Færsluflokkur: Ferðalög

Flug í háska

Þegar sótt er að innviðum landsins, er nauðsynlegt að grípa til varna og hefja gagnsókn, ef kostur er.  Til innviða má telja samgönguleiðirnar, vegi, hafnir og flugvelli ásamt raforkukerfinu, t.d. raforkuflutningsmannvirkin, og er þá fátt eitt upp talið. 

Um flesta þessa þætti gildir, að þeir eru í herkví skipulagsvalds í höndum sveitarstjórna, þó að um þjóðveg 1, landshafnir, varaflugvelli millilandaflugsins og flutningslínur á 132 kV spennu og hærri, gildi eindregið, að þau hafa svo mikið þjóðhagslegt gildi, að eðlilegast er að færa skipulagsvald þeirra úr höndum sveitarstjórna og til ríkisins, enda er sá háttur á hafður víða erlendis. Ella er hætta á því, að við mat á skipulagskostum verði meiri hagsmunir, þ.e. þjóðarhagsmunir, látnir víkja fyrir minni hagsmunum, þ.e. meintum hagsmunum viðkomandi sveitarfélags, þar sem mannvirkið er staðsett eða opinber aðili leggur til að staðsetja það.  Hagsmunir sveitarfélags, eins og meirihluti viðkomandi sveitarfélags metur þá, kunna að stangast á við hagsmuni landsins, eins og meirihluti þjóðarinnar metur þá.  

Einmitt þannig háttar til með Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni, að meirihluti borgarstjórnarinnar saumar með óbilgjörnum og hættulegum hætti að starfseminni og stefnir að því að gera flugvöllinn órekstrarhæfan, svo að starfsemi hans lamist og leggist síðan af, og borgin geti þá breytt flugvellinum í byggingarland. 

Þegar litið er til þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem hér eru í húfi fyrir heildina, er þessi þróun mála líklega einsdæmi hérlendis og vandfundin sambærileg dæmi erlendis frá, þar sem jafnmiklir þjóðarhagsmunir hafi verið eða séu í húfi, enda er skipulagsmálum víða þannig fyrir komið, að önnur eins staða og hér er uppi, getur ekki komið upp.  Alþingi verður að höggva á hnútinn með lagabót í þessum efnum.

Mesta undirskriftasöfnun Íslandssögunnar til stuðnings óbreyttri starfsemi flugvallarins í Vatnsmýrinni, þar sem 75 þúsund manns lýstu yfir stuðningi við starfsemina, fór fram ekki alls fyrir löngu.  Trúlega styður meirihluti Reykvíkinga veru flugvallarins áfram, og þessu fólki býðst gullið tækifæri til að sýna hug sinn í verki með því að hafna þeim stjórnmálaflokkum í borgarstjórnarkosningunum í maí 2014, sem staðið hafa að lúalegum árásum, hreinni aðför að flugvallarstarfseminni með það að markmiði að svæla hana burt. 

Nú háttar þannig til, að hvort sem menn staðsetja sig á hægri eða á vinstri væng stjórnmálanna, geta þeir stutt flugvöllinn með því að kjósa til hægri eða vinstri.  Hér skal ekki draga dul á, að ágreiningur sé í röðum þeirra flokka, sem hér er átt við, um flugvallarmálið, en þó er það þannig, að forystumenn á listum Sjálfstæðisflokksins og Dögunar eru stuðningsmenn flugvallarins, en forystumenn á listum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa allir staðið að aðför gegn Reykjavíkurflugvelli.  

Það er búið að gera ítarlega grein fyrir því, hvers vegna á að láta Reykjavíkurflugvöll í friði með sínar 3 flugbrautir.  Verði sú stutta, NA-SV, aflögð, rýrnar notagildi vallarins umtalsvert, og hætta á slysum í miklum hliðarvindi eykst. 

Ekki þarf að tíunda mikilvægi flugvallarins fyrir sjúkraflugið, en hann getur hreinlega skilið á milli lífs og dauða í mörgum tilvikum á ári hverju.  Þyrlur geta ekki leyst vængjað sjúkraflug af hólmi, og þær geta ekki lent í mjög litlu skyggni, sem iðulega þarf að gera í Keflavík.  Þyrlurnar þurfa aðflugstæki, sem eru fyrir hendi á Reykjavíkurflugvelli.  Verði honum lokað, komast þyrlurnar ekki að sjúkrahúsunum í slæmu veðri. 

Vængjuð sjúkraflug eru ekki færri en 500 á ári utan af landi til Reykjavíkur.  U.þ.b. helmingur þeirra eru forgangsútköll, og yfir 200 eru bráðatilvik.  Þá er verið í kapphlaupi við tímann.  Að meðaltali getur lokun Reykjavíkurflugvallar þýtt 1,5 klst lengingu á flutningstíma sjúklings, og menn geta ímyndað sér aukið álag á umferðina á Reykjanesbraut, m.a. vegna 300 tilvika um forgangsakstur í misjöfnum veðrum og um þá flöskuhálsa, sem enn eru á þessari leið að sjúkrahúsunum.  Það þarf ekki að tíunda hættuna í flutningi frekar, sem hundruða sjúklinga verður búin á hverju ári til viðbótar við núverandi áhættu.  Lokun Reykjavíkurflugvallar mundi setja sjúkraflugið í algert uppnám.  Enginn stjórnmálamaður getur axlað þá ábyrgð.  Samt berst læknirinn Dagur fyrir eyðileggingu Reykjavíkurflugvallar með oddi og egg.  Þessi lokun hefur svo örlagaríkar afleiðingar, að þjóðaratkvæðagreiðsla kemur vel til greina til að taka af skarið um framtíð flugvallarins.  Til að spara fé gæti hún verið rafræn. 

Kostnaðaraukinn fyrir innanlandsflugið og millilandaflugið af því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og að missa Reykjavíkurflugvöll sem varavöll er feiknarlegur og margfaldur á við ávinning byggðar í Vatnsmýrinni.  Á hverjum halda menn, að sá kostnaðarauki lendi ?  Það er ekki nóg með það, heldur mun flugvallarleysi í Reykjavík hreinlega koma niður á samkeppnihæfni landsins, eins og gerð verður grein fyrir.

Í 19 sæta flugvélum innanlandsflugsins mundi þurfa að fækka sætum um 3-4 í hverri ferð eða allt að 21 % vegna meiri eldsneytisþarfar til varaflugvallar fyrir norðan eða austan.  Til þess að fá sömu tekjur þarf að hækka farmiðann um 27 % og vegna lengra flugs frá Keflavík til allra áfangastaða þarf 5 % til viðbótar eða 32 % hækkun kostnaðar per flugsæti hið minnsta.  Þetta auk ferðatímalengingar um 1,5 klst aðra leið telur Hörður Guðmundsson hjá Örnum, að muni kodda innanlandsfluginu, sem nú keppir við einkabíl, rútur og ferjur. 

Hann segir, að Ernir hafi árið 2012 flutt tæplega 40 000 farþega.  Hann kveður ríkið hafa fengið kr 7 713 af hverjum farmiða á formi ýmissa skatta, sem hafi verið um helmingur af farmiðaverðinu.  Þetta gæti þýtt, að meðalmiðaverðið færi í 20 000 kr, sem er hækkun um kr 4600.  Ríkið hirðir þannig um 300 milljónir kr af flugfarþegum Arna yfir árið.  Kæmi til greina í sáttaskyni, að ríkið gæfi smám saman eitthvað eftir af þessum tekjum til borgarinnar ?

Þá er komið að óhagræði, kostnaðarauka og meiri kolefnislosun millilandaflugsins vegna lokunar Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar.  Millilandaflugið er orðið svo stórt í sniðum, að lokun helzta varaflugvallar þess hefur í för með sér kostnaðarauka og tekjutap, sem nær þjóðhagslegum stærðum og rýrir samkeppnihæfni landsins frá bæjardyrum landsmanna sjálfra, sem vilja bregða sér af bæ, og frá sjónarmiði gestanna, erlendra ferðamanna, sem mjög horfa í kostnað og þægindi, og hafa fjölmarga aðra kosti um að velja. 

Í meira en 80 % flugferða er Reykjavíkurflugvöllur varavöllur fyrir þotur Icelandair.  Valkostirnir eru Akureyri, Egilsstaðir og Glasgow, sem hafa í för með sér allt að tvöföldun á aukaeldsneyti um borð eða 10 t.  Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair mun kostnaðarauki og tekjutap fyrirtækisins á þessum áratugi nema um 1,0 milljarði kr á ári m.v. núverandi spá um farþegakm og eldsneytisverð.  Að missa Reykjavíkurflugvöll getur fjölgað millilendingum, sem lengir ferð um a.m.k. 1,0 klst og gerir hana miklu dýrari.  Kostnaðarauki og tekjutap vegna alls þessa og fækkunar farþega getur þess vegna hæglega numið 2,0 milljörðum kr á ári.  Svipaða sögu er að segja um hin flugfélögin, sem fljúga til Keflavíkur, svo að tapið fyrir millilandaflugið gæti hæglega numið 3,0 milljörðum kr á ári.

Einar Dagbjartsson, flugstjóri hjá Icelandair, sagði í viðtali við Morgunblaðið, laugardaginn 12. apríl 2014:

"Mér finnst álíka gáfulegt að ætla sér að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll og að ætla að fylla upp í Reykjavíkurhöfn, af því að það vanti fleiri kaffihús."

Undir þetta er algerlega hægt að taka.  Það vantar hvorki byggingarland í Reykjavík né á höfuðborgarsvæðinu sem heild.  Þegar Íslandi ríður á að auka samkeppnihæfni sína til að afla meiri gjaldeyris, má ekki rýra hana með því að auka verulega kostnað við eina aðaltekjulind landsins, ferðamannaiðnaðinn, með veikum rökum, sem reist eru á, að væntanlegir íbúar í Vatnsmýri eigi daglega erindi í 101 Reykjavík.  Eiga þeir að fara þangað á reiðhjólum ? 

Síðast en ekki sízt verður að taka til varna fyrir flugkennsluna í landinu, en miðstöð hennar er í Vatnsmýrinni.  Borgaryfirvöld sækja nú með dólgslegum hætti að Fluggörðum og heimta starfsemina þar á brott árið 2015.  Þessi framkoma er einsdæmi að hálfu yfirvalda í einni höfuðborg og verður að brjóta á bak aftur.  Borgaryfirvöld kasta sprengju á Fluggarða og þar með er flugnám í landinu í algeru uppnámi.  Ekki er boðið upp á neina lausn að hálfu borgarinnar frekar en fyrri daginn undir þessum dæmalausu stjórnendum, sem telja sig hafa fullt umboð til að klekkja á einkaframtakinu.  Hafa borgaryfirvöld leyfi til að haga sér svona ?  Nei, þessi yfirtroðsla er gróf misbeiting valds, siðlaus og gjörsamlega ólíðandi.  Hvorki Dagur né S. Björn virðast kunna mannasiði, þegar flugstarfsemi er annars vegar. 

Aukin spurn er eftir flugmönnum á Íslandi.  Icelandair réð í vetur 30 nýja flugmenn og hafði þá ráðið 58 nýja flugmenn á þremur árum og lítið lát á þessari aukningu.  Áhugi fyrir flugnámi er mikill, og allir bekkir í bóklegu námi fullsetnir.  Það verður aðeins talið borgaryfirvöldum til glópsku og/eða mannvonzku að taka ímyndaða hagsmuni borgarinnar af íbúabyggð á þessu svæði fram yfir hagsmuni alls þess unga fólks, sem er þarna í krefjandi námi, og fram yfir fyrirtækin, sem eru grundvöllur vaxtarins í ferðamannaiðnaðinum.  Núverandi staða mála er óskiljanleg.  Eru Rauðu Khmerarnir við völd í Reykjavík ?  Það eru alla vega ekki þjónar fólksins, sem með völdin fara í Ráðhúsinu við Tjörnina.

Engu er líkara en ofstækisfull, þröngsýn og illa ígrunduð skoðun skipulagsviðvaninga, jafnvel amatöra, ráði nú aðför minnihlutahóps borgarbúa að flugöryggi í landinu.  Sérvitringar um þéttingu byggðar í Reykjavík, helzt í póstnúmeri 101 og þar í grennd, hafa bitið í sig, að íbúabyggð í Vatnsmýrinni muni gjörbreyta Reykjavík til hins betra og að með því að ryðja Reykjavíkurflugvelli úr vegi muni hagur strympu vænkast til muna.  Rökin, sem fyrir þessu hafa verið færð, væru ekki einu sinni talin vera gjaldgeng, þar sem skortur er á landrými, hvað þá hérlendis, þar sem mikið landrými og margt ágætlega byggingarhæft, má telja til kosta Íslands umfram mörg önnur lönd. 

Alls staðar kunna borgaryfirvöld að meta flugvöll innan borgarmarkanna, nema á Íslandi, þar sem þröngsýnir og ólýðræðislega sinnaðir sérvitringar hafa náð völdum.  Vinnubrögð þeirra eru ólýðræðisleg, vegna þess að þeim hafa borizt undirskriftir 75 þúsund manns, sem standa vilja vörð um óskerta og örugga starfsemi á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri, en borgaryfirvöld hafa gefið þeim langt nef og ekki borið við að rökstyðja, hvers vegna hunza á ákall þeirra til borgaryfirvalda.

Málefni Reykjavíkurflugvallar eru málefni ríkisins.  Reykjavíkurborg hefur klúðrað tækifærinu, sem henni gafst til að sýna og sanna, að hún stendur undir hlutverki sínu sem höfuðborg Íslands.  Ríkið verður að yfirtaka skipulagshlutverkið í Vatnsmýrinni.  Þar ber að leiða til öndvegis Flugráð og Skipulagsstofnun ríkisins.  Hér sem endranær verða minni hagsmunir að víkja fyrir meiri.  Almannaheill og lýðræðisleg stjórnskipan landsins krefst þess.  Alþingi á leik.

   

    

 

 

 

 

    

   


Hraðlest ?

Þær tíðkast nú mjög stórhuga viðskiptahugmyndirnar, oft úr annarlegum áttum, sem þó eru því marki brenndar að standast engar arðsemikröfur og jafnvel að geta orðið skattborgurum þessa lands stórfelldur fjötur um fót.

Þann 29.11.2013 heyrði pistilhöfundur á leið sinni úr vinnu viðtal á Bylgjunni við Runólf nokkurn Ágústsson, fyrrverandi rektor á Bifröst með meiru og umboðsmann skuldara í einn dag, skipaðan og rekinn af Árna Páli, grafara Samfylkingarinnar, ef rétt er munað. 

Téður Runólfur kynnti þarna til sögunnar verkefni, sem hann kvað nú vera í hagkvæmniathugun, um að leggja lestarteina frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að og undir nýja Samgöngumiðstöð í Reykjavík, og mundu niðurstöður verða birtar í janúar 2014.  Af þeim upplýsingum, sem flaumósa voru gefnar í þessu viðtali, má fullyrða, að hollast sé að kistuleggja þessa viðskiptahugmynd strax.   

Kostnaðinn kvað hann vera áætlaðan ISK 100 milljarða og árlegan farþegafjölda ætlaðan 3,5-4,0 milljónir.  Þessi stofnkostnaður er þrefaldur á við léttlestarhugmynd R-listans sáluga, sem hér gengur aftur að breyttu breytanda, en þar var þó búizt við minna en helmingi þessa farþegafjölda, ef rétt er farið með.

Það er ekki úr vegi að reikna dálítið til að mynda sér skoðun á því, hvort téður Runólfur hefur hér dottið ofan á tímabæra viðskiptahugmynd, eða hvort um er að ræða rétt eina skýjaborgina, sem tengist orkumálum landsins, en augljós gjaldeyrissparnaður yrði hér af að knýja samgöngutæki með rafmagni, svo að ýmislegt mundi mæla með þessu, ef fjárfestingin gæti staðið undir sér.

Sé nú reiknað með 8 % ávöxtun fjár til þessa verkefnis, sem er lágt, 25 ára endurgreiðslutíma verkefnisins, sem er langt tímabil, 5,0 % af stofnkostnaði í rekstur og viðhald, sem er óvissu háð á Íslandi, og 4 milljónum farþega á ári að jafnaði yfir tímabilið, þá fæst kostnaðarverð miðans aðra leið kr 3600. 

Þetta miðaverð í hraðlest gæti keppt við einkabíl með bílastæðagjaldi og rútu, sem er margfalt lengur á leiðinni, en þetta er hins vegar alger lágmarkskostnaður ferðar með hraðlest.  Það verður að telja óraunhæft, að nánast allir á leið úr og í flug, svo og "pendlarar" í og úr vinnu, mundu nýta hraðlestina að jafnaði.  Eftir því, sem verðið hækkar, fækkar farþegunum.  Seldir miðar hvora leið geta þannig hæglega endað í 1,6 milljón talsins á ári, og þá er kostnaður ferðarinnar ekki undir 9000 kr. 

Miðakostnaður í hraðlest um 10 000 kr er frágangssök, og þess vegna verður að telja þetta verkefni vera óarðbært, þó að með ýtrustu bjartsýni gæti það staðið undir sér.  Það er þó meira en hægt er að segja um sæstrenginn til Skotlands, svo að Cato, gamli, sé tekinn til fyrirmyndar á Forum Romanum.  

Engir einkafjárfestar munu fást til að fjármagna þetta áhættusama verkefni án opinberrar fjárhagslegrar skuldbindingar, og þess vegna má búast við, að upp hefjist söngur þrýstihóps hugsjónamanna grænnar orku um þátttöku opinberra aðila í nýtingu innlendrar orku til samgangna, þó að slíkt gæti reynzt forarpyttur hinn versti fyrir skattborgarana, og hvorki ríki né sveitarfélög ættu að ljá máls á svo áhættusömu verkefni. 

Það virðist enginn hörgull vera hér á ævintýramönnum, sem vilja gera út á hið opinbera.  Bezti mælikvarðinn á gæði verkefnis er, hvort "fagfjárfestir", sem í þessu tilviki yrði að vera erlendur, því að lítil þekking og reynsla er hérlendis af hönnun, smíði og rekstri teinabundinna samgöngumannvirkja, vill taka að sér fjármögnun þessa verkefnis upp á eigin spýtur.  

Í þessu sambandi vaknar sú spurning, hvers vegna sé í þessum áformum miðað við hraðlest, sem gengið getur á 300 km/klst hraða ?  Hraðlestir Evrópu tengja fjölmenn athafnasvæði, þar sem vegalengdin er vart undir 300 km og keppa þannig við flugið.  Þá er áreiðanlega gríðarlegur hávaði frá hraðlest, nema um einsporung verði að ræða, og e.t.v. er skynsamlegast að doka við með járnbrautarlestir á Íslandi, þar til sú tækni hefur verið þróuð betur.  Hætt er þó við, að fámennið hérlendis verði arðsemi járnbrautarlesta lengi fjötur um fót.       

Útblástur per farþegakm

  

 


Kviðrista í kjölfar kosninga

Öllum er í fersku minni sögulegt afhroð afturhaldsins í Alþingiskosningunum 27. apríl 2013.  Þar fékk afturhaldið ærlega á baukinn fyrir andstöðu sína við öll framfaramál á Íslandi, er til tekjuauka þjóðarbúsins gátu horft, fyrir undirgefni sína og auðsveipni við erlend ríki og Evrópusambandið-ESB og fyrir ósanngjarnt arðrán sitt á formi ósvífinnar skattheimtu, þar sem þeir, sem aukalega leggja á sig erfiði, oft við heimilisstofnun, eru skattpíndir mest.  Mannvitsbrekkur afturhaldsins tala nú um að hafa misst tengslin við fólkið og þykjast horfa upp á handstýrða iðnvæðingu landsins.   Allt er það hlálegt og vandræðalegt tal.

Afturhaldið hugði á hefndir eftir ófarir Alþingiskosninga, og var vettvangurinn valinn sveitarstjórnarkosningar að ári.  Nú hefur Samfylkingin í Reykjavík með fyrrverandi varaformann flokksins í broddi fylkingar, sem er sannkölluð kjósendafæla vegna leiðinda, og er í borgarstjórn með kjölturakka í eftirdragi, hins vegar séð til þess, að lýðum verður ljóst um allt land, að þessi ósköp sinna ekki almannaheill, heldur sérhagsmunum, þ.e. hagsmunum fárra, og aðallega sérgæðingshætti og sérvizku. 

Dagur ei meir hefur kynnt almenningi drög að Aðalskipulagi Reykjavíkur.  Drög þessi eru svo meingölluð, að þau eru ekki pappírsins virði og eiga ekki erindi annað en beint í ruslafötuna. Þau munu verða skólabókardæmi um víti til varnaðar, þar sem þröngsýnir og ýtnir stjórnmálamenn láta meiri hagsmuni víkja fyrir minni.  Það má furðu gegna, að farið skuli nú á flot með mál, sem vænn meirihluta borgarbúa er andsnúinn og landsmenn almennt andvígir.

Ekki nóg með þetta, heldur hefur úttekt á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar leitt í ljós, að stjórnkerfi borgarinnar er í skötulíki.  Ritað var beinum orðum í úttektarskýrslu, að yfir borginni væri enginn framkvæmdastjóri, ábyrgðarskipting væri óljós og boðleiðir flóknar.  Stjórnun borgarinnar og þar með þjónustan við borgarana og meðferð skattfjár er þar af leiðandi óskilvirk.  Með öðrum orðum stundar meirihlutinn í borgarstjórn stjórnleysi og sóun almannafjár.  Svo kallaður borgarstjóri virkar engan veginn sem slíkur, heldur er hann skemmtanastjóri borgarinnar og kemur fram sem slíkur í ýmsum gervum.  Þetta minnir á úrkynjun Rómverja á sinni tíð.  Sá, sem spilar undir á meðan Róm brennur, er hins vegar Dagur ei meir.       

Núverandi borgaryfirvöld reka sérlundaða og þröngsýna stefnu um þrengingu byggðar, sem þau kalla byggðaþéttingu og er ættuð úr erlendum arkitektaskólum, þar sem landleysi er vandamál. 

Þetta á hins vegar ekki upp á pallborðið hjá mörgum hérlendis, sem fremur kjósa gott andrými í kringum sig.  Sérvizka borgaryfirvalda hefur fælt fjölda manns frá því að búa sér bólstað í Reykjavík.  Þessi fjölmenni hópur hefur flutt til nágrannasveitarfélaganna, sem hafa þanizt út, og borgaryfirvöld setið eftir "með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn taka til orða.  Borgaryfirvöld hafa látið undir höfuð leggjast að skapa framboð hentugra lóða fyrir barnafjölskyldur, og þess vegna fækkar börnum í borginni.  Það er þó ekki vegna úrkynjunar, nema hún sé í borgarstjórn.  Borgin hrörnar undir óstjórn dagdraumamanns um stjörnustríðshetjur og ákvarðanafælins læknis.    

Það er vel skiljanlegt, að fólk á ákveðnu aldursskeiði kjósi að setjast að í vesturhluta borgarinnar, og fínast þykir nú í mörgum borgum að búa á hafnarsvæðum, þar sem áður var mikil atvinnustarfsemi.  Þegar fólk eignast börn, verða straumhvörf, og þá verða oftast önnur viðhorf ráðandi.  Barnafjölskyldur sækja í blómleg úthverfi, en sérvitringarnir í borgarstjórn kæra sig ekki um slíka byggð.  Þessi hrikalega forsjárhyggja er andstæð almannahagsmunum og hefur valdið fólksfækkun í borginni.  Það er vel stætt miðaldra fólk, sem sækir í húsnæði, þar sem þrenging byggðar á sér stað.  Þetta er yfirleitt dýrt húsnæði og hentar illa barnafólki.  Af þessum sökum er það algerlega undir hælinn lagt, hvort spurn verður eftir íbúðum í Vatnsmýrinni.  Það væri nú eftir ráðsmennskunni í Reykjavík að hrekja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og standa svo uppi með óseljanlegar lóðir þar.  Þessi ráðsmennska borgarstjórnar, sem líklega er að meirihluta til skipuð vesturbæingum, er með slíkum endemum, að réttast er, að Alþingi taki af skarið um það með lagasetningu, að á ríkislóðinni í Vatnsmýrinni skuli stunduð flugstarfsemi, þ.e. farþegaflug með áætlunarflugi og leiguflugi, sjúkraflug, kennsluflug og einkaflug. 

Sveitarfélagið hefur skipulagsvaldið, en ef skipuleggjendunum þóknast að skipuleggja eitthvað nýtt á eignarlóð annarra, þá stöðvast téð skipulag við eignarréttinn.  Úr geta orðið málaferli, en eignarrétturinn ræður, nema þjóðarhagsmunir liggi við.  Í þessu tilviki liggja þjóðarhagsmunir við, að eignarrétturinn fái að halda sér og núverandi starfsemi í Vatnsmýrinni að blómstra.  Svo kann að fara, að skaðabótamál verði höfðað gegn borginni, ef hún torveldar svo rekstrarskilyrði á flugvellinum í Vatnsmýri, að hann verði óstarfhæfur, en það mun gerast með fækkun flugbrauta, ef engin slík kemur í staðinn annars staðar.  Á Lönguskerjum nálgast flugvallarskilyrði mest að verða sambærileg við Vatnsmýrarvöllinn.  Sambærilegur flugvöllur þar gæti kostað um 40 milljarða kr, og þetta er þá væntanlega skaðabótarkrafan, sem óvitar borgarstjórnar baka borginni með samþykkt Aðalskipulags, en enn er aðeins um drög að ræða.  

Með drögum að Aðalskipulagi kastar tólfunum.  Þar kynna Dagur ei meir og skemmtanastjórinn, sem nýlega er þó búinn að skrifa undir samkomulag við fyrrverandi innanríkisráðherra um byggingu flugafgreiðsluhúss fyrir farþegaflug og vöruflutninga, áform sín um að hrekja Reykjavíkurflugvöll, miðstöð innanlandsflugs, einkaflugs og kennsluflugs, ásamt varavelli alþjóðaflugs, úr Vatnsmýrinni, og þar með að lama þessa starfsemi algerlega strax árið 2016, því að fáránlegt er að halda úti Reykjavíkurflugvelli með einni flugbraut, þó að Dagur ei meir telji öðrum það gerlegt.  Þarna á að fórna gríðarlegum almannahagsmunum, atvinnustarfsemi með a.m.k. 1700 störfum, tómstundaaðstöðu, flugöryggi, sjúkraflugi og samgönguæð fyrir óljósa og þokukennda hagsmuni um 4000 íbúðaeigenda, sem kjósa að búa sem næst miðborginni.  Þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur, og engin vitglóra í þessu ráðslagi, enda er það segin saga, að mál, sem Samfylkingin ber fyrir brjósti, eru undantekningarlaust sérvitringsleg gæluverkefni, sem oftar en ekki fela í sér hættu á stórtapi.  Nægir að minna á gjörsamlega misheppnaða lagasmíð Samfylkingar á síðasta kjörtímabili. 

Stór hluti borgarstjórnar er haldinn sjálfstortímingaráráttu.  Reykjavíkurborg er núna samgöngumiðstöð landsins, en hún mun missa fjölmarga erlenda ferðamenn, sem kjósa að fljúga á milli viðkomustaða á Íslandi.  Þeir munu fljúga beint frá Keflavíkurflugvelli.  Innlendum farþegum innanlandsflugs mun stórfækka, sem leiðir til fjölgunar á vegunum.  Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt. 

Þjónustustigið við sjúka og slasaða stórversnar.  Nú eru flogin um 1000 sjúkraflug á ári til Reykjavíkur.  Flutningstími sjúklings mun tvöfaldast hið minnsta við flutning um Keflavíkurflugvöll.  Sjúkraflug fer mjög illa saman með alþjóðaflugi og herflugi og kosta verður upp á hraðafgreiðslu sjúkraflugs þar. 

Að leggja af Reykjavíkurflugvöll setur kennsluflug í algjört uppnám, því að það á engan veginn heima með þeirri umferð, sem er um Keflavík.  Til að viðhalda fullu öryggisstigi Reykjavíkurflugvallar þarf hann á að halda öllum sínum þremur flugbrautum.  Ekkert minna en hámarks öryggi er viðunandi. Um það ætti ofangreind lagasetning Alþingis að fjalla.

Ísland hefur þá sérstöðu í samgöngumálum að vera án járnbrautarlesta.  Þegar um samgöngur á milli landshluta er að ræða, má segja, að flugið hafi komið í staðinn.  Þetta er mjög hagkvæmur valkostur við einkabíl og langferðabíla (rútur), en kannski borgarstjórnin hugsi sér strætóferðir í fjarlæga landshluta sem valkost við flugið.  Hún hefur reynt að þrengja að fluginu með yfirgengilegum hætti, og afturhaldsríkisstjórnin 2009-2013 gerði sitt til að fækka farþegum og kippa afkomugrunninum undan áætlunarfluginu með þreföldun skattheimtu af greininni.  Allt er þetta á sömu bókina lært.  Afturhaldið leggur ábatasamar atvinnugreinar í einelti til að geta komið að eigin sérvizku og niðurgreitt hana.  Nú er komið að því að vinda ofan af vitleysunni og leyfa atvinnulífinu að blómstra, launþegum og samfélaginu öllu í hag. 

  Ráðhús ReykjavíkurBombardier C           

 


Að taka flugið

Barátta Samfylkingarinnar gegn flugrekstri í landinu er farin að taka á sig bæði grafalvarlegar og fáránlegar myndir.  Um er að ræða atlögu að einkaframtaki og innviðum landsins í senn.  Menn minnast undarlegrar ráðgefandi atkvæðagreiðslu R-listans í Reykjavík um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni, þar sem spurning var óljós (eins og spurningavaðallinn um uppkast að Stjórnarskrá) og þátttakan álíka lítil í prósentum talið.  Afar mjótt varð á munum. Það er grundvallaratriði, þegar efna á til atkvæðagreiðslu á meðal almennings um tilvist flugvallar í höfuðborg landsins, að slík verður að vera þjóðaratkvæðagreiðsla. Miðstöð innanlandsflugs er ekki einkamál Reykvíkinga, þar sem ljóst er, að verði Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni eyðilagður frá öryggislegu sjónarmiði eða lagður alfarið af, þá leggst innanlandsflugið niður.  Þar með yrði stórt skarð höggvið í almenningssamgöngur á Íslandi og innviðum landsins unnið óbætanlegt tjón.  Til að stöðva skaðvaldana þarf nýtt Alþingi að setja lög um, að í Vatnsmýrinni skuli vera miðstöð innanlandsflugs á Íslandi.  "Basta."

Þeir, sem af einhverjum ástæðum eru andsnúnir Vatnsmýrarvellinum í sinni núverandi mynd, verða einfaldlega að líta á þennan flugvöll sem fórn Reykjavíkur fyrir að hafa orðið fyrir valinu til að gegna hlutverki höfuðborgar landsins.

Fjárhagslega er það þó engin fórn.  Þvert á móti er gróði að flugvellinum fyrir Reykjavík og ríkissjóð.  Hundruðir Reykvíkinga hafa beina atvinnu af flugvellinum og þúsundir, þegar afleidd störf eru meðtalin.  Verðmæti flugvallarins fyrir Reykjavík hefur verið metið á móti söluandvirði lóða í Vatnsmýrinni.  Það er undarlegt hagkvæmnimat.  Það væri aðeins gilt sjónarmið, ef hörgull væri á lóðum, en svo er alls ekki, hvorki í landi Reykjavíkur, Kópavogs né Garðabæjar.  Á flugvellinum fer fram öflug atvinnustarfsemi, sem skapar höfuðborginni milljarða kr í tekjur árlega.  Tekjur af lóðasölu og tekjur af íbúum í Vatnsmýri umfram önnur hverfi getur ekki keppt við öfluga atvinnustarfsemi, sem að hluta til er gjaldeyrisskapandi. 

Þá er talað um aksturssparnað Vatnsmýraríbúa vegna miðlægrar legu Vatnsmýrar.  Hér virðast forsendur þær, að flestir íbúar Vatnsmýrar mundu stefna til vinnu í Háskólana, Landsspítalann eða Kvosina.  Þetta stenzt varla, og eru allsendis ótæk rök fyrir því að úthýsa flugvellinum.  Fyrirsjáanlega yrði umferðaröngþveiti í þessum þrengslum, nema verulegar samgöngubætur fylgi, ef þetta gengi eftir og Háskólasjúkrahús risi á Landsspítalalóðinni. 

Saga flugsins á Íslandi er stórmerkileg, og innanlandsflugið hefur gegnt veigamiklu þjónustuhlutverki við landið allt.  Það hefur í raun fært höfuðborgina nær landsbyggðinni, ef svo má að orði komast.  Það er ekkert, sem komið getur skammlaust í stað innanlandsflugsins.  Þá gera fjölmargir einkaflugmenn út frá Vatnsmýrinni, og einkaflugið er hluti af þeim lífsstíl og lífsgæðum, sem við teljum mörg vera eftirsóknarverð.  Veigamikil og mikilvæg kennslustarfsemi fyrir verðandi flugmenn fer fram þarna.  Það er ómetanlegt fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis að hafa svo öruggan flugvöll innan seilingar. 

Reykjavíkurflugvöllur gegnir veigamiklu öryggishlutverki, sem Samfylkingin, af sínu einkennilega kæruleysislega ábyrgðarleysi, er stöðugt að reyna að rýra.  Heggur sá, er hlífa skyldi, má segja um Dag, lækni, og fyrrverandi varaformann Samfylkingar, því að sjúkraflug eru líklega að nálgast 1000 á ári, þegar vængjað flug og þyrluflug er saman talið.  Er alveg öruggt, að margur á líf sitt og/eða heilsu því að þakka að hafa komizt undir læknishendur svo greiðlega sem flugið eitt og nánd Reykjavíkurflugvallar við Landsspítalann ein leyfði. 

Innanlandsflug er landsmönnum nauðsyn af öryggisástæðum, t.d. ef mikil vá ber að dyrum, og samgönguleiðir á landi lokast, og til að tryggja greiðar samgöngur á milli höfuðborgarinnar og hinna fjarlægari staða á landsbyggðinni.  Innanlandsflugið kemur að mörgu leyti í stað lestarsamgangna, sem tengja þorp, bæi og borgir annarra landa traustum samgönguböndum.  Það er þess vegna aðför að öryggi landsmanna og lífsgæðunum í landinu að standa í stöðugum hernaði gegn fluginu.  Þetta hefur einn stjórnmálaflokkur í landinu þó gert sig sekan um.  Samfylkingin stefnir á að leggja Vatnsmýrarvöllinn niður og þar með að tortíma innanlandsfluginu.  Á sama tíma sendir hún strætó landshornanna á milli, niðurgreiddan, m.a. af fluginu.  Þetta ráðslag er óþolandi og verður að gera afturreka strax, enda er ekki heil brú í þessu stefnumáli Samfylkingarinnar fremur en mörgum öðrum.  Þeim þykir betra að veifa röngu tré en öngvu.  Þessa niðurrifsstarfsemi lattélepjandi sauðargæra ("borgarsveitalubba" sagði Árni Johnsen) í 101 verður að kveða í kútinn á næsta kjörtímabili.  Það getur Alþingi gert.

Í marz 2013 gerðu núverandi og fyrrverandi varaformenn Samfylkingar með sér "marksamning" (er það sama og markmið ?) án aðkomu innanríkisráðherra, sem nú um stundir er vinstri-grænn og fer með forræði Vatnsmýrarvallar, um sölu ríkisins á 11,2 ha á suðurhluta Reykjavíkurflugvallar. Í frétt Reykjavíkurborgar um atburðinn segir svo:

"Vinna við skipulagið hefst fljótlega, þótt ljóst sé, að uppbygging fari ekki af stað fyrr en innanríkisráðuneytið hafi (svo ?) formlega tilkynnt um lokun flugbrautarinnar."  

Þetta er stríðshanzki framan í innanríkisráðherra og flugrekendur á Reykjavíkurflugvelli sem og alla viðskiptavini flugrekendanna.  Árið 1999 teygði samgönguráðuneytið undir stjórn sjálfstæðismanns sig langt til að skapa frið um flugvöllinn, en sá friður var rofinn þarna.  Viljayfirlýsingin á milli ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar var um lokun NA-SV brautar Reykjavíkurflugvallar.  Sú lokun mun þýða 1 % fall í nýtileika flugvallarins, þ.e. úr 99 % í 98 %.  Frá öryggissjónarmiði er þetta óásættanlegt, og þess vegna var sleginn sá varnagli, að lokuð braut með svipaða stefnu á Keflavíkurflugvelli yrði fyrst enduropnuð og gerð tiltæk fyrir notendur Reykjavíkurflugvallar.  Það hefur enn ekki verið gert.  Forræðishyggjustjórnmálamenn kasta á milli sín fjöreggi flugfarþega.  Hver vill leggja öryggi sitt í hendur loddara, sem vaða áfram í villu og svíma, og skortir augljóslega dómgreind til að láta minni hagsmuni víkja fyrir meiri ? 

Við ríkisstjórnarskiptin 24. maí 2007 tók við samgönguráðherra Samfylkingar.  Hann hafði aðrar áherzlur en fyrirrennari hans í embætti úr röðum sjálfstæðismanna, og tók fjárveitingu til opnunar téðrar SV-NA-brautar á Keflavíkurflugvelli út úr samgönguáætlun.  Ef Samfylkingin verður látin komast upp með að reka stöðugt hornin í flugið, þá leggst innanlandsflugið af fyrr en varir.  Það eru allt of miklir hagsmunir í húfi fyrir landsmenn alla til að láta slíka öfugþróun viðgangast, og það eru til meðul, sem hrífa í þessu sambandi.  Varaformennirnir þurfa að fá að bergja á beizkum kaleik.  

Samfylkingin ræðst að fluginu úr annarri átt.  Hún ætlar að kyrkja innanlandsflugið með gjaldtöku og skattlagningu, svo að flugrekendur verði að leggja upp laupana vegna of fárra farþega.  Þar með verður eftirleikurinn auðsóttur að afleggja Reykjavíkurflugvöll, þó að það þýði meiri eldsneytisbirgðir millilandavéla til að komast á varaflugvöll.  Þessi framkoma Samfylkingar og taglhnýtinga þeirra, vinstri grænna, í garð mikilvægrar þjónustustarfsemi í landinu, er óafsakanleg.

Ríkisstjórnin hefur hækkað opinber gjöld af innanlandsfluginu um 130 % á 4 árum 2009-2013, og enn er ein hækkunin væntanleg 1. apríl 2013.  Á árinu 2013 verður gjaldtaka ríkisins af innanlandsfluginu 415 milljónir kr og nemur þá 10 % af veltu innanlandsflugsins.  Ofan á þetta leggst svo skattur, t.d. tekjuskattur, og launatengd gjöld.

Þetta er alger óhæfa, og með þessum hætti hagar ekkert yfirvald sér, nema það ætli að ganga á milli bols og höfuðs á viðkomandi starfsemi.  Hér eiga sér stað ofsóknir og skefjalaust niðurrif á afar mikilvægum innviðum íslenzka þjóðfélagsins, sem er hluti af lífsgæðum og lífsstíl fjölda fólks.  Hvorki stjórnmálamenn Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, né nokkurs annars stjórnmálaflokks, hafa umboð til að brjóta svo freklega á meirihluta landsmanna.

  Innanlandsflugið er mál þjóðarinnar allrar, og það er hægt að höggva á þennan hnút með þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þá verða viðkomandi stjórnmálamenn að standa fyrir máli sínu með lýðræðislegum hætti í stað níðingslegra aðferða við að kvelja líftóruna úr flugrekendum. 

Innanlandsflugið mun blómstra, ef það fær frið fyrir ósvífnum yfirvöldum, sem skirrast ekki við að taka atvinnulífið fantatökum.  Þetta eru yfirvöld, sem skilja ekki, að athafnalíf verður að blómstra til að velferðarsamfélag geti þrifizt.  Stríð yfirvalda við athafnalífið, eins og Fylkingin og VG hafa staðið í, leiðir til einhæfni, atvinnuleysis og síðan til fátæktarsamfélags.  Þessa tegund stjórnmálamanna þarf að setja í skammarkrókinn í komandi Alþingiskosningum og síðan í næstu borgarstjórnarkosningum.

Farþegum í innanlandsfluginu fjölgaði fyrstu 3 mánuði ársins 2012.  Þann 1. apríl 2012 var flugrekendum greitt þungt högg undir bringspalir af stjórnvöldum "með rörsýn".  Þá skelltu óhæfir og kreddufullir forræðishyggjustjórnmálamenn, sem vilja ráða, hvernig fólk ferðast, á eftirfarandi hækkunum á flugrekendur:

  • farþegaskattur upp um 71 %
  • lendingargjöld upp um 72 %
  • flugleiðsögugjöld upp um 22 %

Þessi gjaldpíning leiddi óhjákvæmilega til hærri fargjalda.  Árið 2012 voru farþegar í innanlandsflugi um 375.000 og hafði þá fækkað um 3 % frá árinu á undan.  

Það er deginum ljósara, að Samfylkingin stendur nú að fólskulegri tangarsókn gegn innviðum landsins á samgöngusviðinu og lífsskilyrðum fjölda fólks.  Taglhnýtingurinn, Vinstri hreyfingin grænt framboð, fylgir í humátt á eftir og gerði það þegar á dögum R-listans, þegar Svandís Svavarsdóttir, þá borgarfulltrúi, lagði til rannsókn á því, að byggja upp nýja miðstöð innanlandsflugs á Hólmsheiði og leggja af Vatnsmýrarvöllinn.  Niðurstaðan kemur fáum á óvart.  Hólmsheiði er ónothæf fyrir flugvöll af veðurfarslegum ástæðum.  Enginn heilvita maður leggur í að reisa þar miðstöð innanflugs og stefna þar með lífi og limum farþega og áhafna í mjög aukna hættu vegna óhagstæðs veðurfars í um 130 m hæð y.s.m., stórra háspennulína í grennd og sviptivinda frá fjalllendi eigi fjarri.  Nýtileiki flugvallar á Hólmsheiði er neðan við alþjóðleg viðmiðunarmörk.  Hólmsheiði fyrir flugvöll var villuljós skammsýnna stjórnmálamanna með rörsýn ekki síður en í REI-málinu. 

Að bráðnauðsynlegt sé að byggja íbúðarhús í Vatnsmýrinni til að fjölga íbúum í grennd við 101 Reykjavík er rangt.  Þarna er djúpt niður á fast og lóðirnar yrðu rándýrar í vinnslu.  Það er út í hött að reikna út lóðaverð til að rökstyðja ný not á landinu.  Það þyrfti þá að meta mismunarverð á þessu landi og öðru.  Það er nóg framboð á landi um ófyrirsjáanlega framtíð á höfuðborgarsvæðinu, og mismunur á arðsemi íbúðabyggðar á ólíkum svæðum á höfuðborgarvæðinu getur aldrei slagað upp í arðsemina af Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri fyrir borgarsjóð og fyrir landið allt. 

Hvers vegna halda menn, að margar borgir í heiminum, og höfuðborgir á borð við Berlín og London, státi af flugvöllum innan sinna vébanda ?  Það er af því, að flugvellirnir styrkja samkeppnistöðu borganna, og þar sem höfuðborgir eiga í hlut, samþykkja borgirnar starfsemi flugvallanna sem eðlilegan þátt í að sinna höfuðborgarhlutverki sínu með sóma.

Á Íslandi hafa sumir stjórnmálamenn enga sómatilfinningu, og það bitnar á borgurunum.   

  Heli down - þyrlan lent

        

 

 

 

 

 

              

 

 


Á vegum vinstri grænna

Stjórnarflokkarnir hafa troðið einstrengingslegum og skaðlegum stefnumálum sínum upp á landsmenn í skjóli alþjóðlegrar peningakreppu, sem reið þremur bönkum hér að fullu haustið 2008.  Þó að þessum bönkum væri stjórnað af sjúklegri áhættusækni, er kollhnís banka ekki einsdæmi á Norðurlöndunum eða annars staðar í seinni tíð, nema síður sé. 

  Norska bankakerfið lagðist á hliðina árið 1990, og uppdráttarsýki herjaði á sænska bankakerfið um sömu mundir.  Munurinn á Íslandi og Noregi var, að norsku bankarnir voru ekki jafnsvakalega þandir (uppgíraðir) og íslenzku bankarnir, og vegna olíuauðsins hafði norska ríkið meira svigrúm til að hlaupa undir bagga.  Neyðarlögin voru hin íslenzka sérlausn.  Allar bólur ber að forðast og kæfa í fæðingunni.  

Alþekkt er andstaða vinstri manna gegn bifreiðum, vegalagningu og brúarsmíði.  Aðalfórnarlambið undir niðurskurðarhnífi Steingríms, þáverandi fjármálaráðherra, varð Vegagerð ríkisins, og voru græningjar þar samir við sig.  Fjárveitingar til hennar voru fundið fé fyrir vinstri menn, og þar var höggvið í sama knérunn hvað eftir annað í algerri blindni forstokkaðra stjórnmálamanna gegn viðvörunarorðum sérfræðinga og ýmissa stjórnmálamanna.  Mun niðurskurður til viðhalds vega hafa numið 15 milljörðum kr á ári, og blasir nú við, hvílíkt fádæma glapræði það var, enda vöruðu verkfræðingar Vegagerðarinnar alvarlega við þessari skómigu ríkisstjórnarinnar.  Hún fussaði og kvað þá bara míga upp í vindinn. 

Ríkisstjórn Jóhönnu hefur stöðvað nánast allar vegaframkvæmdir í landinu og skorið viðhaldsfé Vegagerðarinnar niður um helming.  Þetta hefur valdið stórtjóni og aukið slysahættu. Á sama tíma hefur sú arma ríkisstjórn hækkað álögur á bifreiðaeigendur og á eldsneyti upp úr öllu valdi.  Þessu verður að linna, og þessari öfugþróun verður að snúa við.  Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013 hét að hefja þá vegferð við fyrsta tækifæri.  Lætur nærri, að ríkissjóður hafi  hirt árlega um 10 milljarða kr af viðbótar skattfé, sem renna ætti í viðhaldssjóð Vegagerðarinnar.  Þar með hefur hún rænt ökutækjaeigendur 25 milljörðum kr á ári, og er þá vægt reiknað.  Svo berja þessir garmar sér á brjóst og þykjast erfiða við að bjarga þjóðinni, þegar sannleikurinn er sá, að þetta kann ekkert til verka, og öll orkan fer í innbyrðis deilur.  "Hvílíkur Jón í Hvammi." 

Ríkisstjórnin, sem virðist vera skipuð óvitum, sem engan gaum gefa að afleiðingum gjörða sinna, heldur setja undir sig (heimskan) hausinn og kæra sig kollótta.  Hún skal aldrei greina afleiðingar gjörða sinna áður en haldið er af stað, og þess vegna er undir hælinn lagt, hvort hún lendir úti í mýri með mál eða ekki.  Oftast fréttist af þessu fyrirbrigði utan vegar.  Síðast var Guðmundur Steingrímsson gerður út af örkinni frá hjáleigunni til að ýta.  Það breytti þó engu. 

Nú blasir við, að téður "sparnaður" ríkisstjórnarinnar var tóm tjara.  Undirlag veganna er að brotna undan umferðarþunganum og vegna hönnunar þeirra og öldrunar.  Upp vellur tjara.  Styrkja verður vegina umtalsvert, svo að þeir þoli þungaflutninga til samræmis við þá, sem leyfðir eru á vegum Evrópu, 49 t.  Til þess þarf að endurhanna þá áður en að viðhaldi þeirra kemur.  Að þessu verður næsti samgönguráðherra að snúa sér af alvöru, láta Vegagerðinni í té allt fé, sem eyrnamerkt er bílum og umferð á vegum skattheimtunnar og gefa skýr fyrirmæli um að uppfylla Evrópustaðla í vegagerð.  Þetta er stórfellt öryggis-og hagsmunamál, og fátt er jafnarðsamt og fjárfesting í vegaumbótum. 

Innanríkisráðherra er að gæla við strandsiglingar m.a. til að hlífa vegunum.  Ef hann kemst að því, að þær beri sig, er það gott og blessað, en eftir því sem næst verður komizt hafa engar grundvallarbreytingar orðið á hagkvæmni strandsiglinga síðan Ríkisskip voru lögð niður vegna taprekstrar í tíð Halldórs Blöndals, þáverandi samgönguráðherra, ef þann, sem hér heldur á fjaðurstaf, misminnir ekki.  

Vegakerfi Íslands er landsmönnum enn ekki sæmandi, og verður svo ekki fyrr en vegirnir standa tæknilega og öryggislega undir þeirri umferð, sem þar er og verður.  Einbreiðum brúm á hringveginum og á öðrum þjóðvegum verður að útrýma á næstu 10 árum öryggisins vegna.  Þjóðvegirnir eru skammarlega mjóir víða, krókóttir og mishæðóttir, og víða vantar vegrið við kanta, þar sem bratt er niður.  Aðgreining umferðarstefna með vegriði hefur aukið öryggið mikið, þar sem slíkt hefur verið sett upp.  Það er engin goðgá að gera slíkt á milli einfaldra akreina á hættulegum köflum.  Markmiðið hlýtur að vera 0 dauðaslys á vegum landsins.

Á skattasviðinu hefur vinstri stjórnin farið hamförum og fengið Alþingi til að samþykkja gamla drauma flokka sinna um skattlagningu, sem hafa valdið stórtjóni á hagkerfinu og keyrt það í stöðnun, ef ekki samdrátt árið 2012, sem slær öll met niður á við norðan Alpafjalla.  Vinstri flokkarnir líta ekki á skattkerfið sem tekjuöflunarkerfi hins opnbera, heldur tekjujöfnunarkerfi yfirvalda á þegnana.  Ríkisstjórnin hefur ekki sniðið skattheimtuna við hámörkun opinberra tekna, heldur við mismunun þegnanna eftir tekjustigi.  Þetta glapræði að hálfu ríkissjóðs hefði engum getað dottið í hug, nema hagfræðingi menntuðum í austur-þýzka alþýðulýðveldinu.  Þetta hefur komið alveg einstaklega illa við ungt fólk, sem er að koma undir sig fótunum í atvinnulífinu og að stofna til heimilis.  Þessi hópur þarf mest á háum ráðstöfunartekjum að halda, og þessi hópur er dýrmætastur hverju samfélagi.  Einmitt þessi hópur hefur flúið land.  Afleiðingin af óréttlátri og óhóflegri skattheimtu ríkisstjórnarinnar er, að hagkerfið hjakkar í sama farinu og nær sér alls ekki á strik, þar sem umgjörð yfirvaldanna er afar letjandi.  Þetta er skýringin á langvinnustu kreppu í vestrænu samfélagi, sem um getur á seinni tímum, ef Grikkirnir með sinn hrikalega vanda af völdum evrunnar, sem þeir tóku upp á fölskum forsendum, eru undan skildir.  Þess má geta í framhjáhlaupi, að Samfylkinguna virðist dreyma um upptöku evru á fölskum forsendum, því að allar lausnir hennar á vandanum í núinu snúast um gjaldmiðilsskipti strax.  Ef af því yrði, væri það algert brot á Maastricht-sáttmálanum og þar með án réttra forsendna gjaldmiðilssamstarfs ESB, EMU II.  Samfylkingarmenn halda því líka fram, og benda þá á Eystrasaltslöndin, að við það að taka stefnuna á evruna muni efnahagsstjórnunin lagast.  Hér skal ekki mótmæla þessu, en hvað þýðir það að taka stefnuna á evruna.  Það þýðir að gera Maastricht-skilyrðin að stefnumiði.  Sá, hér heldur á fjaðurstaf, vill gjarna leiða Maastricht-skilyrðin til öndvegis við hagstjórnina, en þó að það sé gert, liggur ekkert á að blanda sér í þá gjörningahríð, sem væntanleg er innan ESB.  Það er komið í ljós, að Þýzkaland og Frakkland geta ekki búið við sama gjaldmiðil, og skyldi engan undra, og Englendingar kunna að segja skilið við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017; spurning hvað Skotar gera.  

Atvinnulífið hefur verið þrúgað undir sameignarsinnunum.  Er kominn tími til, að ríkisvaldið hætti hernaði sínum gegn fólki og fyrirtækjum í landinu, sem stundaður er í nafni úreltra og heimskulegra hugmynda um stéttabaráttu og ríkiseign á öllu, smáu sem stóru.  Verst hafa stjórnvöld farið með sjávarútveginn, og varðar sú mismunun í skattlagningu, m.v. fyrirtæki í öðrum greinum, sennilega við ákvæði í Stjórnarskrá um atvinnufrelsi, jafnrétti og eignarrétt.  Skattheimtan á útvegsfyrirtækin og fiskvinnsluna tekur út yfir allan þjófabálk, og hún er svo þungbær, að fyrirtækin rísa ekki undir henni.  Verður að afnema hið stórskaðlega og afspyrnu heimskulega veiðigjald strax og ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og þing kemur saman.  Sjávarútvegurinn getur sáralítið fjárfest undir klafa sameignarsinna, en við eðlileg skilyrði þarf hann og getur fjárfest fyrir ISK 15 mia. 

Íslenzki sjávarútvegurinn stendur í harðri samkeppni við norska sjávarútveginn og sjávarútveg ESB, og flausturslegt fikt við afkomu hans og stöðugleika er stórkaðlegt, og vegna umfangs hans í þjóðarframleiðslunni eru atlögur stjórnvalda gegn honum þjóðhættulegar.  Það er lágmarksskylda stjórnvalda að tryggja sjávarútveginum jafna rekstraraðstöðu á við annan fyrirtækjarekstur í landinu.  Túðrinu um meinta auðlindarentu verður að linna.  Það mun aldrei takast að sýna fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi einum af allri sjávarútvegsstarfsemi við Norður-Atlantshaf.  Annaðhvort er hún þar alls staðar eða hvergi. 

Menn hafa velt fyrir sér, hvar fjárfestingartækifæri væru á Íslandi á næstunni.  Sá, er hér heldur á fjaðurstaf enn einu sinni, telur reyndar vera gríðarleg tækifæri í nýjum orkukræfum verksmiðjum, en hér skal minnast á annað og síður umdeilt svið, þar sem er fiskeldið.  Þar hentar Ísland vel frá náttúrunnar hendi, eins og Noregur, sem hefur náð góðum árangri á þessu sviði og við getum lært margt af.  Fyrir 30 árum sleit þessi grein barnsskónum í Noregi og setti sér þá markmið um að framleiða 1 milljón tonna af eldisfiski um 2010, og þeir hafa nú náð þessu marki.  Við erum nú að slíta barnsskónum á þessu sviði og ættum að gera áætlun um fimmtánföldun framleiðslunnar á 15 árum.  Til þess þarf fjárfestingarfé, þekkingu og talsverðan mannafla, sem mun bæta hag dreifðra byggða, t.d. á Vestfjörðum.  Til að komast upp úr algerri stöðnun, sem vinstri stjórnarhættir og glópahagstjórn hefur leitt yfir okkur, verður að þrefalda fjárfestingar hið minnsta frá því, sem nú er.  

Menntakerfið er fjarri því að fullnægja þörfum athafnalífsins, enda hefur menntamálaráðherra engan hug á því, og hefur ekki ákvarðað forgangsröðun til menntamála með hagsmuni helztu atvinnugreina á Íslandi í huga.  Landbúnaðurinn hefur sína sérskóla, og þar þarf fyrir atbeina ríkisins að efla fræðslu fyrir fiskeldið.  Það er þörf á eflingu menntunar fyrir sjávarútveginn á sviði skipstjórnunar, vélstjórnunar, rafvirkjunarstarfa um borð og framleiðslustjórnunar um borð og í landi, svo að fátt eitt sé talið.  Stóriðjan er alger hornreka í menntakerfinu.  Áherzlur menntamálaráðherra eru á sviði hugvísinda á kostnað raunvísinda, og hún eykur einsleitni á kostnað fjölbreytni með því að þrengja að einkaskólum.  Áherzlur vinstri manna eru á öllum sviðum sama markinu brenndar, þ.e. að auka miðstjórnarvald fremur en að auka heildarskilvirkni kerfisins.

Eitt ráð til að auka framleiðni er að leyfa fyrirtækjum að vaxa til að þau geti nýtt hagkvæmni stærðarinnar.  Norðmenn leyfa hámarksumfang hvers útgerðarfyrirtækis í hverri tegund upp undir 25 %.  Hér er markið 12 % af aflahlutdeild og er tekið að standa frekari hagræðingu fyrir þrifum.  Væri rétt að tvöfalda þetta mark í 4 þrepum á 8 árum.

Framleiðni í fjármálageiranum er of lág, sem ásamt öðru veldur of háu vaxtastigi í landinu.  Starfsemi bankanna er með ríkistryggingu, sem ýtir ekki undir hagræðingu.  Það gengur ekki að vera með ríkistryggingu á starfsemi fjárfestingarbanka.  Hana á að taka af, nema bankarnir kljúfi fjárfestingastarfsemina frá innlánastarfseminni, og Samkeppnisstofnun ætti í kjölfarið ekki að standa gegn sameiningu tveggja af þremur stærstu innlánastofnununum. 

Framsóknarflokkurinn siglir nú beggja skauta byr í fylgismælingum.  Hófst fylgisaukning flokksins fyrir alvöru með uppkvaðningu dóms EFTA dómstólsins í janúar 2013.  Þá kom í ljós, að Framsóknarflokkurinn hafði sýnt heilsteyptustu dómgreindina í Icesave-málinu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mestu staðfestuna.  Nú vill fólk veðja á þennan unga mann og láta reyna á hann og hans fólk við stjórnvöl landsins.  Það er vel skiljanlegt og hægt að samfagna með Framsóknarmönnum, enda gengur ekki hnífurinn á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.  Það er engin þörf fyrir Sjálfstæðismenn að hengja haus, svo lengi sem summa fylgis flokkanna er vel yfir 50 %.  Borgaraleg ríkisstjórn er það, sem þetta land þarf nú, og nú stefnir í, að hún verði undir forsæti Framsóknarflokksins.  Í ljósi stjórnmálastöðunnar í landinu núna er það engin goðgá.  Tveir jafnstórir flokkar geta myndað stálbryddaða ríkisstjórn.

Á sama tíma er formanni Samfylkingar siginn larður í 12,5 %.  Sá maður er svo leiðinlegur á að hlýða, að með eindæmum er.  Að annarri eins loðmullu og froðusnakki er leitun.  Nýjasta spekin frá þeirri mannvitsbrekku er, að gengisfelling krónunnar hafi ekkert gagnazt sjávarútveginum, af því að útflutningsmagnið hafi staðið í stað.  Þessi ESB-taglhnýtingur á bágt.  Hann veit ekki, að það er fiskveiðistjórnunin, aflamarkskerfið, reist á vísindalegri ráðgjöf, sem setur veiðunum skorður.  Afkastageta flotans og útflutningsgeta sjávarútvegsfyrirtækjanna er miklu meiri.              

     

 

    

  

            

    

   


Ferðaþjónustan

Höfundur er nýkominn úr ferðalagi um Sardiníu, þar sem ferðamennska fer vaxandi, enda hefur eyjan upp á mikið að bjóða, góðan mat og ótrúlegt úrval vína, góðar baðstrendur og tiltölulegan hreinan sjó og hentugan til sjósunds.  Sardinía geldur vissulega dýrtíðar, sem einkenndi hagkerfi Ítalíu fyrsta áratuginn eftir upptöku evrunnar.  Verðlag er þess vegna of hátt þar.  Um það eru höfundur þessa pistils og þýzkir ferðamenn (frá Hamborg), sem höfundur hitti á baðströndinni Rómönzzu, sammála. Þessi 17 daga vist á Sardiníu og akstur um mestalla eyjuna verður þó ekki að öðru leyti viðfangsefni þessa pistils, þótt skemmtilegt umræðuefni sé, heldur íslenzkur ferðamannaiðnaður (á Íslandi) og aðbúnaður stjórnvalda að honum.

Þann 8. ágúst 2012 tilkynnti talsmaður ríkisstjórnarinnar, að hún hefði sett rétt eina skattahækkunina í frumvarp til fjárlaga.  Þessi skattahækkun er aðför að einkaframtaki í ferðaþjónustu.  Ríkisstjórnin hyggst hækka virðisaukaskatt á gistingu úr 7 % í 25,5 %.  Engum nema örvita vinstri stjórn mundi detta slík fásinna í hug.

Ferðaþjónustan hefur verið byggð upp í landinu af gríðarlegum myndarskap, og hún er kjölfesta í dreifðum byggðum landsins.  Nægir að nefna bændagistingu og gistiheimili vítt og breitt um landið.  Einstaklingar hafa gengið nærri sér í fjárfestingum í gistirými, ýmist gert upp eldra húsnæði eða reist nýja glæsilega aðstöðu.  Það er algerlega siðlaust af ríkisvaldinu að 3,6 falda skattlagningu af gistiþjónustunni og hækka verðið um 18,5 % á einu bretti. Þar með er verið að verðfella fjárfestingar þessara einkaaðila, vegna þess að tekjur þeirra af fjárfestingunum munu óhjákvæmilega dragast saman. 

Svona má ríkisvald alls ekki haga sér, en svona hagar íslenzka ríkisvaldið undir stjórn Samfylkingar og vinstri grænna sér.  Haturshugur þessara vinstri sinnuðu stjórnmálaflokka í garð einkaframtaksins veldur starfaeyðingu.  Ríkisstjórnin er ekki einvörðungu starfaeyðir; hún er verðmætaeyðir.  Gistingum innlendra og erlendra ferðamanna mun fækka eða vöxturinn verða minni en ella.  Sjálfbær og mikill hagvöxtur getur ekki orðið undir vinstri stjórn vegna áráttu hennar að ráðast á atvinnuvegina með heimskupörum og/eða skattheimtugríð, sem litlu eða engu skilar í ríkiskassann.  Áðgerðir ríkisstjórnarinnar rýra skattstofninn, þannig að opinbera hagkerfið dregst saman, en meira leitar undir yfirborðið en ella.

Til að ná hagkerfinu upp úr hræðilegum öldudal, sem vinstri stjórnin hefur magnað, er eina ráðið að hvetja einkaframtakið til fjárfestinga í nýrri atvinnuskapandi starfsemi.  Þá dugir ekkert annað en að söðla um í Stjórnarráðinu, gera áætlun um skattalækkanir og sparnað í opinberum rekstri og framfylgja áætlun af festu.  Það verður mjög á brattann sækja með fjárfestingar vegna kreppunnar í heiminum, sem dýpst er í Evrópusambandinu, og t.d. Ítalía hefur ekki farið varhluta af.   Þess vegna þarf að leita hófanna vestan hafs og austan, því að komist hjól atvinnulífsins ekki á fullan snúning með a.m.k. 4 % hagvöxt á grundvelli sjálfbærra aðgerða án þess að éta útsæðið, eins og vinstri stjórnin hefur hvatt til, þá lendir landið í greiðsluvandræðum með afborganir og vexti af skuldum við útlönd.  Skammtíma fórnir kann að þurfa að færa fyrir langtíma ávinning.   

  Mario Draghi  

 


Á villigötum gleymsku og getuleysis

Á ferð um Norðurland í lok júní 2011 veldur slæmt ástand gróðurs hugarangri.  Sprettan er sáralítil, kalskemmdir og trjákemmdir áberandi.  Í stjórnmálum landsins er ástandið því miður þannig, að horfir til algers uppskerubrests, en þar að auki á sér stað sóun opinbers fjár á báða bóga á stjórnarheimilinu.  Ríkisbúskapurinn og hagstjórn eru í skötulíki, en bændur munu vafalaust lágmarka tjón erfiðs árferðis af alkunnri útsjónarsemi.

Vegna innviða og fortíðar stjórnarflokkanna var óraunhæft að búast við meðalmennsku af núverandi ríkisstjórn, en hún hefur þó komið allflestum á óvart fyrir afspyrnu léleg og fornfáleg vinnubrögð, sem ekki verðskulda annað en falleinkunn á öllum sviðum á hvaða mælikvarða sem er.  Nýlegt dæmi um þetta var sofandaháttur ráðherranna við lok Alþingis í vor með þeim afleiðingum, að brýn mál sátu á hakanum.  Þessu fólki er ekki lagið að vinna í ábyrgðarstöðu, heldur að gaspra af ábyrgðarleysi.  Fyrir þetta mun fjöldi fólks líða, eins og komið hefur fram.  Landið þolir ekki lengur svona lélega forystu og er brýnt að breyta, enda getur hún ekki orðið lélegri.

Einna alvarlegast verður að telja, hvernig þingmeirihluti Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur leikið heilbrigðisgeirann.  Með botnlausri forsjárhyggju og kjánalegum afskiptum af viðkvæmri starfsemi er lækningastarfsemin að þrotum komin.  Þetta endurspeglast í flótta úr læknastéttinni til útlanda.  Læknar, sem lokið hafa löngu og ströngu sérnámi, treysta sér ekki heim við ríkjandi aðstæður, þó að þeir að öðrum kosti hefðu verið fúsir til heimferðar.  Tölurnar í þessu sambandi eru sláandi.  Erlendis starfa nú 617 læknar, og innanlands starfa 1060 læknar, sem þýðir, að erlendis starfa 37 % allra íslenzkra lækna, sem er a.m.k. fjórfaldur sá fjöldi, sem eðlilegur getur talizt.  Þetta er sóun í nafni kyrrstöðu og forræðishyggju, sem okkar litla þjóðfélag hefur ekki efni á.  Ríkið nánast einokar starfsemina, en hleypa verður einkaframtakinu að með samkeppni.  Slíkt mun auka skilvirkni, útrýma biðlistum, auka gæði þjónustunnar og verða þjóðhagslega hagkvæmt, eins og dæmin sanna, t.d. frá Svíþjóð.

Hér hefur aðeins ein stétt verið nefnd til sögunnar sem dæmi um þann atgervisflótta, sem hér hefur átt sér stað á valdatíma afturhaldsstjórnarinnar, sem hér hefur verið við völd síðan 1. febrúar 2009.  Um 30 þúsund ársverk hafa tapazt út úr hagkerfinu og enn ekki verið endurheimt, af því að framkvæmdafjandsemi er hér við völd. 

Þá bregður svo við, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun kynnir með pompi og pragt skýjaborgir um nánast tvöföldun vinnslugetu sinnar á raforku á um 15 árum.  Dregin er upp hláleg sviðsmynd af starfsemi orkufyrirtækis sem uppsprettu auðæva á við olíusjóð Norðmanna.  Á hvers kostnað yrði það ?  Sennilega aðallega íslenzkrar alþýðu, sem á fyrirtækið. 

Sú villa er gerð við þessa skýjaborgabyggingu að miða við orkuverð í Evrópu.  Þar ríkir orkuskortur, og þar er koltvíildisskattur lagður á raforkuna með þeim afleiðingum, að orkukræfur iðnaður hefur hrökklazt burt af þessum skaga út úr Asíu.  Nákvæmlega hið sama mun gerast hér, ef Landsvirkjun ætlar að fylgja fordæmi Evrópu um verðlagningu á raforku.  Alþjóðleg fyrirtæki munu þá leita annað, enda hafa þau heiminn allan undir. 

Eina raunhæfa viðmiðið varðandi áætlun um tekjur af orkusölu á Íslandi er heimsmarkaðsverð til sambærilegrar starfsemi.  Það þýðir t.d. ekkert að heimta 50 mill/kWh af nýjum álverum, ef ný álver fá orkuna annars staðar fyrir 30 mill/kWh.  Skýjaborgir af þessum toga eru ekki til annars en að slá ryki í augu almennings og fæla hugsanlega fjárfesta frá landinu, því að enginn vill láta okra á sér. 

Þessar skýjaborgir Landsvirkjunar eru stórfurðulegar í ljósi kyrrstöðustefnu eigandans, ríkisins, en ríkisstjórnin má ekki heyra minnzt á neinar virkjanir fyrir iðnað í eigu erlendra fjárfesta, sem þó er alger forsenda fyrir aukningu raforkuvinnslu um 0,5 TWh/a (terawattstundir á ári), sem skýjaborgirnar snúast um.  Hér kann að liggja sá fiskur undir steini, að Landsvirkjun gæli enn við hugmyndir um stórfelldan útflutning á raforku um sæstreng, en auðvelt er að sýna fram á, að slík starfsemi er þjóðhagslega óhagkvæm miðað við nýtingu orkunnar innanlands.  Er slíkur útflutningur raforku á stefnuskrá stjórnarflokkanna ? Halda menn, að kleift verði að fara út í slíkar framkvæmdir, ef ljóst er, að afleiðingin verður hækkun orkuverðs á Íslandi, eins og dæmin sanna frá Noregi ? 

Ríkisvaldið sjálft verður að móta landinu orkustefnu á grundvelli þess, sem bezt þykir henta hagkerfinu hverju sinni.  Næsta víst er, að hagkerfinu nýtist ekki til fullnustu svo hröð uppbygging, sem Landsvirkjun hér kynnir til sögunnar.  Uppbygginguna þarf að miða við getu íslenzkra fyrirtækja og stöðugleika hagkerfisins til að hámarka þjóðhagslegan ávinning.  Aðeins hámarks ávinningur er ásættanlegur.

Til hliðsjónar er rétt að hafa þá miklu vinnu, sem lögð hefur verið í svo nefnda rammaáætlun um nýtingu og verndun orkulinda, en hún á að gefa vísbendingu um skynsamlega forgangsröðun virkjana og friðunar.  Ef hins vegar núverandi stjórnvöld verða mikið lengur við völd, verður allt friðað og ekkert framkvæmt.  Náttúran skal njóta vafans er orðhengilsháttur umhverfisráðherra.  Þá verða heldur engir peningar fyrir hendi til að reka friðlönd og þjóðgarða með þeim myndarbrag, sem vert er.  Að nýta og njóta skal verða stefnan í þágu fólksins í landinu, sem ætíð skal láta njóta vafans.  

Vatnsafl 

 

 

     

 


Vanmáttur, firring og vanræksla

Á síðustu misserum hefur heimsbyggðin upplifað vanmátt nútíma tækni, sem engan óraði fyrir.  Síðla árs 2008 riðaði fjármálakerfi heimsins til falls vegna svo nefndra skuldavafninga, sem voru ein af fjölmörgum fjármálaafurðum, sem reistar voru á viðamiklum tölfræðilíkönum, sem fengið höfðu gæðastimpil háskólasamfélagsins og virtra fjármálastofnana.  Þrátt fyrir, að fjármálaheimurinn og mikill hluti fjármálafræðiheimsins, viðskiptalífsins og obbi stjórnmálamanna virtist trúa því, að hér hefði mannshuganum loksins tekizt að þróa virkilega gullhænu, reyndust staðreyndir vera allt annars eðlis.  Hér óð uppi gegndarlaus loddaraháttur, undirferli og annars konar sviksemi knúin áfram af siðlausri græðgi.  Á Íslandi var unnt að rita 3000 blaðsíður um málefnið, en ágætur Englendingur, sem hér var nýlega í heimsókn, sagði, að fyrirbrigðinu mætti lýsa með tveimur orðum:"Græðgi og heimska".  Þetta er hverju orði sannara. 

Þetta vandamál þarfnast raunverulegrar rótargreiningar, t.d. svo nefndrar "Tap Root Analysis", en það eru engin teikn á lofti um, að beztu þekktu aðferðafræði verði beitt til að skapa nýtt umhverfi fyrir fjármálageirann.  Segja má, að hann hafi hvarvetna komizt upp með svikamillu.  Dæmigert er, að rætur vandans lágu í hálfopinberum húsnæðislánasjóðum í BNA.  Eftirlit og endurskoðun var í skötulíki, þó að ekki hafi nú skort reglufarganið.  Það var sniðgengið, enda vonlaus aðferð.  Allt virðist falt.

Það er þó í raun gjörsamlega ótækt fyrir almenning að búa við þann óstöðugleika og áhættu, sem ríkir.  Ríkisreknum seðlabönkum heimsins hefur einfaldlega tekizt einstaklega illa upp við peningamálastjórnina.  E.t.v. ætti að einkavæða þessa starfsemi, sem peningaprentun er ? 

Það er t.d. ljóst, að tilraunin með evruna hefur mistekizt.  Athygli fjármálaheimsins hefur ekki enn beinst að stærsta vandamálinu, sem er Ítalía.  Ríkisskuldir Ítala nema 115 % af VLF, og er þetta hlutfall næst hæst á evrusvæðinu á eftir því gríska, en hagkerfi Ítala er margfalt stærra.  Ríkisbúskapurinn þar nam 53 % af VLF 2009, spilling er landlæg og ríkisstjórnin leggur ekki í niðurskurð fremur en sú íslenzka.  Ítalska ríkið hefur flotið á því, að skuldir þess eru að mestu fjármagnaðar með innlendum sparnaði. 

Á Íslandi hanga lömuð stjórnvöld yfir engu og munu ekkert gera annað en að safna erlendum skuldum þar til landið kemst á vonarvöl.  Þau verða þess vegna að víkja.  Hagvöxtur er enginn og atvinnuleysið vex enn.  Eymdarástand er bein afleiðing aulaháttar, þröngsýni og fordóma núverandi stjórnvalda.  Vendipunkti hefði nú þegar verið náð, ef manndómur hefði verið fyrir hendi í Stjórnarráðinu.  Því virðist hvorki að heilsa á þingi né á meðal embættismanna.  Sannast þar, að heppilegast er, að frumkvæði athafnalífsins fái að njóta sín.  Frelsi þarf hins vegar að fylgja ábyrgð.  Það merkir, að menn skuli gjalda græðgi sinnar, heimsku, yfirsjóna og annarra mistaka, sem leitt hafa til almannatjóns. 

Nú í viku 15/2010 hafa fáheyrðir atburðir gerzt, sem varpa ljósi á veikleika nútíma tækni.  Nánast allt flug um Evrópu hefur stöðvazt vegna eldgoss á Íslandi.  Þetta hafði engum til hugar komið og er auðvitað óásættanlegt.  Allar samgöngur heillar heimsálfu fara úr skorðum vegna lítils eldgoss, af því að stöðvun flugs teppir allar aðrar samgönguleiðir.  Það er ekki nokkur leið að búa við slíkt ástand, sem sýnir, að hið tæknivædda samfélag stendur á brauðfótum.  Þetta kemur mörgum í opna skjöldu.  Þýðir þetta þá, að afturhvarf til náttúrunnar sé eina leiðin ?  Alls ekki.  Nú þarf að stoppa í götin og ekki að leggja eyrun við endalausum úrtölum afturhaldsafla fátæktarboðskaparins.   

Á Íslandi veldur gosið í Eyjafjallajökli miklum búsifjum.  Verst hefur það bitnað á bændum, búaliði og búsmala í grenndinni, en það kann að eiga eftir að leika aðra tæknivædda innviði þjóðfélagsins grátt.  Í þessu máli verður hins vegar ekki orða bundizt að láta í ljósi aðdáun á björgunarsveitum landsins, og kemur ekki annað til greina en að láta fé úr hendi rakna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, þó að björgulegri mættu vera, til styrktar björgunarsveitunum.  Þá er full ástæða fyrir orðunefnd að gera tillögu til forseta lýðveldisins um að sæma þá menn, sem björguðu Markarfljótsbrú, nokkrum bújörðum og búsmala á dögunum, riddarakrossi hinnar íslenzku Fálkaorðu. 

Það er alveg ljóst af viðbrögðum almennings, sem orðið hefur fyrir barðinu á náttúruhamförunum, að þar fara hinir beztu eðliskostir, sem kenndir hafa verið við Íslendinga frá fornu fari: heiðarleiki, dugnaður, hjálpsemi, þrautseigja og útsjónarsemi.

Að svo mæltu vill höfundur benda á stórkostlegt sjónarspil náttúrunnar, án undanfarandi umhverfismats, á myndasýningu, sem birtist með vefgrein þessari. 

    

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband