Þrándur í Götu

Í upphafi vefgreinar þessarar er við hæfi að biðja frændur vora og vini, Færeyinga, velvirðingar á því að nota þar tíðum nafn landsmanns þeirra, forns, til að draga fram verstu einkenni volaðra vinstri sauða nútímans á Íslandi, sem gjörsamlega virðast nú gengnir í björg (og sem betur fer á leið fyrir björg í stjórnmálunum). 

Fyrst ber að nefna, að hin volaða vinstri stjórn er Þrándur í Götu endurreisnar ríkisfjármálanna.  Þetta lýsir sér í eftirfarandi:

  • ríkisstjórnin eyðileggur skattstofnana með gegndarlausum skattahækkunum, sem gjörsamlega ríða afkomu einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja á slig.  Þetta sjá flestir í hendi sér, en viðurkenndar hagfræðikenningar færa á þetta sönnur.  Marxistar gefa lítið fyrir heilbrigða skynsemi, ef hugsjónirnar eru annars vegar.
  • ríkisstjórnin eyðileggur skattkerfið með fikti sínu við stighækkandi skattstigul, sem er dýr í framkvæmd og dýrkeyptur fyrir fórnarlömbin, flækir kerfið, dregur úr hvata fólks til að auka tekjur sínar með heiðarlegum hætti, hrekur kunnáttumenn úr landi og veldur þannig meira tjóni en gagni.  Aftur er félagshyggjan söm við sig og skeytir hvorki um skömm né heiður, þegar kemur að því að ráðast gegn þeim, sem mests afla fyrir samfélagið og fá jafnan skömm í hattinn fyrir frá siðlitlum jafnaðarmönnum.  
  • ríkisstjórnin hefur enga stjórn á útgjöldum ríkissjóðs, sem vaxa stjórnlaust, og þar með vex lánsþörf hans og vaxtakostnaður. Ráðherrarnir eru eins og stefnulaus reköld, þegar að útgjöldunum kemur.
  • ríkisstjórnin anar út í ófæru stórfelldrar kjaraskerðingar landsmanna til langframa í algeru dómgreindarleysi sínu og vanþekkingu, þar sem hún telur íslenzka ríkissjóðinn vera skyldugan að hlýða útlendum ránfuglum og greiða fyrir fall útibús íslenzks einkabanka í Lundúnum, þar sem stórfé tapaðist m.a. fyrir tilverknað brezku verkamannaflokksstjórnarinnar í október 2008.  Hvers konar heybrókarháttur pótintáta ESB á þingi er þetta gagnvart útlendu valdi ?  Öðru vísi mér áður brá, þegar Lúðvík Jósefsson færði landhelgina út í tvígang og vílaði ekki fyrir sér heitt og kalt stríð við bandamenn okkar í NATO.  Skammvinna snerru er betra að taka nú en að hálfhengja sig í skuldaólinni.  Hver lánar hvort eð er þjóð, sem er á yztu nöf ? Ætli þeir, sem harðast sækja það nú að hneppa íslenzku þjóðina í langvinnt fátæktarhelsi, megi ekki óttast lögsókn hérlendis, er fram líða stundir, fyrir að hafa með stjórnvaldsaðgerðum sínum bakað almenningi stórtjón ?

urridafoss_1Næst ber að nefna ríkisstjórnina sem Þránd í Götu endurreisnar athafnalífsins og atvinnusköpunar, sem lýsir sér þannig:

  • ríkisstjórnin fjandskapast við erlend fyrirtæki, sem sýna áhuga á að fjárfesta í landinu.  Hún gerir þetta t.d. með því að reka rýting í bak  fyrirtækja, sem nýbúin eru að semja við íslenzk orkuvinnslufyrirtæki um orkuverð, með því að leggja á þau orkuskatt sem og reyndar einnig á almenning, sem reyndar ekki hefur gert langtímaorkusamning og býðst það ei.  Framferði af þessu tagi er beinlínis fallið til þess að eyðileggja samningsstöðu íslenzkra orkusölufyrirtækja gagnvart erlendum fjárfestum.   
  • ríkisstjórnin kastar á glæ umræðulaust verðmætum stóriðjukvóta á sviði losunar koltvíildis.  Þetta mun leiða til þess, að stóriðjufyrirtækin munu til lengdar borga innlendum fyrirtækjum og hinu opinbera samsvarandi lægri upphæðir, sem núvirtar yfir 25 ára skeið með 6 % raunvöxtum geta numið ISK 1100 milljörðum.  Annaðhvort rétta stóriðjufyrirtækin samkeppnistöðu sína af með þessum hætti, eða þau hverfa á braut.  Launþegar, birgjar og orkuseljendur, tapa þessari upphæð. Af þessu sést, hversu gríðarlegt glappaskot vinstri stjórnin framdi með því að leggja upp laupana áður en haldið var á Loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í stað þess að berjast fyrir því þar að halda íslenzka losunarákvæðinu á lofti vegna haldbærra orkulinda Íslands. 

Grundarfjarðar höfnÞá ber að nefna, hvernig ríkisstjórnin er Þrándur í Götu þróunar í sjávarútvegi:

  • ríkisstjórnarflokkarnir hafa reynt að fljóta, eins og hrossataðskögglar á drullupolli, á óánægju, sem reynt hefur verið að magna upp í garð útgerðarmanna vegna kvótaeignar þeirra, sem þeir þó að langmestu leyti hafa keypt á markaði.  Vinstri flokkarnir settu "fyrningu eigna" í stjórnarsáttmála sinn.  Eins og alls staðar annars staðar, þar sem eignarnám að hætti Karls Marx er sett á dagskrá stjórnvalda, hefur slíkt leitt til stöðnunar; útgerðarmenn fjárfesta enda ekki lengur og halda viðhaldi í lágmarki.  Vinstri stjórnin er þess vegna alveg klárlega Þrándur í Götu framfara í sjávarútvegi.

Ríkisstjórnin er Þrándur í Götu frekari iðnvæðingar á Íslandi:

  • Vinstrimennskunni hefur verið líkt við sjálfsónæmissjúkdóm í þjóðarlíkömum Vesturlanda.  Vinstrimenn skulu ætíð taka upp á sína arma hvern þann málstað, sem Vesturlöndum kemur illa, en þó jafnan undir yfirskini mannúðar, manngæzku og mannréttinda.  Eftir fall Ráðstjórnarríkjanna vantaði vinstri menn sárlega málstað og fundu hann í öfgakenndri varðveizlu náttúru og þar með fjandskapi við nýtingu náttúruauðlinda ásamt baráttu við "gróðurhúsaáhrifin".  Hvort tveggja er reist á þröngsýni, vanþekkingu, hatri á auðvaldskerfinu og fyrirlitningu á neyzlusamfélaginu.  Allt norðurhvel jarðar var undir þykkri íshellu fyrir um 12 000 árum.  Síðan snögghlýnaði og fyrir um 10 000 árum var orðið mun hlýrra á Íslandi en nú er.  Frá því fyrir um 2500 árum hefur farið hægt kólnandi á jörðunni með hlýskeiðum og kuldaskeiðum sitt á hvað, og ekkert hefur hlýnað á jörðunni síðan um aldamótin síðustu.  Skammvinn hækkun koltvíildisstyrks í andrúmsloftinu úr 0,029 % í 0,038 % breytir engu um langtímaþróun hitafars á jörðunni.  Hvað halda menn, að árlega streymi mikið af koltvíildi upp úr jörðunni miðað við þá 30 milljarða tonna, sem mannkynið er talið láta frá sér fara ?  Hvernig má það vera, að 31 % aukning á styrk lofttegundar, sem aðeins veldur um 4 % af heildargróðurhúsaáhrifunum í gufuhvolfinu, geti valdið 3°C - 5°C  meðaltals hitastigshækkun á jörðunni ?  Vatnsgufa, H2O, er aðalgróðurhúsalofttegundin og vegur í þessu samhengi um 90 % og metan, CH4, megnið af afganginum.  Allt er þetta með ólíkindum, eins og góður maður sagði.  Allt tal um umhverfisvernd á Íslandi, leiksoppi náttúruaflanna elds og ísa, er augljóslega reist á draumórum og einhverju öðru en vizku; gæti þó verið fordómum og sérvizku.   Um þetta má hafa orð Ólafs pá í Laxdælu: "Þat vil ek, at þeir ráði, er hyggnari eru.  Því verr þykkir mér sem oss muni duga heimskra manna brögð er þeir koma fleiri saman."  Að Íslendingar láti úrtölumenn tefja frekari iðnvæðingu með vísun til neikvæðra gróðurhúsaáhrifa eða röskunar á umhverfi, sem er sjálft á gríðarlegu breytingaskeiði af náttúrulegum orsökum, er alveg út í hött og á að vera liðin tíð.  Var ekki verið að tala um framleiðsluþjóðfélagið ? Hins vegar er sjálfsagt að beita beztu tækni til að hámarka öryggi starfsmanna og verktaka, lágmarka mengun vinnuumhverfis og alla efnamengun, og til að iðnaðurinn valdi ekki öðrum hagsmunaaðilum í landinu tjóni, t.d. landbúnaði og ferðaiðnaði, en til þess er einmitt umhverfislöggjöf landsins ætluð.   

 Ríkisstjórnin er Þrándur í Götu viðreisnar þjóðfélagsins:

  • Hér ríkir nú mikið atvinnuleysisböl og fer vaxandi.  Af þessum sökum er mikill harmur kveðinn að mörgum fjölskyldum og landflótti hefur brostið á.  Ríkisstjórnin er Þrándur í Götu framkvæmdar á Stöðugleikasáttmálanum, en hann gerðu aðilar vinnumarkaðarins við ríkisstjórnina til að draga úr versta skelli bankahrunsins á atvinnulífið.  Langlundargeð þessara aðila vinnumarkaðarins gagnvart mistökum og lausatökum ríkisstjórnarinnar sætir tíðindum.  Ríkisstjórnin ferðast í þessum efnum á hraða snigilsins, og henni má hiklaust kenna um það geigvænlega atvinnuleysi og djúpstæðu kreppu, sem hér ríkir enn, þó að flest lönd séu nú að rétta úr kútnum.  Þar hefur verið beitt örvunarráðum á efnahagslífið, en ekki löngu úr sér gengnum trúarsetningum úr "Das Kapital".  Það er ekki kyn, þótt keraldið leki.  Samdráttur VLF á Íslandi er a.m.k. 25 % í bandaríkjadölum talið.  Annað eins er fáheyrt og líklega einsdæmi í heiminum í þessari kreppu.  Við þessu þarf auðvitað að bregðast með djörfung og dug, en ekki að hengja haus, horfa einvörðungu til baka og barma sér og setja allt sitt traust á, að einhverjir aðrir leysi vandann.

 

Ríkisstjórnin er Þrándur í Götu heilsteyptra samskipta við erlendar þjóðir:

  • Mitt í öllu fárinu, sem yfir þjóðina gekk, fékk vinstri stjórnin Alþingi til að samþykkja hinn 16. júlí 2009, að lögð skyldi fram umsókn um aðildarviðræður við ESB.  Að hlýða á þingmenn VG, og einkum suma ráðherrana, gera grein fyrir atkvæði sínu við það tækifæri, var í meira lagi neyðarlegt.  Umhverfisráðherrann, þóttafull að vanda, lýsti t.d. ESB sem höfuðvígi auðvaldsins í Evrópu og skilja mátti á henni, að í Berlaymont réðu húsum dólgar og illmenni, sem hún ekki vildi koma nálægt.  Samt léði hún því atkvæði sitt, að ráðsmenn íslenzku fjallkonunnar skyldu verja til þess hundruðum milljóna króna að ræða við þessa menn um, að hún skyldi ganga með þeim í eina sæng.  Íslenzka embættismannakerfið er heltekið af afleiðingum þessarar ákvörðunar og getur í raun ekki staðið almennilega að viðræðum ofan á það einstaka álag, sem bankahruninu fylgdi.  Það er ekki að undra.  
  • Með ákvörðun um þessa umsókn er ríkisstjórnin orðin Þrándur í Götu eðlilegra samskipta við útlönd.  Hún dinglar bara rófunni í hvert sinn sem Brüssel opnar þverrifuna, og verður að gjalti í öllum hagsmunaárekstrum við aðildarríkin.  Í undirlægjuhætti sínum og heimóttarskap heldur ríkisstjórnin, að með þessu hátterni geti hún farið á einhvers konar hraðferð inn í ESB.  Þetta vitnar um heimsku ráðherranna og sótthitakennda draumóra.  Engin slík sérmeðferð er á boðstólum að hálfu ESB.  Flaður ráðherranna vekur fyrirlitningu í Brüssel, eins og annars staðar. 
  • ESB-umsóknin er orðin Þrándur Götu þróunar samskipta við lönd utan ESB.  Dæmi um þetta er viðskiptasamningur við Kínverja, sem var í bígerð, en Kínverjarar stöðvuðu eftir að umsóknin varð staðreynd.  Brüssel gerir viðskiptasamninga fyrir aðildarlöndin.  Draga má í efa, að slíkt yrði Íslendingum til framdráttar til lengdar. 
  • Það hefur hlaupið snurða á þráð samskipta Íslands og Bandaríkjanna, BNA, eftir klúður forsetaembættisins með afturköllun á orðuveitingu á síðustu stundu til fyrrverandi sendiherra BNA.  Það er mjög óheppilegt, að starfsmenn utanríkisráðuneytis BNA virðast hafa móðgazt í garð Íslands, sem er óþarfi, því að utanríkisráðherra Íslands fer með öll málefni landsins gagnvart erlendum ríkjum í umboði forseta, sem er valdalaus.  Rikisstjórnin er þess vegna Þrándur í Götu bættra samskipta við BNA, en á þeim þurfum við mjög að halda núna, þegar Evrópa talar við okkur með tveimur hrútshornum (Bretlandi og Hollandi).

Þrándur í Götu heilbrigðrar skynsemi:

  • Ef reynt er að draga ályktun af endemisferli ríkisstjórna þeirra, sem hér hafa setið við völd frá 1. febrúar 2009, verður hún sú, að vinstri flokkarnir séu báðir óstjórntækir.  Meginástæðan er sú, að þinglið þeirra beggja virðist óhæft til stjórnunarstarfa, en hefur í tímans rás flotið á innantómum belgingi og komizt upp með hreinan þvætting á köflum.  Landeyður stjórna nú Íslandi.  Með öðrum orðum bjóða vinstri flokkarnir upp á minna mannval en dugar til að stjórna einu landi.  Þar er allt of mikið af undirmálsfólki, hlöðukálfum á ríkisjötunni með takmarkaðar siðferðiskröfur til sjálfra sín þrátt fyrir gaspur um slíkt í garð annarra.
  • Það er þó ofmælt, að þessi volaða vinstri stjórn gegni engu hlutverki.  Það er rangt, að hún sitji til einskis og geri einvörðungu illt verra.  Með gjörðum sínum opnar hún augu fjölmargra kjósenda fyrir staðreyndum, sem ekki voru þeim áður kunnar og bent hefur verið á í þessari vefgrein.  Átrúnaðargoð eru nú fallin af stalli og orðin að gjalti.  Íslenzkir kjósendur munu ekki láta það lengi um sig spyrjast, að þangað leiti klárinn jafnan, sem hann er kvaldastur.   

Þórshöfn í Færeyjum

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Bjarni þakka góða grein, sumir vísindamenn reikna H2O upp í 92 til 95% aðrir eru varkáki og miða við 90 til 92%

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 17.12.2009 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband