Færsluflokkur: Umhverfismál

Stórtækar og öfgafullar friðlýsingartillögur

Umhverfis- og auðlindaráðherra án þingsætis hefur viðrað tillögur um risavaxinn Hálendisþjóðgarð, sem engin þörf er fyrir og yrði varðveizlu náttúru að engu leyti hjálplegri en núverandi fyrirkomulag, þar sem sveitarfélög og íbúar (bændur) þeirra koma mest við sögu.  Nóg um það.  Nú hefur hann gengið fram með tillögu, e.t.v. "spill for galleriet", sýndarleik, sem fjallar um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.  Jón Gunnarsson, Alþingismaður, sýndi almenningi fram á það með Morgunblaðsgrein sinni 26. maí 2020:

"Að friðlýsa landið og miðin",

að hér er um löglaust framferði ráðherrans að ræða, sem engin sátt getur orðið um á meðal meirihluta þingheims, enda er málið á leiðinni fyrir dómstóla.  

Öfgafullt hugarfar og viðhorf umhverfis- og auðlindaráðherra til reglusetninga um það, hvernig nýta má hálendið og reyndar hefðbundnar orkulindir, hvar sem þær er að finna hérlendis, er sorglegt.  Hvers vegna vill hann stöðugt breyta leikreglunum sínum skoðunum í vil ?  Það verður að þræða hinn gullna meðalveg í þessum efnum, sem felst í að nýta þær orkulindir, sem spurn er eftir, ef fórnarkostnaðurinn "að beztu manna yfirsýn" og með blessun Alþingis er minni en hinn þjóðhagslegi ávinningur.  Spriklið í umhverfis- og auðlinda bendir til, að hann sætti sig ekki við þessa nálgun.  Hann á dálítið bágt að geta ekki spurt kjósendur sína ráða, því að þeir eru engir.  Hann getur aðeins hlustað í bergmálshelli Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Það er ógæfulegt til ákvarðanatöku í þágu þjóðar. 

Nú verður vitnað til hinnar öflugu greinar Jóns:

"Tillaga verkefnisstjórnarinnar og þar með þingsályktunin var því unnin áður en málsmeðferðareglur laganna tóku gildi.  Í þeim felast m.a. verklagsreglur, sem verkefnisstjórn og faghópar skulu fylgja.  Verkefnisstjórn rammaáætlunar 2 vann sem sagt aldrei eftir þessum reglum, því að þær voru ekki til.  Verkefnisstjórnin hafði ekki á þessum tíma (fyrir 2011/2013) það hlutverk að afmarka virkjunarsvæði eða virkjunarkosti.  Af því leiðir, að afmörkun virkjunarsvæða eða virkjunarkosta var ekki hluti af tillögu verkefnisstjórnar og þar með heldur ekki hluti af ályktun Alþingis.  Rammaáætlun 2 skorti því öll fyrirmæli um, hver væru mörk virkjunarsvæða eða virkjunarkosta og þingsályktunin því mjög ófullkomin að þessu leyti."

 

"Það er greinilega úr vöndu að ráða fyrir ráðherra umhverfis- og auðlindamála, þegar ákveða skal leiðina.  En ráðherrann ákvað sem sagt, að lög og verklagsreglur, sem ekki voru til, þegar verkefnisstjórn vann tillögu að ramma 2, og ekki voru í gildi, þegar þingsályktunin frá 2013 var samin og samþykkt, skuli veita leiðsögnina um mörk friðunar."  

 Þetta er góð röksemdafærsla fyrir því, að umhverfis- og auðlindaráðherra veður reyk í tilraunum sínum til friðlýsingar vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.  Gjörðir ráðherrans eru ólögmætar og út í hött.  Það gengur ekki, að ráðherra gangi erinda sérhagsmunaafla í landinu, sem draga úr möguleikum núverandi og komandi kynslóða til að taka ákvarðanir um atvinnutækifæri, gjaldeyrissparnað eða gjaldeyrissköpun. 

Síðan heldur Jón áfram:

"Í engu tilviki voru heil vatnasvið sett í verndarflokk í rammaáætlun 2, þingsályktun 13/141.  Í öllum tilvikum er talað um virkjunarkosti.  Friðanir eða tillögur þar um verða að taka mið af þessu.  Ekki kemur til álita að friða vatnasvið og árfarvegi, nema rammaáætlun segi það berum orðum."

Jón Gunnarsson er betur að sér en flestir aðrir menn á þingi um þessi mál, baksvið lagasetningar um orkumál og ætlun löggjafans.  Hann er ennfremur víðsýnn þingmaður með þau viðhorf, að fjölbreytileg nýting landsins gæða eigi að fá að njóta sín.  Jón Gunnarsson mun ekki láta ráðherra komast upp með rangsleitni, yfirgang og öfugsnúna lagatúlkun. 

"Ég sat á sínum tíma í þingnefndinni, sem um þetta fjallaði, og í þeim nefndum, sem síðan hafa fjallað um þennan málaflokk.  Vilji löggjafans er alveg skýr í þessum efnum.  Ljóst er, að ef skýringar og stefna ráðherrans fengju að ráða, þarf ekki mikið að velta fyrir sér nýtingu orkuauðlinda okkar.  Ef henni yrði beitt í ýtrasta tilgangi, yrði landið nánast allt friðað fyrir frekari virkjunum.  Það liggur í augum uppi, að löggjafinn var ekki að færa svo mikilvægar ákvarðanir í hendur eins manns, þ.e. umhverfis- og auðlindaráðherra."

Ráðherrann er með brambolti sínu að troða sjónarmiðum jaðarhóps í þjóðfélaginu að sem stefnu ríkisvaldsins.  Þessi stefna er ekki reist á neinum haldbærum rökum, heldur aðeins þeirri tilfinningu, að "náttúran verði að njóta vafans", þótt þjóðin verði að éta, það sem úti frýs.  Þetta er afturhaldssjónarmið reist á rökvillu um, að maðurinn sé eini breytingavaldurinn í náttúrunni.  Hið rétta er, að náttúran sjálf er öflugasti breytandinn og sjónræn áhrif vatnsaflsvirkjanaframkvæmda á náttúruna eru flest lítil og sum til bóta og mörg eru afturkræf.  Kosti og ókosti þarf auðvitað að vega saman og málamiðlanir að gera, en ofstæki á ekki heima í þessum málaflokki frekar en öðrum, þar sem fjallað er um tæknilegar lausnir. 

"Ákvarðanir um friðlýsingarmörk verða augljóslega að vera hluti af ákvörðunum um að setja virkjunarkost í verndarflokk.  Ég vil taka það skýrt fram, að ég er ekki á móti friðlýsingum, en öfgar og útúrsnúningar sem þessir eru í andstöðu við vilja löggjafans.  Ef skilningi ráðherrans yrði fylgt til hins ýtrasta varðandi virkjanakosti í verndarflokki, yrðu möguleikar til nýtingar orkuauðlinda okkar skertir stórkostlega og gerðu út af við möguleika okkar til sóknar á þeim vettvangi."

Þetta er mergurinn málsins.  Ráðherrann stefnir að því að leggja höft á komandi kynslóðir um nýtingu landsins gæða.  Það er í senn ólýðræðislegt og andstætt heilbrigðri skynsemi, því að nýjar kynslóðir búa við nýjar þarfir og ný úrræði til að beizla náttúruna.  Þessi ríkisstjórn er ekki studd af meirihluta þings og þjóðar til slíkra óhæfuverka. 

"Hér eru gríðarlegir þjóðhagslegir hagsmunir undir, og við höfum ekki efni á að skerða möguleika þjóðarinnar til að skapa verðmæti með nýtingu auðlinda sinna.  Málamiðlun í þessu sem öðru þarf að vera það leiðarljós, sem við fylgjum.  Það eru mörg tækifæri til að friða viðkvæmar náttúruperlur án þess, að gengið sé á möguleika okkar að öðru leyti."

 Hér er vel að orði komizt um kjarna málsins.  Það er engin glóra í því að útiloka virkjunartilhögun fyrirfram áður en hún hefur verið sett fram.  Slíkt eru handabakavinnubrögð og fórn verðmæta með bundið fyrir augun.  Þetta virkjanahatur er heimskulegt í ljósi umhverfismála heimsins og í ljósi þarfar þjóðarinnar fyrir aukna gjaldeyrissköpun um 50 mrdISK/ár til að halda í horfinu fyrir vaxandi þjóð, sem er að eldast.   

 Dettifoss

 

 


Vindmylluriddarar og aðrir einstefnumenn

Það er undarleg tilhneiging hérlendis til útskúfunar heilla atvinnugreina og að fella um þær palladóma, sem reistir eru einvörðungu á fordómum og þekkingarleysi. Iðulega styðjast þessi viðhorf við innflutt sjónarmið úr gjörólíku umhverfi, sem engan veginn eiga við hér.  Þar með bíta þessir talsmenn höfuðið af skömminni, svo að á þeim er lítt mark takandi. 

Hér verður tvennt gert að umræðuefni: áhugi á uppsetningu vindorkuvirkjana hérlendis og hernaðurinn gegn nýjum hefðbundnum íslenzkum virkjunum á sviði jarðgufu og vatnsafls.

Vindmyllur eru neyðarbrauð, sem gripið var til í örvæntingu erlendis til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í löndum, þar sem hlutdeild þeirra í raforkuvinnslu var yfirleitt undir 10 %.  Hérlendis er þessi hlutdeild næstum 100 %, þökk sé vatnsorkuvirkjunum og jarðgufuvirkjunum.  Frumskilyrði fyrir vindorkuver vantar þess vegna hérlendis.

  Vindmyllurnar eru litlar að uppsettu afli, oft 3-5 MW, og nýting þeirra er slæm á landi (betri úti fyrir ströndu).  Raforkuvinnsla þeirra er slitrótt, og jafngildir orkuvinnsla þeirra yfir árið því, að þær séu á fullu afli minna en 30 % af árinu á heimsvísu, en hérlendis líklega um 40 % að teknu tilliti til viðhalds.  Að sama skapi hefur orkan frá þeim verið dýr, um 70 USD/MWh, en með bættri framleiðslutækni og lækkun verðs þeirra frá verksmiðju á hvert MW hefur e.t.v. náðst að lækka þennan vinnslukostnað niður í 50-60 USD/MWh.  Þetta er þó einfaldlega ekki samkeppnishæft verð á Íslandi án niðurgreiðslna, á meðan nægt framboð er af raforku frá hefðbundnum íslenzkum virkjunum. 

Hvað sem líður áformum um nýjar slíkar virkjanir, sem eru fremur fátækleg, nema helzt smávirkjanir vatnsafls og endurnýjun gamalla virkjana með aukin afköst og meiri orkuvinnslu í huga, þá er nóg af ónýttum virkjanakostum í gildandi Rammaáætlun, svo að ekki sé minnzt á biðflokkinn.  Skynsamlegasta notkun vindmyllna hérlendis er að láta þær jafnan vera á mestu mögulegu afköstum og spara á móti vatn í miðlunarlónum, en engin þörf er á þessu á sumrin í góðum vatnsárum.  Við venjulegar aðstæður er takmarkaður og óviss markaður fyrir vindmyllur á Íslandi. Er einhver spurn eftir þessari orku, eða fyrir hvað eru vindmylluriddarar nútímans að sverma hérlendis ?

 

Framleiðsluferli vindmyllna skilur eftir sig umtalsvert kolefnisfótspor, og í þeim eru verðmætir og sjaldgæfir málmar.  Spaðarnir eru yfirleitt úr glertrefjum, og þeir slitna vegna loftmótstöðu og sandfoks og þarfnast skiptingar.  Þeir gömlu eru yfirleitt urðaðir. Enn vex kolefnissporið, þegar jarðvinna og gríðarleg steypuvinna hefst á virkjanasvæði vindsins.  Það er gríðarleg graftrarvinna fyrir stórar steyptar undirstöður, vegalagning og strengjaskurðir fyrir vindmyllurnar.  Umhverfisraskið er gríðarlegt á stóru svæði vindorkuversins og miklir þungaflutningar þangað.  Allt er það fyrir heldur rýra eftirtekju.  

Spaðaendarnir geta hæglega verið á hraðanum 70 km/klst.  Fuglar sjá margir illa upp fyrir sig, og hafa t.d. hafernir í Noregi slasazt tugum saman árlega til ólífis af höggi ofanfrá.

Mikil útlitsbreyting til hins verra verður á víðernum, þar sem vindorkuverum hefur verið skellt niður, og vegna hæðar sinnar, allt að 200 m frá efra borði undirstöðu að spaðatoppi, sjást þau marga tugi km að.  Þegar kostir og gallar vindmylluorkuvera á Íslandi eru vegnir og metnir, virðast gallarnir vera yfirgnæfandi og yfirþyrmandi. 

Forystugrein Morgunblaðsins 26. maí 2020 fjallaði um þetta og hét:

 "Stundum verður að berjast við vindmyllur".

Þarna er skírskotað til þekkts miðaldaverks á Spáni, enda verður að telja það fremur forneskjulegt að mæla fyrir vindmyllum til raforkuvinnslu á Íslandi.  Þar er svo sannarlega farið yfir lækinn til að sækja vatnið:

"Baráttan gegn því, að efnt yrði til vatnsfallsvirkjana, sem hagstæð skilyrði stóðu til, varð stundum mjög hatrömm [deilurnar um Búrfellsvirkjun eru pistilhöfundi í fersku minni-innsk. BJo].  Iðulega tók hún sama blæ og brag og baráttan gegn hersetu, þótt að henni kæmu stórir hópar fólks, sem innvígðist aldrei í þau mál.  En nú var rætt um "hernaðinn gegn landinu" og fast kveðið að og fullyrt, að þeir, sem slíkt styddu, væru eins og landsölumennirnir, óvinir þjóðarinnar og svikarar við málstað hennar.

En meginþáttur í huga margra, sem börðust gegn því, að landinu væri spillt, svo [að] fegurð þess og yndi fengi áfram að njóta sín, snerist að sjónmenguninni, sem væri skemmdarverk af risavöxnu tagi." 

 Þetta er hárrétt athugað hjá leiðarahöfundinum, en hávær og innistæðulítill andróður gegn virkjun íslenzkra jökulvatna á borð við Þjórsá og Tungnaá reyndist stormur í vatnsglasi.  Það var gert allt of mikið úr skemmdarverkum á náttúrunni og ekkert hugað að þjóðhagslegu mikilvægi raforkuvinnslunnar, sem varð afrakstur framkvæmdanna. 

Ekkert af þessu á við um vindmyllurnar.  Þær setja mjög neikvæðan svip á landslag á stórum landsvæðum, þar sem þær hafa verið settar upp (erlendis), enda er engin spurn á íslenzkum raforkumarkaði eftir þessari frumstæðu og óhentuga aðferð við raforkuvinnslu hérlendis. 

"Á laugardaginn var [23.05.2020] birtist stutt grein frá lesanda blaðsins og vakti athygli.  Kannski var hún merkilegust fyrir það, að þar var opnað á umræðu, sem illskiljanlegt er, að hafi ekki fyrr verið tekin af alvöru hér á landi. Greinarhöfundur, Halldór S. Magnússon, fjallar um vindmyllur og bendir í upphafi sinnar greinar á það alkunna, að "virkjun náttúruauðlinda  hefur lengi verið eitt vinsælasta deiluefni Íslendinga.  Annars vegar eru þeir, sem telja nauðsynlegt að virkja sem allra mest  til þess að efla þjóðarhag, og hins vegar þeir, sem telja brýnt að virkja alls ekki meir til þess að vernda náttúru landsins."

Ef einhverjum hefur dottið í hug, að vindmyllur gætu brúað bilið á milli þessara hópa, þá lýsir það viðhorf fullkomnu skilningsleysi á skaðsemi vindmyllna í íslenzkri nátturu.  Umhverfislega er verið að fara úr öskunni í eldinn.  Flestir hérlandsmenn eru hófsamir m.t.t. nýrra virkjana, vilja leyfa nýjar virkjanir, ef þörf er á orkunni og nýta á beztu tækni til að draga úr umhverfisáhrifunum eftir föngum, t.d. með lunganum af mannvirkjunum neðan jarðar (sprengd inn í fjöll). Þessu er ekki fyrir að fara með vindmyllur. Þar er ekki val, nema á milli stærðar hverrar vindmyllu og fjölda þeirra.  Hver sækist eftir slitróttri orku frá þeim, og eðli máls samkvæmt setja þær hræðilegan svip á ósnortin víðerni.  Þetta hefur nú runnið upp fyrir mörgum þjóðum í Evrópu, t.d. Norðmönnum.

"Greinarhöfundi þótti lítið hafa heyrzt frá talsmönnum náttúruverndar um vindmylluáform.  Enda er það umhugsunarefni, að almenningur hafi ekki látið þetta mál til sín taka áður en það er um seinan.  Kannski er það vegna þess ofsa, sem einkennir umræðu um loftslagsmál, þar sem sérhver spurning er kaffærð, falli hún ekki að "réttum sjónarmiðum".  Kannski óttast fólk, að taki það á móti þeim, sem vilja slá upp risavöxnum vindmyllum í náttúru landsins með óþolandi hvini og ónotum, verði það sakað um að stuðla að þeim aldauða, sem verði, fái loftslagsmenn ekki sitt fram."

Það er rétt hjá Morgunblaðinu, að erlendis eru náin tengsl á milli hvatamanna vindmylluorkuvera og loftslagsspámanna.  Í löndum annarra endurnýjanlegra orkulinda, þar sem að auki enn er nóg af þeim, falla loftslagsrök fyrir vindmyllum algerlega um sjálf sig. Vindmyllur hafa stórt kolefnisfótspor, og eiga engan rétt á sér, þar sem nóg er af öðrum endurnýjanlegum orkulindum.  Þetta er hin mikla meinloka vindmylluriddara nútímans á Íslandi.

"Halldór S. Magnússon bendir réttilega á, að þögn talsmanna náttúruverndar veki einkum furðu, "þar sem þeir hafi talið það fyrst og fremst vatnsaflsvirkjunum og jarðhitavirkjunum til foráttu, að þær séu óþolandi aðskotahlutir í íslenzkri náttúru, sem skemmi fyrir upplifun manna af landinu og stórkostlegri fegurð þess." 

Þessi einkunnargjöf afturhaldsmanna um útlit og ljótleika vatnsaflsvirkjana og jafnvel jarðgufuvirkjana eru tilbúin falsrök þeirra fyrir vondum málstað.  Vatnsaflsvirkjanir falla í langflestum tilvikum, ef ekki öllum, mjög vel að landslaginu, og miðlunarlónin eru yfirleitt til fegurðarauka í landslaginu, ekki sízt á gróðurlitlu og þyrrkingslegu hálendinu.  Svipaða sögu má segja af jarðgufuvirkjunum, þótt gufumekkir og röralagnir falli vafalaust ekki öllum í geð.  Þegar gríðarlegt notagildi og umhverfisvæn orkuvinnsla er höfð í huga, eru flestir tilbúnir til að horfa í gegnum fingur sér með þessi mannvirki.  Fórnarkostnaðurinn er aðeins lítið brot af hinum þjóðhagslega ávinningi.  Engu slíku er hins vegar til að dreifa um slitrótta orkuvinnslu hundruða vindmyllna, sem stinga í stúf við heilbrigða skynsemi á Íslandi.  

"Og í tímamótagrein sinni spyr Halldór í framhaldinu: "En hvað með vindmyllur, geta þær fallið inn í landslagið ?"  Og hann bætir við: "Í flestum tilvikum munu myllur vindorkuvera verða áberandi á fjöllum og hásléttum landsins og sjást víða að.  Getur það samrýmzt skoðunum umhverfis- og náttúruverndarsinna, að reistar verði vindmyllur uppi á heiðum og fjöllum landsins í ósnortinni náttúru ?"

Þetta eru gildar spurningar og tímabærar og sætir reyndar nokkrum ugg, að dauðaþögn hafi ríkt um þessi mál þar til nú."

Spurningum téðs Halldórs er fljótsvarað.  Það samrýmist alls ekki sönnum náttúruverndarsjónarmiðum að styðja reisningu fjölda vindmyllna, ekki einu sinni með þögninni.  Þetta er ástæðan fyrir því, að andstaðan gegn vindmyllum fer nú sívaxandi í Noregi.  Norðmenn hafa nú áttað sig á því, að útdjöflun ósnortinna víðerna þeirra er allt of dýru verði keypt. Norðmenn framleiða um tífalt meira af raforku með vatnsafli en Íslendingar, svo að þeir eru mjög vanir vatnsaflsvirkjunum (mörg stöðvarhús eru reyndar sprengd í fjöll af öryggisástæðum), miðlunarlónum og háspennulínum í ósnortnum víðernum. Miðlunarlónin eru meira en tíföld hámarksflatarmál íslenzkra miðlunarlóna, því að þau voru sniðin við þarfir norskrar stóriðju og húshitunar fyrir daga sæstrengstenginganna við Noreg. Nú hefur hins vegar verið gengið algerlega fram af norskum náttúruunnendum, enda er engin þörf fyrir vindmyllur inn á norska raforkukerfið.  Raforka vindmyllanna fer nánast öll til útlanda um aflsæstrengi, og fjárfestarnir, margir frá meginlandi Evrópu, mökuðu krókinn, á meðan verðið var þar nægilega hátt, en við núverandi markaðsaðstæður lepja þeir dauðann úr skel.

Svo virðist sem núverandi umhverfisráðherra á Íslandi sé hallari undir vindmyllur en vatnsorkuver, og er það til vitnis um furðulegan öfugsnúning þessa ráðherra án þingsætis. Hér kemur inngangur að baksviðsgrein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, 29. maí 2020, sem hann nefndi:

"Setja viðmið við uppbyggingu vindorku":

Umhverfisráðherra er að undirbúa frumvarp til laga um umgjörð nýtingar vindorku í landinu.  Ráðuneyti hans og ráðuneyti iðnaðarmála hafa verið að vinna að því að móta viðmið um það, hvar leyfa megi vindorkugarða og hvar ekki.  Skipulagsstofnun vinnur í þessu sambandi að gerð viðauka við landskipulagsstefnu, þar sem sett verða viðmið fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga um vindorku.  

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir, að litið hafi verið til viðmiða erlendis og nefnir, að sums staðar hafi friðlýst svæði og svæði, sem farleiðir fugla liggja um, verið tekin út fyrir sviga."

Þetta er mjög ógæfulegt, því að við höfum fátt eitt til annarra þjóða að sækja í þessum efnum annað en sorgleg mistök, eins og dæmið af Noregi hér að ofan sýnir.  Reglan um þetta getur verið mjög einföld.  Alls ekki á að leyfa vindmyllur í ósnortnum víðernum.  Ef áhugi er á að reisa vindmylluorkuver annars staðar, skal leita umsagnar Landsnets um þörf á aukinni innmötun þar.  Það er eins og fyrri daginn.  Flækjufótum Stjórnarráðsins leyfist að gera einföld mál flókin.  Er ekki meirihluti á þingi fyrir einföldu reglunni ?

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur horn í síðu nýrra vatnsorkuvera.  Alþingismaðurinn, Jón Gunnarsson, reit gagnmerka grein um þetta í Morgunblaðið 26. maí 2020, sem hófst þannig, en henni verða gerð betri skil síðar:

"Að friðlýsa landið og miðin":

"Umhverfisráðherra kom fram í fjölmiðlum sunnudaginn 17. maí [2020] og reyndi að réttlæta ákvörðun sína um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.  Sú skýring hans, að þetta sé gert til að framfylgja vilja Alþingis, stenzt enga skoðun.  Ég tel, að ráðherra skorti lagaheimild fyrir þessari ákvörðun.  Ráðherranum hefur nú verið stefnt fyrir dóm af landeiganda vegna þessa."

Ráðherra þessi hagar sér að ýmsu leyti eins og kvíga, sem sleppt er út að vori.  Hann gerir, það sem honum sýnist, og fullyrðir síðan, að hann hafi fullan rétt til þess.  Það kom vel á vondan, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landverndar, að verða sjálfur kærður fyrir embættisafglöp, sá kæruglaði maður.  Fróðlegt verður að sjá, hvernig deilumálinu reiðir af í dómssölum.  Ráðherra þessi varð alræmdur fyrir kærugleði sína í sínu fyrra starfi og hefur á samvizku sinni gríðarlega kostnaðarsamar tafir framkvæmda um allt land.  Auðvitað sá hinn stórskrýtni þingflokkur vinstri grænna ástæðu til að verðlauna þennan mann fyrir afrekin, sem kostað hafa skattborgarana stórfé.  

 Sigalda

 

 

 

 


Efnileg nýsköpun mætir sums staðar mótlæti

Laxeldi í sjókvíum og úrvinnsla afurðanna í landi er gríðarlega efnileg viðbót við íslenzkt atvinnulíf og verðmætasköpun.  Nú hefur orðið verulegt tekjutap íslenzka hagkerfisins við brottfall erlendra ferðamanna, sem dregur allt í einu upp nýja mynd af þessari grein, ferðaþjónustunni; sem sagt þá, að framtíð hennar er mikilli óvissu undirorpin; hún gæti hæglega átt sér afar skrykkjótta framtíð og aldrei náð hámarkinu fyrir COVID-19. 

Mengunarsjónarmið og sjálfbærniþörf mæla heldur ekki með þessari grein sem stendur.  Það er viss lúxuslifnaður að ferðast, og ferðalög með núverandi tækni eru ósjálfbær.  Út yfir allan þjófabálk tekur, þegar stjórnmálamenn bulla um, að "náttúran verði að njóta vafans", og þess vegna skuli sjókvíaeldi settur stóllinn fyrir dyrnar, t.d. í Eyjafirði, m.a. til að trufla ekki ferðir stórskipa, eins og farþegaskipa.  Þar tekur steininn úr, því að farþegaskip eru einhverjir verstu mengunarvaldar, sem þekkjast, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Ef velja þarf á milli farþegaskipa og sjókvíaeldis í Eyjafirði, er enginn vafi á, hvor kosturinn verður ofan á út frá hagrænum og umhverfislegum sjónarmiðum. 

Á Vestfjörðum hefur fiskeldi í sjó umbylt atvinnuástandi og byggðaþróun til hins betra. Nú er verið að auka úrvinnsluna, og til þess er nýtt nýjasta tækni frá hvítfiskvinnslunni.  Mikil sjálfvirkni kallar á sérfræðinga á staðnum á sviðum hugbúnaðar, rafbúnaðar og vélbúnaðar.  Gæði, framleiðni og aukin verðmætasköpun skjóta stoðum undir styrkari samkeppnisstöðu og veitir ekki af, því að innreið er hafin á verðmætan markað með bullandi samkeppni.

Helgi Bjarnason reit baksviðsgrein í Morgunblaðið 20. maí 2020, sem hann nefndi:

"Aðstaða til að framleiða hágæða afurðir":

"Fiskvinnslan Oddi hefur starfað í um 50 ár.  Skjöldur Pálmason segir, að til þess að stækka fiskvinnsluna á hefðbundinn hátt þurfi að fjárfesta í kvóta fyrir fiskiskipin og í vinnslunni fyrir marga milljarða [ISK]. Hann gefur ekki upp kostnaðinn við að koma upp vinnslu á laxi, en segir hann aðeins brot af kostnaði við að stækka hvítfiskvinnsluna.  Þetta sé því ódýr leið til að stækka og styrkja fyrirtækið.  Laxinn er verðmætari en annar fiskur og er reiknað með, að velta fyrirtækisins tvöfaldist með því að bæta 2,5 kt-3,0 kt af laxi við þau 4,5 kt-5,0 kt af fiski, sem nú fer í gegnum fiskvinnsluna [á ári]."

  Þetta er frábært dæmi um arðbært sambýli hefðbundinnar og rótgróinnar fiskvinnslu annars vegar og laxeldis hins vegar.  Með því að bæta um 60 % við afkastagetuna á ári næst tvöföldun á veltu með aðeins litlum hluta (e.t.v. 25 %) fjárfestingarupphæðar, sem þyrfti að verja í jafnmikla afkastaaukningu í hvítfiski.  Eins og fram kemur hér að neðan, er þar að auki verið að auka verðmæti laxafurðanna frá því, sem áður var, væntanlega um a.m.k. þriðjung.  Þessi nýsköpun er borðleggjandi viðskiptahugmynd.  Það eru furðuviðhorf og afturúrkreistingsleg að hafa allt á hornum sér varðandi atvinnugrein hérlendis, sem býður upp á vaxtarbrodda af þessu tagi.  

"Vegna staðsetningar Fiskvinnslunnar Odda á fiskeldissvæðinu á suðurfjörðum Vestfjarða og nálægðar við stærsta laxasláturhús landsins á fyrirtækið að geta framleitt hágæða flök, sem unnin eru áður en dauðastirðnun laxins hefst.  Afurðir af þeim gæðum eru m.a. eftirsóttar í sushí-rétti um allan heim.

Megnið af íslenzka eldislaxinum er flutt heilt og ferskt í frauðkössum á markaði austan hafs og vestan og einnig til Asíu.  Nokkur fiskvinnslufyrirtæki hafa flakað lax fyrir eldisfyrirtæki eða keypt og flakað á eigin reikning og selt á erlenda markaði.  Fleiri eru að huga að þeim málum. 

Verðmæti laxafurða eykst minna við laxflökun, og kostnaður við hráefnið er hærra hlutfall en við almenna fiskvinnslu.  Þess vegna er mikilvægt, að nýting hráefnisins sé sem bezt og nýttir séu þeir markaðir, sem gefa hæst verð."

Hér er frábært frumkvæði á ferð, þar sem ætlunin er að beita nýjustu tækni til að auka enn verðmæti eldislaxins og skapa um leið fjölbreytileg störf á Vestfjörðum.

"Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði hefur fjárfest í nýjustu og beztu vinnslulínunni, sem nú er völ á hjá Marel, og hefst flökun þar og útflutningur í haust.  Nýting hráefnisins á að verða, eins og bezt verður á kosið.  Vinnslulínan er tölvustýrð og sjálfvirk, allt frá innmötun til hausunar, flökunar, snyrtingar og pökkunar.  Áætlað er, að þörf verði á að bæta við 14-16 starfsmönnum til að vinna úr 2,5 kt - 3,0 kt af laxi á ári."

Það verður góð nýting og nákvæmni búnaðar ásamt hárri framleiðni, sem standa munu undir arðsemi þessara fjárfestinga.  Nýju störfin eru vafalítið ársverk, þ.e. heilsársstörf, með miklu atvinnuöryggi og vel borguð. Framleiðnin, 5,5 störf/kt, er góð. Þetta er ósambærileg atvinnustarfsemi við ferðaþjónustu, sem er gríðarlegri óvissu undirorpin á alla kanta og enda.

Að lokum stóð í þessari frétt: 

"Stjórnendur fyrirtækisins [Odda] og sölumenn eiga mikið verk fyrir höndum. Skjöldur segir, að gríðarlega hörð samkeppni sé á þessum markaði.  Þar eru fyrir á fleti stórar verksmiðjur.  Bindur hann vonir við, að góð nýting og hágæðavara, sem minna framboð er af í heiminum en almennum laxi, skapi fyrirtækinu sérstöðu og hjálpi því að komast inn á markaðinn.  Markaðsstarf er í fullum gangi.  Reiknar Skjöldur með, að hluti af viðskiptavinum fyrirtækisins í hvítfiski kaupi af þeim lax til dreifingar, og vonandi bætist nýir kaupendur við."

 Hér fara saman áræðni frumkvöðulsins, þekking og reynsla af hliðstæðri starfsemi í hvítfiski og skilningur á því, að hagnýting nýjustu innlendrar tækni á þessu sviði sé nægilegt afl til að ryðja nýjum birgi braut inn á bullandi samkeppnismarkað, þar sem meiri gæði vegna hreins umhverfis og minni sýklalyfjagjafar og eiturefnanotkunar (vegna lúsar) geta riðið baggamuninn. 

Þessi viðhorf á Vestfjörðum eru til fyrirmyndar og andstaðan við hjárænuleg viðhorf meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar gagnvart sjókvíaeldi í sjó, sem sami Helgi Bjarnason gerði að umfjöllunarefni tveimur dögum síðar í baksviðsfrétt 22. maí 2020 undir furðufyrirsögninni:

"Bæjarstjórn vill friða fjörðinn".

 Án þess að gefa staðreyndum mikinn gaum hljóp þessi meirihluti upp til handa og fóta og varð að athlægi með yfirlýsingu, sem einkennist af þröngsýni, þekkingarleysi og fordómum í garð sjókvíaeldis á laxi.  Bar hann fyrir sig hinn fáránlega frasa, að náttúran eigi að njóta vafans, en leggur um leið blessun sína yfir komur farþegaskipa til Eyjafjarðar, sem þó eru gríðarlegir mengunarvaldar.  Barninu er þarna kastað út með baðvatninu.  Í stað þess að leita til Hafrannsóknarstofnunar um ráðgjöf, þá er öllu laxeldi, einnig í lokuðum kvíum, einstrengingslega hafnað.  Þar setti yfirvöld Akureyrar, þess góða og snotra bæjar, niður.

Helgi Bjarnason hóf baksviðsfrétt sína þannig:

"Meirihluti fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að leggja til við sjávarútvegsráðherra, að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi.  Meirihlutinn klofnaði við afgreiðslu tillögunnar, því að tveir fulltrúar hans samþykktu tillöguna ásamt öllum fulltrúum minnihlutans, en fjórir fulltrúar úr meirihlutanum sátu hjá og lögðu til mildari leið.

Skoðanir eru skiptar í Eyjafirði um sjókvíaeldi.  T.d. var unnið að því í Fjallabyggð að koma upp aðstöðu til rekstrar fiskeldis frá höfninni í Ólafsfirði.

Nokkurt fiskeldi var í Eyjafirði fyrir nokkrum árum, en því hefur öllu verið hætt.  Tvö fyrirtæki hafa undirbúið stóreldi í sjókvíum og voru komin áleiðis í rannsóknum og matsferli, þegar ferlið var stöðvað með breytingum á fiskeldislögum á síðasta ári." 

Það er fáheyrt, að eitt sveitarfélag skuli ætla að setja öðru stólinn fyrir dyrnar við nýtingu náttúruauðlinda að lögum, þótt það hafi ekki sjálft áhuga á slíkri nýtingu.  Segja má, að með þessari samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar sé hún komin út fyrir sitt verksvið.  Vinnubrögðin eru óvönduð, hvernig sem á þau er litið. 

"Þau áform, sem lengst voru komin, voru borin fram af norska fyrirtækinu AkvaFuture, sem hugðist koma upp lokuðum sjókvíum innarlega í Eyjafirði á grundvelli nýrrar tækni, sem fyrirtækið hefur hannað og notað við eldi í Noregi.  Ætlunin var að framleiða 20 kt/ár.  Telur fyrirtækið, að minni umhverfisáhrif verði af eldi í lokuðum kvíum af þessu tagi."

Það lýsir einstrengingshætti bæjarstjórnar Akureyrar að hafna samstarfi við þetta framúrstefnufyrirtæki og Hafrannsóknarstofnun um þróun á nýrri eldistækni í Eyjafirði, sem veitt gæti allt að 400 manns fasta vinnu allt árið um kring.  Stjórnmálamenn í krossferð eru illa fallnir til leiðsagnar, hvort sem er á Akureyri eða í Reykjavík.

"Umræðan, sem leiddi til bókunar meirihluta bæjarfulltrúa á Akureyri,  kemur til af því, að landeigendur við austurhluta Eyjafjarðar og ferðaþjónustufyrirtæki hafa sent erindi til sveitarstjórna, þar sem varað er við áhrifum sjókvíaeldis á hagsmuni þeirra.  Einnig kveikti það umræðu, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti í lok marz [2020] aðgerðir á sínu málasviði vegna kórónuveirufaraldursins.  Ein af þeim er að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi, enda gæti það leitt til mikilla fjárfestinga og fjölgunar starfsfólks."

Á tímum, þegar leita þarf öld aftur í tímann til að finna sambærilegan samdrátt hagkerfisins ásamt metatvinnuleysi sökum hruns ferðaþjónustunnar, er alveg einboðið, að stjórnvöld liðki til fyrir efnilegasta vaxtarsprota hagkerfisins, hætti að standa þar á bremsunum, heldur leysi úr læðingi fjármagn, sem bíður eftir að komast í vinnu á þessu sviði.  Það hefur ekki verið sýnt fram á það með haldbærum rökum, að laxeldið skaði aðra starfsemi í landinu.  Starfsgreinar, sem ekki treysta sér til að keppa við laxeldið, t.d. um mannafla, þurfa að hugsa sinn gang áður en vaðið er fram með útilokunarstefnu í afturhaldsanda. 

Helgi Bjarnason hefur eftirfarandi eftir Gunnari Gíslasyni, oddvita sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Akureyrar, flutningsmanni umræddrar tillögu:

"Við viljum frekar láta náttúruna njóta vafans og vernda ásýnd fjarðarins en að taka áhættu, sem við vitum ekki, hver er, og fórna þannig meiri hagsmunum fyrir minni."  

Þessi stefnumörkun var sem sagt skot út í loftið, fullkomlega óupplýst ákvörðun.  Hvernig hefði nú verið að afla sér fyrst þekkingar á téðri áhættu með vandaðri áhættugreiningu í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun ?  Ef þessi orð eru ekki algerlega marklaus, hlýtur sami maður að beita sér gegn komu farþegaskipa til Eyjafjarðar, því að þau skemma mjög "ásýnd fjarðarins" og menga ótæpilega, á meðan þau staldra við og sigla inn og út fjörðinn.  Hjá leiðandi stjórnmálamönnum er hægt að gera kröfu um, að það sé "system i galskapet".

Auðvitað er samþykkt af þessu tagi eins og blaut tuska í andlit nágranna, sem vilja þróa sjókvíaeldið.  Í lok téðrar baksviðsfréttar stóð þetta:

"Ólafsfirðingar höfðu vonir um að fá innspýtingu í samfélagið með starfsstöð þar.  Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, telur bókun bæjarstjórnar Akureyrar nokkuð bratta.  Bæjarstjórn Fjallabyggðar hafi viljað horfa til þessarar greinar, eins og annarra, við fjölgun atvinnutækifæra."

Ríkisstjórn, sem horfir nú framan í ríkissjóðshalla upp á mrdISK 500 á tveimur árum og viðskiptajöfnuð í járnum hlýtur að fagna áhuga stjórnenda Fjallabyggðar á nýrri gjaldeyrissköpun og atvinnueflingu.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 


Bakkabræður moka ofan í skurð

Það er upp lesið og við tekið, að uppþurrkaðar mýrar valdi meiri losun gróðurhúsalofttegunda en venjulegir móar eða mýrarnar sjálfar. Þó er vitað, að frá mýrum með tiltölulega lágt vatnsyfirborð getur streymt mikið magn metans, CH4, sem er meira en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, CO2, sem frá nýþurrkuðum mýrum streymir.

Með flausturslegum hætti hefur ríkisvaldið látið undan einhvers konar múgsefjun á grundvelli rangra losunartalna og greitt styrki til að moka ofan í skurði án þess t.d. að mæla losun viðkomandi móa fyrir og mýrar eftir ofanímokstur.  Það er svo mikill breytileiki frá einum stað til annars, að þessi vinnubrögð er í raun ekki hægt að kalla annað en fúsk, og eru þau umhverfisráðuneytinu til vanza.

  Það er líka ráðuneytinu til vanza að hafa ekki nú þegar leiðrétt gróft ofmat á losun uppþurrkaðra mýra á grundvelli nýrra upplýsinga, sem stöðugt koma fram.  Fyrir þessu gerði Hörður Kristjánsson nákvæma grein í Bændablaðinu miðvikudaginn 20. maí 2020.

Í fyrsta lagi er viðmiðunarlengd framræsluskurðanna ekki mæld stærð,  heldur áætluð 34 kkm, sem er að öllum líkindum of langt, t.d. af því að hluti skurða er aðeins ætlaður til að veita yfirborðsvatni frá og á ekki að vigta í þessu sambandi.

Í öðru lagi er áhrifasvæði hvers skurðar reiknað 2,6 falt það, sem nú er talið raunhæft.  Þetta ásamt nokkurri styttingu veldur því, að þurrkaðar mýrar spanna sennilega aðeins 38 % þess flatarmáls, sem áður var áætlað. 

Í þriðja lagi styðst Umhverfisráðuneytið við gögn að utan um losun á flatareiningu þurrkaðs lands, en vísindamenn hafa bent á, að hérlendis er samsetning jarðvegar allt önnur, og meira steinefnainnihald hér  dregur úr losun.  Umhverfisráðuneytið notar stuðulinn 2,0 kt/km2=20 t/ha, en höfundur þessa pistils telur líklegra gildi vera 40 % lægra og nema 1,2 kt/km2. Er það rökstutt með tilvitnunum í vísindamenn í þessum pistli.

Í fjórða lagi hefur verið sýnt fram á, að jafnvægi niðurbrots hefur náðst 50 árum eftir uppþurrkun.  Þar verður þá engin nettó losun.  Höfundur þessa pistils áætlar, að nettó losunarflötur minnki þá um 38 % niður í 1,0 kkm2, og er það sennilega varfærin minnkun, sbr hér að neðan.

Þegar nýjustu upplýsingar vísindamanna eru teknar með í reikninginn, má nálgast nýtt gildi um núverandi losun gróðurhúsalofttegunda frá uppþurrkuðum mýrum þannig (áætluð heildarlosun):

  • ÁHL2=1,0 kkm2 x 1,2 kt/km2=1,2 Mt CO2eq

Gamla áætlunin er þannig (og var enn hærri áður):

  • ÁHL1=4,2 kkm2 x 2,0 kt/km2=8,4 Mt CO2eq

Nýja gildið er þannig aðeins 14 % af því gamla, og er sennilega enn of hátt, sem gefur fulla ástæðu til að staldra við og velja svæði til endurvætingar af meiri kostgæfni en gert hefur verið og minnka umfangið verulega.  Þessi losun er ekki stórmál, eins og haldið hefur verið fram af móðursýkislegum ákafa.

Grundvöll þessa endurmats má tína til úr Bændablaðsumsumfjölluninni, t.d.:

"Þá hafa bæði dr Þorsteinn Guðmundsson, þá prófessor í jarðvegsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, og dr Guðni Þorvaldsson, prófessor í jarðrækt við LbhÍ, bent á í Bændablaðinu mikla óvissu varðandi fullyrðingar um stærð mýra og losun."

Þeir hafa m.a. bent á, að ekki sé nægt tillit tekið til "breytileika mýra og efnainnihalds".  Af þessum sökum er nauðsynlegt að mæla losun í hverju tilviki fyrir sig til að rasa ekki um ráð fram.  Í grein í Bbl. í febrúar 2018 skrifuðu þeir ma.:

"Íslenzkar mýrar eru yfirleitt steinefnaríkari en mýrar í nágrannalöndunum, m.a. vegna áfoks, öskufalls, mýrarrauða og vatnsrennslis í hlíðum, og lífrænt efni er að sama skapi minna."

"Þá benda þeir á, að samkvæmt jarðvegskortum LbhÍ og RALA sé lítill hluti af íslenzku votlendi með meira en 20 % kolefni, en nær allar rannsóknir á losun, sem stuðzt hafi verið við, séu af mýrlendi með yfir 20 % kolefni."

""Það þarf að taka tillit til þessa mikla breytileika í magni lífræns efnis, þegar losun er áætluð úr þurrkuðu votlendi", segir m.a. í greininni." 

"Þorsteinn og Guðni telja líka, að mat á stærð lands, sem skurðir þurrka, standist ekki.  Í stað 4200 km2 lands sé nær að áætla, að þeir þurrki 1600 km2.  Þá sé nokkuð um, að skurðir hafi verið grafnir á þurrlendi til að losna við yfirborðsvatn, þannig að ekki sé allt grafið land votlendi.  Mat sitt á umfangi votlendis byggja þeir m.a. á því, að algengt bil á milli samsíða framræsluskurða á Íslandi sé 50 m, en ekki 130 m, eins og miðað er við í útreikningum, sem umhverfisráðuneytið hefur greinilega byggt á.  Áhrifasvæði skurðanna geti því vart verið meira en 25 m, en ekki 65 m út frá skurðbökkum."

Áhrifasvæði skurðanna er lykilatriði fyrir mat á losun frá uppþurrkuðum mýrum. Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun virðast hafa kastað höndunum til þessa grundvallaratriðis áður en stórkarlaleg losun gróðurhúsalofttegunda var kynt með lúðraþyt og söng.  Miðað við auðskiljanlegan rökstuðning ofangreindra tveggja vísindamanna er líklegt flatarmál uppþurrkaðra mýra hérlendis aðeins 38 % af handahófskenndu opinberu gildi.  Þetta er óviðunandi frammistaða opinberra aðila.  Betra er að þegja en að fara með fleipur.

Hugsandi fólk hefur áttað sig á því, að niðurbrot lífrænna efna í uppþurrkuðum mýrum hlýtur að taka enda, og þar af leiðandi er stór hluti þeirra orðinn áhrifalaus á hlýnun jarðar.  Þetta er staðfest í neðangreindu:

"Í meistararitgerð Gunnhildar Evu Gunnarsdóttur við Háskóla Íslands frá 2017 var reynt að meta losun kolefnis í þurrkuðum mýrum.  Niðurstöður hennar benda til, að losun sé mest fyrstu árin, en sé síðan hlutlaus að 50 árum liðnum. Það er ekki í samræmi við þær viðmiðunartölur, sem yfirvöld á Íslandi styðjast við í sínum aðgerðaráætlunum.  Það þýðir væntanlega, að losunartölur geti verið stórlega ýktar og mokstur í stærstan hluta skurða á Íslandi kunni því að þjóna litlum sem engum tilgangi.  Jarðraskið, sem af því hlýzt, gæti hins vegar allt eins leitt til aukinnar losunar."

Hér er kveðið sterkt að orði, en allt er það réttmætt, enda reist á rannsóknum kunnáttufólks á sviði jarðvegsfræði.  Höfundur þessa pistils dró aðeins úr virkum losunarfleti um 38 % (minnkaði 1600 km2 í 1000 km2), sem er mjög varfærið, sé ályktað út frá tilvitnuðum texta hér að ofan.  Umhverfisráðuneytið virðist þess vegna vera á algerum villigötum, þegar það básúnar heildarlosun frá þurrkuðum mýrum, sem er a.m.k. 7 falt gildið, sem nokkur leið er að rökstyðja út frá nýjustu niðurstöðum í þessum fræðaheimi.  Taka skal fram, að mun meiri rannsóknir og mælingar eru nauðsynlegar á þessu sviði áður en nokkurt vit er í að halda áfram ofanímokstri skurða til að draga úr hlýnun jarðar.    

 

 


Þingmaður stingur á kýli

Sjálfstæðasti þingmaðurinn á núverandi Alþingi, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á ófremdarástandi skipulagsmála verklegra framkvæmda í innviðum á Íslandi í Morgunblaðsgrein 20. maí 2020:

"Tafaleiðir framkvæmda og stjórnun í þágu fjöldans".

  Í mörgum tilvikum þvera þessir innviðir fleiri en eitt sveitarfélag, og slík tilvik eru skipulagslega erfiðust.  Hér er um að ræða klúður löggjafans, sem hann verður að bæta úr.  Hann verður að einfalda og straumlínulaga þetta ferli, sem er allt of dýrt í framkvæmd.  Sumir ráðherranna hafa verið að grisja reglugerðarfrumskóginn frá ráðuneytum sínum, þótt sparnaðurinn af því nemi aðeins broti af því, sem sparast mundi með einföldun að hætti Ásmundar. 

Grein sína hóf Ásmundur á því að minna á, hversu léttvægar gjörðir mannanna eru enn gagnvart náttúruöflunum, og innviðaframkvæmdir snúast nú á dögum í mörgum tilvikum um að auka nothæfni innviða, þegar verulega reynir á þá, t.d. vegna náttúruaflanna.  

"Í vetur hafa náttúruöflin svo sannarlega minnt okkur á, hvaða kraftar það eru, sem raunverulega ráða ríkjum.  Veikleikar í raforkukerfinu, sem Landsnet hefur í mörg ár bent á, voru afhjúpaðir.  Samgöngur stöðvuðust, og hefur Öxnadalsheiðin til dæmis verið ófær 12 sinnum í vetur.  Þá lágu fjarskipti niðri."

Nú er ekki víst, að lokið væri nýrri 220 kV Byggðalínu alla leið frá Klafastöðum í Hvalfirði og til Hryggstekks í Skriðdal, þótt nýtt straumlínulagað skipulags- og leyfisveitingaferli hefði verið við lýði í t.d. 5 síðastliðin ár, en hún hefði örugglega verið komin vel á veg, sem hefði hugsanlega nýtzt til að draga úr því stórtjóni, sem varð á Norður- og Austurlandi í vetur vegna mjög langdregins straumleysis.  Fjarskiptin lágu niðri vegna straumleysis, þó í allt of langan tíma, en það er önnur sorgarsaga.

Síðan bendir Ásmundur á, að kerfið sjálft fari ekki að lögum, heldur hundsi tímafresti mjög gróflega.  Í raun ætti kerfið að vera þannig, að opinberar stofnanir komist ekki upp með að taka sér lengri afgreiðslutíma en áskilinn er í lögum. Ef ekkert gerist í máli að áskildum tíma liðnum hjá viðkomandi stofnun, sé viðkomandi tillaga eða umsókn talin samþykkt, og málið haldi þannig áfram í ferlinu. Ásmundur hélt síðan áfram:

"Uppi er gríðarlegur vandræðagangur við uppbyggingu og viðhald raforku- og vegakerfisins í landinu.  Sérlega verndað umhverfi hefur skapazt, þar sem stöku sveitarfélög, hagsmunasamtök og einstaklingar, geta leyft sér að troða á hagsmunum samfélagsheildarinnar, þrátt fyrir að málefnaleg rök liggi fyrir um nauðsynlega uppbyggingu grunninnviða okkar. Þetta eru ára- og áratugalangar tafir.  Við búum við svo margflókið kerfi leyfisumsókna og kæruferla, að ekkert nágrannaríki okkar býr við annan eins reglufrumskóg.  Hér verða rakin raunveruleg dæmi, sem Landsnet hefur þurft að þreyta í gegnum kerfið mánuðum og árum saman, langt fram úr öllum lögbundnum frestum áður en hægt er að byrja hina eiginlegu vinnu við framkvæmdina.  Þá hafa sveitarstjórnir nýtt sér tafaleiðir laganna þrátt fyrir að hafa áður samþykkt kerfisáætlun Landsnets."

Þetta er ljót lýsing á hegðun Skipulagsstofnunar, nokkurra sveitarfélaga og félagasamtaka, sem brugðið hafa fæti fyrir framfaramál.  Ef skýr rök eru fyrir hendi um notagildi eða jafnvel nauðsyn opinberrar framkvæmdar, þá eiga að vera mjög þröngir tafamöguleikar fyrir hendi, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa innleitt hjá sér.  Hvernig stendur á því, að hér hafa flækjufætur komið ár sinni rækilega fyrir borð, svo að laga- og reglugerðafrumskógur um téðar framkvæmdir er hreinn óskapnaður ?

"Tökum sem dæmi Reykjanesbrautina, þar sem nú er unnið að því að ljúka tvöföldun brautarinnar, sem er um 50 km löng að Hafnarfirði. Lokaáfanganum, 5 km kafla frá Hvassahrauni að Krísuvíkurafleggjara, hefur verið breytt í samræmi við nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðar innan iðnaðarsvæðis, og þarf breytingin að fara í kerfislega þungt, langt og rándýrt umhverfismat þrátt fyrir augljósan kost við breytinguna."

Umræddur kafli færist frá því að eiga að fara ótroðnar slóðir sunnar og að gamla veginum.  Heilbrigð skynsemi kallar ekki á umhverfismat fyrir slíka breytingu.  Löggjafinn verður að opna á skemmri skírn greinargerðar um umhverfisáhrif, þegar í raun er eingöngu verið að breikka gamlan veg eða annað sambærilegt.  Það er engu líkara en kerfissnötum hafi í sumum tilvikum tekizt að búa til algerlega óþörf verkefni í tengslum við framkvæmdir.

Að lokum skrifaði Ásmundur: 

 "Líkt og ég hef rakið hér að framan, er ljóst, að kerfið er ekki í neinu samræmi við almennan vilja í samfélaginu.  Það er því nauðsynlegt, að endurskoðun laganna horfi til einföldunar, svo að fámennir hópar geti ekki stöðvað eða tafið framkvæmdir, sem varða afkomu og lífsgæði íbúa á heilum landsvæðum árum og áratugum saman."

 

 


Bölmóður "Besserwisser"

Það er stórfurðuleg fullyrðingagirni, sem gætir hjá sumum "beturvitum", um atvinnustarfsemi, sem þeim virðist vera mjög mjög í nöp við, en hafa þó sáralítið vit á.  Á þetta benti skarpur, en þó ekki óskeikull (frekar en aðrir), pistilhöfundur Viðskiptablaðsins, Óðinn, 31. október 30. janúar 2020, í pistlinum:

"Bölmóður spámaður, álskallinn & orkubúskapur".

Upphaf pistilsins gaf tóninn:  

"Óðinn undrast það reglulega, hve sumir þeir, sem búa á þessari litlu, afskekktu eyju [svo ?], eru iðnir við að tala hagsmuni fólksins í landinu niður. Veitir eyjarskeggjum þó varla af uppörvun nú eða bara áminningu um staðreyndir málsins: að landið er fagurt og frítt, þjóðin hugmyndarík og harðdugleg og að hún hefur náð einstæðum árangri við að þrífast, eflast og að auðga mannlífið þrátt fyrir fásinnið, erfið búsetuskilyrði og óblíð náttúruöfl.  

Það hefur ekki sízt gerzt með aukinni, en ábyrgri nýtingu náttúrugæða landsins, sem vísindi og verkþekking hafa á innan við einni og hálfri öld fært Íslendinga úr hópi fátækustu þjóða í röð þeirra, þar sem almenn velmegun er mest í heimi."

Þarna kemst Óðinn á skáldlegt flug, en sannleikurinn er sá, að úrtölumenn framfaranna hafa á öllum tímum reynt að láta að sér kveða, en undir mismunandi formerkjum og í ólíkum gæruskinnum.  Eftir fólksflutningana miklu úr sveitum landsins og "á mölina" á sjö fyrstu áratugum 20. aldarinnar, skapaðist atvinnupólitískur grundvöllur fyrir því að stofna til stóriðnaðar í grennd við þéttbýli, sem knúinn væri af virkjaðri orku vatnsfalla.  Landsmenn höfðu hins vegar hvorki næga þekkingu þá né fjárhagslegt bolmagn til að reisa slík mannvirki, og erfitt reyndist að finna fúsa áhættufjárfesta til að ríða á vaðið. 

Viðreisnarstjórninni undir forystu dr Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafstein tókst þetta samt á tímabilinu 1960-1966, en mættu þó feiknarlegu pólitísku moldviðri þeirra, sem töldu eða létu sem erlendar fjárfestingar væru tilræði við sjálfstæði landsmanna.  Þessi áróður var runninn undan rifjum kommúnista, sem skildu ekki, að landsmenn þurftu á að halda erlendu fjármagni og þekkingu fyrir sjálfbæra verðmætasköpun og að hún er undirstaða fjárhagslegs og þar með pólitísks sjálfstæðis landsins.

Nú hefur landsmönnum vaxið fiskur um hrygg, og þeir eru fyrir löngu færir um að hanna og reisa sjálfbærar virkjanir á eigin spýtur og að reka stóriðnað í fremstu röð, og íslenzka ríkið hefur jafnvel bolmagn til að eignast meirihluta í fyrirtæki um stóriðjurekstur á borð við Norsk Hydro, eins og norska ríkið, en það er hins vegar ekki minnsta vitglóra í að festa skattfé í svo áhættusömum rekstri.  Þess vegna var upprunaleg stefnumörkun ríkisins um að hafa öruggar tekjur af raforkusölu til stóriðjunnar ásamt skatttekjum af viðkomandi fyrirtækjum og starfsmönnum, hvernig sem kaupin gerðust á eyrinni með afurðir hennar, hárrétt.  

Nú eru hins vegar komin fram á sjónarsviðið þjóðfélagsöfl, sem setja sig upp á móti nánast öllum framkvæmdum í landinu, sem tengjast frekari orkunýtingu og jafnvel bráðnauðsynlegum endurbótum á núverandi flutningskerfi raforku á milli landshluta.  Áfram er þessi barátta háð á hugmyndafræðilegum grunni, en nú algerlega laus við atvinnupólitíska skírskotun eða vísun til sjálfstæðis þjóðarinnar, eins og voru ær og kýr kommúnistanna "í den", heldur er nú hamrað á útliti og meintu skaðlegu inngripi í náttúruna.  Málflutningurinn einkennist af tilfinningaþrungnum frösum um náttúruvernd, eins og "náttúran á að njóta vafans", þótt náttúran sjálf sé mesti mögulegi breytingavaldurinn í íslenzku umhverfi, og maðurinn léttvægur í því tilliti, eins og dæmin sanna.   

Hér þarf auðvitað að koma að almennri skynsemi og láta ákvarðanatöku fara fram á grundvelli fjárhagslegs mats á kostum og göllum, þar sem fórnarkostnaður náttúru er metinn á móti tekjum af mannvirkjum og tjóni af að láta vera að framkvæma.

"Einmitt til þess [að halda öfgakenndum náttúruverndarsjónarmiðum á lofti- innsk. BJo] var Bölmóður spámaður tekinn tali í Silfrinu á dögunum, en þar var kominn Tómas Guðbjartsson læknir, Lækna-Tómas sjálfur.  Sá sparaði ekki stóru orðin og sagði, að álverið í Straumsvík væri í líknandi meðferð, eins og þar væri dauðvona sjúklingur, en það líkingamál af eigin starfsvettvangi notaði hann vafalaust, til þess að enginn efaðist um, að hann vissi um, hvað hann væri að tala."

Bölmóður þessi í læknislíki lætur ósnotrar tilfinningar sínar í ljós í garð starfseminnar í Straumsvík, þegar hann hrapar illilega að niðurstöðu sjúkdómsgreiningar sinnar á ISAL.  Innyfli fyrirtækisins eru nefnilega í góðu lagi og að töluverðu leyti aðeins um 8 ára gömul vegna mikilla fjárfestinga Rio Tinto í Straumsvík í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008, þegar Íslendingar þurftu einmitt mest á fjárfestingum í atvinnustarfsemi að halda.  Aðföngin eru hins vegar of dýr m.v. afurðaverðið, en það stendur til bóta, þar sem verð á súráli og kolum er að þokast niður.  Raforkuverðið er hins vegar hið hæsta á Norðurlöndunum til sambærilegrar starfsemi, enda t.d. niðurgreitt af ríkissjóði í Noregi til að viðhalda starfsemi stóriðju í dreifðum byggðum Noregs.  Er út af fyrir sig einkennilegt, að Samkeppniseftirlitið í Noregi eða ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, skuli ekki opinberlega fetta fingur út í slíka ríkisaðstoð á Innri markaði EES. Ef ISAL er líkami, eins og Tómas, læknir, stillir upp, má líkja raforkuverðinu við blóðtöku, sem ekki gengur lengur, enda raforkukostnaður tæplega 30 % af tekjum fyrirtækisins.  Enginn aðili í landinu er tilbúinn að kaupa orkuna, sem ISAL nú notar, eða drjúgan hluta hennar, á viðlíka skilmálum og ISAL má búa við, enda er það langhæsta verðið til áliðnaðarins í landinu og sennilega á Norðurlöndunum.  Verðið er þess vegna gjörsamlega ósamkeppnishæft.  Samningurinn er óviðunandi og að alþjóðarétti á Rio Tinto þá rétt á endurupptöku samningsins, enda eru forsendur um verðþróun á afurð ISAL brostnar. Ef Landsvirkjun þrjózkast við að semja, verður ISAL lýst gjaldþrota og Rio Tinto mun krefjast þess fyrir rétti með vísun til misbeytingar Landsvirkjunar á einokunarstöðu sinni að losna undan orkukaupskyldu raforkusamningsins.  Hér er um leiftursókn stjórnar Rio Tinto að ræða áður en Landsvirkjun gefst kostur á að sýna fram á, að hún hafi aðra viðskiptavini fyrir umrædda orku við fjarlægan enda aflsæstrengs.

 Ofangreind ummæli Tómasar, læknis, eru þýðingarlítil í þessu samhengi, en þau eru hins vegar ósmekkleg og bera vott um ótrúlega meinfýsi, sem jaðra við illgirni.  Um þau hafði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Ágúst Bjarni Garðarsson, eftirfarandi orð á bls. 39 í Morgunblaðinu, 6. febrúar 2020:

"Nýlega sagði Tómas Guðbjartsson, læknir, álverið í Straumsvík vera dauðvona og á líknandi meðferð.  Það er dapurlegt að skynja þau viðhorf, sem fram koma í ummælum læknisins til þessa stóra vinnustaðar í landinu og þeirra einstaklinga, sem þar starfa. Í álverinu í Straumsvík starfa um 400 starfsmenn með ólíka menntun og reynslu ásamt því, að álverið er einn stærsti útflytjandi vara frá Íslandi. Það gefur því augaleið, að fyrirtækið er samfélaginu mikilvægt og er eitt af okkar góðu og traustu fyrirtækjum.  Málflutningur sem þessi er því óásættanlegur og í raun með öllu óboðlegur." 

Það fer ekki á milli mála eftir þennan lestur, að Tómas, læknir, Guðbjartsson, hefur unnið málstað virkjana- og iðnaðarfénda eftirminnilegt tjón með málflutningi sínum.

 

Téður Bölmóður beitti þó ýmsum áróðursbrögðum í þessum Silfursþætti til að vekja samúð með málflutningi sínum, sem er samt eins loftslagsfjandsamlegur og hugsazt getur.  Reyndi hann m.a. að líkja alræmdum fjandskap sínum í garð umhverfisvænstu raforkuvinnslu á jörðunni við baráttu Íslendinga fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á 200 mílna lögsögu sinni í kringum Ísland. Þessi samanburður var algerlega út í hött hjá lækninum. Þar voru Íslendingar að berjast fyrir efnahagslegri tilveru sinni, en Bölmóður Besserwisser berst hins vegar gegn því, að orkulindir landsins séu nýttar með aðferðum beztu tækni hvers tíma til að skapa vinnu í landinu og gjaldeyri til að viðhalda jákvæðum viðskiptajöfnuði við útlönd. Áfram með Óðin:

"Íslendingar framleiða ál með endurnýjanlegri og hreinni orku, mestmegnis frá vatnsaflsvirkjunum.  Kínverjar framleiða 87 % af áli sínu með kolabruna.  Það felst því gríðarlegur tvískinnungur í því að segjast vera umhverfisverndarsinni og vera á móti álverum á Íslandi.  Kallar raunar annaðhvort á einbeittan brotavilja eða fádæma vanþekkingu.  Því [að] þó að það kunni að vera hægt að halda smitsjúkdómum í skefjum með landamæravörðum, þá virðir mengunin engin landamæri."

Óskir Bölmóðs Besserwissers um, að allar frekari virkjanaframkvæmdir í landinu verði stöðvaðar, eru ósanngjarnar, óraunhæfar og taka ekkert tillit til þess, sem um þessar mundir er kölluð mesta umhverfisvá jarðar; hættan á óviðráðanlegri hlýnun af völdum koltvíildis í andrúmsloftinu.  Þessar óskir eru ósanngjarnar vegna þess, að þær vinna gegn eðlilegri þróun verkmenningar og atvinnulífs í landinu, sem fjöldi manns mun hafa lífsviðurværi sitt af og er eitt helzta skattaandlagið til tekjuöflunar fyrir sífellt dýrara heilbrigðiskerfi og annarrar samfélagslegrar þjónustustarfsemi.  Óskirnar um að stöðva þessa þróun eru óraunhæfar vegna þeirra gríðarlegu viðbótar verðmæta, sem nýjar virkjanir geta skapað.  Þá hefur fólksfjölgun í landinu í för með sér aukna orkuþörf, og orkuskipti á landi, legi og í lofti eru ekki möguleg án nýrra virkjana.

Ávinningur og fórnarkostnaður af virkjunum endurnýjanlegrar orku er hins vegar misjafn. Vítt og breitt um heiminn hafa þjóðir veitt háum fjárhæðum til að niðurgreiða raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum vegna þess, að þær hafa ekki í önnur hús að venda með endurnýjanlega orku. Ríkisstjórnir hafa jafnvel niðurgreitt raforkuverð til stóriðju á byggðapólitískum eða þjóðhagslegum grunni. 

Hérlendis hefur slíkt sem betur fer ekki komið til tals, en hins vegar hafa ýmsir uppi áform um að reisa vindmyllugarða, sem tengdir yrðu inn á stofnkerfi raforku. Hár fórnarkostnaður fylgir þó vindmyllum.  Landnýting þeirra er léleg, mæld í MWh/ár/km2, í samanburði við hefðbundnar íslenzkar virkjanir á fallorku vatns og jarðgufu.  Þetta þýðir, að vindmyllugarðar þurfa tiltölulega mikið land og vegna hæðar sinnar sjást þeir mjög víða að.  Þeir eru til lýta langt að. Frá vindmyllum stafar skaðlegur hvinur á lágum tíðnum, og fuglum er hætta búin af spöðum á miklum hraða (spaðaendar). 

Á Íslandi er ekki sambærileg þörf á að taka á sig þennan fórnarkostnað og víða erlendis, af því að enn er nóg af virkjanakostum endurnýjanlegrar orku í landinu með lægri fórnarkostnað í ISK/MWh/ár en vindmyllugarðar. Þess vegna er áhugi fyrir vindmyllugörðum á Íslandi ótímabær, og kannski verða þær aldrei réttlætanlegar.  Það eru þó helzt íbúar í grennd við fyrirhugaða vindmyllugarða, t.d. á Hróðnýjarstöðum við Hvammsfjörð, sem látið hafa andstöðu sína opinberlega í ljós.  Á þessu vefsetri hefur verið bent á tiltölulega stórt kolefnisspor uppsettra vindmyllna.

"Tómas sagði í pistli sínum, að ef álverið hætti starfsemi, gæti "Landsvirkjun beitt sér fyrir sölu á raforku til annarrar og uppbyggilegri starfsemi, t.d. grænmetisbænda, og flýtt fyrir rafvæðingu bíla og skipaflotans".

 Þetta er aumkvunarverður málflutningur hjá Bölmóði Besserwisser.  Á Landsvirkjun að mismuna viðskiptavinum og flokka þá eftir því, hvort þeir stunda "uppbyggilegri starfsemi" en álver eða ekki ?  Reyndar hefur Bölmóður sjálfur gefið þarna forskriftina.  Það er misskilningur hjá honum og dæmigert fyrir "rörsýn", að orkusala Landsvirkjunar eigi að snúast um annaðhvort eða.  Hjá Landsvirkjun á valið að vera hvort tveggja.  Rafmagnsálag gróðurhúsa getur verið tiltölulega jafnt, a.m.k. lungann úr árinu, og hefur þess vegna svipuðu hagstæðu einkenni og álag álvers fyrir orkuvinnslufyrirtækið.  Ef langtímasamningar takast, ætti Landsvirkjun að geta teygt verðlagningu til gróðurhúsa í átt að því, sem gildir um álverin.  Orkunotkun meðalstórs gróðurhúss er hins vegar innan við 0,7 % af orkunotkun minnsta álversins á Íslandi á ári.  Gróðurhúsabændur gætu e.t.v. haft samflot um orkusamninga, ef Samkeppnisstofnun leyfir slíkt, en það er varla hægt að bera saman orkusölu til gróðurhúsa og álvera vegna stærðarmunar á samningum. 

Það er enn fráleitara að stilla álveri og orkuskiptum bíla- og skipaflotans upp sem valkostum, hvorum gegn öðrum, og tæknin fyrir rafvæðingu alls skipaflotans er enn ekki fyrir hendi.  Það er mjög óheilbrigt, þegar læknir fer að bölsótast út í tiltekna atvinnustarfsemi og leggja eitthvað til í staðinn, þegar hvorugur kostanna útilokar hinn.  Því miður veður læknirinn á súðum, þegar kemur að umfjöllun um virkjanir og iðnaðarmál.  Vonandi heldur hann samt ótrauður áfram að tjá sig, því að hann er duglegur við að varpa ljósi á, hversu lítið ofstækisfullir náttúruverndarsinnar hafa til síns máls.

Óðinn bendir svo á aðra hlið þessa máls, sem eru gróðurhúsaáhrifin, ef farið yrði að tillögu læknisins:

"En hvort ætli skili meiri árangri í minnkun útblásturs að rafvæða íslenzkan bílaflota eða nota endurnýjanlega orkugjafa við framleiðslu áls í heiminum.  Svarið er auðvitað augljóst hverjum þeim, sem hugsar um það eitt augnablik."

Allir bölmóðar og "Besserwisserar" þurfa að fara að gera sér grein fyrir því, að þegar meta á, hvort virkja á eða vernda, og einnig, þegar ákveða á til hvers á að nota hina endurnýjanlegu orku, þá verður nú á dögum að taka áhrif orkunýtingarinnar á koltvíildisstyrk andrúmslofts jarðar með í reikninginn. Það virðist hafa farið framhjá "Lækna-Tómasi" í öllum bægslaganginum.

Síðan kemur ályktun Óðins af þessari fremur lágreistu orkumálaumræðu; umræðu, sem fremur sorglegt er, að þurfi að fara fram árið 2020, því að hún er af svipuðum rótum runnin og orkumálaumræðan fyrir 55 árum, þ.e. frá afturhaldinu í landinu:

"Mergurinn málsins er sá, að hér er ekki um annaðhvort eða að ræða.  Ekkert er því til fyrirstöðu, að raforka verði nýtt í auknum mæli innanlands til þess að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi, líka til þess að rækta banana fyrir lýðveldið, en að áfram leggi Íslendingar sitt af mörkum til þess að framleiða ál með umhverfisvænum hætti og minnki fyrir vikið losun gróðurhúsalofttegunda."

Við þetta má bæta, því sem er ekki á allra vitorði, að rafgreining súráls fer í íslenzku álverunum fram með fast að því tæknilega mögulegri lágmarksmyndun CO2 og algengt er, að í öðrum álverum verði til a.m.k. tvöfalt lágmarksmagn koltvíildis við framleiðslu hvers áltonns.  Þetta stafar af því, að íslenzku verksmiðjurnar hafa náð mjög góðum tæknilegum tökum á rekstrinum við venjulegar aðstæður.  

 

 

 

 

 

 


Hálendisþjóðgarður þenur út ríkisbáknið

Það hefur ekki verið sýnt fram á neina raunverulega þörf á að stofna Miðhálendisþjóðgarð á Íslandi. Það þýðir að um gæluverkefni einstaks ráðherra eða smáflokks er að ræða, sem að öllu eðlilegu næði ekki langt í þingsal, þar sem brýn fjárþörf fjölmargra þjóðþrifamála ætti að krefjast allrar athygli þingmanna.  Vonandi sópa þeir þessum óþarfa undir teppið. 

Málefnum þjóðlendna á miðhálendinu er einfaldlega vel fyrir komið núna í samvinnu heimamanna, sveitarstjórna og forsætisráðuneytisins.  Það eru ekki haldbær rök, að með slíkri stofnun yrði til stærsti þjóðgarður í Evrópu, sem tæki yfir stjórnsýslu á allt að 2/5  landsins. Ásókn í hálendisferðir gæti aukizt við slíka auglýsingu , en umhverfisvernd á þessu viðkvæma svæði yrði enginn greiði gerður með slíku.

Spor stjórnsýslu ríkisins á þessu sviði hræða frá Vatnajökulsþjóðgarði.  Þar ku nú vera 40 stöðugildi, og fjármálastjórnunin þar var a.m.k. um tíma í svo miklum ólestri, að tiltökumál þótti í fréttaumfjöllun, og kalla landsmenn þó ekki allt ömmu sína, þegar kemur að meðferð opinbers fjár, því miður.  Fróðlegt væri að sjá árangursmælikvarða þessarar stofnunar borna saman við árangurinn eða ánægjumælingar viðskiptavina hennar. Í stuttu máli er óheillavænlegt að fá "kontóristum" í Reykjavík umsjón með viðkvæmri náttúru. Þar er umsjón heimamanna eðlilegri og heillavænlegri.  Ferill miðstýringaráráttunnar er almennt ókræsilegur frá sjónarmiði skattborgara og neytenda.

Núna hvílir stjórnun á þjóðlendum miðhálendisins á sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga, sem spanna þessar þjóðlendur, og uppgræðslustörf hvíla að miklu leyti á bændum í sjálfboðastarfi.  Nauðsynleg samræming þessara starfa er fyrir hendi samkvæmt lagasetningu þar um, og það er mjög mikill kostur, að frumkvæðið komi frá heimamönnum á hverjum stað, enda eiga þeir mestra hagsmuna að gæta, að vel takist til um hið gullna jafnvægi náttúrunýtingar og náttúruverndar.  Ríkisbákn mun kæfa þetta frumkvæði byggðanna og draga úr því, að þekking og reynsla þeirra, sem bezt þekkja til á hverjum stað, fái notið sín.  Ríkisvæðing þessarar starfsemi er þess vegna algerlega óþörf og alvarlegt skref aftur á bak í náttúruvernd og náttúrunýtingu á Íslandi. Einhæfni er aldrei til góðs. 

Ætlun umhverfisráðherra er að koma upp ríkisbákni með háu flækjustigi, sem verður ópersónulegt og ófært um að veita almennilega þjónustu og með óljósa ábyrgðarskiptingu.  Nýtt silkihúfuapparat, Þjóðgarðastofnun, verður yfir öllum þjóðgörðum, þ.á.m. Miðhálendisþjóðgarði, og síðan verður stjórn yfir hverjum þjóðgarðsverði.  Hér gengur "Parkinson" ljósum logum, og ábyrgðin týnist í holtaþoku.  Það er með ólíkindum, ef þetta gæluverkefni umhverfisráðherra fær framgang á Alþingi, sem þarf að kljást við mörg brýnni verkefni, t.d. innviðauppbyggingu, um þessar mundir.  

Forystugrein Morgunblaðsins 20. janúar 2020 bar nafnið 

"Hálendisþjóðgarður" ,

og þar voru viðraðar réttmætar efasemdir um réttmæti þessa þjóðgarðs:

"Áform um hálendisþjóðgarð hljóma vel, en hvað þýða þau í raun, og hverju eiga þau að skila, sem ekki má ná með einfaldari hætti og í meiri sátt ?  Á vef umhverfisráðuneytisins segir, að markmiðin með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu séu "margþætt, svo sem að vernda náttúru og sögu miðhálendisins og skapa umgjörð um svæðið, sem gefur almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess, menningu og sögu."  Með þessu er líklega aðallega átt við að koma upp gestastofum, sem veita upplýsingar um þjóðgarðinn, ráða landverði og kynna reglur um umgengni um svæðið.  Ekkert hindrar stjórnvöld í að ná þessum markmiðum og ýmsum öðrum, svo sem um rannsóknir á svæðinu, án stofnunar þjóðgarðs."  

Hætt er við, að Þjóðgarðastofnun og Miðhálendisþjóðgarður skari hlutverk ýmissa annarra stofnana, og hefur Minjastofnun þegar kvartað undan því.  Bendir það til, að hér sé ætlunin að koma gaukseggi fyrir í stofnanahreiðri ríkisins á forsendum annarlegra stefnumiða græningja.  Þegar þannig er um hnútana búið, er hugmyndin í rauninni andvana fædd.  

"Enn fremur segir:"Þjóðgarðinum er einmitt ætlað að efla samfélög og styrkja byggð og atvinnustarfsemi, ekki sízt heima í héraði."  Þetta er umdeilanlegra, og þegar hafa komið fram efasemdir um, að svo víðtækur þjóðgarður sé til þess fallinn að ná þessu markmiði.  Þá hafa heimamenn áhyggjur af því, að áhrif þeirra um, hvernig gengið skuli um svæðið, og hvernig það skuli nýtt, færist frá þeim og til annarra.  Og þeir hafa fulla ástæðu til að óttast, þegar þeir sjá, að eitt af markmiðum með stofnun þjóðgarðsins er að tryggja aðkomu félagasamtaka að stefnumótun svæðisins og ákvarðanatöku um landnýtingu." 

Valddreifing og metnaður heimamanna fyrir hönd síns sveitarfélags varðandi þróun þjóðlendna innan marka þess er lykilatriði fyrir lýðræðislega málsmeðferð og stjórnun verndar og nýtingar þessara verðmætu landssvæða.  Það hefur ekkert verið upp á heimamenn að klaga í þessum efnum, svo að vitað sé, og heilbrigð samkeppni á milli sveitarfélaganna er miklu vænlegri til árangurs en dauð hönd miðstýringar skrifstofufólks  í Reykjavík með yfirborðslega þekkingu á hagsmunum þjóðarinnar á hálendinu.  Gullfoss er víti til varnaðar.  Bláskógabyggð vildi reisa þar gestamóttökuaðstöðu til heiðurs Sigríði í Brattholti, en þegar ríkið komst með klærnar í málið, var húsinu breytt í salerni, og nú mun ríkið vera að gefast upp á rekstri þessara salerna.  

Miðstýring á þessum vettvangi hentar illa og er alger óþarfi, enda málum vel fyrir komið, eins og er.  Útgjaldaauki ríkissjóðs verður ærinn, og fjárveitingar munu illa nýtast til þarfra umbóta, en brenna upp í vafstri í kringum kerfið sjálft.  

"Augljóst er, þegar þau sjónarmið, sem umhverfisráðherra hefur sett fram, eru skoðuð, að meginmarkmiðið með þjóðgarði, sem spannar allt hálendi landsins, er að koma í veg fyrir frekari virkjanir á svæðinu.  Öðrum markmiðum mætti ná fram á annan hátt." [Undirstr. BJo.]

Þessi niðurstaða Morgunblaðsins er kjarni þessa máls og meginástæða þess, að því fer víðs fjarri, að víðtækt samkomulag geti náðst um það.  Þetta er heldur ekki stefna ríkisstjórnarinnar.  Þetta kunna að vera blautir draumar umhverfisráðherrans og forsætisráðherrans, en enginn borgaralegur stjórnmálaflokkur getur lagt nafn sitt við svo öfgafulla verndunarstefnu og þar með tekið brauðið frá komandi kynslóðum.  Það er ábyrgðarleysi núna, þegar við sjáum, hversu fallvaltur ferðamannaiðnaðurinn er, að ætla að útiloka aðrar orkuframkvæmdir en þær, sem nú þegar eru í nýtingarflokki á miðhálendinu. Þessi gamla nauðhyggja um, að eitt útiloki annað, er fyrir löngu orðin óviðeigandi, því að tækniframfarir gera nú kleift að velja framkvæmdakosti, sem falla afar vel að umhverfinu. 

Orkuskiptin munu skapa fjölbreytileg orkunýtingartækifæri, sem öll eru gjaldeyrissparandi eða gjaldeyrisskapandi.  Af hinum síðar nefndu má nefna rafgreiningu vatns til útflutnings á vetni.  Sveitarfélög á NA-Englandi hafa í hyggju að leysa jarðgas af botni Norðursjávar til upphitunar húsnæðis af hólmi með vetni, og Íslendingar geta með verkfræðikunnáttu sinni framleitt hundruði þúsunda tonna af vetni á sjálfbæran hátt, ef þeir láta ekki þröngsýna og fordómafulla stjórnmálamenn taka frá sér lífsbjörgina með brögðum.  Með nútíma tækni og verkkunnáttu má fella virkjanamannvirki mjög vel að umhverfinu.  Framtíðin ber væntanlega í skauti sér jafnstraumsjarðstreng á milli Norður- og Suðurlands.  Inn á slíkan streng gæti orka virkjana á hálendinu farið.  Það þarf þess vegna ekki að óttast loftlínur þar.  

"Annað, sem stjórnvöld verða að svara, er, hvernig það að hindra uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuframleiðslu fer saman við markmið í loftslagsmálum, þar sem allt kapp er lagt á að draga úr losun kolefnis (nema e.t.v.,þegar flogið er með flokk manna á ráðstefnur um loftslagsmál). 

Fram hefur komið, að framleiðsla á áli er t.d. að færast til Kína, sem framleiddi um aldamót 10 % áls í heiminum, en framleiðir nú 56 % alls áls.  Þessi framleiðsla er að langstærstum hluta með jarðefnaeldsneyti.  Væri ekki nær fyrir Ísland, í ljósi loftslagsmarkmiða, að auka orkuframleiðslu og draga þannig úr notkun kola og olíu við margvíslega framleiðslu eða rekstur gagnavera ?

Þetta er meðal þess, sem stjórnvöld verða að taka afstöðu til og útskýra fyrir landsmönnum, hvernig markmið í loftslagsmálum fara saman við að hindra frekari uppbyggingu á framleiðslu endurnýjanlegrar orku."

Hér fitjar Morgunblaðið upp á gríðarlega mikilvægu máli, sem spannar miðlægt mál í stjórnmálaumræðu dagsins.  Það hefur dregið mjög úr trúverðugleika fullyrðinga stjórnvalda í Þýzkalandi, að þau á sama tíma og þau leggja þungar byrðar á skattgreiðendur og neytendur (sama fólkið) til að stemma stigu við losun koltvíildis út í andrúmsloftið, hafa fyrirskipað lokun kjarnorkuvera 2021 og lagt bann við nýjum, þótt kjarnorkan ein sé í færum til að leysa kolaorkuverin af hólmi án áfalla fyrir hagkerfið og afhendingaröryggi raforku. 

Það er heldur ekki hægt að taka íslenzk stjórnvöld alvarlega og hástemmdar yfirlýsingar þeirra um hlýnun sjávar og andrúmslofts af völdum gróðurhúsaáhrifa CO2, á sama tíma og þau leggja stein í götu nýtingar endurnýjanlegra orkulinda landsins.  Sú nýtingarfjandsemi er blind afturhaldsstefna, reist á bábiljum um skaðsemi hagvaxtar og annað í þeim dúr, en sama fólk hefur þó ekki opinberlega enn lagzt gegn kjarabótum almennings.  Þær kjarabætur verða aðeins tryggðar með aukinni verðmætasköpun, sem verður í askana látin.

 

 


Efnilegasti vaxtarsprotinn

Það hefur komið fram hjá virtum hagfræðingum, hérlendum, að til að varðveita efnahagslegan stöðugleika og núverandi lífskjör þurfi útflutningstekjur landsins að vaxa um 50 mrdISK/ár að jafnaði næstu 2 áratugina. Að öðrum kosti verður sjálfbær hagvöxtur ekki nægilegur til að hér verði viðunandi atvinnustig með núverandi kaupmætti, þ.e. atvinnuleysi undir 3 % af vinnuaflinu.

Þetta er raunhæft markmið næsta áratuginn, ef stjórnvöld gæta að sér varðandi vöxt ríkisbáknsins og þar með skattheimtu, svo að ekki sé reynt að spá lengra fram í tímann.  Samkvæmt spá Sjávarklasans mun Bláa hagkerfið, sem er haftengd starfsemi í landinu, auka útflutning sinn um 30 mrdISK/ár eða 60 % af því, sem landið þarf á að halda.  Þar inni er fiskeldið með 7 mrdISK/ár eða 14 % af nauðsynlegri heildaraukningu. Öðrum sprotum í Bláa hagkerfinu er spáð minni vexti, framleiðendum sjálfvirknibúnaðar 4,4 mrdISK/ár, fullnýtingu aukaafurða og líftækni 3,7 mrdISK/ár, þara og þörungamjöli 0,8 mrdISK/ár og haftengdri ferðaþjónustu er spáð 0,5 mrdISK/ár vexti.

Það, sem vantað hefur í íslenzkt atvinnulíf upp á síðkastið, og er reyndar bannað í sjávarútveginum, eru fjárfestingar erlendra fagfjárfesta í atvinnulífinu, en þær hafa samt raungerzt í sjókvíaeldi fyrir lax hér við land undanfarinn áratug með ágætum árangri.  Þegar starfseminni hefur vaxið fiskur um hrygg, hefur hún lent í mótbyr öflugs þrýstihóps, sem félag veiðiréttarhafa í ám og vötnum landsins hefur forystu fyrir. Nú síðast er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í skotlínu þessara afla fyrir afnám banns við kvíum nærri árósum, sem verður þó úrelt með reglugerð um áhættugreiningu á undan staðsetningu og starfrækslu slíkra kvía.  Varla telja veiðiréttarhafar, að Hafrannsóknarstofnun kunni ekki að meta áhættu lúsasmits !

Hvað segja kunnáttumenn í Noregi um langa reynslu Norðmanna af þessari starfsemi ?  Í Fréttablaðinu 20. desember 2019 birtist áhugavert viðtal við Íslending, starfandi í Noregi:

"Gunnar Davíðsson starfar sem deildarstjóri fyrir fylkisstjórnina í Troms í Noregi, næstnyrzta fylki landsins.  Þar hefur fiskeldi aukizt jafnt og þétt undanfarin 15 ár og er nú á meðal 10 stærstu atvinnuveganna í fylkinu.  Fylkisstjórnin sér um leyfisveitingu fyrir fiskeldisstöðvarnar, og þekkir Gunnar, sem hefur búið í Noregi síðan 1983, vel til í þeim efnum."

Á Íslandi eru miklu meiri hömlur lagðar á sjókvíaeldi laxfiska en í Noregi.  Á Íslandi er það einvörðungu leyft, þar sem ekki eru taldir vera neinir upprunalegir laxastofnar í ám með ósum að viðkomandi firði, en í Noregi er það leyft meðfram allri strönd landsins.  Á Íslandi eru þetta Vestfirðir, Eyjafjörður og Austfirðir.  Á Vestfjörðum námu markaðssettar afurðir sjókvíaeldis á laxi um 12 kt árið 2019, og má áætla andvirðið 10 mrdISK, og er það nánast allt í erlendum gjaldeyri.  Má ætla, að laxeldi í sjó sé nú þegar aðaltekjulind Vestfirðinga.  Á grundvelli núgildandi áhættumats Hafrannsóknarstofnunar má a.m.k. tvöfalda þessa framleiðslu á Vestfjörðum, og ef stofnunin endurskoðar mat sitt og leyfir laxeldi í Ísafjarðardjúpi, verður hægt að fimmfalda þessa framleiðslu á Vestfjörðum og enn meir, ef tök verða á að setja upp úthafseldisstöð úti fyrir Vestfjörðum í framtíðinni.

Það er slíkur kraftur í þessum vaxtarsprota á Vestfjörðum, að alger nauðsyn er á að hraða innviðauppbyggingu þar. Þar er fyrirferðamest þörfin á öruggri raforkuafhendingu og boðlegum vegtengingum á milli Norður- og Suðurfjarðanna og Suðurfjarðanna við Dalina og Hringveginn vegna þess, að aukin raforkuþörf og flutningaþörf fylgir fyrirsjáanlegum vexti atvinnulífs á Vestfjörðum.

Beita þarf beztu þekkingu við hönnun snjóflóðavarna á Vestfjörðum og sjóflóðavarna alls staðar í þéttbýli á landinu og ekki að einskorða varnirnar við 50 manns eða meira, eins og gert er með reglugerð umhverfisráðherra frá 2014.  Það er nóg fé til í Ofanflóðasjóði til að ljúka þessu verkefni með sómasamlegum hætti fyrir 2030, og stjórnarmaður þar (Halldór Halldórsson) hefur upplýst, að a.m.k. 4 verkefni séu þegar fullhönnuð, en bíði leyfis til framkvæmda frá fjárveitingavaldinu.  Það eru fáheyrðir stjórnarhættir að draga lappirnar við framkvæmdir, sem snúast um líf eða dauða.  Stjórn þessa sjóðs ætti sjálf að vera ábyrg fyrir ráðstöfun þess eyrnamerkta fjár, sem í hann berst.  Nú er kjörtími til slíkra framkvæmda og innviðaframkvæmda, sem nefndar voru.  

Á Austfjörðum námu afurðir sjókvíaeldis á laxi um 10 kt árið 2019 og geta a.m.k. þrefaldazt.  Afurðaverðmætið var þá um 8 mrdISK.  Á Reyðarfirði er stærsta álverksmiðja landsins, og gætu tekjur hennar árið 2019 hafa numið um tífaldri þessari upphæð.  Um samsetningu atvinnulífs á Austfjörðum og Vestfjörðum er þess vegna ólíku saman að jafna, en laxeldið gegnir samt mikilvægu hlutverki á Austfjörðum, einkum á Suðurfjörðunum, þar sem það hefur fyllt í skarð brokkgengs sjávarútvegs og tryggt byggðafestu, t.d. á hinum gamla og undurfagra verzlunarstað Djúpavogi.  

Í Troms er mikið sjókvíaeldi á laxi á íslenzkan mælikvarða, og skal nú áfram vitna í Fréttablaðið:

"Á síðasta áratug hefur eldisframleiðslan [í Troms] tvöfaldazt, úr 110 kt/ár upp í tæplega 200 kt/ár. Að mati Gunnars er svæðið að töluverðu leyti samanburðarhæft við bæði Vestfirði og Austfirði á Íslandi.  Gunnar segir, að fiskeldið þjóni mikilvægu hlutverki, hvað byggðastefnu varðar.

"Áhrif fiskeldisins á svæðið eru mikil.  Með því koma störf, sem ekki er hægt að flytja í bæina eða suður eftir, störf, sem þarf að fylla á í þeim byggðarlögum, þar sem eldið er", segir Gunnar.  Bæði störf, sem þarfnast framhaldsmenntunar, s.s. sjávarlíffræðinga og dýralækna, og önnur.  

"Síðan hefur þetta mikil efnahagsleg áhrif fyrir þau fyrirtæki, sem þjónusta eldið, s.s. fraktflutninga, köfunarþjónustu, bátaþjónustu, viðgerðir o.fl. Hvert starf í eldinu skapar 3 eða 4 störf í nærumhverfinu."

 Á meðan reksturinn gengur vel, fylgir fiskeldinu mikið atvinnuöryggi, meira en sjávarútvegi, því að fiskeldið er í minna mæli háð duttlungum náttúrunnar, og fiskeldið verður ekki auðveldlega flutt í annað byggðarlag.  Störfin eru reglubundin og fjölbreytileg og henta báðum kynjum. Spáð er hækkandi verði afurðanna, sem styrkir fyrirtækin, gerir þeim kleift að fjárfesta og greiða sómasamleg laun til framtíðar litið.  Aldursdreifing byggðanna í kring verður eðlileg með þörf á skólum og kennurum, heilsugæzlu, hjúkrunarfræðingum, læknum og dýralæknum.  Fyrir mannlífið í dreifðum byggðum landsins er gríðarlegur fengur að fiskeldinu.  Hafrannsóknarstofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun tryggja, að starfsemin sé stunduð með sjálfbærum og heilnæmum hætti, enda bjóða aðstæður hérlendis með tiltölulega köldum sjó og sterkum straumum upp á umhverfisvænan rekstur með sáralítilli, ef nokkurri, lyfja- eða eiturefnanotkun.  Þetta er grundvallaratriði, þegar íslenzkt laxeldi er borið saman við t.d. skozkt laxeldi. 

"Hvað Ísland varðar telur Gunnar mikilvægt að hlúa að fiskeldinu, til þess að greinin geti komið undir sig fótunum.  Norðmenn spila stóra rullu í íslenzka eldinu, og eru nú 4 norsk fyrirtæki, sem starfa hér.  Fiskeldi hefur langt í frá verið óumdeilt á Íslandi, sérstaklega á meðal laxveiðimanna, sem telja eldið ógna hreinleika villta laxastofnsins.

Gunnar segir, að líkt og hér séu alltaf einhverjir, sem finni eldinu allt til foráttu í Noregi.  

"Engin atvinnuþróun verður án þess, að það kosti eitthvað í samfélaginu.  Okkar reynsla er, að fiskeldi sé þó sú grein, sem skapi hvað minnsta truflun í kringum sig", segir hann.  "Þó að talið sé, að eldið sé til óþurftar fyrir villtu laxveiðina, þá er samt sem áður staðreyndin sú, að gotstærð allra villilaxastofna er sú sama og fyrir 30-40 árum.  Ef áhrif eldisins eru einhver, þá eru þau a.m.k. ekki mikil, þegar á heildina er litið."  [Undirstr. BJo.]

Í Troms eru fiskar ræktaðir í sjókvíum og landeldi enn ekki hafið.  "Fyrsta landeldisstöðin er rétt að byrja og verður væntanlega komin í gagnið á næsta ári."

Lætin í veiðiréttarhöfum villtra laxa o.fl. eru stormur í vatnsglasi, þegar litið er til þess, að til að hafa einhver (neikvæð) áhrif á erfðaeiginleika villtra íslenzkra stofna þarf strok úr kvíum hér við land að vera margfalt á við það, sem búast má við úr sjókvíaeldi því, sem leyft er samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar, og standa samfellt yfir í á annan áratug.  Það er reyndar nægilega ólíklegt til þess að líklegt má telja, að áhættumatið hérlendis teygi sig fljótlega upp í burðarþolsmörk viðkomandi fjarðar.

Málflutningurinn um hættuna á erfðabreytingum íslenzkra laxastofna tekur á sig fjarstæðukennda mynd, þegar þess er gætt, að sumir handhafar veiðiréttinda á laxi hafa stundað "kynbætur" í nokkrum ám með íslenzkum laxi af öðrum stofnum.  Þá er virðingin fyrir margbreytileika íslenzkra laxastofna farin veg allrar veraldar.

Hvernig hafa íslenzk yfirvöld hlúð að þessum vaxtarsprota íslenzks atvinnulífs ?  Um það mátti lesa í greininni,

"Auðlindagjald frá áramótum": 

Gunnar Davíðsson, sem mikla reynslu hafur af starfsemi fiskeldisfyrirtækja í Noregi, lagði áherzlu á það í ofannefndu viðtali, að íslenzk yfirvöld yrðu að hlúa að þessum íslenzka atvinnusprota, á meðan hann er að komast á legg.  Því virðast þau því miður ekki alls kostar fús til að fylgja vegna varasamrar skattagríðar sinnar.  Fyrir hönd eldisfyrirtækjanna eru höfð uppi varnaðarorð við því, að yfirvöldin fari offari:

"Fyrstu árin fellur til mikill kostnaður við margvíslega fjárfestingu og uppbyggingu á lífmassa.  Á þessum tíma greiða fyrirtækin þó í Umhverfissjóðinn; á næsta ári [2020] 66 % hærra gjald en í ár.  Slík gjaldtaka bitnar því hlutfallslega þyngra á fyrirtækjum á uppbyggingarskeiði."

Stofn þessa gjalds í Umhverfissjóð eru útgefin leyfi óháð eiginlegri framleiðslu.  Þess háttar skattheimta hvetur vissulega til hámarksnýtingar á eldissvæðinu, sem leyfin (starfs-og rekstrarleyfi) taka til, en  vafamál er, að slíkt sé hlutverk yfirvalda.  Þessu gjaldi ætti þess vegna að þrepskipta eftir fjölda fiska í eldiskvíum sem hlutfall af hámarks leyfilegum fjölda.

Hitt gjaldið er auðlindagjald í Fiskeldissjóð og er það háð massa slátraðs fiskjar á ári og "meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi frá ágúst til október næst fyrir ákvörðunardag". 

"Þegar fyrirtækin eru komin á þá stöðu að fullnýta leyfi, og hinn nýi, sértæki skattur á fiskeldisfyrirtæki, er að fullu kominn til framkvæmda, má ætla, að sérstök skattheimta ríkisins á fiskeldisfyrirtæki nemi um 27 ISK/kg, staðhæfir SFS.  "Þá er ótalin önnur almenn skattheimta á atvinnurekstur auk margs konar gjaldheimtu sveitarfélaga, sem í ýmsum tilvikum er verulega umfram það, sem þekkist í ýmsum samkeppnislöndum okkar.  

Það gefur auga leið, að skattheimta af þessu tagi mun hafa áhrif á rekstur fyrirtækjanna, samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum mörkuðum og getu þeirra til fjárfestinga til lengri og skemmri tíma."

Ísland er hákostnaðarland í alþjóðlegu samhengi, og þess vegna verða stjórnvöld að ganga sérstaklega hægt um gleðinnar dyr, þegar kemur að hlut þeirra við að bæta við kostnað fyrirtækja með sértækri skattheimtu.  Þegar tekið er tillit til byrða af bæði Umhverfissjóði og Fiskeldissjóði fyrir fiskeldisfyrirtækin, má ætla, að þessi sértæku gjöld muni nema meiru en 5 % af framlegð fyrirtækjanna og verða þess vegna afar íþyngjandi. Á sama tíma er fyrirtækjunum þröngur stakkur skorinn m.v. samkeppnisaðilana. Fyrirtækjunum er þess vegna nauðsynlegt að fá leyfi til að auka framleiðslu sína og þar með framleiðni upp að burðarþolsmörkum fjarðanna, þar sem þessi starfsemi á annað borð er leyfð, nema skýrar niðurstöður áhættugreiningar Hafrannsóknarstofnunar setji fiskafjölda eða lífmassa frekari skorður.  Núverandi niðurstöður um Ísafjarðardjúp eru t.d. ekki skýrar.

 

 

 


Mörgu er logið í nafni umhverfisverndar

Komið hefur fram, að margir hinna voveiflegu gróðurelda í Ástralíu í vetur (2019-2020) eru beinlínis af mannavöldum, þ.e. brennuvargar hafa kveikt þá.  Gríðarlegur eldsmatur er þarna, af því að græningjar hafa lagzt gegn grisjun og hreinsun, sem þó hefur verið stunduð frá landnámi þarna, og frumbyggjarnir notuðu þetta sem ráð til að draga úr eldhættunni, því að hún er síður en svo ný af nálinni.  Úrkoman í Ástralíu hefur verið lotubundin, og nú er hún í lágmarki, svo að hættan er í hámarki.  Þar sem eldar geisa í þjóðgörðum Ástralíu eiga slökkviliðsmenn í miklu meiri erfiðleikum en áður, því að græningjar hafa fengið því framgengt, að miðlunarlón, sem þar voru, hafa verið tæmd.  Hvassviðri hefur svo gert eldana óviðráðanlega, en sem betur fer hefur rignt duglega í Ástralíu undanfarna sólarhringa, þar sem eldar hafa verið hvað hræðilegastir. 

Græningjar kenna auknum styrk koltvíildis í andrúmsloftinu um ófarirnar, því að CO2 skermi varmaútgeislun jarðar og valdi þar af leiðandi hlýnun lofthjúpsins.  Því er svarað með því, að þessi útgeislun sé á bylgjulengdarsviðinu 8-12 míkrón, og gastegundin CO2 sjúgi ekki í sig orku á því sviði.  Græningjar hafa jafnvel verið sakaðir um að kveikja í til að æsa til reiði í garð þeirra, sem mest losa af CO2, og Ástralir sjálfir hafa vissulega frekar dregið lappirnar við að draga úr losun. Minnir þetta óhugnanlega á bruna Reichstag 1934, sem Adolf Hitler, kanzlari, notaði sem átyllu til að sölsa undir sig forsetaembætti Þýzkalands og þar með æðstu stjórnun hersins, og varð þannig einvaldur. Ekkert slíkt vofir yfir Ástralíu.

Þann 9. janúar 2020 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Guðna Ágústsson, fyrrverandi Alþingismann og ráðherra, sem hann nefndi:

"Hamfarahlýnun - Dómsdagur eða blekking".

Af greininni má ráða, að hann sé efasemdarmaður um "hamfarahlýnun" og vitnar sér til halds og trausts til hins erna öldungs og veðurspámanns Páls Bergþórssonar, eins og síðar verður getið í pistlinum.  Framarlega í greininni gerir hann ofstæki "koltvíildissinna" að umræðuefni:

"Í umræðunni eru efasemdarmenn, sem einnig styðjast við vísindalegar forsendur, sagðir falsspámenn, og um þá marga er rætt sem boðbera fáfræðinnar.  Ef þú vilt hafa frið, ferðu í umræðuna með kór "rétttrúnaðarins" og velur þér að gráta og fylgja fjöldanum og fullyrðingunni um, að jörðin farist innan 30 ára og hamfarirnar séu manninum einum að kenna."

Það er ekki vænlegt til árangurs að reka trippin með þessum hætti, enda er árangur fjölda blaðurráðstefna nánast enginn, og engin samstaða þjóða heims í nánd, af því að boðskapurinn um afleiðingar aukins styrks koltvíildis í andrúmsloftinu er ótrúverðugur, enda reiknilíkön IPCC eðlilega enn í mótun, þar sem flækjustigið er gríðarlegt. Samstaða þjóða heims er þó skilyrði fyrir árangri við að draga úr styrk koltvíildis í andrúmsloftinu.  Þar er ógnarlangt í land, og fundahöld og ráðstefnur um málið farsakennd. Guðni vitnar í Pál Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóra: 

"Ég vil taka undir hógvær orð, sem Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, setti inn á "Fasbókina" sína, en Páll er dáður af þjóð sinni sem rökfastur og stilltur maður í öllum boðskap.  Páll segir: "Hamfarahlýnun jarðar er vonandi markleysa".  Svo rakti hann fjölgun mannkynsins úr 2 milljörðum árið 1950 í 8 milljarða árið 2020. Með sömu þróun væri mannfjöldinn orðinn 14 milljarðar árið 2090.  Og 20 milljarðar árið 2160."

Páll Bergþórsson er vel að sér í veðurfarslegum efnum, og það segir mikla sögu um veikan fræðilegan grundvöll kenningarinnar um "hamfarahlýnun" af mannavöldum, að "nestor" veðurfræðinga hérlendis telur mestar líkur á, að hún sé "markleysa".  Þá er nú engin furða, þótt minni spámenn í þessum fræðum kokgleypi ekki allan "bolaskítinn" frá IPCC og áhangendum. Það þarf ekki annað til en hlutfallslega minna af nýju koltvíildi stigi upp í efstu lög lofthjúpsins ("stratosphere") til að gróðurhúsaáhrif lofttegundarinnar verði minni en IPCC reiknar með. 

Hlýnun frá "Litlu ísöld", sem lauk um 1900, er sem betur fer staðreynd, en enginn veit, hversu mikil hún verður.  Hvers vegna varð "Litla ísöld" ?  Jörðin er nú við lok 10 þúsund ára hlýindaskeiðs, og á næstu 10 þúsund árum verður sennilega mikil kólnun. Málflutningurinn um "hamfarahlýnun" er mjög orðum aukinn. Það er ekki þar með sagt, að óskynsamlegt sé að minnka og að lokum losna við bruna jarðefnaeldsneytis áður en þær orkulindir þrýtur, enda fylgja þeim ýmsir ókostir, en það er ekki sama, hvernig það er gert, sbr vindmyllufárið.  

Það er þegar tekið að hægja mjög á fjölgun mannkyns þrátt fyrir minnkandi barnadauðsföll.  Minni viðkoma fylgir bættum efnahag, en örsnauðum í heiminum hefur fækkað mikið á síðastliðnum 40 árum, og er miklum vestrænum fjárfestingum í "þriðja heiminum" þakkaðar hækkandi tekjur þar, þótt sú jákvæða þróun hafi nú stöðvazt um sinn á meðan "merkantílismi" (kaupauðgistefna) tröllríður húsum tímabundið.

  Það er hægt að taka undir boðskap Guðna um mikilvægi dyggðugs lífernis og virðingar fyrir náttúrunni í umgengni við hana.  Það er þó algjör misskilningur hjá græningjum, að sú virðing verði aðeins sýnd með því að snerta hana ekki.  Hófsemi er hinn gullni meðalvegur í þessum efnum sem öðrum. "Að nýta og njóta." Guðni skrifar:

"Verkefnið er hins vegar eitt: að bjarga jörðinni fyrir komandi kynslóðir.  Mikilvægt er að brauðfæða og mennta allt fólk jarðarinnar og framleiða matinn sem næst hverjum munni.  Í því sambandi ber að minna á, að landbúnaðarvörurnar framleiðist hér heima, en komi ekki til okkar erlendis frá með flugvélum.  Draga þarf úr öllu bruðli og muna, að sjórinn tekur ekki endalaust við.  Þetta er verkefni hverrar fjölskyldu, atvinnulífsins og ríkisstjórna þjóðanna.  En stærsti sigurinn mun vinnast, ef Sameinuðu þjóðirnar koma sér saman um markvissar reglur og þeim verði fylgt."

Ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna hefur hingað til mistekizt að komast að samkomulagi t.d. um jafnháa gjaldtöku af koltvíildislosun um alla jörð.  Ef þessi skattheimta er ólík, flýja fyrirtæki með mikla losun, þangað sem hún er lægri.  Þetta er s.k. kolefnisleki.  Það er svo misjöfn efnahagsleg staða þjóða heimsins, að vel skiljanlegt er, að sameiginlegt samkomulag sé ekki í augsýn um skilvirkar aðferðir, sem innleiða þarf til að draga úr koltvíildislosun með skilvirkum hætti.

Ríkar þjóðir hafa varið háum fjárhæðum til að koma upp hjá sér "vistvænni" raforkuvinnslu, og þar hefur mest borið á fjárfestingum í vindorkuverum og sólarhlöðum. Í Danmörku eru t.d. um þessar mundir um 6100 vindmyllur, sem framleiða 13,9 TWh/ár, um 60 % af raforkuvinnslu Íslands.

Það gleymist í írafári umhverfisumræðunnar að taka kolefnisspor og mengun við framleiðslu á þessum "grænu" orkubreytum með í reikninginn. Sem dæmi má taka 2,0 MW vindmyllu.  Í henni eru um 250 t af stáli, og það fara um 125 t af kolum í að framleiða þetta stál.  Við framleiðslu sementsins í undirstöðuna þarf ekki minna en 25 t af kolum að jafnaði.  Þessi 150 t 

  
  
  

kola á hverja vindmyllu mynda a.m.k. 450 t CO2, sem fara út í andrúmsloftið.  

Vindmylla þarf um 200 sinnum meira af hráefnum per uppsett MW en nútímalegt samtvinnað raforku- og fjarvarmaver með orkunýtni yfir 50 %. Nýting uppsetts afls vindmyllu er lélegt eða um 28 % að jafnaði á landi í heiminum (betri úti fyrir ströndum).  Kolefnisspor vindmyllna á MW, svo að ekki sé minnzt á GWh/ár vegna lélegrar nýtingar, er tiltölulega hátt og þetta val á orkugjafa til að draga úr koltvíildislosun er þess vegna sérlega óheppilegt. Miklu nær er að reisa kjarnorkuver í stað kolaorkuvera eða jafnvel gasorkuver sem millibilslausn, en þrýstihópar kolanámanna hafa haft sitt fram, nema á Bretlandi, þar sem síðasta kolaorkuverinu verður lokað 2025. Í Þýzkalandi var hins vegar nýlega gangsett eitt stærsta kolaorkuver þar í landi, 1 GW að rafafli. Öruggari kjarnorkuver eru í þróun, t.d. s.k. saltlausnarkjarnakljúfur.

Út frá orðum Guðna hér að ofan er það bruðl með hráefni jarðar að nýta þau á svona óskilvirkan hátt fyrir raforkuvinnslu með vindmyllum.  Frá umhverfislegu sjónarmiði er miklu nær að reisa í staðinn gasorkuver, þangað til tæknin býður upp á notkun öruggrar kjarnorku, t.d. með kjarnakljúfum fyrir frumefnið þóríum.  Á Íslandi er umhverfisvænst og hagkvæmast að reisa vatnsorkuver, og jarðgufuver koma þar á eftir, vissulega með miklu lægra kolefnisspori en vindorkuver á hvert MW eða MWh/ár.  Þetta þarf að hafa í huga, þegar kemur að endurmati á virkjanakostum í biðflokki Rammaáætlunar.  Auðvitað á að afgreiða Rammaáætlun á Alþingi á undan frumvarpi um allsendis ótímabæran og reyndar óþarfan hálendisþjóðgarð, sem er ekki til annars en að þenja út ofvaxið ríkisbákn, sem ræður reyndar ekki við verkefni sín þrátt fyrir skattheimtu í hæstu hæðum í alþjóðlegum samanburði. Formaður umhverfis- og auðlindanefndar Alþingis hefur rétt fyrir sér um þessa verktilhögun.   

Í Morgunblaðinu birtist 10. janúar 2020 lítil frétt undir eftirfarandi fyrirsögn:

"Vilja beizla vind á Laxárdalsheiði":

Hún hófst þannig:

"Áform eru um að reisa vindorkugarð í landi Sólheima í Dalabyggð, og gætu 27 vindmyllur risið á svæðinu í tveimur áföngum með hámarksafköst upp á 115 MW.  Fyrirtækið Quadran Iceland Development ehf. hefur lagt fram tillögu til Skipulagsstofnunar að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vindorkugarðsins.

Samkvæmt matstillögu er verkefninu við Sólheima skipt í tvo áfanga.  Í þeim fyrri yrðu 20 vindmyllur með hámarksafköst upp á 85 MW. Í öðrum áfanga 7 vindmyllur til viðbótar með hámarksafköst upp á 30 MW.  Áfangi 2 yrði í biðstöðu, þar til afkastagetan næst í raforkukerfinu [svo ?]. 

 Hér er um að ræða fremur stórar vindmyllur m.v. stærðir, sem oft hefur verið minnzt á í umræðunni hérlendis, eða 4,25 MW, og er það út af fyrir sig ánægjuefni vegna minni landþarfar á MW, en slíkur "vindmylluskógur" mun sjást úr 40-50 km fjarlægð, því að líklega munu spaðar ná 180 m yfir undirstöðu súlunnar og hver vindmylla þurfa um 0,25 km2.  Sé þetta nærri lagi, þá er landnýting Fljótsdalsvirkjunar (aðallega Hálslón) 35 % betri en Sólheimavindorkugarðsins í GWh/ár/km2, og landnýting virkjananna neðan Þórisvatns reyndar margfalt betri; landnýting jarðgufuvirkjananna er líka betri en vindorkugarðsins.  Spurningin er, hvað rekur menn á Íslandi til að setja tiltölulega mikið land undir vindmyllur í km2/MWh/ár ?

  1. Ekki er það umhverfisvernd, því að kolefnisspor við framleiðslu og uppsetningu vindmyllna er stórt m.v. orkuvinnslugetu þeirra í GWh/ár í samanburði við virkjanir á Íslandi úr þeim tveimur "endurnýjanlegu" orkulindum, sem nýttar eru nú þegar á Íslandi að einhverju ráði.  Hráefnanotkun er tiltölulega mikil og skilar litlu til umhverfisins á endingartímanum. Þá hefur verið bent á hættuna, sem fuglum stafar af spöðunum.  Örninn flýgur e.t.v. hærra en spaðarnir ná, en samt berast fréttir frá Noregi af mjög mörgum dauðum örnum í grennd við vindmyllur, þar sem er arnarvarp í grennd.  Þá kemur lágtíðnihljóð frá vindmyllum, sem er bæði óþægilegt og er talið heilsuskaðlegt fyrir íbúa til lengdar innan 2 km frá vindmyllum.  Því er haldið fram, að í segla vindmyllurafala fari sjaldgæft efni, sem grafið sé upp í Innri-Mongólíu og með því fylgi geislavirk og eitruð efni.  Gera þarf grein fyrir þessu í umhverfismati, ef það á að vera vandað.  
  2. Er afl- eða orkuskortur skýring á vindmylluáhuga hérlendis ? Hvort tveggja gæti verið í vændum á Íslandi á næstu árum, af því að markaðinum hefur verið afhent forsjá orkumálanna með innleiðingu löggjafar Evrópusambandsins (ESB) á þessu sviði, en hún virkar illa hér, af því að hún er ekki hönnuð fyrir raforkumarkað af því tagi, sem hér er.  Því fyrr sem stjórnvöld átta sig á þessu, þeim mun betra fyrir alla aðila, vegna þess að orkuöryggi hefur nú verið viðurkennt að falla undir þjóðaröryggi, og fyrir því eru ríkisstjórn og Alþingi ábyrg.  Ekki er hægt að reiða sig á vindmyllur í aflskorti, þar sem þær gefa aðeins frá sér fullt afl talsvert minna en 3 sólarhringa vikunnar, og stöðva verður þær í hvassviðri og ísingarveðri.  Hins vegar er vissulega unnt að spara dálítið vatn í miðlunarlónum með því að kaupa af þeim raforku inn á stofnkerfið. Sólheimavindorkuverið ætti t.d. að geta framleitt 380 GWh/ár, ef/þegar það nær fullum afköstum.  Þetta er um 2,5 % af orkuvinnslugetu núverandi vatnsorkuvera landsins, og má um það segja, að allt er hey í harðindum, en dýrt er það.
  3. Vindmyllur hafa orðið hagkvæmari í rekstri með tímanum.  Annað vindorkuver hefur verið á döfinni í Dalasýslu, og er það á Hróðnýjarstöðum við Búðardal.  Þar reiknaði höfundur vinnslukostnaðinn 53 USD/MWh, en við bætist tengikostnaður við stofnrafkerfi landsins.  Annaðhvort þarf að leggja jarðstreng frá Sólheimum að aðveitustöð Glerárskógum eða Hrútatungu, því að ólíklegt er, að Landsnet samþykki nýjan tengistað á Laxárdalsheiði.  Þetta verð frá orkuveri er ósamkeppnisfært á Íslandi sem stendur, og verður vonandi svo lengi, og þess vegna er vindorkugarður hér ekki góð viðskiptahugmynd.  Grundvöllur mikilla fjárfestinga í vindmyllugörðum í Noregi er orkusala inn á sæstrengi Statnetts. Góð viðskiptahugmynd, en óvinsæl, í einu landi, getur verið slæm í öðru landi, þótt þeim svipi saman. 

 

 


Ógnarlegar náttúruhamfarir - það sem koma skal ?

Ógurlegt ástand hefur skapazt í suð-austanverðri Ástralíu af völdum skógarelda vegna mikilla þurrka á þessu svæði. Úrkoma í Ástralíu sveiflast lotubundið og er nú nálægt hefðbundnu lágmarki. Jafnframt hafa hitamet verið slegin á þessu sumri í Ástralíu, og er þó hefðbundið heitasta tímabil ekki enn gengið í garð. Við vesturjaðar Sidneyborgar fór hitastig yfir 49°C í viku 02/2020.      Í Indónesíu, sem er norðan við Ástralíu, hafa á sama tíma orðið heiftarlegustu flóð í langan tíma.

Þarna virðist hafa orðið hliðrun á veðrakerfum, a.m.k. um stundarsakir, og sökinni er skellt á aukningu styrks koltvíildis í andrúmsloftinu úr 0.03 % í 0.04 % á 170 árum.  Hér skal ekki kveða upp úr með það, heldur viðra röksemdir með og á móti.  

Hvað sem því líður, þá hafa fjárfestingarbankar og tryggingafélög nú tekið til við að hringja viðvörunarbjöllum út af loftslagsbreytingum. Þetta á t.d. við um borgir í Bandaríkjunum, þar sem sjávarflóð geta valdið miklum usla.  Þar er nærtækt að óttast um Flórídaskagann, sem er flatur og lágur allur saman.  Nú er slíkum ríkjum ráðlagt að búast við  meðaltalstjóni af völdum loftslagsbreytinga, sem nemur 0,5-1,0 % á ári af VLF. Ef þetta er heimfært upp á íslenzka efnahagskerfið, fást 15-30 mrdISK/ár.  Tjónið, sem varð á Íslandi í norðanáhlaupinu á jólaföstu 2019 nam e.t.v. þriðjungi af lágmarki þessa bils, og þar var líklega um að ræða óveður, sem búast má við á 10 ára fresti.  Þetta er áhætta, sem Íslendingar hafa búið við frá landnámi, en þá var hlýrra hér en nú er. 

Hagur Íslands er hins vegar háður náttúrunni í meiri mæli en flestra annarra landa, og jafnvægi hennar er óstöðugt. Því má slá föstu, og maðurinn (homo sapiens) er orðinn svo öflugur nú á tímum, að hann getur truflað jafnvægi náttúrunnar.  Náttúrulegar hitasveiflur má m.a. sjá í löngum borkjörnum úr Grænlandsjökli. 

Viðkvæmt jafnvægi á t.d. við um Golfstrauminn, sem veikzt hefur á undanförnum árum, og um lífríki hafsins.  Flytji nytjastofnar sig um set, getur hæglega orðið efnahagslegt tjón hérlendis á ofannefndu bili.  Loðnan sannar þetta.  Hvarf hennar jafngildir um 20 mrdISK/ár tapi útflutningstekna, en á móti hefur makríllinn komið upp að ströndum landsins í ætisleit (étur um 3,0 Mt/ár) og bætt tjónið, þótt ekki séu allir nágrannar okkar þeirrar skoðunar, að við megum nýta hann þrátt fyrir þetta.  Það þykir okkur ósanngjarnt sjónarmið, og þar er verk að vinna fyrir íslenzka hafréttarfræðinga, fiskifræðinga, útgerðarmenn og stjórnarerindreka. Alþjóðlega gæðavottunarstöðin MSC leggur nú lóð sitt á þessar vogarskálar með því að svipta ríkin við norðanvert Atlantshafið gæðavottun á nýtingu norsk-íslenzku síldarinnar.  Innan ESB eru miklar áhyggjur um fiskveiðiaðstöðu ESB-ríkjanna eftir útgöngu Breta.  ESB leggur til, að fyrsta viðfangsefni útgöngusamninganna verði fiskveiðiheimildir innan brezkrar lögsögu.  Bretar geta aðeins fallizt á skammvinna aðlögun ESB að algeru brotthvarfi úr brezkri landhelgi, því að mestu hagsmunirnir eru í hefðbundnum kjördæmum Verkamannaflokksins, sem Íhaldsflokkurinn vann á sitt band í desemberkosningunum 2019, og Boris Johnson lofaði kjósendum þar því strax eftir kosningarnar að ríkisstjórnin myndi standa við bakið á þessum nýju kjósendum Íhaldsflokksins.  

Á hinn bóginn er einsýnt, að landbúnaðurinn hérlendis mun njóta góðs af hlýnun með aukinni uppskeru og fleiri mögulegum tegundum, og aukin úrkoma er jafnframt fylgifiskur hlýnunar, svo að ekki ætti að væsa um vatnsbúskapinn í framtíðinni. Það þýðir, að rekstur vatnsorkuvera verður enn hagkvæmari í framtíðinni en verið hefur.   

Sé líkan IPCC nærri lagi, má nú ljóst vera, að meðalhitastig á jörðu mun hækka meira en var viðmið Parísarsáttmálans, 1,5°C-2,0°C.  Þessu veldur losun manna á 43 mrdt/ár af koltvíildi, CO2, sem er auðvitað til viðbótar enn meiri náttúrúlegri losun.  Til að minnstu líkur yrðu á að halda hlýnun undir 2°C, þyrftu helztu losunarþjóðirnar að draga mun meira úr losun en þær skuldbundu sig til í París, og fæstar þjóðir eru komnar á rekspöl minnkandi losunar.  Aðeins Evrópusambandið, ESB, hefur sýnt vilja til þess nú undir forystu Ursulu von der Leyen, sem senn mun kynna "Græna samninginn" sinn (Green Deal), sem kveða mun á um a.m.k. 55 % samdrátt í losun ESB-landa 2030 m.v. 1990. Þetta er kjörið tækifæri fyrir ESB til að öðlast langþráða stjórnun orkumála Evrópusambandslandanna.  Til þess gagnast óttastjórnun með ragnarök ("inferno") á næstu grösum, nema styrk hönd miðstýringar í Brüssel stemmi á að ósi.  

Það er hins vegar hægara sagt en gert að minnka CO2-losun; "The Devil is in the Detail", og lausn án kjarnorku er ekki í sjónmáli án þess að skaða samkeppnishæfni ESB-landanna meira en góðu hófi gegnir, og þá verður verr farið en heima setið, því að án fjárhagslegs styrkleika er verkefnið vonlaust. Þetta hefur hins vegar Greta Thunberg og hennar fylgifiskar, einnig hérlendis, ekki tekið með í reikninginn.  Ef fótunum verður kippt undan hagvextinum, t.d. með mjög háum koltvíildisskatti, mun hagkerfið skreppa saman, velferðarkerfið hrynja og  fjöldaatvinnuleysi skella á.  Þetta er efnahagskreppa, og í kreppu minnkar auðvitað neyzlan, en ekkert afl verður til reiðu til að knýja fram orkuskipti. Bretar eru líklegir til að taka forystu á þessu sviði, því að þeir hafa ekki útilokað kjarnorkuna sem þátt í lausninni, og hún er sem stendur eini raunhæfi valkosturinn við kolaorkuverin.  Bretar ætla að loka síðasta kolaorkuveri sínu 2025, en Þjóðverjar 2035. Á Íslandi og í öðrum löndum eru núllvaxtarsinnar talsvert áberandi.  Þeir telja hagvöxt ósjálfbæran.  Þetta fólk mun aldrei geta leitt orkuskipti, því að þau krefjast öflugs þróunarstarfs og mikilla fjárfestinga, sem er nokkuð, sem afturhaldsstefnur geta aldrei staðið undir.  Þær bjóða aðeins upp á aukið atvinnuleysi og versnandi lífskjör.

Það var fyrirséð við gerð Parísarsamkomulagsins í desember 2015, að samdráttur í losun (hún hefur á heimsvísu aukizt síðan þá) myndi ganga of hægt til að halda hlýnun undir 2°C m.v. árið 1850 (þá var enn "Litla ísöld" !).  Þess vegna var í samkomulaginu gert ráð fyrir að sjúga CO2 úr iðnaðar- og orkuverareyk og jafnvel beint úr andrúmsloftinu og binda það í stöðugum efnasamböndum neðanjarðar.  Að draga CO2 úr andrúmsloftinu er erfitt, því að þar er það aðeins í styrk 0,041 %.  Þetta er líka mjög dýrt í álverum vegna mjög lítils styrks koltvíildis í kerreyk þeirra (<1 %, í kolaorkuverum hins vegar um 10 %).

Á vegum ESB hefur verið stofnaður sjóður að upphæð mrdEUR 10, sem á að styrkja þróunarverkefni á sviði endurnýjanlegra orkulinda og brottnáms CO2 úr iðnaðarreyk.  Fyrsta auglýsing hans eftir styrkumsóknum verður 2020, og líklegt er, að frá Íslandi muni berast umsóknir til að þróa áfram aðferðir ON (Orku náttúrunnar) á Hellisheiði.  Hjá ON á Hellisheiði er þessi förgun koltvíildis sögð kosta 30 USD/t, sem er aðeins 1/3 af kostnaði þessa ferlis erlendis.  Fyrir álverin er þetta áreiðanlega miklu dýrara en í jarðgufuvirkjuninni á Hellisheiði.  Hvers vegna velja þau ekki fremur hinn örugga kost að semja við skógarbændur á Íslandi um bindingu á a.m.k. hluta af 1,6 Mt/ár CO2 fyrir jafngildi um 30 USD/t ?

Hér sjáum við í hnotskurn vanda baráttunnar við koltvíildi í andrúmsloftinu.  Með því að ferfalda koltvíildisskattinn upp í 100 USD/t CO2 væri hugsanlega hægt að þvinga fyrirtæki til að setja upp CO2-brottnámsbúnað í afsogskerfi sín, en það mundi hins vegar setja viðskomandi starfsemi á hliðina, og þar með hefðu yfirvöld kastað barninu út með baðvatninu.  Eins og sást á 25. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid í desember 2019, skortir samstöðu á meðal ríkja heims um sameiginlegar aðgerðir, og þar stendur hnífurinn í kúnni.  Fyrir vikið er rétt að beina hluta af fénu, sem til ráðstöfunar er, til rannsókna á brýnustu mótvægisaðgerðum gegn hlýnun upp á meira en 3,0°C.  

IPCC gaf það út 2018, að til að halda hlýnun undir 2°C þyrfti að fjarlægja 100-1000 mrdt af CO2 úr andrúmsloftinu og/eða losunarreyk fyrir næstu aldamót, og miðgildið var 730 mrdt CO2, þ.e.a.s 17 ára núverandi losun.  Einmitt þetta hafa þörungar og jurtir gert í meira en einn milljarð ára.  Viðarbrennsla er talin kolefnishlutlaus orkuvinnsla, af því að skilað er til andrúmsloftsins því, sem nýlega var tekið þaðan.  Þetta auðveldar viðarkurlsnotendum á borð við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga leikinn.  

Hængurinn við bindingu með skógrækt er mikil landþörf skógræktar. Nýskógrækt að flatarmáli á við Rússland áætlaði IPCC 2018, að myndi aðeins draga 200 mrdt CO2 úr andrúmsloftinu til aldamóta, sem ekki hrekkur til að halda hlýnuninni nægilega í skefjum samkvæmt IPCC. Til mótvægis þessum vanda mætti þá grisja skóga, endurplanta og breyta nokkrum hundruðum af um 2500 kolakyntum orkuverum heims í sjálfbær viðarkurlsorkuver (pellets).  500 slík umbreytt kolaorkuver mundu þá spara andrúmsloftinu 5 mrdt/ár CO2 eða 12 %, og munar um minna.  

Ísland býður hins vegar upp á mikla möguleika fyrir íslenzkan iðnað til að verða kolefnishlutlaus fyrir tilskilinn tíma (2040). Vegna hlýnandi og rakara loftslags eykst gróðursældin hérlendis með hverjum áratugi.  Til að kolefnisjafna núverandi áliðnað á Íslandi þarf 260 kha lands, og slíkt landrými er fyrir hendi í landinu án þess að ganga á aðrar nytjar.  Slíkt gróðursetningarátak mundi skapa talsverða vinnu í landbúnaðinum og efnivið úr grisjun til kurlbrennslu í iðnaðinum og til (kolefnisfrírrar) orkuvinnslu og síðar meir viðarnytjar til húsbygginga o.fl.  Hvers vegna hefur ekki Loftslagsráð frumkvæði að því að koma á samstarfi Skógræktarinnar, skógarbænda og iðnaðarins í þessu skyni ? Slíkt væri ólíkt þarfara en að eiga viðtöl við fjölmiðla með kökkinn í hálsinum út af meintu svartnætti framundan.

Aðeins 19 af koltvíildisspúandi orku- og iðjuverum heimsins fjarlægja hluta af koltvíildismyndun sinni úr reyknum og binda hann neðanjarðar.  Alls nemur þetta koltvíildissog aðeins 40 Mt/ár eða 0,1 % af losun manna.  Hér þarf að geta þess, að hafið sogar til sín 1/4 og landgróður 1/4.  Staðan er engu að síður þannig, að samkvæmt IPCC er orðið vonlaust að halda hlýnun undir 2,0°C og líklegast, að hún verði yfir 3,0°C.

Fólk af alls konar sauðahúsi tjáir sig um loftslagsmálin og á fullan rétt á því, þótt af mismiklum skilningi sé.  Hrokinn og stærilætið leynir sér þó ekki, þegar efasemdarmenn um ýtrustu áhrif aukningar koltvíildisstyrks í andrúmsloftinu eru uppnefndir "afneitunarsinnar". Það er gefið í skyn, að efasemdarmenn afneiti staðreyndum.  Ekkert er fjær sanni. Þetta er hins vegar tilraun til að þagga niður í þeim, sem vilja rökræða þessi mál í stað þess að játast undir hin nýju trúarbrögð um "hamfarahlýnun".  Ein lítil spurning til þöggunarsinna gæti t.d. verið, hvernig kenningar um "hamfarahlýnun" koma heim og saman við þá staðreynd, að þann 2. janúar 2020 var slegið kuldamet á Grænlandsjökli, er þar mældust -66°C ?

Í Morgunblaðinu 29. nóvember 2019 birtist "baksviðsviðtal" Baldurs Arnarsonar við Andra Snæ Magnason, rithöfund, sem hafði þar nánast ekkert fram að færa annað en yfirborðskennda frasa, einhvers konar loftslagsfroðu, sem hann gerir út á í opinberri umræðu.  Viðtalinu lauk með spádómi í dómsdagsstíl án þess að setja málið í tölulegt samhengi af viti.  Umræða af þessu tagi hefur verið kölluð "tilfinningaklám".  Það er gert út á ótta við breytingar:

"Ég held, að sá fjöldi ferðamanna, sem nú koma, sé ágætur.  Ég held, að 5 milljónir ferðamanna væru hvorki æskilegt markmið menningarlega né umhverfislega fyrir Ísland.  Eins og ég ræði um í fyrirlestri mínum [í Borgarleikhúsinu-innsk. Mbl.], held ég, að heimurinn sé að fara að breytast mjög hratt.  Það verða settar hömlur á flug á næstu árum; styttri ferðir verða ekki sjálfsagðar.  Ég held, að Íslendingar þurfi að laga sig að því, að við fáum færri ferðamenn í lengri tíma; að það verði jafnmargir ferðamenn á hverjum tíma.  Það verði hins vegar ekki talið siðferðilega rétt að skreppa í þriggja daga ferðir til útlanda, heldur heldur muni fólk fara [svo ?; verða] miklu lengur og betur [svo ?], þegar það ferðast."

Þótt rithöfundurinn haldi, að núverandi ferðamannafjöldi sé kjörfjöldi hérlendis, þá segja staðreyndir ferðageirans annað.  Gistirými er vannýtt, og tekjur eru of litlar m.v. þann fjölda, sem þar starfar nú, og hefur þó umtalsverð fækkun starfsmanna átt sér stað frá undirritun Lífskjarasamninganna, svo að nú er heildarfjöldi atvinnulausra í landinu kominn í 7600.  Hugmyndafræði rithöfundarins er hugmyndafræði stöðnunar, afturhalds, sem leiða mun til aukins landflótta kunnáttufólks héðan.

Hann heldur, að 5 M ferðamanna sé meira en landið ræður við með góðu móti, en útskýrir ekki, hvað hann á við.  Heildarfjöldinn 5 M getur t.d. verið samsettur af 2 M millilendingarfarþega og 3 M gistifarþega.  Með því að hluti þeirra fljúgi beint til Akureyrar eða Egilsstaða má dreifa þeim betur um landið og takist einnig að dreifa þeim betur yfir árið, þarf lítið að fjárfesta til viðbótar við núverandi innviði, gistirými og afþreyingaraðstöðu.  Góð nýting fjárfestinga er lykillinn að góðum rekstri og traustri atvinnu.  

Rithöfundurinn virðist halda, eins og Greta Thunberg, að flugið sé stórskaðlegt andrúmsloftinu.  Þetta er misskilningur hjá þeim.  Koltvíildislosun flugvéla er innan við 3 % af heildarlosun manna, og innanlandsflug í heiminum losar sennilega innan við 1 %.  Hvers vegna ætti að leggja hömlur á það, eins og rithöfundurinn spáir, að verði gert ?  Heldur hann virkilega, að þetta sé vænleg aðferð til betra lífs ?

Hugarórar rithöfundar eru ekki vænlegur grundvöllur spádóma.  Það, sem nú þegar er í gangi á þessu sviði, er þróun rafknúinna flugvéla fyrir vegalengdir undir 1000 km, nánar tiltekið tvinn flugvélar, þar sem bæði verða rafhreyflar og hreyflar knúnir jarðefnaeldsneyti.  Sennilega munu bæði birtast flugvélar með rafhlöðum og vetnishlöðum á þessum áratugi, fyrst í litlum flugvélum, <20 manna, og síðar í hinum stærri.  Þessar vélar munu smám saman leysa jarðefnaeldsneytisvélar af hólmi á öllum vegalengdum, enda umhverfisvænni og lágværari og auk þess hagkvæmari, er frá líður, í rafhami.

Hinn pólinn í loftslagsumræðunni gaf á að líta í Morgunblaðinu 6. desember 2019, en þar birtist greinin "Loftslagsvísindi hrjáð af fölsunum",

eftir Friðrik Daníelsson, efnaverkfræðing. Þar var óspart vitnað í raunvísindamenn og valvísi gastegunda á bylgjulengd geislunar fyrir varmaupptöku. Friðrik skóf ekki utan af skoðunum sínum frekar en fyrri daginn; hann nýtti sér eðlisfræði gasa, og ólíkt færði hann betri rök fyrir máli sínu en rithöfundurinn, sem veður á súðum og reynir að framkalla hagstæð hughrif áheyrenda og lesenda fyrir áróður sinn. Slíkt hefur lítið vægi í umræðunni til lengdar.  Það ætti að vera tiltölulega fljótgert að sannreyna staðhæfingar Friðriks.  Grein hans hófst þannig:

"Hin 123 ára gamla kenning Arrheniusar um hlýnun loftslags af völdum koltvísýrings frá mönnum hefur nú vakið spár um "hamfarahlýnun".  Arrheniusi yfirsást meginatriðið, áhrif loftrakans.  Hálfum áratug eftir, að kenningin kom fram, var hún hrakin af Knut Ångström, en hefur samt skotið upp kollinum, þegar veðurlag hefur hlýnað (eftir 1920 og 1980)."

Þessari hressilegu grein sinni með tilvitnunum í merka raunvísindamenn lauk Friðrik með eftirfarandi hætti:

"Eðlisfræðileg lögmál sýna, að þau litlu áhrif, sem koltvísýringurinn hefur á hitastigið í lofthjúpnum, eru þegar að mestu komin fram.  Koltvísýringurinn, sem er nú þegar í lofthjúpnum, tekur upp nær alla varmageislun, sem hann getur tekið upp, en það er á bylgjulengdunum 2,7, 4,3 og 15 míkron. Útstreymi varmageislunar út úr lofthjúpnum er ekki á þeim bylgjulengdum, heldur á 8-12 míkrón, sem koltvísýringurinn getur ekki tekið upp.  

Aukið magn af koltvísýringi í loftinu breytir þessu ekki, sem þýðir, að styrkur koltvísýringsins í andrúmsloftinu hefur hverfandi áhrif á hitastigið á jörðinni. Metan hefur sömuleiðis hverfandi áhrif af sömu ástæðum.  Það er geislaupptaka loftrakans, sem er yfirgnæfandi og veldur obbanum af gróðurhúsaáhrifunum.

"... það hefur ekki verið sýnt fram á með sannfærandi hætti, að aukning CO2 í andrúmsloftinu hafi ákveðin áhrif á loftslag." (Prof. em. D. Thoenes, Hollandi.)

Af rannsóknum færustu óháðra vísindamanna er orðið ljóst, að aukinn koltvísýringur í lofthjúpnum hefur hverfandi áhrif á loftslagið á jörðinni." (Undirstr. BJo.)

Hér eru mikil tíðindi á ferð, ef sönn eru, þ.e. að útgeislun jarðar sé á tíðnibilinu 8-12 míkrón og hvorki koltvíildi né metan geti sogað í sig geislaorku á því bylgjusviði.  Það var einmitt skýringin á áherzlunni, sem lögð var á hámarks leyfilega hlýnun 2°C á Parísarráðstefnunni í desember 2015, að við meiri hlýnun mundi ekki ráðast við hana, þ.e. hitastigsþróunin myndi þá lenda í óviðráðanlegum hækkunarspíral, t.d. vegna þiðnunar sífrera Síberiu, sem myndi losa úr læðingi gríðarmagn metans, sem er sögð meira en tvítugfalt sterkari gróðurhúsalofttegund en koltvíildi.  Ef hvorug þessara lofttegunda getur tekið til sín útgeislun jarðar, fellur þessi hamfarakenning um sjálfa sig.  Tiltölulega einfalt ætti að vera að grafa þetta upp.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband