Færsluflokkur: Fjármál
4.5.2018 | 10:33
Stórkarlaleg hugmyndafræði borgaryfirvalda
Einkennandi fyrir stjórnsýslu núverandi borgaryfirvalda er aðgerðarleysi, eins og rakið verður hér á eftir. Það er engu líkara en stórkarlalegir loftkastalar eigi að bera í bætifláka fyrir doða stjórnkerfisins. Algert áhugaleysi um hag atvinnulífsins og þjónustu við borgarbúa, hvað þá aðra landsmenn, skín út úr stefnumörkun og aðgerðarleysi borgarstjórnarmeirihlutans. Einkenni hans er doði, en nú þarfnast höfuðborgin einmitt dugandi karla og kvenna í meirihluta borgarstjórnar. Kjósendum í borginni er nú boðið upp á kosti, sem vert er að reyna.
Doðinn og loftkastalarnir eru skýr merki um, að fulltrúar meirihlutans eru ekki í pólitík til að þjónusta einn eða neinn, nema þá að þjóna lund sinni með því að troða meingallaðri, vanhugsaðri, rándýrri og afar óhagkvæmri hugmyndafræði sinni upp á höfuðborgarbúa og þar með landsmenn alla. Borgarstjórinn er utan gátta um rekstur borgarinnar, sem safnar miaISK 8 skuldum á ári og kann engin skil á slysum í rekstrinum, t.d. saurgerlum við baðströnd borgarinnar og skolpúrgangi í grennd, enda er hann ekki til viðtals fyrir sauðsvartan almúgann. Hjá Reykjavík mun ekkert breytast til batnaðar fyrr en í borgarstjórastól sezt skeleggur maður með báða fætur á jörðunni og lætur verkin tala. Hann verður að snúa hnignun fjármála og framkvæmda við. Eyþór Arnalds sýndi og sannaði í Árborg, að hann kann þetta.
Fyrsta dæmið um bjálfalega stjórnarhætti núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sem hér verður tekið, er fyrirhuguð lokun Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, eigi síðar en 2024. Þessi stefna var tekin án nokkurrar tilraunar til að leggja raunhæft mat á afleiðingarnar. Enginn flugvöllur kemur í staðinn, enda næmi slík fjárfesting miaISK 100-200. Lokun flugvallarins þýðir gríðarlega afturför varðandi eftirfarandi þætti:
- Flugkennsla í landinu missir langmikilvægustu aðstöðu sína. Starfsemin á Keflavíkurflugvelli og flugkennsla fara mjög illa saman. Flugkennslan í landinu er í uppnámi, á meðan hótun stjórnmálamanna um lokun Vatnsmýrarvallar vofir yfir.
- Flugfélögin, sem nota Keflavíkurflugvöll, missa mjög hentugan varafluvöll, sem þýðir minna öryggi, meiri eldsneytiskostnað og minni lestunargetu fólks og varnings um borð. Þetta mun gera flug til landsins og frá því dýrara. Ekki er víst, að stærsta atvinnugrein landsins, ferðaþjónustan, megi við því. Nú þegar eru teikn á lofti um, að aukning erlendra ferðamanna minnki einn mánuð eftir annan og gæti hæglega stefnt á samdrátt í fjölda á þessu ári m.v. 2017. Kemur hann á versta tíma fyrir greinina að miklu fjárfestingarskeiði afstöðnu. Ef samkeppnisstaða Íslands versnar m.v. önnur lönd nyrzt á norðurhveli, þá getur slíkt leitt yfir landið efnahagskreppu.
- Sjúkraflugið verður aðeins svipur hjá sjón. Forsenda þess, að landsbyggðarfólk geti reitt sig á neyðarþjónustu Landsspítalans er öflugt og öruggt sjúkraflug, sem aðeins er mögulegt með góðan flugvöll nærri honum, eins og nú háttar til. Að stefna sjúkrafluginu, nema þyrlunum, til Keflavíkur er svívirðileg framkoma við þá, sem í nauðum lenda fjarri höfuðstaðnum.
Samgöngumál höfuðborgarinnar, bæði við hana og innan hennar, eru í algerum ólestri, og fær borgarstjórnarmeirihlutinn falleinkunn fyrir málsmeðferð sína á þeim málaflokki. Hann hefur unnið gegn hagsmunum allra, sem þurfa að komast leiðar sinnar á höfuðborgarsvæðinu, með því að hlutast til um, að Vegagerðin haldi að sér höndum með umbætur á stofnæðum Reykjavíkur, en leggi þess í stað tæplega 1,0 miaISK/ár í Strætó. Þá innspýtingu taldi vinstri meirihlutinn 2011 duga til að auka hlutdeild Strætó í umferðinni, en hún stendur samt nánast í stað við 4 %. Þessum ríkisfjármunum er þess vegna mjög illa varið miðað við það, sem verið gæti. Þá hefur núverandi meirihluti Dags, borgarstjóra, unnið skemmdarverk á undirbúningi Sundabrautar með því að girða fyrir ódýrari leiðina með lóðaúthlutun. Engu er líkara en Dagur og hinn pólitíski kommissar skipulagsmálanna, svo nefndur Holu-Hjálmar, sem er enginn andans maður, eins og Bólu-Hjálmar var, stundi skæruhernað gagnvart íbúunum í nafni sérvitringslegrar hugmyndafræði. Það er pólitískt stórslys, að sérvitringar og faglegir viðvaningar skuli hafa vélað svo lengi um borgarskipulagið, sem raun ber vitni um.
Sem lausn á umferðarvandanum berjast þeir fyrir miaISK 100 fjárfestingu í s.k. Borgarlínu, sem er sérrein fyrir liðvagna, eftir að sporvagn var lagður á hilluna. Er nú hótað að setja veikburða borgarsjóð á hausinn með stórfelldum lántökum í þetta vonlausa verkefni, því að ríkið hefur að öllum líkindum önnur áform í Samgönguáætlun sinni 2019-2021, sem bíður birtingar.
Vandamál Borgarlínu er hár stofnkostnaður og rekstrarkostnaður miðað við íbúafjöldann á "upptökusvæði" vagnanna. Úr þessu reyna Dagur og Holu-Hjálmar að bæta með þéttingu byggðar. Þessi stefna hefur þegar valdið ómældu tjóni. Þessi byggingarmáti er tafsamur og dýr. Árið 2017 voru aðeins 322 íbúðir byggðar í Reykjavík, sem er aðeins rúmlega 15 % af þörfinni. Þetta kemur mjög harðlega niður á kaupendum fyrstu íbúðar sinnar, því að lítið framboð m.v. eftirspurn spennir verðið upp. Um þetta húsnæðishallæri af mannavöldum skrifar Baldur Arnarson baksviðsfrétt í Morgunblaðið 24. apríl 2018,
Nýju íbúðirnar of dýrar:
"Fátt bendir til, að skorti á smærri og ódýrari íbúðum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu verði eytt á næstu misserum. Nýjar íbúðir, sem eru að koma á markað, eru enda of dýrar.
Síðan vitnar hann í tvo sérfróða um húsnæðismarkað:
"Tilefnið er, að fyrstu íbúðirnar í nýju hverfi í Vatnsmýri fóru í sölu. Haft var eftir Brynjari Harðarsyni, framkvæmdastjóra Vals, í fréttum Stöðvar 2 sl. laugardag, að íbúðirnar hentuðu fyrstu kaupendum. Verð íbúðanna er 39,8 til 72,9 milljónir. Meðalstærð þeirra er 71 m2, og meðalverð á m2 er um 666 þúsund krónur."
Hér er yfirleitt um of stórar íbúðir fyrir fyrstu kaupendur að ræða. Engum þarf að koma á óvart, að íbúðir í Vatnsmýri séu dýrar. Við því var varað í upphafi umræðu um byggingarland þar, því að mjög djúpt er niður á fast undirlag. Að skáka í því skjólinu, að Reykjavíkurflugvelli verði brátt lokað, og að Neyðarbrautinni hafi verið lokað, eru of veik rök fyrir því að setja strax niður íbúðabyggð í Vatnsmýrinni. Þetta er rétt eitt glóruleysið, og þessar íbúðir geta hrapað í verði, ef nýr meirihluti festir flugvöllinn í sessi og jafnvel opnar Neyðarbrautina.
Síðan kemur afsprengi sérlundaðrar skipulagsstefnu, sem rýrir óhjákvæmilega gildi nýrra íbúða:
"Allur gangur er á því, hvort bílastæði fylgja nýjum íbúðum á þéttingarreitum í borginni. T.d. er hægt að kaupa bílastæði í kjallara með ódýrustu íbúðunum á Frakkastíg."
Það er ein af frumskyldum bæjarstjórna að skipuleggja nægt framboð íbúða af réttum stærðum m.v. þarfir hvers tíma. Reykjavíkurborg hefur gersamlega brugðizt þessu hlutverki, haft allt of lítið framboð ódýrra lóða, sem skipulagðar eru fyrir litlar íbúðir. Skilningur á þörfum íbúanna heldur ekki máli og er brottrekstrarsök úr borgarstjórn. Þegar borgaryfirvöld mæta íbúum Furugerðis, sem kvarta undan allt of mikilli þéttingu og of fáum bílastæðum, með því, að þeir geti notað reiðhjól, af því að nú sé búið að gera góða aðstöðu fyrir reiðhjól við Grensásveg, er ljóst, að ósvífni "rauðu khmeranna" eru engin takmörk sett og að nú er mælirinn fullur.
"Lýðfræðileg þróun síðustu áratuga hefur aukið eftirspurn eftir smærri íbúðum. Á sama tímabili hefur verið byggt hlutfallslega meira af stærri íbúðum, sem eru 110 m2 eða stærri. Það eru ekki íbúðir, sem ætla má, að fyrstu kaupendur séu alla jafna að horfa til.
Elvar Orri segir þessa þróun hafa skapað skort á smærri eignum, 30-60 m2, sem eru á viðráðanlegu verði fyrir fyrstu kaupendur.
Þá á ég við smærri íbúðir, sem kosta undir 30 milljónum króna. Ég held, að fyrstu kaupendur séu ekki endilega að horfa til íbúða, sem eru 60 m2 eða stærri. Það væru eflaust margir tilbúnir að fara úr foreldrahúsum og í íbúðir, sem eru minni en 60 m2, segir Elvar Orri og bendir á, að mikil eftirspurn eftir litlum íbúðum í skammtímaleigu til ferðamanna hafi dregið úr framboði smærri og ódýrari íbúða."
Fílabeinsturninn:
Vinstri menn hafa mikla tilhneigingu til að þenja út stjórnkerfi sín, einnig borgarinnar, og fjölga silkihúfum. Þeir hafa hins vegar enga þekkingu á því úr fyrirtækjarekstri, hvernig skipuleggja þarf starfsemi, svo að hún virki. Fjölgun embættismanna hefur fylgt lögmáli Parkinsons um, að ein staða kalli á aðra, og þjónustan hefur hríðversnað. Stjórnsýslan er orðin svo flókin, að enginn virðist botna í henni. Þetta spillta, gagnslitla og dýra kerfi þarf að skera upp, hrista upp í því og búa til einfaldar boðleiðir, þar sem íbúunum, sem þjónustunnar eiga að njóta, er ljóst, hver ber ábyrgð á hverju, og hvert þeir eiga að snúa sér með erindi sín.
Yfirmennirnir virðast núna ekki vera í neinu sambandi við íbúana. Ef óskað er viðtals við æðsta strump, er vísað á undirtyllu. Þessi "elítuuppbygging" að hætti "Brüsselvaldsins" á auðvitað engan veginn við í okkar litla samfélagi, þar sem ekki er pláss fyrir aðgerðarlausa kónga, sem er sama um lýðinn, heldur verða allir að vera virkir.
Það, sem sparast þá við þessa uppstokkun, á að veita til að bæta grunnþjónustuna við íbúana, t.d. yngstu íbúana, hverra foreldrar eru á skeiði mestu fjárþarfar lífs síns og þurfa þess vegna bæði á tekjum að halda, enda er slíkt í anda jafnréttis. Að bjóða yngstu íbúunum gott atlæti er grundvallarmál.
Eldri borgarar:
Um allt land fer eldri borgurum hlutfallslega mest fjölgandi allra aldurshópa. Það á í sérstökum mæli við í Reykjavík, þar sem frá dögum R-listans hefur verið rekin beinlínis fjandsamleg stefna í garð ungs fólks, sem er að stofna heimili. Þetta er fádæma skammsýni fyrir hönd borgarinnar, og vonandi munu nýir valdhafar í borginni snúa þessari öfugþróun við.
Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, ritaði þann 24. apríl 2018 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Okkar lausnir í Reykjavík".
Einn kaflinn hét: "Bætum kjör eldri borgara" og var merkileg tillaga að stefnumörkun fyrir borgina og önnur sveitarfélög:
"Borgin hefur hækkað gjöld á íbúana á síðustu 8 árum. Á sama tíma hafa eldri borgarar orðið fyrir skerðingum. Við viljum koma til móts við eldri borgara og veita 100 % afslátt fyrir þá, sem eru orðnir 70 ára. Þetta er réttlætismál, þar sem hér er verið að draga úr tekjuskerðingum. En þetta er jafnframt skynsamlegt, þar sem það er mun hagstæðara, að þeir, sem geta og vilja búa heima, eigi þess kost. Það er dýrt og óskynsamlegt að stofnanavæða heilu hópana. Og það er engin lausn í húsnæðismálum að skattleggja eldri borgara út úr húsum sínum."
Vinstri menn hafa brugðizt öndverðir við þessum sjálfsögðu þjóðfélagsumbótum Eyþórs Arnalds og beitt fyrir sig hefðbundnum músarholusjónarmiðum úr öfundargenunum um, að hér sé verið að umbuna þeim ríku. Þannig bregðast þeir alltaf við tillögum um skattalækkanir og kasta þar með á glæ fjölmörgum kostum skattalækkana, sem allt þjóðfélagið nýtur, jafnvel stundum á formi tekjuhækkana opinberra sjóða, og það er einmitt útgjaldalækkun opinberra sjóða, sem Eyþór hefur í huga hér, svo að allir græði.
Það er rík ástæða til að hvetja alla, sem annt er um góða þjónustu í nærsamfélaginu og ráðdeild við stjórnun fjármála þar, til að kjósa D-listann, ekki sízt í Reykjavík. Höldum okkur hægra megin.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.4.2018 | 10:49
Að binda sitt trúss á rangt hross
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði í viku 16/2018 við mikilli hættu, sem hann taldi heimsbúskapnum stafa af skuldsetningu þjóða. Skuldahlutfall þjóða er í sögulegu hámarki eða 225 % af heimsframleiðslu. Staða ríkissjóða ESB-ríkjanna er slæm, nema Þýzkalands og Hollands. Bæði lönd eru með um 6 % viðskiptaafgang af VLF, og skuldir ríkissjóða þessara landa eru um 60 % af VLF. Ísland er nú í þessum úrvalsflokki Evrópuþjóða, hvað hagstjórn varðar, með ríkisskuldir 35 % af VLF og viðskiptaafgang 4 %.
Mikill vandi blasir við löndum Evrópusambandsins, einkum evrusvæðisins. Ofangreind tvö lönd halda í raun verðgildi evrunnar uppi, en hún gæti orðið fyrir áfalli á næstu misserum vegna slæmrar skuldastöðu nokkurra ríkissjóða, og er sá ítalski stærstur þeirra. Komið er í ljós, að ný ríkisstjórn Þýzkalands ætlar ekki að ganga í ábyrgð fyrir önnur evrulönd. Ríkisstjórnin í Berlín endurspeglar að þessu leyti vilja mikils meirihluta Þjóðverja, sem vinna og spara fyrir því, sem þeir veita sér, og til elliáranna. Þeim, og forráðamönnum Bundesbank, hefur gramizt mjög lágvaxtastefna Evrubanka Ítalans Draghis og telja sig greiða meira en nóg í þágu ESB.
Á fundi Angelu Merkel og Emmanuels Macron í Berlín í apríl 2018 kom í ljós gjá á milli ríkisleiðtoganna tveggja, hvað sýn á þróun evrusvæðisins varðar. Iðnir og sparsamir Þjóðverjar vilja ekki deila fjárhagslegum örlögum sínum með öðrum þjóðum evrusvæðisins, sem kannski má kalla lata og eyðslusama í samanburði við Hollendinga og Þjóðverja, a.m.k. eru hagkerfi sumra ríkjanna í megnasta ólestri. Fyrir vikið eru horfur evrunnar dökkar, þegar næsta kreppa ríður yfir. Hvers vegna í ósköpunum ættu Íslendingar að binda sitt trúss við þessa skepnu, sem líklega fellur úr hor næst, þegar syrtir í álinn ? Hagkerfi Íslands á svo fátt sameiginlegt með hagkerfi evrunnar, að á þessum ólíku stöðum er hagsveiflan aldrei í fasa. Evran sjálf var hagfræðilegt glapræði, eins og í pottinn var búið, og pólitísk tilraunastarfsemi hugsjónamanna um Sambandsríki Evrópu. Hvað má þá segja um kenningar hér uppi á Íslandi um, að keppa beri að því að taka upp evru ? Sennilega má lýsa slíkri afstöðu sem áhættusækni, sem jaðrar við ábyrgðarleysi. Það þarf mjög vandaða áhættugreiningu hinna beztu manna áður en tekið verður róttækt skref í gjaldmiðilsmálum, hvort sem það verður í átt að EUR, GBP, NOK, USD eða öðrum gjaldmiðli.
Nú virðist vera að hefjast samdráttarskeið á evrusvæðinu. Iðnaðarframleiðsla Þýzkalands hefur ekki vaxið frá í desember 2017, og í febrúar 2018 dróst hún saman um 1,6 % m.v. mánuðinn á undan að teknu tilliti til dagafjölda. Samkvæmt Samtökum evrópskra bílaframleiðenda dróst framleiðsla þeirra saman um 5,3 % í marz 2018 m.v. sama mánuð 2017. Hagsveiflumælir þýzku hagstofunnar, IMK, þykir einna áreiðanlegastur hagvísa. Núna metur hann 30 % líkur á kreppu, en þær voru undir 10 % í marz 2018. Þegar hagvísar snúast niður á við um leið og neikvæðar fréttir berast af pólitíkinni, þá er ekki von á góðu:
- Þjóðverjar munu ekki fallast á sameiginleg fjárlög fyrir evrusvæðið til að mæta efnahagslegum skakkaföllum.
- Ekkert verður úr áformum um sameiginlega ríkisskuldabréfaútgáfu evruríkjanna.
- Það verður ekkert sameiginlegt innistæðutryggingakerfi.
- Sameiginlegu eftirlitskerfi með bankakerfinu hefur verið komið á, og voru Íslendingar þvingaðir í það dýra samkrull á vettvangi EES-samstarfsins, en að koma á sameiginlegu evrópsku bankakerfi er verkefni, sem sennilega lýkur aldrei.
Um þessa stöðu skrifar Wolfgang Münchau í Financial Times og Morgunblaðið fimmtudaginn 26. apríl 2018:
"En að það skuli fara saman að það dragi úr hagvexti eða jafnvel verði samdráttur í myntbandalagi, og það vilji ekki taka á vandamálum sínum, er einn stærsti áhættuþátturinn, sem alþjóða hagkerfið stendur frammi fyrir um þessar mundir."
Síðan tekur Münchau dæmi af mesta áhyggjuvaldinum á evrusvæðinu um þessar mundir, Ítalíu:
"Á Ítalíu hefur framleiðni varla aukizt, svo að nokkru nemi, frá því að landið gerðist eitt af stofnríkjum evrusvæðisins árið 1999. Samt var árið 2017 tiltölulega gott í efnahagslífinu. Það skiptir töluverðu máli fyrir land með ríkisskuldir, sem nema 132 % af landsframleiðslu, hvort hagvöxtur er að jafnaði minni en 1 % eða um 2 %. Bilið þar á milli er munurinn á því, hvort landið er gjaldfært eða á leið í greiðsluþrot."
Af þessu að dæma er vissast að búa sig undir slæm tíðindi frá Ítalíu. Ítalía gæti hrökklast út úr myntbandalaginu, og þá verður gríðarlegt rót á öllu evrusvæðinu. Fullyrða má, að gengi hennar mun taka tímabundna dýfu, en um jafnvægisgengið fer eftir atburðarásinni.
"Ítalía er bezta dæmið um, hvers vegna umbætur á evrusvæðinu eru spurning um líf og dauða. Evrópusambandið hefur engin úrræði til að bregðast við, ef ítalska ríkið getur ekki lengur greitt af skuldum sínum. Ítalía er of stór til að falla, og of stór til að hægt sé að bjarga. Efnahagsstöðugleikastofnun ESB, sem á að leysa vandann, er ekki nægilega stór til að ráða við slíkan skell. Ég efast ekki um, að evran sem slík mundi ná að lifa áfram í einhverri mynd, en ef engar umbætur eiga sér stað, þá stóraukast líkurnar á, að myntbandalagið bútist í sundur."
Evrópusambandið á við yfirþyrmandi vandamál að etja og miklar heimiliserjur í þokkabót. Við slíkar aðstæður reyna stjórnendur þess og 33´000 búrókratar að sækja fram á öðrum sviðum, þar sem hagræðingar er að vænta af sameiginlegri stjórnun frá Brüssel. Eitt þessara sviða eru orkumálin, þar sem í upphafi á að einbeita sér að auknum flutningum á milli landa. T.d. eiga raforkuflutningar að aukast um 50 %, fara úr 10 % 2015 í 15 % af raforkuvinnslu árið 2030 og stefnt er á 30 %. Þetta á að flýta fyrir orkuskiptum og jafna raforkuverðið á milli landa. Ráðast á á markaði, hverjir fá hversu mikið af orku og á hvaða verði. Ætlun Framkvæmdastjórnarinnar er, að þetta auki verðmætasköpun innan ESB og örvi þannig hagvöxt.
Það getur vel verið, að svo verði í ESB, en á Íslandi mundi það hins vegar draga úr hagvexti að taka þátt í slíku, og það mundi örugglega tefja orkuskiptin. Ástæðurnar eru, að hækkun raforkuverðs dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna við útlönd, og minni og dýrari raforka verður til ráðstöfunar til orkuskiptanna.
Krafan frá ESB um inngöngu EFTA-landanna í EES í Orkusamband ESB er dæmigerð fyrir minna umburðarlyndi og minni skilning að hálfu Framkvæmdastjórnarinnar og búrókrata hennar á sérþörfum EFTA-ríkjanna en áður var. EES-samningurinn er orðinn helsi á Íslendingum í þeim skilningi, að ESB treður stjórnkerfi sínu upp á landsmenn í blóra við EES-samning og Stjórnarskrá landsins, og gjörðir ESB eru allar íþyngjandi fyrir landsmenn, aukið skrifræði og reglugerðafargan dregur úr getu fyrirtækja og stofnana til framleiðniaukningar, og byrðarnar geta orðið svo svæsnar, eins og í tilviki Orkusambandsins, að þær dragi beinlínis úr hagvexti og valdi atvinnuleysi. Það má hiklaust halda því fram, að EES-samningurinn sé orðinn úreltur. Stjórnvöld ættu ekki að berja lengur hausnum við steininn, heldur að skipuleggja útgöngu úr þessu ólýðræðislega, óhentuga og rándýra viðskiptalega og stjórnmálalega samkrulli.
Þann 4. maí 2018 skrifaði Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, grein í Morgunblaðið um afleiðingar þess að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Hann lauk grein sinni þannig:
"Enginn hefur getað sagt, hvað við höfum upp úr því að samþykkja, en það væri algerlega ástæðulaust fyrir ESB að knýja á um samþykkt þriðja orkupakkans, ef ekki væri ætlunin, að sæstrengur fylgdi í kjölfarið. Allar umsóknir um sæstreng og tengdar virkjanir yrði Ísland að meðhöndla af ýtrustu sanngirni og í samræmi við aðrar reglur ESB, eins og Ólafur Jóhannes Einarsson, lögmaður, minnir á í minnisblaði sínu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 12. apríl 2018 og minnir þar á þjónustutilskipunina. Þau rök, að sjálfræði Íslands sé í svo litlu skert með samþykkt þriðja orkupakkans, að það skaði okkur ekki, sneiða hjá þessum kjarna máls."
Þessar fórnir í þágu aukins samruna ESB og þar með EES til að viðhalda aðgangi að Innri markaði ESB eru í raun unnar fyrir gýg, því að jafnvel betri viðskiptaskilmálum virðist vera unnt að ná með fríverzlunarsamningum við ESB og Bretland, ef tekið er mið af fríverzlunarsamningi Kanada og ESB frá haustinu 2017. Málflutningur áköfustu stuðningsmanna ESB/EES einkennist af nauðhyggju, þar sem litið er framhjá þeirri staðreynd, að markaður ESB-ríkjanna vegur minna með hverju árinu, sem líður, af heimsviðskiptunum og mun senn aðeins verða 440 milljón manna markaður samfélaga, sem eldast hraðar en flest önnur samfélög, að hinu japanska undanskildu.
Fjármál | Breytt 6.5.2018 kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2018 | 10:34
Landsnet og "Ice Link"
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Landsnet og Landsvirkjun ásamt "National Grid Interconnector Holdings Ltd" eru skráð á lista orkustofnunar ESB, ACER, um forgangsverkefni ESB til hnökralausra og greiðra orkuflutninga landa á milli innan EES. Verkefnið heitir þar "Ice Link" og er aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands. Téð fyrirtæki eru skráð sem aðstandendur verkefnisins.
Þetta er dæmalaust og spyrja verður, hver hafi veitt þessum tveimur íslenzku fyrirtækjum heimild til að samþykkja slíkt án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu í landinu um jafnviðurhlutamikið mál og hér um ræðir ? Umfjöllun Landsnets hefur nánast engin verið um téðan sæstreng, enda hefur ekki verið í umræðunni, að flutningsfyrirtækið ætti hlut að þessum sæstreng. Annað virðist á döfinni, enda er það venjan innan ESB, og einnig í Noregi, að raforkuflutningsfyrirtækin eiga hlut í millilandatengingum. Í Noregi er Statnett, systurfyrirtæki Landsnets, eini eigandinn, og Verkamannaflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir stuðningi sínum við ACER-frumvarp ríkisstjórnarinnar, að svo yrði áfram.
Umfjöllun Landsvirkjunarmanna hefur verið yfirborðsleg og bernsk, og aldrei hefur verið minnzt á, að verkefnið yrði undir stjórn orkustofnunar ESB, ACER, þótt Landsvirkjun hafi rekið áróður fyrir þessum sæstreng síðan 2010, en stofnað var til ACER 2009. Það er reginhneyksli, hvernig staðið hefur verið að kynningu á "Ice Link" hérlendis, líklegu eignarhaldi opinberra fyrirtækja á honum, t.d. einokunarfyrirtækisins Landsnets, ásamt líklegum fjárhagsskuldbindingum fyrirtækisins vegna styrkingar raforkuflutningskerfisins innanlands vegna tengingar íslenzka stofnkerfisins við risasæstreng á íslenzkan mælikvarða (1200 MW).
Af þessu má ráða, að ACER sér tækifæri með flutningi raforku ofan af Íslandi til að auka hlutdeild stöðugrar og "grænnar" orku í raforkunotkun ESB, þ.e. endurnýjanlegrar raforku, sem nota má til að fylla upp í eyður sólar- og vindorku, sem koma oftast í hverri viku á álagstíma á meginlandinu. Hefur iðulega legið þar við aflskorti á háálagstíma, sem sýnir í hnotskurn ógöngurnar, sem raforkumál ESB-ríkjanna hafa ratað í. Tvö af hlutverkum ACER er einmitt að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku í raforkukerfi ESB og að auka afhendingaröryggi orku, bæði raforku og eldsneytisgass. Aðferðin í báðum tilvikum er að fjölga flutningslínum í lofti og í jörðu.
Það má ganga út frá því sem vísu, að ACER muni hefjast handa um sæstreng á milli Íslands og Bretlands, hugsanlega með flutningi um brezka kerfið til meginlandsins, fljótlega eftir samþykki Alþingis á lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, sem ESB ætlast til, að Alþingi afgreiði á færibandi í vor, enda hefur ACER þar með öðlazt vald yfir Orkustofnun Íslands, OS, og íslenzk yfirvöld misst sín ítök þar. Ennfremur verður þá búið að flytja allt reglusetningarvald og eftirlitshlutverk til OS. Vonandi ofbýður nógu mörgum Alþingismönnum ofríki ESB gagnvart EFTA-löndunum í EES til að stöðva þetta hrapallega mál, enda er fimmta frelsið (frjálsir orkuflutningar) ekki hluti af EES-samninginum um fjórfrelsi Innri markaðarins. Samþykktin í Sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017 voru þess vegna mistök.
Landsneti mun samkvæmt reglum ACER og téðri verkefnaskrá stofnunarinnar ætlað að leika stórt hlutverk í þessu sæstrengsverkefni. Sú kúvending hefur þó ekki hlotið neina lýðræðislega umfjöllun hérlendis. Eftirlit með fyrirtækinu verður þá alfarið komið í hendur Orkustofnunar, OS, samkvæmt frumvarpi, sem nú liggur fyrir Alþingi. Þar með setur sami aðili leikreglurnar á raforkumarkaðinum og hefur eftirlit með, að þeim sé fylgt. Látum það vera. Verra er, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, sem bíður umfjöllunar Alþingis, felur í sér, að OS verður gerð óháð íslenzkum stjórnvöldum og hagsmunaaðilum og tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER gegnum ESA (Eftirlitsstofnun EFTA). Þannig getur ACER hleypt Ice Link af stokkunum í samvinnu Landsnets og National Grid Interconnector Holdings Ltd. óháð því, hvaða skoðun rétt kjörin stjórnvöld landsins hafa á málinu. Að kippa lýðræðislegu ákvarðanavaldi út af vellinum og setja undirstofnun sína þar í staðinn er aðferð ESB við við að fjarlægja allar þjóðlegar hindranir úr vegi stefnu sinnar og markmiða. "Tilgangurinn helgar meðalið - Der Erfolg berechtigt den Mittel)".
Komi upp ágreiningur flutningsfyrirtækjanna á milli um kostnaðarskiptingu vegna millilandatengingar, úrskurðar ACER um hana. Sjá nú allir í hendi sér, hversu gríðarlegar fjárhagsbyrðar yfirþjóðleg stofnun án aðildar Íslands með atkvæðisrétti getur lagt á einokunarfyrirtækið Landsnet. Í hnotskurn blasir þar við gildi fullveldisins. Ætla menn í einfeldni sinni að fórna því ? Það er glópska, því að ávinningurinn er enginn fyrir Ísland.
Í Noregi sáu ESB-sinnaðir stjórnarflokkar á Stórþinginu til, að ACER-frumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt 22. marz 2018. Engin raunveruleg rök voru lögð á borðið fyrir inngöngu Noregs í Orkusamband ESB. Samþykkt þingsins átti að verða eins og hver önnur færibandaafgreiðsla á gjörðum ESB inn í EES-samninginn og þar með lagasafn Noregs. Reyndin varð önnur. Há mótmælaalda reis um allan Noreg og náði til verkalýðsfélaga, sveitarstjórna og fylkisstjórna. Jafnvel Alþýðusamband Noregs, LO, sem venjulega leggur miðstjórn (landsstyre) Verkamannaflokksins línurnar, ályktaði og hvatti þingflokkinn til að hafna frumvarpinu. Skoðanakönnun í marz 2018 benti til, að yfirgnæfandi meirihluti Norðmanna væri andvígur því, að land þeirra gengi Orkusambandi ESB á hönd, því að 52 % voru á móti, 9 % meðmælt og 39 % óákveðin. Hlutverk Alþingis er auðvitað að gæta hagsmuna Íslands og virða íslenzku Stjórnarskrána, en með höfnun Alþingis á sams konar frumvarpi má ganga út frá því sem vísu, að drjúgur meirihluti Norðmanna muni kætast.
Hver á Landsnet ? Ríkið stofnsetti Landsnet með lögum 2003, og upphaflega var ætlunin, að fyrirtækið væri í eigu ríkissjóðs. Samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem lögleiddur var 2003 hérlendis, á raforkuflutningsfyrirtækið, hér Landsnet, að vera óháð öllum aðilum á raforkumarkaði og öðrum hagsmunaaðilum, nema ríkisvaldinu. Sú krafa var gerð til að ýta undir frjálsa samkeppni um raforkuvinnslu og raforkusölu, og hún tryggir hæfi fyrirtækisins til hlutlægni í viðskiptum eftir föngum.
Það var þó fjarri því, að málin þróuðust með þeim hætti hérlendis, því að þáverandi eigendur flutningskerfisins lögðu eignir sínar inn í fyrirtækið og yfirtóku eignarhlut ríkisins. Landsnet er þannig bullandi vanhæft til að fara með raforkuflutningshlutverkið af hlutlægni, enda hefur fyrirtækið legið undir ámæli. Nú eru eigendur Landsnets 4 talsins:
- Landsvirkjun: 64,7 %
- RARIK: 22,5 %
- OR: 6,8 %
- OV:(Orkubú Vfj): 6,0 %
Þetta er ótækt, og Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, 2009/72/EB, ítrekar, að fullur aðskilnaður verði að eiga sér stað á milli flutningsfyrirtækis og hagsmunaaðila á raforkumarkaði. Af einhverjum ástæðum sóttu íslenzk stjórnvöld um undanþágu frá þessu til ESA og fengu hana. Það er hins vegar útilokað m.v. samþykktir ESB, að ESA samþykki eignarhald Landsvirkjunar á "Ice Link" að hluta, og þess vegna er óskiljanlegt, að Landsvirkjun skuli vera á téðum lista um aðstandendur verkefnisins.
Í frumvarpi til laga um Landsnet, sem nú liggur fyrir Alþingi, hefur verið tekið út ákvæði um ríkiseign á Landsneti. Þá vaknar spurningin um það, hvers konar eignarhald ríkisstjórnin sér fyrir sér í framtíðinni. Um er að ræða einokunarfyrirtæki samkvæmt lögum, og einkavæðing þess er mjög miklum annmörkum háð vegna stöðu þess á markaði. Því er heldur ekki ætlað að græða peninga, heldur setur Orkustofnun fyrirtækinu þröng tekjumörk og sjálfsagt er, að það lækki gjaldskrá sína, ef rekstrarafgangur verður eftir eðlilegar afskriftir. Hvers vegna er ekki frekar undinn bráður bugur að því að færa Landsnet úr eignarhaldi orkufyrirtækjanna og til ríkissjóðs ?
Til að tryggja óháða stöðu Landsnets á raforkumarkaði verður ekki annað séð en ríkiseign að fullu sé eina raunhæfa úrræðið, enda er sú raunin víðast annars staðar, t.d. í Noregi (Statnett). Að taka ákvæðið um ríkiseign á Landsneti úr lögum um fyrirtækið er vanreifað í frumvarpinu.
Einfaldast er, að fjármálaráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið semji við núverandi eigendur um kaupin á Landsneti og gefi út skuldabréf til um 20 ára til staðfestingar. Þetta er eðlilegasta fyrirkomulagið, óháð afgreiðslu Alþingis á bálki 2009/72/EB, ef menn á annað borð vilja halda í heiðri þeirri fjórskiptingu raforkumarkaðarins, sem komin er frá ESB, þ.e.:
- Virkjanafyrirtæki (raforkuheildsalar á samkeppnismarkaði)
- Flutningsfyrirtæki (Landsnet í einokunaraðstöðu)
- Dreifingarfyrirtæki (veitur með sérleyfi á tilgreindum svæðum, einokun á sama svæði)
- Sölufyrirtæki (smásalar í samkeppni)
Landsnet hefur átt undir högg að sækja frá stofnun. Það er skylda Alþingis að gera sitt til að skapa fyrirtækinu þá umgjörð, sem líklegust sé til sátta í landinu. Það verður hvorki gert með því að viðhalda núverandi eignarfyrirkomulagi né með því að færa raunverulega stjórnun þess undir Orkustofnun ESB.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2018 | 15:12
Völd ACER á Íslandi - hækkun raforkuverðs
Það hafa ýmsir gert lítið úr þeim breytingum, sem samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Alþingi mun hafa í för með sér. Skáka hinir sömu þá í því skjólinu, að engin utanlandstenging sé við íslenzka raforkukerfið. Þetta er skammgóður vermir. Ekki er örgrannt um, að slíkar viðbárur hafi sézt frá íslenzkum embættismönnum. Samt hefur að sjálfsögðu engin undanþága fengizt hjá ESB Íslandi til handa varðandi þá stefnumörkun ACER að tengja öll svæði og lönd svo tryggilega saman í eitt stofnkerfi, að verðmunur raforku jafnist út.
Þeir hinir sömu ofurbjartsýnismenn virðast ekki hafa skilið inntak Orkusambands ESB. Orkustofnun þess, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), er ekki einvörðungu ráðgefandi um orkumál, heldur eru þar teknar ákvarðanir um framkvæmdir í krafti atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti atkvæða ræður. EFTA ríkin munu ekki öðlast þar atkvæðisrétt, þótt þau leiði ACER til valda í orkugeirum sínum. Ójafnræði EFTA og ESB í ACER verður algert. Slíkt stríðir algerlega gegn ákvæðum EES-samningsins um, að ESB og EFTA skuli leysa sameiginleg viðfangsefni á jafnréttisgrundvelli (s.k. tveggja stoða lausn).
Markmið ACER er, að raforkuflutningsgeta tenginga frá hverju aðildarlandi EES nemi a.m.k. 15 % af vinnslugetu landsins árið 2030 og hún aukist í 30 % á ótilgreindum tíma. EES-ríki munu ekki komast upp með neitt múður, þar til þessu er náð. Það er lágmark, að menn átti sig á, hvað undirskrift þeirra merkir, þegar þeir skuldbinda heila þjóð, eins og gerzt hefur í hinni sameiginlegu EES-nefnd EFTA og ESB.
Á forgangslista ACER um orkutengiverkefni á milli landa, sem eru yfir 170 talsins, er sæstrengurinn "Ice Link", sem ACER vill leggja á milli Íslands og Bretlands og taka í rekstur árið 2027. Ef honum verður valin flutningsgetan 1200 MW, eins og nefnt hefur verið í öðrum skýrslum, mun raforkuflutningsgeta samtengingar Íslands við útlönd að líkindum einmitt nema rúmlega 30 % upp úr 2030, ef af þessum óheillagjörningi verður.
Á téðri verkefnaskrá ACER eru Landsvirkjun og Landsnet tilfærð sem aðstandendur verkefnisins ásamt því, sem gæti verið dótturfélag brezka Landsnets, National Grid. Hver hefur heimilað þessum íslenzku fyrirtækjum, þar sem annað er að fullu í eigu ríkissjóðs (og á ekkert að skipta sér af orkuflutningsmálum) og hitt að mestu í eigu þess fyrrnefnda, að láta skrá þennan sæstreng á forgangslista ACER og sig sem aðstandendur ? Þetta er ábyrgðarlaust pukur með óvinsælt mál á Íslandi og hátimbruð ósvífni í ljósi þess, að hér hefur engin umræða farið fram um, að hugsanlegan sæstreng ætti að nota til að tengja Ísland við markaðskerfi ESB fyrir raforku, þar sem hvaða orkukaupi sem er á EES-svæðinu getur boðið í alla tiltæka raforku hér á markaðinum. Allt annað hefur verið gefið í skyn, þ.e. langtímasamningur um tiltekna orku með fjárhagslegum stuðningi úr brezka ríkissjóðinum við kaup á sjálfbærri raforku inn á brezka stofnkerfið. Hér er sviksamlegt atferli á ferðinni, því að glepjist Alþingi á að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn, geta íslenzk stjórnvöld ekki lengur átt síðasta orðið um lagningu aflsæstrengs á milli Íslands og útlanda. Valdið verður alfarið í höndum ACER og útibús þess á Íslandi.
Sérfræðingahópur ACER vinnur að því stefnumiði ACER að jafna raforkuverð í ESB/EES. Hann hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að ef meiri raforkuverðsmismunur en 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh) sé fyrir hendi á milli tveggja aðlægra svæða eða landa, þá sé klárlega þörf á að efla raforkuflutningsgetuna á milli þeirra til að njóta ávaxta sameiginlegs orkumarkaðar. Á milli Íslands og Bretlands er um 16 faldur þessi munur um þessar mundur og m.v. meginlandið 10-30 faldur (það er mjög sveiflukennt verð á meginlandinu vegna mikilla óstöðugra endurnýjanlegra orkulinda á borð við sól og vind). Tæknileg og markaðsleg skilyrði eru þess vegna fyrir hendi, til að ACER ákveði, að sæstrengur verði lagður til Íslands. Orkustofnun ESB vantar enn heimild til að ákveða þetta, en á meðan frumvarp um það er til í iðnaðarráðuneytinu og Alþingi hefur ekki hafnað því, vofir þessi hætta yfir.
Stjórnvöld hér verða þá ekki spurð, því að það er hlutverk ACER að ryðja úr vegi öllum staðbundnum hindrunum gegn svo greiðum orkuflutningum, að mismunur orkuverðs (flutningskostnaður, dreifingarkostnaður og skattar ekki meðtaldir) verði að hámarki 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh).
Nú eru í undirbúningi 2 sæstrengir frá Noregi til viðbótar við eina 5 í rekstri; annar til Þýzkalands og hinn til Bretlands. Flutningsgeta hvors um sig verður svipuð og Ice Link. Í leyfisumsókn Statnetts til NVE (norku Orkustofnunarinnar) um sæstrengi til Bretlands og Þýzkalands er tekið fram, að kostnaður Statnetts við flutningsmannvirki á landi að landtökustöðum sæstrengjanna sé áætlaður miaNOK 4,0 eða miaISK 52. Út frá þessu má ætla, að kostnaður Landsnets vegna eins svipaðs sæstrengs með landttöku einhvers staðar á Suður-eða Austurlandi næmi miaISK 26. Samkvæmt reglum ACER leggst þessi kostnaður á Landsnet, og notendur innanlands verða að standa undir kostnaðinum. Hvaða áhrif mundi þetta hafa á flutningsgjaldið, sem innheimt er af raforkunotendum á Íslandi ?
Flutningsgjaldið til almennings nemur um þessar mundir (án skatta) 1,84 ISK/kWh. Ef kostnaður af kerfisstyrkingu vegna sæstrengs dreifist jafnt á allan núverandi flutning, mun hækkunin geta numið 0,11 ISK/kWh, sem er 6,0 % hækkun til almennings. Ef styrkingin leggst einvörðungu á flutning til almennings, mun hækkunin nema 0,53 ISK/kWh eða 29 %. Í ljósi þess, að almenningur á óbeint megnið af Landsneti, er ekki ólíklegt, að almenningur verði látinn bera megnið af þessum kostnaði, t.d. 60 %, sem þýðir 0,32 ISK/kWh eða 17 % hækkun flutningsgjalds til almennings.
ACER fyrirskipar, að ágóða af orkuflutningum um sæstreng megi ekki nota til að lækka flutningsgjald til almennings, heldur skuli leggja hann í sjóð til að standa undir enn frekari fjárfestingum og viðhaldi, þar til orkuverðsmismunur á milli viðkomandi svæða er orðinn minni en jafngildi 0,25 ISK/kWh. ACER verður einráð stofnun um þessi mál hérlendis, ef ríkisstjórnin leggur fram ACER-frumvarpið og Alþingi samþykkir það.
Með þessum hætti mundi Alþingi hafa falið yfirþjóðlegri stofnun ígildi skattheimtuvalds á Íslandi. Slíkt stríðir gegn lýðræðislegum stjórnarháttum, gegn réttlætistilfinningu langflestra skattborgara landsins, og væntanlega fer það ekki framhjá meirihluta Alþingismanna, að slíkt er ótvírætt Stjórnarskrárbrot.
Þetta er ótrúlegt, en satt.
Varðandi ráðstöfun hagnaðar af sæstreng stendur í reglu ESB nr 714/2009 um raforkuflutninga yfir landamæri, grein 16.6:
"Tekjur af afmarkaðri flutningsgetu skal nota til:
a) að tryggja, að þessari afmörkuðu flutningsgetu sé við haldið, og/eða
b) að hindra rýrnun flutningsgetunnar og auka hana með fjárfestingum í stofnkerfinu og þá aðallega í nýjum flutningsmannvirkjum."
Til viðbótar styrkingu stofnkerfis í landi vegna Ice Link kann Landsnet að verða þvingað til umtalsverðrar kostnaðarþátttöku í honum, e.t.v. sem nemur miaISK 150. Það mundi jafngilda u.þ.b. þreföldun langtímaskulda Landsnets, og það er engum vafa undirorpið, að slík skuldabyrði mundi veikja getu fyrirtækisins til uppbyggingar innviða innanlands og jafnvel leiða til enn meiri hækkunar flutningsgjalds raforku innanlands. Óvissa og ófriður út af starfsemi Landsnets mundi ekki dvína við að færa fyrirtækið undir stjórn ACER.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.2.2018 | 14:32
Næst er það orkusamband
Með vísun til stjórnarskráar sinnar, Lissabon-sáttmálans, sækir Evrópusambandið-ESB nú fram til aukinnar miðstjórnar aðildarríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES á hverju sviðinu á fætur öðru. Nú hefur verið samþykkt á samstarfsvettvangi ESB og EFTA, að orkumál verði næsta viðfangsefni æ nánari samruna (an ever closer union). Þetta mun koma hart niður á hagsmunum Íslendinga og Norðmanna, sem hafa mjög svipaðra hagsmuna að gæta innbyrðis, en eru í ósambærilegri stöðu við ESB-ríkin í orkumálum.
Þetta stafar af því, að Norðurlöndin tvö framleiða nánast alla sína raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og þar er enginn hörgull á raforku á hagstæðu verði fyrir notendur, nema staðbundið á Íslandi vegna flutningsannmarka, sem er sjálfskaparvíti. ESB-löndin flytja inn gríðarmikið af orku, rafmagni, gasi og olíu, aðeins 13 % orkunotkunarinnar er sjálfbær og raforkan er þar dýr.
Í Noregi eru um 20 TWh/ár af raforku til reiðu á markaði umfram innlenda raforkuþörf eða 15 % af vinnslugetu vatnsaflsvirkjana þar í landi. Þetta er aðeins meira en nemur allri raforkuvinnslu Íslands og er óeðlilega mikið, en stafar af lokun verksmiðja, betri nýtni í notendabúnaði og í virkjunum við uppfærslu þeirra ásamt fjölda nýrra smávirkjana. Á Íslandi er yfirleitt sáralítil umframorka, þótt forstjóri Landsvirkjunar tilfæri hana sem rök fyrir aflsæstreng til útlanda, og ótryggða orkan er seld tiltölulega háu verði, sem gefur til kynna lítið framboð.
Hins vegar getur snögglega orðið breyting á þessu, og það er orkustjórnsýslustofnun ESB, ACER, sjálfsagt kunnugt um. Yfirlýsingar frá framkvæmdastjórn ESB sýna áhuga hennar á að samþætta Noreg í raforkunet ESB, og þá er ekki ósennilegt, að hún renni hýru auga til Íslands, þar sem raforkunotkun á mann er mest í heiminum. Tækin til þess eru að yfirtaka ráðstöfunarrétt raforkunnar með því að flytja æðsta vald raforkuflutningsmála í ríkjunum til ACER, leggja sæstrengi, stofna raforkumarkað og samtengja í hvoru landi og samtengja þá við raforkumarkaði ESB. BINGO. Raforkan mun stíga í verði í Noregi og á Íslandi og fara til hæstbjóðanda. Á skrifborði búrókrata kann þetta að líta vel út, en það eru fórnarlömb í þessum viðskiptum: almenningur á Íslandi og í Noregi.
Í árbók 2018 norsku andófssamtakanna "Nei við ESB" er mikinn fróðleik að finna um ESB, þ.á.m. um "Orkusamband ESB". Arne Byrkjeflot, stjórnmálaráðgjafi "Nei við ESB" á þar greinina "Energiunionen neste", og er hér að neðan einn kafli þaðan:
"ESB krefst ekki eignarréttarins, það krefst ráðstöfunarréttarins":
"Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB gefur tilefni til að ræða um varanlega auðlind okkar, fossaaflið, í víðu samhengi. Í þetta skiptið snýst málið ekki um eignarhaldið, heldur um það, hver á að stjórna og setja reglur um nýtingu rafmagnsins. Það snýst um völd yfir innviðum. ESB hefur auk þess kynnt áætlun sína um þróun orkusambands síns. Stefnan er sú, að öll tiltæk raforka skuli streyma frjálst yfir landamæri, þannig að þeir, sem mest eru reiðubúnir að borga, fái orkuna. Þeir geta þá pantað orkuna, hvaðan sem er, frá Nordland (fylki í Noregi) eða frá Bretagne skaga Frakklands. Þeir fá raforkuna á sama verði og þeir, sem búa við fossinn eða við virkjunina. Rafmagn er eina varan, sem seld er samkvæmt frímerkisreglunni.
Grunnhugmyndin er sú, að þannig fáist rétt verðlagning á rafmagnið og að það verði þá notað á hagkvæmasta hátt. [Þetta minnir á málflutning Viðreisnar varðandi verðlagningu á aflahlutdeildum sjávarútvegsins - innsk. BJo.] Ef Norðmenn hefðu haft þessa stefnu í árdaga orkunýtingar, þá hefðu starfsleyfislögin aldrei verið samþykkt. [Þessi lög skilyrtu starfsleyfi virkjana við orkunýtingu í héraði eða í dreifðum byggðum Noregs, og voru í staðinn gerðir langtíma orkusamningar á hagstæðu verði fyrir iðjufyrirtækin, sem tryggði alþjóðlega samkeppnishæfni þeirra - innsk. BJo.]"
Á Íslandi verður uppi sama staða og í Noregi eftir lagningu fyrsta aflsæstrengsins til Íslands. Ef Alþingi samþykkir innleiðingu "Þriðja orkumarkaðslagabálks" ESB í íslenzkt lagasafn, þá missa lýðræðislega kjörin yfirvöld á Íslandi völd á því til ACER (Stjórnsýslustofnun ESB um orkumál), hvort og hvenær slíkur aflsæstrengur verður lagður, og hvar hann verður tekinn í land og tengdur við íslenzka stofnkerfið, og hvernig rekstri hans verður háttað. Orkustofnun verður samkvæmt téðum lagabálki að töluverðu leyti (varðandi raforkumál) breytt í stofnun undir stjórn útibús ACER á Íslandi, og útibúið verður utan seilingar lýðræðislegra stjórnvalda og hagsmunaaðila á markaði. Landsnet verður líka sett undir útibú ACER á Íslandi.
Aðild Íslands og Noregs að Orkusambandi ESB þjónar ekki hagsmunum Íslands og Noregs, nema síður sé. Á þessum tveimur Norðurlöndum hefur áratugum saman öll raforka verið unnin á endurnýjanlegan og mengunarlítinn hátt. Í ESB er þetta hlutfall um þessar mundir um 26 %, og þar er mikill þrýstingur á að hækka þetta hlutfall. Það er ennfremur engin þörf á raforkuinnflutningi til þessara Norðurlanda, eins og til ESB, sem vanhagar bæði um eldsneyti og raforku.
Með nýjum sæstrengjum frá Noregi til Bretlands og Þýzkalands og sæstreng frá Íslandi til Bretlands mun flutningsgeta sæstrengja til útlanda nema um helmingi af vinnslugetu virkjana í hvoru landi. Það er ACER og útibú þess í Noregi og á Íslandi, sem ráða mun rekstri þessara sæstrengja, þ.e. afli á hverjum tíma og í hvora átt það er sent. Orkuflutningurinn verður tiltölulega mikill vegna mikillar spurnar eftir grænni orku, og þetta mun leiða til mikillar verðhækkunar á raforku í báðum löndum. Vegna mikils flutningskostnaðar, sem getur lent með ósanngjörnum hætti á Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi, gætu Íslendingar og Norðmenn lent í þeirri ókræsilegu stöðu að búa við hæsta raforkuverð í Evrópu og nota raforku að stórum hluta úr kolakyntum og kjarnorkuknúnum orkuverum, sem orka er flutt inn frá á nóttunni.
Hér er um að ræða dæmigert sjálfskaparvíti, sem komið getur upp hjá smáþjóðum, sem ekki gá að sér í samskiptum við öflugt ríkjasamband, sem þróast í átt til sambandsríkis. Það er engu líkara en nauðhyggja ráði för. Þessi nauðhyggja snýst um, að Ísland og Noregur verði að vera aðilar að EES, annars sé voðinn vís. Þetta er sams konar nauðhyggja og beitt var í hræðsluáróðri gegn Bretum 2016 í aðdraganda BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þá var því spáð, að efnahagur Bretlands færi í kalda kol við útgöngu. Það rættist auðvitað ekki. Þvert á móti jókst hagvöxtur Bretlands og var meiri en hagvöxtur ESB.
Enn eru menn við sama heygarðshornið. Hvers vegna í ósköpunum ætti efnahagur Bretlands, Noregs og Íslands að versna við að losna úr viðjum ESB ? Fríverzlunarsamningar munu tryggja snurðulaus viðskipti, og löndin losna við kostnað reglugerðafargans búrókrataveldisins í Brüssel auk mikilla beinna útgjalda til ESB á hverju ári. Það mun renna upp fyrir fleiri þjóðum, að hag þeirra verður betur borgið utan en innan við múra ESB (Festung Europa). Sýnt hefur verið fram á, að talsverð líkindi eru á, að árið 2027 verði lönd sambandsríkisins ESB 13 talsins og aðildarlönd tollabandalagsins EFTA verði 14 talsins.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.1.2018 | 13:48
"Nýsköpun og rannsóknir" í Stjórnarsáttmála
Það er mikill fagurgali í Stjórnarsáttmálanum um "nýsköpun og rannsóknir". Þar stendur t.d.: "Lögð verður áherzla á að hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu, velferðarþjónustu og verkefna í þágu loftslagsmarkmiða".
Það hefur nú ríkt bann að hálfu ráðuneyta í bráðum 1,5 ár við nýjum samningum Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna, sem hefur leitt til þess, að íslenzkir sérfræðingar á sviði læknavísinda hafa ekki fengið starfsaðstöðu við hæfi hérlendis, enda lítið sem ekkert á lausu á Landsspítalanum.
Samt er staða heilbrigðismála hérlendis sú í hnotskurn, að Landsspítalinn verður ekki í stakk búinn til að annast "sjúklingaflóðið" fyrr en nýr "meðferðarkjarni" Landsspítalans hefur verið tekinn í gagnið að 5 árum liðnum. Um þessar mundir er hann yfirfullur, þ.e. sjúklingar, jafnvel á bráðadeild sjúkrahússins, híma í rúmum sínum á göngunum, jafnvel dögum saman. Það er reyndar alveg undir hælinn lagt, hvort Landsspítalinn mun anna "aðflæðinu" eftir opnun nýja meðferðarkjarnans, því að heilsufari þjóðarinnar fer hrakandi, m.a. vegna hraðfara öldrunar (mikillar fjölgunar eldri borgara).
Hvers vegna í ósköpunum leggjast þá yfirvöld heilbrigðismála í landinu algerlega þversum gegn því að fitjað sé upp á nýjungum í einkageiranum til að létta farginu af Landsspítalanum í þeirri von, að lífsgæði sjúklinga á biðlistum batni fyrr ? Samt má túlka fagurgalann í stjórnarsáttmálanum á þann veg, að höfundum hans gæti hugnazt vel, að fitjað væri upp á nýbreytni í þjónustunni við sjúklinga, þótt gaddfreðnir hugmyndafræðingar láti sjúklinga fremur húka á göngum opinberrar stofnunar en hljóta viðunandi þjónustu á einkarekinni læknastofu eða umönnunarfyrirtæki.
Í Morgunblaðinu, 9. janúar 2018, birti Ingveldur Geirsdóttir athyglisverðar upplýsingar í frétt sinni:
"Fleiri leita sér lækninga erlendis".
Fréttin hófst þannig:
"Rúmlega 300 Íslendingar leituðu sér læknismeðferðar erlendis árið 2017 og fengu kostnaðinn niðurgreiddan af Sjúkratryggingum Íslands (SÍ)."
Forysta heilbrigðismála á Íslandi lætur hugmyndafræði sína um það, hverjir mega framkvæma aðgerðir á sjúklingum, ráða för, þótt slíkur fíflagangur komi hart niður á skjólstæðingunum og feli í sér sóun á almannafé. Heilbrigðisstefnan einkennist þar með af ábyrgðarleysi gagnvart skjólstæðingum kerfisins, enda eru innstu koppar í búri á þeim bænum illa haldnir af fordómum í garð fjölbreytni rekstrarforma. Þá er náttúrulega ekki von á góðu. Létta verður helsi úreltrar hugmyndafræði af heilbrigðisgeiranum og "hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu", eins og segir í Stjórnarsáttmálanum. Þangað til munu sjúklingar fremur verða fórnarlömb kerfisins en þiggjendur þjónustu, aðstandendur líða önn fyrir ömurlega stöðu nákominna og fréttamenn sýna hneykslanlegar myndir af kerfi, sem ræður ekki við viðfangsefni sín, þótt starfsfólkið leggi sig allt fram og komi kúguppgefið heim af vinnustaðnum.
Undir lok fréttarinnar sagði:
"Ef mál er samþykkt, þá er greiddur ferðakostnaður, dagpeningar, meðferðarkostnaður og mögulegur fylgdarmannskostnaður. .... Ljóst er, að þeim fjölgaði mikið, sem leituðu sér læknisþjónustu erlendis, bæði á grundvelli landamæratilskipunarinnar [EES] og biðtímaákvæðisins árið 2017 [biðtími yfir 90 dagar]. Búizt er við áframhaldandi fjölgun á þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá SÍ."
Þetta er hneyksli í opinberri stjórnsýslu. Með því að koma fram af sanngirni við einkageirann undir formerkjum aukinnar fjölbreytni og bættrar þjónustu, og hætta að hreyta í hann fúkyrðum um gróða af bágstöddum, væri hægt að þjónusta hérlendis lungann af hópnum, sem leitar í neyð sinni utan til lækninga á einkastofum, og um leið mætti spara ríkissjóði talsverð útgjöld. Hvað skyldi Ríkisendurskoðun segja um þessa slæmu meðferð opinbers fjár, eða Umboðsmaður Alþingis um hornrekuhætti heilbrigðisstjórnvalda gagnvart sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki, sem gjarna vilja veita þjónustu sína utan Landsspítala, af því að hann rúmar ekki fleiri ?
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2018 | 11:20
Skattar og stjórnarsáttmálinn
Ísland er háskattaland. Við því er að búast vegna norrænnar (samstöðu) menningar þjóðarinnar, sem þar býr, stærðar landsins og fámennis. Það er viðtekin hugmyndafræði í landinu um, að æskilegt sé að nýta landið allt og hafið í kring og að til þess þurfi megnið af láglendinu að vera í byggð. Þessu fylgja dýrir innviðir af öllu tagi, og þeir verða ekki til né þeim við haldið án atbeina hins opinbera. Þar með er komin uppskrift að mikilli "samneyzlu", en um leið möguleikar á að nýta gæði landsins alls og sjávarins. Byggð í landinu öllu veitir jafnframt tilkalli þjóðarinnar til landsins alls siðferðilegt réttmæti, sem getur orðið þýðingarmikið nú og á næstu árum, þegar við sjáum holskeflu hælisleitenda skella á ströndum Evrópu, sumpart vegna ófriðar, sumpart vegna stjórnleysis/rotinna þjóðfélaga og sumpart vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Marga þeirra má sem sagt kalla "umhverfisflóttamenn", því að ein ástæðan fyrir því, að þeir hafa flosnað upp úr heimkynnum sínum, eru skaðlegar breytingar á lífríkinu í kjölfar loftslagsbreytinga. Það verður enginn friður um það í Evrópu að taka við ógrynni framandi fólks úr frumstæðum heimkynnum, jafnvel í miðaldalegum trúarfjötrum.
Íslenzku þjóðinni, sem verður æ blandaðri (meiri genafjölbreytni ?), hefur fjölgað vel frá aldamótum. Nemur fjöldi ríkisborgara hérlendis nú um 350 k (=þúsund) og enn fleiri búa hér, vinna hörðum höndum (þótt einstaka séu afætur) og greiða skatta og skyldur til samfélagsins. Það eru því fleiri til að standa undir samneyzlunni en áður, en á móti kemur, að ríkisreksturinn og annar opinber rekstur hefur þanizt út til góðs og ills. Ráðstöfunartekjur almennings hefðu því aðeins aukizt jafnmikið og raun ber vitni um, að hagvöxtur hefur verið mikill, um 7,2 % 2016 og 4,5 % 2017.
Samhliða útþenslu ríkisbáknsins hefur skattbyrðin aukizt gríðarlega. Heildarskatttekjur ríkisins sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu), að teknu tilliti til greiðslna til almannatrygginga, nema nú 33 %. Aðeins Danmörk og Svíþjóð búa við hærra hlutfall innan OECD eða 46 % og 34 %. Meðaltal OECD er aðeins 25 %. Athygli vekur, að Noregur og Bretland, þar sem samneyzla hefur verið talin töluverð, eru aðeins með 27 %.
Það, sem er uggvekjandi í þessu sambandi, er, að íslenzka þjóðin er enn tiltölulega ung með um 13 % fólksfjöldans yfir 66 ára aldri, en t.d. Þjóðverjar með um tvöfalt fleiri eldri borgara að tiltölu en Íslendingar, ná að halda téðu skatthlutfalli niðri í 23 %. Það er alveg ljóst, að það verður meiri háttar verkefni á næstu árum og áratugum að viðhalda hér kaupmætti ráðstöfunartekna, en heildarlaunatekjur landsmanna að meðaltali eru nú hvergi hærri í Evrópu en á Íslandi, nema í Alparíkinu Sviss. Jöfnuður tekna og eigna er jafnframt hvergi meiri í Evrópu.
Til að varðveita eftirsóknarverðan efnahagsstöðugleika og félagslegan stöðugleika (með lóðréttum hreyfanleika á milli stétta) er nauðsynlegt að leggja nú höfuðáherzlu á viðhald kaupmáttar í stað hárra prósentuhækkana á laun, sem aðeins grafa undan velferðinni við núverandi aðstæður, að lækka árleg vaxtagjöld ríkisins um a.m.k. miaISK 40 á kjörtímabilinu, og að auka útflutningstekjur landsmanna um u.þ.b. 50 miaISK/ár.
Tekjur ríkisins af innheimtu tryggingagjalds árið 2017 námu um miaISK 87. Þessar ríkistekjur eru meiri en af tekjuskattsinnheimtu af fyrirtækjum og meira en helmingur af tekjuskatti einstaklinga. Þær eru miklu meiri en þörf er á til að standa straum af þeim útgjöldum ríkisins, sem samsettu tryggingargjaldi er ætlað að fjármagna. Vegna bágborinnar samkeppnisstöðu margra fyrirtækja, einkum hinna minni með tiltölulega há launaútgjöld af heildarútgjöldum sínum, hefði verið eðlilegt útspil við frágang fjárlaganna í desember 2017 að lækka almenna tryggingargjaldið um 0,5 % og bíða síðan með 0,5 % - 1,0 % frekari lækkun uppi í erminni til að geta greitt fyrir gerð kjarasamninga.
Í merkri baksviðsgrein Morgunblaðsins 26. október 2017, "Skattabylgjan bitnar á fyrirtækjum",
birti Baldur Arnarson viðtal við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann Efnahagssdviðs Samtaka atvinnulífsins-SA, þar sem hún kvað mikið verk óunnið við að vinda ofan af skattahækkunum, sem dembt var yfir þjóð í sárum á árunum eftir Hrun. Skattkerfið hafi þá "verið gert flóknara og óhagkvæmara fyrir fyrirtækin". Ásdís kveður "einkenna gott skattkerfi, að það sé einfalt, fyrirsjáanlegt, skilvirkt og gagnsætt". Þrepskipt skattkerfi og flókið samspil skattheimtu og bótakerfis fullnægir ekki þessum skilyrðum Ásdísar. Greiðslur almannatrygginga ættu að njóta skattfrelsis, enda eru þær lágmarksgreiðslur.
"Því [að] háar skattaálögur á fyrirtæki og heimili hafa um leið áhrif á samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Þótt stigin hafi verið mikilvæg skref í rétta átt hér á landi, er þörf á frekari umbótum í skattkerfinu. Um 240 skattabreytingar frá árinu 2007 endurspegla ekki mikinn fyrirsjáanleika í skattkerfinu.
Stöðugleiki skiptir miklu máli fyrir íslenzk fyrirtæki sem og heimilin í landinu. Þar er lykilatriði, að hægt sé að ganga að því vísu, að ekki sé ráðizt í miklar breytingar milli kjörtímabila."
"Stjórnvöld geta ekki lengur treyst því, að áfram verði verulegur vöxtur á tekjuhliðinni samfara miklum hagvexti. Með skattstofna í botni og umsvif ríkisins með því mesta, sem þekkist, er eðlilegt að spyrja, hvaða leiðir á að fara, þegar til bakslags kemur í hagkerfinu."
Með skattheimtu í botni, illu heilli líka á sparnað, sbr illa ígrundaða hækkun fjármagnstekjuskatts, og útgjöld hins opinbera jafnframt í methæðum, munu stjórnvöld standa frammi fyrir tveimur valkostum, þegar slær í baksegl hagkerfisins: annaðhvort að gera sársaukafullan uppskurð á opinberum rekstri, sem þýðir að minnka umsvif hans, eða að hækka álögur enn meir á fyrirtæki og einstaklinga, sem þá þegar eru að draga saman seglin. Slíkt mun auka atvinnuleysið, dýpka efnahagslægðina og getur skapað langvinna kreppu. Þetta er hættan við núverandi stefnu í ríkisfjármálum, þegar ríkisútgjöld eru aukin mikið á toppi efnahagssveiflunnar án þess að verja auknum skatttekjum til að lækka ríkisskuldirnar enn hraðar. Þess vegna er ráðdeild í ríkisrekstri lífsnauðsynleg fyrir lífskjör almennings, og þess vegna voru tillögur stjórnarandstöðunnar um enn meiri aukningu ríkisútgjalda án sparnaðar annars staðar við afgreiðslu fjárlagafrumvarps 2018 í senn óskynsamlegar og óábyrgar og hefðu komið sem bjúgverpill í andlit þeirra, sem sízt skyldi, ef þær hefðu hlotið brautargengi. Ríkissjóður er ekki góðgerðarstofnun.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2018 | 11:31
Efnahagsstefnan og vinnumarkaðurinn
Efnahagskafli stjórnarsáttmálans er furðulega stuttur. Á eftir honum kemur enn styttri kafli um vinnumarkaðinn. Þetta sætir undrun í ljósi mikilvægis málaflokksins fyrir öll landsins börn. Kaflinn hefst þannig:
"Efnahagslegur styrkur er undirstaða þess, að treysta megi til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði. Ríkisstjórnin mun leggja áherzlu á traustar undirstöður í ríkisfjármálum, sem gefa tækifæri til að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Nefnd um endurskoðun peningastefnunnar mun ljúka störfum, og í kjölfarið verða gerðar nauðsynlegar breytingar á ramma stefnunnar."
Hverjar eru forsendur "efnahagslegs styrks" ? Þær eru arðsöm nýting náttúruauðlinda landsins, sem eru meginundirstaða útflutningsgreinanna. Öflugar útflutningsgreinar, sem tryggja landsmönnum jákvæðan viðskiptajöfnuð, eru sem sagt undirstaða "efnahagslegs styrks". Þessar útflutningsgreinar eru hérlendis sjávarútvegur, iðnaður og ferðaþjónusta. Ekki má gleyma, að landbúnaðurinn sparar landsmönnum háar upphæðir, sem annars færu í enn meiri matvælainnflutning en raunin þó er. Heilnæmi íslenzks landbúnaðar er vanmetinn af sumum, en heilnæmið er í raun ómetanlegt fyrir heilsufar landsmanna.
Velgengni íslenzks sjávarútvegs á sér margar skýringar, en meginástæðan er auðvitað hagstæðar aðstæður fyrir lífríki hafsins við Ísland, og það hefur verið vitað frá landnámi. Afkastageta fiskveiðiflota, erlendra og innlends, ofgerði veiðistofnunum á síðustu öld. Íslendingar leystu þann vanda með útfærslu fiskveiðilögsögunnar í nokkrum áföngum í 200 sjómílur og ruddu brautina í alþjóðlegri hafréttarlöggjöf.
Þetta dugði þó ekki til, og var þá tekið upp kerfi, sem bæði fækkaði innlendum útgerðum og veiðiskipum, s.k. kvótakerfi. Þetta kerfi, aflahlutdeildarkerfi á skip, þar sem aflamark er ákvarðað með aflareglu, nú 20 %, af vísindalega ákvörðuðum veiðistofni, hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu (ICES) sem umhverfislega sjálfbært fiskveiðistjórnunarkerfi, og allt bendir til, að það sé efnahagslega sjálfbært líka.
Sjávarútvegurinn er máttarstólpi dreifðrar byggðar með ströndum fram, og með kvótakerfinu fóru þær sumar halloka, eins og við mátti búast. Nú eru sumum þessara byggða að opnast ný tækifæri með fiskeldi, og það er skylda stjórnvalda að sýna þessari grein jákvætt viðmót, því að hún mætir óverðskuldaðri óvild. Hún mun þá senn öðlast þjóðhagslegt mikilvægi og verða ein af öflugustu stoðunum undir gjaldeyrisöfluninni og stoð og stytta byggðanna, þar sem henni er leyft að starfa.
Grundvöllur öflugs útflutningsiðnaðar á Íslandi er hagkvæm raforka, unnin með sjálfbærum hætti úr fallorku vatns og úr mismunandi sjálfbærum forðageymum jarðgufu. Rafvæðing landsins gekk hægt, þar til Viðreisnarstjórnin dembdi sér í djúpu laugina, fékk samþykki Alþingis fyrir stofnun Landsvirkjunar 1965, og árið eftir kom naumlegt og sögulegt samþykki Alþingis fyrir stofnun ISAL-Íslenzka Álfélagsins, sem lagði grunninn að fyrstu stórvirkjun landsins og 220 kV flutningslínum þaðan og til höfuðborgarsvæðisins.
Samningurinn var harðlega gagnrýndur á sinni tíð, en hann reyndist gerður af meiri framsýni en andstæðingarnir áttuðu sig á. Þessi orkuviðskipti, sem voru til 45 ára, og hafa verið framlengd að breyttu breytanda í 25 ár, lögðu grunn að nútímalegu og öflugu raforkustofnkerfi á SV-landi, en aðrir landshlutar hafa setið eftir, og það er ekki vanzalaust að hálfu yfirvaldanna. Doðinn yfir raforkuflutningsmálum landsins gengur ekki lengur, enda verða orkuskiptin aldrei barn í brók, nema yfirvöld orkumála girði sig í brók og taki til hendinni í þágu íbúanna, sem vantar rafmagn af góðum gæðum.
Nú hefur frétzt af nýlegri tilskipun frá ESB um orkumál, sem ætlunin er að innleiða í Noregi og á Íslandi árið 2018. Orkumálayfirvöld á Íslandi hafa enn ekki áttað sig á, hversu hættuleg þessi tilskipun er, en með innleiðingu hennar fær ACER-Orkusamstarfsstofnun ESB - úrslitavald um þau orkumálefni hvers lands, sem hún skilgreinir sjálf sem "sameiginleg verkefni".
Þetta mál minnir á söguna af því, er Noregskonungur falaðist eftir Grímsey af Íslendingum. Guðmundur, ríki, taldi enga meinbugi á því vera að láta kóngi eftir Grímsey, en Þórarinn Nefjólfsson benti á hættuna, sem var fólgin í því, að kóngsmenn færu á langskipum þaðan og hertækju Ísland. Þá ætla ég, sagði Þórarinn, efnislega, að þröngt muni verða fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum.
Nákvæmlega sama er uppi á teninginum, ef Íslendingar innleiða þessa orkutilskipun í lagasafn sitt. Þá getur ESB með beinum fjárhagslegum hætti átt frumkvæði að lagningu sæstrengs frá Íslandi til útlanda, stofnað hér orkukauphöll og leyft hverjum sem er innan EES að bjóða í alla raforku, sem ekki er bundin með langtímasamningum, og ACER getur bannað nýja slíka samninga og framlengingu gamalla. Gangi þetta eftir, má ætla, að þröngt verði fyrir dyrum margra fyrirtækja og heimila hérlendis, því að ekki mun framboð raforku vaxa við þetta, og verðið mun rjúka upp í evrópskar hæðir, sem hæglega getur merkt tvöföldun.
Það er ekkert minnzt á þetta stórmál í stjórnarsáttmálanum. Það á líklega að læða því, illu heilli, í gegnum þingið, en er meirihluti þar fyrir slíku stórfelldu fullveldisframsali ?
Aftur á móti er skrifað í Stjórnarsáttmálann, að "Þjóðarsjóður [fyrrverandi þingmaður í Kraganum nefndi hann Þjóðbrókarsjóð í blaðagrein] verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum."
Þetta er fallegt og göfugt stefnumið, en hvers virði er öflugur "Þjóðbrókarsjóður", ef atvinnulífið sjálft verður ein rjúkandi rúst ?
Í Noregi er hafin mikil barátta gegn samþykki Stórþingsins á þessum orkumarkaðslagabálki ESB. Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti Norðmanna andsnúinn henni. Með aukinni umræðu og upplýsingagjöf munu línur skýrast. Það er mikið í húfi. Höfnun eða frestun á samþykki mun að öllum líkindum þýða útskúfun úr EES. Þess vegna er þessi undirlægjuháttur í málinu, en farið hefur fé betra.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2017 | 17:50
Er lengur þörf á EES ?
Spurning um það, hvort þörf sé lengur á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) væri óþörf, ef ekki fylgdi böggull skammrifi með þessu viðhengi Evrópusambandsins (ESB). Þessi böggull er ekkert léttmeti, sem almenningur og forráðamenn þjóðarinnar geta látið sér í léttu rúmi liggja, því að þar er að finna æ fleiri alvarlegar vísbendingar um, að aðildin að EES feli í sér fullveldisframsal til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins, sem sé langt umfram aðild að viðskiptasamningum eða öðrum alþjóðasamtökum, sem Ísland á aðild að.
Þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn á sínum tíma, sýndist sitt hverjum um þetta, og það var lögfræðilegt ágreiningsefni, hvort Stjórnarskrá landsins væri brotin með þessu. Nú hefur 23 ára vera Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu og nýjustu tíðindi af æ nánari samruna ESB-ríkjanna ("an ever closer union"), sem oftar en ekki virðist að hálfu ESB vera látinn falla undir EES-samninginn, hins vegar taka af öll tvímæli um það, að framkvæmd EES-samningsins sé á þann veg, að samþykkt hans hafi í raun falið í sér stjórnarskrárbrot að hálfu Alþingis og forseta lýðveldisins, sem samninginn undirritaði.
Dæmin, sem hér verða tekin, eru tvö. Er annað nýlegt og hitt væntanlegt:
Fyrra dæmið nær aftur til 2009, þegar Alþingi samþykkti að fella matvælastefnu ESB í íslenzk lög með þeirri undantekningu, að ekki yrð leyfður innflutningur á hráu og ófrystu kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Var þetta ekki gert af meintri meinfýsi þeirra, sem sagðir eru vilja vernda íslenzkan landbúnað gegn óheftri samkeppni niðurgreiddra landbúnaðarafurða frá ESB, heldur af illri nauðsyn fjarlægrar eyþjóðar að verjast heilsufarsfári fjölónæmra sýkla, sem landlægir eru í ESB-löndunum, og að verja innlenda búfjárstofna gegn bráðdrepandi sýkla- og veirusýkingum. Íslenzkir búfjárstofnar eru varnarlausir gegn erlendu fári, sem herjar á búfjárstofna erlendis og þeir hafa mótefni gegn. Þetta var ekki ímyndun þingmanna, heldur sjálfsögð varúðarráðstöfun, ráðlögð af fjölda hámenntaðra og reyndra vísindamanna á sviðum sýkla- og veirufræða.
Íslenzkir matvælainnflytjendur kærðu þetta innflutningsbann fyrir ESA, sem úrskurðaði, að það bryti í bága við EES-samninginn og þar með skuldbindingar, sem Alþingi samþykkti með inngöngu Íslands í EES árið 1994. Ágreiningurinn fór fyrir EFTA-dómstólinn, sem staðfesti úrskurð ESA í nóvember 2017.
Hvað sem öðru líður, er ljóst af þessum málalyktum, að samþykkt Alþingis, gerð í góðri trú um réttarstöðu landsins og til að vernda mikilvæga hagsmuni landsmanna, verður samt að láta í minni pokann fyrir vilja og úrskurði yfirþjóðlegrar stofnunar. Þar með er orðið eins ljóst og verða má, að stórfellt framsal fullveldis hefur átt sér stað til ESB, sem öllu ræður innan EES. Við þetta verður ekki unað, þótt "Fullveldisríkisstjórnin" hafi ákveðið að kyssa á vöndinn og taka þegjandi og hljóðalaust, því sem að höndum ber.
Rétt hefði í þessari stöðu verið að fara fram á samningaviðræður við ESB um þessi mál og fresta þar með gildistöku úrskurðarins um hríð til að vinna tíma til stefnumörkunar innanlands. Hvernig sem þær samningaviðræður hefðu farið, er hitt ljóst, að nú blása vindar gagnkvæmra viðskiptasamninga á milli ríkja, svo að tímabært er að leggja EES niður. Ástæðan er auðvitað úrsögn Bretlands úr ESB, sem taka mun gildi í marz 2019. Bretar stefna á viðskiptasamning við ESB og aðrar þjóðir, þ.á.m. við Íslendinga og Norðmenn, og líklegt má telja, að EES ríkjunum þremur, utan ESB, muni standa svipaður viðskiptasamningur til boða við ESB og Bretlandi. Þar með verður hægt að leggja viðrinið EES fyrir róða, öllum til léttis.
ESB áformar að koma á 5. frelsinu á Innri markaði EES. Það fjallar um frjálst flæði hvers konar orku á milli EES-landanna, t.d. eldsneytisgass, olíu og raforku. Norðmenn hafa af þessu miklar áhyggjur, af því að ESB hefur falið nýrri stofnun, "ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators", mikil völd. E.t.v. má kalla þessa stofnun "Orkusamvinnustofnun EES". Hún á að hafa síðasta orðið í hverju landi um öll orkutengd málefni, sem henni þóknast að skilgreina sem "EES-málefni" og ESA verður úrskurðaraðilinn. Takmarkið með þessu er, að öll orka flæði frjálst og hindrunarlaust yfir landamæri þangað, sem hæstbjóðanda þóknast, að hún verði send innan EES.
Margir Norðmenn hafa af þessu gríðarlegar áhyggjur, enda óttast þeir að missa tökin á raforkumálum sínum vegna mikillar sjálfbærrar fallvatnsorku þar í landi, sem tiltölulega ódýrt er að breyta í raforku. Óttast Norðmenn tæmingu miðlunarlóna og a.m.k. 30 % hækkun rafmagnsreiknings heimila og fyrirtækja af þessum völdum.
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en hérlendis fljóta yfirvöldin að feigðarósi, hafa annaðhvort ekki af málinu frétt eða sjá ekki hættuna, sem hérlendis stafar af þessu samrunaferli ESB. ACER gegnir nefnilega því hlutverki að auka orkuflutninga á milli landa. Raforkuflutningar á milli landa nema nú 10 % og stefnt er á tvöföldun þessa hlutfalls 2030. Á Íslandi er mesta raforkuvinnsla á mann í heiminum, og talsvert óvirkjað enn. Fólki hjá ACER er kunnugt um þetta og um áhuga Landsvirkjunar o.fl. á lagningu sæstrengs frá Íslandi til Skotlands. Það er vel hægt að hugsa sér þá stöðu, að á vegum ACER verði fé látið af hendi rakna til að koma sæstrengsverkefninu á koppinn. Útibú ACER á Íslandi hefði völd (samkvæmt ákvörðun ESB) til að skikka Landsnet til að tengja sæstrenginn við stofnkerfi sitt, og síðan mundi útibúið setja hér á laggirnar tilboðsmarkað fyrir raforku - bingo. Mörg hundruð, jafnvel 1000 MW (megawött) mundu streyma úr landi, orkuverðið innanlands snarhækka og Íslendingar "sitja með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn orða það, þegar einhver fær ekki rönd við reist og/eða er tekinn í bólinu.
Það er full ástæða til að vara alvarlega við því, sem hér er að eiga sér stað með æ nánari samruna á EES-svæðinu. Þessi þróun hentar engan veginn Íslendingum og Norðmönnum, sem geta hæglega misst "erfðasilfur" sitt í hendur hrægamma með andvaraleysi.
Gleðilegt aldarafmælisár fullveldis !
Fjármál | Breytt 1.1.2018 kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.12.2017 | 11:48
Ólíkar blikur á lofti norðan og sunnan Alpafjalla
Í vor kom út efnahagsskýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Almennt er árangur Íslendinga í efnahagsmálum frá Hruni þar talinn til hins bezta í heiminum um þessar mundir, sem sýnir dugnað þjóðarinnar framar öðru, en það eru þó hættumerki við sjónarrönd, sem ríkisvald, fjármálakerfi og samningsaðilar atvinnulífsins þurfa að bregðast við af eindrægni, eigi síðar en á fullveldisárinu, 2018. Launadeila flugvirkja hjá Icelandair er reyndar til vitnis um, að einn neisti í púðurtunnuna getur sprengt lífskjarabót undanfarinna ára út í hafsauga.
Það yrði hræðilegt, ef ógæfu þjóðarinnar yrði allt að vopni á aldarafmælisári fullveldisins. Þótt brokkgeng hafi verið, hefur þjóðin einmitt sýnt á einni öld, að hún verðskuldar fullveldi, hún þrífst miklu betur með fullveldi en án þess og hún hefur burði til að axla fullveldið.
Andrés Magnússon gerði téða OECD - skýrslu að umfjöllunarefni í Viðskiptablaðinu 29. júní 2017 undir fyrirsögninni:
"Öflugur hagvöxtur, en blikur á lofti":
Hættumerkin eru greinilegust á vinnumarkaðinum. Sem stendur glitrar hann þó sem gull af eiri varðandi kaupmátt og atvinnutækifæri í samanburði við vinnumarkað annars staðar, en glæsileg staðan er sennilega ósjálfbær. Ástæða þess er sú, að launakostnaður fyrirtækja hefur yfirleitt hækkað meira en nemur framleiðniaukningu þeirra. Þá er gengið á varaforða eða safnað skuldum. Ef vísitala þessara stærða er sett á 100 árið 1995, þá eru raunlaun 2017 170 og VLF/vinnustund = 158 og VLF/launþega = 153. M.ö.o. hefur raunlaunakostnaður aukizt yfir 11 % meira en verðmætasköpun á launþega. Þetta er aðvörun um það, að nú sé ekki borð fyrir báru og svigrúm til launahækkana að jafnaði lítið sem ekkert. Þetta á við um flugvirkja sem aðra, nema þeir hafi verið hlunnfarnir um lífskjarabætur miðað við ofangreint. Það er mjög ólíklegt, og þess vegna er ábyrgðarhlutur þeirra, sem neita að aðlaga sig raunverulegum aðstæðum á markaði, mikill. Þeir saga í sundur greinina, sem þeir sjálfir sitja á.
Ríkisstjórnin þarf augljóslega að koma með útspil til að eyða téðri ósjálfbærni, því að hún verður ella senn fóður fyrir verðbólgu, sem er versti óvinur launþega og atvinnurekenda. Þar má tína til lækkun tryggingagjalds og lækkun tekjuskatts á launþega og fyrirtæki.
Stýrivextir Seðlabankans eru samt enn óþarflega háir að mati margra utan Peningastefnunefndar bankans, sem sá ekki ástæðu til að lækka vaxtabyrði fyrirtækja og einstaklinga á vaxtaákvörðunardegi 13. desember 2017. Raunvextir hans eru um 2,6 %, sem skapa almennt raunvaxtastig í landinu um 5 %. Þetta sligar atvinnulífið og dregur úr langtíma fjárfestingum þess og eykur að óþörfu greiðslubyrði ungs fólks, sem lagt hefur í mestu fjárfestingu ævinnar, kaup á fyrsta húsnæðinu.
Tregða Seðlabankans til vaxtalækkana er misráðin. Hann horfir um of á atvinnustigið og sér þá, að framleiðsluþættirnir eru fullnýttir, en hann horfir framhjá þeirri staðreynd, að í landinu eru yfir 6000 erlendir starfsmenn, 1/3 á vegum starfsmannaleiga og 2/3 ráðnir beint að utan af fyrirtækjunum. Þar að auki eru 30 þúsund útlendingar búsettir í landinu. Þetta erlenda fólk heldur uppi hagkerfi Íslands. Gríðarlegur skortur væri á vinnuafli, ef þess nyti ekki við. Hér er ekki einvörðungu um að ræða íbúa á EES-svæðinu, heldur líka t.d. Georgíumenn, sem eru kristnir og duglegir Kákasusmenn, komnir til að vinna, en ekki til að valda vandræðum, segja þeir sjálfir. Þessa ótta við ofhitnun hagkerfisins gætir einnig hjá OECD, en kælingaráhrif ISK eru vanmetin:
"OECD segir þó, að þrátt fyrir, að horfur séu góðar, sé töluverð hætta á ofhitnun. Bent er á, að kjarasamningar hafi verið gerðir af nokkru örlæti undanfarin ár, en þrátt fyrir það vilji ýmis verkalýðsfélög sækja enn frekari kjarabætur. Stofnunin telur mikilvægt að auka aðhald í opinberum fjármálum og að peningastefnan þurfi að miðast við, að bregðast megi við auknum verðbólguvæntingum."
Skyldi nýja ríkisstjórnin vera sammála því að auka við rekstrarafgang ríkissjóðs ? Eru auknar verðbólguvæntingar ? Þess sér ekki stað í s.k. verðbólguálagi til langs tíma. OECD hefur hér fengið gleraugu Seðlabankans lánuð.
Í Businessweek 23. október 2017 var vikið að efnahagsástandinu á Ítalíu í greininni,
"La dolce procrastinazione".
Sem dæmi um slæmt ástand innviða er nefnt, að vatnsskortur hafi leitt til hættu á daglegri 8 klst vatnsskömmtun í Róm, af því að hið sögufræga vatnsveitukerfi borgarinnar leki 40 % af aðveitunni. Þá safnist rusl upp í görðum og gras sé óslegið, á meðan borgaryfirvöld berjist við spillingarhneyksli hjá þjónustustofnunum borgarinnar.
Í október 2017 upplýsti stærsti vogunarsjóður heims, "Ray Dalio´s Bridgewater Associates", að hann hefði veðjað miaUSD 1,1 um, að hlutabréf nokkurra stærstu fyrirtækja Ítalíu mundu lækka, þ.á.m. tveggja stærstu bankanna og Enel Spa, hinnar ítölsku Landsvirkjunar.
Ítalir láta sér fátt um finnast og halda áfram að "sparka dósinni á undan sér", eins og þeirra hefur löngum verið háttur. Á 11 ára aldri læra ítalskir skólanemendur söguna af Quintus Fabius Maximus Verrucosus, rómverska hershöfðingjanum, sem yfirbugaði með hægðinni Hannibal, hershöfðingja Karþagómanna, með því að forðast bardaga. Hann hlaut viðurnefnið "Cunctator"-"frestarinn", og það er nú sem fyrr höfuðeinkenni ítalskra stjórnmálamanna, en ekki eftirbreytnivert.
Tökum dæmi af flóttamönnum, sem koma sjóleiðina til Ítalíu. Opinberlega skal taka fingrafar af öllum flóttamönnum, þegar þeir koma til Evrópu, og setja í sameiginlegan gagnagrunn ESB. Í raun hafa Ítalir oft hunzað þessa reglu, og flóttamenn hafa haldið óskráðir til annarra landa frá Ítalíu. Þetta er slæmt, því að landvistaróskir skal fjalla um í fyrsta komulandi umsækjanda á faraldsfæti. Þegar slíkur flækingur birtist, t.d. á Íslandi eða í Svíþjóð, er það kerfislega eins og hann hafi borizt beint frá Mogadishu til Keflavíkurflugvallar eða Málmeyjar. Sómalinn verður íslenzkt eða sænskt vandamál. Ítölum hefur þannig tekizt að "sparka dósinni" norður eftir Evrópu.
Þetta sýnir það, sem Færeyingar hafa lengi vitað, að það er ekki í lagi fyrir norðrið að deila landamærum sínum með suðrinu. Rökrétt svar Íslands við þessu ástandi er að taka upp eigin landamæragæzlu.
Að smygla Ítalíu inn á evru-svæðið hefur verið nefnt "stærstu viðskipti sögunnar" ("the greatest trade ever"-af The Economist). Uppgjörið fór aldrei fram, heldur lenti Ítalía í tvöfaldri kreppu í fjármálakreppunni 2007-2009, þegar iðnaðarframleiðslan dróst saman um fjórðung. Atvinnuleysið náði 12,8 % í ársbyrjun 2014. Ríkisskuldir Ítalíu náðu árið 2017 yfir miaEUR 2000 eða 132 % af VLF, samanborið við 96 % í Frakklandi og 62 % á Íslandi. Viðmið Maastricht-samnings til upptöku evru er 60 %.
Auðvitað liggur félagsleg eymd að baki þessum ítölsku tölum. Fjöldi Ítala, sem býr við raunverulega fátækt (ekki aðeins tiltölulega fátækt), næstum þrefaldaðist á síðustu 10 árum; 4,7 M Ítala eða 7,9 % mannfjöldans, eiga ekki fyrir daglegu lífsframfæri sínu, þ.e. þeir eru vannærðir og hýrast í hreysum (Laugardalur ?!).
Fjöldaatvinnuleysi æskulýðsins upp á 35,4 % hefur eyðilagt starfsmöguleika heillar kynslóðar Ítala og möguleika hennar til eðlilegrar fjölskyldumyndunar. Aðeins 52,1 % ítalskra kvenna á aldrinum 20-64 ára voru í launaðri vinnu í ársbyrjun 2017. Þetta er minnsta atvinnuþátttaka kvenna í Evrópu utan Grikklands.
Að norrænu mati jafngilda þessar tölur dauðadómi yfir ítalska samfélaginu. Þetta ömurlega ástand er aðallega vegna þess, að Ítölum var smyglað inn á evrusvæðið. Samfylkingin ætlaði að smygla Íslendingum inn í þetta sama mynthelsi, þegar hún var hér í ríkisstjórn 2007-2013. Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir það 2007-2008 og Alþingi með skilmálum sínum, þegar Össur Skarphéðinsson var hér utanríkisráðherra á vegum Samfylkingarinnar 2009-2013.
Nú hafa þau þröngsýnu og óþjóðhollu öfl, sem reru að því öllum árum að koma Íslandi í banvænan náðarfaðm ESB, verið hreinsuð út úr Stjórnarráði Íslands. Það gerðist á Fullveldisdaginn, 1. desember 2017, þegar "Fullveldisríkisstjórnin" tók hér við völdum. Verður að vona, að hún standi undir nafni, en á það mun t.d. reyna við úrlausn hennar á úrskurði EFTA-dómstólsins um, að Alþingi hafi ekki haft heimild árið 2009 til að kveða á um undantekningar við innleiðingu matvælalöggjafar ESB. Skýrara dæmi um fullveldisafsal verður varla fengið. Slíkt brýtur í bága við Stjórnarskrá landsins og krefst viðbragða að hálfu stjórnvalda. Verður Íslandi vært innan EES ?
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)