Færsluflokkur: Fjármál

Um valdmörk ACER

Í álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) er áhugaverð umfjöllun um valdmörk ACER (Orkustofnunar ESB) á Íslandi eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, OP#3.  Þessi valdmörk hafa mikla þýðingu, því að þau kunna að ógna tveggja stoða grundvelli EES-samstarfsins og þar með að vera brotleg við Stjórnarskrá Íslands.   

Lögfræðingar ýmsir hérlendir og fleiri, sem vildu innleiða Orkupakka #3 (OP#3) skilmálalaust áður en fráleit þingsályktunartillaga utanríkisráðherra sá dagsins ljós, hafa fullyrt með þjósti, að rangt sé, að ACER muni fara með valdheimildir á orkusviði hérlendis.  Þar með hafa þeir sýnt, hversu lítið vit þeir hafa á þessu máli, ef marka má eftirfarandi tilvitnun í gr. 4.3.1 í álitsgerð ofangreindra lögspekinga:

"Þrátt fyrir að valdið sé þannig formlega hjá ESA, er ljóst, að ACER mun hafa mikið að segja um efni ákvarðana, sem ESA tekur á grundvelli reglugerðarinnar [713/2009], enda semur ACER drög að ákvörðunum og leggur þau fyrir ESA.  Það má því velta fyrir sér, hvort ákvörðunarvaldið sé í raun hjá ACER, og að hlutverk ESA sé aðallega formlegs eðlis í því skyni, að fyrirkomulag reglugerðarinnar samræmist betur tveggja stoða kerfinu.  Færa má rök fyrir því, að í raun sé ákvörðunarvaldið að hluta til framselt stofnun, sem heyrir undir Evrópusambandið og stendur utan EFTA-stoðarinnar, þ.e. ACER.  Í þessu ljósi má leggja til grundvallar, að gera verði enn ríkari kröfur en ella til þess, að valdframsalið, sem felst í 8. gr. reglugerðar nr 713/2009, standist þær stjórnskipulegu viðmiðanir, sem áður hafa verið raktar, m.a. varðandi tveggja stoða kerfi EES-samningsins, sbr einkum kafla 4.2.2 og 4.2.3 hér að framan."

Þau stjórnskipulegu vafaatriði, sem þarna eru nefnd, eru fóður inn í þá réttaróvissu, sem skapast á Íslandi, ef þingsályktunartillaga utanríkisráðherra verður samþykkt.  Til viðbótar vafanum með tveggja stoða kerfið og húsbóndavald ACER yfir ESA í orkumálum kemur, að samkvæmt gerð nr 713/2009 tekur ACER lagalega skuldbindandi ákvarðanir fyrir aðildarríkin á sviði millilandatenginga. Þetta vald er óháð því, hvort aflsæstrengur er fyrir hendi eða ekki, þegar innleiðing OP#3 á sér stað.  Um þetta skrifa FÁFH og SMS í gr. 4.3.1:

"Framangreint breytir þó ekki því meginatriði, sem áður var gerð grein fyrir, að drög að ákvörðunum eru í grunninn samin af ACER og að áhrif ACER á efni ákvarðana ESA hljóta því að vera veruleg.  Virðist þannig gert ráð fyrir því, að stefnumótun varðandi efni og framkvæmd umræddra ákvæða reglugerðar nr 713/2009 muni einkum fara fram á vettvangi ACER, þrátt fyrir að ESA eigi vissulega aðkomu að því ferli og geti haft áhrif á það með þeim hætti, sem að framan greinir."

Það, sem gerir málið alvarlegt og eykur líkur á málarekstri, þar sem íslenzka ríkið stendur á veikum grunni með líklegt Stjórnarskrárbrot fólgið í innleiðingu Þriðja orkulagabálksins áður en stjórnlagalega vafamálið með 713/2009 er leitt til lykta, er, að almannahagsmunir, einstaklingar og lögaðilar, eiga í hlut.  Ríkisstjórnin veður vitandi vits út í lögfræðilegt kviksyndi með því að biðja Alþingi að innleiða Þriðja orkupakkann:

"Þótt ákvarðanir ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar beinist að forminu til að eftirlitsyfirvöldum hér á landi (s.s. Orkustofnun), þá breytir það því ekki, að þær geta jafnframt haft áhrif á hagsmuni einstaklinga og lögaðila, bæði þá sem stunda raforkustarfsemi og notendur raforkukerfisins (auk þess að hafa einnig áhrif á almannahagsmuni, tengda nýtingu raforkukerfisins) [t.d. ákvörðun gjaldskráa Landsnets og dreifiveitnanna-aths. BJo].  Það er einkum tvennt, sem tekur af skarið um, að umræddar ákvarðanir muni hafa þessi áhrif.  Í fyrsta lagi eru þær teknar á grundvelli reglugerðar, en þær eru bindandi í sérhverju tilliti og fá lagagildi í öllum aðildarríkjum ESB samtímis. Í öðru lagi er sérstaklega kveðið á um það í fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, að EFTA-ríkin eða hvaða einstaklingur eða lögpersóna sem er geti hafið málarekstur gegn ESA fyrir EFTA-dómstólnum í samræmi við 36. og 37. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.  Þar með er því slegið föstu, að einstaklingar og lögpersónur geti átt aðild að umræddum ákvörðunum ESA á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr 713/2009."

Vegna þess að innleiðing Þriðja orkulagabálksins hvílir á veikum lögfræðilegum grunni, þar sem FÁFH & SMS hafa dregið stórlega í efa, að tveggja stoða fyrirkomulagið sé raunverulegt í tilviki ACER, er líklegt, að málaferli muni rísa út af störfum Landsreglarans, sem óhjákvæmilega mun varða hag margra, reyndar alls landslýðs, þar sem Landsreglarinn mun t.d. fá það hlutverk að staðfesta gjaldskrár Landsnets og dreifiveitnanna.  Við dómsuppkvaðningu mun fást úr því skorið, hvort valdframsalið til ACER stenzt Stjórnarskrá.

Ef umsókn berst til Orkustofnunar frá sæstrengsfjárfesti um leyfi til að leggja Ice-Link sæstrenginn á grundvelli Kerfisþróunaráætlunar ESB og hún hafnar umsókn á grundvelli banns Alþingis við lagningu aflsæstrengja á milli Íslands og útlanda, þá rís vafalaust upp deilumál á milli ESB/ESA og Íslands, þar sem lagaleg staða Íslands verður veik, vegna þess að innleiðing Þriðja orkupakkans brýtur í bága við EES-samninginn, kafla 7.  

Hinn möguleikinn er líka fyrir hendi, að sæstrengsfjárfestir sæki sitt mál vegna höfnunarinnar til íslenzks dómstóls, sem mun þá líklega æskja álitsgerðar frá EFTA-dómstólinum um EES-réttarfarsleg efni. Brot íslenzka ríkisins á skuldbindingum sínum að EES-rétti getur leitt til skaðabótaábyrgðar ríkisins gagnvart lögaðilum og einkaaðilum, sem telja sig hafa orðið fyrir fjárhagstapi af völdum banns Alþingis á lagningu sæstrengs.  Þetta tap getur numið tekjum af flutningi rafmagns á tilteknu tímabili og skaðabótaábyrgðin eitthvert hlutfall af þessum tekjum.  Þessi upphæð getur fljótt orðið mjög tilfinnanleg fyrir íslenzka ríkið.  Það er algerlega óverjandi, að Alþingismenn stofni fjárhag íslenzka ríkissjóðsins í stórhættu með því óþarfa glæfraspili að innleiða Þriðja orkupakkann með þeim hætti, sem utanríkisráðherrann leggur til.

Óbeizluð orka 

 

 


Eignarhald og ráðstöfunarréttur orkulindanna í húfi

Bornar hafa verið brigður á, að eignarréttur og ráðstöfunarréttur orkulindanna sé í húfi með samþykki Alþingis á þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara á ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn.  Hins vegar tekur álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH)og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) frá 19. marz 2019 til utanríkisráðuneytisins af öll tvímæli um, að orkulöggjöf Evrópusambandsins leyfir lagasetningu um eignarrétt og ráðstöfunarrétt orkulinda og að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er þessarar gerðar.  

Af þessum ástæðum getum við aldrei orðið aðilar að Evrópusambandinu, ESB, án stórfellds hnekkis, alveg eins og á við um fiskveiðilögsögu landsins og aðildina að ESB.  Með samþykkt Þriðja orkupakkans er verið að þrýsta Íslendingum í banvænan náðarfaðm ESB.  Að íslenzkir stjórnmálaflokkar, sem hafa á stefnuskrá sinni andstöðu við ESB-aðild, skuli standa að þessu feigðarflani, segir sína sögu um þá Trójuhesta, sem eru á meðal vor og sitja að svikráðum fyrir pokaskjatta, fulla af gulli.  Það er gamla sagan.  

Sumir íslenzkir lögfræðingar hafa gerzt furðu heimóttarlegir að leggja sig í framkróka við að sýna fram á, að Þriðji orkupakkinn breyti í raun engu fyrir Íslendinga, sízt af öllu um eignarhald auðlindanna og hafa þá vitnað til kafla 125 í EES-samninginum.  FÁFH og SMS sýna hins vegar fram á í álitsgerð sinni, að dómaframkvæmd getur stungið í stúf við texta EES-samningsins vegna fjórfrelsisins, sem skal ganga fyrir öðrum ákvæðum:

"Í dóminum [Heimfallsdómi EFTA-dómstólsins gegn norska ríkinu] segir, að sá greinarmunur, sem gerður er í  norskri löggjöf á opinberum aðilum annars vegar og einkaaðilum og erlendum aðilum hins vegar, hafi neikvæð áhrif á fjárfestingu síðari hópsins og feli í sér óbeina mismunun, sem hindri bæði frjálst flæði fjármagns og stofnsetningarréttinn.  Ástæðan sé sú, að þessir aðilar hafi styttri tíma til að fá arð af fjárfestingu sinni en opinberir aðilar."

Þetta mál sýnir, að sitt er hvað lagatexti og dómaframkvæmd EFTA-ESB-dómstólsins.  Í þessu tilviki víkur norsk löggjöf, sem átti að tryggja, að vatnsréttindi og virkjanir féllu til ríkisins að tilgreindum tíma liðnum, 50-80 ár, fyrir fjórfrelsi Innri markaðarins um frjálst flæði fjármagns og áskilda jafnstöðu fjárfesta innan EES. Allar hérlendar tilraunir til að hamla kaupum útlendinga á vatnsréttindum, virkjunum og fyrirtækjum til sölu í raforkugeiranum, yrðu væntanlega kærðar fyrir ESA og EFTA-dómstólnum, og öll innlend löggjöf í þeim efnum viki fyrir Evrópurétti um frjálst flæði fjármagns innan EES, sbr Heimfallsdóminn.

Í álitsgerð FÁFH & SMS er komizt að þeirri niðurstöðu, að það samræmist ekki Stjórnarskrá Íslands, að innleiða 8. gr. reglugerðar 713/2009, "þar sem ACER er veitt heimild til að taka lagalega bindandi ákvarðanir varðandi grunnvirki yfir landamæri, en sem fyrr segir er ráðgert, að ESA muni fara með þær valdheimildir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum." [gr. 3.1]  

Nú hefur utanríkisráðherra lagt til leið til að sigla framhjá þessari niðurstöðu lögfræðinganna með því að taka allan Orkupakka #3 upp í íslenzkan landsrétt og setja síðan í lög undanþáguákvæði, sem reist er á núverandi stöðu samtengingar raforkukerfisins við útlönd, sem er sú, að samtenging er ekki fyrir hendi.  Lögin eiga að afnema reglugerð 713/2009 úr íslenzkum rétti, þangað til Alþingi heimili lagningu aflsæstrengs til landsins og búið verði að leysa úr Stjórnarskrárvandanum.  Utanríkisráðherra heldur því fram, að þetta sé tillaga téðra lögfræðinga.  Það er alrangt og reyndar gróf aðför að faglegum heiðri mætra manna, sem skilað hafa af sér góðu verki ("Álitsgerð").  Til að sýna fram á þessa fullyrðingu, er í raun nóg að vitna í gr. 4.1 í álitsgerðinni:

"Það breytir því þó ekki, að þriðji orkupakkinn verður ekki tekinn upp í íslenzkan landsrétt nú, nema hann standist stjórnarskrána.  Verður ákvörðun Alþingis um, hvort aflétta eigi stjórnskipulegum fyrirvara Íslands við þriðja orkupakkann og innleiða hann í íslenzkan landsrétt að miðast við þá forsendu, að grunnvirkjum yfir landamæri verði komið á fót hér á landi, en við þær aðstæður myndi reyna á umrætt valdframsal til ESA, einkum samkvæmt reglugerð 713/2009."

Utanríkisráðherra fer öfugt að; hann leggur til, að stjórnarskrárvandanum verði sópað undir teppið.  Síðan stingur hann hausnum í sandinn og hundsar algerlega hinn gríðarlega "galla" við þessa lögfræðilegu moðsuðu utanríkisráðherrans, sem fram kemur í álitsgerðinni, gr. 6.4, að aflétti Alþingi stjórnskipulegum fyrirvara af Þriðja orkupakkanum, "þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt".

Hvað þýðir þetta ?  Það þýðir einfaldlega, að komi vink frá ESA um þennan fordæmalausa málatilbúnað í EES-samstarfinu, þá falla hin lögfræðilegu Pótemkíntjöld og við blasir landsréttur með Þriðja orkupakkann í heild sinni innanborðs og Stjórnarskráin, sem liggur óbætt hjá garði.  Þeir Alþingismenn, sem ekki sjá hættuna, sem í þessu felst, eiga uppgjör skilið í aðdraganda næstu þingkosninga og uppsögn, verði þeir áfram í framboði.

 

 

 

 

 

 


Evran tvítug

Þann 1. janúar 1999 kom sameiginleg mynt Evrópusambandsins, ESB, í heiminn.  Hún virtist eiga efnilega bernsku sinn fyrsta áratug og geta keppt við bandaríkjadal sem heimsviðskiptamynt, en þá urðu reyndar atburðir, sem áttu eftir að reynast henni fjötur um fót, og hún verður vart nokkru sinni jafnoki dalsins úr þessu. 

Þjóðum, sem ekki fullnægðu Maastricht-skilmálunum um inngöngu í myntbandalagið, var hleypt inn bakdyramegin af pólitískum ástæðum, og hafa þær veikt myntina mikið.  Þetta voru Miðjarðarhafsþjóðirnar, Grikkir, Ítalir, Spánverjar og Portúgalir. Talið er, að þýzka markið, DEM, væri a.m.k. 30 % sterkara en evran í bandaríkjadölum talið, ef markið væri enn á dögum. Þetta skýrir hinn gríðarlega kraft í þýzku útflutningsvélinni.

Aðstandendur evrunnar, Frakkar og Þjóðverjar, eru ekki búnir að bíta úr nálinni með hið hagfræðilega fúsk, sem átti sér stað á bernskuárum evrunnar.  Það er staðreynd, að hagkerfi, sem binda trúss sitt við fjarlæga seðlabanka, verða oftar fórnarlömb peningalegrar kreppu en hin.  Milton Friedman spáði endalokum evrunnar í fyrstu kreppunni, sem hún yrði fyrir.  Það gerðist þó ekki, en þá gerðu stjórnendur ESB og ECB (Seðlabanka ESB) mistök, sem evran líður enn fyrir og verður e.t.v. banabiti hennar.

  Í úrtakskönnunum segja tæplega 30 % íbúa evrusvæðisins, að evran hafi slæm áhrif á hagkerfi heimalands síns.  Hvað skyldi stórt hlutfall Íslendinga telja ISK hafa slæm áhrif á hagkerfi þeirra ?  Aftur á móti segja 75 % íbúa evrusvæðisins, að evran sé góð fyrir samheldnina í ESB.  Ekki varð sú reyndin með Breta, sem eru á útleið, enda komst ríkisstjórn Bretlands að þeirri niðurstöðu á fyrsta áratug aldarinnar, gegn skoðun Tonys Blair, að of áhættusamt yrði Bretum að fórna sterlingspundinu fyrir evru, því að of mikil misleitni væri í þróun brezka og evru-hagkerfisins.

Helmut Kohl, þáverandi kanzlari Vestur-Þýzkalands, fórnaði DEM fyrir samþykki Mitterands, þáverandi forseta Frakklands, á endursameiningu Þýzkalands.  "Die Bundesbank" var á móti, en "Bundestag", Sambandsþingið, samþykkti.  Frakkar eiga í mesta basli við að standast Maastricht-skilmálana, og halli ríkissjóðs miðstýrðasta ríkis Evrópu mun sennilega fara yfir mörkin, 3 % af VLF, á árinu 2019.  Frakkar eru nú sjálfir komnir í þá spennitreyju, sem þeir ætluðu að færa Þjóðverja í.

Það hefur verið lítill hagvöxtur í ESB eftir hrun peningamarkaðanna 2007-2008.  Sum ríki evrusvæðisins fóru hræðilega illa út úr þessu hruni vegna viðbragða framkvæmdastjórnar ESB o.fl., sem tóku meira mið af hagsmunum þeirra, sem hafa efni á að hanga í Berlaymont og reka þar áróður fyrir sínum hagsmunum, en almennings í evru-löndunum.  Þetta er skýringin á vaxandi lýðhylli þjóðræknistefnu í Evrópu og vantrú á bákninu, afætunum, sem unga út reglugerðum og tilskipunum, í Brüssel.

Hagur almennings á Ítalíu hefur ekkert skánað síðan árið 1999.  Þar hefur ríkt stöðnun, og opinberar skuldir aukizt eftir upptöku evrunnar. Núverandi ríkisstjórn Ítalíu ætlaði að örva hagkerfið með ríkisútgjöldum, sem hleypa myndi ríkissjóðshallanum yfir 3 % af VLF, en var gerð afturreka með fjárlagafrumvarpið af búrókrötunum í Brüssel.

Spánn og Írland njóta nú hagvaxtar eftir kerfisbreytingar hjá sér, en máttu þola langt stöðnunartímabil vegna gríðarlegrar skuldayfirtöku ríkisins frá bankakerfinu að kröfu Framkvæmdastjórnarinnar.  Atvinnuleysi ungs fólks á Spáni er nú 35 %, sem vitnar um skelfilegt þjóðfélagsástand. Launahækkanir hafa nánast engar verið á evrusvæðinu frá 2008.  Hvers vegna krefjast verkalýðsfélögin þar ekki launahækkana ?  Það ætti að verða íslenzkum verkalýðsleiðtogum verðugt umhugsunarefni.  

Írland nýtur sérstöðu, því að bandarísk fyrirtæki hafa fjárfest gríðarlega þar, enda njóta þau skattalegs hagræðis á Írlandi, þar sem er aðeins 12 % tekjuskattur á fyrirtæki.  Þessi fyrirtæki öðlast auðvitað tollfrjálst aðgengi að EES-markaðinum, hvað sem tollastríði Bandaríkjaforseta við ESB líður.

Verstu mistök ESB í peningamálum voru 2010, er Framkvæmdastjórnin neitaði að viðurkenna, að gríska ríkið gæti aldrei greitt allar skuldir sínar.  Þar opinberaðist hið vanheilaga samband búrókratanna í Brüssel og fjármálavafstrara Evrópu.  Í stað þess að afskrifa a.m.k. helming skulda gríska ríkisins, þá voru þær fluttar frá þýzkum og frönskum bönkum o.fl. og til opinberra sjóða.  Þar með voru skattborgarar lánveitendaríkjanna gerðir ábyrgir fyrir skuldum eins skuldararíkjanna.  Þetta er eitur í beinum sparnaðarsinnaðra skattborgara og mun óhjákvæmilega leiða til gliðnunar í evrusamstarfinu, hvað sem líður Aachen-samningi forseta Frakklands og kanzlara Þýzkalands.  Ríki Karlamagnúsar sundraðist fljótt, og aðeins kirkjan sameinaði Evrópu um tíma, en hún sundraðist líka.  Þjóðverjar þoldu ekki við undir oki Rómar.  

Þegar alvarleg fjármálakreppa ríður yfir næst, mun reyna mjög á greiðsluþol skuldugu ríkjanna vegna vaxtahækkana, sem alltaf verða gagnvart illa stæðum ríkjum við slíkar aðstæður.  Hvorki evrubankinn né lánadrottnarnir munu hafa bolmagn til að hindra skuldugu ríkin á evru-svæðinu í að fara á hliðina.  Evran verður auðvitað ekki söm eftir.  Myntsvæðum Evrópu gæti fjölgað.  Óvíst er, hvað um Evrópusambandið verður í kjölfarið. Munu Bretar enn einu sinni standa eftir með pálmann í höndunum ?

 

 

 

 

 


Friðunarárátta úr böndunum

Ef beita á náttúrufriðunarvaldinu til að stöðva virkjunaráform, sem hlotið hafa blessun Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda, hafa fengið samþykki Alþingis og Skipulagsstofnunar, sem skrifað hefur upp á með skilyrðum, þá jafngildir það því að slíta í sundur það friðarferli, sem stjórnvöld landsins hafa reynt að mynda um auðlindanýtingu á landi. 

Það er alveg dæmalaust, að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli ljá máls á tillögu Náttúrustofnunar Íslands frá 25. júní 2018 um friðlýsingu á væntanlegu athafna- og nýtingarsvæði Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði.  Um er að ræða stækkun friðlandsins á Hornströndum til suðurs, um 1281 km2 svæði suður um Ófeigsfjarðarheiði.  

Það er ósvífni að hálfu ríkisstofnunar og ólýðræðislegt í hæsta máta af Náttúrustofnun að leggja það til, að ríkið grípi fram fyrir hendur heimamanna, Vestfirðinga og íbúa í Árneshreppi sérstaklega, sem unnið hafa í mörg ár samkvæmt lögskipuðum ferlum að undirbúningi 55 MW, 400 GWh/ár, vatnsaflsvirkjunar á Ströndum, með því að biðja ráðherra um að leggja nýja náttúruminjaskrá um téð svæði fyrir Alþingi í haust.  Þessa aðför að sjálfbæru mannlífi og atvinnulífi á Vestfjörðum á að kæfa í fæðingunni, og það mun Alþingi vonandi gera, því að til þess hefur ráðherra þessi ekki bein í nefinu. 

Hann skrifaði 13. júní 2018 í Fréttablaðið grein um áhugamál sitt:

"Stórfelld tækifæri við friðlýsingar"

"Síðastliðinn föstudag [08.06.2018] kynnti ég í ríkisstjórn áform um átak í friðlýsingum, en í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um það.  Átakið felur í sér að friðlýsa svæði, sem njóta eiga verndar gegn orkunýtingu (verndarflokkur rammaáætlunar) sem og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum, sem ályktað hefur verið um að friðlýsa, en hefur ekki verið lokið."

Friðlýsing svæða í nýtingarhluta Rammaáætlunar er þarna ekki á dagskrá ráðherrans, enda eru slík endemi ekki í sáttmála núverandi ríkisstjórnar, þótt þar kenni ýmissa grasa.  Ráðherrann er á pólitísku jarðsprengjusvæði með því að gefa undir fótinn með friðlýsingu á téðu landsvæði.  Hann ætti að forðast að fara fram með offorsi í hinar friðlýsingarnar án samstarfs við og samþykkis viðkomandi sveitarstjórna, bænda og annarra landeigenda.  Friðlýsingu má ekki troða upp á heimamenn af ríkisvaldinu.

Það mun fara eins lítið fyrir Hvaleyrarvirkjun í náttúrunni og hugsazt getur.  Hún verður neðanjarðar að öðru leyti en stíflunum.  Aflið frá henni verður flutt um jarðstreng.  Flúðarennsli verður áfram, þótt það minnki á meðan vatnssöfnun í miðlunarlón á sér stað.  Hönnun er sniðin við lágmarks breytingar á umhverfinu, þannig að útivistargildi svæðisins verður nánast í fullu gildi áfram, þótt verðmætasköpun aukist þar skyndilega úr engu og í meira en 2,4 miaISK/ár, sem gæti orðið andvirði raforkusölunnar frá virkjun m.v. núverandi markaðsverð.  Þessi starfsemi getur orðið fjárhagsleg kjölfesta sveitarfélagsins, sem hýsir mannvirkin, á formi fasteignagjalda og auðlindargjalds o.fl.

Þann 26. júní 2018 staðfesti Skipulagsstofnun loksins breytingu á Aðalskipulagi Árneshrepps vegna framkvæmdanna.  Skipulagsstofnun setti sem skilyrði, að vegagerð yrði í algjöru ágmarki og henni sleppt, þar sem hægt væri.  Þetta er þó ekki til þess fallið að bæta mikið aðgengi ferðamanna að svæðinu, svo að áfram munu þá þeir einir komast þar víða um, sem fráir eru á fæti.  

Þann 7. júní 2018 birtist ágæt grein í Morgunblaðinu eftir Kristin H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismann, undir fyrirsögninni:

"Hvalá: stórstígar framfarir fyrir Vestfirðinga".

Hún hófst þannig:

"Hvalárvirkjun í Árneshreppi mun verða mikið framfaraskref fyrir Vestfirðinga.  Afhendingaröryggi raforku mun batna mikið, framboð af raforku mun opna möguleika á nýrri atvinnustarfsemi, og útblástursmengun mun minnka verulega.  Þessu verður hægt að ná fram með litlum tilkostnaði hins opinbera, þar sem einkaaðilar munu standa straum af framkvæmdum.  Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun og hefur tvisvar verið samþykkt í nýtingarflokk og staðfest af Alþingi."

Þetta eru sterk rök fyrir nytsemi þessarar virkjunar.  Virkjunin er ekki "nice to have" fyrir Vestfirðinga, heldur bráðnauðsynleg til þess, að raforkukerfi Vestfjarða standi undir nafni, en sé ekki hortittur út úr hringtengingu landsins frá Hrútatungu í Hrútafirði.  Til að halda uppi rafspennu í víðfeðmu raforkukerfi, eins og á Vestfjöðum, þarf öflugar virkjanir, og núverandi virkjanir þar hrökkva engan veginn til.  Mikið spennufall jafngildir tiltölulega háum töpum og óstöðugri spennu.  Aðeins hækkun skammhlaupsafls í raforkukerfi Vestfjarða getur dregið þar úr orkutöpum og gefið stífari spennu.  Þetta er síðan skilyrði þess, að tæknilega verði unnt að færa þar loftlínur í jörðu; aðgerð, sem draga mun úr bilanatíðni kerfisins og bæta ásýndina.  Þessar umbætur eru útilokaðar án framkvæmda á borð við Hvalárvirkjun. Jarðstrengir framleiða síðan rýmdarafl, sem virkar enn til spennuhækkunar og aukinna spennugæða á Vestfjörðum, en aukning skammhlaupsafls með nýjum virkjunum á svæðinu verður að koma fyrst.

Kristinn nefnir framtíðar möguleika til enn meiri styrkingar kerfisins, sem aukin raforkunotkun á Vestfjörðum mun kalla á.  Þar er t.d. Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3.  Þannig eru 85 MW í nýtingarflokki og um 50 MW enn ekki þar.  Alls eru þetta 135 MW með áætlaða vinnslugetu 850 GWh/ár.

Kristinn benti ennfremur á mikilvægi öflugs vestfirsks raforkukerfis fyrir raforkuöryggi landsmanna.  Þar hefur hann mikið til síns máls, því að á Vestfjörðum þarf hvorki að búast við tjóni af völdum jarðskjálfta né eldgosa.  Ofangreint rafafl mundi duga fyrir algera lágmarksnotkun landsmanna í mikilli neyð, þar sem skömmtun yrði að viðhafa.  Vinnslugeta margra virkjana landsmanna getur skyndilega rýrnað verulega, t.d. í jarðskjálftum, þar sem gufuholur verða óvirkar, og/eða í eldgosum, þar sem aska og vikur leggst á miðlunarlón, stíflar vatnsinntakið eða skemmir hverflana.  Vesturlína getur flutt um 100 MW hvora leið.

Af öðru sauðahúsi er annar höfundur um sama efnivið, Tómas, nokkur, Guðbjartsson, "læknir og náttúruverndarsinni".  Hann hefur um hríð fundið hjá sér hvöt til að finna virkjunaráformum í Hvalá allt til foráttu og verið stóryrtur í garð virkjunaraðilans og eigenda hans.  Umfjöllun Tómasar hefur verið mjög einhliða og gildishlaðin, þótt siðferðislega virðist  hann ekki hafa úr háum söðli að detta, ef marka má fréttaskýringu Guðrúnar Erlingsdóttur í Morgunblaðinu 29. júní 2018,

"Háskólinn hefur beðist velvirðingar".

Þar gaf m.a. þetta á að líta:

"Í nóvember 2017 komst sænska siðanefndin að þeirri niðurstöðu, að Macchiarini og meðhöfundar hans [Tómas Guðbjartsson var þeirra á meðal-innsk. BJo] að vísindagreininni í The Lancet hefðu gerzt sekir um vísindalegt misferli." 

Það er mikill áfellisdómur yfir manni, óháð stétt, þegar slíkur aðili sem téð siðanefnd lýsir tilteknum starfsháttum hans sem "vísindalegu misferli".  Væntanlega má almenningur draga af því þá ályktun, að brestur sé í siðferðiskennd þeirra, sem slíkt drýgja.

Síðan segir í tilvitnaðri frétt Guðrúnar Erlingsdóttur:

"Í júní 2018 úrskurðar rektor Karólínsku stofnunarinnar með 38 blaðsíðna rökstuðningi, að Tómas Guðbjartsson ásamt 6 öðrum læknum sé ábyrgur fyrir vísindalegu misferli vegna greinaskrifa í The Lancet árið 2012, en áður en greinin birtist hafði New England Journal of Medicine hafnað greininni."

Þann 19. júní 2018 birtist ein af fjölmörgum greinum téðs Tómasar um fyrirhugaðar framkvæmdir Vesturverks á Ströndum.  Hún hófst þannig:

"Fyrirhuguð Hvalárvirkjun hefur mikið verið til umræðu undanfarið, enda vægast sagt umdeild framkvæmd.  Ástæðan er sú, að með virkjun er verið að fórna stórkostlegri íslenzkri náttúru í hendur HS Orku-jarðhitafyrirtækis í meirihlutaeign umdeildra kanadískra fjárfesta.  Auk þess er ávinningur virkjunar vægast sagt óljós fyrir Vestfirðinga og þá ekki sízt íbúa Árneshrepps."  

Það er með endemum, að maður, með slíka umsögn á bakinu og fram kemur í tilvitnunum frá Svíþjóð hér að ofan, skuli fara á flot í blaðagrein hérlendis með svo gildishlaðna frásögn og hér getur á að líta.  Þótt ekki séu allir sammála um, að rétt sé að fara í þessar framkvæmdir, er gert of mikið úr ágreininginum, þegar gætt er að afgreiðslum Alþingis á málinu og afstöðu sveitarstjórnarinnar fyrir og eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar.  Þá eru líklega langflestir Vestfirðingar fylgjandi því, að framkvæmda- og virkjanaleyfi verði veitt.  Það er hins vegar engu líkara en allir tilburðir Tómasar í þessu máli séu til þess ætlaðir að magna upp ágreining um mál, sem víðtæk sátt hefur þó náðst um.

Að halda því fram, að fyrir þeim fjölda fólks, sem fylgjandi eru þessum framkvæmdum, sem og yfirvöldum landsins, sé ávinningurinn óljós, er mjög afbrigðilegt, enda hefur ávinningurinn oft komið fram opinberlega, og er að nokkru saman tekinn í þessum pistli.  Í ljósi þess, að virkjun þessi verður algerlega afturkræf, er fjarstæðukennt að skrifa, að um fórn til kanadískra fjárfesta sé að ræða á íslenzkri náttúru.  Slík skrif Tómasar eru marklaus.

 

   

 


"Alþingi gekk of langt"

 Persónuverndarlöggjöf ESB, "General Data Protection Regulation-GDPR", er sniðin við miklu stærri samfélög en hið íslenzka, og verður þess vegna ofboðslega dýr í innleiðingu hér sem hlutfall af tekjum fyrirtækja og stofnana.  Sá kostnaður er svo hár, að koma mun niður á almennum lífskjörum almennings á Íslandi. Yfirvöld hérlendis hafa kastað höndunum til kostnaðaráætlana fyrir þessa innleiðingu og rekstur kerfisins, eins og berlega kom fram í Morgunblaðsgrein Gunnhildar Erlu Kristjánsdóttur, 12. júní 2018, lögfræðingi og sérfræðingi í persónurétti hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV,

"Áhrif nýrra persónuverndarlaga á ríkissjóð".

Að margir Alþingismenn líti á það sem skyldu sína að samþykkja hvaðeina inn í íslenzka lagasafnið, sem Evrópusambandinu (ESB) þóknast að merkja sem viðeigandi fyrir EFTA-löndin, er þyngra en tárum taki, því að þeim er tryggður synjunarréttur í EES-samninginum, og hann felst líka í fullveldi landsins, sem þingmenn saxa ískyggilega á með þessu háttarlagi.  Þá er samfélagslegur kostnaður af innleiðingu og rekstri viðamikilla orkubálka og aragrúa tilskipana og reglugerða svo mikill, að hann nær þjóðhagslegum stærðum, sem hamla hér lífskjarabata. Það er litlum vafa undirorpið, að EES-aðildin er byrði á hagkerfi landsins en ekki léttir, eins og mönnum var talin trú um í upphafi.  Hvergi á byggðu bóli, nema á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein, tíðkast að verða að taka upp löggjöf nágrannans í eigin löggjöf til að mega eiga við hann viðskipti, enda eru annars konar tengsl við hann á formi fríverzlunarsamnings, e.t.v. á milli EFTA og ESB, fyllilega raunhæf.  

Viðskiptaráð Íslands hefur áætlað, að beinn og óbeinn árlegur kostnaður landsins af opinberu regluverki nemi miaISK 175, uppfærður til verðlags 2018.  Mikið af þessu stafar af gagnrýnislítilli innleiðingu gjörða ESB, en hluti af  þessu opinbera regluverki er auðvitað nauðsynlegur.  Ef áætlað er, að 60 % falli illa að þörfum íslenzks samfélags og mætti losna við að ósekju, nemur óþörf kostnaðarbyrði fyrirtækja og hins opinbera af regluverki um 105 miaISK/ár. Regluverkið má vafalaust grisja verulega og aðlaga smæð þjóðfélagsins.  Það er sjálfsagt að ráðast í það, eftir "Iceexit", ári eftir uppsögn EES-samningsins. 

Með nýju persónuverndarlögunum er verið að auka mikið við þetta bákn með stofnkostnaði, sem gæti numið um miaISK 20 m.v. kostnaðaráætlun ESB (miaISK 17,6) og danska áætlun um kostnað fyrirtækja, en enn hærri upphæð m.v. sænska áætlun.  Að viðbættum kostnaði sveitarfélaga og stjórnarráðs fást alls um miaISK 20.  Sveitarfélögin áætla stofnkostnaðinn 0,2 % af tekjum og árlegan rekstrarkostnað 56 % af stofnkostnaði, sem þá þýðir 11 miaISK/ár, ef þessi áætlun er yfirfærð á landið allt.  Við þennan kostnað þarf að bæta óbeinum kostnaði, sem aðallega stafar af þunglamalegri stjórnsýslu, minni afköstum og minni framleiðniaukningu.  Þessi rekstrarkostnaður mun þess vegna árlega vaxa mun meir en almennum verðlagshækkunum nemur. 

Þessi kostnaðarauki er grafalvarlegt mál í ljósi þess, að hann leiðir aðeins til minni verðmætasköpunar á tímaeiningu og aukið öryggi gagna er vafasamt, að náist í raun með gríðarlegu auknu skrifræði. Samþykkt Alþingis á innleiðingu GDPR var misráðin, enda mun hún óhjákvæmilega rýra lífskjörin á Íslandi og líklegast lífsgæðin líka.  Þetta hefst upp úr því að afrita löggjöf hálfs milljarðs manna ríkjasambands gagnrýnislaust fyrir 0,35 milljóna manna smáríki.  Það er ekki öll vitleysan eins í henni versu.  

Upplýsingar um þetta má lesa í úttekt Viðskiptablaðsins, 21. júní 2018,

"GDPR gæti kostað milljarða".

Í úttektinni segir á einum stað:

"Alþingi leiddi efni reglugerðarinnar í íslenzk lög fyrir rúmlega viku, en þar sem vernd persónuupplýsinga er talin [vera] hluti af EES-samninginum, bar Alþingi skylda til að taka GDPR upp í íslenzkan rétt, nánast eins og hún kemur fyrir af skepnunni."

Þetta er útbreiddur misskilningur.  Sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB ræðir upptöku mála í réttarkerfi EFTA-ríkjanna þriggja, sem ESB ætlast til, að spanni allt EES-svæðið.  Þessi nefnd úti í Brüssel getur þó ekki skuldbundið þjóðþingin til eins né neins, en í reynd hefur verið mjög lítið um, að þau synji gjörðum ESB samþykkis.  Af þeim sökum er eina ráðið til að losna undan lagasetningarvaldi ESB að segja upp EES-samninginum, og það er orðið brýnt af fullveldisástæðum og af kostnaðarástæðum.  Í staðinn koma fríverzlunarsamningar EFTA við ESB og Bretland, eða tvíhliða samningar.  Styrkur yrði að Bretlandi innan EFTA, en Neðri-málstofa brezka þingsins aftók, að Bretland gengi í EES, enda færu Bretar þá úr öskunni í eldinn.  

Það virðist hafa verið fljótaskrift á afgreiðslu Alþingis, sem er ámælisvert.  Undir millifyrirsögninni,

"Alþingi gekk of langt", 

stóð þetta í téðri úttekt:

"GDPR hefur að geyma ýmis ákvæði, sem heimila þjóðþingum aðildarríkja ESB og EES að setja sérreglur ásamt því að takmarka eða útfæra nánar tiltekin ákvæði reglugerðarinnar.  Íslenzka ríkið hafði þannig svigrúm til að ákveða með hversu íþyngjandi hætti GDPR var innleitt.  Davíð  [Þorláksson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins] segir Alþingi þó hafa gengið lengra í innleiðingu reglugerðarinnar en nauðsyn bar til.  

"Íslenzka ríkið ákvað að innleiða reglugerðina með mjög íþyngjandi hætti fyrir atvinnulífið með setningu sérreglna og takmarkaðri nýtingu á undanþáguheimildum", segir Davíð.  Dæmi um slíkar sérreglur eru vinnsla persónuupplýsinga látinna einstaklinga, leyfisskylda til vinnslu, dagsektir, og að fyrirtæki í landinu standi undir kostnaði við  Eftirlit Persónuverndar.

" Þannig er reglugerðin dýrari fyrir íslenzk fyrirtæki en í flestum öðrum ríkjum.  Þar með hefur Alþingi ákveðið að grafa undan samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja á alþjóðavettvangi, sem hefur farið versnandi.""

Hér eru firn mikil á ferð.  Embættismannakerfið íslenzka með ráðherra í forystu leggur svimandi byrðar á atvinnulíf og stofnanir án þess að huga nokkurn skapaðan hlut að því að reyna að búa svo um hnútana, að byrðar þessar verði sem léttbærastar.  Ósóminn rennur síðan á leifturhraða gegnum Alþingi.  Hér bregðast þeir, er sízt skyldi.  Þetta eru forkastanleg vinnubrögð, sem sýna svart á hvítu, að íslenzka stjórnkerfið ræður ekki við EES-aðildina.  Eina lausnin á þessu stjórnkerfisvandamáli er að losa Ísland úr hrammi ESB með uppsögn EES-samningsins áður en stjórnkerfið íslenzka í glópsku sinni og vanmætti glutrar niður leifunum af fullveldinu.  

 

 


Dýr eru Dagur & Co. á fóðrum

 

Í vefpistlinum, "Úreltar skipulagshugmyndir baka bara vandræði" á þessu vefsetri var komizt að þeirri niðurstöðu, að landsmenn þyrftu að nota 2 % af vinnutíma sínum í óeðlilegar umferðartafir.  Alvarlegastar eru tafirnir kvölds og morgna á höfuðborgarsvæðinu, og þar eru þær talsvert yfir þessu landsmeðaltali. Með rangri stefnumörkun hafa stjórnmálamenn rænt fólk þessum tíma, sem jafna má til lífkjaraskerðingar. Stjórnmálamenn hafa ekki leyfi til að nota þegnana sem tilraunadýr í þjóðfélagstilraun, sem kostar þegnana stórfé, algerlega að óþörfu, þegar nánar er að gáð. 

Það er alræmt, að stjórnmálamenn á vinstri vængnum líta á tekjur fólks sem eign hins opinbera.  (Hver á þá launþegann ?)  Þetta má marka af því, að í hvert sinn, sem hin frjálslyndari öfl stjórnmálanna leggja til lækkun á skattheimtu, kveður við spangól sósíalista um, að ófært sé við núverandi aðstæður að afsala hinu opinbera tekjum sínum.  

Nú kveður svo rammt að forræðishyggjunni, að hún leggur purkunarlaust og markvisst hald á sífellt meira af tíma fólks.  Dagur, borgarstjóri, og meðreiðarsveinar og -meyjar hans, munu á næsta kjörtímabili halda áfram að lengja ferðatíma fólks í Reykjavík, og vandamálið hefur nú náð til allra nágrannasveitarfélaga hennar á annatímum.  Undandarin 6 ár hefur ferðatíminn úr Grafarvogi til miðborgarinnar lengzt um 40 %.  Á næstu 4 árum, 2018-2021, má ætla, að hann aukist enn um 30 %, og mun ferðatíminn þá á 10 árum (árið 2021) hafa aukizt um 82 %.  Það þýðir, að með sama áframhaldi meirihluta borgarstjórnar um að gera ekkert til úrbóta, en halda áfram með fáránlegar breytingar á borð við þrengingar umferðaræða til að tefja fyrir umferð, verða tafirnar tvöfalt meiri árið 2021 en árið 2017 m.v. árið 2011.  Þessa óheillaþróun er auðvelt og hagkvæmt að stöðva.  Vilji er allt, sem þarf. Það er reynt að bera í bætifláka fyrir vitleysuna með því að bera við auknu öryggi gangandi, sem þurfa að þvera akstursleiðina.  Til að auka öryggið við þær aðstæður byggja menn brú yfir götuna eða grafa undirgöng.  Hálfkák á borð við tiltektir Hjálmars Sveinssonar og Dags er engum til sóma.  

Skipulagsstefna Dags og Hjálmars snýst um að halda úthverfamyndun í skefjum, en beina nýjum íbúðarhúsum inn á svæði sitt hvorum megin við væntanlega Borgarlínu.  Afleiðing af þessari stefnumörkun sósíalistanna í borgarstjórn er allt of lítið framboð byggingarlóða, langur byggingartími og dýrt húsnæði. Þessi stefna hefur, eins og oft gerist með sósíalismann, virkað þveröfugt við það, sem höfundar hennar ráðgerðu.  Hún átti að minnka ferðatíma, draga úr akstri, lækka ferðakostnað og draga úr losun koltvíildis. 

Fólkið hefur hins vegar leitað lóða og húsnæðis út fyrir borgarmörkin, allt austur til Selfoss og suður til Reykjanesbæjar.  Þetta hefur margfaldað akstursþörf margra og ferðatímann, stórhækkað ferðakostnaðinn og margfaldað losun koltvíildis, nema hjá þeim, sem fengið hafa sér tengiltvinnbíl eða rafbíl vegna aukinnar akstursþarfar.  Þeir hrósa nú happi á tímum verðhækkunar eldsneytis.    

Þetta ástand hefur sprengt upp húsnæðiskostnað á "stórhöfuðborgarsvæðinu", og nemur verð á íbúðum "fyrir fyrstu kaup" nú um MISK 40.  Leiguverðið fylgir húsnæðisverði, og eru nú 50 m2 íbúðir í Reykjavík leigðar fyrir a.m.k. 200 kISK/mán.  Síðan 2012 hefur leiguverðið á höfuðborgarsvæðinu hækkað um a.m.k. 50 % í boði Dags og fylgdarliðs hans í borgarstjórn.  Kjaraskerðing hjóna eða sambýlinga, sem leigja ofannefnda 50 m2 íbúð, er 67 kISK/mán, ef reiknað er með 50 % hækkun, sem rekja má til gerræðislegrar hugmyndafræði sósíalistanna til að framkalla ástand sér að skapi.  Ef ráðstöfunartekjur parsins nema 500 kISK/mán, þá er þar um 13 % kjaraskerðingu að ræða.  

Slæm stjórnvöld eru dýr á fóðrum fyrir kjósendur.  Þegar kostnaðurinn af skipulagsstefnu Dags & Co. á sviði umferðar og húsnæðis, sem eru tvær hliðar á sama peningi, eru lagðar saman, nemur lífskjaraskerðingin fyrir Reykvíkinga í húsnæðishraki að lágmarki 15 %  f.o.m. 2012, að öðru óbreyttu. Af þessu hefur auðvitað leitt fjölgun húsnæðislausra í Reykjavík, og eru þau nú yfir 600 talsins, sem óstaðsett eru í hús.  

Að fátækt skuli þannig aukast í blússandi góðæri virkar sem mótsögn, en þegar framfærslukostnaður hækkar meira en laun og/eða styrkir/bætur frá hinu opinbera, þá er aukin fátækt niðurstaðan.  Þetta minnir óneitanlega á Venezúela og er ekki huggun harmi gegn. Venezúela var eitt efnaðasta land Suður-Ameríku um síðustu aldamót vegna olíuvinnslu og álvinnslu.  Upp úr aldamótunum komst þar sósíalistaflokkur Hugos Chavez til valda, og eftir andlát hans hékk sósíalistaflokkurinn enn áfram við völd undir forystu Nicholas Maduro.  Er nú svo komið fyrir Venezúela, að þjóðin sveltur heilu hungri, velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið eru hrunin, hagkerfið er hrunið, bólívarinn einskis virði og ríkissjóður gjaldþrota.

  Þannig hefur farið fyrir öllum, sem dýrkað hafa Karl Marx, Friedrich Engels, lærisveina þeirra og kenningar um afnám einkaeignarréttar, stéttastríð og að lokum alræði öreiganna, sem þýðir opinberan rekstur á öllu, stóru sem smáu.  Undantekning er kínverska útgáfan af kommúnisma, þar sem hagkerfinu var bjargað frá hruni með því að leyfa einkarekstri að starfa í hagkerfi undir stjórn Kommúnistaflokksins.  Hvort sú tilraun heppnast í Kína, er enn ekki til lykta leitt.  

Daufari útgáfu af kenningunum, s.k. lýðræðissósíalisma (socialdemocracy) eða jafnaðarstefnu, hefur líka rekið upp á sker, t.d. í Svíþjóð um 1990, en um það leyti söðluðu Svíar algerlega um, enda hafði skattaáþjánin kyrkt allan hagöxt, atvinnuleysi fór vaxandi og skuldir ríkissjóðs voru orðnar þungbærar.  Alls staðar í Evrópu fjarar undan jafnaðarmönnum í kosningum um þessar mundir.  Þeir, sem virða fyrir sér verk jafnaðarmanna á Íslandi, skilja hvers vegna.    

  

 


Stórkarlaleg hugmyndafræði borgaryfirvalda

Einkennandi fyrir stjórnsýslu núverandi borgaryfirvalda er aðgerðarleysi, eins og rakið verður hér á eftir.  Það er engu líkara en stórkarlalegir loftkastalar eigi að bera í bætifláka fyrir doða stjórnkerfisins.  Algert áhugaleysi um hag atvinnulífsins og þjónustu við borgarbúa, hvað þá aðra landsmenn, skín út úr stefnumörkun og aðgerðarleysi borgarstjórnarmeirihlutans. Einkenni hans er doði, en nú þarfnast höfuðborgin einmitt dugandi karla og kvenna í meirihluta borgarstjórnar. Kjósendum í borginni er nú boðið upp á kosti, sem vert er að reyna.

 Doðinn og loftkastalarnir eru skýr merki um, að fulltrúar meirihlutans eru ekki í pólitík til að þjónusta einn eða neinn, nema þá að þjóna lund sinni með því að troða meingallaðri, vanhugsaðri, rándýrri og afar óhagkvæmri hugmyndafræði sinni upp á höfuðborgarbúa og þar með landsmenn alla. Borgarstjórinn er utan gátta um rekstur borgarinnar, sem safnar miaISK 8 skuldum á ári og kann engin skil á slysum í rekstrinum, t.d. saurgerlum við baðströnd borgarinnar og skolpúrgangi í grennd, enda er hann ekki til viðtals fyrir sauðsvartan almúgann.  Hjá Reykjavík mun ekkert breytast til batnaðar fyrr en í borgarstjórastól sezt skeleggur maður með báða fætur á jörðunni og lætur verkin tala.  Hann verður að snúa hnignun fjármála og framkvæmda við.  Eyþór Arnalds sýndi og sannaði í Árborg, að hann kann þetta.  

Fyrsta dæmið um bjálfalega stjórnarhætti núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sem hér verður tekið, er fyrirhuguð lokun Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, eigi síðar en 2024.  Þessi stefna var tekin án nokkurrar tilraunar til að leggja raunhæft mat á afleiðingarnar.  Enginn flugvöllur kemur í staðinn, enda næmi slík fjárfesting miaISK 100-200.  Lokun flugvallarins þýðir gríðarlega afturför varðandi eftirfarandi þætti:

  • Flugkennsla í landinu missir langmikilvægustu aðstöðu sína.  Starfsemin á Keflavíkurflugvelli og flugkennsla fara mjög illa saman. Flugkennslan í landinu er í uppnámi, á meðan hótun stjórnmálamanna um lokun Vatnsmýrarvallar vofir yfir.  
  • Flugfélögin, sem nota Keflavíkurflugvöll, missa mjög hentugan varafluvöll, sem þýðir minna öryggi, meiri eldsneytiskostnað og minni lestunargetu fólks og varnings um borð.  Þetta mun gera flug til landsins og frá því dýrara.  Ekki er víst, að stærsta atvinnugrein landsins, ferðaþjónustan, megi við því.  Nú þegar eru teikn á lofti um, að aukning erlendra ferðamanna minnki einn mánuð eftir annan og gæti hæglega stefnt á samdrátt í fjölda á þessu ári m.v. 2017.  Kemur hann á versta tíma fyrir greinina að miklu fjárfestingarskeiði afstöðnu.  Ef samkeppnisstaða Íslands versnar m.v. önnur lönd nyrzt á norðurhveli, þá getur slíkt leitt yfir landið efnahagskreppu.  
  • Sjúkraflugið verður aðeins svipur hjá sjón.  Forsenda þess, að landsbyggðarfólk geti reitt sig á neyðarþjónustu Landsspítalans er öflugt og öruggt sjúkraflug, sem aðeins er mögulegt með góðan flugvöll nærri honum, eins og nú háttar til.  Að stefna sjúkrafluginu, nema þyrlunum, til Keflavíkur er svívirðileg framkoma við þá, sem í nauðum lenda fjarri höfuðstaðnum.  

 

 Samgöngumál  höfuðborgarinnar, bæði við hana og innan hennar, eru í algerum ólestri, og fær borgarstjórnarmeirihlutinn falleinkunn fyrir málsmeðferð sína á þeim málaflokki. Hann hefur unnið gegn hagsmunum allra, sem þurfa að komast leiðar sinnar á höfuðborgarsvæðinu, með því að hlutast til um, að Vegagerðin haldi að sér höndum með umbætur á stofnæðum Reykjavíkur, en leggi þess í stað tæplega 1,0 miaISK/ár í Strætó. Þá innspýtingu taldi vinstri meirihlutinn 2011 duga til að auka hlutdeild Strætó í umferðinni, en hún stendur samt nánast í stað við 4 %.  Þessum ríkisfjármunum er þess vegna mjög illa varið miðað við það, sem verið gæti.  Þá hefur núverandi meirihluti Dags, borgarstjóra, unnið skemmdarverk á undirbúningi Sundabrautar með því að girða fyrir ódýrari leiðina með lóðaúthlutun.  Engu er líkara en Dagur og hinn pólitíski kommissar skipulagsmálanna, svo nefndur Holu-Hjálmar, sem er enginn andans maður, eins og Bólu-Hjálmar var, stundi skæruhernað gagnvart íbúunum í nafni sérvitringslegrar hugmyndafræði. Það er pólitískt stórslys, að sérvitringar og faglegir viðvaningar skuli hafa vélað svo lengi um borgarskipulagið, sem raun ber vitni um. 

Sem lausn á umferðarvandanum berjast þeir fyrir miaISK 100 fjárfestingu í s.k. Borgarlínu, sem er sérrein fyrir liðvagna, eftir að sporvagn var lagður á hilluna.  Er nú hótað að setja veikburða borgarsjóð á hausinn með stórfelldum lántökum í þetta vonlausa verkefni, því að ríkið hefur að öllum líkindum önnur áform í Samgönguáætlun sinni 2019-2021, sem bíður birtingar.

Vandamál Borgarlínu er hár stofnkostnaður og rekstrarkostnaður miðað við íbúafjöldann á "upptökusvæði" vagnanna.  Úr þessu reyna Dagur og Holu-Hjálmar að bæta með þéttingu byggðar.  Þessi stefna hefur þegar valdið ómældu tjóni.  Þessi byggingarmáti er tafsamur og dýr.  Árið 2017 voru aðeins 322 íbúðir byggðar í Reykjavík, sem er aðeins rúmlega 15 % af þörfinni.  Þetta kemur mjög harðlega niður á kaupendum fyrstu íbúðar sinnar, því að lítið framboð m.v. eftirspurn spennir verðið upp.  Um þetta húsnæðishallæri af mannavöldum skrifar Baldur Arnarson baksviðsfrétt í Morgunblaðið 24. apríl 2018,

Nýju íbúðirnar of dýrar:

"Fátt bendir til, að skorti á smærri og ódýrari íbúðum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu verði eytt á næstu misserum.  Nýjar íbúðir, sem eru að koma á markað, eru enda of dýrar.

Síðan vitnar hann í tvo sérfróða um húsnæðismarkað:

"Tilefnið er, að fyrstu íbúðirnar í nýju hverfi í Vatnsmýri fóru í sölu.  Haft var eftir Brynjari Harðarsyni, framkvæmdastjóra Vals, í fréttum Stöðvar 2 sl. laugardag, að íbúðirnar hentuðu fyrstu kaupendum.  Verð íbúðanna er 39,8 til 72,9 milljónir.  Meðalstærð þeirra er 71 m2, og meðalverð á m2 er um 666 þúsund krónur."  

Hér er yfirleitt um of stórar íbúðir fyrir fyrstu kaupendur að ræða.  Engum þarf að koma á óvart, að íbúðir í Vatnsmýri séu dýrar.  Við því var varað í upphafi umræðu um byggingarland þar, því að mjög djúpt er niður á fast undirlag. Að skáka í því skjólinu, að Reykjavíkurflugvelli verði brátt lokað, og að Neyðarbrautinni hafi verið lokað, eru of veik rök fyrir því að setja strax niður íbúðabyggð í Vatnsmýrinni.  Þetta er rétt eitt glóruleysið, og þessar íbúðir geta hrapað í verði, ef nýr meirihluti festir flugvöllinn í sessi og jafnvel opnar Neyðarbrautina.  

Síðan kemur afsprengi sérlundaðrar skipulagsstefnu, sem rýrir óhjákvæmilega gildi nýrra íbúða:

"Allur gangur er á því, hvort bílastæði fylgja nýjum íbúðum á þéttingarreitum í borginni.  T.d. er hægt að kaupa bílastæði í kjallara með ódýrustu íbúðunum á Frakkastíg."

Það er ein af frumskyldum bæjarstjórna að skipuleggja nægt framboð íbúða af réttum stærðum m.v. þarfir hvers tíma.  Reykjavíkurborg hefur gersamlega brugðizt þessu hlutverki, haft allt of lítið framboð ódýrra lóða, sem skipulagðar eru fyrir litlar íbúðir.  Skilningur á þörfum íbúanna heldur ekki máli og er brottrekstrarsök úr borgarstjórn.  Þegar borgaryfirvöld mæta íbúum Furugerðis, sem kvarta undan allt of mikilli þéttingu og of fáum bílastæðum, með því, að þeir geti notað reiðhjól, af því að nú sé búið að gera góða aðstöðu fyrir reiðhjól við Grensásveg, er ljóst, að ósvífni "rauðu khmeranna" eru engin takmörk sett og að nú er mælirinn fullur. 

"Lýðfræðileg þróun síðustu áratuga hefur aukið eftirspurn eftir smærri íbúðum.  Á sama tímabili hefur verið byggt hlutfallslega meira af stærri íbúðum, sem eru 110 m2 eða stærri.  Það eru ekki íbúðir, sem ætla má, að fyrstu kaupendur séu alla jafna að horfa til.

Elvar Orri segir þessa þróun hafa skapað skort á smærri eignum, 30-60 m2, sem eru á viðráðanlegu verði fyrir fyrstu kaupendur.

Þá á ég við smærri íbúðir, sem kosta undir 30 milljónum króna.  Ég held, að fyrstu kaupendur séu ekki endilega að horfa til íbúða, sem eru 60 m2 eða stærri.  Það væru eflaust margir tilbúnir að fara úr foreldrahúsum og í íbúðir, sem eru minni en 60 m2, segir Elvar Orri og bendir á, að mikil eftirspurn eftir litlum íbúðum í skammtímaleigu til ferðamanna hafi dregið úr framboði smærri og ódýrari íbúða."

Fílabeinsturninn:

Vinstri menn hafa mikla tilhneigingu til að þenja út stjórnkerfi sín, einnig borgarinnar, og fjölga silkihúfum.  Þeir hafa hins vegar enga þekkingu á því úr fyrirtækjarekstri, hvernig skipuleggja þarf starfsemi, svo að hún virki.  Fjölgun embættismanna hefur fylgt lögmáli Parkinsons um, að ein staða kalli á aðra, og þjónustan hefur hríðversnað.  Stjórnsýslan er orðin svo flókin, að enginn virðist botna í henni.  Þetta spillta, gagnslitla og dýra kerfi þarf að skera upp, hrista upp í því og búa til einfaldar boðleiðir, þar sem íbúunum, sem þjónustunnar eiga að njóta, er ljóst, hver ber ábyrgð á hverju, og hvert þeir eiga að snúa sér með erindi sín.

  Yfirmennirnir virðast núna ekki vera í neinu sambandi við íbúana.  Ef óskað er viðtals við æðsta strump, er vísað á undirtyllu.  Þessi "elítuuppbygging" að hætti "Brüsselvaldsins" á auðvitað engan veginn við í okkar litla samfélagi, þar sem ekki er pláss fyrir aðgerðarlausa kónga, sem er sama um lýðinn, heldur verða allir að vera virkir.  

Það, sem sparast þá við þessa uppstokkun, á að veita til að bæta grunnþjónustuna við íbúana, t.d. yngstu íbúana, hverra foreldrar eru á skeiði mestu fjárþarfar lífs síns og þurfa þess vegna bæði á tekjum að halda, enda er slíkt í anda jafnréttis.  Að bjóða yngstu íbúunum gott atlæti er grundvallarmál.  

Eldri borgarar:

Um allt land fer eldri borgurum hlutfallslega mest fjölgandi allra aldurshópa.  Það á í sérstökum mæli við í Reykjavík, þar sem frá dögum R-listans hefur verið rekin beinlínis fjandsamleg stefna í garð ungs fólks, sem er að stofna heimili.  Þetta er fádæma skammsýni fyrir hönd borgarinnar, og vonandi munu nýir valdhafar í borginni snúa þessari öfugþróun við.  

Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, ritaði þann 24. apríl 2018 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Okkar lausnir í Reykjavík".

Einn kaflinn hét: "Bætum kjör eldri borgara" og var merkileg tillaga að stefnumörkun fyrir borgina og önnur sveitarfélög:

"Borgin hefur hækkað gjöld á íbúana á síðustu 8 árum.  Á sama tíma hafa eldri borgarar orðið fyrir skerðingum.  Við viljum koma til móts við eldri borgara og veita 100 % afslátt fyrir þá, sem eru orðnir 70 ára.  Þetta er réttlætismál, þar sem hér er verið að draga úr tekjuskerðingum.  En þetta er jafnframt skynsamlegt, þar sem það er mun hagstæðara, að þeir, sem geta og vilja búa heima, eigi þess kost.  Það er dýrt og óskynsamlegt að stofnanavæða heilu hópana.  Og það er engin lausn í húsnæðismálum að skattleggja eldri borgara út úr húsum sínum."

Vinstri menn hafa brugðizt öndverðir við þessum sjálfsögðu þjóðfélagsumbótum Eyþórs Arnalds og beitt fyrir sig hefðbundnum músarholusjónarmiðum úr öfundargenunum um, að hér sé verið að umbuna þeim ríku.  Þannig bregðast þeir alltaf við tillögum um skattalækkanir og kasta þar með á glæ fjölmörgum kostum skattalækkana, sem allt þjóðfélagið nýtur, jafnvel stundum á formi tekjuhækkana opinberra sjóða, og það er einmitt útgjaldalækkun opinberra sjóða, sem Eyþór hefur í huga hér, svo að allir græði. 

Það er rík ástæða til að hvetja alla, sem annt er um góða þjónustu í nærsamfélaginu og ráðdeild við stjórnun fjármála þar, til að kjósa D-listann, ekki sízt í Reykjavík.  Höldum okkur hægra megin. 

Listakjör

 

 

 


Að binda sitt trúss á rangt hross

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði í viku 16/2018 við mikilli hættu, sem hann taldi heimsbúskapnum stafa af skuldsetningu þjóða.  Skuldahlutfall þjóða er í sögulegu hámarki eða 225 % af heimsframleiðslu.  Staða ríkissjóða ESB-ríkjanna er slæm, nema Þýzkalands og Hollands.  Bæði lönd eru með um 6 % viðskiptaafgang af VLF, og skuldir ríkissjóða þessara landa eru um 60 % af VLF.  Ísland er nú í þessum úrvalsflokki Evrópuþjóða, hvað hagstjórn varðar, með ríkisskuldir 35 % af VLF og viðskiptaafgang 4 %.

Mikill vandi blasir við löndum Evrópusambandsins, einkum evrusvæðisins.  Ofangreind tvö lönd halda í raun verðgildi evrunnar uppi, en hún gæti orðið fyrir áfalli á næstu misserum vegna slæmrar skuldastöðu nokkurra ríkissjóða, og er sá ítalski stærstur þeirra.  Komið er í ljós, að ný ríkisstjórn Þýzkalands ætlar ekki að ganga í ábyrgð fyrir önnur evrulönd. Ríkisstjórnin í Berlín endurspeglar að þessu leyti vilja mikils meirihluta Þjóðverja, sem vinna og spara fyrir því, sem þeir veita sér, og til elliáranna.  Þeim, og forráðamönnum Bundesbank, hefur gramizt mjög lágvaxtastefna Evrubanka Ítalans Draghis og telja sig greiða meira en nóg í þágu ESB.   

Á fundi Angelu Merkel og Emmanuels Macron í Berlín í apríl 2018 kom í ljós gjá á milli ríkisleiðtoganna tveggja, hvað sýn á þróun evrusvæðisins varðar. Iðnir og sparsamir Þjóðverjar vilja ekki deila fjárhagslegum örlögum sínum með öðrum þjóðum evrusvæðisins, sem kannski má kalla lata og eyðslusama í samanburði við Hollendinga og Þjóðverja, a.m.k. eru hagkerfi sumra ríkjanna í megnasta ólestri.  Fyrir vikið eru horfur evrunnar dökkar, þegar næsta kreppa ríður yfir.  Hvers vegna í ósköpunum ættu Íslendingar að binda sitt trúss við þessa skepnu, sem líklega fellur úr hor næst, þegar syrtir í álinn ?  Hagkerfi Íslands á svo fátt sameiginlegt með hagkerfi evrunnar, að á þessum ólíku stöðum er hagsveiflan aldrei í fasa.  Evran sjálf var hagfræðilegt glapræði, eins og í pottinn var búið, og pólitísk tilraunastarfsemi hugsjónamanna um Sambandsríki Evrópu.  Hvað má þá segja um kenningar hér uppi á Íslandi um, að keppa beri að því að taka upp evru ? Sennilega má lýsa slíkri afstöðu sem áhættusækni, sem jaðrar við ábyrgðarleysi. Það þarf mjög vandaða áhættugreiningu hinna beztu manna áður en tekið verður róttækt skref í gjaldmiðilsmálum, hvort sem það verður í átt að EUR, GBP, NOK, USD eða öðrum gjaldmiðli.

Nú virðist vera að hefjast samdráttarskeið á evrusvæðinu.  Iðnaðarframleiðsla Þýzkalands hefur ekki vaxið frá í desember 2017, og í febrúar 2018 dróst hún saman um 1,6 % m.v. mánuðinn á undan að teknu tilliti til dagafjölda.  Samkvæmt Samtökum evrópskra bílaframleiðenda dróst framleiðsla þeirra saman um 5,3 % í marz 2018 m.v. sama mánuð 2017.  Hagsveiflumælir þýzku hagstofunnar, IMK, þykir einna áreiðanlegastur hagvísa.  Núna metur hann 30 % líkur á kreppu, en þær voru undir 10 % í marz 2018.  Þegar hagvísar snúast niður á við um leið og neikvæðar fréttir berast af pólitíkinni, þá er ekki von á góðu:

  1. Þjóðverjar munu ekki fallast á sameiginleg fjárlög fyrir evrusvæðið til að mæta efnahagslegum skakkaföllum.
  2. Ekkert verður úr áformum um sameiginlega ríkisskuldabréfaútgáfu evruríkjanna.
  3. Það verður ekkert sameiginlegt innistæðutryggingakerfi.  
  4. Sameiginlegu eftirlitskerfi með bankakerfinu hefur verið komið á, og voru Íslendingar þvingaðir í það dýra samkrull á vettvangi EES-samstarfsins, en að koma á sameiginlegu evrópsku bankakerfi er verkefni, sem sennilega lýkur aldrei. 

Um þessa stöðu skrifar Wolfgang Münchau í Financial Times og Morgunblaðið fimmtudaginn 26. apríl 2018:

"En að það skuli fara saman að það dragi úr hagvexti eða jafnvel verði samdráttur í myntbandalagi, og það vilji ekki taka á vandamálum sínum, er einn stærsti áhættuþátturinn, sem alþjóða hagkerfið stendur frammi fyrir um þessar mundir."

Síðan tekur Münchau dæmi af mesta áhyggjuvaldinum á evrusvæðinu um þessar mundir, Ítalíu:

"Á Ítalíu hefur framleiðni varla aukizt, svo að nokkru nemi, frá því að landið gerðist eitt af stofnríkjum evrusvæðisins árið 1999.  Samt var árið 2017 tiltölulega gott í efnahagslífinu.  Það skiptir töluverðu máli fyrir land með ríkisskuldir, sem nema 132 % af landsframleiðslu, hvort hagvöxtur er að jafnaði minni en 1 % eða um 2 %.  Bilið þar á milli er munurinn á því, hvort landið er gjaldfært eða á leið í greiðsluþrot."

Af þessu að dæma er vissast að búa sig undir slæm tíðindi frá Ítalíu.  Ítalía gæti hrökklast út úr myntbandalaginu, og þá verður gríðarlegt rót á öllu evrusvæðinu.  Fullyrða má, að gengi hennar mun taka tímabundna dýfu, en um jafnvægisgengið fer eftir atburðarásinni.

"Ítalía er bezta dæmið um, hvers vegna umbætur á evrusvæðinu eru spurning um líf og dauða.  Evrópusambandið hefur engin úrræði til að bregðast við, ef ítalska ríkið getur ekki lengur greitt af skuldum sínum.  Ítalía er of stór til að falla, og of stór til að hægt sé að bjarga.  Efnahagsstöðugleikastofnun ESB, sem á að leysa vandann, er ekki nægilega stór til að ráða við slíkan skell.  Ég efast ekki um, að evran sem slík mundi ná að lifa áfram í einhverri mynd, en ef engar umbætur eiga sér stað, þá stóraukast líkurnar á, að myntbandalagið bútist í sundur."  

Evrópusambandið á við yfirþyrmandi vandamál að etja og miklar heimiliserjur í þokkabót.  Við slíkar aðstæður reyna stjórnendur þess og 33´000 búrókratar að sækja fram á öðrum sviðum, þar sem hagræðingar er að vænta af sameiginlegri stjórnun frá Brüssel.  Eitt þessara sviða eru orkumálin, þar sem í upphafi á að einbeita sér að auknum flutningum á milli landa.  T.d. eiga raforkuflutningar að aukast um 50 %, fara úr 10 % 2015 í 15 % af raforkuvinnslu árið 2030 og stefnt er á 30 %.  Þetta á að flýta fyrir orkuskiptum og jafna raforkuverðið á milli landa.  Ráðast á á markaði, hverjir fá hversu mikið af orku og á hvaða verði.  Ætlun Framkvæmdastjórnarinnar er, að þetta auki verðmætasköpun innan ESB og örvi þannig hagvöxt.  

Það getur vel verið, að svo verði í ESB, en á Íslandi mundi það hins vegar draga úr hagvexti að taka þátt í slíku, og það mundi örugglega tefja orkuskiptin.  Ástæðurnar eru, að hækkun raforkuverðs dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna við útlönd, og minni og dýrari raforka verður til ráðstöfunar til orkuskiptanna.  

Krafan frá ESB um inngöngu EFTA-landanna í EES í Orkusamband ESB er dæmigerð fyrir minna umburðarlyndi og minni skilning að hálfu Framkvæmdastjórnarinnar og búrókrata hennar á sérþörfum EFTA-ríkjanna en áður var.  EES-samningurinn er orðinn helsi á Íslendingum í þeim skilningi, að ESB treður stjórnkerfi sínu upp á landsmenn í blóra við EES-samning og Stjórnarskrá landsins, og gjörðir ESB eru allar íþyngjandi fyrir landsmenn, aukið skrifræði og reglugerðafargan dregur úr getu fyrirtækja og stofnana til framleiðniaukningar, og byrðarnar geta orðið svo svæsnar, eins og í tilviki Orkusambandsins, að þær dragi beinlínis úr hagvexti og valdi atvinnuleysi. Það má hiklaust halda því fram, að EES-samningurinn sé orðinn úreltur.  Stjórnvöld ættu ekki að berja lengur hausnum við steininn, heldur að skipuleggja útgöngu úr þessu ólýðræðislega, óhentuga og rándýra viðskiptalega og stjórnmálalega samkrulli.

Þann 4. maí 2018 skrifaði Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, grein í Morgunblaðið um afleiðingar þess að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Hann lauk grein sinni þannig:

"Enginn hefur getað sagt, hvað við höfum upp úr því að samþykkja, en það væri algerlega ástæðulaust fyrir ESB að knýja á um samþykkt þriðja orkupakkans, ef ekki væri ætlunin, að sæstrengur fylgdi í kjölfarið.  Allar umsóknir um sæstreng og tengdar virkjanir yrði Ísland að meðhöndla af ýtrustu sanngirni og í samræmi við aðrar reglur ESB, eins og Ólafur Jóhannes Einarsson, lögmaður, minnir á í minnisblaði sínu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 12. apríl 2018 og minnir þar á þjónustutilskipunina.  Þau rök, að sjálfræði Íslands sé í svo litlu skert með samþykkt þriðja orkupakkans, að það skaði okkur ekki, sneiða hjá þessum kjarna máls."

 

Þessar fórnir í þágu aukins samruna ESB og þar með EES til að viðhalda aðgangi að Innri markaði ESB eru í raun unnar fyrir gýg, því að jafnvel betri viðskiptaskilmálum virðist vera unnt að ná með fríverzlunarsamningum við ESB og Bretland, ef tekið er mið af fríverzlunarsamningi Kanada og ESB frá haustinu 2017. Málflutningur áköfustu stuðningsmanna ESB/EES einkennist af nauðhyggju, þar sem litið er framhjá þeirri staðreynd, að markaður ESB-ríkjanna vegur minna með hverju árinu, sem líður, af heimsviðskiptunum og mun senn aðeins verða 440 milljón manna markaður samfélaga, sem eldast hraðar en flest önnur samfélög, að hinu japanska undanskildu.    

 


Landsnet og "Ice Link"

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Landsnet og Landsvirkjun ásamt "National Grid Interconnector Holdings Ltd" eru skráð á lista orkustofnunar ESB, ACER, um forgangsverkefni ESB til hnökralausra og greiðra orkuflutninga landa á milli innan EES. Verkefnið heitir þar "Ice Link" og er aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands. Téð fyrirtæki eru skráð sem aðstandendur verkefnisins.  

Þetta er dæmalaust og spyrja verður, hver hafi veitt þessum tveimur íslenzku fyrirtækjum heimild til að samþykkja slíkt án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu í landinu um jafnviðurhlutamikið mál og hér um ræðir ? Umfjöllun Landsnets hefur nánast engin verið um téðan sæstreng, enda hefur ekki verið í umræðunni, að flutningsfyrirtækið ætti hlut að þessum sæstreng.  Annað virðist á döfinni, enda er það venjan innan ESB, og einnig í Noregi, að raforkuflutningsfyrirtækin eiga hlut í millilandatengingum. Í Noregi er Statnett, systurfyrirtæki Landsnets, eini eigandinn, og Verkamannaflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir stuðningi sínum við ACER-frumvarp ríkisstjórnarinnar, að svo yrði áfram.

Umfjöllun Landsvirkjunarmanna hefur verið yfirborðsleg og bernsk, og aldrei hefur verið minnzt á, að verkefnið yrði undir stjórn orkustofnunar ESB, ACER, þótt Landsvirkjun hafi rekið áróður fyrir þessum sæstreng síðan 2010, en stofnað var til ACER 2009.  Það er reginhneyksli, hvernig staðið hefur verið að kynningu á "Ice Link" hérlendis, líklegu eignarhaldi opinberra fyrirtækja á honum, t.d. einokunarfyrirtækisins Landsnets, ásamt líklegum fjárhagsskuldbindingum fyrirtækisins vegna styrkingar raforkuflutningskerfisins innanlands vegna tengingar íslenzka stofnkerfisins við risasæstreng á íslenzkan mælikvarða (1200 MW). 

Af þessu má ráða, að ACER sér tækifæri með flutningi raforku ofan af Íslandi til að auka hlutdeild stöðugrar og "grænnar" orku í raforkunotkun ESB, þ.e. endurnýjanlegrar raforku, sem nota má til að fylla upp í eyður sólar- og vindorku, sem koma oftast í hverri viku á álagstíma á meginlandinu.  Hefur iðulega legið þar við aflskorti á háálagstíma, sem sýnir í hnotskurn ógöngurnar, sem raforkumál ESB-ríkjanna hafa ratað í. Tvö af hlutverkum ACER er einmitt að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku í raforkukerfi ESB og að auka afhendingaröryggi orku, bæði raforku og eldsneytisgass. Aðferðin í báðum tilvikum er að fjölga flutningslínum í lofti og í jörðu.

Það má ganga út frá því sem vísu, að ACER muni hefjast handa um sæstreng á milli Íslands og Bretlands, hugsanlega með flutningi um brezka kerfið til meginlandsins, fljótlega eftir samþykki Alþingis á lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, sem ESB ætlast til, að Alþingi afgreiði á færibandi í vor, enda hefur ACER þar með öðlazt vald yfir Orkustofnun Íslands, OS, og íslenzk yfirvöld misst sín ítök þar.  Ennfremur verður þá búið að flytja allt reglusetningarvald og eftirlitshlutverk til OS.  Vonandi ofbýður nógu mörgum Alþingismönnum ofríki ESB gagnvart EFTA-löndunum í EES til að stöðva þetta hrapallega mál, enda er fimmta frelsið (frjálsir orkuflutningar) ekki hluti af EES-samninginum um fjórfrelsi Innri markaðarins. Samþykktin í Sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017 voru þess vegna mistök.    

Landsneti mun samkvæmt reglum ACER og téðri verkefnaskrá stofnunarinnar ætlað að leika stórt hlutverk í þessu sæstrengsverkefni.  Sú kúvending hefur þó ekki hlotið neina lýðræðislega umfjöllun hérlendis.  Eftirlit með fyrirtækinu verður þá alfarið komið í hendur Orkustofnunar, OS, samkvæmt frumvarpi, sem nú liggur fyrir Alþingi. Þar með setur sami aðili leikreglurnar á raforkumarkaðinum og hefur eftirlit með, að þeim sé fylgt. Látum það vera.  Verra er, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, sem bíður umfjöllunar Alþingis, felur í sér, að OS verður gerð óháð íslenzkum stjórnvöldum og hagsmunaaðilum og tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER gegnum ESA (Eftirlitsstofnun EFTA). Þannig getur ACER hleypt Ice Link af stokkunum í samvinnu Landsnets og National Grid Interconnector Holdings Ltd. óháð því, hvaða skoðun rétt kjörin stjórnvöld landsins hafa á málinu.  Að kippa lýðræðislegu ákvarðanavaldi út af vellinum og setja undirstofnun sína þar í staðinn er aðferð ESB við við að fjarlægja allar þjóðlegar hindranir úr vegi stefnu sinnar og markmiða.  "Tilgangurinn helgar meðalið - Der Erfolg berechtigt den Mittel)".   

Komi upp ágreiningur flutningsfyrirtækjanna á milli um kostnaðarskiptingu vegna millilandatengingar, úrskurðar ACER um hana.  Sjá nú allir í hendi sér, hversu gríðarlegar fjárhagsbyrðar yfirþjóðleg stofnun án aðildar Íslands með atkvæðisrétti getur lagt á einokunarfyrirtækið Landsnet. Í hnotskurn blasir þar við gildi fullveldisins.  Ætla menn í einfeldni sinni að fórna því ?  Það er glópska, því að ávinningurinn er enginn fyrir Ísland.

Í Noregi sáu ESB-sinnaðir stjórnarflokkar á Stórþinginu til, að ACER-frumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt 22. marz 2018.  Engin raunveruleg rök voru lögð á borðið fyrir inngöngu Noregs í Orkusamband ESB.  Samþykkt þingsins átti að verða eins og hver önnur færibandaafgreiðsla á gjörðum ESB inn í EES-samninginn og þar með lagasafn Noregs.  Reyndin varð önnur.  Há mótmælaalda reis um allan Noreg og náði til verkalýðsfélaga, sveitarstjórna og fylkisstjórna.  Jafnvel Alþýðusamband Noregs, LO, sem venjulega leggur miðstjórn (landsstyre) Verkamannaflokksins línurnar, ályktaði og hvatti þingflokkinn til að hafna frumvarpinu.  Skoðanakönnun í marz 2018 benti til, að yfirgnæfandi meirihluti Norðmanna væri andvígur því, að land þeirra gengi Orkusambandi ESB á hönd, því að 52 % voru á móti, 9 % meðmælt og 39 % óákveðin.  Hlutverk Alþingis er auðvitað að gæta hagsmuna Íslands og virða íslenzku Stjórnarskrána, en með höfnun Alþingis á sams konar frumvarpi má ganga út frá því sem vísu, að drjúgur meirihluti Norðmanna muni kætast.

  

Hver á Landsnet ?  Ríkið stofnsetti Landsnet með lögum 2003, og upphaflega var ætlunin, að fyrirtækið væri í eigu ríkissjóðs.  Samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem lögleiddur var 2003 hérlendis, á raforkuflutningsfyrirtækið, hér Landsnet, að vera óháð öllum aðilum á raforkumarkaði og öðrum hagsmunaaðilum, nema ríkisvaldinu. Sú krafa var gerð til að ýta undir frjálsa samkeppni um raforkuvinnslu og raforkusölu, og hún tryggir hæfi fyrirtækisins til hlutlægni í viðskiptum eftir föngum.  

Það var þó fjarri því, að málin þróuðust með þeim hætti hérlendis, því að þáverandi eigendur flutningskerfisins lögðu eignir sínar inn í fyrirtækið og yfirtóku eignarhlut ríkisins. Landsnet er þannig bullandi vanhæft til að fara með raforkuflutningshlutverkið af hlutlægni, enda hefur fyrirtækið legið undir ámæli.  Nú eru eigendur Landsnets 4 talsins:

  1. Landsvirkjun:      64,7 %
  2. RARIK:             22,5 %
  3. OR:                 6,8 %
  4. OV:(Orkubú Vfj):    6,0 %

Þetta er ótækt, og Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, 2009/72/EB, ítrekar, að fullur aðskilnaður verði að eiga sér stað á milli flutningsfyrirtækis og hagsmunaaðila á raforkumarkaði.  Af einhverjum ástæðum sóttu íslenzk stjórnvöld um undanþágu frá þessu til ESA og fengu hana.  Það er hins vegar útilokað m.v. samþykktir ESB, að ESA samþykki eignarhald Landsvirkjunar á "Ice Link" að hluta, og þess vegna er óskiljanlegt, að Landsvirkjun skuli vera á téðum lista um aðstandendur verkefnisins.  

Í frumvarpi til laga um Landsnet, sem nú liggur fyrir Alþingi, hefur verið tekið út ákvæði um ríkiseign á Landsneti.  Þá vaknar spurningin um það, hvers konar eignarhald ríkisstjórnin sér fyrir sér í framtíðinni.  Um er að ræða einokunarfyrirtæki samkvæmt lögum, og einkavæðing þess er mjög miklum annmörkum háð vegna stöðu þess á markaði. Því er heldur ekki ætlað að græða peninga, heldur setur Orkustofnun fyrirtækinu þröng tekjumörk og sjálfsagt er, að það lækki gjaldskrá sína, ef rekstrarafgangur verður eftir eðlilegar afskriftir. Hvers vegna er ekki frekar undinn bráður bugur að því að færa Landsnet úr eignarhaldi orkufyrirtækjanna og til ríkissjóðs ?   

Til að tryggja óháða stöðu Landsnets á raforkumarkaði verður ekki annað séð en ríkiseign að fullu sé eina raunhæfa úrræðið, enda er sú raunin víðast annars staðar, t.d. í Noregi (Statnett). Að taka ákvæðið um ríkiseign á Landsneti úr lögum um fyrirtækið er vanreifað í frumvarpinu.   

Einfaldast er, að fjármálaráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið semji við núverandi eigendur um kaupin á Landsneti og gefi út skuldabréf til um 20 ára til staðfestingar.  Þetta er eðlilegasta fyrirkomulagið, óháð afgreiðslu Alþingis á bálki 2009/72/EB, ef menn á annað borð vilja halda í heiðri þeirri fjórskiptingu raforkumarkaðarins, sem komin er frá ESB, þ.e.:

  1. Virkjanafyrirtæki (raforkuheildsalar á samkeppnismarkaði)
  2. Flutningsfyrirtæki (Landsnet í einokunaraðstöðu)
  3. Dreifingarfyrirtæki (veitur með sérleyfi á tilgreindum svæðum, einokun á sama svæði) 
  4. Sölufyrirtæki (smásalar í samkeppni)

Landsnet hefur átt undir högg að sækja frá stofnun.  Það er skylda Alþingis að gera sitt til að skapa fyrirtækinu þá umgjörð, sem líklegust sé til sátta í landinu.  Það verður hvorki gert með því að viðhalda núverandi eignarfyrirkomulagi né með því að færa raunverulega stjórnun þess undir Orkustofnun ESB.  

 

   


Völd ACER á Íslandi - hækkun raforkuverðs

Það hafa ýmsir gert lítið úr þeim breytingum, sem samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Alþingi mun hafa í för með sér. Skáka hinir sömu þá í því skjólinu, að engin utanlandstenging sé við íslenzka raforkukerfið. Þetta er skammgóður vermir. Ekki er örgrannt um, að slíkar viðbárur hafi sézt frá íslenzkum embættismönnum.  Samt hefur að sjálfsögðu engin undanþága fengizt hjá ESB Íslandi til handa varðandi þá stefnumörkun ACER að tengja öll svæði og lönd svo tryggilega saman í eitt stofnkerfi, að verðmunur raforku jafnist út.  

Þeir hinir sömu ofurbjartsýnismenn virðast ekki hafa skilið inntak Orkusambands ESB.  Orkustofnun þess, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), er ekki einvörðungu ráðgefandi um orkumál, heldur eru þar teknar ákvarðanir um framkvæmdir í krafti atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti atkvæða ræður. EFTA ríkin munu ekki öðlast þar atkvæðisrétt, þótt þau leiði ACER til valda í orkugeirum sínum. Ójafnræði EFTA og ESB í ACER verður algert. Slíkt stríðir algerlega gegn ákvæðum EES-samningsins um, að ESB og EFTA skuli leysa sameiginleg viðfangsefni á jafnréttisgrundvelli (s.k. tveggja stoða lausn).

Markmið ACER er, að raforkuflutningsgeta tenginga frá hverju aðildarlandi EES nemi a.m.k. 15 % af vinnslugetu landsins árið 2030 og hún aukist í 30 % á ótilgreindum tíma.  EES-ríki munu ekki komast upp með neitt múður, þar til þessu er náð. Það er lágmark, að menn átti sig á, hvað undirskrift þeirra merkir, þegar þeir skuldbinda heila þjóð, eins og gerzt hefur í hinni sameiginlegu EES-nefnd EFTA og ESB.      

Á forgangslista ACER um orkutengiverkefni á milli landa, sem eru yfir 170 talsins, er sæstrengurinn "Ice Link", sem ACER vill leggja á milli Íslands og Bretlands og taka í rekstur árið 2027.  Ef honum verður valin flutningsgetan 1200 MW, eins og nefnt hefur verið í öðrum skýrslum, mun raforkuflutningsgeta samtengingar Íslands við útlönd að líkindum einmitt nema rúmlega 30 % upp úr 2030, ef af þessum óheillagjörningi verður.

Á téðri verkefnaskrá ACER eru Landsvirkjun og Landsnet tilfærð sem aðstandendur verkefnisins ásamt því, sem gæti verið dótturfélag brezka Landsnets, National Grid.  Hver hefur heimilað þessum íslenzku fyrirtækjum, þar sem annað er að fullu í eigu ríkissjóðs (og á ekkert að skipta sér af orkuflutningsmálum) og hitt að mestu í eigu þess fyrrnefnda, að láta skrá þennan sæstreng á forgangslista ACER og sig sem aðstandendur ?  Þetta er ábyrgðarlaust pukur með óvinsælt mál á Íslandi og hátimbruð ósvífni í ljósi þess, að hér hefur engin umræða farið fram um, að hugsanlegan sæstreng ætti að nota til að tengja Ísland við markaðskerfi ESB fyrir raforku, þar sem hvaða orkukaupi sem er á EES-svæðinu getur boðið í alla tiltæka raforku hér á markaðinum. Allt annað hefur verið gefið í skyn, þ.e. langtímasamningur um tiltekna orku með fjárhagslegum stuðningi úr brezka ríkissjóðinum við kaup á sjálfbærri raforku inn á brezka stofnkerfið.  Hér er sviksamlegt atferli á ferðinni, því að glepjist Alþingi á að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn, geta íslenzk stjórnvöld ekki lengur átt síðasta orðið um lagningu aflsæstrengs á milli Íslands og útlanda.  Valdið verður alfarið í höndum ACER og útibús þess á Íslandi.    

Sérfræðingahópur ACER vinnur að því stefnumiði ACER að jafna raforkuverð í ESB/EES.  Hann hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að ef meiri raforkuverðsmismunur en 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh) sé fyrir hendi á milli tveggja aðlægra svæða eða landa, þá sé klárlega þörf á að efla raforkuflutningsgetuna á milli þeirra til að njóta ávaxta sameiginlegs orkumarkaðar.  Á milli Íslands og Bretlands er um 16 faldur þessi munur um þessar mundur og m.v. meginlandið 10-30 faldur (það er mjög sveiflukennt verð á meginlandinu vegna mikilla óstöðugra endurnýjanlegra orkulinda á borð við sól og vind).  Tæknileg og markaðsleg skilyrði eru þess vegna fyrir hendi, til að ACER ákveði, að sæstrengur verði lagður til Íslands. Orkustofnun ESB vantar enn heimild til að ákveða þetta, en á meðan frumvarp um það er til í iðnaðarráðuneytinu og Alþingi hefur ekki hafnað því, vofir þessi hætta yfir. 

Stjórnvöld hér verða þá ekki spurð, því að það er hlutverk ACER að ryðja úr vegi öllum staðbundnum hindrunum gegn svo greiðum orkuflutningum, að mismunur orkuverðs (flutningskostnaður, dreifingarkostnaður og skattar ekki meðtaldir) verði að hámarki 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh).

Nú eru í undirbúningi 2 sæstrengir frá Noregi til viðbótar við eina 5 í rekstri; annar til Þýzkalands og hinn til Bretlands.  Flutningsgeta hvors um sig verður svipuð og Ice Link.  Í leyfisumsókn Statnetts til NVE (norku Orkustofnunarinnar) um sæstrengi til Bretlands og Þýzkalands er tekið fram, að kostnaður Statnetts við flutningsmannvirki á landi að landtökustöðum sæstrengjanna sé áætlaður miaNOK 4,0 eða miaISK 52.  Út frá þessu má ætla, að kostnaður Landsnets vegna eins svipaðs sæstrengs með landttöku einhvers staðar á Suður-eða Austurlandi næmi miaISK 26.  Samkvæmt reglum ACER leggst þessi kostnaður á Landsnet, og notendur innanlands verða að standa undir kostnaðinum.  Hvaða áhrif mundi þetta hafa á flutningsgjaldið, sem innheimt er af raforkunotendum á Íslandi ?

Flutningsgjaldið til almennings nemur um þessar mundir (án skatta) 1,84 ISK/kWh.  Ef kostnaður af kerfisstyrkingu vegna sæstrengs dreifist jafnt á allan núverandi flutning, mun hækkunin geta numið 0,11 ISK/kWh, sem er 6,0 % hækkun til almennings.  Ef styrkingin leggst einvörðungu á flutning til almennings, mun hækkunin nema 0,53 ISK/kWh eða 29 %.  Í ljósi þess, að almenningur á óbeint megnið af Landsneti, er ekki ólíklegt, að almenningur verði látinn bera megnið af þessum kostnaði, t.d. 60 %, sem þýðir 0,32 ISK/kWh eða 17 % hækkun flutningsgjalds til almennings.  

ACER fyrirskipar, að ágóða af orkuflutningum um sæstreng megi ekki nota til að lækka flutningsgjald til almennings, heldur skuli leggja hann í sjóð til að standa undir enn frekari fjárfestingum og viðhaldi, þar til orkuverðsmismunur á milli viðkomandi svæða er orðinn minni en jafngildi 0,25 ISK/kWh.  ACER verður einráð stofnun um þessi mál hérlendis, ef ríkisstjórnin leggur fram ACER-frumvarpið og Alþingi samþykkir það.

Með þessum hætti mundi Alþingi hafa falið yfirþjóðlegri stofnun ígildi skattheimtuvalds á Íslandi.  Slíkt stríðir gegn lýðræðislegum stjórnarháttum, gegn réttlætistilfinningu langflestra skattborgara landsins, og væntanlega fer það ekki framhjá meirihluta Alþingismanna, að slíkt er ótvírætt Stjórnarskrárbrot.  

Þetta er ótrúlegt, en satt.  

Varðandi ráðstöfun hagnaðar af sæstreng stendur í reglu ESB nr 714/2009 um raforkuflutninga yfir landamæri, grein 16.6:

"Tekjur af afmarkaðri flutningsgetu skal nota til:

a) að tryggja, að þessari afmörkuðu flutningsgetu sé við haldið, og/eða

b) að hindra rýrnun flutningsgetunnar og auka hana með fjárfestingum í stofnkerfinu og þá aðallega í nýjum flutningsmannvirkjum." 

Til viðbótar styrkingu stofnkerfis í landi vegna Ice Link kann Landsnet að verða þvingað til umtalsverðrar kostnaðarþátttöku í honum, e.t.v. sem nemur miaISK 150.  Það mundi jafngilda u.þ.b. þreföldun langtímaskulda Landsnets, og það er engum vafa undirorpið, að slík skuldabyrði mundi veikja getu fyrirtækisins til uppbyggingar innviða innanlands og jafnvel leiða til enn meiri hækkunar flutningsgjalds raforku innanlands.  Óvissa og ófriður út af starfsemi Landsnets mundi ekki dvína við að færa fyrirtækið undir stjórn ACER.    

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband