Færsluflokkur: Fjármál
13.9.2015 | 17:53
Ráðsmennskan í Ráðhúsinu við Tjörnina
Í höfuðstað landsins ríkir nú vinstri stjórn undir forsæti jafnaðarmannsins Dags B. Eggertssonar. Þessi ólukkulegi vagn er með varadekk úr flokki pírata, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og flugvallarvinir eru í minnihluta í borgarstjórn á þessu kjörtímabili sveitarstjórna. Nú horfir þunglega í málefnum borgarinnar, sem stingur í stúf við stöðu ríkisins, og ýmissa annarra nágrannasveitarfélaga, og er ástæða til að gera frammistöðu jafnaðarmanna og sjóræningja við stjórnvölinn nokkur skil.
Vel að merkja flugvallarvinir. Þeir söfnuðu tæplega 70 000 undirskriftum til stuðnings við óskertan flugvöll, svo að innanlandsflugið mætti dafna og þroskast á 21. öldinni og taka við hluta af þeirri gríðarlegu umferðaraukningu, sem sprenging í ferðamannageiranum hefur í för með sér. Hér er um að ræða umtalsverða tekjulind fyrir Reykjavíkurborg, sem hleypur á milljörðum króna, þegar allt er talið. Hvorki Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, núverandi borgarstjóri, né fulltrúi pírata í meirihluta núverandi borgarstjórnar, virðast gera nokkurn skapaðan hlut með þessa fjölmennustu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar. Lýsir það lýðræðisást og grasrótarsamkennd ? Hvernig í ósköpunum stendur á því, að píratinn virðir aðalstefnumið Pírataflokksins um opna stjórnsýslu og virkjun almennings við ákvarðanatöku að vettugi í þessu máli, sem svo mikinn áhuga hefur vakið á meðal almennings ? Úr því að þannig er í pottinn búið, að Píratar vilja heldur ekki vísa þessu ágreiningsmáli í þjóðaratkvæðagreiðslu, verður að álykta sem svo, að lýðræðishjal píratanna sé einvörðungu í nösunum á þeim. "Sorry, Stína." Lýðræðishjal jafnaðarmanna og pírata er lýðskrum. Það sýna efndirnar, þar sem þessir aðilar fara með völdin. Þeir, sem vegsama beint lýðræði í orði, en sniðganga það á borði, skulu loddarar heita.
Viðskiptablaðið birti fimmtudaginn 3. september 2015 vandaða úttekt á fjárhag Reykjavíkurborgar. Úttektin sýnir því miður, að fjármál höfuðborgarinnar eru í megnasta ólestri, og stjórnunin er í lamasessi, því að engir tilburðir eru sjáanlegir til að snúa af braut skuldasöfnunar. Undir stjórn jafnaðarmanna og pírata er flotið sofandi að feigðarósi. Dagur B. Eggertsson er sem áhorfandi, en ekki gerandi, og leikur á fiðlu á meðan Róm brennur. Slíka menn dæmir sagan harðlega.
Viðvaranir fjármálaskrifstofu borgarinnar virka á Dag B. eins og að stökkva vatni á gæs. Draumóramaðurinn Dagur vill þó afleggja mikla tekjulind borgarinnar, sem er Vatnsmýrarvöllur. Reykjavík á gnægð byggingarlands, en það er samt hörgull á tilbúnum lóðum, og borgin okrar á þeim. Allt snýst um sérvizkuna "þéttingu byggðar" og "þrengingu gatna". Útsvarsheimildin er fullnýtt, en fasteignagjöldin ekki. Jafnaðarmennirnir og píratinn kunna því að seilast enn dýpra ofan í vasa húseigenda, og eru þó húsnæðiskostnaður og húsaleiga allt of há í borginni, sem er ungu fólki þungt í skauti.
Vandamálið er hins vegar á kostnaðarhlið borgarrekstrarins, eins og nú verður stiklað á stóru um, og þar verður að koma til uppskurðar, sem læknirinn þó veigrar sér við af óskiljanlegum ástæðum, þó að öllum megi ljóst vera, að meinið verður að fjarlægja. Að öðrum kosti deyr sjúklingurinn (borgarsjóður lendir í greiðsluþroti). Áður en að því kemur verður hann þó settur í öndunarvél tilsjónarmanns. Niðurlæging höfuðborgarinnar í boði jafnaðarmanna verður þá alger.
Aðgerðarleysi Dags má e.t.v. skýra með því, að hann bíði eftir kraftaverki, einhvers konar Wunderwaffen, að hætti þjóðernisjafnaðarmanna 1944-1945. Eitt slíkt undravopn gæti verið OR-Orkuveita Reykjavíkur, en fjárhagur hennar hefur verið bágborinn, og hún verður ekki sérlega aflögufær á meðan álverðið er í lægð, og það mun verða í lægð þar til Kína nær sér á strik, en undir það hillir ekki, nema síður sé. Tilraun kínverska Kommúnistaflokksins með auðvaldskerfi undir einræði kommúnista hefur mistekizt, og þar verður eitthvað undan að láta. Hrávörumarkaðir o.fl. verða fórnarlömb kínverskrar kreppu.
"Veltufé frá grunnrekstri Reykjavíkurborgar dugði ekki fyrir afborgunum af lánum á fyrri hluta þessa árs. Útgjöld hafa aukist um marga milljarða umfram verðlag, fólksfjöldaþróun og kostnað við nýja málaflokka. Stöðugildum hefur hlutfallslega fjölgað helmingi hraðar en íbúum í Reykjavík frá 2009. Aukið lánsfé þarf til að fjármagna grunnþjónustu."
Þessi niðurstaða Viðskiptablaðsins sýnir í hnotskurn, að borgin eyðir um efni um fram, og meginskýringin er hömlulaus fjölgun starfsmanna borgarinnar. Það eru of margar silkihúfur að ráðstafa fjármunum borgarinnar og spyrja má, hvort hlöðukálfum jafnaðarmanna sé raðað á garðann ? Það er gamla sagan með jafnaðarmenn. Þeir sýna af sér algert ábyrgðarleysi í opinberum fjármálum og stjórna aldrei með hagsmuni skattborgaranna að leiðarljósi, heldur þenja báknið fyrirhyggjulaust út og vænta með því sæluríkis sameignarstefnunnar, sem auðvitað aldrei kemur, því að þetta er botnlaus hít. Þetta er nú að koma jafnaðarmönnum í koll um alla Evrópu.
"Útgjöld Reykjavíkurborgar hafa eftir sem áður aukist um 18,45 % umfram verðlag, íbúafjölgun og útgjaldaaukningu vegna málefna fatlaðra frá árinu 2010."
Þessi hömlulausa útgjaldaaukning sýnir svart á hvítu, að Reykjavík er stjórnlaus. Mýsnar dansa á borðinu, og kötturinn liggur á meltunni og rumskar ekki. Parkinsonslögmálið ríkir í Ráðhúsinu í Reykjavíkurtjörn.
Þessi óöld hófst fyrir alvöru með Besta flokkinum, sem var beztur við að sólunda almannafé, en óöldin hefur haldið áfram á fullum hraða á vakt Dags B. Eggertssonar. Sumum urðu það vonbrigði, en aðrir vissu, að jafnaðarmenn yrðu ófærir um að snúa af þessari óheillabraut. Þá skortir bæði getu og vilja til stórræðanna. Það fjarar hratt undan þeim núna. Farið hefur fé betra.
"Í fyrri úttekt Viðskiptablaðsins frá 7. maí síðastliðnum um fjárhag Reykjavíkurborgar var greint frá því, að borgaryfirvöld hafa fengið viðvaranir frá fjármálaskrifstofu borgarinnar vegna hættumerkja í rekstrinum, þegar ársreikningi fyrir seinasta ár var skilað. Viðvaranir fjármálaskrifstofunnar beindust fyrst og fremst að útgjöldum, en þar var til að mynda bent á, að laun og annar rekstrarkostnaður væru orðin 123 % af skatttekjum. Samkvæmt árshlutareikningi er þetta hlutfall komið í 129 % á fyrri helmingi ársins 2015, bæði vegna launahækkana hjá borginni og fjölgunar stöðugilda."
Þegar rekstur stórfyrirtækis á borð við borgina er orðinn jafndúndrandi ósjálfbær og þessi lýsing ber með sér, er með öllu ófyrirgefanlegt að grípa ekki í taumana þrátt fyrir, að öll viðvörunarljós blikki rauðu í Ráðhúsinu. Þar hlýtur að vera lömun á æðstu stöðum á ferðinni og ákvarðanafælni á sjúklega háu stigi. Kjósendur geta því miður ekki skipt um áhöfn á skútunni fyrr en í sveitarstjórnarkosningum 2018, en þá mega þeir heldur ekki láta nein trúðslæti villa sér sín.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.9.2015 | 10:40
Baráttan við báknið
Framlagt fjárlagafrumvarp lofar góðu um viðsnúning í ríkisrekstrinum, þar sem vaxtagjöld árið 2016 munu lækka um meira en 8 mia (milljarða) kr, og afgangur verður af rekstri ríkissjóðs u.þ.b. 2 % af tekjum hans. Boðaðar eru löngu tímabærar tollalækkanir og tekjuskattslækkanir ásamt lækkun fjármagnstekjuskatts, sem auka munu ráðstöfunartekjur heimila á árunum 2016-2017 um 1,4 %, þegar allt verður komið til framkvæmda. Þetta svarar til þess, að ríkið skili til almennings 17 miö kr, en ríkissjóður mun fá drjúgan hluta þeirrar upphæðar bættan upp með hærri tekjum af virðisaukaskatti o.fl.
Formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lét ekki á sér standa með að taka afstöðu gegn þessari kaupmáttaraukningu almennings og með bákninu, sem hún telur hér missa af fé, sem því beri síðan að endurdreifa um þjóðfélagið eftir smekk stjórnlyndra stjórnmálamanna. Þetta eru stjórnmál af gamla skólanum, sem sífellt fjarar undan. Hún sagði það beint út, að almenningur færi nú að verzla meira, og formaður VG óttaðist þenslu í hagkerfinu þess vegna. Vinstra heimatrúboðið er samt við sig og sér skrattann í hverju horni, ef almenningur getur farið að veita sér meira af fatnaði eða öðru. Hvernig vesalings Katrín Jakobsdóttir getur fengið það út, að verðlækkanir og skattalækkanir valdi þenslu út af fyrir sig, er ekki boðlegur málflutningur, nema fyrir áhangendur villta vinstrisins. Heldur hún virkilega, að ríkisútgjöld geti ekki valdið þenslu ? Þessi gamla og ryðgaða plata villta vinstrisins gengur í raun út á, að fólkið sé til fyrir ríkið, en ekki öfugt, og að ríkisreksturinn eigi að vaxa stöðugt að umfangi, þar til sælustigi sameignarstefnunnar sé náð. Þess vegna megi aldrei skila neinu til almennings, sem ríkið hefur einu sinni komið höndum yfir. Skattalækkanir, hverju nafni, sem þær nefnast, eru eins og guðlast í huga vinstra heimatrúboðsins.
Hugarheimur Katrínar Jakobsdóttur er mengaður af stéttastríðshugmyndum, þar sem tilgangurinn helgar meðalið, og tilgangur allra aðgerða er að koma höggi á "stéttaróvininn", vinnuveitandann. Þannig er alltaf hvatt til sem mestra nafnlaunahækkana í viðleitni til að draga úr hagnaði auðvaldsins, en hagur verkalýðs og borgara er algert aukaatriði í huga vinstra heimatrúboðsins. Af þessum sökum berst það ætíð gegn kaupmáttaraukningu, sem ekki er sótt í vasa vinnuveitenda. Þetta er eins andfélagslegt viðhorf og hugsazt getur.
Því miður hefur þessi sjúklegi hugsunarháttur smitað út frá sér, t.d. til embættismannakerfisins, sem iðulega setur sig á háan hest gagnvart einstaklingum og einkafyrirtækjum, og þykist vera yfir almenning hafið. Þetta er alþekkt, og Orson Wells gerði þessu sjúklega atferli, yfirlæti, drambsemi og kúgunartilburðum, skil að sínu leyti í bók sinni, 1984.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði um þetta þarfa ádrepu í Morgunblaðið 9. september 2015, undir fyrirsögninni:
"Röng, letjandi og rotin skilaboð".
Um hroka og yfirgang embættismannastéttarinnar gagnvart einstaklingum og einkafyrirtækjum nefnir Óli Björn seðlabankahneykslið síðasta og skrifar:
"Það hefur verið búið til andrúmsloft stjórnlyndis, þar sem það þykir ekki óeðlilegt, að stjórnkerfið gangi fram af fullkominni hörku gagnvart framtaksmönnum, sem hafa skarað fram úr. Að undirlagi Seðlabankans var gerð innrás í skrifstofur Samherja fyrir fjórum árum vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum."
Þessi ófyrirleitna framkoma er ólíðandi. Nú hefur fjármála-og efnahagsráðherra boðað framlagningu frumvarps um breytta skipan Seðlabanka Íslands. M.a. á að hverfa aftur til baka til bankastjórnar þriggja jafnsettra bankastjóra, þó að einn þeirra gegni formennsku bankastjórnar. Er þá vonandi, að ákvarðanataka á vegum bankans verði yfirvegaðri og betur ígrunduð, lögfræðilega og hagfræðilega, en hún hefur verið frá skipulagsbreytingu og ráðningu Jóhönnustjórnarinnar á núverandi húsbónda í Svörtuloftum.
Hið endurupptekna fyrirkomulag tryggir jafnframt betri samfellu í æðstu stjórn bankans, því að til undantekninga heyrir, að öll bankastjórnin hverfi í einu, eins og Jóhanna Sigurðardóttir varð þó valdur að á sínum tíma og fékk þá norskan krata til að stýra fleyinu þar til hún réð núverandi gallagrip, sem síðan reyndi að fara dómstólaleiðina til að hremma laun, sem hann taldi téða Jóhönnu hafa lofað sér.
Peningamálastjórnun landsins er að nokkru leyti valdur að miklum fjármagnskostnaði við húsbyggingar og aðrar fjárfestingar í landinu. Þessi mikli fjármagnskostnaður vegna húsbygginga er miklu hærri en á hinum Norðurlöndunum, svo að munar 1,5-2,5 milljónum kr á ári af 30 milljón kr láni, og er ein meginskýringin á skorti á trausti í garð hefðbundnu stjórnmálaflokkanna og flótta til sjóræningjanna að mati blekbónda. Hér eiga bæði verðtrygging og háir vextir sök. Það er verkefni ríkisstjórnarinnar að varða veginn til lausnar á þessu vandamáli, og fjármála- og efnahagsráðherra lét á sér skilja í ræðu sinni í umræðum á þingi um stefnuræðu forsætisráðherra, að hann gerði sér grein fyrir vandamálinu og mikilvægi góðrar lausnar á því. Líklega er pólitískur og hagfræðilegur þjóðfélagsstöðugleiki lykilatriði til lausnar.
Um skuldir unga fólksins ritar Óli Björn Kárason í téðri grein:
"Þúsundir ungmenna eru skuldum vafin eftir að hafa fleytt sér í gegnum langt nám með dýrum lánum auk atvinnutekna á sumrin, og þegar færi hefur gefist með námi. Engu skiptir, þótt í boði séu ágætlega launuð störf. Unga fólkið sér, að það á litla eða enga möguleika á því að eignast eigin íbúð í náinni framtíð. Það er búið að takmarka möguleika þess - skerða valfrelsið. Nauðugt á það ekki annan kost en að halda áfram að vera leigjendur. Engu virðist skipta, að afborganir af láni vegna þokkalegrar íbúðar séu lægri en það, sem greitt er í leigu. Kerfið er búið að loka á lánamöguleika."
Óli Björn tengir þessa alvarlegu stöðu ungs fólks, sem auðvitað smitar um allt þjóðfélagið, við lítið fylgi hefðbundinna stjórnmálaflokka. Það stendur borgaralegu stjórnmálaflokkunum næst að lagfæra þetta. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að gera fólki kleift að búa í eigin húsnæði sem lengst á æviskeiðinu, og 90 % landsmanna kjósa það helzt. Þess vegna standa úrbætur Sjálfstæðisflokkinum næst, og fyrr getur hann varla vænzt verulegrar fylgisleiðréttingar en hann leggur fram trúverðuga áætlun um að skapa forsendur svipaðs fjármagnskostnaðar við húsbyggingar og á hinum Norðurlöndunum. Þar er reyndar minna um, að fólk búi í eigin húsnæði en á Íslandi. Um þetta viðfangsefni skrifar Óli Björn og er hægt að taka heils hugar undir með honum:
"Svo undrast margir, að ungt fólk sé afhuga hefðbundnum stjórnmálaflokkum ! Á meðan borgaralegir stjórnmálaflokkar leggja litla eða enga áherslu á að skapa ungu fólki a.m.k. ekki síðri tækifæri en foreldrar þess fengu til að eignast eigið húsnæði, munu þeir aldrei ná eyrum yngri kjósenda."
Að lokum er herhvöt til borgaralegra afla, ekki sízt Sjálfstæðisflokksins, um að bretta upp ermarnar í þágu ungu kynslóðarinnar og húsnæðisvanda hennar. Það er ónógt framboð húsnæðis vegna eftirspurnarleysis, sem stafar af háum fjármagnskostnaði við byggingar og að nokkru of háum byggingarkostnaði. Óli Björn:
"Stjórnmálamenn, sem vilja tryggja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna, geta ekki setið aðgerðarlausir. Þeir geta ekki sætt sig við, að aðeins þeir, sem eiga fjárhagslega sterka bakhjarla eigi raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum að loknu námi. En með aðgerðaleysi senda þeir þau skilaboð, að helsta forsenda þess að eignast eigið húsnæði sé fjárhagslegur styrkur foreldra eða afa og ömmu."
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.8.2015 | 17:08
Brauðmolaþvættingurinn
Það er alveg makalaust, að enn skuli á árinu 2015 eima af kenningum um óhjákvæmileg stéttaátök og sögulega þróun í átt til Þúsund ára ríkis sameignarstefnunnar.
Nýjasta dæmið um hrakfallasögu sameignarstefnunnar er Venezúela. Þar notaði vinstri sósíalistinn Hugo Chavez tekjurnar af þjóðnýttum olíuiðnaði til að greiða niður verð á nauðþurftum almennings. Þetta inngrip í markaðshagkerfið endaði með ósköpum, svo að nú er sami almenningur á vonarvöl.
Ekki einasta er nú þessi þjóðnýtti olíuiðnaður fallinn að fótum fram, heldur gjörvallt hagkerfi Venezúela. Chavez hafði tekið markaðsöflin úr sambandi með þeim afleiðingum, að skortur myndaðist á flestum vörum og þjónustu, og svarti markaðurinn einn blómstrar með gengi á bólívar í mesta lagi 1 % af skráðu opinberu gengi bandaríkjadals. Greiðsluþrot ríkisins blasir við eigi síðar en árið 2016 og félagsleg og fjárhagsleg upplausn við endastöð jafnaðarstefnunnar í þessu landi, sem svo ríkt er af náttúrulegum auðlindum. Tær jafnaðarstefna hefur hvarvetna leitt til eymdar og volæðis, þar sem hún hefur verið iðkuð, og hægagangs útblásins opinbers rekstrar með ofsköttun og skuldasöfnun, þar sem gruggugri útgáfur hennar hafa verið reyndar.
Að fela stjórnmálamönnum öll ráð yfir samfélagi þýðir í raun að taka markaðsöflin úr sambandi. Hinar öfgarnar; að leyfa markaðsöflunum að leika lausum hala kann heldur ekki góðri lukku að stýra, því að slíkt getur auðveldlega leitt til fákeppni og jafnvel einokunar í litlum samfélögum. Bezt er að virkja atorku markaðsaflanna til að skapa "hagsæld handa öllum" í anda "Markaðshagkerfis með félagslegu ívafi", þar sem eindrægni ríkir á vinnumarkaðinum í andstöðu við stéttastríðshugmyndafræði jafnaðarmanna af ýmsum toga.
Í nýlegri skýrsla AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um orsakir og afleiðingar fjárhagslegs ójafnaðar er komizt að þeirri niðurstöðu, að mikill tekjumunur í samfélagi hafi neikvæð áhrif á hagvöxt og að árangursríkara sé, til að efla hagvöxt, að auka ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og millitekjuhópa en hinna tekjuhæstu.
Þessi niðurstaða hefur fólki á vinstri væng stjórnmálanna þótt afsanna svo kallaða "brauðmolakenningu" eða "trickle-down economics", sem það heldur fram, að snúist um að mylja undir hina tekjuhæstu og auðugustu, því að það hafi jákvæð áhrif á samfélagið allt. Af málflutningi þeirra að dæma mætti ætla, að hópur hægri sinnaðra hagfræðinga gerði fátt annað en að hvetja stjórnmálamenn til að hlaða undir auðmenn á grundvelli "brauðmolakenningarinnar".
Hinn virti hagfræðingur, Thomas Sowell, sem kenndi áður við Cornell og UCLA-háskólana, en starfar nú einkum fyrir Hoover-stofnunina við Stanford, hefur skrifað um þessa meintu kenningu og komizt að þeirri niðurstöðu, að hún sé hugarburður vinstri sinnaðra andstæðinga einstaklingshyggju og aukins frelsis efnahagslífsins.
Thomas Sowell hefur ekki fundið neinn hagfræðing, sem á eitthvað undir sér og mælir fyrir "brauðmolakenningunni". Hana er ekki að finna í neinum af mest lesnu almennu kennslubókunum í hagfræði, og fyrir nokkrum árum bað hann fólk um að benda sér á slíkan "brauðmolahagfræðing". Engin ábending kom. Þetta er dæmigert fyrir sýndarveruleikann, sem vinstri sinnað fólk lifir í. Það spinnur upp kenningar og málar svo skrattann á vegginn. Veruleikafirring kallast það, og fólk með þetta heilkenni sat að völdum í Stjórnarráðinu 2009-2013 og stýrði þjóðarskútunni eftir áttavita með vinstri skekkju, sem leiddi að sjálfsögðu til ófara. Afstaða pírata til "brauðmolakenningarinnar", er ekki þekkt, þó að í sýndarveruleika sé, enda er afstaða þeirra meira að segja á reiki til "deilihagkerfisins".
Ein af vinstri skekkjunum er sú, að skattakerfið eigi miskunnarlaust að nota til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu og það verði gert með skattahækkunum. Þetta er bæði hagfræðilega og siðferðilega röng aðferðafræði við að auka jöfnuð. Ef gengið er of langt í að mismuna fólki eftir efnahag með skattheimtu, þá hverfur hvatinn til að leggja hart að sér, standa sig vel og auka tekjur sínar. Þjóðarkakan vex þá hægar eða minnkar, og allir tapa á slíku. Bezta ráðið til að auka jöfnuðinn er að hámarka verðmætasköpunina og tryggja með kjarasamningum sanngjarna skiptingu auðsins á milli fjármagnseigenda og launamanna.
Sjómenn fá um 35 % aflahlut, og aðrir launamenn um 65 % af verðmætasköpun fyrirtækjanna á Íslandi. Það er á meðal hin hæsta, sem þekkist. Arður af eigin fé fyrirtækjanna á bilinu 5 % - 15 % þykir eðlilegur m.v. aðra ávöxtun og áhættu, sem féð er lagt í.
Þegar borgaraleg öfl viðra og framkvæma skattalækkanir, sama hvaða nafni nefnast, hefst jafnan spangól vinstrisins með tilvísunum í "brauðmolakenninguna" um , að nú eigi að framkvæma "skattalækkanir fyrir hina ríku". Þetta er rökleysa, því að í mörgum tilvikum lækka skattar hlutfallslega meira á þá tekjulægstu en þá tekjuhæstu.
Fyrrnefndur Sowell segir, að vissulega hvetji margir hagfræðingar með rökstuddum hætti til lækkunar skatta á fyrirtæki og fólk. Þeir sýna fræðilega fram á, og reynslan staðfestir fræðin, að lækkun skattheimtu hækkar skatttekjur hins opinbera, því að lækkun örvar skattþolann til að stækka skattstofninn. Stefna núverandi stjórnvalda um afnám vörugjalda af flestum vörum og lækkun virðisaukaskatts hefur leitt til vaxandi viðskipta og aukinna skatttekna hérlendis.
Vinstra megin við miðju (miðjan er fljótandi) hafa menn á borð við John Maynard Keynes, Woodrow Wilson og John F. Kennedy viðurkennt þessa staðreynd. Til tekjuöflunar fyrir hið opinbera eru skattalækkanir öflugt tæki, en þá kemur sem sagt "brauðmolakenning" vinstri manna til skjalanna. Þeir gleyma því þá, að hið opinbera verður í betri færum til að fjármagna sjálft (án lántöku) útgjöld sín til stuðnings hinum lakar settu til kjarajöfnunar.
Það, sem gerist alls staðar, þar sem þungar skattbyrðar, eins og á Íslandi, eru gerðar léttbærari, er, að framleiðsla vex, atvinnuleysi minnkar, ráðstöfunartekjur launafólks hækka (launagreiðslugeta fyrirtækja vex og útgjöld almennings lækka). Hinir tekjuhæstu greiða ekki aðeins hærri skatta í krónum talið, heldur eykst jafnframt hlutur þeirra af heildarskattgreiðslum. Lýðskrum vinstra liðsins um "skattalækkanir fyrir hina ríku" er innistæðulaust fjas fólks, sem smitað er af hinni óhugnanlegu kenningu um, að tekjur og eignir einstaklinga séu í raun eign ríkisins og að lækkun skattheimtu sé þess vegna "eftirgjöf á réttmætum ríkistekjum".
Enn reyna vinstri menn að viðhalda áróðri sínum um ójöfnuð á Íslandi. Um þann skollaleik skrifar Óðinn í Viðskiptablaðið 25. júní 2015:
"Kaldhæðnin verður því vart meiri, þegar stjórnarandstæðingar kvarta nú sem aldrei fyrr undan efnahagslegum ójöfnuði, þegar jöfnuðurinn hefur aldrei verið meiri. Kannski er ójöfnuðurinn að fara að taka við af brauðmolakenningunni sem uppáhaldsstrámaður vinstrimanna ?
Sérkennilegast er að heyra þessa kenningasmíð frá manni [Gunnari Smára Egilssyni - innsk. BJo], sem auðgaðist einna mest, hlutfallslega, á þeirri efnahagsbólu (svo að notað sé orð hans og hans líkra), sem myndaðist á árunum fyrir fall bankanna. Og hvaðan kom auðurinn. Jú, hann var tekinn að láni í viðskiptabönkunum, sem féllu."
Önnur illvíg árátta vinstra liðsins er að hallmæla atvinnuvegunum og atvinnuveitendum, einkum útgerðinni. Orkukræfum iðnaði er hallmælt með rakalausum fullyrðingum um óarðbæra raforkusölu til hans. Hver étur þessa fullyrðingu upp eftir öðrum, en enginn hefur tekið sér fyrir hendur að sýna fram á þetta, enda er það ekki hægt. Almenningur nýtur góðs af hagkvæmni orkusölusamninga við málmiðnaðinn með nánast lægsta raforkuverði á byggðu bóli. Sjá menn ekki þversögnina í aróðrinum um óhagkvæma orkusölu til stóriðju og samtímis hagkvæmni raforkuviðskipta almennings ? Ef flugufótur væri fyrir þessum áróðri, sem reyndar kemur úr ýmsum áttum, væri Landsvirkjun væntanlega á vonarveli. Svo er hins vegar alls ekki, og gæti markaðsvirði hennar numið um ISK 500 milljörðum um þessar mundir.
Það hefur verið leiðarstef Samfylkingarinnar að hnýta í landbúnaðinn. Það er afar ósanngjarnt að gagnrýna bændur, því að bændastéttin hefur náð gríðarlegum árangri í sínum rekstri, aukið framleiðnina meira en flestir aðrir, aukið fjölbreytni framleiðslunnar og síðast en ekki sízt aukið gæðin mikið.
Þeir vinna við erfið skilyrði norðlægrar legu og eyjaloftslags, en hreinleikinn og heilnæmnin er þess vegna meiri en þessi blekbóndi þekkir annars staðar. Draga þarf úr ríkisstyrkjum við bændur, og að sama skapi eiga þeir að hækka afurðaverð sitt með það að markmiði að verða markaðsdrifinn atvinnurekstur með aðgang að útflutningsmörkuðum á grundvelli gagnkvæmra tollaívilnana og mikilla vörugæða.
Kaupmenn verða að kappkosta að upplýsa neytendur um uppruna landbúnaðarvaranna, einkum kjötsins í afgreiðsluborðunum. Það á ekki að vera leyfilegt að flytja inn matvæli í samkeppni við íslenzk matvæli, nema þau standist gæðasamanburð við þau íslenzku. Þar eru ýmsar viðmiðanir hafðar til hliðsjónar, s.s. sýklalyf, steragjöf, hormónagjöf, skordýraeitur og áburður.
"Það er útbreiddur misskilningur, að hægt sé að umgangast sjávarútveg á annan hátt en en aðrar atvinnugreinar."
Þetta sagði í forystugrein Morgunblaðsins þann 20. júní 2015 og er hverju orði sannara. Öfugmæli um útveginn hafa valdið miklum úlfaþyt í samfélaginu, sem mál er að linni. Það er vinstri vella og rætinn áróður fólks með meint óréttlæti gildandi fiskveiðistjórnunarkerfis, kvótakerfisins, á heilanum, og mætti kannski nefna "sóknarheilkennið", að íslenzki sjávarútvegurinn hlunnfari íslenzka alþýðu með því að greiða minna en sanngjarnt er fyrir leyfi til veiðanna.
Hér er um tilfinningahlaðinn þvætting að ræða. Sanngirnisviðmið í þessum efnum er, að útgerðirnar greiði í sameiginlegan, sjálfstæðan sjóð, sem standi straum af fjárfestingum og rekstri, eftir atvikum, stofnana á vegum ríkisins, sem annast þjónustu við sjávarútveginn, t.d. Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar og Hafnarsjóðs. Árlegt framlag gæti verið 4,5 % verðs upp úr sjó, sem er um helmingur núverandi gjaldtöku.
Gjaldtakan 2015 er á bilinu 4,5 % - 23,0 % af verði upp úr sjó með miðgildið 9 % (jafnmargar tegundir neðan við og ofan við). Ljóst er, að þessi gjaldtaka er hóflaus í sumum tilvikum. Keyrði um þverbak í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013 með þeim afleiðingum, að útgerðum fækkaði óvenju hratt. Arðsemi hinna jókst við fækkunina. Var það ætlun vinstri stjórnarinnar ? Hvað sagði í téðri forystugrein Morgunblaðsins um þennan óeðlilega og ósanngjarna málatilbúnað á hendur sjávarútveginum ?:
"Útreikningar endurskoðunarfyrirtækisins KPMG á skattaspori HB Granda sýna til að mynda, að tekjur ríkis og sveitarfélaga vegna verðmætasköpunar fyrirtækisins námu 6,6 milljörðum króna árið 2013. Þriðjungur þessarar miklu skattbyrði er vegna veiðigjaldanna, og skattsporið er hærri upphæð en kom í hlut eigenda fyrirtækisins."
Það nær náttúrulega engri átt, að veiðigjöldin hækki skattgreiðslurnar um helming, 50 %, eins og í þessu tilviki, og að tekjur hins opinbera nemi hærri upphæð en tekjur eigendanna af þessari fjárfestingu sinni.
Þessari tímabæru forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:
"En til að útgerðir geti þrifizt og endurnýjað tækjabúnað á eðlilegan hátt, ekki sízt minni útgerðir, sem hafa farið verst út úr ofursköttunum, sem ættaðir eru frá fyrri ríkisstjórn, er nauðsynlegt, að þingmenn fari að sýna því aukinn skilning, að stöðugt rekstrarumhverfi og hófleg skattheimta eru forsenda velgengni til framtíðar. Meðferð makrílfrumvarpsins og umræður um það að undanförnu sýna því miður, að langt er í land í þessum efnum."
Við þetta er engu að bæta varðandi sjávarútveginn, en í lokin er rétt að benda á, að enn andar köldu til verksmiðjueigenda, sem hug hafa á að reisa verksmiðjur á Íslandi. Í þeim efnum er nýjasta dæmið ISK 120 milljarða fjárfesting Hudson Clean Energy Partners, bandarísks fjárfestingarsjóðs, sem starfar undir Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (SEC). Sjóðurinn leggur áherzlu á "grænar" fjárfestingar, og norrænir lífeyrissjóðir eiga um þriðjung þessa sjóðs. Engu að síður hafa skotið upp kollinum úrtölumenn úr ýmsum áttum, og yrði það miður, ef slíkir næðu að setja skít í tannhjólin.
Hér er um að ræða hreinkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga. Nú er hins vegar að koma fram á sjónarsviðið nýtt efni, methylammonium blýjoðíð, og kalla menn þetta efni og skyld efni perovskía. Þeir munu veita kíslinum samkeppni sem grunnefni í sólarhlöðurnar. Nýtni perovskía er um þessar mundir 20 %, og vísindamenn telja unnt innan tíðar að ná 25 % nýtni (fjórðungur sólarorkunnar, sem fellur á efnið, verður breytanlegur í raforku) og vinnslukostnaður verður að öllum líkindum lægri. Þetta gæti sett þróun kísiliðnaðar í heiminum, og þar með á Íslandi, í uppnám, svo að tryggilega þarf að búa um hnúta orkusamninganna, að orkuseljandi eigi forgangsrétt í þrotabú við hugsanlegt gjaldþrot viðkomandi fyrirtækis vegna orkukaupaskuldbindinga fram í tímann, sem jafnan eru ákvæði um í slíkum samningum.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2015 | 18:52
Þjoðfélag markaðshagkerfis með félagslegu ívafi
Þjóðverjum gengur mjög vel innan evru-svæðisins eftir að vaxtaverkjum Endursameiningar Þýzkalands l990 linnti upp úr aldamótum, og þeim gekk reyndar líka mjög vel allt frá innleiðingu þýzka marksins í árdaga Sambandslýðveldisins. Um leið og þýzka markið kom til sögunnar, var efnahagshöftum aflétt á einni nóttu, og stefna Markaðshyggju með félagslegu ívafi var innleidd af Konrad Adenauer, fyrsta kanzlara Sambandslýðveldisins Þýzkalands, og dr Ludwig Erhard, efnahagsráðherra hans og föður þýzka efnahagsundursins (Wirtschaftswunder).
Margir, þar á meðal bandaríski hernámsstjórinn, efuðust um efnahagslegan stöðugleika Vestur-Þýzkalands í kjölfar þessa, en efnahagsráðherrann í ríkisstjórn Konrads Adenauers réði þessu, og aðgerðin tókst fullkomlega. Svarti markaðurinn og vöruskorturinn hurfu sem dögg fyrir sólu, og gríðarlega öflugt hagvaxtarskeið tók við á hernámssvæðum Vesturveldanna í Þýzkalandi, m.a. fyrir tilstuðlan Marshall-aðstoðar Bandaríkjamanna og aðkomumanna (Gastarbeiter), því að blóðtaka þjóðarinnar í styrjöldinni 1939-1945 hafði verið geigvænleg.
Erhard treysti markaðinum til að finna jafnvægi, og það gekk eftir, sem sýnir, að stjórnvöldin í Bonn, höfuðborg Vestur-Þýzkalands, höfðu skapað nauðsynlegar aðstæður til að markaðskerfið gæti virkað. Flest, sem Erhard tók sér fyrir hendur í efnahagsmálum, gekk upp. Hann ritaði bækur um hagfræðileg hugðarefni sín, m.a. "Hagsæld fyrir alla", þar sem hann lýsir stefnumálum sínum.
Þjóðverjar höfðu slæma reynslu af markaðsráðandi stórfyrirtækjum á árunum fyrir báðar stórstyrjaldir 20. aldarinnar. Stjórnmálastefnan um Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi var mótuð eftir heimsstyrjöldina síðari af Adenauer, Erhard o.fl. til að vera valkostur við óheft auðvaldsskipulag og jafnaðarstefnu/sameignarstefnu. Þessi stefna varð árið 1949 hryggjarstykkið í efnahagsstefnu hægriflokkanna CDU og CSU. CDU starfar í öllum fylkjum Sambandslýðveldisins, nema Bæjaralandi, þar sem systurflokkurinn, CSU, starfar á hægri vængnum, og hefur hann oftast verið með meirihluta á fylkisþingi Bæjaralands og farið með forræði fylkisstjórnarinnar frá stofnun Sambandslýðveldisins 1949. Það er skoðun blekbera þessa vefseturs, að kjarni þessarar stefnu mið-hægri flokka Þýzkalands henti Íslandi ágætlega (= á gott), og þess vegna er ekki úr vegi að reifa hana:
"Markaðshyggja með félagslegu ívafi spannar peningastefnu, skattastefnu, lántökustefnu, viðskiptastefnu, tollastefnu, fjárfestingarstefnu og félagsmálastefnu í landsmálum með það fyrir augum að skapa hagsæld handa öllum. Með því að draga úr fátækt og dreifa auðnum til stórrar millistéttar er búinn til grundvöllur fyrir almenna þátttöku á fjármagnsmarkaðinum.
Frjálst framtak er grunnstoð markaðshagkerfisins, og opinberri stjórnun og ríkisafskiptum skal beita til að tryggja frjálsa samkeppni og til að tryggja jafnvægi á milli hagvaxtar, lágrar verðbólgu, góðra vinnuskilyrða,velferðarkerfis og opinberrar þjónustu."
Samkvæmt Markaðshyggju með félagslegu ívafi ber ríkisvaldinu að stuðla að frjálsri samkeppni á öllum sviðum samfélagsins, þar sem henni verður við komið, og eins raunverulegri samkeppni og kostur er. Þetta er mótvægið við frjálsa framtakið, sem eðli máls samkvæmt leitast við að ná undirtökum á markaðinum, en fákeppni eða einokun er sjaldnast hallkvæm neytendum.
Úr íslenzka umhverfinu má nefna nokkur dæmi, er lúta að þessu:
Verðlagsnefnd búvara er barn síns tíma og ætti að afnema með nýrri lagasetningu um verðlagsmál landbúnaðarins. Nýlega ákvað nefndin hækkun á mjólkurvörum, og fengu bændur þá aðeins fjórðung hækkunarinnar. Ekki virðist þetta vera sanngjarnt, og ættu bændur að taka afsetningu afurða sinna meir í sínar hendur, enda hefur opinberlega komið fram óánægja úr þeirra röðum með téða hækkun.
Íslenzkar mjólkurvörur eru í samkeppni við innflutning á alls konar ígildi mjólkur úr soja, hrísgrjónum, möndlum o.fl., og íslenzkt viðbit keppir við jurtasmjör. Kjöt keppir innbyrðis og við fisk, og grænmetið er í samkeppni við innflutning. Það er þess vegna mikil samkeppni á matvörumarkaðinum um hylli neytenda, þó að innflutningur kjötvara sé takmarkaður, þegar nóg framboð er af svipuðu innlendu kjöti.
Upplýsingum til neytenda er hins vegar ábótavant að hálfu kaupmanna. Merkja þarf uppruna matvæla betur, t.d. í kjötborði, og geta þess, hvort sýklalyf hafi verið gefin sláturdýrunum, og varðandi grænmetið þarf að geta um, hvort skordýraeitur og tilbúinn áburður voru notuð, svo og allt annað, sem máli skiptir fyrir heilnæmi matvörunnar. Neytandinn á rétt á þessum upplýsingum, og slík upplýsingagjöf er sanngjörn gagnvart framleiðendum.
Pottur er hins vegar brotinn, þar sem einn aðili er ríkjandi á markaðinum, eins og t.d. MS. Það er ótækt, að búvörulögin geri MS kleift að starfa með takmörkuðum afskiptum Samkeppniseftirlitsins. Slík lagaákvæði eru óviðeigandi um hvaða starfsemi sem er. Stjórnvöld með Markaðshyggju með félagslegu ívafi mundu tryggja með afnámi undanþágulaga, að engin fyrirtækjastarfsemi eða stofnanastarfsemi, þar sem samkeppni verður við komið, sé undanþegin eftirliti með hegðun á markaði, eins og samkeppnislögin reyndar gera ráð fyrir.
Í Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi skakkar ríkisvaldið leikinn og dregur tennurnar úr risanum á markaðinum. Í þessu tilviki þarf ríkið að sjá til þess, að samkeppnisaðilar MS geti keypt ógerilsneydda og ópakkaða mjólk af MS á sama verði og bændur fá fyrir mjólkina að viðbættum flutningskostnaði. Verðið til bænda er núna 82,92. Flutningskostnaður frá bændum er 3,50 kr/l, svo að aðrir vinnsluaðilar, sem ekki kjósa að kaupa af bændum beint, ættu að fá hana hjá MS á 86,42 kr/l, en þurfa að greiða 5,08 kr/l hærra verð, sem er tæplega 6 % hærra en efni standa til. Því fer víðs fjarri, að samkeppni um úrvinnslu vöru frá bændum eða öðrum framleiðendum geti ógnað framleiðendum á einhvern hátt. Saga MS er þyrnum stráð t.d. varðandi ísframleiðsluna. Samkeppni er bezta vörn neytandans.
Raforkumarkaðurinn er anzi stífur á Íslandi, enda er yfir 90 % raforkuvinnslunnar í höndum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Miðað við löggjöfina, sem um þennan markað gildir, er þetta óeðlilega mikil opinber þátttaka á samkeppnismarkaði. Einkum má telja hlut ríkisins of stóran, en hann er rúmlega 70 % vegna 100 % eignarhalds ríkisins á Landsvirkjun. Landsvirkjun hefur ekki haldið aftur af verðhækkunum á markaðinum. Þvert á móti hefur risinn á markaðinum gengið á undan með slæmu fordæmi. Er nú svo komið, að orkuverð Landsvirkjunar til almenningsveitna ætti að lækka um 2,0 kr/kWh, ef sanngirni væri gætt í garð almennings m.v. vinnslukostnað og meðalverð til stóriðju. Vegna hlutfallslegrar stærðar Landsvirkjunar á markaði er samkeppnisstaðan skökk, og við slíkar aðstæður ber ríkisvaldinu að grípa inn með leiðréttandi aðgerð til varnar neytendum.
Þrátt fyrir mikla opinbera þátttöku á þessum markaði stefnir nú í orku- og aflskort á næstu misserum vegna fyrirhyggjuleysis við öflun orku og byggingar flutningsmannvirkja. Þetta er sjálfskaparvíti, sem koma mun alvarlega við pyngju notenda og hefur þegar valdið tugmilljarða kr þjóðhagslegu tapi í glötuðum tækifærum til atvinnuuppbyggingar. Þá kemur jólasveinn ofan af fjöllum um hásumar og kveður næga fyrirhyggju vera að finna hjá Landsvirkjun og næg orka muni verða, því að orkusamningur á milli Landsvirkjunar og Norðuráls verði líklega ekki endurnýjaður. Hvort á að hlæja eða gráta við uppákomu af þessu tagi ?
Í Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi mundi ríkisstjórnin bregðast við þessu óeðlilega ástandi með fyrirmælum til stjórnar fyrirtækisins. Það er jafnframt æskilegt að draga úr eignarhaldi ríkisins með því að bjóða út um 40 % af eignarhaldi á Landsvirkjun á 4 árum með fororði um forkaupsrétt íslenzku lífeyrissjóðanna, þ.e. að þeir geti gengið inn í hæsta verð. Væri ekki úr vegi að fjármagna nýjan Landsspítala - háskólasjúkrahús með þessu fé og greiða niður skuldir ríkissjóðs með afganginum.
Sæstrengsverkefni til útlanda er ekki í verkahring Landsvirkjunar samkvæmt lögum, sem um hana gilda. Ef ríkisstjórnin vill, að haldið verði áfram rannsóknum og undirbúningi þessa verkefnis, ætti að einskorða þann undirbúning við nýtt sjálfstætt fyrirtæki, en Landsvirkjun komi ekki að því. Mundu þá hljóðna gagnrýnisraddir um sæstreng til Bretlands, ef ríkið kæmi ekki nærri því ævintýri, nema með óbeinu eignarhaldi á hluta Landsnets.
Sömu sögu er að segja um vindmyllulundina. Sjálfstætt fyrirtæki ætti að sjá um alla þætti þeirrar starfsemi, enda verður ekki séð, hvers vegna ríkið ætti að vera þátttakandi í fjárhagslega óhagkvæmri orkuvinnslu. Það eru engin góð rök fyrir vindmyllum á Íslandi, ef þær eru ekki samkeppnishæfar.
Kljúfa ætti jarðgufuvirkjanir Landsvirkjunar frá meginfyrirtækinu, sem þá hefði eivörðungu vatnsaflsvirkjanir á sinni könnu.
Með þessum hætti væri sérhæfing á hverju sviði virkjanastarfseminnar tryggð í hverju fyrirtæki, og þetta væri viðleitni til að stemma stigu við fákeppni á raforkumarkaðinum.
Markaðshyggja með félagslegu ívafi tryggir sjálfstæði Seðlabanka Íslands, sem taki sér peningamálastjórn Bundesbank (eins og hún var á tímum DEM) til fyrirmyndar. Efnahagsráðherra skipi í bankaráðið til 5 ára samkvæmt tilnefningum ASÍ, SA, HÍ, Alþingis og Efnahagsráðherra skipi þann fimmta, sem verði formaður. Bankaráðið ræður þrjá í bankastjórn, sem skulu bera allar stefnumarkandi ákvarðanir undir bankaráðið, s.s. vaxtaákvarðanir. Aðalmarkmið bankans sé að halda verðbólgu sambærilegri við verðbólgu í helztu viðskiptalöndum, þ.e. að verðbólga á 12 mánaða tímabili fari í mesta lagi 1,0 % yfir vegið meðaltal verðbólgu sama tímabils samkvæmt viðskiptakörfu landsins. Bankinn fái völd yfir viðskiptabönkunum til að stjórna peningamagni í umferð og vægi verðtryggingar verði minnkað til að gera vaxtatól bankans beittara.
Þýzki vinnumarkaðurinn er þekktur fyrir samheldni vinnuveitenda og launþega og samstarf um sameiginleg markmið fremur en átök á borð við verkföll og verkbönn, og árangurinn er góður. Þessi úreltu fyrirbrigði eru þó ekki óþekkt þar í landi.
Vegna Endursameiningar Þýzkalands varð verðbólga meiri um aldamótin síðustu en annars staðar á evru-svæðinu. Þá sammæltust aðilar vinnumarkaðarins um stöðvun launahækkana í ein 5 ár. Þetta dró strax úr verðbólgu, og varð hún lægri en annars staðar á evru-svæðinu. Þetta, ásamt miklum fjárfestingum í austurhéruðunum, varð undirstaða firnasterkrar samkeppnisstöðu Þýzkalands, sem landið býr enn að.
Hegðun af þessu tagi þurfum við hérlandsmenn að taka okkur til fyrirmyndar. A.m.k. árlega þurfa fulltrúar ASÍ, SA og Ríkissáttasemjari ásamt fulltrúa ríkisstjórnarinnar að hittast og bera saman bækur sínar um kaupmáttarþróun, verðlagshorfur, þróun raungengis og samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuveganna. Samstaða þarf að nást á vinnumarkaðinum um, að launabreytingar markist af stöðu útflutningsatvinnuveganna. Með því að rýna afkomutölur þessara fyrirtækja undir stjórn Ríkissáttasemjanda þarf að nást sameiginleg sýn á það, hvernig verðmætasköpuninni beri að skipta á milli fjármagnseigenda og launþega. Síðan fylgi aðrar greinar í kjölfarið, en auðvitað koma síðan vinnustaðasamningar til skjalanna. Á stórum vinnustöðum ætti að fylgja fordæmi álveranna um einn kjarasamning per vinnustað fyrir margar stéttir. Það er ekkert óeðlilegt við það, þegar vel gengur, að arðgreiðslur fyrirtækja vaxi, enda vaxi þá jafnframt kaupmáttur launa. Það er hins vegar óeðlilegt, ef þessar stærðir breytast ekki í takti.
Sérkenni þýzks vinnumarkaðar er "Mitbestimmung", þ.e. fulltrúar launþeganna eiga sæti í stjórnum fyrirtækja yfir ákveðinni stærð og hafa atkvæðisrétt þar. Hérlendis er vísir að þessu kerfi með eignarhlutdeild lífeyrissjóða í allmörgum fyrirtækjum og stjórnarþátttöku fulltrúa lífeyrissjóða, og þar með launþega, í krafti eignarhlutarins. Þetta er jákvætt, enda samtvinnast með þessu hagsmunir fjármagnseigenda og launþega. Þetta fyrirkomulag ýtir undir frið á vinnumarkaði, enda er þá góð afkoma fyrirtækisins orðin beintengd fjárhagslegum hagsmunum launþega og snertir ekki einvörðungu atvinnuöryggi þeirra. Þetta er íslenzka útgáfan af "meðákvörðunarrétti" launþega.
Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi getur ekki síður gefizt vel á Íslandi en í Þýzkalandi. Það má reyndar geta sér þess til, að það höfði til margra hérlendis, sem telja sig borgaralega sinnaða, en eru ekki hallir undir sameignarstefnu í einni eða annarri mynd.
Sjálfstæðisflokkurinn var myndaður árið 1929 við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Hann hefur alla tíð stutt einkaframtakið dyggilega og jafnframt stofnað til og stóreflt almannatryggingar. Þó að flokkurinn mundi gerast merkisberi Markaðshyggju með félagslegu ívafi hérlendis, væri engrar stefnubreytingar þörf hjá honum, að því er bezt verður séð. Með slíkum áherzlum mundu hins vegar ýmis vopn verða slegin úr hendi andstæðinga flokksins, og slíkt mundi móta með skýrum hætti valkost við engilsaxneska frjálshyggju og norrænan kratisma. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í yfirgripsmiklu og mikilvægu máli, og það er flokksmanna að ræða þessa stefnu og laga að íslenzkum aðstæðum, ef hugur þeirra stendur til þess.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2015 | 17:58
Gríski harmleikurinn 2010-2015
E.t.v. væri rétt að hefja Gríska harmleikinn árið 2001, því að þá fleygðu Grikkir drökkmunni fyrir róða og tóku upp sameiginlega mynt Evrópusambandsins, ESB,án þess að rísa undir henni, sem reyndist öllu ESB örlagaríkt, enda var illa til stofnað.
Í raun fullnægðu Grikkir ekki Maastricht-skilyrðunum, sem áttu að verða aðgöngumiði að evrunni, en þeim tókst með svikum og prettum að fleygja skjóðunni með sál Grikklands inn fyrir Gullna hliðið, ECB, við Frankafurðu (Frankfurt).
Reyndar brutu Þjóðverjar sjálfir árið 2003 skilyrðið um, að greiðsluhalli ríkissjóðs færi ekki yfir 3,0 % af VLF. Á íslenzkan mælikvarða eru það ISK 60 milljarðar, en Þjóðverjar voru snöggir að rétta drekann af í skotstöðu og hafa síðan sett ákvæði í stjórnarskrá sína, sem bannar hallarekstur ríkissjóðs, og hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, viðrað góða hugmynd um lagasetningu þar að lútandi hérlendis. Þjóðverjar voru reyndar þarna að ljúka uppbyggingarátaki í austurhéruðunum eftir Endursameiningu Þýzkalands.
Frakkar, aftur á móti, eru enn brotlegir við þetta ákvæði og eiga sér ekki viðreisnar von undir jafnaðarmönnum, sem skilja ekki nauðsyn uppstokkunar ofvaxins ríkiskerfis. Annað ákvæði Maastricht var um, að skuldastaða ríkissjóðs mætti ekki fara yfir 60 % af VLF. Eftir bankakreppuna 2008 hefur heldur betur snarazt á ESB-merinni, og lítur staðan núna þannig út:
- Grikkland 173 % (verður líklega um 200 % 2015)
- Ítalía 134 %
- Portúgal 126 %
- Írland 108 %
- Belgía 107 %
- Kýpur 106 %
- Spánn 99 %
- Frakkland 97 %
- Bretland 91 %
- Austurríki 89 %
- Slóvenía 80 %
- Þýzkaland 70 %
- Holland 68 %
- Malta 68 %
- Finnland 62 %
- Slóvakía 54 %
- Litháen 38 %
- Lettland 38 %
- Lúxemborg 26 %
- Eistland 10 %
Til samanburðar munu skuldir íslenzka ríkissjóðsins nú vera svipaðar og hins brezka að tiltölu, en gætu farið niður undir Maastricht-viðmiðið árið 2016, ef áform ríkisstjórnarinnar ganga að óskum.
Skuldastaða Grikklands virðist óviðráðanleg, en Þjóðverjar og bandamenn þeirra í evruhópinum (Austurríki, Holland, Finnland og Eystrasaltsríkin) taka afskriftir þeirra ekki í mál, enda mundu kjósendur í þessum löndum bregðast æfir við og refsa valdhöfunum í næstu kosningum með því að kjósa pírata eða einhverja álíka. Á þýzka þinginu er lagt hart að Merkel, kanzlara, að standa fast á þessu, og Sigmar Gabriel, varakanzlari, efnahagsráðherra og formaður SPD, þýzkra jafnaðarmanna, tekur í sama streng. Bæjarinn, Wolfgang Schaeuble, stendur að sjálfsögðu í ístaðinu sem fjármálaráðherra Þýzkalands og neitar að afskrifa skuldir. Þá mundi skrattinn losna úr grindum á Pýreneaskaganum, á Írlandi og víðar. Reyndar er kratinn Gabriel eitthvað að hlaupa útundan sér núna, enda hafa kratar aldrei verið þekktir fyrir staðfestu.
Þjóðverjar hafa aftur á móti beitt sér fyrir lengingu lána Grikkja til 2054 og lækkun vaxta með þeim afleiðingum, að greiðslubyrði gríska ríkisins var 4,0 % af VLF árið 2013, en það var minna en greiðslubyrði íslenzka ríkissjóðsins, og í Portúgal var hún 5,0 %, á Ítalíu 4,8 % og á Írlandi 4,4 %. Þjóðverjar þora þess vegna ekki að afskrifa hjá Grikkjum af ótta við, að allt fari úr böndunum vegna sams konar krafna annarra.
Greiðslugeta gríska ríkissjóðsins er hins vegar engin, því að hann var enn árið 2014 rekinn með 3,5 % halla, en hallinn hefur oftast verið meiri en 10 % undanfarin ár. Verg landsframleiðsla Grikkja árið 2014 var EUR 179,1 mia eða aðeins EUR 16'300 á mann (MISK 2,4), en skuldir þeirra námu hins vegar MISK 4,3 á mann. Á Íslandi var VLF á mann tæplega þreföld sú gríska. Aðeins kraftaverk getur bjargað Grikklandi frá þjóðargjaldþroti. Kannski það verði erkiengillinn Gabriel, sem sjái aumur á þeim.
Það er ekki kyn þó að keraldið leki, því að VLF Grikkja hefur dregizt saman um 25 % síðan 2010, og atvinnuleysið er nú 26 % og yfir 50 % á meðal fólks 18-30 ára. Verðmætasköpunin er allt of lítil til að geta staðið undir bruðli fyrri ára.
Hvernig í ósköpunum má það vera, að svo illa sé nú komið fyrir grísku þjóðinni, að hún hafi í raun og veru glatað sjálfstæði sínu síðan hún gekk í ESB 1981 ? Á þessu tímabili hafa vinstri menn, PASOK, lengst af verið við völd, og þeir hafa þanið út ríkisgeirann, þjóðnýtt fyrirtæki og stækkað velferðarkerfið langt umfam það, sem hagkerfið þolir. Sökudólgarnir eru þess vegna grískir stjórnmálamenn, sem um árabil sóuðu almannafé og gerðust jafnvel svo djarfir, að falsa bókhald ríkisins til að lauma Grikklandi inn á evrusvæðið. Brotin voru svo stórfelld, að grísk fangelsi væru væntanlega þéttsetin stjórnmálamönnum, ef sömu reglur mundu gilda um þá og athafnamenn. Svo er hins vegar ekki. Það kann að breytast, ef þjóðfélagsleg ringulreið verður í Grikklandi, og herinn tekur völdin. Fyrir því er um hálfrar aldar gamalt fordæmi.
Jafnaðarmenn hafa farið offari við stjórn Grikklands í innleiðingu fáránlegra réttinda til greiðslu úr ríkissjóði, sem enn viðgangast, svo að það er í raun mikið svigrúm til sparnaðar í grískum ríkisrekstri. Þarna er ábyrgðarleysi jafnaðarmanna í umgengni við fé skattborgaranna um að kenna. Alls staðar standa þeir fyrir ráðstöfun skattfjár í hvert gæluverkefnið á fætur öðru. Hér verða nefnd nokkur dæmi um bruðlið með fé skattborgaranna:
- Um 76 % Grikkja fara á eftirlaun fyrir lögboðinn eftirlaunaaldur, sem er þó við 61 árs aldur.
- Um 8 % eftirlaunaþega fóru á eftirlaun 26-50 ára.
- Um 24 % eftirlaunaþega hófu töku ellilífeyris 51-55 ára.
- Um 44 % á 56-60 árs
- Afgangurinn, 24 %, hefur töku ellilífeyris við 61 árs aldur.
Er ekki skiljanlegt, að Þjóðverjar, sem hefja töku ellilífeyris við 67 ára aldur, séu ekki upp rifnir yfir því, að skattfé þeirra sé notað til að viðhalda slíku endemis sukki ?
Fjárhagslegar skuldbindingar evruríkjanna gagnvart Grikklandi voru EUR 245,2 mia og skiptust með eftirfarandi hætti í milljörðum evra á undan EUR 86 mia björgunaraðgerðum, sem kann að verða farið í á grundvelli sparnaðartillagna Grikkja, sem fallizt var á 13. júlí 2015:
- Þýzkaland 60 ~ 28 %
- Frakkland 53 ~ 22 %
- Ítalía 46 ~ 19 %
- Spánn 31 ~ 13 %
- Holland 15 ~ 6 %
- Belgía 9 ~ 4 %
- Austurríki 7 ~ 3 %
- Finnland 5 ~ 2 %
- Portúgal 3 ~ 1 %
- Slóvakía 2 ~ 1 %
- Aðrir 4 ~ 1 %
Ef Ísland hefði verið á evru-svæðinu 2008, veit enginn, hvernig landinu hefði reitt af efnahagslega í bankakreppunni. ESB-aðildarsinnar halda því enn fram af trúarlegri sannfæringu, að hér hefði ekkert hrun orðið þá. Grikkir hafa afsannað slíka fullyrðingu, því að bankarnir tæmdust þar og voru lokaðir í 3 vikur. Hvað er það annað en bankahrun og jafnvel sýnu verra en hér, því að hér hélt Seðlabankinn þó uppi óslitinni greiðslukortaþjónustu allan tímann þar til nýir bankar tóku við ?
Vegna þess að hagkerfi Íslands er ólíkt öllum hagkerfum evru-svæðisins að gerð og samsetningu, er mjög hætt við, að evran hefði reynzt íslenzka hagkerfinu spennitreyja. Líklegt má telja, að landsmenn hefðu fallið í sömu gryfju og Grikkir eftir gjaldmiðilsskiptin að fara á "lánafyllerí" vegna mun lægri vaxta en landsmenn eiga að venjast. Það gæti hafa snarazt algerlega á merinni hjá okkur, eins og Grikkjum, peningaflóð hefði valdið miklu meiri verðbólgu hér en að jafnaði varð reyndin á evru-svæðinu á sama tíma ásamt eignabólu, sem hefði sprungið 2008 með ógnarlegum samdrætti hagkerfisins og fjöldaatvinnuleysi og þar af leiðandi meiri landflótta en raun varð á. Það hefði vissulega getað orðið lausafjárþurrð banka hér við þessar aðstæður, eins og reyndin varð í Grikklandi.
Allt eru þetta getgátur, en það hefur hins vegar verið áætlað, að framlag Íslands til stöðugleikasjóðs evrunnar hefði á árabilinu 2012-2015 þurft að nema MEUR 270 eða ISK 40 mia, sem samsvarar 10 milljörðum kr á ári að jafnaði, og er þá ótalin viðbót upp á MEUR 17 = ISK 2,5 mia í ár. Aðildargjald landsins að ESB er ekki vel þekkt, en gæti hugsanlega numið ISK 15 miö á ári, en eitthvað af því kæmi þó til baka. Alveg óvíst er um endurheimtur fjár í stöðugleikasjóðinn og horfir mjög óbyrlega með hann um þessar mundir. Í raun er þetta fórnarkostnaður lánadrottnanna innan evru-svæðisins til að halda evrunni á floti. Þjóðverjar óttast, að á peningamarkaði heimsins mundi evran glata trausti, ef Grikkir falla úr skaptinu. Gengi evru gæti þá hrunið niður fyrir 1 EUR/1 USD = 0,8, sem gæti valdið verðbólgu í Þýzkalandi, og Þjóðverjar mega ekki til slíks hugsa. Bæði þeir og Íslendingar hafa kynnzt óðaverðbólgu; Þjóðverjar þó sýnu verri vegna "Versalasamninganna".
Skattheimta af Íslendingum upp á ISK 25 mia á ári vegna verunnar í ESB og á evru-svæðinu ofan á aðra skattheimtu hérlendis mundi ekki mælast vel fyrir, enda er hér um að ræða stórar upphæðir eða um 1,3 % af VLF.
Peningakerfi Grikklands hrundi í raun og veru skömmu eftir, að evrubankinn í Frankfurt, ECB, skrúfaði fyrir peningastreymi til gríska seðlabankans, því að bankarnir urðu þá allir að loka. Þetta sýnir, að gríska hagkerfið er ósjálfbært, enda er vöruútflutningur lítill eða 13 % af VLF (innan við helmingur af íslenzka vöruútflutninginum að tiltölu), en aðaltekjurnar eru af ferðaþjónustu, og nokkuð af þeim markaði er svartur, eins og ferðamenn á Grikklandi hafa orðið varir við, sumir hverjir. Hins vegar er endurfjármögnun grískra banka að hálfu ESB stórmál, því að slíkt kann að leiða til mjög kostnaðarsams fordæmis, t.d. ef Spánverjar færu fram á hliðstæðu. Gríski harmleikurinn er flókinn og erfiður viðureignar, enda allt ESB-kerfið undir. Spennan eykst, og stytzt getur í stórtíðindi.
Þann 9. júlí 2015 reit Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra, gagnmerka grein í Morgunblaðið undir heitinu:
"Reynsla Grikkja af Evrópusambandinu er mikil lexía, líka fyrir Íslendinga".
Þar vitnar hann í Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, Paul Krugman:
"Það hefur verið augljóst um skeið, að upptaka evru voru hræðileg mistök. Evrópa hafði aldrei forsendur til að taka með árangri upp sameiginlega mynt. ... Að beygja sig fyrir afarkostum þrístirnisins, ESB, AGS og SBE, væri að gefa upp á bátinn allar hugmyndir um sjálfstætt Grikkland."
Hjörleifur heldur síðan áfram:
"Til hliðsjónar við þann kost, að Grikkir taki upp eigin mynt, bendir hann [Krugman - Innsk. BJo] á árangursríka gengisfellingu íslenzku krónunnar 2008-2009, og að Argentína hætti að binda pesóinn við dollara 2001-2002."