Á skallanum

Formenn stjórnmálaflokkanna mættust í sjónvarpssal RÚV að kvöldi 31.08.2021.  Segja má, að víglína hafi birzt á milli borgaralegu flokkanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks annars vegar og kraðaks á vinstri vængnum hins vegar.  Það er síðan list stjórnmálanna að brúa þetta bil, ef nauðsyn krefur, að kosningum afstöðnum í því skyni að mynda starfhæfa ríkisstjórn fyrir landið.

Það var sótt að þeirri utanríkisstefnu Viðreisnar, sem nú starfar með afleitum vinstri meirihluta í Reykjavík og rekur jafnframt sósíalistíska sjávarútvegsstefnu undir öfugmælinu "markaðsverð fyrir auðlindina", og Samfylkingar að ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort taka á upp þráðinn í aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið. Þessa þjóðaratkvæðagreiðslu vilja þau halda óháð því, hvert þingviljinn stefnir eftir kosningar.  Þetta er fáheyrt lýðskrum, enda hafa píratarnir lapið þetta upp, eins og allar mestu vitleysurnar, sem hægt er að rekast á á netinu. Þvílíkar lufsur og lúðulakar í pólitík. 

Það er alveg eðlilegt að halda um þetta þjóðaratkvæði, ef þingviljinn stendur til að taka upp þennan þráð, en sé þingviljinn enn á móti, eins og á nýafstöðnu þingi, þá er verið að hafa þjóðina að fífli með því að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu með svipuðum hætti og vinstri stjórnin álpaðist til á sínum tíma, þegar spurt var, hvort þjóðin vildi hafa ákvæði draga Stjórnlagaráðs, þótt enginn vissi, hvaða útgáfudrög væru í gildi þann daginn, til hliðsjónar við samningu nýrrar Stjórnarskrár.  Hvílíkt klúður ! 

Ef meirihluti gildra atkvæða fellur með því að taka upp þráðinn við ESB, en þingmeirihluti er ekki fyrir málinu, verður ráðherra í þeirri stöðu að þurfa að fara til Brüssel og segjast vilja endurvekja umsóknarferlið frá 2009-2013, en aðildarsamningur verði að öllum líkindum felldur á Alþingi. Hvernig verða viðbrögðin í Berlaymont ?  Það mun kveða við skellihlátur, og íslenzki ráðherrann verður látinn vita, að Framkvæmdastjórnin sé búin að fá nóg af bjölluati og tímasóun yfir íslenzku umsókninni.

Þetta liggur í augum uppi, en íslenzku lýðskrumararnir í ESB-flokkunum eru svo grunnhyggnir að ímynda sér, að kjósendur sjái ekki í gegnum staðleysurnar þeirra.

 Þann 28. ágúst 2021 birtist einstaklega ósmekkleg forystugrein í Fréttablaðinu eftir nýráðinn ritstjóra þar á bæ.  Hún hét:

"Á Kúbunni",

og þar burðaðist Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingar, við að bera saman hjónaband og aðild að Evrópusambandinu.  Að velja þennan samanburð sýnir, hversu firrtur og fjarri rökhyggju boðskapurinn um Evrópusambandsaðild er.  Forystugreinin hófst svona: 

"Dásamlegasta fullveldisafsal, sem nokkur maður getur hugsað sér, er að finna rétta makann og deila með honum kjörum um ókomin ár, jafnt í blíðu og stríðu, en það hefur almennt verið kallað að festa ráð sitt.  Mikilvægasta fullveldisafsal hverrar þjóðar er að taka höndum saman við aðrar þjóðir í verzlun og viðskiptum til að efla atvinnustig og afkomu almennings, svo [að] samfélagsþjónustan geti verið eins þróttmikil og kostur er. 

  Fullveldi eitt og sér án þátttöku í milliríkjasamningum og alþjóðlegu samstarfi ber í bezta falli (sic !) stöðnunina í sjálfu sér, en þó líklega miklu fremur afturför jafnt fyrir almenning og atvinnugreinar í hvaða landi sem er. 

Því er nefnilega svo farið, að fullveldi er nafnið tómt, nema því fylgi efnahagslegt sjálfstæði.  Og efnahagslegu sjálfstæði nær ekki nokkur þjóð, nema að hámarka auðlindir sínar með frjálsum viðskiptum við aðrar þjóðir."

 Það er erfitt að trúa því, að ritstjórinn nýi sé svo illilega úti á túni í viðskiptalegum efnum, að hann telji fullveldisafsal grundvöllinn að frjálsum viðskiptum í heiminum.  Aðild að Evrópusambandinu mundi í viðskiptalegum efnum þýða innlimun Íslands í tollabandalag ESB og aðild að þeim fríverzlunarsamningum, sem ESB hefur gert við lönd þar fyrir utan.  Ísland mætti ekki gera sína eigin fríverzlunarsamninga og yrði skyldugt að hlíta öllum sáttmálum Sambandsins, tilskipunum, reglugerðum og lögum. 

Ísland gengi þannig inn í CAP, landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnuna, en ESB mótar nýtingarstefnuna á þessum sviðum.  Það stefnir á að afleggja núverandi úthlutunarkerfi aflaheimilda og taka upp sameiginlegt útboð innan allrar lögsögu aðildarlandanna utan 12 sjómílna. Með þessu kerfi yrði íslenzkum sjávarútvegi einfaldlega rústað, og sé litið á feril ESB til verndar fiskistofnum, er stórhætta á ofveiði og eyðileggingu nytjastofnanna með tímanum undir slíkri óstjórn. 

Ekki er staðan mikið gæfulegri, sé litið til hinnar meginauðlindar Íslendinga, orkulindanna.  Íslendingar yrðu sem aðilar að ESB skilyrðislaust að innleiða allar tilskipanir, reglugerðir og lög Sambandsins um orkumál. Að áskilja samþykki Alþingis um sæstrengstengingu við landið með viðkomu í Færeyjun eða á Bretlandi á leið til ESB-lands verður þá ekki valkostur, ef einhver fyrirtæki vilja leggja Icelink. Reglur um úthlutun rannsóknar- og framkvæmdaleyfa virkjana ásamt línulögnum yrðu og að lúta ákvæðum orkupakkanna frá ESB. Nýting orkulindanna yrði ekki lengur í okkar höndum frekar en nýting fiskimiðanna. Hvers konar útúrboruháttur er það eiginlega að gera bara gys að alvöru málsins og líkja þessu við samning karls og konu um að arka saman sinn æviveg ? 

Morgunblaðið er af öðru sauðahúsi.  Þar er ekki gasprað út og suður í leiðaraplássi að lítt ígrunduðu máli. Forystugreinin 31. ágúst 2021 fjallaði um systurflokkana 2, Viðreisn og Samfylkingu og slengja mætti við útibúi S, pírötunum.  Þeir "tveir bjóða þjóðinni í bíltúr með farkosti, þar sem hvert einasta hjól er sprungið".  Þessu var fundinn staður í forystugreininni: 

"Flokkar fáránleikans":

"En málstaðurinn eini felst í því að góna í átt að ESB, báðir tveir með síendurteknum hótunum um að kasta sjálfstæðri mynt, en engin almenn umræða snýst um slíkt nú. 

Í þessu sambandi er fróðlegt að horfa til nýlegra skrifa Mervyns Kings, lávarðar og fyrrverandi aðalbankastjóra Englandsbanka. Hann hefur bent á, að ákafamenn á meginlandinu, sem tala fyrir nýjum skrefum í átt að þéttara sambandi, kalla hratt á hörð viðbrögð almennings.  Slík skref myndu ekki einungis ýta undir efnahagslegt öngþveiti, heldur jafnframt til stjórnmálalegs uppnáms:

"Myntbandalag hefur stuðlað að stríði á milli miðstýringarelítu annars vegar og lýðræðisafla á meðal einstakra þjóða hins vegar.  Að ýta undir slíkt er gríðarlegt hættuspil." 

King, lávarður, bendir á, að "stærsta efnahagsveldi ESB hafi staðið frammi fyrir þeim skelfilegu kostum að skrifa undir innistæðulausa skuldbindingu til stuðnings sambandinu með stórbrotnum og óendanlegum kostnaði fyrir skattgreiðendur, eða að stíga ella fast á bremsuna og stöðva þegar tilraunastarfsemina með myntbandalag í álfunni !"  Og hann bætti við:

"Eina færa leiðin, til að þjóðir ESB neyðist ekki lengur til að horfa beint ofan í hyldjúpan samdrátt, samfellt vaxandi fjöldaatvinnuleysi, þar sem hvergi sér fyrir enda á sligandi böggum skuldugu þjóðanna, er að leysa evruna upp !"  Þessi skilaboð geta ekki ljósari verið."  

Einörðustu andstæðingar aðildar Íslands að ESB hefðu ekki getað kveðið sterkar að orði, því að þarna kveður fyrrvarandi seðlabankastjóri Englands upp dauðadóm yfir flaggskipi Evrópusambandsins, evrunni. Sumir hérlendir stjórnmálamenn eru með böggum hildar og virðast alltaf vera á röngu róli eða telja betra að veifa röngu tré en öngu. Það verður að efast um  leiðtogahæfileika þeirra stjórnmálamanna, sem róa að því öllum árum og opna vart ginið eða stinga niður penna án þess að boða frelsun Íslendinga undan krónunni þeirra (ISK) með því að tengja hana fyrst við evruna og að uppfylltum öllum skilyrðum myntbandalagsins að kasta ISK fyrir róða og taka upp EUR. 

Þau Logi Einarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gátu varla verið seinheppnari með merkimiða á ennið á sér en EUR, ef nokkuð er að marka Mervyn King, og það hefur hingað til verið mikið að marka þann mann. 

Annaðhvort hafa þau Logi og Þorgerður misst bæði sjón og heyrn í Kófinu, fyrir utan pólitískt þefskyn, eða þau ganga bæði með steinbarn í maganum, sem heitir evra. Það blasir við, að Ísland hefði efnahagslega ekki siglt jafnhnökralítið út úr Kófinu og raun ber vitni án ISK.  Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson (frá Hólum í Hjaltadal) hefur staðfest, að gildi þess að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil í Kófinu hafi sannað sig.  M.ö.o. virkni ISK við að deyfa hagsveiflur sannar sig í utan að komandi efnahagsáföllum.  Þótt seðlabankastjóri segi það ekki beint, skín út úr orðum hans, að hann ráðleggur Íslendingum eindregið að varðveita mynt sína.  Þar með er hann andvígur aðild Íslands að ESB, því að hún felur nú orðið í sér skyldu til að taka upp EUR. 

Kveikjan að tilvitnuðum orðum Mervyns King er væntanlega sú samþykkt ráðherraráðs ESB að heimila ESB að taka lán í nafni allra aðildarlandanna til að stofna endurreisnarsjóð eftir Kófið. Til að bjarga evrusvæðinu frá upplausn hafa Þjóðverjar lagt þýzka ríkissjóðinn að veði, því að Miðjarðarhafslöndin, að Frökkum meðtöldum, verða aldrei borgunarmenn fyrir skuldum sínum, á meðan þau verða í spennitreyju evrunnar. Evran átti að bjarga franska frankanum undan stöðugu, niðurlægjandi gengisfalli gagnvart þýzka markinu, DEM.  Frakkar fóru úr öskunni í eldinn og hafa enn ekki roð við fólkinu á milli Rínar og Oder-Neisse. Það verður ókyrrð í þýzkum stjórnmálum, á meðan þýzkur almenningur er látinn axla byrðarnar af skuldsetningu rómönsku þjóðanna. Fróðlegt verður að sjá, hvort tap CDU mun leiða til uppgangs AfD, Alternative für Deutschland, sem nú rekur mjög líflega kosningabaráttu.      

    

 

 


Bloggfærslur 4. september 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband