Færsluflokkur: Fjármál
26.3.2020 | 18:42
CoVid-19 og evran
Stefán E. Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, er skarpur greinandi. Þann 18. marz 2020 birti hann í Viðskipta-Mogganum stórmerkilega "skoðunargrein" sína undir fyrirsögninni:
"Endalok evrunnar",
sem ástæða er til að birta hér og leggja út af:
"Það fór ekki vel af stað hjá Christine Lagarde, þegar hún kynnti fyrsta alvarlega inngrip Seðlabanka Evrópu, frá því að hún tók við stofnuninni síðastliðið haust. Glannaleg yfirlýsing, sem mátti túlka sem svo, að bankinn myndi ekki bakka upp hagkerfi Ítalíu, þegar öll sund eru lokuð, olli því, að markaður með ríkisskuldabréf landsins fór á annan endann. Hún baðst í kjölfarið afsökunar á framgöngu sinni - en skaðinn er skeður." ?! [Erlendur hortittur í lokin-innsk. BJo.]
Christine Lagarde endurómaði væntanlega þarna umræðurnar innan Seðlabanka evrunnar (ECB), þegar hún tók við stöðu formanns bankastjórnar hans. Þar sem ítölsku ríkisskuldabréfin fóru í ruslflokk við þessi ummæli, er ljóst, að fjárfestar telja þau illseljanleg á markaði, nema ECB bjóðist til að kaupa þau. Það er hins vegar ekki víst, að ECB hafi í þetta skiptið getu til að kaupa nóg af þeim. Það má búast við, að mörg ítölsk fyrirtæki lendi í vanskilum við banka sína á næstu vikum og mánuðum, af því að þau hafa litlar eða engar tekjur haft vikum saman. Bankarnir eru veikir fyrir, og ríkisstjórnin mun reyna að bjarga einhverjum þeirra, en lausafjárþurrð mun líklega reka bankana og ítalska ríkissjóðinn í þurrð.
Seðlabanki evrunnar mun þurfa í fleiri horn að líta, t.d. til Spánar og Grikklands, en einnig norður fyrir Alpana. Deutsche Bank stóð tæpt fyrir þetta áfall, og núverandi hagkerfislömun og vafalaust lausafjárskortur í Evrópu fyrir vikið mun geta riðið honum að fullu. Þýzki ríkissjóðurinn mun sennilega teygja sig langt til að bjarga einhverju af þessum risa, svo að Þýzkaland verður líklega ekki aflögufært fyrir björgunaraðgerðir utan landamæra Sambandslýðveldisins. Allar þessar sviptingar hljóta að hafa veikjandi áhrif á evruna, sem gæti kannski upplifað fall í líkingu við fall norsku krónunnar, NOK, í viku 12/2020, er hún féll um fjórðung m.v. USD, líklega aðallega vegna helmingunar á verði hráolíu, sem þýðir, að allir olíuborpallar Noregs eru nú reknir með tapi.
Á óróa- og óvissutímum leita fjárfestar í bandaríkjadal, USD. Þótt forseta Bandaríkjanna hafi brugðizt bogalistin illilega við að veita landinu forystu í vörnum þess gegn CoVid-19 veikinni með þeim afleiðingum, sem Bandaríkin munu væntanlega þurfa að súpa seyðið af (nú er 80 þúsund manns spáð dauðdaga í BNA af völdum SARS-CoV-2 veirunnar), þá er evran þegar farin að tapa talsverðu verðgildi m.v. USD eða tæplega 5 % á vorjafndægri 2020 m.v. marzbyrjun. Aðeins glannar spá fyrir um gengi gjaldmiðla, en það er hægt að leyfa sér að ýja að því, að núverandi lömun hagkerfa af völdum CoVid-19 pestarinnar muni geta leitt til þess, að evran verði um hríð ódýrari en dalurinn.
"Ríkin í Suður-Evrópu, sem hafa barizt í bökkum allt frá fjármálahruninu 2008, ekki sízt vegna drápsklyfjanna, sem alþjóðlegar fjármálastofnanir fengu að hengja á ríkissjóðina, horfa nú fram á enn eitt rothöggið. Nú er enginn peningur í kassanum til að bregðast við, og ríkin, sem gátu komið til hjálpar þá, eiga þess varla kost nú. Merkel þarf ekki að neita þeim um aðstoð; hún er einfaldlega ekki aflögufær."
Þarna stiklar Stefán Einar á stóru um orsakir efnahagsvandræða Suður-Evrópu og þar með orsakir ógnana, sem nú steðja að evrusamstarfinu. Því miður gliðnaði hin óbrúanlega gjá, sem efnahagslega liggur um Alpana og Rín, enn við hrossalækningu ESB og AGS við fyrstu evrukrísunni, sem náði hámarki 2012. Nokkrar afskriftir lána áttu sér raunar stað, en meginþungi aðgerðanna fólst í því, að stórbankar Frakklands, Bretlands og Þýzkalands, voru losaðir úr prísund áhættusamra lánveitinga og skuldaklafi ríkissjóða Suður-Evrópu aukinn að sama skapi. Þetta hefur virkað svo vaxtarhamlandi á þessi ríki, að þau hafa ekki borið sitt barr síðan.
Eðlilega mega þau ekki við neinum ytri áföllum við þessar aðstæður, og greiðsluþol ríkissjóða Suður-Evrópu mun verða í uppnámi, þegar hvert fyrirtækið á fætur öðru verður gjaldþrota vegna tekjubrottfalls af völdum SARS-CoV-2 veirunnar, sem tekur feiknarlegan toll af þessum ríkjum. Þetta eru ill tíðindi fyrir evruna, því að seðlabanki hennar í Frankfurt getur ekki einbeitt sér að björgun Suður-Evrópu, þar sem öll Evrópa er lömuð af völdum veirunnar. Skyldi nokkurn vísindaskáldsöguhöfund hafa órað fyrir því, að efnahagstjónið yrði jafnmikið af völdum lungnabólguveiru og raunin verður af þessari, en það mun hlaupa á tugum trilljóna bandaríkjadala á heimsvísu áður en yfir lýkur ?
"Þegar veiran hefur gengið yfir með öllum sínum eyðileggingarmætti, ekki sízt í efnahagslegu tilliti, þurfa ríkin hvert og eitt að ræsa efnahagskerfi sín að nýju. Það verður nánast ómögulegt innan sameiginlegs myntsvæðis. Ríkin í suðri þurfa veikara gengi en Frakkar og Þjóðverjar, og við þeim bráða vanda er aðeins ein lausn. Hún liggur í augum uppi, en enginn vill verða fyrstur til að benda á. Draumurinn um evruna er úti."
Höfundur þessa vefpistils er alveg sammála málatilbúnaði og höfuðályktun Stefáns E. Stefánssonar hér að ofan, nema honum er til efs, að Frakkar muni fylgja Norður-Evrópu, heldur fremur Suður-Evrópu. Evran er hugarfóstur Frakka til að afnema ráðandi stöðu þýzku myntarinnar, DEM, á fjármálamörkuðum Evrópu. Þá átti frammistaða franska frankans meira skylt við líruna og pesóann en þýzka markið. Frakkar urðu ítrekað að biðja Vestur-Þjóðverja um að hækka gengi þýzka marksins til að þurfa ekki að lækka gengi frankans. Frakkar héldu, að þeir hefðu leyst gjaldmiðilsvanda sinn með evrunni, en misreiknuðu sig. Þýzka hagkerfið, skilvirkni og framleiðnivöxtur Þjóðverja, hefur haft mest áhrif á gengi evrunnar og haldið því uppi, en nú verða mjög líklega þau kaflaskil, að evran mun veikjast út á við og inn á við. Til þess þurfti aðeins örsmáan próteinklasa frá Kína, sem sezt að í frumum manna um allan heim og reynir á þanþol og mótstöðukraft ónæmiskerfis þeirra.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.3.2020 | 17:41
Áhrif CoVid-19 hérlendis
Sóttvarnalæknir hefur beitt hefðbundinni áhættustjórnun hérlendis, sem miðar að lágmörkun heildartjóns, þ.e. heilsutjóns/fjörtjóns og efnahagstjóns. Það á eftir að koma í ljós, hvernig til tekst, en árangurinn hingað til lofar góðu. Ef mat tölfræðinga á vegum sóttvarnalæknis gengur eftir, verður CoVid-19 í hámarki um páskana 2020, og mun þá e.t.v. ganga yfir hérlendis á 3 mánuðum. Nú (23.03.2020) er fjöldi smitaðra tæplega 600, en sú tala getur hafa meira en fimmfaldazt um það leyti, sem fjölgun smita nær hámarki.
Ef svo fer í lok maí, þegar vonazt má eftir, að pest þessi verði um garð gengin, að fjöldi smitaðra hafi ekki farið yfir 6000 manns (1,7 % mannfjöldans), hafa aðgerðir sóttvarnalæknis borið mikinn árangur, þegar fjöldi sýktra af Spænsku veikinni er hafður til samanburðar, en smitnæmi þessara tveggja pesta gæti verið svipað (hver sýktur smitar 2-3, ef ekkert er að gert). Þá gæti heilbrigðiskerfið líka hafa náð mjög góðum árangri við að lækna sjúka, og hlutfallslegur fjöldi látinna af sýktum orðið lægri en annars staðar þekkist. Hins vegar er hlutfallslegur fjöldi sýktra meiri en annars staðar hefur sézt.
Aðgerðir sóttvarnalæknis hafa verið dýrar, en munu aftur á móti spara mikinn sjúkrahúskostnað og bjarga mannslífum áður en yfir lýkur. Varnarherfræðin hér er svipuð og þar sem bezt hefur til tekizt, þ.e. í Suður-Kóreu, enda er fjöldi skimana hér per milljón íbúa sá langhæsti í heiminum (28 k).
Fjárhagstapið af völdum CoVid-19 er aðallega fólgið í töpuðum tekjum af erlendum ferðamönnum. Þær gætu numið mrdISK 200 á þessu ári, því að ferðamenn hugsa sér varla til hreyfings fyrr en veiran er hætt að grassera bæði hérlendis og í heimalandi þeirra. Kostnaður af vinnutapi sýktra og sóttkvíaðra gæti numið mrdISK 10 og annar kostnaður af völdum pestarinnar mrdISK 30, svo að heildarkostnaður nemi mrdISK 240 eða 8 % af VLF. Kynntar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast nema mrdISK 230. Þetta er svakalegt högg, sem mun taka nokkur ár að vinna upp og hlýtur að koma niður á lífskjörum hér. Það er yfirgengilegt óraunsæi, ef ekki raunveruleikafirring við þessar aðstæður, að stunda hér harða verkfallsbaráttu og beita verkfallsvopninu. Þessi kröfuharka og stéttabarátta á engan veginn við á gildistíma Lífskjarasamninganna. Slíkt framferði er einsdæmi í veröldinni og getur engan veginn orðið verkalýð til hagsbóta. Fólk á ekki að láta pólitíska loddara teyma sig á asnaeyrunum við þessar aðstæður eða aðrar. Hér ættu allir að sameinast um að lágmarka tjónið og síðan að hraða uppbyggingunni sem mest í kjölfarið, þótt örugglega verði að rifa seglin um sinn vegna mikilla efnahagsvandræða í viðskiptalöndum okkar.
Við þessar fordæmalausu aðstæður hafa miklar sviptingar orðið á verðbréfamörkuðum og t.d. hlutabréf ferðaþjónustufyrirtækja hrunið, eins og gefur að skilja, þótt t.d. Icelandair hafi eitthvað rétt úr kútnum. Þegar flug nánast stöðvast í heiminum vikum eða mánuðum saman, er líklegt, að slíkt muni hafa langvarandi áhrif á flugfélögin og þau týna tölunni. Komið hefur fram sú hugmynd í Noregi að sameina norrænu félögin Finnair, Icelandair, Norwegian og SAS undir einu eignarhaldsfélagi, en nú eru British Airways og Iberia Airlines undir sama félagi og Air France og KLM undir öðru. Lufthansa hefur keypt millilandaflugfélögin í Austurríki og Belgíu. Icelandair yrði sem sagt áfram flugrekandi, en með öflugan fjárhagslegan bakhjarl, sem hugsanlega gæti létt ábyrgðum af ríkissjóði, ef til þeirra þarf að koma. Eignir lífeyrissjóðanna íslenzku eru þarna og miklu víðar í uppnámi um þessar mundir. Ávöxtun þeirra verður ekki upp á marga fiska 2020.
Hagkerfin hafa lamazt eitt af öðru, og nú virðast Bandaríkin stefna í eitthvað, sem hægt er að líkja við ítalskt ástand. Það er vegna andvaraleysis stjórnvalda þar, sem hæglega getur kostað Donald Trump embættið í hendur Joe Bidens, sem elliglöp hafa þó hrjáð í forvalsbaráttu demókrata. Þótt andvaraleysið geti framkallað hjarðónæmi, veldur það miklum veikindum, öngþveiti á heilbrigðisstofnunum og hárri dánartíðni smitaðra. Nú berast fréttir af útgöngubanni í Kaliforníu og í fleiri fylkjum BNA a la Ítalía.
ISK gaf eftir, þegar ósköpin dundu yfir, enda munar hvert ferðamannaland um það, að innstreymi erlendra ferðamanna stöðvist í 3 mánuði eða meira. Þótt mikill erlendur gjaldeyrir tapist, um mrdISK 200, sparast erlendur gjaldeyrir líka vegna færri utanlandsferða landsmanna, minni fjárfestinga og minni neyzlu Íslendinga á þessum erfiðu tímum. Ef þar við bætist, að lífeyrissjóðir flytji stóran hluta af fjárfestingum sínum í evrum "heim ins Reich", sem þeir ættu hiklaust að gera, og stöðvi erlendar fjárfestingar sínar, þá verður sennilega hægt að hindra það, að viðskiptajöfnuðurinn snarist á neikvæðu hliðina yfir allt árið 2020. Þar með gæti gengi ISK gagnvart EUR jafnað sig (140 ISK/EUR), en gengi USD virðist munu stíga m.v. EUR. Það er venjan, að á óvissutímum leita spákaupmenn í bandaríkjadalinn. Umfjöllun um EUR á tímum CoVid-19 er efni í annan pistil.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.3.2020 | 16:42
Ráðlegging á röngu róli
Það er ekki á hverjum degi, að ráðlegging um aðferðarfræði og samningsmarkmið til annars aðilans í viðkvæmri og viðurhlutamikilli deilu, allra sízt á sviði raforkuviðskipta, sést opinberlega frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, HHÍ, enda ber sú, sem hér verður rýnd, með sér að vera svo illa ígrunduð og ófræðileg í alla staði, að hún er líklega af pólitískum rótum runnin, enda hefur forstöðumaðurinn áður sett sig í dómarasæti um allt of lága arðsemi Landsvirkjunar. Þar er hann á öndverðum meiði við Jón Þór Sturluson, sem rannsakað hefur þessi mál sérstaklega og komizt að þeirri niðurstöðu, að m.v. áhættu fjárfestinga Landsvirkjunar hafi arðsemi hennar verið vel viðunandi, sjá lok þessa pistils.
Í upphafi fréttar Þorsteins Friðriks Halldórssonar og Kristins Inga Jónssonar í Markaði Fréttablaðsins 13. febrúar 2020, sem bar fyrirsögnina:
"Landsvirkjun þurfi ekki að örvænta",
gaf þetta á að líta:
"Engin ástæða er fyrir Landsvirkjun til að örvænta og slá af raforkuverðinu til álversins í Straumsvík, enda er samningur álversins við Landsvirkjun bundinn til ársins 2036. Fyrirtækin gætu komizt að samkomulagi um að skipta ávinningi á milli sín. Þetta segir Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands."
Þetta er fljótfærnisleg yfirlýsing af hálfu forstöðumannsins Sigurðar J. m.t.t. til eðlis máls og þess, sem í húfi er. Forsenda hans virðist vera, að vegna kaupskyldu raforkusamningsins muni RTA heykjast á að loka ISAL, og ef sú yrði samt reyndin, yrði raforkunni strax fundið annað virðisaukandi hlutverk, og þeir 1250 starfsmenn, sem HHÍ áætlar, að hafi bein og óbein störf af starfseminni í Straumsvík, fengju strax jafn vel eða betur borguð störf en þeir misstu. Forstöðumaðurinn Sigurður J býst einnig við, að deiluaðilar myndu ná samkomulagi um að skipta með sér andvirði raforkusölunnar. Þetta eru einberar skýjaborgir og hrein fásinna af forstöðumanninum að bera þetta á borð fyrir almenning. Höldum aðeins áfram með þessa mannvitsbrekku:
""Frá viðskiptalegu sjónarhorni", bætir hann við, "sé ég hins vegar ekki ástæðu fyrir Landsvirkjun til að slá af verðinu. Ef samningurinn er þannig úr garði gerður, að Rio Tinto hefur skuldbundið sig til að kaupa alla þessa raforku, eftir niðurskurðinn í ár, tel ég ekki, að Landsvirkjun sé í slæmri stöðu í bili", segir Sigurður, sem tekur fram, að hann viti ekki með vissu, hvað felist í samningi fyrirtækjanna."
Téður Sigurður virðist telja, að Landsvirkjun eigi að einblína á þrönga fyrirtækishagsmuni sína og láta þjóðarhagsmuni lönd og leið. Það er í samræmi við inntak orkupakkanna frá Evrópusambandinu (ESB), en stríðir algerlega gegn upprunalegu og eðlilegu hlutverki Landsvirkjunar að efla atvinnu og verðmætasköpun í landinu. Sú stefnumörkun tryggir hins vegar, að afrakstur auðlindanýtingarinnar dreifist um allt hagkerfið, nákvæmlega eins og þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson telur ákjósanlegast og lýsti í Morgunblaðsgrein 07.03.2020. Í ESB er ekki verið að nýta náttúruauðlindir, sem eru stór hluti af þjóðarauðnum, til raforkuvinnslu, eins og hér er gert.
Þá er alveg ljóst, að téðum Sigurði hefur verið tjáð, eða hann ímyndar sér, að Landsvirkjun hafi fullkomna tryggingu fyrir orkukaupskyldu RTA til samningsloka 2036, þótt móðurfyrirtækið neyðist til að loka ISAL, af því að Landsvirkjun þverskallast við að koma nægilega til móts við óskir fyrirtækisins um að létta því óbærilegar fjárhagsbyrðar af völdum orkukostnaðar á tímum mjög lágs álverðs.
Þetta er önnur hæpin forsenda Sigurðar, sem ráðlegging hans hvílir á og sýnir, að óviðeigandi ráðgjöf hans sem forstöðumanns HHÍ hvílir á brauðfótum. Ef RTA mætir eintómum þvergirðingi af hálfu Landsvirkjunar, er næsta víst, að RTA mun draga hana fyrir dóm, þar sem reynt mun verða að ógilda kaupskylduna t.d. á þeim forsendum alþjóðalaga, að halli svo mjög á annan aðilann á samningstímanum, að samningurinn verði honum óbærilegur, beri hinum að verða við óskum hans um að endursemja í góðri trú um, að samningurinn verði báðum viðunandi út samningstímabilið. Hvað sem líður efnisatriðum umræddrar ráðleggingar í nafni HHÍ, virðist hún tvímælalaust vera fullkomlega óviðeigandi frumhlaup.
Í "Sögu Landsvirkjunar" árið 2005 skrifaði Jón Þór Sturluson:
"Að teknu tilliti til tímasetningar eigendaframlaga, arðgreiðslna og metins virðis Landsvirkjunar, má reikna út arðsemi þess fjár, sem eigendur hafa bundið í fyrirtækinu á bilinu 5,1 % - 7,4 % [...]. Niðurstaðan er sú, að ef Landsvirkjun væri rekin sem hvert annað einkafyrirtæki og verðlegði raforkuna í samræmi við hámörkun hagnaðar og samkeppni frá keppinautum, væri arðsemi af þeim fjármunum, sem settir hafa verið í fyrirtækið, væntanlega vel ásættanleg, á bilinu 5,1-7,4 % að raungildi."
Hér er lykilatriði til skilnings að taka eftir orðunum "og samkeppni frá keppinautum". Meinið er, að nú er engin "samkeppni frá keppinautum", heldur er raforkuverðið skrúfað purkunarlaust upp í ósjálfbærar hæðir í krafti þessi, að viðskiptavinurinn getur ekki leitað neitt annað með raforkukaup sín. Hann á þá tveggja kosta völ, og eru báðir vondir: að ganga að afarkostum upp á von og óvön um þróun afurðamarkaða sinna eða að afskrifa fjárfestingar sínar og hætta starfseminni (fyrirtækið er óseljanlegt með ósjálfbæran eða engan raforkusamning).
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2020 | 14:18
Orkupakkarnir segja til sín
Sumir halda, að orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), sem Alþingi hefur innleitt hér í þremur áföngum, og sá fjórði bíður handan við hornið, hafi engin áhrif hér á heimilisrekstur og fyrirtækjarekstur. Það er reginmisskilningur eða vanmat á áhrifum stefnumörkunar í orkumálum, og nægir í því sambandi að benda á skýrslu "Orkunnar okkar", samtaka gegn innleiðingu Orkupakka #3, um þann þriðja áfanga, frá ágúst 2019. Þar var t.d. sýnt fram á, að orkukostnaður almennings (heimila og fyrirtækja án sérsamninga við orkubirgja) á hverja orkueiningu (ISK/kWh) hefði að jafnaði hækkað um tæplega 10 % umfram almennt verðlag frá innleiðingu fyrsta áfangans.
Hækkunina má rekja beint til uppskiptingar raforkugeirans, sem kveðið er á um í öllum áföngunum þremur, en Íslandi bar engin skylda til að innleiða vegna smæðar rekstrareininga orkugeirans. Á þessu tímabili hefði raunorkukostnaðurinn hins vegar að öllu eðlilegu átt að lækka vegna skuldalækkunar raforkugeirans. Nú þurfa flutningur og dreifing að standa undir sér, en áður var hægt að fjármagna framkvæmdir á þessum sviðum með ágóða af orkusölu. Samkeppni um viðskipti á þessu sviði hefur engan veginn vegið upp á móti dýrari og smærri rekstrareiningum, og á sviði stórsölu með rafmagn ríkir nánast einokun, sem er hættuleg í þessu kerfi orkupakkanna, þar sem hver er sjálfum sér næstur í orkugeiranum, og ekki er lagt upp með að taka tillit til þjóðarhags (hámarka verðmætasköpun, gjaldeyrisöflun og atvinnu), eins og áður var viðmiðun við verðlagningu raforku.
Sannleikurinn er sá, að Íslendingar voru ginntir til að innleiða hina svo kölluðu orkupakka ESB á þeim fölsku forsendum, að það yrði landsmönnum til hagsbóta (að efla frjálsa samkeppni). Raforkugeirinn sjálfur var þó á móti því (og vinstri grænir), en skammsýnir stjórnmálamenn létu embættismenn, sem ekki var gefin andleg spektin, leiða sig í gönur, sem síðan hefur valdið vandræðum og deilum í landinu.
Engin þörf var þó á þessari innleiðingu vegna EES-samningsins, eins og Jón Baldvin Hannibalsson, sem ábyrgð bar á gerð þessa einstæða viðskiptasamnings fyrir Íslands hönd, og fjölmargir aðrir, hafa bent á. Samningurinn er einstæður fyrir miklar kvaðir á hendur löggjafarvaldi og dómsvaldi um aðlögun laga og reglna að Innri markaði Evrópusambandsins (ESB). Hann var hugsaður til bráðabirgða, en hefur virkað í meira en aldarfjórðung. Eftir útgöngu Breta úr ESB er ljóst, að vægi fríverzlunarsamninga mun aukast í okkar umhverfi, og á þeim grundvelli mun vafalítið fara fram nýtt hagsmunamat í Noregi og á Íslandi. Kosningaúrslitin í Noregi haustið 2021 munu einnig hafa áhrif á þróun þessara mála á næstu árum.
Vandamálið í þessu orkutilviki er, að orkulöggjöf ESB er sniðin við raunverulegt samkeppnisumhverfi, og hún hvetur raforkuvinnslufyrirtækin til að hámarka hagnað sinn án tillits til annarra hlekkja í virðiskeðjunni. Hagnaðurinn á síðan að virka sem hvati fyrir þau að byggja ný orkuver og koma þannig í veg fyrir aflskort og til að raforkuvinnslan fari jafnan fram með hámarks nýtni (ný orkuver bjóða upp á hærri orkunýtni og lægri rekstrarkostnað en hin eldri). Á Innri markaðinum virkar frjáls samkeppni orkubirgjanna sem hemill á verðhækkanir þeirra, og verðið ákvarðast í skurðpunkti framboðs og eftirspurnar.
Þegar þetta kerfi, sem reist er á jafnvægi samkeppnisumhverfis, er hins vegar innleitt í einokunarumhverfi, eins og íslenzki orkugeirinn er, sérstaklega á sviði stórviðskipta með raforku, þar sem enginn annar en stærsti aðilinn er í færum til að afhenda umbeðinn fjölda GWh/ár, þá endar það auðvitað með ósköpum, eins og gleggst má sjá með hrikalegustu afleiðingum í Straumsvík þessa dagana.
Það er jafnframt pólitískt áfall fyrir þann, sem dáðst hefur að kjarki og framsýni frumkvöðlanna á iðnvæðingarsviðinu hérlendis úr röðum forystu Sjálfstæðisflokksins, að verða vitni að vanhugsaðri og afar óheppilegri yfirlýsingu núverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins og iðnaðarráðherra, sem skilja mátti þannig, að hún sæi ekki muninn á því að flytja út rafmagn um sæstreng (með 10 % töpum) og á föstu formi áls. Í framhaldinu var hún þess hvetjandi, að tekinn væri upp þráðurinn við að kanna fýsileika aflsæstrengstengingar Íslands við erlenda markaði.
Hún horfir þá gjörsamlega framhjá gildi verðmætasköpunar í landinu úr rafmagninu fyrir landsmenn. Þetta er ennfremur sem blaut tuska framan í Straumsvíkurfólk á erfiðri stundu og mjög undarlegt, skömmu eftir að ríkisstjórnin, sem hún á sæti í, gerði gangskör að því við íslenzku bakhjarlana að "Ice-Link", að hann yrði tekinn út af forgangslista ESB um innviðaverkefni, PCI. Slíkar yfirlýsingar geta orðið henni og flokki hennar afar dýrkeyptar, ekki sízt í ljósi eldri og spánýrrar sögu (iðnvæðingin, orkupakki 3).
Við verðlagningu sína á raforkunni til ISAL, þegar gerð nýs raforkusamnings við Rio Tinto Alcan (RTA) stóð yfir 2010-2011, fylgdi Landsvirkjun forskrift orkupakkanna, tók ekkert tillit til áhrifa verðlagningar sinnar á samkeppnishæfni viðskiptavinarins eða áhrifanna á vilja hans til að halda hér uppi fjárfestingum og fullri framleiðslu, sem þó nauðsyn ber til í íslenzku umhverfi einokunar á þessu sviði, heldur lagði mikla áhættu á viðskiptavininn, sem reyndist stórhættulegt og ógnaði framtíðarstarfsemi hans á Íslandi. Þetta var kúvending hjá Landsvirkjun frá drögum að nýjum samingi frá 2008-2009. Ósjálfbærni samningsins er fólgin í stöðugum hækkunum raforkuverðsins með bandarískri neyzluvísitölu (CPI), sem hækkað hefur um 16 % á 10 árum, á meðan alls ekkert tillit er tekið í samninginum til þróunar álverðs eða almenns orkuverðs í heiminum. Svona gera menn ekki, sem rækta vilja langtíma viðskiptasamband.
Þessi einsleitni samningsins reyndist afdrifarík, því að þróun orkuverðs og álverðs varð með allt öðrum hætti í heiminum en Landsvirkjun hafði spáð. Þvergirðingur Landsvirkjunar keyrði svo úr hófi fram, að hún tók ekki í mál að draga úr áhættunni fyrir afkomu viðskiptavinarins með því að tengja raforkuverðið við afurðaverð hans (skráð álverð) með svipuðum hætti og gert hafði verið lengi og er algengt í þessum viðskiptum. Áhættan við slíkt fyrir Landsvirkjun er miklu minni en áhættan við að sleppa tengingunni er fyrir viðskiptavininn, þegar byrjað er á að skrúfa orkuverðið upp í hæðir, sem búizt er við í framtíðinni, eins og þarna var gert. Það er alltaf gólf í slíkri tengingu, þannig að hagnaður af viðskiptunum er orkusalanum í raun tryggður út samningstímabilið.
Blanda af þvergirðingshætti og tilhæfulausum væntingum er rótin að því, að nú vofir lokun yfir starfseminni í Straumsvík, og Landsvirkjun, undir núverandi stjórn, spilar sennilega rassinn úr buxunum núna í viðskiptum við RTA, svo að hún glutrar niður kaupskylduákvæðinu (fyrir dómi), sem er gríðarlega verðmætt (yfir mrdISK 200), því að það gildir til ársins 2036.
Gunnar Snær Ólafsson ritaði áhugaverða baksviðsfrétt um málefni álversins í Straumsvík og Landsvirkjunar í Morgunblaðið, 14. febrúar 2020, undir fyrirsögninni:
"Breyttu rekstrargrunni án greiningar":
"Áratug eftir, að gerð var grundvallar stefnubreyting [á] tilhögun raforkusölu Landsvirkjunar til orkufreks iðnaðar að frumkvæði fyrirtækisins og með stuðningi stjórnvalda, hafa stjórnvöld ákveðið að láta gera úttekt á samkeppnishæfni greinarinnar. Hafði mbl.is eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðarráðherra, í gær, að slík úttekt hefði aldrei verið gerð áður. En nú þegar hefur eitt fyrirtæki, Rio Tinto Aluminium (RTA), ákveðið að hefja endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík (ISAL) og meta rekstrarhæfi þess.
Í tilkynningu, sem barst fjölmiðlum á miðvikudag [12.02.2020], sagði Alf Barrios, forstjóri RTA, að álverið í Straumsvík væri óarðbært og "ekki samkeppnishæft í krefjandi markaðsaðstæðum vegna hás raforkukostnaðar". Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur hins vegar ekki samþykkt né útilokað, að það sé verðlagningin, sem valdi usla, þar sem ISAL sé afhent orka á að hans mati samkeppnishæfu verði."
Staðan er sorglega einföld: forstjóri Landsvirkjunar lemur hausnum við steininn og neitar að horfast í augu við ömurlegar staðreyndir. Staðreyndir málsins eru, að 2010-2011 voru gerðar spár um þróun álverðs og orkuverðs í heiminum af hálfu Landsvirkjunar o.fl., sem voru hafðar til hliðsjónar við samningsgerð, en stóðust engan veginn, því að í stað hækkana álverðs og orkuverðs komu lækkanir á báðum. Álverð (LME) var þá 2000-2300 USD/t, og hefði það hækkað með vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum (BNA), eins og raforkuverðið til ISAL, þá væri álverðið núna um 2500 USD/t, en það er í raun aðeins tæplega 1700 USD/t. Í stað væntrar hækkunar um 350 USD/tAl eða 16 % hefur komið raunlækkun um 450 USD/tAl eða 21 % tímabilið 2010-2020. Til að ná raforkukostnaðinum núna niður í sama hlutfall af skráðu álverði og var við lýði í upphafi samningsins 2011, þ.e. tæplega 24 %, þarf að lækka heildar raforkuverðið (orka+flutningur) um 12 USD/MWh eða rúmlega 30 %.
Heimsmarkaðsverð á orku hefur lækkað frá 2010. Sífellt meira af raforku Vesturlanda er nú framleitt með jarðgasi, og verð á því hefur helmingazt á tímabilinu 2010-2020, úr 5 USD/MBtu í 2,5 USD/MBtu, og verður samkvæmt grunnspá US Energy Information Agency um 3,5 USD/MBtu árið 2035, þ.e. lækkar um 30 % frá 2010, sem er svipað og heildarraforkuverð til ISAL þarf að lækka um til að ná jafnstöðu við upphafsforsendur.
Landsvirkjun reiknaði hins vegar með raunhækkun raforkuverðs (meiri en neyzluvísitölunnar) allt samningstímabilið (2011-2036) og heimtaði þess vegna mikla hækkun upphafsraforkuverðs frá fyrri samningi og vísitölubindingu á því við neyzluverð í BNA í stað þess að draga úr óvissu fyrir báða samningsaðila með því að hafa byrjunarhækkunina minni og tengja orkuverðið við álverð og jafnvel einnig við skráð orkuverð (olíu eða gas), en þó með gólfi til að tryggja hag Landsvirkjunar.
Þessi kolranga áætlanagerð og ógætilega og sumir segja hranaalega málsmeðferð hefur nú leitt samningsaðila út í algerar ógöngur, og ber Landsvirkjun mestu ábyrgðina, því að hún mótaði samningsferlið í krafti þeirrar stefnubreytingar að nýta sér einokunarstöðu sína til hins ýtrasta, án tillits til þjóðarhags, sem var eins óráðlegt og hægt er að hugsa sér, og varla hefur hvarflað að höfundum orkupakka ESB, að nokkrum myndi detta slík misbeyting aðstöðu til hugar, enda ekki skilyrði til þess í ESB.
Þessi keyrsla Landsvirkjunar út í skurð lýsir sér í yfirvofandi hættu á tekjutapi upp á 16 mrdISK/ár og í heildina yfir mrdISK 230 á samningstímabilinu. Enginn fæst að samningaborðinu á afarkostum Landsvirkjunar. Þjóðfélagið missir um 1250 störf samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og yfir 50 mrdISK/ár í útflutningstekjur. Þetta högg ofan á fækkun erlendra ferðamanna loðnubrest og efnahagssamdrátt í heiminum (CoVid-19) mun að líkindum snara viðskiptajöfnuði landsins öfugum megin við núllið, og þar með er meginforsenda efnahagsstöðugleikans brostin.
Landsvirkjun tók áhættu, sem getur haft grafalvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir landið. Höfuðsök á mistökunum á forstjóri fyrirtækisins, sem hlýtur að axla sín skinn.
Baksviðsgrein Gunnlaugs Snæs lauk þannig:
"Sé það svo, að raforkuverð til ISAL hafi dregið úr samkeppnishæfni þess og þar með stofnað rekstrinum í hættu, má í einhverjum mæli segja, að sú staða hafi skapazt, þegar stjórnvöld og Landsvirkjun lögðust á eitt til að bæta fjárhagsstoðir fyrirtækisins, líklega í von um að tryggja aukna arðsemi, sem síðan myndi skila sér í ríkissjóð. Ekki lá fyrir greining á samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar á Íslandi og spurning, hvort þjóðhagsleg langtímaáhrif í kjölfar breyttra rekstrarforsendna álveranna hafi yfirhöfuð verið metin."
Það er engum vafa undirorpið, að til að gæta að þjóðhagslegum afleiðingum gjörða sinna bar Landsvirkjun að áhættugreina samningskröfur sínar, en það virðist hafa farið í handaskolum 2010-2011 áður en samningur var undirritaður. Annars hefði komið í ljós, að nauðsyn bæri til að setja varnagla inn í samninginn, sem stöðva myndi sjálfvirka árlega vísitöluhækkun raforkuverðsins við stöðuga lækkun álverðs og lækka raforkuverðið, ef hlutfall raforkukostnaðar á hvert áltonn færi yfir t.d. 25 %. Við upphaf samningsins árið 2011 var þetta hlutfall undir 24 % af skráðu álverði LME, en á árinu 2020 er það komið í rúmlega 34 %. Það hefur algerlega snarazt á merinni, sem ætti að sýna í sjónhendingu, að samningurinn er meingallaður og sem slíkur stórhættulegur efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. Í ljósi þessa verða ríkisstjórn og Alþingi að grípa inn og sjá til þess, að nýr samningur verði með innbyggðan stöðugleika að þessu leyti og sanngjarna áhættudreifingu beggja aðila. Til þess eru margar leiðir færar.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.12.2019 | 14:34
Óveður á Íslandi
Á hverjum áratugi virðast geisa 1-2 óveður á Íslandi, sem setja raforkukerfi landsins og fjarskiptakerfi í einhverjum landshluta á hliðina; aldrei þó á öllu landinu í einu. Hvar tjónið verður, hefur farið eftir vindáttinni.
Þetta mikla tjón og truflun á framleiðslukerfum er þó ekki óhjákvæmilegt, og nú eigum við þess kost að fjárfesta okkur út úr þessu ófremdarástandi, sem er búið að vera of lengi við lýði vegna vanefna í upphafi fremur en þekkingarleysis á aðstæðum. Menn ákváðu einfaldlega að hraða Byggðalínu, og að þjóðfélagið, sem þá var vant straumleysi, yrði í staðinn að taka á sig tjónið, þegar það dyndi yfir. Þessi tími er liðinn. Nútímaþjóðfélag krefst öryggis og stöðugleika. Tjónið verður svo hátt, að það borgar sig einfaldlega ekki að velja ódýrustu lausnina.
Landsmenn búa enn utan Suð-Vesturlands við búnað frumbýlingsáranna. Í minnum er hvassviðri og mikil ísing, sem sleit í sundur einu tengingu Búrfellsvirkjunar við höfuðborgarsvæðið í byrjun 8. áratugarins. Þá bjargaði neyðarrafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík ISAL-verksmiðjunni frá langvarandi framleiðslustöðvun, og íbúar höfuðborgarsvæðisins nutu jafnframt góðs af orku frá þessari stöð þá. Nú hefur þessari mikilvægu neyðarrafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík verið lokað á þessum áratugi að vegna skrifborðsákvörðunar um hagræðingu í rekstri og hún seld. Rökin voru jafnframt þau, að afhendingaröryggi raforku hefði aukizt svo mikið, að hennar væri ekki lengur þörf. Það er því miður ekki rétt mat, eins og slæmt ástand 220 kV lína á SV-landi í saltroki hefur hvað eftir annað verið til vitnis um. Þá hefur orðið að lækka rekstrarspennu meginflutningskerfisins svo mikið, að yfirálag ógnaði búnaði og draga hefur orðið úr framleiðslu. Íbúar SV-lands búa við falskt öryggi, eins og aðrir íbúar landsins, þótt í minni mæli sé.
2.-4. febrúar 1991 gekk óveður yfir suðvestanvert landið með suðlægum áttum, ísingu og mikilli seltu. Slitnuðu þá 220 kV línur í Hvalfirði og í Gnúpverjahreppi með þeim afleiðingum, að höfuðborgarsvæðið og álverksmiðjan í Straumsvík (ISAL) urðu straumlaus. Þá var varastöðin í Straumsvík keyrð á fullum afköstum, og tíðar ferðir olíubíla þangað urðu verksmiðjunni til bjargar. Rafmagn kom ekki á verksmiðjuna aftur fyrr en um 8 klst síðar. Það kom á síðustu stundu til að bjarga verksmiðjunni frá algerri stöðvun, því að neyðarrafstöðin var orðin of lítil fyrir langvarandi straumleysi og raflausn keranna, sem flytur strauminn frá forskautunum, var við frostmark sitt, þegar spenna kom aftur á línur. Rúmlega 6 % keranna frusu, svo að taka varð þau úr rekstri og endurfóðra.
Algert framleiðslutap varð, á meðan stofnkerfið var á hliðinni, og afkastaminnkun vegna fækkunar kera í rekstri og vegna lægri straumnýtni lengi á eftir. Endurfóðra þurfti kerin, sem stöðvuðust, og ending hinna rýrnaði mikið.
Alls má áætla tjón ISAL vegna þessa straumleysis að upphæð MUSD 20 eða mrdISK 2,5. Það gefur einingarkostnað ISAL vegna óafhentrar orku í það skiptið 13 kUSD/MWh eða 1,6 kISK/kWh. Þetta var af stærðargráðunni 1000 sinnum sölutap Landsvirkjunar. (Landsvirkjun átti og rak þá jafnframt flutningskerfið.) Þetta er rakið hér til að sýna, að kostnaður straumleysis leggst að langmestu leyti á orkukaupandann. Mjög svipað á við mikilvirka kúabændur og álver. Kýrnar framleiða lítið sem ekkert í straumleysi, sumar veikjast jafnvel og drepast, en allar hinar selja ver lengi á eftir og endast jafnvel ver en ella. Tryggingar bæta iðnaðinum hluta tjónsins. Er vonandi, að bændum verði bætt að einhverju leyti hlutfallslega mikið tjón þeirra.
Evrópusambandið miðar við, að tapskostnaður notenda á hverja óafhenta orkueiningu sé á bilinu 5-25 EUR/kWh, og þetta kostnaðarbil ber að leggja til grundvallar hönnun raforkukerfa. Hjá ISAL nam hann í þetta skiptið 12 EUR/MWh. Ef straumleysið hefði varað hálftíma lengur, hefði verksmiðjan stöðvazt og tjónið farið í um 30 kUSD/MWh eða nokkuð upp fyrir efri mörk ESB, enda gerast atburðir af þessu tagi nánast aldrei þar vegna meira afhendingaröryggis raforku. Við getum komizt þangað, og það borgar sig. Ef téð straumleysi 1991 hefði staðið helmingi skemur, hefði tjónið náð að neðri mörkum ESB.
Þann 12. desember 2019 birtist á forsíðu Fréttablaðsins snemmbúin og snöggsoðin áætlun aðalhagfræðings Íslandsbanka, Jóns Bjarka Bentssonar, sem var með allt of lága kostnaðaráætlun um tjónið í óveðrinu í viku 50/2019. Hann reiknar með vinnutapi 2 klst að meðaltali fyrir allt starfandi fólk. Þetta kann að vera svo fyrir þá að hámarki 150 k starfsmenn, sem ekki lentu í ófærð og langvarandi straumleysi, en fyrir þá að lágmarki 30 k starfsmenn, launþega og sjálfstætt starfandi, sem lentu í ófærð og langvarandi straumleysi, nam vinnutapið a.m.k. 20 klst að meðaltali. Þá verður kostnaður vinnutaps að lágmarki mrdISK 3,6, sem er 2,6 sinnum meira en aðalhagfræðingurinn áætlar. Heildartjónið hefur vart verið undir mrdISK 5,0, en aðalhagfræðingurinn áætlaði heildartjónið aðeins um mrdISK 2,0.
Það er óskynsamlegt að gera minna úr tjóni af völdum óveðurs og straumleysis en efni standa til, því að þá verður hvatinn minni til úrbóta. Það ríður á að gera innviðina traustari, því að hættan á tjóni sem þessu verður annars viðvarandi. Ef svipaður vindstyrkur verður næst í suðlægum áttum, þá mun verða mikið tjón á Suður-Vesturlandi, kannski meira en varð nú á norðanverðu landinu. Með SV-átt kemur mikil selta, sennilega meiri en varð á Norðurlandi vegna hærra sjávarhitastigs. Við frostmark hleðst saltur ís á víra, einangra og burðarvirki, sem teygir á vírum allt niður að jörðu og skapar ljósbogahættu, sem getur valdið straumleysi á höfuðborgarsvæðinu og stórtjóni á atvinnustarfsemi SV-lands. Þar er mikið um viðkvæma starfsemi gagnvart straumleysi og lítið um neyðarrafstöðvar.
Jón Bjarki Bentsson rifjaði einmitt upp í Fréttablaðsviðtalinu óveðrið mikla í febrúarbyrjun 1991. Þá hrundi 220 kV lína í Hvalfirði og önnur í Gnúpverjahreppi vegna veðurofsa og ísingar, og seltu gætti líka á einangrurum. Við þetta varð straumlaust á höfuðborgarsvæðinu og hjá ISAL í Straumsvík í um 8 klst, eins og áður segir. Jón Bjarki telur, að framreiknað tjón þá hafi aðeins numið um mrdISK 3,6. Það er allt of lágt, vegna þess að einvörðungu hjá álverinu í Straumsvík varð búnaðartjón og framleiðslutjón uppfært um MUSD 20 eða mrdISK 2,5. Jón Bjarki virðist hafa gleymt þessum kostnaði, þannig að heildarkostnaðurinn þá hefur ekki orðið undir mrdISK 6,1.
Þarna skall hurð nærri hælum í Straumsvík, og munaði aðeins nokkrum mínútum, að framleiðsla allra keranna stöðvaðist. Sum þeirra stöðvuðust, og ending hinna styttist verulega vegna áraunar, og slíkt er dýrt. Þetta tjón jafngilti, að óafhent orka, orka, sem Landsvirkjun gat ekki afhent, en ISAL gat tekið við, hafi kostað notandann 13 kUSD/MWh að jafngildi 1,6 kISK/kWh, sem þá var næstum 1000 sinnum sölutjón Landsvirkjunar.
Af þessu sést, að orkukaupendur eiga miklu meiri hagsmuna að gæta en orkuseljendur, og þetta ójafnræði verður Alþingi og ríkisstjórn að hafa í huga, þegar viðbrögðum vegna straumleysis í viku 50/2019 verður hleypt af stokkunum. Það er ríkið, sem verður að gæta hagsmuna notenda gagnvart orkugeiranum, og þingmönnum ber að fylgjast gaumgæfilega með, hvernig málum vindur fram og krefjast upplýsinga, eins og þeir hafa nú gert.
Í þetta skiptið slapp áliðnaðurinn fyrir horn. Sú staðreynd, að aðeins önnur 400 kV lína Landsnets af tveimur (n-1 kerfi) yfir Hallormsstaðaháls og niður til Reyðarfjarðar gaf sig í aftakaveðri og ofankomu á Hálsinum, sýnir, að það er hægt að hanna, setja upp og viðhalda rafkerfi, sem þolir veður, sem búast má við á 10 ára fresti að sögn forsætisráðherra, og það ætti einmitt að verða krafan. Þar með er ekki sagt, að kerfið (400 kV) þoli meira og sjaldgæfara veður, eins og bilunin á Hallormsstaðahálsi sýndi, og þess vegna verður ekki hjá neyðarrafstöðvum komizt, þar sem mest er í húfi.
Vandi raforkugeirans er þríþættur. Skipulagsmálum fyrir framkvæmdir hans er beinlínis óskynsamlega fyrir komið, svo að undirbúningskostnaður verður að óþörfu allt of hár, og ekki sér fyrir endann á töfunum. Mestur er þó tjónkostnaðurinn, sem af töfunum leiðir. Hagsmunir þeirra, sem töfunum valda, eru dvergvaxnir í samanburði við hagsmuni hinna, sem fá ekki orku vegna tafa, bæði vegna takmarkaðrar flutningsgetu og tjónkostnaðar við bilanir.
Nú er komið á daginn, að tafir við leyfisveitingar hafa gert slæmt ástand enn verra um allt norðanvert landið í norðanáhlaupi, sem gerði 10. desember 2019 og stóð í þrjá sólarhringa með fannfergi. Í slíku neyðarástandi verður kostnaður notenda vegna hverrar kWh, sem ekki fæst, hæglega meira en þúsundfalt verð orkunnar, sem ekki fæst, og undir hælinn er lagt, hvort ástandið veldur fjörtjóni.
Það er í raun fáránlegt að ætlast til þess, að framkvæmdaaðili semji um legu línu, sem tengja á saman landshluta, við hverja sveitarstjórn um sig. Þær geta t.d. haft ólíkar skoðanir á legunni á mörkum sveitarfélaganna. Samgönguráðherra hefur nefnt þá lausn, að "landsskipulag" höggvi á þennan hnút, og slíkt fyrirkomulag virðist eðlilegt fyrir vegalagningu og línulagnir. Nú þurfa stjórnvöld og Alþingi að hafa hraðar hendur við stefnumörkun þessara mála í ársbyrjun 2020. Almannahagur liggur við.
Í öðru lagi þarf að ákveða, hvers konar veður flutnings- og dreifikerfin eiga að standa af sér. Meginflutningskerfið (hringtengingin) þarf að geta staðið af sér vind, ísingu og seltu, sem búast má við hérlendis í einhverjum landshluta (af mismunandi áttum) a.m.k. einu sinni á áratug, þ.e. sambærilegar aðstæður þeim, sem komu upp á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, í viku 50/2019. Þetta þýðir, að útleysing á nýrri Byggðalínu ætti að verða sjaldnar en á 10 ára fresti. Til þess þarf að reisa nýja línu frá Brennimel og norður um land til Fljótsdalsvirkjunar. Hún þarf að vera sérstyrkt eftir aðstæðum og sennilega er þjóðhagslega hagkvæmast, vegna kostnaðar raforkunotenda við hverja óvænta útleysingu, að byggja hana sem 400 kV línu, þótt hún verði rekin á 220 kV. Sú lausn gafst vel á Hallormsstaðahálsi í norðanbálinu í v. 50/2019, þar sem önnur 400 kV línan gaf sig, en hin stóðst veðurhaminn, og sú lausn hefur gefizt vel (og betur en 220 kV línur) í óveðrum og saltviðri á Suð-Vesturlandi, en þar eru 3 slíkar línur. Línurnar á Hallormsstaðahálsi eru af sterkustu útfærslu 400 kV lína.
Þá verða aðveitustöðvarnar að vera í húsi, og þá stefnu hefur Landsnet þegar markað. Annars verða aðveitustöðvarnar óboðlega veikir hlekkir í keðjunni, og þá getur sá búnaður verið hefðbundinn 220 kV búnaður, sem er ódýrari en 400 kV búnaður. Landsnet og dreifiveiturnar ættu síðan að hafa val um annaðhvort að halda sig við tréstæður á 66 kV og neðar og vera þá með varaafl fyrir allt viðkomandi þéttbýli eða að leggja jarðstrengi úr ólíkum áttum, þar sem a.m.k. annar leggurinn fær afl frá nýrri Byggðalínu, og láta varaafl duga fyrir viðkvæmasta álagið, s.s. sjúkrahús og hitaveitu.
Í þriðja lagi er svo fjármögnunin. Hjá Landsneti og dreifiveitunum eru gjaldskrárnar látnar fjármagna fjárfestingar og rekstur. Það veldur því, að þær verða of háar fyrir samkeppnishæfnina. Þar sem átak er nú framundan, til að útrýma núverandi veikleikum, þurfa þessi fyrirtæki viðbótar fjárstreymi, og það er fullkomlega eðlilegt, að það komi frá arðgreiðslum raforkuvinnslufyrirtækjanna. Sú var staðan fyrir innleiðingu Orkupakka ESB nr 1, að arði af raforkuvinnslunni var veitt til uppbyggingar flutningskerfisins.
Hvað sagði forstjóri Landsnets, Guðmundur Ingi Ásmundsson, um stöðu Landsnets eftir ófarir óveðursins í viku 50/2019 ? Það kom m.a. fram í viðtali við Morgunblaðið föstudaginn 13. desember 2019 undir fyrirsögninni:
"Óskilvirkt leyfisveitingakerfi tefur fyrir":
"Landsnet telur, að styrkja þurfi flutningskerfi raforku á Norðurlandi og fjölga varaleiðum. Uppbygging kerfisins, t.d. byggðalínunnar á Norðurlandi, hefur tafizt. Ástæðan er óskilvirkt leyfisveitingakerfi og óskýrar reglur að sögn Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra."
Það er deginum ljósara, að viðbót við núverandi Byggðalínu er löngu tímabær af nokkrum ástæðum. Núverandi 132 kV Byggðalína hefur allt of litla flutningsgetu m.v. flutningsþarfir, hún er að megninu til á tréstæðum, og þær elztu orðnar hálffimmtugar og líklegt, að fúi og tæring séu tekin að draga úr burðarþoli hennar, sem verður ófullnægjandi, þegar rok og ísing herja á hana samtímis. Einangrunargetan minnkar einnig með tímanum, svo að bilunarhættan verður mikil, þegar rok, ísing og selta herja á hana samtímis. Það má búast við slíku a.m.k. 2 á áratugi í hverjum landshluta, en búast má við óveðri, sambærilegu óveðrinu 10.-12. desember 2019, á 10 ára fresti samkvæmt munnlegri skýrslu forsætisráðherra til Alþingis á lokadegi þingsins fyrir þinghlé í desember 2019.
Við þessar aðstæður er ljóst, að engir hagsmunir eru svo ríkir, að þeir eigi að komast upp með margra ára tafir á úrbótum, sem varða þjóðaröryggi. Hlutverk löggjafans hlýtur að vera að grípa nú í taumana, þótt fyrr hefði verið, með löggjöf, sem losar um þá framkvæmdastíflu, sem Landsnet hefur búið við.
Þá vaknar spurningin um, hvaða úrbótaáform hefur Landsnet ? Fyrirtækið hefur áform um að reisa 220 kV línu frá Klafastöðum (Brennimel) nálægt Grundartanga norður um land og austur að Fljótsdalsvirkjun. Fyrirhugað er að reisa hana á röramöstrum, svipuðum og eru í nýju Þeistareykjalínunni að Bakka, sem reyndar bilaði í óveðrinu fyrir norðan í viku 50/2019. Aflflutningur yfir Hallormsstaðaháls frá Fljótsdalsvirkjun að Reyðarfirði hélzt óskertur í óveðrinu 10.-12. desember 2019, þótt önnur línan af tveimur, sem eru sterkasta útgáfa af 400 kV línum, gæfi eftir undan veðurhami og ísingu, enda er Hallormsstaðaháls alræmt veðravíti.
Í ljósi nútímakrafna til afhendingaröryggis raforku, sem hljóta að vera að standast öll veður, sem búast má við á 10 ára fresti og skemmri fresti og í mesta lagi 2 klst straumleysi við 50 ára veður, er ástæða til að meta, hvort verjanlegt er að fjárfesta í 400 kV línu á a.m.k. hluta þessarar um 500 km leiðar. Kostnaðarmunurinn alla leið er líklega aðeins mrdISK 10, og þegar þess er gætt, að tjónið af völdum jólaföstuóveðursins 2019 (v.50) nam e.t.v. um mrdISK 5,0 og fer vaxandi með tímanum, er ljóst, að 400 kV lína myndi borga sig upp á viðunandi tíma (innan við 20 árum). Rekstraröryggislega munar líklega mest um miklu meiri einangrunargetu og mótstöðu gegn hrævareldum yfir einangrun af völdum seltu, sem verður tíðara og meira vandamál hérlendis með hækkandi sjávarhita og tíðari hvassviðrum.
Hér ber að hafa í huga, að í ljósi slæmrar reynslu af 220 kV línum í óveðrum, þar sem selta náði í hvössum SV-áttum alveg upp að Sigölduvirkjun, var farin sú leið að tengja saman Sultartangavirkjun og Búrfellsvirkjun með 400 kV línu ásamt því að tengja Sultartangavirkjun við aðveitustöðina á Brennimel og Búrfellsstöðina við aðveitustöð á Lyklafelli (Sandskeiði) með slíkum línum, sem þá eru alls 5 á landinu um þessar mundir. Allar þessar þrjár 400 kV línur SV-lands eru hryggjarstykkið í auknu afhendingaröryggi Suð-Vestanlands, og íbúar annarra landshluta eiga fullan rétt á, að sams konar búnaður verði notaður til að draga úr hættu á rafmagnstruflunum vegna veðurs þar.
Aftur að téðu viðtali við Guðmund Inga:
"Við fengum gríðarlegan vind og mikla ófærð, og svo hlóðst saltmengaður ís á línurnar, sem liggja með ströndinni. Á Norður- og Austurlandi var afar slæmt veður, en í raun fengum við útleysingu rafmagns um allt land. Þetta reyndi mikið á raforkukerfið. Það stóðst mjög vel á Suður- og Vesturlandi, en það sama er ekki hægt að segja um stöðuna á Norðurlandi, þar sem verulegar skemmdir urðu og á tímabili á Austurlandi."
Það gerist örsjaldan, að rafmagn fari af sunnan heiða í norðan bálviðri, og hið sama á við norðan heiða, þegar hvassviðri geisa af suðlægum áttum. Þess vegna var það enginn mælikvarði á gæði raforkukerfa á Suður- og Vesturlandi, að þau skyldu verða fyrir litlum sem engum truflunum í viku 50/2019. Þau geta hæglega hrunið í næsta suð-vestanroki, sérstaklega ef hitastigið verður þá nálægt 0°C. Það er bitur reynsla fyrir því, að jafnvel 220 kV línurnar sunnanlands loga allar í slíku veðri, en 400 kV línurnar haldast inni. Landsnet verður þá að lækka 220 kV kerfisspennuna niður úr öllu valdi, sem getur valdið skemmdum á búnaði, og dugar ekki alltaf til, svo að viðkomandi línur rofna sjálfvirkt frá (liðavernd).
Tjón hjá notendum í langvarandi straumleysi getur hæglega orðið meira en 1000-föld töpuð orkusala. Tjón Landsnets varð mikið, en mest verður alltaf tjón orkukaupendanna. Þegar stóriðjan gerir langtímasamninga, setur hún fram kröfur um gæði raforkunnar og þar með afhendingaröryggi. Oftast njóta almennir notendur góðs af því, t.d. er sú reyndin á höfuðborgarsvæðinu. Enginn er hins vegar í aðstöðu til að verja hagsmuni almennings sem raforkunotenda, nema fulltrúar hans á Alþingi.
Þingmönnum ber í störfum sínum að verja hag umbjóðenda sinna gagnvart raforkugeiranum, t.d. með lagasetningu. Það er sanngirnismál, sem þingmenn allra kjördæma ættu að geta sameinazt um, að allir íbúar landsins búi við sambærilegt afhendingaröryggi að hálfu flutningsfyrirtækisins Landsnets, a.m.k. á hæstu kerfisspennunni, sem er 220 kV. Nú stendur til að reisa nýja 220 kV línu um norðanvert landið allt frá Hvalfirði til Fljótsdals. Það er mjög til bóta fyrir rekstraröryggið, að Landsnet hefur ákveðið, að nýjar aðveitustöðvar fyrirtækisins verði innanhúss. Hins vegar hefur fyrirtækið ekki skoðað lagningu 400 kV línu, síðan Búrfellslína 3 var lögð að Lyklafelli á Sandskeiði.
Það verður aldrei hægt að tryggja landsmönnum öllum jafnan og réttlátan aðgang að stofnrafkerfi landsins, sem þeir eiga þó að jöfnu, nema beitt sé beztu fáanlegu tækni í öllum landshlutum, og hún er í þessu tilviki lína, rekin á 220 kV, en einangruð fyrir 400 kV. Það mundi strax stórbæta stöðuna, að slík lína yrði lögð frá Brennimel til Varmahlíðar um Hrútafjörð og Blöndu.
Síðan ræddi Guðmundur Ingi ástæður þess, að framkvæmdir fyrirtækisins eru alltof seint á ferðinni:
" Það er fyrst og fremst vegna þess, hversu hægt hefur gengið að fá leyfi til framkvæmda. Undanfarin 3 ár höfum við ekki getað framkvæmt nema ríflega helminginn af því, sem við höfum áætlað."
Það er ólíklegt, að Landsnet hefði verið orðið óháð gömlu 132 kV Byggðalínunni á Norðurlandi, þótt fyrirtækið hefði engu mótlæti mætt að hálfu Landverndar og landeigenda, en ófarirnar í óveðrinu 10.-12. desember 2019 hefðu ekki orðið jafnsvakalegar og raun bar vitni. Tjón og angist hefðu orðið minni.
Stjórnarráðið ber hins vegar ábyrgð á, að dráttur á drátt ofan er látinn viðgangast árum saman með þeirri afleiðingu, að allt norðanvert landið er látið reiða sig á flutningslínu, sem reist var af vanefnum, er úrelt orðin, óáreiðanleg í stórviðrum og stendur atvinnuþróun stórra byggðarlaga fyrir þrifum vegna lítillar flutningsgetu og veikburða hönnunar. Þetta er gríðarlegur áfellisdómur yfir undanförnum ríkisstjórnum og embættismönnum þeirra. Auðvitað tók Stjórnarráðið í fullkomnu ábyrgðarleysi einn "Yes, Minister" á vandamálið núna,og ríkisstjórnin skipaði toppembættismenn Stjórnarráðsins, sem sofið hafa á verðinum, til að gera tillögur um úrbætur. Ánægjulegt er hins vegar, að Alþingi glórir í, að ríkisvaldið hefur brugðizt almenningi í landinu, sem byggt hefur upp tæknivædda atvinnustarfsemi, sem reiðir sig á, að samfélagslegir innviðir rafmagns og fjarskipta séu traustir, og samþykkt einróma kröfugerð um svör við áleitnum spurningum á hendur ríkisstjórninni.
Ríkisstjórnin og embættismenn hennar hefur hátíðirnar til að hugleiða svörin, en Stjórnarráðið getur ekki frestað mikið lengur að straumlínulaga leyfisveitingaferlið, og samgönguráðherra virtist gera sér grein fyrir því, þegar ósköpin dundu yfir, að sumar framkvæmdir ættu aðeins heima undir nýrri lagasetningu um landsskipulag á forræði ríkisvaldsins. Forstjóri Landsnets virðist vera orðinn hundleiður á að starfa, bundinn í báða skó:
""Það þarf að endurskoða allt ferlið, einfalda það og hafa reglur skýrari. Síðan þarf að setja mannskap og fjármagn inn í þær stofnanir, sem um þetta fjalla." Hann nefnir umhverfismat og skipulagsmál í þessu efni."
Guðmundur Ingi nefnir hins vegar ekki þá ríkisstofnun, sem hefur eftirlit með fyrirtæki hans, en það er Orkustofnun, OS. Í Orkustofnun er farið yfir fjárfestingar- og rekstraráætlanir Landsnets, en í eftirlitsstofnuninni er engan veginn sambærileg kunnátta, fagþekking, á viðfangsefnum flutningskerfisins og hjá Landsneti. Orkustofnun er ekki í neinum færum að velja á milli tveggja eða fleiri tæknilegra kosta á grundvelli hagsmuna umbjóðendanna, almennings í landinu, til langs tíma. Þess vegna er ábyrgðarleysi fólgið í því, að OS geti skorið niður viðhaldskostnað eða fjárfestingar, sem tæknimenn Landsnets hafa lagt til í nafni rekstraröryggis, starfsmannaöryggis eða kerfisþarfa til skamms eða langs tíma.
Fjármögnun Landsnets og dreifiveitnanna er ábótavant. Þetta hefur leitt til hárra gjaldskráa. Það er ekkert vit í því, að á meðan innviðir grotna niður með gríðarlegum kostnaði fyrir notendur, skili orkuvinnslufyrirtækin gróða til eigenda sinna. Þessum gróða á að beina til Landsnets og dreifiveitnanna til að fjármagna átak til styrkingar flutningskerfisins og til að færa dreifikerfin í jörð og dreifistöðvar í hús.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.9.2019 | 13:24
Af sæstrengjum Noregs og Íslands
Þann 31. ágúst 2019 skrifaði Hjörtur J. Guðmundsson stutta frétt í prentútgáfu Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:
"Vonast eftir stuðningi við sæstreng".
Þar gaf m.a. á að líta eftirfarandi:
"Formlegar samningaviðræður um formlegan stuðning ríkisstjórna bæði Íslands og Bretlands eru að sögn talsmannsins [fyrir Atlantic SuperConnection] á meðal þess, sem vantar til þess að þróa verkefnið áfram. Spurður, hvar verkefnið væri statt, sagði talsmaðurinn, að Atlantic SuperConnection væri enn áhugasamt um verkefnið. Færi svo, að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið og orkumálaumgerð þess [ACER og Orkusamband Evrópu] í lok október, eins og gert væri ráð fyrir, væri vonazt til þess , að virkt samtal gæti hafizt skömmu eftir það varðandi það að fá formlegan stuðning."
Til er annar fjölþjóðlegur orkusamningur en Orkupakki #3 (OP#3) Evrópusambandsins (ESB), sem nú hefur hlotið fullgildingu í EFTA-löndum EES líka. Sá heitir "Energy Charter Treaty" - ECT, og var hann samþykktur að Íslands hálfu 1994 og fullgiltur á Íslandi árið 2015, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með orkumálin, eins og núna. (Noregur hefur ekki fullgilt samninginn af einhverjum ástæðum.) Umræddur ráðherra iðnaðar og nýsköpunar 2015 heitir Ragnheiður Elín Árnadóttir (23.05.2013-11.01.2017).
Sagt er, að á grundvelli ECT hafi fjárfestar höfðað skaðabótamál á hendur ríkisstjórnum og haft nokkuð upp úr krafsinu. Það er þá á grundvelli þjóðaréttar, en ekki landsréttar, því að að ECT felur hvorki í sér lagalegar né fjárhagslegar skuldbindingar, eins og OP#3 gerir, og ekkert framsal ríkisvalds. Ef ECT er varasamur, þá er OP#3 stórhættulegur. ECT getur auðvitað orðið samningsumgjörð um sæstreng til Bretlands eftir BREXIT, og hann getur verið íslenzkum fjárfestum, verktökum og ráðgjöfum hjálplegur við starfsemi þeirra utan EES, t.d. við jarðhitaverkefni í Afríku og Asíu. Fjórfrelsisreglur EES og OP#3 ættu að gera notkun ECT innan EES óþarfa.
Sá er einmitt reginmunurinn á ECT og OP#3, að ECT er uppsegjanlegur, en OP#3 ekki (nema segja upp EES-samninginum). Það er hins vegar ólíklegt, að ACER leyfi orkutengingu við Bretland, ef Bretland gengur úr ACER. ACER vill fá íslenzka raforku inn á Innri markað ESB, og gæti þá beitt sér til að beina "Icelink" verkefninu til Írlands og tengt síðan Írland með öflugum hætti við meginlandið, svo að dæmi sé tekið.
Einhver erlendur stjórnmálamaður nefndi, að Íslendingar ættu að sjá Dönum fyrir kolefnisfríu rafmagni. Það væri þó að bera í bakkafullan lækinn, því að nú þegar selja Norðmenn Dönum rafmagn á daginn um 4 sæstrengi og kaupa til baka á nóttunni á tiltölulega hagstæðu verði.
Samt hefur Statnett (norska Landsnet) talið rétt að tengja Noreg við enn stærri markaði,framhjá Danmörku,því að fyrirtækið lagði sæstreng til Hollands fyrir nokkrum árum og er að leggja einn til Þýzkalands og annan til Englands. Einkafyrirtækið NorthConnect hefur sótt um leyfi til að leggja samnefndan sæstreng á milli Skotlands og Noregs með um 1400 MW flutningsgetu og áætlaðan orkuflutning um 10 TWh/ár. Landsreglari Bretlands hefur nú samþykkt umsókn NorthConnect um þennan streng, og Orkustofnun Noregs, NVE, mun fljótlega afgreiða umsóknina frá sér. Búizt er við, að hún muni samþykkja umsóknina, í blóra við vilja fjölmargra umsagnaraðila í Noregi, þ.á.m. Statnett, sem óttast gríðarlegar raforkuverðhækkanir í Noregi með NorthConnect, því að hann muni þurrka upp allan varaorkuforða í miðlunarlónum Noregs.
Ef landsreglarar Bretlands og Noregs verða ósammála um NorthConnect, sker ACER úr. Kannski mun BREXIT skera Norðmenn úr snöru OP#3 í þetta sinn. NorthConnect verður áreiðanlega mikið hitamál í Noregi og mun skerpa línurnar í komandi baráttu fyrir Stórþingskosningarnar eftir 2 ár. Verður lærdómsríkt fyrir Íslendinga að fylgjast með þessum átökum í Noregi um NorthConnect og að fylgjast með efnahagslegum áhrifum af tengingu þeirra tveggja stóru millilandasæstrengja, sem Statnett er nú með á framkvæmdastigi.
Atlantic SuperConnection þykist hafa varið stórfé til undirbúnings sæstrengs frá Englandi til Íslands. Þar gætu búið að baki áform um að kæra stjórnvöld hérlendis fyrir óeðlilegar tafir á afgreiðslu sæstrengsmálsins á grundvelli OP#3 fyrir BREXIT eða ECT eftir BREXIT. Þar kemur þó ekki einvörðungu til álita útlagður kostnaður, heldur ekki síður tapaðar tekjur í framtíðinni, svo að hér getur orðið um háar fjárhæðir að tefla við Edmund Truell, sem ekki kallar allt ömmu sína. Þessa áhættu þarf að vega og meta á móti hugsanlegum ávinningi Íslendinga af ECT, sem hér hefur verið drepið á.
"Hann sagði, að í heildina hefði rúmlega MGBP 10 verið varið í fýsileikaathugun sæstrengsins og raflínuverksmiðju [sæstrengsverksmiðju].
Talsmaðurinn sagði aðspurður, að þeir, sem færu fyrir verkefninu, hefðu verið í sambandi við íslenzka ráðherra og stjórnmálamenn snemma á síðasta ári."
Það er athyglisvert, hversu mikla áherzlu Atlantic SuperConnection (ASC) leggur á samskipti við stjórnmálamenn í báðum löndum. Fyrirtækið virðist ætla að sækja í sjóði þeirra, t.d. byggðasjóð á Englandi, þar sem ládeyða hefur um langa hríð hrjáð Norð-Austur England, þar sem ASC fyrirhugar að reisa sæstrengsverksmiðju og síðan að hefja lagningu sæstrengs þaðan og til Íslands. ASC virðist líka sækjast eftir því, að brezka ríkisstjórnin greiði niður kostnað raforku frá Íslandi, sem flutt er frá Íslandi, á þeirri forsendu, að hún sé kolefnisfrí. Þessar væntingar standa á brauðfótum.
Markaðskerfi ESB (Innri markaður raforku) felur í sér, að öll raforka fari á markaðstorgið, einnig sú, sem send er á milli landa. Hjá ESB sjá menn hlutverk Íslands og Noregs í raforkuviðskiptum á þessum vettvangi fólgið í því að fylla upp í framboðslægðirnar, sem myndast þá daga, þegar margar vindmyllna Evrópu í senn hægja á sér. Þá geta vatnsorkuver landanna hlaupið fyrirvaralítið undir bagga. Skilyrði er auðvitað, að nóg vatn sé í miðlunarlónunum og ríkulegt afl til reiðu. Á Íslandi skortir mikið á, að fyrir hendi sé mikið afgangsafl eða -orka, af því að álagið er fremur jafnt allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þess vegna þarf fyrst að fjárfesta mjög mikið í nýjum eða stækkuðum stöðvarhúsum með viðbótar vél- og rafbúnaði.
Miðlunargetuna þyrfti ekki að auka mikið, því að hugmyndin er sú að snúa orkustefnunni við, þegar nægur fjöldi vindmyllna er tekinn að snúast eðlilega aftur. Þá kaupir Ísland raforku að utan og safnar þannig vatni á ný í lónin. Verðmismunurinn er mikill, en flutningskostnaðurinn tiltölulega hár. Aukið uppsett afl kallar á miklar fjárfestingar, sem enduspeglast munu í rafmagnsverðinu, einnig innanlands. Það mun þess vegna hækka við þessar aðfarir, og rennsli viðkomandi áa verða óstöðugt.
Þessi mikla fjárþörf í vatnsvirkjanageiranum getur skýrt áherzlu Framkvæmdastjórnarinnar á það, að orkunýtingarleyfin skipti um hendur og í stað ríkisfyrirtækja komi fjársterk einkafyrirtæki með fjárfestingarvilja og getu.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2019 | 11:31
Um fullveldisrétt og nýtingu orkulinda
Líklega þykir mörgum hérlandsmönnum, að það sé fullveldisréttur ríkisins að ráða því, hvernig stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórn á grundvelli laga frá Alþingi, haga úthlutun leyfa til nýtingar á orkulindum til raforkuvinnslu hérlendis. Þetta er þó ekki lengur alfarið svo, því að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) krafðist þess með úrskurði nr 075/16/COL, dags. 20.04.2016, að ákvæðum EES-samningsins, sem banna ríkisstuðning til fyrirtækja á samkeppnismarkaði, yrði fullnægt. M.ö.o. takmarkar EES-samningurinn fullveldisréttinn til nýtingar orkulinda á Íslandi. Fullyrðingar flautaþyrla um, að EES-samningurinn snerti ekki orkulindirnar, eru út í loftið.
Fyrsta bréfið þessu lútandi fór frá ESA 14.10.2008, þegar Íslendingar voru í sárum eftir hrun bankakerfisins, enda fór fyrsta svarbréfið af mörgum við fyrirspurnum ESA ekki fyrr en meira en ári síðar, 04.12.2009. Með bréfi, dags. 05.10.2015, tilkynnti ESA síðan ríkisstjórninni, eftir athugun sína, að stofnunin teldi íslenzka fyrirkomulagið um téðar leyfisveitingar jafngilda ríkisaðstoð, sem stangaðist á við EES-samninginum. Viðræður fóru fram á milli aðila, en niðurstaðan varð engu að síður Íslandi mjög í óhag, því að ESA kvað upp eftirfarandi úrskurð:
"Með úrskurði nr 75/16/COL þann 20. apríl 2016 komst Stofnunin [ESA] að þeirri niðurstöðu, að framkvæmd íslenzkra yfirvalda við úthlutun til raforkuvinnslufyrirtækja á leyfum til afnota á þjóðlendum, á ríkislandi og náttúruauðlindum þar, án þess að fyrir hendi sé greinileg lagaleg krafa um að greiða markaðstengt afnotagjald og án nokkurra ítarlegra ákvæða um ákvörðun markaðsverðsins á grundvelli gegnsærrar aðferðarfræði, feli í sér gildandi fyrirkomulag ríkisaðstoðar, sem er ósamrýmanleg virkni EES-samningsins."
Í flestum ríkjum er það viðkvæmt mál, hvernig ríkisvaldið hagar afnotum náttúruauðlinda í sinni eigu. Það er víðast hvar talið til fullveldisréttar hvers ríkis að ákveða skipan þessara mála, en framkvæmdastjórn ESB hefur lengi verið á öðru máli, eins og sameiginleg fiskveiðistefna Sambandsins er skýrt dæmi um. Trú köllun sinni hefur Framkvæmdastjórnin allt aftur til 1990 rekið þá stefnu gagnvart vatnsorkulöndum í Sambandinu, t.d. Frakklandi, að úthlutunartímann ætti að miða við þarfir einkafyrirtækja til afskrifta á slíkum fjárfestingum (um 30 ár) og að þau yrðu að sitja við sama borð og ríkisorkufyrirtækin við þessa úthlutun. Árið 2008 hóf spegilmynd Framkvæmdastjórnarinnar EFTA-megin, ESA, ferlið, sem leiddi til sams konar úrskurðar árið 2016 og Framkvæmdastjórnin hafði áður fellt.
Í úrskurði sínum, 075/16/COL (sjá viðhengi), ráðlagði ESA ríkisstjórninni að taka eftirfarandi 4 skref til að tryggja, að úthlutun orkunýtingarréttinda á orkulindum ríkisins fæli ekki í sér ríkisstuðning:
- "Íslenzk yfirvöld skulu tryggja, að fyrir hendi verði lagaleg skuldbinding allra greina hins opinbera á Íslandi (þ.e. sérstaklega á ríkisstjórninni, sveitarfélögum og fyrirtækjum í opinberri eigu), að hvers konar réttindaframsal til að nýta þjóðlendu, ríkisland og náttúruauðlindir þar (náttúruauðlindir í opinberri eigu) til raforkuvinnslu, fari fram á markaðsforsendum, og að þar af leiðandi sé slíkt framsal skilyrt við, að hæfileg greiðsla verði innt af hendi.
- Íslenzk yfirvöld skulu tryggja, að allir rekstraraðilar, hvort sem þeir eru í ríkiseign eða ekki, fái sams konar meðhöndlun hvað varðar hæfilega greiðslu fyrir réttindin til að nýta opinberar náttúruauðlindir til raforkuvinnslu.
- Íslenzk stjórnvöld skulu tryggja, að skýr og auðsæ aðferðarfræði sé lögð til grundvallar verðlagningunni á réttinum til að nýta opinberar náttúruauðlindir til raforkuvinnslu.
- Íslenzk stjórnvöld skulu endurskoða alla núverandi samninga til að tryggja, að raforkuvinnslufyrirtæki greiði hæfilegt gjald fyrir það, sem eftir lifir samningstímabilsins."
Þá var tekið fram í úrskurði 75/16/COL, gr. 2,
að "Stofnunin mælti með því, að íslenzk yfirvöld gerðu nauðsynlegar löggjafar-, stjórnkerfis- og aðrar ráðstafanir í því augnamiði að uppræta f.o.m. 1. janúar 2017 alla ósamrýmanlega aðstoð af ástæðum, sem úrskurðurinn spannar."
Síðan gerist það ótrúlega 19. maí 2016, að íslenzka ríkisstjórnin sendir bréf til ESA, þar sem hún samþykkir allar kröfurnar, sem settar voru fram í úrskurði 075/16/COL. Með bréfi 15. desember 2016 til ESA tilkynnti íslenzka ríkisstjórnin ennfremur, að hún myndi verða búin að koma þessu í kring 30. júní 2017 og að breytingar á gildandi leyfisveitingum myndu taka gildi 1. janúar 2017 á þeim degi, sem ESA hafði krafizt í úrskurðinum, að allt yrði frágengið. Íslenzk stjórnvöld höfðu Alþingiskosningar 2016 sem skálkaskjól fyrir hálfsárs drætti, en er þetta komið til framkvæmda enn ? Á þessum grundvelli kvað ESA upp annan úrskurð, þ.e. nr 010/17/COL (sjá viðhengi), dags. 25. janúar 2017, um lúkningu þessa máls að sinni hálfu.
Allt fór þetta afar hljótt á Íslandi, þótt um stórmál væri að ræða, og enn eru engar spurnir af efndum. Eru virkjanafyrirtækin farin að greiða markaðsverð fyrir nýtingarrétt af orkulindum í eigu hins opinbera ? Sitja allir við sama borð nú við úthlutun slíkra leyfa, og gildir það jafnræði innan EES ? Hefur lögum og reglum verið breytt til að grundvalla þessar aðgerðir á. Nei, það hefur enn ekkert gerzt í þessu máli, svo að það sætir furðu, að ESA skuli ekki reka upp hvein. Nú hefur iðnaðarráðherra reyndar boðað þingmál á 150. þinginu um þetta mál. Ef þar á að fullnægja kröfum ESA, mun verða hart tekizt á um það.
Það er ekki hægt að reka stjórnsýslu til frambúðar á Íslandi þannig, að farið sé með samskiptin á milli ríkisstjórnarinnar og ESA sem mannsmorð. Öðru vísi er þessu háttað t.d. í Noregi. Þar er allt þessu viðvíkjandi uppi á borðum, og norska ríkisstjórnin hefur harðlega mótmælt því, að ESA eigi nokkurn íhlutunarrétt um úthlutun leyfa til nýtingar orkulinda Noregs:
Þeir ráðherrar, sem væntanlega hafa tekið ákvörðun um þessa uppgjöf fyrir ESA, voru:
- Forsætisráðherra 07.04.2016-11.01.2017: Sigurður Ingi Jóhannsson
- Utanríkisráðherra 08.04.2016-11.01.2017: Lilja Alfreðsdóttir
- Orku-og iðnaðarráðherra: 23.05.2013-11.01.2017: Ragnheiður Elín Árnadóttir
Þarna kemur Framsóknarflokkurinn greinilega mjög við sögu, og skýtur það óneitanlega skökku við stefnu flokksins og orðskrúðið um að standa vörð um hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu, t.d. í "kjötmálinu" s.k. (innflutningur á ófrosnu kjöti og ógerilsneyddri mjólk og eggjum í blóra við vilja Alþingis, en samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins). Þegar til stykkisins kemur, er lyppast niður án þess að bregða skildi á loft, nákvæmlega eins og í "orkupakkamálinu" (OP#3).
Fjármál | Breytt 23.9.2019 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.8.2019 | 10:29
Stórhættuleg braut mörkuð af ríkisstjórn
Margt bendir til, að Evrópusambandið (ESB) hafi í örvæntingu sinni yfir árangursleysinu við að ná loftslagsmarkmiðum sínum ákveðið að "sprengja" sér leið að endurnýjanlegum orkulindum Íslands og Noregs, og þá munu jarðhitaauðlindir Íslands fylgja í kjölfarið. Hér verður vikið að þeirri sviðsmynd, að undirlægjuháttur ríkisstjórnar Íslands gagnvart EES muni leiða til þess, að nýtingarréttur þessara íslenzku auðlinda hverfi úr landi.
Við stjórnvölinn sitja nú blindingjar á orkumálin, en þingmenn Miðflokksins virðast hafa áttað sig á þýðingu þessa máls fyrir þjóðarhag, og er málflutningur formannsins í Bítinu á Bylgjunni að morgni 21. ágúst 2019 til marks um það. Sama má segja um ræðu hans á fundi á Selfossi að kvöldi 22. ágúst 2019, þar sem um 170 manns hlýddu á 5 ágæta ræðumenn úr öllu hinu flokkspólitíska litrófi. Blekbóndi var staddur austanfjalls og brá sér á fundinn.
Þriðji orkupakkinn er ákveðið skref inn í orkusamstarf, sem mun hafa þær hörmulegu afleiðingar í för með sér, að íslenzka þjóðin mun að fullu missa stjórn á orkulindum sínum til markaðsafla og búrókrata ESB þrátt fyrir eignarhald ríkisins á þeim í mörgum tilvikum. EES-samningurinn spannar ekki eignarhald á náttúruauðlindum. Ríkið má eiga auðlindirnar, en "fjórfrelsið" skal ríkja um ráðstöfunarréttinn, og hið vanheilaga bandalag búrókrata og fjármagnseigenda, sem stjórnar Evrópusambandinu undir forystu Tevtónans Martin Selmayr, hægri handar forseta Framkvæmdastjórnarinnar, ræður fyrirkomulaginu með útgáfu reglugerða og tilskipana.
Téður Martin fær bráðlega löndu sína, Ursulu von der Layen, sem yfirmann, en hún var landvarnarráðherra Þýzkalands og skildi Bundeswehr eftir í rjúkandi rúst. Hefur þýzki herinn aldrei verið í jafnslæmu ásigkomulagi og nú. Dæmi: hjá Luftwaffe eru aðeins 4 bardagahæfar orrustuvélar og hjá Kriegsmarine álíka fjöldi bardagahæfra kafbáta. Hjá Bundeswehr var fagnað ótæpilega fréttinni um flutninginn til Brüssel, og haldin "tappalosunarhersýning" í kveðjuskyni.
Leyfisveitingar til nýtingar og stjórnunar á orkulindunum munu að óbreyttu falla undir reglur ESB, og réttur Íslendinga til að nýta orkulindirnar og stjórna þeim í þágu þjóðarinnar verður lítils virði. Þarna er fullveldisréttur Íslands lítilsvirtur. Lagaákvæði, sem gefa íslenzkum notendum rafmagns eitthvert forskot á erlenda innan EES, getur EFTA-dómstóllinn dæmt ólögmæt í kjölfar kvörtunar frá ESB til ESA. Erlendir auðmenn munu fá jafngóð eða betri tækifæri í krafti auðs síns en íslenzkir aðilar, þannig að arður af auðlindunum mun flytjast úr landi. Hvernig í ósköpunum getur þetta gerzt fyrir framan nefið á okkur ? Er um að ræða fávizku og skilningsleysi íslenzkra embættismanna, sem um þetta véla, eða fjarstýra harðsvíruð hagsmunaöfl stjórnmálamönnunum ? Spyr sá, sem ekki veit.
Í þessu sambandi má benda á þá kröfu Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarríkjum ESB, þar sem vatnsréttindi eru á hendi ríkisins, t.d. Frakklandi, Þýzkalandi, Austurríki, Póllandi, Portúgal og Svíþjóð, að ríkisvaldið verði að bjóða út orkuvinnsluleyfi þessara vatnsréttinda á opnum markaði EES. Útboðið skal aðlaga að þörfum einkafjárfesta, t.d. skal gildistími vinnsluleyfis vera aðeins 30 ár, en einkafjárfestar vilja endurheimta fjárfestingu sína ásamt öllum kostnaði innan þessara tímamarka. Þetta eitt út af fyrir sig þýðir óhjákvæmilega hækkun raforkuverðs til almennings og getur grafið alvarlega undan gildandi langtímasamningum um raforkusölu án tillits til sæstrengs.
Þegar ESA mun krefjast þessa sama hérlendis, mun krafan einnig spanna útboð vinnsluleyfa jarðgufusvæða til raforkuvinnslu, og er frá líður (OP#4-5) einnig lághitasvæði fyrir húshitun. Ætlunin er að ræna landsmenn um hábjartan dag. Viðskipti með orkuauðlindir í eigu hins opinbera (ríkis & sveitarfélaga) munu þá fara fram sem viðskipti með nýtingarleyfi. Yfirvöld landsins stefna nú málefnum landsmanna í algert óefni. Orsakir þess eru ekki aðalatriðið, afleiðingarnar eru aðalatriðið, og þær verða stórskert lífskjör landsmanna. Þetta verður gott fóður í næstu kosningabaráttu, ef stjórnarflokkarnir vaða út í foraðið.
ESA hóf þetta ferli gagnvart Íslandi með bréfi til ríkisstjórnarinnar 20. apríl 2016. Þann dag kvað þessi Eftirlitsstofnun EFTA, sem speglar Framkvæmdastjórnina EFTA-megin í EES-samstarfinu, upp eftirfarandi úrskurð:
"Ísland þarf að breyta lögum til að tryggja, að orkufyrirtæki, sem nýta auðlindir í almannaeigu til raforkuframleiðslu, greiði ávallt markaðsverð fyrir slíka nýtingu."
Hið skrýtna er, að ríkisstjórnin þumbast við að svara þessu grafalvarlega bréfi, líklega af ótta um afdrif OP#3 á þingi, en norski orku- og olíuráðherrann svaraði snöfurmannlega slíku bréfi á 5 vikum og stóð uppi í hárinu á ESA. Ekkert slíkt hvarlar að heimóttarlegum íslenzkum ráðamönnum, sem hræðast átök við pappírstígrisdýrið, sem ruggað getur hinum heilaga Graal, EES-samninginum.
Eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans í íslenzka löggjöf mun slíkt markaðsverð ráðast af aðstæðum á Innri markaði ESB, en ekki á þeim alþjóðlegu orkumörkuðum, þar sem íslenzk orkufyrirtæki hafa í meira en hálfa öld verið í samkeppni um orkusækna raforkukaupendur. Á þeim mörkuðum er mikið tillit tekið til fjarlægða orkubirgis frá hráefna- og afurðamörkuðum. Langtímasamningar hérlendis um raforkusölu verða augljóslega í uppnámi með þessu fyrirkomulagi, því að virkjanir, sem þeir eru reistir á, munu skipta um eigendur, og nýir eigendur munu heimta endurskoðun raforkusamninga til að gera viðskipti sín með nýtingarleyfi arðsöm.
Ekki er vafi á, að nýir virkjanaeigendur munu leita liðsinnis ESA, enda mun allur Evrópumarkaðurinn standa þeim opinn, þegar búið verður að dæma fyrirvara ríkisstjórnarinnar um hömlur á völd Landsregara óleyfilega með vísun til dóms ESB-dómstólsins vegna rangrar innleiðingar OP#3 í landsrétt Belgíu. Með þessu móti munu Íslendingar ekki aðeins missa forræði yfir orkulindum sínum, heldur mun vinnan og verðmætasköpunin, sem raforkunýtingin skapaði ásamt hagnaði raforkuvinnslunnar, hverfa úr landi. Þá er ljóst, að uppsögn EES-samningsins verður eina úrræðið til að forða efnahagslífinu frá stórfelldu tjóni. Norðmenn munu vafalítið komast að sömu niðurstöðu af norska svarbréfinu frá 5. júní 2019 að dæma.
Augljóslega er hér flotið sofandi að feigðarósi í íslenzka stjórnarráðinu og við blasir, að affarasælast er til að forða stórfelldum vandræðum, að Alþingi neiti að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara og leitað verði eftir undanþágum í Sameiginlegu EES-nefndinni. Ekki veldur sá, er varir. Hitt vekur furðu, hvers vegna flestir flokkanna, þ.á.m. píratarnir, hafa lagzt gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, en hún myndi án nokkurs vafa skera á hnútinn. Málið hefur leitt í ljós, að píratar eru ekki (lengur) uppreisnarflokkur gegn ríkjandi kerfi, heldur eru orðnir samdauna því og hafa lagzt upp að hlið Samfylkingarinnar. Það gæti orðið banvænt faðmlag fyrir þá.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2019 | 11:49
Erfðasilfrið í hendur ESB um embætti Landsreglarans
Samkvæmt rafmagnstilskipun Orkupakka #4, OP#4, gr. 51.1, verður Landsreglarinn einráður orkustjórnandi á Íslandi. Aðrir hlutar greinar 51 leiða óyggjandi í ljós, hver stjórnar Landsreglaranum. Í hverri greininni á fætur annarri er tryggilega bundið um hnútana, að Landsreglarinn, allir starfsmenn hans, stjórn embættisins og kvörtunarnefnd vegna gjörða hans, verða fullkomlega óháð pólitískum yfirvöldum á Íslandi, einnig fjárhagslega.
Landsreglaranum ber samkvæmt grein 58:
- að koma á innri ESB-markaði fyrir rafmagn í nánu samstarfi við önnur aðildarlönd, ACER og framkvæmdastjórn ESB
- að þróa svæðisbundinn raforkumarkað á milli landa
- að fjarlægja tálmanir úr vegi raforkuviðskipta á milli landa, t.d. með eflingu flutningsmannvirkja á milli landa
- að fjarlægja hindranir í vegi nýrra virkjana endurnýjanlegra orkulinda.
Með OP#4 er undirstrikað hlutverk Landsreglarans við að koma á markaðskerfi fyrir raforku, sem falli vel að kerfum nágrannalandanna. Hérlendis þýðir þetta fortakslaust stofnun orkukauphallar með "augnabliksverði" á raforkunni, sem fram kemur á snjallmæli hjá hverjum raforkuviðskiptavini, sem samþykkir uppsetningu slíks mælis hjá sér. Slík snjallmælavæðing á Íslandi kostar allt að mrdISK 10, mun hækka dreifingarkostnaðinn, sem er ærinn fyrir, og verður mjög lengi að borga sig upp hérlendis. Snjallmælar eiga við í löndum, þar sem framboð raforku er sveiflukennt og álagið tiltölulega breytilegt eftir tíma sólarhringsins, eftir dögum og eftir árstíðum. Sýnt hefur verið fram á, að eðli íslenzka raforkumarkaðarins leiði líklegast til hækkunar á meðalverði raforku til almennings við þessa gerð markaðsvæðingar, af því að nauðsynleg miðlæg auðlindastýring verður bönnuð. Hvers konar inngrip að hálfu ríkisvaldsins í þennan frjálsa markað verður óleyfilegt, og mun Landsreglarinn hafa eftirlit með því.
Hvers konar niðurgreiðslur á orkuverði og gjaldskrám flutnings- og dreififyrirtækja stríða gegn þessu kerfi. Það verður engin leið að styðja við innlend framleiðslufyrirtæki vegna hás dreifingarkostnaðar, því að slíkt skekkir samkeppnisstöðu við erlenda framleiðendur, þótt þeir búi við aðrar og hagsfelldari aðstæður. Þetta kerfi þjónar ekki íslenzkum hagsmunum á nokkurn hátt, enda er það alls ekki sniðið við íslenzkar aðstæður, sem hvergi annars staðar í Evrópu er að finna. Yfirvöld sýna af sér dómgreindarleysi og óvitaskap með því að ætla að innleiða OP#3 (og síðar væntanlega OP#4) án nauðsynlegra aðlögunarsamninga við ESB, sem þau hafa ekki haft vit á að fara fram á, t.d. um miðlæga auðlindastýringu.
Svíar hafa nú áratugsreynslu af Landsreglara, og hún er skelfileg fyrir sænska raforkukaupendur, því að dreifingarkostnaðurinn vegna hárra arðsemiskrafna Landsreglarans hefur hækkað um 55 %. Sænskur ráðherra reynir að vinda ofan of þessu, en þá slær Framkvæmdastjórnin á puttana á honum. Viljum við innleiða þennan ESB-sirkus á Íslandi ?
Allar lagalegar hindranir í vegi millilandatenginga verða brotnar á bak aftur, og engar óeðlilegar tafir á hvers konar leyfisveitingum verða liðnar. Þetta á líka við um nýjar virkjanir af öllu tagi. Standi vilji Evrópusambandsins til þess, verða ráðin gjörsamlega tekin af landsmönnum með OP#4, frá virkjun til sæstrengs. Eftir samþykki OP#4, hefur ESB töglin og hagldirnar í raforkumálum landsmanna. Þessa vegferð er öruggast að stoppa við OP#3.
Lítum nú á fleiri uggvænlegar greinar OP#4, sem lýsa inn í hugmyndaheim höfunda orkupakkanna og eru víti til varnaðar við ákvarðanatöku um OP#3:
Samkvæmt grein 59.1 ber landsreglaranum:
- að ákvarða gjaldskrár flutnings- og dreififyrirtækjanna
- að sjá til þess, að Landsnet og dreifiveiturnar fari eftir þessari tilskipun (rafmagnstilskipun OP#4), netskilmálum og reglum, sem framkvæmdastjórn ESB setur og Evrópuréttur tilgreinir - að meðtöldum málefnum orkuflutninga á milli landa - og samþykktum ACER.
- að sjá til þess, að Landsnet komi sér upp mannvirkjum, sem duga til flytja þá orku til og frá millilandasæstrengjum, sem markaðurinn biður um
- að rýna og gefa skýrslu um það, hvort fjárfestingaráætlun Landsnets sé í samræmi við kerfisþróunaráætlun ESB.
Hér er ekki skafið utan af því, heldur er því lýst skilmerkilega, að Landsreglarinn, algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum, verður æðsta yfirvald orkumála á Íslandi. Eitt aðalhlutverka hans verður að framfylgja ákvörðunum Evrópusambandsins, en hvorki íslenzku ríkisstjórnarinnar né Alþingis, um millilandatengingar og framfylgja því í krafti Evrópuréttar, að reist verði hérlendis mannvirki með flutningsgetu í samræmi við flutningsgetu þeirra sæstrengja, sem fjárfestum þóknast að leggja hingað að uppfylltum skilyrðum Evrópusambandsins.
Markaðurinn á hins vegar að sjá um að reisa nýjar virkjanir, vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir ásamt vindrafstöðvum. Umhverfisvernd víkur fyrir Evrópurétti, þar sem allt verður undan að láta í baráttunni við loftslagsvána.
KOMIST LANDSREGLARINN AÐ ÞVÍ, AÐ TAFIR VERÐI VIÐ VERKEFNI, SEM VARÐA MILLILANDATENGINGAR, OG EF MÁLIÐ ER ÓLEYST EFTIR 4 MÁNUÐI, Á LANDSREGLARI AÐ GEFA SKÝRSLU UM ÞAÐ TIL ACER, OG ACER TEKUR ÁKVÖRÐUN UM MÁLIÐ Í FRAMHALDINU.
Hér sjá menn skriftina á veggnum. Það verður engum vettlingatökum beitt, ef skipulagsyfirvöld í landinu ætla að draga lappirnar eða að leggja stein í götu leyfirveitinga fyrir mannvirki til orkuflutninga að sæstreng, sem flytja á orku inn á innri raforkumarkað ESB. Hér er ekkert gamanmál á ferðinni, heldur grímulaus valdataka Evrópusambandsins á Íslandi, ef Alþingi glepst á að samþykkja þessi ósköp, sem OP#3 og OP#4 eru. Er nema von, að Viðreisn hamist við að fá Orkupakka #3 samþykktan ? Sovét-Ísland, hvenær kemur þú, var einu sinni sungið.
Í viðhengi með þessum pistli er handhægt minnisblað um rafmagnstilskipun Orkupakka #4.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2019 | 21:23
Aukin fjárfestingarþörf í raforkukerfinu með OP#3
Norðmenn sjá fram á mjög auknar fjárfestingar í raforkukerfi sínu, ef/þegar Orkupakki #3 tekur gildi í landi þeirra. Þetta er óháð því, hvort Statnett, norska Landsnet, heldur einokunarstöðu sinni á sviði millilandatenginga, eins og meirihluti Stórþingsins vill og er einn af átta fyrirvörum Norðmanna við OP#3, en þessir fyrirvarar eru í uppnámi, og norska ríkisstjórnin hefur enn ekki staðið við 15 mánaða loforð sitt um að binda norsku fyrirvarana 8 í norsk lög, enda eru slíkir einhliða fyrirvarar gagnslausir og beinlínis skaðlegir fyrir samstarfið við Evrópusambandið, ESB.
Það er bull úr hvofti íslenzka utanríkisráðherrans, að ekkert bendi til annars en norsku fyrirvararnir hafi fullt gildi gagnvart ESB. Þessu er þveröfugt farið og rétt ein innistæðulausa fullyrðingin úr þeim hvofti. ESB hefur enn ekki gefið nokkurn skapaðan hlut út á bréf norsku ríkisstjórnarinnar með fyrirvörunum 8. Þeir eru þess vegna púðurtunna í norskum stjórnmálum, sem eldur verður væntanlega borinn að með haustinu.
Það eru alls ekki öll kurl komin til grafar í Noregi út af OP#3, og hin pólitísku átök munu verða enn harðari út af OP#4, af því að Alþýðusamband Noregs hefur nú tekið upp skelegga afstöðu gegn OP#3 og Verkamannaflokkurinn fylgir í humátt á eftir. Ofan á þetta bætast miklar raforkuverðshækkanir í Noregi, þar sem meðalverð fyrsta ársfjórðungs í ár er 30 % hærra en meðalverð sama tímabils í fyrra (2018). Hækkanirnar eru aðallega raktar til útflutnings raforku, sem óhjákvæmilega þrýsta upp raforkuverðinu innanlands upp undir erlenda verðið.
Norska orkustofnunin, NVE, hefur upplýst um fjárfestingaráætlun næstu 20 ára fyrir flutningskerfi raforku. Það er gríðarleg aukning fjárfestinga á döfinni, sem rekja má til áforma um vaxandi raforkuútflutning, sem ESB hvetur mjög til og hefur búið til kerfi með Þriðja orkupakkanum til að liðka fyrir. Raunar veitir OP#3 millilandaviðskiptum með rafmagn lagalegan forgang, og þau eru niðurgreidd með styrkveitingum. Þá ber flutningsfyrirtækjum rafmagns, Landsneti á Íslandi og Statnett í Noregi, að styrkja flutningskerfi sín, svo að þau anni þeim orkuflutningum, sem millilandatengingarnar kalla á.
Landsreglari í hverju ríki á að hafa eftirlit með því og fylgja því eftir, að Kerfisáætlun hvers lands sé aðlöguð Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem millilandatengiverkefni eru tilgreind. Þar eru t.d. "Ice-Link" á milli Íslands og Skotlands og "NorthConnect" á milli Noregs og Skotlands, og þessi 2 verkefni eru bæði á PCI-skrá ESB um styrkhæf verkefni.
Ef Alþingi samþykkir OP#3, þá mun ESB líklega hundsa spangól utanríkisráðherra Íslands um að taka "Ice-Link" af þessum lista. Utanríkisráðherra skilur ekki, hvað OP#3 felur í sér. Hann hefur sett upp einfeldningslegan fyrirvara, sem enginn vandi verður fyrir ESA og/eða sæstrengsfjárfesta að brjóta á bak aftur, Íslandi til mikillar hneisu og ómælds fjárhagstjóns. Þessi utanríkisráðherra stefnir EES-samstarfinu í stórhættu með kjánalátum, og hann setur stjórnmálalega stöðu Sjálfstæðisflokksins í uppnám. Hann hefur sýnt algera vöntun á pólitískri leiðtogahæfni til að leiða þetta orkupakkamál til farsælla lykta. Ekki hefur iðnaðarráðherra bætt sjáanlega úr skák, en aftur á móti hefur fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, fitjað upp á áhugaverðri stefnumörkun í málinu, s.s. að leita eftir undanþágu við ESB fyrir Ísland um alla orkupakkana.
Fjárfestingaráætlun NVE fyrir tímabilið 2020-2040 hljóðar upp á mrdNOK 140. Sé þessari upphæð varpað yfir á íslenzkar aðstæður og notað hlutfall orkuvinnslu landanna tveggja (7), þá fæst upphæðin 14 mrdISK/ár. Þetta er u.þ.b. þreföld fjárfestingarupphæð Landsnets 2018, sem gefur til kynna gríðarlega fjárfestingarþörf Statnetts vegna millilandatenginga, bæði í sæstrengjum og í flutningsmannvirkjum frá stofnrafkerfinu og að landtökustöðum sæstrengjanna.
Kostnaður við innanlandskerfið lendir alfarið á raforkunotendum innanlands. Miðað við gríðarlega fjárfestingarþörf í íslenzka flutningskerfinu, þótt Landsnet taki ekki þátt í sæstrengsfjármögnuninni sjálfri, má búast við tvöföldun flutningsgjaldsins. Í Noregi er búizt við, að breytingar Landsreglarans á gjaldskráruppbyggingunni leiði til tvö-þreföldunar á flutningsgjaldi fyrir orkukræfan iðnað. Gerist eitthvað svipað á Íslandi, gæti það orðið rothögg á einhver fyrirtæki í þessum geira og virkað afar hamlandi á raforkusölu til nýrra viðskiptavina, t.d. gagnavera, nema orkuvinnslufyrirtækin taki óbeint á sig hækkunina með því að lækka verð orkunnar frá virkjun.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)