Óskilvirkur eftirlitsiðnaður

Sleifarlag einkennir starfsemi eftirlitsiðnaðarins á Íslandi, enda virðist enginn gegna því hlutverki að setja pipar undir stertinn á eftirlitsstofnunum, þegar lögbundinn tímafrestur til afgreiðslu mála er liðinn. Nýlegt dæmi um drátt úr hömlu er afgreiðsla Orkustofnunar á einfaldri umsókn Landsvirkjunar um leyfi til að virkja rennsli Neðri-Þjórsár við Hvamm (95 MW). 

Afgreiðslan tafðist von úr viti hjá Orkustofnun, enda var hún sett í saltpækil í hálft ár hjá nýjum orkumálastjóra, sem síðan þóknaðist að senda umsóknina út og suður í umsagnir, sem vitnar ekki beinlínis um fagleg efnistök.  Framkvæmdaleyfi sömu virkjunar fer eðlilega í umsagnarferli, þegar sveitarfélögin afgreiða það.  Virkjanaleyfið kom svo loks eftir dúk og disk eftir a.m.k. 1,5 árs meðgöngutíma hjá OS.  Ekkert vitrænt mun hafa komið út úr þessu ferli, sem bætti virkjanatilhögunina á nokkurn hátt.  Eftirlitsstofnanir líta of stórt á sig m.v. verðmætasköpun þar á bæ, sem sjaldnast er mælanleg, og sjá ekki skóginn fyrir trjánum. 

Það fyrsta, sem stofnanir þurfa að bæta innanhúss hjá sér, er vinnuagi, svo að lögbundnir tímafrestir séu virtir. Ef stofnun hangir á máli lengur en lögbundinn tímafrestur segir til um, á mál einfaldlega að ganga til baka sem samþykkt athugasemdalaust, nema ráðherra veiti einn mánuð í viðbót.  Kröflulína 3 velktist um í 7 ár í kerfinu, sem er tvöfaldur sá tími, sem eftirlitsiðnaðurinn hafði leyfi til að halda málinu hjá sér.  Hvað halda menn, að svona sleifarlag kosti fyrirtækin, sem í hlut eiga, og samfélagið allt ?  Í tilviki Kröflulínu 3 er um tugmilljarða ISK tjón að ræða.  Silkihúfurnar eiga að gjalda fyrir sleifarlagið og fá umbun fyrir afköst umfram væntingar. Hvata til góðra verka vantar.  Nú ætlar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að fækka stofnunum.  Við það fækkar silkihúfunum, en mun skilvirkni embættismannanna og gæði verkanna batna við þennan samruna ?  Ef ekki, kastar hann barninu út með baðvatninu.   

Morgunblaðið gerði þessa þjóðfélagsmeinsemd að umfjöllunarefni í forystugrein 10. febrúar 2023:

"Eftirlit án eftirlits".

Hún hófst þannig:

"Íslenzkar eftirlitsstofnanir hafa með árunum fært sig mjög upp á skaptið, og stafar það ekki sízt af því, að þær virðast sjálfar ekki undir neinu eftirliti í störfum sínum, sem augljóslega gengur ekki upp. Slíkar stofnanir hafa mikil völd og verða að beita þeim af yfirvegun og skynsemi, en eiga það til að tapa áttum, og þá er voðinn vís."

Þá er frumskilyrði, að forstjórar þessara stofnana gæti þess, að þær starfi samkvæmt lögum í hvívetna og séu ekki meira íþyngjandi fyrir atvinnulífið en nauðsyn krefur samkvæmt lagabókstafnum.  Það vantar mikið á, að Samkeppniseftirlitið fullnægi þessum skilyrðum, en forstjóri þessarar stofnunar er mjög ferkantaður í afstöðu sinni til atvinnulífsins og hagar sér iðulega eins og versti tréhestur.  Samkeppniseftirlitið (SKE) olli Símanum milljarða ISK tjóni með afskiptum sínum af sölu Mílu, en nytsemi þeirra afskipta fyrir neytendur er hæpin. 

Afstaðan til samstarfs afurðastöðva kjötframleiðenda er svo tréhestaleg, að furðu sætir.  Hagræðingu er unnt að ná með auknu samstarfi afurðastöðva.  Þar með lækkar kostnaður og tækifæri skapast til að greiða bændum hærra verð og/eða lækka verð til neytenda.  Þegar þess er gætt, að samkvæmt lögunum um Samkeppniseftirlitið má það heimila slíkar hagræðingarráðstafanir, verður að líta á það sem valdníðslu að hálfu forstjóra þess að leggjast þversum gegn þessu. 

"Samkeppniseftirlitið er eftirlitsstofnun, sem iðulega gengur of langt og er vandséð, að starfsemi þeirrar stofnunar skili nokkrum ávinningi. Eitt af því, sem stofnunin reynir af flækjast fyrir, er framþróun í íslenzkum landbúnaði, en stofnunin beitir sér mjög fyrir því, að hér séu sem strangastar reglur á þessu sviði atvinnulífsins, mun strangari en þekkist erlendis, þegar ástæða væri til, í ljósi fámennis og dreifbýlis, að veita meira svigrúm hér en erlendis til hagræðingar í greininni."

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins misskilur hlutverk sitt.  Hann virðist telja fjölda í grein til þess fallinn að keyra niður verð til neytenda.  Það er misskilningur, því að hagkvæmni stærðarinnar vegur þungt líka, og verðinu til neytenda eru skorður settar af lágri framleiðni, sem auka mætti með stækkun framleiðslueininga.  Með þvergirðingi (úr Blöndudal) stendur forstjóri Samkeppniseftirlitsins gegn eðlilegri framþróun atvinnulífsins, og ráðherra á ekki að láta hann komast upp með slíkt, en matvælaráðherra hefur nú látið embættismanninn beygja sig. 

"Samkeppniseftirlitið lætur sér ekki nægja að beita sér innan gildandi laga [það nýtir sér alls ekki svigrúm til hagræðingar í lögunum - innsk. BJo], það vill líka hafa áhrif á lagasetningu, jafnvafasamt og það er.  Þannig hefur stofnunin lagzt hart gegn frumvarpi, sem hefði getað aukið svigrúm til hagræðingar í landbúnaði með því að veita undanþágur frá samkeppnislögum.  Dæmi um, hve langt stofnunin gengur í þessum efnum, var nefnt í grein hér í blaðinu í gær eftir formann Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.  Í greininni segir, að umsögn eftirlitsins, ásamt viðauka, sé samtals 56 bls.  "Þar er m.a. komið inn á fæðuöryggi, byggðastefnu o.fl., sem er Samkeppniseftirlitinu óviðkomandi. Til samanburðar má vísa til umsagnar norska samkeppniseftirlitsins, þegar núgildandi undanþága norskra laga frá samkeppnisreglum var samþykkt.  Umsögn norska samkeppniseftirlitsins var tæplega 2 bls. að lengd", segir í greininni, þar sem enn fremur kom fram, að norska eftirlitið lýsti ánægju með með frumvarpið." 

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum, sem sýnir, að hér fer Samkeppniseftirlitið út um víðan völl, kann ekki að sníða sér stakk eftir vexti og er komið langt út fyrir verksvið sitt.  Með þessum vinnubrögðum spilar Samkeppniseftirlitið rassinn úr buxunum og verðskuldar þá einkunn að vera gagnslaust í samfélaginu.  Það er verra en það, því að með tréhestatiltækjum sínum veldur það tjóni á samkeppnishæfni atvinnulífsins.  Nýlegt dæmi er greining SKE á markaði fyrir majónes og kaldar sósur, en sá markaður var greindur í þaula og komizt að þeirri niðurstöðu, að Sameining Gunnars og Kaupfélags Skagfirðinga mundi draga úr samkeppni á þessum markaði.  Dettur embættismönnum SKE aldrei í hug að láta markaðinn einfaldlega njóta vafans ?  Í ljósi þess, að íslenzkur matvælaiðnaður á í harðri samkeppni við erlendan, virðist slíkt sjónarmið vera fyllilega réttlætanlegt.  SKE fer offari gagnvart íslenzku atvinnulífi og grefur þar með undan því og hagsmunum starfsmanna og neytenda, sem fremur kjósa íslenzkt.      

 

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband