Færsluflokkur: Bloggar

Lýðræðið og Landsreglarinn

Áður hefur hér í pistli verið minnzt á ágæta grein Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, í Morgunblaðinu 9. marz 2019, "Orkan okkar".

Þar gerði hann m.a. að umræðuefni, að "orkupakkar" ESB, ekki sízt sá þriðji með völdum embættis Landsreglara, sem beint heyrir undir ESA/ACER, aftengja lýðræðið, þ.e. ákvarðanir, sem áður voru hjá ráðherra eða stofnun undir honum/henni, verða á höndum erlendrar stofnunar, þar sem Ísland ekki á aðild:

"Það er vissulega rétt hjá ráðherranum [ÞKRG], að orkupakkarnir eru fyrst og fremst "markaðspakkar", og þriðji pakkinn færir fyrirhugaðan raforkumarkað undir samevrópskt eftirlit, sem nefnist ACER, Agency for the Cooperation of Energy Regulators, sem hefur á hendi úrskurðarvald um ágreining á raforkumarkaði.  ACER er ætlað að aftengja allt, sem heitir lýðræði, ákvörðunum á markaði.  Út á það gengur þriðji orkupakkinn !"

Ögmundur hefur áttað sig á kjarna málsins.  Að skera á tengsl lýðræðis og stefnumörkunar í raforkumálum landsins felur jafnframt í sér ógn við stjórnskipunina sjálfa, því að valdtilflutningurinn verður ekki frá íslenzka ríkisvaldinu til annars aðila innanlands, heldur til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem Ísland er ekki aðili (ACER). Þetta verður sýnt fram  á hér á eftir með því að rekja nokkra liði í Orkutilskipun ESB #2009/72/EB, svo að ekki sé með góðu móti hægt að saka höfund um skáldskap eða "falsfréttir", eins og málefnasnauðir fylgjendur innleiðingar Orkupakka #3 á Íslandi hafa í málefnafátækt sinni haft í frammi.

Að rjúfa þessi tengsl ákvarðanatöku fyrir orkugeirann  við ríkisvaldið felur þess vegna í sér alvarlegan árekstur við Stjórnarskrána, eins og nú má lesa um í Álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Stefánssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar.  Sú hlið málsins var ekki á döfinni við innleiðingu Orkupakka #1 og #2, en ákvæði í Orkupakka #3, t.d. um Landsreglarann, brjóta í bága við fullveldisákvæði Stjórnarskrárinnar að margra dómi, og væri óskandi, að hægt væri að leita til Stjórnlagadómstóls um þann ágreining fyrir afgreiðslu málsins á Alþingi.  

Önnur leið er sú að vísa þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum.  Það væri öflugasta leiðsögn, sem Alþingi gæti fengið um afgreiðslu Þriðja orkupakkans.  

Í lok ágætrar greinar sinnar skrifaði Ögmundur:

"Þetta er samfélagið að takast á um, og fagna ég sérstaklega umræðunni, sem sprottin er frá hinum óformlegu, en þverpólitísku samtökum, "Orkunni okkar".  Þar á bæ rýna menn í smáatriði tilskipana og reglugerða, sem varða orkupakka Evrópusambandsins, jafnframt því sem horft er vítt yfir.  Hvort tveggja þarf að gera.  Við afvegaleiðumst, ef við reynum ekki að sjá, hvert stefnir, hvert förinni er heitið.  Þess vegna þarf umræðan að fara um víðan völl [þótt ÞKRG kvarti undan því-innsk. BJo].  Annars verður þess skammt að bíða, að orkan verði ekki okkar."

Í Rafmarkaðstilskipuninni, 2009/72/EB, kafla 22, skrifa höfundar Orkupakka #3 um rafkerfisþróun og vald til að taka fjárfestingarákvarðanir:

"1. Á hverju ári skulu rekstraraðilar orkuflutningskerfanna [hér Landsnet] kynna fyrir Landsreglaranum 10 ára Kerfisáætlun sína, reista á núverandi og væntanlegu framboði og eftirspurn orku að höfðu samráði við alla hagsmunaaðila.  Kerfisáætlunin skal spanna skilvirkar aðgerðir til að tryggja styrk kerfisins og afhendingaröryggi."

Ekki er að efa, að Kerfisáætlun Landsnets verður háð rýni ACER/Framkvæmdastjórnarinnar, þannig að flutningskerfið verði þannig úr garði gert, að það þjóni hugmyndum Framkvæmdastjórnar ESB um heildarhagsmuni EES. Þetta kann að þýða nokkra stefnubreytingu í átt til öflugri og hraðari kerfisuppbyggingar með hækkun flutningsgjalda. Flutningsgjöldin verða líka háð samþykki Landsreglarans.  Þar með má segja, að álagning vissra opinberra gjalda á Íslandi verði undir fjölþjóðlegu valdi komið.  Þetta er Stjórnarskrárbrot, enda geta lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson um þetta vafasama framsal ríkisvalds til eins konar skattlagningar.

"2. Tíu ára Kerfisáætlun Landsnets á einkum: 

a) að upplýsa markaðsaðilana um mikilvægustu innviði flutningskerfisins, sem verður að reisa eða styrkja á næstu 10 árum.

b) spanna allar fjárfestingar, sem þegar er búið að ákveða, og telja upp nýjar fjárfestingar, sem fara þarf í á næstu þremur árum, og

c) gefa upp tímabil allra fjárfestingarverkefnanna.

Þeir, sem hug hafa á að virkja á Íslandi eða að leggja hingað sæstreng, geta í Kerfisáætlun fylgzt með, hvernig innviðauppbyggingu fyrir þeirra verkefni miðar og þrýst á Landsreglarann um flýtingu, ef þurfa þykir.

"5.  Landsreglarinn skal fara í saumana á því, hvort kerfisáætlun Landsnets spannar allar fjárfestingarþarfir, sem birzt hafa í samráðsferlinu, og hvort hún er í samræmi við 10 ára Kerfisþróunaráætlun Evrópusambandsins, sem nefnd er í gerð ESB #714/2009, kafla 8, grein 3 b.  [Þótt Kerfisþróunaráætlun ESB sé ekki lagalega bindandi fyrir aðildarlöndin, er litið svo á, að við gildistöku Orkupakka #3 beri viðkomandi landi að virða hana og fara eftir henni að sínu leyti.]  Ef vafi leikur á um, hvort Kerfisáætlun Landsnets sé í samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB, skal Landsreglarinn ráðfæra sig við ACER.  Landsreglarinn getur krafizt þess, að Landsnet breyti 10 ára Kerfisáætlun sinni.

Það er ljóst af þessum texta, að Landsnet, sem ríkisstjórnin vill semja um kaup á fyrir hönd ríkissjóðs, verður alls ekki sjálfstætt ríkisfyrirtæki eftir innleiðingu Orkupakka #3, heldur stjórnað að miklu leyti af Landsreglaranum, sem tekur stefnumarkandi ákvarðanir  um framkvæmdir fyrirtækisins, og þær verða að taka mið af vilja og áformum ESB um tengingu Íslands við innri raforkumarkað EES. Ofangreindir lögfræðingar beindu aðallega sjónum sínum að gerð 713/2009, sem þeir fundu út, að engan veginn samræmist Stjórnarskrá Íslands, og minntust aðeins á 714/2009, sem bezt væri að fá undanþágu frá líka, ef sezt verður við samningaborðið með EFTA og ESB.   

Ef vilji Evrópusambandsins um þróun orkumála Íslands er hundsaður eða lappirnar dregnar af Landsneti/ríkinu, er líklegt, að allt fari í bál og brand á milli Íslands og ESB og ásakanir komi fram að hálfu ESB um brot Íslands á EES-samninginum.  ESB getur hvenær sem er einhliða gert Kerfisþróunaráætlun sína lagalega bindandi fyrir EES-ríkin, sé talin þörf á að reka deilumál um hana fyrir dómi. Valdyfirtaka Landsreglarans á Landsneti og þar með hliðsetning hugsanlegrar stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu Landsnets verður enn ljósari við lestur liðar 6, 7 og 8 í þessari Orkumarkaðstilskipun ESB.  Verða þeir birtir og rýndir í nýjum pistli:

Rúsínan í pylsuenda orkumarkaðstilskipunar. 

 

 


Þingsályktunartillaga í blekkingahjúpi

Margir þingmenn vaða í villu og svíma um afleiðingar samþykkis við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um Þriðja orkupakkann. Þeir halda jafnvel, að lögfræðileg "Álitsgerð um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB", eftir Friðrik Árna Friðriksson Hirst og Stefán Má Stefánsson, sé grundvöllur þess lögfræðilega klúðurs, sem þingsályktunartillagan er.  Því fer víðs fjarri og er ein af blekkingunum, sem haldið er á lofti að hálfu þeirra ráðherra, sem hér eiga hlut að máli.  þessu til sönnunar er nóg að benda á grein 6.4 í téðri álitsgerð:

"Fram hefur komið, að ekki standi til að innleiða 8. grein reglugerðar nr 713/2009 í landsrétt, jafnvel þótt þriðji orkupakkinn væri tekinn upp í EES-samninginn (að undangengnu samþykki Alþingis á fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017), þar sem Ísland sé ekki tengt við innri orkumarkað ESB (t.d. gegnum sæstreng).  

Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. grein EES-samningsins.  Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.  Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. grein reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar orkupakkans, ef því er að skipta), standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar."

Utanríkisráðherra hundsar þessa góðu ráðgjöf lagasérfræðinganna og fer öfugt að.  Hann leggur til brot á EES-samninginum og stjórnarskrárbrot með þessari dæmalausu þingsályktunartillögu, eins og líka má sjá af athugasemdum lagaprófessors Peter Örebech í viðhengi með þessum pistli.  Alþingismenn verða að stöðva þessi afglöp ráðherrans áður en þau valda landsmönnum stórtjóni og álitshnekki í Evrópu.  Allt er þetta fallið til að hafa slæm áhrif á þeirra pólitíska feril, sem þessa þingsályktunartillögu munu styðja.  Hún er í einu orði sagt hneisa.

Fullyrðing 1:Þriðja orkupakkann er í lagi að innleiða í íslenzk lög, af því að hann hefur enga raunhæfa þýðingu á meðan enginn sæstrengur tengir landið við sameiginlega raforkumarkaðinn:

Á meðan aflsæstrengir eru ekki fyrir hendi til útlanda, getur Ísland haft lágt raforkuverð, sé ekki raforkuskortur.  Með því að ganga í orkubandalag Evrópusambandsins, skuldbindur Ísland sig til að láta í té raforku á landamæralausan innri markað ESB, og ACER skal sjá til, að svo verði, enda segir um þetta í ofangreindu lögfræðiáliti tvímenninganna: "Engin heimild er að setja í lög ákvæði, sem fá ekki staðizt íslenzka stjórnarskrá, þó að svo standi á, að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn.  Verður því að telja rökrétt og reyndar óhjákvæmilegt, að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna, sem tengjast þriðja orkupakkanum, nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann."  Þetta les utanríkisráðherra, eins og fjandinn biblíuna, þ.e. aftur á bak, og snýr öllu á haus. 

Fullyrðing 2: Lagatextanum um ACER í gerð 713/2009 skal ekki taka inn í íslenzkan rétt samkvæmt eigin lögum.

Slík lagasetning er merkingarlaus að Evrópurétti, og verður vegin og léttvæg fundin af ESA og EFTA-dómstólinum, ef/þegar ágreiningur rís, sem telja má fullvíst, að verði fljótlega.  Þetta staðfesta íslenzku lagasérfræðingarnir tveir í grein 6.4 í Álitsgerð sinni, dags. 19.03.2019.

Fullyrðing 3: Tryggja skal sjálfstæði landsins í orkumálum með lagaákvæði um endurskoðun á íslenzku lögunum, sem nú er ætlað að hindra sæstrengslögn hingað, ef sæstrengur kemst á ákvörðunarstig.

EES-samningurinn leyfir ekki að hverfa frá innleiðingu, sem  þegar hefur verið samþykkt.  Bann Alþingis við lagningu sæstrengs er þess vegna haldlaust, ef upp koma deilur á milli Íslands og ESB um þetta.  ESA og EFTA-dómstóllinn hljóta að telja slík lög vera brot á EES-samninginum, kafla 7, 11 og 12 um bann við einhliða breytingu á ESB-lögum við innleiðingu í landsrétt og bann við útflutnings- og innflutningshindrunum.

Fullyrðing 4: Ákvæði laganna um utanlandstengingar (gerð 713/2009) verða ekki gerð virk fyrr en að lokinni endurskoðun laganna, sem fylgja innleiðingunni.

Við samþykkt þingsályktunartillögunnar verður allur Orkupakki #3 gildandi lög á Íslandi, og falla þau ekki úr gildi, nema ESB felli gerðina úr gildi, eða samningi Íslands við EFTA/ESB um EES verði sagt upp.

Fullyrðing 5: Við endurskoðun laganna, þegar sæstrengur verður á döfinni, skal ganga úr skugga um, hvort reglugerð 713/2009 stangast á við Stjórnarskrá Íslands.

Þriðji orkupakkinn snýst um það að búa til innri orkumarkað ESB-landa og annarra landa, sem ganga í orkubandalagið.  Við mat á árekstrum ESB-laganna við Stjórnarskrá þarf að ganga út frá þessu meginatriði, og hvort þetta samræmist Stjórnarskrá verður auðvitað að rannsaka áður en Orkupakki #3 verður innleiddur.  Að mati ESB er ESB-löggjöf og ESB-dómstóllinn hafin yfir löggjöf hvers lands að Hæstarétti og Stjórnarskránni meðtöldum.  Varðandi EFTA löndin 3 í EES gildir hið sama, nema EFTA-dómstóllinn er æðsta dómstigið á sviðum, þar sem Evrópurétturinn er í gildi.  

Fullyrðing 6: Innleiðing Orkupakka #3 hefur ekki í för með sér skyldu eða samþykki við tengingu við innri orkumarkað ESB með sæstreng eða á annan hátt.

Einhliða íslenzkar yfirlýsingar hafa ekkert gildi að Evrópurétti.  Samkomulag á milli íslenzks ráðherra og framkvæmdastjóra hjá ESB hefur heldur ekki nokkra réttarlega þýðingu.  Með því að innleiða Þriðja orkupakkann í íslenzk lög, mun Alþingi skuldbinda Íslendinga til að taka þátt í að þróa innra orkumarkað ESB án hindrana, "fimmta frelsi" ESB. Að neita að samþykkja sæstreng til landsins er sama og að segja, að þessi "innri markaður" eigi ekki að spanna Ísland. Í þessu felst augljós mótsögn.

Með því að samþykkja Þriðja orkupakkann hefur Alþingi viðurkennt valdsvið ACER-Orkustofnunar ESB og hjáleigu hennar á Íslandi, Landsreglarann.  Báðum ber þeim skylda til að fylgjast með, hvort kerfisþróunaráætlun ESB sé fylgt.  Ef henni er ekki fylgt, skulu þau fara þess á leit við íslenzk yfirvöld, að henni verði fylgt.  Verði íslenzk yfirvöld ekki við þessari málaleitan, þá skal afhenda Framkvæmdastjórn skýrslu um það.  Framkvæmdastjórnin getur farið með málið fyrir EFTA-dómstólinn.

Fullyrðing 7: Íslenzk yfirvöld draga "Ice-Link" út úr Kerfisþróunaráætlun ESB, og þar með út af skrá hennar um forgangsverkefni-PCI:

Ekkert hefur heyrzt um viðbrögð við þessu, enda getur ríkisstjórnin ekki tekið þennan sæstreng út af lista, sem gildir 2018-2020, s.k. 3. lista.  Árið 2020 verður gefinn út 4. listinn.  Um þetta atriði mun ESB fara eftir Innviðagerðinni, #347/2013, sem er tilbúin til afgreiðslu í Sameiginlegu EES-nefndinni, þegar Alþingi hefur innleitt Orkupakka #3.  Hvorki Ísland né Noregur hafa ýkja mikil áhrif samkvæmt þessari gerð.  Það eru rekstraraðilar stofnkerfisins, hér Landsnet, sem gera tillögur, ACER ráðleggur, og framkvæmdastjórn ESB samþykkir Kerfisþróunaráætlun ESB, og hvaða verkefni þar skal setja í forgang, PCI-verkefni.

Framkvæmdastjórninni ber við mat sitt að virða ósk Íslands, en ber engin skylda til að verða við ósk stjórnvalda landsins.  Mun hún kunna að meta erindi frá landi, sem hefur ákveðið að ganga í Orkubandalag ESB, en biður samtímis um viðurkenningu á því, að það skuli ekki spanna Ísland ?  Teikn á lofti um, hvernig þetta mál ræðst, er samþykkt ESB-þingsins 26. marz 2019 um endurskoðaða ACER-gerð ST-7711-2019 í Orkupakka #4, þar sem Ísland er greinilega "í skotlínu":

"(6) Þrátt fyrir marktækan árangur við samþættingu og samtengingu innri rafmagnsmarkaðarins, þá eru enn sum aðildarlönd eða svæði einangruð eða ekki nægjanlega vel tengd, einkum eyríki og jaðarríki Sambandsins.  Í störfum sínum ætti ACER að taka tillit til sérstakra aðstæðna í þessum ríkjum eða svæðum, eins og við á." 

 

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ísland og raforkumarkaður ESB

Raforkumarkaðskerfi ESB er skilgreint í Orkupökkum #1 og #2 og gert að skyldu að innleiða það í Orkupakka #3.  Hérlendis voru reglur Orkupakka #1 um aðskilnað starfsemi á raforkumarkaði í fernt innleiddar með nýjum orkulögum 2003.  Það var til að skapa jafnræði um aðgang að flutningskerfinu og aðstæður fyrir frjálsa samkeppni.  Ávinningur fyrir orkukaupendur er ekki merkjanlegur, sé þróun raforkuverðsins skoðuð (raunverð), og sennilega hefur heildaryfirbygging og þar með stjórnunarkostnaður raforkugeirans vaxið við þennan aðskilnað í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu. 

Nú er Landsnet með í undirbúningi uppboðskerfi á heildsölumarkaði í orkukauphöll samkvæmt forskrift ESB í Orkupakka #2.  Innleiðing á kerfi, sem er sniðið við frjálsan eldsneytismarkað, sem sjái raforkuverunum fyrir öruggri frumorku, og miðað við mörg, stór og smá, raforkuvinnslufyrirtæki í frjálsri samkeppni um viðskiptavinina, er augljóslega vandkvæðum háð hérlendis, þar sem aðstæður eru gjörólíkar, frumorkan eðlisólík og markaðurinn verður alltaf "grunnur".

Ef þetta markaðskerfi ESB verður ekki vandlega aðlagað íslenzkum aðstæðum, dyntóttri náttúru, sem ætlazt er til, að veiti áreiðanlegri frumorku inn í vinnslukerfið, og að fákeppnismarkaði með gríðarlegu ójafnræði á markaði vegna stærðarmismunar og mismunandi frumorkusamsetningar, þá mun slysalega takast til, sem mun lýsa sér í miklum verðsveiflum á heildsölumarkaði og smásölumarkaði, hækkuðu meðalverði vegna ófullnægjandi hvata til að hefja virkjanaverkefni í tæka tíð, og, ef allt fer á versta veg, mun valda alvarlegum orkuskorti og tíðari en við höfum átt að venjast.  

Vart þarf að efast um, að sérfræðingarnir, sem að innleiðingu þessarar markaðsvæðingar vinna, hafa áhættugreint ferlið, sem þeir eru að skipuleggja, en meira er hægt að óttast, að þeim séu of þröngar skorður reistar til almennilegrar aðlögunar, því að slíkt táknar eðlisbreytingu á kerfinu, sem Landsreglarinn hérlendis mun líta óhýru auga, enda hefur hann bara eina forskrift við að styðjast.  Hér er t.d. átt við, að hérlendis krefjast aðstæður  samræmdrar auðlindastýringar, sem er nauðsynleg og nægjanleg til að tryggja beztu nýtingu tiltækra orkulinda í því augnamiði að forða vatnsleysi miðlunarlóna að vori og ofnýtingu viðkvæms jarðgufuforða.  Slíka auðlindastýringu má hvert fyrirtæki viðhafa undir markaðskerfi ESB, en samræmd auðlindastýring heildarkerfisins er bönnuð, þar sem frjáls samkeppni orkuvinnslufyrirtækjanna er hinn heilagi Graal í Brüssel.  Að sumra dómi dæmir þetta bann orkumarkaðskerfi ESB úr leik á Íslandi sem raunhæft markaðsfyrirkomulag.  

Elías Elíasson, verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, skrifar áhugaverða Morgunblaðsgrein um þetta efni þann 14. marz 2019, undir fyrirsögninni:

"Raforkuöryggi á Íslandi":

"Reglugerðir Evrópusambandsins virka einfaldlega ekki hér, og á grundvelli þeirra verður vel virkur frjáls markaður með rafmagn ekki settur upp hér á landi.  Eins og rakið er í ritgerð minni, "Rafmagn til heimila og útflutnings", á síðunni http://hhi.hi.is/vinnupappírar, þá er orkuauðlindinni dreift á marga staði, víðs vegar um landið, og misjafnlega dýrt að nýta hana á hverjum stað.  Við þær aðstæður getur samkeppnin ekki tryggt eðlilega verðmyndun, sem hvetur til nýframkvæmda, þegar jafnvægi ríkir [á] milli framboðs og eftirspurnar, heldur myndast hvati til að taka of mikla áhættu á kostnað notenda.  Reglur ESB tryggja því ekki orkuöryggi á Íslandi, og öryggið minnkar enn með tilkomu sæstrengs."

Iðnaðarráðuneytið/utanríkisráðuneytið verður að birta áhættugreiningu, sem sýnir hið gagnstæða við lýsinguna hér að ofan, áður en það biður um  staðfestingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, því að feiknarlegir hagsmunir landsmanna eru í húfi.  Meðmælendur Orkupakka #3 hafa skautað léttilega framhjá þessum risaþætti málsins, og það með öðru gefur málstað þeirra ótraustvekjandi blæ.

Með orkulögunum 2003 var ábyrgðin á að viðhalda nægri frumorku í landinu fyrir raforkuvinnsluna tekin af Landsvirkjun, og nú ber enginn þessa ábyrgð og mun trauðla fá hana með Orkupakka #3, því að vísast þykir sú kvöð virka samkeppnishamlandi á markaði ESB.  Fyrir raforkunotendur á Íslandi er hættan á orkuskorti hins vegar óviðunandi. Þetta mál er dæmigert fyrir gallana, sem felast í ákvarðanatöku fjarri landsteinum.

Frá 2003 hefur þetta blessazt, þótt skollið hafi hurð nærri hælum, t.d. 2013, því að virkjað hefur verið fyrir stóriðju og almenning í leiðinni, en nú virðist áhugi "stórnotenda" á raforkusamningum við íslenzka orkubirgja hafa dvínað, og sáralítið "í pípunum" af nýju afli inn á kerfið. Þó eru smávirkjanir í undirbúningi, og 18.03.2019 var tilkynnt um staðfest deiliskipulag fyrir 55 MW Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði.   

Það er til marks um skilningsleysi orkuyfirvalda hérlendis á sérstöðu íslenzka orkukerfisins og afleiðingum þess að troða Íslandi í ESB-flík, sem er sniðin á annars konar sniðmát, að engin áhættugreining vegna innleiðingar nýs orkumarkaðskerfis hefur verið kynnt til sögunnar.  Yfirvöld munu ekki geta skákað í því skjólinu, að þau hafi ekki verið vöruð við, þegar raforkuverðið og afhendingaröryggi raforku fara úr böndunum.  Skilja þau ekki, hvað er í húfi ? Mikið er þó búið að predika. Afkoma fjölda fjölskyldna og fyrirtækja er í húfi. Vinnubrögðin eru ekki Sjálfstæðisflokkinum sæmandi. 

Að sjálfsögðu mun keyra um þverbak í þessum efnum, ef stórsala hefst á rafmagni úr landi.  Þröskuldur í vegi þeirra áforma snarlækkar við innleiðingu Þriðja orkulagabálks ESB, en ætlun Evrópusambandsins með honum er einmitt að örva millilandaflutning orku og færa stjórn þeirra mála undir lögsögu Evrópuréttarins og undir miðstýringu ACER/Framkvæmdastjórnar ESB.  Um þetta skrifaði Elías Elíasson í téðri grein:

"ESB stefnir samt á að tvöfalda vægi vindorku í raforkuvinnslu sinni.  Við þessar aðstæður er það knýjandi nauðsyn fyrir bandalagið að komast yfir hina hreinu og sveigjanlegu orku Noregs og Íslands og nota hana til að keyra á lognið í Evrópu.

Sæstrengur mun því koma í kjölfar þriðja orkupakkans og tengdra nýrra reglugerða.  Þegar orkumálaráðherra fullyrðir, að sæstrengur muni ekki koma, er hún bæði að vanmeta ákveðni Bandalagsins í málinu og lofa upp í ermina á öðrum stjórnmálaöflum, sem munu samþykkja sæstreng orðalaust."

Þess má geta, að Þórdís Kolbrún, iðnaðarráðherra, gaf til kynna á ársfundi Landsvirkjunar í lok febrúar 2019, að hún teldi orkusölu um sæstreng á stóran markað þarfaþing til að losna við "umframorku", sem var reyndar stórlega ofmetin hjá henni, 2 TWh/ár (> 10 %) eftir tilkomu Búrfells #2 og væntanlegrar 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun til Norðurlands.  Nefndi hún hið gildishlaðna hugtak "brottkast" í þessu sambandi og líkti því við það, að vatn rynni framhjá virkjunum, sem er í sjálfu sér ósmekkleg  samlíking og út í hött.

Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða þankagang búrókrata Framkvæmdastjórnarinnar.  Í Orkumarkaðstilskipuninni 2009/72/EB, kafla 6, um eflingu svæðisbundinnar samvinnu, stendur:

1. Aðildarlöndin og landsreglararnir skulu vinna saman í því augnamiði að samþætta orkumarkað hvers lands við eitt eða fleiri svæði sem fyrsta skref til myndunar alfrjáls innri markaðar.  Einkum skulu landsreglararnir í aðildarlöndum, sem hafa undirbúið samstarfið, eða aðildarlöndin skulu hvetja til og undirbúa svæðissamvinnu á milli rekstraraðila flutningskerfa [hér Landsnet], og þar innifalin eru viðfangsefni millilandatenginga, í því augnamiði að skapa samkeppnisvæddan innri markað fyrir rafmagn, fá samræmi í lagaumgjörð landanna, rammaregluverk og tæknilega tengiskilmála, og undirbúa jarðveginn fyrir samþættingu einangruðu kerfanna, sem mynda s.k. orkueyjar, sem enn er að finna í ESB [2009], við innri markaðinn."

Það er engum blöðum um það að fletta, að höfundarnir sjá tækifæri fyrir heildina, EES, fólgið í að tengja "orkueyjar" við innri markaðinn.  Þarna fara einfaldlega ekki saman hagsmunir "orkueyjar", sem getur breytt endurnýjanlegri orku sinni í eftirsótt verðmæti, og orkuhungraðs "stórveldis".  Er þetta ekki augljóst ?

Það vefst ekki fyrir öllum.  Þannig ritaði Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, ágæta grein um málefnið í Morgunblaðið, 9. marz 2019:

"Orkan okkar".

Hún hófst þannig:

"Í fjölmiðlum, ekki sízt í Morgunblaðinu, hefur farið fram mikil og oft á tíðum mjög upplýsandi umræða um orkustefnu Evrópusambandsins.  Í þessari umræðu hafa kunnáttumenn úr orkugeiranum útskýrt, hvað felist í svokölluðum "orkupökkum" ESB, en samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar hefur staðið til, að Íslendingar samþykki "þriðja orkupakkann" á yfirstandandi þingi.  Ekki er þó útséð um það, því [að] Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, vill skoða málið nánar.  Það er vel."

Ögmundur Jónasson á heiður skilinn fyrir málefnalega nálgun sína á þessu máli.  Hann hefur lagt sig í líma við að átta sig á staðreyndum þessa máls, sem á yfirborðinu kann að virðast bæði flókið og óáhugavert, en þeir sem gefa sér tíma til að hugleiða það,sem dregið er fram í umræðunni á báða bóga, komast margir fljótlega að því, að í grundvallaratriðum er málið ekki flókið og að það varðar mikla framtíðarhagsmuni í þessu landi, snertir hag hvers einasta íbúa landsins og atvinnuöryggi fjölmargra.  Það varðar sjálfsákvörðunarrétt landsmanna um orkumál og lýðræðislegt áhrifavald kjósenda í þessu landi á ráðstöfun einnar aðalauðlindar landsins.  

 

 

  


Hundsbit

Það hefur komið fram, að ætlunin er að gera Orkumálastjóra að Landsreglara og þar með væntanlega að sameina embættisskyldur Orkumálastjóra og Landsreglara Evrópusambandsins, ESB, á Íslandi.  Þetta er stórfurðulegt uppátæki, því að embættisskyldur orkumálastjóra spanna mun meira en raforkumál, en Landsreglari (National Energy Regulator) verður æðsti maður raforkumála á Íslandi, óháður íslenzkum stjórnvöldum, en Orkumálastjóri er aftur á móti núna beint undir ráðherra.  Það fer mjög illa á þessu, enda ætla Norðmenn að viðhafa annað fyrirkomulag, þar sem Stórþingið áskildi, að völd Landsreglara yrðu eins takmörkuð og auðið væri.

Nú er Landsreglari Noregs sjálfstætt embætti innan Orkustofnunar, en verði Þriðji orkupakkinn hluti EES-samningsins, þá verður stofnað sjálfstætt embætti Landsreglara í Noregi. Ekkert slíkt virðist vaka fyrir íslenzka iðnaðarráðherranum.  Þvert á móti virðist Landsreglarinn munu verða hér valdameiri en efni standa til.    

Hvert verður fyrirsjáanlega hlutverk Landsreglara ? Verkefnum hans er lýst í Raforkumarkaðstilskipuninni 2009/72/EB, sem er hluti af Orkumarkaðslagabálki #3.  Hér verður drepið á fáein atriði varðandi flutning og dreifingu raforku úr þessari tilskipun, og fleiri atriði tíunduð við tækifæri:

1 a) ákvarða eða samþykkja, á grundvelli skýrra skilmála, raforkuflutningsgjaldskrár og raforkudreifingargjaldskrár eða aðferðirnar, sem útreikningar þeirra eru grundvallaðar á.

Landsnet hefur hingað til samið sínar gjaldskrár, og rafmagnsdreifingarfyrirtækin sínar, og fyrirtækin hafa síðan lagt þær fyrir Orkustofnun til rýni og samþykktar.  Orkumálastjóri hefur starfað í umboði ráðherra, en verður, ef "pakkinn" gengur eftir, starfandi í umboði ESB.  Á bara að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti ?

1 b) tryggja, að rekstraraðilar flutnings- og dreifikerfanna, og, eins og við á, eigendur þessara kerfa, auk allra fyrirtækja í raforkugeiranum, standi við skuldbindingar sínar samkvæmt þessari tilskipun og öðrum viðeigandi Evrópusambandsreglum, að meðtöldu því, sem varðar millilandatengingar.  

Raforkugeirinn í heild sinni skal sýna regluverki Evrópusambandsins hollustu framar öllu öðru.  Íslenzk orkulög og íslenzk orkustefna verða að vera í samræmi við gildandi regluverk ESB á hverjum tíma á sviði orkumála, ekki einvörðungu þess hluta, sem fólginn er í Þriðja orkupakkanum.  Er þetta ekki of stór biti að kyngja fyrir þjóð, sem stendur ekki í neinum raforkuviðskiptum við ESB og kærir sig ekki um það, eftir því sem bezt er vitað ?

Í kafla 6 er tekið til við að lýsa hlutverkum Landsreglarans við tengingu inn á þessi kerfi: 

6 Landsreglarinn skal bera ábyrgð á að ákvarða eða samþykkja, tímanlega fyrir gildistöku, a.m.k. aðferðirnar, sem nota á til að reikna eða ákvarða skilmálana fyrir:

a) tengingu og aðgang að landskerfi, þ.m.t. flutnings- og dreifingargjaldskrár, eða aðferðirnar, sem leggja skal til grundvallar útreikningunum.  Þessar gjaldskrár eða aðferðir eiga að vera þannig, að tekjur af þeim standi undir nauðsynlegum fjárfestingum í kerfunum fyrir viðgang þeirra.

 Landsreglarinn ákveður þannig tengigjöldin fyrir nýja birgja, t.d. vindorkuver, og notendur raforku.  Það er líklegt, að hann muni fá leiðbeiningar frá ACER um þetta, svo að samræmis við ESB-löndin verði gætt.  Með þessu fyrirkomulagi getur hvorki Alþingi né ráðherra haft áhrif á hvetjandi og letjandi þætti þessara gjaldskráa.

b) viðskipti með jöfnunarorku. 

Allir kaupendur á heildsölumarkaði raforku í landinu senda með minnst sólarhrings fyrirvara inn áætlun um orkukaup sín á hverri klukkustund til síns orkubirgis og þurfa að greiða honum fyrir mismun raunverulegrar notkunar og áætlunar utan vissra marka.  Orkubirgjarnir senda jafnframt inn tilboð um að láta þessa jöfnunarorku í té.  Þessi jöfnunarorkumarkaður hefur virkað vel, síðan honum var komið á hérlendis.  Samkvæmt Orkupakka #3 verður hann settur undir stjórn Landsreglara.  Nú stjórnar Landsnet þessum markaði.  Ólíklegt er, að til bóta verði að færa stjórn þessa markaðar lengra frá mörkinni, persónum og leikendum.

c) aðgang að innviðum á milli landa, þar með aðferðarfræði við úthlutun flutningsgetu og meðhöndlun yfirálags.

Landsreglarinn mótar regluverkið um það, hvernig orkuvinnslufyrirtækjum og vinnslugetu þeirra verður á hverjum tíma raðað inn á sæstrenginn eða sæstrengina.  Þarna munu áreiðanlega samræmdar reglur ACER gilda í þessum efnum.  Til þessara kasta kemur sérstaklega, ef strengurinn er fulllestaður.  Landsreglarinn ræður því líka, hvaða orkubirgi er kastað fyrst út eða dregið úr flutningi frá, ef mannvirkin verða yfirlestuð.  Hér kunna að koma upp hagsmunaárekstrar á milli orkuseljenda og orkukaupenda. Verður sá úrskurður þjóðhagslega hagstæður Íslandi ?

Norski hagfræðiprófessorinn Anders Skonhoft hefur rannsakað þjóðhagslegar afleiðingar fleiri aflsæstrengja á milli Noregs og útlanda.  Þjóðhagslegar afleiðingar fyrsta aflsæstrengsins til útlanda hérlendis ættu að verða sams konar, en þó meiri.  Skonhoft fann út, að summa ávinnings orkuvinnslufyrirtækjanna og taps orkukaupenda yrði neikvæð.  Þetta þýðir, að út frá þjóðhagslegu sjónarmiði er verr farið en heima setið varðandi sæstrengsverkefni hérlendis.

Málið er enn alvarlegra en þetta, því að Skonhoft reiknaði ekki út afleiðingar orkuverðshækkana á fyrirtækin.  Samkeppnisstaða þeirra hríðversnar, og hefur formaður samtaka grænmetis- og blómaræktenda lýst þessu á raunsæjan hátt í Bændablaðinu, en gróðurhúsabændur nota tiltölulega mikla orku á hvert kg framleiðslunnar.  Svigrúm allra framleiðslufyrirtækja í landinu til launagreiðslna, nýsköpunar og annarra fjárfestinga mun minnka, sem leiða mun til minni hagvaxtar og að lokum stöðnunar.  Að jafna raforkuverðið á Íslandi og í Evrópu er þannig stórfelld ógn við lífskjör allra Íslendinga.

Af þessum sökum ætti það að verða þáttur í orkustefnu landsmanna að tengjast ekki erlendum raforkukerfum.  Þá vaknar spurningin um sambúð innlendrar orkustefnu við orkustefnu ESB eftir samþykkt Orkupakka #3.  Ef í Orkustefnu Íslands verður stefnumörkun um að nýta beri orkulindir Íslands með sjálfbærum hætti og einvörðungu hér innanlands, þá samræmist sú stefnumörkun alls ekki Þriðja orkupakka ESB, sem er sniðinn við að koma öllum slíkum orkulindum ESB/EES á sameiginlegan Innri orkumarkað ESB og hið minnsta að tvöfalda flutningsgetu raforku á milli landa ESB frá 2010-2030. Aðildarríkin eiga að koma sér upp orkustefnu, eins og iðnaðarráðherra hefur upplýst, að nú sé í mótun, en, ef samþykkja á Orkupakka #3, þá verður orkustefna Íslands að verða í samræmi við orkustefnu ESB, eins og hún er sett fram í Viðauka IV í EES-samninginum, t.d. í gerð #714/2009, kafla 1 b, formálanum-atriði 24 og formálanum-atriði 1.  Þarna er skrifað um að tryggja "mikið afhendingaröryggi fyrir raforku" í ESB, styðja við "vel virkan" samkeppnismarkað og "samkeppnishæf verð" á ESB markaði.  Íslendingar geta þetta ekki án þess að tengjast ESB-markaði beint.

Nú hafa 2 af 4 lagasérfræðingum, sem utanríkisráðherra fékk til að meta, hvort ákvæði Þriðja orkupakka ESB brytu í bága við Stjórnarskrá, komizt að þeirri niðurstöðu, að ein gerð hans, nr 713/2009, samrýmist ekki Stjórnarskrá.  Þá hefur hann brugðið á afar einkennilegt ráð.  Hann leggur til innleiðingu gerðarinnar "með hefðbundnum hætti", en með lagalegum fyrirvara um, að sæstrengur verði hvorki undirbúinn né lagður, "nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar, og komi ákvæði hennar, sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni."

Samkomulag utanríkisráðaherra við framkvæmdastjóra orku- og loftslagsmála er ekki lagalega skuldbindandi fyrir Evrópusambandið, sem þýðir, að ESB getur litið svo á, að Orkupakki #3 hafi verið innleiddur á Íslandi.  Lagasetning um skilyrta innleiðingu verður væntanlega úrskurðuð ólögmæt að Evrópurétti hjá ESA.  Leiðin er þess vegna greið fyrir sæstrengsfjárfesta, hafi þeir hug á "Ice-Link", og sá áhugi er fyrir hendi.  Yfirlit um þetta er að finna í viðhengi með þessum pistli.  

 

Ef orkustefna Íslands reynist verða sniðin við orkustefnu ESB, er áreiðanlegt, að hún mun vekja upp miklar deilur í landinu og óvíst, hvernig henni reiðir þá af á Alþingi.  Hugsanlega verður hún eitt af "kosningamálunum" fyrir næstu Alþingiskosningar, ef drög að henni hafa birzt þá.  Ráðstöfun orkulindanna er eitt af mestu hagsmunamálum landsmanna, og afstaða kjörinna fulltrúa á löggjafarsamkundunni til orkumálanna gæti haft drjúg áhrif á beitingu atkvæðisréttarins.     

 Akkilesarhæll

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ráðherra um víðan völl

Iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, kom víða við í ræðu sinni á ársfundi Landsvirkjunar, 28. febrúar 2019, eins og eðlilegt er. Það var hins vegar varla eðlilegt hjá henni að nota tækifærið til að gera lítið úr þeim viðvörunarorðum, sem höfð hafa verið í frammi á fullkomlega málefnalegum grundvelli. Sízt af öllu var það viðeigandi af henni í ljósi þeirra "undanþága", sem hún og utanríkisráðherra flagga með í fréttatilkynningu 22. marz 2019.  Gagnvart Evrópusambandinu eru þessar "undanþágur" haldlausar, en meira um það síðar.

  Ef Þórdís myndi spyrja kjósendur í NV-kjördæmi, þangað sem hún sækir umboð sitt, hvort þeir hafi átt í erfiðleikum með að fylgja umræðunni "út um víðan völl", mundu þeir líklega velflestir svara því neitandi og hafa á þessu máli þá bjargföstu skoðun, að ekki eigi að stíga skref til frekara valdframsals yfir raforkumarkaðinum í hendur Evrópusambandsins með því að samþykkja Orkumarkaðslagabálk #3. Orkumálum sínum eiga, vilja og geta Íslendingar stjórnað sjálfir án atbeina Landsreglara, sem stjórnað er af ESB (gegnum ESA).  

Það skuggalegasta við þessa ræðu ráðherrans var áróður hennar fyrir því að samþykkja aflsæstreng til Íslands frá útlöndum. Rökin eru eins veigalítil og hugsazt getur:

"Afgangsorka fer til spillis".  "Það er ekki hægt að selja hana, af því að það er ekki hægt að tryggja, að hún verði til reiðu í óvenjulega þurrum árum." 

Hún sagði í ræðunni, að hér væri um að ræða 2,0 TWh/ár (meira en 10 % af heildarorkuvinnslu landsins) í meðalári og líkti því við "brottkast" af fiskiskipum að nýta ekki þessa orku.  

Þessi samlíking ráðherrans er út í hött.  Með brottkasti er verið að fleygja mat og má í mörgum tilvikum líkja við að kasta útsæðinu á glæ.  Í staðinn þarf að afla annars fiskjar.  Ekkert af þessu á við um þá vatnsorku, sem annaðhvort stendur eftir í miðlunarlóni eftir veturinn, þegar leysingar hefjast, eða fer á yfirfall framhjá virkjun síðsumars.  

Það er góð auðlindastýring, ef tekst að nýta miðlunargetu lóna, þannig að innan við 10 % sé eftir af hámarks vatnsmagni í lóni, þegar vatnsstaðan er í lágmarki að vori.  Þegar stefnir í vatnsskort, er vatnshæðinni stýrt með því að draga úr sölu á "ótryggðri" orku, sem er mun ódýrari en forgangsorkan. 

Af einhverjum ástæðum hefur Landsvirkjun undanfarin ár dregið úr framboði "ótryggðrar" orku, og er það vissulega vottur af orkuskorti.  Í því ljósi skýtur skökku við, að Landsvirkjun skuli ekki standa í neinum virkjanaframkvæmdum nú um stundir.  Þótt hingað yrði lagður aflsæstrengur frá útlöndum, væri algert óráð að tæma miðlunarlónin á vorin, því að þá myndast "venesúelskt" ástand á Íslandi við strengbilun.  Það er þannig ekkert vit að ganga meir á miðlunarforðann en nú er venjulega gert.  

Það, sem iðnaðarráðherra sennilega er aðallega með í huga í þessu sambandi, er yfirfallsorkan úr miðlunarlóni.  Það er hins vegar af og frá, að þessi orka nemi að jafnaði um 2 TWh/ár. Hér er mestmegnis um að ræða 2 miðlunarlón, Þórisvatn og Hálslón.  Í fyrra var lokið við nýja virkjun, Búrfell #2. Henni er ætlað að nýta yfirfallsvatn úr Þórisvatni og annað vatn, sem fyrri virkjanir ekki geta nýtt.  Búrfell #2 er miklu minni en ofangreind orkutala ráðherrans gefur til kynna, að til ráðstöfunar sé í efri Þjórsá, eða 100 MW að afli og 300 GWh/ár að orku.  Framhjá þessum virkjunum mun sáralítið vatn renna eftir þetta í venjulegu árferði.  Ef aðrennslið eykst marktækt á næstu árum vegna hlýnunar, þá er ólíkt nærtækara að stækka miðlunarlónið Þórisvatn en að leggja aflsæstreng til útlanda.  Það væri vissulega að fara yfir lækinn að sækja vatnið.

Þá víkur sögunni að Fljótsdalsvirkjun, stærstu virkjun landsins, með aflgetu 690 MW og orkuvinnslugetu 5000 GWh/ár.  Aðalálagið á þessa virkjun er frá Fjarðaáli. Það er um 550 MW og núverandi orkuþörf versins er um 4800 GWh/ár.  Þetta þýðir að auka má álag Fljótsdalsvirkjunar um allt að 140 MW frá grunnálagi álversins og keyra inn á stofnkerfið, gegn álagslækkun, t.d. í jarðgufuvirkjunum, á móti, og verður þá hægt að "hvíla" jarðgufugeyminn og stunda viðhald á búnaði.  Lítil flutningsgeta núverandi Byggðalínu takmarkar mjög möguleikana á aflkeyrslu á milli landshluta.  Þegar 220 kV loftlína/jarðstrengur verður komin frá Fljótsdalsvirkjun og til Akureyrar og jafnvel vestur fyrir Eyjafjörð, þá verða engin vandkvæði á að keyra Fljótsdalsvirkjun á fullum afköstum, þegar vel gengur að fylla Hálslón og koma þannig í veg fyrir megnið af yfirfalli úr Hálslóni og grugg í Jökuldalsá, sem nú rennnur í farvegi Jöklu, er tær og orðin þokkaleg veiðiá.  Þarna fengjust e.t.v. 200 GWh í góðum vatnsárum.  

Þessi aðgerð kallar ekki á neinar fjárfestingar, því að styrking Byggðalínu er nauðsynleg, hvort sem er.  Þannig er ljóst, að yfirfallsorka verður ekki fyrir hendi í neinum umtalsverðum mæli í nánustu framtíð. Hugmyndir um hana sem einhvers konar undirstöðu fyrir orkusölu inn á sæstreng eru úr lausu lofti gripnar.  Að líkja umframorkunni við "brottkast" og réttlæta raforkusölu inn á sæstreng með henni er algerlega óboðlegt á Íslandi og hneisa að iðnaðarráðherra skuli bera þetta á borð á ársfundi Landsvirkjunar. 

Getur verið, að ráðuneytisfólkið hafi heyrt röksemdir Norðmanna fyrir aflsæstrengjum og haldið, að hægt væri að yfirfæra þær hráar á milli þessara tveggja vatnsorkulanda ?  Það eru 2 meginástæður fyrir því, að það er ekki hægt.  Önnur er gríðarleg umframaflgeta í norska kerfinu utan kaldasta tímans, af því að húsnæði er yfirleitt rafhitað í Noregi.  Á Íslandi er umframaflgeta nánast engin.  Hin er umframmiðlunargeta lóna í 9 af hverjum 10 árum að jafnaði í Noregi.  Þetta veldur því, að Noregur hefur undanfarin ár haft úr að spila 8-16 TWh/ár (góð vatnsár) inn á sæstrengina, sem er um 9 % af vinnslugetu kerfisins. 

Það er þó önnur hlið á þessu íslenzka sæstrengsmáli, sem er miklu alvarlegri en sú gloppa eða vanþekking á afgangsorku/yfirfallsorku, sem lýst er að ofan.  Hún snýr að fjárhagshlið málsins.  Formælendur aflsæstrengstengingar við útlönd fullyrða, án þess að leggja fram nokkra útreikninga því til stuðnings, að orkuseljendur muni hagnast mikið á því að selja raforku inn á slíkan sæstreng.  Er þá reynt að halda því að þjóðinni, að verkefnið sé þjóðhagslega hagkvæmt og að hér sé um fundið fé fyrir eigendur orkufyrirtækjanna að ræða, sem að mestu er hið opinbera á Íslandi.  Þarna er maðkur í mysunni.

Hér er um eintóma loftkastala að ræða samkvæmt norska hagfræðiprófessornum Anders Skonhoft, en ritgerð hans um þetta efni, "Kraftkabler, samfunnsnytten, miljöet og industrien", er birt sem viðhengi við þennan pistil.  Niðurstaða hagfræðilegrar greiningar prófessors Skonhoft er sú, að aukinn hagnaður norskra orkuseljenda af orkusölu inn á næsta aflsæstreng frá Noregi verði alfarið sóttur til verðhækkunarinnar innanlands, sem af viðbótar tengingu við hærra verðlagssvæði leiðir.  Þetta er afar athyglisverð niðurstaða og stingur algerlega í stúf við málflutning talsmanna raforkusölu frá Íslandi.  

Orðrétt segir í ritgerð prófessors Skonhft:

"Merk ellers, at gevinsten for produsentene utelukkende er knyttet til, at innenlandsk pris öker som fölge av utvekslingen.  Uten ökt innenlandsk pris har kraftprodusentene dermed ikke noe ökonomisk motiv for å önske utenlandsk kraftutveksling velkommen."

Þessu snarar pistilhöfundur þannig:

"Veitið annars athygli, að hagnaður raforkuvinnslufyrirtækjanna [af orkusölu inn á sæstreng] er alfarið tengdur því, að innanlandsverð [raforkunnar] hækkar vegna utanlandsviðskiptanna.  Án raforkuverðhækkunarinnar innanlands hafa raforkuvinnslufyrirtækin enga fjárhagslega ástæðu til að bjóða utanlandsviðskipti með rafmagn velkomin."

Þetta eru vissulega stórtíðindi, en þá er spurningin, hvort hægt sé að yfirfæra þessa niðurstöðu á Ísland ?  Noregur er vatnsorkuland með vaxandi vinnnslu raforku með vindmyllum, með margar millilandatengingar fyrir raforku og frjálsan samkeppnismarkað fyrir hana. Á Íslandi koma yfir 70 % raforkunnar frá vatnsorkuverum, tæplega 30 % frá jarðgufuverum og vindorkuver ásamt frjálsum samkeppnismarkaði raforku eru í undirbúningi. Flutningsgeta fyrsta aflsæstrengsins frá Íslandi gæti numið meiri orku en þeirri, sem hér verður í byrjun á frjálsum markaði.  Í Noregi verður þetta hlutfall aðeins um 10 % fyrir næsta sæstreng (Þýzkalandsstrengur-NORGER).

Af þessu er hægt að draga þær ályktanir, að sömu lögmál muni gilda á Íslandi og í Noregi um fjárhagslegar afleiðingar sæstrengstengingar, en þær munu þó verða miklu stórtækari á Íslandi, rýra lífskjör almennings, veikja samkeppnishæfni og launagreiðslugetu fyrirtækjanna, og þetta mun vafalaust verða mörgum þeirra, ekki sízt þeim minni, um megn. Að tala um þjóðhagslega hagkvæmni af aflsæstreng héðan til útlanda stenzt ekki skoðun.  Af honum verður stórfellt þjóðhagslegt tap. 

Verður þá enginn hagnaður af utanlandsviðskiptunum með rafmagn ?  Hér á Íslandi verður ónýtanleg afgangsorka í miðlunarlónum og yfirfallsorka sáralítil eftir tilkomu Búrfells #2 og 220 kV tengingar Fljótsdalsvirkjunar við Norðurland.  Þessi tenging mun gera kleift að keyra Fljótsdalsstöð á fullum afköstum inn á Fjarðaál og stofnkerfið, þegar þess gerist þörf, t.d. til að hindra myndun fossins Hverfanda niður í Jökulsárgljúfur í góðum vatnsárum fyrir austan.  Af þessum sökum verður að reisa nýjar virkjanir fyrir útflutning um sæstreng frá Íslandi (í Noregi eru það litlar vatnsvirkjanir og vindmyllur).  Kostnaður þessara framkvæmda verður miklu hærri en núverandi meðalkostnaður í orkuöflunarkerfinu.  Útflutningurinn sjálfur leiðir þess vegna ekki til hagnaðarauka hjá vinnslufyrirtækjunum, heldur lendir allur hagnaður útflutningsins, ef einhver verður, hjá eigendum millilandatengingarinnar.  

Í Noregi á norska Landsnet, Statnett, allar núverandi millilandatengingar raforku og hefur notað hagnaðinn af þeim m.a. til að byggja upp flutningskerfið innanlands, enda hefur verulegur kostnaður fallið til við að tengja sæstrengina við stofnkerfið.  Líklega þykir framkvæmdastjórn ESB óeðlilegt, að Günther og Hildegard í Þýzkalandi borgi uppbyggingu flutningskerfis Noregs, því að í Orkupakka #3 er búið að reisa skorður við þessari ráðstöfun hagnaðar, og hert á í Orkupakka #4, og aðalreglan verður þá sú, að allur hagnaður mililandatenginga gangi til endurnýjunar og fjölgunar millilandatenginga við ESB-löndin.  Þetta veldur ekki hrifningu í Noregi. 

Þessi greining hins norska prófessors í hagfræði sýnir, að það er maðkur í mysunni, þegar kemur að þeim málflutningi, að raforkusala um sæstreng til útlanda sé fundið fé fyrir íslenzka virkjanaeigendur, sem að mestu eru í eigu opinberra aðila á Íslandi, og íslenzka hagkerfið. Hið síðara er ekki rétt. Samkvæmt Skonhoft kemur aukinn hagnaður alfarið úr vasa innlendra raforkukaupenda, og slíkur sæstrengur virkar þá eins og viðbótar skattheimta á heimilin og fyrirtækin í landinu.  Alþingi á við þessar aðstæður ekki að stíga neitt skref, sem auðveldar erlendum fjárfestum að fá heimild til lagningar aflsæstrengs til útlanda.  Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er tvímælalaust tæki Evrópusambandsins til að fá á framkvæmdastig verkefni, sem það hefur sett á forgangsverkefnalista sinn, PCI, þ.á.m. "Ice-Link".

Þessi sæstrengur verður ekki fjarlægður af forgangs verkefnalista ESB/ACER með einu pennastriki, eins og látið er að liggja í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar 22.03.2019.  Hann hefur verið staðfestur þar inn með undirritun margháttaðra skjala, sem farið hafa einnig ril Ráðherraráðsins og ESB-þingsins.  Það er að líkindum ekki skilyrði, að yfirvöld viðkomandi landa óski eftir verkefni inn á PCI.  Það eru verkefniseigendurnir (Sponsors-hvatamennirnir), sem gera tillögur um verkefnaval til Framkvæmdastjórnarinnar, ekki löndin, og aðildarlöndin eru þá bara einn af mörgum aðilum, sem ákveða valið.  Út frá þessu er engin trygging fyrir því, að "Ice-Link" geti ekki staðið áfram á PCI-listanum, þrátt fyrir óskir íslenzku ríkisstjórnarinnar.  Löndin virðast ennfremur ekki hafa neitunarvald í þessum efnum.  

Valið inn á PCI-listann er grundvallað á Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER ásamt samevrópskri áætlun um meginflutningaleiðir (corridors) orku (Trans European Network for Energy).  Allt þetta mælir gegn því, að framkvæmdastjóri hjá ESB geti tekið ákvörðun um að fjarlægja verkefnið.  Er verið að reyna með lúðrablæstri og söng að slá ryki í augu Alþingismanna og almennings ? 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Enn er líf í ACER umræðunni í Noregi

Haustið 2018 höfðuðu samtökin "Nei til EU", sem eru systursamtök Heimssýnar í Noregi, mál gegn Ernu Solberg, forsætisráðherra, fyrir málsmeðferð Stórþingsins, að undirlagi ríkisstjórnarinnar, á atkvæðagreiðslu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  

Stjórnarskrá Noregs kveður á um, að við valdframsal ríkisins til erlendra stofnana án aðildar Noregs, þar sem milliríkjasamningurinn, sem í hlut á, getur ekki talizt vera þjóðréttarlegs eðlis, eins og aðild að Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðabankanum eða NATO, svo að dæmi séu tekin, skuli 3/4 af mættum þingmönnum, sem ekki mega vera færri en 2/3 allra kjörinna þingmanna, þurfa að fallast á framsalið, svo að það hljóti samþykki.  

Það er hins vegar einfaldur meirihluti þingsins sjálfs, sem sker úr um eðli málsins og þar með, hvort viðhafa skuli regluna um aukinn meirihluta. Þetta má kalla veikleika við annars ágætt ákvæði, sem nú hefur leitt til málaferla. 

Dómsmálaráðherrann sendi þinginu í fyrravetur álitsgerð, þar sem ekki var talin vera þörf á auknum meirihluta til að samþykkja Þriðja orkupakka ESB, af því að hann væri "lite inngripende", þ.e. hefði lítil áhrif á þjóðlífið.  Þar stendur þó hnífurinn í kúnni.  "Nei til EU" nýtur sérfræðilegs stuðnings fjölda  norskra lagaprófessora í því, að málið hafi svo víðtæk áhrif á stjórnsýslu Noregs og heimili Landsreglara að hlutast til um gjaldskrár Statnetts og dreifiveitnanna og að heimta alls konar orkutengdar upplýsingar af fyrirtækjum að viðlögðum sektum, að áskilja hefði átt aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslu Stórþingsins um málið samkvæmt Stjórnarskránni.  Þá kynni málið að hafa fallið á Stórþinginu, því að innan við 2/3 mættra þingmanna greiddu því atkvæði sitt, en það hlaut að vísu yfir 3/4 greiddra atkvæða.

Ríkislögmaðurinn krefst frávísunar stefnunnar á þeim grundvelli, að verið sé að flytja pólitískan ágreining inn í réttarsal, en "Nei til EU" lítur á það sem lýðræðislegan rétt sinn að fá úr því skorið af dómstóli, hvort Stjórnarskráin hafi verið brotin.  Dómsúrskurðar er að vænta nú í apríl/maí um frávísunarkröfu ríkislögmanns.  Haldi málið áfram fyrir dómi, má vænta dóms í Þingréttinum (fyrsta dómstig) síðla árs 2019.  Málið mun varla fara fyrir Lagmannsretten, heldur beint fyrir Hæstarétt, sem líklega kveður þó ekki upp dóm fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2020.  Það er fullkomlega óeðlilegt, að Alþingi taki Þriðja orkupakkann til formlegrar afgreiðslu fyrr en lyktir fást í þessu dómsmáli.

Vinni "Nei til EU" málið (fyrir Hæstarétti), mun Stórþingið verða að fjalla um það að nýju.  Þá verður uppi ný staða í norskri pólitík.  Það var Verkamannaflokkurinn, sem fyrir ári réði úrslitum um afdrif þessa máls.  Á meðal þingmanna hans var talsverð óánægja með Orkupakka #3, og hún er enn meiri nú, en Landsstjórn flokksins samþykkti fyrirmæli til þingflokksins um að greiða sem blokk atkvæði með pakkanum.  Þar réð gamalkunnug hollusta flokksins við ESB.

Slíkt mun ekki endurtaka sig, komi Orkupakkinn aftur til kasta þingsins.  Ástæðan er sú, að í millitíðinni er norska Alþýðusambandið búið að taka afstöðu gegn innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og norska löggjöf, og norski Verkamannaflokkurinn hefur líklega aldrei gengið í berhögg við verkalýðshreyfinguna í grundvallar hagsmunamáli, eins og hér um ræðir. Á Stórþinginu mun málið að líkindum falla við endurupptöku, aðallega vegna sinnaskipta Verkamannaflokksins.

Hver eru rök norsku verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli ?  Þau eru, að atvinnuöryggi margra verkamanna, iðnaðarmanna og tæknimanna og heilu sveitarfélaganna á landsbyggðinni, er stór hætta búin, ef stefnumörkun í orkumálum Noregs flyzt til ESB.  Þetta eru ekki getgátur verkalýðsforingja, heldur hefur norska verkalýðsforystan látið sérfræðinga áhættugreina stöðuna fyrir sig, og þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að norskur útflutningsiðnaður muni í miklum mæli gefast upp á samkeppninni, ef raforkuverðið hækkar uppundir það, sem gengur og gerist á Bretlandi og í iðnaðarmiðju meginlands Evrópu. Að sjálfsögðu yrði slík staða alvarleg ógnun við atvinnuöryggi og kjör skjólstæðinga verkalýðshreyfingarinnar, og þess vegna er þessi pólitíska afstaða norska Alþýðusambandsins mikilvægur þáttur í varnarbaráttu þess fyrir áframhaldandi góðum lífskjörum verkafólks í Noregi.  

Hvers vegna ætti gildistaka Þriðja orkupakkans í Noregi að grafa undan samkeppnishæfni Noregs ?  Hún hefur verið reist á tiltölulega lágu raforkuverði, sem hefur verið jákvætt mótvægi við hærri flutningskostnað og starfsmannakostnað norsku verksmiðjanna en samkeppnisaðila á Bretlandi eða niðri í Evrópu.  Það hefur sýnt sig, að með hverjum nýjum aflsæstreng hefur raforkuverð í Noregi dregið meira dám af raforkuverðinu við hinn enda sæstrengsins.  Því stjórna markaðslögmálin.  Því meiri flutningsgeta millilandatenginga, þeim mun meir mun innanlandsverði raforku svipa til verðsins erlendis, sem tengingarnar ná til. 

Í Noregi nemur útflutningur raforku nú um 10 % af almennri raforkunotkun innanlands. Norska verkalýðshreyfingin óttast, og ekki að ástæðulausu, að útflutningur raforku muni vaxa enn frekar, þegar hann verður ekki lengur á forsendum Norðmanna sjálfra, heldur stjórnað af markaðnum, Landsreglara Noregs og reglum ACER.  Þetta muni ekki sízt koma niður á orkukræfum iðnaði Noregs, sem myndar  samfélagslegt hryggjarstykki í mörgum dreifðum byggðum Noregs.

Þar að auki horfir norska verkalýðshreyfingin nú á straum tilskipana og gerða frá ESB, sem hún telur réttindum og kjörum norsks verkafólks stafa hætta af.  Nefna má Járnbrautarpakka #4, gerð um millilandaflutninga, og nýja vinnumálalöggjöf ESB auk gerðar, sem skyldar stjórnvöld, einnig sveitarstjórnir, til að tilkynna Framkvæmdastjórninni um allar væntanlegar ákvarðanir varðandi þjónustutilskipun ESB. 

Búizt er við, að EES-aðild Noregs verði til umfjöllunar á næsta þingi Alþýðusambandsins 2021 og að m.v. núverandi þróun mála kunni uppsögn EES-samningsins að verða samþykkt þar.  Þetta mun vafalaust lita mjög kosningabaráttuna fyrir þingkosningarnar 2021 í Noregi.  Þessi atburðarás eykur líkur á, að Stórþingið muni fella Orkupakka #3 árið 2021.  Það er óþarfi fyrir Íslendinga að trufla þessa norsku atburðarás með því að taka orkupakkann til afgreiðslu fyrir þennan tíma.  

Það er enn meiri ástæða til að óttast rafmagnsverðhækkanir hérlendis en í Noregi af völdum aflsæstrengs, því að á Íslandi mun flutningsgeta fyrsta sæstrengsins verða tvöföld almenna raforkunotkunin.  Verðhækkunin innanlands mun þess vegna verða enn meiri en í Noregi, og heildsöluverð til almenningsveitna hérlendis mun verða svipað og verðið, sem orkuseljendur hér fá fyrir orkuna inn á strenginnn.  ESB sjálft gerir ráð fyrir sáralitlum raforkuverðmun á milli landa eða 0,25 EUR/MWh (=0,034 ISK/kWh), þegar flutningsgeta millilandatenginga nær 30 % af uppsettu afli innan sambandsins.

Af aflsæstreng mun einvörðungu hljótast þjóðhagslegt tap, því að norski hagfræðingurinn Anders Skonhoft hefur sýnt fram á, að allur aukinn gróði innlendra orkuseljenda af útflutningi raforku stafar af hærra orkuverði innanlands vegna nýrrar utanlandstengingar, en gróðinn af útflutninginum sjálfum, þ.e. orkuviðskiptunum við útlönd, fer allur til sæstrengseigandans. 

Þau, sem  vilja innleiða hér erlenda löggjöf, sem er sniðin til að greiða fyrir millilandatengingum orku og til að stjórna orkuflæðinu, ekki sízt úr endurnýjanlegum orkulindum, eru að leggja drögin að svikamyllu, sem beint er að landsmönnum öllum.  Í flestum tilvikum ræður fávísi för og í mörgum tilvikum trúin á, að það, sem er gott fyrir ESB, sé líka gott fyrir Ísland.  Það er hins vegar herjans mikill misskilningur, og í raun einfeldningsháttur, eins og iðulega hefur verið fjallað um á þessu vefsetri.

Það er sem sagt engan veginn hægt að ganga út frá því sem vísu, að ný umfjöllun um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB á Stórþinginu muni leiða til afgreiðslu, þar sem fylgjendur fái 3/4 greiddra atkvæða.   Af þessum sökum er í raun ótímabært fyrir ríkisstjórn Íslands að hefja viðræður á vegum EFTA við ESB um undanþágur frá þessum ólánslagabálki fyrir Ísland, eins og Miðstjórn Framsóknarflokksins samþykkti í vetur.  Hvernig í ósköpunum stendur á því, að ríkisstjórnin tekur ekki þennan pól í hæðina og lýsir yfir frestun málsins, þar til lyktir fást í dómsmál "Nei til EU" gegn Ernu Solberg ? Í staðinn móast ráðherrarnir tveir við, sem aðllega véla um þetta mál, staddir úti á túni.

Í dag, 21.03.2019, kl. 1730, mun Morten Harper, sérfræðingur hjá "Nei til EU" í Noregi, flytja fyrirlestur um EES og Orkupakka #3 á Háskólatorgi HÍ, sal 105.  Verður áhugavert að kynnast viðhorfi hans til þessara mála og mati á þróun sambands EFTA-ríkjanna við ESB.      

 

 

 


Fjórði orkupakkinn

Fjórði orkumarkaðslagabálkur Evrópusambandsins er enn í umsagnar- og umræðuferli innan sambandsins, enda sýnist þar sitt hverjum.  Pakkinn hefur þó verið reifaður opinberlega, og fylgir stutt lýsing hér í viðhengi (á ensku).

Tveimur árum eftir gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, EES, kom út Orkupakki #1, eða 1996.  Hlutverk hans var að rífa niður einokunaraðstöðu nokkurra risa á raforkumarkaðinum, sem áttu bæði flutningskerfið, orkuver og jafnvel dreifiveitur.  Með Orkupakka #1 fyrirskrifaði ESB, að dreifiveiturnar skyldi gera sjálfstæðar frá hinum þáttum orkugeirans, og aðaldreifiveitunum á hverju svæði var veitt sérleyfi á skilgreindum athafnasvæðum, og þannig var komið í veg fyrir tvöfalt eða þrefalt kerfi á sumum svæðum. Ætla mátti, að einfalt dreifikerfi myndi draga úr sóun og þar með verða neytendum hagkvæmara, enda skyldu orkuyfirvöld fara í saumana á gjaldskránum og þurfa að staðfesta þær. Dreifiveiturnar í Evrópu eru  nú yfir 2000 talsins.  Samkeppni dreifiveitna er með þessu móti lítil sem engin, en þær geta misst sérleyfið sitt og mörk sérleyfissvæðisins má endurskoða.

Flutningsfyrirtækið átti að vera óháð virkjanafyrirtækjunum og dreifiveitunum, og er það málefnalegt sjónarmið til að tryggja öllum, einnig nýliðum, t.d. vindorkufyrirtækjum, frjálsan aðgang að stofnkerfinu.  Á Íslandi var farin sú leið að stofna flutningsfyrirtækið Landsnet með því að skilja flutningshluta Landsvirkjunar, RARIK, OR og OV frá þeim, og þessi fyrirtæki urðu þannig stofneigendur Landsnets í hlutfalli við eignamat á framlaginu til hins nýja fyrirtækis. 

Þetta eignarhald er óeðlilegt fyrir lögbundið einokunarfyrirtæki, enda hafa nýir aðilar á markaðnum kvartað undan þessu og talið samkeppnishindrandi.  Nú hefur ríkisstjórnin loks tekið þá stefnu, að ríkið kaupi Landsnet.  Það er fagnaðarefni og óþarfi að gera því skóna, að með þessu sé verið að undirbúa sölu á Landsvirkjun.  Verði Orkupakka #3 hafnað hér, er ólíklegt, að tillaga um sölu Landsvirkjunar verði lögð fyrir Alþingi og enn ólíklegra, að Alþingi samþykki slíkt. 

Ef Alþingi glepst á að samþykkja Orkupakka #3, þá verður stofnað hér embætti Landsreglara.  Erlend fyrirtæki gætu þá vissulega fengið augastað á Landsvirkjun með útflutning raforku fyrir augum, en hún verður þá væntanlega seld í bútum á samkeppnisforsendum, óháð eignarhaldi sínu í Landsneti. Það er líka óvíst, að undanþága ESA um núverandi eignarhald Landsnets verði áfram í gildi eftir sölu ríkissjóðs á hluta af Landsvirkjun.

Þannig lagði Orkupakki #1 grunninn að frjálsri samkeppni á orkumarkaði (þetta átti líka við eldsneytisgaskerfi), enda var rafmagn skilgreint þarna í fyrsta kipti á Íslandi sem vara.  Noregur hafði  innleitt þetta fyrirkomulag um 1990, e.t.v. að fordæmi Breta, og hafa vafalaust verið þess mjög fýsandi í Sameiginlegu EES-nefndinni, að hin EFTA-ríkin, Ísland og Liechtenstein, samþykktu og innleiddu þetta fyrirkomulag, þótt á ýmsu hefði gengið í Noregi við innleiðinguna (sum gamalmenni höfðu ekki ráð á rafmagnsreikninginum).  Íslenzk stjórnvöld sáu þess vegna ekki ástæðu til að streitast á móti þessum Fyrsta orkupakka.  Í okkar litla samfélagi leiddi þessi uppskipting orkugeirans 2003 hins vegar til meiri yfirbyggingar (fleiri silkihúfur) og dýrara kerfis, sem endurspeglaðist í rafmagnskostnaði almennings og síðar í langtímasamningum um raforku.  Að þessu leyti höfðu t.d. vinstri grænir á þingi rétt fyrir sér, en þeir voru á móti þessum orkupakka á Alþingi, e.t.v. vegna markaðsvæðingarinnar, sem að baki lág.

Með Orkupakka #2 var orkumarkaðurinn skilgreindur nákvæmlega og mælt fyrir um það fyrirkomulag, sem gæfi orkukaupendum beztu kjörin til lengdar.  Mælt var með uppboðsmarkaði fyrir raforku og gas í Orkukauphöll, þar sem afleiðuviðskipti með orkuna væru leyfð. Ekki var gert að skyldu að innleiða þetta.  Sýnt hefur verið fram á, að þetta kerfi hentar afleitlega á Íslandi til að lágmarka orkuverð og hámarka afhendingaröryggi innan skynsamlegra marka. Þvert á móti býður þetta fyrirkomulag upp á skjótfenginn gróða orkuseljenda og spákaupmanna, þótt hinir síðarnefndu geti snögglega tapað háum fjárhæðum líka á orkuviðskiptum, jafnvel orðið gjaldþrota, eins og dæmin sýna erlendis frá.   

Mismunurinn á Íslandi og meginlandi Evrópu að þessu leyti er fákeppnismarkaður hér, dyntótt náttúruöfl sem frumorka í stað þróaðra eldsneytismarkaða. Bann við sameiginlegri auðlindastýringu samkvæmt þessum orkupakka getur valdið misnotkun markaðarins á orkulindunum, miðlunarlónum, árrennsli og jarðgufuforðageymunum. Orkupakki #2 hefur verið innleiddur hér, en hann felur að þessu leyti í sér alvarlega anmarka fyrir íslenzkar aðstæður. 

Með Orkupakka #3 var gert að skyldu að innleiða þetta frjálsa markaðskerfi, jafnframt skal stofna embætti Landsreglara, sem verður hæstráðandi orkumála í hverju landi, óháður stjórnvöldum hvers lands, og þjónar hann beint undir ACER, sem er Orkustofnun ESB og er beint undir Framkvæmdastjórninni.  Fyrir EFTA-löndin verður ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) milliliður Landsreglara og ACER, en breytir engu um skilyrðislausa hlýðniskyldu  Landsreglara við stofnanir ESB og Evrópurétt.  Með Orkupakka #3 tekur Evrópulöggjöf gildi um millilandatengingar, en gildir um allan innlenda raforkugeirann frá og með orkulögum 2003 og um frjálsan orkumarkað frá innleiðingu Orkupakka #2 2007.  Lög frá Alþingi verða eftir innleiðingu Orkupakka #3 sett til hliðar í öllum orkugeiranum, ef þau stangast á við Evrópuréttinn. Þetta er ekki ásættanlegt, þegar litið er til mikilvægis orkuvinnslu og orkusölu fyrir hagkerfi landsins.  Ef ágreiningur verður við ESB á raforkusviðinu, er næsta víst við þessar aðstæður, að hagsmunir þeirra verða ofan á.   

Orkupakki #4 mun sennilega taka gildi í ESB 2020.  Hann er saminn af ríkri þörf Evrópusambandsins til að ná tökum á orkuskiptunum, sem fólk þar á bæ telur forsendu fyrir því, að ESB geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu 2015, þ.e. 20 % heildarorkunotkunar verði frá endurnýjanlegum lindum 2020 og 27 % árið 2030, og síðan verði kolefnishlutleysi náð 2050. 

Það horfir nú mjög illa með að ná þessum markmiðum.  Hitt veldur meiri áhyggjum í Berlaymont, hversu einhæfir orkuaðdrættirnir eru, og hversu háð ESB-löndin eru og verða á næstu árum Rússum um eldsneyti.  Þess vegna er gríðarleg áherzla lögð á að komast í endurnýjanlegar orkulindir, hvar sem hönd á festir.  Norðurlöndin Svíþjóð, Noregur og Ísland eiga öll miklar endurnýjanlegar orkulindir, og tvö hin síðarnefndu eru talin vera aflögufær.  

Auðvitað hefur ESB nákvæmar upplýsingar um Rammaáætlun um orkulindir hérlendis, nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk, svo og um verkefni, sem þangað hafa ekki ratað, s.s. djúpborunarverkefni með tífalt afl í holu. Hvernig á að koma í veg fyrir, að fyrirtæki einhvers staðar að, innan EES, komi höndum yfir orkulindir og hefji nýtingu á þeim, þegar bannað er að mismuna einstaklingum og lögaðilum innan EES, þegar hvers konar viðskipti og leyfisveitingar eiga í hlut ?    Það er jafnframt þannig, að náttúruvernd er ekki lögmæt ástæða fyrir útflutningshindrun á vöru, en ESB og Þórdís Kolbrún hafa skilgreint rafmagn sem vöru, illu heilli fyrir okkur, þótt slíkt sé fjarri skilningi almennings á rafmagni.  Það hefur lengi verið skilningur almennings á Íslandi og í Noregi, að rafmagnið sé afurð náttúruauðlinda, sem nýta eigi til að bæta hag heimila og fyrirtækja hvarvetna á landinu til samkeppnishæfrar verðmætasköpunar.

"Hrein orka fyrir alla Evrópumenn" er slagorð Fjórða orkupakkans.  Fjárfestingar í endurnýjanlegum orkulindum í ESB-löndunum  á tímabilinu 2015-2030 eru áætlaðar TriEUR 1,0 eða tæplega 70 mrdEUR/ár. Að leggja einn 1200 MW sæstreng frá Íslandi um 1200 km leið til Bretlands er áætlað, að muni kosta tæplega mrdEUR 6.  Fjárfesta í endurnýjanlegum orkulindum mun því lítið muna um að leggja í slíka sæstrengslög.  Fái þeir áhuga, sem margt bendir til, m.a. sú staðreynd, að "Ice-Link" hefur komizt gegnum nálarauga ESB inn á PCI-forgangsverkefnaskrá ACER/ESB og inn á Kerfisþróunaráætlun sambandsins, getur í raun ekkert stöðvað þá framkvæmd, eftir að Alþingi hefur innleitt Evrópurétt á sviði millilandatenginga fyrir orku (Þriðji orkupakkinn). 

Þau, sem halda því fram, að slíkt valdaafsal innlends ákvörðunarvalds í hendur yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER/ESB, skipti sáralitlu máli, eru algerlega úti að aka um það, sem ESB gengur til með umfangsmikilli löggjöf og stjórntækjum til að fylgja henni eftir.  Þar ræður ekki illur hugur, heldur brýn þörf, en augljósir hagsmunaárekstrar við eyjarskeggja norður í Atlantshafi fá þá hins vegar marga hverja til að reisa burst gegn því arðráni, sem flutningur á orku frá eyjunni eðli máls samkvæmt mun hafa í för með sér.

Í Fjórða orkupakkanum eru höfð uppi áform um að stofna svæðisstjórnstöðvar fyrir raforkuflutninga.  Væntanlega þýðir það, að Stjórnstöð Landsnets (á Gylfaflöt í Reykjavík), þaðan sem helztu virkjunum, aðveitustöðvum og raun- og launaflsflæði stofnkerfisins, er stýrt, yrði sett undir slíka ROC-Regional Operational Centre, í norðanverðri Evrópu.  Með þessu á að fást betri stjórn á millilandaflutningum og e.t.v. að ryðja einhverjum hindrunum fyrir þeim úr vegi. 

Það kemur jafnframt fram í viðhengdu skjali með þessum pistli, að þessar svæðisstjórnstöðvar kunni í framtíðinni að ryðja kerfisstjórn hvers lands úr vegi og yfirtaka hlutverk þeirra í löndunum, sem svæðisstjórnin spannar.  Hvernig hugnast mönnum það, að Landsnet, sem ríkisstjórnin vill núna, að verði í ríkiseign, verði gleypt með húð og hári og að stofnkerfi landsins ásamt millilandatengingum rafmagns verði stýrt frá stjórnstöð á meginlandi Evrópu, t.d. í Hamborg ? 

Ef Alþingi samþykkir Orkupakka #3, mun engin fyrirstaða verða fyrir Orkupakka #4, og þá verða hagsmunir "heildarinnar" að ráða, þar sem heildin er allt EES, og sá sem framkvæmir hagsmunamatið, verður ACER.

Í viðhengdu skjali segir svo um framtíðaráformin, sem Alþingismenn eru nú að velta fyrir sér, hvort sé ekki bara allt í lagi, að Íslendingar verði hluti af:

"Stronger regulatory cooperation within ACER is seen as a prerequisite to achieving the EU Energy and Climate goals."

Höfundur þessa pistils túlkar þennan texta þannig, að öflugri miðstýring á orkumálum aðildarlandanna að hálfu ACER (Orkustofnunar ESB) sé talin forsenda þess að ná orku- og loftslagsmarkmiðum ESB.  Nú hníga öll vötn til Dýrafjarðar.  Tilhneigingin er öll til að færa lýðræðislega ákvarðanatöku í aðildarlöndunum til landsreglaranna og búrókrata Framkvæmdastjórnarinnar í ACER.  Vilja Alþingismenn fara inn á þessa braut ?  Til þess hafa þeir enga heimild.  Stjórnarskrá lýðveldisins bannar þessa þróun mála.  Samt hóta 2 ráðherrar ríkisstjórnarinnar enn að óska eftir því við þingið, að það lyfti stjórnskipulegum fyrirvara af máli, sem búrókratar þeirra í blindni eru búnir að samþykkja í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Þetta heitir að skíta í eigið hreiður.  

Samkvæmt Fjórða orkupakkanum á að styrkja millilandasamstarf dreifiveitnanna.  Með endurnýjanlegum orkulindum í eigu almennra viðskiptavina dreifiveitnanna, á borð við sólarhlöður og vindmyllur, er komið fram nýtt hugtak, "prosumer", framleiðandi og notandi, í sama viðskiptavini.  Koma á á laggirnar nýrri stofnun innan ESB við hlið ACER fyrir "Distribution System Operators"-DSOs, samstarfsstofnun dreifiveitna.  Ekki er ólíklegt, að með tímanum þróist þetta samstarf í átt að samræmingarstöð og að lokum verði til einhvers konar yfirstjórn dreifiveitnanna í anda ESB-stjórnkerfisins. Það er greinilega sannfæring fyrir því innan Berlaymont, að bezt fari á því að miðstýra flutnings- og dreifikerfum orku innan EES af Framkvæmdastjórninni og stofnunum hennar.  Höfundur þessa pistils hefur aldrei verið á móti fjölþjóðasamvinnu, en þetta stjórnkerfi ESB á einfaldlega ekki heima á Íslandi.    

Eignarhald dreifiveitnanna á  endurhleðslustöðvum rafmagnsfartækja verður bannað eftir innleiðingu Fjórða orkumarkaðslagabálksins.  Það er af samkeppnisástæðum.  Dreifiveiturnar starfa samkvæmt sérleyfum hins opinbera, Orkustofnunar, og gjaldskrár þeirra mun Landsreglarinn rýna.  Samkvæmt Fjórða orkupakkanum eiga aðeins einkafyrirtæki að þjónusta endurhleðslumarkaðinn.  Að opinbert fyrirtæki á borð við dótturfyrirtæki OR hérlendis leiki talsvert hlutverk á þessum vettvangi, skekkir frjálsa samkeppni. Dreifiveitur eiga að halda sig við sitt hlutverk, og Veitum væri nær að gera rausnarlegt átak í að styrkja heimtaugar fjölbýlishúsa, svo að þær beri fyrirsjáanlega aukið álag af völdum endurhleðslu rafgeyma.  

Almennt er ekki von á auknum framförum með aukinni miðstýringu.  Sízt af öllu á það við, þegar um er að ræða að fjarstýra þróun raforkukerfis á eyju lengst norður í Atlantshafi frá meginlandi Evrópu.  Stöðva ætti þessa óheillaþróun með því að hafna Orkupakka #3.  Til þess þurfa Alþingismenn örlítið hugrekki til að feta nýjar slóðir.  Til þess virðast þeir njóta stuðnings kjósenda, sem ætlast til slíks sjálfstæðis af þeim.  Heybrækur eiga lítið erindi á þing. Það verður enginn fyrir tjóni, þótt ESB felli þá úr gildi Orkupakka #1 og #2 í EES-samninginum.  Alþingi getur eftir það hagað orkumálunum eins og því sýnist.

 

  

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aukin ásókn í leyfi fyrir vindorkuverum

Samhliða fjölgun millilandatenginga við raforkukerfi Noregs hefur orðið gríðarleg fjölgun vindmyllna í landinu.  Við árslok 2018 voru vindmyllur með  framleiðslugetu um 4 TWh/ár í rekstri (svipað og öll almenn notkun á Íslandi), en vindmyllur að framleiðslugetu 22 TWh/ár eru annaðhvort í byggingu eða hafa fengið virkjanaleyfi frá NVE (Orkustofnun Noregs). Þessi viðbót er meiri en öll núverandi raforkuvinnsla á Íslandi.  

NVE hefur ennfremur kunngert hugsanlegan ramma fyrir frekari virkjun vindorku í Noregi upp á 30 TWh/ár.  Í lok næsta áratugar gæti þannig orkuvinnslugeta vindmyllna í Noregi numið um 50 TWh/ár, sem er svipuð  heildarvinnslugetu vatnsorkuvera og jarðgufuvera Íslands, eins og hún er talin geta orðið mest í reynd.  Vindorkuver munu þá nema yfir fjórðungi af raforkuvinnslu í Noregi.  Þetta svarar til þess, að hérlendis mundu rísa vindorkugarðar með 7 TWh/ár framleiðslugetu um 2030.  

Hver er skýringin á þessum skyndilega áhuga á vindorkuverum í Noregi, sem hingað til hafa ekki verið arðsöm þar ?  NVE og Anders Skonhoft, hagfræðiprófessor, eru sammála um, að skýringarinnar sé að leita í væntingum um hærra raforkuverð í Noregi. Þetta hefur reyndar leitt til kaupa fjárfesta frá ESB-löndum á smávatnsvirkjunum, vindmyllum og til umsókna þeirra um leyfi til að reisa slíkar virkjanir. 

Í Noregi hafa vindmylluleyfi verið gefin út fríhendis, þ.e. án þess að um þau gildi nokkur heildar rammaáætlun fyrir landið allt. Það þýðir að mati prófessors Anders Skonhoft, að slík virkjunarleyfi hafa verið gefin út, án þess að leggja sérstakt mat á "gildi náttúru og umhverfis".

Svipaðrar tilhneigingar gætir hérlendis frá fjárfestum.  Þeir hafa sýnt áhuga á að reisa vindorkuver, sem í fljótu bragði virðist ekki vera fjárhagsgrundvöllur fyrir.  Þannig reiknaði höfundur þessa pistils út vinnslukostnað 130 MW vindorkuvers í landi Hróðnýjarstaða, í grennd við Búðardal við Hvammsfjörð, 53 USD/MWh eða 6,4 ISK/kWh, fyrir um ári.  Þetta er um 30 % yfir núverandi heildsöluverði hérlendis.  Ef til Íslands verður lagður aflsæstrengur erlendis frá með flutningsgetu um 1200 MW og raforkukerfi landsins tengt við raforkukerfi, þar sem raforkuverðið er, segjum, tvöfalt hærra en hér, þá mun heildsöluverðið allt að því tvöfaldast hérlendis og vindmyllur augljóslega verða mjög arðsamar.

Það er engum blöðum um það að fletta, að íslenzkar virkjanir og virkjanaleyfi munu verða enn verðmætari en nú í augum fjárfesta með tilkomu millilandatengingar og jafnvel þegar við innleiðingu uppboðsmarkaðar raforku í Orkukauphöll, sem Landsreglari mun fylgja stranglega eftir, að stofnsett verði hér eftir innleiðingu Orkupakka #3.  Hvað þýðir það, að hér verði vindmyllugarðar upp á 7 TWh/ár ?

 M.v. reynslutölur frá Noregi þá jafngildir þetta 600 vindmyllum á Íslandi, sem leggja munu undir sig 300 km2; 0,3 % af heildarflatarmáli landsins, en áhrifasvæði þeirra er langtum víðáttumeira, því að hæð þeirra verður allt að 250 m, og hávaðinn getur orðið gríðarlegur.  Athafnasvæðið sjálft flokkast sem iðnaðarsvæði með vegi þvers og kruss, sem mælast munu í hundruðum km.

Orkan frá þessum vindmyllum, 7 TWh/ár, nemur nokkurn veginn því, sem reiknað er með að flytja utan um téðan sæstreng, því að með þessari miklu hækkun raforkuverðs innanlands verður afgangsorkuflutningsgeta sæstrengsins nýtt til að flytja inn rafmagn að næturþeli á lægra verði en hér verður þá, eins og gerzt hefur í Noregi, e.t.v. 2 TWh/ár.  

 Þessi þróun mála er landsmönnum óhagfelld, því að frá sjónarmiði innlendra orkukaupenda er afleiðingin sú að heildarrafmagnsreikningurinn gæti hækkað um 60 %.  Hagnaður orkuvinnslufyrirtækjanna vex einvörðungu vegna sölu innanlands á hærra verði, en samkvæmt prófessor Anders Skonhoft verður enginn hagnaðarauki hjá þeim af útflutningi raforkunnar um sæstreng, heldur  hirðir strengeigandinn allan hagnaðinn af útflutninginum, enda verða innlend orkuvinnslufyrirtæki fyrir kostnaðarauka af viðbótar orkuöflun (til útflutnings).  Frá hagsmunamati innlendra raforkukaupenda er hér um svikamyllu að ræða.  Prófessor Anders Skonhoft orðar þetta þannig í þýðingu pistilhöfundar:

"Veitið því annars athygli, að hagnaður orkuvinnslufyrirtækjanna er einvörðungu tengdur verðhækkun innanlands vegna útflutningsins.  Án hækkaðs verðs innanlands hafa orkuvinnslufyrirtækin þar með enga fjárhagslega ástæðu til að fagna orkuviðskiptum við útlönd."

Þetta ætti að færa eigendum íslenzku orkuvinnslufyrirtækjanna (þau eru flest í opinberri eigu) endanlega heim sanninn um, að það er þjóðhagslega óhagkvæmt að hefja slík viðskipti. Aukinn hagnaður þeirra verður allur á kostnað innlendra raforkunotenda, þvert á það, sem ýmsir stjórnmálamenn og talsmenn orkufyrirtækja o.fl. hafa haldið fram.  Ástæðan er aukinn kostnaður þeirra við öflun útflutningsorkunnar, og að sæstrengseigandinn hirðir allan ávinninginn av millilandaviðskiptunum.  Þá er ótalið fjárhagstjónið, sem leiðir af verri samkeppnisstöðu allra atvinnufyrirtækja í landinu.  Afleiðingin á frjálsum markaði verður óhjákvæmilega, að fyrirtæki munu gefast upp á rekstrinum og geta hinna til að greiða laun verður minni en áður.  

Ætlun Evrópusambandsins með Orkupakka #3 var að færa völd á sviði orkumarkaðar og milliríkjaviðskipta með raforku (og gas) frá aðildarlöndunum og til Framkvæmdastjórnarinnar til að ná markmiðum ESB um aukinn millilandaflutning orku, og Orkupakki #4 leggur áherzlu á, að þetta verði í vaxandi mæli orka úr endurnýjanlegum orkulindum.  Eftir samþykkt Orkupakka #3 verður möguleiki á því, að samskipti ESB og Íslands á orkusviðinu verði leikur kattarins að músinni, þar sem lokahnykkur þess að ganga orkustefnu ESB á hönd verður þar með tekinn.  Hana móta æðstu stofnanir ESB út frá hagsmunum þungamiðju evrópsks iðnaðar.  

Olíuleitar pallur

 

 


Litlu verður vöggur feginn

Málefnafátækt og lítt eða ekki rökstuddar fullyrðingar einkenna málflutning þeirra, sem mæla með samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki Evrópusambandsins, ESB.  Sneitt er hjá að færa óyggjandi rök fyrir því, að samþykktin standist Stjórnarskrá, t.d. um framsal ríkisvalds til erlendrar stofnunar, þar sem Ísland á ekki fullgilda aðild, og á  valdsvið Landserglara ("National Energy Regulator"), sem skal í störfum sínum verða algerlega óháður íslenzkum stjórnvöldum, er sjaldan minnzt á þeim bæjum.  

Áhrif inngöngu Íslands (með áheyrnaraðild aðeins) í ACER-Orkustofnun ESB, t.d. á málsmeðferð umsókna um leyfi til að leggja aflsæstrengi til Íslands, eru afgreidd í fljótheitum sem engin og fullyrt, gegn málflutningi sérfræðings í Evrópurétti, norska lagaprófessorsins Peter Örebech, sem alltaf vísar mjög nákvæmlega í gerðir og tilskipanir ESB um þessi efni máli sínu til stuðnings, sbr ritgerð eftir hann í viðhengi með þessum pistli, að Alþingi og íslenzk yfirvöld muni eiga síðasta orðið um afgreiðslu sæstrengsumsókna hingað.

Eitt af því, sem "fylgjendur" Þriðja orkupakkans hengja sig í, þegar kemur að fullveldisframsalinu, er, að við framkvæmd þessa lagabálks hérlendis verði tveggja stoða kerfi EES-samningsins haldið í heiðri.  Þetta er rétt, en aðeins að nafninu til, því að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) hvorki getur né er til þess ætlazt af henni í þessu tilviki, sbr tilvitnun  hér á eftir í greinargerð með norska lagafrumvarpinu um innleiðingu Orkupakka #3, sinnt sjálfstæðu hlutverki sem Orkustofnun EFTA, spegilmynd ACER.

Upplýsingar, tilmæli og skipanir frá ACER til embættis Landsreglara, fulltrúa ESB yfir orkumálum á Íslandi samkvæmt Orkubálki #3, munu þess vegna verða afritaðar og kannski þýddar hjá ESA og sendar áfram til Landsreglarans, og sama gildir um boð til baka.  Hér er um að ræða tveggja stoða kerfi í orði, en ekki á borði.  Er hér með ólögmætum hætti verið að fara á svig við stjórnarskrár Íslands og Noregs ?  Hvað Noreg varðar verður því vonandi svarað í norska réttarkerfinu senn hvað líður (mál er þar fyrir þingrétti), og vonandi mun prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, svara því fyrir sitt leyti í skýrslu, sem hann mun eiga að skila til utanríkisráðuneytisins og er sennilega þegar búinn að.

Tilvitnun á bls. 26 í Frumvarp 4 S (2017-2018) um staðfestingu á ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017 (þýðing pistilhöfundar):

"Eftirlitsstofnun EFTA [ESA] skal grundvalla samþykkt sína á drögum frá ACER, þegar hún [ESA] gerir slíka samþykkt. Slík drög eru ekki lagalega bindandi fyrir Eftirlitsstofnun EFTA. Það er undirliggjandi forsenda fyrir þessu umsamda fyrirkomulagi, að Eftirlitsstofnun EFTA skuli, skömmu eftir móttöku slíkra draga frá ACER, gera samhljóða eða næstum samhljóða samþykkt."

Hér fer ekki á milli mála, að ekki er ætlazt til, að ESA taki neina sjálfstæða ákvörðun á grundvelli Þriðja orkumarkaðslagabálksins, heldur er hún hrein afgreiðslustofnun fyrir ESB/ACER, enda er grundvallaratriði fyrir ESB, að framkvæmd stefnumótunar hjá ESB sé sú sama alls staðar innan EES.  Að halda því fram, eins og fylgjendur Orkupakka #3 gera, að ESB/ACER fái engin völd hér, af því að við séum í EFTA, er einhvers konar lögfræðilegur kattarþvottur, og það fær varla staðizt fyrir dómi, að þetta fyrirkomulag sé í samræmi við Stjórnarskrá.

Önnur aðalfullyrðing þeirra, sem mæla með téðri orkupakkainnleiðingu, er, að á meðan Ísland ekki er tengt við raforkukerfi ESB, þá hafi ACER engin völd hér, og ESB/ACER geti ekki komið fram þeim vilja sínum, sem þó virðist vera fyrir hendi, sbr forgangsverkefnaskrána PCI (Projects of Common Interest) með "Ice-Link" innanborðs, að hingað verði lagður sæstrengur frá ESB-ríki. Þessi óraunsæja staðhæfing er hrakin í ritgerð prófessors Peter Örebech, sjá viðhengi með þessum pistli, bls. 11.

Sannleikurinn er sá, að orkuauðlindir ESB-landanna og tengdra EFTA-ríkja , þ.e. innan EES, skulu verða meðhöndlaðar samkvæmt stefnumörkun í hverju landi, en hún verður hins vegar að vera í samræmi við markmið ESB um Innri markaðinn fyrir orku.     Höfuðstefnumið ESB í þessum efnum er að "tryggja hátt stig afhendingaröryggis rafmagns", sbr gerð 714/2009, kafla 1 b, og að koma á "vel starfhæfum" markaði (formálinn, atriði 24) og "samkeppnishæfum verðum" (formálinn, atriði 1).  Eftir að Orkupakki #3 hefur tekið gildi hér, munu íslenzk stjórnvöld ekki geta mótað og rekið orkustefnu hér, sem ekki tekur tillit til stefnu ESB um að auka notkun endurnýjanlegra orkulinda í heild, eins og kostur er, og að samtengja alla afkima EES við hið miðlæga raforkukerfi ESB, sem allt snýst um, að fái næga orku.  Fjórði orkupakkinn leggur áherzlu á, að raforkan sé úr umhverfisvænum orkulindum. 

Í gerð nr 713/2009, kafla 8 (4) stendur: "Framkvæmdastjórnin getur samþykkt reglur um þau tilvik, að stofnunin [ACER] fái völd til að taka ákvörðun um skilmála og skilyrði fyrir aðgangi að [stofnkerfi] og rekstrarlegu öryggi í sambandi við innviði á milli landa."

Hér stendur "skilyrði fyrir aðgangi að .... innvið[um] á milli landa".  Það stendur  hins vegar ekkert um, að ACER geti aðeins skipt sér af millilandatengingum, sem þegar eru komnar á, enda væri slíkt í mótsögn við fyrirætlunina með Orkupakka #3, sem er að fjölga þeim, svo að flutningsgeta þeirra nemi a.m.k. 20 % af orkuvinnslugetu ESB árið 2030. 

Setjum sem svo, að Bretar gangi úr ESB og ACER og Ísland samþykki Þriðja orkupakkann.  Síðan komi tvær tillögur um sæstreng frá Íslandi, önnur til Englands og hin til Írska lýðveldisins.  Þá getur ACER sagt sem svo, að öll "umframorka" á Íslandi eigi að fara inn á Innri markað ESB/EES, og þar með skuli aðeins tengja Írlandsstrenginn við íslenzka raforkukerfið.  

Þeim hræðsluáróðri hefur verið beitt hérlendis, að með því að beita neitunarvaldi sínu gagnvart samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar 05.05.2017 sé Alþingi að setja EES-samninginn í uppnám og jafnvel að brjóta hann, svo að búast megi við refsingum af hendi ESB.  Þessi áróður er úr lausu lofti gripinn, enda var honum t.d. aldrei beitt í Noregi, þótt harðar deilur stæðu þar nánuðum saman um sama efni fram til 22.03.2018.  Sannleikurinn er sá, að Alþingi er fullkomlega frjálst að beita neitunarvaldinu, þegar því sýnist, og ESB getur ekki með neinu móti refsað Íslandi fyrir það, enda fengu Norðmenn engar kárínur fyrir slíka synjun á sinni tíð.  Það, sem ESB getur gert, er að ógilda Viðauka IV í EES-samninginum gagnvart Íslandi, en þar eru aðallega Orkupakki #1 og #2.  Það þýðir, að Alþingi getur að eigin vild sniðið þessa löggjöf að íslenzkum aðstæðum.  Er það verra ?

Að "samningaviðræður" fari fram í Sameiginlegu EES-nefndinni, takmarkar á engan hátt neitunarvald Alþingis, enda fer samþykkið í téðri Brüsselnefnd fram með fyrirvara um samþykki Alþingis (þjóðþinga EFTA-landanna þriggja í EES).  Þingið hefur alls ekki veitt samþykki sitt, þótt 3 þingnefndir hafi verið upplýstar um gang mála af embættismönnum.  Þannig er þetta líka í Noregi. Hví skyldu aðrar reglur gilda um þetta hér en þar. Það er hreinn skáldskapur, að þetta upplýsingaferli hafi á einhvern hátt bundið hendur Alþingis.  

Aðalatriðið er, að þetta neitunarvald Alþingis er grundvallaratriði EES-samningsins fyrir EFTA-löndin og kann að hafa ráðið úrslitum á sinni tíð um, að Alþingi staðfesti samninginn í janúar 1993.  Ef neitunarvaldið væri ekki áskilið, þá væri EES-samningurinn einfaldlega annars eðlis, þ.e.a.s. hann væri "yfirþjóðlegur" í þeim mæli, að hann hefði ekki staðizt Stjórnarskrá, eins og hann var í upphafi, hvorki hérlendis né í Noregi, og síðan hefur hallazt á merinni.  Vegna neitunarvaldsins er það samt svo, að Alþingi og Stórþingið eru hinir formlegu löggjafar.  

Að neitunarvaldið hefur verið svo lítið notað stafar einfaldlega af því, að meirihluti Stórþingsins hefur lengst af frá gildistöku EES-samningsins, 01.01.1994, oftast verið hallur undir aðild Noregs að ESB, þótt norska þjóðin hafi að meirihluta allan tímann verið andvíg aðild.  Þannig hefur myndazt þrýstingur á íslenzka fulltrúann í Sameiginlegu EES-nefndinni frá báðum hliðum, ESB og EFTA, að samþykkja tillögu Framkvæmdastjórnarinnar um innleiðingu viðbóta í EES-samninginn.  Nú ber nauðsyn til að stinga við fótum.  Mikill meirihluti Norðmanna yrði því feginn, og Noregur myndi einfaldlega gera tvíhliða samning um orkuviðskipti án þess að vera bundinn aðild að ACER. Slíkt veitir Noregi vafalaust meira svigrúm í samningaviðræðum, svo að ekki þurfa Íslendingar að óttast, að þeir geri á hlut frænda sinna í Noregi með því að beita neitunarvaldi á Þriðja orkupakkann.  

Þann 9. marz 2019 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmann, sem hann nefndi:

"Til Michaels Manns, sendiherra ESB á Íslandi".

Einar hælir sendiherranum fyrir Morgunblaðsgrein hans 15. nóvember 2018 um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þar sem Íslendingar voru að sjálfsögðu hvattir til að láta af andstöðu sinni við hann og innleiða hann vafningalaust í íslenzk lög.  Flestum Íslendingum hefur sennilega þótt grein sendiherrans óviðeigandi afskipti af innanríkismálum hér, sem sendiherrar jafnan forðast.  Einar S. Hálfdánarson tekur hins vegar þennan sendiherra sem fullgilda heimild um það, sem rétt er í þessu máli, en ber ekki við að vísa í neina gerð eða tilskipun "pakkans" máli sínu til stuðnings.  Það er vissulega nýtt af nálinni síðan á dögum vinstri stjórnarinnar 2009-2013 að gera sendiherra ESB svo hátt undir höfði.  Þannig reit Einar:

"Þannig staðfesti hann (sem vitað var), að Íslandi er ekki skylt að opna raforkumarkað sinn né að veita þriðja aðila aðgang hér að fjárfestingartækifæri.  Jafnframt, að þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, muni ACER ekki hafa neitt vald hér á landi.  Þau málefni, er lúta að Íslandi, séu á hendi ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), en ekki ACER."

Hér að ofan eru sett fram haldföst rök um hið gagnstæða við það, sem þarna er haldið fram.  Pistilhöfundur hefur ýmist vitnað til gerða ESB, norska lagaprófessorsins Peter Örebech eða greinargerðar með frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn, en Einar S. Hálfdánarson hefur vitnað í sendiherra Evrópusambandsins sem heimild.  Lesendum er eftirlátið að bera þetta saman og mynda sér skoðun.

Síðan skrifar Einar:

"Það skiptir ESB ekki nokkru, hvort Ísland innleiðir þriðja orkupakkann og Ísland væntanlega minnstu."

Ef þetta er rétt, hvers vegna skrifaði Michael Mann þá umrædda grein í Morgunblaðið 15.11.2018 ?

Eins og vænta mátti, vitnaði Björn Bjarnason, formaður nefndar utanríkisráðherra um mat á reynslu Íslands af EES, í þessa grein Einars í dagbókarfærslu sinni 10. marz 2019, og má um það segja, að litlu verður vöggur feginn.  Björn hefur ekki komið fram með neinar skýringar á því, hvers vegna Íslendingar eigi að innleiða Þriðja orkupakka ESB, sem ekki hafa verið marghraktar, m.a. hér að ofan.  Hann er samt nógu ósvífinn til að skrifa eftirfarandi undir fyrirsögninni,

"Þegar haldföstu rökin skortir":

"Þetta [grein Einars] er athyglisverð staðfesting á því, sem hér hefur verið margítrekað.  Haldið hefur verið fram órökstuddum fullyrðingum um afleiðingar þess að innleiða 3ja orkupakkann.  Þessi blekkingarherferð er ekki reist á neinum "haldföstum rökum", svo að tekið sé undir orð Einars ... "

Hér kastar Björn Bjarnason steinum úr glerhúsi, enda færir hann sjálfur aldrei nein bitastæð rök fyrir því, að Íslendingar eigi að samþykkja Orkupakka #3. Hann hefur hins vegar látið sig hafa það að kasta fýlubombum á við þá sjúklegu samsæriskenningu, að hérlendir andstæðingar Orkupakka #3 séu á mála hjá norska Miðflokkinum til að stoppa það, sem þessum stjórnmálaflokki mistókst að stoppa fyrir ári í Noregi.  Guðlaugur Þór Þórðarson, sem sigraði téðan Björn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á sinni tíð, en virðist treysta honum núna, hefur lapið þessa bölvuðu vitleysu upp eftir Birni.  

Þegar Miðflokkurinn, norski, var hins vegar inntur eftir þessu, kannaðist enginn þar á bæ við að gera slíka útsendara út á Íslandi, og engin skjöl fundust þar um.  Þegar greint var frá því, að utanríkisráðherra Íslands héldi þessu þó blákalt fram, kváðu við þvílík hlátrasköll í Ósló, að annað eins hefur ekki heyrzt í Víkinni síðan Haraldi, hárfagra, var greint frá því þar á sinni tíð, að höfðingjar Vesturlandsins, norska, sem eigi vildu þýðast ríki hans, hygðust hafa sig á brott með fjölskyldur sínar og búsmala til nýfundinnar eyjar norður við Dumbshaf.  

Síðan lætur Björn Bjarnason í ljós undrun á því, að hann skuli ekki hafa hlotið nokkurn hljómgrunn fyrir áróður sinn fyrir innleiðingu Þriðja orkupakkans.  Téður Björn er þó ekki óvanur því að hljóta dræmar undirtektir á meðal flokksfélaga og á meðal almennings.  Það gerðist t.d., er Friðrik Sófusson sigraði hann í kjöri um formann Sambands ungra sjálfstæðismanna og í borgarstjórnarkosningum, þar sem hann galt afhroð sem borgarstjóraefni.

Þessa undarlegu undrun sína tjáir Björn með eftirfarandi ósmekklega hætti í téðri dagbókarfærslu:

"Í raun er ótrúlegt, hve margir hafa kosið að elta þá, sem kveiktu villuljósin vegna 3ja orkupakkans.  Sýnir sú vegferð, hve auðvelt er að leiða menn í ófærur með aðstoð samfélagsmiðla og í andrúmslofti, sem einkennist af því, að menn telja sig hafa höndlað dýpri sannleika en sjá [má] með því einu að kynna sér staðreyndir."

Er skrýtið, þótt sá, sem sendir frá sér þennan yfirlætisfulla texta, hljóti engan hljómgrunn ?

 

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Umhverfismál, aflsæstrengur og þróun raforkuverðs

Í margra augum er umhverfisvernd mál málanna, og það er hægt að fallast á, að sérhvert nýtt verkefni verði að meta út frá umhverfisáhrifum á land, loft, ár, stöðuvötn og sjó, en auðvitað líka út frá samfélagslegum áhrifum á byggðaþróun og hag íbúa nær og fjær. Allt þetta verður að meta saman, ef vel á að vera.  

Þann 18. febrúar 2019 birtist athygliverð grein í Morgunblaðinu eftir Hjörleif Guttormsson,

"Loftslagsháskinn, uppreisn æskufólks og íslensk viðhorf".

Grein sinni lauk Hjörleifur þannig:

"Æskufólk hérlendis veitir því eflaust athygli, sem er að gerast handan Atlantsála vegna loftslagsmála, enda sízt minna í húfi hér en annars staðar.  Þrátt fyrir ríkulegar endurnýjanlegar orkulindir er kolefnisfótspor Íslands, ekki sízt vegna stóriðju, með því hæsta, sem gerist, og því mikið verk að vinna.  Íslendingar eiga flestum þjóðum meira undir náttúrulegum auðlindum, og því er hófleg nýting þeirra og verndun lykilatriði fyrir framtíðarafkomu. 

Í því sambandi skiptir mestu, að Ísland, sem fullvalda ríki, haldi óskertum yfirráðum sínum yfir auðlindum lands og hafs innan efnahagslögsögunnar.  

Annað nærtækt atriði er verndun íslenzkrar tungu og menningararfs, sem henni tengist, og einnig það brothætta fjöregg er í höndum þeirra, sem nú eru ungir að árum."  (Undirstr. BJo.)

Þetta er þörf brýning, einkum undirstrikaði textinn nú um stundir.  Varðandi losun koltvíildis frá stóriðju á Íslandi er þess að geta, að hýsing orkukræfs iðnaðar er stærsta framlag Íslendinga til þess að halda aukningu koltvíildisstyrks andrúmsloftsins í skefjum.  Bæði er, að Íslendingum hefur tekizt afar vel upp með tækniþróun kerrekstrar og vandlega vöktun óeðlilegra kera og ofna til að lágmarka þessa losun á hvert framleitt tonn málms, og vegna lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda við orkuvinnsluna fyrir stóriðjuna er heildarlosunin aðeins um 1/10 af heildarlosun vegna sambærilegs iðnaðar erlendis. Þá er ótalinn eldsneytissparnaðurinn við notkun afurða álvera og kísilvera. Íslendingar þurfa þess vegna síður en svo að bera kinnroða fyrir orkukræfum iðnaði í landi sínu.

Sumir hérlendir menn ganga með þær grillur í kollinum, að samfélagslega hagkvæmara sé að selja raforku til útlanda um sæstreng en að selja hana framleiðslufyrirtækjum hérlendis.  Íslenzki orkugeirinn hefur haldið þessari firru að fólki, aðallega núverandi forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson. 

Norski orkuiðnaðurinn hefur ekki lagzt svona lágt, en talsmenn hans, t.d. hjá NVE (norsku orkustofnuninni) og hjá Statnett (norska Landsneti), hafa aðeins fullyrt, að sala á rafmagni til útlanda um millilandatengingar væri þjóðhagslega arðsöm, af því að þar hefur verið til nóg umframorka til að flytja út.  Þess ber að geta, að þrátt fyrir rúmlega 6 GW flutningsgetu núverandi sæstrengja og loftlína yfir landamærin, nemur nettó raforkuflutningur Norðmanna til útlanda aðeins um 10 TWh/ár.  Þetta er aðeins um 10 % af almennri raforkunotkun í Noregi og 7,1 % af raforkuvinnslunni.

Í viðhengi með þessum pistli er birt greining  prófessors Anders Skonhoft við Þjóðhagfræðideild NTNU (Norska tækni- og náttúruvísindaháskólans í Þrándheimi) á áhrifum nýrra aflsæstrengja frá Noregi til útlanda á þjóðarhag, þ.e. á hag raforkuseljenda og á hag raforkukaupenda. 

Í stuttu máli er niðurstaða greiningarinnar sú, að áhrif sæstrengjanna á norskan þjóðarhag séu neikvæð.  Nýir sæstrengir muni leiða til enn meiri raforkuverðshækkunar en þegar er orðin af þeirra völdum.  Útflutt magn raforku fari eftir verðmuninum í sitt hvorum enda.  Munurinn sé svo mikill á raforkuverði á Englandi (nú er verið að leggja sæstreng á milli Noregs og NA-Englands, North Sea Link) og í Noregi, að flutningur muni nánast stöðugt verða í sömu áttina eftir strengnum.  Því meira sem flutt er út, þeim mun meira hækkar raforkuverðið í Noregi, því að það sneiðist um umframorkuna, þótt bætt sé við smávatnsvirkjunum og vindmyllum.  

Prófessor Skonhoft kemst að þeirri niðurstöðu, að ávinningur orkuseljenda af útflutninginum felist einvörðungu í sölu raforku í heimalandinu á hærra verði, sem útflutningurinn veldur.  Hagnaðinn af raforkuútflutninginum  sjálfum gleypir sæstrengurinn og kostnaðarhækkanir vegna nýrra virkjana.  Eftir sitja raforkunotendur innanlands, Kari og Ola Nordmann með sárt ennið, með hækkaðan rafmagnsreikning, fyrirtækin í landinu (raforkunotendur) með laskaða samkeppnisstöðu við útlönd og orkukræfan iðnað í tilvistarhættu. 

Á Íslandi yrði uppi sú afspyrnu slæma staða, að orkuútflutningur um einn streng myndi verða um 50 % meiri en nemur allri almennri raforkunotkun í landinu (þ.e. utan langtímasamninga), og umframorku af mjög skornum skammti og alls enga í sumum árum.  Í Noregi nemur útflutningur raforku aðeins um 10 % af almennri notkun (7,1 % af heildarraforkuvinnslu). 

M.v. hækkanir rafmagnsverðs í Noregi má búast við tvöföldun á raforkuverðinu frá virkjun við íslenzkar aðstæður, yfir 50 % hækkun flutningsgjalds til almennings og stóriðju vegna mannvirkja til að flytja orkuna frá stofnkerfi landsins að sæstreng (endabúnaður sæstrengs ekki innifalinn) og 20 % hækkun dreifingargjalds vegna aukinnar arðsemiskröfu Landsreglara á hendur dreifiveitunum.  Alls næmi þessi verðhækkun rafmagns tæplega 60 %.

Afleiðingar af hækkun tilkostnaðar hjá fyrirtækjum í núverandi árferði eru samdráttur, hagræðing, fækkun starfsfólks eða jafnvel stöðvun rekstrar.  Afleiðingarnar verða alltaf grafalvarlegar.  Þess vegna er aflsæstrengur til útlanda þjóðhagslega óhagkvæmur og verður það alltaf.

Í úrdrætti greinarinnar segir höfundur í snörun pistilhöfundar:

"Mikilvæg áhrif af fleiri aflstrengjum til útlanda  eru, að raforkuverðið í Noregi mun hækka.  Þetta þýðir, að hagnaður virkjanafyrirtækjanna mun vaxa, en að sama skapi munu raforkunotendur (fyrirtæki og heimili) tapa.  Hækkað rafmagnsverð íþyngir almennt norsku atvinnulífi og alveg sérstaklega orkusæknum iðnaði.  Hærra raforkuverð mun gera vindorkuverkefni, sem áður  voru óarðbær, bókhaldslega arðsöm.  Niðurstaðan verður fjölgun vindmyllna og meiri eyðilegging norskrar náttúru og víðerna."

Nú segir stuðningsfólk innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi, að engin hætta sé á, að landið verði tengt við útlönd með aflsæstreng, þótt þessi ólánspakki verði innleiddur.  Þetta er í meira lagi barnalegur málflutningur, sem  sýnir óverjandi áhættusækni ráðamanna fyrir hönd þjóðarinnar og algert skilningsleysi á stöðu orkumála í ESB, hvers vegna og til hvers Framkvæmdastjórnin, Ráðherraráðið og ESB-þingið, börðu saman og gáfu út Orkupakka #3 og eru með Orkupakka #4, Vetrarpakkann, í burðarliðnum.  

Hvað skyldi verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, Elías Elíasson, hafa um fyrirætlanir ESB að segja ?  Sýnishorn af því má sjá í Morgunblaðsgrein hans, 25. febrúar 2019,

"Að svara "röngum" spurningum":

"Með þriðja orkupakkanum er mörkuð stefna í átt til miðstýringar í raforkumálum af hálfu ESB, eins og kemur enn betur fram í þeim reglugerðum, sem við bætast fram að fjórða orkupakkanum.  Þessum viðbótum líta boðendur pakkans fram hjá, þegar þeir fullyrða, að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér svo mikið afsal fullveldis, að um sé að ræða brot á stjórnarskrá.  

Það er ekki nóg að meta stefnumörkunina aðeins út frá þeim hluta pakkans, sem nú skal leggja fyrir Alþingi, heldur verður að lesa öll gildandi lög og reglur þriðja orkupakkans og hafa jafnframt til hliðsjónar þau ákvæði um fjórfrelsi, samkeppni og viðskipti milli landa, sem stuðzt verður við, þegar koma skal stefnunni í framkvæmd.  

Þetta verður að gera núna.  Það er of seint að fara fram á undanþágur, þegar komið er að ákvörðunartöku um einstakar framkvæmdir; að ekki sé talað um, þegar búið er að framselja réttinn til að taka þessar ákvarðanir fyrir okkar hönd, eins og varðandi sæstrenginn."

Það þarf enginn að velkjast í vafa um það, að eftir mögulegt samþykki Alþingis á Orkupakka #3, mun ESB leggja áherzlu á, að EFTA-ríkin samþykki allar gerðir og tilskipanir um orkumál, sem komið hafa í kjölfar orkupakkans, t.d. gerð #347/2013, og koma munu, en Orkupakki #4 er í burðarliðnum.  Þar er enn aukin miðstýring ESB á orkumálum aðildarlandanna réttlætt með því, að öðruvísi muni ESB ekki takast nógu hratt að innleiða raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og  að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. 

Allmargir hérlendis hafa velt fyrir sér framtíð orkukræfs iðnaðar á Íslandi.  Það er tímabært, að Samálsmenn og Samtök iðnaðarins átti sig á því, að eftir hugsanlega innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn mun verða farið að fetta fingur út í langtímasamninga við stóriðju hérlendis, og látið verður sverfa til stáls við hver tímamót, t.d. endurskoðun þessara samninga.  Þá munu hvorki Landsreglari né ESA taka lengur í mál, að íslenzk stóriðja fái lægra raforkuverð en gerist og gengur á markaði meginlandsins. Við það mun einfaldlega samkeppnihæfni stóriðjunnar hérlendis hverfa vegna óhagræðis staðsetningarinnar fyrir flutninga að og frá.  

Um þetta skrifaði Elías í téðri grein sinni:

"Það kom Norðmönnum á óvart, þegar þeir ætluðu að endursemja um orkusölu til stóriðju, að ESA-nefndin taldi, að fjarlægð frá mörkuðum væri ekki lögmæt ástæða afsláttar [á raforkuverði-innsk. BJo]Þar skyldi miða við markaðsverð.  Eins verður [það] hér, þó [að] við séum fimm daga siglingu frá Evrópu."

ESB mun einskis svífast við að klófesta raforku frá endurnýanlegum orkulindum Noregs og Íslands.  Svigrúm til þess verður skapað með því að eyðileggja samkeppnisstöðu orkukræfra framleiðslufyrirtækja í þessum löndum.  Þau geta ekki keppt á heimsmarkaði, ef þau þurfa að borga markaðsverð raforku á meginlandi Evrópu, því að flest annað er þeim mótdrægt, flutningaleiðir og mönnunarkostnaður. ESB löndin geta keypt vörurnar á heimsmarkaði, sem ekki munu lengur berast frá Íslandi og Noregi.  Um þetta snýst Orkupakki #3 m.a. 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband