Færsluflokkur: Fjármál
31.3.2016 | 09:25
Hefðbundin viðhorf á hverfanda hveli
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkjandi stjórnmálaviðhorf eru í uppnámi. Þegar breyttur samskiptamáti fólks og bætt aðgengi að upplýsingum eru höfð í huga, þarf ekki að undra, að viðhorf almennings til stjórnmálanna breytist samhliða. Víða erlendis bætast við afkomuleg vandamál af völdum stöðnunar hagkerfanna, og sums staðar er atvinnuleysið tvímælalaust hátt yfir þeim mörkum, sem við Íslendingar mundum kalla þjóðfélagsböl. Hérlendis er mjög á brattann að sækja fyrir ungt fólk með fjármögnun húsnæðis, svo að nokkrar rætur þjóðfélagsumróts séu tíndar til.
Vaxandi urgur í miðstéttinni hefur víða leitt til aukins fylgis jaðarflokka á báðum vængjum stjórnmálanna. Í Noregi er flokkur hægra megin við Hægri flokkinn í ríkisstjórn, og í Danmörku hefur róttækur hægri flokkur töluverð áhrif á stjórnarstefnu ríkisstjórnar í minnihluta á danska þinginu.
Svíar og Finnar hafa enn ekki hleypt Svíþjóðardemókrötunum og Sönnum Finnum til valda, en hinir fyrr nefndu hafa hlotið fylgi í skoðanakönnunum á borð við Pírata á Íslandi. Í Bretlandi hafa róttækir vinstri menn lagt undir sig Verkamannaflokkinn, og reyna mun á málstað Brezka Sjálfstæðisflokksins, UKIP, í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að Evrópusambandinu, ESB. Í Þýzkalandi vex Alternative für Deutschland ásmegin, en hann er hægra megin við CDU/CSU, flokka Angelu Merkel og Horst Seehofers, sem að sama skapi missa fylgi. Fylgi sópaðist að AfD í þremur fylkiskosningum í marz 2016, og var úrslitum kosninganna líkt við stjórnmálalega jarðskjálfta í Þýzkalandi. Þar er þó efnahagur góður og atvinnuleysi tiltölulega lítið, en lítt heftur straumur flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, sem flestir aðhyllast Múhameðstrú, er tekinn að valda almenningi í Þýzkalandi áhyggjum, og yfirvöldin ráða ekki við móttöku þess yfirþyrmandi fjölda, sem komizt hefur inn fyrir landamæri Þýzkalands, sem hafa verið opin samkvæmt Schengen-ráðslaginu. Komið hefur í ljós, að upp til hópa er um að ræða lítt menntað, jafnvel ólæst fólk, sem gríðarlega dýrt yrði, og sennilega ómögulegt í flestum tilvikum, að aðlaga þýzku þjóðfélagi, enda er Mutter Merkel farin að tala um, að fólkið verði að fara til baka til síns heima, þegar friðvænlegra verður þar. Þetta var líka ætlunin með "Gastarbeiter", sem tóku þátt í uppbyggingu Vestur-Þýzkalands eftir heimsstyrjöldina seinni, en flestir þeirra ílentust með fjölskyldum sínum í Vestur-Þýzkalandi, en hafa aðlagazt misvel að þýzku samfélagi, en hafa myndað þar sín eigin samfélög.
Í Frakklandi stefnir formaður Þjóðfylkingarinnar, Marie Le Pen, á forsetabústaðinn, Elysée, og gæti hreppt hann í næstu forsetakosningum miðað við ástandið í Frakklandi.
Í Grikklandi hefur róttækur vinstri flokkur verið við völd um hríð, en Grikkland er efnahagslega ósjálfbært og er eins og tifandi tímasprengja.
Á Spáni er stjórnarkreppa eftir síðustu þingkosningar, og Katalónar í Norð-Austurhorni Spánar, sem tala frönskuskotna spænska mállýzku, vilja aðskilnað frá ríkisheildinni. Á Spáni sækir systurflokkur Syriza, Podemos, í sig veðrið.
Í Bandaríkjunum, BNA, hefur vinstri öldungurinn Bernie Sanders náð eyrum ótúlega margra, einkum ungra Demókrata, og velgt Hillary Clinton, mótframjóðanda sínum, undir uggum. Hefur Bernie náð óvæntum árangri í forkosningum margra ríkja BNA. Repúblikanamegin eru róttkir hægrimenn atkvæðamestir. Donald Trump er ólíkindatól, sem kann að spila á mikla þjóðfélagsóánægju í BNA, sem stafar m.a. af töpuðum störfum til Kína og víðar og (ólöglegra) innflytjenda frá Mexikó.
Allt hefðu þetta þótt vera firn mikil um síðustu aldamót, en fyrri hluti 21. aldarinnar býður greinilega upp á meiri þjóðfélagsróstur á Vesturlöndum en seinni hluti 20. aldarinnar gerði.
Á Íslandi blasir eftirfarandi staða við samkvæmt skoðanakönnunum:
- Vinstra mixið: 25 %
- Borgaraflokkarnir: 40 % (tæplega)
- Píratar (sjóræningjarnir) 35 % (rúmlega)
Hvaða ályktun og lærdóm skyldi nú mega draga af þessum tölum, sem eru ískyggilegar fyrir stjórnmálalegan stöðugleika á Íslandi ?
Blekbóndi túlkar þær þannig, að þær séu ákall kjósenda um nývæðingu lýðræðis í átt að auknu beinu lýðræði á kostnað hins hefðbundna fulltrúalýðræðis. Kjósendur vilja fá beinan aðgang að ákvarðanatöku í einstökum málum, ef þeim býður svo við að horfa.
Ríkisstjórnarflokkarnir eiga að bregðast við þessum breytta tíðaranda með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, sem þýðir, að breyta þarf Stjórnarskránni. Blekbóndi telur, að slá eigi tvær flugur í einu höggi og gjöra umgjörð forsetaembættisins á Bessastöðum skýrari og embættið veigameira en nú er án þess að hreyfa við meginstjórnarfyrirkomulaginu, sem er þingbundin ríkisstjórn:
- Aðalhlutverk forseta lýðveldisins verði að gæta þess, að lagasetning þingsins sé í samræmi við Stjórnarskrá lýðveldisins. Hann verði þannig eins konar verndari Stjórnarskráarinnar. Ef hann telur vafa á því, að lögin standist Stjórnarskrá, skal hann fresta staðfestingu laganna með því að vísa þeim til þriggja manna Stjórnlagaráðs, þar sem hann skipar formann, Hæstiréttur annan og háskólarnir, þar sem lagadeildir eru, skipa þriðja, til þriggja ára í senn. Stjórnlagaráð skal úrskurða innan viku um vafamál, sem forseti lýðveldisins vísar til þess, og ef úrskurður er á þá lund, að lögin standist Stjórnarskrá, ber forseta að staðfesta þau samdægurs með undirskrift sinni, annars vísar hann þeim aftur til þingsins. Forseti getur ekki vísað máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema hann fái um það skriflega áskorun frá fjölda, sem nemur 20 % af atkvæðisbæru fólki í síðustu Alþingiskosningum.
- Kjósendur til Alþingis skulu geta farið fram á það við forseta lýðveldisins, að hann láti semja frumvarp til laga um tiltekið efni í ákveðnu augnamiði. Ef fjöldi, sem nemur 20 % kjósenda í síðustu Alþingiskosningum, hvetur hann til þess skriflega, skal hann verða við því og fela forseta Alþingis að leggja málið fyrir þingið. Slíkum lögum frá Alþingi skal hann geta synjað staðfestingar og fara þau þá í endurskoðun hjá þinginu, eða þingið efnir til þjóðaratkvæðis um þau.
- Að afloknum Alþingiskosningum metur forseti lýðveldisins, hverjum er eðlilegast að fela stjórnarmyndunarumboð með tilliti til úrslita kosninganna. Ef ekki tekst að mynda starfhæfa ríkisstjórn innan 6 vikna frá kjördegi, fellur stjórnarmyndunarumboð til forseta, sem þá skal skipa ríkisstjórn og hefur til þess frjálsar hendur. Þingrofsvaldið skal aðeins vera hjá forseta lýðveldisins.
- Forseti Alþingis er staðgengill forseta lýðveldisins og aðrir ekki. Forseti Alþingis ræður dagskrá þingsins og getur stytt umræðutíma eða tekið mál af dagskrá, ef honum þykir þingmenn misnota starfstíma þingsins, t.d. með því að setja á ræður um mál utan dagskrár eða með því að teygja lopann. Hann getur hvenær sem er takmarkað ræðutíma einstakra þingmanna í hverri umræðu, eins og hann telur nauðsynlegt fyrir eðlilega framvindu frumvarps eða þingsályktunartillögu. Forseta Alþingis ber að hlúa að virðingu þingsins í hvívetna.
- Ef minnihluti Alþingis, 40 % þingmanna eða 25 þingmenn hið minnsta m.v. heildarfjölda þingmanna 63, samþykkir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál, þó ekki um fjárlög, þá skal sú tillaga fara til forseta lýðveldisins til samþykktar eða synjunar. Í tillögunni skal setja fram nákvæmt orðalag á spurningum, sem leggja skal fyrir þjóðina. Synjun forseta skal fylgja rökstuðningur til Alþingis, en samþykkt tillaga fer til ríkisstjórnarinnar til framkvæmdar.
- Annað meginhlutverk forseta lýðveldisins skal vera að varðveita stöðugleika, þjóðfélagslegan og efnahagslegan. Ef honum virðist Alþingi vera þar á rangri leið, skal hann leysa þingið upp, og verður þá efnt til kosninga. Kjörtímabil forseta skal vera 6 ár, en hann skal geta stytt það, kjósi hann svo, og hann má ekki sitja lengur en 12 ár.
Hér er aðeins drepið á örfá atriði. Réttast er að fá hópi stjórnlagafræðinga slíkt afmarkað verkefni um Stjórnarskrárbreytingar. Þeir yfirfara þá alla Stjórnarskrána m.t.t. til breytinga, sem óskað er eftir, til að tryggja innbyrðis samræmi í Stjórnarskránni, og senda tillögurnar síðan Alþingi til umfjöllunar. Í þessu tilviki þarfnast allir liðir um forseta lýðveldisins og þjóðaratkvæðagreiðslur endurskoðunar.
Stjórnarskráin er m.a. til að tryggja frelsi og mannréttindi einstaklingsins gagnvart hinu opinbera valdi og gagnvart öðrum einstaklingum og félögum. Í þessu sambandi er rétt að hafa ákvæði í 65. grein frá árinu 1995 í huga, en það hefur jafnvel verið sniðgengið við lagasetningu síðan:
"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti, Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."
Það kemur einnig til greina við næstu endurskoðun Stjórnarkráar að setja þar inn ákvæði um skipan þriggja dómsstiga í landinu, og hvernig ráðningu dómara skuli haga á öllum þremur dómsstigum. Þá þarf að skilgreina verkaskiptingu á milli Stjórnlagaráðs og Hæstaréttar varðandi lög, sem kunna að brjóta í bága við Stjórnarskrána. Til álita kemur, að forseti lýðveldisins skipi Hæstaréttardómara með sjálfstæðum hætti.
Þann 1. desember 2015 ritaði Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, mjög góða grein í Morgunblaðið:
"Hverju megum við ráða".
Í niðurlagi greinarinnar sagði hann:
"Á meðan báknið vex, þá minnkar sífellt vald einstaklingsins yfir eigin lífi. Þegar haft er í huga, hversu óvinsælir gömlu fjórflokkarnir eru, þá verður að telja með ólíkindum, að fólk hafi gefið yfirvöldum slíkt vald yfir lífi sínu og raunin er. Ef við eigum ekki að enda sem þjóð, sem ávallt er undir þumlinum á duttlungum síðasta hæstbjóðanda í kosningum, þá verður að eiga sér stað grundvallar hugarfarsbreyting um, að snúa þurfi þessari þróun við. Þörf er á, að fólk geti valið stjórnmálamenn, sem lofa að gera minna og leyfa meira. Fimmföld laun hljóma hreint ekki illa."
Sé þetta sett í samhengi stjórnarskrárbreytinga, er þörf á breytingu reglna um kjör til Alþingis í þá veru að gefa kjósendum kost á að kjósa bæði flokk og einstaklinga á öðrum listum en þeim, sem kosinn er, þ.á.m. af landslista óháðum stjórnmálaflokkunum.Fyrirmyndir um persónukjör má t.d. finna í Þýzkalandi.
Jóhann J. Ólafsson, stórkaupmaður, ritaði 3. desember 2015 grein í Morgunblaðið, sem hann nefndi:
"Útrýmum fátækt - gerum lýðræðið nothæft".
Þar segir svo m.a:
""James Harrington (1611-1677), enskur stjórnmálamaður, sagði á sinni tíð: "Einveldi ríkir, þegar krúnan á allt eða í það minnsta 2/3 af öllum landauði. Höfðingjaveldi ríkir, ef aðalsmenn eiga svipaðan hlut. Eigi almenningur 2/3 eða meira, ríkir lýðræði."
Þótt margt sé breytt síðan á 17. öld, er kjarni þessarar hugsunar í fullu gildi. Í stað krúnunnar kemur ríkið, í stað aðalsins koma auðmennirnir, en almenningur er enn almenningur. Í stað landauðs koma allar eignir, allur auður þjóðfélagsins.
Þau sannindi eru enn góð og gild, að eignum og útdeilingu þeirra fylgja völd, en lýðræðið byggist á því, hversu vel tekst til með eignadreifingu í þjóðfélaginu.
Valdið leitar fyrr eða síðar þangað, sem auðurinn er. Þess vegna er tiltölulega jöfn dreifing auðsins meðal landsmanna forsenda lýðræðis.
Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands er allur þjóðarauður Íslendinga (allar eignir landsmanna, einkaeignir og opinberar eignir, samanlagt) 23,3 trilljónir (þúsund milljarðar) kr. Af þeim eru u.þ.b. 4,4 trilljónir í einkaeign, en u.þ.b. 18,9 trilljónir í opinberri eigu. Lýðræði í skilningi Harringtons er því víðs fjarri, því að eignir einstaklinga eru ekki nema um 19 %, en opinberar eignir um 81 % af heildareignum þjóðfélagsins. Ef lýðræði ætti að vera raunverulegt, þyrfti almenningur, þ.e. einstaklingarnir sjálfir, að eiga 15,5 trilljónir til að leiðrétta þennan lýðræðishalla. Ásættanlega jöfn dreifing eigna á milli einstaklinga innbyrðis yrði svo einnig að vera fyrir hendi til að treysta lýðræði og sátt í þjóðfélaginu."
Á Íslandi eiga 30 % þjóðarinnar tæplega 80 % allra einkaeigna, en þær nema einvörðungu rúmlega 15 % heildareigna í landinu. Við þessar aðstæður blasir við, að það er engin ástæða til að festa í sessi eða auka enn við eignarhald hins opinbera með nýjum ákvæðum í Stjórnarskrá. Slík þjóðnýting mundi draga enn úr lýðræðislegu valdi almennings, en það er ekki einvörðungu fólgið í kosningarétti og aðkomu að einstökum ákvörðunum, heldur ekki síður, eins og Jóhann J. Ólafsson bendir á, fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinganna og olnbogarými í samfélaginu án afskipta annarra innan marka laga og réttar, sem gilda um farsæl samskipti manna.
Samkvæmt Hagstofunni eru um 80´000 framteljendur án nettóeignar og skulda 87 milljarða kr. Það er miklu brýnna þjóðfélagslegt viðfangsefni að koma fleiri einstaklingum til bjargálna með möguleikum á eignamyndun en að auka við eignir ríkisins á kostnað einstaklinga og frjálsra félaga. Til að auðvelda ungu fólki þetta hefur verið bent á þá leið, að ríkissjóður leggi fram styrk til fólks, sem er að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð, allt að Mkr 10, en hætti að veita vaxtabætur og dragi úr peningaaustri í Íbúðalánasjóð. Þetta mundi gera fleirum kleift að losna úr fátæktargildru, en fara þess í stað að safna eignum, sem veita ómetanlegt afkomuöryggi í ellinni.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.3.2016 | 10:27
Blekkjandi umræða um þróun eignaskiptingar
Það er háttur margra að hallmæla ábatadrifnu markaðshagkerfi og alþjóðavæðingu viðskiptanna og láta þá gjarna fljóta með orðaleppa um siðspillt auðvald, sem skirrist ekki við að nýta sér eymd fátæks fólks til að auka gróða sinn. Allt er það í anda úr sér genginna stéttastríðshugmynda aðalhugmyndafræðings villta vinstrisins, Karls Marx.
Þetta er sem sagt hinn dæmigerði málflutningur vinstri manna og á rætur sínar að rekja til Kommúnistaávarps Karls Marx, þar sem hann útmálaði þjóðfélagsóréttlætið í kjölfar iðnbyltingarinnar, sem ætti rætur að rekja til eignarhalds auðmanna á atvinnutækjunum, sem nýttu téð eignarhald til að kúga öreigana, og áréttaði hann síðan hina sögulegu nauðsyn á stéttabaráttu og yfirtöku öreiganna á atvinnutækjunum.
Stjórnmálabyltingar í anda Karls Marx voru gerðar í nokkrum ríkjum, og atvinnutækin, þ.m.t. í landbúnaðinum, voru þjóðnýtt í kjölfar blóðugrar byltingar. Öllum efnahagslegum og stjórnmálalegum völdum var með ofbeldi safnað á hendur ríkisvaldsins með sulti og seyru, frelsissviptingu og öðrum hræðilegum afleiðingum fyrir efnahag og allt líf almennings í viðkomandi löndum. Almenningur var hnepptur í fátæktarfjötra áratugum saman, og lagt á hann helsi ófrelsis á öllum sviðum mannlegs lífs, allt í nafni alræðis öreiganna. Enn er rekinn harður áróður fyrir stefnu, sem á rætur að rekja til þessarar hugmyndafræði og ber þess vegna dauðann í sér.
Þrátt fyrir þessa hræðilegu sögu eru enn þeir til á Vesturlöndum og víðar, sem vilja auka sem mest yfirráð ríkisvaldsins í atvinnulífi, auka skattheimtuna og draga þannig sem mesta fjármuni í hramm ríkisvaldsins. Á sama tíma er sáð tortryggni í garð einkaframtaksins á öllum sviðum, frá heilsugæzlu og menntun til vegagerðar, þó að öflugt, einkarekið atvinnulíf sé bezta tryggingin fyrir valddreifingu í samfélaginu, sem er brjóstvörn lýðræðisins, og jafnvel á Norðurlöndunum hafi verið farið í auknum mæli inn á braut einkarekstrar innviðanna til að bæta þjónustu og auka skilvirkni. Á Íslandi eru ríkiseignir tiltölulega miklar, og upp á síðkastið hafa flotið á fjörur ríkisins miklar eignir úr þrotabúum föllnu bankanna, svo nefnd stöðugleikaframlög, sem eru forsenda losunar gjaldeyrishaftanna. Hinn góði árangur fjármála- og efnahagsráðherra ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í embætti er fagnaðarefni, en þessar eignir þurfa að skipta um hendur og ríkið að fá sem mest fé fyrir til að grynnka á skuldum sínum, öllum landsmönnum til hagsbóta.
Kína er gott dæmi um umskiptin, sem verða í einu samfélagi, þegar siðferðislega gjaldþrota einræðiskerfi losar um viðjarnar og leyfir einkaframtakinu að spreyta sig. Þá tóku alþjóðleg fyrirtæki óðar að fjárfesta í Kína og mynduðu mikinn fjölda starfa, svo að efnahagur Kínverja reis úr rústum á aldarfjórðungi. Fólk flutti úr sveitunum til borganna í hundraða milljónavís, og til varð fjölmennasta miðstétt í heimi. Fleiri lyftu sér upp úr örbirgð í Kína á aldarfjórðunginum 1990-2015 en dæmi voru nokkurs staðar um áður. Allt var það gert fyrir mátt einkaframtaksins og þrátt fyrir lamandi loppu Kommúnistaflokks Kína, sem áfram hefur allt ráð almennings í hendi sér. Þarna er um að ræða mjög skuldsett blandað hagkerfi undir stjórn kínverska Kommúnistaflokksins, þar sem óarðbær gæluverkefni flokkspótintáta sliga nú efnahaginn.
Nú er sem sagt komið bakslag, og flokkurinn veit ekki sitt rjúkandi ráð, því að óánægð, fjölmenn miðstétt getur orðið flokkinum óþægur ljár í þúfu, og að auki er mengun lofts, láðs og lagar í Kína orðin yfirþyrmandi, sem rýrir mjög lífsgæði þjóðarinnar, þó að hún hafi til hnífs og skeiðar. Valdaeinokun Kommúnistaflokksins leyfði enga gagnrýni á iðnvæðinguna fyrr en allt var í óefni komið. Einræði felur í sér spillingu og ber dauðann í sér.
Höfundur, sem kallar sig Óðin, fjallar um óvandaða og villandi talnameðferð brezku góðgerðarsamtakanna Oxfam og "misskiptingu auðs í heiminum" í Viðskiptablaðinu 21. janúar 2016.
"Í skýrslunni segir, að ríkasta 1 % jarðarbúa eigi nú meiri eignir en hin 99 % til samans. Þá segir í henni, að 62 einstaklingar eigi samanlagt meira fé en fátækasti helmingur mannkynsins, eða um 3,6 milljarðar manna. Auður þessara 62 einstaklinga hafi aukizt um 44 % á síðustu 5 árum, en á sama tíma hafi auður fátækasta helmings jarðarbúa minnkað um um ein 41 %."
Óðinn sýnir síðan fram á, að með talnaleik er gerð tilraun, sem heppnaðist í mörgum tilvikum, til að telja fólki trú um það, að auðsöfnun eins hljóti alltaf að vera á kostnað annarra. Þetta er reginvilla hagfræðingsins Karls Marx, sem gengið hefur aftur ljósum logum eftir dauða hans og fram á þennan dag.
Nýlegt dæmi er strákur að nafni Mark Zuckerberg. Árið 2004 stofnaði stráksi "Facebook" og átti þá ekki meira í handraðanum en þessi blekbóndi á menntaskólaárum sínum. Á einum áratugi varð Mark Zuckerberg einn ríkasti maður heims og sankaði að sér tugum milljarða bandaríkjadala. Fyrirtækið veitir nú þúsundum atvinnu. Þá er spurningin. Varð þessi auðsöfnun Marks Zuckerbergs á kostnað einhverra ? Varð einhver fátækari fyrir vikið ? Tölfræðilega jókst misskipting eigna í heiminum við það, að strákurinn sankaði að sér milljörðum dollara, en enginn beið tjón við það, heldur komust fjölmargir forritarar og fleiri í góðar álnir við að vinna fyrir "Facebook", svo að ekki sé nú minnzt á hundruði milljóna neytenda, sem stytta sér stundir við að fræðast um hagi annarra og fræða "vinina" um sína eigin hagi. Mark Zuckerberg hefur fært fólk nær hvort öðru og í raun skapað fólki nýjan vettvang til góðs og ills.
"Í fyrsta lagi er í skýrslunni miðað við nettó eignir, þ.e.a.s. eignir að frádregnum skuldum. Í ákveðnum tilvikum getur það verið eðlilegt, en í þessu tilviki gefur þessi aðferðarfræði afar undarlegar niðurstöður. Eins og blaðamaðurinn Felix Salmon benti á árið 2014, þegar Oxfam birti skýrsluna í fyrsta skipti, þá var hinn franski fyrrverandi bankastarfsmaður, Jérôme Kerviel, líklega einn fátækasti maður heims, en eignir hans voru neikvæðar um 6 milljarða dala vegna skaðabóta, sem hann var dæmdur til að greiða fyrrverandi vinnuveitanda sínum, Sociète Generale. Það er eitthvað óeðlilegt, þegar aðferðarfræðin kemst að þeirri niðurstöðu, að Kerviel standi efnahagslega hallari fæti en einstæður öryrki í Sómalíu. Kerviel hefur í sig og á - og vel það - og eflaust á hann eigin íbúð og bíl."
"Gallinn við þessa aðferðarfræði sést einnig, þegar staða fátækustu 10 % jarðarbúa er skoðuð. Þar er enginn Kínverji, en hins vegar eru 7,5 % af þessum hópi Bandaríkjamenn. Bandaríkjamenn eru hins vegar aðeins 0,21 % af næstfátækasta tíundarhlutanum og 0,16 % af þriðja neðsta tíundarhlutanum. Indverjar eru 16,4 % af fátækustu 10 % jarðarbúa. Trúir einhver því, að enginn Kínverji sé í þessum hópi í ljósi þess, að 7,5 % Bandaríkjamanna eru þar."
Hér er skrípaleikur með tölur notaður til að slá ryki í augu auðtrúa og varnarlítilla lesenda, sem fá kolranga mynd af fátækt í heiminum, og fyllast sumir heilagri vandlætingu yfir óréttlætinu, og loddarar reyna að telja fólki trú um, að eymdin stafi af ómennskri auðhyggju "heimskapitalismans". Á vitleysu af þessu tagi er síðan áróður jafnaðarmanna reistur. Sannleikurinn er sá, að þessi auðhyggja hefur lyft fleira fólki úr örbirgð til bjargálna á skemmri tíma undanfarin ár en nokkru sinni áður í sögunni. Jafnaðarstefnan jafnar kjörin niður á við, en auðhyggjan jafnar kjörin upp á við.
Sameignarstefnan, kommúnisminn, er ófær um nokkuð sambærilegt, og jafnaðarstefnan kaffærir hagvöxt markaðskerfis í háum sköttum og miklum ríkisafskiptum, sem ríða hagkerfinu á slig, sbr Svíþjóð á 9. áratug 20. aldar. Tilvitnuð furðulega tölfræði Oxfam á auðvitað rætur að rekja til þess, að Bandaríkjamenn eru með skuldsettustu mönnum, en kínverskur almenningur virðist ekki hafa sama vilja til skuldsetningar. Þar eru hins vegar fyrirtækin mjög skuldsett, og í Kína hefur verið fjárfest mikið í óarðbærum verkefnum, sem er að koma þeim í koll núna. Skuldsett hlutabréfakaup kínverks almennings hefur átt sér stað í einhverjum mæli, en stjórnvöld þar í landi hafa hvatt almenning til að styrkja hlutabréfamarkaðinn. Sami almenningur varð fyrir skelli við hrun hlutabréfamarkaðarins þar í landi haustið 2015, og þetta veldur nú stjórnmálalegum óróa.
"Þá er einnig áhugavert að sjá, hversu mikinn auð þarf til að komast í efstu stiga listans. Aðeins þarf um 500 dali í hreina eign, andvirði um kISK 65 til að teljast í hópi ríkustu 30 % jarðarbúa. Hrein eign upp á MISK 9,0 setur mann í ríkustu 10 %, og eru því ófáir Íslendingarnir, sem eru í þeim útvalda hópi. Þá þarf ekki hreina eign nema upp á MISK 98,3 til að komast í hið margfræga og alræmda 1 % jarðarbúa."
Þeir Íslendingar skipta hundruðum, sem eru í þessum síðast talda hópi, og mættu gjarna skipta þúsundum; því fleiri, þeim mun betra fyrir efnahag landsins.
Þá stendur í þessari óvönduðu og villandi skýrslu Oxfam, að eignir fátækasta hluta jarðarbúa hafi minnkað verulega. Hér gerir Oxfam þau mistök að miða við gengi myntar í viðkomandi landi m.v. bandaríkjadal, en leiðrétta þessa yfirfærslu ekki með kaupmætti. Þannig hefur auður heimila í Rússlandi og Úkraínu minnkað um 40 % frá 2014 til 2015 samkvæmt Oxfam skýrslunni, en á sama tíma féll gengi rússnesku rúblunnar um rúmlega 50 % og úkraínsku hrinjunnar um 70 % gagnvart USD. Þannig fæst mikið auðstap Rússa og Úkraínumanna, þegar mælt er í USD.
Niðurstaðan er, að þessar Oxfam skýrslur um eignaskiptingu í heiminum séu hreint fúsk og til þess eins ætlaðar að dreifa "disinformation", villandi upplýsingum, til að styrkja málstað vinstri manna hvarvetna og kynda undir öfund og þjóðfélagsóánægju. Allt of margir nytsamir sakleysingjar bíta á agnið. Spilling er það hins vegar, þegar auðurinn er nýttur til að beygja leikreglur markaðshagkerfis og frjálsrar samkeppni sér í vil, svo að ekki sé nú talað um tilraunir til að hefja sig yfir lögin í krafti auðs. Að hafa tvenns konar lög í einu landi gengur alls ekki; það eru forn sannindi og ný. Til þess bær yfirvöld verða að skakka slíkan ójafnan leik og beita til þess fullri hörku. Að öðrum kosti munu ósvífin öfgaöfl lýðskrumara og loddara ryðjast til valda á Vesturlöndum með óbætanlegu tjóni fyrir allar stéttir.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2016 | 13:37
Skattamál í sviðsljósi
Meginágreiningur stjórnmálanna um innanríkismálin er um þátttöku hins opinbera í starfsemi þjóðfélagsins og eignarhald á auðlindum og atvinnustarfsemi, þ.m.t. á fjármálakerfinu í landinu.
Hin borgaralegu viðhorf til þessara mála eru að leggja frjálsa samkeppni, markaðshagkerfið og dreift eignarhald með eignarhlut sem flestra, til grundvallar, en hið opinbera sjái um löggæzlu, réttarfar og öryggi ríkisins og annað, þar sem styrkleikar samkeppni og markaðar fá ekki notið sín.
Á Norðurlöndunum er þar að auki samhljómur um, að hið opinbera, ríkissjóður og sveitarfélög, fjármagni að mestu grunnþjónustu á borð við menntun, lækningar, vegi, flugvelli o.þ.h. Á Íslandi er ágreiningur um rekstrarformin, þ.e. hvort hið opinbera skuli vera beinn rekstraraðili eða geti fengið einkaframtakið til liðs við sig í verktöku með einum eða öðrum hætti.
Opinber rekstur er hlutfallslega mikill á Íslandi. Stærsti útgjaldaþáttur ríkisins er vegna sjúklinga. Þar er hlutdeild íslenzka ríkisins 80 %, en að jafnaði 72 % í OECD. Árið 2012 námu útgjöld íslenzka ríkissjóðsins vegna sjúkra 7,2 % af VLF, en þetta hlutfall var að jafnaði 6,6 % í OECD.
Kári Stefánsson, læknir, berst fyrir því, að heildarframlög í þjóðfélaginu til sjúklingameðferðar hækki sem hlutfall af VLF. Hann getur þess þá ekki, að framlög ríkisins í þennan málaflokk eru með því hæsta, sem þekkist, og til að auka heildarframlögin er þá nær að auka hlutdeild sjúklinga upp að vissu marki til jafns við aðrar þjóðir OECD.
Þetta er þó í raun og veru deila um keisarans skegg, því að markmið allra ætti að vera hámörkun á nýtingu takmarkaðs skattfjár, þ.e. velja ber rekstrarform, sem uppfyllir gæðakröfur fyrir lægstu upphæð. Þetta hljómar einfalt, en það getur tekið tíma að finna þetta út í raun, og þá má hafa hliðsjón af reynslu annarra þjóða. Almenna reynslan er sú, að með því að virkja markaðshagkerfið má nýta skattfé betur en með opinberum rekstri. Við mat á þessu þarf þó að taka tillit til íslenzkra aðstæðna, t.d. mjög lítils markaðar, þar sem ógnir fákeppninnar vofa víða yfir. Nýkynnt umbót heilbrigðisráðherra við fjármögnun heilsugæzlustöðva virðist framfaraskref í þessu tilliti, þar sem opinber- og einkarekstur fær að keppa á jafnréttisgrundvelli. Er líklegt, að bæði framleiðni og gæði starfseminnar vaxi við þessa nýbreytni.
Það hlýtur að vera stefnumál allra sanngjarnra manna, að launamenn haldi eftir til eigin ráðstöfunar sem mestum hluta eigin aflafjár. Hið sama á við um fyrirtækin, því að hörð skattheimta á hendur þeim takmarkar getu þeirra og áræðni eigenda til vaxtar, nýráðninga og fjárfestinga, sem eru undirstaða framtíðar lífskjara í landinu.
Hér verður fyrst tínt upp úr Staksteinum Morgunblaðsins 19. janúar 2016, þar sem vitnað er til Ásdísar Kristjánsdóttur, hagfræðings, á skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og SA:
"Heildarskatttekjur hins opinbera (ríkisins, innskot BJo)voru 35 % af landsframleiðslu hér á landi árið 2014. Með þessu háa hlutfalli sláum við út nánast allar þær þjóðir, sem við viljum bera okkur saman við. .... Í Svíþjóð, sem seint verður talin skattaparadís, er hlutfallið t.d. "aðeins" 33 % og í Finnlandi 31 %."
Ef Kári fengi sitt fram um aukin framlög úr ríkissjóði án sparnaðar á móti, sem vonandi verður ekki í einu vetfangi, myndi þurfa að afla samsvarandi tekna á móti, og þá mundi síga enn á ógæfuhlið landsmanna varðandi umsvif opinbers rekstrar, og hlutfall ríkistekna verða um 38 % af VLF, sem kæmi niður á ráðstöfunartekjum almennings í landinu og væri fallið til að draga úr hagvexti.
Í raun þarf ekki frekari vitnana við um, að skattheimtan er orðin of þungbær á Íslandi, virkar þar af leiðandi samkeppnishamlandi við önnur lönd og hægir þar með á lífskjarabata í landinu. Það er þess vegna brýnt að minnka skattheimtuna með því að draga úr álagningunni. Barátta Kára fyrir auknum ríkisútgjöldum til sjúklinga sem hlutfall af VLF er algerlega ótímabær, en þetta hlutfall hækkar þó óhjákvæmilega smám saman, þegar elli kerling gerir sig heimakomna hjá fleiri landsmönnum.
Hér verður velt vöngum um, hvernig hægt er að minnka skattheimtuna án þess að ógna jafnvægi ríkissjóðs.
Vinstri stjórnin 2009-2013 hækkaði skattheimtuna upp úr öllu valdi án þess á hinn bóginn að hafa erindi sem erfiði með skatttekjur ríkisins. Hún kleip líka utan af fjárveitingum til grunnþjónustu, sjúkrahúsa og skóla, og skar samgöngumálin niður við trog, allt án tilrauna til kerfisuppstokkunar. Síðan var fé sólundað í gæluverkefni stjórnarinnar, sem öll voru andvana fædd.
Þessa stjórnarhætti má nefna óráðsíu, og þess vegna var hagkerfið í hægagangi og mikil uppsöfnuð fjármunaþörf í þjóðfélaginu, þegar borgaralega ríkisstjórnin tók við 2013. Af þessum ástæðum hefur útgjaldahlið ríkissjóðs þanizt út á þessu kjörtímabili, þó því miður ekki til samgöngumála, en tekjurnar hafa þó hækkað meira þrátt fyrir takmarkaðar lækkanir skattheimtu og niðurfellingu tolla og vörugjalda, nema af jarðefnaeldsneyti og farartækjum knúnum slíku eldsneyti.
Vinstri stjórnin jók skuldir ríkissjóðs öll sín valdaár, eins og vinstri stjórnir gera alltaf, og svo var komið, að árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs fóru yfir miaISK 80. Með því að lækka skuldir um miaISK 800 á núverandi kjörtímabili, sem er mögulegt með bankaskattinum, stöðugleikaframlagi bankanna og sölu ríkiseigna, má lækka skuldir ríkisins úr núverandi 64 % af VLF í 24 % af VLF, sem gæti verið lægsta hlutfall í Evrópu og er ávísun á hærra lánshæfismat landsins. Við þetta mundi árleg vaxtabyrði ríkissjóðs lækka um miaISK 50 og verða undir miaISK 30. Þetta mun skapa ríkissjóði svigrúm til að auka samkeppnishæfni Íslands um fólk og fyrirtæki með skattalækkunum og uppbyggingu arðsamra innviða á borð við vegi, brýr, jarðgöng og flugvelli.
Skattar á íslenzk fyrirtæki án tryggingagjalds og tekna af þrotabúum nema 4,9 % af landsframleiðslu hér, sem er meira en þekkist nokkurs staðar annars staðar, og er t.d. meðaltalið í OECD 3,0 %. Það er t.d. brýnt að stórlækka og breyta álagningu og ráðstöfun hins ósanngjarna auðlindagjalds á sjávarútveginn til að jafna stöðu hans við aðra atvinnuvegi og gera hann betur í stakkinn búinn að búa við aflasveiflur og markaðssveiflur án skuldasöfnunar. Nú hefur Hæstiréttur dæmt, að sveitarfélög mega leggja fasteignagjöld á vatnsréttindi orkufyrirtækja, þó að ágreiningur sé enn um álagningarflokkinn. Hér er um að ræða ígildi auðlindargjalds á orkuiðnaðinn, sem fallið er til þess að jafna aðstöðu athafnalífs í landinu, sem hið opinbera má ekki gera sig sekt um að skekkja.
Í Viðskipta Mogganum 17. september 2015 hefur Margrét Kr. Sigurðardóttir eftirfarandi eftir téðri Ásdísi:
"Viðbótartryggingargjaldið, sem atvinnulífið er enn að greiða til ríkisins, reiknast okkur til, að séu líklega nær miaISK 20 á hverju ári."
Tekjur af tryggingagjaldi voru árið 2008 miaISK 53 og hafa aukizt til 2015 um miaISK 26 bæði vegna álagningarhækkunar vinstri stjórnarinnar úr 5,5 % af launum í 7,49 % og vegna stækkunar vinnumarkaðarins og minna atvinnuleysis. Það verður svigrúm fyrir ríkissjóð til að gefa miaISK 20-30 eftir á árunum 2016-2017, ef fram fer sem horfir, enda er ekki vanþörf á að létta á fyrirtækjunum til að bæta samkeppnishæfni þeirra, sem versnar við launahækkanir umfram framleiðniaukningu og með sterkari ISK.
Talið er, að skattsvik í landinu nemi um miaISK 80 eða 4% af VLF. Þó að aðeins næðist í helminginn af þessu, er þar um gríðarupphæð að ræða, sem á hverju ári slagar upp í ofangreindan vaxtasparnað ríkisins. Aukið svigrúm ríkisins til innviðauppbyggingar gæti þannig numið miaISK 90 innan tíðar, ef vel verður á spilunum haldið, en það er borin von að svo verði, ef glópum verður hleypt að ríkisstjórnarborðinu í kjölfar næstu kosninga. Þá munu efnilegar horfur breytast til hins verra á svipstundu vegna trúðsláta og sirkussýninga. Vítin eru til þess að varast þau. "ALDREI AFTUR VINSTRI STJÓRN." Steingrímur í skjóli pírata er óbærileg tilhugsun.
Um skattsvik ritaði Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, þann 29. október 2015 í Morgunblaðið, greinina:
"Lífeyris- og bótasvik tengjast skattsvikum":
"Ferðabransinn (sic) er gróðurreitur svartrar vinnu og skattsvika. Ört vaxandi hlutur greinarinnar í þjóðarbúskapnum þýðir, að hlutfallslega sífellt færri munu standa undir velferðarkerfinu með beinum sköttum í framtíðinni. Skattsvikin munu fljótlega valda óviðráðanlegu misvægi; það verður ekki unnt að leysa málið með því að láta innan við þriðjung þjóðarinnar borga sífellt hærri beina skatta. Sjálft velferðarkerfið er í húfi. Skattsvik hafa lengi reynzt átaksill, en eru ekki viðfangsefni þessarar greinar. Óbeina skatta þurfa allir að greiða, skattsvikarar og ferðamenn líka. Á meðan ekki finnst nein lausn á þeim vanda, sem skattsvikin eru, ættu stjórnvöld fremur að auka óbeina skatta en minnka þá, ólíkt því, sem nú er stefnt að."
Hér er talað tæpitungulaust um skattsvik og spjótunum beint sérstaklega að ferðaþjónustunni. Stjórnvöld eru nú einmitt að fækka undanþágum frá virðisaukaskatti og stefna á að jafna aðstöðu allra atvinnugreina m.t.t. skattheimtu. Einfaldast og skilvirkast er auðvitað að hafa aðeins eitt virðisaukaskattþrep, en sumir þrýstihópar mega ekki heyra það nefnt. Veruleg fækkun undanþága er sjálfsagt mál, og ferðaþjónustan hlýtur að flytjast senn hvað líður í hærra virðisaukaskattsþrepið með alla sína þjónustu. Vonandi verður þá hægt að lækka það.
Afnám vörugjalds og tolla var jafnframt góður gjörningur til að bæta lífskjörin í landinu og lækka verðlag, sem hefur stungið í stúf við verðlag nágrannalandanna. Þessar aðgerðir stjórnvalda voru þess vegna til þess fallnar að bæta samkeppnisstöðu Íslands um fólk og viðskipti.
Nú er átak í gangi hjá skattyfirvöldum á Íslandi og annars staðar að hafa uppi á skattsvikurum, en betur má, ef duga skal. Skattrannsóknarstjóri fékk nýlega gögn erlendis frá um fé í skattaskjólum, en afrakstur þeirrar rannsóknar hefur ekki farið hátt hérlendis. Skattsvik eru þjóðfélagsböl, sem yfirvöldum ber að sýna klærnar og enga miskunn.
Ragnar Önundarson gerði moldvörpurnar að umræðuefni í téðri grein:
"Varaþingmaður tók nýlega sæti á Alþingi og hóf strax umræðu um erfið kjör aldraðra og vildi auka útgjöld án þess að gera tillögu um öflun tekna. Allir geta verið sammála um, að aldraðir eigi skilin betri kjör, en aldrei kemur fram neinn skilningur á rótum vandans og þaðan af síður raunhæf tillaga um lausn. Ekkert er minnzt á þá fjölmörgu hátekjumenn, sem vandanum valda. Það eru skattsvikararnir, sem hvorki greiða skatta né í lífeyrissjóð í gegnum lífið, og það fer saman.
Þriðju svikin þeirra eru "bótasvikin"; að vera á bótum, sem þeir eiga ekki rétt á í raun. Hefðbundin rök fyrir útgjöldum án tekna þess efnis, að aldraðir hafi "byggt þetta samfélag upp" o.s.frv., eru augljóslega röng í tilviki skatt- og lífeyrissvikara. Þeir heimta betri kjör og fyrsta flokks þjónustu, hafandi árum og áratugum saman stolið tekjum af þeim sameiginlega sjóði, sem greiðir velferðarkerfið. Þeir hafa efni á lúxus, sem aðrir geta ekki leyft sér, snjósleðum, fjórhjólum, hestum, hestakerrum og aflmiklum trukkum til að draga herlegheitin fram og til baka fyrir framan nefið á þeim, sem borga skólagöngu barnanna þeirra og heilbrigðisþjónustu þeirra og fjölskyldu þeirra. Þessir menn valda því, að ríkissjóður sker lífeyri fólks, sem býr við alvarlega fötlun og veikindi, við nögl. Það er þreytandi að hlusta á innantóm orð þingmanna og loforð um útgjöld, en hvenær sem komið er að kjarna vandans, horfa þeir í hina áttina."
Margir Íslendingar geta skrifað undir þetta, og það er harmsefni, af því að ástandið, sem lýst er, ber vitni um þjóðfélagslega meinsemd og óréttlæti, sem stjórnvöld alls lýðveldistímans hafa ekki borið gæfu til að taka á af einurð og karlmennsku, heldur látið dankast og kaffærast í gagnslítilli skriffinnsku. Þessi þjóðfélagslegi tvískinnungur að líða það, að ekki séu allir jafnir fyrir skattalögunum, er áreiðanlega rót töluverðrar þjóðfélagsóánægju, sem stjórnmálamönnum allra flokka væri sæmst að leita lausna á og hrinda úrbótum í framkvæmd.
Það nær engri átt, hversu fáir þjóðfélagsþegnar á vinnumarkaðinum leggja eitthvað teljandi að mörkum til sameiginlegra þarfa af launum sínum, eins og Ragnar Önundarson benti á, og sniðgöngumenn ættu að hafa hægt um sig, þegar kemur að því, að þeir telji sig hafa öðlast rétt á framlagi úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Afætur eru þeir, og afætur skulu þeir heita. Megi skömm þeirra lengi uppi vera.
Að lokum skal hér vitna í John Fitzgerald Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseta:
"Efnahagskerfi, sem þrúgað er af háum sköttum, mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, og það mun heldur aldrei skapa nægilegan hagvöxt né nægilega mörg störf."
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2016 | 11:48
Ójafnvægi á orkumarkaði
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ójafnvægi af ýmsum toga ríkir á orkumarkaði um allan heim. Á heimsmarkaði er ofgnótt jarðolíu af fjórum ástæðum:
Bandaríkjamenn eru orðnir nánast sjálfum sér nógir um olíu og jarðgas eftir að hafa þróað nýja vinnslutækni úr jörðu, bergbrot eða setlagasundrun (e.hydraulic fractioning). Framleiða þeir um þessar mundir 9 Mtu/dag (milljón tunnur (föt) á sólarhring).
Efnahagslægð á heimsvísu hefur dregið úr olíunotkun, einkum í Kína, þar sem samdráttarskeið gæti verið í uppsiglingu, ekki bara minnkun hagvaxtar.
Þá hafa Arabar af trúflokki sunníta með Sauda í broddi fylkingar ekki þorað að draga úr olíuvinnslu sinni af ótta við að missa við það markaðshlutdeild til fjandmanna sinna,Persanna, sem eru af trúflokki sjíta. Átök og valdabarátta á milli Araba og Persa munu stigmagnast og hindra olíuverðshækkun, nema stórfelld, blóðug átök brjótist út á milli þeirra með skemmdum á olíuvinnslu og ógn við flutningaskip sem afleiðingu. Til lengri tíma litið, 5 ára, mun ný orkutækni ryðja sér til rúms á kostnað jarðefnaeldsneytis.
Það verður líka að telja til ójafnvægis á orkumarkaði, að yfirvöld sums staðar í hinum vestræna heimi hafa greitt niður orkuverð frá vindrafstöðvum og sólarhlöðum. Þetta hefur skekkt samkeppnisstöðuna og ekki haft í för með sér minni losun gróðurhúsalofttegunda, eins og látið var í veðri vaka, heldur þvert á móti. Önnur raforkuver án kolefnislosunar hafa fyrir vikið átt erfitt uppdráttar og sum hrökklazt út af markaði og verið lokað. Má þar t.d. nefna kjarnorkuver.
Í ljósi hins stutta nýtingartíma sólarhlaða og vindrafstöðva, 10 % - 30 % (sumar vindmyllur á Íslandi ganga þó á fullum afköstum 40 % af tímanum) er ljóst, að annars konar orkuver þurfa að hlaupa í skarðið 70 % - 90 % af tímanum. Oftast hafa það verið eldsneytisknúin orkuver, svo að afraksturinn fyrir umhverfið af téðum orkuverum endurnýjanlegra auðlinda er neikvæður m.v. að reisa almennilegt kolefnisfrítt orkuver, t.d. kjarnorkuver, sem getur staðið undir grunnaflsþörfinni.
Þá hingað heim. Sagt er, að heimilisbölið sé verst, og þannig er háttað á Íslandi, að orkuvandamálið er skortur á afli og orku í náinni framtíð. Það hefur verið framkallað með langtímasamningum ON og Landsvirkjunar, aðallega hins síðar nefnda, við 4 kísilfyrirtæki, eins og hér segir:
Kísilver Heildaraflþörf Gangsetning Framl.
United Silicon 140 MW 2016 88 kt/a
PCC Bakki 104 MW 2017 56 kt/a
Silicor-hreinkís. 85 MW 2018 19 kt/a
Thorsil Helguvík 174 MW 2018 108 kt/a
Á Íslandi nam vinnsla raforku árið 2015 18´120 GWh, og má þá ætla m.v. árið áður, að toppurinn hafi numið 2400 MW. Það er sama aflið og gera má ráð fyrir, að ætíð sé tiltækt í kerfinu núna, ef 10 % eru dregin frá heildar uppsettu afli í vatnsafls- og jarðgufuvirkjunum vegna viðhalds og bilana, rennslisvandamála eða gufuleysis.
Næsta virkjun Landsvirkjunar, Þeistareykir, 90 MW, á að komast í gagnið á hálfu afli 2017. Hins vegar á fyrra kísilverið í Helguvík að koma inn með fjórðungsálag, 35 MW, árið 2016, svo að Landsvirkjun virðist setja á Guð og gaddinn veturinn 2017. Ef vatnsbúskapur verður þá undir meðallagi og/eða gufuöflun verður undir væntingum, þá mun líklega koma til aflskerðinga veturinn 2017.
Mikill hagvöxtur 2016-2017 gerir afl- og orkuskort á þessum tíma enn líklegri en ella, því að búast má við 3 % aukningu afl- og orkuþarfar hvort árið um sig án tillits til hinnar nýju stóriðju. Ástandið, sem skrifa verður á reikning stjórnar Landsvirkjunar, er alvarlegt, því að það mun hafa í för með sér tugmilljarða framlegðartap fyrir atvinnureksturinn í landinu og verða notendum afgangsorku vítt og breitt um landið svipað efnahagsáfall og lokun rússneska markaðarins. Þetta er hins vegar heimatilbúinn vandi, sem skapazt hefur, af því að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun hefur ekki hirt um að virkja í tæka tíð. Púðrið fór í baunatalningu og raup um mikinn hagnað ásamt lofsöng um væntan gróða af afl- og orkusölu til Bretlands um sæstreng, sem brezka ríkisstjórnin hefur nú kistulagt með stefnubreytingu varðandi fjárhagsstuðning við "græna orku" inn á enska markaðinn.
Næsta virkjun á eftir Þeistareykjum, Búrfell 2, fer ekki á útboðsstig fyrr en 2016, sem að mati blekbónda er þremur árum of seint. Þetta er óskiljanlegt seinlæti. Virkjunin á að verða 100 MW, en mun framleiða minni orku fyrst um sinn en efni standa til, af því að miðlunargeta vatnasviðs Þjórsár/Tungnaár er orðin allt of lítil fyrir núverandi orkuþörf, hvað þá stækkandi kerfi. Búrfell 2 á að komast í gagnið árið 2018. Þar með hafa bætzt við aflgetu kerfisins 190 MW, en leggi menn saman aflþörf kísilveranna, fá menn út 503 MW. Eitthvað mun þá hafa skilað sér inn af smávirkjunum til að mæta almennri aukningu og niðurdrætti í gufuforðabúrum, en það virðist verða um 300 MW vöntun á afli árin 2018-2020, sem er reginhneyksli í landi ofgnóttar virkjanlegrar frumorku.
Ekkert fæst úr þessu bætt fyrr en Hvammsvirkjun og stækkanir Bjarnarflags, Kröflu og Blöndu, komast í gagnið, Guð veit hvenær, með þessu sleifarlagi, og þær afkasta aðeins 250 MW. Ætlar Alþingi að taka því með þegjandi þögninni, að hér verði æpandi rafmagnsskortur árum saman ? Það er flotið sofandi að feigðarósi, enda maðkur í mysunni.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2016 | 10:29
Greiðslur Tryggingastofnunar hækkað tvöfalt á við laun
Afar áhugaverð Baksviðsfrétt eftir Helga Bjarnason birtist í Morgunblaðinu 22. október 2015. Stingur hún illilega í stúf við þann endemis barlóm, sem hafður hefur verið uppi um kjör skjólstæðinga Tryggingastofnunar í hinum eilífa og hvimleiða stéttasamanburði, sem landlægur er hérlendis og kynt er undir af óprúttnum lýðskrumurum, sem sumir hverjir voru við völd hér á síðasta kjörtímabili og sýndu þá landslýð hug sinn í raun og hvers þeir eru megnugir.
Forseti Alþýðusambandsins hefur einnig farið mikinn um hag skjólstæðinga Tryggingastofnunar, en allt hefur það verið í slagorðastíl hins metnaðarfulla jafnaðarmanns, sem oftar en ekki gleymir því, að hann er forseti allra félaga í ASÍ félögunum, en ekki bara félaga í Samfylkingunni. Málflutningur af þessu tagi er áróðursmönnum aðeins stundarfró í samanburði við staðreyndir málsins, sem t.d. eru bornar fram af Páli Kolbeins í Tíund Ríkisskattstjóra. Verður nú vitnað í Morgunblaðsfrétt, sem reist er á Tíund:
"Landsmenn töldu fram tæplega 838 miakr í laun og hlunnindi í framtölum 2015. Álagning 2015 er vegna tekna 2014. Launin voru liðlega 48 miakr hærri eða 6,1 % hærri að raunvirði árið 2014 en árið áður. Laun og hlunnindi voru voru þá svipuð og árið 2008, þegar efnahagur landsins tók dýfu. Þau hafa hækkað ár frá ári frá 2010, þegar botninum var náð, samtals um tæpa 106 miakr. Páll bendir á, að það vanti aðeins rúmlega 75 miakr upp á, að þau verði jafnhá og og þau voru árið 2007, þegar uppsveiflan náði hámarki. (Þau náðu þessu marki 2015 - innsk. BJo.)
Við launatekjur bætast ýmsir tekju- og frádráttarliðir, sem saman mynda tekjuskattsstofn. Þar á meðal eru greiðslur frá Tryggingastofnun, alls tæplega 74 miakr, og hækkuðu um 10,5 % frá árinu á undan. "Það er athyglisvert, að greiðslur frá Tryggingastofnun hafa hækkað um 27,2 % að raunvirði frá árinu 2010 á sama tíma og laun hafa hækkað um 14,4 %. Þá lækkuðu tryggingabætur ekki í hruninu, ólíkt launum. Þær hafa hækkað um 27,1 %, ef miðað er við árið 2007, en launagreiðslur eru enn 8,2 % lægri en þær voru þá", skrifar Páll í Tíund."
Af þessum upplýsingum að dæma er engum blöðum um það að fletta, að á heildina litið hefur samfélagið staðið vel og rausnarlega við bakið á skjólstæðingum Tryggingastofnunar, og mættu þeir, sumir hverjir á köflum, sýna meiri þakklætisvott fyrir rausnarskap ríkisins í þeirra garð en raun ber vitni um. Einhverjum gæti vissulega komið til hugar í þessu sambandi orðtakið: "sjaldan launar kálfur ofeldi".
Íþessu samhengi má ekki gleyma þætti lífeyrissjóðanna, en nú hefur verið samið um að stórefla almennu lífeyrissjóðina með auknu framlagi frá vinnuveitendum til samræmis við ríkisframlag til lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna. Má segja, að framlag vinnuveitenda sé komið í hæstu hæðir, þegar virtur framkvæmdastjóri stórs lífeyrissjóðs setur opinberlega fram spurningu um það, hvort hærra framlag kunni hugsanlega að vera betur komið í vasa launþeganna.
Íslenzkir lífeyrissjóðir eru orðnir ein styrkasta stoð hagkerfisins og til fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi. Sjóðfélagar fá úr þeim lífeyri í hlutfalli við framlag yfir starfsævina, og þeir eiga alfarið séreignarsparnaðinn. Blekbóndi er nýlega skriðinn yfir ellilífeyrisaldursmörkin, og þá kemur í ljós ólíkt eðli Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna, því að ellilífeyrir Tryggingastofnunar, reistur á tekjuáætlun, nemur aðeins 10 % af greiðslum úr lífeyrissjóði blekbónda. Þetta sýnir, að Tryggingastofnun virkar nú sem öryggisnet, en lífeyrissjóðirnir standa undir framfærslu þeirra, sem í þá hafa greitt um starfsævina. Það er ástæðulaust að gagnrýna þetta fyrirkomulag.
Lýðfræðinni á Íslandi er í grundvallaratriðum háttað svipað og í flestum öðrum ríkjum, þannig að meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi. Þó að Ísland sé í þeirri góðu stöðu, að fæðingartíðni er með þeim hætti, að þjóðinni fer fjölgandi, þá fjölgar tiltölulega meira í hópi eldri borgara en yngri, sem leiðir til þess, að meiri opinberar fjárhagsbyrðar leggjast á vinnandi fólk eftir því, sem tímar líða. Þar er bæði um að ræða kostnað Tryggingastofnunar vegna annars en veikinda og kostnað Sjúkratrygginga Íslands. Sjálfbærri skattbyrði eru takmörk sett, þ.e. skatttekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hækka upp að ákveðinni skattheimtu (álögum), en lækka, ef skattheimtan keyrir úr hófi fram. Það er þess vegna alls ekki svo, að útgjöld hins opinbera tryggingakerfis geti haldið lengi áfram að hækka hlutfallslega meira en launin, eins og reyndin hefur verið undanfarið samkvæmt upplýsingum Tíundar.
Þarna mun hið ágæta lífeyrissjóðskerfi landsmanna, sem nú er enn verið að styrkja, eins og áður segir, komið til bjargar, svo að ekki snarist á merinni hjá ríkissjóði. Lífeyrissjóðirnir eru nú þegar orðnir þungavigtaraðilar við lífsframfæri eldri borgara og sjá þeim mörgum hverjum fyrir a.m.k. helmingi framfærslufjár. Þeir, sem höfðu getu og forsjálni til sparnaðar í séreignadeildum lífeyrissjóðanna, geta að öðru jöfnu horft nokkuð björtum augum fram til elliáranna.
Sitt sýnist þó hverjum um aðferðir lífeyrissjóðanna og umsvif á markaði við ávöxtun fjár umbjóðenda sinna, en þeir eru þó á heildina litið eitt hið jákvæðasta, sem íslenzkt samfélag hefur að bjóða í samanburði við önnur lönd. Sérstaklega verður að gjalda varhug við miklum fjárfestingum lífeyrissjóða í bönkum. Það er áhættusamt, eins og dæmin sanna, og lífeyrissjóðir eru stórir eignaraðilar í mörgum viðskiptavina bankanna. Nær væri að skapa þeim tækifæri til að fjárfesta í Landsvirkjun.
Nú er framundan samræming lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna markaðinum, og er það réttlætismál. Samhliða verða greiðslur fyrirtækja í almennu lífeyrissjóðina auknar til samræmis við hið opinbera, og verða lífeyrissjóðirnir þá enn betur í stakk búnir að fást við auknar byrðar, sem af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar stafar. Þetta er þveröfugt við óheillaþróun, sem virðist nú eiga sér stað víðast hvar í Evrópu, þar sem s.k. gegnumstreymissjóðir, fjármagnaðir af viðkomandi ríkissjóði, eru við lýði, og munu fyrirsjáanlega ekki geta staðið við skuldbindingar sínar við skjólstæðinga sína, sem horfa þá fram á verri kjör en foreldrar þeirra hafa notið.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
22.1.2016 | 13:27
Evruhagkerfi og krónuhagkerfi - samanburður
Olivier Blanchard er fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF. Bændablaðið rekur fimmtudaginn 22. október 2015 ummæli hans í brezka blaðinu The Telegraph:
"Evran mun verða keyrð inn í varanlegt slen, ef farið verður í nánari efnahagslegan samruna ESB-ríkjanna. Það mun ekki leiða til neinnar hagsældar í þessu kreppulaskaða bandalagi."
Bændablaðið heldur áfram:
"Í framhaldi af vandræðum Grikkja hafa margir leiðtogar í ESB lagt mikla áherzlu á myndun yfirþjóðlegrar stofnunar á borð við fjármálaráðuneyti og þing. Er það talið mikilvægt til að ljúka ferli við myndun fjármála- og gjaldmiðilsbandalags, sem hófst fyrir 15 árum. Í fararbroddi fyrir þessum skoðunum hafa farið Francois Hollande, Frakklandsforseti, Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Mario Draghi, bankastjóri seðlabanka evrunnar. Orð Blanchards koma eins og köld vatnsgusa framan í þessa menn, sem haldið hafa uppi áróðri fyrir nauðsyn á myndun ofurríkis ESB (EU superstate), sem næsta skrefi samþættingar fjármálakerfisins."
Nokkru síðar í grein Bændablaðsins stendur:
"Eins hefur upptaka evrunnar alla tíð verið forsendan í rökum aðildarsinna fyrir inngöngu (Íslands) í ESB, en ljóst virðist af orðum Blanchards, að staða evrunnar er og verður mjög veik. Hvort sem er í núverandi myntsamstarfi eða eftir myndun hugsanlegs ofurríkis Evrópu."
Það er athyglivert, að allir þessir 3 tilgreindu áhugamenn um nánari samruna ESB-ríkjanna á fjármálasviðinu, eru frá rómönskum ríkjum, en enginn frá germönsku ríkjunum, hvað þá slavneskum. Það sem hangir á spýtunni er fjármagnsflutningur frá norðri til suðurs. Um það verður aldrei eining.
Vöxtur þjóðarframleiðslu (e. GDP) er ágætis mælikvarði á styrk hagkerfa. Fyrstu ár evrunnar lofuðu góðu, en síðan árið 2003 hefur sigið á ógæfuhlið fyrir evruna í samanburði við bandaríkjadal, USD, í þessum efnum, og frá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, hefur keyrt um þverbak, því að "evruhagkerfið" hefur orðið stöðnun að bráð og ekki náð sér á strik, á meðan góður hagvöxtur hefur verið í BNA. Enn berst Mario Draghi og evrubanki hans við hættu, sem hann telur evruþjóðunum stafa af verðhjöðnun. Hætt er við, að "evruland" sé dæmt til stöðnunar vegna skuldasöfnunar og öldrunar samfélaganna.
Sé vísitala þjóðarframleiðslu sett á 100 í "evrulandi" og BNA árið 2000, er svo komið við árslok 2015, að þessi vísitala var 140 í BNA og aðeins 120 í "evrulandi". Meðalvöxturinn var 2,50 %/ár í BNA, en 1,25 %/ár í "evrulandi". Þessi munur getur gert gæfumuninn t.d. við að greiða niður skuldir og ná jafnvægi í opinberum rekstri.
Um miðjan desember 2015 hækkaði Seðlabanki BNA stýrivexti sína í fyrsta sinn síðan 2006, en stýrivextir evrubankans eru fastir undir núlli, og mánaðarlega úðar bankinn tugum milljarða evra yfir bankakerfi "evrulands" til að koma í veg fyrir verðhjöðnun. Sjúklingurinn fær með öðrum orðum stöðugt næringu í æð án þess hann sýni nokkur merki um að hjarna við. Á sama tíma lækkar gengi evrunnar og er nú USD/EUR=0,92, en var lengi vel um 0,7. Jafnvel olíu-og gasverðslækkun hefur ekki dugað í þokkabót til að örva hagkerfi evrunnar, en olíu- og gasverðslækkun ætti að öðru jöfnu að örva Evrópu utan Rússlands og Noregs meira en BNA (Bandaríki Norður-Ameríku framleiða sjálf mikið af jarðefnaeldsneyti). Þetta bendir til, að hinir svartsýnustu fyrir hönd evrunnar hafi haft mikið til síns máls. Hún er ekki á vetur setjandi, ef hún veldur víðast hvar lakari lífskjörum en sjálfstæður gjaldmiðill mundi gera. Evran er kannski gjaldmiðilstilraunin, sem mistókst.
Sabine Lautenschläger situr í bankaráði Seðlabanka evrunnar fyrir Þýzkaland. Eftir henni hefur Bændablaðið m.a., að "varnarleysi margra ríkja innan evrusvæðisins liggi í slæmri skuldastöðu, bæði hvað varðar opinberar skuldir og skuldir í einkageiranum. Þetta myndi flöskuháls, sem komi í veg fyrir aukna framleiðni og vöxt." Þýzki seðlabankinn lagðist gegn og er mótfallinn núverandi evruspreði Mario Draghis og telur hann með því efna niður í framtíðar verðbólgu, sem er eðlilega eitur í beinum Þjóðverja, enda er hún meinvættur, hvar sem hún stingur sér niður. Þetta skyldu Íslendingar hafa ofarlega í huga, en á það skortir enn. Þó eru Íslendingar illa brenndir af verðbólgubálinu, en samt ekki eins illa og hin þýzka þjóð Weimarlýðveldisins.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að skuldir íslenzkra heimila og fyrirtækja hafa lækkað mikið á yfirstandandi kjörtímabili vegna fjölþættra aðgerða stjórnvalda, bættra tekna og nýs viðhorfs til skulda. Jafnvel skuldir sveitarfélaga á Íslandi hafa lækkað að jafnaði, þótt staða sumra þeirra sé skelfileg, og meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur er ekki barnanna beztur í þessum efnum. Hvernig skyldi þessu vera háttað hjá íslenzka ríkinu ?
Árið 2006 námu skuldir ríkissjóðs 17 % af VLF (vergri landsframleiðslu) og jukust í krónum talið og sem hlutfall af VLF til ársins 2013 og voru í hámarki árið 2012 1495 miaISK eða 86 % af VLF. Árið 2015 lækkuðu þær um tæplega 90 miaISK, og fóru þá niður í 64 % af VLF. Það er einsýnt, að árið 2016 munu skuldir ríkissjóðs fara vel undir 60 % af VLF, sem er lægra en hjá flestum í "evrulandi", en jafnframt eitt af s.k. Maastricht viðmiðum til að verða fullgildur í s.k. EMU II samstarfi, sem er fordyri evrunnar.
Athugum, hvað Morgunblaðið, Baldur Arnarson, hefur eftir Yngva Harðarsyni, framkvæmdastjóra Analytica, þann 22. október 2015:
"Endurgreiðsla ríkissjóðs á erlendum skuldum á síðast liðnum 12 mánuðum nemur um 98 miaISK, og eru þar af um 96,5 miaISK vegna uppgreiðslna fyrir lokagjalddaga. Áætlaður heildarsparnaður vegna þessa nemur um 4,8 miaISK. Í fjárlagafrumvarpi 2016 kemur fram, að áætlað er, að vaxtagjöld fram til ársins 2019 lækki um 14 miaISK. Það er því ljóst, að miklir hagsmunir felast í lækkun skulda ríkissjóðs á næstu mánuðum og misserum."
Af samanburði á þessum lýsingum á hagkerfum "evrulands" og Íslands má afdráttarlaust álykta, að Ísland er á allt öðru og giftusamlegra róli en ríkin á meginlandi Evrópu eru flest. Meginskýringarnar eru þrjár:
Í fyrsta lagi ganga 2 af 3 auðlindaknúnu meginútflutningsatvinnuvegunum vel.
Í öðru lagi er lýðfræði Íslands landsmönnum hagstæð, þ.e. það er þokkaleg viðkoma á mannfólkinu.
Í þriðja lagi bera Íslendingar ekki klafa hárra útgjalda til ESB og eru ekki neyddir til að sækja lykilákvarðanir um auðlindastjórnun sína til Brüssel, þar sem ákvarðanir ráðast að lokum af hrossakaupum ráðherra aðildarlandanna, sem fara með viðkomandi málaflokk, t.d. sjávarútveg. Slíkt ráðslag hefur gefizt illa og valdið ofveiði á flestum tegundum í lögsögu ESB. Við höfum fengið smjörþefinn af þessu ráðslagi á samningafundum með ESB o.fl. um deilistofnana.
Í stuttu máli skiptir sköpum fyrir lífskjör á Íslandi, að landið sé ekki innan vébanda ESB. Það er nóg að vera þar með aðra löppina sem aðili að EES. Hin löppin er frjáls, og hún getur spriklað, þegar tilmæli koma frá Brüssel um viðskiptaþvinganir eða annað, sem "kommissarar" hafa kokkað upp og hlotið hefur blessun Berlínar og Parísar.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2016 | 14:39
Hraðlest á fölskum forsendum
Af frétt í Fréttablaðinu hinn 16. desember 2015 undir fyrirsögninni "Samstarf um skipulag vegna hraðlestar" að dæma sem og fréttinni "Lestin skilar 13 milljörðum á fyrsta ári" þann 16. desember 2015 í sama Fréttablaðinu er einsýnt, að undirbúningsfasi verkefnisins um járnbrautarlest á milli Vatnsmýrar í Reykjavík og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er kominn á spor. Það er hins vegar víxlspor, sem yfirvöld í landinu á sveitarstjórnar- og ríkisstigi þurfa að vera meðvituð um, svo að á Íslandi verði ekki alvarlegt "lestarslys" með ærnum kostnaði fyrir skattborgarana.
Til merkis um váboðana er upphaf fyrri fréttarinnar:
"Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu auk Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar, fyrir sitt leyti stefna að því að gera samstarfssamning við Fluglestina Þróunarfélag ehf um undirbúning að byggingu hraðlestar til Keflavíkurflugvallar."
Í seinni fréttinni eru þessar upplýsingar veittar m.a.:
"Ef allt gengur upp, eiga framkvæmdir að hefjast eftir þrjú ár og verða lokið að átta árum liðnum.
"Áætlað er, að verkefnið skili jákvæðu tekjustreymi frá fyrsta ári", segir í skýrslunni. Yfir hálfrar aldar rekstrartímabil fái fjárfestar 15,2 % árlega ávöxtun.
Þá segir, að hraðlestin verði ábatasöm sem einkaframtak og þurfi engin bein fjárframlög frá opinberum aðilum, en að gera þurfi fjárfestingarsamninga við ríkið og fá sérstaka löggjöf um skattgreiðslur."
Það er ekki hægt að gera athugasemd við það, að skipulagsyfirvöld íhugi að taka frá land fyrir samgönguæð á borð við járnbrautarteina, en á það skal minna, að hraðlestum fylgir gríðarlegur hávaði og slysahætta á teinum, sem fella mun lóðir og húsnæði í næsta nágrenni í verði, og gera verður íbúum innan 1 km frá teinunum grein fyrir væntanlegu hávaðastigi. Lestarteinarnir þurfa þess vegna stórt helgunarsvæði, og að taka slíkt land frá og hindra aðra notkun til bygginga eða útivistar er dýrt spaug fyrir sveitarfélög og skerðir lífsgæði íbúa þeirra.
Hinu verður að andmæla kröftuglega sem óréttmætu, að ríkið veiti þessu verkefni einhvers konar fjárhagslegar ívilnanir, t.d. með lækkun eða niðurfellingu virðisaukaskatts og/eða tekjuskatts, eins og virðist vera stefnt að með ósk lestarfélagsins um fjárfestingarsamning við ríkið.
Spyrja má með hliðsjón af upplýsingum undirbúningsfélagsins um vænta arðsemi þessarar flutningastarfsemi upp á 15,2 % í hálfa öld, hvaða þörf slík starfsemi hafi fyrir ríkisstyrki umfram aðra starfsemi í landinu ? Þetta lestarverkefni uppfyllir engin skilyrði fyrir ríkisstuðningi, sem hingað til hafa verið sett fyrir ný verkefni, og það er nóg komið af þeim að svo stöddu. Hugmyndin um ríkisstyrk við járnbrautarlest er úr lausu lofti gripin og sýnir, að jafnvel höfundar rekstraráætlunarinnar treysta henni ekki, enda er hún ekki trausts verð, eins og hér verður sýnt fram á:
Hér þarf að hafa í huga, að fyrir hendi er starfsemi til fólksflutninga á milli höfuðborgarsvæðisins og flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, bæði í rútubílum og leigubílum af ýmsum stærðum auk bílaleigubíla. Í áætlunum Fluglestar Þróunarfélags ehf er gert ráð fyrir, að lestin hirði 51 % allra komu- og brottfararfarþega Flugstöðvarinnar eða 2,7 milljónir frá fyrsta starfsári, og að auki er gert ráð fyrir 1,8 milljón farþega á ári, sem leið eiga á milli Suðurnesjanna og Höfuðborgarsvæðisins. Þetta síðar nefnda svarar til 4500 manns fram og til baka 200 daga ársins, og alls eru þetta 4,5 milljónir farþega frá árinu 2024. Eftir sem áður mun dágóður fjöldi landsmanna kjósa að aka sjálfur og geyma bílinn við Flugstöðina eða vera ekið af vinum og vandamönnum, að ógleymdum öllum bílaleigubílunum. Það má þess vegna ætla, ef þetta gengur eftir, að núverandi flutningafyrirtæki missi allt að 80 % af farþegafjöldanum, sem annars tæki sér far með þeim.
Það yrði með öllu ólíðandi mismunun, sem í því fælist, að ríkið styrkti nýjan aðila inn á gróinn markað til að fara þar í bullandi samkeppni. Slíkt er með öllu óverjandi og til þess liggja hvorki atvinnuleg, umhverfisleg, öryggis- né orkunýtingarrök af þeirri einföldu ástæðu, að árið 2024, þegar áformað er að taka hraðlestina í notkun, verður sennilega lungi samgöngutækjanna, sem flytja flugfarþega að og frá Flugstöðinni, svo og aðrar áætlunarferðir á milli Suðurnesja og Höfuðborgarsvæðisins, sem lestinni er ætlað að höggva skarð í, orðinn óháður innfluttu eldsneyti og orðinn rafknúinn eða knúinn lífdísilolíu, sem framleidd er hér innanlands með sjálfbærum hætti. Hver veit, nema þá verði tvöföldun Reykjanesbrautar gengin í gegn alla leið, og þá verður hin hefðbundna leið enn greiðfærari en nú, og hin öryggislegu rök falla. Það er miklu nær að gera Vegagerðinni kleift að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar en að veikja núverandi tekjulindir ríkissjóðs af fólksflutningum á milli Höfuðborgarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Ef þessi áform undirbúningsfélagsins ganga eftir, verður hægt að annast þessa þjónustu við ferðamenn og "pendlara" með mun minni mannskap en nú er raunin. Margir munu þess vegna missa vinnuna sína, þannig að þetta verkefni er í eðli sínu óþarft og andfélagslegt.
Þá stendur eftir spurningin um það, hvort orðagjálfur Fluglestar Þróunarfélags ehf um góða aðrðsemi af fjárfestingu og rekstri téðrar hraðlestar standist skoðun. Blekbóndi hefur reiknað það út, m.v. við áætlun undirbúningsfélagsins um farþegafjölda fyrstu árin, 4,5 milljónir, að til þess,að fullyrðingin um 15,2 % arðsemi standist, þurfa tekjurnar að nema 20 miakr á ári, en þær nema aðeins 14 miakr samkvæmt mjög bjartsýnislegri spá Fluglestar Þróunarfélags ehf um farþegafjöldann. Með 10 % arðsemikröfu stendur reksturinn hins vegar í járnum að öðrum forsendum undirbúningsfélagsins óbreyttum.
Hversu líklegt er, að tekjuáætlunin standist ? Það eru mjög litlar líkur á því, að 4,5 milljónir farþega kjósi að borga að meðaltali 3100 kr fyrir það að komast þarna á milli á 15 til 18 mín. Þegar 2-3 eru saman í ferð, verður hagkvæmara og fljótlegra að taka leigubíl beint heim eða á hótel. Rútufyrirtækin munu áreiðanlega bíta frá sér og bjóða tíðari ferðir á minni rútum beint að hótelunum. Hafi þau tekið rafknúna farkosti í sína þjónustu, geta þau lækkað farmiðaverðið og munu ekki láta sinn hlut baráttulaust.
Blekbóndi telur, að líklegur farþegafjöldi Fluglestar Þróunarfélags sé ofmetinn um 75 % og mundi verða innan við 60 % af áætlun Fluglestar Þróunarfélags ehf, þ.e. að árstekjur fyrirtækisins verði ekki 14 milljarðar, heldur nær 8 milljörðum kr m.v. meðalmiðaverðið 3100 kr. Þá hrapar arðsemin niður í 5,0 %, sem er allsendis ófullnægjandi fyrir flesta fjárfesta í verkefni af þessu tagi. Verkefnið er algerlega ótímabært, enda varla nokkur fjárfestir svo skyni skroppinn a ð leggja nú fram hlutafé í þessa skýjaborg. Umboðsmenn skattborgaranna hafa nú vonandi verið varaðir nægilega vel við skýjaborgum íslenzku hraðlestarinnar til að þeir fari rækilega ofan í saumana á þessu hátimbraða samgönguverkefni, sem enginn markaður er fyrir samkvæmt niðurstöðu þessa pistils. Verði samt farið á stað með það á gefnum forsendum, er mikil hætta á, að það verði gjaldþrota. Hið opinbera ætti þess vegna ekki að koma nálægt því.
Fjármál | Breytt 18.1.2016 kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.12.2015 | 10:25
Syrtir í álinn fyrir evrunni
Evran hefur látið undan síga allt árið 2015 og lengur, og stefnir nú í, að hún verði verðminni en bandaríkjadalur. Gjaldmiðlar lifa ekki á fornri frægð, heldur endurspegla styrk viðkomandi hagkerfis, og fer ekki á milli mála, að þar hefur bandaríska hagkerfið vinninginn í heiminum um þessar mundir á meðal stórmynta, t.d. mælt í hagvexti og atvinnuþátttöku, en nærri lætur, að atvinnuleysi á evrusvæðinu, um 11 %, sé tvöfalt meira en í BNA.
Veiking evrunnar hefur létt undir útflutningi evruríkjanna, og það hefur gefið sumum þeirra byr í seglin, t.d. Þýzkalandi og Írlandi, en enn sannast á Írlandi, sem litlu og opnu hagkerfi, að "ein stærð fyrir alla" hentar Írum illa. Lágir vextir skapa nú eftirspurnarspennu á Írlandi, fasteignabólu, sem getur sprungið illilega í andlitið á þeim.
Á árinu 2016 mun reyna á litlu hagkerfin á evru-svæðinu að þessu leyti, Eystrasaltsríkin, Kýpur, Möltu og Írland. Evrubankinn verður jafnan að taka mest tillit til stóru ríkjanna, og það getur annaðhvort valdið ofþenslu, eins og hætta er á núna, eða kreppu, hjá þeim minni, t.d. Írum. Fróðlegt verður að sjá, hvernig téðum ríkjum reiðir af að þessu leyti. Þau hafa tök á mótvægisaðgerðum, en hafa þau vilja og þrek til að beita þeim ?
Einnig er áhugavert að velta fyrir sér langtímahorfum evrunnar. Í þeim efnum verður stuðzt við greinina: "The force assaulting the euro" á síðu Free exchange í The Economist, 6. júní 2015.
Hinn hægi vöxtur og ríkissjóðshalli í flestum evru-löndunum á aðeins eftir að versna í framtíðinni af lýðfræðilegum ástæðum (aldurssamsetning). Ríkið, sem harðast verður úti, er ekki lítið Miðjarðarhafsríki, heldur eimreið myntbandalags Evrópusambandsins, ESB, Sambandslýðveldið Þýzkaland.
Hækkandi meðalaldur evru-þjóðanna, fækkun á vinnumarkaði og fjölgun ellilífeyrisþega, mun draga úr hagvexti, sem annars gæti orðið, nema framleiðni vaxi til mótvægis og ellilífeyrisaldur verði hækkaður.
Nú eru neikvæð áhrif of lítillar viðkomu, sem hófst á 8. áratugi 20. aldarinnar, og hafði aldrei áður gerzt, að koma niður á hagkerfum flestra Evrópulanda. Þetta á þó í litlum mæli við um Frakka, og á alls ekki við um Breta og Íslendinga.
Á tímabilinu 2013 - 2030 mun fækka á vinnumarkaði evru-svæðisins, 20-64 ára gamalla, um 6,2 % samkvæmt spá Framkvæmdastjórnar ESB. Mest mun fækka í Þýzkalandi, þrátt fyrir flóttamannastrauminn, sem nú veldur reyndar úlfúð, eða um 12,7 %. Næst á eftir koma Portúgal með 12,1 % fækkun og Spánn með 11,3 % fækkun. Í Frakklandi mun aðeins fækka um 0,9 %, en á Bretlandi verður 2,3 % fjölgun á vinnumarkaði samkvæmt spánni og í Svíþjóð 8,1 % fjölgun.
Þegar fækkar á vinnumarkaði, fjölgar í hópi ellilífeyrisþega, því að fólk deyr eldra en áður. Þessi tvöfaldi þrýstingur á hagkerfi (víðast hvar eru gegnumstreymissjóðir, sem ríkið fjármagnar), hækkar hið svonefnda öldrunarhlutfall, ÖH, sem skilgreint er sem hlutfall 65 ára og eldri (í teljara) og 20-64 ára (í nefnara). Um þessar mundir er ÖH yfirleitt um 30 % (20 %-35 %), en mun hækka gríðarlega til 2030 og verða yfirleitt um 45 %, þ.e. 35 % (Írland) - 52 % (Þýzkaland).
Hvort sem Grikkland verður utan eða innan evru/ESB, þá verður landið að fást við snemmbær lífeyrisréttindi þegna sinna, sem í sumum tilvikum er við hálfsextugt. Þó að evrusvæðið lagi lífeyrisréttindin að hækkandi aldri við dánardægur, þá mun hagvöxtur eiga erfitt uppdráttar á næstu 15 árum af þessum lýðfræðilegu ástæðum.
Lítill sem enginn hagvöxtur mun eiga þátt í því, að evru-þjóðunum mun reynast erfitt að fást við mikla skuldabyrði opinberra aðila og einkaaðila, og þá verða viðkomandi auðveld fórnarlömb næsta samdráttarskeiðs eða fjárhagskreppu.
Hraðfara öldrun Þjóðverja skiptir máli í þessu viðfangi vegna vægis þeirra í myntsamstarfinu. Viðnámsþróttur þýzka hagkerfisins hleypti krafti í evruna á tímum bankakreppunnar 2007-2010. Síðan þá hefur evrunni hins vegar hrakað, og megna Þjóðverjar greinilega ekki lengur að halda henni sterkri, og lýðfræði stærsta hagkerfisins innan evrunnar mun veikja hana enn meira.
Nýjustu horfur lýðfræðinnar innan ESB benda til, að Bretland verði fjölmennasta ríkið þar að því gefnu, að Sameinaða konungdæmið verði áfram eitt ríki, sem haldi áfram í ESB, árið 2050. Bretar gætu þá jafnframt búið við öflugasta hagkerfi Evrópu. Þess má geta, að Rússum fækkar nú ört, og er sú neikvæða þróun eitt þeirra stærstu vandamála.
Öldrun mun hefta kraftakarl evru-svæðisins. Þjóðverjar eiga bara eitt gott svar við því.
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, ritaði fróðlega grein í Fréttablaðið, 26. nóvember 2015:
"Krónan og kjörin". Þar hafnar hann yfirborðskenndu skrafi gutlara af ólíku tagi um íslenzku krónuna, ISK, sem gera hana að blóraböggli allra "skavanka" á íslenzku efnahagslífi og jafnvel þjóðlífi. Hann færir rök að því, að evran henti ekki alls kostar vel opnum, litlum hagkerfum, sem er í samræmi við frásögn í upphafi þessa vefpistils:
"Ef við skoðum þróun lífskjara á Norðurlöndum, mælda í landsframleiðslu á mann, má sjá, að þróunin hefur verið óhagfelldust í Finnlandi, sem notar evru. Þróunin í Danmörku, sem hefur fest gengi dönsku krónunnar við evruna, er einnig slæm. Ísland, Noregur og Svíþjóð, sem öll nota sína eigin mynt, hafa hins vegar komið betur út.
Færa má rök fyrir því, að í Finnlandi sé evran ein af orsökum þessarar þróunar. Útflutningsgreinar þar í landi hafa lent í erfiðleikum af þremur ástæðum:
vegna falls Nokia, minni eftirspurnar eftir pappír og efnahagserfiðleika í Rússlandi. Við slíkar aðstæður hefði gengislækkun bætt stöðu annarra útflutningsgreina og veitt þannig viðspyrnu gegn samdrætti og launalækkunum. Vegna myntsamstarfsins er það hins vegar ekki mögulegt. Þannig kom gjaldmiðill, sem endurspeglar ekki efnahagslegan veruleika Finnlands, í veg fyrir sveigjanleika, þegar hagkerfið lenti í vandræðum."
Í litlu og opnu hagkerfi, sem háð er miklum utanríkisviðskiptum, á borð við hið íslenzka, er afleit lausn á myntmálum að tengjast annarri mynt, hverrar verðmæti ræðst af hagkerfi eða hagkerfum, sem sveiflast ólíkt litla hagkerfinu. Árangursmælikvarðar á borð við þróun landsframleiðslu á mann sýna þetta. Sameiginleg mynt er stundum hvati til ofþenslu og í annan tíma dragbítur.
Hins vegar veldur, hver á heldur í litlu hagkerfi með eigin mynt. Hægt er að sníða helztu agnúa af henni með styrkri og samþættri hagstjórn, þar sem miðað er jafnan við dágóðan viðskiptajöfnuð við útlönd, allt að 5 % af VLF, óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð af stærra taginu, allt að 100 % af árlegum innflutningsverðmætum, og launaþróun í landinu, sem tekur mið af framleiðnibreytingu í hverri grein og afkomu útflutningsatvinnuveganna.
Rekstur ríkissjóðs þarf að vera sveiflujafnandi á hagsveifluna og skuldir ríkissjóðs litlar, innan við 20 % af VLF. Með þessu móti fæst stöðugleiki, sem gera mun kleift að lækka raunvexti umtalsvert í landinu, sem yrði mörgum kærkomin kjarabót. Hins vegar þarf ríkisvaldið að hvetja til almenns sparnaðar með því að heimta einvörðungu skatt af raunávöxtun yfir MISK 1,0 og þá aðeins 15 %.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2015 | 15:20
Skattkerfi og samkeppnihæfni hagkerfa
Það, sem einna mest skilur að hægri menn og vinstri menn, er hugmyndafræði þessara fylkinga um skattheimtu. Hægri menn vilja haga skattheimtunni þannig, að hún skekki hagkerfið sem minnst, t.d. mismuni ekki atvinnugreinum, fyrirtækjum eða einstaklingum. Hægri menn vilja forðast álögur, sem letja menn til framtaks, vinnuframlags og nýsköpunar, og haga skattheimtunni þannig, að hún hafi sem minnst neikvæð áhrif á samkeppnihæfni atvinnugreina, fyrirtækja og einstaklinga. Stækkun skattstofna er keppikeflið að mati hægri manna.
Þessu er öllu öfugt farið með vinstri menn, og þeir láta gjarna, eins og þeir skilji ekki, hversu vandmeðfarið skattkerfið er, og haga sér eins og fíll í postulínsbúð, þegar þeir komast til valda, eins og ráðsmennskan í Fjármálaráðuneytinu á dögum Jóhönnustjórnarinnar sýndi. Þá var skattheimtan aukin mjög mikið og einstrengingslega, þannig að skatttekjurnar hurfu í skuggann af skattheimtunni, af því að þynging hennar hafði kunn og alvarleg áhrif á skattstofnana með þeim afleiðingum, að hagvöxtur koðnaði niður og tekjur ríkisins jukust miklu minna en efni stóðu til. Það hefur afhjúpazt við fjárlagagerð haustið 2015, að vinstri menn hafa engu gleymt og ekkert lært, síðan þeir báru ábyrgð á ríkissjóði, með hraksmánarlegum afleiðingum. Þeir reikna með að éta kökuna áður en hún er bökuð. Búskussar hafa slíkir jafnan kallaðir verið á landi hér.
Samkvæmt nýrri kýrslu Tax Foundation (TF) batnaði alþjóðleg samkeppnihæfni íslenzka skattkerfisins árið 2014 m.v. 2013, því að landið fór úr 24. sæti í 20. sæti af 34 löndum OECD, sem í samanburðinum eru, og var með einkunn 6,7 árið 2014. Þetta er góður bati, en mun meira þarf, ef duga skal.
Í skýrslu TF kemur fram, að helzta ástæða batans var afnám auðlegðarskattsins, sem var eignaskattur, sem fól í sér tvísköttun og gerði t.d. eldri borgurum með lágar tekjur og miklar eignir erfitt um vik, og þeir urðu í sumum tilvikum að losa sig við eignirnar til að geta staðið í skilum. Þetta var mjög óréttlátt, en þannig er einmitt réttlæti vinstri manna, sem fóðra allar sínar skattahækkanir með réttlætis- og jafnréttisblaðri.
Miklar umbætur voru gerðar á skattkerfinu haustið 2014, sem tóku gildi 1. janúar 2015. Má þar nefna afnám vörugjalda af öllu, nema bílum og eldsneyti, og styttingu bilsins á milli virðisaukaskattþrepanna tveggja og fækkun undanþága frá virðisaukaskatti. Verður gaman að sjá skýrslu TF árið 2016, en 2014 var Ísland eftirbátur allra Norðurlandanna, nema Danmerkur, að þessu leyti.
Efst trónuðu Eistland með 10,0, Nýja Sjáland með 9,2, Sviss með 8,5 og Svíþjóð með 8,3. Ef Íslandi tekst að komast yfir 7,5, þá má búast við, að landflóttinn snúist við og fleiri erlend fyrirtæki fái raunverulegan hug á fjárfestingum hérlendis. Það er áreiðanlegt, að skattkerfið á hlut að atgervisflóttanum frá Íslandi, þó að fleiri atriði komi þar við sögu.
Fernt skýrir velgengni Eistlands:
- 20 % tekjuskattur á fyrirtæki og engin auðlindagjöld. Skatturinn er tiltölulega lágur og mismunar ekki fyrirtækjum eftir greinum.
- 20 % flatur tekjuskattur á einstaklinga. Þetta er eftirsóknarvert kerfi, því að það hvetur til tekjuaukningar og umbunar þeim, sem lagt hafa út í langt nám, fá í kjölfarið háar tekjur, en að sama skapi skemmri starfsævi en hinir. Á Íslandi verður tekið hænuskref í þessa átt með afnámi miðþrepsins, en þá lækkar viðmiðun efra þrepsins.
- Eignarskattsstofn í Eistlandi er einvörðungu landeign, en hvorki fasteignir né fjármagn mynda eignarskattsstofn. Það virkar nokkuð kyndugt að skattleggja land, og verður þá ekki séð, hvers bændur eiga að gjalda. Þeir, sem kaupa sér land eða lóð, hafa þegar greitt skatt af aflafé sínu, og þess vegna er um tvísköttun að ræða, nema um arf eða gjöf sé að ræða.
- Erlendar tekjur fyrirtækja, sem skrásett eru í Eistlandi, eru undanskildar skattheimtu ríkisins. Þetta virkar auðvitað sem hvati á fyrirtæki til að skrá höfuðstöðvar sínar í Eistlandi, enda hljótast af slíku fjárfestingar og óbeinar tekjur til hins opinbera. Þetta er snjallt hjá Eistum.
Niðurstöður rannsókna skýrsluhöfundanna sýna ótvírætt, að til að skattkerfi efli samkeppnihæfni lands, verður skattheimtunni að vera stillt í hóf. Vinstri stjórnin rýrði samkeppnihæfni Íslands með hóflausum og illa ígrunduðum skattahækkunum. Þetta kemur þannig niður á launþegunum, að kjör þeirra dragast aftur úr kjörum starfsbræðra og -systra erlendis. Að kjósa vinstri flokkana er þess vegna að kjósa lakari kjör sér til handa en ella væru í boði.
Alþjóðleg fyrirtæki líta mjög til skattkerfisins, þegar þau íhuga að hasla sér völl í nýju landi. Það er keppikefli flestra landa, þróaðra og annarra, að draga til sín starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja.
Fyrir heilbrigt hagkerfi skiptir ekki einvörðungu hófleg skattheimta máli, heldur má skattlagningin ekki mismuna starfsgreinum, þ.e.a.s. skattkerfið þarf að sníða í því augnamiði að afla sem mestra tekna án þess að valda markaðsbresti. "Það þýðir skattkerfi, sem ýtir ekki undir neyzlu á kostnað sparnaðar, eins og raunin er með fjármagnstekjuskatt og eignaskatt. Þetta merkir einnig kerfi, sem veitir ekki einum geira atvinnulífsins skattaívilnanir miðað við aðra geira þess.", svo að vitnað sé beint í umrædda skýrslu.
Heimfært á Ísland væri nær að skrifa, að samkeppnihæft skattkerfi íþyngi ekki einum geira atvinnulífsins umfram aðra geira, því að um það er engum blöðum að fletta, að auðlindagjaldið, sem innheimt er af sjávarútveginum einum, er í senn ósanngjarnt og sérlega íþyngjandi. Til að sníða af því agnúana þarf að búa svo um hnútana, að andvirði s.k. veiðigjalds renni til starfsemi, sem þjónustar sjávarútveginn umfram aðra aðila, t.d. Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar, Hafnarsjóðs o.fl.. Gjaldið þarf að vera verðtengt og magntengt, t.d. 4%-5% af verði óslægðs fiskjar upp úr sjó. Að öðrum kosti skekkir þessi skattheimta samkeppnihæfni sjávarútvegs um fólk og fé og má líta á sem landsbyggðarskatt. Ekki þarf að fara mörgum orðum um, að þetta veiðigjald, eins og það er lagt á hérlendis, á sér enga hliðstæðu erlendis, heldur er reist á annarlegum sjónarmiðum hér innanlands. Samt er stjórnarandstaðan hérlendis enn eins og gömul plata, þegar hún ræðir fjárlagafrumvarpið og þarf að fjármagna lýðskrum sitt, og heggur í knérunn sjávarútvegsins, þar sem hún ævinlega telur feitan gölt að flá. Samt eru með slíku brotin lögmál heilbrigðrar og sjálfbærrar skattheimtu, svo að ekki sé nú minnzt á sanngirnina. Hún liggur ævinlega óbætt hjá skattbæli villta vinstrisins.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2015 | 10:27
Sjúkrahúsmál á krossgötum
Sjúkrahús landsins, ekki sízt móðurskipið, Landsspítalinn, hafa ítrekað á þessu ári orðið skotspónn stéttaátaka og vinnudeilna. Í ljósi stöðu fórnarlambanna í þessu máli er það algerlega forkastanlegt, að stéttir á þessum vinnustöðum skuli beita verkfallsvopninu æ ofan í æ til að knýja gæzlumenn ríkissjóðs til uppgjafar og til flótta frá launastefnu sinni. Slík gíslataka er óboðleg, reyndar einnig í skólum landsins.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þetta úrelta stéttastríð hefur leitt til verðbólguhvetjandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, eins og spáð hafði verið, sem aðeins lág eða engin verðbólga erlendis og styrking krónunnar hefur hindrað um sinn, að leiði til kjararýrnunar allra landsmanna. Er óskandi, að mótvægisaðgerðir fjármála- og efnahagsráðherra og framleiðniaukning fyrirtækja og stofnana muni hindra verðbólguskot yfir 3 % á næsta ári.
Verðbólga er versti vágestur landsmanna af mannavöldum. Mótun nýrra vinnubragða við gerð kjarasamninga undir skammstöfuninni SALEK gefur von um, að heilbrigð skynsemi fái sæti við samningaborðið í framtíðinni og forði landsmönnum hreinlega frá kollsteypum heimskulegs metings og launasamanburðar.
Nýlega vakti dómsmál, þar sem starfsmaður Landsspítala var ákærður fyrir morð á langt leiddum sjúklingi af gáleysi, miklar umræður í þjóðfélaginu, enda um fyrsta mál sinnar tegundar að ræða hérlendis. Af málsatvikum, eins og þeim var lýst í fjölmiðlum, að dæma, má sú afstaða saksóknara furðu gegna, að ákæra starfsmanninn fyrir "manndráp af gáleysi" og krefjast samt skilorðsbundins dóms. Ekki virðist fara vel á því að vera fundinn sekur um manndráð, þótt af gáleysi sé, og sleppa við refsingu, ef hegðun er góð.
Ljóst má vera af verknaðarlýsingu, að viðkomandi starfsmanni varð á í messunni, sýndi vangá í starfi, en hún varð við aðstæður mikils vinnuálags, sem yfirmaðurinn ber að öðru jöfnu ábyrgð á, og þess vegna hefði saksóknara verið nær annaðhvort að falla frá ákæru eða að ákæra vinnuveitandann, Landsspítalann. Málavextir voru bein afleiðing af þeirri niðurskurðarstefnu, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur beitti gagnvart sjúkrahúsum landsins, þ.e. að klípa utan af fjárveitingum án skipulagsbreytinga, þó að álagið ykist stöðugt. Glórulaust athæfi vinstri stjórnarinnar, sem vitnar enn og aftur um algert ráðleysi þar á bæ og um kolranga forgangsröðun, sem sjúkrahús landsins eru enn að súpa seyðið af.
Núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur aukið mjög fjárveitingar til sjúkrahúsanna og hafið nauðsynlegt endurnýjunarferli tækjabúnaðar, sem er góð fjárfesting fyrir þjóðarhag. Einnig hefur hún sett uppbyggingu nýs Landsspítala í ferli, sem þó er þörf á að bæta til að nýta tækniþróunina til hagsbóta fyrir skattgreiðendur. Þann 11.11.2015 tók heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, fyrstu skóflustunguna að nýbyggingum á Landsspítalalóðinni við Hringbraut. Þar með er mörkuð braut nývæðingar Landsspítalans, þó að mikill ágreiningur ríki enn, einnig á milli starfsfólks sjúkrahússins, um staðsetninguna. Ætlunin er að byggja og tækjavæða á Landsspítalalóðinni fyrir um miaISK 50 á 8 árum. Tímaramminn er raunhæfur, en þar sem aðeins um 25 % hönnunarinnar hefur farið fram, er mikil hætta á, að kostnaðaráætlunin eigi eftir að hækka verulega.
Þau rök hafa verið tilfærð, að vegna núverandi ójafnvægis í borginni á milli þungamiðju byggðar og atvinnustarfsemi þurfi að flytja spítalann í austurhluta borgarinnar. Borgarskipulagsrök hljóta þó að vera léttvæg m.v. innra skipulag og hönnun sjúkrahússins og nándina við miðstöð innanlandsflugs og fræðasetranna á Melunum og í Vatnsmýrinni, sem munu verða á sínum stöðum um langa framtíð.
Eitt af hlutverkum hönnuða er að miða hugverk sitt við það að geta þjónað þörfum framtíðar að breyttu breytanda. Í því sambandi ber að gjalda varhug við risabyggingum, því að tækniþróunin er í þá átt að minnka húsnæðisþörf sjúkrahúsa á hvern íbúa. Hagkvæmara er fyrir alla aðila að hefðbundnar aðgerðir á "tiltölulega lítið veikum" sjúklingum séu framkvæmdar utan móðurskipsins með lægri tilkostnaði og styttri bið en mögulegt er á Háskólasjúkrahúsinu, þar sem stjórnunarkostnaður og fastur kostnaður per aðgerð er mun hærri en í minni starfsstöðvum. Ef hönnuðir minnka fremur umfangið en hitt á grundvelli nýrrar þarfagreiningar, er tekur mið af téðri þróun, sem þegar er hafin og mun verða hröð á næstu árum, getur verkefnisstjórnin haldið aftur af kostnaðarhækkunum og jafnvel haldið kostnaðinum innan eðlilegra óvissumarka, sem m.v. núverandi hönnunarstig er allt að +/- 10 %.
Um þetta ritaði Jón Ívar Einarsson, yfirlæknir á Brigham and Women´s sjúkrahúsinu í Boston og "Associate Professor" við Læknadeild Harvard-háskóla, merka grein í Morgunblaðið þann 11. nóvember 2015:
"Heilbrigðismál - að hengja bakara fyrir smið":
"Greinarhöfundur starfar á Brigham and Women´s sjúkrahúsinu í Boston, sem er eitt virtasta sjúkrahús Bandaríkjanna og einn af aðalkennsluspítölum fyrir læknadeild Harvard-háskóla. Þar á bæ er nú unnið að því að úthýsa dagdeildaraðgerðum og þær fluttar yfir á minni einingar, þar sem yfirbygging og kostnaður er u.þ.b. helmingi minni en á "móðurskipinu". Þetta leiðir til gríðarlegs sparnaðar, og er verið að innleiða þessa stefnu víðar. Svipaða sögu er að segja af öðrum greinum læknisfræðinnar; allt ber að sama brunni, þ.e.a.s. sjúkrahúsdvöl er stytt eða er ekki lengur til staðar. Nauðsyn þess að byggja upp risastóran miðlægan spítala fer því þverrandi.
Uppbygging nýs Landsspítala á að taka mið af þessu. Að sjálfsögðu þarf miðlægan og öflugan spítalakjarna, sem sinnir bráðaþjónustu, gjörgæslu og mikið veikum sjúklingum. Hins vegar er hagkvæmara að hafa ýmsa aðra starfsemi utan þessa miðlæga kjarna."
Verkefnisstjórn um nýjan spítala og hönnunarteymið ættu nú þegar að taka mið af þessari nýju hugmyndafræði, sem er að ryðja sér til rúms vestra, í því skyni að spara sjúkratryggingum, sjúklingum og öðrum, fé. Í upphafi er um að ræða lækkun fjárfestingar og fjármagnskostnaðar, og síðan tekur við lækkun rekstrarkostnaðar spítalans og ríkissjóðs yfir allan starfstíma spítalans. Að núvirði (núvirt) gæti hér verið um meira en miaISK 100 að ræða, svo að eftir miklu er að slægjast, ekki sízt í ljósi óhjákvæmilegs kostnaðarauka hins opinbera af öldrunarþjónustu hvers konar vegna lengri meðalævi og fjölgunar aldraðra. Á sama tíma fækkar vinnandi mönnum á hvern "gamlingja". Það er því eftir miklu að slægjast.
Jón Ívar heldur áfram:
"Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp, sem Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, lagði fram um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Megintilgangur þess er m.a. að innleiða tilskipun Evrópuþingsins um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Þetta mun auðvelda sjúklingum að leita sér aðgerða í öðrum löndum, ef biðlistar eru óhóflega langir hérlendis. Sú spurning vaknar, hvort sjúklingar hafi þá ekki líka rétt á að leita sér þessara aðgerða innanlands, ef boðið er upp á þær utan veggja Landsspítalans. Ef svo er, þá getur þessi tilfærsla lítið veikra sjúklinga út af Landsspítalanum gengið enn hraðar fyrir sig."
Frumvarp heilbrigðisráðherra miðar tvímælalaust að því að auka valfrelsi sjúklinga um aðgerðaraðila hér innanlands einnig og er mikil réttarbót fyrir sjúklinga. Jafnframt munu starfsstöðvar sérfræðinga á heilbrigðissviði utan Landsspítalans geta sparað Sjúkratryggingum fé, og framleiðni við lækningar mun aukast. Margra mánaða bið eftir aðgerð getur verið sjúklingunum kvalafull og þjóðhagslegur sparnaður næst, ef aðgerðin hefur í för með sér, að vinnuþrek sjúklings vaxi í kjölfarið.
Þannig er óhætt fyrir verkefnastjórn nýs Landsspítala og hönnuðina að reikna með dreifðu aðgerðaálagi vegna sjúklinga, sem eru rólfærir. Það er nauðsynlegt að taka tillit til þessara sparnaðaraðgerða strax nú, þegar 75 % hönnunarinnar eru eftir. Breytingar á hönnunarstigi eru ódýrar m.v. breytingar á framkvæmdastigi.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)