Ófullnægjandi flutningskerfi

Til að athafnalíf nái að þróast með hagkvæmum hætti og hafi tök á að efla framleiðni í slíkum mæli, að dugi til að standast alþjóðlega samkeppni, þá verða innviðir þjóðfélagsins að vera nánast, eins og bezt verður á kosið. Innviðir á Íslandi eiga enn langt í land með að geta talizt viðunandi, enda tiltölulega stutt síðan þróun þeirra hófst fyrir alvöru.

Hér verða samgöngur og flutningskerfi raforku gerð að umræðuefni, en sé öðru þessara kerfa umtalsvert ábótavant, þá mun slíkt hamla hagvexti, valda miklu þjóðhagslegu tapi og draga úr framleiðni atvinnuveganna. Með öðrum orðum munu vanþróaðar samgöngur fyrir fólk, vörur og orku, draga stórlega kraftinn úr samkeppnihæfni landsins á alþjóðlegum mörkuðum og um fólkið sjálft, sem aðeins samþykkir beztu fáanlegu lífskjör fyrir sig og sína til lengdar.  

Vinstri stjórnin skar fjárveitingar úr ríkissjóði til Vegagerðarinnar niður um u.þ.b. miaISK 15 á ári og vísaði þar með á bug röksemdum um arðsemi góðra samgangna, enda er fjandskapur vinstri manna í garð einkabílsins alræmdur.  Gangagerð fyrir austan og norðan er nú í gangi, og langþráðar vegaumbætur á sunnanverðum Vestfjörðum eru handan við hornið, enda reiðir ný atvinnustarfsemi í öllum þessum sveitum sig á bættar samgöngur. 

Að nauðsynlegum umbótum á Austurlandi, Vestfjörðum og brúartengingu við Reykjavík til norðurs loknum, ásamt lúkningu Kjalvegar, verður komið að næsta áfanga, sem er upphækkaður og klæddur vegur yfir Sprengisand, svo að vegfarendur á þessari leið losni við grjótbarning og drullusvað eða lungnateppandi rykmökk, háð veðurfari, í boði fortíðarþráar, sem boðar, að það séu nátttúruspjöll að færa þessa, að fornu og nýju, mikilvægu samgönguleið á milli Norður- og Suðurlands inn í 21. öldina, með svipuðum hætti og gert var með Þjóðveg 1 yfir Mývatnsöræfi, Möðrudalsöræfi og Fljótsdalsheiði í lok 20. aldar, góðu heilli. Á hluta þeirrar leiðar blasir Byggðalína við, og hefur ekki verið fettur fingur út í það, svo að vitað sé.

Téð framkvæmd á Sprengisandi gæti reyndar hæglega hafizt fyrr en áður er getið, í einkaframkvæmd, fjármögnuð með lántöku einkaaðila, sem borguð væri upp af veggjaldi á 20 árum eða svo.  Slíkur vegur er ekki aðeins líklegur til að fjölga til muna þeim, sem tækifæri hafa til að njóta þess, sem fyrir augu ber á hálendinu, heldur er hann líka líklegur til umhverfisverndar, þ.e. að draga úr utanvegaakstri, sem er nú hinn versti skaðvaldur. Varpað hefur verið fram þeirri ágætu hugmynd að reisa hálendismiðstöð á Sprengisandi, þaðan sem ferðalöngum, sem fara vilja út fyrir klædda veginn, yrði ekið um á sérútbúnum bílum af fólki með tilskilin leyfi og kunnáttu til að fræða gestina um það, sem fyrir augun ber, á viðeigandi tungumáli.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, ritar þann 26. október 2015 í Morgunblaðið greinina:

"Að stytta þjóðleiðir um 200-300 km"

Þar gerir hann nýja bók Trausta Valssonar, "Mótun framtíðar, hugmyndir - skipulag - hönnun", að umtalsefni.  Trausti er hámenntaður skipulagsfræðingur frá Vestur-Berlín og víðar, og langt á undan sinni samtíð, hvað hugmyndafræði skipulags á Íslandi áhrærir.  Guðni skrifar téða grein undir áhrifum frá lestri þessarar bókar, en er sjálfur með báða fætur á jörðunni, eins og jafnan.  Hér verður gripið niður á tveimur stöðum í þessari Morgunblaðsgrein.  Fyrri tilvitnunin er sótt til Trausta:

"Einn mikilvægasti ávinningur, sem kæmi með hálendisvegum, væru fjölmargar, nýjar, stuttar hringleiðir um landið, en hringvegurinn með ströndinni er of langur eða tæpir 1400 km."

"Víkingarnir voru klókir verkfræðingar, eins og Trausti, og fundu bestu leiðirnar.  Enn eru þessar fornu leiðir sem vegvísar um byggðastefnu, valdar af gaumgæfni út frá því, að á sem skemmstum tíma kæmust landsmenn á höfuðstaðinn, Þingvelli.  Nú þurfa allar leiðir að vera sem stystar til og frá Reykjavík, og þar gætu góðir hálendisvegir breytt miklu. Miðað við bílinn í stað hestsins sem farartæki eru þessir vegir varla akfærir, eins og Kjölur og Sprengisandur.  Umræðan, sem hefur mætt Trausta og öðrum, sem vilja virkja þessa vegi og færa þá til sömu nytja í dag og forðum, eru fordómar um náttúruspillingu og eyðileggingu hálendisins.  Ferðaþjónustan, sem skilar milljörðum í þjóðarbúið, þarf á þessum leiðum að halda, svo ekki sé talað um okkur sjálf, sem í landinu búum.  Þarna liggja mikilvægar ófærar samgönguæðar, margir hafa sett sér að vera á móti slitlagi á þessa vegi, það séu náttúruspjöll, meiri en hinar vondu og ófæru grjótgötur, sem bæði lemja farþega og brjóta bílana.

Jöklar og fjöll séu fallegri í rykúða og hristingi en akstri eftir góðum vegum.  Er ég þá ekki að tala um nýlagningu vega, heldur hina þúsund ára slóða um Kjöl og Sprengisand, leiðirnar til Þingvalla."

Undir þessa raunsýnu, hispurslausu og öfgalausu afstöðu Guðna Ágústssonar til vegalagningar á hálendi Íslands er heils hugar hægt að taka.  Svipuðu máli gegnir um flutningslínu raforku um Sprengisand.  Hún mundi meiða sárafáa utan þeirra, sem finna "álfaorkuna", þegar þeim hentar það, og virðast halda, að samborgarar þeirra geti lifað á þeirri orku einni saman, einnig popparar, sem lifa við allsnægtir í gerilsneyddu og allsendis ónáttúrulegu stórborgarsamfélaginu, og hafa þess vegna mjög uppskrúfaða og veruleikafirrta tilfinningu fyrir því, hvað villt og ósnortin náttúra er. Þvoglumælt og fimbulfambandi "skáld" eru ekki síðri loddarar í þessu samhengi.

400 kV flutningslína á milli Norðurlands og Suðurlands er hagfræðileg nauðsyn frá sjónarmiði athafnalífs og verðmætasköpunar og orkufræðileg nauðsyn til að bezta nýtingu virkjana, draga úr raforkutöpum, auka raforkugæði, þ.e. afhendingaröryggi og spennugæði, og til að draga úr álagi á 132 kV Byggðalínuna, og gera þannig kleift að færa hana að miklu leyti í jörðu.  Það á hiklaust að stytta heildarloftlínulengd í landinu um a.m.k. 30 % árið 2030 m.v. árið 2000, en það er óhjákvæmilegt að reisa og reka téða Sprengisandslínu fyrir frambærilegt raforkukerfi í landinu í bráð og lengd.    

 

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Áhugaverð grein. Hálendisvegur og lína er það sem koma skal.

Jósef Smári Ásmundsson, 19.11.2015 kl. 18:50

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Að standa gegn því er dæmigerð afturhaldssemi.

Bjarni Jónsson, 19.11.2015 kl. 21:22

3 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Hugsum til framtíðar LEGGJUM SPRENGISANDSLÍNU Í JÖRÐU MEÐ VEGINUM NÝJA. 

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 20.11.2015 kl. 08:33

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hallgrímur Hrafn;

Ég er sammála þér um, að við framkvæmdir af þessu tagi ber hönnuðum og framkvæmdaaðilum að hugleiða líklega þróun á þeim sviðum, sem þeim dettur í hug, að snert geti mannvirkið.  Með öðrum orðum á að miða mannvirkið við, að það standist tímans tönn og geti þjónað, eins lengi og tæknileg ending leyfir.  Það er forsenda hagkvæmrar fjárfestingar.  Í þessum efnum er þó aldrei hægt að ganga lengra en "núverandi" tæknistig leyfir.  Það er t.d. ekki unnt að leggja jarðstreng, sem reka á á 220 kV spennu eða hærri, án spólumannvirkja á yfirborði jarðar til að upphefja mikið rýmdarviðnám strengsins.  Slík mannvirki verða að vera með að hámarki 25 km millibili, og lengri jarðstrengur en 50 km við þessa spennu yrði órekanlegur í hinu veika (litla) rafkerfi Íslands.  Við spennusetningu slíks mannvirkis yrði spennufall í stofnkerfi landsins óviðunandi.

Með góðri kveðju /  

Bjarni Jónsson, 20.11.2015 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband