Ráðlegging á röngu róli

Það er ekki á hverjum degi, að ráðlegging um aðferðarfræði og samningsmarkmið til annars aðilans í viðkvæmri og viðurhlutamikilli deilu, allra sízt á sviði raforkuviðskipta, sést opinberlega frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, HHÍ, enda ber sú, sem hér verður rýnd, með sér að vera svo illa ígrunduð og ófræðileg í alla staði, að hún er líklega af pólitískum rótum runnin, enda hefur forstöðumaðurinn áður sett sig í dómarasæti um allt of lága arðsemi Landsvirkjunar.  Þar er hann á öndverðum meiði við Jón Þór Sturluson, sem rannsakað hefur þessi mál sérstaklega og komizt að þeirri niðurstöðu, að m.v. áhættu fjárfestinga Landsvirkjunar hafi arðsemi hennar verið vel viðunandi, sjá lok þessa pistils.  

Í upphafi fréttar Þorsteins Friðriks Halldórssonar og Kristins Inga Jónssonar í Markaði Fréttablaðsins 13. febrúar 2020, sem bar fyrirsögnina:

"Landsvirkjun þurfi ekki að örvænta",

gaf þetta á að líta:

"Engin ástæða er fyrir Landsvirkjun til að örvænta og slá af raforkuverðinu til álversins í Straumsvík, enda er samningur álversins við Landsvirkjun bundinn til ársins 2036.  Fyrirtækin gætu komizt að samkomulagi um að skipta ávinningi á milli sín.  Þetta segir Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands."

Þetta er fljótfærnisleg yfirlýsing af hálfu forstöðumannsins Sigurðar J. m.t.t. til eðlis máls og þess, sem í húfi er.  Forsenda hans virðist vera, að vegna kaupskyldu raforkusamningsins muni RTA heykjast á að loka ISAL, og ef sú yrði samt reyndin, yrði raforkunni strax fundið annað virðisaukandi hlutverk, og þeir 1250 starfsmenn, sem HHÍ áætlar, að hafi bein og óbein störf af starfseminni í Straumsvík, fengju strax jafn vel eða betur borguð störf en þeir misstu.  Forstöðumaðurinn Sigurður J býst einnig við, að deiluaðilar myndu ná samkomulagi um að skipta með sér andvirði raforkusölunnar.  Þetta eru einberar skýjaborgir og hrein fásinna af forstöðumanninum að bera þetta á borð fyrir almenning. Höldum aðeins áfram með þessa mannvitsbrekku:

""Frá viðskiptalegu sjónarhorni", bætir hann við, "sé ég hins vegar ekki ástæðu fyrir Landsvirkjun til að slá af verðinu.  Ef samningurinn er þannig úr garði gerður, að Rio Tinto hefur skuldbundið sig til að kaupa alla þessa raforku, eftir niðurskurðinn í ár, tel ég ekki, að Landsvirkjun sé í slæmri stöðu í bili", segir Sigurður, sem tekur fram, að hann viti ekki með vissu, hvað felist í samningi fyrirtækjanna."

Téður Sigurður virðist telja, að Landsvirkjun eigi að einblína á þrönga fyrirtækishagsmuni sína og láta þjóðarhagsmuni lönd og leið. Það er í samræmi við inntak orkupakkanna frá Evrópusambandinu (ESB), en stríðir algerlega gegn upprunalegu og eðlilegu hlutverki Landsvirkjunar að efla atvinnu og verðmætasköpun í landinu.  Sú stefnumörkun tryggir hins vegar, að afrakstur auðlindanýtingarinnar dreifist um allt hagkerfið, nákvæmlega eins og þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson telur ákjósanlegast og lýsti í Morgunblaðsgrein 07.03.2020. Í ESB er ekki verið að nýta náttúruauðlindir, sem eru stór hluti af þjóðarauðnum, til raforkuvinnslu, eins og hér er gert.

Þá er alveg ljóst, að téðum Sigurði hefur verið tjáð, eða hann ímyndar sér, að Landsvirkjun hafi fullkomna tryggingu fyrir orkukaupskyldu RTA til samningsloka 2036, þótt móðurfyrirtækið neyðist til að loka ISAL, af því að Landsvirkjun þverskallast við að koma nægilega til móts við óskir fyrirtækisins um að létta því óbærilegar fjárhagsbyrðar af völdum orkukostnaðar á tímum mjög lágs álverðs.

Þetta er önnur hæpin forsenda Sigurðar, sem ráðlegging hans hvílir á og sýnir, að óviðeigandi ráðgjöf hans sem forstöðumanns HHÍ hvílir á brauðfótum.  Ef RTA mætir eintómum þvergirðingi af hálfu Landsvirkjunar, er næsta víst, að RTA mun draga hana fyrir dóm, þar sem reynt mun verða að ógilda kaupskylduna t.d. á þeim forsendum alþjóðalaga, að halli svo mjög á annan aðilann á samningstímanum, að samningurinn verði honum óbærilegur, beri hinum að verða við óskum hans um að endursemja í góðri trú um, að samningurinn verði báðum viðunandi út samningstímabilið.  Hvað sem líður efnisatriðum umræddrar ráðleggingar í nafni HHÍ, virðist hún tvímælalaust vera fullkomlega óviðeigandi frumhlaup.

Í "Sögu Landsvirkjunar" árið 2005 skrifaði Jón Þór Sturluson:

"Að teknu tilliti til tímasetningar eigendaframlaga, arðgreiðslna og metins virðis Landsvirkjunar, má reikna út arðsemi þess fjár, sem eigendur hafa bundið í fyrirtækinu á bilinu 5,1 % - 7,4 %  [...].  Niðurstaðan er sú, að ef Landsvirkjun væri rekin sem hvert annað einkafyrirtæki og verðlegði raforkuna í samræmi við hámörkun hagnaðar og samkeppni frá keppinautum, væri arðsemi af þeim fjármunum, sem settir hafa verið í fyrirtækið, væntanlega vel ásættanleg, á bilinu 5,1-7,4 % að raungildi."

Hér er lykilatriði til skilnings að taka eftir orðunum "og samkeppni frá keppinautum".  Meinið er, að nú er engin "samkeppni frá keppinautum", heldur er raforkuverðið skrúfað purkunarlaust upp í ósjálfbærar hæðir í krafti þessi, að viðskiptavinurinn getur ekki leitað neitt annað með raforkukaup sín.  Hann á þá tveggja kosta völ, og eru báðir vondir: að ganga að afarkostum upp á von og óvön um þróun afurðamarkaða sinna eða að afskrifa fjárfestingar sínar og hætta starfseminni (fyrirtækið er óseljanlegt með ósjálfbæran eða engan raforkusamning).  

 


Bloggfærslur 14. mars 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband