Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Covid: hin óvænta 4. bylgja

Aftur hefur sænski læknirinn, Sebastian Rushworth, skrifað merka grein á vefsetur sitt um þróun C-19 faraldursins.  Allt ber þar að sama brunni.  Bóluefnin eru gagnslaus eftir um hálft ár frá bólusetningu, og hið eina, sem getur skapað lýðónæmi (hjarðónæmi) gegn pestinni, er náttúrulegt ónæmi, sem líkaminn sjálfur þróar með sér eftir smit.  Þannig hefur það gengið til hingað til með alla sjúkdómsfaraldra, sem lagzt hafa á öndunarfærin, og þau, sem nú reka áróður fyrir endurteknum bólusetningum gegn C-19 ættu að vita betur af reynslunni og þeim vísindaniðurstöðum, sem fyrir hendi eru. Þá er fyrir neðan allar hellur sá áróður, sem nú er rekinn víða um Evrópu, einnig á Íslandi, gegn óbólusettum, því að bólusettir smita aðra áfram og bóluefnin verða gagnslaus innan skamms tíma frá bólusetningu, eins og 4. bylgjan í fullbólusettum löndum sýnir. Í Svíþjóð virðist hins vegar náttúrulegt ónæmi í 70 % íbúanna duga til að hindra bylgju með delta-afbrigðinu í vetur.

Hér fer á eftir þýðing höfundar þessa vefseturs á grein sænska læknisins Sebastians Rushworth, sem birtist á vefsetri hans 20.11.2021:

"Ég var undrandi í fyrstu, þegar margar fullbólusettar þjóðir urðu fyrir barðinu á nýrri bylgju C-19 í haustbyrjun [2021]. Ég var hissa, þ.e.a.s. þar til ég fór að sjá skýrslur um, að vörn bóluefnanna er mun minni en búizt var við og hrapar niður í lággildi að fáeinum mánuðum liðnum frá bólusetningu. 

Í þessu ljósi hef ég verið að bera saman tíðni covid dauðsfalla í mismunandi löndum til að reyna að skilja, hvað er eiginlega um að vera.  Tíðni dauðsfalla er ákjósanlegri en tíðni greindra tilvika, því að hún breytist minna með tímanum.  Tíðni greindra tilvika hefur sveiflazt gríðarlega síðan faraldurinn hófst, þar sem fjöldi sýnataka hefur verið breytilegur með breyttri skilgreiningu á sýkingartilviki og með breytingum á sýnatökuaðferðum.  Greind tilvik eru þess vegna ómögulegt tæki til að skilja, hvernig faraldurinn hefur breytzt með tímanum.  Þó að lönd hafi mismunandi skilgreiningar á covid dauðsföllum, þá virðast þau vera sjálfum sér samkvæm um það í tímans rás.  Tíðni dauðsfalla er þess vegna miklu áreiðanlegri en tíðni greindra tilvika og þess vegna mun gagnlegri til að átta sig á þróun faraldursins. 

Við sjáum á yfirliti um Svíþjóð, að upphafsbylgjan reið yfir um vorið 2020 með upphaflegu Wuhan-veirunni, þá kom fall niður í næstum 0 vegna sumarsins.  Nú orðið ætti öllum að vera ljóst, að covid-19 er mjög árstíðabundin veira, sem eins og aðrar vetrarveirur hverfur að mestu frá því síðla vors fram í haustbyrjun. 

Það, sem næst gerðist samkvæmt sænsku gögnunum er enduruppsveifla Wuhan-veirunnar um haustið 2020, sem byrjar að hjaðna eftir nokkra mánuði, þegar nægilegt lýð- eða hjarðónæmi hefur verið náð.  Þessi hjöðnun stöðvast þó, og við tekur enn örari aukning dauðsfalla fyrir tilstilli brezka alfa-afbrigðisins í Svíþjóð.

Hvernig gat alfa-afbrigðið orsakað aðra bylgju, ef hjarðónæmi hafði þegar verið náð, mætti spyrja ?  Það er vegna þess, að þröskuldur lýðónæmis er háður smitnæmi og dreifimöguleikum veirunnar.  Því meiri dreifimöguleikar, þeim mun hærri verður þröskuldur lýðónæmis.  Þannig var þröskuldi lýðónæmis gagnvart Wuhan-veirunni náð í desember 2020, en þegar alfaafbrigðið mætti á svæðið, hækkaði þröskuldurinn og nýr faraldur reið yfir. 

Stöldrum nú við; alfa afbrigðið herjar hratt á íbúana, og nægilegt lýðónæmi var náð gagnvart þessu nýja afbrigði um miðjan janúar 2021.  Aftur verður erfitt fyrir veiruna að finna ný fórnarlömb, og þá tekur daglegum smitum að fækka niður í umgangspestargildi árstíðarinnar og eru þar þangað til í sumarbyrjun.

Þeim, sem vilja tengja fækkun covid-dauðdaga í febrúar [2021] við bólusetningar, bendi ég á, að aðeins fá % íbúa Svíþjóðar höfðu þá verið bólusett, svo að bólusetningar geta ekki hafa leitt til neinnar fækkunar dauðsfalla. 

Að sumrinu [2021] liðnu hækka gildin að nýju upp í eðlilegri árstíðabundin gildi, en eru áfram lág, eins og búast má við af veiru, sem veldur nú orðið umgangspest, en ekki faraldri.  Jafnvel þótt hið afar smitandi delta-afbrigði hafi borizt til Svíþjóðar síðla vors [2021] og hafi um haustið verið ríkjandi, gat það ekki skapað nýja bylgju vegna þess víðtæka [náttúrulega] ónæmis, sem áður var komið á. 

 Við sjáum svipað mynztur annars staðar, þar sem harkaleg bylgja skall á vorið 2020, eins og í Svíþjóð.  Þar má nefna Nýju Jórvík og Langbarðaland á Norður-Ítalíu.  Þar myndaði Wuhan-afbrigðið fyrstu 2 bylgjurnar, og alfa-afbrigðið myndaði 3. bylgjuna, og síðan ekki söguna meir, þrátt fyrir tilkomu delta-afbrigðisins.  Getuleysi delta-afbrigðisins við að mynda nýja bylgju er hægt að útskýra á 2 vegu - annaðhvort er dreifingargeta þess ekki nægilega mikið meiri en alfa-afbrigðisins til að mynda nýja bylgju á svæðum, þar sem lýðónæmi var þegar komið á gagnvart alfa-afbrigðinu, eða bólusetningarnar gera sitt gagn enn þá.

Förum nú til Indlands út af ályktunum, sem draga má um delta-afbrigðið þaðan:

Snemma árs 2021 verður delta-afbrigðisins fyrst vart á Indlandi og geisar á meðal íbúanna.  Mótefnisprófanir á íbúunum leiddu í ljós, að 50 % íbúanna sýktust á aðeins fárra mánaða skeiði, svo að hlutfall íbúanna með mótefni hækkaði úr 20 % í 70 %, sem er nægilega hátt hlutfall til að mynda lýðónæmi, svo að veirudreifingin hrapar niður á lágt umgangspestarstig. Athugið, að bóluefnin léku greinilega ekkert hlutverk hér, því að aðeins fá % íbúanna á Indlandi höfðu verið bólusett á þeim tíma, þegar dánartíðnin hrapaði niður í lág gildi, eins og átti sér stað í Svíþjóð.

Nú skulum við snúa okkur að löndum, sem hafa orðið fyrir barðinu á 4. bylgju faraldursins í haust [2021], og reyna að finna skýringu.  Tökum Ísrael sem dæmi:

Ísrael tókst að forðast víðtæka dreifingu covid vorið 2020.  Um haustið skall Wuhan-afbrigðið á Ísraelum, og einmitt í þann mund, að lýðónæmið náði gildi, sem fær dreifinguna til að hægja á sér, varð landið fyrir árás alfa-afbrigðisins, sem leiddi til hámarks í tíðni dauðsfalla af völdum covid seint í janúar 2021.  Á þeim tíma var þegar búið að bólusetja 20 % íbúanna að fullu, svo að hér gætu bólusetningarnar hafa átt þátt í að fækka dauðsföllum.  Þær gætu verið skýringin á því, að dauðsföllum fækkar síðan mjög mikið í stað þess að hjakka í umgangspestargildum alveg fram í maí [2021], eins og í Svíþjóð (þar sem bólusetning gekk mun hægar). 

Tíðni covid-dauðsfalla var áfram lág allt sumarið, eins og búast mátti við.  Þá komum við að haustinu 2021 og hinni óvæntu 4. bylgju, eða ekki svo óvæntu, ef litið er á gögnin, sem sýna, að skilvirkni bóluefnanna dvínar hratt, einnig sá eiginleiki, sem átti að koma í veg fyrir alvarleg veikindi (sem á sérstaklega við um viðkvæma eldri borgara, sem raunar eru eini hópur samfélagsins, sem er í mikilli hættu út af covid-19). [Gerð er grein fyrir þessum gögnum í 

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271869

og

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271929   ]

Jæja, Ísrael mátti þola 4. bylgjuna, eins og mörg önnur lönd.  Hvers vegna eru svæðin, sem gerð var grein fyrir í upphafi pistilsins, Svíþjóð, Langbarðaland og Nýja Jórvík, ekki þolendur 4. bylgju núna ?

Frá mínum bæjardyrum séð eru 2 möguleikar fyrir hendi.  Sá fyrri er, að íbúar þessara svæða hafi myndað svo víðtækt náttúrulegt ónæmi, þegar þeir urðu fyrir mikilli dreifingu covid-19 nokkuð lengi fram á vorið 2020, að þeir hafi nú afgreitt þennan faraldur fyrir sitt leyti og fleiri faraldra [SARS-CoV-2] sé ekki að vænta.  Í Ísrael er bólusetning útbreidd, en hafði í haustbyrjun 2021 orðið fyrir covid-dreifingu í færri mánuði [en téð 3 svæði], og þar af leiðandi hafði lægra hlutfall íbúanna en á viðmiðunarsvæðunum 3  þróað með sér náttúrulegt ónæmi frá fyrri sýkingum.  Það hefur nú verið leitt rækilega í ljós, að ónæmi, sem rætur á að rekja til sýkingar, er miklu varanlegra en ónæmið, sem framkallað er með bólusetningu. Þetta er eðlileg kenning núna, þegar við vitum, hversu mjög á reiki ónæmið er, sem bólusetningar framkalla.

Það getur verið upplýsandi núna að líta til Austur-Evrópu.  Austur-evrópsku ríkin hafa orðið sérstaklega illa úti í haust [2021].  Þar má nefna Búlgaríu og Slóvakíu. 

 Mér finnst tvennt vera athyglisvert þarna. Í fyrsta lagi sluppu bæði löndin nánast alveg vorið 2020.  Í öðru lagi var hröð dreifing veirunnar í gangi, þegar sumarkoman olli mikilli fækkun smita.  Þessar þjóðir náðu þess vegna aldrei lýðónæmi gagnvart meira smitandi afbrigðum, og þess vegna hlaut veiran að taka sig upp aftur haustið 2021.

Jæja, fyrri mögulega skýringin mín á því, að sum landsvæði verða ekki tiltakanlega fyrir barðinu á 4. bylgjunni, er sú, að þar sé þegar fyrir hendi nægilegt náttúrulegt lýðónæmi, sem verndi íbúana.  Sú síðari er, að íbúar þessara svæða njóti nú tímabundinnar verndar á þeim grunni, að íbúarnir voru bólusettir seinna en t.d. íbúar Ísrael.  Sé sú skýring rétt, mun 4. bylgjan skella á þeim eftir einn mánuð eða tvo. 

Gögn frá Þýzkalandi benda til, að fyrri skýringin sé líklegri, því að nú eru Þjóðverjar á leið inn í 4. bylgjuna.  Hafið í huga, að Þjóðverjar, eins og Ísraelar, urðu lítið varir við covid-19 um vorið 2020.  Hins vegar reið stór bylgja yfir þar veturinn 2020/2021 með Wuhan-afbrigðinu. Síðan kom smátoppur með alfa-afbrigðinu, sem myndaði meginálagið á Þýzkaland í apríl [2021].  Hins vegar komu hlýindi sumarkomunnar í veg fyrir myndun stórrar bylgju með alfa-afbrrigðinu. Á þessu skeiði voru Þjóðverjar bólusettir upp til hópa, og áttu flestar bólusetningarnar sér stað á tímabilinu marz-júní.  Þetta er ákaflega svipað bólusetningarferli og í Svíþjóð, þar sem flestir voru bólusettir í marz-júní [2021]. 

Hvers vegna verður Þýzkaland þá fyrir nýrri bylgju núna [haustið 2021], en Svíþjóð ekki ?

Ljóslega er skýringarinnar ekki að leita í, að Þýzkaland hafi orðið fyrri til við bólusetningar og íbúarnir hafi þess vegna misst sitt ónæmi fyrr, því að báðar þjóðirnar voru bólusettar á sama tíma.  Þess vegna hallast ég að réttmæti fyrri kenningarinnar, að Svíar hafi myndað náttúrulegt lýðónæmi með því, að covid hóf að breiðast mjög út í Svíþjóð vorið 2020, en útbreiðslan í Þýzkalandi hófst ekki að ráði fyrr en haustið 2020.  Þrátt fyrir að áhrif bóluefnanna hafi þegar rýrnað í báðum löndum, þá er Svíþjóð varin með sínu víðtæka náttúrulega ónæmi, en Þýzkaland ekki.  Ef þetta er rétt, mun Svíþjóð ekki verða fyrir barðinu á fleiri stórum bylgjum.  Eftir mánuð eða tvo [um áramótin 2021-2022] munum við vita sannleika þessa máls.    

 

 

 


Verður eflingarsprauta á 4 mánaða fresti ? - 2 af 2

Hér fer á eftir þýðing skrifara á síðari hluta vefgreinar Sebastians Rushworths 5. nóvember 2021 um hneykslanlega lélega endingu C-19 bóluefnanna.  Í stað þess að viðurkenna haldleysi bóluefnanna, er frá líður, er bætt við sprautum með ærnum samfélagslegum kostnaði og heilsutjóni, sem engin yfirsýn er á núna.  Það er eins og Bakkabræður hafi ákveðið að skella á stórtækri tilraunastarfsemi á kostnað skattborgaranna. Engin heildstæð stefnumörkun er fyrir hendi hjá heilbrigðisyfirvöldum landsins um að komast út úr þessum faraldri, nema stöðugar bólusetningar, og sú leið er ófær að mati Sebastians Rushworth, sem greint hefur skilvirkni bóluefnanna sem óviðunandi.  Þar er um misheppnaða vöru að ræða, sem fyrir löngu ætti að vera búið að gangast við af hálfu framleiðendanna. Það er auðveldara að ná fram hjarðhegðun en hjarðónæmi.  Hið síðar nefnda næst úr þessu aðeins á náttúrulegan hátt. Að telja fólki trú um, að "örvunarsprautan" skili okkur til hjarðónæmis, er líklega hreinræktuð óskhyggja, sem ekki styðst við neinar marktækar rannsóknir.  

"Ef ríkisstjórnum hefði ekki legið svona mikið á að koma bóluefnum í borgarana, en hefðu þess í stað krafizt 6 mánaða reynslutíma af tvöföldu blindprófi með bóluefnin, í stað 2 mánaða, hefði aðeins Moderna-bóluefnið verið viðurkennt í upphafi. 

Þegar við athugum lengra tímabil en 6 mánuði frá bólusetningu, verður ástæða til að verða enn niðurdregnari.  Við 9 mánaða markið veitir Pfizer-bóluefnið ekki lengur nokkra vörn við einkennum covid-19.  Því miður voru ekki til haldbær gögn um Moderna-bóluefnið eftir 9 mánuði vegna aðeins fárra, sem hlutu bólusetningu með því fyrir 9 mánuðum, en að 6 mánuðum liðnum hafði eiginleiki Moderna til að hindra smit C-19 með einkennum fallið niður í aðeins 59 %.  Þannig virðist vera samfellt fall í skilvirkni Moderna-bóluefnisins við sérhverja áfangaathugun, og ekkert bendir til stöðvunar fallsins.

Hvað kemur í ljós, ef við lítum á lýðfræðilega undirhópa, t.d. eldri borgara, sem eru í langmestri áhættu vegna covid-19, og eiga þess vegna mest undir gagnsemi bólusetninganna ?

Fólk yfir 80 sýndi í upphafi sterk viðbrögð við bóluefninu, þ.e. 73 % lækkun hlutfallslegrar áhættu einkennasmits eftir 1-2 mánuði frá bólusetningu.  Hins vegar lækkar þetta niður í aðeins 50 % eftir 2-4 mánuði og eftir 6 mánuði er gagnsemin alls engin.  Jafnvel fyrir miðaldra (50-64 ára), sem hafa virkara ónæmiskerfi og ættu þess vegna að bregðast öflugar við bóluefnunum, eru þau gjörsamlega gagnslaus við að hindra sýkingu með einkennum eftir 4-6 mánuði.  Eini hópurinn, þar sem skilvirkni bóluefnanna er meiri en 50 % eftir 4 mánuði, er undir 50 ára aldri (skilvirkni 51 % eftir 4-6 mánuði). 

Hversu góð bóluefnin eru við að koma í veg fyrir smit með einkennum, er auðvitað ekki aðalatriðið, ef við venjulega eigum við með einkennasmiti eitthvað í líkingu við algengt kvef fremur en Spænsku flensuna.  Það, sem höfuðmáli skiptir, er, hversu vel bóluefnunum tekst að koma í veg fyrir alvarleg veikindi.  Nú skulum við skoða það.

 Á tímabilinu 1-2 mánuðum frá bólusetningu leiddu bóluefnin til 91 % áhættulækkunar að lenda á spítala eða deyja.  Á tímabilinu 4-6 mánuðum féll þetta í 74 %, og frá 6 mánuðum lækkaði áhættuminnkunin í 42 %, þótt mismunur á áhættu bólusettra og óbólusettra að þessu leyti væri ekki lengur tölfræðilega marktækur.  M.ö.o. var ekki lengur tölfræðilega marktækur munur á áhættu bólusettra og óbólusettra sjúklinga að lenda í alvarlegum veikindum með spítalavist eða að deyja.  

[Undirstrikun skrifara.]

Ég tel 2 mögulegar skýringar á hröðu falli á virkni bóluefnanna.  Sú fyrri er, að það sé vegna takmarkaðs ónæmis af völdum bóluefnanna, og hin seinni er stöðug þróun veirunnar og einkum ris Delta-afbrigðisins.  Ef seinni skýringin er rétt, er alls engin ástæða til að gefa fólki viðbótar sprautur (örvunar), því að þær mundu ekki gera nokkurn skapaðan hlut til að bæta ónæmið.

Ef fyrri skýringin er rétt, er viss ástæða til viðbótar sprautu, þótt það virðist fráleitt að sprauta alla með viðbót á 4 mánaða fresti gegn veiru, sem fyrir flesta hefur ekki meiri áhrif en kvef, og 99,8 % af smituðum lifa C-19 af, og þótt verulegt náttúrulegt ónæmi sé nú þegar fyrir hendi í öllum samfélögum vegna allra þeirra, sem nú þegar hafa smitazt af covid.  Ólíkt skammtíma vörn bóluefnanna, hefur vörnin, sem verður til við smit, reynzt vera bæði endingargóð og breiðvirkandi, þrátt fyrir ruslvísindi, sem halda fram hinu gagnstæða og CDC [Centers for Disease Control and Prevention í BNA] stendur að. Hins vegar er rík ástæða til reglulegra bólusetninga fjölveikra eldri borgara á 4 mánaða fresti, helzt með Moderna-bóluefninu.

Jæja, hvaða ályktanir getum við núna dregið ?

Bóluefnin eru miklu óskilvirkari en búizt var við upphaflega, og skilvirknin fellur hratt.  Með þessa vitneskju í farteskinu er hugmyndin um, að hægt sé að bólusetja þjóðir til að losna við faraldurinn, hrein vitleysa.  [Sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra Íslands (Svandís S.) halda þessari bölvaðri vitleysu (bolaskít) enn að þjóðinni.]  Eina leiðin til að losna við faraldurinn er, að nægilega margir smitist og þrói með sér náttúrulegt ónæmi, en þannig hafa allir undangengnir veirufaraldrar í öndunarfærum horfið.  

  

 

 

 


Einkennilega að verki verið

Stærsta framkvæmd ríkisins um þessar mundir er NLSH (Nýr Landsspítali-Háskólasjúkrahús).  Það er kraumandi óánægja innan spítalans með ýmis hönnunaratriði NLSH, og eitthvað virðist á reiki, hver hönnunarstjórinn er.  Það er ekki farið að ráðum yfirlækna spítalans um hönnunina, og þeir gagnrýna forstjóra spítalans og framkvæmdastjórn hans fyrir lítilsvirðandi framkomu, þar sem yfirstjórn spítalans hefur ekki tekið mark á ráðleggingum yfirlæknanna, sem ásamt öðrum þurfa að búa við gallaða hönnun, runna undan rifjum einhverra pótintáta, sem telja sig vita betur og vera í stöðu til að sniðganga yfirlæknana.  Nú hefur forstjórinn yfirgefið stól sinn, og kunna þessar væringar, sem sennilega eru bara toppurinn á ísjakanum, að eiga þátt í brotthlaupi hans.  

Allt vitnar þetta um ófremdarástand á þjóðarsjúkrahúsinu, stærstu ríkisstofnuninni.  Heilbrigðisráðuneytinu hefur farizt yfirstjórn hennar  illa úr hendi.  Það er þörf á að breyta til og innleiða nýtt stjórnkerfi á spítalanum.  Þar gefur kostnaðargreining og greiðslur fyrir samningsbundin verk við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) von um hvata fyrir starfsemina, sem e.t.v. bætir vinnuandann og eykur afköst sjúkrahússins (afköst starfsmanna eru mikil nú, en mannskap vantar), en meginmálið er að rjúfa bein stjórnunartengsl ráðuneytisins og spítalans með stjórn, sem þá verður ábyrg gagnvart ráðherra, ræður forstjóra og semur nýtt skipurit, e.t.v. með færri silkihúfum en nú eru. 

Þann 21. október 2021 báru 5 yfirlæknar Landsspítalans sorgir sínar og áhyggjur af hönnun NLSH á torg með grein í Morgunblaðinu undir heitinu: 

"Um sýndarsamráð við fagfólk á sjúkrahúsi".

Höfundarnir eru yfirlæknar ranssóknardeilda Landsspítalans: Björn Rúnar Lúðvíksson, Ísleifur Ólafsson, Jón Jóhannes Jónsson, Páll Torfi Önundarson og Sveinn Guðmundsson.

Grein þessi hófst þannig:

"Í grein 17. september sl. í Morgunblaðinu vöruðu 4 yfirlæknar læknisfræðilegra rannsóknastofa á Landspítalanum við því, að virt væru að vettugi ráð þeirra við hönnun nýs rannsóknahúss spítalans hvað varðar óæskilega staðsetningu þyrluparls og ófullnægjandi skrifstofuaðstöðu ("opin verkefnamiðuð vinnurými"). 

Í svörum Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjóra nýs Landspítala ohf. (NLSH) í Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu og netpósti kemur fram, að hönnunin sé byggð á "þarfagreiningu, húsrýmisáætlun og forsendum verksins, sem komi frá notendum LSH". "Um sé að ræða stærsta notendastudda hönnunarverkefni Íslandssögunnar ", sem hátt í 200 "starfsmenn spítalans" hafi komið að og "allir, sem komi að verkefninu, séu vissir um að vera á réttri leið."."

Ef ráðið er í þessi orðaskipti, er téður Gunnar Svavarsson að segja, að skrifstofa forstjóra LSH hafi útnefnt þá, sem vera skuli hönnunarteymi NLSH til ráðuneytis um þarfagreiningu og hönnun rannsóknarbyggingarinnar, og að yfirlæknarnir eigi þar af leiðandi ekki að fetta fingur út í þá vinnu.  Hér er eitt dæmið um það, að tannhjól NLSH og LSH grípa ekki saman.  Það er ills viti.  Hlutverk yfirlækna á LSH samkvæmt lögum og í reynd ætti að valda því, að ábendingar þeirra á hönnunarstigi ættu að vega afar þungt.  Í ljósi þessa verður heilbrigðisráðuneytið að taka af skarið um þetta, ef starfandi forstjóri sjúkrahússins hefur ekki gert það nú þegar.  

Þyrlupalli sjúkrahússins hefur verið valinn slæmur staður, líklega ónothæfur staður.  Breytt staðsetning leiðir sennilega til kostnaðarauka í byrjun, en heppilegri staðsetning gæti lækkað rekstrarkostnað.

Að ætla að setja yfirlæknana í opið vinnurými er fáheyrt tillitsleysi og/eða skilningsleysi á eðli viðkvæmra starfa þeirra.  Samtöl þeirra og vinnugögn eiga ekki að vera opin þeim, sem í grenndinni kunna að vera, eða eiga leið framhjá.  Hér virðast "þarfagreining og húsrýmisáætlun" NLSH vera í skötulíki.  Það er lágmark, að yfirlæknarnir fái þessi gögn í hendur, svo að þeim verði gefinn kostur á að rýna þau og gera gagntillögu til starfandi forstjóra spítalans og ráðuneytisins. 

"Á fundi allra fagstjórnenda rannsóknadeilda og röntgendeilda Landspítala 22. september sl. var gerð könnun á afstöðu þeirra til fyrirhugaðra opinna skrifstofurýma.  "Töldu 6 af 6 yfirlæknum og 9 af 9 lífeindafræðingum og líffræðingum, að opin skrifstofurými myndu torvelda þeim að rækja störf sín vel.  Allir mæltu á móti opnum vinnurýmum stjórnenda og sérfræðinga, sem fara með viðkvæm mál og þurfa næði.  Ljóst er, að einhverjir pótintátar hafa verið teknir fram yfir yfirlækna og deildarstjóra í þann hóp 200 starfsmanna, sem hannar bygginguna, og "eru allir sammála".  Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur ekki tekizt að fá lista yfir þessa 200 starfsmenn."

Einhugur býr að baki þessum mótmælum yfirlækna og sérfræðinga, og að sama skapi virðist vera einbeittur brotavilji forráðamanna LSH og/eða NLSH um að sniðganga þessa lykilstarfsmenn sjúkrahússins við hönnun þess.  Þetta flettir ofan af alvarlegri brotalöm við stjórnun spítalans, sem verður afdrifarík, ef hún verður ekki fjarlægð. "Something is rotten in the state of Danemark", var sagt, en þetta rotna sár í stjórnkerfi LSH/NLSH getur lamað hann, á meðan starfsemi fer þar fram. 

Það er alveg ljóst, að uppstokkunar er þörf á Landsspítalanum.  Neyðaróp starfsmanna undanfarið og hörð gagnrýni á framkvæmdastjórn spítalans eru til vitnis um vandamálið.  Nýr heilbrigðisráðherra verður að láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum að hreinsa graftarkýli Landsspítalans.

"Lög heimila forstjóra ekki að bera faglega ábyrgð á lækningum.  Hans hlutverk er annað.  Því síður mega aðilar, sem sitja í framkvæmdastjórn á grunni framselds valds forstjóra bera faglega ábyrgð.  Umboðsmaður Alþingis hefur endurtekið áréttað, að vegna heilsufarslegra hagsmuna sjúklinga megi forstjórar ekki að eigin hentisemi færa lögboðna ábyrgð frá yfirlæknum til annarra, "forstöðumanna" eða "framkvæmdastjóra" eða hvaða nafni forstjóri kann að nefna aðstoðarmenn sína.  Slíkir aðilar hafa, auk skorts á menntun í viðkomandi greinum, ekki lagalega heimild til þess að stýra lækningum.

Stjórn læknaráðs Landspítala ályktaði gegn opnum skrifstofurýmum fyrir 11 árum og taldi "það vera óviðunandi og mikla afturför, ef sérfræðilæknar verða látnir hafa skrifstofuaðstöðu í stórum opnum rýmum ... , ef til stendur að bjóða læknum lakari vinnuaðstöðu á Landspítalanum en þeim býðst [...] erlendis, mun það aðeins gera mönnunarvandann enn verri"."

Forstjóri LSH og framkvæmdastjóri NLSH geta ekki skotið sér á bak við það, að skoðun læknaráðsins hafi ekki verið fyrir hendi.  Rök þess eru réttmæt, og það sætir furðu, að hönnunarstjóri NLSH og/eða framkvæmdastjóri skuli vera svo aftarlega á merinni árið 2021 varðandi aðbúnað starfsfólks að ætla téðum sérfræðingum vinnuaðstöðu í opnu rými, hvort sem þeir eiga sér þar fastan samastað eða eiga bara að taka þann bás, sem laus er hverju sinni, þegar þá ber að garði.  Þá geta básarnir verið færri en starfsmennirnir.  Þetta er illur fyrirboði um það, sem koma skal (í ljós) á NLSH, og er þó ekki allt fagurt í fortíðinni á þeim bæ.

Lok þessarar þörfu opinberunar yfirlæknanna á stjórnarháttum skrifstofu forstjóra og framkvæmdastjóra NLSH voru þannig:

"Hvers vegna hefur framkvæmdastjórn Landspítala ekki komið sjónarmiðum læknaráðs og yfirlækna rækilega til skila við hönnun spítalans ?  Að hlusta ekki á ráð yfirlækna og læknaráð á lækningastofnun er óneitanlega alvarlegt og skondið í senn.  En staðreyndin er sú, að sjónarmið yfirlækna og sérfræðilækna hafa verið sniðgengin um árabil.  Það getur haft afdrifaríkar afleiðingar, hvað varðar notagildi, og öryggi þessarar stærstu nýbyggingar Íslandssögunnar.  

Það er miður, að staðið sé að spítalabyggingu, eins og hér er lýst.  Vegna sýndarsamráðsins sáum við okkur nauðbeygða til að vekja athygli á málunum í fjölmiðlum.  Þrátt fyrir að greinin vekti athygli í þjóðfélaginu, svaraði enginn, sem ber ábyrgð á hönnun rannsóknarhússins.  Þær systur sýndarsamráð og þögnin duga ekki.  Einhver aðili hlýtur að þurfa að taka af skarið og leiðrétta mistökin áður en byggt verður."

Yfirlæknarnir eiga þakkir skildar fyrir að fletta ofan af alvarlegri meinsemd innan stjórnkerfis LSH, sem hefur verið leyft að smita yfir í NLSH, þar sem meinsemdin getur valdið miklu tjóni á heilbrigðiskerfi þjóðarinnar næstu áratugina, á meðan miðstöð lækninga verður við Hringbrautina. 

Óstjórn heilbrigðisráðuneytisins hefur leyft valdaklíku að grafa um sig á Landsspítalanum, sem sennilega er saman komin í framkvæmdastjórninni.  Hana ber að leysa upp samhliða því, að sett verður stjórn yfir spítalann, þar sem hvorki verða starfsmenn ráðuneytisins né spítalans.  Völdin þarf að færa þangað, sem þau eiga heima vegna þess, að saman verða að fara völd og ábyrgð.  Lögin gera ráð fyrir athafnafrelsi og ábyrgð yfirlækna, og þau ber að virða.  Það er ófært, hvort sem er á ríkisstofnun eða í einkafyrirtæki, að starfsmenn, sem gegna lykilhlutverki fyrir viðgang starfseminnar, séu hafðir í spennitreyju.  Það leiðir af sjálfu, að við hönnun og tækjaval á NLSH verður að hafa virkt og heiðarlegt samráð við þá, sem starfsemin mun mæða á. Nýs heilbrigðisráðherra bíður mikilvægt hlutverk endurreisnar Landsspítala Háskólasjúkrahúss.  Hefur hann þau bein í það, sem þarf ?

  


Tilraunaeldhús pólitískra trúða

Leiðtogar vinstri flokkanna (að Viðreisn meðtalinni) virka eins og jólasveinar komnir til byggða á vitlausum tíma til að útdeila gjöfum á meðal barnanna. Gjafir þessar eru afrakstur aukinna millifærslna á vegum ríkissjóðs frá einum til annars í þjóðfélaginu. Venjulega hefur þetta brambolt lítil áhrif til góðs, en þenur ríkisbáknið út enn meira og dregur úr fjárfestingum og hagvexti. Bramboltið leiðir til miklu minni tekjuauka ríkissjóðs en jólasveinarnir höfðu látið reikna út fyrir sig, ef þeir hafa ekki notað vafasamar aðferðir til að komast að vitlausri niðurstöðu, og þá munu þeir grípa til þeirra gamalkunnu kjánaúrræða að slá lán fyrir bramboltinu.  Píratarnir hafa lýst yfir, að það sé allt í lagi, því að þetta sé fjárfesting í fólki til framtíðar !.  Vitleysan hefur verið yfirgengileg. Leiksýning trúðanna náði hámarki á RÚV kvöldið fyrir kjördag. Heilbrigð viðhorf til landsmála voru þar í minnihluta.

Afleiðingin af öllu þessu verður aukin innlend verðbólga og ofan á hana mun leggjast innflutt verðbólga, en verðbólga vex nú um allan heim vegna framboðsskorts á vöru og þjónustu af völdum Kófsins.  Skortur er á jarðgasi, svo að orkuverð hefur rokið upp úr öllu valdi (40 % hækkun á tveimur vikum í september 2021 og tvöföldun á árinu 2021).

Engum vafa er undirorpið, að Seðlabankinn mun gera gagnráðstafanir til að auka trúverðugleika verðbólguviðmiðsins, 2,5 % á ári, með vaxtahækkun og jafnvel draga úr peningamagni í umferð eftir mætti.  Þetta mun fella hlutabréf í verði, reka hagvöxt niður að 0 og valda skuldugum fyrirtækjum og heimilum búsifjum, um leið og húsnæðisverð gæti lækkað.  Smjaðrandi leppalúðar og skessur, lofandi gulli og grænum skógi á kostnað máttarstólpa þjóðfélagsins, reynast ekkert annað en síðasta sort af lýðskrumurum, sem allt snýst í höndunum á, af því að vitið er takmarkað og engan veginn fallið til stjórnunar. 

Samkvæmt gildandi fjármálaáætlun verða vaxtagreiðslur A-hluta ríkissjóðs næstu 5 ára, 2022-2026, tæplega mrdISK 400 eða tæplega 80 mrdISK/ár.  Með Reykjavíkurmódelið í Stjórnarráði Íslands mun þetta hækka mjög og verða tilfinnanlegur baggi á ríkissjóði og getur leitt til verra lánshæfismats, sem allir vita, hvað þýðir.  Óreiðan er aldrei ókeypis. 

Þann 20. september 2021 birtist í Morgunblaðinu útdtáttur úr viðtali við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra.  Hann sagði þar m.a. undir fyrirsögninni:

"Hætt við algjörum glundroða":

 

"Okkar verkefni er að draga fram þá valkosti, sem til staðar eru.  Þeir eru mjög skýrir; annaðhvort erum við áfram í ríkisstjórn og höfum áhrif á þinginu og í stjórnarsáttmála og við stjórnarmyndunina, við ríkisstjórnarborðið, hvort sem það eru mál, sem við sjáum fyrir okkur núna, önnur, sem koma upp á tímabilinu, eða þá að það verður stefnubreyting. Það verður stefnubreyting í átt til hærri skatta, meiri ríkisútgjalda og minni stöðugleika.  Ég segi fullum fetum, að slík stjórn muni missa tökin á efnahagsmálunum, því [að] viðvörunarmerkin eru þegar komin, t.d. frá Seðlabankanum, um, að menn verði að stilla opinberu fjármálin við stöðuna í hagkerfinu." 

Það, sem mun gerast, verður endurtekning frá 2009-2013, þegar forgangsröðun var svo vitlaus, að það var hlaupið eftir öllum verstu kreddunum, en hagsmunir almennings lágu algerlega óbættir hjá garði.  Það má nefna umsóknina um aðlögunarviðræður við Evrópusambandið (ESB).  Það verður byrjað á að rugla fólk og ESB í ríminu með þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, þótt enginn meirihluti verði fyrir málinu á þingi.  Málið verður fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema þátttakan verði mjög lítil.  Ef ekki og aðlögun lýkur á kjörtímabilinu, og niðurstöður þjóðar og þings verða öndverðar, þá kemur upp stjórnarskrárkreppa, algerlega að óþörfu. 

Þá verður reyndar vafalaust tekið til við að reyna að rústa lýðveldisstjórnarskránni á kjörtímabilinu, því að hún leyfir ekki fullveldisframsal, eins og innganga í ESB mundi fela í sér. 

Alls konar gæluverkefni verða sett á flot, sem kosta munu ríkissjóð mikið, en skila engu í auknum tekjum eða framleiðni.  Heilbrigðiskerfið mun sökkva enn dýpra í forað einokunar ríkisrekstrar, sem mun magna skortinn á læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum í þessum geira, og þjónustan við skjólstæðingana mun nálgast það, sem þekkist í kúbanska heilbrigðiskerfinu, þ.e. hægt verður að kaupa sig fram fyrir endalausar biðraðir.  Vitlausasta hugmynd allra tíma, sósíalisminn, mun tröllríða heilbrigðiskerfinu og öllum ríkisrekstrinum. 

"Stjórnarandstaðan hefur verið léleg, ég get tekið undir það.  Ég verð nú að segja, að við erum annars vegar með heilsuvána, veiruna, og hins vegar efnahagslegar áskoranir.  Af hverju gátum við gert þetta, sem við gerðum ?  Af hverju var skuldastaðan svona góð ?  Það er búið að vinna að því baki brotnu í mörg kjörtímabil.  Þegar ég kom í fjármálaráðuneytið á sínum tíma [2013], vorum við föst í höftum, vorum með slitabúin óuppgerð, vorum rétt að skríða í afgang, og við vorum enn þá með marga mjög háa skatta.  Við fórum í að láta auðlegðarskattinn renna út, raforkuskattinn renna út, afnema bankaskattinn, afnema vörugjöld á Íslendinga, [sem] borguðu himinhá vörugjöld af alls konar heimilisvörum, húsbúnaði, fötum og skóm.  Tókum um 1800 vöruflokka í 0.  Við slógum niður tolla, fórum svo í tekjuskattinn, tryggingagjaldið, örvuðum hagkerfið.  Snerum við stöðu þjóðarbúsins."

Allir sjá í hendi sér, hversu þensluvekjandi og hagvaxtarhamlandi öll þessi gjöld voru, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafði forgöngu um, að Alþingi létti af almenningi.  Tiltölulega mest báru þeir þar úr býtum, sem úr minnstu höfðu að spila.  Sósíalisminn er reistur á þeim misskilningi, að bezt sé fyrir fátæka, að stjórnmálamenn dragi sem mest frá aflaklónum inn í ríkissjóð (eða sveitarsjóði) til að deila verðmætunum aftur út á meðal þegnanna. Við þetta dregur úr hvötum til að afla fjár, og verðmæti rýrna í meðförum hins opinbera við að halda úti bákninu.  Þetta leiðir til minni verðmætasköpunar í samfélaginu, þ.e. minna verður til skiptanna en ella, og allir verða fátækari að efnum.  Þess vegna fer bezt á því að halda vinstri krumlunum frá kjötkötlunum.  Vinstri menn eru upp fullir af meinlokum um eitthvert réttlætishlutverk sitt í stjórnmálum. Réttlæti þeirra er fólgið í því að ganga í skrokk á öflugum launamönnum, sjálfstæðum atvinnurekendum og hirða af þeim enn meira fé til að útdeila til þeirra, sem eru þeim þóknanlegir. Slíkt er ekki réttlæti.  Slíkt er lýðskrum. 

Lengst gengur ofbeldið í garð atvinnurekstrar í landinu um þessar mundir gegn sjávarútveginum, svo að jafna má við einelti.  Öfundaráróðurinn og afskiptasemin gengur svo langt hjá þessum siðlausu stjórnmálamönnum, að þeir fetta fingur út í fjárfestingar fyrirtækja í sjávarútvegi utan greinarinnar. Hvað varðar stjórnmálamenn um þetta, og hvernig dirfast þeir að fjalla um þetta nánast sem glæpsamlegt athæfi ?  Lögmálið er, að þangað leitar fjármagnið, sem það gefur tryggasta og bezta ávöxtun.  Hagnaður er einfaldlega minni í sjávarútvegi en almennt í öðrum atvinnurekstri, og það er m.a. vegna hárra sérgjalda, sem lagðir eru á sjávarútveginn.  Veiðigjöld nema nú 33 % af hagnaði, og síðan kemur auðvitað almennur tekjuskattur.  Þeir stjórnmálamenn, sem fiska í gruggugu vatni með ofsóknum á hendur sjávarútveginum, eru svo herfilega úti að aka um hlutverk sitt í stjórnmálum, að halda mætti, að þeir væru ekki með öllum mjalla. 

Hvað sagði Bjarni Benediktsson um stjórnun handhafa réttlætisins (til vinstri) á heilbrigðismálunum ?:

"Það hefur verið vandamál, að við höfum séð of mikla sóun í kerfinu og of lítinn vilja til að treysta grunninn á bak við blandað kerfi. Við höfum verið föst í kreddum í heilbrigðismálum, sem einmitt lúta að rekstrarforminu, og þess vegna er það áherzlumál okkar í þessum kosningum í þessum málum að líta á heilbrigðisþjónustuna út frá þörfum sjúklinganna.  Við erum alltaf föst í einhverri umræðu um þarfir kerfisins; að þessi aðili þurfi meira fjármagn.  Þetta á ekki að hugsa svona.  Sjúkratryggingar gera þjónustusamninga fyrir hönd sjúklinganna.  Horfum á þetta út frá þörf þeirra, sem sækja þjónustuna."  

  Vinstri flokkarnir eru rígfastir í kreddunum, að ríkisstarfsmenn verði að veita þá þjónusta, sem Sjúkratryggingar Íslands eiga að kaupa handa okkur samkvæmt lögum. Eins og vanalega sjá þeir ekki lengra en nef þeirra nær, þ.e. þeir eru fastir í vonlausum og löngu úreltum kreddum og neita að horfast í augun við afleiðingar þessara vanhugsuðu kenninga sinna.  Þær eru í þessu tilviki einokun ríkisins á starfsemi heilbrigðisgeirans, sem leiðir óhjákvæmilega til bæði dýrari og lakari þjónustu, lakari kjara fyrir starfsfólkið og áhugaleysi á að ráða sig í vinnu hjá einokunaraðilanum.  Það leiðir síðan til s.k. "mönnunarvanda", sem þýðir, að fólk tollir illa á falkinn1_444247vinnustað og nýútskrifaðir leita annað, t.d. til útlanda á tímum frjáls flutnings vinnuafls og mikillar spurnar eftir heilbrigðisstarfsmönnum hvarvetna í heiminum.  Ríkiseinokun í þessum geira er andvana fædd, eins og á öllum öðrum sviðum, enda er sósíalisminn vitlausasta hugmyndafræði, sem maðurinn hefur álpazt til að setja á koppinn.  Sjálfstæð lækningafyrirtæki, stór og smá, eiga að standa jafnt að vígi og ríkisrekin fyrirtæki að taka að sér starfsemi (með útboði) á þeim sviðum, þar sem þau geta boðið fram fullnægjandi gæði á samkeppnishæfu verði.

 

 


Umgjörð sjúkrahúsanna hefur gengið sér til húðar

Af mikilli umræðu um heilbrigðismálin nú í aðdraganda Alþingiskosninga má ráða, að þar sé pottur brotinn. Tvennt ber þar hæst.  Fjármögnun sjúkrahúsanna, einkum Landsspítalans, og aðför heilbrigðisráðuneytisins að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki með þeirri aukaverkun, að viðskiptavinir þess standa ver að vígi gagnvart Sjúkratryggingum Íslands. 

Það er árlegt fréttaefni, að fjárveitingar til Landsspítala hrökkvi ekki fyrir kostnaðinum. Björn Zoëga (BZ), forstjóri Karólínska í Stokkhólmi, hefur nýlega tjáð sig á þá lund hérlendis, að það sé úrelt þing að hafa sjúkrahús á föstum fjárlögum.  Það er út af því, að á "stafrænni öld" er tiltölulega einfalt að skrá hvert verk og að reikna út kostnaðinn við það út frá áður tilgreindum einingarkostnaði. Þetta þýðir, að innleiðing afkastahvetjandi og gæðahvetjandi launakerfis fyrir starfsfólkið, sem að verkinu vinnur, liggur tiltölulega beint við nú á tímum. Þetta hefur BZ gert á Karólínska, hann gat fækkað starfsfólkinu um 950 og fjölgað legurúmum samtímis um rúmlega fjórðung.  Þegar hann var forstjóri Landsspítalans, undirbjó hann þetta þar.  Hvað dvelur orminn langa.  Eru þvergirðingar í heilbrigðisráðuneytinu, sem stoppa þetta ? Hafi heilbrigðisráðherra ekkert minnzt á þetta, er það af því, að hún vill ekki heyra minnzt á hvata fyrir starfsfólkið. Hjá henni ríkir flatneskjan.

Til að koma böndum á hömlulausa útþenslu kostnaðar við rekstur sjúkrahúsanna, helzt háskólasjúkrahússins, þarf að reka endahnútinn á undirbúninginn, sem BZ hóf,  og innleiða tekjustreymiskerfi að hætti Karólínska í Stokkhólmi, sem er með um tvöfalt fleiri legurúm en Landsspítalinn, svo að þetta eru sambærileg sjúkrahús að stærð. 

Landsspítalinn (LSH) nær ekki að nýta öll sín rúm, um 630 talsins, vegna manneklu, þótt bráða nauðsyn beri til.  Það er ekki hægt að bera því við, að fjárveitingar til spítalans hafi verið skornar við nögl, því að á verðlagi ársins 2020 hafa þær aukizt úr mrdISK 59,7 árið 2010 í mrdISK 75,5 árið 2020 eða um 26,5 % á 11 árum á föstu verðlagi, og hlutfallið af ríkisútgjöldum hefur hækkað úr 8 % í 9 % á miklu þensluskeiði ríkisútgjalda. 

 

Það eru ýmsir hnökrar á rekstri Landsspítalans, sem væntanlega mundu lagast, ef/þegar réttir hvatar að hætti BZ verða settir inn í rekstur hans.  Hér verða fáeinir tíundaðir, sem fram komu í fréttaskýringu Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu 25. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:

"Mikilvægt líffæri í þjóðarlíkamanum".

"Á sama tíma er ljóst, að nokkur hluti starfsfólks er í annarri launaðri vinnu utan sjúkrahússins.  Á það m.a. við um lækna, sem reka eigin stofur samhliða störfum fyrir spítalann.  Þar er ekki aðeins um að ræða hópinn, sem er í hlutastarfi á spítalanum.  Í fyrrnefndri fyrirspurn kemur t.d. fram, að 23,5 % þeirra starfsmanna, sem sinna 100 % stöðugildi við spítalann, þiggi einnig laun utan hans."

Þetta er óeðlilegt og ætti að binda endi á.  Það er líklegt, að kerfi BZ leyfi ekki slíkt, enda verður eftirsóknarverðara að vera í fullu starfi á spítalanum, eftir að þar verður innleitt afkastahvetjandi vinnuumhverfi. Óánægja virðist krauma á spítalanum með núverandi stjórnkerfi.  Um þetta reit Stefán Einar:

"Hitt er ljóst, að margir starfsmenn spítalans, sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við, horfa mjög til þess, hvernig mjög hefur fjölgað í hópi þeirra starfsmanna á síðustu árum, sem ekki koma með beinum hætti að umönnun sjúklinga. Telja viðmælendurnir, sem ekki vilja koma fram undir nafni, að sú þróun komi í raun niður á starfsemi spítalans og afköstum."  

Ef verkefnamiðaðar greiðslur í stað "fastra fjárlaga" hefðu þegar verið innleiddar við LSH með góðum árangri, eins og á Karólínska, er útilokað að Parkinsonslögmálið gæti þrifizt þar með "paper shufflers" og silkihúfum. Hvort sem heildarkostnaður við spítalann  eykst við slíka innleiðingu eður ei, þá mun starfsemi hans verða straumlínulagaðri og afkastameiri án þess, að slíkt komi niður á gæðum spítalans.  Forstjóri hans sagði nýlega í viðtali, að skilvirkni á LSH væri tiltölulega góð.  Það á þó ekki við um heildarstarfsemina, ef marka má alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki:

"Í árslok í fyrra [2020] var gefin út skýrsla, sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, og þar var bent á, að síðasta hálfa áratuginn hefðu afköst á spítalanum farið minnkandi, ekki sízt þegar kom að framlagi lækna til spítalans.  Forstjóri hefur þó bent á, að það megi fyrst og fremst [sic] rekja til "tímamóta" kjarasamnings, sem ætlað var að draga úr gríðarlegu álagi á starfsmenn spítalans.  Í alþingiskosningum, sem fram undan eru í komandi mánuði, er líklegt, að fjármögnun Landsspítalans verði í brennidepli."

Það er spurning, hvort hér er verið að bera saman epli og appelsínur.  Forstjórinn virðist miða afköst við vinnuframlag mælt í klukkustundum, t.d. í mánuði, frá læknunum.  Eðlilegur mælikvarði á afköst eru hins vegar afgreiddar verkeiningar á hverja unna klukkustund.  Kannski er verkbókhald LSH enn ekki í stakkinn búið að meta vinnuframlagið í þessum verkeiningum.  Þess háttar verkbókhald er hins vegar forsenda fyrir innleiðingu hvatakerfis að hætti BZ á LSH.  Slíkt kerfi virðist geta greitt úr ýmsum meinsemdum, sem grafið hafa um sig á LSH.  Það þarf að stokka stjórnkerfi spítalans upp, fá yfirlæknunum óskoruð völd yfir sínu ábyrgðarsviði og skipa stjórn yfir spítalann. Um samsetningu þeirrar stjórnar ætti að leita fyrirmynda til hinna Norðurlandanna.  Heilbrigðisráðuneytið gæti með þessu móti ekki lengur ginið yfir málefnum LSH.

Jafnframt þessum umbótum á stjórnkerfi LSH þarf framkoma ríkisvaldsins við sjálfstætt starfandi starfsfólk heilbrigðisgeirans að gjörbreytast til batnaðar.  Viðhorfið þarf að verða, að vinnuframlag sjálfstætt starfandi sé ríkinu verðmætt og mikilvægt, enda er ríkið raunar ekki í stakkinn búið til að veita þjónustu sjálfstætt starfandi með ódýrari hætti, og í langflestum tilvikum bara alls ekki.  Þetta á sérstaklega við nú, þar til Nýi Landsspítalinn tekur til starfa.  Þar vekur reyndar athygli, hversu lítil aðstaða til klínískrar starfsemi bætist við, t.d. aðeins 210 legurými (nú eru 638 á Lanzanum) og 23 gjörgæzlurými, sem virðist vera allt of lítil viðbót m.v. við kveinstafina frá Landsspítalanum í Deltu-bylgju Kófsins. 

Það virðist vera óravegur á milli þjónustu heilbrigðiskerfa Íslands og Svíþjóðar við skjólstæðinga sína.  Líklegast er, að sænskir sósíaldemókratar og aðrir hafi haft vit á að virkja mátt samkeppninnar, t.d. á milli hins opinbera og einkarekna geirans.  Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, drap á þetta í grein í Morgunblaðinu 21. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:

"Heilbrigðiskerfi á krossgötum".

"Í Svíþjóð, hins vegar, gildir svokölluð þjónustutrygging fyrir notendur heilbrigðisþjónustu. Þar á fólk rétt á mati á vanda sínum á örfáum dögum, tíma hjá sérfræðingi innan 3 mánaða, og ef aðgerðar er þörf, þá er tryggt, að hún fari fram innan 90 daga.  Þessi viðmið eru skýr, skiljanleg og hafa að stórum hluta náðst þar í landi.  

Hér ætti vitaskuld að gilda svipað fyrirkomulag.  Ef fyrirsjáanlegt er, að ekki verði unnt að veita þjónustuna innan tímamarka, verði viðkomandi gert um það viðvart og honum heimilað að sækja þjónustuna annars staðar - án viðvótar kostnaðar fyrir einstaklinginn."

Það er heilbrigðisráðuneytinu til mikils vanza, að heilbrigðisþjónustan hérlendis skuli ekki komast í nokkurn samjöfnuð við þetta.  Það er ekki út af skorti á fjárveitingum úr ríkissjóði, og það er ekki, af því að Ísland "framleiði" of fáa lækna eða aðra heilbrigðisstarfsmenn.  Íslenzkir læknar starfa margir erlendis og t.d. hjúkrunarfræðingar eru margir í annars konar störfum hérlendis. Þetta er skipulaginu að kenna.  Ef greiðslufyrirkomulag BZ á Karólínska verður tekið hér upp og samið verður við sjálfstætt starfandi sérfræðinga, þá ætti leiðin fyrir íslenzka heilbrigðiskerfið að vera greið að sigla upp að hinu sænska. Þó þarf vafalaust fyrst að hreinsa ranghugmyndirnar út úr heilbrigðisráðuneytinu.  Þær hafa keyrt þetta kerfi í þrot. 

Það er hægt að taka algerlega undir eftirfarandi greiningu Halldórs Benjamíns Þorgeirssonar, sem greinilega hefur ígrundað þetta mál vel og er jafnvel ýmsum hnútum kunnugur: 

"Því er gjarna haldið fram, að fjárskortur standi heilbrigðisþjónustunni fyrir þrifum.  Ljóst er, að ef ekki fylgja auknar kröfur um, hvernig fjármunirnir eru nýttir, munu þeir hverfa án þess, að nokkur merkjanlegur munur verði á þjónustunni. Heilbrigðisþjónustan er að langmestum hluta greidd af skattfé, sem fólkið og fyrirtækin greiða.  Það er því ríkið og stofnanir þess, sem semja við þá, sem veita þjónustuna, um gæði, öryggi, árangur og hagkvæmni.  Því miður er töluverður hluti heilbrigðiskerfisins rekinn án samninga, heldur fær fé beint af ríkinu án þess, að samið sé um nýtingu þess fyrirfram." 

Þetta samningsleysi nær engri átt.  Á meðan er heilbrigðiskerfið eins og stjórnlaust rekald. Slíka samninga vantar við sjúkrahúsin og samningar við sjálfstætt starfandi eru ekki lengur í gildi.  Í staðinn fyrir að semja hefur heilbrigðisráðuneytið valið að fara í stríð við einkaframtakið, þangað til núna, að ákall um hjálp kom frá Landsspítalanum, sem kominn er að fótum fram.  Kerfi fastra fjárlaga hefur gengið sér til húðar.  Stokka verður upp á nýtt. Sú sama er niðurstaða Halldórs Benjamíns:

"Nú [eftir kosningar-innsk. BJo] er lag að endurskoða samninga og viðmið í íslenzku heilbrigðiskerfi.  Létta álagi af Landsspítala, til að hann geti sinnt betur sínum mikilvægustu skyldum.  Ríkið ætti að vera kaupandi vel skilgreindrar þjónustu í kerfi, sem byggir á fjölbreyttum rekstrarformum til að ná fram hagræðingu, skilvirkni og auknum gæðum, byggt á faglegum viðmiðum.  Ríkið ákveður [hámarks]verð, magn og gæði, en margir aðilar geta boðið í þjónustuna [sem óskað er eftir-innsk. BJo].  Með slík markmið fyrir augum er óhjákvæmilegt, að við nýtum krafta sjálfstætt starfandi sérfræðinga, einkafyrirtækja og félagasamtaka."

Hvaða stjórnmálaflokkar á Íslandi skyldu nú vera fáanlegir til að greiða götu þessara stefnumála ?  Munu þeir geta myndað meirihluta á Alþingi um þessi mál ?  Ef ekki, þá mun enn síga á ógæfuhlið heilbrigðiskerfisins og óánægja með ófullnægjandi þjónustu magnast.  

     

 

   

  


Veiran hefur afhjúpað vítahring Landsspítalans

Landsspítalinn er staddur í vítahring, sem miðstýringarárátta stjórnvalda hefur skapað. Þessi miðstýringarárátta ríkisbúskaparins hefur í heilbrigðisgeiranum t.d. lýst sér sem söfnun allra sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu undir Landsspítalann, sem ekki hefur einu sinni eigin stjórn, heldur aðeins framkvæmdastjórn starfsmanna, aðallega lækna, og yfir öllu saman gín síðan heilbrigðisráðuneytið.

Þetta þýðir, að sjúkrahússtarfsfólk á höfuðborgarsvæðinu hefur aðeins einn vinnuveitanda. Slík einsleitni og einokun býður hættunni heim, og yfirþyrmandi veikleiki þessa fyrirkomulags hefur nú afhjúpazt.  Nefna má neyðarkall 985 heilbrigðisstarfsmanna Landsspítalans í sumar og bréfaskriftir lækna á bráðadeildinni til fjármála- og efnahagsráðherra.  

Af þessari einokun á vinnumarkaði sjúkrahússtarfsmanna á höfuðborgarsvæðinu hefur nú leitt sívaxandi mannekla.  Fólk er óánægt í starfi og segir upp.  Landsspítalanum gengur illa að ráða í stöðurnar með þeim afleiðingum, að vaktirnar eru stundum bara hálfmannaðar.  Þetta leiðir til yfirálags á starfsfólkið, sem eftir er, sem sagt vítahringur.

Þess vegna er Landsspítalinn að kikna undan viðbótar álaginu vegna C-19. Kerfið hefur getið af sér spítala, sem er ekki í stakkinn búinn til að fást við alvarlegan faraldur, eins og þann, sem nú var að fréttast af frá Vestur-Afríku, eða hópslys af verri gerðinni. Flumbrugangur setur mark á stjórnunina.  Yfirlæknum hefur verið fækkað, eins og spítalinn væri kominn undir eitt þak.  Þannig er nú í sumum tilvikum einn yfirlæknir fyrir starfsemi, sem fram fer bæði við Hringbraut og í Fossvogi.  Þetta skapar enn aukið álag og streitu á meðal starfsfólksins, sem leitar annað.  

Enn er Landsspítalinn á föstum fjárlögum í stað þess að taka upp einingarkostnaðarkerfi í líkingu við kostnaðarkerfi sjálfstæðu læknastofanna, sem hefur reyndar verið undirbúið á spítalanum.  Hvað dvelur orminn langa ?

Hvað hefur heilbrigðisráðherra núverandi ríkisstjórnar gert til að leysa vaxandi "mönnunarvanda" Landsspítalans ? Í stuttu máli hefur hún hellt olíu á eldinn.  Í stað þess að beita sér fyrir því að létta álagi af Landsspítalanum með því að færa verkefni til læknastofanna og frjálsra félaga, hefur hún leitazt við að færa fleiri verkefni til Landsspítalans og þrengja  að starfsemi læknastofanna. 

Þetta er gert í flaustri og algerri vanþekkingu á aðstæðum Landsspítalans, sem er í engum færum aðstöðulega eða þekkingarlega til að taka við aðgerðunum, sem framkvæmdar eru í Klíníkinni, Orkuhúsinu og annars staðar í þessum geira.  Það er ekki nóg að kalla Landsspítalann hátæknisjúkrahús í snotrum ræðum. Hann stendur varla undir því, en mun vonandi gera það, eftir að starfsemin flyzt í nýtt húsnæði.  Þetta kom t.d. fram í Morgunblaðinu 9. ágúst 2021 í frétt á bls. 4:

"Starfsfólk LSH taki of mörg skref".

"Ragnheiður H. Magnúsdóttir, vélaverkfræðingur og formaður tækninefndar, en hlutverk hennar er að undirbúa stefnu ríkisstjórnarinnar, er lýtur að tækniþróun og nýsköpun, kveðst sannfærð um, að auka mætti framleiðni Landsspítalans með stafrænni umbreytingu. Það sé skrýtið, að enginn tæknimenntaður einstaklingur sé í framkvæmdastjórn spítalans. "Ég held, að það sé hægt að hagræða töluvert með því að fjárfesta í stafrænum verkefnum." 

Það er tímaskekkja, að enginn verkfræðingur eða tæknifræðingur skuli sitja í framkvæmdastjórn LSH, og hér skal taka svo djúpt í árinni, að hátæknisjúkrahús geti vart verið réttnefni á slíkum vinnustað, enda virðist upplýsingakerfi sjúkrahússins vera ósamstætt og úrelt.  Það er engin stjórn yfir spítalanum, og framkvæmdastjórnin er allt of einsleit.  Af samtölum við starfsfólk má greina bullandi starfsóánægju og halda mætti, að hver höndin væri þar uppi á móti annarri á köflum.  Það er þó náttúrulega ekki svo við skurðarborðið. 

"Á Landsspítalanum séu allir í stjórninni ýmist læknar eða hjúkrunarfræðingar að undanskildum einum viðskiptafræðingi.  Það sé ekki kjörið að vera með svo keimlíkan hóp fólks með svipaðan bakgrunn."

""Það eru ótal hlutir að breytast í okkar heimi, en við erum enn þá eins og árið sé 1995 á þessum spítala", segir Ragnheiður.  Með því að nýta stafrænar lausnir færðu hamingjusamara starfsfólk og sjúklinga að mati Ragnheiðar.  Stytta megi ferla, spara sporin og veita betri þjónustu. "Ef þetta væri hátæknisjíkrahús, þá væri starfsfólk að flykkjast hingað." 

Stjórnendur, sem láta tækniþróun vinnustaðarins dankast með þessum hætti, eru ekki starfi sínu vaxnir.  Það verður að stokka stjórnkerfi spítalans upp, skipa honum stjórn fjölbreytilegs fólks og gera áætlun um tæknivæðingu hans.  Líklega væri rétt að skilja Fossvogsspítala frá LSH.  Hann gæti verið einkarekinn eða sjálfseignarstofnun, sem fengi greitt frá Sjúkratryggingum Íslands samkvæmt einingarkostnaðarkerfi, eins og læknastofurnar. Þar með kemur samkeppni um þjónustu og vinnuafl.  Starfsfólkið hefur þá raunverulegt val, sem er lykilatriði.  Það er ekki nú, enda er Landsspítalinn að veslast upp, þrátt fyrir gríðarlegar auknar fjárveitingar úr ríkissjóði.

Um skeið hefur þróun á fjölda daglegra smita hérlendis bent til, að búast megi við svipaðri þróun og varð á Englandi í kjölfar "frelsisdagsins", sem þeir nefna þar, þ.e. 19.07.2021, þegar allar samkomutakmarkanir voru afnumdar á Englandi.  Þess vegna varð tilkynning heilbrigðisráðherra 10.08.2021 vonbrigði, því að hún mun framlengja takmarkanirnar, sem í gildi voru, um 2 vikur.  Tilgreind ástæða er að venju illa rökstudd.  Nú var því borið við, að ekki væri vitað, hvernig Delta færi með bólusett fólk yfir sjötugu.  Þetta er rangt.  Frá Ísrael berast þær fregnir, að þeim farnist vel, og reynslan héðan bendir til hins sama. Eftir Tom Jefferson, prófessor í Oxford, er eftirfarandi haft:

"Ég er ekki sannfærður um, að hegðun faraldursins ráðist mikið af inngripum okkar.

Höfundur þessa vefpistils hefur miklar efasemdir um gagnsemi opinberra hafta í sóttvarnarskyni, og þau valda ótvírætt tjóni, einnig á heilsufari, eins og ýmsar tölur frá 2020 sýna.  Með þjóðina yfir 15 ára fullbólusetta, er ástæðulaust og óverjandi að vera með nokkrar opinberar fyrirskipanir lengur.  Félögum og einstaklingum er þá í sjálfsvald sett, hvað þau gera í sóttvarnarefnum, enda komi ráðleggingar frá yfirvöldum. T.d. að takmarka aðgang að sundlaugum og þreksölum við 75 % er kjánalegt. 

Höfundur þessa vefpistils sér heldur enga skynsemi í þeirri ráðstöfun stjórnvalda að bólusetja unglinga 12-15 ára, því að þeir veikjast yfirleitt mjög lítið af C-19.  Til hvers á þá að taka áhættuna með þá af neikvæðum áhrifum og jafnvel sjúkdómum af völdum bólusetninga ?  Ónæmi þeirra er öflugra og endist betur, ef þeir mynda það á náttúrulegan hátt, þ.e. við það að smitast af veirunni.  Hér er verið að leggja í kostnað og áhættu að óþörfu. Englendingar bólusetja yfirleitt ekki þennan aldurshóp, svo að einhverjir séu nefndir. 

 

Hörður Ægisson hefur ritað gagnmerkar forystugreinar í Fréttablaðið um hræðsluáróður fyrir höftum í sóttvarnarskyni.  Ein birtist 30. júlí 2021: 

"Að hræða þjóð":

"Munum, hvert verkefnið hefur verið frá upphafi.  Markmiðið er ekki, að enginn smitist eða þurfi að leggjast inn á sjúkrahús, heldur að verja heilbrigðiskerfið fyrir of miklu álagi, og að koma landsmönnum í var með bólusetningum.  

Það vekur furðu, að einungis 2 innlagnir þurfi nú til þess, að Landsspítalinn lýsti yfir hættustigi.  Einn af yfirlæknum hans skellti skuldinni þar á stjórnvöld í stað þess að líta á þá stöðu til marks um heimatilbúinn vanda, sem hefði eitthvað með slælegan rekstur og stjórnun spítalans að gera. 

Vert er að nefna, að þegar svínaflensan herjaði á heimsbyggðina 2009, þurftu 170 manns á sjúkrahúsinnlögn að halda, þar af 16, sem voru lagðir inn á gjörgæzlu á innan við tveimur mánuðum, en samt var það mat þáverandi stjórnenda, að ástandið væri viðráðanlegt."

Það hefur gætt hringlandaháttar í boðskap sóttvarnaryfirvalda til þjóðarinnar.  Það er óskiljanlegt, að allan tíma Kófsins skuli Sóttvarnarráð aldrei hafa verið kallað saman til að móta stefnuna, en núverandi fyrirkomulag með einn mann, sóttvarnarlækni, í lykilhlutverki er ófært, enda hefur hann reynzt anzi mistækur, t.d. í yfirlýsingum sínum um mátt bóluefnanna, hjarðónæmi og ofurtrú á samkomutakmarkanir og sóttkví, jafnvel eftir að "fullu" bólusetningarstigi landsmanna er náð.  Þá orkar mjög tvímælis, að réttmætt sé að bólusetja 12-15 ára. 

Samanburður Harðar á þanþoli Landsspítalans nú og 2009 staðfestir, hversu mjög hefur sigið á ógæfuhliðina á LSH á rúmum áratugi, enda er LSH ekki fær um að fullmanna mikilvægar vaktir, jafnvel utan sumarorlofstíma. Hann býr við trénað stjórnkerfi, sem heilbrigðisstarfsfólk þrífst illa í.  Núverandi heilbrigðisráðherra hefur magnað vandann með því að færa fleiri verkefni til spítalans, sumpart með óhugnanlegum afleiðingum, í stað þess að létta á spítalanum með því að færa verkefni til læknamiðstöðvanna, en tækniþróunin hefur gert að verkum, að þær eru nú í stakk búnar til fleiri og fjölbreytilegri aðgerða en áður.  Heilbrigðisstefnuna hefur rekið upp á sker, og fyrir því eru vinstri-græningjarnir Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir ábyrgar.  Þær valda ekki sínum erfiðu hlutverkum. 

"Við þurfum að fara að horfa til framtíðar.  Það, sem ætti að valda fólki mestum áhyggjum nú, er ekki farsóttin, sem tæpast er rétt að kalla lengur því nafni, heldur hvað það ætlar að reynast erfitt að koma lífinu aftur í sem eðlilegast horf þrátt fyrir víðtæka bólusetningu, sem er að skila því, sem henni var ætlað.

Áfram er kynt undir hræðsluáróðrinum á öllum vígstöðvum með látlausum ekki-fréttum af fjölda smita bólusettra, hversu margir séu í sóttkví og síbylju í fjölmiðlum um, að ekki sé nóg að gert í sóttvarnaaðgerðum. 

Niðurstaðan af þessu fári öllu saman er, að allt áhættumat samfélagsins er orðið verulega skekkt. Reynt er í sífellu að réttlæta víðtækar takmarkanir, jafnvel til langrar framtíðar, þegar hættan, sem stafar af veirunni, er hverfandi.  Við svo búið má ekki lengur standa. Það er undir stjórnvöldum komið, ekki sóttvarnalækni, að rétta af kúrsinn."

   Það er rétt hjá Herði, að það gætir allt of mikillar tregðu að afnema kófshöftin, nú þegar sýkingareinkennin eru væg fyrir langflesta, með því fororði, að þeir, sem umgangast viðkvæma á borð við dvalargesti á hjúkrunarheimilum, undirgangist hraðpróf áður en þeir nálgast viðkomandi.  Þá ætti að leysa sóttkví af hólmi með hraðprófum, því að sóttkví er mjög íþyngjandi og dýr.  Sóttkví ætti ekki að tíðkast lengur í skólastarfi, en einangrun á enn við um sýkta í þjóðfélaginu. 

Það eru furðumargir, sem enn trúa á réttmæti opinberra sóttvarnarhafta á borð við 1 m eða jafnvel 2 m reglu að viðlagðri grímuskyldu, 200 manna samkomuhámark eða 75 % aðgangsmark að sundlaugum og þreksölum.  Þessar stjórnvaldstilskipanir eru íþyngjandi fyrir landsmenn og hafa sennilega ekkert sóttvarnargildi.  Þess vegna ber að afnema þær og predika persónubundnar varnir. 

Það er líka rétt hjá Herði Ægissyni, að búið er að brengla áhættumat almennings, og á þríeykið s.k. nokkra sök á því.  Málflutningur lögreglumannsins þar  hefur iðulega sætt furðu, en hann er anzi fullyrðingasamur.  Það er brenglað áhættumat, þar sem ætluð nytsemi er talin meiri en ætlað tjón af bólusetningum unglinga 12-15 ára.  Enskir sérfræðingar vara margir hverjir við bólusetningum 16-17 ára, sem komið hafa til tals þar í landi. 

Bólusetningum við þessari  kórónuveiru virðist aldrei ætla að linna.  Þann 11.08.2021 var tilkynnt um, að ríkisstjórnin brezka hefði pantað 30 M skammta frá Pfizer á 22 GBP/stk (=3855 ISK/stk) fyrir 2022, en skammtar ársins 2021 kostuðu 18 GBP/stk (=3155 ISK/stk).  Hækkunin er 22 %, sem kemur spánskt fyrir sjónir, ekki sízt í ljósi þess, að verndunarvirknin er miklu minni en Pfizer-Biotech upplýstu um, að væri niðurstaða tilrauna þeirra. Í þeim tilraunafösum var sleppt tilraunum á dýrum, en síðar hafa komið í ljós skelfilegar afleiðingar af tilraunum með kófsbóluefni á dýrum.  Það eru e.t.v. mrd 50 ár á milli í þróunarstiganum, svo að e.t.v. má ekki draga of miklar ályktanir af þessu.     

 

 

 

 

  

 


Svikinn héri

Það er varla of djúpt í árinni tekið, að bóluefnin séu svikin vara.  Þann 4. ágúst 2021 tilkynnti "Imperial College London" um þá niðurstöðu rannsakenda hjá sér, að smitlíkur fullbólusettra væru 50-60 % minni en smitlíkur óbólusettra gagnvart Delta-afbrigði kórónuveirunnar, en samkvæmt rannsóknarniðurstöðum bóluefnaframleiðendanna áttu þessar líkur að vera 90-97 % minni gagnvart alfa- (upprunalega afbrigðinu). Þetta þýðir, að hjarðónæmi næst aldrei með þessum bóluefnum, sem er þvert gegn því, sem lofað var. Ekki nóg með þetta, heldur benda rannsóknir Ísraelsmanna á verndaráhrifum bóluefnanna (þeir hafa aðallega notað Pfizer-BioNTech) til, að þau fjari hratt út; svo hratt, að séu verndaráhrifin sett = 1,0 einum mánuði eftir fullnaðarbólusetningu, hafi þau lækkað niður í 0,5 sex mánuðum þaðan í frá og séu þá að ári liðnu komin niður í 0,25. Þetta er eins konar svikamylla.  Hvernig voru kaupsamningarnir ? Hér verður að taka fram, að bólusetningin virðist enn sem komið er hafa marktæk áhrif til að draga úr sjúkdómseinkennum og alvarlegum veikindum. Það breytir stöðunni til batnaðar. 

Samningur ríkisstjórnarinnar (heilbrigðisráðherra) við Evrópusambandið (ESB) um bóluefnaútvegun hefur ekki verið opinberaður, en þó er talið, að lyfjafyrirtækin, sem ESB samdi við, hafi við samningsgerð fríað sig allri ábyrgð á virkni bóluefnanna og öllum skaðlegum aukaverkunum.  Við höfum keypt köttinn í sekknum og fáum ekki einu sinni að vita, hvernig í pottinn var búið. Þess vegna fljúga ýmsar flökkusagnir m.a., að lyfjafyrirtækin hafi gert breytingar á sóttvarnarlöggjöf hér að skilyrði samninga. 

Til að undirbúa nýja sóttvarnarlöggjöf sömdu  forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra við verktaka.  Hvaða verktaka völdu þær ?  Af öllum mönnum völdu þær dómsforseta EFTA-dómstólsins.  Við leikmanni blasir, að með því að taka verkið að sér gerði dómsforsetinn sig vanhæfan til að fjalla um öll mál, er kann að verða skotið til EFTA-dómstólsins og tengjast málefnum sóttvarna. Forsætisráðherra hefur síðan bætt gráu ofan á svart með því að fría sig ábyrgð á samþykki verktakans að taka að sér verkið og varpað ábyrgðinni yfir á verktakann.  Ekki er það nú stórmannlegt.

Frétt Odds Þórðarsonar á bls. 2 í Morgunblaðinu 4. ágúst 2021 um málið hófst svona:

"Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir, að það sé undir dómurum sjálfum komið að meta hæfi sitt, þegar þeir taka að sér störf utan þeirra dómstóla, sem þeir sitja við.  Þar vísar Katrín til Páls Hreinssonar, forseta EFTA-dómstólsins, sem tók að sér að gera álitsgerð að beiðni Katrínar, á meðan hann sat sem dómari." 

Það er lágmark að ætlast til þess, að Katrín hafi falið utanríkisráðherra að ganga úr skugga um, að hin 2 aðildarríki EFTA, sem skipa í EFTA-dómstólinn, hafi samþykkt verktökuna, en út úr loðnu svari utanríkisráðherrans má þó lesa, að hann hafi hvorki hreyft legg né lið í þeim efnum:

"Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, tekur í sama streng og Katrín og segir, að það sé ekki við hæfi, að stjórnvöld tjái sig um hæfi dómara; það sé á þeirra eigin forræði." 

Á þessu stigi málsins er þetta aukaatriði.  Aðalatriðið er, að framkvæmdavaldið (ráðherrar) á að virða kröfu Stjórnarskrár um þrískiptingu ríkisvaldsins og á alls ekki að aðhafast neitt, sem getur valdið vanhæfi dómara til að fást við mál, sem hæglega getur rekið á fjörur hans síðar. Það er ámælisvert, að forsætisráðherra sé svo illa áttuð, að hún fremji fingurbrjót af þessu tagi. 

Nokkrir lögfræðingar, hver öðrum betur að sér á sviði lögfræðinnar, hafa tjáð sig um þennan gjörning, sem er eins og aftan úr grárri forneskju.  Fyrstur reið á vaðið Carl I. Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, í grein í Morgunblaðinu, 31. júlí 2021, undir fyrirsögninni:  

"Hnignun EFTA-dómstólsins".

Þar gat m.a. að líta eftirfarandi um mál Katrínar og EFTA-dómarans:

"Loks er það eftir öllu (svo !), að forseti EFTA-dómstólsins, Páll Hreinsson, starfar í hjáverkum fyrir íslenzka forsætisráðuneytið, að því er virðist, gegn þóknun. T.a.m. skrifaði hann haustið 2020 sérfræðingsálit fyrir ráðuneytið um lögmæti takmarkana á grundvallar réttindum í Covid-faraldrinum. Þar er um að ræða svið, sem heyrir undir lögin um hið Evrópska efnahagssvæði.  Álitsgerðin er málamyndaskjal, en með því eru ríkisstjórninni gefnar nánast frjálsar hendur ( https://stundin.is/grein/11953 ). Hafi Páll Hreinsson nokkurn tíma verið sjálfstæður, hefur hann með þessu glatað sjálfstæði sínu. Ákvæði 1. mgr., 30. gr. samningsins um stofnun EFTA-dómstólsins er svohljóðandi: "Til embættis dómara skal velja þá, sem óvéfengjanlega eru öðrum óháðir og uppfylla skilyrði til að skipa æðstu dómaraembætti í heimalöndum sínum eða hafa getið [sér] sérstakan orðstír sem lögfræðingar. Þeir skulu skipaðir til 6 ára með samhljóða samkomulagi ríkisstjórna EFTA-ríkjanna.""

Á grundvelli þessara hæfisskilyrða var augljóslega rangt af Katrínu Jakobsdóttur að ráða téðan dómara í vinnu fyrir íslenzka ríkið samhliða dómarastörfum hans hjá EFTA. Þetta átti hún að kynna sér áður en hún tók þetta einkennilega skref, enda er vankunnátta eða fáfræði engin afsökun fyrir forsætisráðherra. Þvert á móti má flokka þetta undir vanrækslu.

Íslenzkir lögfræðingar hafa líka tjáð skoðun sína opinberlega á þessari verktöku EFTA-dómarans. Þannig skrifaði Jón Magnússon, hrl., í vefpistli á heimasíðu sinni 04.08.2021:

"... fráleitt að ráða dómsforseta EFTA-dómstólsins til að fjalla um íslenzk löggjafarmálefni og gera tillögur um breytingar, sem hann kynni síðar að þurfa að fást við sem dómari."  

Þegar þetta er skrifað, hefur Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt og nefndarmaður í réttarfarsnefnd, skrifað 2 greinar um málefnið í Morgunblaðið.  Sú síðari birtist 5. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:

"Eiga dómarar að sýsla við lagasetningu ?". 

Greinin hófst þannig:

"Á síðum Morgunblaðsins hefur á undanförnum dögum komið til umræðu, hvort eðlilegt hafi verið á síðasta ári af forsætisráðherra að fela Páli Hreinssyni, dómara við EFTA-dómstólinn, að skrifa álitsgerð um valdheimildir heilbrigðisráðherra til "opinberra sóttvarnaráðstafana samkvæmt sóttvarnalögum". Skilaði dómarinn álitsgerð um þetta  efni 20. september sl.

Það er skoðun mín og fjölda annarra lögfræðinga, að ekki sé við hæfi, að skipaðir dómarar sinni svona verkefnum fyrir stjórnarráðið. Skiptir þá að mínu mati ekki máli, hvort um ræðir dómara við innlenda dómstóla eða fjölþjóðlega."

Í þessu ljósi má það furðu gegna, að doktor í hæfi/vanhæfi fremji það axarskapt að verða við ósk forsætisráðherra um að taka umrætt verk að sér, en það er ekki nóg með, að hæfið sé í uppnámi, heldur varðar málið líka við Stjórnarskrána, eins og Jón Steinar bendir á.  Blindur leiðir haltan:

"Segja má, að ástæður fyrir þessu séu aðallega tvíþættar.  Í fyrsta lagi fara dómstólar með dómsvald, en það vald á samkvæmt stjórnarskrá og lögum að vera skilið frá framkvæmdarvaldi, sem ráðherrar fara með. Það skiptir því máli, að dómarar gerist ekki þátttakendur í meðferð ráðherravalds.  Slíkt er til þess fallið að skapa tengsl, sem geta haft áhrif langt út fyrir einstök verkefni, sem ráðherra felur dómara að sinna. Þetta dregur úr trausti manna á dómstólum."

    Síðan tíundar höfundur vanhæfnihlið málsins og saman gera þessar ástæður frumhlaup ráðherrans að fingurbrjóti í stjórnsýslu:

 "Svo má spyrja: Hvers vegna leitar ráðherrann til dómarans til að fá lögfræðiálit ?  Páll er hinn mætasti lögfræðingur og kann ýmislegt fyrir sér.  En er ekki starfandi í landinu fjöldi lögfræðinga, sem segja má hið sama um ?  Í þeim flokki má t.d. telja fræðimenn og kennara í lögfræði, starfandi lögmenn og jafnvel lögfræðimenntaða stjórnmálamenn.  Er einhver þörf á að hætta stöðu hins mæta dómara Páls með þessu ?" 

Þessi gjörningur forsætisráðherrans er svo skrýtinn, að ástæða er til að halda, að fiskur liggi undir steini hjá vinstri-græningjanum. 

Hvað sem heimildum í sóttvarnarlögum til ríkisstjórnarinnar til frelsisskerðingar borgaranna  líður, ber henni samkvæmt stjórnsýslulögum að virða meðalhófsregluna við ákvarðanir, sem varða samkomutakmarknir, atvinnuréttindi o.s.frv. Að henni virtri er mjög ankannalegt að viðhafa frelsisskerðingar á svo að segja fullbólusettri þjóð, þótt hjarðónæmi náist aldrei.  Það eru svo lítil veikindi samfara þessari Delta-bylgju, sem nefnd er 5. bylgjan á Íslandi, en lægri raðtala viðhöfð annars staðar, að það væri satt að segja merki um annað vandamál en Kófið að skella nú á íþyngjandi höftum.

Það er mjög virðingarvert, hvernig ríkisstjórnin nálgast viðfangsefnið núna.  Hún hlustar eftir sjónarmiðum og tillögum ólíkra hagsmunahópa í samfélaginu, og vonandi vegur hún þau og metur af gerhygli.  Hún ætti reyndar líka að leggja sig eftir því, hvað fulltrúar starfsfólks Landsspítalans hafa að segja, því að á Landsspítalanum liggur meinið núna. 

Uppruni meinsins er síðan löngu fyrir Kóf.  Hann má rekja til sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík.  Síðan þá hefur hallað undan fæti hjá Landsspítalanum í mönnunarmálum, því að samkeppni um starfsfólkið og um rekstrarárangur hefur verið af skornum skammti.  Frá því fyrir Kóf hefur spítalinn verið staddur í vítahring. Hann hefur misst heilbrigðisstarfsfólk vegna óánægju þess á starfi og ekki alltaf tekizt að ráða fólk í staðinn.  Þetta hefur leitt til ofálags á þá, sem eftir eru, og sumir hafa hætt vegna kulnunar í starfi.  Nú er komið að þolmörkum starfsfólksins, eins og neyðarkall tæplega 1000 heilbrigðisstarfsmanna um daginn ber vott um. 

Núverandi heilbrigðisráðherra skilur ekki vandamálið eða neitar að skilja það, vegna þess að henni hefur verið innrætt, að sameining ólíkra stofnana undir einni stjórn, þ.e. aukin miðstýring, sé allra meina bót. Hvað hefur hún þá leitazt við gera, síðan hún tók við stjórn heilbrigðisráðuneytisins 2017 ? Hún hefur farið þveröfuga leið m.v. það, sem raunhæf greining á vandanum mundi vísa á.  Hún hefur reynt að þvinga starfsfólk einkageirans á heilbrigðissviði inn á Landsspítalann.  Það eru hins vegar eins vanhugsuð viðbrögð og hægt er að hugsa sér, því að engin aðstaða er á Landsspítalanum til að sinna þeirri starfsemi, sem læknastofurnar hafa haft með höndum. Afleiðingin af þessu háttalagi ráðherrans er öngþveiti. 

Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er.  Heilbrigðisráðherra vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er óhæf til starfans.  Að halda áfram á braut sósíalismans við stjórnun heilbrigðismála í landinu mun leiða til aukinna útgjalda og verri þjónustu. Meta þarf gaumgæfilega, hvort raunhæft umbótaúrræði er að að stíga skref til baka frá sameiningunni, og það þarf strax að semja við sjálfstæða sérgreinalækna, láta af hernaði heilbrigðisráðuneytisins gegn þeim og fá þeim verkefni til að létta á starfsfólki Landsspítalans, sem er að þrotum komið.  

 

 

  


"Íslenzka kvótakerfið er umhverfisvænt"

Umræðurnar um loftslagsmálin og C-19 eiga það sammerkt, að þær einkennast af rörsýn. Það er t.d. fleira, sem ógnar lífríki jarðar en hlýnun andrúmsloftsins, og má nefna fækkun tegundanna í lífríki jarðar.  Það er líka fjölmargt annað en veiran SARS-CoV-2, sem er heilsufarsógn fyrir mannkyn, bæði í þróuðum ríkjum og þróunarríkjum.  Í baráttunni við þessa kórónuveiru hafa t.d. aðrar bólusetningar setið á hakanum í ýmsum þróunarríkjum, og ýmsir biðlistar hafa lengzt í heilbrigðiskerfum þróaðra ríkja.

Mannkynið reiðir sig á heilbrigð vistkerfi og neytir afurða þeirra s.s. fisks, kjöts, korns, timburs og trefja á borð við bómull og silki. Með ljóstillífun taka tré og aðrar jurtir til sín koltvíildi, CO2, og gefa frá sér ildi (súrefni), O2. Upptaka þeirra af CO2 nemur um 11 mrdt/ár eða um 27 % af losun mannlegrar starfsemi.  Höfin sjúga í sig 10 mrdt/ár og súrna fyrir vikið með neikvæðum áhrifum á lífríkið. 

Virkni vistkerfanna, sem maðurinn nýtir sér, er algerlega háð fjölbreytninni innan þeirra.  Síðan á 10. áratugi 20. aldarinnar hafa rannsóknir sýnt hrörnun fjölbreytni lífríkisins, og vísindamenn sjá nú fram á útdauða margra dýra- og plöntutegunda.  Það yrði í 6. skiptið, sem fjöldadauði tegunda yrði á jörðunni, en í þetta skiptið yrði hann ólíkur fyrri skiptum, m.a. vegna skaðlegra áhrifa hinnar ágengu tegundar "homo sapiens". 

Ef fjölbreytt vistkerfi jarðarinnar breytast í fábreytt vistkerfi, jafngildir slíkt yfirvofandi tilvistarógn fyrir mannkynið og miklum mannfelli. Þessi tilvistarógn er alvarlegri og nær í tíma en hlýnun jarðar, en athyglin og umfjöllunin, sem hún fær, er aðeins brot af athygli og umfjöllun loftslagsbreytinganna. Samt hefur IPBES (Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services) gefið út stöðuskýrslur, síðast 2019, um yfirvofandi hrun vistkerfa. Aðeins stefnubreyting í átt að sjálfbærum landbúnaði og tækniþróunin geta dregið úr áfallinu, sem framundan er.  Neyðin af völdum kórónuveirunnar er smáræði hjá þeirri hungursneyð, sem yfir dynur, ef vistkerfi hrynja. 

Í þessu ljósi rennur upp fyrir mörgum mikilvægi íslenzkrar matvælaframleiðslu fyrir fæðuöryggi landsmanna.  Hún er sem betur fer sjálfbær, hvað vistkerfið varðar, bæði á landi og sjó.  Kornyrkju og grænmetisræktun er hægt að auka mikið, en þá þurfa stjórnvöld að skilja sinn vitjunartíma, og fiskeldi í sjókvíum og landkerum er nú þegar í miklum vexti. Þetta verður auðvitað mikilsvert framlag Íslendinga til framleiðslu próteinríkrar fæðu, því að fiskafli úr heimshöfunum fer minnkandi, og um þriðjungur nytjastofna á heimsvísu er ofveiddur um þessar mundir. 

Í Bændablaðinu 8. júlí 2021 var viðtal við dr Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, um íslenzkan sjávarútveg undir sömu fyrirsögn og þessi vefpistill:

""Þegar ég var á sjó um 1990, var fiskirí lélegt.  Það þótti gott að fá 10-12 t/shr, og þá var fiskurinn miklu smærri en hann er í dag. Ég sé þetta í gögnum, sem ég hef rannsakað", segir Stefán.

Nú eru 30 m togbátar að fylla sig á 2-3 dögum, þetta 40-80 t.  Þetta hefði ekki verið hægt að gera 1990.  Þetta er gríðarleg breyting í veiðum á þorski á þessum tíma, en ég hef mest rannsakað þorskveiðar af botnfisktegundum. Þetta hefur líka mikil og jákvæð áhrif á vinnslurnar.  Þær afkasta meiru fyrir vikið og verða hagkvæmari", bætir Stefán við." 

 Það hafa ýmsir horn í síðu kvótakerfisins og færa fram ýmis hraðsoðin rök, sem eru illa ígrunduð, t.d. að árangur kvótakerfisins sé harla lítill, af því að veiðin sé engu meiri en 1980. Þá voru hins vegar miklu fleiri skip að skaka á miðunum og mikilvægir stofnar á borð við þorsk á barmi hruns, sbr "Svarta skýrslan" 1976.  Veiðar og vinnsla voru fjarri því jafnhagkvæmar og nú og fiskurinn minni. Þjóðin öll nýtur góðs af velgengni sjávarútvegsins, þótt "latte-lepjandi" íbúar í 101 R. beri ekki skynbragð á það, eins og endurspeglast í fáránlegri stefnumörkun ESB-flokkanna, Samfylkingar og Viðreisnar, hverra stefnumörkun um að stuðla að inngöngu Íslands í Evrópusambandið - ESB mun veita útgerðum ESB-landanna kost á að bjóða í aflaheimildir á Íslandsmiðum að undangenginni þjóðnýtingu núverandi aflaheimilda, ef þessir flokkar fá sínu framgengt.  Hér mun allt fara í bál og brand, ef/þegar hafizt verður handa um að innleiða þessi ósköp.

"Alkunna er, að olíunotkun íslenzks sjávarútvegs hefur dregizt saman um 45 % frá 1990-2017. Þetta hefur gerzt á sama tíma og losun í fiskveiðum heimsins hefur aukizt um 28 % frá 1990-2011.  Það, sem skýrir þetta, segir Stefán [vera], að "með kvótakerfinu var sókn takmörkuð og fyrirtækin neyddust til að fækka skipum og sameina aflaheimildir; m.ö.o. að hagræða.  Þannig lækkuðu þau kostnað og urðu arðbær.  Stóri ávinningurinn var síðan, að veiðistofn mikilvægustu tegundarinnar, þorsksins, stækkaði mikið, og auðveldara varð að sækja þorskinn. Með þessu mikla fiskiríi og fækkun skipa minnkaði olíunotkun Íslendinga við veiðarnar. Þetta er algjör bylting, því [að] afli á sóknareiningu hefur aukizt mikið.  Við förum niður, en heimurinn upp.  Til þess að minnka losun í heiminum þarf að gera tvennt í fiskveiðum: að taka upp kvótakerfi og byggja upp fiskistofna.  Allir umhverfisverndarsinnar ættu því að styðja íslenzka kvótakerfið !", sagði Stefán að lokum." 

  Ef síðasta fullyrðingin er rétt, er andstæðan líka rétt: enginn umhverfisverndarsinni ætti að styðja sóknarmarkskerfi eða sóknardagakerfi.  Ástæðan er t.d. sú, að þessi kerfi fela ekki í sér hvata til að draga úr sóknarkraftinum og þar með fækka skipum og gera kleift að draga úr olíunotkun á hvert veitt tonn í sama mæli og aflamarkskerfið. Færeyingar hafa nokkuð beitt sóknarstýringu án viðunandi árangurs fyrir veiðistofnana og afkomu útgerðanna.

Hérlendis má segja, að markaðurinn stýri sókninni og samkeppnin veldur því jafnframt, að útgerðir leitast við að hámarka tekjur og lágmarka kostnað á sóknareiningu. Afleiðingin af öllu þessu er, að hin "ósýnilega hönd markaðarins" (ekki "hönd Guðs", eins og Maradonna útskýrði eitt af mörkum sínum) hámarkar verðmætasköpun úr auðlind þjóðarinnar í kringum landið, og eigandinn (þjóðin) ber þannig mest úr býtum til lengdar án þess að þurfa að leggja fram nokkurt áhættufé í atvinnurekstur sjálfur.  Það hefur komið fram hjá einum af talsmönnum uppboðsleiðarinnar, Daða Má Kristóferssyni, hagfræðingi og varaformanni Viðreisnar, að hann telji ekki, að tekjur ríkisins af sjávarútvegi mundu vaxa, þótt uppboðsleiðin yrði farin.  Hér skal fullyrða, að til lengdar mundu þær minnka vegna þess, að langtímahugsun hverfur, fjárfestingar skreppa saman og hægir á framleiðniaukningu knúinni áfram af tækniþróun.  Samkeppnisstaðan versnar af þessum sökum, sem leiðir til minni tekna og jafnvel minnkandi markaðshlutdeildar. 

Tilraunastarfsemi með 2. og 3. flokks stjórnkerfi í stað 1. flokks stjórnkerfis er heimskuleg ævintýramennska, sem þjónar annarlegum sjónarmiðum á borð við að koma íslenzka sjávarútveginum á kné í von um, að þá opnist glufa í varnarvegginn gegn því að taka aðlögun Íslands að Evrópusambandinu á nýtt stig, sem endi með fullri aðild, þannig að á ný færist viðamikil ákvarðanataka um málefni Íslands út fyrir landsteinana, í þetta sinn til yfirþjóðlegs valds. Þau, sem fyrir þessu berjast, beita raunar svo lítilfjörlegum málflutningi, að umræða um þetta virðist vera hrein tímasóun, en stjórnmálaflokkarnir, sem þetta setja á oddinn, eru þó alls ekki áhrifalausir, hvorki á Alþingi né í sveitarstjórnum. 

Árangur landvinnslu sjávarafurða við að draga úr olíunotkun er mjög athyglisverður, því að þar hafur olíunotkun minnkað á 22 ára tímabili 1995-2017 úr 200 kt/ár í 20 kt/ár eða um 90 %, og væri minnkunin enn meiri, ef flutnings- og dreifikerfi raforku, einkum á NA-landi, væri í stakkinn búið að standa undir orkuskiptunum. Ófullnægjandi opinberir innviðir standa þróun samfélagsins fyrir þrifum, en aðgæzlulausir stjórnmálamenn gleyma því, þegar þeim liggur mikið á við að setja landsmönnum háleit markmið. 

 Olíunotkun fiskiskipanna hefur minnkað enn þá meira á sama tímabili eða frá 800 kt/ár niður í 410 kt/ár eða um 390 kt/ár, sem eru um 49 %.  Þessi árangur er bein afleiðing af breyttu útgerðarfyrirkomulagi og breyttum viðhorfum innan útgerðanna, þ.e. einn af fjölmörgum ávinningum fiskveiðistjórnunarkerfisins og væri útilokaður með einhvers konar sóknarkerfi. 

Enn er eftir að mestu að nýta lífræna olíu á skipin.  Líklega er hægt losna að töluverðu leyti við innflutta olíu á skipunum, ef vel tekst til við olíugerð innanlands, t.d. úr repju.  Ef tilraunir með að vinna CO2 úr kerreyk stóriðjunnar heppnast og verða innan kostnaðarmarka, er ólíkt gæfulegra að nýta þetta koltvíildi ásamt vetni til eldsneytisframleiðslu en að dæla því ofan í jörðina við ærnum tilkostnaði. 

Þótt sjávarútvegurinn hafi náð frábærum árangri á undanförnum árum á fjölmörgum sviðum, er ekki þar með sagt, að hann hafi búið við fjárhagslega sérlega hvetjandi atlæti stjórnvalda til þess t.d. að minnka olíunotkun sína. Þannig skrifaði Sigurgeir B. Kristgeirsson, búfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf í Vestmannaeyjum í Bændablaðið 8. júlí 2021: 

"En það eru ekki bara lög og reglugerðir að þvælast fyrir [á "vegferð okkar að minni kolefnisútblæstri"].  Skattar hafa nefnilega áhrif líka.  Það var þannig, að þegar Vinnslustöðin hf lét byggja Breka VE, þá var aðalforsenda nýsmíðinnar olíusparnaður upp á 150 MISK/ár vegna stærri, hæggengari og hagkvæmari [með minni orkutöpum - innsk. BJo] skrúfu.  Af þessum 150 MISK/ár sparnaði fer 33 % í hærra veiðigjald á greinina eða 50 MISK/ár.  Skattar hafa einfaldlega áhrif á hegðun fyrirtækjanna."

          


Hvaða leikur er í gangi ?

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sagðist við Valaskjálf á Egilsstöðum (í yfir 20°C) föstudaginn 23. júlí 2021 trúa því, að bólusetning um 90 % þjóðarinnar 16 ára og eldri hefði breytt leiknum, þ.e. baráttunni við SARS-CoV-2 kórónuveiruna. 

Ýmsar staðreyndir renna stoðum undir þessa trú og von fjármála- og efnahagsráðherra ríkisstjórnarinnar, sem þarna hittist á fundi til að taka til umfjöllunar enn eitt minnisblaðið frá sóttvarnarlækninum, sem ekki virðist vilja láta á það reyna, hvort landsmenn geti lifað "eðlilegu" lífi "fullbólusettir" með veirunni.  Í miklu þéttbýlla landi en Íslandi, Englandi, sem náð hefur langt í bólusetningum gegn C-19, þó ekki eins langt og Íslendingar enn þá, ríkir enn svipað frelsi og hér ríkti 24.06.2021-24.07.2021, þótt smittíðnin hafi rokið upp.  Hún hefur reyndar lækkað stöðugt frá því Englendingar fengu "frelsið". Þeir, sem hafa komizt í tæri við greindan jákvæðan á PCR-prófi, sæta sóttkví með vissum undantekningum.  Boris Johnson spurði réttilega: Hvenær á að afnema opinberar sóttvarnarhömlur, ef ekki núna ? Íslenzka ríkisstjórnin fylgist nú með framvindunni og myndar sér vonandi þá skoðun að teknu tilliti til heildarhagsmuna að afnema hömlur eigi síðar en 14. ágúst 2021. 

Frá Ísrael berast þær rannsóknarniðurstöður, að 80 % bólusettra smiti ekki.  Þá dofna áhrif bólusetningar hratt samkvæmt sömu heimildum, og er vörn gegn slæmum einkennum orðin helmingur eftir um hálft ár frá fullri bólusetningu á við upphaflegu vörnina.  Þetta vegur á móti miklu smitnæmi delta-afbrigðisins og skýrir lækkandi smittíðni á Englandi og bendir til þess, að halda þurfi áfram bólusetningum, sem skýrir hamstur ríkra þjóða á bóluefnum. Hafa verður í huga, að affarasælla er að öðlast ónæmi án bóluefna og losna þar með við aukaverkanir þeirra, sem vissulega eru alvarlegar. Illskiljanlegt er að hvetja til bólusetninga þegar smitaðra og unglinga 12-16 ára, sem lítið veikjast yfirleitt. 

Hvernig vegnar sjúklingunum, sem hérlendis veiktust hastarlega í kjölfar bólusetninga, en lifðu af ?  Það hefur verið hljótt um þá og fréttamenn áhugalausir. 

  Við verðum að hafa þrek til að lifa með þessari veiru, á meðan heilbrigðiskerfið með góðu móti ræður við sjúklingafjöldann.  Virtur læknir, Jón Ívar Einarsson, telur, ef rétt er tekið eftir, að PCR-próf bólusettra á landamærum og að senda einkennalaust bólusett fólk í sóttkví sé yfirskot og eins konar barátta við vindmyllur.  Höfundur þessa pistils er sammála. 

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýzkalands, segir, að hvorki sé ástæða til né lagaheimild fyrir setningu opinberra sóttvarnarhafta í Þýzkalandi nú í líkingu við þau, sem tíðkuðust fyrir bólustningu.  Leikurinn hefur breytzt við bólusetninguna, og sóttvarnarlæknir og málpípa hans hjá Almannavörnum hljóta að fara að viðurkenna það. 

Kolbrún Bergþórsdóttir, sem fram að þessu hefur ekki verið skarpasti hnífurinn í sóttvarnarmálum í skúffunni, sem hýsir leiðarahöfunda Fréttablaðsins, skrifaði 23. júlí 2021 leiðara, sem breytir þeirri sýn.  Hann bar fyrirsögnina:

"Gagnrýnisleysi".

Það er ástæða til nú á hásumartíð að vitna rækilega í þennan leiðara:

"Almenningi var á sínum tíma sagt, að aðgerðir á Covid-tímum miðuðu að því, að sjúkrahús fylltust ekki af alvarlega veikum einstaklingum.  Þjóðin tók því hertum aðgerðum stjórnvalda með samþykki.  Síðan var almenningi sagt, að leiðin út úr Covid væri bólusetning. Fyrir vikið streymdi fólk í bólusetningu.  

Nú er sagt, að bólusetningar dugi ekki nægilega vel. Á sama tíma eru sjúkrahús ekki að fyllast af Covid-sjúklingum, fólk er ekki að deyja úr pestinni, og langflestir, sem veikjast, finna fyrir litlum einkennum. Samt þarf að herða aðgerðir.  Um leið má búast við mun meiri mótþróa hjá almenningi en áður. Fólk þarf að sjá vit í boðum og bönnum.  Ef það sér það ekki, þá brýtur það reglur, sem því finnst vera ósanngjarnar."  

Kolbrún finnur ekki heila brú í tillögu sóttvarnarlæknis, og hann virðist vera of laus í rásinni.  Það er ekki nóg að smitum fjölgi mikið, hr. sóttvarnarlæknir, til að hefta frelsi fólks til að koma saman og stunda sína vinnu, líkamsrækt, skemmtanir og halda veizlur.  Heilbrigðiskerfinu þarf að vera ógnað líka, og sjúkrahúsinnlagnir vegna C-19 benda ekki til, að svo verði, nema sú ákvörðun að stinga bólusettu starfsfólki þess í sóttkví, sem er óþarfi, ef 80 % bólusettra smita ekki. Í Bretlandi hafa lekið út upplýsingar um, að innlögn sjúklings sé vegna C-19, þótt hann greinist þannig eftir innlögn.  Er sama tilhneiging hér ? Sóttvarnarlæknir hældi bólusetningum í hástert, þegar hann var að hvetja til bólusetninga, en nú, þegar tæplega 90 % 16 ára og eldri hafa verið bólusett, gerir hann óþarflega lítið úr gagnsemi þeirra. Það er nógu mikið gagn að þeim, til að viðhalda megi því frelsi, sem hér var innleitt 24.06.2021 og afnumið með kjánalegum frelsistakmörkunum mánuði síðar. Sóttvarnarlæknir virkar óþarflega hvatvís fyrir þetta embætti.  

"Það er algjörlega ljóst, að skerðingar á frelsi fólks í Covid-fárinu verða að vera eins vægar og mögulegt er.  Það er síðan ekki verjandi að viðhalda þeim, þegar smitum fækkar, og veikindi eru ekki alvarleg. Ekki sakar að hafa í huga, að sjúkdómalaust samfélag verður aldrei til. Vonandi þykir það svo ekki dæmi um harðlyndi, þegar bent er á, að dauðinn er óumflýjanlegur hluti af lífinu, en ekki nýtilkomin ógn."  

 

 Vælukjóinn í Almannavörnum var 26.07.2021 með fullyrðingar um, að dagleg smit hefðu reynzt færri, ef strangari opinberar hömlur hefðu verið settar á líf fólks, sem sagt enn meiri frelsisskerðingar.  Það er nóg komið af innistæðulausum fullyrðingum frá þessum talsmanni Almannavarna í sóttvarnarmálum.  Það gæti dregið úr sannfæringu hans um nytsemi frelsisskerðinga að kynna sér það, sem er að gerast á Englandi.  Þar voru allar opinberar frelsisskerðingar afnumdar 19.07.2021, og þann 26.07.2021 var tilkynnt um, að 5. daginn í röð hefði nýjum smitum C-19 fækkað. Haftasinnar mega ekki heyra á það minnzt, að gagnsemi hafta í sóttvarnaskyni sé dregið í efa, hvað þá, að bent sé á, að þau hafi gert meira ógagn en gagn, hvort sem mælt er í töpuðum lífárum eða tekjum hins opinbera og fyrirtækjanna, sem undir öllu standa. 

Áfram með Kolbrúnu:

"Hinar heftandi aðgerðir á Covid-tímum hafa takmarkað mannréttindi og athafnafrelsi fólks.  Engin ástæða er til, að því sé tekið með þögninni einni.  Það er líka óþarfi að láta, eins og það sé nánast guðlast að vera ósammála sóttvarnalækni. Á sínum tíma sagði þríeykið, að gagnrýni væri nauðsynleg; ekki væri gott, ef hætt væri að spyrja um nauðsyn aðgerða.  Vonandi er þríeykið enn þessarar skoðunar."  

Sóttvarnarlæknir hefur haldið svo illa á spilunum, að fólk er orðið ruglað í ríminu um, hvaðan  sóttvarnaryfirvöld eru að koma og hvert þau stefna.  Sóttvarnarlæknir hvatti mjög til bólusetninga.  Dauðsföll af þeirra völdum eru líklega orðin álíka mörg og af sjúkdóminum C-19 sjálfum (30), og margir tugir alvarlegra aukaverkana annarra hafa komið fram, en engar fregnir eru sagðar af líðan þessara sjúklinga, eða hversu margir þeirra eru á sjúkrahúsi.  Þeir eru líklega fleiri en C-19 sjúklingar á spítala, því að þeir eru sárafáir eða um 3. Hvernig væri, að s.k. þríeyki sýndi dálitla hluttekningu með þessum sjúklingum og upplýsti um líðan þeirra á upplýsingafundum sínum ?

Nú er sóttvarnarlæknir farinn að tala áhrif bóluefnanna niður og segir virknina aðeins vera 60 % í stað 91 % - 97 % áður.  Hvað er hér á seyði ?  Er sóttvarnarlæknir algerlega úti að aka, eða eru bóluefnaframleiðendur tilbúnir að játa þetta, og hvernig stendur þá á þessu stóra fráviki frá uppgefnum gildum framleiðendanna ?  Þá hafa borizt fregnir frá Ísrael um hraða dvínun ónæmisvirkninnar með tíma eða um helmingun á 1/2 ári.  Eitt er þó ljóst: delta-afbrigði veirunnar veldur ekki jafnskæðum veikindum á Íslandi og fyrri afbrigði.  Má þakka það bólusetningunum eða því, að delta-afbrigðið, sem er meira smitandi en önnur, er ekki jafnhættulegt og fyrri afbrigði ? Slík er venjuleg þróun veira.

"Einkennilegt er að horfa upp á það, að viðhorf stjórnmálamanna til takmarkana og frelsissviptinga í Covid skuli fara eftir flokkslínum. Sjálfstæðismenn hafa verið ötulastir við að minna á mikilvægi einstaklingsfrelsisins. Í öðrum flokkum hafa menn varla leyft sér að efast og spurt fárra spurninga.  Satt bezt að segja hefur verið ömurlegt að horfa upp á það gagnrýnisleysi. 

Þegar réttindi almennings eru skert, eins og gerzt hefur í Covid, þá á fólk um leið rétt á að vita, hversu lengi höft verði viðvarandi; sem sagt, hvaða aðstæður þurfi að skapast, til að þeim sé aflétt.  Engin tegund hafta á síðan að festa sig í sessi og vera flokkuð sem "eðlilegt ástand". 

Bragð er að, þá barnið finnur.  Það er óþarfi af Kolbrúnu að verða mjög hissa á mismunandi afstöðu fólks, stjórnmálamanna og annarra, gagnvart opinberum frelsisskerðingum í sóttvarnarskyni.  Þar birtist hugsunarháttur fólks og afstaða til ríkisvalds, og hvernig má fara með það.  Vinstri menn eru mjög hallir undir valdboð hins opinbera og óskeikulleika embættismanna.  Það er rík ástæða til að vara almenning við vinstri slysunum, því að vinstri menn eru sannfærðir um, að valdboð og valdbeiting hins opinbera gegn atvinnulífinu og einstaklingunum, jafnvel á kostnað eignarréttarins, svo að ekki sé nú minnzt á atvinnufrelsið, sé alltaf réttlætanlegt. 

Þetta er stórhættulegt og kolrangt viðhorf.  Einstaklingurinn á að vera kjarni samfélagsins, Stjórnarskráin staðfestir það.  Hugdettur stjórnmálamanna og embættismanna eiga ekki að duga til frelsisskerðinga.  Þingið ætti alltaf við fyrsta tækifæri að fá tækifæri til að staðfesta eða hafna því, að næg ástæða hafi verið til frelsisskerðinga, og auðvitað verða þær að styðjast við lög.  Eins og nú háttar, leikur mikill vafi á því, að næg ástæða hafi verið til að hverfa frá frelsinu, sem veitt var til persónulegra athafna hérlendis 24.06.2021. Ástæðan er sú, að þjóðin telst nú vera nánast fullbólusett og ríkjandi veiruafbrigði, delta, sem að vísu er mjög smitandi, virðist ekki valda alvarlegum sjúkdómseinkennum.

Höft á mannlegt atferli orka alltaf tvímælis, því að slík höft geta haft alvarlegar neikvæðar afleiðingar.  Eins og staðan er núna hafa þau leikið fjárhag margra grátt, en enn þá verra er, að þau hafa orsakað heildarfjölgun dauðsfalla. Neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar atferlishafta hafa orðið meiri en gagnið af þessum höftum, eins og lesa má út úr tölfræði Hagstofunnar, sem Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, hefur vakið athygli á í Morgunblaðsgrein, 16.07.2021, sbr https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2267223 .  

Um sama leyti og Englendingar afnámu samskiptahöft hjá sér, 19.07.2021, ákváðu yfirvöldin á Singapúr-eyjunni, að þaðan í frá skyldu íbúarnir umgangast SARS-CoV-2 kórónuveiruna eins og hverja aðra inflúensuveiru.  Fjölmiðlar hættu í kjölfarið að birta daglegar fréttir af fjölda smita o.þ.h., enda gefur auga leið, að smittíðnin skiptir litlu máli, ef veikindin eru engu meiri en af inflúensu.

Hérlendis búum við við hvatvísan sóttvarnarlækni, sem stóðst ekki mátið að freista þess að hrekja ríkisstjórnina af frelsisleiðinni, sem hún markaði 24. júní 2021, og setti á 75 % hámark í sundlaugar og þreksali og 200 manna samkomuhámark, svo að eitthvað sé nefnt.  Þetta stórskemmdi stutt sumar fyrir mörgu fólki og mótshöldurum og er frumhlaup, en ríkisstjórnin treysti sér ekki til að ganga gegn embættismanninum og bar við, að hún vildi hafa vaðið fyrir neðan sig (varúðarráðstöfun).  Allar upplýsingar frá vel bólusettum löndum hafa þó verið á einn veg, að delta afbrigðið valdi tiltölulega fáum sjúkrahússinnlögnum, e.t.v. 0,5 % af sýktum.     

   

 


Hjarðónæmi eða ekki hjarðónæmi ?

Tíðindi hafa borizt af því, að ríkisstjórnin í Singapúr, þar sem búið er að fullbólusetja tæplega 70 % í þessum skrifuðum orðum, en hérlendis um 85 %- 90 % 16 ára og eldri, hafi nú ákveðið að meðhöndla C-19 sem hvern annan flensufaraldur, og yfirvöld muni þess vegna hætta að láta þylja yfir íbúunum tölur um dagleg smit, andlát o.þ.h. af völdum alls konar afbrigða af SARS-C0V-2. Þetta er hægt að gera vegna áhrifa bólusetninganna, ekki hjarðónæmis, heldur minni veikinda.

Þetta virðist vera skynsamleg ákvörðun í ljósi þess, að bólusetningarnar hljóta að lækka smitstuðulinn eitthvað, þótt smittíðni bólusettra valdi vonbrigðum, og veikindi bólusettra virðast ekki alvarleg enn sem komið er. Það er einkennandi hér og annars staðar á Vesturlöndum núna, hversu margir bólusettir smitast m.v. það, sem búizt var við á grundvelli tilrauna lyfjafyrirtækjanna.  Það veldur vonbrigðum, en aðalatriðið er, að veikindin eru hófleg og hættulítil. 

Að mati höfundar þessa vefpistils ætti ekki að koma til mála að bólusetja yngra fólk, vegna þess að það veikist yfirleitt lítið af C-19 og vegna þeirra alvarlegu afleiðinga bólusetninga við sjúkdóminum, sem nú hafa komið fram við tilraunir á dýrum og sagt er frá hér að neðan. Með öðrum orðum væri tekin óþörf áhætta með ungviðið með því að bólusetja það við C-19.  Reynslan sýnir, að bóluefnin hindra síður en svo smit og fækkar lítið smitberum.  Það væri því mjög ankannalegt að hefja þessar bólusetningar, og slíkt mætti þá hiklaust túlka sem undanlátssemi við lyfjaiðnaðinn, sem virðist hafa komið sér upp gullmyllu, því að fregnir berast frá Ísrael um það, að áhrifamáttur bóluefnanna, sem þar hafa verið reynd, til að draga úr sjúkdómseinkennum eftir smit, dvíni mjög að hálfu ári liðnu frá seinni bólusetningu. Þar í landi mun nú viðbótar bólusetning vera í undirbúningi, svo að mulið er undir lyfjaiðnaðinn í meiri mæli en sézt hefur lengi.   

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, ritaði gagnmerka grein í Morgunblaðið 16. júlí 2021 og nefndi hana:

"Hundrað".

Hún hófst þannig:

"Frá maí fram í nóvember 2020 [1/2 ár-innsk. BJo] létust 35 þúsund fleiri Bandaríkjamenn á aldrinum 15-64 ára úr öðru en Covid en í meðalári. Svipuð leitni var víða um lönd.  Andlátin eru talin tengjast frestun læknisþjónustu og geðheilbrigði.

Engin slík greining hefur farið fram hérlendis, en upplýsingar um andlát má finna í tilraunatölfræði Hagstofunnar.  Andlát yngri en 55 ára eru mjög óvenjuleg.  Frá lokum júní 2020 fram fram yfir fyrstu 9 vikur 2021 (8,5 mánuðir) [0,7 ár] hafa 33 fleiri látizt á þessum aldri en meðaltal þeirra 3-4 ára á undan, sem tilraunatölfræðin nær til. Þar af urðu 26 umframandlát bara frá júnílokum fram í september (3 mánuðir) [1/4 ár], sem er 54 % aukning og samsvarar einu viðbótarandláti þriðja hvern dag.  Meðalaldurinn var ekki nema 38 ár.  Til samanburðar er meðalaldur þeirra 29 Íslendinga, sem látizt hafa úr Covid, um 85 ár.  Mælt í töpuðum lífárum er skaði þessara andláta, sem mögulega má rekja til sóttvarnaraðgerða, orðinn tífaldur á við skaða sjúkdómsins Covid-19." [Líklega nær 20-faldur - innsk. BJo.]

Þetta eru sláandi upplýsingar. Þá vaknar spurningin, hverju opinberar sóttvarnaraðgerðir hafi skilað á formi græddra lífára ?   

Ef farið hefði verið að ráði Burrington-sérfræðingahópsins og varnaraðgerðir einskorðaðar við viðkvæma hópa, en öðrum hindrunum, lokunum og takmörkunum á starfsemi í þjóðfélaginu, sleppt, er ekki víst, að mannslátum vegna C-19 hefði fjölgað neitt, en þótt töpuð lífár af völdum C-19 hefðu þrefaldazt, hefðu töpuð lífár af völdum C-19 samt aðeins orðið innan við 15 % af þeim töpuðu lífárum, sem með rökum má rekja til opinberra sóttvarnaraðgerða.

Þessar ömurlega staðreyndir benda til, að yfirvöld hérlendis hafi verið á kolröngu róli með sínar aðgerðir.  Þetta var fyrirsjáanlegt á grundvelli erlendra rannsókna, og bentum við Þorsteinn Siglaugsson, hagfræðingur, m.a. á þetta í blöðum og bloggi. 

Þá vék Jóhannes Loftsson að bólusetningunum:

 "Í september 2020 sagði sóttvarnalæknir, að tryggja yrði, að bóluefnin væru örugg og með góða virkni. Í lok árs varð Ísland samt fyrst þjóða til að bólusetja öll elliheimilin, aðeins tveimur dögum, eftir að bóluefnið kom til landsins.  Engar mælingar voru þá til um virkni eða öryggi bóluefnanna fyrir svo hrumt fólk. 17 dögum síðar var búið að tilkynna 7 andlát tengd bólusetningunni, sem er ein versta útkoma í heiminum. Í gögnum, sem keypt voru frá Hagstofunni, sést, að andlátum eldri en 85 ára þessa 17 daga fjölgaði um 20 % m.v. meðaltal síðustu 4 áramóta á undan. Þetta eru 10,5 fleiri andlát en meðaltalið og 4 fleiri en mest hafði orðið fram að þessu." 

    Viðkvæmir hópar voru ekki teknir með í prófunum lyfjafyrirtækjanna á bóluefnum sínum við C-19.  Þess vegna tók sóttvarnarlæknir mikla áhættu upp á eigin spýtur, þegar hann ákvað að heimila bólusetningar á þeim.  Hann gat farið að ráðum Burrington-sérfræðinganna og fyrirskipað sérstaka verndun þeirra í staðinn gegn C-19. 

Ofangreind tölfræði sýnir afleiðingar þessarar ógrunduðu ákvörðunar svart á hvítu.  Enginn veit, hvort viðkomandi, sem þarna urðu fórnarlömb bólusetningar, hefðu lifað smit SARS-CoV-2 veirunnar af.  Í þessu ljósi er nokkur hræsnisbragur á orðum sóttvarnarlæknis um, að nú óttist hann afleiðingar þess, að kórónuveiran nái til viðkvæmra hópa.  Þeir eru nú bólusettir.  Til hvers var þá tekin sú áhætta að bólusetja þá ?

"Asinn við þróun Covid-bóluefnanna olli því, að stokkið var yfir mörg þróunarskref og prófunum seinkað.  Meðal þeirra voru dýraprófanir á eiturvirkni.  Nú liggja niðurstöður þessara prófana fyrir, og þær eru ekki uppörvandi. Tengisprotinn, sem er í öllum bóluefnunum, er eitraður og veldur alls konar blóðrásarkvillum, https://tinyurl.com/fbj8cvkd , og skaða í heila tilraunadýranna, https://europepmc.org/article/ppr/ppr319676 .  Ennfremur sýndu dýraprófanir á Pfizer-bóluefninu, að nanóagnir bóluefnisins dreifa sér um allan líkamann og safnast í háum styrk í milta, lifur, nýrnahettum og eggjastokkum, https://tinyurl.com/n9wy2t8e  . Eiturvirknin skýrir fjölda aukaverkana, sem fylgja bóluefnunum.  Í dag hafa um 2000 aukaverkanir verið tilkynntar og þar af 100 alvarlegar og 26 dauðsföll.  Líklega er þetta veruleg vantalning, því [að] eftirfylgni skráninga vantar, og m.v. ísraelska greiningu eru andlátin í dag orðin 45."

Þetta eru stórtíðindi og koma í bakið á fólki.  Mundir þú hafa farið í bólusetningu að fengnum þessum upplýsingum um niðurstöður bóluefnaprófana á dýrum og vitandi það, að dauðsföll af völdum bólusetninga hérlendis eru að líkindum 50 % fleiri en eftir sýkingu af veirunni sjálfri ?  Gagnið sjáum við líka núna í eftirtíð, að er miklu takmarkaðra en fólki var talin trú um.  Þó hefur á skrifandi stundu ekki frétzt af alvarlegum sýkingum bólusettra, en samt er fulltrúi Almannavarna farinn að væla um, að e.t.v. þurfi að hefta frelsi fólks aftur verulega með öllum þeim neikvæðu afleiðingum, sem það hefur, og banna allar útihátíðir, það sem eftir lifir sumri. Frumhlaupin eru legio. 

JL vék næst að því í grein sinni, að hagsmunum annarra skjólstæðinga Landsspítalans hefði verið fórnað á altari kórónuveirunnar:

"20. febrúar 2020 kom út skýrsla tveggja sænskra sérfræðinga, sem fóru hörðum orðum um stöðu mála á bráðamóttöku Landsspítalans. Á hverjum degi voru 30 sjúklingar látnir bíða í yfir 24 klst áður en þeir voru fluttir til meðferðardeildar. Þetta þótti þeim stórhættulegt skipulagsleysi, sem tíðkaðist ekki annars staðar. Lagt var til bann við, að sjúklingar mættu bíða lengur en 6 klst á bráðadeildinni áður en leyst yrði úr þeirra málum. Nú 1,5 árum síðar hefur ekkert gerzt og margt versnað, ef marka má neyðarkall 1000 lækna um ófremdarástandið á spítalanum. 

Covid-aðgerðir hafa haft mikil áhrif á þetta ástand.  Skaðinn vegna Covid-aðgerða innan spítalans er því miklu margslungnari en nokkurn órar fyrir, og heilsu og lífi fjölda manns hefur verið fórnað með því að bregðast ekki við ráðgjöfinni." 

Það er mikill hnekkir fyrir framkvæmdastjórn Landsspítalans og heilbrigðisráðuneytið, hvernig komið er öryggi skjólstæðinga hans, en nýlegt neyðarkall 985 lækna spítalans ber vott um, að spítalinn uppfylli ekki lágmarkskröfur nútímans í vestrænu þjóðfélagi til öryggis á sjúkrahúsum.  Fjármunum hefur verið hellt úr ríkissjóði og í spítalann, en allt hefur komið fyrir ekki. Að "fráflæðisvandinn" skuli standa starfsemi spítalans fyrir þrifum í a.m.k. áratug, sýnir ranga forgangsröðun í félagsmála- og heilbrigðisgeiranum.

Að lokum vék JL að akkilesarhæl sóttvarnastjórnunarinnar hérlendis, sem er hundsun á heildstæðu mati á félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum sóttvarnaaðgerða. Einstefna og þröngsýni sóttvarnarlæknis er alger í þessum málum, og heilbrigðisráðuneytið hefur ekki sýnt neina tilburði til heildstæðs mats eða að fá ráðgjafa í áhættugreiningum til slíks verks. Afleiðingin eru endurtekin yfirskot í sóttvarnaraðgerðum og allt of mikill kostnaður hins opinbera, sem velt er á framtíðina með lántökum.  Til að tryggja boðleg vinnubrögð í þessum efnum, þarf að endurskoða sóttvarnarlöggjöfina og draga lærdóma af reynslunni til að lágmarka dauðsföll og samfélagslegan kostnað.

"Eitt stærsta vandamál við beitingu sóttvarnaraðgerða er, að skaði aðgerða er varla metinn. Slíkt mat er aðeins gert í gegnum gleraugu gerandans (sóttvarnaryfirvalda), sem getur eftir á vinsað út óþægilegar upplýsingar. Án eftirlits er engin ábyrgð og án ábyrgðar heldur ekkert aftur af öfgum aðgerðanna. Sjálfrannsóknir sóttvarnayfirvalda eru því ógagnsæjar, og þær litlu upplýsingar, sem gefnar eru, eru vandlega skammtaðar."                           

  Þessi gagnrýni á sóttvarnaraðgerðir var viðbúin, enda er svo mikil slagsíða á þeim, að þær hafa valdið miklu heilsufarslegu tjóni og dauðsföllum af völdum annars en C-19, t.d. atvinnuleysis, andlegs álags og lakari læknisþjónustu en áður.  Gagnsemin er einhver á formi færri smita og dauðsfalla af völdum C-19, en kostnaðurinn er yfirþyrmandi. Hafa verður þó í huga, að kostnaðurinn og atvinnuleysið er að miklu leyti af völdum erlendra ráðstafana, sem lömuðu ferðageirann.  Nú ættu innlend stjórnvöld að stíga varlega til jarðar og gera ekki svo miklar kröfur til þeirra ferðamanna, sem leggja vilja leið sína til landsins, að þeir kjósi fremur að fara eitthvað annað.  Þar sem einkennin eru væg hjá ungviði og bólusettum, skiptir fjöldi smita miklu minna máli en áður.   

 

  

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband