Færsluflokkur: Fjármál

Dómur markar þáttaskil

Þann 28. janúar 2013 kvað EFTA-dómstóllinn í Lúxemborg upp tímamótadóm.  Dómurinn virðist vera lögspekilegt meistaraverk og ber með sér, að dómararnir hafa brotið málið til mergjar.  Ekki er víst, að málflutningur varnaraðila hafi skipt sköpum, því að rökstuðningur í dómsorði er frumlegur, og málstaður Íslands var góður.  Það er þess vegna tímaskekkja hjá Steingrími Jóhanni nú eftir dómsuppkvaðningu að halda því fram, að óvissa hafi verið mikil um það, hvort hagstæðara væri að semja eða leggja málið í dóm.  Það er einfaldlega komið í ljós nú, að stuðningsmenn samninga höfðu rangt fyrir sér, en stuðningsmenn dómstólaleiðar höfðu rétt fyrir sér.  Steingrímur talar enn, eins og enginn dómur hafi verið upp kveðinn.   

Dómararnir virðast mjög sjálfstæðir í hugsun og ekki vera undir áhrifum frá hagsmunaaðilum.  Samt voru gríðarlegir hagsmunir í húfi, sérstaklega fyrir minni aðilann, en þetta var í raun viðureign Davíðs og Golíats, endurtekin, þar sem Ísland átti ekki einvörðungu í höggi við ESA, eftirlitsstofnun EFTA, heldur allt Evrópusambandið, ESB, sem gerðist meðflutningsaðili málsins.  Þetta var allan tímann barátta upp á líf og dauða við ESB.  Þess vegna eru svik hér innanlands grafalvarlegt mál, föðurlandssvik. 

Hvers vegna lagði ESB svona ríka áherzlu á þetta mál ?  Það var vegna þess, að búrókratarnir í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel, óttuðust áhlaup á bankana og hrun bankakerfis Evrópu, ef ríkissjóðir í öllum löndum EES stilltu sér ekki upp sem bakhjörlum og ábyrgðust skuldir bankanna.  ESB þvingaði Íra til að gera þetta, enda eru Írar ekki fjarri greiðsluþroti ríkissjóðs.  Nú hefur ESB stofnað til bankasambands, þannig að eitt ríki stendur ekki lengur eitt uppi með hrunið bankakerfi.

ESB beitti öllum ráðum, fortölum, fjárhagsþvingunum með áhrifum sínum innan AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og áhrifamætti á meðal Norðurlandanna og víðar, nema Færeyja, og hótunum gagnvart íslenzkum stjórnvöldum um að girða fyrir aðild Íslands að ESB.  Vinstri stjórnin brást Íslendingum, af því að hún lagði ofurkapp á að styggja ekki valdsmenn í Brüssel vegna aðildarumsóknarinnar.

Það var til að þóknast ESB, sem vinstri stjórnin ákvað að semja við Breta og Hollendinga, hvað sem það kostaði.  Til marks um það var, að ráðherrar virðast hafa áritað Svavarssamninginn ólesinn og keyra átti hann gegnum þingið umræðulítið.  Það stóðu engin eðlileg rök til að samþykkja þá afarkosti, sem þá var samið um við Breta og Hollendinga.  Það voru stórhættulegir samningar með vaxtabyrði upp á um 200 milljarða kr og afborganir, sem gátu verið á bilinu 600 - 1000 milljarðar kr, ef heimtur í þrotabúið yrðu slæmar.  Ekkert mark var tekið á rökföstum grasrótarhreyfingum og vel ígrunduðum lögfræðigreinargerðum um, að rétturinn væri okkar megin, og þess vegna ætti ekki að ganga að afarsamningum.  Jafnvel eftir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna var enn haldið út á foraðið og reynt að semja.  Allt var þetta til að blíðka framkvæmdastjórn ESB. 

Fyrrverandi forsætisráðherra var leiddur fyrir Landsdóm, jafnvel þó að málatilbúnaðurinn væri til þess fallinn að skaða málstað Íslands gagnvart viðsemjendum og dómstólum.  Málafylgja á erlendri grundu var nánast engin til að halda uppi íslenzkum málstað, en forseti lýðveldisins bjargaði því, sem bjargað varð.

Það varð einfaldlega allt undan að láta vegna þess, að á bak við var ESB froðufellandi af ótta við bankahrun, ef smáríkið Ísland mundi brjótast undan oki þess um ríkisábyrgðir á innistæðum einkabanka.  Þetta framferði ríkisstjórnarinnar og einkum forsætisráðherrans, fjármálaráðherrans og utanríkisráðherrans, er slíkur undirlægjuháttur og þjónkun við erlent vald, ofurvald, að hvorki er hægt að láta átölulaust né refsingarlaust.  Það er lágmark, að stjórnarandstaðan leggi fram vantraust á Steingrím Jóhann Sigfússon og helzt á ríkisstjórnina alla.  

Í ljósi þess, að ríkisstjórnin hafði framan af uppi mjög slælegar varnir fyrir Íslands hönd, hvað þá að henni hugkvæmdist gagnsókn, er óhjákvæmilegt að rannsaka gjörðir og vanrækslu stjórnvalda.  Á grundvelli slíkrar rannsóknar kann að verða tilefni til málsóknar fyrir landráð.  

 

 

 

 


Að saga í sundur greinina

Steingrímur Jóhann Sigfússon virðist alls ekki vera með öllum mjalla.  Allt, sem fá honum kemur um stjórnmál, eru fullkomin öfugmæli.  Hjá honum er hvítt svart og öfugt.  Hann virðist algerlega skorta sjálfsgagnrýni og ekki hafa snefil af tilfinningu eða þekkingu á því, hvað megi helzt verða til að efla landsins hag og að bæta hag heimilanna.  Hann virðist verðskulda titilinn "mesti niðurrifsmaður Íslands 2009-2013".

Því miður er þessi maður á launaskrá ríkisins með starfsstöð í Stjórnarráði Íslands.  Um það má segja, að Íslands óhamingju verði allt að vopni.  Þegar mest reið á, að töggur væri í ráðherrum og tekið væri duglega til hendinni, þá settust lufsur einar og lyddur í ráðherrastólana 1. febrúar 2009 og í kjölfar kosninga í apríl 2009.  Nú um stundir er erfitt að gera greinarmun á ládeyðum í forinni, en þó verður formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hér gefin einkunnin "skaðlegasti ráðherrann 2009-2013".

Steingrímur hefur af alkunnu lítillæti sínu spurt, hver það sé, sem umfram aðra menn hafi tekið að sér erfitt hlutverk árið 2009.  Þar á í hlut hans stóra egó, og afrekið kveður hann hafa verið að forða ríkisgjaldþroti.  Þetta eru hrikaleg öfugmæli.  Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde hafði þegar fært þjóðina af gjaldþrotsbarmi með neyðarlögum og samningum við AGS, en í ráðherratíð SJS hefur hún færzt nær þessari bjargbrún aftur.  Nægir að nefna Icesave, afhendingu bankanna til vogunarsjóða, sem á eftir að útskýra, drápsklyfjar á almenning og fyrirtæki, sem keyrt hafa hagkerfið í þrot og hindrað hagvöxt, og 400 milljarða skuldaaukningu ríkissjóðs á valdaskeiði Steingríms.

Þessum endemis ráðherra eru svo mislagðar hendur, að allt, sem hann kemur nálægt, verður klúður eitt.  Hann virðist ekki hafa aðra framtíðarsýn er Sovét-Ísland.  Ef bent er á, að ástandið sé miklu verra en þörf er á, er eina svarið "hér varð hrun".  Þetta sýnir, að téður ráðherra horfir aðeins í baksýnisspegilinn.

Illu heilli er þessi Þistilfirðingur nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Íslands.  Sem slíkur hefur hann á hendi útfærslu ríkisstjórnarflokkanna á sjávarútvegsstefnunni.  Skemmst er frá því að segja, að útfærslunni er bezt lýst með því, að ráðherrann sagar í sundur greinina, sem þjóðin situr á.  Ef lögin um skattlagningu sjávarútvegsins, sem ráðherrann fékk samþykkt á Alþingi vorið 2012, verða ekki afnumin þegar í ár, þá mun þessi grein, sem einnig er nefnd með réttu undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, brotna.  Hún hefur þegar veikzt og mun brotna við 15 milljarða kr blóðtöku.  Til að efla styrk og mótlætaþol þessarar greinar, sem þannig virkar til gengisstyrkingar, ber að hlífa henni algerlega við blóðtöku af þessu tagi.  

Ráðherrann hefur gerzt sekur um fádæma þekkingarleysi með því að blanda saman framlegð og hagnaði.  Framlegð sjávarútvegsins árið 2011 var um 80 milljarðar kr, en þá er eftir að greiða allan fastan kostnað, sem á sama tíma nam um 24 milljörðum kr, vexti og afskriftir, og að leggja fé í endurnýjun og framleiðniaukningu, þ.e. fjárfestingar. 

Það er engu líkara en óvitar hafi hannað þetta endemis veiðigjald, óvitar eða skemmdarvargar.  Hvorir tveggja virka sem niðurrifsafl fyrir atvinnugreinina og þar með afkomu almennings í þessu landi.  Það, sem er vont fyrir sjávarútveginn á Íslandi, það er vont fyrir afkomu almennings í landinu.  Þess vegna er sjávarútvegur kallaður undirstöðuatvinnuvegur landsins. Þessi niðurrifsöfl verðum við, ekki einvörðungu Sjálfstæðismenn, heldur meirihluti þjóðarinnar,  að taka föstum tökum, gera þau óvirk með ráðum, sem duga, og hefja síðan skefjalausa uppbyggingu allra atvinnugreina í landinu með það að markmiði að tvöfalda raunvirði landsframleiðslu á 15 árum til að geta vandræðalaust staðið í skilum, eflt innviðina og hag almennings.

  1. Veiðigjald er skattur, sem lagður er á hvert kg fiskjar, sem íslenzk skip draga úr sjó innan eða utan íslenzkrar landhelgi.  Það gefur auga leið, að veiðigjaldið dregur stórlega úr samkeppnihæfni íslenzkra útgerða við erlendar, t.d. við norskar, útgerðir.  Nú á sér stað mikil endurnýjun norsks fiskiskipastóls, en íslenzkar útgerðir treysta sér aðeins til að kaupa notuð skip, m.a. frá Noregi.  Við svo búið má ekki standa.  Það verður að afnema þetta óréttláta og eyðileggjandi veiðigjald hið snarasta til að íslenzkar útgerðir geti áfram verið í fararbroddi.  Stjórnvöld eru að saga í sundur greinina, sem þjóðfélagið treystir á.
  2. Veiðigjaldið er afturvirkt um 1-2 ár, ekkert tillit er tekið til veiðikostnaðar eða til þess, hvort tegund er landað ferskri til framhaldsvinnslu eða sem frosinni afurð til útflutnings.  Nefna má, að veiðigjald grálúðu er 982 milljónir kr, en útflutningsverðmætið er um 8 milljarðar.  Veiðigjaldið er þarna 12 %, en af loðnu nam það 977 milljónum af 18,3 milljarða útflutningsverðmæti eða 5 % skattur.  Þessi arfavitlausa og viðvaningslega skattlagning, sem greinilega er hönnuð af algerlega óhæfu fólki á sviði útgerðar og skattlagningar almennt, hefur þegar leitt til þess, að veiðar á ákveðnum tegundum eru að leggjast af, af því að þær bera sig ekki, þó að þær hafi skilað arði á undan þessu ráni að ríkisins hálfu.  Dæmi er gulllaxinn.  Ríkið tekur til sín 55,2 kr/kg, þar af 18,6 kr/kg í veiðigjald.  Tap útgerðar nemur nú 18 kr/kg.  Þetta er skemmdarverk Steingríms Jóhanns Sigfússonar og sýnir í hnotskurn, hversu alvarleg áhrif á atvinnustarfsemi inngrip ríkisvaldsins geta haft.  Þegar ríkisvaldið kemst í hendur óhæfs fólks, er voðinn vís. Þess vegna má alls ekki setja fólk á borð við Steingrím og Jóhönnu til valda, því að þau sýna atvinnuvegunum fullkomna óvirðingu og tillitsleysi, sem dregur úr atvinnu og lækkar tekjur þjóðfélagsins.  Það er engan veginn sami botninn undir öllum stjórnmálamönnum, eins og þó er stundum haldið fram með grófara orðalagi.  Af þessari blindgötu verður að snúa hið fyrsta og leyfa starfsfólki í sjávarútvegi að njóta sín.
  3. Sókn á erlend mið mun minnka.  Íslendingar munu ekki lengur eiga stór og öflug frystiskip, sem sótt geta á fjarlæg mið.  Til að veiða t.d. eina milljón tonna af fiski og vinna aflann í verðmætar afurðir þarf fjárfestingu, skip, vélbúnað, rafbúnað og fiskvinnsluhús.  Framlegð fyrirtækjanna er notuð til að fjárfesta í skipum, vélbúnaði, rafbúnaði o.s.frv.  Þetta afdæmingarlega veiðigjald er aðeins lagt á útgerð á Íslandi, en helmingur framlegðar í íslenzkum sjávarútvegi myndast engu að síður í fiskvinnslunni.  Þess vegna eru þessi veiðigjöld snardrepandi fyrir fyrirtæki, sem eru aðeins í útgerð.  Þorskígildisstuðullinn er fullkomlega ónothæfur sem grunnur að gjaldstofni fyrir veiðigjald.  Það er með algerum ólíkindum, hversu ófaglega og þess vegna stórskaðlega er staðið að álagningu þessa veiðigjalds.  Veiðigjaldið er skemmdarverk á sjávarútveginum og á þjóðfélaginu í heild.  Steingrímur og skósveinar hans hafa með þessum bastarði algerlega bitið hausinn af skömminni.  Forystumenn sjómanna munu senn vakna upp við vondan draum um, að hér er freklega vegið að afkomu skjólstæðinga þeirra og atvinnuöryggi, svo og ættu aðrir verkalýðsforingjar að sjá skriftina á veggnum.  Verk fræðasnata í háskólasamfélaginu, sem mælt hafa með veiðigjaldi, eru ekki pappírsins virði.  Faglegur heiður þeirra hefur beðið hnekki, og þeir verða aldrei teknir alvarlega meir.  Sumir fjölmiðlar hafa fullkomlega brugðizt og sannað getuleysi sitt.  Forystumenn atvinnulífs og stjórnmála verða að bíta í skjaldarrendurnar og leiðrétta rækilega þessi hrappallegu mistök vinstri flokkanna á Alþingi.  Til þess þarf viðsnúning í kosningum.  Landsbyggðin þarf að svara hraustlega fyrir sig, því að Steingrímur er með veiðigjaldinu að soga stórfé úr byggðum landsins suður til Reykjavíkur.  Af hverju ætti landsbyggðin að kjósa ESB-snata Samfylkingar á þing eða hið hjárænulega og svikula skattpíningarlið VG ? 

Til gamans er birt hér að neðan mynd af kræfum landkrabba, kunningja höfundar, svissneskum rafmagnsverkfræðingi, ofan í finnskri vök.  Ekki er vert að draga of víðtækar ályktanir af þessari myndbirtingu, en margt má af Svisslendingum læra.       

 Max Wiestner í Finnlandi í janúar 2013  

 

    


Hrossakaup hrosshausa

Ríkisstjórn og þingmeirihluta Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs eru svo hrottalega mislagðar hendur við smíði frumvarpa til laga, að álykta verður, að óhæfni tröllríði þar húsum.  Fólk er þar á bæ einfaldlega ekki í stakk búið til að stjórna lagasmíð eða vinna að henni sjálft.  Það er að fást við mál, sem það ræður ekki við.  Það má draga enn víðtækari ályktun: Samfylking og Vinstri hreyfingin grænt framboð eru stjórnmálaflokkar, sem hafa á að skipa svo litlu mannvali, að þeir eru óhæfir til landsstjórnar; þeir eru óstjórntækir.

Með þessu er þó ekki öll sagan sögð.  Þetta fólk hagar sér eins og skemmdarverkamenn í stríði við hagsmuni fólksins í landinu.  Þetta stríð er háð undir gunnfána stéttabaráttu, þjóðnýtingar og niðurbrots miðstéttarinnar til að ryðja braut alræði öreiganna, sem er orðatiltæki um forsjárhyggjustjórn spilltrar fámennisklíku, "nómenklatúrunnar".

Þessi skaðræðishegðun siðblindingja við völd endurspeglast nú í stríði við verkalýðshreyfingu, ekki sízt sjómenn, og athafnalífið, ekki sízt lítil og meðalstór fyrirtæki athafnamanna, hryggjarstykkis miðstéttarinnar, en ríkisstjórnin á einnig í stríði við stórfyrirtæki útgerðar og iðnaðar.  Bændur hafa fengið kaldar kveðjur frá þessum stjórnvöldum, sem hóta að drekkja þeim með flóði stórlega niðurgreiddra landbúnaðarvara og jafnvel búsmala.

Ríkisstjórnin er upp á kant við alla helztu hagsmunaaðila hins íslenzka þjóðfélags.  Þetta þarf engum að koma á óvart, sem fylgzt hefur lítillega með stjórnmálum á Íslandi síðasta mannsaldurinn (30 ár (kynslóðaskipti)), og það er allsendis óþarfi að útskýra núverandi stöðu stjórnmálanna  með aðferðum sálfræðinnar.  Það blasir við, að ráðherrarnir eru óhæfir til að leysa úr flóknum og viðkvæmum vandamálum samfélagsins.  Forysta ríkisstjórnarinnar eru landsins dýrkeyptustu tossar.  Verstu tossum Alþingis skolaði "pottaglamrið" til valda.  Það er ekki að sökum að spyrja.  Tossarnir ráða ekkert við viðfangsefnin.  Í stað þess að viðurkenna það opinberlega og rjúfa þing er efnt til illinda.  Þetta er ákaflega vel þekkt mynztur einfeldninga í tilraun til að breiða yfir mistök og vangetu.

Ríkisstjórnin hefur alla sína hunds- og kattarævi hangið saman á hrossakaupum.  Samfylkingarsérvizkan fékk ESB-inngönguviðræður, og Vinstri hreyfingin grænt framboð fékk slagbrand á ný virkjanaáform og iðnvæðingu.  Ofstækismenn beggja flokka sameinuðust um Landsdómsmálið og aðförina að sjávarútveginum og Stjórnarskránni.  Allt vinstra pakkið hefur svo í blindni sinni, þekkingarleysi á gangverki hagkerfisins, og draumförum um útþenslu ríkisbáknsins, sameinazt um skattahækkanir á almenning og fyrirtæki.  Gamalþekktur glópur Samfylkingar, nýkominn á jötuna sem "efnahagsráðgjafi forsætisráðherra", heldur því fram, að á 60 % þjóðarinnar hafi skattheimtan ekki hækkað.  Blindur leiðir blindan.  Ekki er von á góðu.

Forystugrein Morgunblaðsins 14. desember 2012 heitir "Átak gegn atvinnu".  Þarna er gerð grein fyrir illvígum stríðsrekstri hinnar voluðu vinstri stjórnar gegn atvinnu í landinu, en ríkisstjórnin er bandamaður atvinnuleysisvofunnar og einskis annars:

"Ríkisstjórnin hefur verið iðin við að útrýma störfum hér á landi og hindra, að ný verði til.  Hún hefur í raun staðið fyrir samfelldu átaki gegn atvinnu allt kjörtímabilið, og árangurinn af þessari eljusemi leynir sér ekki.  Enn mæla þúsundir göturnar, þar sem enga vinnu er að hafa, og þúsundir hafa flúið ástandið og starfa nú erlendis.  Ástæðu þess, hvernig komið er, má rekja til viðhorfs stjórnarliða til atvinnulífs og atvinnusköpunar.  Stjórnarliðar sjá ekkert samhengi á milli þeirra starfsskilyrða, sem atvinnulífinu eru búin, og þeirra atvinnutækifæra, sem fólki standa til boða." 

Hér er komið að kjarna málsins.  Stjórnvöld á Íslandi eru í aðstöðu til að hafa eyðileggjandi áhrif á afkomu almennings, og það hefur sannazt á núverandi stjórnvöldum.  Það er hægt að rekja það með fjölmörgum dæmum, hversu skaðleg áhrif vinstri stjórnin hefur haft á hagkerfið. 

Með sama hætti geta stjórnvöld með heilbrigða skynsemi, þekkingu og getu til jákvæðra framkvæmda, leitt þróun á landsvísu, er leiðir til trausts hagvaxtar, varanlegra kjarabóta og ríkisbúskapar með mjög jákvæðum greiðslujöfnuði, sem gerir kleift að grynnka á skuldum ríkissjóðs.  Þegar ráðherrarnir eru spurðir út í dúndrandi hallarekstur ríkissjóðs, 400 milljarða kr frá 2009-2012, er viðkvæðið, að verið sé að verja velferðarkerfið.  Þessa tossa, sem þannig míga í skóinn sinn, er hægt að upplýsa um það, að með slíku áframhaldi verður ríkissjóður greiðsluþrota innan 5 ára, og þá verður einfaldlega ekki lengur um að ræða neitt velferðarkerfi á Íslandi.  Hér munu þá frumskógarlögmálin taka við.  Vinstri stjórnin flýtur verkvana að feigðarósi. 

Kjósendur verða að spyrna við fótum.  Láti þeir það hjá líða, og kjósi þeir af léttuð gamla, spillta vinstra settið, hvaða nöfnum, sem það nefnist, þá halda hér áfram móðuharðindi af manna völdum, sem keyra mun samfélagið í þrot í bókstaflegri merkingu.  Stöðnun og fólksflótti mun leiða til þess, að ríkissjóður mun lenda í greiðsluþroti á næsta kjörtímabili, sem þýðir þjóðargjaldþrot.  Hér verða ekki útlistaðar afleiðingar þess.  Um það eru dæmi úr nútímasögunni, t.d. frá Argentínu.

Baráttan snýst um stefnumörkun fyrir þetta þjóðfélag.  Eina ráðið til björgunar er að róa á bæði borð.  Skipstjórinn verður að fá öllum um borð árar, gefa stefnuna og hvetja til afreka.  Fært til baka á stjórnmálin verður hinn nýi forsætisráðherra að kunna til verka, þekkja til athafnalífsins, hafa hæfileika til að tala máli þjóðarinnar erlendis, að vinna traust fjárfesta og lánadrottna, leiða aðila atvinnulífsins saman að einu borði og stilla saman strengi atvinnuveitenda og launþega.  Allt starf hinnar nýju ríkisstjórnar verður að miða að einu markmiði: að bæta hag almennings á Íslandi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur, það sem þarf til í þetta verkefni, en þó því aðeins, að hann hljóti stuðning almennings í landinu til að berjast fyrir hagsmunum hans.  Almenningur hefur allt að vinna og engu að tapa með því að ljá Sjálfstæðisflokkinum stuðning sinn á nýju ári.  Gleðilegt nýár.          

    Merki Sjálfstæðisflokksins

       

 


Hagkerfi drepið í dróma

Talsmönnum Alþýðusambands Íslands, ASÍ, lízt illa á fjárlagafrumvarpið, enda ber það vott um óstjórn á fjármálum ríkissjóðs.  Þeir telja óráðsíuna þar munu verða skjólstæðingum sínum þung í skauti.  Það þarf ekki hagfræðidoktor til að sjá, hversu ábyrgðarlaust kosningafrumvarp hér er á ferðinni, sem mun virka sem olía á verðbólgubálið. 

Hinn gæfusnauði Steingrímur Sigfússon, sem hlaut hvorki meira né minna en 199 atkvæði í prófkjöri nýlega, hefur hellt sér yfir forseta ASÍ vegna réttmætrar gagnrýni formannafundar Alþýðusambandsins á verk og verkleysi ríkisstjórnarinnar.  Þar mun þessi formaður afturhaldsins í landinu hafa sýnt sitt rétta andlit, ef andlit skyldi kalla. 

Þessi volaða vinstri stjórn á nú hvergi höfði sínu að halla, nema í kjöltu Smugunnar, ormagryfju, þar sem ofstækið tröllríður þröngsýninni.  Ráðherrarnir ráða ekki við viðfangsefnin.  Þeir reyna að breiða yfir það, en þjóðmálastaðan leynir sér ekki. Tjaldað er til einnar nætur í einu og öllu.  Allt er í lamasessi, og þetta kjörtímabil er tímabil hinna glötuðu tækifæra.  Á næsta kjörtímabili verður að slá í og láta hendur standa fram úr ermum eftir urðun ESB-daðurs og draumóra og afturhalds í nafni náttúruverndar, þar sem hvað rekur sig á annars horn.  Hefja þarf til vegs kenninguna um að "nýta og njóta með nútímatækni".  Vinstra liðið getur á meðan dundað sér við að berjast við sínar vindmyllur.  

Ráðherrablækurnar eru fallnar á prófinu og ættu að taka hnakk sinn og hest í skyndi.  Meirihluti þeirra í utanríkismálanefnd er fallinn og skyldi engan undra.  Þetta gerðist á meðan furðudýrið í utanríkisráðuneytinu sá jarteikn í Berlaymont.  Á hverju eru menn ? 

Hvort meirihluti er fyrir eyðileggingu ráðherranna á margra ára rándýrri sérfræðivinnu við Rammaáætlun er ólíklegt, og jafnvel fjárlagafrumvarpið stóð tæpt með einn útbyrðis.  Fyrir Samfylkingu og Vinstri hreyfinguna grænt framboð hefur ferðin í Stjórnarráðið orðið mikil sneypuför.  Almenningi er nú orðið ljóst, að téðir stjórnmálaflokkar hafa ekkert fram að færa, nema froðusnakk, blekkingaleik, öfugmæli og versnandi lífskjör öllum til handa, nema "nómenklatúrunni" og handbendum hennar.  Við höfum ekki efni á þessari vitleysu.  

Ríkisstjórnin þykist vera búin að leysa vanda efnahagslífsins, en því fer víðs fjarri; hún hefur ekkert leyst, en eykur nú við skuldavanda þjóðarbúsins með erlendum lántökum, af því að hún rekur enn ríkissjóð með gegndarlausum halla.  Svona gerir aðeins fólk, sem gefizt hefur upp fyrir viðfangsefnunum.  Skuldir ríkissjóðs á valdatíma ríkisstjórna Jóhönnu Sigurðardóttur hafa aukizt um 400 milljarða kr.  Skuldirnar eru um það bil að verða ósjálfbærar, og það má engan tíma missa til að snúa þessari öfugþróun við.  Samt sér þessi aumasta ríkisstjórn allra tíma ekki sóma sinn í að hypja sig, enda hefur forsætisráðherra enga sómatilfinningu.  Það er starað í baksýnisspegilinn og fimbulfambað um Hrunið, en hvorki skilja þau rætur Hrunsins né hafa þau dregið réttar ályktanir af því. 

Hinn alræmdi atvinnuvega-og nýsköpunarráðherra, sem var fjármálaráðherra á árunum 2009-2012, skrifar nú hverja sjálfshólsgreinina á fætur annarri í blöðin.  Kenningar Steingríms hafa aldrei beysnar verið, en nú hefur slegið svo út í fyrir honum, að frá honum koma eintóm öfugmæli og þversagnir.  Þessum manni veitir ekki af hvíldinni.  Hún verður honum veitt.

Er skemmst frá að segja, að þessi orðhvati og á tíðum orðljóti ráðherra, sem bar nýlega lygar upp á forseta ASÍ, fer í téðum greinum sínum að miklu leyti með staðlausa stafi, enda var frammistaða hans í embætti fjármálaráðherra hraksmánarleg.  Í stað þess að ná jöfnuði árið 2012, eins og lagt var upp með í áætlun AGS, þá mun ríkissjóðshallinn nema um 55 milljörðum kr, en fjárlög gerðu ráð fyrir 20 milljörðum kr.  Engar áætlanir Steingríms standast.  Það eru ósannindi hjá Steingrími, að "hvergi í okkar heimshluta, þar sem ríkissjóður hefur lent í vanda vegna efnahagskreppu, hafi náðst viðlíka árangur síðastliðið ár eins og á Íslandi". Samkvæmt hagtölum frá OECD (Economic Outlook 2012) mun t.d. afkoma ríkissjóðs írska lýðveldisins batna mun meira á árinu 2012 m.v. fyrra ár en afkoma ríkissjóðs Íslands.  Allmörg önnur ríki eru talin slaga upp í árangur Íra.  Mont Steingríms er ósvífinn blekkingarleikur, en umgengni þessa stjórnmálalega vindhana við sannleikann er oft þannig, að á milli þeirra tveggja eru himinn og haf.

Afturhaldsstjórnin virðist allt í einu hafa fengið kalda fætur vegna eigin aðgerðaleysis í atvinnumálum landsmanna og lofar þá einu gæluverkefni hér og öðru þar; gott, ef hún er ekki farin að taka vel í olíuboranir á Drekasvæðinu. Þar tala ráðherrarnir reyndar út og suður, svo að engrar stefnumörkunar er að vænta. Ríkisstjórnin er á valdi óttans við atkvæðamissinn.  Hann er óhjákvæmilegur, og barnalegir tilburðir munu engu skila.  Kjósendur munu ekki láta blekkjast í hið annað sinnið.  Flokkar stjórnarinnar stefna í að gjalda afhroð, og þá er reynt að sprikla, en á kostnað framtíðarinnar.  Vinnubrögðin eru fyrir neðan allar hellur og ekki hundi bjóðandi.  Nýjasta fjármögnunarleið vitsmunabrekkna vinstri stjórnarinnar þoldi ekki dagsljósið.  Skattstofninn voru lækningatæki, hjólastólar, bleyjur og getnaðarverjur, svo að fátt eitt sé talið. 

Jafnaðarmönnum tengdum ASÍ þykir sárt að heyra því haldið fram, að ríkisstjórn þeirra sé afturhaldsstjórn.  Það er hún þó samkvæmt skilgreiningunni.  Afturhald er og hefur alltaf verið á móti framförum í atvinnuháttum, iðnvæðingu og tæknivæðingu atvinnuveganna.  Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs uppfyllir öll skilyrði þess að hljóta einkunnina afturhaldsstjórn. 

Ríkisstjórnin hefur í sumum tilvikum borið sig lymskulega að og þvælzt fyrir til að reyna að kasta glýju í augu einhverra, en almenningur sér þó til hvers refirnir eru skornir.  Síðan liggja áhangendur þessarar voluðu vinstri stjórnar á því lúasagi, að allt sé Hruninu að kenna.  Ætla vinstri menn að fara í Alþingiskosningar undir því kjörorði, að landsmönnum séu allar bjargir bannaðar út af Hruninu ?  Það átti að troða Icesave-skuldafjötrum upp á landsmenn og síðan að kenna Sjálfstæðisflokkinum um.  Eymd vinstri manna er ofboðsleg.  Ferill þeirra við landsstjórnina er ein samfelld sorgar- og mistakasaga.  Nú er háskólasamfélaginu jafnvel tekið að blöskra, og má þá segja, að bragð sé að, þá barnið finnur. Til marks um þetta er viðtal við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, í Morgunblaðinu 13. desember 2012, þar sem hann finnur stjórnarskráardrögum Stjórnlagaráðs, sem ríkisstjórnin hefur gert að sínum, allt til foráttu.

Þá birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2012 merkilegt viðtal Baldurs Arnarsonar við prófessor emeritus í lögum, Sigurð Líndal, forseta Hins íslenzka bókmenntafélags. Eftir lestur þessa viðtals ætti hverju mannsbarni að verða ljóst, hvílík hrákasmíði téð stjórnarskráardrög eru, og hvílíkt ábyrgðarleysi er að leggja þennan gallagrip fyrir Alþingi til samþykktar.  Slíkt er til vitnis um ríkisstjórn og þinglið á vinstri vængnum, sem ekkert kann til verka, en vinnur allt með öfugum klónum.   

Ný afriðladeild - S1

        

 

 


Hið vanhelga bandalag gegn miðstéttinni

Ríkisstjórnin hefur gengið fram af fólki með sviksemi og óheilindum.  Aðstandendur vinstri stjórnarinnar hafa opinberað sig sem samvizkulausa siðleysingja.  Keisarinn er ekki í neinu, og sá bleiki er ei sjón í sólskini. 

Forsjárhyggjuforkólfar hafa reynzt bandamenn bankanna gegn almenningi í landinu. Það byrjaði með afhendingu á bönkunum til erlendra vogunarsjóða, hélt áfram með Icesave-landssvikum, og nú hefur Hæstiréttur dæmt lög, sem Árni Páll Árnason, þáverandi bankamálaráðherra og núverandi vonbiðill Samfylkingar, keyrði gegnum þingið með offorsi í desember 2010, ólög.  Þessi ólög voru mjög hliðholl fjármagnseigendum á kostnað lántakenda, eins og ríkisstjórnin hefur verið allt sitt skeið, sem nú er senn á enda runnið. Árni Páll gerir nú tilraun til að skapa af sér nýja ímynd hins frjálslynda jafnaðarmanns, en slík glansmynd er falsmynd og stenzt ekki, sé litið yfir feril hans, enda hér um gamlan Allaballa að ræða með kreftan hnefann syngjandi Nallann.  Voru það bernskubrek eða siðferðisbrestur ?    

Þar sem fyrri vonbiðill Samfylkingar var nefndur, er rétt að nefna Guðbjart Hannesson, fyrrverandi skólastjóra, en hann hefur orðið alræmdur af þrennu.  Í fyrstu var hann vikapiltur Jóhönnu í þingnefnd þeirri, er aðallega fjallaði um Icesave.  Það var alveg sama, hvaða ný gögn streymdu inn um málið; viðkvæði Guðbjarts var jafnan, að ekkert nýtt hefði gerzt í málinu.  Það er hið sama uppi á teninginum núna í Velferðarráðuneytinu.  Þó að hvert táknið af öðru um yfirvofandi hrun heilbrigðiskerfisins íslenzka birtist, þá er aðgerðarleysi þessa svifaseina ráðherra yfirþyrmandi.  Það hefur nefnilega ekkert nýtt gerzt í málinu.  Þerra heitir óhæfni í embætti.  Maðurinn er kominn í embætti, sem hann ræður ekkert við, enda finnur Jóhanna, að Guðbjartur mun ekki skyggja á hana.   

Þá voru dularfull undirmál á ferðinni í ráðuneyti Guðbjarts um launamál forstjóra Landsspítalans, sem eru ófagur vitnisburður um dómgreind Guðbjarts.  Þetta brölt ráðherrans var neistinn, sem kveikti bálið, sem nú brennur á Landsspítalanum.  Er þessi gegndarlausi ríkisrekstur e.t.v. kominn á leiðarenda.  Það er alltaf hætta á því, að menn, sem skortir gripsvit, komist til valda í ráðuneytunum, og þá er talsvert öryggi að valddreifingu.  Meira fyrir minna er reynsla Svía af einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum, og þangað má leita fyrirmynda.  Það er engin þörf á að finna upp hjólið hér.     

Þriðja og stærsta sorgarsena Guðbjarts er gjaldþrot Íbúðalánasjóðs, sem sorterar undir hann, en Guðbrandur, húsköttur hér á bæ, mundi áreiðanlega ekki hafa leyft sjóðinum að sigla upp á það harða sker, sem hann er nú á.  Guðbrandur, húsköttur, hefði áreiðanlega reynzt úrræðabetri en Guðbjartur, fyrrverandi skólastjóri, enda virtist Bjart þennan ekki renna í grun fyrir nokkrum vikum í hvert heljarinnar óefni óskapnaður þessi er búinn að koma skattborgurum þessa lands.  Það er auðvitað eftir öðru, að Bjartur þessi telji sig kjörinn til að leiða stjórnmálaflokk, svo úrræðalaus og klaufskur sem hann er, enda horfir hann stöðugt í baksýnisspegilinn, og þar af leiðandi sér hann breytingar í öðru ljósi en annað fólk.     

Ríkisstjórnin hefur þverskallazt við að afnema verðtryggingu, en bankarnir eru einn aðalþrýstihópurinn, sem berst fyrir viðhaldi verðtryggingar.  Hvernig stendur á því, að ráðherrar og þinglið vinstri flokkanna haga sér eins og umskiptingar, þegar þeir fá völdin ?  Hér verður leitazt við að svara því:

Á pukurdagskrá Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er útrýming miðstéttarinnar á Íslandi. Það hefur komið berlega í ljós eftir því, sem liðið hefur á valdatíma þessara vesalinga. Þessir ofstækisflokkar, sem rekja uppruna sinn til blóðugra stéttaátaka, ætla að mynda Alþýðulýðveldið Ísland með því að ganga á milli bols og höfuðs á miðstéttinni.  Þessi áform munu takast á næsta kjörtímabili, ef kjósendur sýna af sér það andvaraleysi að kjósa ríkisstjórnarflokkana eða útibú þeirra á borð við Guðmund Steingrímsson, er verður að telja ættlera miðað við glæsta sögu afa hans og föður.

Sameignarsinnarnir gerðu vanheilagt bandalag við fjármálaöflin um að ræna miðstéttina.  Til þess eru skattahækkanirnar, lagasetning í þágu fjármálafyrirtækjanna, t.d. Árna Páls-lögin, fjárfestingarfjötrar og atlögur að greinum, þar sem einkaframtak innan vébanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja hefur mátt sín mikils. Menn sjá nú t.d. útgerðarmenn leggja upp laupana vegna hreinnar eignaupptöku að hætti Marx/Lenínista, klædda í sauðargæru "gjaldtöku af auðlindarentu".  Það er stríðsástand undir vinstri stjórn, og vantar aðeins Mólotoffkokkteilana til að borgarastyrjöld brjótist út.  Í anda jólaföstunnar verður að vona, að af slíku verði ei.   

Verði þessi ósvinna látin viðgangast fram á næsta kjörtímabil, gerist eitt af þrennu: miðstéttin verður eignalaus og myndar öreigastétt, eins og í Ráðstjórnarríkjunum, hún flýr land, eða miðstéttin rís upp og hristir af sér klafana.  Hún er seinþreytt til vandræða, og hagsmunir innan miðstéttarinnar eru reyndar margvíslegir, en fari hún af stað í hefndarhug, vei þá þeim, sem fyrir henni verða.  Nægt er þar aflið til að velta rotnum valdhöfum úr vegi.

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) og í mörgum Evrópulöndum er nú rætt um endurbætur á bankakerfinu til að draga úr hættu á holskeflum, eins og þeim, sem riðu yfir fjármálageirann og almenning haustið 2008 víða um heim.  Evrópusambandið (ESB) með sínum hætti hefur ákveðið að stofna til sameiginlegs bankaeftirlits, a.m.k. innan evrusvæðisins.  Átti það að verða á höndum seðlabanka evrunnar í Frankfurt am Main, en Þjóðverjar virðast telja slíkt utan verksviðs Seðlabanka evrunnar. Hinir fornu fjandmenn, Frakkar og Þjóðverjar, deila enn hart um útfærsluna á þessu, eins og mörgu öðru.  Er þetta þó vafalítið framfaraspor, og fyrir Íslendinga hefði verið betra, að slíkt sameiginlegt bankaeftirlit hefði spannað starfsemi útblásinna íslenzkra banka, sem étnir höfðu verið innan frá með græðgi, störfuðu á alþjóðlegum markaði og íslenzka Fjármálaeftirlitið réði ekki við; var öllu heldur leiksoppur bankanna. 

Nú fjarar undan Frakklandi og að verða deginum ljósara, að banamein evrunnar verður sú sögulega staðreynd, að Frakkar munu aldrei fara bónarveg til Berlínar.  Afleiðingin verður sú, að Prússarnir munu enn einu sinni fara í sigurgöngu inn í París.  Munurinn er sá, að gæsagangurinn hefur vikið fyrir samræmdu göngulagi tevtónskra iðnjöfra, sem lagt hafa franskan iðnað að velli.  

Þar sem umræða um umbætur á fjármálageiranum fara fram, ber aðskilnaður fjárfestingastarfsemi og almennrar viðskiptabankastarfsemi með innlán og útlán til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, hátt.  Þessa uppstokkun er nauðsynlegt að gera hérlendis um leið og ríkisábyrgð á fjármálagjörningum fjármálageirans verður afnumin.  Þar með fæst heilbrigðari starfsemi í þessum geira og dregið verður úr fjárhagslegri áhættu almennings.  Aðhald almennings með fyrirtækjum, sem hann hefur treyst fyrir ávöxtun fjármuna sinna, mun aukast, og samkeppnin verður á eðlilegri grundvelli um hylli viðskiptavina.

Vinstri stjórnin á Íslandi hefur ekki léð máls á þessu, enda er hún í skálkabandalagi við fjármálakerfið í viðleitni sinni að rústa miðstéttinni.  Að bankakerfið skuli fara inn á þá braut að svelta gullgæs sína, miðstéttina, svo að hún missi allt sitt og/eða hverfi á braut, sýnir skammsýnina þar á bæ.  Án miðstéttarinnar verður bankakerfið ekki svipur hjá sjón.  Það er að koma fram, sem hyggnir menn óttuðust, þegar Steingrímur og Jóhanna gerðu sitt vanhelga bandalag við spákaupmenn og vogunarsjóði um yfirtöku bankanna, með pukri, óheilindum og ólýðræðislegum stjórnarháttum, sem tröllriðið hafa stjórnkerfinu frá valdatöku þeirra, sem sagan mun dæma sem slys, að skammtíma gróðasjónarmið mundu einkenna framferði bankanna.  Viðbrögð banka, Fjármálaeftirlitsins, ríkisstjórnar og Alþingismeirihluta við a.m.k. fjórum Hæstaréttardómum um uppgjör ólöglegra lánasamninga við almenning, eru hneyksli, en, þegar öllu er á botninn hvolft, í samræmi við stéttastríð ríkisstjórnarinnar.        

    Sigfusson, Steingrimur J

 

   


Haftabúskapur hörmangara

Gjaldeyrishöftin hafa nú varað í 4 ár, en áttu að standa í um 4 mánuði.  Ástæða þess, að þau eru enn við lýði, er sú, að duglaus vinstri stjórn settist hér að völdum 1. febrúar 2009 í skjóli Framsóknarflokksins og hefur stundað slímsetu síðan í óþökk flestra og þ.á.m. Framsóknarmanna.  Þar er ekki einvörðungu um heybrókarhátt að ræða, heldur hefur berlega komið í ljós í hverju málinu á fætur öðru, að ráðherrarnir eru úrræðalausir og mistækir með afbrigðum.  Þetta vinstra fólk getur slegið um sig með innihaldslausum frösum og froðusnakki, og það getur verið fúlt á móti öllum framförum, en það hefur enga hæfileika til að byggja upp og leiða þjóðina út úr ógöngunum.  Þjóðin fór úr öskunni í eldinn.  

Ríkisstjórninni hefur haldizt illa á ráðherrum, en forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, sem Árni Páll Árnason, fyrrverandi ráðherra, lætur að liggja, að stigi ekki í vitið, og hún hefur aldrei afsannað það, hefur, dæmd manneskja, ríghaldið í forsætisráðherrastólinn, þrátt fyrir að hún hafi framið reginafglöp í embætti, sýnt ruddalega framkomu, svikið öll loforð, sem aðilum vinnumarkaðarins hafa verið gefin og margítrekað sannað, að hún er algerlega úti að aka eða úti á túni, eins og líka er sagt, en landbúnaðurinn á ekki skilið.

  Hvernig dirfist þetta fyrirbrigði að heimta það nú, að Sjálfstæðisflokkinum verði haldið áfram í stjórnarandstöðu eftir komandi Alþingiskosningar og Samfylkingin leiði ríkisstjórn að þeim afloknum ?  Samfylkingin er nú komin undir 20 % markið sitt og Vinstri hreyfingin grænt framboð stefnir á 10 %.  Sporin hræða, og þessir tveir stjórnmálaflokkar hafa gjörsamlega dæmt sig úr leik.  Kaffihús 101 hæfir þeim, en ekki Stjórnarráð Íslands.  Flokkarnir hafa á að skipa þröngsýnu afturhaldsfólki í þingliði sínu, sem enga samleið á með almannahagsmunum.  Landvættirnir munu tryllast, ef þessum andlegu örverpum tekst að krafla sig upp í valdastólana eftir næstu Alþingiskosningar á hækjum Guðmundar Steingrímssonar eða annarra pólitískra viðrina.

Haftabúskapur leiðir af gjaldeyrishöftum.  Einmitt slík varð þróunin hér eftir 1929, en þá hófst Kreppan mikla (The Great Depression).  Hún stóð í 10 ár, en haftabúskapur varði á Íslandi í 30 ár fram að Viðreisnarstjórninni, sem afnam haftabúskap og hóf mikið framfaraskeið undir forystu Ólafs Thórs og Bjarna Benediktssonar.  Nú mun koma í hlut annars Bjarna Benediktssonar af sama meiði að ganga á milli bols og höfuðs á afturhaldinu, sem grafið hefur um sig í Stjórnarráðinu, og hefja hér frelsisvakningu og framfarasókn eftir næstu Alþingiskosningar. 

"He has got the guts", segir Kaninn, og bíti hann í skjaldarrendurnar og varpi sér af eldmóði fyrirrennara sinna og ættmenna út í þessa baráttu, sem verður blóðug og hörð, þá hefur hann það, sem til þarf, svo að sigur náist. 

Milton Friedman, hagfræðiprófessor, reit í bók sína, "Frelsi og framtak": "Ekki er ofsagt, að atvinnufrelsinu í Bandaríkjunum er mesta skammtímahætta búin af, að Þriðju heimsstyrjöldinni undanskilinni, að sett verði á höft til að "leysa úr" einhverjum greiðslujafnaðarvanda.  Afskipti af alþjóðaviðskiptum eru sakleysisleg að sjá.  Margir, sem annars tortryggja mjög ríkisafskipti af atvinnumálum, aðhyllast þau.  Margir kaupsýslumenn telja þau jafnvel til "bandarískra lífshátta". 

Samt er fátt, sem getur borizt jafnvíða um og orðið að lokum svo skaðlegt einkaframtaki sem þetta.  Reynslan sýnir, að fyrsta skrefið á greiðfærustu leiðinni út úr frjálslyndisskipulagi og í stjórnlyndisskipulag eru gjaldeyrishöft.  Þetta fyrsta skref leiðir óhjákvæmilega til innflutningshafta, til afskipta af innlendum iðnaði, sem þarf innflutningsvörur eða sem framleiðir vörur í staðinn fyrir þær, og að lokum er komið í vítahring."

Þegar ofangreint er lesið, þarf ekki lengur vitnanna við um, hvers vegna höftin eru fremur fest í sessi en losað sé um þau af vinstri stjórninni.  Stjórnvöldin, amlóðarnir í Stjórnarráðinu, svo að ekki sé nú minnzt á garminn Ketil, skræk, þingmeirihlutann, sem var, og trotzkyistarnir á Svörtuloftum, sjá enga meinbugi á gjaldeyrishöftum; þau falla vel að stjórnlyndum lífsskoðunum þeirra, og þeim finnst þau vera að stjórna þjóðfélaginu með útdeilingu gjaldeyris til Péturs á gengi A og til Páls á gengi B.  Illvíg spilling grípur um sig, og stjórnmálamenn skekkja samkeppnisstöðu með tvöföldu gengi, þar sem gamlir bankagullrassar og útrásarsnillingar með erlendan gjaldeyri í fórum sínum fá keyptar krónur á útsölu.  Þetta er dæmigert ríkissukk í boði félagshyggjufólks.  Almenningi blæðir fyrir höftin.  Dæmigerð félagshyggja andskotans.

Íslenzku krónunni stafar mest hætta af núverandi stjórnvöldum.  Þau tala krónuna niður, þau nota bága stöðu hennar sem röksemd fyrir "upptöku evru", sem verður grafskrift ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, enda alheimskulegasta stefnumið í stjórnmálum, sem hægt er að hugsa sér, og þau standa í vegi fyrir erlendum fjárfestingum.  Á öllum vígstöðvum leggjast þau þvers.  Miklar erlendar fjárfestingar eru skilyrði þess, að krónan taki ekki dýfu við afnám gjaldeyrishaftanna, og það kann að þurfa að stjórna útflæðinu í fyrstu á meðan þrýstingurinn er mestur.  Þetta verður eitt af brýnustu verkefnum framfarastjórnar eftir næstu Alþingiskosningar.

Íslendingar standa nú frammi fyrir vali.  Skammtímaáhrif núverandi haftastefnu eru, að vextir verða tiltölulega lágir, og gengið mun veikjast hægt og rólega.  Langtímaáhrif haftanna verða minni hagvöxtur en ella vegna minni og óhagkvæmra fjárfestinga.  Ríkið mun halda áfram að þenjast út, þar sem það hefur aðgang að innilokuðu fjármagni, og sparnaður landsmanna mun lítinn sem engan ávöxt bera vegna lágra vaxta.  Þjóðfélagið hjakkar í sömu förum og sífellt sverfur að vegna atgervisflótta.

Því lengur, sem heykzt er á að afnema höftin, þeim mun erfiðara verður það, því að hagkerfið lagar sig að meininu, eins og líkami að lömuðum útlimi.  Gjaldeyrishöftin ýta mjög undir afskipti stjórnmálamanna af fyrirtækjum og þar með bönkum, og þetta jafngildir viðbjóðslegri spillingu, sem stjórnmálamenn á forsjárhyggjuvængnum upplifa sem eðlilegt og eftirsóknarvert ástand. 

Það er hægt að afnema höftin.  Það mun óhjákvæmilega valda tímabundnum sársauka.  Það kemur til greina að afnema verðtryggingu áður en gjaldeyrishöftin verða afnumin eða samtímis.  Draumórar sveimhuganna í þingflokkum ríkisstjórnarinnar um aðstoð frá ESB við afnám haftanna hafa orðið sér rækilega til skammar.  Yves-Thibault de Siguy færði skýr rök fyrir því í viðtali í Viðskiptablaðinu 27. september 2012, að landsmönnum stæði hvorki til boða flýtimeðferð í evruna né aðstoð við afnám haftanna.    

    

 

         

 


Þeim er alls ekki treystandi

""Menn fóru bara á taugum", segir heimildarmaður Morgunblaðsins, og bætir því við, að þetta séu líkast til "stórkostlegustu mistök Alþingis á síðari tímum"".

Ofangreint gat að líta í ítarlegri fréttaskýringu Harðar Ægissonar, blaðamanns Morgunblaðsins, í blaðinu þann 25. október 2012.  Þarna er verið að lýsa viðskiptum Efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna.  Ríkisstjórn og þingmenn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, alræmdir kjaftaskar og Morfískeppendur, hafa ekkert bein í nefinu til að standa gegn óbilgjörnum kröfum spákaupmanna, sem keyptu kröfurnar í hræin fyrir 5 % af nafnvirði og geta nú selt þær og hafa verið að selja þær fyrir 25 % af nafnvirði.  Skellurinn hefur þegar lent á upphaflegum lánadrottnum, en vinstri mennirnir, þekkingar- og reynslulausir úr heimi viðskiptanna, sýna hrægömmum takmarkalausa undirgefni og stefna efnahagslegu sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar í voða, eins og berlega kemur fram í téðri frásögn, "Óttast, að hagsmunum Íslands sé stefnt í voða". 

"Formaður nefndarinnar, Helgi Hjörvar, stakk þá upp á því samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að Seðlabankinn og hinir erlendu kröfuhafar semdu um þetta sín á milli." Þetta er alger uppgjöf Samfylkingarforkólfsins gagnvart erlendum hrægömmum og alveg furðulegt, að miðstýringarmaðurinn skuli fleygja málinu úr höndum Alþingis og ríkisstjórnar og í fang Seðlabankastjóra, sem þar með hefur fjöregg íslenzku þjóðarinnar í höndum sér.  Í tilvitnaðri fréttaskýringu kemur hvað eftir annað fram, að Seðlabankamenn hafa ekki roð við vogunarsjóðunum, sem eru mun fljótari en Seðlabankinn að gera sér rétta grein fyrir skuldastöðu og greiðslugetu Íslands.  Um þetta hefur Hörður Ægisson eftir viðmælendum sínum, "að erlend skuldastaða þjóðarbúsins er tvöfalt hærri en fram kom í Peningamálum fyrr á þessu ári og vinna þeir ( þ.e. Seðlabankinn) nú að því að uppfæra opinberar hagtölur í samræmi við þessar breyttu forsendur".  Sé þetta rétt, er ljóst, að í Seðlabankanum er sofið á verðinum, og fyrir það verða menn að axla ábyrgð í fyllingu tímans.

"Eftir þrýsting frá kröfuhöfum ákvað Helgi (Hjörvar) að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið, eins og sjá má í þingskjölum, þar sem kveðið er á um, að innistæður í reiðufé í erlendum gjaldeyri í eigu lögaðila hjá erlendum fjármálafyrirtækjum eða hjá Seðlabankanum, eins og þær stóðu í lok dags 12. marz 2012, skuli undanþegnar bannákvæðinu. Fram kom í máli Helga, þegar hann lagði frumvarpið fyrir Alþingi síðar um kvöldið, að breytingartillagan lyti að "umtalsverðum hagsmunum fyrir slitastjórnirnar"".  

Hér eru hagsmunir erlendra kröfuhafa teknir fram yfir hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, því að noti Seðlabankinn þessa heimild, mun gengi krónunnar hrynja og lánshæfið með.  Lánalínur munu þá lokast og ríkissjóður lenda í greiðsluþroti.  Landið verður þar með gjaldþrota.  Hér gæti þess vegna verið efni í nýtt Landsdómsmál.

Hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins eru nú taldar nema um 100 % af vergri landsframleiðslu, og er aðeins staða Portúgals verri af öllum Evrópulöndum, og eru t.d. Grikkir í skárri stöðu.  Afborganir og vextir munu vaxa úr 140 milljörðum kr árið 2012 í 380 milljarða kr árið 2016, sem er algerlega ósjálfbært.  

Árið 2014 ráða Íslendingar ekki lengur við þennan klafa, sem þýðir þjóðargjaldþrot, verði ekki þegar gripið til neyðarráðstafana í anda Neyðarlaganna frá haustinu 2008.  Vinstri stjórnin mun ekki hafa þrek til þess, því að þar liggja dusilmenni á fleti fyrir.  Það mun koma í hlut Sjálfstæðisflokksins að leiða björgunaraðgerðir.  Það er vel vitað, hvað þarf að gera, og kemur það fram í téðri frásögn Harðar Ægissonar:

"Því er það mat heimildarmanna Morgunblaðsins, að það séu gríðarlegir hagsmunir fólgnir í því fyrir íslenzk yfirvöld að koma í veg fyrir, að farin verði áður nefnd leið, sem kröfuhafar hafa talað mjög fyrir - og flest stefnir í, að verði niðurstaðan að öðru óbreyttu.

Sú ráðstöfun mundi verða til þess, að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar yrði stefnt í tvísýnu, að mati viðmælenda blaðsins.  Því þurfi að grípa til úrræða, sem í sumum tilvikum mundu krefjast lagabreytinga, og fælu í sér umtalsverðar afskriftir á innlendum eignum kröfuhafanna í skiptum fyrir gjaldeyri í eigu þrotabúanna.  Með öðrum orðum, að Seðlabankinn mundi bjóða upp gjaldeyri búanna í því augnamiði að losa um títtnefnda snjóhengju aflandskróna, sem nemur ríflega 1´150´000´000´000 kr. 

Slíkt ferli gæti tekið nokkur ár, en með þessu móti yrði engu að síður tryggt, að allir þeir innlendu aðilar, sem eiga gjaldeyri, stæðu jafnir frammi fyrir lögum um gjaldeyrishöft.  Sumir viðmælendur Morgunblaðsins segja, að hægt yrði að taka sérstakt tillit til gamla Landsbankans og útgreiðslna í tengslum við Icesave með því að haga lagasetningunni með þeim hætti, að forgangskröfur væru geiddar út í erlendri mynt, en aðrar kröfur í krónum."

Þarna er bent á leið út úr vandanum.  Leið Samfylkingarinnar er hins vegar algerlega ófær.  Hún liggur um Hrunadansstað þjóðargjaldþrots og ölmusugöngu beiningamanna þaðan og um völundarhús Berlaymont í Brüssel. Ætlunin er að beygja landsmenn í duftið þar til þeir gefast upp og staulast inn um hlið Berlaymont (ESB).  Það mun aldrei verða. 

Hér eru fjárglæfrar vinstri manna á ferð með hagsmuni þjóðarinnar að veði, en það er fleira, sem verður að gerast til að bjarga landinu:  fjárfestingar og myndun nýrra atvinnutækifæra í landinu.  Til þessa hafa vinstri flokkarnir reynzt til þess algerlega óhæfir, enda eru þeir í stríði við miðstéttina í landinu, sem þeir telja helzt standa í vegi sameignarstefnunnar á Íslandi.  Sjálfstæðismenn eru vel meðvitaðir um það, að það skiptir sköpum um farsæla úrlausn þessa geigvænlega skuldavanda að laða hingað til lands nýtt áhættufjármagn fjárfesta í gjaldeyrisskapandi starfsemi.  Um þetta segir í títt nefndri fréttaskýringu:

"Sigurgeir Örn Jónsson, hagfræðingur og meðeigandi að fjármálafyrirtækinu ARAM Global í New York, segir hins vegar í samtali við Morgunblaðið, að sjálf nettóskuldastaðan mundi skipta minna máli, ef það væri búið svo um hnútana af stjórnvöldum, að Ísland væri spennandi fjárfestingarkostur á sama tíma og mörg ríki í Evrópu glíma við mikla efnahagserfiðleika."

Einmitt þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins, og þarna skilur á milli feigs og ófeigs.  Sjálfstæðisflokkurinn mun með ráðstöfunum í skattamálum mynda hvata til örvunar fjárfestinga á Íslandi og þar með til innstreymis erlends fjármagns inn í íslenzka hagkerfið.  Framgangur óbrenglaðrar Rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúruauðæva á Alþingi er frumskilyrði fyrir auknum fjárfestingum í orkugeiranum.  Nýjar virkjanir eru ekki lengur bara æskilegar að mati þeirra, sem telja áframhald iðnvæðingar æskilegt fyrir atvinnuástandið í landinu og líklegt til að laða flóttafólk undan vinstri stjórn heim, heldur eru nýjar virkjanir orðnar efnahagsleg nauðsyn, þjóðarnauðsyn, til að bjarga landinu frá greiðsluþroti, sem annars blasir við árið 2014.  Biðflokkur er enginn valkostur.

Tilvitnunin í Sigurgeir Örn Jónsson, hagfræðing, heldur áfram:

"Þá mætti hugsanlega búast við því, að eignirnar gengju fremur kaupum og sölum á milli erlendra aðila, og nýir fjárfestar kæmu til landsins í stað viðvarandi útstreymis gjaldeyris.  Ef settar væru fram trúverðugar áætlanir um endanlegt afnám hafta og ákjósanlegt efnahags-og lagaumhverfi fyrir erlenda fjárfestingu, þá væri ástæða til að hafa minni áhyggjur af skuldastöðunni en ef við siglum áfram með lokað land."     

 h_my_pictures_falkinn 

 

  

 

    

        


Atvinnuhorfur og hagvöxtur

Fráfarandi forsætisráðherra slær hausnum við steininn, eins og hennar er vandi, þegar hún stælir við formann Sjálfstæðisflokksins á Alþingi og við forseta Alþýðusambands Íslands, ASÍ, um það, hvort atvinnutækifærum fari fjölgandi á Íslandi eður ei.  Þessum lélegasta forsætisráðherra Íslandssögunnar virðist vera fyrirmunað að rýna nokkurt mál með hlutlægum hætti og að halda sig sannleikans megin.  Í stað þess er geipað um stjórnmálalega andstæðinga og farið með gjörsamlega innihaldslausa frasa.  Á slíkum málflutningi er ekkert að græða.

Staðreyndir málsins eru eftirfarandi:

  • Fjöldi í vinnu náði sögulegu hámarki í júní 2008, 179´500 manns 
  • Síðan varð stöðug fækkun fólks í vinnu til maí 2009, er fjöldinn varð 166´700
  • Í ágúst 2012 voru 166´100 manns starfandi.  "Som den observante læser umiddelbart ser", voru færri starfandi á vinnumarkaðinum samkvæmt nýlegri tölu Hagstofunnar en í lágmarkinu í kjölfar bankahrunsins.  Þetta þýðir, að vinnuframboðið dregst saman og hefur gert það með stuttum hléum frá bankahruni. 
  • Í ágúst 2012 voru 178´300 manns á vinnumarkaði, þ.e. annaðhvort starfandi eða atvinnulausir og að leita eftir vinnu.  Í þessum hópi hefur illu heilli fækkað síðan 2011 meira en í hópi starfandi, og þess vegna hefur atvinnulausum virzt fara fækkandi, en þeir voru 10´300 í ágúst 2012.  Ofangreindar tölur gefa hlutfallslegt atvinnuleysi, þ.e. 10´300/178´300 = 0,058 = 5,8 %.
  • Það er langt seilzt til lyginnar, þegar stjórnarherrarnir halda því fram á grundvelli þessarar lækkandi hlutfallstölu, að atvinnuástandið fari batnandi og störfum fari fjölgandi.  Það eru lygamerðir við stjórnvölinn í tugthúsinu gamla við Bankastræti 0. 

Það þarf engan að undra á því, að hagkerfið skuli framleiða æ færri störf.  Hagkerfið fær enga hvata frá ríkisvaldinu til vaxtar.  Þvert á móti eru ríkisumsvif orðin þrúgandi stór þáttur landsframleiðslunnar, og skattheimtan fyrir löngu tekin að virka lamandi á hagkerfið og fækka störfum.  Þá eru nú við völd stjórnmálamenn, sem af hugsjónaástæðum eru beinlínis á móti hagvexti og hafa lýst því yfir froðufellandi af sjálfumgleði, að hagvöxtur auðvaldsins sé ósjálfbær.  Þetta eru alger ósannindi hjá þessu öfgaliði á vinstri væng stjórnmálanna.  Vöxtur allra atvinnugreina á Íslandi hefur um langt árabil verið sjálfbær.  Það á við um iðnaðinn, sjávarútveginn, landbúnaðinn og að nokkru um ferðaþjónustuna, en þarf þó gagngerar umbætur, ef landið á ekki að bíða óafturkræft tjón af.  Ráðsmennska ríkisins er sízt til fyrirmyndar, sbr mengunarslysið í Silfru á Þingvöllum á dögunum.  Hvers konar áhættugreining fór þar fram ? 

Hið eina, sem er algerlega ósjálfbært, er vöxtur hins opinbera, og þá óheillaþróun verður að stöðva hið bráðasta.  Ef það verður ekki gert á næsta kjörtímabili, munum við, þegnar landsins, ekki geta um frjálst höfuð strokið.  Það eru váboðar framundan, eins og algerlega er ljóst af fréttaskýringu Harðar Ægissonar í Morgunblaðinu 25. október 2012: "Óttast, að hagsmunum Íslands sé stefnt í voða".    

Það er "system i galskapaet" hjá vinstri vinglunum.  Þeir vilja ekki hagvöxt, þó að þeir sýni tvískinnung í þeim efnum sem öðrum, og með því að kyrkja hagvöxtinn ætla þeir að herða verulega að sjálfstæði miðstéttarinnar og drepa niður "litla" sjálfstæða atvinnurekandann, sem alls staðar er hryggjarstyggi miðstéttarinnar, atvinnusköpunar og velmegunar almennings.  Allt eru þetta gamalþekktar kokkabækur kaffihúsasnata og þjóðfélagslegra afæta, sem ekkert hafa botnað í samtíð sinni, en hreykt sér á stall falsspámanna.  

Listakjör      


Orkuveitan

Nú hefur rannsóknarnefnd skilað af sér um 500 síðna skýrslu um Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á tímabilinu 2002-2010.  Niðurstaðan þarf engum að koma á óvart.  Hún er sú, að stjórnendur OR hafa í umboði stjórnar hennar og eigenda farið ömurlega illa að ráði sínu í flestu, er að hinum stærri fjárfestingum Orkuveitunnar laut og sýnt af sér fullkomið gáleysi í meðferð fjármuna Orkuveitu Reykjavíkur, sem leitt hafi til stórfellds tjóns fyrir eigendurna.  Nú hafa trúðar og hluti gamla R-listans, sem ábyrgur var fyrir REI-spillingunni, tekið við stjórnartaumunum, en engin uppstokkun eða kerfisbreyting hefur farið fram hjá OR.  Það lullar allt í gömlu hjólförunum.  

Sjálfstæðismenn voru margbúnir að benda á sukk og svínarí R-listans, sem fór með stjórn borgarinnar lungann úr téðu tímabili, sem var til rannsóknar. Óráðsía OR hófst með R-listanum, og þessir vinstri sukkarar bera höfuðábyrgð á því, hvernig komið er.  Er nema von, að rannsóknarskýrslan komi eins og "julen på kjerringa", þegar Dagur B. Eggertsson, ekki borgarstjóri (ekki einu sinni miðborgarstjóri) er annars vegar ?  Er alveg segin saga, að verstu siðleysingjar í hópi stjórnmálamanna eru vinstri menn við völd.  Þeir opinbera þetta undantekningarlaust með ólýðræðislegum stjórnarháttum, pukri, leyndarhyggju, jafnvel með valdníðslu og annarri spillingu. Kjósendur ráða þess vegna miklu um þetta ástand sjálfir og hafa nú vonandi fengið sig fullsadda af ósköpunum.  Til þess eru skoðanakannanir teknar að benda.   

Varðandi téða maðka í mysunni nægir að rifja upp kosningabaráttuna 2002, er Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, leiddi baráttu Sjálfstæðismanna gegn spillingaröflum R-listans.  Þá benti hann hvað eftir annað á slæma meðferð fjármuna Reykvíkinga og gegndarlausa skuldasöfnun OR.  Var honum svarað af hroka og oflæti vinstri sauða, sem réðu ekki við verkefni sitt um að vinna eigendunum, kjósendunum, gagn. Björn sagðist telja fullvíst, að húsbyggingin undir aðalstöðvar OR yrði mun miklu dýrari en R-listinn viðurkenndi, og nú sannar téð skýrsla óheilindi R-lista Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og því miður Framsóknarflokksins og að Björn Bjarnason hafði rétt fyrir sér í gagnrýni sinni á stjórnun R-listans á Orkuveitu Reykjavíkur í einu og öllu.

Í skýrslunni er leitað skýringa á ófremdarástandi OR og það fundið Orkuveitunni helzt til foráttu, að stefnumið hennar, markmið og lýsing á hlutverki, hafi verið illa skilgreind.  Það er einfalt að benda eftir á á alls kyns einkenni í þessa veru ásamt því að hengja út fólk, sem ekki reyndist valda stjórnunar- og ábyrgðarhlutverki sínu.  Það er stórhættulegt, þegar slíkir persónuleikar leita út í stjórnmál til að véla um fé annarra.  Rannsóknarskýrslan bendir því miður ekki á úrræði, sem duga, en slík úrræði eru samt til.  

Sagt er í skýrslunni, að allt muni batna, ef fagaðilar, þ.e. fólk með tækniþekkingu og viðskiptaþekkingu á þeim sviðum, sem Orkuveitan fæst við, verði skipað í stjórn.  Auðvitað eru borgarfulltúarnir nú teknir að kýta um þetta.  Þetta er þó deila um keisarans skegg.  Það er undir hælinn lagt, hvort þetta úrræði yrði til bóta, þegar borgarstjórnin er enn fulltúi eigendanna.  Einn aðalsökudólgurinn, lýðskrumari par excellance, Dagur REI meir, hefur flúið í skjól og tekið undir það, að borgarfulltrúar eigi ekki að sitja í stjórn OR, jafnvel ekki með læknispróf.  Þessi Dagur ætlar sem sagt að setjast í aftursætið og stjórna þaðan.  Það er ekki betri sú músin, sem stekkur, en hin, sem læðist.  

"O, sancta simplicitas", sögðu Rómverjar, eða ó, heilaga einfeldni.  Hverju skiptir þessi skrýtna ráðstöfun, ef eignarhaldið verður óbreytt ?  Að sjálfsögðu er þetta kattarþvottur, engin uppstokkun, og mun lítið bæta hag Reykvíkinga og annarra eigenda Orkuveitunnar.  Í raun og veru nær þessi tillaga rannsóknarnefndarinnar skammarlega skammt, og það er ekki hægt að taka hana alvarlega.  

Hið eina, sem dugir til að bæta hag núverandi eigenda til lengdar og bæta hag OR, er að kljúfa rafmagnsvinnsluna frá öðrum þáttum starfsemi OR, eins og skylda er samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um frjálsa samkeppni í raforkuvinnslu, stofna um raforkuvinnsluna hlutafélag og selja félagið hæstbjóðanda.

Mestur hluti fjárfestinga OR og stærstur hluti yfir 200 milljarða kr skuldar stafar af raforkuvinnslunni.  Þar hefur líka mest farið úr böndunum við áætlanagerð, svo að það er Deginum ljósara, að þar á bæ eru menn fjarri því að ráða við viðfangsefnið jarðgufuvirkjun til raforkuvinnslu. Mikil hitavatnsvinnsla fylgir alltaf raforkuvinnslunni, nema 90 % orkunnar sé sóað, og mundi nýja fyrirtækið, ROR, selja OR heita vatnið, sem til fellur.  Á slíku mundu báðir geta grætt, því að heitt vatn sem aukabúgrein ROR er ódýrara í vinnslu en frumvinnsla heits vatns yrði fyrir OR.  Ef ROR ætlar að okra á OR með heitt vatn, fer OR frekar út í frumvinnslu.  Samningar ættu þess vegna að nást á skynsamlegum nótum. 

Ef nýja hlutafélagið, ROR, hækkar raforkuverðið um of, þá snúa viðskiptavinirnir sér til annarra raforkubirgja, svo að ekki þurfa gömlu eigendurnir að óttast hækkun raforkuverðs umfram það, sem gamla stjórnmálasukkið mundi kalla fram.  Söluandvirði ROR mundu eigendurnir, Reykjavík, Borgarnes o.fl., geta notað til að grynnka á skuldum sínum og lækka í kjölfarið útsvarið eða auka þjónustustigið.  Stjórnmálamenn gætu síðan valið um að kjósa sjálfa sig eða handlangara sína í stjórn OR til að reka hitaveituna, vatnsveituna, fráveituna og rafveituna, sem sér um dreifingu rafmagns til notenda.  Þetta er raunveruleg lausn á vandamálinu, en ekki hálfkák, eins og rannsóknarnefndin lagði til og stjórnmálamenn í þrengingum tyggja upp eftir henni. 

Er alveg dæmalaust, að á þessa lausn, sem blasir við og ber af sem gull af eiri, skuli hvergi sjást minnzt, og er slíkt til marks um rétttrúnaðinn, doðann og drungann, sem forsjárhyggjustjórnvöld í Stjórnarráðinu við Bankastræti 0 og hjá öndunum á Tjörninni hafa valdið.           

     

  

   Aflmestu spennar landsins


Heimskreppa í aðsigi

Hagtölur hvaðanæva að úr heiminum eru óbjörgulegar nú um stundir.  'I öllum heimshlutum dregur úr hagvexti og sums staðar mjög mikið.  Dæmi um það eru Asíulöndin Indland og Kína.  Valdaskipti eru framundan í haust í Kína, og eykur það enn á óvissuna um þróun mála þar í þessu eins flokks ríki Kommúnistaflokks Kína.  Kína er orðið næststærsta hagkerfi heims, og ládeyða þar hefur áhrif hvarvetna. Fjárfestingar í Kína hafa árum saman numið 50 % af VLF (vergri landsframleiðslu), sem er einsdæmi, og þegar svo mikið er fjárfest, fer ekki hjá því, að töluvert sé um slæmar fjárfestingar.  Einmitt þetta hefur verið uppi á teninginum í Kína.  Héraðshöfðingar Kommúnistaflokks Kína hafa verið í samkeppni hver við annan um vegleg gæluverkefni, sem engu hafa skilað til baka, þ.e. verið án arðsemi.  Slíkar fjárfestingar eru alger sóun á fé og virka lamandi á hagkerfið, er frá líður. Fé án hirðis glatast.

Kína sýpur nú seyðið af óstjórn kommúnistanna.  Markaðskerfi og kommúnismi fara illa saman.  Kínverska hagkerfið hægir nú hratt á sér.  Sennilega endar það með samdrætti og uppreisn gegn einræði kommúnista.

Kínverjar hafa afturkallað stórar pantanir á hráefnum frá vorinu 2012.  Þetta hefur áhrif á heimshagkerfið.  T.d. keypti Kína árið 2011 40 % af kopar, sem á boðstólum var í heiminum.  BRIC-löndin, með Kína sem veigamest, áformuðu að nota 3,7 milljón tunnum meira á dag árið 2012 en árið 2011.  Úr því verður ekki.  Eftirspurn þeirra eftir olíu mun líklega ekkert aukast í ár.  Spurn BNA og ESB-ríkjanna mun minnka um a.m.k. 1,5 milljón tunna.  Olíuverð ætti þess vegna að lækka, en OPEC reynir líklega að tefja þá þróun með því að draga úr framleiðslu.  Annars væri heimsmarkaðsverð á olíu orðið lægra en reyndin er.

Spá OECD fyrir hagvöxt heimsins árið 2012 nam í  maí 2012 3,4 %, en er líklega allt of há.  Málmverð hefur hríðfallið, t.d. á járngrýti, kopar og áli, og er það meginskýringin á taprekstri samsteypu á borð við Rio Tinto.  Þetta er mjög neikvæð þróun fyrir Ísland, sem verður að fá miklar erlendar fjárfestingar til að rífa sig upp úr fúafeni stöðnunar hagkerfisins og vinna bug á grafalvarlegri skuldastöðu ríkisins, sem afturhaldið í Stjórnarráðinu hefur leitt á þjóðhættulegt stig.  Þyngra verður undir fæti að afla fjárfestinga í slæmu árferði en góðu.     

   

"It is the economy, stupid" var sagt áður um stærsta áhrifavald kosningaúrslita í BNA. Valdaskipti kunna að vera framundan í Bandaríkjum Norður-Ameríku, BNA, því að núverandi stjórnvöldum hefur ekki tekizt að blása almennilegu lífi í hagkerfið, þó að tekizt hafi með ærnum tilkostnaði að koma í veg fyrir langvarandi samdrátt.  Seðlabanki BNA hefur þó teygt sig mjög langt í peningaprentun.  Slíkt hefnir sín ávallt með verðbólgu.  Verðbólga er peningaþjófnaður, sem kemur verst niður á hinum lakar settu. 

Evrópa er í algerum lamasessi.  Hluti álfunnar gengur með betlistaf í hendi í Brüssel og Berlín í veikri tilraun til að hindra þjóðargjaldþrot.  Allar björgunartilraunir verða unnar fyrir gýg, ef samhliða nýjum lánveitingum eða afskriftum fer ekki fram kerfisbreyting á þjóðfélagsskipaninni.  Stappar nærri kraftaverki, ef slíkt gengur eftir. Þess vegna er útlitið svart fyrir Evrópu. Annað mál er, að uppi á Íslandi eru einfeldningar við völd, sem endilega vilja auka enn á vanda Íslands og gera vandamál Evrópu að sínum, þó að margar ESB-þjóðir líti nú frelsi Íslands öfundaraugum.

Gríðarlegar skuldir hvíla á fyrirtækjum Evrópu.  Fram til 2016 falla USD 4,2 trilljónir í gjalddaga, MUSD 507 árið 2012 samkvæmt Standard & Poor´s og USD 1,3 trilljónir árið 2014.  Þessar miklu skuldir munu virka hagvaxtarlamandi í Evrópu og bætast ofan á óvissuna um, hvort evran stendur eða fellur.  Margt bendir þess vegna til djúprar og langvinnrar heimskreppu í vændum.  Við þessar aðstæður þurfa Íslendingar á öllu öðru fremur að halda en úrræðalausu, sífrandi afturhaldi, sem með ofstæki reynir að ganga af sjálfbjarga miðstétt í landinu dauðri.  

Vextir eru mjög lágir núna um allan heim og hafa verið þannig um hríð.  Afleiðing slíks hefur alltaf orðið há verðbólga í kjölfarið.  Til að vinna á verðbólgunni eru seðlabankar vanir að hækka vexti, og slíkt hægir óhjákvæmilega á batanum.

Fyrir viðskiptaþjóðir Íslendinga eru horfurnar slæmar, og það boðar ekki gott fyrir efnahag Íslands.  Útflutningstekjur bíða hnekki, sem er ávísun á kjararýrnun.  Við slíkar aðstæður er skynsamlegt að reyna að lækka skuldir sínar.

Hvað hefur ríkisstjórn landsins gert til draga úr afleiðingum af heimskreppu á Íslandi ?  Því er fljótsvarað.  Nákvæmlega ekkert.  Hún flýtur sofandi að feigðarósi og virðist hvorki vita í þennan heim né annan.  Þessi hegðun er til vitnis um getuleysi og/eða ábyrgðarleysi, og hvort tveggja veitir ríkisstjórninni falleinkunn í landsstjórn. 

Ríkisstjórnin er á eftir áætlun við að ná jöfnuði á ríkisrekstrinum.  Vaxtakostnaður ríkissjóðs eykst þess vegna stöðugt og nemur nú um 80 milljörðum kr, sem er gjörsamlega fráleitt í rekstri með tekjur upp á um 500 milljarða kr. Þetta er hið versta mál í ljósi horfa á minnkandi útflutningstekjum.  Ríkisstjórnin hefur nákvæmlega ekkert gert til að koma hjólum athafnalífsins í gang með því að örva vilja til fjárfestinga, t.d. erlendra félaga.  Þvert á móti hefur ríkisstjórnin latt til slíks og sett upp margvíslegar hindranir fyrir fjárfesta.  Það eru þess vegna engin stórverkefni að fara af stað núna, eins og nauðsyn ber til og séð hefði verið um, ef forsjálni hefði gætt við landstjórnina.  Atvinnuástandið næsta vetur verður hryllingur í boði verklausrar vinstri stjórnar með annarlegar hvatir, en ríkisstjórnin heldur ósannindum að almenningi um, að allt sé í stakasta lagi og atvinna sé að aukast.  Staðreyndirnar tala öðru máli, því miður.  Ástandið er hættulegt, og nauðsyn ber til, að kjósendur láti ekki blekkjast af fagurgala hræsnara og loddara.

Allt hefur verið gert til að draga kjarkinn úr innlendum fjárfestum í hefðbundnum greinum.  Gengið er í berhögg við landbúnaðinn um kerfisbreytingar með samningum við ESB, sem ógna tilvist landbúnaðar á Íslandi.  Á tímum vaxandi gæðakrafna neytenda og óska um heilsusamlegt fæði er þetta stórt skref aftur á bak.  Skógrækt og landgræðsla hafa setið á hakanum, svo að mun minni binding koltvíildis hefur átt sér stað en verið hefði með óbreyttum fjárveitingum til þessara þörfu verkefna. Spyrja þarf í þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvað þjóðin vill í atvinnumálunum.  Á að ríkja hér framfarahugur á öllum sviðum og áherzla á menntun fólks í raungreinum, eða á afturhaldið í landinu að fá sínu framgengt með einskis nýtum gæluverkefnum sínum og banni við framfarasporum á öllum sviðum og eyðileggingu sjávarútvegs og ferðamannaþjónustu með ofurskattlagningu ? 

Valið er einfalt.  Framfaraleiðin, sem liggur um slóðir aukinnar framleiðslu, meiri framleiðni og tæknivæðingar, mun skipa Íslandi sess á meðal ríkja heims með mestu velmegun, en afturhaldsleiðin, sem liggur um eyðimörk ónytjungslegra og skaðlegra gæluverkefna, mun óhjákvæmilega leiða til þjóðargjaldþrots.

Sjávarútvegurinn er í uppnámi vegna vanhugsaðra gjörða ríkisstjórnarinnar.  Þar er hótað eignaupptöku, svo að sjálfgefið er, að fjárfestingar eru í algeru lágmarki og viðhald einnig.

Ríkisstjórnin hefur kastað sprengju inn í ferðaþjónustuna með ósvífinni hótum um hækkun virðisaukaskatts af gistingu.  Einfeldningsrök hennar um, að slík hækkun komi lítið niður á landsmönnum, eru fyrir neðan hellur.  Hækkunin kippir stoðunum undan arðsemi fjárfestinga í geiranum, og fáir þora eðlilega að fjárfesta í gistirými, þó að full þörf sé á því. 

Fjölmargir Íslendingar, sem hvorki eiga fellihýsi né húsvagn, nýta sér gistiþjónustu dreifbýlisins. Veit Huang Nubo af þessu ?  Mun skáldið draga sig inn í skel sína nú, þegar syrtir í álinn fyrir Kínverjum og deilur magnast við Japani, sem leitt geta til hernaðarátaka ?  Einhver sagði, að stríð þyrfti til að eyða kreppunni.  Það var einmitt úrræðið í Evrópu á 4. áratugi 20. aldar. Öfgaflokkar eflast einmitt í Evrópu núna.   

Ekki hefur farið fram hjá neinum, hversu köldu hefur andað frá ríkisstjórnarflokkunum í garð stóriðju og virkjanaáforma.  Tímabundinn skatt á raforku til stóriðju átti að vera búið að afnema samkvæmt samkomulagi, sem ætlunin virðist vera að svíkja.  Slík framkoma í garð erlendra fjárfesta er til þess eins fallin að veikja tiltrú þeirra í garð íslenzkra stjórnvalda og grafa undan áhuga þeirra á aukinni starfsemi hér, sem krefst aukinna raforkukaupa.  Það gæti verið með ráðum gert af ríkisstjórninni. 

Orkuvinnslufyrirtæki, sem reisa starfsemi sína á jarðgufu, virðast svo vanburða, að þau séu vart í færum til frekari virkjanaframkvæmda á næstunni, enda hljóta þau að leysa mengurvandamál jarðgufuvirkjana áður en lengra er haldið.  Hæpið er, að þau geti boðið heildsöluverð á raforku, sem samkeppnihæft sé á alþjóðlegum markaði.  Þau verða líka að gæta þess að láta ekki viðskiptavini greiða niður raforkuna með háu verði á heitu vatni.

Engum vafa er hins vegar undirorpið, að orkuvinnslufyrirtæki, sem reisa starfsemi sína á vatnsorku, geta boðið samkeppnihæft orkuverð til alþjóðlegra fyrirtækja.  Stærsta fyrirtækið, Landsvirkjun, er hins vegar með böggum hildar á samkeppnimarkaði í skugga eina eigandans, ríkisvaldsins.  Fyrirtækið hefur spennt bogann allt of hátt í verðlagningarmálum.  Orkuverð fer lækkandi á alþjóðlegum markaði af ýmsum ástæðum. Það er ekki einvörðungu vegna samdráttar í efnahagsstarfsemi heimsins, eins og talsmenn Landsvirkjunar hafa þó haldið fram, heldur er um langtíma þróun að ræða, sem stafar af tækniþróun við vinnslu á gasi, s.k. setlagagasi, sem virðist hafa farið framjá einhverjum uppi á Háaleitisbrautinni. 

Þá kann að styttast í "lokalausn" á orkuvandanum, sem er samrunaorkan. Nú er tækifæri fyrir Landsvirkjun til að bjóða samkeppnihæft verð að nýju, en það mun hún tæpast gera með núverandi húsbónda í Stjórnarráðinu.  Allt bíður næstu Alþingiskosninga. 

Allar meginstoðir íslenzka hagkerfisins eru í uppnámi í upphafi mikils samdráttarskeiðs í hagkerfum heimsins.  Ferill núverandi ríkisstjórnar er með endemum.  Þjóðfélagsástandið er ömurlegur vitnisburður um starfshætti óhæfrar ríkisstjórnar, sem margoft hefur sýnt, að hún setur framgang eigin sérvizku og fordóma ofar þjóðarhagsmunum.  Forsætisráðherrann er að leggja upp laupana.  Afraksturinn er ekki aðeins afspyrnu rýr í roðinu, heldur er hann með þeim hætti, að réttast er að kalla saman Landsdóm til að vega og meta, hvort landráð hafi verið framin í embættistíð hans. 

sunday drive      

 

 

    

 

 

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband