Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Sér undir iljar sósíalista

Heilbrigðisráðherra hefur verið rekin á flótta frá stefnu sinni um ríkisvæðingu skimana og rannsókna á sýnum teknum úr konum við leit að krabbameini.  Rannsóknir þessar voru áður stundaðar hjá Krbbameinsfélaginu, en Landsspítalinn var alls ekki í stakkinn búinn að taka við þessum rannsóknum, svo að sýnin voru send utan til Danmerkur. Þjónusta Dananna var ófullnægjandi og hætta talin á ruglingi, enda virtust sýni jafnvel týnast. 

Gösslaragangur ráðherrans við þessa valdsmannslegu yfirtöku á viðkvæmri þjónustu er yfirgengilegur, og má hiklaust segja, að nú sé mælirinn fullur varðandi mistök þessa ráðherra. Það voru skjólstæðingarnir, konurnar, sem í hlut áttu, sem með einurð sinni og samstöðu hröktu ráðherrann á flótta frá fyrri ákvörðun um ríkisvæðinguna, svo að nú mun Krabbameinsfélagið fá þessi verkefni á ný, ef rétt er skilið. 

Þegar ráðherrann tílkynnti uppgjöf sína í þessu máli, fór hún illa að ráði sínu, því að hún axlaði ábyrgðina ekki sjálf, heldur kenndi Kófinu (C-19) um og miklum önnum Heilsugæzlu höfuðborgarsvæðisins þess vegna.  Þetta var lítilmannlegur og lúalegur gerningur af hálfu ráðherrans, því að Heilsugæzla höfuðborgarsvæðisins með Óskar Reykdalsson í broddi fylkingar lék ekki aðalhlutverkið í þessum sorgarleik, heldur ráðuneytið.  Þessi uppákoma segir meira en mörg orð um trúverðugleika og persónuleika þessa sósíalista á ráðherrastóli. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sami ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur reynt að svelta stofulækna til uppgjafar.  Það er þyngra en tárum taki, að ríkisvaldið skuli grafa undan einni af þremur meginstoðum heilbrigðiskerfisins. Aðförin er ekki bara brot gegn atvinnuréttindum stofulæknanna, heldur hlýtur minni þjónusta þeirra að leiða til verra heilsufars skjólstæðinganna og aukins álags á heilsugæzluna og sjúkrahúsin, sem ekki máttu við meira álagi, sízt í Kófinu.

Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur, ritaði m.a. um þetta í Morgunblaðið 1. júlí 2021 undir fyrirsögninni:

"Vandinn sem aldrei var til".

Greinin hófst þannig:

"Því hefur ranglega verið haldið fram af yfirvöldum, að starfsemi stofulækna aukist í sífellu og á hana verði að koma böndum.  Stjórnvöld hafa gengið hart fram í því að sauma að þjónustunni með neikvæðni og röngum upplýsingum og hafa ekki hlustað á álit og ráðgjöf lækna.  Ferlið við gerð Heilbrigðisstefnu til 2030 og ráðgjöf kvensjúkdómalækna og rannsóknarlækna varðandi leghálsskimanir eru 2 skýr dæmi.  Fleiri aðferðum hefur verið beitt, eins og stöðvun á nýliðun stofulækna með ólögmætum hætti árin 2015-2018.  Sú aðgerð var svo úrskurðuð ólögmæt í héraðsdómi og henni hnekkt.  Einnig hafa stjórnvöld lagt stein í götu starfseminnar með langvarandi samningsleysi, en síðast var samið við stofulækna árið 2013, og enginn samningur hefur verið í gildi frá því í lok árs 2018."  

Það er með hreinum ólíkindum, að ríkisvaldið (heilbrigðisráðuneytið) skuli koma fram af slíkri óbilgirni gegn stofulæknum, að halda mætti, að þeir væru afætur, sem þyrfti að fjarlægja.  Þessu verður að linna, og það verður að hleypa heilbrigðri skynsemi að.  Það verður að setja í opinbera heilbrigðisstefnu, að heilbrigðisgeirinn skuli samanstanda af 3 stoðum, ríkisspítölum, þar af einu háskólasjúkrahúsi, heilsugæzlustöðvum, sem geti verið með frjálst rekstrarform, og einkareknum læknamiðstöðvum/stofum, þótt ríkissjóður fjármagni alla starfsemina og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiði fyrir þjónustu og hafi eftirlit með tveimur síðast nefndu. Hið opinbera skuli jafnframt beina verkefnum í þann farveg, þar sem kostnaður er lægstur að uppfylltum öllum gæðakröfum.

Þetta þýðir, að sjúkrahúsin verða að hafa kostnaðarbókhald, sem gerir SÍ kleift að bera saman kostnað við sérfræðieiningar stofulækna.  Tækniþróunin er í þá átt, að tæknilega er hægt að aflétta sífellt fleiri aðgerðum af t.d. háskólasjúkrahúsinu en áður, og það ber hiklaust að gera, ef það er hagstætt fyrir skattborgarana.  Þetta ber að njörva niður í nýrri heilbrigðisstefnu.  Það er mjög líklegt, að þannig mætti með hagkvæmum hætti útvista aðgerðum af spítölum sem nemur a.m.k. 20 % fjölgun sérfræðieininga árið 2020 eða 4,3 M sérfræðieininga.  Með því að ríkisvaldið semji við stofulækna og nýti sér þjónustu þeirra, eins og eðlilegt má telja, gæti sá kostnaður ríkissjóðs hækkað um 50 % með ofangreindri fjölgun sérfræðieininga um 20 %, en hafa verður í huga, að hann yrði samt undir 6 % af heildarútgjöldum ríkissjóðs til heilbrigðismála. Það er líklegt, að finna megi út hagkvæmustu verkaskiptinguna út frá hagsmunum ríkissjóðs og að hún muni jafngilda hlutdeild stofulækna, sem er hærri en 6 %, e.t.v. 6-10 % af heildarkostnaði við heilbrigðiskerfið.

"Nú hefur enginn samningur verið við sérfræðilækna í 2,5 ár, og starfsemin hefur minnkað samfellt frá árinu 2016.  Slæmar afleiðingar þessarar stefnu stjórnvalda eru nú að koma fram.  Versnandi aðgengi, lenging á biðlistum og aukið álag á aðra þætti kerfisins. Þetta ásamt óvissu um framtíð starfseminnar er meðal ástæðna þess, að gamalgrónar læknastöðvar [t.d. Domus Medica - innsk. BJo] eru að loka.  Meðalaldur sérfræðilækna á stofu hækkar sífellt (nálgast 60 ár), og nýliðun lækna og nýjungar í læknisþjónustu verða of hægfara."

Ósjaldan heyrast stjórnmálamenn skjalla þekkingariðnaðinn og telja hann til vaxtarbrodda atvinnulífsins.  Í reynd eru þessir sömu stjórnmálamenn dragbítar á þróun læknisfræðinnar á Íslandi, því að einkageirinn knýr oft þá þróun.  Nýliðun stéttarinnar hefur verið heft, og íslenzkir sérfræðingar í útlöndum sjá ekki mikla starfsmöguleika, þar sem Landsspítalann vantar nýtt húsnæði með nútímalegri starfsaðstöðu og einkageiranum er haldið í spennitreyju, sem stöðugt er hert á með ruddalegum hætti af forstokkuðum sósíalista, sem vill þessa starfsemi feiga. 

"En hvað skyldi þessi niðurskurður skýra mikið af vaxandi álagi, sem nú er á aðra pósta heilbrigðiskerfisins ?  Álagi, sem sumir þeirra eru að kikna undan, bráðadeild LSP og geðþjónustan. Áhugavert væri að meta hugsanlegt tjón, sem sjúklingar verða fyrir vegna þessa og eins áhrifin á starfsumhverfið.  Hvort tveggja gæti verið verulegt." 

Það eru tengsl á milli allra þessara þátta heilbrigðisgeirans og læknastofustarfseminnar.  Ef dregið er úr síðast nefndu starfseminni, eins og raunin hefur verið undanfarin ár með sérstakri tilstuðlan heilbrigðisráðuneytisins, eykst álagið á hina þættina.  Heilbrigðisráðherra hefur magnað það ófremdarástand, sem nú hrjáir heilbrigðisgeirann.  Í lýðræðisþjóðfélagi ætti auðvitað að setja slíkan ráðherra af hið bráðasta, en forsætisráðherra heldur yfir henni hlífðarskildi. Þennan hlífðarskjöld verða kjósendur að rífa burt í kosningunum í haust, ef þeir eiga að eygja von um bætta tíð í þessum efnum, með því að hætta stuðningi við Vinstri hreyfinguna grænt framboð og reyndar aðra vinstri flokka, en færa stuðning sinn yfir á þá flokka, sem lofa stuðningi við sterkt og fjölbreytilegt heilbrigðiskerfi. 

Nýjasta hneykslið í ranni heilbrigðisráðherra er kaldranaleg hundsun hennar á ákalli ljósmæðra við Fæðingardeild Landsspítalans, en þar og á öðrum fæðingardeildum ríkisins hefur nú skapazt neyðarástand vegna fjölgunar fæðinga í landinu og fækkunar ljósmæðra.  Það er hræðilegt fyrir landsmenn að búa við stjórn, sem engan veginn er vandanum vaxin á viðkvæmu sviði. 

Að lokum skrifaði Þórarinn Guðnason:

"Þessari óheillaþróun þarf að snúa við, taka upp nýjungar og liðka fyrir nýliðun.  Starfsöryggi og rekstrarumhverfi stofulækna þarf að bæta.  Augljóslega þarf að semja við lækna og bæta við verulegum fjármunum í þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar, rétt eins og fjármunir hafa verið auknir til heilsugæzlu og sjúkrahúsa. 

Þetta þarf að gera áður en fleiri læknastöðvar loka og áður en fleiri læknar gefast upp á stofurekstri og snúa sér að öðrum verkefnum. 

Það má einfaldlega ekki lengur láta reka á reiðanum með sérfræðilæknisþjónustuna utan spítala.  Hún hefur setið eftir, og nú er hætt við, að sjúklingarnir verði skildir eftir með sárt ennið vegna heimatilbúins vanda, sem í raun var aldrei til."  

Hernaðinum gegn heilbrigðiskerfinu verður að linna.  Heilbrigðisráðherra hefur málað skrattann á vegginn af fullkomnu ábyrgðarleysi og hreinræktuðum fordómum í garð starfsemi stofulæknanna.  Að þessu leytinu má líkja henni við riddarann sjónumhrygga, don Kíkóta, sem barðist við vindmyllur.  Ráðherrann kann ekki að skammast sín.  Það er eiginlega þyngra en tárum taki, og ætti aldrei að þurfa að gerast hér, að formaður Læknafélags Reykjavíkur sjái sig knúinn til að skrifa svona grein, en hafi hann þökk fyrir að útskýra stöðuna fyrir almenningi. 

Ábyrgir Alþingismenn (þar eru því miður flautaþyrlar líka) hljóta að fylgjast með þeirri grafalvarlegu stöðu, sem heilbrigðisráðuneytið hefur skapað í heilbrigðismálum. Einn þeirra, Óli Björn Kárason, skrifaði grein í Morgunblaðið 14. apríl 2021, undir fyrirsögninni:  

"Byggt undir tvöfalt heilbrigðiskerfi".

Þar stóð m.a.:

"Sárast er að horfa upp á, hvernig skipulega er verið að leggja grunn að tvöföldu heilbrigðiskerfi með einkareknum sjúkratryggingum.  Almenningur verður að sætta sig við þjónustu innan ríkisrekins tryggingakerfis á sama tíma og efnafólk fær skjóta og góða þjónustu sjálfstætt starfandi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.  Fyrirheitið um, að allir eigi jafnan og greiðan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag verður án innihalds.  Ég óttast, að þá bresti ýmislegt annað í íslenzkri þjóðarsál. 

Tregða heilbrigðisyfirvalda til að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu og vinna að samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og sjálfstætt starfandi aðila er óskiljanleg.  Dregið er úr valmöguleikum fólks, unnið gegn hagkvæmri nýtingu fjármuna og álag á opinber sjúkrahús aukið." 

Þessi texti þingmannsins gefur vonir um, að Sjálfstæðisflokkurinn standi ekki aftur að ríkisstjórn, þar sem forstokkaður sósíalisti fær að leika lausum hala og rústa heilbrigðiskerfinu í nafni sósíalistískrar hugmyndafræði lítils þingflokks.  Næst verður að njörva niður endurreisn heilbrigðiskerfisins með aukinni þátttöku þriðju stoðarinnar, einkarekinna læknastofa og læknamiðstöðva, ef þær verða hagkvæmasti kosturinn fyrir sjúklingana og skattborgarana.

Óli Björn hélt áfram:

"Hægt og bítandi er verið að hneppa heilbrigðisþjónustuna í fjötra fábreytileika og aukinna útgjalda.  Við munum eiga stöðugt erfiðara með að fylgja öðrum þjóðum eftir á sviði heilbrigðisvísinda.  Samkeppnishæfni okkar við að laða til landsins vel menntað og hæfileikaríkt heilbrigðisstarfsfólk, eftir langt sérnám, verður verri." 

Það er ljóst af þessu, að ÓBK gerir sér grein fyrir stöðunni í bráð og lengd, sem upp er komin í íslenzka heilbrigðiskerfinu og er bein ógn við öryggi sjúklinga og hagsmuni skattborgaranna. Hann mun áreiðanlega tala fyrir öflugri viðspyrnu í þingflokki sjálfstæðismanna, enda er hún í anda grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins.

Að lokum skrifaði ÓBK:

"Þegar yfirvöld skilja ekki, að læknavísindin eru þekkingariðnaður, sem nærist á fjölbreytileika, ekki sízt í rekstrarformi, er sú hætta raunveruleg, að í stað framþróunar verði stöðnun. Ríkisvæðing elur ekki af sér nýsköpun, tryggir ekki lífsnauðsynlega nýliðun, gengur gegn atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna, og kannski það, sem er verst: dregur úr þjónustu og öryggi við sjúklinga.

Er þetta sú framtíðarsýn, sem ætlunin er að kynna landsmönnum fyrir komandi alþingiskosningar ?"

Óli Björn Kárason hefur greinilega gert sér grein fyrir, hvert ráðherrann stefnir með heilbrigðiskerfið núna, og til hvers það mun leiða fyrir þjónustuna og þann, sem borgar, skattgreiðendur. Þá er góð von til þess, að aðrir þingmenn flokksins og jafnvel aðrir frambjóðendur flokksins muni vekja rækilega máls á núverandi óheillabraut ráðherrans og benda á aðra leið, leið fjölbreytni, betri þjónustu og atvinnufrelsis.  Sósíalistar mega ekki komast upp með að smygla stefnu sinni bakdyramegin inn á þjóðina.  Ef almenningur vill ríkisvæðingu heilbrigðisgeirans og ganga af stofustarfseminni dauðri með lengingu biðlista og lakari nýtingu fjármagns en með einkarekstri, sem nýtt getur tækniþróunina til að aflesta spítalana, þá kýs hann sósíalistana.  Að öðrum kosti kýs almenningur hina, sem eru opnir fyrir möguleikum einkarekstrar til bættrar þjónustu við sjúklinga og sparnaðar fyrir ríkissjóð. 

 

 

 

 


Hugmyndafræðilegt skipbrot

Heilbrigðisráðherra hefur rekið skefjalausa ríkisvæðingarstefnu á sviði heilbrigðismála með þeim afleiðingum m.a., að líkja má Landsspítalanum við strandað risaskip (á íslenzkan mælikvarða) og einkareknu læknastofurnar eru í uppnámi.  Skjólstæðingar kerfisins í nútíð og framtíð eru meginfórnarlömb þessa stríðsrekstrar ráðherrans í nafni löngu afdankaðrar hugmyndafræði marxismans, en allt starfsfólk Landsspítalans og læknastofanna líður önn fyrir ástandið, eins og nýleg yfirlýsing 985 lækna bar með sér.  Það tekur langan tíma að bæta skaðann og koma á góðu jafnvægi, en ágæt byrjun væri að semja við sérfræðilækna og létta á Landsspítalanum með útvistun þaðan til aðila innanlands. 

Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi,  hefur ritað mikið um heilbrigðismál og sýnt fram á, að miðstýring og ríkisvæðing að hætti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er fjarri því að vera sjálfsögð eða eðlileg leið til þess að veita sjúklingum hérlendis góða þjónustu.  Hann óttast, að núverandi stefnumörkun heilbrigðisráðuneytisins muni kalla fram tvöfalt heilbrigðiskerfi, sem ber að varast til að magna ekki stéttaskiptinguna í landinu.  Hann ritaði í Morgunblaðið 3. marz 2021 undir fyrirsögninni:

"Gegn tvöföldu kerfi".

Greinin hófst þannig:

"Hugmyndafræðin að baki lögum um sjúkratryggingar er skýr, "að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag", eins og segir í 1. grein laganna.  Markmiðið er "að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar" og um leið "að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna".

Það var mikilvægt hjá ÓBK að rifja upp þessi grundvallaratriði sjúkratryggingalaganna.  Með aðför heilbrigðisráðherra að starfsemi sérfræðilækna á sjálfstæðum læknastofum og í læknamiðstöðvum virðist hún hafa brotið þessi lög, því að hún neitar sanngirniskröfu þessara lækna um hækkun gjaldskrár þeirra til samræmis við hækkun launavísitölu (launakostnaður vegur þyngst í rekstri læknastofa) og neyzluverðsvísitölu.  Þar með keyrir hún stofurnar í fjárhagslegt þrot, nema læknarnir taki aukaþóknun af sjúklingum, sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa ekki heimild heilbrigðisráðuneytisins til að endurgreiða.  Þar með brýtur ráðherra lagaákvæði um "jafnan aðgang" og einnig um "hámarksgæði" þjónustunnar.  Um þetta skrifaði Þórarinn Guðnason,  hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur, í Morgunblaðið 20. maí 2021 undir yfirskriftinni:

"Þúsund orð um einingarverð".

Hún hófst þannig:

"Í langvarandi samningsleysi undanfarinna ára hafa sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar oft upplifað villandi málflutning frá stjórnvöldum. Nýlega var því t.d. haldið fram, að einingarverð sérfræðilækna hafi verið verðbætt að fullu eftir að samningur lækna rann út og reglugerð ráðherra tók við; reglugerð, sem ákvarðar einingarverð einhliða. Sannleikurinn er allt annar, eins og verður rakið hér.  Á 13 árum, frá 1. apríl 2008 til 1. apríl 2021 hefur einingarverð hækkað um 65 %, en launavísitalan um heil 134 %.  Einingarverðið ákvarðar upphæð greiðslu fyrir ákveðin læknisverk, og er greiðslan notuð til að greiða allan kostnað við rekstur læknastofanna, þ.á.m. laun starfsfólks.  Engar aðrar greiðslur koma til."

Það er ríkisvaldinu ósamboðið að reyna með þessum hætti að knésetja starfsemi sjálfstætt starfandi lækna í læknamiðstöðvum og læknastofum, en aðferð heilbrigðisráðherra er að kippa rekstrargrundvellinum undan þeim. Þessi afstaða ráðherrans er óskiljanleg í ljósi þess, að við neyðarástandi liggur á Landsspítalanum og hann annar engan veginn þeim verkefnum, sem hann á að sinna (biðlistar). Það er engum vafa undirorpið, að það er þjóðhagslega hagkvæmt að stórefla starfsemi þessara læknastofa á þeim sviðum, þar sem gæðin eru fullnægjandi, því að einingarkostnaðurinn er lægri þar en t.d. á Landsspítalanum.  Nýir valdhafar í heilbrigðisráðuneyti verða að snúa ofan af vitleysunni (sósíalismanum) og auka á næsta kjörtímabili hlutdeild þessarar starfsemi einkageirans í yfir 5,0 % af heildar útgjöldum til heilbrigðismála. 

Áfram með Þórarin Guðnason:

"Til að geta haldið rekstri læknastofa áfram, hafa læknar neyðzt til að hækka gjaldskrá sína með því að innheimta s.k. aukagjöld eða komugjöld af sjúklingum - og skyldi engan undra, sem horfir á meðfylgjandi mynd.  [Hún sýnir, að hækkun einingarverðs læknastofanna er aðeins um 70 % af hækkun launavísitölu. Þannig rekur heilbrigðisráðherrann sitt stríð gegn einkaframtakinu.  Þetta er óásættanleg aðför með öllu og verður að leiðrétta hið fyrsta.  Um þetta hneyksli þarf að ræða í kosningabaráttunni í sumar/haust - innsk. BJo.] Þessi aukagjöld eru bein afleiðing þeirrar gliðnunar, sem þar sést.  Gjöldin eru í raun aðeins leiðrétting á gamalli úr sér genginni gjaldskrá, sem ekki hefur verið samið um í 8 ár, og yfirvöld hafa síðan valið að láta ekki fylgja verðlagi."

 Þegar svona er í pottinn búið, þarf engan að undra, að nýliðun á læknastofunum er ekki sem skyldi, og er meðalaldur þessara lækna að nálgast 60 ár.  Það er grafalvarlegt, ef aðstæður á Íslandi eru svo ókræsilegar fyrir tilstilli stjórnvalda, að vel menntaðir og þjálfaðir sérfræðingar veigra sér við að snúa heim til fósturjarðarinnar til að starfa þar. Framkoma stjórnvalda er til að skammast sín fyrir. 

"Án gjaldskrárhækkana í formi aukagjalda hefði sennilega verið búið að loka einhverjum læknastöðvum nú þegar. Gjöldin hafa einfaldlega gert læknum kleift að halda rekstri áfram.  Lokun læknastöðva hefði verið slæmur kostur, sett sjúklinga, starfsfólk og heilbrigðiskerfið í vanda og hefði getað valdið ófyrirséðum skaða. Skerðing á þjónustu, lengri bið, óvissa og óöryggi meðal sjúklinga eru allt þekktar afleiðingar þess, sem gerist, ef breytingar á heilbrigðisþjónustu eru illa undirbúnar."

Aðför heilbrigðisráðherra að einkarekinni heilbrigðisþjónustu misheppnaðist vegna þessara aukagjalda, sem skjólstæðingarnir tóku á sig.  Með þeirri vitneskju, sem við nú höfum um bágborna getu Landsspítalans til að sinna öllum sínum verkefnum (nýleg yfirlýsing 985 lækna) má fullyrða, að heilbrigðiskerfið hefði lagzt á hliðina, ef sósíalistanum á stóli heilbrigðisráðherra hefði heppnazt hugsjónastarf sitt að leggja téðan einkarekstur í rúst.  Þá hefði ekki jaðrað við neyðarástand í heilbrigðiskerfinu, heldur hefði það skollið á. Vinstri hreyfingin grænt framboð er ábyrg fyrir þessari ráðsmennsku og verðskuldar makleg málagjöld í komandi Alþingiskosningum. 

Nú skal halda áfram að vitna í grein Óla Björns:

"Eftir því sem þjóðin eldist, munum við þurfa að auka útgjöld til heilbrigðismála. Ekki sízt þess vegna er mikilvægt, að fjármunir séu nýttir með skynsamlegum hætti, og þar skiptir skipulagið mestu.  Ég hef áður haldið því fram, að innan kerfisins sé inngróin tregða til að nýta kosti einkaframtaksins, auka valmöguleika almenning og stuðla að hagkvæmri nýtingu fjármuna.  Vegna þessa hefur aldrei tekizt fyllilega að virkja lögin um sjúkratryggingar - ná markmiðum þeirra um öfluga þjónustu við sjúkratryggða, ná rekstrarhagkvæmni og styrkja ríkið sem kaupanda að heilbrigðisþjónustu fyrir hönd landsmanna. Þessi innbyggða tregða hefur aukizt á síðustu árum.  Afleiðingin er veikari og verri þjónusta. 

Að óbreyttri stefnu festist íslenzk heilbrigðisþjónusta í sjálfheldu fábreytileika, aukinna útgjalda, verri þjónustu, biðlista og lakari starfsmöguleika heilbrigðisstétta.  Með því að vinna gegn samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og einkarekstrar með áherzlu á ríkisrekstrarvæðingu heilbrigðisþjónustunnar verður til jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi og einkareknar sjúkratryggingar." 

Þarna tíundar þingmaðurinn ÓBK, hvers vegna ríkisvaldið á þegar í stað að leggja af þjóðnýtingarstefnu sína á heilbrigðisgeiranum, sem ekkert er minnzt á í stjórnarsáttmálanum, en beina þess í stað auknu fé til hins einkarekna hluta heilbrigðisgeirans með útvistun verkefna.  Þesssi rök hafa hvergi verið hrakin, en hverjar eru þá röksemdir sósíalista fyrir núverandi feigðarflani heilbrigðisráðuneytisins ?

Þau eru lágkúrulegar dylgjur um, að læknastofurnar misfari með traust, stundi ofgreiningar og oflækningar og rukki þannig SÍ og sjúklinga um of háar fjárhæðir. Þetta er ómerkilegur og einfeldningslegur áróður sósíalista fyrir ömurlegum málstað sínum.  Læknastofurnar eru undir eftirliti Landlæknisembættisins og SÍ, sem er farin að gera stikkprufur og sannreyna innsenda reikninga.  Enginn sómakær læknir hættir á að fórna starfsheiðri sínum í okkar litla samfélagi með því að stunda óheiðarleg vinnubrögð af þessu tagi. 

Ráðherrann hefur jafnvel talað um sjálftöku lækna án þess að færa rök fyrir máli sínu og er þar með farin að dreifa gróusögum um upp til hópa heiðvirða stétt manna og kvenna.  Málflutningur hennar er með öllu óboðlegur, og vitleysan er kórónuð, þegar hún jarmar um það, að ósiðlegt sé að græða á sjúklingum.  Téður gróði, þar sem hann er fyrir hendi, er, eins og í öðrum atvinnurekstri, ekkert annað en vextir af fjármunum, sem lagðir hafa verið í fyrirtækið, og það er hár stofnkostnaður og miklir bundnir fjármunir í læknastofum og læknamiðstöðvum. Þess vegna eru þessi gróðabrigslyrði fyrir neðan allar hellur og varpa ljósi á ruddalegt framferði ráðherrans gegn læknastéttinni, framferði, sem verður sjúklingum sízt til framdráttar.  Það þarf heldur ekki að fara í grafgötur með það, að einokunartilhneiging heilbrigðisráðherra á þjónustu við sjúklinga vinnur gegn hagsmunum skattgreiðenda.  Af öllum þessum ástæðum hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að leggja þessi mál á stjórnarmyndunarborðið til að fá stefnubreytingu inn í næsta stjórnarsáttmála. Hversu hart hann getur fylgt því eftir, ræðst þó af gengi hans og VG í komandi Alþingiskosningum. 

"Óskilgetið afkvæmi ríkisvæðingar stærsta hluta heilbrigðisþjónustunnar er tvöfalt kerfi.  Í nafni jöfnuðar vilja andstæðingar einkarekstrar fremur lengja biðlista en nýta kosti einkaframtaksins. Afleiðingin er hins vegar aukið misrétti.  Hinir efnameiri kaupa einfaldlega þjónustu beint hér á landi eða í öðrum löndum. Við hin, sem öll erum þó sjúkratryggð, þurfum að sætta okkur við að bíða mánuðum og misserum saman eftir nauðsynlegri þjónustu og höfum lítið sem ekkert val um hana." 

 Það er alveg dæmigert fyrir sósíalismann, að hann leiðir til skorts m.v. eftirspurn og síðan ójafnréttis og óréttlætis, eins og ÓBK lýsir slóðanum eftir heilbrigðisráðherrann. Þjóðin er auðvitað ekki ýkja hrifin af þessum ósköpum, enda á hún mikið undir.  Í nýlegri skoðanakönnun kom í ljós, það sem engan undrar, að meirihlutinn vill blandað kerfi, þar sem er  samkeppni og aukið valfrelsi.  Yfirborðssvamlarar og falsfréttadreifarar hafa túlkað niðurstöðuna einokunarsinnum í hag, en það átti einvörðungu við sjúkrahúsrekstur.  Hákólasjúkrahús og héraðssjúkrahús verða fyrirsjáanlega ríkisrekin um langa framtíð. 

Að lokum skrifaði ÓBK:

"Ólíkt ríkisrekstrarsinnum hef ég verið sannfærður um, að verkefni stjórnmálamanna sé ekki að leggja steina í götur einkaframtaksins, heldur að virkja það öllum til hagsbóta. Valfrelsi um heilbrigðisþjónustu óháð efnahag á að vera markmiðið, og með því eykst aðhaldið og stuðlað er að hagkvæmari nýtingu fjármuna.  Um leið viðurkennum við sem samfélag hið augljósa; læknisfræðin og heilbrigðisvísindin öll eru þekkingariðnaður og reist á hæfileikaríku og vel menntuðu starfsfólki. Þannig vinnum við gegn því, að tvöfalt heilbrigðiskerfi verði til með tilheyrandi ójöfnuði."

 

  

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Heilbrigðiskerfi í andþröng

Það má flestum vera alveg ljóst, að heilbrigðiskerfið á Íslandi á við verulega erfiðleika að etja, svo að ekki sé nú dýpra í árinni tekið.  Ekki þarf að vera tíður viðskiptavinur þessa risakerfis til að gera sér þetta ljóst, heldur er nóg að lesa yfirlýsingar heilbrigðisstarfsfólks, sem innan þess starfar, en það er sumt hvert að þrotum komið.  Ástandið á Landsspítalanum er ósamboðið háskólasjúkrahúsi og gæti ekki komið upp með réttri verkaskiptingu ríkisspítalans og einkageirans í heilbrigðiskerfinu og meiri valddreifingu innan spítalans. Þar eru nú þverbrestir að boði heittrúaðs heilbrigðisráðherra og því er nú ófremdarástand á háskólasjúkrahúsinu, svo að læknar hafa varað við, að öryggi sjúklinga geti orðið í uppnámi. 

Það er líka ljóst, að ekki er við mannauðinn að sakast.  Hann er fær um að leysa flókin og vandasöm verkefni og faglega einfaldari verkefni, sem útheimta góða skipulagshæfni og öguð vinnubrögð.  Dæmi um hið síðara  er frábær frammistaða sjúkrahúsa landsins og heilsugæzlustöðva í C-19 faraldrinum og við bólusetningu landsmanna, sem í júní 2021 náði því langþráða takmarki að framkalla hjarðónæmi hérlendis gegn leiðinda kórónuveiru SARS-CoV-2, sem í mörgum tilbrigðum veldur C-19 sjúkdóminum, sem reyndar yfirleitt olli aðeins vægum flensueinkennum, en hefur leitt 30 manns til dauða hérlendis. 

Því verður þó að halda til haga, að 20-30 manns hafa látizt í kjölfar bólusetningar, flestir þeirra í sömu áhættuhópum og gagnvart C-19.  Það er einnig þannig, að bólusettir geta sýkzt og smitað aðra, en með vægari hætti en ella. 

Hlutfallslegur fjöldi dauðsfalla hérlendis af völdum C-19 er aðeins um 80 ppm (af milljón), sem eru lítil dánarlíkindi gagnvart faraldri og sennilega þau lægstu í heimi gagnvart C-19.  Orsakir eru lágur meðalaldur þjóðarinnar, tiltölulega gott heilsufar hennar þrátt fyrir alls konar "skavanka", og góð þjónusta heilbrigðisstarfsfólks við þá veiku.

Í kjölfar hjarðónæmis innanlands aflétti ríkisstjórnin öllum samkomu- og nándarhömlum á miðnætti aðfararnótt 26. júní 2021 við mikinn fögnuð, en áfram er strangt eftirlit á landamærunum, þótt ferðamannastraumurinn hafi aukizt mjög og eru nú lendingar farþegaflugvéla á Keflavíkurflugvelli um 25 á sólarhring.  

Það, sem hrjáir heilbrigðiskerfið, er framar öðru heilbrigðisráðuneytið. Þar situr nú og stjórnar aðgerðum ríkisvaldsins á heilbrigðissviði fólk, sem fórnar hagsmunum skjólstæðinganna og starfsfólksins fyrir úreltar stjórnmálalegar kreddur um nauðsyn miðstýringar ríkisvaldsins, þ.e. stjórnmálamanna og embættismanna, á stóru og smáu, og valddreifing og einkaframtak eru bannfærð þar.  Þetta er beinlínis stórhættuleg stefnumörkun, því að hún framkallar stjórnleysi, öngþveiti og gríðarlega óánægju skjólstæðinga og starfsfólks auk sóunar á fjármunum almennings. Þetta var staðfest í yfirlýsingu 985 lækna nýverið, sem er í raun "rautt spjald" á ráðherra.  

Þetta kom t.d. hastarlega í ljós, þegar heilbrigðisráðherra ákvað með einu pennastriki að færa krabbameinsskimanir kvenna frá Krabbameinsfélaginu til hins opinbera.  Þarna var um að ræða skrifborðsákvörðun af verstu sort, sem sýnir, að ráðherrann er utan gátta og fer illa með vald sitt, og í því er stórhætta fólgin fyrir skjólstæðingana. 

Landið ber aðeins eitt háskólasjúkrahús.  Það er óumdeilt, en þar er nú hins vegar alls konar starfsemi, sem ekki á heima á háskólasjúkrahúsi og þarf að létta af Landsspítalanum með því að útvista henni til sjúkrahúsa á landsbyggðinni, og einnig er vel hægt að útvista margs konar starfsemi Landsspítalans til einkarekinna læknastofa.  Valddreifing og verkaskipting ólíkra staða og stjórnunarfyrirkomulags geta létt álagi af yfirkeyrðum Landsspítala og skapað heilbrigðan samanburð á milli fagfólks og fyrirkomulags, bætt þjónustuna við skjólstæðingana og auðveldað kerfinu að laða til sín íslenzkt starfsfólk, sem lokið hefur námi sínu hérlendis og/eða erlendis.  Þetta er vandamál núna, og þarf engan að undra. Starfólkið þarf að geta valið á milli fleiri vinnustaða og vinnuveitenda.  Mönnunin mun þá reynast mun auðveldari viðfangs. 

Hin dauða hönd heilbrigðisráðuneytisins (ríkisins) er búin að ýta heilbrigðiskerfinu fram á heljarþrömina, og það er nú bara seigla og þrautseigja starfsfólksins, sem heldur því gangandi frá degi til dags, en við svo búið má ekki standa.  Það verður strax að stokka spilin upp, hætta að stjórna samkvæmt úreltri og löngu fallinni hugmyndafræði og hleypa heilbrigðri skynsemi á sviði rekstrar að, sem er fordómalaus og nýtir allar góðar leiðir til úrbóta.  Ein slík leið er að hlíta ráðum starfsfólksins.  Morgunblaðið birti 28. júní 2021 viðtal við dr Theódór Skúla Sigurðsson, lækni, undir fyrirsögninni:

"Þurfum svigrúm til að mæta stórslysi".

Það hófst svona:

""Sjónarmið okkar lækna eru ákall úr grasrótinni", segir Theódór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir á Landspítalanum.  Hann er í forsvari þeirra 985 lækna, sem í síðustu viku afhentu fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins undirskriftir sínar, þar sem skorað er "á stjórnvöld að axla ábyrgð á stöðunni í heilbrigðiskerfinu", eins og komizt var að orði.

Læknar telja mikilvægt, að gefin fyrirheit um aukið fjármagn til alls heilbrigðiskerfisins verði efnd.  Mikilvægt sé að koma með varanlegar lausnir á öldrunarþjónustu, sbr að á hverjum tíma dvelst á Landspítalanum fólk, sem lokið hefur læknismeðferð, en ekki er hægt að útskrifa, því [að] ekki er í önnur hús að venda.  Í raun stífli þetta allt gangvirki spítalans."

Það er í raun og veru að fara í geitarhús að leita ullar að senda bænaskrá til silkihúfanna í heilbrigðisráðuneytinu og biðja þær um að "axla ábyrgð" á því, að undir yfirumsjón sama ráðuneytis er búið að ofkeyra Landsspítalann með nýjum verkefnum, sumpart verkefnum, sem einkaframtakið hefur sinnt fram til þessa, án þess að ganga úr skugga um, að spítalinn sé í stakk búinn til að leysa ný verkefni sómasamlega.  Það er tómt mál að ætlast til aukinnar þjónustu Landsspítalans fyrr en hann kemst í nýtt húsnæði.  Starfsemi hans er komin yfir þolmörk húsnæðis og starfsfólks.  Ríkisvæðingarstefna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á heilbrigðiskerfinu er óboðleg, enda er hún dæmd til að mistakast.  Kerfi ráðstjórnarinnar er vanhugsað og reist á þekkingarleysi og ranghugmyndum. Ríkisvæðingin er ein meinloka og gengur þar af leiðandi hvergi upp. Það mun leiða til verri og dýrari þjónustu og sennilega til tvöfalds heilbrigðiskerfis, þar sem hægt verður að snara út úr eigin vasa til að fá framúrskarandi þjónustu strax.

Sjálfstæðisflokkurinn vill allt annað fyrirkomulag.  Háskólasjúkrahúsið verður áfram ríkisrekið og á þess vegum verður áfram bráðadeildin og verkefni, sem hefðbundið er að hafa á háskólasjúkrahúsum.  Hins vegar er hægt að nýta kosti einkaframtaksins til að létta byrðar háskólasjúkrahússins, svo að það geti betur sinnt sínu hlutverki.  Læknastofur sérfræðinga fái greiðslusamning við Sjúkratryggingar Íslands, enda geta þær veitt ódýrari gæðaþjónustu en opinberar stofnanir.  Til að leysa fráflæðisvanda Landspítalans verður ríkisvaldið að horfast í augu við hækkun verðlags í landinu, aðallega vegna kjarasamninga, svo að eftirsóknarvert verði að reka hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða. 

""Þó [að] fjárveitingar til Landspítalans séu auknar, sjáum við þess ekki stað. Því teljum við, að hugarfarsbreytingu þurfi um rekstur spítalans.  Læknar eru leiðtogar með hugmyndir og mikilvægt er að virkja þá til meiri áhrifa.  Læknar eru langþreyttir og tilfinningin sú, að ekki sé hlustað á sjónarmið okkar, þegar varað er við hættulegu ástandi", segir Theódór Skúli og áfram:

Ýmis mál eru í ólestri, s.s. leghálsskimanir og rannsóknir á þeim, sem voru fluttar til Danmerkur með slæmum afleiðingum.  Því miður virðist stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum vera sú, að gefnar eru út tilskipanir á efstu stöðum; skilaboð, sem virðist eiga að fylgja umyrðalaust.  Sjónarmið lækna hafa ekki skilað sér til stjórnvalda.  Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. 

Erfið staða á bráðadeild Landspítala s.s. mannekla og langur biðtími sjúklinga eftir þjónustu hefur verið til umfjöllunar að undanförnu.  Í þeim efnum bendir Theódór á, að í heilbrigðiskerfinu haldist allt í hendur.  Engin heildstæð framtíðarstefna sé í öldrunarmálum, þrátt fyrir mikla fjölgun eldra fólks, sem alltaf þarf margvíslega þjónustu heilsugæzlu og sjúkrahúsa."

Læknirinn lýsir þarna afleiðingum skefjalausrar miðstýringar og ríkisrekstrar.  Reksturinn er orðinn svo umsvifamikill, að æðstu stjórnendur hafa mjög ófullkomnar upplýsingar um stöðuna, þar sem þjónustan er veitt, enda fjöldi stjórnunarlaga á milli, og framlínufólkið er vonsvikið og uppgefið.  Stefna vinstri grænna í heilbrigðismálum býður hættunni heim í þessum efnum.  Það verður að draga úr þessari ráðstjórnarlegu miðstýringu, útvista verkefnum og minnka þannig umfangið, svo að hægt sé að sinna betur þeim verkefnum, sem háskólasjúkrahúsið á að sinna.  

Í lokin kom hörð ádrepa á stjórnendur Landspítalans, en undirstrika verður, að um kerfisvandamál er að ræða, þannig að ábyrgðin liggur í heilbrigðisráðuneytinu:

"Núverandi stjórnendur Landspítalans hafa setið lengi, hið bezta fólk, sem vill vel, en nær ekki þeim árangri, sem þarf.  Maður fær á tilfinninguna núna, að þeir séu algjörlega ráðþrota gagnvart vandanum og finni ekki neinar alvöru lausnir, sem haldi til langframa.  Sé staðan þannig, að ekki verði komizt lengra í sparnaði, þyrftu stjórnendur að koma þeirri staðreynd til stjórnvalda.  Nái þau skilaboð ekki í gegn, ætti stjórn Landspítalans að íhuga að segja sig frá verkinu til að undirstrika mikla alvöru málsins."

Þegar svona er komið, þ.e. starfsfólkinu finnst stjórnendur spítalans vera búnir að gefast upp gagnvart viðfangsefnunum, þá er komið að leiðarenda þess ríkisbákns, sem hér er um að ræða.  Það verður að stokka spilin upp í samráði við starfsmenn, fá einkaframtak heilbrigðisstarfsfólks til að létta undir og sníða Landsspítalanum stakk eftir vexti. 

 Núverandi heilbrigðisráðuneyti mun aldrei grípa til þeirra róttæku úrræða, sem nú er þörf á, enda skilar það auðu í yfirlýsingu vegna ofangreinds neyðarkalls læknanna. Þar skilur fólk ekki rót vandans, enda hefur það skapað hann með forstokkaðri ríkisrekstrarafstöðu sinni og beinni fjandsemi við einkaframtak á þessu sviði.  Morgunblaðið tíundar eftirfarandi viðbrögð ráðuneytisins, sem greinilega kemur af fjöllum:

"Skilaboð lækna um erfið starfsskilyrði eru grafalvarleg, sé litið til aðstöðu starfsfólks og þess, að núverandi ástand veldur stöðnun og jafnvel afturför.  Þetta segir í yfirlýsingu heilbrigðisráðuneytisins um yfirlýsingu og undirskriftir læknanna.  Sjónarmið læknanna eru sögð tekin alvarlega, þótt þau séu ekki algild lýsing á heilbrigðiskerfinu."

Heilbrigðisráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur fær falleinkunn.  Lifi Landsspítalinn !

 

 


Frá fjölbreytni og skilvirkni til einokunar

Það stendur ekki í stjórnarsáttmálanum að hefja skuli atlögu að því að draga nú hlutfallslega úr þjónustu sérfræðilækna á einkareknum læknastofum og færa þjónustu þeirra ýmist til útlanda eða til ríkisins, enda er engin heilbrigð skynsemi á bak við slíka stefnumörkun; ekki umhyggja fyrir sjúklingum eða skattgreiðendum, heldur einvörðungu forstokkuð og steinrunnin pólitísk hugmyndafræði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og vinstri sósíalista í öðrum löndum, sem alls staðar hefur gefizt illa.

Hvers vegna fer þá ríkisstjórnin fram með þessum hætti í stærsta málaflokki ríkisins ?  Það er vegna þess, að heilbrigðisráðherrann er vinstri grænn og gerir það, sem henni sýnist, enda er  forsætisráðherrann af sama sauðahúsi. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að gefa skýrt til kynna í komandi kosningabaráttu, að hann vilji berjast fyrir eflingu á starfsemi sjálfstæðra lækna innan heilbrigðiskerfisins, þ.e. að auka hlutfallslega hlutdeild þess þáttar heilbrigðiskerfisins í stað þess að eyða honum, eins og Svandís mundar sig til undir merkjum hamars og sigðar.  Til þess liggja 3 meginástæður:

(1) Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja sjúklingum og starfsfólki í heilbrigðiskerfinu valfrelsi og skapa þannig umgjörð um beztu fáanlegu þjónustu, sem sjúklingum stendur yfirleitt til boða. Þetta er í samræmi við grunnstefnu flokksins.

(2) Efling einkarekstrar felur í sér sparnað fyrir ríkissjóð, því að skilvirkni viðtala og aðgerða er meiri í einkageiranum en hjá hinu opinbera, þ.e. einingarkostnaðurinn er lægri, þótt hagnaður sé af starfseminni, enda fer hann mestmegnis til fjárfestinga í dýrum lækningatækjum. Hvort er betra að veita þjóðhagslega hagkvæma þjónustu með jákvæðri framlegð eða að senda sjúklinga á kvalafulla biðlista ?

(3) Til að tryggja nauðsynlega endurnýjun í læknastéttinni er öflug læknastofustarfsemi nauðsynleg.  Hár meðalaldur þar, um 60 ár, veldur endurnýjunarþörf um 25-30 lækna á ári.  Það verður miklu erfiðara að fá fullnuma sérfræðinga heim, ef þessi hluti heilbrigðiskerfisins verður látinn grotna niður. Afleiðingar dauðrar handar róttæks sósíalisma eru alræmdar.  

Stefán E. Matthíasson, læknir, skrifaði grein í Morgunblaðið 12. apríl 2021, sem hann nefndi:

"Í miðjum heimsfaraldri ...".

Með fyrirsögninni vísar hann til þeirrar ömurlegu staðreyndar, að heilbrigðisráðherra landsins skuli hafa valið tíma heimsfaraldurs til að kasta stríðshanzka kommúnismans að sjálfstætt starfandi læknum.  Skemmdarverk þessa VG-ráðherra á heilbrigðiskerfinu verður að stöðva.  Ráðherrann fer sínu fram í skjóli forsætisráðherra, og aðrir ráðherrar geta ekki stöðvað framferðið, því að atkvæði eru yfirleitt ekki greidd í ríkisstjórn (einskipað stjórnvald).

"Þjónustan hefur byggzt á þrem meginstoðum um langan aldur.  Heilsugæzla, sjúkrahús og sérfræðilæknisþjónusta, sem rekin er af læknum og fyrirtækjum þeirra.  Skipulag, sem nágrannar okkar hafa öfundað okkur af.  Um þetta hefur verið víðtæk sátt.  Undanfarna 2 áratugi hefur sjúkrahúsþjónustan færzt á eina hendi.  Hér voru á höfuðborgarsvæðinu 4 spítalar; í Hafnarfirði, Landakot, Borgarspítali og Landsspítali.  Nú er einn spítali og merki fákeppni á þessum markaði æ ljósari.

Núverandi ríkisstjórn hefur aukið framlög til heilbrigðismála umtalsvert, en undir forystu sitjandi heilbrigðisráðherra hefur þess verið gætt, að þessir fjármunir renni að meginhluta til þjónustu, sem rekin er af opinberum aðilum.  Fyrir nokkrum árum voru heildarframlög til sérfræðilæknisþjónustu um 6-7 % af heilbrigðisútgjöldum, en árið 2019 aðeins 4,7 %, og margt bendir til, að sama tala fyrir 2020 sé 4 %.  Komur til sérfræðilækna eru á pari við komur á  Landsspítala og heilsugæzluna [til samans - innsk. BJo], en að auki eru þar allt að 20 þúsund skurðaðgerðir, þúsundir speglana, myndgreiningarannsókna, blóðrannsókna auk ýmissa annarra."   [Undirstr. BJo.]

Það er auðséð, að ráðherrann beinir viðbótarfénu úr ríkissjóði að langmestu leyti framhjá einkageiranum á sínum hugmyndafræðilegu forsendum, en ekki faglegum.  Með því grefur hún undan stöðu sjúklinga, lækna, heilbrigðiskerfisins og ríkissjóðs, því að auðvitað á ekki að svelta þann bezta, þ.e. þann skilvirkasta, þann, sem fer bezt með fé skattborgaranna.  Þvert á móti mætti gjarna auka hlutdeild einkageirans í 10 %.  Vinnubrögð þessa ráðherra eru óþolandi á öllum sviðum. 

"En svo er það rúsínan í pylsuendanum.  Með tilkynningu ráðherrans fylgir, að hún hafi sent SÍ bréf, þar sem hún feli stofnuninni [Sjúkratryggingum-innsk. BJo] að meta á einhvern ónefndan hátt, hvaða verk sérfræðilækna verði tilvísanaskyld til framtíðar, en að auki að grisja gjaldskrá þeirra og fella brott verk, sem betur væru sett innan "opinberra stofnana"." 

Þetta er ekki einvörðungu aðför að sjálfstæðum sérfræðilæknum, heldur að heilbrigðiskerfinu í heild, því að það sem fært verður til hins opinbera mun týnast þar í hítinni og sjúklingar, sem áður nutu lipurrar og snöggrar þjónustu á læknastofum, munu eftirleiðis lenda á biðlistum hins opinbera, eða því, sem nýjast er til að stytta biðlista, á biðlista eftir að komast á biðlista.  Þetta byltingarkennda framferði heilbrigðisráðherrans er geggjun af verstu sort. 

Þann 15. apríl 2021 birtist viðtal við Dagnýju Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Orkuhússins í Urðarhvarfi undir fyrirsögninni:

"Bitnar á þeim sem sízt skyldi".

Heilbrigðisráðherrann sólundar dýrmætum tíma fólks í helbera vitleysu og breytir heilbrigðiskerfinu að vissu marki í leikhús fáránleikans, þar sem hin kommúnístíska hugmyndafræði hennar svífur yfir vötnunum:

""Það er verið að stilla okkur upp við vegg", segir Dagný, sem lýsir Orkuhúsinu sem rótgrónu fyrirtæki; það hefur verið rekið í 23 ár og hefur um 50 starfsmenn í vinnu.

"Hér er framkvæmdur stærstur hluti allra bæklunaraðgerða á landinu.  Við fáum 20 þúsund heimsóknir ár hvert og gerum 5 þúsund aðgerðir.  Þessi starfsemi er háð því, að samið sé við lækna, og það er ótækt, að menn geti ekki einfaldlega setzt niður og náð samningum.  Mér finnst undarlegt, að stoppa eigi allt kerfið, sem gengið hefur eins og smurð vél í ár og áratugi", segir hún. 

Framkvæmdastjórinn bætir því við, að allt verði gert, til að sjúklingar fái þá þjónustu, sem þeir þurfi á að halda.  Ekki sé mikil sanngirni í því, að ráðherra ætli að stöðva greiðslur til lækna, þótt læknastöðin rukki gjöld til að mæta launahækkunum og gengisbreytingum síðustu ára.

"Þetta bitnar á þeim, sem sízt skyldi.  Sjúklingar hafa vissulega sinn tryggingarétt, en að ætla að gera þeim erfitt fyrir að sækja hann með þessum hætti, sem boðað hefur verið, er mjög skrýtið.""

Þetta viðtal varpar ljósi á dæmalausan heilbrigðisráðherra, sem orðinn er alræmdur fyrir flumbrugang og vanhugsaðar aðgerðir.  Hversu lengi ætlar Alþingi að umbera þennan óhæfa ráðherra ?  Hún er að störfum í umboði þingsins, en rekur stefnu, sem hvorki er getið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá myndun hennar né nýtur bakhjarls frá þingsályktun.  Ráðherrann er umboðslaus, þegar hún rífur niður heilbrigðiskerfið. Forsætisráðherra hefur þó blessað yfir gjörninginn, sem sýnir ólýðræðislegt eðli VG í hnotskurn.  

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, rifjaði upp mistakaferil heilbrigðisráðherrans á þessu kjörtímabili, þótt aðeins væri þar stiklað á stóru í pistli á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 9. apríl 2021:

"Mistökin eru hennar":

(a) Flutningur liðskiptiaðgerða til útlanda með ærnum tilkostnaði (þreföldun innanlandskostnaðar) og pínu kvalinna sjúklinga í stað þess að leyfa þessar aðgerðir innanlands.  Þetta er stríðsyfirlýsing gagnvart sjúklingum, innlendum læknamiðstöðvum og heilbrigðri skynsemi.

(b) Sýnataka og greining á krabbameini í leghálsi kvenna var færð frá einkaaðila til ríkisins, sem varð að senda sýnin til Danmerkur með aukinni óvissu og töfum fyrir skjólstæðingana.  

(c) Hraksmánarleg stjórnun bóluefnaútvegunar við C-19, þar sem allt traust var sett á búrókrata í Brüssel, sem voru algerir viðvaningar á þessu sviði og reyndust ekkert kunna til verka í samanburði við innkaupafólk brezku ríkisstjórnarinnar, þeirrar ísraelsku o.fl.  Hvers vegna í ósköpunum var ekki reynt að standa í lappirnar og semja upp á eigin spýtur ? 

Eftir að hafa fjallað um þetta, skrifaði Bergþór:

"En heilbrigðisráðherra lét ekki þar staðar numið, heldur bætti um betur nú á dögunum og ákvað, að hneppa skyldi íslenzka ríkisborgara í ólögmætt varðhald við komuna til landsins; fólk, sem aðeins hafði unnið sér það til saka að koma heim til sín erlendis frá.  Allt í nafni sóttvarna - þar sem stjórnarskrárvarin mannréttindi mega sín lítils."

Annan eins heilbrigðisráðherra höfum við aldrei haft og munum vonandi aldrei þurfa að horfa upp á slíka hörmung.  Þetta er lágpunktur í embættisfærslu, hvað sem öfugsnúinni einkunnagjöf viðhlæjandans, forsætisráðherrans, líður.  

Að lokum reit Bergþór:

"Sem betur fer birtir þó sífellt til hér innanlands, þegar litið er á tölur um smit, spítalainnlagnir og annað vegna heimsfaraldurs Covid-19. Hálfum mánuði eftir að skellt var aftur í lás, þegar aðeins 3 smit greindust utan sóttkvíar, er enginn á spítala.  Ekki einn. Hamfaraspá margra hefur því ekki rætzt. 

Það þarf hver og einn að bera ábyrgð á sjálfum sér.  Persónulegar sóttvarnir og varúð er það, sem hefur mesta þýðingu í viðbrögðum við heimsfaraldrinum og áframhaldandi bólusetning, sem ver viðkvæmustu hópana og raunar okkur öll.  Stjórnvöld þurfa að gæta að meðalhófi í aðgerðum sínum, og lágmarkskrafan er þó og verður alltaf, að aðgerðirnar þurfa að standast lög.  Stjórnarskrárvarin mannréttindi eru ekki bara upp á punt."

Allt er þetta satt og rétt, en órafjarri hugarheimi heilbrigðisráðherrans.  Spilar sóttvarnarlæknir á veikleika hennar ?

 

 


Á valdi óttans

Heilbrigðisstjórnvöldin í landinu, sem átt hafa sviðið í á annað ár, hafa orðið uppvís að undirmálsvinnubrögðum, sem verður að kenna við fúsk.  Á því ber heilbrigðisráðherrann höfuðábyrgð og má furðu gegna, að hún skuli ekki hafa verið látin sæta pólitískri ábyrgð á mistökum ráðuneytisins.  Það vitnar ekki um, að þingmenn taki eftirlitshlutverk sitt með framkvæmdavaldinu ýkja alvarlega, að þingið skuli ekki taka pólitíska stöðu hennar til ítarlegrar umfjöllunar, eftir að hún gerðist brotleg við lög.  Það er ekki í fyrsta skipti, sem það gerist í hennar ráðherradómi (áður sem umhverfisráðherra). Það þarf að koma henni í skilning um, að réttarríkið er reist á því, að ríkið og aðrir hafi ekki lögin bara til hliðsjónar, þegar hentar, heldur fari eftir þeim, alltaf. Þó er eftirtektarvert, að nýjasta frumvarp heilbrigðisráðherrans varð mjög umdeilt í þinginu og afgreitt í bullandi ágreiningi undir morgun á Sumardeginum fyrsta.

Svandís Svavarsdóttir virðist vera hræðilegur gösslari í embættisfærslu sinni, sem ekki gefur neinn gaum að þeirri löggjöf, sem henni ber að starfa eftir. Katrín Jakobsdóttir og flokkssystkini hennar þvinguðu fyrr á þessu kjörtímabili dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins til að segja af sér fyrir litlar sem engar sakir eða hreinan tittlingaskít í samanburði við brot heilbrigðisráðherra.  Katrínu setur hrottalega niður sem forsætisráðherra sökum þessarar grófu mismununar þessara tveggja ráðherra.  Flokkstrýnið skal ráða för hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Þar fara spilltir kerfissnatar.

Heilbrigðisyfirvöldin í landinu hafa farið offari gegn veirufaraldrinum SARS-CoV-2 m.v. aðstæður og notað hvert tilefni til að mála skrattann á vegginn.  Í fyrstu mátti fyrirgefa þetta í ljósi þess, að ný staða væri uppi í landinu og að nauðsynlegt væri að ná athygli almennings til að innræta honum persónubundnar sóttvarnaraðgerðir.  Það hefur hins vegar bara verið hert á hræðsluáróðrinum um leið og opinberar sóttvarnaraðgerðir á landamærunum og innanlands hafa verið hertar, þótt tilefni þess verði sífellt minni.  Meintur ótti sóttvarnarlæknis og landlæknis við 4. bylgjuna, sem enn er ókomin, og rándýrar aðgerðir gegn henni, tóku út yfir allan þjófabálk.  Þessu verður að fara að linna og meira jafnvægi verður að komast á aðgerðir, enda eru mikil áhöld um gagnsemi þeirra, en neikvæðar afleiðingar skelfilegar. 

Í nýlegri frétt frá Bretlandi var sagt frá því, að fjórðungur dauðsfalla, sem skráður er vegna C-19 sjúkdómsins, hafi verið af öðrum ástæðum, þótt hinir látnu hafi verið sýktir af C-19.  Þannig hefur vafasöm og skrýtin tölfræði verið purkunarlaust brúkuð af fréttamönnum og öðrum óttamöngurum.

Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, var birt í Morgunblaðinu 12. apríl 2021 umhugsunarverð áminning og árétting í þessu sambandi, þar sem hann snertir við ýmsu, sem flogið hefur um hugi margra í gjörningaviðri Kófsins á Íslandi.  Fyrirsögnin var:

"Að virkja óttann".

Greinin hófst þannig:

"Á öllum tímum hefur það verið öflugt vopn í heimi mannanna að nýta ótta við utanaðkomandi hættu til að ná pólitískum yfirráðum yfir hinum óttaslegnu."

Þetta er staðreynd, og hana hafa sóttvarnaryfirvöld víða um heim, m.a. hérlendis, nýtt sér í hag til að koma í veg fyrir uppreisn af völdum grófra skerðinga á mikilvægum réttindum fólks og venjum.  Samt styðja engar vísindalegar rannsóknir þessar aðfarir ríkisvaldsins gegn borgurunum.  Einræðisstjórnin í Beijing reið á vaðið og sviðsetti fréttir af skilvirkni þessara hörðu opinberu sóttvarnaraðgerða.  Fréttamenn á Vesturlöndum átu þetta upp og spurðu rugluð yfirvöld Vesturlanda í ríminu, hvað þau ætluðu að gera til að fækka dauðsföllum vegna veirunnar. Þau treystu sér ekki til að segja: nei, út í svona frelsisskerðingar förum við ekki á Vesturlöndum, og því fór sem fór. 

Hagkerfin eru í rúst, fjöldaatvinnuleysi, mörg gjaldþrot, persónulegir harmleikir mun fleiri en áður og hratt hrakandi lýðheilsa.  Á Íslandi er verðbólgan komin af stað; er nú s.k. kjarnaverðbólga reiknuð 5,2 % á ári, aðallega af því að launþegasamtökin neituðu að fresta launahækkunum í Kófinu, sem engin innistæða var fyrir.  Það var varað við því, að fyrirtækin hefðu ekki meira bolmagn, en heimtufrekja, þröngsýni og pólitískt ofstæki tröllreið húsum verkalýðshreyfingarinnar. Hækkanirnar fóru út í verðlagið, sem þó átti að forðast.  Verðbólgan er reyndar líka komin af stað í Bandaríkjunum, þó aðeins helmingur af hérlendri, og þar er hagkerfið nú að taka vel við sér, enda yfir 40 % íbúanna bólusettir.  Evrópusambandið er Lazarus í þessu sambandi.

"Íslenzka dæmið, sem nú skellur á okkur, er auðvitað ekki jafnalvarlegt og þetta þýzka dæmi [andlegt ástand í Þriðja ríkinu - innsk. BJo]. En það er af sömu tegund.  Við Íslendingar erum nefnilega að upplifa það, að stjórnvöld leitast við að nýta ótta þjóðarinnar við veiruna miklu til að fá hana til fylgilegs við ofbeldisfulla stýringu á háttsemi manna í því skyni að ná tökum á veirunni."

 

 "Til liðs við þau kemur svo orðhákur úr röðum vísindamanna, sem kann að gera út á hræðslu almennnings við hina skaðvænlegu veiru.  Þetta fremferði mannsins er líka til þess fallið að auka honum persónulegar vinsældir, eins og kemur fram í blaðagreinum og neðanmálsgreinum á netinu. 

Hann hallmælir dómstólum fyrir að virða meginreglur laga og uppnefnir þá, sem fallast ekki á ruglið í honum.  Sigríður Andersen, alþingismaður, hitti naglann á höfuðið, þegar hún lýsti þversögninni, sem felst í því, að moldríkur orðhákurinn, sem kominn er á elliár og vill reisa múrvegg á landamærum landsins, líkti öðrum mönnum við Trump úr vesturheimi fremur en sjálfum sér."

 Það, sem hér og víðar hefur gerzt í þessu Kófi, er alvarleg aðvörun til borgaralega þenkjandi fólks um, hversu auðvelt er með tilfinningaþrungnum áróðri, sem oft er reistur á hæpnum forsendum og jafnvel falsrökum, að ganga freklega á hlut atvinnufrelsis og einstaklingsfrelsis í þágu einhvers málsstaðar með því að vekja ótta.  Vesturlönd sóttu fyrirmyndina til einræðisstjórnarinnar í Kína, sem ruddi braut stórfelldra frelsisskerðinga á Vesturlöndum með því að básúna frábæran sóttvarnarárangur sinn með því að loka fólk inni á heimilum sínum með valdi, eins konar herskálalokun.

Það hafa hins vegar ekki verið birtar neinar traustvekjandi niðurstöður vísindarannsókna um gagnsemi alls konar hafta á mannlega hegðun fyrir sóttvarnir. Vísbendingar frá samanburði ríkja með ólíkar hömlur benda ekki til neins sóttvarnarárangurs, en mikilla neikvæðra efnahagsáhrifa og þungbærs atvinnuleysis, þar sem miklum hömlum er beitt.  Einn slíkur samanburður er t.d. á milli Norður- og Suður-Dakóta í Bandaríkjunum, en SD beitti afar litlum hömlum og hagkerfið þar dróst ekki saman og er að taka vel við sér núna.

Nýlega var fulltrúi heilbrigðisráðherra Þýzkalands spurður um það, hvort lokunarráðstafanir þýzkra stjórnvalda styddust við vísindalegar rannsóknir.  Honum vafðist tunga um tönn og gat engu svarað.  Hér er pottur brotinn og allt of mikið af illa ígrunduðum forræðishyggjutilburðum, sem eru mjög íþyngjandi fyrir ungviði og alla aðra og hafa komið niður á lýðheilsu og efnahag. 

Á Íslandi er stjórnkerfi sóttvarnarmála veikt, þar sem einn maður mótar tillögugerð til ráðherra.  Hann gefur ekki gaum að lagaheimildum tillagna sinna, og hann virðist láta sig litlu varða fjárhagslegar afleiðingar þeirra og lýðheilsulega skaðsemi.  Þá virðist hann kikna í hnjánum, þegar "Vatnsmýrar-Trump" kveður sér hljóðs opinberlega með fjaðraþyt og stórkarlalegum spádómum og yfirlýsingum um aðsteðjandi hættu að utan, svo að loka verði bæði landamærunum og allri starfsemi innanlands, sem fólk sækir í, helzt fyrir helgi.  Þessi óvandaða stjórnsýsla tók á sig ljóta mynd 1. apríl 2021 með reglugerð, sem Héraðsdómur dæmdi ólöglega.  Það virðist alveg vera sama, hvar borið er niður í embættisverkum heilbrigðisráðherra.  Henni eru mjög mislagðar hendur, og umgengni hennar við heilbrigðiskerfið má líkja við fíl í postulínsbúð. 

Andrés Magnússon skrifaði fréttaskýringu um þetta í Morgunblaðið 12. apríl 2021:

"Stjórnsýsla í molum í heilbrigðisráðuneyti".

Hún hófst þannig: 

"Vandræðin vegna reglugerðar Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um skyldudvöl í sóttkvíarhóteli, sem héraðsdómur úrskurðaði ólögmæta, hafa vakið mikla athygli, jafnvel deilur.  Þar hefur verið deilt um sjálfa aðgerðina, að allir ferðamenn frá tilteknum svæðum - þar á meðal fólk, sem hvorki er smitað né grunað um að vera smitað - séu settir í sóttkví í varúðarskyni, þótt þeir hafi í önnur, betri og eigin hús að venda.  Hins vegar hafa menn svo staldrað við aðferðina, hvernig það gat gerzt, að heilbrigðisráðherra hafi sett reglugerð, sem augljóslega átti sér ekki lagastoð. 

Á hinu fyrrnefnda getur fólk haft ýmsar skoðanir, en það er hið síðarnefnda, hvernig heilbrigðisráðuneytið rataði í þessi ótrúlegu vandræði, sem sennilega er verra og vandasamara mál." 

Það er aðeins hægt að draga þær ályktanir af þessu, að hvorki sóttvarnarlög, mannréttindi né Stjórnarskrá megi standa í veginun við setningu íþyngjandi reglugerða á sviði sóttvarna, því að ráðherra og embættismenn geri það til að vernda líf og heilsu almennings.  Þessi röksemdafærsla þeirra er stórhættuleg lýðræðislegum stjórnarháttum í landinu og virðingu valdhafa fyrir einstaklingsbundnum réttindum, sem sjálft réttarríkið hvílir á.  Málið er þess vegna grundvallarmál.  Heilbrigðisráðherra ætti að hafa vit á því að fara með skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga fyrir Alþingi, en til þess brast hana andlegu spektina, virðingu fyrir lýðræðinu og  ráðgjafa með sjálfstæða hugsun.  Þess vegna er stjórnsýsla heilbrigðisráðuneytisins í molum.  Ef hún verður ekki látin sæta ábyrgð fyrir þetta, þá hljóta kjósendur að grípa til sinna ráða við fyrsta tækifæri, ef/þegar þeir sjá út úr Kófinu. 

"Þó vekur mesta athygli í þessum gögnum úr heilbrigðisráðuneytinu [sem þurfti að toga út með töngum - innsk. BJo], að þar er ekkert vikið að lagastoð reglugerðarinnar eða álitaefni um lögmæti hennar, heldur aðallega fjallað um framkvæmdina á reglugerðinni og ýmsan vanda henni samhliða. 

Það má heita með ólíkindum, að við reglugerðarsetningu láti ráðherra og starfsmenn hans í ráðuneytinu undir höfuð leggjast að ganga úr skugga um slíkt grundvallaratriði.  Það á að vera vinnuregla við alla reglugerðarsetningu og enn ríkari ástæða til en ella, þegar um svo stórtæka og kostnaðarsama íhlutun er að ræða, sem í ofanálag vegur að frelsi borgaranna.

Það eitt bendir til þess, að stjórnsýslan í heilbrigðisráðuneytinu sé í molum.  Setning reglugerða er eitt helzta stjórntæki ráðuneyta, og ef þær eru ekki aðeins ekki samkvæmt lögum, heldur kemur í ljós, að ráðherra sýndi ekki minnstu viðleitni til þess að tryggja, að reglugerð hefði við lög að styðjast, þá er eitthvað hræðilegt að."

Þessi lýsing á vinnubrögðum heilbrigðisráðherra ásamt þeirri staðreynd, að viðkomandi ráðherra situr enn í embætti, getur aðeins átt við um ástand, sem kennt er við bananalýðveldi.  Í vestrænum lýðræðisþjóðfélögum hefðu háværar viðvörunarbjöllur klyngt, þangað til þessi ráðherra hefði verið látinn taka pokann sinn, enda ljóslega óhæfur til að gegna embætti í réttarríki. 

Einræðissinnaðir stjórnmálamenn mega ekki komast upp með að breyta landinu í "sóttvarnarríki", þar sem allt er leyfilegt í nafni sóttvarna.  Sízt af öllu má þetta viðgangast, þegar "drepsóttin" er af völdum kórónuveiru, eins og aðrar flensuveirur, sem við verðum að læra að lifa með, enda er hún lítið hættulegri en skæðar flensuveirur og leggst jafnvel vægar en þær á ungviðið. 

"Það vekur spurningar um vandvirkni, árvekni og kostgæfni æðstu embættismanna ráðuneytisins, en þó auðvitað sérstaklega æðsta embættismann þess, Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra.  Í því samhengi er rétt að minnast þess, að annar ráðherra í þessari ríkisstjórn steig til hliðar af mun minna tilefni.  Það er því erfitt að trúa því, að staða heilbrigðisráðherra hafi ekki komið til tals hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar, hvað sem líður öllum traustsyfirlýsingum."

Þetta leiðir hugann að grófri mismunun forsætisráðherra núverandi ríkisstjórnar, sem hamaðist gegn dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, fyrir litlar sem engar sakir.  Þar var bakari hengdur fyrir smið, því að tilnefningar dómsmálaráðherra á dómaraefnum í Landsrétt voru í samræmi við lög og vegna afstöðu Alþingis um kynjajafnvægi, og bæði þingið og Hæstiréttur lögðu síðan blessun sína yfir valið.  Kæra til Mannréttindadómstólsins og úrskurðir hans um vanhæfi skipaðra dómara áttu ekki að hafa úrslitaáhrif hér, enda hefur hann ekki lögsögu á Íslandi, þótt stjórnsýslan og löggjafinn hafi hann jafnan til hliðsjónar. 

Í lok fréttaskýringarinnar stóð þetta:

"Vona verður, að þetta séu ekki viðtekin vinnubrögð í heilbrigðisráðuneytinu, en við blasir, að þetta furðulega mál hlýtur að verða til þess, að þau séu rannsökuð til hlítar og þetta mál sérstaklega.  Um það getur heilbrigðisráðherra sjálfur hvorki haft forystu né umsjón."

Hér er kallað eftir stjórnsýsluúttekt, sem er eðlilegt, eftir að stóru og fjölmennu ráðuneyti hefur orðið jafnrækilega á í messunni og hér um ræðir.  Þátt og aðkomu ráðuneytisstjórans, aðstoðarmanns ráðherra og lögfræðinga ráðuneytisins að samningu umræddrar reglugerðar og annarra þarf að kanna sérstaklega.  Losarabragurinn virðist yfirþyrmandi og ráðherra án stjórnunarhæfileika magnar vandann.  

 

 

 

 

 

 


Landamærin

Styrr hefur staðið um, hvernig haga beri móttöku farþega með flugi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á varaflugvöllunum eða í höfn á Seyðisfirði, þar sem færeyska ferjan Norræna leggur að. Þar sem dæmi eru um það, að farþegar virði reglur um sóttkví að vettugi, hefur sóttvarnarlæknir lagt til og ríkisstjórnin samþykkt, að f.o.m. 1. apríl 2021 fari allir í sóttkví ríkisins undir eftirliti, sem koma frá s.k. rauðum svæðum í ESB og hvorki hafa verið fullbólusettir né veikzt og náð sér af C-19.  Rauð svæði eru með nýgengi sjúkdómsins, NG>50.  Á íslenzkan mælikvarða er þetta nýgengi hátt, og í ljósi þess, að PCR-prófið er ónákvæmt, reyndar í báðar áttir (26 % sýnagjafa reynast neikvæðir í fyrri skimun, en jákvæðir í seinni), þá er ekki óeðlilegt, að sóttvarnaryfirvöld vilji draga úr líkum á "sóttkvíarleka" veirunnar.  Þá má reyndar spyrja sig, hvort ekki sé eðlilegra við íslenzkar aðstæður að miða við nýgengið 25, en undir því flokkast lönd sem "græn". Hins vegar ber yfirvöldum að leita vægustu úrræða til að ná fram ætlun sinni, sem í þessu tilviki virðist vera veirulaust Ísland.  Þetta stefnumið er óraunhæft.  Við verðum þvert á móti að læra að lifa með veirunni, SARS-CoV-2, eins og öðrum veirum af kórónuættinni, sem valda inflúensu og lungnabólgu. Móðursýkinni verður að linna. 

Vægara úrræði er t.d. ökklaband.  Sóttkví ríkisins felur í sér frelsissviptingu, sem er þungbær, einkum fyrir íbúa hérlendis.  Með henni eru allir undir sömu sök seldir vegna líklega örfárra, sem brugðizt hafa trausti yfirvalda og hundsað sóttkvíarskilyrðin. Er það réttmætt og réttlætanlegt í ljósi núverandi aðstæðna í þjóðfélaginu og stöðu faraldursins á Íslandi, þar sem aðeins 1 liggur á sjúkrahúsi vegna C-19 og alls enginn veldisvöxtur er á útbreiðslunni í samfélaginu ?  Frá sjónarhóli leikmanns í lögum fór heilbrigðisráðherra offari, þegar hún setti reglugerð um sóttkví ríkisins fyrir alla frá svæðum með hátt nýgengi C-19, hún virðist ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni um vægari úrræði, og nýju sóttvarnarlögin heimila hreinlega ekki þessa frelsisskerðingu. Á annan páskadag, 05.04.2021, kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli nokkurra komufarþega í sóttkví ríkisins, sem vissulega áttu í önnur hús að venda til að fullnusta sóttkvíarskyldum sínum.  Dómurinn var eðlilegur og skiljanlegur á grundvelli gildandi sóttvarnarlaga.  Nú hefur sóttvarnarlæknir hvatt ráðherra til að leggja fyrir Alþingi frumvarp, sem heimili nauðungarvistun vissra komufarþega í sóttkví ríkisins, óháð aðstæðum þeirra varðandi sóttkvíarúrræði hérlendis.  Jafnframt hefur sóttvarnarlæknir áfrýjað dóminum til Landsréttar.  Í báðum tilvikum fer sóttvarnarlæknir offari og fer með óafsakanlegan hræðslu- og falsáróður, þar sem hann lætur að því liggja, að dómurinn muni setja sóttvarnir hérlendis í uppnám og tefja fyrir afléttingu sóttvarnarráðstafana innanlands. Hann verður þá að láta af störfum, ef hann getur ekki starfað eftir lögum landsins. Þessi málflutningur er fullkomlega óboðlegur, og fyrir neðan virðingu læknisins. Frelsisskerðingarúrræðið, sem dæmt var ólöglegt, er óalandi og óferjandi mannréttindabrot hérlendis og stríðir gegn varðstöðu um einstaklingsfrelsi gegn valdníðslu, sem er undirstaða lýðræðislegra stjórnarhátta, hvorki meira né minna.    

Þeir, sem ekki sæta sóttkví undir eftirliti, fara á sóttkvíarstað í 5 sólarhringa að eigin vali, nema þeir geti framvísað gildu bólusetningar- eða ónæmisvottorði.  Þá fara þeir í eina skimun og smitgát. Allt er þetta gríðarlega viðamikið, kostnaðarsamt og sennilega einsdæmi í heiminum. Sennilega er sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir hér að skjóta spörfugl með kanónu og ekki í fyrsta sinn.  Kerfið virkar hamlandi á fjölda ferðamanna hingað og veldur þannig miklu tekjutapi og kostnaði.  Spurning er, hvort yfirvöld hafa nægileg gögn í höndunum til að sýna fram á réttmæti sóttkvíarhótela undir eftirliti. Svo reyndist alls ekki vera við málaferlin í Héraðsdómi. 

Um lögmæti þessara aðgerða hafa birzt opinberlega efasemdir, einkum gagnvart fólki, sem heimilisfast er á Íslandi.  Formaður lögmannafélagsins taldi víst, að fljótlega yrði látið reyna á þetta fyrir dómstólum, og það raungerðist 2. apríl 2021 með framlagningu a.m.k. tveggja kæra á hendur sóttvarnaryfirvöldum.  Veronika Steinunn Magnúsdóttir skrifaði frétt um þetta laugardaginn 3. apríl 2021 í Morgunblaðið:

  "Skorið úr um lögmæti dvalar".

"Ómar [R. Valdimarsson, lögmaður] sagði í samtali við mbl.is í gær heldur hæpið, að reglugerð ráðherrans ætti sér lagastoð:

"Ég á erfitt með að sjá, að það sé lagaheimild fyrir setningu [reglugerðarinnar].  Að setja svona mikið inngrip í líf fólks í reglugerð finnst mér heldur hæpið", sagði hann.  "Ef dómari kemst að því í þessu máli, að þetta sé ólögmæt frelsissvipting, þá er þessi reglugerð bara úr sögunni."

Sigríður Á. Andersen, lögfræðingur og Alþingismaður, sat í þeirri þingnefnd, sem fjallaði um frumvarp til nýrra sóttvarnarlaga, sem Alþingi setti í vetur, veit gjörla, hver fyrirætlunin var með þeirri lagasetningu.  M.v. túlkun hennar eru sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra algerlega úti á túni eða öllu heldur í kargaþýfi með þessa umdeildu reglugerð sína.  Hún er þess vegna í einu orði sagt valdníðsla:

""Umræða í nefndinni um sóttvarnahús hafi verið á einn veg - tryggja ætti borgurunum samastað, ef á þá yrði lögð skylda til einangrunar, en ekki að skylda þá í sóttvarnahús", segir Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sat í velferðarnefnd, þegar núgildandi sóttvarnalög voru tekin til umfjöllunar."

""Sóttvarnahús voru ekki tekin fyrir sérstaklega í frumvarpi heilbrigðisráðherra til breytinga á sóttvarnalögum að öðru leyti en því, að til þeirra var vísað í þeim tilvikum, er smitaðir menn eru ekki samvinnuþýðir um eigin sóttkví", segir hún.  Þá hafi frumvarpið kveðið á um, að heimilt væri að vista þá í sóttvarnarhúsi."

Af þessu má ráða, að sóttvarnarlækni með minnisblaði sínu og heilbrigðisráðherra með reglugerð sinni hafi orðið á fingurbrjótur, eða með talshætti Norðmanna hafi þau traðkað í salatinu.  Útgáfa reglugerðar um frelsissviptingu fjölda manns án lagastoðar er grafalvarlegt mál og afsagnarsök fyrir ráðherra.  Kemst Svandís Svavarsdóttir upp með hvað sem er í sinni embættisfærslu, án þess að Alþingi grípi til sinna ráða ?  Enginn býst við neinu af fundarstjóranum Katrínu Jakobsdóttur, viðhlæjanda.  

Það er einnig rætt um litakóðanotkun f.o.m. 01.05.2021, en hún er annars eðlis.  Þá er rætt um að aflétta sóttkvínni fyrir óbólusett fólk frá grænum svæðum með því að láta eina skimun duga við komuna hingað og smitgát fram að niðurstöðu sýnatöku.  Það virðist eðlilegt fyrsta skref til afléttingar hafta við komuna frá útlöndum.   

Þann 20. marz 2021 skrifaði ritstjóri Fréttablaðsins, Jón Þórisson, um sóttvarnareftirlit á landamærunum undir fyrirsögninni:

"Þrætuepli".

Forystugreinin hófst þannig:

"Eitt markverðasta skrefið í heimferðinni til þess lífs, sem við þekktum, eru áform stjórnvalda um að opna ytri landamæri og láta för ferðamanna hingað stjórnast af litakóðunarkerfi Evrópusambandsins og jafnframt, að gilt bólusetningarvottorð eða staðfesting á mótefni tryggi aðgang að landinu, án þess að fara þurfi í sýnatöku og sóttkví. 

Þetta hefur verið ýmsum tilefni til gagnrýni og upphrópana.  Fölsuð vottorð gangi kaupum og sölum á netinu, greið leið fyrir ýmis afbrigði veirunnar hingað verði til o.s.frv..  Þetta er eftir öðru, sem tengt er þessum faraldri.  Allt er dregið í efa og véfengt og farvegir fundnir fyrir þrætur. 

Þrætur eru eins konar þjóðaríþrótt okkar.  Við finnum flöt á alls kyns þrætum um allt og ekki neitt.  Og þannig hefur það verið lengi. 

Um þetta atriði segir Laxness í Innansveitarkroniku: "Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít, sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða, hvenær sem komið er að kjarna máls."

 Takmarkanir á landamærum eru hins vegar ekki tittlingaskítur.  Hvernig við högum málum á landamærunum, ræður úrslitum um hraða efnahagslegrar endurreisnar landsins." 

Með hverri vikunni sem líður verður minni ástæða til að láta efnahagslega endurreisn landsins lönd og leið, þegar hertar sóttvarnarráðstafanir eru ákveðnar.  Vægi sóttvarnarsjónarmiða hlýtur að dvína, eftir því sem bólusettum fjölgar. Frelsissjónarmiðin vega þyngra, eftir því sem höftin vara lengur.  Líklegt er, að túlkun laganna muni taka mið af þessari þróun.  Erlendis er því haldið fram, að núverandi afbrigði veirunnar hérlendis, hið brezka, sé meira smitandi og valdi meiri veikindum, en á sú lýsing við hérlendis ?  Engin rannsókn á smitstuðlum hefur verið birt hérlendis, svo að erfitt er að fóta sig á þróuninni, en hitt er víst, að undanfarnar 2 vikur hefur enginn veldisvöxtur nýsmita verið merkjanlegur hérlendis. Smitstuðullinn er minni en 0 og hin ströngu höft innanlands út í hött.

Það var mjög jákvætt, þegar ráðherra ákvað að mismuna ekki farþegum eftir því, hvort þeir koma frá landi innan eða utan Schengen-svæðisins. Breytingin tók gildi í dag, 06.04.2021. Nú er Bretum að vísu meinað að fara í skemmtiferðir til útlanda, en  það mun ekki vara lengi, því að bólusetningin gengur a.m.k. þrefalt hraðar þar en í EES. Okkur ber að halda jafnræðisreglu í heiðri, og þetta getur orðið þungvægt hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna og atvinnustigið í landinu í sumar.  Svipaða sögu er að segja af Bandaríkjamönnum. 

    


Fullveldið birtist í mörgum myndum

Þann 24. marz 2021 var haldinn aðalfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál - FSUF í Valhöll.  Þar var kjörinn formaður Jón Magnússon, hrl.  Margt fleira fór þar fram, og voru m.a. haldnar 3 ræður, sem fylgja fundargerðinni og getur að líta í viðhengi þessa pistils.  Vert er að benda sérstaklega á ræðu Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns, sem lýsti margbreytilegum birtingarmyndum fullveldis, aðallega tengdum atvinnulífinu.  Allt var þar satt og rétt.  

Því verður heldur ekki neitað, að ein af skyldum fullvalda ríkis er að útvega þegnum sínum bóluefni með sjálfstæðum samningum við viðurkennda birgja eftir þörfum.  Að ná hjarðónæmi í heimsfaraldri er heilsufarslega og efnahagslega mikilvægt.   Að útvista þetta verkefni hjá ríkjasambandi, þar sem landið á ekki aðild, er ótrúleg áhættusækni og bæði lágkúruleg og bíræfin hugmynd. 

Reynslan af því að geta nákvæmlega engin áhrif haft á samningana um bóluefnin er líka ömurleg.  Svona hugmynd verður aðeins til hjá vanmetakindum, og það er alvarlegt veikleikamerki, að ríkisstjórnin skyldi vera svo lítilla sanda og sæva að gefa þessi mikilvægu mál frá sér með því að samþykkja þessi ósköp.  Engum þarf þó að koma á óvart metnaðarleysi vinstri grænna í þjóðfrelsisefnum, þegar reynslan frá 2009-2013 er höfð í huga. Það verður þó að svipta hulunni af því, hvaðan þessi tillaga kom, og hvernig og hvers vegna hún var samþykkt.  Var gerð bókun við þessa samþykkt í ríkisstjórn ? 

Ef þessi ósköp hafa runnið ljúflega niður um kokið á öllum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þá er greinilega ekki vanþörf á að skerpa á fullveldisbaráttunni innan þess flokks, sem stofnaður var til að berjast fyrir fullu sjálfstæði landsins frá gamla sambandsríkinu (nýlenduherrunum) á grundvelli viðskiptafrelsis, atvinnufrelsis og einkaframtaks, allt í anda Jóns Sigurðssonar, forseta.  Hvar er metnaðurinn nú ?  Að dinglast þæg aftan í stórríki Evrópu, eins og Viðreisn hefur nú undirstrikað, að hún vill.

Morgunblaðið hefur verið iðið við að benda á undirmálsvinnubrögð Evrópusambandsins við bóluefnaútvegun og afar gagnrýnið á framgöngu íslenzku ríkisstjórnarinnar í bóluefnamálum gegn C-19 og er það vel, enda í raun um stórpólitískt mál að ræða, sem varðar gríðarlega hagsmuni.  Forystugreinin 23. marz 2021 var helguð þessu máli og hét:

"ESB þolir ekki dagsljósið eða nær að flýja það".

"En ESB var enginn Trump [í bóluefnasamningum] og hörmung uppmáluð var að fylgjast með vinnubrögðunum þar.  Án þess að segja frá því opinberlega gekk íslenzka ríkisstjórnin í ESB í bóluefnamálum, rétt eins og hún svipti íslenzka þjóð fullveldi í raforkumálum.  [Þarna eru 2 fullveldismál dregin fram í dagsljósið og varða bæði sjálfstæðismenn og landsmenn alla miklu - innsk. BJo.] Það hefur ekki verið upplýst, af hverju ríkisstjórnin álpaðist í barnaskap aftan í pilsfald ESB í bóluefnamálum.  Vanmáttugar þjóðir, þegar innlimaðar og komast hvergi, hafa hins vegar afsakanir, þótt dapurlegar séu. 

Embættismenn hér fara létt með veika þriggja flokka stjórn, sem er sjálfri sér sundurþykk og telur sig geta falið það með því að breiða yfir öll átakaefni.  Embættismennirnir eru fyrir löngu gengnir í ESB, eins og sást í Icesave og orkupakkanum.  Forsætisráðherrann hefur í tvígang sagt opinberlega, að "auðvitað gætu Íslendingar tekið frumkvæðið í bóluefnamálum, þrátt fyrir að hafa falið Brussel verkefnið". En hún hefur ekki sýnt neitt frumkvæði, og þetta muldur hefur haft minna en nokkur áhrif."

Þetta "muldur" heyrðist ekki frá þeim stöllum, Svandísi og Katrínu (viðhlæjendum), fyrr en Evrópusambandið var komið með allt niður um sig og gaf aðildarríkjunum frelsi til að reyna sjálf. Hlekkir hugarfarsins eru svo níðangurslegir, að ráðherrarnir hreyfa hvorki legg né lið til sjálfstæðra tilburða til hliðar við ESB, þótt heimild sé til. Þeir máttu allan tímann reyna við aðra birgja en ESB samdi við.  Það heyrist t.d. ekki múkk í Stjórnarráðinu sem svar við tilboði Maríu Zakarova um viðræður um framleiðsluleyfi til Íslendinga á Sputnik V.  Ráðherrunum dettur ekki í hug að nota tímann og hefja viðræður, af því að Lyfjastofnun Evrópu er enn með bóluefnið til rannsóknar.

Hvað skyldu margir stjórnarþingmanna kokgleypa þá tímaskekkju Viðreisnar á formi væntanlegrar þingsályktunartillögu að hefja á ný aðlögunarviðræður við ESB fyrir Ísland ?  Þingflokkur Viðreisnar er haldinn þráhyggju af verstu gerð og þarfnast einskis fremur en ævilangs orlofs frá þingstörfum úr hendi kjósenda. 

Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var haldið áfram að velta fyrir sér dæmalausum undirlægjuhætti við ESB og Lyfjastofnun þess, þrátt fyrir tugmilljónir bólusetninga á Bretlandi með "fyrri skammti", án alvarlegra athugasemda Lyfjastofnunar Bretlands vegna aukaverkana eða ófullnægjandi virkni.  Þessi rörsýn er orðin sjúkleg:

"Tilvikin [um aukaverkanir OAZ-innsk. BJo] voru örfá, sem nefnd voru til sögu um blóðfall, sem hefði komið upp á um líkt leyti og bólusetning á viðkomandi. Ísland, sem aldrei hafði orðið vart við neitt slíkt, hoppaði þegar um borð í þetta sökkvandi fley.  Var það með vísun í vísindi eða einungis ómæld heimska ?  Er virkilega svona lítill munur á "vísindum" og heimsku ?  Kort, sem birt voru um alla Evrópu, sýndu Ísland með yfirskrift um það, að Ísland treysti ekki bóluefninu !  (Yfirskriftin hefði verið betri svona: "Apar eftir, eins og vant er.") Ef raunveruleg ríkisstjórn hefði verið í landinu, hefði slíkt ekki gerzt !

 Hér er fast kveðið að orði í forystygrein, en ekki að ósekju.  Það er eins og íslenzkum embættismönnum og ráðherrum sé fyrirmunað að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli beztu fáanlegu þekkingar, en snúist þess í stað eins og skopparakringlur í kringum hvaða bolaskít sem frá Brüssel berst.

Núverandi sóttvarnarfyrirkomulag er afspyrnu heimskulegt, enda rekst þar hvað á annars horn. Er einhver glóra í því að leyfa fjölda manns að safnast saman við gosstöðvar í Geldingadölum á Reykjanesi, en loka öllum skíðasvæðum á landinu með harðri hendi ?  Hvað hafa mörg C-19-smit verið rakin til skíðasvæða á Íslandi ?  Hver er smitstuðull þar, ef hann þá er stærri en 0 ?  Hver er smitstuðullinn í sundlaugum landsins, í líkamsræktarstöðvum, í verzlunum og hótelum o.s.frv. ?  Eftir rúmlega árs langa söfnun gagna, smitrakningar og sóttkvíar, ættu þessar tölur að vera fyrir hendi, en þær hafa ekki verið opinberaðar.  Það ættu yfirvöld þó að gera hið fyrsta. Á meðan þau gera það ekki, liggja þau undir ámæli um að beita miklu klunnalegri og "kommúnistískari" sóttvarnaraðgerðum en nauðsyn ber til með grafalvarlegum efnahagslegum og félagslegum afleiðingum.  

"Frá tilkynningu um ný bóluefni í nóvember [2020] erum við komin upp í 4 % bólusetningu ! [20.734 eða 5,7 % þjóðarinnar fullbólusettir 31.03.2021-innsk. BJo.] Heilbrigðisráðherra hefur ekki sagt af sér eða ríkisstjórnin öll, sem ætti að vera niðurlút gagnvart þjóðinni.  Samþykkti hún að stöðva notkun bóluefna, sem milljónir og jafnvel milljónatugir höfðu notað, án þess að þeirra afbrigða hefði orðið vart, sem blásin voru upp og hlaupið eftir hér ? Það var a.m.k. ekkert vísindalegt við slíka ávörðun. Hver tók hana þá í raun ?  Hvert hefur afsökunarbeiðni borizt út af tiltækinu ?  Fjölmiðlar gærdagsins vítt og breitt gengu út frá því, að EMA (European Medicines Agency) mundi þann dag lýsa því yfir, að bóluefnið rægða sé öruggt. En nú óttast margir, þ.á.m. sumir rógberanna, að margir hugsi sig um áður en þeir láta bólusetja sig." 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bóluefnastríðið 2021

Framvinda bólusetninga í Evrópusambandinu (ESB) er hæg í samanburði við Bretland, en ástæðan er sjálfskaparvíti Framkvæmdastjórnarinnar.  Hún svaf á verðinum, á meðan Bretar styrktu Oxford AstraZeneca (OAZ) til að þróa bóluefni gegn SARS-CoV-2-veirunni, sem veldur C-19 sjúkdóminum, og tóku síðan þá áhættu að forpanta tugmilljónir skammta fyrir brezku þjóðina frá OAZ. Ekkert slíkt hvarflaði að Úrsúlu von der Layen, en nú ryðst hún yfir grindur til að komast fram fyrir Boris Johnson og hans fólk í afhendingarröð bóluefna.  Þetta er löglaust atferli, og var þó ekki úr háum söðli að detta. Evrópusambandinu er ekki treystandi fyrir horn.  Það er rétt hjá Lavrov.  

Ráðherraráð ESB nagar sig nú í handarbökin fyrir að hafa falið Framkvæmdastjórninni að útvega bóluefni og dreifa þeim til aðildarlandanna, en þetta var gert til að styrkja ESB, því að allar krísur hafa verið notaðar til að auka völd ESB.  Heilbrigðismálin hafa aldrei verið á verksviði Framkvæmdastjórnarinnar, og búrókratar hennar höfðu enga reynslu í að semja við lyfjafyrirtæki.  Undir forystu flokkshests frá Kýpur lögðu þeir áherzlu á að lágmarka kolröng áhættuatriði, sem tafði samningagerðina, og urðu þeir a.m.k. 3 mánuðum á eftir Bretum að ganga frá samningum. 

Það lítur út fyrir, að íslenzki heilbrigðisráðherrann hafi sýnt vanrækslu í starfi með því að leita ekki til umboðsaðila þeirra lyfjafyrirtækja, sem voru með efnilegar niðurstöður úr fasa 1 og fasa 2 bóluefnisprófunum, en treysta þess í stað á að fá mola af borðum ESB, sem henni mátti verða ljóst í sumar, að yrðu fátækleg framan af. Hvernig tekur hún fréttinni frá Moskvu 30.03.2021 ?  Maria Zakarova, talsmaður utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, tilkynnti þar og þá á blaðamannafundi, að Rússar væru til viðræðu um framleiðsluleyfi til Íslendinga á Sputnik V.  

ESB hefur síðan á þessu ári, 2021, spilað algerlega rassinn úr buxunum með ofbeldisfullum tilburðum og falsáróðri gegn hinu sænsk-brezka AZ. Lögregla hefur ráðizt inn í verksmiðju AstraZeneca í Leiden í Hollandi og á Ítalíu vegna grunsemda Framkvæmdastjórnarinnar um, að verksmiðjurnar væru að framleiða bóluefni upp í pantanir Breta, sem þá átti að haldleggja.  Grunsemdirnar voru úr lausu lofti gripnar, en aðgerðirnar sýndu, að Framkvæmdastjórnin er farin á límingunum og virðir hvorki lög né rétt, þegar þannig stendur á í bólið hennar. Þetta er lærdómsríkt, líka fyrir halelúja-hóp ESB á Íslandi. 

Þá hafa Framkvæmdastjórnin og nokkrir leiðtogar ESB-ríkjanna með "Litla Napóleón" í Elysée-höllinni í París í broddi fylkingar tekið sér fyrir hendur hlutverk Gróu á Leiti, "ólyginn sagði mér", að OAZ-bóluefnið væri gagnslítið og gæti verið sumum hættulegra en hin bóluefnin.  Nú hefur "Litli Napóleón" snúið við blaðinu og heimtar miklu meira af OAZ-bóluefninu strax en Gallarnir eiga rétt á samkvæmt samningum, sem Úrsúla von der Leyen og skjaldmeyjar hennar véluðu um og gengu frá með miklu lakari skuldbindingum á hendur birgjanum en Boris og félagar.

Hörður Ægisson reifaði málið að sínum skelegga hætti í forystugrein Fréttablaðsins 19. marz 2021 undir hinu lýsandi heiti:

"Klúður".

Hún hófst þannig:

"Eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis. Ísland er eitt þróaðasta ríki í heimi, efnað land með fáa íbúa og öfluga innviði, þar sem vilji til bólusetningar er ríkur.  Þjóðin ætti við venjulegar kringumstæður að hafa alla burði til þess að bera sig saman við vestræn ríki, sem standa utan Evrópusambandsins, á borð við Bretland og Bandaríkin.  Í Bretlandi stendur öllum, sem komnir eru yfir fimmtugt, nú til boða bólusetning, og í Bandaríkjunum stendur til, að nægt bóluefni verði til fyrir alla í lok maí, auk þess sem bæði ríkin hafa fest eins konar frelsisdaga í dagatalið í vor og sumar, þegar öllum hömlum verður aflétt."

Stjórnvöld hér virðast hafa sofið á verðinum, þegar þau hefðu þurft að vera með allar klær úti við að útvega bóluefni sem fyrst.  Þegar niðurstöður þreps 1 og þreps 2 úr tilraunum nokkurra lyfjafyrirtækja urðu opinberar í sumar, var einboðið að fá umboðsmenn þessara lyfjafyrirtækja til að leita samninga við sína birgja.  Heilbrigðisráðherra stjórnast hins vegar af pólitískum hindurvitnum Stalínstímans í Sovétríkjunum og forðast allt samstarf og samvinnu ríkisins við einkaaðila.  Þegar heilbrigðisráðherra hafði sólundað tímanum, var með bettlistaf í hendi leitað ásjár Evrópusambandsins, sem samþykkti náðarsamlegast að láta af hendi nokkra skammta til Íslands gegn því, að Ísland reyndi ekki að semja við sömu birgja og ESB.  Allt er þetta einstaklega lágkúrulegt, og framvindan er eftir því.

"Á meðan höfum við horft upp á tafir og meiriháttar klúður í bólusetningaráætlun stjórnvalda, sem var af óskiljanlegum ástæðum útvistað til ESB.  Enn er ekki einu sinni búið að bólusetja alla eldri borgara hér á landi, og fyrirætlanir um bólusetningar hafa enn tafizt um heilan mánuð, og ráðamenn yppa bara öxlum við þeim tíðindum.  "Þetta er grautfúlt, en svona er þetta, og svona er þessi veira", voru viðbrögð forsætisráðherra við því, þegar fréttir bárust um, að AstraZeneca-bóluefnið, stór liður í bóluefnisöflun landsins, hefði tímabundið verið sett til hliðar.  Fáir leggja traust sitt á, að áætlun stjórnvalda um, að búið verði að bólusetja alla Íslendinga yfir 16 ára aldri í lok júlí [2021] muni ganga eftir."

Alþingi á að veita ráðherrum aðhald á hverjum tíma.  Þegar þeir sýna af sér ólíðandi óhæfni og/eða vanrækslu í starfi, á Alþingi að grípa til þeirra úrræða, sem það hefur yfir að ráða.  Forsætisráðherra mun ekki losa okkur við viðhlæjanda sinn, téðan  heilbrigðisráðherra, og þá verður Alþingi að gera það. 

Í lok forystugreinarinnar skrifaði Hörður Ægisson:

"Með öflugri forystu hefði mátt bólusetja þjóðina mun fyrr, opna landið og afnema um leið þær skerðingar á daglegu lífi, sem við höfum búið við.  Baráttan um bóluefnin er enginn leikur, heldur alvöru slagur. Við sjáum það af því kalda stríði, sem nú ríkir á milli Bretlands og ESB, þar sem útflutningsbanni er svarað með efasemdum um  gagnsemi brezka bóluefnisins. [Bretar hafa ekki lagt á útflutningsbann á bóluefnum, heldur afgreiðir AZ í Bretlandi pantanir í réttri röð - innsk. BJo.]  Stjórnvöld hefðu átt að berjast fyrir því með kjafti og klóm að tryggja nægt bóluefni fyrir löngu, en af einhverjum ástæðum virðist þá ráðherra, sem fóru með málið, hafa skort þar vilja eða getu eða hvort tveggja.  Ótrúlegt er, að ríkisstjórn, þar sem flokkarnir áttu fátt sameiginlegt annað en andstöðu við ESB, skyldi ákveða að hengja sig alfarið á misheppnaða bólusetningaráætlun sambandsins. Hvernig í ósköpunum var komizt að því, að það væri þjóðinni fyrir beztu, og á sama tíma var ekkert Plan B fyrir hendi ?  Bólusetningarklúður stjórnvalda, sem er einkum á ábyrgð heilbrigðisráðherra, eru afglöp af áður óþekktri stærðargráðu."

Landsmenn eiga rétt á að fá svör við ofangreindum spurningum Harðar Ægissonar.  Stjórnvöld virðast hins vegar óttast, að vinnubrögð þeirra þoli ekki dagsljósið, sem kann að vera rétt mat, en á meðan við svo búið stendur, er vanræksla einkunnin, sem gildir um þessa frammistöðu. Hún er í þessu tilviki brottrekstrarsök, sbr "afglöp af áður óþekktri stærðargráðu".

Morgunblaðið hefur heldur ekki látið deigan síga í gagnrýni sinni á stjórnvöld fyrir þessi "afglöp".  Sviðsljósgrein Andrésar Magnússonar þann 18. marz 2021 rekur hina evrópsku hlið þessa stórmáls, en hún sannar, að Evrópusambandinu var aldrei treystandi fyrir því verkefni að útvega bóluefni, enda aldrei gert það áður og heilbrigðismál ekki á könnu Sambandsins.  Fyrirsögn sviðsljóssgreinarinnar var:

"Klúður, hneyksli og loks ringulreið".

Hún hófst þannig:

"Evrópusamstarf um öflun bóluefnis hefur gengið á afturfótunum, allt frá því til þess var boðað síðastliðið haust.  Það var seint til þess stofnað, en verra var, að prútt og óhófleg tillitssemi við þjóðlegan metnað ýmissa aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) [einkum Frakklands - innsk. BJo] tafði verulega fyrir, því [að] það var seint pantað og lítið.  Þegar afleiðingarnar komu í ljós, að Bretar höfðu öllum að óvörum verulegt forskot á því sviði, tók við einkennileg milliríkjadeila, þar sem öllu var teflt fram, þ.á.m. viðskiptabanni og broti á alþjóðlegum samningum.  Sem ekki bætti úr skák, en breytti klúðri í hneyksli."

Hvað sem landsmönnum finnst um það, hvernig skipa eigi framtíðar tengslum við Evrópusambandið, ríkir líklega einhugur um það mat, að ESB hafi sett niður vegna þess, hvernig það hefur fengizt við bóluefnaútvegun til aðildarlanda sinna og EFTA-landanna í EES, og að síðan hafi forysta þess bætt gráu ofan á svart með þvingunaraðgerðum sínum í garð Breta. 

Saga samskipta Íslands og Evrópusambandsins er ekki með þeim hætti, að ástæða væri nokkurn tímann til að fela því forsjá bóluefnaútvegunar til Íslands.  Það er skiljanlegt, að ráðherrar, sem stóðu á sínum tíma að beiðni um aðildarviðræður við ESB, telji það lítið skref fyrir Ísland að fela Evrópusambandinu þetta mikilvæga hlutverk, hvað sem kaupskilmálunum líður, en það er mjög einkennilegt, ef borgaralegu flokkarnir í ríkisstjórninni, sem eru yfirlýstir andstæðingar slíkra aðildarviðræðna, sem eru ekkert annað en aðlögunarferli, eins og menn muna, hafa enga athugasemd gert við þessa lítilsvirðingu við fullveldi landsins.  

Svissland er líka í EFTA, en er ekki í neinu bóluefnasamkrulli með ESB.  Svisslendingar eru komnir heldur lengra í C-19 bólusetningum en ESB mælt í fjölda bólusetninga per 100 íbúa.  Íbúafjöldi landa er ekki áhrifavaldur um það, hvernig þjóðum gengur að útvega sér bóluefni.  Ísraelsmenn gerðu samninga um flýtiafhendingu til sín gegn afhendingu talnaefnis um þróun C-19 faraldursins og heilsufarslegar afleiðingar bólusetninga.  Ekkert slíkt frumkvæði kom frá ráðuneytunum hér. Þegar sóttvarnarlæknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar reyndu að feta í fótspor Ísraelsmanna (þessir læknar voru reyndar ekki á einu máli um, hvor þeirra hefði átt hugmyndina), var einfaldlega of seint í rassinn gripið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ótraustvekjandi opinberar sóttvarnaraðgerðir

Enn á ný hafa ströng höft verið sett á líf landsmanna um allt land vegna fáeinna smita utan sóttkvíar, og í þetta sinn er skólum landsins lokað í þokkabót.  Þessar hörðu aðgerðir eru aðeins réttlættar með því, að brezka afbragðið, sem greinzt hefur undanfarið hérlendis, sé meira smitandi og valdi tiltölulega oftar en áður veikindum barna.  Þetta er með afbrigðum þunnur þrettándi m.v. þá truflun á þjóðlífinu og fjárhagstjón, sem reglugerð heilbrigðisráðherra, reist á minnisblaði sóttvarnarlæknis, veldur. 

Þegar þessar sóttvarnaraðgerðir voru kunngjörðar, 24. marz 2021, voru eftirfarandi tölulegar staðreyndir fyrir hendi frá sólarhringnum áður: 

  • Á sjúkrahúsi lá einn C-19 sjúklingur
  • Sjúkir af C-19 og í einangrun voru 75
  • Nýgengi innanlands var 7,6 og á landamærum 12,5
  • Fullbólusettir voru 19´887 eða um 5,5 % landsmanna

Það er lítið álag á sjúkrahúsunum vegna C-19 og nýgengið innanlands er mjög lágt.  Búið er að bólusetja þann hóp, sem verst hefur farið út úr sýkingu af völdum SARS-CoV-2, og margt framlínufólk í heilbrigðisgeiranum hefur verið bólusett.  Það hefur ekkert verið gefið upp um smitstuðul þess afbrigðis, sem þessum hóflausu viðbrögðum veldur, né um einkennin, t.d. hjá börnum. Frétzt hefur þó, að þau séu væg. Það verður þess vegna að álykta sem svo, að enn einu sinni hafi meðalhófið verið hundsað og rannsóknarskyldunni lítt verið sinnt, þ.e. ekkert kannað, hvort minna heildartjóni mætti valda þjóðfélaginu með vægari aðgerðum. Daginn, sem þessi flausturslega ákvörðun var tekin, greindist ekkert smit á Íslandi utan sóttkvíar, hvorki af brezka afbrigðinu né öðru.  Sóttvarnarlæknir er vanur að þakka ströngum félagslegum takmörkunum sínum góðan árangur í sóttvarnarmálum.  Hann getur það varla í þetta sinnið, því að aðgerðir hans frá 24. marz 2021 eru ekkert annað en flumbrugangur. Það var hrapað að niðurstöðu. Katrínu Jakobsdóttur væri nær að fara að dæmi kanzlara Þýzkalands frá sama degi og afturkalla þessar óþörfu, illa ígrunduðu og stórskaðlegu opinberu sóttvarnaraðgerðir.

Í þessu samhengi er vart orðum eyðandi að þeim sefasýkislegu viðbrögðum, sem sézt hafa á samfélagsmiðlum, einnig nú í kjölfar minnisblaðs sóttvarnarlæknis 24.03.2021, út af þeirri sjálfsögðu ákvörðun dómsmálaráðherra landsins að leggja að jöfnu löglega útgefin bólusetningar- og ónæmisvottorð utan og innan Schengen.  Ákvörðunin er enn ekki komin til framkvæmda. Framkvæmd var frestað fram í byrjun apríl 2021 til að gera eftirlitið öruggara.  Látið er eins og landamæraverðirnir séu auðblekktir með fölsuðum vottorðum.  Þótt hægt sé að kaupa fölsuð vottorð, er ótrúleg einfeldni að gera því skóna, að handhafar slíkra geti komizt í gegnum nálarauga íslenzkra landamæravarða með fölsuð skilríki.  Við slíku skjalafalsi liggur fangelsisvist.  Litlu verður Vöggur feginn, þegar kemur að tylliástæðum til að gera haftaafnám tortryggilegt af hvaða tagi sem er.  Þrælslundin er söm við sig.

Því er haldið fram, að bólusettir geti borið smit.  Samkvæmt athugunum Ísraelsmanna, sem lengst eru komnir í bólusetningum og hafa nú þegar myndað hjarðónæmi gegn þekktum afbrigðum kórónuveirunnar, er það rétt, en í mun minni mæli en ella, þ.e.a.s. smitstuðullinn er nánast örugglega undir 1,0 fyrir slíka ferðamenn án tengsla inn í íslenzka þjóðfélagið.  Svipað má ætla, að eigi við þá, sem náð hafa sér eftir sýkingu af C-19.  

Þá hefur fyrirhuguð beiting fjölþjóðlegs litakóða á landamærum frá 1. maí 2021 orðið mörgum tilefni til upphrópana og hræðslukasta.  Sóttvarnarlækni hefur þó verið falin útfærsla á þeirri framkvæmd.  Ef grænt á að gilda fyrir upprunaland og brottfararland með nýgengi á bilinu 0-20, þá er það býsna breitt bil og ráðlegra að beita einfaldri skimun fyrir slíka óbólusetta og ósýkta farþega.  Ef nýgengið er hærra, gult og rautt, þá gildi sömu reglur og nú (að mati höfundar), þ.e. vottorð um neikvætt PCR-próf og tvöföld skimun með 5 daga sóttkví á milli.  Reynslan sýnir, því miður, að sóttkví undir eftirliti er nauðsynleg, svo að henni megi treysta. Kæmi ökklaband til greina ?

Áhrif opinberra aflokana og frelsisskerðinga hafa verið rannsökuð erlendis, og niðurstaðan í mörgum tilvikum er ekki í samræmi við skoðun sóttvarnarlæknis Íslands um nauðsyn allra þessara ráðstafana "til að ná tökum á faraldrinum".  Það er líka nauðsynlegt að meta heildaráhrif slíkra aðgerða.  Þau eru víðtæk og alvarleg, valda andlegu og líkamlegu heilsutjóni, fátækt og gjaldþrotum, og eru sameiginlegum sjóðum þungur baggi í mörg ár.  Áhugafólki um heildarmyndina var þess vegna mikill fengur að grein Þorsteins Arnalds, tölvufræðings, í Morgunblaðinu 18. marz 2021:

"Gagnslaus greiningarvinna".

"Það var fagnaðarefni, að ríkisstjórn Íslands skyldi stuðla að því, að áhrif sóttvarnaaðgerða á þróun Covid-19-faraldursins væru rannsökuð.  Mikilvægt er að meta áhrif mismunandi aðgerða, helzt með vísindalegum hætti, til þess að þær verði markvissar.  Óhjákvæmilega hafa aðgerðirnar neikvæðar aukaverkanir, og með því að meta áhrif þeirra er hægt að vega og meta, hversu langt eigi að ganga hverju sinni."

Hér hreyfir Þorsteinn Arnalds gríðarlega mikilvægu máli.  Vitað er frá erlendum rannsóknum, að 1 %- 3 % þeirra, sem verið hafa atvinnulausir í meira en 1 ár, bíða alvarlegt tjón á heilsu sinni, verða öryrkjar eða hljóta ótímabæran dauðdaga.  Í lok febrúar 2021 höfðu 4719 manns verið atvinnulausir á Íslandi í meira en 12 mánuði.  Ef gert er ráð fyrir, að þriðjungur þeirra hafi misst vinnuna af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða, þá má búast við, að á bilinu 16-47 manns verði öryrkjar eða láti lífið af þeirra völdum.  Meðaltal þessa heiltölubils er 32, sem er vert að bera saman við fjölda látinna hérlendis af völdum C-19 faraldursins, sem er 29, þegar þetta er ritað. 

Hinn fjárhagslegi kostnaður samfélagsins af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða er ofboðslegur. Þegar honum er bætt við tekjutap fyrirtækja af þeirra völdum, nemur heildarkostnaðurinn áreiðanlega yfir 100 mrdISK/ár. 

Af þessu sést, að það er gríðarlega mikilvægt að komast að því með áreiðanlegum aðferðum, hver árangur mismunandi sóttvarnaraðgerða er, t.d. mælt í fækkun sjúklinga á sjúkrahúsi.  Frá Bandaríkjunum bendir samanburður á milli ríkja, sem beittu og beita mismunandi sóttvarnaraðgerðum til þess, að gagnsemi ýmissa opinberra sóttvarnarráðstafana sé víða  stórlega ofmetin, þ.m.t. á Íslandi. Um innlenda rannsókn á þessu sviði reit Þorsteinn Arnalds:

"Skýrsla rannsóknarhópsins, sem hlaut MISK 5,0 styrk, kom út í síðustu viku [v.10/2021]. Á Íslandi hefur uppruni smita verið rannsakaður og greint af hvaða stofni veirur séu frá upphafi faraldursins.  Væntanlega hafa safnazt verðmætar upplýsingar um, hvernig smit dreifast, og það ætti að gera mat á smitstuðli mögulegt fyrir mismunandi aðstæður.  Því miður hefur hins vegar skort á, að gögnin, sem safnað hefur verið, væru notuð með þessum hætti, og var lestur skýrslu rannsóknarhópsins því tilhlökkunarefni. 

Í læknisfræðilegum rannsóknum er venjan að bera saman hópa fólks, sem eru í mismunandi aðstæðum og skoða t.d., hve margir veikjast í hverjum hópi, og þess gætt, að hóparnir séu nógu stórir, til að niðurstöður verði tölfræðilega marktækar. Loksins mátti búast við, að slík rannsókn hefði verið gerð á íslenzkum Covid-smitum."     

Til þess að eitthvert vit verði í sóttvarnaraðgerðum, er nauðsynlegt að þekkja til smitstuðulsins, og hvað helzt hefur áhrif á hann, en smitstuðullinn er sá fjöldi einstaklinga, sem hver smitaður smitar.  Sem dæmi má taka, að þar sem hann er undir 1,0 (SS<1,0), þar eru ekki aðstæður, sem sóttvarnaryfirvöld þurfa að skipta sér af með hömlum af neinu tagi.  Það var þess vegna eðlilegt, að yfirvöld settu fé í að vinna nytsamlegar upplýsingar um SS úr þeim gögnum, sem safnað hefur verið.  Hvernig skyldi nú hafa tekizt til ?:

"Því miður olli skýrslan vonbrigðum.  Það er eins og skýrsluhöfundar hafi stungið fingrinum upp í vindinn til að ákvarða smitstuðulinn.  Það vekur furðu, að sjónum sé eingöngu beint að aðgerðum á landamærum, en aðgerðir innanlands ekki greindar.  Auk þess er greiningin á landamæraaðgerðunum í skötulíki.  Gert var hermilíkan, sem metur útbreiðslu smita m.v. gefnar forsendur.  Og ekki verður séð, að reynt hafi verið að greina, hver raunveruleg áhrif mismunandi aðgerða séu."

 Mann setur hljóðan við þennan lestur, því að þarna er lýst hreinræktuðu fúski gagnvart mjög mikilvægu verkefni í almannaþágu.  Ef rannsakendur gefa sér þá niðurstöðu, sem vinnan átti að beinast að að leiða út frá gögnunum, þá er skýrslan um þessa vinnu ekki pappírsins virði.  Málið er alvarlegt, því að annaðhvort kunna þau ekki til verka, sem fengin voru til verksins, eða þau eru að reyna að draga dul á staðreyndir, sem þeim var þó falið að leiða í ljós.  Það verður að komast að því, hvaða gagn er af sársaukafullum og rándýrum höftum sóttvarnarlæknis.  Er niðurstaðan af landamærunum sú, að sóttkvíin sé hriplek ?  Þar með er hún bæði gagnslítil og rándýr, því að hún hefur haft hamlandi áhrif á komur erlendra ferðamanna.  Er fær leið að setja ökklaband á fólk í sóttkví ?

"Í skýrslunni segir: "Í þessu líkani er gert ráð fyrir, að smitstuðull ferðamanna utan sóttkvíar sé 1 og 0,5 í ferðamannasmitgát.  Ferðamanni í sóttkví eða einangrun var gefinn smitstuðull 0."

Ef ætlunin var t.d. annars vegar að mæla raunverulega áhættu af smitgát og hins vegar sóttkví, er niðurstaðan þegar gefin og áframhaldandi reikniæfingar óþarfar.  Það er næsta gagnslaust að ráðleggja, ef eitthvað er svona eða hinsegin, ef menn hafa litla vitneskju um, hvernig það raunverulega er.  

Af hverju er ekki reynt að leggja raunhæft mat á þessa smitstuðla út frá gögnum ?  Hvernig passar það við nýlegan fréttaflutning af smitum, sem stöfuðu af fólki, sem hélt [ekki] sóttkví, að smitstuðull í sóttkví sé 0 ?  Gæti hugsazt, að þeir, sem eru í sóttkví, séu ólíklegri til að halda hana en þeir, sem eru í smitgát, sem er vægara úrræði.  Aðferð skýrsluhöfunda minnir á viðskiptaáætlanir, sem voru í tízku fyrir rúmum áratug; litlu skipti, hvernig raunveruleikinn var, Excel var einfaldlega matað á hagstæðum forsendum."

Metnaðar- eða getuleysi höfundanna við að vinna úr gögnum veldur vonbrigðum.  Ef nemanda væri fengið þetta verkefni, og í stað þess að nálgast viðfangsefnið með kerfisbundnum vinnubrögðum myndi hann gefa sér niðurstöðuna, fengi hann mjög lága einkunn fyrir frammistöðuna.  Þetta blasir við, en hvers vegna þetta sleifarlag ?  Gagnrýni Þorsteins Arnalds er fullkomlega réttmæt.  Eru öll kurl komin til grafar ?

"Síðustu mánuði hefur sú hugsun mín ágerzt, að ákvarðanir um sóttvarnaraðgerðir séu byggðar á hæpnum forsendum og ófullnægjandi túlkun gagna.  Dæmi um þetta er, hvort og með hvaða hætti líkamsræktarstöðvar eigi að vera opnar - en það er efni í aðra grein.  Í ljósi þess, að hvorki sóttvarnaryfirvöld né vísindamenn þeim þóknanlegir hafa reynt að nýta fyrirliggjandi gögn til að meta skilvirkni aðgerða, skora ég hér með á yfirvöld að birta opinberlega öll gögn um uppruna smita, rakningu þeirra, raðgreiningu afbrigða og annað, sem máli skiptir.  Hugsanlega og vonandi munu aðrir (eða sömu) vísindamenn nýta þau í alvöru til að meta áhrif sóttvarnaraðgerða - þótt án ríkisstyrkja verði."

Það ætti að vera alveg sjálfsagt mál af hálfu yfirvalda að birta öll gögn, sem Þorsteinn Arnalds fer þarna fram á.  Sóttvarnaraðgerðirnar, sem gildi tóku 25. marz 2021, staðfesta, að sóttvarnaryfirvöld búa ekki yfir þekkingu á breytilegum smitstuðlum í þjóðfélaginu eða reyna ekki að beita henni.  Það er afleit frammistaða eftir rúmlega heilt ár í baráttunni.  Daginn eftir, að "landinu var skellt í lás", að skólunum meðtöldum í þetta sinnið, birti Morgunblaðið forsíðufrétt um, að dagana 7 þar á undan hefðu greinzt 6 ný smit utan sóttkvíar.  Enginn C-19 sjúklingur var þá á sjúkrahúsi.  Þeirri hugsun verður ekki varizt, að þessar sóttvarnaraðgerðir séu framkvæmdar í bráðræði og einkennist af flausturslegum vinnubrögðum og flumbruhætti án nokkurs tillits til neikvæðra áhrifa.  

Páskafrumhlaup sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra varpar ljósi á gallana við að láta einn mann móta stefnuna í sóttvarnarmálum.  Þar þurfa fleiri að koma að undirbúningi ákvarðanatöku, svo að mismunandi sjónarmið verði vegin og metin með rökum.  Þannig eru meiri líkur á, að forðazt megi að hrapa að niðurstöðum á hæpnum forsendum.  Ef vel tekst til um val í t.d. 5 manna sóttvarnarráði, hvers hlutverk og samsetning verði skilgreint af Alþingi, má búast við hópefli, þar sem gæði tillagna til ráðherra verða meiri en gæðin frá hverjum og einum í hópnum samanlögð ("synergy").  Aðalatriðið er, að jafnvægi komizt í tillögugerðina, svo að upphlaupsaðilar geti síður spanað fram ótímabærar aðgerðir og að aðgerðirnar þræði betur meðalhóf en verið hefur, þar sem afleiðingarnar hljóti raunhæfa umfjöllun áður en að tillögugerð (minnisblaði) kemur. Það er eðlilegt, að Landlæknir og Sóttvarnalæknir eigi sæti í hópnum og einnig fulltrúar "aðila vinnumarkaðarins", sem alltaf verða fyrir barðinu á sóttvarnaraðgerðum.  Til að lagalega hlið málsins, persónufrelsi og heimildir yfirvalda, verði ekki hornreka, er eðlilegt, að lögmaður verði og í þessu teymi.  


Sóttvarnir lúta geðþóttastjórn

Það vantar öll viðmið við framkvæmd sóttvarnanna á Íslandi.  Leiðarljósið er fyrir hendi.  Það er veirulaust Ísland.  Sú leið er grýtt og þyrnum stráð, því að samkomutakmarkanir og höft á alls konar starfsemi hefur mikinn og margvíslegan kostnað í för með.  Mannlegur harmleikur af völdum slíkra stjórnvaldsaðgerða getur hæglega orðið meiri en af völdum sýkinga af veirunni, SARS-CoV-2. 

Ef veiran væri hættulegri, t.d. eins og ebóluveiran, mundi málið horfa allt öðruvísi við. Þess vegna eru töluleg viðmið svo mikilvæg, og lagaleg hlið málsins, þ.e. heimildir yfirvalda, eru ekki síður mikilvægar. Nýlega hafa 2 lögfræðingar tjáð sig opinberlega um þessi mál með afar athyglisverðum og lofsverðum hætti.

Annar er Jón Magnússon.  Hann skrifaði í Morgunblaðið 25. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:

"Lögmæti eða valdníðsla".

Greinin hófst þannig:

"Frjálst lýðræðisþjóðfélag byggist m.a. á þeirri von, að fólk muni haga sér vel, þegar það hefur valkosti, og betra þjóðfélag verði að veruleika, þegar hugmyndafræði frelsisins ræður. 

Byggt er á því, að fara verði að lögum og stjórnvöld geti ekki gripið til íþyngjandi ráðstafana gagnvart borgurunum, nema fylgt sé svonefndri lögmætisreglu, sem felur það í sér, að ákvörðun ríkisvaldsins og annarra stjórnvalda þurfi að vera í samræmi við lög og málefnaleg sjónarmið." 

Ennfremur gilda hér stjórnsýslulög, t.d. um meðalhófsregluna.  Í lögum nr 37/1993, 12. gr., segir svo:

"Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun, þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti.  Skal þess þá gætt, að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til."

Höfundur þessa vefpistils telur sóttvarnaryfirvöld með heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar hafa farið offari í Kófinu og valdið þar með einstaklingunum og þjóðfélaginu meira tjóni en efni stóðu til. Þetta á t.d. við um skólakerfið.  Það var ástæðulaust að valda jafnmiklum truflunum á skólastarfinu og reyndin var.  Það átti að reyna vægari úrræði fyrst, t.d. grímuskyldu í framhaldsskólum, en eftirláta hverjum skóla fyrir sig að öðru leyti persónulegar og sameiginlegar sóttvarnir. 

Mjög orkaði tvímælis að banna íþróttaiðkun og kappleiki, loka þrekstöðvum og sundlaugum.  Þessi iðkun gegnir mikilvægu hlutverki fyrir lýðheilsuna og vitað er, að strangar frelsistakmarkanir og atvinnuhömlur hafa slæm áhrif á heilsufar þeirra, sem fyrir barðinu verða.  Það virðist hafa vantað við ákvarðanatökuna að vega og meta gagnsemi og galla við sóttvarnaraðgerðir.  Tillögur um sóttvarnaraðgerðir þurfa að koma frá fjölbreytilegu teymi. 

Þá eru landamærin kapítuli út af fyrir sig.  Það verður ekki annað séð en yfirvöldin hafi farið offari þar t.d. í febrúar 2021, þegar smitstuðullinn var orðinn mjög lágur á Íslandi (fá ný smit og öll innan sóttkvíar), að bæta þá enn einu skilyrðinu við fyrir landgönguleyfi hér, þ.e. ónæmisvottorði eða neikvæðu PCR-skimunarvottorði.  Þarna áttu yfirvöldin að grípa tækifærið til að létta undir með ferðageira og gjaldeyrisöflun á Íslandi; innleiða vottorðin (að sjálfsögðu með kurteislegum fyrirvara í stað þess ruddaháttar, sem sýndur var) og afnema um leið seinni skimun og sóttkvína, ef vottorð og komuskimun voru í lagi.  

"Í 12. gr. sóttvarnalaga nr 19/1997, með áorðnum breytingum, segir nú: "opinberum sóttvarnaráðstöfunum skal aflétta svo fljótt sem verða má". Í því sambandi er eðlilegt að velta því fyrir sér, hvort farið hafi verið að lögum m.v. lögmætisreglu og meðalhóf, að beita sérstökum ráðstöfunum innanlands eftir mánaðamótin janúar-febrúar sl., þar sem þá hafði ekki greinzt smit utan sóttkvíar í 11 daga.

Hvað sem öðru líður, þá virðist farið umfram meðalhóf, þegar sérstakar samkomutakmarkanir, lokunarreglur og grímuskylda gilda, svo [að] nokkur atriði séu tekin, eftir að fyrir liggur, að tíðni sjúkdómsins er ekki umfram það, sem skýra má með því, að um tilviljun sé að ræða, svo [að] gripið sé niður í skilgreiningu sóttvarnalaganna á hugtakinu "farsótt", eins fátækleg og hún nú er. 

Þá ber einnig að skoða nýtt ákvæði 3. mgr., 12. gr. sóttvarnalaga, þar sem segir með tilvísun í 2. mgr., að opinberum sóttvörnum skuli ekki beita, nema brýn nauðsyn krefji til verndar heilsu og lífi manna, og við beitingu ráðstafana sem og við afléttingu skuli gæta meðalhófs og jafnræðis ... , og ekki skuli stöðva atvinnurekstur, nema að því marki, sem starfsemin felur í sér hættu á útbreiðslu farsóttar ...  . 

Ekki verður séð, að ráðstafanir heilbrigðisyfirvalda hafi verið í samræmi við þessi ákvæði sóttvarnalaga undanfarnar vikur, þannig að hvorki hefur verið gætt meðalhófs né lögmætisreglu. 

Hvorki ríkisstjórn né heilbrigðisyfirvöld hafa markað ákveðna stefnu til lengri tíma varðandi viðbrögð við Covid-19 farsóttinni.  Þannig eru engin viðmið um ráðstafanir, sem eðlilegt er að grípa til m.v. tíðni smita eða annars.  Heilbrigðisyfirvöld freistast því til að mæla fyrir um sem harðastar reglur, og ráðherra samþykkir þær allar án athugasemda og virðist ekki skeyta um lögmætisregluna, reglu um meðalhóf og jafnvel ekki ótvíræðan lagatexta sóttvarnalaga og hefur því, ef rétt er, gerzt sek um valdníðslu gagnvart borgurunum." [Undirstr. BJo.]

Höfundur þessa pistils getur með leikmannsaugum ekki séð annað en þessi röksemdafærsla og aðfinnslur hæstaréttarlögmannsins séu hárréttar og eigi fullan rétt á sér. Það er ekki að ófyrirsynju, að löggjafinn hefur takmarkað heimildir sóttvarnaryfirvalda til frelsisskerðandi aðgerða undir merkjum sóttvarna.  Það er m.a. vegna þess, að honum, eins og ýmsum öðrum, er ljóst, að slíkar aðgerðir og afleiðingar þeirra, t.d. atvinnuleysi, hafa mjög slæm áhrif á andlegt og líkamlegt heilsufar fólks. Nýlega áætlaði "The National Bureau of Economic Research" í Bandaríkjunum, að 1,0 M dauðsföll yrðu þar vegna atvinnuleysis af völdum opinberra sóttvarnaráðstafana. Um 0,5 M manns eru nú skráðir látnir af völdum C-19 í BNA. Hérlendis er meira hlutfallslegt atvinnuleysi en í BNA, og er það að mestu leyti af völdum  sóttvarnaráðstafana hérlendis og erlendis. Ef þetta atvinnuleysi hérlendis varir út árið 2021 að mestu óbreytt, verða heilsufarslegar og efnahagslegar afleiðingar hrikalegar og má ætla fjöldi þeirra, sem í valinn falla vegna sóttvarnaráðstafana, verði a.m.k. tífaldur fjöldi látinna vegna sjúkdómsins. 

Nú er nýgengið innanlands aðeins um 0,3, og við þær aðstæður ber að aflétta þegar í stað öllum stjórnvaldshömlum sóttvarnayfirvalda samkvæmt laganna bókstaf.  Jafnframt stingur "þrefalt öryggi" á landamærunum í stúf við varúðarráðstafanir annars staðar í Evrópu, þar sem víðast hvar er látið duga að krefjast sóttvarnarskírteinis.  Hér á landi er þess krafizt auk tvöfaldrar skimunar með sóttkví á milli.  Þetta er brot á lögmætisreglunni og meðalhófsreglunni.  Seinni skimuninni og sóttkvínni ætti að sleppa, og er þá tvöfalt öryggi áfram. 

Í lokin skrifaði Jón Magnússon:

 "Nú er spurningin, fyrst reglurnar, sem hafa verið í gildi, ná markmiði sínu, hvort það sé ekki umfram meðalhóf að gera þessa kröfu um, að ferðamaður framvísi sérstöku PCR-prófi.  Ekki verður annað séð en það sé umfram það, sem málefnaleg sjónarmið geta réttlætt, að gert sé. 

Við beitingu valdheimilda verður að fara að lögum og í samræmi við staðreyndir.  Sé það ekki gert, eru yfirvöld að níðast á borgurunum og geta bakað sér bótaskyldu gagnvart þeim. Mikilvægast er þó, að yfirvöld beri virðingu fyrir þeim lögum og lýðréttindum, sem gilda í landinu, og taki ákvarðanir í samræmi við þau."

 Heilbrigðisráðherranum brást í upphafi bogalistin við að skilgreina viðfangsefnið, sem kórónuveiran SARS-CoV-2 færði Íslendingum.  Í stað þess að ákveða, að hámarkssóttvarnir skyldi leggja til grundvallar ákvarðanatöku hefði átt að leggja lágmörkun heildartjóns samfélagsins til grundvallar.  Sú aðferðarfræði er stærðfræðingum vel kunn og kallast beztun (optimisation). Í stað þess, að einn læknir geri tillögu til ráðherra, ætti sóttvarnarráð, sem skipað væri sóttvarnalækni, lögmanni, fulltrúa frá SA og frá ASÍ og Landlækni að gera tillögu til ráðherra. Landlæknir væri formaður sóttvarnaráðs og atkvæði væru greidd um hvern lið tillögunnar. Ráðherra ætti a.m.k. á 60 daga fresti að gefa Alþingi skýrslu um framkvæmdina, stöðu og horfur, og Alþingi að fjalla um stefnumarkandi þingsályktunartillögur, eins og þurfa þykir.  

  

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband