Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Landvernd afhjúpuð

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allt frá útkomu bókarinnar "Limits to Growth" (Endimörk vaxtar) á 7. áratugi 20. aldar, einmitt þegar grundvöllur var lagður að fyrsta meiriháttar virkjanaátaki Íslendinga til að stíga fyrstu umtalsverðu skref til iðnvæðingar í krafti íslenzkra orkulinda, hefur verið við lýði sérlundaður hópur á Vesturlöndum, sem trúir því, að auðlindir jarðar séu að klárast vegna þess, sem þeim finnst vera neyzluæði og kenna að sjálfsögðu auðmagnshagkerfinu um, sem þurfi stöðugan hagvöxt til að þrífast. Þetta þröngsýna viðhorf er reist á fákunnáttu og misskilningi og má alls ekki fá að móta þjóðfélagsþróunina.   

Þennan sérvitringahóp hefur dagað uppi, því að ekkert af heimsendaspánum rættist, því að höfundarnir hugsuðu ekki málið til enda.  Þeir gleymdu mikilvægum þætti auðmagnshagkerfisins, sem er verðmyndun, en hún er fall af framboði og eftirspurn og mikilvægi vörunnar/þjónustunnar í framleiðslukeðjunni og því, hvort til sé staðkvæmdarvara, sem nota megi í staðinn. Þá þróast ytri aðstæður, t.d. tækni á öllum sviðum, sem lítill gaumur var gefinn í "Endimörkum vaxtar". 

Allt hefur þetta leitt til þess, að ekkert þeirra efna, sem spáð var, að yrðu uppurin innan tilgreinds tíma á 20. öldinni, hefur horfið af markaðinum enn.  Markaðskraftar ýta í raun undir sjálfbæra auðlindanýtingu, því að hún er hagkvæmust til lengdar.  Hringrásarhagkerfið þrífst með vörur, sem ódýrara er að endurvinna en að frumvinna.  Gott dæmi um þetta er álið, sem hægt er að vinna aftur og aftur með lítilli rýrnun og tiltölulega lítilli orkunotkun.   

Orkulindir Íslands eru fjarri því að vera fullnýttar að teknu tilliti til hófsemi í vernd og nýtingu.  Nú hafa verið virkjaðar um 20 TWh/ár í vatnsföllum og jarðgufu til raforkuvinnslu, og hiklaust á með varfærni að vera unnt að bæta a.m.k. 15 TWh/ár við úr sams konar orkulindum.  Síðan er spurning, hversu mikið verður ásættanlegt að framleiða með vindmyllum til að anna allri orkueftirspurn um árið 2040, þegar orkuskiptum og kolefnishlutleysi á að verða náð. Þau, sem þá þurfa að velja á milli orkulinda, munu e.t.v. hafa um fleiri kosti að velja en þau, sem nú taka ákvörðun, t.d. þóríum-kjarnorkuver af ýmsum stærðum. 

 

Þau, sem móta stefnuna núna, eru Alþingismenn.  Þar er margur sauður í mörgu fé, og spurning, hvort þeir glutra völdunum úr höndum sér með fáfræði og ábyrgðarleysi, t.d. til ACER, orkustofnunar Evrópusambandsins.  Reyndar er embættisfærsla æðsta fulltrúa ACER á Íslandi nú um stundir, Orkumálastjóra, alveg afleit, og stærsta dæmið um það er, að Orkustofnun hefur lagzt á umsókn Landsvirkjunar um leyfi til að reisa Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá og tafið afgreiðslu óeðlilega í tæpt ár, en komnir eru um 13 mánuðir síðan stofnunin fékk þessa sjálfsögður umsókn loks í hendur.  Þeir eru víða Júmbóarnir og dragbítar embættiskerfisins.

Jónas Elíasson, fyrrverandi verkfræðiprófessor, gerði þingmenn, orkumál og umhverfisvernd að viðfangsefni sínu í Morgunblaðsgrein 30. júní 2022:

"Þingmenn í biðflokki".

Þar gat m.a. að líta þetta:

"Það er alltaf forvitnilegt að fylgjast með umræðum um orku- og umhverfismál á Alþingi.  [Það er þó fremur sorglegt en forvitnilegt - innsk. BJo.]. Margir þingmenn nota tækifærið til að belgja sig út í miklum æsingi yfir því, hversu miklir náttúruverndarmenn þeir séu, ekki megi skemma náttúruna fyrir nokkurn mun, "íslenzk náttúra er það dýrmætasta, sem við eigum", sem er satt og rétt, en menn verða að vita, hvað eru náttúruspjöll og hvað ekki, til að geta fylgt þessu eftir."

Sá málflutningur, sem þarna er vitnað til, er endurómur af talsmáta Landverndar og kemur í raun vernd einstakra náttúruminja ekki við, heldur er einfaldlega afturhaldsstefna undir fölsku flaggi rekin af trúflokki, sem trúir því, að til að bjarga jörðunni frá glötun verði að stöðva framleiðsluaukningu á jörðunni og þar með vöxt hagkerfanna, sem þó er undirstaða bættra lífskjara. 

Þessu fólki hryllir við aukinni raforkuvinnslu á Íslandi, þótt úr endurnýjanlegum orkulindum sé og engu einstæðu gróðurlendi, landmyndunum eða vatnsföllum sé fórnað fyrir vikið.  Þau leggja einfaldlega allar breytingar á náttúrunni af mannavöldum til jafns við óafturvirkt tjón.  Þetta ofstækisviðhorf gengur auðvitað ekki upp í siðuðu samfélagi, sem vill reisa auðlindanýtingu á beztu fáanlegu þekkingu.  Málamiðlun á milli nýrrar verðmætaköpunar og ósnortinnar náttúru verður að finna, og löggjöf um Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda var tilraun til þess, en þar skipta mælikvarðarnir öllu máli, og illa rökstudd slagsíða til verndunar hefur einkennt þá.  Á tímum orkuverðs í himinhæðum í heiminum og orkuskorts, sem sums staðar má jafna við kreppu, er tímabært, að fram fari hlutlæg rýni og endurskoðun á þessum mælikvörðum og vægi þeirra, sem ráða því, hvort Verkefnisstjórn um Rammaáætlun raðar virkjunarkostum í verndar- eða nýtingarflokk.  Mikið er í bið vegna meints skorts á gögnum.

"En hvað er til í þessu tali um, að virkjun sé náttúruspjöll ?  Nánast ekki neitt.  Ef menn eiga að nefna einhver náttúruspjöll, sem íslenzk virkjanagerð hefur valdið, vefst flestum tunga um tönn.  Þau eru til, en æstir náttúruverndarmenn hafa bara sjaldnast hugmynd um, hver þau eru.  Þeir kunna nöfnin á nýlegum orkuverum, hafa mótmælt þeim öllum, en sitja svo uppi með, að enginn teljandi skaði varð af byggingu þeirra."

Fyrrverandi verkfræðiprófessor, Jónas Elíasson, er ekki líklegur til að fara með neitt fleipur, svo að það má slá því föstu, að virkjanir hingað til hafi ekki valdið neinu óafturkræfu tjóni á íslenzkri náttúru.  Ef þessi tilgáta er rétt, má telja afar sennilegt í ljósi stöðugra tækniframfara við slíka hönnun og framkvæmd, að niðurstöður verkefnastjórna Rammaáætlunar hingað til séu gróf yfirskot í þágu verndunarsjónarmiða.  Þetta bendir aftur til rangrar aðferðarfræði við mat á kostum og löstum virkjunar. Almennilegar (hlutlægar) skilgreiningar á mælikvörðum matsins vantar. 

"Þá gera virkjanir heilmikið gagn í verndun náttúrunnar.  Bezta dæmið er líklega Efra-Fall.  Þá var útrennsli Þingvallavatns stíflað, og þar með hvarf möguleiki rennslisins til að til að grafa gil í haftið niður í farveg Sogsins og tæma Þingvallavatn, rétt eins og Jökulsá á Brú tæmdi Hálslón og Tungnaá Sigölduvatn á sínum tíma, en Sigöldugljúfur tæmdi vatnið alveg.  Það vatn er nú komið til baka sem Sigöldulón, en með heldur lægra vatnsborði en gamla vatnið.

Nær allir ferðamenn á leið til Landmannalauga fara fram hjá virkjanaröðinni í Þjórsá-Tungnaá og hafa ánægju af, enda eru stöðvarhúsin haganlega gerð.  Sumir leggja lykkju á leið sína til að skoða Sigöldulónið.  Það neikvæða við þessa þróun er, að umferð um Dómadalsleið hefur næstum lagzt af, sem er synd, því [að] sú leið í Landmannalaugar er mjög falleg."  

Hægt er að taka undir hvort tveggja hjá verkfræðiprófessornum fyrrverandi, að vatnsaflsvirkjanir draga úr eða stöðva stöðugar náttúrulegar breytingar á náttúrunni, sem flestir eru sammála um, að séu til hins verra, og þess vegna eru vatnsaflsvirkjanir oft til bóta fyrir þróun náttúrunnar.  Jöfnun rennslis neðan við virkjaðar ár er jákvæð fyrir fiskgengd í árnar og dregur jafnframt úr landbroti og tjóni á ræktarlandi í flóðum og vegna ísjakareks.  Dæmi um þetta eru Neðri-Þjórsá og Blanda, en framburður þeirra á seti og ísi stöðvast að mestu í miðlunarlónunum, svo að þær breytast í góðar veiðiár. 

Hitt atriðið er alþekkt staðreynd í öllum löndum vatnsaflsvirkjana, að mannvirkin, stíflur og stöðvarhús, virka sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn, einkum ef virkjunareigandinn setur upp móttökuaðstöðu fyrir áhugasama ferðalanga.  Við mat á virkjanakostum hérlendis hefur allt of mikið varið gert úr neikvæðum áhrif virkjana á ferðamennsku.  Jákvæðu áhrifin eru yfirgnæfandi. 

Að lokum reit Jónas Elíasson:

"Nú er búið að samþykkja nýja [nr 3-innsk. BJo] rammaáætlun á Alþingi. Það telst til tíðinda, að nokkrir þingmenn ákváðu að skella sér í biðflokkinn og styrkja hann.  Kjalölduveita og Héraðsvötn voru færð í þann flokk.  Þetta er ekki stórt skref, en verulega til bóta.  Full þörf er á að virkja jökulvatnið og draga þar með úr landbroti, og þetta á við um báða þessa virkjunarkosti.  Bændur í Skagafirði verða oft fyrir búsifjum af völdum Héraðsvatna, en virkjun getur bægt landbroti frá jörðum þeirra, eins og gerzt hefur meðfram Þjórsá og Blöndu.  Þannig hjálpa virkjanir til við að varðveita náttúruna.  Vel gert, þingmenn."  

Það er rík ástæða til að leggja meiri áherzlu á jöfnunaráhrif virkjana á rennslið og þar með á öryggi fólks og fénaðar neðan virkjunar og auðveldari landnotkun og aukið notagildi ánna ásamt eflingu ferðamennskunnar, sem af virkjunum leiðir.  Þessir þættir hafa verið vanmetnir hingað til af verkefnisstjórnum um Rammaáætlun.  Þessi atriði auk framfara í virkjanatilhögun og mikil verðmætaaukning raforkunnar á síðustu misserum vegna orkuskipta og landvinningastríðs Rússa í Úkraínu getur hæglega lyft  virkjanakostum úr verndarflokki og í nýtingarflokk, ef aukin hlutlægni fær að ráða för, og valdið því, að fleiri færist úr biðflokki í nýtingarflokk en í verndarflokk.    Þríhyrningur

 


Smávirkjanir

Sú var tíðin, að landsmenn fögnuðu hverri nýrri virkjun, sem framleiddi rafmagn, enda var löngum meiri eftirspurn en framboð af því í landinu.  Þótt meiri fjölbreytni sé í notkun rafmagns nú á dögum, var nýting þess býsna fjölbreytileg þegar í upphafi.  Það var nýtt til að lýsa upp híbýli og götur, til að knýja mismunandi hreyfla og í litlum mæli til upphitunar.  

Hafnfirðingurinn Jóhannes Reykdal hóf ævintýrið sama ár og fyrsti íslenzki ráðherrann, Hannes Hafstein, lögfræðingur og ljóðskáld, hóf störf í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu, 1904.  Fyrsta vatnsaflsvirkjunin, sem sögur fara af á Íslandi, var í Hamarskotslæk í Hafnarfirði, og er hægt að virða búnað hennar fyrir sér á upprunalega staðnum.  Hún sá 15 húsum og 4 götuljósum fyrir rafmagni. Í þá daga tók fólk peruna með sér, þegar það fór úr einu herbergi í annað.  Virkjunin mun síðar hafa knúið tæki á verkstæði Jóhannesar.  Virkjun þessi framleiddi jafnstraum, og dreifingin var á jafnstraumi, svo að ekki var hægt að senda raforkuna langt vegna spennufalls og orkutapa. 

Fjarðarselsvirkjun í Seyðisfirði er fyrsta riðstraumsvirkjunin hérlendis, og þaðan var fyrsti háspennustrengurinn á landinu lagður til að sjá hinum grózkumikla, brautryðjandi og fagra austfirzka kaupstað fyrir orku.  Þar var jafnframt fyrsta raunverulega dreifikerfið lagt.  Virkjunin er enn í rekstri, en er líka stórmerkilegt tækniminjasafn. Það varð snemma ljóst, að riðstraumstæknin hefði yfirburði umfram jafnstraumstæknina, t.d. varðandi möguleika til spennubreytinga, enda varð Fjarðarselsveitan fyrsta bæjarveita landsins. Jafnstraumurinn leikur þó mjög stórt hlutverk í iðnaði nú á dögum, t.d. við rafgreiningu súráls og vatns, og rafmagn er sums staðar flutt langar leiðir sem háspenntur jafnstraumur, ýmist eftir loftlínum eða jarðstrengjum.  Vel þekktir úr umræðunni hérlendis eru jafnstraumssæstrengir. 

Virkjanauppbygging í landinu gekk því miður hægt og uppbygging dreifikerfis einnig, og flutningskerfi í eiginlegum skilningi varð ekki til fyrr en með Sogsvirkjunum fyrir Reykjavík og nærsveitir, en fyrsta virkjunin þar Ljósafossstöð, 2x4,4 MW, var tekin í notkun 1937.  Þá fjórfaldaðist aflframboðið í Reykjavík, sem gerði íbúunum kleift að leggja kolaeldavélum sínum og setja upp rafmagnseldavélar og rafmagnsofna.  Virkjunin var stækkuð 1944 með 1x6,5 MW aflsamstæðu, svo að heildaraflgetan varð 15,3 MW og orkuvinnslugeta 105 GWh/ár. Írafossvirkjun var svo tekin í notkun árið 1953, svo að ótrúlega hægt gekk að virkja, og línulagnir sóttust jafnvel enn hægar. 

Svar landsmanna við þessum hægagangi yfirvaldanna við raforkuvæðingu landsins var að reisa smávirkjanir upp á eigin spýtur.  Árið 1950 var búið að reisa 530 smávirkjanir á landinu.  Hætt var rekstri þeirra flestra, þegar eigendum þeirra stóð til boða aðgangur að landskerfinu.  Nú er hægt að reisa smávirkjanir og selja orku frá þeim inn á dreifikerfin.  Í flestum tilvikum er þar um að ræða vatnsaflsvirkjanir á bilinu 1-10 MW.  Endurgreiðslutími hagkvæmra vatnsaflsvirkjunarkosta er í sumum tilvikum innan við 10 ár, og tæknilegur afskriftatími með hóflegum viðhaldskostnaði er yfir 40 ár. Fjárfesting í slíkum virkjunum er þess vegna arðsamari en margt annað.

Vestfirðingar búa við þá annmarka að vera ekki hringtengdir rafmagnslega, sem langflestir aðrir landsmenn þó eru.  Landskerfistenging þeirra er um Vesturlínu frá aðveitustöð í Glerárskógum í Dölum, sem er tengd Byggðalínu í aðveitustöð Hrútatungu í Hrútafirði.  Vesturlína frá Glerárskógum að Mjólká er líklega  bilanagjarnasta 132 kV flutningslína landsins, og þar sem virkjanir á Vestfjörðum geta aðeins staðið undir um 60 % orkuþarfarinnar, skellur straumleysi á Vestfirðingum á hverju ári svo að segja.  Tekizt hefur að stytta straumleysistímann hjá flestum notendum þar verulega með olíukyntri vararafstöð á Bolungarvík að uppsettu afli 10,8 MW.  Þetta er þó ófullnægjandi afhendingaröryggi raforku, sem veldur miklu tjóni nútíma atvinnulífs og heimila, og kostnaðarlega og umhverfislega aðeins bráðabirgðalausn, þegar þess er gætt, að Vesturlína getur verið straumlaus sólarhringunum saman.  

Fyrir utan tvöföldun Vesturlínu, sem er kostnaðarlega og tæknilega ófýsilegur kostur, eru 2 meginúrbætur nauðsynlegar á Vestfjörðum. Annar er sá að færa 60 kV flutningskerfið ásamt öllu dreifikerfinu af loftlínustaurum og í jarðstrengi.  Hinn er sá að gera íbúa Vestfjarða sjálfum sér nóga um raforku, þ.e. að raforkuvinnsla á Vestfjörðum dugi til að anna meðalraforkuþörf Vestfirðinga hið minnsta. Raforkuþörf Vestfirðinga fer ört vaxandi með aukinni mannaflaþörf af öllu tagi vegna vaxtarsprotans laxeldis, sem kemur nú sem himnasending á krepputíma og eykur mjög umsvif sín. Það er þó fleira á döfinni þar og auk ferðaþjónustunnar má nefna Kalkþörungaverksmiðjuna á Súðavík, sem mun þurfa um 10 MW afl. 

Á Vestfjörðum hefur verið kortlagður mikill fjöldi smávirkjanakosta undir 10 MW, sem gæti þjónað þörfum landshlutans vel.  Árið 2020 vann Verkfræðistofan Verkís skýrslu fyrir Vestfjarðastofu um smávirkjanakosti og kortlagði alls 68 virkjanakosti að uppsettu afli 79 MW.  Þar af eru 18 hagkvæmir m.v. núverandi orkuverð, og er uppsett afl þeirra alls áætlað 43 MW og orkugeta 202 GWh/ár, sem með núverandi virkjunum á Vestfjörðum mundu duga Vestfirðingum vel a.m.k. næsta áratuginn í orkuskiptunum. 

Með þeim umbótum, sem hér hafa verið nefndar, væri vel séð fyrir raforkuöryggi og raforkuþörf Vestfirðinga, án þess að þeir þurfi nema örsjaldan að grípa til neyðarrafstöðvarinnar á Bolungarvík.  Þessar framkvæmdir er vafalítið hægt að skipuleggja og hanna með lágmarksáhrifum á náttúruna og þeim öllum afturkræfum.  Þannig er ólíku saman að jafna við vindmyllur, sem eru mjög áberandi í umhverfinu, hávaðasamar og skaðræði fyrir fugla. Athafnasvæði vindmylla er stórt m.v. við framleiðslugetu þeirra, og mikið umrót verður á öllu athafnasvæðinu vegna djúpra grunna fyrir stórar steyptar undirstöður og rafstrengi frá hverri vindmyllu. Það er afar einkennilegt, að nokkrum skuli detta í hug, að það sé fýsilegur kostur að reisa vindmyllur í landi, þar sem nóg er af öðrum hagkvæmari og umhverfisvænni virkjunarkostum. Það er til vitnis um þær villigötur, sem umræða um orkumál á Íslandi hefur ratað í og fráfarandi orkumálastjóri gerði að umræðuefni í jólaávarpi sínu 2020.    

 Varmaorka

 

  


Olíuvinnsla á hverfanda hveli

Nú bendir allt til, að "peak oil", þ.e. hámarki olíuvinnslu hafi verið náð árið 2019 með um  35 mrdtu vinnslu úr jörðu (35 milljarðar tunna).  Nú sjást merki þess, að olíurisar á borð við BP og Shell hafi áttað sig á vatnaskilunum og séu að selja óhagstæðari olíulindir sínar og lækka verðmæti óunnins olíuforða síns í bókhaldi.  Þetta stafar af verulega lækkuðum spám þeirra um framtíðar olíuverð og lækkuðum spám þeirra um eftirspurn.  Grundvöllur slíkra spáa eru minni væntingar um hagvöxt í heiminum, og valda þar nokkru um ýfingar Bandaríkjanna og Kína, en  orkuskiptin leika einnig orðið stórt hlutverk.

Dæmi um þessi umskipti er ákafi BP í að selja hinar fyrrum gjöfulu olíulindir sínar í Prudhoe-flóa, en 1300 km olíulögn þaðan og til Valdez þótti tæknilegt afrek árið 1977, þegar starfsemin þar hófst. BP og Royal Dutch Shell afskrifuðu í viku 28/2020 olíulindir að verðmæti mrdUSD 17,5 og mrdUSD 22,0. 

Skýringin á þessu er sú, að fyrirtækin telja, að borun og dæling úr þessum olíu- og gaslindum verði aldrei arðbær.  Með öðrum orðum telja þau, að verðið muni aldrei ná sömu hæðum og fyrr, heldur verða á bilinu 40 USD/tu - 60 USD/tu fram yfir miðja þessa öld eða þar til tímabili jarðefnaeldsneytis lýkur.  Þetta er afar athyglisverð breyting, sem gefur von um, að takast muni að hemja loftslagshlýnunia, en aðalsökudólgurinn, kolin, eru þó ekki nefnd hér. 

Bretar höfðu áform um að hætta kolanotkun árið 2025 og Þjóðverjar rúmum áratug síðar. Aðalkolabrennararnir, Kínverjar, hafa þó enn ekki birt slíkar áætlanir, svo að vitað sé.  Kófið setur þó strik í reikninginn í þessum efnum sem öðrum, þar sem öll hagkerfi veikjast af þess völdum, og það mun seinka fjárfestingum í orkuskiptunum. Hefur það þegar komið fram við áætlunargerð Evrópusambandsins, ESB, en orkupakkar þess hvetja til hás orkuverðs til að fjármagna ný orkuver, aðallega af vistvænni tegundinni.   

Samkvæmt Rystad Energy, sem er ráðgjafarfyrirtæki um orkumál, mundi verða unnt að vinna úr 90 % af þekktum olíubirgðum heimsins með a.m.k. 10 % arðsemi, ef Brent-verðið færi yfir 100 USD/tu. Nú er Brent-verðið rúmlega 40 USD/tu, og við slíkt verð fellur u.þ.b. helmingur þekktra olíubirgða út sem óarðbær. 

Í síðustu ársskýrslu sinni gerði Shell ráð fyrir, að Brent-verðið næði USD 60/tu, en í Kófsfárinu gerir fyrirtækið ráð fyrir 40 USD/tu árið 2021 og 50 USD/tu árið 2022.  BP gerir ráð fyrir, að meðal-Brent-verð á tímabilinu 2021-2050 verði 55 USD/tu.  Aðeins fyrir nokkrum mánuðum var meginspá fyrirtækisins sú, að á næstu 20 árum yrði þetta verð að jafnaði 70 USD/tu. Þetta jafngildir verðlækkunartilhneigingu um a.m.k. 20 %. 

Gasverð frá Henry Hub, sem er viðmiðunarstaður fyrir eldsneytisgas, er spáð hjá BP, að lækki til langs tíma úr 4,0 USD/MBThU í 2,9 USD/MBThU (MBThU=milljón brezkar hitaeiningar) eða um tæplega 30 %.  Þessi snöggu umskipti eru merkileg, og olíufélögin ætla ekki að brenna inni með verðlausar eignir.  Þessi þróun verður hagkerfum iðnþróuðu ríkjanna hagstæð, en hvati orkuskiptanna dvínar.  Sú þróun er nú komin á skrið, sem ekki verður stöðvað. 

Sums staðar, þar sem olíufyrirtæki eru í ríkiseigu, er núverandi verð nógu hátt til arðsamrar vinnslu, en ekki nógu hátt til að koma jafnvægi á ríkisreksturinn, t.d. í Miðausturlöndum, þar sem staðan krefst róttækra samfélagsbreytinga.  Annars staðar þýðir núverandi verð, að olíunni verður einfaldlega ekki dælt upp.  Í Kanada verður aðeins unnt að nýta 42 % olíuforða í jörðu á meðan Brent-verðið er undir 60 USD/tu, og hlutfallið fellur í 16 % við 40 USD/tu. Orkan, sem þarf til að nýta og vinna þykkan olíusand Kanada gerir þennan olíusand (Bitumen) verðlítinn.  Angóla hefur á síðustu árum beitt skattaívilnunum til að örva olíuvinnslu undan ströndum sínum, en hár kostnaður hindrar fjárfestingar. Norski olíusjóðurinn gæti tekið að skreppa saman, því að norska ríkið er farið að jafna reksturinn með honum.  

 Allt eru þetta merki um, að halli undan fæti hjá olíuiðnaðinum vegna dræmrar eftirspurnar.  Það eru ný tíðindi, sem olíurisarnir hafa brugðizt merkilega fljótt við.  Þeir kjósa að eiga aðeins lindir, sem þola verðsveiflur og hægt verður að nota áfram, þótt yfirvöld setji strangari mörk á mengun við bruna jarðefnaeldsneytis. Risarnir hafa einnig lækkað hjá sér rekstrarkostnaðinn.  Árið 2019 var verðið, sem dugði 5 stærstu fyrirtækjunum - ExxonMobil, Shell, Total, Chevron og BP - fyrir nægri framlegð upp í fjárfestingar og arðgjöf aðeins helmingur þess, sem þurfti árið 2013 samkvæmt Goldman Sachs.  Þetta er stórkostlegur árangur, og nú hafa neikvæð áhrif COVID-19 faraldursins dregið enn úr fjárfestingum fyrirtækjanna.  Fyrir sum fyrirtækjanna á þessi þróun sér stað samhliða því, að þau hafa lagt fyrir sig nýtingu hreinni orkugjafa.  "Við snúumst ekki um magn - við snúumst um verðmæti", sagði Bernard Looney, aðalforstjóri BP nýlega. 

Þessi saga bendir til, að háorkuverðstímabilið sé liðið.  Íslendingar þurfa auðvitað að laga sig að þessari stöðu, en ekki að ríghalda í úreltar spár um sívaxandi orkuverð, eins og okkar stærsta orkufyrirtæki, Landsvirkjun, því miður virðist gera, landinu til stórtjóns, því að samkeppnishæfni landsins líður undir lok, ef ekki verður strax söðlað um og tekin einfaldlega upp upphaflega verðlagsstefna Landsvirkjunar.  Hún snerist um það að verðleggja orkuna rétt ofan við meðalkostnað fyrirtækisins við orkuöflunina, en ekki m.v. jaðarkostnað orkuöflunar (næstu virkjun).  Arðinn af orkuöflun og orkuvinnslu fær ríkið þá með skattlagningu fyrirtækja, sem nýta þessa orku til framleiðslustarfsemi og með skattlagningu starfsmanna, sem þar vinna, og af þeirra neyzlu.  Þetta var kjarni "New Deal", sem reif Bandaríkin upp úr eymd Kreppunnar miklu og mörg önnur ríki tóku upp með góðum árangri.    


Menntunarkröfur

Það hafa sézt stórkarlalegar yfirlýsingar um hina svo kölluðu "Fjórðu iðnbyltingu", sem gjörbreyta muni vinnumarkaðinum.  Ein slík er, að eftir 20 ár verði 65 % núverandi starfa ekki til.  

Þetta er loðin yfirlýsing. Er meiningin sú, að 65 % færra fólk starfi að núverandi störfum, eða er virkilega átt við, að 65 % núverandi verkefna verði annaðhvort horfin eða unnin af þjörkum ?

Fyrri merkingin er að mati blekbónda harla ólíkleg, en sú seinni nánast útilokuð.  Það er, að mati blekbónda", ekki mögulegt að framleiða róbóta með gervigreind, sem verði samkeppnishæf við "homo sapiens" við að leysa 65 % starfategundir af hólmi.

Hins vegar gefur þessi framtíðarsýn réttilega vísbendingu um gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á næstu áratugum, sem tækniþróunin mun leysa úr læðingi.  Aðalbreytingin verður ekki fólgin í því, að margar tegundir starfa hverfi, eins og ýjað er að, heldur í því, að verkefni, ný af nálinni, verða til.  

Þessu þarf menntakerfið að bregðast við á hverjum tíma, því að það á ekki einvörðungu að búa fólk undir að takast á við viðfangsefni líðandi dags, heldur viðfangsefni morgundagsins.  Þetta er hægara sagt en gert, en það er hægt að nálgast viðfangsefnið með því að leggja breiðan grunn, þaðan sem vegir liggja til allra átta, og það verður að leggja meiri áherzlu á verknám og möguleikann á tækninámi í framhaldi þaðan. Þá er höfuðnauðsyn á góðri verklegri kennslu í tæknináminu, iðnfræði-, tæknifræði- og verkfræðinámi, og þar með að ýta undir eigin sköpunarkraft og sjálfstæði nemandans, þegar út í atvinnulífið kemur.  Þótt þetta sé dýrt, mun það borga sig, enda fengist viðunandi nýting á búnaðinn með samnýtingu iðnskóla (fjölbrauta), tækniskóla (HR) og verkfræðideilda.

Það er áreiðanlegt, að orkuskiptin munu hafa í för með sér róttækar breytingar á samfélaginu.  Sprengihreyfillinn mun að mestu heyra sögunni til um miðja 21. öldina.  Þetta hefur auðvitað áhrif á námsefni skólakerfisins og ákveðin störf, t.d. bifvélavirkja, en bíllinn, eða landfartækið í víðum skilningi, verður áfram við lýði og viðfangsefni bifvélavirkjans sem rafknúið farartæki. Námsefni bifvélavirkjans færist meira yfir í rafmagnsfræði, skynjaratækni, örtölvur og hugbúnað. 

Rafmagnið verður aðalorkuberinn á öllum sviðum þjóðlífsins, þegar orkuskiptin komast á skrið eftir áratug eða svo.  Það er tímabært að taka þessu sem staðreynd og haga námskrám, námsefni, ekki sízt hjá kennurum, samkvæmt því nú þegar.  Sama gildir um forritun.  Það er nauðsynlegt að hefja kynningu á þessum tveimur fræðigreinum, rafmagnsfræði og forritunarfræði, í grundvallaratriðum, við 10 ára aldur.  

Jafnframt er nauðsynlegt að auka tungumálalega víðsýni barna með því að kynna þeim fleiri tungumál en móðurmálið og ensku við 11 ára aldur.  Ekki ætti að binda sig við dönsku, heldur gefa kost á norsku, sænsku, færeysku, þýzku, frönsku, spænsku og jafnvel rússnesku, eftir getu hvers skóla til að veita tungumálatilsögn.  

Það er skylda grunnskólans að veita nemendum trausta grunnþekkingu á uppbyggingu móðurmálsins, sem óhjákvæmilega þýðir málfræðistagl, því að málfræði hvers tungumáls er beinagrind þess, og hvað getur líkami án beinagrindar ?  Hann getur skriðið, en alls ekki gengið, hvað þá með reisn.  Góður kennari getur gert málfræði aðgengilega og vel þolanlega fyrir meðalnemanda.  Til að að ráða við stafsetningu íslenzkunnar er grundvallaratriði að leita uppruna orðanna.  Þetta innrætir góður kennari nemendum, og þannig getur stafsetning jafnvel orðið spennandi fag.  Það er t.d. alger misskilningur, að reglur um z í málinu séu snúnar.  Þær eru einfaldar, þegar leitað er upprunans, og það voru mikil mistök að leggja þennan bókstaf niður á sínum tíma.  Afleiðingin er sú, að ritháttur sumra orða verður afkáralegur í sumum myndum.  

Niðurstöður PISA-kannananna gefa til kynna, að gæði íslenzka grunnskólakerfisins séu að versna í samanburði við gæði grunnskólakerfa annarra landa, þar sem 15 ára nemendur á Íslandi ná sífellt lakari árangri, t.d. í raungreinum.  Þessu verður að snúa við hið snarasta, því að annars fellur íslenzka grunnskólakerfið á því prófi, að búa ungu kynslóðina undir hina títt nefndu "Fjórðu iðnbyltingu", sem reyndar er þegar hafin.  Þessi ófullnægjandi frammistaða 15 ára nemenda er með ólíkindum, og hér er ekki um að kenna of litlu fjármagni til málaflokksins, því að fjárhæð per nemanda í grunnskóla hérlendis er á meðal þeirra hæstu, sem þekkjast.  Það er vitlaust gefið. Þetta er kerfislægur vandi, sem m.a. liggur í of mikilli einhæfni, skólinn er um of niður njörvaður og einstaklingurinn í hópi kennara og nemenda fær of lítið að njóta sín.  Það er sjálfsagt að ýta undir einkaskóla, og það er sjálfsagt að leyfa duglegum nemendum að njóta sín og læra meira.  Skólinn þarf að greina styrkleika hvers nemanda ekki síður en veikleika og virkja styrkleikana.  Allir eiga rétt á að fá tækifæri til að veita kröftum sínum viðnám innan veggja skólans, ekki bara í leikfimisalnum, þótt nauðsynlegur sé.  

Skólakerfið er allt of bóknámsmiðað.  Það þarf að margfalda núverandi fjölda, sem fer í iðnnám, og vekja sérstakan áhuga nemenda á framtíðargreinum tengdum rafmagni og sjálfvirkni.

Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, hefur skrifað lokaritgerð í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík.  Þann 7. nóvember 2017 sagði Höskuldur Daði Magnússon stuttlega frá henni í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Mælivilla í niðurstöðum PISA":

""Þegar PISA er kynnt fyrir nemendum, er þeim sagt, að þeir séu að fara að taka próf, sem þeir fái ekki einkunn fyrir og skili þeim í raun engu.  Þetta eru 15-16 ára krakkar, og maður spyr sig, hversu mikið þeir leggja sig fram.  Ég veit, að sums staðar hefur þeim verið lofað pítsu að launum.  Ég hugsa, að anzi margir setji bara X einhvers staðar", segir Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, um lokaritgerð sína í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík."

Eigi er kyn, þótt keraldið leki, þegar nemendum er gert að gangast undir próf án nánast nokkurs hvata til að standa sig vel.  Ætli þetta sé ekki öðru vísi í flestum samanburðarlöndunum ?  Það virðist ekki ósanngjarnt, að viðkomandi skóli mundi bjóða nemendum það að taka niðurstöðuna með í lokamatið á þeim, ef hún er til hækkunar á því, en sleppa því ella.  

"Þegar ég fór svo að kafa betur ofan í PISA-verkefnið, kemur í ljós, að það er mikil mælivilla í niðurstöðunum hér á landi.  Við erum einfaldlega svo fá hér.  Í öðrum löndum OECD eru tekin úrtök nemenda, 4-6 þúsund, en hér á landi taka allir prófið.  Þar að auki svara krakkarnir hér aðeins 60 spurningum af 120, og í fámennum skólum eru ekki allar spurningar lagðar fyrir.  Svo hefur þýðingunni verið ábótavant, eins og fram hefur komið."

Þetta er réttmæt gagnrýni á framkvæmd PISA-prófanna hérlendis, og andsvör Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar baksviðs í Morgunblaðinu, 9. nóvember 2017 í viðtali við Höskuld Daða Magnússon undir fyrirsögninni,:

"Meintar mælivillur byggðar á misskilningi", eru ósannfærandi.  

Að aðrir hafi um úrtak að velja, skekkir samanburðinn líklega íslenzkum nemendum í óhag, en það er lítið við því að gera, því að það er ekki til bóta, að hér taki færri þetta samanburðarpróf en annars staðar.  

 Það hefur engin viðunandi skýring fengizt á því, hvers vegna allar spurningar prófsins eru ekki lagðar fyrir alla íslenzku nemendurna, og þetta getur skekkt niðurstöðuna mikið.  Hvers vegna eru lagðar færri spurningar fyrir nemendur í minni skólum en stærri ?  Það er afar skrýtið, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.  

Ef þýðing prófs á móðurmál viðkomandi nemanda er gölluð, veikir það augljóslega stöðu nemenda í viðkomandi landi.  Það er slæm röksemd  Menntamálastofnunar, að endurtekinn galli ár eftir ár eigi ekki að hafa áhrif á samanburð prófa í tíma.  Þýðingin á einfaldalega að vera gallalaus og orðalagið fullkomlega skýrt fyrir nemanda með góða málvitund.  Þýðingargallar ár eftir ár bera vitni um óviðunandi sleifarlag Menntamálastofnunar og virka til að draga Ísland stöðugt niður í samanburði á milli landa.  Nóg er nú samt.  Noregsferð apríl 2011 006

 

 

 


Kostir og tímabundnir gallar rafmagnsbíla

Rafmagnsbílar komu fram á sjónarsviðið strax í upphafi bílaaldar, enda einfaldari í hönnun og smíði en bílar knúnir sprengihreyfli, en rafbílar stóðust hinum ekki snúning, hvað drægni og "áfyllitíma" varðaði.  Þá entust blýrafgeymarnir illa, svo að rafbílar hurfu fljótlega af sjónarsviðinu.  

Árið 1973 varð olíukreppa í heiminum, og OPEC-samtök olíuframleiðsluríkja, beittu samtakamætti sínum í fyrsta sinn til að þvinga fram margföldun olíuverðs.  Á sama tíma kom fram á sjónarsviðið kraftrafeindatækni ("power electronics") með þróun týristorsins, sem gerði aflstýringu bæði jafnstraums- og riðstraumsbúnaðar (DC og AC) mun einfaldari og fyrirferðarminni en áður hafði verið. Við þessar viðskiptalegu og tæknilegu aðstæður gengu rafbílar í  fyrsta sinn í endurnýjun lífdaganna, en þeir náðu þó enn ekki hylli vegna rafgeymanna, sem enn voru gömlu blýrafgeymarnir með brennisteinssýru.  

Vegna týristortækninnar og þróunar tölvutækninnar varð á lokaáratugi 20. aldarinnar tæknilegur grundvöllur fyrir því að nýta hinn margreynda, trausta og endingargóða AC-hreyfil, sem er notendavænni en DC-hreyfillinn, því að hann slitnar hægar, þarfnast minna viðhalds og hefur meira vægi (torque) við háan snúningshraða.  Gallarnir við hann eru fólgnir í áriðlinum, sem er viðbótar kraftrafeindabúnaður, með rafmagnstöpum, til að breyta jafnstraumi í riðstraum. 

Á þessari öld hefur svo orðið gegnumbrot fyrir rafbílinn inn á bílamarkaðinn með nýrri gerð rafgeyma, s.k. liþíum-jón rafgeymar, og vegna örvæntingarfullrar leitar að möguleikum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Liþíum-jón rafgeymar hafa marga kosti umfram hina hefðbundnu blýrafgeyma, s.s. a.m.k. þrefaldan orkuþéttleika (yfir 100 Wh/kg), meiri endingu (a.m.k. 1200 hleðslur), og flestir Li-jón bílrafgeymar þola hraðhleðslu á margföldu venjulegu hleðsluafli upp í 80 % málorku rafgeymanna.

Þrennt er nú helzt haft uppi gegn rafbílum: 

  1. Verð rafbíla er hærra en eldsneytisknúinna bíla vegna þess, að hinir fyrr nefndu hafa enn á sér áhvílandi þróunarkostnað og eru framleiddir í litlu upplagi, innan við 3 % af hinum (tengiltvinnbílar þá taldir með rafbílum).  Það eru þó færri íhlutir í rafbílum, og þeir eru í raun einfaldari að gerð.  Þegar fram í sækir geta þeir þess vegna orðið ódýrari en eldsneytisknúnir bílar, vegna þess að verð Li-jón rafgeymanna fer enn lækkandi, og kostnaður þeirra  er lítt háður verði á liþíum. Viðhaldskostnaður rafbíla er lægri, þótt endurnýjunarkostnaður rafgeyma sé tekinn með í reikninginn. Orkukostnaður rafbíla á Íslandi er innan við 40 % af orkukostnaði benzínbíla m.v. núverandi raforkuverð og benzínverð, að meðtöldum töpum við hleðsluna og þrátt fyrir lágt meðalhitastig hérlendis.  Árið 2018 má búast við, að 4 ára eignarhaldskostnaður rafbíla og tengiltvinnbíla á Íslandi verði lægri en eldsneytisbíla vegna lækkandi framleiðslukostnaðar. Samt er ekki búizt við, að sala rafbíla hinna hefðbundnu bílaframleiðenda fari að skila hagnaði fyrr en um og eftir miðjan næsta áratug. 
  2. Akstursdrægni á hverri rafgeymahleðslu þykir of stutt.  Meðalakstur fjölskyldubíla hérlendis er um 35 km/dag.  Að sumarlagi endist hleðsla tengiltvinnbíla fyrir þennan akstur (orkunýtnin versnar við kólnandi veður um allt að 3 %/°C frá meðalnýtni ársins), og minni rafgeymana í rafbílum þarf þá að hlaða á 2-4 daga fresti.  Nú eru hins vegar að koma á markaðinn rafbílar (Chevrolet Bolt, Tesla Model 3) með 75 kWh rafgeyma, og enn stærri rafgeymar eru í stærri Teslu-gerðum.  Á 75 kWh komast menn þó 300 km á hleðslu að sumarlagi, sem dugar flestum, a.m.k. á milli hraðhleðslustaða. 
  3. Langan endurhleðslutíma setja margir fyrir sig.  Full endurhleðsla á 75 kWh rafgeymum með 15 kW (3x32 A tengill) getur nú farið fram á 5 klst, sem dugir fyrir ódýrasta orkukaupatímabilið erlendis, á milli kl. 0100-0600, en þá fæst orkan sums staðar á hálfvirði, og þannig þarf það að verða hér til að nýta raforkukerfið með bezta móti og lágmarka fjárfestingarþörf. Innleiðing slíkrar gjaldskrár er tímabær og jákvæður, þjóðhagslega hagkvæmur hvati fyrir rafbílainnleiðingu hérlendis.   

Nú er að renna upp fyrir bílaframleiðendum, sem ákveðið hafa að venda sínu kvæði í kross og auka framboð á rafbílum til mikilla muna á fyrri hluta næsta áratugar, að framleiðslugeta rafgeymaverksmiðjanna í heiminum er of lítil.  Nú eru framleiddar um 2,0 M/ár bifreiða, sem knúnar eru að einhverju leyti með liþíum-jón rafgeymum.  Ef meðalstærð rafgeyma í þessar 2 M bifreiða er 25 kWh, þá þarf árleg framleiðslugeta rafgeymaverksmiðjanna að vera 50 GWh/ár, og hún er líklega nálægt þessu gildi núna.  Ef framleiða á 10 M rafbíla árið 2025, eins og hugur bílaframleiðenda stendur til (13 % nýrra fjölskyldubíla), t.d. 6 M með drægni 300 km og 4 M með drægni 100 km eða minni (tengiltvinn), þá þá þarf að 11-falda þessa framleiðslugetu á 7 árum. Það er gríðarlegt fjárfestingarátak og gott dæmi um þau útlát, sem orkubyltingin útheimtir.  

Þá vaknar spurningin um það, hversu lengi þekktar birgðir liþíums í náttúrunni munu endast ?   

Það þarf um 160 g Li/kWh.  Fyrir ársframleiðsluna 550 GWh af rafgeymum (áætluð þörf 2025) þarf 88 kt af Li.  Þekktur forði af hreinu Li í heiminum er 14 Mt, svo að hann mundi endast í 160 ár, ef hann færi bara í bílarafgeyma.  

Um miðja 21. öldina gæti framleiðsla rafbíla hafa aukizt í 70 M bíla með að meðaltali 75 kWh rafgeyma hver.  Þá þarf framleiðslugetan að hafa tífaldazt á við 2025 og nema 5250 GWh/ár.  Það þýðir árlega þörf fyrir Li í bílarafgeyma 0,84 Mt.  Ef 14 Mt verða til ráðstöfunar í bílarafgeyma, verður hægt að halda uppi þessum afköstum í 17 ár.  Fyrir miðja öldina verður þess vegna að finna meira af liþíum, og svo vill til, að í höfunum er talið vera gríðarlegt magn eða 230 mia t af Li.  Áreiðanlega mun liþíum verða í samkeppni við önnur efni og rafgeymar í samkeppni við annars konar orkuform (geymsluaðferðir orku), er hér verður komið sögu.  

Það er reyndar ekki líklegt, að á miklu liþíum úr hafinu verði þörf.  Líklegra er, að þegar á næsta áratugi komi fram nýir orkugjafar, t.d. lítil þóríum kjarnorkuver, sem endast muni allan notkunartíma bílsins, og mengunarfríir eldsneytisrafalar, sbr vetnsisknúnir rafalar, eiga mikla þróunarmöguleika fyrir höndum.  

D2409TQ37

 

 

 


Sæstreng bar ekki hátt í kosningabaráttu 2017

Sæstrengur á milli Íslands og Skotlands hefur stundum vakið talsverða umræðu hérlendis, en hafi hann borið á góma í nýafstaðinni kosningabaráttu um sæti á Alþingi, hefur slíkt farið fram hjá blekbónda.  Þann 19. október 2017 birtist þó skrýtin grein í sérblaði Viðskiptablaðsins, "Orka & iðnaður", þó ótengd kosningabaráttunni að því, er virðist, og verður vikið að téðri grein í þessum pistli.

Að lítt rannsökuðu máli ætlar blekbóndi að halda því fram, að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki tekið skýra afstöðu með eða á móti aflsæstreng til útlanda.  Slíkt afstöðuleysi er hægt að réttlæta með því, að enginn viti enn, hvernig kaupin muni gerast á eyrinni og fyrr sé ekki tímabært að taka afstöðu.  Hér verður sýnt fram á í stuttu máli, að enginn viðskiptagrundvöllur er eða verður fyrir þessari hugmynd.  Áður en menn fara að mæla þessu verkefni bót ættu þeir að sjá sóma sinn í að leggja fram útreikninga, sem benda til þjóðhagslegrar hagkvæmni verkefnisins. Annars er áróður fyrir þessum sæstreng úr lausu lofti gripinn. 

Með vísun til grundvallarafstöðu ættu stjórnmálaflokkarnir hins vegar að vera í færum nú þegar að styðja við hugmyndina um téðan sæstreng eða að hafna henni.  Þessi grundvallarafstaða snýst um það, hvernig siðferðilega er réttmætt að nýta náttúruauðlindir Íslands.  Á að reyna að hámarka verðmætasköpun úr auðlindunum hér innanlands og þar með að nýta þær til að skapa fjölbreytilega atvinnu hér innanlands, eða á að senda þær utan sem hrávöru og láta aðra um að beita hugviti sínu og markaðssamböndum til verðmætasköpunar ?  Þriðji kosturinn er, eins og vant er, að gera ekki neitt.  Það heitir í munni sumra "að láta náttúruna njóta vafans" og er ofnotuð klisja.

Tökum dæmi af áliðnaðinum á Íslandi. Hann notar mikla raforku, eða um 14,5 MWh/t Al og framleiðslan er um 0,98 Mt/ár Al. Ætla má, af upplýsingum um tekjur hans og kostnað að dæma, að jafnaðarlega verði um 40 % af veltu hans eftir í landinu. 

Álverin eru fjölþættir og flóknir vinnustaðir, sem gera miklar kröfur til sjálfra sín um gæði, umhverfisvernd og öryggi starfsmanna.  Allt krefst þetta hátæknilausna, enda eru fjölmargir verkfræðingar, tæknifræðingar, iðnfræðingar o.fl. sérfræðingar að störfum fyrir íslenzku álverin, bæði á launaskrá þeirra og sem verktakar. 

Þess vegna er afurðaverð íslenzku álveranna talsvert hærra en hráálsverðið, s.k. LME.  Má reikna með 20 % "premíu" eða viðbót að jafnaði, svo að um USD 2500 fáist nú fyrir tonnið af áli frá Íslandi.  Þessi framleiðsla væri útilokuð hérlendis án nýtingar hinna endurnýjanlegu orkulinda Íslands, og þess vegna má draga þá ályktun, að með verðmætasköpun hérlendis úr raforkunni fáist: 69 USD/MWh (=2500 x 0,4/14,5) fyrir raforkuna í stað um 30 USD/MWh, sem álverin kaupa raforkuna á.  Verðmætasköpunin innanlands nemur tæplega 40 USD/MWh, sem þýðir 2,3 földun orkuverðmætanna fyrir landsmenn með því að nýta orkuna innanlands.  

Er mögulegt fyrir sæstreng að keppa við 69 USD/MWh ?  Svarið er nei, útreikningar blekbónda hér að neðan benda eindregið til, að sæstrengur sé engan veginn samkeppnisfær við stóriðju um raforkuna á Íslandi.  Til marks um það er útboð á vegum National Grid, brezka Landsnets, í haust um kaup á umhverfisvænni orku inn á landskerfið.  Mun lægri verð voru boðin en áður hafa þekkzt, t.d. var raforka frá vindmyllum úti fyrir ströndum ("offshore windmills") boðin á 57,5 GBP/MWh, sem samsvaraði 76 USD/MWh.  Það verður alls ekki séð, að Englendingar (Skota vantar ekki umhverfisvæna raforku) muni vilja kaupa raforku frá Íslandi við hærra verði en þeir geta fengið innlenda, endurnýjanlega orku á.

Gerum samt ráð fyrir, að vegna niðurgreiðslna brezka ríkisins til vindmyllufyrirtækjanna mundu Englendingar vilja kaupa orku frá Íslandi við enda sæstrengsins í Skotlandi (þá er eftir að flytja orkuna til Englands með talsverðum kostnaði) fyrir 80 USD/MWh.  

Þetta er raunar hærra en þjóðhagslegt virði raforkunnar á Íslandi, en munu íslenzku virkjanafyrirtækin fá á bilinu 30 - 69 USD/MWh í sinn hlut fyrir raforkuviðskiptin við Englendinga ?  Lægra verðið lætur nærri að vera meðaltal núverandi verða fyrir orku til álveranna, og hærra verðið er lágmark þjóðhagslega hagkvæms raforkuútflutnings.

  Virkjanafyrirtækin mundu fá í sinn hlut úr Englandsviðskiptunum: VV=80-FG = 0 (sbr útskýringar að neðan).   

þ.e. mismun enska orkuverðsins og orkuflutningsgjaldsins um sæstrenginn og endamannvirki hans.  Blekbóndi gerði sér lítið fyrir og reiknaði út, hvaða gjald eigandi sæstrengskerfisins yrði að taka, svo að fjárfesting hans gæti skilað 8 %/ár arðsemi yfir 25 ára afskriftartíma að teknu tilliti til 10 % orkutapa um þessi mannvirki og 2 %/ár af stofnkostnaði í annan rekstrarkostnað. 

Ef gert er ráð fyrir 1200 MW flutningsgetu mannvirkjanna og 90 % nýtingu á þeim á ári að jafnaði m.v. fullt álag, nemur orkusalan út af mannvirkjunum 8,6 TWh/ár.  (Þetta er um 45 % af núverandi orkusölu á Íslandi.)  Sé gert ráð fyrir stofnkostnaði sæstrengsmannvirkja 4,7 MUSD/km, eins og gefið hefur verið upp fyrir sambærilegt sæstrengsverkefni á milli Ísrael og meginlands Grikklands, þá mun "ÍSSKOT" verkefnið kosta MUSD 5´640.

Niðurstaða útreikninganna á þessum forsendum er sú, að fjármagnskostnaður (vextir og afskriftir) nema 535 MUSD/ár og rekstrarkostnaður alls er 149 MUSD/ár.  

Heildarkostnaðurinn nemur 684 MUSD/ár, sem útheimtir flutningsgjald um mannvirkin: FG=80 USD/MWh. 

Ásgeir Magnússon, blaðamaður, er höfundur áður nefndrar greinar,

"Hverfandi áhrif sæstrengs á orkuverð".  

Heiti greinarinnar er illa rökstutt, en hún er reist á skýrslu frá brezku Landsvirkjun.  Má benda á þveröfuga reynslu Norðmanna, en norskir raforkuseljendur hafa freistazt til að selja of mikla orku utan og þá lækkað svo mikið í miðlunarlónum Noregs, að þeir hafa orðið að flytja inn rándýra orku til að koma í veg fyrir orkuskort.  Á Íslandi er miðlunargetan tiltölulega mun minni en í Noregi, og hér verður að sama skapi meiri hætta á vatnsleysi á veturna, sem þá mundi útheimta innflutning á margföldu innlendu raforkuverði.  Hér er um hreinræktaða spákaupmennsku að ræða með alla raforkunotendur hérlendis sem tilraunadýr og hugsanleg fórnarlömb. 

Það er ótrúlega yfirborðsleg umfjöllun um orkumál í téðri grein Andrésar, þar sem hvað rekur sig á annars horn.  Hér verður birtur úrdráttur til að sýna, hversu lágt er hægt að leggjast í áróðri fyrir samtengingu raforkukerfa Íslands og Englands (um Skotland), sem á sér marga tæknilega og umhverfislega annmarka, sem ekki verða gerðir að umræðuefni hér:

"Kæmi til þess [tengingar raforkukerfa Englands og Íslands-innsk.BJo], má ljóst vera [svo !], að sæstrengur myndi auka tekjur af orkusölu hér á landi [ofangreindir útreikningar benda til annars-innsk.BJo], auka gjaldeyrisflæði til landsins og rjúfa markaðseinangrun raforkumarkaðarins hér á landi [Englendingar mundu verða stærsti einstaki raforkukaupandinn.  Það felur í sér mikla viðskiptalega áhættu. - innsk. BJo].  Í framhaldi af því myndu rekstrarskilyrði stóriðju á Íslandi taka að breytast [eru refirnir ekki til þess skornir ? - innsk.BJo], þó að það tæki sinn tíma vegna þeirra löngu samninga, sem þar eru í gildi. [Orkusamningar til langs tíma, 25-35 ára, eru ekki síður í hag virkjanafjárfestisins, því að með slíka afkomutryggingu fær hann hagstæðari lánakjör - innsk. BJo.]  Segja má, að stóriðjan hafi verið notuð til orkuútflutnings, en hún getur tæplega keppt við beinan orkuútflutning um sæstreng til lengdar.  [Fyrri setningin er rétt, en sú seinni kolröng, eins og útreikningar blekbónda hér að ofan sýna - innsk. BJo.]

Áhrif sæstrengs á atvinnulíf gætu því reynzt töluverð, en sjálfsagt þykir mörgum ekki síðri ávinningur í umhverfisáhrifum þess, að stóriðjan geti vikið. [Þetta er amböguleg málsgrein og virðist reist á dylgjum um, að stóriðjan mengi.  Þegar um stærstu raforkunotendurna hérlendis, álverin, er að ræða, er umhverfissporið hverfandi og t.d. ekki merkjanlegt í gróðri við Straumsvík og í lífríkinu úti fyrir ströndinni vegna öflugra mengunarvarna - innsk. BJo.]  Fyrir nú utan hitt, að þannig leysi hrein og endurnýjanleg íslenzk orka af hólmi mengandi og óafturkræfa orkugjafa erlendis. [Þetta er hundalógík, því að orkukræf iðjuver hérlendis, sem hætta rekstri, verða að öllum líkindum leyst af hólmi með mengandi og ósjálfbærum orkugjöfum erlendis - innsk. BJo.]

Þekkingarlaust fólk um orku- og iðnaðarmál finnur oft hjá sér þörf til að tjá sig opinberlega með afar neikvæðum og grunnfærnislegum hætti um þennan málaflokk.  Það virðist skorta skynsemi til að átta sig á því, að það hlýtur að gera málstað sínum óleik með því að túðra tóma vitleysu.

Hér hefur verið sýnt fram á, að orkuútflutningur um sæstreng frá Íslandi til Skotlands með landtengingu við England getur ekki staðið undir neinum virkjanakostnaði á Íslandi vegna nauðsynlegs flutningsgjalds um sæstrengsmannvirkin.  Sæstrengurinn verður sennilega aldrei samkeppnisfær við orkusækinn iðnað á Íslandi.   

Tröllkonuhlaup

 

 

 

 

 

 


Oft er fall fararheill

Það er einstætt á Íslandi, að forstjóri fyrirtækis sé boðaður á fund fastanefndar Alþingis til að gera grein fyrir tæknilegum vandamálum í starfsemi fyrirtækis síns.

Það gerðist í vor, að Helgi Þórhallsson, forstjóri United Silicon, USi, mætti á fund Umhverfisnefndar Alþingis út af ólykt, sem þjakar suma íbúa og þeir telja stafa frá fyrirtæki téðs Helga.  Það, sem blekbóndi sá í sjónvarpi af þessum fundi, skýrði orsakir vandans ekki hót fyrir honum, en helzt er þó minnisstætt, að téður forstjóri kvað ekki eitt vera að verksmiðjunni, heldur allt.  Er slík einkunnargjöf (0,0) forstjóra yfir starfsemi sinni einstæð á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.  Téð fyrirtæki og forstjóri eru þegar búin að tryggja sér sess í annálum.  Hvernig eftirmælin verða, er þó enn á huldu.

Um tíma básúnaði Umhverfisstofnun (UST) út kolvitlaus mæligildi á hættulegum efnum frá verksmiðjunni og varð starfsmönnum sínum til minnkunar fyrir vikið. Virðist þeim allnokkur sálarháski búinn, sem nálægt þessari starfsemi koma, og er það sjálfstætt rannsóknarefni atferlisfræðinga. Um meinta mengun skrifaði téður Helgi í Fréttablaðið, 3. apríl 2017,

"Mengunarmælingar og rekstur United Silicon":

"Nýjar mælingar á gildi þungmálma og PAH-efna, sem nú hafa borizt og verið kynntar Umhverfisstofnun og United Silicon, benda til, að rekstur verksmiðjunnar hafi ekki mælanleg áhrif á magn þessara efna í umhverfinu.  Samkvæmt síðustu mælingum virðist ekki skipta máli, hvort verksmiðjan er í rekstri eða ekki; gildi þessara efna í umhverfinu mælast þau sömu."

Þetta er gleðileg niðurstaða, því að hvort heldur sem styrkur þungmálma eða PAH (polyaromatiske hydrokarboner-fjölliðusambönd vetniskolefnis) hefði verið yfir heilsuverndarmörkum, hefði orðið að stöðva verksmiðjuna í heilsuverndarskyni fyrir starfsmenn og nágranna, þar til viðeigandi hreinsibúnaður hefði verið settur upp.  Öðru máli gegnir um ólykt.  Þar er UST á hálum ís.

Framkoma umhverfisráðherra og UST í þessu máli er forkastanleg, því að margt benti þegar í upphafi upphlaupsins til, að hinar kolvitlausu mælingar (67 sinnum of há mæligildi) væru einmitt það, kolvitlausar. 

Nú hefur rekstur þessarar nýju kísilmálmverksmiðju samt verið stöðvaður, og er það vegna ólyktar, sviða í augum og sárinda í hálsi, sem kennd eru aldehýðum, acetónum eða ketónum úr ófullkomnum bruna í ljósbogaofni verksmiðjunnar. Rót vandans liggur þó annars staðar, en af henni segir þó fátt. Hvers vegna ?

Það eru mjög óljósar fregnir af bilanagreiningunni, og annaðhvort vilja forráðamenn USi ekki upplýsa um hana eða þeir eru sjálfir engu nær.  Það hefur þó komið fram, að rekstur ofnsins er "óstöðugur".  Af þessu mundi blekbóndi, sem hefur áratugareynslu af að stýra miklu afli, margföldu því, sem þarna um ræðir, draga þá ályktun, að aflstýring ofnsins sé ófullkomin og magni jafnvel upp sveiflur afls og spennu með útslætti ofnsins sem afleiðingu að lokum.

Það er vel þekkt, að framleiðendur kasta höndunum til forritsins, sem stýra á ferlisbreytunum, hvort sem þær eru spenna, straumur, afl eða annað, og ætla viðskiptavinunum og ráðgjöfum þeirra að laga hugbúnaðinn að aðstæðum á hverjum stað.  Það á nánast alltaf við, ef annað er ekki skilgreint í kaupsamningi.  Slík hugbúnaðarþróun getur kostað þúsundir manntíma hjá forritara hérlendis, t.d. í álveri, því að aðstæður eru hér sjaldgæfar, svo að feta þarf sig áfram.  Rafkerfið hérlendis er veikt, sérstaklega á jöðrunum, t.d. á Reykjanesi, sem þýðir óvenjumiklar og tíðar spennusveiflur.  Hafa íbúar ekki orðið varir við þær ?

Ljósbogaofn er mjög erfitt álag fyrir stofnkerfi landsins, því að það skiptast á skammhlaup og rof í ofninum, sem valda spennuhöggum á kerfið.  Þegar stýrikerfi ofnsins verður vart við spennusveiflur á netinu, getur það brugðizt ranglega við og annaðhvort keyrt ofnaflið niður eða farið að sveifla því.  Starfsmenn virðast ekkert hafa ráðið við ofninn, sem kemur heim við þessa lýsingu.  Fróðlegt væri að frétta af því, hvort aðrir rafmagnsnotendur á Suðurnesjum hafi orðið varir við spennusveiflur, t.d. ljósaflökt, þegar téður ljósbogaofn var í rekstri. 

Sennilegast er að mati blekbónda, að hönnun rafkerfis ofnsins, sem deyfa á spennusveiflur af hans völdum, sé ábótavant og henti ekki íslenzkum aðstæðum, og að hugbúnaður aflstýringarinnar sé "hrár" og ekki aðlagaður íslenzkum aðstæðum. 

USi hefur fengið norska ráðgjafarfyrirtækið Multikonsult sér til aðstoðar við greiningu og úrbætur auk tæknimanna frá framleiðanda ofnbúnaðarins.  Ekki liggur í augum uppi, hvers vegna Multikonsult varð fyrir valinu, þegar nær væri að ráðfæra sig við innlendar verkfræðistofur, sem reynslu hafa af að fást við vandamál tengd miklu álagi á veiku stofnkerfi rafmagns.  Hvað sem öðru líður, eru miklar líkur á, að reynda hugbúnaðarmenn þurfi til að bezta stýrikerfi ofnsins.  Verði enn óstöðugleiki í rekstri, þegar ofninn verður prófaður eftir endurbætur, þá hafa þær brugðizt. 

Alvarleiki málsins kom berlega fram í frétt Morgunblaðsins 27. apríl 2017,:

"Tölvukerfi stillt og tækjum skipt út" (betra er skipt um tæki), sem hófst þannig:

"Ekki liggur fyrir, hvenær svo nefndur ljósbogaofn kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík verður ræstur, að sögn Kristleifs Andréssonar, sem stýrir öryggis- og umhverfismálum fyrirtækisins.  Í gær [26.04.2017] sendi Umhverfisstofnun frá sér tilkynningu um, að rekstur verksmiðjunnar hefði verið stöðvaður og færi ekki í gang fyrr en stofnunin gæfi grænt ljós."

Ekki er ljóst með hvaða réttarheimildum UST stöðvaði verksmiðjuna, því að hún hefur ekki vísað í neina reglugerð, hvað þá lög, sem verksmiðjan hafi brotið.  UST veit ekki einu sinni um styrk lyktarefnanna, sem um ræðir, og hefur ekki sett fram nein viðmiðunarmörk um þau.  Fyrir að fara offari í sinni stjórnsýslu gæti UST átt yfir höfði sér skaðabótakröfu. 

Um þátt norsku ráðgjafanna, Multikonsult, segir í téðri frétt:

"Norðmennirnir séu ekki ósáttir við búnað verksmiðjunnar, en ýmislegt þurfi þó að laga [bendir til, að Multikonsult hafi ekki komið að hönnun verksmiðjunnar-innsk. BJo].  Tillögurnar lúti að því að fá meira jafnvægi og stöðugleika í rekstur ofnsins [aflstýringar viðfangsefni ?], en lyktin, sem frá verksmiðjunni berst og margir kvarta yfir, berst, þegar ofninn er undir ákveðnu álagi eða slokknar á honum."

Nokkru síðar í annars anzi loðmullulegri frétt, þar sem fulltrúar verksmiðjunnar fara, eins og venjulega, sem kettir í kringum heitan graut, kannski af því að þeir hafa ekki meira vit á ofnkerfinu en venjulegur húsköttur, kemur þó fram, að ófullburða hönnun, kannski hreint fúsk, er ásamt þekkingarleysi rekstraraðila (hvernig var háttað þjálfun þeirra ?)grunnorsök vandræða verksmiðjunnar:

"Menn frá framleiðanda ofnsins eru einnig hér á landi og vinna að endurbótum á búnaði, sem ekki hefur virkað sem skyldi, segir Kristleifur, sem tiltekur þar stillingar á tölvubúnaði [þetta orðalag er út í hött, því að vafalítið er um töluverðar hugbúnaðar breytingar að ræða-innsk. BJo].  Þá sé verið að skipta um ýmis tæki, sem ekki þyki starfa rétt [rangur búnaður valinn upphaflega-innsk. BJo].  Verða sérfræðingar þessir, svo og ráðgjafarnir norsku frá Multikonsult, á svæðinu, unz búið er að koma ofninum í stöðuga og eðlilega virkni."

Það er ógæfulegt að standa svona að málum, því að áreiðanlega munu koma upp óvæntir atburðir, eftir að búið verður að endurræsa ofninn, og þá verða útlendingarnir á bak og burt, og engin þekking fyrir hendi hérlendis á því, sem þeir gerðu, eða á þessu ofnkerfi.  Það eru grundvallarmistök að tryggja ekki þekkingu í landinu á öllum tæknibúnaði, sem þar er í notkun.  Vanir rekstrarmenn úr iðnaði gera ekki slík mislök.  Vítin eru til að varast þau, og vona verður, að tæknileg stjórnun kísilvera, sem eru í bígerð, verði traustari en þetta, og blekbóndi hefur ástæðu til að ætla, að svo verði, a.m.k. hvað varðar PCC Bakka.Kjarnorka í samkeppni við kol

 


Seinlæti hjá Landsneti

Landsnet hefur enn ekki tekið neitt róttækt skref í átt að raunhæfri tillögugerð um að leysa brýn flutningsvandamál rafmagns á Norðurlandi.  Það er enn hjakkað í gamla farinu með 220 kV loftlínu í Skagafirði og Eyjafirði. Blekbóndi hefur ekkert á móti slíkri línu, ef valin er skársta línuleið m.t.t. minnstu truflunar á útsýni, en heimamenn sætta sig ekki við slíkt mannvirki við túnfótinn, þótt gamla 132 kV loftlínan hverfi, og þess vegna er það ekki til annars en að tefja brýnt mál að halda þessum valkosti til streitu.

Í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu þann 27. marz 2017, "Tæknin takmarkar notkun jarðstrengja", kemur fram, að aðeins sé hægt að leggja 12 % fyrirhugaðrar styrkingar Byggðalínu á Norðurlandi í jörðu, þ.e. 37 km af 310 km leið 220 kV línu frá Blönduvirkjun til Fljótsdalsvirkjunar vegna veiks kerfis og hættu á miklum spennuhækkunum og ódeyfðum aflsveiflum á milli virkjana. 

Þessi viðbára orkar tvímælis, því að rýmdaráhrif jarðstrengsins má vega upp með spanspólum á leiðinni.  Sú lausn er þó dýr og óttalegt neyðarbrauð vegna þess og flækjustigs. 

Af fréttinni að dæma eru Landsnetsmenn nú fyrst að rumska eftir harða andstöðu við háspennulínur í byggð, sem íbúunum eru þyrnir í augum, og sveitarfélögin hafa litlar eða engar beinar tekjur af. 

Rumskið hefur leitt til þess, að Landsnetsmenn eru nú að skoða "mótvægisaðgerðir", sem þeir nefna svo, en ganga líklega ekki nógu langt:

"Í kjölfar þessarar vinnu er Landsnet að skoða mótvægisaðgerðir við Byggðalínuna.  Nefnir Magni [Þór Pálsson, verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti] sem dæmi, að kannað verði, hvort hægt sé að setja stóran hluta núverandi Byggðalínu, sem er á 132 kV spennu, í jarðstreng samhliða uppbyggingu nýju línunnar á 220 kV spennu. 

Gamla Byggðalínan mundi þá fá nýtt hlutverk; nýtast meira til að þjóna byggðarlögunum.  Þá gætu minni virkjanir og vindorkuver tengst inn á hana."

Það er gleðiefni, að Landsnetsmenn hafa loksins áttað sig á því, að tímabært er að endurnýja Byggðalínuna með 132 kV jarðstreng.  Það er hins vegar miður, að þeir skuli enn berja hausnum við steininn og telja raunhæft að leggja 220 kV loftlínu um sveitir Norðurlands til orkuflutninga á milli landshluta. 

Nú þarf að huga að nýrri leið til að tengja saman virkjanirnar Blöndu og Kröflu með því að fara "ofan byggða", þ.e. á heiðum sunnan dala Norðurlands.  Framtíðar jafnstraumsjarðstrengur af Sprengisandi mundi þá tengjast inn á þessa samtengilínu helztu virkjana Norðurlands, en styrking samtengingar þessara kerfa er nauðsynleg stöðugleikaumbót í truflanatilvikum. 

Jarðstrengur Byggðalínu með loftlínubútum, 132 kV, mundi tengja saman Hrútatungu í Hrútafirði, Laxárvatn við Blönduós, Blönduvirkjun, Varmahlíð í Skagafirði, Rangárvelli við Akureyri og Kröflu, en tenging Kröflu og Fljótsdals þarf að vera 220 kV og loftlína af fjárhagsástæðum.  Sprengisandsjarðstreng mætti þá fresta um a.m.k. einn áratug, og mun hann þá verða fjárhagslega viðráðanlegri en nú, og ekki vanþörf á þessari styrkingu tengingar raforkukerfa Norður- og Suðurlands, einnig vegna aukinnar flutningsþarfar með auknu álagi raforkukerfis landsins. Þar mun væntanlega verða um jafnstraumsstreng að ræða með flutningsgetu í sitt hvora áttina. 

Forstjóri OR gerði í kvöldfréttatíma RÚV sjónvarps 3. apríl 2017 lítið úr orku- og aflþörf vegna rafbílavæðingar og nefndi Sprengisandslínu í því sambandi.  Hann er greinilega í gufumekki Hellisheiðarvirkjunar, því að hann virðist ekki hafa heyrt af því vandamáli Landsnets og landsmanna allra, að Byggðalínan er fulllestuð, og það er brýnt að ráðast í aðgerðir til að auka flutningsgetu hennar og/eða draga úr flutningsþörfinni eftir henni.  Hið síðar nefnda er hægt að gera með virkjunum fyrir norðan eða nýrri tengingu Norður- og Suðurlands. 

Þá gerir forstjórinn sig sekan um alvarlegt vanmat á orkuþörf rafmagnsbíla, sem gæti stafað af því, að hann leggi orkunýtnitölur bílaframleiðendanna til grundvallar.  Það er algerlega óraunhæft á Íslandi, þar sem bæta þarf við orku til upphitunar, afísingar og lýsingar.  Það er ekki óhætt að reikna með betri orkunýtni en 0,35 kWh/km, og vægt áætlað verður meðalakstur 100´000 rafbíla árið 2030 (þennan fjölda nefndi Bjarni Bjarnason í téðu viðtali) 15´000 km á bíl.  Þessi bílafloti þarf þá a.m.k. 550 GWh orkuvinnslu í virkjunum eða um 65 MW að jafnaði. Þetta er um 15 % viðbót við almenna raforkumarkaðinn í landinu, og að halda því blákalt fram opinberlega, að engin þörf sé á að virkja vegna þessarar viðbótar, er villandi og í raun ábyrgðarleysi. 

Ef tekið yrði mark á slíku, mundi það hafa alvarlegan og rándýran orkuskort í för með sér.  Er forstjórinn "að taka skortstöðu" á markaðnum til að búa í haginn fyrir enn meiri raforkuverðshækkanir ?  Þær hafa orðið tugum prósenta yfir vísitöluhækkunum neyzluverðs síðan 2010 hjá dótturfélögum OR, og það er tímabært að snúa þeirri öfugþróun við. 

 


Orkuöflun og -flutningar

"Þegar kyndugur kemur til kæns, hefur kænn ekki við", segir máltækið.  Kyndug frásögn birtist í Morgunblaðinu, 7. febrúar 2017, skrifuð af Þorsteini Ásgrímssyni undir fyrirsögninni:

"Aðgerða þörf í orkumálum",

um skýrslu erlendra sérfræðinga fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet.  Af frásögninni að dæma spannar skýrslan aðallega "selvfölgeligheder", einföld, vel þekkt sannindi, og meira eða minna hæpnar niðurstöður höfundanna.  Frásögnin hófst þannig:

"Haldi almennur vöxtur í raforkunotkun áfram hér á landi á næstu árum án þess, að fjárfest verði í frekari orkuframleiðslu, munu Íslendingar standa frammi fyrir mögulegum vanda varðandi orkuöryggi á komandi árum.  Þetta kemur fram í skýrslu, sem unnin var af sérfræðingum frá háskólastofnununum MIT í Bandaríkjunum og IIT Comillas á Spáni um orkuöryggi fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet."

Það lýsir ótrúlegu ráðleysi og vandræðagangi á raforkumálasviðinu hérlendis, að talin skuli vera þörf á því að semja sennilega rándýra skýrslu í útlöndum um framboð og eftirspurn raforku á Íslandi.  Það blasir við, að vegna rafvæðingar samgöngutækja á landi einvörðungu muni almenn raforkunotkun á Íslandi vaxa um 40 % á næstu 20 árum, og er þá ótalin rafvæðing skipaflotans og flugflotans á árunum 2030-2050.  Þessu til viðbótar blasir við í nánustu framtíð álagsaukning upp á 525 MW vegna rafvæðingar framleiðsluferla og nýrra verksmiðja til kísilframleiðslu. Þetta nýja álag, 525 MW, jafngildir fjórðungsaukningu núverandi vetrarálags.  Á móti þessu virðast aðeins vera á döfinni virkjanir að aflgetu 480 MW (Þeistareykir, Búrfell 2, Tungufljót, Reykjanes, Hvammsvirkjun, Bjarnarflag, Krafla 2, Blönduveita), svo að staðan er óbjörguleg. Þessar viðbætur fela í sér nánast enga aukningu miðlunargetu sunnan heiða. Um það er hægt að vera skýrsluhöfundunum sammála, að orkuskortur blasir við, en dugir ekki heilbrigð skynsemi til að segja mönnum það.  Ef heilbrigð skynsemi hefur ekki hrifið, þá gerir útlend skýrsla það varla heldur. 

Ætlar Landsvirkjun kannski að halda uppteknum hætti og fæla menn frá rafvæðingu, eins og hún hefur hagað sér gagnvart fiskimjölsverksmiðjunum með þreföldun raforkuverðsins ?  

Eigandinn verður að grípa í taumana, þegar viðhaldið er orkuskorti með litlu framboði til þess að spenna upp verðið á ótryggðu rafmagni.  Þessi bolabrögð ná engri átt.  

Ritstjórn Morgunblaðsins hefur áhyggjur af varasamri og viðkvæmri stöðu raforkumálanna, og það er góðra gjalda vert, en áhyggjurnar þurfa að ná til æðstu stjórnar ríkisins og krystallast í raunhæfum viðbrögðum.  Forystugrein Morgunblaðsins,

"Orkuöryggi er forgangsmál",

þann 10. febrúar 2017, endar þannig:

"Sjálfsagt er orðið að leggja ríka áherzlu á að bæta bæði flutningskerfi og framleiðslu orku hér á landi.  Það felur óhjákvæmilega í sér, að leggja þarf línur og byggja virkjanir.  Slíkt þarf að gera, svo að vel fari í umhverfinu, en orkuöryggið verður að vera forgangsmál."

Allt er þetta satt og rétt, og blekbóndi getur auk þess fullyrt, að það er tæknilega mögulegt og fjárhagslega viðráðanlegt að sameina þetta tvennt, þ.e. að sjá öllum landslýð fyrir nægri orku af beztu gæðum án stórkarlalegra inngripa í ásýnd landsins á viðkvæmum stöðum.  Vilji og pólitísk forysta er allt, sem þarf.

Eitt af vandamálunum er, að það er enginn ábyrgur að lögum gagnvart því, að hér verði ekki afl- og orkuskortur.  Það væri engin goðgá að fela stærsta leikaranum á sviðinu, Landsvirkjun, þetta hlutverk með lagasetningu, um leið og fyrirtækinu væri mörkuð eigendastefna, en hana vantar sárlega núna, enda örlar á vindhanahegðun í æðstu stjórn fyrirtækisins.

"Ignacio J. Perez-Arriaga, prófessor við MIT, kynnti skýrsluna og sagði vandamálið hér á landi vera rafmagnskerfi, sem er einangrað og geti þar af leiðandi lent í vandræðum, ef upp koma vandamál við orkuframleiðslu, t.d. ef vetur er hlýr og lítið um vatn til að fylla miðlunarlón.  Sagði hann einnig flutningskerfið hér ekki vera nægilega gott, þar sem stífla gæti myndazt á milli vestur- og austurhlutans." 

Blekbóndi er helzt á því, að téður prófessor við MIT í Boston taki hér rangan pól í hæðina.  Með auknum hlýindum á Norður-Atlantshafi búast flestir við aukinni úrkomu á eyjunum þar.  Ef frá er talin veiking Golfstraumsins, virka loftslagsbreytingarnar til aukinnar vinnslugetu raforku í vatnsaflsvirkjunum og fremur minna álags en hitt vegna hlýinda, þegar lónsstaðan er lægst. 

Öllum var ljóst fyrir útkomu þessarar skýrslu, að Akkilesarhæll íslenzka raforkukerfisins er flutningskerfi Landsnets.  Fyrirtækið kemst hvorki lönd né strönd með nauðsynlegar framkvæmdir sínar, af því að skilningsleysi er of útbreitt í þjóðfélaginu á mikilvægi þeirra og gríðarlegum þjóðhagslegum kostnaði af því, að Byggðalínan skuli vera fulllestuð árum saman og geti þannig ekki flutt afl að viðbótar álagi.   Fyrirtækið ber þó vafalaust sína sök á því framkvæmdaleysi, sem leitt hefur til stórtjóns í samfélaginu.  Kannski hefur það ekki verið í stakkinn búið stjórnkerfislega og fjárhagslega til að leysa málin.  Því verður að breyta strax, enda fer hættan á hagsmunaárekstrum vegna óeðlilegs eignarhalds Landsnets ekkert á milli mála.

 Ef ætti hins vegar að tengja rafkerfið við útlönd, mundi það þýða gríðarlegar línubyggingar frá virkjunum og niður að landtökustað sæstrengs eða sæstrengja. Að koma í veg fyrir orkuskort á Íslandi með því að leggja sæstreng til Skotlands er "overkilling", sem líkja má við að skjóta gæs með eldflaug. Slíkt er algert óráð, og er betur látið ógert. Ef erfitt er að fá leyfi til að styrkja núverandi stofnkerfi fyrir innanlandsnotkun, þá mun nú seint sækjast að fá leyfi fyrir línulögnum þvers og kruss að landtökustað sæstrengs.  Um hann er algerlega tómt mál að tala.  Því fyrr sem stjórnvöld átta sig á því, þeim mun betra. 

Hvað er til ráða með Landsnet ?  Fyrirtækið er á milli steins og sleggju og eiginlega á milli vita, því að það er í eigu 4 stærstu raforkufyrirtækja landsins, Landsvirkjunar (64,7 %), RARIK (22,5 %), OR (6,8 %) og OV (6,0 %), en "stjórn Landsnets skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum, sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu raforku".  Þessi tvískinnungur hefur verið við lýði frá stofnun fyrirtækisins árið 2005, og gæti hafa staðið því fyrir þrifum. Mál er að linni, enda aldrei ætlað að vara til frambúðar. 

Landsnet starfar samkvæmt sérleyfi á markaði, þar sem engin samkeppni er leyfð.  Við slíkar aðstæður er eðlilegast, að ríkissjóður yfirtaki eignarhaldið hið fyrsta á fyrirtækinu með samningum við gömlu eigendurna um afsal eigna og fjármögnun kaupanna á 10 árum með arðgreiðslum frá orkufyrirtækjum, sem það á eða á hlut í. 

Það þarf að efla fjárhag Landsnets samhliða þessu og veita því jafnframt svigrúm til skuldabréfaútgáfu og lántöku, svo að hægt verði að auka fjárfestingar verulega og borga þær niður á löngum tíma í stað gegndarlausra hækkana á gjaldskrá, eins og verið hafa, sem eiga ekki úr þessu að verða umfram byggingarvísitölu, til almennings.

Með þessum hætti fær fyrirtækið fjárhagslegt svigrúm til að semja við heimamenn um raunhæfar lausnir á flutningaleiðum raforku, sem nú eru meira og minna strandaðar.  Það verður ekki hægt að leysa flutningsvandamálin án meira af jarðstrengjum á 132 kV og 220 kV en verið hafa á döfinni, og slíkt kostar meira fé í bráð, en afhendingaröryggi gæti vaxið í kjölfarið og viðhaldskostnaður minnkað. 

Byggðalínan verður að fara  víða í jörðu í byggð, og tæknilega og fjárhagslega verður hægt að koma á nauðsynlegri tengingu á milli Norður- og Suðurlands með jafnstraumsstreng "undir" hálendið á næsta áratugi.  Leysa má fyrst úr bráðum vanda Eyjafjarðar og Norð-Austurlands með meiri orkuvinnslu í Þingeyjarsýslum og flutningi orku þaðan í vestur, norður og austur með nýjum loftlínum og jarðstrengjum.  Þar með verður létt á flutningsþörf eftir Byggðalínu frá Vesturlandi til Norðurlands. Vestfirðir með hratt vaxandi laxeldi og íbúafjölgun þarfnast hringtengingar innan 5 ára á 132 kV.  

Ennfremur er haft eftir prófessor Perez-Arriaga

""En með vaxandi eftirspurn þurfið þið að framleiða meira rafmagn", segir hann og vísar þar til lítilla og meðalstórra notenda.  [Þetta er eins víst og 2x2=4 og mikils vert að fá staðfestingu á því eða hitt þó-innsk. BJo]  "Vandamálið með uppbygginguna hér er að hans sögn, að það vantar oft frumkvæðið, auk þess sem engin opinber orkustefna er til um, hvert stefna skuli í þessum efnum, þ.e. hvort auka eigi framleiðslu og þá hversu mikið, og hvernig orkuvinnsla eigi að vera í forgangi.""

Þetta er hárrétt athugað hjá skýrsluhöfundum og má þá segja, að glöggt sé gests augað.  Orkustofnun veitir virkjanaleyfi, en ræður ekki tímasetningu virkjunar.  Hún ætti að fá slíka þvingunarheimild gagnvart Landsvirkjun, ef stefnir í óefni með orku- eða afljafnvægið.  Orkustefnu ríkisins er brýnt að móta nú á kjörtímabilinu að beztu manna yfirsýn og í kjölfarið, einnig á kjörtímabilinu, eigendastefnu ríkisins fyrir Landsvirkjun, svo að þeir gríðarlegu fjármunir ríkisins, sem þar eru bundnir, nýtist á þjóðhagslega hagkvæmastan hátt. Er það með sæstrengsdaðri og vindmyllulundum ? 

Það er tvennt af því, sem þarf að leiða til lykta með ofangreindri vinnu.  Þegar orkustefna landsins verður mótuð, er brýnt að taka Verkefnastjórn Rammaáætlunar til endurskoðunar, svo að meira faglegt jafnvægi verði í mati á röðun virkjanakosta.  Orkustofnun gæti hæglega yfirtekið þessa vinnu. 

Prófessor Perez-Arriaga skriplar á skötunni í lok frásagnarinnar:

"Perez-Arriaga segir, að miðað við stöðuna í dag og áætlaða þróun í raforkunotkun ættu Íslendingar að geta stundað "business as usual" áfram til 2020 og að ekki sé hætta á skertu orkuöryggi, nema í algerum undantekningartilvikum, t.d. ef komi mjög hlýir vetur eða þurrir og ef ekki næst að safna nægjanlegu miklu í miðlunarlónin yfir sumartímann."

Þetta er mjög vafasöm framsetning á stöðu raforkuafhendingar og jafnvægis á milli framboðs og eftirspurnar til 2020.  Í fyrsta lagi fara ekki saman hlýir vetur og vatnsskortur, eins og áður er bent á, í öðru lagi er atvinnulífið á öllu norðanverðu landinu nú þegar svelt af völdum flutningsfyrirtækisins og Landsvirkjunar (allt of dýr ótryggð orka) og í þriðja lagi verður afljafnvægið í járnum á veturna eftir að Thorsil kemur inn með fyrri áfanga sinn, 87 MW, þangað til næsta heilsársvirkjun á eftir Þeistareykjum kemst í gagnið. (Búrfell 2 er bara sumarvirkjun.) 

Nýr iðnaðarráðherra og þar með orkuráðherra þarf að láta hendur standa fram úr ermum og brjóta blað að hálfu ríkisvaldsins í málaflokki, þar sem ríkið er beinn gerandi og örlagavaldur um mikla hagsmuni.   

 Aflmestu spennar landsins

 h_my_pictures_falkinn


Af orkumálum Englands

 

 

Bretar, og einkum munu það hafa verið Englendingar, sýndu ótrúlegt stjórnmálalegt sjálfstæði og þrek 23. júní 2016, þegar meirihluti kjósenda þar á bæ, um 52 %, hafnaði áframhaldandi veru Stóra-Bretlands í Evrópusambandinu, ESB, þvert gegn mesta og harðvítugasta áróðursmoldviðri sem sézt hefur frá bæði innlendum og erlendum stjórnmálamönnum, viðskiptamönnum og fræðimönnum. 

Var hér s.k. "elíta" eða hin ráðandi öfl saman komin.  Minnti þetta moldviðri marga Íslendinga óþyrmilega á hræðsluáróður gegn höfnun "Icesave"-samninganna, þar sem vinstra liðið og rebbarnir, sem nú skríða í "Viðreisnar"-grenið, vildu á ísmeygilegan hátt smeygja drápsklyfjum um háls íslenzkum skattborgurum vegna gjaldþrots einkabanka. Hér, eins og á Bretlandi í aðdraganda "Brexit", máluðu háskólastarfsmenn og forkólfar í samtökum atvinnulífsins skrattann á vegginn í mjög sterkum litum. Þó dró verkalýðsforystan á Bretlandi lappirnar, en hér dró hún ekki af sér.   

Blekbóndi vonaðist eftir niðurstöðunni, sem varð á Bretlandi, og telur, að Bretar hafi hér tekið "rétta" ákvörðun, bæði hvað eigin hagsmuni og framtíð Evrópu varðar.  Ákvörðunin veldur vatnaskilum í Evrópusögunni, eins og ákvörðun Breta um að stemma stigu við veldi Frakka og berjast gegn Napóleóni, keisara, sem þeir réðu að lokum niðurlögum á í bandalagi við Prússa árið 1815, eftir að franski herinn hafði orðið að hörfa, stórlaskaður, frá Moskvu  1812. 

Rúmlega hálfri öld síðar hreyfðu Bretar hvorki legg né lið, þegar Prússar þrömmuðu alla leið inn í París, enda sat þá klækjarefur mikill að völdum í Berlín, Ottó von Bismarck.  Um svipað leyti sameinaði hann þýzku ríkin "með blóði og járni", og tók þá að fara um brezka ljónið, hvers mottó var að "deila og drottna" í Evrópu. 

Því miður tók ábyrgðarlaus gemlingur, stríðsæsingamaðurinn Vilhjálmur 2. við keisaratign í Berlín, og hann tók sér stöðu við hlið kollega síns í Vín eftir morðið á krónprinsi Habsborgara í Sarajevo 1914.  Í oflæti sínu atti hann Reichswehr til að berjast bæði á austur- og vesturvígstöðvum. 

Í þetta skipti sneru Bretar við blaðinu og tóku afstöðu gegn Prússum og með Frökkum.  Brezki herinn stöðvaði framrás þýzka hersins í Frakklandi og bjargaði þessum forna andstæðingi Englendinga frá falli með ægilegum blóðfórnum í ömurlegum og langdregnum skotgrafahernaði, þar sem eiturgasi var beitt á báða bóga.

Bretar reyndu lengi vel að friðþægja foringja Þriðja ríkisins, en var að lokum nóg boðið með útþenslutilburðum og samningasvikum hans og sögðu Stór-Þýzkalandi stríð á hendur 3. september 1939, sem um hálfum mánuði fyrr hafði gert griðasáttmála við Sovétríkin. Af þessum sökum mættu Þjóðverjar vanbúnir "til leiks", þó að Albert Speer, sem gerður var að vígbúnaðarráðherra í febrúar 1942, hafi náð eindæma afkastaaukningu í framleiðslu hergagna fyrir Wehrmacht, en það var þá of seint, enda mesta iðnveldi heimsins komið í stríðið gegn Þriðja ríkinu.  

Leiðtogar Þjóðverja, Angela Merkel, Wolfgang Schäuble og iðnjöfrar Þýzkalands, hafa gert sér grein fyrir vatnaskilunum, sem úrsögn Breta veldur fyrir ESB, þ.e. þróun í átt til stórríkis Evrópu hefur verið stöðvuð, og hér eftir mun ESB líklega þróast meira í þá átt, sem Bretar börðust jafnan fyrir, þegar þeir voru innanborðs, þ.e. í átt til viðskiptabandalags, en hin stjórnmálalega sameining hefur mistekizt.  Hið sama má segja um hina fjármálalegu og peningalegu sameiningu.  Það eru þverbrestir í peningabandalaginu (monetary union), sem hljóta að leiða til þess, að úr því kvarnast fyrr en síðar. Hvergi þykir lengur eftirsóknarvert að komast í þetta myntbandalag, nema í hópi sérvitringa á Íslandi, sem finna má unnvörpum undir merkjum Píratahreyfingarinnar, Samfylkingar og Viðreisnar.   

Hver er staða orkumálanna í Evrópu á þessum umbrotatímum ?  Hún er þannig, að verð á allri frumorku, olíu, gasi, kolum og rafmagni, hefur lækkað mikið síðan 2014.  Hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda, vinds og sólar, hefur vaxið, en skuldbindingar ríkjanna um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda uxu í flestum tilvikum líka á Parísarráðstefnunni í desember 2015, svo að flest ríkin munu eiga fullt í fangi með að ná markmiðum sínum 2030.  Hlutdeild kolakyntra orkuvera er há og eykst enn í sumum löndum, því að kolaverð hefur lækkað á markaðinum, eftir að offramboð varð á þeim í Bandaríkjunum, sem þá hófu útflutning, þegar jarðgasvinnslan tók stökk þar í landi með nýrri tækni, leirsteinsbroti (e. fracking).  Allar Evrópuþjóðir, sem nú nota kjarnorku til raforkuvinnslu, virðast stefna á að draga úr hlutdeild hennar eða að leggja niður öll sín kjarnorkuver af ótta við kjarnorkuslys og óviðráðanlega geislun á þéttbýlum svæðum.  Ekki bætir úr skák, að meðferð geislavirks úrgangs úran-kjarnakljúfanna er ábótavant.   

Af þessum sökum er ekki ljóst, hvernig ýmsar Evrópuþjóðir ætla að brúa bilið á milli gömlu kolefnistækninnar og næstu orkubyltingar.  Til að þjóðirnar verði óháðar jarðefnaeldsneyti, verður að öðru óbreyttu að koma ný tækni fram á sjónarsviðið, sem staðið getur undir grunnraforkuvinnslunni.  Vonir eru bundnar við þóríum-kjarnakljúfana, sem hægt verði að klæðskerasauma að þörfum notenda, og að þess vegna verði ekki þörf á stórum flutningslínum til viðbótar við núverandi öflugu línur. 

Lítum nú á, hvað Bretar eru að hugsa í þessum efnum, og drepum niður í grein í The Economist, 6. ágúst 2016, "When the facts change ... "

"Fyrir tæplega 3 árum gerði brezka ríkisstjórnin samning við EdF, sem er Landsvirkjun og Landsnet Frakka undir einum hatti í eigu franska ríkisins, um að niðurgreiða orkuverð frá fyrsta kjarnorkuveri, sem reist hefur verið á Bretlandi síðan 1995: Hinkley Point C við strönd Somerset.

Þann 28. júlí 2016, nokkrum klukkustundum eftir að stjórn EdF samþykkti með litlum meirihluta að halda áfram með Hinkley Point fjárfestinguna upp á miaGBP 18, jafngildi miaUSD 24 (miaISK 2800), steig ríkisstjórn Theresu May óvænt á bremsurnar og boðaði verkefnisrýni, sem ljúka mundi haustið 2016.  Haldið er, að ríkisstjórnin vilji gera samning við China General Nuclear Power, kínverskan risa, sem hefur boðizt til að leggja fram þriðjung fjárfestingarfjár í Hinkley Point og í staðinn fá að reisa eigið kjarnorkuver í Bradwell í Essex, en rýni nýju ríkisstjórnarinnar kann að leiða til kúvendingar.   

Hinkley er "stór og þar er um að ræða tækni síðustu aldar, sem er ekki það, sem brezka orkukerfið þarfnast í framtíðinni", segir Michael Grubb í Lundúnaháskóla. 

Árið 2012 spáðu brezkir orkuspekingar því, að verðið á öðrum orkuuppsprettum en kjarnorku, t.d. jarðgasi, mundi í fyrirsjánlegri framtíð verða meira en tvöfalt núverandi verð.  Þannig spáðu þeir, að heildsöluverð raforku, sem er viðmið fyrir niðurgreiðslur til EdF, mundi verða yfir 70 GBP/MWh eða  yfir 110 USD/MWh. Heildsöluverðið er núna undir 40 GBP/MWh eða undir 50 USD/MWh.  Í júlí 2016 tilkynnti ríkisendurskoðunin brezka, The National Audit Office, að skekkjan í þessum spám hefði næstum fimmfaldað niðurgreiðsluupphæðirnar yfir 35 ára rekstrartímabil Hinkley Point C-kjarnorkuversins, þ.e. úr miaGBP 6 í miaGBP 30. 

Þarna er um gríðarlegar upphæðir að ræða í niðurgreiðslur á orkuverði, svo að eðlilegt er, að ríkisstjórn, sem ber ábyrgð á aðþrengdum ríkissjóði, staldri við. 

Hérlendis birti Landsvirkjun árið 2010 svipaða spá um þróun raforkuverðs á Englandi, og stjórn fyrirtækisins mótaði síðan þá fáránlegu stefnu að láta raforkuverð á Íslandi hækka í sama hlutfalli og á Englandi, þ.e. að raunvirði yrði það nú orðið tvöfalt hærra en nú hérlendis, ef þessari stefnu hefði verið fylgt. Hún kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum, og var í raun tilræði við neytendur, sem fór hljótt, enda gekk hún alls ekki eftir. 

Liður í að þrýsta upp raforkuverðinu hérlendis átti einmitt að vera að samtengja raforkukerfi Englands og Íslands.  Þetta fáránlega uppátæki mun ekki ganga eftir af ýmsum ástæðum, t.d. vegna þróunar orkuverðs og vegna einarðrar andstöðu hér innanlands, en þyngst á metunum vegur þó, að, eins og nú horfir með Rammaáætlun, munu ekki nógu margir virkjunarkostir verða settir í nýtingarflokk til að standa undir vaxandi innanlandsþörf og útflutningi raforku um sæstreng.   

Nú verður sýnt, hvernig spár um raforkuverð árið 2025 úr öllum helztu orkulindum, nema úraníum í kjarnakljúfi, hafa lækkað á tímabilinu 2012-2016 í USD/MWh:

  • kjarnorka 2025, spá 2012: 110-160; miðg.135
  • kjarnorka 2025, spá 2016: 120-190; miðg.155
  • vindorka á hafi,spá 2012: 190-260; miðg.225
  • vindorka á hafi,spá 2016: 100-160; miðg.130
  • vindorka á landi,sp 2012: 110-180; miðg.145
  • vindorka á landi,sp 2016:  60-100; miðg. 80
  • sólarorka 2025, spá 2012: 200-380; miðg.290
  • sólarorka 2025, spá 2016:  60-100; miðg. 80
  • jarðgas 2025,   spá 2012: 140-150; miðg.145
  • jarðgas 2025,   spá 2016:  90-100; miðg. 95

Samkvæmt þessu má búast við markaðsverði raforku á Englandi árið 2025 að jafngildi um 90 USD/MWh, sem er 80 % hærra en var í raun árið 2016, að því tilskildu, að Bretar haldi áfram að niðurgreiða raforku frá vindorkuverum úti fyrir ströndinni og að þeir hætti við Hinkley Point C. 

Þetta verð, 90 USD/MWh, er fjarri því að geta staðið undir kostnaði við virkjanir  og flutningslínur á Íslandi og 1200 km sæstreng ásamt endamannvirkjum og skilað eigendunum ásættanlegum arði.  Til þess þarf verðið á Englandi að verða 130 USD/MWh, og það er mjög ólíklegt langvarandi verð þar án uppbóta úr ríkissjóði.  Ástæðan er tækniþróunin við vinnslu rafmagns á sjálfbæran hátt og mikið framboð á jarðgasi.  Árið 2025 kunna þóríum-kjarnorkuverin að hafa rutt sér til rúms og munu þá um 2030 hafa lækkað markaðsverð raforku frá því, sem er á árinu 2016.  Við þetta er að bæta, að þróun rafgeyma tekur nú stórstígum framförum, og verð þeirra lækkar að sama skapi.  Risa rafgeymasett munu gera kleift að safna og geyma umframorku frá vindorkuverum og sólarorkuverum og nota hana á háálagstímum. 

Á tímabilinu 2016-2030 ætla Bretar að loka öllum kolakyntum orkuverum sínum og öllum, nema einu, kjarnorkuverum.  Þannig falla 23 GW á brott úr stofnkerfi Breta eða tæplega helmingur aflgetunnar.  Hinkley Point C, 3,2 GW, átti að bæta þetta brottfall upp með því að verða upphafið að byggingu fleiri kjarnorkuvera.  Einingarkostnaðurinn er 7,5 USD/MW, sem er þrefaldur einingarkostnaður meðalstórra virkjana á Íslandi. 

Ef niðurstaða rýni ríkisstjórnar Theresu May verður sú að hætta við risastór orkuver knúin ákveðinni úraníum-samsætu, þá verður stefnan tekin á gaskynt raforkuver, þó að slíkt þýði, að brezk orkumál verði háðari Rússum en nú er.  Gasverin færu þá í gang, þegar vantar vind og/eða sól.  Þetta mundi þýða, að Bretar gætu ekki staðið við markmið með lögum frá 2008 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 % árið 2050 m.v. 1990, því að gaskynt raforkuver mundu þurfa að standa undir allt að 75 % af raforkuvinnslunni, þar til ný orkutækni ryður sér rúms. Um er að ræða fjölþrepa ver, CCGTS (Combined-cycle gas turbines), þar sem varmi kælibúnaðarins verður nýttur í mörgum tilvikum. 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband