyrr nefndu bókhaldi.
Iðnaðurinn losaði árið 2013 2112 kt (2,1 Mt/a) af koltvíildisjafngildum út í andrúmsloftið eða 47 % af heild landsins án landnotkunar, og sú losun mun hafa vaxið um a.m.k. 500 kt/a upp í um 52 %, þegar kísilverin hafa hafið starfrækslu. Hér er augljóslega um risaviðfangsefni að ræða, sem iðnaðurinn stendur frammi fyrir á tímum minnkandi losunarkvóta.
Hér er um meiri háttar viðfangsefni að ræða, því að ekki hillir undir nýja og umhverfisvænni efnaferla, svo að tækniþróunin gefur ekki vonir um lausn að svo stöddu. Dæmi má taka af áliðnaðinum, en framleiðsla hans nemur um 900 kt/a, þrátt fyrir afurðaverð um 1550 USD/t, sem er neðan við allt velsæmi í boði Kínverja, sem farið hafa offari með voveiflegum afleiðingum á sviðum mengunar, heilsufars og hagkerfis heimsins. Allt er þetta í boði miðstjórnar Kommúnistaflokks Kína. Áliðnaðurinn á Íslandi sendir frá sér um 1440 kt/a eða tæplega 70 % af hlutdeild iðnaðarins. Ekki er allt sem sýnist, og þessi losun er ekki hrein viðbót við gróðurhúsaloft jarðar, nema síður sé, heldur mun draga úr losun á öðrum sviðum, eins og nú skal greina:
Ef 25 % af framleiddu áli á Íslandi fer til samgöngugeirans, sem er nokkurn veginn skiptingin á heimsvísu, þá sparast um 300 kt/ár af CO2 með því að létta farartækin. Með því að endurvinna þetta ál 5 sinnum og nota í farartæki, sem er hægðarleikur með lítilli orkunotkun, hefur öll losun áliðnaðarins á Íslandi unnizt upp.
Tínt hefur verið til, hversu umhverfisvæn framleiðsla kísils fyrir sólarhlöður sé. Á heimsvísu er þetta nokkuð orðum aukið, eða "överreklamerat", eins og Svíar segja, því að ýmis mjög sterk gróðurhúsagös myndast í ferlinu að sólarhlöðu, t.d. NF3 og SF6. Sú fyrr nefnda er 16´600 sinnum sterkari en CO2 og sú síðar nefnda 23´900 sinnum sterkari. Þannig losna um 513 kg/m2 af koltvíildisígildum í framleiðsluferli sólarhlaða, og yfir endingartímann þarf þess vegna að reikna með 35 g/kWh í losun. Þetta er 13-föld losun íslenzkra vatnsorkuvera, en aðeins 35 % af losun jarðgufuveranna.
Stóriðjan fellur undir ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Heimild til losunar nú er 1600 kt/a, en verður líklega lækkuð um 40 % árið 2030 niður í 960 kt/a. Það er um 160 kt/a hærra en 60% af losun stóriðjunnar 1990. Það þýðir samdrátt eða útjöfnun um U=2112-960=1152 kt/a. Ný tækni er ekki í sjónmáli, svo að útjöfnun með skógrækt kemur helzt til greina. Til þess mun þurfa F=1152/5,0=232 kh = 2320 km2. Kostnaður við ræktunina er K=232 kha x 300 kkr/ha = 70 mia kr eða MUSD 540. Þetta þarf að framkvæma á 15 árum, svo að kostnaðurinn verður 4,7 mia kr/ár. Sem valkost hefur stóriðjan að bíða með bindingu og kaupa losunarkvóta á markaði í síðasta lagi árið 2030 og síðar eða velja blöndu af þessum leiðum, sem sennilega er skynsamlegast. "Aðeins" er um tímabundinn kostnaðarauka að ræða, sem nemur 40 USD/t Al eða um 3 % kostnaðarauka. Þetta er fjárhagslega kleift fyrir áliðnaðinn, þegar markaðsverðið nær 1800 USD/t Al.
Stóriðjan hefur þegar farið inn á braut skógræktar til útjöfnunar á gróðurhúsalofti, og 3. desember 2015 birtist t.d. um það frétt í Morgunblaðinu, að bandaríska fyrirtækið Silicor hygðist kosta plöntun á 26 þúsund trjám í þessu skyni, þó að losun fyrirtækisins virðist munu verða mjög lítil. Þó að þetta sé lítilræði m.v. árlega plöntun á um 3,0 milljón trjáplöntum á Íslandi, verður að virða viljann fyrir verkið.
Íslenzk skógrækt er samkeppnihæf á koltvíildismarkaði Evrópu, því að kostnaður hennar við bindinguna er um 4000 kr/t CO2, sem er innan við 30 EUR/t. Markaðsverðið er að vísu mun lægra núna, en hlýtur að hækka, þegar losunarheimildum á markaði fækkar um 40 %.
Það er nóg landrými í landinu fyrir þessa skógrækt. T.d. hafa verið ræstir fram um 4200 km2 af mýrum, og þar af hafa aðeins 630 km2 verið ræktaðir upp, sem þýðir, að 3500 km2 eru óræktaðir. Það mætti bleyta í hluta þessa ræktaða lands og síðan rækta þar skóg með miklum bindingarafköstum koltvíildis. Það er varla goðgá að nýta ríkisjarðir og eyðijarðir til þessarar ræktunar, og klæða auk þess mela og sanda eftir þörfum, en hið síðar nefnda hefur Skógrækt ríkisins sýnt fram á, að er hægt með hjálp jarðvegsbætandi jurta. Með þessu móti slá Íslendingar tvær flugur í einu höggi.
6.1.2016 | 11:24
Ferðaþjónustan er mesti mengunarvaldurinn
Það hefur ekkert lát verið á ofstækisfullum atlögum umhverfisafturhaldsins í landinu gegn auðlindanýtingu í þágu gjaldeyrisöflunar, og alls konar furðutilburðir hafa verið hafðir uppi gegn einkabílnum á grundvelli mengunarsjónarmiða. Verst er þar framkvæmdastoppið á mislæg gatnamót í 12 ár gegn ríkisframlögum til almenningssamgangna.
Síðan er klikkt út með því, að ferðaþjónustan sé dæmi um gjaldeyrisskapandi starfsemi, sem taki hinum greinunum fram í umhverfislegu tilliti. Enginn ætti að leggja trúnað á slíkt.
Allt er það óráðshjal, reist á fordómum, fáfræði og misskilningi, eins og hér skal rekja. Blekbóndi er reyndar þeirrar skoðunar, að allar atvinnugreinar landsins séu þjóðhagslega mikilvægar og er algerlega andvígur því að stilla þeim upp hverri gegn annarri, en það verður að andæfa kolröngum málflutningi, sem fram er reiddur til að níða skóinn ofan af öðrum. Þar setja menn sig á háan hest, margir hverjir, með anzi ódýrum hætti, og er þar jafnvel um annkannalega þörf þeirra til að hreykja sér. Miklu fremur hafa þeir þó ríka ástæðu til að vera hlédrægir, eins og frægur menntaskólakennari sagði eitt sinn við illa lesinn nemanda sinn í tíma: "Mikið lifandis ósköp hafið þér ríka ástæðu til að vera hlédrægir, G."
Taka má einfalt dæmi til að sýna fram á þetta.
Innan tíðar mun kísilmálmframleiðsla á Íslandi nema a.m.k. 100 kt/ár, og er þá Járnblendiverksmiðjan ekki með talin. Til að framleiða 100 kg af Si þarf um 1280 kWh af raforku, og sé sú raforka framleidd í jarðgufuorkuveri, eins og t.d. að Þeistareykjum, þá myndast við það um 130 kg af CO2, koltvíildi. Landsvirkjun mun reyndar jafna koltvíildismyndun frá Þeistareykjum með koltvíildisbindingu með skógrækt, sem er virðingarvert. Ef vatnsafl er hins vegar notað við þessa orkuvinnslu, þá myndast aðeins 3,5 kg af CO2.
Við vinnslu kísils úr kvartsi, SiO2, myndast kísill og koleinildi, sem oxast í koltvíildi, og myndast um 314 kg af þessari gróðurhúsalofttegund við framleiðslu 100 kg af kísli.
Alls eru þetta 444 kg CO2, sem með annarri vinnslutengdri starfsemi mun sennilega nema 500 kg alls, og sú tala er ekki fjarri lagi, þó að bindingin yrði meðtalin, ef flutningar á sjó eru meðreiknaðir.
Til samanburðar skal taka flutning á meðalferðamanni með farangri, sem alls má ætla, að vegi 100 kg. Þessi meðalferðamaður flýgur líklega 5000 km fram og til baka til að komast til Íslands. Meðalorkunýtni flugvéla m.v. sætanýtingu til Íslands er 0,025 kg/fþkm (kg á farþega kílometer). Til að fljúga með þessi 100 kg þarf þá 125 kg af þotueldsneyti, sem við bruna þotuhreyfla í háloftunum mynda 1125 kg af koltvíildisjafndildum í andrúmsloftinu. Með akstri og öðru verða þetta a.m.k. 1200 kg af gróðurhúsalofttegundum.
Hvernig skyldi nú talsmönnum Landverndar og annarra náttúruverndarsamtaka líða, er þeir sjá þessar staðreyndir borðnar á borð fyrir sig, eftir að hafa útmálað orkukræfan iðnað sem óalandi og óferjandi um áratuga skeið, og dregið upp þá mynd, að mun ákjósanlegra væri fyrir landsmenn að afla landinu gjaldeyris með þjónustu við erlenda ferðamenn, þegar í ljós kemur að m.v. sama afurðamassa er mengunin 2,4 sinnum meiri í tilviki ferðamannsins í koltvíildisígildum talið ?
Forkólfar öfgaumhverfisverndar gætu gripið til þess ráðs að benda á tífaldar gjaldeyristekjur af ferðamanni og farangri hans, alls 100 kg, m.v. 100 kg af kísli. Slíkt hjálpar þó umhverfinu ekki neitt, enda stendur Ísland í samkeppni við önnur lönd um hylli ferðamanna, og þeir fara hæglega eitthvað annað, ef samkeppnishæfni landsins versnar. Þess vegna er flugið í ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Svipað má segja um kísilframleiðsluna. Ef hún væri staðsett utan Íslands, er líklegt, að losunin við framleiðslu þess næmi 1300 kg, en ekki 500 kg, eins og í tilviki Íslands. Þess vegna er stóriðjan líka í ETS. Við framleiðslu hvers kísiltonns er andrúmsloftinu hlíft við myndun 8,0 t af CO2. Þegar erlendir ferðamenn leggja leið sína til Íslands, er hins vegar ólíklegt, að andrúmsloftinu verði hlíft við nokkurri koltvíildismyndun.
Fylgzt er með eldsneytisnýtni flugfélaga af "The International Council on Clean Transportation (ICCT)". Í nýrri skýrslu þeirra um eldsneytisnýtni 20 umsvifamestu flugfélaganna á flugleiðum yfir Atlantshafið kemur fram, að Icelandair hefur náð miðlungs nýtninni 32 mælt í farþega km á hvern líter af þotueldsneyti. Þetta er vel af sér vikið m.v. aldur flugflota félagsins, og það er markmið félagsins að stórbæta sig með endurnýjun flugflotans, enda er slíkt hagkvæmt.
Flugfélagið Norwegian er efst á skránni um eldsneytisnýtni téðra flugfélaga og kemst 40 fþkm (farþega km) á einum líter af þotueldsneyti með sínum nýju Boeing 787 Dreamliner vélum eða 25 % lengra en meðaltalinu nemur. British Airwaves er með að jafnaði 15 ára gamlar Boeing 747-400 vélar yfir Atlantshafinu og kemst stytzt eða um 25 fþkm á einum líter. Sá bezti kemst 60 % lengra en sá lakasti með hvern farþega á sama eldsneytismagni.
Flugvélar Icelandair eru hinar elztu á þessari leið eða 18 ára gamlar að jafnaði. Samt tekst félaginu að ná meðaleldsneytisnýtni þessara flugfélaga eða 32 fþkm á hvern líter. Er slíkt til marks um góðan rekstrarárangur, sem m.a. á rætur að rekja til hárrar sætanýtni og rýmisnýtni í vélunum. Er þá ekki tekið tillit til nýtingar á flutningsrými vélanna með ferskan fisk á erlenda markaði, sem gefur íslenzkum sjávarútvegi forskot. Íslenzkur fiskur á frönskum stórmörkuðum er jafnvel nýrri en franskur fiskur þar.
Í Baksviðsgrein Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu, föstudaginn 20. nóvember 2015, er eftirfarandi haft eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair:
"Hjá fyrirtækinu hefur lengi verið starfrækt eldsneytisnefnd, sem hefur það að markmiði að leita leiða til að draga úr eldsneytisbrennslu og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Mikill árangur hefur náðst af störfum nefndarinnar. Auk nefndarinnar koma margar deildir að þessu verkefni og má segja, að rýnt sé í alla þætti flugsins frá upphafi til enda. Gefnir hafa verið út verkferlar og stuðzt við hvatakerfi, sem miðar að því að spara eldsneyti á flugi og á jörðu niðri."
Svona eiga sýslumenn að vera. Icelandair hefur greinilega virkjað gæðastjórnunarkerfi sitt í þágu eldsneytissparnaðar og umhverfisverndar. Sú aðferðarfræði hefur borið ríkulegan ávöxt. Ef Icelandair ekki flytti alla þessa farþega, sem raun er á, þá mundi eitthvert annað flugfélag flytja þá, jafnvel eitthvað annað en til Íslands, og afleiðingarnar fyrir gufuhvolfið yrðu svipaðar. Það ber þess vegna ekki að amast við góðum árangri íslenzkra ferðaþjónustufyrirtækja við að markaðssetja Ísland sem áfangastað ferðamanna út frá loftslagsmálum, en flugfélögin eiga þar líklega stærstan hlut að máli.
Kné verður látið fylgja kviði, og um framtíðaráformin segir Guðjón:
"Fyrirtækið hefur fest kaup á 16 nýjum flugvélum af gerðinni Boeing 737 MAX, og koma þær fyrstu til notkunar snemma árs árið 2018. Þessar flugvélar eru mjög sparneytnar og brenna um 20 % minna eldsneyti á hvern farþega en nú er."
Eftir téða endurnýjun flugflota síns mun eldsneytisnýtni Icelandair hækka upp í 40 fþkm á 1 líter þotueldsneytis, og fyrirtækið mun þá færast fram í fremstu röð fyrirtækja á þessu sviði. Er mikill myndarbragur að slíkri ráðstöfun fjár.
3.1.2016 | 14:28
Vegumferð í vanda
Það er eðlilegt að gera þær kröfur til umferðar á landi, að hún lagi sig að markmiðum Íslands um mengun andrúmslofts og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Til þess að gera það kleift er þörf tækniþróunar, sem leysir sprengihreyfilinn snurðulaust af hólmi, og bílaiðnaðurinn er kominn vel á veg með þá þróun. Tíminn til stefnu er hins vegar svo skammur, að grípa verður til annarra ráða samhliða rafbílavæðingunni.
Í landinu eru a.m.k. 3000 km2 af að mestu ónýttu framræstu landi, sem kjörið er að nýta til skógræktar í því skyni að binda koltvíildi, eins og fullgilt er samkvæmt Kyoto-samkomulaginu. Mætti þá eftir atvikum fyrst endurbleyta með lokun skurða og síðan planta. Bleytingin bindur a.m.k. ferfalt magn CO2 á hektara (ha) m.v. meðalbindingu skógræktar, svo að ná mætti a.m.k. 25 t CO2/ha með hvoru tveggja á sama jarðnæði.
Sé gætt jafnræðis við aðra notendur jarðefnaeldsneytis á Íslandi, þurfa farartæki á landi að skila 40 % minnkun losunar koltvíildis árið 2030 m.v. árið 1990. Það hefur orðið gríðarleg aukning á fjölda fartækja á landi síðan 1990, en það ár nam losun þessara fartækja 521 kt af CO2. Árið 2012 nam hún 782 kt, og reikna má með toppi 850 kt/a af CO2, ef strax verður hafizt handa við fækkun þessara farartækja. Þjóðhagslega hagkvæmast er, að sú fækkun verði með þeim hætti, að rafbílar eða raftvinnbílar leysi eldsneytisknúna bíla af hólmi. Þar með næst gjaldeyrissparnaður, sem getur á endanum numið tæplega MUSD 300 eða um miaISK 40 á ári. Verður það búhnykkur fyrir vöruskiptajöfnuðinn við útlönd.
Lækkunarþörf til 2030 er þá 850-0,6x521=540 kt/a af CO2, sem gæti samsvarað 540 kt/4 t=135 þúsund farartækjum eða 9 þúsund eldsneytisfarartækja fækkun á ári.
Í ljósi þess, að árlega bætast um 15 þúsund nýjar bifreiðir í flotann á ári, er algerlega óraunhæft að 60 % nýrra bíla að jafnaði til 2030 verði "umhverfisvænir" með hefðbundnum aðferðum, þ.e. með því að fella niður vörugjöld og virðisaukaskatt af rafbílum og leggja "hóflegt" kolefnisgjald á eldsneytið, sem ekki fari yfir líklegt verð á kolefniskvóta í ESB á næstu 15 árum. Hvað er þá til ráða ?
Lausnin er að jafna út mismuninum með kolefnisbindingu, sem með ræktun skóga í þessu augnamiði má ætla, að nemi a.m.k. 5,0 t/ha á ári. Sé reiknað með, að á árabilinu 2016-2030 verði unnt að fækka eldsneytisknúnum farartækjum á vegum um 70´000 eða rúmlega helming þess, sem þarf, þá þarf að binda um 295 kt/a árið 2030, og sá ræktunarskógur mun þekja 590 km2. Til samanburðar má ætla ræktunarskóg 425 km2 í árslok 2015, svo að þetta jafngildir um 140 % aukningu ræktunarskóglendis á Íslandi, og ræktunarafköstin verða tæplega tvöföld á við það, sem verið hefur undanfarin ár, eða 40 km2/ár, þótt ekkert annað verði ræktað af skógi en í þessu augnamiði. Afkastagetan á að þola þessa afkastatvöföldun.
Koltvíildislosandi umferð verður að fjármagna þessa skógrækt, ef fylgja á hvatakerfi til orkubyltingar. Ætla má, að stofnkostnaður nemi 300 kkr/ha. Með 1 % nettó rekstrar-og viðhaldskostnaði á ári (af stofnkostnaði), mun kostnaður nema 20 kkr/ha ár yfir 40 ára afskriftartíma og með 5 % ársávöxtunarkröfu fjármagns. Þetta jafngildir 4000 kr/t CO2, sem er undir 30 EUR/t, en líklegt má telja, þegar koltvíildiskvótar í Evrópu minnka, er nær dregur árinu 2030, að kvótaverðið þar verði hærra en 30 EUR/t. Það má hiklaust halda því fram, að kolefnisútjöfnun á Íslandi sé hagkvæm millibilslausn til að ná settum markmiðum, þar til orkubylting verður um garð gengin.
Ef meðaleldsneytisbíll sendir frá sér 4,0 t/ár af CO2, þarf sá bíleigandi að greiða 16 kkr/ár í kolefnisgjald til að standa fjárhagslega undir þessari útjöfnun. Það er hóflegt m.v. tæplega 300 kkr/a í eldsneytiskosnað, þar sem kolefnisgjald er nú þegar innifalið, svo að verði þessi leið farin, mun það lítil áhrif hafa á heildareldsneytisverð.
Íslendingar eru í kjörstöðu til orkubyltingar vegumferðar vegna hreinnar og endurnýjanlegrar raforkuvinnslu og nægs landrýmis til tímabundinna mótvægisaðgerða með ræktun. Þessi aðferð mun gera landsmönnum kleift að standa við markmið um 40 % minni losun koltvíildis frá vegumferð en árið 1990 með jákvæðum áhrifum á hagkerfið allt, því að aðferðin er ekki íþyngjandi fyrir neytendur, hún eflir atvinnustigið í dreifðum byggðum landsins, og aðferðin mun geta af sér gjaldeyristekjur, þegar orkubyltingin verður afstaðin hérlendis með sölu koltvíildiskvóta á erlendum mörkuðum eða til innlendrar stóriðju eftir atvikum.
Rætt hefur verið um, hvernig bæta má ríkissjóði upp tekjutapið af fækkandi eldsneytisbílum. Í því sambandi er rétt að minna á, að opinber gjöld á nýja bíla hafa verið úr hófi fram á Íslandi m.v., að hérlendis eru engar járnbrautarlestir og fyrir þeim verður enginn fjárhagsgrundvöllur á næstu áratugum, og m.v. kaupmáttarstig í landinu. Ríkið innheimtir virðisaukaskatt af raforku í efra þrepi, og kemur hann til mótvægis við tekjutap af eldsneytissölu, en eigendur rafbíla munu auðvitað njóta góðs af mun betri orkunýtni rafbíla en eldsneytisbíla, sem er næstum þreföld. Þegar framleiðslukostnaður lækkar á rafbílum, sem mun gerast með aukinni framleiðslu og þegar títtnefndu loftslagsmarkmiði hefur verið náð, er eðlilegt að íhuga virðisaukaskatt á rafmagnsbílana.
30.12.2015 | 18:22
Sjávarútvegurinn ber af
Það virðist vera sama, hvar borið er niður í rekstri íslenzka sjávarútvegsins. Hann ber af á öllum sviðum í samanburði við aðrar atvinnugreinar á Íslandi og í alþjóðlegum samanburði.
Afkoma bolfiskútgerðar var mjög bágborin um 1980 og á fyrri hluta 9. áratugar 20. aldarinnar. Afkastageta fiskiskipaflotans bar nytjastofnana ofurliði, svo að þunglega horfði um afrakstrargetu þeirra. Var þá sett á sóknarmark, sem leiddi til kostnaðarsams kapphlaups á milli útgerða og hvatti ekki til hagræðingar. Í sóknarmarkskerfi etja menn kappi hver við annan á þröngu sviði í kapphlaupi um að ná úthlutuðu magni eða sem mestu á tilteknum dagafjölda, en óbætt hjá garði liggja þá óhjákvæmilega öryggið, hagkvæmni veiðanna og markaðurinn sjálfur.
Árið 1984 var þess vegna söðlað um eftir víðtækt samráð sjávarútvegsráðherra við hagsmunaaðila í greininni og heildaraflamarki hverrar tegundar skipt upp í veiðihlutdeildir á skip samkvæmt þriggja ára veiðireynslu. Veiðihlutdeildin myndar nýtingarrétt, sem er ein tegund veðhæfs eignarréttar, sem eigendunum var árið 1990 veittur framsalsréttur á af Alþingi. Allt gjörbreytti þetta afstöðu útgerðarmanna og sjómanna til veiðanna, sem nú eru sjálfbærar með langtímahagsmuni útgerða að leiðarljósi og markaðsdrifin, og hafa verðmætin vaxið ár frá ári, jafnvel þótt magnið hafi tekið dýfur. Hagsmunir almennings eru þeir að hámarka afrakstur veiðanna til langs tíma, og þannig fara saman hagsmunir útgerðar og almennings.
Útgerðir hafa orðið að taka á sig skertar veiðiheimildir, en þá hefur verðmæti hvers útflutts kg einfaldlega vaxið hraðar en ella. Þetta vitnar um gæðastjórnun á háu stigi og mikinn markaðssveigjanleika.
Áætlað er, að verðmæti útfluttra sjávarafurða verði miaISK 290 árið 2015 og verði þannig 15 % meiri en árið 2014. Í ljósi makrílstríðs og fleiri hremminga með flökkustofna er þetta sérlega vel af sér vikið.
Framlegð, EBITDA, bolfiskútgerðar hefur vaxið úr 10 % af veltu árið 1980 í rúmlega 25 % nú, en t.d. í Noregi er hún aðeins 15 %. Framlegð á starfsmann í greininni hefur vaxið með svipuðum hætti í báðum löndunum síðan 1990, en Ísland haldið forskoti sínu, sem er nú um kUSD 160 m.v. kUSD 130 í Noregi, sem gefur rúmlega 20 % mun.
Tæknilega stendur íslenzki sjávarútvegurinn framar sínum mikla samkeppnisaðila í Noregi, eins og sést á nýtingarhlutfalli fisks, sem er 57 % á Íslandi, en 41 % í Noregi, og á söluverðmæti fisks, sem er 2,3 EUR/kg á móti 1,7 EUR/kg. Þarna munar 35 % og er til vitnis um virðiskeðjuna, sem íslenzki sjávarútvegurinn ástundar, þ.e. hann veiðir samkvæmt pöntun viðskiptavinar og afrekar að mæta með vöruna hjá viðskiptavininum ferskari (nýrri) en samkeppnisaðilar á meginlandinu.
Aflahlutdeildarkerfið hefur umbylt sjávarútveginum. Nú snýst hann ekki lengur um magn, heldur gæði og hámörkun verðmætasköpunar. Fiskifréttir hafa eftirfarandi eftir Daða Má Kristóferssyni, forseta Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands þann 26. nóvember 2015:
"Slík virðiskeðja getur ekki orðið til, nema með einhvers konar eignarréttarstýringu á veiðunum, og að viðskipti með fisk séu sem frjálsust."
Það, sem þarna er sagt, er í samhljómi við niðurstöður virtra auðlindahagfræðinga, innlendra og alþjóðlegra, og þýðir, að verði farið að fúska með núverandi kerfi af forsjárhyggjusinnuðum þingmönnum síðar meir, þá mun arðsemi sjávarútvegs dragast saman, verðmætasköpun minnka og þjóðin, sem fer með forræði sjávarauðlindanna, óhjákvæmilega bera skarðan hlut frá borði, af því að það, sem til skiptanna er, mun þá minnka.
Íslendingum ber að standa vörð um sjávarútveginn, því að hann ávaxtar lífríki sjávar, eins og bezt verður á kosið. Það er sótt að honum úr ýmsum áttum, eins og athæfi Seðlabankans gegn Samherja eru til vitnis um, en bankinn gerði atlögu að fyrirtækinu með húsrannsókn og brottnámi skjala í gerræðislegri, flausturslegri og hatursfullri tilraun til að koma sök á fyrirtækið um brot á gjaldeyrislögum og til vara um skattsvik.
Seðlabankastjóri og hyski hans hafði ekki erindi sem erfiði, þó að hann hafi valdið fyrirtækinu stórtjóni með fullkomlega óboðlegum og ófaglegum vinnubrögðum, sem eru hreinræktaður fíflagangur að hálfu bankans, sem hlýtur að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir þá, sem ábyrgð bera á í bankanum. Fyrir landsmenn er óþolandi að sitja uppi með þvílíkt lið í Seðlabanka Íslands.
Ýmsar atvinnugreinar á Íslandi hafa náð dágóðum árangri í umhverfisvernd, og sjávarútvegurinn er þar enginn eftirbátur, enda er þar mikill metnaður á ferð, eins og lýsir sér í viðtali í "Sóknarfærum" í október 2015 við Svavar Svavarsson, deildarstjóra viðskiptaþróunar hjá HB Granda hf:
"Að mínu mati væri mjög æskilegt, ef stjórnvöld og sjávarútvegurinn tækju saman höndum um að setja sér í sameiningu það markmið, að íslenzkur sjávarútvegur verði í framtíðinni rekinn án þess að valda mengun. Þannig væri yfirlýst stefna, að t.d. öll íslenzk fiskiskip verði innan ákveðins tíma knúin öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti. Þetta er að mínu mati raunhæft markmið, bæði með tilliti til vaxandi áhuga innan greinarinnar á umhverfismálum og ekki síður framþróunar í tæknibúnaði, sem orðið hefur og mun verða í náinni framtíð."
"Svavar segir, að með nýjum skipum, sem komin eru og væntanleg í fiskiskipaflotann hér á landi, leggi sjávarútvegurinn verulegt lóð á vogarskálar stjórnvalda til að ná markmiði um minni kolefnislosun. "Þegar ákvörðun var tekin um kaup HB Granda á nýju skipunum fimm, ákváðum við að velja dieselvélar og þann bezta mengunarvarnabúnað, sem völ er á. Þetta eru sparneytin skip, og umhverfismálin voru sannarlega einn mikilvægur þáttur, sem horft var til í aðdraganda ákvörðunar um smíði skipanna", segir Svavar."
Þessi fjárfestingarstefna er til fyrirmyndar, og ættu allir, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar, sem standa frammi fyrir ákvörðun um nýja eða nýjar fjárfestingar nú og framvegis, að miða við, að fjárfestingin svari kalli tímans um bætta eldsneytisnýtni og brotthvarf frá jarðefnaeldsneyti, þar sem tæknin leyfir slíkt nú þegar.
Frá 1990 hefur átt sér stað fækkun í fiskiskipaflota Íslendinga frá ári til árs. Árið 1999 var 91 skuttogari skráður í fiskiskipaflota Íslendinga, og árið 2014 voru þeir 49 talsins samkvæmt Hagstofunni. Á þessum 16 árum hefur þeim fækkað um 42 eða 46 %, sem er að jafnaði tæplega 3 % á ári. Þetta er grundvöllurinn að frábærum árangri sjávarútvegsins við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.
Árið 1990 nam losun sjávarútvegsins á CO2 789 kt, árið 2010 580 kt og árið 2012 480 kt. Á þessu 22 ára bili hefur losunin minnkað um 309 kt eða 39 %, sem að jafnaði er 1,8 % á ári. Á árinu 2015 má telja víst, að losunin sé komin niður fyrir 470 kt og hafi þannig minnkað um meira en 40 % m.v. árið 1990. Sjávarútvegurinn hefur því nú þegar, einn allra greina á Íslandi, náð markmiði, sem almennt er stefnt á árið 2030. Ef fram heldur sem horfir, verður sjávarútvegurinn án kolefnislosunar árið 2050.