Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Bóluefnaklúður

Landsmenn hafa á milli annarra stórfrétta gjóað augunum á bóluefnafarsa, sem þeir læknarnir Kári Stefánsson og Þórólfur Guðnason hafa verið aðalleikendur í.  Báðir ("great minds think alike") fengu þeir þá hugmynd, þegar klúður íslenzkra ráðuneyta heilbrigðis og forsætis við útvegun bóluefna við C-19 handa þjóðinni var að komast í hámæli, að fá bandaríska lyfjarisann Pfizer til að búa til vísindalega tilraun um hjarðónæmi og afleiðingar bóluefnisins á heila þjóð með skyndibólusetningu Íslendinga.  Á skrifandi stundu er ekki ljóst, hvort Pfizer bítur á agnið.  Kári jók við dramað með því að upplýsa, að danskur umboðsaðili Pfizer á Norðurlöndunum, sem hann kallaði "Mette" (forsætisráðherra Danmerkur heitir Mette Fredriksen), hefði lekið þessu í dönsk lýðheilsuyfirvöld og væri á góðri leið með að eyðileggja hugmynd þeirra kolleganna um tilraunina á íslenzku þjóðinni með myndun ónæmis með genatækni.  Hljóðar og prúðar sátu þær hjá stöllurnar úr VG, sem aldrei hafa við viðskiptavit kenndar verið, og biðu "björgunar" úr þröngri stöðu, sem þær hafa lent í vegna eigin vanrækslu.

Morgunblaðið fjallaði um stöðu bóluefnaútvegunar ráðherranna í forystugrein 9. janúar 2021 undir fyrirsögninni:

"Bóluefnaklúður ESB".

Hún hófst þannig:

"Klúður Evrópusambandsins í bólusetningarmálum blasir við.  Á miðvikudag [06.01.2021] höfðu 1,3 milljónir manna fengið fyrri bólusetninguna við kórónuveirunni af tveimur á Bretlandi, en aðeins 1,1 milljón í öllum aðildarríkjum sambandsins.  Það eru næstum 2 % Breta, en aðeins 0,2 % af íbúum ESB.

 Þetta er kaldhæðnislegt vegna þess, að þegar Bretar drifu í að samþykkja bóluefnið frá Pfizer og Biontech, fitjuðu þeir, sem fóru með þessi mál í Evrópusambandinu, upp á nefið [trýnið - innsk. BJo] og sögðu fullir vandlætingar, að Bretar væru með hroðvirkni, en ESB vandvirkni.  Leyfi fyrir lyfinu var síðan veitt með hraði, þegar gremja fór að safnast upp innan ESB yfir því að sitja eftir í startholunum."

Það stóð ekki á því, að stórmál kæmi upp, sem sýndi Bretum og öðrum ótvírætt fram á kostina við það að standa sem fullvalda ríki utan ESB.  Þar eru hvorki meira né minna en lífshagsmunir í húfi.  Bretar voru snöggir með efnisútvegun og samþykktir, enda ESB bara að teygja lopann fyrir franska Sanofi, sem verður að dómi Ursúlu von der Leyen að fá að selja ESB-löndunum jafnmikið af bóluefninu og þýzka BioNTech, en prófanir Sanofi gengu brösuglega á tímabili.   

Það er meiriháttar glapræði af hálfu heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra að reiða sig á jafnótryggt apparat og hagsmunatogið í Brüssel.  Svona gerir enginn, nema með skerta dómgreind.  Þetta er óhæfa.  Þær stöllur, ráðherrar VG, segjast hlæja mikið saman, þegar streitan eykst.  Skyldu þær hafa tekið eins og eitt hláturskast áður en þær ákváðu að leggja lífshagsmunamál Íslands í hendurnar á Ursúlu von der Leyen, lækni, og búrókrötum hennar ? Metnaðarleysið fyrir hönd Íslands er svipað hjá þeim nú og 2009, þegar þær sem ráðherrar stóðu að staðfestingu á heimild frá Alþingi til utanríkisráðherra um að senda umsókn til ESB um aðildarviðræður.  Sú skriflega beiðni hefur enn ekki verið afturkölluð, og þær munu samþykkja endurlífgun þessarar umsóknar til að innleiða Reykjavíkurlíkanið í Stjórnarráðið eftir næstu Alþingiskosningar.  

"Ekki báru þó öll ríki ESB traust til framkvæmdastjórnarinnar.  Strax í vor ákváðu Frakkar, Hollendingar, Ítalir og Þjóðverjar að grípa til sinna ráða, því að þeim fannst ganga stirðlega.  Þeir sömdu um rúmlega 400 milljón skammta bóluefnis við AstraZeneca m.a. til að þrýsta á framkvæmdastjórnina.  Þetta var harðlega gagnrýnt í Brussel, og á endanum skrifuðu leiðtogar ríkjanna fjögurra auðmjúkt afsökunarbréf fyrir að hafa rofið hina mikilvægu samstöðu gagnvart lyfjafyrirtækjunum.  

Líklegt er, að sú afsökun sitji í þeim núna.  Ljóst er, að samningamenn ESB sömdu um of lítið af bóluefni og voru það svifaseinir, sennilega af því að þeir héldu, að með því að bíða fengju þeir betri kjör, að sambandið er með þeim öftustu í afhendingarröðinni.  

Þetta sparnaðarsjónarmið mun reynast dýrkeypt, því að sóttvarnaraðgerðir kosta efnahagslífið svo miklu meira en leggja hefði þurft út fyrir dýrustu bóluefnunum, að það hefði ekki einu sinni átt að vera umhugsunarefni."

Verðmunur á dýrasta og ódýrasta bóluefninu er rúmlega 2000 ISK/skammtur.  Þótt íslenzka ríkisstjórnin hefði pantað 600 k skammta í sumar af dýrustu gerð, sem er nú reyndar tekin að berast hingað, hefði útgjaldaaukinn aðeins orðið um mrdISK 1,2 m.v. ódýrasta bóluefnið, en sú upphæð er líklega nálægt daglegum kostnaði þjóðfélagsins af Kófinu.  Hvernig mátti það vera, að heilbrigðis- og forsætisráðherra gripu ekki til ráðstafana í sumar, eins og þær höfðu fullt frelsi til að gera, þótt Ursula von der Leyen slægi á putta aðildarlanda ESB, sem sáu í hvað stefndi ?

Vinstri flokkarnir hérlendis eru veikir fyrir því að ganga búrókrötum stórríkisins á hönd, þótt öll rök hnígi í gagnstæða átt, þegar hagsmunir Íslands eru annars vegar.

"Í grein í nýjasta tölublaði tímaritsins The Spectator segir, að staðreyndirnar tali sínu máli.

"Satt að segja er bólusetningarherferðin að verða mesta stórslys ESB frá evrukreppunni 2010-2011", segir í blaðinu.  "Á meðan hún gerði aðeins 3 lönd gjaldþrota og dæmdi heila kynslóð Grikkja til fátæktar, mun þetta leiða til dauða tugþúsunda manna.""

Vegna sérstakra og íþyngjandi varnaraðgerða fyrir þá, sem líklegastir eru til að fara halloka fyrir SARS-CoV-2 veirunni á Íslandi og vinnuferla í heilbrigðisgeiranum, sem yfirleitt hafa gefizt vel, þarf ekki að vænta margra dauðsfalla vegna dauðyflisháttar þeirra, sem ábyrgir eru fyrir bóluefnaútvegun hingað við C-19, þó einhverra, en íþyngjandi sóttvarnarráðstafanir munu dragast á langinn með grafalvarlegum afleiðingum fyrir opinbera sjóði, fyrirtækin og heimilin.  Það er ófyrirgefanlegt sleifarlag, sem því veldur, og rangur hugsunarháttur.

"Í greininni segir, að bóluefnahneykslið sé að breytast í endurtekningu á evrukreppunni.  ESB setji sér markmið, en það sé vonlaust, að því takist að koma sér upp bolmagni til að ná þeim.  Það hafi komið sér upp sameiginlegum gjaldmiðli án þess að vera með neitt af því gangverki, sem þurfti, til að það gengi upp.  Nú hafi það búið til stefnu í heilbrigðismálum án þess að hafa sjóði eða sérþekkingu til að standa við sitt."

Síðan þetta var skrifað í The Spectator hefur sigið á ógæfuhliðina hjá ESB í bóluefnamálum.  Það hefur komið á daginn, að grundvallaratriðið, jöfn dreifing bóluefna innan ESB, stenzt ekki dóm reynslunnar.  Dreifingin er mjög ójöfn eftir löndum, og ekki nóg með það, heldur er heildarútvegunin á eftir áætlun. Þetta mun færa Sambandið á suðupunkt. Ísland er áhorfandi og þolandi, en getur engin áhrif haft.  Sprikl Kára og Þórólfs er líklegt til að hleypa illu blóði í Brüssel búrókrata.  Eftir sitja Íslendingar "með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn taka til orða um einfeldningsleg mistök.

Að lokum stóð þetta í þessari forystugrein Morgunblaðsins:

"Bóluefnamálið hefur afhjúpað getuleysi, fúsk og vanmátt ESB.  Fögur fyrirheit kunna að hafa hljómað vel í upphafi, en íslenzkir ráðamenn hefðu átt að kveikja á því, að í óefni stefndi, miklu fyrr og grípa til sinna ráða.  Hér ætti að vera fyrir hendi næg þekking og sambönd til að gæta hagsmuna Íslands. Til að bjarga málum hafa Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, reynt að semja við Pfizer um að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar í rannsóknarskyni.  Í gær [08.01.2021] sagði Kári, að útlit væri fyrir, að það myndi ekki ganga.  Haft var eftir honum á mbl.is í gær, að þar hefði ekki verið leitað eftir sambærilegum samningi og Ísrael hefði gert, en sá mikli fjöldi bóluefnaskammta, sem Ísraelar hefðu tryggt sér frá Pfizer, sýndi, hvað það gæti verið "mikilvægt að geta hagað sér, eins og sjálfstæð þjóð".  Þann lærdóm má óhikað draga af því að fylgja ESB í bóluefnamálum."

 Allt er þar satt og rétt hjá Morgunblaðinu.  Því má bæta við, að þann 17.01.2021 hafði líklega um fimmtungur Ísraela hlotið fyrri sprautuna af Pfizer bóluefninu, og þá hafði fjöldi nýrra smita þegar helmingazt m.v. vikurnar á undan.  Gagnsemi bólusetninga virðist þess vegna koma fram löngu áður en 60 % þjóðar hefur verið fullnaðarbólusettur. 

Hins vegar berast líka fréttir frá Evrópu og Bandaríkjunum um mannslát af völdum þessara bólusetninga, en þar eiga í hlut aldraðir og hrumir einstaklingar, eins og við þekkjum héðan frá Íslandi einnig.  Það orkar tvímælis að bólusetja þá, en þol aldraðra og hrumra gagnvart tiltækum bóluefnum er óþekkt, því að þessir hópar voru nánast ekki í rannsóknarhópum bóluefnafyrirtækjanna, sem markaðsleyfi hafa fengið á Vesturlöndum.  

Það má taka undir það, að íslenzk yfirvöld hefðu átt að kveikja á því miklu fyrr, að "getuleysi, fúsk og vanmátt[ur]" einkenndu vinnubrögð ESB við útvegun bóluefnis frá fyrstu stund.  Þessi lýsing á vinnubrögðum ESB á þess vegna líka við vinnubrögð íslenzkra stjórnvalda.  Tilraunir Kára og Þórólfs til að búa til tilraun með alla íslenzku þjóðina með bóluefni, sem er alveg nýtt af nálinni og hefur í raun ófullnægjandi prófunarskýrslur að baki umsóknar sinnar um markaðsaðgang, eru illa ígrundaðar og skortir jafnvel siðlegan grundvöll, enda virðast þær hafa strandað. 

Staksteinar Morgunblaðsins 11. janúar 2021 bera fyrirsögnina: 

"Árangur og aðgerðaleysi".

Þeir hófust þannig:

"Brezka blaðið The Spectator sagði í liðinni viku, að svo mikil mistök hefðu verið gerð þar í landi vegna kórónuveirufaraldursins, að auðvelt væri að gleyma því, sem vel hefði verið gert.  "Sú staðreynd, að Bretland var fyrsta landið, sem byrjaði almenna bólusetningu - og var í þessari viku það fyrsta, sem notaði 2 bóluefni - gerðist ekki fyrir tilviljun.  Þetta tókst vegna þess, að ríkisstjórnin hafði þá framsýni að panta fyrirfram stóra skammta af líklegu bóluefni og vegna þess, að brezk lyfjayfirvöld unnu hratt og af skilvirkni við að meta gögn um prófanir á þessum bóluefnum", sagði The Spectator."

Viðkomandi íslenzk stjórnvöld, þ.e. heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnayfirvöld, höfðu ekki til að bera sömu framsýni og frumkvæði fyrir hönd þjóðar sinnar og hin brezku.  Það er skálkaskjól þeirra að kenna um getuleysi Lyfjastofnunar til að leggja sjálfstætt mat á prófunargögn lyfjaframleiðendanna.  Þar er ekki um nein geimvísindi að ræða, heldur þekkta aðferðafræði með óþekkt efni.  Auk þess mátti alveg eins styðjast við lyfjaeftirlit Bandaríkjanna og Bretlands eins og Lyfjastofnun ESB.  Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu batt ekki hendur Íslendinga að þessu sinni.  Bólusetning á Bretlandi gengur nú u.þ.b. tvöfalt hraðar en á Íslandi og í Ísrael tæplega tífalt hraðar. 

Téðum Staksteinum lauk þannig:

"Aðgerðir, eða aðgerðaleysi, heilbrigðisyfirvalda til að útvega bóluefni, auk óskýrra svara um, hvernig að því var staðið, og á hverju landsmenn mega eiga von, skyggir þó mjög á árangurinn af sóttvörnum.  Ekki sízt, þar sem hætt er við meira smitandi veiruafbrigði, að sóttin breiði úr sér á ný, þar til umfangsmikil bólusetning hefur náðst."

Það er alveg sama, hvar borið er niður um stjórnarhætti Svandísar Svavarsdóttur.  Þeir eru ekki til eftirbreytni, en markast af illa ígrunduðum ráðstöfunum.  Hún hefur nú lagt fyrir Alþingi frumvarp til sóttvarnalaga, af því að málsmetandi lögmenn hafa efazt um lögmæti sóttvarnaaðgerða hennar, t.d. gagnvart atvinnufrelsi og frelsisskerðingu á landamærunum.  Frumvarpið er vanhugsað.  Í stað þess að tilgreina, hvers konar aðstæður mega vera fyrir hendi, til að heilbrigðisráðherra hafi heimild til að gefa út frelsisskerðandi reglugerðir, er frítt mat lagt í hendur sóttvarnalækni, einmitt eins og reyndin hefur verið í þessum faraldri, og hefur þótt ófullnægjandi.  Ef sóttvarnalæknir telur ástæðu til að grípa til tiltekinna aðgerða, má heilbrigðisráðherra skella þeim á með reglugerð samkvæmt frumvarpinu.  Reynslan af vinnubrögðum sóttvarnalæknis í C-19 faraldrinum sýnir, að með lögum verður að binda hendur hans. 

Alls konar fíflagangur hefur komið upp við framkvæmd sóttvarna.  Þótt vonandi sé ekki hægt að rekja það alla leið til sóttvarnalæknis eða almannavarna, verður hér einn fáránleikinn, sem höfundur þessa pistils rakst á í gær, sunnudaginn 17. janúar 2021, tíundaður.  Vegna COVID-19 er nú þeim tilmælum beint til útivistarfólks við Vífilsstaðavatn í Garðabæ, að það gangi réttsælis í kringum vatnið.  Búið er að setja upp nokkur skilti við göngustíginn þessu til áréttingar.  Hér skal fullyrða, að þessi tilmæli hafi nákvæmlega ekkert sóttvarnarlegt gildi.  Í samfélaginu sprettur hins vegar upp sjúkleg forræðishyggja, sérstaklega þegar stjórnað er af geðþótta og alið á ástæðulausum ótta.  

 

 

 

 

 

 


Röng viðbrögð magna vandann

Sóttvarnarráðstafanir hérlendis hafa verið mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið, efnahagslífið og líf fólksins í landinu. Þær hafa verið of viðamiklar m.v. nýgengi smita og með hliðsjón af notagildi þeirra fyrir smitvarnir. Nýlegar rannsóknir frá t.d. Danmörku benda til, að sóttvarnarleg áhrif þeirra hafi verið stórlega ofmetin. Að skikka einkennalaust fólk í sóttkví orkar tvímælis, og lagagrundvöllur fyrir slíku er ótraustur, eins og yfirvöld hafa nú játað vegna tillagna sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á landamærunum. Ólafur Ó. Guðmundsson, geðlæknir, ritaði afar fróðlega grein um áhrif sóttvarna á heilsufarið í Morgunblaðið 9. janúar 2021 undir fyrirsögninni:

"Geðheilsan í kófinu".

"Óttast var í fyrstu, að um drepsótt sambærilega spænsku veikinni væri að ræða, sem þurrkaði út 2,3 % mannkyns, aðallega yngra, heilsuhraust fólk.  Flestir veikjast vægt, en hjá sumum þeirra, sem sýkjast, getur tekið langan tíma að jafna sig líkamlega og andlega."

Það var ekki að ástæðulausu, að þetta ofmat á hættunni af C-19 átti sér stað, því að lýsingarnar og tölurnar frá Kína í janúar-febrúar 2020 gafu til kynna, að um nýja drepsótt væri að ræða.  Það var áróðursvél Kínverja, sem matreiddi þessar upplýsingar ofan í fjölmiðla Vesturlanda, sem skaut öðrum þjóðum skelk í bringu og leiddi til rangra viðbragða á Vesturlöndum og víðar.  Þessi röngu viðbrögð hafa reynzt þjóðunum dýrkeypt bæði í almennt versnandi heilsufari, sem vart var á bætandi víða, og í fjármunum, því að tilfinnanlegur samdráttur hagkerfa og skuldasöfnun hins opinbera, fyrirtækja og einstaklinga, hefur átt sér stað, sem mun taka langan tíma að bíta úr nálinni með, en á meðan siglir auðvaldskerfi Kína undir stjórn Kommúnistaflokksins hraðbyri að því að verða stærsta hagkerfi heims. Kína er líka farið að sýna tennurnar að ráði, t.d. Áströlum fyrir að hafa Huawei 5-G-tækni.  Beita þeir nú Ástrali, sem hafa verið gagnrýnir á framkomu þeirra gagnvart Hong Kong, viðskiptabanni.  

Til að fást við fjárhagsvandamál í kjölfar Kófsins á Íslandi dugar hið pólitíska Reykjavíkurlíkan alveg áreiðanlega ekki, því að þar ríkir alger óstjórn óhæfra stjórnenda undir blindri leiðsögn Samfylkingar.  Blindur leiðir haltan. Þau söfnuðu skuldum í góðæri, og í hallæri stefnir þar í þrot. 

Nú eru a.m.k. 3 bóluefnaframleiðendur, sem fengið hafa samþykki lyfjastofnana BNA, ESB, Bretlands og víðar, í blóðspreng við að framleiða bóluefni.  Fjölmiðlar hafa lítinn gaum gefið að rannsóknarskýrslum þeirra, þótt þar sé ýmislegt nýstárlegt á ferðinni.  Er ástæða til að bæta úr því og verður gert á þessu vefsetri. Meiri gaumur er þó í fjölmiðlum gefinn að því, hvernig gengur að útvega bóluefni, enda ríður á að koma á hjarðónæmi, svo að hagkerfin hafi einhverja möguleika á að hjarna við.  Ísraelar, 9 milljón manna þjóð, hefur orðið vel ágengt.  Hefur þar tekizt að sprauta um 20 % þjóðarinnar einu sinni gegn C-19. Afköst Ísraela í bólusetningum gegn C-19 eru a.m.k. tíföld á við Íslendinga.  Það er rós í hnappagat stjórnenda Gyðingaríkisins og oppinberar vesældóm íslenzkra valdhafa á sviði heilbrigðismála.  

Íslenzk heilbrigðisyfirvöld eru alveg arfaslök í þessum samanburði, því að aðeins rúmlega 1 % Íslendinga hefur fengið fyrri sprautu, þegar þetta er skrifað. Er sú innkaupastefna vinstri grænna ráðherra heilbrigðis- og forsætisráðuneytis að hengja sig aftan í búrókratí ríkjasambands með böggum hildar vegna þunglamalegrar ákvarðanatöku og eilífs hrepparígs yfir Rínarfljótið algerlega metnaðarlaus, mun valda óþarfa sýkingum og seinka endurræsingu hagkerfisins og venjulegra lifnaðarhátta. 

Ólafur Ó. Guðmundsson hélt áfram:

"Að meðaltali fæðast á Íslandi u.þ.b. 12 börn á dag og 6 manns deyja.  Á þeim 10 mánuðum, sem liðnir eru frá því nýja veiran greindist hér, hafa hafa því um 1800 manns látizt og þar af um 30 [29] úr Covid-19, sem þýðir, að yfir 98 % deyja úr öðrum sjúkdómum, slysum og og sjálfsvígum á tímabilinu."

Nú er litlum vafa undirorpið, að talsvert fleiri andlát hefðu átt sér stað vegna C-19 hérlendis, ef ekki hefðu verið uppi hafðar strangar sóttvarnarráðstafanir á dvalar- og hjúkrunarheimilum og ef íslenzka heilbrigðiskerfisins, með frábæru starfsfólki á hverjum pósti, með sjúkrahúsin í broddi fylkingar, hefði ekki notið við.  Þessar tölur bera hins vegar með sér, að algerlega ofmælt er, að um drepsótt sé að ræða um C-19, nema taka eigi upp á þeim fjára að kalla inflúensu drepsótt.  

Afleiðingar ofvaxinna og jafnvel ólöglegra sóttvarnaraðgerða eru hins vegar þannig, að þær munu sennilega kosta fleiri mannslíf áður en öll kurl koma til grafar.  Hvað hafði geðlæknirinn að segja um áhrifin á geðheilsuna ?:

"Að veikjast af Covid-19 getur haft áhrif á geðheilsu vegna bólguviðbragða ónæmiskerfisins og meðferða, sem beitt er.  Aðrir áhættuþættir geðsjúkdóma geta legið í sóttvörnunum sjálfum; þær hafa í för með sér félagslega einangrun og geta magnað upp viðvarandi ótta, atvinnumissi, fjárhagslega erfiðleika og aukið vímuefnanotkun. 

Nýr formaður brezka geðlæknafélagsins, Adrian James, telur faraldurinn mestu ógn okkar kynslóðar við geðheilsuna á næstu árum.  Ef áætluð þjónustuaukning Breta er yfirfærð beint á okkur, mætti gera ráð fyrir, að um 50 þúsund Íslendingar og þar af um 8 þúsund börn þurfi geðheilbrigðisþjónustu vegna faraldursins, fyrst og fremst vegna kvíða og þunglyndis.  Þótt faraldurinn í Bretlandi hafi orðið verri en hér á landi og sóttvarnaraðgerðir meira íþyngjandi, þarf að gera ráð fyrir sams konar afleiðingum á geðheilsu landsmanna á næstu misserum og árum." 

Þarna lyftir geðlæknirinn a.m.k. gula spjaldinu framan í landlækni og sóttvarnalækni.  Þau hafa með blessun heilbrigðisráðherra valdið hér vanlíðan og angist, sem á ekki sinn líka síðan Kalda stríðið var upp á sitt versta eða jafnvel þurfi að leita allt aftur til Heimsstyrjaldarinnar síðari til að finna viðlíka geðheilbrigðisvandamál og nú, þegar geðlæknir telur allt að 14 % þjóðarinnar eða einn af hverjum 7 þurfa að leita sér aðstoðar vegna geðrænna vandamála af völdum sóttvarnaaðgerða.  Þetta er hrikaleg staða í ljósi þess, að sóttvarnaraðgerðir verða eðli málsins samkvæmt alltaf persónubundnar í höfuðdráttum.  Ofurtrú á ríkisvæddar sóttvarnir gegn bráðsmitandi inflúensu er út í hött og hefur valdið ofboðslegu tjóni. Nýlegar rannsóknir hníga í þessa átt.

Nú í vikunni gengu unglingar berserksgang í skóla einum á höfuðborgarsvæðinu, svo að vissara þótti að kalla sérsveit Ríkislögreglustjóra á vettvang.  Atburður með þeim hætti, sem þarna átti sér stað, hefur ekki gerzt í manna minnum áður á Íslandi.  Er þessi sorglega ofbeldishneigð afleiðing sóttvarnarráðstafana heilbrigðisráðherra, sem Ólafur Ó. Guðmundsson, geðlæknir, gerði að umtalsefni.  Sóttvarnalæknir, landlæknir og heilbrigðisráðherra leika sér að eldinum.  Að færa völd í hendur slíkra er eins og að færa óvitum eldspýtur.   

Næst fjallaði geðlæknirinn um þátt fjölmiðla í að mynda þá samfélagslegu spennu í kringum þennan faraldur, sem komið hefur hart niður á samfélaginu af tilbúnum ástæðum.  C-19 hefur nú verið fyrsta frétt fjölmiðla í næstum ár.  Það er ekkert rökrétt samhengi á milli hinnar gríðarlegu og einsleitu umfjöllunar fjölmiðla, sem stjórnvöld og s.k. þríeyki Almannavarna vissulega hafa ýtt undir, og hættunnar, sem almenningi stafar af þessum sjúkdómi, eins og ljóslega má ráða af því, að dauðsföll 2020 alls urðu færri en árin 3 þar á undan.  Nú gætu hins vegar ýmsar heilsufarslegar afleiðingar sóttvarnaraðgerða farið að láta á sér kræla:

"Síðan faraldurinn fór af stað, hafa fjölmiðlar lagt áherzlu á endurteknar tölulegar upptalningar án þess samhengis, sem nauðsynlegt er til skilnings á þeim.  Þessi yfirborðskennda og villandi framsetning hefur orðið til þess að vekja yfirdrifinn ótta hjá almenningi, sem ekki hefur forsendur til að skilja þær öðru vísi en eitthvað mun skelfilegra sé í gangi en í raun er.

Það er ekki nýtt, að staðreyndir mála séu ekki leiðarljós fjölmiðla, heldur sá ótti, sem fær móttakandann til að veita miðlinum sjálfum þá athygli, sem hann byggir tilveru sína á. Sænski læknirinn Hans Rosling sá af þeirri ástæðu tilefni til að stofna Gapminder Foundation, sem er ætlað að gefa staðreyndamiðaða heimsmynd til að sporna við skelfilegri fáfræði, sem heimsmynd fjölmiðla elur af sér.  Ótti, sem í eina tíð tryggði það, að forfeður okkar héldu lífi, tryggir núna, að fjölmiðlafólk haldi vinnunni, segir Rosling í síðustu bók sinni, Raunvitund, þar sem rakin eru fjölmörg dæmi þessu til stuðnings."

Þarna stingur geðlæknirinn á einu af þeim kýlum samtímans, sem sök eiga á því, að frá því að áróðursmyndir úr Kófinu í Kína birtust í vestrænum fjölmiðlum og umrædd kórónuveira stakk sér niður á meðal okkar, hefur ríkt stórvarasamt andrúmsloft í vestrænum samfélögum, sem gert hefur yfirvöldum kleift að beita almenning harkalegri frelsisskerðingum en nokkur fordæmi eru fyrir á friðartímum í háa herrans tíð.  Heilsufarstjónið af þessum langvinnu aðgerðum er ótvírætt og fjárhagstjónið af þeim sökum miklu meira en hægt er að réttlæta með vísun til heilsu og mannslífa. 

Sinni góðu grein lauk geðlæknirinn þannig:

"Sá merki og á sínum tíma umdeildi frumkvöðull, Guðmundur Björnsson, landlæknir, benti m.a. á þýðingu geðheilsunnar í smáriti, sem gefið var út af Stjórnarráðinu í nóvemberlok 1918, þegar drepsóttin stóð sem hæst:

"Gegndarlaus sótthræðsla er miklu háskalegri en flesta menn grunar; þeir, sem æðrast og hleypa hræðslu og hugleysi í fólk, eru allra manna óþarfastir og vinna miklu meira tjón en almennt er talið", og á eftir fylgdu ýmis sígild ráð um það, hvernig fólk geti forðazt inflúensuna og brugðizt við, ef það veikist.  Þessi orð landlæknis eiga ekki síður við í dag, einni öld síðar."

  Þetta er hverju orði sannara hjá geðlækninum og landlækninum, sem hann vitnar í.  Sem dæmi um óþurftarmenn má nefna þá, sem kalla C-19 drepsótt.  Spænska veikin var drepsótt.  Úr henni dóu tæplega 500 Íslendingar.  M.v. mannfjölgun á Íslandi síðan þá svarar þessi fjöldi látinna líklega til 1800 manns nú, en það er aðeins um 18 % færra en árlega deyr á Íslandi um þessar mundir.  Talið er, að um 2,3 % mannkyns hafi látizt úr Spænsku veikinni á heimsvísu, svo að sennilega hefur Íslendingum tekizt bærilega upp við sóttvarnir og aðhlynningu sjúkra í þeim skæða heimsfaraldri.  Nú hafa dáið 29 manns hérlendis úr C-19, sem er aðeins um 1,5 % af framreiknuðum dauðsföllum úr Spænsku veikinni.  C-19 er ekki drepsótt, þótt fólk geti látizt úr sjúkdóminum, eins og líklega flestum sjúkdómum. Drepsóttir hafa nýlega herjað, t.d. ebóla í Afríku, og drepsóttir munu væntanlega herja á Evrópu aftur.  Þeim verður að bregðast við með mjög ströngum sóttvarnaraðgerðum, en það þjónar ekki almannahagsmunum að fást við bráðsmitandi flensusjúkdóm, eins og hann sé drepsótt.

Sóttvarnarráðstafanir hafa hægt mjög mikið á hagkerfinu hérlendis og í flestum öðrum löndum, svo að landsframleiðslan hefur minnkað, nema í Kína, þar sem hagvöxtur varð 2020.  Er nú svo komið, að því er spáð, að verg landsframleiðsla Kínverja muni ná þeirri bandarísku árið 2028. Það eru tíðindi til næsta bæjar.

Hérlendis hefur snarazt á merinni í opinberum rekstri vegna yfirdrifinna Kófsviðbragða, m.a. á landamærunum.  Geigvænlegur hallarekstur er á ríkissjóði, og flest stærstu sveitarfélögin eru rekin með halla.  Það er algerlega ábyrgðarlaust gagnvart unga fólkinu, sem tekur við landinu, að halda svona áfram. 

Því miður höfðu íslenzk stjórnvöld, heilbrigðisráðuneyti með landlækni og sóttvarnarlækni undir yfirumsjón forsætisráðuneytis, hvorki framsýni né metnað til að gera ráðstafanir til útvegunar bóluefnis á svipuðum hraða og Ísraelsmenn, sem stefna á að hafa fullnaðarbólusett tæplega 60 % þjóðarinnar í síðari hluta marz 2021. Forsætisráðherra Íslands lifir í fílabeinsturni án tengsla við raunveruleikann og "segist enn gera ráð fyrir, að meirihluti Íslendinga verði bólusettur um mitt ár", samkvæmt Morgunblaðinu 11. janúar 2021.  Engin gögn styðja annað en þessi stjórnmálamaður eigi við árið 2022.  Kjósendur vita, hvað er hið eina, sem svona forsætisráðherrar eiga skilið í næstu kosningum, enda er það óhæfa að bíða svo lengi með endurræsingu ferðaþjónustunnar, sem hefst með því að liðka til á landamærunum og fjölga störfum þannig á nýjan leik.

Helgi Magnússon, stjórnarformaður Torgs ehf, birti hugvekju sína um slæma fjárhagsstöðu ríkisins í Kófinu og mjög hæpna meðferð skattfjár í Fréttablaðinu 30. desember 2020.  Greinin bar fyrirsögnina:

"Gegndarlaus útþensla ríkisbáknsins er ógnvekjandi".

Hún hófst þannig:

"Fyrir utan veiruvandann, sem hrjáð hefur landsmenn, er taumlaus útþensla ríkisbáknsins ein helzta ógnin við íslenzka hagkerfið, nú sem stendur.  Vonandi sjáum við fyrir endann á veiruvandanum, þegar bólusetningar fara að hafa áhrif til góðs, sem væntanlega verður fljótlega á nýja árinu [2021].  Aftur á móti bendir ekkert til þess, að við munum sjá nokkurt lát verða á útþenslu ríkisbáknsins.  Það er stórháskalegt og getur haft alvarlegar afleiðingar, ef ekki verður hugarfarsbreyting meðal æðstu ráðamanna ríkisins."

Það eru engir samningar fyrir hendi né annað handfast, sem styðja, að "bólusetningar far[i] að hafa áhrif til góðs" fljótlega í ár, þ.e. á fyrsta ársfjórðungi.  Um það er ekkert til, nema gasprið í ráðherrum vinstri grænna, Svandísi og Katrínu.  Þær sváfu á verðinum og ætluðust til, að aðrir leystu viðfangsefnið fyrir þær. Hverjir voru þessir aðrir ?  Það voru auðvitað búrókratar í Brüssel, sem þær sóttu um náið pólitískt samneyti með árið 2009.  Með þessu háttarlagi núna  sýndu þær af sér vanrækslu í starfi, því að þeim láðist að ganga úr skugga um, hvernig í pottinn var búið hjá Úrsulu von der Leyen. Um slíkt gerðu ekki allir stjórnendur smáþjóða utan ESB sig seka.

Ísrael á talsverða samleið með Evrópuþjóðunum og Bandaríkjunum, eins og kunnugt er, en ekki datt stjórnendum landsins í hug að hengja þessa lífshagsmuni þess aftan í vagn risanna.  Heilbrigðisyfirvöld í Ísrael hafa nú tilkynnt, að þau hafi upp á eigin spýtur tryggt Ísraelum nægt bóluefni til að fullnaðarbólusetja 58 % þjóðarinnar síðari hluta marzmánaðar 2021.  Á fyrsta ársfjórðungi geta Ísraelar aflétt öllum opinberum sóttvarnarhömlum, en Íslendingar sitja líklega uppi með alls konar ferða- og samkomuhömlur auk banns við sumri þjónustu megnið af árinu 2021.  Það mun hafa hrikalegar afleiðingar á heilsufar og efnahag. Þetta lýsir mismuninum á leiðtogum og pólitískum bulluskjóðum.  

Einu geta kjósendur gengið að sem vísu varðandi fjármálin, þegar þeir ganga að kjörborðinu, og það er, að kjósi þeir yfir sig Reykjavíkurlíkanið í landsstjórnina, þar sem Samfylkingin hefur lengi ráðið ríkjum með hverri hækjunni á fætur annarri, þá verða hér skattahækkanir, gegndarlaust sukk gæludýra með ríkissjóðinn, sem kalla munu á vaxtahækkanir Seðlabanka til að slá á verðbólgu.  Afleiðingin verður lítill sem enginn hagvöxtur og stórhætta á "stagflation", sem er stöðnun í dýrtíð.

Ef þetta óheillavænlega bandalag læsir klóm sínum í Stjórnarráðið, er næsta víst, að viðræður um aðild Íslands að fyrirheitna ríkinu á meginlandi Evrópu, verða teknar upp að nýju með lítilli fyrirhöfn, því að í skrifborðsskúffu í Berlaymont bíður nú gamla aðildarumsóknin frá árinu 2009, sem aldrei var afturkölluð. Samfylking og Viðreisn snúast um fátt annað en drauminn, blauta, að gera Ísland að jaðarhreppi stórríkis Evrópu, sem vitaskuld er fullkomin tímaskekkja og ekkert annað en sjúkleg þráhyggja.   

 

 

 

  


Skaðleg verðlagning ríkisfyrirtækis

Seðlabankinn spáir nú meiri samdrætti íslenzka hagkerfisins árið 2020 en hann gerði í sumar, þ.e. -8,5 %.  Þetta er meira en áður á lýðveldistímanum, og verður að leita heila öld aftur í tímann til að finna dýpri kreppu.  Jafnframt spáir hann minni viðsnúningi, þ.e. hagvexti, árið 2021 en áður, aðallega vegna færri erlendra ferðamanna en hann gerði áður ráð fyrir. Fjöldi þeirra er reyndar algerlega undir hælinn lagður , á meðan stjórnvöld ekki boða afnám skilyrðislausrar sóttkvíar fyrir innkomandi erlenda ferðamenn.

Af þessum sökum lækkaði bankinn stýrivexti sína úr 1,00 % í 0,75 %.  Á sama tíma eru stýrivextir sums staðar í Evrópu undir 0, sem þýðir að bankar þurfa að greiða fyrir að geyma fé hjá viðkomandi seðlabanka, a.m.k. á pappírnum. 

Á Íslandi ganga meira en 20 þúsund manns atvinnulaus síðla árs 2020 og fer fjölgandi. Sóttvarnaraðgerðir á landamærum gætu verið valdar að fjórðungi þessa atvinnuleysis og 80 % fækkun ferðamanna, sem voru fáir fyrir.  Er hægt að rökstyðja þessa afdrifaríku aðgerð á landamærunum með sóttvarnarlegum rökum, sem yfirgnæfi neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar af tvöfaldri PCR-skimun með 5 daga sóttkví á milli.  Nei, það er ekki hægt með réttu, og fram á það verður sýnt í öðrum pistli.

Við þessar aðstæður ber ríkisvaldinu að beita öllum ráðum til að örva atvinnulífið, sem er lamað í Kófinu af stjórnvaldsaðgerðum hérlendis og erlendis.  Eitt af því, sem örvar framleiðslu landsmanna, sem öll er rafknúin að meira eða minna leyti, er að lækka raforkuverð.  Ríkið á markaðsríkjandi fyrirtæki á sviði raforkuvinnslu og -sölu, Landsvirkjun, og þar er borð fyrir báru til lækkunar álagningar á orku og afl. Markaðsaðstæður eru þar nú þannig, að offramboð er á orku og afli og hæfileg lækkun raforkuverðs mundi tafarlaust setja af stað framleiðsluaukningu og nýjar fjárfestingar. Fjármála- og efnahagsráðherra getur skapað grundvöll fyrir þessum aðgerðum með því að lækka ávöxtunarkröfu Landsvirkjunar úr 7,5 %.  Er hann búinn að því ?

Skýrsla Fraunhofer Institut fyrir iðnaðarráðherra um samkeppnishæfni raforkuverðs til íslenzkrar stóriðju er vönduð, en nær ekki nógu langt, þ.e. ekki til einstakra félaga vegna leyndar og aðeins til 2019, en árið 2020 hefur snarazt á merinni hérlendis. Þá er of þröngt sjónarmið bera einvörðungu raforkuverðin saman, eins og aðrir samkeppnisþættir skipti ekki máli. Þannig kveður Fraunhofer meðalraforkuverð til stóriðju á Íslandi hafa verið samkeppnishæft árið 2019, en sá er gallinn á gjöf Nkarðar, að þetta meðaltal stendur engum til boða.  Fyrirtæki, sem búa við raforkuverð ofan meðaltalsins, t.d. Elkem Ísland og ISAL, eru að krebera. Álverðið hefur þó hækkað um 30 % frá lágstöðu Kófsins og er að verða viðunandi, þannig að Kínverjar virðast ekki vera enn farnir að hella áli inn á vestræna markaði í sama mæli og fyrir Kóf. Því má bæta við sem skýringu, að í október 2020 lagði Evrópusambandið (ESB) 40 % toll á vissar gerðir áls frá Kína á grundvelli veikrar samkeppnisstöðu evrópskrar álframleiðslu vegna miklu kostnaðarsamari mengunarkrafna stjórnvalda á Innri markaði ESB til álvera þar en kínversk álver þurfa að búa við.  

Þórður Gunnarsson gerði orkuverðsmálum góð skil í Markaði Fréttablaðsins 18. nóvember 2020 undir fyrirsögninni:

"Mun lægra verð býðst í Noregi":

"Sökum þessara markaðsaðstæðna er nú þegar hægt að gera 5 ára orkusölusamninga í Noregi á verði undir 30 USD/MWh að flutningskostnaði meðtöldum.  Þetta er mat Helge Haugland, sem er orkumiðlari hjá norska fyrirtækinu Energi Salg Norge AS, sem hefur milligöngu um kaup og sölu [á] um 30 TWh/ár, sem er u.þ.b. tvöfalt meira en öll framleiðsla Landsvirkjunar [og rúmlega fimmtungur af raforkuvinnslu Noregs - innsk. BJo]. 

Samkvæmt Helge Haugland standa kaupendum nú til boða viðskipti með raforku samkvæmt samningi til 2-5 ára fyrir minna en 30 USD/MWh með flutningsgjaldi.  Til að vera samkeppnishæf við þetta verð þarf Landsvirkjun að bjóða rafmagnið, komið til notanda, á um 27 USD/MWh eða á rúmlega 20 USD/MWh frá virkjun (ef flutningsgjaldið er 6 USD/MWh, sem er allt of hátt).  Landsvirkjun hefur kynnt eitthvað, sem hún kallar "kostnaðarverð" og er á bilinu 28-35 USD/MWh, væntanlega háð tæknilegum skilmálum á borð við nýtingartíma toppafls og aflstuðul (cosphi) hjá kaupanda.  Álver býður hagstæðustu tækniskilmála fyrir orkuver á markaðinum, svo að það fengi væntanlega tilboð um 28 USD/MWh frá virkjun Landsvirkjunar.  Þetta er hins vegar 5-7 USD/MWh of hátt m.v. norska verðið.

Hvað gera bændur þá til að búa til verðmæti úr endurnýjanlegum íslenzkum orkulindum, sem forráðamenn Landsvirkjunar hafa lýst yfir, að þeir eigi að hámarka ?  Þeir bregðast eigendunum og stunda sóun með því að nýta ekki virkjaða orku.  Þeir verða þá væntanlega að lækka verðið niður fyrir 23 USD/MWh til að koma orkunni í lóg.  Það telja þeir sig ekki geta gert, af því að ríkissjóður (eigandinn) áskilji sér 7,5 %/ár arðsemi og hún útheimti verðið 28-35 USD/MWh. 

Það, sem ríkið þarf að gera, er að lækka arðsemiskröfuna niður í 4,0 %, sem er fullkomlega eðlilegt við núverandi vaxtastig Seðlabanka Íslands (0,75 %).  4,0 % arðsemi næst við verðið 22 USD/MWh  til álvera, svo að dæmi sé takið.  Með þessu móti fengist svigrúm til að tryggja rekstur álversins í Straumsvík út samningstímann (til 2036) og til að tryggja mrdISK 15 fjárfestingar Norðuráls á Grundartanga og fjölda nýrra starfa þar á framkvæmdatíma og samfara aukinni verðmætasköpun.  Að sitja með hendur í skauti í Kófinu og láta þessi tækifæri hjá líða er brottrekstrarsök.  Svo einfalt er það. 

Síðan var rætt um orkumál á hinum Norðurlöndunum, en þau varða samkeppnisstöðu Íslands miklu:

"Að sama skapi sé mikil framboðsaukning vindorku í pípunum, en framleiðsla vindorku mun aukast um meira en 50 % á Norðurlöndunum fram til ársins 2024 og heildarframleiðsla [vindorkuvera] ná hátt í 100 TWh/ár samkvæmt spá orkugreiningarfyrirtækisins Wattsight."

Þessi þróun orkumála einkennir Evrópu alla og mun móta orkuverðsþróunina í samkeppnislöndum okkar. Ef ný og öruggari gerð kjarnorkuvera kemur fram á sjónarsviðið á næstunni, verður þessi þróun innsigluð, þ.e. tímabil hás orkuverðs er ekki fyrirsjánlegt, heldur ofgnótt orku og síminnkandi hluti hennar með uppruna í jarðefnaeldsneyti.

Að vísu mun eftirspurnin aukast frá því, sem nú er, en hagkerfin verða þó lengi að ná sér eftir Kófið.  Álverðið hefur braggazt mjög og hillir nú undir 2000 USD/t Al.  Þá er stutt í, að spurn eftir meiri orku til álframleiðslu aukist hvarvetna. Laugardaginn 21.11.2020 birtist frétt um, að kísilverksmiðja PCC mundi endurræsa ofna sína með vorinu 2021.  Það er alveg áreiðanlegt, að bæði ál og kísill eiga sér framtíð í "græna hagkerfinu" og framleiðsla þessara efna (málmur og málmleysingi) mun verða ábátasöm, a.m.k. þar sem raforkan er "græn". Að hrekja þessa starfsemi úr landi með okri á orkunni er ábyrgðarhluti og heimskulegt í ljósi þess, að önnur eins atvinnusköpun og verðmætasköpun er ekki í sjónmáli.

"Samtök álframleiðenda á Íslandi sögðu í tilkynningu eftir útkomu [Fraunhofer] skýrslunnar, að "Landsvirkjun hefði gefið út, að fyrirtækið sé bundið "kostnaðarverði", en í því er m.a. tekið tillit til 7,5 % arðsemiskröfu ríkisins.  Það kostnaðarverð sé á bilinu 28-35 USD/MWh og því mun hærra en það meðalorkuverð, sem stuðzt er við í skýrslu Fraunhofer". 

Forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa einnig talað um, að stefnan sé að selja raforku, sem fyrirtækið framleiðir á 30-45 USD/MWh, en sú tala inniheldur ekki flutningskostnað, sem er jafnan 6 USD/MWh."  

Samkvæmt þessu uppáleggur fulltrúi eigendanna, í þessu tilviki fjármála- og efnahagsráðherra, Landsvirkjun að verðleggja sig m.v. 7,5 %/ár arðsemi.  Hér fara ekki saman hljóð og mynd.  Sami ráðherra leggur höfuðáherzlu á viðspyrnu út úr Kófinu, og að við fjárfestum og framleiðum sem mest við megum til að skapa störf og gjaldeyri. Undir það skal taka, en þessi arðsemiskrafa á hendur Landsvirkjun stendur gjörsamlega í vegi fyrir því, að sækja megi fram á þessum vígstöðvum. Þessi ráðherra hefur algerlega í hendi sér að koma hjólunum í gang aftur með hjálp rafmagnsins. Það hefur verið gert áður, annars staðar ("New Deal"). Því verður ekki trúað, að hann láti hjá líða að lagfæra það, sem hér hefur verið bent á, í ljósi þess, að allt þjóðarbúið á nú í vök að verjast vegna sóttvarnaraðgerða.    

"Aðspurður, hvort breyttar horfur á norrænum raforkumarkaði kalli á endurskoðun verðstefnu Landsvirkjunar, segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, svo vera til skemmri tíma, en ekki endilega til lengri tíma. "Til skemmri tíma erum við að koma til móts við viðskiptavini okkar með verðlækkunum og auknum sveigjanleika í samningum."

 Hin mikla umframorka, sem sé í boði á [hinum] Norðurlöndunum, muni dragast saman, enda borgi það sig ekki fyrir nokkurn framleiðanda að selja rafmagn á núverandi stundarverðum (e. spot).  "Fyrir mánuði voru t.d. framvirk raforkuverð um 25 EUR/MWh, en búast má við, að verðin sveiflist áfram.  Ef verðið helzt mjög lágt, er líka líklegt, að lokun kjarnorkuvera í Svíþjóð verði flýtt og þar af leiðandi mun draga úr þessu offramboði.  Tveir stórir sæstrengir frá Noregi til Þýzkalands og Bretlands munu líka fljótlega verða teknir í notkun.  En því er hins vegar ekki að neita, að árin 2020 og 2021 eru mun erfiðari viðfangs en árið 2019; það á við alla markaði, og þar eru Landsvirkjun og viðskiptavinir hennar ekki undanskilin."" 

Þetta er skrýtinn málflutningur og vitnar ekki um djúpstæða þekkingu á eðli orkumarkaða.  Það eru öfugmæli, að Landsvirkjun hafi almennt lækkað verð eða sýnt sveigjanleika í samningum.  Landsvirkjun dró t.d. lappirnar með Kófslækkun á verði rafmagns til ISAL, og forstjórinn hefur sýnt fádæma óbilgirni í nýlegum og fyrri samningaviðræðum við þetta fyrirtæki, Elkem Ísland og Norðurál, eins og nýlegar fréttir sumpart bera með sér.  

Hvers vegna heldur þessi forstjóri, að raforkuframleiðendur á Norðurlöndunum selji raforkuna á lágu verði, ef það borgar sig ekki fyrir þá ?  Enginn þvingar þá, og þeim er í lófa lagið að neita viðskiptum.  Það er auðvitað vegna þess, að breytilegi kostnaðurinn er mjög lágur hjá þeim.  Hvorki vindur né vatn kosta mikið fé. Kjarnorkuverin eru með langtíma samninga, og jaðarkostnaður þeirra er ekki hár, þ.e. hver viðbótar MWh er ódýr í vinnslu.  Á tímum loftslagsbaráttu og koltvíildisskatts mun þess vegna lokun kjarnorkuvera ekki verða flýtt meira en orðið er.

Forstjórinn heldur, að viðbótar sæstrengir muni hækka raforkuverðið í Noregi.  Hvers vegna eru þá núverandi sæstrengir ekki reknir á fullum afköstum ?  Það er vegna skorts á eftirspurn.  Evrópumarkaðurinn er ekki lengur seljendamarkaður, heldur kaupendamarkaður, m.a. vegna mikils framboðs á koltvíildislausri raforku. Umframframboð raforku á hinum Norðurlöndunum 2020-2024 er áætlað tæplega 26 TWh/ár vegna áformaðrar aukningar á orkuvinnslugetu kjarnorkuvera og vindorkuvera. Þetta er rúmlega 6 % af áætlaðri notkun og mun duga til að halda verðinu niðri.  Blautir draumar forstjóra Landsvirkjunar um tímabil hás orkuverðs hafa fyrir löngu orðið sér til skammar. 

Þrátt fyrir að raforkuvinnsla kjarnorkuvera innan ESB hafi minnkað um fimmtung á 10 árum til 2018, er raforkuverð þar lágt um þessar mundir.  Þótt Þjóðverjar ætli að loka öllum sínum eftirstandandi kjarnorkuverum árið 2022, er ekki víst, að framboð kjarnorku í ESB, sem nú annar 28 % raforkuþarfarinnar,  muni minnka, því að ný kjarnorkuver eru í byggingu í þremur landanna, Finnlandi, Frakklandi og Slóvakíu. Þrátt fyrir vaxandi andúð almennings á vindorku í Evrópu vegna umhverfisspjalla á stórum flæmum vex þó hlutdeild vindorkuvera enn á raforkumarkaðinum, enda er vindorkan, sem verið hefur niðurgreidd, að verða samkeppnishæf við t.d. gasorkuver.

Það var nauðsynlegt á síðari helmingi 20. aldarinnar að nýta orkulindir Íslands til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar.  Kófið hefur nú árið 2020 flett ofan af því, að gjaldeyrisöflun og verðmætasköpun landsmanna stendur ekki á nægilega traustum fótum, og þá verða stjórnvöld að bregðast við því með því að stuðla að nýtingu náttúruauðlindanna út í yztu æsar.

  

 

 


Röng lausn á mikilvægu viðfangsefni

Reglubundnar tafir í bílaumferðinni á höfuðborgarsvæðinu eru dýrar fyrir einstaklinga og fyrirtæki og fela þess vegna í sér þjóðhagslegan kostnað, sem bæði hefur neikvæð áhrif á lífskjör almennings og lífsgæði. Ástæðan er vanþróað gatnakerfi m.v. umferðarþungann.  Ástand umferðarmála í Reykjavík felur í sér stórfellda slysahættu, einkum á fjölförnum gatnamótum við slæm veðurskilyrði.  Það dregur jafnframt úr skilvirkni atvinnulífsins og felur í sér eldsneytissóun og aukna loftmengun.

Þetta vandamál hefur vafizt fyrir yfirvöldum samgöngumála á svæðinu að leysa; aðallega vegna þvergirðingsháttar borgarstjórnar og meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur frá 2010, sem tekið hefur mislæg gatnamót út af Aðalskipulagi Reykjavíkur og hafnað óskum ríkisins um að fá að reisa mislæg gatnamót og annað til að leysa brýnasta vandann.  Þetta er yfirnáttúrulega vitlaus og mannfjandsamleg afstaða stjórnenda höfuðborgar, sem helzt hefur verið reynt að skýra með skírskotun til annarlegra sértrúarsafnaða.  

Tafakostnaður einstaklinga og fyrirtækja, sem fyrir honum verða, má ætla, að nemi a.m.k. 40 mrdISK/ár.  Þetta er gríðarlegur kostnaður, sem ekki er spurning um, hvort þurfi að lækka, heldur hvernig.   Þessi óhemjulegi kostnaður vex ár frá ári og er vegna þess, að framkvæmdir við vitlega afkastaaukningu gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins hafa legið í láginni í meira en áratug, þrátt fyrir að Vegagerðin hafi verið tilbúin að hefja þær. Fáránlegur samningur borgarinnar um, að Vegagerðin sturtaði í  staðinn fé í Strætó, svo að hann gæti keyrt hringinn í kringum landið, hefur tafið fyrir arðsömum framkvæmdum til að bæta flæði umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Þegar úr sér gengin hugmyndafræði í stað verkfræði og hagfræði hleypur í samgöngumálin, verður fjandinn laus.  Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur t.d. eyðilagt 1. valkost Vegagerðarinnar um gerð og legu Sundabrautar. 

Ekki hefur þó skort góð ráð.  Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur og fyrrverandi bæjarverkfræðingur í Kópavogi, hefur t.d. verið óþreytandi við að vara við stórkarlalegum fyrirætlunum um Borgarlínu og benda á aðrar viðaminni lausnir, sem kæmu til móts við þarfir borgaranna fyrir bættar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu án gríðarlegra fjárútláta og án þess að þrengja umtalsvert að almennri bílaumferð. Hann skrifaði í Morgunblaðið 7. nóvember 2020 greinina:

"Aukum ferðatíðni strætó":

"Árið 2015 flutti Jarrett Walker, sem er virtur sérfræðingur í almenningssamgöngum, erindi í Salnum í Kópavogi.  Rauði þráðurinn í erindi hans var mikilvægi þess að auka ferðatíðni strætó.  Það skipti mun meira máli en gönguvegalengd að biðstöð, og mætti því fækka strætóleiðum í staðinn til þess að takmarka aukningu á rekstrarkostnaði. Með þessu móti fengist hagkvæmasta lausnin fyrir bætta þjónustu strætó." 

Það er kominn tími til að hlusta á og íhuga slíkar hugmyndir til bættrar þjónustu í stað þess að einblína á stórkarlalegar lausnir, sem flest bendir til, að henti ekki við íslenzkar aðstæður, en geti hæglega orðið flestum vegfarendum á höfuðborgarsvæðinu óþægur ljár í þúfu og skattgreiðendum öllum, einkum þó íbúum sveitarfélaga, sem þátt ætla að taka í þessu ævintýri, myllusteinn um háls.  Þórarinn Hjaltason hélt áfram:

"Ég skora á samgönguyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu að endurskoða áætlanir um uppbyggingu borgarlínunnar.  Beinast liggur við að skoða þann valkost að fækka leiðum strætó og auka í staðinn ferðatíðni.  Unnt er að stytta ferðatíma strætó með sama hætti og gert hefur verið fram til þessa, þ.e. bæta við akrein hægra megin við akbraut, þar sem eru langar biðraðir bíla á álagstímum umferðar. Það er margfalt ódýrara en að gera sérrými í miðeyju gatna eða sérgötur, eins og áætlað er fyrir borgarlínuna." 

 Taka skal undir þetta.  Þetta væri til bóta, og gætu slíkar akreinar þjónað allri forgangsumferð, þ.e. lögreglu, sjúkraflutningum og almenningsvögnum, og mundu létta aðeins á almennri umferð.  

Þann 16. október 2020 birtist fróðleg og rökföst grein eftir sama Þórarin Hjaltason í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Dularfull skýrsla um arðsemi borgarlínu".

Þar er fjallað um skrýtna COWI/Mannvitsskýrslu, sem gefin var út 5. júní 2020, en kom ekki fram á sjónarsviðið fyrr en 9. október 2020.  Þórarinn finnur ýmsar villur í þessari skýrslu, þannig að varasamt er að reisa á henni stórar ákvarðanir.  Meginniðurstaða þessarar rýni Þórarins er eftirfarandi:

"Það er deginum ljósara, að borgarlína mun aðeins leiða til þess, að umferð einkabíla verði í bezta falli nokkrum prósentum minni en ella."

Þessi niðurstaða hins reynda umferðarverkfræðings er vel ígrunduð og rökstudd með reikningum hans í tilvitnaðri grein. Af niðurstöðunni má álykta, að Borgarlínan mun ekki draga merkjanlega úr bílaumferð, og hún er þannig ónothæf lausn til að stytta umferðartafir á álagstímum.  Þar af leiðandi er óráð af sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og ríkissjóði að fara út í miklar og dýrar framkvæmdir við Borgarlínu, sem þrengja að bílaumferð.  Fjármunum ber þess í stað að verja til þjóðhagslega arðbærustu framkvæmdanna, sem greiða úr umferðarflækjum og stytta ferðatímann á álagstímum. Það er óskandi, að nýstofnað félag um framkvæmdir til að auka flutningsafköst gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins nýti sér beztu þekkingu á þessu sviði í stað þess að steypa sér í hugmyndafræðilegt kviksyndi.    


Fórnir á altari lýðheilsu

Það var áhugavert viðtalið, sem birtist við dr Thor Aspelund, líftölfræðing, í Morgunblaðinu 25. október 2020 undir fyrirsögninni:

"Að lifa með veirunni".

Hann er greinilega núna að velta fyrir sér, hvers konar sóttvarnaraðgerðir bera mestan árangur m.v. tekjutap og tilkostnað, þ.e. eru skilvirkastar. Það verður að velta fyrir sér, hvort alls konar frelsisskerðingar séu réttlætanlegar, þegar dánarhlutfall sýktra undir 70 ára aldri af völdum SARS-CoV-2 á heimsvísu er aðeins 0,05 %, sem er lægra hlutfall en dánarhlutfall af völdum inflúensu samkvæmt örverufræðinginum prófessor Bhati í Mainz í Þýzkalandi. Það hafa ýmsir faraldursfræðingar og læknar gert líka, og er líklega "Great Barrington" hópurinn þekktastur á því sviði, en vitnað verður til hans í þessum pistli. Fleiri sérfræðingar á sviði faraldursfræði hafa tjáð sig í svipuðum dúr, s.s. yfirmaður sóttvarna á Charité-sjúkrahúsinu í Berlín, prófessor í læknisfræði við Háskólann í Tromsö, skurðlæknirinn Elísabet Guðmundsdóttir á Landsspítalanum, sem var afhent uppsögn í kjölfar  tjáningar sinnar á útvarpsstöð í Reykjavík í október 2020, og íslenzkur læknaprófessor við Háskólann í Harvard í BNA. Það eru margar efasemdarraddir um, að sóttvarnaryfirvöld haldi í heiðri meðalhófsreglu.  Þegar síðast var hert á þumalskrúfunni, var bylgja 3 þegar tekin að réna, og þess vegna má halda því fram, að síðasta frelsisskerðing hafi verið þarflaus og óhófleg.  

Hvert land þarf að fást við C-19 faraldurinn með sínum ráðum, því að aðstæður eru mismunandi.  Á Íslandi er t.d. miklu minna þéttbýli og yfirleitt rýmra um fólk innanhúss og utan en víðast hvar erlendis. Þess vegna var fengur að viðtalinu við Thor Aspelund, enda er hann ljóslega víðsýnn og vel að sér.  Sérstaka athygli pistilhöfundar vakti upphaf námsferils hans í háskóla, en krókaleið hans þar er sennilega einsdæmi og hefði talizt óhugsandi, þegar pistilhöfundur var í háskólanámi:

"Ég fór smá krókaleiðir, en ég hef alltaf haft áhuga á ýmsu. Ég kláraði 1,5 ár í rafmagnsverkfræði, en áhuginn datt niður, og ég var að velta fyrir mér, hvað ég ætti að gera.  Ég þekkti gott fólk í guðfræði og sló til og tók seinni hluta vetrar þar.  Ég sá fljótt, að guðfræðin yrði ekki að ævistarfi, en þetta var heiðarleg skoðun á tilverunni og mjög ánægjulegur tími." 

Tímasóun hefði pistilhöfundi þótt þessi útúrdúr vera á sinni tíð að hverfa úr rafmagnsverkfræðinni, einmitt þegar leikar voru teknir að æsast, en eilífðarmálin ekki beint æsileg. Þegar Thor er spurður um, hvernig hann telji núverandi ástand enda, svarar hann:

""Ég hef áhyggjur af því, að það sé langt í land.  Við eigum eftir að fá bóluefni, og svo á eftir að dreifa því.  Við verðum ekki komin með hlutina í lag fyrr en seint á næsta ári [2021].  Ég spái því.  Þess vegna verðum við að fara að hugsa hlutina öðruvísi.  Mögulega verðum við að setja okkur markmið með það fyrir augum, að það verði alltaf einhver smit.  Við þurfum að ákveða, hvað við þolum mörg smit; setja okkur þolmörk.  Það gengur vel hjá spítalanum núna að halda utan um þetta", segir hann." [Var áður en hópsýking kom upp á Landakoti og dreifðist víðar með alvarlegum afleiðingum fyrir aldraða-innsk.BJo.]

Þetta er mergurinn málsins.  Ný hugsun og setja þjóðfélaginu þolmörk um fjölda sýkinga.  Þolir kerfið t.d. 400-500 sýkingar á dag ?  Hvernig verður hindrað, að sýkingafjöldi rjúki upp fyrir þolmörk ?  Það er líka rétt, að þessi veira er ekki á förum, hún mun ekki hverfa eins og flensupest í vor.  Thor treystir á tiltækt bóluefni haustið 2021.  Það er algerlega undir hælinn lagt, hvenær það kemur,  þrátt fyrir góð tíðindi fyrir hlutabréfamarkaðinn fyrir nokkrum dögum frá Pfizer/BioNTech,hvort ónæmi þess verður varanlegt, og hvort það muni hafa aukaverkanir.  Er skemmst að minnast alvarlega sjúkdómstilvika af völdum bóluefnis við svínaflensunni fyrir nokkrum árum. Hún náði ekki til Íslands, en í Noregi veiktust tugir manna alvarlega af bóluefninu, og ef rétt er munað, entist ónæmið af því illa. Í Rússlandi er líka komið fram bóluefni.  Þar mun sjúklinga verkja illa í nálargatið og veikjast með hita.  Þegar svona er í pottinn búið, er íhugunarefni, hvort ekki er skárra að veikjast af C-19 en að þiggja bóluefni, sem sett er á markað í írafári.  

Við verðum að búa okkur undir að þurfa að lifa lengi við þessa veiruógn.  Landsspítalanum og lýðheilsumálum þarf að stjórna samkvæmt því. Jólin verða ekki eðlileg, þótt nýgengið lækki núna, því að faraldurinn mun gjósa upp, þegar losað er um hömlur og fólk gætir ekki að sér, þar til hjarðónæmi næst. Jólahlaðborð og jólaboð verða ekki með hefðbundnum hætti.  Veiran breytir öllu, og það verður að laga sig að nýjum lifnaðarháttum.  Sem stendur eru þeir þó ósjálfbærir, t.d. lýðheilsulega séð. Við sjáum nú þegar örla á viðbjóðslegum afleiðingum víðtækra hamla á atvinnustarfsemi og líf ungra sem aldinna. Efnahagslegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið og fjöldaatvinnuleysi eru skelfileg.  Það er ekki hægt að halda svona áfram með samfélagið í spennitreyju út af kórónuveiru.  Margvísleg afbrigði kórónuveira hafa fylgt mannkyninu frá upphafi vega.   

Landsspítalinn getur ekki haldið áfram að slá öllum valkvæðum aðgerðum á frest, og Landlæknir getur ekki haldið tilskipun sinni um bann við valkvæðum aðgerðum í læknamiðstöðvum utan sjúkrahúsanna til streitu, enda hefur hún nú blásið bann sitt af. Þvert á móti hefði átt að setja læknamiðstöðvarnar á full afköst, svo að þær gætu létt álagi af Landsspítalanum vegna C-19-sjúklinga. Læknamiðstöðvarnar framkvæma núna, þegar þeim er leyft að starfa, meirihluta valkvæðra aðgerða á landinu, svo að stöðvun Landlæknis var bæði afdrifarík og óþörf.  Skýring Landlæknis er eins og út úr kú.  Hún var sú, að skjólstæðingar læknamiðstöðvanna gætu íþyngt Landsspítalnum.  Þessu er öfugt farið.  Frestun aðgerða magnar kvalir og eymd skjólstæðinganna, svo að þeir munu neyðast til að leita til bráðadeildar Landsspítalans í mun meiri mæli en þeir, sem farið hafa í aðgerð. Áfram með Thor:

"Smitrakningin verður líka að halda í við faraldurinn.  Það er lykilatriði.  Við erum alltaf að læra betur á þetta.  Hvernig er hægt að halda skólum opnum ?  Það er erfið tilhugsun að halda skólum lokuðum fram á vor.  Eins með íþróttir; við vitum, hvað það gerir börnum gott að vera í íþróttum.  Við þurfum kannski að sætta okkur við smit á ákveðnum fjölda og grípa svo inn í, ef fjölgar of mikið." 

Smitrakningin er mikilvæg, og kannski verður afkastageta smitrakningateymis takmarkandi fyrir leyfilegan fjölda smita ?  Skólar eiga að starfa ótruflaðir með grímuskyldu og sótthreinsun í framhaldsskólum.  Sama ætti að gilda um allar íþróttir, nema grímuskylda er þar varla raunhæf.  Langflestu ungu fólki verður lítið um þennan sjúkdóm og eru minna smitandi en fullorðnir. Núverandi bögglingur yfirvalda með skólafólkið er til vanza. 

Næst var spurt: "Hvað með að loka öllu algjörlega í 2 vikur og drepa alveg niður veiruna ?"

"Ég hef áhyggjur af því, að hún laumi sér alltaf inn aftur, einhvern veginn.  Ég held, að það sé ekki hægt að stoppa þetta.  Við þurfum frekar að taka þá stefnu að lifa með aðgerðum gegn veirunni.  Fram á næsta sumar." 

Pistilhöfundur er sammála Thor um þetta.  Það er óraunhæf stefna að útrýma þessari veiru á Íslandi fyrr en hjarðónæmi hefur náðst.  Það er jafnframt allt of dýrkeypt að reyna að útrýma henni fyrr, og það er unnið fyrir gýg, því að ný bylgja mun óhjákvæmilega rísa.  Bælingarstefnan á ekki við um þennan sjúkdóm. Landsmenn verða að búa sig undir annarleg jól og áramót og samfélag við veiruófétið allt næsta ár og jafnvel lengur.  Þess vegna þarf að finna út, hversu mikið má slaka á atvinnu- og ferðafrelsishömlum.  Vonandi að öllu leyti gegn háum takmörkunum á hópamyndunum, t.d. 1000 manns, nándarmörkum og ströngum persónubundnum sóttvörnum.

"Thor nefnir, að smitrakning og sóttkví sé að skila góðum árangri.  "Með því tókum við anzi marga út fyrir sviga, sem hefðu annars smitað aðra, þannig að í heildina er smitstuðullinn lægri.  Þeir, sem eru í sóttkví, eru ekki að smita.  Þetta er grundvallaraðgerð, annars værum við búin að missa tökin."" 

Þetta er vafalaust rétt mat hjá líftölfræðinginum.  Þjóðir beita þó sóttkví með misróttækum hætti, enda er um frelsissviptingu að ræða, sem kveða ætti á um í lögum, hvernig hátta skuli. Smitrakning og sóttkví eru stjórntæki, sem nýta má til að hafa áhrif á smitstuðulinn samkvæmt stefnumörkun um nýgengi, fjölda daglegra smita, álag á sjúkrahús o.s.frv..

Síðan er Thor spurður um rannsóknir, sem gætu hjálpað til við að þróa sóttvarnirnar frá bælingarstefnunni, en hún mun aðeins leiða til hverrar bylgjunnar á fætur annarri og lokunar í kjölfar opnunar.  Þannig er ófært að ætla að "lifa með veirunni":

""Já, nú er einmitt verkefnið að taka nýja stefnu.  Nú hefur safnazt saman reynsla síðustu mánaða frá mörgum löndum.  Hvaða aðgerðir hafa verið notaðar, og hvernig smitin breyttust í takti við það.  Til að geta gert eitthvað vitrænt, eru menn núna að rannsaka, hvaða aðgerðir virka bezt.  Það er stundum erfitt að toga þær í sundur, því að margar aðgerðir eru í gangi á sama tíma.  Við erum að reyna að finna út, hvaða samsetningar virka bezt; getum við sleppt einhverju ?  Getum við haft grímuskyldu og þá farið í 50 manna hópareglu ?  Eða er það samt ekki nógu gott ?

Getum við haft opna skóla ?  Vinnustaði ?  Þetta verkefni er núna að fara á flug.  Við erum að vinna þetta með finnskum fræðimanni í Bandaríkjunum og ætlum að vera þar í samfloti með að vega og meta áhrif aðgerða. Við erum að finna góðar samsetningar á aðgerðum, sem við getum sætt okkur við.  Þá getum við vegið og metið nokkra mismunandi kosti.  Ég er að fara af stað að rannsaka þetta núna.  Við stefnum í nýjar áttir", segir Thor."   

Þetta eru afar áhugaverðar upplýsingar frá Thor Aspelund.  Verkefnið er flókið, og það verður að einfalda það.  Það snýst í raun um að lágmarka heildar tekjutap og kostnað, þar sem tekið er tillit til áhrifa sóttvarnarráðstafana á efnahag og lýðheilsu.  Núverandi fyrirkomulag á landamærunum með tvöfaldri skimun og sóttkví á milli hefur t.d. valdið miklu gjaldeyristapi samfélagsins, og margir hafa misst vinnuna fyrir vikið. Langvinnur atvinnumissir getur valdið heilsutjóni og í sumum tilvikum lífshættulegum sjúkdómum, sem stundum enda með ótímabærum dauða.  Það hefur komið í ljós, að þessar dýrkeyptu aðgerðir á landamærunum hafa ekki komið í veg fyrir það, að beita hafi þurft ströngustu sóttvarnaraðgerðum innanlands að mati sóttvarnarlæknis, sem ganga mjög á athafnafrelsið, eru fyrirtækjum og einstaklingum dýrkeyptar og eru til þess fallnar að hafa slæm áhrif á lýðheilsuna. Þar sem þjónustugeirinn gegndi mjög stóru atvinnulegu og efnahagslegu hlutverki hérlendis, hefur þessi sóttvarnaraðgerð orðið afdrifarík, og það verður alls ekki séð, að hún hafi verið nauðsynleg. 

Annað sjónarhorn á sóttvarnir gaf stjórnsýslufræðingurinn Haukur Arnþórsson í Morgunblaðsgrein 8. október 2020:

  "Leiðrétta þarf afdrifarík mistök í sóttvörnum".

Hún hófst þannig:

"Þann 4. október sl. gáfu 3 fremstu faraldursfræðingar heimsins, prófessorar við Harvard-, Oxford- og Stanford-háskólana (Kulldorff, Gupta og Bhattacharia) út yfirlýsingu kennda við Great Barrington í Bandaríkjunum. Fjöldi prófessora og faraldursfræðinga hefur undirritað yfirlýsinguna.  Þar segir:

"Við höfum ... alvarlegar áhyggjur af því líkamlega og andlega tjóni, sem ríkjandi COVID-19 stefnumörkun veldur, og mælum með nálgun, sem við köllum markvissa vernd .... . Verði þessum aðgerðum haldið til streitu uns bóluefni er tiltækt, valda þær óafturkræfu tjóni, sem einkum bitnar á lægri lögum samfélagsins."

Markviss vernd felst í grófum dráttum í því, að "... ná hjarðónæmi [með] jafnvægi [á] milli áhættu og árangurs.  Þannig ætti að leyfa þeim, sem eru í minnstri lífshættu að lifa eðlilegu lífi í því skyni að auka ónæmi gagnvart vírusnum - ónæmi, sem er náð með náttúrulegu smiti.  Á sama tíma á að verja þá, sem eru í mestri áhættu."  Lokaorðin eru:

"Þeim, sem ekki eru í áhættuhópi, ætti án tafar að heimila að snúa aftur til eðlilegs lífsmynzturs.  Einfaldar varúðarráðstafanir, s.s. handþvottur og að dvelja heima í veikindum, þyrftu allir að viðhafa til að lækka hjarðónæmisþröskuldinn [lækkun smitstuðuls í 1,5 lækkar hjarðónæmisþröskuldinn í 33 % - innsk. BJo].  Skólar og háskólar ættu að kenna með staðkennslu.  Annarri virkni, s.s. íþróttum, ætti að halda áfram.  Ungt fólk í lágmarksáhættu ætti að vinna áfram með óbeyttu lagi frekar en frá heimilum sínum.  Veitingahús og aðrir í viðskiptum ættu að halda opnu.  Listir, tónlist, líkamsrækt og önnur menningarstarfsemi ætti að halda áfram.  Fólk í aukinni áhættu má taka þátt að vild, á meðan samfélagið sem heild verndar viðkvæma með skjóli þeirra, sem mynda hjarðónæmi".

Tegnell leiddi Svía nokkurn veginn til hjarðónæmis í þessum anda í vor (komið í maílok), þannig að faraldurinn veldur ekki alvarlegu tjóni þar aftur.  Svíar eru eina þjóðin, sem er frjáls. En hér á landi birtist skuggahlið "íslenzku leiðarinnar"."

"Great Barrington" hópurinn virðist vera rödd skynsaminnar, þegar bælingarstefnan er allsráðandi. Hérlendis misfórst markviss vernd viðkvæmra hjá Landsspítalanum.  Verndunarráðstafanir hans reyndust vera ómarkvissar, þegar til kastanna kom; meira í orði en á borði.  Spurningin er hins vegar sú, hver smittíðnin verður hérlendis, ef fylgt er ráðum "Great Barrington" hópsins, og hvort heilbrigðiskerfið ræður við sjúklingafjöldann, sem þá verður.  Væntanlega þarf einhverja millilausn, og vonandi kemur Thor Aspelund með tillögu um einhverja slíka.

Líklega er það ofmælt, að hjarðónæmi hafi náðst í Svíþjóð á 3 mánuðum marz-maí 2020.  Á Stokkhólmssvæðinu, þar sem flestir höfðu sýkzt, var hlutfall þeirra undir 20 %, er síðast fréttist, en það er of lágt fyrir hjarðónæmi gagnvart C-19, enda geisar önnur bylgja í Svíþjóð núna.

Hér er svo lýsing stjórnsýslufræðingsins á þjóðfélagslegum afleiðingum rangrar sóttvarnarstefnu á Íslandi:

"Alvarlegustu áhrif íslenzku leiðarinnar eru efnahagsleg og félagsleg.  Það stefnir í fjöldagjaldþrot fyrirtækja, sem varða ferðaþjónustu, stórfelldan hallarekstur ríkis og sveitarfélaga og samdrátt þjóðartekna um allt að 40 % [sennilega er átt við gjaldeyristekjur þjóðarinnar-innsk. BJo], sem eykur nýgengi fátæktar stórfelldlega og útburð og gjaldþrot hinna atvinnulausu, þegar þeir geta ekki greitt af lánum sínum.

Gert er ráð fyrir, að atvinnulausir verði yfir 20 þús. um áramót [2020/2021]; það varðar afkomu 50-60 þús. manns, barna og fullorðinna. Seinna í vetur getur örvænting hafa gripið um sig [á] meðal tugþúsunda Íslendinga með tilheyrandi pottaglamri á Austurvelli.  Þrengist þá fyrir dyrum stjórnmálanna." 

Stjórnvöld hafa sáralítið samráð við Alþingi eða hagsmunaaðila vinnumarkaðarins áður en þau taka taka sóttvarnarákvarðanir.  Þau bera m.a. við tímaskorti, sem sýnir, að þau eru í greipum læknanna, sem stilla þeim upp við vegg með fullyrðingum um, að herða verði aðgerðir fyrir helgi.  Ástandinu verður bezt lýst með orðunum "heilaþvottur" og "móðursýki".  Það vantar vitræna stefnumörkun til langs tíma. Vonandi tekst Thor Aspelund að sjóða saman skarplega hernaðaráætlun, sem reist er á beztu gögnum um veiruófétið.

 

 

  

 

 

 


Brautryðjandi blaðagrein um fiskeldi

Saga íslenzks fiskeldis var hrakfallasaga, þar til erlendir fjárfestar með sérþekkingu á greininni og víðtæk markaðstengsl rufu vítahring fjármagnsskorts og einangrunar, sem hrjáði greinina hér. Nú er þetta glæsileg grein í góðum vexti, sem er orðin kjölfesta atvinnulífs og viðgangs byggðar í landinu á þeim stöðum á landinu, þar sem henni er leyft að starfa, en sjókvíaeldi á laxi er miklum takmörkunum háð af hálfu íslenzkra yfirvalda.

Um leið og greininni hefur vaxið fiskur um hrygg, hafa stofnanir og yfirvöld þróað vísindalegar og hlutlægar aðferðir við mat á því, hversu mikið fiskeldi getur talizt vistfræðilega sjálfbært á hverjum stað.  Það var þess vegna tímabært að kynna til sögunnar nýja hugsun um það, hvar við landið er ráðlegt að hafa tilgreint fiskeldi í stað auglýsingar landbúnaðarráðuneytisins um þau efni frá 2004. 

Þetta gerði Teitur Björn Einarsson, 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norð-Vestur-kjördæmi, í Morgunblaðsgrein 2. nóvember 2020 undir fyrirsögninni:

"Vísindaleg sáttargjörð um fiskeldi".

Hún hófst þannig:

"Ávinningur af fiskeldi er mikill fyrir íslenzkt samfélag, og sérstaklega eru áhrifin jákvæð á þau byggðarlög, þar sem eldið er starfrækt.  Alvarlegar efnahagsþrengingar vegna kórónuveirunnar draga enn betur fram mikilvægi slíkrar nýsköpunar og auðlindanýtingar fyrir landsmenn.  Yfirlýst stefna stjórnvalda er að byggja áfram upp fiskeldi í samræmi við ráðgjöf vísindamanna og tryggja rannsóknir og vöktun áhrifa á lífríkið." 

Þarna er brugðið upp mynd af hinu nýja fiskeldi við Ísland.  Einkenni þess eru bezta fáanlega tækni á þessu sviði, strangir staðlar og hlíting þeirra við rekstur og búnaðarkaup ásamt vísindamiðaðri umgjörð ráðgjafar- og eftirlitsstofnana ríkisins. Gjaldeyrissköpunin í ár gæti numið jafnvirði mrdISK 25, þrátt fyrir verðlækkun á mörkuðum af völdum sóttvarnarráðstafana erlendis, og framleiðslan orðið 30-35 kt.  Þróunarstarf bíður fiskeldisins á sviði vinnslu afurðanna. Stækkunarmöguleikar eru töluverðir, en e.t.v. er beðið með mestri óþreyju eftir endurskoðun á áhættumati Hafrannsóknarstofnunar um laxeldi í Ísafjarðardjúpi til aukningar.

Við þessar aðstæður skýtur skökku við, að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra skuli nú kanna, hvort rétt sé að banna sjókvíaeldi í Eyjafirði, Jökulfjörðum og hluta Norðfjarðarflóa. Teitur Björn bendir á, að ráðherra verði að reisa slíkt mat á niðurstöðu vísindalegra rannsókna og útreikninga á þeim grunni, en ekki einhvers konar huglægu, hugmyndafræðilegu eða pólitísku mati ráðuneytisins:

"Ráðherra hefur ekki heimild samkvæmt fiskeldislögum til að loka hafsvæðum, ef ekki liggja fyrir lögbundnar vistfræðilegar rannsóknir, þ.e. burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar, til að ákvarða, hvort fiskeldi hafi neikvæð áhrif á umhverfið. 

Fyrir liggur, að ráðherra hefur ekki óskað eftir burðarþolsmati fyrir firðina 3, sem um ræðir, og ekkert áhættumat erfðablöndunar er til um þau svæði."

Spyrja má, hvað ráðherra málaflokksins sé að bauka ?  Sú leið, sem Teitur Björn nefnir, er málefnaleg og vænleg til að höggva á hnút tilfinninga og hugmyndafræðilegrar andstöðu við laxeldi í sjókvíum, enda fullyrðir Teitur Björn:

"Eina raunhæfa sáttin um uppbyggingu fiskeldis verður að vera byggð á vísindalegri ráðgjöf."

Næst víkur Teitur Björn að þeim skilyrðum, sem þarf að uppfylla til að mega hefja fiskeldi í nýjum firði, sem hingað til hefur verið undanskilinn fiskeldi með auglýsingu frá 2004, sem nú víkur fyrir fiskeldislögum, sem þá voru ekki til.  Hér er um alveg nýja stefnumörkun í mikilvægum málaflokki að ræða:

"Til að starfrækja fiskeldi, t.d. í Steingrímsfirði á Ströndum, þarf að uppfylla veigamikil skilyrði fiskeldislaga. Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir burðarþolsmat.  Í öðru lagi þarf að liggja fyrir svæðaskipting byggð á burðarþoli, að teknu tilliti til laga um skipulag haf- og strandsvæða. Í þriðja lagi þarf áhættumat erfðablöndunar að ná yfir Steingrímsfjörð. Í fjórða lagi þarf að liggja fyrir úthlutun eldissvæða af hálfu ráðherra og í fimmta lagi þarf að liggja fyrir staðfest mat á umhverfisáhrifum um starfsemi fiskeldis í Steingrímsfirði. 

 

Auglýsing um bann við fiskeldi í Steingrímsfirði einfaldlega víkur fyrir rétthærri fiskeldislögum og hefur enga þýðingu samkvæmt þeim."

Þarna kemur berlega í ljós í hverju breytingin á stjórnskipulagi fiskeldis er fólgin.  Fyrirkomulagið um leyfilega staðsetningu hefur þróazt úr auglýsingu, sem reist var á ráðleggingu Veiðimálastofnunar 2001, yfir í að verða niðurstaða vísindalegs mats samkvæmt núverandi fiskeldislöggjöf. Ráðherra hefur þetta ferli með því að óska eftir burðarþolsmati, en Umhverfisstofnun og Matvælastofnun ljúka því með útgáfu starfs- og rekstrarleyfa. 

Þessa fróðlegu grein sína endaði Teitur Björn Einarsson þannig:

"Vísindaleg ráðgjöf verður að ráða för til að tryggja, að auðlindir landsins séu nýttar með skynsamlegum og ábyrgum hætti í þágu allra landsmanna.  Íbúar við sjávarsíðuna, þar sem tækifæri eru í fiskeldi, eiga það enn fremur skilið. Gera má ráð fyrir, að meiri sátt verði þannig náð um uppbyggingu fiskeldis, ef stjórnvöld fylgja þeirri stefnu fastar eftir." 

Hér hefur verið fjallað um sjókvíaeldi.  Það er mikil þróun á því sviði innan greinarinnar.  Sjókvíarnar og eftirlitið með þeim verða sífellt öflugri.  Sjálfvirknin eykst og notkun innlendra hráefna í fóðrið sömuleiðis.  Í Noregi eru gerðar tilraunir með lokaðar sjókvíar og úthafskvíar.  Þær munu vafalítið koma hingað líka.  Það er þó önnur þróun enn nær í tíma og ekki síður merkileg, en hún er á sviði landeldis. Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji er þegar með reynslu á þessu sviði, t.d. á Suðurnesjum, og hefur kynnt til sögunnar stórbrotna hugmynd um útvíkkun starfseminnar á Suðurnesjum.  Markaður Fréttablaðsins kynnti hugmyndina til sögunnar 14. október 2020 undir fyrirsögninni:

"Samherji vill kaupa eignir Norðuráls við Helguvík og hefja laxeldi".

Frásögnin hófst þannig:

"Norðurál og Samherji hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup Samherja á lóð og byggingum Norðuráls við Helguvík samkvæmt heimildum Markaðarins. Áætlanir Samherja snúa að því að hefja laxeldi á landi og nýta til þess byggingar í Helguvík, sem upprunalega var ætlað að hýsa álver Norðuráls." 

Þessu ber að fagna og vona, að Samherji finni hagkvæma leið til að koma eldiskerum fyrir í þessum tveimur kerskálum Norðuráls.  Samherji styrkir hér verulega eldisþátt starfsemi sinnar, og fiskeldið verður einn af grundvallarþáttum gjaldeyrisöflunar Íslendinga. Á grunnatvinnuvegunum lifir síðan alls konar þróunar, þjónustu- og framleiðslustarfsemi, sem krefjast sérhæfingar.  Þannig þróast nýjar greinar.  Hugverkastarfsemi verður ekki til í lausu lofti.  Góð dæmi er alls konar sprotastarfsemi, sem sprottið hefur upp í samstarfi við sjávarútveginn við gernýtingu sjávaraflans.  Svipaða sögu er að segja frá stóriðjunni og ekki má gleyma fluginu.  Hátæknistarfsemi fer fram við flughermi Icelandair í Hafnarfirði og við umfangsmikið flugvélaviðhald þessa undirstöðufélags íslenzkrar ferðaþjónustu.  Merkileg rannsóknar- og þróunarstarfsemi fer fram í íslenzkum landbúnaði, skólum og rannsóknarstofnunum tengdum honum.  Þannig eru grunnatvinnuvegirnir 4 undirstaða sprotafyrirtækja og nýsköpunar, sem orðið geta að öflugum tæknifyrirtækjum, sem starfa á innlendum og erlendum mörkuðum.

Umsvif Samherja á sviði landeldis eru ekki öllum kunn, en fyrirtækið framleiðir þannig um 1,5 kt/ár af eldislaxi.  Sú framleiðsla verður margfölduð, ef áformin í Helguvík verða að veruleika, og gæti fyrirtækið orðið stærst á sviði landeldis á laxi í heiminum.

"Samherji starfrækir þegar fiskeldi á Suðurnesjum.  Fyrirtækið rekur 2 áframeldisstöðvar bleikju skammt frá Grindavík og á Vatnsleysuströnd.  Þar að auki rekur Samherji vinnslu í Sandgerði, þar sem bleikju er slátrað og pakkað í neytendaumbúðir.

Ætla má, að uppbygging laxeldis við Helguvík falli því harla vel að núverandi starfsemi fyrirtækisins á Suðurnesjum.  Samherji stundar þegar laxeldi á landi við Núpsmýri í Öxarfirði."

Laugardaginn 31. október 2020 skrifuðu Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, grein í Morgunblaðið um gildi hugvits og nýsköpunar í atvinnulífinu.  Bezt hefur verið og mun verða hlúð að sprotafyrirtækjum, þegar grunnatvinnuvegirnir eru öflugir.  Með því að skapa grunnatvinnuvegunum góð starfsskilyrði, munu nýsköpunarfyrirtækin spretta fram.  Forysta SI virðist í téðri grein vera þeirrar skoðunar, að stjórnvöld landsins geti galdrað slíka kanínu upp úr sínum hatti.  Hætt er við miklu meiri afföllum af slíkum sprotum en þeim, sem vaxa og dafna í skjóli öflugra fyrirtækja með skilning á mikilvægi tækniþróunar.

Grein sína nefndu tvímenningarnir:

"Fjórða stoðin - til mikils að vinna".

Þar gat m.a. þetta að líta:

"Í megindráttum eru 3 stoðir útflutnings, sjávarútvegur, orkusækinn iðnaður og ferðaþjónusta.  Nú hriktir í 2 stoðunum.  Ferðaþjónusta á undir högg að sækja um heim allan vegna veirufaraldursins [og dýrkeyptra viðbragða yfirvalda við honum - innsk. BJo]. Hömlur eru á ferðalögum, og ferðavilji fólks er minni meðan á faraldrinum stendur.  Þá eru blikur á lofti í orkusæknum iðnaði á Íslandi [af því að íslenzk yfirvöld hafa dregið lappirnar við að leiðrétta raforkuverðið, eins og ýmis önnur yfirvöld hafa þó beitt sér fyrir-innsk. BJo], afkoma iðnfyrirtækja, sem nýta raforku, versnar, og umsvif hafa dregizt saman.  Það yrði mikið áfall, ef 2 stoðir létu undan á sama tíma."   

 

 

 

    

   


Vogarskálar, veiran og lögin

Ýmsir hérlendir lögmenn hafa tjáð sig í þá veru, að tillögur sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra, sem sá ráðherra virðist hingað til hafa gleypt með húð og hári og breytt í reglugerð, oftast með samþykki ríkisstjórnar, skorti nauðsynlega lagastoð og stangist í sumum tilvikum á við Stjórnarskrá.  Þetta er gjörsamlega óviðunandi og þarf að fá úr skorið sem fyrst. Ekki er nóg að boða framlagningu frumvarps um ný sóttvarnarlög.  Ákvæðum Stjórnarskrár um persónubundin réttindi og athafnafrelsi verður ekki breytt. Aðgerðirnar núna verða að vera reistar á núverandi löggjöf, og um það eru uppi alvarlegar athugasemdir.  Sóttvarnaryfirvöld hafa aldrei sýnt fram á, að aðgerðir þeirra séu nauðsynlegar, þ.e. að vægari aðgerðir hefðu ekki dugað til að koma í veg fyrir oflestun heilbrigðiskerfisins. Bælingarstefnan, þ.e. afar íþyngjandi aðgerðir til að þvinga smitstuðulinn langt undir 1,0, hafa verri aukaverkanir en nemur gagnseminni. 

Stjórnvöld ættu nú að sjá að sér og íhuga stefnubreytingu í sóttvörnum gegn SARS-CoV-2.  Stefnan hefur hingað til miðað við bælingu, sem krefst stjórnvaldsaðgerða, sem skortir lagastoð og hefur alvarlegar lýðheilsulegar afleiðingar í för með sér, svo að ekki sé nú minnzt á gríðarlegt fjárhagstjón af völdum harkalegra hafta. Bælingarstefnan mun leiða af sér hverja bylgju faraldursins á eftir annarri, þar til nothæft bóluefni er tiltækt almenningi, og það getur dregizt á langinn, e.t.v. til 2022. Bælingarstefnan getur átt við skæðar drepsóttir, þar sem reynt er að útrýma sóttkveikjunni, en á ekki við C-19 í sinni núverandi mynd.   

Nýju sóttvarnarstefnuna ætti að reisa á stýrðri leið til hjarðónæmis.  Á 30 vikum verður þá hægt að ná hjarðónæmi hérlendis, sem dugir til að fækka smitum verulega og koma Íslandi á s.k. grænt svæði, þar sem nýgengi smita er undir 25.  Nú hefur pestin geisað í þremur bylgjum í rúmlega 30 vikur, og nýgengi smita innanlands og á landamærum fór yfir 300, þrátt fyrir umfangsmikil ferða- og athafnahöft. Sumir mundu kalla þetta falleinkunn fyrir bælingarstefnuna.  

Til að sýna á hversu veikum lagalegum grunni höft heilbrigðisráðherra á starfsemi fyrirtækja og háttarlag einstaklinga standa, er nóg að vitna til greinarkorns Jóns Steinars Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu 17. október 2020, sem hann nefndi:

"Fyrirmæli eða tilmæli".

"Ástæða er til að vekja athygli manna á, að yfirvöld í landinu hafa afar takmarkaðar heimildir til að stjórna háttsemi manna í veirufárinu með valdboði.  Í sóttvarnarlögum er ekki að finna víðtækar heimildir til slíks. Reyndar er í ýmsum tilvikum vafasamt, að stjórnvöld gætu skert stjórnarskrárvarin réttindi manna með bindandi fyrirmælum til almennings, þó að styddust við sett lög.  Til slíkra fyrirmæla þarf heimildir í stjórnarskránni sjálfri."

Sóttvarnaryfirvöld hafa ekki haldið aftur af sér við útgáfu fyrirmæla, sem sum hafa haft mjög neikvæð áhrif á hagkerfið og eru líkleg til að hafa mjög neikvæð áhrif á lýðheilsu, er frá líður.  Mörg fyrirmælanna skerða bæði atvinnufrelsi og persónufrelsi. Það er allsendis óvíst, að fyrirmælin í reglugerðunum hafi verið nauðsynleg eða skilað meiri árangri en brýningar og tilmæli hefðu gert. 

Vegna þess hvernig í pottinn er búið með heimildir löggjafans, bar framkvæmdavaldinu þegar í upphafi að leggja áherzlu á meðalhóf í fyrirmælum og persónubundnar sóttvarnir fremur en almennar takmarkanir og lokanir.  Persónubundnar sóttvarnaraðgerðir geta ekki talizt úr hófi íþyngjandi. 

Sóttkví er íþyngjandi skerðing á persónufrelsi og ber þess vegna að beita í meðalhófi, en sé henni beitt markvisst, er hún mjög áhrifarík aðferð til að hemja útbreiðslu og lækka meðalsmitstuðulinn, sem er höfuðatriðið í þessari baráttu. 

Áfram hélt Jón Steinar Gunnlaugsson:

 "Það er auðvitað sjálfsagt, að yfirvöld heilbrigðismála beiti tilmælum til borgaranna um æskilega hegðun þeirra við þessar aðstæður.  Það er líka sjálfsagt fyrir almenning að fara að þessum tilmælum í flestum tilvikum, því að öll viljum við takmarka útbreiðslu þessa vágests, sem veiran er.  Við ættum samt að hafa í huga, að ábyrgðin er okkar sjálfra.  Ef t.d. stjórnarráðið gæfi mér fyrirmæli um að halda mig í 2 m fjarlægð frá eiginkonunni, myndi ég ekki hlíta því.  Skítt með veiruna."

Það má taka undir það, að borgararnir eru sjálfir ábyrgir fyrir öryggi sínu og þeirra, sem í kringum þá eru.  Þeir verða sjálfir að vega og meta, hvað er einfaldlega of íþyngjandi fyrir þá, en ráðleggingar sóttvarnayfirvalda um persónubundnar varnir eiga fullan rétt á sér.  Það veikir hins vegar mjög fyrirmælin í reglugerðunum, að löggjafinn virðist ekki hafa veitt heimildir til íþyngjandi fyrirmæla.  Þeim mun undarlegra er, að aðkoma þingmanna virðist vera af skornum skammti.  Í Noregi er áskilið, að Stórþingið fjalli um frelsistakmarkanir almennings og ljái þeim lögmæti.  

Þann 15. október 2020 birtist í Fréttablaðinu grein, sem "þríeykið", Alma D. Möller, Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason, er skrifað fyrir.  Hún bar fyrirsögnina:

"Vogarskálar veirunnar og lýðheilsa".

Grein þessi virðist á yfirborðinu vera málefnaleg, en hún er í raun mjög gagnrýniverð, því að hún einkennist um of af hræðsluáróðri gegn þeirri leið, sem ein getur leitt til varanlegs árangurs í baráttunni, en það er leið stýrðs hjarðónæmis.  Þau gefa sér, að eina leið hjarðónæmis sé hömlulaus vöxtur smita með mjög háum smitstuðli og að hjarðónæmi náist ekki fyrr en 60 % íbúanna hafi smitazt.  Þetta heitir að mála skrattann á vegginn.  Með áherzlu á persónubundnar smitvarnir, nándarmörk, grímuskyldu, sótthreinsun og þvott ásamt markvissri beitingu smitrakningar og sóttkvía, en án annarra takmarkana á persónufrelsi og án takmarkana á atvinnufrelsi, nema allt annað hafi verið reynt, má væntanlega halda smitþættinum undir eða við 1,5, og þá næst hjarðónæmi við ónæmi 33 % íbúanna. Ef tekinn yrði álíka tími í að ná þessu marki og tekið hefur að ná fram ónæmi 2 % íbúanna hingað til, um 30 vikur, þá verður fórnarkostnaðurinn enginn, þ.e. færri munu látast af völdum C-19 en af afleiðingum bælingarstefnunnar á hagkerfið og vinnumarkaðinn.

Verður nú vitnað í grein "þríeykisins":

"Það er mat okkar, að fórnarkostnaður við leið hjarðónæmis verði allt of hár, eins og rakið verður.  Álit okkar er, að bezt sé að halda áfram aðgerðum við að halda veirunni í skefjum, en með sem minnstri röskun á deglegu lífi, þar til bóluefni er fram komið.  Annað, sem vinnst við að þreyja þorrann, er að þekking á meðferð og sjúkdómnum eykst, m.a. á langtímaáhrifum.  Þá er hugsanlegt, að veiran veikist með tímanum líkt og gerðist í spænsku veikinni, þó [að] enn séu engin merki um slíkt."

Þessi málflutningur er reistur á röngum forsendum og draumórum.  Þau nota tölfræði úr "Bylgju 1" á Íslandi, en tölfræði "Bylgju 2-3" gefur allt aðra og sakleysislegri niðurstöðu.  Það hlýtur að vera réttara að nota nýjustu gögn.  Það er óráðlegt að búast við nothæfu, öruggu, varanlegu, og skilvirku bóluefni á einhverjum tilgreindum tíma á næsta ári.  Þegar slíkt kemur, verður það til að létta róðurinn, hvor leiðin sem valin er.  Sama má segja um stefnuna, sem stökkbreytingar veirunnar kunna að taka.

Nú verða bornar saman tölur úr 2.-3. bylgju og 1. bylgju.  Tölur úr 1. bylgju eru úr grein "þríeykisins" og eru hafðar í sviga:  

Í 2.-3. bylgju fram til 18.10.2020 greindust 2255 (1800) með veiruprófi.  Þá má reikna með, að 8000 manns eða 2,2 % (1,0 %) íbúanna búi að mótefni m.v. niðurstöður mótefnamælinga eftir 1. bylgju.  Af hópi greindra í 2.-3. bylgju höfðu 18.10.2020 64 (115) verið lagðir inn á sjúkrahús eða 1,5 % (3,2 %).  Í 2.-3 bylgju hafa hafa 7 (30) þarfnazt meðferðar gjörgæzludeildar eða 0,16 % (0,8 %), og 1 (10) hefur látizt eða 0,02 % (0,3 %). 

Það má halda því fram, að himinn og haf sé á milli hlutfallstalnanna í síðustu tveimur bylgjum m.v. þá fyrstu.  Þess vegna fæst gjörólík niðurstaða, þegar reynt er að áætla líklega þróun faraldursins, ef létt verður á samfélagshöftum til að beina þróuninni með stýrðum hætti í átt að hjarðónæmi, svo að ekki sé nú minnzt á svartnættið, sem "þríeykið" dregur upp af því öfgaástandi, sem gæti myndazt, ef engar varúðarráðstafanir eru viðhafðar.  Þar málar "þríeykið" skrattann á vegginn í því skyni að verja bælingarstefnu sína, sem er árangurslaus haftastefna, sem við höfum ekki ráð á.  Hún er árangurslaus, af því að hún veldur meira tjóni en sparnaði á alla mælikvarða, þ.e. lýðheilsu, fjölda dauðsfalla og efnahag landsmanna.

Þríeykinu verður starsýnt í baksýnisspegilinn, en slíkt háttarlag getur leitt til rangra ályktana og rangra ákvarðana: 

 "Þegar farsóttin skall á, var samstaða um að verja nauðsynlega innviði, ekki sízt heilbrigðiskerfið, og vernda viðkvæma hópa.  Árangur Íslands byggði á víðtækum aðgerðum: upplýsingum til almennings [mjög mikilvægt-innsk. BJo], áherzlu á einstaklingsbundnar sóttvarnir [lykilatriði, þó vantaði grímuskyldu-innsk. BJo], snemmgreiningu og einangrun sýktra [mjög mikilvægt-innsk.BJo], markvissu eftirliti ásamt snemmtækri íhlutun við versnun veikinda [lykilatriði til að draga úr sjúkrahússálagi-innsk. BJo], smitrakningu [mikilvægt hjálpartæki-innsk.BJo], beitingu sóttkvíar [mjög mikilvægt, en gæta verður meðalhófs] og samfélagslegum aðgerðum [margar þeirra orka tvímælis-innsk.BJo]. Samfélagslegar aðgerðir fólu í sér heimsóknabann á hjúkrunarheimilum [nauðsynlegt-innsk.BJo], samkomutakmarkanir [orka tvímælis-innsk. BJo], lokun mennta- og háskóla [of langt gengið-innsk. BJo], lokun þjónustu með mikilli nánd [of langt gengið-innsk. BJo] og takmörkun á annarri, en nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu [þetta gengur ekki til lengdar-innsk.BJo]. 

Ein misráðin aðgerð er ónefnd hér, en hún er sú að skylda alla komufarþega til landsins í tvöfalda skimun með um 5 sólarhringa sóttkví á milli.  Aðgerðin hafði lítil sóttvarnarleg áhrif (tiltölulega lágur smitstuðull almenns ferðafólks), en olli miklum tekjumissi ferðageirans (a.m.k. 70 %) og atvinnumissi þúsunda manna.  Nauðsynlegt og nægjanlegt er að skima erlenda ferðamenn einu sinni við komuna vegna smitstuðuls, sem vart er hærri en 1, og að skima íbúa hérlendis tvisvar með sóttkví á milli vegna tiltölulega hás smitstuðuls þeirra. 

Lýðheilsuáhrifin af almennri tvöfaldri skimun geta orðið slæm og miklu verri en ávinningurinn.  Rannsóknir hafa sýnt, að langtímaatvinnuleysi veldur fjölda ótímabærra dauðsfalla, jafnvel 30 á þriggja ára tímabili fyrir hverja 1000, sem missa vinnuna.

"Þríeykið" viðurkennir hættuna á slæmum langtímaáhrifum sóttvarnaraðgerða á lýðheilsuna, en neitar að horfast í augu við, að sú áhætta mælir með að feta brautina að hjarðónæmi með stýrðum hætti, t.d. á um 30 vikum:

"Þótt áhrif sóttvarnaraðgerða hérlendis á lýðheilsu virðist væg til skemmri tíma litið, er ástæða til að óttast langtímaáhrif, ef ástandið dregst.  Áhrif sóttvarnaraðgerða á lýðheilsu eru ekki þekkt, en gætu hugsanlega verið verri heilsuhegðun, t.d. minni hreyfing og svefn, verra mataræði og aukin streita og minni heilbrigðisþjónusta, ef minnka þarf framboð þjónustu og/eða fólk veigrar sér við að leita þjónustu. Fleiri afleiðingar gætu verið aukin félagsleg einangrun og einmanaleiki, ofbeldi, kvíði og áhyggjur.  Þá gæti meira atvinnuleysi og fátækt valdið neikvæðum afleiðingum fyrir heilsu og líðan.  Það getur hins vegar reynzt erfitt að greina áhrif sóttvarnaráðstafana á lýðheilsu frá beinum áhrifum faraldursins."

Það er vitað um aukningu atvinnuleysis á Íslandi í ágúst 2020, um 3000 manns, og hún varð nær einvörðungu vegna snarfækkunar ferðamanna til landsins og afbókana í kjölfar innleiðingar tvöfaldrar skimunar allra komufarþega og um 5 sólarhringa sóttkvíar á milli, sem illu heilli var innleidd hér 19. ágúst 2020 sem einn af valkostum (ekki tillaga) sóttvarnarlæknis. Heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn völdu þennan valkost, af því að hann hefði mestu sóttvarnaráhrifin, en virðast ekki hafa gefið nægan gaum að öfgakenndum neikvæðum tekjuáhrifum, víðtækum atvinnumissi og neikvæðum lýðheilsuáhrifum.  Með öðrum orðum: illa ígrunduð ákvörðun.

Það er hald sumra innan ferðageirans, að þessi ákvörðun valdi því, að 5000 manns missi atvinnu sína á þessu ári.  Hversu lengi veit enginn, en langtímaáhrifin eru geigvænleg á heilsufar þessa fólks, ef marka má rannsóknir á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum.  Á næstu 3 árum gætu 150 manns misst lífið hérlendis af völdum hjartasjúkdóma, heilablóðfalls og andlegrar örmögnunar.  Fjölgun dauðsfalla á leið til hjarðónæmis með stýrðum hætti yrði innan við 1/10 af þessu mannfalli, eins og fram kemur síðar í þessum pistli. 

Þegar "þríeykið" fer síðan að skrifa um "Leið hjarðónæmis", fer það algerlega út af sporinu.  Það kveður smitstuðul veirunnar vera talinn 2,5-6,0, en samkvæmt https://plus.maths.org er hann 2,25-2,50. Síðan skrifa þau, að sé smitstuðullinn 2,5, þurfi 60 % þjóðarinnar að smitast til að hjarðónæmi náist.  Í viðtali við dr Thor Aspelund, prófessor, mætan líftölfræðing, sem rýnt hefur í þróun líklegs smitstuðuls með sínu samstarfsfólki, taldi hann um miðjan október 2020, að smitstuðullinn væri kominn niður í 1,5.  Ef tækist að halda honum þar að jafnaði, næðist hjarðónæmi, þegar 33 % íbúa hafa öðlazt ónæmi gegn SARS-CoV-2.  Nú verður þessi leið rakin, og tölur "þríeykisins" settar í sviga á eftir, en þar er satt bezt að segja hrollvekja sett á svið:  

Ef 33 % (60 %) þjóðarinnar eða 86 k (k=þús) (219 k) sýkist, þá gætu 1290 (7000) þarfnazt innlagnar á sjúkrahús, 138 (1750) þarfnazt gjörgæzlu og 17 (660) látizt m.v. hlutfallstölur úr bylgju 2-3. Forsenda  hryllingsmyndar "þríeykisins" er, að veiran fái að valsa um þjóðfélagið næstum óáreitt (hár smitsuðull), en það er ekki stýrð leið að hjarðónæmi.  Þar er grímuskylda, strangar persónubundnar sóttvarnir, smitrakning, sóttkví og tímabundin lokun staða, þar sem hópsmit hafa smyndazt, en annars losað um athafnahöftin, nema í neyðir reki.  Þetta mundi þýða mikið álag á heilbrigðiskerfið í a.m.k. 30 vikur, en ekki ofálag.

Hámarki nær hræðsluáróður "þríeykisins" með því að gera grein fyrir öfgasviðsmynd án persónubundinna sóttvarna og nándartakmörkunar.  Hún getur verið fræðilega áhugaverð, en eru nokkrir talsmenn hennar ?  Hún er hins vegar vel til þess fallin að skjóta fólki skelk í bringu, svo að það meðtaki bælingarstefnuna gagnrýnislítið:

"Ef veiran fengi að ganga nokkuð óáreitt, er augljóst, að heilbrigðiskerfið myndi engan veginn ráða við fjöldann og að þessar tölur [sýktra, innlagðra og látinna-innsk. BJo] yrðu mun hærri.  

Í nýju finnsku spálíkani er gert ráð fyrir 88 k smitum næstu 2,5 mánuði hérlendis, ef engar sóttvarnaraðgerðir væru í gangi, og myndu allt að 3 k einstaklingar greinast daglega seinni hluta nóvember.  Hafa þarf þetta í huga, þegar sóttvarnarráðstafanir verða ákveðnar næstu mánuði."

Í þessari dökku sýn myndu 1170 manns smitast daglega að jafnaði, og um 18 innlagnir yrðu daglega á sjúkrahús.  Heilbrigðiskerfið mundi alls ekki ráða við þennan fjölda.  Þess vegna má alls ekki slaka á persónubundnum sóttvörnum.  Smitrakningin er líka öflugt tæki, og í raun er hægt að stýra þróun faraldursins í nokkrum mæli með sóttkvíum á grundvelli smitrakninga.  Allt of langt er gengið með því að hneppa börn í sóttkví, því að smitstuðull þeirra er lágur, jafnvel undir 1,0.  Með því að afnema athafnahöft og ferðahömlur, nema sóttkvína, en viðhalda einstaklingsbundnum sóttvörnum, má stýra smittíðninni að u.þ.b. 40 % af þeirri óheftu og ná hjarðónæmi (33 %) á um 30 vikum. 

 

Næst tók "þríeykið" sér fyrir hendur að reifa yfirlýsingu "Great Burlington" hópsins.  Það er hópur lækna og faraldursfræðinga, sem telur lýðheilsu stefnt í voða með bælingarstefnunni og samfélagslegan kostnað verða miklu hærri en ávinninginn af sóttvörnunum.  Þannig muni fleiri látast af völdum bælingarstefnunnar en hún bjargar.  "Great Burlington" hópurinn mælir þess vegna með stýrðri leið til hjarðónæmis.  

Síðan skrifar "þríeykið": 

"Í þessari nálgun væri gert ráð fyrir, að ungt fólk fengi að lifa eðlilegu lífi.  Það gætti einstaklingsbundinna sóttvarna, skólar yrðu opnir og íþróttir leyfðar.  Veitingahús og öll þjónusta sem og menningartengdir viðburðir héldu áfram."

Síðan skrifa þau, að grípa hafi þurft til hertra aðgerða í 3. bylgjunni "til þess að fletja kúrfuna vegna álags á heilbrigðiskerfið".  Þessi málflutningur stenzt ekki skoðun.  Dagleg smit urðu flest 08.10.2020 106 talsins, og nýgengið varð hæst 9 sólarhringum síðar, 308,4, og hefur víða orðið hærra án þess, að heilbrigðiskerfið færi að þolmörkum. Sjúklingafjöldinn náði hámarki 19.10.2020, 1252.  Á sjúkrahúsum voru hins vegar flestir 27 talsins þann 18.10.2020 á tímabilinu, sem var til athugunar, og á gjörgæzlu voru flestir 4 15.-17.10.2020.  Þessar tölur benda ekki til, að nærri hafi legið, að þolmörkum heilbrigðiskerfisins væri náð.  Það verður hægt að feta stýrða leið að hjarðónæmi án þess að oflesta heilbrigðiskerfið. Þar verður hægt að færa starfsemina nær venjulegu horfi, sem er afar brýnt, að náðu hjarðónæmi. 

Að lokum skal tilgreina hér 4 liði, sem "þríeykið" telur nauðsynlegt að halda áfram með.  Höfundur þessa vefpistils er sammála þeim öllum og telur, að þessi atriði varði einmitt stýrða leið (meðalsmitstuðull 1,5) að ónæmi þriðjungs þjóðarinnar, sem þá virkar sem hjarðónæmi:

  1. "Einstaklingsbundnar sóttvarnir; nándartakmörk, handhreinsun, grímunotkun, sótthreinsun snertiflata og að vera heima/sækjast eftir sýnatöku við einkenni, sem samræmast COVID-19.
  2. Vernd þeirra, sem tilheyra áhættuhópum.
  3. Vandaða og samræmda upplýsingamiðlun.
  4. Snörp viðbrögð, þegar upp koma smit; snemmgreiningu, einangrun, smitrakningu og sóttkví ásamt sem minnst íþyngjandi staðbundnum aðgerðum, eins og þarf. "

 

 

 

 

 

 

 

 


Atvinnumissir er dauðans alvara

Með óyggjandi tölfræðilegum hætti hefur verið sýnt fram á samhengi aukningar atvinnuleysis og fjölgunar dauðsfalla að nokkrum tíma liðnum. Afleiðingar atvinnumissis eru því verri þeim mun dýpri, sem efnahagskreppan er.  Núverandi efnahagskreppa er mjög djúp; t.d. minnkaði landsframleiðslan á Íslandi í 2. ársfjórðungi (apríl-júní) 2020 um 9,3 %, og heildarfjöldi vinnustunda dróst saman um 11,3 %.  Nú eru um 20 þús. manns atvinnulausir á Íslandi. 

Í ágúst 2020 jókst atvinnuleysið um 1,6 %, sem þýðir, að þá misstu um 3000 manns vinnuna.  Aðalástæða þessarar aukningar er talin vera sú ákvörðun heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra, með stuðningi ríkisstjórnarinnar, að setja á tvöfalda skimun komufarþega til landsins með 5 daga sóttkví á milli.  Þetta hefur fækkað farþegum til landsins niður í um 1300 á sólarhring eða um 70 %. Fyrirkomulagið er gjörsamlega misheppnað, því að það hefur valdið ferðaþjónustunni og þar með hagkerfinu stórtjóni og sóttkvíin er hriplek, þannig að fyrirkomulagið skapar falskt öryggi. Yfirvöld hafa fallið í gryfju ofstjórnunar, sem þau ráða ekki við. Ávinningurinn er, að tæplega 20 % sýktra komufarþega fara í einangrun, en hefðu ella haldið ferð sinni áfram.  Sóttvarnarlæknir Svíþjóðar skimar ekkert á landamærum Svíþjóðar og segir, að sýktir ferðamenn skipti litlu máli í heildarsamhenginu.  Þetta má rökstyðja með minni smithættu af ferðamönnum til landsins en íbúunum sjálfum.  Talsverður hluti komufarþega til Íslands er hins vegar búsettur hér, og þess vegna er rétt að viðhafa hér einfalda skimun á landamærum.

Það eru að jafnaði 0,7 farþegar á sólarhring, sem hafa greinzt jákvæðir í seinni skimun, en neikvæðir í hinni fyrri.  Um það snerust hinar gríðarlega íþyngjandi aðgerðir f.o.m. 19.08.2020 að fanga um 20 % af sýktum ferðamönnum, sem annars slyppu inn í landið.  Í ágúst 2020 fækkaði þannig smitum í landinu um 9-20 eftir því, hvernig smithætta frá ferðafólki er metin. Þann 31. ágúst 2020 voru COVID-19 sjúklingar í landinu 100 talsins, sem opinberlega var vitað um.  Enginn þeirra var á sjúkrahúsi, og þótt sjúklingarnir hefðu verið 120 talsins í lok ágúst, er ekkert, sem bendir til, að heilbrigðiskerfið hefði verið að sligast eða að dauðsföllum myndi fjölga.  Tæplega mánuði síðar hafði sjúklingafjöldinn 4-5 faldazt; var kominn upp í 455, þrátt fyrir tvöfalda skimun og sóttkví. 2. október 2020 var sjúklingafjöldinn kominn upp í 650, sem sýnir, að yfirvöld hafa engin tök á faraldrinum.  Lítils háttar fjölgun smita frá ferðamönnum breytir sáralitlu, en 70 % fækkun ferðamanna veldur miklu tjóni.

Það er aðallega hegðun landsmanna sjálfra, sem ræður þróun faraldursins.  "Smitbylgjur" munu óhjákvæmilega rísa og hníga, á meðan hjarðónæmi hefur ekki náðst í þjóðfélaginu.  Í "bylgju" fjölgar smituðum talsvert án mikils samfélagslegs kostnaðar annars en þess, sem af sóttkvínni stafar, þ.e. lengst af hafa COVID-19-sjúklingar á sjúkrahúsi verið 2 eða færri og enginn í gjörgæzlu.  Við slíkar aðstæður er ekki verjandi að vera með mjög íþyngjandi sóttvarnaraðgerðir. Þótt sjúklingafjöldinn hafi farið í 650 (02.10.2020), 13 á sjúkrahúsi og 3 í gjörgæzlu, eru röng viðbrögð að grípa til strangra almennra aðgerða um allt land.  Það á að ráðast staðbundið til atlögu samkvæmt niðurstöðum smitrakninga.  Það er ekkert vit í að loka heilsuræktarstöðvum, stórum og smáum, um allt land.  Það á aðeins að loka, þar sem hættan er mest samkvæmt gögnum smitrakningarteymisins.  Þannig vinna þeir, sem beztum árangri hafa náð, t.d. Þjóðverjar.  Aðfarir heilbrigðisyfirvalda og ríkisstjórnar hér eru klunnalegar, fálmkenndar og allt of dýrar m.v. ávinning. Þær varða þess vegna broti á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.  Þetta er alvarlegt mál vegna efnahags landsins og fjárhagslegrar velferðar og sálarheilla fjölda manna.  Virtir lögmenn hafa opinberlega látið í ljós, að þeir telji einnig um Stjórnarskrárbrot að ræða. 

Alvarlega sögu um þungbæra sjúkdóma þarf að segja nú af þessum 3000, sem misstu atvinnuna 1. september 2020, flestir af völdum afleiðinga sóttvarnarfyrirmæla yfirvalda.  Samkvæmt niðurstöðum vandaðra tölfræðilegra greininga á heimasíðu hins bandaríska "E.D. Hovee & Co. - Economic and development services", 09.05.2020, má búast við 88 viðbótar dauðsföllum á næstu 3 árum af völdum þessara uppsagna m.v. það, sem annars hefði mátt búast við. Það er um 1,3 % aukning dauðsfalla og miklu meira en búast má við í heild af völdum COVID-19 faraldursins, enda fækkaði dauðsföllum á Íslandi í 1. bylgju Kófsins. Það var sem sagt verið að fórna miklu meiri hagsmunum fyrir minni með þessari misráðnu stjórnvaldsaðgerð 19.08.2020. Hún var sett á í nafni heilsuverndar og til að bjarga mannslífum, en hún virkar algerlega öfugt.  Hún rænir fjölda manns lífsviðurværi, sjálfsvirðingu og heilsu, og tugir manns munu falla í valinn fyrir aldur fram, en fækkun COVID-19 dauðsfalla verður varla merkjanleg af völdum mistakanna. Þessi dauðsföll af völdum atvinnumissis eru t.d. af vegna  hjartaáfalls og heilablóðfalls.  Andlegt álag eykst mjög á þá, sem vinnu sína missa, sérstaklega í kreppu, þegar mjög erfitt, nánast ómögulegt, er að fá nýtt starf.  Það tekur sinn toll. Þetta verða yfirvöld að taka með í reikninginn, en virðast skella skollaeyrum við hérlendis.  

Evrópusambandið (ESB) hefur einnig fjármagnað rannsóknir á þessu sviði og gefið út viðamikla skýrslu.  Meginniðurstaðan þar voru líka óyggjandi tengsl á milli aukins atvinnuleysis og fjölgunar dauðsfalla af völdum hjartasjúkdóma og heilablóðfalls.  Sterkust voru áhrifin að 2 árum liðnum frá atvinnumissi. Það er reginmisskilningur, að félagslega öryggisnetið, atvinnuleysisbætur o.þ.h. á Íslandi komi í veg fyrir eða deyfi hinar grafalvarlegu afleiðingar atvinnuleysis á Íslandi umfram það, sem annars staðar á Vesturlöndum tíðkast.  Niðurstöður Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins, sem lýst er hér að ofan sem staðreynd fyrir Bandaríkin og ESB-löndin, geta þess vegna einnig átt við á Íslandi.  Þess vegna ber Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandinu siðferðisleg skylda til að sameinast um aðgerðir, sem draga mest úr atvinnuleysi, og ríkisvaldið ætti að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með sem minnst íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum fyrir athafnalífið, á meðan fjöldi COVID-19-sjúklinga er innan viðráðanlegra marka.   

Það eru fleiri áhrifamiklir aðilar í þjóðfélaginu en ríkisvaldið, sem hundsa gjörsamlega alvarlegar, heilsufarslegar afleiðingar af auknu atvinnuleysi.  Átakanlegt er að horfa upp á Alþýðusamband Íslands (ASÍ) fórna atvinnu fjölda fólks fyrir innistæðulausar, umsamdar launahækkanir á næsta ári.  Að neita að ræða mótvægisaðgerðir af ýmsum toga, sem dregið gætu úr aukningu atvinnuleysis og bjargað fyrirtækjum, við Samtök atvinnulífsins (SA) er ábyrgðarlaus og óskiljanleg hegðun verkalýðsforystunnar, sem mun draga langan dilk á eftir sér. Í forystugrein Morgunblaðsins 25. september 2020,

"Deilt um forsendubrest",

stóð þetta m.a.:

"SA bendir á, að við gerð kjarasamninganna hafi verið gert ráð fyrir 10,2 % samfelldum hagvexti á árunum 2019-2022, en nú sé útlit fyrir, að hann verði 0,8 %.  Á alla hefðbundna mælikvarða hlýtur þetta að teljast forsendubrestur, þó að það hafi e.t.v. ekki verið skrifað inn í samningana.  En ástæða þess, að sú alvarlega efnahagskreppa, sem nú ríður yfir, var ekki skrifuð beint inn í kjarasamninginn, er vitaskuld sú, að hana sá enginn fyrir.  Það gat enginn gert ráð fyrir því, að veirufaraldur yrði til þess að varpa allri heimsbyggðinni í djúpstæða efnahagskreppu, sem mundi kosta tugi þúsunda starfa hér á landi."

Þrátt fyrir þá nöturlegu staðreynd, að feiknarsamdráttur er í hagkerfinu núna og hverfandi litlum hagvexti sé spáð á 4 ára skeiði 2019-2022, þá dettur verkalýðsforingjum, sem semja um stóra heildarsamninga án tillits til mismunandi afkomu fyrirtækja, í hug að bera það á borð fyrir alþjóð, að afkoma fyrirtækjanna sé misjöfn og gefa í skyn, að sum þeirra geti staðið undir meiri launahækkunum.  Skilja þau ekki, að slík fyrirtæki eru vandfundin og vega mjög lítið á móti öllum hinum. Það er enn kreppa í álheimum, og sjávarútvegurinn glímir við eftirspurnarleysi af völdum COVID-19. Allir markaðir, sem máli skipta, eru í lamasessi. Rökleysa verkalýðsforingjanna er ámáttleg. Það er ekki boðið upp á annað en gamlar lummur um sífelld stéttaátök vegna arðráns auðstéttarinnar á vinnandi fólki. Tölur segja annað.  Hlutdeild launþega í verðmætasköpun þjóðfélagsins er sú mesta, sem um getur í heiminum, og er meiri en eðlilegt getur talizt m.t.t. áhættu fyrirtækjaeigenda, fjármagnskostnaðar og svigrúms til fjárfestinga til framleiðsluaukningar, framleiðniaukningar og til að bæta aðbúnað starfsmanna. Verkalýðsfélögin eru að valda umbjóðendum sínum hræðilegu tjóni og þeim, sem vinnunni tapa af þeirra völdum, heilsutjóni, sem leitt getur til fjörtjóns, samkvæmt óyggjandi rannsóknum.

Að lokum stóð í þessari forystugrein:

"Samtök atvinnulífsins hafa bent á fleiri en eina leið til að breyta kjarasamningunum og mæta þannig því áfalli, sem atvinnulífið hefur orðið fyrir með það að leiðarljósi að bjarga sem flestum fyrirtækjum og þar með störfum.  Ábyrg verkalýðshreyfing væri reiðubúin til að ræða leiðir til að ná slíkum markmiðum.  

Fyrir allan almenning, ekki sízt launamenn, er verulegt áhyggjuefni, að forystumenn í verkalýðshreyfingunni hér á landi kjósi þess í stað fleiri gjaldþrot og aukið atvinnuleysi."

Téðir forystumenn í verkalýðshreyfingunni hafa varpað ljósi á óhæfni sína við að greina hismið frá kjarnanum, við að veita umbjóðendum sínum raunverulega forystu á erfiðum tímum, og þeir (þau) hafa brugðizt því grundvallarhlutverki aðila vinnumarkaðarins að leggja lóð sitt á vogarskálar eins mikillar atvinnuþátttöku og kostur er hverju sinni.  Þeir hafa orðið leiksoppar múgsefjunar í eigin röðum, sem hefur boðið þeim það þægilega hlutskipti að stinga allir hausnum í sandinn í einu.  Þeir bregðast verkalýðshreyfingunni, eins og ráðlausir og dáðlausir herforingjar hafa brugðizt herjum sínum á ögurstundu.  Eftirmæli þeirra verða samkvæmt því. 

Enn hvassari gagnrýni á Alþýðusambandið birtist í forystugrein Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu 25.09.2020 undir fyrirsögninni:

 "Á villigötum".

"Efnahagsstefna verkalýðshreyfingarinnar er á villigötum og grundvallast á rangri greiningu á vandanum.  Við glímum ekki við hefðbundna eftirspurnarkreppu, heldur hefur orðið framboðsskellur vegna sóttvarnaaðgerðanna, og verðmætasköpun í hagkerfinu hefur af þeim sökum dregizt stórkostlega saman.  Með lækkun vaxta og auknum ríkisútgjöldum hefur höggið verið mildað með því að reyna að halda uppi eftirspurn og lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja, en stærsta áskorunin - ætli okkur að takast að búa til störf og minnka atvinnuleysi - er að draga úr óvissu og fá atvinnulífið til að fjárfesta á ný.  Það mun ekki gerast með því að knýja fram launahækkanir með fjármunum, sem fyrirtækin eiga ekki til, með þeim afleiðingum, að atvinnuleysi mun aukast enn og verðbólgan hækka.  Þeim efnahagslögmálum hefur ekki verið kippt úr sambandi.  

Skilningsleysi verkalýðshreyfingarinnar á stöðunni er átakanlegt.  Hún hefur verið yfirtekin af fólki, sem er heltekið af úreltri og hættulegri hugmyndafræði um viðvarandi stéttaátök.  Sé það gagnrýnt, hefur það fátt annað fram að færa en skítkast og gífuryrði í garð fólks, sem er því ósammála um, hvaða leiðir sé skynsamlegt að fara til að bæta lífskjör í landinu.  

Seðlabankastjóri, sem hefur staðið sig vel á erfiðum tímum, er þannig uppnefndur "einn af hrun-prinsunum" fyrir það eitt að hafa starfað í greiningardeild í banka, og varaformanni stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem hefur stýrt fjölskyldufyrirtæki farsællega til margra ára og farið fyrir Samtökum iðnaðarins, er sagt að snúa sér að því, sem hún geri bezt, að framleiða ís - þegar hún leyfir sér að hafa skoðanir á hagsmunum sjóðfélaga.  Framganga þessara formanna stærstu stéttarfélaga landsins - VR og Eflingar - er þeim til skammar.  Þeim stendur hins vegar örugglega á sama." 

Undir þessa hörðu gagnrýni skal eindregið taka.  Þessir verkalýðsformenn haga sér eins og naut í flagi, kunna sig engan veginn, og þau eru ófær um að veita nokkra vitræna leiðsögn.  Upp úr þeim vellur vitleysan, og það er stórfurðulegt, að fólk svo lítilla sanda og lítilla sæva skuli hafa hlotið kosningu sem formenn fjölmennra verkalýðsfélaga.  Verkalýðshreyfingin er í tröllahöndum fyrir vikið, og hún mun leiða okkur til þess öngþveitis, sem er kjörlendi slíks fólks, ef hún verður látin komast upp með það.  

 


Tíðindi af Akureyri

Vinstra moðið í meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar hefur lagt upp laupana og leitað á náðir minnihlutans, Sjálfstæðisflokksins, um að hjálpa til við að stjórna bæjarfélaginu fram að næstu sveitarstjórnarkosningum. Er það alkunna, að vinstri menn þrýtur iðulega örendið áður en í mark er komið.  Uppgefin ástæða í þetta sinnið er bágborinn fjárhagur þessa stórkostlega bæjarfélags, sem hefur verið skreyttur nafnbótinni "höfuðstaður Norðurlands".

Nú virðist ætlunin að snúa af braut skuldasöfnunar á Akureyri, draga úr rekstrarkostnaði og selja eignir.  Rekstur bæjarins er ósjálfbær við núverandi aðstæður, og Akureyringar verða þess vegna að endurskoða stefnu sína, ef þeir eiga ekki að festast í skuldafeni.  Hvers vegna ekki að reyna að auka við tekjurnar við þessar erfiðu aðstæður ?  Betra væri, að ríkisstjórnin sneri af braut glórulausrar skuldasöfnunar og draumóra um hagvöxt, sem leysi vandann.  Hann er fjarri því að vera í hendi á næsta ári, ef svo heldur fram sem horfir. 

Akureyri samþykkti fyrr á árinu furðutillögu um, að Eyjafjörður yrði friðaður fyrir sjókvíaeldi.  Engin haldbær rök voru færð fyrir þessari samþykkt, heldur aðeins tíndur til tilfinningavellingur um útlit og ágizkanir um, að lífríki fjarðarins stafi hætta af sjókvíaeldi, og flaggað með vitlausasta frasa nútímans um, að "náttúran verði að njóta vafans".  Ef honum er beitt við stefnumörkun án þess að veita skilmerkilegum rannsóknum kost á að eyða þessum vafa eða að draga úr honum niður í líkindi, sem skynsamlegt er að fella sig við m.v. hættuna, sem lífríki stafar af öðrum orsökum, þá verður fátt um framkvæmdir, sem ætlað er að skapa atvinnu og gjaldeyri, en mikil atvinnuþátttaka og gjaldeyrisöflun eru undirstaða velferðar fólksins í landinu, sem auðvitað er hluti af lífríki þess. 

Jón Örn Pálsson skrifaði stórgóða grein í Bændablaðið fimmtudaginn 2. júlí 2020, þar sem hann gagnrýndi hugmyndir um bann við sjókvíaeldi í Eyjafirði með föstum rökum.  Hann lýsti staðháttum í Eyjafirði.  Sú lýsing eru rök fyrir því að leyfa sjókvíaeldi í Eyjafirði, því að aðstæður eru hvergi betri hérlendis á þeim svæðum, þar sem slík starfsemi er leyfð núna:

"Eyjafjörður er með stærstu fjörðum landsins, og sumir segja stærsti eiginlegi fjörðurinn, ef frá er skilinn Breiðafjörður. (Djúp og Flóar eru jú ekki firðir !)  Eyjafjörðurinn er um 58 km langur og 15 km breiður í fjarðarminni.  Heildarflatarmálið er áætlað 422 km2 (sunnan 66°10 N).  Fjarðarminnið er opið móti úthafinu, þar sem mesta dýpi er 215 m.  Enginn dýpisþröskuldur er í minni fjarðarins, og eru sjóskipti því svo til óheft við úthafið.

Djúpáll gengur inn fjörðinn, og mesta dýpið er austan við Hrísey inn undir Grenivík, þar sem dýpið er enn þá um 100 m.  Áfram grynnkar rólega og þrengist, eftir því sem innar gengur.  Út af Arnarnesi, innan við Rauðuvík, þrengist djúpállinn mikið, og er mesta sjávardýpið 70 m.  Innan við hrygginn dýpkar fjörðurinn á ný og breikkar.  Innan við Hjalteyri er dýpið víða um 75-90 m fram undir Hörgárgrunn.  Mest er þó dýpið í djúpál vestan megin, 110 m.  Innan við Hörgárósa dregur rólega úr dýpinu, og er dýpið út af Skjaldarvík þó enn þá 65 m og við Krossanes 55 m, en úr því dregur hratt úr dýpinu.  Hafrannsóknarstofnun hefur metið heildar rúmmál Eyjafjarðar 29 km3 (sunnan 66°10 N)."

Mikið rúmtak og hröð sjóskipti mynda að öðru jöfnu kjöraðstæður fyrir sjókvíaeldi bæði m.t.t. laxalúsar og áhrifa á lífríkið, sem fyrir er.  Til samanburðar er rúmtak Arnarfjarðar á Vestfjörðum aðeins 66 % af rúmtaki Eyjafjarðar.  Hafrannsóknarstofnun hefur metið burðarþol Arnarfjarðar til fiskeldis 30 kt, og það er óheimilt í hluta fjarðarins.  Metið burðarþol Eyjafjarðar verður á að gizka a.m.k. 50 kt.  Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætti að fela Hafrannsóknarstofnun tafarlaust að annast burðarþolsmat á Eyjafirði.  Það er fyrsta skrefið í átt að upplýstri ákvarðanatöku. 

Vegna ólíkra hagsmuna kemur fiskeldi ekki til greina alls staðar í firðinum.  Sveitarfélögin, sem að firðinum liggja, þurfa að ákveða, hvar þau vilja leyfa fiskeldi, og áhættugreina þarf hvert leyfissvæði.  Á þeim grundvelli geta fiskeldisfyrirtæki sótt um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Ekki er að efa, að slíkt takmarkað fiskeldi getur orðið íbúum við Eyjafjörð góð búbót, og veitir ekki af í Kófskreppunni.

Í Morgunblaðinu 4. september 2020 fjallaði Helgi Bjarnason í baksviðsgrein um ágreininginn varðandi framvindu fiskeldis í Eyjafirði og dró fram það skrýtna atriði, að opinberar stofnanir virðast strangt tekið hafa gert sig vanhæfar til að leita raka með og á móti með því að taka afstöðu fyrirfram.  Það hlýtur að setja ráðherra í erfiðari stöðu í þessu máli, en hann verður að spila úr því, sem hann hefur á hendi, til að leiða fram staðreyndir, sem hægt sé að reisa vandaða ákvarðanatöku á.  Baksviðsfréttin bar eftirfarandi fyrirsögn, sem er fallin til að vekja furðu:

Stofnanir vilja banna laxeldi.

Fréttin hófst þannig:

"Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa styðja hugmyndir um að friða Eyjafjörð fyrir sjókvíaeldi eða takmarka eldi þar.  Matvælastofnun tekur ekki afstöðu.  Nokkrar sveitarstjórnir styðja eindregið slíkt bann, en aðrar telja ekki tímabært að taka afstöðu vegna skorts á upplýsingum."

Fyrirsögnin er villandi.  Með takmörkuðu eldi í Eyjafirði hljóta stofnanirnar að eiga við, að áhættugreining muni leiða til ráðlegs hámarkseldis, sem sé minna en nemur burðarþoli fjarðarins.  Það kemur ekki á óvart og er eðlilegt vegna ólíkra hagsmuna í firðinum.  

"Matvælastofnun telur hverfandi líkur á dreifingu smitsjúkdóma úr eldisfiski í villtan fisk, og sömuleiðis séu áhrif af smiti með laxalús að öllu jöfnu ekki mikil.  Þótt mat Mast sé annað en Hafró og Fiskistofu, telur stofnunin ekki rétt, að hún taki beina afstöðu til þess, hvort rétt sé að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í Eyjafirði, enda geti þar komið til önnur sjónarmið, sem ekki eru á verksviði stofnunarinnar."

Þetta er eðlileg afstaða Mast, enda eru ekki fyrir hendi rannsóknir til að rökstyðja takmarkanir á fiskeldi (laxeldi) í Eyjafirði.  Það, sem áhættugreining virðist aðallega þurfa að snúast um, er, hversu mikið laxeldi er ráðlegt að leyfa í opnum sjókvíum með mótvægisaðgerðum, til að hlutfall eldisfisks verði með 95 % öryggi ekki meira en 4 % af villta laxinum í hverri á. 

"Einna eindregnasta afstaðan gegn banni kemur fram í ítarlegri umsögn Fjallabyggðar.  Þar kemur fram sú afstaða, að ekki geti komið til álita að beita lokunarheimild ráðherra, nema sérstakar og vel unnar rannsóknir hafi farið fram, sem styðji við það, að vistfræðileg hætta sé til staðar, sem byggi undir bann eða takmörkun. 

"Ákvörðun ráðherra um lokun eða takmörkun á fiskeldi á tilteknum svæðum verður því ekki byggð á almennri pólitískri afstöðu ráðherrans.  Sú ákvörðun verður að styðjast við niðurstöður rannsókna, til þess að hún teljist lögmæt", segir í umsókninni.

Kallar Fjallabyggð eftir því, að gert verði burðarþolsmat og áhættumat áður en afstaða verði tekin til málsins.  Þau mál standa þannig, að Hafró hóf rannsóknir til að undirbúa mat á burðarþoli.  Í nýjum fiskeldislögum var hins vegar kveðið  á um, að ráðherra skuli kalla eftir slíku mati.  Það hefur hann ekki gert.  Hafró gerir síðan áhættumat vegna erfðablöndunar, eftir að burðarþol hefur verið metið. Þegar ferlið er komið þetta langt, geta fiskeldisfyrirtækin sótt um leyfi til sjókvíaeldis, og viðkomandi stofnanir verða væntanlega að veita þau.  Er því nokkuð ljóst, að ráðherrann mun ekki kalla eftir burðarþolsmati, á meðan hugmyndir eru uppi um að friða fjörðinn.  Þá vaknar spurningin, hvort hægt er að fara í aðrar rannsóknir til að undirbyggja ákvörðun ráðherrans."

 Þarna kemur fram órökrétt skoðun blaðamannsins, enda er hún andstæð ályktun Fjallabyggðar, sem er rökrétt nálgun á viðfangsefninu.  Eins og staðan er núna, er alls engin eining á meðal sveitarfélaga við Eyjafjörð um að friða hann fyrir fiskeldi.  Um svo afdrifaríka stefnumörkun er ekkert vit í að taka ákvörðun fyrr en ljóst er, hvaða verðmætum (verðmætasköpun, atvinnusköpun, gjaldeyrisöflun) er þar með verið að fórna.  Mun þá að líkindum koma í ljós, að á tilfinningaþrunginn hátt er verið að fórna miklu meiri hagsmunum fyrir mun minni hagsmuni með því að útiloka þar fiskeldi.  Kristján Þór Júlíusson, stýrimaður og ráðherra og hagvanur í Eyjafirði, á nú þann leik beztan í stöðunni að fela Hafrannsóknarstofnun þær rannsóknir, sem Fjallabyggð lagði til.  

   

 

 


Hagkerfi í ógöngum

Umsvif hins opinbera hafa þanizt út meira en góðu hófi gegnir á þessari öld.  Á 6 ára tímabilinu 2013-2019 jókst rekstrarkostnaður hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) um 4,5 %/ár að jafnaði á föstu verðlagi 2019.  Þetta er talsvert meira en nam meðalhagvexti á tímabilinu (3,8 %), og þess vegna er þetta ávísun á skattahækkanir í framtíðinni.  Þetta er óæskileg þróun, sem þarf að snúa við, því að opinber umsvif hérlendis voru og eru hlutfallslega á meðal þeirra hæstu í OECD (Alþjóða efnahagssamvinnustofnunin í París). Þjóðir með mest opinber umsvif búa ekki við beztu lífskjörin, og þær eru yfirleitt skuldugastar.  Að lifa á kostnað framtíðarinnar er ósiðlegt og heimskulegt, því að fjármagnskostnaðurinn hamlar lífskjarabata í núinu líka. Skuldasöfnun er áfellisdómur yfir valdhöfum.  

Nú hefur heldur betur snarazt á meri ríkisbúskaparins vegna sóttvarnaraðgerða hér og um heim allan vegna COVID-19. Óli Björn Kárason gerir grein fyrir því í Morgunblaðsgrein sinni 26. ágúst 2020 ásamt því, hvernig opinberi geirinn hefur að raungildi vaxið að umsvifum (rekstrarútgjöldum) um yfir 87 % tímabilið 2000-2019.  Núverandi skuldasöfnun er svakaleg.  Með henni verður ekkert borð fyrir báru til að mæta næsta áfalli, sem þá skellur af fullum þunga á þjóðinni strax. 

Núverandi aðferð að láta ríkissjóð taka skellinn í upphafi er varasöm og kallar á mjög trausta hagstjórn á næstu árum, því að þessi mikla skuldasöfnun skapar hættu á vítahring lítils hagvaxtar og skattahækkana.  Þess vegna ríður nú meira á en oftast áður að efla útflutningsgreinarnar og skapa nýjar.  Það útheimtir lækkun raforkuverðs til atvinnuveganna og að liðka fyrir útgáfu starfs- og rekstrarleyfa fyrir fiskeldið. Stjórnmálamenn eiga að hætta fikti sínu með sérálögur á sjávarútveginn.  Hann þarf á öllu sínu að halda til fjárfestinga til að standast alþjóðlega samkeppni.

  Mikil eftirspurnaraukning hefur orðið eftir íslenzku grænmeti í Kófinu, og mundi landbúnaðurinn, og þar með neytendur, njóta góðs af orkuverðslækkun, eins og aðrir atvinnuvegir. Það er með öllu óskiljanlegt við þessar aðstæður, að ríkisstjórnin skyldi ákveða að rífa í neyðarhemilinn þann 19.08.2020 á landamærunum og kæfa þar með aðalgjaldeyrislind þjóðarinnar algerlega að þarflausu. Þrátt fyrir það gaus upp "Bylgja 3" af COVID-19 smitum tæpum mánuði síðar í landinu.  Slíkum "bylgjum" má búast við í þjóðfélaginu, á meðan hjarðónæmi hefur ekki myndazt. Bóluefni mun ekki leysa vandann næstu 2 árin. Erlendir ferðamenn eru ekki sekir um þessa stöðu, enda nýgengi smita miklu lægra á landamærunum en á meðal landsmanna.  Orsökin er breytt hegðunarmynztur.  Fólk slakar á persónulegum sóttvörnum og er þá oft í slagtogi við Bakkus, sem aldrei hefur tileinkað sér sóttvarnir af neinu tagi.  Af þessum sökum má búast við slíkum "bylgjum", þar til hjarðónæmi hefur myndazt.  Að rembast, eins og rjúpan við staurinn, við að gera Ísland "veirulaust" er fánýt barátta, ofboðslega dýrkeypt og jafngildir harðsvíraðri ofstjórnun og meiri inngripum í persónulega hagi fólks en stjórnvöld hafa leyfi til samkvæmt Stjórnarskrá, þar sem alls engin neyð er á ferðum, fremur en í harðvítugum flensufaraldri.  Tveir COVID-19 sjúklingar á sjúkrahúsi sýna fram á þetta.

Óli Björn skrifaði:

"Á örfáum mánuðum hefur staða efnahagsmála gjörbreytzt til hins verra.  Í stað hagvaxtar er samdráttur.  Ríkissjóður safnar skuldum í stað þess að greiða, líkt og gert hefur verið á síðustu árum. 

Reiknað er með því, að halli á ríkissjóði (A-hluta) verði um 10 % af vergri landsframleiðslu á þessu ári og um 8 % á því næsta.  Samtals verða gjöld ríkissjóðs umfram tekjur, að öðru óbreyttu, því um 18 % af landsframleiðslu eða rúmlega mrdISK 500 á tveimur árum.  Þetta er lítillega lægri fjárhæð en nemur raunhækkun útgjalda hins opinbera á síðustu 20 árum."

Gert mun vera ráð fyrir, að skuldasöfnun ríkissjóðs 2020-2023 muni nema mrdISK 850.  Hana má rekja til sóttvarnarráðstafana gegn COVID-19 innanlands og utan (Schengen-aðild Íslands og tréhestaleg ákvarðanataka þar á bæ). Ef ekki tekst að blása lífi í atvinnustarfsemina, munu þessar ráðstafanir skilja eftir sig eyðimörk gjaldþrota fyrirtækja og heimila, og ríkissjóður verður berskjaldaður fyrir næsta áfalli.  Það gæti verið barnaleikur að fást við SARS-CoV-2 í samanburði við næstu nýju veiru, sem fer á kreik, og er þá skemmst að minnast hinnar bráðsmitandi ebólu-veiru, sem orsakaði innri blæðingar og 60 % smitaðra á sjúkrahúsum féllu í valinn fyrir. 

Það er lífsnauðsynlegt að stöðva þessa skuldasöfnun og hægt og sígandi að greiða niður skuldir.  Hættan er líka sú að lenda í vítahring lítils hagvaxtar og skattahækkana vegna skuldabyrðarinnar. Óráðsíufólk hefur haft sitt fram um gagnslitlar sóttvarnir gagnvart komufarþegum til landsins, en þessar ráðstafanir hafa þegar valdið gríðarlegu efnahagstjóni og ógæfu fjölda manns. 

"Ekki verður hins vegar séð, að hallarekstur ríkisins hafi dregið úr kröfum um aukin útgjöld.  Kröfurnar eru til staðar, líkt og ríkið sé uppspretta verðmæta og velmegunar.  Þeir eru fáir (eða a.m.k. ekki háværir), sem beina sjónum að meðferð opinbers fjár - spyrja, hvort samhengi sé á milli aukinna útgjalda og bættrar opinberrar þjónustu.  Í velgengni síðustu ára hefur sinnuleysi náð að festa rætur og við leyft okkur þann munað að líta á hagkvæma ráðstöfun og meðferð sameiginlegra fjármuna sem aukaatriði.  Og aukning útgjalda hefur orðið mælikvarði á pólitíska frammistöðu einstakra þingmanna og stjórnmálaflokka."

Nú eru gjörbreyttar aðstæður í ríkisbúskapinum og í þjóðfélaginu öllu.  Geigvænleg skuldasöfnun á sér stað hjá hinu opinbera, þannig að öll útgjaldaaukning er tekin að láni hjá þeim, sem í framtíðinni munu standa undir hinu opinbera.  Að stíga ekki nú þegar á útgjaldahemilinn er siðlaus óráðsía; í einu orði sagt stjórnleysi.  Þetta stjórnleysi mun framkalla hér viðvarandi óstöðugleika og varnarleysi gagnvart næsta áfalli.  Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga ekki að láta svefngengla og vingla teyma sig inn á þá þjóðhættulegu braut. Nú er góðum þingmönnum nauðsyn að hafa bein í nefinu.  Lánshæfismat sveitarfélaga og ríkisins mun lækka, sem auka mun við fjármagnskostnað þeirra.  Svo illa hefur verið haldið á málefnum Landsvirkjunar, að við blasir lækkun lánshæfismats þar.  Nýleg skuldabréf fyrirtækisins eru í uppnámi, af því að útgáfa þeirra var tengd ákveðinni lágmarkssölu á rafmagni, sem ekki hefur náðst vegna okurálagningar fyrirtækisins á rafmagn, einkum til ISAL og PCC á Bakka, og öðrum viðskiptavinum hefur einnig verið sýnd óbilgirni.

"Í heild var rekstrarkostnaður 2019 um mrdISK 500 hærri, og þar af var launakostnaður um mrdISK 195 meiri en aldamótaárið.  Raunhækkun kostnaðar [hins opinbera] var liðlega 87 % á þessum 20 árum.  Launakostnaður hækkaði um 86 % [að raungildi].  Rekstrarkostnaður ríkisins hækkaði að raungildi um nær mrdISK 387; þar af laun um mrdISD 209."

 

 Hér hefur óheillaþróun átt sér stað, sem í senn hefur lækkað ráðstöfunartekjur heimilanna, dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og minnkað mótstöðuafl hins opinbera, því að skattahækkanir til að mæta mótlætinu munu hafa mjög neikvæð á hagkerfið.  Eina ráðið í stöðunni, sem hrífur vel, er sú leið, sem fjármála-og efnahagsráðherra hefur boðað, er að vera með öll spjót úti til að stækka þjóðarkökuna, auka verga landsframleiðslu, en þá, eins og skrattinn úr sauðarleggnum, stekkur forsætisráðherra fram og þrífur  í neyðarhemil lestarinnar og dregur viljandi úr gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Svona gera menn ekki, en  það er margt skrýtið í kýrhausnum. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þeirrar grafalvarlegu stöðu, sem uppi er á vinnumarkaði, styrkir ekki atvinnuöryggi launþega og gefur atvinnulausum enga von.  Hún er óábyrg með öllu, því að hún tekur ekkert mið af raunveruleikanum.  Málflutningur mannvitsbrekkna í hópi verkalýðsforkólfa minna á sögu Münchhausens af því, þegar hann togaði sig upp á hárinu.

"Í raun skiptir engu, hvaða tölur um útgjöld hins opinbera eru skoðaðar.  Sameiginlegur kostnaður landsmanna hefur hækkað gríðarlega á síðustu áratugum. Aukning útgjalda hefur verið nauðsynleg og skynsamleg, s.s. í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, þar sem verið er að tryggja aðgengi sjúkratryggðra - okkar allra - að nauðsynlegri þjónustu.  En jafnvel innan heilbrigðiskerfisins eru fjármunir ekki nýttir, eins og bezt verður á kosið.  Framlög til almannatrygginga hafa stóraukizt, og hið sama á við um menntakerfið." 

 Þannig hefur spilazt úr heimsfaraldrinum COVID-19, að við eigum ekki lengur fyrir útgjöldum hins opinbera.  Gríðarlegur halli er á rekstri sveitarfélaga og ríkissjóðs.  Við þær aðstæður verður ríkisvaldið að víkja til hliðar pólitískum kreddum um rekstrarform; þess í stað verður að leita allra leiða til aukinnar skilvirkni fjármagns og framleiðni vinnuafls á öllum sviðum þjóðlífsins.  Þetta leiðir einfaldlega til þess, að virkja verður markaðsöflin og frjálsa samkeppni eftir föngum í þeirri þjónustu, sem greidd er af ríkissjóði og sveitarfélagasjóðum. Innantóma frasa á borð við það, að ekki megi græða á heilbrigðisþjónustu, verður að grafa í jörð. Tvískinnungur íslenzka ríkisins er alger í þessu sambandi, því að það sendir sjúklinga á einkaklínik í Svíþjóð út af kreddum í garð innlendra fyrirtækja, sem eru fullkomlega hæf til sambærilegrar þjónustu með miklu minni kostnaði fyrir ríkissjóð.  Hvers konar eintrjánings hugmyndafræði getur búið að baki slíkrar meðferðar opinbers fjár ? 

Engum dylst, að þegar í stað er hægt að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og minnka kostnað við ýmsar bæklunaraðgerðir.  Þetta væri hægt að gera með einu pennastriki í heilbrigðisráðuneytinu, en þar skortir bæði skilning á viðfangsefninu og pólitískan vilja til að hætta að fjandskapast út í einkaframtakið innanlands undir því pempíulega slagorði, að ekki megi græða á heilbrigðisaðgerðum.  Af hverju má það ekki ?  Hvað er ósiðlegt við, að í raun allir græði ?  Hagnaður er uppspretta fjárfestinga og framfara.  Sú pólitíska stefna, sem glæpavæddi gróða, er löngu gjaldþrota.  Kínverski kommúnistaflokkurinn gekk í endurnýjun lífdaganna með því að lögleyfa fyrirtækjagróða.  Íslenzkir harðjaxlar (e. "die-hards") af þessu sauðahúsi verða að víkja úr valdastólum, því að við höfum ekki lengur efni á þeim þar.  Nú þarf ráðdeildarfólk í ráðherrastóla.  

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband