Bullustampar kveða sér hljóðs í landsmálum

Á enskri tungu er til orðið "Idiocracy", sem e.t.v. mætti snara á íslenzku með orðinu kjánaræði.  Þegar málflutningur ótrúlega margs fólks, sem gefur kost á sér til starfa sem fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi fyrir þessar kosningar, ber fyrir sjónir eða eyru, fallast ýmsum hendur, því að engu er líkara en stefnan sé mörkuð undir áhrifum líffæraskaðandi eiturefna. Munum við þurfa að lifa í "kjánaræði" eftir næstu kosningar ?

Morgunblaðið birti 9. september 2021 úrdrátt úr Dagmálaviðtali Andrésar Magnússonar og Stefáns Einars Stefánssonar við formann þingflokks pírata, Halldóru Mogensen.  Þegar píratar komu fram á sjónarsviðið hérlendis, voru samnefndar hreyfingar í uppgangi í sumum öðrum löndum Evrópu, en þær hafa nú gufað upp eða sameinazt öðrum jaðarhreyfingum. Kjánar höfða yfirleitt ekki lengi til fólks, nema við sérstakar þjóðfélagslegar aðstæður, sem eru hvorki fyrir hendi á Íslandi nú né annars staðar í Evrópu.

Þá átti boðskapurinn eitthvað skylt við stjórnleysisstefnuna (anarkisma), en nú hefur orðið "metamorphosis" eða umbreyting á pírötum hérlendis, svo að þeir virka í pólitíkinni, hvort sem er í Reykjavík, þar sem alger óstjórn ríkir undir stjórn Samfylkingar, pírata, Viðreisnar o.fl., eða í landsmálum (á Alþingi), sem deild í Samfylkingunni. Það gengur vart hnífurinn á milli þeirra, enda er lýðskrum megineinkenni beggja.

Til að gefa nasasjón af bullinu, sem vellur upp úr pírötum, verður hér byrjað á enda úrdráttarins:

"Í tengslum við umræðuna um borgaralaunin telur Halldóra [Mogensen] þó einnig, að spyrja þurfi, hvort samfélagið eigi að leggja áherzlu á sköpun nýrra starfa. 

"Er það eitthvað, sem við eigum að vera að gera.  Eigum við að vera að setja rosalega mikla orku í að búa til störf fyrir fólk í stað þess að setja bara fjármagn í hendurnar á fólki og treysta þeim til að skapa störfin sjálf", spyr hún." 

Hér kveður við nýjan tón í stjórnmálunum á Íslandi og á Norðurlöndunum í heild.  Samkvæmt lífsviðhorfum pírata á hið opinbera ekki að auðvelda fyrirtækjunum nýsköpun til atvinnusköpunar á nokkurn hátt, heldur að senda öllum íbúunum yfir ákveðnum aldri ávísun frá ríkissjóði, sem dugi til "framfærslu", þegar stefnan er að fullu til framkvæmda komin. Þessi hugsun felur í sér purkunarlausan vilja til að bruðla með opinbert fé.  Hún mun leiða til vaxandi atvinnuleysis, óðaverðbólgu, taumlausrar skuldasöfnunar og mikillar óhamingju, enda hafa tilraunir í svipaða veru alls staðar farið í vaskinn, þar sem eitthvað í þessa veru hefur verið reynt. Hér er um að ræða siðferðilegt og hagfræðilegt glapræði.  Að stjórnmálaflokkur á Íslandi skuli leyfa sér að bera aðra eins vitleysu á borð fyrir kjósendur, sýnir, ásamt öðru, að það er stutt í kjánaræðið hér.  

Nú verður rakin byrjunin á úrdrættinum:

"Píratar tala líkt og áður um, að borgaralaun skuli tekin upp og að þeim sé ætlað að tryggja grunnframfærslu allra borgara landsins.  Halldóra Mogensen er þingflokksformaður flokksins á Alþingi og skýrir afstöðu hans í samtali á vettvangi Dagmála. 

Hún segir kostnaðarmat ekki liggja fyrir, verkefnið sé hugsað til langs tíma og verði að skoðast í heildarsamhengi grundvallarbreytinga á samfélaginu.  Hún telur þó rétt að stíga fyrstu skrefin nú þegar, sem geti falizt í hækkun persónuafsláttar, og að þeir, sem kjósi að standa utan vinnumarkaðar eða hafi ekki möguleika á þátttöku á þeim vettvangi, fái fjárhæð, sem svari til persónuafsláttarins, greidda út." 

Það er heilbrigt keppikefli allra vestrænna samfélaga og allra annarra iðnvæddra og þróunarsamfélaga, að nægt framboð sé af atvinnu fyrir alla á vinnumarkaðsaldri.  Það er jafnvel af sumum talið til mannréttinda að fá að vinna fyrir sér.  Píratar eru af öðru sauðahúsi.  Þeir vilja innleiða hvata til að vinna ekki.  Þar með ýta þeir undir leti og ómennsku og skapa alls konar heilsufarsleg og félagsleg vandamál, en þeir hafa sennilega ekki velt þessum neikvæðu hliðum borgaralauna fyrir sér. 

Það, sem fyrir þeim vakir, er að stöðva hagvöxt í efnahagskerfinu og draga úr einkaneyzlu. Þeir hafa ekki gert neina áhættugreiningu fyrir þetta "flopp" sitt, en það, sem við blasir, er versta efnahagsástand, sem þekkist, þ.e. "stagflation".  Hér yrði að prenta peninga til að standa undir ósjálfbærum útgjöldum ríkissjóðs, sem leiðir til hárrar verðbólgu, og hagkerfið mundi ekki standa í stað, heldur dragast saman. 

Ef píratar fengju að reka þessa stefnu sína "to the bitter end", þá yrði hér þjóðargjaldþrot, og Íslendingar mundu missa sjálfstæði sitt.  Allt dugandi fólk mundi flýja óstjórnina, en eftir sætu afætur og   kjánar. Það er makalaust, ef stjórnmálaflokkur, sem boðar slíka kollsteypustefnu, mun fá 10 %-15 % atkvæða.  Það sýnir, að pírötum hefur tekizt að pakka vitleysunni inn í umbúðir, sem fanga athygli allt of margra.  Dreifbýlisfólk sér þó flest, hversu ókræsilegt innihald glansumbúðanna er.  Það er einvörðungu fólk, sem ekki skynjar samhengi þjóðartekna og velmegunar, sem lætur glepjast af silkimjúkum falsáróðri pírata, eins og orð Halldóru Mogensen að ofan eru dæmi um. 

"[...] fyrsta skrefið gæti verið að hækka um kISK 25-30 á mánuði.  Að hækka um kISK 25 myndi kosta, að mig minnir, um 54 mrdISK/ár", útskýrir hún.  Innt eftir því, hvernig flokkurinn sjái fyrir sér að fjármagna þetta og frekari skref í átt að borgaralaunum, bendir hún á, að þessi breyting muni einna helzt nýtast hinum verst settu, sem muni því um leið verja peningunum í neyzlu, og því skili stór hluti fjármunanna sér aftur í ríkissjóð í formi skattgreiðslna."   

Hér kynnir Halldóra Mogensen til sögunnar upphaf stórfelldrar aukningar ríkisútgjalda, sem eru algerlega óþörf, í landi, þar sem ríkisútgjöld eru nú þegar í hæstu hæðum á alþjóðlega mælikvarða og kaupmáttur launa er með því hæsta, sem gerist í heiminum. Hún ber það á borð, að af þeim 180 þús. (180 k) viðtakendum, sem ofangreindar tölur hennar segja, að fái þessi borgaralaun (hvernig hafa píratar valið þá úr miklu stærri hópi fólks 18 ára og eldri ?), muni "hinir verst settu" nota upphæðina í neyzluaukningu og "stór hluti fjármunanna skila sér aftur í ríkissjóð".  "Verst settu" borga hins vegar engan tekjuskatt.  Hvað með alla hina, allt að 120 k ?  Hvers vegna fá þeir ekki náð fyrir augum pírata ?  Hvernig býst Halldóra við, að þeir muni verja auknum ráðstöfunartekjum sínum, þegar þeir fá að auki borgaralaun ?

Þessi ráðstöfun skattpeninga hins vinnandi manns er illa ígrunduð á tímum, þegar þjóðfélaginu ríður á að efla innviði sína á öllum sviðum. Slíkt kostar, en borgar sig á skömmum tíma.  

"Þrétt fyrir það er ljóst, að ef ríkissjóður ætlar sér að takast á hendur að greiða öllum, óháð vinnuframlagi, grunnframfærslu, mun það kosta hundruð milljarða króna.  Halldóra segir, að fjármagna megi það með bættu skattaeftirliti, hækkun veiðigjalda, þrepaskiptum fjármagstekjuskatti og fleiri kerfisbreytingum." 

  Með þessu svari sínu beit Halldóra Mogensen höfuðið af skömminni og sýndi fram á, svo að ekki er um að villast, að hún er alger glópur á þessu mikilvæga sviði, sem ekki á þess vegna nokkurt erindi á Alþing.  Hún er þó þingflokksformaður pírata, og segir það allt, sem segja þarf um þá tætingshjörð.  Ef grunnframfærslan nemur 350 kISK/mán og allir 18 ára og eldri eiga að fá þessa upphæð, þá nemur kostnaðurinn um 1250 mrdISK/ár.  Sparnaður kemur á móti, en nettó upphæðin gæti numið um 1000 mrdISK/ár eða öllum íslenzku fjárlögunum um þessar mundir.  Tekjustofnarnir, sem þingflokksformaðurinn nefnir, standa e.t.v. undir 5 %-10 % af kostnaðinum um stundarsakir, en svo munu þeir skreppa saman vegna ofsköttunar.  Vitleysan ríður ekki við einteyming á þessum bænum. Það er vaðið á súðum endalaust í botnlausri ósvífni, þar sem skákað er í skjóli deyfðar og doða kjósenda. Hvernig stendur á því, að a.m.k. 10. hver kjósandi skuli ætla að ljá þessari endileysu atkvæði sitt ?  Það er hætt að vera fyndið.

""Líka lán. Það er líka allt í lagi að segja það.  Það er allt í lagi að taka lán fyrir fjárfestingum.  Því [að] ef við erum að fjárfesta í fólki, eins og innviðum og öðru, þá erum við að gera það vegna þess, að það skilar sér til baka".  Bendir hún á, að það sé í samræmi við ákall Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem telji, að ekki eigi að skera ríkisútgjöld niður vegna kórónuveirunnar, heldur örva hagkerfin með fjárfestingu og meiri umsvifum hins opinbera.  "Við megum leyfa okkur að fjárfesta þannig í framtíðarsamfélaginu", útskýrir Halldóra."   

Ábyrgðarleysi þingflokksformanns pírata gagnvart þeim, sem greiða verða lánin, er hrollvekjandi. Það vantar gjörsamlega botninn í hagfræðina hennar, enda virðist hún ekki bera skynbragð á þau fræði umfram meðalskynugan heimiliskött.  Hvers vegna er "allt í lagi að taka lán fyrir fjárfestingum" ?  Skilyrði þess er, að fjárfestingin skili lántakanum meiri arðsemi en nemur vaxtakjörum lánsins. Þarna skriplar hagfræði Halldóru á skötunni.

Auk þess fer þingflokksformaðurinn ranglega með hugtakið fjárfesting. Hún á við lán til rekstrar, þ.e. neyzlu heimilanna.  Villukenningar þingmanna af þessu tagi eru ekki til annars fallnar en að rugla almenning í ríminu. Það, sem hún hefur eftir AGS, á ekki lengur við.  Íslenzka ríkisstjórnin jók skuldir ríkissjóðs gríðarlega til að aðstoða fólk og fyrirtæki, aðallega í ferðageiranum, í Kófinu, en það er algerlega óábyrgt að halda lengra út á þá braut.  Hvað ætlar þessi Mogensen að gera, þegar næsta áfall ríður yfir ?  Þá grípur hún í tómt, því að ríkissjóður, sem stjórnað er í anda þessarar Mogensen, mun einskis lánstrausts njóta.

"Talsvert hefur borið á umræðu í kosningabaráttunni, að sækja megi miklar fjárhæðir í hækkun veiðigjalda.  Halldóra telur svo vera og innt eftir því, hver stærðargráðan á slíkri skattheimtu gæti orðið, segir hún:"Við vorum að tala um að tvöfalda auðlindagjaldið".  Í dag er viðmiðið það, að 33 % af afkomu útgerðarfyrirtækjanna fari í að greiða auðlindagjald, og því er Halldóra spurð, hvort hún boði 66 % sértækan skatt á hagnað sjávarútvegsins.

"Ég get ekki svarað þessu algjörlega 100 %.  Þegar þú ert að fara út í svona díteila (sic !) með tölur, þá er það eitthvað, sem við þurfum að gefa út fyrir kosningar ásamt kostnaðinum"."

Þetta er einfeldningslegri málflutningur en búast má við frá þingmanni, og er þá langt til jafnað.  Slengt er fram "tvöföldun veiðigjalda" án nokkurrar greiningar á því, hvaða áhrif slíkur flutningur fjármagns hefur á afkomu sjávarbyggðanna í landinu, á fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækjanna í nýjustu tækni til veiða og vinnslu, á orkuskipti sjávarútvegsins, á nýsköpun og þróun í átt til gernýtingar sjávarafurðanna og síðast, en ekki sízt, á samkeppnishæfni íslenzka sjávarútvegsins um fólk og fjármuni hér innanlands og um fiskmarkaðina erlendis.

Hagnaður í sjávarútvegi er hlutfallslega minni en að jafnaði í öðrum innlendum fyrirtækjum.  Þess vegna þykir pírötum og öðrum rekstrarrötum 33 % sértækur skattur á hagnað gefa of lítið, en auðvitað bætist almennur tekjuskattur við þetta, og skattspor sjávarútvegsins er gríðarlega stórt nú þegar.  33 % sértækur skattur á hagnað er mjög hátt hlutfall, og hærra hlutfall mun valda miklu tjóni á landsbyggðinni og hægja á hinni jákvæðu þróun, sem sjávarútvegurinn stendur alls staðar að. Hvers á sjávarútvegurinn og sjávarbyggðirnar að gjalda að verða beittur slíkum fantatökum af stjórnmálamönnum í Reykjavík, sem ekkert skynbragð bera, hvorki á útgerð né hagsmuni sjávarplássa. Þeir fara offari og brjóta jafnræðisreglu Stjórnarskrár með því að misbeita stjórnvaldi með þessum hætti gegn einni atvinnugrein.  Slíkt er siðlaust athæfi og víst er, að skamma stund mun sú hönd verða höggi fegin.    

 

 

    

 

 


Bloggfærslur 16. september 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband