Öflugir bakhjarlar laxeldis hérlendis

Laxeldi í sjó hefur vaxið fiskur um hrygg hérlendis, og er orðin kjölfestustarfsemi á Vestfjörðum, sem er undirstaða fólksfjölgunar og vaxandi velmegunar á svæðinu.  Á Austfjörðum er starfsemi þess mikilvæg líka, en þar er meiri fjölbreytni í atvinnuháttum á sviðum orkukræfs iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs. Bölsýnisraddir hérlendar um þessa atvinnugrein hafa orðið sér til skammar.  Þær láta sem hvert strok úr kvíum jafngildi erfðablöndun við villta íslenzka laxastofna, sem skaði erfðamengi frumbyggjanna.  Þetta er dómadagsvitleysa og vitnar um fljótfærni og vanþekkingu á erfðafræði og öllu því, sem þarf að gerast áður en nokkur varanleg erfðablöndun getur átt sér stað.  

Laxeldið íslenzka nýtur mjög góðs af tæknisamstarfi við systur- og móðurfélög í Noregi og margháttað viðskiptasamstarf á sér líka stað við þessi norsku félög, t.d. á sviði hráefniskaupa og markaðssetningar afurðanna. Íslenzk sjávarútvegsfélög hafa nýlega aukið hlutdeild sína í þessari starfsemi, og er það eðlileg og ánægjuleg þróun. 

Þann 2. febrúar 2023 birtist merkileg frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, sem varpar ljósi á þessa 2 öflugu bakhjarla íslenzks laxeldis, sem hlupu undir bagga með gríðarlega öflugu framtaki, þegar hæst þurfti að hóa.  Sýnir þetta, að íslenzkt laxeldi í sjó er ekki á flæðiskeri statt og mun eiga sér bjarta framtíð hér við land, hvað sem úrtöluröddum á móti hvers konar framförum og tekjumöguleikum alþýðu líður. Þessir góðu bakhjarlar tryggja aðgengi íslenzkra laxeldisfyrirtækja í sjó að beztu fáanlegu tækni til að fást við hvers konar vanda, sem upp kann að koma.  Það er ómetanlegt að þurfa ekki að finna upp hjólið sjálfur.  

 Fyrirsögn féttarinnar var: 

"Laxinum slátrað beint úr kvíunum".

Hún hófst þannig:

"Risastórt laxasláturskip er í ferðum [á] milli Dýrafjarðar og Ísafjarðarhafnar, og þaðan fara flutningabílar á 50 mín fresti til Suðurnesja og austur á land, þar sem laxinum er pakkað til útflutnings.  Aðstaða til að starfrækja þetta óvenjulega sláturhús, sem er dreift um landið, var sett upp á mettíma til að leysa tímabundinn vanda í slátrun hjá Arctic Fish."

Þarna er leyst úr vaxtarverkjum íslenzks laxeldis með hátæknisláturskipi frá Noregi og samstarfi við vinnslustöðvar í landi í öðrum landshlutum um hávetur.  Þetta sýnir, hversu öflugra bakhjarla laxeldið við Ísland nýtur, sem gefur góð fyrirheit um þróun þessarar greinar og framtíð í landinu, þótt ekki skorti nú hælbítana.

"Arnarlax hefur slátrað laxi fyrir Arctic Fish í sláturhúsinu á Bíldudal.  "Það er takmörkuð afkastageta í slátruninni.  Framleiðslan er orðin það mikil, að þeir 80 starfsmenn, sem eru í sláturhúsinu á Bíldudal, hafa ekki undan.  Við þurfum að ljúka slátrun úr Dýrafirði.  Fiskurinn er kominn í sláturstærð, og við þurfum að hvíla eldissvæðin og þurftum því að bregðast við", segir Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.

Fengið var sláturskipið Norwegian Gannett frá Noregi til að taka kúfinn af, og er reiknað með, að það verði hér í rúman mánuð, út febrúar [2023].  Laxinum er slátrað beint upp úr kvíunum í Dýrafirði og síðan landað og hann flokkaður í ker í Ísafjarðarhöfn.  Þar hefur verið komið upp tjaldi til að skýla kerunum.  Síðan fara bílar á 50 mín fresti með laxinn til Grindavíkur og Djúpavogs og raunar einnig í minni vinnslur, þar sem honum er pakkað í frauðplastkassa til útflutnings. 

Norwegian Gannett er afar öflugt sláturskip.  80 manns er í áhöfn þess.  Daníel nefnir, að notaðar séu 14 slægingarvélar, en í sláturhúsi, sem Arctic Fish [reisir] í Bolungarvík, verða 2 slægingarvélar."

 

"Daníel er ánægður með fiskinn, segir, að 95 % - 97 % hans fari í hæsta gæðaflokk.  Ekki veitir af, því [að] nokkur aukakostnaður er við slátrun með þessu lagi, en Daníel bendir á, að heimsmarkaðsverð á laxi sé hátt um þessar mundir."

Það er ótrúlega góður árangur, ef um 96 % framleiðslunnar lendir í hæsta gæðaflokki á þessum kröfuharða markaði, sem laxamarkaðurinn er.  Það er enn fremur athyglisvert, að laxverðið er tiltölulega hátt núna á tímum þverrandi kaupmáttar almennings vegna verðbólgu.  Orkuverðið hefur lækkað í Evrópu vegna milds vetrar, þótt Evrópumenn séu nánast hættir að kaupa orku beint af Rússum.  Orkuvopnið geigaði hjá þeim og er að breytast í bjúgverpil, því að þeir hafa orðið af tugum milljarða EUR viðskiptum við Evrópu og eru nú að draga úr framleiðslu.  Nú tekur við páskaspurn eftir fiski á meginlandi Evrópu (fastan), svo að háa verðið á laxi mun haldast enn um hríð.

Nýlega kom út skýrsla á vegum Ríkisendurskoðunar um stjórn- og eftirlitskerfi með laxeldi í sjó við Ísland.  Þar fær embættismannakerfi matvælaráðuneytis, Hafrannsóknarstofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar lága einkunn, enda hefur verið kvartað undan seinagangi þessara stofnana, og þær hafa staðið þróun greinarinnar fyrir þrifum. Núverandi Ríkisendurskoðandi er vanhæfur til að ritstýra skýrslu um þetta efni vegna hagsmunatengsla sinna við veiðiréttarhafa.  Þeir hafa rekið hatramman áróður og lagt til, að laxeldi í sjó verði hætt.  Er það ótrúlegt ofstæki, og skýrsla Ríkisendurskoðunar ber með sér, að þar eimir af slíkum viðhorfum og skýrslan er engan veginn í hlutlægu jafnvægi.  

Það er víða pottur brotinn í starfsemi íslenzkra eftirlitsstofnana, og efst á blaði trónir þar Samkeppniseftirlitið, sem þvælist fyrir með seinagangi og andstöðu við framfaramál, og virðist ekki gera nokkurt gagn.  Eftirlitsiðnaðurinn leikur lausum hala og virðist skorta nauðsynlegt aðhald.  Athygli vekur gjörólík afgreiðsla norska og íslenzka SKE á svipuðum málum matvælavinnslu, sem bendir til ófaglegra vinnubragða og smákóngaviðhorfa embættismanna hérlendis í stað þjónustulundar og vilja til að létta undir með atvinnulífinu í stað afætuhegðunar.  

   


Skaðræði í náttúrunni og hentar orkukerfinu illa

Ef mönnum finnst einhvers virði að búa í landi víðfeðmrar óspjallaðrar náttúru, ættu þeir að forðast eins og heitan eldinn að fjárfesta í eða samþykkja fjárfestingar í óskilvirkustu aðferð, sem nú um stundir er beitt til að vinna raforku án koltvíildislosunar á staðnum.  Hér er átt við rafala uppi á háum súlum, sem knúnir eru áfram af vindi, sem verkar á vanalega 3 feiknarlanga spaða. Það er rangtúlkun, að aðferðin sé umhverfisvæn, þegar lífferilgreining slíks verkefnis er krufin frá upphafi til enda. Það á sér stað margs konar mengun á framleiðslustigi íhlutanna ásamt koltvíildislosun, og á uppsetningarstiginu verður mikið jarðvegsrask og koltvíildislosun.

Vegna þess, hversu litlar og óskilvirkar framleiðslueiningarnar eru, stenzt þessi aðferð ekki samanburð við hefðbundnar íslenzkar virkjanir frá landverndar- og umhverfisverndar sjónarmiði.  Að auki er dýrara að framleiða rafmagn með vindknúnum spöðum en vatnsorkuverum og jarðgufuverum.  Ef hér væri nægt framboð raforku frá þessum hefðbundnu íslenzku virkjunum, væri varla nokkur áhugi á að reisa þessa háu turna, því að landið er ótengt erlendum raforkukerfum, ólíkt Noregi, þar sem turnþyrpingar með vindspöðum í óspilltum víðernum hafa valdið óánægju íbúanna í grennd og ferðamanna. 

Nú áformar norska ríkisstjórnin með lagasetningu að styrkja heimildir norskra yfirvalda til að tryggja orkuöryggi Norðmanna.  Í verkfærakistuna á að setja heimildir til draga úr eða stöðva útflutning raforku og að fyrirskipa orkufyrirtækjum að auka framleiðslugetu sína.  Hvort tveggja er andstætt ákvæðum Orkupakka 3, en norska ríkisstjórnin ber við þjóðaröryggi. Orkupakki 3 er úr gildi fallinn í Evrópusambandinu (ESB), og það gerðist reyndar áður en hann var innleiddur í lög á Íslandi, sem er einsdæmi, og færð hafa verið fyrir því sterk lögfræðileg rök, að innleiðing, sem svo er í pottinn búið með, sé ógild.  Engin ástæða er fyrir íslenzku ríkisstjórnina að vera rög við að feta í fótspor þeirrar norsku að þessu leyti.  Það er brýnt hagsmunamál þjóðarheildarinnar, að ábyrgur og hæfur aðili með heimildir til að grípa inn fylgist stöðugt með raforkukerfinu, framleiðslu, flutningum og dreifingu, til að lágmarka áhættu raforkunotenda varðandi afl- eða orkuskort. 

Morgunblaðið gerði anga þessa máls að umfjöllunarefni í fyrri forystugrein sinni, 24. janúar 2023, undir fyrirsögninni:

"Vindmyllur á hálum ís".

Í úrdrætti stóð:

"Þýðingarmikið er að grípa inn í skemmdarverk vindmyllumanna sem allra fyrst.  Það er aldrei um seinan, en það gæti kostað mikið fé að bæta úr afglöpunum."

Þetta er hárrétt, en hvers vegna í ósköpunum eru Íslendingar nú í þeirri stöðu að vera að búa sig undir að setja upp mannvirki á víðfeðmum ósnortnum svæðum, sem skaga meira en 200 m upp í loftið, eru ógn við dýralíf og hávaðavaldur ? Það er vegna þess, að hávær ofstækishópur hefur lagzt gegn nær öllum framkvæmdum á raforkusviðinu og náð að tefja framkvæmdir með kærum, þannig að virkjanir og línulagnir hafa dregizt von úr viti.  Afleiðingin er bæði staðbundinn afl- og orkuskortur og sams konar skortur á landsvísu, ef eitthvað bregður út af með veðurfar (þurrkar, kuldi) eða bilun verður í mikilvægri kerfiseiningu.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur stefnan verið sú lungann úr undanförnum áratugi, að engin þörf sé á að virkja.  Í staðinn hefur borgarsjóður blóðmjólkað samstæðuna, og nú er svo komið, að kerfið annar ekki heitavatnsþörfinni á vetrum.  Á að lappa upp á það með mrdISK 0,6 heitavatnsgeymi fyrir 9 kt.  Sundlaugum hefur verið lokað tímabundið, og eftir eina lokunina birti RÚV sjónvarpsviðtal við nokkra pottverja. Í lokin skauzt á skjáinn framkvæmdastjóri Landverndar, sem ekki brá vana sínum, heldur boðaði, að nær hefði verið að skammta rafmagn til Norðuráls en að loka sundlaugunum. Þarna fara saman firring og fáfræði, eins og fyrri daginn.  Hún hefur boðað, að ekkert skuli virkja fyrir orkuskipti né annað, heldur segja upp langtíma samningum við álver.  Þetta er hroðalegur hugarheimur og hryllileg grautargerð, sem lýsir miskunnarleysi í garð fjölmenns hóps, sem hefur lífsviðurværi sitt af starfsemi álveranna beint og óbeint, svo að ekki sé nú minnzt á álitshnekki og kostnað vegna uppsagnar þessara orkusamninga, minni útflutningstekjur og minni tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga. 

Þar að auki er þessi málflutningur rangtúlkun á stöðunni.  Ef OR hefði dregið úr raforkusölu til Norðuráls, þá hefði framboð hitaveituvatns minnkað líka, vegna þess að hitaveituvatn jarðgufuveranna er aukaafurð raforkuvinnslunnar.  Framkvæmdastjóri Landverndar heldur ekki aðeins uppi óábyrgum áróðri, heldur skortir þar alla tengingu við raunveruleikann. 

Téð forystugrein hófst þannig:

"Staldra þarf við og [leggja] vindmyllumartröðina á ís.  Hvernig sem á það mál er litið, þá eiga þeir órar lítið erindi við okkur."

Þarna er ekki skafið utan af róttækri andstöðu við mikil áform um þyrpingar vindrafala.  Höfundur þessa pistils deilir þessari skoðun með Morgunblaðinu, en, eins og í Noregi, ber íslenzkum stjórnvöldum að koma í veg fyrir afl- og orkuskort hérlendis.  Það verður bezt gert með því að taka af skarið um, að vindknúnir rafalar séu of óskilvirkir virkjunarkostir og kosti of miklar fórnir á óraskaðri náttúru, þar sem turnarnir þenja sig yfir miklu meira land á hverja framleidda MWh/ár en hefðbundnar íslenzkar virkjanir.   Jafnframt skal hvetja orkufyrirtækin í landinu og viðkomandi sveitarfélög til að hraða afgreiðslu sinni á virkjanaáformum og -leyfum hefðbundinna virkjana.  Straumlínulaga þarf kæruferlin.  

Í lokin sagði í þessari forystugrein:

"Það er von, að margur spyrji, hvenær vinir náttúru og umhverfis, sem voru svo fyrirferðarmiklir forðum, vakni á ný.  Eru þeir kannski endanlega sofnaðir ?"

Ef hér væri nægt framboð raforku fyrir alla raforkunotendur í landinu og áform þeirra um aukin raforkukaup, þá væri áhuginn á að reisa þyrpingar súlna í náttúrunni með rafala á toppnum og spaða, sem snúast, þegar veður leyfir, varla jafnmikill og nú er reyndin.  Ef leið virkjanafyrirtækjanna að hefðbundnum virkjunum væri ekki jafntorsótt og raunin er, þá væri vafalaust meira raforkuframboð núna. Þeir, sem predika, að engin þörf sé á nýjum virkjunum, eru líka sekir um að hafa lagt steina í götu virkjanafyrirtækjanna umfram það, sem eðlilegt getur talizt frá lýðræðislegu sjónarmiði, og hafa þannig óbeint framkallað þennan þrýsting, sem nú gætir frá vindorkurekendum.

Orkumálastjóri, sem einnig er orkulandsreglari hjá orkustofu Evrópusambandsins (ESB) samkvæmt Orkupakka 3, en hann var leiddur í lög hér með einstæðum hætti eftir að hafa verið felldur úr gildi í ESB, gefur vindorkurekendum undir fótinn, eins og fram kemur í góðri grein Elíasar Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 16. janúar 2023 undir fyrirsögninni: 

"Vindmyllur kosta mikið og skila litlu öryggi".

Hún hófst þannig:

"Í Morgunblaðsgrein síðasta dag ársins 2022 skrifar Orkumálastjóri:

"Vindurinn blæs t.d. meira á veturna, þegar minna vatn er í lónum, en hægist um á sumrin, þegar lónstaða batnar."

Þarna er lýst sjónarmiði orkufyrirtækis, sem getur nýtt vindorku til að standa betur í samkeppni samkvæmt reglum þriðja orkupakkans, sem við sitjum nú uppi með, en íslenzka orkuöflunarkerfið er ekki hannað samkvæmt þeim reglum.  Hér eru það ekki meðaltöl, sem skipta öllu máli.  Hér er það regla nr 1, að orkukerfið hafi nægt vatn í lónum í árferði svo slæmu, að verra geti talizt "force majeure" eða náttúruhamfarir."

 Það er alveg undir hælinn lagt, hversu mikið gagn reynist af vindknúnum rafölum að vetrarlagi, því að þá verða oft langvinnar vindstillur, þegar hæð er yfir landinu, og við hitastig um frostmark og hátt rakastig getur ísing á spöðunum leitt til minni afkasta. Það er varla hlutverk orkumálastjóra að birta á prenti yfirborðslegan áróður fyrir vindknúnum rafölum.  Miklu meiri greiningarvinnu er þörf áður en nokkru er slegið föstu um nytsemi eða gagnsleysi þessarar gerðar raforkuvinnslu fyrir íslenzka raforkukerfið.  Lykilatriði í því sambandi er einmitt haldleysi meðaltals raforkuvinnslugetu við íslenzkar aðstæður, eins og Elías bendir á. 

"Að sjálfsögðu halda orkufyrirtækin fram sínum hagnaðarsjónarmiðum, sem þeim ber að gæta samkvæmt lögum og reglum.  Yfirvöldum, þar með orkumálastjóra, ber síðan að standa klár á sjónarmiðum orkuöryggis og sjá til, að sú þekking, sem til þarf hér á landi, sé þeim tiltæk.  Það er fullveldisréttur okkar, sem stjórnvöldum er skylt að sinna."

  Sú greiningarvinna, sem þarna er til umfjöllunar, leiðir annaðhvort til þeirrar niðurstöðu, að hætta verði á afl- eða orkuskorti áður en næsta trausta virkun getur komizt í gagnið eða vel sé séð fyrir jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar í raforkukerfinu í nánustu framtíð. Ef hið fyrr nefnda er uppi á teninginum, þurfa yfirvöld að hafa nægar lagaheimildir til að grípa til gagnráðstafana. Samkvæmt Orkupakka 3 eru þessar heimildir ekki fyrir hendi, og þessu þarf löggjafinn að bæta úr, einmitt á grundvelli fullveldisréttarins, sem Elías nefnir.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 

 

 

   


Þöggun IPCC

Vefsetrið https://climate4you.com birtir yfirgripsmiklar niðurstöður rannsókna á lofthjúpi jarðar og útreikninga á hitastigi á 415 k (k=þúsund) árabili frá nútímanum á grundvelli borkjarnaathugana úr Grænlandsjökli.  Þær sýna, að 4 sinnum á þessu tímabili hefur hitastig andrúmslofts jarðar verið hærra en nú (1°C-3°C), en aldrei fór styrkur koltvíildis (CO2) á þessum hlýindaskeiðum yfir 290 ppm, en hann er frá 2018 yfir 400 ppm. Þetta sýnir, að á fyrri hlýskeiðum olli CO2 ekki hlýindunum, heldur voru þar önnur lögmál að verki.

Hvers vegna gerir IPCC (Loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna) enga grein fyrir þessum rannsóknum í skýrslum sínum ?  Er það vegna þess, að opinberun þessara upplýsinga er til þess fallin að draga úr áhrifamætti hræðsluáróðursins um óafturkræfa hlýnun jarðar af völdum CO2 (s.k. hamfarahlýnun).  CO2, "lífgasið", er gert að blóraböggli.  Það er ofeinföldun á flóknu samhengi.  Ofeinfaldanir eru handhægar í áróðursskyni, og þessi ofeinföldun hefur þegar heltekið hugi manna.  Það verður þó að þróa sjálfbæra og hagkvæma orkukosti í stað jarðefnaeldsneytis af þeirri einföldu ástæðu, að það verður á þrotum eftir nokkra áratugi og það veldur skaðlegri mengun andrúmslofts (lífgasið er ekki mengun), en flas gerir engan flýti. 

Morgunblaðið gleypir ekki áróður IPCC og postula þess á Íslandi eða annars staðar, heldur fjallaði á gagnrýninn hátt um þennan áhrifaríka og afdrifaríka hræðsluáróður í báðum forystugreinum sínum 20. janúar 2023.  Fyrirsögn þeirrar fyrri var:

 "Loftslagsógnin orðin vandræðaleg".

Hún hófst þannig:

"Það er loks farið að bera á því, að áköfustu hræðsluherferðir í loftslagsmálum fái ekki undirtektir.  Þess vegna verkar illa, þegar helztu ríkisbubbar heims þyrpast til Davos á einkaþotum sínum og vara okkur fátæklingana við umgengni okkar við andrúmsloftið og spýta út meira en 350 k bifreiðir gerðu á sömu vegalengd !" 

Hvers vegna hafa þessir "ríkisbubbar" gert áróðurinn um "hamfarahlýnun" að sínum ?  Þeir taka ljóslega ekkert mark á þessum hræðsluáróðri gagnvart lýðnum, því að annars mundu þeir breyta lífsstíl sínum, en óhóf þeirra í neyzlu er alræmt, eins og þessi einkaþotuferðalög eru til vitnis um.  Einhvern veginn ætla þeir að græða á óttanum, sem búið er að sá í hug barnanna.  Það er t.d. hægt að græða á viðurstyggilegum, dýrum og óskilvirkum vindmyllum, sem almenningur kann að samþykkja í umhverfi sitt "til að bjarga lofthjúpnum".  Það er líklegt, að þeir fjárfesti í verkefnum, sem ríkisstjórnir fjármagna sem einhvers konar grænvöskun á ímynd sinni.  Hvernig má það vera, að IPCC hefur valið forstjóra ríkisolíufélags Sameinuðu arabísku furstadæmanna til að stjórna næstu loftslagsráðstefnu SÞ ? 

Svikamylla hlýtur að koma upp í hugann, þegar aðfarir IPCC eru gaumgæfðar og móðursýkislegur áróðurinn um yfirvofandi endalok mannkynsins vegna losunar þess á koltvíildi. Nú er vitað, að CO2 olli ekki síðustu 4 hlýskeiðunum á undan þessu, og þá varð meðalhiti andrúmsloftsins hærri en nú.  Sú staðreynd bendir ekki til, að hækkun koltvíildisstyrks sé meginorsök hitastigshækkunar andrúmslofts.

Það eru ósannindi, að "consensus" (eining) ríki í vísindaheiminum um niðurstöður og boðskap í skýrslum IPCC. Einn skeleggasti gagnrýnandinn á skýrslur IPCC er loftslagsvísindamaðurinn dr. John Christy, prófessor við University of Alabama, Huntsville, og Morgunblaðið vitnar einmitt til hans í téðri forystugrein: 

"Einn þekktasti loftslagsvísindamaðurinn, dr John Christy, hefur gert grein fyrir sínum athugunum á fullyrðingunum, sem sífellt eru endurteknar [og í hvert skipti, sem fólk verður fyrir barðinu á veðrinu, eins og það sé nýtt af nálinni - innsk. BJo]. 

"Mínar athuganir sýna, að aðgerðir, sem sagðar eru til þess fallnar að "stöðva hamfarahlýnunina", hafi ekki merkjanleg áhrif á það, hvernig andrúmsloftið þróast, en munu á sama tíma hækka orkukostnað gríðarlega fyrir almenning og grafa undan efnahagslegri getu hans.  Okkar gervihnatta- og loftbelgjamælingar sýna, að loftslagslíkön og mælingar "vísindamanna" á jörðu niðri ýkja hitabreytingar stórlega, á meðan hinar raunverulegu breytingar hringja engum viðvörunarbjöllum."" 

Þetta er eins og sprengja inn í hænsnabúið, þar sem hver hænan gaggar eins upp í aðra.  Nákvæmustu hitamælingar fást með nákvæmustu mælitækjunum, þar sem truflanir frá umhverfinu á niðurstöðu mælinganna eru minnstar.  Einsýnt er, að skekkjuvaldar hitamælinga eru meiri á jörðu niðri en í loftbelgjum eða á mælistöðum gervihnattanna í andrúmsloftinu.  Eins og drepið var á í inngangi, eru það greinilega aðrir þættir en styrkur koltvíildis í andrúmslofti, sem hafa stjórnað þróun hitastigs á jörðunni síðastliðin 415 þúsund ár (5 hlýskeið).  Á þessum forsendum er sá málflutningur dr John Christy afar trúverðugur, að vonlaust sé fyrir mannkynið að rembast við að hægja á hlýnunni með því að draga úr losun CO2 út í andrúmsloftið.  Mælingar hans benda til hitastiguls 0,17°C/10 ár í andrúmsloftinu, sem benda til 2°C hækkunar um næstu aldamót.  Þetta er mun minni hitastigshækkun en IPCC boðar með sínum takmörkuðu loftslagslíkönum. 

"Christy og starfsbróðir hans, Richard McNider, hafa einnig bent á, hvernig fyrri fullyrðingar vísindamanna, sem "algjör samstaða" var sögð um [í trúflokki um hamfarahlýnun - innsk. BJo], hefðu reynzt staðlausir stafir. 

Spám um heimsendi vegna árása mannkyns á ósónlagið með svitabrúsum hefði verið ýtt til hliðar, þegar þær voru orðnar of vandræðalegar.  Nú er aldrei á það minnzt, en haldin er í gustukaskyni ein fámenn ráðstefna  á ári í Kanada fyrir helztu sérvitringana á meðan umræðan gufar endanlega upp."

Oss var talin trú um það, að s.k. CFC-efni (klór-flúor-kolefni), sem þá voru notuð í úðabrúsa, á kælikerfi og í slökkviefni (halon), réðust á fremur óstöðuga sameind O3 (óson) og sundruðu henni, en ósonið ver jörðina fyrir hættulegum geimgeislum. Iðnaðurinn venti snarlega sínu kvæði í kross  og leysti CFC af hólmi með öðrum efnum, svo að losun þessara efna út í andrúmsloftið snarminnkaði, og oss var síðan tjáð, að gatið í ósonlaginu yfir norðurhveli jarðar hefði snarminnkað eða jafnvel horfið á þeim árstímum, þegar það var stærst.  

Allt öðru máli gegnir um jarðefnaeldsneytisknúið orkukerfi heimsins.  Tæknigeta iðnaðarins er enn ekki komin á þann stað, að hægt sé að hefjast handa við að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi með orkugjöfum, sem eitthvað getur munað um með nægilega umhverfisvænum og hagkvæmum hætti.  Þess vegna jafngildir illa ígrundaður áróður um hamfarahlýnun í raun kröfu um afturhvarf til fortíðar, en það eru draumórar, að hægt sé að leggja upp með svo gríðarlegar fórnir, þegar ljóst er, að vísindamenn eru alls ekki sammála um hlýnunina, hvorki hversu mikil hún er né af hvaða orsökum.  

 


Þveræingar og Nefjólfssynir

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, ritaði skemmtilega grein í Morgunblaðið 17. janúar 2023 í tilefni af 75 ára afmæli ritstjórans, Davíðs Oddssonar.  Hann lagði þar út af kenningu sinni um rauðan þráð, sem lægi um nánast alla Íslandssöguna, varðandi viðhorf þjóðarinnar til æskilegra samskipta við erlend ríki. Kenningin er einföld og rökstudd af Hannesi með fjölda dæma af íslenzkum höfðingjum.  Má ekki ætla, að alþýðunni hafi verið svipað farið og höfðingjunum að þessu leyti ?

Fyrirsögn greinarinnar gefur til kynna meginstef hennar:

"Sérstaða og samstaða: Tveir ásar Íslandssögunnar".

Hún hófst þannig:

"Landnemarnir frá Noregi höfðu ekki búið lengi í þessu landi, þegar þeir tóku að líta á sig sem sérstaka þjóð.  Sighvatur, skáld, Þórðarson orti í Austurfararvísum um hin "íslenzku augu", sem hefðu dugað sér vel.  Um svipað leyti, árið 1022, gerðu Íslendingar sinn fyrsta milliríkjasamning, og var hann við Norðmenn um gagnkvæman rétt þjóðanna [í hvoru landi].  Segja má, að eftir það hafi 2 ásar Íslandssögunnar verið sérstaða þjóðarinnar annars vegar og samstaða með öðrum þjóðum hins vegar."

 

 Landnemarnir voru alls ekki allir frá Noregi, heldur hafa erfðafræðirannsóknir sýnt fram á, að umtalsvert hlutfall landnámsmanna var ættaður af Skotlandi og skozku eyjunum og víðar.  Margir þeirra voru kristnir og höfðu tileinkað sér bóklist (lestur og skrift).  Vestmenn þessir voru margir hverjir skáldskaparmenn, og höfðu lært til skáldskapar í skólum. Þeir urðu sérfræðingar í skáldskap, og Íslendingar héldu þessari hefð við.  Slíkir menn frá Íslandi urðu eftirsótt skáld hjá norskum höfðingjum, m.a. við hirð Noregskonungs, og má nefna Ólaf, Kolbrúnarskáld, sem var í vist hjá Ólafi, digra, barðist með honum á Stiklastöðum í Þrændalögum og mælti hin ódauðlegu orð á banastundinni, er ör var dregin úr brjósti hans í sjúkratjaldi þar, og hvítar tæjur hengu á örvaroddinum: "Vel hefur konungur alið oss", en að svo búnu féll hann dauður niður. 

Vegna blandaðs og sérstaks uppruna landnámsmanna, sem hefur leitt af sér a.m.k. 2 tungumál í landinu á 10. öld eða öllu heldur nokkrar mállýzkur af norsku og gelísku, er eðlilegt, að Íslendingar hafi frá öndverðu hvorki getað litið á sig sem Norðmenn né Skota, heldur sérstaka og sjálfstæða þjóð, Íslendinga.  Afkomendur hinna heiðnu norsku landnema voru að ýmsu leyti öflugastir, og það er athyglisvert, að þeir virðast móta söguna, og sérstaklega þó, hvernig hún er rituð, með fyrstu landnámsmennina úr Norðurvegi, og Gulaþingslögin til grundvallar fyrstu íslenzku lögbókinni, en ekki var þó dregin dul á hlut skozkra höfðingja í landnáminu, t.d. Auðar, djúpúðgu, sem nam Dalina, og höfðingjar á hennar skipum námu víða land, t.d. á Norðurlandi.

"Hér á landi voru engir konungar til að spilla friðnum. [Enginn konungur stjórnaði landnáminu, heldur var það einstaklingsframtak skipstjórnarmanna víða að, sem höfðu enga þörf fyrir konung og höfðu margir hverjir orðið fyrir barðinu á konungum.  Þetta var önnur sérstaða Íslendinga, sem átti eftir að móta söguna. Innsk.-BJo.]  Í því var sérstaða landsins ekki sízt fólgin að sögn goðans á Ljósavatni.  En Þorgeir lagði þó til í sömu ræðu, að Íslendingar tækju upp sömu trúarbrögð og grannþjóðirnar.  Samstaðan með öðrum þjóðum væri ekki síður mikilvæg en sérstaðan."

Kristnitakan hefði ekki getað farið fram með pólitísku samkomulagi á Alþingi 999-1000, nema kristnir og heiðnir hefðu búið saman í landinu, blandað geði saman, bundizt blóðböndum og hagsmunaböndum í 4-5 kynslóðir og unnið saman á héraðsþingum og á Alþingi í 3-4 kynslóðir, farið í göngur og réttir og stundað viðskipti innbyrðis og við erlenda kaupmenn. Þingheimi var gert ljóst með sendiboða frá Noregskonungi, Ólafi Tryggvasyni, að landsmenn gætu ekki vænzt friðsamlegrar sambúðar við Noreg og norska kaupmenn, nema þeir köstuðu heiðninni fyrir róða og létu skírast til kristni. Slíkar sögur fóru af víkingakónginum Ólafi Tryggvasyni, að landsmenn gerðu sér grein fyrir, að kóngsi hefði bæði vilja og getu til að standa við orð sín. Þar með stóðu öll spjót á heiðna hópinum á Alþingi, og var Þorgeiri, goða á Ljósavatni, falið að semja málamiðlun, sem hann gerði með snilldarlegum hætti á 2-3 sólarhringum. Síðan er talað um leggjast undir feld, þegar leysa þarf erfið úrlausnarefni.     

 "Einni öld síðar gat að líta svipaðan samleik sérstöðu og samstöðu í frásögn annars sagnaritara [en Ara, fróða, Þorgilssonar - innsk.BJo], Snorra Sturlusonar, frá umræðum á Alþingi árið 1024.  Íslenzkur hirðmaður Ólafs, digra, Noregskonungs, Þórarinn Nefjólfsson, hafði boðið Íslendingum að ganga honum á hönd.  Einar Þveræingur flutti þá um það ræðu, sem Snorri hefur eflaust samið sjálfur, að Íslendingar ættu að vera vinir konungs, en ekki þegnar.  Þótt Einar efaðist ekki um, að Ólafur, digri, væri ágætur, væru konungar misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og væri því bezt að hafa engan konung." 

Þetta var viturlega mælt hjá Einari, Þveræingi, úr fjaðurstaf Snorra Sturlusonar.  Þessi sagnameistari og höfðingi í flóknum stjórnmálaheimi Sturlungaaldar var að sönnu ekki hallur undir þann konung, sem var honum samtíða í Noregi, Hákon, gamla, en hann var heldur enginn vinur hans, eins og Einar boðaði, að Íslendingar skyldu kappkosta, enda var slíkt sennilega ógjörningur fyrir Íslendinga, þ.e. að njóta vinfengis  konungs án þess að ganga erinda hans á Íslandi.

Snorri var prestur og enginn hermaður, eins og Bæjarbardagi var til vitnis um, og hann beitti aldrei miklum áhrifum sínum á Alþingi í þágu konungs. Hann var trúr kenningu sinni, þótt margræður persónuleiki væri.  Aftur á móti var hann í vinfengi við Skúla, jarl, sem gerðist keppinautur Hákonar um æðstu völd í Noregi,en laut í lægra haldi. 

Refsivald konungs náði þá þegar til Íslands 1241, 21 ári fyrir gerð Gamla sáttmála, sem sýnir pólitíska ástandið í landinu, og mun fyrrverandi tengdasonur Snorra, Gissur Þorvaldsson í Hruna, sem var handgenginn maður konungi, hafa fengið skipun um að taka Snorra Sturluson af lífi.  Er það eitt mesta níðingsverk Íslandssögunnar, enda var þess grimmilega hefnt með Flugumýrarbrennu, þótt Gissur bjargaði sér þar naumlega ofan í sýrukeraldi. Fyrir undirgefni Haukdælahöfðingjans fékk hann jarlsnafnbót frá feigum kóngi.  

"Æ síðan hafa málsmetandi Íslendingar skipzt í 2 flokka.  Þveræinga, sem vilja vinfengi við aðrar þjóðir án undirgefni, í senn sérstöðu og samstöðu, og Nefjólfssyni, sem eiga þá ósk heitasta að herma allt eftir öðrum þjóðum, vilja fórna allri sérstöðu fyrir samstöðu."

 Höfundur þessa vefpistils hefur alla tíð talið það liggja í augum uppi, að ekkert vit sé í því fyrir smáþjóð langt norður í Atlantshafi að taka allt gagnrýnilaust upp eftir öðrum þjóðum, sem búa við allt aðrar aðstæður.  Það hefur alla tíð verið aðall Íslendinga að hirða það úr menningu, tækni og siðum annarra, sem nytsamlegt getur talizt hérlendis, og laga það að aðstæðum okkar, laga það að siðum okkar, tungunni og lagaumhverfi. Hér var t.d. engin þörf á sameiningartákni, konungi, til að sameina höfðingjana í baráttu við erlend árásaröfl. Íslenzka kirkjan sameinaði væntanlega gelíska og germanska kirkjusiði.  Íslendingar höfnuðu Járnsíðu Magnúsar, konungs, lagabætis, og fengu í staðinn Jónsbók, sem studdist við Grágás. Heilbrigð íhaldssemi hefur reynzt Íslendingum vel.  Þeir hafa ekki verið byltingarmenn, þótt þeir hafi verið fljótir að tileinka sér nýjungar, sem þeir sáu, að gagn væri hægt að hafa af.  

Íslendingar fengu sína stjórnarskrá úr hendi Danakonungs 1874, og varð ekki verulegur ágreiningur um hana, enda var hún eiginlega samevrópsk þá og síðan hverja bragarbótina á fætur annarri á stjórnskipuninni, þar til sambandið við Danakóng var rofið með nánast einróma stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júni 1944 á afmælisdegi sjálfstæðishetjunnar, Jóns Sigurðssonar.

Það gekk hins vegar mikið á, þegar framsýnir og víðsýnir menn beittu sér fyrir stofnaðild landsins að varnarsamtökum lýðræðisþjóða Evrópu og Norður-Ameríku, NATO.  Andstæðingar aðildar voru af ólíku tagi, bæði einlægir Þveræingar og harðsvíraðir kommúnistar, dæmigerðir Nefjólfssynir, sem sáu Sovét-Ísland í hillingum.

Hin mikla þversögn nútímans á Íslandi, þegar stríð geisar í Evrópu, er, að forsætisráðherrann er formaður stjórnmálaflokks, sem hangir á nauðsyn varnarleysis, eins og hundur á roði eða steingervingur í Evrópu.  Slík afstaða er ekki í anda Þveræinga, sem vilja samstöðu með lýðræðisþjóðum gegn einræðisþjóðum, sem sýnt hafa glæpsamlegt eðli sitt með hryðjuverkum gagnvart varnarlausum íbúum í Úkraínu. Slík samstaða tryggir Þveræingum eftirsótt frelsi.

Slíka villimenn á valdastóli í Rússlandi verður að kveða niður, og eymdarkveinstafir þeirra um, að Úkraínumenn megi ekki skjóta á þau skotmörk í Rússlandi, þaðan sem eldflaugar og drónar eru send til að valda manntjóni og eignatjóni í Úkraínu, eru ekki svaraverðir, enda siðblindingjar, sem þar væla. Þjóðarmorð er nú framið í Úkraínu fyrir opnum tjöldum.  Hvílíkur viðbjóður !

Hótanir glæpagengis Kremlar, s.s. trúðsins Medvedevs,  um að beita í refsingarskyni kjarnorkuvopnum eru hlálegar, því að yfirburðir Vesturveldanna á sviði hernaðar eru slíkir, að þeir munu ekki komast upp með neitt slíkt, en munu kalla yfir sig slíkan eyðingarmátt, að rússneska sambandsríkið verði úr sögunni að eilífu.   

"Þegar Íslendingar urðu nauðugir að ganga á hönd Noregskonungi árið 1262, skildu þeir það til í sáttmála, að þeir fengju haldið íslenzkum lögum og að opinberir sýslunarmenn skyldu íslenzkir vera. Leiðtogi þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, vísaði óspart til þessa sáttmála, þegar hann rökstuddi tilkall hennar til sjálfsforræðis. En um leið var Jón eindreginn stuðningsmaður verzlunarfrelsis.  "Þú heldur, að einhver svelgi okkur.  Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti", sagði hann í bréfi til bróður síns árið 1866.  "Frelsið kemur að vísu mest frá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram, nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis.""

Nefjólfssynir í landinu 1262 hafa ekki samþykkt Gamla sáttmála nauðugir, heldur fúsir, enda höfðu sumir þeirra unnið að innlimum Íslands í norska konungsríkið um áratuga skeið.  Í nútímanum barðist einn kúnstugur fýr fyrir því, áður en hann umturnaðist í byltingarkenndan sósíalista, sem er önnur furðuleg hugdetta, að Ísland yrði fylki í Noregi, þótt þáverandi stjórnvöld Noregs hafi verið því algerlega afhuga, enda hugmyndin fráleit og reist á nauðhyggju Nefjólfssona um, að Íslendingar geti ekki séð sér farborða á eigin spýtum.  Þeir hafa þó rækilega sannað mátt sjálfstæðis til að knýja hér framfarir og að tryggja hér efnalega hagsæld.  

Það var áreiðanlega raunhæft og rétt viðhorf Jóns Sigurðssonar, forseta, að frelsið kemur mest frá einstaklinginum sjálfum og að verzlunarfrelsi er undirstaða frelsis samfélagsins.  Frjáls verzlun og viðskipti hafa reynzt undirstaða efnalegra framfara á Íslandi, sem hvergi í Evrópu urðu meiri en á Íslandi á 20. öldinni. Frjáls viðskipti Íslands við lönd Evrópusambandsins, ESB, eru nú bundin á klafa þvingaðrar samræmingar við löggjöf ESB, sem augljóslega átti að vera undanfari inngöngu í ESB.  Ekki er víst, að Jóni Sigurðssyni, forseta, hefði hugnazt þetta fyrirkomulag, enda varla hægt að kalla þetta frjáls viðskipti, þótt þau séu að mestu leyti tollfrjáls. Nefjólfssonum finnst, að stíga þurfi skrefið til fulls, en Þveræingar eru beggja blands í þessu máli.

 

  


Samfylkingin hefur keyrt höfuðborgina í þrot

Fjárhagur borgarsjóðs er svo bágborinn, að borgin hefur ekki bolmagn til að fjárfesta, hvorki í stórum samgönguverkefnum né í annars konar stórverkefnum.  Borgarsjóði er haldið á floti með millifærslum úr fyrirtækjum OR-samstæðunnar, enda hafur fjárfestingum þar verið haldið í algeru lágmarki undanfarinn áratug.  Þess vegna hefur ekkert verið virkjað þar, framboð rafmagns og heits vatns hrekkur ekki til fyrir þörfinni á kuldaskeiðum.  Nauðhyggja Samfylkingarinnar segir, að ekki eigi að fjárfesta fyrir toppþörfina.  Það er rangt, því að annars er ekkert borð fyrir báru, þegar bilanir ríða yfir, og samkvæmt Murphy koma þær á versta tíma.  Fyrirbyggjandi viðhald hefur líka verið skorið niður við nögl í borgarfyrirtækjunum, svo að reksturinn er í skötulíki.  Hugmyndafræði Samfylkingarinnar er hugmyndafræði viðvaninga og fúskara. Þannig hugmyndafræði gagnast ekki almenningi.  Samfylkingin á enga samleið með almenningi.  Hún er fyrir sérvitringa, Samtök um bíllausan lífsstíl og aðra slíka.  

Forsendur þess, sem gætu orðið dýrustu verkefnismistök Íslandssögunnar, eru brostnar, svo að það er einboðið að stöðva þá óvissuferð út í fjárhagslegt kviksyndi skattborgara, sem borgarlínan er.

Samfylkingin heldur því fram, að það feli í sér að kasta fé á glæ að auka hreyfanleika umferðarinnar með hefðbundnum umbótum á borð við mislæg gatnamót og fjölgun akreina vegna þess, að þessi mannvirki fyllist strax af bílum samkvæmt lögmáli "orsakaðrar umferðar". Þetta eru falsrök.  "Orsökuð umferð" (induced demand) á ekki við á Íslandi.  Hún er aðeins fyrir hendi í milljónasamfélögum.  Annaðhvort hefur Samfylkingin (Holu-Hjálmar) flutt þessa speki til Íslands af vanþekkingu, enda eru þar amatörar leiðandi um umferðarmál, eða Samfylkingin tók meðvitaða ákvörðun um að kasta ryki í augun á kjósendum til að blekkja þá til fylgilags við borgarlínu. Fyrir hvort tveggja á Samfylkingin skilda falleinkunn.  

Nýjasta spá hermilíkans (Þórarinn Hjaltason-Mbl. 02.02.2023) um stöðu umferðar 2040 sýnir, að bílar í umferðinni þá verða innan við 2 % færri með borgarlínu og nýjum göngu- og hjólastígum en ella.  Þetta er reiðarslag fyrir draumóramenn borgarlínunnar, því að þá dreymdi um 20 % færri bíla.  Þetta þýðir, að hin rándýra borgarlína er vonlaust verkfæri til að fækka bílum, en þannig kynnti Samfylkingin hana til sögunnar.  Nú langar Samfylkinguna mest til að fækka bílum með umferðargjöldum í Reykjavík, en þau virka aðeins til fækkunar, ef þau eru há.  Þau urðu svo óvinsæl í Stafangri, olíubænum á SV-strönd Noregs, að þau voru fljótlega afnumin þar.  Nauðhyggja Samfylkingar mun leiða borgarbúa í algerar ógöngur.  

Stefnumörkun Samfylkingar í umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins var hrákasmíði, eins og allt annað, sem frá þeim arma stjórnmálaflokki hefur komið, enda er hún nú hrunin til grunna.  Nú er komið að ríkisvaldinu að kasta rekunum.  Er þörf á afætum í apparati á borð við "Betri samgöngur o.h.f." til að auka hreyfanleika umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, eða er þetta opinbera hlutafélag enn eitt dæmið um vandræðagang stjórnmálamanna ?  Vegagerðin er einfær um verklegar framkvæmdir, sem hún hannar til að auka hreyfanleikann.  Það þarf ekki viðbótar afætur í kringum "létta borgarlínu" á akrein hægra megin.  

Fyrrverandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, skrifaði góða grein í Moggann 3. febrúar 2023 um borgarmálefni undir fyrirsögninni:

"Samgöngur í ólestri".

Hún hófst þannig:

"Það, sem hefur einkennt meirihlutann í borgarstjórn á þessu kjörtímabili og áður, er óráðsía í fjármálastjórn borgarinnar, stöðug skuldasöfnun og áform um að eyða mörgum tugum milljarða króna í svo kallaða borgarlínu.  Stjórnsýslan er flókin og þunglamaleg, og afgreiðsla erinda einstaklinga og fyrirtækja til borgarinnar tekur ógnartíma, þrátt fyrir að starfsmannafjöldi hafi stóraukizt á undanförnum árum."

Það, sem VÞV gagnrýnir þarna á hæverskan hátt, er í raun og veru eyðilegging Samfylkingarinnar á stjórnkerfi borgarinnar, svo að það stendur lamað eftir, eins og opinberast, þegar hæst á að hóa, t.d. þegar náttúruöflin láta hressilega að sér kveða.  Þetta hefur Samfylkingin gert með því að ráðstjórnarvæða stjórnkerfið, sem felur í sér að setja pólitíska silkihúfu yfir hvert svið, en áður stjórnuðu öflugir embættismenn borginni undir beinni stjórn borgarstjóra, t.d. borgarverkfræðingur. 

"Nú virðist liggja fyrir, að ekkert verði úr aðgerðum á næstu árum til að stórbæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, aðallega rætt um borgarlínu fram og til baka, en sú framkvæmd hefur algjöran forgang hjá meirihlutanum. Óljóst er, hvort hún verði nokkurn tíma að veruleika m.v. núverandi áform.  Nýlega var upplýst, að kostnaður við þá framkvæmd hækki verulega frá upphaflegri áætlun, sé kominn í mrdISK 70 og fyrsti áfangi kosti mrdISK 28.  Sundabraut er seinkað með reglulegu millibili, rætt um Miklubraut í stokk, en nýlega var kynnt, að kostnaður við þá framkvæmd yrði mrdISK 27.  Ljóst er, að ef af þessari framkvæmd verður, muni það valda umferðaröngþveiti í Hlíðunum og nágrenni á framkvæmdatímanum."

Alls staðar, þar sem þessar gagnslausu og glórulausu framkvæmdir verða, munu þær valda umferðaröngþveiti árum saman, t.d. á Suðurlandsbraut.  Þessar síðustu hækkanir ættu að leiða fjárveitingavaldinu fyrir sjónir, hvílíkt fjárhagskviksyndi Samfylkingin er að leiða skattborgarana í með þessu uppátæki amatöra. Ríkisvald og ábyrgir bæjarfulltrúar verða að stöðva þessa vegferð strax.  Enginn tapar á því, nema nokkrar gjörsamlega ábyrgðarlausar afætur. 

"Einnig hefur verið kynnt, að áætlaður kostnaður við Sæbraut í stokk verði mrdISK 17, var upphaflega áætlaður mrdISK 2,2.  Meðan á framkvæmdum stendur, verður alvarleg röskun á allri þeirri gríðarlegu umferð, sem þar fer fram daglega.  Mislæg gatnamót eru bannorð hjá meirihlutanum [á fölskum forsendum orsakaðrar umferðar - innsk. BJo].  Miklu fremur beinist áhugi meirihlutans að því að þrengja nokkrar stofnæðar borgarinnar, fækka bílastæðum og gera bíleigendum eins erfitt fyrir og kostur er. Það væri hægt að fara í einfaldar og árangursríkar umbætur í umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu strax fyrir brotabrot af þeim kostnaði, sem er áætlaður í hin ýmsu stórkarlalegu úrræði, sem fyrirhugað er að hrinda í framkvæmd, úrbætur, sem vegfarendur myndu njóta góðs af strax og tekið yrði eftir.  En meirihlutanum virðist ekki vera órótt yfir því, að kostnaður við samgöngusáttmálann hefur hækkað um mrdISK 50, frá því [að] hann var gerður. Fyrir þá fjárhæð væri t.d. hægt að reisa þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsum íþróttum auk hinnar margumræddu þjóðarhallar."  

Þrengingar gatna hafa verið gerðar í nafni umferðaröryggis, en þær og að setja hlykki á göturnar, eins og gert hefur verið við Háaleitisbraut, eru ólíklegar til að leiða til færri slysa.  Þessum aðgerðum ásamt fækkun bílastæða er ætlað að tefja bílstjóra og farþega þeirra enn meir í umferðinni en ella, og lækkun hámarkshraða víða í borginni á umferðargötum, þar sem lækkun hámarkshraða er alger óþarfi og skaðleg fyrir eðlilegt flæði umferðarinnar í borginni, er í sama augnamiði borgaryfirvalda, sem eru í stríði við fjölskyldubílinn.  Þessi hegðun yfirvalda er fáheyrð og algerlega óþörf.  Meirihluti borgarstjórnar getur ekki unnið þetta stríð.  Það er þegar tapað, enda er fjárhagur borgarinnar ónýtur til allra stórframkvæmda.   

  

 

  


Úldinn smjörþefur

Nú hafa íbúar höfuðborgarsvæðisins, sem standa munu þurfa straum af rekstri borgarlínu, fengið smjörþefinn af því, sem koma skal.  Strætó stefnir í gjaldþrot, af því að þar standast engar fjárhagsáætlanir, en borgarlínan hlýtur að lenda í fjárhagslegu kviksyndi. Sveitarfélögin veigra sér við hella fé skattborgaranna í þessa botnlausu hít án uppstokkunar.  Það hefur verið reynt að auka framboð á akstri Strætó, en það hefur bara leitt til aukins taps.  Það, sem nú blasir við, er þó á að gizka innan við 1/10 þess halla, sem verða mun af borgarlínunni (sorgarlínunni). 

Í grundvallaratriðum er ástæðan sú, að þetta kosningaloforð Samfylkingarinnar er risavaxin draumsýn hennar, flutt inn úr miklu fjölmennari borgarsamfélögum, þar sem annað skipulag og annað veðurfar ríkir en hér. Það er sem sagt engin spurn í samfélaginu eftir "strætó á sterum", sem taka á 2 miðjuakreinar og hafa forgang á þverandi umferð.  Þetta er þannig atlaga gegn einkabílnum og mun leiða til enn aukinna tafa í bílaumferðinni með vaxandi tjóni fyrir ökumenn og vaxandi þjóðhagslegum kostnaði, sem dregur niður lífskjörin.

Sú draumsýn Samfylkingar og meðreiðarsveina í borgarstjórn að fækka bílum í umferðinni árið 2040, svo að þeir verði þá 20 % færri en 2020, er eintóm óskhyggja, en er þó forsenda þessara stórkarlalegu fjárfestinga.  Borgarlínan mun aldrei standa undir neinum fjárfestingum.  Það opinbera fé mun glatast að eilífu.  Hún mun aðeins standa undir broti af rekstrarkostnaðinum, og verða sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þvílíkur myllusteinn um háls, að þau munu gefast upp á þessu hugmyndafræðilega örverpi Samfylkingarinnar og senda það í gjaldþrot. 

Nú hefur kostnaðaráætlun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hækkað um 50 % og er komin í mrdISK 180.  Ríkisvaldið getur ekki haldið áfram og látið sem ekkert sé.  Það verður að endurskoða þennan sáttmála og koma vitglóru í hann, slá af "þunga" borgarlínu og stokkavæðingu gatna, tryggja vegagerðinni rétt til uppsetningar mislægra gatnamóta samkvæmt tillögum hennar og tryggja lagningu Sundabrautar og léttrar borgarlínu.  Létt borgarlína samkvæmt tillögu Þórarins Hjaltasonar, samgönguverkfræðings, o.fl. er sérrein hægra megin vegar, og umferð á henni á ekki að tefja aðra umferð. 

Forystugrein Morgunblaðsins á kyndilmessu 2023 var helguð þessum málefnum.  Í úrdrætti sagði: 

"Strætó stefnir að óbreyttu í þrot, en samt er borgarlínan keyrð áfram."  

Hér sjá menn steinrunna nauðhyggju Samfylkingarinnar.  Hún neitar að laga stefnu sína að staðreyndum, en er staðráðin í að keyra draumsýn sína áfram, þótt það muni fyrirsjáanlega valda skattborgurum landsins gríðarlegu fjárhægstjóni og draga úr getu hins opinbera til að fjármagna vitræn verkefni. 

"Að bregðast eða bregðast við" 

Í þessari forystugrein stóð m.a.:

"Nú segja stjórnendur fyrirtækisins [Strætós], að endurskoðunarfyrirtækið KPMG hafi verið fengið til að greina fjárþörfina og niðurstaðan hafi verið, að mrdISK 1,5 vantaði inn í reksturinn í formi fjárframlega, en töluvert vantar upp á, að eigendurnir, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, hafi greitt þá upphæð inn í fyrirtækið.  Og sum þeirra eiga ekki auðvelt með að leggja Strætó til fé.  Það á einkum við um höfuðborgina, sem á 60 % í Strætó og glímir sjálf við gríðarlegan rekstrar- og skuldavanda og er ekki aflögufær."

Ef ríkið ekki kyrkir þessa endaleysu (sorgarlínu) í fæðingu, þá munu viðkomandi sveitarfélög kikna undan fargi rekstrarins, eftir að ríkissjóður verður búinn að sóa upp undir mrdISK 100 í stofnframlag.  Hér er með öðrum orðum um botnlaust sukk og svínarí í boði Samfylkingar að ræða.  Ætla ríkisstjórnarflokkarnir að láta þessa óráðsíu viðgangast, þegar betri og ódýrari lausnir eru í boði, og verða þannig samábyrgir Samfylkingu um eitt versta fjármálahneyksli sögunnar ?  Það er löngu tímabært að spyrna við fótum.

Lok forystugreinarinnar voru þannig:

"Allt gefur þetta auga leið, þeim sem ekki er blindaður af draumsýninni, sem meirihlutinn í borgarstjórn hefur verið að teikna upp á síðustu árum.  Engin von er til þess, að sá meirihluti átti sig á, út í hvaða fen hann er að aka, en ákveðin vonarglæta er um, að einhverjir þeirra, sem stýra nágrannasveitarfélögunum, skilji slíkar staðreyndir og hafi burði til að stíga niður fæti áður en allt er komið í enn meiri óefni. 

Kópavogsbær á t.a.m. 15 % í Strætó og Hafnarfjörður litlu minna.  Íbúar þessara bæjarfélaga hafa mikilla hagsmuna að gæta, að ekki verði anað áfram út í skuldafenið.

Nú er að störfum hópur fjármálastjóra, sem vinnur að framtíðarlausn um fjárhag Strætó.  Það er eflaust þörf vinna.  Enn mikilvægara er þó að horfa á heildarmyndina og skoða vanda Strætó í samhengi við borgarlínuáformin.  Það er verkefni kjörinna fulltrúa, og skattgreiðendur munu horfa mjög til þess, hvort þeir munu nú bregðast við eða bregðast."

Það er hægt að binda vonir við, að leiðtogi sjálfstæðismanna í Kópavogi, sem jafnframt er þar bæjarstjóri og hagfræðingur, og aðrir forystumenn sjálfstæðismanna í bæjarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, taki höndum saman við ríkisvaldið um endurskoðun umferðarsáttmálans, þar sem þunga borgarlínan og vegstokkar verði slegin af, en reist mislæg gatnamót og fjölgað akreinum.  "Framtíðarlausn um fjárhag Strætó" verður ekki mótuð í tómarúmi, heldur þarf fyrst að móta stefnu um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, "Létta borgarlínu", og síðan að fjármagna hana.  

Sá, sem hefur tjáð sig opinberlega af mestri þekkingu um umferðarmál höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum er Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur. Ein fróðlegra Morgunblaðsgreina hans um umferðarmál birtist 2. febrúar 2023 undir fyrirsögninni: 

"Um veggjöld og hagkvæmni samgöngumannvirkja".

Undir millifyrirsögninni: "Mikilvægi góðra samgöngumannvirkja" stóð þetta:

"Greið umferð í allar áttir er hjartsláttur hvers þjóðfélags og mjög varhugavert að trufla hann eða tefja að ósekju.  Á suðvesturhorninu búa um 3/4 hlutar landsmanna, og þar þurfa því að vera greiðfærir og öruggir þjóðvegir til að tryggja gott flæði vöru- og farþegaflutninga um svæðið.  Um höfuðborgarsvæðið liggur hringvegurinn, svo og Reykjanesbraut.  Framtíðarsýn Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir, að hringvegur að Hvalfjarðargöngum til norðurs og til austurs að Selfossi verði s.k. meginstofnvegur, þ.e. vegur með mislægum gatnamótum.  Sama gildir um Reykjanesbreut frá höfuðborgarsvæðinu að Reykjanesbæ og Keflavíkurflugvelli. 

Sundabrautin fellur vonandi að þessari framtíðarsýn á þessum áratugi, en meirihluti borgarstjórnar hefur engan áhuga fyrir að standa við sinn hluta umferðarsáttmála höfuðborgarsvæðisins og hefur hvorki tekið Sundabrú né mislæg gatnamót inn á aðalskipulag Reykjavíkur, heldur heldur uppi uppteknum hætti um að leggja steina í götu þessara framkvæmda. Borgarstjóri vill velja dýrasta kostinn, sem eru jarðgöng.  Þar með veldur hann mestum töfum og tjóni. 

Tilefni þessarar greinar Þórarins Hjaltasonar segir hann vera viðtal við Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóra Betri samgangna o.h.f., í Kjarnanum 27. desember 2022.

"Í viðtalinu er þetta haft eftir framkvæmdastjóranum: "En ef menn hafa metnað fyrir því að draga úr umferðartöfum, þá er þetta, flýti- og umferðargjöld, einfaldasta og fljótlegasta leiðin til þess. Það er eina leiðin, sem skilar hagnaði, því að aðrar framkvæmdir, sem við förum í til að stuðla að minnkandi töfum, þær auðvitað skila engum ágóða, heldur bara kosta sitt."

Þarna tekur téður Davíð mikið upp í sig án rökstuðnings, enda er hann fúskari í umferðarfræðum, sem ljóslega hefur verið heilaþveginn af Holu-Hjálmari og öðrum vinstri sinnuðum fúskurum á umferðarsviðinu. Tafakostnaður í umferðinni í Reykjavík hefur verið áætlaður a.m.k. 50 mrdISK/ár, svo að allar ódýrar úrbótaaðgerðir til að auka hreyfanleika umferðarinnar, s.s. mislæg gatnamót og fjölgun akreina, eru líklegar til að skila þjóðhagslegum hagnaði öfugt við nauðhyggjuskraf Davíðs Þorlákssonar. Aðrar leiðir til að auka hreyfanleika umferðar (draga úr umferðartöfum) eru í raun ekki fyrir hendi, eins og Þórarinn Hjaltason hefur sýnt fram á.  Þar með er borgarlína úr leik:

"Fyrir nokkrum árum var því haldið fram, að ef markmiðið í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins um breyttar ferðavenjur árið 2040 næðust, myndu ferðir með fólksbílum verða 20 % færri en með óbreyttum ferðavenjum.  Markmiðunum á að ná með borgarlínu ásamt ofurþéttingu byggðar meðfram samgönguásum hennar og átaki í uppbyggingu innviða fyrir hjólandi og gangandi.  Borgarlínan er sögð hryggjarstykkið í aðgerðum til að stuðla að breyttum ferðavenjum.  Áróðurinn var svo lævís, að töluverður hluti almennings skildi boðskapinn þannig, að ef borgarlínan kæmi ekki, myndu ferðir með fólksbílum verða 20 % fleiri en ella."

Þá gleymdist að taka tillit til þess, að bætt ferðaaðstaða gangandi og hjólandi mun fækka bílafarþegunum, en bílstjórunum mun lítið fækka.  Rafskutlurnar munu ekki síður fækka farþegum Strætó og borgarlínu en bílanna og kunna að eiga þátt í slæmu gengi Strætó nú.

"Ef við tökum orð framkvæmdastjórans bókstaflega, þá verða þau ekki skilin öðru vísi en svo, að borgarlínan muni ekki hamla gegn aukningu umferðartafa.  Ef það er réttur skilningur, þá hefur aldeilis orðið viðsnúningur á skoðunum samgönguyfirvalda [og forsenda borgarlínu brostin - innsk. BJo].  Reyndar hættu samgönguyfirvöld að ræða um 20 %, eftir að umferðarspár fyrir árið 2034 í nýju samgöngulíkani voru birtar fyrir um 2 árum. Þær spár benda eindregið til þess, að markmið svæðisskipulagsins um breyttar ferðavenjur séu ekki raunhæf. Ef spárnar fyrir 2034 eru réttar, mun borgarlínan aðeins leiða til þess, að bílaumferð árið 2040 verði um 2 % minni en ella.  Skiljanlega hafa samgönguyfirvöld ekki viljað ræða mikið um þessar gerbreyttu niðurstöður !"  

Það hrúgast upp gild rök fyrir því, að borgarlínan sé illa til þess fallin að breyta ferðavenjum fólks, hvað sem gerræðislegum ráðstöfunum á borð við fækkun bílastæða eða tafagjöld líður.  Það er kominn tími til að hætta við þessar dauðvona hugmyndir um að fækka bílum í umferðinni með ofurfjárfestingum, sem samfélagið hefur hvorki ráð á né óskar eftir. 

"Á síðustu árum hafa sumir fulltrúar samgönguyfirvalda haldið því fram, að ekki sé unnt að byggja sig frá umferðartöfum vegna þess, að ný vegamannvirki myndu fyllast jafnóðum af bílum.  Þarna er vísað til fyrirbæris, sem má kalla orsakaða umferð (e. induced demand).  Það eru flestir sammála um, að í þéttbýlum milljónaborgum sé ekki unnt að byggja sig frá umferðartöfum.  Hins vegar á þetta engan veginn við um höfuðborgarsvæðið.  Ég mun rökstyðja það nánar í annarri grein." 

Það mun verða fengur að þeim rökstuðningi Þórarins, því að þessi nauðhyggja Samfylkingarinnar, sem hún hefur flutt hráa inn frá milljónasamfélögum í landþröng án þess að skilja forsendurnar, en amatörborgarskipuleggjandi hennar, Holu-Hjálmar, vitnaði margoft hreykinn í kenninguna um snöggmettun nýrra umferðarmannvirkja á borð við mislæg gatnamót eða viðbótar akreinar. Þetta er einfaldlega falskenning við íslenzkar aðstæður, en þetta er samt önnur meginstoðanna, sem glæfraverkefni Samfylkingarinnar - borgarlína hvílir á.  Hin er, að bílafjöldi á höfuðborgarsvæðinu verði 20 % minni árið 2040 en ella vegna borgarlínu og göngu- og hjólastíga.  Forsendurnar eru fallnar, eins og spilaborg, en samt er haldið áfram með verkefnið óbreytt og stefnir beint út í fjárhagslegt kviksyndi.  Það verður að stöðva ósómann.  

Að lokum sagði í þessari stórgóðu grein samgönguverkfræðingsins:

"Flestir fræðimenn eru sammála um, að veggjöld séu áhrifarík leið til að hamla gegn umferðartöfum í borgum.  Hins vegar er sá galli á gjöf Njarðar, að þau verða að vera mjög há á mesta álagstíma umferðar til að draga umtalsvert úr umferðartöfum.  Auk þess þurfa gjaldtökustöðvar að vera staðsettar þannig, að þær [a.m.k. umljúki] svæðið, þar sem umferðartafirnar eru mestar. Veggjöldin eru þá kölluð tafagjöld (e. congestion charges). 

 Tafagjöldin hafa ekki verið lögð á heilu borgarhlutana í mörgum borgum vegna þess, að þau eru óvinsæl.  Á Stavangersvæðinu [á SV-strönd Noregs] voru veggjöld tvöfölduð á álagstíma haustið 2018.  Ráðstöfunin mætti víðtækri andstöðu, og voru tafagjöldin afnumin snemma árs 2020.  Síðast en ekki sízt er rétt að benda á, að markvissara er að setja markmið um aukinn hreyfanleika (e. mobility) fremur en minnkun umferðartafa.  M.ö.o.: ljúkum sem fyrst gerð mislægra gatnamóta og nauðsynlegra breikkana á helztu þjóðvegum á höfuðborgarsvæðinu." (Undirstr. BJo.)

Taka skal heilshugar undir undirstrikaða kaflann um að auka hreyfanleikann í stað nauðhyggju Samfylkingarinnar og "Betri samgangna" um tafagjöld og borgarlínu, sem eru lélegar lausnir í íslenzku umhverfi, enda keyrðar áfram af annarlegum hugmyndum fúskara í umferðarlegum efnum.

 

 

 

 


Forræðishyggjan tröllríður borgarstjórn Reykjavíkur

Hafa Reykvíkingar samþykkt það í almennri atkvæðagreiðslu, að viðhorf Samtaka um bíllausan lífsstíl verði lögð til grundvallar aðal- og deiliskipulagi Reykjavíkur ?  Nei, og það er orðið aðkallandi, að þeir fái að tjá sig í almennri atkvæðagreiðslu um þetta og þá óvissuferð, sem meirihluti borgarstjórnar er kominn í með s.k. Borgarlínu, sem er sannkölluð sorgarlína.  Til einföldunar mætti spyrja, hvort borgarbúar vilji fá mislæg gatnamót inn á aðalskipulag og deiliskipulag alls staðar, þar sem Vegagerðin ráðleggur slíkt, og hvort borgarbúar kjósi fremur "þunga" borgarlínu á miðju vegstæðis eða nýja sérrein hægra megin götu, þar sem slíkt gæti stytt umferðartíma strætisvagna á annatímum samkvæmt tillögum Betri samgangna fyrir alla".  Núverandi meirihluti borgarstjórnar er að keyra fjárhag borgarinnar í þrot og bílaumferð í borginni í allsherjar hnút.  

Varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Þorkell Sigurlaugsson, gerði skýra grein fyrir valkostum borgarbúa við útúrborulega stefnu sérvitringanna í meirihluta borgarstjórnar í umferðarmálum í Morgunblaðsgrein 14. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Mengun og vondar samgöngur í boði borgarstjórnar".

Hún hófst þannig:

"Ein aðalfrétt að undanförnu er mengun yfir hættumörkum í Reykjavík.  Heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur taldi í fréttum hjá RÚV og Stöð 2 þann 4. janúar [2022] einu lausnina vera að takmarka umferð og borgin þyrfti að fá skýrari heimild í lögum til að framkvæma slíkt.  

Varaformaður Landverndar var með svipaða orðræðu á sjónvarpsstöðinni Hringbraut 11. janúar [2022], að minnka þyrfti umferð og vildi reyndar kenna nagladekkjum einnig um svifryk þessa dagana.  Ekkert var minnzt á, að vandamálið er fyrst og fremst heimatilbúið vegna langvarandi aðgerðaleysis borgarstjórnar Reykjavíkur."

Það er dæmigerð forræðishyggja að baki því að láta sér detta í hug að grípa inn í líf og lifnað fólks með svo róttækum og skaðvænlegum hætti að banna t.d. fólki með prímtölu í enda bílnúmers síns að aka um götur allrar Reykjavíkur á grundvelli hámarks mæligildis NO2 og/eða svifryks með þvermál undir 10 míkrómetrar nokkrum sinnum á sólarhring yfir viðmiðunarmörkum. Það, sem skiptir höfuðmáli hér, er varanleiki gildanna yfir mörkum, og hversu víðfeðm mengunin er, þ.e. hversu lengi flest fólk þarf að dvelja í menguninni. 

Þótt mæligildi skaðlegra efna á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar hafi á fyrsta hálfa mánuði ársins 2023 verið í 40 klst yfir viðmiðunarmörkun, er fráleitt að gera því skóna, að einhver hafi á tímabilinu andað þessu slæma lofti svo lengi að sér og umferðartakmarkanir í borginni á þessum grundvelli þess vegna fráleitar.  Að þessu leyti eru aðstæður ósambærilegar við útlönd almennt séð.

  Í Reykjavík eru froststillur (verstu skilyrðin) svo sjaldgæfar, að heilbrigðu fólki hefur ekki stafað ógn af ástandinu, en mæligildin eru nytsamleg til að vara fólk með viðkvæm öndurnarfæri við, og allir geta gert ráðstafanir til að skapa yfirþrýsting í bílnum á verstu stöðunum, t.d. á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar, en þar mega vegfarendur þrauka í bið á umferðarljósum í boði steinrunnins afturhalds í borgarstjórn, sem vill ekki leyfa Vegagerðinni að setja upp þarna mislæg gatnamót, sem svara kröfum tímans, en forneskjan í borgarstjórninni vill halda höfuðborginni á hestvagnastiginu.

Að eftir hverjar borgarstjórnarkosningar skuli ætíð vera lappað upp á fallinn meirihluta hinnar afturhaldssömu og sérvizkulegu Samfylkingar er þyngra en tárum taki, enda er hagur borgarinnar kominn að fótum fram. Þar ber Dagur, fráfarandi borgarstjóri Samfylkingar, mest ábyrgð, en mun smeygja sér undan henni.  Hann er vissulega sekur um óstjórn og vanrækslu.  

"NO2 er réttilega aðalsökudólgurinn og kemur frá útblæstri bifreiða [aðallega dísilvélum-innsk. BJo].  Borgin hefði sjálf getað sýnt gott fordæmi og sett kraft í orkuskipti hjá Strætó, en af um 160 vögnum eru eingöngu 15 rafvagnar [skammarlega lágt hlutfall, rúmlega 9 % - innsk. BJo].  Nánast við hliðina á mengunarmælistöðinni eru ein umferðarmestu gatnamót Strætó í borginni. 

Hin ástæða mikillar mengunar við Grensásveg og víðar eru gríðarlegar tafir í umferðinni, þar sem flæði umferðar í Reykjavík hefur verið heft vegna vanrækslu borgarstjórnar a.m.k. undanfarin 15-20 ár."

  Þetta er falleinkunn yfir Samfylkingunni og stjórnarháttum hennar í höfuðborg Íslands.  Hvergi í borgum Norðurlandanna er uppi þvílíkur vandræðagangur og óstjórn og í Reykjavík.  Þar er ekki hægt að skrifa allt á vannrækslu meirihluta borgarstjórnar, heldur er um útfærða stefnumörkun afturhaldsins að ræða með því að taka mislæg gatnamót út af aðalskipulagi og þrengja umferðaræðar, t.d. Grensásveg með sérvizkulegum og þverúðarfullum hætti í blóra við umferðarfræði, sem miða að því að hámarka öryggi allra vegfarenda og halda umferðartöfum innan viðunandi marka (núverandi umferðartafir í borginni eru allt að því fimmfaldar viðunandi tafir út frá beinum kostnaði við tafirnar).

 "Fyrir löngu hefði átt að ráðast í gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut og Grensásveg og einnig Bústaðaveg við Reykjanesbraut.  Miklabraut gæti verið í nokkurs konar brú yfir Grensásvegi með svipuðum hætti og Miklabraut yfir Elliða[ánum] og Sæbraut/Reykjanesbraut.  Halda síðan áfram og leysa málið með mislægum gatnamótum við Kringlumýrarbraut og jafnvel jarðgöngum undir Lönguhlíð og víðar á þessari tiltölulega stuttu 3 km leið frá Grensásvegi að Landspítala við Hringbraut.  Markmiðið væri að gera Miklubraut að mestu lausa við ljósastýringu umferðar og halda jöfnum, hóflegum hraða. Þannig [næst] bæði lágmarks eldsneytiseyðsla og [lágmarks] hávaðamengun ökutækja."   

Það er hneyksli og vitnar um firringu og forneskjulegan þankagang meirihluta Samfylkingar í borgarstjórn að vilja halda umferðinni á Miklubraut, þessum megin austur-vesturási borgarinnar, á hestvagnastiginu með frumstæðum og hættulegum gatnamótum.  Samfylkingin heldur borgarumferðinni í spennitreyju með yfirgengilegri fávísi um og hundsun á þörfum borgarbúa og annarra vegfarenda í Reykjavík.  Í staðinn koma hátimbraðar fyrirætlanir um að flýta för 4 % vegfarenda á kostnað um 80 % vegfarenda.  Þetta er alveg snarvitlaus forgangsröðun þeirra furðudýra, sem hanga við völd í Reykjavík án þess að geta það. 

"Ef borgin hefði sýnt Sundabraut meiri áhuga, gæti hún verið komin og hefði dregið verulega úr umferð um Vesturlandsveg og Miklubraut, m.a. stórra vöruflutningabifreiða, og opnað ný tækifæri til íbúðauppbyggingar á Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi. 

Árlegur tafakostnaður í umferðinni er ekki undir mrdISK 50.  Hluti af því er umframeyðsla á eldsneyti, 20-30 kt/ár samkvæmt útreikningum verkfræðinganna [og bræðranna] Elíasar Elíassonar og Jónasar Elíassonar, prófessors emeritus [blessuð sé minning hans - innsk. BJo]."   

Skemmdarverkastarfsemi Samfylkingarinnar og taglhnýtinga hennar í borgarstjórn á undirbúningi Sundabrautar er skipulagshneyksli.  Flokkurinn er gjörsamlega siðlaus í athöfnum sínum gegn eðlilegu umferðarflæði í Reykjavík.  Þessar athafnir og athafnaleysi Samfylkingarinnar hafa leitt til alvarlegra slysa á fólki, mikils eignatjóns, tímasóunar og óþarfa mengunar og losunar CO2, sem nemur um 100 kt/ár, sem er ekki óverulegt á landsvísu (um þreföld niðurdæling Carbfix á CO2 við Hellisheiðarvirkjun).

Samfylkingin ber kápuna á báðum öxlum í mikilvægum hagsmunamálum landsmanna, t.d. umhverfismálum, því að hún er mjúkmál um þau, en gerir sér leik að því að valda óþarfa losun, sem nemur um 2 % á landsvísu í Reykjavík einni. Samfylkingunni er í engu treystandi. 


Miðstjórn ASÍ á villigötum

Það hefur verið sorglegt að fylgjast með svigurmælum forystumanna verkalýðs í garð ríkissáttasemjara. Viðvaningsháttur og hroki einkennir þá, þeim eru mannasiðir ekki tamir, og steininn hefur tekið úr, þegar þeir í einfeldni sinni hafa hætt sér út í lagatúlkanir um embætti ríkissáttasemjara.  Þar stendur ekki steinn yfir steini. Starfandi forseta ASÍ virðist skorta forystuhæfileika til að leiða ASÍ með ábyrgum og farsælum hætti.  Nú stendur miðstjórnin uppi berrössuð eftir innantómar yfirlýsingar sínar, eftir að sá maður, sem gerzt má vita um heimildir ríkissáttasemjara til að varpa fram miðlunartillögu í kjaradeilu, sem hann telur vera komna í hnút, hefur tjáð sig opinberlega.  

Karítas Ríkharðsdóttir átti stutt og hnitmiðað viðtal við Ásmund Stefánsson, hagfræðing og fyrrverandi forseta ASÍ og fyrrverandi ríkissáttasemjara, í Morgunblaðinu 30. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Fordæmanleg ósannindi um lagaheimildir".

Ásmundur var algerlega afdráttarlaus í stuðningi sínum við núverandi ríkissáttasemjara.  Allt tal verkalýðsleiðtoga um, að hann hafi farið út fyrir valdheimildir sínar og þannig með réttu fyrirgert trausti, er eintómt blaður.  Viðkomandi verkalýðsleiðtoga hefur sett ofan, og það verður á brattann að sækja fyrir þá að endurheimta snefil af trausti eftir þetta illvíga frumhlaup. 

Viðtalið hófst þannig:

"Það er alveg ljóst, að sáttasemjari hefur þessa heimild til að leggja fram miðlunartillögu og þarf ekkert samþykki deiluaðila til þess. Það er staðreyndin.  Það er í raun fordæmanlegt, að stóru heildarsamtökin skuli fara fram með bein ósannindi í þessu efni", segir Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur, fyrrverandi ríkissáttasetjari og fyrrverandi forseti ASÍ í samtali við Morgunblaðið og vísar til ályktunar miðstórnar ASÍ í kjölfar þess, að ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á fimmtudaginn í síðustu viku [26.01.2023]. 

Í ályktuninni segir um heimild sáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu, að "hún eigi ekki að leggjast fram án þess að hafa a.m.k. þegjandi samþykki beggja aðila."  Ásmundur segir þessa viðmiðun hvergi í lögum." 

Miðstjórn ASÍ undir starfandi forseta hefur sett verulega niður við þessa loðmullulegu  ályktun, sem hefur á sér yfirbragð tilvitnunar í lög, en er í rauninni skáldskapur miðstjórnarinnar.  Hvernig í ósköpunum dettur miðstjórninni í hug að ganga fram með vísvitandi ósannindum í marklausri tilraun sinni til að grafa undan ríkissáttasemjara í eldfimu ástandi ? Þessi framkoma er óábyrg, heimskuleg og fullkomlega óboðleg, og forsetinn  virðist þarna hafa dregið miðstjórnina á asnaeyrunum, eða hann er fullkomlega ófær um veita nokkra leiðsögn af viti. Sýnir þetta enn og aftur, hvers konar ormagryfja verkalýðsforystan er, þegar hún kemur saman.  Þar er ekki stunduð sannleiksleit, heldur ræður sýndarmennska, yfirboð og önnur óvönduð vinnubrögð ferðinni. 

Áfram hélt Ásmundur í viðtalinu við Karítas:

"Það hafa verið samþykktar ályktanir og gefnar út yfirlýsingar um það, að sáttasemjari hafi ekki lagalegt umboð til að koma með miðlunartillögu.  Ég verð í rauninni að lýsa undrun minni á því.  Staðreyndin er, að sáttasemjari hefur þessa heimild samkvæmt lögum, og það fer eftir hans mati á stöðu deilunnar, hvort hann telur rétt að leggja fram miðlunartillögu eða ekki.  Það er engin krafa um það, að verkfall hafi staðið í tiltekinn tíma.  Krafa um t.d. 3 til 4 vikna vinnustöðvun myndi ekki auðvelda sáttastarf.  Krafan er einfaldlega, að hann meti ástandið þannig, að það sé rétt að leggja fram miðlunartillögu.  Þó að menn gefi yfirlýsingar á yfirlýsingar ofan um, að það sé brot, þá haggar það ekki þeirri staðreynd, að fyrir þessu er ekki bara lagaheimild, heldur einnig sterk hefð.  Ósannindi hrekja ekki staðreyndir."

Eftir þessa uppákomu er ljóst, að núverandi miðstjórn ASÍ les lagatexta, eins og Skrattinn Biblíuna og fellir allt að eigin duttlungum.  Þetta er hroðalegt vanþroskamerki og alveg í anda formanns Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, sem lifir í eigin furðuheimi, þar sem viðtekin lögmál gilda ekki.  Þessi miðstjórn hefur þar af leiðandi glatað öllum trúverðugleika og er í raun og veru bara aðhlátursefni.  Þetta hafa menn upp úr viðvaningshætti, ofstæki og flausturslegum vinnubrögðum.  Var við öðru að búast ?

 

 


Virkjanir og sveitarfélögin

Nánast öll raforka frá virkjunum landsins fer inn á stofnkerfi raforku, og þannig eiga allir landsmenn að hafa jafnan aðgang að henni, þótt misbrestur sé á því í raun, bæði hvað afhendingaröryggi og spennugæði áhrærir. Það hefur of lítill gaumur verið gefinn að sveitarfélögunum, þar sem virkjanirnar eru staðsettar, enda er það eðlileg ósk heimamanna, að hluti virkjaðrar orku verði til ráðstöfunar í viðkomandi sveitarfélögum, ef eftirspurn skapast. 

Þetta viðhorf kom fram í góðri Morgunblaðsgrein eftir Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra í Skeiða- og Gnúpverjahreppi 9. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Forsenda orkuskipta á Íslandi fyrir árið 2040".

Þar stóð m.a.:

"Ég leyfi mér að fullyrða, að orkuskipti þjóðarinnar gangi ekki eftir, nema haldið verði áfram að virkja þetta mikilvæga orkusvæði.  Þegar ríkisstjórn Íslands setti hins vegar markmið um orkuskipti fyrir Ísland, átti ekkert samtal eða samráð sér stað um það við sveitarfélögin, en samt er það svo, að það eru þau, sem þurfa að setja virkjanir og tengd mannvirki á aðal- og deiliskipulag sitt ásamt því að heimila framkvæmdir.  Nauðsynlegt er að hefja samtalið [á] milli ríkis og sveitarfélaga strax, til þess að orkuskiptin raungerist."

Þetta er þörf og löngu tímabær ábending.  Að samskipti ríkisvalds, stærsta ríkisorkufyrirtækisins og  sveitarfélaga á orkusviðinu skuli vera í lamasessi, eins og höfundurinn rekur, ber vitni um ómarkviss vinnubrögð af hálfu ríkisvaldsins og ríkisorkufélaganna, og er þessi meinbugur sennilega hluti af skýringunni á þeirri úlfakreppu, sem íslenzk orkumál eru í.  

Þjóðarskútunni hefur verið siglt inn í ástand raforkuskorts.  Hann er ekki tímabundinn, eins og löngum áður fyrr, heldur langvarandi. Hann stafar ekki einvörðungu af skorti á rafölum til að svara eftirspurninni, einnig frá nýjum notendum, heldur vegna ónógrar söfnunargetu miðlunarlóna virkjananna, sérstaklega á Tungnaár/Þjórsár-svæðinu. 

Að auka aflgetu virkjananna mun magna orkuvandann, því að aukið vatnsrennsli þarf til að knýja nýja rafala og/eða stærri rafala.  Aðalvandinn er sá, að miðlunargeta Þórisvatns er of lítil.  Til að bæta úr skák þarf 6. áfanga Kvíslaveitu, nýtt Tungnaárlón og Norðlingaölduveitu.  Hvammsvirkjun-95 MW, Holtavirkjun-57 MW og Urriðafossvirkun-140 MW munu bæta mjög úr skák, því að þar mun bætast við um 290 MW afgeta án þess að auka þörfina á miðlunargetu.

Landsvirkjun virðist vilja leysa aðsteðjandi orkuvanda með vindmylluþyrpingum.  Það er þjóðhagslega óhagkvæmt, af því að aðrir valkostir til að auka afl- og orkugetu raforkukerfisins eru hagkvæmari og vegna þess að mun meiri landverndar- og mengunarbyrði verður af vindmylluþyrpingum en vatnsorkuvirkjunum (miðlunum og vatnsaflshverflum með rafölum, spennum, rofum stýribúnaði). Núna hafa einvörðungu um 0,6 % landsins farið undir miðlanir, stöðvarhús, aðrennsli og frárennslu, flutningslínur og vegagerð vegna orkumannvirkja.  Landþörf vindmylluþyrpinga í km2/GWh/ár er tíföld á við vatnsaflsvirkjun með miðlun, ef koma á í veg fyrir gagnkvæm skaðleg áhrif vindmyllanna vegna vindhvirfla (túrbúlens), sem dregur úr nýtni og veldur titringi.  Það er með eindæmum, ef Orkustofnun, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og ráðuneyti orku, umhverfis og loftslags ætla að hrekja Landsvirkjun frá góðum lausnum á vatnsorkusviði til að koma á jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar raforku í landinu og yfir í alveg afleitar lausnir vindorkuhverflanna. 

  "Ég er mikill virkjanasinni.  Ég geri mér grein fyrir því, hvað sú græna orka, sem við framleiðum á Íslandi, hefur gert fyrir lífsgæði þjóðarinnar.  Sem sveitarstjóri og oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps er mér falin sú mikla ábyrgð að reka sveitarfélagið. Tryggja hagsmuni íbúanna.  Tryggja það, að samfélag okkar vaxi og dafni.  Tryggja, að lífsgæði okkar aukist.  Er eðlilegt að breyta byggð í fallegri náttúru, sem er hluti af lífsgæðum íbúanna, yfir í virkjanasvæði, sem hefur sjónrænt áhrifasvæði upp á meira en 50 km2, til að tryggja 1-2 störf til framtíðar í nærumhverfi virkjunarinnar ?  Ég held, að flestir viti svarið.  Eitthvað meira þarf að koma til." 

Það er vafasamt að heimfæra þær fórnir, sem þessar lýsingar oddvitans og sveitarstjórans draga upp mynd af, upp á Hvammsvirkjun.  Stöðvarhúsið verður lítt áberandi, og varla mun bera meira á stíflunni en brú, enda verður þar akfært yfir, og mun sú vegtenging yfir Þjórsá verða sveitarfélögunum beggja vegna lyftistöng. Inntakslónið verður alfarið í árfarveginum og mun fegra sveitina.  Sjónræna áhrifasvæðið, sem hann gerir mikið úr, eykur fjölbreytnina í sveitinni, gerir hana nútímalega og mun draga að henni gesti. 

Það er t.d. ekki hægt að bera náttúruinngrip þessarar virkjunar saman við vindmylluþyrpingu á þessum slóðum.  Slíkt mannvirki fælir frá vegna hávaða og gríðarlegt jarðrask á sér stað vegna graftrar fyrir undirstöðum á stóru svæði, þar sem eru vegslóðar og skurðir fyrir rafstrengi frá vindmyllum að aðveitustöð.  

"Ein af undirstöðum lífsgæða á Íslandi er orkuöflun, sem á sér stað á landsbyggðinni.  Samt er það skrifað í raforkulög, að uppbygging atvinnu, sem þarf mikla raforku, raungerist aldrei í dreifbýli.  Hvers vegna ?  Vegna þess að það er sérstök verðskrá fyrir dreifingu á raforku í dreifbýli og við, sem búum á landsbyggðinni þurfum að greiða hærra verð fyrir dreifingu á rafmagninu en þeir, sem búa í þéttbýli.  Við þurfum að greiða hærra verð fyrir orku, sem verður til í okkar nærumhverfi en þeir, sem nota hana í þéttbýliskjörnum, tugum og hundruðum km frá framleiðslustað.  Þessu þarf að breyta strax."

Þetta er alveg rétt hjá höfundinum og hefur ítrekað verið bent á þetta misrétti hér á vefsetrinu og lagðar til leiðir til úrbóta. Það, sem oddvitinn og sveitarstjórinn vill, er, að Landsvirkjun veiti sveitarfélögunum, sem hlut eiga að veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun, aðgang að hluta af orku frá virkjuninni.  Það er eðlilegt sjónarmið, að frá aðveitustöðinni, sem reist verður við Þjórsá til að taka við orku frá virkjunum Neðri-Þjórsár og tengja hana við stofnkerfi landsins, verði rofar fyrir orku innan sveitarfélaganna, u.þ.b. 10 MW.  Í grein höfundar segir, að stofnkostnaður Hvammsvirkjunar verði líklega um mrdISK 50.  Þá má reikna út, að kostnaður við þessa orkuvinnslu verður um 38,9 USD/MWh (5,6 ISK/kWh), og er það sanngjarnt verð frá virkjuninni til innansveitarnota, en til viðbótar kemur flutningskostnaður að aðveitustöðinni, og Landsvirkjun þyrfti að niðurgreiða dreifinguna, þar til stjórnvöld loksins leiðrétta téða mismunun notenda dreifiveitnanna.  Þá er hins vegar höfuðverkur sveitarfélaganna, hverjir eiga að njóta þessara vildarkjara ? 

Að lokum stóð í þessari athyglisverðu grein:

"Ef orkuskipti þjóðarinnar eiga að geta átt sér stað, þá þarf ríkisstjórn Íslands og þingmenn á Alþingi að hefja samtalið við sveitarstjórnir á landsbyggðinni um sanngjarna skiptingu á auðlindinni, sem orkan er. Tryggja þarf jafnt verð á dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli.  Tryggja þarf, að nærsamfélagið, þar sem orkan á uppsprettu, njóti ávinnings af þeim verðmætum, sem hún skapar, ekki bara á framkvæmdatíma við byggingu virkjana, heldur sem hlutdeild í þeim verðmætum, sem verða til á hverjum tíma með orkuframleiðslunni. Það samtal þarf að hefjast strax til að tryggja, að farsæl orkuskipti þjóðarinnar nái fram að ganga fyrir árið 2040."

Þarna virðist oddvitinn og sveitarstjórinn fara fram á gjald til viðkomandi sveitarfélaga af orkunni frá Hvammsvirkjun, ef hún er seld á hærra verði en nemur framleiðslukostnaði virkjunarinnar (38,9 USD/MWh=5,6 ISK/kWh).  E.t.v. er hægt að semja tímabundið um slíkt, en að auki koma fasteignagjöld í hlut sveitarfélaga, þar sem mannvirki eru staðsett, og arðurinn af ríkisfyrirtækjunum kemur í hlut þessara íbúa, eins og annarra íbúa landsins.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband