Af sanngirnis- og viðskiptasjónarmiðum

Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um Straumsvíkurvandamálið, eða væri nær að nefna það Háaleitisvandamálið ?  Staksteinar láta sér fátt óviðkomandi vera, og fjölluðu 13.02.2020 um nauðsyn ákvarðanatöku nú til að draga úr efnahagsvandanum fremur en að magna hann með ákvarðanafælni, sem hrjáir suma ráðherra.  Téðir Staksteinar um þetta málefni voru undir heitinu: 

"Rétti tíminn er nú".

Þeim lauk þannig:

"Hagsmunirnir, sem í húfi eru [í Straumsvík], hlaupa á milljarðatugum á ári [til 2036].  Slíkar tölur kalla á, að staðan sé tekin alvarlega og rætt, hvaða þýðingu fyrirtækið [ISAL] hafi, og hvaða áhrif það hefði, ef þess nyti ekki lengur við.  

Hefur Landsvirkjun aðra kaupendur að þeirri orku, sem nú er seld til Straumsvíkur ?  Bíða önnur störf þeirra, sem þar starfa ?  Landsmenn velta fyrir sér spurningum af þessu tagi, og fyrirtækið þeirra, Landsvirkjun, og ríkisvaldið, geta aldrei orðið stikkfrí í svo stóru máli."

Mogginn er sem jafnan með fingurinn á púlsi þjóðlífsins og víðs fjarri því að vera þar utan gátta, sem því miður er rétta lýsingin á ýmsum öðrum stórum og litlum fjölmiðlum hérlendis, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin í Stjórnarráðinu eða í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbrautinni, þeirri góðu götu. Það er hverju orði sannara, að ríkisstjórnin getur ekki setið prúð hjá með hendur í skauti á meðan þessu fram vindur.  Vonandi kynna ráðamenn sér rækilega grein Elíasar B. Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 25.02.2020, þar sem hann m.a. gefur til kynna, að ISK sé ekki nægt sveiflujöfnunartæki fyrir íslenzka  atvinnulífið, heldur þurfi raforkuverðið að koma þar jafnframt til skjalanna. Það er skarplega athugað, enda er íslenzka hagkerfið nú þegar raforkuknúið að miklu leyti og verður það alfarið í kjölfar orkuskiptanna.   

Til að setja örlítið meira kjöt á beinið má geta þess, að um er að útflutningstekjur upp á 55 mrdISK/ár eða um 5 % af útflutningstekjum landsins, og um 30 % af þeirri upphæð renna til raforkukaupa (af Landsvirkjun) og um 10 % fara í launakostnað.  Innlendur kostnaður fyrirtækisins er um 45 % af tekjunum.  Samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands eru um 1250 störf beint og óbeint tengd starfseminni í Straumsvík.  Við lokun ISAL mundi atvinnuvandi þeirra bætast við vanda tæplega 10 þúsund atvinnulausra íbúa landsins um þessar mundir.  Þeir spanna fjölmargar stéttir, og munu fæstir strax geta gengið í önnur störf í núverandi efnahagslægð, og nánast enginn í betur launuð störf.  Vandi Hafnarfjarðar verður mestur af sveitarfélögunum, enda líklega um helmingur starfsmanna ISAL Hafnfirðingar, og verksmiðjulóðin í landi Hafnarfjarðar. Tekjutap Hafnarfjarðarbæjar mundi vafalaust fara yfir 1 mrdISK/ár fyrstu misserin á eftir.  

Um er að ræða rúmlega 3,0 TWh/ár, sem Landsvirkjun hefur líklega engan kaupanda að á sömu kjörum í nánustu framtíð og fyrirtækið setur upp gagnvart RTA/ISAL.  Þetta er um fimmtungur af orkuvinnslugetu Landsvirkjunar, sem taka mun mörg ár að mjatla út til nýrra og e.t.v. gamalla viðskiptavina.  Ef mál þróast á versta veg og Landsvirkjun tapar þar að auki kaupskyldukröfunni á hendur RTA fyrir dómi um megnið af umsaminni orku, þá gæti tjón Landsvirkjunar og  Landsnets með vaxtakostnaði orðið um mrdISK 200. Af hálfu Landsvirkjunar er glannalega teflt og óviturleg áhætta tekin með þvergirðingslegri afstöðu í garð gamals viðskiptavinar. 

Málflutningur forstjóra Landsvirkjunar frá því, að yfirlýsing RTA var gefin út í Straumsvík 12.02.2020, hefur vakið furðu pistilhöfundar fyrir margra hluta sakir, t.d. vegna þess, að leynd hvílir yfir samninginum, en það aftrar honum ekki frá að kalla hann sanngjarnan, þótt almenningur eigi þess ekki kost að leggja mat á það. Í Kastljósþætti RÚV 24.02.2020 virtist hann túlka tilkynningu RTA/ISAL sem reykbombu í áróðursstríði.  Það er hættuleg rangtúlkun á alvarlegri stöðu, sem fyrirtækið varð að gera almenningi og verðbréfamörkuðum kunnuga.  Hann hefur, eins og áður segir, verið með fullyrðingar, sem almenningi er ómögulegt að sannreyna vegna leyndarinnar, sem RTA/ISAL að fyrra bragði lagði til, að aflétt yrði.  Dæmi um þetta er viðtal Þorsteins Friðriks Halldórssonar í Markaðnum 19.02.2020 við forstjóra Landsvirkjunar og forstjóra Elkem á Íslandi:  

"Sanngjarn samningur en ekki ódýr".

Hörður Arnarson sagði þar m.a.:

"Varðandi raforkuverðið teljum við, að samningurinn sé sanngjarn fyrir bæði fyrirtækin [ISAL og LV].  Vissulega er hann ekki ódýr, en hann er sanngjarn.  Á heildina litið tel ég álverið ágætlega samkeppnisfært í iðnaði, sem býr við krefjandi aðstæður."

 Þetta er undarlegur málflutningur, uppfullur af huglægu mati, algjörlega án rökstuðnings.  Það er skákað í því skjólinu, að umræðuefnið er sveipað leyndarhjúpi, sem forstjórinn þykist í orði kveðnu vilja afnema, en efast má um heilindi þeirra orða.  Honum verður afar tíðrætt um sanngirni, en hér skal hins vegar fullyrða og rökstyðja hið gagnstæða.  Samningur LV við RTA/ISAL 2011 var og er ósanngjarn.

Samningurinn er gerður í einokunarumhverfi, sem er ekki umhverfi Innri orkumarkaðar ESB, þótt aðferðarfræði hans um jaðarkostnaðarverðlagningu í nýjum samningum hafi verið beitt þarna af hálfu LV.  Orkukaupandanum var einfaldlega stillt upp við vegg, því að hann gat ekki leitað til samkeppnisaðila LV, því að þeir höfðu ekki "vöruna", sem hann vantaði, á boðstólum, þ.e. 430 MW afl og um 3500 GWh/ár orku. Viðskiptavinurinn (RTA/ISAL) stóð þá frammi fyrir því að taka hatt sinn og staf, stöðva allar fjárfestingar (mrdISK 65), sem hann var þá á miðju kafi í, eða að veðja á bjartsýnar spár um þróun álverðs, sem þá stóð í 2000-2300 USD/t. 

Hefði þróun álverðs aðeins fylgt þeirri verðlagsvísitölu, sem LV heimtaði, að orkuverðið fylgdi, hefði hækkunin numið 16 % þar til nú og stæði  í 2500 USD/t um þessar mundir, en er í raun undir 1700 USD/t samkvæmt LME-skráningu, sem þýðir lækkun um 21 % frá samningsgerð. Enginn sanngjarn maður kemur auga á snefil af sanngirni í svo einhliða samningi, þar sem annar aðilinn hefur allt sitt á hreinu, en enginn varnagli er settur til að verja hagsmuni hins, ef spár um þróun markaða bregðast. 

Nú nemur raforkukostnaður ISAL í USD/tAl um 34 % af skráðu álverði, LME.  Ekkert viðskiptalega rekið álver getur skilað nokkurri framlegð við þær aðstæður, og þar af leiðandi eru fyrirtækinu allar bjargir bannaðar í núverandi stöðu.  Eigandinn á ekkert val, og að tala um áróðursbrellu í þessu sambandi, eins og forstjóri Landsvirkjunar leyfir sér að gera, ber vott um dómgreindarleysi.  Við upphaf samningsins 2011 nam þetta hlutfall um 24 %, sem er við þolmörkin fyrir álver á frjálsum markaði.  Samningur, sem veldur slíkri breytingu, er ekki aðeins ósanngjarn; hann er óbærilegur.  Nú hefur stjórn RTA misst þolinmæðina gagnvart þvermóðskunni, sem mætir fyrirtækinu af hálfu LV, og mun að öllum líkindum stöðva starfsemina og þar með fjárhagstapið, um leið og málaferli munu hefjast út af kaupskylduákvæðum samningsins, sem LV gæti fyrirgert með því að neita sanngirniskröfum mótaðilans. Ríkisstjórnin, fulltrúi eiganda LV, verður að grípa í taumana til að forða þjóðarbúinu frá stórtjóni.

Í þessari "Markaðsgrein" Þorsteins Friðriks var einnig fróðlegt viðtal við forstjóra Elkem á Íslandi, sem sagði sínar farir ekki sléttar í viðskiptunum við Landsvirkjun.  Þar (á Háaleitisbraut) virðist vera eitthvað mikið að stjórnarháttum, því að fyrirtækið hefur borið langt af leið og er alls ekki að ávaxta þær orkulindir, sem því er falið að nýta, með þjóðhagslega hagkvæmasta hætti til langframa litið.  Þegar hver viðskiptavinur Landsvirkjunar um annan þveran kemur fram og ber sig afar illa undan fyrirtækinu, er ljóst, að þetta fyrirtæki er ekki að rækta langtíma viðskiptasamband við viðskiptavini sína hérlendis.  Þar með er það að rífa niður, það sem byggt hefur verið upp, og setja gríðarlega hagsmuni landsmanna í algert uppnám.  Hér skal fullyrða, að stjórn Landsvirkjunar hefur til slíks ekkert umboð nú, jafnvel þótt hún gæti sýnt fram á, að hún gæti selt virkjaða og ónotaða orku úr landi um sæstreng f.o.m. 2028, sem hún ekki getur:

"Forstjóri Elkem á Íslandi segir óljóst, hvað taki við, þegar samningurinn við Landsvirkjun rennur út árið 2029.  Raforkuverðið sé komið að þolmörkum."

Það er engu líkara en Landsvirkjun hafi það nú sérstaklega á stefnuskrá sinni að úthýsa stóriðjunni úr landinu og ryðja þannig brautina fyrir útflutning á rafmagni um aflsæstreng.  Alþingismenn verða að gera sér grein fyrir því, hvað er raunverulega að gerast.  Núverandi ástand er óviðunandi, því að það gerir fyrirtækjunum ókleift að gera fjárfestingaráætlanir, sem leggi grunn að tækniþróun, vöruþróun og jafnvel framleiðsluaukningu þeirra í framtíðinni.  Þetta er ein af ástæðum þess, að fjárfestingar fyrirtækja í landinu í heild sinni hafa hrapað, sem mun gera núverandi dýfu hagkerfisins bæði dýpri og langvinnari en ella. 

Ekki dettur stjórnendum Statkraft í Noregi, systurfyrirtækis Landsvirkjunar þar, eða Stórþingi og ríkisstjórn, að haga sér með þessum óábyrga hætti, þótt þar séu nú þegar fyrir hendi millilandatengingar, sem nýta mætti í miklu meira mæli til útflutnings raforku en nú er gert, enda er þróun orkuverðs í Evrópu algerlega undir hælinn lögð.  Nei, norska ríkið hleypur undir bagga í erfiðleikum stóriðjunnar, m.a. Elkem, og greiðir niður raforkuverð til þeirra með um 6 USD/MWh (20 mrdISK/ár) samkvæmt upplýsingum starfsmanna Landsvirkjunar í nýlegri blaðagrein.  Það er enginn að biðja um það hér, heldur aðeins, að ríkisvaldið sýni sanngirni í sinni einokunarstöðu í stórsölu rafmagns og taki tillit til þess, að raforkuverð á Íslandi þarf að nota sem sveiflujöfnunartæki fyrir lítið og viðkvæmt hagkerfi.   Sú einokunarstaða er einsdæmi í Evrópu, og þess vegna er stórhættulegt að beita hér hugmyndafræði orkupakka ESB við verðlagningu rafmagns. 

""Vandinn er sá, að samkeppnishæfni verksmiðjunnar [á Grundartanga] á Íslandi samanstendur af fleiri þáttum en raforkunni einni og sér, og raforkan var sá þáttur, sem gerði það að verkum, að það borgaði sig að reka verksmiðju á Íslandi", segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem á Íslandi í samtali við Markaðinn." 

Þarna hittir forstjóri Elkem á Íslandi naglann á höfuðið, en það er einmitt lóðið, að samkvæmt orkupökkunum eiga orkufyrirtækin við samningsgerð sína ekki að taka tillit til þátta eins og meiri flutningskostnaðar og vinnuaflskostnaðar viðskiptavina sinna en samkeppnisaðila þeirra.  Ef þessi atriði eru hins vegar ekki höfð í huga í íslenzku einokunarumhverfi á þessu sviði, þá verða stórslys, eins og við erum að horfa upp á núna.  Fíllinn í postulínsbúðinni er að leggja hana í rúst, og iðnaðarráðherra horfir þæg á og er þegar byrjuð að tala aftur um æskilegar athuganir á sæstrengslögn til Íslands, sem hún hefur samt þagað um, síðan ríkisstjórnin lét hérlenda bakhjarla Ice-Link, Landsvirkjun og Landsnet, beina því til ESB að fjarlægja hann af verkefnaskrá innviðaverkefna, PCI, sem framkvæmdastjórn ESB síðan gerði.  Þetta er engin hemja.

Forstjóri Fjarðaáls, Tor Arne Berg, hafði þetta að segja við Markaðinn:

"Tor Arne Berg, forstjóri Fjarðaáls, segist ekki geta tjáð sig um raforkusamning álfyrirtækisins við Landsvirkjun, enda sé hann trúnaðarmál.  "Það er þó alveg ljóst, að álverið var reist hér á landi vegna þess, að hér var í boði langtímasamningur á stöðugri orku", segir hann.  "Helzta ógnin, sem steðjar að áliðnaði um þessar mundir, er offramleiðsla í Kína, sem kemur til vegna óeðlilegra niðurgreiðslna frá ríkinu.  Þetta hefur orðið til þess, að álverð hefur fallið á alþjóðlegum markaði, sem þrengir mjög að samkeppnisstöðu í þessari grein", bætir forstjórinn við."

Það er rétt hjá þessum forstjóra, að fáanlegir langtíma samningar um raforku úr landskerfi, sem nýtir einvörðungu orkulindir, sem kalla má endurnýjanlegar, hvetja erlenda fjárfesta til að fjárfesta á Íslandi.  Þetta er samt ekki nóg.  Ef rafmagnsverðið, sem í boði er, er hið sama eða hærra en í Noregi eða í öðrum löndum með fáanlega kolefnisfría raforku, þá fæst fjárfestirinn ekki til að fjárfesta hér, vegna þess að hann lítur á heildarkostnað sinn.  Hann verður einfaldlega hæstur á Íslandi, nema rafmagnsverðið lækki niður fyrir samkeppnislöndin.  Hversu mikið er rannsóknarefni, en gæti numið 10 USD/MWh. Þetta vissu menn gjörla hjá Landsvirkjun hér áður fyrr, en nú er það greinilega gleymt og grafið og öldin önnur á Háaleitisbrautinni.  

 

Það kom ýmislegt fleira markvert fram í viðtali Þorsteins Friðriks við forstjóra Elkem á Íslandi.  Í máli hans kemur fram, að viðhorf Landsvirkjunar til fyrirtækisins veldur því, að stjórnendur fyrirtækisins búast við að þurfa að leggja upp laupana árið 2029, og þess vegna er ekki lengur fjárfest til framtíðar í verksmiðjunni.  Höfuðvandi orkukræfs iðnaðar á Íslandi er sá, að hjá langstærsta orkubirgi hans ríkir fjandsamlegt viðhorf í garð stóriðjunnar, sem felst í stuttu máli í að blóðmjólka hana, á meðan hún tórir. Þeir, sem efast um þetta, ættu að hlusta á Kastljósþátt RÚV 24.02.2020 og lesa Morgunblaðsgrein Elíasar B. Elíassonar 25.02.2020. Síðan virðist ætlunin vera að selja orkuna til útlanda um sæstreng.  Skipta verður þegar um stjórnarstefnu í þessu ríkisfyrirtæki og taka upp sjálfbæra viðskiptastefnu, svo að báðir aðilar hagnist á viðskiptunum. 

"Ef við skoðum þættina, sem hafa áhrif á afkomu okkar, má segja, að sá þáttur, sem vegur þyngst sé markaðsverð á afurðum.  Það sveiflar afkomunni upp og niður.  En ef við skoðum samkeppnishæfni verksmiðju okkar á Íslandi - Elkem er með 27 verksmiðjur á heimsvísu - þá samanstendur hún af þremur meginþáttum og hefur gert það frá upphafi", segir Einar.

"Þar má fyrst nefna flutningskostnað.  Við flytjum öll hráefni inn og allar afurðir út.  Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu okkar gagnvart keppinautum í Evrópu", segir Einar. 

Annar þáttur, sem vegur þungt, er innlendur kostnaður og launakostnaður.  Öll þjónusta, sem Elkem kaupir innanlands, er beintengd við launaþróun, og þessi kostnaður er mjög óhagstæður að sögn Einars.  Verksmiðja Elkem á Íslandi er sú dýrasta innan samstæðunnar, hvað laun varðar. 

"Þriðji þátturinn er raforkan, en hún er ástæðan fyrir því, að verksmiðjan er yfirleitt á Íslandi.  Raforkuverðið var hagstætt og gerði það að verkum, að verksmiðja á Íslandi var samkeppnishæf.  Eftir niðurstöðu gerðardóms má segja, að þessi samkepnisþáttur sé að miklu leyti horfinn", segir Einar."

Þarna lýsir forstjóri Elkem á Íslandi nákvæmlega sömu aðstæðum og eiga við um álver á Íslandi.  Vegna staðsetningarinnar eru flutningar aðfanga og afurða dýrari á hvert tonn fyrir verksmiðjurnar hérlendis en hjá samkeppnisaðilum.  Launakostnaður, vörur og þjónusta, eru dýrari hér.  Aðeins rafmagnið getur skapað samkeppnisforskot, sem verður a.m.k. að vega upp ofangreindan viðbótar kostnað, svo að erlendir fjárfestar kæri sig um að vera með starfsemi hér.  Gróft reiknað má ætla, að rafmagnið (orka+flutningur) verði að vera 10 USD/MWh lægra hjá álverunum hér en hjá samkeppnisálverum.  Ofan á þetta koma niðurgreiðslur hins opinbera, sem í Noregi nema um 6 USD/MWh og á meginlandinu um 9,5 EUR/MWh, jafngildi um 10,3 USD/MWh. Fróðlegt verður að sjá niðurstöðu verktakans Fraunhofers, sem iðnaðarráðherra hefur keypt til að semja fyrir sig skýrslu um málið.  Því verður samt vart trúað, að iðnaðarráðuneytið búi ekki yfir nægilega haldgóðum gögnum um þetta mál nú þegar.

"Ef við skoðum meðalafkomu síðustu ára - á bilinu 10-13 ár - þá má segja, að raforkuhækkunin hafi að stórum hluta étið upp allan hagnaðinn.  Þetta þýðir, að við höfum verið og erum að leita leiða til að hagræða og fækka fólki."

Sama er uppi á teninginum hjá ISAL.  Fyrir 2012 var hagnaður samfleytt í a.m.k. 15 ár, en segja má, að með núverandi raforkusamningi sé loku skotið fyrir það, að fyrirtækið geti skilað hagnaði (rafmagn 30 % af tekjum).  Þetta kallar Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, "sanngjarnan" samning.  Það er frumstæð blekkingartilraun, sem eykur ekki hróður hans. 

Spyrja má, hvort nokkurt vit sé í því fyrir eigandann (ríkissjóð), að Landsvirkjun reki nú þá stefnu að blóðmjólka gamla sem nýja viðskiptavini ?  Nú er hart í ári hjá viðskiptavinunum, og þá er rétti tíminn til að endurskoða þessa misheppnuðu samninga og hreinlega ekki hægt að bíða með það til 2024. 

"Vandinn er tvíþættur að sögn Einars.  Annars vegar er fyrirtækið að glíma við skammtímaáhrif af hærra raforkuverði, og hins vegar vakna spurningar um, hvað taki við, þegar samningurinn rennur út árið 2029."

Skammtímaáhrifin af óprúttinni stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinunum er, að þeir leitast við að fækka starfsmönnum, eins og framast er kostur, og skera öll önnur útgjöld niður við trog.  Þetta er ekki þjóðhagslega hagkvæmt hérlendis, þar sem laun í stóriðjunni eru tiltölulega há, og þau þurfa að hafa fjárhagslegt bolmagn til tæknivæðingar og nýsköpunar.

  Við uppkvaðningu gerðardómsins um raforkuverð til Elkem á Íslandi lýsti Landsvirkjun yfir óánægju með hann.  M.v. þekkt vinnubrögð Landsvirkjunar í seinni tíð má þess vegna gera ráð fyrir því, að Landsvirkjun muni heimta hærra orkuverð af Elkem á Íslandi og sitji við sinn keip, þótt viðskiptavinurinn neyðist þá til að hætta starfsemi. Þetta horfir mjög einkennilega við, því að ekki er vitað til, að Landsvirkjun hafi neinn viðskiptavin í handraðanum, sem geti og vilji borga uppsett verð Landsvirkjunar fyrir þessa orku, sem til Elkem fer.  Þetta sýnir í hvers konar ógöngur einokunarfyrirtæki getur ratað, þegar óbilgirni er við stjórnvölinn.  Viðskiptasambönd, sem Landsvirkjun átti þátt í að byggja upp áður, rífur hún nú niður  af fullkomnu fyrirhyggjuleysi.

""Það, sem hrjáir okkur mest, er spurningin um, hvað tekur við eftir 2029.  Ef það stefnir í enn hærra raforkuverð, þá lítur þetta afskaplega illa út, og við þurfum svar við þeirri spurningu mjög fljótt vegna þess, að við höfum stöðvað fjárfestingu í uppbyggingu.

Þegar við fjárfestum í uppbyggingu, þurfum við að horfa meira en 9 ár fram í tímann.  Við höfum þurft að setja ýmis góð mál á ís, t.d. verkefni, sem snúa að endurnýtingu á orku og varma, á meðan óvissan er, eins og hún er í dag", segir Einar."

Þegar orkupakkalöggjöfinni er fylgt út í æsar, fylgir henni óvissa af þessu tagi fyrir viðskiptavini orkufyrirtækjanna, vegna þess að þeir hafa ekki í önnur hús að venda með viðskipti sín ólíkt því, sem við á á orkumarkaði ESB.  Það er hins vegar falleinkunn fyrir núverandi stjórn ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem er í einokunaraðstöðu á sviði raforkusölu til orkukræfs iðnaðar, að hún skuli halda Elkem á Íslandi í svo illvígri spennitreyju, að fyrirtækið sjái sig neytt til að halda að sér höndum og í raun og veru að stefna á lokun, þegar núverandi raforkusamningur rennur sitt skeið á enda.  

Það er lydduháttur af stjórnvöldum að láta stjórn og forstjóra Landsvirkjunar komast upp með þessa fáheyrðu hegðun.  Eigandi Landsvirkjunar verður hér að taka í taumana.  Nú þarf landið á að halda öllum þeim heiðarlegu erlendu fjárfestingum, sem völ er á, eða eins og máltækið segir: "allt er hey í harðindum".  Þá er auðvitað fyrir neðan allar hellur, að Landsvirkjun rói í allt aðra átt.  Hvaða hagsmunum telur stjórn Landsvirkjunar sig vera að þjóna með því að stöðva fjárfestingar og síðan að hrekja erlenda fjárfesta úr landi ?  Það er ekki einu sinni heil brú í þessu frá þröngu viðskiptalegu sjónarhorni Landsvirkjunar séð.

""Afurðaverðið mun sveiflast upp og niður, en samkeppnishæfnin hefur versnað svo mikið, að við þurfum að reka verksmiðjuna betur en aðrir innan Elkem og líklega betur en flestir okkar keppinautar, til þess að það sé arðbært að vera hérna.  En arðsemin til lengri tíma litið er ekki mjög spennandi, og það er ólíklegt, að við myndum byggja verksmiðju á Íslandi í dag."  Þá nefnir Einar, að Landsvirkjun hafi ekki verið sátt við niðurstöðu gerðardóms og talið, að raforkuverðið ætti að vera hærra.  Því sé líklegt, að Landsvirkjun muni fara fram á hærra verð en rekstur Elkem getur staðið undir, þegar núgildandi samningur rennur út."

 Þarna hafa menn það svart á hvítu, hvernig komið er fyrir viðskiptavild Íslands hjá alþjóðlegum framleiðslufyrirtækjum, sem nota mikla orku til starfsemi sinnar.  Þau vantreysta Landsvirkjun fullkomlega og hafa engan hug á nýrri starfsemi og mjög takmarkaðan áhuga fyrir áframhaldandi starfsemi.  Fyrir Jón og Gunnu, sem horfðu á Kastljósþátt RÚV að kvöldi 24.02.2020 með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni stjórnar Samtaka iðnaðarins, og Herði Arnarsyni, þarf þetta ekki að koma á óvart, því að það skein í gegnum málflutning Harðar, að hann leggur fæð á stóriðjufyrirtækin í landinu. Fyrir eigandann er sú staða gjörsamlega óviðunandi.

Ætla má, að gerðardómurinn, sem Einar nefnir, hafi reynt að finna verð, sem væri samkeppnishæft við aðrar verksmiðjur, að teknu tilliti til viðbótar kostnaðar á Íslandi.  Sú staðreynd, að Landsvirkjun telur úrskurðað orkuverð of lágt, er góð vísbending um, að hún er á algerum villigötum með verðlagningu sína. 

 

 

 

 

 

 

 


Orkupakkarnir segja til sín

Sumir halda, að orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), sem Alþingi hefur innleitt hér í þremur áföngum, og sá fjórði bíður handan við hornið, hafi engin áhrif hér á heimilisrekstur og fyrirtækjarekstur. Það er reginmisskilningur eða vanmat á áhrifum stefnumörkunar í orkumálum, og nægir í því sambandi að benda á skýrslu "Orkunnar okkar", samtaka gegn innleiðingu Orkupakka #3, um þann þriðja áfanga, frá ágúst 2019.  Þar var t.d. sýnt fram á, að orkukostnaður almennings (heimila og fyrirtækja án sérsamninga við orkubirgja) á hverja orkueiningu (ISK/kWh) hefði að jafnaði hækkað um tæplega 10 % umfram almennt verðlag frá innleiðingu fyrsta áfangans.

Hækkunina má rekja beint til uppskiptingar raforkugeirans, sem kveðið er á um í öllum áföngunum þremur, en Íslandi bar engin skylda til að innleiða vegna smæðar rekstrareininga orkugeirans.  Á þessu tímabili hefði raunorkukostnaðurinn hins vegar að öllu eðlilegu átt að lækka vegna skuldalækkunar raforkugeirans. Nú þurfa flutningur og dreifing að standa undir sér, en áður var hægt að fjármagna framkvæmdir á þessum sviðum með ágóða af orkusölu.  Samkeppni um viðskipti á þessu sviði hefur engan veginn vegið upp á móti dýrari og smærri rekstrareiningum, og á sviði stórsölu með rafmagn ríkir nánast einokun, sem er hættuleg í þessu kerfi orkupakkanna, þar sem hver er sjálfum sér næstur í orkugeiranum, og ekki er lagt upp með að taka tillit til þjóðarhags (hámarka verðmætasköpun, gjaldeyrisöflun og atvinnu), eins og áður var viðmiðun við verðlagningu raforku. 

Sannleikurinn er sá, að Íslendingar voru ginntir til að innleiða hina svo kölluðu orkupakka ESB á þeim fölsku forsendum, að það yrði landsmönnum til hagsbóta (að efla frjálsa samkeppni). Raforkugeirinn sjálfur var þó á móti því (og vinstri grænir), en skammsýnir stjórnmálamenn létu embættismenn, sem ekki var gefin andleg spektin, leiða sig í gönur, sem síðan hefur valdið vandræðum og deilum í landinu. 

Engin þörf var þó á þessari innleiðingu vegna EES-samningsins, eins og Jón Baldvin Hannibalsson, sem ábyrgð bar á gerð þessa einstæða viðskiptasamnings fyrir Íslands hönd, og fjölmargir aðrir, hafa bent á.  Samningurinn er einstæður fyrir miklar kvaðir á hendur löggjafarvaldi og dómsvaldi um aðlögun laga og reglna að Innri markaði Evrópusambandsins (ESB). Hann var hugsaður til bráðabirgða, en hefur virkað í meira en aldarfjórðung.  Eftir útgöngu Breta úr ESB er ljóst, að vægi fríverzlunarsamninga mun aukast í okkar umhverfi, og á þeim grundvelli mun vafalítið fara fram nýtt hagsmunamat í Noregi og á Íslandi.  Kosningaúrslitin í Noregi haustið 2021 munu einnig hafa áhrif á þróun þessara mála á næstu árum. 

Vandamálið í þessu orkutilviki er, að orkulöggjöf ESB er sniðin við raunverulegt samkeppnisumhverfi, og hún hvetur raforkuvinnslufyrirtækin til að hámarka hagnað sinn án tillits til annarra hlekkja í virðiskeðjunni.  Hagnaðurinn á síðan að virka sem hvati fyrir þau að byggja ný orkuver og koma þannig í veg fyrir aflskort og til að raforkuvinnslan fari jafnan fram með hámarks nýtni (ný orkuver bjóða upp á hærri orkunýtni og lægri rekstrarkostnað en hin eldri). Á Innri markaðinum virkar frjáls samkeppni orkubirgjanna sem hemill á verðhækkanir þeirra, og verðið ákvarðast í skurðpunkti framboðs og eftirspurnar.  

Þegar þetta kerfi, sem reist er á jafnvægi samkeppnisumhverfis, er hins vegar innleitt í einokunarumhverfi, eins og íslenzki orkugeirinn er, sérstaklega á sviði stórviðskipta með raforku, þar sem enginn annar en stærsti aðilinn er í færum til að afhenda umbeðinn fjölda GWh/ár, þá endar það auðvitað með ósköpum, eins og gleggst má sjá með hrikalegustu afleiðingum í Straumsvík þessa dagana. 

Það er jafnframt pólitískt áfall fyrir þann, sem dáðst hefur að kjarki og framsýni frumkvöðlanna á iðnvæðingarsviðinu hérlendis úr röðum forystu Sjálfstæðisflokksins, að verða vitni að vanhugsaðri og afar óheppilegri yfirlýsingu núverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins og iðnaðarráðherra, sem skilja mátti þannig, að hún sæi ekki muninn á því að flytja út rafmagn um sæstreng (með 10 % töpum) og á föstu formi áls. Í framhaldinu var hún þess hvetjandi, að tekinn væri upp þráðurinn við að kanna fýsileika aflsæstrengstengingar Íslands við erlenda markaði.

Hún horfir þá gjörsamlega framhjá gildi verðmætasköpunar í landinu úr rafmagninu fyrir landsmenn. Þetta er ennfremur sem blaut tuska framan í Straumsvíkurfólk á erfiðri stundu og mjög undarlegt, skömmu eftir að ríkisstjórnin, sem hún á sæti í, gerði gangskör að því við íslenzku bakhjarlana að "Ice-Link", að hann yrði tekinn út af forgangslista ESB um innviðaverkefni, PCI. Slíkar yfirlýsingar geta orðið henni og flokki hennar afar dýrkeyptar, ekki sízt í ljósi eldri og spánýrrar sögu (iðnvæðingin, orkupakki 3).

Við verðlagningu sína á raforkunni til ISAL, þegar gerð nýs raforkusamnings við Rio Tinto Alcan (RTA) stóð yfir 2010-2011, fylgdi Landsvirkjun forskrift orkupakkanna, tók ekkert tillit til áhrifa verðlagningar sinnar á samkeppnishæfni viðskiptavinarins eða áhrifanna á vilja hans til að halda hér uppi fjárfestingum og fullri framleiðslu, sem þó nauðsyn ber til í íslenzku umhverfi einokunar á þessu sviði, heldur lagði mikla áhættu á viðskiptavininn, sem reyndist stórhættulegt og ógnaði framtíðarstarfsemi hans á Íslandi. Þetta var kúvending hjá Landsvirkjun frá drögum að nýjum samingi frá 2008-2009.  Ósjálfbærni samningsins er fólgin í stöðugum hækkunum raforkuverðsins með bandarískri neyzluvísitölu (CPI), sem hækkað hefur um 16 % á 10 árum, á meðan alls ekkert tillit er tekið í samninginum til þróunar álverðs eða almenns orkuverðs í heiminum. Svona gera menn ekki, sem rækta vilja langtíma viðskiptasamband. 

Þessi einsleitni samningsins reyndist afdrifarík, því að þróun orkuverðs og álverðs varð með allt öðrum hætti í heiminum en Landsvirkjun hafði spáð.  Þvergirðingur Landsvirkjunar keyrði svo úr hófi fram, að hún tók ekki í mál að draga úr áhættunni fyrir afkomu viðskiptavinarins með því að tengja  raforkuverðið við afurðaverð hans (skráð álverð) með svipuðum hætti og gert hafði verið lengi og er algengt í þessum viðskiptum.  Áhættan við slíkt fyrir Landsvirkjun er miklu minni en áhættan við að sleppa tengingunni er fyrir viðskiptavininn, þegar byrjað er á að skrúfa orkuverðið upp í hæðir, sem búizt er við í framtíðinni, eins og þarna var gert.  Það er alltaf gólf í slíkri tengingu, þannig að hagnaður af viðskiptunum er orkusalanum í raun tryggður út samningstímabilið. 

Blanda af þvergirðingshætti og tilhæfulausum væntingum er rótin að því, að nú vofir lokun yfir starfseminni í Straumsvík, og Landsvirkjun, undir núverandi stjórn, spilar sennilega rassinn úr buxunum núna í viðskiptum við RTA, svo að hún glutrar niður kaupskylduákvæðinu (fyrir dómi), sem er gríðarlega verðmætt (yfir mrdISK 200), því að það gildir til ársins 2036.

Gunnar Snær Ólafsson ritaði áhugaverða baksviðsfrétt um málefni álversins í Straumsvík og Landsvirkjunar í Morgunblaðið, 14. febrúar 2020, undir fyrirsögninni:

"Breyttu rekstrargrunni án greiningar":

"Áratug eftir, að gerð var grundvallar stefnubreyting [á] tilhögun raforkusölu Landsvirkjunar til orkufreks iðnaðar að frumkvæði fyrirtækisins og með stuðningi stjórnvalda, hafa stjórnvöld ákveðið að láta gera úttekt á samkeppnishæfni greinarinnar. Hafði mbl.is eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðarráðherra, í gær, að slík úttekt hefði aldrei verið gerð áður.  En nú þegar hefur eitt fyrirtæki, Rio Tinto Aluminium (RTA), ákveðið að hefja endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík (ISAL) og meta rekstrarhæfi þess.

Í tilkynningu, sem barst fjölmiðlum á miðvikudag [12.02.2020], sagði Alf Barrios, forstjóri RTA, að álverið í Straumsvík væri óarðbært og "ekki samkeppnishæft í krefjandi markaðsaðstæðum vegna hás raforkukostnaðar".  Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur hins vegar ekki samþykkt né útilokað, að það sé verðlagningin, sem valdi usla, þar sem ISAL sé afhent orka á að hans mati samkeppnishæfu verði."

Staðan er sorglega einföld: forstjóri Landsvirkjunar lemur hausnum við steininn og neitar að horfast í augu við ömurlegar staðreyndir.  Staðreyndir málsins eru, að 2010-2011 voru gerðar spár um þróun álverðs og orkuverðs í heiminum af hálfu Landsvirkjunar o.fl., sem voru hafðar til hliðsjónar við samningsgerð, en stóðust engan veginn, því að í stað hækkana álverðs og orkuverðs komu lækkanir á báðum.  Álverð (LME) var þá 2000-2300 USD/t, og hefði það hækkað með vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum (BNA), eins og raforkuverðið til ISAL, þá væri álverðið núna um 2500 USD/t, en það er í raun aðeins tæplega 1700 USD/t.  Í stað væntrar hækkunar um 350 USD/tAl eða 16 % hefur komið raunlækkun um 450 USD/tAl eða 21 % tímabilið 2010-2020. Til að ná raforkukostnaðinum núna niður í sama hlutfall af skráðu álverði og var við lýði í upphafi samningsins 2011, þ.e. tæplega 24 %, þarf að lækka heildar raforkuverðið (orka+flutningur) um 12 USD/MWh eða rúmlega 30 %.  

Heimsmarkaðsverð á orku hefur lækkað frá 2010.  Sífellt meira af raforku Vesturlanda er nú framleitt með jarðgasi, og verð á því hefur helmingazt á tímabilinu 2010-2020, úr 5 USD/MBtu í 2,5 USD/MBtu, og verður samkvæmt grunnspá US Energy Information Agency um 3,5 USD/MBtu árið 2035, þ.e. lækkar um 30 % frá 2010, sem er svipað og heildarraforkuverð til ISAL þarf að lækka um til að ná jafnstöðu við upphafsforsendur.  

Landsvirkjun reiknaði hins vegar með raunhækkun raforkuverðs (meiri en neyzluvísitölunnar) allt samningstímabilið (2011-2036) og heimtaði þess vegna mikla hækkun upphafsraforkuverðs frá fyrri samningi og vísitölubindingu á því við neyzluverð í BNA í stað þess að draga úr óvissu fyrir báða samningsaðila með því að hafa byrjunarhækkunina minni og tengja orkuverðið við álverð og jafnvel einnig við skráð orkuverð (olíu eða gas), en þó með gólfi til að tryggja hag Landsvirkjunar. 

Þessi kolranga áætlanagerð og ógætilega og sumir segja hranaalega málsmeðferð hefur nú leitt samningsaðila út í algerar ógöngur, og ber Landsvirkjun mestu ábyrgðina, því að hún mótaði samningsferlið í krafti þeirrar stefnubreytingar að nýta sér einokunarstöðu sína til hins ýtrasta, án tillits til þjóðarhags, sem var eins óráðlegt og hægt er að hugsa sér, og varla hefur hvarflað að höfundum orkupakka ESB, að nokkrum myndi detta slík misbeyting aðstöðu til hugar, enda ekki skilyrði til þess í ESB.   

Þessi keyrsla Landsvirkjunar út í skurð lýsir sér í yfirvofandi hættu á tekjutapi upp á 16 mrdISK/ár og í heildina yfir mrdISK 230 á samningstímabilinu.  Enginn fæst að samningaborðinu á afarkostum Landsvirkjunar.  Þjóðfélagið missir um 1250 störf samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og yfir 50 mrdISK/ár í útflutningstekjur.  Þetta högg ofan á fækkun erlendra ferðamanna loðnubrest og efnahagssamdrátt í heiminum (CoVid-19) mun að líkindum snara viðskiptajöfnuði landsins öfugum megin við núllið, og þar með er meginforsenda efnahagsstöðugleikans brostin.

  Landsvirkjun tók áhættu, sem getur haft grafalvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir landið.   Höfuðsök á mistökunum á forstjóri fyrirtækisins, sem hlýtur að axla sín skinn. 

Baksviðsgrein Gunnlaugs Snæs lauk þannig:

"Sé það svo, að raforkuverð til ISAL hafi dregið úr samkeppnishæfni þess og þar með stofnað rekstrinum í hættu, má í einhverjum mæli segja, að sú staða hafi skapazt, þegar stjórnvöld og Landsvirkjun lögðust á eitt til að bæta fjárhagsstoðir fyrirtækisins, líklega í von um að tryggja aukna arðsemi, sem síðan myndi skila sér í ríkissjóð.  Ekki lá fyrir greining á samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar á Íslandi og spurning, hvort þjóðhagsleg langtímaáhrif í kjölfar breyttra rekstrarforsendna álveranna hafi yfirhöfuð verið metin."

Það er engum vafa undirorpið, að til að gæta að þjóðhagslegum afleiðingum gjörða sinna bar Landsvirkjun að áhættugreina samningskröfur sínar, en það virðist hafa farið í handaskolum 2010-2011 áður en samningur var undirritaður.  Annars hefði komið í ljós, að nauðsyn bæri til að setja varnagla inn í samninginn, sem stöðva myndi sjálfvirka árlega vísitöluhækkun raforkuverðsins við stöðuga lækkun álverðs og lækka raforkuverðið, ef hlutfall raforkukostnaðar á hvert áltonn færi yfir t.d. 25 %.  Við upphaf samningsins árið 2011 var þetta hlutfall undir 24 % af skráðu álverði LME, en á árinu 2020 er það komið í rúmlega 34 %.  Það hefur algerlega snarazt á merinni, sem ætti að sýna í sjónhendingu, að samningurinn er meingallaður og sem slíkur stórhættulegur efnahagslegum stöðugleika á Íslandi.  Í ljósi þessa verða ríkisstjórn og Alþingi að grípa inn og sjá til þess, að nýr samningur verði með innbyggðan stöðugleika að þessu leyti og sanngjarna áhættudreifingu beggja aðila.  Til þess eru margar leiðir færar.  isal_winter

 

 

    

 

      


Þokukennd umræða um heildsöluverð raforku

Fáum blandast hugur um, að ágreiningur ríkir á milli Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar um það, hvort verðlagning Landsvirkjunar á raforku í heildsölu í langtímasamningum sé samkeppnishæf við verðlagninguna á hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu, hvað þá alþjóðlega. Þessi ágreiningur hefur birzt m.a. í blaðagreinum starfsmanna Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.  Starfsmenn Landsvirkjunar bentu reyndar á í blaðagrein, sem vitnað verður til í þessum pistli, að stórfelldar niðurgreiðslur ýmissa ríkisstjórna í EES (utan Íslands) á raforkuverði til iðnaðar ætti sér stað. Er það mjög athyglisvert samkeppnisumhverfi, sem þannig viðgengst í EES, þegar ESA og Framkvæmdastjórn ESB umbera niðurgreiðslur ríkissjóða á orkuverði stóriðju (orkukræfs iðnaðar), t.d. í Noregi. 

Þessi ágreiningur um samkeppnishæfni íslenzks raforkuverðs til stórnotenda birtist einnig í tilkynningu Rio Tinto Aluminium (RTA), sem birt var í Straumsvík á starfsmannafundi kl. 0800 miðvikudaginn 12.02.2020, og yfirlýsingum Rannveigar Rist, forstjóra ISAL, og Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, í hádegisfréttum RÚV þann sama dag.  

Það verður alltaf erfitt að henda reiður á umræðunni um verðlag, ef aldrei eru gefnar upp tölur, nema meðaltal margra fyrirtækja, t.d. allra stóriðjufyrirtækjanna á Íslandi.  Samningsaðilar ættu að geta náð samkomulagi um að opinbera t.d. meðalraforkuverð á ári til hvers kaupanda. Báðir ofangreindir forstjórar lýstu sig hlynnta þessu í ofangreindum fréttatíma.  Hver stendur þá í vegi þess, að raforkuverð og flutningsgjald til ISAL séu birt ?  Kannski stjórnir fyrirtækjanna ?

Þann 5. febrúar 2020 riðu 2 galvaskir riddarar Landsvirkjunar inn á ritvöllinn á vettvangi Fréttablaðsins í því skyni að andmæla staðhæfingum framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins um, að raforkuverð Landsvirkjunar væri í tilviki samninga frá 2010-2011 og síðar ekki samkeppnishæft. Þess má geta, að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, lýsti í ofangreindum fréttatíma yfir miklum áhyggjum vegna þess, að raforkuverðið til ISAL væri ósjálfbært.  Höfundar Fréttablaðsgreinarinnar, Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar, og Sveinbjörn Finnsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu, skrifuðu m.a.:

"Raforkusamningar Landsvirkjunar eru gerðir á viðskiptalegum forsendum.  Það þýðir, að verð í þeim þarf að vera yfir kostnaðarverði fyrirtækisins og samkeppnishæft fyrir viðskiptavini okkar, en stórnotendur á Íslandi starfa almennt á hörðum alþjóðlegum samkeppnismarkaði." 

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það, að núverandi raforkuverð til ISAL er ósamkeppnisfært, þvert á það, sem forstjóri Landsvirkjunar staðhæfir (út í loftið).  Af ósvífni þess, sem skákar í skjóli leyndar, fullyrðir hann reyndar jafnframt, að verðið sé sanngjarnt, og er það sem blaut tuska framan í elzta viðskiptavin Landsvirkjunar, sem veit betur. Þar sem raforkuverðinu hefur verið leyft að hækka hömlulaust samkvæmt samningi 2011 eftir vísitölu í Bandaríkjunum, CPI, þótt álverðið hafi snarlækkað á sama tímabili (2011-2020), hefur hlutfall raforkukostnaðar af skráðu álverði hækkað úr tæplega 24 % í rúmlega 34 %.  Það er bersýnilega ekki sanngjarn samningur, sem inniheldur engan varnagla við því, að svo mikið halli á annan aðilann, að óbærilegt geti talizt.

Það má nefna 2 aðrar röksemdir fyrir því, að raforkuverðið er ósamkeppnisfært, og eru þær skyldar.  Önnur er, að ISAL er óseljanlegt, og er það orkusamningurinn, sem fælir lysthafendur frá kaupunum.  Hin er, að Landsvirkjun getur ekki bent á neina aðila, sem séu fúsir til að kaupa svipað orkumagn og ISAL með þeim skuldbindingum, sem eru í núverandi raforkusamningi ISAL við Landsvirkjun. 

Landsvirkjun hefur rekið ýtinn áróður fyrir tengingu Íslands með aflsæstreng við stóran raforkumarkað, og þar beittu menn sér fyrir því, að ESB tæki "Ice-Link" inn á forgangs innviðaverkefnaskrá sína, PCI, á sínum tíma.  Til þess voru refirnir skornir að geta við atburði eins og þann, sem varð í Straumsvík 12. febrúar 2020 (tilkynning Rio Tinto Aluminium í tilefni mikils fjárhagstaps ISAL 2012-2019), lýst því yfir, að raunveruleg samkeppni væri um orkuna, sem ISAL kaupir af Landsvirkjun. Sannleikurinn er hins vegar sá, að það er engin spurn eftir um 3000 GWh/ár af raforku með þeim skilmálum, sem Landsvirkjun setur. Þess vegna er núna skák á kónginn, og Landsvirkjun og ríkisstjórnin verða að taka afstöðu til þess á næstu 3 mánuðum, hvort þær vilja missa um 16 mrdISK/ár af raforkusölutekjum og 50-60 mrdISK/ár í útflutningstekjum (gjaldeyri).

  Með því að neita að endurskoða verð, sem er mjög íþyngjandi fjárhagsleg byrði fyrir viðskiptavin og sem nú er langt frá því að vera samkeppnishæft á Íslandi, er hætta á því, að Landsvirkjun glutri niður kaupskylduákvæði raforkusamningsins við ISAL í málaferlum fyrir dómi. Það er leitt upp á að horfa af hversu mikilli óforsjálni Landsvirkjun virðist tefla þessa skák.  Hún hefur verið tekin í bólinu með ofangreindri tilkynningu RTA, og of takmarkaður skilningur virðist vera á alvarleika málsins. 

Þegar hugtakið "kostnaðarverð" er notað í þessu samhengi, verða höfundarnir frá Landsvirkjun að gefa á því útskýringar við hvað er átt. Evrópusambandið (ESB) notar þetta hugtak yfirleitt um jaðarkostnað, þ.e. hvað kostar að framleiða viðbótar kWh, og það er ekki óeðlilegt í raforkukerfum, þar sem meginkostnaðurinn er breytilegur kostnaður.  Þetta viðhorf gegnir því hlutverki þar að hvetja til byggingar nýrra orkuvera til að koma í veg fyrir aflskort í kerfinu. Margt bendir til, að í samningum sínum við nýja  raforkunotendur og við endurskoðun gamalla orkusamninga við viðskiptavini sína, hafi Landsvirkjun lagt þetta viðhorf til grundvallar verðlagningu sinni, og er það í samræmi við orkulöggjöf ESB, sem hér hefur, illu heilli, verið innleidd í þremur s.k. orkupökkum.  Þessi jaðarkostnaðaraðferð er hins vegar með öllu óviðeigandi á Íslandi, og er vísasti vegurinn til að glutra niður alþjóðlegri samkeppnisstöðu Íslands á orkusviðinu með þeim neikvæðu afleiðingum, sem slíkt hefur á hag landsins.

Kerfi ESB getur aðeins virkað, þar sem er virk samkeppni.  Hér er engin samkeppni á framboðshlið, þegar á eftirspurnarhlið er þörf fyrir 3000 GWh/ár eða meira.  Þar ríkir einokun hérlendis, og Landsvirkjun hefur neytt þeirrar stöðu sinnar með þeim afleiðingum að verðleggja raforkuna allt of dýra og taka ekkert tillit til heildarhagsmuna og hámörkunar verðmætasköpunar í landinu, eins og hér verður að gera og var jafnan gert fyrir 2010.  

Afleiðingarnar voru fyrirséðar, og það var varað við þeim í umræðunum hérlendis um Orkupakka #3. Með yfirlýsingu Rio Tinto Aluminium (RTA) frá 12.02.2020 er komið í ljós, að Landsvirkjun hefur setið við sinn keip og að þá sér stjórn RTA sér þann kost vænstan að láta sverfa til stáls.  Verði Landsvirkjun látin komast upp með það að bíta sig fasta við orkustefnu ESB, þá breytist hún úr uppbyggingarafli fyrir íslenzkt atvinnulíf í niðurrifsafl. Að 4 mánuðum liðnum verður þá tilkynnt um lokun ISAL, og að Landsvirkjun verði dregin fyrir dóm, þar sem RTA mun krefjast þess að losna undan kaupskylduákvæði um 85 % forgangsorkunnar á þeim grundvelli, að samningsforsendur séu brostnar og Landsvirkjun hafi sýnt ósveigjanleika, ósanngirni og hafi árin 2010-2011 við samningsgerð misnotað einokunaraðstöðu sína á íslenzka raforkumarkaðinum til að knýja fram skilmála, sem nú séu orðnir óbærilegir. Ætlar iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, að láta þá atburði gerast "á sinni vakt", sem hrinda mundu Íslandi út í kreppu, stóraukið atvinnuleysi, minnkun stóriðjutekna Landsvirkjunar um þriðjung og fall viðskiptajafnaðar undir 0 með þeim afleiðingum, sem það mun hafa á efnahagslegan stöðugleika í landinu.  

Í íslenzka raforkukerfinu er lágur breytilegur kostnaður (rekstrarkostnaður), kostnaður er að mestu fastur (fjármagnskostnaður), og þá er s.k. langtíma jaðarkostnaður kerfisins vinnslukostnaður á hverja kWh í næstu virkjun.  Ef á að nota þessa stærð sem grundvöll nýrra orkusamninga, er Ísland líklega nú þegar orðið ósamkeppnishæft á orkusviðinu. Þessi tegund verðlagningar er reist á þeim boðskap orkupakka ESB, að hvert fyrirtæki eigi að hámarka gróða sinn og ekki að sinna neinu öðru.  Með þessu sjónarmiði er lögð fyrir róða sú hefðbundna íslenzka orkustefna, að orkulindirnar skuli nýta til eflingar atvinnulífi og til bættra lífskjara í landi, auðvitað einnig með hagfelldum hætti fyrir viðkomandi orkufyrirtæki.  Með ESB-leiðinni er sá kostur raforkukerfisins ekki nýttur til öflunar viðbótartekna, að stór hluti orkukerfisins og þar með kostnaðar orkukerfisins er þegar bókhaldslega afskrifaður.  Við gerð langtímasamninga þarf aðeins að ganga úr skugga um, að orkuverðið tryggi alltaf nauðsynlega ávöxtun eignanna. 

Stöplaritið, sem höfundarnir sýna í grein sinni, bendir til, að ofangreind tilgáta um verðlagningarstefnu Landsvirkjunar sé rétt, því að verðið´með flutningsgjaldi, sem þeir sýna þar fyrir meðalstóra notendur, 10-20 MW, er svipað núgildandi verði fyrir alla orkunotkun ISAL, forgangsorku og ótryggða orku.  Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en þessi verðlagning á 400 MW til ISAL nær engri átt.

Höfundarnir, Sveinbjörn og Valur, leggja fram í téðri grein sinni athyglisverðar upplýsingar, sem vert væri, að Landsreglarinn á Íslandi (forstjóri OS) spyrði sinn norska starfsbróður um (sá gegnir sjálfstæðu embætti, aðskildu frá NVE, norsku orkustofnuninni, t.d. á vettvangi ACER, Orkustofnunar ESB: 

"Undanfarið hafa sérstakir þættir haft áhrif á raforkumarkaði á Norðurlöndunum, sem rýra tímabundið samkeppnisstöðu raforkusölu til stórnotenda á Íslandi.  Dæmi um það eru beinir ríkisstyrkir stjórnvalda, t.d. í Noregi, til vissra stórnotenda til að lækka raforku kostnað þeirra.  Árið 2019 námu þessir ríkisstyrkir rúmlega 20 milljörðum ISK í Noregi."

  Ef þessari upphæð er deilt með allri orku Noregs til stóriðnaðar, fæst ríkisstyrkur upp á yfir 6 USD/MWh til stóriðju, sem er meira en fimmtungur af meðalverði til stóriðju á Íslandi.  Þarna er verið að veikja samkeppnishæfni Íslands þvílíkt gagnvart Noregi, að ekki er hægt að láta óátalið.  Það er stórfurðulegt, að þessar upplýsingar koma þarna fram hjá Landsvirkjun, eins og ekkert hafi í skorizt.  Þetta er stórmál, sem EES-ríkið Ísland og hagsmunaaðili í málinu getur ekki látið afskiptalaust.  Í sambandi við athugun iðnaðarráðherra á samkeppnishæfni raforkuverðs á Íslandi liggur beint við, að ráðuneyti hennar sendi fyrirspurn til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA um, hverju þetta sæti, og hvernig þetta samræmist samkeppnisreglum Innri markaðar EES. 

Í ljósi þessa er algerlega óþarfi fyrir iðnaðarráðherra Íslands að vera feimin við að tjá þann vilja ríkisins, að fyrirtæki þess, Landsvirkjun, gangi til samninga við RTA til að jafna samkeppnisstöðu ISAL á markaðinum. 

Landsvirkjunarmennirnir, Sveinbjörn og Valur, bættu um betur í grein sinni um niðurgreiðslur frá ríkjum heims á stofnkostnaði vindorkuvera:

"Annað dæmi eru niðurgreiðslur til vindorkuvera, sem selja niðurgreidda raforku í mörgum tilfellum til stórnotenda.  Stjórnvöld víða um heim hafa ráðstafað gríðarlegum fjármunum til þessara styrkja, en Alþjóða orkumálastofnunin áætlar, að árlegir styrkir til vindorkuverkefna í heiminum séu um mrdISK 6000.  Það er rúmlega tvöföld landsframleiðsla Íslands." 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Syrtir í álinn

Nú fara saman minnkandi hagvöxtur á alþjóðavísu og á Íslandi.  Greiningardeildir hérlendar í viðskiptabönkunum og Seðlabankinn voru í fyrra of bjartsýn um efnahagshorfur hérlendis 2020. Fyrir þremur mánuðum spáði Seðlabankinn 1,6 % hagvexti hérlendis í ár, en nú spáir hann aðeins 0,8 % hagvexti, sem er ávísun á vandræði margra fyrirtækja og mikið atvinnuleysi á íslenzkan mælikvarða. Veiran CoV-1-19 mun að öllum líkindum keyra hagkerfi heimsins í kreppuástand, og sumir spá lausafjárþurrð á borð við fjármálakreppuna 2007-2008. 

Það eru í meginatriðum 3 ástæður fyrir líkum á samdrætti íslenzka hagkerfisins, þótt verstu áhrifum veirunnar sé sleppt.  Í fyrsta lagi sveiflur í lífríki hafsins, t.d. minni uppsjávarafli, en aukning þorskveiða og hækkun á verði fiskafurða í erlendri mynt ásamt framleiðsluaukningu fiskeldisins hafa reyndar sveiflazt í hina áttina til útjöfnunar.

Í öðru lagi er minnkandi hagvöxtur í heiminum og áframhaldandi kreppuhætta í Evrópusambandinu (ESB) og Japan með stýrivexti þar niðri við 0 og skuldabréfakaup seðlabankanna.  Nýja kórónaveiran, CoV-1-19, sem upp gaus í Kína í desember 2019 og varð að skæðum faraldri þar mánuði seinna, hefur alla burði til að setja Kína, annnað stærsta hagkerfi heims, á hliðina, og hún hefur þegar borizt til Vesturlanda.  Tölur um sýkta og látna frá Kína eru tortryggilegar.  Opinberar tölur um dánarhlutfallið hélzt lengi vel fast frá degi til dags, 2,1 %, sem vekur grunsemdir um, að það kunni að vera miklu hærra, og fréttir frá Taiwan (Formósu) lúta að því.  Til að gera sér grein fyrir raunverulegu hlutfalli dauðsfalla þarf að reikna hlutfall látinna sem hlutfall af sýktum á sama tíma og hinir látnu.  Þá fæst fimmfalt ofangreint hlutfall, sem setur þessa veiru í flokk, sem er miklu skæðari en spænska veikin 1918-1919, en þá veiktust 63 % íbúa í þéttbýli, og af þeim létust 2,6 %. Þessi óáran hlýtur að hafa mjög neikvæð, tímabundin áhrif á ferðaiðnaðinn í heiminum. Nú sést varla kínverskur ferðamaður á götum Reykjavíkur. 

Þriðja ástæða kólnunar íslenzka hagkerfisins í fyrra kom fram í Baksviðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu, 6. febrúar 2020,

"Hagvöxtur helmingi minni í ár en fyrri spá gerði ráð fyrir".

Vitnað var í fund á vegum Seðlabanka Íslands, SÍ, daginn áður:

"Í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings SÍ, á kynningarfundi í gær kom fram, að útflutningur vöru og þjónustu hefði dregizt saman í fyrra um 5,8 %, og væri það mesti samdráttur frá árinu 1991.  Þá gerir bankinn ráð fyrir, að enn muni [útflutningurinn] draga[st] saman sem nemi 1,4 % í ár.  Gangi sú spá eftir, er það í fyrsta sinn, sem samdráttur mælist samfellt í 2 ár frá árunum 1991-1992."

Þessi rýrnun útflutningstekna landsins stafar að langmestu leyti af færri millilendingarfarþegum og komufarþegum til landsins. Að einhverju leyti stafar þetta af gjaldþroti VOW-air, en þó virðist nægt framboð flugsæta til landsins, enda flugfélögin um 25, sem hingað fljúga.  Ferðamönnum til hinna Norðurlandanna fjölgaði í fyrra, svo að ástæða fækkunar hingað er að mestu leyti hátt verðlag. Eftir er að taka áhrif Kína-faraldursins CoV-1-19 með í reikninginn, en þau verða mikil, ef spá faraldursfræðinga um, að 60 %-80 % jarðarbúa smitist af þessari veiru í ár, rætist, og minni álútflutningur og lækkandi álverð eru heldur ekki þarna meðreiknuð. 

Samkeppnishæfni landsins hefur dalað eftir Lífskjarasamningana, sem þýðir, að þeir voru of dýrkeyptir, a.m.k. fyrir fyrirtæki, þar sem stór hluti starfsmanna er í neðri hluta launastigans.  Það á einmitt við um ferðamannaiðnaðinn.  Verkefni ríkisvaldsins er að leggja drögin að endurheimt samkeppnishæfninnar, en það eru engin teikn á lofti um það, nema yfir Svörtuloftum, og þaðan berast þó blendin boð vegna gamallar ákvörðunar FME, sem nú er stjórnað af Svörtuloftum, um aukna eiginfjárbindingu viðskiptabankanna. 

Að starfsmenn hjá hinu opinbera skuli nú berjast með kjafti og klóm fyrir meiri hækkunum launa en kveðið er á um í téðum Lífskjarasamningum, er atlaga að þanþoli hagkerfisins og lýsir einhvers konar sjálfstortímingarhvöt og/eða veruleikafirringu, nema hér sé um gamalkunna stéttabaráttu eða hreinræktaða skemmdarverkastarfsemi í anda Marx og Leníns að ræða.  Þeir, sem nú skekja sverðin framan í atvinnurekendur, verða að sjá að sér, slíðra þau og sæta betra færis en nú er, þegar hagkerfið riðar til falls vegna fallandi útflutningstekna. Á hinum Norðurlöndunum væri þessi uppákoma útilokuð.  

Baldur Arnarson birti 5. febrúar 2020 opnuviðtal í Morgunblaðinu við Sigurð Hannesson, sem gerir sér grein fyrir vandanum, og hvað þarf að gera.  Kostnaður fyrirtækjanna er of hár, launakostnaðurinn er sá hæsti innan OECD sem hlutfall af verðmætasköpun þeirra.  Við þessu er brugðizt með aðgerðum til að auka skilvirkni fyrirtækjanna og framleiðni vinnuaflsins.  Afleiðingin er uppsagnir starfsfólks og aukið atvinnuleysi, en það eru fleiri kostnaðarþættir, sem hafa hækkað, t.d. raforkan. 

Það er alveg stórfurðulegt og algert sjálfskaparvíti í ljósi þess, að yfir 90 % raforkugeirans er í opinberri eigu, og hagnaður fyrirtækjanna er meiri en nokkru sinni fyrr.  Hið opinbera verður að sýna þá ábyrgðartilfinningu í þessari stöðu að birta stjórnum þessara fyrirtækja þá eigendastefnu að setja samkeppnishæfni íslenzks atvinnulífs ofar á forgangslistann en arðgreiðslur til eigendanna.  Slík eigendastefna yrði öllum landsmönnum að gagni og felur ekki í sér mismunun viðskiptavina, á meðan landið er ótengt innri markaðinum fyrir raforku. Þetta er alls engin niðurgreiðsla rafmagns, eins og þó virðist vera stunduð í samkeppnislöndum okkar, enda skulu allar virkjanir reknar með hagnaði. Flutnings- og dreififyrirtækin þarfnast væntanlega tímabundins fjárhagslegs stuðnings vegna átaksþarfar nú á framkvæmdasviðinu án hækkunar gjaldskráa.

Opnuviðtalið bar þessa fyrirsögn: 

"Það er óveðursský yfir Íslandi".

Úrdrátturinn hljóðaði þannig:

"Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir hagkerfið á krossgötum.  Ef ekki verður gripið til aðgerða, sé hætta á stöðnun í verðmætasköpuninni.  Bezta leiðin til að snúa vörn í sókn sé að styrkja samkeppnishæfni landsins og ráðast í uppbyggingu innviða."

Sigurður ræddi um orkuverðið út frá hagsmunum iðnaðarins, en ítreka ber, að hátt orkuverð skerðir samkeppnishæfni alls athafnalífs, og það er útilokað, að íslenzkt atvinnulíf verði samkeppnishæft við evrópskt atvinnulíf með hærra einingarverð rafmagns í heild (raforka, flutningur, dreifing) en virðist nú vera við lýði t.d. í Noregi, Danmörku og Hollandi (ylrækt), að teknu tilliti til niðurgreiðslna í þessum EES-löndum.

Undir fyrirsögninni:

"Orkuverð skerðir samkeppnishæfni",

gaf þetta á að  líta:

"Sigurður telur rétt, í samhengi við, að blikur séu á lofti í hagkerfinu, að víkja að áhrifum raforkuverðsins á iðnaðinn:

"Orkusækinn iðnaður hefur skipt miklu máli fyrir hagkerfið.  Það var pólitísk ákvörðun á 7. áratugnum að stofna Landsvirkjun, ráðast í uppbyggingu slíks iðnaðar og fá stóra viðskiptavini til landsins.  Þessi uppbygging á mikinn þátt í, að lífskjör hér á landi eru jafngóð og raun ber vitni", segir Sigurður. Máli sínu til stuðnings vísar hann til þeirrar niðurstöðu SI, að framlag álframleiðslu til verðmætasköpunar í hagkerfinu nemi um mrdISK 1150 frá gangsetningu álversins í Straumsvík 1969, eða sem samsvari um 40 % af [núverandi] landsframleiðslu [á ári]."

 

""Þetta hefur því verið vel heppnuð vegferð og skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum.  Á síðustu árum hafa gagnaver orðið mikilvægur kaupandi raforku.  Það er hins vegar engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn, og það á líka við um virðiskeðjuna.  Þótt einn hlekkur í keðjunni hámarki sinn styrk, dugar það skammt, ef aðrir hlekkir eru við það að liðast í sundur", segir Sigurður og vísar til hámörkunar á arðgreiðslugetu Landsvirkjunar."

Frá sjónarmiði ríkisins, sem á Landsvirkjun, er það beinlínis óskynsamleg og óhagstæð stefna, sem tekin var upp hjá Landsvirkjun árið 2010 án umræðu á Alþingi, að stórhækka verð á afurð fyrirtækisins, sem eru aðföng þeirra fyrirtækja, sem verðmæti skapa úr orkunni.  Þjóðhagslega er hagkvæmara að skapa grundvöll fyrir samkeppnishæfri framleiðslu í landinu með því að vinna upp það óhagræði, sem felst í framleiðslu á Íslandi miðað við hagstæðustu staðsetningar í Evrópu.  Ísland á ekki að verða hráefnisland, heldur framleiðslu- og úrvinnsluland, sem hámarkar verðmætasköpunina.  Það verður þegar í stað að móta orkufyrirtækjunum þessa eigendastefnu, sem þýðir, að verðlagning raforkunnar ætti að vera sveigjanleg og háð skráðu markaðsverði á afurðum  útflutningsfyrirtækja í hópi viðskiptavinanna.

"Lengi vel tryggði orkuverðið hér á landi samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar.  Þróunin undanfarinn áratug er hins vegar sú, að orkuverðið hér hefur hækkað á sama tíma og orkuverð erlendis hefur heldur lækkað. Þannig að samkeppnishæfnin er ekki sú, sem hún var.  Nú má auðvitað deila um, hvort bilið í orkuverðinu milli landa var allt of mikið, en þetta er í öllu falli staðan núna."

 Í upphafi var raforkuverðið ákvarðað þannig, að það stæði undir kostnaði við Búrfellsvirkjun, sem var afar hagstæð, og 220 kV línur frá henni til þéttbýlisins á SV-landi (höfuðborgarsvæðinu) ásamt gasolíuknúinni neyðarrafstöð í Straumsvík, sem einnig þjónaði höfuðborgarsvæðinu fyrst í stað.  Þetta var gert til að draga hingað fjárfesta í orkukræfum iðnaði.  Síðan var nokkrum sinnum samið um hækkun raforkuverðs til fyrstu verksmiðjanna í Straumsvík og á Grundartanga, og var það ætíð í góðu samkomulagi á milli aðila, enda hafði afhendingaröryggið og þar með gæði raforkunnar tekið stakkaskiptum frá sokkabandsárum Búrfellsvirkjunar.

Samkomulag var um, að raforkuverð til álveranna tæki mið af skráðum alþjóðlegum markaðsverðum áls.  Með því vannst, að álverin mundu geta haldið áfram fullri framleiðslu, þótt í móti blési á mörkuðum, og þyrftu hvorki að fækka starfsmönnum né að draga úr orkukaupum sínum.  Þegar kom að gerð nýs raforkusamnings 2010 við ISAL, var hins vegar komið annað hljóð í strokkinn hjá Landsvirkjun, sem heimtaði afnám verðtengingar við álmarkaðina, en hins vegar aðra vísitölutengingu, sem er óskyld afkomu bæði álframleiðenda og orkuvinnslufyrirtækja.  Þetta reyndist illa, en fjárfestir í álveri er landfræðilega bundinn sinni fjárfestingu, og á þess vegna óhægt um vik, nema verksmiðjan sé talin afskrifuð.  Svo háttar ekki til í Straumsvík. Á afarkosti Landsvirkjunar var fallizt, en þegar markaðsaðstæður þróast á verri veg, eins og raunin hefur orðið vegna feiknarlegrar aukningar á framleiðslugetu Kínverja á áli, þá dregur slíkt dilk á eftir sér.

Það mætti hugsa sér aðra og fjölbreytilegri tengingu raforkuverðs til stórnotenda við alþjóðlegar vísitölur, sem varða bæði viðskiptavininn og birginn, t.d. að hluti raforkuverðsins verði tengdur alþjóðlegri vísitölu afurðaverðsins og hluti við alþjóðlega vísitölu orkuverðs, t.d. olíuverðs, en vitað er, að fylgni er á milli raforkuverðs í heiminum og olíuverðs.  Við slíkt ættu aðilar beggja vegna borðs að geta sætt sig í bráð og lengd. 

"Hyggjast samtök iðnaðarins beita sér fyrir því, að orkuverðið lækki ?  "Nei, það gerum við ekki, en við erum að segja, að við verðum að vera samkeppnishæf á öllum sviðum.  Það yrði auðvitað áfall, ef kaupendur að orkunni myndu frekar sjá sér hag í því að hætta starfsemi hér á landi en að halda henni áfram.  Áhrifin af því yrðu mikil", segir Sigurður.  Telur hann raunhæfar líkur á, að stórnotendur raforku hætti starfsemi hér á landi á næstu árum."

SI er auðvitað ekki samningsaðili, en mjög mikilvægur ráðgjafi fyrir félaga sína og stjórnvöld.  Það hljóta að blikka rauð ljós núna á skrifstofu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og orkuráðherra m.m., þegar framkvæmdastjóri SI telur raunverulega hættu á, að hluti orkukræfrar starfsemi hérlendis, sem Sjálfstæðisflokkurinn barðist farsællega fyrir að fá til landsins á sinni tíð, leggi senn upp laupana.

"Ég verð að segja það hreint út, að ég er mjög ósammála þeim málflutningi Landsvirkjunar, að orkuverð hér á landi sé mjög samkeppnishæft á sama tíma og stórir viðskiptavinir félagsins eru annaðhvort að draga úr framleiðslu eða kjósa að byggja upp starfsemi í öðrum löndum.  Viðbrögð fyrirtækjanna styðja ekki þennan málflutning Landsvirkjunar, sem vísar alltaf til meðalverðs á raforku.  En eins og réttilega hefur verið bent á, stendur engum til boða að kaupa á meðalverðinu.  Það er eðli slíkra meðaltala, að í þýðinu eru sumar tölur hærri og aðrar lægri."

[Undirstr. BJo.]

Dr Sigurður Hannesson fer ekki með neitt fleipur.  Orð hans tala skýru máli um það, að Landsvirkjun hefur neytt einokunaraðstöðu sinnar í samningum um raforkuviðskipti við fyrirtæki með útrunna stórsamninga og farið offari í verðlagningu á afurð náttúruauðlinda Íslands, þótt sanngirnissjónarmið og heilbrigð skynsemi standi til að gæta meðalhófs með atvinnuöryggi og gjaldeyrissköpun að leiðarljósi. Ríkisstjórnin verður að hrista af sér hlekkina og leiðrétta þetta villuráf Landsvirkjunar, og Alþingi, þar sem fulltrúar eigendanna sitja, þarf að ýta henni til verka.  Það verður einfaldlega síðan að sjá til, hvort Landsreglarinn gerir einhverjar athugasemdir við þá framgöngu í nafni ACER (Orkustofnunar ESB). Það er þó enginn að ætlast til niðurgreiðslna af hálfu ríkisins á raforkuverðinu, enda samrýmist slíkt engan veginn samkeppnisreglum Innri markaðar EES.   

  

 


Bölmóður "Besserwisser"

Það er stórfurðuleg fullyrðingagirni, sem gætir hjá sumum "beturvitum", um atvinnustarfsemi, sem þeim virðist vera mjög mjög í nöp við, en hafa þó sáralítið vit á.  Á þetta benti skarpur, en þó ekki óskeikull (frekar en aðrir), pistilhöfundur Viðskiptablaðsins, Óðinn, 31. október 30. janúar 2020, í pistlinum:

"Bölmóður spámaður, álskallinn & orkubúskapur".

Upphaf pistilsins gaf tóninn:  

"Óðinn undrast það reglulega, hve sumir þeir, sem búa á þessari litlu, afskekktu eyju [svo ?], eru iðnir við að tala hagsmuni fólksins í landinu niður. Veitir eyjarskeggjum þó varla af uppörvun nú eða bara áminningu um staðreyndir málsins: að landið er fagurt og frítt, þjóðin hugmyndarík og harðdugleg og að hún hefur náð einstæðum árangri við að þrífast, eflast og að auðga mannlífið þrátt fyrir fásinnið, erfið búsetuskilyrði og óblíð náttúruöfl.  

Það hefur ekki sízt gerzt með aukinni, en ábyrgri nýtingu náttúrugæða landsins, sem vísindi og verkþekking hafa á innan við einni og hálfri öld fært Íslendinga úr hópi fátækustu þjóða í röð þeirra, þar sem almenn velmegun er mest í heimi."

Þarna kemst Óðinn á skáldlegt flug, en sannleikurinn er sá, að úrtölumenn framfaranna hafa á öllum tímum reynt að láta að sér kveða, en undir mismunandi formerkjum og í ólíkum gæruskinnum.  Eftir fólksflutningana miklu úr sveitum landsins og "á mölina" á sjö fyrstu áratugum 20. aldarinnar, skapaðist atvinnupólitískur grundvöllur fyrir því að stofna til stóriðnaðar í grennd við þéttbýli, sem knúinn væri af virkjaðri orku vatnsfalla.  Landsmenn höfðu hins vegar hvorki næga þekkingu þá né fjárhagslegt bolmagn til að reisa slík mannvirki, og erfitt reyndist að finna fúsa áhættufjárfesta til að ríða á vaðið. 

Viðreisnarstjórninni undir forystu dr Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafstein tókst þetta samt á tímabilinu 1960-1966, en mættu þó feiknarlegu pólitísku moldviðri þeirra, sem töldu eða létu sem erlendar fjárfestingar væru tilræði við sjálfstæði landsmanna.  Þessi áróður var runninn undan rifjum kommúnista, sem skildu ekki, að landsmenn þurftu á að halda erlendu fjármagni og þekkingu fyrir sjálfbæra verðmætasköpun og að hún er undirstaða fjárhagslegs og þar með pólitísks sjálfstæðis landsins.

Nú hefur landsmönnum vaxið fiskur um hrygg, og þeir eru fyrir löngu færir um að hanna og reisa sjálfbærar virkjanir á eigin spýtur og að reka stóriðnað í fremstu röð, og íslenzka ríkið hefur jafnvel bolmagn til að eignast meirihluta í fyrirtæki um stóriðjurekstur á borð við Norsk Hydro, eins og norska ríkið, en það er hins vegar ekki minnsta vitglóra í að festa skattfé í svo áhættusömum rekstri.  Þess vegna var upprunaleg stefnumörkun ríkisins um að hafa öruggar tekjur af raforkusölu til stóriðjunnar ásamt skatttekjum af viðkomandi fyrirtækjum og starfsmönnum, hvernig sem kaupin gerðust á eyrinni með afurðir hennar, hárrétt.  

Nú eru hins vegar komin fram á sjónarsviðið þjóðfélagsöfl, sem setja sig upp á móti nánast öllum framkvæmdum í landinu, sem tengjast frekari orkunýtingu og jafnvel bráðnauðsynlegum endurbótum á núverandi flutningskerfi raforku á milli landshluta.  Áfram er þessi barátta háð á hugmyndafræðilegum grunni, en nú algerlega laus við atvinnupólitíska skírskotun eða vísun til sjálfstæðis þjóðarinnar, eins og voru ær og kýr kommúnistanna "í den", heldur er nú hamrað á útliti og meintu skaðlegu inngripi í náttúruna.  Málflutningurinn einkennist af tilfinningaþrungnum frösum um náttúruvernd, eins og "náttúran á að njóta vafans", þótt náttúran sjálf sé mesti mögulegi breytingavaldurinn í íslenzku umhverfi, og maðurinn léttvægur í því tilliti, eins og dæmin sanna.   

Hér þarf auðvitað að koma að almennri skynsemi og láta ákvarðanatöku fara fram á grundvelli fjárhagslegs mats á kostum og göllum, þar sem fórnarkostnaður náttúru er metinn á móti tekjum af mannvirkjum og tjóni af að láta vera að framkvæma.

"Einmitt til þess [að halda öfgakenndum náttúruverndarsjónarmiðum á lofti- innsk. BJo] var Bölmóður spámaður tekinn tali í Silfrinu á dögunum, en þar var kominn Tómas Guðbjartsson læknir, Lækna-Tómas sjálfur.  Sá sparaði ekki stóru orðin og sagði, að álverið í Straumsvík væri í líknandi meðferð, eins og þar væri dauðvona sjúklingur, en það líkingamál af eigin starfsvettvangi notaði hann vafalaust, til þess að enginn efaðist um, að hann vissi um, hvað hann væri að tala."

Bölmóður þessi í læknislíki lætur ósnotrar tilfinningar sínar í ljós í garð starfseminnar í Straumsvík, þegar hann hrapar illilega að niðurstöðu sjúkdómsgreiningar sinnar á ISAL.  Innyfli fyrirtækisins eru nefnilega í góðu lagi og að töluverðu leyti aðeins um 8 ára gömul vegna mikilla fjárfestinga Rio Tinto í Straumsvík í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008, þegar Íslendingar þurftu einmitt mest á fjárfestingum í atvinnustarfsemi að halda.  Aðföngin eru hins vegar of dýr m.v. afurðaverðið, en það stendur til bóta, þar sem verð á súráli og kolum er að þokast niður.  Raforkuverðið er hins vegar hið hæsta á Norðurlöndunum til sambærilegrar starfsemi, enda t.d. niðurgreitt af ríkissjóði í Noregi til að viðhalda starfsemi stóriðju í dreifðum byggðum Noregs.  Er út af fyrir sig einkennilegt, að Samkeppniseftirlitið í Noregi eða ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, skuli ekki opinberlega fetta fingur út í slíka ríkisaðstoð á Innri markaði EES. Ef ISAL er líkami, eins og Tómas, læknir, stillir upp, má líkja raforkuverðinu við blóðtöku, sem ekki gengur lengur, enda raforkukostnaður tæplega 30 % af tekjum fyrirtækisins.  Enginn aðili í landinu er tilbúinn að kaupa orkuna, sem ISAL nú notar, eða drjúgan hluta hennar, á viðlíka skilmálum og ISAL má búa við, enda er það langhæsta verðið til áliðnaðarins í landinu og sennilega á Norðurlöndunum.  Verðið er þess vegna gjörsamlega ósamkeppnishæft.  Samningurinn er óviðunandi og að alþjóðarétti á Rio Tinto þá rétt á endurupptöku samningsins, enda eru forsendur um verðþróun á afurð ISAL brostnar. Ef Landsvirkjun þrjózkast við að semja, verður ISAL lýst gjaldþrota og Rio Tinto mun krefjast þess fyrir rétti með vísun til misbeytingar Landsvirkjunar á einokunarstöðu sinni að losna undan orkukaupskyldu raforkusamningsins.  Hér er um leiftursókn stjórnar Rio Tinto að ræða áður en Landsvirkjun gefst kostur á að sýna fram á, að hún hafi aðra viðskiptavini fyrir umrædda orku við fjarlægan enda aflsæstrengs.

 Ofangreind ummæli Tómasar, læknis, eru þýðingarlítil í þessu samhengi, en þau eru hins vegar ósmekkleg og bera vott um ótrúlega meinfýsi, sem jaðra við illgirni.  Um þau hafði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Ágúst Bjarni Garðarsson, eftirfarandi orð á bls. 39 í Morgunblaðinu, 6. febrúar 2020:

"Nýlega sagði Tómas Guðbjartsson, læknir, álverið í Straumsvík vera dauðvona og á líknandi meðferð.  Það er dapurlegt að skynja þau viðhorf, sem fram koma í ummælum læknisins til þessa stóra vinnustaðar í landinu og þeirra einstaklinga, sem þar starfa. Í álverinu í Straumsvík starfa um 400 starfsmenn með ólíka menntun og reynslu ásamt því, að álverið er einn stærsti útflytjandi vara frá Íslandi. Það gefur því augaleið, að fyrirtækið er samfélaginu mikilvægt og er eitt af okkar góðu og traustu fyrirtækjum.  Málflutningur sem þessi er því óásættanlegur og í raun með öllu óboðlegur." 

Það fer ekki á milli mála eftir þennan lestur, að Tómas, læknir, Guðbjartsson, hefur unnið málstað virkjana- og iðnaðarfénda eftirminnilegt tjón með málflutningi sínum.

 

Téður Bölmóður beitti þó ýmsum áróðursbrögðum í þessum Silfursþætti til að vekja samúð með málflutningi sínum, sem er samt eins loftslagsfjandsamlegur og hugsazt getur.  Reyndi hann m.a. að líkja alræmdum fjandskap sínum í garð umhverfisvænstu raforkuvinnslu á jörðunni við baráttu Íslendinga fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á 200 mílna lögsögu sinni í kringum Ísland. Þessi samanburður var algerlega út í hött hjá lækninum. Þar voru Íslendingar að berjast fyrir efnahagslegri tilveru sinni, en Bölmóður Besserwisser berst hins vegar gegn því, að orkulindir landsins séu nýttar með aðferðum beztu tækni hvers tíma til að skapa vinnu í landinu og gjaldeyri til að viðhalda jákvæðum viðskiptajöfnuði við útlönd. Áfram með Óðin:

"Íslendingar framleiða ál með endurnýjanlegri og hreinni orku, mestmegnis frá vatnsaflsvirkjunum.  Kínverjar framleiða 87 % af áli sínu með kolabruna.  Það felst því gríðarlegur tvískinnungur í því að segjast vera umhverfisverndarsinni og vera á móti álverum á Íslandi.  Kallar raunar annaðhvort á einbeittan brotavilja eða fádæma vanþekkingu.  Því [að] þó að það kunni að vera hægt að halda smitsjúkdómum í skefjum með landamæravörðum, þá virðir mengunin engin landamæri."

Óskir Bölmóðs Besserwissers um, að allar frekari virkjanaframkvæmdir í landinu verði stöðvaðar, eru ósanngjarnar, óraunhæfar og taka ekkert tillit til þess, sem um þessar mundir er kölluð mesta umhverfisvá jarðar; hættan á óviðráðanlegri hlýnun af völdum koltvíildis í andrúmsloftinu.  Þessar óskir eru ósanngjarnar vegna þess, að þær vinna gegn eðlilegri þróun verkmenningar og atvinnulífs í landinu, sem fjöldi manns mun hafa lífsviðurværi sitt af og er eitt helzta skattaandlagið til tekjuöflunar fyrir sífellt dýrara heilbrigðiskerfi og annarrar samfélagslegrar þjónustustarfsemi.  Óskirnar um að stöðva þessa þróun eru óraunhæfar vegna þeirra gríðarlegu viðbótar verðmæta, sem nýjar virkjanir geta skapað.  Þá hefur fólksfjölgun í landinu í för með sér aukna orkuþörf, og orkuskipti á landi, legi og í lofti eru ekki möguleg án nýrra virkjana.

Ávinningur og fórnarkostnaður af virkjunum endurnýjanlegrar orku er hins vegar misjafn. Vítt og breitt um heiminn hafa þjóðir veitt háum fjárhæðum til að niðurgreiða raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum vegna þess, að þær hafa ekki í önnur hús að venda með endurnýjanlega orku. Ríkisstjórnir hafa jafnvel niðurgreitt raforkuverð til stóriðju á byggðapólitískum eða þjóðhagslegum grunni. 

Hérlendis hefur slíkt sem betur fer ekki komið til tals, en hins vegar hafa ýmsir uppi áform um að reisa vindmyllugarða, sem tengdir yrðu inn á stofnkerfi raforku. Hár fórnarkostnaður fylgir þó vindmyllum.  Landnýting þeirra er léleg, mæld í MWh/ár/km2, í samanburði við hefðbundnar íslenzkar virkjanir á fallorku vatns og jarðgufu.  Þetta þýðir, að vindmyllugarðar þurfa tiltölulega mikið land og vegna hæðar sinnar sjást þeir mjög víða að.  Þeir eru til lýta langt að. Frá vindmyllum stafar skaðlegur hvinur á lágum tíðnum, og fuglum er hætta búin af spöðum á miklum hraða (spaðaendar). 

Á Íslandi er ekki sambærileg þörf á að taka á sig þennan fórnarkostnað og víða erlendis, af því að enn er nóg af virkjanakostum endurnýjanlegrar orku í landinu með lægri fórnarkostnað í ISK/MWh/ár en vindmyllugarðar. Þess vegna er áhugi fyrir vindmyllugörðum á Íslandi ótímabær, og kannski verða þær aldrei réttlætanlegar.  Það eru þó helzt íbúar í grennd við fyrirhugaða vindmyllugarða, t.d. á Hróðnýjarstöðum við Hvammsfjörð, sem látið hafa andstöðu sína opinberlega í ljós.  Á þessu vefsetri hefur verið bent á tiltölulega stórt kolefnisspor uppsettra vindmyllna.

"Tómas sagði í pistli sínum, að ef álverið hætti starfsemi, gæti "Landsvirkjun beitt sér fyrir sölu á raforku til annarrar og uppbyggilegri starfsemi, t.d. grænmetisbænda, og flýtt fyrir rafvæðingu bíla og skipaflotans".

 Þetta er aumkvunarverður málflutningur hjá Bölmóði Besserwisser.  Á Landsvirkjun að mismuna viðskiptavinum og flokka þá eftir því, hvort þeir stunda "uppbyggilegri starfsemi" en álver eða ekki ?  Reyndar hefur Bölmóður sjálfur gefið þarna forskriftina.  Það er misskilningur hjá honum og dæmigert fyrir "rörsýn", að orkusala Landsvirkjunar eigi að snúast um annaðhvort eða.  Hjá Landsvirkjun á valið að vera hvort tveggja.  Rafmagnsálag gróðurhúsa getur verið tiltölulega jafnt, a.m.k. lungann úr árinu, og hefur þess vegna svipuðu hagstæðu einkenni og álag álvers fyrir orkuvinnslufyrirtækið.  Ef langtímasamningar takast, ætti Landsvirkjun að geta teygt verðlagningu til gróðurhúsa í átt að því, sem gildir um álverin.  Orkunotkun meðalstórs gróðurhúss er hins vegar innan við 0,7 % af orkunotkun minnsta álversins á Íslandi á ári.  Gróðurhúsabændur gætu e.t.v. haft samflot um orkusamninga, ef Samkeppnisstofnun leyfir slíkt, en það er varla hægt að bera saman orkusölu til gróðurhúsa og álvera vegna stærðarmunar á samningum. 

Það er enn fráleitara að stilla álveri og orkuskiptum bíla- og skipaflotans upp sem valkostum, hvorum gegn öðrum, og tæknin fyrir rafvæðingu alls skipaflotans er enn ekki fyrir hendi.  Það er mjög óheilbrigt, þegar læknir fer að bölsótast út í tiltekna atvinnustarfsemi og leggja eitthvað til í staðinn, þegar hvorugur kostanna útilokar hinn.  Því miður veður læknirinn á súðum, þegar kemur að umfjöllun um virkjanir og iðnaðarmál.  Vonandi heldur hann samt ótrauður áfram að tjá sig, því að hann er duglegur við að varpa ljósi á, hversu lítið ofstækisfullir náttúruverndarsinnar hafa til síns máls.

Óðinn bendir svo á aðra hlið þessa máls, sem eru gróðurhúsaáhrifin, ef farið yrði að tillögu læknisins:

"En hvort ætli skili meiri árangri í minnkun útblásturs að rafvæða íslenzkan bílaflota eða nota endurnýjanlega orkugjafa við framleiðslu áls í heiminum.  Svarið er auðvitað augljóst hverjum þeim, sem hugsar um það eitt augnablik."

Allir bölmóðar og "Besserwisserar" þurfa að fara að gera sér grein fyrir því, að þegar meta á, hvort virkja á eða vernda, og einnig, þegar ákveða á til hvers á að nota hina endurnýjanlegu orku, þá verður nú á dögum að taka áhrif orkunýtingarinnar á koltvíildisstyrk andrúmslofts jarðar með í reikninginn. Það virðist hafa farið framhjá "Lækna-Tómasi" í öllum bægslaganginum.

Síðan kemur ályktun Óðins af þessari fremur lágreistu orkumálaumræðu; umræðu, sem fremur sorglegt er, að þurfi að fara fram árið 2020, því að hún er af svipuðum rótum runnin og orkumálaumræðan fyrir 55 árum, þ.e. frá afturhaldinu í landinu:

"Mergurinn málsins er sá, að hér er ekki um annaðhvort eða að ræða.  Ekkert er því til fyrirstöðu, að raforka verði nýtt í auknum mæli innanlands til þess að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi, líka til þess að rækta banana fyrir lýðveldið, en að áfram leggi Íslendingar sitt af mörkum til þess að framleiða ál með umhverfisvænum hætti og minnki fyrir vikið losun gróðurhúsalofttegunda."

Við þetta má bæta, því sem er ekki á allra vitorði, að rafgreining súráls fer í íslenzku álverunum fram með fast að því tæknilega mögulegri lágmarksmyndun CO2 og algengt er, að í öðrum álverum verði til a.m.k. tvöfalt lágmarksmagn koltvíildis við framleiðslu hvers áltonns.  Þetta stafar af því, að íslenzku verksmiðjurnar hafa náð mjög góðum tæknilegum tökum á rekstrinum við venjulegar aðstæður.  

 

 

 

 

 

 


Hálendisþjóðgarður þenur út ríkisbáknið

Það hefur ekki verið sýnt fram á neina raunverulega þörf á að stofna Miðhálendisþjóðgarð á Íslandi. Það þýðir að um gæluverkefni einstaks ráðherra eða smáflokks er að ræða, sem að öllu eðlilegu næði ekki langt í þingsal, þar sem brýn fjárþörf fjölmargra þjóðþrifamála ætti að krefjast allrar athygli þingmanna.  Vonandi sópa þeir þessum óþarfa undir teppið. 

Málefnum þjóðlendna á miðhálendinu er einfaldlega vel fyrir komið núna í samvinnu heimamanna, sveitarstjórna og forsætisráðuneytisins.  Það eru ekki haldbær rök, að með slíkri stofnun yrði til stærsti þjóðgarður í Evrópu, sem tæki yfir stjórnsýslu á allt að 2/5  landsins. Ásókn í hálendisferðir gæti aukizt við slíka auglýsingu , en umhverfisvernd á þessu viðkvæma svæði yrði enginn greiði gerður með slíku.

Spor stjórnsýslu ríkisins á þessu sviði hræða frá Vatnajökulsþjóðgarði.  Þar ku nú vera 40 stöðugildi, og fjármálastjórnunin þar var a.m.k. um tíma í svo miklum ólestri, að tiltökumál þótti í fréttaumfjöllun, og kalla landsmenn þó ekki allt ömmu sína, þegar kemur að meðferð opinbers fjár, því miður.  Fróðlegt væri að sjá árangursmælikvarða þessarar stofnunar borna saman við árangurinn eða ánægjumælingar viðskiptavina hennar. Í stuttu máli er óheillavænlegt að fá "kontóristum" í Reykjavík umsjón með viðkvæmri náttúru. Þar er umsjón heimamanna eðlilegri og heillavænlegri.  Ferill miðstýringaráráttunnar er almennt ókræsilegur frá sjónarmiði skattborgara og neytenda.

Núna hvílir stjórnun á þjóðlendum miðhálendisins á sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga, sem spanna þessar þjóðlendur, og uppgræðslustörf hvíla að miklu leyti á bændum í sjálfboðastarfi.  Nauðsynleg samræming þessara starfa er fyrir hendi samkvæmt lagasetningu þar um, og það er mjög mikill kostur, að frumkvæðið komi frá heimamönnum á hverjum stað, enda eiga þeir mestra hagsmuna að gæta, að vel takist til um hið gullna jafnvægi náttúrunýtingar og náttúruverndar.  Ríkisbákn mun kæfa þetta frumkvæði byggðanna og draga úr því, að þekking og reynsla þeirra, sem bezt þekkja til á hverjum stað, fái notið sín.  Ríkisvæðing þessarar starfsemi er þess vegna algerlega óþörf og alvarlegt skref aftur á bak í náttúruvernd og náttúrunýtingu á Íslandi. Einhæfni er aldrei til góðs. 

Ætlun umhverfisráðherra er að koma upp ríkisbákni með háu flækjustigi, sem verður ópersónulegt og ófært um að veita almennilega þjónustu og með óljósa ábyrgðarskiptingu.  Nýtt silkihúfuapparat, Þjóðgarðastofnun, verður yfir öllum þjóðgörðum, þ.á.m. Miðhálendisþjóðgarði, og síðan verður stjórn yfir hverjum þjóðgarðsverði.  Hér gengur "Parkinson" ljósum logum, og ábyrgðin týnist í holtaþoku.  Það er með ólíkindum, ef þetta gæluverkefni umhverfisráðherra fær framgang á Alþingi, sem þarf að kljást við mörg brýnni verkefni, t.d. innviðauppbyggingu, um þessar mundir.  

Forystugrein Morgunblaðsins 20. janúar 2020 bar nafnið 

"Hálendisþjóðgarður" ,

og þar voru viðraðar réttmætar efasemdir um réttmæti þessa þjóðgarðs:

"Áform um hálendisþjóðgarð hljóma vel, en hvað þýða þau í raun, og hverju eiga þau að skila, sem ekki má ná með einfaldari hætti og í meiri sátt ?  Á vef umhverfisráðuneytisins segir, að markmiðin með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu séu "margþætt, svo sem að vernda náttúru og sögu miðhálendisins og skapa umgjörð um svæðið, sem gefur almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess, menningu og sögu."  Með þessu er líklega aðallega átt við að koma upp gestastofum, sem veita upplýsingar um þjóðgarðinn, ráða landverði og kynna reglur um umgengni um svæðið.  Ekkert hindrar stjórnvöld í að ná þessum markmiðum og ýmsum öðrum, svo sem um rannsóknir á svæðinu, án stofnunar þjóðgarðs."  

Hætt er við, að Þjóðgarðastofnun og Miðhálendisþjóðgarður skari hlutverk ýmissa annarra stofnana, og hefur Minjastofnun þegar kvartað undan því.  Bendir það til, að hér sé ætlunin að koma gaukseggi fyrir í stofnanahreiðri ríkisins á forsendum annarlegra stefnumiða græningja.  Þegar þannig er um hnútana búið, er hugmyndin í rauninni andvana fædd.  

"Enn fremur segir:"Þjóðgarðinum er einmitt ætlað að efla samfélög og styrkja byggð og atvinnustarfsemi, ekki sízt heima í héraði."  Þetta er umdeilanlegra, og þegar hafa komið fram efasemdir um, að svo víðtækur þjóðgarður sé til þess fallinn að ná þessu markmiði.  Þá hafa heimamenn áhyggjur af því, að áhrif þeirra um, hvernig gengið skuli um svæðið, og hvernig það skuli nýtt, færist frá þeim og til annarra.  Og þeir hafa fulla ástæðu til að óttast, þegar þeir sjá, að eitt af markmiðum með stofnun þjóðgarðsins er að tryggja aðkomu félagasamtaka að stefnumótun svæðisins og ákvarðanatöku um landnýtingu." 

Valddreifing og metnaður heimamanna fyrir hönd síns sveitarfélags varðandi þróun þjóðlendna innan marka þess er lykilatriði fyrir lýðræðislega málsmeðferð og stjórnun verndar og nýtingar þessara verðmætu landssvæða.  Það hefur ekkert verið upp á heimamenn að klaga í þessum efnum, svo að vitað sé, og heilbrigð samkeppni á milli sveitarfélaganna er miklu vænlegri til árangurs en dauð hönd miðstýringar skrifstofufólks  í Reykjavík með yfirborðslega þekkingu á hagsmunum þjóðarinnar á hálendinu.  Gullfoss er víti til varnaðar.  Bláskógabyggð vildi reisa þar gestamóttökuaðstöðu til heiðurs Sigríði í Brattholti, en þegar ríkið komst með klærnar í málið, var húsinu breytt í salerni, og nú mun ríkið vera að gefast upp á rekstri þessara salerna.  

Miðstýring á þessum vettvangi hentar illa og er alger óþarfi, enda málum vel fyrir komið, eins og er.  Útgjaldaauki ríkissjóðs verður ærinn, og fjárveitingar munu illa nýtast til þarfra umbóta, en brenna upp í vafstri í kringum kerfið sjálft.  

"Augljóst er, þegar þau sjónarmið, sem umhverfisráðherra hefur sett fram, eru skoðuð, að meginmarkmiðið með þjóðgarði, sem spannar allt hálendi landsins, er að koma í veg fyrir frekari virkjanir á svæðinu.  Öðrum markmiðum mætti ná fram á annan hátt." [Undirstr. BJo.]

Þessi niðurstaða Morgunblaðsins er kjarni þessa máls og meginástæða þess, að því fer víðs fjarri, að víðtækt samkomulag geti náðst um það.  Þetta er heldur ekki stefna ríkisstjórnarinnar.  Þetta kunna að vera blautir draumar umhverfisráðherrans og forsætisráðherrans, en enginn borgaralegur stjórnmálaflokkur getur lagt nafn sitt við svo öfgafulla verndunarstefnu og þar með tekið brauðið frá komandi kynslóðum.  Það er ábyrgðarleysi núna, þegar við sjáum, hversu fallvaltur ferðamannaiðnaðurinn er, að ætla að útiloka aðrar orkuframkvæmdir en þær, sem nú þegar eru í nýtingarflokki á miðhálendinu. Þessi gamla nauðhyggja um, að eitt útiloki annað, er fyrir löngu orðin óviðeigandi, því að tækniframfarir gera nú kleift að velja framkvæmdakosti, sem falla afar vel að umhverfinu. 

Orkuskiptin munu skapa fjölbreytileg orkunýtingartækifæri, sem öll eru gjaldeyrissparandi eða gjaldeyrisskapandi.  Af hinum síðar nefndu má nefna rafgreiningu vatns til útflutnings á vetni.  Sveitarfélög á NA-Englandi hafa í hyggju að leysa jarðgas af botni Norðursjávar til upphitunar húsnæðis af hólmi með vetni, og Íslendingar geta með verkfræðikunnáttu sinni framleitt hundruði þúsunda tonna af vetni á sjálfbæran hátt, ef þeir láta ekki þröngsýna og fordómafulla stjórnmálamenn taka frá sér lífsbjörgina með brögðum.  Með nútíma tækni og verkkunnáttu má fella virkjanamannvirki mjög vel að umhverfinu.  Framtíðin ber væntanlega í skauti sér jafnstraumsjarðstreng á milli Norður- og Suðurlands.  Inn á slíkan streng gæti orka virkjana á hálendinu farið.  Það þarf þess vegna ekki að óttast loftlínur þar.  

"Annað, sem stjórnvöld verða að svara, er, hvernig það að hindra uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuframleiðslu fer saman við markmið í loftslagsmálum, þar sem allt kapp er lagt á að draga úr losun kolefnis (nema e.t.v.,þegar flogið er með flokk manna á ráðstefnur um loftslagsmál). 

Fram hefur komið, að framleiðsla á áli er t.d. að færast til Kína, sem framleiddi um aldamót 10 % áls í heiminum, en framleiðir nú 56 % alls áls.  Þessi framleiðsla er að langstærstum hluta með jarðefnaeldsneyti.  Væri ekki nær fyrir Ísland, í ljósi loftslagsmarkmiða, að auka orkuframleiðslu og draga þannig úr notkun kola og olíu við margvíslega framleiðslu eða rekstur gagnavera ?

Þetta er meðal þess, sem stjórnvöld verða að taka afstöðu til og útskýra fyrir landsmönnum, hvernig markmið í loftslagsmálum fara saman við að hindra frekari uppbyggingu á framleiðslu endurnýjanlegrar orku."

Hér fitjar Morgunblaðið upp á gríðarlega mikilvægu máli, sem spannar miðlægt mál í stjórnmálaumræðu dagsins.  Það hefur dregið mjög úr trúverðugleika fullyrðinga stjórnvalda í Þýzkalandi, að þau á sama tíma og þau leggja þungar byrðar á skattgreiðendur og neytendur (sama fólkið) til að stemma stigu við losun koltvíildis út í andrúmsloftið, hafa fyrirskipað lokun kjarnorkuvera 2021 og lagt bann við nýjum, þótt kjarnorkan ein sé í færum til að leysa kolaorkuverin af hólmi án áfalla fyrir hagkerfið og afhendingaröryggi raforku. 

Það er heldur ekki hægt að taka íslenzk stjórnvöld alvarlega og hástemmdar yfirlýsingar þeirra um hlýnun sjávar og andrúmslofts af völdum gróðurhúsaáhrifa CO2, á sama tíma og þau leggja stein í götu nýtingar endurnýjanlegra orkulinda landsins.  Sú nýtingarfjandsemi er blind afturhaldsstefna, reist á bábiljum um skaðsemi hagvaxtar og annað í þeim dúr, en sama fólk hefur þó ekki opinberlega enn lagzt gegn kjarabótum almennings.  Þær kjarabætur verða aðeins tryggðar með aukinni verðmætasköpun, sem verður í askana látin.

 

 


Mistök við verðlagningu orku

Kostnaður raforkuvinnslu á Íslandi er að yfirgnæfandi hluta fjármagnskostnaður, og þess vegna er hægt að áætla hann með góðri nákvæmni langt fram í tímann. Með því að gera langtímasamninga um orkusölu frá íslenzkum virkjunum er hægt að fjármagna þær með lítilli áhættu.  Það þýðir, að þessi verkefni falla í einna lægsta vaxtaflokkinn hjá lánastofnunum.  Vegna þess að framleiðsluháður kostnaður þessara virkjana er tiltölulega mjög lágur, er hagkvæmast að reka virkjanirnar stöðugt á sem næst fullu álagi.  Þetta er einmitt Akkilesarhæll vindorkuveranna.

Þessi kostnaðaruppbygging hefðbundinna íslenzkra orkuvera, vatnsafls- og gufuaflsvera, hefur auðvitað áhrif á það, hvernig hagkvæmast er fyrir virkjunareiganda að semja um orkusöluna.  Í henni þarf að vera hvati til kaupenda til að halda uppi stöðugu álagi og helzt sem næst stöðugu hámarksálagi, hvað sem í skerst á mörkuðum viðskiptavina orkuveranna.  M.ö.o. að þessir viðskiptavinir vatnsafls- og gufuaflsvera haldi einna lengst út, þegar á móti blæs á afurðamörkuðum viðskiptavinanna. Á þessu hefur Landsvirkjun flaskað frá 2010, er upprunalegi rafmagnssamningurinn frá 1966 við Alusuisse, með mörgum viðbótum, var endurnýjaður, þar sem gildistími hans var að renna út. 

Álmarkaðurinn 2019 var lélegri en árið áður, og enn eru engin handföst batamerki komin í ljós. Markaðurinn hefur þróazt til verri vegar en menn grunaði 2010. Afleiðingin er sú, að ISAL neyðist til að halda framleiðslu sinni 2020 við lágmarkið, sem ákvarðast af kaupskyldu raforkusamningsins, til að draga úr rekstrartapinu. Hin tvö álverin á Íslandi sjá ekki  ástæðu til að feta sömu slóð, enda búa þau við umtalsvert lægra raforkuverð samkvæmt eldri samningum. Segir þetta ólíka hátterni sína sögu um áhrif raforkuverðsins á ákvarðanatöku og á afkomuna. Að flíka síðan meðalverðinu og fullyrða, að það sé samkeppnishæft, er ekki lausnarmiðuð nálgun vandamálsins, en Landsvirkjun stingur í hausnum í sandinn og lætur sig hafa þann málflutning.

Nú berast loksins einhver tíðindi ofan úr orku- og iðnaðarráðuneytinu í tilefni af þessu og var ekki vonum fyrr.  Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur nú ákveðið að komast til botns í þessu máli og hefur fengið til þess erlendan aðila, sennilega af því að hún treystir því ekki, að rannsókn innlendra aðila, sem þónokkrir gætu leyst þetta verkefni, yrði óvilhöll.  Allt er undir því komið, hvernig verklýsing ráðherrans er.  Til að komast til botns í því máli, hvort summa orkuverðs, flutningsgjalds og opinberra gjalda á rafmagnið til íslenzkra fyrirtækja með langtímasamninga við íslenzka orkubirgja sé samkeppnishæft, verður að taka alla kostnaðarþætti viðskiptavina þeirra með í reikninginn.  Að hrapa að niðurstöðu í þessu máli er verra en að láta vera að rannsaka málið.  Hætt er við, að rannsóknin verði æði yfirgripsmikil og dragist á langinn, nema hún sé í upphafi einskorðuð við þann viðskiptavin, sem þyngstar ber byrðarnar af völdum raforkukaupa í þessum hópi, reiknað í USD/MWh.

Nú berast fregnir af því, að viðskiptavinir íslenzks gagnaversfyrirtækis hafi séð sér þann kost vænstan að lækka hjá sér rekstrarkostnað með því að draga úr rafmagnsálaginu.  Ber þá allt að sama brunni.  Raforkubirgjar á Íslandi fara villur vegar um það, hvað er samkeppnishæft raforkuverð til meðalstórra og stórra raforkunotenda á Íslandi.  Þegar þessi mál eru vegin og metin, blasir við, að Landsvirkjun sem langstærsti orkusali landsins á heildsölumarkaði hefur yfirverðlagt afurð íslenzkra orkulinda við gerð nýrra orkusamninga og sérstaklega við endurnýjun gamalla og heldur uppteknum hætti með þeim alvarlegu afleiðingum, sem þessi háttsemi getur haft og er þegar tekin að hafa fyrir íslenzkt þjóðarbú og atvinnustig í bráð og lengd.

Lesendum til glöggvunar verður nú vitnað til fréttar í Markaði Fréttablaðsins, 30. janúar 2020:

"Minnkandi orkukaup í gagnaverum":

""Í okkar tilviki hefur notkun dregizt saman um 10 MW frá því í lok árs 2018 án þess þó, að viðskiptavinum hafi fækkað eða að nýting á plássi sé lakari hjá okkur.  Það er ekki ákvörðun, sem Advania Data Centers tekur, heldur hafa viðskiptavinir, sem leigja hjá okkur aðstöðu, ákveðið að draga úr raforkunotkun sinni", segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, í samtali við Fréttablaðið."

Hér er um viðskiptavini að ræða, sem valið geta auðveldlega um orkubirgja, því að það er samkeppni á milli birgjanna í ólíkum löndum um að fá þá. Þetta er ekki eins og með álverseigendurna, sem hafa fjárfest gríðarlega í starfsemi sinni hér, og flutningur er óraunhæfur. 

Það fer ekki á milli mála, þegar orkuverð og afkoma viðskiptavina orkubirgjanna eru athuguð, að íslenzkir raforkubirgjar hafa yfirverðlagt sig og þannig glutrað niður sterkri samkeppnisstöðu fyrir klaufaskap og/eða græðgi, sem er farin að koma þeim í koll með minnkuðum sölutekjum.  Þetta er algert sjálfskaparvíti, því að auðvitað er vinnslukostnaður raforkunnar ekki hærri hér en á hinum Norðurlöndunum, á Bretlandi eða á Meginlandinu. 

Flutnings- og dreifingarkostnaður er þó hærri hér um þessar mundir vegna smæðar, vegalengda og uppskiptingar raforkugeirans samkvæmt orkulöggjöf Evrópusambandsins, ESB, sem innleidd var hér gjörsamlega að óþörfu, enda Ísland ótengt innri orkumarkaði ESB, en vinnslufyrirtækin hefðu þó getað tekið tillit til þessa við verðlagningu sína, þótt arðgreiðslur þeirra hefðu þá vissulega minnkað. Hér er um dæmigerð mistök birgja á samkeppnismarkaði í verðlagningu að ræða.  Verktakar, sem svona haga sér, missa strax viðskipti og detta að lokum út af markaðinum. Að hinu öfluga ríkisfyrirtæki Landsvirkjun skuli verða á þessi fingurbrjótur, vitnar um alvarlega gloppu í stjórnkerfi þess og meinloku forstjóra og stjórnar fyrirtækisins.  

"Fyrirtækið vinnur nú að uppbyggingu nýs gagnavers í hátæknigarði í Kista-hverfinu í Stokkhólmi.  Gagnaverið er það fyrsta, sem Advania Data Centers reisir erlendis, en fyrir eru gagnaver í Hafnarfirði og Reykjanesbæ.  Eyjólfur segir ástæðuna fyrir því, að viðskiptavinir séu að draga úr raforkunotkun sinni fyrst og fremst vera hækkandi raforkuverð á Íslandi.

"Þau verð, sem bjóðast á íslenzkum orkumarkaði, hafa verið að hækka og eru orðin of há m.v. okkar helztu samkeppnislönd.  Við erum langt frá því að vera samkeppnishæf við Norðurlöndin.  Allir stórnotendur ættu að finna fyrir því í sjálfu sér", segir Eyjólfur og bendir á, að orkuverð í miðborg Stokkhólms sé um 20 % lægra en það, sem fyrirtækinu bjóðist á Íslandi."

Það eru slæm tíðindi fyrir Íslendinga, að raforkuverð til stórnotenda í minni kantinum sé jafnvel yfir 20 % hærra á Íslandi en í miðborg Stokkhólms.  Þetta sýnir í hnotskurn alvarlegar afleiðingar af áherzlu forstjóra Landsvirkjunar á gróða fyrirtækisins og arðgreiðslur, og að hún er kolröng, því að verðlagning hinnar markaðsráðandi Landsvirkjunar er farin að fæla viðskiptavini frá landinu og er á leiðinni að flæma gamla viðskiptavini á brott. Stjórnir Landsvirkjunar frá 2010 hafa búið sér þessa stefnu, en eigandinn hefur aldrei mótað þessa stefnu og mótaði í upphafi aðra og miklu víðsýnni stefnu til heilla fyrir atvinnulíf landsins.   

Gorgeir forstjórans um, að Landsvirkjun muni á næstu árum geta greitt arð í ríkissjóð upp á 10-20 mrdISK/ár er innistæðulaus og ósjálfbær, af því að hann hefur algerlega misreiknað þróun raforkuverðs í nágrannalöndum okkar.  Þetta ríkisfyrirtæki, sem hefur markaðsráðandi stöðu á Íslandi, grefur nú undan hagsæld landsmanna með minnkandi orkusölu í stað þess að skjóta undir hana traustum stoðum, eins og það gerði á sínum fyrstu 45 árum.  Er þetta ekki einnar messu virði á Alþingi og í ríkisstjórn ?

"Almennt séð er mikil eftirspurn eftir raforku, en það er aftur á móti minni eftirspurn eftir raforku á þeim verðum, sem hafa verið að bjóðast á Íslandi.  Gagnaversmarkaðurinn er að vaxa ævintýralega í löndum á borð við Noreg og Svíþjóð, en vöxturinn hefur ekki verið eins mikill á Íslandi.  Það eru einfaldar ástæður fyrir því, og ein af þeim er hátt raforkuverð."

Á upphafsárum Landsvirkjunar var haldgóð þekking í fyrirtækinu um það, hvernig raunhæft væri að efla fyrirtækið með samkeppnishæfri verðlagningu raforku frá fyrirtækinu.  Neðri mörk verðsins eru að sjálfsögðu s.k. kostnaðarverð, þar sem reiknað er með ávöxtun fjárfestinga til verkefna með mjög litla áhættu.  Efri mörkin eru raforkuverð í öðrum löndum, sem sækjast eftir viðkomandi starfsemi, að frádregnu óhagræði og viðbótar áhættu og kostnaði samfara staðsetningu á Íslandi, reiknað á hverja kWh umsaminnar orku. Í upphafi var þessi frádráttarliður stór, því að Íslendingar og Ísland voru óskrifað blað í augum erlendra fjárfesta, og þar af leiðandi var Ísland land mikillar áhættu.

Síðan er mikið vatn runnið til sjávar, en samt eru enn viðbótar kostnaðarliðir, t.d. vegna fjarlægðar frá mörkuðum, sem verður að taka tillit til við verðlagningu raforku hér, ef á að freista fjárfesta til að stofna til og viðhalda atvinnustarfsemi hér.  Bæði er, að tekinn hefur verið rangur póll í hæðina um þróun raforkuverðs ytra, og frádráttarliðirnir vanmetnir.

"Eyjólfur segir, að það sé umtalsverður munur á kostnaði við flutning og dreifingu á raforku á Íslandi samanborið við Noreg og Svíþjóð, sem leiðir til þess, að heildarorkukostnaður verði umtalsvert lægri í þessum löndum samanborið við Ísland.  Auk þess sé í umfjöllun um orkuverð á Íslandi oft dregin upp villandi mynd samanber það, sem kom fram á kynningarfundi Landsvirkjunar nýlega.

"Þar var verið að bera saman verð á stundarmörkuðum (spot) á Norðurlöndum og meðalverð í raforkusamningum, sem gerðir eru til margra ára og jafnvel áratuga.  Raunin er hins vegar sú, að það meðalverð er eitthvert verð, sem enginn getur keypt á og er langt undir þeim verðum, sem okkur og öðrum nýlegum stórnotendum bjóðast.""

Hér er blekkingastarfsemi Landsvirkjunar um boðin orkuverð afhjúpuð.  Meðalverðið er ekki í boði, heldur virðist jaðarkostnaðarverð með hárri ávöxtunarkröfu vera lagt til grundvallar bæði til nýrra viðskiptavina og gamalgróinna, þar sem komið er að endurnýjun samninga.  

Hér gætir áhrifa frá löggjöf Evrópusambandsins, ESB, s.k. orkupökkum, en fyrsta innleiðingin átti sér stað hérlendis 2003 og sú seinasta 2019.  Þar er einmitt kveðið á um aðgreiningu orkuvinnslu, flutnings og dreifingar, og síðan þá hefur heildarorkuverðið hækkað verulega vegna fjármögnunar Landsnets með gjaldskrá sinni, en áður rann fé frá raforkuvinnslunni til uppbyggingar flutningskerfis og dreifiveitna.  Nú er í staðinn greiddur arður út úr orkuvinnslufyrirtækjunum til eigenda, og þannig er fé tekið út úr greininni, sem auðvitað hefur sín áhrif á verðlagninguna.  Snúa þarf af þeirri braut, hugsanlega með sjóðsstofnun fyrir þennan arð, sem síðan veiti styrktarfé til þess átaks, sem fara þarf í vegna flutningskerfisins (t.d. Byggðalínu) og dreifiveitnanna (afnám loftlína með jarðstrengjum). 

Það er reginmisskilningur hjá forstjóra Landsvirkjunar, að íslenzka raforkukerfið sé nú orðið svo burðugt, að hægt sé að taka út úr því stórfé án þess að skaða samkeppnishæfni þess.  Hann lét hafa eftirfarandi eftir sér í viðtali við Morgunblaðið 22. janúar 2020:

"Það ræðst auðvitað af fjárfestingarstiginu hjá okkur, hvað fyrirtækið getur greitt í arð.  Þær [svo ?] tvöfölduðust á síðasta ári, og þær eiga að geta gert það aftur í ár. Innan eins til tveggja ára geta þessar arðgreiðslur numið 10-20 milljörðum á ári.  Ef við ráðumst í stóru verkefnin, sem hér hafa verið nefnd, þá kann það að hafa einhver áhrif, og eins hefur það áhrif, hvernig okkar stærstu viðskiptavinum vegnar á alþjóðamörkuðum.  En heilt yfir ætti þessi mynd að geta litið svona út."

Þessi stefna ríkisfyrirtækisins er reist á einokunarstöðu þess um þessar mundir, og hún skilur eftir sig sviðna jörð, eins og hér hefur verið rakið.

 burfellmgr-7340

 

 

 

 

 


Drottningarviðtal og forsíðufrétt

Þann 22. janúar 2020 birtist langt viðtal Stefáns E. Stefánssonar við forstjóra Landsvirkjunar, Hörð Arnarson, í Morgunblaðinu.  Þar gætir ósamkvæmni og ranghugmynda um samkeppnishæfni viðskiptavinar Landsvirkjunar með hæsta raforkuverðið í langtíma samningi við fyrirtæki forstjórans. Hugmyndaheimur hans á ekki samleið með raunveruleikanum.  Það birtist síðan svart á hvítu á forsíðu Morgunblaðsins þremur dögum síðar.  Þar gaf á að líta í frétt sama Stefáns E. Stefánssonar:

"Draga úr raforkukaupum-Álver Rio Tinto í Straumsvík hefur ákveðið að draga úr framleiðslu sinni um 15 % á þessu ári-Samdrátturinn jafngildir 28 þúsund tonnum-Landsvirkjun verður af 20 milljónum dollara". 

Þar birtist hin nöturlega afleiðing stórtaps álversins undanfarin ár.  Það er raforkuverðið til ISAL, sem er að sliga fyrirtækið.  Markaðurinn vill ekki greiða fyrirtækinu verð fyrir afurðir sínar, sem duga því fyrir breytilegum kostnaði. Ástæðan er offramboð hrááls á markaðinum, sem vonandi er tímabundið, því að hin gríðarlega framleiðsluaukning Kínverja er ósjálfbær (niðurgreiðslur, mengun). ISAL bregst nú við með því að lágmarka breytilegan kostnað sinn, og það er gert með því að draga úr raforkukaupum niður að kaupskyldumarkinu, en kaupskylduna verður fyrirtækið að inna af hendi til Landsvirkjunar samkvæmt upprunalegum og núverandi raforkusamningi, þótt það myndi nota minni orku en henni nemur. Þetta var ein af forsendum lágs raforkuverðs í upphafi, og hlutfallið, 85 % af forgangsorku, hefur ekki verið lækkað þrátt fyrir meira en tíföldun upphaflegs orkuverðs í bandaríkjadölum talið á hálfrar aldar rekstrartíma ISAL.

Málflutningur forstjóra Landsvirkjunar er hins vegar á allt öðrum nótum, og jarðsambandsleysi hans er grafalvarlegt og sýnir, að stjórn fyrirtækisins og ráðherrar verða að grípa í taumana með nýrri stefnumörkun fyrir þetta kjölfestufyrirtæki ríkisins.  Forstjórinn gaf í skyn, að breytilegur kostnaður álveranna á Íslandi væri undir 1800 USD/t Al.  Þetta er ekki rétt gagnvart þeim, sem hæst borgar orkuverðið.  Þar er einfölduð staða þessi: Ksúrál+Kskaut+Krafmagn=3x600 USD/t Al=1800 USD/t Al.  Þá er launakostnaður o.fl. eftir. 

Úr drottningarviðtalinu:

"Á meðan verðið er 1800 USD/t, þá hafa fyrirtækin upp í breytilegan kostnað, en til þess, að menn sjái ástæðu til þess að auka framleiðslu að nýju, þá þarf heimsmarkaðsverðið að fara í 2200 eða 2300 USD/t."

Þetta eru skrýtnar fullyrðingar m.v. kostnaðartölurnar hér að ofan, þar sem eftir er að bæta við launakostnaði, verktakakostnaði og efniskostnaði viðhalds, og allir þessir kostnaðarliðir eru háðir framleiðslumagni og teljast því til breytilegs kostnaðar. Ekkert hefst upp í fasta kostnaðinn við þessar aðstæður. 

Meðalverð á LME-markaðinum var nálægt 1800 USD/t árið 2019 og lækkaði töluvert frá árinu áður, en framleiðsla ISAL er hins vegar öll sérvara (stengur), sem viðbótar verð fæst fyrir. Hefur sú sérhæfing haldið fyrirtækinu fjárhagslega á floti að undanförnu. Engu að síður mun tap ársins 2019 hafa verið nálægt 325 USD/t Al. 

Við þessar aðstæður er hæsta raforkuverð á Norðurlöndum til álvera einu fyrirtæki augljóslega sem drápsklyfjar, og endurskoðun raforkusamninga þess brýn nauðsyn.  Landsvirkjun verður að gæta að stöðu sinni. Hlutverki fyrirtækisins sem kjölfestu iðnvæðingar, atvinnu- og gjaldeyrissköpunar hefur ekki verið breytt af fulltrúum eigendanna, Alþingi, þótt stjórn fyrirtækisins virðist vera á allt öðru róli.

  Við endurskoðun langtímasamninga er Landsvirkjun í einokunaraðstöðu, því að viðskiptavinirnir hafa ekki í önnur hús að venda, nema fyrir brot af þörfinni.  Við slíkar aðstæður er ótækt, að ríkisfyrirtækið stilli erlendum viðskiptavinum, sem starfað hafa hér áratugum saman og vilja halda samstarfinu við landsmenn áfram, þreyja þorrann og góuna, upp við vegg, "take it or leave it", eins og virðist hafa átt sér stað hjá Landsvirkjun síðan 2010.  Síðan hafa markaðsaðstæður hríðversnað vegna vaxandi álútflutnings frá Kína. Fátt fælir nýja fjárfesta meira frá landinu en hegðun af þessu tagi að hálfu ríkisfyrirtækis og er það síðasta, sem Ísland þarf á að halda á fjárfestingasviðinu. Erlendar fjárfestingar á Íslandi eru hlutfallslega mjög litlar í samanburði við önnur Vesturlönd.   

Hörður Arnarson ver framgöngu sína með nauðsyn þess, að Landsvirkjun greiði háan arð, en málið er ekki svo einfalt.  Þessi arður er ósjálfbær sem stendur og þar af leiðandi ótraustur, þar sem hann er fenginn með því að blóðmjólka viðskiptavinina.  Það er þó enginn að tala um að selja orku Landsvirkjunar með tapi.  Síður en svo, en það er óeðlilegt að fara fram á það, að gamlir viðskiptavinir greiði jaðarkostnaðarverð fyrir alla orkuna, sem þeir kaupa, þótt eðlilegt megi telja, að þeir greiði jaðarkostnaðarverð fyrir viðbótar orkuna, sem samið er um við endurskoðun samninga. 

Þá er það innihaldslaus alhæfing hjá forstjóranum, að álverin muni ekki fara að auka framleiðslu sína aftur fyrr en verð umbræðsluáls á LME-markaði nái 2200-2300 USD/t, þ.e. hækki um fjórðung frá meðalverðinu 2019.  Það fer eftir kostnaðarþróun fyrirtækjanna, viðbótarverði þeirra á sérvörur sínar og markaðshorfum, svo og tæknilegri stöðu þeirra, hvenær þau munu auka framleiðslu sína aftur. Aftur gerist téður Hörður sekur um sleggjudóma. Þegar verðið er komið upp fyrir breytilegan kostnað fyrirtækjanna, borgar sig að auka framleiðsluna, og í tilviki ISAL, sem þarf aðeins að hækka kerstraum til að auka framleiðsluna, þarf aðeins um helmingshækkun á við það, sem forstjóri Landsvirkjunar heldur fram til að auka framleiðsluna að nýju.

Ef samningar takast um nýtt fyrirkomulag við ákvörðun raforkuverðsins, þannig að framlegð (EBITDA) fyrirtækisins verði jákvæð, þá er líklegt að fyrirtækið muni sjá sér hag í að auka framleiðsluna strax aftur í kjölfarið, svo að sölutekjur og hagnaður Landsvirkjunar aukist á ný.  Allir tapa á núverandi þvermóðsku forstjórans á grundvelli þess, að hann hefur spennt bogann til hins ýtrasta á vitlausum tíma.  Slíkt er aldrei ráðlegt að gera, nema í blússandi góðæri hjá viðskiptavinunum. Hvort það kemur aftur í áliðnaðinum ræðst af því, hvort Kínverjar halda sínum undirboðum á álmarkaðinum áfram á einhvers konar vegferð til að ná þar varanlegum undirtökum. 

Stefán E. Stefánsson minntist á gagnrýni Samtaka iðnaðarins á framgöngu Landsvirkjunar við endurnýjun langtímasamninga í téðu drottningarviðtali sínu:

"Hörður segir, að nýjar virkjanir, sem nú hafa verið teknar í notkun, styðji enn við getu félagsins í þessa veru [til að greiða eigandanum arð-innsk. BJo].  Það geri einnig nýir orkusölusamningar.  Það eru sömu samningar og hafa verið harðlega gagnrýndir af Samtökum iðnaðarins að undanförnu.  Í málflutningi samtakanna hefur því verið haldið fram, að LV hafi gengið of hart fram í samningsgerðinni og að hátt raforkuverð sé farið að skaða samkeppnishæfni landsins."

"Það verður að minnast þess, hvað þessir nýju samningar þýða fyrir fjárhag félagsins, bætt lánshæfismat og lægri vaxtakostnað.  Þetta hefur gríðarleg áhrif á það, hvernig okkur tókst að bæta fjárhagsstöðu félagsins.  Það hefur mikið að segja upp á trúverðugleika okkar gagnvart fjármálamörkuðum, að menn sjái, að við getum endursamið og náð betri verðum á vöruna, sem við erum að selja.  Auk þess er ábyrgð okkar mikil.  Landsvirkjun er eitt fyrirtæki með fáa starfsmennn, en því er falið að gæta einna mestu hagsmuna Íslands.  Verkefnið felst í að semja við alþjóðleg stórfyrirtæki um verðið á afurðum, sem við fáum úr einni verðmætustu auðlind landsins."

Á meðal nýju virkjananna, sem forstjórinn telur hér, vafalaust með réttu, að séu reknar með hagnaði, er Búðarhálsvirkjun.  Hún var byggð til að anna viðbótar orkuþörf ISAL samkvæmt endurnýjuðum rafmagnssamningi fyrirtækjanna á milli árið 2010 og komst í full afköst 2014.  Það er eðlilegt, að orkusala frá nýjum virkjunum standi undir kostnaði við þær og skili góðri raunávöxtun fjármagns.  Verðið, sem ofan á varð í samningunum, gerir það, en það átti ekki um leið að hækka allt rafmagn frá gömlu, bókhaldslega afskrifuðu virkjununum, sem reistar voru til að standa straum af orkusölu til ISAL (Búrfellsvirkjun, Sigölduvirkjun) á frumbýlingsárunum og annarra.  Þetta er gagnrýnivert og við þessu hafa Samtök iðnaðarins brugðizt.  

Það skal draga í efa, að nýir afarkostasamningar hafi hækkað lánshæfismat Landsvirkjunar. Að trúverðugleiki Landsvirkjunar gagnvart fjármálamörkuðum aukist við að setja viðsemjendum fyrirtækisins afarkosti ("take it or leave it"), er mjög hæpinn málflutningur forstjórans.  Samningarnir eru ósjálfbærir og hafa fælingarmátt fyrir aðra áhugasama fjárfesta.  Þeir eru nú þegar teknir að slá til baka fyrir Landsvirkjun með minni orkusölu, bæði til stóriðnaðarins og til gagnaveranna.  Fulltrúar eigenda Landsvirkjunar verða nú þegar að leiðrétta kúrsinn, því að stefna hennar er tekin að valda þjóðhagslegum skaða með minnkun útflutnings með rætur í innlendri orkuvinnslu.   

Frétt um þetta í Markaði Fréttablaðsins, bls. 8, 30. janúar 2020, hófst þannig:

"Raforkukaup gagnavera á Suðurnesjum hafa dregizt saman á síðasta ári vegna minni eftirspurnar frá viðskiptavinum.  Forstjóri Advania Data Centers segir notkun viðskiptavina fyrirtækisins hafa dregizt saman um 10 MW frá því í lok árs 2018.  Orkuverðið, sem gagnaverum býðst á Íslandi, sé ekki samkeppnishæft og hætta sé á frekari samdrætti, þegar kemur að endurnýjun samninga við stóra viðskiptavini."

Þetta heitir að skjóta sig illilega í fótinn með því að ofmeta gróflega verðmæti afurða auðlindanna, sem fyrirtækinu (Landsvirkjun) er falið að ávaxta.  Betra væri, að forstjóri Landsvirkjunar sýndi sanngirni, hófstillingu og framsýni við samningagerð fyrir hönd fyrirtækisins líkt og forverar hans, en hann vitnaði reyndar í fyrsta stjórnarformann fyrirtækisins í viðtalinu:

"Hann segir, að Landsvirkjun sé um þessar mundir að komast í þá stöðu, sem Jóhannes Nordal skrifaði um á sínum tíma, þegar verið var að hleypa Landsvirkjun af stokkunum.  "Hann sagði, að það myndi taka tíma og mikið fjármagn að byggja fyrirtækið upp.  Það yrði skuldsett, og að greiða þyrfti þær niður, en það myndi hafa mikil jákvæð áhrif ekki sízt, þegar stundir liðu fram.  Hann benti einnig á, að í fyrstu þyrfti að bjóða raforkuna á tiltölulega lágu verði, á meðan við værum að fá fyrirtæki til landsins, sem hefðu áhuga á orkunni.  Hins vegar myndi sú staða breytast, og orkuverðið myndi færast nær því, sem gerist annars staðar.""

Það var rétt hjá dr Jóhannesi Nordal, að greiða varð fórnarkostnað á frumbýlingsárum stóriðjunnar, á meðan landsmenn voru að sýna fram á viðunandi afhendingaröryggi raforku á Íslandi, og að þeir stæðu öðrum á sporði við framleiðslu málma, þ.e. í orkukræfum þungaiðnaði.  Landsvirkjun hefur villzt af leið, skotið yfir markið, og stjórnendur hennar þurfa að lifa eftir þeim gildum, sem forstjórinn heldur fram í eftirfarandi tilvitnun, en passar engan veginn við raunveruleikann:

"Við erum með 3 stóra viðskiptavini af þeim toga, og í mínum huga skiptir mestu máli að styðja vel við þeirra þróun og hóflegan vöxt, sem bætir arðsemi þeirrar framleiðslu, sem þeir standa í."

Ef forstjóri Landsvirkjunar gengur í þeirri dulunni, að ofangreint sé rétt lýsing á framferði hans, þá skortir hann allt raunveruleikaskyn og er sennilega á rangri hillu.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband