Færsluflokkur: Dægurmál

Af verkalýðsbaráttu

Birtingarmynd átakanna innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) fyrir þing samtakanna haustið 2022 og furðuleg framganga fáeinna verkalýðsforkólfa á þinginu sýna, að maðkur er í mysunni hjá verkalýðshreyfingunni. Forseti ASÍ hraktist úr starfi og þingið lamaðist og var frestað við útgöngu allmargra þingfulltrúa. Formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) virtist standa í baráttu við Seðlabanka Íslands (SÍ) út af stýrivaxtahækkunum.  Hann rak kjánalega auglýsingaherferð gegn SÍ, og af viðbrögðum formanns VR við vaxtahækkun í kjölfarið að dæma virtist hann fara á límingunum við það og hafa ímyndað sér, að hann gæti fjarstýrt SÍ með rándýrri auglýsingaherferð með góðum leikurum.  Þessi sami formaður, sem yfirleitt tuðar tóma vitleysu um peningamál og efnahagsmál, virtist svo verða fyrir svo alvarlegu andlegu áfalli á ASÍ-þinginu vegna undirtekta við framboð sitt til forseta ASÍ, að hann hætti við framboðið og gekk út af þinginu.  Allt er þetta svo vanþroskuð og vanstillt framkoma hjá formanni stórs verkalýðsfélags, að engu tali tekur.  

Nú hafa stefnumarkandi kjarasamningar á milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og samflots verkalýðsfélaga náðst.  Þar reið formaður Verkalýðsfélags Akraness (VA), sem jafnframt er formaður Starfsgreinasambandsins, á vaðið, en hann hefur áður sýnt færni sína og þekkingu við samningaborðið.  VR og Efling skáru sig úr þessu samfloti, þótt formenn þessara félaga virtust hafa samflot með formanni VA á ASÍ-þinginu.  Leit formaður VA á yfirlýsingar þeirra í kjölfar samninganna, áður en atkvæðagreiðsla um þá fór fram, sem rýtingsstungu í bakið.  Sýnir þetta baneitrað andrúmsloft í hreyfingunni, og nú hefur Efling slitið samningaviðræðum við SA hjá Ríkissáttasemjara (RSS).  Fordæmir formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir (SAJ) RSS og ber hann þungum sökum. Í raun þarf að auka völd RSS til jafns við það, sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Hann þarf að hafa vald til að fresta stöðvunaraðgerðunum á vinnumarkaði með miðlunartillögu, sem verður að greiða atkvæði um í almennri atkvæðagreiðslu í félögum deiluaðila.  Þá þarf hann að geta úrskurðað, að kjaradómur, sem deilendur og RSS skipa fulltrúa í, bindi enda á deilur í eitt ár í senn. 

Formaður Eflingar fer auðveldlega í fórnarlambshlutverkið og heggur þá í allar áttir, virðist uppsigað við alla í kringum sig, sem ekki lúta henni í einu og öllu, enda hefur hún verið dæmd af Félagsdómi fyrir óleyfilegar uppsagnir, m.a. trúnaðarmanns, á skrifstofu Eflingar. 

SAJ virðist sækjast eftir illindum, enda réðist hún á Alþingishúsið haustið 2008. Nú klæðir hún þjóðfélagshatur sitt í búning verkalýðsbaráttu og þykist vera að sækja fé í greipar auðvaldsins kúguðum verkalýð á höfuðborgarsvæðinu til handa og telur hann eiga rétt á hærri launum en starfsbræður og -systur annars staðar á landinu.  Í reynd sagar hún greinina, sem félagar í Eflingu sitja á, frá stofninum. Þetta er ekki verkalýðsbarátta fyrir 5 aura.  Þetta er skemmdarverkastarfsemi til að þjóna erfiðri lund SAJ.  

Þann 15. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu ágætisgrein eftir aðalsamningamann SA og framkvæmdastjóra samtakanna, Halldór Benjamín Þorbergsson undir fyrirsögninni:

"Traust er þungavigtarhugtak".

Hún hófst þannig:

"Samtök atvinnulífsins hafa undirritað kjarasamninga við samflot verkafólks, verzlunarmanna og iðnaðarmanna, hringinn í kringum landið.  Samningar hafa náðst við 80 þúsund manns með stefnumarkandi kjarasamningum, sem leggja grunn að öllum kjarasamningum í þessari samningalotu, bæði á almennum og opinberum markaði.  Engin verðmæti verða til við undirritun kjarasamninga.  Kjarasamningar snúast um að skipta þeim verðmætum, sem verða til í atvinnulífinu.  Því er afar mikilvægt, að gætt sé sanngirni og samkvæmni í þeim kjarasamningum, sem gerðir eru.  Trúnaður Samtaka atvinnulífsins er gagnvart fólkinu í landinu.  Þau, sem semja við SA, verða að geta treyst því, að þær meginlínur, sem samflotskjarasamningar marka, verði varðar af SA.  Þar er trúverðugleiki SA sem stærsta samningsaðila á landinu að veði."

Á meðan atvinnurekendur hafa falið samtökum sínum, SA, að semja fyrir sig í stað þess, að hvert fyrirtæki semji við sína starfsmenn, þá er samflot verkalýðsfélaganna líka eðlilegt, og ef ekki er viðurkennt og virt, að slíkir samningar séu stefnumarkandi, þá er voðinn vís á vinnumarkaði og hætt við, að hann "springi í loft upp".  SAJ hefur skynjað þetta og eygir nú tækifæri til að gera verulega illt af sér. Hún hefur enga samúð með starfsfólki, eins og ólögleglar uppsagnir hennar á starfsfólki Eflingar sýna, heldur etur hún félögum í Eflingu á foraðið og telur þeim trú um, að þeir muni hafa eitthvað upp úr því. Reynslan gefur hins vegar til kynna, að verkfall í þágu höfrungahlaups eykur alls ekki kaupmátt til lengdar.  Þá hefðu hinar Norðurlandaþjóðirnar þegar fetað þá braut. Heilbrigð skynsemi mælir gegn verkfallsaðgerð til að koma af stað höfrungahlaupi, þegar stefnan á vinnumarkaði er að gera skammtímasamning, og eitt er víst, að fyrirtækin, sem fyrir barðinu verða á verkfallsvopninu, munu standa veikari eftir en ella og þar með vera verr í stakkinn búin til að standa í samkeppni og að hækka laun starfsmanna sinna.  Afleiðingarnar geta orðið alvarlegar fyrir fyrirtækin og traust þeirra á mörkuðum, sem þau keppa á, og fyrir þjóðarbúið í heild, t.d. missir gjaldeyristekna. 

Staksteinar Morgunblaðsins gerðu kjaramálin að umræðuefni á gamlaársdag 2022 undir fyrirsögninni: 

"Óvenjulegar kjarabætur".

Þar stóð m.a.:

"Staðan er líka þannig hér á landi, að óvenjulega háu hlutfalli af verðmætasköpun er varið í launakostnað.  Hlutfallið er raunar orðið svo hátt, að efasemdir hljóta að vakna um, að það geti haldið til lengdar, en nefna má, að þetta hlutfall hefur verið hæst hér á landi allra Norðurlandanna árum saman."

 Í raun og veru er þetta kjarni málsins í allri rökfastri kjaraumræðu.  Verði þetta hlutfall svo hátt, að ósjálfbært sé, minnkar ekki aðeins það, sem eigendurnir, hluthafarnir, fá í sinn hlut, heldur fara fyrirtækin þá að éta sig innan frá, þ.e.a.s. þau hafa ekki lengur getu til að fjárfesta, t.d. í framleiðniaukningu.  Þetta þýðir, að samkeppnishæfni þeirra versnar og þau verslast upp. 

"Þá er áhugavert, að á sama tíma og kaupmáttur rýrnar í samanburðarlöndum, er gert ráð fyrir áframhaldandi og jafnvel umtalsverðri kaupmáttaraukningu taxtalauna hér á landi í þeim skammtímasamningum, sem flestir hafa nú undirritað."

Hér yrði um einstakan árangur hagkerfisins íslenzka að ræða, ef spáin rætist, og hann veltur alfarið á því, hvort fyrirtækjunum upp til hópa tekst að auka framleiðni sína á þessu ári.  Þegar hlutfall launa af verðmætasköpun er komið í 65 %, eins og hér er, er kaupaukning umfram framleiðniaukningu ávísun á fölsk verðmæti á pappír, sem munu fljótlega gufa upp.  Ábyrgir verkalýðsforingjar vita þetta og haga sinni kröfugerð við samningaborðið samkvæmt því, en hinir, t.d. SAJ, setja upp hundshaus gagnvart slíkri röksemdafærslu og kjósa að lifa í eigin blekkingaheimi, en það verður fyrr en seinna á kostnað umbjóðenda þeirra og alls samfélagsins.

"Tekst að viðhalda þessum árangri ?  Það fer mjög eftir því, hvort raunsæi eða innantóm gífuryrði ráða för."

SAJ hótar nú að sprengja upp þann árangur, sem náðst hefur í þessari kjarasamningalotu.  Hún snýr öllu á haus í því sambandi, býr til úr sér fórnarlamb, sem útilokað hafi verið frá samfloti Starfsgreinasambandsins, á meðan öðrum er ljóst, að hún sagði Eflingu úr þessu samfloti.  Hún telur síðan yfirgang í því fólginn að "troða" samningum, sem aðrir gerðu, upp á sig og sitt félag, en hún þorir ekki að fara þá einu lýðræðislegu leið, sem við blasir, að leyfa félagsmönnum Eflingar að greiða atkvæði um þennan kjarasamning.  


Sjúk fjölmiðlun

Íslenzkur fjölmiðlamarkaður er afar óeðlilegur, og þar er steinrunnu ríkisvaldi um að kenna.  Það er alltaf ólíðandi, þegar ríkisvaldið er í bullandi samkeppni við einkaframtakið á markaði, sem í eðli sínu er samkeppnismarkaður, og engin brýn þörf lengur fyrir beina eða óbeina (opinbert hlutafélag) veru ríkisvaldsins þar.  Það er réttlætismál og í anda EES-samningsins að jafna samkeppnisstöðuna með því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og að gera allar auglýsingar jafnar fyrir skattalögunum óháð gerð miðils og eiganda hans. 

Jafnframt yrðu umsvif ríkisfjölmiðilsins minnkuð til muna.  Það ættu að vera hámarksumsvif ríkisins að reka eina sjónvarpsrás, eina útvarpsrás og einn vefmiðil. Fréttastofa "RÚV" er kapítuli út af fyrir sig. Þar ríkir svo hrottaleg vinstri slagsíða, að segja má, að lítilsvirðandi framkoma og mismunun gagnvart þeim, sem fréttamenn virðast telja til pólitískra andstæðinga sinna, skeri í augun (og eyrun). Síðan skal vart bregðast, að farið er silkihönzkum um sósíalistana, afglöp þeirra og spillingu, t.d. í borgarstjórn. 

Fréttastofa "RÚV" rekur fyrirbæri, sem hún kallar rannsóknarblaðamennsku undir heitinu Kveikur, en á mjög lítið skylt við vönduð vinnubrögð, sem einkennast af umfangsmikilli og gagnrýninni heimildarvinnu.  Undir þessu falska flaggi hafa fúskarar "RÚV" hvað eftir annað reynt að koma höggi á atvinnurekstur í landinu og reynt að sá ómældri tortryggni í hans garð.  Málflutningurinn einkennist síðan af drýldni og innantómri sjálfsupphafningu.  Alræmdasta atlagan hingað til er að Samherja, og hún hefur algerlega runnið út í sandinn.  Það ætti að jafngilda dauðadómi yfir þessu þáttarskrípi, Kveik, en áfram skröltir hann þó á kostnað skattborgara.

Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um Namibíumálið 19. desember 2022 með tilvísunum í Pál Vilhjálmsson:

"Páll Vilhjálmsson skrifar um Namibíumálið, sem oft hefur verið kallað Samherjamálið og olli um tíma töluverðu uppnámi."Enginn Samherjamaður er ákærður í Namibíu, og ekkert fyrirtæki útgerðarinnar er ákært fyrir mútur.  Helgi Seljan, verðlaunablaðamaður, hóf skáldskap um Samherja á RÚV og flutti iðjuna yfir á Stundina, þegar honum varð óvært á ríkisfjölmiðlinum", skrifar hann."

Þetta vitnar um djúpstæða glópsku og samvizkuleysi Helga Seljan.  Allur málatilbúnaður hans var reistur á sandi og á þess vegna ekkert skylt við rannsóknarblaðamennsku.  Hann virðist hafa misskilið málið frá upphafi, gefið sér forsendur um glæpsamlegt eðli viðskiptanna, sem til umfjöllunar voru, og vaðið sífellt lengra út í ófæruna til að sanna það, sem ekki var flugufótur fyrir.  Þessi vinnubrögð voru viðhöfð, á meðan téður Seljan var starfsmaður RÚV.  Ljótur er ferill fréttastofu þar á bæ. 

"Páll segir engan ákærðan fyrir mútur í Namibíumálinu, heldur umboðssvik, svindl, peningaþvætti og þjófnað.  Hann segir, að í þessu máli sé "Samherju brotaþoli.  Starfsmaður Samherja var blekktur til að borga peninga, sem áttu að fara í atvinnuuppbyggingu, fiskeldi.  Peningunum var síðan stolið.  Þetta stendur skýrum stöfum í ákæruskjalinu á bls. 58-59."

Hann bætir því við, að starfsmaður Samherja hafi verið "í góðri trú, þegar hann greiddi forstjóra opinberrar namibískrar stofnunar fyrir kvóta".  Hann hafi ekki getað vitað, að peningunum yrði síðan stolið."

Samkvæmt þessari rannsókn namibískra lögregluyfirvalda er Samherji ekki sökudólgurinn, eins og "rannsóknarblaðamennska" Helga Seljans, starfsmanns RÚV, leiddi getum að til að þjóna lund sinni og ólund í garð þessa fyrirtækis. Krossfarinn, sem þótzt hefur fletta ofan af spillingu íslenzkra fyrirtækja, stendur nú uppi í hlutverki riddarans sjónumhrygga, sem bjó til forynjur úr vindmyllum og barðist við þær við lítinn orðstír.

"Og Páll spyr, hvað Helga Seljan gangi til "með að ljúga upp ákæru í Namibíu um mútugjafir Samherja ?  Jú, orðstír og æra blaðamannsins er í veði.  Þegar rennur upp fyrir fólki, að allur málatilbúnaður Helga og félaga á RSK-miðlum er uppspuni og gróusögur, er fokið í flest skjól fyrir fréttagörpunum, sem umliðin ár hafa stundað skipulega fréttafölsun og veitt sjálfum sér verðlaun fyrir.""

Þetta er hrottaleg lýsing á ólöglegu og siðlausu atferli fréttamanna, sem sáu fjandann í hverju horni, þegar þeir litu til a.m.k. sumra íslenzkra fyrirtækja, sem vegnað hefur vel í harðri samkeppni um markaði, fjármagn og starfsfólk.  Að slíkt skuli gerast undir handarjaðri ríkisútvarpsins segir sína sögu um stjórnunina þar á bæ og brýna þörf á að snarminnka umsvif þessa opinbera hlutafélags, sem er þungt á fóðrum á ríkisjötunni.

  

 

 

 

  


Forgangsröðun Björns Lomborg

Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar og gistifræðimaður við Hoover stofnun Stanford-háskóla, hefur verið iðinn við að skrifa um meinlokurnar í stefnu stjórnvalda í löndum heimsins gagnvart því, sem þau nefna hlýnun heimsins. Á þessu hafa flestir skoðanir, en fáir djúpstætt vit á viðfangsefninu. Þess vegna er margt skrafað og skeggrætt án þess, að nokkur lausn sé í sjónmáli, enda tröllríður hræsnin húsum.

Er sú umræða að miklu leyti reist á sandi vegna þekkingarleysis og er þess vegna út og suður, blaður og fögur fyrirheit á fjölmennum ráðstefnum.  Þegar heim af þessum rándýru og koltvíildismyndandi ráðstefnum er komið, er lítið sem ekkert gert í málunum. Skyldu íbúar Norður-Ameríku, sem upplifðu fimbulkulda á eigin skinni í desember 2022, taka mikið mark á blaðri um heimsendaspádóma vegna hlýnunar andrúmsloftsins ? 

Enginn dregur í efa, að vaxandi styrk koltvíildis í andrúmslofti fylgir hlýnun, en það er ofureinföldun á flóknu fyrirbæri að halda því fram, að þetta eitt muni stjórna loftslagsbreytingum næstu áratuga.  Nefna má áhrif brennisteins frá eldfjöllum og mönnum, sem hefur kælandi áhrif, og að hækkað hitastig andrúmslofts leiðir til aukinnar varmageislunar út í geiminn samkvæmt lögmáli Max Plank um samband hitastigs efnis og geislunarafls frá því.  Líkön IPCC gefa miklu hærri útkomu á hitastigi en síðan hefur reynzt vera raunin samkvæmt nákvæmustu fáanlegu mælingum, sem t.d. dr John Christy, "director of the University of Alabama/Huntsville´s Earth System Science Center, ESSC", hefur birt og lagt út af. 

Þann 20. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir téðan Björn og Jordan B. Peterson, prófessor emeritus við Toronto-háskóla, þar sem þeir leitast við að útskýra algert árangursleysi í loftslagsmálum m.t.t. til háleitra markmiða á heimsráðstefnum.  Greinin bar bjartsýnislega fyrirsögn:

"Vegurinn áfram: Ný framtíðarsýn".

Þar gat að líta m.a.:

"Árið 2015 gerðu leiðtogar heimsins tilraun til að takast á við höfuðvandamál mannkynsins [svo ?] með því að setja sér markmiðin um sjálfbæra þróun - 169 skotmörk, sem hæfð skyldu verða, þegar árið 2030 rynni upp.  Sá listi innihélt öll hugsanleg aðdáunarverð markmið: útrýmingu fátæktar og sjúkdóma, stöðvun styrjalda og loftslagsbreytinga, verndun líffræðilegrar fjölbreytni og bætta menntun."

Á ráðstefnum IPCC mæta tugþúsundir, og margir þeirra eru nestaðir að heiman með áhugamál, sem þeim finnst sér skylt að berjast fyrir, að fari inn á málefnaskrá ráðstefnunnar í lokin.  Örfáir eða engir ráðstefnugesta hafa hugmynd um, hvernig er skynsamlegast að koma málefnum sínum og markmiðum í höfn, þegar ráðstefnunni hefur verið slitið, og margir ráðstefnugesta hafa hætt sér út á hálan ís og vita lítið, hvað þeir eru að tala um.  Í öllu þessu felst skýringin á hinum vonlausa fjölda markmiða, sem samþykkt eru í lok ráðstefnunnar í kjölfar hrossakaupa og rifrildis um aukaatriði. 

Það verður hins vegar að hafa kvarnir í stað heila til að átta sig ekki á, að niðurstaðan af miklum fjölda markmiða er sú sama og af engu markmiði.  Af þessum sökum verður að álykta, að hugur fylgi ekki máli, ráðstefnan sé skrípaleikur, svífandi í tómarúmi, enda er eftirfylgnin ómarkviss.

Ráðstefnur IPCC breyta sáralitlu, en fjöldi manns er kominn á loftslagsspenann, og dómsdagsspámenn hræða stjórnmálamenn og almenning til að inna af hendi fjárframlög til að halda hringekjunni áfram.

"Árið 2023 er vegferðin hálfnuð, ef miðað er við tímabilið 2016-2030.  Hins vegar erum við langan veg frá því að vera hálfnuð með markmiðin.  M.v. stöðu mála munu þau nást hálfri öld síðar en ætlað var."

Hvað hið kjánalega loftslagsmarkmið frá 2015 varðar um helzt að halda hlýnun jarðar frá iðnvæðingu undir 1,5°C, en annars endilega undir 2°C, benda birtar hitamælingar IPCC til, að neðra markið náist ekki og jafnvel efra markið ekki heldur, en mælingar Johns Christy benda ekki til, að neðra markinu verði náð á næstu áratugum. 

Það er mjög erfitt fyrir jarðarbúa að tengja aðgerðir sínar við hitastigshækkun, sérstaklega fyrir þá, sem upplifa harðnandi vetrarkulda (Norður-Ameríka -48°C í desember 2022 og mannskaðaveður í kuldum í Japan líka). 

Þer líka erfitt fyrir íbúa hérlendis, að fá heila brú í talnaleik forsætisráðherra, nú síðast, að Íslendingar þurfi að draga úr losun koltvíildis um 55 % m.v. 2005. Losun Íslendinga er svo hlutfallslega lítil á heimsvísu, að engu máli skiptir fyrir hlýnun jarðar.  Þá er losun vegna orkunotkunar á mann ein sú minnsta, sem þekkist. Losun iðnaðarins á hvert framleitt tonn er sömuleiðis ein sú minnsta, sem þekkist.  Að rembast eins og rjúpan við staurinn með ærnum tilkostnaði við að bæta einn bezta árangurinn er einber hégómi og stafar af hégómagirnd stjórnmálamanna. 

"Því er það löngu tímabært, að við skilgreinum og forgangsröðum þeim markmiðum, sem mestu skipta.  Það er einmitt það, sem Kaupmannahafnarhugveitan (e. Copenhagen Consensus) hefur gert í samstarfi við nokkra Nóbelsverðlaunahafa og rúmlega 100 hagfræðinga í fremstu röð.  Hún hefur skilgreint á hvaða vettvangi hver króna getur gagnazt hve mest.

Við gætum, svo [að] dæmi sé tekið, flýtt því mjög að binda enda á hungur.  Þrátt fyrir að þar hafi aðdáunarverður árangur náðst síðustu áratugi, [fá] 800 milljónir manna enn þá ekki nóg að borða.  Á þeim vettvangi getur rannsóknarvinna hagfræðinga [og líffræðinga - innsk. BJo] lyft grettistaki."  

Gríðarlegum upphæðum hefur verið varið og er verið að verja í fáfengilega hluti eins og vindmyllur, þróun þeirra, smíði, uppsetningu og rekstur - allt saman í nafni loftslagsvandans, þótt þetta sé rándýrt, mengandi og landskemmandi fyrirbrigði.  Tólfunum er kastað, þegar myndir berast af úðun ísaðra vindmylluspaða með miður hollum ísvara. Gjörninginn ætti alls ekki að leyfa hérlendis í mengunarvarnarskyni.

Til að kóróna vitleysuna eru víðast reist gaskynt raforkuver með vegna óáreiðanleika raforkuvinnslu með vindorku.  Þetta er mjög óskilvirk ráðstöfun fjármuna og sorgleg í ljósi þess, að nýþróuð kjarnorkuver eru handan við hornið til að leysa orkuþörf heimsbyggðarinnar. 

"Okkur er í lófa lagið að færa verðandi mæðrum lífsnauðsynlega næringu.  Sá dagskammtur vítamíns og annarrar nauðsynlegrar fæðu kostar rúma USD 2 (ISK 283) á hverja manneskju.  Með slíkri aðstoð þroskast heili fóstursins örar, sem síðar á ævinni skilar sér í meiri velmegun.  Hver USD, sem varið er í það, svarar þannig til andvirðis USD 38 (ISK 5371) af félagslegum gæðum.  Hvers vegna gerum við þetta ekki ?  Vegna þess að í viðleitni okkar til að gera öllum til hæfis verjum við litlu fé í hvern þátt og yfirsjást um leið nytsamlegustu lausnirnar."  

Barátta ríkja heimsins gegn meintri loftslagshlýnun er í fæstum tilvikum rekin á skynsemisgrundvelli.  Ef svo væri hérlendis, mundu stjórnvöld hér lýsa því yfir, að þau telji of mikla umhverfisbyrði felast í uppsetningu vindmylluþyrpinga m.v. við samfélagslega ávinninginn, sem er neikvæður núna, af því að vindmylluþyrpingar munu leiða til hækkunar rafmagnsverðs hér.

Þá verði hætt við að moka ofan í skurði á kostnað hins opinbera, enda hafa verið færðar ófullnægjandi vísindalegar sönnur á einhlítan árangur slíkrar aðgerðar fyrir losun gróðurhúsalofttegunda.  Hins vegar virðast landgræðsla og skógrækt ótvírætt vera til bóta og vera hagkvæmar. 

Það er ennfremur skynsamlegt út frá loftslags- hagkvæmnisjónarmiðum að setja kraft í virkjanir hefðbundinna íslenzkra orkulinda jarðgufu og vatnsfalla.  Það er óskiljanlegt, að umhyggjan fyrir andrúmsloftinu og óttinn við hlýnun af völdum CO2 lendir miklu aftar í forgangsröðuninni hjá ýmsum en hégómleg fordild um, að þessar hreinu og endurnýjanlegu orkulindir náttúrunnar skuli ekki snerta, því að slíkt útheimti röskun á náttúrunni, þó að náttúrukraftarnir séu sjálfir sífellt að breyta landinu. 

Í lok greinarinnar skrifuðu þeir félagarnir Björn og Jordan þetta:

 "Eitt er þó algerlega augljóst: við verðum að gera það bezta fyrst.

Þar er hið eina sanna áramótaheit komið, og það er hvort tveggja persónulegt og alþýðlegt.  Með því er leiðin í átt til betra lífs vörðuð.  Látum göngu okkar feta þann veg, þegar við veltum því fyrir okkur, hvernig við ætlum að heilsa nýju ári."

Þann 20. desember 2022 birtist afar fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Hauk Ágústsson, kennara.  Hún bar fyrirsögnina:

"Hvað er vindmylla ?"

Til að gefa mynd af mengunarhættunni og auðlindanotkun vindmylluframleiðenda stóð þetta:

"Öxull, sem gengur út úr enda skýlisins, tengist gírkassa, sem stýrir snúningshraða rafalans.  Bremsubúnaður jafnar hraðann, auk þess sem spöðunum er stýrt í sama skyni.  Í þessum búnaði eru nokkur hundruð lítrar af sértækri smurolíu, sem fylgzt er með og skipt um u.þ.b. þriðja hvert ár.  Mörg dæmi eru um það, að olían leki. 

 Rafalinn er búinn síseglum (permanent magnets).  Í þeim eru fágæt jarðefni, skaðleg umhverfinu í framleiðslu og endurvinnslu eða eyðingu.  Þau eru að mestu unnin í Kína (um 90 %), sem er líka ráðandi í námi þeirra úr jörðu [t.d. í Afríku - innsk. BJo].  Í rafalanum og öðrum rafbúnaði er kopar (um 1500 kg) og ál (um 840 kg) - auk stáls.  [Magntölur eiga við 2 MW rafal - innsk. BJo.]  Í búnaðinum í tækjaskýlinu eru líka, samkvæmt Freeing Energy, um 20,5 t af steypujárni, rúmt 1 t af stáli og um 51 t af krómi.  

Rafbúnaður fellir rafmagnið, sem framleitt er, að raforkukerfinu, sem myllan tengist.  Búnaðurinn er í lokuðu rými og honum þjappað saman sem framast er unnt, sem veldur mikilli hættu á skammhlaupum.  Í rýminu er gjarnan [einangrunar] gas, sem kallast SF6 (Sulphur hexafluoride).  Það hefur afar litla rafleiðni, en er samkvæmt Norwegian SciTech News (2020) 22.000-23.500 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og hefur 3.200 ára líftíma [í andrúmsloftinu - innsk. BJo]. Þetta gas hefur sloppið út í verulegum mæli, t.d. í Þýzkalandi, og er orðið vel mælanlegt þar."

 Þessi upptalning ætti að sannfæra flesta um, að vindmyllur eru slæm fjárfesting til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda eða til að draga úr mengun á jörðunni.  Þá gefur nú auga leið, að þessi fjárfesting á alls ekkert erindi í íslenzka náttúru, því að hrun einnar vindmyllu, t.d. í óveðri, getur valdið  alvarlegu mengunarslysi og óafturkræfri mikilli losun gróðurhúsalofttegunda.  Hún er af allt annarri og miklu hærri stærðargráðu en t.d. losun sama magns af CH4 - metani, því að það er "aðeins" um 22 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og brotnar niður í andrúmsloftinu á um 50 árum.  

Hryllingssaga Hauks Ágústssonar um mengunarhættuna af vindmyllum heldur áfram:

"Til þess að ná [hámarks] styrk m.v. þyngd eru spaðarnir gerðir úr trefjaplasti; gler- eða kolþráðum, sem þaktir eru með epoxíresíni.  Á 2 MW Vestas-myllu vega þeir um 7 t hver.  Epoxíresín eru mikið unnið úr olíutengdum efnum með efnafræðilegum aðferðum.  Á 2 MW myllu er snúningsþvermál spaðanna um eða yfir 100 m, og hraðinn á spaðaenda getur náð vel yfir 200 km/klst.  Til að minnka mótstöðu eru spaðarnir húðaðir að utan.  Húðin slitnar af og berst út í umhverfið sem öragnir.  Spaðana er almennt ekki unnt að endurvinna.  Þeir eru því oftast urðaðir, þegar þeir eru orðnir ónothæfir."

Hér er um að ræða efni, sem ekkert erindi eiga inn í íslenzka náttúru og lífkeðju, því að þau eru sennilega torniðurbrjótanleg (frávirk) og safnast þess vegna upp í lífkeðjunni.  Hefur Umhverfisstofnun vit á að gera viðeigandi kröfur til þeirra efna, sem hver vindmylla getur dreift út í umhverfið í venjulegum rekstri og við slys ? 

Það er engin þörf á að dreifa þessum mannvirkjum um óspillt víðerni landsins hagkerfisins vegna, og þess vegna er engin áhætta ásættanleg.  Öðru máli gegnir um hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Fyrir þær er þörf, enda eru þær miklu hagkvæmari, og mengunarhættan af þeim er hverfandi í samanburði við þau ósköp, sem hér hafa verið upp talin, og landþörf á MW sömuleiðis mun minni. 

 

 

     


Niðurlæging höfuðborgarinnar

Það er alveg sama, hvar borið er niður.  Niðurlæging höfuðborgarinnar á þeim tíma, sem "good for nothing persons" undir forystu Samfylkingarinnar hafa verið þar við völd, er alger, og þessi sjálfhælna einskis nýta stjórnmálahreyfing, sem í krafti forsjárhyggju sósíalismans þykist vera í stakk búin að hafa vit fyrir öðrum, kann ekki fótum sínum forráð, þegar til kastanna kemur. 

Ef mótdrægir atburðir verða, sem krefjast skjótra og fumlausra viðbragða stjórnendanna, er það segin saga, að allt fer í handaskolum.  Samfylkingin er búin að ganga af stjórnkerfi borgarinnar dauðu.  Nú eru hæfileikasnauðir stjórmálamenn sem stjórnendur yfirgripsmikilla málaflokka látnir stjórna málaflokkum, sem öflugir embættismenn með fullt vald á tæknihliðum sinna málaflokka, stjórnuðu áður af röggsemi undir beinni stjórn borgarstjóra. Það er borin von um breytingar til batnaðar í borginni, á meðan ráðstjórnarfyrirkomulag Samfylkingarinnar er þar við lýði.   

Dæmi um þetta er embætti borgarverkfræðings, sem aflagt var, og við tók m.a. umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur.  Þetta er í anda gömlu sovétanna eða ráðanna, sem kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna raðaði sínu fólki í.  Hvernig fór fyrir Ráðstjórnarríkjunum ?  Þau hrundu 1991 vegna rotnunar innan frá.  

Eftir mikla snjókomu, hvassviðri og kulda helgina 18.-19. desember 2022 kom í ljós alvarleg brotalöm í snjómokstri borgarinnar.  Hún stóð sig miklu lakar en nágrannasveitarfélögin.  Var þá m.a. kallaður til útskýringa formaður ofangreinds ráðs borgarinnar, sem virtist vera nýdottinn ofan úr tunglinu og ekki vita í þennan heim né annan.  Varð þessari formannsdulu það helzt fyrir að leita blóraböggla utan borgarkerfisins, og urðu verktakar fyrir valinu og þvaðraði um handbók, sem væri í smíðum. Meiri verður firringin (fjarlægðin frá raunveruleikanum) ekki.  Allt er þetta eins lágkúrulegt og hugsazt getur.  

Lítið skánaði málið, þegar leitað var ráða hjá nýjustu mannvitsbrekkunni, sem inn í þetta sovétkerfi borgarinnar gekk eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar með slagorð á borð við breytum borginni, varð óðara formaður borgarráðs og á að taka við borgarstjóraembættinu af fallkandidatinum Degi B. Eggertssyni.  Verkvit væntanlegs borgarstjóra  lýsti sér mjög vel með þeirri uppástungu, að borgin skyldi kaupa nokkra pallbíla með tönn framan á.  Hjá borginni leiðir blindur haltan, og firringin er allsráðandi.  

Ekki verður hjá því komizt í kuldakastinu í desember 2022 að minnast á hlut Orkuveitu Reykjavíkur-OR og dótturfélaga í velferð íbúa höfuðborgarsvæðisins. Nýlega kom framkvæmdastjóri ON, dótturfélags OR, sem sér um orkuöflun og hefur algerlega látið hana sitja á hakanum undandarinn áratug, með spekingssvip í  fréttatíma sjónvarps allra landsmanna og boðaði þar þá  kenningu í tilefni vetrarkulda, að óskynsamlegt væri að afla heits vatns til að anna toppálagi hjá  hitaveitunni.  Þetta er nýstárleg kenning um hitaveituþjónustu fyrir almenning.  Tímabil með -5°C til -10°C, eins og var á jólaföstunni á höfuðborgarsvæðinu, getur varað vikum saman.  Ef ekkert borð er haft fyrir báru, eins og nú virðist vera uppi á teninginum hjá OR og dætrum, gerist einmitt það, sem gerðist í aðdraganda jóla, að ein bilun veldur svo stórfelldum vatnsskorti (20 %), að loka verður öllum útilaugum á höfuðborgarsvæðinu í 2 sólarhringa og hefði getað varað lengur.  Þetta er óboðleg stefna.  Miða á við s.k. (n-1) reglu, sem þýðir, að í kerfinu er borð fyrir báru til að halda uppi fullri þjónustu, þótt ein eining bili á háálagstíma.  Þá er líka nauðsynlegt svigrúm til fyrirbyggjandi viðhalds fyrir hendi á hverjum tíma. 

Hér gætir fingrafara Samfylkingarinnar, eins og alls staðar í borgarkerfinu.  Hún lætur borgarsjóð blóðmjólka OR til að standa straum af gæluverkefnum sínum og silkihúfum, en fórnar fyrir vikið hagsmunum íbúanna, sem ekki hafa í önnur hús að venda, nema að flytjast um set a.m.k. 50 km. 

Þarna er Samfylkingunni rétt lýst.  Hún smjaðrar fyrir almenningi og þykist allt vilja gera fyrir alla á kostnað sameiginlegra sjóða, en hikar ekki við að fórna hagsmunum almennings til að geta haldið uppi sukkinu, sem völd hennar í Reykjavík hvíla á. Stefna Samfylkingarinnar er reist á botnlausri skattpíningu og skuldasöfnun, sem er eitruð blanda, sem getur ekki gengið upp til lengdar, enda er nú komið nálægt  leiðarenda og allt í hönk.

Morgunblaðið gerði sorglegum stjórnarháttum Samfylkingarinnar verðug skil í forystugrein 20. desember 2022:

"Grátlegt að horfa upp á niðurlæginguna".

Hún hófst þannig:

"Það er sárt til þess að vita, hvernig komið er fyrir borginni okkar, höfuðborginni. Það er sama, hvert litið er. Hvernig gat þetta farið svona illa ?  Stóru málin sýna þetta og sanna.  Fjármál borgarinnar og þá ekki síður vandræðin í skipulagsmálum hennar.  Þetta tvennt er auðvitað nægjanlega yfirþyrmandi, enda mun hvert það sveitarfélag bágt, þar sem bæði fjárhagsstaða og skipulagsmál hafa verið keyrð í þrot af fullkomlega óhæfum stjórnendum, sem hafa ekki auga fyrir slíkum þáttum og sitja þó keikir í stólunum í Ráðhúsinu, sem þeir voru á móti því, að yrði byggt og þar með fyrir þeim, sem gætu gert betur, en aldrei verr."

Samfylkingin hefur eyðilagt stjórnkerfi borgarinnar með sovétvæðingu sinni, ráðsmennsku, og þar með varðað leið höfuðborgarinnar til glötunar.  Stjórnmálamennirnir, sem öllu ráða í ráðum borgarinnar, eru óhæfir stjórnendur; það er ekki ofmælt hjá ritstjóra Morgunblaðsins, enda sýna  verkin merkin.  Það er sama, hversu hæfir embættismenn eru ráðnir inn í svona kerfi.  Þeir fá ekki tækifæri til að njóta sín undir ráðunum, eins og samanburður á frammistöðu Véladeildar borgarverkfræðings forðum tíð og umhverfis- og skipulagssviðs nú í snjómokstri sýnir glögglega. 

Ritstjórinn vék að mannvitsbrekkunni, sem nú er afleysingaborgarstjóri og hefur valdið villuráfandi kjósendum Framsóknarflokksins ómældum vonbrigðum á undraskömmum tíma:

"En ásamt borgarfulltrúum minnihlutans hefur formaður borgarráðs, sem vann óvæntan sigur og hefur á örfáum mánuðum siglt með málefni borgarinnar úr öskunni í eldinn, látið óhæfan borgarstjóra, sem keyrt hefur fjármál og skipulagsmál í rjúkandi rúst, teyma sig út á berangur spillingur.  Allt er þetta með ólíkindum."  

Þeim mun verr gefast heimskra manna ráð, sem þeir koma fleiri saman, var einu sinni sagt, og það hefur berlega sannazt í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Það gafst afleitlega að fjölga borgarfulltrúum og hefur reynzt rándýrt.  Miðað við meginkosningaloforð Framsóknar í borginni hefur efsti maður listans reynzt ómerkur orða sinna.  Engin breyting til batnaðar hefur orðið á högum borgarinnar við komu hans í pólitíkina.  Hann lætur ferðaglaða lækninn teyma sig á asnaeyrunum, hvert sem er.

"En tilfallandi mál opinbera einnig stjórnleysi og aumingjadóm.  Og það gerði svo sannarlega snjóhríð og erfið átt, sem hvorugt var af verstu gerð, þótt slæmt væri.  Þegar í stað varð algerlega ófært um alla borg !  Ríkisútvarpið "RÚV" spurði mann hjá borginni, sem var sagður eiga að bregðast við atvikum eins og þessum, út í öngþveitið, sem varð.  Hann viðurkenndi aftur og aftur, að þetta hefði ekki verið nægjanlega gott, og var sú játning þó óþörf.  En hann bætti því við til afsökunar, að borgin hefði aðeins "tvær gröfur" - "TVÆR GRÖFUR", sem nota mætti í verkefni af þessu tagi, og hefðu þær ekki haft undan.  Engu var líkara en "RÚV" hefði farið þorpavillt og náð sambandi við 150 manna sveitarfélag úti á landi, þar sem alls ekki væri útilokað, að tvær gröfur hefðu getað hjálpað til að halda 200 m aðalgötu sveitarfélagsins opinni."

Það er deginum ljósara nú í skammdeginu, að viðbúnaðaráætlun borgarinnar gagnvart hríðarviðri er hvorki fugl né fiskur eða innleiðing hennar hefur farið fyrir ofan garð og neðan, nema hvort tveggja sé.  Við blasir ónýtt stjórnkerfi borgarinnar, enda er þetta ráðstjórn með silkihúfum stjórnmálanna, sem hefur safnað öllum völdum í sínar hendur og lagt sína dauðu hönd þekkingarleysis og ráðleysis á verkstjórn borgarinnar.  Tiltækur tækjafloti borgarinnar núna er miklu minni en á dögum borgarverkfræðings og gatnamálastjóra, sem áður fyrr voru ábyrgir fyrir snjómokstri í borginni undir yfirstjórn borgarstjóra.  Að venju, þegar eitthvað bjátar á, hvarf borgarstjóri, og mun Dagur hafa skroppið til Suður-Afríku.  Ráðstjórnarkerfi hans er ónýtt, og það verður að fleygja því á öskuhaugana áður en nokkur von getur vaknað um tök á þessum málum.  Síðan verður að ráða menn með bein í nefinu og verkþekkingu til að skipuleggja viðbúnað og framkvæma hann eftir þörfum.  Stjórnunarleikir silkihúfanna eru dramatískir sorgarleikir óhæfra leikara. 

Að lokum sagði í téðri forystugrein:

"Á meðan borgin var og hét og var ekki stjórnað af óvitum, þá hafði hún öfluga sveit Véladeildar borgarinnar, sem búin var beztu tækjum, sem völ var á í landinu.  Einatt, þegar von var atburða, eins og urðu í gær, þá færði borgarstjórinn í alvöru borg sig inn í höfuðstöðvar Véladeildar borgarinnar, sem var hið næsta höfuðstöðvum borgarverkfræðings, og fylgdist með viðbrögðum öflugra sveita fram eftir nóttu.  En nú þarf ekki annað en smáa snjósnerru og goluþyt, til að öllu sé siglt í strand í borg manna, sem treysta á 2 litlar gröfur í veðurneyð.

Niðurlæging borgarinnar í fjármálaólestri og strandi skipulagsmála, sem eru þó helztu afreksverk Dags. B. Eggertssonar, er bersýnileg, en þegar fjármálabrall leggst við umferðaröngþveiti, sem sífellt versnar, er orðið fátt um fína drætti."

Þetta er athygliverð frásögn fyrrverandi borgarstjóra um stjórnarhætti í skilvirku stjórnkerfi borgarinnar, eins og það var áður en vinstri menn rústuðu því og stofnuðu ráðin, þar sem stjórnmálamenn Samfylkingar og fylgifiska fara með öll völd án þess að hafa nokkra stjórnunargetu eða verksvit.  Borgarstjórinn móðgar ekki afæturnar í ráðunum með því að taka fram fyrir hendur þeirra og setja þar með hagsmunabandalag vinstri klíkanna í uppnám. Þó er til neyðarstjórn í borginni, þar sem borgarstjóri er í formennsku, en hún var ekki kölluð saman, þótt ástæða hefði verið til, enda borgarstjóri að spóka sig á suðurhveli jarðar. 

Menn taki eftir því, að hinir hæfu embættismenn, borgarverkfræðingur og gatnamálastjóri, sáu ástæðu til þess, að borgin réði sjálf yfir öflugum tækjaflota af beztu gerð.  Amlóðar Samfylkingarinnar og fylgitunglanna reiða sig hins vegar alfarið á verktaka án þess að hafa gengið frá almennilega öruggum samningum við þá.  Hvers vegna er dæminu ekki snúið við til öryggis og verktökum leigðar vélarnar með áhöfn á sumrin, þegar borgin þarf ekki á þeim að halda, en yfirleitt er törn hjá verktökum ?  Að auki þarf sérútbúnað, eins og snjóblásara, sem blása  snjónum upp á vörubílspalla, því að mikil vandræði myndast annars við heimreiðar aðliggjandi lóða og á gangstéttum.   

 

 

  

 


Er valdframsalið til ESA/ACER minni háttar ?

Hér verður áfram haldið með þýðingu á grein Mortens Harper, lögfræðings hjá samtökunum "Nei til EU", NtEU, um dóm Lögmannsréttarins í máli NtEU gegn norska ríkinu:

"Meginviðfangsefnið við mat á því, hvort valdframsal megi samþykkja samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 26.2 með einföldum meirihluta, eða hvort það útheimti 3/4 mættra þingmanna í meirihlutanum samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 115, er, hvort framsalið er minni háttar eða ekki.  Þetta hugtak er þó ekki tilgreint í stjórnarskrá Noregs, heldur hefur það þróazt í tímans rás, og hafa lögspekingar deilt um það.  Lögmannsrétturinn leggur til grundvallar s.k. kenningu um minni háttar valdframsal.  Um vald ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er eftirfarandi tilfært í dóminum:

"Þegar um er að ræða gerð valdframsals, er til umræðu framkvæmdavald á formi stjórnvaldslegs fyrirskipanavalds gagnvart rekstraraðila. Þetta er takmörkun á völdum framkvæmdavalds.  Það felur í sér, að eftirlits- og stjórnunarmöguleikar ríkisstjórnarinnar eru fjarlægðir.  Þetta hefur líka þýðingu fyrir eftirlit þingsins og ábyrgð gagnvart stjórnarskrá.  Lögmannsrétturinn telur samt sem áður, að þetta sé ekki kjarni formlegs valdframsals, þar sem samþykki norsku stjórnsýslustofnunarinnar RME þarf til að framkvæma og fylgja eftir ákvörðunum ESA gagnvart fyrirtækjum í Noregi.  (...)

Einkenni valdsins í raun leitar í sömu átt, þar sem tilgangurinn er ekki yfirþjóðleg stjórnun, heldur að reglunaryfirvöld landanna reyni að verða samstiga.  Úr þessu er samt dregið með því að fyrirkomulagið virkar næstum eins og kerfi til að skera úr um þrætur á milli reglunarstjórnvalda landanna." (Síður 34-35.) 

Löggmannsrétturinn skrifar enn fremur:

"Orkumarkaðspakki 3 reglar orkusviðið og viðskipti með rafmagn.  Þetta snertir þjóðfélagslega og stjórnmálalega hagsmuni með mjög mikla þýðingu. (...) Í heild hefur Orkumarkaðspakki 3 mikla þýðingu fyrir norska orkustefnu. 

Völd ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni eru hins vegar á sviði tæknilegra og faglegra viðfangsefna á rekstrarsviði og takmarkast við notkun innviða á milli landa (sæstrengi til útlanda)." (Síða 35.) 

Ályktunin er, að valdframsal samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er "minni háttar".  Að sömu niðurstöðu kemst Lögmannsrétturinn um heimild ESA til að fyrirskipa norskum orkufyrirtækjum að afhenda gögn og heimildina til að sekta þau, ef þessu er ekki hlýtt (reglugerðin um viðskipti yfir landamæri, kafli 20 og kafli 22, nr 2):

"Valdramsalið hefur að mati Lögmannsréttarins mjög takmarkað umfang og hefur ekki umtalsverð áhrif á þjóðfélagslegu og stjórnmálalegu hagsmunina, sem eru fyrir hendi á orkusviðinu."  (Síða 37.)

Lögmannsrétturinn telur málið ekki vafa undirorpið:

"Einnig að afloknu heildarmati getur að dómi Lögmannsréttarins ekki leikið vafi á, að það tvenns konar valdframsal, sem er efni þessa máls, er minni háttar." (Síða 37.)

Að loknum lestri þessa tyrfna texta Landsréttarins norska veldur það ekki undrun, að NtEU hafi áfrýjað dómi hans til Hæstaréttar Noregs.  Dæma þarf um, hvort RME (orkulandsreglari ACER) sé norskt stjórnvald samkvæmt norskum lögum og stjórnarskrá.  

 


Norskir dómstólar geta endurskoðað mat Stórþingsins á stjórnarskrárákvæði

Hér verður haldið áfram þýðingu á grein Mortens Harpers, lögfræðings hjá "Nei til EU", NtEU, um dómsorð og greinargerðir Lögmannsréttarins í deilumáli NtEU við norska ríkið um atkvæðagreiðsluna um Orkupakka 3. 

"Málið vekur líka upp spurninguna um það, hversu langt dómstólarnir geti gengið í að yfirfara eigið mat Stórþingsins.  Ríkið hefur lagt þunga áherzlu á eigið stjórnarskrármat Stórþingsins sem röksemd gegn málsókninni.  NtEU hefur hins vegar haldið því fram, að rétturinn verði að framkvæma nákvæma og vandaða rýni á því, hvort skilyrðin til að nota stjórnarskrárgrein nr 26.2 í stað gr. nr 115 séu uppfyllt. 

Lögmannsrétturinn fellst að nokkru leyti á þetta viðhorf NtEU:  

 "Að loknu heildarmati sínu hefur Lögmannsrétturinn - í vafa - komizt að þeirri niðurstöðu, að athugun dómstólanna á því, hvort valdframsal sé léttvægt (lítið inngrípandi í þjóðlífið) eigi að vera nokkuð öflugri en það, sem venjulega á við um stjórnarskrárákvæði, sem stýra vinnulagi annarra greina ríkisvaldsins eða innbyrðis valdsviði. Í ljósi kröfu stjórnarskrárinnar, gr. 115, um aukinn meirihluta, og að hér er um að ræða að gera undantekningu við þá stjórnarskrárbundnu reglu, að framkvæmd valds skal vera á hendi norskra valdstofnana, leggur Lögmannsrétturinn meiri áherzlu á að taka tillit til minnihlutaverndarinnar en á þau raunatriði, sem ríkið hefur vísað til. Með vísun til þrískiptingarinnar er Lögmannsrétturinn þannig þeirrar skoðunar, að sannprófunin (rýnin) verði sambærileg þeirri, sem gildir um málefnaflokkinn efnahagsleg réttindi."  (Síður 23-24.)

RÉTTURINN FINNUR TVENNS KONAR VALDFRAMSAL Í OP3

"Samantekið fól samþykkt Stórþingsins 22. marz 2018 í sér tvenns konar valdframsal", skrifar Lögmannsrétturinn og útlistar:

"Í fyrsta lagi var vald framselt til ESA til að gefa RME (orkulandsreglara ESB í Noregi) fyrirmæli um tæknileg viðfangsefni í sambandi við notkun innviða á milli landa, sbr ACER reglugerðina, kafla 8.

Í öðru lagi var framselt fyrirmæla- og sektarvald til ESA samkvæmt reglugerð um orkuviðskipti á milli landa, kafla 20 og kafla 22, nr 2, og þar með dómsvald til EFTA-dómstólsins." (Síður 33-34.)

Lögmannsrétturinn fjallar nánar um valdframsal í ACER-reglugerðinni þannig:

"Samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, hefur ACER/ESA vald í sambandi við innviði á milli landa til að "taka ákvörðun um stjórnunarviðfangsefni, sem voru á valdsviði innlendra stjórnvalda, þ.á.m. um skilyrði fyrir aðgangi og rekstraröryggi". 

(...)

Lögmannsrétturinn undirstrikar, að kafli 8 veiti ekki heimild til að taka ákvarðanir um t.d. að leggja nýja (sæ)strengi, að reisa orkuver, breyta eignarhaldsreglum eða að gefa út framkvæmda- eða rekstrarleyfi.  (...) Rafmagnsverðið verður til á markaði.  Verðmyndun á markaði verður vitaskuld fyrir áhrifum af þátttöku Noregs í innri orkumarkaði ESB.  NtEU hefur rétt fyrir sér um, að ACER/ESA getur óbeint haft áhrif á rafmagnsverðið með framlagi sínu til þess, að þetta sé skilvirkur markaður með virkum innviðum fyrir orkuflutninga milli landa.  Lögmannsrétturinn getur samt ekki séð, að nokkuð sé hæft í, að formleg völd ACER/ESA til ákvarðanatöku sé áhrifavaldur á rafmagnsverðið."  (Síður 27-28.)

Um orkulandsreglarann (RME) er farið eftirfarandi orðum í dóminum:

"Þar sem endanleg ákvörðun, sem varðar Noreg, er tekin hjá RME, sem er norsk stjórnsýslustofnun, eru völd ESA yfir RME bara af þjóðréttarlegu tagi.  Í samræmi við hefðbundin fræði má þess vegna halda því fram, að ekkert valdframsal hafi orðið til ESA.  Að RME - til að uppfylla kröfur EES-regluverksins - er stofnsett sem óháð stjórnsýslustofnun, sem [ríkið] getur ekki gefið fyrirmæli, samtímis sem ESA eru veitt völd til að taka réttarlega bindandi ákvarðanir um fyrirmæli til RME, veldur hins vegar því, að Lögmannsrétturinn - eins og málsaðilarnir - lítur svo á, að átt hafi sér stað formlegt valdframsal til ESA." (Síða 29.)

Lögmannsrétturinn fjallar þó ekki nánar um hlutverk RME sem orkureglara, sem áhrif hefur á hagsmunaaðila í Noregi.  Lögbundna sjálfstæðið gagnvart valdhöfum ríkisins veldur því, að ekki er unnt að telja RME vera venjulega norska stjórnvaldsstofnun, og meta hefði þurft, hvort völd RME sé viðbótar vídd í valdframsalinu. Fyrirmæla- og sektarvaldið, sem ESA hefur, gildir um að afla gagna beint frá orkufyrirtækjunum, í raun frá Statnett varðandi Noreg [Statnett er norska Landsnet]. 

"Það er óumdeilt, að þetta jafngildir valdframsali til ESA", skrifar Lögmannsrétturinn (síða 30) og bætir við, að enn hafi slíkar ákvarðanir ekki verið teknar."

 Hér verður látið staðar numið í hluta 2 af 3 þýðingum á grein Mortens Harpers um nýlegan dóm á millidómsstigi í Noregi um þá kröfu NtEU að fá úrskurði Stórþingsins um að viðhafa einfalt meirihlutaræði við atkvæðagreiðslu um OP3 hnekkt.  Það má hverjum leikmanni vera ljóst, að ýmislegt í málatilbúnaði samtakanna hlaut hljómgrunn í Lögmannsréttinum, þótt niðurstaða hans yrði, að valdframsalið til ESA/ACER væri lítið inngrípandi í þjóðlífið, heldur væri aðallega þjóðréttarlegs eðlis. Í 3. og lokapistlinum um þetta verður einmitt fjallað um það, hvort valdframsalið hafi verið áhrifalítið á þjóðlífið eða ekki.     


Ný skattheimta veldur kollsteypu í strandbyggðum Noregs

Nýlega bárust fregnir af fáheyrðri fyrirhugaðri viðbótar skattheimtu norsku ríkisstjórnarinnar undir forsæti forríks krata, Jonasar Gahr Störe, af atvinnustarfsemi, sem hefur verið hryggjarstykkið í byggðum meðfram endilangri strandlengju Noregs. Fyrir vikið varð strax fjármagnsflótti úr greininni, fyrirtæki lögðu fjárfestingar á ís og gerðu áætlanir um að draga úr starfsemi og fækka starfsfólki. Þetta mun valda atvinnuleysi í byggðunum, ef úr verður, og fólksflótta.  Þannig er þetta skólabókardæmi um skaðleg áhrif ríkisvaldsins, þegar það verður of gírugt og gengur of hart að fyrirtækjunum. 

Þetta sýnir líka vanþekkingu embættismanna og stjórnmálamanna á atvinnustarfseminni, samkeppnishæfni hennar og burði til að bera miklu meiri skattheimtu en fyrirtæki í annars konar starfsemi þurfa að búa við. Hið opinbera verður að gæta jafnræðis og meðalhófs. Ef kýrin er ofmjólkuð, eyðileggst júgrið strax, kýrin veikist og hættir að gefa nokkuð af sér, og fólkið á bænum lepur fyrir vikið dauðann úr skel.  Vönduð greining verður að vera undanfari nýrrar skattheimtu.  

Gunnlaugur Snær Ólafsson, blaðamaður, tók saman  fróðlega fréttaskýringu í 200 mílum Morgunblaðsins 1. desember 2022 um það, hvernig ríkisstjórn Noregs virðist fara offari í skattheimtu á sjókvíaeldi við Noregsstrendur. Ofurskattheimta á aldrei við og sízt, þegar samkeppnisgreinar á alþjóðlegum mörkuðum eiga í hlut, og tímasetningin er alslæm, því að nú harðnar á dalnum á matvælamörkuðum Evrópu og víðar. Það gæti leitt til lækkunar á dýrum matvælum, ef ódýrari staðgönguvara er fyrir hendi.  Fréttaskýring Gunnlaugs bar fyrirsögnina:

"Ringulreið vegna auðlindagjalds".

Hún hófst þannig:

"Óhætt er að segja, að tillaga norsku ríkisstjórnarinnar um að innleiða nýjan auðlindaskatt, s.k. grunnleigu, á sjókvíaeldi hafi fallið í grýttan jarðveg í samfélögunum meðfram strandlengju landsins.  Skattahækkunin, sem lögð er til, hefur haft ýmsar hliðarverkanir, sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir við mótun tillögunnar.  Fyrirtæki hafa hætt við fjárfestingar, gripið til uppsagna, og norska ríkisstjórnin hefur þurft að minnka gjaldstofn nýs auðlegðarskatts sem og [að] bæta upp hundruða milljóna tap norska fiskeldissjóðsins, "Havbruksfondet"." 

Hér er hrapað ótrúlega að viðbótar gjaldtöku, og jafnvel vafamál, hvort nokkur þörf var á einhverri viðbótar gjaldtöku.  Fyrir vikið og vegna orkumálanna koma nú norsku stjórnarflokkarnir afar illa út í fylgisathugunum á landsvísu, og má segja, að Miðflokkurinn hafi beðið afhroð, en hann er dæmigerður dreifbýlisflokkur, og fjármálaráðherrann er formaður hans.  Fylgi Verkamannaflokksins hefur rýrnað minna, en tæp 3 ár eru í næstu Stórþingskosningar, og stjórnarflokkarnir gætu náð vopnum sínum á kjörtímabilinu. 

"Norska ríkið gerir ráð fyrir, að grunnleigan, ásamt tekjuskatti lögaðila, geri það að verkum, að jaðarskattar fiskeldisfyrirtækja verði 62 %, en að skatthlutfallið verði 51,3 %.  Á móti benda fiskeldis- og vinnslufyrirtækin á, að grunnleigan, sem lögð er til, bætist við hækkun auðlegðarskatts á framleiðsluleyfi, sem hafa verið út gefin, hækkun tekjuskatts lögaðila, hærra framleiðslugjald og hærri auðlindaskatt.  Það sé því í raun verið að leggja 80 % skatt á sjókvíaeldið."

Hér hefur norsku ríkisstjórninni orðið alvarlega á í messunni.  Enginn heiðarlegur atvinnuvegur getur staðið undir þvílíkri ofurskattheimtu, og þess vegna er ríkisstjórnin í raun að kippa fótunum undan blómlegri atvinnugrein, og um leið munu sjávarbyggðir víða hrynja.  Þetta eru ótrúlegar aðfarir Trygve Magnus Slagsvold Vedum, sem verið hefur fjármálaráðherra síðan í október 2021 og formaður Miðflokksins síðan 2014.  Vedum er garðyrkjumaður frá Stange í Innlandet og hefur setið á Stórþinginu síðan 2005. 

Fylgi Miðflokksins hefur nú hrunið niður í "bjórstyrk".  Vedum verður að leiðrétta mistök sín. Fyrirtæki eru ekki mjólkurkýr fyrir hið opinbera.  Þau eru til að skapa verðmæti og atvinnu.  Ef þau hagnast og geta þar af leiðandi borgað tekjuskatt, er það jákvætt.  Gjaldheimta af auðlindanotkun og framleiðslu er vandmeðfarin, og þar verður að gæta sanngirni og  jafnræðis, svo að stjórnvöld skekki ekki samkeppnishæfni um fjármagn, starfsfólk og markaði. 

"Í kjölfar tilkynningar norsku ríkisstjórnarinnar um nýja grunnleigu af sjókvíaeldi hófu hlutabréf fiskeldisfyrirtækjanna, sem skráð eru í kauphöllina í Ósló, að falla.  Verðmæti þeirra dróst á einum degi saman um mrdNOK 44, um mrdISK 632, eins og gengið er nú.  Samhliða hafa fyrirtækin sett fjárfestingar fyrir um mrdNOK 24 á ís."  

Þetta sýnir, hvað tilkynningar ráðherra um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar geta verið afdrifaríkar fyrir fjárhagsstöðu fyrirtækja og atvinnuöryggi launþega.  Þetta á alveg sérstaklega við, þegar fyrirætlun ráðherra er íþyngjandi fyrir fyrirtæki, sem skráð eru í kauphöll.  Þau verða að stíga varlega til jarðar, og það verða líka viðkomandi stjórnvöld og gagnrýnendur þessara fyrirtækja að gera. Hérlendis hafa fyrirtæki ekki þurft að þola kollsteypur af þessu tagi af hendi fjármálaráðherra frá dögum "einu hreinu vinstri stjórnarinnar" 2009-2013, en sum hafa mátt þola miklar ágjafir og jafnvel herferðir í fjölmiðlum og af hendi fjölmiðla. Er þar oft hátt reitt til höggs af mismikilli fyrirhyggju og ígrundun.

"Um miðjan nóvember [2022] sagði fiskeldisfyrirtækið Salmar upp 851 starfsmanni í vinnslustöðvum félagsins á Fröya og Senja.  Ástæða uppsagnanna var í fréttatilkynningu sögð tillaga ríkisstjórnarinnar um auknar álögur á greinina, "sem hefur eyðilagt markaðinn fyrir langtíma samninga á föstu verði. [...] Slíkir samningar eru venjulega gerðir löngu fyrir afhendingu, og eru þeir algjörlega nauðsynlegir til að fylla aðstöðuna af nægri vinnslustarfsemi", sagði í fréttatilkynningunni." 

Axarskapt norsku ríkisstjórnarinnar hefur haft hrapallegar afleiðingar fyrir atvinnuöryggi starfsmanna fiskeldisfyrirtækjanna á strönd Noregs.  Áður en einhverjum hérlendum stjórnmálamanni dettur næst í hug að fara fram með vanhugsaðar tillögur um auðlindagjald, framleiðslugjald eða hvaða nöfnum, sem tjáir að nefna gjaldtökuhugmyndir þeirra, ættu þeir að leiða hugann að alvarlegum afleiðingum slíkra gjörða hjá frændum vorum, Austmönnunum.   

 


Ófullnægjandi stjórnsýsla

Það höfðu ýmsir áhyggjur af því við ráðningu núverandi forstjóra Orkustofnunar, að í fyrsta skipti í sögu stofnunarinnar og forvera hennar var farið inn á þá braut að velja ekki til starfans neinn úr röðum tæknimenntaðra umsækjenda, s.s. verkfræðing eða tæknifræðing, heldur var stjórnmálafræðingur valinn úr hópi umsækjenda. Nú þegar hefur komið í ljós, að ekki hafa stjórnarhættir Orkustofnunar batnað við þessa nýbreytni, heldur þvert á móti, því að afgreiðslutími umsókna um leyfi fyrir allstórum virkjunum hefur lengzt verulega.

Afsakanir orkumálastjóra eru aumkvunarverðar og sýna, að hana skortir alla tilfinningu fyrir því, sem liggur á að gera (sense of urgency). Í stað þess að taka stærstu og þar af leiðandi væntanlega tímafrekustu umsóknina fyrir strax og senda hana út í umsagnarferli og gera þá annað á meðan, þá saltar hún stærstu umsóknina í hálft ár.  Þetta umsagnarferli er í sjálfu sér umdeilanlegt eftir alla þá kynningu og umsagnarferli, sem átt hafa sér stað á verkinu, og ætlazt verður til, að Orkustofnun hafi allar athugasemdir við verkið þegar undir höndum, er hún fær umsókn Landsvirkjunar til afgreiðslu. 

Þá skýlir orkumálastjóri sér á bak við það að gæta þurfi vandvirkni.  Tímanotkun er enginn mælikvarði á vandvirkni, og nú á það eftir að koma í ljós, hvort Orkustofnun hafi lagt eitthvað markvert til verkefnisins eða hvort tímanotkunin hafi snúizt um sýndarmennsku og aukaatriði, sem engu máli skipta. 

Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um þetta alvarlega stjórnsýslumál undir fyrirsögninni:

 "Óeðlilegar tafir Orkustofnunar".

Samkvæmt reglum um þessi mál gildir, að Orkustofnun á að afgreiða umsókn um virkjunarleyfi innan 2 mánaða frá því, að síðustu gögn berast.  Það er auðvitað mjög ámælisvert, ef stofnunin kallar inn gögn um umsóknina, sem eru óþörf fyrir afgreiðslu málsins, til að hanga á 2 mánaða tímafrestinum. Samt er hún nú þegar búin að brjóta þá reglu um afgreiðslufrest.

Orkustofnun hefur misskilið hlutverk sitt, ef verið er að endurhanna virkjuninaað einhverju leyti, enda hefur Orkustofnun hvorki þekkingu né reynslu innan sinna vébanda til þess og er þá komin út fyrir sitt verksvið.

Í téðum Staksteinum stóð m.a.:

"Eitt dæmi um seinagang [opinberra stofnana] er afgreiðsla Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar.  Umsóknin var lögð fram í júní í fyrra [2021], og það tók Orkustofnun rúmlega hálft ár að byrja vinnu við umsóknina, en samkvæmt reglugerð ber að taka ákvörðun um virkjunarleyfi innan tveggja mánaða frá því, að öll gögn hafa borizt."

Þetta eru þvílík molbúavinnubrögð, að engu tali tekur.  Stendur þessari ríkisstofnun gjörsamlega á sama um þann gríðarlega kostnað, sem sleifarlag af þessu tagi mun hafa í för með sér vegna þess, að fyrirtæki munu ekki fá afhenta þá orku, sem þau vantar, árum saman ?  Hvernig komið er fyrir stofnun fyrrum orkumálastjóra, Jakobs Björnssonar, rafmagnsverkfræðings og kennara höfundar, er þyngra en tárum taki. 

"Leyfisveitandanum er í lófa lagið, hversu ítarleg sem umsókn er, að kalla eftir frekari gögnum, og það var gert í þessu tilviki.  Allt þetta ár hefur farið í samskipti Orkustofnunar og Landsvirkjunar."

Ef raunveruleg ástæða væri fyrir þessari hegðun Orkustofnunar, er um að ræða vanreifaða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun, og því verður ekki trúað að óreyndu.  Öllu líklegra er, að þeir, sem véla um þessa umsókn hjá Orkustofnun, skorti nauðsynlega færni til að rýna viðamikið tæknilegt viðfangsefni á borð við hönnun þessarar virkjunar.  Það er þó öllu verra, að innan veggja Orkustofnunar virðist skorta skilning á raunverulegu hlutverki hennar í þessu sambandi.  Hlutverk stofnunarinnar er ekki að stunda neins konar hönnunarrýni, því að Landsvirkjun mun bera fulla ábyrgð á þeirri hönnun, sem hún leggur fram.  Hlutverk Orkustofnunar í þessu samhengi er einvörðungu að yfirfara virkjunartilhögun og sannreyna, að hún uppfylli alla skilmála, sem Landsvirkjun hefur undirgengizt á undirbúningsstigum.  Þess vegna hafa Orkustofnun verið sett 2 mánaða tímamörk til verkefnisins, sem er sanngjarnt. 

Það er hlutverk orkumálastjóra að fylgjast með starfsmönnum sínum og/eða verktökum og sjá til þess, að þeir blási ekki verkefni sitt út langt umfram það, sem ætlazt er til af þeim.  Núverandi orkumálastjóra virðast hafa verið mislagðar hendur að þessu leyti. 

"Orkumálastjóri virðist telja þann tíma, sem þetta hefur tekið, réttlætanlegan og talar um, að þurft hefði fleira fólk og aukið fjármagn.  Þá segir orkumálastjóri mikilvægt að vanda vel til verka, sem gefur augaleið, en það felur ekki í sér, að opinberar stofnanir geti tafið mál, eins og þeim hentar.  Hér þarf að vera hægt að halda úti skilvirku atvinnulífi, og hluti af því er, að hægt sé að ráðast í virkjanaframkvæmdir innan eðlilegs tímaramma."

Málflutningur orkumálastjóra er órökstuddur og frasakenndur, eins og þar tali PR-fulltrúi orkumálastjóra og orkulandsreglara ESB, en ekki sjálfur orkumálastjóri Íslands með faglega þyngd. Að bera við manneklu, þegar inn kemur stórt verkefni, er óboðlegt, því að mannahald Orkustofnunar á ekki að miða við toppálag.  Orkustofnun átti að leigja strax inn kunnáttufólk, t.d. af verkfræðistofu, til að fást við þetta verkefni (verkfræðistofu, sem ekki hefur komið að undirbúningsvinnu Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar) í stað þess að fórna höndum yfir álaginu og leggja verkefnið í saltpækil í hálft ár og hefja þá umsagnarferli og innköllun viðbótar gagna. 

Hver segir, að Orkumálastofnun hafi vandað vel til verka, þegar hún loksins dró umsóknina upp úr saltpæklinum í janúar 2022 ?  Orkumálastjóri styður þá einkunn sína ekki með neinum dæmum.  Gæði þessarar rýni Orkustofnunar eiga einfaldlega eftir að koma í ljós.  Eftir stendur, að ráðleysið virðist mikið, þegar að verkstjórninni kemur á þessum bæ, enda er hulin ráðgáta, hvernig menntun í stjórnmálafræði á að gagnast í þessum efnum, en lengi skal manninn reyna.  

 


Stríð í okkar heimshluta

Frá 24. febrúar 2022 geisar illúðlegt stríð í Evrópu.  Hið árásargjarna rússneska ríki heyr grimmdarlegt nýlendustríð gegn Úkraínumönnum.  Siðferðilega rotnum og ömurlega illa skipulögðum Rússaher gengur svo illa á vígvöllunum, að síðan gagnsókn úkraínska hersins hófst í byrjun september 2022, hefur honum orðið vel ágengt við að frelsa hertekin landsvæði, einkum í norðaustri og suðri. Þar hefur aðkoman verið ömurleg. Fréttir berast nú af 4 pyntingarstöðvum rússneska hersins í frelsaðri Kherson-borg í suðri.  Eru brot Rússa á Genfarsáttmálanum um stríðsrekstur, meðferð stríðsfanga og hegðun gagnvart óbreyttum borgurum, til vitnis um, að Rússland er villimannaríki, hryðjuverkaríki, sem útiloka á frá öllum samskiptum siðaðra manna.

Siðleysi og grimmd rússneskra stjórnvalda og hersins mun koma hart niður á óbreyttum borgurum Rússlands á næstu árum, og getur leitt til upplausnar sambandsríkisins, því að úrþvætti komast ekki upp með yfirráð til lengdar. Stríðið hefur leitt í ljós hrikalega rangt mat Vesturveldanna á öryggi Evrópu í hernaðarlegu og viðskiptalegu tilliti og sýnt frm á  nauðsyn NATO.  Rússar hafa ofmetið hernaðargetu sína og vanmetið samstöðu Vesturveldanna gegn skefjalausu ofbeldi.  Vesturveldin eru þó of treg til að senda Úkraínumönnum þau hergögn, sem gert gætu út af rússneska herinn í Úkraínu á fáeinum mánuðum.  Þessi tregða leiðir enn meiri hörmungar yfir almenning í Úkraínu vegna þess hernaðar, sem hinn ömurlegi rússneski her stundar gegn almennum íbúum Úkraínu. Fólskan ræður þar ríkjum, og hana verður að brjóta sem fyrst á bak aftur og veita síðan hinni stríðshrjáðu og dugandi úkraínsku þjóð inngöngu í NATO. Það er óskiljanlegt, að Þjóðverjar skuli ekki samþykkja tillögu Pólverja um staðsetningu Patriot-loftvarnakerfisins í Úkraínu fremur en í Póllandi.  Patriot-kerfið er líklegast öflugasta loftvarnakerfi, sem völ er á nú um stundir, og mundi líka verja aðliggjandi NATO-lönd, ef það væri staðsett í Úkraínu. Það er engu líkara en Frakkar og Þjóðverjar, hverra einræðisherrar lutu í lægra haldi fyrir gríðarlegum fjölda, sem rússneskir herforingjar öttu fram gegn herjum þeirra á 19. og 20. öld, vilji ekki sjá Rússaher sigraðan í Úkraínu á 21. öldinni.  Það er hrottalega misráðið af Berlín og París. Meira raunsæi er uppi í Eystrasaltslöndunum, Finnlandi og Póllandi, sem liðið hafa undan hernámi Rússa og þekkja eðli þeirra.   

Einn af íslenzkukennurum höfundar í MR skrifaði góða hugvekju í Fréttablaðið 9. nóvember 2022 um ástæður styrjalda almennt, og kveikjan að þeim góðu skrifum er líklega árásarstyrjöld Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hneykslazt er á hér að ofan.  Þarna á í hlut Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, en höfundur man ljóslega eftir honum kryfja Eglu með nemendum á einu misseri.  Nokkrir þefnæmir nemendur, einkum nærri kennarapúltinu, töldu sig einstaka sinnum skynja kaupstaðarlykt í loftinu, þegar kennarinn komst á flug við að útskýra boðskap Snorra Sturlusonar og útskýra vísurnar, sem sá lærði maður úr Oddaskóla á Rangárvöllum hafði safnað að sér eða ort sjálfur og sett á kálfskinn.  Konungar voru yfirleitt ófriðsamir og sátu yfir hlut sjálfstæðra bænda með skattheimtu til að fjármagna hirðina og herinn. Að breyttu breytanda á þetta við um einræðisherra nútímans.  

Nú verður gripið niður í lipurlega ritaða hugleiðingu  þjóðháttafræðingsins, sem bar fyrirsögnina:  

"Margtugga um stríð":

"Það er ævinlega fámenn yfirstétt, sem hefur komið stríðsátökum af stað.  Hún lætur, þegar grannt er skoðað, jafnan stjórnast af ásókn í land, auðlindir og völd, þótt menningar- eða trúarlegar ástæður séu oft hafðar á yfirborði.  Til þess hefur hún sér til fulltingis snillinga á sviði innrætingar til að fá almenning til fylgis.  En það er einn afdrifaríkasti veikleiki hins venjulega manns, hvað hann er hrekklaus og ginnkeyptur fyrir málafylgju." 

Þessi texti getur sem bezt átt við Rússland 2022 og Þýzkaland 1939 og 1914.  Í öllum tilvikum var um einræðisstjórnarfar að ræða, og slík ríki eru mun ófriðlegri og árásargjarnari en vestræn lýðræðisríki.  Rússneska yfirstéttin, ólígarkar, ágirnist auð Úkraínu.  Fólkið þar er duglegt og skapandi, moldin er frjósöm, dýrir málmar og olía í jörðu, og nú hafa fundizt miklar jarðgasbirgðir í Suður-Úkraínu og þó einkum í Svartahafi í kringum Krímskagann.

Rússneska rétttrúnarkirkjan virðist vera með böggum hildar, eftir að sú úkraínska sagði skilið við hana 2019 og hefur lýst "sértæka hernaðaraðgerð" Pútíns sem heilagt stríð gegn Úkraínu.  Pútín og skósveinar þessa  nýlenduherra lýsa því blákalt yfir, alveg út í loftið, að úkraínsk þjóð hafi enga sérstöðu og úkraínsk menning sé ekki til. Þetta stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og t.d. sögu 18. aldar, þegar Úkraínumenn voru í uppreisn gegn zarnum. Frá því að sænskir víkingar stofnuðu með íbúunum á svæðinu Kænugarðsríkið, hefur Úkraína verið til með sínum kósökkum.  Hér er um harðduglega menningarþjóð að ræða, t.d. á sviði tónlistar og dansa. 

Rússar hafa alltaf verið með tilburði til að þurrka út sérstöðu þjóðarinnar og kúga hana grimmdarlega, eins og tilbúin hungursneið af þeirra hálfu 1932-1933 sýndi.  Til þess var tekið, að Rússar stálu öllum gersemum þjóðminjasafnsins í Kherson og höfðu á brott með sér til Rússlands, ásamt heimilistækjum og salernisbúnaði.  Þeir hafa hagað sér eins og óuppdregnir vandalar í Úkraínu. Herstjórninni væri trúandi til að standa að slíku. Hún er ærulaus. 

"Slík átök byrjuðu smátt fyrir þúsundum ára.  Í frjósömum árdölum tókst fólki smám saman að framleiða meiri matvæli en það þurfti til daglegs viðurværis. Meðal þess spruttu upp klókir og gráðugir menn, sem með ýmsum aðferðum gerðu sig að andlegum leiðtogum og í krafti þess með tímanum að veraldlegum foringjum, sem hirtu framleiðslu fjöldans.  Enginn þeirra var þó þekktur að manngæzku."

Þetta er líklega sannferðug lýsing á upphafi stéttaskiptingar í heiminum. Fólk hefur alltaf verið misjafnlega úr garði gert að andlegu og líkamlegu atgervi, svo að ekki sé minnzt á hugðarefnin, svo að þeir, sem gátu framleitt meira en aðrir, hafa verið taldir vel til forystu fallnir. Hjátrú hefur þjakað lýðinn þá, eigi síður en nú, og það hefur verið góður jarðvegur til að koma því inn hjá honum, að velgengni stæði í sambandi við æðri máttarvöld. Það varð að eins konar réttlætingu á forréttindum og hóglífi æðsta klerks, að þau væru merki um velþóknun æðri máttarvalda.  Áróður og innræting hafa óralengi leikið stórt hlutverk í samfélagi manna og verið jafnan til bölvunar.  

"Þessir foringjar komu sér upp hirð og her til að tryggja völd sín, reistu sér hallir og hof og töldu lýðnum trú um, að toppfígúran hefði þegið stöðu sína frá æðri máttarvöldum, sem öllum bæri að hlýða.  Þegar svo valdaklíkur í nágrannalöndum tóku að keppa um sömu náttúruauðlindir, var kvatt til herútboðs, einatt í nafni trúar, þjóðernis eða ættjarðarástar.  Og lýðurinn kunni ekki annað en hlýða.  Í sögukennslu er svo látið heita, að þetta sé gert í nafni þjóðar og forkólfar yfirgangsins, eins og Alexander mikli, Sesar eða Napóleon, kallaðir mikilmenni." 

Höfundur þessa pistils er hallur undir þessa söguskýringu síns gamla læriföður um Eglu. Í hryðjuverkaríkinu Rússlandi er nú alræði eins manns, sem hefur hlotið blessun rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á villimannslegu landvinningastríði sínu í Úkraínu, svo að þar kemur sú tenging við yfirnáttúruleg öfl, sem Árni tínir til í kenningu sinni hér að ofan.  Forseti Rússlands boðar ennfremur endurreisn heimsveldis Rússa, eins og það var víðfeðmast á dögum zaranna, og í raun sameiningu allra Slava í eitt ríki undir forystu Rússa.  Það á að endurreisa "mikilfengleika Rússlands", sem er þó anzi þokukenndur. 

Þetta er geðveiki, enda er ekki nokkur raunhæfur grundvöllur fyrir slíkri endurtekningu kúgunarsögunnar.  Forseti Rússlands hefur raunar bólusett Úkraínumenn og aðra Slava endanlega gegn nokkrum áhuga á því að gerast enn og aftur þrælar frumstæðs og ofstopafulls rússnesks ríkis. 

"Pútín er lítið annað en handbendi nýríkra rússneskra auðjöfra, sem ágirnast m.a. auðlindir Úkraínu.  Vopnaframleiðendur meðal þeirra tapa ekki, þótt rússneski herinn tapi á vígstöðvunum.  Að breyttu breytanda gildir sama munstrið í stórum dráttum enn í dag. Það eru ekki þjóðir, sem keppa um auðlindir jarðar, en í stað aðalsmanna fyrri alda er komin yfirstétt fjármálajöfra, sem hagnast m.a. á offramleiðslu og endurnýjun óþarfra hergagna.  Til að réttlæta hana þarf að magna upp stríðsótta og helzt tímabundin átök.  Þetta eru allt annars konar öfl en þeir heiðarlegu dugnaðarmenn í hverju landi, sem eiga frumkvæði að því að byggja upp þarflega atvinnuvegi, en halda sig frá fjármálabraski.  En í krafti hins frjálsa fjármagns ráða braskararnir oft ferðinni."  

Hér skal ósagt látið, hver er handbendi hvers í æðstu  valdastétt Rússlands.  Þá er og komið í ljós núna, að friðarhreyfingar í Evrópu og víðar hafa haft kolrangt fyrir sér varðandi hættuna, sem af Rússum stafar.  Þeir eru einfaldlega enn þá útþenslusinnað og árásargjarnt ríki, þótt herstyrkur og efnahagsstyrkur þessa rotnaða ríkis sé lítill.  Að tala niður fjármálamenn og fjárfesta á Vesturlöndum, af því að þeir græði sumir á framleiðslu og sölu hergagna, missir nú orðið algerlega marks á Vesturlöndum.  Það er full þörf á NATO og hefur alltaf verið til að verja einstaklingsfrelsið og lýðræðið.  Nú eru reyndar svartir sauðir í NATO á borð við Erdogan, Tyrklandsforseta, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sem þvælast fyrir inntöku Finnlands og Svíþjóðar í NATO.  Þá verður hegðun Orbans æ undarlegri, því að nú er hann farinn að sýna tilburði um að vilja færa út landamæri Ungverjalands og lætur mynda sig með trefil, sem sýnir ný landamæri. 

Rússar eru nú þegar búnir "að spila rassinn úr buxunum" í Úkraínu og hafa breytzt í útlagaríki.  Það verður líklegra með hverri vikunni, sem líður, að draumur Úkraínumanna um að reka rússneska herinn út úr landi sínu og endurreisa landamærin frá 1991 muni rætast 2023.  Til að varðveita þann frið, sem þeir þá hafa lagt grunninn að, þarf endilega að verða við bón þeirra um að ganga í NATO.  Síðan mun hefjast gríðarlegt uppbyggingarskeið í Úkraínu, þar sem innviðir, skólar, sjúkrahús,íbúðarhúsnæði og fyrirtæki verða reist að vestrænum hætti, og Úkraína verður tengd vestrænum mörkuðum og stofnunum og verður varnarlegt bólvirki gegn Rússum með öflugasta her Evrópu.  

Það mun ekki líða á löngu, unz verg landsframleiðsla Úkraínu mun sigla fram úr VLF Rússlands, og að nokkrum áratugum liðnum munu Úkraínumenn verða fjölmennari en íbúar leifanna af Rússaríki.  (Kákasusþjóðirnar og e.t.v. einhverjar Síberíuþjóðir munu segja skilið við Sambandsríki Rússlands.)  Auðlindir Úkraínu eru nægar til að veita yfir 100 M manna þjóð góð lífskjör á evrópskan mælikvarða.  Úkraína getur brauðfætt og knúið orkukerfi allrar Evrópu vestan Rússlands. Þannig mun Úkraína verða öflugasta ríki Evrópusambandsins. 

 

 

 

 


Skýrsla veldur vonbrigðum

Um efnivið skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu Bankasýslu ríkisins á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka má segja, að fjallið hafi tekið jóðsótt og fæðzt hafi lítil mús.  Þetta er skrifað í ljósi þess, að téð skýrsla var um 7 mánuði í smíðum, og miðað við það er afraksturinn afar rýr. Palladóma gætir í skýrslunni á borð við þekkingarskort Bankasýslunnar á viðfangsefninu, óþarflega lágt verð á hlutnum og ófullnægjandi upplýsingagjöf, en af andsvörum Bankasýslunnar við þessari gagnrýni virðist engin innistæða vera fyrir henni, og er henni vísað til föðurhúsanna. Alþingismaðurinn Haraldur Benediktsson undirstrikar þetta mat. 

Í umræðum um þessa sölu í kjölfar útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur eftir-á-vizka verið mest áberandi.  Hún er einskis virði, enda órökstudd í öllum tilvikum hér, en reist á afdönkuðum vinstri viðhorfum um, að alltaf tapi samfélagið á sölu ríkiseigna, þótt því sé í raun þveröfugt farið, því að þessir "aðgerðarlausu peningar" ríkisins verða settir í að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs og settir "í vinnu" með innviðauppbyggingu. Einnig minnkar áhætta ríkissjóðs vegna vanhugsaðra aðgerða bankamanna.  Allir ættu að vita, t.d. eftir fyrirsjáanlegt mrdISK 200 tap ríkissjóðs vegna ábyrgðar á gjörningum ríkisstarfsmanna í Íbúðalánasjóði, að affarasælast er, að þeir (embættismenn og stjórnmálamenn) haldi sig fjarri stjórnunarhlutverki í fjármálastofnunum, því að á þær bera þeir fæstir meira skynbragð en heimilisköttur.

Það skín í gegnum málflutning ríkisrekstrarsinna, að þeir ætluðu að koma klofbragði á þessa og framtíðar sölur hluts í bönkunum, eftir útkomu skýrslunnar.  Þeir leituðu logandi ljósi að einhverju bitastæðu á borð við lögbrot, en slíkt fann Ríkisendurskoðun reyndar ekki. Hins vegar spurðu slagsíðu-fréttamenn á RÚV, sem eru í raun og veru fúskarar í blaðamannastétt, af því að þeim er um megn að fjalla hlutlægt um mál, ef þeir sjá möguleika á að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína, ítrekað um, hvort sala hlutarins fæli í sér lögbrot. 

Öll var framganga þeirra aukvunarverð, og aumust var framganga formanns Blaðamannafélagsins í Kastjósþætti með fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem hún spann upp þvælu, sem átti að sýna hlustendum, að ráðherrann hefði viljað koma sér hjá að mæta bankabónusdrottningunni, sem nú vermir stól formanns Samfylkingar.  Aumari spuna er vart hægt að hugsa sér, enda stóð ráðherrann daginn eftir í um 8 klst vörn fyrir þessa sölu á ríkiseigninni.  Hið hlálega er, að hin eigingslega bankabónusdrottning Samfylkingar hélt því síðan fram, að ráðherrann hefði ekki "þorað" að mæta sér í umræddum Kastljósþætti.  Það er langt síðan hlægilegra ofmat á eigin getu hefur sézt af hálfu Alþingismanns.  Er líklegt, að það eigi sér sálfræðilega skýringu ?  

Þá er ótalin orðsporsrýrnun Alþingis út af þessu máli.  Þar er ekki átt við hefðbundið blaður þekkingarsnauðra þingmanna á viðkvæmu og viðamiklu máli, heldur um trúnaðarbrest Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (SEN) gagnvart forseta Alþingis og Ríkisendurskoðanda með því að senda skýrsluna til nokkurra blaðamanna, þ.á.m. á RÚV, á meðan trúnaður átti að ríkja um hana.  Þetta var bæði siðlaust og afspyrnu heimskulegt athæfi, því að ekki verður séð, hvernig slíkur leki átti að gagnast aumum málstað stjórnarandstöðunnar.  Það verður að gera gangskör að því að finna hinn seka, því að annars liggja of margir undir grun, og orðspor Alþingis sem traustverðrar stofnunar er í húfi. Hin seka eða seki verður að fá að finna til tevatnsins með viðeigandi hætti (fá aldrei aftur trúnaðargögn í hendur, gegna engum hlutverkum á vegum Alþingis, sem sagt hún (hann) verði sett í skammarkrókinn).

Í Staksteinum Morgunblaðsins 18. nóvember 2022 er vitnað í orð Haraldar Benediktssonar, Alþingismanns, sem varpa í raun ljósi á, hversu ómerkilegur málatilbúnaður og orðaskak stjórnarandstöðunnar er, enda ætlunin að kasta skít í tannhjól frekari sölu á hlut ríkisins í bönkum og að níða skóinn niður af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. "verður hann ekki að sæta ábyrgð ?".  Aum er sú hegðun:

"Haraldur Benediktsson, varamaður í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, veitir athyglisverða innsýn í söluna á Íslandsbanka og skýrslu Ríkisendurskoðunar um þá sölu í samtali við mbl.is.  Hann segir, að komast þurfi til botns í lekanum á skýrslunni, enda sé um að ræða "viðkvæm samskipti þings og Ríkisendurskoðunar.  Og hann bætir við: "Skýrslan var í örfárra höndum, sem voru beðnir sérstaklega um trúnað með bréfi frá forseta þingsins."  Þarf ekki að rannsaka, hver varð ekki við þeirri beiðni."

Auðvitað verður þingið með hjálp sérfræðinga að komast til botns í málinu, því að trúverðugleiki þingsins er í húfi.  Sú eða sá, sem stóðst ekki freistinguna að taka forskot á sæluna við að þyrla upp moldviðri út af þessari sölu á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka, ber að gjalda þess og getur ekki fengið að njóta slíks trúnaðar áfram.  

"En Haraldur er líka í Fjárlaganefnd og segir, að þar hafi tilboðsleiðin, sem farin var við söluna, verið "rækilega kynnt fyrir nefndinni og þá mögulegir afslættir.  Þetta voru allt saman atriði, sem voru rædd, og við fengum meira að segja sérstaka gesti á fundi nefndarinnar til að ræða tilboðsleiðina.  Við kynntum okkur hana með því að leita víðar fanga en bara til fjármálaráðuneytis og bankasýslunnar."

Þetta sýnir í hnotskurn, að túður Kristrúnar Frostadóttur o.fl. stjórnarandstæðinga um, að illa hafi verið staðið að kynningu og upplýsingagjöf til þingsins, stenzt ekki rýni.  Mikill áhugi markaðarins á útboðinu bendir jafnfram til góðrar upplýsingagjafar til hans.  Gagnrýniefni Ríkisendurskoðunar eru ýmist getgátur og eftir-á-speki eða hreinn sparðatíningur.  Svo er að sjá, hvort skýrsla Seðlabankans verði eitthvað bitastæðari.  Að drepa söluferlið í dróma með skipun rannsóknarnefndar þingsins er algerlega ástæðulaust og allt of seinvirkt og dýrt ferli. Hér hefur orðið stormur í vatnsglasi nokkurra athyglissjúkra þingmanna, sem gera sig seka um órökstuddan fullyrðingaflaum, og er bónusbankadrottning Samfylkingarinnar ekki barnanna bezt í þeim efnum.  

"Hann bendir einnig á álit minni- og meirihluta og segir þau til vitnis um, að þessi mál hafi verið rædd í fjárlaganefnd og í greinargerð ráðherra. "Það gat komið niður á hæsta mögulega verði.  Þannig að ég skildi það ekki í vor og skil ekki enn í dag, hvers vegna menn koma svona af fjöllum með þetta allt saman", segir hann.  Getur verið, að aðrir hafi sofið á nefndarfundunum ?" 

Það er ábyggilega óbeysnum skilningi fyrir að fara á útboðsmálum almennt hjá þeim innantómu vindhönum og -hænum, sem hæst hafa galað eftir þessa sölu, en þau eygðu áróðurstækifæri fyrir sig og gerðu óburðuga tilraun til að koma óorði á sölu ríkiseigna almennt.  Þar er hvatinn ótvíræður.  Hversu lítil skynsemi sem annars er í því fyrir ríkið að sitja á eignum í allt annarri starfsemi en ríkið fæst almennt við, reyndar með mjög umdeilanlegum árangri, þá skal útþensla og eignamyndun ríkisins varin fram í rauðan dauðann og öllum ráðum beitt til að setja skít í tannhjólin, jafnvel trúnaðarsvikum við forseta Alþingis.  Þetta vinstra lið er bæði fákunnandi, frekt og siðlaust.

Við þetta tækifæri er vert að minnast þess, hvernig Íslandsbanki komst í hendur ríkisins.  Hann var stofnaður upp úr þrotabúi Glitnis með stöðugleikaframlögum kröfuhafanna.  Hverjir stóðu að þeim snilldargjörningi ?  Voru það mannvitsbrekkur eða fjármálaspekingar á vinstri kanti stjórnmálanna, sem þó höfðu tækifæri til að láta ljós sitt skína á tíma vinstri stjórnarinnar 2009-2013, mesta niðurlægingartímabili lýðveldisins.  Nei, þau reyndust duglaus með öllu og reyndar ónýt til allra verka.  Það voru fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson og forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem kreistu stöðugleikaframlögin undan nöglum kröfuhafanna.  Nú telur sá fyrr nefndi vera fyllilega tímabært, að þetta fé fari að vinna fyrir íslenzka þjóð, en annað fé, fé af frjálsum fjármálamarkaði, leiti í staðinn inn í bankann sem hlutafé.  Þessi þróun þarf að halda áfram, svo að hann verði öflugt almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands.   

     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband