Færsluflokkur: Dægurmál
20.12.2022 | 11:09
Ófullnægjandi stjórnsýsla
Það höfðu ýmsir áhyggjur af því við ráðningu núverandi forstjóra Orkustofnunar, að í fyrsta skipti í sögu stofnunarinnar og forvera hennar var farið inn á þá braut að velja ekki til starfans neinn úr röðum tæknimenntaðra umsækjenda, s.s. verkfræðing eða tæknifræðing, heldur var stjórnmálafræðingur valinn úr hópi umsækjenda. Nú þegar hefur komið í ljós, að ekki hafa stjórnarhættir Orkustofnunar batnað við þessa nýbreytni, heldur þvert á móti, því að afgreiðslutími umsókna um leyfi fyrir allstórum virkjunum hefur lengzt verulega.
Afsakanir orkumálastjóra eru aumkvunarverðar og sýna, að hana skortir alla tilfinningu fyrir því, sem liggur á að gera (sense of urgency). Í stað þess að taka stærstu og þar af leiðandi væntanlega tímafrekustu umsóknina fyrir strax og senda hana út í umsagnarferli og gera þá annað á meðan, þá saltar hún stærstu umsóknina í hálft ár. Þetta umsagnarferli er í sjálfu sér umdeilanlegt eftir alla þá kynningu og umsagnarferli, sem átt hafa sér stað á verkinu, og ætlazt verður til, að Orkustofnun hafi allar athugasemdir við verkið þegar undir höndum, er hún fær umsókn Landsvirkjunar til afgreiðslu.
Þá skýlir orkumálastjóri sér á bak við það að gæta þurfi vandvirkni. Tímanotkun er enginn mælikvarði á vandvirkni, og nú á það eftir að koma í ljós, hvort Orkustofnun hafi lagt eitthvað markvert til verkefnisins eða hvort tímanotkunin hafi snúizt um sýndarmennsku og aukaatriði, sem engu máli skipta.
Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um þetta alvarlega stjórnsýslumál undir fyrirsögninni:
"Óeðlilegar tafir Orkustofnunar".
Samkvæmt reglum um þessi mál gildir, að Orkustofnun á að afgreiða umsókn um virkjunarleyfi innan 2 mánaða frá því, að síðustu gögn berast. Það er auðvitað mjög ámælisvert, ef stofnunin kallar inn gögn um umsóknina, sem eru óþörf fyrir afgreiðslu málsins, til að hanga á 2 mánaða tímafrestinum. Samt er hún nú þegar búin að brjóta þá reglu um afgreiðslufrest.
Orkustofnun hefur misskilið hlutverk sitt, ef verið er að endurhanna virkjuninaað einhverju leyti, enda hefur Orkustofnun hvorki þekkingu né reynslu innan sinna vébanda til þess og er þá komin út fyrir sitt verksvið.
Í téðum Staksteinum stóð m.a.:
"Eitt dæmi um seinagang [opinberra stofnana] er afgreiðsla Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Umsóknin var lögð fram í júní í fyrra [2021], og það tók Orkustofnun rúmlega hálft ár að byrja vinnu við umsóknina, en samkvæmt reglugerð ber að taka ákvörðun um virkjunarleyfi innan tveggja mánaða frá því, að öll gögn hafa borizt."
Þetta eru þvílík molbúavinnubrögð, að engu tali tekur. Stendur þessari ríkisstofnun gjörsamlega á sama um þann gríðarlega kostnað, sem sleifarlag af þessu tagi mun hafa í för með sér vegna þess, að fyrirtæki munu ekki fá afhenta þá orku, sem þau vantar, árum saman ? Hvernig komið er fyrir stofnun fyrrum orkumálastjóra, Jakobs Björnssonar, rafmagnsverkfræðings og kennara höfundar, er þyngra en tárum taki.
"Leyfisveitandanum er í lófa lagið, hversu ítarleg sem umsókn er, að kalla eftir frekari gögnum, og það var gert í þessu tilviki. Allt þetta ár hefur farið í samskipti Orkustofnunar og Landsvirkjunar."
Ef raunveruleg ástæða væri fyrir þessari hegðun Orkustofnunar, er um að ræða vanreifaða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun, og því verður ekki trúað að óreyndu. Öllu líklegra er, að þeir, sem véla um þessa umsókn hjá Orkustofnun, skorti nauðsynlega færni til að rýna viðamikið tæknilegt viðfangsefni á borð við hönnun þessarar virkjunar. Það er þó öllu verra, að innan veggja Orkustofnunar virðist skorta skilning á raunverulegu hlutverki hennar í þessu sambandi. Hlutverk stofnunarinnar er ekki að stunda neins konar hönnunarrýni, því að Landsvirkjun mun bera fulla ábyrgð á þeirri hönnun, sem hún leggur fram. Hlutverk Orkustofnunar í þessu samhengi er einvörðungu að yfirfara virkjunartilhögun og sannreyna, að hún uppfylli alla skilmála, sem Landsvirkjun hefur undirgengizt á undirbúningsstigum. Þess vegna hafa Orkustofnun verið sett 2 mánaða tímamörk til verkefnisins, sem er sanngjarnt.
Það er hlutverk orkumálastjóra að fylgjast með starfsmönnum sínum og/eða verktökum og sjá til þess, að þeir blási ekki verkefni sitt út langt umfram það, sem ætlazt er til af þeim. Núverandi orkumálastjóra virðast hafa verið mislagðar hendur að þessu leyti.
"Orkumálastjóri virðist telja þann tíma, sem þetta hefur tekið, réttlætanlegan og talar um, að þurft hefði fleira fólk og aukið fjármagn. Þá segir orkumálastjóri mikilvægt að vanda vel til verka, sem gefur augaleið, en það felur ekki í sér, að opinberar stofnanir geti tafið mál, eins og þeim hentar. Hér þarf að vera hægt að halda úti skilvirku atvinnulífi, og hluti af því er, að hægt sé að ráðast í virkjanaframkvæmdir innan eðlilegs tímaramma."
Málflutningur orkumálastjóra er órökstuddur og frasakenndur, eins og þar tali PR-fulltrúi orkumálastjóra og orkulandsreglara ESB, en ekki sjálfur orkumálastjóri Íslands með faglega þyngd. Að bera við manneklu, þegar inn kemur stórt verkefni, er óboðlegt, því að mannahald Orkustofnunar á ekki að miða við toppálag. Orkustofnun átti að leigja strax inn kunnáttufólk, t.d. af verkfræðistofu, til að fást við þetta verkefni (verkfræðistofu, sem ekki hefur komið að undirbúningsvinnu Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar) í stað þess að fórna höndum yfir álaginu og leggja verkefnið í saltpækil í hálft ár og hefja þá umsagnarferli og innköllun viðbótar gagna.
Hver segir, að Orkumálastofnun hafi vandað vel til verka, þegar hún loksins dró umsóknina upp úr saltpæklinum í janúar 2022 ? Orkumálastjóri styður þá einkunn sína ekki með neinum dæmum. Gæði þessarar rýni Orkustofnunar eiga einfaldlega eftir að koma í ljós. Eftir stendur, að ráðleysið virðist mikið, þegar að verkstjórninni kemur á þessum bæ, enda er hulin ráðgáta, hvernig menntun í stjórnmálafræði á að gagnast í þessum efnum, en lengi skal manninn reyna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2022 | 11:17
Stríð í okkar heimshluta
Frá 24. febrúar 2022 geisar illúðlegt stríð í Evrópu. Hið árásargjarna rússneska ríki heyr grimmdarlegt nýlendustríð gegn Úkraínumönnum. Siðferðilega rotnum og ömurlega illa skipulögðum Rússaher gengur svo illa á vígvöllunum, að síðan gagnsókn úkraínska hersins hófst í byrjun september 2022, hefur honum orðið vel ágengt við að frelsa hertekin landsvæði, einkum í norðaustri og suðri. Þar hefur aðkoman verið ömurleg. Fréttir berast nú af 4 pyntingarstöðvum rússneska hersins í frelsaðri Kherson-borg í suðri. Eru brot Rússa á Genfarsáttmálanum um stríðsrekstur, meðferð stríðsfanga og hegðun gagnvart óbreyttum borgurum, til vitnis um, að Rússland er villimannaríki, hryðjuverkaríki, sem útiloka á frá öllum samskiptum siðaðra manna.
Siðleysi og grimmd rússneskra stjórnvalda og hersins mun koma hart niður á óbreyttum borgurum Rússlands á næstu árum, og getur leitt til upplausnar sambandsríkisins, því að úrþvætti komast ekki upp með yfirráð til lengdar. Stríðið hefur leitt í ljós hrikalega rangt mat Vesturveldanna á öryggi Evrópu í hernaðarlegu og viðskiptalegu tilliti og sýnt frm á nauðsyn NATO. Rússar hafa ofmetið hernaðargetu sína og vanmetið samstöðu Vesturveldanna gegn skefjalausu ofbeldi. Vesturveldin eru þó of treg til að senda Úkraínumönnum þau hergögn, sem gert gætu út af rússneska herinn í Úkraínu á fáeinum mánuðum. Þessi tregða leiðir enn meiri hörmungar yfir almenning í Úkraínu vegna þess hernaðar, sem hinn ömurlegi rússneski her stundar gegn almennum íbúum Úkraínu. Fólskan ræður þar ríkjum, og hana verður að brjóta sem fyrst á bak aftur og veita síðan hinni stríðshrjáðu og dugandi úkraínsku þjóð inngöngu í NATO. Það er óskiljanlegt, að Þjóðverjar skuli ekki samþykkja tillögu Pólverja um staðsetningu Patriot-loftvarnakerfisins í Úkraínu fremur en í Póllandi. Patriot-kerfið er líklegast öflugasta loftvarnakerfi, sem völ er á nú um stundir, og mundi líka verja aðliggjandi NATO-lönd, ef það væri staðsett í Úkraínu. Það er engu líkara en Frakkar og Þjóðverjar, hverra einræðisherrar lutu í lægra haldi fyrir gríðarlegum fjölda, sem rússneskir herforingjar öttu fram gegn herjum þeirra á 19. og 20. öld, vilji ekki sjá Rússaher sigraðan í Úkraínu á 21. öldinni. Það er hrottalega misráðið af Berlín og París. Meira raunsæi er uppi í Eystrasaltslöndunum, Finnlandi og Póllandi, sem liðið hafa undan hernámi Rússa og þekkja eðli þeirra.
Einn af íslenzkukennurum höfundar í MR skrifaði góða hugvekju í Fréttablaðið 9. nóvember 2022 um ástæður styrjalda almennt, og kveikjan að þeim góðu skrifum er líklega árásarstyrjöld Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hneykslazt er á hér að ofan. Þarna á í hlut Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, en höfundur man ljóslega eftir honum kryfja Eglu með nemendum á einu misseri. Nokkrir þefnæmir nemendur, einkum nærri kennarapúltinu, töldu sig einstaka sinnum skynja kaupstaðarlykt í loftinu, þegar kennarinn komst á flug við að útskýra boðskap Snorra Sturlusonar og útskýra vísurnar, sem sá lærði maður úr Oddaskóla á Rangárvöllum hafði safnað að sér eða ort sjálfur og sett á kálfskinn. Konungar voru yfirleitt ófriðsamir og sátu yfir hlut sjálfstæðra bænda með skattheimtu til að fjármagna hirðina og herinn. Að breyttu breytanda á þetta við um einræðisherra nútímans.
Nú verður gripið niður í lipurlega ritaða hugleiðingu þjóðháttafræðingsins, sem bar fyrirsögnina:
"Margtugga um stríð":
"Það er ævinlega fámenn yfirstétt, sem hefur komið stríðsátökum af stað. Hún lætur, þegar grannt er skoðað, jafnan stjórnast af ásókn í land, auðlindir og völd, þótt menningar- eða trúarlegar ástæður séu oft hafðar á yfirborði. Til þess hefur hún sér til fulltingis snillinga á sviði innrætingar til að fá almenning til fylgis. En það er einn afdrifaríkasti veikleiki hins venjulega manns, hvað hann er hrekklaus og ginnkeyptur fyrir málafylgju."
Þessi texti getur sem bezt átt við Rússland 2022 og Þýzkaland 1939 og 1914. Í öllum tilvikum var um einræðisstjórnarfar að ræða, og slík ríki eru mun ófriðlegri og árásargjarnari en vestræn lýðræðisríki. Rússneska yfirstéttin, ólígarkar, ágirnist auð Úkraínu. Fólkið þar er duglegt og skapandi, moldin er frjósöm, dýrir málmar og olía í jörðu, og nú hafa fundizt miklar jarðgasbirgðir í Suður-Úkraínu og þó einkum í Svartahafi í kringum Krímskagann.
Rússneska rétttrúnarkirkjan virðist vera með böggum hildar, eftir að sú úkraínska sagði skilið við hana 2019 og hefur lýst "sértæka hernaðaraðgerð" Pútíns sem heilagt stríð gegn Úkraínu. Pútín og skósveinar þessa nýlenduherra lýsa því blákalt yfir, alveg út í loftið, að úkraínsk þjóð hafi enga sérstöðu og úkraínsk menning sé ekki til. Þetta stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og t.d. sögu 18. aldar, þegar Úkraínumenn voru í uppreisn gegn zarnum. Frá því að sænskir víkingar stofnuðu með íbúunum á svæðinu Kænugarðsríkið, hefur Úkraína verið til með sínum kósökkum. Hér er um harðduglega menningarþjóð að ræða, t.d. á sviði tónlistar og dansa.
Rússar hafa alltaf verið með tilburði til að þurrka út sérstöðu þjóðarinnar og kúga hana grimmdarlega, eins og tilbúin hungursneið af þeirra hálfu 1932-1933 sýndi. Til þess var tekið, að Rússar stálu öllum gersemum þjóðminjasafnsins í Kherson og höfðu á brott með sér til Rússlands, ásamt heimilistækjum og salernisbúnaði. Þeir hafa hagað sér eins og óuppdregnir vandalar í Úkraínu. Herstjórninni væri trúandi til að standa að slíku. Hún er ærulaus.
"Slík átök byrjuðu smátt fyrir þúsundum ára. Í frjósömum árdölum tókst fólki smám saman að framleiða meiri matvæli en það þurfti til daglegs viðurværis. Meðal þess spruttu upp klókir og gráðugir menn, sem með ýmsum aðferðum gerðu sig að andlegum leiðtogum og í krafti þess með tímanum að veraldlegum foringjum, sem hirtu framleiðslu fjöldans. Enginn þeirra var þó þekktur að manngæzku."
Þetta er líklega sannferðug lýsing á upphafi stéttaskiptingar í heiminum. Fólk hefur alltaf verið misjafnlega úr garði gert að andlegu og líkamlegu atgervi, svo að ekki sé minnzt á hugðarefnin, svo að þeir, sem gátu framleitt meira en aðrir, hafa verið taldir vel til forystu fallnir. Hjátrú hefur þjakað lýðinn þá, eigi síður en nú, og það hefur verið góður jarðvegur til að koma því inn hjá honum, að velgengni stæði í sambandi við æðri máttarvöld. Það varð að eins konar réttlætingu á forréttindum og hóglífi æðsta klerks, að þau væru merki um velþóknun æðri máttarvalda. Áróður og innræting hafa óralengi leikið stórt hlutverk í samfélagi manna og verið jafnan til bölvunar.
"Þessir foringjar komu sér upp hirð og her til að tryggja völd sín, reistu sér hallir og hof og töldu lýðnum trú um, að toppfígúran hefði þegið stöðu sína frá æðri máttarvöldum, sem öllum bæri að hlýða. Þegar svo valdaklíkur í nágrannalöndum tóku að keppa um sömu náttúruauðlindir, var kvatt til herútboðs, einatt í nafni trúar, þjóðernis eða ættjarðarástar. Og lýðurinn kunni ekki annað en hlýða. Í sögukennslu er svo látið heita, að þetta sé gert í nafni þjóðar og forkólfar yfirgangsins, eins og Alexander mikli, Sesar eða Napóleon, kallaðir mikilmenni."
Höfundur þessa pistils er hallur undir þessa söguskýringu síns gamla læriföður um Eglu. Í hryðjuverkaríkinu Rússlandi er nú alræði eins manns, sem hefur hlotið blessun rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á villimannslegu landvinningastríði sínu í Úkraínu, svo að þar kemur sú tenging við yfirnáttúruleg öfl, sem Árni tínir til í kenningu sinni hér að ofan. Forseti Rússlands boðar ennfremur endurreisn heimsveldis Rússa, eins og það var víðfeðmast á dögum zaranna, og í raun sameiningu allra Slava í eitt ríki undir forystu Rússa. Það á að endurreisa "mikilfengleika Rússlands", sem er þó anzi þokukenndur.
Þetta er geðveiki, enda er ekki nokkur raunhæfur grundvöllur fyrir slíkri endurtekningu kúgunarsögunnar. Forseti Rússlands hefur raunar bólusett Úkraínumenn og aðra Slava endanlega gegn nokkrum áhuga á því að gerast enn og aftur þrælar frumstæðs og ofstopafulls rússnesks ríkis.
"Pútín er lítið annað en handbendi nýríkra rússneskra auðjöfra, sem ágirnast m.a. auðlindir Úkraínu. Vopnaframleiðendur meðal þeirra tapa ekki, þótt rússneski herinn tapi á vígstöðvunum. Að breyttu breytanda gildir sama munstrið í stórum dráttum enn í dag. Það eru ekki þjóðir, sem keppa um auðlindir jarðar, en í stað aðalsmanna fyrri alda er komin yfirstétt fjármálajöfra, sem hagnast m.a. á offramleiðslu og endurnýjun óþarfra hergagna. Til að réttlæta hana þarf að magna upp stríðsótta og helzt tímabundin átök. Þetta eru allt annars konar öfl en þeir heiðarlegu dugnaðarmenn í hverju landi, sem eiga frumkvæði að því að byggja upp þarflega atvinnuvegi, en halda sig frá fjármálabraski. En í krafti hins frjálsa fjármagns ráða braskararnir oft ferðinni."
Hér skal ósagt látið, hver er handbendi hvers í æðstu valdastétt Rússlands. Þá er og komið í ljós núna, að friðarhreyfingar í Evrópu og víðar hafa haft kolrangt fyrir sér varðandi hættuna, sem af Rússum stafar. Þeir eru einfaldlega enn þá útþenslusinnað og árásargjarnt ríki, þótt herstyrkur og efnahagsstyrkur þessa rotnaða ríkis sé lítill. Að tala niður fjármálamenn og fjárfesta á Vesturlöndum, af því að þeir græði sumir á framleiðslu og sölu hergagna, missir nú orðið algerlega marks á Vesturlöndum. Það er full þörf á NATO og hefur alltaf verið til að verja einstaklingsfrelsið og lýðræðið. Nú eru reyndar svartir sauðir í NATO á borð við Erdogan, Tyrklandsforseta, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sem þvælast fyrir inntöku Finnlands og Svíþjóðar í NATO. Þá verður hegðun Orbans æ undarlegri, því að nú er hann farinn að sýna tilburði um að vilja færa út landamæri Ungverjalands og lætur mynda sig með trefil, sem sýnir ný landamæri.
Rússar eru nú þegar búnir "að spila rassinn úr buxunum" í Úkraínu og hafa breytzt í útlagaríki. Það verður líklegra með hverri vikunni, sem líður, að draumur Úkraínumanna um að reka rússneska herinn út úr landi sínu og endurreisa landamærin frá 1991 muni rætast 2023. Til að varðveita þann frið, sem þeir þá hafa lagt grunninn að, þarf endilega að verða við bón þeirra um að ganga í NATO. Síðan mun hefjast gríðarlegt uppbyggingarskeið í Úkraínu, þar sem innviðir, skólar, sjúkrahús,íbúðarhúsnæði og fyrirtæki verða reist að vestrænum hætti, og Úkraína verður tengd vestrænum mörkuðum og stofnunum og verður varnarlegt bólvirki gegn Rússum með öflugasta her Evrópu.
Það mun ekki líða á löngu, unz verg landsframleiðsla Úkraínu mun sigla fram úr VLF Rússlands, og að nokkrum áratugum liðnum munu Úkraínumenn verða fjölmennari en íbúar leifanna af Rússaríki. (Kákasusþjóðirnar og e.t.v. einhverjar Síberíuþjóðir munu segja skilið við Sambandsríki Rússlands.) Auðlindir Úkraínu eru nægar til að veita yfir 100 M manna þjóð góð lífskjör á evrópskan mælikvarða. Úkraína getur brauðfætt og knúið orkukerfi allrar Evrópu vestan Rússlands. Þannig mun Úkraína verða öflugasta ríki Evrópusambandsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.12.2022 | 10:05
Skýrsla veldur vonbrigðum
Um efnivið skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu Bankasýslu ríkisins á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka má segja, að fjallið hafi tekið jóðsótt og fæðzt hafi lítil mús. Þetta er skrifað í ljósi þess, að téð skýrsla var um 7 mánuði í smíðum, og miðað við það er afraksturinn afar rýr. Palladóma gætir í skýrslunni á borð við þekkingarskort Bankasýslunnar á viðfangsefninu, óþarflega lágt verð á hlutnum og ófullnægjandi upplýsingagjöf, en af andsvörum Bankasýslunnar við þessari gagnrýni virðist engin innistæða vera fyrir henni, og er henni vísað til föðurhúsanna. Alþingismaðurinn Haraldur Benediktsson undirstrikar þetta mat.
Í umræðum um þessa sölu í kjölfar útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur eftir-á-vizka verið mest áberandi. Hún er einskis virði, enda órökstudd í öllum tilvikum hér, en reist á afdönkuðum vinstri viðhorfum um, að alltaf tapi samfélagið á sölu ríkiseigna, þótt því sé í raun þveröfugt farið, því að þessir "aðgerðarlausu peningar" ríkisins verða settir í að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs og settir "í vinnu" með innviðauppbyggingu. Einnig minnkar áhætta ríkissjóðs vegna vanhugsaðra aðgerða bankamanna. Allir ættu að vita, t.d. eftir fyrirsjáanlegt mrdISK 200 tap ríkissjóðs vegna ábyrgðar á gjörningum ríkisstarfsmanna í Íbúðalánasjóði, að affarasælast er, að þeir (embættismenn og stjórnmálamenn) haldi sig fjarri stjórnunarhlutverki í fjármálastofnunum, því að á þær bera þeir fæstir meira skynbragð en heimilisköttur.
Það skín í gegnum málflutning ríkisrekstrarsinna, að þeir ætluðu að koma klofbragði á þessa og framtíðar sölur hluts í bönkunum, eftir útkomu skýrslunnar. Þeir leituðu logandi ljósi að einhverju bitastæðu á borð við lögbrot, en slíkt fann Ríkisendurskoðun reyndar ekki. Hins vegar spurðu slagsíðu-fréttamenn á RÚV, sem eru í raun og veru fúskarar í blaðamannastétt, af því að þeim er um megn að fjalla hlutlægt um mál, ef þeir sjá möguleika á að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína, ítrekað um, hvort sala hlutarins fæli í sér lögbrot.
Öll var framganga þeirra aukvunarverð, og aumust var framganga formanns Blaðamannafélagsins í Kastjósþætti með fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem hún spann upp þvælu, sem átti að sýna hlustendum, að ráðherrann hefði viljað koma sér hjá að mæta bankabónusdrottningunni, sem nú vermir stól formanns Samfylkingar. Aumari spuna er vart hægt að hugsa sér, enda stóð ráðherrann daginn eftir í um 8 klst vörn fyrir þessa sölu á ríkiseigninni. Hið hlálega er, að hin eigingslega bankabónusdrottning Samfylkingar hélt því síðan fram, að ráðherrann hefði ekki "þorað" að mæta sér í umræddum Kastljósþætti. Það er langt síðan hlægilegra ofmat á eigin getu hefur sézt af hálfu Alþingismanns. Er líklegt, að það eigi sér sálfræðilega skýringu ?
Þá er ótalin orðsporsrýrnun Alþingis út af þessu máli. Þar er ekki átt við hefðbundið blaður þekkingarsnauðra þingmanna á viðkvæmu og viðamiklu máli, heldur um trúnaðarbrest Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (SEN) gagnvart forseta Alþingis og Ríkisendurskoðanda með því að senda skýrsluna til nokkurra blaðamanna, þ.á.m. á RÚV, á meðan trúnaður átti að ríkja um hana. Þetta var bæði siðlaust og afspyrnu heimskulegt athæfi, því að ekki verður séð, hvernig slíkur leki átti að gagnast aumum málstað stjórnarandstöðunnar. Það verður að gera gangskör að því að finna hinn seka, því að annars liggja of margir undir grun, og orðspor Alþingis sem traustverðrar stofnunar er í húfi. Hin seka eða seki verður að fá að finna til tevatnsins með viðeigandi hætti (fá aldrei aftur trúnaðargögn í hendur, gegna engum hlutverkum á vegum Alþingis, sem sagt hún (hann) verði sett í skammarkrókinn).
Í Staksteinum Morgunblaðsins 18. nóvember 2022 er vitnað í orð Haraldar Benediktssonar, Alþingismanns, sem varpa í raun ljósi á, hversu ómerkilegur málatilbúnaður og orðaskak stjórnarandstöðunnar er, enda ætlunin að kasta skít í tannhjól frekari sölu á hlut ríkisins í bönkum og að níða skóinn niður af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. "verður hann ekki að sæta ábyrgð ?". Aum er sú hegðun:
"Haraldur Benediktsson, varamaður í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, veitir athyglisverða innsýn í söluna á Íslandsbanka og skýrslu Ríkisendurskoðunar um þá sölu í samtali við mbl.is. Hann segir, að komast þurfi til botns í lekanum á skýrslunni, enda sé um að ræða "viðkvæm samskipti þings og Ríkisendurskoðunar. Og hann bætir við: "Skýrslan var í örfárra höndum, sem voru beðnir sérstaklega um trúnað með bréfi frá forseta þingsins." Þarf ekki að rannsaka, hver varð ekki við þeirri beiðni."
Auðvitað verður þingið með hjálp sérfræðinga að komast til botns í málinu, því að trúverðugleiki þingsins er í húfi. Sú eða sá, sem stóðst ekki freistinguna að taka forskot á sæluna við að þyrla upp moldviðri út af þessari sölu á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka, ber að gjalda þess og getur ekki fengið að njóta slíks trúnaðar áfram.
"En Haraldur er líka í Fjárlaganefnd og segir, að þar hafi tilboðsleiðin, sem farin var við söluna, verið "rækilega kynnt fyrir nefndinni og þá mögulegir afslættir. Þetta voru allt saman atriði, sem voru rædd, og við fengum meira að segja sérstaka gesti á fundi nefndarinnar til að ræða tilboðsleiðina. Við kynntum okkur hana með því að leita víðar fanga en bara til fjármálaráðuneytis og bankasýslunnar."
Þetta sýnir í hnotskurn, að túður Kristrúnar Frostadóttur o.fl. stjórnarandstæðinga um, að illa hafi verið staðið að kynningu og upplýsingagjöf til þingsins, stenzt ekki rýni. Mikill áhugi markaðarins á útboðinu bendir jafnfram til góðrar upplýsingagjafar til hans. Gagnrýniefni Ríkisendurskoðunar eru ýmist getgátur og eftir-á-speki eða hreinn sparðatíningur. Svo er að sjá, hvort skýrsla Seðlabankans verði eitthvað bitastæðari. Að drepa söluferlið í dróma með skipun rannsóknarnefndar þingsins er algerlega ástæðulaust og allt of seinvirkt og dýrt ferli. Hér hefur orðið stormur í vatnsglasi nokkurra athyglissjúkra þingmanna, sem gera sig seka um órökstuddan fullyrðingaflaum, og er bónusbankadrottning Samfylkingarinnar ekki barnanna bezt í þeim efnum.
"Hann bendir einnig á álit minni- og meirihluta og segir þau til vitnis um, að þessi mál hafi verið rædd í fjárlaganefnd og í greinargerð ráðherra. "Það gat komið niður á hæsta mögulega verði. Þannig að ég skildi það ekki í vor og skil ekki enn í dag, hvers vegna menn koma svona af fjöllum með þetta allt saman", segir hann. Getur verið, að aðrir hafi sofið á nefndarfundunum ?"
Það er ábyggilega óbeysnum skilningi fyrir að fara á útboðsmálum almennt hjá þeim innantómu vindhönum og -hænum, sem hæst hafa galað eftir þessa sölu, en þau eygðu áróðurstækifæri fyrir sig og gerðu óburðuga tilraun til að koma óorði á sölu ríkiseigna almennt. Þar er hvatinn ótvíræður. Hversu lítil skynsemi sem annars er í því fyrir ríkið að sitja á eignum í allt annarri starfsemi en ríkið fæst almennt við, reyndar með mjög umdeilanlegum árangri, þá skal útþensla og eignamyndun ríkisins varin fram í rauðan dauðann og öllum ráðum beitt til að setja skít í tannhjólin, jafnvel trúnaðarsvikum við forseta Alþingis. Þetta vinstra lið er bæði fákunnandi, frekt og siðlaust.
Við þetta tækifæri er vert að minnast þess, hvernig Íslandsbanki komst í hendur ríkisins. Hann var stofnaður upp úr þrotabúi Glitnis með stöðugleikaframlögum kröfuhafanna. Hverjir stóðu að þeim snilldargjörningi ? Voru það mannvitsbrekkur eða fjármálaspekingar á vinstri kanti stjórnmálanna, sem þó höfðu tækifæri til að láta ljós sitt skína á tíma vinstri stjórnarinnar 2009-2013, mesta niðurlægingartímabili lýðveldisins. Nei, þau reyndust duglaus með öllu og reyndar ónýt til allra verka. Það voru fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson og forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem kreistu stöðugleikaframlögin undan nöglum kröfuhafanna. Nú telur sá fyrr nefndi vera fyllilega tímabært, að þetta fé fari að vinna fyrir íslenzka þjóð, en annað fé, fé af frjálsum fjármálamarkaði, leiti í staðinn inn í bankann sem hlutafé. Þessi þróun þarf að halda áfram, svo að hann verði öflugt almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.11.2022 | 11:25
Gjaldskrá dreifiveitna ríkisins þarfnast úrbóta
Það er ófært, að dreifiveitur, sem eru með einokunarleyfi, mismuni íbúum þéttbýlis og dreifbýlis á grundvelli mannfjölda á sama dreifiveitusvæði. Ríkisveiturnar RARIK og Orkubú Vestfjarða gera þetta og miða við 200 manns, en HS Veitur láta ekki þessa ósvinnu líðast á sínum veitusvæðum í svipuðum mæli. Úr ríkissjóði er varið fé til að jafna mikinn mun innan dreifiveitnanna, en samt munar um 1,7 ISK/kWh eða 33 % gjaldskrá orku á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verður nú að gera gangskör að því að laga þetta í anda baksviðsgreinar Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 5. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:
"Erfitt að byggja upp í dreifbýli".
Hún hófst þannig:
"Ef menn vilja hafa gjaldskrá RARIK áfram, eins og hún er, er verið að taka meðvitaða ákvörðun um að byggja ekki upp í dreifbýli. Í gjaldskránni felst þéttbýlisstefna, andstæðan við dreifbýlisstefnu. Þetta er skoðun Gunnlaugs Karlssonar, framkvæmdastjóra Sölufélags garðyrkjumanna og stjórnarmanns í Samtökum fyrirtækja í landbúnaði."
Í ljósi þess, að við blasir, að þessi dapurlega ályktun Gunnlaugs er rétt, lýsir það óviðunandi slappleika núverandi og fyrrverandi orkuráðherra og andvaraleysi Alþingis í varðstöðu þess um jafnrétti landsmanna og jöfn tækifæri, að enn skuli viðgangast stórfelld mismunun af hálfu ríkisfyrirtækja gagnvart íbúum landsins eftir því, hvort þeir eða atvinnustarfsemi þeirra er staðsett, þar sem búa fleiri eða færri en 200 manns.
Það er auðvitað líka ótækt, að færsla dreifikerfa úr lofti í jörð samhliða þrífösun sveitanna bitni á kostnaði dreifbýlisins til hækkunar við rafmagnsnotkun. Afnám loftlína dreifikerfanna er sjálfsögð ráðstöfun til að jafna afhendingaröryggi raforku við þéttbýli, og þrífösun sveitanna er sjálfsagt réttlætismál, um leið og það er hagsmunamál sveitanna.
"Gunnlaugur segir, að óréttlætið í gjaldskrá RARIK einskorðist ekki við garðyrkjuna, heldur alla starfsemi í dreifbýli á starfssvæði RARIK og Orkubús Vestfjarða og starfsemi, sem áhugi sé á að byggja þar upp. Hann bendir á, að mikill uppgangur sé í ferðaþjónustu um allt land og þörf á fjárfestingum í gistiplássi. Gagnaver séu að byggjast upp og stækka sem og landeldi á laxi og tengd starfsemi. Þá sé þörf á orkuskiptum í landinu. Spyr hann, hvernig hægt sé að réttlæta það, að sá, sem hlaða vill rafmagnsbílinn sinn í Staðarskála þurfi að greiða hærra gjald en ef hann gerir það á Akureyri. Fleira mætti nefna, kornþurrkun og bakarí eru dæmi, sem Gunnlaugur nefnir til viðbótar. Með núverandi fyrirkomulagi sé meginhluti flatlendis Íslands útilokaður frá uppbyggingu af þessu tagi. Öllu sé stefnt í þéttbýlið, sem ekki taki endalaust við."
Ríkisdreifiveitur rafmagns ættu þegar í stað að hefja undirbúning að afnámi tvískiptingar gjaldskráa sinna fyrir afl og orku eftir fjölmenni á staðnum, þ.e. sameiningu almennrar gjaldskrár fyrir afl og orku og síðan aðgreiningu eftir skerðingarheimild, tíma sólarhringsins og orkumagni í viðskiptum. Ef heimtaug er yfir ákveðnum mörkum að stærð og lengd, sé jafnframt heimild til álagningar viðbótar stofngjalds.
Ef tregða reynist hjá fyrirtækjum og/eða ráðuneyti orkumála að hefja þetta starf strax, grípi Alþingi inn með viðeigandi þingsályktun. Alþingi á ekki að láta þetta sleifarlag á sjálfsagðri umbót í sanngirnisátt viðgangast lengur. Hvað er grasrótarráðherrann í orkuráðuneytinu að dóla. Grasrótardálæti hans var reyndar ekki fyrir að fara á deilunum um Orkupakka 3, sem hann tróð öfugum ofan í grasrótina í Sjálfstæðisflokkinum. Orð og efndir fara ekki saman hjá þessum fallkandidati í formannskjöri á Landsfundi í nóvember 2022.
Að lokum sagði í þessari þörfu baksviðsfrétt Morgunblaðsins:
"Vegna úreltrar skiptingar landsins í gjaldsvæði er engin starfsemi, sem þarf umtalsverða raforku, byggð upp, nema hægt sé að koma því við í þéttbýli, að sögn Gunnlaugs. Þar eru ýmis vandkvæði vegna skipulags og íbúðabygginga.
Gunnlaugur segir, að ráðamenn virðist ekki átta sig á afleiðingum þessarar gjaldskrárstefnu og kominn tími til, að þeir og fulltrúar í sveitarstjórnum setji sig inn í þessi mál og bregðist við. Hann nefnir sem möguleika að skipuleggja græna iðngarða, eins og gert er í Noregi. Það hefði þá kosti, að til væri skipulagt svæði, sem myndi gefa fyrirtækjum kost á að hefja uppbyggingu fyrr en ella. Eins þyrftu gjaldskrár rafmagns, hitaveitu og vatnsveitu að vera þær sömu, hvar sem iðngarðarnir væru staðsettir, og taka aðeins mið af raunkostnaði við að flytja orkuna [og vatnið] þangað. [Rekstrarkostnaðarmun, sem eru aðallega meiri orkutöp og dælukostnaður vatns, á einfaldlega að fella inn í sameiginlega gjaldskrá - innsk. BJo.]
Önnur lausn á málinu er að afnema sérleyfi RARIK og Orkubús Vestfjarða til að dreifa orku raforku í dreifbýli og gefa dreifinguna frjálsa, eins og raforkusalan sjálf er nú þegar."
S.k. ráðamenn hafa fæstir skilning á afleiðingum ráðstafana sinna, tilskipana og reglugerða, fyrir atvinnulífið, enda eru þeir þá úr öðrum jarðvegi komnir. Hér snýst málið hins vegar um það einfalda meginatriði, að ríkisvaldið og fyrirtæki ríkisins mismuni ekki íbúum landsins eftir búsetu. Sama dreififyrirtæki á að vera óheimilt að beita mismunandi gjaldskrám eftir staðsetningu viðskiptavinar, sem getur ekki leitað annað um viðskipti. Ef fyrirtæki þrjózkast við að verða við þessu, á að svipta það einokunarleyfinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2022 | 18:41
Af framtíð heimsins
Enn á ný er barizt á banaspjótum út af yfirráðum lands í Evrópu og stjórnarfyrirkomulagi í því landi og víðar, í þessu tilviki einræði að rússneskri fyrirmynd eða lýðræði að vestrænum hætti. Úkraínumenn hafa sýnt það að fornu og nýju, að þjóðfélagsleg viðhorf þeirra eru gjörólík Rússanna. Úkraínumenn eru einstaklingshyggjumenn, sem er annt um frelsi sitt og lands síns og eru búnir að fá sig fullsadda á yfirráðum Rússa og frumstæðum stjórnarháttum þeirra.
Úkraínumenn ganga ekki að því gruflandi núna, að þeir verða hnepptir í þrældóm, ef Rússar munu ná fram vilja sínum á þeim. Rússar eru forræðishyggjumenn, sem taka festu og stöðugleika í þjóðfélaginu fram yfir persónulegt frelsi sitt. Þeir hafa jafnan í sögunni sýnt sínum zar hollustu. Hafi þeir velt honum, hafa þeir einfaldlega tekið sér nýjan zar.
Núverandi zar, sem af tali sínu og gjörðum að dæma gengur alls ekki heill til skógar, stundar nú þjóðarmorð í Úkraínu og er einn grimmasti stríðsglæpamaður seinni tíma. Hann hefur opinberað veikleika rússneska hersins á vígvellinum og með framferði sínu innan lands og utan skipað Rússlandi á ruslahauga sögunnar. Nú eru Pótemkíntjöldin fallin og eftir stendur agalítill og lítt bardagahæfur her án góðrar herstjórnar og herskipulags, sem níðist miskunnarlaust á varnarlausum óbreyttum borgurum. Með falli téðra Pótemkíntjalda opinberast um leið siðblinda Kremlarherra, sem vekur fyrirlitningu um allan heim, einnig á meðal undirsáta Rússanna innan ríkjasambandsins.
Úkraínska þjóðin er nú með eldskírn sinni endurfædd til sögunnar. Hún hefur skipað sér í raðir vestrænna ríkja og ætlar að reka ræfildóminn úr austri í eitt skipti fyrir öll af höndum sér. Vonandi hafa Vesturveldin manndóm í sér til að standa svo myndarlega við bakið á hinni hugdjörfu og einbeittu úkraínsku þjóð, að henni takist ætlunarverk sitt í nafni fullveldis, frelsis og lýðræðis, og vonandi ber NATO-ríkin gæfa til að veita Úkraínu vernd gegn látlausum yfirgangi úr austri með því að veita landinu aðild að varnarsamtökum vestrænna ríkja. Að láta einræðisherrann í Kreml ráða því, hvaða lönd eru tekin inn í NATO að þeirra beiðni, gengur ekki lengur.
Hryðjuverkamennirnir við stjórnvölinn í Rússlandi nútímans reyna nú í vanmætti sínum á vígvellinum að sprengja íbúa Úkraínu langt aftur í aldir og svipta þá lífsnauðsynjum s.s. vatni og rafmagni. Þetta er gjörsamlega ófyrirgefanleg hegðun nú, þegar vetur gengur í garð. Orkuskorts gætir líka um alla Evrópu. Evrópa sýpur nú seyðið af draumórum sínum um, að gagnkvæmir hagsmunir vegna viðskiptatengsla ráði meiru um stefnumörkun í hefðbundnu einræðisríki en aldalöng útþensluhefð ríkisins.
Það, sem á við um Þýzkaland í þessu samhengi, á einfaldlega ekki við um Rússland, og við mun taka áralöng einangrun Rússlands fyrir vikið.
Um alla Evrópu, nema á Íslandi, mun verða gripið til viðarkyndingar í vetur til að halda lífi, og kolaorkuver hafa verið endurræst. Það hillir ekki undir, að markmið Parísarsamkomulagsins náist árið 2030, enda fer losun flestra ríkja á koltvíildi vaxandi.
Við þessar ömurlegu aðstæður og misheppnaða stefnumörkun stjórnmálamanna á flestum mikilvægustu sviðum tilverunnar, er hressandi að lesa boðskap Björns Lomborg, sem andæfir bölmóði heimsendaspámanna með talfestum rökum. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22.10.2022 undir fyrirsögninni:
"Af svartagallsrausi heimsendaspámanna".
Þar gat m.a. þetta að líta:
"Ósköpin dynja á okkur í síbylju, hvort sem þar er á ferð seinasta hitabylgja, flóð, skógareldar eða gjörningaveður. Engu að síður sýnir sagan okkur, að síðustu öldina hafa válynd veður haft æ minni áhrif á mannskepnuna. Á 3. áratug síðustu aldar lézt 1/2 M [manns] af völdum veðuröfga, en aðeins 18 k allan síðasta áratug [þ.e. þ.e. 3,6 % af fjöldanum fyrra tímabilið - innsk. BJo]. Árin 2020 og 2021 kröfðust svo enn færri mannslífa á þessum vettvangi. Hvers vegna ? Jú, vegna þess að því loðnara sem fólk er um lófana, þeim mun öruggar býr það."
Nú eru strax fluttar fréttir af vettvangi með myndaefni, þar sem veðuröfgar verða. Fjölmiðlum hættir mjög til að gera mikið úr frásögnum sínum í sögulegu samhengi og kenna síðan hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum um. Þetta er innistæðulaus bölmóður, hræðsluáróður, ætlaður til að koma sektarkennd inn hjá almenningi, hræða hann til að breyta neyzluvenjum sínum og lifnaðarháttum. Allt væri það unnið fyrir gýg. Samkvæmt gervihnattamælingum er hlýnun andrúmsloftsins miklu minni en IPCC (Alþjóðaráð Sþ um loftslagsbreytingar) heldur fram í skýrslum sínum og hleypir þar engum gagnrýnisröddum að. Öfgar veðurfarsins eru iðulega ýktar í sögulegu tilliti og sérstaklega afleiðingar þeirra, eins og Björn Lomborg er óþreytandi við að rekja:
"Sjónvarpsfréttir, sem fjalla um veður, gefa hins vegar til kynna, að allt sé á heljarþröm. Það er rangt. Árið 1900 var fátt talið eðlilegra en 4,5 % alls þurrlendis á jörðunni brynni ár hvert. Síðustu öldina er þetta hlutfall komið niður í 3,2 %. Sé að marka myndir frá gervihnöttum, hefur hlutfallið enn minnkað á síðustu árum. Í fyrra var það 2,5 %. Rík samfélög fyrirbyggja eldsvoða; svo einfalt er það. Spár gera ráð fyrir því, að við lok þessarar aldar [21.] verði brunar enn færri, hvað sem hnattrænni hlýnun líður."
Fréttamenn hafa tilhneigingu til að slengja fram getgátum einum sem staðreyndum án þess að grafast fyrir um hinar raunverulegu staðreyndir. Ef þeir ná óskiptri athygli "fréttaneytenda" í nokkrar mínútur, eru þeir nokkuð ánægðir með vaktina. Fyrir vikið úir og grúir af misskilningi og rangfærslum, og allt er hengt á hlýnun af mannavöldum. Úr henni er of mikið gert, og við á Norðurlöndunum getum nánast engin áhrif haft á koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, sem er meintur sökudólgur, en hvað með önnur efni þar ? Öll er þessi saga of áróðurskennd og æsingakennd til að vera trúverðug, enda eru menn á borð við Björn Lomborg búnir að höggva stór skörð í trúverðugleikann.
"Ekki dregur þó úr veðurtjóni einu þrátt fyrir spár um annað. Ekki er nema áratugur síðan umhverfisverndarfólk boðaði endanlegan dauða stóra kóralrifsins við Ástralíu vegna loftslagsbreytinga. Brezka blaðið Guardian ritaði jafnvel minningargrein um það. Nú hafa vísindamenn hins vegar sýnt fram á, að rifið er í góðum gír - raunar betri en síðan 1985. Þau skrif las auðvitað enginn."
Það væri til að æra óstöðugan að afsanna allan fullyrðingaflauminn, sem streymir frá froðuframleiðendum, sem kenna sig við umhverfisvernd, og eru illa að sér um lögmál náttúrunnar og hafa hvorki getu né vilja til að kynna sér þau mál til hlítar, sem þau gaspra um í tíma og ótíma. Þarna tíundar Björn Lomborg eitt dæmið, en hann hefur hrakið marga bábiljuna úr smiðju þeirra. Verst er, að hræðsluáróður dómsdagsspámanna nær eyrum stjórnmálamanna á Vesturlöndum, sem við stefnumörkun sína, t.d. í orkumálum, hafa mótað stefnu, sem er ekki aðeins vita gagnslaus og kostnaðarsöm, heldur einnig stórhættuleg fyrir lífsafkomu almennings í bráð og lengd.
"Önnur algeng tækni umhverfisverndarsinna var að nota myndir af ísbjörnum í áróðursskyni. Meira að segja var þeim beitt í kvikmynd Al Gore, Óþægilegur sannleikur. Raunin er hins vegar sú, að ísbjörnum fjölgar. Á 7. áratuginum [20. aldar] voru þeir [á] milli 5 og 10 þús., en eru í dag um 26 þús. að öllu töldu. Þetta eru fréttir, sem við fáum aldrei. Þess í stað hættu sömu umhverfisverndarsinnar bara hægt og hljótt að nota ísbirni í áróðri sínum."
Þegar þekking og yfirsýn ristir grunnt, gerist einmitt þetta, sem Björn Lomborg lýsir. Ísbjörninn þarf aðgang að sjó til að leita ætis. Þess vegna hefst hann við nálægt ísröndinni. Sú ísrönd færist til eftir árstíðum, árum, áratugum og öldum. Á norðurhveli hefur áður verið hlýrra en nú, t.d. á blómaskeiði víkinganna, þegar Ísland var numið. Ísbjarnarfjölskyldur hafa væntanlega dafnað vel þá í miklu æti ekki síður en nú. Hvernig fengu unhverfiskjánarnir þá flugu í höfuðið, að afkoma ísbjarna væri bundin við breiddargráðu ? Ísbjörninn er stórkostlegt dýr, sem hefur alla tíð þurft að aðlagast breytilegu umhverfi.
Síðan bendir Björn okkur vinsamlegast á, að kuldi sé manninum meiri skaðvaldur en hiti, og það á alveg sérstaklega vel við núna í orkuskortinum í Evrópu, þegar sumir hafa ekki efni á að kynda og hafa ekki aðgang að eldiviði:
"Á sama tíma horfum við fram hjá stærri vandamálum. Lítum á alla athyglina, sem hitabylgjur hljóta í Bandaríkjunum og víðar. Dauðsföllum af völdum hita fækkar einmitt í Bandaríkjunum, aðgangur að loftkælingu hjálpar meira en hár hiti skaðar. Kuldi kostar hins vegar mun fleiri mannslíf. Í Bandaríkjunum einum deyja 20 k [manns] á ári vegna hita, en 170 k [manna] vegna kulda - við spáum ekkert í það. Dauðsföllunum vegna kulda fjölgar í Bandaríkjunum, en við einblínum á hlýnun jarðar vegna þess, að stjórnmálamenn tönnlast á grænum lausnum, sem gera ekkert annað en að hækka orkuverð með þeim afleiðingum, að færri hafa efni á kyndingu. Við skellum skollaeyrunum við því, hvar við gætum í raun hjálpað mest."
Það er athyglisvert, að í BNA deyja næstum áttfalt fleiri úr kulda en hita. Það má ætla, að ýmist sé það fólk, sem hefur ekki efni á að kynda húsnæði sitt, eða útigangsfólk. Á Íslandi er líka útigangsfólk, sem hefur króknað úr kulda, en sem betur fer eru landsmenn langflestir í þeirri stöðu að hafa aðgang að orku á viðráðanlegu verði, svo að þeir geti haldið á sér nægilegum hita í verstu vetrarhörkunum. Hættan er hins vegar sú, að ekki sé fjárfest nægilega í tæka tíð til að hindra, að framboðið ráði ekki við eftirspurnina. Þetta kann að eiga við um hitaveitur vegna mikillar mannfjölgunar og rafmagn vegna vanfjárfestinga í nýjum virkjunum. Kveður svo rammt að hinu síðar nefnda núna, að klárlega má segja, að orkuyfirvöldin fljóti sofandi að feigðarósi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.11.2022 | 14:09
Vinnumálalöggjöfin er barn síns tíma
Furðulegar uppákomur í verkalýðshreyfingunni hafa dregið athyglina að rotnun hennar. Úrelt löggjöf um vinnumarkaðinn, sem að uppistöðu til er frá krepputíma 4. áratugar 20. aldarinnar, á sinn þátt í þessari hrörnun. Hluti þessarar löggjafar, eins og sá, er varðar raunverulega aðildarskyldu að stéttarfélagi, er gjörsamlega út úr kú, þegar hann er borinn saman við mannréttindaákvæði samtímans og löggjöf annarra vestrænna landa um sama efni. Steingervingsháttur vinstri flokkanna hefur hindrað umbætur á þessu sviði, og vitnar hann um afturhaldseðli þessara stjórnmálaflokka og hræsni, því að þeir mega vart vatni halda í hverri viku yfir meintum mannréttindabrotum einhvers staðar í heiminum, einkum hérlendis gagnvart hælisleitendum.
Nú reyna nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að rjúfa stöðnunina á þessu sviði, og er það löngu tímabært, en þeir hafa fengið skít og skömm fyrir frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Hvað skyldi bankadrottningin, sem nú hefur tekið við formennsku í "Jafnaðarflokkinum", hafa um þessa nútímavæðingu hluta af íslenzkri vinnulöggjöf að segja ? Hætt er við, að þar á bæ hafi bara orðið umbúðaskipti fyrir ímyndina, og að þar sé enn á ferðinni gamalt vín á nýjum belgjum.
Í 2. grein lagafrumvarps sjálfstæðisþingmannanna segir:
"Launamenn og vinnuveitendur skulu hafa rétt til þess að stofna og ganga í þau stéttarfélög, sem þeir kjósa, og eru einungis háðir reglum hlutaðeigandi félaga um inngöngu í það.
Óheimilt er að draga félagsgjald af launamanni eða skrá hann sem félagsmann í stéttarfélag, nema með skýru og ótvíræðu samþykki hans. Óheimilt er að skylda mann til að ganga í tiltekið stéttarfélag."
Þetta, sem virðist sjálfsagt og eðlilegt á 21. öldinni, líta verkalýðsforingjar á sem aðför að frelsi sínu til að ráðskast með alla á sínu fagsviði og svæði. Þarna er sem sagt stungið á kýli verkalýðshreyfingarinnar, sem verður að fá að vessa úr, ef þessi hreyfing á að eiga sér viðreisnar von í samtímanum. Þegar formaður Starfsgreinasambandsins sér sig knúinn til að biðja umbjóðendur sína afsökunar á því í beinni útsendingu sjónvarps, hvað sé að gerast á Alþýðusambandsþingi, þegar þar fór allt í háaloft í haust, er ljóst, að ASÍ hefur rotnað innan frá vegna einokunar verkalýðsfélaganna á vinnumarkaðinum í skjóli löggjafarinnar, sem sjálfstæðismenn vilja nú hleypa hleypa nútímanum að.
Til þess enn frekar að herða á rétti launamanna til félagafrelsis á vinnumarkaði stendur þetta í 3. grein frumvarps sjálfstæðismannanna:
"Vinnuveitanda er óheimilt að synja að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á grundvelli félagsaðildar hans.
Vinnuveitanda er óheimilt að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á þeim grundvelli, að hann standi utan félags eða félaga."
Þarna er lögð rík áherzla á, að það séu mannréttindi launamanns að ákveða sjálfur án afskipta atvinnurekandans, hvort hann gangi í stéttarfélag eða ekki. Þetta er í takti við tíðarandann um einstaklingsfrelsi á Vesturlöndum, og allt annað er arfleifð kommúnisma eða þjóðernisjafnaðarstefnu, sem tröllriðu húsum í Evrópu og víðar á þeim tíma, þegar grunnurinn að núgildandi vinnulöggjöf var mótaður. Að hanga á þessum forréttindum stéttarfélaga um forgangsrétt stéttarfélagsfélaga að vinnu ber dauðann í sér fyrir vinnumarkaðinn, sérstaklega stéttarfélögin, þar sem félagsáhuginn er lítill sem enginn, og hvatinn til að gæta langtímahagsmuna félagsmanna er hverfandi vegna einokunaraðstöðu verkalýðsfélaganna. Þess vegna komast valdagráðugir slagorðakjánar til valda í verkalýðsfélögunum, oft á tíðum raunveruleikafirrt fólk með sáralítinn eða engan skilning á gangverki efnahagslífsins, fólk, sem afneitar efnahagslegum og fjárhagslegum staðreyndum, en setur í staðinn fram heimskulegar kenningar og gagnrýni á Seðlabankann, sem ná engri átt og þjóna engan veginn hagsmunum umbjóðenda þeirra, launþeganna.
Morgunblaðið fjallaði um þetta mál í forystugrein 28.10.2022 undir fyrirsögninni:
"Félagafrelsi".
Þar var getið um taugaveiklunarkennd viðbrögð fyrsta miðstjórnarfundar ASÍ eftir að þing þess splundraðist af ástæðum, sem nokkra vinnustaðasálfræðinga þarf til að greina, en þeir munu áreiðanlega ekki ráða bót á vandanum, því að hann liggur í því heiftarlega ófrelsi, sem ríkir á vinnumarkaðinum og snertir raunverulega skylduaðild að verkalýðsfélögum. Hún drepur niður áhugann innan félaganna og greiðir leið furðufugla til valda þar:
"Í gær gerðist það t.a.m., að miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti sérstaka ályktun um fyrrgreint frumvarp og lýsti þar yfir "mikilli furðu á framkomnu frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði". Í ályktuninni segir, að verkalýðshreyfingin hafi "engan hug á að láta sérvizku jaðarhóps stjórnmálamanna hafa áhrif á þá kjarnastarfsemi sína" að vinna að bættum kjörum launafólks."
Þessi ályktun miðstjórnarinnar er alveg eins og út úr kú. Hún er þóttafull einkunnargjöf til hóps þingmanna, sem enginn, nema afneitarar staðreynda í hópi furðufugla verkalýðshreyfingarinnar, hefur komið til hugar að kalla jaðarhóp. Margur heldur mig sig, enda er vægt til orða tekið, að svartagallsrausarar miðstjórnarinnar séu jaðarhópur á Íslandi samtímans.
Síðar stóð í téðri forystugrein:
"Þetta er raunar ekki meiri sérvizka en svo, að nánast öll vestræn ríki hafa bannað forgangsréttarákvæði kjarasamninga, enda ganga þau gegn hugmyndum um raunverulegt félagafrelsi. Eins og Óli Björn Kárason, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, benti á í framsöguræðu sinni á þingi, er markmiðið með frumvarpinu að tryggja, að íslenzkt launafólk búi við sömu réttindi og launafólk í nágrannalöndunum. Frumvarpið er "ekki róttækara en það", eins og hann benti á, og bætti við:"Við erum að tryggja íslenzku launafólki sömu réttindi og launafólk hefur í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og öðrum þeim löndum, sem við viljum gjarnan bera okkur saman við".
Heiftarleg viðbrögð Alþýðusambands Íslands eru mikið umhugsunarefni og eru enn ein vísbendingin um, að stéttarfélögin eru úr tengslum við félagsmenn sína. Þetta kemur fram í sérhverjum kosningum um forystu í þessum félögum, þar sem þátttaka er jafnan sáralítil, og þetta kemur fram í baráttu þessarar forystu, sem iðulega gengur þvert gegn hagsmunum félagsmannanna."
Verkalýðshreyfingin er helsjúk, eins og uppnám út af engu á ASÍ-þinginu í haust sýndi, en þar gerðu nokkrar prímadonnur þingið óstarfhæft. Þessi sýki eða úrkynjun stafar af einokunarstöðu verkalýðsfélaganna á vinnumarkaðinum, sem flutningsmenn téðs frumvarps á Alþingi vilja afnema og færa þar með þennan hluta vinnulöggjafarinnar til nútímahorfs. Fróðlegt verður að sjá afstöðu Viðreisnar, sem aldrei lætur af skjalli sínu á Evrópusambandinu (ESB), en frumvarp sjálfstæðismannanna er í samræmi við stefnu ESB og aðildarlandanna í þessum efnum. Þá verður athyglisvert að virða fyrir sér bankadrottninguna, sem nú hefur setzt í hásæti Samfylkingarinnar-Jafnaðarflokks og vill afla sér ímyndar ferskra, nútímalegra strauma í stjórnmálunum. Er það bara í nösunum á henni ? Verður hún ígildi Tonys Blair, formanns brezka Verkamannaflokksins, fyrir misheppnaða Samfylkingu ? Þá þarf hún á talsverðu hugrekki að halda. Hefur hún það ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.11.2022 | 11:03
Vindmyllur leysa engan vanda
Danmörk er langmesta vindmylluland Norðurlandanna, og þar er raforkuverðið langhæst. Danir hafa fjárfest gríðarlega í vindmyllum og auðvitað framleitt þær og selt út um allar jarðir. Hár fjárfestingarkostnaður, stuttur endingartími, tiltölulega hár rekstrarkostnaður og slitróttur rekstur veldur því, að vinnslukostnaður rafmagns er hár með vindmyllum, og á sama má segja, að aflið frá þeim sé annars flokks vegna óvissunnar, sem gætir um afhendingu þess. Viðskiptavinur getur ekki reitt sig á þetta afl, og þess vegna hefur vindmylluaflið afar lítið gildi hjá viðskiptavini, sem verður fyrir tilfinnanlegu tjóni, ef hann fær ekki umsamið afl.
Erlendis er þetta leyst með því, að seljandi vindmylluorku semur við seljanda orku frá annars konar orkuveri, yfirleitt gaskyntu orkuveri, um að hlaupa fyrir sig í skarðið. Hérlendis vill varla nokkur borga forgangsorkuverð fyrir vindmylluorku, nema seljandi vindorkunnar geti tryggt umsamda afhendingu. Þannig nemur verðmæti einangraðrar vindmylluorku hérlendis aðeins verðmæti ótryggðrar raforku, sem er e.t.v. þriðjungur af verðmæti forgangsorkunnar. Þannig er vandkvæðum háð að gera samning við seljanda vindmylluorku til lengri tíma en nemur sæmilega öruggri veðurspá.
Hins vegar gætu vindmyllur orðið verðráðandi hér á væntanlegum uppboðsmarkaði til eins sólarhrings, því að þar mun gilda, að fyrir öll viðskiptin ráði hæsta verðtilboð, sem tekið er. Þetta fyrirkomulag Evrópusambandsins og annarra hefur nú komið Evrópumönnum hrottalega í koll á orkuskortstímum, og hefur forseti framkvæmdastjórnar ESB sagt fyrirkomulagið ekki vera á vetur setjandi.
Nú væri hægt að láta alla þessa ókosti vindmylluraforkunnar liggja á milli hluta í nafni endurnýjanlegrar orkulindar og athafnafrelsis í landinu innan marka laganna, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að vindmyllur eru landfrekar, uppsetning þeirra kallar á tiltölulega umfangsmikil landspjöll og af þeim stafar ýmiss konar mengun.
Haukur Ágústsson hefur skrifað greinar í Morgunblaðið, sem veigur er í. Ein birtist 26. október 2022 undir fyrirsögninni:
"Viðbrögð við vindmyllum":
"Samkvæm vorut samtökunum "StopTheseThings" (Stöðvið þetta) voru yfir 30 k vindmyllur í Þýzkalandi árið 2019. [M.v. höfðatölu svarar þetta þó aðeins til 140 stk á Íslandi, en hérlendis hafa verið birt áform um mörg hundruð vindmyllur-innsk. BJo.] Margar þeirra eru svo bærri byggðu bóli, að mikið ónæði hlýzt af. Því hafa fasteignir í nágrenni þeirra lækkað í verði og jafnvel orðið óseljanlegar, auk þess sem almenn andúð á þeim hefur vaxið. Nú er svo komið, að sem næst engar nýjar vindmyllur eru reistar í Þýzkalandi, heldur horfa þýzkir fjárfestar til annarra landa og þá einkum Noregs."
Þýzkaland er 62 sinnum þéttbýlla en Ísland og þess vegna engin furða, þótt fórnarkostnaður af uppsetningu og rekstri vindmylla sé hár. Þjóðverjar hafa á seinni árum verið afar seinheppnir með orkustefnu sína, sem nú á ófriðartímum hefur leitt þá í algerar ógöngur, eins og kunnugt er. Höfuðsök þar ber fyrrverandi formaður CDU og kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, sem árið 2011 beitti sér fyrir lokun kjarnorkuvera og um 2015 fyrir banni við vökvaknúinni gasvinnslu úr jarðlögum (e. fracking) ásamt niðurgreiðslum á raforkukostnaði frá vindmyllum. Afleiðingin er sú, að Þjóðverjar eru ósjálfbjarga, þegar kemur að öflun orku, og færðu Rússum lykilstöðu um orkuútvegun. Þetta var svo mikill barnaskapur, ef ekki eitthvað verra, að engu tali tekur.
"Samkvæmt vefsíðunni "The Local (Nágrennið) berjast menn víða gegn þessum framkvæmdum, t.d. í Norður-Noregi og Svíþjóð, þar sem Samar búa með hreindýra hjarðir sínar og segja dýrin fælast myllurnar, ef þær hafa verið byggðar [reistar] á haglendi þeirra.
Að sögn Energifakta Norge (Orkutölur Noregs) voru 53 vindmyllugarðar í Noregi í upphafi ársins 2021. Árið 2019 voru stofnuð þar í landi samtök, sem fengu heitið "MotVind (Gegn vindorku). Hliðstæð samtök eru til víðar, s.s. í Svíþjóð og öðrum Evrópulöndum. Öll berjast þau gegn útbreiðslu vindmylla og telja þær skaðlegar náttúrulegu umhverfi og dýra- og mannlífi, auk þess sem þær dugi alls ekki til þess að koma í veg fyrir þær loftslagsbreytingar, sem ætlað er, að maðurinn valdi. Barátta þessara samtaka hefur víða borið verulegan árangur og hefur í ýmsum tilvikum komið í veg fyrir uppsetningu vindmyllugarða."
Þess er skemmst að minnast, að fumbyggjar í Norður-Noregi unnu dómsmál í réttarkerfi Noregs gegn vindmyllueigendum og yfirvöldum, sem veitt höfðu framkvæmdaleyfi á hefðbundnum beitarsvæðum hreindýra. Þessi dómur gefur til kynna, að yfirvöldum sé að norskum rétti óheimilt að leyfa framkvæmdar, sem rýra umtalsvert hefðbundin lífsskilyrði íbúanna á svæðin. Dómurinn kann að verða leiðbeinandi um meðferð dómsmála, ef sveitarstjórnir, t.d. á Vesturlandi, leyfa, að reistar verði vindmyllur í grennd (í áberandi sjónlínu) við íbúa eða jafnvel frístundabyggð, sem fallnar séu til að rýra lífsgæði íbúanna með einhverjum þeim hætti, sem hægt sé að færa sönnur á fyrir rétti.
Það er illskiljanlegt, að yfirvöld hérlendis skuli ljá vindmyllufyrirtækjum eyra í ljósi þess, að hérlendis verður alls engin þörf fyrir þessa dýru raforku, ef yfirvöld á borð við Orkustofnun og útgefendur framkvæmdaleyfa í héraði slá nú í nára truntunnar og keyra hana úr sporunum til að flýta virkjanaleyfum fyrir hefðbundnar íslenzkar virkjanir, sem almennt eru taldar sjálfbærar, og er þar auðvitað átt við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir.
Að lokum skrifaði Haukur Ágústsson:
"Þegar Kárahnjúkavirkjun var í byggingu, voru umhverfissinnar ötulir við að mótmæla virkjuninni. Menn komu meira að segja erlendis frá til þátttöku í aðgerðunum, sem fólust m.a. í því að stöðva verk með því að setjast niður fyrir framan vinnuvélar. Nú er rætt um yfir 30 vindmyllugarða á Íslandi. Afar lítið, ef nokkuð, ber á mótmælum vegna þessara áætlana. Þó eru umhverfisáhrifin sízt minni en af vatnsvirkjunum og miklu meira áberandi vegna afar hárra, gnæfandi turna og víðfeðmra spaða. Ekki er heldur minnzt á áhrifin í högum sauðfjár og hreindýra [sbr téð norsk dómsniðurstaða - innsk. BJo] eða á þann skaða, sem áreiðanlega verður á fuglum og smærri flugdýrum [skordýrum - innsk. BJo] - hvað þá áhrifin á ferðamannageirann.
Við Íslendingar búum enn við sæmilega óspillta náttúru. Er mikið vit í því að skaða hana í þágu gróðafíknar fáeinna manna, sem hyggjast græða á því að fordjarfa hana - og virðast ýmsir auk þess vera á mála erlendra aðila, eins og í Noregi."
Þetta er vel skrifuð grein hjá kennaranum fyrrverandi með þörfum ábendingum og viðvörunum. Án þess að gera vindmylluforkólfum upp hvatir (þeir ofmeta einfaldlega ávinninginn m.v. fórnarkostnaðinn) þá ber að beita sér einarðlega gegn leyfisveitingum fyrir vindmyllum á Íslandi um leið og yfirvöld eru hvött til að beita sér gegn þeirri vá, sem yfirvofandi raforkuskortur í landinu er fyrir hag landsmanna, með því að ýta undir nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir. Þær eru bæði nauðsynlegar og þjóðhagslega hagkvæmar, en vindmylluþyrpingar eru hvorugt.
Ímynd vatnsorkuvera erlendis er dálítið lituð af því, að víða hefur þurft að beita fólk nauðungarflutningum af athafnasvæðum slíkra virkjana. Það hefur ekki þurft í seinni tíð á Íslandi. Þá er beizlun vindorkunnar erlendis einn af fáum endurnýjanlegum virkjanakostum víða. Þetta hefur kallað fram ofstæki gegn vatnsaflsvirkjunum og doða gagnvart vindorkuverum, sem kann að hafa smitazt hingað. Þannig gera hvorki vindmylluforkólfar né virkjanaandstæðingar á Íslandi sér grein fyrir raunverulegum aðstæðum í landinu.
Dægurmál | Breytt 11.11.2022 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.11.2022 | 10:11
Gjaldþrota kratísk hugmyndafræði á fjármálamarkaði
Um 20. október 2022 beindust sjónir manna að herfilegum kratískum fjármálagjörningum Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra 1998, og síðan töfrabrögðum Framsóknarmanna á borð við Guðmund Bjarnason, sem annar Framsóknarmaður seldi fjölmiðlum undir heitinu "allir græða". Hér er auðvitað átt við Íbúðalánasjóð, sem um tíma var umsvifamikið ríkisapparat á fjármálamarkaði.
Raunar eru persónur og leikendur aukaatriði í þessu máli. Aðalatriðið er að draga þann lærdóm af því, að ríkisvaldið er ófært um að reka fjármálastarfsemi á heilbrigðan hátt á samkeppnismarkaði og ætti að draga sig að mestu út af þeim markaði, þótt fallast megi á til málamiðlunar að halda 35 % - 55 % eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, ef ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, samþykkir slíka þátttöku ríkisins á samkeppnismarkaði. M.ö.o. á að selja Íslandsbanka allan, þegar aðstæður þykja heppilegar, enda hefur ríkissjóður hagnazt á þeim sölum, sem þegar hafa farið fram á hlutum í bankanum, og ríkissjóð bráðvantar fé til að fjárfesta í innviðum landsins, sem gefa meiri arðsemi en ríkisbankar að jafnaði.
Íbúðalánasjóður kom í heiminn sem kosningaloforð, yfirboð, og er það afleit byrjun fyrir fjármálastofnun. Stjórnendur og ráðgjafar þar á bæ litu stórt á sig, en voru raunverulega algerlega utan gátta um hlutverk og stöðu þessarar fjármálastofnunar ríkisins, eins og eftirfarandi bútur úr bréfi (alger steypa) Íbúðalánasjóðs til Ríkisendurskoðunar sýnir:
"Útgáfa fjármögnunarbréfa sjóðsins hefur um árabil verið ráðandi um langtímavaxtastig í landinu, og ríkið stendur ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum hans. Við slíkar aðstæður var algerlega fráleitt fyrir Íbúðalánasjóð að hætta útgáfu íbúðabréfa. Slíkt hefði leitt til hruns vaxtamyndunar á markaði og gert sjóðinn ósamkeppnishæfan um ný útlán. Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið í kjölfarið og hagsmunum ríkissjóðs verið teflt í voða. Þetta hefði verið skýrt brot á lagaskyldum stjórnar og framkvæmdastjóra og óhugsandi út frá því hlutverki, sem sjóðnum er að lögum falið."
Stjórnendur sjóðsins reiddu ekki fjármálavitið í þverpokum, og þarna er óhönduglega farið með lögin. Á markaði ber engum aðila skylda til þess að lögum að stjórna "langtímavaxtastigi" í landinu. Þarna á sér stað "skapandi lagatúlkun" á ábyrgð forstjóra Íbúðalánasjóðs í samkeppni við bankana. Bæði fjármálaþekkingu og lagaþekkingu var ábótavant hjá þessari ríkisstofnun, og það er dæmigert, þegar um gæluverkefni stjórnmálamanna er að ræða. Þeir eiga ekki að koma nálægt samkeppnisrekstri á neinu sviði í samfélaginu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.11.2022 | 11:38
Reginhneyksli ríkisrekstrar á fjármálastofnun
Af einhverjum undarlegum ástæðum er hópur manna í þjóðfélaginu á þeirri skoðun, að ríkisrekstur á fjármálakerfinu eða drjúgum hluta þess sé heppilegasta rekstrarformið fyrir hag almennings. Ekkert er fjær sanni en stjórnmálamenn séu öðrum hæfari til að móta fjármálastofnanir og stjórna þeim. Dæmin þessu til staðfestingar eru mýmörg, en nýjasta dæmið er af Íbúðalánasjóði, sem stjórnmálamenn og embættismenn komu á laggirnar til að keppa við almenna bankakerfið um hylli húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda. Þar tókst ekki betur til en svo, að gjaldþrot blasir við með um mrdISK 450 tjóni fyrir ríkissjóð [reiknað til núvirðis mrdISK 200]. Fjármála- og efnahagsráðherra ætlar að koma í veg fyrir þetta mikla tjón með viðræðum við lánadrottnana og viðeigandi aðgerðum í kjölfarið.
Margir hafa fundið sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka allt til foráttu. Ýmist er það aðferðin, sem Bankasýslan mælti með, eða tímasetningin, sem látið er steyta á. Allt er þetta þó skálkaskjól fyrir þau, sem eru með sem mest ríkisafskipti og ríkisrekstur sem einhvers konar trúarsetningu í lífi sínu, alveg sama hversu misheppnað þetta fyrirkomulag er í raun, hvað sem heimspekingar segja um það á pappírnum.
Kaffihúsasnatinn Karl Marx var enginn mannþekkjari, heldur draumóramaður og "fúll á móti", sem hélt hann hefði fengið bráðsnjalla hugmynd, sem kölluð hefur verið kommúnismi. Kommúnisminn í einhverri mynd hefur alls staðar leitt til kollsteypu, og þarf ekki að tíunda það frekar.
Ríkisrekin fjármálafyrirtæki eru þar engin undantekning, eins og hrakfallasaga Íbúðalánasjóðs er gott dæmi um. Hætta ber vífilengjum og staðfesta síðasta söluferli Íslandsbanka og bjóða það, sem eftir er af ríkiseign í bankanum, til sölu. Það er afleitt, að ríkisfyrirtæki séu á samkeppnismarkaði og að ríkissjóður standi fjárhagslega ábyrgur fyrir glappaskotum stjórnmálamanna og ríkisstarfsmanna í bankageiranum.
Þóra Birna Ingvarsdóttir birti fróðlega baksviðsumfjöllun í Morgunblaðinu 24. október 2022 undir fyrirsögninni:
"Svarti sauðurinn, Íbúðalánasjóður".
Þar stóð þetta m.a.:
"Árið 2011 beindi eftirlitsstofnun [EFTA] ESA tilmælum að íslenzkum stjórnvöldum, þar sem lánsfyrirkomulag Íbúðalánasjóðs samrýmdist ekki reglum EES-samningsins um bann við ríkisaðstoð á samkeppnismarkaði. Í tilmælunum fólst, að breyta þyrfti lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs þannig, að hann byði ekki lán til kaupa á dýrara húsnæði, takmarka þyrfti lán til leigufélaga og aðgreina þyrfti hina ríkisstyrktu starfsemi frá öðrum þáttum starfseminnar."
EES-samningurinn er ekki alslæmur, því að hann veitir ríkisrekstrarsinnuðum stjórnmálamönnum aðhald, eins og í þessu tilviki, þótt Samkeppniseftirlitið mundi geta tekið í taumana, ef það væri virkt til annars en að þvælast fyrir lúkningu stórsamninga og valda eigendum (hluthöfum) stórtjóni, eins og í tilviki sölu Símans á Mílu. Þar er ekki hægt að sjá, að nokkurt vit hafi verið í tafaleikjum og kröfum Samkeppniseftirlitsins um breytingar á sölusamningi, en hluthafar Símans misstu af of mörgum milljörðum ISK vegna óhæfni embættismanna.
Í lokin sagði í téðri baksviðsfrétt:
"Ríkið ber ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðsins. Um er að ræða einfalda ábyrgð, en ekki sjálfskuldarábyrgð. Í einfaldri ábyrgð felst, að ríkissjóður tryggir endurgreiðslur á nafnvirði skulda auk áfallinna vaxta og verðbóta til uppgjörsdags. Hefði verið um sjálfskuldarábyrgð að ræða, hefði ábyrgð ríkisins gagnvart kröfuhöfum í megindráttum verið sú sama og ábyrgð sjóðsins.
Til þess að reka sjóðinn út líftíma skulda [hans] þarf ríkissjóður að leggja til um mrdISK 450 eða um mrdISK 200 á núvirði. Ef sjóðnum yrði aftur á móti slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða hans nema mrdISK 47."
Þetta sýnir í hnotskurn, hversu glórulaust fyrirkomulag það var að láta fólk á vegum ríkisins, sem var vitsmunalega og þekkingarlega alls ekki í stakkinn búið til að móta og reka fjármálastofnun, bauka við það viðfangsefni með baktryggingu ríkissjóðs Íslands á fjármálagjörningum sínum. Það á að láta einkaframtakinu þetta eftir á samkeppnismarkaði, þar sem hluthafarnir standa sjálfir fjárhagslega ábyrgir fyrir gjörningunum og veita stjórnendum fyrirtækisins aðhald. Að ímynda sér, að viðvaningar úr stjórnmálastétt og embættismannastétt geti á einhvern hátt staðið betur að þessum málum, er draumsýn, sem fyrir löngu hefur orðið sér til skammar, og almenningur má þá borga brúsann fyrir óhæfnina. Í þessum sósíalisma felst hvorki skynsemi né réttlæti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.11.2022 | 11:11
Skattheimtugleði stjórnmálamanna
Sjókvíaeldi er vaxtarsproti á Vestfjörðum og Austfjörðum og hefur reynzt falla vel að atvinnulífinu, sem þar var fyrir. Á Vestfjörðum munar enn meir um þessa nýju grein en fyrir austan, því að álverið á Reyðarfirði hefur skapað Austfirðingum sterka kjölfestu í atvinnumálum. Vestfirðingar nutu engrar sambærilegrar kjölfestu og hafa í þokkabót mátt búa við orkuskort í landshlutanum, sem hefur berlega komið fram, þegar Vesturlína hefur rofnað frá stofnkerfi landsins, sem er of oft m.v. nútímakröfur.
Þannig hefur sjókvíaeldið snúið neikvæðri atvinnuþróun Vestfjarða við, en ferðamennskan hefur vissulega hjálpað til í þeim efnum líka, þótt Kófið færði mönnum heim sanninn um fallvaltleika hennar.
Sjókvíaeldið er í örum vexti, sem þýðir, að mikið fjárfestingaskeið og kynning á erlendum mörkuðum á sér stað hjá fyrirtækjunum í greininni. Við slíkar aðstæður er ómetanlegt að njóta öflugs bakhjarls, þar sem eru sjóuð norsk laxeldisfyrirtæki. Þrátt fyrir yfirstandandi uppbyggingarfasa gat ríkisstjórnin ekki setið á sér að stækka peningasuguna, sem beint er að sjóeldisfyrirtækjunum, um 43 % (úr 3,5 % í 5,0 % af veltu). Gjaldið rennur til fiskeldissjóðs, sem er líka óeðlilegt, því að viðkomandi sveitarfélög þurfa að fjárfesta í sínum innviðum og þjónustustarfsemi vegna aukinna umsvifa fiskeldisins og ættu þess vegna fremur að njóta tekjuaukans beint án milligöngu ríkisins. Ríkisvaldið breiðir úr sér, en gefur lítið sem ekkert af sér í atvinnumálum. Ráðherra matvæla hefur orðið á og tengt þessa peningasugu við rangan vasa.
Í Morgunblaðinu, 15. september 2022, birtist frásögn af þessu ásamt viðtali við framkvæmdastjóra SFS undir fyrirsögninni:
"Fiskeldisgjald hækki um 800 milljónir":
"Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækja í sjávarútvegi, segir hækkun gjaldsins nú koma á óvart. Hún rifjar upp, að lægri gjaldheimta hér en í Færeyjum hafi verið rökstudd með því, að tekjuskattur væri lægri þar í landi og fyrirtæki hér greiddu þegar gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis og aflagjöld til hafna. Þá bendir hún á, að fiskeldi sé mun lengra á veg komið í Færeyjum en hér við land. Það skjóti því skökku við, að nú eigi að hækka gjaldið til jafns við það færeyska. Heiðrún bendir á, að á vegum matvælaráðuneytisins sé verið að marka stefnu fyrir fiskeldi til framtíðar. Sú niðurstaða, að atvinnugrein í uppbyggingu þoli frekari gjaldtöku, komi því á óvart."
Ráðherrann, sem í hlut á, er ekki þekkt af umhyggju fyrir vexti og viðgangi atvinnuveganna, heldur fremur, að hún vilji, að krumlur ríkisvaldsins læsi sig um þjóðarlíkamann allan, þ.m.t. atvinnuvegina, og hvers vegna þá ekki að nýta valdastöðu sína til að hækka skattheimtu af atvinnugrein í þróun um svona 43 % með einhverri rökleysu eins og þeirri, að þar með sé sama skattheimtustigi náð og einhvers staðar annars staðar. Svona vinnubrögð á efsta stigi stjórnsýslunnar eru svo óvönduð, að þau verður að flokka undir fúsk. Þessi sami ráðherra hefur á öllum sínum ráðherraferli sýnt, að hún er óhæf til sjálfstæðrar greiningarvinnu og rökréttrar ákvarðanatöku á grundvelli verkefnisins, sem fást þarf við hverju sinni. Þeim mun tamari eru henni klisjurnar og pólitískar upphrópanir af ýmsu tagi, enda af sauðahúsi svartnættis rauðu trúarbragðanna, sem hvergi nokkurs staðar hafa gefizt vel, eins og Venezúela er nú talandi dæmi um.
Í lok tilvitnaðrar fréttar stóð þetta:
"Þriðjungur af gjaldinu rennur áfram til sveitarfélaga, ekki beint, heldur með styrkjum til verkefna. Fiskeldisfélögin á Vestfjörðum og Austfjörðum hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag og lagt til, að gjaldið renni beint til sveitarfélaganna til að standa straum af uppbyggingu innviða vegna þessarar nýju atvinnugreinar. Fasteignaskattar af mannvirkjum landeldis ganga beint til viðkomandi sveitarfélaga, en ekkert er greitt af sjókvíum undan landi. Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu tekur fram, að sveitarfélögin hafi ekki beðið um hækkun á fiskeldisgjaldinu. Hins vegar telur hún eðlilegt, að allt gjaldið renni til sveitarfélaganna a.m.k. tímabundið, á meðan þau eru að byggja sig upp eftir 30 ára niðursveiflu."
Gagnrýni sveitarfélaganna á ráðstöfun fiskeldisgjalds er fyllilega réttmæt. Fyrirætlun ráðherra og embættismanna um, að gjaldið renni til ríkisins er gott dæmi um drottnunargirni þessara aðila yfir gjaldendum og byggðunum. Það er í viðkomandi sveitarfélögum, sem lunginn af kostnaðinum fellur til, og ríkið hefur engan siðferðislegan rétt til þessarar skattheimtu. Þar á bæ hafa menn enga hugmynd um, hvernig bezt er að verja fénu til að styrkja atvinnugreinina með innviðauppbyggingu. Það er furðulegt, að landsbyggðarþingmenn o.fl. skuli ekki grípa í taumana og leiðrétta þessa vitleysu matvælaráðherrans, sem aldrei kann fótum sínum forráð, heldur er blinduð af miðstýringaráráttu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)