Skammarstrikið

Menningar- og viðskiptaráðherra er í meira lagi yfirlýsingaglöð, en svo mikið vantar upp á efndir og eftirfylgni, að tala má um verkleysi. Dæmi um þetta er fjölmiðlaheimurinn hérlendi, sem er í úlfakreppu ríkisafskipta og mjög óheilbrigðrar og ósanngjarnrar  samkeppni.  Lilja D. Alfreðsdóttir lýsti því yfir fyrir um ári, að hún ætlaði að laga þá skökku stöðu, sem þarna ríkir, með því að láta skattleggja íslenzkar auglýsingar í erlendum miðlum, aðallega í netheimum, og að draga úr auglýsingum á RÚV o.h.f., "útvarpi allra landsmanna", sem í raun virkar eins og útvarp allra vinstri manna og afæta.

Ekkert af þessu hefur gerzt, erlendu miðlarnir hafa nú sogað til sín helming auglýsingamarkaðarins í ISK talið og umsvif RÚV á þessum markaði aukast stöðugt.  Velta þessa ríkisfjölmiðils er talin munu nema mrdISK 8 í ár, sem er auðvitað váboði, þótt varaformaður Framsóknarflokksins láti enn duga að tala út og suður.  Jafna verður þegar í stað skattheimtuna af öllum fjölmiðlunum, draga RÚV út af auglýsingamarkaði og draga úr umsvifum þess.  Ein rás af hverju tagi er meira en nóg fyrir þennan ríkisrekstur, sem er að verða eins og svarthol fyrir ríkissjóð. 

Staksteinar Morgunblaðsins á þrettándanum 2023 fjölluðu um fjölmiðlahneyksli, sem sem vinstri fjölmiðlarnir hafa reynt að þegja í hel.  Svo virðist sem starfsmenn RÚV-fréttastofu, sem kalla sig "rannsóknarblaðamenn" þar, hafi verið hafðir að ginningarfíflum í Namibíu í Afríku, þar sem yfirvöld rannsaka alvarlegt spillingarmál. Fórnarlamb fréttamanna í þessu máli varð útgerðarfélagið Samherji. 

Þetta félag sætir engri ákæru þar í landi, og þess vegna lítur út fyrir, að óprúttnir menn þar hafi látið líta svo út í augum grobbinna íslenzkra "rannsóknarblaðamanna", að íslenzka útgerðarfélagið hefði hlunnfarið alþýðufólk í Namibíu.  Þessi mynd var dregin upp fyrir áhorfendum Kveiks og lesendum fylgitunglanna, sem frá greinir í téðum Staksteinum:

"Björn Bjarnason skrifar um Fishrot-hneykslið í Namibíu, sem náð hefur hingað og fengið nafnið Samherjamálið. "Yfir lykilblaðamönnum Stundarinnar og Kjarnans hvílir sameiginlegur skuggi lögreglurannsóknar, einn angi Samherjamálsins svo nefnda.  Það má rekja til umfjöllunar í þættinum Kveik í ríkissjónvarpinu 12. nóvember 2019.  Skuggi rannsóknarinnar nær því einnig inn á fréttastofu ríkisútvarpsins", skrifar Björn." 

Þessi skuggi lögreglunnar á Norðurlandi eystra stafar líklega af meintum stuldi gagna úr farsíma skipstjóra nokkurs hjá Samherja.  Augljóslega er þar um alvarlegt mál að ræða, þótt upphlaupsmiðlar hafi ekki gert sér mikinn mat úr því, enda nærri þeim höggvið.  Þarna kom fréttastofa RÚV einnig við sögu, en vonandi verða allir viðkomandi blaðamenn hreinsaðir af sök í þessu máli, því að sönnuð sök væri til vitnis um alvarlegan dómgreindarskort. 

"Þá bendir hann á, að Samherji hafi greitt fyrir veiðirétt undan strönd Namibíu, en svo hafi komið í ljós, að 10 stjórnmálamenn, athafnamenn og lögfræðingar þar í landi, hafi verið sakaðir um mútur og [aðra] spillingu.  Enginn Samherjamaður sæti þó ákæru vegna málsins, sem er umhugsunarvert í ljósi látanna, sem hér urðu."  

Nokkrir íslenzkir blaðamenn voru í einhvers konar krossferð gegn Samherja og töldu sig hafa komizt í feitt og dylgjuðu ótæpilega um refsiverða háttsemi  útgerðarfélagsins þar niðri í Afríku.  Það er með ólíkindum m.v. það, sem á undan er gengið, að hvorki er fram komin ákæra í Namibíu né á Íslandi á hendur téðu útgerðarfélagi eða starfsmönnum þess.  Sú staðreynd vitnar um ótrúlegt dómgreindarleysi Kveiksfólks, sem að þessari þáttagerð kom, og óvönduð vinnubrögð.  Ganga þau nú með veggjum ?

  Tilbúningurinn og vitleysan var á kostnað íslenzkra skattborgara, sem minnast þess að hafa séð Helga Seljan heldur gleiðfættan spígspora sem Sherlock Holmes í Namibíu, og norskum banka var flækt í málið.  Hvernig fór sú rannsókn ?

"Og Björn bendir á frétt Morgunblaðsins í gær um, að yfirlögfræðingur Samherja "hafi leitað til héraðsdóms til að fá rannsókn á hendur sér dæmda ógilda, og að hún verði felld niður".  Lögfræðingurinn hafi haft réttarstöðu sakbornings í 3 ár."

Þetta er dæmi um ótæk vinnubrögð réttarkerfisins, sem ekki geta orðið lögum og rétti í þessu landi til framdráttar.  Skörin er þó tekin að færast upp í bekkinn, þegar í ljós kemur, að ekki er einvörðungu um óhæfni að ræða, heldur er bullandi vanhæfi á ferðinni í þessari rannsókn:

"Svo vill til, að saksóknarinn íslenzki er bróðir blaðamanns Stundarinnar, sem fjallað hefur um þetta mál.  Björn segir óskiljanlegt, hve lengi saksóknarinn sitji yfir málinu án þess, að nokkuð gerist.  "Er hann örmagna andspænis því, eða er það tilefnislaust ?", spyr Björn."

Það er víðar spilling en í Namibíu, en það er ekki sama Jón og séra Jón, allra sízt í vinstri pressunni.  Er ekki löngu tímabært, að "Reichsanwahlt", ríkissaksóknari leysi téðan saksóknara frá málinu ?

 

 

 

 

 

 


Steinrunnið afturhald

Nú berast fregnir af því, að afturhaldsflokkurinn Samfylking njóti nokkurs framgangs í skoðanakönnunum.  Það er einungis til merkis um, að nýjum formanni þessa "jafnaðarflokks" hafi tekizt að villa á sér heimildir og kasta ryki í augu fólks.  Bankadrottningunni og flokkinum hennar má þó aðeins líkja við gamalt vín á nýjum belgjum, enda hefur stefnumiðinu um að troða Íslandi inn í Evrópusambandið (ESB) og að gera evru að lögeyri hér alls ekki verið kastað fyrir róða.  Það er bara búið að breiða yfir það.  Í þessum pistli má sjá, hvernig ábyrgðarleysi og sérhagsmunadekur Samfylkingarinnar skín í gegnum gerðir hennar, þar sem hún er við völd. 

Skýrust merki um stjórnarhætti Samfylkingarinnar birtast í Reykjavík, þar sem hún hefur haft mótandi áhrif á borgarstjórn megnið af þessari öld.  Afleiðingarnar eru ótrúlegar, enda bæði skelfilegar og skammarlegar.  Fjárhagur borgarinnar er í rúst, enda fer lánstraust hennar minnkandi, og fjárfestingargeta hennar hefur ekki verið minni í manna minnum. Samt hefur borgarsjóður blóðmjólkað mjólkurkú sína, OR (Orkuveitu Reykjavíkur), með þeim hroðalegu afleiðingum, að fjárfestingar samstæðunnar hafa verið í lágmarki, enda hefur jarðfræðingurinn á stóli forstjóra samstæðunnar margtekið fram, að engra nýrra virkjana sé þörf. 

Viðhaldi virðist ekki vera sómasamlega sinnt heldur, þannig að umhirða þessarar mjólkurkýr borgarinnar virðist vera í skötulíki.  Forstjóri dótturfélagsins, ON, tekur í sama streng og kveður óráðlegt, að Veitur (annað dótturfyrirtæki) geti fengið heitt vatn til að anna álagstoppum. Þetta er skammarlegt sjónarmið og sýnir fyrirlitningu meirihluta stjórnar OR og borgarstjórnar (les Samfylkingar) á þörfum borgarbúa og annarra viðskiptavina þessa fyrirbrigðis.  Það kom líka á daginn í vetur, að bilun varð í Hellisheiðarvirkjun, þegar mest lá við, svo að loka varð öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu í nokkra daga vegna skorts á heitu vatni.  Þetta er dæmi um óstjórn Samfylkingarinnar, þar sem hún nær að setja mark sitt á stjórnarhættina.

Annað svið borgarmálanna, sem varpar ljósi á jaðareðli sérvitringa Samfylkingarinnar, sem hiklaust fórna hagsmunum almennings fyrir sérhagsmuni jaðarhópa á borð við Samtök um bíllausan lífsstíl.  Þetta andframfarasinnaða eðli Samfylkingarinnar gerir hana óstjórntæka, enda sjáum við til hvers stjórnarhættir hennar hafa leitt í Reykjavík. Stjórnkerfi borgarinnar er óstarfhæft, og engin framfaramál á döfinni þar.  Borgarlínan (Sorgarlínan) er hrottalega illa ígrunduð fjárfesting, sem verða mun fjárhag borgarinnar og nágrannasveitarfélaga myllusteinn um háls, því að hún mun ekki draga að sér marktækt hlutfallslega fleiri farþega en núverandi Strætó eða 4 %. Þrátt fyrir sérreinar á miðju, hentar ekki þessi samgöngumáti fleirum. Það vita flestir, en troða á fíflaganginum upp á fjöldann.  Sú mun þó ekki verða raunin.

  Nú er verið að skipuleggja borgina með hliðsjón af Sorgarlínu.  Við Snorrabraut er ætlunin að reisa fjölbýlishús án bílastæða á lóð ÓB á mótum Snorrabrautar og Egilsgötu.  Þar yrði upplagt fyrir starfsfólk Landsspítala að búa, ef það gæti komið bíl sínum eða bílum einhvers staðar fyrir. Þegar kemur að því að selja þessar íbúðir, mun koma í ljós, hvað hefst upp úr því að skipuleggja borg fyrir þarfir, sem eru ekki fyrir hendi hjá almenningi. 

Þann 21. desember 2022 birtist frétt Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

  "Ekki raunhæft að flýta Sundabraut".

Hún hófst þannig:

"Það er mat Reykjavíkurborgar, að ekki sé raunhæft að flýta framkvæmdum við Sundabraut.  Þær geti ekki hafizt fyrr en árið 2026, eins og áætlanir geri ráð fyrir.  

Þetta kemur fram í umsögn borgarinnar til Alþingis við þingsályktunartillögu Eyjólfs Ármannssonar og annarra þingmanna Flokks fólksins um, að gerð Sundabrautar með brú [á] milli Kleppsvíkur og Gufuness verði hraðað eftir fremsta megni og framkvæmdir hafnar hið fyrsta [eða] eigi síðar en fyrir árslok 2023.  Framkvæmdum verði lokið fyrir árslok 2027 eða fyrr [sic ! fyrir árslok eða fyrr er merkingarlaus tvítekning-innsk. BJo]."  

Sundabraut verður mikið framfaraskref til að létta á umferð í Ártúnsbrekku og um Mosfellsbæ.  Ef ekki mundi ríkja afturhaldsstjórnarstefna í borgarstjórn, hefði hún tekið vel í þessa þingsályktunartillögu, en Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Samfylkingin eiga sér ömurlega sögu í meðhöndlun sinni á Sundabraut, sem hefur þegar valdið miklu samfélagslegu tjóni, enda kom eftirfarandi fram í umræðunni:

"Umsögnin var tekin til umræðu á fundi borgarráðs, sem haldinn var 15.12.2022.  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Kjartan Magnússon, lögðu fram svohljóðandi bókun:

"Undirbúningur vegna lagningar Sundabrautar er orðin ein mesta sorgarsaga samgöngumála á Íslandi.  Frá árinu 2010 hafa borgarstjórnarmeirihlutar undir forystu Samfylkingarinnar og annarra vinstri flokka gripið til margvíslegra ráða til að tefja framgang verkefnisins og leggja steina í götu þess.  Smáhýsi hafa verið byggð á fyrirhuguðu vegstæði brautarinnar, vildarvinum úthlutað fjölbýlishúsalóðum mun nær umræddu vegstæði en ráðlegt er, sem og landinu undir heppilegustu tengingu brautarinnar við Sæbraut.  Þannig má áfram telja, og virðist það vera stefnumál vinstri flokkanna í borgarstjórn að koma í veg fyrir, að Sundabraut verði að veruleika. Fyrirliggjandi umsögn ber það með sér, að borgaryfirvöld hyggist halda áfram að tefja lagningu Sundabrautar með öllum ráðum.  Ekki kemur á óvart, að fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar, styðji áframhaldandi tafir vegna Sundabrautarverkefnisins, enda hafa þær verið hluti af samgöngustefnu þessara flokka um árabil. Það kemur hins vegar á óvart, ef áðurnefndum flokkum tækist að fá fulltrúa Framsóknarflokksins með sér í þá vegferð að halda tafaleikjunum áfram og spilla þannig enn frekar fyrir þessu þarfa verkefni."

Í sögu Sundabrautarverkefnisins birtist ljóslega afturhaldseðli Samfylkingarinnar.  Þarna er um að ræða framfaramál fyrir tengingu höfuðborgarinnar í norðurátt, sem mun stuðla að styttingu ferðatíma, eldsneytissparnaði og minni losun og létta stórlega á umferðarþunga um Mosfellsbæ.  Þetta innsiglar Reykjavík og nágrannabæina, Kjalarnes, Kjós og Akranes, sem eitt  atvinnusvæði. Samfylkingin hefur sannað afturhaldseðli sitt og útúrboruhátt með því að leggjast í skæruhernað gegn þessu verkefni, eins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tíunda hér að ofan, og hinn hlálegi "breytingaleiðtogi" Framsóknar reynist Degi leiðitamur og er teymdur á asnaeyrunum út í forað bíllausa lífsstílsins, sem er hjartans mál Samfylkingarinnar.  Flestir hvorki geta né vilja tileinka sér bíllausan lífsstíl.  Sérvitringarnir í borgarstjórn hafa látið teikna nokkur hús í borginni án nokkurs bílastæðis fyrir íbúana, nú síðast fjölbýlishús við Snorrabraut, af því að þar verði "hágæðasamgönguvalkostur", líklega "Sorgarlínan". Það á síðan að tefja umferðina enn meir í Reykjavík og auka á mengunina með því að helminga flutningsgetu Snorrabrautar.  Þetta er algerlega glórulaust og gegn hagsmunum almennings á höfuðborgarsvæðinu.  Allt sýnir þetta, að Samfylkingin er ábyrgðarlaus og þar af leiðandi óstjórntækur stjórnmálaflokkur.  

 

 

 


Kenningin um "Wandel durch Handel" er dauð

Það er kominn tími fyrir þýzk stjórnvöld og aðra, sem tvíátta eru í afstöðunni til Rússlands, að gera sér grein fyrir í raun, að aldrei aftur verður horfið til samskipta við Rússland á viðskiptasviðinu og öðrum sviðum, eins og innrás rússneska hersins í Úkraínu 24. febrúar 2022 hefði aldrei átt sér stað. Kenningin um, að með viðskiptum við einræðisríki gætu lýðræðisríkin haft áhrif á einræðisríkin til batnaðar, því að sameiginlegir viðskiptahagsmunir mundu gera einræðisríkin nægilega vinveitt lýðræðisríkjunum, til að þau mundu ekki telja verjanlegt að fara með ófriði gegn þeim, hefur reynzt loftkastalar draumóramanna. Til að breiða yfir veikleika þessarar kenningar, breiddi einn höfundanna, kratinn Willy Brandt, yfir raunveruleikann með því að kalla ósköpin "Realpolitik".  Þjóðverjar áttu eftir að fara flatt á þessari krataglópsku.

Viðskiptin styrkja einræðisríkin tæknilega og fjárhagslega, og þau reyna að beina aðkeyptri vestrænni tækni að eflingu herstyrksins, sem settur verður til höfuðs lýðræðisríkjum við fyrsta tækifæri.  Rússland er nýjasta dæmið um þetta.  Rússneski herinn hefur reyndar reynzt vera mun lélegri en nokkurn óraði fyrir, reyndar her á bak við Pótemkíntjöld.  Þegar til á að taka er þetta að mestu gamli sovétherinn. Fjárveitingar til hersins hafa skilað sér illa vegna grasserandi spillingar.  

Það voru evrópskir kratar (sósíaldemókratar) með Willy Brandt, formann SPD (Sozialistische Partei Deutschlands) í broddi fylkingar, sem beittu sér fyrir þessari vanhugsuðu stefnu, "Wandel durch Handel" í "Ostpolitik" sinni.  Dæmigerður kratismi, áferðarfalleg stefna, en stórhættuleg, af því að hún var reist á röngum forsendum og skilningsleysi á eðli einræðisríkja, einkum í ríkjum rótgróinnar nýlendustefnu og heimsvaldastefnu, eins og í Rússlandi. 

Af einhverjum einkennilegum ástæðum hefur kratinn í kanzlarastóli núna, Olaf Scholz, neitað að horfast í augu við staðreyndir, þótt hann lýsti yfir vendipunkti í Reichstag skömmu eftir innrásina í Úkraínu 24.02.2022.  Kannski hefur hann hlustað á rússneskar hótanir um kjarnorkuárás á Berlín frá Kalíningrad (gamla Königsberg), ef Þjóðverjar dirfast að styðja þurfandi Úkraínumenn með öflugum vopnum, sem þeir hafa þrábeðið um. Hik og tafaleikir þýzku stjórnarinnar varðandi öflugan stuðning við Úkraínu frá Evrópuríki, sem hafði áunnið sér sess eftir algert og niðurlægjandi tap í Síðari heimsstyrjöldinni, er orðið óþolandi og vekur upp tortryggni í garð Þjóðverja undir kratískri forystu um fyrirætlanir þeirra, eftir að þeir hafa gert sig seka um barnalegt og algerlega óverðskuldað traust í garð rússneskra ráðamanna, sem leiddi til mikilla ófara.  Nú, 24.01.2023, 11 mánuðum eftir svívirðilega innrás Rússa í Úkraínu, hafur þýzka stjórnin loksins tekið af skarið með skilyrðislaust leyfi til afhendingar ótakmarkaðs fjölda (að því bezt er vitað) til Úkraínuhers af þeim 2000-3000 eintaka fjölda, sem til er af Leopard 2 skriðdrekunum í Evrópu. Ef minningar styrjaldanna við Rússa á 20. öld hafa hamlað ákvarðanatöku þýzku stjórnarinnar nú, ætti hún að minnast mikilla bardaga, sem háðir voru í Úkraínu 1941-1944, þegar Wehrmacht náði öllum helztu borgum Úkraínu á sitt vald, hernam allt landið og olli Úkraínumönnum stórtjóni. Margir Úkraínumenn börðust reyndar með Wehrmacht gegn Rauða hernum, enda voru misgjörðir Rússa á hendur Úkraínumönnum og nýlendukúgun þá þegar orðnar hrottalegar.   

Þessi skriðdrekategund, þýzki Leopard 2, er talin henta Úkraínuher bezt í viðureigninni við rússneska herinn.  Bandaríski Abrams-skriðdrekinn er að mörgu leyti talinn vera sambærilegur við Leopard 2A6, nýjustu tegund Leopard drekanna, sem Bundeswehr sendir senn til Úkraínu, en hann verður erfiðari í rekstri, krefst sérhæfðara viðhalds og brennir kerosen-þotueldsneyti í stað dísilolíu, sem knýr Leopard 2 og núverandi skriðdreka Úkraínuhers. Hann er knúinn þotuhreyfli, sem þolir illa ryk. Nú hafa Bandaríkjamenn lofazt til að senda Abrams-dreka til Úkraínu, en það var furðuskilyrði af hálfu Olaf Scholz, sem mun flækja mjög rekstur og viðhald skriðdrekasveita Úkraínuhers, en í nágrannaríkjunum verða sett upp verkstæði til að þjónusta þá.  Hann er þó ýmsu vanur í þeim efnum, og sennilega hefur aldrei nokkur her haft úr að spila jafnfjölbreytilegum hergögnum frá svo mörgum ólíkum framleiðendum og Úkraínuher nú.

Engir hafa meiri og dýrkeyptari reynslu af að fást við rússneska herinn en þýzki herinn.  Reichswehr barðist við keisaraherinn í 3 ár og Wehrmacht við Rauða-herinn í tæplega 4 ár.  Panther-skriðdrekinn var hannaður og smíðaður fyrir Wehrmacht til að fást við Rauða-herinn með sinn T-35 skriðdreka, sem Heinz Guderian, hershöfðingi í Wehrmacht, taldi þann bezta, sem smíðaður hafði verið fram að því. Ekki má heldur gleyma Tiger-drekunum þýzku.  Mesta skriðdrekaorrustu allra tíma fór fram við Kursk í sunnanverðu Rússlandi í júlí 1943. Heinz Guderian taldi áætlun þýzka herráðsins um þetta uppgjör Wehrmacht við mun fleiri rússneska skriðdreka en Wehrmacht og Waffen SS  höfðu yfir að ráða vera of áhættusama, og steininn tók úr, þegar þýzku sveitirnar voru veiktar með brottflutningum bryndreka til að mæta innrás Bandamanna á Ítalíu.  Eftir þessa bardaga við Kursk máttu þýzku vélaherdeildirnar sín lítils á austurvígstöðvunum, enda var þá helzti hugmyndasmiður Wehrmacht á þessu sviði hernaðar fallinn í ónáð hjá kanzlaranum. Fjöldinn segir ekki alla söguna.  Gæði búnaðar, þjálfun hermanna og stjórnkænska ráða för nú ekki síður en þá.  

Á dögum Kalda stríðsins æfði Rauði herinn, sem átti 20 k skriðdreka, framrás hersins vestur að Rín, og NATO taldi hættu á, að látið yrði reyna á þessar fyrirætlanir.  Í því skyni að stöðva þessa væntanlegu sókn þróuðu Þjóðverjar Leopard 1 skriðdrekann í framhaldi af reynslunni af skriðdrekum Wehrmacht, og síðan var hann uppfærður tæknilega í Leopard 2, sem er hannaður sérstaklega til að fást við rússneska skriðdrekann T-72, sem er uppistaðan í rússnesku skriðdrekasveitunum, og T-90, sem er seinni útgáfa. 

Þetta er ástæðan fyrir því, að Úkraínumenn leggja höfuðáherzlu á að fá um 300 stk. Leopard 2, og öll NATO-ríkin, nema Þýzkaland, Ungverjaland og e.t.v. Tyrkland, styðja það. Einörðust í stuðningi sínum eru NATO-ríkin, sem áður voru hernumin af Rússum, því að þau telja sig vita af biturri reynslu, að árásargjörn nýlendustefna Rússa muni beinast að þeim, eftir hugsanlegt fall Úkraínu og Moldóvu, sem þó verður vonandi aldrei.  Þar er um að ræða Pólland, Eistland, Lettland, Litháen, Finnland, Tékkland og  Slóvakíu.  Öll þessi ríki munu eiga Leopard 2 í vopnabúrum sínum og vera fús að láta hluta þeirra af hendi við Úkraínuher, þegar Þýzkaland afléttir viðskiptakvöðum af þessum tækjum.  Eftir fund Vesturveldanna í Ramstein-flugherstöð Bandaríkjahers í byrjun þorra 2023 ríkti bjartsýni um, að það ætlaði Þýzkaland að gera hið snarasta, en það hefur ekki verið staðfest fyrr en nú í dag, 24.01.2023, eftir símtal Bandaríkjaforseta við Þýzkalandskanzlara.    

Þessi kergja kratans Scholz og tvískinnungur stefndi í að senda Þýzkaland í skammarkrók Vesturveldanna.  Einangrun Þýzkalands yrði engum til góðs, nema árásaröflunum í Kreml.  Það hlyti að hrikta illilega í ríkisstjórnarsamstarfinu í Berlín, ef lengri dráttur hefði orðið á samþykki Olafs Scholz.  Hefðu orðið  stjórnarslit þar út af þessu, mundi krataflokkurinn SPD verða sendur í langa eyðimerkurgöngu, enda á stjórnmálaflokkur, sem rekur stjórnarstefnu, sem er stórskaðleg fyrir framtíð og öryggi Vesturlanda, ekkert erindi í valdastóla.  CDU bíður eftir að taka við stjórnartaumunum.  Kratar eru aldrei til stórræðanna.  

Það verður aldrei aftur sams konar ástand í Evrópu og ríkti frá falli ráðstjórnar kommúnistaflokks Rússlands og fram til innrásarinnar 24. febrúar 2022.  Það verður sett upp járntjald á landamærum Rússlands og viðskiptum við landið haldið í lágmarki, því að einræðisöflin þar munu ekki láta af þráhyggju sinni um útþenslu yfirráðasvæðis Rússlands.  Enginn annar hefur áhuga á slíku afturhvarfi sögunnar og afturför.  Þess vegna er öruggast að veita Úkraínu inngöngu í NATO, og umsókn landsins um aðild að ESB er í vinnslu í Brüssel og Kænugarði, eins og við sjáum nú á hreinsunum vegna spillingar í Kænugarði. Rússar geta engum um kennt, nema sjálfum sér.  Þeir reka hryðjuverkaríki, útlagaríki, sem engin áhrif á að hafa á það, hvernig Vesturveldin skipa varnarmálum sínum.

Á 19. öld hrifsaði Rússakeisari til sín stór landflæmi af Kínakeisara.  Ríkisstjórn kínverska kommúnistaflokksins hefur ekki gleymt þessum þætti sögunnar og mun sennilega með einhverjum hætti reyna að endurheimta þetta land og nýta þau tækifæri, sem bjóðast með breyttri stöðu heimsmálanna og veiku Rússlandi. 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727


Utan gátta

Loftslags-, orku- og umhverfisráðherra virðist vera haldinn þeirri meinloku, að Íslendingar séu að missa af lestinni, af því að þeir hafa ekki enn sett lög um vindmylluþyrpingar og ekki heimilað uppsetningu þeirra, þó að (erlendir) fjárfestar bíði í röðum eftir samþykki viðkomandi yfirvalda fyrir uppsetningu og rekstri slíkra orkuvera. Hvers vegna sýna þeir þennan áhuga núna ? 

Þeir kunna að sverma fyrir hærri nýtingu mannvirkjanna en algengt er annars staðar á landi vegna þess, hversu vindasamt hér er, en þá þurfa þeir að taka með í reikninginn viðhaldsþörf í sviptivindasömu landi og óvenju hátt rakastig, sem vafalaust mun valda meira ísingarálagi á spaða, legur og burðarsúlu en margir rekstaraðilar þessara mannvirkja eiga að venjast. Það er heldur ekki hlaupið að því að komast að til viðhalds og viðgerða stóran hluta ársins á mörgum þeirra staða, sem téðir fjárfestar hafa nú augastað á.

Er einhver markaður fyrir vindmyllurafmagn á Íslandi ?  Líklega treysta þessir fjárfestar á, að á Íslandi verði viðvarandi raforkuskortur, og þess vegna muni t.d. eigendur raforkuvera, sem háð eru vatni úr miðlunarlónum, grípa hvert tækifæri fegins hendi til að kaupa af þeim rafmagn og spara vatn. Ef hins vegar úrtöluraddir á sviði hefðbundinna íslenzkra virkjana verða ekki látnar komast upp með að virka eins og 5. herdeild spákaupmanna á sviði vindorku og hér verður í náinni framtíð staðið myndarlega að virkjun jarðgufu og vatnsafls, þá mun markaðurinn engan áhuga hafa fyrir vindorkurafmagni, sem er bæði ótryggt og dýrt og flækir fyrir beztun á rekstri íslenzka raforkukerfisins m.t.t. hámörkunar á nýtni við nýtingu orkulindanna. 

Noregur er vatnsorkuland, eins og hérlendis er kunnugt, en samt hafa verið settar þar upp vindmyllur í talsverðum mæli.  Þetta hefur valdið spjöllum á viðkvæmri náttúru í einu fegursta landi Evrópu. Þess vegna fer andstaða almennings þar í landi mjög vaxandi gegn þessari raforkuvinnslu, enda er hún að miklu leyti fyrir utanlandsmarkað.  Sömu sögu er að segja hvaðanæva að úr Evrópu, en þar eru landskortur og afleiðingar þrengsla víða drifkraftur mótmælanna.  Við hérlendis eigum að draga lærdóm af þessu, enda er þetta önnur meginorsök áhuga fjárfestanna fyrir Íslandi núna. 

Hér hafa ýmsar kenningar verið á lofti um, að sæstrengstenging við raforkukerfi Evrópu muni fylgja vindmylluþyrpingum á Íslandi og þá vísað til orkulöggjafar Evrópusambandsins í því sambandi.  Glöggur maður hefur leitt að því lögfræðileg rök, að innleiðing Orkupakka 3 á Íslandi haustið 2019 standist ekki lagalega, af því að sú löggjöf var þá úr gildi fallin hjá ESB og önnur, Orkupakki 4, tekin við.  Þá er mikilvægt að hafa í huga, að orkulöggjöf ESB gildir ekki lengur á Bretlandi, en þangað var jafnan mestur áhugi á að leggja aflsæstreng frá Íslandi. Sæstrengur til ESB-landanna er miklu dýrari framkvæmd, og raforkuflutningur þangað mun þýða mun meiri orkutöp og þar af leiðandi óhagkvæmari rekstur.  Að lokum er vert að benda á þann varnagla Alþingis við innleiðingu OP3, að löggjafinn áskildi sér rétt til að samþykkja eða hafna slíkri tengingu raforkukerfa. ESA hefur enn ekki gert athugasemd við þann varnagla.  Aflsæstrengur til Íslands er þess vegna mjög langsóttur (ólíklegur), en lífseigur efniviður samsæriskenningasmiða.  

Þann 30. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu frétt af viðtali við ráðherra, sem virðist ekki átta sig á afleiðingum þess fyrir íslenzkt þjóðfélag og náttúru landsins, ef stjórnvöld nú ætla að reiða sig á vindorku til raforkuöflunar fyrir hagkerfi í vexti, og sem þar að auki stendur nú frammi fyrir orkuskiptum, sem reist verða á raforku úr sjálfbærum orkulindum.  Fréttin bar lævísan titil, ættaðan frá sama ráðherra:

"Nærumhverfið njóti ávinnings".

Hún hófst þannig:

"Vinna starfshóps, sem ætlað er að undirbúa nýjar reglur (svo !) um nýtingu vindorku, gengur vel að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.  Jafnframt er unnið að því í 2 öðrum hópum að bera saman reglur í nokkrum öðrum löndum og kanna, hvar hægt er að reisa vindorkuver á hafi.  Ætlazt er til, að starfshópurinn skili tillögum í formi draga að lagafrumvarpi fyrir 1. febrúar [2023]."

Með öðrum orðum vinnur ráðherra nú að undirbúningi þess að ryðja vindorkuþyrpingum leið inn í íslenzkt samfélag og ferst verkið óhönduglega.  Í stað þess að kynna sér rækilega kosti og galla, þ.e. reynsluna af vindorkuverum í nokkrum löndum, þá er farið yfir regluverkið, þótt það hafi gefizt misjafnlega og víða leitt til harðrar gagnrýni.  Að taka raunstöðuna fyrst í mismunandi löndum er nauðsynlegur undanfari þess að semja regluverk um vindmyllur fyrir Íslendinga.  Svona vinnubrögð hafa mjög lítið forvarnargildi og eru ógæfuleg. 

Það er með ólíkindum að setja í gang vinnu á vegum ríkisins til að opna fyrir umsóknir um leyfi til uppsetningar og rekstrar vindmylluþyrpinga á hafi úti.  Þetta eru mengandi fyrirbæri, sem útheimta mikið viðhald og munu verða annarri umferð til trafala, aðallega fiskiskipum.  Frá Noregi sýna rannsóknir, að sjávardýr safnast að þessum mannvirkjum, og áhrif hávaðans frá vindmylluspöðunum á sjávardýrin hafa ekki verið fullrannsökuð.  Vegna gríðarlegs kostnaðar við þessa gerð raforkuvinnslu verður aldrei neinn markaður hérlendis fyrir rafmagn frá vindmyllum á hafi úti.  Ef ætlunin er að flytja rafmagnið utan, bætist við hár flutningskostnaður, sem útilokar samkeppnihæfni slíks verkefnis.  Ráðuneytið er algerlega úti á túni með þessa undirbúningsvinnu sína.  Hvað er þetta ráðuneyti að gera til að auðvelda samþykktarleið hefðbundinna íslenzkra virkjana, t.d. vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum, sem eru Vestfirðingum og öllu raforkukerfinu nauðsynlegar ?  Er ekki vitlaust gefið í fílabeinsturninum ?

"Nú er verið að undirbúa fjölda vindorkuvera, allt að 40 á mismunandi stigum, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær.  Stöðugt bætast við áform, en framkvæmdir stranda á því, að stjórnvöld hafa ekki sett sér stefnu.  Guðlaugur Þór bendir á, að enginn hafi heimild til að fara í framkvæmdir, nema að undangengnu mati í rammaáætlun. Þess má geta, að 2 vindorkugarðar Landsvirkjunar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, Búrfellslundur og Blöndulundur, en engir aðrir.  Landsvirkjun undirbýr byggingu beggja vindorkugarðanna og hefur sótt um virkjanaleyfi fyrir Búrfellslund." 

Það er eftir öðru í ríkisbúskapinum, að stærsta fyrirtækið á raforkumarkaðinum hérlendis, ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, ætli nú að ríða á vaðið og innleiða í íslenzka náttúru og samfélag mannvirki til raforkuöflunar, sem eru mengandi og standast engan samanburð við hefðbundnar íslenzkar virkjanir, hvað landþörf á uppsetta afleiningu og hagkvæmni snertir. Ef þessi áform verða að veruleika, þýðir það, að orkuöflunin verður miklu ágengari við náttúru og mannlíf en nokkur þörf er á, og uppátækið mun valda hækkun á raforkuverði í landinu og flækja rekstur raforkukerfisins t.d. m.t.t. til hámarks nýtni búnaðar. 

"Guðlaugur Þór segir, að aðrar þjóðir hafi nýtt vindorku lengi.  Gott sé að geta lært af reynslu annarra um það, hvað hafi gengið vel og hvað miður.

Eins þurfi að kortleggja möguleika á að byggja upp vindorkugarða á hafinu við landið.  Að þessu sé unnið samhliða vinnu 3 manna starfshóps, sem gera muni tillögur um umhverfi vindorkunnar í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar." 

 Ef ráðherra vill ekki hætta á að fara í geitarhús að leita ullar, ætti hann að byrja á að spyrja "aðrar þjóðir", hvort þær hafi haft yfir að ráða gnótt annars konar endurnýjanlegra orkulinda til að virkja í þágu orkuskipta og vaxtar þjóðar og atvinnulífs næstu 3 áratugina, þegar þær hófu að virkja vindinn.  Líklegast verður svarið neitandi, og þar með má strax álykta, að aðstæður á Íslandi séu ósambærilegar þessum öðrum löndum.  Þessi undirbúningsvinna á vegum ríkisins er unnin fyrir gýg.  

Að undirbúa vindmylluþyrpingar úti fyrir strönd Íslands er sömuleiðis gagnslaust verkefni, því að þær munu jafnan valda umferð á sjó trafala, t.d. fiskiskipa, og áhrifin á lífríkið eru lítt rannsökuð.  Raforka frá þessum orkuverum er svo dýr, að í fyrirsjáanlegri framtíð verður enginn innanlandsmarkaður fyrir hana, og flutningurinn til útlanda á þessari orku ylli heildarkostnaði fyrir þessa raforku þangað komna, sem mundi gera hana ósamkeppnisfæra þar.

"Guðlaugur telur, að horfa þurfi til fleiri þátta við reglusetningu fyrir nýtingu vindorkunnar en gert er í ferli rammaáætlunar.  "Það liggur fyrir, að hvaða leið, sem við förum, verða leyfi fyrir vindorkuorkugarði aldrei veitt án umræðu og vonandi verður búið þannig um hnútana, að rödd þeirra, sem næst búa, heyrist.  Ég tel mikilvægt, að nærumhverfið fái að njóta þess efnahagslega, þegar vindorkugarðar rísa", segir Guðlaugur Þór."  

Íbúar í þeim sveitarfélögum, þar sem áform um vindmylluþyrpingar hafa verið kynnt, hafa vissulega margir hverjir tjáð skoðun sína, og stór hluti íbúanna hefur lagzt gegn þessum áformum.  Að veifa pokaskjatta með silfurpeningum í breytir varla miklu, því að í mörgum tilvikum hafa íbúarnir einmitt áhyggjur af neikvæðum fjárhagslegum afleiðingum fyrir þá atvinnustarfsemi, sem fyrir er, og af verðfalli eigna sinna á áhrifasvæði vindmylluþyrpinganna.  Það er þess vegna ekki sérstaklega skynsamlegt af ráðherranum að fara inn á þessa braut.  

 

 

 

 

 

 

 

         

  


Orkustofnun og ríkisstjórnin ganga ekki í takti

Orkustofnun sýndi af sér sleifarlag við meðhöndlun umsóknar Landsvirkjunar um virkjunarleyfi í Neðri-Þjórsá fyrir Hvammsvirkjun. Forstjóri hennar lofar bót og betrun, en mey skal að morgni lofa. Hiklaust má telja afgreiðsluna hafa dregizt úr hömlu um 1 ár, og það hefur tæplega kætt umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem alvöruþrunginn nýtir hvert tækifæri til að leggja áherzlu á markmið ríkisstjórnarinnar um 55 % minni losun koltvíildis út í andrúmsloftið hérlendis en 2005 árið 2030. Þetta markmið Katrínar Jakobsdóttur & Co. var glæfralegt og mun ekki nást, ef svo fer fram sem horfir. 

Tíminn hefur verið notaður hrottalega illa til að vinna að þessu markmiði, og rétt einu sinni eru hégómagjarnir stjórnmálamenn staðnir að verki.  Þeir setja þumalfingurinn upp í loftið og setja síðan einhverja prósentutölu á blað án þess að hafa hugmynd um, hvað það kostar að ná markmiðinu, og engin fullnægjandi áhættugreining fylgir.  Afleiðing þessarar sýndarmennsku er, að nú stefnir í dúndrandi neikvæða niðurstöðu árið 2030, enda hefur meginforsendan fyrir árangri algerlega brugðizt með þeirri afleiðingu, að Vestfirðingar neyðast til að brenna olíu, þegar Vesturlína verður straumlaus eða vatnslítið er í Þórisvatni í vetrarbyrjun.  Vestfirðingar vilja virkja vatnsföll sín, en afturhaldsöfl, ekki sízt í VG, flokki forsætisráðherra og fyrrverandi umhverfisráðherra, þvælast fyrir, og hvorki stjórnvöld né Alþingi hafa veitt þeim þann stuðning enn, sem dugar. Téð meginforsenda er auðvitað verulega aukið framboð tryggrar og "grænnar" raforku í landinu.  

Ráðherra orkumála ætlar í vetur að búa til lagaramma fyrir vindorkuver, en það eru tiltölulega frumstæð, landfrek og mengandi mannvirki, sem við höfum ekkert við að gera í þessu landi, enda raforka frá vindmylluþyrpingum hvorki trygg né "græn".  Virkjanamálin hérlendis virðast þannig vera í öngstræti (gíslingu), og er beðið eftir Alexander mikla til að höggva á þann Gordíonshnút.  Það verður að hraða undirbúningi hefðbundinna íslenzkra virkjana, vatnsfalla og jarðgufu, svo að einhver von sé til að ná markmiðinu, sem forsætisráðherrann kynnti keik í upphafi þessa áratugar.  Það er ein af þverstæðum þessa forsætisráðherra, að þingflokkur hennar dregur sífellt lappirnar í virkjanamálum og eyðileggur þar með markmið forsætisráðherrans.  

Þessi tvískinnungur veldur því, að Orkustofnun er  vorkunn, þótt hún viti ekki í hvora löppina hún á að stíga, þegar kemur að því að spá fyrir um eldsneytisnotkun landsmanna 2040. Hún hefur ekki reynzt vera í færum til að mata orkuspálíkan sitt á gögnum, sem gefa lægri útkomu en 600 kt af olíunotkun árið 2040, sem jafngilda um 1900 kt af CO2.  Þetta hlýtur að virka sem einn á lúðurinn fyrir ríkisstjjórnina, enda hefur hún engar dugandi mótvægisaðgerðir uppi í erminni.  Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, SI, getur ekki stillt sig um að núa henni þessu um nasir. Þessu gerir Fréttablaðið grein fyrir 28. desember 2022 undir fyrirsögninni:

 "Orkuskiptum ekki náð í tæka tíð".

Í fréttinni stóð m.a.:

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir þetta undarlegt ósamræmi:

"Það finnst mörgum skrýtið, að grunnspá, sem opinber stofnun eins og Orkustofnun setur fram, skuli ekki gera ráð fyrir því, að markmið stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum náist.  Tala nú ekki um, þar sem markmið Íslands um kolefnishlutleysi eru lögbundin", segir Sigurður.

Hann telur það ekki góð skilaboð út í atvinnulífið og upplýsingarnar misvísandi:

"Ég get ekki ímyndað mér, að ríkisstjórnin sé ánægð með þessi vinnubrögð Orkustofnunar.  Allar fjárfestingar í atvinnulífinu taka mið af þessum markmiðum.  Fyrirtækin eru á fleygiferð við að tileinka sér nýja tækni, sem tekur mið af breyttum orkugjöfum.  Þetta eru mjög kostnaðarsamar aðgerðir.  Það er því alger grunnkrafa, að tímasett markmið standi", segir Sigurður og telur tímann þegar orðinn nauman, ef áform um orkuskipti eigi að ganga eftir."

Engum vafa er undirorpið, að orkuskipti útheimta miklar fjárfestingar hjá fyrirtækjum og heimilum.  Heimili hafa fengið afslátt opinberra gjalda við að fjárfesta í nýjum rafmagnsbíl, en ríkissjóður hefur ekki, svo að hátt fari, veitt fyrirtækjum sérstakan skattaafslátt fyrir fjárfestingar í aðgerðum, sem eru undanfari orkuskipta, enda er það mála sannast, að ríkisvaldinu hefur mistekizt að skapa grundvöll fyrir nýjar, almennilegar virkjanir, sem gætu framleitt raforku fyrir rafeldsneyti, sem leyst geti jarðefnaeldsneytið af hólmi.  Það vantar nýjar virkjanir, og vindmyllur eru gjörsamlega ótækar af kostnaðarlegum og landverndarlegum ástæðum.  

Orkustofnun hefur áreiðanlega ekki ætlað sér að grafa undan vilja fyrirtækjanna í landinu til orkuskipta með sinni orkuspá, sem reist er á líkani, sem aðeins er hægt að mata með raungögnum, en ekki draumórakenndu gaspri stjórnmálamanna um framtíðina.  Orkumálastjóri varpaði ljósi á þetta með vel uppsettri ritsmíð í Morgunblaðinu á gamlaársdag 2022.  Halla Hrund Logadóttir nefndi ritsmíð sína:

"Íslendingar leiðandi þjóð í orkuskiptum".

Þar stóð m.a.:

"Ein af sviðsmyndunum, sem kynntar voru við útgáfu líkansins, var nauðsynlegur orkuskiptahraði í vegasamgöngum.  Þar kom m.a. fram, að til að ná lágmarksskuldbindingum okkar í loftslagsmálum í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisins þyrfti nýskráningarhlutfall rafknúinna fólks-, bílaleigu- og sendibíla að vera í kringum 100 % [tæplega 100 %, þetta hlutfall getur ekki farið yfir 100 %-innsk. BJo] strax árið 2025, sem skiptir máli að hafa í huga við þróun ívilnana og löggjafar." 

Þetta er kýrskýrt.  Orkuskiptin eru á eftir áætlun ríkisstjórnarinnar, og það er langsótt að áfellast Orkustofnun fyrir það.  Ríkisstjórnin gaf þessa áætlun út, og hún var allt of brött, hreinlega óraunsæ í ljósi eðlis málsins.  Orkuskipti gerast ekki eins og hendi sé veifað.  Það er tregða í þessu ferli af ýmsum ástæðum.  Í fyrsta lagi er tæknin alls ekki tilbúin.  Í öðru lagi útheimta orkuskipti miklar fjárfestingar og í þriðja lagi er sálfræðilegi eða tilfinningalegi þátturinn.  Mönnum finnst sumum hverjum þeir renna blint í sjóinn að skipta um orkugjafa. Það er glapræði af ríkisstjórninni að hundsa alla þessa þætti, en láta hégómagirni og fordild einstakra sveimhuga í ráðherrastólum ráða för.  Sennilega hefur bleyttur þumall ráðherranna gefið þeim ártöl við markmiðasetningu, sem eru áratug á undan því, sem raunhæft má telja.  Þessi grobbiðja ráðherra VG mun að líkindum flækja landsmenn í háar sektargreiðslur til Evrópusambandsins eða kaup á rándýrum koltvíildiskvóta á heimsmarkaði fyrir mismun markmiðs og raunar í t CO2 talin. Ábyrgðarleysi vinstri hreyfingarinnar græns framboðs ríður ekki við einteyming. 

 


Af verkalýðsbaráttu

Birtingarmynd átakanna innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) fyrir þing samtakanna haustið 2022 og furðuleg framganga fáeinna verkalýðsforkólfa á þinginu sýna, að maðkur er í mysunni hjá verkalýðshreyfingunni. Forseti ASÍ hraktist úr starfi og þingið lamaðist og var frestað við útgöngu allmargra þingfulltrúa. Formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) virtist standa í baráttu við Seðlabanka Íslands (SÍ) út af stýrivaxtahækkunum.  Hann rak kjánalega auglýsingaherferð gegn SÍ, og af viðbrögðum formanns VR við vaxtahækkun í kjölfarið að dæma virtist hann fara á límingunum við það og hafa ímyndað sér, að hann gæti fjarstýrt SÍ með rándýrri auglýsingaherferð með góðum leikurum.  Þessi sami formaður, sem yfirleitt tuðar tóma vitleysu um peningamál og efnahagsmál, virtist svo verða fyrir svo alvarlegu andlegu áfalli á ASÍ-þinginu vegna undirtekta við framboð sitt til forseta ASÍ, að hann hætti við framboðið og gekk út af þinginu.  Allt er þetta svo vanþroskuð og vanstillt framkoma hjá formanni stórs verkalýðsfélags, að engu tali tekur.  

Nú hafa stefnumarkandi kjarasamningar á milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og samflots verkalýðsfélaga náðst.  Þar reið formaður Verkalýðsfélags Akraness (VA), sem jafnframt er formaður Starfsgreinasambandsins, á vaðið, en hann hefur áður sýnt færni sína og þekkingu við samningaborðið.  VR og Efling skáru sig úr þessu samfloti, þótt formenn þessara félaga virtust hafa samflot með formanni VA á ASÍ-þinginu.  Leit formaður VA á yfirlýsingar þeirra í kjölfar samninganna, áður en atkvæðagreiðsla um þá fór fram, sem rýtingsstungu í bakið.  Sýnir þetta baneitrað andrúmsloft í hreyfingunni, og nú hefur Efling slitið samningaviðræðum við SA hjá Ríkissáttasemjara (RSS).  Fordæmir formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir (SAJ) RSS og ber hann þungum sökum. Í raun þarf að auka völd RSS til jafns við það, sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Hann þarf að hafa vald til að fresta stöðvunaraðgerðunum á vinnumarkaði með miðlunartillögu, sem verður að greiða atkvæði um í almennri atkvæðagreiðslu í félögum deiluaðila.  Þá þarf hann að geta úrskurðað, að kjaradómur, sem deilendur og RSS skipa fulltrúa í, bindi enda á deilur í eitt ár í senn. 

Formaður Eflingar fer auðveldlega í fórnarlambshlutverkið og heggur þá í allar áttir, virðist uppsigað við alla í kringum sig, sem ekki lúta henni í einu og öllu, enda hefur hún verið dæmd af Félagsdómi fyrir óleyfilegar uppsagnir, m.a. trúnaðarmanns, á skrifstofu Eflingar. 

SAJ virðist sækjast eftir illindum, enda réðist hún á Alþingishúsið haustið 2008. Nú klæðir hún þjóðfélagshatur sitt í búning verkalýðsbaráttu og þykist vera að sækja fé í greipar auðvaldsins kúguðum verkalýð á höfuðborgarsvæðinu til handa og telur hann eiga rétt á hærri launum en starfsbræður og -systur annars staðar á landinu.  Í reynd sagar hún greinina, sem félagar í Eflingu sitja á, frá stofninum. Þetta er ekki verkalýðsbarátta fyrir 5 aura.  Þetta er skemmdarverkastarfsemi til að þjóna erfiðri lund SAJ.  

Þann 15. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu ágætisgrein eftir aðalsamningamann SA og framkvæmdastjóra samtakanna, Halldór Benjamín Þorbergsson undir fyrirsögninni:

"Traust er þungavigtarhugtak".

Hún hófst þannig:

"Samtök atvinnulífsins hafa undirritað kjarasamninga við samflot verkafólks, verzlunarmanna og iðnaðarmanna, hringinn í kringum landið.  Samningar hafa náðst við 80 þúsund manns með stefnumarkandi kjarasamningum, sem leggja grunn að öllum kjarasamningum í þessari samningalotu, bæði á almennum og opinberum markaði.  Engin verðmæti verða til við undirritun kjarasamninga.  Kjarasamningar snúast um að skipta þeim verðmætum, sem verða til í atvinnulífinu.  Því er afar mikilvægt, að gætt sé sanngirni og samkvæmni í þeim kjarasamningum, sem gerðir eru.  Trúnaður Samtaka atvinnulífsins er gagnvart fólkinu í landinu.  Þau, sem semja við SA, verða að geta treyst því, að þær meginlínur, sem samflotskjarasamningar marka, verði varðar af SA.  Þar er trúverðugleiki SA sem stærsta samningsaðila á landinu að veði."

Á meðan atvinnurekendur hafa falið samtökum sínum, SA, að semja fyrir sig í stað þess, að hvert fyrirtæki semji við sína starfsmenn, þá er samflot verkalýðsfélaganna líka eðlilegt, og ef ekki er viðurkennt og virt, að slíkir samningar séu stefnumarkandi, þá er voðinn vís á vinnumarkaði og hætt við, að hann "springi í loft upp".  SAJ hefur skynjað þetta og eygir nú tækifæri til að gera verulega illt af sér. Hún hefur enga samúð með starfsfólki, eins og ólögleglar uppsagnir hennar á starfsfólki Eflingar sýna, heldur etur hún félögum í Eflingu á foraðið og telur þeim trú um, að þeir muni hafa eitthvað upp úr því. Reynslan gefur hins vegar til kynna, að verkfall í þágu höfrungahlaups eykur alls ekki kaupmátt til lengdar.  Þá hefðu hinar Norðurlandaþjóðirnar þegar fetað þá braut. Heilbrigð skynsemi mælir gegn verkfallsaðgerð til að koma af stað höfrungahlaupi, þegar stefnan á vinnumarkaði er að gera skammtímasamning, og eitt er víst, að fyrirtækin, sem fyrir barðinu verða á verkfallsvopninu, munu standa veikari eftir en ella og þar með vera verr í stakkinn búin til að standa í samkeppni og að hækka laun starfsmanna sinna.  Afleiðingarnar geta orðið alvarlegar fyrir fyrirtækin og traust þeirra á mörkuðum, sem þau keppa á, og fyrir þjóðarbúið í heild, t.d. missir gjaldeyristekna. 

Staksteinar Morgunblaðsins gerðu kjaramálin að umræðuefni á gamlaársdag 2022 undir fyrirsögninni: 

"Óvenjulegar kjarabætur".

Þar stóð m.a.:

"Staðan er líka þannig hér á landi, að óvenjulega háu hlutfalli af verðmætasköpun er varið í launakostnað.  Hlutfallið er raunar orðið svo hátt, að efasemdir hljóta að vakna um, að það geti haldið til lengdar, en nefna má, að þetta hlutfall hefur verið hæst hér á landi allra Norðurlandanna árum saman."

 Í raun og veru er þetta kjarni málsins í allri rökfastri kjaraumræðu.  Verði þetta hlutfall svo hátt, að ósjálfbært sé, minnkar ekki aðeins það, sem eigendurnir, hluthafarnir, fá í sinn hlut, heldur fara fyrirtækin þá að éta sig innan frá, þ.e.a.s. þau hafa ekki lengur getu til að fjárfesta, t.d. í framleiðniaukningu.  Þetta þýðir, að samkeppnishæfni þeirra versnar og þau verslast upp. 

"Þá er áhugavert, að á sama tíma og kaupmáttur rýrnar í samanburðarlöndum, er gert ráð fyrir áframhaldandi og jafnvel umtalsverðri kaupmáttaraukningu taxtalauna hér á landi í þeim skammtímasamningum, sem flestir hafa nú undirritað."

Hér yrði um einstakan árangur hagkerfisins íslenzka að ræða, ef spáin rætist, og hann veltur alfarið á því, hvort fyrirtækjunum upp til hópa tekst að auka framleiðni sína á þessu ári.  Þegar hlutfall launa af verðmætasköpun er komið í 65 %, eins og hér er, er kaupaukning umfram framleiðniaukningu ávísun á fölsk verðmæti á pappír, sem munu fljótlega gufa upp.  Ábyrgir verkalýðsforingjar vita þetta og haga sinni kröfugerð við samningaborðið samkvæmt því, en hinir, t.d. SAJ, setja upp hundshaus gagnvart slíkri röksemdafærslu og kjósa að lifa í eigin blekkingaheimi, en það verður fyrr en seinna á kostnað umbjóðenda þeirra og alls samfélagsins.

"Tekst að viðhalda þessum árangri ?  Það fer mjög eftir því, hvort raunsæi eða innantóm gífuryrði ráða för."

SAJ hótar nú að sprengja upp þann árangur, sem náðst hefur í þessari kjarasamningalotu.  Hún snýr öllu á haus í því sambandi, býr til úr sér fórnarlamb, sem útilokað hafi verið frá samfloti Starfsgreinasambandsins, á meðan öðrum er ljóst, að hún sagði Eflingu úr þessu samfloti.  Hún telur síðan yfirgang í því fólginn að "troða" samningum, sem aðrir gerðu, upp á sig og sitt félag, en hún þorir ekki að fara þá einu lýðræðislegu leið, sem við blasir, að leyfa félagsmönnum Eflingar að greiða atkvæði um þennan kjarasamning.  


Sjúk fjölmiðlun

Íslenzkur fjölmiðlamarkaður er afar óeðlilegur, og þar er steinrunnu ríkisvaldi um að kenna.  Það er alltaf ólíðandi, þegar ríkisvaldið er í bullandi samkeppni við einkaframtakið á markaði, sem í eðli sínu er samkeppnismarkaður, og engin brýn þörf lengur fyrir beina eða óbeina (opinbert hlutafélag) veru ríkisvaldsins þar.  Það er réttlætismál og í anda EES-samningsins að jafna samkeppnisstöðuna með því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og að gera allar auglýsingar jafnar fyrir skattalögunum óháð gerð miðils og eiganda hans. 

Jafnframt yrðu umsvif ríkisfjölmiðilsins minnkuð til muna.  Það ættu að vera hámarksumsvif ríkisins að reka eina sjónvarpsrás, eina útvarpsrás og einn vefmiðil. Fréttastofa "RÚV" er kapítuli út af fyrir sig. Þar ríkir svo hrottaleg vinstri slagsíða, að segja má, að lítilsvirðandi framkoma og mismunun gagnvart þeim, sem fréttamenn virðast telja til pólitískra andstæðinga sinna, skeri í augun (og eyrun). Síðan skal vart bregðast, að farið er silkihönzkum um sósíalistana, afglöp þeirra og spillingu, t.d. í borgarstjórn. 

Fréttastofa "RÚV" rekur fyrirbæri, sem hún kallar rannsóknarblaðamennsku undir heitinu Kveikur, en á mjög lítið skylt við vönduð vinnubrögð, sem einkennast af umfangsmikilli og gagnrýninni heimildarvinnu.  Undir þessu falska flaggi hafa fúskarar "RÚV" hvað eftir annað reynt að koma höggi á atvinnurekstur í landinu og reynt að sá ómældri tortryggni í hans garð.  Málflutningurinn einkennist síðan af drýldni og innantómri sjálfsupphafningu.  Alræmdasta atlagan hingað til er að Samherja, og hún hefur algerlega runnið út í sandinn.  Það ætti að jafngilda dauðadómi yfir þessu þáttarskrípi, Kveik, en áfram skröltir hann þó á kostnað skattborgara.

Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um Namibíumálið 19. desember 2022 með tilvísunum í Pál Vilhjálmsson:

"Páll Vilhjálmsson skrifar um Namibíumálið, sem oft hefur verið kallað Samherjamálið og olli um tíma töluverðu uppnámi."Enginn Samherjamaður er ákærður í Namibíu, og ekkert fyrirtæki útgerðarinnar er ákært fyrir mútur.  Helgi Seljan, verðlaunablaðamaður, hóf skáldskap um Samherja á RÚV og flutti iðjuna yfir á Stundina, þegar honum varð óvært á ríkisfjölmiðlinum", skrifar hann."

Þetta vitnar um djúpstæða glópsku og samvizkuleysi Helga Seljan.  Allur málatilbúnaður hans var reistur á sandi og á þess vegna ekkert skylt við rannsóknarblaðamennsku.  Hann virðist hafa misskilið málið frá upphafi, gefið sér forsendur um glæpsamlegt eðli viðskiptanna, sem til umfjöllunar voru, og vaðið sífellt lengra út í ófæruna til að sanna það, sem ekki var flugufótur fyrir.  Þessi vinnubrögð voru viðhöfð, á meðan téður Seljan var starfsmaður RÚV.  Ljótur er ferill fréttastofu þar á bæ. 

"Páll segir engan ákærðan fyrir mútur í Namibíumálinu, heldur umboðssvik, svindl, peningaþvætti og þjófnað.  Hann segir, að í þessu máli sé "Samherju brotaþoli.  Starfsmaður Samherja var blekktur til að borga peninga, sem áttu að fara í atvinnuuppbyggingu, fiskeldi.  Peningunum var síðan stolið.  Þetta stendur skýrum stöfum í ákæruskjalinu á bls. 58-59."

Hann bætir því við, að starfsmaður Samherja hafi verið "í góðri trú, þegar hann greiddi forstjóra opinberrar namibískrar stofnunar fyrir kvóta".  Hann hafi ekki getað vitað, að peningunum yrði síðan stolið."

Samkvæmt þessari rannsókn namibískra lögregluyfirvalda er Samherji ekki sökudólgurinn, eins og "rannsóknarblaðamennska" Helga Seljans, starfsmanns RÚV, leiddi getum að til að þjóna lund sinni og ólund í garð þessa fyrirtækis. Krossfarinn, sem þótzt hefur fletta ofan af spillingu íslenzkra fyrirtækja, stendur nú uppi í hlutverki riddarans sjónumhrygga, sem bjó til forynjur úr vindmyllum og barðist við þær við lítinn orðstír.

"Og Páll spyr, hvað Helga Seljan gangi til "með að ljúga upp ákæru í Namibíu um mútugjafir Samherja ?  Jú, orðstír og æra blaðamannsins er í veði.  Þegar rennur upp fyrir fólki, að allur málatilbúnaður Helga og félaga á RSK-miðlum er uppspuni og gróusögur, er fokið í flest skjól fyrir fréttagörpunum, sem umliðin ár hafa stundað skipulega fréttafölsun og veitt sjálfum sér verðlaun fyrir.""

Þetta er hrottaleg lýsing á ólöglegu og siðlausu atferli fréttamanna, sem sáu fjandann í hverju horni, þegar þeir litu til a.m.k. sumra íslenzkra fyrirtækja, sem vegnað hefur vel í harðri samkeppni um markaði, fjármagn og starfsfólk.  Að slíkt skuli gerast undir handarjaðri ríkisútvarpsins segir sína sögu um stjórnunina þar á bæ og brýna þörf á að snarminnka umsvif þessa opinbera hlutafélags, sem er þungt á fóðrum á ríkisjötunni.

  

 

 

 

  


Forgangsröðun Björns Lomborg

Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar og gistifræðimaður við Hoover stofnun Stanford-háskóla, hefur verið iðinn við að skrifa um meinlokurnar í stefnu stjórnvalda í löndum heimsins gagnvart því, sem þau nefna hlýnun heimsins. Á þessu hafa flestir skoðanir, en fáir djúpstætt vit á viðfangsefninu. Þess vegna er margt skrafað og skeggrætt án þess, að nokkur lausn sé í sjónmáli, enda tröllríður hræsnin húsum.

Er sú umræða að miklu leyti reist á sandi vegna þekkingarleysis og er þess vegna út og suður, blaður og fögur fyrirheit á fjölmennum ráðstefnum.  Þegar heim af þessum rándýru og koltvíildismyndandi ráðstefnum er komið, er lítið sem ekkert gert í málunum. Skyldu íbúar Norður-Ameríku, sem upplifðu fimbulkulda á eigin skinni í desember 2022, taka mikið mark á blaðri um heimsendaspádóma vegna hlýnunar andrúmsloftsins ? 

Enginn dregur í efa, að vaxandi styrk koltvíildis í andrúmslofti fylgir hlýnun, en það er ofureinföldun á flóknu fyrirbæri að halda því fram, að þetta eitt muni stjórna loftslagsbreytingum næstu áratuga.  Nefna má áhrif brennisteins frá eldfjöllum og mönnum, sem hefur kælandi áhrif, og að hækkað hitastig andrúmslofts leiðir til aukinnar varmageislunar út í geiminn samkvæmt lögmáli Max Plank um samband hitastigs efnis og geislunarafls frá því.  Líkön IPCC gefa miklu hærri útkomu á hitastigi en síðan hefur reynzt vera raunin samkvæmt nákvæmustu fáanlegu mælingum, sem t.d. dr John Christy, "director of the University of Alabama/Huntsville´s Earth System Science Center, ESSC", hefur birt og lagt út af. 

Þann 20. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir téðan Björn og Jordan B. Peterson, prófessor emeritus við Toronto-háskóla, þar sem þeir leitast við að útskýra algert árangursleysi í loftslagsmálum m.t.t. til háleitra markmiða á heimsráðstefnum.  Greinin bar bjartsýnislega fyrirsögn:

"Vegurinn áfram: Ný framtíðarsýn".

Þar gat að líta m.a.:

"Árið 2015 gerðu leiðtogar heimsins tilraun til að takast á við höfuðvandamál mannkynsins [svo ?] með því að setja sér markmiðin um sjálfbæra þróun - 169 skotmörk, sem hæfð skyldu verða, þegar árið 2030 rynni upp.  Sá listi innihélt öll hugsanleg aðdáunarverð markmið: útrýmingu fátæktar og sjúkdóma, stöðvun styrjalda og loftslagsbreytinga, verndun líffræðilegrar fjölbreytni og bætta menntun."

Á ráðstefnum IPCC mæta tugþúsundir, og margir þeirra eru nestaðir að heiman með áhugamál, sem þeim finnst sér skylt að berjast fyrir, að fari inn á málefnaskrá ráðstefnunnar í lokin.  Örfáir eða engir ráðstefnugesta hafa hugmynd um, hvernig er skynsamlegast að koma málefnum sínum og markmiðum í höfn, þegar ráðstefnunni hefur verið slitið, og margir ráðstefnugesta hafa hætt sér út á hálan ís og vita lítið, hvað þeir eru að tala um.  Í öllu þessu felst skýringin á hinum vonlausa fjölda markmiða, sem samþykkt eru í lok ráðstefnunnar í kjölfar hrossakaupa og rifrildis um aukaatriði. 

Það verður hins vegar að hafa kvarnir í stað heila til að átta sig ekki á, að niðurstaðan af miklum fjölda markmiða er sú sama og af engu markmiði.  Af þessum sökum verður að álykta, að hugur fylgi ekki máli, ráðstefnan sé skrípaleikur, svífandi í tómarúmi, enda er eftirfylgnin ómarkviss.

Ráðstefnur IPCC breyta sáralitlu, en fjöldi manns er kominn á loftslagsspenann, og dómsdagsspámenn hræða stjórnmálamenn og almenning til að inna af hendi fjárframlög til að halda hringekjunni áfram.

"Árið 2023 er vegferðin hálfnuð, ef miðað er við tímabilið 2016-2030.  Hins vegar erum við langan veg frá því að vera hálfnuð með markmiðin.  M.v. stöðu mála munu þau nást hálfri öld síðar en ætlað var."

Hvað hið kjánalega loftslagsmarkmið frá 2015 varðar um helzt að halda hlýnun jarðar frá iðnvæðingu undir 1,5°C, en annars endilega undir 2°C, benda birtar hitamælingar IPCC til, að neðra markið náist ekki og jafnvel efra markið ekki heldur, en mælingar Johns Christy benda ekki til, að neðra markinu verði náð á næstu áratugum. 

Það er mjög erfitt fyrir jarðarbúa að tengja aðgerðir sínar við hitastigshækkun, sérstaklega fyrir þá, sem upplifa harðnandi vetrarkulda (Norður-Ameríka -48°C í desember 2022 og mannskaðaveður í kuldum í Japan líka). 

Þer líka erfitt fyrir íbúa hérlendis, að fá heila brú í talnaleik forsætisráðherra, nú síðast, að Íslendingar þurfi að draga úr losun koltvíildis um 55 % m.v. 2005. Losun Íslendinga er svo hlutfallslega lítil á heimsvísu, að engu máli skiptir fyrir hlýnun jarðar.  Þá er losun vegna orkunotkunar á mann ein sú minnsta, sem þekkist. Losun iðnaðarins á hvert framleitt tonn er sömuleiðis ein sú minnsta, sem þekkist.  Að rembast eins og rjúpan við staurinn með ærnum tilkostnaði við að bæta einn bezta árangurinn er einber hégómi og stafar af hégómagirnd stjórnmálamanna. 

"Því er það löngu tímabært, að við skilgreinum og forgangsröðum þeim markmiðum, sem mestu skipta.  Það er einmitt það, sem Kaupmannahafnarhugveitan (e. Copenhagen Consensus) hefur gert í samstarfi við nokkra Nóbelsverðlaunahafa og rúmlega 100 hagfræðinga í fremstu röð.  Hún hefur skilgreint á hvaða vettvangi hver króna getur gagnazt hve mest.

Við gætum, svo [að] dæmi sé tekið, flýtt því mjög að binda enda á hungur.  Þrátt fyrir að þar hafi aðdáunarverður árangur náðst síðustu áratugi, [fá] 800 milljónir manna enn þá ekki nóg að borða.  Á þeim vettvangi getur rannsóknarvinna hagfræðinga [og líffræðinga - innsk. BJo] lyft grettistaki."  

Gríðarlegum upphæðum hefur verið varið og er verið að verja í fáfengilega hluti eins og vindmyllur, þróun þeirra, smíði, uppsetningu og rekstur - allt saman í nafni loftslagsvandans, þótt þetta sé rándýrt, mengandi og landskemmandi fyrirbrigði.  Tólfunum er kastað, þegar myndir berast af úðun ísaðra vindmylluspaða með miður hollum ísvara. Gjörninginn ætti alls ekki að leyfa hérlendis í mengunarvarnarskyni.

Til að kóróna vitleysuna eru víðast reist gaskynt raforkuver með vegna óáreiðanleika raforkuvinnslu með vindorku.  Þetta er mjög óskilvirk ráðstöfun fjármuna og sorgleg í ljósi þess, að nýþróuð kjarnorkuver eru handan við hornið til að leysa orkuþörf heimsbyggðarinnar. 

"Okkur er í lófa lagið að færa verðandi mæðrum lífsnauðsynlega næringu.  Sá dagskammtur vítamíns og annarrar nauðsynlegrar fæðu kostar rúma USD 2 (ISK 283) á hverja manneskju.  Með slíkri aðstoð þroskast heili fóstursins örar, sem síðar á ævinni skilar sér í meiri velmegun.  Hver USD, sem varið er í það, svarar þannig til andvirðis USD 38 (ISK 5371) af félagslegum gæðum.  Hvers vegna gerum við þetta ekki ?  Vegna þess að í viðleitni okkar til að gera öllum til hæfis verjum við litlu fé í hvern þátt og yfirsjást um leið nytsamlegustu lausnirnar."  

Barátta ríkja heimsins gegn meintri loftslagshlýnun er í fæstum tilvikum rekin á skynsemisgrundvelli.  Ef svo væri hérlendis, mundu stjórnvöld hér lýsa því yfir, að þau telji of mikla umhverfisbyrði felast í uppsetningu vindmylluþyrpinga m.v. við samfélagslega ávinninginn, sem er neikvæður núna, af því að vindmylluþyrpingar munu leiða til hækkunar rafmagnsverðs hér.

Þá verði hætt við að moka ofan í skurði á kostnað hins opinbera, enda hafa verið færðar ófullnægjandi vísindalegar sönnur á einhlítan árangur slíkrar aðgerðar fyrir losun gróðurhúsalofttegunda.  Hins vegar virðast landgræðsla og skógrækt ótvírætt vera til bóta og vera hagkvæmar. 

Það er ennfremur skynsamlegt út frá loftslags- hagkvæmnisjónarmiðum að setja kraft í virkjanir hefðbundinna íslenzkra orkulinda jarðgufu og vatnsfalla.  Það er óskiljanlegt, að umhyggjan fyrir andrúmsloftinu og óttinn við hlýnun af völdum CO2 lendir miklu aftar í forgangsröðuninni hjá ýmsum en hégómleg fordild um, að þessar hreinu og endurnýjanlegu orkulindir náttúrunnar skuli ekki snerta, því að slíkt útheimti röskun á náttúrunni, þó að náttúrukraftarnir séu sjálfir sífellt að breyta landinu. 

Í lok greinarinnar skrifuðu þeir félagarnir Björn og Jordan þetta:

 "Eitt er þó algerlega augljóst: við verðum að gera það bezta fyrst.

Þar er hið eina sanna áramótaheit komið, og það er hvort tveggja persónulegt og alþýðlegt.  Með því er leiðin í átt til betra lífs vörðuð.  Látum göngu okkar feta þann veg, þegar við veltum því fyrir okkur, hvernig við ætlum að heilsa nýju ári."

Þann 20. desember 2022 birtist afar fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Hauk Ágústsson, kennara.  Hún bar fyrirsögnina:

"Hvað er vindmylla ?"

Til að gefa mynd af mengunarhættunni og auðlindanotkun vindmylluframleiðenda stóð þetta:

"Öxull, sem gengur út úr enda skýlisins, tengist gírkassa, sem stýrir snúningshraða rafalans.  Bremsubúnaður jafnar hraðann, auk þess sem spöðunum er stýrt í sama skyni.  Í þessum búnaði eru nokkur hundruð lítrar af sértækri smurolíu, sem fylgzt er með og skipt um u.þ.b. þriðja hvert ár.  Mörg dæmi eru um það, að olían leki. 

 Rafalinn er búinn síseglum (permanent magnets).  Í þeim eru fágæt jarðefni, skaðleg umhverfinu í framleiðslu og endurvinnslu eða eyðingu.  Þau eru að mestu unnin í Kína (um 90 %), sem er líka ráðandi í námi þeirra úr jörðu [t.d. í Afríku - innsk. BJo].  Í rafalanum og öðrum rafbúnaði er kopar (um 1500 kg) og ál (um 840 kg) - auk stáls.  [Magntölur eiga við 2 MW rafal - innsk. BJo.]  Í búnaðinum í tækjaskýlinu eru líka, samkvæmt Freeing Energy, um 20,5 t af steypujárni, rúmt 1 t af stáli og um 51 t af krómi.  

Rafbúnaður fellir rafmagnið, sem framleitt er, að raforkukerfinu, sem myllan tengist.  Búnaðurinn er í lokuðu rými og honum þjappað saman sem framast er unnt, sem veldur mikilli hættu á skammhlaupum.  Í rýminu er gjarnan [einangrunar] gas, sem kallast SF6 (Sulphur hexafluoride).  Það hefur afar litla rafleiðni, en er samkvæmt Norwegian SciTech News (2020) 22.000-23.500 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og hefur 3.200 ára líftíma [í andrúmsloftinu - innsk. BJo]. Þetta gas hefur sloppið út í verulegum mæli, t.d. í Þýzkalandi, og er orðið vel mælanlegt þar."

 Þessi upptalning ætti að sannfæra flesta um, að vindmyllur eru slæm fjárfesting til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda eða til að draga úr mengun á jörðunni.  Þá gefur nú auga leið, að þessi fjárfesting á alls ekkert erindi í íslenzka náttúru, því að hrun einnar vindmyllu, t.d. í óveðri, getur valdið  alvarlegu mengunarslysi og óafturkræfri mikilli losun gróðurhúsalofttegunda.  Hún er af allt annarri og miklu hærri stærðargráðu en t.d. losun sama magns af CH4 - metani, því að það er "aðeins" um 22 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og brotnar niður í andrúmsloftinu á um 50 árum.  

Hryllingssaga Hauks Ágústssonar um mengunarhættuna af vindmyllum heldur áfram:

"Til þess að ná [hámarks] styrk m.v. þyngd eru spaðarnir gerðir úr trefjaplasti; gler- eða kolþráðum, sem þaktir eru með epoxíresíni.  Á 2 MW Vestas-myllu vega þeir um 7 t hver.  Epoxíresín eru mikið unnið úr olíutengdum efnum með efnafræðilegum aðferðum.  Á 2 MW myllu er snúningsþvermál spaðanna um eða yfir 100 m, og hraðinn á spaðaenda getur náð vel yfir 200 km/klst.  Til að minnka mótstöðu eru spaðarnir húðaðir að utan.  Húðin slitnar af og berst út í umhverfið sem öragnir.  Spaðana er almennt ekki unnt að endurvinna.  Þeir eru því oftast urðaðir, þegar þeir eru orðnir ónothæfir."

Hér er um að ræða efni, sem ekkert erindi eiga inn í íslenzka náttúru og lífkeðju, því að þau eru sennilega torniðurbrjótanleg (frávirk) og safnast þess vegna upp í lífkeðjunni.  Hefur Umhverfisstofnun vit á að gera viðeigandi kröfur til þeirra efna, sem hver vindmylla getur dreift út í umhverfið í venjulegum rekstri og við slys ? 

Það er engin þörf á að dreifa þessum mannvirkjum um óspillt víðerni landsins hagkerfisins vegna, og þess vegna er engin áhætta ásættanleg.  Öðru máli gegnir um hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Fyrir þær er þörf, enda eru þær miklu hagkvæmari, og mengunarhættan af þeim er hverfandi í samanburði við þau ósköp, sem hér hafa verið upp talin, og landþörf á MW sömuleiðis mun minni. 

 

 

     


Niðurlæging höfuðborgarinnar

Það er alveg sama, hvar borið er niður.  Niðurlæging höfuðborgarinnar á þeim tíma, sem "good for nothing persons" undir forystu Samfylkingarinnar hafa verið þar við völd, er alger, og þessi sjálfhælna einskis nýta stjórnmálahreyfing, sem í krafti forsjárhyggju sósíalismans þykist vera í stakk búin að hafa vit fyrir öðrum, kann ekki fótum sínum forráð, þegar til kastanna kemur. 

Ef mótdrægir atburðir verða, sem krefjast skjótra og fumlausra viðbragða stjórnendanna, er það segin saga, að allt fer í handaskolum.  Samfylkingin er búin að ganga af stjórnkerfi borgarinnar dauðu.  Nú eru hæfileikasnauðir stjórmálamenn sem stjórnendur yfirgripsmikilla málaflokka látnir stjórna málaflokkum, sem öflugir embættismenn með fullt vald á tæknihliðum sinna málaflokka, stjórnuðu áður af röggsemi undir beinni stjórn borgarstjóra. Það er borin von um breytingar til batnaðar í borginni, á meðan ráðstjórnarfyrirkomulag Samfylkingarinnar er þar við lýði.   

Dæmi um þetta er embætti borgarverkfræðings, sem aflagt var, og við tók m.a. umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur.  Þetta er í anda gömlu sovétanna eða ráðanna, sem kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna raðaði sínu fólki í.  Hvernig fór fyrir Ráðstjórnarríkjunum ?  Þau hrundu 1991 vegna rotnunar innan frá.  

Eftir mikla snjókomu, hvassviðri og kulda helgina 18.-19. desember 2022 kom í ljós alvarleg brotalöm í snjómokstri borgarinnar.  Hún stóð sig miklu lakar en nágrannasveitarfélögin.  Var þá m.a. kallaður til útskýringa formaður ofangreinds ráðs borgarinnar, sem virtist vera nýdottinn ofan úr tunglinu og ekki vita í þennan heim né annan.  Varð þessari formannsdulu það helzt fyrir að leita blóraböggla utan borgarkerfisins, og urðu verktakar fyrir valinu og þvaðraði um handbók, sem væri í smíðum. Meiri verður firringin (fjarlægðin frá raunveruleikanum) ekki.  Allt er þetta eins lágkúrulegt og hugsazt getur.  

Lítið skánaði málið, þegar leitað var ráða hjá nýjustu mannvitsbrekkunni, sem inn í þetta sovétkerfi borgarinnar gekk eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar með slagorð á borð við breytum borginni, varð óðara formaður borgarráðs og á að taka við borgarstjóraembættinu af fallkandidatinum Degi B. Eggertssyni.  Verkvit væntanlegs borgarstjóra  lýsti sér mjög vel með þeirri uppástungu, að borgin skyldi kaupa nokkra pallbíla með tönn framan á.  Hjá borginni leiðir blindur haltan, og firringin er allsráðandi.  

Ekki verður hjá því komizt í kuldakastinu í desember 2022 að minnast á hlut Orkuveitu Reykjavíkur-OR og dótturfélaga í velferð íbúa höfuðborgarsvæðisins. Nýlega kom framkvæmdastjóri ON, dótturfélags OR, sem sér um orkuöflun og hefur algerlega látið hana sitja á hakanum undandarinn áratug, með spekingssvip í  fréttatíma sjónvarps allra landsmanna og boðaði þar þá  kenningu í tilefni vetrarkulda, að óskynsamlegt væri að afla heits vatns til að anna toppálagi hjá  hitaveitunni.  Þetta er nýstárleg kenning um hitaveituþjónustu fyrir almenning.  Tímabil með -5°C til -10°C, eins og var á jólaföstunni á höfuðborgarsvæðinu, getur varað vikum saman.  Ef ekkert borð er haft fyrir báru, eins og nú virðist vera uppi á teninginum hjá OR og dætrum, gerist einmitt það, sem gerðist í aðdraganda jóla, að ein bilun veldur svo stórfelldum vatnsskorti (20 %), að loka verður öllum útilaugum á höfuðborgarsvæðinu í 2 sólarhringa og hefði getað varað lengur.  Þetta er óboðleg stefna.  Miða á við s.k. (n-1) reglu, sem þýðir, að í kerfinu er borð fyrir báru til að halda uppi fullri þjónustu, þótt ein eining bili á háálagstíma.  Þá er líka nauðsynlegt svigrúm til fyrirbyggjandi viðhalds fyrir hendi á hverjum tíma. 

Hér gætir fingrafara Samfylkingarinnar, eins og alls staðar í borgarkerfinu.  Hún lætur borgarsjóð blóðmjólka OR til að standa straum af gæluverkefnum sínum og silkihúfum, en fórnar fyrir vikið hagsmunum íbúanna, sem ekki hafa í önnur hús að venda, nema að flytjast um set a.m.k. 50 km. 

Þarna er Samfylkingunni rétt lýst.  Hún smjaðrar fyrir almenningi og þykist allt vilja gera fyrir alla á kostnað sameiginlegra sjóða, en hikar ekki við að fórna hagsmunum almennings til að geta haldið uppi sukkinu, sem völd hennar í Reykjavík hvíla á. Stefna Samfylkingarinnar er reist á botnlausri skattpíningu og skuldasöfnun, sem er eitruð blanda, sem getur ekki gengið upp til lengdar, enda er nú komið nálægt  leiðarenda og allt í hönk.

Morgunblaðið gerði sorglegum stjórnarháttum Samfylkingarinnar verðug skil í forystugrein 20. desember 2022:

"Grátlegt að horfa upp á niðurlæginguna".

Hún hófst þannig:

"Það er sárt til þess að vita, hvernig komið er fyrir borginni okkar, höfuðborginni. Það er sama, hvert litið er. Hvernig gat þetta farið svona illa ?  Stóru málin sýna þetta og sanna.  Fjármál borgarinnar og þá ekki síður vandræðin í skipulagsmálum hennar.  Þetta tvennt er auðvitað nægjanlega yfirþyrmandi, enda mun hvert það sveitarfélag bágt, þar sem bæði fjárhagsstaða og skipulagsmál hafa verið keyrð í þrot af fullkomlega óhæfum stjórnendum, sem hafa ekki auga fyrir slíkum þáttum og sitja þó keikir í stólunum í Ráðhúsinu, sem þeir voru á móti því, að yrði byggt og þar með fyrir þeim, sem gætu gert betur, en aldrei verr."

Samfylkingin hefur eyðilagt stjórnkerfi borgarinnar með sovétvæðingu sinni, ráðsmennsku, og þar með varðað leið höfuðborgarinnar til glötunar.  Stjórnmálamennirnir, sem öllu ráða í ráðum borgarinnar, eru óhæfir stjórnendur; það er ekki ofmælt hjá ritstjóra Morgunblaðsins, enda sýna  verkin merkin.  Það er sama, hversu hæfir embættismenn eru ráðnir inn í svona kerfi.  Þeir fá ekki tækifæri til að njóta sín undir ráðunum, eins og samanburður á frammistöðu Véladeildar borgarverkfræðings forðum tíð og umhverfis- og skipulagssviðs nú í snjómokstri sýnir glögglega. 

Ritstjórinn vék að mannvitsbrekkunni, sem nú er afleysingaborgarstjóri og hefur valdið villuráfandi kjósendum Framsóknarflokksins ómældum vonbrigðum á undraskömmum tíma:

"En ásamt borgarfulltrúum minnihlutans hefur formaður borgarráðs, sem vann óvæntan sigur og hefur á örfáum mánuðum siglt með málefni borgarinnar úr öskunni í eldinn, látið óhæfan borgarstjóra, sem keyrt hefur fjármál og skipulagsmál í rjúkandi rúst, teyma sig út á berangur spillingur.  Allt er þetta með ólíkindum."  

Þeim mun verr gefast heimskra manna ráð, sem þeir koma fleiri saman, var einu sinni sagt, og það hefur berlega sannazt í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Það gafst afleitlega að fjölga borgarfulltrúum og hefur reynzt rándýrt.  Miðað við meginkosningaloforð Framsóknar í borginni hefur efsti maður listans reynzt ómerkur orða sinna.  Engin breyting til batnaðar hefur orðið á högum borgarinnar við komu hans í pólitíkina.  Hann lætur ferðaglaða lækninn teyma sig á asnaeyrunum, hvert sem er.

"En tilfallandi mál opinbera einnig stjórnleysi og aumingjadóm.  Og það gerði svo sannarlega snjóhríð og erfið átt, sem hvorugt var af verstu gerð, þótt slæmt væri.  Þegar í stað varð algerlega ófært um alla borg !  Ríkisútvarpið "RÚV" spurði mann hjá borginni, sem var sagður eiga að bregðast við atvikum eins og þessum, út í öngþveitið, sem varð.  Hann viðurkenndi aftur og aftur, að þetta hefði ekki verið nægjanlega gott, og var sú játning þó óþörf.  En hann bætti því við til afsökunar, að borgin hefði aðeins "tvær gröfur" - "TVÆR GRÖFUR", sem nota mætti í verkefni af þessu tagi, og hefðu þær ekki haft undan.  Engu var líkara en "RÚV" hefði farið þorpavillt og náð sambandi við 150 manna sveitarfélag úti á landi, þar sem alls ekki væri útilokað, að tvær gröfur hefðu getað hjálpað til að halda 200 m aðalgötu sveitarfélagsins opinni."

Það er deginum ljósara nú í skammdeginu, að viðbúnaðaráætlun borgarinnar gagnvart hríðarviðri er hvorki fugl né fiskur eða innleiðing hennar hefur farið fyrir ofan garð og neðan, nema hvort tveggja sé.  Við blasir ónýtt stjórnkerfi borgarinnar, enda er þetta ráðstjórn með silkihúfum stjórnmálanna, sem hefur safnað öllum völdum í sínar hendur og lagt sína dauðu hönd þekkingarleysis og ráðleysis á verkstjórn borgarinnar.  Tiltækur tækjafloti borgarinnar núna er miklu minni en á dögum borgarverkfræðings og gatnamálastjóra, sem áður fyrr voru ábyrgir fyrir snjómokstri í borginni undir yfirstjórn borgarstjóra.  Að venju, þegar eitthvað bjátar á, hvarf borgarstjóri, og mun Dagur hafa skroppið til Suður-Afríku.  Ráðstjórnarkerfi hans er ónýtt, og það verður að fleygja því á öskuhaugana áður en nokkur von getur vaknað um tök á þessum málum.  Síðan verður að ráða menn með bein í nefinu og verkþekkingu til að skipuleggja viðbúnað og framkvæma hann eftir þörfum.  Stjórnunarleikir silkihúfanna eru dramatískir sorgarleikir óhæfra leikara. 

Að lokum sagði í téðri forystugrein:

"Á meðan borgin var og hét og var ekki stjórnað af óvitum, þá hafði hún öfluga sveit Véladeildar borgarinnar, sem búin var beztu tækjum, sem völ var á í landinu.  Einatt, þegar von var atburða, eins og urðu í gær, þá færði borgarstjórinn í alvöru borg sig inn í höfuðstöðvar Véladeildar borgarinnar, sem var hið næsta höfuðstöðvum borgarverkfræðings, og fylgdist með viðbrögðum öflugra sveita fram eftir nóttu.  En nú þarf ekki annað en smáa snjósnerru og goluþyt, til að öllu sé siglt í strand í borg manna, sem treysta á 2 litlar gröfur í veðurneyð.

Niðurlæging borgarinnar í fjármálaólestri og strandi skipulagsmála, sem eru þó helztu afreksverk Dags. B. Eggertssonar, er bersýnileg, en þegar fjármálabrall leggst við umferðaröngþveiti, sem sífellt versnar, er orðið fátt um fína drætti."

Þetta er athygliverð frásögn fyrrverandi borgarstjóra um stjórnarhætti í skilvirku stjórnkerfi borgarinnar, eins og það var áður en vinstri menn rústuðu því og stofnuðu ráðin, þar sem stjórnmálamenn Samfylkingar og fylgifiska fara með öll völd án þess að hafa nokkra stjórnunargetu eða verksvit.  Borgarstjórinn móðgar ekki afæturnar í ráðunum með því að taka fram fyrir hendur þeirra og setja þar með hagsmunabandalag vinstri klíkanna í uppnám. Þó er til neyðarstjórn í borginni, þar sem borgarstjóri er í formennsku, en hún var ekki kölluð saman, þótt ástæða hefði verið til, enda borgarstjóri að spóka sig á suðurhveli jarðar. 

Menn taki eftir því, að hinir hæfu embættismenn, borgarverkfræðingur og gatnamálastjóri, sáu ástæðu til þess, að borgin réði sjálf yfir öflugum tækjaflota af beztu gerð.  Amlóðar Samfylkingarinnar og fylgitunglanna reiða sig hins vegar alfarið á verktaka án þess að hafa gengið frá almennilega öruggum samningum við þá.  Hvers vegna er dæminu ekki snúið við til öryggis og verktökum leigðar vélarnar með áhöfn á sumrin, þegar borgin þarf ekki á þeim að halda, en yfirleitt er törn hjá verktökum ?  Að auki þarf sérútbúnað, eins og snjóblásara, sem blása  snjónum upp á vörubílspalla, því að mikil vandræði myndast annars við heimreiðar aðliggjandi lóða og á gangstéttum.   

 

 

  

 


Er valdframsalið til ESA/ACER minni háttar ?

Hér verður áfram haldið með þýðingu á grein Mortens Harper, lögfræðings hjá samtökunum "Nei til EU", NtEU, um dóm Lögmannsréttarins í máli NtEU gegn norska ríkinu:

"Meginviðfangsefnið við mat á því, hvort valdframsal megi samþykkja samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 26.2 með einföldum meirihluta, eða hvort það útheimti 3/4 mættra þingmanna í meirihlutanum samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 115, er, hvort framsalið er minni háttar eða ekki.  Þetta hugtak er þó ekki tilgreint í stjórnarskrá Noregs, heldur hefur það þróazt í tímans rás, og hafa lögspekingar deilt um það.  Lögmannsrétturinn leggur til grundvallar s.k. kenningu um minni háttar valdframsal.  Um vald ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er eftirfarandi tilfært í dóminum:

"Þegar um er að ræða gerð valdframsals, er til umræðu framkvæmdavald á formi stjórnvaldslegs fyrirskipanavalds gagnvart rekstraraðila. Þetta er takmörkun á völdum framkvæmdavalds.  Það felur í sér, að eftirlits- og stjórnunarmöguleikar ríkisstjórnarinnar eru fjarlægðir.  Þetta hefur líka þýðingu fyrir eftirlit þingsins og ábyrgð gagnvart stjórnarskrá.  Lögmannsrétturinn telur samt sem áður, að þetta sé ekki kjarni formlegs valdframsals, þar sem samþykki norsku stjórnsýslustofnunarinnar RME þarf til að framkvæma og fylgja eftir ákvörðunum ESA gagnvart fyrirtækjum í Noregi.  (...)

Einkenni valdsins í raun leitar í sömu átt, þar sem tilgangurinn er ekki yfirþjóðleg stjórnun, heldur að reglunaryfirvöld landanna reyni að verða samstiga.  Úr þessu er samt dregið með því að fyrirkomulagið virkar næstum eins og kerfi til að skera úr um þrætur á milli reglunarstjórnvalda landanna." (Síður 34-35.) 

Löggmannsrétturinn skrifar enn fremur:

"Orkumarkaðspakki 3 reglar orkusviðið og viðskipti með rafmagn.  Þetta snertir þjóðfélagslega og stjórnmálalega hagsmuni með mjög mikla þýðingu. (...) Í heild hefur Orkumarkaðspakki 3 mikla þýðingu fyrir norska orkustefnu. 

Völd ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni eru hins vegar á sviði tæknilegra og faglegra viðfangsefna á rekstrarsviði og takmarkast við notkun innviða á milli landa (sæstrengi til útlanda)." (Síða 35.) 

Ályktunin er, að valdframsal samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er "minni háttar".  Að sömu niðurstöðu kemst Lögmannsrétturinn um heimild ESA til að fyrirskipa norskum orkufyrirtækjum að afhenda gögn og heimildina til að sekta þau, ef þessu er ekki hlýtt (reglugerðin um viðskipti yfir landamæri, kafli 20 og kafli 22, nr 2):

"Valdramsalið hefur að mati Lögmannsréttarins mjög takmarkað umfang og hefur ekki umtalsverð áhrif á þjóðfélagslegu og stjórnmálalegu hagsmunina, sem eru fyrir hendi á orkusviðinu."  (Síða 37.)

Lögmannsrétturinn telur málið ekki vafa undirorpið:

"Einnig að afloknu heildarmati getur að dómi Lögmannsréttarins ekki leikið vafi á, að það tvenns konar valdframsal, sem er efni þessa máls, er minni háttar." (Síða 37.)

Að loknum lestri þessa tyrfna texta Landsréttarins norska veldur það ekki undrun, að NtEU hafi áfrýjað dómi hans til Hæstaréttar Noregs.  Dæma þarf um, hvort RME (orkulandsreglari ACER) sé norskt stjórnvald samkvæmt norskum lögum og stjórnarskrá.  

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband