Færsluflokkur: Fjármál

Ráðsmennskan í Ráðhúsinu við Tjörnina

 

Í höfuðstað landsins ríkir nú vinstri stjórn undir forsæti jafnaðarmannsins Dags B. Eggertssonar.  Þessi ólukkulegi vagn er með varadekk úr flokki pírata, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og flugvallarvinir eru í minnihluta í borgarstjórn á þessu kjörtímabili sveitarstjórna. Nú horfir þunglega í málefnum borgarinnar, sem stingur í stúf við stöðu ríkisins, og ýmissa annarra nágrannasveitarfélaga, og er ástæða til að gera frammistöðu jafnaðarmanna og sjóræningja við stjórnvölinn nokkur skil.

Vel að merkja flugvallarvinir.  Þeir söfnuðu tæplega 70 000 undirskriftum til stuðnings við óskertan flugvöll, svo að innanlandsflugið mætti dafna og þroskast á 21. öldinni og taka við hluta af þeirri gríðarlegu umferðaraukningu, sem sprenging í ferðamannageiranum hefur í för með sér. Hér er um að ræða umtalsverða tekjulind fyrir Reykjavíkurborg, sem hleypur á milljörðum króna, þegar allt er talið. Hvorki Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, núverandi borgarstjóri, né fulltrúi pírata í meirihluta núverandi borgarstjórnar, virðast gera nokkurn skapaðan hlut með þessa fjölmennustu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar. Lýsir það lýðræðisást og grasrótarsamkennd ?  Hvernig í ósköpunum stendur á því, að píratinn virðir aðalstefnumið Pírataflokksins um opna stjórnsýslu og virkjun almennings við ákvarðanatöku að vettugi í þessu máli, sem svo mikinn áhuga hefur vakið á meðal almennings ?  Úr því að þannig er í pottinn búið, að Píratar vilja heldur ekki vísa þessu ágreiningsmáli í þjóðaratkvæðagreiðslu, verður að álykta sem svo, að lýðræðishjal píratanna sé einvörðungu í nösunum á þeim.  "Sorry, Stína." Lýðræðishjal jafnaðarmanna og pírata er lýðskrum.  Það sýna efndirnar, þar sem þessir aðilar fara með völdin. Þeir, sem vegsama beint lýðræði í orði, en sniðganga það á borði, skulu loddarar heita.

Viðskiptablaðið birti fimmtudaginn 3. september 2015 vandaða úttekt á fjárhag Reykjavíkurborgar. Úttektin sýnir því miður, að fjármál höfuðborgarinnar eru í megnasta ólestri, og stjórnunin er í lamasessi, því að engir tilburðir eru sjáanlegir til að snúa af braut skuldasöfnunar.  Undir stjórn jafnaðarmanna og pírata er flotið sofandi að feigðarósi. Dagur B. Eggertsson er sem áhorfandi, en ekki gerandi, og leikur á fiðlu á meðan Róm brennur.  Slíka menn dæmir sagan harðlega.

Viðvaranir fjármálaskrifstofu borgarinnar virka á Dag B. eins og að stökkva vatni á gæs.  Draumóramaðurinn Dagur vill þó afleggja mikla tekjulind borgarinnar, sem er Vatnsmýrarvöllur. Reykjavík á gnægð byggingarlands, en það er samt hörgull á tilbúnum lóðum, og borgin okrar á þeim. Allt snýst um sérvizkuna "þéttingu byggðar" og "þrengingu gatna". Útsvarsheimildin er fullnýtt, en fasteignagjöldin ekki.  Jafnaðarmennirnir og píratinn kunna því að seilast enn dýpra ofan í vasa húseigenda, og eru þó húsnæðiskostnaður og húsaleiga allt of há í borginni, sem er ungu fólki þungt í skauti. 

Vandamálið er hins vegar á kostnaðarhlið borgarrekstrarins, eins og nú verður stiklað á stóru um, og þar verður að koma til uppskurðar, sem læknirinn þó veigrar sér við af óskiljanlegum ástæðum, þó að öllum megi ljóst vera, að meinið verður að fjarlægja.  Að öðrum kosti deyr sjúklingurinn (borgarsjóður lendir í greiðsluþroti). Áður en að því kemur verður hann þó settur í öndunarvél tilsjónarmanns.  Niðurlæging höfuðborgarinnar í boði jafnaðarmanna verður þá alger.

Aðgerðarleysi Dags má e.t.v. skýra með því, að hann bíði eftir kraftaverki, einhvers konar Wunderwaffen, að hætti þjóðernisjafnaðarmanna 1944-1945.  Eitt slíkt undravopn gæti verið OR-Orkuveita Reykjavíkur, en fjárhagur hennar hefur verið bágborinn, og hún verður ekki sérlega aflögufær á meðan álverðið er í lægð, og það mun verða í lægð þar til Kína nær sér á strik, en undir það hillir ekki, nema síður sé.  Tilraun kínverska Kommúnistaflokksins með auðvaldskerfi undir einræði kommúnista hefur mistekizt, og þar verður eitthvað undan að láta. Hrávörumarkaðir o.fl. verða fórnarlömb kínverskrar kreppu.

"Veltufé frá grunnrekstri Reykjavíkurborgar dugði ekki fyrir afborgunum af lánum á fyrri hluta þessa árs.  Útgjöld hafa aukist um marga milljarða umfram verðlag, fólksfjöldaþróun og kostnað við nýja málaflokka.  Stöðugildum hefur hlutfallslega fjölgað helmingi hraðar en íbúum í Reykjavík frá 2009.  Aukið lánsfé þarf til að fjármagna grunnþjónustu."

Þessi niðurstaða Viðskiptablaðsins sýnir í hnotskurn, að borgin eyðir um efni um fram, og meginskýringin er hömlulaus fjölgun starfsmanna borgarinnar.  Það eru of margar silkihúfur að ráðstafa fjármunum borgarinnar og spyrja má, hvort hlöðukálfum jafnaðarmanna sé raðað á garðann ?  Það er gamla sagan með jafnaðarmenn.  Þeir sýna af sér algert ábyrgðarleysi í opinberum fjármálum og stjórna aldrei með hagsmuni skattborgaranna að leiðarljósi, heldur þenja báknið fyrirhyggjulaust út og vænta með því sæluríkis sameignarstefnunnar, sem auðvitað aldrei kemur, því að þetta er botnlaus hít. Þetta er nú að koma jafnaðarmönnum í koll um alla Evrópu.

"Útgjöld Reykjavíkurborgar hafa eftir sem áður aukist um 18,45 % umfram verðlag, íbúafjölgun og útgjaldaaukningu vegna málefna fatlaðra frá árinu 2010."

Þessi hömlulausa útgjaldaaukning sýnir svart á hvítu, að Reykjavík er stjórnlaus.  Mýsnar dansa á borðinu, og kötturinn liggur á meltunni og rumskar ekki.  Parkinsonslögmálið ríkir í Ráðhúsinu í Reykjavíkurtjörn. 

Þessi óöld hófst fyrir alvöru með Besta flokkinum, sem var beztur við að sólunda almannafé, en óöldin hefur haldið áfram á fullum hraða á vakt Dags B. Eggertssonar.  Sumum urðu það vonbrigði, en aðrir vissu, að jafnaðarmenn yrðu ófærir um að snúa af þessari óheillabraut.  Þá skortir bæði getu og vilja til stórræðanna.  Það fjarar hratt undan þeim núna. Farið hefur fé betra.

"Í fyrri úttekt Viðskiptablaðsins frá 7. maí síðastliðnum um fjárhag Reykjavíkurborgar var greint frá því, að borgaryfirvöld hafa fengið viðvaranir frá fjármálaskrifstofu borgarinnar vegna hættumerkja í rekstrinum, þegar ársreikningi fyrir seinasta ár var skilað.  Viðvaranir fjármálaskrifstofunnar beindust fyrst og fremst að útgjöldum, en þar var til að mynda bent á, að laun og annar rekstrarkostnaður væru orðin 123 % af skatttekjum.  Samkvæmt árshlutareikningi er þetta hlutfall komið í 129 % á fyrri helmingi ársins 2015, bæði vegna launahækkana hjá borginni og fjölgunar stöðugilda." 

Þegar rekstur stórfyrirtækis á borð við borgina er orðinn jafndúndrandi ósjálfbær og þessi lýsing ber með sér, er með öllu ófyrirgefanlegt að grípa ekki í taumana þrátt fyrir, að öll viðvörunarljós blikki rauðu í Ráðhúsinu.  Þar hlýtur að vera lömun á æðstu stöðum á ferðinni og ákvarðanafælni á sjúklega háu stigi. Kjósendur geta því miður ekki skipt um áhöfn á skútunni fyrr en í sveitarstjórnarkosningum 2018, en þá mega þeir heldur ekki láta nein trúðslæti villa sér sín.   

 

 


Baráttan við báknið

Framlagt fjárlagafrumvarp lofar góðu um viðsnúning í ríkisrekstrinum, þar sem vaxtagjöld árið 2016 munu lækka um meira en 8 mia (milljarða) kr, og afgangur verður af rekstri ríkissjóðs u.þ.b. 2 % af tekjum hans.  Boðaðar eru löngu tímabærar tollalækkanir og tekjuskattslækkanir ásamt lækkun fjármagnstekjuskatts, sem auka munu ráðstöfunartekjur heimila á árunum 2016-2017 um 1,4 %, þegar allt verður komið til framkvæmda. Þetta svarar til þess, að ríkið skili til almennings 17 miö kr, en ríkissjóður mun fá drjúgan hluta þeirrar upphæðar bættan upp með hærri tekjum af virðisaukaskatti o.fl. 

Formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lét ekki á sér standa með að taka afstöðu gegn þessari kaupmáttaraukningu almennings og með bákninu, sem hún telur hér missa af fé, sem því beri síðan að endurdreifa um þjóðfélagið eftir smekk stjórnlyndra stjórnmálamanna.  Þetta eru stjórnmál af gamla skólanum, sem sífellt fjarar undan.  Hún sagði það beint út, að almenningur færi nú að verzla meira, og formaður VG óttaðist þenslu í hagkerfinu þess vegna.  Vinstra heimatrúboðið er samt við sig og sér skrattann í hverju horni, ef almenningur getur farið að veita sér meira af fatnaði eða öðru.  Hvernig vesalings Katrín Jakobsdóttir getur fengið það út, að verðlækkanir og skattalækkanir valdi þenslu út af fyrir sig, er ekki boðlegur málflutningur, nema fyrir áhangendur villta vinstrisins.  Heldur hún virkilega, að ríkisútgjöld geti ekki valdið þenslu ?  Þessi gamla og ryðgaða plata villta vinstrisins gengur í raun út á, að fólkið sé til fyrir ríkið, en ekki öfugt, og að ríkisreksturinn eigi að vaxa stöðugt að umfangi, þar til sælustigi sameignarstefnunnar sé náð.  Þess vegna megi aldrei skila neinu til almennings, sem ríkið hefur einu sinni komið höndum yfir.  Skattalækkanir, hverju nafni, sem þær nefnast, eru eins og guðlast í huga vinstra heimatrúboðsins.

Hugarheimur Katrínar Jakobsdóttur er mengaður af stéttastríðshugmyndum, þar sem tilgangurinn helgar meðalið, og tilgangur allra aðgerða er að koma höggi á "stéttaróvininn", vinnuveitandann.  Þannig er alltaf hvatt til sem mestra nafnlaunahækkana í viðleitni til að draga úr hagnaði auðvaldsins, en hagur verkalýðs og borgara er algert aukaatriði í huga vinstra heimatrúboðsins.  Af þessum sökum berst það ætíð gegn kaupmáttaraukningu, sem ekki er sótt í vasa vinnuveitenda.  Þetta er eins andfélagslegt viðhorf og hugsazt getur.   

Því miður hefur þessi sjúklegi hugsunarháttur smitað út frá sér, t.d. til embættismannakerfisins, sem iðulega setur sig á háan hest gagnvart einstaklingum og einkafyrirtækjum, og þykist vera yfir almenning hafið. Þetta er alþekkt, og Orson Wells gerði þessu sjúklega atferli, yfirlæti, drambsemi og kúgunartilburðum, skil að sínu leyti í bók sinni, 1984.

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði um þetta þarfa ádrepu í Morgunblaðið 9. september 2015, undir fyrirsögninni:

"Röng, letjandi og rotin skilaboð".

Um hroka og yfirgang embættismannastéttarinnar gagnvart einstaklingum og einkafyrirtækjum nefnir Óli Björn seðlabankahneykslið síðasta og skrifar:

"Það hefur verið búið til andrúmsloft stjórnlyndis, þar sem það þykir ekki óeðlilegt, að stjórnkerfið gangi fram af fullkominni hörku gagnvart framtaksmönnum, sem hafa skarað fram úr.  Að undirlagi Seðlabankans var gerð innrás í skrifstofur Samherja fyrir fjórum árum vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum."

 

Þessi ófyrirleitna framkoma er ólíðandi.  Nú hefur fjármála-og efnahagsráðherra boðað framlagningu frumvarps um breytta skipan Seðlabanka Íslands.  M.a. á að hverfa aftur til baka til bankastjórnar þriggja jafnsettra bankastjóra, þó að einn þeirra gegni formennsku bankastjórnar.  Er þá vonandi, að ákvarðanataka á vegum bankans verði yfirvegaðri og betur ígrunduð, lögfræðilega og hagfræðilega, en hún hefur verið frá skipulagsbreytingu og ráðningu Jóhönnustjórnarinnar á núverandi húsbónda í Svörtuloftum.

Hið endurupptekna fyrirkomulag tryggir jafnframt betri samfellu í æðstu stjórn bankans, því að til undantekninga heyrir, að öll bankastjórnin hverfi í einu, eins og Jóhanna Sigurðardóttir varð þó valdur að á sínum tíma og fékk þá norskan krata til að stýra fleyinu þar til hún réð núverandi gallagrip, sem síðan reyndi að fara dómstólaleiðina til að hremma laun, sem hann taldi téða Jóhönnu hafa lofað sér.

Peningamálastjórnun landsins er að nokkru leyti valdur að miklum fjármagnskostnaði við húsbyggingar og aðrar fjárfestingar í landinu.  Þessi mikli fjármagnskostnaður vegna húsbygginga er miklu hærri en á hinum Norðurlöndunum, svo að munar 1,5-2,5 milljónum kr á ári af 30 milljón kr láni, og er ein meginskýringin á skorti á trausti í garð hefðbundnu stjórnmálaflokkanna og flótta til sjóræningjanna að mati blekbónda.  Hér eiga bæði verðtrygging og háir vextir sök. Það er verkefni ríkisstjórnarinnar að varða veginn til lausnar á þessu vandamáli, og fjármála- og efnahagsráðherra lét á sér skilja í ræðu sinni í umræðum á þingi um stefnuræðu forsætisráðherra, að hann gerði sér grein fyrir vandamálinu og mikilvægi góðrar lausnar á því. Líklega er pólitískur og hagfræðilegur þjóðfélagsstöðugleiki lykilatriði til lausnar.

Um skuldir unga fólksins ritar Óli Björn Kárason í téðri grein:

"Þúsundir ungmenna eru skuldum vafin eftir að hafa fleytt sér í gegnum langt nám með dýrum lánum auk atvinnutekna á sumrin, og þegar færi hefur gefist með námi.  Engu skiptir, þótt í boði séu ágætlega launuð störf.  Unga fólkið sér, að það á litla eða enga möguleika á því að eignast eigin íbúð í náinni framtíð.  Það er búið að takmarka möguleika þess - skerða valfrelsið.  Nauðugt á það ekki annan kost en að halda áfram að vera leigjendur.  Engu virðist skipta, að afborganir af láni vegna þokkalegrar íbúðar séu lægri en það, sem greitt er í leigu.  Kerfið er búið að loka á lánamöguleika."

Óli Björn tengir þessa alvarlegu stöðu ungs fólks, sem auðvitað smitar um allt þjóðfélagið, við lítið fylgi hefðbundinna stjórnmálaflokka. Það stendur borgaralegu stjórnmálaflokkunum næst að lagfæra þetta.  Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að gera fólki kleift að búa í eigin húsnæði sem lengst á æviskeiðinu, og 90 % landsmanna kjósa það helzt.  Þess vegna standa úrbætur Sjálfstæðisflokkinum næst, og fyrr getur hann varla vænzt verulegrar fylgisleiðréttingar en hann leggur fram trúverðuga áætlun um að skapa forsendur svipaðs fjármagnskostnaðar við húsbyggingar og á hinum Norðurlöndunum. Þar er reyndar minna um, að fólk búi í eigin húsnæði en á Íslandi. Um þetta viðfangsefni skrifar Óli Björn og er hægt að taka heils hugar undir með honum:

"Svo undrast margir, að ungt fólk sé afhuga hefðbundnum stjórnmálaflokkum !  Á meðan borgaralegir stjórnmálaflokkar leggja litla eða enga áherslu á að skapa ungu fólki a.m.k. ekki síðri tækifæri en foreldrar þess fengu til að eignast eigið húsnæði, munu þeir aldrei ná eyrum yngri kjósenda."

Að lokum er herhvöt til borgaralegra afla, ekki sízt Sjálfstæðisflokksins, um að bretta upp ermarnar í þágu ungu kynslóðarinnar og húsnæðisvanda hennar.  Það er ónógt framboð húsnæðis vegna eftirspurnarleysis, sem stafar af háum fjármagnskostnaði við byggingar og að nokkru of háum byggingarkostnaði.  Óli Björn:

"Stjórnmálamenn, sem vilja tryggja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna, geta ekki setið aðgerðarlausir.  Þeir geta ekki sætt sig við, að aðeins þeir, sem eiga fjárhagslega sterka bakhjarla eigi raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum að loknu námi.  En með aðgerðaleysi senda þeir þau skilaboð, að helsta forsenda þess að eignast eigið húsnæði sé fjárhagslegur styrkur foreldra eða afa og ömmu."

 

 

 

 

 


Brauðmolaþvættingurinn

Það er alveg makalaust, að enn skuli á árinu 2015 eima af kenningum um óhjákvæmileg stéttaátök og sögulega þróun í átt til Þúsund ára ríkis sameignarstefnunnar.

Nýjasta dæmið um hrakfallasögu sameignarstefnunnar er Venezúela.  Þar notaði vinstri sósíalistinn Hugo Chavez tekjurnar af þjóðnýttum olíuiðnaði til að greiða niður verð á nauðþurftum almennings. Þetta inngrip í markaðshagkerfið endaði með ósköpum, svo að nú er sami almenningur á vonarvöl. 

Ekki einasta er nú þessi þjóðnýtti olíuiðnaður fallinn að fótum fram, heldur gjörvallt hagkerfi Venezúela.  Chavez hafði tekið markaðsöflin úr sambandi með þeim afleiðingum, að skortur myndaðist á flestum vörum og þjónustu, og svarti markaðurinn einn blómstrar með gengi á bólívar í mesta lagi 1 % af skráðu opinberu gengi bandaríkjadals.  Greiðsluþrot ríkisins blasir við eigi síðar en árið 2016 og félagsleg og fjárhagsleg upplausn við endastöð jafnaðarstefnunnar í þessu landi, sem svo ríkt er af náttúrulegum auðlindum. Tær jafnaðarstefna hefur hvarvetna leitt til eymdar og volæðis, þar sem hún hefur verið iðkuð, og hægagangs útblásins opinbers rekstrar með ofsköttun og skuldasöfnun, þar sem gruggugri útgáfur hennar hafa verið reyndar.

Að fela stjórnmálamönnum öll ráð yfir samfélagi þýðir í raun að taka markaðsöflin úr sambandi.  Hinar öfgarnar; að leyfa markaðsöflunum að leika lausum hala kann heldur ekki góðri lukku að stýra, því að slíkt getur auðveldlega leitt til fákeppni og jafnvel einokunar í litlum samfélögum.  Bezt er að virkja atorku markaðsaflanna til að skapa "hagsæld handa öllum" í anda "Markaðshagkerfis með félagslegu ívafi", þar sem eindrægni ríkir á vinnumarkaðinum í andstöðu við stéttastríðshugmyndafræði jafnaðarmanna af ýmsum toga.

Í nýlegri skýrsla AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um orsakir og afleiðingar fjárhagslegs ójafnaðar er komizt að þeirri niðurstöðu, að mikill tekjumunur í samfélagi hafi neikvæð áhrif á hagvöxt og að árangursríkara sé, til að efla hagvöxt, að auka ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og millitekjuhópa en hinna tekjuhæstu. 

Þessi niðurstaða hefur fólki á vinstri væng stjórnmálanna þótt afsanna svo kallaða "brauðmolakenningu" eða "trickle-down economics", sem það heldur fram, að snúist um að mylja undir hina tekjuhæstu og auðugustu, því að það hafi jákvæð áhrif á samfélagið allt.  Af málflutningi þeirra að dæma mætti ætla, að hópur hægri sinnaðra hagfræðinga gerði fátt annað en að hvetja stjórnmálamenn til að hlaða undir auðmenn á grundvelli "brauðmolakenningarinnar".

Hinn virti hagfræðingur, Thomas Sowell, sem kenndi áður við Cornell og UCLA-háskólana, en starfar nú einkum fyrir Hoover-stofnunina við Stanford, hefur skrifað um þessa meintu kenningu og komizt að þeirri niðurstöðu, að hún sé hugarburður vinstri sinnaðra andstæðinga einstaklingshyggju og aukins frelsis efnahagslífsins.

Thomas Sowell hefur ekki fundið neinn hagfræðing, sem á eitthvað undir sér og mælir fyrir "brauðmolakenningunni".  Hana er ekki að finna í neinum af mest lesnu almennu kennslubókunum í hagfræði, og fyrir nokkrum árum bað hann fólk um að benda sér á slíkan "brauðmolahagfræðing".  Engin ábending kom.  Þetta er dæmigert fyrir sýndarveruleikann, sem vinstri sinnað fólk lifir í.  Það spinnur upp kenningar og málar svo skrattann á vegginn.  Veruleikafirring kallast það, og fólk með þetta heilkenni sat að völdum í Stjórnarráðinu 2009-2013 og stýrði þjóðarskútunni eftir áttavita með vinstri skekkju, sem leiddi að sjálfsögðu til ófara.  Afstaða pírata til "brauðmolakenningarinnar", er ekki þekkt, þó að í sýndarveruleika sé, enda er afstaða þeirra meira að segja á reiki til "deilihagkerfisins". 

Ein af vinstri skekkjunum er sú, að skattakerfið eigi miskunnarlaust að nota til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu og það verði gert með skattahækkunum.  Þetta er bæði hagfræðilega og siðferðilega röng aðferðafræði við að auka jöfnuð. Ef gengið er of langt í að mismuna fólki eftir efnahag með skattheimtu, þá hverfur hvatinn til að leggja hart að sér, standa sig vel og auka tekjur sínar.  Þjóðarkakan vex þá hægar eða minnkar, og allir tapa á slíku.  Bezta ráðið til að auka jöfnuðinn er að hámarka verðmætasköpunina og tryggja með kjarasamningum sanngjarna skiptingu auðsins á milli fjármagnseigenda og launamanna.  

Sjómenn fá um 35 % aflahlut, og aðrir launamenn um 65 % af verðmætasköpun fyrirtækjanna á Íslandi.  Það er á meðal hin hæsta, sem þekkist.  Arður af eigin fé fyrirtækjanna á bilinu 5 % - 15 % þykir eðlilegur m.v. aðra ávöxtun og áhættu, sem féð er lagt í.

Þegar borgaraleg öfl viðra og framkvæma skattalækkanir, sama hvaða nafni nefnast, hefst jafnan spangól vinstrisins með tilvísunum í "brauðmolakenninguna" um , að nú eigi að framkvæma "skattalækkanir fyrir hina ríku".  Þetta er rökleysa, því að í mörgum tilvikum lækka skattar hlutfallslega meira á þá tekjulægstu en þá tekjuhæstu. 

Fyrrnefndur Sowell segir, að vissulega hvetji margir hagfræðingar með rökstuddum hætti til lækkunar skatta á fyrirtæki og fólk.  Þeir sýna fræðilega fram á, og reynslan staðfestir fræðin, að lækkun skattheimtu hækkar skatttekjur hins opinbera, því að lækkun örvar skattþolann til að stækka skattstofninn. Stefna núverandi stjórnvalda um afnám vörugjalda af flestum vörum og lækkun virðisaukaskatts hefur leitt til vaxandi viðskipta og aukinna skatttekna hérlendis.

Vinstra megin við miðju (miðjan er fljótandi) hafa menn á borð við John Maynard Keynes, Woodrow Wilson og John F. Kennedy viðurkennt þessa staðreynd.  Til tekjuöflunar fyrir hið opinbera eru skattalækkanir öflugt tæki, en þá kemur sem sagt "brauðmolakenning" vinstri manna til skjalanna.   Þeir gleyma því þá, að hið opinbera verður í betri færum til að fjármagna sjálft (án lántöku) útgjöld sín til stuðnings hinum lakar settu til kjarajöfnunar. 

Það, sem gerist alls staðar, þar sem þungar skattbyrðar, eins og á Íslandi, eru gerðar léttbærari, er, að framleiðsla vex, atvinnuleysi minnkar, ráðstöfunartekjur launafólks hækka (launagreiðslugeta fyrirtækja vex og útgjöld almennings lækka).  Hinir tekjuhæstu greiða ekki aðeins hærri skatta í krónum talið, heldur eykst jafnframt hlutur þeirra af heildarskattgreiðslum.  Lýðskrum vinstra liðsins um "skattalækkanir fyrir hina ríku" er innistæðulaust fjas fólks, sem smitað er af hinni óhugnanlegu kenningu um, að tekjur og eignir einstaklinga séu í raun eign ríkisins og að lækkun skattheimtu sé þess vegna  "eftirgjöf á réttmætum ríkistekjum". 

Enn reyna vinstri menn að viðhalda áróðri sínum um ójöfnuð á Íslandi.  Um þann skollaleik skrifar Óðinn í Viðskiptablaðið 25. júní 2015:

"Kaldhæðnin verður því vart meiri, þegar stjórnarandstæðingar kvarta nú sem aldrei fyrr undan efnahagslegum ójöfnuði, þegar jöfnuðurinn hefur aldrei verið meiri.  Kannski er ójöfnuðurinn að fara að taka við af brauðmolakenningunni sem uppáhaldsstrámaður vinstrimanna ?

Sérkennilegast er að heyra þessa kenningasmíð frá manni [Gunnari Smára Egilssyni - innsk. BJo], sem auðgaðist einna mest, hlutfallslega, á þeirri efnahagsbólu (svo að notað sé orð hans og hans líkra), sem myndaðist á árunum fyrir fall bankanna.  Og hvaðan kom auðurinn.  Jú, hann var tekinn að láni í viðskiptabönkunum, sem féllu."

Önnur illvíg árátta vinstra liðsins er að hallmæla atvinnuvegunum og atvinnuveitendum, einkum útgerðinni.  Orkukræfum iðnaði er hallmælt með rakalausum fullyrðingum um óarðbæra raforkusölu til hans.  Hver étur þessa fullyrðingu upp eftir öðrum, en enginn hefur tekið sér fyrir hendur að sýna fram á þetta, enda er það ekki hægt.  Almenningur nýtur góðs af hagkvæmni orkusölusamninga við málmiðnaðinn með nánast lægsta raforkuverði á byggðu bóli.  Sjá menn ekki þversögnina í aróðrinum um óhagkvæma orkusölu til stóriðju og samtímis hagkvæmni raforkuviðskipta almennings ?  Ef flugufótur væri fyrir þessum áróðri, sem reyndar kemur úr ýmsum áttum, væri Landsvirkjun væntanlega á vonarveli.  Svo er hins vegar alls ekki, og gæti markaðsvirði hennar numið um ISK 500 milljörðum um þessar mundir.

Það hefur verið leiðarstef Samfylkingarinnar að hnýta í landbúnaðinn. Það er afar ósanngjarnt að gagnrýna bændur, því að bændastéttin hefur náð gríðarlegum árangri í sínum rekstri, aukið framleiðnina meira en flestir aðrir, aukið fjölbreytni framleiðslunnar og síðast en ekki sízt aukið gæðin mikið. 

Þeir vinna við erfið skilyrði norðlægrar legu og eyjaloftslags, en hreinleikinn og heilnæmnin er þess vegna meiri en þessi blekbóndi þekkir annars staðar.  Draga þarf úr ríkisstyrkjum við bændur, og að sama skapi eiga þeir að hækka afurðaverð sitt með það að markmiði að verða markaðsdrifinn atvinnurekstur með aðgang að útflutningsmörkuðum á grundvelli gagnkvæmra tollaívilnana og mikilla vörugæða. 

Kaupmenn verða að kappkosta að upplýsa neytendur um uppruna landbúnaðarvaranna, einkum kjötsins í afgreiðsluborðunum.  Það á ekki að vera leyfilegt að flytja inn matvæli í samkeppni við íslenzk matvæli, nema þau standist gæðasamanburð við þau íslenzku.  Þar eru ýmsar viðmiðanir hafðar til hliðsjónar, s.s. sýklalyf, steragjöf, hormónagjöf, skordýraeitur og áburður.

"Það er útbreiddur misskilningur, að hægt sé að umgangast sjávarútveg á annan hátt en en aðrar atvinnugreinar."

Þetta sagði í forystugrein Morgunblaðsins þann 20. júní 2015 og er hverju orði sannara.  Öfugmæli um útveginn hafa valdið miklum úlfaþyt í samfélaginu, sem mál er að linni.  Það er vinstri vella og rætinn áróður fólks með meint óréttlæti gildandi fiskveiðistjórnunarkerfis, kvótakerfisins, á heilanum, og mætti kannski nefna "sóknarheilkennið", að íslenzki sjávarútvegurinn hlunnfari íslenzka alþýðu með því að greiða minna en sanngjarnt er fyrir leyfi til veiðanna. 

Hér er um tilfinningahlaðinn þvætting að ræða.  Sanngirnisviðmið í þessum efnum er, að útgerðirnar greiði í sameiginlegan, sjálfstæðan sjóð, sem standi straum af fjárfestingum og rekstri, eftir atvikum, stofnana á vegum ríkisins, sem annast þjónustu við sjávarútveginn, t.d. Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar og Hafnarsjóðs.  Árlegt framlag gæti verið 4,5 % verðs upp úr sjó, sem er um helmingur núverandi gjaldtöku.

Gjaldtakan 2015 er á bilinu 4,5 % - 23,0 % af verði upp úr sjó með miðgildið 9 % (jafnmargar tegundir neðan við og ofan við).  Ljóst er, að þessi gjaldtaka er hóflaus í sumum tilvikum.  Keyrði um þverbak í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013 með þeim afleiðingum, að útgerðum fækkaði óvenju hratt.  Arðsemi hinna jókst við fækkunina.  Var það ætlun vinstri stjórnarinnar ?  Hvað sagði í téðri forystugrein Morgunblaðsins um þennan óeðlilega og ósanngjarna málatilbúnað á hendur sjávarútveginum ?:

"Útreikningar endurskoðunarfyrirtækisins KPMG á skattaspori HB Granda sýna til að mynda, að tekjur ríkis og sveitarfélaga vegna verðmætasköpunar fyrirtækisins námu 6,6 milljörðum króna árið 2013.  Þriðjungur þessarar miklu skattbyrði er vegna veiðigjaldanna, og skattsporið er hærri upphæð en kom í hlut eigenda fyrirtækisins."

Það nær náttúrulega engri átt, að veiðigjöldin hækki skattgreiðslurnar um helming, 50 %, eins og í þessu tilviki, og að tekjur hins opinbera nemi hærri upphæð en tekjur eigendanna af þessari fjárfestingu sinni. 

Þessari tímabæru forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:

"En til að útgerðir geti þrifizt og endurnýjað tækjabúnað á eðlilegan hátt, ekki sízt minni útgerðir, sem hafa farið verst út úr ofursköttunum, sem ættaðir eru frá fyrri ríkisstjórn, er nauðsynlegt, að þingmenn fari að sýna því aukinn skilning, að stöðugt rekstrarumhverfi og hófleg skattheimta eru forsenda velgengni til framtíðar. Meðferð makrílfrumvarpsins og umræður um það að undanförnu sýna því miður, að langt er í land í þessum efnum." 

Við þetta er engu að bæta varðandi sjávarútveginn, en í lokin er rétt að benda á, að enn andar köldu til verksmiðjueigenda, sem hug hafa á að reisa verksmiðjur á Íslandi.  Í þeim efnum er nýjasta dæmið ISK 120 milljarða fjárfesting Hudson Clean Energy Partners, bandarísks fjárfestingarsjóðs, sem starfar undir Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (SEC).  Sjóðurinn leggur áherzlu á "grænar" fjárfestingar, og norrænir lífeyrissjóðir eiga um þriðjung þessa sjóðs.  Engu að síður hafa skotið upp kollinum úrtölumenn úr ýmsum áttum, og yrði það miður, ef slíkir næðu að setja skít í tannhjólin.

Hér er um að ræða hreinkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga.  Nú er hins vegar að koma fram á sjónarsviðið nýtt efni, methylammonium blýjoðíð, og kalla menn þetta efni og skyld efni perovskía.  Þeir munu veita kíslinum samkeppni sem grunnefni í sólarhlöðurnar.  Nýtni perovskía er um þessar mundir 20 %, og vísindamenn telja unnt innan tíðar að ná 25 % nýtni (fjórðungur sólarorkunnar, sem fellur á efnið, verður breytanlegur í raforku) og vinnslukostnaður verður að öllum líkindum lægri.  Þetta gæti sett þróun kísiliðnaðar í heiminum, og þar með á Íslandi, í uppnám, svo að tryggilega þarf að búa um hnúta orkusamninganna, að orkuseljandi eigi forgangsrétt í þrotabú við hugsanlegt gjaldþrot viðkomandi fyrirtækis vegna orkukaupaskuldbindinga fram í tímann, sem jafnan eru ákvæði um í slíkum samningum.    

 

   

 

 

 

 

 

   

 

  

 

 

 

 


Þjoðfélag markaðshagkerfis með félagslegu ívafi

Þjóðverjum gengur mjög vel innan evru-svæðisins eftir að vaxtaverkjum Endursameiningar Þýzkalands l990 linnti upp úr aldamótum, og þeim gekk reyndar líka mjög vel allt frá innleiðingu þýzka marksins í árdaga Sambandslýðveldisins.  Um leið og þýzka markið kom til sögunnar, var efnahagshöftum aflétt á einni nóttu, og stefna Markaðshyggju með félagslegu ívafi var innleidd af Konrad Adenauer, fyrsta kanzlara Sambandslýðveldisins Þýzkalands, og dr Ludwig Erhard, efnahagsráðherra hans og föður þýzka efnahagsundursins (Wirtschaftswunder). 

Margir, þar á meðal bandaríski hernámsstjórinn, efuðust um efnahagslegan stöðugleika Vestur-Þýzkalands í kjölfar þessa, en efnahagsráðherrann í ríkisstjórn Konrads Adenauers réði þessu, og aðgerðin tókst fullkomlega.  Svarti markaðurinn og vöruskorturinn hurfu sem dögg fyrir sólu, og gríðarlega öflugt hagvaxtarskeið tók við á hernámssvæðum Vesturveldanna í Þýzkalandi, m.a. fyrir tilstuðlan Marshall-aðstoðar Bandaríkjamanna og aðkomumanna (Gastarbeiter), því að blóðtaka þjóðarinnar í styrjöldinni 1939-1945 hafði verið geigvænleg.  

Erhard treysti markaðinum til að finna jafnvægi, og það gekk eftir, sem sýnir, að stjórnvöldin í Bonn, höfuðborg Vestur-Þýzkalands, höfðu skapað nauðsynlegar aðstæður til að markaðskerfið gæti virkað.  Flest, sem Erhard tók sér fyrir hendur í efnahagsmálum, gekk upp. Hann ritaði bækur um hagfræðileg hugðarefni sín, m.a. "Hagsæld fyrir alla", þar sem hann lýsir stefnumálum sínum.

Þjóðverjar höfðu slæma reynslu af markaðsráðandi stórfyrirtækjum á árunum fyrir báðar stórstyrjaldir 20. aldarinnar.  Stjórnmálastefnan um Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi var mótuð eftir heimsstyrjöldina síðari af Adenauer, Erhard o.fl. til að vera valkostur við óheft auðvaldsskipulag og jafnaðarstefnu/sameignarstefnu.  Þessi stefna varð árið 1949 hryggjarstykkið í efnahagsstefnu hægriflokkanna CDU og CSU.  CDU starfar í öllum fylkjum Sambandslýðveldisins, nema Bæjaralandi, þar sem systurflokkurinn, CSU, starfar á hægri vængnum, og hefur hann oftast verið með meirihluta á fylkisþingi Bæjaralands og farið með forræði fylkisstjórnarinnar frá stofnun Sambandslýðveldisins 1949. Það er skoðun blekbera þessa vefseturs, að kjarni þessarar stefnu mið-hægri flokka Þýzkalands henti Íslandi ágætlega (= á gott), og þess vegna er ekki úr vegi að reifa hana:

"Markaðshyggja með félagslegu ívafi spannar peningastefnu, skattastefnu, lántökustefnu, viðskiptastefnu, tollastefnu, fjárfestingarstefnu og félagsmálastefnu í landsmálum með það fyrir augum að skapa hagsæld handa öllum.  Með því að draga úr fátækt og dreifa auðnum til stórrar millistéttar er búinn til grundvöllur fyrir almenna þátttöku á fjármagnsmarkaðinum.

Frjálst framtak er grunnstoð markaðshagkerfisins, og opinberri stjórnun og ríkisafskiptum skal beita til að tryggja frjálsa samkeppni og til að tryggja jafnvægi á milli hagvaxtar, lágrar verðbólgu, góðra vinnuskilyrða,velferðarkerfis og opinberrar þjónustu." 

Samkvæmt Markaðshyggju með félagslegu ívafi ber ríkisvaldinu að stuðla að frjálsri samkeppni á öllum sviðum samfélagsins, þar sem henni verður við komið, og eins raunverulegri samkeppni og kostur er.  Þetta er mótvægið við frjálsa framtakið, sem eðli máls samkvæmt leitast við að ná undirtökum á markaðinum, en fákeppni eða einokun er sjaldnast hallkvæm neytendum.

Úr íslenzka umhverfinu má nefna nokkur dæmi, er lúta að þessu:

Verðlagsnefnd búvara er barn síns tíma og ætti að afnema með nýrri lagasetningu um verðlagsmál landbúnaðarins.  Nýlega ákvað nefndin hækkun á mjólkurvörum, og fengu bændur þá aðeins fjórðung hækkunarinnar.  Ekki virðist þetta vera sanngjarnt, og ættu bændur að taka afsetningu afurða sinna meir í sínar hendur, enda hefur opinberlega komið fram óánægja úr þeirra röðum með téða hækkun.  

Íslenzkar mjólkurvörur eru í samkeppni við innflutning á alls konar ígildi mjólkur úr soja, hrísgrjónum, möndlum o.fl., og íslenzkt viðbit keppir við jurtasmjör.  Kjöt keppir innbyrðis og við fisk, og grænmetið er í samkeppni við innflutning.  Það er þess vegna mikil samkeppni á matvörumarkaðinum um hylli neytenda, þó að innflutningur kjötvara sé takmarkaður, þegar nóg framboð er af svipuðu innlendu kjöti.  

Upplýsingum til neytenda er hins vegar ábótavant að hálfu kaupmanna.  Merkja þarf uppruna matvæla betur, t.d. í kjötborði, og geta þess, hvort sýklalyf hafi verið gefin sláturdýrunum, og varðandi grænmetið þarf að geta um, hvort skordýraeitur og tilbúinn áburður voru notuð, svo og allt annað, sem máli skiptir fyrir heilnæmi matvörunnar.  Neytandinn á rétt á þessum upplýsingum, og slík upplýsingagjöf er sanngjörn gagnvart framleiðendum. 

Pottur er hins vegar brotinn, þar sem einn aðili er ríkjandi á markaðinum, eins og t.d. MS.  Það er ótækt, að búvörulögin geri MS kleift að starfa með takmörkuðum afskiptum Samkeppniseftirlitsins.  Slík lagaákvæði eru óviðeigandi um hvaða starfsemi sem er.  Stjórnvöld með Markaðshyggju með félagslegu ívafi mundu tryggja með afnámi undanþágulaga, að engin fyrirtækjastarfsemi eða stofnanastarfsemi, þar sem samkeppni verður við komið, sé undanþegin eftirliti með hegðun á markaði, eins og samkeppnislögin reyndar gera ráð fyrir.   

Í Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi skakkar ríkisvaldið leikinn og dregur tennurnar úr risanum á markaðinum.  Í þessu tilviki þarf ríkið að sjá til þess, að samkeppnisaðilar MS geti keypt ógerilsneydda og ópakkaða mjólk af MS á sama verði og bændur fá fyrir mjólkina að viðbættum flutningskostnaði.  Verðið til bænda er núna 82,92.  Flutningskostnaður frá bændum er 3,50 kr/l, svo að aðrir vinnsluaðilar, sem ekki kjósa að kaupa af bændum beint, ættu að fá hana hjá MS á 86,42 kr/l, en þurfa að greiða 5,08 kr/l hærra verð, sem er tæplega 6 % hærra en efni standa til. Því fer víðs fjarri, að samkeppni um úrvinnslu vöru frá bændum eða öðrum framleiðendum geti ógnað framleiðendum á einhvern hátt.  Saga MS er þyrnum stráð t.d. varðandi ísframleiðsluna.  Samkeppni er bezta vörn neytandans.

Raforkumarkaðurinn er anzi stífur á Íslandi, enda er yfir 90 % raforkuvinnslunnar í höndum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga.  Miðað við löggjöfina, sem um þennan markað gildir, er þetta óeðlilega mikil opinber þátttaka á samkeppnismarkaði. Einkum má telja hlut ríkisins of stóran, en hann er rúmlega 70 % vegna 100 % eignarhalds ríkisins á Landsvirkjun.  Landsvirkjun hefur ekki haldið aftur af verðhækkunum á markaðinum.  Þvert á móti hefur risinn á markaðinum gengið á undan með slæmu fordæmi.  Er nú svo komið, að orkuverð Landsvirkjunar til almenningsveitna ætti að lækka um 2,0 kr/kWh, ef sanngirni væri gætt í garð almennings m.v. vinnslukostnað og meðalverð til stóriðju.  Vegna hlutfallslegrar stærðar Landsvirkjunar á markaði er samkeppnisstaðan skökk, og við slíkar aðstæður ber ríkisvaldinu að grípa inn með leiðréttandi aðgerð til varnar neytendum. 

Þrátt fyrir mikla opinbera þátttöku á þessum markaði stefnir nú í orku- og aflskort á næstu misserum vegna fyrirhyggjuleysis við öflun orku og byggingar flutningsmannvirkja. Þetta er sjálfskaparvíti, sem koma mun alvarlega við pyngju notenda og hefur þegar valdið tugmilljarða kr þjóðhagslegu tapi í glötuðum tækifærum til atvinnuuppbyggingar.  Þá kemur jólasveinn ofan af fjöllum um hásumar og kveður næga fyrirhyggju vera að finna hjá Landsvirkjun og næg orka muni verða, því að orkusamningur á milli Landsvirkjunar og Norðuráls verði líklega ekki endurnýjaður.  Hvort á að hlæja eða gráta við uppákomu af þessu tagi ?

Í Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi mundi ríkisstjórnin bregðast við þessu óeðlilega ástandi með fyrirmælum til stjórnar fyrirtækisins.  Það er jafnframt æskilegt að draga úr eignarhaldi ríkisins með því að bjóða út um 40 % af eignarhaldi á Landsvirkjun á 4 árum með fororði um forkaupsrétt íslenzku lífeyrissjóðanna, þ.e. að þeir geti gengið inn í hæsta verð.  Væri ekki úr vegi að fjármagna nýjan Landsspítala - háskólasjúkrahús með þessu fé og greiða niður skuldir ríkissjóðs með afganginum.

Sæstrengsverkefni til útlanda er ekki í verkahring Landsvirkjunar samkvæmt lögum, sem um hana gilda.  Ef ríkisstjórnin vill, að haldið verði áfram rannsóknum og undirbúningi þessa verkefnis, ætti að einskorða þann undirbúning við nýtt sjálfstætt fyrirtæki, en Landsvirkjun komi ekki að því. Mundu þá hljóðna gagnrýnisraddir um sæstreng til Bretlands, ef ríkið kæmi ekki nærri því ævintýri, nema með óbeinu eignarhaldi á hluta Landsnets. 

Sömu sögu er að segja um vindmyllulundina.  Sjálfstætt fyrirtæki ætti að sjá um alla þætti þeirrar starfsemi, enda verður ekki séð, hvers vegna ríkið ætti að vera þátttakandi í fjárhagslega óhagkvæmri orkuvinnslu. Það eru engin góð rök fyrir vindmyllum á Íslandi, ef þær eru ekki samkeppnishæfar.  

Kljúfa ætti jarðgufuvirkjanir Landsvirkjunar frá meginfyrirtækinu, sem þá hefði eivörðungu vatnsaflsvirkjanir á sinni könnu.  

Með þessum hætti væri sérhæfing á hverju sviði virkjanastarfseminnar tryggð í hverju fyrirtæki, og þetta væri viðleitni til að stemma stigu við fákeppni á raforkumarkaðinum.

Markaðshyggja með félagslegu ívafi tryggir sjálfstæði Seðlabanka Íslands, sem taki sér peningamálastjórn Bundesbank (eins og hún var á tímum DEM) til fyrirmyndar.  Efnahagsráðherra skipi í bankaráðið til 5 ára samkvæmt tilnefningum ASÍ, SA, HÍ, Alþingis og Efnahagsráðherra skipi þann fimmta, sem verði formaður.  Bankaráðið ræður þrjá í bankastjórn, sem skulu bera allar stefnumarkandi ákvarðanir undir bankaráðið, s.s. vaxtaákvarðanir. Aðalmarkmið bankans sé að halda verðbólgu sambærilegri við verðbólgu í helztu viðskiptalöndum, þ.e. að verðbólga á 12 mánaða tímabili fari í mesta lagi 1,0 % yfir vegið meðaltal verðbólgu sama tímabils samkvæmt viðskiptakörfu landsins.  Bankinn fái völd yfir viðskiptabönkunum til að stjórna peningamagni í umferð og vægi verðtryggingar verði minnkað til að gera vaxtatól bankans beittara.

Þýzki vinnumarkaðurinn er þekktur fyrir samheldni vinnuveitenda og launþega og samstarf um sameiginleg markmið fremur en átök á borð við verkföll og verkbönn, og árangurinn er góður.  Þessi úreltu fyrirbrigði eru þó ekki óþekkt þar í landi. 

Vegna Endursameiningar Þýzkalands varð verðbólga meiri um aldamótin síðustu en annars staðar á evru-svæðinu.  Þá sammæltust aðilar vinnumarkaðarins um stöðvun launahækkana í ein 5 ár.  Þetta dró strax úr verðbólgu, og varð hún lægri en annars staðar á evru-svæðinu.  Þetta, ásamt miklum fjárfestingum í austurhéruðunum, varð undirstaða firnasterkrar samkeppnisstöðu Þýzkalands, sem landið býr enn að.

Hegðun af þessu tagi þurfum við hérlandsmenn að taka okkur til fyrirmyndar.  A.m.k. árlega þurfa  fulltrúar ASÍ, SA og Ríkissáttasemjari ásamt fulltrúa ríkisstjórnarinnar að hittast og bera saman bækur sínar um kaupmáttarþróun, verðlagshorfur, þróun raungengis og samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuveganna.  Samstaða þarf að nást á vinnumarkaðinum um, að launabreytingar markist af stöðu útflutningsatvinnuveganna.  Með því að rýna afkomutölur þessara fyrirtækja undir stjórn Ríkissáttasemjanda þarf að nást sameiginleg sýn á það, hvernig verðmætasköpuninni beri að skipta á milli fjármagnseigenda og launþega. Síðan fylgi aðrar greinar í kjölfarið, en auðvitað koma síðan vinnustaðasamningar til skjalanna.  Á stórum vinnustöðum ætti að fylgja fordæmi álveranna um einn kjarasamning per vinnustað fyrir margar stéttir. Það er ekkert óeðlilegt við það, þegar vel gengur, að arðgreiðslur fyrirtækja vaxi, enda vaxi þá jafnframt kaupmáttur launa.  Það er hins vegar óeðlilegt, ef þessar stærðir breytast ekki í takti.

Sérkenni þýzks vinnumarkaðar er "Mitbestimmung", þ.e. fulltrúar launþeganna eiga sæti í stjórnum fyrirtækja yfir ákveðinni stærð og hafa atkvæðisrétt þar.  Hérlendis er vísir að þessu kerfi með eignarhlutdeild lífeyrissjóða í allmörgum fyrirtækjum og stjórnarþátttöku fulltrúa lífeyrissjóða, og þar með launþega, í krafti eignarhlutarins. Þetta er jákvætt, enda samtvinnast með þessu hagsmunir fjármagnseigenda og launþega.  Þetta fyrirkomulag ýtir undir frið á vinnumarkaði, enda er þá góð afkoma fyrirtækisins orðin beintengd fjárhagslegum hagsmunum launþega og snertir ekki einvörðungu atvinnuöryggi þeirra. Þetta er íslenzka útgáfan af "meðákvörðunarrétti" launþega.

Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi getur ekki síður gefizt vel á Íslandi en í Þýzkalandi.  Það má reyndar geta sér þess til, að það höfði til margra hérlendis, sem telja sig borgaralega sinnaða, en eru ekki hallir undir sameignarstefnu í einni eða annarri mynd. 

Sjálfstæðisflokkurinn var myndaður árið 1929 við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins.  Hann hefur alla tíð stutt einkaframtakið dyggilega og jafnframt stofnað til og stóreflt almannatryggingar.  Þó að flokkurinn mundi gerast merkisberi Markaðshyggju með félagslegu ívafi hérlendis, væri engrar stefnubreytingar þörf hjá honum, að því er bezt verður séð.  Með slíkum áherzlum mundu hins vegar ýmis vopn verða slegin úr hendi andstæðinga flokksins, og slíkt mundi móta með skýrum hætti valkost við engilsaxneska frjálshyggju og norrænan kratisma. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í yfirgripsmiklu og mikilvægu máli, og það er flokksmanna að ræða þessa stefnu og laga að íslenzkum aðstæðum, ef hugur þeirra stendur til þess.   

 

 

 

 

   

 

 

 

 

  

 

   

 


 


Gríski harmleikurinn 2010-2015

E.t.v. væri rétt að hefja Gríska harmleikinn árið 2001, því að þá fleygðu Grikkir drökkmunni fyrir róða og tóku upp sameiginlega mynt Evrópusambandsins, ESB,án þess að rísa undir henni, sem reyndist öllu ESB örlagaríkt, enda var illa til stofnað. 

Í raun fullnægðu Grikkir ekki Maastricht-skilyrðunum, sem áttu að verða aðgöngumiði að evrunni, en þeim tókst með svikum og prettum að fleygja skjóðunni með sál Grikklands inn fyrir Gullna hliðið, ECB, við Frankafurðu (Frankfurt).

Reyndar brutu Þjóðverjar sjálfir árið 2003 skilyrðið um, að greiðsluhalli ríkissjóðs færi ekki yfir 3,0 % af VLF.  Á íslenzkan mælikvarða eru það ISK 60 milljarðar, en Þjóðverjar voru snöggir að rétta drekann af í skotstöðu og hafa síðan sett ákvæði í stjórnarskrá sína, sem bannar hallarekstur ríkissjóðs, og hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, viðrað góða hugmynd um lagasetningu þar að lútandi hérlendis.  Þjóðverjar voru reyndar þarna að ljúka uppbyggingarátaki í austurhéruðunum eftir Endursameiningu Þýzkalands.

Frakkar, aftur á móti, eru enn brotlegir við þetta ákvæði og eiga sér ekki viðreisnar von undir jafnaðarmönnum, sem skilja ekki nauðsyn uppstokkunar ofvaxins ríkiskerfis. Annað ákvæði Maastricht var um, að skuldastaða ríkissjóðs mætti ekki fara yfir 60 % af VLF. Eftir bankakreppuna 2008 hefur heldur betur snarazt á ESB-merinni, og lítur staðan núna þannig út:

  1. Grikkland     173 % (verður líklega um 200 % 2015)
  2. Ítalía        134 %
  3. Portúgal      126 %
  4. Írland        108 %
  5. Belgía        107 %
  6. Kýpur         106 %
  7. Spánn          99 %
  8. Frakkland      97 %
  9. Bretland       91 %
  10. Austurríki     89 %
  11. Slóvenía       80 %
  12. Þýzkaland      70 %
  13. Holland        68 %
  14. Malta          68 %
  15. Finnland       62 %
  16. Slóvakía       54 %
  17. Litháen        38 %
  18. Lettland       38 %
  19. Lúxemborg      26 %
  20. Eistland       10 %

 Til samanburðar munu skuldir íslenzka ríkissjóðsins nú vera svipaðar og hins brezka að tiltölu, en gætu farið niður undir Maastricht-viðmiðið árið 2016, ef áform ríkisstjórnarinnar ganga að óskum.

Skuldastaða Grikklands virðist óviðráðanleg, en Þjóðverjar og bandamenn þeirra í evruhópinum (Austurríki, Holland, Finnland og Eystrasaltsríkin) taka afskriftir þeirra ekki í mál, enda mundu kjósendur í þessum löndum bregðast æfir við og refsa valdhöfunum í næstu kosningum með því að kjósa pírata eða einhverja álíka. Á þýzka þinginu er lagt hart að Merkel, kanzlara, að standa fast á þessu, og Sigmar Gabriel, varakanzlari, efnahagsráðherra og formaður SPD, þýzkra jafnaðarmanna, tekur í sama streng. Bæjarinn, Wolfgang Schaeuble, stendur að sjálfsögðu í ístaðinu sem fjármálaráðherra Þýzkalands og neitar að afskrifa skuldir.  Þá mundi skrattinn losna úr grindum á Pýreneaskaganum, á Írlandi og víðar. Reyndar er kratinn Gabriel eitthvað að hlaupa útundan sér núna, enda hafa kratar aldrei verið þekktir fyrir staðfestu. 

Þjóðverjar hafa aftur á móti beitt sér fyrir lengingu lána Grikkja til 2054 og lækkun vaxta með þeim afleiðingum, að greiðslubyrði gríska ríkisins var 4,0 % af VLF árið 2013, en það var minna en greiðslubyrði íslenzka ríkissjóðsins, og í Portúgal var hún 5,0 %, á Ítalíu 4,8 % og á Írlandi 4,4 %.  Þjóðverjar þora þess vegna ekki að afskrifa hjá Grikkjum af ótta við, að allt fari úr böndunum vegna sams konar krafna annarra.

Greiðslugeta gríska ríkissjóðsins er hins vegar engin, því að hann var enn árið 2014 rekinn með 3,5 % halla, en hallinn hefur oftast verið meiri en 10 % undanfarin ár.  Verg landsframleiðsla Grikkja árið 2014 var EUR 179,1 mia eða aðeins EUR 16'300 á mann (MISK 2,4), en skuldir þeirra námu hins vegar MISK 4,3 á mann. Á Íslandi var VLF á mann tæplega þreföld sú gríska. Aðeins kraftaverk getur bjargað Grikklandi frá þjóðargjaldþroti. Kannski það verði erkiengillinn Gabriel, sem sjái aumur á þeim.

Það er ekki kyn þó að keraldið leki, því að VLF Grikkja hefur dregizt saman um 25 % síðan 2010, og atvinnuleysið er nú 26 % og yfir 50 % á meðal fólks 18-30 ára. Verðmætasköpunin er allt of lítil til að geta staðið undir bruðli fyrri ára.

Hvernig í ósköpunum má það vera, að svo illa sé nú komið fyrir grísku þjóðinni, að hún hafi í raun og veru glatað sjálfstæði sínu síðan hún gekk í ESB 1981 ?     Á þessu tímabili hafa vinstri menn, PASOK, lengst af verið við völd, og þeir hafa þanið út ríkisgeirann, þjóðnýtt fyrirtæki og stækkað velferðarkerfið langt umfam það, sem hagkerfið þolir.  Sökudólgarnir eru þess vegna grískir stjórnmálamenn, sem um árabil sóuðu almannafé og gerðust jafnvel svo djarfir, að falsa bókhald ríkisins til að lauma Grikklandi inn á evrusvæðið.  Brotin voru svo stórfelld, að grísk fangelsi væru væntanlega þéttsetin stjórnmálamönnum, ef sömu reglur mundu gilda um þá og athafnamenn.  Svo er hins vegar ekki. Það kann að breytast, ef þjóðfélagsleg ringulreið verður í Grikklandi, og herinn tekur völdin. Fyrir því er um hálfrar aldar gamalt fordæmi.

Jafnaðarmenn hafa farið offari við stjórn Grikklands í innleiðingu fáránlegra réttinda til greiðslu úr ríkissjóði, sem enn viðgangast, svo að það er í raun mikið svigrúm til sparnaðar í grískum ríkisrekstri. Þarna er ábyrgðarleysi jafnaðarmanna í umgengni við fé skattborgaranna um að kenna. Alls staðar standa þeir fyrir ráðstöfun skattfjár í hvert gæluverkefnið á fætur öðru.  Hér verða nefnd nokkur dæmi um bruðlið með fé skattborgaranna:

  • Um 76 % Grikkja fara á eftirlaun fyrir lögboðinn eftirlaunaaldur, sem er þó við 61 árs aldur.
  • Um 8 % eftirlaunaþega fóru á eftirlaun 26-50 ára.
  • Um 24 % eftirlaunaþega hófu töku ellilífeyris 51-55 ára.
  • Um 44 % á 56-60 árs
  • Afgangurinn, 24 %, hefur töku ellilífeyris við 61 árs aldur.

Er ekki skiljanlegt, að Þjóðverjar, sem hefja töku ellilífeyris við 67 ára aldur, séu ekki upp rifnir yfir því, að skattfé þeirra sé notað til að viðhalda slíku endemis sukki ?

Fjárhagslegar skuldbindingar evruríkjanna gagnvart Grikklandi voru EUR 245,2 mia og skiptust með eftirfarandi hætti í milljörðum evra á undan  EUR 86 mia björgunaraðgerðum, sem kann að verða farið í á grundvelli sparnaðartillagna Grikkja, sem fallizt var á 13. júlí 2015:

  • Þýzkaland 60 ~ 28 %
  • Frakkland 53 ~ 22 %
  • Ítalía    46 ~ 19 %
  • Spánn     31 ~ 13 %
  • Holland   15 ~  6 %
  • Belgía     9 ~  4 %
  • Austurríki 7 ~  3 %
  • Finnland   5 ~  2 %
  • Portúgal   3 ~  1 %
  • Slóvakía   2 ~  1 %
  • Aðrir      4 ~  1 %

Ef Ísland hefði verið á evru-svæðinu 2008, veit enginn, hvernig landinu hefði reitt af efnahagslega í bankakreppunni. ESB-aðildarsinnar halda því enn fram af trúarlegri sannfæringu, að hér hefði ekkert hrun orðið þá. Grikkir hafa afsannað slíka fullyrðingu, því að bankarnir tæmdust þar og voru lokaðir í 3 vikur.  Hvað er það annað en bankahrun og jafnvel sýnu verra en hér, því að hér hélt Seðlabankinn þó uppi óslitinni greiðslukortaþjónustu allan tímann þar til nýir bankar tóku við ? 

 Vegna þess að hagkerfi Íslands er ólíkt öllum hagkerfum evru-svæðisins að gerð og samsetningu, er mjög hætt við, að evran hefði reynzt íslenzka hagkerfinu spennitreyja.  Líklegt má telja, að landsmenn hefðu fallið í sömu gryfju og Grikkir eftir gjaldmiðilsskiptin að fara á "lánafyllerí" vegna mun lægri vaxta en landsmenn eiga að venjast.  Það gæti hafa snarazt algerlega á merinni hjá okkur, eins og Grikkjum, peningaflóð hefði valdið miklu meiri verðbólgu hér en að jafnaði varð reyndin á evru-svæðinu á sama tíma ásamt eignabólu, sem hefði sprungið 2008 með ógnarlegum samdrætti hagkerfisins og fjöldaatvinnuleysi og þar af leiðandi meiri landflótta en raun varð á. Það hefði vissulega getað orðið lausafjárþurrð banka hér við þessar aðstæður, eins og reyndin varð í Grikklandi.

Allt eru þetta getgátur, en það hefur hins vegar verið áætlað, að framlag Íslands til stöðugleikasjóðs evrunnar hefði á árabilinu 2012-2015 þurft að nema MEUR 270 eða ISK 40 mia, sem samsvarar 10 milljörðum kr á ári að jafnaði, og er þá ótalin viðbót upp á MEUR 17 = ISK 2,5 mia í ár.  Aðildargjald landsins að ESB er ekki vel þekkt, en gæti hugsanlega numið ISK 15 miö á ári, en eitthvað af því kæmi þó til baka.  Alveg óvíst er um endurheimtur fjár í stöðugleikasjóðinn og horfir mjög óbyrlega með hann um þessar mundir. Í raun er þetta fórnarkostnaður lánadrottnanna innan evru-svæðisins til að halda evrunni á floti.  Þjóðverjar óttast, að á peningamarkaði heimsins mundi evran glata trausti, ef Grikkir falla úr skaptinu. Gengi evru gæti þá hrunið niður fyrir 1 EUR/1 USD = 0,8, sem gæti valdið verðbólgu í Þýzkalandi, og Þjóðverjar mega ekki til slíks hugsa. Bæði þeir og Íslendingar hafa kynnzt óðaverðbólgu; Þjóðverjar þó sýnu verri vegna "Versalasamninganna".

Skattheimta af Íslendingum upp á ISK 25 mia á ári vegna verunnar í ESB og á  evru-svæðinu ofan á aðra skattheimtu hérlendis mundi ekki mælast vel fyrir, enda er hér um að ræða stórar upphæðir eða um 1,3 % af VLF.

Peningakerfi Grikklands hrundi í raun og veru skömmu eftir, að evrubankinn í Frankfurt, ECB, skrúfaði fyrir peningastreymi til gríska seðlabankans, því að bankarnir urðu þá allir að loka.  Þetta sýnir, að gríska hagkerfið er ósjálfbært, enda er vöruútflutningur lítill eða 13 % af VLF (innan við helmingur af íslenzka vöruútflutninginum að tiltölu), en aðaltekjurnar eru af ferðaþjónustu, og nokkuð af þeim markaði er svartur, eins og ferðamenn á Grikklandi hafa orðið varir við, sumir hverjir. Hins vegar er endurfjármögnun grískra banka að hálfu ESB stórmál, því að slíkt kann að leiða til mjög kostnaðarsams fordæmis, t.d. ef Spánverjar færu fram á hliðstæðu.  Gríski harmleikurinn er flókinn og erfiður viðureignar, enda allt ESB-kerfið undir.  Spennan eykst, og stytzt getur í stórtíðindi. 

Þann 9. júlí 2015 reit Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra, gagnmerka grein í Morgunblaðið undir heitinu:

"Reynsla Grikkja af Evrópusambandinu er mikil lexía, líka fyrir Íslendinga". 

Þar vitnar hann í Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, Paul Krugman:

"Það hefur verið augljóst um skeið, að upptaka evru voru hræðileg mistök.  Evrópa hafði aldrei forsendur til að taka með árangri upp sameiginlega mynt. ... Að beygja sig fyrir afarkostum þrístirnisins, ESB, AGS og SBE, væri að gefa upp á bátinn allar hugmyndir um sjálfstætt Grikkland."  

Hjörleifur heldur síðan áfram:

"Til hliðsjónar við þann kost, að Grikkir taki upp eigin mynt, bendir hann [Krugman - Innsk. BJo] á árangursríka gengisfellingu íslenzku krónunnar 2008-2009, og að Argentína hætti að binda pesóinn við dollara 2001-2002." 

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum hjá Hjörleifi Guttormssyni:

"Þeir, sem stóðu fyrir því 2009, að Ísland sækti um aðild að ESB, hafa hægt um sig þessa dagana.  Reynslan frá Grikklandi og mörgum fleiri ESB-ríkjum að undanförnu sýnir, hvílíkt glapræði þar var á ferðinni og aðför að sjálfstæði og velferð Íslendinga.  Af hálfu talsmanna ESB-aðildar Íslands síðasta áratuginn hefur áherzlan á upptöku evru verið meginstefið, sem bæta átti upp augljóst framsal fullveldis og aðgang að fiskimiðunum.  Það er mál til komið, að þeir, sem börðust fyrir ESB-aðild í tíð síðustu ríkisstjórnar, séu látnir horfa í spegil frammi fyrir alþjóð í ljósi þess, sem nú er að gerast á meginlandinu.  Það er ekki síður sögulegt, að um þessar mundir er reynt að stofna stjórnmálaflokk hérlendis undir merki viðreisnar með það meginerindi að knýja á um ESB-aðild Íslands."

 Blekberi þessa vefseturs telur sig vera fremur til hægri í stjórnmálum, en hann getur vafningalaust tekið undir hverja tilvitnaða málsgrein hér að ofan frá manni, sem er þekktur fyrir að vera fremur til vinstri í stjórnmálum.  Það sýnir eitt með öðru, að hugtökin hægri og vinstri í stjórnmálum spanna ekki allt litróf viðfangsefnanna.  Ef sagan verður þeim "viðreisnarmönnum" ekki víti til varnaðar, þá eiga þeir eftir að verða sér til rækilegrar skammar í framboðsraunum til Alþingis, og ekki mun þeim verða hlíft við sögunni. Það eiga eftir að gefast næg tilefni til að leiða þeim og öðrum ámóta villuráfandi ESB-sauðum villur síns vegar fyrir sjónir.

  

 

     

 


Umhverfisvernd í ólestri

Yfirvöld umhverfisverndar og umhverfisverndarsamtök hafa sofið á verðinum gagnvart helzta vágesti íslenzkrar náttúru, ferðamanninum.  Ferðaþjónustan sjálf hefur stungið hausnum í sandinn. Landvernd og önnur náttúruverndarsamtök bera fyrir brjósti hagsmuni ferðamannaiðnaðarins og ota þeim fram gegn orkuiðnaðinum. Þessir aðilar og stjórnarandstaðan á Alþingi eru valdir að stórfelldum kostnaðarauka alls almennings og fyrirtækja hérlendis vegna raforkuverðshækkana, sem fóðraðar eru með orkuskorti. Þá hafa miklar tekjur tapazt vegna þess, að flutningskerfi raforku annar ekki þörfinni fyrir núverandi notkun, hvað þá fyrir nýtt álag, sem spurn er eftir.  Allt er þetta í boði afturhaldsins í landinu, sem á þó ekki bót fyrir rassinn á sér. Núverandi ríkisstjórn braut blað á vorþinginu  varðandi mótvægisaðgerðir til að hamla gegn afleiðingum "engisprettufaraldursins" með samþykkt sinni á MISK 850 fjárveitingu af aukafjárlögum 26. maí 2015, þó að slík aðferð sé neyðarbrauð, enda náttúrupassinn þá farinn veg allrar veraldar, og farið hefur fé betra, segja sumir. 

Það koma stinningstekjur í ríkissjóð frá ferðaþjónustunni, þó að ekki sé þar um að ræða beysna virðisaukaskattheimtu, og er löngu óþarft af ríkisvaldinu að hygla ferðaþjónustunni umfram aðrar atvinnugreinar með vægri skattheimtu.  Munu þessi mál nú í endurskoðun í Fjármálaráðuneytinu. Væri nær að leggja á ferðaþjónustuna auðlindagjald, sem rynni til verndar viðkvæmri náttúru gegn "homo sapiens", sem í of miklum mæli verður að plágu í íslenzkri náttúru.  Af hverju á náttúran ekki að njóta vafans, nema orkugeirinn eigi í hlut ? Það er þó skýr og yfirvofandi hætta af ferðamönnum, en hættan af orkugeiranum er öll orðum aukin og einkennist af tilfinningahlöðnum upphrópunum, sem oft eru staðlausir stafir.

Ferðaþjónustan ætti að auki sjálf að standa  undir fjármögnun verndaraðgerða á náttúrunni gagnvart gríðarlegum ferðamannafjölda.  Er þá grundvallaratriði, að þeir greiði, sem njóta, t.d. með sérstakri skattheimtu á fyrirtæki, sem gera beint út á náttúruna.  Þetta væri til samræmis við það að láta útgerðirnar greiða gjald í sjóð fyrir aðgang að miðunum, sem standa mundi straum af fjárfestingum stuðningsstofnana útgerðar á borð við Hafrannsóknarstofnun og Landhelgisgæzlu, en höfundur er fylgjandi slíkri breytingu. 

Það er hneykslanlegt, hversu lítinn gaum baráttusamtök umhverfisverndarsinna á borð við Landvernd og Náttúruverndarsamtökin hafa gefið að þessu mesta umhverfisverndarvandamáli samtímans á Íslandi, þegar uppblástur landsins er frá talinn.  Virðist allt púður þessara samtaka fara í öfgakennda baráttu við Landsvirkjun og önnur virkjunarfyrirtæki að ógleymdri illvígri viðureign við Landsnet.  Það er þó viðurkennt og er til um það staðfesting frá dósent við Háskóla Íslands, að allar vatnsaflsvirkjanir landsins hingað til hafa verið sjálfbærar og afturkræfar, svo að ekki sé nú minnzt á loftlínurnar.  Það er þess vegna einvörðungu þjóðhagslegt val, hvort menn vilja virkja með viðeigandi miðlunarlónum og reisa háspennulínur eða leyfa vatninu að falla áfram óbeizluðu um sínar flúðir og fossa, eins og það hefur gert í um 10 þúsund ár. Þessi samtök eru afturhaldssamtök í þeim skilningi, að þau vilja engu breyta, sem er hláleg afstaða á Íslandi, þar sem stöðug landmótun á sér stað.

Rödd hrópandans í eyðimörkinni er hins vegar rödd Andrésar Arnalds, fagstjóra hjá Landgræðslu ríkisins. Það er óhætt að taka fullt mark á varnaðarorðum þessa reynsluríka sérfræðings hjá Landgræðslunni.  Svavar Hávarðsson birti þann 22. maí 2015 fréttaskýringu í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni:

"Lifum tímabil stórfelldra skemmda":

Landvernd og Landgræðslan héldu fund 20. maí 2015 undir heitinu:

"Stígum varlega til jarðar-Áhrif ferðamanna á náttúru Íslands". 

Þar sagði Andrés Arnalds m.a.:

"Verkefnið er gríðarstórt, en við erum gjörsamlega vanmáttug að takast á við þetta.  Stofnanakerfið er afar veikt, sundurlaust, og lítil samstaða innan þess.  Þá er fjármagn af afar skornum skammti", "sagði Andrés og bætti við áleitnum spurningum um, hversu tilbúin við erum sem þjóð að takast á við viðfangsefnið, sem blasir við: að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari skemmdir og fyrirbyggja, að orðstír Íslands sem ferðamannaland glatist."

Hér segir hlutlægur kunnáttumaður á sviði umhverfisverndar þá skoðun sína umbúðalaust, að hömlulaus ágangur mígrúts ferðamanna valdi nú stórtjóni á landinu, sem langan tíma taki að bæta, og að viðkomandi stjórnvöld setji kíkinn fyrir blinda augað.

  Það verður að taka hér í taumana, fylgja ráðleggingum manna á borð við Andrés Arnalds, takmarka aðgang, þar sem slíkt er metið nauðsynlegt, og láta ferðamenn standa fjárhagslega undir viðgerðum og vernd.  Frá ferðaþjónustunni sjálfri hafa ekki sézt neinar tillögur til úrbóta, hvað þá frá Landvernd og Náttúruverndarsamtökunum.  Þessir aðilar eru uppteknir af einhverju allt öðru, sem þau setja í hærri forgang, og fljóta sofandi að feigðarósi, þegar raunveruleg umhverfisvernd er annars vegar. Andóf þessara samtaka gegn bráðnauðsynlegum framkvæmdum í landinu er ekki lengur hægt að skoða í ljósi náttúruverndar. Þar liggur fiskur undir steini.

Andrés gerði að umræðuefni setu sína í nefnd um úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum á vegum samgönguráðherra árin 1994-1995 eða fyrir tveimur áratugum.  Nefndin samdi skýrslu og við lestur hennar sést, að allt situr enn við hið sama.  Þetta er gríðarlegur áfellisdómur yfir Stjórnarráðinu, einkum Umhverfisráðuneytinu, og Umhverfisstofnun. Dæmi úr tvítugri skýrslu:

"Þrátt fyrir mikla þenslu í ferðaþjónustu er enn lítið gert til að hlúa að ferðamannastöðum á landinu. ... Víða er þegar komið í óefni vegna aðstöðuleysis. ... Ríkið og ferðaþjónustuaðilar verða að bregðast skjótt við til að leysa úr þessum vanda."

Sjónir höfunda þessara orða beindust að spá um fjölda ferðamanna árið 2000 upp á 322´000 manns.  Sem kunnugt er, er viðfangsefnið nú ferfalt að stærð, og það er orðið erfiðara viðfangs vegna skemmda á náttúrunni, einnig á s.k. friðlöndum, sem nú spanna um 20 % af yfirborði landsins. 

Svo kallaðir umhverfisverndarsinnar vilja auka enn við þessi friðlönd, þó að ljóst sé, að viðkomandi ábyrgðaraðilar friðlandanna og fjárveitingavaldið hafa sofið Þyrnirósarsvefni fram að þessu. Umhverfisverndaráhuginn og friðunaráhuginn virðist í mörgum tilvikum hverfast um það að koma í veg fyrir framkvæmdir, t.d. á hálendinu, vegagerð, virkjanir og háspennulínur.  Þetta er þröngt sjónarhorn, sem hefur afvegaleitt umhverfisverndarfólk, svo að það hefur ekki beitt sér í neinum þeim mæli, að gagnast megi, gegn hinni raunverulegu umhverfisvá, sem Andrés Arnalds aftur á móti er óþreytandi við að vekja athygli á, en talar því miður fyrir daufum eyrum.

Afturhaldssinnar hafa lagt dauða hönd á umhverfisvernd, sem tengist ferðamennsku, og þeir virðast setja jafnaðarmerki á milli þess að leggjast þversum gegn öllum framkvæmdum, sem tengjast auðlindanýtingu utan alfaravegar, og almennrar umhverfisverndar.  Þess vegna vantar þrýstihóp fyrir málaflokkinn ferðatengd umhverfisvernd, þó að málaflokkinn iðnaðartengd umhverfisvernd skorti ekki athygli.  Svipaða sögu er að segja úr stjórnsýslunni.  Þess vegna varpaði Andrés Arnalds því fram á téðri ráðstefnu, hvort tímabært væri að stofna Ráðuneyti umhverfis- og ferðamála.  Þetta þarf ekki að hafa í för með sér fjölgun ráðherra í ríkisstjórn.  Hann færði þau rök fyrir jákvæðu svari við spurningunni, að náttúran væri meginundirstaða ferðaþjónustunnar, og því yrði þetta tvennt vart rætt, nema í samhengi. Ferðaþjónustan væri farin að afla mestra gjaldeyristekna allra atvinnugreina, og málaflokkurinn hefði afar veika stöðu í stjórnsýslunni miðað við mikilvægi.

Hér skal taka undir sjónarmið hins mæta umhverfisverndarfrömuðar, Andrésar Arnalds, í einu og öllu. Það þarf jafnframt að stokka upp og straumlínulaga alla starfsemi ríkisins á þessum tveimur sviðum, ferðaþjónustu og umhverfisvernd, ekki sízt Umhverfisstofnun, og þá gæti þessi skipulagsbreyting orðið til hagræðingar og einhverrar minnkunar á ríkisbákninu í heild, sem ekki veitir af.    

     

 

 


Kaupahéðinn ógnar ímynd

Margt er skrýtið í kýrhausnum.  Á Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðisins) hefur verið stofnað til sýndarveruleika með viðskiptum með upprunavottorð raforku.  Samkvæmt Baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 30. júní 2015 var svo komið árið 2014 eftir sölu íslenzkra virkjunarfyrirtækja utan á vottorðum um endurnýjanlega orku, að opinber samsetning íslenzkrar raforkuvinnslu var þannig:

  • endurnýjanleg 45 %
  • jarðefnaeldsneyti 32 %
  • kjarnorka 23 %

Össur Skarphéðinsson, ESB-frömuður, lagði örlagaárið 2008 fram frumvarp á Alþingi um innleiðingu tilskipunar ESB um þennan sýndarveruleika, og var það samþykkt sem lög nr 30/2008 með öllum greiddum atkvæðum, 48, en 15 voru fjarverandi. Má ætla, að sumir þingmenn hafi ekki gert sér skýra grein fyrir afleiðingum þessarar lagasetningar fyrir ímynd Íslands sem land hreinnar raforkuvinnslu, því að margháttaður efi um það getur sótt á, ef svipaðar upplýsingar og ofangreindar standa á rafmagnsreikningunum.

Það er alvarlegt mál, að fyrirtæki á Íslandi, stór og smá, ásamt heimilunum, mega nú ekki halda því fram út á við, að þau noti einvörðungu endurnýjanlega orku.  Með þessu er komið aftan að fyrirtækjum, sem gerðu langtímasamninga um orkukaup fyrir gildistíma téðra laga og vegið að grundvelli þessara samninga um kaup á raforku, sem unnin væri með sjálfbærum hætti.  Í orkusamningunum er meira að segja tíundað, hvaðan orkan á að koma, og hvenær á að afhenda hana í tilteknu magni. Að banna þessum fyrirtækjum, viðskiptavinum virkjanafyrirtækjanna, nú að halda því fram, t.d. gagnvart sínum viðskiptavinum, að álið frá fyrirtæki þeirra á Íslandi sé framleitt fyrir tilstuðlan raforku, sem unnin er úr endurnýjanlegum orkulindum, vitnar um óboðlegt viðskiptasiðferði.

Fyrir vikið er nú ímynd Íslands sem land sjálfbærrar raforkuvinnslu, þeirrar langmestu í heiminum á hvern íbúa, í uppnámi.  Fulltrúar eigendanna, innri endurskoðendur og aðrir, sjá það svart á hvítu, að þeir hafa verið ginntir af viðsemjendum sínum, Landsvirkjun o.fl., til að kaupa umhverfisvæna vöru, en opinberlega er hins vegar verið að farga hér geislavirkum úrgangi, sem enginn veit, hvað gert er við, og spúa svo miklu koltvíildi út í andrúmsloftið, auk brennisteinstvíildis, sóts og annars viðbjóðs, að Ísland er fyrir löngu komið út fyrir losunarheimildir sínar. 

Ef Ísland væri nú tengt Bretlandi um tvíátta sæstreng, væri ekki lengur hægt að halda því fram, að meira en 99,9 % raforku á Íslandi komi frá rafölum, sem knúnir eru með sjálfbærum hætti.  Hér er verið að tefla í tvísýnu gríðarlegum hagsmunum fyrir tiltölulega lítinn ávinning, og þess vegna ætti ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að ríða á vaðið og steinhætta þessum viðskiptum.  Ef nauðsyn krefur, verður eigandinn að koma vitinu fyrir stjórn fyrirtækisins, eins og Iðnaðarráðherra ýjar að í viðtali við Morgunblaðið í dag, 1. júlí 2015, á afmælisdegi Landsvirkjunar, sem á sér glæsta sögu, en hefur villzt af leið.

Þessi viðskipti við íslenzk orkufyrirtæki eiga ekki við.  Viðskiptunum er ætlað að beina orkufyrirtækjunum í endurnýjanlegar orkulindir, en það er megnasti óþarfi á Íslandi, því að ekki hvarflar að eigendum íslenzkra virkjunarfyrirtækja að virkja neitt annað en endurnýjanlegar orkulindir, þ.e. fallvötn, jarðgufu, vind og e.t.v. öldur eða sjávarföll í tilraunaskyni.  Sólarorka er virkjuð í minna mæli, einkum af fjölskyldum, t.d. í sumarhúsum.  Það orkar tvímælis að kalla jarðgufuna endurnýjanlega í sumum tilvikum, en á alþjóðlega vísu er hún skilgreind endurnýjanleg.

Hér skal fullyrða, að Landsvirkjun er með sölu sinni á upprunarvottorðum, eins og hér hefur verið rakið, að kasta perlu fyrir svín.  Verð fyrir vottun á endurnýjanlegri orku hefur "undanfarin ár" verið á bilinu 0,07-0,30 EUR/MWh samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar til Morgunblaðsins þann 30.06.2015 á bls 12.  Miðgildið er 0,18 EUR/MWh. Miðað við gengi þann dag jafngildir þetta 0,20 USD/MWh eða 0,6 % af meðalverði Landsvirkjunar. Í Morgunblaðsfréttinni segir, að aðeins 45 % íslenzkrar raforku sé úr endurnýjanlegum lindum.  Þá hafa verið seld vottorð fyrir um 55 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar eða 7,2 TWh.  Þetta eru aðeins um MUSD 1,44 eða MISK 200. Upphæðin er smáræði hjá því viðbótar verði, sem erlend fyrirtæki eru fús til að greiða fyrir sjálfbæra orkuvinnslu.  Viðskipti orkufyrirtækja hérlendis með upprunavottorð endurnýjanlegarar orku eru viðskiptalegt glapræði og ber að afleggja hið snarasta til að varðveita hreina ímynd Íslands í rafmagnslegum efnum.

  

 


Pí*ratar

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að frá dögum grísku heimspekinganna og stærðfræðinganna, sem uppi voru nokkrum hundruðum ára fyrir Krists burð og voru upphafsmenn rökhyggjunnar í vestrænni menningu, hefur hlutfallið á milli ummáls hrings og þvermáls hans verið þekktur fasti og kallaður Pí.

Pí er þó óræð tala, því að það er ekki hægt að tákna hana  með heilli tölu og endanlegum fjölda aukastafa, en góð nálgun er 3,1415. Fyrirsögnin þýðir þá rúmlega þrefaldur rati, og af öllum sólarmerkjum að dæma er það ekki of í lagt um stjórnmálamennina, sem kalla sig pírata. Þeir eru líka óræðir, enda oft á tíðum eins og geimverur úr einhverjum gerviheimi tölvuleikjanna. 

Nýlega varð kapteini pí*rata á Íslandi hroðalega á í messunni, en af einhverhum ástæðum, sem þessum blekbónda er hulið sjónum, líkti hún Skagafirði við Sikiley á Ítalíu.  Heimskulegri samanburð er vart hægt að hugsa sér, en þarna átti að vera einhvers konar skírskotun til réttarfarsins á báðum stöðum.  Mann setur hljóðan, en þetta fyrirbrigði, téður kapteinn, situr á Alþingi og rífur þar iðulega stólpakjaft og hagar sér dólgslega í púlti. 

Það, sem á Skagfirðinga, aðra Norðlendinga og landsmenn alla er lagt með fíflaganginum, sem viðgengst á þjóðþinginu að hálfu allra stjórnarandstöðuflokkanna, er þyngra en tárum taki. Kapteinninn má þó eiga það, að hún hefur beðið Skagfirðinga afsökunar á téðu frumhlaupi sínu, og enginn skilur hugrenningatengslin.

Út er komin bók eftir Margréti Tryggvadóttur, Útistöður, þar sem hún lýsir eldfimu sálarástandi félaganna í flokksnefnum, sem voru forverar Pí*rataflokksins.  Þar voru rýtingar ótt og títt á lofti og félagsþroski af skornum skammti.  Téður "kapteinn" virtist hafa litið á sig sem "prímadonnu", sem sjálfkjörin væri til að þvælast út um allar koppagrundir á kostnað skattgreiðenda, m.a. á Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.   

Afstöðuleysi pí*ratanna til þingmála hefur líka vakið athygli.  Hafa þeir fært fámenni þingflokksins sem skýringu á þessu undarlega og himinhrópandi skoðanaleysi á þingmálum, sem til umfjöllunar eru hverju sinni. Þeir hafa þó verið drjúgir í umræðum um fundarstjórn forseta, enda lýðræðisástin borin í merg og bein.  Fámennisútskýringin er út í hött, því að þingmönnum ber að taka afstöðu til mála sjálfir og gera upp hug sinn á einstaklingsgrundvelli, grundvelli eigin samvizku, en ekki þess, sem aðrir í þingflokkinum kunna að hafa um málið að segja.  Þetta er aumlegt yfirklór hjá þeim. Engu er líkara, en þeir upplifi sig í gagnvirkum tölvuleik, þar sem þeir setji leikreglurnar sjálfir.  Margt er nú þröngsýnt, sem á þingið er valið og víða er asklok fyrir himin, en pi*ratarnir fylla þann flokk manna, sem eru svo firrtir, að þeir lifa í gerviheimi, sem þeir halda, að sé raunheimur.   

Sama er að segja um mætingar þeirra á þingnefndafundi.  Hún er afspyrnu léleg.  Þeir virðast einfaldlega vera húðlatir við þingstörfin, enda liggja rætur píratahreyfingarinnar hjá stjórnleysingjum, sem hafa aldrei haft gáning á þingræðinu.  Að vilja fjölga í þessu liði á Alþingi er þess vegna fullkomlega óskiljanlegt, nema sem sviðsetning á grískum harmleik. Víkur nú sögunni að Pí sem leiðréttingarstuðli opinberra kostnaðaráætlana.

Gárungarnir segja, að opinberar íslenzkar kostnaðaráætlanir megi margfalda með Pí til að fá út lokakostnað.  Þetta er ekki út í hött, og það er hægt að tilfæra nýlegt og þekkt dæmi, sem styður þetta, þó að hlutfallið sé ekki nákvæmlega sá flatarmálsfræðilegi fasti Pí. Um er að ræða Hörpuna.  Áætlaður kostnaður Hörpunnar árið 2002 var ISK 9´736´000´000 eða rúmlega ISK 9,7 milljarðar (mia).  Raunverulegur kostnaður árið 2010 nam hins vegar ISK 28,0 miö, og lætur nærri, að hlutfallið sé 2,9, sem er tæplega Pí.

Þetta leiðir auðvitað hugann að stórverkefni, sem mjög hefur verið í umræðunni, en er undirorpið gríðarlegri tæknilegri og fjárhagslegri óvissu, þar sem svo langur og djúpt liggjandi sæstrengur hefur aldrei verið lagður sem strengurinn Ísland-Skotland, sem nú er verið að kanna hafsbotninn fyrir að hálfu enskra fjárfesta, að sagt er. Reka þarf þennan 1200 km langa sæstreng á jafnspennu, sem er svo há, að engin þekkt plasteinangrunarefni þola slíkt, heldur brotnar einangrunargildið fljótlega niður. Flutningstöpin minnka hratt (kvaðratískt) með rekstrarspennu, og þar af leiðandi verður rekstrarspennan mikilvæg fyrir hagkvæmnina. 

The Economist hefur birt kostnaðartöluna USD 6,0 mia með öllum tengibúnaði, en án virkjana.  Ketill Sigurjónsson, sem lætur sig orkumál miklu varða, opinberlega, og ritar mikið um þetta hugðarefni sitt á vefsetur sitt, véfengir þessa tölu og telur hana of háa. Hann gefur þar með lítið fyrir varúðarreglur um kostnaðaráætlanir, þegar mikil tæknileg óvissa á í hlut, eins og á við um sæstrenginn og fylgibúnað hans.  Dr Baldur Elíasson, verkfræðingur, er annarrar hyggju og sagði í viðtali við Morgunblaðið, 24. júní 2014, að áætlað hafi verið, að téður sæstrengur kosti USD 5,0 milljarða. "Það er, að mínu mati allt of lág tala", sagði dr Baldur, sem áætlar kostnaðinn "tvöfalda þá tölu og sennilega meira".  Þá eru menn komnir með Pí sem leiðréttingarstuðul á talnabilið, sem téður Ketill veifar, á þetta risaverkefni á íslenzkan mælikvarða, sem næmi þá einni landsframleiðslu Íslands á ári, og eru þó virkjanirnar enn ótaldar.

Fjarri fer, að allt of lágar kostnaðaráætlanir séu séríslenzkt fyrirbæri; skárra væri það.  Hér verða talin nokkur erlend dæmi, og er hlutfall lokakostnaðar og kostnaðaráætlunar sýnt með:

  1. Óeruhúsið í Sidney: 14
  2. Höfuðstöðvar norska seðlabankans: 4,4
  3. Hiawatha járnbrautarlínan í Minneapolis: 1,9
  4. Neðanjarðarlestakerfi Kaupmannahafnar: 1,5
  5. Járnbrautarlínan Boston-New York-Washington: 1,3

Meðaltal þessarar upptalningar er 4,6, sem er rúmlega Pí.  Athygli vekur, að af þessum 5 stórverkefnum eru 3 járnbrautarlínur. 

Nú vill svo til, að nýlega hefur verið gerð kostnaðaráætlun um hraðlest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri. Það er sem sagt áhugi fyrir þessu verkefni í vissum pólitískum kreðsum, en enginn einkaaðili hefur gefið sig fram til fjárfestingar. Verkið felur í sér lagningu tvöfaldra teina fyrir lest, sem gæti náð yfir 200 km/klst hraða, göng undir Straumsvík, sem kæmu upp í Vatnsmýri auk Lækjargötu í Hafnarfirði, við Vífilsstaði í Garðabæ og Smáranum í Kópavogi, ásamt rafmagnseimreiðum, farþegavögnum og flutningavögnum.  Hugmyndafræðin að baki er græn, þ.e. að spara jarðefnaldsneyti og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. 

Runólfur Ágústsson hjá Ráðgjöf og verkefnastjórnun er forsprakki verkefnisins.  Eftir honum er haft baksviðs í Morgunblaðinu þann 6. júní 2015 á bls 26 við hlið leiðarans:

"Við erum að tala um að draga úr notkun á innfluttu eldsneyti og nota þess í stað rafmagn, sem er framleitt með endurnýjanlegum og umhverfisvænum hætti.  Orkunýtingin er allt önnur.  Það þykir líka merkilegt, að þessi lest verður að öllum líkindum knúin gufu, þótt óbeint sé.  Rafmagnið í lestina kemur væntanlega úr gufuaflsvirkjunum á Hellisheiði eða Reykjanesi."

Þessi röksemdafærsla fyrir hraðlest á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur er anzi gufuleg.  Fyrir dyrum stendur rafvæðing íslenzka bílaflotans, svo að á væntanlegum afskriftatíma þessarar járnbrautalestar verður ekki sá eldsneytissparnaður, sem "Ráðgjöf og verkefnastjórnun" vill vera láta.  Umhverfisverndarhlið málsins er þess vegna léttvæg. 

Það er óvarlegt að gaspra um, hvaðan raforkan kemur til notenda frá sameiginlegu stofnkerfi.  Raforkufæðing hraðlestarinnar verður a.m.k. á tveimur stöðum til að draga úr spennufalli, t.d. inn í sitt hvorn enda.  Þegar álag eykst í Helguvík, má ætla, að orkan frá Svartsengi og Reykjanesvirkjun fari að mestu leyti þangað.  Orkan frá Hellisheiðarvirkjun fer ekki síður til Norðuráls en til Reykjavíkur.  Það er þess vegna órökstudd vænting, að lestin verði "gufuknúin", þó að gufukatlar hafi knúið fyrstu járnbrautarlestirnar.  Ef mál skipast með svo ótrúlegum hætti, að einhver fáist til að fjármagna þetta verkefni, þá verður sú lest að megninu til knúin með raforku úr fallvötnum, enda sjá vatnsorkuver fyrir um 70 % orkunnar inn á stofnkerfið.

"Við hittum alla hlutaðeigandi bæjarstjóra í maí og erum nú að kynna þetta fyrir bæjarráðunum og í einhverjum tilfellum bæjarstjórnum."

Samkvæmt þessum orðum Runólfs er undirbúningsvinna fyrir hraðlestarverkefnið á undirbúningsstigi, og þess vegna er full ástæða til að reikna út, hvort það standist lágmarks arðsemiskröfur, og það hefur þessi blekbóndi hér gert, og er útkoman falleinkunn fyrir þessa viðskiptahugmynd.  Það verður enginn fjárhagslegur ávinningur fyrir farþega slíkrar hraðlestar, en þeir spara um 20 mín ferðatíma.  Öryggi þeirra á leiðinni eykst væntanlega líka. 

Nú er verið að leggja hraðlestarteina á milli Óslóar og Stokkhólms, og þar spara menn 1,5 klst miðað við akstur í bíl.  Margir fljúga þarna á milli, og viðskiptahugmyndin er að keppa við flugið á þessari leið og bjóða upp á umhverfisvænni ferðamáta þessa leið.  

R-listinn í Reykjavík (vinstri menn og framsóknarmenn) sýndi þessu verkefni áhuga á sinni tíð og lét gera kostnaðaráætlun upp á ISK 30 milljarða á verðlagi þess tíma.  Árið 2013 var gerð ný kostnaðaráætlun af  Ráðgjöf og verkefnastjórnun, sem er þættinum Pí hærri en hin. Ný kostnaðar- og tekjuáætlun fyrir hraðlest, Vatnsmýri samgöngumiðstöð-Leifur Eiríksson flugstöð, er á þessa leið samkvæmt Greinargerð Ráðgjafar- og verkefnastjórnunar ehf til Reita hf 2013:

  • Stofnkostnaður: 70-140 mia kr [vítt óvissubil]
  • Árlegur rekstrarkostnaður: 1,3 mia kr [virkar lágur]
  • Farþegafjöldi árið 2020: 2´130´000 [virkar hár]
  • Farþegafjöldi árið 2030: 3´020´000 [virkar mjög hár]
  • Tekjur árið 2020: 4,3-6,4 mia kr [2000-3000 kr/far]
  • Tekjur árið 2030: 6,0-9,1 mia kr [2000-3000 kr/far]

Á þessum grundvelli er unnt að finna út, hvort téð hraðlest verður arðsöm eður ei m.v. gefnar forsendur.  Í stuttu máli er niðurstaða núvirðisreikninga blekbónda sú m.v. 20 ára afskriftatíma og 10 % innri vexti, að hraðlestin verður ekki arðsöm, þó að valið sé hagstæðasta viðmið fyrir samþykkt verkefnisins, þ.e. lágmarksstofnkostnaður og hámarkstekjur lestarinnar árið 2030. 

Árlegur kostnaður hraðlestarinnar verður á bilinu 9,7 - 18,1 mia kr.  Hugmyndin um hraðlest á Íslandi til farþegaflutninga er andvana fædd. Vegna þessarar niðurstöðu orkar eftirfarandi staðhæfing í téðu

viðtali mjög tvímælis, og virðist sett fram í blekkingarskyni gagnvart sveitarstjórnarmönnum og öðrum, sem ekki gæta sín á röngum kostnaðar- og tekjuáætlunum og loddaralegum fyllyrðingum á borð við þessa hér um téða hraðlest:

"Rekstraráætlun fyrstu 10 ára gerir ráð fyrir jákvæðri afkomu fyrirtækisins allt frá byrjun."

Spyrja verður: jákvæðri miðað við hvað ?  Alla vega ekki miðað við eðlilega arðsemiskröfu fjármagns, sem í þetta hraðlestarverkefni yrði lagt. Ástæða er til að vara stjórnvöld við að leggja skattfé borgaranna í undirbúning þessa verkefnis.  Siðferðisgrundvöllurinn um minni mengun farþega er brostinn með væntanlegri rafbílavæðingu landsins, og fjárhagsgrundvöllurinn er langt úti í buskanum.

  

Russ Roberts, hagfræðingur, hefur kannað gæði kostnaðaráætlana, sérstaklega fyrir járnbrautarlestir, og komizt að þeirri niðurstöðu, að yfirleitt eru áætlanir um fjölda farþega fjarri því að rætast, og að meðaltali verða þeir aðeins helmingur af áætluðum fjölda.  Ekki dugar að hækka verðið, því að þá fækkar þeim enn meira.  Sennilega er ofangreindur áætlaður farþegafjöldi sömu annmörkum háður og áætlanir um farþegafjölda yfirleitt.  Þá verður þessi hraðlest aldrei arðsöm, vegna þess að hún mun í framtíðinni þurfa að keppa við rafknúin ökutæki með rekstrarkostnaði u.þ.b. 1/10 af rekstrarkostnaði núverandi ökutækja, sem fara með farþega til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Sú er hins vegar hættan, ef Pí*ratar stjórnmálanna ná völdum í landinu, að anað verði út í eitthvert feigðarflan af þessu tagi með skattfé almennings, og ríkissjóður og sveitarsjóðir sitji þá uppi með bagga, sem numið gæti 14 miö kr á ári á meðan lestin væri í rekstri.  Það er mun verra en Harpan, enda um ferfalt dýrara verkefni að ræða. Harpan dregur þó að sér fólk og veitir ánægju, af því að hönnunin og framkvæmdin eru að sumu leyti vel heppnuð, en hæpið er, að hið sama geti átt við um hraðlest, sem veldur gríðarlegri hávaðamengun, þar sem hún fer ofanjarðar.

Það er ekki sama fyrir pyngju almennings, hvers konar stjórnmálamenn eru kosnir til valda.  Á síðasta kjörtímabili voru hreint ótrúlegir ratar í fjármálum við völd.  Þeir skildu ekki, að óhóflegar skattahækkanir sliguðu svo efnahag fjölskyldna og fyrirtækja, að óhjákvæmilegum efnahagsbata eftir mikinn hagkerfissamdrátt seinkaði um a.m.k. 2 ár.  Þeir skildu ekki vofveiflegar afleiðingar Icesave-samninganna fyrir kaupmátt á Íslandi næstu áratugina, og þeir skildu ekki afleiðingar þess fyrir hag ríkissjóðs Íslands að færa kröfuhöfum föllnu bankanna 2 af nýju bönkunum á silfurfati. 

Þessir margföldu ratar skilja ekki efnahagslögmálin og skilja ekki, hvernig verðmæti verða til.  Þeir skilja ekki, að fyrirtæki þurfa gróðahvata til að stunda verðmætasköpun af hvaða tagi sem er, og til að stunda sína starfsemi þurfa fyrirtækin fyrirsjáanlegt rekstarumhverfi og vissu fyrir því, að stjórnmálamenn muni ekki gjörbreyta rekstrarumhverfinu með einu pennastriki.  Af þessum sökum er rétt að halda margföldum rötum, pírötum og jafnaðarmönnum, sem kunna ekkert annað við völd en að jafna út eymdinni, frá völdum, og leyfa þeim að nöldra þar ofan í bringu sér.   

 

 

 

 

 

 

 

 


Snilldarsnykur af áformum

Allir vildu Lilju kveðið hafa, var skrifað um vel ígrundað og vel ort íslenzkt trúarkvæði í kaþólskum sið, en ekki um Lilju Mósesdóttur með sinn boðskap um útgönguskatt á gjaldeyri frá Íslandi eftir losun hafta.

Nú hefur verið kynnt til sögunnar afreksverk, þar sem framkvæmdahópur undir leiðsögn stýrihóps, sem fjármála- og efnahagsráðherra Íslands fer fyrir, hefur, með vandaðri og hnitmiðaðri undirbúningsvinnu, fundið ágæta lausn á afar flóknu viðfangsefni, sem er afnám fjármagnshafta með hámarks ávinningi og lágmarksáhættu fyrir íslenzka ríkið, en ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde setti höftin á í neyð fyrir tæplega 7 árum.

Það er hárrétt, sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt á þessum tímamótum nú, að losun fjármagnshaftanna varðar veginn í framfarasókn þjóðarinnar til bættra lífskjara.  Nægir að benda á þróun vaxtabyrði ríkissjóðs í þessum efnum, sem nú eru tæplega 80 milljarðar kr á ári.  Ef skuldir ríkissjóðs verða lækkaðar um 30 % með fé, sem ríkissjóði mun áskotnast við uppgjör slitabúa föllnu bankanna og tengdum aðgerðum, sem nú er í sjónmáli, þá mun vaxtabyrði ríkissjóðs lækka um hér um bil 30 milljarða kr á ári, því að væntanlega verður reynt að greiða fyrst upp óhagstæðustu lánin.  Þessi gjörningur mun bjarga fjárhag ríkissjóðs yfir núllið, sem gæti orðið fyrir útgjaldaaukningu og tekjutapi upp á 70 milljarða kr á ári vegna kjarasamninganna 2015, en mun fá það, sem upp á vantar, til baka í auknum skatttekjum vegna hærri launa, aukinnar neyzlu og fjárfestinga. 

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gerði ekkert til að losa um höftin, enda hafði hún hvorki vilja né getu til þess.  Vinstri flokkar eru haftaflokkar í eðli sínu, af því að með höftum hafa stjórnmálaflokkar meiri stjórn á þegnunum, geta deilt og drottnað, sem eru ær og kýr vinstri flokkkanna, og geta ráðið því í smáatriðum, hverjir fá að nota gjaldeyri og í hvað. 

Þetta telja vinstri menn og hafa alltaf talið, að ríkið eigi að ráðskast með, en borgaralega sinnað fólk telur slíka fjármagnsflutninga einkaaðila vera utan ráðsmennskusviðs ríkisvaldsins.  Þarna er grundvallarmunur á stjórnmálaflokkunum, sem standa að núverandi ríkisstjórn og hinna, sem stóðu að fyrri ríkisstjórn.

Varðandi getu núverandi stjórnarandstöðu til að móta og þróa lausn á viðfangsefninu, "Losun 7 ára gamalla fjármagnshafta á Íslandi", sem væri ekki síðri en sú farsæla lausn, sem nú hefur verið kynnt til sögunnar, er það að segja, að það eru minni líkur á, að hún gæti það en eru á, að hyskinn og áhugalaus nemandi standi sig betur á prófi en metnaðarfullur afburðanemandi.

Til að styðja þetta er rétt að rifja upp nokkra gjörninga vinstri stjórnarinnar, sem fjármagni tengjast. 

Á vegum þeirrar ríkisstjórnar var gerður samningur við Breta og Hollendinga um, að íslenzkir skattborgarar skyldu gangast í ábyrgð fyrir greiðslum á skuldum útibúa hins fallna Landsbanka í Bretlandi og Hollandi.  Talið er, að með umsömdum vaxtagreiðslum hefði þetta ekki orðið undir 300 mia kr myllusteinn um háls skattgreiðenda á Íslandi.  Þetta fékk vinstri stjórnin þingmenn sína til að samþykkja í a.m.k. tvígang, en jafnoft var hún gerð afturreka í þjóðaratkvæðagreiðslu. "Back to the drawing desk", en aldrei fann hún viðunandi lausn á þessu viðfangsefni fyrir íslenzku þjóðina, heldur réð þjónkun við fjármagnseigendur og stjórnendur Evrópusambandsins, ESB öllum hennar gerðum.  Ríkisstjórninni, þeirri, þótti meira virði að fá fram lausn, sem væri þóknanleg herrunum í Berlaymont en hagfelld íslenzku þjóðinni. 

Annað dæmi er afhending vinstri stjórnarinnar á eignarhaldi Aríon-banka og Íslandsbanka til kröfuhafa föllnu bankanna. Þetta var bæði löglaus og siðlaus gjörningur. Nýju bankarnir voru samkvæmt Neyðarlögunum ríkisbankar, en af einskærri þjónkun við kröfuhafa föllnu bankanna var þeim afhent eignarhaldið á silfurfati, og hagsmunir íslenzka ríkissjóðsins þar með fyrir borð bornir.  Þessir bankar hafa frá 2009 skilað tæplega 400 mia kr hagnaði til eigenda sinna, sem ríkið að mestu hefur orðið af.  Ætla má, að markaðsvirði þessara banka geti verið um 500 mia kr, svo að vinstri stjórnin hlunnfór skattborgarana þarna með einu pennastriki hugsanlega um 900 mia kr m.v. stöðuna 2015. Það er broslegt að gefa til kynna, að slíkt fólk hefði verið þess umkomið að finna jafngóða lausn á jafnflóknu viðfangsefni og losun gjaldeyrishafta á Íslandi 2015.

Af fréttum að dæma ætla slitabúin bráðlega að selja sinn hlut í téðum bönkum, og hefur á vegum núverandi ríkisstjórnar hlutur ríkissjóðs verið réttur nokkuð, með því að hann fær hluta af söluandvirði umfram ákveðna upphæð, en hverjum dettur eiginlega í hug, að þeir, sem alltaf kiknuðu í hnjáliðunum 2009-2013, hefðu haft þrek til að standa í lappirnar árið 2015, eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert ?

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, gefur í skyn í viðtölum nú, að Samfylkingin hafi verið með svipuð áform uppi og núverandi ríkisstjórn hefur nú opinberað. Ekkert getur verið fjær sanni, því að ÁPÁ fullyrti hvað eftir annað af fádæma grunnhyggni, að ekki yrði hægt að losa um höftin án þess að ganga í ESB. Þessi innistæðulausi og digurbarkalegi talsmáti nú minnir aðeins á söguna í Njálu um Björn að baki Kára.  Björn, þessi, hafði uppi digurbarkalegar lýsingar af framgöngu sinni við hlið kappans Kára Sölmundarsonar eftir bardagann, en sannleikurinn var sá, að hann var vitagagnslaus í bardaga og verri en enginn.

Umgengni ráðherra vinstri stjórnarinnar um ríkissjóð er rétt lýst með nýlegu dæmi af fyrrverandi menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, en hún hækkaði árið 2009 árlegar fjárhagsskuldbindingar ríkissjóðs gagnvart Lánasjóði íslenzkra námsmanna um 20 % án þess að gera nokkra þarfagreiningu á undan.  Hún hefur viðurkennt þessi afleitu vinnubrögð og slæmu umgengni við almannafé, en í forstokkun sinni og stærilæti kallar hún þessi forkastanlegu vinnubrögð "heilbrigða skynsemi". 

Það var nákvæmlega ekkert heilbrigt við hana né aðra ráðherra vinstri stjórnarinnar, og framganga þeirra gegn þjóðarhagsmunum 2009-2013 ásamt yfirleitt slæmum og óvönduðum vinnubrögðum sýnir, svo að ekki verður um villzt, að þeir hefðu aldrei megnað að ná viðlíka góðum áfanga við losun gjaldeyrishaftanna og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur nú náð.   

   

 

  

 


Vinnumarkaður í vanda

Vinnuveitendur mæta verkalýðshreyfingunni sameinaðir, en verkalýðsfélögin ákváðu í þetta skiptið að mæta í nokkrum hópum að samningaborðinu. Með þessu uppátæki hafa verkalýðsfélögin gert Ríkissáttasemjara mjög erfitt um vik, enda er fyrir vikið orðin til einhvers konar "piss-keppni" verkalýðsforingja um yfirboð í kröfugerð. Verkalýðshreyfingin hefur þannig kosið að setjast við samningaborðið með eins ógæfulegum hætti og hugsazt getur. Verkalýðsforingjar virðast líka hafa talið tímabært að sýna nýrri kynslóð, sem ekki hefur áður farið í verkfall, hvers þeir eru megnugir í einhvers konar sjálfsréttlætingarskyni.  

Að margra dómi hafa verkalýðsfélög gengið sér til húðar, eru dýr í rekstri fyrir félagana miðað við nytsemi þeirra, sem satt að segja hefur verið óttalega rýrt í roðinu í háa Herrans tíð, enda eru þau barn síns tíma, sem vissulega jöfnuðu valdastöðuna á vinnumarkaðinum, en beita nú afli sínu með stórskaðlegum hætti fyrir afkomu skjólstæðinga sinna og allra landsins barna. BHM reið á vaðið í þessari lotu, og kemur barátta þeirra helzt niður á þeim, sem sízt skyldi, þ.e.a.s. sjúklingum og sláturdýrum.

 Þessi sundraða aðkoma launþega flækir samningaviðræður gríðarlega, og á sama tíma er óþolinmæðin á svo háu stigi, að varla er nokkuð búið að ræðast við, þegar viðræðum er slitið og boðað til verkfalla. Annarleg sjónarmið fremur en málefnaleg virðast ráða ferðinni hjá forkólfum launþegahreyfinganna, sem eru að glutra niður góðu tækifæri til áframhaldandi raunkjarabóta, og málflutningur þeirra virkar sem olía á eld stéttastríðsins.  Þeir fara sem óvitar með eldinn og geta brennzt illilega sjálfir.

Þessi framkoma launþegahreyfinganna er óskiljanleg, því að atvinnurekendur hafa boðið upp á uppstokkun launakerfisins með aukna áherzlu á grunnlaun og minni á yfirvinnuálag.  Þetta gæti stuðlað að styttri vinnutíma og aukinni framleiðni, svo að eðlilegt viðbragð launþeganna hefði verið að semja nú til u.þ.b. eins árs við SA og vinna síðan að téðri endurskoðun með þeim. Þess í stað tuða þeir um talnaleikfimi, sem bendir til, að þeir eigi erfitt með að fóta sig á útreikningunum án hins hefðbundna baklands ASÍ, þar sem næg þekking er fyrir hendi til að meta tilboð með hlutlægum hætti.

Eitt af vandamálum vinnumarkaðarins er reyndar, þrátt fyrir núverandi sundrungu, að samningaviðræður eru of miðstýrðar um málefni, em eðlilegast væri að fjalla um í héraði.  Það eru samt fjölmörg málefni, réttindamál o.a., sem eru sameiginleg, og sjálfsagt að ræða þau á sameiginlegum grundvelli við eitt borð. Þá eru ákveðnar grunnhækkanir launa, sem SA hefur sameinazt um að bjóða, sem rétt er að semja um miðlægt.

Hvergi eru laun ákvörðuð út frá reiknuðum framfærslukostnaði, þó að halda mætti af málflutningi launþegasamtakanna, að það sé lenzka, svo að launþegum hérlendis gagnast lítið að japla á ætluðum framfærslukostnaði.  Ef allt er með felldu í samningum um kaup og kjör, þá eru þau ákvörðuð út frá verðmæti vinnuframlagsins fyrir vinnuveitandann og getu hans til að greiða (hærri) laun.  Þetta mat og þessi geta eru misjöfn frá einu fyrirtæki til annars, og þess vegna er að mörgu leyti eðlilegt að færa viðbótar samninga niður til fyrirtækjanna í stað miðlægs samningaborðs. Það er líklegt til að leiða til meiri ánægju beggja aðila, vinnuseljanda og -kaupanda, og þetta fyrirkomuleg er reyndar við lýði hjá álverksmiðjunum.  Þar eru e.t.v. 12 faghópar, sem mynda eina samninganefnd, reyndar nú gagnvart SA, þar sem álverin eru nú í þeim samtökum, þó að svo hafi ekki ætíð verið.  Síðan eru þar reyndar einkasamningar við sérfræðinga og yfirmenn.

Höfundi þessa pistils er reyndar kunnugt um eitt land, þar sem bundið er í stjórnarskrá, að lágmarkslaun skuli hrökkva fyrir nauðþurftum.  Í þessu landi hafa vinstri menn á borð við okkar jafnaðarmenn og vinstri græna verið lengi við völd og ákváðu nýlega að hækka öll laun um 30 % á grundvelli téðs stjórnarskrárákvæðis.  Landið er Venezúela, og þar er árleg verðbólga mörg hundruð %.  Jafnaðarmenn eru búnir að leggja blómlegt hagkerfi Venezúela í rúst þrátt fyrir olíulindir og mikla orku fallvatna.  Ef lagt er upp með að eyða meiru en aflað er, þá fer undantekningarlaust illa. Þeir, sem neita að skilja, að 3,5 % launahækkun gefur meiri kjarabót en 10 % - 100 % launahækkun, þeir eru að stefna Íslandi inn á braut Venezúela, draumalands jafnaðarmannsins.

 

Þó að ekki sé meiningin hér að vitna í kenningar úr "Das Kapital" eftir Karl Marx, þá er það óumflýjanleg staðreynd, að í markaðshagkerfi verður eilíf togstreita á milli fjármagnseigenda og launþega.  Til að skapa verðmæti þarf fjármagn, þekkingu, vinnuframlag og markað.  Fjármagnseigandinn á rétt á arðgreiðslum fyrir að binda fé sitt í fyrirtæki, sem er til að skapa verðmæti. Sanngjarn arður fer eftir því, hvað hann gæti fengið fyrir fé sitt með því að láta það annars staðar "í vinnu".  Þetta fé getur fyrirtækið þá notað til fjárfestinga í stað þess að taka bankalán, svo að arðsemiskrafan er háð vaxtastigi í landinu, en einnig hagvexti og fjárhagslegri áhættu fyrirtækisins.  10 % - 15 % arðsemiskrafa af fé í fyrirtækjum þykir ekki óeðlileg. Það er nokkur lenzka hér að líta á arðgreiðslur sem gjafir eða sjálftöku. Ekkert er fjær sanni, og þær eru jafnsjálfsagðar og launagreiðslur fyrirtækisins. Forystumenn launþega ættu þess vegna að afleggja öfundartal sitt um, að fyrirtæki geti borgað hærri laun með því að lækka arðgreiðslur. Arðgreiðslur eru sjaldnast yfir ofangreindum eðlilegum mörkum, og það er í fæstum tilvikum hérlendis sanngjarn málflutningur að gefa annað í skyn til að ala á öfund, því að fjármagnseigandinn á sama rétt á "eðlilegum" arði, eins og launþegar á "eðlilegum" launum, sem markaðurinn getur og vill borga. Þetta skilja væntanlega fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum fyrirtækjanna, þar sem lífeyrissjóðir eru meðeigendur í fyrirtækjum og njóta þá arðgreiðslna, ef þokkalegur hagnaður er af fyrirtækinu.  Þar með er reyndar búið að hnýta saman hagsmuni launþega og fjármagnseigenda, sem ætti að stuðla að friði á vinnumarkaði, en friður á vinnumarkaði er menningarvottur, og verkföll eru að sama skapi ómenningarvottur, sem veikja viðkomandi land.  Hver hefur hag af því að veikja Ísland ?  "Cuo bono" - hverjum í hag, spurðu Rómverjar, þegar þeir vildu grafast fyrir um orsakir. Hverjir hafa hag af veikara Íslandi ?  Hafa þeir kynt undir óraunhæfum kauphækkunarkröfum ?  Er um að ræða samsæri um að koma Íslandi á hnén ?  

Hvað eru "eðlileg laun".  Í alþjóðlegu samhengi er hlutdeild launakostnaðar á Íslandi sem hlutfall af heildar verðmætasköpun fyrirtækja ein sú hæsta í heimi.  Um slík mál er nauðsynlegt að ræða við samningaborðið og kalla eftir talnagögnum um þau frá Hagstofu Íslands. Af þessum sökum er svigrúm til raunlaunahækkana ekki meira en nemur framleiðniaukningu frá síðustu kjarasamningum að viðbættri verðbólgu.  Nefnd hafa verið 3,5 %.  Ef samið verður um hækkun umfram þetta án hliðarráðstafana, eins og endurskilgreiningu á dagvinnutíma og lækkun álagsgreiðslna gegn meiri hækkun fyrir dagvinnu, þá fer það sem umfram er óhjákvæmilega út í verðlagið, og verðbólgan étur utan af hækkuninni.  Það er þannig meiri kjarabót fólgin í 3,5 % hækkun á ári en 10 % hækkun á ári, svo að ekki sé nú minnzt á skelfinguna 50 % launahækkun á ári, sem er ávísun á óðaverðbólgu. Hvernig í ósköpunum standur á því, að launþegar eru nú að biðja um verðbólgu, versta óvin launþegans með atvinnuleysi sem fylgifisk, af því að samkeppnistaða fyrirtækjanna versnar.  Það er eitthvað bogið við þetta.  

Íslenzk fyrirtæki borga reyndar hátt hlutfall launakostnaðar í launatengd gjöld og hærra hlutfall en t.d. norsk fyrirtæki. Það er út af því, að Tryggingagjaldið, sem fóðra á Atvinnuleysistryggingasjóð, er enn hátt eftir atvinnuleysisárin eftir bankahrunið, eða 7,49 %, þrátt fyrir lítið atvinnuleysi nú, og hátt iðgjald fer til lífeyrissjóðs launþegans, 8 % - 10 %, en tiltölulega sterkir lífeyrissjóðir eru eitt af aðalsmerkjum íslenzka þjóðfélagsins og veita því vaxandi samkeppnisforskot við útlönd nú á tímum hækkandi meðalaldurs þegnanna nánast alls staðar. Þessi launatengdu gjöld nema á Íslandi alls um 17 %, en í Noregi eru þau aðeins um 6 %.

Forystumenn verkalýðsfélaganna og fleiri hafa vitnað til nýlega gerðra kjarasamninga ríkisins við lækna, þar sem m.a. var samið um breytt vinnufyrirkomulag og endurskoðun álagsgreiðslna, en í heildina fengu læknar hærri prósentuhækkun en viðsemjandinn bauð upphaflega.  Til þess liggja mjög sérstakar ástæður, sem hafa ekkert fordæmisgildi, svo að eðlilegast er að hætta þessum samanburði við lækna, því að hann er alveg út í hött og getur á engan hátt réttlætt himinháar hækkunarkröfur verkalýðsfélaganna eða annarra stétta, þar sem ekkert er dregið úr, þegar ofar kemur í launastiga félaganna, þ.e. farið er fram á stærra bil á milli launaflokka.  

Menntunartími lækna er sá lengsti, sem um getur, þeir hafa farið utan til að fullnuma sig, svo að vinnumarkaður þeirra er heimurinn allur.  Þeir hafa hlotið bóklega menntun og verklega þjálfun við háskólasjúkrahús austan hafs og vestan og þurfa ekki annað en slá á þráðinn til síns gamla vinnuveitanda þar og fá þá samstundis atvinnutilboð, því að í löndum hækkandi meðalaldurs er sívaxandi þörf fyrir lækna.

Vinnuaðstaða á íslenzkum sjúkrahúsum er víða orðin úrelt og nútímalegur tækjakostur rýrari en góðu hófi gegnir.  Af öllum þessum ástæðum blasti við ríkinu sá óhugnaður, að stórfelldan atgervisflótta íslenzkra lækna yrði að reyna að brúa með innflutningi á læknum frá Austur-Evrópu og jafnvel Indlandi og Pakistan.  Það er óboðlegt fyrir íslenzkan almenning að geta ekki átt samskipti hérlendis við lækni á móðurmálinu. Til að koma í veg fyrir bráðan neyðarvanda og um leið að leggja grunninn að farsælli viðreisn sjúkrahúsanna á Íslandi var gengið til téðra samninga, og um það ætti að ríkja þjóðarsátt og sömuleiðis um það, að téðir samningar hafi verið einstakir, enda um svo afmarkaðan hóp að ræða, að launabreytingar hans hafa ekki þjóðhagslegar afleiðingar.

Allt annað á við um verkalýðsfélögin, þar sem félagsmenn skipta nokkrum þúsundum þúsundum og samflotið tugþúsundum.  Að spenna boga þessara félaga umfram viðurkennda greiðslugetu atvinnuveganna kemur sem bjúgverpill í fang félagsmanna sem kjararýrnun vegna kaupmáttarskerðingar allra þegna landsins, hvort sem þeir standa í verkföllum eða ekki, af eftirfarandi ástæðum:

  1. Verðbólgan hækkar og rænir fólk kaupmætti. Vísitölutryggðar skuldir taka stökk.
  2. Vextir hækka mikið og snögglega.  Greiðslubyrði óverðtryggðra lána snarhækkar.
  3. Gengi krónunnar gefur eftir, sem kyndir undir verðbólgu. 
  4. Aukinn launakostnaður fyrirtækja hefur í för með sér, að þau slá nýráðningum á frest og neyðast til að segja upp fjölda manns, ef samkeppnisstaða þeirra, t.d. útflutningsfyrirtækjanna, versnar alvarlega.
  5. Skattar verða hækkaðir, af því að ófriður á vinnumarkaði með versnandi hag atvinnuveganna dregur úr hagvexti og skatttekjum og afla þarf tekna til að greiða opinberum starfsmönnum hærri laun.

Niðurstaðan af því að beita atvinnurekendur fjárkúgun, svo að þeir neyðist til að auka útgjöld sín til launagreiðslna umfram getu fyrirtækjanna, verður kjararýrnun og verri lífskjör en við njótum núna.  Þetta á ekki sízt við um þá, sem standa alveg utan við þessar kjaradeilur. 

Að réttu lagi ættu þeir að geta höfðað skaðabótamál á hendur verkalýðsfélögunum, sem sek geta talizt um andsamfélagslega hegðun að yfirlögðu ráði, þar sem þeim máttu vera vel ljósar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar fyrir alla þjóðina, og ekki sízt fyrir þær tugþúsundir, sem að ósekju verða fyrir barðinu á lægri kaupmætti en ella í boði verkalýðsfélaganna, þar sem tjón saklausra fornarlamba, sem ekki eiga aðild að deilunum, getur skipt tugum milljarða, og þeir eiga þá siðferðislegan rétt á að fá skaðabætur úr hendi þeirra, sem tjóninu ollu. 

Til þess að vernda alla þá fjölmörgu, sem að ósekju verða fyrir barðinu á kaupmáttarskerðingu af völdum kauphækkana, sem ætlunin er að þvinga fram með verkföllum, þarf að setja lög, sem reisa skorður við kröfum, sem virðast vera umfram getu hagkerfisins, t.d. á þessa leið:

  • Óheimilt er að hefja hvers konar truflandi aðgerðir á starfsemi fyrirtækja eða stofnana í því skyni að knýja fram kröfur á hendur vinnuveitendum, sem ekki eru reistar á reglu meðalhófs.
  • Til viðmiðunar um meðalhóf skal hafa upplýsingar frá Seðlabanka Íslands um almennt svigrúm hagkerfisins til launahækkana, hækkun vísitölu neyzluverðs frá síðustu kjarasamningum, svo að launþegar geti varizt kaupmáttarskerðingu, og launahækkanir viðkomandi launþega síðast liðinn áratug í samanburði við hliðstæða eða samanburðarhæfa hópa.
  • Félagsdómur er úrskurðaraðili um, hvað kallazt geti meðalhóf í þessum efnum, svo og um allan annan ágreining, sem rísa kann út af lögum þessum. Úrskurður Félagsdóms skal vera áfrýjanlegur til Hæstaréttar Íslands til að tryggja, að réttindi deiluaðila samkvæmt lögum og Stjórnarskrá séu ei fyrir borð borin, og skal ríkja friðarskylda á milli deiluaðila þar til áfrýjunarfrestur, 1 vika, er liðinn, eða, ef áfrýjað er, þar til Hæstiréttur hefur kveðið upp úrskurð sinn, sem skal verða innan fjögurra vikna frá áfrýjunardegi. 

 

Niðurrifsþörfin, sem er réttlætt með öfugmælunum um, að nú sé komið "að okkar fólki", sem legið hafi óbætt hjá garði, og að fara verði að kröfum þess, af því að það sé orðið reitt, er sýnu grátlegri í ljósi þess, að stöðugleika hagkerfisins hefur verið náð "með svita og tárum" og útborguð laun á Íslandi hafa hækkað mikið að undanförnu í hlutfalli við aðrar þjóðir.

Nú er það rangt, sem haldið er fram, að Ísland sé láglaunaland. Það er líka fullyrðing út í loftið, að hérlendis ríki mikil óánægja á meðal almennings.  Þvert á móti er Ísland komið upp í 11. sæti "Legatum Institute" á lista þeirrar stofnunar um velsæld í löndum heims.  Velsældarvísitala "Legatum Institute" er bæði reist á tölulegu mati um efnahagslega velsæld og umsögn fólks um óáþreifanlega þætti eins og vellíðun fólks. Hjá "Legatum Institute" er velsældin reist á 8 atriðum: hagsæld, framtaki og tækifærum, góðum stjórnarháttum, menntun, heilsu, öryggi, frelsi og félagsauði.  Ef/þegar tekst að losa um gjaldeyrishöftin, mun Ísland vafalaust hækka um nokkur sæti á þessum mikilsverða lista, nema hér verði framið skemmdarverk á hagkerfinu.

Hvernig ætla verkalýðsleiðtogar að sefa meinta reiði fólksins, þegar það finnur á eigin skinni vegna minnkandi kaupmáttar, þrátt fyrir miklu fleiri krónur í "launaumslaginu", að verkalýðsleiðtogarnir hafa svikizt aftan að því, haft skjólstæðinga sína að ginnungarfíflum með fáheyrðu lýðskrumi og raunar haft þá að fífli með því að ala á öfund og stéttahatri með áróðri um, að yfirvöld hafi komið á stöðugleika "á kostnað verkafólks". Þetta er endemis þvæla, því að enginn hagnast meira á stöðugleika en hinir lægst launuðu, og engir verða verr úti í gerningaveðri  óstöðugleika, verðbólgu og samdráttar á vinnumarkaði, en þeir.  Það verður því miður að fella þann dóm hér, eftir það, sem á undan er gengið, að launþegaforkólfar, sem haga sér með svo ábyrgðarlausum hætti sem hér er lýst, eru ekki starfi sínu vaxnir.

 

Þann 22. apríl 2015 birtist á bls. 12 í Morgunblaðinu frétt um útborguð laun, umreiknuð í evrur, á Íslandi, í ESB og í BNA.  Þar kom fram, að Ísland var í efsta sæti árin 2005 og 2006 með kEUR 21,1 og kEUR 23,4 hvort árið um sig, en allir vita, að þetta voru fölsk og innistæðulaus lífskjör. Árið 2009 var Ísland hrokkið ofan í 16. sæti útborgaðra launa með kEUR 12,2 á ári á launamann, en árið 2014 sýna tölur mikla bót í þessum efnum, því að þá var Ísland komið upp í 7. sæti með kEUR 17,9. Svíþjóð var þá í 6. sæti, en efnahagsþróun á Íslandi og í Svíþjóð síðan bendir til, að löndin hafi skipt um sæti.  Þar með eru löndin fyrir ofan Ísland Sviss, Noregur, Lúxemborg, Holland og Bretland.  Aðeins Noregur af hinum Norðurlöndunum er með hærri útborguð laun, og margt bendir til, að nú fjari undan hagkerfi Noregs vegna lægra olíuverðs og lélegrar samkeppnishæfni norsks atvinnulífs.  Sviss, Lúxemborg og Bretland eru mikil bankalönd, þ.e.a.s. fjármálageirinn er þar viðamikill, og hann borgar góð laun, eins og kunnugt er.  Holland er mikið viðskiptaland með sína Rotterdam-hafnarborg, sem sennilega skýrir styrk hagkerfis Hollendinga.  Það er þess vegna alrangt hjá svartnættis- og úrtölufólki, að laun á Íslandi séu lág, og til að breyta Íslandi úr láglaunalandi verði að fara í hart til að knýja fram breytingar.  Hið rétta er, að Ísland siglir hraðbyri upp lista útborgaðra launa í evrum reiknað, en lamist hér atvinnulíf og verði síðan þrúgað af greiðslubyrði, sem því var þröngvað til að ganga að með ofbeldi, þá mun sú sigling heldur betur steyta á skeri. Þá þarf að draga rétta aðila til ábyrgðar fyrir mikla vanlíðan, þjáningar, lífshættu og jafnvel dauða sjúklinga og yfirálag á starfsfólki, sem reyndi að halda starfseminni á floti, óverjandi aðbúnað sláturdýra og skemmdarverk á hagkerfinu.  Þetta hljómar eins og afleiðingar af hryðjuverkaárás, sem sýnir, að verkföllin hafa verið rekin sem stríð gegn samfélaginu, en ekki átök við vinnuveitanda. 

Það er ástæða til að staldra við til að þessi ömurlega staða endurtaki sig ekki, ástæða fyrir allan almenning og sérstaklega fyrir þá, sem höllustum fæti standa og sem hvorki geta né vilja taka þátt í því höfrungahlaupi, sem launþegahreyfingar þessa lands eru að leiða yfir þjóðina og munu þurfa að gjalda fyrir dýru verði með algeru gengisfalli sjálfra sín og eyðimerkurgöngu, það sem eftir er.  Margir hafa af þessu forheimskulega gönuhlaupi þungar áhyggjur, og því til vitnis eru lokaorðin í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, dags. 01.05.2015, undir millifyrirsögninni:

"Góðir menn gæti að sér í tíma":

"Ef baráttan brýtur sér leið í þennan ólíkindafarveg, snýst hún í rauninni um að koma sem flestum frá bjargálnum til fátæktar.  Það er vissulega ekki útilokað, að slík barátta geti gengið betur en hin; það hallar jú undan fæti.

Það er hægt að halda því fram með réttu, að þeir, sem nú eru að festast í verkfallsslóðinni, voru svo sannarlega ekki þeir, sem hleyptu af startbyssunni.  Allir virðast gera sér grein fyrir, að stöðugleiki er forsenda þess að vernda þá aukningu kaupmáttar, sem orðin er, svo að byggja megi ofan á hann. 

Sumir forystumannanna hafa sagt, að stöðugleikinn "verði ekki varðveittur á þeirra kostnað".  Þetta eru skiljanlegar yfirlýsingar og ekki ósanngjarnar.  En það breytir þó ekki því, að fari allt úr böndum, og stöðugleikinn verði þar með úr sögunni, munu skjólstæðingar þessara sömu forystumanna svo sannarlega líða fyrir það, og það jafnvel meira en aðrir. 

Sanngirnissjónarmið munu ekki duga til að breyta því."

 

  

  

 

   

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband