Færsluflokkur: Fjármál

Af sæstrengjum Noregs og Íslands

Þann 31. ágúst 2019 skrifaði Hjörtur J. Guðmundsson stutta frétt í prentútgáfu Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:

"Vonast eftir stuðningi við sæstreng".

Þar gaf m.a. á að líta eftirfarandi:

"Formlegar samningaviðræður um formlegan stuðning ríkisstjórna bæði Íslands og Bretlands eru að sögn talsmannsins [fyrir Atlantic SuperConnection] á meðal þess, sem vantar til þess að þróa verkefnið áfram.  Spurður, hvar verkefnið væri statt, sagði talsmaðurinn, að Atlantic SuperConnection væri enn áhugasamt um verkefnið. Færi svo, að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið og orkumálaumgerð þess [ACER og Orkusamband Evrópu] í lok október, eins og gert væri ráð fyrir, væri vonazt til þess , að virkt samtal gæti hafizt skömmu eftir það varðandi það að fá formlegan stuðning."

Til er annar fjölþjóðlegur orkusamningur en Orkupakki #3 (OP#3) Evrópusambandsins (ESB), sem nú hefur hlotið fullgildingu í EFTA-löndum EES líka.  Sá heitir "Energy Charter Treaty" - ECT, og var hann samþykktur að Íslands hálfu 1994 og fullgiltur á Íslandi árið 2015, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með orkumálin, eins og núna. (Noregur hefur ekki fullgilt samninginn af einhverjum ástæðum.)  Umræddur ráðherra iðnaðar og nýsköpunar 2015 heitir Ragnheiður Elín Árnadóttir (23.05.2013-11.01.2017).

Sagt er, að á grundvelli ECT hafi fjárfestar höfðað skaðabótamál á hendur ríkisstjórnum og haft nokkuð upp úr krafsinu.  Það er þá á grundvelli þjóðaréttar, en ekki landsréttar, því að að ECT felur hvorki í sér lagalegar né fjárhagslegar skuldbindingar, eins og OP#3 gerir, og ekkert framsal ríkisvalds.  Ef ECT er varasamur, þá er OP#3 stórhættulegur.  ECT getur auðvitað orðið samningsumgjörð um sæstreng til Bretlands eftir BREXIT, og hann getur verið íslenzkum fjárfestum, verktökum og ráðgjöfum hjálplegur við starfsemi þeirra utan EES, t.d. við jarðhitaverkefni í Afríku og Asíu.  Fjórfrelsisreglur EES og OP#3 ættu að gera notkun ECT innan EES óþarfa.   

Sá er einmitt reginmunurinn á ECT og OP#3, að ECT er uppsegjanlegur, en OP#3 ekki (nema segja upp EES-samninginum). Það er hins vegar ólíklegt, að ACER leyfi orkutengingu við Bretland, ef Bretland gengur úr ACER.  ACER vill fá íslenzka raforku inn á Innri markað ESB, og gæti þá beitt sér til að beina "Icelink" verkefninu til Írlands og tengt síðan Írland með öflugum hætti við meginlandið, svo að dæmi sé tekið.  

Einhver erlendur stjórnmálamaður nefndi, að Íslendingar ættu að sjá Dönum fyrir kolefnisfríu rafmagni.  Það væri þó að bera í bakkafullan lækinn, því að nú þegar selja Norðmenn Dönum rafmagn á daginn um 4 sæstrengi og kaupa til baka á nóttunni á tiltölulega hagstæðu verði. 

Samt hefur Statnett (norska Landsnet) talið rétt að tengja Noreg við enn stærri markaði,framhjá Danmörku,því að fyrirtækið lagði sæstreng til Hollands fyrir nokkrum árum og er að leggja einn til Þýzkalands og annan til Englands.  Einkafyrirtækið NorthConnect hefur sótt um leyfi til að leggja samnefndan sæstreng á milli Skotlands og Noregs með um 1400 MW flutningsgetu og áætlaðan orkuflutning um 10 TWh/ár.  Landsreglari Bretlands hefur nú samþykkt umsókn NorthConnect um þennan streng, og Orkustofnun Noregs, NVE, mun fljótlega afgreiða umsóknina frá sér.  Búizt er við, að hún muni samþykkja umsóknina, í blóra við vilja fjölmargra umsagnaraðila í Noregi, þ.á.m. Statnett, sem óttast gríðarlegar raforkuverðhækkanir í Noregi með NorthConnect, því að hann muni þurrka upp allan varaorkuforða í miðlunarlónum Noregs. 

Ef landsreglarar Bretlands og Noregs verða ósammála um NorthConnect, sker ACER úr.  Kannski mun BREXIT skera Norðmenn úr snöru OP#3 í þetta sinn.  NorthConnect verður áreiðanlega mikið hitamál í Noregi og mun skerpa línurnar í komandi baráttu fyrir Stórþingskosningarnar eftir 2 ár.  Verður lærdómsríkt fyrir Íslendinga að fylgjast með þessum átökum í Noregi um NorthConnect og að fylgjast með efnahagslegum áhrifum af tengingu þeirra tveggja stóru millilandasæstrengja, sem Statnett er nú með á framkvæmdastigi.  

Atlantic SuperConnection þykist hafa varið stórfé til undirbúnings sæstrengs frá Englandi til Íslands.  Þar gætu búið að baki áform um að kæra stjórnvöld hérlendis fyrir óeðlilegar tafir á afgreiðslu sæstrengsmálsins á grundvelli OP#3 fyrir BREXIT eða ECT eftir BREXIT.  Þar kemur þó ekki einvörðungu til álita útlagður kostnaður, heldur ekki síður tapaðar tekjur í framtíðinni, svo að hér getur orðið um háar fjárhæðir að tefla við Edmund Truell, sem ekki kallar allt ömmu sína.  Þessa áhættu þarf að vega og meta á móti hugsanlegum ávinningi Íslendinga af ECT, sem hér hefur verið drepið á.  

"Hann sagði, að í heildina hefði rúmlega MGBP 10 verið varið í fýsileikaathugun sæstrengsins og raflínuverksmiðju [sæstrengsverksmiðju].

Talsmaðurinn sagði aðspurður, að þeir, sem færu fyrir verkefninu, hefðu verið í sambandi við íslenzka ráðherra og stjórnmálamenn snemma á síðasta ári."

 Það er athyglisvert, hversu mikla áherzlu Atlantic SuperConnection (ASC) leggur á samskipti við stjórnmálamenn í báðum löndum.  Fyrirtækið virðist ætla að sækja í sjóði þeirra, t.d. byggðasjóð á Englandi, þar sem ládeyða hefur um langa hríð hrjáð Norð-Austur England, þar sem ASC fyrirhugar að reisa sæstrengsverksmiðju og síðan að hefja lagningu sæstrengs þaðan og til Íslands.  ASC virðist líka sækjast eftir því, að brezka ríkisstjórnin greiði niður kostnað raforku frá Íslandi, sem flutt er frá Íslandi, á þeirri forsendu, að hún sé kolefnisfrí.  Þessar væntingar standa á brauðfótum.

Markaðskerfi ESB (Innri markaður raforku) felur í sér, að öll raforka fari á markaðstorgið, einnig sú, sem send er á milli landa.  Hjá ESB sjá menn hlutverk Íslands og Noregs í raforkuviðskiptum á þessum vettvangi fólgið í því að fylla upp í framboðslægðirnar, sem myndast þá daga, þegar margar vindmyllna Evrópu í senn hægja á sér.  Þá geta vatnsorkuver landanna hlaupið fyrirvaralítið undir bagga.  Skilyrði er auðvitað, að nóg vatn sé í miðlunarlónunum og ríkulegt afl til reiðu.  Á Íslandi skortir mikið á, að fyrir hendi sé mikið afgangsafl eða -orka, af því að álagið er fremur jafnt allan sólarhringinn, allan ársins hring.  Þess vegna þarf fyrst að fjárfesta mjög mikið í nýjum eða stækkuðum stöðvarhúsum með viðbótar vél- og rafbúnaði. 

  Miðlunargetuna þyrfti ekki að auka mikið, því að hugmyndin er sú að snúa orkustefnunni við, þegar nægur fjöldi vindmyllna er tekinn að snúast eðlilega aftur.  Þá kaupir Ísland raforku að utan og safnar þannig vatni á ný í lónin.  Verðmismunurinn er mikill, en flutningskostnaðurinn tiltölulega hár.  Aukið uppsett afl kallar á miklar fjárfestingar, sem enduspeglast munu í rafmagnsverðinu, einnig innanlands.  Það mun þess vegna hækka við þessar aðfarir, og rennsli viðkomandi áa verða óstöðugt.

Þessi mikla fjárþörf í vatnsvirkjanageiranum getur skýrt áherzlu Framkvæmdastjórnarinnar á það, að orkunýtingarleyfin skipti um hendur og í stað ríkisfyrirtækja komi fjársterk einkafyrirtæki með fjárfestingarvilja og getu.  

 

 

 

 

 

 

 


Um fullveldisrétt og nýtingu orkulinda

Líklega þykir mörgum hérlandsmönnum, að það sé fullveldisréttur ríkisins að ráða því, hvernig stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórn á grundvelli laga frá Alþingi, haga úthlutun leyfa til nýtingar á orkulindum til raforkuvinnslu hérlendis.  Þetta er þó ekki lengur alfarið svo, því að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) krafðist þess með úrskurði nr 075/16/COL, dags. 20.04.2016, að ákvæðum EES-samningsins, sem banna ríkisstuðning til fyrirtækja á samkeppnismarkaði, yrði fullnægt. M.ö.o. takmarkar EES-samningurinn fullveldisréttinn til nýtingar orkulinda á Íslandi. Fullyrðingar flautaþyrla um, að EES-samningurinn snerti ekki orkulindirnar, eru út í loftið. 

Fyrsta bréfið þessu lútandi fór frá ESA 14.10.2008, þegar Íslendingar voru í sárum eftir hrun bankakerfisins, enda fór fyrsta svarbréfið af mörgum við fyrirspurnum ESA ekki fyrr en meira en ári síðar, 04.12.2009.  Með bréfi, dags. 05.10.2015, tilkynnti ESA síðan  ríkisstjórninni, eftir athugun sína, að stofnunin teldi íslenzka fyrirkomulagið um téðar leyfisveitingar jafngilda ríkisaðstoð, sem stangaðist á við EES-samninginum. Viðræður fóru fram á milli aðila, en niðurstaðan varð engu að síður Íslandi mjög í óhag, því að ESA kvað upp eftirfarandi úrskurð:

"Með úrskurði nr 75/16/COL þann 20. apríl 2016 komst Stofnunin [ESA] að þeirri niðurstöðu, að framkvæmd íslenzkra yfirvalda við úthlutun til raforkuvinnslufyrirtækja á leyfum til afnota á þjóðlendum, á ríkislandi og náttúruauðlindum þar, án þess að fyrir hendi sé greinileg lagaleg krafa um að greiða markaðstengt afnotagjald og án nokkurra ítarlegra ákvæða um ákvörðun markaðsverðsins á grundvelli gegnsærrar aðferðarfræði, feli í sér gildandi fyrirkomulag ríkisaðstoðar, sem er ósamrýmanleg virkni EES-samningsins."

Í flestum ríkjum er það viðkvæmt mál, hvernig ríkisvaldið hagar afnotum náttúruauðlinda í sinni eigu.  Það er víðast hvar talið til fullveldisréttar hvers ríkis að ákveða skipan þessara mála, en framkvæmdastjórn ESB hefur lengi verið á öðru máli, eins og sameiginleg fiskveiðistefna Sambandsins er skýrt dæmi um.  Trú köllun sinni hefur Framkvæmdastjórnin allt aftur til 1990 rekið þá stefnu gagnvart vatnsorkulöndum í Sambandinu, t.d. Frakklandi, að úthlutunartímann ætti að miða við þarfir einkafyrirtækja til afskrifta á slíkum fjárfestingum (um 30 ár) og að þau yrðu að sitja við sama borð og ríkisorkufyrirtækin við þessa úthlutun.  Árið 2008 hóf spegilmynd Framkvæmdastjórnarinnar EFTA-megin, ESA, ferlið, sem leiddi til sams konar úrskurðar árið 2016 og Framkvæmdastjórnin hafði áður fellt.

Í úrskurði sínum, 075/16/COL (sjá viðhengi), ráðlagði ESA ríkisstjórninni að taka eftirfarandi 4 skref til að tryggja, að úthlutun orkunýtingarréttinda á orkulindum ríkisins fæli ekki í sér ríkisstuðning:

  1.  "Íslenzk yfirvöld skulu tryggja, að fyrir hendi verði lagaleg skuldbinding allra greina hins opinbera á Íslandi (þ.e. sérstaklega á ríkisstjórninni, sveitarfélögum og fyrirtækjum í opinberri eigu), að hvers konar réttindaframsal til að nýta þjóðlendu, ríkisland og náttúruauðlindir þar (náttúruauðlindir í opinberri eigu) til raforkuvinnslu, fari fram á markaðsforsendum, og að þar af leiðandi sé slíkt framsal skilyrt við, að hæfileg greiðsla verði innt af hendi. 
  2.  Íslenzk yfirvöld skulu tryggja, að allir rekstraraðilar, hvort sem þeir eru í ríkiseign eða ekki, fái sams konar meðhöndlun hvað varðar hæfilega greiðslu fyrir réttindin til að nýta opinberar náttúruauðlindir til raforkuvinnslu.
  3.  Íslenzk stjórnvöld skulu tryggja, að skýr og auðsæ aðferðarfræði sé lögð til grundvallar verðlagningunni á réttinum til að nýta opinberar náttúruauðlindir til raforkuvinnslu.
  4.  Íslenzk stjórnvöld skulu endurskoða alla núverandi samninga til að tryggja, að raforkuvinnslufyrirtæki greiði hæfilegt gjald fyrir það, sem eftir lifir samningstímabilsins." 

Þá var tekið fram í úrskurði 75/16/COL, gr. 2,

að "Stofnunin mælti með því, að íslenzk yfirvöld gerðu nauðsynlegar löggjafar-, stjórnkerfis- og aðrar ráðstafanir í því augnamiði að uppræta f.o.m. 1. janúar 2017 alla ósamrýmanlega aðstoð af ástæðum, sem úrskurðurinn spannar."

Síðan gerist það ótrúlega 19. maí 2016, að íslenzka ríkisstjórnin sendir bréf til ESA, þar sem hún samþykkir allar kröfurnar, sem settar voru fram í úrskurði 075/16/COL. Með bréfi 15. desember 2016 til ESA tilkynnti íslenzka ríkisstjórnin ennfremur, að hún myndi verða búin að koma þessu í kring 30. júní 2017 og að breytingar á gildandi leyfisveitingum myndu taka gildi 1. janúar 2017 á þeim degi, sem ESA hafði krafizt í úrskurðinum, að allt yrði frágengið. Íslenzk stjórnvöld höfðu Alþingiskosningar 2016 sem skálkaskjól fyrir hálfsárs drætti, en er þetta komið til framkvæmda enn ? Á þessum grundvelli kvað ESA upp annan úrskurð, þ.e. nr 010/17/COL (sjá viðhengi), dags. 25. janúar 2017, um lúkningu þessa máls að sinni hálfu.  

Allt fór þetta afar hljótt á Íslandi, þótt um stórmál væri að ræða, og enn eru engar spurnir af efndum.  Eru virkjanafyrirtækin farin að greiða markaðsverð fyrir nýtingarrétt af orkulindum í eigu hins opinbera ?  Sitja allir við sama borð nú við úthlutun slíkra leyfa, og gildir það jafnræði innan EES ?  Hefur lögum og reglum verið breytt til að grundvalla þessar aðgerðir á.  Nei, það hefur enn ekkert gerzt í þessu máli, svo að það sætir furðu, að ESA skuli ekki reka upp hvein.  Nú hefur iðnaðarráðherra reyndar boðað þingmál á 150. þinginu um þetta mál.  Ef þar á að fullnægja kröfum ESA, mun verða hart tekizt á um það.

Það er ekki hægt að reka stjórnsýslu til frambúðar á Íslandi þannig, að farið sé með samskiptin á milli ríkisstjórnarinnar og ESA sem mannsmorð.  Öðru vísi er þessu háttað t.d. í Noregi.  Þar er allt þessu viðvíkjandi uppi á borðum, og norska ríkisstjórnin hefur harðlega mótmælt því, að ESA eigi nokkurn íhlutunarrétt um úthlutun leyfa til nýtingar orkulinda Noregs:  

Þeir ráðherrar, sem væntanlega hafa tekið ákvörðun um þessa uppgjöf fyrir ESA, voru:

  • Forsætisráðherra 07.04.2016-11.01.2017: Sigurður Ingi Jóhannsson
  • Utanríkisráðherra 08.04.2016-11.01.2017: Lilja Alfreðsdóttir
  • Orku-og iðnaðarráðherra: 23.05.2013-11.01.2017: Ragnheiður Elín Árnadóttir  

Þarna kemur Framsóknarflokkurinn greinilega mjög við sögu, og skýtur það óneitanlega skökku við stefnu flokksins og orðskrúðið um að standa vörð um hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu, t.d. í "kjötmálinu" s.k. (innflutningur á ófrosnu kjöti og ógerilsneyddri mjólk og eggjum í blóra við vilja Alþingis, en samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins). Þegar til stykkisins kemur, er lyppast niður án þess að bregða skildi á loft, nákvæmlega eins og í "orkupakkamálinu" (OP#3).   

Lesendum til skilningsauka á því, að "uppgjöf" er höfð á orði í tengslum við ákvörðun íslenzku ríkisstjórnarinnar, skal vitna hér í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, gr. 4.5:
 
"Orkustefna ESB í raforkumálum felur í sér að veita fjárfestum í öllum löndum EES afnotarétt yfir orkulindum.  Sú stefna felur í sér samkeppni á markaði, líka á Íslandi, og leiðir til þess, að orkulindir Íslands fara á samkeppnismarkað á innri orkumarkaði EES.  Þar sem orkulindir eru undanþegnar ákvæðum EES-samningsins, reynir ESB að fara dómstólaleiðina til að ná sínu fram í Noregi og á Íslandi.
Dæmi um þetta er dómur EFTA-dómstólsins gegn Noregi þess efnis, að reglur EES um jafnræði til stofnunar fyrirtækja og fjárfestingar ættu við, þegar leyfi eru veitt til að vinna raforku úr auðlindunum.  Norðmenn brugðust við þessu með að breyta lögum sínum svo, að einkaaðilar fá nú ekki leyfi til að kaupa eða virkja vatnsaflstöðvar aðrar en smávirkjanir; vatnsréttindi, sem falla til ríkisins, verða nú ekki seld aftur, hvorki gömlum né nýjum eigendum, en einkaaðilar geta áfram átt allt að 1/3 hverrar vatnsaflstöðvar yfir 5,0 MW."
 
Þarna yfirtekur ríkið raforkuvinnsluna með lögum að miklu leyti.  Þannig er staðan í raun á Íslandi í meiri mæli en í Noregi, en það er engin löggjöf um það hér. Það er einmitt samnaburðurinn á milli stjórnsýslu Íslands og Noregs, sem er sláandi í þessu máli um leyfisúthlutanir virkjana.  Ekki er nóg með, að Norðmenn gerðu EFTA-dómstólinn að mestu afturreka með úrskurð sinn gegn "heimfalli" virkjana í erlendri eigu til ríkisins eftir a.m.k. 60 ár í rekstri, heldur svöruðu þeir snöfurmannlega bréfi ESA til norsku ríkisstjórnarinnar þann 30. apríl 2019 með bréfi 5. maí 2019 um leyfisveitingar til að nýta vatnsréttindi ríkisins til raforkuvinnslu. 
Þar er tekið til varna gegn þeirri skoðun ESA, að þjónustutilskipun 2006/123/EB, tilskipun um opinber innkaup 2014/23/EB og TFEU, gr. 49 og 56, skuldbindi Norðmenn til að láta af núverandi fyrirkomulagi úthlutunar á orkunýtingarrétti ríkisins til ríkisfyrirtækja. Það á sér sem sagt annars konar sókn stað gegn hagsmunum Noregs en Íslands, en báðar munu leiða til hins sama, fái ESA/ESB vilja sínum framgengt.   
Norðmenn telja einfaldlega þessa þjónustutilskipun ekki eiga við um raforkuvinnslu, og norska olíu- og orkuráðuneytið bendir á, að Norðmenn hafi lýst þessari skoðun sinni, þegar tilskipunin var í mótun og þegar þeir innleiddu hana. Líklega hafa þau mótmæli ekkert lagalegt gildi.  Þess vegna er líklegast, að ESA fari með deilumálið við Norðmenn fyrir EFTA-dómstólinn.
 
EFTA-dómstóllinn kann þá að hafa fengið dómafordæmi frá ESB-dómstólinum í svipuðu deilumáli Framkvæmdastjórnarinnar við 8 ríki ESB, og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.  Það er hins vegar alveg öruggt, að áður en Norðmenn gefast upp í þessu stórmáli á mikið eftir að ganga á í pólitíkinni í Noregi.  Höfundi þessa vefseturs er nær að halda, að Norðmenn muni fremur fórna EES-aðildinni en forræði vatnsorkulinda Noregs til útlanda. Þeir munu aldrei sleppa hendinni af sínu erfðasilfri.  Hvað í ósköpunum gekk þá ofangreindum íslenzkum ráðherrum til að vera svo auðsveipir þjónar hins yfirþjóðlega valds ?
 
Hvað er eiginlega að frétta af þessu íslenzka undirlægjumáli í framkvæmd ? Það kemur væntanlega senn fyrir almenningssjónir og verður vart sjón í sólskini. Íslenzk yfirvöld verða að láta af þessari auðsveipni gagnvart EES/ESB og læðupokahætti gagnvart umbjóðendum sínum, íslenzku þjóðinni.  Eina haldbæra viðbragð hinna síðar nefndu er að svipta þá fulltrúa sína á hinu háu Alþingi kjóli og kalli við fyrsta tækifæri.  Það er styrkur lýðræðisins. 
 
Að lokum skal  hér vitna áfram í umrædda gr. 4.5 í skýrslu OO, þar sem ritað er tæpitungulaust um alvarlegar afleiðingar þess fyrir þjóðir, sem búa í landi náttúrulegra og umhverfisvænna orkulinda, að markaðsvæða raforkuvinnsluna að hætti ESB/EES:
 
"ESA býr sig undir sams konar málsókn gegn Noregi og væntanlega Íslandi [og ESB gegn 8 aðildarlöndum ESB].  ESB krefst þess, að vinnsluleyfi vatnsorku  séu ætíð boðin út og aðeins til 30 ára í senn.  Þetta gengur einfaldlega ekki upp fyrir smærri ríki.  Eiga 330 þúsund íbúar með ríkisfang á Íslandi að keppa við 500 milljónir í löndum ESB um, hver byggi, reki og hirði arð af orkuverum á Íslandi ?  Þetta fyrirkomulag getur aðeins endað á einn veg.  Með tímanum missum við alfarið yfirráð yfir orkulindum okkar.  Auk þess munu heimili og fyrirtæki þurfa að borga meira fyrir rafmagnið en nú er.  Ýmis atvinnustarfsemi mun líða fyrir hækkunina, jafnvel lognast út af."
 
 

 

 

 

  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stórhættuleg braut mörkuð af ríkisstjórn

Margt bendir til, að Evrópusambandið (ESB) hafi í örvæntingu sinni yfir árangursleysinu við að ná loftslagsmarkmiðum sínum ákveðið að "sprengja" sér leið að endurnýjanlegum orkulindum Íslands og Noregs, og þá munu jarðhitaauðlindir Íslands fylgja í kjölfarið.  Hér verður vikið að þeirri sviðsmynd, að undirlægjuháttur ríkisstjórnar Íslands gagnvart EES muni leiða til þess, að nýtingarréttur þessara íslenzku auðlinda hverfi úr landi. 

Við stjórnvölinn sitja nú blindingjar á orkumálin, en þingmenn Miðflokksins virðast hafa áttað sig á þýðingu þessa máls fyrir þjóðarhag, og er málflutningur formannsins í Bítinu á Bylgjunni að morgni 21. ágúst 2019 til marks um það.  Sama má segja um ræðu hans á fundi á Selfossi að kvöldi 22. ágúst 2019, þar sem um 170 manns hlýddu á 5 ágæta ræðumenn úr öllu hinu flokkspólitíska litrófi. Blekbóndi var staddur austanfjalls og brá sér á fundinn.

Þriðji orkupakkinn er ákveðið skref inn í orkusamstarf, sem mun hafa þær hörmulegu afleiðingar í för með sér, að íslenzka þjóðin mun að fullu missa stjórn á orkulindum sínum til markaðsafla og búrókrata ESB þrátt fyrir eignarhald ríkisins á þeim í mörgum tilvikum.  EES-samningurinn spannar ekki eignarhald á náttúruauðlindum.  Ríkið má eiga auðlindirnar, en "fjórfrelsið" skal ríkja um ráðstöfunarréttinn, og hið vanheilaga bandalag búrókrata og fjármagnseigenda, sem stjórnar Evrópusambandinu undir forystu Tevtónans Martin Selmayr, hægri handar forseta Framkvæmdastjórnarinnar, ræður fyrirkomulaginu með útgáfu reglugerða og tilskipana. 

Téður Martin fær bráðlega löndu sína, Ursulu von der Layen, sem yfirmann, en hún var landvarnarráðherra Þýzkalands og skildi Bundeswehr eftir í rjúkandi rúst. Hefur þýzki herinn aldrei verið í jafnslæmu ásigkomulagi og nú. Dæmi: hjá Luftwaffe eru aðeins 4 bardagahæfar orrustuvélar og hjá Kriegsmarine álíka fjöldi bardagahæfra kafbáta.  Hjá Bundeswehr var fagnað ótæpilega fréttinni um flutninginn til Brüssel, og haldin "tappalosunarhersýning" í kveðjuskyni.

Leyfisveitingar til nýtingar og stjórnunar á orkulindunum munu að óbreyttu falla undir reglur ESB, og réttur Íslendinga til að nýta orkulindirnar og stjórna þeim í þágu þjóðarinnar verður lítils virði. Þarna er fullveldisréttur Íslands lítilsvirtur.  Lagaákvæði, sem gefa íslenzkum notendum rafmagns eitthvert forskot á erlenda innan EES, getur EFTA-dómstóllinn dæmt ólögmæt í kjölfar kvörtunar frá ESB til ESA.  Erlendir auðmenn munu fá jafngóð eða betri  tækifæri í krafti auðs síns en íslenzkir aðilar, þannig að arður af auðlindunum mun flytjast úr landi.  Hvernig í ósköpunum getur þetta gerzt fyrir framan nefið á okkur ? Er um að ræða fávizku og skilningsleysi íslenzkra embættismanna, sem um þetta véla, eða fjarstýra harðsvíruð hagsmunaöfl stjórnmálamönnunum ?  Spyr sá, sem ekki veit.

Í þessu sambandi má benda á þá kröfu Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarríkjum ESB, þar sem vatnsréttindi eru á hendi ríkisins, t.d. Frakklandi, Þýzkalandi, Austurríki, Póllandi, Portúgal og Svíþjóð, að ríkisvaldið verði að bjóða út orkuvinnsluleyfi þessara vatnsréttinda á opnum markaði EES.  Útboðið skal aðlaga að þörfum einkafjárfesta, t.d. skal gildistími vinnsluleyfis vera aðeins 30 ár, en einkafjárfestar vilja endurheimta fjárfestingu sína ásamt öllum kostnaði innan þessara tímamarka.  Þetta eitt út af fyrir sig þýðir óhjákvæmilega hækkun raforkuverðs til almennings og getur grafið alvarlega undan gildandi langtímasamningum um raforkusölu án tillits til sæstrengs.

Þegar ESA mun krefjast þessa sama hérlendis, mun krafan einnig spanna útboð vinnsluleyfa jarðgufusvæða til raforkuvinnslu, og er frá líður (OP#4-5) einnig lághitasvæði fyrir húshitun.  Ætlunin er að ræna landsmenn um hábjartan dag.  Viðskipti með orkuauðlindir í eigu hins opinbera (ríkis & sveitarfélaga) munu þá fara fram sem viðskipti með nýtingarleyfi.  Yfirvöld landsins stefna nú málefnum landsmanna í algert óefni.  Orsakir þess eru ekki aðalatriðið, afleiðingarnar eru aðalatriðið, og þær verða stórskert lífskjör landsmanna. Þetta verður gott fóður í næstu kosningabaráttu, ef stjórnarflokkarnir vaða út í foraðið. 

ESA hóf þetta ferli gagnvart Íslandi með bréfi til ríkisstjórnarinnar 20. apríl 2016.  Þann dag kvað þessi Eftirlitsstofnun EFTA, sem speglar Framkvæmdastjórnina EFTA-megin í EES-samstarfinu, upp eftirfarandi úrskurð:

"Ísland þarf að breyta lögum til að tryggja, að orkufyrirtæki, sem nýta auðlindir í almannaeigu til raforkuframleiðslu, greiði ávallt markaðsverð fyrir slíka nýtingu."

 Hið skrýtna er, að ríkisstjórnin þumbast við að svara þessu grafalvarlega bréfi, líklega af ótta um afdrif OP#3 á þingi, en norski orku- og olíuráðherrann svaraði snöfurmannlega slíku bréfi á 5 vikum og stóð uppi í hárinu á ESA.  Ekkert slíkt hvarlar að heimóttarlegum íslenzkum ráðamönnum, sem hræðast átök við pappírstígrisdýrið, sem ruggað getur hinum heilaga Graal, EES-samninginum. 

Eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans í íslenzka löggjöf mun slíkt markaðsverð ráðast af aðstæðum á Innri markaði ESB, en ekki á þeim alþjóðlegu orkumörkuðum, þar sem íslenzk orkufyrirtæki hafa í meira en hálfa öld verið í samkeppni um orkusækna raforkukaupendur. Á þeim mörkuðum er mikið tillit tekið til fjarlægða orkubirgis frá hráefna- og afurðamörkuðum.  Langtímasamningar hérlendis um raforkusölu verða augljóslega í uppnámi með þessu fyrirkomulagi, því að virkjanir, sem þeir eru reistir á, munu skipta um eigendur, og nýir eigendur munu heimta endurskoðun raforkusamninga til að gera viðskipti sín með nýtingarleyfi arðsöm. 

Ekki er vafi á, að nýir virkjanaeigendur munu leita liðsinnis ESA, enda mun allur Evrópumarkaðurinn standa þeim opinn, þegar búið verður að dæma fyrirvara ríkisstjórnarinnar um hömlur á völd Landsregara óleyfilega með vísun til dóms ESB-dómstólsins vegna rangrar innleiðingar OP#3 í landsrétt Belgíu.  Með þessu móti munu Íslendingar ekki aðeins missa forræði yfir orkulindum sínum, heldur mun vinnan og verðmætasköpunin, sem raforkunýtingin skapaði ásamt hagnaði raforkuvinnslunnar, hverfa úr landi.  Þá er ljóst, að uppsögn EES-samningsins verður eina úrræðið til að forða efnahagslífinu frá stórfelldu tjóni. Norðmenn munu vafalítið komast að sömu niðurstöðu af norska svarbréfinu frá 5. júní 2019 að dæma. 

  Augljóslega er hér flotið sofandi að feigðarósi í íslenzka stjórnarráðinu og við blasir, að affarasælast er til að forða stórfelldum vandræðum, að Alþingi neiti að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara og leitað verði eftir undanþágum í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Ekki veldur sá, er varir. Hitt vekur furðu, hvers vegna flestir flokkanna, þ.á.m. píratarnir, hafa lagzt gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, en hún myndi án nokkurs vafa skera á hnútinn.  Málið hefur leitt í ljós, að píratar eru ekki (lengur) uppreisnarflokkur gegn ríkjandi kerfi, heldur eru orðnir samdauna því og hafa lagzt upp að hlið Samfylkingarinnar.  Það gæti orðið banvænt faðmlag fyrir þá. 

 

 


Erfðasilfrið í hendur ESB um embætti Landsreglarans

Samkvæmt rafmagnstilskipun Orkupakka #4, OP#4, gr. 51.1, verður Landsreglarinn einráður orkustjórnandi á Íslandi.  Aðrir hlutar greinar 51 leiða óyggjandi í ljós, hver stjórnar Landsreglaranum.  Í hverri greininni á fætur annarri er tryggilega bundið um hnútana, að Landsreglarinn, allir starfsmenn hans, stjórn embættisins og kvörtunarnefnd vegna gjörða hans, verða fullkomlega óháð pólitískum  yfirvöldum á Íslandi, einnig fjárhagslega.

Landsreglaranum ber samkvæmt grein 58:

  • að koma á innri ESB-markaði fyrir rafmagn í nánu samstarfi við önnur aðildarlönd, ACER og framkvæmdastjórn ESB
  • að þróa svæðisbundinn raforkumarkað á milli landa
  • að fjarlægja tálmanir úr vegi raforkuviðskipta á milli landa, t.d. með eflingu flutningsmannvirkja á milli landa
  • að fjarlægja hindranir í vegi nýrra virkjana endurnýjanlegra orkulinda.

Með OP#4 er undirstrikað hlutverk Landsreglarans við að koma á markaðskerfi fyrir raforku, sem falli vel að kerfum nágrannalandanna.  Hérlendis þýðir þetta fortakslaust stofnun orkukauphallar með "augnabliksverði" á raforkunni, sem fram kemur á snjallmæli hjá hverjum raforkuviðskiptavini, sem samþykkir uppsetningu slíks mælis hjá sér.  Slík snjallmælavæðing á Íslandi kostar allt að mrdISK 10, mun hækka dreifingarkostnaðinn, sem er ærinn fyrir, og verður mjög lengi að borga sig upp hérlendis. Snjallmælar eiga við í löndum, þar sem framboð raforku er sveiflukennt og álagið tiltölulega breytilegt eftir tíma sólarhringsins, eftir dögum og eftir árstíðum.         Sýnt hefur verið fram á, að eðli íslenzka raforkumarkaðarins leiði líklegast til hækkunar á meðalverði raforku til almennings við þessa gerð markaðsvæðingar, af því að nauðsynleg miðlæg auðlindastýring verður bönnuð.  Hvers konar inngrip að hálfu ríkisvaldsins í þennan frjálsa markað verður óleyfilegt, og mun Landsreglarinn hafa eftirlit með því. 

Hvers konar niðurgreiðslur á orkuverði og gjaldskrám flutnings- og dreififyrirtækja stríða gegn þessu kerfi.  Það verður engin leið að styðja við innlend framleiðslufyrirtæki vegna hás dreifingarkostnaðar, því að slíkt skekkir samkeppnisstöðu við erlenda framleiðendur, þótt þeir búi við aðrar og hagsfelldari aðstæður.  Þetta kerfi þjónar ekki íslenzkum hagsmunum á nokkurn hátt, enda er það alls ekki sniðið við íslenzkar aðstæður, sem hvergi annars staðar í Evrópu er að finna.  Yfirvöld sýna af sér dómgreindarleysi og óvitaskap með því að ætla að innleiða OP#3 (og síðar væntanlega OP#4) án nauðsynlegra aðlögunarsamninga við ESB, sem þau hafa ekki haft vit á að fara fram á, t.d. um miðlæga auðlindastýringu.

Svíar hafa nú áratugsreynslu af Landsreglara, og hún er skelfileg fyrir sænska raforkukaupendur, því að dreifingarkostnaðurinn vegna hárra arðsemiskrafna Landsreglarans hefur hækkað um 55 %.  Sænskur ráðherra reynir að vinda ofan of þessu, en þá slær Framkvæmdastjórnin á puttana á honum.  Viljum við innleiða þennan ESB-sirkus á Íslandi ?

Allar lagalegar hindranir í vegi millilandatenginga verða brotnar á bak aftur, og engar óeðlilegar tafir á hvers konar leyfisveitingum verða liðnar.  Þetta á líka við um nýjar virkjanir af öllu tagi.  Standi vilji Evrópusambandsins til þess, verða ráðin gjörsamlega tekin af landsmönnum með OP#4, frá virkjun til sæstrengs.  Eftir samþykki OP#4, hefur ESB töglin og hagldirnar í raforkumálum landsmanna.  Þessa vegferð er öruggast að stoppa við OP#3.  

Lítum nú á fleiri uggvænlegar greinar OP#4, sem lýsa inn í hugmyndaheim höfunda orkupakkanna og eru víti til varnaðar við ákvarðanatöku um OP#3:

Samkvæmt grein 59.1 ber landsreglaranum:

  • að ákvarða gjaldskrár flutnings- og dreififyrirtækjanna
  • að sjá til þess, að Landsnet og dreifiveiturnar fari eftir þessari tilskipun (rafmagnstilskipun OP#4), netskilmálum og reglum, sem framkvæmdastjórn ESB setur og Evrópuréttur tilgreinir - að meðtöldum málefnum orkuflutninga á milli landa - og samþykktum ACER.
  • að sjá til þess, að Landsnet komi sér upp mannvirkjum, sem duga til flytja þá orku til og frá millilandasæstrengjum, sem markaðurinn biður um
  • að rýna og gefa skýrslu um það, hvort fjárfestingaráætlun Landsnets sé í samræmi við kerfisþróunaráætlun ESB.

Hér er ekki skafið utan af því, heldur er því lýst skilmerkilega, að Landsreglarinn, algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum, verður æðsta yfirvald orkumála á Íslandi.  Eitt aðalhlutverka hans verður að framfylgja ákvörðunum Evrópusambandsins, en hvorki íslenzku ríkisstjórnarinnar né Alþingis, um millilandatengingar og framfylgja því í krafti Evrópuréttar, að reist verði hérlendis mannvirki með flutningsgetu í samræmi við flutningsgetu þeirra sæstrengja, sem fjárfestum þóknast að leggja hingað að uppfylltum skilyrðum Evrópusambandsins. 

Markaðurinn á hins vegar að sjá um að reisa nýjar virkjanir, vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir ásamt vindrafstöðvum.  Umhverfisvernd víkur fyrir Evrópurétti, þar sem allt verður undan að láta í baráttunni við loftslagsvána.  

KOMIST LANDSREGLARINN AÐ ÞVÍ, AÐ TAFIR VERÐI VIÐ VERKEFNI, SEM VARÐA MILLILANDATENGINGAR, OG EF MÁLIÐ ER ÓLEYST EFTIR 4 MÁNUÐI, Á LANDSREGLARI AÐ GEFA SKÝRSLU UM ÞAÐ TIL ACER, OG ACER TEKUR ÁKVÖRÐUN UM MÁLIÐ Í FRAMHALDINU.

Hér sjá menn skriftina á veggnum.  Það verður engum vettlingatökum beitt, ef skipulagsyfirvöld í landinu ætla að draga lappirnar eða að leggja stein í götu leyfirveitinga fyrir mannvirki til orkuflutninga að sæstreng, sem flytja á orku inn á innri raforkumarkað ESB.  Hér er ekkert gamanmál á ferðinni, heldur grímulaus valdataka Evrópusambandsins á Íslandi, ef Alþingi glepst á að samþykkja þessi ósköp, sem OP#3 og OP#4 eru.  Er nema von, að Viðreisn hamist við að fá Orkupakka #3 samþykktan ?  Sovét-Ísland, hvenær kemur þú, var einu sinni sungið.

Í viðhengi með þessum pistli er handhægt minnisblað um rafmagnstilskipun Orkupakka #4. 

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aukin fjárfestingarþörf í raforkukerfinu með OP#3

Norðmenn sjá fram á mjög auknar fjárfestingar í raforkukerfi sínu, ef/þegar Orkupakki #3 tekur gildi í landi þeirra.  Þetta er óháð því, hvort Statnett, norska Landsnet, heldur einokunarstöðu sinni á sviði millilandatenginga, eins og meirihluti Stórþingsins vill og er einn af átta fyrirvörum Norðmanna við OP#3, en þessir fyrirvarar eru í uppnámi, og norska ríkisstjórnin hefur enn ekki staðið við 15 mánaða loforð sitt um að binda norsku fyrirvarana 8 í norsk lög, enda eru slíkir einhliða fyrirvarar gagnslausir og beinlínis skaðlegir fyrir samstarfið við Evrópusambandið, ESB.

Það er bull úr hvofti íslenzka utanríkisráðherrans, að ekkert bendi til annars en norsku fyrirvararnir hafi fullt gildi gagnvart ESB.  Þessu er þveröfugt farið og rétt ein innistæðulausa fullyrðingin úr þeim hvofti.  ESB hefur enn ekki gefið nokkurn skapaðan hlut út á bréf norsku ríkisstjórnarinnar með fyrirvörunum 8.  Þeir eru þess vegna púðurtunna í norskum stjórnmálum, sem eldur verður væntanlega borinn að með haustinu.

  Það eru alls ekki öll kurl komin til grafar í Noregi út af OP#3, og hin pólitísku átök munu verða enn harðari út af OP#4, af því að Alþýðusamband Noregs hefur nú tekið upp skelegga afstöðu gegn OP#3 og Verkamannaflokkurinn fylgir í humátt á eftir. Ofan á þetta bætast miklar raforkuverðshækkanir í Noregi, þar sem meðalverð fyrsta ársfjórðungs í ár er 30 % hærra en meðalverð sama tímabils í fyrra (2018). Hækkanirnar eru aðallega raktar til útflutnings raforku, sem óhjákvæmilega þrýsta upp raforkuverðinu innanlands upp undir erlenda verðið. 

Norska orkustofnunin, NVE, hefur upplýst um fjárfestingaráætlun næstu 20 ára fyrir flutningskerfi raforku.  Það er gríðarleg aukning fjárfestinga á döfinni, sem rekja má til áforma um vaxandi raforkuútflutning, sem ESB hvetur mjög til og hefur búið til kerfi með Þriðja orkupakkanum til að liðka fyrir.  Raunar veitir OP#3 millilandaviðskiptum með rafmagn lagalegan forgang, og þau eru niðurgreidd með styrkveitingum.  Þá ber flutningsfyrirtækjum rafmagns, Landsneti á Íslandi og Statnett í Noregi, að styrkja flutningskerfi sín, svo að þau anni þeim orkuflutningum, sem millilandatengingarnar kalla á.

  Landsreglari í hverju ríki á að hafa eftirlit með því og fylgja því eftir, að Kerfisáætlun hvers lands sé aðlöguð Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem millilandatengiverkefni eru tilgreind.  Þar eru t.d. "Ice-Link" á milli Íslands og Skotlands og "NorthConnect" á milli Noregs og Skotlands, og þessi 2 verkefni eru bæði á PCI-skrá ESB um styrkhæf verkefni. 

Ef Alþingi samþykkir OP#3, þá mun ESB líklega hundsa spangól utanríkisráðherra Íslands um að taka "Ice-Link" af þessum lista.  Utanríkisráðherra skilur ekki, hvað OP#3 felur í sér.  Hann hefur sett upp einfeldningslegan fyrirvara, sem enginn vandi verður fyrir ESA og/eða sæstrengsfjárfesta að brjóta á bak aftur, Íslandi til mikillar hneisu og ómælds fjárhagstjóns.  Þessi utanríkisráðherra stefnir EES-samstarfinu í stórhættu með kjánalátum, og hann setur stjórnmálalega stöðu Sjálfstæðisflokksins í uppnám.  Hann hefur sýnt algera vöntun á pólitískri leiðtogahæfni til að leiða þetta orkupakkamál til farsælla lykta.  Ekki hefur iðnaðarráðherra bætt sjáanlega úr skák, en aftur á móti hefur fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, fitjað upp á áhugaverðri stefnumörkun í málinu, s.s. að leita eftir undanþágu við ESB fyrir Ísland um alla orkupakkana.

Fjárfestingaráætlun NVE fyrir tímabilið 2020-2040 hljóðar upp á mrdNOK 140.  Sé þessari upphæð varpað yfir á íslenzkar aðstæður og notað hlutfall orkuvinnslu landanna tveggja (7), þá fæst upphæðin 14 mrdISK/ár.  Þetta er u.þ.b. þreföld fjárfestingarupphæð Landsnets 2018, sem gefur til kynna gríðarlega fjárfestingarþörf Statnetts vegna millilandatenginga, bæði í sæstrengjum og í flutningsmannvirkjum frá stofnrafkerfinu og að landtökustöðum sæstrengjanna.

Kostnaður við innanlandskerfið lendir alfarið á raforkunotendum innanlands.  Miðað við gríðarlega fjárfestingarþörf í íslenzka flutningskerfinu, þótt Landsnet taki ekki þátt í sæstrengsfjármögnuninni sjálfri, má búast við tvöföldun flutningsgjaldsins.  Í Noregi er búizt við, að breytingar Landsreglarans á gjaldskráruppbyggingunni leiði til tvö-þreföldunar á  flutningsgjaldi fyrir orkukræfan iðnað. Gerist eitthvað svipað á Íslandi, gæti það orðið rothögg á einhver fyrirtæki í þessum geira og virkað afar hamlandi á raforkusölu til nýrra viðskiptavina, t.d. gagnavera, nema orkuvinnslufyrirtækin taki óbeint á sig hækkunina með því að lækka verð orkunnar frá virkjun. 


Um valdmörk ACER

Í álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) er áhugaverð umfjöllun um valdmörk ACER (Orkustofnunar ESB) á Íslandi eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, OP#3.  Þessi valdmörk hafa mikla þýðingu, því að þau kunna að ógna tveggja stoða grundvelli EES-samstarfsins og þar með að vera brotleg við Stjórnarskrá Íslands.   

Lögfræðingar ýmsir hérlendir og fleiri, sem vildu innleiða Orkupakka #3 (OP#3) skilmálalaust áður en fráleit þingsályktunartillaga utanríkisráðherra sá dagsins ljós, hafa fullyrt með þjósti, að rangt sé, að ACER muni fara með valdheimildir á orkusviði hérlendis.  Þar með hafa þeir sýnt, hversu lítið vit þeir hafa á þessu máli, ef marka má eftirfarandi tilvitnun í gr. 4.3.1 í álitsgerð ofangreindra lögspekinga:

"Þrátt fyrir að valdið sé þannig formlega hjá ESA, er ljóst, að ACER mun hafa mikið að segja um efni ákvarðana, sem ESA tekur á grundvelli reglugerðarinnar [713/2009], enda semur ACER drög að ákvörðunum og leggur þau fyrir ESA.  Það má því velta fyrir sér, hvort ákvörðunarvaldið sé í raun hjá ACER, og að hlutverk ESA sé aðallega formlegs eðlis í því skyni, að fyrirkomulag reglugerðarinnar samræmist betur tveggja stoða kerfinu.  Færa má rök fyrir því, að í raun sé ákvörðunarvaldið að hluta til framselt stofnun, sem heyrir undir Evrópusambandið og stendur utan EFTA-stoðarinnar, þ.e. ACER.  Í þessu ljósi má leggja til grundvallar, að gera verði enn ríkari kröfur en ella til þess, að valdframsalið, sem felst í 8. gr. reglugerðar nr 713/2009, standist þær stjórnskipulegu viðmiðanir, sem áður hafa verið raktar, m.a. varðandi tveggja stoða kerfi EES-samningsins, sbr einkum kafla 4.2.2 og 4.2.3 hér að framan."

Þau stjórnskipulegu vafaatriði, sem þarna eru nefnd, eru fóður inn í þá réttaróvissu, sem skapast á Íslandi, ef þingsályktunartillaga utanríkisráðherra verður samþykkt.  Til viðbótar vafanum með tveggja stoða kerfið og húsbóndavald ACER yfir ESA í orkumálum kemur, að samkvæmt gerð nr 713/2009 tekur ACER lagalega skuldbindandi ákvarðanir fyrir aðildarríkin á sviði millilandatenginga. Þetta vald er óháð því, hvort aflsæstrengur er fyrir hendi eða ekki, þegar innleiðing OP#3 á sér stað.  Um þetta skrifa FÁFH og SMS í gr. 4.3.1:

"Framangreint breytir þó ekki því meginatriði, sem áður var gerð grein fyrir, að drög að ákvörðunum eru í grunninn samin af ACER og að áhrif ACER á efni ákvarðana ESA hljóta því að vera veruleg.  Virðist þannig gert ráð fyrir því, að stefnumótun varðandi efni og framkvæmd umræddra ákvæða reglugerðar nr 713/2009 muni einkum fara fram á vettvangi ACER, þrátt fyrir að ESA eigi vissulega aðkomu að því ferli og geti haft áhrif á það með þeim hætti, sem að framan greinir."

Það, sem gerir málið alvarlegt og eykur líkur á málarekstri, þar sem íslenzka ríkið stendur á veikum grunni með líklegt Stjórnarskrárbrot fólgið í innleiðingu Þriðja orkulagabálksins áður en stjórnlagalega vafamálið með 713/2009 er leitt til lykta, er, að almannahagsmunir, einstaklingar og lögaðilar, eiga í hlut.  Ríkisstjórnin veður vitandi vits út í lögfræðilegt kviksyndi með því að biðja Alþingi að innleiða Þriðja orkupakkann:

"Þótt ákvarðanir ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar beinist að forminu til að eftirlitsyfirvöldum hér á landi (s.s. Orkustofnun), þá breytir það því ekki, að þær geta jafnframt haft áhrif á hagsmuni einstaklinga og lögaðila, bæði þá sem stunda raforkustarfsemi og notendur raforkukerfisins (auk þess að hafa einnig áhrif á almannahagsmuni, tengda nýtingu raforkukerfisins) [t.d. ákvörðun gjaldskráa Landsnets og dreifiveitnanna-aths. BJo].  Það er einkum tvennt, sem tekur af skarið um, að umræddar ákvarðanir muni hafa þessi áhrif.  Í fyrsta lagi eru þær teknar á grundvelli reglugerðar, en þær eru bindandi í sérhverju tilliti og fá lagagildi í öllum aðildarríkjum ESB samtímis. Í öðru lagi er sérstaklega kveðið á um það í fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, að EFTA-ríkin eða hvaða einstaklingur eða lögpersóna sem er geti hafið málarekstur gegn ESA fyrir EFTA-dómstólnum í samræmi við 36. og 37. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.  Þar með er því slegið föstu, að einstaklingar og lögpersónur geti átt aðild að umræddum ákvörðunum ESA á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr 713/2009."

Vegna þess að innleiðing Þriðja orkulagabálksins hvílir á veikum lögfræðilegum grunni, þar sem FÁFH & SMS hafa dregið stórlega í efa, að tveggja stoða fyrirkomulagið sé raunverulegt í tilviki ACER, er líklegt, að málaferli muni rísa út af störfum Landsreglarans, sem óhjákvæmilega mun varða hag margra, reyndar alls landslýðs, þar sem Landsreglarinn mun t.d. fá það hlutverk að staðfesta gjaldskrár Landsnets og dreifiveitnanna.  Við dómsuppkvaðningu mun fást úr því skorið, hvort valdframsalið til ACER stenzt Stjórnarskrá.

Ef umsókn berst til Orkustofnunar frá sæstrengsfjárfesti um leyfi til að leggja Ice-Link sæstrenginn á grundvelli Kerfisþróunaráætlunar ESB og hún hafnar umsókn á grundvelli banns Alþingis við lagningu aflsæstrengja á milli Íslands og útlanda, þá rís vafalaust upp deilumál á milli ESB/ESA og Íslands, þar sem lagaleg staða Íslands verður veik, vegna þess að innleiðing Þriðja orkupakkans brýtur í bága við EES-samninginn, kafla 7.  

Hinn möguleikinn er líka fyrir hendi, að sæstrengsfjárfestir sæki sitt mál vegna höfnunarinnar til íslenzks dómstóls, sem mun þá líklega æskja álitsgerðar frá EFTA-dómstólinum um EES-réttarfarsleg efni. Brot íslenzka ríkisins á skuldbindingum sínum að EES-rétti getur leitt til skaðabótaábyrgðar ríkisins gagnvart lögaðilum og einkaaðilum, sem telja sig hafa orðið fyrir fjárhagstapi af völdum banns Alþingis á lagningu sæstrengs.  Þetta tap getur numið tekjum af flutningi rafmagns á tilteknu tímabili og skaðabótaábyrgðin eitthvert hlutfall af þessum tekjum.  Þessi upphæð getur fljótt orðið mjög tilfinnanleg fyrir íslenzka ríkið.  Það er algerlega óverjandi, að Alþingismenn stofni fjárhag íslenzka ríkissjóðsins í stórhættu með því óþarfa glæfraspili að innleiða Þriðja orkupakkann með þeim hætti, sem utanríkisráðherrann leggur til.

Óbeizluð orka 

 

 


Eignarhald og ráðstöfunarréttur orkulindanna í húfi

Bornar hafa verið brigður á, að eignarréttur og ráðstöfunarréttur orkulindanna sé í húfi með samþykki Alþingis á þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara á ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn.  Hins vegar tekur álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH)og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) frá 19. marz 2019 til utanríkisráðuneytisins af öll tvímæli um, að orkulöggjöf Evrópusambandsins leyfir lagasetningu um eignarrétt og ráðstöfunarrétt orkulinda og að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er þessarar gerðar.  

Af þessum ástæðum getum við aldrei orðið aðilar að Evrópusambandinu, ESB, án stórfellds hnekkis, alveg eins og á við um fiskveiðilögsögu landsins og aðildina að ESB.  Með samþykkt Þriðja orkupakkans er verið að þrýsta Íslendingum í banvænan náðarfaðm ESB.  Að íslenzkir stjórnmálaflokkar, sem hafa á stefnuskrá sinni andstöðu við ESB-aðild, skuli standa að þessu feigðarflani, segir sína sögu um þá Trójuhesta, sem eru á meðal vor og sitja að svikráðum fyrir pokaskjatta, fulla af gulli.  Það er gamla sagan.  

Sumir íslenzkir lögfræðingar hafa gerzt furðu heimóttarlegir að leggja sig í framkróka við að sýna fram á, að Þriðji orkupakkinn breyti í raun engu fyrir Íslendinga, sízt af öllu um eignarhald auðlindanna og hafa þá vitnað til kafla 125 í EES-samninginum.  FÁFH og SMS sýna hins vegar fram á í álitsgerð sinni, að dómaframkvæmd getur stungið í stúf við texta EES-samningsins vegna fjórfrelsisins, sem skal ganga fyrir öðrum ákvæðum:

"Í dóminum [Heimfallsdómi EFTA-dómstólsins gegn norska ríkinu] segir, að sá greinarmunur, sem gerður er í  norskri löggjöf á opinberum aðilum annars vegar og einkaaðilum og erlendum aðilum hins vegar, hafi neikvæð áhrif á fjárfestingu síðari hópsins og feli í sér óbeina mismunun, sem hindri bæði frjálst flæði fjármagns og stofnsetningarréttinn.  Ástæðan sé sú, að þessir aðilar hafi styttri tíma til að fá arð af fjárfestingu sinni en opinberir aðilar."

Þetta mál sýnir, að sitt er hvað lagatexti og dómaframkvæmd EFTA-ESB-dómstólsins.  Í þessu tilviki víkur norsk löggjöf, sem átti að tryggja, að vatnsréttindi og virkjanir féllu til ríkisins að tilgreindum tíma liðnum, 50-80 ár, fyrir fjórfrelsi Innri markaðarins um frjálst flæði fjármagns og áskilda jafnstöðu fjárfesta innan EES. Allar hérlendar tilraunir til að hamla kaupum útlendinga á vatnsréttindum, virkjunum og fyrirtækjum til sölu í raforkugeiranum, yrðu væntanlega kærðar fyrir ESA og EFTA-dómstólnum, og öll innlend löggjöf í þeim efnum viki fyrir Evrópurétti um frjálst flæði fjármagns innan EES, sbr Heimfallsdóminn.

Í álitsgerð FÁFH & SMS er komizt að þeirri niðurstöðu, að það samræmist ekki Stjórnarskrá Íslands, að innleiða 8. gr. reglugerðar 713/2009, "þar sem ACER er veitt heimild til að taka lagalega bindandi ákvarðanir varðandi grunnvirki yfir landamæri, en sem fyrr segir er ráðgert, að ESA muni fara með þær valdheimildir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum." [gr. 3.1]  

Nú hefur utanríkisráðherra lagt til leið til að sigla framhjá þessari niðurstöðu lögfræðinganna með því að taka allan Orkupakka #3 upp í íslenzkan landsrétt og setja síðan í lög undanþáguákvæði, sem reist er á núverandi stöðu samtengingar raforkukerfisins við útlönd, sem er sú, að samtenging er ekki fyrir hendi.  Lögin eiga að afnema reglugerð 713/2009 úr íslenzkum rétti, þangað til Alþingi heimili lagningu aflsæstrengs til landsins og búið verði að leysa úr Stjórnarskrárvandanum.  Utanríkisráðherra heldur því fram, að þetta sé tillaga téðra lögfræðinga.  Það er alrangt og reyndar gróf aðför að faglegum heiðri mætra manna, sem skilað hafa af sér góðu verki ("Álitsgerð").  Til að sýna fram á þessa fullyrðingu, er í raun nóg að vitna í gr. 4.1 í álitsgerðinni:

"Það breytir því þó ekki, að þriðji orkupakkinn verður ekki tekinn upp í íslenzkan landsrétt nú, nema hann standist stjórnarskrána.  Verður ákvörðun Alþingis um, hvort aflétta eigi stjórnskipulegum fyrirvara Íslands við þriðja orkupakkann og innleiða hann í íslenzkan landsrétt að miðast við þá forsendu, að grunnvirkjum yfir landamæri verði komið á fót hér á landi, en við þær aðstæður myndi reyna á umrætt valdframsal til ESA, einkum samkvæmt reglugerð 713/2009."

Utanríkisráðherra fer öfugt að; hann leggur til, að stjórnarskrárvandanum verði sópað undir teppið.  Síðan stingur hann hausnum í sandinn og hundsar algerlega hinn gríðarlega "galla" við þessa lögfræðilegu moðsuðu utanríkisráðherrans, sem fram kemur í álitsgerðinni, gr. 6.4, að aflétti Alþingi stjórnskipulegum fyrirvara af Þriðja orkupakkanum, "þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt".

Hvað þýðir þetta ?  Það þýðir einfaldlega, að komi vink frá ESA um þennan fordæmalausa málatilbúnað í EES-samstarfinu, þá falla hin lögfræðilegu Pótemkíntjöld og við blasir landsréttur með Þriðja orkupakkann í heild sinni innanborðs og Stjórnarskráin, sem liggur óbætt hjá garði.  Þeir Alþingismenn, sem ekki sjá hættuna, sem í þessu felst, eiga uppgjör skilið í aðdraganda næstu þingkosninga og uppsögn, verði þeir áfram í framboði.

 

 

 

 

 

 


Evran tvítug

Þann 1. janúar 1999 kom sameiginleg mynt Evrópusambandsins, ESB, í heiminn.  Hún virtist eiga efnilega bernsku sinn fyrsta áratug og geta keppt við bandaríkjadal sem heimsviðskiptamynt, en þá urðu reyndar atburðir, sem áttu eftir að reynast henni fjötur um fót, og hún verður vart nokkru sinni jafnoki dalsins úr þessu. 

Þjóðum, sem ekki fullnægðu Maastricht-skilmálunum um inngöngu í myntbandalagið, var hleypt inn bakdyramegin af pólitískum ástæðum, og hafa þær veikt myntina mikið.  Þetta voru Miðjarðarhafsþjóðirnar, Grikkir, Ítalir, Spánverjar og Portúgalir. Talið er, að þýzka markið, DEM, væri a.m.k. 30 % sterkara en evran í bandaríkjadölum talið, ef markið væri enn á dögum. Þetta skýrir hinn gríðarlega kraft í þýzku útflutningsvélinni.

Aðstandendur evrunnar, Frakkar og Þjóðverjar, eru ekki búnir að bíta úr nálinni með hið hagfræðilega fúsk, sem átti sér stað á bernskuárum evrunnar.  Það er staðreynd, að hagkerfi, sem binda trúss sitt við fjarlæga seðlabanka, verða oftar fórnarlömb peningalegrar kreppu en hin.  Milton Friedman spáði endalokum evrunnar í fyrstu kreppunni, sem hún yrði fyrir.  Það gerðist þó ekki, en þá gerðu stjórnendur ESB og ECB (Seðlabanka ESB) mistök, sem evran líður enn fyrir og verður e.t.v. banabiti hennar.

  Í úrtakskönnunum segja tæplega 30 % íbúa evrusvæðisins, að evran hafi slæm áhrif á hagkerfi heimalands síns.  Hvað skyldi stórt hlutfall Íslendinga telja ISK hafa slæm áhrif á hagkerfi þeirra ?  Aftur á móti segja 75 % íbúa evrusvæðisins, að evran sé góð fyrir samheldnina í ESB.  Ekki varð sú reyndin með Breta, sem eru á útleið, enda komst ríkisstjórn Bretlands að þeirri niðurstöðu á fyrsta áratug aldarinnar, gegn skoðun Tonys Blair, að of áhættusamt yrði Bretum að fórna sterlingspundinu fyrir evru, því að of mikil misleitni væri í þróun brezka og evru-hagkerfisins.

Helmut Kohl, þáverandi kanzlari Vestur-Þýzkalands, fórnaði DEM fyrir samþykki Mitterands, þáverandi forseta Frakklands, á endursameiningu Þýzkalands.  "Die Bundesbank" var á móti, en "Bundestag", Sambandsþingið, samþykkti.  Frakkar eiga í mesta basli við að standast Maastricht-skilmálana, og halli ríkissjóðs miðstýrðasta ríkis Evrópu mun sennilega fara yfir mörkin, 3 % af VLF, á árinu 2019.  Frakkar eru nú sjálfir komnir í þá spennitreyju, sem þeir ætluðu að færa Þjóðverja í.

Það hefur verið lítill hagvöxtur í ESB eftir hrun peningamarkaðanna 2007-2008.  Sum ríki evrusvæðisins fóru hræðilega illa út úr þessu hruni vegna viðbragða framkvæmdastjórnar ESB o.fl., sem tóku meira mið af hagsmunum þeirra, sem hafa efni á að hanga í Berlaymont og reka þar áróður fyrir sínum hagsmunum, en almennings í evru-löndunum.  Þetta er skýringin á vaxandi lýðhylli þjóðræknistefnu í Evrópu og vantrú á bákninu, afætunum, sem unga út reglugerðum og tilskipunum, í Brüssel.

Hagur almennings á Ítalíu hefur ekkert skánað síðan árið 1999.  Þar hefur ríkt stöðnun, og opinberar skuldir aukizt eftir upptöku evrunnar. Núverandi ríkisstjórn Ítalíu ætlaði að örva hagkerfið með ríkisútgjöldum, sem hleypa myndi ríkissjóðshallanum yfir 3 % af VLF, en var gerð afturreka með fjárlagafrumvarpið af búrókrötunum í Brüssel.

Spánn og Írland njóta nú hagvaxtar eftir kerfisbreytingar hjá sér, en máttu þola langt stöðnunartímabil vegna gríðarlegrar skuldayfirtöku ríkisins frá bankakerfinu að kröfu Framkvæmdastjórnarinnar.  Atvinnuleysi ungs fólks á Spáni er nú 35 %, sem vitnar um skelfilegt þjóðfélagsástand. Launahækkanir hafa nánast engar verið á evrusvæðinu frá 2008.  Hvers vegna krefjast verkalýðsfélögin þar ekki launahækkana ?  Það ætti að verða íslenzkum verkalýðsleiðtogum verðugt umhugsunarefni.  

Írland nýtur sérstöðu, því að bandarísk fyrirtæki hafa fjárfest gríðarlega þar, enda njóta þau skattalegs hagræðis á Írlandi, þar sem er aðeins 12 % tekjuskattur á fyrirtæki.  Þessi fyrirtæki öðlast auðvitað tollfrjálst aðgengi að EES-markaðinum, hvað sem tollastríði Bandaríkjaforseta við ESB líður.

Verstu mistök ESB í peningamálum voru 2010, er Framkvæmdastjórnin neitaði að viðurkenna, að gríska ríkið gæti aldrei greitt allar skuldir sínar.  Þar opinberaðist hið vanheilaga samband búrókratanna í Brüssel og fjármálavafstrara Evrópu.  Í stað þess að afskrifa a.m.k. helming skulda gríska ríkisins, þá voru þær fluttar frá þýzkum og frönskum bönkum o.fl. og til opinberra sjóða.  Þar með voru skattborgarar lánveitendaríkjanna gerðir ábyrgir fyrir skuldum eins skuldararíkjanna.  Þetta er eitur í beinum sparnaðarsinnaðra skattborgara og mun óhjákvæmilega leiða til gliðnunar í evrusamstarfinu, hvað sem líður Aachen-samningi forseta Frakklands og kanzlara Þýzkalands.  Ríki Karlamagnúsar sundraðist fljótt, og aðeins kirkjan sameinaði Evrópu um tíma, en hún sundraðist líka.  Þjóðverjar þoldu ekki við undir oki Rómar.  

Þegar alvarleg fjármálakreppa ríður yfir næst, mun reyna mjög á greiðsluþol skuldugu ríkjanna vegna vaxtahækkana, sem alltaf verða gagnvart illa stæðum ríkjum við slíkar aðstæður.  Hvorki evrubankinn né lánadrottnarnir munu hafa bolmagn til að hindra skuldugu ríkin á evru-svæðinu í að fara á hliðina.  Evran verður auðvitað ekki söm eftir.  Myntsvæðum Evrópu gæti fjölgað.  Óvíst er, hvað um Evrópusambandið verður í kjölfarið. Munu Bretar enn einu sinni standa eftir með pálmann í höndunum ?

 

 

 

 

 


Friðunarárátta úr böndunum

Ef beita á náttúrufriðunarvaldinu til að stöðva virkjunaráform, sem hlotið hafa blessun Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda, hafa fengið samþykki Alþingis og Skipulagsstofnunar, sem skrifað hefur upp á með skilyrðum, þá jafngildir það því að slíta í sundur það friðarferli, sem stjórnvöld landsins hafa reynt að mynda um auðlindanýtingu á landi. 

Það er alveg dæmalaust, að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli ljá máls á tillögu Náttúrustofnunar Íslands frá 25. júní 2018 um friðlýsingu á væntanlegu athafna- og nýtingarsvæði Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði.  Um er að ræða stækkun friðlandsins á Hornströndum til suðurs, um 1281 km2 svæði suður um Ófeigsfjarðarheiði.  

Það er ósvífni að hálfu ríkisstofnunar og ólýðræðislegt í hæsta máta af Náttúrustofnun að leggja það til, að ríkið grípi fram fyrir hendur heimamanna, Vestfirðinga og íbúa í Árneshreppi sérstaklega, sem unnið hafa í mörg ár samkvæmt lögskipuðum ferlum að undirbúningi 55 MW, 400 GWh/ár, vatnsaflsvirkjunar á Ströndum, með því að biðja ráðherra um að leggja nýja náttúruminjaskrá um téð svæði fyrir Alþingi í haust.  Þessa aðför að sjálfbæru mannlífi og atvinnulífi á Vestfjörðum á að kæfa í fæðingunni, og það mun Alþingi vonandi gera, því að til þess hefur ráðherra þessi ekki bein í nefinu. 

Hann skrifaði 13. júní 2018 í Fréttablaðið grein um áhugamál sitt:

"Stórfelld tækifæri við friðlýsingar"

"Síðastliðinn föstudag [08.06.2018] kynnti ég í ríkisstjórn áform um átak í friðlýsingum, en í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um það.  Átakið felur í sér að friðlýsa svæði, sem njóta eiga verndar gegn orkunýtingu (verndarflokkur rammaáætlunar) sem og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum, sem ályktað hefur verið um að friðlýsa, en hefur ekki verið lokið."

Friðlýsing svæða í nýtingarhluta Rammaáætlunar er þarna ekki á dagskrá ráðherrans, enda eru slík endemi ekki í sáttmála núverandi ríkisstjórnar, þótt þar kenni ýmissa grasa.  Ráðherrann er á pólitísku jarðsprengjusvæði með því að gefa undir fótinn með friðlýsingu á téðu landsvæði.  Hann ætti að forðast að fara fram með offorsi í hinar friðlýsingarnar án samstarfs við og samþykkis viðkomandi sveitarstjórna, bænda og annarra landeigenda.  Friðlýsingu má ekki troða upp á heimamenn af ríkisvaldinu.

Það mun fara eins lítið fyrir Hvaleyrarvirkjun í náttúrunni og hugsazt getur.  Hún verður neðanjarðar að öðru leyti en stíflunum.  Aflið frá henni verður flutt um jarðstreng.  Flúðarennsli verður áfram, þótt það minnki á meðan vatnssöfnun í miðlunarlón á sér stað.  Hönnun er sniðin við lágmarks breytingar á umhverfinu, þannig að útivistargildi svæðisins verður nánast í fullu gildi áfram, þótt verðmætasköpun aukist þar skyndilega úr engu og í meira en 2,4 miaISK/ár, sem gæti orðið andvirði raforkusölunnar frá virkjun m.v. núverandi markaðsverð.  Þessi starfsemi getur orðið fjárhagsleg kjölfesta sveitarfélagsins, sem hýsir mannvirkin, á formi fasteignagjalda og auðlindargjalds o.fl.

Þann 26. júní 2018 staðfesti Skipulagsstofnun loksins breytingu á Aðalskipulagi Árneshrepps vegna framkvæmdanna.  Skipulagsstofnun setti sem skilyrði, að vegagerð yrði í algjöru ágmarki og henni sleppt, þar sem hægt væri.  Þetta er þó ekki til þess fallið að bæta mikið aðgengi ferðamanna að svæðinu, svo að áfram munu þá þeir einir komast þar víða um, sem fráir eru á fæti.  

Þann 7. júní 2018 birtist ágæt grein í Morgunblaðinu eftir Kristin H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismann, undir fyrirsögninni:

"Hvalá: stórstígar framfarir fyrir Vestfirðinga".

Hún hófst þannig:

"Hvalárvirkjun í Árneshreppi mun verða mikið framfaraskref fyrir Vestfirðinga.  Afhendingaröryggi raforku mun batna mikið, framboð af raforku mun opna möguleika á nýrri atvinnustarfsemi, og útblástursmengun mun minnka verulega.  Þessu verður hægt að ná fram með litlum tilkostnaði hins opinbera, þar sem einkaaðilar munu standa straum af framkvæmdum.  Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun og hefur tvisvar verið samþykkt í nýtingarflokk og staðfest af Alþingi."

Þetta eru sterk rök fyrir nytsemi þessarar virkjunar.  Virkjunin er ekki "nice to have" fyrir Vestfirðinga, heldur bráðnauðsynleg til þess, að raforkukerfi Vestfjarða standi undir nafni, en sé ekki hortittur út úr hringtengingu landsins frá Hrútatungu í Hrútafirði.  Til að halda uppi rafspennu í víðfeðmu raforkukerfi, eins og á Vestfjöðum, þarf öflugar virkjanir, og núverandi virkjanir þar hrökkva engan veginn til.  Mikið spennufall jafngildir tiltölulega háum töpum og óstöðugri spennu.  Aðeins hækkun skammhlaupsafls í raforkukerfi Vestfjarða getur dregið þar úr orkutöpum og gefið stífari spennu.  Þetta er síðan skilyrði þess, að tæknilega verði unnt að færa þar loftlínur í jörðu; aðgerð, sem draga mun úr bilanatíðni kerfisins og bæta ásýndina.  Þessar umbætur eru útilokaðar án framkvæmda á borð við Hvalárvirkjun. Jarðstrengir framleiða síðan rýmdarafl, sem virkar enn til spennuhækkunar og aukinna spennugæða á Vestfjörðum, en aukning skammhlaupsafls með nýjum virkjunum á svæðinu verður að koma fyrst.

Kristinn nefnir framtíðar möguleika til enn meiri styrkingar kerfisins, sem aukin raforkunotkun á Vestfjörðum mun kalla á.  Þar er t.d. Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3.  Þannig eru 85 MW í nýtingarflokki og um 50 MW enn ekki þar.  Alls eru þetta 135 MW með áætlaða vinnslugetu 850 GWh/ár.

Kristinn benti ennfremur á mikilvægi öflugs vestfirsks raforkukerfis fyrir raforkuöryggi landsmanna.  Þar hefur hann mikið til síns máls, því að á Vestfjörðum þarf hvorki að búast við tjóni af völdum jarðskjálfta né eldgosa.  Ofangreint rafafl mundi duga fyrir algera lágmarksnotkun landsmanna í mikilli neyð, þar sem skömmtun yrði að viðhafa.  Vinnslugeta margra virkjana landsmanna getur skyndilega rýrnað verulega, t.d. í jarðskjálftum, þar sem gufuholur verða óvirkar, og/eða í eldgosum, þar sem aska og vikur leggst á miðlunarlón, stíflar vatnsinntakið eða skemmir hverflana.  Vesturlína getur flutt um 100 MW hvora leið.

Af öðru sauðahúsi er annar höfundur um sama efnivið, Tómas, nokkur, Guðbjartsson, "læknir og náttúruverndarsinni".  Hann hefur um hríð fundið hjá sér hvöt til að finna virkjunaráformum í Hvalá allt til foráttu og verið stóryrtur í garð virkjunaraðilans og eigenda hans.  Umfjöllun Tómasar hefur verið mjög einhliða og gildishlaðin, þótt siðferðislega virðist  hann ekki hafa úr háum söðli að detta, ef marka má fréttaskýringu Guðrúnar Erlingsdóttur í Morgunblaðinu 29. júní 2018,

"Háskólinn hefur beðist velvirðingar".

Þar gaf m.a. þetta á að líta:

"Í nóvember 2017 komst sænska siðanefndin að þeirri niðurstöðu, að Macchiarini og meðhöfundar hans [Tómas Guðbjartsson var þeirra á meðal-innsk. BJo] að vísindagreininni í The Lancet hefðu gerzt sekir um vísindalegt misferli." 

Það er mikill áfellisdómur yfir manni, óháð stétt, þegar slíkur aðili sem téð siðanefnd lýsir tilteknum starfsháttum hans sem "vísindalegu misferli".  Væntanlega má almenningur draga af því þá ályktun, að brestur sé í siðferðiskennd þeirra, sem slíkt drýgja.

Síðan segir í tilvitnaðri frétt Guðrúnar Erlingsdóttur:

"Í júní 2018 úrskurðar rektor Karólínsku stofnunarinnar með 38 blaðsíðna rökstuðningi, að Tómas Guðbjartsson ásamt 6 öðrum læknum sé ábyrgur fyrir vísindalegu misferli vegna greinaskrifa í The Lancet árið 2012, en áður en greinin birtist hafði New England Journal of Medicine hafnað greininni."

Þann 19. júní 2018 birtist ein af fjölmörgum greinum téðs Tómasar um fyrirhugaðar framkvæmdir Vesturverks á Ströndum.  Hún hófst þannig:

"Fyrirhuguð Hvalárvirkjun hefur mikið verið til umræðu undanfarið, enda vægast sagt umdeild framkvæmd.  Ástæðan er sú, að með virkjun er verið að fórna stórkostlegri íslenzkri náttúru í hendur HS Orku-jarðhitafyrirtækis í meirihlutaeign umdeildra kanadískra fjárfesta.  Auk þess er ávinningur virkjunar vægast sagt óljós fyrir Vestfirðinga og þá ekki sízt íbúa Árneshrepps."  

Það er með endemum, að maður, með slíka umsögn á bakinu og fram kemur í tilvitnunum frá Svíþjóð hér að ofan, skuli fara á flot í blaðagrein hérlendis með svo gildishlaðna frásögn og hér getur á að líta.  Þótt ekki séu allir sammála um, að rétt sé að fara í þessar framkvæmdir, er gert of mikið úr ágreininginum, þegar gætt er að afgreiðslum Alþingis á málinu og afstöðu sveitarstjórnarinnar fyrir og eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar.  Þá eru líklega langflestir Vestfirðingar fylgjandi því, að framkvæmda- og virkjanaleyfi verði veitt.  Það er hins vegar engu líkara en allir tilburðir Tómasar í þessu máli séu til þess ætlaðir að magna upp ágreining um mál, sem víðtæk sátt hefur þó náðst um.

Að halda því fram, að fyrir þeim fjölda fólks, sem fylgjandi eru þessum framkvæmdum, sem og yfirvöldum landsins, sé ávinningurinn óljós, er mjög afbrigðilegt, enda hefur ávinningurinn oft komið fram opinberlega, og er að nokkru saman tekinn í þessum pistli.  Í ljósi þess, að virkjun þessi verður algerlega afturkræf, er fjarstæðukennt að skrifa, að um fórn til kanadískra fjárfesta sé að ræða á íslenzkri náttúru.  Slík skrif Tómasar eru marklaus.

 

   

 


"Alþingi gekk of langt"

 Persónuverndarlöggjöf ESB, "General Data Protection Regulation-GDPR", er sniðin við miklu stærri samfélög en hið íslenzka, og verður þess vegna ofboðslega dýr í innleiðingu hér sem hlutfall af tekjum fyrirtækja og stofnana.  Sá kostnaður er svo hár, að koma mun niður á almennum lífskjörum almennings á Íslandi. Yfirvöld hérlendis hafa kastað höndunum til kostnaðaráætlana fyrir þessa innleiðingu og rekstur kerfisins, eins og berlega kom fram í Morgunblaðsgrein Gunnhildar Erlu Kristjánsdóttur, 12. júní 2018, lögfræðingi og sérfræðingi í persónurétti hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV,

"Áhrif nýrra persónuverndarlaga á ríkissjóð".

Að margir Alþingismenn líti á það sem skyldu sína að samþykkja hvaðeina inn í íslenzka lagasafnið, sem Evrópusambandinu (ESB) þóknast að merkja sem viðeigandi fyrir EFTA-löndin, er þyngra en tárum taki, því að þeim er tryggður synjunarréttur í EES-samninginum, og hann felst líka í fullveldi landsins, sem þingmenn saxa ískyggilega á með þessu háttarlagi.  Þá er samfélagslegur kostnaður af innleiðingu og rekstri viðamikilla orkubálka og aragrúa tilskipana og reglugerða svo mikill, að hann nær þjóðhagslegum stærðum, sem hamla hér lífskjarabata. Það er litlum vafa undirorpið, að EES-aðildin er byrði á hagkerfi landsins en ekki léttir, eins og mönnum var talin trú um í upphafi.  Hvergi á byggðu bóli, nema á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein, tíðkast að verða að taka upp löggjöf nágrannans í eigin löggjöf til að mega eiga við hann viðskipti, enda eru annars konar tengsl við hann á formi fríverzlunarsamnings, e.t.v. á milli EFTA og ESB, fyllilega raunhæf.  

Viðskiptaráð Íslands hefur áætlað, að beinn og óbeinn árlegur kostnaður landsins af opinberu regluverki nemi miaISK 175, uppfærður til verðlags 2018.  Mikið af þessu stafar af gagnrýnislítilli innleiðingu gjörða ESB, en hluti af  þessu opinbera regluverki er auðvitað nauðsynlegur.  Ef áætlað er, að 60 % falli illa að þörfum íslenzks samfélags og mætti losna við að ósekju, nemur óþörf kostnaðarbyrði fyrirtækja og hins opinbera af regluverki um 105 miaISK/ár. Regluverkið má vafalaust grisja verulega og aðlaga smæð þjóðfélagsins.  Það er sjálfsagt að ráðast í það, eftir "Iceexit", ári eftir uppsögn EES-samningsins. 

Með nýju persónuverndarlögunum er verið að auka mikið við þetta bákn með stofnkostnaði, sem gæti numið um miaISK 20 m.v. kostnaðaráætlun ESB (miaISK 17,6) og danska áætlun um kostnað fyrirtækja, en enn hærri upphæð m.v. sænska áætlun.  Að viðbættum kostnaði sveitarfélaga og stjórnarráðs fást alls um miaISK 20.  Sveitarfélögin áætla stofnkostnaðinn 0,2 % af tekjum og árlegan rekstrarkostnað 56 % af stofnkostnaði, sem þá þýðir 11 miaISK/ár, ef þessi áætlun er yfirfærð á landið allt.  Við þennan kostnað þarf að bæta óbeinum kostnaði, sem aðallega stafar af þunglamalegri stjórnsýslu, minni afköstum og minni framleiðniaukningu.  Þessi rekstrarkostnaður mun þess vegna árlega vaxa mun meir en almennum verðlagshækkunum nemur. 

Þessi kostnaðarauki er grafalvarlegt mál í ljósi þess, að hann leiðir aðeins til minni verðmætasköpunar á tímaeiningu og aukið öryggi gagna er vafasamt, að náist í raun með gríðarlegu auknu skrifræði. Samþykkt Alþingis á innleiðingu GDPR var misráðin, enda mun hún óhjákvæmilega rýra lífskjörin á Íslandi og líklegast lífsgæðin líka.  Þetta hefst upp úr því að afrita löggjöf hálfs milljarðs manna ríkjasambands gagnrýnislaust fyrir 0,35 milljóna manna smáríki.  Það er ekki öll vitleysan eins í henni versu.  

Upplýsingar um þetta má lesa í úttekt Viðskiptablaðsins, 21. júní 2018,

"GDPR gæti kostað milljarða".

Í úttektinni segir á einum stað:

"Alþingi leiddi efni reglugerðarinnar í íslenzk lög fyrir rúmlega viku, en þar sem vernd persónuupplýsinga er talin [vera] hluti af EES-samninginum, bar Alþingi skylda til að taka GDPR upp í íslenzkan rétt, nánast eins og hún kemur fyrir af skepnunni."

Þetta er útbreiddur misskilningur.  Sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB ræðir upptöku mála í réttarkerfi EFTA-ríkjanna þriggja, sem ESB ætlast til, að spanni allt EES-svæðið.  Þessi nefnd úti í Brüssel getur þó ekki skuldbundið þjóðþingin til eins né neins, en í reynd hefur verið mjög lítið um, að þau synji gjörðum ESB samþykkis.  Af þeim sökum er eina ráðið til að losna undan lagasetningarvaldi ESB að segja upp EES-samninginum, og það er orðið brýnt af fullveldisástæðum og af kostnaðarástæðum.  Í staðinn koma fríverzlunarsamningar EFTA við ESB og Bretland, eða tvíhliða samningar.  Styrkur yrði að Bretlandi innan EFTA, en Neðri-málstofa brezka þingsins aftók, að Bretland gengi í EES, enda færu Bretar þá úr öskunni í eldinn.  

Það virðist hafa verið fljótaskrift á afgreiðslu Alþingis, sem er ámælisvert.  Undir millifyrirsögninni,

"Alþingi gekk of langt", 

stóð þetta í téðri úttekt:

"GDPR hefur að geyma ýmis ákvæði, sem heimila þjóðþingum aðildarríkja ESB og EES að setja sérreglur ásamt því að takmarka eða útfæra nánar tiltekin ákvæði reglugerðarinnar.  Íslenzka ríkið hafði þannig svigrúm til að ákveða með hversu íþyngjandi hætti GDPR var innleitt.  Davíð  [Þorláksson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins] segir Alþingi þó hafa gengið lengra í innleiðingu reglugerðarinnar en nauðsyn bar til.  

"Íslenzka ríkið ákvað að innleiða reglugerðina með mjög íþyngjandi hætti fyrir atvinnulífið með setningu sérreglna og takmarkaðri nýtingu á undanþáguheimildum", segir Davíð.  Dæmi um slíkar sérreglur eru vinnsla persónuupplýsinga látinna einstaklinga, leyfisskylda til vinnslu, dagsektir, og að fyrirtæki í landinu standi undir kostnaði við  Eftirlit Persónuverndar.

" Þannig er reglugerðin dýrari fyrir íslenzk fyrirtæki en í flestum öðrum ríkjum.  Þar með hefur Alþingi ákveðið að grafa undan samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja á alþjóðavettvangi, sem hefur farið versnandi.""

Hér eru firn mikil á ferð.  Embættismannakerfið íslenzka með ráðherra í forystu leggur svimandi byrðar á atvinnulíf og stofnanir án þess að huga nokkurn skapaðan hlut að því að reyna að búa svo um hnútana, að byrðar þessar verði sem léttbærastar.  Ósóminn rennur síðan á leifturhraða gegnum Alþingi.  Hér bregðast þeir, er sízt skyldi.  Þetta eru forkastanleg vinnubrögð, sem sýna svart á hvítu, að íslenzka stjórnkerfið ræður ekki við EES-aðildina.  Eina lausnin á þessu stjórnkerfisvandamáli er að losa Ísland úr hrammi ESB með uppsögn EES-samningsins áður en stjórnkerfið íslenzka í glópsku sinni og vanmætti glutrar niður leifunum af fullveldinu.  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband