EES-samningurinn verður sífellt stórtækari

Þann 23. janúar 2018 voru mótmæli fyrir framan Stórþingsbygginguna í Ósló vegna fyrirætlunar norsku ríkisstjórnarinnar um að fá Stórþingið til að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn með einföldum meirihluta atkvæða.  Þessi mótmæli sýna, að það getur hitnað í kolunum í Noregi, og þá einnig á Íslandi, ef mörgum finnst, að verið sé að afhenda ESB "erfðasilfrið".  

Norska stjórnarskráin áskilur, að 75 % atkvæða í Stórþinginu þurfi til að samþykkja fullveldisframsal norska ríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar, sé ekki um hefðbundinn þjóðréttarlegan samning að ræða. Ríkisstjórnin skákar í því skjólinu, að fyrirmælin um að framkvæma ákvarðanir ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators-orkustjórnvaldsstofnun ESB) komi frá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, en ESA verður aðeins ljósritandi milliliður í blekkingarskyni fyrir EFTA-ríkin, sem þannig þurfa ekki að taka við fyrirmælum beint frá ESB, er varða bæði hagsmuni ríkisins, lögaðila og einstaklinga í Noregi, á Íslandi og í Liechtenstein, sem væri skýlaust stjórnarskrárbrot.  

Það er norska verkalýðshreyfingin, sem hélt þennan útifund við þinghúsið, og það var ekki að ófyrirsynju.  Raforka var gerð að markaðsvöru í Noregi með orkulögum árið 1991.  Þeim svipar til íslenzku orkulaganna frá 2003, sem sett voru eftir upptöku Annars orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn að hálfu Alþingis.  Með þessum lögum er raforkan gerð að markaðsvöru í stað þess að vera "þjóðareign", eins og náttúruauðlindirnar, sem nýtt sé landsmönnum um allt land til hagsbóta, ekki sízt til að tryggja byggð um landið allt.  

Þegar Noregur varð hluti af "Nord Pool"-norræna orkumarkaðinum 1993, sem nú spannar einnig Eystrasaltslöndin, myndaðist uppboðsmarkaður fyrir raforku í Noregi. Hann hefur þó ekki haft mjög mikil áhrif, af því að verið hefur offramboð raforku á "Nord Pool" svæðinu.  Seinna var lagður öflugur sæstrengur til Hollands, og í kjölfarið hafa stór iðnfyrirtæki með langtíma samninga um raforku séð sér hag í að draga úr starfsemi sinni og selja orkukaupaheimildir sínar á markaði með umtalsverðum hagnaði.   

Þetta leiddi til uppsagnar starfsfólks og sums staðar til lokunar verksmiðjanna.  Ef ACER nær tangarhaldi á raforkuflutningsmálum Noregs, mun útibú hennar í Noregi, "Reguleringsmyndighet for energi", skammstafað RME, taka við stjórn hluta Orkustofnunar Noregs, NVE, Statnetts, norska Landsnets og raforkumarkaðarins, og fella "Nord Pool" inn í raforkumarkað ESB, enda eru öll aðildarlönd "Nord Pool" innan EES. Þá mun stálbræðsla við Stuttgart geta keypt "græna" orku frá Noregi á meginlandsverði.  Er ekki að efa, að þá mun verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum í Noregi, er raforkureikningur hans tvö-þrefaldast.

Samkeppnisskilyrði norskra fyrirtækja munu hríðversna, sem auðvitað kemur illa niður á atvinnuástandinu í Noregi, ekki sízt, þar sem undan fæti hallar hjá olíuiðnaðinum.  Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að norsk verkalýðsfélög skyldu boða til mótmælafundar framan við Stórþingsbygginguna í Ósló 23.01.2018.  

 Í meginatriðum mun hið sama eiga við á Íslandi og í Noregi, ef ACER ákveður, að aflsæstreng skuli leggja á milli Íslands og meginlandsins, hugsanlega með viðkomu á Bretlandi.  Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi verða ekki virt viðlits varðandi slíkt sæstrengsverkefni, ef í ACER verður tekin sú ákvörðun að auka hlutdeild "grænnar" raforku í ESB með útflutningi raforku frá Íslandi til ESB. Það er einmitt hlutverk ACER að auka raforkuflutninga á milli landa vafningalaust og án tafa að hálfu yfirvalda í hverju landi, sem kynnu að hafa aðra skoðun en meirihlutinn í ACER. 

Völd ACER og útibús hennar á Íslandi verða næg til að skipa Landsneti fyrir verkum um að tengja sæstrenginn og að gera kleift að flytja næga raforku að honum, e.t.v. að afli um 1200 MW, sem er tæplega helmingur aflgetu núverandi virkjana á Íslandi.  

Geta má nærri, að þrýstingur virkjanafyrirtækja um rannsóknar-, byggingar- og starfsleyfi fyrir nýjar virkjanir mun vaxa mjög eftir innleiðingu þessa fyrirkomulags í von um skjótfenginn gróða, sem þó er ekki víst, að vari lengi.  Orkulindirnar hafa að vísu ekki verið teknar eignarnámi eða keyptar með þessu fyrirkomulagi ESB, en ráðstöfunarréttur þeirra hefur verið fluttur úr landi til ACER í Ljubljana, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn.  Hugnast meirihluta Alþingismanna þessi framtíðarsýn ?  Er ekki ráð að staldra við og sjá, hvernig málin þróast í Noregi ?

 

 

 


Bloggfærslur 26. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband