Færsluflokkur: Fjölmiðlar
15.9.2020 | 10:45
Stjórnkerfi sóttvarna er ábótavant
Hlutverk Sóttvarnarlæknis er að varpa upp valkostum fyrir yfirvöld um sóttvarnaraðgerðir eða að gera til þeirra tillögur um sóttvarnir. Eðli máls samkvæmt eru tillögur Sóttvarnarlæknis gerðar út frá þekkingu hans og mati á því, sem sóttvarnarlega er bezt, en er það endilega þjóðhagslega bezt eða bezt til þess fallið að lágmarka hið samfélagslega tjón af heimsfaraldri ? Svarið markast af því við hvers konar heimsfaraldur er að eiga.
Ef heimsbyggðin hefði t.d. þurft að kljást við þann skelfilega sjúkdóm ebólu, sem geisaði í Vestur-Afríku 2013-2016, en tókst með harðfylgi að kveða niður, og nú hefur verið þróað bóluefni gegn, þá er lítill vafi á því, að beztu sóttvarnaraðgerðirnar eru jafnframt samfélagslega hagkvæmastar, af því að þær lágmarka tjónið. Ebóluveiran var bæði bráðsmitandi og bráðdrepandi. Alls er vitað, að 28´616 sýktust og af þeim létust 11´310 úr þessum innvortis blæðingasjúkdómi, sem gefur dánarhlutfall CFR=40 %, og dánarhlutfall sýktra á sjúkrahúsum var 60 %.
Til samanburðar er dánarhlutfall COVID-19 greindra á Íslandi CFR=0,5 % og IFR=0,3 %, þ.e. dánarhlutfall þeirra, sem taldir eru hafa sýkzt af SARS-CoV-2-veirunni hérlendis. Fyrir aldurshópinn 0-70 ára er IFR=0,1 %, sem er sambærilegt við það, sem þekkist í inflúenzufaröldrum. Þegar þannig háttar til með hættuna, sem af faraldri stafar, eins og COVID-19, þá aftur á móti þarf að taka tjónið af sóttvarnaraðgerðunum með í reikninginn áður en ákvörðun um þær er tekin. Gagnrýnisefnið er, að það virðist alls ekki hafa verið gert hingað til hérlendis.
Allar sóttvarnaraðgerðir eru íþyngjandi fyrir atvinnulíf og einstaklinga. Í Morgunblaðsgrein Þorsteins Siglaugssonar 11. september 2020 kom fram, að fyrir hvert 1 % viðbótarstig atvinnuleysis ykjust dánarlíkur þeirra, er fyrir því yrðu, um 6 % ári seinna. Þegar aukið atvinnuleysi í landinu af völdum núverandi sóttvarnaraðgerða, einkum á landamærunum, er athugað, kemur í ljós, að lífslíkur fleira fólks en smitazt hafa af kórónaveirunni hingað til hérlendis munu rýrna umtalsvert á Íslandi af völdum sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Þessu verða gerð betri skil síðar. Sóttvarnaraðgerðir eru þannig dauðans alvara frá fleirum en einu sjónarhorni. Hamlandi aðgerðir fyrir komufarþega eru mestar á landamærum Íslands af öllum EES-löndunum samkvæmt samantakt Evrópusambandsins. Það eitt ætti að hringja aðvörunarbjöllum á skrifstofum ráðherranna og í þingflokksherbergjum. Íslenzk stjórnvöld hafa farið offari í þessum efnum, þvert á það, sem þau fullyrða sjálf, og þannig fórnað meiri hagsmunum fyrir minni. Þessi staða ber vott um óvönduð vinnubrögð og dómgreindarleysi forsætis- og heilbrigðisráðherra.
Gunnlaugur H. Jónsson skrifaði merka grein í Fréttablaðið 10. september 2020 undir fyrirsögninni:
"Opnum landamærin fyrir farþegum sem ólíklega smita".
Hún hófst þannig:
"Í þessari grein eru færð rök fyrir breyttum aðferðum við skimun á landamærum. Við þurfum að opna landamærin, því [að] það er mikilvægt heilbrigðis- og félagsmál. Þetta snýst ekki eingöngu um sóttvarnir. Jafnmikilvægt er almennt heilbrigði í landinu, og þar er atvinnuleysi mikill áhættuliður. Rannsóknir sýna, að atvinnumissir er eitt alvarlegasta áfall, sem fullorðnir einstaklingar verða fyrir á eftir ástvinamissi og skilnaði (Holms and Rahe)."
Þarna kveður við allt annan tón en heyrzt hefur frá stjórnvöldum, og það má furðu gegna, að þau skuli vera gjörsamlega vanbúin til að fást við þetta viðfangsefni á vitrænan hátt. Gunnlaugur mælir fyrir svipaðri nálgun á viðfangsefninu og pistlahöfundur þessarar vefsíðu o.fl.
Tillaga Gunnlaugs er að skipta komufarþegum í 3 hópa eftir smithættu í heimalandi og brottfararlandi til Íslands. Farþegar í A-flokki (vegabréf og brottfararland) fari í einfalda eða enga skimun. Farþegar í B-flokki fari í tvöfalda skimun án sóttkvíar. Farþegar í C-flokki fari í tvöfalda skimun með sóttkví.
Þetta eru virðingarverðar tillögur, en flokkur B skilar takmörkuðum ávinningi m.v. flokk A, því að sýktir, sem ekki greinast í fyrri skimun, smita í 5 daga fram að seinni skimun. Á móti telur höfundur þessa pistils engan komufarþega nægilega örugglega heilbrigðan til að sleppa við skimun, nema hann geti sýnt gilt vottorð um ónæmi.
Meginhugsunin er góð, þ.e. að opna landamærin gegn nægilegum sóttvarnarráðstöfunum. Þar mætti t.d. fyrst um sinn nota viðmiðunargildi Evrópusambandsins (ESB) í skjalinu
"Travel and transportation during the coronavirus pandemic",
en það er nýgengisstuðullinn NG=50. Ef NG<50 verði skimað einu sinni og ef NG_> 50, þá verði skimað tvisvar með sóttkví á milli.
Þann 8. september 2020 birtist mjög góð grein í Morgunblaðinu eftir Karl Rútsson, rafeindavirkja og tækjahönnuð, sem hann nefndi:
"Og hvað svo og hvað svo".
Karl telur stjórnvöld hér og erlendis hafa farið offari í viðbrögðum sínum við SARS-CoV-2-veirunni með alvarlegum afleiðingum fyrir efnahag landsins og fjárhag fjölda heimila. Þetta blasir nú við, og það er með eindæmum, að yfirvöld landsins skuli ekki sjá þetta og grípa í taumana áður en óþarfa tjón verður enn þá meira.
Karl skrifaði m.a.:
"Bara á Íslandi deyja tugir úr lungnabólgu árlega, mun fleiri en hafa dáið hér úr COVID-19 til þessa. Það er ekki mikið í fréttum. Árlega deyja milli 10 og 20 manns á Íslandi í umferðarslysum, ungir sem aldnir. Það væri auðvelt að breyta því, ef beitt væri jafnharkalegum aðgerðum og gegn COVID-19. Er vilji fyrir því ?"
Þarna þrýstir Karl á kýli, sem búið hefur um sig í öllu Kófinu. Hvers vegna eru hafðar uppi íþyngjandi og kostnaðarsamar sóttvarnaraðgerðir gegn COVID-19, þegar önnur og skeinuhættari fyrirbrigði leika lausum hala ? Nú er tekið að halda því fram, að sóttvarnaraðgerðir íslenzkra stjórnvalda séu ekki öfgafullar í samanburði við útlönd. Þetta er villandi málflutningur, því að þær eru mjög öfgafullar, þegar tekið er tillit til þess, sem er í húfi. Dauðsföll á tíma Kófsins hafa hérlendis hingað til verið færri en að meðaltali á sama tímaskeiði undanfarin 3 ár.
Í Bylgju 2 hefur fjöldi samtíma innlagna á sjúkrahús ekki farið yfir 1 og yfirleitt enginn verið í gjörgæzlu. Enginn hefur látizt af völdum COVID-19 í Bylgju 2. Samt er haldið uppi sóttvarnaraðgerð á landamærum, sem er að kyrkja stærstu atvinnugrein landsins og haldið er uppi skrýtnum fjöldatakmörkunum í þreksölum og sundlaugum auk íþyngjandi fjöldatakmarkana á mannamótum, þ.á.m. í réttum landsins, og þar má helzt ekki hafa söngvatn um hönd. Öðru vísi mér áður brá.
Er yfirvöldum landsins ekki sjálfrátt ? Lögmenn hafa bent á, að slík hegðun stjórnvalda styðjist hvorki við Stjórnarskrá né stjórnsýslulög. Samt lemja stjórnvöld hausnum við steininn og þykjast vera að verja líf og heilsu landsmanna. Þau eru á kolröngu róli.
"Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig öll heimsbyggðin hefur sameinazt í allsherjar múgsefjun við að forðast jafnhættulitla veiru og hér um ræðir; líklega er hér að raungerast máttur nútíma fjölmiðla og samskiptamiðla, upplýsingarnar berast beint í vasa allrar heimsbyggðarinnar á sekúndubroti, og svo apar hver eftir öðrum og allri gagnrýni er ýtt til hliðar; hræðslan við dauðann kyndir bálið. Þó er dauðinn það eina, sem víst er, að alla hendir, og aldnir og veikburða eiga augljóslega stytzt eftir."
Það á eftir að gera Kófið upp, reyna að útskýra viðbrögð stjórnvalda og leggja mat á árangur þeirra, kostnað og tekjutap landsins. Ekki er ólíklegt, að niðurstaðan verði sú, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi víða farið á taugum, þegar þeir stóðu andspænis nýrri veiru frá Wuhan í Kína. Kostnaðurinn verður líklega metinn margfaldur á við ávinning aðgerðanna.
Það er hárrétt að reyna að einangra hópsmit, eins og Þjóðverjar hafa einhent sér í og Kínverjar gerðu með árangri í Wuhan, en þaðan og til þess að drepa heila atvinnugrein í dróma á heimsvísu og þar með stærstu atvinnugrein sumra landa er langur vegur. Það er líka sjálfsagt að verja viðkvæma hópa, beita persónulegum sóttvörnum og skimun á landamærum að vissu marki.
Með því að valda fjöldaatvinnuleysi með aðgerðum stjórnvalda eru þau hins vegar að kalla yfir þjóðfélagið mikið böl og persónulega harmleiki, sem eru líklega þungbærari en þeir, sem reynt er að forða með aðgerðunum. "The Show must go on."
"Nú er heimsbyggðin nánast rjúkandi rúst efnahagslega, og afleiðingarnar samt varla farnar að koma í ljós, framundan eru óteljandi gjaldþrot, atvinnuleysi og eignamissir, og víða í heiminum mun fólk á bezta aldri deyja í þúsundavís beint og óbeint af völdum þessara manngerðu hamfara.
Stundum er lækningin verri en sjúkdómurinn; ég held, að það eigi heldur betur eftir að koma í ljós í þessu tilfelli."
Karl Rútsson er glöggur og réttsýnn maður, sem ekki fer með neitt fleipur. Það er því miður líklegt, að yfirvöld víða hafi verið of ómarkviss og valdið miklu meira tjóni en nemur tjóninu, sem aðgerðirnar áttu að afstýra. Yfirvöld þykjast vera að bjarga mannslífum, en afleiðingar gjörða þeirra hafa valdið heimskreppu og orðið og munu verða fjölmörgum að fjörtjóni.
Á Íslandi náði sjúklingafjöldinn hámarkiinu 122 í Bylgju 2 þann 18. ágúst 2020 og hefur síðan lækkað yfir 40 %. Sjúkrahúsin eru fjarri þolmörkum. Hvað réttlætir þá hænufet, eins og hækkun aðgengis þrekstöðva og sundstöðva úr 50 % í 75 % og samkomutakmarkana úr 100 í 200 ? Hvers vegna ekki 100 % og 1000 með persónulegum sóttvörnum og tilslökun á landamærunum í von um, að meira líf færist í ferðamannaiðnaðinn og fólk verði vart minni þvingana innanlands ? Það verður að hafa í huga, að sóttvarnarráðstafanir eru rándýrar, og sumar skila þær sáralitlu.
12.9.2020 | 13:17
Er aðferðarfræðin óboðleg ?
Fréttablaðið hefur haldið uppi málefnalegri gagnrýni á sóttvarnarstefnu stjórnvalda í ritstjórnargreinum a.m.k. frá tilkynningu ríkisstjórnarinnar um tvöfalda skimun og sóttkví komufarþega til landsins, enda er það skoðun ýmissa, að í ljósi þeirra tiltölulega fáu landa, sem ferðamenn eru leyfðir frá til Íslands, sé um allt of íþyngjandi aðgerðir m.v. tilefni að ræða og keyri fram úr meðalhófi af þeim sökum.
Fréttablaðið hefur líka birt viðtal við læknaprófessorinn Jón Ívar Einarsson. Sá fræðimaður í Harvard á heiður skilinn fyrir framlag sitt til umræðunnar á Íslandi. Fyrir það hefur hann þó hlotið ómálefnalega ágjöf (Kárínu) úr Vatnsmýrinni, sem ber að harma.
Kolbrún Bergþórsdóttir skrifaði m.a. í forystugrein Fréttablaðsins 3. september 2020:
"Á tímum, eins og þessum, er mikilvægt að spyrja spurninga, en taka ekki boði og bönnum stjórnvalda, eins og algerlega sjálfsögðum hlut. Það þarf að þráspyrja, hvort aðgerðir, sem takmarka mannréttindi fólks, valda því stórfelldum fjárhagsskaða og atvinnumissi, séu raunverulega nauðsynlegar. Ein mikilvægasta spurningin er, hvort ástæða hafi verið til að leggja efnahagskerfi heimsins svo að segja í rúst vegna COVID. Það þarf að spyrja, og svörin verða að koma og mega ekki vera: "Af því bara".
Kolbrún minnist á heimshagkerfið, sem er að vísu ekki í rúst, þótt hlutar þess (ferðaþjónustan) séu það, en það er mjög illa laskað með 10 % - 20 % samdrætti vergrar landsframleiðslu (VLF) víða. Á Íslandi var höggið deyft með hrikalegum hallarekstri hins opinbera, sem er umdeilanleg hagspeki. Opinberar hlutfallstölur um dauðsföll sýktra hafa verið að lækka á þessu hálfa ári, sem COVID-19 hefur hrellt heiminn (a.m.k. 9 mánuði í Kína), en heildarfjöldinn mun nú nema um 0,9 M (M=milljón).
Árlega látast um 8,0 M manns af tóbaksneyzlu og 3,0 M manns vegna ofneyzlu áfengis. Ekki hefur höfundur þessa pistils séð áætlaðar tölur um, hversu mörgum sóttvarnaraðgerðir yfirvalda í heiminum hafi bjargað, en það eru varla fleiri en þeir, sem árlega hverfa yfir móðuna miklu af völdum glímu sinnar við Bakkus. Sóttvarnaraðgerðir yfirvalda á Íslandi valda meiri mannlegum harmleik en þær hindra og kunna að valda fleiri dauðsföllum en þær koma í veg fyrir. Þetta er vegna hinna voveiflegu afleiðinga, sem sóttvarnaraðgerðir hafa á efnahag fyrirtækja og fjárhag einstaklinga.
Að missa atvinnuna er eitt versta áfallið, sem fólk verður fyrir, og það hefur margvísleg neikvæð áhrif á heilsufarið. Að skrúfa fyrir megnið af ferðamannastrauminum til landsins 19.08.2020, sem þó var áður stórlega skertur, er dæmi um kolranga aðgerð og langt utan þess meðalhófs, sem skynsamlegast er að viðhafa í þessum efnum. Trilljónir bandaríkjadala hafa farið í súginn á heimsvísu í þessum faraldri á 6 mánaða tímabili, en árangurinn virðist vera sorglega lítill m.v. tilkostnaðinn, svo að ekki sé minnzt á þá mannlegu harmleiki, sem stjórnvöld hafa valdið með aðgerðum sínum (fjárhagshrun).
Til að færa sig á heimaslóðir með þetta mál er rétt að vitna í forystugrein Fréttablaðsins 4. september 2020, sem Hörður Ægisson skrifaði og hann nefndi:
"Traustið farið".
"Ráðherrar hafa fullyrt, að ekki sé stefnt að veirufríu samfélagi, en með síðustu aðgerðum, þegar landamærum var í reynd lokað, vegna þess að ekki náðist að stöðva alfarið, að sýktir einstaklingar kæmust inn í landið, fer hljóð og mynd ekki lengur saman.
Sjónarmið, sem byggjast að hluta á órökstuddri hræðslu og kvíða, eru nú látin ráða för. Afleiðingarnar af slíkri stefnu, sem eru síður sýnilegar og koma fram yfir lengri tíma, eiga eftir að valda gríðarlegu samfélagslegu tjóni, m.a. á lífi og heilsu fólks, og snerta yngra fólk frekar en eldra.
Við vitum nú, að dánartíðni af völdum veirunnar er mun minni en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir. Samkvæmt nýrri rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar er dánartíðni þeirra, sem sýkjast hérlendis, um 0,3 %, en 0,1 % hjá þeim, sem eru yngri en 70 ára. Slíkar staðreyndir hljóta að skipta lykilmáli við ákvarðanir um, hversu langt eigi að ganga í sóttvarnaraðgerðum. Staðan er sú hin sama í öðrum ríkjum. Tíðni smits hefur vissulega aukizt, en á sama tíma er ekki að merkja neina aukningu hjá þeim, sem veikjast alvarlega eða deyja. Ungu fólki, stærsta hópnum sem er að greinast, stendur ekki alvarleg ógn af veirunni - og það er engum greiði gerður með því að ala á hræðsluáróðri, sem fullyrðir hið gagnstæða. Fólk er ekki fífl, og ef gögnin sýna annað en skilaboð stjórnvalda, þá mun almenningur hætta að taka mark á þeim.
Ljótt er, ef satt er, að sjónarmið, reist á "órökstuddri hræðslu og kvíða" ráði nú för sóttvarnaryfirvalda. Gera þau sér grein fyrir því gríðarlega tjóni, sem þau hafa með sóttvarnaraðgerðum, samþykktum af heilbrigðisráðherra með handayfirlagningu ríkisstjórnar, valdið þjóðinni, efnahagskerfi hennar og hag og heilsu einstaklinganna ? Hver er ávinningur þessara aðgerða í fækkun sýkinga, fækkun innlagna á spítala, fækkun gjörgæzlusjúklinga og fækkun dauðsfalla ? Hvaða áhrif mundi það hafa á nýgengi COVID-19, ef fjöldatakmarkanir sóttvarnayfirvalda að sundlaugum og líkamsræktarstöðvum yrðu afnumdar strax og skorður við hópamyndun, innan og utanhúss, t.d. í réttum, hækkaðar úr 200 í 1000 gegn grímu- og hanzkaskyldu, þar sem fleiri en 200 koma saman innanhúss ?
Sennilega myndi innlögnum ekkert fjölga, og lítið sem ekkert hægja á lækkun nýgengis. Í bylgju #2 hefur heildarnýgengisstuðull, NG, aldrei nálgazt viðmið Evrópusambandsins, ESB, um lönd, sem óráðlegt er talið að ferðast til og taka við farþegum frá án skimunar, en það er NG>50. Þetta eitt og sér bendir til brots yfirvalda á meðalhófsreglu Stjórnsýsluréttar, því að hingað má aðeins fólk frá löndum, völdum af ESB, ferðast. ESB setur ekki skilyrði um neina skimun á landamærum. Þegar jafneinfalt ákvörðunartökulíkan er notað og hérlendis, þ.e. að fara þá leið, sem Sóttvarnalækni finnst gefa bezta sóttvarnarlegu niðurstöðu hverju sinni, verður meðalhófsreglan óhjákvæmilega í stöðugu uppnámi.
Mikilvægast fyrir efnahag landsins er þó að móta stefnu í sóttvarnarmálum landamæranna. Það er algerlega óráðið ferli, sem virðist ráða því, hvaða skilyrðum komufarþegar hafa sætt síðan 15.06.2020 og munu sæta. Fálm út í loftið mætti segja. Þetta ástand hefur kollsteypt ferðaþjónustunni í landinu, valdið og mun valda persónulegum harmleikjum og efnahagskreppu í landinu. Að láta sem svo, að "bezta sóttvarnaraðgerðin" sé sjálfsögð lausn á flókinni stöðu, er ofeinföldun og má líkja við hegðun strútsins, sem velur þá aðgerð, þegar hann mætir vanda, að stinga hausnum í sandinn.
Það á að setja reglu um einfalda skimun allra komufarþega og smitgát fram að niðurstöðu hennar, á meðan fjöldi sjúklinga COVID-19 í landinu er undir fjöldanum X, en þá verði sett á núgildandi tvöfalda skimun. Þennan fjölda X þarf að reikna út, hver má vera án þess að hverfa aftur til tvöfaldrar skimunar á landamærum. Hann er vafalaust miklu hærri en nokkurn tímann varð í s.k. Bylgju 2 og sennilega hærri en hámark veikra af COVID-19 í Bylgju 1.
Þann 5. september 2020 birtist viðtal við Jón Ívar Einarsson, læknaprófessor við Harvard-háskóla í Fréttablaðinu. Hér verður gripið ofan í það:
""Það hefur sumum fundizt undarlegt, að kvensjúkdómalæknir sé að tjá sig um þessi mál, en ég er líka með meistaragráðu í lýðheilsufræði frá Harvard og doktorsgráðu frá HÍ og hef verið á kafi í vísindastarfi í mörg ár. Ég er því frekar að tala út frá þeirri reynslu og sjónarhorni og velti vöngum yfir því, hvaðan þessi gagnrýni kemur. Eru þetta fordómar gagnvart konum ? Væri hún hin sama, ef ég væri hjartalæknir ?, spyr Jón."
Framlagi Jóns Ívars til umræðunnar á Íslandi ber að fagna, enda er það á meðal þess fróðlegasta, sem hérlendis hefur komið fram. Önugheit út í hann vegna starfsgreinar hans eða starfsstaðar eru óskiljanleg og ókurteisleg, jafnvel götustráksleg, að öllu leyti.
"Hann bendir á, að gögn um það, hve margir, sem greinzt hafi, hafi látið lífið vegna sjúkdómsins (e. Case Fatality Rate) [CFR], sé um 3 %. "Og er reyndar líka u.þ.b. 3 % fyrir inflúenzu. Þetta skiptir máli vegna þess, að það er enginn að segja, allra sízt ég, að COVID sé ekki alvarlegur sjúkdómur, en það þarf samt að byggja allar ráðstafanir og ákvarðanir á raunverulegum tölum.""
Ef CFR fyrir COVID-19 og inflúenzu eru jafnar, þá er réttmætt að spyrja yfirvöld í landinu, hvernig standi á margfalt umfangsmeiri og dýrari sóttvarnaraðgerðum vegna annarrar pestarinnar en ekki hinnar, eða hvort búast megi við nákvæmu eftirliti með því á landamærunum í vetur, að komufarþegar beri ekki með sér flenzuveiruna ? Í þessu ljósi eru síðustu ráðstafanir um hækkun fjöldatakmarkana úr 100 í 200 og í sundlaugum og þreksölum úr 50 % í 75 % hégómlegar og án annars rökstuðnings en um fækkandi sjúklinga og lækkandi nýgengi. Hvers vegna þá ekki 1000 og 100 %.
"Stjórnmálamenn þurfa að hafa réttar upplýsingar, svo að þeir geti tekið ákvarðanir, sem eru í meðalhófi, sem eru beztar fyrir heildina."
Stjórnmálamenn þurfa meira en réttar upplýsingar. Þeir þurfa verkfæri, líkan, sem reiknar fyrir þá bezta valkostinn hverju sinni m.t.t. lágmörkunar hins samfélagslega tjóns. Hið frumstæða tréhestalíkan heilbrigðisráðherra gefur oftast ranga niðurstöðu, og í núverandi stöðu eins COVID-19 sjúklings á spítala af um 70 sjúklingum og NG tæplega 20 (nýgengi) gefur tréhestalíkanið kolranga niðurstöðu, sem leiðir til gríðarlegs þjóðhagslegs taps. Tréhestalíkanið varpar tillögunni, sem sóttvarnarlæknir telur þjóna sóttvörnum bezt, yfir á lausnarhliðina sem beztu lausn. Forsætisráðherrann telur sömuleiðis tréhestalíkanið fullnægjandi. Ferðamálaráðherrann fær ekki rönd við reist.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt, að núverandi sóttvarnarfyrirkomulag á landamærum og annars staðar verði ekki látið standa deginum lengur en nauðsyn krefur. Hann ætti núna að berja í borðið og segja nóg komið af öfgaaðgerðum. Héðan í frá samþykki hann ekki annað en það, sem flokka má til meðalhófs, og sýna verði fram á lágmörkun samfélags kostnaðar með þeirri leið, sem lögð er fram til samþykktar.
Síðan víkur Jón Ívar að verðmætamati á lífi, sem yfirleitt er reynt að víkjast undan, nema valþröng komi upp í neyðarástandi:
""En svo er önnur umræða, sem er eiginlega enn þá erfiðari: eru öll líf jafndýrmæt ? Auðvitað er fyrsta hugsun allra, sem spurðir eru: já. En hins vegar má alveg færa rök fyrir því, að líf konu á þrítugsaldri, sem er tveggja barna móðir, er það kannski meira virði en líf 85 ára gamallar konu ?"
Jón Ívar segir, að þessi umræða sé fyrirferðarmikil innan læknavísindanna. Hann bendir á, að við sem samfélag höfum þegar sett ákveðið fjárhagslegt mat á líf.
"T.d. ef það verður dauðsfall af læknamistökum við fæðingu barns, versus ef það verða læknamistök hjá einstaklingi, sem er á áttræðisaldri, að þá eru skaðabæturnar margfalt hærri í tilfelli barnsins, því [að] okkur finnst sem samfélagi, að líf þess sé þá meira virði í raun. En þetta er anzi flókin umræða og tilfinningahlaðin. Það er kannski ekki alveg rétt að taka eitt dauðsfall á móti einu dauðsfalli; það flækir þessa umræðu svo frekar"."
Þegar hannað er líkan til að aðstoða við ákvarðanatöku um sóttvarnaraðgerðir, þarf að taka bæði meðalkostnað af sýkingu og dauðsföllum með í reikninginn. Þessar vangaveltur eiga þess vegna erindi inn í umræðuna.
9.9.2020 | 11:38
Of kröftugt meðal fyrir sjúklinginn
Alræmt er orðtakið: "meðalið læknaði sjúkdóminn, en drap sjúklinginn". Þótt furðulegt megi heita, hefur ríkisstjórnin valið þá leið í smitvörnum gegn COVID-19, sennilega af dómgreindarleysi fremur en vilja til að leggja fyrirtæki í rúst og senda fjölda manns á vonarvöl atvinnuleysis.
Afleiðingin af slíku er auðvitað bullandi hallarekstur ríkissjóðs, viðskiptahalli og fjármálalegur óstöðugleiki með gengisfalli ISK. Svona gera menn ekki, nema önnur neyð og öllu verri skapist annars. Engin slík þróun var í augsýn um miðjan ágúst 2020, þegar tilkynnt var um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um tvöfalda skimun komufarþega fyrir COVID-19 og 5 daga sóttkví, þar til niðurstaða beggja skimananna væri ljóslega neikvæð.
Það er hræðsluáróður, að ella hefði eðlileg starfsemi í landinu verið í húfi. Þá er gengið út frá öfgafullum og ónauðsynlegum viðbrögðum við lítils háttar fjölgun smita, sem trufla mundu eðlilega starfsemi í landinu algerlega að þarflausu. Stefnumið um Ísland laust við SARS-CoV-2 er óraunhæft, og sú stefna útheimtir aðgerðir, sem engin stoð er fyrir, hvorki í Stjórnarskrá né lögum. Slík öfgastaefna kostar margfalt meira en hún sparar. Alþingi þarf að taka í taumana, þegar það kemur næst saman.
Kolbrún Bergþórsdóttir hefur orðið þess áskynja, að stjórnmálamenn saga nú greinina, sem margir sitja á, frá stofninum, sem er tekjustreymi frá útlöndum um ferðaþjónustuna. Hún hefur áttað sig á, að "something is rotten in the state of Danemark", þar sem Danmörk í þessu tilviki stendur fyrir Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu. Leiðari hennar í Fréttablaðinu 3. september 2020 hét "Spurningar" og hófst þannig:
"Þótt fréttaflutningur bendi æði oft til annars, þá eru jarðarbúar ekki að stráfalla úr COVID, þótt pestin sé vissulega skæð. Tölur yfir það, hversu margir hafa látizt, eru háar, svona einar sér, en þegar þær eru settar í samhengi við fjölda jarðarbúa, má velta fyrir sér, hvort heimsbyggðin, og þar með fjölmiðlar, hafi hreinlega farið á taugum á síðustu vikum og mánuðum. En sumt má víst ekki tala um, og vangaveltur í þessa átt eru sízt fallnar til vinsælda nú um stundir."
Þetta er rétt athugað. Óaflátanlegar fréttir af smitum, mannslátum og yfirkeyrðum sjúkrastofnunum erlendis í vetur og vor voru til þess fallnar að skapa almennan ótta og gagnrýnisleysi á sóttvarnaraðgerðir. Nú er ráðrúm til að skoða tölfræði Kófsins og setja tölur þess í samhengi til að átta sig á því, hvers konar skepna þetta er (Wuhan-veiran).
Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, birti lofsverðar upplýsingar í grein sinni:
"Hversu líklegt er að deyja af völdum Covid ?"
í Morgunblaðinu, 3. september 2020. Hann nefnir til sögunnar stærðirnar IFR ("Infection Fatality Rate"), sem er hlutfall sýktra (ekki aðeins greindra), sem deyja, og CFR (Case Fatality Rate), sem er hlutfall greindra, sem deyja. Ný rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) bendir til, að hérlendis sé IFR=0,3 %, en hins vegar er CFR=0,47 %. Hjá fólki yngra en sjötugu er IFRy70=0,1 %. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, áætlaði dánartíðni af völdum COVID-19 sjúkdómsins 3,2 % í marz 2020, líklega á grundvelli talna frá Kína. Daglegar dánarhlutfallstölur frá Kína voru reyndar þegar í upphafi grunsamlegar, því að þær hefðu getað verið fyrirskipaðar, svo stöðugar voru þær. Þessi áætlun WHO er meira en tífalt íslenzka dánarhlutfallið, IFR. Nú reynist dánarhlutfallið, IFR, afar misjafnt eftir löndum og einna lægst á Íslandi.
Fróðlegt er að bera dánarhlutfall af völdum COVID-19 saman við dánarhlutfall af völdum inflúenzu. Á Íslandi er IFRi: 0,1 %-0,2 %, þrátt fyrir bólusetningar. Það má segja, að dánarhlutfallið sé sambærilegt fyrir þessa 2 sjúkdóma, en eftirköst eru algengari og e.t.v. alvarlegri eftir COVID-19. Langvinn og margvísleg eftirköst eru þó algeng í kjölfar veirusjúkdóma.
Í ljósi þessa má draga þá ályktun, að ekkert samræmi sé í tillögum sóttvarnaryfirvalda til ríkisstjórnarinnar um sóttvarnaraðgerðir, þegar litið er til hættunnar af hinum mismunandi sjúkdómum, nema gagnvart umönnunarstofnunum veiklaðra einstaklinga, COVID-19 sækir þá harkalega heim. COVID-19 er þeim hættulegur sjúkdómur, og þeir þarfnast sérstkrar verndar. Að öðrum kosti munu þeir yfirlesta sjúkrahúsin. Þessi þáttur er til fyrirmyndar hérlendis og er ein skýringin á litlu sjúkrahúsálagi og lágu dánarhlutfalli sýktra af COVID-19.
Jón Ívar Einarsson rekur dánartíðnina eftir aldri:
"T.d. sýnir nýleg rannsókn, þar sem tekin eru saman gögn frá mörgum löndum (m.a. Íslandi), að IFR fyrir 0-34 ára er 0,01 % (1/10´000), og 35-44 ára 0,06 % (1/1´667). Hins vegar er IFR fyrir aldurshópinn 75-84 ára 7,3 % og fyrir 85 ára og eldri 27,1 %. Þetta tekur ekki inn í myndina áhættuþætti. Þannig myndi hraustur ungur einstaklingur hafa enn lægri dánartíðni, en eldri einstaklingur með undirliggjandi sjúkdóma enn hærri dánartíðni."
Hvaða ályktanir ber að draga af þessari tölfræði Jóns Ívars Einarssonar ? Í fyrsta lagi eru sóttvarnarráðstafanir á landamærunum fram úr öllu hófi íþyngjandi, því að þær hafa kippt fótunum undan ferðaþjónustunni í landinu og valdið samfélaginu milljarðatjóni án teljandi sparnaðar, jafnvel þótt sýna mætti fram á, að nýgengisstuðullinn fari lækkandi vegna miklu færri erlendra ferðamanna í landinu. Leggja ætti af takmarkanir á ferðafrelsi til og frá landinu, þ.e. öllum lögmætum farþegum verði heimil för, gegn einfaldri skimun og smitgát fram að niðurstöðu ellegar 14 daga sóttkví á kostnað ferðalangs.
Spyrja má, hvort ætlunin sé að setja samfélagið á annan endann, ef hingað berst skæður flenzufaraldur í vetur, en dánarlíkur af völdum slíks eru svipaðar og af COVID-19.
Í öðru lagi þarf að beina sóttvörnum aðallega að eldri borgurum og að fólki með langvarandi sjúkdóma og/eða veiklað ónæmiskerfi.
Í þriðja lagi eiga íþyngjandi almennar sóttvarnaraðgerðir innanlands á borð við 200 manna samkomutakmörkun og 75 % fjöldatakmörkun á sundstöðum og í þreksölum engan rétt á sér lengur. Engin rök standa gegn afnámi þessara takmarkana gegn fullri smitgát á borð við andlitsgrímur og plasthanzka á viðburðum yfir 200 manns og sótthreinsun hvers tækis í þreksölum eftir brúk. Sjálfsagt er að viðhafa 1,0 m fjarlægðarreglu þar. Sótthreinsun í verzlunum er líka mikilvæg, enda mun hún jafnframt draga úr umgangspestum á vetri komanda. Á veitingahúsum þarf að gæta að smitgát með grímum og plasthönzkum starfsfólks.
Einstaklingsbundnar sóttvarnarráðstafanir eru nauðsynlegar til að s.k. smitstuðull, þ.e. fjöldi þeirra, sem hver sýktur smitar, verði minni en 1 að jafnaði. Þannig verða veirur, sem til landsins berast, og það munu þær óhjákvæmilega gera, skaðlitlar. Bakkus gefur skít í sóttvarnir, og hans staðir verða að taka afleiðingunum af aðgangstakmörkunum. Verst, að sóttvarnir skána ekki undir yfirborði jarðar.
Hér kemur meira úr grein Jóns Ívars:
"Það er hlutfallslega fleira yngra fólk að smitast í þessari bylgju, og það skýrir sennilega að mestu, að hún virðist vægari. Nýleg rannsókn frá Oxford-háskóla, byggð á gögnum Medical Research Council Biostatistics Unit á Englandi, sýnir líka, að IFR hefur farið lækkandi í sumar, en á tímabilinu júní til ágúst 2020 lækkaði IFR úr u.þ.b. 0,7 % niður í 0,3 % og virðist enn á niðurleið. Það er ekki ólíklegt, að þetta sé a.m.k. að hluta vegna þess, að nú séu hlutfallslega fleiri ungir og hraustari einstaklingar að sýkjast."
Nú eru þjóðfélögin að aðlagast SARS-CoV-2 veirunni með því að halda uppi sérstökum smitvörnum fyrir þá, sem fremur ólíklegir eru til að ráða niðurlögum veirunnar sjálfir. Þá hafa og komið fram lyf, sem virðast hjálpa sjúklingum í baráttunni við veiruna. Það eru hins vegar engin "Wunderwaffen" eða dásemdarvopn handan við hornið. Ekki er skynsamlegt að búast við viðurkenndum bóluefnum innan árs, því að langan tíma tekur að ganga úr skugga um virkni og skaðleysi bóluefnis og að framleiða það í magni, sem dugi til hjarðónæmis í samfélögum.
"IFR er einn af þeim þáttum, sem þarf að taka tillit til, þegar teknar eru ákvarðanir um samfélagslegar aðgerðir út frá heildrænu sjónarmiði. Vissulega eru afleiddir kvillar Covid líka mikilvægir, og þarf að rannsaka [þá] betur. Það er hins vegar ekki heillavænlegt að keyra á hræðsluáróðri til lengdar, því [að] fólk á Íslandi er skynsamt og vel upplýst, og ef gögn styðja ekki skilaboðin, þá fjarar smám saman undan samstöðunni. Það er líka mikilvægt, að stjórnmálamenn taki ákvarðanir sínar, byggðar á nýjustu og beztu upplýsingum."
Ríkisstjórnin, þá aðallega heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra, hafa algerlega brugðizt í þessu máli. Ráðherrarnir hafa ekki haft uppi neina tilburði til að leggja sjálfstætt mat á málið. Ráðherrarnir ættu þó að vita af biturri reynslu áranna 2009-2013, þegar þær sátu í ríkisstjórn, að þegar fjarar undan ríkisstjóði, þá er þess skammt að bíða, að fjari undan fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Ríkisstjórnin hafði enga tillögu frá Sóttvarnalækni um næsthörðustu atlögu að ferðaþjónustunni næst á eftir 14 daga sóttkví komufarþega. Hún valdi valkost sinn úr vopnabúri hans. Nú hefur hann gert tillögur um tilslakanir innanlands 7. september 2020, sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt, sem ganga allt of skammt m.v. stöðu sjúkdómsins innanlands. Þann 4. september 2020 var enginn á sjúkrahúsi af 96 sjúkum, 7 ný smit, 579 í sóttkví og nýgengi innanlands, NGi=16,6. Það er brýnt, að heildrænt mat komi á ákvarðanatöku í þessum efnum.
Enn bólar ekkert á hugbúnaði, sem gerir stjórnendum kleift að ákvarða aðgerðir út frá lágmörkun samfélagslegs kostnaðar. Hvers vegna í ósköpunum er ekki smíðað slíkt líkan ? Það er hundódýrt m.v. þann geigvænlega kostnað, sem sóttvarnaraðgerðir hafa í för með sér. Sóttvarnarlæknir bleytir þumalfingurinn, rekur hann upp í loftið og við liggur, að heilbrigðisráðherra jesúsi sig í bak og fyrir af hrifningu yfir hinni "faglegu" niðurstöðu. Þetta eru frumstæðir stjórnarhættir, sem við getum varla verið þekkt fyrir á árinu 2020.
"Það er áfram mjög mikilvægt að halda áfram aðgerðum innanlands, þ.e.a.s. iðka smitvarnir, vernda viðkvæma hópa o.s.frv. Mér finnst raunar sums staðar, að ekki hafi verið nægilega langt gengið, t.d. ættu þeir, sem sinna aðhlynningu á hjúkrunarheimilum alltaf að vera með grímu í vinnunni. Það var ekki gert lengi vel, en vonandi hefur það beytzt. Hins vegar þykja mér aðgerðir á landamærum ekki í samræmi við þá stöðu, sem við erum í nú, og utan meðahófs."
Undir þetta skal taka. Við eigum að gæta vel að persónulegum smitvörnum, en þegar kemur að fjöldatakmörkunum af öllu tagi, nema líklega á skemmtistöðum, þar sem áfengissala er ótæpileg, þá ber að fara mjög varlega. Má ekki ná sama árangri með áfnámi fjöldatakmarkana gegn grímuskyldu og plasthanzkaskyldu, þar sem fleiri en 200 m koma saman ?
Ástæðan fyrir þessum vangaveltum eru nýjar upplýsingar um dánarlíkur, og að við verðum að fara að venja okkur við að lifa með þessari veiru og þá sem eðlilegustu lífi, eins og við erum vön.
Í lok greinarinnar reit Jón Ívar, læknir, og skal taka undir þann málflutning heilshugar og þakka honum fyrir framlag hans til umræðunnar á Íslandi, sem þó hefur ekki gengið kárínulaust fyrir hann:
"Við vitum, að það er óraunhæft, að við [munum] búa í veirufríu landi, og neikvæð umræða, sem elur á ótta, er ekki heillavænleg til langframa.
Ég tel, að nýjustu gögn bendi til, að dánartíðni Covid hafi verið ofmetin, en við erum nú að ganga í gegnum eitt mesta efnahagsáfall sögunnar og því afar mikilvægt að hlúa að innviðum, andlegri heilsu og lágmarka skaðann fyrir sem flesta."
4.8.2020 | 11:07
Orkumál og orkunýting á umbreytingaskeiði
Það hefur komið fram, að rekstur álvers ISAL í Straumsvík er orðinn fjárhagslega ósjálfbær. Meginástæðan er hrun álmarkaðanna, en við þær aðstæður verður hár innanlandskostnaður að óbærilegum klyfjum fyrir eigandann, eins og mrdISK 13 í tap árið 2019 ber vitni um. Mjög hátt raforkuverð, hið langhæsta til stóriðjustarfsemi á Íslandi um þessar mundir, vegur þar þyngst á metunum.
Sömu sögu er að segja úr kísilgeiranum, bæði járnblendinu og kísilmálmframleiðslunni. Elkem á Íslandi berst í bökkum með orkuverð, sem gerðardómur dæmdi og Landsvirkjun er óánægð með og hefur lýst áformum um hækkunarkröfur við fyrsta tækifæri. Verði þeirri ósanngjörnu kröfu haldið til streitu, mun Elkem á Íslandi stöðva starfsemi sína á Grundartanga, ef rétt er ráðið í yfirlýsingu nýs forstjóra fyrirtækisins. PCC á Bakka hefur dregið stórlega saman seglin mun nú jafnvel hafa verið lokað alveg tímabundið, þótt kaupskylda raforku sé þar við lýði.
Nú hafa gagnaversrekendur bætzt í hóp bónbjargarmanna. Af frétt Markaðarins 15. júlí 2020 að dæma óttast þeir yfirvofandi hækkun raforkukostnaðar á Íslandi á næstunni. Í öllum tilvikum er hér um að ræða viðskiptavini Landsvirkjunar. Verðlagsstefna hennar er hörð og ósveigjanleg og virðist beinlínis ætluð til að ganga af starfsemi viðskiptavinanna dauðri. Landsvirkjun er í krafti stærðar sinnar einokunarfyrirtæki, sem nýtur einskis aðhalds frá samkeppni vegna þess, að aðrir leikendur á sviðinu hafa ekki bolmagn til að taka við stórum viðskiptavinum. Við þessar aðstæður blasir við, hversu forkastanlegt það er af stjórn Landsvirkjunar að taka upp þann þátt orkustefnu Evrópusambandsins, ESB, í Orkupakka #3, sem fjallar um, að hvert fyrirtæki eigi að haga starfsemi sinni til hámörkunar tekna sinna. Þetta felur reyndar í sér fjárfestingar til að mæta aukinni aflþörf og um leið að auka markaðshlutdeild sína, en undarlega lítið ber á nýjum virkjunaráformum Landsvirkjunar nú, þótt ytri aðstæður séu hinar hagstæðustu til þess. Gælt er við vindorkuver, sem er fáránleg fjárfesting á Íslandi með gríðarlegum umhverfisspjöllum og stóru kolefnisspori á orkueiningu yfir endingartímann.
Nú hafa Rio Tinto Tinto/ISAL kært Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins fyrir misnotkun á markaðsráðandi aðstöðu sinni. Að þessu hlaut að koma. Tímasetningin tengist slitum á samningaviðræðum fyrirtækjanna um endurskoðun raforkusamnings og kann að vera upphafið að miklu lögfræðiþrefi fyrirtækjanna í tengslum við uppgjör þeirra á milli vegna lokunar ISAL áður en núgildandi raforkusamningur rennur sitt skeið á enda árið 2036.
Erfiðleikar orkukræfs iðnaðar eru alþjóðlegir. Álverksmiðjur á Nýja-Sjálandi hafa aðallega selt ál til Japans, en kínverskar álverksmiðjur eru nær þeim markaði, svo að þær hafa náð þar undirtökunum. Er það ólíkt Japönum að láta Kínverja komast í ríkjandi stöðu með svo öryggislega mikilvæga vöru sem ál er. Engu að síður hefur Rio Tinto nú lokið við úttekt sína á rekstraraðstæðum verksmiðju syðst á syðri eyjunni við Tiwai Point og komizt að þeirri niðurstöðu, að verksmiðjan beri sig ekki með núverandi raforkukostnaði á MWh, sem er mjög svipaður og í Straumsvík. Verksmiðjurnar eru á svipuðum aldri, en Tiwai Point er líklega með töluvert lægri rekstrarkostnað á framleiðslueiningu, því að hún er með 77 % meiri framleiðslugetu og aðdráttarleiðir hennar fyrir aðalhráefnin eru miklu styttri en Straumsvíkurverksmiðjunnar, þar sem Ástralía er á næsta leiti. Launakostnaður á hvert framleitt t er nánast örugglega lægri á Nýja-Sjálandi en hérlendis, enda er árlegt tap í Tiwai Point miklu lægra en í Straumsvík.
Sams konar úttekt á rekstraraðstæðum ISAL er sennilega lokið og þess vegna vitað, hvert er hámarksraforkuverð, sem verksmiðjan getur staðið undir. Það hefur greinilega enn ekki náðst samkomulag á milli RT/ISAL og Landsvirkjunar um að framlengja líf verksmiðjunnar til 2036, þegar gildistíma raforkusamnings lýkur. Lýsir það vel öngstrætinu, sem íslenzk iðnaðar-, orku- og atvinnustefna er í, að framtíð þessa stóra vinnustaðar og gjaldeyrislindar skuli hanga á bláþræði stefnu Landsvirkjunar, sem á sér engan bakhjarl í eigendastefnu frá Alþingi. Er alveg stórfurðulegt og ámælisvert, að iðnaðarráðherra skuli við þessar grafalvarlegu aðstæður í atvinnumálum landsins skýla sér á bak við sinn Orkupakka #3, sem setur Landsreglara í þá stöðu, sem ráðherra gegndi áður varðandi orkumálin. Með hliðsjón af miklum afskiptum ríkisstjórna innan EES á þessum Kófstímum á hún ekki að hika við að láta til sín taka í þessu máli, ef hún hefur bein í nefinu til sáttaumleitana.
Þórður Gunnarsson á Fréttablaðinu var með umfjöllun um þessi mál í Markaðnum 15. júlí 2020 undir fyrirsögninni:
"Rekið með minna tapi en Straumsvík".
Þar gat m.a. að líta þetta:
"Miklar deilur áttu sér stað á Nýja-Sjálandi fyrir byggingu álversins, en ráðast þurfti í miklar virkjanaframkvæmdir á Manapouri-vatnasvæðinu til að útvega álverinu rafmagn. Álverið er kaupandi um 13 % allrar framleiddrar raforku á Nýja-Sjálandi, en nú þarf að finna þeirri orku nýjan farveg. Að sama skapi er þetta skellur fyrir hið staðbundna hagkerfi álversins, en talið er, að um 2500 bein og óbein störf muni tapast vegna lokunar álversins."
Þarna er sem sagt um að ræða meðalstórt álver, sem knúið er raforku frá vatnsorkuveri. Álverseigandinn fær líklega ekki hærra verð fyrir sína vöru, þótt hún sé framleidd með sjálfbærum hætti. Á Nýja-Sjálandi er hins vegar nóg af kaupendum raforkunnar, sem verður á lausu, öfugt við það, sem hér á Íslandi verður uppi á teninginum, ef ISAL verður lokað. Í grein Þórðar Gunnarssonar er haft eftir ónafngreindum, að í Kanada greiði Rio Tinto 26 USD/MWh að flutningsgjaldi meðtöldu til álvera sinna. Það er ívið lægra en RT/ISAL hefur farið fram á við Landsvirkjun og reyndar gert að úrslitaatriði fyrir áframhaldandi rekstri verksmiðjunnar og fjárfestingum í henni til að halda henni vel gangfærri í 16 ár. Að Landsvirkjun skuli þrjózkast við sýnir, að hún er að verðleggja sig og þar með Ísland út af markaðinum. Standa ríkisstjórn og Alþingi að baki þeirri stefnumörkun ríkisfyrirtækisins ?
Að lokum þessi tilvitnun í greinina:
""Við höfum ekki enn náð samkomulagi við Landsvirkjun um raforkusamning, sem gerir ISAL samkeppnishæft", sagði Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi."
Þessi stutta tilvitnun sýnir, að skessur Landsvirkjunar leika sér nú með fjöregg iðnaðarins á Íslandi af fullkominni léttúð og skilningsleysi á þjóðhagslegu mikilvægi hans og raunverulegu hlutverki Landsvirkjunar.
Eitt af uppátækjum núverandi forstjóra Landsvirkjunar var að heimta afnám tengingar raforkuverðs við álverð við endurskoðun samninga. Þetta er þó eina eðlilega tengingin, sem miðar að því að tryggja sem mest raforkukaup álversins í niðursveiflu og hlutdeild orkusalans í ávinningi uppsveiflunnar. Þessi tenging tíðkast út um allan heim og er jafnan með gólfi og þaki. Landsvirkjun álpaðist til að leysa þessa tengingu af hólmi í samningum við Norðurál árið 2016 með tengingu við norðvesturhluta Nord Pool raforkumarkaðarins í Evrópu, sem hefur sáralitla tengingu við hinn alþjóðlega álmarkað. Í ár hefur Landsvirkjun goldið fyrir þetta og tapað stórlega, enda ekki gert neinar ráðstafanir til að jafna út sveiflurnar á þessum markaði með tryggingum. Það er eins og viðvaningar í fjármálastjórnun séu í sandkassaleik í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbraut.
Í Markaðnum 1. júlí 2020 var m.a. fjallað um þetta undir fyrirsögninni:
"Tekjufall gæti orðið töluvert á árinu":
"Mikil lækkun á Nord Pool-raforkumarkaðinum í Evrópu kemur illa við Landsvirkjun, en nýjasti raforkusamningur fyrirtækisins við Norðurál, sem tók gildi í nóvember sl. [samkvæmt samningi frá 2016] tekur mið af því verði. Meðalverð í nóvember sl. var um 42 EUR/MWh, en meðalverð í júní á þessu ári [2020] var ríflega 3 EUR/MWh. Landsvirkjun hefur ekki keypt neinar áhættuvarnir gegn sveiflum á Nord Pool-verðinu, sem hefur lækkað um meira en 90 % síðastliðið hálft ár."
""Norðurál kaupir u.þ.b. 1,6 TWh af okkur á hverju ári og eru því kaupandi um 11 % af okkar framleiðslu, þó [að] þeir hafi aldrei náð sama hlutfalli í okkar tekjum. En það hefur komið mjög á óvart, hvernig Nord Pool hefur þróazt.
Þarna er ákveðinn forsendubrestur, sem hefur átt sér stað, sem tengist inngripum stjórnvalda með að loka mörkuðunum", segir Hörður.
Auk fullra miðlunarlóna, einkum í Svíþjóð og í Noregi, hefur mikill samdráttur eftirspurnar rafmagns í Evrópu þrýst rafmagnsverði niður á við."
Lækkun raforkuverðs var hafin í Evrópu áður en kórónuveiran hélt innreið sína þar og stafaði af niðursveiflu efnahagslífsins, sem viðskiptastríð Kína og Bandaríkjanna átti þátt í að framkalla, og af auknu framboði umhverfisvænnar orku. Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu gagnavera á Íslandi, en gagnaver í Evrópu kaupa þar eðlilega raforku á verði, sem dregur dám af Nord-Pool heildsöluverði. Í Markaðnum 15. júlí 2020 var fjallað um þetta undir fyrirsögninni:
"Staða gagnavera fer versnandi".
Upphaf umfjöllunarinnar var þannig:
"Lágt raforkuverð á samkeppnismörkuðum íslenzkra gagnavera skapar talsverðar áskoranir fyrir atvinnugreinina, sem horfir fram á versnandi samkeppnishæfni.
"Hagstætt og fyrirsjáanlegt raforkuverð hefur í gegnum tíðina verið einn af stóru þáttunum, sem hafa skapað íslenzkum gagnaverum það samkeppnisforskot, sem hefur skilað þeim á þann stað, sem þau eru í dag, en til viðbótar við aðgengi að hreinni orku þurfa þau einnig góðar nettengingar og aðgengi að frábæru starfsfólki. Öll þessi atriði þurfa ætíð að vera samkeppnishæf við það, sem bezt gerist erlendis. Stór hluti af þeim áskorunum, sem við stöndum frammi fyrir núna, er hins vegar, að Ísland er ekki lengur samkeppnishæft, þegar kemur að raforkuverði, en sú staða er grafalvarleg, sérstaklega í ljósi hægari umsvifa í öðrum útflutningsgreinum", segir Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, í samtali við Markaðinn."
Aðvörunarbjöllurnar glymja allt um kring. Vitlaus orkulöggjöf hér m.v. aðstæður á Íslandi og túlkun og fylgni risans á íslenzkum orkumarkaði á henni er að steypa stórnotendum og miðlungsnotendum í fjárhagslega glötun. Það eru alls engar markaðslegar forsendur fyrir því á Íslandi að reka þá verðlagsstefnu, sem Landsvirkjun gerir, þ.e. að hámarka arð sinn og margtuggnar arðgreiðslur. Eigandum, ríkissjóði, kemur á hinn bóginn bezt, að hér starfi öflugur og samkeppnisfær iðnaður og önnur atvinnustarfsemi, knúin ódýru gæðarafmagni (mikið afhendingaröryggi og spennu- og tíðnistöðugleiki). Þá verður arður af eignum ríkisins í raforkukerfinu tekinn út "á hinum endanum", eins og F.D. Roosevelt, Bandaríkjaforseti, orðaði eitt sinn svar sitt við spurningu um lágorkuverðsstefnu "New Deal", sem kippti BNA upp úr kreppufeni 4. áratugar 20. aldarinnar.
"Jóhann segir, að til viðbótar við lægra orkuverð erlendis, sé mikill munur á kostnaði við flutning og dreifingu á raforku á Íslandi samanborið t.d. við Noreg og Svíþjóð, sem leiðir til þess, að heildarorkukostnaður verði umtalsvert lægri í þessum löndum samanborið við Ísland. Þá áformar Landsnet fjárfestingu upp á tugi milljarða í flutningskerfi sínu í tengslum við kerfisáætlun til að bæta raforkuöryggi, en það getur orðið til þess, að raforkuverð til stórnotenda hækki umtalsvert á næstu árum."
Einmitt vegna hins háa flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku á Íslandi leiðir orkupakkastefnan um hámörkun arðsemi orkuvinnslufyrirtækjanna óhjákvæmilega til þess, að Ísland verður ósamkeppnishæft á orkusviðinu. Þess vegna ber að lágmarka verðið m.v. lágmarksarðsemi í stað þess að hámarka það. Í gamla daga var flutningur og vinnsla á einni hendi, þ.e. Landsvirkjunar, og fyrirtækið notaði einfaldlega hagnaðinn af vinnslunni til að fjármagna flutningsmannvirkin. Það er hið eðlilega, "með einum eða öðrum hætti", m.v. íslenzkar aðstæður.
"Við erum nú þegar í ósamkeppnishæfu umhverfi, og frekari hækkanir á flutningskostnaði veita samkeppnishæfni íslenzkra gagnavera þungt högg."
20.7.2020 | 10:01
Vönduð fréttamennska af atvinnulífinu
Það er skoðun höfundar þessa vefpistils, að umfjöllun Morgunblaðsins, bæði vef- og ritmiðils, um viðskipti og atinnulíf, sé sú ítarlegasta og vandaðasta á Íslandi um þessar mundir. Þetta virðist stafa af því, að blaðamennirnir eru með fingurinn á þjóðarpúlsinum, og af góðri ritstjórn með heilbrigt fréttamat m.t.t. hagsmuna þjóðarinnar. Fyrir lýðræðisþróun er gríðarlega mikilvægt, að mikilvægir atburðir, tilhneiging og þróun innan atvinnulífsins séu þar ekki innilokaðir og sótthreinsaðir, þar til einhver sprenging verður eða ráðamönnum þar þóknast að láta einhverja matreiðslu í té að eigin smekk. Illmögulegt er þá fyrir almenning að mynda sér raunhæfa mynd af stöðu mála og þróun.
Almenningur á Íslandi á allt undir velgengni atvinnuveganna komið, einnig ríkis- og bæjarstarfsmenn, því að hjá atvinnuvegunum, í raunhagkerfinu, verður öll verðmætasköpun þjóðfélagsins til, sem heimilin fá síðan væna sneið af, eina þá stærstu í hlutfalli og verðmætum talið um þessar mundir, og hið opinbera heggur síðan í, bæði hjá heimilunum og fyrirtækjunum. Dæmi eru um skelfilega sóun verðmæta hjá hinu opinbera. Hjá Sjúkratryggingum Íslands stingur í augun kerfisóreiða, sem hvetur til utanfarar sjúklinga í stað aðgerðar á einkareknum fyrsta flokks stofum fyrir 1/3 kostnaðar við utanförina. Hjá Reykjavík er fjármálaóreiðan slík, að skuldirnar nema MISK 10 á hverja 4 manna fjölskyldu. Þar mun óreiðan enda með ósköpum, verði ekki fljótlega gripið í taumana. Borgarlína höfuðborgarsvæðisins er hugarfóstur, sem hentar engan veginn hér vegna mannfæðar, veðurfars og krafna almennings um lífsgæði.
Stefán E. Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, hefur látið sér annt um áliðnaðinn og flugstarfsemina og heyjað sér mikillar þekkingar á þessum sviðum. Laugardaginn 27. júní 2020 birti hann Baksviðsfrétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Enn ber talsvert í milli".
Með greininni birtist mjög viðeigandi mynd af fyrsta hverfilshjóli Landsvirkjunar í Búrfelli, sem Landsvirkjun gaf ISAL við hátíðlegt tækifæri, þegar gott talsamband ríkti á milli fyrirtækjanna, sem yfirleitt var á tímabilinu 1966-2010. Nú er öldin önnur, eins og Stefán flettir ofan af í téðri baksviðsfétt. Hún hófst þannig:
"Enn ber talsvert á milli í viðræðum Landsvirkjunar og Rio Tinto um endurmat á raforkuverði til verksmiðju síðarnefnda fyrirtækisins í Straumsvík. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.
Greint var frá því í Viðskipta-Mogganum á miðvikudag [24. júní 2020], að Rio Tinto hefði lýst yfir vilja til þess að auka framleiðslu sína í álverinu að nýju, en fyrirtækið hefur dregið talsvert úr framleiðslunni, það sem af er ári. Álverð hefur haldizt mjög lágt á heimsmarkaði síðustu mánuði, og flest bendir til þess, að ástandið muni haldast þannig á komandi mánuðum. Verksmiðjan í Straumsvík var rekin með nærri mrdISK 14 tapi í fyrra [2019]."
Þarna er frásögnin af yfirstandandi samningaviðræðum um raforkusamning á milli fyrirtækjanna í véfréttastíl, enda kunna menn að leggja mismunandi mat á stöðu og horfur í flókinni stöðu. Hitt dylst engum, að það mun ráða örlögum ISAL, hvort samningar nást eða ekki. Rio Tinto hefur lýst yfir, að lengra verði ekki haldið á sömu tapsbraut og einnig, að náist viðunandi samningar, sé samstæðan tilbúin að nýta framleiðslugetu ISAL til fullnustu, sem er um 240 kt/ár af söluhæfu áli út úr steypuskála (m.v. aðkeypt ál um 25 kt/ár). Þetta er að sjálfsögðu miðað við, að framlegð fyrirtækisins sé yfir 0. Eftir verðlækkun helztu aðfanga gerist það sennilega við um 1700 USD/t, og þar sem viðbótar verð (premía) fyrir sérvöru hefur verið í lágmarki á þessu ári, er óvíst, að sú sér raunin enn, þótt álverð fikri sig nú í rétta átt.
Það er ótrúlegt til þess að hugsa, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun virðist ekki tvínóna við það að standa yfir höfuðsvörðum þessarar áhættulausu gjaldeyriskýr á tímum, þegar þjóðfélagið hefur orðið fyrir mesta gjaldeyristapi sögunnar, einnig hlutfallslega. Þetta ríkisfyrirtæki er utan gátta með núverandi forstjóra þar við völd, og þar verður að breyta þegar í stað um stefnu. Fyrirtækið á ekki að vera hágróða fyrirtæki, heldur lággróða fyrirtæki, eins og F.D. Roosevelt mótaði sína "New Deal" stefnu um á 4. áratugi 20. aldarinnar í BNA. Aðspurður um þetta, sagði hann: við tökum gróðann út á hinum endanum.
Síðar í Baksviðsfréttinni skrifaði Stefán:
"Talsverð harka virðist hafa hlaupið í viðræðurnar, og heimildarmenn Morgunblaðsins herma, að stjórnendur Rio Tinto hafi kvartað undan meintri óbilgirni forstjóra Landsvirkjunar í viðræðunum. Svo rammt hefur kveðið að þessari óánægju, að stjórnendur Rio Tinto hafa beint erindum sínum til stjórnar Landsvirkjunar í stað forstjóra, eins og hefð er fyrir í samskiptum milli fyrirtækjanna."
Hér er einstæður texti í sögunni. Aldrei áður hefur frétzt af svo yfirþyrmandi samskiptavandræðum á milli stórs íslenzks ríkisfyrirtækis og eins af stærstu viðskiptavinunum, hvað þá, þegar í hlut á öflugur erlendur fjárfestir, sem ekki vílaði fyrir sér að hlaupa undir bagga með Íslendingum, þegar mest reið á í kjölfar bankahrunsins 2008, með mrdISK 70 fjárfestingu (MUSD 500) í Straumsvík. Rio Tinto hefur lýst yfir vantrausti á Herði Arnarsyni, og hann hefur brugðizt við með þvergirðingshætti og langlokuskrifum til æðstu manna áldeildar Rio Tinto. Þetta er náttúrulega ekki hægt að líða. Maðurinn er skaðvaldur fyrir erlendar framtíðarfjárfestingar í landinu og helzti Þrándur í Götu nýrra raforkusamninga við RT/ISAL. Skyldi hann ekki þurfa hvíld frá miklum önnum ?
Niðurlag Baksviðsfréttarinnar var þannig:
"Endurskoðun rekstrarforsenda álversins töfðust vegna kórónuveirunnar, og Rio Tinto gat ekki staðið við fyrirheit um, að vinnu við hana myndi ljúka á fyrri hluta ársins. Vinnan er þó komin í gang að nýju, og vænta má niðurstöðu samkvæmt heimildum Morgunblaðsins síðar í sumar. Fyrirtækið mun hafa lýst sig reiðubúið til þess að auka framleiðsluna að nýju, náist samningar um nýtt raforkuverð. Að öðrum kosti komi enn til álita að loka verksmiðjunni, annaðhvort tímabundið, eins og eigendur PCC á Bakka hafa gert, eða til frambúðar."
Rio Tinto vill helzt selja ISAL, en hefur ekki enn tekizt það. Aðalástæðan er talin vera raforkusamningurinn við Landsvirkjun, en hann er í raun ávísun á tap verksmiðjunnar m.v. fyrirsjáanlegan álmarkað. Þess vegna eru mestar líkur á lokun verksmiðjunnar, ef stjórnendur Landsvirkjunar þverskallast við að semja um samkeppnishæft raforkuverð. Það yrði feiknarlegur fingurbrjótur og mikill ábyrgðarhluti. Nauðsynlegt er, að forstjórinn og stjórn fyrirtækisins axli þá ábyrgð.
11.7.2020 | 20:33
Landsreglari tjáir sig
Eins og kunnugt er, gegnir Orkumálastjóri líka hlutverki Landsreglara (National Energy Regulator), sem er æðsti fulltrúi Evrópusambandsins (ESB) hér á landi á sviði orkumála eftir innleiðingu Orkupakka 3 (OP#3). Hlutverk hans er í stuttu máli að hafa eftirlit með því, að stefnu ESB sé framfylgt hérlendis, eins og hún birtist í orkulöggjöf ESB, innleiddum orkupökkum, og að íslenzkri löggjöf á þessu sviði sé fylgt. Þar sem ósamræmi er á milli þessa tvenns, skal löggjöf ESB vera rétthærri við túlkun. Þetta er skýrt tekið fram í EES-samninginum.
Nú virðist vera kominn upp ágreiningur á milli Landsreglara og ráðherra umhverfis- og auðlindamála og reyndar einnig Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, því að Ari Trausti Guðmundsson, Alþingismaður VG, hefur andmælt sjónarmiðum Landsreglara um regluverk vindmylla frá A-Ö. Báðir hafa skrifað í Fréttablaðið um ágreininginn, og Landsreglarinn borið andmælin til baka á sama vettvangi.
Sá, sem skrifar fyrir hönd Landsreglara, er starfsmaður hans, Skúli Thoroddsen, lögmaður. Grein hans í Fréttablaðinu þann 17. júní 2020 bar yfirskriftina:
"Vindorka fellur ekki að rammaáætlun".
Hún hófst þannig:
"Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, segir hér í blaðinu, 12. júní sl., að "vindorka sé hluti af heildarskipulagi orkuvinnslu og falli að rammaáætlun". Á vegum Landsvirkjunar séu "vindorkuver í orkunýtingarflokki og biðflokki "svokallaðrar rammaáætlunar" og margir myllulundir í skoðun. Þetta er rangt. 3ja rammaáætlun hefur ekki verið samþykkt, og engir vindlundir eru í núgildandi áætlun. Það er Orkustofnun [les Landsreglari], sem ákveður, hvaða virkjunarkostir eru nægilega skilgreindir, til þess að verkefnisstjórn um rammaáætlun og faghópar, á hennar vegum, geti yfirhöfuð fjallað um þá. Orkustofnun hefur ekki skilgreint neina vindorkukosti og því engir myllulundir í skoðun á þeim bæ.
Umhverfisráðherra sagði, aðspurður um vindorku, það vera "mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun". Atvinnuvegaráðuneytið kveðst aðspurt aldrei hafa haldið þessu fram. Afstaða þess sé óbreytt, en "þessi mál" séu til umfjöllunar í starfshópi þriggja ráðuneyta og "niðurstöðu verði að vænta innan skamms".
Þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem umhverfis- og auðlindaráðherra skriplar á skötunni, þegar kemur að því lagaumhverfi, sem hann á að starfa eftir. Hann virðist fljótfærari en góðu hófi gegnir fyrir mann í hans stöðu. Með Orkupakka #3 fékk Orkustofnun sjálfstæða stöðu innan stjórnkerfisins, og Orkumálastjóri (Landsreglari) er óháður ráðuneytunum, nema um fjárveitingar; staðan hefur ígildi orkuráðherra. Túlkun Skúla Thoroddsen er vafalítið rétt. Orkustofnun (Landsreglari) skammtar Verkefnahópi Rammaáætlunar verkefni, og hann getur hvorki hafið sjálfstæða rannsókn á einu né neinu. Úr því að Orkustofnun ekki hefur enn skilgreint neinn vindorkukost, er allur undirbúningur vindorkuverkefna unninn fyrir gýg. Það er t.d. algerlega ótímabært fyrir sveitarfélög að breyta aðalskipulagi sínu til að geta hýst vindorkuver innan sinna vébanda. Það er Landsreglarinn, sem gefur tóninn, á meðan OP#3, eða seinni orkupakkar, hefur hér lagagildi.
"Tillaga umhverfisráðherra um vindorkukosti í 3ju rammaáætlun, Blöndulund í nýtingarflokk og Búrfellslund í biðflokk, er byggð á hugmynd verkefnastjórnar um "vindorkuver Landsvirkjunar", án afstöðu Orkustofnunar og þannig reist á röngum grunni. Ráðherra er vissulega frjálst að leggja hana fram sem sína tillögu í þágu Landsvirkjunar þrátt fyrir ágallana og mismuna þar með vindorkufyrirtækjum. Þar á Alþingi síðasta orðið eða eftir atvikum dómstólar."
"Fyrir liggur, að um orkurannsóknir slíkra kosta [vinds] fer eftir lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, auðlindalögum, sem lög um rammaáætlun vísa til í því sambandi. Auðlindalögin gilda ekki, hvorki um vind né vindorkurannsóknir. Sú stefnumörkun, sem felst í rammaáætlun, takmarkar stjórnarbundnar heimildir sveitarfélaga í skipulagsmálum. Slíkar skerðingar í þágu almannahagsmuna til verndar eða nýtingar á náttúruauðlindum, þurfa ótvíræða, skýra lagastoð, eins og rammaáætlun er varðandi vatnsföll og háhitasvæði. Hvort rammaáætlun taki til vindorku, ríkir í bezta falli óvissa um. Sé það svo, kæmi það í hlut Orkustofnunar að skilgreina vindorkulandsvæðin. Hin "takmörkuðu gæði", sem þannig verða til í eignarlandi sumra - en ekki allra - eða í þjóðlendum, yrði ríkið að bjóða út. Slíkt útboð tæki til skipulagssvæðis með gildu virkjunarleyfi fyrir vindlund til handa orkufyrirtæki á grundvelli jafnræðis innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ekkert regluverk lýsir slíkum útboðsferli hér á landi, frá afmörkun vindlunda til virkjunarútboðs. Svo virðist sem umhverfisráðherra vaði reyk um rammaáætlun, villtur vega. En þessi mál eru annars til umfjöllunar í starfshópi þriggja ráðuneyta, og þaðan er niðurstöðu að vænta "innan Skamms".
Undirstrikunin er pistilhöfundar til að leggja áherzlu á, að þar heldur Landsreglari Evrópusambandsins um fjaðurstaf. Umhverfis- og auðlindaráðherra er úti á þekju í þessu máli, og það virðast sumir þingmenn vera líka, t.d. Ari Trausti Guðmundsson, sem stakk niður penna og andmælti Skúla Thoroddsen á sama vettvangi. Í raun og veru er texti Skúla algerlega samhljóma úrskurði ESA árið 2016, sem Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, féllst á af fullkomnu dómgreindarleysi. Það verður sem sagt að bjóða nýtingarrétt orkulinda í eigu ríkisins út á Evrópska efnahagssvæðinu. Það felur í sér stórkostlegt fullveldisafsal yfir auðlindum Íslands, sem hafa mun mjög neikvæð áhrif á lífskjör í landinu. Héldu menn, að OP#3 mundi bara engin áhrif hafa á Íslandi, ef bara væri móazt við að taka við aflsæstreng frá Innri orkumarkaði ESB ? Orkulindirnar eru í uppnámi, þótt upphaflegi EES-samningurinn spanni þær ekki.
8.7.2020 | 11:11
Hentar Orkupakki #4 okkar umhverfi ?
Evrópusambandið (ESB) heldur áfram vegferð sinni um samræmingu og yfirtöku stjórnunar orkumála aðildarlanda sinna samkvæmt Lissabonssáttmálanum (stjórnarskrárígildinu), og stórt skref í þessa átt var samþykkt orkulöggjafar undir heitinu Orkupakki #4.
Þetta er orkulöggjöf, sem er samtvinnuð loftslagsstefnu ESB og hönnuð til að auðvelda Sambandinu að ná markmiðum sínum á því sviði. Ísland glímir ekki við neitt svipuð viðfangsefni í þessum efnum, þar sem næstum 100 % raforkunnar kemur úr endurnýjanlegum orkulindum samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum. Þegar af þeirri ástæðu á OP#4 ekkert erindi til Íslands, enda höfðu íslenzk stjórnvöld augljóslega engin áhrif á mótun þessarar löggjafar.
Til að stikla á mjög stóru má nefna eftirfarandi 12 atriði úr OP#4:
- Innlend löggjöf má ekki hindra framgang stefnu ESB
- Landsreglarinn mun fara með æðsta vald raforkumála í landinu
- Landsreglarinn mun handstýra Landsneti
- Landsreglarinn mun stjórna raforkumarkaðinum
- Völd innlendra stjórnvalda til afskipta af gjaldskrám verða mjög skert
- Embætti samræmingarstjóra undir Landsreglara mun tryggja, að Landnet fylgi áætlunum, sem ESB hefur samið og/eða samþykkt.
- Erfitt verður að koma í veg fyrir sæstrengi til útlanda
- Fjárfestingaráætlun Landsnets, sem ESB hefur samþykkt, er skuldbindandi fyrir Landsnet gagnvart ESB. Þetta jafngildir valdayfirtöku á Landsneti.
- Svæðisbundnar samræmingarmiðstöðvar verða nýtt yfirþjóðlegt verkfæri ESB
- Það verður framkvæmdastjórn ESB, sem ákveður, hvernig rafmagnsflutningum um sæstrengi verður háttað, en ekki íslenzk yfirvöld, stofnanir eða Landsnet.
- ESB mun móta forsendur leyfisveitinga fyrir ný vind- og vatnsorkuver
- Öllum raforkunotendum á að standa til boða kvikur verðsamningur, þar sem verð hverrar klukkustundar ræðst af framboði og eftirspurn. Þeir, sem velja þetta samningsform, fá upp settan hjá sér snjallorkumæli, sem sýnir einingarverð hverrar klukkustundar, mælir raforkunotkunina og reiknar út raforkukostnaðinn.
Eins og sést á þessari upptalningu, verður ekki um neitt smáræðis valdaafsal að ræða, ef stjórnvöld kokgleypa þetta á samráðsvettvangi EFTA og síðan í Sameiginlegu EES-nefndinni. Túlkun Stjórnarráðsins er sú, að það jafngildi riftun EES-samningsins, ef Alþingir síðan gerir slíkar samþykktir afturreka. Slík sjónarmið stangast á við skýran texta EES-samningsins sjálfs um heimild löggjafarvaldsins til að synja gjörðum Sameiginlegu EES-nefndarinnar staðfestingar, ef þingið telur stjórnlagaheimildir skorta til staðfestingar. Það er leikmanni í lögum ljóst, að samþykkt OP#4 án undanþága varðar broti á Stjórnarskrá Íslands.
Í kjallaragrein á síðu forystugreina Morgunblaðsins þann 16.06.2020 birtist áhugaverð hugleiðing og varnaðarorð Ólafs Ísleifssonar, Alþingismanns, undir fyrirsögninni:
"Fjórði orkupakkinn vofir yfir".
Kjallaragreinin hófst þannig:
"Iðnaðarráðherra hefur svarað fyrirspurn minni á Alþingi um mat á fjórða orkupakkanum. Þar er lýst hefðbundinni meðferð með skipan vinnuhóps og öðru í þeim dúr, en ekkert minnzt á, að í undirbúningi séu lögfræðilegar álitsgerðir, sem reyndust þýðingarmiklar í umræðum liðins árs um þriðja orkupakkann. Þær komu fyrst fram fáum vikum áður en málið var rætt á Alþingi vorið 2019. Þá voru tvö ár liðin frá því Ísland skuldbatt sig á vettvangi EES til að innleiða þriðja orkupakkann. Talið var af hálfu stjórnvalda, að þá skuldbindingu mætti ekki afturkalla þrátt fyrir ákvæði EES-samningsins í gagnstæða átt."
Þetta eru ill tíðindi af starfsháttum og "verkstjórn" iðnaðarráðherra við stórmál, en koma því miður ekki á óvart, því að hún sýndi Þriðja orkupakkanum hvorki skilning né áhuga. Sama kæruleysið kemur fram núna og boðar illt, eld og eimyrju. Um orkupakka 1-2 hélt hún því fram, að þeir hefðu með uppskiptingu raforkugeirans lækkað raforkukostnað neytenda vegna "samkeppninnar". Þetta var rækilega hrakið af hagfræðiprófessor í riti "Orkunnar okkar, ágúst 2019.
Það, sem Ólafur Ísleifsson nefnir hér að ofan, að vanti hjá ráðherra, hefur gríðarlega þýðingu. Ef ekki verður strax fengin bitastæð, fagleg lögfræðileg álitsgerð óvilhallra fræðimanna á borð við Stefán Má Stefánsson og Friðrik Árna Friðriksson Hirst um það, hvort innleiðing OP#4 í landslög á Íslandi standist Stjórnarskrá, þá verður að lýsa yfir vantrausti á iðnaðarráðherra og/eða utanríkisráðherra. Þau hafa þá brugðizt skyldum sínum sem ráðherrar gagnvart Stjórnarskrá.
Hin hlið orkupakkamálsins er efnahagsleg. Það er bráðnauðsynlegt að leggja þjóðhagslegt mat á afleiðingar innleiðingar OP#4 og reikna þá bæði með tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi Innri markaðar ESB og engri slíkri. Slík skýrsla yrði mikils virði, og leita þyrfti í smiðju höfunda ofannefndrar skýrslu "Orkunnar okkar", sem talizt geta verið sérfróðir um orkumál. Hér skal fullyrða, að líkan Evrópusambandsins fyrir orkumarkaðinn á illa við hér vegna þess, að orkukerfið á Íslandi er í eðli sínu gjörólíkt hinu miðevrópska, og þess vegna mun innleiðingin virka á Íslandi eins og há skattlagning á fólk og fyrirtæki, sem veikir samkeppnisstöðuna gagnvart útlöndum.
Í lok kjallaragreinarinnar skrifaði Ólafur Ísleifsson:
"Svar ráðherra ber með sér, að engir lærdómar hafi verið dregnir af þriðja orkupakkanum. Hinn stjórnskipulega þátt og aðrar lögfræðilegar spurningar þarf að kanna mun fyrr í ferlinu en gert var. Nú er rétti tíminn til að leita álits sérfræðinga á fjórða orkupakkanum áður en það er orðið of seint."
Íslenzk stjórnvöld verða að reka af sér slyðruorðið í EES-samstarfinu. Það er lítilmótlegt hlutskipti að reiða sig á leiðsögn Norðmanna, enda er Stjórnarskrá þeirra öðruvísi en okkar. Hagsmunamat norska stjórnarráðsins er bæði á öndverðum meiði við hagsmunamat norskrar alþýðu og íslenzkrar. Íslenzka Stjórnarráðið verður að fara að sýna festu og dug, frumkvæði vit og áhuga, þegar kemur að málefnum íslenzkra orkuauðlinda og ráðstöfun þeirra.
Þann 19. júní 2020 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Elías Elíasson, verkfræðing og sérfræðing í orkumálum, þar sem bent er á mikilvægi öruggrar og ódýrrar raforku fyrir vöxt og viðgang byggðarlaga og hagvöxtinn í landinu. Orkupakkarnir stefna í þveröfuga átt, enda hefur ESB ekki lágt raforkuverð á sinni stefnuskrá, heldur nægilega hátt til að hvetja til fjárfestinga í endurnýjanlegum orkugjöfum, sem þar á bæ geta þó aðeins framleitt slitrótt eftir duttlungum náttúrunnar. Þeir henta markaðinum mjög illa. Grein Elíasar hét:
"Öngstræti orkupakkanna".
Þar gat m.a. að líta:
"Afleiðing hás orkuverðs og ótryggs framboðs raforku lýsir sér þannig, að í viðkomandi byggðarlögum fækkar tækifærum fólks til virðisaukandi starfsemi, fjárfestar koma ekki með fé og verðmætasti mannauður byggðanna, frumkvöðlarnir, leita annað. Þeim byggðum hrakar, og laun hækka minna."
Áhrif hás orkuverðs, eins og verða mun í fákeppnisumhverfi með markaðsráðandi stöðu eins fyrirtækis, sem reynir að hámarka arð sinn, eru hin sömu og áhrif ótryggrar raforku, sem þekkt eru á Íslandi. Það verður þess vegna að berjast gegn innleiðingu fyrirkomulags, sem er aðeins örverpi í íslenzku umhverfi, þar sem kostir frjálsrar samkeppni geta ekki notið sín á raforkumarkaði.
Úrelt raforkuflutnings- og dreifikerfi landsins er landinu að nokkru leyti dulin efnahagsbyrði. Aðbúnaður Vestfirðinga að þessu leyti er til skammar, en þar á sér nú stað mikil iðnvæðing (sjókvíaeldi og fiskvinnsla), sem krefst stöðugleika á öllum sviðum. Vestfirðingar geta orðið sjálfum sér nógir með rafmagn, og vegna óstöðugleika Vesturlínu, sem ekki verður jarðsett, munu rafmagnsmál Vestfirðinga standa þeim fyrir þrifum, þar til þeir verða sjálfum sér nógir um rafmagn. Stuðningur iðnaðarráðherra við Vestfirðinga í orkumálum virðist enginn hafa verið, þótt straumleysistími Vestfirðinga sé sá langhæsti á landinu. Mun slíkt áhugaleysi ráðherra ekki koma henni í koll, þegar/ef hún leitar eftir endurkjöri í kjördæminu ?
Fjárfestingar í flutnings- og dreifikerfum eru svo arðsamar, að þær standa vel undir lántökukostnaði. Þar sem þörfin er brýnust á ekki að hika við slíkt nú á tímum lágra vaxta. Ráðherra hefur þó beitt sér fyrir verulegri flýtingu á jarðstrengjavæðingu dreifikerfisins, og á því verki að ljúka árið 2025 samkvæmt áætlun stjórnvalda. Þar með kemst líka á þrífösun sveitanna, sem er forsenda blómlegra byggða og orkuskipta.
Nokkru síðar í greininni fjallaði Elías um orkulagasetningu ESB í samanburði við stefnu Roosevelts, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í "New Deal" um lágt raforkuverð:
"Orkupakkalög ESB, sem hér hafa verið innleidd, gera okkur erfitt fyrir að gera hliðstæðar ráðstafanir [ríkið taki ekki hagnað af raforkusölu, heldur á formi beinna og óbeinna skatta af virðisaukandi starfsemi í krafti ódýrs rafmagns-innsk. BJo]. Þau lög hindra, að þjóðin, eigandi auðlindafyrirtækjanna og flestra raforkufyrirtækjanna, geti ákveðið, að arðurinn af orkusölunni skuli koma fram á síðari stigum virðisaukakeðjunnar og skuli skattlagður þar. Að minnsta kosti virðast raforkufyrirtækin túlka lögin með þeim hætti, að einhver skilgreind jafnréttissjónarmið, sem þó skapa ójöfnuð, skuli ráða verðlagningu raforku, en eðlileg viðskiptasjónarmið verði að víkja.
Garðyrkjubændur hafa fengið að finna fyrir þessu og fá nú niðurgreiðslur á rafmagni eftir hinni margfalt dýrari leið gegnum ríkissjóð. Engum má heldur vegna fjórfrelsisákvæða EES-samningsins veita tækifæri, sem ekki standa til boða öllum þegnum Evrópska efnahagssvæðisins."
Þetta öfugsnúna fyrirkomulag, sem þarna er lýst, framkallast, þegar erlend löggjöf, sem tekur mið af gjörólíkum aðstæðum, er innleidd á Íslandi. Þeir, sem halda, að slík afglöp veiki ekki efnahaginn, vaða í villu og svíma. Evrópulöggjöf á sviði orkumála verður óhjákvæmilega þjóðhagslega óhagkvæm á Íslandi og leiðir þar af leiðandi til minni hagvaxtar en ella. Það er ástæðulaust að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti, heldur þarf þegar í stað að vinna að því að fá undanþágur fyrir Ísland frá þessari orkulöggjöf að einhverju eða öllu leyti, og ætti að taka stefnuna á undanþágu frá öllum tilskipunum og gerðum Orkupakka #4.
Í lokin reit Elías:
"Hætt er við, að með tíð og tíma muni orkupakkarnir og önnur ákvæði EES-samningsins setja Ísland í þá sömu aðstöðu gagnvart hinum stóru iðnaðarsvæðum ESB eins og mörg afskekkt sjávarpláss eru nú í gagnvart stóru útgerðarstöðunum hér á landi. Stjórnvöld verða að horfa á þessa hættu og vinna landið út úr orkupökkunum, þannig að þjóðin hafi fullt sjálfræði yfir orkuauðlindum sínum og ráðstöfun þeirrar raforku, sem frá þeim fæst."
Það blasir við til hvers refirnir eru skornir hjá ESB. Í anda Lissabon-sáttmálans er ætlunin að sölsa undir ESB stjórnun orkumála aðildarlandanna og að tryggja framleiðslukjörnum Evrópu næga raforku á hverjum tíma. Jaðarsvæði Evrópu eiga að sjá kjarnanum fyrir orkunni, sem hann vantar, og borga á hærra verð fyrir orku úr endurnýjanlegum og kolefnisfríum lindum til að örva fjárfestingar í slíkum virkjunum. Forsendan fyrir því, að ná megi þessu stefnumiði fram, eru öflugar millilandatengingar og öflugt flutningsnet innan hvers lands. Að kokgleypa þessa stefnu setur Ísland á bekk hjálendu ESB, því að áhrif Íslendinga á stefnumótun ESB eru sama og engin.
2.7.2020 | 09:22
Til hvers að virkja orkulindir ?
Orkumál Íslands eru í öngstræti. Sú staða er algert sjálfskaparvíti, því að utan frá séð eru Íslendingar að mörgu leyti öfundsverðir af orkumálunum. Þar ber auðvitað hæst, að nánast öll raforkan kemur úr endurnýjanlegum orkulindum, ef fallizt er á, að jarðgufan sé endurnýjanleg orkulind. Mjög lítið myndast af gróðurhúsalofttegunum samfara þessari orkuvinnslu, eitthvert metan, CH4, stígur upp af miðlunarlónum og ýmis gös, þ.á.m. gróðurhúsagös, losna úr læðingi við nýtingu jarðgufu, en unnið er að því að fanga þau og breyta í steintegundir neðanjarðar. Á heildina litið virðast virkjanir landsins falla mjög vel að umhverfinu, en samt hafa sumir allt á hornum sér, þegar ný virkjunarverkefni eru annars vegar.
Unnið er að því, að jarðstrengir yfirtaki hlutverk megnsins af loftlínunum, en hinar stærstu þeirra er of dýrt að leysa af hólmi með jarðstrengjum, nema á völdum köflum. Þegar svona er í pottinn búið, er alveg stórfurðulegt, að nú spretti fram aðilar, sem sækjast eftir leyfum til að setja upp vindorkuvirkjanir, sem augljóslega stórspilla víðáttumiklum svæðum. Linkind umhverfis- og auðlindaráðherra gagnvart reglusetningu um vindorkuver stingur í stúf við herskáa stefnu hans gagnvart vatnsorkuverum.
Staða íslenzkra orkumála er sérstaklega öfundsverð utanfrá séð í ljósi lágs meðalkostnaðar við raforkuvinnsluna. Þegar haft er í huga, að rafmagnið mun leysa jarðefnaeldsneytið að mestu leyti af hólmi, "með einum eða öðrum hætti", þá verður ljóst, að rafmagnið mun og myndar nú þegar hornstein traustrar samkeppnisstöðu landsins frá náttúrunnar hendi, en mennirnir eru mistækir, og í seinni tíð hefur verið sveigt af réttri leið, og verðlagningin dregið dám af löggjöf, sem sótt er í gjörólíkar aðstæður. Hingað á þessi löggjöf ekkert erindi, en hún miðar að því að hámarka hagnað orkufyrirtækjanna. Slík stefna verður auðvitað á kostnað neytendanna, stórra og smárra. Hér er auðvitað átt við "orkupakka" Evrópusambandsins, en réttast væri að fá undanþágu frá meginatriðum þeirra allra.
Þann 9. júní 2020 rituðu Jónas Elíasson, prófessor, og Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðingur, merka grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Með fallvötnin í farteskinu".
Fyrirsögnin er óræð, en túlka má hana á þann veg, að höfundarnir telji, að nú séu orkulindirnar undir í hráskinnaleik stjórnmálanna. Það má til sanns vegar færa með skírskotun til kröfugerðar ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, um markaðstengda úthlutun nýtingarréttar á landi ríkisins og þeim auðlindum, sem þar er að finna. Á þetta féllst ríkisstjórn Íslands í maí 2016, en núverandi ríkisstjórn treystir sér ekki í framkvæmdina, enda hefur norska ríkisstjórnin tekið gagnstæðan pól í hæðina og mun ekki eftirláta miðevrópskum fyrirtækjum erfðasilfur Norðmanna.
Tilvitnaðir höfundar vilja eðlilega endurvekja fyrri orkustefnu, sem felst í að virkja hagkvæmt og að halda raforkuverði í lágmarki (rétt yfir kostnaði). Þeir rekja þessa stefnu til Bandaríkja (Norður-) Ameríku, BNA:
"Viðbrögð Roosevelts við kreppunni voru New Deal-stefnan, sem hann hafði boðað í kosningabaráttu sinni. Hún var að koma fólki í vinnu við verðmætasköpun í stað atvinnuleysis. Virkasti þátturinn í þeirri aðgerð var virkjun fallvatna og sala á raforku til heimila og iðnaðar á hagstæðu verði. Lágt orkuverð var órjúfanlegur hluti af hugmyndafræði forsetans. Þegar honum var bent á, að rekstur orkuveranna mundi skila engum eða mjög takmörkuðum hagnaði, svaraði hann: Tekjur ríkisins koma á hinum endanum. Þar átti hann við, að framleiðsla og sala raforku eykur ekki verðmætasköpun að neinu marki umfram það, sem byggingu orkuveranna nemur.
En notkun á raforku gerir það; flestir þekkja, hvað orkureikningur heimilisbílsins lækkar, þegar hann er kominn á rafmagn [lækkar um a.m.k. 60 % - innsk. BJo], áhrifin í iðnaðinum eru enn sterkari [af því að þar vegur orkukostnaður meira af heildarkostnaði en hjá fjölskyldu á Íslandi - innsk. BJo], svo [að] þessi spá FDR rættist.
Lágt orkuverð til heimila og atvinnuvega varð snögglega að atvinnuauðlind, sem átti eftir að reisa við efnahag Bandaríkjanna og gera þau að mesta iðnveldi heims."
Hér er rétt farið með áhrif orkuverðs á atvinnulíf, atvinnustig, hagvöxt og lífskjör almennings. Þetta eru ómótmælanlegar staðreyndir. Ef þingmenn ætla að standa í ístaðinu og beita auðlindum í eigu ríkisins fyrir vagn endurreisnar hagkerfisins eftir efnahagsáfall kórónaveirunnar, SARS-CoV-2, þá munu þeir nú gera gangskör að því, að samin verði eigendastefna fyrir virkjanafyrirtæki ríkisins, Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða, sem dragi dám af ofangreindum kjarnaþætti í "New Deal" stefnu FDR. Þar með verði núverandi stefnu Landsvirkjunar snúið á haus, en hún snýst um að selja raforkuna á eins háu verði og fyrirtækið kemst upp með. Þetta hefur stjórn Landsvirkjunar kallað að hámarka virði orkulindanna. Sú einkunn er fölsk. Þjóðhagsleg hámörkun virðisaukningar af nýtingu orkulindanna fæst með sem lægstu, en þó arðbæru, verði til heimila og atvinnustarfsemi.
Þar sem stóriðjan er hryggjarstykki iðnaðar og orkunýtingar á landinu, verður að ganga fram af þekkingu og sanngirni varðandi lágmarksverð til stóriðju, sem samt lækki orkukostnað almennings, og tryggi samkeppnishæfni orkuverðsins á þeim orkumörkuðum, sem stóriðjufyrirtækin almennt starfa á. Allt eru þetta tiltölulega auðfáanleg gögn, þótt nokkur leynd hvíli víða yfir orkuverðum.
Eftir að hafa sýnt fram á, að margar aðrar þjóðir hafi fetað í fótspor Bandaríkjamanna í orkumálunum, þá sneru höfundarnir sér að íslenzkum orkumálum:
"Stefna Íslands í orkumálum undir forystu Sjálfstæðisflokksins var sambærileg. Raforkulögin frá 1946 meitluðu í stein upphaf þeirrar orkustefnu, sem við þekkjum og varð burðarstoð íslenzku atvinnuveganna, en í þeim sagði m.a., að "ríkinu einu er heimilt að reisa raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl" og að "Rafmagnsveitur ríkisins skulu hafa það verkefni að afla almenningi og atvinnuvegum landsins nægrar raforku á sem hagfelldastan og ódýrastan hátt". Fyrrnefnd stefna varð ríkjandi hérlendis og hefur reynzt okkur Íslendingum vel, styrkt fyrirtækin í landinu og létt landsmönnum heimilisstörfin. Með stefnunni varð mjög jöfn dreifing á náttúruauðnum og sátt ríkti um virkjanirnar."
Of mikillar einokunarhyggju ríkisins varðandi virkjanaleyfi gætir í þessum lögum. Nú er staða ríkisins á raforkumarkaðinum svo sterk, að með ofangreindri eigendastefnu ríkisins væri tryggt, að verð á raforku héldist rétt ofan við meðalkostnað í landinu við að framleiða hana. Öðru máli gegnir þó í orkuskorti. Þá gæti verðið rokið upp, og það ætti þess vegna jafnframt að koma fram í eigendastefnunni, að virkjanafyrirtæki ríkisins sjái til þess, að í landinu sé jafnan nægt framboð raforku. Allt er þetta á öndverðum meiði við boðskap orkupakka Evrópusambandsins, en vert er að láta á þetta reyna.
"Stóriðjustefnan var rökrétt framhald af þessu. Stórar virkjanir framleiða ódýrari raforku en litlar, ef markaður er nægur. Landsvirkjun var stofnuð til að útvega markað og virkja eins stórt og hægt var án þess, að raforka til almennings hækkaði. Þetta hefur gengið mjög vel. Það var ekki fyrr en ríkið fór að innleiða flókið lagabákn Evrópusambandsins og skilgreina orku sem almenna vöru, sem málaflokkurinn fór að ókyrrast hérlendis. Fyrst stuttlega upp úr aldamótum með setningu nýrra raforkulaga til þess að innleiða fyrstu tvo evrópsku orkupakkana, en svo með innleiðingu þriðja orkupakkans, sem var í raun óskiljanlegur gjörningur, þvert á mikilvægustu hagsmuni þjóðarinnar.
Innleiðing þriðja orkupakkans var einstaklega slæm ákvörðun, sem byggðist á ótta, örlagahyggju og undirlægjuhætti gagnvart skriffinnaher Brussels. Við sjáum afleiðingarnar í fyrirhugaðri ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að styrkja grænmetisiðnaðinn hér á landi með sértækum ríkisstyrkjum. Eðlilegri ráðstöfun hefði auðvitað verið að lækka raforkuverð, en með slíkri almennri aðgerð skapast efnahagshvati, sem byggist á jafnræði og grunngildum Sjálfstæðisflokksins um, að dugnaður eigi að fá að njóta sín."
Önnur skýring á afspyrnu lélegri hagsmunagæzlu íslenzka utanríkisráðuneytisins gagnvart þeim málum, sem framkvæmdastjórn ESB merkir sem viðeigandi til umfjöllunar og eftir atvikum innleiðingar í EFTA-löndum EES, er sú, að ráðuneytið hafi tamið sér að fylgja leiðsögn norskra stjórnvalda í hvívetna. Þetta er einfeldningsleg og hættuleg afstaða, því að meirihluti Stórþingsins er iðulega hallur undir aðild Noregs að ESB, þótt þjóðin sé það ekki. Af augljósum ástæðum fara hagsmunir Íslands og Noregs ekki alltaf saman, en gera það þó stundum. Þeir fóru ekki saman í orkupakkamálunum, en hafa ber í huga, að meirihluti norsku þjóðarinnar var andvígur innleiðingu OP#3 samkvæmt skoðanakönnunum, og verkalýðshreyfingin lagðist gegn honum.
Dæmi um EES-mál, þar sem hagsmunir Íslands og Noregs fara saman, reyndar á sviði orkumála, en Ísland flaskaði á, af því að ESA gerði athugasemd við íslenzku ríkisstjórnina löngu á undan athugasemd við þá norsku, er stefnumál framkvæmdastjórnar ESB um markaðsvæðingu á leyfisveitingum til nýtingar náttúrugæða í eigu ríkisins. Íslenzku ríkisstjórnirnar, sem um þetta fjölluðu 2009-2016, tóku ekki afstöðu með vörn íslenzkra hagsmuna, og gengið var að öllum kröfum ESA í maí 2016, þótt málið hafi síðan legið á ísi. Fyrir rúmlega einu ári fékk norska ríkisstjórnin svipað erindi frá ESA, en hún hafnaði réttmæti þeirra krafna að bragði, og við það situr. Þarna beittu Norðmenn "frelsissvigrúmi", sem þeir hafa áskilið sér í viðskiptunum við ESA/ESB. Íslenzka Stjórnarráðið, hins vegar, sýndi af sér þau miður eftirsóknarverðu einkenni, sem tilvitnuðu höfundarnir nefna: "ótta, örlagahyggju og undirlægjuhátt gagnvart skriffinnaher Brussels" (ESA hefur aðsetur í Brüssel.) Þessu verður að linna. Málsmeðferð Orkupakka #4 verður prófsteinn á það.
28.6.2020 | 11:41
Sóknarfæri í landbúnaði
Í einu vetfangi hefur mannfrekasta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, hrunið af orsökum, sem spekingar, spámannlega vaxnir og hinir, sáu ekki fyrir. Engum datt í hug, að á örfáum sólarhringum yrðu yfir 90 % allra farþegaflugvéla kyrrsettar á jörðu niðri vegna rétt einnar öndunarfæraveirunnar, sem frá Kína hefur borizt um heiminn. Þetta gerðist samt í marz 2020 og hvorki ferðaþjónustan né hagkerfi heimsins hafa borið sitt barr síðan, enda eru viðbrögð stjórnvalda í ríkjum heimsins fordæmalaus. Aðallega virðast þau hafa helgazt af ótta við, að heilbrigðisþjónustan myndi oflestast og engu öðru geta sinnt, eins og sást daglega í fréttum, m.a. frá Evrópu.
Landbúnaðurinn hefur gríðarlegu hlutverki að gegna við heilsueflingu, og þar með eflingu ónæmiskerfis einstaklinganna, í hverju þjóðfélagi. Íslendingar eiga því láni að fagna, að nægilega margir á meðal þeirra eru enn fúsir að yrkja jörðina og gera það með heilnæmari hætti en flestir starfsbræðra þeirra og -systra á Vesturlöndum. Óværan SARS-CoV-2 frá Kína beinir athyglinni að nauðsyn þess, að hér sé ræktað og framleitt það, sem hægt er aðstæðna vegna. Það er furðulegt, að fólk skuli ekki vanda betur til matarinnkaupanna og neyzlunnar í ljósi þeirrar vitneskju, sem fyrir hendi er um tilurð og grundvöll landbúnaðarafurða víða erlendis, t.d. í Evrópu.
Gríðarleg tækniþróun og framleiðniaukning hefur átt sér stað í íslenzkum landbúnaði á þessari öld. Enn geta innlendir framleiðendur aukið markaðshlutdeild sína á flestum sviðum starfseminnar, e.t.v. mest á grænmetis- og blómamarkaði. Gæði innlendrar framleiðslu fara ekki á milli mála, og heilnæmi matvæla verður stöðugt þungvægara við val neytandans, ekki sízt eftir mikla umræðu í Kófinu um mismunandi styrk ónæmiskerfisins eftir lifnaðarháttum fólks. Það, hversu þungt veiran lagðist á fólk, fór að miklu leyti eftir styrk ónæmiskerfisins og getu þess til að mynda mótefni gegn veirunni. Ef höfundur túlkar rétt, er þetta ein af niðurstöðum rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar, sem hún, í samstarfi við fyrirtæki vestanhafs, notar nú við þróun bóluefnis, sbr einkaþotu, sem flutti þessi efni í byrjun júní 2020 vestur um haf úr "sterkum" Íslendingum, sem höfðu sýkzt.
Eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010 gripu bændur gæsina og efldu mjög getu sína til móttöku ferðamanna. Þeir ásamt fjölskyldum sínum eru kjörnir til þess verks, enda hefur mikil framleiðniaukning skapað þeim sumum svigrúm til þess í tíma. Nú hefur hins vegar illilega sýnt sig, að ekki er á vísan að róa með erlenda ferðamenn. Nýjar stoðir undir starfsemina væru því mörgum bændum kærkomnar.
Á flestum hinna Norðurlandanna er skógarhögg og skógrækt mikilvæg atvinnugrein, og er stóriðnaður í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Ýmsir Íslendingar hafa kynnzt þessari starfsemi þar. Næg grundvallarþekking er fyrir hendi í landinu til að hefja þessa starfsemi til vegs og virðingar í landinu undir forystu Skógræktarinnar og Landbúnaðarháskóla Íslands. Það er lag núna og sjálfsagt að ganga á lagið.
Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur, hefur skrifað mikið í Morgunblaðið um landsins gagn og nauðsynjar. Þann 18. maí 2020 birtist í blaðinu grein eftir hann undir fyrirsögninni:
"Íslenzk skógrækt er verðmætasköpun og snjöll atvinnugrein".
Hún hófst þannig:
"Mikil verðmætasköpun gæti átt sér stað, ef markmið rætast um að fimmfalda þekju skóga á Íslandi á næstu 20 árum og fara úr t.a.m. [rúmlega] 1 % í 6 % af flatarmáli Íslands, og ná þannig að standa undir atvinnusköpun og sjálfbærri byggðaþróun.
Verðmæti lands eykst verulega með aukinni skógrækt, en öll ræktun í skjóli skóga verður hagkvæmari og verðmætari. [Þetta á ekki sízt við um hina vaxandi kornrækt á Íslandi - innsk. BJo.]
Landsbyggðin á Íslandi er sannkallaður óslípaður demantur, og það er ljóst, að skógrækt með skipulögðum hætti hefur mikil áhrif til styrkingar byggðar um allt land. Það er ekki ólíklegt, að vörzlumönnum muni fjölga, sem gæta ómetanlegra verðmæta, sem eru í náttúru og náttúruauðlindum Íslands. Gæta þarf að mikilvægi sjálfbærrar þróunar, sem hefur að leiðarljósi að byggja upp og varðveita skógarauðlind, sem þjónar hagrænum umhverfismarkmiðum og lækkar samfélagskostnað."
Skilyrði til landbúnaðar hafa batnað á Íslandi frá náttúrunnar hendi og vegna tækniþróunar, þróunar verkmenningar og meiri eftirspurnar á innlendum markaði (fleiri munnar að metta) og erlendis (aukin kaupgeta og versnandi ræktunarskilyrði). Skapazt hefur spánýr markaður með gasið koltvíildi, CO2, sem íslenzkir skógarbændur verða í góðum færum að keppa á.
Nokkru seinna í greininni skrifaði Albert um fjárfestingarhliðina:
"Ef skógræktarverkefni, þar sem horft er til lengri tíma og ávöxtun m.t.t. áhættu er innan þeirra marka, sem lífeyrissjóðir gera, væri hægt að hefjast handa við stórfellda skógrækt á Íslandi í samstarfi íslenzkra lífeyrissjóða, stjórnvalda, skógræktarfélaga og bænda um allt land. Þjóðarátak í skógrækt á Íslandi með aðkomu helztu aðila, s.s. stjórnvalda, opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar, einkafyrirtækja og einstaklinga um allt land, getur gert það mögulegt að hefja stórsókn í skógrækt og ná þannig metnaðarfullum markmiðum um sjálfbærni og verðmætasköpun fyrir Ísland og Íslendinga."
Málið er, að með markaðsmyndun fyrir koltvíildiskvóta er skógrækt orðin arðsöm á Íslandi. Trjátegundirnar eru mjög misjafnar, og það þarf að velja þær af kostgæfni m.v. aðstæður, þ.e. landsins, sem planta á í og nytjanna, sem ætlunin er að hafa af skóginum. Á meðal fagfólks á þessu sviði er fyrir hendi öll nauðsynleg þekking og mælitækni, sem völ er á. Er þar ólíku saman að jafna við endurvætingu uppþurrkaðra mýra, sem er í raun fát út í loftið og ætti að stöðva nú þegar, nema þar sem Landbúnaðarháskólinn mælir með því og hefur eftirlitið með höndum.
Karl Gauti Hjaltason, Alþingismaður Miðflokksins, ritaði um skógrækt í Bændablaðið 4. júní 2020 undir fyrirsögninni:
"Sveiflum haka og ræktum nýjan skóg".
Hún hófst þannig:
""Í þá tíð var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru", ritaði Ari, prestur fróði, Þorgilsson í upphafskafla Íslendingabókar. Talið er, að við landnám hafi um þriðjungur landsins verið þakinn birkiskógum og kjarri, en nú vex birki á um 1,5 % landsins, og ræktaðir skógar þekja 0,5 % þess. Íslendingar eru í þeirri óvenjulegu stöðu, að nær allir skógar landsins eyddust, og á eftir fylgdi hrikaleg jarðvegseyðing og hnignun landgæða, sem er okkar alvarlegasta umhverfisvandamál."
Hér er hvergi hallað réttu máli, en samt mætti af almennri umræðu ráða, að núlifandi kynslóð manna á Íslandi, starfsemi hennar og inngrip í náttúruna, oftast til að beizla krafta hennar til verðmætasköpunar, sé alvarlegasta umhverfisvandamálið. Þá hafa margir malarbúar gripið á lofti hráan áróður um, að endurvæting lands sé mikilvægari en að kljást við jarðvegseyðingu og endurheimt skóganna. Sá áróður ber keim af heilaþvotti loftslagsumræðunnar, þar sem látið er í verðri vaka, að mokstur ofan í framræsluskurði á Íslandi hafi einhver áhrif á þróun loftslags á jörðunni. Allt er það bull og vitleysa.
"Skógrækt er ung búgrein á Íslandi, og vöxtur trjáa er til muna öflugri en menn hafa þorað að vona. Fyrir hendi er mikið ónýtt landnæði, og trjárækt getur auðveldlega komið til stuðnings og viðbótar við aðra atvinnuvegi landsmanna."
Hér kemur Karl Gauti að samkeppnisstöðu Íslendinga á þessu sviði, sem er einstök vegna mikils landrýmis, sem hægt er að leggja skógræktinni til án þess að ganga á hlut annarrar starfsemi. Vaxtarhraðinn fer vaxandi með hækkandi meðalhitastigi, hærri koltvíildisstyrk í lofti og aukinni úrkomu, svo að hér er kjörið sprotatækifæri.
"Afurðir nytjaskóga verða að verðmætu lífrænu hráefni, timbri og smíðaviði. Á líftíma sínum skapar skógur margvísleg efnisleg verðmæti, fyrst brennsluvið, girðingarstaura, jólatré, trjákurl og arinvið, og síðar meir timbur og aðrar viðarafurðir, sem nýta má á ótal vegu. Verð á timbri hefur lengi farið hækkandi á heimsmarkaði, og ekkert, sem bendir til, að draga muni úr eftirspurn á næstunni. Sumar spár gera reyndar ráð fyrir því, að trjáviður muni í æ ríkari mæli koma í stað steinsteypu sem byggingarefni."
Loftslagsumræðan ýtir undir hið síðast nefnda hjá Karli Gauta, því að hvert tonn sements skilur eftir sig stórt kolefnisspor, sem ekki minnkar með aldri steypunnar, eins og á við um t.d. álið, sem hægt er að endurvinna takmarkalaust, og notkun þess í t.d. samgöngutæki minnkar í raun kolefnisfótsporið, sem myndast við frumvinnsluna. Það væri óskandi, að hér mundu skapast skilyrði fyrir skógariðnað, sem er mikilvægur þáttur í hagkerfi flestra hinna Norðurlandanna og er gjaldeyrissparandi.
Nú sjáum við, hversu atvinnustigið á Íslandi er hverfult. Að reiða sig á ferðaþjónustu í þeim efnum er ekki hægt. Ef skógariðnaður gæti komið sem aukabúgrein í landbúnaði, myndi hann bæta bæði atvinnuöryggi og afkomuöryggi á landsbyggðinni. Hvað skrifaði Karl Gauti um þetta ?:
"Nú með þverrandi atvinnu er unnt með aðgerðum stjórnvalda að skapa fólki arðbær störf við að undirbúa stórátak til að efla skógrækt. Strax má vinna að því að hirða um og grisja þá skóga, sem fyrir eru, og auka þannig gæði þeirra og hámarka árangur. Arður af skógi kemur reyndar ekki í sviphendingu, en býsna skjótt má fá tekjur af skógi vöxnu landi vegna grisjunar. Með vexti skógar aukast tekjur af honum og störfum fjölgar, og trjáviður er uppspretta ótal tækifæra til nýsköpunar á ýmsum sviðum iðnaðar. Skógrækt sem tiltölulega ný atvinnugrein mun þannig stuðla að jákvæðri byggðaþróun og skapa fjölmörg afleidd störf og vera framtíðarauðlind fyrir komandi kynslóðir landsmanna."
Varðandi tekjuhlið skógræktarinnar má ekki gleyma umtalsverðum þætti, sem vara mun svo lengi, sem mannkynið berst við að draga úr koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, en það er sala á bindingu CO2 í viði og jarðvegi. Rannsóknir hafa sýnt nettó bindingu í mjög ungum ræktunarskógi. Það er engum blöðum að fletta um mátt trjáa til bindingar CO2, því að af 560 mrdt kolefnis í gróðri jarðar eru um 390 mrdt í skógunum eða 70 %. Alaskaöspin er langöflugusta trjátegundin hérlendis í bindingu og bindur að jafnaði yfir 20 t CO2/ha á ári. Barrtrén afkasta rúmlega 40 % af því, en birkið er hægvaxnast og bindur aðeins um 3,5 t CO2/ha á ári. Með fjórföldun á fjölda núverandi gróðursetningarplantna á ári má fljótt fá bindingu, sem nemur 535 kt CO2 ár, sem er 11 % af skráðri losun Íslands. Það er ekki vafi, að þetta er hjálplegt við að ná markmiði Íslands í samflotinu með EES gagnvart Parísarsáttmálanum, en það er enn óljóst, hversu mikið Ísland má telja fram á sviði bindingar.
Losun frá umferðinni fer nú minnkandi og sama má segja um útgerðirnar. Landsmenn ættu þess vegna ekki að þurfa að lenda í miklum þvinguðum kaupum á koltvíildiskvóta. Samt verður þörf á bindingu til viðbótar við minnkandi bruna jarðefnaeldsneytis, því að millilandaskip, flugvélar og ýmsar greinar iðnaðarins munu fram yfir árið 2030 verða háð orku úr jarðefnaeldsneyti. Á þessum sviðum geta þó orðið óvænt gegnumbrot, t.d. á sviði áliðnaðar, þar sem rannsóknir fara fram á kolefnisfrírri rafgreiningu súráls. Við rafgreininguna verður þá til súrefni, O2, í stað koltvíildis, CO2. Með Elysis verkefni Rio Tinto og Alcoa í Voreppe í Frakklandi er ráðgert að hefja framleiðslu áls með kolefnisfríum hætti fyrir árslok 2021 með fullum iðnaðarstraumi, sem er 1000 sinnum hærri en straumur í tilraunaverkefni, sem nýlega var kynnt hérlendis til sögunnar og er í raun 20 árum á eftir tímanum og getur því varla nokkurn tímann orðið barn í brók, en meira um það síðar.
Í lokin skrifaði Karl Gauti:
"Gróðursetning hefur dregizt verulega saman hér á landi frá efnahagshruni, og í fyrra [2019] voru aðeins gróðursettar 3 M trjáplantna. Nauðsynlegt er að auka þar verulega við og margfalda plöntun. Undirbúningur þess tekur nokkur ár og því mikilvægt að hefjast þegar handa. Aðgerðir stjórnvalda eru því miður í hænuskrefum að þessu leytinu, á sama tíma og innan fárra ára kemur að uppgjöri á kolefnisbókhaldi landsins.
Fram undan eru því tækifæri til að draga úr áhrifum niðursveiflu í efnahagslífinu, ná verulegum árangri í loftslagsmálum og byggja upp auðlind til hagsbóta fyrir land og þjóð í framtíðinni. Á erfiðum tímum þarf að horfa til framtíðar og byggja upp. Fátt eykur bjartsýni fólks eins mikið og gróðursetning trjáa. Nýtum það lag og blásum til grænnar sóknar - og ræktum skóga."
Það er óskandi, að þessi herhvöt Karls Gauta gangi eftir nú, þegar harðnandi samkeppni verður um fjármagnið. Efnahagur hins opinbera og atvinnulífsins er mjög aðþrengdur og allt gert með bullandi skuldsetningu. Flýtur á meðan ekki sekkur. Nú ríður á að fara vel með fé. Falskenningar eru á lofti um langmesta skilvirkni endurvætingar lands til að draga úr gróðurhúsaáhrifunum. Nýjar rannsóknir sýna, að ávinningurinn er mun minni en áður var talið, og hann er auk þess alveg undir hælinn lagður og getur jafnvel snúizt upp í andhverfu sína vegna þess, að land, sem þurrkað var fyrir meira en 50 árum, er komið í jafnvægi og sendir ekki frá sér koltvíildi af völdum þurrkunar. Réttast væri að hætta að svo stöddu fjárveitingum til ofanímoksturs skurða og beina fénu til skógræktar.
20.6.2020 | 17:43
Vindmylluriddarar og aðrir einstefnumenn
Það er undarleg tilhneiging hérlendis til útskúfunar heilla atvinnugreina og að fella um þær palladóma, sem reistir eru einvörðungu á fordómum og þekkingarleysi. Iðulega styðjast þessi viðhorf við innflutt sjónarmið úr gjörólíku umhverfi, sem engan veginn eiga við hér. Þar með bíta þessir talsmenn höfuðið af skömminni, svo að á þeim er lítt mark takandi.
Hér verður tvennt gert að umræðuefni: áhugi á uppsetningu vindorkuvirkjana hérlendis og hernaðurinn gegn nýjum hefðbundnum íslenzkum virkjunum á sviði jarðgufu og vatnsafls.
Vindmyllur eru neyðarbrauð, sem gripið var til í örvæntingu erlendis til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í löndum, þar sem hlutdeild þeirra í raforkuvinnslu var yfirleitt undir 10 %. Hérlendis er þessi hlutdeild næstum 100 %, þökk sé vatnsorkuvirkjunum og jarðgufuvirkjunum. Frumskilyrði fyrir vindorkuver vantar þess vegna hérlendis.
Vindmyllurnar eru litlar að uppsettu afli, oft 3-5 MW, og nýting þeirra er slæm á landi (betri úti fyrir ströndu). Raforkuvinnsla þeirra er slitrótt, og jafngildir orkuvinnsla þeirra yfir árið því, að þær séu á fullu afli minna en 30 % af árinu á heimsvísu, en hérlendis líklega um 40 % að teknu tilliti til viðhalds. Að sama skapi hefur orkan frá þeim verið dýr, um 70 USD/MWh, en með bættri framleiðslutækni og lækkun verðs þeirra frá verksmiðju á hvert MW hefur e.t.v. náðst að lækka þennan vinnslukostnað niður í 50-60 USD/MWh. Þetta er þó einfaldlega ekki samkeppnishæft verð á Íslandi án niðurgreiðslna, á meðan nægt framboð er af raforku frá hefðbundnum íslenzkum virkjunum.
Hvað sem líður áformum um nýjar slíkar virkjanir, sem eru fremur fátækleg, nema helzt smávirkjanir vatnsafls og endurnýjun gamalla virkjana með aukin afköst og meiri orkuvinnslu í huga, þá er nóg af ónýttum virkjanakostum í gildandi Rammaáætlun, svo að ekki sé minnzt á biðflokkinn. Skynsamlegasta notkun vindmyllna hérlendis er að láta þær jafnan vera á mestu mögulegu afköstum og spara á móti vatn í miðlunarlónum, en engin þörf er á þessu á sumrin í góðum vatnsárum. Við venjulegar aðstæður er takmarkaður og óviss markaður fyrir vindmyllur á Íslandi. Er einhver spurn eftir þessari orku, eða fyrir hvað eru vindmylluriddarar nútímans að sverma hérlendis ?
Framleiðsluferli vindmyllna skilur eftir sig umtalsvert kolefnisfótspor, og í þeim eru verðmætir og sjaldgæfir málmar. Spaðarnir eru yfirleitt úr glertrefjum, og þeir slitna vegna loftmótstöðu og sandfoks og þarfnast skiptingar. Þeir gömlu eru yfirleitt urðaðir. Enn vex kolefnissporið, þegar jarðvinna og gríðarleg steypuvinna hefst á virkjanasvæði vindsins. Það er gríðarleg graftrarvinna fyrir stórar steyptar undirstöður, vegalagning og strengjaskurðir fyrir vindmyllurnar. Umhverfisraskið er gríðarlegt á stóru svæði vindorkuversins og miklir þungaflutningar þangað. Allt er það fyrir heldur rýra eftirtekju.
Spaðaendarnir geta hæglega verið á hraðanum 70 km/klst. Fuglar sjá margir illa upp fyrir sig, og hafa t.d. hafernir í Noregi slasazt tugum saman árlega til ólífis af höggi ofanfrá.
Mikil útlitsbreyting til hins verra verður á víðernum, þar sem vindorkuverum hefur verið skellt niður, og vegna hæðar sinnar, allt að 200 m frá efra borði undirstöðu að spaðatoppi, sjást þau marga tugi km að. Þegar kostir og gallar vindmylluorkuvera á Íslandi eru vegnir og metnir, virðast gallarnir vera yfirgnæfandi og yfirþyrmandi.
Forystugrein Morgunblaðsins 26. maí 2020 fjallaði um þetta og hét:
"Stundum verður að berjast við vindmyllur".
Þarna er skírskotað til þekkts miðaldaverks á Spáni, enda verður að telja það fremur forneskjulegt að mæla fyrir vindmyllum til raforkuvinnslu á Íslandi. Þar er svo sannarlega farið yfir lækinn til að sækja vatnið:
"Baráttan gegn því, að efnt yrði til vatnsfallsvirkjana, sem hagstæð skilyrði stóðu til, varð stundum mjög hatrömm [deilurnar um Búrfellsvirkjun eru pistilhöfundi í fersku minni-innsk. BJo]. Iðulega tók hún sama blæ og brag og baráttan gegn hersetu, þótt að henni kæmu stórir hópar fólks, sem innvígðist aldrei í þau mál. En nú var rætt um "hernaðinn gegn landinu" og fast kveðið að og fullyrt, að þeir, sem slíkt styddu, væru eins og landsölumennirnir, óvinir þjóðarinnar og svikarar við málstað hennar.
En meginþáttur í huga margra, sem börðust gegn því, að landinu væri spillt, svo [að] fegurð þess og yndi fengi áfram að njóta sín, snerist að sjónmenguninni, sem væri skemmdarverk af risavöxnu tagi."
Þetta er hárrétt athugað hjá leiðarahöfundinum, en hávær og innistæðulítill andróður gegn virkjun íslenzkra jökulvatna á borð við Þjórsá og Tungnaá reyndist stormur í vatnsglasi. Það var gert allt of mikið úr skemmdarverkum á náttúrunni og ekkert hugað að þjóðhagslegu mikilvægi raforkuvinnslunnar, sem varð afrakstur framkvæmdanna.
Ekkert af þessu á við um vindmyllurnar. Þær setja mjög neikvæðan svip á landslag á stórum landsvæðum, þar sem þær hafa verið settar upp (erlendis), enda er engin spurn á íslenzkum raforkumarkaði eftir þessari frumstæðu og óhentuga aðferð við raforkuvinnslu hérlendis.
"Á laugardaginn var [23.05.2020] birtist stutt grein frá lesanda blaðsins og vakti athygli. Kannski var hún merkilegust fyrir það, að þar var opnað á umræðu, sem illskiljanlegt er, að hafi ekki fyrr verið tekin af alvöru hér á landi. Greinarhöfundur, Halldór S. Magnússon, fjallar um vindmyllur og bendir í upphafi sinnar greinar á það alkunna, að "virkjun náttúruauðlinda hefur lengi verið eitt vinsælasta deiluefni Íslendinga. Annars vegar eru þeir, sem telja nauðsynlegt að virkja sem allra mest til þess að efla þjóðarhag, og hins vegar þeir, sem telja brýnt að virkja alls ekki meir til þess að vernda náttúru landsins."
Ef einhverjum hefur dottið í hug, að vindmyllur gætu brúað bilið á milli þessara hópa, þá lýsir það viðhorf fullkomnu skilningsleysi á skaðsemi vindmyllna í íslenzkri nátturu. Umhverfislega er verið að fara úr öskunni í eldinn. Flestir hérlandsmenn eru hófsamir m.t.t. nýrra virkjana, vilja leyfa nýjar virkjanir, ef þörf er á orkunni og nýta á beztu tækni til að draga úr umhverfisáhrifunum eftir föngum, t.d. með lunganum af mannvirkjunum neðan jarðar (sprengd inn í fjöll). Þessu er ekki fyrir að fara með vindmyllur. Þar er ekki val, nema á milli stærðar hverrar vindmyllu og fjölda þeirra. Hver sækist eftir slitróttri orku frá þeim, og eðli máls samkvæmt setja þær hræðilegan svip á ósnortin víðerni. Þetta hefur nú runnið upp fyrir mörgum þjóðum í Evrópu, t.d. Norðmönnum.
"Greinarhöfundi þótti lítið hafa heyrzt frá talsmönnum náttúruverndar um vindmylluáform. Enda er það umhugsunarefni, að almenningur hafi ekki látið þetta mál til sín taka áður en það er um seinan. Kannski er það vegna þess ofsa, sem einkennir umræðu um loftslagsmál, þar sem sérhver spurning er kaffærð, falli hún ekki að "réttum sjónarmiðum". Kannski óttast fólk, að taki það á móti þeim, sem vilja slá upp risavöxnum vindmyllum í náttúru landsins með óþolandi hvini og ónotum, verði það sakað um að stuðla að þeim aldauða, sem verði, fái loftslagsmenn ekki sitt fram."
Það er rétt hjá Morgunblaðinu, að erlendis eru náin tengsl á milli hvatamanna vindmylluorkuvera og loftslagsspámanna. Í löndum annarra endurnýjanlegra orkulinda, þar sem að auki enn er nóg af þeim, falla loftslagsrök fyrir vindmyllum algerlega um sjálf sig. Vindmyllur hafa stórt kolefnisfótspor, og eiga engan rétt á sér, þar sem nóg er af öðrum endurnýjanlegum orkulindum. Þetta er hin mikla meinloka vindmylluriddara nútímans á Íslandi.
"Halldór S. Magnússon bendir réttilega á, að þögn talsmanna náttúruverndar veki einkum furðu, "þar sem þeir hafi talið það fyrst og fremst vatnsaflsvirkjunum og jarðhitavirkjunum til foráttu, að þær séu óþolandi aðskotahlutir í íslenzkri náttúru, sem skemmi fyrir upplifun manna af landinu og stórkostlegri fegurð þess."
Þessi einkunnargjöf afturhaldsmanna um útlit og ljótleika vatnsaflsvirkjana og jafnvel jarðgufuvirkjana eru tilbúin falsrök þeirra fyrir vondum málstað. Vatnsaflsvirkjanir falla í langflestum tilvikum, ef ekki öllum, mjög vel að landslaginu, og miðlunarlónin eru yfirleitt til fegurðarauka í landslaginu, ekki sízt á gróðurlitlu og þyrrkingslegu hálendinu. Svipaða sögu má segja af jarðgufuvirkjunum, þótt gufumekkir og röralagnir falli vafalaust ekki öllum í geð. Þegar gríðarlegt notagildi og umhverfisvæn orkuvinnsla er höfð í huga, eru flestir tilbúnir til að horfa í gegnum fingur sér með þessi mannvirki. Fórnarkostnaðurinn er aðeins lítið brot af hinum þjóðhagslega ávinningi. Engu slíku er hins vegar til að dreifa um slitrótta orkuvinnslu hundruða vindmyllna, sem stinga í stúf við heilbrigða skynsemi á Íslandi.
"Og í tímamótagrein sinni spyr Halldór í framhaldinu: "En hvað með vindmyllur, geta þær fallið inn í landslagið ?" Og hann bætir við: "Í flestum tilvikum munu myllur vindorkuvera verða áberandi á fjöllum og hásléttum landsins og sjást víða að. Getur það samrýmzt skoðunum umhverfis- og náttúruverndarsinna, að reistar verði vindmyllur uppi á heiðum og fjöllum landsins í ósnortinni náttúru ?"
Þetta eru gildar spurningar og tímabærar og sætir reyndar nokkrum ugg, að dauðaþögn hafi ríkt um þessi mál þar til nú."
Spurningum téðs Halldórs er fljótsvarað. Það samrýmist alls ekki sönnum náttúruverndarsjónarmiðum að styðja reisningu fjölda vindmyllna, ekki einu sinni með þögninni. Þetta er ástæðan fyrir því, að andstaðan gegn vindmyllum fer nú sívaxandi í Noregi. Norðmenn hafa nú áttað sig á því, að útdjöflun ósnortinna víðerna þeirra er allt of dýru verði keypt. Norðmenn framleiða um tífalt meira af raforku með vatnsafli en Íslendingar, svo að þeir eru mjög vanir vatnsaflsvirkjunum (mörg stöðvarhús eru reyndar sprengd í fjöll af öryggisástæðum), miðlunarlónum og háspennulínum í ósnortnum víðernum. Miðlunarlónin eru meira en tíföld hámarksflatarmál íslenzkra miðlunarlóna, því að þau voru sniðin við þarfir norskrar stóriðju og húshitunar fyrir daga sæstrengstenginganna við Noreg. Nú hefur hins vegar verið gengið algerlega fram af norskum náttúruunnendum, enda er engin þörf fyrir vindmyllur inn á norska raforkukerfið. Raforka vindmyllanna fer nánast öll til útlanda um aflsæstrengi, og fjárfestarnir, margir frá meginlandi Evrópu, mökuðu krókinn, á meðan verðið var þar nægilega hátt, en við núverandi markaðsaðstæður lepja þeir dauðann úr skel.
Svo virðist sem núverandi umhverfisráðherra á Íslandi sé hallari undir vindmyllur en vatnsorkuver, og er það til vitnis um furðulegan öfugsnúning þessa ráðherra án þingsætis. Hér kemur inngangur að baksviðsgrein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, 29. maí 2020, sem hann nefndi:
"Setja viðmið við uppbyggingu vindorku":
Umhverfisráðherra er að undirbúa frumvarp til laga um umgjörð nýtingar vindorku í landinu. Ráðuneyti hans og ráðuneyti iðnaðarmála hafa verið að vinna að því að móta viðmið um það, hvar leyfa megi vindorkugarða og hvar ekki. Skipulagsstofnun vinnur í þessu sambandi að gerð viðauka við landskipulagsstefnu, þar sem sett verða viðmið fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga um vindorku.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir, að litið hafi verið til viðmiða erlendis og nefnir, að sums staðar hafi friðlýst svæði og svæði, sem farleiðir fugla liggja um, verið tekin út fyrir sviga."
Þetta er mjög ógæfulegt, því að við höfum fátt eitt til annarra þjóða að sækja í þessum efnum annað en sorgleg mistök, eins og dæmið af Noregi hér að ofan sýnir. Reglan um þetta getur verið mjög einföld. Alls ekki á að leyfa vindmyllur í ósnortnum víðernum. Ef áhugi er á að reisa vindmylluorkuver annars staðar, skal leita umsagnar Landsnets um þörf á aukinni innmötun þar. Það er eins og fyrri daginn. Flækjufótum Stjórnarráðsins leyfist að gera einföld mál flókin. Er ekki meirihluti á þingi fyrir einföldu reglunni ?
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur horn í síðu nýrra vatnsorkuvera. Alþingismaðurinn, Jón Gunnarsson, reit gagnmerka grein um þetta í Morgunblaðið 26. maí 2020, sem hófst þannig, en henni verða gerð betri skil síðar:
"Að friðlýsa landið og miðin":
"Umhverfisráðherra kom fram í fjölmiðlum sunnudaginn 17. maí [2020] og reyndi að réttlæta ákvörðun sína um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Sú skýring hans, að þetta sé gert til að framfylgja vilja Alþingis, stenzt enga skoðun. Ég tel, að ráðherra skorti lagaheimild fyrir þessari ákvörðun. Ráðherranum hefur nú verið stefnt fyrir dóm af landeiganda vegna þessa."
Ráðherra þessi hagar sér að ýmsu leyti eins og kvíga, sem sleppt er út að vori. Hann gerir, það sem honum sýnist, og fullyrðir síðan, að hann hafi fullan rétt til þess. Það kom vel á vondan, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landverndar, að verða sjálfur kærður fyrir embættisafglöp, sá kæruglaði maður. Fróðlegt verður að sjá, hvernig deilumálinu reiðir af í dómssölum. Ráðherra þessi varð alræmdur fyrir kærugleði sína í sínu fyrra starfi og hefur á samvizku sinni gríðarlega kostnaðarsamar tafir framkvæmda um allt land. Auðvitað sá hinn stórskrýtni þingflokkur vinstri grænna ástæðu til að verðlauna þennan mann fyrir afrekin, sem kostað hafa skattborgarana stórfé.