Færsluflokkur: Evrópumál
19.10.2018 | 20:59
Raforkumarkaðurinn og Þriðji orkupakkinn
Á fundi SES (Samband eldri sjálfstæðismanna) í Valhöll í hádeginu 10. október 2018 komu fram hjá gesti SES að þessu sinni, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ÞKRG, fáein atriði varðandi Þriðja orkupakkann, sem þarfnast leiðréttingar:
- ÞKRG kvað engar grundvallar breytingar verða á landshögum frá Öðrum orkupakka til Þriðja orkupakka.
- ÞKRG kvað engar breytingar verða á raforkumarkaðnum án sæstrengs.
- ÞKRG mun ekki samþykkja framsal auðlinda.
- KKRG telur tveggja stoða lausn EES-samnings grundvallar atriði.
17.10.2018 | 13:34
Af hræðsluáróðri og Evrópugerð um innviði
Það kennir ýmissa grasa hjá þeim, sem vinna að eða styðja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Þau grös eru þó bæði visin og rytjuleg, sem kenna má við gagnsemi fyrir Ísland af innleiðingunni. Satt að segja alger eyðimörk. Hitt er fjölbreytilegra, sem snýr að illspám og getsökum, einkum um viðbrögð ESB. Skuggalegasta dæmið hafa jafnvel þingmenn gert sig seka um að nota, en það snýst um, að hafni Alþingi téðum orkupakka, þá verði Íslandi sparkað út af Innri markaði EES.
Það væri fróðlegt að vita, hvaðan þessi dauðans della er upprunnin, og síðan étur hana hver upp eftir öðrum án þess að kanna ferlið, sem slík refsitillaga þarf að fara í innan ESB til að öðlast gildi, og gerir hún það þó fyrst að ári liðnu frá samþykkt.
Gefum okkur eitt andartak í dæmaskyni, að Lúxemborgarinn Juncker, forseti Framkvæmdastjórnarinnar, sannfærist um, að bezt sé fyrir ESB og EES-samstarfið að segja upp EES-samninginum við Ísland. Til að slík ákvörðun öðlist gildi hjá ESB, þurfa allir þrír meginarmar ESB, Framkvæmdastjórn Junkers, Leiðtogaráð Pólverjans Donalds Tusk og Evrópuþingið að samþykkja slíka tillögu samhljóða. Öll 28 aðildarríki ESB verða að samþykkja slíka tillögu, til að hún öðlist gildi.
Efnahagslegur ávinningur ESB af slíkri ákvörðun yrði enginn, það hlypi óhjákvæmilega snurða á þráð EES-samstarfsins vegna óánægju Norðmanna með slíkan yfirgang sambandsins, og málið yrði pólitískur hnekkir fyrir ESB ofan í BREXIT-uppákomuna. Þess vegna eru alveg hverfandi líkur á slíkum viðbrögðum ESB. Hugmyndin hér uppi á Íslandi er algerlega vanhugsuð og reist á vanþekkingu á kerfi ESB og hagsmunagæzlu þeirra, sem þar ráða för. Þeir hérlendir menn, sem slíkum hræðsluáróðri dreifa, berskjalda sig og geta hæglega orðið að aðhlátursefni fyrir vikið. Ekki meira um það að sinni.
Ef Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB verður samþykktur á Alþingi, bíður flóð Evrópugerða á orkusviði innleiðingar Alþingis að kröfu ESB. Hér verður Innviðagerðin frá 2013, Evrópugerð nr 347/2013, gerð að umfjöllunarefni. Þegar hún hefur verið innleidd í kjölfar "pakkans", þá myndast brimbrjótur fyrir áhugasöm fyrirtæki innan EES um lagningu sæstrengs fyrir samþykki leyfisumsókna sinna.
Umræddar gerðir hafa verið settar í bið hjá Sameiginlegu EES-nefndinni, þar til af inngöngu EFTA-landanna verður í ACER (með áheyrnaraðild), en enginn þarf að velkjast í vafa um vilja utanríkisráðuneytisins til að samþykkja þær þar og Alþingis að staðfesta, ef Þriðji orkupakkinn verður staðfestur á annað borð. Þess vegna er beinlínis villandi að líta á "pakkann" sem einangrað fyrirbæri. Það verður að skoða áhrif hans í samhengi við allar reglur Innri markaðarins og í samhengi við allar nýjar gerðir á orkusviði frá útgáfu "pakkans" 2009.
Samkvæmt 347/2013 gildir:
- PCI-verkefni (Projects of Common Interest, þ.á.m. Ice-Link, sæstrengur til Íslands), samþykkt af ENTSO-E, samtökum rafmagnsflutningsfyrirtækja í Evrópu, þar sem m.a. eru Landsnet og norska Statnett, skulu samkvæmt kafla 7 í Innviðagerðinni njóta algers forgangs við áætlanagerð, einnig í Kerfisáætlunum hvers lands, hér Landsnets,og við afgreiðslu leyfisumsókna, sem verður formlega á hendi Orkustofnunar hér.
- Fyrir PCI-verkefni skulu, samkvæmt kafla 10, ekki líða meira en 18 mánuðir frá afhendingu leyfisumsóknar til afgreiðslu hennar. Afgreiðslutímann má framlengja um 9 mánuði, en til þess þarf góðan rökstuðning.
- Grundvöllur samþykktar eða höfnunar er samfélagslegur ágóði. Samfélag í þessu sambandi eru ESB- og EFTA-ríkin. Samkvæmt kafla 11 skulu þessi samtök raforkuflutningsfyrirtækja, ENTSO-E, útbúa matsreglur umsóknar, og þær skulu hljóta samþykki ACER og staðfestingu Framkvæmdastjórnar ESB. ENTSO-E er þannig verkfæri ESB og eins konar flutningsfyrirtæki þess.
- Ef PCI-verkefni rekst á hindrun í einhverju landi, skal, samkvæmt kafla 6, útnefna evrópska samræmingaraðila, sem reyna að ná sáttum, en óleyst deilumál verða útkljáð innan vébanda ACER.
- Útnefna skal faglega hæfan aðila í hverju landi, [hér er átt við Landsreglarann, sem starfa mun eftir samræmdum ESB-reglum í öllum ESB/EFA löndunum, utan Sviss], sem skal bera faglega ábyrgð á og greiða götu umsóknar ásamt því að samræma málsmeðferð umsóknarinnar við matsreglurnar.
Af þessu má draga þá ályktun, að Orkustofnun verður ekki leyft að draga lappirnar við mat á umsókn um millilandasæstreng, og hún mun verða að meta leyfisumsókn um sæstreng í nánu samstarfi við ábyrgan fagaðila, líkast til embætti Landsreglara, eftir samræmdum reglum ESB. Þannig er ljóst, að vilji íslenzkra stjórnvalda mun alls ekki verða ráðandi við ákvarðanatöku um sæstreng til útlanda, heldur mat á samfélagslegum ágóða, sem reist er á samræmdum reglum ESB, og þar sem samfélagið er ekki Ísland, heldur EES. Að óreyndu má ætla, að öll PCI-verkefni verði samþykkt, því að verkefni komast á þá skrá aðeins að athuguðu máli að hálfu ACER.
Ef Alþingi ákveður fyrir sitt leyti að banna samþykkt PCI-verkefni, er risið upp mikið deilumál á milli Íslands og ESB. Landsreglari mun að athuguðu máli tilkynna slíkt bann til ACER, og ACER gefur skýrslu til framkvæmdastjórnar ESB, sem sendir kvörtun um, að þingið leggi stein í götu framkvæmdar samþykkts PCI-verkefnis. Framkvæmdastjórnin sendir þá kvörtunarbréf til ríkisstjórnar Íslands. Ef hún þverskallast við að leggja fram frumvarp um afturköllun bannsins, þá mun deilumálið fara til EFTA-dómstólsins, sem dæma mun þetta mál samkvæmt Evrópurétti, og þá er ekki að sökum að spyrja.
Ef Orkustofnun hafnar umsókn og Landsreglarinn er á öndverðum meiði, þá fer ágreiningurinn til ACER, sem úrskurðar um málið. Hvernig sem allt veltist, verður niðurstaða fullveldisafsalsins, sem í samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum felst, sú, að íslenzk stjórnvöld verða að beygja sig fyrir ákvörðunarvaldi ESB um lagningu sæstrengs til landsins. Við hverju bjuggust menn eiginlega ? Að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og allir hans fylgifiskar væru út í loftið og hefðu engin áhrif á Íslandi ? O, sancta simplicitas !
11.10.2018 | 20:47
Orkan á Innri markað EES
Það, sem raunverulega gerist við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er, að virkjanir Íslands, Noregs og Liechtenstein (EFTA-landanna í EES) fara á Innri markað EES. Á þeim markaði er allt falt, ef "næg" greiðsla er í boði. Orkulindirnar eru fasttengdar orkuverunum á Íslandi og í Noregi, og þess vegna munu þær fylgja með í kaupunum.
Reglur Innri markaðarins um, að ekki megi mismuna eftir þjóðernum innan EES, þegar viðskipti eða fjárfestingar fara fram, munu gilda um raforkufyrirtækin á Íslandi, nema einokunarfyrirtækið Landsnet og sérleyfisháða starfsemi dreifiveitnanna, en Landsreglarinn, handlangari ESB innan orkugeirans, mun hins vegar annast eftirlit og reglugerðaútgáfu með þessum fyrirtækjum og annast eftirlit með raforkumarkaðinum.
Þetta ásamt því að láta viðskipti með raforkuna sjálfa, nema með raforku, sem bundin er með langtímasamningum, fara fram samkvæmt reglum Innri markaðarins, er höfuðatriði þessa máls, en í málflutningi ráðuneyta iðnaðar- og utanríkismála, svo og í minnisblöðum og greinargerðum, sem þau panta, er hreinlega ekki minnzt á þessi kjarnatriði málsins, hvað þá hinn nýja eftirlitsaðila, Landsreglarann.
Þess vegna var það hvalreki fyrir þá, sem hafna vilja þessum Þriðja orkupakka, að fá sérfræðing í Evrópurétti, prófessor við háskólann í Tromsö, Peter Örebech, til að tjá sig um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, BTP, lögmanns, sem hann vann fyrir iðnaðarráðherra um áhrifin af innleiðingu Þriðja orkupakkans á íslenzka hagsmuni. Í ritgerð prófessorsins kom auðvitað í ljós, að áhrifin verða mjög mikil og öll neikvæð fyrir fullveldi landsins, þvert á niðurstöðu BTP. Gagnrýni prófessorsins verður senn birt opinberlega, en Heimssýn hefur látið þýða hana.
Hér kemur lokagrein ritgerðar prófessors Örebechs í lauslegri þýðingu pistilhöfundar:
"Í öðru lagi fullyrðir BTP, lögmaður, að ekki komi til beitingar reglna í EES-samninginum, undirköflum 11, 12 og 13, af því að EES-samningurinn - samkvæmt lögmanninum - spanni ekki viðskipti með rafmagn, þótt Ísland samþykki "þriðja orkupakkann", sbr orðalagið, að á meðan Ísland er ótengt við Innri markaðinn með sæstreng, séu nokkrar mikilvægar reglur í EES-samninginum ekki í gildi fyrir viðskipti með rafmagn.
Þetta er röng niðurstaða. Það er ekkert haldbært til um það, að viðskipti með orku séu undanþegin ákvæðum EES-samningsins, heldur alveg þveröfugt. EES-samningurinn hefur frá samþykkt hans 2. maí 1992 innihaldið gerðir og tilskipanir um orku, sem EES-ríkin eru bundin af, sbr Viðauka IV Orku. Efnið í viðaukanum hefur tekið breytingum í tímans rás, þar sem ESB hefur aflagt nokkrar reglur og samþykkt nýjar. "Þriðji orkupakkinn" á að fara inn í þennan viðauka, ef Ísland samþykkir "pakkann". Þetta er einfalt og augljóst.
Hér verður að bæta við, að vissulega eru í gildi strangar reglur um skylduna til að fara eftir ESB-gerðum og -tilskipunum: þótt EES-samningurinn sæti túlkunum við dómsuppkvaðningu íslenzkra dómstóla, þá er önnur staða uppi gagnvart framkvæmdavaldinu, þ.e.a.s. ríkisstjórn Íslands, ráðuneytum, ráðum og nefndum:
"Lagaígildi, sem er fjallað um í eða tekin inn í viðauka við þennan samning eða samþykktir EES-nefndarinnar, skulu vera bindandi fyrir samningsaðilana." (EES kafli 7.)
Ákvarðandi verður þá, hvaða gerðir og tilskipanir EES-löndin óska eftir að fella inn í EES-samninginn, eða öðruvísi fram sett: ef Ísland óskar ekki eftir, að kaflar 11, 12 og 13 gildi skilyrðislaust um orkugeirann, verður Alþingi að synja "þriðja orkupakkanum" staðfestingar."
Hér sýnir prófessor Peter Örebech fram á, að með samþykkt "þriðja orkupakkans" virkjast öll ákvæði Innri markaðar EES um allan raforkugeirann frá orkulind til afurðarinnar, rafmagns. Allt mun þetta geta gengið frjálst og hindrunarlaust kaupum og sölum og með öllu verður óheimilt að mismuna aðilum á markaði eftir þjóðernum innan EES.
Rafmagnið fer á uppboðsmarkað í orkukauphöll og virkjunarfyrirtæki og raforkusölufyrirtæki ásamt virkjunarleyfum og rannsóknarleyfum geta gengið kaupum og sölum. Kærir ríkisstjórn Íslands sig um þetta ? Ætlar Alþingi virkilega að leggja blessun sína yfir þetta ? Mikill meirihluti kjósenda þessara sömu Alþingismanna er þessu algerlega andvígur. Áður en stórslys verður á fullveldis- og orkusviðinu hérlendis verða Alþingismenn að hafna Þriðja orkupakkanum og taka þar með ákvæði IV. viðauka EES-samningsins um orku úr sambandi fyrir Ísland. Þau eru þar núna eins og tifandi tímasprengja fyrir sjálfstæði og efnahag landsins, eins og ráða má af gagnrýni prófessors Örebechs á "Greinargerð" Birgis Tjörva Péturssonar til iðnaðarráðherra.
9.10.2018 | 11:41
Gagnrýni prófessors Peters Örebech
Sérfræðingur í Evrópurétti við háskólann í Tromsö í Noregi, UIT, Peter Örebech, prófessor, sýndi fram á í gagnrýni á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, BTP, sem pöntuð var af iðnaðarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð, til að sýna fram á meinleysi Þriðja orkumarkaðslagabálksins, að þar er flagð undir fögru skinni, þ.e.a.s., þegar Þriðji orkupakkinn er skoðaður í ljósi lagatúlkunar ESB-dómstólsins, þá er hann stórhættulegur umráðarétti okkar yfir orkulindum landsins.
Hér er einnig við hæfi að minna á minnisblað, sem téður ráðherra fékk annan lögmann, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), Ólaf Jóhannes Einarsson, ÓJE, til að skrifa. Þetta minnisblað ÓJE á það sammerkt með greinargerð BTP, að þar er engin viðleitni höfð í frammi til að túlka virkni Þriðja orkupakkans í samhengi við aðra löggjöf ESB, eða með hliðsjón af dómum ESB-dómstólsins. Hér er átt við öll lög og reglugerðir, sem eiga við Innri markað EES, því að þau verða virk fyrir allan orkugeirann við samþykkt Þriðja orkupakkans. Þetta setur t.d. framtíð Landsvirkjunar í algera tvísýnu, því að ESA mun varla samþykkja, að 80 % markaðshlutdeild á raforkumarkaði sé samræmanleg samkeppnisreglum á Innri markaðinum. Hvort landið er tengt umheiminum um aflsæstreng skiptir engu máli í þessu samhengi samkvæmt prófessor Örebech.
Hér verða nú tilgreind orð Elíasar B. Elíassonar, verkfræðings, er hann viðhafði eftir lestur pistilsins, Eignarhald á orkulindunum, og skýrslu prófessors Örebech, sem er á norsku undir hlekk hér á síðunni, en þýðing á íslenzku stendur nú yfir:
"Þessi minnisblöð [BTP, ÓJE] forðast þannig alla umfjöllun um þau atriði í öðrum reglum en orkupakkanum, sem auka á hættuna, sé hann innleiddur. Það er heldur ekki minnzt á landsreglarann, sem virkar sem eins konar trójuhestur og skal gæta þess, að við notum ekki auðlindina okkur sjálfum til hagsbóta, heldur öllum notendum innan ESB [EES] jafnt. Landsreglarinn setur reglugerðir um markað og flutningskerfið, sem eiga að vera samhljóma þeim reglugerðum, sem gilda innan ESB. Ef ekki er farið að þeim reglugerðum, getur framkvæmdastjórnin kært til ESA, eftir að ACER hefur sent henni upplýsingar um málið. Valdheimildir landsreglarans taka gildi strax. Mér virðast þessar innlendu greinargerðir ráðuneytanna vera þess eðlis, að verið sé að tala niður til fólks á lagamáli og halda því að þjóðinni, að þetta stórmál, orkupakkinn, sé smámál, af því að við séum nú þegar komin langleiðina með að afsala okkur auðlindinni."
Undir hvert orð skal hér taka og ítreka, að með samþykkt Þriðja orkupakkans munu allar varnir landsins bresta á þessu sviði. Það er jafnframt ljóst, að málflutningi á ráðstefnu HR, síðsumars 2018, þar sem m.a. töluðu hr. Pototschnig, forstjóri ACER, og Kristín Haraldsdóttir, lektor við Lagadeild HR, um meinleysi ACER, verður að taka með þeim fyrirvara, að þar var aðeins hálf sagan sögð.
Í II. kafla skýrslu sinnar um 11., 12. og 13. undirkafla EES-samningsins skrifaði Peter Örebech m.a. í lauslegri þýðingu:
"Höfundurinn [BTP] fullyrðir í fyrsta lagi, að úr því að Ísland er ótengt erlendum rafkerfum í raun, þá séu orkumál Ísland heldur ekki háð neinum mikilvægustu EES-reglunum. Samkvæmt þessari framsetningu ættu reglur um orkuviðskipti að vera háðar raunverulegum aðstæðum, s.s. hvort "de facto" liggi aflstrengir frá Íslandi. Þessu er ekki hægt að halda fram. Reglur EES-samningsins eru ekki aðeins í gildi fyrir núverandi aðstæður, heldur einnig framtíðar aðstæður.
Það, sem leysir reglurnar úr læðingi, er aðild Íslands að "þriðja orkupakkanum", ekki hvort frá Íslandi liggi aflstrengir til útlanda eða ekki. Reglurnar spanna þá stöðu, að Ísland neiti t.d. einkafyrirtæki á sviði aflsæstrengja um að leggja slíka. Ef hagsmunir ólíkra landa rekast á, þá tekur ACER ákvörðun um, hvort millilandastreng skuli leggja, ESB-gerð nr 713/2009, grein 8.1:
"Í sambandi við innviði, sem þvera landamæri, tekur ACER aðeins ákvörðun um þau stýringarlegu viðfangsefni, sem heyra undir valdsvið landsreglaranna, þ.m.t. kjör og skilyrði fyrir aðgangi og rekstraröryggi, a) þegar landsreglararnir hafa ekki getað náð samkomulagi innan 6 mánaða frá því því málið var lagt fyrir seinni landsreglarann."
Fyrirkomulagið með ACER verður fest í sessi, þegar "orkuáætlun 2019-2021", "Projects of Common Interest" (PCI), verður samþykkt.
"Árið 2013 myndaði TEN-E [Trans-European Energy Network] reglugerðin nýjan ramma fyrir þróun orkuinnviða-PCI-, þar sem ACER var falið það hlutverk að velja PCI [Projects of Common Interest-sameiginleg hagsmunaverkefni ESB] og að aðstoða landsreglarana við að afgreiða fjárfestingarumsóknir frá frumkvöðlum PCI-verkefna- að meðtalinni kostnaðarþátttöku."
Hér er í raun og veru talað um að gefa hefðbundið "tveggja stoða kerfi" EES upp á bátinn og taka upp "einnar stoðar kerfi", sem er megineinkenni ESB-aðildar.
Við sjáum sem sagt, að reglunum í "Þriðja orkupakkanum" verður beitt á það tilvik, að t.d. finnski rafrisinn Fortun áformi í samstarfi við HS Orku að leggja rörlagnir eða strengi frá Íslandi til t.d. Skotlands. Þessu yrði síðan hafnað af íslenzka ríkinu. Ef þessi ágreiningur yrði ekki leystur af Landsreglaranum - handlangara ESB á Íslandi, sem á að framfylgja ESB-réttarreglum á Íslandi og sem er utan seilingar (óháður) íslenzkra yfirvalda, mun koma til kasta ACER eða jafnvel framkvæmdastjórnar ESB að úrskurða samkvæmt ESB-gerð nr 713/2009, sjá grein 4 d), sbr undirgrein 8.1 a) og formálann, hluta 10."
Hér verður forsendu EES-samstarfsins, "tveggja stoða kerfinu", sem gerir ráð fyrir gagnkvæmu kerfi EFTA-megin, algerlega kastað fyrir róða og stofnun, sem starfar einvörðungu á ábyrgð Framkvæmdastjórnarinnar, þ.e. ACER, falið úrkurðarvald um ráðstöfun íslenzkra orkulinda. Þetta er auðvitað gjörsamlega ótækt fyrir sjálfstætt ríki, þar sem almennur vilji er til að halda sig utan ESB, enda stríðir þetta valdframsal gegn Stjórnarskrá landsins. Hin aumkvunarverða staða væri þá uppi, að Ísland væri þá undir ofurvald ESB selt án þess að vera þar formlegur aðili. Lagasetning Alþingis um, að þingið skuli hafa síðasta orðið varðandi sæstrengslögn, breytir engu um þessa niðurstöðu, því að með samþykkt Þriðja orkupakkans er verið að færa allan raforkugeira landsins undir Evrópurétt, sem er æðri landsrétti samkvæmt EES-samninginum.
7.10.2018 | 13:46
Íslenzkur hræðsluáróður frá Noregi
Í http://montelnews.com/no/story/islandsk-acer-veto-kan-skape-trbbel-for-norge/939008 eru birtar vangaveltur m.a. Ingva Más Pálssonar í iðnaðarráðuneytinu og Kristínar Haraldsdóttur, lektors við HR. Þessar vangaveltur eru skrýtnar í ljósi staðreyndar um fullan rétt Alþingis til höfnunar og í ljósi þess, að beinlínis er fyrirskrifað í EES-samninginum til hvaða aðgerða ESB má grípa til við slíka höfnun. Í þessu tilviki mætti ESB aðeins fella úr gildi 1. og 2. orkupakkann gagnvart EFTA, og það getur engan skaðað. ESB græðir ekkert á því, svo að líklegast er, að ESB muni ekki grípa til neinna aðgerða. Nú er tekið að dreifa þeim ósvífna og fráleita hræðsluáróðri, að ESB muni hreinlega segja upp EES-samninginum við Ísland í refsingarskyni. Þeir sem veita slíku fætur, hafa líklega ekki hugmynd um, hvaða ferli þeir eru þar að gera skóna, og er slíkt efni í annan pistil.
Ef Alþingi synjar Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB staðfestingar, mun taka við sáttaferli EFTA og ESB. Í því sáttaferli er hægt að ímynda sér ýmsar lausnir, t.d., að Íslendingar fái undanþágu frá öllum ákvæðum Þriðja orkumarkaðslagabálksins, þangað til íslenzk stjórnvöld kjósa að tengja raforkukerfi landsins við erlent raforkukerfi, gegn því að samþykkja innleiðingu hans í EES-samninginn.
Að öðrum kosti er líklegt, að Norðmenn og Liechtensteinar semji við ESB um regluramma utan um orkuviðskipti sín við ESB-löndin. Því fer þess vegna víðs fjarri, að eitthvert uppnám verði í samskiptum okkar við hin EES-löndin, og enn síður er hætta á vandræðum í orkuviðskiptum Norðmanna og ESB-landanna, enda telja allir aðilar sig hafa hag af þeim viðskiptum. Viðskiptalífið og embættismannakerfið mun einfaldlega laga sig snurðulaust að nýjum aðstæðum. Annað eins hefur nú gerzt. Heimsendaspámenn og "die-hards" verjendur EES-samningsins gera lítið úr sjálfum sér með því að mála skrattann á vegginn.
Í ofannefndu Montelnews, norsku vefriti, var vitnað til tveggja Íslendinga. Eftir Kristínu Haraldsdóttur, lektor við Lagadeild HR, var m.a. eftirfarandi haft:
"Það er ótti [á Íslandi] við afskipti af orkumálefnum okkar og við, að völd flytjist frá Íslandi. Búizt er við, að ACER safni völdum til miðlægrar stjórnunar orkumála í EES-löndunum, bætir hún við, og dregur fram áhyggjur efasemdarmanna yfir því, að samevrópskur orkureglari muni fá meiri völd yfir íslenzka Landsreglaranum en yfirvöldin á Íslandi."
Landsreglarinn verður nýtt embætti á Íslandi eftir samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins. Það verður einstakt í sinni röð, því að það verður algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum og íslenzkum hagsmunaaðilum, þótt embættið verði á íslenzkum fjárlögum. Landsreglarinn verður ekki undir Orkumálastjóra, en mun taka við eftirlitshlutverki Orkumálastofnunar, OS, og iðnaðarráðuneytisins með raforkumálum, og mun fá netmála (tæknilega tengiskilmála) og gjaldskrár Landsnets og dreifiveitnanna til rýni og staðfestingar/höfnunar. Ennfremur verður það hlutverk Landsreglarans að hafa eftirlit með raforkumarkaðinum og fylgja eftir innleiðingu á raforkukauphöll á Íslandi að forskrift ESB.
Landsreglarinn verður ekki íslenzkt embætti í skilningi Stjórnarskrárinnar, enda hafa rétt kjörin yfirvöld landsins enga möguleika á að hafa áhrif á gjörðir hans, og EFTA-dómstóllinn verður úrskurðaraðili um þrætuepli, sem upp kunna að koma um störf hans og gerðir. Landsreglarinn verður settur undir ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, en um það er samkomulag á milli EFTA og ESB, að ESA taki enga sjálfstæða ákvörðun gagnvart Landsreglaranum, heldur framsendi ákvarðanir ESB/ACER til hans og sendi gögn til baka frá Landsreglaranum til ACER. Úr því að ESA er hreinn milliliður í þessu sambandi, er ESB-stofnunin ACER hinn raunverulegi stjórnandi hans.
Það eru þess vegna réttmætar áhyggjur af því, að völd yfir raforkumálum Íslands flytjist úr landi og til ESB-stofnunarinnar ACER, þar sem Ísland verður ekki fullgildur aðili, heldur aðeins með áheyrnarfulltrúa. Þetta samrýmist ekki Stjórnarskrá Íslands, og hefur t.d. prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, látið í ljós opinberlega áhyggjur út af þessu, t.d. á Valhallarfundinum 30.08.2018.
Við þetta má bæta, að orkubálkur ESB er stöðugum breytingum undirorpinn, og nýjar útgáfur hans munu fela í sér aukin völd ACER og miðstýringu. Við kaupum þess vegna köttinn í sekknum með því að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn án þess að vita gjörla, hvað felst og fjórða og fimmta.
"Ingvar Már Pálsson segir, að hafni Alþingi Þriðja orkupakkanum, þá geti það haft afleiðingar mun víðar en á Íslandi. Til að Þriðji orkupakkinn verði innleiddur í EES-samninginn, verða þing allra EES-landanna að gefa grænt ljós. Fyrir Ísland verða afleiðingarnar í algeru lágmarki á orkusviðinu, en við höfum meiri áhyggjur af því, hvaða áhrif höfnun hefur á samband okkar við nágrannana og við ESB, segir Ingvar Már Pálsson.
Það getur líka verið, að við setjum Noreg í erfiða stöðu. Það verður áreiðanlega ekkert valdframsal til ACER, og við munum ekki glata valdi yfir neinum grundvallar þætti raforkumála okkar eða yfir orkulindum okkar, samsinnir Kristín Haraldsdóttir."
Íslenzkir embættismenn og fræðimenn ættu að gæta þess að gera ekki minna úr sér á erlendri grundu en efni standa til. Embættismönnum ber að einbeita sér að því að gæta hagsmuna Íslands. Norðmenn eru einfærir um að gæta eigin hagsmuna, og það vegur ekki minna en vilji norsku ríkisstjórnarinnar og Stórþingsins, að mikill meirihluti norsku þjóðarinnar og norsku verkalýðshreyfingarinnar er alfarið á móti innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í norskan rétt.
Fullyrðingar Kristínar Haraldsdóttur eru úr lausu lofti gripnar. Spyrja má til hvers ACER hafi verið stofnað, ef ekkert valdframsal á sér stað frá aðildarlöndunum til ACER. ACER mun stjórna Landsreglaranum, og hann mun fylgja því eftir, að Landsnet aðlagi Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER. Ef ACER heldur áfram með "Icelink"-sæstrenginn á forgangsverkefnaskrá sinni, þá verður Landsnet að skipuleggja orkuflutninga frá íslenzka stofnkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengsins. Komi gild umsókn um leyfi fyrir aflsæstreng, sem Landsreglarinn mælir með samþykkt á, þá mun höfnun íslenzkra yfirvalda, OS, á umsókninni tvímælalaust leiða til kvörtunar umsækjandans og/eða Landsreglarans til ESA, sem senda mun aðfinnslubréf til ríkisstjórnarinnar um, að íslenzk stjórnvöld hafi rofið skuldbindingar sínar um að framfylgja Kerfisþróunaráætlun ESB. Ef ríkisstjórnin þráast við, þá kærir ESA hana fyrir EFTA-dómstólinum. Samt heldur Kristín Haraldsdóttir því fram, að "við munum ekki glata valdi yfir neinum grundvallar þætti raforkumála okkar". Pistilhöfundur er þessu gjörsamlega ósammála. Fullyrðingar Kristínar Haraldsdóttur standast ekki rýni.
Innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins mun hafa í för með sér, að allar viðskiptareglur Innri markaðar EES munu taka gildi fyrir raforkugeirann og þar með orkulindirnar, þar sem raforkuvinnsla fer fram og mun fara fram. Allt verður falt á markaði, og inngrip ríkisins verða óheimil. Þetta er sú grundvallarbreyting, sem verður í orkugeira Íslands við innleiðingu á téðum orkubálki. Með öðrum orðum: íslenzk stjórnvöld glata valdi yfir grundvallarþáttum íslenzkra orkumála. Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi.
4.10.2018 | 15:13
Enn af sæstrengshugmyndum
Hér voru fyrr á þessum áratugi vaktar væntingar um, að gróðavænlegt gæti reynzt fyrir landsmenn að flytja rafmagn út um sæstreng. Að baki þeim væntingum voru spádómar um þróun raforkuverðs á Bretlandi, sem reyndust vera alveg út í loftið. Hæst risu þessar væntingar e.t.v. árin 2012-2015, þegar sú stefna var við lýði á Bretlandi, að ríkissjóður þar greiddi orkuvinnslufyrirtækjum mismun orkuvinnslukostnaðar úr endurnýjanlegun orkulindum, aðallega sól og vindi, og markaðsverðs.
Til að leysa kolaorkuver af hólmi og til að þróa brezka kjarnorkutækni gengu brezk stjórnvöld svo langt að tryggja kjarnorkuveri, sem nú er í byggingu, fast verð fyrir raforkuna, sem var mun hærra en þáverandi og núverandi heildsöluverð.
Þessari stefnu brezkra stjórnvalda var vitanlega ætlað að efla þróun þarlendra framleiðenda á orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum, helzt vindmyllum og sólarhlöðum; alveg sér í lagi hugnaðist brezkum stjórnvöldum að efla vindorkuver með ströndum fram, því að þau vöktu minnsta óánægju á meðal íbúanna, þótt sæfarendur væru ekki par hressir. Það er hins vegar miklum vafa undirorpið, að brezk stjórnvöld hafi nokkurn tíma verið ginnkeypt fyrir því að niðurgreiða stórlega raforku frá útlöndum, þótt hún væri úr endurnýjanlegum orkulindum, enda óvíst, að lagaheimild sé fyrir niðurgreiddum innflutningi á rafmagni þar á bæ.
Nú hefur brezka ríkisstjórnin stórlega dregið úr niðurgreiðslum af þessu tagi. Því ræður tvennt. Hagur brezka ríkissjóðsins er bágborinn, og hann hefur verið rekinn með miklum halla undanfarin ár, og vinnslukostnaður raforku í vindmyllum og sólarhlöðum hefur á undanförnum árum lækkað svo mjög, að ekki er lengur þörf á þessum niðurgreiðslum, nema frá vindmyllum undan ströndum, og þær niðurgreiðslur halda áfram.
Það eru engar líkur á því lengur, að brezk stjórnvöld muni verða fús að niðurgreiða raforku frá Íslandi eða Noregi. Nú er til umfjöllunar hjá norsku orkustofnuninni, NVE, umsókn frá fyrirtækinu Northconnect um leyfi fyrir lagningu samnefnds aflsæstrengs og tengingu hans við norska stofnkerfið í Eidfjord í Hordaland (á Hörðalandi). Hinn endann á að tengja við skozka stofnkerfið í Peterhead. Viðskipti með rafmagn um þennan streng munu einfaldlega fram á "Nord Pool", sem er orkukauphöll norðanverðrar Evrópu. Slík viðskipti eru í fullu samræmi við Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB og viðskiptareglur Innri markaðs EES.
Fyrir nokkru var greint frá því á brezka vefmiðlinum "Telegraph", að fjármála- og efnahagsráðherra Íslands hefði beint fyrirspurn til brezkra stjórnvalda um það, hvaða fastverð þau gætu og vildu tryggja Íslendingum fyrir raforku til Bretlands. Hann hefur líklega gert sér grein fyrir því, að án slíks samnings er tómt mál að ræða um þessa sæstrengstengingu í venjulegu viðskiptaumhverfi. Með öðrum orðum verður enginn rekstrargrundvöllur fyrir strengnum og nýjum virkjunum á Íslandi, ef rafmagnið þaðan á að fara í almenna samkeppni á "Nord Pool". Það er hins vegar alveg útilokað, að brezk stjórnvöld og brezka þingið mundu fallast á að skuldbinda Breta til að kaupa raforku ofan af Íslandi í 10-20 ár á verði, sem er langt ofan við markaðsverð á Bretlandi og ofan við það, sem núverandi spár standa til.
Þá má spyrja, hvernig norskt rafmagn geti verið á "Nord Pool" á Bretlandi ? Því er til að svara, að vegalengdin Hörðaland-Peterhead er aðeins 60 % á við "Icelink" og um grunnsævi að fara. Strengkostnaðurinn verður því innan við 50 % af kostnaði "Icelink", og Norðmenn þurfa ekkert að virkja fyrir þennan né eldri sæstrengi sína. Ástæðan er sú, að uppsett vélarafl í norskum vatnsorkuverum er miðað við rafhitun nánast alls húsnæðis í Noregi á kaldasta tíma ársins, og uppsetta aflið er þess vegna miklu meira en meðalálag í landinu í MW. Sæstrengir veita þess vegna Norðmönnum kost á að bæta nýtingu raforkukerfis síns.
Þessu er á engan hátt til að dreifa á Íslandi, þar sem mjög jafnt og mikið álag er á raforkuverunum allan sólarhringinn árið um kring. Hér verður þess vegna að virkja fyrir sæstreng, því að hvorki er hér umfamafl né umframorka fyrir sæstreng til útlanda, ef þjóna á innlendum afgangsorkumarkaði af kostgæfni.
Vinnslukostnaður raforku inn á sæstreng er að lágmarki,
KV=3,5 ISK/kWh,
og heildarkostnaðurinn,
KH=14,8 ISK/kWh. Um þessar mundir er heildsöluverð á raforku í Englandi um
VH=8,5 ISK/kWh,
svo að mismunurinn, sem þá mundi falla á brezka ríkissjóðinn er
BR=6,3 ISK/kWh,
eða 43 % af kostnaðinum.
Af þessu sést, að það er enginn gróði í spilunum að óbreyttu. Jókerinn í þessu spili er ESB, sem gæti tekið upp á því, ef Ísland gengur í Orkusamband ESB með því, að Alþingi samþykki Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, að veita sæstrengsfjárfestum fjárhagsstyrk til hönnunar og framleiðslu á lengsta sæstreng sögunnar hingað til. Með því yrði öll Evrópa samtengd og hlutdeild endurnýjanlegrar orku í ESB ykist lítils háttar. Hér ber að hafa í huga, að þegar sæstrengseigandinn hefur fengið fjárfestingu sína endurgreidda með umsömdum ágóða, þá mun strengurinn með endamannvirkjum sínum falla í hendur Landsnets, nákvæmlega eins og gerðist með Hvalfjarðargöngin á dögunum. Tæknileg rekstraráhætta strengsins vex með aldri strengsins, en virkjanaeigendur hérlendir verða að geta selt áfram inn á strenginn til að fá áfram tekjur inn á virkjanirnar.
Það er þó ljóst, að rekstur þessa sæstrengs verður alltaf erfiður, bæði viðskiptalega og tæknilega. Ef minni orka en 8,6 TWh/ár fer um strenginn, þá verður reikningslegt tap á honum m.v. flutningsgjaldið 11,3 ISK/kWh. Ef strengurinn bilar "úti á rúmsjó", getur tekið 6-12 mánuði að gera við hann og koma honum í rekstur á ný. Það tekur tíma að staðsetja bilunina af nákvæmni, fá hentugt viðgerðarskip og sérfræðinga, bíða eftir ládeyðu yfir bilunarstað, hífa strenginn upp, taka hann í sundur og gera við. Úfar geta þá hæglega risið á milli eigenda strengsins og viðskiptaaðila þeirra, þ.e. orkukaupenda og -seljenda. Ef svo stendur á, að lág staða er í miðlunarlónum og enn nokkrir mánuðir í, að innrennsli aukist að ráði, þá getur orðið alvarlegur raforkuskortur á Íslandi, sem leiðir til tjónsupphæðar yfir mrðISK 100. Líklegt er, að málaferli rísi vegna þessa tjóns og hugsanlegt, að strengeigandinn verði dæmdur til hárra skaðabóta. Sá strengeigandi getur þá verið Landsnet, eins og áður segir.
Hætt er við, að "spennuóhreinindi" ("harmonics"-yfirsveiflur) berist frá endabúnaði strengsins, afriðlum og áriðlum, og rekstur hans muni skapa miklar spennusveiflur á stofnrafkerfi landsins. Þessar truflanir verða meira áberandi hér en t.d. í Noregi vegna miklu meiri aflflutningsgetu strengsins sem hlutfall af uppsettu afli í virkjunum hér en á við um nokkurn einstakan sæstreng, sem tengdur er norska stofnrafkerfinu. Slíkt getur valdið tjóni á viðkvæmum rafbúnaði, eins og kunnugt er.
Rekstur sæstrengs á milli Íslands og útlanda verður þannig margvíslegum annmörkum háður, og verði ekki hugað gaumgæfilega að öllum atriðum og mótvægisaðgerðum gegn þeim, verður sæstrengsverkefnið gríðarlegt glappaskot.
Það er reginmisskilningur, sem búið er að koma inn hjá mörgum, að ákvæði Innri markaðarins um raforkugeirann virkjist ekki fyrr en með aflsæstrengstengingu við útlönd. Viðskiptafrelsi Innri markaðar EES verða virk fyrir viðskipti með rafmagn og raforkufyrirtæki og eignir þeirra strax við samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Þetta sýndi lagaprófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, ljóslega fram á í rýniskýrslu sinni um greinargerð Birgir Tjörva Péturssonar, lögmanns, til iðnaðarráðherra. Rýniskýrsluna á norsku er að finna í viðhengi með pistlinum Eignarhald á orkulindunum, sem hægt er að finna undir nýjustu færslum hér til hliðar. Rýniskýrsla þessi er í þýðingu yfir á íslenzku sem stendur, og höfundurinn er væntanlegur til Íslands til fyrirlestrarhalds síðar í þessum mánuði.
2.10.2018 | 11:02
Stjórnarskráin og yfirvofandi hætta
Stjórnarskrá Íslands heimilar ekki valdframsal ríkisins til yfirþjóðlegra stofnana. Er þetta einhver þvergirðingsháttur Stjórnarskrárgjafans gagnvart þátttöku landsins í alþjóðlegri samvinnu ? Nei, svo sannarlega ekki. Þetta er þannig vegna þeirrar sannfæringar, að hætta á óstjórn og á að hagsmunir landsmanna verði fyrir borð bornir, þar sem ólíkir hagsmunir rekast á, eins og t.d. í landhelgisdeilunum, aukist til mikilla muna með fjarlægð valdsins frá íbúum landsins. Óþarft er að minna á söguna í þessu sambandi.
Þetta endurspeglast í umræðunni um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn, því að hún felur óumdeilanlega í sér framsal valds til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem hvergi er heimilað í Stjórnarskrá Íslands. Þetta er meira að segja bannað í Stjórnarskrá Noregs, eins og fram kemur í viðhengi með þessum pistli, og er þó sú rýmri en sú íslenzka að þessu leyti, af því að hún heimilar tiltekið framsal, ef aukinn meirihluti Stórþingsins samþykkir.
Í grein Elíasar B. Elíassonar, sérfræðings í orkumálum, í Morgunblaðinu 25.09.2018, undir fyrirsögninni:
"Auðlindastýring vatnsorku",
er sýnidæmi um þjóðhagslegt tjón, sem hlýzt af því fyrir okkur hér á eyju norður í Atlantshafi að fela Evrópusambandinu, ESB, þ.e. orkustofnun þess, ACER í Ljubljana í Slóveníu, og framkvæmdastjórn ESB í Brüssel, yfirstjórn mikilvægra þátta raforkumálanna á Íslandi, sem hlutgerist með handlangaranum, Landsreglaranum, sem verður reglusetningararmur ESB/ACER á Íslandi. Embættið verður þar af leiðandi einstakt á Íslandi, líkist mest Trójuhesti ESB á Íslandi, og getur ekki samræmzt Stjórnarskránni, af því að það verður utan seilingar íslenzkra stjórnvalda.
Til þess að lágmarka hættuna á raforkuskorti við núverandi aðstæður á Íslandi af völdum vatnsskorts inn í vatnsaflsvirkjanirnar er nauðsynlegt að beita auðlindastýringu. Henni beitir Landsvirkjun fyrir sitt leyti, og með 80 % markaðshlutdeild hennar dregur hún langt, en betra væri, að allar virkjanir landsins, sem tengdar eru stofnkerfinu, væru undir einni orkulindastjórn. Réttlæting þess er hinn gríðarlegi samfélagslegi kostnaður, sem af raforkuskorti hlýzt, og sá kostnaður mun enn vaxa með orkuskiptunum. Samræmd orkulindastjórn dregur stórlega úr hættu á vatnsleysi í miðlunarlónum og þar með rándýrum raforkuskorti.
Vegna þess að yfirvofandi er hér innleiðing á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB er nauðsynlegt að spyrja, hvort Evrópusambandið og orkustofnun þess bjóði fram lausn á þessu viðfangsefni auðlindastjórnunar. Svarið er, að ekkert í téðum lagabálki ESB né fyrirkomulag raforkumarkaða ESB í raun bendir til, að hugmyndafræðingar ESB hafi ýjað einni hugsun að því viðfangsefni, sem öllu máli skiptir að leysa sómasamlega á Íslandi, enda eru allt aðrar aðstæður uppi á meginlandinu og á Bretlandi en hérlendis.
Þvert á móti magnar viðtekið markaðskerfi ESB hættuna á því, að hér verði alvarlegur orkuskortur vegna þess, að samkeppnisreglur ESB og bann þess við ríkisafskiptum af markaði kemur í veg fyrir mótvægisaðgerðir í tæka tíð. Þetta rekur Elías B. Elíasson, verkfræðingur, skilmerkilega í ofangreindu prýðilegu grein, sem hér verður vitnað til, lesendum til glöggvunar á efninu:
"Á frjálsum markaði í einangruðu orkukerfi, eins og því íslenzka, fer vatnsorkufyrirtæki, þegar taka þarf vatn úr miðlunarlóni í upphafi vetrar, að fylgjast með áhættu sinni og meta hættu á því, að lónið tæmist áður en vorflóð koma.
Sé búizt við hækkandi markaðsverði orku að áliðnum vetri, og slík hætta er mikil, þá geta þau hætt afhendingu orku til þeirra fyrirtækja, þar sem samningar leyfa slíkt, en þau geta líka hækkað orkuverð sitt í von um, að eftirspurn minnki.
Eins og ástand mála er hér nú með Landsvirkjun sem ráðandi á orkumarkaði, hafa önnur fyrirtæki ekki svigrúm í sínum virkjunum til að yfirtaka hluta af markaði hennar, og orkuverð bara hækkar, svo að þeir notendur, sem eru veikastir efnahagslega, reyna að spara orku.
Með lágu innrennsli í lón fram undir vetrarlok heldur þetta áfram allan veturinn, og orkuverðið hækkar sífellt sem og væntingar um hærra verð, þegar mest hætta er á orkuskorti. Önnur fyrirtæki nýta sér auðvitað ástandið og hækka verðið líka.
Þetta getur skapað miklar verðsveiflur á markaði og stundum meiri en þjóðfélagið þolir með góðu móti, og nokkur dæmi eru um slíkt víðs vegar um heiminn. Virkni markaðslögmálanna er miskunnarlaus."
Þetta er raunsæ lýsing á því, hvernig ástandið verður á íslenzkum raforkumarkaði, þegar t.d. miðlunarlónin fyllast ekki að hausti og stofnað hefur verið til frjáls samkeppnismarkaðar með raforku að hætti ESB undir eftirliti Landsreglara, en það þarf enginn að fara í grafgötur með það, að stuttur tími mun líða frá innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn og í lög á Íslandi, þar til hér mun orkukauphöll hefja starfrækslu.
Þar munu þá væntanlega fljótlega tíðkast afleiðuviðskipti með raforku, eins og í Noregi, þar sem veðjað verður á ákveðna raforkuverðþróun í framtíðinni. Við þessar aðstæður verður um ónauðsynlegar raforkuverðhækkanir að ræða til heimilanna og til atvinnulífsins fyrir utan fyrirtæki, sem hafa gert langtíma raforkusamninga. Slíkar hækkanir má lágmarka með auðlindastýringu, en hún er óleyfilegt inngrip í hinn frjálsa markað ESB.
Orkuverðssveiflur og hækkun meðalverðs hefur neikvæð áhrif á lífskjör og atvinnuöryggi almennings, vegna þess að samkeppnishæfni fyrirtækjanna rýrnar, sem mun ríða þeim sumum á slig. Allar millifærslur eða ríkisstuðningur eru bannaðar í þessu umhverfi að Evrópurétti, enda er hugmyndafræði ESB sú að aðskilja sauðina frá höfrunum að þessu leyti. Þarna krystallast munurinn á þeim viðhorfum að líta annars vegar á rafmagnið sem náttúruafurð, sem nýta beri til atvinnusköpunar um allt land við sem lægstu verði, og hins vegar sem vöru, sem markaðslögmálin skuli beina til þeirra, sem hæsta verðið geta og vilja borga.
Í góðum vatnsárum, þegar miðlunarlónin fyllast á sumrin, munu eigendur vatnsorkuvera nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart eigendum jarðgufuvera og auka markaðshlutdeild sína eftir fremsta megni með því að undirbjóða jarðgufuverin. Slík undirboð heita frjáls samkeppni, nema sýna megi fram á markaðsmisnotkun, og gagnast vel við réttar aðstæður, en geta haft hrikalegar afleiðingar (orkuskort) í för með sér í raforkukerfi, eins og okkar.
Þetta gengur að vísu, þangað til lækkar svo í miðlunarlónum, að eigendur vatnsorkuvera gefa eftir markaðshlutdeild, og fljótlega í kjölfarið er hætt við raforkuverðhækkunum á markaði. Ef vorflóðum seinkar, getur hæglega dunið yfir orkuskortur við þessar aðstæður.
Miklar verðsveiflur á raforkumarkaði koma mörgum notendum illa, og sumir þurfa þá að spara við sig orku. Þetta getur dregið úr atvinnu, hagvexti og lífsgæðum fólks. Líklega verður ársmeðalverðið hærra við þessar aðstæður en yrði við góða auðlindastjórnun, og þetta óhagræði og kostnaðarauki fyrir notendur er, eins og í fyrra tilvikinu, algerlega þarflaust. Mikill er ábyrgðarhluti þeirra stjórnmálamanna, sem leiða þessa óáran yfir þjóðina, líka algerlega að nauðsynjalausu.
Opinber afskipti af þessum markaði verða óleyfileg, og þar munu allar reglur Innri markaðar EES verða í gildi, þ.e. allt getur gengið kaupum og sölum, líka eignarréttur orkulindanna, eins og norski lagaprófessorinn Peter Örebech hefur sýnt fram á. Yfirvöld landsins hvorki mega né geta gefið eftirlitsaðilanum, Landsreglaranum, tilmæli eða fyrirmæli, og nauðsynleg auðlindastjórnun á formi vinnslustýringar í virkjunum verður bönnuð. Þegar íslenzkar aðstæður krefjast heildar auðlindastýringar, þá notar ESB/ACER/ESA/Landsreglari lögmál vörumarkaðar. Gallinn er sá, að það leiðir til öngþveitis og ófara að skilgreina rafmagn sem vöru á Íslandi. Þess vegna er stórhættulegt að innleiða Þriðja orkupakkann við íslenzkar aðstæður.
Eftir að hafa bent á, að uppskipting Landsvirkjunar leiðir aðeins til fákeppni og splundrunar þeirrar auðlindastýringar, sem Landsvirkjun viðhefur nú í krafti stærðar sinnar, skrifar Elías:
"Í raun er ekki nóg, að auðlindastýring nái aðeins yfir orkukerfi Landsvirkjunar, orkukerfi alls landsins þarf að vera undir. Sjái menn fyrir, að Landsvirkjun verði skipt upp, eins og flestallir markaðsfræðingar, sem tjá sig um málið, leggja til, þá verður að fela sérstökum aðila, auðlindastjóra, það verkefni, en engin ákvæði eru í þriðja orkupakka ESB um auðlindir eða auðlindastjórn, þannig að þetta fellur utan við starfssvið landsreglarans."
Stjórnun ESB/ACER/ESA/Landsreglara á raforkumarkaðinum hérlendis mun leiða til afar kostnaðarsamrar óreiðu á sviði, sem myndar eina af undirstöðum þjóðarbúskaparins, þ.e. í orkubúskapnum. Það, sem hentar vel á eldsneytismarkaði, veldur hins vegar vandræðum í kerfi, þar sem samhæfa þarf dyntótt náttúröfl, ef vel á að fara (tryggja afhendingaröryggi raforku með lágmarks tilkostnaði).
Kostnaðaraukinn við beitingu óviðeigandi aðferðarfræði mun leiða til minni hagvaxtar og minni atvinnusköpunar á Íslandi en ella. Elías B. Elíasson áætlar, að tjón notenda vegna fyrirsjáanlegs raforkuskorts verði rúmlega ferfalt meðalorkuverð við stöðvarvegg. Ef t.d. verður 10 % orkuskortur á einu ári af völdum vatnsþurrðar í miðlunarlónum, mun það leiða til kostnaðar, sem nemur um 50 mrðISK/ár. Íslendingar hafa hreinlega ekki efni á tilraunastarfsemi af þessu tagi við stjórn orkumálanna.
Í lok greinar sinnar skrifar Elías:
"Lausn þessara mála þarf að tryggja orkuöryggi þjóðarinnar, hvort sem hún verður áfram einangruð frá öðrum orkukerfum eða tengd með sæstreng. Hér þarf töluverða þverfaglega vinnu áður en hægt verður að finna viðunandi lausn og ekki ólíklegt, að sú lausn, sem bezt tryggir þjóðarhag, muni rekast á ákvæði þriðja orkupakkans og önnur lög ESB.
Til að tryggja orkuöryggi almennings þarf að framkvæma þessa vinnu og setja viðeigandi lög áður en þriðji orkupakkinn er afgreiddur. Finnist ekki leið fram hjá ákvæðum orkupakkans eða öðrum lögum ESB til að tryggja framgang auðlindalaga, verður að fella orkupakkann og koma Íslandi út úr innri raforkumarkaði ESB."
Hér varar kunnáttumaður um raforkumarkaði við grafalvarlegum afleiðingum þess á afhendingaröryggi raforku í einangruðu vatnsorkukerfi, eins og hinu íslenzka, að innfæra hér stjórnkerfi á raforkumarkaði, sem alls ekki er sniðið við okkar aðstæður, heldur við gjörólíkt raforkukerfi, sem einkennist af samtengdu kerfi kjarnorkuvera, kolaorkuvera, gasorkuvera, vindorkuvera og sólarorkuvera.
Það væri blindingsháttur og algert ábyrgðarleysi að hundsa varnaðarorð, sem reist eru á beztu þekkingu um orkumarkaði. Ef þetta örverpi ESB, sem Þriðji orkupakkinn vissulega er fyrir okkur, verður samt innleiddur hérlendis, og þegar íþyngjandi afleiðingar hans fara að sliga hér samkeppnishæfni landsins, þá verða þeir, sem ábyrgðina bera, að gera hreint fyrir sínum dyrum, og það getur reynzt þrautin þyngri.
29.9.2018 | 17:22
Eignarhald á orkulindunum
Orkulindir Íslands eru mestu auðævi þjóðarinnar. Þegar er raforkunotkun landsmanna sú mesta á mann, og nú bíða orkuskiptin handan við hornið, þar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram draumsýn sína. Til að framkalla þá draumsýn í raunveruleikanum þarf að virkja mikið meira, sennilega sem nemur a.m.k. helmingi þess afls, sem þegar hefur verið virkjað, til að leysa allt jarðefnaeldsneyti af hólmi.
Hérlendis er umframorka í kerfinu sáralítil, og Íslendingar eru þess vegna í ósambærilegri stöðu við Norðmenn, sem í venjulegu vatnsári búa megnið af árinu við umframafl og afgangsorku, sem þeir höfðu ekki markað fyrir innanlands. Þetta er nú að breytast í Noregi með vaxandi fjölda utanlandstenginga, og með s.k. Northconnect sæstreng til Skotlands búast Norðmenn við, að öll umframorka í kerfinu gangi til þurrðar.
Þar sem bæði löndin eru vatnsorkulönd, má spyrja, hverju þessi munur sæti. Svarið er jarðhitanýting hérlendis til húshitunar. Í Noregi er megnið af húsnæðinu hitað með rafmagni, og virkjanir og allt rafkerfi landsins er sniðið við hámarksálag kaldasta tímabilsins. Utan þess er aflgeta til reiðu í norska kerfinu fyrir útflutning um sæstrengi eða loftlínur. Á Íslandi er hins vegar tiltölulega jafnt álag á stofnkerfinu og jöfn nýting mannvirkja árið um kring vegna yfirgnæfandi þáttar stóriðjuálags. Hér eru þess vegna engar "náttúrulegar" aðstæður fyrir hendi til útflutnings á rafmagni með sambærilegum hætti og í Noregi. Þess vegna er út í hött hérlendis að vísa til fordæmis Norðmanna í þessum efnum.
Orkulindir á Íslandi í nýtingarflokki eru um 30 TWh/ár, og þegar hafa um 2/3 verið virkjaðar. Verðmæti þessara "virkjanlegu" orkulinda nema a.m.k. 200 mrðISK/ár, og verðmætasköpun með þessari raforku nemur miklu hærri upphæð. Það er þess vegna mörgum hugleikið, hvernig eignarhaldinu á auðlindinni er og verður háttað.
Nýtingarrétturinn er bundinn virkjuninni hérlendis. Eigandi virkjunarinnar er þannig handhafi nýtingarréttarins. Það þýðir t.d., að verði hluti Landsvirkjunar seldur, t.d. vegna kvörtunar ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) út af yfirgnæfandi markaðshlutdeild fyrirtækisins hér, þá eignast nýir eigendur virkjanir og meðfylgjandi nýtingarrétt hinnar endurnýjanlegu orku.
Þann 17. september 2018 birtist skýrsla eftir Birgi Tjörva Pétursson, lögmann, BTP, sem iðnaðarráðuneytið keypti til að réttlæta baráttu sína fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. Skýrsla BTP, lögmanns, ber heitið:
"Greinargerð um ýmis álitaefni sem tengjast þriðja orkupakka ESB og innleiðingu hans í íslenskan rétt".
Lagaprófessor við Háskólann í Tromsö, Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, tók að sér að rýna þessa skýrslu og fylgir skýrsla hans á norsku með þessum pistli. Hann gagnrýnir skýrslu BTP og telur hana ekki standast, m.a. vegna þess, að BTP virðist ekkert hafa kynnt sér dómaframkvæmd ESB-dómstólsins, en túlkun hans á ESB-lögunum er mikilvægari en lagabókstafurinn sjálfur, því að dómum ESB-dómstólsins verður ekki áfrýjað.
Þetta á t.d. við um eignarréttinn og þar með eignarhaldið á orkulindunum. Prófessor Peter Örebech tók saman örstutt yfirlit um gagnrýni sína og fylgir það hér á eftir í þýðingu pistilhöfundar:
"Niðurstaða mín er, að BTP, lögmaður, dragi ótækar ályktanir. Þetta á við þann skilning lögmannsins, að EES-samningurinn gildi ekki um orkugeirann, því að, í fyrsta lagi, kafli 125 í EES-samninginum - reglan um eignarréttinn, sem alfarið sé á valdi hvers ríkis - að sögn - ætti að útiloka það. Í öðru lagi sú afstaða lögmannsins, að kaflar 11, 12 og 13 í EES-samninginum um magntakmarkanir á viðskiptum gildi ekki fyrir Ísland, af því að landið er núna án utanlandstenginga rafkerfisins.
Sá, sem hefur kynnt sér réttarvenjur, kemst auðveldlega að því, að kafli 125 á við - andstætt fullyrðingum BTP, lögmanns, eignarréttarmálefni á Íslandi, því að ESB-dómstóllinn hefur slegið föstu, að þessi málefni verði ekki almennt undanþegin, hvorki frá Innri markaðinum eða "frelsunum fjórum". Einnig er þessu slegið föstu fyrir orkugeirann, sbr EFTA-dómstólinn 2007 um eignarhaldsflutning orkuvera frá einkafyrirtækjum til norska ríkisins ["Hjemfall"-heimkvaðning].
Það er ennfremur á misskilningi reist, þegar BTP, lögmaður, með einfaldri vísun til þess, að rafkerfi Íslands er ótengt við útlönd, slær föstu, að Ísland sé þar með undanþegið grundvallar ákvæðum í EES-samninginum, köflum 11, 12 og 13. Þetta stangast á við EES-samninginn sjálfan, sbr "Viðauka IV orka" (kafla 24) og EES-kafla 2a. Hið sama má leiða af formála nýrra gerða og tilskipana innan orkugeirans, sbr orðalagið, "EES-viðeigandi texti".
Öll ákvæði í EES-aðalsamninginum eiga sér - með framvindu samþykktra mismunandi "orkupakka" - ótakmarkað notkunarsvið á Íslandi. Þetta þýðir t.d., að íslenzkt bann gegn utanlandstengingu við rafkerfið mun verða í andstöðu við kafla 12 í EES-samninginum."
Þarna er í lokin í raun skrifað, að áform iðnaðarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð, um að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um, að tengingarumsókn eiganda millilandasæstrengs við íslenzka rafkerfið skuli hljóta lokaafgreiðslu Alþingis, sé út í hött, því að bann við slíkri tengingu mundi jafngilda broti á EES-samninginum. Þetta er svo augljóst, að leikmaður, sem aðeins nusar af málinu, áttar sig strax á, að Peter Örebech hefur hér að lög að mæla. Það er verulegt áhyggjuefni,ef lögfræðingurinn í stóli iðnaðarráðherra er ekki betur að sér um EES-samninginn en svo, að hún ætli að beita sér fyrir lagasetningu á Alþingi, sem brýtur í bága við þennan umdeilda samning.
Það er ljóst, að eftirfarandi orð BTP, lögmanns, í umræddri greinargerð hans, og gagnrýni Peters Örebech, prófessors, geta ekki samtímis verið sönn. Lesendum verður eftirlátið að meta, hvor þeirra er líklegri til að hafa rétt fyrir sér. Í greinargerð BTP stendur m.a.:
"Þá varða reglur þriðja orkupakkans eða samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar um aðlögun hans að samningnum ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkulindum á Íslandi. Hvergi er að finna neitt í reglunum, sem um ræðir, sem gefur tilefni til að draga slíka ályktun. Í því sambandi er líka rétt að minna á 125. gr. EES-samningsins, þar sem segir:"Samningur þessi hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar.""
Það er með öðrum orðum engin vörn í þessari klausu gegn því, að erlend orkufyrirtæki geti ekki eignazt íslenzkar virkjanir og þar með öðlazt afnotarétt af orkulindunum, ef Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn verður samþykktur á Alþingi.
27.9.2018 | 11:34
Verður engin krafa um einkavæðingu ?
Kristín Haraldsdóttir, lektor við Lagadeild HR, hélt því fram í viðtali á Morgunvakt Gufunnar, 13.09.2018, að með samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB muni engin krafa koma fram um einkavæðingu raforkugeirans á Íslandi. Þetta er skrýtin kenning.
Lítum fyrst á raforkumarkaðinn sjálfan. Með samþykkt "pakkans" yfirtaka reglur Innri markaðarins raforkumarkaðinn á Íslandi, óháð lagningu aflsæstrengs til landsins. Orkan verður andlag 5. frelsins á Innri markaðinum. Með öðrum orðum verður rafmagnið skilgreint sem vara, og um þessa vöru skal ríkja óheft samkeppni. Til að koma slíkri óheftri samkeppni við með þessa "vöru" hafa verið stofnaðar orkukauphallir, og engum blöðum er um það að fletta, að fyrir viðskipti með rafmagn verður fljótlega komið upp slíkum "börsi" hérlendis eftir innleiðingu "pakkans", t.d. með norska "börsinn" sem fyrirmynd, enda hefur Landsnet undirbúið hann um hríð. Landsreglarinn mun yfirtaka umsjón með þessari markaðsstarfsemi, þegar embætti hans hefur verið stofnað, og sjá til þess, að markaðsreglum Evrópusambandsins, ESB, verði framfylgt hér í hvívetna.
Í viku 37/2018 varð stórt gjaldþrot eins þátttakandans á norska orkubörsinum í Ósló. Einar Aas, einn ríkasti maður Noregs, hafði auðgazt á viðskiptum með orku, m.a. á afleiðuviðskiptum (e. derivatives, futures) með raforku í orkukauphöllinni í Ósló. Í þetta skipti hafði hann veðjað á minnkandi raforkuverðmun í Þýzkalandi og Noregi nú á haustdögum. Þá gerðist hið óvænta, sem varð hinum klóka kaupsýslumanni að falli; það tók að rigna ákaflega í Noregi, svo að yfirborð miðlunarlónanna hækkaði, sem leiddi til lækkunar raforkuverðs í Noregi. Samtímis hækkaði koltvíildisskattur í Þýzkalandi, sem orsakaði verðhækkun á rafmagni þar. Saman leiddi þetta til þveröfugrar verðþróunar í raun á við þá, sem Einar Aas, kaupsýslumaður, hafði veðjað á með afleiðuviðskiptum sínum, þ.e. mismunur á raforkuverði í Þýzkalandi og Noregi jókst. Orkan, sem undir var í veðmáli Einars Aas nam ársnotkun alls Óslóarsvæðisins, og gjaldþrotsupphæðin nam mrdNOK 1,3 eða tæplega mrdISK 20. Kostnaðurinn af þessu gjaldþroti lenti í fyrsta umgangi á varasjóði kauphallarinnar, en orkufyrirtækin þar þurfa að bæta honum þessi útgjöld upp.
Með því að gera rafmagn að vöru, eins og ESB og margir aðrir hafa gert, er búið að breyta viðskiptum með þessa auðlindaafurð í hreinræktað spilavíti, þar sem gríðarleg áhætta er tekin og gróðinn getur orðið feiknarlegur. Erfitt er að sjá, að þessir viðskiptahættir geti gagnazt hag raforkunotendanna. Þeir verða leiksoppar örlaganna. Allir peningarnir í þessu spilavíti koma úr vasa orkukaupendanna. Frá þeirra bæjardyrum séð, t.d. almennings á Íslandi, getur þetta engan veginn talizt æskilegt viðskiptafyrirkomulag með orku. Eftir samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB verður það ekki lengur dregið að innleiða þetta kerfi hérlendis, svo geðslegt sem það er, með verðsveiflum og að öllum líkindum hærra meðalverði til almennings sem afleiðingu, algerlega óháð sæstrengslögn til landsins.
Þegar búið verður að innleiða hér orkukauphöll, munu allar samkeppnisreglur Innri markaðarins verða í fullu gildi. Þar tíðkast að sjálfsögðu hvergi, að ríkisfyrirtæki hafi 80 % markaðshlutdeild. Það er þess vegna útilokað, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) muni láta það óátalið, að Landsvirkjun verði í óbreyttri mynd starfandi á samkeppnismarkaði.
Þetta er varla hægt að leysa öðruvísi en með því að skipta Landsvirkjun upp í tvennt eða þrennt og selja einn eða tvo hluta á markaði. Þetta breytir áætlunum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um þjóðarsjóð, fjármagnaðan með arðgreiðslum raforkufyrirtækja. Ekki verða margir hérlendis hrifnir af þessari þróun, þótt væntanlega muni koma tekjuskattur af hinum nýju einkafyrirtækjum í ríkissjóð.
Statkraft, systurfyrirtæki Landsvirkjunar í Noregi, hefur t.d. þriðjungs markaðshlutdeild og er væntanlega við efri mörk leyfilegrar markaðshlutdeildar at mati ESA. Þessi sala á a.m.k. helmingi Landsvirkjunar verður að fara fram á opnum markaði samkvæmt reglum EES, og þar með gætu öflug orkufyrirtæki á hinum Norðurlöndunum eða í Þýzkalandi, svo að líkleg lönd séu nefnd, eignazt ráðandi hlut í íslenzkum fyrirtækjum.
Auðlind verður ekki skilin frá virkjun á Íslandi, svo að þar með mun EES-aðildin geta leitt til mikils nýtingarréttar fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, á íslenzkum orkulindum, nokkuð, sem hingað til hefur tekizt að girða fyrir í sjávarútveginum.
Samverkandi löggjöf ESB um raforkumarkað og frjálsa samkeppni á Innri markaðinum mun þannig leiða til einkavæðingar raforkugeirans að hluta. Það er sem sagt ófullnægjandi að horfa á Þriðja orkumarkaðslagabálkinn einangraðan, heldur verður að skoða hann í samhengi við samkeppnisreglur Innri markaðarins.
Peter Örebech, norskur lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti, hefur rýnt greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, og komizt að þeirri niðurstöðu, að fullyrðingar lögmannsins um, að eignarhald á orkulindum séu á valdi hvers ríkis, standist ekki að Evrópurétti. Verður skýrsla prófessors Örebechs, sem enn er aðeins til á norsku, birt hér á vefsíðunni ásamt úrdrætti hans sjálfs, sem þýddur hefur verið á íslenzku. Er rýni norska lagaprófessorsins hin fróðlegasta, og virðist hann fella helztu stoðirnar undan þessari keyptu skýrslu iðnaðarráðherra, sem ætlað var að sýna fram á meinleysi innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.
25.9.2018 | 14:31
"... brýtur ekki blað í EES"
Að beiðni iðnaðarráðherra hefur verið samin skýrsla um lagalegar hliðar Þriðja orkumarkaðslagabálksins í íslenzku umhverfi, og sagði Morgunblaðið lauslega frá henni 18. september 2018 undir fyrirsögninni:
"Innleiðing orkupakka brýtur ekki blað í EES".
Af þessu getur lesandinn ályktað, að hér sé á ferðinni "business as usual", þ.e. ósköp venjuleg innleiðing á Evrópugerð, þótt í stærri kantinum sé, í EES-samninginn og í íslenzka lagasafnið þar með. Rýni skýrslunnar bíður betra tóms, en niðurstöðurnar, eins og þær birtast í Morgunblaðsfréttinni, sýna, að mjög mikið vantar á, að öll sagan sé sögð. Hér er ekki um léttvægt mál að ræða, eins og iðnaðarráðherra kappkostar að telja fólki trú um, heldur stórmál með geigvænlegum afleiðingum fyrir stjórn orkumálanna í landinu.
Elías B. Elíasson, verkfræðingur, vann um áratugaskeið við orkumarkaðsmál hjá Landsvirkjun og hefur krufið Þriðja orkumarkaðslagabálkinn einna bezt hérlendra manna. Segja má, að Elías hafi reifað áhættugreiningu sína um þennan Þriðja orkupakka á Fésbókarþræði þessa pistilhöfundar sunnudaginn 16. september 2018, og hefur hann veitt leyfi fyrir birtingu hennar hér:
- "Eins og málin standa, þá telja margir, að Alþingi eigi síðasta orðið. [Lagaprófessor og Evrópufræðingur við háskólann í Tromsö, Peter Örebech, hefur hrakið það í gagnrýni á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, sem birt verður innan tíðar, að Alþingi hafi lokaorðið um sæstrengstengingu eftir samþykkt Þriðja orkupakkans-innsk. BJo.] Það að fá hingað sæstreng er þó ekki flóknara en það að bíða eftir heppilegum meirihluta.
- Það er rétt hjá Bjarna [Jónssyni], að Landsreglarinn mun hafa vald til að láta Landsnet styrkja kerfi sitt, svo að hægt sé að tengja slíkan streng.
- Ef strengurinn er lagður sem einkaframkvæmd, koma fleiri lög til álita en orkupakkinn, enda skulu viðskipti með vöru og þjónustu vera frjáls innan ESB. [Prófmál um valdmörk norskra yfirvalda gagnvart einkaframtakssæstreng er nú í uppsiglingu í Noregi - innsk. BJo.]
- ESB getur hvenær sem er breytt lögum, svo að það verði skylda okkar að taka við sæstreng. Það mun vera búið að skrifa 4. orkupakkann, og efalaust er sá 5. á leiðinni. Það mun varla reynast erfiðara að koma þeim pökkum í gegnum Alþingi en þeim 3.
- ESB hefur enga hagsmuni af, að við tökum upp 3. orkupakkann, nema hingað komi sæstrengur, og er þess vegna ósveigjanlegri en ella.
- Ef sæstrengur kemur, er raforkuöryggi landsins í hættu vegna almennra ákvæða í lögum ESB, sem einnig gilda á EES-svæðinu með viðskipti með vöru milli landa. [Hér má nefna kafla 11,12 og 13 um hömlur á magntakmarkanir í viðskiptum-innsk. BJo.] Rafmagn er samkvæmt ESB og EES vara. Enn hefur engin leið fundizt framhjá þessum lögum. Tjón okkar, ef það versta kemur upp í þessu máli, mælist ekki í milljörðum, heldur billjónum [þúsundum milljarða. Við bilun í sæstreng og lága stöðu í miðlunarlónum á óheppilegum tíma getur þurft að grípa til rafmagnsskömmtunar með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir framleiðsluferli landsins - innsk. BJo.].