Færsluflokkur: Fjármál

Auðlindaafnot

Nú hefur Eftirlitsstofnun EFTA - ESA birt úrskurð um, að virkjanafyrirtæki á Íslandi skuli greiða fyrir nýtingu orkulinda í almannaeigu, og skuli það vera markaðsverð. Þessi merkilegi úrskurður hefur litlar umræður vakið hérlendis, e.t.v. vegna þess, að Hæstiréttur Íslands kvað í vetur upp úrskurð, sem gefur tóninn í þessum efnum. 

Þessi úrskurður ESA er eðlilegur og góð viðmiðun við lagasetningu um þessi efni, en í raun er þó ekki um neina grundvallarbreytingu hérlendis að ræða, því að Hæstiréttur Íslands hefur þegar dæmt, að vatnsréttindi Landsvirkjunar í Jökulsá á Brú og í Jökulsá í Fljótsdal og þar af leiðandi í Lagarfljóti skuli mynda stofn til fasteignagjalds til sveitarfélaganna, sem áin rennur um.  Eina óleysta ágreiningsefnið er, hvaða fasteignaflokk vatnsréttindin fylla. 

Vatnsréttindin hafa verið metin til fjár og orkuvinnslugetan í GWh/ár er þekkt.  Þar með er komið fordæmi til auðlindargjaldtöku af öllum virkjuðum vatnsföllum í landinu, sem ekki eru í einkaeigu, t.d. bæjarlækir.  Þessi gjaldtaka í opinbera þágu hlýtur að fullnægja úrskurði ESA um auðlindargjald af virkjunum í vatnsföllum, sem renna um margar landaeignir. 

Um jarðgufuvirkjanir hlýtur með sama hætti að gilda, að auðlindagjaldið fellur landeigandanum í skaut, þar sem borholurnar eru staðsettar.  Séu þær í þjóðlendu, lendir gjaldið hjá ríkissjóði, og séu þær á landeign sveitarfélags, fær það auðlindargjaldið.  Það er hægt að reikna auðlindargjald af jarðgufu með ýmsum hætti, en eðlilegast er að reikna orkuinnihald gufunnar á einu ári og bera saman við orkuna í Fljótsdalsvirkjun og miða við sama gjald per GWh/a í gufuorku.  Nýtnin er gjörólík í vatnsaflsvirkjun og jarðgufuvirkjun, en með þessu móti væri myndaður hvati til bættrar nýtingar á jarðgufu, sem hefur verið ábótavant hérlendis hingað til. Að nýta jarðgufu einvörðungu til raforkuvinnslu hefur sætt gagnrýni, af því að áhöld eru um sjálfbærni nýtingarinnar, þegar niðurdráttur í holu er 3 % ári, eins og dæmi er um, a.m.k. tímabundið.   

Fram að téðum dómi Hæstaréttar hefur hérlendis ríkt ójafnræði með atvinnugreinum, þegar kemur að álagningu auðlindargjalds.  Sjávarútvegurinn hefur einn borið þessar byrðar hingað til og reyndar mjög miklar, og hvorki ferðaþjónustan né landbúnaðurinn hafa borið þær.  Sá síðar nefndi nýtir afréttir í þjóðlendum, og ferðaþjónustan geysist með fjölmenni upp um fjöll og firnindi.  Allt eru þetta takmarkaðar auðlindir, en eru alþjóðlega viðurkennd skilyrði til myndunar auðlindarentu í þeim öllum ?  Myndun auðlindarentu í atvinnugrein er forsenda opinberrar gjaldtöku fyrir afnotarétt af takmarkaðri auðlind.  Um þetta verður fjallað í næstu vefgrein.

 Hin augljósa leið landeigenda til varnar náttúrunni og til að koma á sjálfbærri nýtingu hennar af ferðamönnum er gjaldtaka af ferðamönnum á staðnum.  Fyrir andvirðið má viðhalda og auka við þjónustu við ferðamenn á viðkomandi stað, en ferðamenn verða að fá þjónustu fyrir gjaldtöku frá fyrsta degi.  Þar með mundu tekjur landsins af hverjum ferðamanni hækka, sem er nauðsynlegt til að vega upp á móti lítilli framleiðni í ferðaþjónustu og stóru kolefnisspori ferðaþjónustunnar m.v. tekjur af henni.

 Íslenzkt lambakjöt er lúxusvara, bæði innanlands og utan, sem yrði að bera auðlindargjaldið af þjóðlenduafnotum bænda, og sama máli gegnir um hrossabændur, ef í ljós kemur, að auðlindarrenta finnst í þessari starfsemi.  Það er tiltölulega einfalt að sannreyna það. 

Það er grundvallaratriði, að allir, sem nýta náttúruauðlindir í almannaeigu, sitji við sama borð, eins og framast er kostur. Þá þarf fyrst að líta til þess, hvort skilyrði fyrir auðlindarrentu í viðkomandi starfsgrein eru uppfyllt og síðan að leggja á samræmt og sanngjarnt auðlindargjald, sem má ekki verða íþyngjandi m.v. alþjóðlega samkeppni og meðalhófs skal gæta við álagninguna, þ.e. sá, sem leggur gjaldið á, verður fyrst að sýna fram á, að það sé ekki hærra en auðlindarentan.  Þá duga engar hundakúnstir, því að eignarrétturinn er varinn af Stjórnarskrá, og hægt er að höfða mál vegna þess, sem virðist ósvífin og illa ígrunduð gjaldtaka. Það er heldur ekki víst, að í öllum tilvikum reynist unnt að sýna fram á rentusækni atvinnugreinar, þó að hún eigi afnotarétt af auðlind "í þjóðareign". Um þetta mun blekbóndi fjalla frekar.  


Eignarhaldið á Landsneti

Núverandi eignarhald Landsnets var við stofnun þess hugsað til bráðabirgða, og nú er tímabært að koma því í betra horf.  Við stofnun Landsnets árið 2005 samkvæmt raforkulögum nr 65/2003 var drjúgur hluti núverandi stofnkerfis raforkuflutninga fyrir hendi, og stofnkerfinu var stýrt úr Stjórnstöð Landsvirkjunar í kjarnorkuheldu neðanjarðarbirgi við Bústaðaveg í Reykjavík, sem nú er í eigu Veðurstofu Íslands, enda skammt frá höfuðstöðvum hennar. 

Þetta fyrirkomulag var og er í ósamræmi við téð raforkulög, sem Alþingi samþykkti á grundvelli tilskipunar ESB - Evrópusambandsins, sem kvað á um, að innan EES - Evrópska efnahagssvæðisins skyldi koma á frjálsri samkeppni, þar sem hægt yrði að koma henni við.  Samkvæmt tilskipuninni, sem sumir töldu reyndar óþarfa að innleiða á Íslandi, fámennri eyju, skyldi raforkukerfið vera fjórskipt:

  1. Raforkuvinnsla - undirbúningur, uppsetning og rekstur virkjana.  Fyrirtæki í þessum geira skyldu vera í frjálsri samkeppni um orkusölu í heildsölu frá virkjunum sínum, og þau skyldu lúta annarri stjórn en fyrirtæki í hinum geirunum þremur og hafa aðskilið bókhald frá þeim.  Til að tryggja frjálsa samkeppni á orkumarkaði frá virkjunum, skyldi forðast sama eignarhald og í hinum geirunum þremur.
  2. Raforkuflutningur - undirbúningur, uppsetning og rekstur aðveitustöðva og stofnlína til raforkuflutnings á 66 kV og hærri spennu.  Þetta skyldi vera einokunarfyrirtæki með sama hætti og Vegagerð ríkisins til að tryggja einfalt og algerlega samhæft meginflutningskerfi raforku í landinu, sem ekki mundi draga taum neinna annarra aðila á raforkumarkaðinum, heldur gæta jafnræðis allra, sem vildu selja inn á flutningskerfið eða kaupa út af því. Þáverandi flutningsmannvirki landsins skyldu ganga til Landsnets sem eignarhlutur í Landsneti, og eignaðist Landsvirkjun þannig 65 %, RARIK 22 %, OR 7 % og OV 6 %.  Þetta eignarhald á Landsneti stríðir gegn anda laganna um óháð einokunarfyrirtæki, og ber að losa um þetta óeðlilega eignarhald hið snarasta,enda hafa nýir aðilar á markaði kvartað undan því.  
  3. Raforkudreifing - undirbúningur, uppsetning og rekstur dreifistöðva, dreifilína og jarðstrengja á 33 kV og lægri spennu ásamt rekstri þessa búnaðar til að dreifa raforkunni frá aðveitustöðvum Landsnets og til orkunotenda.  Þetta er sérleyfisskyld starfsemi, þar sem samkeppni er ekki leyfð. 
  4. Raforkusala í smásölu.  Á þessu sviði skal ríkja frjáls samkeppni, og einokunarfyrirtækunum, Landsneti og dreifiveitunum, skal vera skylt að flytja orku, sem sölufyrirtækin semja um, til orkukaupendanna.  Fyrir mig sem íbúa á "dreifiveitusvæði" Veitna, sem er dótturfyrirtæki OR, er frjálst að semja um raforku frá OV-Orkuveitu Vestfjarða, svo að eitt dæmi sé nefnt. 

Frétt Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu 7. apríl 2016, bls. 14, hefst þannig: 

""Ég tel, að við eigum að ræða með opinskáum og yfirveguðum hætti, hvernig við teljum eignarhaldi Landsnets bezt fyrir komið til lengri tíma", sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á vorfundi Landsnets í vikunni.  Vitnaði hún þar til skýrslu, sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér s.l. haust um hlutverk, eignarhald og áætlanir Landsnets."

Það er ankannalegt, að ráðherra raforkumála undanfarin 3 ár skuli ekki vera lengra komin en þetta með að koma eignarhaldi Landsnets í viðunandi horf.  Eðli fyrirtækisins er að sumu leyti sambærilegt við eðli starfsemi Vegagerðar ríkisins, og bæði fyrirtækin hafa að hálfu löggjafans hlotið vissan forgangsrétt í skipulagslegu tilliti í þágu almannahagsmuna vegna staðsetningar mannvirkja.  Almennt er skipulagsvaldið í höndum sveitarfélaga, en mannvirki Vegagerðarinnar og Landsnets þvera mörg sveitarfélög, og þá þykir ekki verjandi m.t.t. heildarhagsmuna, að eitt sveitarfélag geti lagt stein í götu mikils framfaramáls fyrir miklu fleira fólk annars staðar.

Í júníbyrjun 2016 var kynnt skýrsla Lars Christensens, LC, dansks alþjóðahagfræðings, um íslenzka raforkumarkaðinn.  Hann bendir þar réttilega á óeðlilegt eignarhald orkuvinnslufyrirtækjanna á Landsneti út frá samkeppnisjónarmiðum og telur brýnt að aðskilja algerlega fjárhagslega hagsmuni Landsvirkjunar og Landsnets, en Landsvirkjun á nú meirihlutann í Landsneti, eins og fram kemur hér að ofan.  Forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, HA, tekur þessari tillögu ólundarlega og fer undan í flæmingi.  Það er undarleg hegðun.  Ef stjórn Landsvirkjunar þverskallast líka gegn þessu, verður eigandi fyrirtækisins að leiðrétta áttavitann.

HA segir um þetta í baksviðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu 3. júní 2016:

"Hörður segist ekki skilja, hvert verið sé að fara með fyrrnefndri tillögu.  "Þetta er ákveðinn misskilningur.  Landsvirkjun hefur ekki komið að fjármögnun fyrirtækisins frá 2005.  Landsnet hefur verið að greiða inn á lánið, og fyrirtækið hefur verið að fjármagna sig án nokkurrar aðkomu Landsvirkjunar, og fyrirtækið hefur ekki stýrt þeirri fjármögnun með neinum hætti.  Nú er Landsnet farið að gera upp í dollurum, og það gefur mögulega til kynna, að fyrirtækið ætli að sækja sér alþjóðlegt fjármagn.  Það hefur fyrirtækið reyndar nú þegar gert, m.a. í gegnum Norræna fjárfestingabankann."".

Af þessum þvergirðingslega málflutningi að dæma virðist forstjóri Landsvirkjunar vera því andvígur að rjúfa nú fjárhagstengsl Landsvirkjunar og Landsnets.  Hann hlýtur þó að viðurkenna, að staða Landsnets sem óháðs og óvilhalls flutningsfyrirtækis raforku er ótrúverðug með núverandi eignarhaldi og að raforkulögin eru þannig enn ekki uppfyllt.  Ráðherra og Alþingi verða líklega að taka af skarið í þessum efnum, en það er betra að gera það um leið og ný eigendastefna verður samin fyrir Landsvirkjun. 

LC taldi í téðri skýrslu sinni, að fýsileika einkavæðingar Landsnets ætti að kanna.  Það er almennt óráðlegt, að fyrirtæki í lögbundinni einokunaraðstöðu séu í einkaeign.  Óháð eignarhaldi verður Orkustofnun, OS, að hafa fjárhagslegt taumhald á Landsneti og rýna útreikninga að baki gjaldskráar fyrirtækisins m.t.t. laga og samþykkta um kostnaðarþróun fyrirtækisins og arðsemi.

Það virðist þó einboðið sem stendur, að eignarhald Landsnets verði með sama hætti og Vegagerðarinnar, þó að fjármögnun þeirra sé ólík.  Heildareignir Landsnets í árslok 2015 námu miakr 103, og þar af nam eigið fé mia kr 42.  Ríkissjóður á mikið af eignum í samkeppnisrekstri, sem hann getur selt til að fjármagna þessi viðskipti.  Það er t.d. freistandi vegna samkeppnistöðu Landsvirkjunar að breyta  henni í almenningshlutafélag með 80 % eignarhaldi ríkisins fyrst um sinn og veita lífeyrissjóðunum forkaupsrétt á 10 % og skattborgurunum rétt á að skipta jafnt á milli sín 10 % eignarhluta. 

Gömlu eigendur Landsnets hafa næg, arðbær fjárfestingarverkefni fyrir andvirði þeirra í Landsneti.  T.d. væri skynsamlegt að flýta jarðstrengjavæðingu RARIK og þrífösun sveitanna með þeim peningum, sem þarna fengjust, en núverandi áætlun um þetta verk er of hægfara fyrir þarfir margra sveitabýla, sem ella verða að koma sér upp eigin virkjun á vindi, fallvatni eða jarðgufu.  

Tekjur Landsnets árið 2015 námu miakr 16 af flutngsgjaldi raforku, sem nú er nálægt 13 % af heildarraforkukostnaði almennings og er við efri mörk, sem eðlilegt getur talizt, enda var hagnaður fyrirtækisins á sama tíma miakr 4,0 eða fjórðungur af tekjum, sem er meira en eðlilegt getur talizt til lengdar, enda er búið að reikna með afskriftum, þegar þessi tala er fengin.  Það orkar líka tvímælis, að einokunarfyrirtæki af þessu tagi greiði eigendum sínum arð, sem nemur 10 % af hagnaðinum.  Orkustofnun á lögum samkvæmt að hafa eftirlit með og samþykkja/hafna gjaldskrá Landsnets og virðist hafa veitt fyrirtækinu helzt til lausan tauminn, enda varð veltuaukning 2015 heil 13 %, þó að orkuflutningurinn hafi aðeins aukizt um 3,6 %.  Hér er maðkur í mysunni. Við þessar aðstæður virðist vera grundvöllur til lækkunar almenns flutningsgjalds um 10 %. 

Alnafni minn og sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra í Skagafirði ritaði þann 22. apríl 2016 áhugaverða grein í Morgunblaðið, sem ég er að mörgu leyti sammála.  Greinin nefnist:

"Landsnet verði í samfélagseigu". 

Hann óttast, að núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi í hyggju að einkavæða Landsnet, en það væri bæði órökrétt og andstætt "Markaðshyggju með félagslegu ívafi", sem ráðherranum á að vera kunnug. Samkvæmt þeirri stefnu á að ýta undir frjálsa samkeppni einkaaðila, en forðast einkarekna einokunarstarfsemi.  Að einkavæða Landsnet mundi stríða gegn anda gildandi raforkulaga vegna hættu á hagsmunaárekstrum eigenda Landsnets og aðila, sem vilja selja orku inn á stofnkerfið,  og fyrir svo óhönduglegum gjörningi er tæpast þingmeirihluti fyrir hendi.  Áhyggjur nafna eru því óþarfar, en hann skrifar m.a.:

"Iðnaðarráðherrann boðar hins vegar lagasetningu, sem geri það mögulegt að einkavæða raforkudreifingu (sic !) á Íslandi: "Ef einhver þeirra (eigenda Landsnets - innsk. blekbónda) vill selja hlut sinn til einkaaðila eða opinberra aðila, þarf því að breyta lögum", sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir.  Ráðherrann viðurkenndi þó, að tíminn væri að renna út fyrir þessa ríkisstjórn til að breyta lögum og heimila einkavæðinguna.  En ljóst var, hvert hugur hennar stefndi."

Það er rétt hjá Ragnheiði, að breyta þarf lögum, ef nýir eignaraðilar eiga að koma að Landsneti, því að samkvæmt núgildandi lögum mega eignaraðilarnir aðeins selja hver öðrum sína eignahluti.  Ný lög þurfa að kveða á um, að þeir megi aðeins selja ríkissjóði sína hluti, og jafnframt ættu lögin að kveða á um, að hagnaður fyrirtækisins skuli allur fara til aukningar á eigin fé þess.  Þá munu núverandi eigendur sjá sér hag í að selja.  Sá möguleiki er fyrir hendi, að nafni sé hér að mála skrattann á vegginn með því að túlka orð ráðherrans þannig, að hún vilji einkavæða fyrirtækið.   Afleiðing eldingar ágúst 2012

 


Erfitt að mæta eftirspurn ?

Þrátt fyrir, að ISAL kaupi um þessar mundir um 25 MW minna af Búðarhálsvirkjun en gert var upphaflega ráð fyrir, þá er afgangsorkuskortur í landinu og forgangsorkuskortur á næsta leyti.  Á sama tíma eru litlar virkjanaframvæmdir í gangi m.v. fyrirsjáanlega orkuþörf á næstu 5 árum.  Þetta ástand og horfur gefur til kynna, að ástand orkumála landsmanna sé fjarri því að vera, eins og bezt verður á kosið (það er "suboptimal"), enda hefur umræðunni um aðalatriðin verið drepið á dreif.

Í Fréttablaðinu 3. marz 2016 var frétt af því, að illa gengi að koma raforkusamningi á koppinn á milli hreinkísilframleiðandans Silicor Materials Inc., SM, og Landsvirkjunar o.hf, og er síðast fréttist, stóð allt í stampi á milli fyrirtækjanna. Framleiðsla SM er orkukræf, því að full afköst, aðeins 19 kt/ár af kísli hæfum í sólarhlöður, krefjast 80 MW afls að jafnaði eða yfir 4,0 MW/kt, en t.d. áliðnaðurinn þarf innan við 2,0 MW/kt.  SM hefur þegar tryggt sér helminginn, 40 MW, af ON, en vantar rúmlega 20 MW til viðbótar til að hefja rekstur. 

Landsvirkjun virðist ekki vera aflögufær um þetta lítilræði eftir samningana við United Silicon í Helguvík um 35 MW og við PCC á Bakka um um 58 MW, og við hafa síðan bætzt samningar við Thorsil í Helguvík.  Vegna seinlætis og rangra áherzlna í rekstri virðist stjórn Landsvirkjunar vera að glutra niður tækifæri til að laða að Grundartanga fjárfestingu að upphæð miaISK 120 í uppsetningu á starfsemi, sem ekki þarfnast umhverfismats að dómi Umhverfisstofnunar, þar sem nýtt verður framúrstefnulegt ferli við framleiðslu á hreinkísli, sem hæfur er í sólarhlöður. Hér verður nú vitnað til upphafs téðrar fréttar:

"Gengur illa að tryggja sér raforku":

"Silicor Materials staðfestir, að viðræður við Landsvirkjun um kaup á þeim 20-25 MW, sem fyrirtækið vantar til að hefja rekstur fyrirhugaðrar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga ganga illa og staðfestir jafnframt áhuga á verkefninu frá nágrannaþjóðum. 

Ræða Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns atvinnuveganefndar, á Alþingi á mánudag vakti athygli.  Þar gerði Jón vinnu við Rammaáætlun að umtalsefni og meinbugi, sem hann sér við hana.  En í ræðu sinni vék hann að verkefni Silicor á Grundartanga.

"Við höfum mörg rætt mjög spennandi kost í orkutengdri starfsemi, sem er verksmiðja Silicor á Grundartanga, mengunarlaus verksmiðja, sem notar um 80 MW, skapar um 450 störf, útflutningsverðmæti eru miaISK 100 á ári.""

Það er augljóst af þessari stöðu mála, að undirbúningsferli virkjana á Íslandi er allt of þunglamalegt og óþarflega langdregið.  Það er þjóðinni dýrkeypt, að fyrirhyggjuleysi og kraftleysi virkjunaraðila skuli vera svo yfirþyrmandi, að myljandi hagkvæm orkusala í bandaríkjadölum og uppsöfnuð 20 ára útflutningsverðmæti, sem nema allri núverandi landsframleiðslu Íslands, skuli vera að fara forgörðum.  Þetta er enn ein skýr vísbending um það, að stokka þarf upp og straumlínulaga skipulag raforkumála á Íslandi með endurskoðun raforkulaga, yfirtöku Orkustofnunar á hlutverki Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun og nýrri eigendastefnu fyrir Landsvirkjun. 

Á þessu ári, 2016, munu framkvæmdir við um 100 MW og 350 GWh/ár virkjun í Þjórsá, Búrfell 2, hefjast.  Ef nauðsynlegrar framsýni hefði gætt hjá forystu Landsvirkjunar, hefðu þessar framkvæmdir hafizt þegar í kjölfar Búðarhálsvirkjunar árið 2013, og hefði þá afl frá henni verið tiltækt þegar í vetur, 2016-2017, og komast hefði mátt hjá aflskerðingum, sem eru atvinnulífinu feiknarlega dýrar og kalla í sumum tilvikum á kyndingu katla með olíu, sem er hneisa á Íslandi.  Það er óskiljanlegt, að jafnvel baunateljarar skuli ekki hafa áttað sig á, að fjárfestingar til að komast hjá afl- og orkuskorti margborga sig. 

Í hnúkana tekur, þegar forkólfar Landsvirkjunar vakna upp við vondan draum vegna kröfu um endurnýjun umhverfismats að hluta fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá.  Þar er endemis fyrirhyggjuleysi á ferðinni, því að forkólfarnir máttu vita, að slíks yrði krafizt.  Þegar hefjast hefði þurft handa við þessa umhverfisvænu 95 MW vatnsaflsvirkjun, lendir Landsvirkjun hins vegar í töf, svo að framkvæmdir geta í fyrsta lagi hafizt árið 2017.  Tímabilið 2017-2020 verður fyrirsjáanlega mikið fjárhagstap hérlendis vegna orkuskorts, þar eð þá munu hin nýju kísilver fara fram á viðbótar raforku vegna aukningar á framleiðslugetu.

Stutt lýsing á virkjunartilhögun Hvammsvirkjunar er gefin í frétt Morgunblaðsins, 1. marz 2016:

"Nýtt matsferli hafið fyrir Hvammsvirkjun":  

"Framkvæmdin við Hvammsvirkjun felur í sér, að reist verði stífla í farvegi Þjórsár ofan Minnanúpshólma og stíflugarðar á austurbakka árinnar.  Þannig verður um 4 km2 Hagalón myndað.  Stöðvarhús verður að mestu byggt neðanjarðar nærri norðurenda Skarðsfjalls í Landsveit, í landi Hvamms, en húsið mun standa 5 m yfir yfirborði jarðar. 

Frá inntaksmannvirkjum við Hagalón munu 2, 190 m langar, þrýstivatnspípur liggja að virkjuninni.  Frá virkjun mun vatnið fyrst renna um jarðgöng og síðan í opnum skurði niður í Þjórsá neðan við Ölmóðsey.  Landsvirkjun áformar að hefja framkvæmir árið 2017."

Þessi lýsing ber með sér, að hönnuðirnir hafa lagt sig í líma við að lágmarka umhverfisáhrif af virkjuninni og jafnframt að nýta fallhæðina sem bezt.  Önnur ástæðan, sem tilfærð var fyrir endurmatinu, var, að rannsaka þyrfti áhrif virkjunarinnar á ferðamennskuna í héraðinu, sem aukizt hefur síðasta áratuginn, eins og annars staðar í landinu. 

Það, sem m.a. hrjáir ferðamannaiðnaðinn, er hörgull á áhugaverðum, manngerðum áningarstöðum fyrir ferðamenn. Alls staðar í heiminum eru umhverfisvænar virkjanir vinsælir áningarstaðir ferðamanna.  Það er engum blöðum um það að fletta, að Hvammsvirkjun mun hafa alla burði til að laða til sín ferðamenn, og vonandi verður gert ráð fyrir myndarlegri gestamóttöku við verkhönnun virkjunarinnar, þar sem hægt verður að leiða forvitna ferðamenn í allan sannleika um allar hliðar virkjunarinnar með nútímalegum hætti, t.d. eins og gert er á Hellisheiðinni.

Hitt atriðið, sem tilfært var sem ástæða endurmats, voru áhrif virkjunarinnar á landslag, en þeim hefur verið haldið í skefjum með því að hafa virkjunina að miklu leyti neðanjarðar, fella hana að öðru leyti vel að landslaginu og með því að halda stærð inntakslónsins í lágmarki m.v. hið mikla flæði í Þjórsá. Vatnsmiðlanir ofar í ánni gera þetta kleift.

Það er ekki aðeins iðnaðurinn, sem kallar á aukið rafmagn.  Þar eiga um 2 milljónir erlendra ferðamanna á ári einnig hlut að máli og fyrirsjáanleg orkubylting, sem gæti valdið því, að árið 2030 yrðu í landinu um 70 þúsund rafmagnsbílar, sem þyrftu a.m.k. 300 GWh/ár af raforku og 100 MW afl. Viðbótar aflþörf má reyndar helminga, ef stofnað verður til hagkvæms næturtaxta fyrir almenning. Þetta er aðeins rúmlega 20 % þess fartækjafjölda, sem reikna má með, að þurfi rafhleðslu við í lok orkubyltingarskeiðsins, um 2045.  Það má ætla, að þörf fyrir nýjar virkjanir vegna minni brennslu jarðefnaeldsneytis, mannfjöldaaukningar og aukinnar iðnaðarframleiðslu nemi a.m.k. 600 MW á tímabilinu 2015-2030 og a.m.k. 1500 MW á á tímabilinu 2015-2045. 

Núverandi uppsett afl virkjana á Íslandi er um 2500 MW, svo að þessi mikla aukning mun augljóslega útheimta miklar skuldsettar fjárfestingar og þar af leiðandi minni arðgreiðslur virkjanafyrirtækja til eigenda sinna á næstunni en rætt hefur verið fjálglega um undanfarið.  Arðgreiðslur geta ekki hafizt af alvöru fyrr en hægir á uppbyggingunni. Hins vegar á skuldsetningin alls ekki að vera með ríkisábyrgð, heldur á forsendum frjálsrar samkeppni. 

Það er rentusækni í orkugeiranum, þar sem færri fá úthlutað virkjanaleyfum en vilja, fákeppni ríkir á raforkumarkaðinum og einokun á hitaveitumarkaði hvers svæðis.  Þar sem hvorki ríkir frjáls samkeppni á ílags- eða frálagsenda starfsemi orkufyrirtækjanna, er eðlilegt að hið opinbera innheimti af þeim auðlindarentu með einum eða öðrum hætti.  Hæstiréttur hefur nú þegar fellt þann úrskurð, að sveitarfélögum sé heimilt að leggja fasteignagjald á vatnsréttindi.  Landsvirkjun móast við að samþykkja gjaldflokkinn, sem sveitarfélag, sem hagsmuni á vegna Fljótsdalsvirkjunar, hefur ákveðið.  Fasteignagjald af vatnsréttindum er vissulega ígildi auðlindargjalds og að sama skapi ætti ríkissjóður að innheimta gjald af jarðgufuöflun í þjóðlendum. 

Hér að ofan er ekki um meira virkjað viðbótar afl að ræða en hugmyndir Englendinga snerust um, að hægt yrði að ráðstafa inn á sæstreng til Bretlands.  Sú viðskiptahugmynd er fallin í vota gröf, enda á Ísland engar orkulindir afgangs, sem keppt munu geta við t.d. þóríum-kjarnorkuver á Englandi eða yfirleitt keppt á frjálsum raforkumarkaði á Englandi án niðurgreiðslna úr brezka ríkissjóðinum vegna gríðarlegs kostnaðar við flutning raforku um sæstreng á milli Íslands og Bretlands.       

 

 


Magnað góðæri undir borgaralegri stjórn

Ísland sker sig úr í hópi Vesturlanda fyrir góðæri, sem hér ríkir.  Þessi misserin er hér 4 % - 5 % hagvöxtur.  Aðeins Svíþjóð og Bretland komast í hálfkvisti við þennan góða efnahagsárangur á meðal Evrópuríkja, en í evrulandi ríkir víðast efnahagsleg stöðnun þrátt fyrir tilraunir evrubankans með seðlaprentun upp á um miaEUR 80 á mánuði. "Fastgengi" hentar fáum. Að láta gengi gjaldmiðils í einu landi ráðast af því, hvernig hagkerfi og peningamálastjórnun ganga í öðru landi, er slæm hugmynd.

Fjármálamarkaðir heimsins hafa verið dapurlegir 2015-2016.  Efnahagsástandið í olíuframleiðslulöndunum er talin vera meginástæðan, en t.d. Persaflóaríkin hafa selt gríðarlegt magn verðbréfa til að fjármagna mjög illa rekna ríkissjóði sína.  Þetta olli hruni á hlutabréfamarkaði í fyrra.  Hinn ríkisrekni norski olíusjóður varð við þetta fyrir miklu tapi.  Þar við bætist, að til að halda norska ríkissjóðinum á floti er nú farið að veita þangað fé úr téðum sjóði.  Þrátt fyrir þennan öfluga olíusjóð Norðmanna, sem átti að verða þeirra lífeyrissjóður og er að tiltölu álíka stór og íslenzka lífeyrissjóðakerfið, en Norðmenn eiga ekkert slíkt kerfi, þá hefur norska hagkerfið glatað trausti markaðarins, sem hefur leitt til 30 % falls NOK.  Norski olíuiðnaðurinn, sem að meirihluta er ríkisrekinn, hefur sagt upp tugum þúsunda starfsmanna síðan árið 2014, og sér ekki fyrir endann á aukningu atvinnuleysis í Noregi. Íslendingar starfandi í Noregi hafa margir hverjir orðið fyrir barðinu á minnkandi umsvifum í Noregi.  Þeir geta nú flestir fundið sér starf við hæfi á Íslandi. 

Ríkisdrifin einhæfni atvinnuvega er einhver versta moðsuða í atvinnulegu tilliti, sem jafnaðarmönnum hefur til hugar komið, en þeir höfðu undirtökin í norskum stjórnmálum, þegar olíuvinnslustefna Norðmanna var mótuð.  Þeir flugu hátt, og fall þeirra er að sama skapi mikið.

Nú verður vitnað í grein eftir Chris Giles í Financial times, sem birtist í Morgunblaðinu 10. marz 2016 undir fyrirsögninni:

"Hagfræðingar gera lítið úr hættu á heimskreppu".:

"Fjárfestar og fjármálamarkaðir hafa verið of fljótir á sér að trúa því versta um ástand alþjóðahagkerfisins. Það hefur aukið líkurnar á sjálfskapaðri og óþarfri niðursveiflu, að því er haft  var eftir leiðandi hagfræðingum í vikunni. 

Olivier Blanchard, fyrrverandi yfirhagfræðingur hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, kallar eftir, að fólk skoði "staðreyndirnar".  Blanchard og kollegar hans hjá Peterson Institute of International Economics, PIIE, segja, að svartsýni um þróun efnahagsmála á heimsvísu á árinu 2016 gangi í berhögg við grundvallar staðreyndir í efnahagslífinu.

Þeir benda á, að fjármálamarkaðir veiti tæplega gott spágildi um væntanlega niðursveiflu og að réttara sé að líta á lækkandi verðlag á mörkuðum sem stöðugleikaafl frekar en undanfara mikils hruns.  Blanchard og samstarfsmenn hans vilja meina, að slík lækkun verðlags sé til marks um, að markaðurinn sé að stefna aftur í eðlilegt horf, því að verðlag á mörkuðum var þegar orðið upp blásið vegna tilrauna seðlabanka til að örva efnahagslífið."

Fjármálamarkaðurinn á Íslandi hefur frá árslokum 2015 dregið dám af hinum erlenda og stóð nánast í stað á fyrsta ársfjórðungi 2016.  Hið sama verður ekki sagt um raunhagkerfið og viðskiptajöfnuð við útlönd. Nú eru reyndar teikn á lofti um, að verðbréfamarkaðurinn sé að taka við sér víða erlendis og að hann muni jafnframt rétta úr kútnum hérlendis.

Á Íslandi jókst landsframleiðsla á mann um 4,5 % á ári tímabilið 2003-2007.  Síðan féll hún um 3,0 % á ári til 2010, og síðan þá hefur hún vaxið um 1,8 % á ári að jafnaði og frá stjórnarskiptunum 2013 um 4,0 % á ári. Mest munar um auknar fjárfestingar á öllum sviðum þjóðlífsins, aukna einkaneyzlu, aukin útflutningsverðmæti bolfisks og ferðaþjónustu. Það er mun bjartara yfir íslenzka hagkerfinu en annars staðar um þessar mundir, og það ætti að endurspeglast á innlenda fjármálamarkaðinum, er frá líður.  Það er verið að skjóta traustari stoðum undir gjaldeyrisöflunina með fjárfestingum í a.m.k. þremur virkjunum, Þeistareykjum, Búrfelli 2 og Hellisheiðarvirkjun, og þremur iðjuverum, sem framleiða eiga kísil til útflutnings, PCC á Bakka og United Silicon og Thorsil í Helguvík.  Það er líka verið að fjárfesta fyrir tugi milljarða kr í gistirými um allt land.  Til að anna spurn eftir vinnuafli þarf að flytja það frá útlöndum, og það virkar dempandi á verðbólguna.

"Þó svo að fást þurfi við ýmis vandamál víða um heim, ekki sízt vegna lítillar framleiðniaukningar, "þá eru flest hagkerfi, og þá ekki sízt Kína og Bandaríkin, að vaxa með sjálfbærari hætti í dag en þau gerðu fyrir áratugi, þótt þau vaxi hægar", segir hann (Blanchard).  "Fyrir vikið er enn brýnna, að við leyfum okkur ekki að láta truflast af því, þegar skott fjármálamarkaðarins dillar á kjölturakka efnahagslífsins"." 

Þarna er minnzt á litla framleiðniaukningu, sem sé eitt af vandamálum vestrænna hagkerfa um þessar mundir.  Það á líka við um Ísland.  Undantekning er þó sjávarútvegurinn, þar sem launakerfi sjómanna er afar afkastahvetjandi, og í landvinnslunni (sem og á sjónum) hefur tæknivæðingin verið hraðfara á undanförnum árum með sjálfvirknivæðingu, og leitt til framleiðniaukningar þar.  Aukin fiskigengd stuðlar að enn meiri framleiðni á sjó, og þar er fiskveiðistjórnunarkerfið að skila árangri, enda er nú verið að skila útgerðarmönnum aflaskerðingum, sem þeir tóku á sig í fiskverndarskyni.

Landbúnaðurinn hefur einnig aukið framleiðni sína mikið með fækkun bænda, meiri framleiðslu og mikilli vélvæðingu.  Senn mun fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi jafngilda 44´000 manns á landinu að jafnaði, sem er 13 % aukning, sem gæti þýtt allt að 20 % neyzluaukningu, þar sem hér er að langmestu leyti um fullvaxið fólk að ræða.  Markaður landbúnaðarins fer stækkandi bæði innanlands og utan, svo að hagur framleiðenda og úrvinnsluaðila ætti að fara batnandi. Hlutfall matarkostnaðar af heildarútgjöldum heimila fer síminnkandi. 

Íslenzkur landbúnaður stendur veikt að vígi í verðsamkeppni við matvæli framleidd á suðlægari breiddargráðum, sem þar að auki er víða fjárhagslega styrktur, t.d. í Evrópusambandinu. Hins vegar stendur hann sterkt að vígi í samkeppni um gæði matvælanna.  Hann keppir í þeim efnum í raun við lífrænt ræktað grænmeti og kjöt af lífrænt öldum dýrum. Ef blekbóndi hefur val á milli íslenzkrar landbúnaðarvöru og lífrænnar vöru erlendis frá, þá velur hann þá fyrr nefndu á grundvelli gæðanna. 

Í íslenzkri stóriðju hefur með tæknivæðingu og dugnaði starfsmanna náðst fram hagræðing, sem hefur skilað sér í aukinni framleiðni.  Miðað við stærð er framleiðni veranna góð, en t.d. álverið í Straumsvík er svo lítið, að það nær ekki hagkvæmni stærðarinnar hjá samkeppnisverunum erlendis.  Það á einnig erfitt uppdráttar vegna hás raforkuverðs, sem er í bandaríkjadölum og fylgir vísitölu neyzluverðs í BNA.  

Ferðaþjónustan veitir flestum starfsmönnum atvinnu af "útflutningsgreinunum", líklega upp undir 20 þúsund manns á háannatíma.  Ferðaþjónustan er mannaflsfrek, og þar er lítil framleiðni.  Þessa framleiðni, þ.e. afrakstur af hverjum ferðamanni per starfsmann, er hægt að auka með því að selja aðgang að ferðamannastöðum.  Það er líka æskilegt til að dreifa álagi og þar með að forða tjóni á viðkvæmri náttúru. Ferðamenn eru vanir slíku, og ef verðinu er stillt í hóf m.v. þá þjónustu, sem í boði er, þá þykir slík gjaldtaka ekki tiltökumál.  Hún mundi standa undir aðstöðusköpun, umhverfisvernd og öryggiseftirliti á staðnum. 

  


Mývatn

Nýjasta birtingarmynd ofálags á íslenzka náttúru af völdum ferðaþjónustunnar er "eyðilegging" Mývatns.  Botni vatnsins er lýst sem eyðimörk, þar sem ljós nær ekki niður af völdum bláþörunga og gerla. Ofálag ferðamannafjöldans á innviði samfélagsins kemur fram á fleiri sviðum, t.d. í heilbrigðisgeiranum, og verður hreinlega að taka upp beina gjaldtöku af erlendum ferðamönnum fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi, svo að 2,0 milljónir slíkir kollsigli ekki læknisþjónustu 334 þúsund manna þjóðar.  Verður þá vonandi hægt að fjölga starfsfólki og mæta vaxandi eftirspurn án íþyngjandi útláta fyrir ríkissjóð Íslands. Slíka gjaldtöku af ferðamönnum er bráðnauðsynlegt að taka upp á fjölförnum stöðum, þar sem náttúran á undir högg að sækja, til að fjármagna mótvægisaðgerðir.  Við Mývatn, þar sem neyðarástand ríkir, kemur til greina að leggja sérstakt aðstöðugjald á fyrirtækin til að fjármagna mótvægisaðgerðir til bjargar náttúruverðmætum. 

Blágerlar dafna vel, þar sem ofgnótt er af köfnunarefni og fosfór.  Köfnunarefni í umframmagni gæti borizt eftir skurðum af túnum bænda og fosfórinn frá byggðinni og í sérstökum mæli frá hótelum og veitingastarfsemi. Afrennsli skurðanna í Mývatn hlýtur að hafa verið efnagreint m.v. allar rannsóknirnar, sem sagðar eru hafa farið fram við Mývatn, svo að það er þá vitað, hvort veita þarf skurðvatninu um hreinsistöð. 

Það lýsir ótrúlegu sleifarlagi, að hótel- og veitingarekstur skuli heimilaður í hjarta einnar viðkvæmustu náttúruperlu Íslands án þess að krefjast skilyrðislausrar beitingar beztu fáanlegu hreinsitækni á skolp frá þessari starfsemi og í ljósi aðstæðna tafarlausra aðgerða að viðlagðri sviptingu rekstrarleyfis.  Fram hefur komið, að nýjasta hótelið muni vera útbúið slíkri hreinsitækni, og mismunun eftir aldri starfseminnar er auðvitað ótæk í þessu sveitarfélagi sem öðrum. Þessi stjórnsýsla þeirra, sem véla með umhverfisvernd á staðnum og á vegum ríkisins er til háborinnar skammar.

Kostnaðaráætlun verkfræðistofu um nægjanlegar úrbætur í skolpmálum á vegum sveitarfélagsins mun hljóða upp á Mkr 300, sem í samhengi við heildarfjárfestingarþörf á ferðamannastöðum er lítil upphæð.  Framkvæmdasjóður ferðamannastaða ætti að koma að fjármögnun með sveitarfélaginu strax, og það er komið meira en nóg af því, að viðkomandi ábyrgðaraðilar lóni og góni út í loftið á meðan óafturkræft umhverfisslys á sér stað við Mývatn.

Um mengunarvarnir sitja atvinnuvegirnir ekki við sama borð.  Iðnaðinum er gert að setja upp beztu fáanlegu hreinsivirki á skaðlegar gastegundir og loftborið ryk ásamt beztu skolphreinsun og standa undir kostnaðinum sjálfur. 

Útgerðirnar búa við strangar mengunarvarnarkröfur um alla losun frá skipum. 

Virkjanafyrirtæki, sem eiga og reka jarðgufuorkuver hafa barizt við að þróa aðferðir til að draga úr losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið að kröfu yfirvalda, og þau hafa einnig þróað aðferðir til að vinna CO2, gróðurhúsalofttegundina koltvíildi, úr afgasinu.

Hvernig stendur á því, að ferðaþjónustan kemst upp með stórfellda mengun og landeyðingu, sem líkja má við "hernað gegn landinu" á nútímavísu ?  Ferðaþjónustunni líðst að fara sínu fram, eins og starfsemin sé enn í reifum og fjöldi erlendra ferðamanna enn 0,2 milljónir á ári, en ekki 2,0.  Frumkvæðisleysi er stórkostlegur ljóður á ráði hennar sjálfrar, og sofandaháttur einkennir hegðun allra viðkomandi yfirvalda á þessu sviði. 

Náttúruverndarsamtök eru sem stungin líkþorni, þegar ferðaþjónustan er annars vegar, enda hafa þau í fávísi sinni löngum bent á ferðaþjónustu sem mun heppilegri atvinnugrein í umhverfislegu tilliti en t.d. iðnað.  

"O, sancta simplicitas", varð Rómverjum stundum að orði um "heilaga einfeldni". Það er kominn tími til að taka þessa atvinnugrein úr bómull og meðhöndla hana sem stórkostlega umhverfisvá og ógn við innviði landsins án alvarlegra mótvægisaðgerða. Engisprettufaraldur gæti einhverjum dottið í hug um ferðamannastrauminn. 

Enginn veit með vissu, hvort breytingarnar á Mývatni eru afturkræfar, og líklega eru þær það ekki að öllu leyti, t.d. brotthvarf kúluskítsins, sem var stóráfall að missa í alþjóðlegu samhengi.  Iðnaðarandstæðingar fjandsköpuðust lengi vel út í Kísiliðjuna við Mývatn og gerðu hana að blóraböggli breytinga í Mývatni til hins verra. Þeir höfðu sitt fram í nafni umhverfisverndar, og verksmiðjan var rifin, sem jafngilti einhæfara atvinnulífi og tekjumissi fyrir íbúana í grennd við vatnið og tekjumissi fyrir sveitarfélagið. 

Vöxtur ferðaþjónustunnar kann að einhverju leyti að hafa bætt þetta upp.  Að fjarlægja verksmiðjuna reyndist engu breyta um óheillaþróun Mývatns, enda einkenndist málflutningur iðnaðarandstæðinga af móðursýkislegum upphrópunum um, að náttúran yrði að njóta vafans.  Sams konar upphrópanir um ofnýtingu ferðaþjónustu á viðkvæmustu náttúruperlu Íslands hafa ekki farið hátt. 

Það er dæmigert, að þeir, sem að þessu sinni skáru upp herör um mótvægisaðgerðir, voru veiðiréttareigendur og veiðiréttarhafar í Mývatni og Laxá.  Sannast hér enn, að hinir raunhæfustu umhverfisverndarsinnar eru jafnan handhafar afnotaréttarins, en ekki "atvinnumótmælendur og aðgerðasinnar" með dulið erindi.  Náttúruverndarsamtök virðast ekki hafa haft sig mikið í frammi til verndunar Mývatni, síðan verksmiðjan var fjarlægð, enda málflutningur þeirra orðinn meira en lítið vandræðalegur, þar sem þeir urðu berir að því enn einu sinni að mála skrattann á vegginn.  Náttúruverndaráhugi sumra virðist bundinn við tilburði til að koma höggi á iðnaðinn, virkjanafyrirtækin, orkuflutningsfyrirtækið og Vegagerðina, og þvælast fyrir öllu, er til framfara horfir, undir yfirvarpi umhverfisverndar. Menn eigi fremur að gera "eitthvað annað", og nú er vitað, að eitthvað annað er að stússa við ferðamenn, sem löngu er vitað, að er sóðalegast allra starfa fyrir náttúruna.  

Allir helztu atvinnuvegir landsmanna utan ferðaþjónustu virðast hafa staðið sig með stakri prýði í umhverismálum síðan um 1990, og verður nú stiklað á stóru í þeim efnum. 

Þann 6. maí 2016 birtist frétt frá Umhverfisstofnun í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Minnkandi losun frá stóriðjunni":

"Árið 2014 var losunin (landsins alls - innsk. BJo) 4597 kílótonn (4597 kt = 4,6 Mt - innsk. BJo) af CO2 ígildum, sem er 26,5 % aukning frá árinu 1990, en losunin hefur þó dregizt saman um 10,7 % frá árinu 2008.  Þennan samdrátt í losun má einkum rekja til minni losunar frá stóriðju, þar sem myndun PFC (aðallega CF4 og C2F6, sem eru sterkar gróðurhúsalofttegundir og myndast t.d. við spennuris í rafgreiningarkerum álvera - innsk. BJo) í álverum hefur minnkað vegna betri framleiðslustýringar, en einnig vegna minni losunar frá fiskisipum."
Með hugbúnaðarþróun fyrir kertölvur álveranna og iðntölvum aðveitustöðva álveranna fyrir straumstýringar kerskálanna ásamt markvissri þjálfun rafgreinanna við að vinna bug á spennurisum, sem þó enn myndast, hafa íslenzku álverin náð stórkostlegum árangri í baráttunni við myndun gróðurhúsalofttegunda og t.d. ISAL sum árin verið bezt í heimi á þessu sviði.  Þess vegna hefur verið hægt að auka framleiðsluna og samt að draga úr myndun koltvíildisjafngilda áliðnaðarins.
 
Ísland er með einna mestu losun koltvíildis á mann í heiminum, og nam hún 13,97 t/íb árið 2014 og hafði þá dregið úr henni frá viðmiðunarárinu 1990, þegar hún nam 14,20 t/íb, eða um 1,6 %.  Þetta er jákvætt, en lítið, og sýnir, hversu mikilvægt er að taka losunarmál Íslands á gróðurhúsalofttegundum föstum tökum.  Ef Íslendingum tekst, með því að notfæra sér tækniþróunina á hagfelldan hátt, að ná markmiði sínu um 40 % minnkun losunar árið 2030 m.v. 1990, og ef landsmönnum fjölgar að jafnaði um 1,5 %/ár, þá verður losun á hvern íbúa komin niður í 5,4 t/íb og verður þá aðeins 38 % af gildinu 1990.  Þetta yrði vel viðunandi áfangi, en endanlegt markmið hlýtur að vera 0 nettó losun 2050.
Hér að neðan er tafla, sem sýnir helztu losunaraðilana og hlutdeild þeirra árin 2014 og 2013:
 
Losunargeiri            2014     2013
  • Iðnaður              45 %     47 %
  • Samgöngur            17 %     18 %
  • Landbúnaður          16 %     15 %
  • Sjávarútvegur        10 %     11 %
  • Úrgangur, hiti/rafm. 12 %      9 %

Hlutdeild samgangna minnkar þrátt fyrir fjölgun farartækja og aukna notkun.  Þetta stafar af sífellt sparneytnari sprengihreyflum og vaxandi hlutdeild umhverfisvænna ökutækja.  Þessi þróun þarf  þó að verða hraðari 2016 - 2030 og hlutdeild umhverfisvænna bifreiða að vaxa úr 1,4 % nú í um 30 % 2030 og 100 % 2050. 

Landbúnaður er með hátt hlutfall vegna metanmyndunar frá dýrunum, sem fer fjölgandi vegna aukinnar kjötneyzlu í landinu, sem erlendir ferðamenn standa að mestu undir.  E.t.v. verður í einhverjum mæli unnt að fanga þetta metan, sem er 22 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2, en hagkvæmast er samt fyrir landbúnaðinn að fara út í stórfelldar mótvægisaðgerðir, t.d. með skógrækt og endurheimtur votlendis.

Sjávarútvegur hefur tekið forystu á Íslandi í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.  Sú forysta er svo ótvíræð, að atvinnugreinin þarf ekki að fara í neitt sérstakt átak til að standa við markmiðið um 40 % minnkun losunar árið 2030 m.v. árið 1990.  Greininni dugir einfaldlega að halda þeim takti, sem hún hefur haft að þessu leyti á árabilinu 1990-2014.  Þannig hefur losun fiskiskipa dregizt saman á þessu tímabili um 34 % vegna fækkunar togara, sparneytnari véla og bætts veiðibúnaðar.  Meiri fiskigengd á Íslandsmiðum að undanförnu hefur verið meðvirkandi í, að á tímabilinu 1990-2013 minnkaði olíunotkun fiskiskipa um 68´000 t eða 29 %.  Afköst hvers togar hafa á sama tímabili 4,5 faldast í tonnum talið á fiskveiðiárinu.  Þarna leggjast á eitt fjárhagslegur hvati og fjárhagsleg geta til framleiðniaukandi fjárfestinga. 

Fiskimjölsverksmiðjurnar eru í bókhaldi um gróðurhúsalofttegundir taldar með iðnaðinum.  Fjárfestingar í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja á Íslandi nema undanfarinn áratug um miakr 60.  Það er bæði synd og skömm að því, að ekki skuli unnt að nýta þessar fjárfestingar að fullu vegna takmarkana á aflflutningi til verksmiðjanna.  Það verður að ryðja sérlunduðum sérhagsmunum úr vegi til að ráða bót á þessu á þessum áratugi, ef landsmenn eiga að eygja möguleika á að standa við skuldbindingar sínar árið 2030 frá París í desember 2015.

Nýfallinn dómur Hæstaréttar um heimildarveitingu iðnaðar- og viðskiptaráðherra til eignarnáms á landi undir Suðvesturlínu sýnir, að Landsnet verður að rannsaka af alvöru tæknilegar, fjárhagslegar og umhverfislegar afleiðingar beggja valkostanna, loftlínu og jarðstrengja, við verkefnisundirbúning, fyrir samningaumleitanir við landeigendur og, ef allt um þrýtur, heimildarumsókn um eignarnám á landi.  Þar dugir ekkert hálfkák lengur.

 

 


Gamlar lummur

Á Íslandi hefur Stjórnleysisstefna ekki verið áberandi í umræðunni á lýðveldistímanum, og stjórnleysingjar ekki átt sæti á Alþingi, þó að þeir e.t.v. hafi boðið fram í einhverjum myndum. Tilhneigingin á Vesturlöndum hefur fremur verið í átt til aukinnar miðstýringar þegnanna en öfugt, og hefur keyrt úr hófi í þeim efnum, þar sem jafnaðarstefnan hefur fengið að grafa um sig. 

Líta má á pírata nútímans sem andóf við opinbera bákninu, og Píratahreyfingunni svipar sumpart til Stjórnleysisstefnunnar, og e.t.v. má segja, að Píratahreyfingin sé nútímavædd Stjórnleysisstefna.  Sem dæmi vilja píratar ekki lúta stjórn í Píratahreyfingunni, en megineinkenni stjórnleysingja er einmitt andstaða við boðvald að ofan. Hér verður reynt að staðsetja Píratahreyfinguna í hinu pólitíska litrófi með hliðsjón af stjórnleysingjum:  

Hér á eftir fer stutt lýsing á Stjórnleysisstefnu, sem tekin er af www.wikipedia.org :

"Stjórnleysisstefna eða anarkismi er stjórnmála- og félagsstefna, sem einkennist fyrst og fremst af andstöðu við yfirvald og höfnun á réttmæti þess.  Fylgismenn stefnunnar stefna að samfélagi byggðu á sjálfviljugri samvinnu einstaklinga.

Stjórnleysingjar eru afar fjölbreyttur hópur, eins og við er að búast, þar sem hugmyndafræðin byggist upp á höfnun á yfirvaldi, gagnrýninni hugsun og einstaklingsfrelsi. 

Nafngjöfin á þessari stjórnmálastefnu, anarkismi, sem íslenzkað hefur verið sem stjórnleysisstefna, er upphaflega níðyrði andstæðinganna, sem vildu meina, að hún mundi leiða til upplausnar og ringulreiðar.  Orðið sjálft, anarkhia, kemur úr grísku og þýðir án höfðingja eða stjórnanda."

Ætli mörgum þyki ekki margt líkt með ofangreindri lýsingu á stjórnleysisstefnu og því, sem hrýtur af vörum eða úr tölvu pírata, og þessu svipi jafnvel til stefnuskráar þeirra ?  Má ekki einmitt til sanns vegar færa, að hugmyndafræði pírata snúist um "höfnun á yfirvaldi, gagnrýna hugsun og einstaklingsfrelsi" ?  Í gr. 6.3 í "Grunnstefnu pírata" stendur t.d. eftirfarandi og er í samræmi við stjórnleysisstefnuna:

"Píratar telja, að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum, sem bjóðast."

Þetta má m.a. túlka sem aðför að þingræðinu og upphafningu sjálfræðis í anda stjórnleysingja.  Menn skulu ekki þurfa að lúta valdi að ofan.  Píratar vilja ekki hafa formlega miðstjórn í sínum samtökum, og engan hafa þeir formanninn. Þeir hafa hins vegar alls ekki kveðið að orði í sinni stefnuskrá með jafnskeleggum hætti og stjórnleysingjar hafa gert hjá sér, og fjölmargt er ósagt eða loðið í stefnuskrá pírata, en annað eru sjálfsagðir hlutir, sem allir geta verið sammála um og eiga þess vegna ekki heima í stefnuskrá stjórnmálaflokks, sem á að vera einkennandi fyrir hann og aðgreina hann frá öðrum, en ekki að vera orðskrúð og/eða loðmulla. 

Stjórnleysingjar eru andstæðingar ríkisvalds, en ekki verður ráðið af stefnuskrá pírata með einhlítum hætti, hvort þeir eru það, þó að ýmislegt bendi frekar í þá áttina í stefnu og gjörðum þeirra.

Stjórnleysingjar eru andsnúnir einkaeign, nema til eigin nota.  Gildir hið sama um pírata ?  Efnahagsstefna pírata er óljós, og það er e.t.v. af ráðnum hug búið þannig um hnútana, og e.t.v. ríkir grundvallarágreiningur um þennan mikilvæga málaflokk í röðum þeirra.  Það er óviðunandi fyrir kjósendur, sem íhuga að ljá Píratahreyfingunni atkvæði sitt.

Stjórnleysisstefnan felur í sér andkapítalisma, en kapítalisminn, auðhyggjan, er efnahagskerfi, sem felur í sér, að launþegar eða verktakar selja vinnu sína við eign annarra. Ýmislegt bendir til, að píratar séu hallir undir stjórnleysisstefnuna einnig að þessu leyti og hallist að einhvers konar sjálfsþurftarbúskap.  Villta vinstrið svarar þessari spurningu þannig, að allir eigi að vera launþegar hjá hinu opinbera eða hjá félagslegum samvinnufélögum og samyrkjubúum.

 Það er mjög lítið að græða á lestri stefnuskráar pírata um efnahagsmál, og það er alvarlegur ljóður á ráði þeirra að tjá sig svo þokulega um efnahagsmál, að ekki er hægt að segja til um, hvort þeir aðhyllast stefnu stjórnleysingja í þessum málaflokki, borgaraleg sjónarmið um sölu á vinnuafli í frjálsu markaðshagkerfi eða afstöðu kommúnista um einokun hins opinbera á vinnuframboði. 

Stjórnleysingjar styðja almennt það, sem nefnt er "beinar aðgerðir".  Almenn mótmæli eru beinar aðgerðir, en kosning stjórnmálaflokks á þing er það ekki, svo að dæmi sé tekið.  Þetta virðist falla eins og flís við rass að stefnu pírata, eins og Austurvallamótmælin og samúð pírata innan þings og utan með þeim bera með sér.

"Píratar aðhyllast afglæpavæðingu vímuefnaneyzlu á þeim forsendum, að núverandi stefna, sem er stundum kölluð refsistefnan, geri beinlínis meira ógagn en gagn." 

Hassþefurinn finnst langar leiðir af þessum boðskap.  Hann er ekki útfærður í stefnu pírata frekar en annað.  Á t.d. að leyfa sölu á hassvindlingum, E-töflum, kókaíni og öðrum stórskaðlegum og jafnvel baneitruðum óþverra í verzlunum ÁTVR eða jafnvel í stórmörkuðunum ?  Er ekki líklegt, að verðið á eitrinu lækki og neyzlan vaxi, ef hún verður lögleg ? Á þá að skattleggja eitrið til að fjármagna kostnað heilbrigðisgeirans við að reyna að koma fórnarlömbunum á réttan kjöl aftur, eða á að setja þau á Guð og gaddinn, svo að þau dragi ekki úr þeim fjármunum, sem til ráðstöfunar eru fyrir aðra sjúklinga ? Höfundum stefnumála pírata er ekki sjálfrátt.  Eru þeir heilaskaðaðir eftir hassreykingar og/eða aðra fíkniefnaneyzlu ? 

Kaflinn um menntamál hefur líklega verið saminn í hassreykfylltu bakherbergi pírata, því að þar er stórfurðuleg fullyrðing um hlutverk menntakerfisins.  Ef hún væri sönn, væri mjög lítill tími veittur í menntakerfinu til  að viða að sér þekkingu í grunnfögum skólakerfisins, og til að kynnast náttúrulögmálunum frá mörgum hliðum með námi í raungreinum eða verklegum greinum, sem verða tvímælalaust í askana látin og standa síðan undir verðmætasköpun í vestrænum samfélögum, þegar nemendur koma út í atvinnulífið:

"Tilgangur skólakerfisins er að kenna fólki á það, hvernig samfélagið virkar, og hvernig á að búa til nýja þekkingu." 

Blekbóndi gekk 20 ár í skóla, frá Ísaksskóla til lokaprófs í verkfræði í erlendum háskóla, en hann lærði á þessum árum í mismunandi skólum nánast ekkert um, hvernig samfélagið virkar, og aðeins á lokaárum háskólanámsins um aðferðarfræði til að þróa nýjungar út frá þekktum staðreyndum með sjálfstæðum rannsóknum.  Annars snerist námið um að tileinka sér lestur, skrift, reikning og síðar stærðfræði, íslenzka málfræði og réttritun, erlend tungumál og alls konar færniþjálfun og fróðleiks- og staðreyndaöflun, sem ekki er hægt að bendla við, "hvernig þjóðfélagið virkar".  Blekbónda er næst að halda, að sá, sem samdi þessa píratamálsgrein, hafi engin almennileg kynni haft af skólakerfinu né komizt í góða snertingu við námsefnið, sem þar er á boðstólum, og e.t.v. verið í hassvímu alla sína skömmu skólagöngu. 

Annað furðuverk kemur í ljós, þegar "stefnumótunin" gagnvart Evrópusambandinu er lesin:

"Það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka að taka afstöðu með eða á móti aðild, en aftur á móti eiga þeir að vera búnir undir hvora niðurstöðuna sem er."

Svona lagað getur aðeins stjórnleysingi látið frá sér fara, því að stjórnleysinginn vill ekki lúta stjórn neins, og þess vegna lætur hann ekki stjórnmálaflokk segja sér fyrir verkum.  Ef þeir, sem móta stefnur stjórnmálaflokka, eiga ekki að rannsaka kosti og galla aðildar að ESB samkvæmt beztu getu, og móta síðan rökstudda stefnu flokksins til aðildar Íslands að ESB, hvers konar hlutverki eiga stjórnmálaflokkar þá eiginlega að gegna í þjóðfélaginu, í ljósi þess, að afstaðan til ESB er örlagaþrungin afstaða fyrir landsmenn og felur í sér afstöðu til grundvallarmáls á borð við fullveldis landsins. 

Spyrja má einnig, hvernig þingmenn eigi að móta samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðum, ef þeir hafa ekkert komið að rannsókn á, hvað aðild felur í sér ?  Eiga þeir bara að fljóta sofandi að feigðarósi og láta embættismenn um allt saman, og e.t.v. að dingla með skoðanakönnunum ?  Þetta er ekki sérlega gagnrýnin afstaða hjá pírötum og gengur engan veginn upp, nema í huga stjórnleysingja, sem er utanveltu í nútímasamfélagi. 

Einnig má spyrja þá, sem vildu þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar viðræður Íslands og ESB voru lagðar á ís í janúar 2013, um hvað átti eiginlega að kjósa þá ?  

Staðreyndin var, að ESB stöðvaði viðræðurnar með því að neita að birta rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál.  Þar hafa menn nefnilega að öllum líkindum komizt að þeirri niðurstöðu, að sjávarútvegsstefna Íslands, sem Alþingi hafði nestað samninganefnd Íslands með, var og er ósamrýmanleg sjávarútvegsstefnu ESB.  Sú stefna er hluti af CAP-Common Agricultural Policy, sem er ein af meginstoðum ESB, og fram hjá henni verður ekki gengið í aðildarviðræðum.

Hvernig í ósköpunum átti þá að orða spurningar til þjóðarinnar, sem greiða ætti atkvæði um, já eða nei ? Vilt þú halda áfram viðræðum við ESB um aðild Íslands að ESB ?  Já við þessu hefði jafngilt því að gera Alþingi afturreka með samþykktir sínar, og slíkt er Stjórnarskrárbrot, því að á Íslandi ríkir þingræðisfyrirkomulag samkvæmt Stjórnarskrá.

Í þessari stöðu var aðeins hægt að leggja fyrir þjóðina tvær spurningar:

Vilt þú fresta aðildarviðræðum við ESB, þar til Alþingi hefur breytt samningsskilmálum Íslands, svo að hægt verði að halda áfram aðildarferlinu og greiða síðan um aðild atkvæði á Alþingi og í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu ?

Vilt þú, að Alþingi afturkalli umsókn Íslands um aðildarviðræður við ESB ? 

Fylgismenn aðildarviðræðna hafa forðazt að ræða inntak þjóðaratkvæðagreiðslu, sem þeir þó kröfðust um það leyti, sem fyrrverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, sendi "afurköllunarbréf" sitt til stækkunarstjóra ESB.  Jafnvel forsetaframbjóðandinn Andri Snær Magnason, sem ber kápuna á báðum öxlum, en er af málflutningi sínum að dæma hallur undir ESB, tuðar um, að hann hefði viljað fá þjóðaratkvæðagreiðslu, en um hvað þá ?  Allt tal um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður er lýðskrum eitt, nema spurningarnar fylgi með í kaupunum.

Það kennir ýmissa grasa í stefnuskrá pírata, og sumt kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum og stingur með forræðishyggjustefi sínu í stúf við stjórnleysisstefnuna. Það hefur ljóslega komizt refur í hænsnabúið. Dæmi um þetta er eftirfarandi freklega og rándýra inngrip í vinnumarkaðinn með fyrirmynd frá jafnaðarmönnum í Frakklandi, sem eru að hrökklast frá þessu ákvæði, af því að franskt atvinnulíf rís ekki undir því.  Hvað hafa píratar í höndunum um það, að íslenzkt atvinnulíf muni fremur rísa undir því ?:

"Breyta skal lögbundinni vinnuviku úr 40 tímum í 35 tíma með breytingu á lögum 88/1971."

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma er þetta stefnumál pírata algerlega úr lausu lofti gripið og án nokkurrar áhættugreiningar á áhrifunum á samkeppnisstöðu landsins.  Framleiðni á Íslandi er að jafnaði minni en í samkeppnislöndum okkar.  Það er misráðið hjá pírötum, að hægt sé með skrifborðsákvörðun stjórnvalda af þessu tagi að þvinga fram aukna framleiðni.  Með fylgdi nefnilega, að vinnutímastyttingin ætti ekki að hafa áhrif á launin.  Verðmætasköpun starfsmanna í flestum greinum verður minni á 35 klst en á 40 klst, en kostnaður atvinnurekenda sá sami, nema aukin yfirvinna verði afleiðingin.  Af þessum sökum minnkar geta fyrirtækjanna til fjárfestinga og launagreiðslna, sem hafa mun neikvæð áhrif á hagvöxt, eins og reyndin varð í Frakklandi.  Píratar hefðu betur kynnt sér reynslu Frakka áður en þeir frömdu þetta stílbrot á stefnuskrá sinni.  Til lengdar grefur stjórnvaldsákvörðun af þessu tagi undan hagsmunum launþega og hagkerfisins í heild, eins og raunin varð í Frakklandi. 

Síðasta stefnuatriði pírata, sem hér verður tilfært, er aðför að núverandi sjávarútvegsstefnu, en hún er afrakstur stöðugrar þróunar frá um 1980 á Íslandi.  Þessi stefna hefur reynzt framúrskarandi vel, enda hefur hún hlotið alþjóðlega viðurkenningu, og æ fleiri þjóðir taka hana upp.  Píratar vilja hins vegar, að vafasöm skrifborðshugmynd, sem hvergi hefur verið reynd fyrir heila grunnstoð útflutningstekna í neinu landi, verði innleidd hér, væntanlega með voveiflegum afleiðingum fyrir minni útgerðir og dreifðar byggðir landsins:

"Ríkið skal bjóða aflaheimildir upp á opnum markaði fyrir hönd þjóðarinnar.  Handfæraveiðar séu þó frjálsar fyrir þá einstaklinga, sem kjósa að stunda þær.  Allur afli skal fara á markað."

  1. Hvernig á ríkið með lögformlegum hætti að taka sér vald til að bjóða upp eign, sem það á ekki ? Það er grundvallarmunur á þjóð og ríki.  Þjóð er t.d. ekki lögaðili, en ríki er það. Þetta er brot á eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar, 71. gr., en afnotaréttur er almennt viðurkenndur sem eitt form eignarréttar, og afnotaréttur á við um útgerðirnar, því að enginn á óveiddan fisk í sjó, sem er almenningur að fornri skilgreiningu.  Þessi fyrirætlun pírata felur í sér þjóðnýtingu, sem hvergi er lögleg í hinum vestræna heimi, nema með þröngum skilyrðum, sem ekki eru uppfyllt hér, enda er frjálst markaðshagkerfi reist á einkaeignarréttarákvæðum, sem varin eru af ríkisvaldinu. Auðvaldskerfið, kapítalisminn, er reist á lögvörðum einkaeignarréttindum, sem fela í sér veðsetningarheimild.  Vilji píratar umturna þessu kerfi, eins og stjórnleysingjar, þá er "system í galskapet" hjá þeim að setja þetta ákvæði í stefnuskrá sína. Ef þessi lögleysa væri samt framkvæmd og fyrirtækjum á öllu evrópska efnahagssvæðinu leyft að bjóða í aflaheimildir, mundi stórauðvaldið augljóslega sölsa þær undir sig með einum eða öðrum hætti.
  2. Það er brot á jafnræðisreglu og atvinnufrelsi, sem eru varin af Stjórnarskrá, að taka veiðiréttinn með einhverjum hætti af sumum útgerðum og veita öðrum útgerðum frelsi til óheftra veiða.  Með þessu væri verið að auka hlut óhagkvæmari veiða á kostnað hagkvæmari veiða, og tæknilega væri verið að færa veiðar á sjó eina öld aftur í tímann.  Allt er þetta glórulaust, löglaust og siðlaust.

Niðurstaðan af þessari athugun á stefnuskrá Píratahreyfingarinnnar á Íslandi er, að hún sé gamalt vín á nýjum belgjum, af því að hún er afsprengi hefðbundinna stjórnleysingja og netþræla nútímans.  Í þetta glundur hefur verið hent ýmsum óþverra úr seinni tíma umræðu, sem gera það að óætum viðbjóði. 

 

   

   

 


Svarti-Pétur á húsnæðismarkaði

Mjög mikil uppsöfnuð þörf fyrir nýtt húsnæði er víða um land, e.t.v. 10´000 íbúða vöntun, nú eftir hrun fjármálakerfisins 2008 og stöðnunarskeið með skattpíningu vinstri stjórnarinnar. Til viðbótar uppsöfnuðum húsnæðisvanda vegna fjármálakreppu fjölgar þjóðinni um 1-2 % á ári og þúsundir streyma til landsins í leit að vinnu.  Þetta veldur spennu og verðbólgu á húsnæðismarkaðinum.   

Þegar eftirspurnin er með mesta móti og framboðið með minna móti, er ekki kyn, þó að spenna verði á markaðinum og húsnæðisverðið hækki langt umfram hækkun verðlags á öðru í landinu eða allt að 10 % á ári. Þrátt fyrir sveiflukenndan markað, hefur samt þótt við hæfi að vigta hann inn í neyzluverðsvísitölu, þó að ýmsar þjóðir sleppi því. 

Það verður sem skjótast að vinda ofan af spennunni á húsnæðismarkaðinum, en það er ekki hlaupið að því á tíma, þegar sprenging er á hótelmarkaðinum og verið er að bæta við um 3000 herbergjum í gistirými á landinu.  Það eru og fleiri ljón í veginum.

Eitt er allt of lítið framboð af lóðum í þéttbýlinu Suð-vestanlands og þó alveg sérstaklega í höfuðborginni, Reykjavík.  Þar er blóraböggullinn án nokkurs vafa borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, sem lofaði kjósendum stórátaki í húsnæðismálum, "nægu" framboði lóða og þúsundum íbúða, leigu- og eignaríbúðum, á kjörtímabilinu.  Hann er að svíkja þetta meginkosningaloforð Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og mun sitja uppi með Svarta-Pétur húsnæðismarkaðarins í lok þessa kjörtímabils. 

Aðferðarfræði vinstri stjórnarinnar í borginni er röng og algerlega vonlaus til árangurs við að vinna bug á húsnæðiseklunni, en aðferðarfræðin kallast þétting byggðar.  Sú aðferð er allt of seinleg og dýr, og samhliða er alger framkvæmdadoði á jaðarsvæðunum, t.d. við Úlfarsfell.  Fyrir þessa frammistöðu í einu mesta hagsmunamáli borgarbúa, einkum þeirra, sem eru að leita eftir sinni fyrstu eignaríbúð, verðskuldar borgarstjórinn falleinkunn, og sennilega setur hann á kjörtímabilinu met í sviknum kosningaloforðum í borginni. Þessi hallærisstefna er ein af ástæðum bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar.  Með mikilli lóðasölu mundu tekjur af gatnagerðargjöldum aukast og aðrar tekjur borgarinnar umfram gjöld mundu fylgja í kjölfarið. Það er afturhaldskeimur að stjórnun borgarinnar og átakanlegur skortur á framsækni.

Um þetta efni var fjallað í forystugrein Morgunblaðsins,

"Lítið um efndir", 17. febrúar 2016:

"Í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga fór Samfylkingin á mikið flug í húsnæðismálum og lofaði því m.a., að í Reykjavík yrðu reistar 2500-3000 leigu-og búseturéttaríbúðir.  Í máli forvígismanna flokksins í borginni kom þá einnig fram, að gert yrði ráð fyrir um 5000 nýjum íbúðum í heildina á þessu kjörtímabili."

Nú er orðið alveg ljóst, að við þessi fyrirheit verður ekki staðið.  Morgunblaðið hefur gert úttekt á framvindu lóða- og byggingamála hjá borginni, og um þau flest á við, að "verkefni er ekki hafið".  Allt er á sömu bókina lært hjá Samfylkingunni.  Þar eru engin mál hugsuð til hlítar, heldur samanstendur stefnan af slagorðum, sem forsprakkarnir halda, að falla muni kjósendum í geð.  Samfylkingin er stefnulaust rekald hræsnara og lýðskrumara. Kjósendur vöruðu sig hvorki á ábyrgðarleysi Samfylkingarinnar né því, að vegur hennar er varðaður óheilindum.  Nú er Samfylkingin hins vegar komin á leiðarenda og að bugast undan byrði svikanna.

Í téðum leiðara stendur ennfremur:

"Á sama tíma og dekur meirihlutans við tafsama þéttingu byggðar skilar engu, upplifir fólk í úthverfum borgarinnar ekkert annað en algjört vilja- og áhugaleysi borgaryfirvalda til þess að hefja framkvæmdir þar.  Hálfkláruð hverfi, sem hægur vandi ætti að vera að byggja til fulls, mega sitja á hakanum, á meðan sífellt fleiri verkefni til þéttingar byggðar í eldri hverfum eru tilkynnt, en ekki hafin."

Er nokkrum blöðum að fletta lengur um það, hvar sökin liggur á uppspenntu verði íbúðarmarkaðarins, sem stafar af miklu ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar.  Sökudólgurinn er vinstri stjórnin og gegnsæi píratinn í Reykjavík, þar sem fremstur fer Dagur Bergþóruson Eggertsson með sinn handgengna áhugamann (les: fúskara) um skipulagsmál, Hjálmar, nokkurn, Sveinsson, fyrrum dagskrárgerðarmann á RÚV, sem formann skipulags- og umhverfisráðs borgarinnar. 

Blindur leiðir haltan. Óreiðan, sem þessir tveir menn hafa skapað í skipulagsmálum borgarinnar, hefur valdið mikilli ógæfu fjölda ungra manna og kvenna, sem fyrir vikið verða að búa við háa húsaleigu í samkeppni við "airbnb" o.fl. tengt ferðaiðnaðinum og ráða ekki við að festa kaup á sinni fyrstu íbúð.

Í lokin skrifar leiðarahöfundur:

"Raunin er því miður sú, að borgaryfirvöld draga lappirnar og hindra eðlilega uppbyggingu.  Verst er, að lítil von er um, að ástandið batni, því að borgaryfirvöld virðist í senn skorta vilja og getu til að koma þessum málum í eðlilegt horf."

Það verður ekkert vitrænt aðhafzt að hálfu borgaryfirvalda fyrr en eftir næstu sveitarstjórnarkosningar 2018, og þá því aðeins, að borgarbúar beri gæfu til að stokka með róttækum hætti upp í borgarstjórninni og kasta Svarta-Pétri burt úr spilastokkinum. Þá verða borgaryfirvöld að spýta í lófana með nægu lóðaframboði til að fullnægja eftirspurn, eins og Davíð Oddsson og félagar gerðu á sinni tíð í borgarstjórn, og þau þurfa að afleggja þrúgandi lóðaokrið, sem viðgengst hjá núverandi meirihluta með fasteignagjöld uppi í rjáfri.  Þá, 2018, verður túristablaðran sprungin, hótelbyggingum að mestu lokið, svo að svigrúm myndast á byggingamarkaðinum fyrir íbúðarhús, og verður tími til kominn. 

Annað, sem gerir fólki erfitt fyrir að fjármagna sína fyrstu íbúð, er hár fjármagnskostnaður.  Nú eru meginvextir Seðlabanka Íslands 5,75 %, reistir á kolrangri verðbólguspá hans, enda stýrivextir erlendis yfirleitt á bilinu -1 % til + 1 %. Raunvextir í landinu hafa líklega aldrei áður verið svo háir jafnlengi og nú, svo að þeir halda vafalaust aftur af hagvexti, en með sannfærandi hætti hefur SÍ ekki sýnt fram á, að verðbólgan væri hærri, ef téðir nafnstýrivextir væru umtalsvert lægri, t.d. 3,0 %. Það er eitthvað bogið við þjóðhagslíkan Seðlabankans, og það er meira en lítið bogið við Seðlabankastjórann, sem vissi svo lítið um önnur tól Seðlabankans en vaxtatólið á fundi hjá Viðskipta- og efnahagsnefnd Alþingis nýverið, að hagfræðingur í starfsumsóknarviðtali í Seðlabankananum hefði ekki komið til greina við ráðningu þar.  Flugfreyjan, Jóhanna Sigurðardóttir, taldi þó svo mikið við liggja að troða þessum manni í stól Seðlabankastjóra, að nánast fyrsta verk ríkisstjórnar hennar var að bola þáverandi bankastjórn Seðlabankans burt með nýrri lagasetningu um æðstu stjórn bankans.

Hvort sem húsbyggjandi tekur óverðtryggð eða verðtryggð lán, verður fjármagnskostnaðurinn sligandi við þessar aðstæður.  Verkefni stjórnmálanna og hagstjórnarinnar nú ætti þess vegna ekki að vera að afnema verðbótaþátt vaxta, sem tryggir í raun sparnað í landinu og framboð lánsfjármagns, heldur að lækka stýrivexti Seðlabankans og vaxtamun viðskiptabankanna. 

Þjóðhagslíkan Seðlabankans virðist vera gallað, og verður nú vonandi bætt á grundvelli fenginnar reynslu, og kostnaður bankanna sem hlutfall af tekjum fer of hægt lækkandi.  Nú eru 2 af 3 stærstu bönkunum að verða ríkisbankar, svo að ríkissjóður nýtur hárra arðgreiðslna, en bankarekstur er allt of áhættusamur, til að skynsamlegt sé fyrir ríkið að binda hundruði milljarða í þeim rekstri.  Það gæti þó verið skynsamlegt fyrir ríkissjóð að vera minnihlutaeigandi og eiga fulltrúa í bankaráði beggja bankanna til að geta fylgzt með ákvarðanatöku, eins og kostur er. Þá verður reyndar að vera þar fólk með heilbrigða dómgreind til að leggja mat á það, sem bankarnir eru að bauka, en því fór fjarri á síðasta kjörtímabili, einnig í Fjármálaeftirlitinu, sem svaf á verðinum og rumskar enn aðeins við og við, þegar hávaði verður. 

Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra lýst því yfir, að hann telji efnahagsreikninga bankanna vera of stóra.  Þetta er að miklu leyti vegna sölu fullnustueigna bankanna og vegna virðisaukningar á eignum bankanna frá flutningi þeirra frá föllnu bönkunum, sbr "dauðalistann", sem Morgunblaðið hefur birt.  Eftir því, sem efnahagsreikningur bankanna blæs meira út, verður afleiðingin af falli þeirra alvarlegri fyrir eigandann og þjóðfélagið og jafnvel líkur á falli þeirra meiri. 

Viðhorf formanns Sjálfstæðisflokksins eru þess vegna skiljanleg og eðlileg.  Það er við þessar aðstæður eðlilegt að herða skattheimtu á alla banka, þegar hagnaður fer yfir ákveðin mörk, setja á þrepskipt tekjuskattskerfi á fjármálaþjónustu.  Þar með verður dregið úr gróðahvata bankanna, sem kemur m.a. fram í miklum vaxtamuni inn- og útlána.  Að skilja algerlega að innlána- og fjárfestingastarfsemi bankanna yrði ekki viðskiptavinum þeirra til heilla, því að þeir yrðu þá hlutfallslega enn dýrari í rekstri og enn torseljanlegri. 

Í Fréttablaðinu 27. febrúar 2016 birtist eftirfarandi frétt:

"Rannsókn Samkeppniseftirlitsins (SE) á meintri misnotkun á sameiginlegri markaðsráðandi stöðu stóru viðskiptabankanna þriggja er ennþá ólokið.  Rannsóknin hófst vegna kvartana árið 2010.  Kvartanirnar vörðuðu skilmála íbúðalána bankans, sem samkvæmt kvörtununum hindra einstaklinga í því að færa viðskipti sín til annarra banka og hamla þannig samkeppni."

Seinagangi Samkeppnisstofnunar er viðbrugðið, og vinnubrögð hennar hafa sætt ámæli, og iðulega hefur hún verið gerð afturreka með úrskurði sína, en vonandi rekur hún nú af sér slyðruorðið með því að ljúka þessari bankarannsókn með úrskurði, sem er til þess fallinn að auka raunverulega samkeppni á milli bankanna.  Hún hlýtur aðallega að vera háð á sviði vaxtamunarins, sem er of hár, sumpart vegna of hás kostnaðar bankanna.  Bankarnir hafa þess vegna mikla möguleika á að heyja grimma samkeppni sín á milli, neytendum í hag með enn frekari hagræðingu. 

Hér skal draga í efa, að fullyrðingar ýmissa gagnrýnenda fjármálakerfisins þess efnis, að afnám verðtrygggðra vaxta yrði til að bæta hag neytenda, standist hagfræðilega rýni.  Þetta á t.d. ekki við, þegar áætluð verðbólga, AB, er hærri en raunveruleg verðbólga, RB, eins og verið hefur á Íslandi undanfarin misseri af ýmsum ástæðum, aðallega verðhjöðnun og neikvæðum stýrivöxtum víða erlendis,  vegna þess, að þá reikna bankarnir of hátt verðbólguálag inn í vaxtakjörin, sem þeir bjóða viðskiptamönnum sínum. Dæmið snýst við lántakendum óverðtryggðra vaxta í vil, þegar verðbólguspá er undir raunverðbólgu.  Þegar stöðugleiki ríkir í hagkerfinu, má lántakendum vera sama, hvort lánsformið þeir velja, óverðtryggt eða verðtryggt, og það er sjálfsagt að veita lántakendum fullt valfrelsi um þetta á markaðinum, óháð lánstíma.  Valið getur t.d. markast af því, hvernig lántakandi kýs að dreifa greiðslubyrðinni yfir lánstímann.  Ekki ætti heldur að svipta sparendur réttinum á verðtryggðum innlánsreikningum.

Það er ákveðið reikningslegt samband á milli óverðtryggðra vaxta, OV, og verðtryggðra vaxta, VV:

  • OV=(1+VV)*(1+AB)-1 = VV+VV*AB+AB

Raunverulegt dæmi frá einum bankanum um þessar mundir er: OV=6,75 % og VV=3,5 %.  Með stýrivexti Seðlabankans 5,75 % er ekki von til, að VV verði lægri en 3,5 %, en það er augljóslega vel í lagt með verðbólguvæntingar (3,14 %), þegar OV nær 6,75 %.  Þetta dæmi sýnir, að lán með óverðtryggðum vöxtum þarf alls ekki að vera hagstæðara en hitt.

 

 

 

 


Píratar - dýrt spaug

Píratar eru angi alþjóðlegrar hreyfingar, sem hvergi hefur hlotið umtalsverðan stuðning, hvorki í kosningum né í skoðanakönnunum, nema á Íslandi. Hugmyndum þessa fólks svipar til hugmynda stjórnleysingja, anarkista 19. og 20. aldarinnar.  Þeir eru í uppreisn gegn ríkjandi stjórnskipulagi Vesturlanda, hvort sem það er kennt við þingræði eða forsetaræði, og þeir vilja rífa niður ríkisvaldið.  Þess vegna segja margir þeirra, að þeir vilji ekki setjast í ríkisstjórn. 

Þeir vilja stigmagna óreiðuna í þjóðfélaginu, þar til spennan verður óviðráðanleg og ríkisvaldið splundrast. Þetta er ófögur sýn, en þessa nöðru næra kjósendur nú við brjóst sér.  Á meðan fitnar púkinn á fjósbitanum, sem í þessu tilviki er Vinstri hreyfingin grænt framboð, sem gælir við píratana, þó að þessir tveir hópar fólks séu á öndverðum meiði. Þessir tveir flokkar hafa sem sagt algerlega öndverða meginstefnu, annar vill rífa niður ríkisvaldið, en hinn vill svæla alla starfsemi undir pilsfald ríkisins, og til þess grefur hann undan einkaframtakinu og dregur fjárhagslegan þrótt úr einstaklingunum undir fölsku flaggi jöfnunar lífskjara. Um þetta geta nöðrurnar sameinast. 

Sem dæmi um einstrengingslega og óþingræðislega hegðun kapteins pírata, sem nú gegnir víst stöðu þingflokksformanns þeirra, Birgittu Jónsdóttur, má grípa niður í það, sem frá henni kom í pontu þingsins 12. apríl 2016.  Þar talar utangerðsmanneskja, sem engan veginn er tilbúin að laga sig að siðaðra manna háttum og nota tíma sinn í pontu Alþingis til að leggja eitthvað jákvætt til málanna þjóðinni til heilla, heldur hefur hún, stjórnleysinginn, í hótunum um að hefta þingræðið og lama starfsemi þingsins. Er það í anda stefnu stjórnleysingja um að hámarka öngþveitið á þjóðarheimilinu. 

Hegðun Birgittu Jónsdóttur er dónaskapur gagnvart Stjórnarskrá landsins, sem hún þó á að hafa svarið trúnaðareið, því að þar er mælt fyrir um þingræðisstjórn á landinu, en ekki meirihlutaræði samkvæmt skoðanakönnunum eða tilfinningum einstakra þingmanna um "háværar kröfur" á torgum úti. Eitt einkenna lýðskrumara er einmitt að þykjast tala "í nafni þjóðarinnar".  Þannig hafa loddarar sögunnar réttlætt moldvörpustarfsemi sína gagnvart löglega kjörnum fulltrúum, sem myndað hafa meirihlutastjórn á þingi, og eru dæmin frá Reichstag í Berlín um 1930 víti til varnaðar.:

"Þetta er óboðlegt ástand.  Að ætla okkur að fara í hefðbundin þingstörf og láta, eins og ekkert hafi gerzt á landinu, er ekki í boði.  Látið okkur fá dagsetningu.  Það kom mjög skýrt fram, forseti, á fundi forseta, að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að fá dagsetningu.  Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti."

Það er engin leið að semja við offors pírata, eins og þarna kemur fram, og geðslagið er þannig, að Birgitta getur rokið upp eins og naðra upp úr þurru og kynnt nýjar kröfur til sögunnar.  Flokksmenn hennar eru búnir að fá nóg af baktjaldamakki hennar og baknagi, svo að hún er "rúin trausti".  Hún hefur enn ekki sýnt nokkurn lit á málefnalegri umræðu um "hefðbundin þingstörf", sem henni sennilega leiðast.  Við þessar aðstæður verður kjörtímabilið ekki stytt um heilt þing.  Skilyrði þeirrar hugmyndar eru einfaldlega enn ekki uppfyllt. Það er þingræðisfyrirkomulag í landinu, en hvorki skrílræði né meirihlutaræði samkvæmt skoðanakönnunum.  Fyrir hag almennings er stöðugleiki í stjórnarfari grundvallarmál.

Í Morgunblaðinu, 13. apríl 2016, var frétt á viðskiptasíðu: "Fitch varar við aukinni áhættu":

"Fitch bendir á, að stjórnvöld séu þegar langt komin við losun fjármagnshafta, og væntir fyrirtækið þess, að þeirri áætlun verði framfylgt, á meðan núverandi ríkisstjórn situr.  Hins vegar kunni sú staðreynd, að kosningum verður flýtt um ár að hafa töluverðar pólitískar afleiðingar til lengri tíma litið.  Segir í tilkynningu Fitch, að fyrirtækið muni í lánshæfismati sínu fylgjast sérstaklega með því, hvort pólitískri uppstokkun fylgi breytt efnahagsstefna, sem geti leitt til ofhitnunar í hagkerfinu. 

Í því sambandi vísar Fitch sérstaklega til ráðstöfunar stöðugleikaframlaga slitabúa föllnu bankanna, sem núverandi stjórnvöld hyggjast nýta til að greiða niður skuldir ríkisins.  Verði þeim fjármunum hins vegar varið til ríkisútgjalda, muni þensluhætta aukast verulega. 

Bendir matsfyrirtækið á mikinn uppgang Pírata, sem dæmi um pólitíska óvissu hér á landi, en þar sé um að ræða nýlegan flokk með óljósa stefnu í efnahagsmálum."

Traust alþjóðlegra matsfyrirtækja á lánshæfi íslenzka ríkissjóðsins er landsmönnum mikilvægt, því að vaxtakjör hans fara að miklu leyti eftir þessu mati, og þau eru leiðbeinandi um vaxtakjör ríkisfyrirtækja, og vextir til annarra fyrirtækja og heimila draga dám af þessum vöxtum.  Hagur atvinnulífs og almennings er þess vegna háður mati Fitch og annarra slíkra.  Það má draga þá ályktun af tilvitnuðu áliti Fitch, að matsfyrirtækið næri efasemdir í garð núverandi stjórnarandstöðuflokka, hvað varðar getu þeirra og vilja til að halda aga á ríkisfjármálunum.  Saga vinstri flokka við völd á Íslandi er skelfileg m.t.t. halla á ríkisbúskapi, skuldasöfnun og verðbólgu þrátt fyrir skattpíningu miðstéttarinnar.

Fylgi við pírata felur í sér óvissu um stjórnarstefnu ríkisstjórnar, sem þeir hugsanlega munu eiga aðild að.  Ástæðan er sú, að stefnumörkun þeirra í efnahagsmálum er í þoku, enda hafa þeir ekki hug á að fara með ríkisvald, heldur að mola það niður.  Stjórnleysingjum er illa við ríkisvald.  Ef þeir munu fást til stjórnarþátttöku, gæti hún orðið alger skrípaleikur til að skapa glundroða og upplausnarástand. 

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður pírata, veitti innsýn í sýktan hugarheim sinn, er henni varð á að hrópa: "Þetta er valdarán !", þegar kunngert var, að varaformaður Framsóknarflokksins og formaður Sjálfstæðisflokksins hygðust halda stjórnarsamstarfinu áfram, enda myndu 38 þingmenn verja ríkisstjórnina vantrausti. Þessi upphrópun bendir til, að þegar hér var komið sögu, hafi Birgitta talið, að hennar tími væri kominn og að ekkert nema öngþveiti, draumastaða Birgittu, blasti við, þ.e. valdataka þeirra, sem hún gerði sér tíðar ferðir til að hitta á Austurvelli í byrjun apríl 2016.  Þetta hugarfar á ekkert skylt við þingræðisstjórnarfyrirkomulag, sem varð ofan á hina örlagaríku daga 4. -  6. apríl 2016 fyrir tilstyrk Stjórnarskrárinnar, forseta lýðveldisins og þingflokka stjórnarflokkanna.  Allt þetta hatast téð Birgitta alveg sérstaklega við.  Hún er eins konar meinvættur fyrir stöðugt stjórnarfar í landinu. 

Fyrir smurt gangverk hagkerfisins er stöðugt, fyrirsjáanlegt og frjálslynt stjórnarfar í landinu lykilatriði.  Ríkisstjórnin og þingmenn hennar eiga þess vegna drjúgan heiður skilinn fyrir methagvöxt, metkaupmátt, lágmarksatvinnuleysi og lágmarksverðbólgu á Íslandi á þessu kjörtímabili. Um samspil stjórnarfars og heilbrigðs hagkerfis skrifar Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, í Markaðinn 13. apríl 2016 undir fyrirsögninni:

"Hagfræði stjórnmálakreppu":

"Í öðru lagi, og þetta skiptir meira máli að mínu mati, er það, sem bandaríski hagfræðingurinn, Robert Higgs, hefur kallað "stjórnaróvissu".  Stjórnaróvissa vísar til almenns trausts til lagalegs og stofnanalegs umhverfis í hagkerfinu.  Ef það er mikil óvissa um þessa innviði, getur það varanlega dregið úr fjárfestingum og þar af leiðandi framleiðniaukningu í hagkerfinu."

Sú "stjórnaróvissa", sem hér er gerð að umræðuefni, heldur nú innreið sína á Íslandi, því að kosningar til þings gætu hugsanlega farið fram að 5 mánuðum liðnum, og enginn veit, hvers konar stjórnarstefna verður við lýði í kjölfar þeirra. Það skiptir öllu máli fyrir hagkerfið, hagvöxtinn, kaupmáttinn og arðsemi fjárfestinga, hvort haldið verður áfram á sömu braut á næsta kjörtímabili og á núverandi kjörtímabili, en ekki innleitt hér öngþveiti eða skattaáþján og verðbólga vinstri sinnaðra stjórnarhátta með ögn af stjórnleysisívafi frá pírötum að hætti borgarstjórnar, þar sem þetta stjórnarmynztur er við lýði. 

Kjósendur ákvarða með atkvæðaseðli sínum, hvort hérlendis verður afturhvarf til fortíðar og þjóðfélagslegur sirkus eða stöðug framþróun til lægstu ríkisskulda og beztu lífskjara í Evrópu.

"Hins vegar er meginspurningin ekki um, hvað gerist í íslenzku efnahagslífi á næstu 2-3 ársfjórðungum, heldur hvort þessi stjórnmálakreppa setji af stað meiriháttar breytingar á hinu pólitíska landslagi á Íslandi, sem gætu hugsanlega breytt efnahagslegu og pólitísku valdakerfi landsins.  Persónulega tel ég þetta mikilvægustu spurninguna, þegar litið er til næsta áratugarins eða svo.", skrifaði Lars Christensen ennfremur.

Landsmenn þurfa nú að feta hinn gullna meðalveg, sem hefur ekki ávallt reynzt þeim auðrataður.  Hann er sá, að gera strangar kröfur um heiðarleika í orði og verki til stjórnmálamanna sinna og sín einnig, en hlaupa ekki í múgæsingu á eftir ofstækismönnum af báðum kynjum á jaðri stjórnmálanna, sem beita óprúttnum meðulum til að efna til galdrabrenna, þar sem ofstækismennirnir hirða ekkert um sekt eða sakleysi þeirra, sem kastað er á bálköstinn.  Aðalatriðið virðist vera að búa til fórnarlömb og ná sér niðri á  pólitískum andstæðingum sínum.  Ekkert er nýtt undir sólunni í mannlegri hegðun. Það er hámark lýðskrumsins að hrópa:

"Hann er í Panamaskjölunum, á bálköstinn með hann".  Slíkir loddarar munu hitta sjálfa sig fyrir í vítislogum almennrar fordæmingar, þegar menn ná áttum, áður en yfir lýkur, og dómur sögunnar hefur aldrei orðið ofstækismönnum og -konum vilhallur. 

       Alþingishúsið

 

 


Ekkert er öruggt

Uggvænleg tíðindi berast af erlendum fjármálamörkuðum vestan hafs og austan.  Spár um fjármálakreppu 8 árum eftir hámark síðustu alþjóðlegu kreppu skjóta mönnum skelk í bringu, þegar bjarg á borð við Deutsche Bank er sagt riða vegna hárra skulda og gríðarlegra tapa á afleiðuskuldbindingum, Credit Default Swaps, CDS.  Væntanlega hafa undanfarið átt sér stað mikil útlánatöp stórra banka vegna efnahagserfiðleika þróunarríkjanna, og er Kína þar þyngst á metunum. Botnverð á hrávörumörkuðum síðan 2014 hafa valdið töpum á "fjármálagjörningum" bankanna á borð við CDS. 

Þrátt fyrir "rífandi gang" í íslenzka hagkerfinu hefur erlend óáran smitazt hratt yfir á íslenzkan verðbréfamarkað, sem reyndar efldist mjög árið 2015, en menn töldu þó eiga talsvert inni 2016.  Hvað við tekur hérlendis á kosningaári 2016 til Alþingis er enn á huldu, en skoðanakannanir á viðhorfum landsmanna boða meiri óvissu en oft áður.  Ástæðan er sú, að fari svo sem horfir, að Píratar verði með stærsta þingflokkinn að kosningum loknum, er forseti, hver sem hann nú verður, líklegur til að fela "kapteini Pírata" fyrst stjórnarmyndunarumboðið.  Það yrði í fyrsta sinn í heimssögunni, að forkólfi stjórnleysingja (anarkista) yrði falin ríkisstjórnarmyndun, og yrði vafalítið ávísun á skrípaleik og öngþveiti í stjórnmálum landsins. 

Hvort kapteinninn telur vænlegra að koma málefnum sínum til framkvæmda með borgaralegu flokkunum eða "vinstra mixinu", veit enginn, en það skýtur skökku við, ef "uppreisnarflokkurinn" ætlar að leggja lag sitt við forræðishyggjuflokkana í stað þess að berjast með borgaralegum öflum og fá "báknið burt". 

Píratar og kerfissnatar hljóta eðli sínu samkvæmt að fara saman eins og olía og vatn, og yrði það undirfurðuleg samsuða og hefði í för með sér snöggan stjórnmálalegan dauðdaga fyrir píratahreyfinguna. Hér verður að bæta því við, að verstu kerfissnatarnir hljóta að vera aðdáendur Evrópusambandsins, því að þar er versta "búrókratí", sem heimurinn hefur kynnzt frá falli Ráðstjórnarríkjanna 1991.

Við þessar óvissu aðstæður í alþjóðlegum fjármálaheimi og innlendum stjórnmálaheimi er ómetanlegt, að kjölfesta finnist í atvinnulífinu.  Þrátt fyrir áföll blómstraði sjávarútvegurinn 2015 og er tvímælalaust orðin kjölfesta íslenzks efnahagslífs, þótt ekki sé nú umsetningin mest í gjaldeyri talið.  Stærsta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, slítur nú barnsskónum sem risinn á leikvanginum, en á eftir að sanna sig sem sjálfbær og viðvarandi risaatvinnugrein.  Ferðaþjónustan á Íslandi nútímans gengur á náttúruauðlindina með náttúruspjöllum, eins og fráfarandi Landgreæðslustjóri hefur bent á, og er þess vegna ósjálfbær atvinnugrein.  Sé gríðarleg losun hennar á gróðurhúsalofttegundum meðtalin, verður ljóst, að ferðaþjónustan leikur lausum hala í hagkerfinu, skilur eftir sig gríðarlegt kolefnisspor, og þess vegna þarf hún að búa sig undir háa kolefnisskattheimtu. 

Við þessar aðstæður er fáheyrt, að þessi atvinnugrein skuli telja sig þess umkomna að setja sig upp á móti sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og uppsetningu nauðsynlegra flutningsmannvirkja til að flytja þessa orku á milli landshluta, þó að 97 % erlendra ferðamanna líti með velþóknun á mannvirki tengd þessari nýtingu á Íslandi, 3 % tóku ekki afstöðu, og enginn lýsti sig andvígan.  Það er tóm vitleysa hjá forkólfum náttúruverndarsamtaka og ferðaiðnaðarins, að sá síðast nefndi mundi verða fyrir tjóni vegna nýrra virkjana og flutningslína.  Allt fer þetta ágætlega saman.  Nýtum og njótum !  

  Eftirfarandi tíðindi gat að líta í Fiskifréttum, 4. febrúar 2016:

"Útflutningur sjávarafurða á árinu 2015 jókst um tæpan 21 milljarð kr frá árinu áður eða um 8,5 % að því, er fram kemur í upplýsingum á vef Hagstofunnar.

Árið 2015 fluttu Íslendingar út sjávarafurðir fyrir tæpa 265 miakr, en árið 2014 nam þessi útflutningur 244 miakr. 

Alls voru fluttar út vörur frá Íslandi fyrir 626,3 miakr FOB á síðasta ári, og var verðmæti vöruútflutnings um 36 miakr eða 6,1 % hærra, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður. 

Iðnaðarvörur voru 52,9 % alls vöruútflutnings, og var verðmæti þeirra 6,8 % hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna útflutnings á áli.

Sjávarafurðir voru 42,2 % alls vöruútflutnings.  Aukning varð einkum vegna útflutnings á fiskimjöli.  Verðmæti mjöls jókst um 85 % á milli ára."

Hér eru mjög jákvæð hagtíðindi á ferð af árinu 2015.  Þrátt fyrir mótlæti af völdum tapaðs Rússlandsmarkaðar, minni loðnuveiði og efnahagsstöðnunar víða í heiminum, tókst sjávarútveginum að auka verðmætasköpun sína og gjaldeyrisöflun. Sannar það styrk vöruþróunar og markaðssetningar sjávarútvegsins, og sennilega má þakka þetta líka veðurfyrirbrigðinu El Nino, sem dró mjög úr ansjósugengd í Suður-Ameríku og hækkaði þar með mjölverð í heiminum.  

Eiginfjárhlutfall sjávarútvegsins er um þriðjungur af heildareign, svo að efnahagurinn er traustur, þó að hann beri merki mikilla fjárfestinga. Þær eru undirstaða framtíðarteknanna.  Íslendingar eru í 3. sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir Evrópu og eiga að njóta sannmælis sem slíkir í samningum um deilistofnana.  Evrópusambandið verður að láta af kúgunartilburðum sínum gagnvart Íslandi um auðlindir hafsins.  Hafrétturinn er Íslands megin, og með  vísindin að vopni, lögum og þrautseigju, mun sanngjörn hlutdeild Íslands af makríl og öðrum slíkum stofnum verða viðurkennd. Nýr og efnilegur utanríkisráðherra Íslands skrifaði þann 16. apríl 2016 góða grein í Morgunblaðið, þar sem hún fagnaði því, að Sameinuðu þjóðirnar hefðu nýlega samþykkt mikinn hluta af umráðakröfum Íslendinga til landgrunnsins út af Reykjanesi.   

Alls starfa um 8´000 manns í greininni við veiðar og vinnslu, og voru launagreiðslur alls 82 miakr og bein opinber gjöld 25 miakr árið 2014. Beint og óbeint þiggja vart færri en 25´000 manns laun af greininni eða um 14 % af vinnuaflanum.  Greinin er talin standa undir um fjórðungi landsframleiðslunnar.

Iðnaðurinn, utan matvælaiðnaðar, er með stærstu hlutdeildina í vöruútflutninginum, og nemur hún yfir helmingi.  Að iðnaðurinn nái að auka verðmætasköpun sína á sama tíma og álmarkaðir eru í algerri ládeyðu, vitnar um ótrúlegan kraft og sýnir, að fjölbreytni útfluttra iðnaðarvara hefur vaxið gríðarlega síðast liðinn áratug. 

Þó að herði að efnahagi fólks, verður það alltaf að borða.  Um allan heim, og ekki sízt á helztu mörkuðum Íslendinga fyrir matvæli, er vaxandi meðvitund almennings um mikilvægi heilnæmrar fæðu fyrir heilsufarið.  "Fish from Iceland" hefur ímynd matvöru úr hreinu umhverfi, sem verður að varðveita.  Að síun skolps frá hreinsistöðvum frárennslis á Íslandi standist ekki gæðasamanburð við danskar og sænskar hreinsistöðvar, hvað agnir úr plasti og öðru snertir, eru þess vegna vonbrigði, því að þetta eru vísast heilsuskaðleg efni. Hér þarf hið opinbera, aðallega sveitarfélögin, að bæta frammistöðu sína.   

Fregnir berast nú um, að Norðmenn séu búnir að skrínleggja áform um olíuleit á norðurslóðum, þ.á.m. á Drekasvæðinu, en engin slík tíðindi eru frá fyrirtækjum, sem Össur Skarphéðinsson, þáverandi olíumálaráðherra Íslands, úthlutaði leitar- og vinnsluleyfum á íslenzka Drekasvæðinu.  Fáfnir offshore, leitarfyrirtæki, á nú mjög erfitt uppdráttar, en í þessu fyrirtæki hafa a.m.k. 2 íslenzkir lífeyrissjóðir fest fé.  Eru það auðvitað hrapalleg mistök og forkastanlegt af lífeyrissjóðum að kasta fé á glæ í "rússneska rúllettu", sem samræmist heldur ekki markmiðum Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna frá desember 2015 um hámarkshitnun andrúmslofts 2°C, en til þess verður að láta "óbrennanlegt jarðefnaeldsneyti" liggja, þar sem það er.  Er ekki að spyrja að gáfnafari og gæfu íslenzkra vinstri manna, þegar kemur að stefnumörkun í hinum örlagaríkari málum.

 

 

 


Panama galdrafárið

Hegðun og málflutingur vinstri grænna ásamt meðreiðarsveinum þessa óþingræðislega stjórnmálaflokks er farin að líkjast galdrafárinu á Íslandi á 17. öld. Þá var nóg, að sinnisveikur ofstækismaður fullyrti, að eymd hans og pína væri af völdum forsendingar einhvers, sem hinum sinnisveika var í nöp við, til að meintur seyðkarl eða seyðkerling var tekinn höndum og yfirheyrður með harkalegum og ósvífnum hætti, jafnvel píndur til játningar, og að lokum brenndur á báli til fullnustu refsingar, lýðnum til hugarhægðar í vesöld sinni, andlegri og líkamlegri. Þá gilti ekki reglan um, að maður sé saklaus, þar til sekt hans er sönnuð, heldur varð fórnarlamb "réttvísinnar" að afsanna sekt sína, alveg eins og hjá dómstóli götunnar nú á dögum.  Leið til þess í Panama-fárinu er að birta skattaframtöl sín nokkur ár aftur í tímann, eins og David Cameron hefur gert.  

Í annars ágætan morgunþátt Óðins Jónssonar, fréttamanns, á Gufunni föstudaginn 8. apríl 2016, eftir að mikið gerningaveður hafði gengið yfir íslenzk stjórnmál og fellt forsætisráðherran, þó að tækist með harðfylgi að halda í stöðugleika stjórnarfarsins og koma í veg fyrir þingkosningar að kröfu Alþingis götunnar ofan í forsetakjör, var mætt Svandís nokkur Svavarsdóttir, hafði fengið "blod på tanden" og heimtaði nú meira blóð, enda eigi einhöm.  "Rökin" hjá henni eru samkynja "forsendingarrökunum" á galdraofsóknartímanum, en eru engan veginn boðleg á 21. öld og ber að vísa út í hafsauga.  Þau voru:

"hann er í Panama-skjölunum". Skýring á þessum galdraofsóknarmálflutningi er siðrof og siðblinda. Lögmenn nú á tímum fordæma málflutning af þessu tagi, og siðfræðingar ættu að gera það líka. Hugarheimur téðrar Svandísar minnir á myrkviði miðalda, og hún æsir skrílinn upp, alveg eins og sumir prelátar og sýslumenn gerðu á miðöldum til að skara eld að eigin köku.  Svandís heldur, að sér muni aftur skola upp í valdastólana á öldu múgæsingar, en hún hefur enga verðleika til að þjóna þar hagsmunum alþýðunnar.  

Vinstri hreyfingin grænt framboð stundar óþingræðisleg vinnubrögð innan þings og utan.  Á Austurvelli er verið með skrílslæti, sem eiga að svipta Alþingi starfsfriði og valda upplausn. Til þess eru refirnir skornir að torvelda þingmeirihlutanum störfin og þreyta hann. Þinghelgin er vanvirt, sem var alvarlegt afbrot til forna. Innan þings eru settar á langar ræður um allt á milli himins og jarðar í því augnamiði að drepa málefnalegum umræðum á dreif og tefja afgreiðslu mála, sem þingmeirihlutinn ber fyrir brjósti. Þarna er þingræðið tekið kverkatökum, og allt er þetta sett á svið til að grafa undan þingræðinu í landinu í þeirri von, að kjósendur gefist upp á ástandinu og komi þessum andlýðræðislegu öflum til valda á ný í flýttum Alþingiskosningum.  Það má ekki verða. Þetta er sama aðferð og þjóðernisjafnaðarmenn beittu til að brjótast til valda í Þýzkalandi og steypa Weimarlýðveldinu í glötun. Það er ekki leiðum að líkjast. Mega kjósendur á Íslandi búast við langþráðri siðbót í stjórnmálunum, ef þeir láta glepjast þannig ? Nei, það er af og frá, eins og nú skal rekja.

Valdatími vinstri grænna 2009-2013 vitnar ekki um siðbót, nema síður sé.  Að setja fólk á borð við Svandísi Svavarsdóttur til valda nú eða síðar á árinu væri að fara úr öskunni í eldinn.  Það voru hún, Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur Sigfússon og allt liðið, sem stóð að vinstri stjórninni, alræmdu 2009-2013, sem neitaði ósk úr röðum þáverandi stjórnarandstöðu um að opinbera nöfn eigenda félaganna, sem voru kröfuhafar föllnu bankanna.  Ætli það hafi ekki verið maðkur í mysunni  þá, sem var valdur að höfnun þeirra á þessari sjálfsögðu beiðni ?  Af hverju mátti þá ekki vitnast, hvaða persónur og leikendur stæðu að Wintris, svo að eitt alþekkt dæmi sé tiltekið ?  Af hverju eru vinstri menn svona veikir fyrir auðkýfingum og hygla spákaupmönnum fram í rauðan dauðann, sbr afhendingu nýju bankanna á silfurfati til kröfuhafanna 2010 ? Af hverju samþykkti þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar græns framboð ekki tillögu Lilju Mósesdóttur á síðasta kjörtímabili um að gera gangskör að því að upplýsa um aflandsfélögin og hagsmunaaðila, sem að þeim stæðu ?  Líkleg skýring er, að vinstri menn hafi óhreint mjöl í pokahorninu.  Tvískinnungur forkólfanna, ekki sízt formannsins, Katrínar Jakobsdóttur, ríður ekki við einteyming.

Þá birtist á Sjónarhóli Morgunblaðsins þann 7. apríl 2016 grein, "Undanskot eigna í tvö ár", eftir Hauk Örn Birgisson, hæstaréttarlögmann, sem sýnir svart á hvítu, að valdhöfunum 2009-2013 er engan veginn treystandi til að fara fyrir baráttunni á Íslandi "gegn skattaskjólunum", því að þessir loddarar sýna með verkum sínum, að þeir draga taum fjársvikara og skattsvikara, eins og eftirfarandi tilvitnun í nefnda grein sýnir svart á hvítu:

"Undanfarin ár hefur borið á því, að einstaklingar, sem áður töldust auðmenn, hafa haldið því fram, að þeir séu uppiskroppa með fé, eða hafa jafnvel verið teknir til gjaldþrotaskipta, sem leitt hafi til þess, að takmarkað af eignum fannst í búum þeirra.  Hafa kröfur á þessa aðila því verið afskrifaðar í stórum stíl eða fallið niður af öðrum ástæðum. 

Meginreglan í íslenzkum gjaldþrotaskiptarétti er sú, að ef eignir gjaldþrota einstaklings finnast, eftir að gjaldþroti viðkomandi hefur lokið, eru skiptin tekin upp og eignirnar greiddar út til kröfuhafa. 

Í desember 2010 var gerð breyting á gjaldþrotaskiptalögum nr 21/1991, þar sem mælt var fyrir um, að allar kröfur á hendur þrotamanni fyrndust á tveimur árum frá skiptalokum.  Töldu margir á þessum tíma, að tvö ár væru of skammur fyrningartími, og í umræðunni fór einnig fyrir því sjónarmiði, að fjársterkir einstaklingar gætu skotið eignum undan og kröfuhafar hefðu takmörkuð úrræði, þegar svo bæri undir."

"Það verður fróðlegt fyrir kröfuhafa, sem nú hafa glatað kröfuréttindum sínum á hendur gjaldþrota einstaklingum vegna fyrningar, að skoða lista yfir eigendur aflandsfélaga, sem á næstu dögum eða vikum munu líta dagsins ljós í fjölmiðlum.  Mig grunar, að einhverjir þessara kröfuhafa muni sjá á eftir kröfum sínum og hugsa Alþingi þegjandi þörfina fyrir að hafa ekki tekið á slíkum undanskotum, þegar löggjöfinnni var breytt árið 2010." 

Það er með ólíkindum, að menneskja með slíka lagasetningu sem þessa frá stjórnarárum sínum í farteskinu, skuli dirfast að margendurtaka á blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar í Alþingishúsinu þriðjudagskvöldið 5. apríl 2016, að henni og hennar flokki sé bezt, jafnvel einni, treystandi í baráttunni við aflandsfélögin.  Vinstri stjórnin dró augljóslega taum óreiðumanna, sem forðuðu fé undan gjaldþroti í skattaskjól.  Vinstri flokkunum er alls ekki á nokkurn hátt betur treystandi en borgaralegu flokkunum til að fást við skattaundanskot, hvort sem er á aflandseyjum eða annars staðar.  Í tíð núverandi fjármálaráðherra hefur verið unnið markvissara og með meiri árangri við að klófesta skattsvikara en allt tímabilið 2009-2013.  Skattrannsóknarstjóri hafði þegar keimlík lekagögn undir höndum og Panama-skjölin, þegar tekið var að birta úr þeim.  Fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar er sá fyrsti og eini, sem opinberlega sannast á í þessari lotu, að hafi orðið uppvís að skattsvikum.  Um það segir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 8. apríl 2016:

"Fram til þessa hefur einungis verið upplýst, að fv. gjaldkeri Samfylkingarinnar hafi sparað sér 70 milljónir króna í sköttum með því að borga þá ekki á Íslandi.  Árni Páll Árnason hefur lýst því, að framganga gjaldkerans sé til fyrirmyndar !"

Helgi,  þingmaður og pírati, heldur því fram, að orðið hafi siðrof í íslenzkum stjórnmálum með ömurlegu máli SDG, fyrrverandi forsætisráðherra, án þess að útskýra málið.  Ef siðrof verður, hlýtur einhver siður að hafa verið fyrir. Hér skal halda því fram, að siðrofið eigi sér stað hjá stjórnarandstöðunni á tveimur vettvöngum:

Í fyrsta lagi er óvirðingin, sem mótmælendur á Austurvelli sýna Alþingishúsinu ný af nálinni, ef Búsáhaldabyltingin er undanskilin.  Skrílslæti mótmælendanna eru til marks um siðrof og stjórnarskrárbrot og staðfesta fyrirlitningu stjórnarandstöðunnar á þingræðisfyrirkomulaginu. 

Í 36. gr. Stjórnarskrárinnar stendur:

"Alþingi er friðheilagt.  Enginn má raska friði þess né frelsi."

Austurvöllur er illa fallinn til mannsafnaðar síðvetrar og á vorin, þegar jörð er blaut og gróður að taka við sér.  Þarna hafa orðið gróðrarspjöll, svo að ekki sé minnzt á ruslið á jörðu og matvælin, sem fólkið, margt á framfæri hins opinbera,  spillir og fleygir í þinghúsið.  Það er kominn tími til, að lögreglan stöðvi þessi skrílslæti, sem eru gróft brot á 36. gr. Stjórnarskrárinnar.

Í öðru lagi felst siðrofið í, að logið er skattsvikum upp á stjórnmálamenn.  Þannig er því haldið fram með vísun í Panamaskjölin, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi gerzt sekur um tilraun til skattaundanskota með skráningu félags á aflandseyju.  Hér hefur ein fjöður orðið að 100 hænsnum í meðförum ómerkilegra manna.  Landsmenn hafa margir hverjir, eins og bekbóndi, hlýtt á ráðherrann, nú síðast í Kastljósi RÚV í gjörningahríðinni í viku 14/2016, gera skilmerkilega grein fyrir því, að um var að ræða bæði löglega og siðlega fjárfestingu í íbúð í auðugu smáríki við Persaflóann, Dubai, sem hætt var síðan við og allt féð flutt heim og skattyfirvöldum skilmerkilega gerð grein fyrir málinu. Þetta var allt fyrir opnum tjöldum og aldrei ætlunin að flýja í skattaskjól, enda var féð talið fram til skatts á Íslandi.  Það er siðrof að japla á þessu lon og don og fullyrða, að ráðherrann sé vanhæfur út af þessu máli til að gegna sínu mikilvæga embætti.  Það er siðblinda að átta sig ekki á hróplegu óréttlæti og ósanngirni, sem ofsóknir af þessu tagi fela í sér.

Hér er við hæfi að lokum að vitna til greinar Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögfræðings,

"Aðför", sem hann ritar í Morgunblaðið þann 7. apríl 2016:

"Við skulum hafa það á hreinu, að stjórnmálamenn, sem gerast sekir um brot gegn landslögum, til dæmis með því að svíkja undan skatti, verða að víkja úr embættum sínum.  Fjölmiðlar hafa hlutverki að gegna við að upplýsa um slíkar sakir með gagnaöflun og umfjöllun.  Við þá starfsemi þeirra hljóta að gilda almennar reglur, sem samfélagið viðhefur og lúta að því að fjalla af sanngirni og málefnalegum heilindum um þau málefni, sem um er að ræða."

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband