28.1.2016 | 17:29
Af kárínu
Kári Stefánsson, læknir, hleypti fyrir nokkru af stokkunum undirskriftasöfnun með stóryrðum, sem stangast á við staðreyndir, og skírskotun, sem er fyrir neðan allar hellur. Það er jafnframt algerlega óljóst, hvað undirskrifendur eru að fara fram á af Alþingi. Er það, að útgjöld íslenzka ríkissjóðsins til sjúklingameðhöndlunar fari úr 7,1 % af VLF (tala OECD frá 2013) í 11,0 %, en það væru hæstu ríkisútgjöld í þennan málaflokk innan OECD, eða, að Alþingi hlutist til um, að heildarútgjöld samfélagsins, opinberra og einkaaðila, verði 11,0 % af VLF ?
Þá vaknar spurningin, hvernig á að skipta viðbótar útgjöldunum á milli ríkis og sjúklinga. Ríkishlutdeildin er núna um 82 %. Á að hækka hana, viðhalda henni, eða lækka hana ? Viðbótar spurning er svo, hvort átt er við summu rekstrarkostnaðar og árlegra fjárfestinga, eða er fjárfestingum haldið utan við þetta hlutfall ? Umgjörð þessarar undirskriftasöfnunar er óboðlegt lýðskrum varðandi mjög mikilvægan málaflokk, sem vekur fleiri spurningar en hún svarar.
Kári birti heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu 26. janúar 2016 undir fyrirsögninni,
"Endurreisum heilbrigðiskerfið".
Það, sem er í rúst, þarf endurreisnar við, annað ekki. Þannig gefur Kári í skyn, að allt sé í kalda koli í heilbrigðiskerfinu. Ekkert er fjarri sanni, og um það getur blekbóndi vitnað af eigin reynslu, en hann þurfti innlagnar við á bráðadeild Landsspítalans aðfararnótt sunnudags snemma í desember 2015. Þar var gengið fumlaust og skipulega til verks, framkvæmd bráðaaðgerð og síðan rannsakað, hvort nóg væri að gert. Var blekbóndi útskrifaður eftir rúmlega 4 klst þar á spítalanum með ákveðinn tækjabúnað festan við sig, sem hann er löngu laus við. Þar var skilvirknin fullnægjandi.
Eftir langan starfsferil í framleiðslugeira telur blekbóndi sig skynja, hvenær unnið er af fagmennsku og hvenær ekki. Allir, sem þarna komu að málum, ynntu af hendi verk, sem blekbóndi er fullkomlega ánægður með. Ef þessir starfsmenn stæðu í kerfisrústum, gætu þeir ekki sýnt svo frábæra þjónustu eða uppfyllt væntingar neins.
Hér var um persónulega reynslu af einum anga Landsspítalans að ræða. Það eru hins vegar til hlutlægir mælikvarðar á gæði íslenzka heilbrigðiskerfisins, þar sem Landsspítalinn er þungamiðjan. Einn er tíðni ungbarnadauða. Hún er lægst á Íslandi af öllum löndum, t.d. aðeins brot af tíðni ungbarnadauða í BNA-Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem þó er varið 16 % af VLF (vergri (heildar) landsframleiðslu) til heilbrigðismála, sem er 84 % meira en á Íslandi. Sýnir þetta, að það er alls ekki einhlítt samband á milli gæða heilbrigðiskerfis og fjármagnsins, sem í það fer. Það eru auðvitað gæðin, sem eru eftirsóknarverð, en ekki að geta sýnt fram á sem hæstan kostnað sem hlutfall af VLF.
Annar algengur mælikvarði á gæði heilbrigðisþjónustu er langlífi fólks. Íslenzkir karlar og kerlingar verða elzt í heiminum næst á eftir Japönum. Þetta leiðir hugann að því, að um helmingur af kostnaði við sjúklinga á Íslandi mun vera varið í að þjónusta sjúklinga síðustu 3 æviár þeirra. Tækniþróun og þekkingu innan heilbrigðisgeirans og lyfjaþróun hefur fleygt fram síðasta aldarfjórðunginn, svo að heilbrigðisstéttirnar hafa nú miklu meiri möguleika á að fresta dauðdaga. Það er í mörgum tilvikum gleðiefni, en í sumum tilvikum er þannig komið fyrir sjúklingi, að erfitt er að sjá, að nokkrum sé greiði gerður með slíku. Erlendis er þá sums staðar gripið til líknardauða, sem lög og strangar reglur gilda um. Nokkrir heilbrigðisstarfsmenn hérlendis hafa tjáð sig opinberlega um líknardauða og ekki verið hallir undir hugmyndina að því, er virtist, en þetta er samt æskilegt að ræða í hópi heilbrigðisstarfsmanna, yfirvalda heilbrigðismála, lögmanna og í samfélaginu öllu. Fjármunir til sjúklingameðhöndlunar eru og verða alltaf takmarkaðir, og á þessu sviði sem öðrum er forgangsröðun nauðsynleg við ráðstöfun fjármuna. Þarf ekki að tíunda, að með innleiðingu líknardauða eykst fé til ráðstöfunar, þar sem það verður augljóslega til góðs og kemur einstaklingum og jafnvel samfélaginu að gagni.
Alþingi ráðstafar tiltæku skattfé til ólíkra þarfa, þ.á.m. innviða, svo sem samgöngumála. Margnefndur Kári hefur í umræðu um téða undirskriftasöfnun gert lítið úr jarðgangagerð í samkeppni um fjármuni ríkissjóðs við heilbrigðismálin. Hér er ekki allt, sem sýnist. Þetta eru þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir til að auka öryggi vegumferðar, stytta vegalengdir og sameina atvinnusvæði. Kostnaður við flutninga minnkar, og við það eykst verðmætasköpun samfélagsins, þ.e.a.s. landsframleiðslan eykst. Þá minnkar hið káríska hlutfall að öðru jöfnu. Sama gerist með hið káríska hlutfall, ef hér verður gengisfall á myntinni. Árið 2013 var hlutfall sjúkrakostnaðar í Noregi 8,9 % af VLF, 0,2 % hærra en hlutfallið á Íslandi, en 1,5 % lægra en þetta hlutfall í Danmörku. Þessi samanburður er villandi, því að landsframleiðsla Norðmanna á mann var á þessum tíma miklu hærri í Noregi en í Danmörku, því að verð aðaltekjulindar Norðmanna, olíunnar, var þá hátt eða um 100 USD/fat. Norðmenn vörðu þess vegna hærri upphæð til sjúklingameðferðar en Danir árið 2013 reiknað á íbúa, þó að ofangreint hlutfall beri það ekki með sér. Þjóðartekjur Norðmanna hafa lækkað frá miðju ári 2014, og norska krónan hefur síðan lækkað um þriðjung, sem skekkir þennan hlutfallasamanburð á milli ára og á milli landa. Samt hefur þjónustan við sjúklinga ekkert breytzt í Noregi á þessu tímabili. Það, sem skiptir máli, eru gæða- og afkastamælikvarðar sjúkrahúsanna og sjúklingameðhöndlunar í heild sinni, en hið káríska hlutfall, kostnaður heilbrigðisgeirans/VLF, er ótækur mælikvarði.
Til að auka enn á gæði og afköst sjúklingaþjónustunnar á Íslandi er nauðsynlegt að fjárfesta í húsnæði, vinnuaðstöðu og tækjum. Það verk er hafið á Landsspítalalóðinni við Hringbraut og á að kosta 50 miakr samkvæmt áætlun. Víðar í heilbrigðiskerfinu og víðar en í Reykjavík þarf að fjárfesta í geiranum og auka við fé til viðhalds. Ekki er ólíklegt, að á næstu 5 árum þurfi að setja 100 miakr í geirann í þessu augnamiði til viðbótar við fjárveitingar 2016, en í kjölfarið mun koma sparnaður vegna hagræðingar af völdum fjárfestinganna, e.t.v. 70 miakr uppsafnað á næstu 10 árum, sem er 5 % hagræðing m.v. kostnað heilbrigðisþjónustunnar 2014. Á móti mun róðurinn þyngjast vegna fjölgunar gamalmenna. Nauðsynlegt er að horfast í augu við viðfangsefnin, sem fjölgun gamalmenna fylgir, og fjárfesta í aðstöðu, sem þeim og heilbrigðiskerfinu í heild hentar. Núverandi ástand er ekki á vetur setjandi, enda er það allt of dýrkeypt, og girðir fyrir möguleika Landsspítalans á að sýna þá skilvirkni, sem hann annars gæti.
Óli Björn Kárason, ritstjóri tímaritsins Þjóðmála, hefur rætt og ritað með eftirtektarverðum hætti um heilbrigðismál. Þann 27. janúar 2016 birtist í Morgunblaðinu grein hans,
"Af hverju ég skrifa ekki undir hjá Kára".
Þar setur hann fyrst fram 6 fullyrðingar um íslenzka heilbrigðiskerfið, sem hægt er að taka undir með honum:
- "Það vantar fjárfestingu í innviðum.
- Fjárskortur lamar eða veikir þjónustuna.
- Föst fjárveiting til mikilvægustu stofnunar landsins - Landsspítalans - er tímaskekkja, sem eykur vanda sjúkrahússins og kerfisins í heild.
- Fjármunum er sóað vegna skipulagsleysis og skammtímahugsunar.
- Kostir einkaframtaksins eru ekki nýttir með skipulegum hætti.
- Einhver arðbærasta fjárfesting, sem Íslendingar eiga völ á, er í heilbrigðisþjónustu."
Síðan skrifar Óli Björn, og er það í samræmi við áður fram komna skoðun blekbónda:
"Þrátt fyrir marga vankanta er heilbrigðisþjónustan á Íslandi með þeirri beztu, sem þekkist í heiminum. Af einhverjum ástæðum finnst mörgum rétt að draga upp allt aðra og dekkri mynd; sannfæra landsmenn um, að flest sé í kalda koli og kerfið að hrynja."
Það er enginn bættari með þeim endemis barlómi, en nú eru hins vegar miklar fjárfestingar óhjákvæmilegar vegna ástands húsnæðis, til að sameina starfsemi á einn stað og til að skapa aðstöðu fyrir nútímalegan tækjabúnað.
Í allri þessari fjármunatengdu umræðu um sjúklingameðhöndlun er þó nauðsynlegt að hafa eftirfarandi heilræði Óla Björns í huga:
"Aukin útgjöld til heilbrigðismála er ekki markmið í sjálfu sér. Markmiðið er alltaf að auka lífsgæði almennings með góðri og öflugri heilbrigðisþjónustu. Og þá skiptir skipulagið - kerfið sjálft - mestu."
Rúsínan í pylsuendanum kemur við lok greinar Óla Björns. Þáttur í umbótaferli stjórnkerfis heilbrigðiskerfisins er að breyta fjármögnunarfyrirkomulagi þess. Nýtt fyrirkomulag mun gera kleift að auka skilvirkni kerfisins, sem í svo stóru kerfi getur sparað skjólstæðingum og skattborgurum miklar fjárhæðir. Samkvæmt ríkisreikningi 2014 námu útgjöldin 140 miakr. 5 % sparnaður með aukinni skilvirkni eru 7,0 miakr/ár.
"Nauðsynlegt er að gjörbreyta fjármögnun Landsspítalans og í kjölfarið annarra sjúkrahúsa, beita forskrift og greiða fyrir unnin, skilgreind verk. Þannig á að hverfa að mestu af braut fastra fjárframlaga. Um leið opnast nýir og auknir möguleikar á að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi lækna um einstaka þætti, líkt og þekkist vel í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við.
Í stað þess að leggja steina í götur einkaframtaksins á "kerfið" að nýta sér kosti þess, auka valmöguleika almennings og tryggja um leið hagkvæma nýtingu fjármuna og jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag."
Þjónusta við sjúklinga á Íslandi er ekki í molum. Hins vegar stöndum við nú á tímamótum vegna fjölgunar þjóðarinnar og einkum eldri borgara og úrelts húsnæðis og búnaðar. Til að ráða bót á þessu er ekki ráðið að hella tugum milljarða króna í óbreytt kerfi, heldur að fjárfesta í nýju húsnæði og útbúa það að hætti nútímalegra sjúkrahúsa og heilsugæzlustöðva samkvæmt beztu þekkingu á næstu 5 árum. Þetta er ekki nóg, heldur þarf að stokka upp fyrirkomulag fjárveitinganna. Það á auðvitað hvorki að binda þær við fast hlutfall fjárlaga né landsframleiðslu, heldur að sníða þær að þörfum hverju sinni og hafa í fjárveitingunum innbyggða hvata til aukinnar skilvirkni. Það er ekki hægt að ætlast til þessarar auknu skilvirkni með núverandi aðbúnaði starfsfólksins, en með nútímavæðingu húsnæðis og búnaðar verður grunnur lagður að kerfi með framleiðni á við það bezta sem gerist í heiminum, af því að starfsfólkið hefur til þess bæði vilja og getu. Þar með verður sjúklingum tryggð lækningaþjónusta í fremstu röð samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum og skattborgurum tryggð svo góð nýting fjármuna sem kostur er miðað við alþjóðlega árangursmælikvarða um þessi efni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.1.2016 | 10:29
Greiðslur Tryggingastofnunar hækkað tvöfalt á við laun
Afar áhugaverð Baksviðsfrétt eftir Helga Bjarnason birtist í Morgunblaðinu 22. október 2015. Stingur hún illilega í stúf við þann endemis barlóm, sem hafður hefur verið uppi um kjör skjólstæðinga Tryggingastofnunar í hinum eilífa og hvimleiða stéttasamanburði, sem landlægur er hérlendis og kynt er undir af óprúttnum lýðskrumurum, sem sumir hverjir voru við völd hér á síðasta kjörtímabili og sýndu þá landslýð hug sinn í raun og hvers þeir eru megnugir.
Forseti Alþýðusambandsins hefur einnig farið mikinn um hag skjólstæðinga Tryggingastofnunar, en allt hefur það verið í slagorðastíl hins metnaðarfulla jafnaðarmanns, sem oftar en ekki gleymir því, að hann er forseti allra félaga í ASÍ félögunum, en ekki bara félaga í Samfylkingunni. Málflutningur af þessu tagi er áróðursmönnum aðeins stundarfró í samanburði við staðreyndir málsins, sem t.d. eru bornar fram af Páli Kolbeins í Tíund Ríkisskattstjóra. Verður nú vitnað í Morgunblaðsfrétt, sem reist er á Tíund:
"Landsmenn töldu fram tæplega 838 miakr í laun og hlunnindi í framtölum 2015. Álagning 2015 er vegna tekna 2014. Launin voru liðlega 48 miakr hærri eða 6,1 % hærri að raunvirði árið 2014 en árið áður. Laun og hlunnindi voru voru þá svipuð og árið 2008, þegar efnahagur landsins tók dýfu. Þau hafa hækkað ár frá ári frá 2010, þegar botninum var náð, samtals um tæpa 106 miakr. Páll bendir á, að það vanti aðeins rúmlega 75 miakr upp á, að þau verði jafnhá og og þau voru árið 2007, þegar uppsveiflan náði hámarki. (Þau náðu þessu marki 2015 - innsk. BJo.)
Við launatekjur bætast ýmsir tekju- og frádráttarliðir, sem saman mynda tekjuskattsstofn. Þar á meðal eru greiðslur frá Tryggingastofnun, alls tæplega 74 miakr, og hækkuðu um 10,5 % frá árinu á undan. "Það er athyglisvert, að greiðslur frá Tryggingastofnun hafa hækkað um 27,2 % að raunvirði frá árinu 2010 á sama tíma og laun hafa hækkað um 14,4 %. Þá lækkuðu tryggingabætur ekki í hruninu, ólíkt launum. Þær hafa hækkað um 27,1 %, ef miðað er við árið 2007, en launagreiðslur eru enn 8,2 % lægri en þær voru þá", skrifar Páll í Tíund."
Af þessum upplýsingum að dæma er engum blöðum um það að fletta, að á heildina litið hefur samfélagið staðið vel og rausnarlega við bakið á skjólstæðingum Tryggingastofnunar, og mættu þeir, sumir hverjir á köflum, sýna meiri þakklætisvott fyrir rausnarskap ríkisins í þeirra garð en raun ber vitni um. Einhverjum gæti vissulega komið til hugar í þessu sambandi orðtakið: "sjaldan launar kálfur ofeldi".
Íþessu samhengi má ekki gleyma þætti lífeyrissjóðanna, en nú hefur verið samið um að stórefla almennu lífeyrissjóðina með auknu framlagi frá vinnuveitendum til samræmis við ríkisframlag til lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna. Má segja, að framlag vinnuveitenda sé komið í hæstu hæðir, þegar virtur framkvæmdastjóri stórs lífeyrissjóðs setur opinberlega fram spurningu um það, hvort hærra framlag kunni hugsanlega að vera betur komið í vasa launþeganna.
Íslenzkir lífeyrissjóðir eru orðnir ein styrkasta stoð hagkerfisins og til fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi. Sjóðfélagar fá úr þeim lífeyri í hlutfalli við framlag yfir starfsævina, og þeir eiga alfarið séreignarsparnaðinn. Blekbóndi er nýlega skriðinn yfir ellilífeyrisaldursmörkin, og þá kemur í ljós ólíkt eðli Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna, því að ellilífeyrir Tryggingastofnunar, reistur á tekjuáætlun, nemur aðeins 10 % af greiðslum úr lífeyrissjóði blekbónda. Þetta sýnir, að Tryggingastofnun virkar nú sem öryggisnet, en lífeyrissjóðirnir standa undir framfærslu þeirra, sem í þá hafa greitt um starfsævina. Það er ástæðulaust að gagnrýna þetta fyrirkomulag.
Lýðfræðinni á Íslandi er í grundvallaratriðum háttað svipað og í flestum öðrum ríkjum, þannig að meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi. Þó að Ísland sé í þeirri góðu stöðu, að fæðingartíðni er með þeim hætti, að þjóðinni fer fjölgandi, þá fjölgar tiltölulega meira í hópi eldri borgara en yngri, sem leiðir til þess, að meiri opinberar fjárhagsbyrðar leggjast á vinnandi fólk eftir því, sem tímar líða. Þar er bæði um að ræða kostnað Tryggingastofnunar vegna annars en veikinda og kostnað Sjúkratrygginga Íslands. Sjálfbærri skattbyrði eru takmörk sett, þ.e. skatttekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hækka upp að ákveðinni skattheimtu (álögum), en lækka, ef skattheimtan keyrir úr hófi fram. Það er þess vegna alls ekki svo, að útgjöld hins opinbera tryggingakerfis geti haldið lengi áfram að hækka hlutfallslega meira en launin, eins og reyndin hefur verið undanfarið samkvæmt upplýsingum Tíundar.
Þarna mun hið ágæta lífeyrissjóðskerfi landsmanna, sem nú er enn verið að styrkja, eins og áður segir, komið til bjargar, svo að ekki snarist á merinni hjá ríkissjóði. Lífeyrissjóðirnir eru nú þegar orðnir þungavigtaraðilar við lífsframfæri eldri borgara og sjá þeim mörgum hverjum fyrir a.m.k. helmingi framfærslufjár. Þeir, sem höfðu getu og forsjálni til sparnaðar í séreignadeildum lífeyrissjóðanna, geta að öðru jöfnu horft nokkuð björtum augum fram til elliáranna.
Sitt sýnist þó hverjum um aðferðir lífeyrissjóðanna og umsvif á markaði við ávöxtun fjár umbjóðenda sinna, en þeir eru þó á heildina litið eitt hið jákvæðasta, sem íslenzkt samfélag hefur að bjóða í samanburði við önnur lönd. Sérstaklega verður að gjalda varhug við miklum fjárfestingum lífeyrissjóða í bönkum. Það er áhættusamt, eins og dæmin sanna, og lífeyrissjóðir eru stórir eignaraðilar í mörgum viðskiptavina bankanna. Nær væri að skapa þeim tækifæri til að fjárfesta í Landsvirkjun.
Nú er framundan samræming lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna markaðinum, og er það réttlætismál. Samhliða verða greiðslur fyrirtækja í almennu lífeyrissjóðina auknar til samræmis við hið opinbera, og verða lífeyrissjóðirnir þá enn betur í stakk búnir að fást við auknar byrðar, sem af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar stafar. Þetta er þveröfugt við óheillaþróun, sem virðist nú eiga sér stað víðast hvar í Evrópu, þar sem s.k. gegnumstreymissjóðir, fjármagnaðir af viðkomandi ríkissjóði, eru við lýði, og munu fyrirsjáanlega ekki geta staðið við skuldbindingar sínar við skjólstæðinga sína, sem horfa þá fram á verri kjör en foreldrar þeirra hafa notið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
22.1.2016 | 13:27
Evruhagkerfi og krónuhagkerfi - samanburður
Olivier Blanchard er fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF. Bændablaðið rekur fimmtudaginn 22. október 2015 ummæli hans í brezka blaðinu The Telegraph:
"Evran mun verða keyrð inn í varanlegt slen, ef farið verður í nánari efnahagslegan samruna ESB-ríkjanna. Það mun ekki leiða til neinnar hagsældar í þessu kreppulaskaða bandalagi."
Bændablaðið heldur áfram:
"Í framhaldi af vandræðum Grikkja hafa margir leiðtogar í ESB lagt mikla áherzlu á myndun yfirþjóðlegrar stofnunar á borð við fjármálaráðuneyti og þing. Er það talið mikilvægt til að ljúka ferli við myndun fjármála- og gjaldmiðilsbandalags, sem hófst fyrir 15 árum. Í fararbroddi fyrir þessum skoðunum hafa farið Francois Hollande, Frakklandsforseti, Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Mario Draghi, bankastjóri seðlabanka evrunnar. Orð Blanchards koma eins og köld vatnsgusa framan í þessa menn, sem haldið hafa uppi áróðri fyrir nauðsyn á myndun ofurríkis ESB (EU superstate), sem næsta skrefi samþættingar fjármálakerfisins."
Nokkru síðar í grein Bændablaðsins stendur:
"Eins hefur upptaka evrunnar alla tíð verið forsendan í rökum aðildarsinna fyrir inngöngu (Íslands) í ESB, en ljóst virðist af orðum Blanchards, að staða evrunnar er og verður mjög veik. Hvort sem er í núverandi myntsamstarfi eða eftir myndun hugsanlegs ofurríkis Evrópu."
Það er athyglivert, að allir þessir 3 tilgreindu áhugamenn um nánari samruna ESB-ríkjanna á fjármálasviðinu, eru frá rómönskum ríkjum, en enginn frá germönsku ríkjunum, hvað þá slavneskum. Það sem hangir á spýtunni er fjármagnsflutningur frá norðri til suðurs. Um það verður aldrei eining.
Vöxtur þjóðarframleiðslu (e. GDP) er ágætis mælikvarði á styrk hagkerfa. Fyrstu ár evrunnar lofuðu góðu, en síðan árið 2003 hefur sigið á ógæfuhlið fyrir evruna í samanburði við bandaríkjadal, USD, í þessum efnum, og frá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, hefur keyrt um þverbak, því að "evruhagkerfið" hefur orðið stöðnun að bráð og ekki náð sér á strik, á meðan góður hagvöxtur hefur verið í BNA. Enn berst Mario Draghi og evrubanki hans við hættu, sem hann telur evruþjóðunum stafa af verðhjöðnun. Hætt er við, að "evruland" sé dæmt til stöðnunar vegna skuldasöfnunar og öldrunar samfélaganna.
Sé vísitala þjóðarframleiðslu sett á 100 í "evrulandi" og BNA árið 2000, er svo komið við árslok 2015, að þessi vísitala var 140 í BNA og aðeins 120 í "evrulandi". Meðalvöxturinn var 2,50 %/ár í BNA, en 1,25 %/ár í "evrulandi". Þessi munur getur gert gæfumuninn t.d. við að greiða niður skuldir og ná jafnvægi í opinberum rekstri.
Um miðjan desember 2015 hækkaði Seðlabanki BNA stýrivexti sína í fyrsta sinn síðan 2006, en stýrivextir evrubankans eru fastir undir núlli, og mánaðarlega úðar bankinn tugum milljarða evra yfir bankakerfi "evrulands" til að koma í veg fyrir verðhjöðnun. Sjúklingurinn fær með öðrum orðum stöðugt næringu í æð án þess hann sýni nokkur merki um að hjarna við. Á sama tíma lækkar gengi evrunnar og er nú USD/EUR=0,92, en var lengi vel um 0,7. Jafnvel olíu-og gasverðslækkun hefur ekki dugað í þokkabót til að örva hagkerfi evrunnar, en olíu- og gasverðslækkun ætti að öðru jöfnu að örva Evrópu utan Rússlands og Noregs meira en BNA (Bandaríki Norður-Ameríku framleiða sjálf mikið af jarðefnaeldsneyti). Þetta bendir til, að hinir svartsýnustu fyrir hönd evrunnar hafi haft mikið til síns máls. Hún er ekki á vetur setjandi, ef hún veldur víðast hvar lakari lífskjörum en sjálfstæður gjaldmiðill mundi gera. Evran er kannski gjaldmiðilstilraunin, sem mistókst.
Sabine Lautenschläger situr í bankaráði Seðlabanka evrunnar fyrir Þýzkaland. Eftir henni hefur Bændablaðið m.a., að "varnarleysi margra ríkja innan evrusvæðisins liggi í slæmri skuldastöðu, bæði hvað varðar opinberar skuldir og skuldir í einkageiranum. Þetta myndi flöskuháls, sem komi í veg fyrir aukna framleiðni og vöxt." Þýzki seðlabankinn lagðist gegn og er mótfallinn núverandi evruspreði Mario Draghis og telur hann með því efna niður í framtíðar verðbólgu, sem er eðlilega eitur í beinum Þjóðverja, enda er hún meinvættur, hvar sem hún stingur sér niður. Þetta skyldu Íslendingar hafa ofarlega í huga, en á það skortir enn. Þó eru Íslendingar illa brenndir af verðbólgubálinu, en samt ekki eins illa og hin þýzka þjóð Weimarlýðveldisins.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að skuldir íslenzkra heimila og fyrirtækja hafa lækkað mikið á yfirstandandi kjörtímabili vegna fjölþættra aðgerða stjórnvalda, bættra tekna og nýs viðhorfs til skulda. Jafnvel skuldir sveitarfélaga á Íslandi hafa lækkað að jafnaði, þótt staða sumra þeirra sé skelfileg, og meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur er ekki barnanna beztur í þessum efnum. Hvernig skyldi þessu vera háttað hjá íslenzka ríkinu ?
Árið 2006 námu skuldir ríkissjóðs 17 % af VLF (vergri landsframleiðslu) og jukust í krónum talið og sem hlutfall af VLF til ársins 2013 og voru í hámarki árið 2012 1495 miaISK eða 86 % af VLF. Árið 2015 lækkuðu þær um tæplega 90 miaISK, og fóru þá niður í 64 % af VLF. Það er einsýnt, að árið 2016 munu skuldir ríkissjóðs fara vel undir 60 % af VLF, sem er lægra en hjá flestum í "evrulandi", en jafnframt eitt af s.k. Maastricht viðmiðum til að verða fullgildur í s.k. EMU II samstarfi, sem er fordyri evrunnar.
Athugum, hvað Morgunblaðið, Baldur Arnarson, hefur eftir Yngva Harðarsyni, framkvæmdastjóra Analytica, þann 22. október 2015:
"Endurgreiðsla ríkissjóðs á erlendum skuldum á síðast liðnum 12 mánuðum nemur um 98 miaISK, og eru þar af um 96,5 miaISK vegna uppgreiðslna fyrir lokagjalddaga. Áætlaður heildarsparnaður vegna þessa nemur um 4,8 miaISK. Í fjárlagafrumvarpi 2016 kemur fram, að áætlað er, að vaxtagjöld fram til ársins 2019 lækki um 14 miaISK. Það er því ljóst, að miklir hagsmunir felast í lækkun skulda ríkissjóðs á næstu mánuðum og misserum."
Af samanburði á þessum lýsingum á hagkerfum "evrulands" og Íslands má afdráttarlaust álykta, að Ísland er á allt öðru og giftusamlegra róli en ríkin á meginlandi Evrópu eru flest. Meginskýringarnar eru þrjár:
Í fyrsta lagi ganga 2 af 3 auðlindaknúnu meginútflutningsatvinnuvegunum vel.
Í öðru lagi er lýðfræði Íslands landsmönnum hagstæð, þ.e. það er þokkaleg viðkoma á mannfólkinu.
Í þriðja lagi bera Íslendingar ekki klafa hárra útgjalda til ESB og eru ekki neyddir til að sækja lykilákvarðanir um auðlindastjórnun sína til Brüssel, þar sem ákvarðanir ráðast að lokum af hrossakaupum ráðherra aðildarlandanna, sem fara með viðkomandi málaflokk, t.d. sjávarútveg. Slíkt ráðslag hefur gefizt illa og valdið ofveiði á flestum tegundum í lögsögu ESB. Við höfum fengið smjörþefinn af þessu ráðslagi á samningafundum með ESB o.fl. um deilistofnana.
Í stuttu máli skiptir sköpum fyrir lífskjör á Íslandi, að landið sé ekki innan vébanda ESB. Það er nóg að vera þar með aðra löppina sem aðili að EES. Hin löppin er frjáls, og hún getur spriklað, þegar tilmæli koma frá Brüssel um viðskiptaþvinganir eða annað, sem "kommissarar" hafa kokkað upp og hlotið hefur blessun Berlínar og Parísar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2016 | 09:41
Hagsmunir og hugðarefni
Er utanríkisráðherra Íslands að vinna vinnuna sína ? Um það er ástæða til að efast, því að 21. desember 2015 hafði hann uppi orð um það, að ekkert hefði komið fram, sem gæti breytt þátttöku Íslands í viðskiptabanni á Rússland. Þetta er alrangt.
Það hefur heldur ekkert komið opinberlega fram um, að utanríkisráðherrann hafi kannað, hvað þurfi að koma til að Íslands hálfu til að Rússar mundu aflétta innflutningsbanni á íslenzk matvæli.
Allt er þetta í raun hið undarlegasta mál, því að þátttaka Íslands í þessu viðskiptabanni BNA, Kanada, Japan og ESB, skiptir engu máli fyrir áhrif þess á Rússa, vegna þess að vörur og þjónusta, sem þar um ræðir, eru ekki á boðstólum á Íslandi. Þar af leiðandi er þátttaka Íslands í því tóm vitleysa.
Utanríkisráðherra Íslands vildi sýna samstöðu landsins með sjónarmiðum Vesturveldanna, og það hefur hann reyndar margoft gert með yfirlýsingum, sem mundu standa óhaggaðar, þótt Ísland drægi sig út úr þessu viðskiptabanni af þeirri einföldu og augljósu ástæðu, að byrðunum af því er mjög misjafnlega skipt niður á þátttökuþjóðir. Það tók þó steininn úr, er viðbrögð ESB urðu ljós við því, að utanríkisráðherra fór fram á jöfnun byrða þátttökuríkjanna með því, að ESB mundi fella niður eða lækka verulega innflutningstolla á vissum íslenzkum matvælum. Við það var ekki komandi.
Hlutfall viðskipta Íslands við Rússland fyrir bann þeirra á innflutning matvæla frá BNA, EES o.fl., í refsingarskyni við útflutningsbann þessara ríkja á mjög afmarkaðri gerð vöru og þjónustu, nam um 1,5 % af VLF og er megnið af því matvæli. Hlutfall viðskipta bannþjóðanna sem hlutfall af þeirra VLF er á bilinu 0,05 % - 0,2 %, og aðeins lítill hluti af útflutningi þeirra fellur undir bann þeirra og refsiaðgerðir Rússa. Áfallið fyrir viðskipti Íslands er 7,5 - 30 sinnum stærra fyrir hagkerfi Íslands en hinna þátttökuríkjanna í þessu banni. Samt neitaði ESB Íslandi um sanngjarnar málalyktir á tilmælum Íslands. Það, ásamt öðrum málavöxtum, er næg ástæða til að framlengja ekki þetta illa ígrundaða og illa kynnta, nánast ólýðræðislega, viðskiptabann Íslands á Rússland, sem er hvorki fugl né fiskur, hvað áhrif á rússnesku hernaðarvélina áhrærir. Það á fortakslaust í þessu tilviki og öðrum tilvikum viðskiptabanns að bera slíka tillögu undir Alþingi, og slík ákvörðun á ekki að öðlast lögmæti án stuðnings gilds meirihluta á Alþingi. Vítin eru til þess að varast þau.
Í ljósi þessa sláandi samanburðar virkar það eins og blaut tuska í andlit landsmanna, að ESB skyldi ekki ljá máls á að létta undir með Íslendingum.
Að öllu þessu virtu ætti Ísland ekki að framlengja þátttöku sína í viðskiptabanni, sem rennur út í janúarlok 2016, heldur að slást í hóp Færeyinga og Grænlendinga og reyna að endurreisa viðskiptasamböndin í Rússlandi og selja þangað uppsjávarfisk, landbúnaðarafurðir og annað, sem Rússar geta og vilja borga almennilega fyrir, eins og var reyndin á áður en fór að sneyðast um gjaldeyrissjóð þeirra á árinu 2014, þegar olía og eldsneytisgas tóku að lækka mjög í verði. Er leitt til þess að vita, að ríkisstjórnin skyldi samþykkja þessa heimskulegu tillögu utanríkisráðherrans. Hún er tímabundin, og við næstu vegamót ætti að hafa farið fram umræða og atkvæðagreiðsla um málið á Alþingi. Tíma þess yrði vel varið í slíka stefnumótun miðað við margt annað á dagskrá þingsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2016 | 14:39
Hraðlest á fölskum forsendum
Af frétt í Fréttablaðinu hinn 16. desember 2015 undir fyrirsögninni "Samstarf um skipulag vegna hraðlestar" að dæma sem og fréttinni "Lestin skilar 13 milljörðum á fyrsta ári" þann 16. desember 2015 í sama Fréttablaðinu er einsýnt, að undirbúningsfasi verkefnisins um járnbrautarlest á milli Vatnsmýrar í Reykjavík og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er kominn á spor. Það er hins vegar víxlspor, sem yfirvöld í landinu á sveitarstjórnar- og ríkisstigi þurfa að vera meðvituð um, svo að á Íslandi verði ekki alvarlegt "lestarslys" með ærnum kostnaði fyrir skattborgarana.
Til merkis um váboðana er upphaf fyrri fréttarinnar:
"Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu auk Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar, fyrir sitt leyti stefna að því að gera samstarfssamning við Fluglestina Þróunarfélag ehf um undirbúning að byggingu hraðlestar til Keflavíkurflugvallar."
Í seinni fréttinni eru þessar upplýsingar veittar m.a.:
"Ef allt gengur upp, eiga framkvæmdir að hefjast eftir þrjú ár og verða lokið að átta árum liðnum.
"Áætlað er, að verkefnið skili jákvæðu tekjustreymi frá fyrsta ári", segir í skýrslunni. Yfir hálfrar aldar rekstrartímabil fái fjárfestar 15,2 % árlega ávöxtun.
Þá segir, að hraðlestin verði ábatasöm sem einkaframtak og þurfi engin bein fjárframlög frá opinberum aðilum, en að gera þurfi fjárfestingarsamninga við ríkið og fá sérstaka löggjöf um skattgreiðslur."
Það er ekki hægt að gera athugasemd við það, að skipulagsyfirvöld íhugi að taka frá land fyrir samgönguæð á borð við járnbrautarteina, en á það skal minna, að hraðlestum fylgir gríðarlegur hávaði og slysahætta á teinum, sem fella mun lóðir og húsnæði í næsta nágrenni í verði, og gera verður íbúum innan 1 km frá teinunum grein fyrir væntanlegu hávaðastigi. Lestarteinarnir þurfa þess vegna stórt helgunarsvæði, og að taka slíkt land frá og hindra aðra notkun til bygginga eða útivistar er dýrt spaug fyrir sveitarfélög og skerðir lífsgæði íbúa þeirra.
Hinu verður að andmæla kröftuglega sem óréttmætu, að ríkið veiti þessu verkefni einhvers konar fjárhagslegar ívilnanir, t.d. með lækkun eða niðurfellingu virðisaukaskatts og/eða tekjuskatts, eins og virðist vera stefnt að með ósk lestarfélagsins um fjárfestingarsamning við ríkið.
Spyrja má með hliðsjón af upplýsingum undirbúningsfélagsins um vænta arðsemi þessarar flutningastarfsemi upp á 15,2 % í hálfa öld, hvaða þörf slík starfsemi hafi fyrir ríkisstyrki umfram aðra starfsemi í landinu ? Þetta lestarverkefni uppfyllir engin skilyrði fyrir ríkisstuðningi, sem hingað til hafa verið sett fyrir ný verkefni, og það er nóg komið af þeim að svo stöddu. Hugmyndin um ríkisstyrk við járnbrautarlest er úr lausu lofti gripin og sýnir, að jafnvel höfundar rekstraráætlunarinnar treysta henni ekki, enda er hún ekki trausts verð, eins og hér verður sýnt fram á:
Hér þarf að hafa í huga, að fyrir hendi er starfsemi til fólksflutninga á milli höfuðborgarsvæðisins og flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, bæði í rútubílum og leigubílum af ýmsum stærðum auk bílaleigubíla. Í áætlunum Fluglestar Þróunarfélags ehf er gert ráð fyrir, að lestin hirði 51 % allra komu- og brottfararfarþega Flugstöðvarinnar eða 2,7 milljónir frá fyrsta starfsári, og að auki er gert ráð fyrir 1,8 milljón farþega á ári, sem leið eiga á milli Suðurnesjanna og Höfuðborgarsvæðisins. Þetta síðar nefnda svarar til 4500 manns fram og til baka 200 daga ársins, og alls eru þetta 4,5 milljónir farþega frá árinu 2024. Eftir sem áður mun dágóður fjöldi landsmanna kjósa að aka sjálfur og geyma bílinn við Flugstöðina eða vera ekið af vinum og vandamönnum, að ógleymdum öllum bílaleigubílunum. Það má þess vegna ætla, ef þetta gengur eftir, að núverandi flutningafyrirtæki missi allt að 80 % af farþegafjöldanum, sem annars tæki sér far með þeim.
Það yrði með öllu ólíðandi mismunun, sem í því fælist, að ríkið styrkti nýjan aðila inn á gróinn markað til að fara þar í bullandi samkeppni. Slíkt er með öllu óverjandi og til þess liggja hvorki atvinnuleg, umhverfisleg, öryggis- né orkunýtingarrök af þeirri einföldu ástæðu, að árið 2024, þegar áformað er að taka hraðlestina í notkun, verður sennilega lungi samgöngutækjanna, sem flytja flugfarþega að og frá Flugstöðinni, svo og aðrar áætlunarferðir á milli Suðurnesja og Höfuðborgarsvæðisins, sem lestinni er ætlað að höggva skarð í, orðinn óháður innfluttu eldsneyti og orðinn rafknúinn eða knúinn lífdísilolíu, sem framleidd er hér innanlands með sjálfbærum hætti. Hver veit, nema þá verði tvöföldun Reykjanesbrautar gengin í gegn alla leið, og þá verður hin hefðbundna leið enn greiðfærari en nú, og hin öryggislegu rök falla. Það er miklu nær að gera Vegagerðinni kleift að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar en að veikja núverandi tekjulindir ríkissjóðs af fólksflutningum á milli Höfuðborgarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Ef þessi áform undirbúningsfélagsins ganga eftir, verður hægt að annast þessa þjónustu við ferðamenn og "pendlara" með mun minni mannskap en nú er raunin. Margir munu þess vegna missa vinnuna sína, þannig að þetta verkefni er í eðli sínu óþarft og andfélagslegt.
Þá stendur eftir spurningin um það, hvort orðagjálfur Fluglestar Þróunarfélags ehf um góða aðrðsemi af fjárfestingu og rekstri téðrar hraðlestar standist skoðun. Blekbóndi hefur reiknað það út, m.v. við áætlun undirbúningsfélagsins um farþegafjölda fyrstu árin, 4,5 milljónir, að til þess,að fullyrðingin um 15,2 % arðsemi standist, þurfa tekjurnar að nema 20 miakr á ári, en þær nema aðeins 14 miakr samkvæmt mjög bjartsýnislegri spá Fluglestar Þróunarfélags ehf um farþegafjöldann. Með 10 % arðsemikröfu stendur reksturinn hins vegar í járnum að öðrum forsendum undirbúningsfélagsins óbreyttum.
Hversu líklegt er, að tekjuáætlunin standist ? Það eru mjög litlar líkur á því, að 4,5 milljónir farþega kjósi að borga að meðaltali 3100 kr fyrir það að komast þarna á milli á 15 til 18 mín. Þegar 2-3 eru saman í ferð, verður hagkvæmara og fljótlegra að taka leigubíl beint heim eða á hótel. Rútufyrirtækin munu áreiðanlega bíta frá sér og bjóða tíðari ferðir á minni rútum beint að hótelunum. Hafi þau tekið rafknúna farkosti í sína þjónustu, geta þau lækkað farmiðaverðið og munu ekki láta sinn hlut baráttulaust.
Blekbóndi telur, að líklegur farþegafjöldi Fluglestar Þróunarfélags sé ofmetinn um 75 % og mundi verða innan við 60 % af áætlun Fluglestar Þróunarfélags ehf, þ.e. að árstekjur fyrirtækisins verði ekki 14 milljarðar, heldur nær 8 milljörðum kr m.v. meðalmiðaverðið 3100 kr. Þá hrapar arðsemin niður í 5,0 %, sem er allsendis ófullnægjandi fyrir flesta fjárfesta í verkefni af þessu tagi. Verkefnið er algerlega ótímabært, enda varla nokkur fjárfestir svo skyni skroppinn a ð leggja nú fram hlutafé í þessa skýjaborg. Umboðsmenn skattborgaranna hafa nú vonandi verið varaðir nægilega vel við skýjaborgum íslenzku hraðlestarinnar til að þeir fari rækilega ofan í saumana á þessu hátimbraða samgönguverkefni, sem enginn markaður er fyrir samkvæmt niðurstöðu þessa pistils. Verði samt farið á stað með það á gefnum forsendum, er mikil hætta á, að það verði gjaldþrota. Hið opinbera ætti þess vegna ekki að koma nálægt því.
Bloggar | Breytt 18.1.2016 kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.1.2016 | 07:00
Hagsmunir sjávarútvegsins eru hagsmunir Íslands
Áberandi dómgreindarleysi virðist tröllríða utanríkisráðuneytinu þessi misserin. Hér verður "ESB-bréfmálið" þó ekki gert að umfjöllunarefni. Því voru gerð "endanleg" skil í Áramótaskaupi Ríkisútvarpsins 31.12.2015. Það, sem nú vitnar um téð dómgreindarleysi, er, að ráðuneytið skyldi styðja og mæla með við Utanríkismálanefnd Alþingis, að Ísland gerðist aðili að vopnasölubanni á Rússland ásamt banni við sölu á íhlutum, sem nýta mætti í hernaðartól, og banni við ákveðnum fjármálalegum viðskiptum við Rússa. Þetta gerðist í kjölfar frægra ferða utanríkisráðherrans til Úkraínu, þar sem hann gerðist óvenju vígreifur. Hvaða nauður rak utanríkisráðherrann til að þvæla Íslandi inn í þetta viðskiptabann, sem er hvorki fugl né fiskur ? Brýnir hagsmunir Íslendinga eru fólgnir í að viðhalda frjálsu flæði á vörum og þjónustu sem víðast.
Það blasir við, að þetta afmarkaða viðskiptabann á Rússland kemur Íslandi ekkert við, og eru þess vegna grundvallarmistök í framkvæmd á utanríkisstefnu Íslands. Það kemur okkur ekki við, af því að það er sett á af ríkjasamböndum, sem við erum ekki aðilar að, þ.e.a.s. Evrópusambandinu - ESB og Bandaríkjum Norður-Ameríku - BNA, og við verzlum alls ekkert með þá vöruflokka og fjármálagjörninga, sem heyra undir bannið. Það skiptir í þessu sambandi engu máli, þó að Norðmenn, Kanadamenn og Japanir taki þátt í viðskiptabanninu, því að þessar þjóðir hafa allar á boðstólum þær vörur og þjónustu, sem bannið spannar.
Þeim fáránlegu mótbárum hefur síðan verið hreyft gegn því, að Ísland framlengi ekki bannið fyrir sitt leyti, að þá verði utanríkisstefna landsins ótrúverðug. Þetta er nauðhyggja og rökleysa, sem jafngildir því, að aldrei megi sjá að sér og draga í land með vitleysuna, heldur "Keep stiff upper lip", hvað sem tautar og raular. Í millitíðinni hefur það þó gerzt, að íslenzk yfirvöld hafa leitað til ESB um ráðstafanir að hálfu Berlaymont til að deyfa afleiðingar innflutningsbanns Rússa á matvæli, sem var svar þeirra við téðu viðskiptabanni. Var óskað eftir tollaívilnun á vörum, makríl o.fl., sem urðu fyrir barðinu á innflutningsbanni Rússa. Þessu var svarað með hefðbundnum þvergirðingi ESB í garð Íslands, og ekki við það komandi. Er þetta í samræmi við framkomu ESB í garð Íslands varðandi deilurnar um flökkustofnana, þar sem gríðarlegir hagsmunir Íslands eru fyrir borð bornir af ESB o.fl. Samt er ljóst, að viðskiptabannið á Rússa og mótaðgerðir þeirra hafa valdið Íslandi margföldu því tjóni, sem hinar þjóðirnar hafa orðið fyrir að tiltölu, a.m.k. tíföldu, og þátttaka Íslands í þessu viðskiptabanni á Rússa skiptir engu til eða frá um áhrif þess á efnahag Rússlands og getu og vilja landsins til hernaðarumsvifa. Dómgreindarleysið felst í að mistakast við að vega og meta hagsmuni Íslands og hafa ekki bein í nefinu til að reka hér sjálfstæða utanríkisstefna, heldur dingla alltaf rófunni, þegar stórveldin brýna raustina.
Nú stefnir í, að þetta tjón Íslands aukist um allan mun, ef loðna skyldi finnast í veiðanlegum mæli og ef Rússar gera alvöru úr hótun sinni um að meina Íslendingum aðgang að þorskstofni sínum í Hvítahafinu, sem er raunveruleg ógn. Þá gæti tjónið hæglega tvöfaldazt og numið 30 miakr/ár, sem er 1,5 % af landsframleiðslu. Hér skal fullyrða, að Vesturveldin mundu ekki fara út í viðskiptabann með slíkum afleiðingum fyrir hagkerfi sín, nema NATO eða SÞ ættu frumkvæði að því að hvetja til slíks.
Það er sjálfsagt að mótmæla hernámi Rússa á Krímskaga og hernaðaraðgerðum í Austur-Úkraínu harðlega á diplómatíska sviðinu, en það er langur vegur þaðan til þess að kalla fórnir yfir íbúa dreifðra sjávarbyggða á Íslandi og valda höggi á hagkerfi landsins á kolröngum forsendum, sem gætu t.d. verið lágkúruleg þjónkun við Brüsselveldið, sem síðan kann alls ekki að meta fleðulætin. Það er gamla sagan.
Þá að öðru, en þó um sjávarútveg og landshagi:
Á aldarfjórðungi hefur orðið tæknibylting í sjávarútveginum. Út er komin skýrslan, "Sjávarklasinn á Íslandi: efnahagsleg umsvif og afkoma 2014", eftir Hauk Má Gestsson, Bjarka Vigfússon og Þór Sigfússon. Verður nú vitnað í þessa menn, reist á greininni, "Tæknin að taka fram úr þorskinum", í Morgunblaðinu eftir Ásgeir Ingvarsson, 19. nóvember 2015:
"Beint framlag sjávarútvegsins er ekki nema 8,5 % af landsframleiðslu, en þá er eftir að taka tillit til þess, að um grunnatvinnuveg er að ræða og utan um hann myndast hliðargreinar, sem væru ekki eins umsvifamiklar, ef sjávarútvegsins nyti ekki við."
"Haukur segir sjávarútveginn og tengdar greinar í dag mynda á bilinu 25 % - 30 % af landsframleiðslu."
Ástæða þess, að bein hlutdeild sjávarútvegs af landsframleiðslu er undir tíund, er sú, að erlend aðföng hans eru dýr. Hlutdeild hans af gjaldeyrisöflun er hins vegar yfir fjórðungur, og sama gildir um heildarhlutdeild hans af landsframleiðslu. Það kemst enginn atvinnuvegur, nema stóriðjan, með tærnar, þar sem sjávarútvegurinn hefur hælana í heildarverðmætasköpun í landinu. Ástæðan er sem sagt fjölbreytileg nýsköpun á tæknisviði, sem átt hefur sér stað í sjávarútvegsklasanum og væri óhugsandi án öflugra og grózkumikilla útgerða og fiskvinnslu hér innanlands.
Hagfræðingar hafa reiknað út, að hlutdeild stóriðjuklasans af landsframleiðslu sé a.m.k. fjórðungur. Framleiðsla stóriðjunnar er nánast öll seld erlendis, og með hjálp hennar hefur fjölda fyrirtækja, framleiðslufyrirtækja á tækjum og hugbúnaði fyrir iðnaðinn, vaxið fiskur um hrygg.
Sama verður ekki sagt um ferðamannaiðnaðinn eða ferðaþjónustuna í sama mæli og hinar tvær útflutningseimreiðar hagkerfisins. Ferðaþjónustan er orðin stærsta gjaldeyrislind þjóðarbúsins, og hennar vegna hefur ISK sótt í sig veðrið og verið þess vegna unnt að greiða hraðar niður erlend lán. Hún veitir einnig orðið flestum vinnu, þó að margir séu í hlutastarfi á hennar vegum, af því að vinnuálagið yfir árið er mjög ójafnt. Meðallaunin í þessari grein eru lægri en í hinum tveimur útflutningsgreinunum, af því að framleiðnin í þjónustugreinum er yfirleitt alltaf lægri en í vöruframleiðslu. Góð nýtni hefur náðst á atvinnutækjum flugsins, og hótelnýtingin mun vera betri en víðast hvar. Þess vegna er nú búið að fjárfesta gríðarlega í nýjum flugvélum, hótelum, bílaleigubílum og öðrum tækjum greinarinnar.
Ísland nýtur góðs af sinni norðlægu legu, sem veitir ferðamönnum öryggistilfinningu og nýstárlegar upplifanir. Ef atburðir verða hér á sviði öryggis eða gengis gjaldmiðilsins, sem ferðamenn telja ógnvænlega fyrir sig eða budduna, er hætt við, að nýting fjárfestinga ferðaþjónustunnar hrynji niður á viðsjávarvert stig. Svipað má segja um sjávarútveginn. Ef mengunarslys yrði í norðurhöfum, er hætt við markaðshruni fyrir afurðir hans. Stóriðjan glímir nú við djúpa og langvarandi markaðslægð. Því verður þó ekki neitað, að saman mynda þessar þrjár útflutningseimreiðar sterka gjaldeyrisuppsprettu fyrir íslenzka hagkerfið, sem er því lífsnauðsyn.
Aftur að sjávarútveginum og Hauki Má:
"Við mælum vöxt tæknigeirans fjórða árið í röð, en öll 4 árin hefur hann vaxið um 10 %-15 % að raunvirði og veltir í dag um 60 milljörðum króna. Til að setja þá tölu í samhengi flytur íslenzkur sjávarútvegur út afurðir fyrir 244 miakr, og sala á þorskflökum nemur 65 miakr. Er því stutt í, að tæknigeiri sjávarútvegsins velti jafnmiklu og allur þorskflakaútflutningur."
"Skýrir Haukur mikinn vöxt tæknigreinarinnar m.a. með veikingu krónunnar, sem bætt hafi alþjóðlega samkeppnishæfni tæknifyrirtækjanna. "Á sama tíma og krónan lækkaði, var eftirspurnin lítil á heimamarkaði, enda íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki mörg mjög skuldug og óvissa í rekstrinum. Hefur fjárfesting í sjávarútveginum tekið aftur við sér á undanförnum 2-3 árum, sem svo eykur enn frekar á vöxtinn.""
Helztu greinar, sem átt er við með tæknigreinum í sjávarklasanum, eru (vöxtur 2014 í svigum): umbúðir (5 %), fiskvinnslutækni (10 %), kælitækni (30 %), bátar (8 %), málmsmiðja (21 %) og veiðarfæri (1 %).
Það er ljóst, að sjávarklasinn er "krúnudjásn" íslenzka hagkerfisins, og það, sem er gott fyrir "krúnudjásnið", er gott fyrir land og þjóð. Að sama skapi gildir, að það, sem er slæmt fyrir "krúnudjásnið", er slæmt fyrir land og þjóð. Við alla ákvarðanatöku verða landsfeður og aðrir þingmenn að hafa þetta efst í huga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2016 | 11:08
Iðnaðurinn og gróðurhúsaáhrifin
Orkukræfi iðnaðurinn á Íslandi notar um 14 TWh/a af raforku um þessar mundir. Ef þessi raforka væri unnin erlendis, eru mestar líkur á, að hún kæmi frá gasorkuverum, 20 %, og kolaorkuverum, 80 %. Þá mundi sú orkuvinnsla valda losun á um 11,5 Mt/a af koltvíildi, CO2, út í andrúmsloftið, en til samanburðar er losun Íslands um þessar mundir um 4,5 Mt/a samkvæmt Kyoto bókhaldinu og iðnaðarins um 2,1 Mt/a. Í ljósi hættunnar á stjórnlausri hlýnun jarðar er helzta umhverfislega röksemdin fyrir staðsetningu stóriðju á Íslandi, að þar með hægir á hlýnun jarðar sem svarar til minni losunar koltvíildis á hverju ári upp á a.m.k. 11 Mt/a. Heimslosunin er talin nema um 40 Gt/a, svo að þetta framlag Íslands er dropi í hafið eða tæplega 0,03 %.
Á Íslandi kemur þessi orka frá vatnsorkuverum, 70 %, og jarðgufuverum, 30 %, og veldur losun á CO2, sem nemur um 0,4 Mt/a, aðallega frá hinum síðar nefndu. Mismunurinn er 11,1 Mt/a CO2, sem er um 2,5-föld heildarlosun Íslands um þessar mundir samkvæmt Kyoto-bókhaldinu. Þetta er mikilvægasta framlag Íslands til að draga úr gróðurhúsaáhrifunum til þessa, en er ekki metið landinu til tekna í fyrr nefndu bókhaldi.
Iðnaðurinn losaði árið 2013 2112 kt (2,1 Mt/a) af koltvíildisjafngildum út í andrúmsloftið eða 47 % af heild landsins án landnotkunar, og sú losun mun hafa vaxið um a.m.k. 500 kt/a upp í um 52 %, þegar kísilverin hafa hafið starfrækslu. Hér er augljóslega um risaviðfangsefni að ræða, sem iðnaðurinn stendur frammi fyrir á tímum minnkandi losunarkvóta.
Hér er um meiri háttar viðfangsefni að ræða, því að ekki hillir undir nýja og umhverfisvænni efnaferla, svo að tækniþróunin gefur ekki vonir um lausn að svo stöddu. Dæmi má taka af áliðnaðinum, en framleiðsla hans nemur um 900 kt/a, þrátt fyrir afurðaverð um 1550 USD/t, sem er neðan við allt velsæmi í boði Kínverja, sem farið hafa offari með voveiflegum afleiðingum á sviðum mengunar, heilsufars og hagkerfis heimsins. Allt er þetta í boði miðstjórnar Kommúnistaflokks Kína. Áliðnaðurinn á Íslandi sendir frá sér um 1440 kt/a eða tæplega 70 % af hlutdeild iðnaðarins. Ekki er allt sem sýnist, og þessi losun er ekki hrein viðbót við gróðurhúsaloft jarðar, nema síður sé, heldur mun draga úr losun á öðrum sviðum, eins og nú skal greina:
Ef 25 % af framleiddu áli á Íslandi fer til samgöngugeirans, sem er nokkurn veginn skiptingin á heimsvísu, þá sparast um 300 kt/ár af CO2 með því að létta farartækin. Með því að endurvinna þetta ál 5 sinnum og nota í farartæki, sem er hægðarleikur með lítilli orkunotkun, hefur öll losun áliðnaðarins á Íslandi unnizt upp.
Tínt hefur verið til, hversu umhverfisvæn framleiðsla kísils fyrir sólarhlöður sé. Á heimsvísu er þetta nokkuð orðum aukið, eða "överreklamerat", eins og Svíar segja, því að ýmis mjög sterk gróðurhúsagös myndast í ferlinu að sólarhlöðu, t.d. NF3 og SF6. Sú fyrr nefnda er 16´600 sinnum sterkari en CO2 og sú síðar nefnda 23´900 sinnum sterkari. Þannig losna um 513 kg/m2 af koltvíildisígildum í framleiðsluferli sólarhlaða, og yfir endingartímann þarf þess vegna að reikna með 35 g/kWh í losun. Þetta er 13-föld losun íslenzkra vatnsorkuvera, en aðeins 35 % af losun jarðgufuveranna.
Stóriðjan fellur undir ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Heimild til losunar nú er 1600 kt/a, en verður líklega lækkuð um 40 % árið 2030 niður í 960 kt/a. Það er um 160 kt/a hærra en 60% af losun stóriðjunnar 1990. Það þýðir samdrátt eða útjöfnun um U=2112-960=1152 kt/a. Ný tækni er ekki í sjónmáli, svo að útjöfnun með skógrækt kemur helzt til greina. Til þess mun þurfa F=1152/5,0=232 kh = 2320 km2. Kostnaður við ræktunina er K=232 kha x 300 kkr/ha = 70 mia kr eða MUSD 540. Þetta þarf að framkvæma á 15 árum, svo að kostnaðurinn verður 4,7 mia kr/ár. Sem valkost hefur stóriðjan að bíða með bindingu og kaupa losunarkvóta á markaði í síðasta lagi árið 2030 og síðar eða velja blöndu af þessum leiðum, sem sennilega er skynsamlegast. "Aðeins" er um tímabundinn kostnaðarauka að ræða, sem nemur 40 USD/t Al eða um 3 % kostnaðarauka. Þetta er fjárhagslega kleift fyrir áliðnaðinn, þegar markaðsverðið nær 1800 USD/t Al.
Stóriðjan hefur þegar farið inn á braut skógræktar til útjöfnunar á gróðurhúsalofti, og 3. desember 2015 birtist t.d. um það frétt í Morgunblaðinu, að bandaríska fyrirtækið Silicor hygðist kosta plöntun á 26 þúsund trjám í þessu skyni, þó að losun fyrirtækisins virðist munu verða mjög lítil. Þó að þetta sé lítilræði m.v. árlega plöntun á um 3,0 milljón trjáplöntum á Íslandi, verður að virða viljann fyrir verkið.
Íslenzk skógrækt er samkeppnihæf á koltvíildismarkaði Evrópu, því að kostnaður hennar við bindinguna er um 4000 kr/t CO2, sem er innan við 30 EUR/t. Markaðsverðið er að vísu mun lægra núna, en hlýtur að hækka, þegar losunarheimildum á markaði fækkar um 40 %.
Það er nóg landrými í landinu fyrir þessa skógrækt. T.d. hafa verið ræstir fram um 4200 km2 af mýrum, og þar af hafa aðeins 630 km2 verið ræktaðir upp, sem þýðir, að 3500 km2 eru óræktaðir. Það mætti bleyta í hluta þessa ræktaða lands og síðan rækta þar skóg með miklum bindingarafköstum koltvíildis. Það er varla goðgá að nýta ríkisjarðir og eyðijarðir til þessarar ræktunar, og klæða auk þess mela og sanda eftir þörfum, en hið síðar nefnda hefur Skógrækt ríkisins sýnt fram á, að er hægt með hjálp jarðvegsbætandi jurta. Með þessu móti slá Íslendingar tvær flugur í einu höggi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.1.2016 | 11:24
Ferðaþjónustan er mesti mengunarvaldurinn
Það hefur ekkert lát verið á ofstækisfullum atlögum umhverfisafturhaldsins í landinu gegn auðlindanýtingu í þágu gjaldeyrisöflunar, og alls konar furðutilburðir hafa verið hafðir uppi gegn einkabílnum á grundvelli mengunarsjónarmiða. Verst er þar framkvæmdastoppið á mislæg gatnamót í 12 ár gegn ríkisframlögum til almenningssamgangna.
Síðan er klikkt út með því, að ferðaþjónustan sé dæmi um gjaldeyrisskapandi starfsemi, sem taki hinum greinunum fram í umhverfislegu tilliti. Enginn ætti að leggja trúnað á slíkt.
Allt er það óráðshjal, reist á fordómum, fáfræði og misskilningi, eins og hér skal rekja. Blekbóndi er reyndar þeirrar skoðunar, að allar atvinnugreinar landsins séu þjóðhagslega mikilvægar og er algerlega andvígur því að stilla þeim upp hverri gegn annarri, en það verður að andæfa kolröngum málflutningi, sem fram er reiddur til að níða skóinn ofan af öðrum. Þar setja menn sig á háan hest, margir hverjir, með anzi ódýrum hætti, og er þar jafnvel um annkannalega þörf þeirra til að hreykja sér. Miklu fremur hafa þeir þó ríka ástæðu til að vera hlédrægir, eins og frægur menntaskólakennari sagði eitt sinn við illa lesinn nemanda sinn í tíma: "Mikið lifandis ósköp hafið þér ríka ástæðu til að vera hlédrægir, G."
Taka má einfalt dæmi til að sýna fram á þetta.
Innan tíðar mun kísilmálmframleiðsla á Íslandi nema a.m.k. 100 kt/ár, og er þá Járnblendiverksmiðjan ekki með talin. Til að framleiða 100 kg af Si þarf um 1280 kWh af raforku, og sé sú raforka framleidd í jarðgufuorkuveri, eins og t.d. að Þeistareykjum, þá myndast við það um 130 kg af CO2, koltvíildi. Landsvirkjun mun reyndar jafna koltvíildismyndun frá Þeistareykjum með koltvíildisbindingu með skógrækt, sem er virðingarvert. Ef vatnsafl er hins vegar notað við þessa orkuvinnslu, þá myndast aðeins 3,5 kg af CO2.
Við vinnslu kísils úr kvartsi, SiO2, myndast kísill og koleinildi, sem oxast í koltvíildi, og myndast um 314 kg af þessari gróðurhúsalofttegund við framleiðslu 100 kg af kísli.
Alls eru þetta 444 kg CO2, sem með annarri vinnslutengdri starfsemi mun sennilega nema 500 kg alls, og sú tala er ekki fjarri lagi, þó að bindingin yrði meðtalin, ef flutningar á sjó eru meðreiknaðir.
Til samanburðar skal taka flutning á meðalferðamanni með farangri, sem alls má ætla, að vegi 100 kg. Þessi meðalferðamaður flýgur líklega 5000 km fram og til baka til að komast til Íslands. Meðalorkunýtni flugvéla m.v. sætanýtingu til Íslands er 0,025 kg/fþkm (kg á farþega kílometer). Til að fljúga með þessi 100 kg þarf þá 125 kg af þotueldsneyti, sem við bruna þotuhreyfla í háloftunum mynda 1125 kg af koltvíildisjafndildum í andrúmsloftinu. Með akstri og öðru verða þetta a.m.k. 1200 kg af gróðurhúsalofttegundum.
Hvernig skyldi nú talsmönnum Landverndar og annarra náttúruverndarsamtaka líða, er þeir sjá þessar staðreyndir borðnar á borð fyrir sig, eftir að hafa útmálað orkukræfan iðnað sem óalandi og óferjandi um áratuga skeið, og dregið upp þá mynd, að mun ákjósanlegra væri fyrir landsmenn að afla landinu gjaldeyris með þjónustu við erlenda ferðamenn, þegar í ljós kemur að m.v. sama afurðamassa er mengunin 2,4 sinnum meiri í tilviki ferðamannsins í koltvíildisígildum talið ?
Forkólfar öfgaumhverfisverndar gætu gripið til þess ráðs að benda á tífaldar gjaldeyristekjur af ferðamanni og farangri hans, alls 100 kg, m.v. 100 kg af kísli. Slíkt hjálpar þó umhverfinu ekki neitt, enda stendur Ísland í samkeppni við önnur lönd um hylli ferðamanna, og þeir fara hæglega eitthvað annað, ef samkeppnishæfni landsins versnar. Þess vegna er flugið í ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Svipað má segja um kísilframleiðsluna. Ef hún væri staðsett utan Íslands, er líklegt, að losunin við framleiðslu þess næmi 1300 kg, en ekki 500 kg, eins og í tilviki Íslands. Þess vegna er stóriðjan líka í ETS. Við framleiðslu hvers kísiltonns er andrúmsloftinu hlíft við myndun 8,0 t af CO2. Þegar erlendir ferðamenn leggja leið sína til Íslands, er hins vegar ólíklegt, að andrúmsloftinu verði hlíft við nokkurri koltvíildismyndun.
Fylgzt er með eldsneytisnýtni flugfélaga af "The International Council on Clean Transportation (ICCT)". Í nýrri skýrslu þeirra um eldsneytisnýtni 20 umsvifamestu flugfélaganna á flugleiðum yfir Atlantshafið kemur fram, að Icelandair hefur náð miðlungs nýtninni 32 mælt í farþega km á hvern líter af þotueldsneyti. Þetta er vel af sér vikið m.v. aldur flugflota félagsins, og það er markmið félagsins að stórbæta sig með endurnýjun flugflotans, enda er slíkt hagkvæmt.
Flugfélagið Norwegian er efst á skránni um eldsneytisnýtni téðra flugfélaga og kemst 40 fþkm (farþega km) á einum líter af þotueldsneyti með sínum nýju Boeing 787 Dreamliner vélum eða 25 % lengra en meðaltalinu nemur. British Airwaves er með að jafnaði 15 ára gamlar Boeing 747-400 vélar yfir Atlantshafinu og kemst stytzt eða um 25 fþkm á einum líter. Sá bezti kemst 60 % lengra en sá lakasti með hvern farþega á sama eldsneytismagni.
Flugvélar Icelandair eru hinar elztu á þessari leið eða 18 ára gamlar að jafnaði. Samt tekst félaginu að ná meðaleldsneytisnýtni þessara flugfélaga eða 32 fþkm á hvern líter. Er slíkt til marks um góðan rekstrarárangur, sem m.a. á rætur að rekja til hárrar sætanýtni og rýmisnýtni í vélunum. Er þá ekki tekið tillit til nýtingar á flutningsrými vélanna með ferskan fisk á erlenda markaði, sem gefur íslenzkum sjávarútvegi forskot. Íslenzkur fiskur á frönskum stórmörkuðum er jafnvel nýrri en franskur fiskur þar.
Í Baksviðsgrein Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu, föstudaginn 20. nóvember 2015, er eftirfarandi haft eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair:
"Hjá fyrirtækinu hefur lengi verið starfrækt eldsneytisnefnd, sem hefur það að markmiði að leita leiða til að draga úr eldsneytisbrennslu og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Mikill árangur hefur náðst af störfum nefndarinnar. Auk nefndarinnar koma margar deildir að þessu verkefni og má segja, að rýnt sé í alla þætti flugsins frá upphafi til enda. Gefnir hafa verið út verkferlar og stuðzt við hvatakerfi, sem miðar að því að spara eldsneyti á flugi og á jörðu niðri."
Svona eiga sýslumenn að vera. Icelandair hefur greinilega virkjað gæðastjórnunarkerfi sitt í þágu eldsneytissparnaðar og umhverfisverndar. Sú aðferðarfræði hefur borið ríkulegan ávöxt. Ef Icelandair ekki flytti alla þessa farþega, sem raun er á, þá mundi eitthvert annað flugfélag flytja þá, jafnvel eitthvað annað en til Íslands, og afleiðingarnar fyrir gufuhvolfið yrðu svipaðar. Það ber þess vegna ekki að amast við góðum árangri íslenzkra ferðaþjónustufyrirtækja við að markaðssetja Ísland sem áfangastað ferðamanna út frá loftslagsmálum, en flugfélögin eiga þar líklega stærstan hlut að máli.
Kné verður látið fylgja kviði, og um framtíðaráformin segir Guðjón:
"Fyrirtækið hefur fest kaup á 16 nýjum flugvélum af gerðinni Boeing 737 MAX, og koma þær fyrstu til notkunar snemma árs árið 2018. Þessar flugvélar eru mjög sparneytnar og brenna um 20 % minna eldsneyti á hvern farþega en nú er."
Eftir téða endurnýjun flugflota síns mun eldsneytisnýtni Icelandair hækka upp í 40 fþkm á 1 líter þotueldsneytis, og fyrirtækið mun þá færast fram í fremstu röð fyrirtækja á þessu sviði. Er mikill myndarbragur að slíkri ráðstöfun fjár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.1.2016 | 14:28
Vegumferð í vanda
Það er eðlilegt að gera þær kröfur til umferðar á landi, að hún lagi sig að markmiðum Íslands um mengun andrúmslofts og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Til þess að gera það kleift er þörf tækniþróunar, sem leysir sprengihreyfilinn snurðulaust af hólmi, og bílaiðnaðurinn er kominn vel á veg með þá þróun. Tíminn til stefnu er hins vegar svo skammur, að grípa verður til annarra ráða samhliða rafbílavæðingunni.
Í landinu eru a.m.k. 3000 km2 af að mestu ónýttu framræstu landi, sem kjörið er að nýta til skógræktar í því skyni að binda koltvíildi, eins og fullgilt er samkvæmt Kyoto-samkomulaginu. Mætti þá eftir atvikum fyrst endurbleyta með lokun skurða og síðan planta. Bleytingin bindur a.m.k. ferfalt magn CO2 á hektara (ha) m.v. meðalbindingu skógræktar, svo að ná mætti a.m.k. 25 t CO2/ha með hvoru tveggja á sama jarðnæði.
Sé gætt jafnræðis við aðra notendur jarðefnaeldsneytis á Íslandi, þurfa farartæki á landi að skila 40 % minnkun losunar koltvíildis árið 2030 m.v. árið 1990. Það hefur orðið gríðarleg aukning á fjölda fartækja á landi síðan 1990, en það ár nam losun þessara fartækja 521 kt af CO2. Árið 2012 nam hún 782 kt, og reikna má með toppi 850 kt/a af CO2, ef strax verður hafizt handa við fækkun þessara farartækja. Þjóðhagslega hagkvæmast er, að sú fækkun verði með þeim hætti, að rafbílar eða raftvinnbílar leysi eldsneytisknúna bíla af hólmi. Þar með næst gjaldeyrissparnaður, sem getur á endanum numið tæplega MUSD 300 eða um miaISK 40 á ári. Verður það búhnykkur fyrir vöruskiptajöfnuðinn við útlönd.
Lækkunarþörf til 2030 er þá 850-0,6x521=540 kt/a af CO2, sem gæti samsvarað 540 kt/4 t=135 þúsund farartækjum eða 9 þúsund eldsneytisfarartækja fækkun á ári.
Í ljósi þess, að árlega bætast um 15 þúsund nýjar bifreiðir í flotann á ári, er algerlega óraunhæft að 60 % nýrra bíla að jafnaði til 2030 verði "umhverfisvænir" með hefðbundnum aðferðum, þ.e. með því að fella niður vörugjöld og virðisaukaskatt af rafbílum og leggja "hóflegt" kolefnisgjald á eldsneytið, sem ekki fari yfir líklegt verð á kolefniskvóta í ESB á næstu 15 árum. Hvað er þá til ráða ?
Lausnin er að jafna út mismuninum með kolefnisbindingu, sem með ræktun skóga í þessu augnamiði má ætla, að nemi a.m.k. 5,0 t/ha á ári. Sé reiknað með, að á árabilinu 2016-2030 verði unnt að fækka eldsneytisknúnum farartækjum á vegum um 70´000 eða rúmlega helming þess, sem þarf, þá þarf að binda um 295 kt/a árið 2030, og sá ræktunarskógur mun þekja 590 km2. Til samanburðar má ætla ræktunarskóg 425 km2 í árslok 2015, svo að þetta jafngildir um 140 % aukningu ræktunarskóglendis á Íslandi, og ræktunarafköstin verða tæplega tvöföld á við það, sem verið hefur undanfarin ár, eða 40 km2/ár, þótt ekkert annað verði ræktað af skógi en í þessu augnamiði. Afkastagetan á að þola þessa afkastatvöföldun.
Koltvíildislosandi umferð verður að fjármagna þessa skógrækt, ef fylgja á hvatakerfi til orkubyltingar. Ætla má, að stofnkostnaður nemi 300 kkr/ha. Með 1 % nettó rekstrar-og viðhaldskostnaði á ári (af stofnkostnaði), mun kostnaður nema 20 kkr/ha ár yfir 40 ára afskriftartíma og með 5 % ársávöxtunarkröfu fjármagns. Þetta jafngildir 4000 kr/t CO2, sem er undir 30 EUR/t, en líklegt má telja, þegar koltvíildiskvótar í Evrópu minnka, er nær dregur árinu 2030, að kvótaverðið þar verði hærra en 30 EUR/t. Það má hiklaust halda því fram, að kolefnisútjöfnun á Íslandi sé hagkvæm millibilslausn til að ná settum markmiðum, þar til orkubylting verður um garð gengin.
Ef meðaleldsneytisbíll sendir frá sér 4,0 t/ár af CO2, þarf sá bíleigandi að greiða 16 kkr/ár í kolefnisgjald til að standa fjárhagslega undir þessari útjöfnun. Það er hóflegt m.v. tæplega 300 kkr/a í eldsneytiskosnað, þar sem kolefnisgjald er nú þegar innifalið, svo að verði þessi leið farin, mun það lítil áhrif hafa á heildareldsneytisverð.
Íslendingar eru í kjörstöðu til orkubyltingar vegumferðar vegna hreinnar og endurnýjanlegrar raforkuvinnslu og nægs landrýmis til tímabundinna mótvægisaðgerða með ræktun. Þessi aðferð mun gera landsmönnum kleift að standa við markmið um 40 % minni losun koltvíildis frá vegumferð en árið 1990 með jákvæðum áhrifum á hagkerfið allt, því að aðferðin er ekki íþyngjandi fyrir neytendur, hún eflir atvinnustigið í dreifðum byggðum landsins, og aðferðin mun geta af sér gjaldeyristekjur, þegar orkubyltingin verður afstaðin hérlendis með sölu koltvíildiskvóta á erlendum mörkuðum eða til innlendrar stóriðju eftir atvikum.
Rætt hefur verið um, hvernig bæta má ríkissjóði upp tekjutapið af fækkandi eldsneytisbílum. Í því sambandi er rétt að minna á, að opinber gjöld á nýja bíla hafa verið úr hófi fram á Íslandi m.v., að hérlendis eru engar járnbrautarlestir og fyrir þeim verður enginn fjárhagsgrundvöllur á næstu áratugum, og m.v. kaupmáttarstig í landinu. Ríkið innheimtir virðisaukaskatt af raforku í efra þrepi, og kemur hann til mótvægis við tekjutap af eldsneytissölu, en eigendur rafbíla munu auðvitað njóta góðs af mun betri orkunýtni rafbíla en eldsneytisbíla, sem er næstum þreföld. Þegar framleiðslukostnaður lækkar á rafbílum, sem mun gerast með aukinni framleiðslu og þegar títtnefndu loftslagsmarkmiði hefur verið náð, er eðlilegt að íhuga virðisaukaskatt á rafmagnsbílana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)