Þingmenn skoði hug sinn til Orkupakka #3

Iðnaðarráðherra, sem er ábyrg fyrir orkumálum landsins, hefur látið í ljós, að samþykkt OP#3 sé eðlilegt framhald á lögleiðingu OP#1 og OP#2 hérlendis og að aðaláhrif hans verði að auka sjálfstæði Orkustofnunar (OS) til að framfylgja bættri neytendavernd fyrir raforkukaupendur.  

Þetta er allt saman kolrangt hjá ráðherranum, og þegar af þeirri ástæðu verða þingmenn að staldra hér við og hugsa sinn gang.  Bæði utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafa tekið skakkan pól í hæðina í þessu máli og eru í þann veginn að leiða þjóðina í hinar verstu ógöngur með glámskyggni sinni. Styrkur lýðræðisþjóðfélagsins er, að slík grundvallarmistök ráðherra, þingmanna og stjórnmálaflokka þeirra, draga pólitískan dilk á eftir sér.  Þess sjást nú þegar merki, sem þó eru smáræði hjá því, sem búast má við, ef allt fer á versta veg. 

Grunnstefið í orkustefnu Evrópusambandsins (ESB) er að búa í haginn fyrir og þróa innri raforkumarkað með samtengdum og snurðulaust samrekanlegum raforkukerfum aðildarlanda.  OP#1, sem var innleiddur hér með raforkulögum 2003, átti að leggja grundvöll að frjálsri samkeppni á sviði raforkuvinnslu og -sölu;  með OP#2, innleiddum hér 2008, átti (valfrjálst þó) að koma á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, en Landsnet, sem er með verkinn, hefur enn ekki látið af því verða, heldur er hér orkulindastýring Landsvirkjunar við lýði að mestu leyti, þar eð Landsvirkjun er ríkjandi á markaðinum.  

Með OP#3 verður sú meginbreyting, að á grundvelli Lissabon-sáttmálans, sem er stjórnarskrárígildi ESB,  breytist orkusamvinna aðildarlandanna í Orkusamband ESB með stofnsetningu yfirþjóðlegrar Orkustofnunar ESB-ACER.  Stofnað var til valdamikils embættis á orkusviði í hverju landi, Landsreglara, sem tekur við eftirlits- og reglusetningarskyldum og -völdum orkuráðuneyta og orkustofnana í hverju landi og verður undir beinni stjórn ACER með ESA sem millilið fyrir EFTA-löndin. 

Á Íslandi er ætlunin að hafa þetta nýja embætti, sem á að verða óháð íslenzkum stjórnvöldum, innan vébanda OS, og jafnvel gegni Orkumálastjóri þessu starfi.  Hann þarf þá að þjóna tveimur herrum, sem býður upp á óhjákvæmilega hagsmunaárekstra.  Í Noregi verður þetta sjálfstætt embætti, enda óvíst, að ESB sætti sig við samkrull trúnaðar við landsyfirvöld og við ACER í sömu persónu.  Það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum. Stjórnlagalega orkar Landsreglari tvímælis hérlendis, og það birtist enn skýrar með OP#4, en látum það liggja á milli hluta hér.

Til að gera langa sögu stutta má segja, að Landsreglari hafi tvö meginhlutverk samkvæmt OP#3:  

Í fyrsta lagi ber honum að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn fullkomlega að innri raforkumarkaði ESB með því að koma hér á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar. 

Þetta óhefta markaðskerfi mun hafa slæmar hliðarverkanir vegna sérstöðu íslenzka orkukerfisins.  Þetta ESB-kerfi er hannað til að sjá neytendum fyrir nægu afli á hverjum tíma, og á meginlandi Evrópu (og á Bretlandi) er það hlutverk eldsneytismarkaða að sjá orkuverunum fyrir nægri frumorku. 

Hér á landi verður aftur á móti ætlazt til þess af þessu kerfi, að það sjái bæði fyrir nægri frumorku (vatn í miðlunarlónum og gufa í virkjuðum jarðhitageymum) og nægu rafafli.   Markaðsstýring raforkuvinnslu er ófær um það.  Eftir innleiðingu hennar hér eykst þess vegna hættan á orkuskorti verulega, og hér verður viðvarandi seljendamarkaður, af því að orkuvinnslufyrirtækin munu ekki sjá sér hag í að auka framboð orku mikið í einu.  

Þetta ástand er augljóslega andstæða neytendaverndar, því að hætta á orkuskorti þýðir hækkun raforkuverðs í þessu kerfi og tíðar skerðingar eða afnám á framboði ótryggðrar orku, sem er ódýrari en forgangsorka.  Hér þarf í staðinn sérsniðna orkulindastýringu fyrir allt landið (öll helztu orkuvinnslufyrirtækin), en Landsreglarinn mun vafalaust banna hana, þar sem hún felur í sér óleyfilegt inngrip hins opinbera í frjálsan samkeppnismarkað.  Þar á hvert fyrirtæki að leitast við að hámarka tekjur sínar, og enginn ber ábyrgð á því, hvort næg orka verður fyrir hendi í kerfinu í næstu viku.  

Með orkulindastýringu raforkuvinnslunnar er ekki verið að finna upp hjólið, því að Landsvirkjun hefur lengi þróað slíkt kerfi innan sinna vébanda.  Það má byggja á þeim grunni og útvíkka kerfið fyrir allt landið.  Hætt er við, að Landsvirkjun muni afleggja sína orkulindastýringu, ef/þegar Landsreglari kemur hér á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, og undir Landsreglara, fjórfrelsinu og beitingu ESA á Þjónustutilskipun 123/2013 er líklegt, að fljótlega kvarnist út úr Landsvirkjun, sem verður raforkukaupendum sízt til hagsbóta.  

Hitt meginhlutverk Landsreglara samkvæmt OP#3, eftir að hafa aðlagað hér raforkumarkaðinn að innri markaði ESB, verður að ryðja brott öllum hindrunum úr vegi raunverulegrar tengingar landsins við innri markað ESB. 

Þar með vinnur hann að aðalstefnumiði ESB á orkusviði, þ.e. að samtengja öll lönd Orkusambandsins með öflugum hætti á einum markaði, þar sem fjórfrelsið ríkir.  Lönd, sem kunna að vera aflögufær um raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, vekja alveg sérstakan áhuga Framkvæmdastjórnarinnar, eins og berlega kemur fram í OP#4.  Þessu til sannindamerkis varðandi Ísland er, að ESB hefur valið "Ice-Link"-verkefnið, sem er um 1000 MW sæstrengur á milli Íslands og Skotlands, inn á "Union List of Projects of Common Interest" eða Sambandslista verkefna sameiginlegra hagsmuna.  Inn á þessa skrá Evrópusambandsins fara aðeins verkefni af Kerfisþróunaráætlun ESB, sem hæstu einkunn hljóta í ströngu matsferli ENTSO-e, Samtaka evrópskra kerfisstjóra, þar sem fulltrúi Landsnets á sæti.  

Það má þannig slá því föstu, að á meðal stefnumarkenda ESB sé ótvíræður áhugi á "Ice-Link".  Það er vafalaust áhugi hjá brezka Landsreglaranum á þessu verkefni, því að hann hefur hvatt mjög til lagningar "NorthConnect", 1400 MW sæstrengs á milli Hörðalands í Vestur-Noregi og Petershead á Skotlandi.  Vegna hitans í norsku sæstrengsumræðunni bað ríkisstjórnin norsku Orkustofnunina, NVE, um að fresta afgreiðslu umsóknar um "NorthConnect" fram yfir sveitarstjórnarkosningar í september 2019 í Noregi.  

Komi upp ágreiningur á milli íslenzka og brezka Landsreglarans um "Ice-Link" eða þess íslenzka og írska, ef Bretar ganga úr ACER, sem er spurning, þótt ekki sé lengur spurning um BREXIT 31.10.2019, þá mun ACER úrskurða um þann ágreining.  Eftir að Alþingi hefur innleitt OP#3 í íslenzk lög, og úrskurði ACER, að sæstrenginn skuli leggja, verður engin leið fyrir íslenzk yfirvöld til að hindra lagningu slíks strengs og tengingu við íslenzka meginflutningskerfi raforku án þess að baka ríkissjóði stórfellda skaðabótaskyldu, eins og m.a. Arnar Þór Jónsson, dómari hefur bent á.  Hún getur numið tugum milljarða ISK, sem verður útreiknað tjón sæstrengsfjárfesta, sem orðið hafa hlutskarpastir í útboði ACER, yfir eitthvert árabil.  Við þetta bætist hið pólitíska tjón, því að slík málaferli munu líklega hafa slæm áhrif á EES-samstarfið og forkólfum ESB mun þykja sem Íslendingar hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar, sem þeir tókust á hendur við innleiðingu OP#3.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga nýlega málshöfðun Framkvæmdastjórnarinnar gegn ríkisstjórn Belgíu fyrir ESB-dómstólinum fyrir ranga innleiðingu OP#3.  Þar ætlaði ríkisstjórn Belgíu sér m.a. að eiga síðasta orðið um millilandatengingar.   

Þess má að lokum geta, að samkvæmt tilskipun 2019/944, gr. 3, sem er í OP#4, eiga aðildarlöndin að tryggja, að innlend löggjöf hindri ekki með "með óeðlilegum hætti" nýjar millilandatengingar fyrir raforku. Allt ber hér að sama brunni.  Málatilbúnaður ríkisstjórnar Íslands í orkupakkamálinu stendur á brauðfótum . 

 


Bloggfærslur 8. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband