Færsluflokkur: Evrópumál

Sendiherra ræskir sig

Það er sjaldgæft, að sendiherrar kveðji sér hljóðs hérlendis í deilum um eldfim efni.  Þó skrifaði sendiherra Noregs blaðagrein í vor um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, og nú hefur sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Bretinn Michael Mann, kvatt sér hljóðs um sama málefni.  Höfundur þessa pistils hefur ekkert á móti slíkri tjáningu fulltrúa erlendra ríkja og ríkjasambanda um málefni, sem á mörgum landsmönnum brenna, enda er gagnlegt að kynnast viðhorfum útlendinga, hvort sem um vinveittar eða andstæðar skoðanir er að ræða hverju sinni. Það er hins vegar mál margra, að ekki verði þessi blaðagrein sendiherrans málstað Evrópusambandsins, ESB, eða áhangendum þess hérlendis til framdráttar.  Þess vegna viljum við endilega sjá sendiherrann skjóta sig aftur í fótinn.

Sendiherra ESB var mikið niðri fyrir í grein sinni, sem hann reit í Morgunblaðið 15. nóvember 2018 og nefndi:

"Jákvæðari orku".

 Hann hélt því fram, að "sæstrengur yrði eingöngu lagður samkvæmt ákvörðun Íslendinga".  Þannig er það núna samkvæmt Orkupakka #2, en norski lagaprófessorinn og Evrópuréttarfræðingurinn, Peter Örebech, hefur einmitt í fyrirlestri í Háskóla Íslands, 22.10.2018, og í umsögnum sínum um 2 lögfræðilegar álitsgerðir til iðnaðarráðherra Íslands, sýnt fram á með skýrri röksemdafærslu, að sú verður einmitt stóra breytingin með Orkupakka #3, að með honum falla millilandaviðskipti með rafmagn (og gas) undir "fjórfrelsi" EES-samningsins.  Þegar þar við bætist Innviðagerð ESB # 347/2013, sem vafalaust verður innleidd hér í kjölfar Orkupakka #3, og sú staðreynd, að ACER (Orkustofnun ESB) metur aflsæstreng til Íslands vera á meðal forgangsverkefna orkumillitenginga í Evrópu og þar með styrkhæft verkefni, þá er engum blöðum um það að fletta, að íslenzk yfirvöld munu verða að láta í minni pokann gagnvart vilja sæstrengsfjárfesta og ACER/ESB, eftir að Alþingi hefur framselt ríkisvald í þessum efnum til ACER. 

Auðvitað gæti ríkisstjórnin þverskallazt og reynt að sprikla, en slíkt verður einfaldlega dæmt sem brot á EES-samninginum, t.d. 12. grein hans, sem bannar útflutningstakmarkanir á vöru.  Ríkisstjórnin verður þá að bíta í það súra epli eða að segja upp EES-samninginum. Að hafna Orkupakka #3 er bezta varnarviðbragð fyrir EES-samninginn í núverandi stöðu. Líklegt er, að innleiðing Orkupakka #3 setji EES-samninginn í uppnám.  Ráðherrarnir 2, sem aðallega hafa beitt sér í þessu orkupakkamáli, ásamt fylgifénaði þeirra, hafa tekið algerlega skakkan pól í hæðina í þessu máli. 

Nú hefur miðstjórn Framsóknarflokksins gefið ráðherrum flokksins fyrirmæli um að standa gegn innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og ber að fagna því mjög.  Leiðtogi vinstri grænna í Skagafirði og 2 fyrrverandi ráðherrar flokksins hafa opinberlega lagzt gegn innleiðingunni.  Nokkur flokksfélög sjálfstæðismanna hafa líka gert það, en fyrir dæmalaust óhönduglega málsmeðferð ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem með þetta mál fara, stefnir nú í, að Sjálfstæðisflokkurinn sitji uppi með Svarta-Pétur í þessu máli.  Enginn getur forðað því, nema formaður flokksins, sem verður að stíga fram og taka af skarið með þetta ólánsmál áður en það veldur flokknum meira tjóni.

Sendiherrann fer með fleipur í málsgreininni:

"Þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, mun ACER ekki hafa neitt vald hér á landi."

I EFTA-stoð EES-samstarfsins er ESA spegilmynd framkvæmdastjórnar ESB.  Það er enginn vettvangur innan EFTA, sem ætlaður er fyrir fundi landsreglara EFTA-landanna, enda kemur fram í gögnum norsku ríkisstjórnarinnar til Stórþingsins, að í sambandi við Orkupakka #3 er ESA ekki ætlað neitt nýtt og sjálfstætt hlutverk, heldur einvörðungu að afrita ákvarðanir ACER og hugsanlega að þýða þær yfir á íslenzku og norsku áður en þær verða sendar til landsreglara Íslands, Noregs og Liechtensteins. Upplýsingagjöf frá landsreglurum landanna mun að sama skapi fara rakleiðis frá ESA til ACER án úrvinnslu. Innskot ESA eru lélegar umbúðir án innihalds.

  Landsreglararnir eru í ESB-löndunum undir beinni stjórn ACER, og þannig verður það í raun í EFTA-löndunum líka, að kröfu ESB.  Landsreglararnir eru valdamestu embætti okugeira ESB-landanna, og þannig verður það líka í EFTA-löndunum utan Svisslands, sem ekki er með í EES.  Sendiherra ESB er með blekkingartilburði í þessu máli gagnvart íslenzkum almenningi.

Eftirfarandi eru líka blekkingartilburðir að hálfu sendiherrans:

"því [Íslandi] er ekki skylt að opna raforkumarkaðinn sinn né að veita þriðja aðila aðgang eða fjárfestingartækifæri."

Það er alrangt, að undanþága hafa fengizt í viðræðum við ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni gagnvart opnun íslenzka raforkumarkaðarins, sem fylgir Orkupakka #3.  Íslenzki raforkumarkaðurinn mun verða markaðsvæddur að hætti ESB eftir innleiðingu Orkupakka #3, og fer sú markaðsvæðing, þ.e. stofnun orkukauphallar, fram undir eftirliti Landsreglarans.  Viðskipti með rafmagn við útlönd færast við innleiðinguna undir ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru og þjónustu, og þar af leiðandi verður íslenzki orkumarkaðurinn galopinn gagnvart fjárfestum, sem hér vilja eiga viðskipti með rafmagn, leggja hingað sæstreng og verzla með rafmagn hér í orkukauphöll. 

Það, sem sendiherrann sennilega á við, er, að það var samið um neyðarhemil, sem íslenzk og norsk stjórnvöld mega grípa til áður en í löndunum skellur á beinn orkuskortur, þ.e. skömmtunarástand.  Hækkun orkuverðs, sem óhjákvæmilega verður á orkumarkaði í aðdraganda orkuskorts, er þó ekki talin vera næg ástæða til að grípa í taumana með útflutningstakmörkunum, enda væri þá verið að mismuna orkukaupendum eftir þjóðernum og að takmarka útflutning á vöru, sem er brot á EES-samninginum, gr. #12. 

Það eru hins vegar engar takmarknir settar á fjárfestingar erlendra fyrirtækja í íslenzka orkugeiranum samkvæmt þeim orkupakka, sem iðnaðarráðherra vill nú innleiða í lög á Íslandi, enda væri það saga til næsta bæjar, ef Sameiginlega EES-nefndin hefði skert "fjórfrelsið" svo freklega 5. maí 2017, þegar hún samþykkti innleiðingu Orkupakka #3 í IV. viðauka EES-samningsins. Sendiherrann er að reyna að fegra "pakkann" í augum landsmanna með því, að girðingar hafi verið settar upp gegn auðvaldi Evrópu að hreppa hér eignir í orkugeiranum, sem kunna að verða til sölu.  Það er skreytni hjá sendiherranum. 

Næsta gullkorn sendiherrans, sem vert er að athuga, er þetta:

"Aðalhlutverk eftirlitsaðilans verður í raun að tryggja betra verð fyrir neytendur."

Landsreglarinn hefur það hlutverk að sjá til þess, að hér verði orkukauphöll komið á laggirnar að hætti ESB, og síðan hefur hann eftirlit með þessari starfsemi.  Í ESB-löndunum hefur slík frjáls samkeppni gagnazt orkukaupendunum, en hérlendis eru hins vegar engar forsendur fyrir því, að slíkur markaður geti gagnazt orkukaupendum.  Hér verður alltaf fákeppni, hvort sem Landsvirkjun verður klofin eða ekki.  Ef hún verður klofin, þá verður engri nauðsynlegri orkulindastýringu komið við, enda mun Landsreglarinn banna samræmda orkulindastýringu með vísun í reglur Evrópuréttar um óleyfileg markaðsinngrip.  M.a. af þessum ástæðum mun raforkuverð hækka hér undir umsjón Landsreglarans.  Það verður markaðurinn, sem ræður, og Landsreglarinn mun engin tök hafa á því "að tryggja betra verð fyrir neytendur", þótt hann verði allur af vilja gerður. Sendiherranum er vorkunn, þótt hann haldi þessu fram, því að hann hefur ókunnugleika sem afsökun, en ráðuneyti iðnaðar, sem heldur því sama fram, skákar bara í skjóli fávísi. 

Að lokum verður hér minnzt á Grýluna í málinu, sem er sú, að synjun staðfestingar Orkupakka #3 á Alþingi muni hafa slæm áhrif á EES-samstarfið.  Það vill svo vel til, að sendiherrann gerir lítið úr Grýlu og skrifar:

"Í versta falli gæti þetta valdið því, að hluti af EES-samningnum félli úr gildi, a.m.k. til bráðabirgða."

Ef sendiherrann á hér við Viðauka IV í EES-samninginum, sem fjallar um orkumál, þá hefur hann rétt fyrir sér.  Líklegast er, verði um einhverjar mótaðgerðir að ræða, að aðeins orkumarkaðslagabálkur #2 verði felldur úr gildi.  Það skaðar Ísland ekki á nokkurn hátt.  

Þegar norska Stórþingið hafnaði póstpakka #3 frá ESB árið 2011, komu engar gagnráðstafanir frá ESB í kjölfarið.  Líklegast verður hið sama uppi á tenginum, ef Alþingi hafnar Orkupakka #3 árið 2019 eða ef Stórþingið gerir það haustið 2020 eftir sigur "Nei til EU" í dómsmáli gegn ríkisstjórn Noregs um þann  málatilbúnað að krefjast ekki aukins meirihluta, þegar Orkupakki #3 var lagður fyrir Stórþingið og atkvæði greidd um hann veturinn 2018, eins og stjórnarskráin kveður þó á um, þegar fullveldisframsal af þessu tagi er annars vegar.

 

    

 


Útflutningshömlur á rafmagn yrðu óheimilar

Það leiðir af EES-samninginum, gr. 12, að leggi íslenzk yfirvöld stein í götu aflsæstrengsfjárfesta, sem tengjast vilja íslenzka raforkukerfinu, eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, og Landsreglarinn á Íslandi er meðmæltur leyfisumsókn um slíkan streng, þá mun sá sami Landsreglari umsvifalaust tilkynna slíkan þvergirðing til yfirboðara sinna hjá ACER (gegnum ESA) og getur tilfært slíkt sem skýlaust brot á "fjórfrelsisreglu" nr 12  í EES-samninginum um bann við hvers kyns hömlum á útflutningi, svo að ekki sé nú minnzt á áætlanagerðir ACER um millilandatengingar, sem ætlazt er til, að ACER-aðildarlönd styðji, þótt þau hafi þar ekki atkvæðisrétt, eins og við mun eiga um EFTA-ríkin.  

Samkvæmt núgildandi orkupakka 2 á Íslandi er almennt talið, að íslenzk yfirvöld og löggjafi hafa það í hendi sér, hvort gengið verður til samninga við sæstrengsfjárfesta eða ekki.  Þetta er hinn mikli munur, sem felst í orkupakka 2 og 3.  Segja má, að fjórfrelsið hljóti nýja vídd með Þriðja orkupakkanum og spanni með honum utanríkisviðskipti með rafmagn.

Þess vegna er alveg dæmalaust að sjá útlistun iðnaðarráðuneytisins nr 7 á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar til ráðherrans í apríl 2018:

"Þriðji orkupakkinn haggar því ekki, að það er á forræði Íslands að ákveða, hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs og eins, hvort íslenzka ríkið ætti að vera eigandi að honum."

 Þetta orkar mjög tvímælis, því að segja má, að áherzlan í orkupakka 3 felist í útvíkkun fjórfrelsins til að spanna utanlandsviðskipti með raforku (og gas). Það þýðir, að innlend stjórnvöld verða ekki látin komast upp með að leggja stein í götu utanlandsviðskipta með orku, eftir að Alþingi hefur afsalað ákvörðunarvaldi um þetta til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER (gegnum í þessu tilviki ljósritarann og þýðandann, ESA).     

Landsreglarinn verður Orkustofnun til ráðuneytis um afgreiðslu leyfisumsókna frá sæstrengsfjárfestum.  Komi upp ágreiningur á milli Landsreglara og Orkustofnunar um afgreiðslu umsóknar, ber Landsreglara að tilkynna ACER (gegnum ESA) um þann ágreining, og hlutverk ACER er að kveða upp bindandi úrskurði í deilumálum um millilandatengingar. Verður þá að sjálfsögðu tekið tillit til þess, hvort viðkomandi millilandatenging er á forgangsverkefnaskrá ACER eða ekki. Um slík verkefni gildir t.d. samkvæmt Innviðagerð #347/2013, að Orkustofnun verður að afgreiða sæstrengsumsóknir á innan við 18 mánuðum.  Með texta ráðuneytisins er hins vegar gefið í skyn, að innlend stjórnvöld muni ráða þessu, en það er alls ekki svo samkvæmt orkupakka 3, þótt það sé rétt samkvæmt orkupakka 2. Þetta hefur prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, sýnt fram á í rýniritgerðum sínum um minnisblað Ólafs Jóhannesar Einarssonar til iðnaðarráðherra í apríl 2018 og um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar til sama ráðherra í september 2018.

Það er heldur ekki rétt, að íslenzk stjórnvöld ráði því alfarið, hvort íslenzka ríkið kaupi sig inn í félag um sæstreng.  Það yrði alfarið samningsatriði á milli aðila á frjálsum markaði, og ríkisvaldinu verður óheimilt að troða einkafyrirtækjum um tær.  Norski Verkamannaflokkurinn setti í vetur 8 skilyrði fyrir stuðningi sínum við innleiðingu Orkupakka 3, og eitt af því var einmitt, að raforkuflutningsfyrirtækið Statnett, sem er alfarið í eigu norska ríkisins, yrði eigandi allra framtíðarsæstrengja frá Noregi.  Hefðu Norðmenn sett þennan fyrirvara, ef augljóst væri við lestur orkupakkans, að norsk yfirvöld hefðu eignarhaldið í hendi sér ?  Auðvitað ekki.  Hér er um heimatilbúna túlkun lögmannsins og ráðuneytisins að ræða. 

Hins vegar ber Landsneti að standa straum af kostnaði við tengingar frá stofnrafkerfi landsins og niður að sæstrengnum samkvæmt forskrift Orkupakka 3.  Sá kostnaður gæti numið um mrðISK 100 og mun hærri upphæð, ef endabúnaður sæstrengs (spennar, afriðlar, áriðlar o.fl) verður innifalinn.  Öllum þessum kostnaði ber Landsneti að standa straum af með hækkun gjaldskráa sinna, svo að innlendir raforkunotendur munu standa af þessu straum með verulegri hækkun útgjalda fyrir rafmagnsnotkun.  Þetta þýðir, að a.m.k. tveir þættir rafmagnsreiknings almennings munu hækka með tilkomu sæstrengs, raforkuverð frá orkuseljanda og flutningsgjald Landsnets.  Það er ekki ólíklegt, að fyrri þátturinn tvöfaldist og seinni þátturinn hækki um 60 %, sem mundi þýða yfir 50 % hækkun raforkureiknings, ef dreifingarkostnaður breytist ekki.

Um meint forræði Íslands yfir þessum málum skrifar pófessor Peter Örebech m.a.:

"Ekki myndi ég reiða mig á þetta [þ.e. mat ÓJE-innsk. BJo].  Ísland nýtur fullveldisréttar síns m.t.t. áframhaldandi eignarréttar ríkisins á orkunni [þar sem hann á við-innsk. BJo], EES#125, en stýring orkuvinnslunnar, þ.e. samþykkt, sem ekki er gerð á grundvelli eignarréttarins, heldur á grundvelli stjórnunarréttar - þ.e.a.s. stýring atvinnugreinarinnar - verður að vera í samræmi við EES.  Einkaaðilar eru ekki útilokaðir frá því að setja á laggirnar og reka  raforkusölu [og vinnslu-innsk. BJo], heldur þvert á móti. Það myndi þýða tvísýna baráttu fyrir Ísland að veita því mótspyrnu, að E´ON, Vattenfall, Statkraft eða einkafyrirtæki - með vísun til áætlana samþykktra í ACER um streng frá Íslandi og til Noregs tengdum mörgum strengjum við ESB-markaðinn - legði og tengdi slíkan sæstreng.  Sjá gerð nr 714/2009, Viðauka I (Leiðbeiningar um stjórnun og úthlutun flutningsgetu til ráðstöfunar á flutningslínum á milli landskerfa), þar sem stendur í lið 1.1: "Flutningskerfisstjórar (TSO-hérlendis Landsnet) skulu leggja sig fram um að samþykkja öll fjárhagslega tengd viðskipti, þ.m.t. þau, sem fela í sér viðskipti á milli landa.".

Ennfremur stendur í lið 2.1: "Aðferðirnar við framkvæmd flutningstakmarkana skulu vera markaðstengdar til að létta undir skilvirkum viðskiptum á milli landa.".

Það er alveg óviðunandi, að einhverjir embættismenn og stjórnmálamenn hérlendir fullyrði, að engin hætta sé á ferðum, þótt sérfræðingur í Evrópurétti rökstyðji hið gagnstæða með sínum lögfræðilegu rökum og tilvísunum í Evrópugerðirnar, sem um málið gilda, ásamt því að rekja úrskurði Evrópudómstólsins, eins og PÖ gerði í athugasemdum sínum við greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar til iðnaðarráðherra frá september 2018. Það er allt of mikið í húfi til að taka þessa áhættu.  

 

 


Peter Örebech tekur dæmi af streng á milli Íslands og Noregs

Á grundvelli þekkingar sinnar á Evrópurétti hefur norski lagaprófessorinn Peter Örebech varað Íslendinga eindregið við afleiðingum þess að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í EES-samninginn. Hið sama gerði hann í Noregi, þegar umræðan um þennan "orkupakka" stóð yfir þar í aðdraganda þinglegrar meðferðar málsins.  Það breytir engu um afstöðu þessa lögfróða manns til málsins, að EES-samningurinn hefur spannað orkumál frá upphafi. Þótt Íslendingar hafi ásamt Norðmönnum og Liechtensteinum innleitt 1. og 2. orkupakkann í Viðauka IV EES-samningsins, þá ber Íslendingum og hafa fulla heimild til að taka sjálfstæða afstöðu til Þriðja orkumarkaðslagabálksins.

Með pakkanum er nefnilega innleidd ný vídd í fjórfrelsi orkugeirans, sem er alveg ný af nálinni hérlendis, þ.e.a.s. frjáls markaðsviðskipti með rafmagn við útlönd.  Það er meginskýringin á því, að þessi nýjasti orkupakki ESB hefur fengið marga hérlandsmenn til að staldra við og spyrja, hvort e.t.v. sé nú þegar nóg komið af svo góðu.  Hingað og ekki lengra er niðurstaða margra, því að með gildistöku greinar EES#12, sem bannar hömlur á vöruútflutningi (rafmagn er vara að Evrópurétti), mun það verða talið brot á EES-samninginum að þvælast fyrir fjárfestum aflsæstrengs til Írlands, svo að ESB-ríki sé nefnt, eða að takmarka slíkan útflutning fyrr en orkuskortur er hér orðinn að veruleika.  Mikil verðhækkun rafmagns hér er alls ekki talin næg ástæða til að stöðva þennan útflutning.

Það, sem máli skiptir fyrir hagsmuni Íslands í þessu sambandi er, að Þriðji orkupakkinn leysir úr læðingi "fjórfrelsið" í orkugeiranum á þeim sviðum, þar sem það gildir ekki alfarið nú þegar.  Það þýðir skilyrðislausa markaðsvæðingu hérlendis með orkukauphöll, sem ekki er valkvæð samkvæmt orkupakka 2, og að samkeppnishindranir, t.d. vegna stórrar markaðshlutdeildar, verða þá vart liðnar lengur. Útflutningshindranir á raforku að hálfu íslenzka löggjafans og íslenzkra yfirvalda (framkvæmdavalds, dómsvalds) verða ólögmætar. Með öðrum orðum mun Evrópuréttur ríkja á sviði milliríkjaviðskipta með rafmagn. Rökrétt afleiðing af því er, að innlend yfirvöld hafa þá framselt ákvörðunarvald um millilandatengingar til markaðarins, Landsreglarans og ACER.  ESA hefur ekkert sjálfstætt úrskurðarvald í þessum efnum.  Það verður hjá ACER og framkvæmdastjórn ESB.  Með því að framselja vald til yfirþjóðlegrar stofnunar er tekin sú áhætta, að ákvarðanir, er Ísland varða, verði ekki í þágu íslenzkra hagsmuna.  Þess vegna bannar Stjórnarskráin þennan gjörning.  

Á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar, 12. apríl 2018, er skautað léttilega framhjá þessum atriðum.   Það er sláandi að bera saman 6. lið samantektar iðnaðarráðuneytisins á téðu minnisblaði og athugasemdir prófessors Peters Örebech við þennan lið.  Samanburðurinn kastar ljósi á þann bullandi túlkunarmun, sem einkennir umræðuna og er á milli þeirra, sem í raun rökræða fátt í þessu sambandi, en virðast helzt halda, að allt sé búið og gert, þótt þrjár nefndir Alþingis hafi á árunum 2014-2016 verið upplýstar um gang mála í Sameiginlegu EES-nefndinni og um viðhorf nokkurra sérfræðinga, aðallega embættismanna ráðuneyta.  Slíkt fyrirkomulag bindur á engan hátt hendur Alþingis, þegar það fær samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar til lokaafgreiðslu.   

Svipað fyrirkomulag er viðhaft í norska Stórþinginu, og það hefur hafnað Evrópugerð um póstdreifingu, og enginn efaðist þar í landi um fulla heimild Stórþingsins til þess.  ESB tók þetta gott og gilt, hafði ekki uppi nokkrar mótaðgerðir, og viðskipti Norðmanna við ESB-ríkin gengu snurðulaus.  Ákafir aðdáendur fjarstjórnar helztu þjóðmála frá Brüssel fá hins vegar hland fyrir hjartað, ef einhverjum dettur í hug að reisa burst við valdaráni Brüssel-búrókratanna um hábjartan dag:

Iðnaðarráðuneytið (6): "Heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir eru að meginstefnu bundnar við ákvæði, sem gilda um orkumannvirki, sem ná yfir landamæri (t.d. sæstrengi); eðli málsins samkvæmt eiga slíkar valdheimildir ekki við á Íslandi, svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki."

Þetta er rökleysa hjá ráðuneytinu, enda væri ACER í sömu sporum bæði fyrir og eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans varðandi það að koma hér á sæstrengstengingu við útlönd, ef þetta væri rétt.

Hvað skrifaði prófessor Peter Örebech um þessa útlistun ráðuneytisins ?:

"Af því að mikilvægasta réttarheimildin, orðanna hljóðan í sáttmálanum, hér grein 12, er skýr og þess vegna ákvarðandi, leiðir það, að sú léttvægasta, "eðli máls", er þýðingarlaus.  EES-samningurinn, grein 12, túlkaður samkvæmt almennri málnotkun, er hér skýr og þess vegna ákvarðandi.  

Ef einhver í Noregi vill leggja rafstreng á milli Noregs og Íslands, og Ísland hafnar slíkum sæstreng, verður um að ræða "magntakmörkun á útflutningi", sem stríðir gegn grein 12.  Ágreiningur á milli t.d. Landsreglarans (RME) í Noregi fyrir hönd einkafyrirtækis, t.d. Elkem, og Landsreglarans á Íslandi um lagningu sæstrengja frá Íslandi og til vesturstrandar Noregs (u.þ.b. 1500 km) verður útkljáður hjá ACER samkvæmt gerð nr 713/2009, grein 8 (1) a." 

Þetta þýðir með öðrum orðum, að strax eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans verður það úr höndum íslenzkra yfirvalda og í höndum ACER að ákveða, hvort fjárfestir fær leyfi til að leggja aflsæstreng frá Íslandi til útlanda.  


Orkupakki ESB nr 3 og ESA

Í samantekt sinni á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar til iðnaðarráðherra frá miðjum apríl 2018 skrifar Iðnaðarráðuneytið svofellt í 5. lið samantektarinnar:

"Við upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn var um það samið, að valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrðu ekki hjá ACER, heldur hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)."

Hér lætur ráðuneytið í það skína, að ESA sé að formi og innihaldi sjálfstæður málsmeðferðaraðili í orkumálum, sem semji sjálfstæð fyrirmæli, tilmæli og leiðbeiningar til hefðbundinna íslenzkra eftirlitsaðila í raforkugeiranum, sem lúti innlendum stjórnvöldum.

Þetta er hrein fjarstæða, því að ekkert af þessu stenzt rýni.  ESA hefur ekkert hlutverk EFTA-megin sem Orkustofnun EFTA í líkingu við hlutverk ACER ESB-megin.  Það er mjög einkennileg ráðstöfun að setja ESA sem lið á milli ACER og Landsreglarans án eiginlegra valdheimilda á orkumálasviði EFTA-ríkjanna.  Ef það var gert til að draga dul á, að Landsreglarinn, æðsta valdstofnun orkumála á Íslandi eftir innleiðingu Orkupakka 3 í EES-samninginn, verður alfarið undir stjórn ACER, var það alveg út í hött, því að svo er búið um hnútana í gerð ESB um Landsreglarann, að hann skuli verða algerlega óháður yfirvöldum hvers lands og hagsmunaaðilum þar.  Hann verður ríki í ríkinu undir stjórn ACER.  Að æðsta stofnun orkumála á Íslandi verði óháð lýðræðislega kjörnum fulltrúum og yfirvöldum landsins er óhæfa og hlýtur að verða farið með tiltektir Landsreglarans fyrir íslenzka dómsstóla, ef Alþingi leiðir þennan óskapnað í lög hér.  

Hvað skrifaði Peter Örebech í athugasemdum sínum, sem nú eru birtar í íslenzkri þýðingu sem viðhengi með pistli þessum ?:

"Já, það er rétt, að ACER á að taka sínar ákvarðanir og að ESA á að taka sams konar ákvarðanir (við þýðingu á ACER-ákvörðun á íslenzku, norsku o.sfrv.).  Þeim er síðan beint að Landsreglaranum, sem framkvæmir ACER-ákvarðanirnar á Íslandi og í Noregi, en þar sem þetta eru afritaðar ákvarðanir, og þar eð Ísland eða Noregur geta ekki sagt Landsreglaranum fyrir verkum - samtímis sem Landsreglaranum ber skylda til að fylgja reglum EES-réttarins, sbr grein 7 í EES-samninginum, þá er hið valda fyrirkomulag hrein sýndarmennska til að komast hjá stjórnarskrárhindrunum, sem varða breytinguna frá tveggja stoða kerfi til hins stjórnarskrárbrotlega einnar stoðar kerfis."

Á fundi í Háskóla Íslands 22. október 2018, þar sem prófessor Peter Örebech var aðalfrummælandinn, tók prófessor emeritus og sérfræðingur í Evrópurétti, Stefán Már Stefánsson, til máls og lýsti sig sammála lögfræðilegum útlistunum Örebechs.  Á fundi í Valhöll, 30. ágúst 2018, þar sem Stefán Már var einn fjögurra framsögumanna, lýsti hann því yfir, að ef hlutverk ESA í sambandi við Þriðja orkupakkann væri sýndargjörningur, en ekki raunverulega sjálfstætt hlutverk, eins og ACER hefur EFTA-megin, þá gæti ESA ekki talizt vera næg trygging fyrir tveggja stoða kerfið í þessu tilviki.  Sé nú þetta hvort tveggja lagt saman, þá kemur í ljós, að framkvæmd Þriðja orkumarkaðslagabálksins mun óhjákvæmilega leiða af sér stjórnarskrárbrot á Íslandi.  Þess vegna geta Alþingismenn ekki með góðri samvizku aflétt hinum stjórnskipulega fyrirvara af þessum gerningi hinnar sameiginlegu EES-nefndar embættismanna í Brüssel, heldur verða þeir að synja honum staðfestingar.  

Geri þeir, mót vonum, hið gagnstæða, gera þeir EES-samninginn sjálfan að miklu bitbeini á Íslandi, og sú eðlilega krafa fær líklega byr undir báða vængi í kjölfarið, að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að EES.  Slíkar deilur um EES eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans með hækkandi raforkuverði í landinu og sæstreng í sjónmáli gætu orðið stjórnmálaflokkum, sem ekki standa í ístaðinu núna, æði skeinuhættar.  "Kalt mat" er, að minni vandræði muni hljótast af höfnun Þriðja orkupakkans en af samþykki hans.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Valdheimildir ACER (Orkustofnunar ESB)

Greinarkorn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í Morgunblaðinu 8. nóvember 2018, hefur valdið fjaðrafoki á meðal þeirra stjórnarliða, sem trúa áróðri ESB um, að Orkupakki 3 feli í sér sáralitlar breytingar frá Orkupakka 2.  Geta má sér þess til, að áhyggjur í röðum stjórnarflokkanna stafi þó ekki af greinarkorninu, "Suma pakka er betra að afþakka", heldur af hinu, að nýlega haldinn flokksráðsflokkur Miðflokksins gagnrýndi harðlega það framsal á stórfelldum hagsmunum til ESB, sem sýnt hefur verið fram á með lögfræðilegum rökum (Peter Örebech), að óhjákvæmilega mun leiða af innleiðingu Orkupakka 3. Skiptir þá engu í þessu sambandi, þótt utanríkismálanefnd Alþingis hafi fyrir 3-4 árum ályktað á grundvelli tiltækra upplýsinga þá að heimila EES-nefndinni að komast að samkomulagi um Þriðja orkupakkann.  Rýni sýnir, að lausnin, sem ofan á varð með Landsreglara, ESA og ACER, er algerlega ótæk fyrir íslenzku Stjórnarskrána.  

Þeim lúalega andróðri gegn Sigmundi Davíð og Gunnari Braga er nú beitt af áköfustu talsmönnum orkupakkans, að í ráðherratíð sinni 2013-2016 hefðu þeir átt að sjá í gegnum áróður ESB og láta hart mæta hörðu í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem málið vissulega var til umræðu.  Sá er hængurinn á, að þá höfðu engar upplýsingar komið fram um, hvað þessi orkupakki í raun fæli í sér. Allar upplýsingar um þennan nú alræmda orkupakka voru matreiddar af Evrópusambandinu, ESB, og vafðar inn í bómull, sem enn sér stað í málflutningi utanríkisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins.

Það er þess vegna ósvífni og ómálefnalegt að álasa nú þessum tveimur Miðflokksmönnum fyrir að hafa ekki veitt andspyrnu þá.  Höfuðið er þó bitið af skömminni með því að deila á þá fyrir að hafa skipt um skoðun, þegar þeim hafði veitzt ráðrúm til að kynna sér málið betur.  Aðeins forstokkaðir pólitískir steingervingar ríghalda í sína gömlu skoðun, þótt nýjar upplýsingar leiði í ljós, að gamla skoðunin og afstaðan er  þjóðhættuleg.  Skömm slíkra  mun lengi uppi verða.

Téða grein sína endaði Sigmundur Davíð þannig:

"Það að koma í veg fyrir, að erlendar stofnanir öðlist yfirþjóðlegt vald á Íslandi, og aðrir hagsmunir samfélagsins verði veiktir, ætti ekki að vera pólitískt þrætuepli innanlands. Ekki frekar en önnur mál, sem snúa að því að verja hagsmuni landsins út á við eða sjálft fullveldið.

Það er grátlegt, að stjórnvöld telji það ekkert tiltökumál að framselja sneið af sjálfstæði landsins á sama tíma og haldið er upp á, að 100 ár séu liðin frá því, að Ísland endurheimti fullveldi sitt.  Um leið fara svo fram umræður um, hvort eigi að afnema svokallað fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar til að auðvelda slíkt framsal í framtíðinni.

Ég skora á ríkisstjórnina að fara nú þegar fram á, að Ísland fái undanþágu frá orkupakkanum og skila honum svo til sendanda.  Í því efni getur ríkisstjórnin reitt sig á stuðning Miðflokksins."

Hvað hefur íslenzka iðnaðarráðuneytið að segja um þá ESB-stofnun, sem valdframsalið frá íslenzkum stjórnvöldum um málefni orkuvinnslu og orkuflutninga mun fara fram til, ef Alþingi samþykkir orkupakkann ?:

"ACER hefur engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum, heldur eingöngu opinberum eftirlitsaðilum."

Þessi fjórði liður samantektar ráðuneytisins á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar til iðnaðarráðherra er gott dæmi um þann orðhengilshátt, sem ráðuneytið telur sér sæma að viðhafa í þessu alvarlega máli í stað þess að nefna hlutina sínum réttu nöfnum og sleppa þar með blekkingarhjali.  

"Opinberir eftirlitsaðilar", sem ACER hefur valdheimildir gagnvart, er Landsreglarinn.  Hann verður ekki hluti af eftirlitskerfi íslenzkra yfirvalda með orkugeiranum, því að hann heyrir alls ekkert undir þau, heldur undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) að nafninu til, en í raun alfarið undir ACER.  Embætti Landsreglarans verður þó á íslenzku fjárlögunum.  Hann mun létta af iðnaðarráðuneytinu og Orkustofnun öllum eftirlitsskyldum þeirra með raforkugeiranum, og Landsreglarinn verður í raun valdamesta embætti íslenzka orkugeirans, fjarstýrt frá Framkvæmdastjórninni í Brüssel.      

  Í tilraun til að hylja stjórnarskrárbrotið, sem í þessu felst, var ESA sett upp sem milliliður Landsreglara og ACER án nokkurs sjálfstæðs hlutverks.  Þjónkunarlöngunin við ESB varð stjórnarskrárhollustunni yfirsterkari í vissum kreðsum íslenzka stjórnkerfisins, og er svo enn, þótt skrýtið sé.  Skinhelgin svífur svo yfir vötnunum, þegar sömu aðilar taka þátt í hátíðarhöldum Lýðveldisins í tilefni aldarafmælis fullveldisendurheimtu.  Lágkúran ríður ekki við einteyming.

Hvað hefur Peter Örebech að segja um þessa gagnslausu og beinlínis villandi túlkun á valdheimildum ACER.  Eftir að hafa rakið í hvaða gögnum ESB þessum valdheimildum er lýst, bendir hann á þá staðreynd, að þessar valdheimildir eru enn í mótun hjá ESB, og við höfum auðvitað engin áhrif á þá mótun, en yrðum að gleypa við öllum nýjum gerðum og tilskipunum um aukna miðstýringu orkumálanna og aukin völd ACER, sem Framkvæmdastjórninni tekst að troða ofan í kokið á aðildarlöndum ESB með spægipylsuaðferðinni.  Prófessor Örebech skrifar:

 "Völd ACER eru skráð í framangreindum gerðum og tilskipunum, en þessi skjöl gefa mynd af völdunum m.v. ákveðinn tíma.  ESB hefur lagasetningarvaldið og getur fyrirvaralítið breytt hinum mörgu verkefnum/heimildum ACER.  ACER hefur ákvörðunarvald í einstökum málum.  Þau geta t.d. varðað millilandastrengi, sjá gerð nr 713/2009, grein 8 (1)."

Landsreglarinn mun sjá til þess, að reglum Evrópuréttar verði stranglega fylgt hérlendis eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Það felur t.d. í sér stofnsetningu raforkukauphallar á Íslandi að hætti ESB með þeim skaðlegu áhrifum á hagsmuni atvinnulífsins og alls almennings, sem slíkt kann að hafa í landi, þar sem orkukerfið er með allt öðrum hætti en orkukerfið, sem markaðskerfi ESB er sniðið við.  Fyrir hagsmunagæzlu almennings, sem kerfið á að þjóna, getur þetta markaðskerfi hæglega snúizt upp í andhverfu sína við íslenzkar aðstæður, sem er hagsmunagæzla fyrir raforkuseljendur.  Hér er því, auk alls annars, um stórfellda ógnun við neytendavernd að ræða í landinu.  

 

 


Valdmörk ACER

Enginn veit, hver valdmörk Orkustofnunar ESB - ACER verða á næstu árum, en hitt er flestum ljóst, að þau munu verða víðari.  Það hefur gerzt með margvíslegum Evrópugerðum og tilskipunum ESB, frá því að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sá fyrst dagsins ljós og var gefinn út með samþykki ESB-þingsins árið 2009.  Hugsanlega þegar á næsta ári mun Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn líta dagsins ljós, og þá verður enn meiri miðstýring og minna vald einstakra landa yfir orkumálum sínum innsiglað. Dettur einhverjum í hug, að "Orkupakka 4" frá ESB verði hafnað af Alþingi, ef "Orkupakki 3" verður samþykktur.  Trúboðar "Orkupakka 3" halda því blákalt fram, að svo lítill munur sé á pökkum 2 og 3, að ástæðulaust sé að hafna "Orkupakka 3".  Það er hins vegar fjarstæða og annaðhvort haldið fram í fáfræði eða í hreinræktuðu blekkingarskyni.   

ESB gerir "Orkupakka 3" ekki að gamni sínu, því að dýrt er umstangið, heldur til að búa í haginn fyrir orkuskiptin ("die Energiewende") og til að reyna að draga úr hættunni, sem vofir yfir Evrópu vegna orkuskorts.  Eins og fram hefur komið hjá guðföður inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið - EES, Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrrverandi formanni Alþýðuflokksins, eiga Íslendingar þó alls ekkert erindi í þetta samstarf, enda hafa þeir hingað til ekki verið á þessum sameiginlega orkumarkaði og geta engan hag haft af honum.  

Að þvæla landsmönnum inn í ACER, þó án atkvæðisréttar þar, getur aðeins orðið til tjóns og meira að segja til ófyrirsjáanlegs tjóns, því að landsmenn munu missa töggl og hagldir á orkumálunum til hins yfirþjóðlega valds, sem býr einhliða til allar samskiptareglurnar, t.d. í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, og hann væri ekki pappírsins virði, nema hann flytti völd frá aðildarlöndunum til ACER og Framkvæmdastjórnarinnar.

Í þriðja lið samantektar iðnaðarráðuneytisins á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar frá apríl 2018 kemur fram stórvarasöm glámskyggni ráðuneytisins á eðli og valdmörk ACER hér á landi.  Verður þá fyrst að nefna það, að valdamesta embætti hérlendis á orkumálasviði eftir innleiðingu "pakkans", verður embætti Landsreglara, og þetta embætti verður óháð íslenzkum yfirvöldum og framlengdur armur ACER á Íslandi, sem er undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB.

Bæði utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafa töluvert hamrað á þessum þriðja lið við fjölmiðla, og þess vegna rétt að hafa hann orðrétt eftir sem víti til varnaðar og dæmi um ESB-málstað í bómull:

"Samstarfsstofnun evrópskra orkueftirlitsaðila, ACER, myndi, þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni, ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, og upptaka þriðja orkupakkans hefði í för með sér óverulegar breytingar í því sambandi."

Þessu er sérfræðingur í Evrópurétti, prófessor Peter Örebech, gjörsamlega ósammála, enda láist ráðuneytinu að gefa gaum að samspili orkupakkans við núverandi EES-samning.  Gengur sú yfirsjón eins og rauður þráður gegnum allan málflutning ráðuneytisins í þessu máli, og skal ósagt láta, hvort hún stafar af þekkingarskorti eða einhverju þaðan af verra. Prófessorinn skrifaði um þetta:

"Leyfisveitingakerfi virka hamlandi á frjálst flæði og á aðgang til stofnunar og rekstrar fyrirtækja.  EES-grein 12 [um frjálst flæði vöru-innsk. BJo] spannar líka áhrif þessara stjórnvaldsaðgerða. Þar að auki gildir, að Ísland getur ekki skipulagt leyfisveitingakerfið þannig, að það stríði gegn grein 124 [í EES-samninginum-innsk.BJo]."

Síðan vitnar prófessorinn í grein, sem bannar alla mismunun eftir þjóðernum.  Á grundvelli athugasemda Peters Örebech um þriðja atriði ráðuneytisins virðist fullyrðing ráðuneytisins í þessum lið vera tilhæfulaus með öllu.  

Fyrirkomulag leyfisveitinga á orkumálasviði gjörbreytist við innleiðingu orkubálks 3 og mun þaðan í frá lúta Evrópurétti.  Við úthlutun rannsóknarleyfa, framkvæmdaleyfa og virkjanaleyfa standa þannig Statkraft, Vattenfall, Fortun og E´ON, svo að fáeinir evrópskir orkuveraeigendur séu nefndir, jafnfætis Landsvirkjun og ON, svo að aðeins tvö stærstu íslenzku virkjanafyrirtækin séu nefnd.    

Leyfisveiting til sæstrengsfjárfesta er sérkapítuli, því að þar um gildir nú gerð 347/2013, Innviðagerðin, og Landsreglarinn kemur þar mjög við sögu.  Formlegt leyfisveitingavald verður í höndum Orkustofnunar, en mat hennar verður að vera reist á téðri gerð.  Telji Landsreglari brotið á leyfisumsækjendum, tilkynnir hann óðar um það til ACER, sem úrskurðar í slíkum deilumálum um millilandatengingar.  

Af þessu má ráða, að valdi landsmanna yfir þróun orkumálanna hérlendis yrði gloprað niður á einu bretti  með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Það er útilokað, að meirihluti Alþingismanna átti sig ekki á afleiðingunum af þessu.  Þá er bara spurningin, hvort eitthvað annað togar þá til að gera annað en hið eina rétta í þessu máli.  Þau rök, sem heyrzt hafa í þá veru, standa á brauðfótum og jafnast engan veginn á við hin þyngstu rök í þessu dæmalausa máli.  

 

 

 

 


Peter Örebech gerir það ekki endasleppt

Þann 10. apríl 2018 fór iðnaðarráðherra fram á að fá minnisblað um nokkur álitaefni varðandi Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB frá Ólafi Jóhannesi Einarssyni, lögmanni. Ráðherra fékk minnisblaðið tveimur dögum síðar, og nokkrum dögum síðar var minnisblaðið birt ásamt útdrætti ráðuneytisins í 7 liðum.  Prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur gert alvarlegar athugasemdir við lagatúlkunina, sem fram kemur í samantekt ráðuneytisins í 7 liðum á þessu minnisblaði.  Er nú verið að rýna þýðingu athugasemdanna á íslenzku, en athugasemdir lagaprófessorsins á norsku eru birtar sem viðhengi með pistli þessum, og verður skjalið birt á íslenzku innan tíðar.

Ráðuneytið hefur í raun reist málarekstur sinn fyrir Þriðja orkupakkann á téðu minnisblaði lögmannsins, og hefur þessi málarekstur verið á þeim lögfræðilegu nótum, sem lagt var upp með á minnisblaðinu, en engir tilburðir hafa t.d. verið hafðir uppi  að hálfu ráðuneytisins til áhættugreiningar á þróun raforkumarkaðarins eftir innleiðingu "pakkans", þótt gríðarlegir hagsmunir alls atvinnulífs og heimilanna í landinu séu í húfi.  Er undarlegt, að hagsmunaaðilar á borð við Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins skuli ekki kvarta undan flausturslegum vinnubrögðum iðnaðarráðuneytisins í þessu máli.

Þessi vinnubrögð ráðuneytisins eru forkastanleg og í raun hreinræktað fúsk.  Nú bætist það við, að samkvæmt gagnrýni prófessors Peters Örebech í viðhengi þessa pistils er lögfræði ráðuneytisins í þessu máli reist á sandi.  Verða nú tveir fyrstu liðirnir gerðir að sérstöku umræðuefni og síðar haldið áfram.  

1) PÖ er sammála ráðuneytinu um, að Ísland muni eftir innleiðinguna geta viðhaldið ríkiseignarhaldi á orkulindum, en þó með því skilyrði, að það verði altækt - með óskoraðri ríkiseign, þ.e.a.s. þingið verður að samþykkja, að orkulindir í eigu ríkisins verði ekki einkavæddar.  Slíkt bann er ekki fyrir hendi og ekki víst, að meirihluti sé fyrir slíku á Alþingi.  PÖ vísar í dóm EFTA-dómstólsins frá 2007 í máli, þar sem þjóðnýtingarlöggjöf Norðmanna á virkjunum eftir 60 ár í rekstri og án nokkurra fjárhagsbóta til fyrri eigenda var kærð.  Dómstóllinn úrskurðaði, að þessi harkalega meðferð á frumkvöðlunum eða þáverandi eigendum væri leyfileg að Evrópurétti. 

2) Í öðrum lið útdráttar minnisblaðsins tilfærir ráðuneytið fullyrðingu, sem lagaprófessorinn er ósammála.  Þessi margtuggna fullyrðing ráðuneytanna beggja, utanríkis- og iðnaðar, er á þá leið, að "Þriðji orkupakkinn [haggi] í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar, og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi".  Þetta kveður Peter Örebech rangt, og samkvæmt því verður sjálfræði Íslendinga yfir orkulindunum ekki lengur fyrir hendi eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans.  Ætla þingmenn að taka þessa risaáhættu og fljóta sofandi að feigðarósi, eða ætla þeir einfaldlega að segja: "hingað og ekki lengra" ?

Sérfræðingurinn í Evrópurétti, PÖ, skrifar í athugasemd við þennan lið ráðuneytisins, að verði Þriðji orkupakkinn samþykktur, þá verði orkuvinnsla og samkeyrsla, þ.e. orkuflutningar á milli landa, hluti af EES-samninginum, sem þýðir, að þessi starfsemi mun lúta reglum Evrópuréttar.  Það þýðir einfaldlega, að lögmál hins óhefta markaðar EES munu ráða ríkjum um orkuvinnsluna á Íslandi og ráðstöfun orkunnar.  Ríkisstjórn landsins og þjóðþingið verða sem getulausir áhorfendur að nýtingu íslenzkra orkulinda. Við svo búið má ekki standa.  Alþingi verður að rísa upp gegn þessum ósóma.  

Noregur: Baráttunni gegn þessu valdaafsali er ekki lokið í Noregi.  Færð hafa verið lagaleg rök fyrir því þar í landi, að málsmeðferðin á Stórþinginu hafi verið andstæð stjórnarskrá.  Þar háttar svo til, að krefjast ber 3/4 stuðnings mættra þingmanna (og minnst 2/3 skulu mæta), til að framsal fullveldis sé talið gilt.  Ríkisstjórnin beitti sér fyrir því, að þetta ákvæði var hundsað.  Viðbáran var, að framsalið væri lítið og afmarkað og að málið væri þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. varðaði ekki starfsemi og réttindi norskra borgara beint.  Allt er þetta rangt, ef hlutlægt er skoðað, en viðhorfið helgast af blindri trú ríkisstjórnarflokkanna, sérstaklega Höyre, á Evrópusambandinu og sannfæringunni um, að hag Noregs verði bezt borgið innan ESB.  Fyrir þessar sakir hafa samtökin "Nei til EU" nú safnað MNOK 1,0 í sjóð og saksótt forsætisráðherra Noregs, Ernu Solberg. 

 Stuðningur við inngöngu Noregs í Evrópusambandið nýtur lítils og síminnkandi stuðnings á meðal norsku þjóðarinnar, eins og skiljanlegt er, þegar litið er til ástandsins innan ESB.  

DettifossÞýzkt ESB

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Loftslagsátakið og orkupakki 3

Ríkisstjórn Íslands hefur með virðingarverðum hætti blásið til atlögu gegn þeirri loftslagsvá, sem nú steðjar að heiminum og varpað var nýlega ljósi á með frétt um, að hafið tæki upp mun meira koltvíildi, sem losað er út í andrúmsloftið, en vísindamenn hefðu áður gert sér grein fyrir og jafnframt, að hlýnun hafanna  væri meiri en búizt var við.  Þetta eru slæm tíðindi fyrir jarðarbúa og ekki sízt eyjarskeggja.

Áætlanir ríkisstjórnarinnar útheimta að sjálfsögðu nýjar virkjanir, því að kjarninn í baráttu ríkisins við losun gróðurhúsalofttegunda er rafvæðing bílaflotans.  Hvort sem orkugeymslan verður vetni, metanól eða rafgeymar, þá þarf aukna raforkuvinnslu í landinu til að standa undir orkuskiptunum. Alltaf verður að vera fyrir hendi í kerfinu ákveðin umframorka til öryggis, og er þar ekki af neinu að taka nú.  

Markmið ríkisstjórnarinnar er helmingun útblásturs frá farartækjum á landi árið 2030 m.v. núverandi stöðu, þ.e. um 500 kt niður í 500 kt/ár.  Þetta þýðir fjölgun rafknúinna farartækja um 140´000 eða að jafnaði 11´700 farartæki á ári.  Í ljósi þess, að slíkur innflutningur er undir 1000 tækjum á ári núna, virðist þetta vera óraunhæft markmið og algerlega vonlaust, nema að auka hvatann til slíkra kaupa.  Það gæti þýtt niðurfellingu virðisaukaskatts í 10 ár auk vörugjalds og tolla, sem ekki hafa verið lögð á "umhverfisvæn" farartæki um nokkurra ára skeið.  Jafnframt þarf að halda áfram afslætti á bifreiðagjöldum, og væntanleg akstursgjöld eða vegagjöld þyrftu að verða með afslætti á ökutæki með litla losun. Það kostar klof að ríða röftum, eins og þar stendur.

Til að takast megi að ná ofangreindu markmiði ríkisins þarf að auka vinnslugetu virkjana um tæplega 700 GWh/ár árið 2030 einvörðungu til að standa straum af rafbílavæðingunni.  Þetta er tæplega 4 % aukning m.v. núverandi.  Aflþörfin (MW) er þó tiltölulega miklu meiri, því að hleðslutíminn er fjarri því að dreifast jafnt yfir sólarhringinn.  Þannig mun myndast vaxandi framboð afgangsorku á markaðinum, sem hægt er að bjóða með afslætti m.v. forgangsorku, gegn rofheimild á meðan toppálag varir. Gæti slíkt gagnast ýmissi starfsemi á Íslandi, en er þó ekki vænlegt til útflutnings um sæstreng (of lítið magn).

Orkustofnun hefur gefið út raforkuspá fyrir árið 2050.  Í spánni er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu samkvæmt langtímasamningum til iðnaðar, gagnavera e.þ.h. og aðeins 2800 GWh/ár og 464 MW aukningu til almenningsnota, þ.m.t. til orkuskiptanna.  Pistilhöfundur telur á hinn bóginn, að aukning raforkuvinnsluþarfar verði um 7010 GWh/ár á árabilinu 2017-2050, muni þá nema um 25´560 GWh/ár, sem er aukning um 37 % á 34 árum, og skiptist aukningin þannig:

  • Stórnotendur:    300 MW, 2580 GWh/ár
  • Alm.notendur:   1155 MW, 4230 GWh/ár
  • Kerfistöp:        23 MW,  200 GWh/ár
  • Raforkuvinnsla: 1478 MW, 7010 GWh/ár 

 Aukningin í almennri notkun er 108 %, en sú aukning er skiljanleg í ljósi þess, að árið 2050 mun rafmagnið hafa leyst nánast allt innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi.  Reikna má með, að eldsneytissparnaður einvörðungu til ökutækja muni þá nema rúmlega 400 kt/ár og að hreinn gjaldeyrissparnaður (innkaupsverð eldsneytis að frádregnum erlendum kostnaði virkjana, flutnings- og dreifikerfa) muni þá nema um 490 MUSD/ár eða um 60 mrðISK/ár. Slíkt er búbót fyrir viðskiptajöfnuðinn.   

Duga orkulindirnar í þetta ?  Í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3 eru virkjanir að uppsettu afli 1421 MW og orkugetu 10´714 GWh/ár.  Það virðist vanta örlítið afl, en umframorkan virðist nema um 3700 GWh/ár.  Skýringarinnar er að leita í stuttum nýtingartíma hámarks aflþarfar almenna álagsins, t.d. hleðslutækja rafmagnsfartækjanna.  Þetta er of lítil orka til að tryggja arðbærni sæstrengs til Bretlands, en gæti hentað sæstreng til Færeyja og rafnotendum innanlands, sem geta sætt sig við straumrof eða álagslækkun á toppálagstíma, sennilega 1-2 klst á sólarhring.

Inn í Rammaáætlun 3 hafa ekki ratað öll þau vindorkuver, sem tengd verða stofnkerfinu fram til 2050.  Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu 1. nóvember 2018 eru þau nú þegar orðin samkeppnishæf hérlendis:

"EM Orka áætlar að reisa 35 vindmyllur á Garpsdalsfjalli í Reykhólasveit, og framleiðslugeta þeirra verði 126 MW.  Áætlað er að taka þær í notkun árið 2022 og líftími verkefnisins verði 25 ár.  Á byggingatíma er reiknað með alls um 200 störfum við verkefnið auk óbeinna starfa, en þegar uppsetningu verður lokið, verða 25 störf við stjórnun, rekstur og viðhald, þar af 20 störf í nærumhverfi.  Áætlað er, að fjárfesting við vindorkugarðinn kosti um mrðISK 16,2.

Fjallað er um verkefnið á heimasíðum EM Orku og Reykhólasveitar, en verkefnið var kynnt á fundi í Króksfjarðarnesi í síðustu viku [viku 43/2018].  Virkjunin er fyrsta verkefni EM Orku á Íslandi, en það er í jafnri eigu danska fyrirtækisins Vestas og írska fyrirtækisins EMPower.  Bæði hafa fyrirtækin mikla reynslu á þessu sviði."

Þetta gæti orðið brautryðjandi vindorkuverkefni hérlendis, því að þarna virðast menn kunna til verka.  Valinn hefur verið vindasamur staður, fjarri byggð og tiltölulega nálægt 132 kV Byggðalínu.  Pistilhöfundur hefur reiknað úr orkukostnaðinn frá þessum vindorkugarði á grundvelli ofangreindra upplýsinga og fengið út:

K=3,9 ISK/kWh eða K=32 USD/MWh.

Þetta er samkeppnishæft heildsöluverð frá virkjun nú um stundir á Íslandi.  Þótt raforkuvinnslan sé ójöfn og hafi þar með verðgildi afgangsorku á markaði, vinnur þessi orkuvinnsla ágætlega með vatnsorkuverum og getur sparað vatn í miðlunarlónum.  Þannig hækkar verðgildi vindorkunnar upp í verð forgangsorku, af því að á ársgrundvelli má reikna með svipaðri orkuvinnslu vindorkugarða ár frá ári.  Kemur þessi viðbót sér vel, ef svo fer, sem ýmsir óttast, að orkuvinnslugeta jarðhitasvæða sé ofmetin.

Það, sem upp úr stendur í þessum vangaveltum er, að m.v. Rammaáætlun 3 verður að virkja allt í nýtingarflokki fyrir innanlandsmarkað, og þess vegna getur Ísland hreinlega ekki borið millilandatengingu um sæstreng.  

Peter Örebech, lagaprófessor, hefur sýnt fram á, að eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn getur engin fyrirstaða orðið í íslenzkum yfirvöldum við tengingu aflsæstrengs við íslenzka raforkukerfið.  Þeir, sem halda því enn fram, að eitthvert hald verði í banni Alþingis við slíkum streng, eftir að það verður búið að afsala fullveldi landsins yfir orkumálum til yfirþjóðlegrar stofnunar, berja enn hausnum við steininn og gera sig seka um óafsakanlega léttúð í meðförum fjöreggs þjóðarinnar.  Hélt þetta fólk, að ACER væri bara stofnað handa nokkrum blýantsnögurum ?  Nei, með ACER og öllum Evrópugerðunum og tilskipunum ESB á sviði orkumála hefur orðið til virkisbrjótur, sem brýtur á bak aftur sjálfsákvörðunarrétt þjóða um millilandatengingar.  Þeir, sem lepja upp áróður sendiherra Evrópusambandsins, þar sem ákvæðum Þriðja orkupakkans er pakkað svo kyrfilega inn í bómull, að hvergi skín í hnífseggina, eru ekki margra fiska virði.  

Þá liggur á borðinu, að verði téður orkupakki ofan á í þinginu, þegar hann kemur þar til atkvæða, geta áhugasamir fjárfestar umsvifalaust setzt niður og farið að skrifa umsókn, reista á leiðbeiningum þar um í Evrópugerð 347/2013.  Ef verkefnið reynist "samfélagslega" hagkvæmt, þar sem "samfélag" hér er allt EES, þá mun Landsreglarinn mæla með samþykkt þess við Orkumálastjóra, og eftir það verður ekki aftur  snúið.

Þessi sæstrengur mun óhjákvæmilega gera orkuskiptin á Íslandi miklu dýrari en nauðsyn ber til, því að innlendi raforkumarkaðurinn lendir í fyrsta skipti í sögunni í beinni samkeppni við erlendan raforkumarkað.  Fyrirsjáanlega mun þetta valda orkuskorti í landinu, tefja verulega fyrir orkuskiptunum og senda raforkuverðið upp í hæstu hæðir.  

Sér ekki forystufólk í Samtökum iðnaðarins og í Samtökum atvinnurekenda skriftina á veggnum ?  Er það fúst til að leggja upp í slíka óvissuferð með stjórnmálamönnum, sem enga áhættugreiningu hafa gert og hafa engin úrræði, þegar allt verður hér komið í óefni vegna þeirra eigin fljótfærni og takmarkalitlu trúgirni á "sölulýsingar" ESB á "orkupakkanum" ? Það er orðið tímabært, að þessi ágætu samtök gefi út yfirlýsingu um afstöðu sína til Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.  

 

 

 

 

 

 


Hagsmunir atvinnulífsins og Þriðji orkupakkinn

Það kemur á óvart, hversu afslappað forystufólk í Samtökum iðnaðarins, SI, og í Samtökum atvinnulífsins, SA, er gagnvart þeirri ógn, sem fyrirtækjum innan þessara samtaka stafar af innleiðingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Greini forystufólk í félögum þessara samtaka ekki þær ógnanir, sem í Þriðja orkupakkanum felast fyrir atvinnurekstur hér í landinu, þá er illa komið, og næsta víst, að samtök þeirra muni fljóta sofandi að feigðarósi við undirspil ráðuneytanna tveggja, sem mest koma við sögu í þessu máli og neita að koma auga á hætturnar úr sínum búrókratíska fílabeinsturni.  

Þessi áhætta er uppi, hvort sem hingað verður lagður aflsæstrengur frá útlöndum eður ei, þótt hún sé sýnu meiri með aflsæstreng en án. Það er kominn tími til, að þetta forystufólk átti sig á því, að ætlunin er að innleiða hér markaðskerfi raforku að hætti ESB án þess, að nokkur þeirra 5 forsendna, sem ESB sjálft gefur upp sem skilyrði þess, að slík markaðsvæðing verði notendum í hag, verði nokkru sinni uppfyllt á Íslandi. 

Afleiðingin af þessum blindingsleik í boði ESB verður hærra meðalverð og sveiflukennt raforkuverð auk verulega aukinnar hættu á raforkuskorti.  Allt mun þetta draga mjög úr eða breyta í andhverfu sína því  samkeppnisforskoti, sem sjálfbærar orkulindir Íslands hafa veitt íslenzku atvinnulífi.

Það er ennfremur engum vafa undirorpið eftir greiningu prófessors Peters Örebech, sérfræðings í Evrópurétti, á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, að Alþingi mun framselja ákvörðunarvald um sæstrengsumsókn til Landsreglarans og ACER-Orkustofnunar ESB með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkupakkans í EES-samninginn.

  Bann Alþingis á sæstreng í kjölfar slíks valdaafsals til ESB væri asnaspark, algerlega út í loftið, sem í höfuðborgum okkar helztu viðskiptalanda og í Brüssel yrði túlkað sem hringlandaháttur í stjórnsýslu Íslands, sem eitra mundi samskipti landsins við ESB.  Þegar hér væri komið sögu hefði ESB lögformlegt afl til að brjóta vilja Alþingis á bak aftur, af því að slíkt bann brýtur gegn Evrópurétti, og sá er æðri landslögum samkvæmt EES-samninginum.

  Kæra framkvæmdastjórnar ESB til EES á hendur Íslandi í kjölfarið gengi vafalaust til EFTA-dómstólsins, og þar yrði dæmt að Evrópurétti í þessu máli. Dómsvaldið í slíkum málum hefur verið flutt úr landi. Það heitir í skrúðmælgi búrókratanna að deila fullveldinu með öðrum.  Eftir stæði sært þjóðarstolt hérlandsmanna, sem ómögulegt er að segja fyrir um til hvers myndi leiða.  Það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í. 

ESB hefur mestalla þessa öld viðhaft frjálst markaðskerfi með raforku og gas.  Hið opinbera hefur vissulega truflað markaðinn mikið með niðurgreiðslum á sólar- og vindorku, en hann hefur samt gagnazt notendum þokkalega þrátt fyrir miklar sveiflur á orkumarkaði.  Raforkuverð er hátt vegna dýrs eldsneytis og koltvíildisskatts, sem nú fer hækkandi til að örva framboð orkuvera, sem ekki brenna jarðefnaeldsneyti, þótt kjarnorkan sé á bannlista, nema í Austur-Evrópu, þar sem rússnesk kjarnorkuver eru í byggingu sums staðar.    

ESB hefur gefið út 5 skilyrði, sem hvert um sig er nauðsynlegt að uppfylla, til að frjáls markaður með raforku virki notendum í hag.  ESB-markaðurinn uppfyllir þau öll, en íslenzki markaðurinn uppfyllir ekkert þeirra og mun aldrei uppfylla þau öll.  Af því leiðir, að frjáls markaður með raforku á Íslandi verður brokkgengur, og fyrir það munu atvinnulífið og heimilin líða.  Fyrirtæki, sem eru algerlega háð tryggri raforkuafhendingu, munu geta orðið fyrir alvarlegu tjóni vegna skorts á samræmdri orkulindastýringu. 

Hækkað meðalverð raforku og aukin óvissa um orkuafhendinguna mun óhjákvæmilega draga úr fjárfestingum í orkukræfri og viðkvæmri starfsemi.  Samkeppnishæfni landsins, sem að miklu leyti hvílir á stöðugu og hagkvæmu raforkuverði fyrir notendur, mun þá rýrna að sama skapi.  Þessa sviðsmynd ættu atvinnurekendur ekki að leiða hjá sér. 

Frjáls markaður í orkukauphöll hérlendis mundi virka til að hámarka tekjur orkuseljenda, en notendur hafa ekki annað val en að greiða uppsett verð fyrir rafmagnið og e.t.v. að spara við sig, en flytja ella þangað, sem lífsskilyrði eru hagstæðari.  Vegna fákeppni skortir hér nauðsynlegt aðhald fyrir Innri markað ESB með rafmagn.  Það verður eitt af fyrstu verkum Landsreglarans að reka á eftir Landsneti með að stofna til slíks markaðar.  

Á margfalt stærri mörkuðum ESB nær hins vegar frjáls samkeppni að takmarka tekjur við kostnað og eðlilega arðsemi eigin fjár í orkufyrirtækjunum og jafnframt að tryggja afhendingaröryggi til notenda vegna nægs framboðs frumorku.  Verði ekkert af stofnun embættis Landsreglara, ætti Landsnet að leggja áform sín um orkukauphöll á hilluna. Sú mun ekki geta orðið þjóðarhag til eflingar.  Að öðrum kosti verður Landsnet rekið til þess óheillagjörnings.

Þegar síðan kemur að tengingu sæstrengs frá útlöndum við stofnkerfi Landsnets, þá mun verulega syrta í álinn hjá fyrirtækjum landsins og fjölskyldum.  Almenn efnahagsleg rök fyrir sæstreng væru, að umframorka sé næg í landinu til að standa undir arðsemi sæstrengs með raforkuflutningi um hann og að tekjuauki orkuseljendanna standi vel undir kostnaði þeirra við þessa umframsölu.  Þannig hefur það verið í Noregi, en því fer fjarri, að því verði að heilsa hérlendis.

  Sæstrengur til útlanda krefst nýrra virkjana, og rekstur hans mun valda því, að hér verður aldrei nein umframorka.  Allt mun þetta valda gríðarlegum raforkuverðshækkunum í landinu, sem éta mun upp allt það samkeppnisforskot fyrirtækja í landinu, sem þau hafa notið um árabil í krafti hagstæðra orkusölusamninga við iðnfyrirtæki í landinu.

Nú hafa þau ánægjulegu tíðindi orðið, að einn úr hópi sjálfstæðra atvinnurekenda, formaður Sambands garðyrkjumanna, hefur tjáð sig með eftirminnilegum hætti við Bændablaðið, fimmtudaginn 1. nóvember 2018.  Morgunblaðið greindi frá þessu daginn eftir undir fyrirsögninni:

"Íslenzk garðyrkja gæti lagzt af":

"Formaður Sambands garðyrkjumanna, Gunnar Þorgeirsson, telur ástæðu til að óttast um íslenzka matvælaframleiðslu, þegar þriðji orkupakki ESB verður innleiddur. Segir hann í viðtali við Bændablaðið það borðleggjandi, að íslenzk garðyrkja leggist af í núverandi mynd.  Afleiðingarnar verði ekki síður alvarlegar fyrir annan landbúnað, fiskiðnað og ferðaþjónustu.

"Ef Íslendingar ætla ekki að standa vörð um eigið sjálfstæði, þá veit ég ekki á hvaða vegferð menn eru í þessum málum.  Þetta er skelfileg staða og verst að hugsa til þess, að íslenzkir stjórnmálamenn virðast ekki skilja um hvað málið snýst, og ég efast um, að þeir hafi lesið sér til um það.""

Þetta er hárrétt athugað hjá Gunnari Þorgeirssyni.  Í ljósi þess, að 30 % rekstrarkostnaðar garðyrkjustöðva er rafmagnskostnaður, gefur auga leið, að þær mega ekki við neinni hækkun á raforkunni.  Þess má geta, að þetta er hærra hlutfall en hjá málmframleiðendum í landinu.  Það er tóm vitleysa hjá ráðuneytinu (ANR), að það geti beitt sér fyrir auknum niðurgreiðslum á flutningi og dreifingu raforku til garðyrkjubænda.  Öll slík ríkisaðstoð við fyrirtæki í samkeppnisrekstri er kæranleg til ESA, og eftir innleiðingu Innri markaðar EES í íslenzka raforkugeirann verða slíkar deilur útkljáðar að Evrópurétti.  

 Það er full ástæða til að spyrja, hverra hagsmunum sé verið að þjóna með því að berjast fyrir innleiðingu Innri markaðar EES í raforkugeirann og þar með að fjarlægja allar landshindranir úr vegi aflsæstrengs til útlanda.  Jón Baldvin Hannibalsson svarar því skilmerkilega fyrir sitt leyti í nýlegu viðtali á Útvarpi Sögu.  Á bak við áróðurinn standa gróðapungar, sem ætla sér að græða ótæpilega á viðskiptum með endurnýjanlega orku á Íslandi og með orkusölu frá Íslandi, hugsanlega einnig með eignarhaldi á sæstreng.  Þessu lýsti ábyrgðarmaður EES-samningsins 1992 sig algerlega mótfallinn og kvað sameiginlegan orkumarkað ekkert koma þessum EES-samningi við.  

Tíminn er núna fyrir SI og SA að taka skelegga afstöðu fyrir skjólstæðinga sína gegn þeirri vá, sem við atvinnurekstri í landinu blasir.  Það er lögfræðileg bábilja, að Orkustofnun eða Alþingi, ef allt um þrýtur, geti komið í veg fyrir áform strengfjárfesta, sem Landsreglarinn mælir með að samþykkja.  Þar mun fullveldisframsalið, sem fólgið er samþykkt Þriðja orkupakkans, birtast í verki.  

Stjórnun útflutnings rafmagns um sæstreng eftir samþykkt Þriðja orkupakka mun nánast ekkert tillit taka til íslenzkra hagsmuna, heldur lúta forskrift ACER í smáatriðum og ákvæðum EES-samningsins um útflutning, þar sem m.a. magntakmarkanir eru óheimilar. 

Afgangsorkan er sveiflukennd frá ári til árs og er af þessum sökum ekki markaðsvara um þennan streng, úr því að magntakmarkanir eru óheimilar. Takmörkun á sölu afgangsorku er einmitt það, sem einkennir viðbrögð Landsvirkjunar nú við vaxandi hættu á vatnsskorti miðlunarlóna.  Innlendum yfirvöldum verður ókleift að tryggja, að vatnsskortur í miðlunarlónum komi jafnt niður á útflutningi um sæstreng og viðskiptavinum orkufyrirtækjanna innanlands.  Á Innri markaðinum ræður greiðsluvilji orkukaupenda því alfarið, hvernig þessum takmörkuðu gæðum verður skipt.  Þar sem greiðsluviljinn er háður samkeppnisstöðunni, er hætt við, að fyrirtæki á Íslandi verði undir í þessum ljóta leik.  Ætla SI og SA að láta hjá líða að andæfa þessari hrikalegu, en þó raunhæfu, sviðsmynd í tæka tíð ?  


Öfugmæli um innleiðingu "Þriðja orkupakkans"

Í ljósi þess, sem nú er vitað um fullveldisafsal og gildistöku "fjórfrelsisins" í orkugeiranum strax eftir innleiðingu "Þriðja orkupakkans" í EES-samninginn, er skuggalegt að lesa fyrstu frétt Morgunblaðsins um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, til iðnaðarráðherra, sem birtist í blaðinu 18. september 2018.  Fréttin hófst þannig:

"Innleiðing á þriðja orkupakka Evrópusambandsins í lög hér á landi fæli ekki í sér slík frávik frá þverpólitískri stefnumörkun og réttarþróun á Íslandi, að það kalli sérstaklega á endurskoðun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.  

Með innleiðingu hans væri ekki brotið blað í EES-samstarfinu.  Þetta er niðurstaða greinargerðar Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, um þriðja orkupakkann, en hún var unnin að beiðni iðnaðarráðherra."

Hér er einfaldlega allt rangt, og það hefði fengið að standa þannig, þingmönnum og öðrum til halds og trausts við stefnumörkun, ef ekki hefðu verið fáeinir andófsmenn í landinu, sem láta slíka stjórnvaldsspeki ekki yfir sig ganga, mótþróalaust. Nú er umræðan í landinu með allt öðrum hætti og á upplýstari nótum en áður um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, eins og glögglega má ráða af seinni leiðara Morgunblaðsins í dag, 01.11.2018. 

Það liggur í augum uppi, og þarf ekki lögfræðing til að átta sig á því, að innleiðing "fjórfrelsis" ESB í íslenzka orkugeirann, sem er stærsta auðsuppspretta landsmanna, felur í sér kúvendingu á þeirri stefnu íslenzkra stjórnvalda fram að þessu, að Íslendingar skuli halda óskoraðri lögsögu yfir raforkufyrirtækjunum í landinu og yfir raforkumarkaðinum með sama hætti og yfir landhelginni og því, hvað við gerum við fiskinn.  Að láta togarana sigla með óunninn fisk á erlenda markaði er neyðarbrauð.  Verðmætasköpun innanlands úr auðlindum lands og sjávar er undirstaða velferðar- og þekkingarþjóðfélags á Íslandi. 

"Fjórfrelsið" felur í sér markaðsvæðingu rafmagnsins með þeim miklu annmörkum, sem á slíku eru á Íslandi, eins og rækilega hefur verið gerð grein fyrir, og jafnstöðu allra fjárfesta og fyrirtækja innan EES, þegar kemur að fjárfestingum í íslenzka orkugeiranum.  Ennfremur gilda á Innri markaði EES strangar samkeppnisreglur ESB, sem útiloka rekstur Landsvirkjunar í sinni núverandi mynd á innlendum samkeppnismarkaði vegna hlutfallslegrar stærðar. 

Hluti af Landsvirkjun mun næsta örugglega fara úr höndum íslenzka ríkisins og í hendur fjársterkra erlendra aðila á EES-svæðinu skömmu eftir gildistöku Þriðja orkupakkans hérlendis.  Þar með tvístrast mikil þekking og reynsla, sem nú er hjá einu fyrirtæki, sem m.a. sér um þá einu orkulindastjórnun, sem fram fer á Íslandi og er bráðnauðsynleg.  Slík stjórnun, þvert á fyrirtæki, er óleyfileg á Innri markaði ESB/EES. Að gefa auðlindastjórnun upp á bátinn í orkugeiranum mun ekki síður hafa slæmar afleiðingar í för með sér fyrir hag fjölskyldnanna í landinu en að gefa stjórnun sjávarauðlindarinnar upp á bátinn.  Slíkt dettur varla nokkrum heilvita manni í hug á árinu 2018.  

Að halda því fram, að allt þetta brjóti ekki blað í EES-samstarfið, hvað Ísland varðar, er að bíta höfuðið af skömminni.  Miðað við greiningu prófessors Peters Örebech ber þessi niðurstaða íslenzka lögfræðingsins vott um algert skilningsleysi á afleiðingum innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn fyrir Ísland.  Það bendir margt til, að þekkingu starfsfólks iðnaðarráðuneytisins og glöggskyggni sé ekkert öðruvísi háttað, svo að ekki sé nú minnzt á utanríkisráðuneytið, en þaðan hefur hin furðulegasta loðmulla komið um málið, sem hér er til umfjöllunar.

Iðnaðarráðherra boðaði í haust framlagningu frumvarps til laga um, að mat Orkustofnunar á leyfisumsókn sæstrengsfjárfesta skyldi fara fyrir Alþingi.  Þetta er ákaflega illa ígrunduð hugmynd, sem gefur ESB þau skilaboð, að við íslenzka stjórnvölinn ríki hringlandaháttur.  Annars vegar boðar iðnaðarráðherra, að hún vilji samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, en hins vegar vill hún ekki hlíta aðalatriðinu í þessum orkubálki, sem er að framselja úrskurðarvald um bættar millilandatengingar fyrir orkuflutninga til ACER-Orkustofnunar ESB.  Hér er um tvískinnung að ræða, sem er okkur til skammar í alþjóðlegu samstarfi. Ef ráðherrar standa ekki í ístaðinu á þeim vettvangi, þá detta þeir af baki.

Við verðum að koma hreint fram við samstarfsþjóðir okkar.  Það gengur alls ekki í samstarfi við ESB að ætla að plokka rúsínurnar úr kökunni.  Það hafa forystumenn ESB margsagt og er fullkomlega skiljanlegt. Það er aldrei hægt að éta kökuna og geyma hana.  Reyndar veit höfundur þessa pistils alls ekki, hverjar þessar rúsínur ættu að vera fyrir hérlandsmenn, þegar hinn alræmdi "Þeiðji orkupakki" er annars vegar.  Þar hafa hreint og beint engar girnilegar rúsínur fundizt í munn eyjarskeggja norður við Dumbshaf með gnótt endurnýjanlegrar orku, þótt þær séu vissulega fyrir hendi fyrir ESB-löndin sem heild, sem eru orkuþurfi og strita við að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda, afnema flöskuhálsa í flutningum til að jafna orkuverðið innan ESB og draga úr orkutöpum.  Allt er það skiljanlegt, en hvers vegna íslenzki iðnaðarráðherrann gerir ekki hreint fyrir sínum dyrum og hafnar þriðja orkupakkanum með ágætum rökum og skeleggum hætti, eins og hún á til, er óskiljanlegt.  Skilja kjósendur í NV-kjördæmi það ?

Bann Alþingis við lagningu aflsæstrengs, sem Landsreglarinn er búinn að mæla með samþykkt á og Orkustofnun jafnvel búin að samþykkja, mun koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum yfir embættismenn og framkvæmdastjórn ESB í Berlaymont í Brüssel.  Þar á bæ munu menn furða sig á hringlandahætti þjóðþings eyjarskeggjanna lengst norður við Dumbshaf, sem lætur eins og það hafi lögsögu í máli, sem það er nýbúið að afsala sér völdum yfir.  Það verður litið á þetta sem hvert annað "píp" með sama hætti og varúðaraðgerðir Alþingis 2009 gegn búfjársjúkdómum voru gerðar afturreka með dómi EFTA-dómstólsins 2017.  

Framkvæmdastjórn ESB mun bregðast ókvæða við banni Alþingis og að lokum kæra það fyrir EFTA-dómstólinum. Ef ríkisstjórn Íslands ætlar að stíga skref inn í þessa óheillavænlegu sviðsmynd með því að berjast fyrir því, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, þá eru henni allar bjargir bannaðar.  Slíkt verður jafnframt nagli í líkkistu EES-aðildar Íslands.  Höfnun "pakkans" aftur á móti er eðlilegur gjörningur samkvæmt EES-samninginum sjálfum, þótt fordæmalaus sé hérlendis.  Hagsmunirnir, sem undir eru, eru líka fordæmalausir, og "einnar stoðar" framkvæmdin svæsnari en í fyrri innleiddum Evrópugerðum.

Nú hefur stærsti stjórnmálaflokkur Noregs, Verkamannaflokkurinn, sem hefur viljað hingað til, að Noregur gengi í ESB, snúizt öndverður gegn innleiðingu Fjórða járnbrautarpakkans í EES-samninginn, sem tekinn verður til umfjöllunar í Stórþinginu í vetur.  Það er líka líklegt, að hann muni snúast öndverður gegn væntanlegrum "Vinnumálapakka" ESB.  Það er samt engin umræða í Noregi um voveiflegar afleiðingar þess fyrir EES-samstarfið eða vandræðin, sem af myndu hljótast fyrir Liechtenstein, ef Stórþingið synjar þessum "ESB-pökkum" staðfestingar.  Það sýnir, hversu heimóttarlegur málflutningur íslenzku ráðuneytanna er, sem komið hafa af stað þeirri umræðu.      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband