Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Fórnir á altari lýðheilsu

Það var áhugavert viðtalið, sem birtist við dr Thor Aspelund, líftölfræðing, í Morgunblaðinu 25. október 2020 undir fyrirsögninni:

"Að lifa með veirunni".

Hann er greinilega núna að velta fyrir sér, hvers konar sóttvarnaraðgerðir bera mestan árangur m.v. tekjutap og tilkostnað, þ.e. eru skilvirkastar. Það verður að velta fyrir sér, hvort alls konar frelsisskerðingar séu réttlætanlegar, þegar dánarhlutfall sýktra undir 70 ára aldri af völdum SARS-CoV-2 á heimsvísu er aðeins 0,05 %, sem er lægra hlutfall en dánarhlutfall af völdum inflúensu samkvæmt örverufræðinginum prófessor Bhati í Mainz í Þýzkalandi. Það hafa ýmsir faraldursfræðingar og læknar gert líka, og er líklega "Great Barrington" hópurinn þekktastur á því sviði, en vitnað verður til hans í þessum pistli. Fleiri sérfræðingar á sviði faraldursfræði hafa tjáð sig í svipuðum dúr, s.s. yfirmaður sóttvarna á Charité-sjúkrahúsinu í Berlín, prófessor í læknisfræði við Háskólann í Tromsö, skurðlæknirinn Elísabet Guðmundsdóttir á Landsspítalanum, sem var afhent uppsögn í kjölfar  tjáningar sinnar á útvarpsstöð í Reykjavík í október 2020, og íslenzkur læknaprófessor við Háskólann í Harvard í BNA. Það eru margar efasemdarraddir um, að sóttvarnaryfirvöld haldi í heiðri meðalhófsreglu.  Þegar síðast var hert á þumalskrúfunni, var bylgja 3 þegar tekin að réna, og þess vegna má halda því fram, að síðasta frelsisskerðing hafi verið þarflaus og óhófleg.  

Hvert land þarf að fást við C-19 faraldurinn með sínum ráðum, því að aðstæður eru mismunandi.  Á Íslandi er t.d. miklu minna þéttbýli og yfirleitt rýmra um fólk innanhúss og utan en víðast hvar erlendis. Þess vegna var fengur að viðtalinu við Thor Aspelund, enda er hann ljóslega víðsýnn og vel að sér.  Sérstaka athygli pistilhöfundar vakti upphaf námsferils hans í háskóla, en krókaleið hans þar er sennilega einsdæmi og hefði talizt óhugsandi, þegar pistilhöfundur var í háskólanámi:

"Ég fór smá krókaleiðir, en ég hef alltaf haft áhuga á ýmsu. Ég kláraði 1,5 ár í rafmagnsverkfræði, en áhuginn datt niður, og ég var að velta fyrir mér, hvað ég ætti að gera.  Ég þekkti gott fólk í guðfræði og sló til og tók seinni hluta vetrar þar.  Ég sá fljótt, að guðfræðin yrði ekki að ævistarfi, en þetta var heiðarleg skoðun á tilverunni og mjög ánægjulegur tími." 

Tímasóun hefði pistilhöfundi þótt þessi útúrdúr vera á sinni tíð að hverfa úr rafmagnsverkfræðinni, einmitt þegar leikar voru teknir að æsast, en eilífðarmálin ekki beint æsileg. Þegar Thor er spurður um, hvernig hann telji núverandi ástand enda, svarar hann:

""Ég hef áhyggjur af því, að það sé langt í land.  Við eigum eftir að fá bóluefni, og svo á eftir að dreifa því.  Við verðum ekki komin með hlutina í lag fyrr en seint á næsta ári [2021].  Ég spái því.  Þess vegna verðum við að fara að hugsa hlutina öðruvísi.  Mögulega verðum við að setja okkur markmið með það fyrir augum, að það verði alltaf einhver smit.  Við þurfum að ákveða, hvað við þolum mörg smit; setja okkur þolmörk.  Það gengur vel hjá spítalanum núna að halda utan um þetta", segir hann." [Var áður en hópsýking kom upp á Landakoti og dreifðist víðar með alvarlegum afleiðingum fyrir aldraða-innsk.BJo.]

Þetta er mergurinn málsins.  Ný hugsun og setja þjóðfélaginu þolmörk um fjölda sýkinga.  Þolir kerfið t.d. 400-500 sýkingar á dag ?  Hvernig verður hindrað, að sýkingafjöldi rjúki upp fyrir þolmörk ?  Það er líka rétt, að þessi veira er ekki á förum, hún mun ekki hverfa eins og flensupest í vor.  Thor treystir á tiltækt bóluefni haustið 2021.  Það er algerlega undir hælinn lagt, hvenær það kemur,  þrátt fyrir góð tíðindi fyrir hlutabréfamarkaðinn fyrir nokkrum dögum frá Pfizer/BioNTech,hvort ónæmi þess verður varanlegt, og hvort það muni hafa aukaverkanir.  Er skemmst að minnast alvarlega sjúkdómstilvika af völdum bóluefnis við svínaflensunni fyrir nokkrum árum. Hún náði ekki til Íslands, en í Noregi veiktust tugir manna alvarlega af bóluefninu, og ef rétt er munað, entist ónæmið af því illa. Í Rússlandi er líka komið fram bóluefni.  Þar mun sjúklinga verkja illa í nálargatið og veikjast með hita.  Þegar svona er í pottinn búið, er íhugunarefni, hvort ekki er skárra að veikjast af C-19 en að þiggja bóluefni, sem sett er á markað í írafári.  

Við verðum að búa okkur undir að þurfa að lifa lengi við þessa veiruógn.  Landsspítalanum og lýðheilsumálum þarf að stjórna samkvæmt því. Jólin verða ekki eðlileg, þótt nýgengið lækki núna, því að faraldurinn mun gjósa upp, þegar losað er um hömlur og fólk gætir ekki að sér, þar til hjarðónæmi næst. Jólahlaðborð og jólaboð verða ekki með hefðbundnum hætti.  Veiran breytir öllu, og það verður að laga sig að nýjum lifnaðarháttum.  Sem stendur eru þeir þó ósjálfbærir, t.d. lýðheilsulega séð. Við sjáum nú þegar örla á viðbjóðslegum afleiðingum víðtækra hamla á atvinnustarfsemi og líf ungra sem aldinna. Efnahagslegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið og fjöldaatvinnuleysi eru skelfileg.  Það er ekki hægt að halda svona áfram með samfélagið í spennitreyju út af kórónuveiru.  Margvísleg afbrigði kórónuveira hafa fylgt mannkyninu frá upphafi vega.   

Landsspítalinn getur ekki haldið áfram að slá öllum valkvæðum aðgerðum á frest, og Landlæknir getur ekki haldið tilskipun sinni um bann við valkvæðum aðgerðum í læknamiðstöðvum utan sjúkrahúsanna til streitu, enda hefur hún nú blásið bann sitt af. Þvert á móti hefði átt að setja læknamiðstöðvarnar á full afköst, svo að þær gætu létt álagi af Landsspítalanum vegna C-19-sjúklinga. Læknamiðstöðvarnar framkvæma núna, þegar þeim er leyft að starfa, meirihluta valkvæðra aðgerða á landinu, svo að stöðvun Landlæknis var bæði afdrifarík og óþörf.  Skýring Landlæknis er eins og út úr kú.  Hún var sú, að skjólstæðingar læknamiðstöðvanna gætu íþyngt Landsspítalnum.  Þessu er öfugt farið.  Frestun aðgerða magnar kvalir og eymd skjólstæðinganna, svo að þeir munu neyðast til að leita til bráðadeildar Landsspítalans í mun meiri mæli en þeir, sem farið hafa í aðgerð. Áfram með Thor:

"Smitrakningin verður líka að halda í við faraldurinn.  Það er lykilatriði.  Við erum alltaf að læra betur á þetta.  Hvernig er hægt að halda skólum opnum ?  Það er erfið tilhugsun að halda skólum lokuðum fram á vor.  Eins með íþróttir; við vitum, hvað það gerir börnum gott að vera í íþróttum.  Við þurfum kannski að sætta okkur við smit á ákveðnum fjölda og grípa svo inn í, ef fjölgar of mikið." 

Smitrakningin er mikilvæg, og kannski verður afkastageta smitrakningateymis takmarkandi fyrir leyfilegan fjölda smita ?  Skólar eiga að starfa ótruflaðir með grímuskyldu og sótthreinsun í framhaldsskólum.  Sama ætti að gilda um allar íþróttir, nema grímuskylda er þar varla raunhæf.  Langflestu ungu fólki verður lítið um þennan sjúkdóm og eru minna smitandi en fullorðnir. Núverandi bögglingur yfirvalda með skólafólkið er til vanza. 

Næst var spurt: "Hvað með að loka öllu algjörlega í 2 vikur og drepa alveg niður veiruna ?"

"Ég hef áhyggjur af því, að hún laumi sér alltaf inn aftur, einhvern veginn.  Ég held, að það sé ekki hægt að stoppa þetta.  Við þurfum frekar að taka þá stefnu að lifa með aðgerðum gegn veirunni.  Fram á næsta sumar." 

Pistilhöfundur er sammála Thor um þetta.  Það er óraunhæf stefna að útrýma þessari veiru á Íslandi fyrr en hjarðónæmi hefur náðst.  Það er jafnframt allt of dýrkeypt að reyna að útrýma henni fyrr, og það er unnið fyrir gýg, því að ný bylgja mun óhjákvæmilega rísa.  Bælingarstefnan á ekki við um þennan sjúkdóm. Landsmenn verða að búa sig undir annarleg jól og áramót og samfélag við veiruófétið allt næsta ár og jafnvel lengur.  Þess vegna þarf að finna út, hversu mikið má slaka á atvinnu- og ferðafrelsishömlum.  Vonandi að öllu leyti gegn háum takmörkunum á hópamyndunum, t.d. 1000 manns, nándarmörkum og ströngum persónubundnum sóttvörnum.

"Thor nefnir, að smitrakning og sóttkví sé að skila góðum árangri.  "Með því tókum við anzi marga út fyrir sviga, sem hefðu annars smitað aðra, þannig að í heildina er smitstuðullinn lægri.  Þeir, sem eru í sóttkví, eru ekki að smita.  Þetta er grundvallaraðgerð, annars værum við búin að missa tökin."" 

Þetta er vafalaust rétt mat hjá líftölfræðinginum.  Þjóðir beita þó sóttkví með misróttækum hætti, enda er um frelsissviptingu að ræða, sem kveða ætti á um í lögum, hvernig hátta skuli. Smitrakning og sóttkví eru stjórntæki, sem nýta má til að hafa áhrif á smitstuðulinn samkvæmt stefnumörkun um nýgengi, fjölda daglegra smita, álag á sjúkrahús o.s.frv..

Síðan er Thor spurður um rannsóknir, sem gætu hjálpað til við að þróa sóttvarnirnar frá bælingarstefnunni, en hún mun aðeins leiða til hverrar bylgjunnar á fætur annarri og lokunar í kjölfar opnunar.  Þannig er ófært að ætla að "lifa með veirunni":

""Já, nú er einmitt verkefnið að taka nýja stefnu.  Nú hefur safnazt saman reynsla síðustu mánaða frá mörgum löndum.  Hvaða aðgerðir hafa verið notaðar, og hvernig smitin breyttust í takti við það.  Til að geta gert eitthvað vitrænt, eru menn núna að rannsaka, hvaða aðgerðir virka bezt.  Það er stundum erfitt að toga þær í sundur, því að margar aðgerðir eru í gangi á sama tíma.  Við erum að reyna að finna út, hvaða samsetningar virka bezt; getum við sleppt einhverju ?  Getum við haft grímuskyldu og þá farið í 50 manna hópareglu ?  Eða er það samt ekki nógu gott ?

Getum við haft opna skóla ?  Vinnustaði ?  Þetta verkefni er núna að fara á flug.  Við erum að vinna þetta með finnskum fræðimanni í Bandaríkjunum og ætlum að vera þar í samfloti með að vega og meta áhrif aðgerða. Við erum að finna góðar samsetningar á aðgerðum, sem við getum sætt okkur við.  Þá getum við vegið og metið nokkra mismunandi kosti.  Ég er að fara af stað að rannsaka þetta núna.  Við stefnum í nýjar áttir", segir Thor."   

Þetta eru afar áhugaverðar upplýsingar frá Thor Aspelund.  Verkefnið er flókið, og það verður að einfalda það.  Það snýst í raun um að lágmarka heildar tekjutap og kostnað, þar sem tekið er tillit til áhrifa sóttvarnarráðstafana á efnahag og lýðheilsu.  Núverandi fyrirkomulag á landamærunum með tvöfaldri skimun og sóttkví á milli hefur t.d. valdið miklu gjaldeyristapi samfélagsins, og margir hafa misst vinnuna fyrir vikið. Langvinnur atvinnumissir getur valdið heilsutjóni og í sumum tilvikum lífshættulegum sjúkdómum, sem stundum enda með ótímabærum dauða.  Það hefur komið í ljós, að þessar dýrkeyptu aðgerðir á landamærunum hafa ekki komið í veg fyrir það, að beita hafi þurft ströngustu sóttvarnaraðgerðum innanlands að mati sóttvarnarlæknis, sem ganga mjög á athafnafrelsið, eru fyrirtækjum og einstaklingum dýrkeyptar og eru til þess fallnar að hafa slæm áhrif á lýðheilsuna. Þar sem þjónustugeirinn gegndi mjög stóru atvinnulegu og efnahagslegu hlutverki hérlendis, hefur þessi sóttvarnaraðgerð orðið afdrifarík, og það verður alls ekki séð, að hún hafi verið nauðsynleg. 

Annað sjónarhorn á sóttvarnir gaf stjórnsýslufræðingurinn Haukur Arnþórsson í Morgunblaðsgrein 8. október 2020:

  "Leiðrétta þarf afdrifarík mistök í sóttvörnum".

Hún hófst þannig:

"Þann 4. október sl. gáfu 3 fremstu faraldursfræðingar heimsins, prófessorar við Harvard-, Oxford- og Stanford-háskólana (Kulldorff, Gupta og Bhattacharia) út yfirlýsingu kennda við Great Barrington í Bandaríkjunum. Fjöldi prófessora og faraldursfræðinga hefur undirritað yfirlýsinguna.  Þar segir:

"Við höfum ... alvarlegar áhyggjur af því líkamlega og andlega tjóni, sem ríkjandi COVID-19 stefnumörkun veldur, og mælum með nálgun, sem við köllum markvissa vernd .... . Verði þessum aðgerðum haldið til streitu uns bóluefni er tiltækt, valda þær óafturkræfu tjóni, sem einkum bitnar á lægri lögum samfélagsins."

Markviss vernd felst í grófum dráttum í því, að "... ná hjarðónæmi [með] jafnvægi [á] milli áhættu og árangurs.  Þannig ætti að leyfa þeim, sem eru í minnstri lífshættu að lifa eðlilegu lífi í því skyni að auka ónæmi gagnvart vírusnum - ónæmi, sem er náð með náttúrulegu smiti.  Á sama tíma á að verja þá, sem eru í mestri áhættu."  Lokaorðin eru:

"Þeim, sem ekki eru í áhættuhópi, ætti án tafar að heimila að snúa aftur til eðlilegs lífsmynzturs.  Einfaldar varúðarráðstafanir, s.s. handþvottur og að dvelja heima í veikindum, þyrftu allir að viðhafa til að lækka hjarðónæmisþröskuldinn [lækkun smitstuðuls í 1,5 lækkar hjarðónæmisþröskuldinn í 33 % - innsk. BJo].  Skólar og háskólar ættu að kenna með staðkennslu.  Annarri virkni, s.s. íþróttum, ætti að halda áfram.  Ungt fólk í lágmarksáhættu ætti að vinna áfram með óbeyttu lagi frekar en frá heimilum sínum.  Veitingahús og aðrir í viðskiptum ættu að halda opnu.  Listir, tónlist, líkamsrækt og önnur menningarstarfsemi ætti að halda áfram.  Fólk í aukinni áhættu má taka þátt að vild, á meðan samfélagið sem heild verndar viðkvæma með skjóli þeirra, sem mynda hjarðónæmi".

Tegnell leiddi Svía nokkurn veginn til hjarðónæmis í þessum anda í vor (komið í maílok), þannig að faraldurinn veldur ekki alvarlegu tjóni þar aftur.  Svíar eru eina þjóðin, sem er frjáls. En hér á landi birtist skuggahlið "íslenzku leiðarinnar"."

"Great Barrington" hópurinn virðist vera rödd skynsaminnar, þegar bælingarstefnan er allsráðandi. Hérlendis misfórst markviss vernd viðkvæmra hjá Landsspítalanum.  Verndunarráðstafanir hans reyndust vera ómarkvissar, þegar til kastanna kom; meira í orði en á borði.  Spurningin er hins vegar sú, hver smittíðnin verður hérlendis, ef fylgt er ráðum "Great Barrington" hópsins, og hvort heilbrigðiskerfið ræður við sjúklingafjöldann, sem þá verður.  Væntanlega þarf einhverja millilausn, og vonandi kemur Thor Aspelund með tillögu um einhverja slíka.

Líklega er það ofmælt, að hjarðónæmi hafi náðst í Svíþjóð á 3 mánuðum marz-maí 2020.  Á Stokkhólmssvæðinu, þar sem flestir höfðu sýkzt, var hlutfall þeirra undir 20 %, er síðast fréttist, en það er of lágt fyrir hjarðónæmi gagnvart C-19, enda geisar önnur bylgja í Svíþjóð núna.

Hér er svo lýsing stjórnsýslufræðingsins á þjóðfélagslegum afleiðingum rangrar sóttvarnarstefnu á Íslandi:

"Alvarlegustu áhrif íslenzku leiðarinnar eru efnahagsleg og félagsleg.  Það stefnir í fjöldagjaldþrot fyrirtækja, sem varða ferðaþjónustu, stórfelldan hallarekstur ríkis og sveitarfélaga og samdrátt þjóðartekna um allt að 40 % [sennilega er átt við gjaldeyristekjur þjóðarinnar-innsk. BJo], sem eykur nýgengi fátæktar stórfelldlega og útburð og gjaldþrot hinna atvinnulausu, þegar þeir geta ekki greitt af lánum sínum.

Gert er ráð fyrir, að atvinnulausir verði yfir 20 þús. um áramót [2020/2021]; það varðar afkomu 50-60 þús. manns, barna og fullorðinna. Seinna í vetur getur örvænting hafa gripið um sig [á] meðal tugþúsunda Íslendinga með tilheyrandi pottaglamri á Austurvelli.  Þrengist þá fyrir dyrum stjórnmálanna." 

Stjórnvöld hafa sáralítið samráð við Alþingi eða hagsmunaaðila vinnumarkaðarins áður en þau taka taka sóttvarnarákvarðanir.  Þau bera m.a. við tímaskorti, sem sýnir, að þau eru í greipum læknanna, sem stilla þeim upp við vegg með fullyrðingum um, að herða verði aðgerðir fyrir helgi.  Ástandinu verður bezt lýst með orðunum "heilaþvottur" og "móðursýki".  Það vantar vitræna stefnumörkun til langs tíma. Vonandi tekst Thor Aspelund að sjóða saman skarplega hernaðaráætlun, sem reist er á beztu gögnum um veiruófétið.

 

 

  

 

 

 


C-19 breytir nútímasamfélaginu

Enginn veit, hvenær við öðlumst hjarðónæmi gagnvart SARS-CoV-2 veirunni frá Wuhan í Kína.  Það er undir hælinn lagt, hvenær nægt framboð á viðráðanlegu verði verður á öruggu og skilvirku bóluefni, sem veitir varanlegt ónæmi.  Viðbrögðin við veirunni hafa valdið heimskreppu, sem sér ekki fyrir endann á á Vesturlöndum.  Eina stóra hagkerfið, sem virðist ætla að ná V-lögun hagvaxtar, er hið kínverska.  Þar er spáð dágóðum hagvexti 2020. 

Kenningin um "svörtu svanina" er um það, að ófyrirséðir og afdrifaríkir atburðir breyti samfélaginu varanlega.  Þannig gæti löngum ferðalögum og vöruflutningum fækkað varanlega.  Almenningssamgöngur munu líða fyrir það vegna smithættu og fjarvinna að heiman aukast að sama skapi.  Mikið fall hefur t.d. orðið í farþegafjölda Strætó, verður ekki til að auka áhuga á Borgarlínunni.  Líklegt er, að aukin áherzla verði á að skapa vinnu í hverju landi fyrir sig og að efla framleiðsluiðnað og matvælaframleiðslu. 

 

Líkanasmiðir höfðu gert gert ráð fyrir heimsfaraldri vegna nýs öndunarsjúkdóms með uppruna í Asíu á borð við Spænsku veikina, sem reyndar hófst í Bandaríkjunum.  Líkön spáðu 71 M dauðsfalla í heiminum og 5 % samdrætti landsframleiðslu á heimsvísu.  

Hvaða áhrif hefur C-19 á þróunina ?  Vöruflutningar og fólksflutningar gætu minnkað, af því að aukin áherzla verður á heimaframleiðslu, og fjarvinna og fjarfundir ásamt aukinni meðvitund um heilsuvernd draga úr umferð á landi og í lofti. Þessa sér þegar stað t.d. hjá íslenzkum grænmetisbændum, sem hafa orðið varir við talsverða aukningu eftirspurnar.  Mörg teikn eru á lofti um blómlega framtíð íslenzks landbúnaðar yfirleitt, enda er leitun að sambærilegum vörugæðum og jafnlitlu kolefnisspori. Íslenzkur fjölskyldulandbúnaður er náttúrulegri en verksmiðjulandbúnaðurinn, sem gerir út á styrkjakerfi Evrópusambandsins og er knúinn áfram af mikilli áburðargjöf, skordýraeitri og sýklalyfjum.  

Þótt flytja þurfi yfir 95 % íslenzks sjávarafla á erlenda markaði mislangan veg, eru íslenzkar sjávarafurðir samt mjög samkeppnishæfar, hvað gæði og kolefnisspor tilbúinnar neytendavöru varðar.  Það er vegna tæknivæðingar í fremstu röð og metorkunýtni íslenzks sjávarútvegs og kolefnisfrírrar raforku við vinnslu í landi.  Ef vel tekst til í samningum EFTA og ESB um tollamál, þegar Bretland gengur úr tollabandalagi Evrópu um áramótin 2020/2021, er engum blöðum um það að fletta, að íslenzks sjávarútvegs bíður vaxandi markaður, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, ef fiskflutningar um langan veg frá Kína minnka. Þetta er auðvitað háð því, að fiskgengd á Íslandsmiðum dragist ekki saman af völdum umhverfisbreytinga í hafinu, en slíkt er nú vaxandi óvissuþáttur fyrir íslenzka hagkerfið. 

Stórmerkilegt viðtal birtist í Morgunblaðinu 24. október 2020 við Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóra Íslensks sjávarfangs í Kópavogi, sem vissulega ætti að geta leitt íslenzkum ráðamönnum fyrir sjónir, að þeir geta liðkað til fyrir stórfelldri atvinnusköpun og verðmætasköpun með því að jafna samkeppnisstöðu íslenzkrar fiskvinnslu við evrópskar, en þar hallar nú mjög á, m.a. vegna markaðsskekkingar Evrópusambandsins, sem þó er með frjálsa samkeppni á vörunum:

"Rúnari hugnast ekki sú þróun, sem orðið hefur í útflutningi á óunnum fiski, og er nú svo komið, að fiskvinnslur, sem reiða sig á að geta keypt hráefni á markaði, eru margar í erfiðri stöðu. 

"Þetta hefur höggvið skarð í þennan hóp fyrirtækja, sem mörg hver hafa verið starfandi um langt skeið, rutt brautina í útflutningi ferskra afurða og veitt fjölda manns atvinnu. Hvert á fætur öðru hafa þessi fyrirtæki lagt upp laupana og dýrmæt störf horfið með þeim." 

Reiknast Rúnari til, að í kringum 60 kt af bolfiski hafi verið flutt óverkuð úr landi á síðasta fiskveiðiári.

"Fyrir það magn gætu fiskvinnslurnar skapað þúsundir starfa með afleiddum störfum.  Eitt er svo að missa þessi störf, og annað, að með hverju fyrirtækinu, sem hættir rekstri, tapast markaðir fyrir íslenzkan fisk, því [að] erlendar vinnslur selja fiskinn sem íslenzkan og skaða stundum gæðaímynd íslenzka fisksins."

Bendir Rúnar á, að íslenzkir fiskverkendur sitji ekki við sama borð og kollegar þeirra í Evrópu og því ekki hægt að segja, að þróunin sé afleiðing eðlilegrar hagræðingar á frjálsum markaði.  Fiskurinn er t.d. ekki allur að fara til láglaunasvæða í Austur-Evrópu, og endar töluvert magn í Hollandi, þar sem Evrópusambandið greiðir keppinautum okkar háa stofnstyrki. Er eðlilegt að spyrja, hvort íslenzk stjórnvöld eigi ekki að grípa til aðgerða til að hamla þessum útflutningi, ef hann er afleiðing inngripa af hálfu Evrópusambandsins, sem skekkja eðlilega samkeppni." 

Nú eru uppi breyttar aðstæður á íslenzka vinnumarkaðinum, þar sem yfir 20 þúsund manns ganga nú atvinnulaus.  Að fá fólk til starfa ætti þess vegna ekki að vera vandamál, og ISK hefur gefið eftir út af m.a. litlum jákvæðum viðskiptajöfnuði og slæmum horfum.  Ríkissjóður gæti sparað sér greiðslur atvinnuleysisbóta með því að hleypa á ný lífi í fiskvinnslufyrirtækin og tryggja, að þau geti keppt um nægan fisk á markaði.

"Mikið af þeim fiski, sem seldur er óverkaður úr landi, fer framhjá markaði, og hafa innlendu vinnslurnar því ekki tækifæri til að kaupa hráefnið.  Raunar er hætt við, að ef þessi þróun fær að halda áfram, þá muni verð á fiskmörkuðum fara lækkandi, enda fækkar kaupendum, þegar fiskvinnslur þurfa að hætta rekstri, því [að] þær geta ekki tryggt sér nægt hráefni.  Þetta gerir markaðinn einsleitari, svo [að] hallar á seljendur og viðbúið, að fiskverð leiti niður á við."

 

 Við þær tvísýnu aðstæður í hafinu, sem uppi eru, er algerlega einboðið fyrir okkur að stórauka fiskeldi og feta þar með í fótspor "nágranna" okkar í Noregi, í Færeyjum og á Skotlandi.  Þótt hafið hér við land sé svalara en þarna (nema við Norður-Noreg) og vaxtarhraðinn þar með minni, býður Ísland samt að ýmsu leyti upp á hagstæð skilyrði fyrir fiskeldi.  Svalari sjór þýðir að öðru jöfnu, að minna verður um fisksjúkdóma og óværu, hafið er tiltölulega hreint og sjóskipti næg til náttúrulegrar hreinsunar yfirleitt. Raforkan er úr endurnýjanlegum orkulindum, afhendingaröryggi hennar batnandi, víða er jarðhiti, en verð orkunnar þarf að vera hagstæðara fyrir neytendur. Fiskeldisframleiðslan 2019 nam um 30 kt, en áhættumat fiskeldisleyfa nemur nú um 100 kt. Þessi vænta aukning fiskeldis jafngildir rúmlega 1000 nýjum störfum og um 70 mrdISK/ár í gjaldeyristekjur.  Tekjur hins opinbera á Íslandi af hverju t eldisfisks eru mun meiri en í Noregi, eins og fram kom í fróðlegri grein Einars K. Guðfinnssonar í Morgunblaðinu 26.10.2020.  

Ísland á að geta séð fiskeldinu fyrir megninu af fóðrinu, sem það notar, bæði kornræktendur, repjuræktendur, fiskvinnslur og kjötvinnslur. Við 100 kt/ár eldisfiskframleiðslu er líklegt, að hagkvæmni innlendrar fóðurframleiðslu verði næg, og minnkar þá kolefnissporið enn.

Burðarþol íslenzkra fjarða til fiskeldis er líklega um 200 kt/ár, og með nýjustu tækni og mótvægisaðgerðum á að vera unnt að ná því marki innan 15 ára.  Með landeldi og úthafseldi, sem Norðmenn feta sig nú áfram með í risakvíum, á að vera unnt að framleiða um 500 kt/ár af eldisfiski eftir 25 ár.  Hugsanlega mun þetta gefa hreinar gjaldeyristekjur upp á 500 mrdISK/ár, sem er svipað og brúttótekjur ferðamannageirans náðu hæst.

 Framtíð ferðamannageirans er í uppnámi, bæði vegna óhóflegra sóttvarnaaðgerða íslenzkra yfirvalda, en einnig vegna mjög mikilla farartálma inn á Schengen-svæðið. Uppnáminu hérlendis af þessum sökum lýkur ekki fyrr en hjarðónæmi næst, annaðhvort með eðlilegum hætti eða bólusetningu.  Ekkert er fast í hendi með bóluefni, hvað sem fagurgala líður.  Ferðageirinn mun hægt og sígandi jafna sig, og langan tíma tekur að ná sömu hæðum á ný.

Þann 2. október 2020 birtist stutt, en athyglisvert viðtal við Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við HÍ: 

""Við þessar aðstæður væri rétt að stofna fjárfestingarsjóð til að fjárfesta í vænlegum ferðafyrirtækjum.  Og, ef það er rétt, sem allir virðast halda, að það sé framtíð í ferðaþjónustu á Íslandi, þá ætti svona sjóður að geta skilað hagnaði.  Það þarf hins vegar að fjármagna hann. Sú leið hefur þann kost, að í stað þess, að stjórnmálamenn séu að taka ákvarðanir um ríkisaðstoð meira og minna á hlaupum og af mikilli vanþekkingu, myndu sérfræðingar í fjárfestingum úthluta þessum fjármunum.  Þetta yrði ekki ólíkt Framtakssjóði Íslands  á sínum tíma", segir Ragnar."

Þessi "Ragnarssjóður" ætti einnig að fá leyfi til að reisa fiskvinnslufyrirtæki við, sem Kófið hefur farið illa með.  Þegar tekjur fyrirtækja dragst saman um meira en 80 % m.v. árið á undan, þá er afkomugrundvellinum kippt undan flestum fyrirtækjanna, og þau tóra ekki án opinberrar aðstoðar.  Nú þegar er ríkissjóður orðinn skuldum vafinn, og skuldaklafinn verður mjög íþyngjandi, þegar vextir hækka aftur.  Vextir og afborganir munu þá sníða ríkisstjórnum framtíðarinnar þröngan stakk, og þær munu rýra kaupmátt almennings með skattahækkunum.  Þess vegna er hugmynd Ragnars um sjóðsstofnun, sem kæmi í stað ríkisstuðnings við í sumum tilvikum dauðvona fyrirtæki, góðra gjalda verð. Þörf fyrir slíkan ríkisstuðning minnkar dálítið, ef stjórnvöld láta eina skimun duga fyrir komufarþega aðra en íbúa hérlendis. Vonandi tekst að fjármagna Kófssjóð og stofna hann .

"Ragnar gagnrýnir, að ekki skuli sýnt meira aðhald í ríkisrekstrinum.  "Við þessar aðstæður hefði kannski verið ástæða til að draga úr umsvifum ríkissjóðs.  Það er að mæta þessari kreppu með niðurskurði á útgjöldum, sem eru ekki beinlínis notuð til að hjálpa íslenzkum þegnum.  Þá t.d. skuldbindingar erlendis, og skuldbindingar gagnvart útlendingum, sem koma til landsins.  

Skera niður fituna, en forðast þó að skera niður laun til starfsmanna á þessum atvinnuleysistímum.  Það er ekki skynsamlegt að reka fólk, sem fer svo á atvinnuleysisbætur.  

Útgjöld ríkissjóðs í ár hafa mörg verið illa hugsuð, illa undirbúin og ekki nýtzt vel.  Það er gripið til þeirra í örvæntingu, tel ég vera", segir Ragnar um aðgerðapakkana."

Þessi gagnrýni á útgjöld ríkissjóðs á þessu ári á fullan rétt á sér, vegna þess að það stefnir í algert óefni með rekstur ríkissjóðs, þegar útgjaldafylliríi Kófsins lýkur.  Það er ekki nóg að segja, að hagvöxtur og auknar tekjur muni bjarga málinu.  Sá vöxtur er engan veginn í hendi. Áhyggjur markaðarins um fjármögnun hallans eru þegar komnar fram sem hækkun á langtímaávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa.

Hald manna er, að í Evrópu verði kreppan langvarandi, en eitthvað skammvinnari í Bandaríkjunum.  Landsvirkjun hefur enn ekki verið beitt af krafti til að koma hjólum iðnaðarins í gang. Bráðabirgða Kófslækkun á rafmagni fyrirtækisins náði t.d. aldrei til ISAL.  Neikvæð afstaða fyrirtækisins til endurnýjunar orkusamninga við ISAL, Norðurál og Elkem Ísland sýnir svart á hvítu, að þar á bæ þekkja menn ekki sinn vitjunartíma, enda hafa nú bæði álfyrirtækin kvartað undan markaðsmismunun Landsvirkjunar við Samkeppnisstofnun.  

Ekki er hljóðið betra gagnvart Landsvirkjun á sviði kísiliðnaðar, svo að ekki sé nú minnzt á bændur eða fiskimjölsverksmiðjurnar.  Alls staðar er kvartað undan framkomu Landsvirkjunar á markaðinum.  Núverandi forstjóri hennar veður um eins og fíll í postulínsbúð. Þingmenn verða að veita stjórn fyrirtækisins aðhald, og þeir verða að fá fyrirtækinu leiðsögn um hlutverk þess gagnvart atvinnulífinu.  Núverandi forstjóri þess er á villigötum.

Þann 28. september 2020 birtist athyglisvert viðtal í Morgunblaðinu við nýjan forstjóra Elkem Ísland, Álfheiði Ágústsdóttur, en Elkem á og rekur járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga.

Viðtalið hófst þannig:

""Fjölbreytileiki í verðmætasköpun er afar mikilvægur.  Sú staðreynd finnst mér hafa komið vel í ljós á þessu ári, þegar aðstæður hafa gjörbreytzt, og ferðaþjónustan - sú atvinnugrein, sem hvað mestu skilaði á efnahagsreikning samfélagsins - er nánast dottin út", segir Álfheiður Ágústsdóttir, nýr forstjóri Elkem Ísland á Grundartanga. 

"Okkur hjá Elkem er metnaðarmál að starfa í góðri sátt við samfélagið og taka þátt í sameiginlegum verkefnum heimsins á sviði umhverfismála.  Nýting vistvænna orkugjafa, t.d. í framleiðslu á íblöndunarefni fyrir vel leiðandi rafmagnsstál, er e.t.v. stærsta framlag Íslands til alþjóðlegra loftslagsverkefna.  Við teljum okkur leggja mikið af mörkum."

Fjölbreytileiki fæst einmitt með stóriðjunni.  Það vita þeir, sem til þekkja, en til eru þeir, sem gaspra annað af vanþekkingu og molbúahætti.  Stóriðjan þarf á margs konar sérþekkingu að halda, og hún hefur fóstrað sprotafyrirtæki á sviði hugbúnaðar, rafmagns- og vélahönnunar.  Hún hefur þróað sjálfvirknibúnað í samstarfi við sprotafyrirtæki, sem síðan hafa haslað sér völl á sérhæfðum mörkuðum erlendis.  Orkukræfu fyrirtækin eru öflugir bakhjarlar og viðskiptavinir alls konar innlendra birgja. 

Stóriðjufyrirtækin eru brautryðjendur á sviði vinnustaðamenningar, öryggis- og gæðastýringar hérlendis.  Umhverfismál þeirra eru yfirleitt til fyrirmyndar.  Kolefnisspor íslenzkrar stóriðju per framleitt tonn er eitt hið minnsta í heiminum.  Að framleiða járnblendi, kísil eða ál á Íslandi felur í sér umhverfisvernd á heimsvísu og sjálfbæra verðmætasköpun landsmanna. 

""Helzta verkefni mitt sem forstjóri er að virkja sem bezt þekkingu og sterka liðsheild innan fyrirtækisins", sagði Álfheiður, þegar Morgunblaðið hitti hana í Hvalfirðinum fyrir helgina.  Þar kynnti hún blaðamanni helztu drættina í starfseminni, en hjá Elkem vinna um 180 manns.  Það er fólk, sem að stærstum hluta býr á Akranesi og í Borgarfirði.  Þá koma verktakar að mörgum þáttum starfseminnar hér.

"Ég tel, að starfsfólk okkar geti verið sátt með sitt, og við borgum ágætlega.  Launakostnaður Elkem Ísland er sá hæsti innan samstæðunnar, sem rekur alls 27 verksmiðjur víða um heim.""

Launakerfin á Íslandi mættu taka meira mið af afkomu fyrirtækjanna og launasamningar vera sveigjanlegri eftir breytingum í umhverfinu.  Stífar kröfur og stífir samningar ógna nú samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækjanna.  Þessi staða ýtir mjög undir aukna framleiðni, sem iðulega næst bezt með aukinni sjálfvirkni.  Það þýðir, að óbreyttri framleiðslu, færra starfsfólk.  Bezt er, ef fyrirtækin geta aukið framleiðslu sína samfara aukinni sjálfvirkni. Þá þarf ekki að fækka fólki. Til þess þurfa stóriðjufyrirtækin hins vegar meira rafmagn, og það hefur ekki verið fáanlegt undanfarið frá Landsvirkjun að sögn forstjóra Norðuráls.  Ef það er rétt, er tal forstjóra OR um 7,5 % umframorku í landinu núna þvættingur.  

""Þetta er háþróuð framleiðsla, sem við erum stolt af, ekki sízt vegna sterkrar markaðshlutdeildar í rafmagnsstáli, sem heldur viðnámi í orkuflutningum í lágmarki og sparar mikla og dýrmæta orku.  Á þessu sviði erum við stærsti framleiðandinn innan Elkem-samstæðunnar.  Þessar afurðir eru notaðar í spenna og mótora rafmagnsbíla, hástyrktarstál fyrir vindmyllur, hnífapör, kúlur, legur og bara allt milli himins og jarðar", eins og Álfheiður komst að orði."

Svipaða sögu má segja af öllum orkukræfu fyrirtækjunum.  Þau hafa náð langt í sérhæfingu og skilvirkni framleiðsluferla, þannig að tæknilega standa þau vel að vígi, en það er einn þáttur hér innanlands, sem veikir þau mjög, og það er skortur á rafmagni á samkeppnishæfum kjörum.  Það tekur því varla að minnast á hælbíta íslenzkrar stóriðju.  Þar eru blind afturhaldsöfl á ferðinni.  Ef þau hefðu alla tíð fengið með uppivöðslusemi sinni að ráða ferðinni, væri hér mun fámennara og fátækara samfélag með viðvarandi miklu atvinnuleysi.  Áróður þeirra hefur reynzt innistæðulaust froðusnakk.

""Úrskurður um rafmagnsverðið, sem gerðardómur kvað upp í maí í fyrra, eftir árangurslausar samningaviðræður við Landsvirkjun, hefur gjörbreytt samkeppnishæfni okkar til hins verra.  Því er að ýmsu að huga við að tryggja áframhaldandi rekstur til framtíðar", segir Álfheiður."  

Landsvirkjun var sett á legg til að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja á borð við Elkem Ísland til langs tíma og samtímis að breyta fallorku vatns í gjaldeyri þjóðinni til handa með arðbærum hætti.

  Síðan núverandi forstjóri Landsvirkjunar tók þar við störfum 2010 á tímum vinstri stjórnarinnar alræmdu, hefur þessu hlutverki Landsvirkjunar verið snúið á hvolf.  Fyrirtækinu virðist nú vera ætlað að að ganga á milli bols og höfuðs á þeirri starfsemi, sem það var áður undirstaðan fyrir.  Þetta hefur aldrei verið vitlausari stefnumörkun en nú á tíma Kófsins, þegar samfélaginu er meiri nauðsyn en oft áður að nýta orkulindir sínar til að viðhalda vinnu og skapa fleiri störf og meiri gjaldeyri.

Það er stórfurðulegt, að svo virðist sem þingkjörin stjórn fyrirtækisins láti þessi ósköp gott heita, þótt Alþingi hafi raunar aldrei breytt upphaflegri stefnumörkun sinni við stofnun Landsvirkjunar 1965.  Að þessi hafvilla Landsvirkjunarskipstjórans skuli ekki vera leiðrétt nú í Kófinu af viðkomandi ráðherrum orku- og fjármála og þinginu öllu, er óskiljanlegt, því að öllum má ljóst vera, að Landsvirkjun grefur undan þjóðarhag með okurstefnu sinni. 

Samkvæmt upplýsingum fyrirrennara Álfheiðar í starfi forstjóra, er ekki lífvænlegur rekstrargrundvöllur fyrir starfseminni eftir téðan gerðardóm.  Sá dómur fór þó milliveg á milli deilenda.  Af stakri ósvífni sinni lýsti Landsvirkjun yfir, eftir uppkvaðningu úrskurðarins, að hún stefndi á að ná sínu takmarki, þegar gildistími úrskurðarins rennur út um 2028.  Af þessum sökum ákvað Elkem Ísland að leggja ýmis fjárfestingaráform sín til hliðar.  Þessi staða er stórskaðleg fyrir íslenzkt efnahagslíf og umsvifin á Vesturlandi og sérstaklega slæm núna í Kófinu.   

Núna heldur Landsvirkjun þremur stóriðjufyrirtækjum í gíslingu: Elkem Ísland og Norðuráli á Grundartanga og ISAL í Straumsvík.  Þegar hagkerfinu bráðliggur á að fá til sín allar fjárfestingar, sem völ er á, þá kemst ríkisfyrirtækið Landsvirkjun upp með að hindra vöxt og viðgang þessara fyrirtækja, og eru þá ekki öll upp talin. 

"Fyrirtækið hefur m.a. gefið út, fyrst stórra iðnfyrirtækja á Íslandi, að það stefni á að verða kolefnishlutlaust framleiðslufyrirtæki fyrir árið 2040.  Áherzlna að því markmiði sjái stað í öllum rekstrinum."   

Við skulum vona, að fyrirtækinu endist aldur til að raungera þetta fyrirmyndarmarkmið.  Það er fyrir neðan allar hellur, að ríkisfyrirtæki skuli vera helzti þrándurinn í götu Elkem Ísland og fleiri fyrirtækja að vinna að markmiðum, sem krefjast vinnuskapandi þróunarvinnu hér í landinu.  Áherzlur ríkisins eru á röngum stöðum í Kófinu. 

 

 

 

 


Vogarskálar, veiran og lögin

Ýmsir hérlendir lögmenn hafa tjáð sig í þá veru, að tillögur sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra, sem sá ráðherra virðist hingað til hafa gleypt með húð og hári og breytt í reglugerð, oftast með samþykki ríkisstjórnar, skorti nauðsynlega lagastoð og stangist í sumum tilvikum á við Stjórnarskrá.  Þetta er gjörsamlega óviðunandi og þarf að fá úr skorið sem fyrst. Ekki er nóg að boða framlagningu frumvarps um ný sóttvarnarlög.  Ákvæðum Stjórnarskrár um persónubundin réttindi og athafnafrelsi verður ekki breytt. Aðgerðirnar núna verða að vera reistar á núverandi löggjöf, og um það eru uppi alvarlegar athugasemdir.  Sóttvarnaryfirvöld hafa aldrei sýnt fram á, að aðgerðir þeirra séu nauðsynlegar, þ.e. að vægari aðgerðir hefðu ekki dugað til að koma í veg fyrir oflestun heilbrigðiskerfisins. Bælingarstefnan, þ.e. afar íþyngjandi aðgerðir til að þvinga smitstuðulinn langt undir 1,0, hafa verri aukaverkanir en nemur gagnseminni. 

Stjórnvöld ættu nú að sjá að sér og íhuga stefnubreytingu í sóttvörnum gegn SARS-CoV-2.  Stefnan hefur hingað til miðað við bælingu, sem krefst stjórnvaldsaðgerða, sem skortir lagastoð og hefur alvarlegar lýðheilsulegar afleiðingar í för með sér, svo að ekki sé nú minnzt á gríðarlegt fjárhagstjón af völdum harkalegra hafta. Bælingarstefnan mun leiða af sér hverja bylgju faraldursins á eftir annarri, þar til nothæft bóluefni er tiltækt almenningi, og það getur dregizt á langinn, e.t.v. til 2022. Bælingarstefnan getur átt við skæðar drepsóttir, þar sem reynt er að útrýma sóttkveikjunni, en á ekki við C-19 í sinni núverandi mynd.   

Nýju sóttvarnarstefnuna ætti að reisa á stýrðri leið til hjarðónæmis.  Á 30 vikum verður þá hægt að ná hjarðónæmi hérlendis, sem dugir til að fækka smitum verulega og koma Íslandi á s.k. grænt svæði, þar sem nýgengi smita er undir 25.  Nú hefur pestin geisað í þremur bylgjum í rúmlega 30 vikur, og nýgengi smita innanlands og á landamærum fór yfir 300, þrátt fyrir umfangsmikil ferða- og athafnahöft. Sumir mundu kalla þetta falleinkunn fyrir bælingarstefnuna.  

Til að sýna á hversu veikum lagalegum grunni höft heilbrigðisráðherra á starfsemi fyrirtækja og háttarlag einstaklinga standa, er nóg að vitna til greinarkorns Jóns Steinars Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu 17. október 2020, sem hann nefndi:

"Fyrirmæli eða tilmæli".

"Ástæða er til að vekja athygli manna á, að yfirvöld í landinu hafa afar takmarkaðar heimildir til að stjórna háttsemi manna í veirufárinu með valdboði.  Í sóttvarnarlögum er ekki að finna víðtækar heimildir til slíks. Reyndar er í ýmsum tilvikum vafasamt, að stjórnvöld gætu skert stjórnarskrárvarin réttindi manna með bindandi fyrirmælum til almennings, þó að styddust við sett lög.  Til slíkra fyrirmæla þarf heimildir í stjórnarskránni sjálfri."

Sóttvarnaryfirvöld hafa ekki haldið aftur af sér við útgáfu fyrirmæla, sem sum hafa haft mjög neikvæð áhrif á hagkerfið og eru líkleg til að hafa mjög neikvæð áhrif á lýðheilsu, er frá líður.  Mörg fyrirmælanna skerða bæði atvinnufrelsi og persónufrelsi. Það er allsendis óvíst, að fyrirmælin í reglugerðunum hafi verið nauðsynleg eða skilað meiri árangri en brýningar og tilmæli hefðu gert. 

Vegna þess hvernig í pottinn er búið með heimildir löggjafans, bar framkvæmdavaldinu þegar í upphafi að leggja áherzlu á meðalhóf í fyrirmælum og persónubundnar sóttvarnir fremur en almennar takmarkanir og lokanir.  Persónubundnar sóttvarnaraðgerðir geta ekki talizt úr hófi íþyngjandi. 

Sóttkví er íþyngjandi skerðing á persónufrelsi og ber þess vegna að beita í meðalhófi, en sé henni beitt markvisst, er hún mjög áhrifarík aðferð til að hemja útbreiðslu og lækka meðalsmitstuðulinn, sem er höfuðatriðið í þessari baráttu. 

Áfram hélt Jón Steinar Gunnlaugsson:

 "Það er auðvitað sjálfsagt, að yfirvöld heilbrigðismála beiti tilmælum til borgaranna um æskilega hegðun þeirra við þessar aðstæður.  Það er líka sjálfsagt fyrir almenning að fara að þessum tilmælum í flestum tilvikum, því að öll viljum við takmarka útbreiðslu þessa vágests, sem veiran er.  Við ættum samt að hafa í huga, að ábyrgðin er okkar sjálfra.  Ef t.d. stjórnarráðið gæfi mér fyrirmæli um að halda mig í 2 m fjarlægð frá eiginkonunni, myndi ég ekki hlíta því.  Skítt með veiruna."

Það má taka undir það, að borgararnir eru sjálfir ábyrgir fyrir öryggi sínu og þeirra, sem í kringum þá eru.  Þeir verða sjálfir að vega og meta, hvað er einfaldlega of íþyngjandi fyrir þá, en ráðleggingar sóttvarnayfirvalda um persónubundnar varnir eiga fullan rétt á sér.  Það veikir hins vegar mjög fyrirmælin í reglugerðunum, að löggjafinn virðist ekki hafa veitt heimildir til íþyngjandi fyrirmæla.  Þeim mun undarlegra er, að aðkoma þingmanna virðist vera af skornum skammti.  Í Noregi er áskilið, að Stórþingið fjalli um frelsistakmarkanir almennings og ljái þeim lögmæti.  

Þann 15. október 2020 birtist í Fréttablaðinu grein, sem "þríeykið", Alma D. Möller, Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason, er skrifað fyrir.  Hún bar fyrirsögnina:

"Vogarskálar veirunnar og lýðheilsa".

Grein þessi virðist á yfirborðinu vera málefnaleg, en hún er í raun mjög gagnrýniverð, því að hún einkennist um of af hræðsluáróðri gegn þeirri leið, sem ein getur leitt til varanlegs árangurs í baráttunni, en það er leið stýrðs hjarðónæmis.  Þau gefa sér, að eina leið hjarðónæmis sé hömlulaus vöxtur smita með mjög háum smitstuðli og að hjarðónæmi náist ekki fyrr en 60 % íbúanna hafi smitazt.  Þetta heitir að mála skrattann á vegginn.  Með áherzlu á persónubundnar smitvarnir, nándarmörk, grímuskyldu, sótthreinsun og þvott ásamt markvissri beitingu smitrakningar og sóttkvía, en án annarra takmarkana á persónufrelsi og án takmarkana á atvinnufrelsi, nema allt annað hafi verið reynt, má væntanlega halda smitþættinum undir eða við 1,5, og þá næst hjarðónæmi við ónæmi 33 % íbúanna. Ef tekinn yrði álíka tími í að ná þessu marki og tekið hefur að ná fram ónæmi 2 % íbúanna hingað til, um 30 vikur, þá verður fórnarkostnaðurinn enginn, þ.e. færri munu látast af völdum C-19 en af afleiðingum bælingarstefnunnar á hagkerfið og vinnumarkaðinn.

Verður nú vitnað í grein "þríeykisins":

"Það er mat okkar, að fórnarkostnaður við leið hjarðónæmis verði allt of hár, eins og rakið verður.  Álit okkar er, að bezt sé að halda áfram aðgerðum við að halda veirunni í skefjum, en með sem minnstri röskun á deglegu lífi, þar til bóluefni er fram komið.  Annað, sem vinnst við að þreyja þorrann, er að þekking á meðferð og sjúkdómnum eykst, m.a. á langtímaáhrifum.  Þá er hugsanlegt, að veiran veikist með tímanum líkt og gerðist í spænsku veikinni, þó [að] enn séu engin merki um slíkt."

Þessi málflutningur er reistur á röngum forsendum og draumórum.  Þau nota tölfræði úr "Bylgju 1" á Íslandi, en tölfræði "Bylgju 2-3" gefur allt aðra og sakleysislegri niðurstöðu.  Það hlýtur að vera réttara að nota nýjustu gögn.  Það er óráðlegt að búast við nothæfu, öruggu, varanlegu, og skilvirku bóluefni á einhverjum tilgreindum tíma á næsta ári.  Þegar slíkt kemur, verður það til að létta róðurinn, hvor leiðin sem valin er.  Sama má segja um stefnuna, sem stökkbreytingar veirunnar kunna að taka.

Nú verða bornar saman tölur úr 2.-3. bylgju og 1. bylgju.  Tölur úr 1. bylgju eru úr grein "þríeykisins" og eru hafðar í sviga:  

Í 2.-3. bylgju fram til 18.10.2020 greindust 2255 (1800) með veiruprófi.  Þá má reikna með, að 8000 manns eða 2,2 % (1,0 %) íbúanna búi að mótefni m.v. niðurstöður mótefnamælinga eftir 1. bylgju.  Af hópi greindra í 2.-3. bylgju höfðu 18.10.2020 64 (115) verið lagðir inn á sjúkrahús eða 1,5 % (3,2 %).  Í 2.-3 bylgju hafa hafa 7 (30) þarfnazt meðferðar gjörgæzludeildar eða 0,16 % (0,8 %), og 1 (10) hefur látizt eða 0,02 % (0,3 %). 

Það má halda því fram, að himinn og haf sé á milli hlutfallstalnanna í síðustu tveimur bylgjum m.v. þá fyrstu.  Þess vegna fæst gjörólík niðurstaða, þegar reynt er að áætla líklega þróun faraldursins, ef létt verður á samfélagshöftum til að beina þróuninni með stýrðum hætti í átt að hjarðónæmi, svo að ekki sé nú minnzt á svartnættið, sem "þríeykið" dregur upp af því öfgaástandi, sem gæti myndazt, ef engar varúðarráðstafanir eru viðhafðar.  Þar málar "þríeykið" skrattann á vegginn í því skyni að verja bælingarstefnu sína, sem er árangurslaus haftastefna, sem við höfum ekki ráð á.  Hún er árangurslaus, af því að hún veldur meira tjóni en sparnaði á alla mælikvarða, þ.e. lýðheilsu, fjölda dauðsfalla og efnahag landsmanna.

Þríeykinu verður starsýnt í baksýnisspegilinn, en slíkt háttarlag getur leitt til rangra ályktana og rangra ákvarðana: 

 "Þegar farsóttin skall á, var samstaða um að verja nauðsynlega innviði, ekki sízt heilbrigðiskerfið, og vernda viðkvæma hópa.  Árangur Íslands byggði á víðtækum aðgerðum: upplýsingum til almennings [mjög mikilvægt-innsk. BJo], áherzlu á einstaklingsbundnar sóttvarnir [lykilatriði, þó vantaði grímuskyldu-innsk. BJo], snemmgreiningu og einangrun sýktra [mjög mikilvægt-innsk.BJo], markvissu eftirliti ásamt snemmtækri íhlutun við versnun veikinda [lykilatriði til að draga úr sjúkrahússálagi-innsk. BJo], smitrakningu [mikilvægt hjálpartæki-innsk.BJo], beitingu sóttkvíar [mjög mikilvægt, en gæta verður meðalhófs] og samfélagslegum aðgerðum [margar þeirra orka tvímælis-innsk.BJo]. Samfélagslegar aðgerðir fólu í sér heimsóknabann á hjúkrunarheimilum [nauðsynlegt-innsk.BJo], samkomutakmarkanir [orka tvímælis-innsk. BJo], lokun mennta- og háskóla [of langt gengið-innsk. BJo], lokun þjónustu með mikilli nánd [of langt gengið-innsk. BJo] og takmörkun á annarri, en nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu [þetta gengur ekki til lengdar-innsk.BJo]. 

Ein misráðin aðgerð er ónefnd hér, en hún er sú að skylda alla komufarþega til landsins í tvöfalda skimun með um 5 sólarhringa sóttkví á milli.  Aðgerðin hafði lítil sóttvarnarleg áhrif (tiltölulega lágur smitstuðull almenns ferðafólks), en olli miklum tekjumissi ferðageirans (a.m.k. 70 %) og atvinnumissi þúsunda manna.  Nauðsynlegt og nægjanlegt er að skima erlenda ferðamenn einu sinni við komuna vegna smitstuðuls, sem vart er hærri en 1, og að skima íbúa hérlendis tvisvar með sóttkví á milli vegna tiltölulega hás smitstuðuls þeirra. 

Lýðheilsuáhrifin af almennri tvöfaldri skimun geta orðið slæm og miklu verri en ávinningurinn.  Rannsóknir hafa sýnt, að langtímaatvinnuleysi veldur fjölda ótímabærra dauðsfalla, jafnvel 30 á þriggja ára tímabili fyrir hverja 1000, sem missa vinnuna.

"Þríeykið" viðurkennir hættuna á slæmum langtímaáhrifum sóttvarnaraðgerða á lýðheilsuna, en neitar að horfast í augu við, að sú áhætta mælir með að feta brautina að hjarðónæmi með stýrðum hætti, t.d. á um 30 vikum:

"Þótt áhrif sóttvarnaraðgerða hérlendis á lýðheilsu virðist væg til skemmri tíma litið, er ástæða til að óttast langtímaáhrif, ef ástandið dregst.  Áhrif sóttvarnaraðgerða á lýðheilsu eru ekki þekkt, en gætu hugsanlega verið verri heilsuhegðun, t.d. minni hreyfing og svefn, verra mataræði og aukin streita og minni heilbrigðisþjónusta, ef minnka þarf framboð þjónustu og/eða fólk veigrar sér við að leita þjónustu. Fleiri afleiðingar gætu verið aukin félagsleg einangrun og einmanaleiki, ofbeldi, kvíði og áhyggjur.  Þá gæti meira atvinnuleysi og fátækt valdið neikvæðum afleiðingum fyrir heilsu og líðan.  Það getur hins vegar reynzt erfitt að greina áhrif sóttvarnaráðstafana á lýðheilsu frá beinum áhrifum faraldursins."

Það er vitað um aukningu atvinnuleysis á Íslandi í ágúst 2020, um 3000 manns, og hún varð nær einvörðungu vegna snarfækkunar ferðamanna til landsins og afbókana í kjölfar innleiðingar tvöfaldrar skimunar allra komufarþega og um 5 sólarhringa sóttkvíar á milli, sem illu heilli var innleidd hér 19. ágúst 2020 sem einn af valkostum (ekki tillaga) sóttvarnarlæknis. Heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn völdu þennan valkost, af því að hann hefði mestu sóttvarnaráhrifin, en virðast ekki hafa gefið nægan gaum að öfgakenndum neikvæðum tekjuáhrifum, víðtækum atvinnumissi og neikvæðum lýðheilsuáhrifum.  Með öðrum orðum: illa ígrunduð ákvörðun.

Það er hald sumra innan ferðageirans, að þessi ákvörðun valdi því, að 5000 manns missi atvinnu sína á þessu ári.  Hversu lengi veit enginn, en langtímaáhrifin eru geigvænleg á heilsufar þessa fólks, ef marka má rannsóknir á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum.  Á næstu 3 árum gætu 150 manns misst lífið hérlendis af völdum hjartasjúkdóma, heilablóðfalls og andlegrar örmögnunar.  Fjölgun dauðsfalla á leið til hjarðónæmis með stýrðum hætti yrði innan við 1/10 af þessu mannfalli, eins og fram kemur síðar í þessum pistli. 

Þegar "þríeykið" fer síðan að skrifa um "Leið hjarðónæmis", fer það algerlega út af sporinu.  Það kveður smitstuðul veirunnar vera talinn 2,5-6,0, en samkvæmt https://plus.maths.org er hann 2,25-2,50. Síðan skrifa þau, að sé smitstuðullinn 2,5, þurfi 60 % þjóðarinnar að smitast til að hjarðónæmi náist.  Í viðtali við dr Thor Aspelund, prófessor, mætan líftölfræðing, sem rýnt hefur í þróun líklegs smitstuðuls með sínu samstarfsfólki, taldi hann um miðjan október 2020, að smitstuðullinn væri kominn niður í 1,5.  Ef tækist að halda honum þar að jafnaði, næðist hjarðónæmi, þegar 33 % íbúa hafa öðlazt ónæmi gegn SARS-CoV-2.  Nú verður þessi leið rakin, og tölur "þríeykisins" settar í sviga á eftir, en þar er satt bezt að segja hrollvekja sett á svið:  

Ef 33 % (60 %) þjóðarinnar eða 86 k (k=þús) (219 k) sýkist, þá gætu 1290 (7000) þarfnazt innlagnar á sjúkrahús, 138 (1750) þarfnazt gjörgæzlu og 17 (660) látizt m.v. hlutfallstölur úr bylgju 2-3. Forsenda  hryllingsmyndar "þríeykisins" er, að veiran fái að valsa um þjóðfélagið næstum óáreitt (hár smitsuðull), en það er ekki stýrð leið að hjarðónæmi.  Þar er grímuskylda, strangar persónubundnar sóttvarnir, smitrakning, sóttkví og tímabundin lokun staða, þar sem hópsmit hafa smyndazt, en annars losað um athafnahöftin, nema í neyðir reki.  Þetta mundi þýða mikið álag á heilbrigðiskerfið í a.m.k. 30 vikur, en ekki ofálag.

Hámarki nær hræðsluáróður "þríeykisins" með því að gera grein fyrir öfgasviðsmynd án persónubundinna sóttvarna og nándartakmörkunar.  Hún getur verið fræðilega áhugaverð, en eru nokkrir talsmenn hennar ?  Hún er hins vegar vel til þess fallin að skjóta fólki skelk í bringu, svo að það meðtaki bælingarstefnuna gagnrýnislítið:

"Ef veiran fengi að ganga nokkuð óáreitt, er augljóst, að heilbrigðiskerfið myndi engan veginn ráða við fjöldann og að þessar tölur [sýktra, innlagðra og látinna-innsk. BJo] yrðu mun hærri.  

Í nýju finnsku spálíkani er gert ráð fyrir 88 k smitum næstu 2,5 mánuði hérlendis, ef engar sóttvarnaraðgerðir væru í gangi, og myndu allt að 3 k einstaklingar greinast daglega seinni hluta nóvember.  Hafa þarf þetta í huga, þegar sóttvarnarráðstafanir verða ákveðnar næstu mánuði."

Í þessari dökku sýn myndu 1170 manns smitast daglega að jafnaði, og um 18 innlagnir yrðu daglega á sjúkrahús.  Heilbrigðiskerfið mundi alls ekki ráða við þennan fjölda.  Þess vegna má alls ekki slaka á persónubundnum sóttvörnum.  Smitrakningin er líka öflugt tæki, og í raun er hægt að stýra þróun faraldursins í nokkrum mæli með sóttkvíum á grundvelli smitrakninga.  Allt of langt er gengið með því að hneppa börn í sóttkví, því að smitstuðull þeirra er lágur, jafnvel undir 1,0.  Með því að afnema athafnahöft og ferðahömlur, nema sóttkvína, en viðhalda einstaklingsbundnum sóttvörnum, má stýra smittíðninni að u.þ.b. 40 % af þeirri óheftu og ná hjarðónæmi (33 %) á um 30 vikum. 

 

Næst tók "þríeykið" sér fyrir hendur að reifa yfirlýsingu "Great Burlington" hópsins.  Það er hópur lækna og faraldursfræðinga, sem telur lýðheilsu stefnt í voða með bælingarstefnunni og samfélagslegan kostnað verða miklu hærri en ávinninginn af sóttvörnunum.  Þannig muni fleiri látast af völdum bælingarstefnunnar en hún bjargar.  "Great Burlington" hópurinn mælir þess vegna með stýrðri leið til hjarðónæmis.  

Síðan skrifar "þríeykið": 

"Í þessari nálgun væri gert ráð fyrir, að ungt fólk fengi að lifa eðlilegu lífi.  Það gætti einstaklingsbundinna sóttvarna, skólar yrðu opnir og íþróttir leyfðar.  Veitingahús og öll þjónusta sem og menningartengdir viðburðir héldu áfram."

Síðan skrifa þau, að grípa hafi þurft til hertra aðgerða í 3. bylgjunni "til þess að fletja kúrfuna vegna álags á heilbrigðiskerfið".  Þessi málflutningur stenzt ekki skoðun.  Dagleg smit urðu flest 08.10.2020 106 talsins, og nýgengið varð hæst 9 sólarhringum síðar, 308,4, og hefur víða orðið hærra án þess, að heilbrigðiskerfið færi að þolmörkum. Sjúklingafjöldinn náði hámarki 19.10.2020, 1252.  Á sjúkrahúsum voru hins vegar flestir 27 talsins þann 18.10.2020 á tímabilinu, sem var til athugunar, og á gjörgæzlu voru flestir 4 15.-17.10.2020.  Þessar tölur benda ekki til, að nærri hafi legið, að þolmörkum heilbrigðiskerfisins væri náð.  Það verður hægt að feta stýrða leið að hjarðónæmi án þess að oflesta heilbrigðiskerfið. Þar verður hægt að færa starfsemina nær venjulegu horfi, sem er afar brýnt, að náðu hjarðónæmi. 

Að lokum skal tilgreina hér 4 liði, sem "þríeykið" telur nauðsynlegt að halda áfram með.  Höfundur þessa vefpistils er sammála þeim öllum og telur, að þessi atriði varði einmitt stýrða leið (meðalsmitstuðull 1,5) að ónæmi þriðjungs þjóðarinnar, sem þá virkar sem hjarðónæmi:

  1. "Einstaklingsbundnar sóttvarnir; nándartakmörk, handhreinsun, grímunotkun, sótthreinsun snertiflata og að vera heima/sækjast eftir sýnatöku við einkenni, sem samræmast COVID-19.
  2. Vernd þeirra, sem tilheyra áhættuhópum.
  3. Vandaða og samræmda upplýsingamiðlun.
  4. Snörp viðbrögð, þegar upp koma smit; snemmgreiningu, einangrun, smitrakningu og sóttkví ásamt sem minnst íþyngjandi staðbundnum aðgerðum, eins og þarf. "

 

 

 

 

 

 

 

 


Sóttvarnir

Það leikur vart á tveimur tungum, að hegðun borgaranna og persónubundnar mótvægisaðgerðir gegn smiti eru áhrifaríkustu sóttvarnirnar. Skipulag og framkoma vinnuveitenda og þjónustuveitenda leikur jafnframt lykilhlutverk í þessu samhengi sem og mörgum öðrum.  Meir orka hins vegar tvímælis boð og bönn yfirvalda í þessum efnum. Það er sammæli hérlendis, að við inngrip ríkisins í daglegt líf borgaranna eigi yfirvöld að hafa meðalhóf að leiðarljósi, enda ber þeim lagaskylda til þess.  Nauðsyn aðgerða og afleiðingar þeirra verður að vega og meta hverju sinni áður en hlaupið er til og skellt á íþyngjandi aðgerðum. 

Á þessu hefur orðið mikill misbrestur hjá sóttvarnaryfirvöldum og ríkisstjórn að sumra mati.  Öll hamlandi inngrip verður að vera hægt að styðja skýrum rökum og sýna fram á, að vægari inngrip muni verða ófullnægjandi, en þessu er ábótavant. Rökstuðningur sóttvarnaryfirvalda er reyndar í skötulíki, og þess vegna missa aðgerðir marks.

Þá má jafnvel halda því fram, að í þeim veirufaraldri (SARS-CoV-2), sem nú gengur yfir heimsbyggðina, séu inngrip yfirvalda hérlendis gagnslítil a.m.k. í samanburði við gallana (skerðing einstaklings- og athafnafrelsis) og kostnaðinn (ásamt tekjutapinu), sem af þeim leiðir. 

 Það er samt enginn vafi á því, að öflugs atbeina ríkisins er þörf nú, en þó í enn meiri mæli við enn skæðari drepsóttir en um ræðir núna, t.d. ef eitthvað álíka og ebóla gysi upp, þar sem dánarhlutfall sýktra var 40 % og dánarhlutfall á sjúkrahúsum var 60 %.  Við slíkar aðstæður er hyggilegast að loka landinu gagnvart fólksflutningum og reyna að útrýma slíkum vágesti, berist hann til landsins.  Nú eru uppi allt aðrar aðstæður, sem ekki eiga að útheimta neitt í líkingu við einangrun landsins og alls konar skerðingu athafnafrelsis.

Meirihluti sýktra af SARS-CoV-2-veirunni verður lítið var við sýkinguna, 2,3 % hafa lagzt inn á sjúkrahús hérlendis,og dánarhlutfall sýktra má áætla 0,17 % á Íslandi.  Dánarhlutfallið gæti reyndar verið að stefna niður fyrir 0,1 %, sem er þekkt hlutfall í þessum faraldri fyrir aldurshópinn 0-35 ára og er einnig þekkt sem meðaltal allra aldurshópa í flensufaröldrum. Dánarhlutfallið fer væntanlega lækkandi hérlendis með aukinni þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á þessum sjúkdómi og lyfjum, sem tekið er að beita gegn honum.

Ýmsar ráðstafanir heilbrigðisyfirvalda eru þó áhrifaríkar til að hefta útbreiðslu og draga úr smittíðni.  Þar er aðallega um að ræða smitrakninguna, sóttkví og einangrun.  Þessum ráðum er hægt að beita til að beina nýgengi sjúkdómsins í átt að getu heilbrigðiskerfisins.  Heildarnýgengi pestarinnar hérlendis fór upp í rúmlega 308 17. október 2020 í Bylgju 3, sem er með því hæsta í Evrópu, en þrátt fyrir það voru þá aðeins 26 á sjúkrahúsi og 4 í gjörgæzlu.  Í Bylgju 3 hefur aðeins 1,5 % þeirra, sem trúlega hafa sýkzt, þarfnazt innlagnar á sjúkrahús, 0,16 % þarfnazt gjörgæzlu, og dánarhlutfallið er 0,02 %.  Þessi tiltölulega lágu hlutföll gefa ástæðu til að íhuga að hverfa frá núverandi bælingarstefnu og að taka upp stýrða vegferð að hjarðónæmi á u.þ.b. 30 vikum.  Margumrætt hjarðónæmi fæst ekki við einhvern fasta sem hlutfall íbúanna með áunnið ónæmi, heldur er hlutfallið breytilegt með smitþættinum.  Ef tekst að halda honum við 1,5, eins og Thor Aspelund taldi hann vera um miðjan október 2020, þá næst hjarðónæmi, þegar 33 % íbúanna hafa öðlazt ónæmi gegn veirunni, sem veldur C-19.

Sóttvarnaraðgerðir hérlendis hafa haft mjög íþyngjandi  áhrif á atvinnulífið, svo að ekki sé nú minnzt á hag ríkissjóðs og sveitarfélagasjóða.  Það hefur verið sýnt fram á austan hafs og vestan mjög mikil tengsl langvarandi atvinnumissis við dánarlíkur þeirra, sem missa vinnuna.  Þannig má á þriggja ára tímabili frá atvinnumissi reikna með 30 ótímabærum dauðsföllum í hverjum 1000 manna hópi, sem vinnuna missir.  Að meðreiknaðri landamæraaðgerðinni að tvískima alla komufarþega f.o.m. 19. ágúst 2020 með 5 sólarhringa sóttkví á milli er líklegt, að 5000 manns missi vinnu sína af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða á árinu 2020.  Það þýðir, að ótímabær dauðsföll af þessum völdum verða líklega um 150 á árunum 2020-2022. 

Þótt yfirvöld mundu fella niður seinni skimun á landamærunum fyrir erlenda komufarþega, en halda henni til streitu fyrir íbúa landsins í hópi komufarþega (vegna meints hærri smitstuðuls þeirra), og fella niður allar takmarkanir á löglegum athöfnum manna öðrum en sóttkví og einangrun, en halda öllum kröfum um persónubundnar sóttvarnir til streitu (fjarlægðarregla, gríma, handþvottur, sprittun), þá mundi heilbrigðiskerfið að öllum líkindum anna álaginu og heildardauðsföllum af völdum veirunnar og sóttvarna gegn henni mundi fækka.  Aðgerðir heilbrigðiskerfisins yrðu miklu minna íþyngjandi fyrir atvinnulífið en nú er, og viðspyrna hagkerfisins mundi þá að langmestu leyti markast af ástandinu erlendis.  Mestur dragbítur í þeim efnum er hindrun Schengen-stjórnarinnar á för fólks frá flestum ríkjum utan Schengen inn á Schengen-svæðið. Þetta hefur auðvitað fækkað ferðamönnum mikið í Schengen-löndunum, og því miður hillir ekki enn undir stefnubreytingu í þessum efnum, þótt tvískima mætti þá, þar til almennt leyfi fæst fyrir þá inn á Schengen-svæðið.

Ríkisstjórn og sóttvarnaryfirvöld eiga sér fjölmarga gagnrýnendur, því að það blasir nú við, að bælingarstefna stjórnvalda er endileysa, hún leiðir yfir landsmenn hverja bylgjuna af sóttinni á fætur annarri, og heildaráhrif sóttvarnaraðgerðanna leiða til ofboðslegs tekjutaps og kostnaðar fyrir landsmenn, ekki sízt skattgreiðendur framtíðarinnar.  Þetta er algerlega óábyrgt fyrirkomulag, þegar annað betra býðst.  Hörður Ægisson skefur ekki utan af því frekar en fyrri daginn í leiðara Fréttablaðsins 9. október 2020:

"Versta stefnan":

"Það ætlar að reynast stjórnvöldum erfitt að viðurkenna þau afdrifaríku mistök, sem gerð hafa verið, og meta stöðuna upp á nýtt áður en tjónið verður enn meira.  Ráðstafanir, sem nú hefur verið gripið til, með því að stöðva nánast alla starfsemi í samfélaginu um ófyrirséðan tíma, eru bein afleiðing af lokunarstefnu Skimunarmeistarans, sem þríeykið studdi og ríkisstjórnin innleiddi, sem taldi fólki trú um, að hægt yrði að lifa næsta veirufríu og eðlilegu lífi innanlands með því einu að halda útlendingum frá landinu.  Það reyndist della.  Almenningur hélt, að minni hætta væri á smiti - þegar hún var í reynd óbreytt og magnaðist síðar upp - eftir að hafa fengið skýr skilaboð um það frá stjórnvöldum."  

Nú er komið í ljós, hvaða aðferðum sóttvarnarlæknir beitir stjórnvöld til að hafa sitt fram.  Hann málar skrattann á vegginn. Þetta sást í grein "þríeykisins" í Fréttablaðinu 15. október 2020, sem farið verður í saumana á hér á vefsetrinu síðar. Ef stjórnvöld ekki fari að tillögum hans, þá verði hér óheft fjölgun smita með voveiflegum afleiðingum, hruni sjúkrahúsþjónustunnar og hundruðum dauðsfalla.  Þetta er fyrir neðan allar hellur. 

Jákvæð áhrif af takmörkunum á athafnafrelsi fólks virðast vera stórlega ofmetin, en neikvæðu áhrifin eru gríðarleg á réttindi einstaklinganna, fjárhag þeirra og heilsufar.  Stjórnvöldum ber skylda til að meta ítarlega neikvæðu afleiðingarnar af tillögum sóttvarnarlæknis á móti hinum jákvæðu áður en þær eru afgreiddar af heilbrigðisráðherra og samþykktar af ríkisstjórn.  Það skal ítreka hér, að það eru einstaklingsbundnu sóttvarnirnar, sem öllu skipta til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Borgararnir þurfa að finna til ábyrgðar sinnar og finna, að þeim sé treyst fyrir öryggi sínu og meðborgaranna.  Það er bezta og áhrifaríkasta veiruvörnin. Lokanir og skerðingar á persónufrelsi standa lagalega á veikum stoðum, eru dýrkeyptar og óskilvirkar. 

 Annar maður, Jón Þórisson, skrifaði ekki síður athyglisverðan leiðara í Fréttablaðið 10. október 2020.  Sá bar fyrirsögnina:

"Úr lausu lofti",

og hófst þannig:

"Ein sú mest íþyngjandi ráðstöfun, sem gripið er til í samfélagi manna, er að svipta þá frelsi sínu. Til þess þurfa að liggja ríkar ástæður, og ákvörðunin þarf að styðjast við skýr lagafyrirmæli. 

Um þessar mundir eru þúsundir manna sviptir frelsinu hérlendis og þeim skipað í sóttkví eða einangrun á grundvelli sóttvarnalaga.  Að auki hefur frelsi hinna verið stórkostlega skert með því að setja fjöldamörk á samkomur, mæla fyrir um lágmarksfjarlægð á milli fólks, banna eða takmarka ýmiss konar starfsemi, svo sem íþróttastarfsemi og veitingahúsarekstur og tilmæli um að halda sig í heimahögum. Þá er ónefnt það misráð að loka landamærum. 

Allt setur þetta líf okkar úr skorðum, sem var þó nægjanlega úr lagi gengið fyrir.  Sumir hafa misst lífsviðurværi sitt að hluta eða öllu leyti, og ótti og kvíði grefur um sig. 

Þessar aðgerðir eru byggðar á minnisblöðum frá sóttvarnalækni til heilbrigðisráðherra, sem eftir atvikum ræðir þær í ríkisstjórn áður en þær öðlast gildi stjórnvaldsfyrirmæla.  Einhver misbrestur hefur þó orðið á því síðastnefnda undanfarið. 

Við trúum því, að nauðsynlegt sé að berjast gegn eyðandi afli vágestsins, en höfum gripið til svo stórtækra viðbragða að líkja má við, að meðalið eyðileggi nú meira en því var ætlað að lækna."

Það eru vísbendingar um, að þessar frelsissviptingar yfirvalda, sem þarna eru tíundaðar, hafi lítil áhrif á nýgengi smita.  Þar með fellur lagalegur grundvöllur algerlega undan þessum aðgerðum, sem haft hafa íþyngjandi áhrif á mjög marga íbúa landsins og í heildina alvarleg efnahagsleg áhrif. 

Réttast er að afnema allar núverandi takmarkanir á athafnafrelsi fólks, en halda fast í almenna grímuskyldu, nándartakmörkun, tíðan handþvott, eins og kostur er, og sprittun, þar sem nokkrir koma saman.  Þar sem hópsmit koma upp, ber að loka um stundarsakir , sótthreinsa og rótargreina smitin.  Halda ber áfram smitrakningu og beitingu sóttkvíar.  Á landamærunum verði einföld skimun fyrir komufarþega, nema íbúar hérlendis sæti áfram tvöfaldri skimun og sóttkví. 

 

Að lokum verður hér vitnað til annars meginprentmiðils, sem af hógværð hefur gagnrýnt núverandi bælingarstefnu sóttvarnaryfirvalda.  Forystugreinin þar 9. október 2020 hét:

"Vantar alvöruleiðsögn".

"En vandinn  við aðferðina [sóttvarnaryfirvalda-innsk. BJo], sem við höfum ekki komizt fyrir, er, að við erum ekki ein í heiminum.  Felist okkar veirusigur í því, að einungis lítið sýnishorn af landsmönnum hafi komið sér upp virku mótvægi gegn henni, þá er það gott og blessað.  Það er að segja, ef við erum ein í heiminum.

Það þurfti ekki nema örfáa knáa skíðagarpa, sem komu meira eða minna úr sömu brekkunni, til að setja allt á hvolf hér.  

Ef við náum því í næstu viku að koma smitum aftur niður í núll, þá er eins gott, að umheimurinn láti okkur í friði um langa framtíð.  En það er ekki víst, að hann muni gera það.  Og hvað gerum við þá ?  Skellum við þá sjálf í lás, eins og umheimurinn gerði fyrir okkur síðast og bíðum eftir bóluefni ?  Og þá með hvaða afleiðingum ?"

Það er löngu tímabært, að s.k. stjórnvöld í þessu landi sýni í verki, að þau hafi völdin og valdi þeirri ábyrgð, sem völdunum fylgir, en séu ekki gúmmístimpill af ódýrustu gerð fyrir embættismenn.  

  

 

 

  


Veiruvarnir unnar fyrir gýg ?

Viðbrögð yfirvalda við SARS-CoV-2 veirunni hafa verið yfirdrifin, ef tekið er mið af hættunni, sem lífi og heilsu fólks er búin af að sýkjast af henni.  Hún er bráðsmitandi, og sýktir geta smitað einkennalausir ("ofurdreifarar"), en hún virðist ekki hættulegri en skæður infúensufaraldur, og aldurshópnum 0-35 ára er hún jafnvel síður skeinuhætt en hefðbundinn flensuvírus.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur áætlað, að 2. október 2020 hafi 760 M jarðarbúa smitazt af veirunni og að 1,0 M hafi þá látizt.  Það er 0,13 % dánarhlutfall sýktra. Sennilega er það vanmat á fjölda látinna, og John Ionnadis, faraldursfræðingur, áætlaði þetta hlutfall 0,27 % um miðjan júlí 2020.  Þetta þýðir, að um 10 mánuðum eftir, að veirunnar varð varð vart í Kína, hafa 10 % jarðarbúa sýkzt af henni. Í Svíþjóð er rekin mjög áhugaverð sóttvarnarstefna, og sóttvarnarlæknir Svía, dr Anders Tegnell, áætlaði í byrjun október 2020, að 20 % Svía væru þá orðnir ónæmir fyrir veirunni, margir án þess að hafa orðið veirunnar varir í eigin skrokki. 

Er þetta er skrifað, hefur 3172 sýkinga opinberlega orðið vart hérlendis á rúmlega 7 mánuðum.  Ef 100 % fleiri hafa raunverulega sýkzt, eins og eftir "Bylgju 1", eru sýktir orðnir rúmlega 6000 og dánarhlutfallið hérlendis er þá 0,16 %. Innan við 2 % þjóðarinnar hefur sýkzt eða aðeins um 1/10 af sams konar hlutfalli Svía.  Það gæti verið lítils háttar hærra á höfuðborgarsvæðinu. Yfir þriðjungur íbúa New York er kominn með ónæmi.  Okkur miðar mjög hægt í átt að hjarðónæmi hérlendis vegna þeirrar skefjalausu bælingarstefnu, sem hér er stunduð.  Hún er í raun veru endileysa.  Við þurfum að búa við fyrirkomulag, sem er lífvænlegt í a.m.k. heilt ár héðan í frá, og kannski er enn lengra í öruggt og gott bóluefni.  Síðustu sóttvarnaraðgerðir fyrir um viku virðast engu hafa skilað öðru en skertu persónufrelsi, sem felst t.d. í að mega hvorki fara í heilsurækt né sund og ekki leika golf. Það er kominn tími til að snúa við blaðinu hérlendis, losa um alls kyns opinberar hömlur, en einblína á persónubundnar smitvarnir og opinberar varnir fyrir þá, sem höllum fæti standa gegnvart veirunni, eins og tölfræðin sýnir.  

Hérlendis virðist stefnan vera að lágmarka fjölda smita. Það er kölluð bælingarstefna og er óviðeigandi baráttuaðferð við þessa veiru (SARS-CoV-2). Höfuðborgarsvæðið er þess vegna í léttu útgöngubanni um þessar mundir, sundstaðir og þrekstöðvar m.m. lokaðir.  Tekin var sú dýrkeypta stefna um miðjan ágúst 2020 að skima alla komufarþega til landsins tvisvar og að skipa þeim í um 5 daga sóttkví á milli.  Þegar þetta er skrifað hafa 28 komufarþegar af 41´777  greinzt jákvæðir í seinni skimun, en neikvæðir í hinni fyrri, eða 0,07 %.  Ef fjórðungur þessara komufarþega er búsettur í landinu og er látinn sæta tvöfaldri skimun vegna hærri smitstuðuls en yfirleitt hjá erlendum ferðamönnum, mundu 21 sýktir ferðamenn hafa sloppið framhjá einfaldri skimun af 41´777 alls eða 0,05 %. Á sama tímabili hafa komið upp 1240 C-19 sýkingar í landinu.  Ef smitþáttur þessara erlendu ferðamanna er 0,7, hefði smitum í landinu fjölgað um 36 á þessu tímabili eða um 2,9 % með því að halda áfram með einfalda skimun á landamærunum 19.08.2020, en setja farþega búsetta hér í tvöfalda skimun.  Þetta hefði sáralitlu breytt um gang sýkinganna og væntanlega ekki fjölgað alvarlegum tilvikum C-19 neitt, en a.m.k. 3000 færri launþegar hefðu orðið fyrir barðinu á uppsögnum, sem þýðir 30-90 færri dauðsföll á þriggja ára skeiði af völdum atvinnuleysis, ef ekki rætist úr atvinnuástandinu (samkvæmt erlendum tölfræðirannsóknum). 

Þetta sýnir, hversu misráðin sú ákvörðun heilbrigðisyfirvalda var, með blessun ríkisstjórnar, að skipa fyrir um almenna tvöfalda skimun á landamærunum. Hún er þó aðeins einn þátturinn í rangri sóttvarnarstefnu hér, eins og fram kemur í greinum Þorsteins Siglaugssonar, hagfræðings, í Fréttablaðinu 8. október 2020 og Hauks Arnþórssonar í Morgunblaðinu sama dag.  

Hér verður nú vitnað í forystugrein Fréttablaðsins 2. október 2020 undir heitinu:

"Skipbrot".

"Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið efnahagslegum hamförum.  Afleiðingarnar birtast okkur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Tekjur ríkissjóðs, vegna minni umsvifa í hagkerfinu, dragast stórkostlega saman, á meðan útgjöldin vaxa, einkum til að standa undir kostnaði við aukið atvinnuleysi.  Niðurstaðan er, að samanlagður fjárlagahalli næstu tveggja ára verður um mrdISK 600. 

Minnkandi umfang sóttvarna, bæði hér innanlands og við landamærin, mun ráða miklu um, hversu vel tekst til í viðspyrnunni.  Þeir hinir sömu og töluðu fyrir því að skella landinu í lás í ágúst, stefna, sem hefur beðið skipbrot og orsakað enn meira atvinnuleysi, þrýsta hins vegar nú á hertar aðgerðir - sem er jafnan þeirra eina svar við veiru, sem er ekkert á förum.  Vonandi mun sóttvarnalækni bera gæfa til að horfa ekki á málið með sömu rörsýn að leiðarljósi."

 "Við vitum núna, að lokun landamæranna hefur ekki skilað þeim árangri, sem lagt var upp með.  Það ætti ekki að koma neinum á óvart.  Sóttvarnalæknir Svíþjóðar hefur sagt, að slíkar aðgerðir - þar í landi hafa ferðamenn aldrei þurft að fara í sóttkví - skipti engu máli í stóra samhenginu, og að sagan hafi sýnt, að þær virki aldrei til lengri tíma.  Í stað þess að fylgja sömu stefnu og nágrannaríki okkar kusum við að fara aðra og harkalegri leið með ómældum kostnaði. Rúmlega mánuði síðar er nýgengi smits hérlendis samt með því hæsta, sem þekkist í Evrópu.  Í Þýzkalandi, sem ekki hefur séð ástæðu til að fara að ráðum Skimunarmeistarans og loka landinu, er nýgengi smits t.d. aðeins fjórðungurinn af því, sem það er hér."

 Þess má geta, að hópur lækna í Bandaríkjunum, starfandi við bandaríska háskóla og á háskólasjúkrahúsum, hefur ráðlagt, að þar verði slakað á klónni. "The Great Burlington" hópinn skipa heilbrigðisvísindamenn og faraldursfræðingar.  Þeir vara við því, að bælingarstefnan gegn þessari kórónuveiru muni valda meiru heilsufarstjóni en veiran sjálf, og efnahagstjónið keyri fjölda fólks í fátækt, algerlega að óþörfu.  

Hérlendis virðist vera rekin að ýmsu leyti harðari sóttvarnastefna en annars staðar.  Hún felur í sér sóun verðmæta án árangurs, af því að almenningur hefur nú allt aðra og hættuminni mynd af veirunni en í Bylgju 1.  Þess vegna viðhefur  hann ekki lengur persónulegar sóttvarnir í sama mæli og áður, heldur treystir á opinberar aðgerðir, sem eru vanhugsaðar og hafa litlu skilað, nema vanlíðan og óhamingju margra.  Smitstuðullinn var hár, þegar aðgerðir voru hertar, og hélt áfram að vera um 3, en er nú tekinn að lækka.  Það hefði mjög líklega gerzt, þótt sundstöðum, þrekstöðvum og golfvöllum hefði ekki verið lokað.      Það er sjálfsagt að viðhafa persónubundnar smitvarnir af samvizkusemi, svo að afnema megi sem flestar opinberar takmarkanir. 

Hallmundur Albertsson, lögmaður, hefur borið saman sóttvarnarráðstafanir á Norðurlöndunum, og skrifaði um þennan samanburð í Fréttablaðið 1. október 2020 undir fyrirsögninni:

"Einangrun - er of langt gengið ?"

"Eins og sést á framangreindri umfjöllun er tímalengd einangrunar verulega meira íþyngjandi á Íslandi en í samanburðarlöndunum.  Upphaf einangrunar miðast við þann dag, þegar sjúkdómseinkenni koma fram í samanburðarlöndunum, en miðast við sýnatökudag á Íslandi. Þar getur munað nokkrum dögum.  Þá er tímalengd umtalsvert lengri. Undantekningarlaust skal sá, er greinist á Íslandi, sæta að lágmarki 14 daga einangrun frá sýnatökudegi, en sá frestur er 7-8 dagar frá því sjúkdómseinkenni komu fram í samanburðarlöndum.  Á Íslandi er gerð krafa um 7 einkennalausa daga, en 2-3 í samanburðarlöndunum.  

Á upplýsingasíðum sóttvarnayfirvalda á Íslandi er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því, af hverju frelsissvipting einstaklinga er umtalsvert lengri hér en í þeim löndum, sem við berum okkur helzt saman við og verður ekki haldið fram, að standi okkur að baki í þekkingu á læknisfræði. 

Í 12. gr. stjórnsýslulaga nr 37/1993 er meðalhófsreglan lögfest.  Þar er kveðið á um, að stjórnvöld skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun, þegar lögmætu markmiði, sem stefnt er að, verður ekki náð með öðru og vægara móti.  Skal þess þá gætt, að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. 

Vart þarf að fjölyrða um, að frelsissvipting felur í sér skerðingu á helgustu mannréttindum einstaklinga, sem varin eru af 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu."

 Hér hefur lögmaður fært sannfærandi rök fyrir því, að sóttvarnayfirvöld hérlendis hafi með með óhóflega íþyngjandi og órökstuddum aðgerðum brotið lög landsins, Stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu.  Árangur aðgerðanna er ekki sjáanlegur með eitt hæsta nýgengi smita í Evrópu.  Fulltrúi Almannavarna gagnvart almenningi í þessum málum bítur svo höfuðið af skömminni, þegar hann bregst ókvæða við eðlilegri spurningu frá fréttamanni RÚV, sem útvarpað var á Gufunni í hádegi 11. október 2020, um bann við golfiðkun, með þeim útúrsnúningi, að hann skilji ekki umræðuna.  Er ekki löngu orðið tímabært, að Alþingi taki í tauma þessarar gandreiðar og stöðvi hana ?

Það er nefnilega hárrétt, sem Brynjar Níelsson, Alþingismaður, hefur haldið fram opinberlega, að þessi gandreið heilbrigðisyfirvalda með blessun ríkisstjórnar veldur meira tjóni en gagni.  Sú niðurstaða fæst líka, þegar mælikvarði heilsufars og mannslífa er lagður á verknaðinn, því að efnahagsafleiðingarnar og atvinnumissir, sem leitt hefur af ákvörðunum heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnar, hafa alvarlegar afleiðingar á heilsufar og lífslíkur fleira fólks en aðgerðirnar þyrma. Þess vegna má halda því fram, að yfirþyrmandi aðgerðir sóttvarnayfirvalda á Íslandi gegn þessari veiru, SARS-CoV-2, séu unnar fyrir gýg.

 

 

 

 


Atvinnuleysi kostar mannslíf

Það hefur verið sýnt fram á það með ítarlegum tölfræðilegum rannsóknum, bæði austan hafs og vestan, að marktæk aukning verður á fjölda dauðsfalla í kjölfar efnahagssamdráttar, sem leiðir til atvinnumissis margra og fækkunar nýráðninga.  Áhrifin á dánartölur koma fram næstu árin á eftir uppsagnahrinum, og er dauðdaginn af völdum alvarlegra sjúkdóma, andlegs og líkamlegs eðlis.

Núverandi efnahagskreppa er af völdum sóttvarnaraðgerða yfirvalda um heim allan.  Morgunblaðið er farið að efast um þá stefnu að reyna að fækka smitum sem mest í þeirri von, að bóluefni gegn SARS-CoV-2-veirunni sé á næstu grösum. Forystugrein blaðsins í dag, 09.10.2020, ber vott um þetta. Núverandi bælingarstefna skilar okkur í sömu sporum gagnvart veirunni, en sýnu nær fátæktarmörkum. Hún gengur engan veginn upp. Um valkosti er þó ekki á vísan að róa.  Skynsamlegast er að móta sóttvarnarstefnu, sem er reist á því, að "öruggt" bóluefni verði ekki í hendi á næsta ári og jafnvel ekki fyrr en árið 2023. Þá þarf að spila sóttvarnir samkvæmt álagi hverju sinni á heilbrigðiskerfið. Þar er lítið borð fyrir báru vegna skorts á viðeigandi húsnæði.  E.t.v. mætti bæta úr skák með því að virkja aðstöðu einkageirans, en þar sem heilbrigðisráðherra hefur horn í síðu hans, er það sennilega "tabú". Nú eru á sjúkrahúsi 2,6 % C-19 sjúklinganna eða 24 og í gjörgæzlu 0,33 % sjúklinganna eða 3.  Óljóst er, hversu marga sjúklinga sjúkrahúsin ráða við, e.t.v. aðeins tvöfaldan núverandi fjölda, en þyrftu að ráða við tífaldan fjölda, og sæti þá óvenju margt á hakanum. Það er nauðsynlegt að auka athafnafrelsi í samfélaginu og þar með tekjuöflun um leið og horfið er frá bælingarstefnunni.  Ekkert lát verður á núverandi ófremdarástandi fyrr en vísir að hjarðónæmi er kominn upp í samfélaginu.  Viðkvæma hópa ber að vernda, eins og kostur er.   

Morgunblaðið var mjög hógvært í gagnrýni sinni á íslenzku sóttvarnarstefnuna í forystugrein sinni 24. september 2020, en efasemdir eru þó ljóslega uppi þar á bæ um árangur hennar:

"Margt tekizt vel, en erum við nær ?"   

"Dansinn í kringum veiruna hefur nú staðið í 7 mánuði, og var því ekki spáð í upphafi.  Og við höfum litið svo á, að sú staðreynd, að einungis rúmt prósent þjóðarinnar hafi tekið smit og mun færri dáið vegna þess en gerist í árlegum flensufaraldri, sé fagnaðarundur.  En hitt blasir einnig við, að á 7 mánuðum hefur aðeins örlítið úrtak komið sér upp virku mótefni og þjóðin því nánast í sömu sporum og í byrjun fársins.  

Varla verður lengur komizt hjá að taka alvarlega umræðu um það, hvort okkar stríðsáætlun hafi að öllu leyti gengið upp.  Þótt ekki sé dregið í efa, að áætlunin sjálf hafi lukkazt, er spurningin enn opin um það, hvort hún hafi verið rétt og við því betur sett, eða hvort aðrar leiðir hefðu verið raunsærri, þegar til lengri tíma er horft. 

Verði nú tekin önnur og dýpri umræða, þá ættu þeir, sem fara með ábyrgð í umboði almennings ekki að koma sér undan því að axla hana með svipuðum hætti og tíðkast í "löndunum í kringum okkur", nú þegar svo mikið er undir."  

Hver er "stríðsáætlun" yfirvalda á Íslandi gagnvart þessu veirufári ?  Það veit enginn almennilega, og það er gjörómögulegt.  Hún virðist vera sú að halda fjölda smitaðra í lágmarki.  Það er kolröng stefna, því að hún leiðir ekki til neins annars en að draga þennan faraldur á langinn, bylgju eftir bylgju, með ógurlegum kostnaði, og það er stórskaðlegt heilbrigði þjóðarinnar og efnahag. 

Þessi stefna er rekin við bumbuslátt lyfjaframleiðenda, sem vinna að þróun bóluefnis, en slíkt hefur af tæknilegum og öryggislegum ástæðum hingað til tekið 5-10 ár.  Betri er 1 fugl í hendi en 2 í skógi.  "Spádómar" um 1-2 ára þróunartíma bóluefnis núna eru óáreiðanlegir og jafnvel hættulegir.  Verst af öllu væri, að í flaustri yrði farið að bólusetja almenning með vanþróuðu efni, sem ylli jafnvel verri aukaverkunum en veiran sjálf.

Það á ekki að reisa sóttvarnarstefnu hérlendis á tálsýn.  Það á að reisa hana á ströngum persónulegum vörnum, sem gera kleift að halda úti allri venjulegri virkni samfélagsins án tálmana, markvissri vernd viðkvæmra hópa og stýringu á álagi heilbrigðiskerfisins innan getu þess.  Þannig næst eitthvað, sem nálgazt getur að kallast hjarðónæmi á sem stytztum tíma og með lágmarkstjóni á sviði heilsu og mannslífa.  Höfum í huga, að brotið atvinnulíf hefur alvarlega slæm áhrif á heilbrigðiskerfið, veikir það og eykur álag þess.  Ef öruggt bóluefni skyldi koma á markaðinn áður en hjarðónæmi næst (60 %), verður það "fagnaðarundur".  

 Viðbrögð ríkisstjórna við þessum heimsfaraldri, COVID-19, hafa ýmist verið í ökkla eða eyra.  Þau hafa víðast hvar orðið þjóðfélögunum miklu kostnaðarsamari en efni standa til.  Efnahagssamdrátturinn hefur leitt til uppsagna mikils fjölda fólks, sem kemur niður á heilsufari þeirra og mun lenda á heilbrigðiskerfunum í nánustu framtíð.  Af þessum sökum er brýnt, að yfirvöld beiti markvissri stjórnun og virði  meðalhófsreglu. Að draga allan mátt úr fyrirtækjunum magnar vandann.  Alþýðusamband Íslands "hefur stimplað sig út úr vitrænni efnahagslegri umræðu" með því að viðurkenna ekki þessa staðreynd.  Þar með fórnar ASÍ óþarflega mörgum félagsmanna sinna á altari atvinnuleysis.

Óli Björn Kárason ritaði í Morgunblaðspistli sínum 2. september 2020 m.a. eftirfarandi:

"Fyrir þá, sem gera sér grein fyrir því, að atvinnulífið - fyrirtækin í landinu - skapa þau verðmæti, sem okkur eru nauðsynleg til að standa undir velferðarsamfélaginu, er það sérstakt áhyggjuefni, hve atvinnuvegafjárfesting hefur dregizt saman.  Á öðrum ársfjórðungi minnkaði hún um 17,8 % og um 4,7 % á fyrstu 6 mánuðum ársins m.v. sama tímabil 2019.  Ný tækifæri og ný störf  verða ekki til án fjárfestinga.  Það er því eitt helzta verkefni stjórnvalda að örva atvinnuvegafjárfestingu til lengri og skemmri tíma."

Þetta skilur ekki forysta ASÍ, sem vill ganga enn harðar að fyrirtækjunum með launahækkunum um næstkomandi áramót, þrátt fyrir grundvallarforsendubrest kjarasamninga, með þeim afleiðingum, að sum hinna betur stæðu fyrirtækja verða að leggja fjárfestingaráform sín á hilluna, en sum hinna verr settu fyrirtækja munu verða að fækka í starfsliði sínu og önnur munu leggja upp laupana.

  Halldór Benjamín Þorbergsson hefur orðað þetta svo, að forysta ASÍ hafi "stimplað sig út úr vitrænni umræðu um efnahagsmál". Þegar hægt er að líkja forseta ASÍ við Münchhausen, sem togaði sig upp á hárinu, er ljóst, að verkalýðsforkólfar eru heillum horfnir í Kófinu og vita ekki sitt rjúkandi ráð.  Formaður Einingar er sprenghlægilegur, þegar hún blæs sig út í anda löngu steindauðrar hugmyndafræði Komintern, sem afneitar staðreyndum og boðar þess í stað stöðuga baráttu við auðvaldið.  Formaðurinn ætlar að nota Kófið til að skella á einum leikþætti um hina heilögu stéttabaráttu, sem er niðurrifsstarfsemi, sem engu skilar í vasa verkalýðsins.  Verkalýðurinn verður leiksoppur í pólitísku skaki forystumannanna. 

Í stað hinnar stöðugu stéttabaráttu, þar sem útsæðið er étið og féð jafnan án hirðis,  gefst slagorðið "Stétt með stétt" ásamt hugmyndafræði Óla Björns Kárasonar betur:

"Markmiðið er að fjölga tækifærunum, bæta lífskjör allra og búa í haginn fyrir framtíðina.  Rauði þráðurinn í hugmyndabaráttu okkar hægri manna er mannhelgi einstaklingsins. Við lítum svo á, að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins.  Virðing fyrir frumréttinum tryggir betur en nokkuð annað velsæld samfélaga.  Þegar stjórnvöld telja nauðsynlegt að ganga á þennan frumrétt, þó [að] ekki sé nema í takmarkaðan tíma í nafni almannaheilla, er nauðsynlegt, að byggt sé á skýrum lagalegum grunni.  Almenningur verður að skilja rökin, sem liggja þar að baki og fá skýrar upplýsingar um, hvenær og undir hvaða skilyrðum hömlum verður aflétt.  Annars missa stjórnvöld trúverðugleika, samstaða samfélagsins brestur, og aðgerðir til varnar almenningi snúast upp í andhverfu sínu.  Í stað þess að takast á við ný verkefni situr samfélagið í heild sinni með hendur í skauti.  Fjárfesting - trúin á framtíðina - gufar upp."  

Þetta er gagnrýni á framkvæmd sóttvarnarstefnu, sem er loðin, teygjanleg, illskiljanleg og gengur freklega á athafnafrelsi og frelsi einstaklingsins.  Árangur óhófsviðbragða við tiltölulega vægri sóttkveikju er mjög lítill miðað við tilkostnað og tekjutap.  Það er ófært að leggja upp með að hjakka í þessu fari þar til nothæft bóluefni verður aðgengilegt almenningi á Íslandi.  


Atvinnumissir er dauðans alvara

Með óyggjandi tölfræðilegum hætti hefur verið sýnt fram á samhengi aukningar atvinnuleysis og fjölgunar dauðsfalla að nokkrum tíma liðnum. Afleiðingar atvinnumissis eru því verri þeim mun dýpri, sem efnahagskreppan er.  Núverandi efnahagskreppa er mjög djúp; t.d. minnkaði landsframleiðslan á Íslandi í 2. ársfjórðungi (apríl-júní) 2020 um 9,3 %, og heildarfjöldi vinnustunda dróst saman um 11,3 %.  Nú eru um 20 þús. manns atvinnulausir á Íslandi. 

Í ágúst 2020 jókst atvinnuleysið um 1,6 %, sem þýðir, að þá misstu um 3000 manns vinnuna.  Aðalástæða þessarar aukningar er talin vera sú ákvörðun heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra, með stuðningi ríkisstjórnarinnar, að setja á tvöfalda skimun komufarþega til landsins með 5 daga sóttkví á milli.  Þetta hefur fækkað farþegum til landsins niður í um 1300 á sólarhring eða um 70 %. Fyrirkomulagið er gjörsamlega misheppnað, því að það hefur valdið ferðaþjónustunni og þar með hagkerfinu stórtjóni og sóttkvíin er hriplek, þannig að fyrirkomulagið skapar falskt öryggi. Yfirvöld hafa fallið í gryfju ofstjórnunar, sem þau ráða ekki við. Ávinningurinn er, að tæplega 20 % sýktra komufarþega fara í einangrun, en hefðu ella haldið ferð sinni áfram.  Sóttvarnarlæknir Svíþjóðar skimar ekkert á landamærum Svíþjóðar og segir, að sýktir ferðamenn skipti litlu máli í heildarsamhenginu.  Þetta má rökstyðja með minni smithættu af ferðamönnum til landsins en íbúunum sjálfum.  Talsverður hluti komufarþega til Íslands er hins vegar búsettur hér, og þess vegna er rétt að viðhafa hér einfalda skimun á landamærum.

Það eru að jafnaði 0,7 farþegar á sólarhring, sem hafa greinzt jákvæðir í seinni skimun, en neikvæðir í hinni fyrri.  Um það snerust hinar gríðarlega íþyngjandi aðgerðir f.o.m. 19.08.2020 að fanga um 20 % af sýktum ferðamönnum, sem annars slyppu inn í landið.  Í ágúst 2020 fækkaði þannig smitum í landinu um 9-20 eftir því, hvernig smithætta frá ferðafólki er metin. Þann 31. ágúst 2020 voru COVID-19 sjúklingar í landinu 100 talsins, sem opinberlega var vitað um.  Enginn þeirra var á sjúkrahúsi, og þótt sjúklingarnir hefðu verið 120 talsins í lok ágúst, er ekkert, sem bendir til, að heilbrigðiskerfið hefði verið að sligast eða að dauðsföllum myndi fjölga.  Tæplega mánuði síðar hafði sjúklingafjöldinn 4-5 faldazt; var kominn upp í 455, þrátt fyrir tvöfalda skimun og sóttkví. 2. október 2020 var sjúklingafjöldinn kominn upp í 650, sem sýnir, að yfirvöld hafa engin tök á faraldrinum.  Lítils háttar fjölgun smita frá ferðamönnum breytir sáralitlu, en 70 % fækkun ferðamanna veldur miklu tjóni.

Það er aðallega hegðun landsmanna sjálfra, sem ræður þróun faraldursins.  "Smitbylgjur" munu óhjákvæmilega rísa og hníga, á meðan hjarðónæmi hefur ekki náðst í þjóðfélaginu.  Í "bylgju" fjölgar smituðum talsvert án mikils samfélagslegs kostnaðar annars en þess, sem af sóttkvínni stafar, þ.e. lengst af hafa COVID-19-sjúklingar á sjúkrahúsi verið 2 eða færri og enginn í gjörgæzlu.  Við slíkar aðstæður er ekki verjandi að vera með mjög íþyngjandi sóttvarnaraðgerðir. Þótt sjúklingafjöldinn hafi farið í 650 (02.10.2020), 13 á sjúkrahúsi og 3 í gjörgæzlu, eru röng viðbrögð að grípa til strangra almennra aðgerða um allt land.  Það á að ráðast staðbundið til atlögu samkvæmt niðurstöðum smitrakninga.  Það er ekkert vit í að loka heilsuræktarstöðvum, stórum og smáum, um allt land.  Það á aðeins að loka, þar sem hættan er mest samkvæmt gögnum smitrakningarteymisins.  Þannig vinna þeir, sem beztum árangri hafa náð, t.d. Þjóðverjar.  Aðfarir heilbrigðisyfirvalda og ríkisstjórnar hér eru klunnalegar, fálmkenndar og allt of dýrar m.v. ávinning. Þær varða þess vegna broti á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.  Þetta er alvarlegt mál vegna efnahags landsins og fjárhagslegrar velferðar og sálarheilla fjölda manna.  Virtir lögmenn hafa opinberlega látið í ljós, að þeir telji einnig um Stjórnarskrárbrot að ræða. 

Alvarlega sögu um þungbæra sjúkdóma þarf að segja nú af þessum 3000, sem misstu atvinnuna 1. september 2020, flestir af völdum afleiðinga sóttvarnarfyrirmæla yfirvalda.  Samkvæmt niðurstöðum vandaðra tölfræðilegra greininga á heimasíðu hins bandaríska "E.D. Hovee & Co. - Economic and development services", 09.05.2020, má búast við 88 viðbótar dauðsföllum á næstu 3 árum af völdum þessara uppsagna m.v. það, sem annars hefði mátt búast við. Það er um 1,3 % aukning dauðsfalla og miklu meira en búast má við í heild af völdum COVID-19 faraldursins, enda fækkaði dauðsföllum á Íslandi í 1. bylgju Kófsins. Það var sem sagt verið að fórna miklu meiri hagsmunum fyrir minni með þessari misráðnu stjórnvaldsaðgerð 19.08.2020. Hún var sett á í nafni heilsuverndar og til að bjarga mannslífum, en hún virkar algerlega öfugt.  Hún rænir fjölda manns lífsviðurværi, sjálfsvirðingu og heilsu, og tugir manns munu falla í valinn fyrir aldur fram, en fækkun COVID-19 dauðsfalla verður varla merkjanleg af völdum mistakanna. Þessi dauðsföll af völdum atvinnumissis eru t.d. af vegna  hjartaáfalls og heilablóðfalls.  Andlegt álag eykst mjög á þá, sem vinnu sína missa, sérstaklega í kreppu, þegar mjög erfitt, nánast ómögulegt, er að fá nýtt starf.  Það tekur sinn toll. Þetta verða yfirvöld að taka með í reikninginn, en virðast skella skollaeyrum við hérlendis.  

Evrópusambandið (ESB) hefur einnig fjármagnað rannsóknir á þessu sviði og gefið út viðamikla skýrslu.  Meginniðurstaðan þar voru líka óyggjandi tengsl á milli aukins atvinnuleysis og fjölgunar dauðsfalla af völdum hjartasjúkdóma og heilablóðfalls.  Sterkust voru áhrifin að 2 árum liðnum frá atvinnumissi. Það er reginmisskilningur, að félagslega öryggisnetið, atvinnuleysisbætur o.þ.h. á Íslandi komi í veg fyrir eða deyfi hinar grafalvarlegu afleiðingar atvinnuleysis á Íslandi umfram það, sem annars staðar á Vesturlöndum tíðkast.  Niðurstöður Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins, sem lýst er hér að ofan sem staðreynd fyrir Bandaríkin og ESB-löndin, geta þess vegna einnig átt við á Íslandi.  Þess vegna ber Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandinu siðferðisleg skylda til að sameinast um aðgerðir, sem draga mest úr atvinnuleysi, og ríkisvaldið ætti að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með sem minnst íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum fyrir athafnalífið, á meðan fjöldi COVID-19-sjúklinga er innan viðráðanlegra marka.   

Það eru fleiri áhrifamiklir aðilar í þjóðfélaginu en ríkisvaldið, sem hundsa gjörsamlega alvarlegar, heilsufarslegar afleiðingar af auknu atvinnuleysi.  Átakanlegt er að horfa upp á Alþýðusamband Íslands (ASÍ) fórna atvinnu fjölda fólks fyrir innistæðulausar, umsamdar launahækkanir á næsta ári.  Að neita að ræða mótvægisaðgerðir af ýmsum toga, sem dregið gætu úr aukningu atvinnuleysis og bjargað fyrirtækjum, við Samtök atvinnulífsins (SA) er ábyrgðarlaus og óskiljanleg hegðun verkalýðsforystunnar, sem mun draga langan dilk á eftir sér. Í forystugrein Morgunblaðsins 25. september 2020,

"Deilt um forsendubrest",

stóð þetta m.a.:

"SA bendir á, að við gerð kjarasamninganna hafi verið gert ráð fyrir 10,2 % samfelldum hagvexti á árunum 2019-2022, en nú sé útlit fyrir, að hann verði 0,8 %.  Á alla hefðbundna mælikvarða hlýtur þetta að teljast forsendubrestur, þó að það hafi e.t.v. ekki verið skrifað inn í samningana.  En ástæða þess, að sú alvarlega efnahagskreppa, sem nú ríður yfir, var ekki skrifuð beint inn í kjarasamninginn, er vitaskuld sú, að hana sá enginn fyrir.  Það gat enginn gert ráð fyrir því, að veirufaraldur yrði til þess að varpa allri heimsbyggðinni í djúpstæða efnahagskreppu, sem mundi kosta tugi þúsunda starfa hér á landi."

Þrátt fyrir þá nöturlegu staðreynd, að feiknarsamdráttur er í hagkerfinu núna og hverfandi litlum hagvexti sé spáð á 4 ára skeiði 2019-2022, þá dettur verkalýðsforingjum, sem semja um stóra heildarsamninga án tillits til mismunandi afkomu fyrirtækja, í hug að bera það á borð fyrir alþjóð, að afkoma fyrirtækjanna sé misjöfn og gefa í skyn, að sum þeirra geti staðið undir meiri launahækkunum.  Skilja þau ekki, að slík fyrirtæki eru vandfundin og vega mjög lítið á móti öllum hinum. Það er enn kreppa í álheimum, og sjávarútvegurinn glímir við eftirspurnarleysi af völdum COVID-19. Allir markaðir, sem máli skipta, eru í lamasessi. Rökleysa verkalýðsforingjanna er ámáttleg. Það er ekki boðið upp á annað en gamlar lummur um sífelld stéttaátök vegna arðráns auðstéttarinnar á vinnandi fólki. Tölur segja annað.  Hlutdeild launþega í verðmætasköpun þjóðfélagsins er sú mesta, sem um getur í heiminum, og er meiri en eðlilegt getur talizt m.t.t. áhættu fyrirtækjaeigenda, fjármagnskostnaðar og svigrúms til fjárfestinga til framleiðsluaukningar, framleiðniaukningar og til að bæta aðbúnað starfsmanna. Verkalýðsfélögin eru að valda umbjóðendum sínum hræðilegu tjóni og þeim, sem vinnunni tapa af þeirra völdum, heilsutjóni, sem leitt getur til fjörtjóns, samkvæmt óyggjandi rannsóknum.

Að lokum stóð í þessari forystugrein:

"Samtök atvinnulífsins hafa bent á fleiri en eina leið til að breyta kjarasamningunum og mæta þannig því áfalli, sem atvinnulífið hefur orðið fyrir með það að leiðarljósi að bjarga sem flestum fyrirtækjum og þar með störfum.  Ábyrg verkalýðshreyfing væri reiðubúin til að ræða leiðir til að ná slíkum markmiðum.  

Fyrir allan almenning, ekki sízt launamenn, er verulegt áhyggjuefni, að forystumenn í verkalýðshreyfingunni hér á landi kjósi þess í stað fleiri gjaldþrot og aukið atvinnuleysi."

Téðir forystumenn í verkalýðshreyfingunni hafa varpað ljósi á óhæfni sína við að greina hismið frá kjarnanum, við að veita umbjóðendum sínum raunverulega forystu á erfiðum tímum, og þeir (þau) hafa brugðizt því grundvallarhlutverki aðila vinnumarkaðarins að leggja lóð sitt á vogarskálar eins mikillar atvinnuþátttöku og kostur er hverju sinni.  Þeir hafa orðið leiksoppar múgsefjunar í eigin röðum, sem hefur boðið þeim það þægilega hlutskipti að stinga allir hausnum í sandinn í einu.  Þeir bregðast verkalýðshreyfingunni, eins og ráðlausir og dáðlausir herforingjar hafa brugðizt herjum sínum á ögurstundu.  Eftirmæli þeirra verða samkvæmt því. 

Enn hvassari gagnrýni á Alþýðusambandið birtist í forystugrein Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu 25.09.2020 undir fyrirsögninni:

 "Á villigötum".

"Efnahagsstefna verkalýðshreyfingarinnar er á villigötum og grundvallast á rangri greiningu á vandanum.  Við glímum ekki við hefðbundna eftirspurnarkreppu, heldur hefur orðið framboðsskellur vegna sóttvarnaaðgerðanna, og verðmætasköpun í hagkerfinu hefur af þeim sökum dregizt stórkostlega saman.  Með lækkun vaxta og auknum ríkisútgjöldum hefur höggið verið mildað með því að reyna að halda uppi eftirspurn og lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja, en stærsta áskorunin - ætli okkur að takast að búa til störf og minnka atvinnuleysi - er að draga úr óvissu og fá atvinnulífið til að fjárfesta á ný.  Það mun ekki gerast með því að knýja fram launahækkanir með fjármunum, sem fyrirtækin eiga ekki til, með þeim afleiðingum, að atvinnuleysi mun aukast enn og verðbólgan hækka.  Þeim efnahagslögmálum hefur ekki verið kippt úr sambandi.  

Skilningsleysi verkalýðshreyfingarinnar á stöðunni er átakanlegt.  Hún hefur verið yfirtekin af fólki, sem er heltekið af úreltri og hættulegri hugmyndafræði um viðvarandi stéttaátök.  Sé það gagnrýnt, hefur það fátt annað fram að færa en skítkast og gífuryrði í garð fólks, sem er því ósammála um, hvaða leiðir sé skynsamlegt að fara til að bæta lífskjör í landinu.  

Seðlabankastjóri, sem hefur staðið sig vel á erfiðum tímum, er þannig uppnefndur "einn af hrun-prinsunum" fyrir það eitt að hafa starfað í greiningardeild í banka, og varaformanni stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem hefur stýrt fjölskyldufyrirtæki farsællega til margra ára og farið fyrir Samtökum iðnaðarins, er sagt að snúa sér að því, sem hún geri bezt, að framleiða ís - þegar hún leyfir sér að hafa skoðanir á hagsmunum sjóðfélaga.  Framganga þessara formanna stærstu stéttarfélaga landsins - VR og Eflingar - er þeim til skammar.  Þeim stendur hins vegar örugglega á sama." 

Undir þessa hörðu gagnrýni skal eindregið taka.  Þessir verkalýðsformenn haga sér eins og naut í flagi, kunna sig engan veginn, og þau eru ófær um að veita nokkra vitræna leiðsögn.  Upp úr þeim vellur vitleysan, og það er stórfurðulegt, að fólk svo lítilla sanda og lítilla sæva skuli hafa hlotið kosningu sem formenn fjölmennra verkalýðsfélaga.  Verkalýðshreyfingin er í tröllahöndum fyrir vikið, og hún mun leiða okkur til þess öngþveitis, sem er kjörlendi slíks fólks, ef hún verður látin komast upp með það.  

 


Ríkisvaldið er fjötur um fót

Það virðast illa fara saman hljóð og mynd, þegar kemur að þætti ríkisvaldsins við að liðka fyrir um afgreiðslu ýmiss konar umsókna um leyfi til framkvæmda eða aukningar rekstrarumsvifa, svo að ekki sé nú minnzt á hugmyndir um endurskoðun raforkusamninga sem forsendu fyrir fjárfestingum. 

Baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 9. september 2020 fjallaði um tilraunir Jóns Gunnarssonar við að ýta við ráðherrunum, sem sumum hverjum virðist vera tamara að tala um það, sem þarf að gera til að skapa viðspyrnu til að komast út úr Kófskreppunni, en að láta hendur standa fram úr ermum.  Þetta er þýfgað hér, því að tíminn er dýrmætur:

"17 umsóknir frá árunum 2015-2018 til fiskeldis og fiskvinnslu voru óafgreiddar hjá Matvælastofnun, þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svaraði fyrirspurn Jóns Gunnarssonar, alþingismanns, um stöðu umsókna um starfsleyfi [á líklega að vera rekstrarleyfi, sem eru á könnu MAST-innsk. BJo]. Þá voru 23 umsóknir frá árinu 2019 óafgreiddar og 19 frá 2020.  Flestar umsóknirnar eru um rekstrarleyfi vegna fiskeldis. 

Í svari iðnaðarráðherra kom fram, að 21 umsókn um nýtingarleyfi og virkjanaleyfi er óafgreidd hjá Orkustofnun; þær elztu frá janúar 2019.

Umhverfisráðherra hefur ekki svarað fyrirspurn þingmannsins."   

Það er sleifarlag af hálfu umhverfis- og auðlindaráðherra að svara ekki fyrirspurn um málefni, sem miklu skiptir, að sé í lagi núna, þegar kreppa hefur lagzt yfir efnahagslífið og mest ríður á, að ríkisvaldið þvælist ekki fyrir fjárfestingum einkaframtaksins, sem hafa illu heilli dregizt mikið saman.  Á þeim tíma leggur þessi ráðherra meiri áherzlu á friðlýsingar og að koma fram opinberlega og tengja nafn sitt við það, sem hann telur til vinsælda fallið, enda maðurinn á leið í framboð til Alþingis.  

Þessi öfugsnúna forgangsröðun ráðherrans vitnar um ábyrgðarleysi og léttúð gagnvart atvinnu fólks og verðmætasköpun í landinu, sem hann margoft áður á ferli sínum hefur gerzt sekur um, t.d. sem framkvæmdastjóri Landverndar.  Þessu hampar Vinstri hreyfingin - grænt framboð. Verði henni að góðu. Stórtækar bremsur á framfarir í landinu undir hans ráðuneyti eru Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun.  Kannski þolir syndalistinn ekki dagsljósið.

Það er auðvitað gjörsamlega óviðunandi, að Matvælastofnun skuli hanga yfir starfsleyfisumsóknum í hálfan áratug.  Séu umsóknirnar formlega ófullnægjandi, ber að leiðbeina og hjálpa umsækjanda og koma honum á sporið. Ef það, sem sótt er um, uppfyllir ekki efnislegar kröfur laga, reglugerða eða aðrar viðmiðanir stofnunarinnar, á hún að hafna umsókninni með rökstuddum hætti.  Sú afgreiðsla er þá  kæranleg af hagsmunaaðilum.  

Athygli vekja margar óafgreiddar umsóknir um virkjana- og nýtingarleyfi auðlinda, þótt ekki séu þær ýkja gamlar. Nú verða þær væntanlega afgreiddar á grundvelli Þriðja orkupakka Evrópusambandsins af Landsreglaranum ("National Energy Regulator") og þess vegna allar samþykktar á endanum, ef þær uppfylla kröfur um vistvæna orkuvinnslu. Á þeim bænum hefur "græn" orkuöflun forgang fram yfir verndun óbreyttra árfarvega o.s.frv.

"Hann [Jón Gunnarsson] segist hafa kallað eftir því, að áætlun um það, hvað hægt sé að gera til að koma atvinnuverkefnum hraðar í gegnum frumskóg leyfisumsókna, án þess að slaka á kröfum, sem til þeirra eru gerðar."  

Það ætti að vera höfuðviðfangsefni stjórnsýslunnar núna að vinda bráðan bug að afgreiðslu leyfisumsókna, sérstaklega í þeim tilvikum, þar sem "strax" er hægt að fara í framkvæmdir, þ.e. fjármagn til fjárfestinga er til reiðu.  Ekki er átt við að stimpla eigi slíkar umsóknir rýnilaust, heldur að leiða þær til lykta, fá nauðsynlegar viðbótar upplýsingar strax og samþykkja eða hafna umsókn eftir atvikum.

"Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir í svari sínu, að Matvælastofnun hafi ekki getað afgreitt hluta af þeim rekstrarleyfum fyrir fiskeldi, sem sótt hafi verið um, vegna þess að umsækjandi hafi ekki skilað fullnægjandi gögnum. 

Ráðherra lætur þess einnig getið, að [á] meðal aðgerða ráðuneytisins til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins hafi verið að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi, og sé sú vinna í gangi hjá Matvælastofnun."

Frumkvæði ráðuneytisins til að laga það, sem hallast hefur á merinni, er lofsvert, en afsökun Matvælastofnunar er dæmigerð fyrir búrókrata.  Ef gögn eru ófullnægjandi að mati búrókratans, þá leggur hann umsóknina á ís.  Það er ekki nóg að vanda um við hina búrókratísku stofnun; það verður að leggja henni lífsreglurnar, þegar kemur að verklagi, og ráðuneytið þarf að fylgjast með málahala þessarar stofnunar, því að tafir hennar eru kostnaðarsamar og jafngilda í mörgum tilvikum töpuðu fé.  Kannski Matvælastofnun þurfi hvatakerfi frá ráðuneytinu ?  Þetta snýst þó aðeins um, að allir starfsmenn vinni vinnuna sína af kostgæfni. 

Jón Gunnarsson nefndi þrautagöngu Kalkþörungafélagsins og sagði síðan:

""Ég á líka við laxeldið.  Þar eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenzkt samfélag til sköpunar verðmæta og atvinnu og einnig í byggðaþróun.  Ég tel, að við þurfum að finna leiðir til að greiða verkefnum leið. Það er okkar svar við þeim erfiðu aðstæðum, sem við erum í, og hvernig við eigum að vinna okkur út úr þeim", segir Jón og bætir því við, að hann hafi fulla trú á því, að ferðaþjónustan komi sterk inn aftur, þegar löndin opnast."

Varðandi hið síðast nefnda er rétt að benda á þá staðreynd, sem ekki hefur sézt í umræðunni, að senn verða 30 milljón manns í heiminum, sem engin smithætta stafar af, hafa bólusett sig sjálfir gegn COVID-19 með því að vinna bug á veirunni.  Þeir hafa myndað mótefni sjálfir gegn SARS-CoV-2-veirunni og geta fengið skírteini um það.  Íslenzk yfirvöld viðurkenna engin slík skírteini enn þá, en þau gætu samt boðið þetta fólk velkomið til Íslands í lögmætum erindum með skírteinið sitt gegn blóðprufu á landamærunum og að hámarki eins dags sóttkví, þar til óyggjandi niðurstaða fæst, sem staðfestir skírteinið. 

Nú fer því fólki ört fjölgandi í heiminum, sem náð hefur bata eftir COVID-19.  Það verður varla öðru trúað en Schengen-stjórnin (framkvæmdastjórn ESB o.fl) veiti þessu fólki fararleyfi inn fyrir Schengen-landamærin gegn framvísun viðurkennds skírteinis og e.t.v. gegn viðbótarskilyrðum, sem hvert land ákveður.  Staða ferðaþjónustunnar hérlendis er skelfileg, og allt er hey í harðindum.   

 


Hagkerfi í ógöngum

Umsvif hins opinbera hafa þanizt út meira en góðu hófi gegnir á þessari öld.  Á 6 ára tímabilinu 2013-2019 jókst rekstrarkostnaður hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) um 4,5 %/ár að jafnaði á föstu verðlagi 2019.  Þetta er talsvert meira en nam meðalhagvexti á tímabilinu (3,8 %), og þess vegna er þetta ávísun á skattahækkanir í framtíðinni.  Þetta er óæskileg þróun, sem þarf að snúa við, því að opinber umsvif hérlendis voru og eru hlutfallslega á meðal þeirra hæstu í OECD (Alþjóða efnahagssamvinnustofnunin í París). Þjóðir með mest opinber umsvif búa ekki við beztu lífskjörin, og þær eru yfirleitt skuldugastar.  Að lifa á kostnað framtíðarinnar er ósiðlegt og heimskulegt, því að fjármagnskostnaðurinn hamlar lífskjarabata í núinu líka. Skuldasöfnun er áfellisdómur yfir valdhöfum.  

Nú hefur heldur betur snarazt á meri ríkisbúskaparins vegna sóttvarnaraðgerða hér og um heim allan vegna COVID-19. Óli Björn Kárason gerir grein fyrir því í Morgunblaðsgrein sinni 26. ágúst 2020 ásamt því, hvernig opinberi geirinn hefur að raungildi vaxið að umsvifum (rekstrarútgjöldum) um yfir 87 % tímabilið 2000-2019.  Núverandi skuldasöfnun er svakaleg.  Með henni verður ekkert borð fyrir báru til að mæta næsta áfalli, sem þá skellur af fullum þunga á þjóðinni strax. 

Núverandi aðferð að láta ríkissjóð taka skellinn í upphafi er varasöm og kallar á mjög trausta hagstjórn á næstu árum, því að þessi mikla skuldasöfnun skapar hættu á vítahring lítils hagvaxtar og skattahækkana.  Þess vegna ríður nú meira á en oftast áður að efla útflutningsgreinarnar og skapa nýjar.  Það útheimtir lækkun raforkuverðs til atvinnuveganna og að liðka fyrir útgáfu starfs- og rekstrarleyfa fyrir fiskeldið. Stjórnmálamenn eiga að hætta fikti sínu með sérálögur á sjávarútveginn.  Hann þarf á öllu sínu að halda til fjárfestinga til að standast alþjóðlega samkeppni.

  Mikil eftirspurnaraukning hefur orðið eftir íslenzku grænmeti í Kófinu, og mundi landbúnaðurinn, og þar með neytendur, njóta góðs af orkuverðslækkun, eins og aðrir atvinnuvegir. Það er með öllu óskiljanlegt við þessar aðstæður, að ríkisstjórnin skyldi ákveða að rífa í neyðarhemilinn þann 19.08.2020 á landamærunum og kæfa þar með aðalgjaldeyrislind þjóðarinnar algerlega að þarflausu. Þrátt fyrir það gaus upp "Bylgja 3" af COVID-19 smitum tæpum mánuði síðar í landinu.  Slíkum "bylgjum" má búast við í þjóðfélaginu, á meðan hjarðónæmi hefur ekki myndazt. Bóluefni mun ekki leysa vandann næstu 2 árin. Erlendir ferðamenn eru ekki sekir um þessa stöðu, enda nýgengi smita miklu lægra á landamærunum en á meðal landsmanna.  Orsökin er breytt hegðunarmynztur.  Fólk slakar á persónulegum sóttvörnum og er þá oft í slagtogi við Bakkus, sem aldrei hefur tileinkað sér sóttvarnir af neinu tagi.  Af þessum sökum má búast við slíkum "bylgjum", þar til hjarðónæmi hefur myndazt.  Að rembast, eins og rjúpan við staurinn, við að gera Ísland "veirulaust" er fánýt barátta, ofboðslega dýrkeypt og jafngildir harðsvíraðri ofstjórnun og meiri inngripum í persónulega hagi fólks en stjórnvöld hafa leyfi til samkvæmt Stjórnarskrá, þar sem alls engin neyð er á ferðum, fremur en í harðvítugum flensufaraldri.  Tveir COVID-19 sjúklingar á sjúkrahúsi sýna fram á þetta.

Óli Björn skrifaði:

"Á örfáum mánuðum hefur staða efnahagsmála gjörbreytzt til hins verra.  Í stað hagvaxtar er samdráttur.  Ríkissjóður safnar skuldum í stað þess að greiða, líkt og gert hefur verið á síðustu árum. 

Reiknað er með því, að halli á ríkissjóði (A-hluta) verði um 10 % af vergri landsframleiðslu á þessu ári og um 8 % á því næsta.  Samtals verða gjöld ríkissjóðs umfram tekjur, að öðru óbreyttu, því um 18 % af landsframleiðslu eða rúmlega mrdISK 500 á tveimur árum.  Þetta er lítillega lægri fjárhæð en nemur raunhækkun útgjalda hins opinbera á síðustu 20 árum."

Gert mun vera ráð fyrir, að skuldasöfnun ríkissjóðs 2020-2023 muni nema mrdISK 850.  Hana má rekja til sóttvarnarráðstafana gegn COVID-19 innanlands og utan (Schengen-aðild Íslands og tréhestaleg ákvarðanataka þar á bæ). Ef ekki tekst að blása lífi í atvinnustarfsemina, munu þessar ráðstafanir skilja eftir sig eyðimörk gjaldþrota fyrirtækja og heimila, og ríkissjóður verður berskjaldaður fyrir næsta áfalli.  Það gæti verið barnaleikur að fást við SARS-CoV-2 í samanburði við næstu nýju veiru, sem fer á kreik, og er þá skemmst að minnast hinnar bráðsmitandi ebólu-veiru, sem orsakaði innri blæðingar og 60 % smitaðra á sjúkrahúsum féllu í valinn fyrir. 

Það er lífsnauðsynlegt að stöðva þessa skuldasöfnun og hægt og sígandi að greiða niður skuldir.  Hættan er líka sú að lenda í vítahring lítils hagvaxtar og skattahækkana vegna skuldabyrðarinnar. Óráðsíufólk hefur haft sitt fram um gagnslitlar sóttvarnir gagnvart komufarþegum til landsins, en þessar ráðstafanir hafa þegar valdið gríðarlegu efnahagstjóni og ógæfu fjölda manns. 

"Ekki verður hins vegar séð, að hallarekstur ríkisins hafi dregið úr kröfum um aukin útgjöld.  Kröfurnar eru til staðar, líkt og ríkið sé uppspretta verðmæta og velmegunar.  Þeir eru fáir (eða a.m.k. ekki háværir), sem beina sjónum að meðferð opinbers fjár - spyrja, hvort samhengi sé á milli aukinna útgjalda og bættrar opinberrar þjónustu.  Í velgengni síðustu ára hefur sinnuleysi náð að festa rætur og við leyft okkur þann munað að líta á hagkvæma ráðstöfun og meðferð sameiginlegra fjármuna sem aukaatriði.  Og aukning útgjalda hefur orðið mælikvarði á pólitíska frammistöðu einstakra þingmanna og stjórnmálaflokka."

Nú eru gjörbreyttar aðstæður í ríkisbúskapinum og í þjóðfélaginu öllu.  Geigvænleg skuldasöfnun á sér stað hjá hinu opinbera, þannig að öll útgjaldaaukning er tekin að láni hjá þeim, sem í framtíðinni munu standa undir hinu opinbera.  Að stíga ekki nú þegar á útgjaldahemilinn er siðlaus óráðsía; í einu orði sagt stjórnleysi.  Þetta stjórnleysi mun framkalla hér viðvarandi óstöðugleika og varnarleysi gagnvart næsta áfalli.  Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga ekki að láta svefngengla og vingla teyma sig inn á þá þjóðhættulegu braut. Nú er góðum þingmönnum nauðsyn að hafa bein í nefinu.  Lánshæfismat sveitarfélaga og ríkisins mun lækka, sem auka mun við fjármagnskostnað þeirra.  Svo illa hefur verið haldið á málefnum Landsvirkjunar, að við blasir lækkun lánshæfismats þar.  Nýleg skuldabréf fyrirtækisins eru í uppnámi, af því að útgáfa þeirra var tengd ákveðinni lágmarkssölu á rafmagni, sem ekki hefur náðst vegna okurálagningar fyrirtækisins á rafmagn, einkum til ISAL og PCC á Bakka, og öðrum viðskiptavinum hefur einnig verið sýnd óbilgirni.

"Í heild var rekstrarkostnaður 2019 um mrdISK 500 hærri, og þar af var launakostnaður um mrdISK 195 meiri en aldamótaárið.  Raunhækkun kostnaðar [hins opinbera] var liðlega 87 % á þessum 20 árum.  Launakostnaður hækkaði um 86 % [að raungildi].  Rekstrarkostnaður ríkisins hækkaði að raungildi um nær mrdISK 387; þar af laun um mrdISD 209."

 

 Hér hefur óheillaþróun átt sér stað, sem í senn hefur lækkað ráðstöfunartekjur heimilanna, dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og minnkað mótstöðuafl hins opinbera, því að skattahækkanir til að mæta mótlætinu munu hafa mjög neikvæð á hagkerfið.  Eina ráðið í stöðunni, sem hrífur vel, er sú leið, sem fjármála-og efnahagsráðherra hefur boðað, er að vera með öll spjót úti til að stækka þjóðarkökuna, auka verga landsframleiðslu, en þá, eins og skrattinn úr sauðarleggnum, stekkur forsætisráðherra fram og þrífur  í neyðarhemil lestarinnar og dregur viljandi úr gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Svona gera menn ekki, en  það er margt skrýtið í kýrhausnum. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þeirrar grafalvarlegu stöðu, sem uppi er á vinnumarkaði, styrkir ekki atvinnuöryggi launþega og gefur atvinnulausum enga von.  Hún er óábyrg með öllu, því að hún tekur ekkert mið af raunveruleikanum.  Málflutningur mannvitsbrekkna í hópi verkalýðsforkólfa minna á sögu Münchhausens af því, þegar hann togaði sig upp á hárinu.

"Í raun skiptir engu, hvaða tölur um útgjöld hins opinbera eru skoðaðar.  Sameiginlegur kostnaður landsmanna hefur hækkað gríðarlega á síðustu áratugum. Aukning útgjalda hefur verið nauðsynleg og skynsamleg, s.s. í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, þar sem verið er að tryggja aðgengi sjúkratryggðra - okkar allra - að nauðsynlegri þjónustu.  En jafnvel innan heilbrigðiskerfisins eru fjármunir ekki nýttir, eins og bezt verður á kosið.  Framlög til almannatrygginga hafa stóraukizt, og hið sama á við um menntakerfið." 

 Þannig hefur spilazt úr heimsfaraldrinum COVID-19, að við eigum ekki lengur fyrir útgjöldum hins opinbera.  Gríðarlegur halli er á rekstri sveitarfélaga og ríkissjóðs.  Við þær aðstæður verður ríkisvaldið að víkja til hliðar pólitískum kreddum um rekstrarform; þess í stað verður að leita allra leiða til aukinnar skilvirkni fjármagns og framleiðni vinnuafls á öllum sviðum þjóðlífsins.  Þetta leiðir einfaldlega til þess, að virkja verður markaðsöflin og frjálsa samkeppni eftir föngum í þeirri þjónustu, sem greidd er af ríkissjóði og sveitarfélagasjóðum. Innantóma frasa á borð við það, að ekki megi græða á heilbrigðisþjónustu, verður að grafa í jörð. Tvískinnungur íslenzka ríkisins er alger í þessu sambandi, því að það sendir sjúklinga á einkaklínik í Svíþjóð út af kreddum í garð innlendra fyrirtækja, sem eru fullkomlega hæf til sambærilegrar þjónustu með miklu minni kostnaði fyrir ríkissjóð.  Hvers konar eintrjánings hugmyndafræði getur búið að baki slíkrar meðferðar opinbers fjár ? 

Engum dylst, að þegar í stað er hægt að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og minnka kostnað við ýmsar bæklunaraðgerðir.  Þetta væri hægt að gera með einu pennastriki í heilbrigðisráðuneytinu, en þar skortir bæði skilning á viðfangsefninu og pólitískan vilja til að hætta að fjandskapast út í einkaframtakið innanlands undir því pempíulega slagorði, að ekki megi græða á heilbrigðisaðgerðum.  Af hverju má það ekki ?  Hvað er ósiðlegt við, að í raun allir græði ?  Hagnaður er uppspretta fjárfestinga og framfara.  Sú pólitíska stefna, sem glæpavæddi gróða, er löngu gjaldþrota.  Kínverski kommúnistaflokkurinn gekk í endurnýjun lífdaganna með því að lögleyfa fyrirtækjagróða.  Íslenzkir harðjaxlar (e. "die-hards") af þessu sauðahúsi verða að víkja úr valdastólum, því að við höfum ekki lengur efni á þeim þar.  Nú þarf ráðdeildarfólk í ráðherrastóla.  

 

 

 


Hræðsluáróður og raunsæi

Það er mikil áherzla lögð á það af hálfu sóttvarnaryfirvalda nú í s.k. Bylgju 2 af COVID-19 að fækka smitum, sem berast inn í landið. Er það skynsamleg stefnumörkun í ljósi kostnaðar af hverju smiti og þeirra gríðarlegu fórna, sem færa þarf til að fækka smitum inn í landið með aðferð stjórnvalda, þ.e. tveimur skimunum með um 5 daga sóttkví þar til upplýsingar berast ferðalangi um neikvæða niðurstöðu seinni skimunar ?  Nei, fórnarkostnaðurinn er allt of hár m.v. ávinninginn.  

Ferðamönnum til landsins hefur líklega fækkað um 70 % - 80 % við þá breytingu sóttvarna á landamærum að krefjast tveggja skimana og 5 daga sóttkvíar í stað einfaldrar skimunar við komu og smitgátar fram að niðurstöðu eða 14 daga sóttkvíar. Ef notað er lægra hlutfallið og búizt við 3500 farþegum á sólarhring að hausti og vetri (í Kófinu) með einfaldri skimun, þá nemur fækkun ferðamanna 2450 manns á sólarhring.  Ef hver ferðalangur, sem hættir við að koma til landsins, veldur nettó tekjutapi íslenzka þjóðarbúsins upp á kISK 100 (100 þúsund krónur), þá nemur nettó tapið 245 MISK/dag (M=milljón). 

Hver er ávinningurinn af tvöfaldri skimun ?  Hann er háður fjölda smitaðs fólks, sem sleppur inn í landið með einfaldri skimun, en ekki með tvöfaldri skimun.  Hér þarf að taka tillit til þess, að samkvæmt Sóttvarnalækni eru 60 % þeirra, sem greinast með virk smit á landamærunum búsett á Íslandi.  Sennilega er smithætta frá þeim a.m.k. þreföld að jafnaði á við smithættu frá erlendum ferðamönnum hér innanlands.  Þess vegna er rétt, að þessi hópur haldi áfram að fara í tvöfalda skimun við komuna til landsins. Fjöldi þeirra, sem greinzt hafa neikvæðir í fyrra skiptið og jákvæðir í seinna skiptið, kemur fram í neðangreindri tilvitnun í ágæta grein Þorsteins Siglaugssonar í Morgunblaðinu 11. september 2020: 

"Þegar fókusinn brenglast",

Þar stendur m.a. þetta:

"Í annarri skimun á landamærum hefur 21 smit greinzt.  Því færri ferðamenn, því færri smit greinast. Og því færri ferðamenn, því færri störf.  Það er kaldhæðnislegt, að því betri sem "árangur" aðgerðanna verður - færri ferðamenn og færri greind smit - því fleiri dregur atvinnuleysið til dauða fyrir hvert smit, sem forðað er."

 

 Í ljósi fremur lítils álags á heilbrigðiskerfið í s.k. Bylgju 2, þar sem aðeins 1 sjúklingur hefur þurft í senn á sjúkrahúsvist að halda og enginn hefur látizt, orkar mjög tvímælis, að yfirvöld landsins skuli þvermóðskast við að halda íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum sínum á landamærunum og innanlands til streitu.  Eins og fram gengur af tilvitnuninni hér fyrir ofan, liggur fólk í valnum vegna þarflausra aðgerða stjórnvalda.  

M.v. upplýsingarnar hér að ofan um fjölda smitaðra, sem seinni skimun hefur gripið, en ekki sú fyrri, má ætla, að meðalfjöldi þeirra, sem með einfaldri skimun slyppu inn í landið smitaðir sé 3,9 á sólarhring, en af þeim eru aðeins 1,6 erlendir ferðamenn. Miðað við tiltölulega litla smithættu af þeim, mundi daglegum smitum fjölga um 3.  Ætla má, að sparnaðurinn, sem það leiðir af sér að komast hjá þessum smitum, nemi 9,3 MISK/dag, en skimunarkostnaðurinn við seinni skimunina er aftur á móti um 15 MISK/dag (sóttkvíarkostnaði á milli skimana sleppt).  Tekjutap og auka skimunarkostnaður er að lágmarki 260 MISK/dag og hlutfallið 260/9,3=28 er algert lágmark á milli kostnaðar og sparnaðar af tvöfaldri skimun m.v. einfalda skimun.  Þessi ráðstöfun er ekki verjanleg, eins og s.k. Bylgja 2 hefur lengst af þróazt hérlendis.

Grein sína hóf Þorsteinn Siglaugsson þannig:

"Þann 19. ágúst [2020] var Íslandi í raun lokað fyrir ferðamönnum.  Ferðaþjónusta hefur nánast stöðvazt.  Verzlun og þjónusta verður fyrir miklum skakkaföllum.  Fasteignafélög lenda í vanda.  Bankarnir fá skuldirnar í fangið.  Skatttekjur ríkisins hrynja.  Getan til að halda uppi mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi skerðist. Þúsundir missa vinnuna, enda stór hluti starfa háður ferðaþjónustu.  Margir hafa hvatt til, að aðgerðirnar verði endurskoðaðar.  Viðbrögðin lofa ekki góðu." 

Ríkisstjórnin hefur stórlaskað hagkerfi landsins með ráðstöfunum sínum í sóttvarnarmálum, sem gerðar eru í nafni lífs og heilsu landsmanna, en ógna lífi og heilsu fleira fólks í landinu en þær verja.  Þetta blasir við, en forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra virðast heillum horfnar og þar með ríkisstjórnin öll, þótt einhverjir ráðherrar maldi í móinn. 

Nokkru síðar í greininni færði Þorsteinn rök fyrir skaðsemi ráðstafananna á líf og heilsu fólks.  Samtök atvinnulífsins hafa lítið gagnrýnt stjórnvöld nú í s.k. Bylgju 2, og einkum hefur skort á, að samtök launþega taki upp hanzkann fyrir sína félagsmenn. Þar á bæ er talið mikilvægara að berjast við "kapítalismann", sem nú er á hnjánum sums staðar, t.d. í ferðageiranum, og þar af leiðandi hafa mörg störf farið í súginn og öðrum ógnað.  Forgangsröðun verkalýðsforkólfa er óskiljanleg, og almennt ræður hjarðhegðun för í þjóðfélaginu á röngum forsendum, eins og oft áður.

"Það er löngu sannað, að atvinnuleysi veldur dauðsföllum. Hjartasjúkdómar eru fyrirferðarmestir.  Samkvæmt nýlegri rannsókn veldur 1 % aukning atvinnuleysis 6 % aukningu á dánarlíkum ári síðar.  Fjöldi annarra rannsókna víða um heim sýnir slíkt samhengi."  

Í júlí 2020 voru 17´100 manns atvinnulaus.  Ef hinar vanhugsuðu aðgerðir stjórnvalda í sóttvarnarmálum, einkum á landamærum, valda atvinnumissi 4000 manns, þá vex atvinnuleysið um a.m.k. 20 %.  Samkvæmt því samhengi aukningar atvinnuleysis og dánarlíkinda atvinnuleysingja ári síðar, má ætla, að dánarlíkur yfir 20´000 manns á næsta ári aukist um 120 %, ef ekki rætist verulega úr atvinnuástandinu fljótlega.  Dettur einhverjum í hug, að dánarlíkur einhvers annars 20´000 manna hóps á landinu meira en tvöfaldist við það að slaka á sóttvarnaraðgerðum í landin, sem sannanlega eru fyrirtækjum svo mikill fjötur um fót, að þau neyðast til að fækka starfsfólki ?

Þorsteinn Siglaugsson hélt áfram:

"Enginn má leggjast á spítala vegna Covid-19.  En enginn hefur misst vinnuna til að fækka í þeim 25.000 manna hópi, sem árlega þarf að leggjast á spítala af öðrum orsökum.  Enginn krefst allsherjarútgöngubanns til að fækka þeim 2300 dauðsföllum, sem verða af öðru en Covid-19.  Hvers vegna þetta hrópandi misræmi ?"

Ætli fjöldi innlagna á spítala af völdum COVID-19 verði ekki undir 100 á árinu 2020.  Það er 0,4 % af öllum innlögnum.  Dauðsfallahlutfallið af völdum COVID-19 af öllum dauðsföllum verður líklega svipað á þessu ári.  Stærsta atvinnugrein landsins er ein rjúkandi rúst, ríkissjóður safnar skuldum, sem nálgast mrdISK 1000, viðskiptajöfnuðurinn er í járnum og nú gengur á gjaldeyrisvarasjóðinn til að verja ISK, sem fallið hefur um næstum fimmtung frá upphafi Kófs.  Allt er þetta með miklum ólíkindum og þarfnast sennilega alþjóðlegrar, geðfræðilegrar rannsóknar.  Þorsteinn Siglaugsson nálgaðist útskýringu fyrir sitt leyti:

"Ástæðan er, að fókusinn á það, sem máli skiptir, er horfinn.  Eitthvað eitt fær skyndilega vægi úr öllum takti við tilefnið.  Þetta er ekki í fyrsta sinn.  Í galdrafárinu varð galdrakukl, sem miðaldakirkjan leit á sem hindurvitni og fæstir höfðu áhyggjur af, skyndilega undirrót alls ills."

Það, sem máli skiptir hér og það, sem stjórnvöld hafa algerlega misst sjónar af, er að lágmarka hið samfélagslega tjón af þessum veirufaraldri. Í upphafi faraldursins var lítið vitað um hegðun veirunnar SARS-CoV-2 og áhrif hennar á líkamann, og þess vegna hilltust yfirvöld víða til að setja sóttvarnaraðgerðir á oddinn án tillits til alvarlegra efnahagslegra afleiðinga, sem aftur munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar og lífslíkur fjölmennra hópa ásamt þjónustugetu heilbrigðiskerfisins.  Það ríkti og ríkir enn allt of mikil þröngsýni og skammsýni í þessum efnum með hrikalegum afleiðingum fyrir efnahag hins opinbera og margra fyrirtækja og einstaklinga. 

Höfuðábyrgðina á þessum stórskaðlegu stjórnarháttum ber forsætisráðherra.  Hún er ekki ábyrg fyrir kreppunni, en hún er ábyrg fyrir því, að ekki náðist viðspyrna í ferðaþjónustunni í sumar, heldur hélt allt áfram að síga á ógæfuhliðina f.o.m. 19. ágúst 2020. 

"Yfirlýsingar forsætisráðherra um "meintan" árangur sýna, hvernig stjórnmálamenn geta misst sjónar á ábyrgð sinni gagnvart heildarhagsmunum samfélagsins.  Ekkert skiptir lengur máli, nema fjöldi smita.  Hið upphaflega markmið að tryggja afkastagetu heilbrigðiskerfisins og verja um leið þá hópa, sem viðkvæmastir eru, er löngu fokið út í veður og vind hérlendis."

Þegar hin göfugu stefnumið, sem Þorsteinn nefnir, fuku út um gluggann, og við tóku óljós stefnumið um "veirulaust" Ísland, þá tók að bera á gagnrýnisröddum, enda blasir við mörgum, að slíku má jafna við baráttu don Kíkóta við vindmyllurnar forðum, nema barátta ríkisstjórnarinnar er bein ógn við fjármálastöðugleikann í landinu, en barátta don Kíkóta fór mest fram í hans ruglaða höfði. 

 Frásögn Þorgerðar Önnu Gunnarsdóttur í Morgunblaðinu 11. september 2020 af upplýsingafundi Almannavarna um stöðu farsóttarinnar var með óttalegri fyrirsögn:

"Hlutfall virkra smita við landamæri tífaldast"

og hófst þannig:

"Hlutfall  þeirra, sem greinast með virk smit  við landamærin fer vaxandi, og skýrist það líklega af vaxandi útbreiðslu kórónaveirunnar erlendis.  Hlutfall þeirra, sem höfðu virk smit við greiningu á landamærunum í júní og júlí var 0,03 %, en undanfarnar 3 vikur er hlutfallið 0,3 %."

Því ber að halda til haga, að vegna mikillar fækkunar komufarþega frá 19. ágúst 2020 hefur sýktum lítið sem ekkert fjölgað, þótt hlutfall þeirra hafi hækkað mikið.  Er 0,3 % sýktra af COVID-19 í þýði hátt hlutfall á íslenzkan mælikvarða ?  Því er hæpið að halda fram, því að það er aðeins 1/3 af hlutfalli íslenzku þjóðarinnar, sem talið er hafa smitazt af veirunni. 

Ef nýgengið á landamærunum er athugað á tímabilinu 12. ágúst - 11. september 2020, þá hækkar það til 20. ágúst upp í 12,5, en lækkar síðan nánast stöðugt í 6,8 þann 11. september 2020.  Þetta er hærra gildi en í júní - júlí, en þarf ekki að skjóta neinum skelk í bringu. Nýgengið á landamærunum er aðeins um helmingur af nýgenginu innanlands. Nýgengið á landamærunum um miðjan september 2020 var orðið svipað og í sumar. 

Niðurstaðan er sú, að lítið aukin smithætta stafi yfirleitt af erlendum ferðamönnum, þótt seinni skimun og 5 daga sóttkví verði afnumin, t.d. fyrir þá, sem koma frá og eru frá landi með nýgengisstuðul NG<50, en væri þá haldið til streitu fyrir aðra, og öllum lögmætum ferðamönnum jafnframt heimiluð för til landsins. Einnig er rétt að viðhalda tvöfaldri skimun og sóttkví fyrir þá, sem búsettir eru hérlendis, því að smithættan frá þeim er mun meiri en frá öðrum.  Það kom fram í téðri frétt Þorgerðar Önnu, að 60 % þeirra, sem greindir eru með virk smit á landamærunum, eru búsett á Íslandi, og 24 % eru íslenzkir ríkisborgarar.  Í fréttinni stóð þetta einnig:

"Að sögn Þórólfs er skynsamlegast að fara mjög hægt í að aflétta takmörkunum á landamærum, og að ekki sé rétt að aflétta ráðstöfunum samtímis innanlands og á landamærum.  Vinna við framtíðarútfærslu á skimunum m.t.t. mismunandi hagsmuna þarf að fara fram sem fyrst að sögn Þórólfs."

Það er almenn regla, þegar tilraunastarfsemi á sér stað, að breyta aðeins einni stærð í einu til að geta lagt mat á áhrif þeirrar breytingar.  Þegar efnahagslegir hagsmunir landsins eru teknir með í reikninginn, er ekki hægt að skrifa undir það, að skynsamlegast sé að draga á langinn að létta á mest íþyngjandi ferðahömlununum á landamærunum, enda er ekki sama, hvernig það er gert.  Það ætti að setja í forgang breytingar á sóttvarnaraðgerðum á landamærunum, og taka þar með aðra mikilvæga hagsmuni með í reikninginn, eins og Þórólfur segir. M.v. hina jákvæðu þróun ferðamannastraums til landsins í ágúst, sem stjórnvöld eyðilögðu með einu pennastriki 19. ágúst 2020, má gera ráð fyrir nettótapi gjaldeyristekna  mrdISK 20-30 frá 19.08-31.12.2020.  Það er líklegt, að ferðamenn leiti í auknum mæli eftir fámennum áfangastöðum í löndum með tiltölulega litla smithættu.  Það er þess vegna ekki hægt að draga ályktanir fyrir Ísland af þróun ferðalaga t.d. til Spánar, eins og sézt hefur bregða fyrir.  

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband