Forræðishyggjan tröllríður borgarstjórn Reykjavíkur

Hafa Reykvíkingar samþykkt það í almennri atkvæðagreiðslu, að viðhorf Samtaka um bíllausan lífsstíl verði lögð til grundvallar aðal- og deiliskipulagi Reykjavíkur ?  Nei, og það er orðið aðkallandi, að þeir fái að tjá sig í almennri atkvæðagreiðslu um þetta og þá óvissuferð, sem meirihluti borgarstjórnar er kominn í með s.k. Borgarlínu, sem er sannkölluð sorgarlína.  Til einföldunar mætti spyrja, hvort borgarbúar vilji fá mislæg gatnamót inn á aðalskipulag og deiliskipulag alls staðar, þar sem Vegagerðin ráðleggur slíkt, og hvort borgarbúar kjósi fremur "þunga" borgarlínu á miðju vegstæðis eða nýja sérrein hægra megin götu, þar sem slíkt gæti stytt umferðartíma strætisvagna á annatímum samkvæmt tillögum Betri samgangna fyrir alla".  Núverandi meirihluti borgarstjórnar er að keyra fjárhag borgarinnar í þrot og bílaumferð í borginni í allsherjar hnút.  

Varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Þorkell Sigurlaugsson, gerði skýra grein fyrir valkostum borgarbúa við útúrborulega stefnu sérvitringanna í meirihluta borgarstjórnar í umferðarmálum í Morgunblaðsgrein 14. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Mengun og vondar samgöngur í boði borgarstjórnar".

Hún hófst þannig:

"Ein aðalfrétt að undanförnu er mengun yfir hættumörkum í Reykjavík.  Heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur taldi í fréttum hjá RÚV og Stöð 2 þann 4. janúar [2022] einu lausnina vera að takmarka umferð og borgin þyrfti að fá skýrari heimild í lögum til að framkvæma slíkt.  

Varaformaður Landverndar var með svipaða orðræðu á sjónvarpsstöðinni Hringbraut 11. janúar [2022], að minnka þyrfti umferð og vildi reyndar kenna nagladekkjum einnig um svifryk þessa dagana.  Ekkert var minnzt á, að vandamálið er fyrst og fremst heimatilbúið vegna langvarandi aðgerðaleysis borgarstjórnar Reykjavíkur."

Það er dæmigerð forræðishyggja að baki því að láta sér detta í hug að grípa inn í líf og lifnað fólks með svo róttækum og skaðvænlegum hætti að banna t.d. fólki með prímtölu í enda bílnúmers síns að aka um götur allrar Reykjavíkur á grundvelli hámarks mæligildis NO2 og/eða svifryks með þvermál undir 10 míkrómetrar nokkrum sinnum á sólarhring yfir viðmiðunarmörkum. Það, sem skiptir höfuðmáli hér, er varanleiki gildanna yfir mörkum, og hversu víðfeðm mengunin er, þ.e. hversu lengi flest fólk þarf að dvelja í menguninni. 

Þótt mæligildi skaðlegra efna á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar hafi á fyrsta hálfa mánuði ársins 2023 verið í 40 klst yfir viðmiðunarmörkun, er fráleitt að gera því skóna, að einhver hafi á tímabilinu andað þessu slæma lofti svo lengi að sér og umferðartakmarkanir í borginni á þessum grundvelli þess vegna fráleitar.  Að þessu leyti eru aðstæður ósambærilegar við útlönd almennt séð.

  Í Reykjavík eru froststillur (verstu skilyrðin) svo sjaldgæfar, að heilbrigðu fólki hefur ekki stafað ógn af ástandinu, en mæligildin eru nytsamleg til að vara fólk með viðkvæm öndurnarfæri við, og allir geta gert ráðstafanir til að skapa yfirþrýsting í bílnum á verstu stöðunum, t.d. á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar, en þar mega vegfarendur þrauka í bið á umferðarljósum í boði steinrunnins afturhalds í borgarstjórn, sem vill ekki leyfa Vegagerðinni að setja upp þarna mislæg gatnamót, sem svara kröfum tímans, en forneskjan í borgarstjórninni vill halda höfuðborginni á hestvagnastiginu.

Að eftir hverjar borgarstjórnarkosningar skuli ætíð vera lappað upp á fallinn meirihluta hinnar afturhaldssömu og sérvizkulegu Samfylkingar er þyngra en tárum taki, enda er hagur borgarinnar kominn að fótum fram. Þar ber Dagur, fráfarandi borgarstjóri Samfylkingar, mest ábyrgð, en mun smeygja sér undan henni.  Hann er vissulega sekur um óstjórn og vanrækslu.  

"NO2 er réttilega aðalsökudólgurinn og kemur frá útblæstri bifreiða [aðallega dísilvélum-innsk. BJo].  Borgin hefði sjálf getað sýnt gott fordæmi og sett kraft í orkuskipti hjá Strætó, en af um 160 vögnum eru eingöngu 15 rafvagnar [skammarlega lágt hlutfall, rúmlega 9 % - innsk. BJo].  Nánast við hliðina á mengunarmælistöðinni eru ein umferðarmestu gatnamót Strætó í borginni. 

Hin ástæða mikillar mengunar við Grensásveg og víðar eru gríðarlegar tafir í umferðinni, þar sem flæði umferðar í Reykjavík hefur verið heft vegna vanrækslu borgarstjórnar a.m.k. undanfarin 15-20 ár."

  Þetta er falleinkunn yfir Samfylkingunni og stjórnarháttum hennar í höfuðborg Íslands.  Hvergi í borgum Norðurlandanna er uppi þvílíkur vandræðagangur og óstjórn og í Reykjavík.  Þar er ekki hægt að skrifa allt á vannrækslu meirihluta borgarstjórnar, heldur er um útfærða stefnumörkun afturhaldsins að ræða með því að taka mislæg gatnamót út af aðalskipulagi og þrengja umferðaræðar, t.d. Grensásveg með sérvizkulegum og þverúðarfullum hætti í blóra við umferðarfræði, sem miða að því að hámarka öryggi allra vegfarenda og halda umferðartöfum innan viðunandi marka (núverandi umferðartafir í borginni eru allt að því fimmfaldar viðunandi tafir út frá beinum kostnaði við tafirnar).

 "Fyrir löngu hefði átt að ráðast í gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut og Grensásveg og einnig Bústaðaveg við Reykjanesbraut.  Miklabraut gæti verið í nokkurs konar brú yfir Grensásvegi með svipuðum hætti og Miklabraut yfir Elliða[ánum] og Sæbraut/Reykjanesbraut.  Halda síðan áfram og leysa málið með mislægum gatnamótum við Kringlumýrarbraut og jafnvel jarðgöngum undir Lönguhlíð og víðar á þessari tiltölulega stuttu 3 km leið frá Grensásvegi að Landspítala við Hringbraut.  Markmiðið væri að gera Miklubraut að mestu lausa við ljósastýringu umferðar og halda jöfnum, hóflegum hraða. Þannig [næst] bæði lágmarks eldsneytiseyðsla og [lágmarks] hávaðamengun ökutækja."   

Það er hneyksli og vitnar um firringu og forneskjulegan þankagang meirihluta Samfylkingar í borgarstjórn að vilja halda umferðinni á Miklubraut, þessum megin austur-vesturási borgarinnar, á hestvagnastiginu með frumstæðum og hættulegum gatnamótum.  Samfylkingin heldur borgarumferðinni í spennitreyju með yfirgengilegri fávísi um og hundsun á þörfum borgarbúa og annarra vegfarenda í Reykjavík.  Í staðinn koma hátimbraðar fyrirætlanir um að flýta för 4 % vegfarenda á kostnað um 80 % vegfarenda.  Þetta er alveg snarvitlaus forgangsröðun þeirra furðudýra, sem hanga við völd í Reykjavík án þess að geta það. 

"Ef borgin hefði sýnt Sundabraut meiri áhuga, gæti hún verið komin og hefði dregið verulega úr umferð um Vesturlandsveg og Miklubraut, m.a. stórra vöruflutningabifreiða, og opnað ný tækifæri til íbúðauppbyggingar á Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi. 

Árlegur tafakostnaður í umferðinni er ekki undir mrdISK 50.  Hluti af því er umframeyðsla á eldsneyti, 20-30 kt/ár samkvæmt útreikningum verkfræðinganna [og bræðranna] Elíasar Elíassonar og Jónasar Elíassonar, prófessors emeritus [blessuð sé minning hans - innsk. BJo]."   

Skemmdarverkastarfsemi Samfylkingarinnar og taglhnýtinga hennar í borgarstjórn á undirbúningi Sundabrautar er skipulagshneyksli.  Flokkurinn er gjörsamlega siðlaus í athöfnum sínum gegn eðlilegu umferðarflæði í Reykjavík.  Þessar athafnir og athafnaleysi Samfylkingarinnar hafa leitt til alvarlegra slysa á fólki, mikils eignatjóns, tímasóunar og óþarfa mengunar og losunar CO2, sem nemur um 100 kt/ár, sem er ekki óverulegt á landsvísu (um þreföld niðurdæling Carbfix á CO2 við Hellisheiðarvirkjun).

Samfylkingin ber kápuna á báðum öxlum í mikilvægum hagsmunamálum landsmanna, t.d. umhverfismálum, því að hún er mjúkmál um þau, en gerir sér leik að því að valda óþarfa losun, sem nemur um 2 % á landsvísu í Reykjavík einni. Samfylkingunni er í engu treystandi. 


Miðstjórn ASÍ á villigötum

Það hefur verið sorglegt að fylgjast með svigurmælum forystumanna verkalýðs í garð ríkissáttasemjara. Viðvaningsháttur og hroki einkennir þá, þeim eru mannasiðir ekki tamir, og steininn hefur tekið úr, þegar þeir í einfeldni sinni hafa hætt sér út í lagatúlkanir um embætti ríkissáttasemjara.  Þar stendur ekki steinn yfir steini. Starfandi forseta ASÍ virðist skorta forystuhæfileika til að leiða ASÍ með ábyrgum og farsælum hætti.  Nú stendur miðstjórnin uppi berrössuð eftir innantómar yfirlýsingar sínar, eftir að sá maður, sem gerzt má vita um heimildir ríkissáttasemjara til að varpa fram miðlunartillögu í kjaradeilu, sem hann telur vera komna í hnút, hefur tjáð sig opinberlega.  

Karítas Ríkharðsdóttir átti stutt og hnitmiðað viðtal við Ásmund Stefánsson, hagfræðing og fyrrverandi forseta ASÍ og fyrrverandi ríkissáttasemjara, í Morgunblaðinu 30. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Fordæmanleg ósannindi um lagaheimildir".

Ásmundur var algerlega afdráttarlaus í stuðningi sínum við núverandi ríkissáttasemjara.  Allt tal verkalýðsleiðtoga um, að hann hafi farið út fyrir valdheimildir sínar og þannig með réttu fyrirgert trausti, er eintómt blaður.  Viðkomandi verkalýðsleiðtoga hefur sett ofan, og það verður á brattann að sækja fyrir þá að endurheimta snefil af trausti eftir þetta illvíga frumhlaup. 

Viðtalið hófst þannig:

"Það er alveg ljóst, að sáttasemjari hefur þessa heimild til að leggja fram miðlunartillögu og þarf ekkert samþykki deiluaðila til þess. Það er staðreyndin.  Það er í raun fordæmanlegt, að stóru heildarsamtökin skuli fara fram með bein ósannindi í þessu efni", segir Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur, fyrrverandi ríkissáttasetjari og fyrrverandi forseti ASÍ í samtali við Morgunblaðið og vísar til ályktunar miðstórnar ASÍ í kjölfar þess, að ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á fimmtudaginn í síðustu viku [26.01.2023]. 

Í ályktuninni segir um heimild sáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu, að "hún eigi ekki að leggjast fram án þess að hafa a.m.k. þegjandi samþykki beggja aðila."  Ásmundur segir þessa viðmiðun hvergi í lögum." 

Miðstjórn ASÍ undir starfandi forseta hefur sett verulega niður við þessa loðmullulegu  ályktun, sem hefur á sér yfirbragð tilvitnunar í lög, en er í rauninni skáldskapur miðstjórnarinnar.  Hvernig í ósköpunum dettur miðstjórninni í hug að ganga fram með vísvitandi ósannindum í marklausri tilraun sinni til að grafa undan ríkissáttasemjara í eldfimu ástandi ? Þessi framkoma er óábyrg, heimskuleg og fullkomlega óboðleg, og forsetinn  virðist þarna hafa dregið miðstjórnina á asnaeyrunum, eða hann er fullkomlega ófær um veita nokkra leiðsögn af viti. Sýnir þetta enn og aftur, hvers konar ormagryfja verkalýðsforystan er, þegar hún kemur saman.  Þar er ekki stunduð sannleiksleit, heldur ræður sýndarmennska, yfirboð og önnur óvönduð vinnubrögð ferðinni. 

Áfram hélt Ásmundur í viðtalinu við Karítas:

"Það hafa verið samþykktar ályktanir og gefnar út yfirlýsingar um það, að sáttasemjari hafi ekki lagalegt umboð til að koma með miðlunartillögu.  Ég verð í rauninni að lýsa undrun minni á því.  Staðreyndin er, að sáttasemjari hefur þessa heimild samkvæmt lögum, og það fer eftir hans mati á stöðu deilunnar, hvort hann telur rétt að leggja fram miðlunartillögu eða ekki.  Það er engin krafa um það, að verkfall hafi staðið í tiltekinn tíma.  Krafa um t.d. 3 til 4 vikna vinnustöðvun myndi ekki auðvelda sáttastarf.  Krafan er einfaldlega, að hann meti ástandið þannig, að það sé rétt að leggja fram miðlunartillögu.  Þó að menn gefi yfirlýsingar á yfirlýsingar ofan um, að það sé brot, þá haggar það ekki þeirri staðreynd, að fyrir þessu er ekki bara lagaheimild, heldur einnig sterk hefð.  Ósannindi hrekja ekki staðreyndir."

Eftir þessa uppákomu er ljóst, að núverandi miðstjórn ASÍ les lagatexta, eins og Skrattinn Biblíuna og fellir allt að eigin duttlungum.  Þetta er hroðalegt vanþroskamerki og alveg í anda formanns Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, sem lifir í eigin furðuheimi, þar sem viðtekin lögmál gilda ekki.  Þessi miðstjórn hefur þar af leiðandi glatað öllum trúverðugleika og er í raun og veru bara aðhlátursefni.  Þetta hafa menn upp úr viðvaningshætti, ofstæki og flausturslegum vinnubrögðum.  Var við öðru að búast ?

 

 


Virkjanir og sveitarfélögin

Nánast öll raforka frá virkjunum landsins fer inn á stofnkerfi raforku, og þannig eiga allir landsmenn að hafa jafnan aðgang að henni, þótt misbrestur sé á því í raun, bæði hvað afhendingaröryggi og spennugæði áhrærir. Það hefur of lítill gaumur verið gefinn að sveitarfélögunum, þar sem virkjanirnar eru staðsettar, enda er það eðlileg ósk heimamanna, að hluti virkjaðrar orku verði til ráðstöfunar í viðkomandi sveitarfélögum, ef eftirspurn skapast. 

Þetta viðhorf kom fram í góðri Morgunblaðsgrein eftir Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra í Skeiða- og Gnúpverjahreppi 9. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Forsenda orkuskipta á Íslandi fyrir árið 2040".

Þar stóð m.a.:

"Ég leyfi mér að fullyrða, að orkuskipti þjóðarinnar gangi ekki eftir, nema haldið verði áfram að virkja þetta mikilvæga orkusvæði.  Þegar ríkisstjórn Íslands setti hins vegar markmið um orkuskipti fyrir Ísland, átti ekkert samtal eða samráð sér stað um það við sveitarfélögin, en samt er það svo, að það eru þau, sem þurfa að setja virkjanir og tengd mannvirki á aðal- og deiliskipulag sitt ásamt því að heimila framkvæmdir.  Nauðsynlegt er að hefja samtalið [á] milli ríkis og sveitarfélaga strax, til þess að orkuskiptin raungerist."

Þetta er þörf og löngu tímabær ábending.  Að samskipti ríkisvalds, stærsta ríkisorkufyrirtækisins og  sveitarfélaga á orkusviðinu skuli vera í lamasessi, eins og höfundurinn rekur, ber vitni um ómarkviss vinnubrögð af hálfu ríkisvaldsins og ríkisorkufélaganna, og er þessi meinbugur sennilega hluti af skýringunni á þeirri úlfakreppu, sem íslenzk orkumál eru í.  

Þjóðarskútunni hefur verið siglt inn í ástand raforkuskorts.  Hann er ekki tímabundinn, eins og löngum áður fyrr, heldur langvarandi. Hann stafar ekki einvörðungu af skorti á rafölum til að svara eftirspurninni, einnig frá nýjum notendum, heldur vegna ónógrar söfnunargetu miðlunarlóna virkjananna, sérstaklega á Tungnaár/Þjórsár-svæðinu. 

Að auka aflgetu virkjananna mun magna orkuvandann, því að aukið vatnsrennsli þarf til að knýja nýja rafala og/eða stærri rafala.  Aðalvandinn er sá, að miðlunargeta Þórisvatns er of lítil.  Til að bæta úr skák þarf 6. áfanga Kvíslaveitu, nýtt Tungnaárlón og Norðlingaölduveitu.  Hvammsvirkjun-95 MW, Holtavirkjun-57 MW og Urriðafossvirkun-140 MW munu bæta mjög úr skák, því að þar mun bætast við um 290 MW afgeta án þess að auka þörfina á miðlunargetu.

Landsvirkjun virðist vilja leysa aðsteðjandi orkuvanda með vindmylluþyrpingum.  Það er þjóðhagslega óhagkvæmt, af því að aðrir valkostir til að auka afl- og orkugetu raforkukerfisins eru hagkvæmari og vegna þess að mun meiri landverndar- og mengunarbyrði verður af vindmylluþyrpingum en vatnsorkuvirkjunum (miðlunum og vatnsaflshverflum með rafölum, spennum, rofum stýribúnaði). Núna hafa einvörðungu um 0,6 % landsins farið undir miðlanir, stöðvarhús, aðrennsli og frárennslu, flutningslínur og vegagerð vegna orkumannvirkja.  Landþörf vindmylluþyrpinga í km2/GWh/ár er tíföld á við vatnsaflsvirkjun með miðlun, ef koma á í veg fyrir gagnkvæm skaðleg áhrif vindmyllanna vegna vindhvirfla (túrbúlens), sem dregur úr nýtni og veldur titringi.  Það er með eindæmum, ef Orkustofnun, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og ráðuneyti orku, umhverfis og loftslags ætla að hrekja Landsvirkjun frá góðum lausnum á vatnsorkusviði til að koma á jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar raforku í landinu og yfir í alveg afleitar lausnir vindorkuhverflanna. 

  "Ég er mikill virkjanasinni.  Ég geri mér grein fyrir því, hvað sú græna orka, sem við framleiðum á Íslandi, hefur gert fyrir lífsgæði þjóðarinnar.  Sem sveitarstjóri og oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps er mér falin sú mikla ábyrgð að reka sveitarfélagið. Tryggja hagsmuni íbúanna.  Tryggja það, að samfélag okkar vaxi og dafni.  Tryggja, að lífsgæði okkar aukist.  Er eðlilegt að breyta byggð í fallegri náttúru, sem er hluti af lífsgæðum íbúanna, yfir í virkjanasvæði, sem hefur sjónrænt áhrifasvæði upp á meira en 50 km2, til að tryggja 1-2 störf til framtíðar í nærumhverfi virkjunarinnar ?  Ég held, að flestir viti svarið.  Eitthvað meira þarf að koma til." 

Það er vafasamt að heimfæra þær fórnir, sem þessar lýsingar oddvitans og sveitarstjórans draga upp mynd af, upp á Hvammsvirkjun.  Stöðvarhúsið verður lítt áberandi, og varla mun bera meira á stíflunni en brú, enda verður þar akfært yfir, og mun sú vegtenging yfir Þjórsá verða sveitarfélögunum beggja vegna lyftistöng. Inntakslónið verður alfarið í árfarveginum og mun fegra sveitina.  Sjónræna áhrifasvæðið, sem hann gerir mikið úr, eykur fjölbreytnina í sveitinni, gerir hana nútímalega og mun draga að henni gesti. 

Það er t.d. ekki hægt að bera náttúruinngrip þessarar virkjunar saman við vindmylluþyrpingu á þessum slóðum.  Slíkt mannvirki fælir frá vegna hávaða og gríðarlegt jarðrask á sér stað vegna graftrar fyrir undirstöðum á stóru svæði, þar sem eru vegslóðar og skurðir fyrir rafstrengi frá vindmyllum að aðveitustöð.  

"Ein af undirstöðum lífsgæða á Íslandi er orkuöflun, sem á sér stað á landsbyggðinni.  Samt er það skrifað í raforkulög, að uppbygging atvinnu, sem þarf mikla raforku, raungerist aldrei í dreifbýli.  Hvers vegna ?  Vegna þess að það er sérstök verðskrá fyrir dreifingu á raforku í dreifbýli og við, sem búum á landsbyggðinni þurfum að greiða hærra verð fyrir dreifingu á rafmagninu en þeir, sem búa í þéttbýli.  Við þurfum að greiða hærra verð fyrir orku, sem verður til í okkar nærumhverfi en þeir, sem nota hana í þéttbýliskjörnum, tugum og hundruðum km frá framleiðslustað.  Þessu þarf að breyta strax."

Þetta er alveg rétt hjá höfundinum og hefur ítrekað verið bent á þetta misrétti hér á vefsetrinu og lagðar til leiðir til úrbóta. Það, sem oddvitinn og sveitarstjórinn vill, er, að Landsvirkjun veiti sveitarfélögunum, sem hlut eiga að veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun, aðgang að hluta af orku frá virkjuninni.  Það er eðlilegt sjónarmið, að frá aðveitustöðinni, sem reist verður við Þjórsá til að taka við orku frá virkjunum Neðri-Þjórsár og tengja hana við stofnkerfi landsins, verði rofar fyrir orku innan sveitarfélaganna, u.þ.b. 10 MW.  Í grein höfundar segir, að stofnkostnaður Hvammsvirkjunar verði líklega um mrdISK 50.  Þá má reikna út, að kostnaður við þessa orkuvinnslu verður um 38,9 USD/MWh (5,6 ISK/kWh), og er það sanngjarnt verð frá virkjuninni til innansveitarnota, en til viðbótar kemur flutningskostnaður að aðveitustöðinni, og Landsvirkjun þyrfti að niðurgreiða dreifinguna, þar til stjórnvöld loksins leiðrétta téða mismunun notenda dreifiveitnanna.  Þá er hins vegar höfuðverkur sveitarfélaganna, hverjir eiga að njóta þessara vildarkjara ? 

Að lokum stóð í þessari athyglisverðu grein:

"Ef orkuskipti þjóðarinnar eiga að geta átt sér stað, þá þarf ríkisstjórn Íslands og þingmenn á Alþingi að hefja samtalið við sveitarstjórnir á landsbyggðinni um sanngjarna skiptingu á auðlindinni, sem orkan er. Tryggja þarf jafnt verð á dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli.  Tryggja þarf, að nærsamfélagið, þar sem orkan á uppsprettu, njóti ávinnings af þeim verðmætum, sem hún skapar, ekki bara á framkvæmdatíma við byggingu virkjana, heldur sem hlutdeild í þeim verðmætum, sem verða til á hverjum tíma með orkuframleiðslunni. Það samtal þarf að hefjast strax til að tryggja, að farsæl orkuskipti þjóðarinnar nái fram að ganga fyrir árið 2040."

Þarna virðist oddvitinn og sveitarstjórinn fara fram á gjald til viðkomandi sveitarfélaga af orkunni frá Hvammsvirkjun, ef hún er seld á hærra verði en nemur framleiðslukostnaði virkjunarinnar (38,9 USD/MWh=5,6 ISK/kWh).  E.t.v. er hægt að semja tímabundið um slíkt, en að auki koma fasteignagjöld í hlut sveitarfélaga, þar sem mannvirki eru staðsett, og arðurinn af ríkisfyrirtækjunum kemur í hlut þessara íbúa, eins og annarra íbúa landsins.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband