Loftslagsmál og ríkisstjórnin

Loftslagsmálin fá tiltölulega veglegan sess í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar, og ráðherrum verður tíðrætt um loftslagsmál á hátíðarstundum.  Athyglivert er, að megináherzla ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er á hafið.

Þetta er nýstárlegt, en skiljanlegt í ljósi hagsmuna Íslands.  Landið á mjög mikið undir því, að lífríki hafsins umhverfis það taki ekki kollsteypur, heldur fái að þróast á sjálfbæran hátt, eins og verið hefur alla þessa öld.  Þannig segir í sáttmálanum:

"Meginforsenda loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins.  Hvergi í heiminum hefur hitastigshækkun orðið jafnmikil og á norðurslóðum.  Þannig á Ísland að efla rannsóknir á súrnun sjávar í samráði við vísindasamfélagið og sjávarútveginn.  Ísland á enn fremur að ná 40 % samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda m.v. árið 1990 fyrir árið 2030."

 

 

Þetta er nokkuð einkennilega orðuð grein.  Það er algerlega útilokað fyrir ríkisstjórnina að hafa nokkur mælanleg áhrif á áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins.  Að stilla þessum "ómöguleika" upp sem meginforsendu loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar gefur til kynna einhvers konar blindingsleik. Loftslagsstefna á ekki að vera barátta við vindmyllur, heldur verður fólk flest að sjá í hendi sér betra líf að afloknum orkuskiptum. Almenningur verður að geta tengt loftslagsstefnu ríkisins við eigin hagsmuni. 

Þar sem skrifað er um rannsóknir á súrnun hafsins er auðvitað átt við rannsóknir, sem auðvelda landsmönnum að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga.  Betra hefði verið að gera skýran greinarmun á því, sem ríkisstjórnin hyggst gera annars vegar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar til að fást við afleiðingar þessarar losunar.  Hér er þessu slengt saman í eina bendu, endastöðin kölluð meginforsenda o.s.frv.  Viðvaningur í textasmíði virðist hafa farið hamförum við lyklaborðið og ekkert kunna um markmiðasetningu.

Íslendingar geta engin áhrif haft á súrnun hafsins, en þeir geta hins vegar töluverð áhrif haft á hreinleika þess í kringum landið, og það er brýnt að bæta stöðu skolphreinsunarmála verulega, ná megninu af örplastinu í síur og hreinsa sorann frá útrásarvökvanum í stað þess að láta nægja að dæla öllu saman út fyrir stórstraumsfjöru. Slíkt er ekki umhverfisvernd, heldur bráðabirgða þrifaaðgerð í heilsuverndarskyni.  Þetta er viðurkennt annars staðar í stjórnarsáttmálanum.  

Það þykir léleg markmiðasetning að setja sér markmið um einhverja breytu, sem viðkomandi hefur alls engin áhrif á.  Varðandi útblásturinn eru þrenns konar hvatar til að draga úr losun, sem höfðað geta til almennings:

Í fyrsta lagi batnar nærloft bæjarbúa við það að minnka jarðefnaeldsneytið, sem brennt er.  Árlega deyr a.m.k. einn tugur manna hérlendis ótímabærum dauðdaga vegna lélegra loftgæða af völdum útblásturs eldsneytisknúinna véla og um fimm tugir af völdum ófullnægjandi loftgæða, sem stafa af ýmsum orsökum.  

Í öðru lagi má spara jafngildi u.þ.b. 50 miaISK/ár í gjaldeyri með því að leysa af hólmi vélar í ökutækjum og fiskiskipum, sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti.  Eigendur ökutækjanna geta sparað sér um 70 % af orkukostnaði benzínbíla með því að fá sér rafbíl í stað benzínbíls.

Í þriðja lagi eru millilandaflug, millilandasiglingar og orkusækinn iðnaður ekki háð markmiðasetningu íslenzku ríkisstjórnarinnar, heldur koltvíildisskattheimtu ESB, sem getur skipt nokkrum milljörðum ISK á ári, er fram í sækir.  Þessir losunarvaldar standa undir um 80 % heildarlosunar landsmanna, ef losun frá uppþurrkuðu landi er sleppt.  Að draga úr losun sparar fé og verður að vera hagkvæmt til skemmri og lengri tíma, ef markmiðin eiga að nást.    

Það er eftir miklu að slægjast að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda, en þótt losun Íslendinga á hvern íbúa landsins sé á meðal hins mesta, sem gerist í heiminum, einnig án losunar frá þurrkuðu landi, eða um 34 t CO2eq/íb, að teknu tilliti til margfeldisáhrifa losunar í háloftunum, þá er þessi losun sem dropi í hafi heimslosunarinnar eða 300 ppm (hlutar úr milljón) af henni.  Í þessu ljósi verður að vara við að leggja í miklar ótímabærar fjárfestingar í tækni, sem er nú í hraðri þróun, til þess eins að fullnægja hégómlegum metnaði stjórnmálamanna á kostnað almennings. 

Markmiði ríkisstjórnarinnar um 40 % minni losun koltvíildisjafngilda fyrir árið 2030 en árið 1990 verður erfitt að ná, og markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040 er óraunhæft, ef átt er við alla losun, en næst með miklum fjárfestingum, ef eingöngu er átt við innlenda notkun, þ.e. 20 % af heildarlosuninni. Eru Íslendingar tilbúnir til að herða tímabundið sultarólina og fresta brýnni innviðauppbyggingu til að ná markmiði, sem engu máli skiptir í hinu stóra samhengi, hvort næst 5-10 árum seinna ?  Það þarf bráðum að svara því.    

Virðingarvert er, að í lok loftslagskaflans er minnnzt á að ganga til samstarfs við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun greinarinnar.  Til að markmið ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál náist, verður hún að virkja bændur til skógræktar og kosta verulegu til við plönturæktun og útplöntun og leggja í því sambandi ríkisjarðir, a.m.k. eyðibýli, undir skógrækt.  

Spurning er, hvort bleyting í þurrkuðu landi fæst viðurkennd sem samdráttur í losun.  Önnur spurning er, hvort bændur eru ginnkeyptir fyrir slíku með land, sem þeir nota nú sem beitarland. Gagnsemin er umdeilanleg. Það er þess vegna óvarlegt að reikna með miklu frá íbleytingunni, en sums staðar gæti átt vel við að moka ofan í skurði og planta nokkru áður í sama land.  Þar mun þá ekki myndast mýri, heldur skógur á þurrlendi.   Losun CO2 á Íslandi 2010  

    

 


Bloggfærslur 20. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband