Nú eru nýir tímar

Gríðarleg umræða varð í Noregi um aðild landsins að Orkusambandi ESB í febrúar og fram til 22. marz 2018, er atkvæðagreiðsla fór fram í Stórþinginu um málefnið.  Úrslit hennar urðu 72 atkvæði með (43 %) og 23 atkvæði á móti (14 %), en 74 þingmenn tóku ekki afstöðu (43 %).

Ef gert er ráð fyrir, að Liechtenstein samþykki, þá velta örlög þessa stórmáls á Alþingi Íslendinga.  Á Stórþinginu virtist afstaða þingmanna að mestu ráðast af því, hvort þeir eru fylgjendur aðildar Noregs að ESB eða andstæðingar slíkrar aðildar.  Norska þjóðin er allt annars sinnis en þessi úrslit gefa til kynna, og ekki er ólíklegt, að þessi afstöðumunur kjósenda og fulltrúa þeirra á Stórþinginu muni hafa pólitískar afleiðingar. Með þessari vefgrein er tengill yfir í yfirlýsingu, sem Trúnaðarráð "Nei til EU" sendi frá sér 8. apríl 2018.  

Ef afstaða Alþingismanna til þess, hvort leiða á Orkustofnun ESB til valda yfir raforkuflutningsmálum á Íslandi, ræðst af afstöðu þeirra til aðildar Íslands að ESB, þá munu þeir fella frumvarpið um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.

Fyrrverandi ráðherra og Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, valdi föstudagsgrein sinni í Morgunblaðinu, 23. marz 2018, eftirfarandi fyrirsögn:

"Sjálfstæðisflokkurinn krefst fullveldis í orkumálum".

Þar vísar hann til Landsfundarályktana 18.03.2018, en krafan í fyrirsögninni gæti jafnframt verið höfundarins af efni greinarinnar að dæma.  Er slíkt mikið ánægjuefni þeim, sem tjáð hafa sig með eindregnum hætti  gegn því að brjóta Stjórnarskrána og hleypa yfirþjóðlegri stofnun inn á gafl hér.  Verður nú vitnað til merkrar greinar Björns:

"Aðild að ESB-stofnuninni ACER (Agency for the Cooperation of energy regulators-Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði) var tekin upp í EES-samninginn 5. maí 2017.  Alþingi hefur ekki enn fjallað um aðild Íslands að ACER, en hart hefur verið barizt um málið í Noregi.  Innan ESB kalla menn stefnu sambandsins og framkvæmd hennar í orkumálum "orkusamband Evrópu", og innan þess ramma gegnir ACER vaxandi hlutverki. [Þetta vaxandi hlutverk mun halda "endalaust" áfram.  Nú er í smíðum 1000 blaðsíðna viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem er um 600 síður.  Búizt er við útvíkkun á verkefnasviði ACER með viðbótinni, en það er nú bundið við markaðsfyrirkomulag og flutninga á raforku og eldsneytisgasi.  Með þessu hefur ACER þegar verið tryggður ráðstöfunarréttur yfir allri tiltækri raforku og gasi - innsk. BJo.]  Að stefnan sé kennd við "orkusamband", sýnir, hvert er stefnt: ESB vill ná tökum á orkuauðlindinni. [Rétt ályktun, enda var orkusviðið skilgreint öryggislega mikilvægt árið 2009 fyrir ESB, eftir að orkuskortur hrjáði sum bandalagsríkin 2008 - innsk. BJo.]

Það var misráðið undir lok 20. aldarinnar að láta undir höfuð leggjast af Íslands hálfu að gera fyrirvara um aðild að því, sem nú er kallað "orkusamband Evrópu", fyrirvara, sem tæki mið af þeirri staðreynd, að Ísland á vegna legu sinnar ekki aðild að sameiginlegu orkudreifingarkerfi ESB-landanna og Noregs.  Hagsmunir Norðmanna eru allt aðrir en Íslendinga í þessu efni vegna margra tenginga norsks raforkumarkaðar við ESB-svæðið.  [Það er of djúpt í árinni tekið, að hagsmunir Íslendinga og Norðmanna séu ólíkir varðandi raforkuna.  Bæði löndin njóta sérstöðu í Evrópu fyrir hátt hlutfall, næstum 100 %, raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og í báðum löndum er umtalsverður hluti raforkunnar bundinn langtímasamningum við iðjuver, t.d. álver. Ef öll EFTA-löndin í EES samþykkja að ganga í Orkusambandið, þá munu lýðræðislega kjörin stjórnvöld í löndunum missa forræðið yfir orkustofnunum sínum og þar með raforkuflutningsfyrirtækjunum til ACER.  Hlutverki sínu um aukna millilandaflutninga trú mun þá ACER hefjast handa við að fjölga millilandatengingum með fyrsta sæstrengnum frá Íslandi, Ice Link, og fjölgun sæstrengja frá Noregi, t.d. NorthConnect til Skotlands.  Þannig er enginn grundvallarmunur á aðstöðu Íslands og Noregs í þessum efnum, en áhrifin munu þó fyrr koma fram í Noregi, af því að eftirspurnarhlið raforkumarkaðarins mun aukast gríðarlega, séð frá Noregi.  Þetta mun tvímælalaust valda raforkuverðshækkun í Noregi, sem ríða mun samkeppnishæfni sumra fyrirtækja að fullu, t.d. stóriðjufyrirtækja, sem að hluta eru á skammtímamarkaði fyrir raforku - innsk. BJo.]

Verði Ísland aðili að ACER, tekur þessi ESB-stofnun að líkindum við eftirlitshlutverki Orkustofnunar, t.d. með Landsneti, og fær þar með lokaorð um ákvörðun flutningsgjalds raforku til almennings og stóriðju á Íslandi.  [Ráðuneytið býr nú í haginn fyrir þessa valdatöku ESB með lagafrumvarpi um að færa hluta eftirlitsins, sem er nú hjá því, til Orkustofnunar - innsk. BJo.]

Að andstæðingar yfirþjóðlegs valds í orkumálum skuli hafa flutt mál sitt með þeim árangri, sem við blasir á landsfundi sjálfstæðismanna, verður vonandi til þess, að þingmenn flokksins stigi ekkert skref í þessu máli, sem sviptir Íslendinga fullveldisréttinum yfir orkuauðlindunum."

Sú staðreynd, að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, 16.-18. marz 2018, mótaði flokkinum einarða stefnu gegn téðu valdaframsali til yfirþjóðlegrar stofnunar, sýnir, að sú andstaða hlaut hljómgrunn á meðal sjálfstæðismanna, og hér skal fullyrða, að yfirlýsingar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins og Flokksþings Framsóknarflokksins 11.03.2108 njóta víðtæks stuðnings á meðal íslenzku þjóðarinnar.  Í raun verður það táknmynd um sigur lýðræðisins yfir embættismannakerfi ESB/EES og tilætlunarsemi þess um gagnrýnislausa færibandaafgreiðslu örlagamála umræðulítið, ef Alþingi hafnar frumvarpi ráðuneytisins um umrædda viðbót við EES-samninginn.  

Í umræðum um sama mál í Noregi, komu engin rök fram um gagnsemi þess fyrir Noreg að samþykkja sams konar ríkisstjórnarfrumvarp þar.  Þar var haldið uppi hræðsluáróðri um refsiaðgerðir ESB gegn Noregi, ef ESB fengi ekki vilja sínum framgengt. Sá áróður er gjörsamlega tilhæfulaus, því að samkvæmt EES-samninginum hefur ESB ekki heimild til annars en að fella úr gildi ákvæði í núverandi orkukafla samningsins, og þar sem ESB hagnast ekkert á því, nema síður sé, er afar ólíklegt, að til þess verði gripið.  Það, sem réð afstöðu meirihluta Stórþingsmanna við afgreiðslu ACER-málsins 22. marz 2018 var löngun þeirra til að hnýta Noreg enn nánari böndum við stjórnkerfi ESB.  Málið snerist í þeirra huga ekki um neitt annað en aðlögun Noregs að stjórnkerfi ESB á ímyndaðri leið Noregs inn í ESB.  Ef þjóðarviljinn fær að ráða í Noregi, og hann hefur þegar ráðið tvisvar í þeim efnum, er landið alls ekki á leið inn í ESB.  

Munurinn á stjórnmálastöðunni á Íslandi og í Noregi er aðallega sá, að á Íslandi er meiri samhljómur með afstöðu þingmanna og þjóðarinnar en í Noregi.  Þar af leiðandi má segja, að lýðræðið sé virkara á Íslandi. 

 

 

 

  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 10. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband