31.1.2022 | 10:35
Loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar eru í uppnámi
Þingmenn flestir og fjöldi annarra þreytast ekki á þeirri tuggu, að loftslagsmálin séu mál málanna í heiminum og einnig á Íslandi. Hvað Íslendinga varðar er staðan sú, að það er alveg sama hvað þeir gera. Þeir munu í öllum tilvikum hafa hverfandi, nánast engin, áhrif á styrk koltvíildis í andrúmslofti, og allt tal um að aðrar þjóðir líti hingað í leit að fyrirmyndum í orkumálum er ímyndun ein.
Við eigum engu að síður að einhenda okkur í orkuskiptin, en á réttum forsendum. Þær eru efnahagslegs eðlis, eins og heimurinn hefur fengið forsmekkinn af í vetur, og heilsufarslegs eðlis, því að bruni jarðefnaeldsneytis mengar nærumhverfið með sóti, brennisteinsildum, níturildum og þungmálmum.
Það er hins vegar löngu orðið ljóst, að fjölþjóðlegar skuldbindingar Íslands um 55 % minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en árið 2005 eru í uppnámi, og líkur á því, að hægt verði að fara í nægilega hröð orkuskipti á komandi 8 árum til að standa við þessar skuldbindingar íslenzkra stjórnmálamanna, þ.e. ríkisstjórna Katrínar Jakobsdóttur nr 1 og 2, eru orðnar mjög litlar.
Ríkisstjórnin hefur búið til stórt verkefni og sett landsmenn í næstum óyfirstíganlega tímaþröng við að leysa það, en samt gerir hún ekkert til að skapa raunverulega möguleika á að leysa það, þ.e.a.s. að skapa viðunandi skilvirkt leyfisveitingaferli í raforkugeiranum, og deyfð orkufyrirtækjanna er sláandi. Landsvirkjun sótti ekki um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá fyrr en um mitt ár 2021 til Orkustofnunar, og hún hefur enn ekki virt umsóknina viðlits. Hvað er að ?
Sú staða er einstæð, að raforkuskortur frá endurnýjanlegum orkulindum hrjáir nú atvinnulífið og olía er brennd aftur til að knýja vaxtarbrodd þess, en ekki hillir undir framkvæmdaleyfi fyrir nýja virkjun á sama tíma. Áður hefur orðið raforkuskortur, en þá hefur ný virkjun jafnan verið á næstu grösum.
Þetta er grafalvarlegur vitnisburður um hræsni og yfirdrepsskap ríkisstjórnar og þings. Núverandi forstjóri Landsvirkjunar hefur upplýst opinberlega, að fyrirtækið hafi ítrekað vakið athygli ráðherra á, að samkvæmt lögum væri enginn ábyrgur fyrir því að koma í veg fyrir orkuskort í landinu. Ef þetta er gjaldið, sem Sjálfstæðisflokkurinn með ábyrgð á orkumálunum þarf að greiða fyrir ríkisstjórnarsamstarf við Vinstri hreyfinguna grænt framboð, þá er það einfaldlega of hátt.
Tveir stærstu losunaraðilarnir, sem ríkisstjórnin hefur skuldbundið landsmenn til að minnka losun frá, eru farartæki á landi og fiskveiðiskip. Farartæki á landi losuðu árið 2019 952 kt CO2, sem þarf að fara niður um 607 kt til ársins 2030. Þetta eru um 190 kt af jarðefnaeldsneyti, sem þarf að spara, og nota raforku í staðinn. Ef 90 % eru leyst af hólmi með rafgeymum, þarf um 1,0 TWh/ár vinnslu í virkjun til að hlaða þá, og ef 10 % eru leyst af hólmi með rafeldsneyti, þarf þarf um 0,2 TWh/ár til framleiðslu þess.
Fiskiskipin losuðu árið 2019 522 kt CO2, sem þarf að fara niður um 186 kt til ársins 2030. Þetta jafngildir um 58 kt af olíu, og um 0,6 TWh/ár vinnslu í virkjun þarf til framleiðslu rafeldsneytis í staðinn.
Þetta eru alls 1,8 TWh/ár í virkjun, og ætla má, að þörfin fyrir landtengingu farþegaskipa aukist um a.m.k. 0,2 TWh/ár, svo að til að ná markmiðunum um 55 % samdrátt losunar þessara notkunargeira í síðasta lagi 2030 m.v. árið 2005 þarf viðbótar orku og afl inn á raforkukerfi landsins, sem nemur 2,0 TWh/ár og 500 MW. Þetta er um 10 % aukning raforkuvinnslu á 8 árum eða um 250 GWh/ár og rúmlega 60 MW/ár. Aukning aflgetunnar er hlutfallslega tvöföld á við aukningu orkuvinnsluþarfar, því að notkunarmynztur orkuskiptanna er ójafnara yfir sólarhringinn en í núverandi raforkukerfi landsins.
Eins og nú horfir munu orkuskiptin á næstu 5 árum ganga svo hægt vegna orkuskorts, að næstum ómögulegt verður að ná loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar 2030. Þessi dapurlega staða er í boði þeirra, sem mest hafa umhverfisvernd og "loftslagsvá" á vörunum í þjóðfélaginu, og pólitíska fulltrúa þeirra á þingi má m.a. finna í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem sennilega hafa þannig náð lengst hérlendis í pólitískri hræsni og yfirdrepsskap.
Stjórnvöld geta ekki skýlt sér á bak við sofandi embættismenn, því að sterk aðvörunarorð komu frá fyrrverandi Orkumálastjóra, t.d. í jólahugvekjum hans, og fulltrúar atvinnulífsins hafa ekki dregið af sér við að lýsa áhyggjum sínum. Hér verður nú vitnað í einn úr þeim hópi:
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, birti 16. desember 2021 grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Aðgerða er þörf í orkumálum þjóðarinnar".
Hún hófst þannig:
"Blikur eru á lofti í raforkumálum landsmanna. Undanfarið hefur umræða skapazt um, hvort raforka sé næg eða ekki, og sitt sýnist hverjum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Skerða hefur þurft raforku til ákveðinna atvinnugreina, og hluti landsmanna hefur þurft að búa við það eftir óveður að vera án raforku í marga daga. Þá hefur komið fram, að ónýtt raforka rennur til sjávar engum til gagns vegna raforkukerfis, sem er úr sér gengið.
Óhætt er að fullyrða, að með núverandi orkusamningum sé búið að selja þá raforku, sem tiltæk er, og hún því uppseld. Líkt og Landsvirkjun hefur greint frá, þá hafa vinnslumet ítrekað verið slegin í vinnslukerfi Landsvirkjunar, nú síðast föstudaginn 3. desember [2021], þegar vinnsla fyrirtækisins [álag á kerfi LV-innsk. BJo] fór í fyrsta skipti yfir 1900 MW. "Við slíkar aðstæður verður mjög þröngt um tiltækt afl í vinnslukerfi Landsvirkjunar og það í raun alveg upp urið." Þá gerir orkuspá hins opinbera ráð fyrir aukinni raforkunotkun landsmanna á næstu árum og áratugum."
Væntanlega hefur raforkunotkun landsmanna farið talsvert yfir 20 TWh á árinu 2021, og forgangsorkugeta raforkukerfisins þar með verið fullnýtt. Eins og fram kemur hér að ofan, hefur legið við kerfishruni, þegar álagið var í hámarki, enda ekki nægt reiðuafl í kerfinu fyrir hendi þá til að bregðast við fyrirvaralausri alvarlegri bilun í kerfinu, t.d. rofi einnar af stærstu einingum kerfisins. Þetta sannaðist í viku 04/2022, þegar tengivirkisbilun varð í Nesjavallavirkjun með þeim afleiðingum, að talsverð orka var skert við Norðurál til viðbótar við fyrri skerðingu ótryggðrar orku.
Þetta sýnir, að höfuðvandamálið er ekki lélegt vatnsár, heldur skortur á aflgetu í kerfinu og þörf á betri nýtingu vatns. Hvort tveggja mun nást með virkjun í Neðri-Þjórsá, en hún getur falið í sér lausn á brýnum og klárum vanda, sem felst í of lítilli miðlunargetu Þórisvatns og of litlu raforkukerfi m.v. álag og þar af leiðandi stórhættu á raforkuskorti til 2027, eða þar til næsta virkjun af stærð um 100 MW kemst í gagnið. Er Orkustofnun enn að stauta sig fram úr virkjunarleyfisumsókn Landsvirkjunar, sem verður ársgömul í sumar ?
Núverandi kreppa raforkugeirans mun óhjákvæmilega hamla orkuskiptum og draga úr hagvexti, því að ekki er og verður ekki hægt næstu 5 árin að fullnægja spurn eftir raforku. Flotið hefur verið sofandi að feigðarósi með einstæðu athafnaleysi í boði sérvitringa um breyttan lífsstíl og núll-hagvöxt, sem tekizt hefur að koma ár sinni fyrir borð við ríkisstjórnarborðið og í ráðuneytunum með ofstækisáróðri um, að "náttúran verði að njóta vafans", þótt enginn vafi leiki á um, að takmörkuð og staðbundin áhrif nýrra virkjana séu langt innan viðunandi marka að teknu tilliti til ávinningsins, sem einnig getur falið í sér aukin loftgæði og bætt heilsufar.
Undantekning frá þessu eru vindmyllurnar, sem fela í sér óskilvirka aðferð og dýra með hvorki takmörkuð né staðbundin umhverfisáhrif m.v. ávinning. Vindmyllur eru lengi að vinna upp kolefnisfótsporið, sem myndast við námuvinnslu, framleiðslu og uppsetningu að meðreiknaðri gríðarlegri, steyptri undirstöðu undir tæplega 100 m háa súlu. Þá menga plastspaðarnir umhverfið við slit, valda hávaða og nokkur fugladauði er rakinn til þeirra erlendis. Íslendingum er nauðsynlegt og nægjanlegt að halda sig við fallorku vatns og við jarðgufuna, en enga nauðsyn ber til að spilla ásýnd landsins og jafnvel nærumhverfis byggðar með óskilvirkum búnaði til raforkuvinnslu úr vindorkunni.
Grein sinni lauk dr Sigurður Hannesson þannig:
"Það er áhyggjuefni, ef ekki tekst að sækja tækifærin, sem felast í aukinni eftirspurn eftir grænni orku. Við búum svo vel að hafa aðgang að nægri slíkri orku, en hana þarf að vinna og nýta til að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið. Við eflum samkeppnishæfni Íslands og þar með lífskjör allra landsmanna með aðgengi að nægu magni raforku til að mæta kröfum framtíðarinnar.
Ný ríkisstjórn hefur kynnt framsækna framtíðarsýn. Því eru vonir bundnar við, að raforkumál landsmanna verði sett í forgang með nauðsynlegum framkvæmdum, svo [að] Ísland geti áfram verið í fremstu röð í framleiðslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Hefjast þarf handa hið fyrsta."
Ekki er neitt lífmark enn með ríkisstjórninni í þá veru, að hún sé að rumska í orkumálum. Sú staða blasir við, að með hverju árinu muni orkuskerðingarnar nema fleiri MWh en árið á undan, og þar af leiðandi nemi tjón þjóðarbúsins yfir mrdISK 100 fram að næstu virkjun. Vitað er hverju það sætir. Er ekki bezt að senda þeim hinum sömu og flækzt hafa fyrir nánast öllum leyfisveitingum á orkusviði undanfarin ár reikninginn ? Það væri ágætis ráð að refsa þessu afturhaldi í næstu kosningum, sem eru til sveitarstjórna í maí 2022 enda verðskuldar erkiafturhald ekki stuðning almennings til valda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2022 | 10:56
"Góðar samgöngur eru fyrir alla"
Fyrirsögnin eru einkunnarorð á vefsetrinu https://samgongurfyriralla.com , sem áhugahópur borgara um bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu stendur að. Einkunnarorðin gætu líka verið "Betri samgöngur fyrir alla" með skírskotun til núverandi ástands, þar sem talið er, að tímasóun vegna frumstæðrar ljósastýringar, þrengsla og kauðslegra, stórhættulegra gatnamóta, nemi 30-40 mrdISK/ár. Slysakostnaður og eldsneytiskostnaður er ekki inni í þessu tölulega mati, heldur aðeins verðmæti tímans, sem fer í súginn. Þetta ástand hafa núverandi borgaryfirvöld kallað yfir vegfarendur og fjárhag heimila og fyrirtækja með óskiljanlegri þvermóðsku og framkvæmdastoppi á Vegagerðina, sem ábyrg er fyrir þjóðvegum í þéttbýli. Þessi hegðun ætti að binda enda á valdabrölt þeirra misheppnuðu, einstaklinga, sem skipa meirihluta borgarstjórnar og berjast fyrir lífstílsbreytingu almennings. Minnir það ónotalega á gamla sovétið, þar sem skapa átti "homo sovieticus".
Lausn þvergirðinga og þursa í meirihluta borgarstjórnar er engin lausn, heldur magnar hún tafirnar, svo að tafakostnaðurinn mun tvöfaldast á næstu tveimur áratugum, ef sú leið, leið miðlægra sérakreina fyrir almenningsvagna, verður farin. Bergþursar halda því fram, að vonlaus úrbótaaðferð sé að fjölga akreinum og losna við ljósastýrð gatnamót með mislægum gatnamótum á helztu umferðarásum höfuðborgarsvæðisins, af því að þá fjölgi bílunum enn þá meira og fulllesti umferðarmannvirkin. Þetta er úr lausu lofti gripið í því samhengi, sem hér um ræðir, en alveg dæmigerður afturhaldsmálflutningur, sem svipar til fíflagangsins í virkjanaumræðunni, þar sem streitzt er á móti nýjum virkjunum, af því að þær verði bráðlega fullnýttar líka.
Umferðarsérfræðingar á ofannefndu vefsetri halda því aftur á móti fram, að sú tæknilega og framfarasinnaða lausn að losna við ljós og þar með þverandi akstursstefnur í sama plani á helztu umferðaræðum muni duga sem lausn á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins í heila öld, ef jafnframt verður horfið af braut óþarfra þrenginga og hraðalækkana og farin leið téðs áhugahóps um nýjar sérreinar fyrir almenningsvagna hægra megin núverandi akreina.
Almenningi hafa verið kynntar þessar hugmyndir í fjölmiðlum. Einn sá ötulasti í þessum hópi er prófessor í verkfræðigrein (straumfræði) í HÍ, Jónas Elíasson. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 8. desember 2021 undir fyrirsögninni:
"Létta borgarlínan".
Hún hófst þannig:
"Létta borgarlínan er kerfi fyrir almenningssamgöngur með sama þjónustustigi og hin upphaflega þunga borgarlína, en kostar aðeins brot af henni. Munurinn er, að sérstakar akreinar fyrir vagnana eru hægra megin, en ekki í miðri götu. Í þessu liggur gríðarlegur sparnaður (um 1,2 mrdISK/km) án þess, að neinu sé fórnað, en skipulagslegur ávinningur er mikill.
Létta línan gefur möguleika á að byggja kerfið upp í áföngum og útilokar ekki, að miðjubrautirnar [verði] gerðar seinna, ef þörf verður fyrir þær og möguleiki finnst á að koma þeim fyrir. Því má líta á léttu borgarlínuna sem fyrsta áfanga af þeirri þungu. Að óbreyttum farþegafjölda verður ekki þörf fyrir miklar brautarlagnir strax; aðrar aðgerðir, sérstaklega þær, sem varða nýtingu á nýrri tækni, og loftslagsmálin eru meira aðkallandi."
Hin þunga borgarlína er umferðartæknilegt örverpi við íslenzkar aðstæður, sem verður líklega aldrei nokkur spurn eftir. Létta borgarlínan slær þungu borgarlínuna bæði út í fjárfestingarupphæð og rekstrarkostnaði. Sú þunga útheimtir vart minna fjárfestingarfé en mrdISK 100, en sú létta þarf minna en mrdISK 20. Tafakostnaður bílaumferðar einvörðungu vegna þungu borgarlínunnar mun nema um 40 mrdISK/ár um árið 2040, og má við samanburðinn færa þetta sem viðbótar rekstrarkostnað þungu borgarlínunnar, en sú létta mun ekki valda töfum. Þetta er svo sláandi mikill mismunur, að hið opinbera hlutafélag, sem á að fást við þessar framkvæmdir, verður að taka tillit til hans.
Ef borgaryfirvöld á borð við núverandi afturhald hefðu ráðið Reykjavík frá aldamótum 1900 væri höfuðborgin varla svipur hjá sjón, framfaraskref á borð við rafvæðingu og hitaveituvæðingu hefðu verið í skötulíki og íbúum höfuðborgarinnar hefði fjölgað lítið, því að þeim hefði ekki gefizt kostur á öðru en að búa í þröngum hnappi í kringum 101 R., og samgönguæðar og bílastæði hefðu verið skorin við nögl í Aðalskipulagi. Núverandi borgaryfirvöld draga lappirnar og skemma fyrir framfaramáli á borð við Sundabraut og brjóta þannig samgöngusáttmálann títtnefnda. Í Morgunblaðinu 26. nóvember 2021 birtist frétt með eftirfarandi fyrirsögn:
"Sundabraut hluti af samgöngusáttmála".
Hún hófst þannig:
""Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa skipulagsvaldið. Um leið sækja þau á ríkið um fjármagn í samgöngum", sagði Vilhjálmur Árnason, alþingismaður, sem hefur setið í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Hann minnti á, að gerður hafi verið samgöngusáttmáli milli ríkisins og 6 sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, oft kallaður höfuðborgarsáttmáli. Í honum felst, að sveitarfélögin hagi skipulagsmálum sínum þannig, að áform ríkisins um uppbyggingu gangi eftir.
"Sundabraut er hluti af höfuðborgarsáttmálanum, og sveitarfélögin þurfa að gera hana skipulagslega mögulega. Ef þau eru tilbúin að mæta ríkinu í skipulagsmálum þannig, að hægt sé að bjóða upp á betri samgöngur og fjölbreytta ferðamáta á öllu svæðinu, þá kemur ríkið að fjármögnun á uppbyggingunni", sagði Vilhjálmur."
Það er ekki hægt að eiga samstarf við borgina um nein framfaramál, á meðan bergþursar sótsvarts afturhalds sitja þar að völdum, enda hafa þeir ekki staðið við neitt í þessu samkomulagi. Ríkið vill leggja Sundabraut og reisa mislæg gatnamót, en bergþursarnir vilja stefna bílaumferðinni í öngþveiti. Ríkið vill leggja grunn að framtíðarnotkun Reykjavíkurflugvallar, en bergþursarnir vilja skipuleggja lóðir þarna í Vatnsmýrinni. Bergþursar vinna allt með öfugum klónum.
"Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og fleiri bentu okkur í nefndinni [Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis] á, að það ætti að vera mislægur samgönguás í gegnum höfuðborgarsvæðið, þannig að t.d. þungaflutningar þurfi ekki að stoppa í borgartraffík, heldur komist greiðlega leiðar sinnar. Þótt hágæða almenningssamgöngur gangi upp 100 %, þá segir skýrslan [verkefnishóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra], að það verði 24 % aukning bílaumferðar [til 2033] með breyttum ferðavenjum, en annars 40 % aukning. Það eru því ekki forsendur fyrir því að þrengja að umferð bíla. Við í meirihluta nefndarinnar vildum uppbyggingu fjölbreyttra samgangna, en ekki þannig, að einn samgöngumáti gengi á annan. Það að ætla að fækka akreinum á Suðurlandsbraut er ekki í þessum anda og er í andstöðu við forsendur þessarar skýrslu um, að bílaumferð muni aukast þrátt fyrir öflugri almenningssamgöngur.""
Auðvitað eiga samgönguásar um höfuðborgarsvæðið ekki að vera stýrðir af umferðarljósum, eins og bergþursarnir í borgarstjórn vilja þó, heldur á umferð þeirra að ganga greiðlega um mislæg gatnamót. Þótt engin aukning yrði frá núverandi umferð í Reykjavík, eru engin skilyrði fyrir hendi til að hægja enn á henni og auka slysahættu. Bergþursar stunda skæruhernað gegn íbúunum í nafni afdankaðrar og einfeldningslegrar hugmyndafræði. Þeir telja sig ekki kosna til að þjóna, heldur til að drottna og troða afdankaðri sérvizku sinni um fyrirkomulag umferðar og annars upp á teikniborð borgarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.1.2022 | 10:07
Fjandskapurinn við þarfasta þjón nútímans
Það er vart ofsögum sagt, að við völd í Reykjavík sé nú klíka sérvitringa, sem reynir að troða aflögðum lifnaðarháttum upp á Reykvíkinga og íbúa utan Reykjavíkur, sem oft eiga erindi til höfuðborgarinnar. Klíka þessi undir leiðsögn Samfylkingarinnar, með lækninn Dag B. Eggertsson í forystu, er forstokkuð, ofstækisfull og sést ekki fyrir í aðgerðum sínum gegn borgurunum. Hún hefur sett framkvæmdabann á stofnleiðir borgarinnar og tekið mislæg gatnamót og Sundabraut út af Aðalskipulagi borgarinnar. Til að bæta gráu ofan á svart hefur klíkan þrengt ýmsar götur og fækkað akreinum, t.d. á Grensásvegi, með þeim afleiðingum, að tafir í umferðinni hafa stóraukizt, og gæti tafakostnaðurinn nú numið allt að 40 mrdISK/ár hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Hvernig í ósköpunum má það vera, að slík óstjórn og sérvizka hafi náð hreðjatökum á stjórn borgarinnar ? Ætli þessu linni í vor ? Það er löngu kominn tími til.
Þetta er gert í anda svæsnustu forræðishyggju til að þvinga ökumenn og farþega þeirra út úr einkabílunum og í almenningsvagnana, á tvo jafnfljóta eða á reiðhjól eða hlaupahjól. Þetta felur hins vegar í sér svo gríðarlegt óhagræði og óþægindi fyrir fólk, að hlutdeild almenningssamgangna hjakkar enn í 4 % af öllum ferðum í Reykjavík yfir árið.
Borgarlínuáform meirihluta borgarstjórnar eru sniðnar við aðstæður erlendis í miklu fjölmennara samfélagi en höfuðborgarsvæðið er hér, þar sem bílaeign er ekki jafnalmenn og hér og veðurfarsskilyrði yfirleitt önnur. Verkefnið, s.k. þung borgarlína, er þannig miklu stærra í sniðum en nokkur þörf er á hér í fyrirsjáanlegri framtíð og óttaleg tréhestahugmynd, sem virðist einvörðungu hafa komizt á flug innan þessa skrýtna meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, af því að það felur í sér atlögu að ferðum með einkabíl, þar sem Borgarlínan verður á tveimur sérakreinum fyrir miðju, og farþegar munu fá rétt til að stöðva bílaumferð til að komast að og frá vögnunum.
Ætlunin er að fækka akreinum á leiðum Borgarlínu og yfirleitt, þar sem því verður við komið, jafnöfugsnúin og sú hugmyndafræði er nú. Hugarfarið að baki þessum Borgarlínuhugmyndum opinberaðist í frétt Morgunblaðsins 26. nóvember 2021, þar sem viðtal var við stjórnarformann Betri samgangna ohf, Árna Mathiesen, fyrrverandi ráðherra, undir fyrirsögninni:
"Segir óþarft að fækka akreinum".
Fréttin hófst þannig:
"Fækka á akreinum fyrir bílaumferð úr 4 í 2 á Suðurlandsbraut og efri hluta Laugavegar samkvæmt frumdragaskýrslu borgarinnar. Lagt er til, að borgarlínan verði öll í sérrými á Suðurlandsbraut og efri hluta Laugavegar. Sérrýmin verða að mestu miðlæg, og svo ein akrein í hvora átt fyrir bílaumferð. Lagt er til, að vinstri beygja verði ekki lengur möguleg, nema á hluta gatnamóta. Auk breytinga á götunni er gert ráð fyrir fækkun bílastæða næst Suðurlandsbraut. [Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum heilvita manni í hug að fækka bílastæðum við Suðurlandsbraut ? - innsk. BJo]
Þetta kemur fram í skipulagslýsingu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar [og] skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi fyrir borgarlínu um Suðurlandsbraut og efri hluta Laugavegar frá leikskólanum Steinahlíð í austri að Katrínartúni í vestri. Leggurinn er 3,3 km langur. Skipulagslýsingin var kynnt í borgarráði Reykjavíkur 18. nóvember [2021].
"Frá okkar bæjardyrum séð er ekki nauðsynlegt að fækka akreinum á Suðurlandsbraut til að koma fyrir hraðvagnakerfi eða borgarlínu, eins og frumdrög skipulags hafa gert ráð fyrir", sagði Árni Mathiesen, stjórnarformaður Betri samgangna ohf.
Félagið mun hafa yfirumsjón með framkvæmdum vegna uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og fjármögnun þeirra. Að félaginu standa íslenzka ríkið og 6 sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes. Ríkið á 75 %, en sveitarfélögin 25 %, og skiptist eignarhlutur þeirra eftir íbúafjölda."
Þetta sýnir svart á hvítu, að ágreiningur um tilhögun framkvæmdarinnar mun verða verkefninu til mikils trafala, enda er ómögulegt að komast að vitrænni niðurstöðu í samráði við forstokkaða sérvitringa, sem ætla sér með verkefninu að ganga á milli bols og höfuðs á einkabílismanum í Reykjavík. Hvergi er gætt að hagkvæmni hjá Reykjavíkurborg, og þess vegna verður fjármögnunin í lausu lofti. Það eru til betri lausnir, miklu ódýrari og hagfelldari, þar sem hagsmuna notenda er gætt og annarra hagsmunum er ekki fórnað, sbr www.samgongurfyriralla.com.
Ríkisendurskoðandi hefur skynjað, að hið opinbera er rétt einu sinni að vaða út í fen fullkomlega óraunhæfra fjárfestinga, sem orðið hafa til í hugarheimi stjórnmálamanna án snefils af jarðsambandi. Það sárgrætilega er, að þessar fjárfestingar eru líka algerlega óþarfar, af því að aðrar og miklu ódýrari lausnir gera sama gagn og verða ekki farartálmi fyrir flesta vegfarendur, eins og þetta illúðlega hugarfóstur sérvitringa á vinstri vængnum vissulega er.
Ef ríkissjóður heykist á lántökuábyrgð til handa "Betri samgöngum ohf", eins og öll fjárhags- og eðlileg pólitísk rök hníga að, þá verður varla nokkuð úr þessum gapuxalegu framkvæmdum, heldur verður hugað að umferðartæknilega og fjárhagslega betri lausnum. Í Morgunblaðinu 16. desember 2021 var frétt um viðvörunarorð ríkisendurskoðanda undir fyrirsögninni:
"Geldur varhug við lántökuheimild".
""Gjalda þarf varhug, þegar kemur að heimildum til lántaka með ábyrgð ríkisins, þegar mikil óvissa ríkir um fjárhagsgrundvöll þess verkefnis, sem lána skal til", segir ríkisendurskoðandi í umfjöllun um mrdISK 4,0 lántökuheimild ríkisins í fjárlagafrumvarpi næsta árs til að endurlána fyrirtækinu Betri samgöngum ohf., en það var stofnað um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, þ.á.m. borgarlínu."
Borgin hefur þegar svikið samgöngusáttmálann við ríkið, sem þetta opinbera hlutafélag er reist á. Hún hefur enn ekki sett Sundabraut inn á Aðalskipulag, og heldur ekki sett nein mislæg gatnamót þar inn. Hún eyðilagði hagkvæmasta kost Sundabrautar með byggingarlóðum, og hér skal ekki minnast á meðferðina á Reykjavíkurflugvelli, sem er til háborinnar skammar fyrir eina höfuðborg. Luntarahátturinn og geðvonzkan út í nútíma samgönguhætti er með slíkum eindæmum, að ríkið, sem nú þegar er mjög skuldsett, á alls ekki að ljá máls á að vaða út í það fjárhagslega fen, sem Borgarlína meirihluta borgarstjórnar er.
Til að undirstrika ósamstarfshæfni núverandi meirihluta borgarstjórnar skal hér vitna til upphafs leiðara Morgunblaðsins 7. desember 2021 undir fyrirsögninni:
"Fjandskapurinn":
"Þvermóðska og einstrengingsháttur er það, sem einna helzt einkennir stjórn Reykjavíkurborgar um þessar mundir og á undanförnum árum. Þetta sést í hverju málinu á fætur öðru og skiptir þá engu, hvort málið er í eðli sínu stórt eða smátt, hvort það snertir alla borgarbúa eða fáa einstaklinga, alltaf er viðmótið hið sama. Og undirliggjandi ástæða þessarar framgöngu er oftar en ekki fjandskapur við einkabílinn, svo undarlegt sem það má teljast.
Borgaryfirvöld finna sér tækifæri í flestum málum til að tengja þau við þennan fjandskap og taka í framhaldinu ákvarðanir, sem engin skynsamleg skýring er á, aðeins þessi óskiljanlegi fjandskapur við langsamlega vinsælasta ferðamáta borgarbúa."
Það, sem Morgunblaðið lýsir þarna, eru einkenni sinnisveiki. Meiri hluti borgarstjórnar er með einkabílinn á heilanum, ef þau hafa slíkt líffæri, og leggja fæð á þessa blikkbelju, sem þau einu sinni uppnefndu svo. Þau túlka síðan umboð sitt í borgarstjórn þannig, að þeim beri að misnota aðstöðu sína þar til að stöðva alla framfaraviðleitni varðandi umferðarmannvirki í borginni og beri þvert á móti að þrengja að umferð einkabílsins með öllu hugsanlegu móti, svo að þau, sem þannig kjósa að fara á milli staða, gefist upp á umferðaröngþveitinu og setjist upp í almenningsvagnana. Þetta er svo ólýðræðisleg hegðun og heimskuleg stjórnun einnar borgar, að engu tali tekur. Slíkum borgarfulltrúum og stjórnmálaflokkum, sem að þeim standa, á einfaldlega að sparka út í hafsauga í sveitarstjórnarkosningunum í vor (maí 2022). Það má ekki seinna vera. Asnaspörkin eru legíó og fíflagangurinn verður óafturkræfur eftir næsta kjörtímabil.
Í lok forystugreinarinnar sagði þetta:
"En það er einmitt einn helzti kosturinn við skipulagið [minna en 1 bílastæði á hverja nýja íbúð] að mati borgaryfirvalda, því að með þessu er íbúunum gert erfiðara fyrir að eiga bíl, og þar með standa vonir borgaryfirvalda til þess, að þeir nýti sér aðra ferðamáta - nú eða haldi sig heima. Þeir flækjast ekki fyrir borgaryfirvöldum á meðan."
Af þessari umræðu er ljóst, að núverandi borgaryfirvöld eru aftan úr grárri forneskju og eru ekki í neinum færum til að svara þörfum tímans á því herrans ári 2022, hvað þá á öllu næsta kjörtímabili. Algerrar uppstokkunar og endurnýjunar er þörf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.1.2022 | 11:32
Er Novavax C-19 bóluefnið öruggt og skilvirkt í senn ?
Höfundi þessa vefseturs þykir jafnan fengur að skrifum sænska læknisins Sebastians Rushworth, ekki sízt um Kófsmálefni. Höfundur vefsetursins hefur þýtt og birt hér greinar SR um niðurstöður athugana á skilvirkni AstraZeneca, Biontech-Pfizer og Moderna bóluefnanna gegn C-19 og hættuna á hjartavöðvabólgu af völdum tveggja síðar nefndu efnanna, sem eru úr hópi mRNA-bóluefna.
Nú er komið nýtt efni á markaðinn í Evrópu, og gerir SR hér grein fyrir prófunum á því:
"Ég hef fengið margar beiðnir um 6 mánaða skeið nú að skrifa um Novavax-C-19 bóluefnið. Ég hef ekki viljað það hingað til, aðallega af því að óljóst hefur verið, hvort vestræn ríki mundu samþykkja efnið á markað. Nú þar sem það hefur verið samþykkt til notkunar í ESB, hafa forsendur breytzt, og mér finnst ég ekki geta frestað þessu lengur.
Ég býst við, að ástæða þess, að svo margir eru spenntir fyrir Novavax-bóluefninu, sé, að það er reist á hefðbundinni tækni, sem oft hefur verið notuð áður, en ekki nýtilkominni tækni, sem notuð er við gerð mRNA- og ferju-bóluefna, en fáanleg bóluefni hingað til í BNA og ESB hafa verið einskorðuð við þá flokka. Mörgum finnst meira öryggi að hefðbundinni tækni á þessu sviði.
Novavax-bóluefnið samanstendur af tvennu: Sars-CoV-2 broddpróteininu og hjálparefni (efni, sem setur ónæmiskerfi líkamans í viðbragðsstöðu gagnvart hættulegu aðkomuefni og setur þannig ónæmiskerfið í gang til að fást við broddpróteinið). Í stað þess að sprauta genatæknilegri forskrift í æð til að fá frumur til að framleiða broddprótein veirunnar sjálfar (eins og á við um fyrri 4 samþykkt bóluefni) er broddpróteininu sprautað inn beint.
Fyrsta landið til að viðurkenna Novavax-bóluefnið var Indónesía, sem samþykkti það til notkunar í nóvember [2021]. Það þýðir, að engin langtíma eftirfylgd almennrar notkunar hefur átt sér stað enn þá. Allt, sem við höfum í hendi, eru bráðabirgða niðurstöður slembivalsrannsókna. Það þýðir, að við höfum enn enga hugmynd um sjaldgæf aukaáhrif og munum ekki hafa enn mánuðum saman. Nokkrar milljónir manna höfðu þegar fengið AstraZeneca-bóluefnið [ferjubóluefni] áður en yfirvöldum varð ljóst, að það gat valdið alvarlegum blóðtöppum, og milljónir manna höfðu einnig fengið Moderna- og Pfizer-bóluefnin [mRNA-bóluefni] áður en ljóst varð, að þau geta valdið hjartavöðvabólgu. Að þessum varnagla slegnum skulum við nú athuga, hvað bráðabirgða niðurstöður slembivalsrannsókna færa okkur.
Fyrstu rannsóknarniðurstöður um Novavax-bóluefnið birtust í "The New England Journal of Medicine" í maí [2021]. Með slembivali var 4387 manneskjum í Suður-Afríku gefið annaðhvort bóluefnið eða saltvatnslyfleysa. Tilraunin var gerð á lokamánuðum ársins 2020, þegar beta-afbrigðið var ríkjandi í Suður-Afríku. Eins og í fyrri covid-bóluefnarannsóknum, var ætlunin með rannsókninni að komast að getu bóluefnisins til að koma í veg fyrir smit með einkennum, sem voru skilgreind sem covid-19 lík sjúkdómseinkenni að viðbættu jákvæðu covid-prófi.
Meðalaldur þátttakenda var 32 ár og viðvarandi sjúkdómseinkenni voru sjaldgæf, svo að þetta var hópur í lítilli hættu á alvarlegum sjúkdómi. Þegar þessi staðreynd er tengd tiltölulega fámennum hópi þátttakenda (fyrir bóluefnisrannsókn), var enginn möguleiki á, að rannsóknin gæti gefið nokkuð nytsemlegt til kynna um getu bóluefnisins til að koma í veg fyrir alvarlegan sjúkdóm. Þannig var þetta í raun tilraun til að komast að raun um getu Novavax-bóluefnisins við að hindra venjulegt kvef í heilbrigðu ungu fólki.
Kíkjum nú á niðurstöðurnar:
Eins og í fyrri birtum bóluefnarannsóknum, voru gögn um skilvirknina birt aðeins 2 mánuðum eftir sprautun. Við tveggja mánaða mörkin höfðu 15 bóluefnisþegar sýnt einkenni covid-19 í samanburði við 29 lyfleysuþega. Þetta gefur hlutfallslega áhættuminnkun 49 % gagnvart beta-afbrigðinu 2 mánuðum eftir bólusetningu, sem veldur vonbrigðum. Þetta er undir 50 % áhættuminnkuninni, sem eftirlitsaðilar setja sem lágmark til samþykktar bóluefnis.
Þetta veldur enn meiri vonbrigðum, þegar haft er í huga, að skilvirkni varnarinnar gegn smitum með einkennum nær líklega hámarki 2 mánuðum frá bólusetningu og fellur síðan hratt - þetta er mynztur, sem sést á öllum öðrum samþykktum covid-bóluefnum, og það er mjög líklegt, að hið sama eigi við um þetta bóluefni.
Ennfremur, beta-afbrigðið er löngu horfið. Hin samþykktu bóluefnin virðast hafa litla eða enga getu til að hindra smit af núverandi ríkjandi afbrigði, ómíkron (þótt þau virðist enn hafa verulega getu til að milda einkennin). Hér í Svíþjóð er fólk jafnlíklegt til að smitast af C-19, hvort sem það hefur verið bólusett eða ekki, en það eru enn mun minni líkindi á að lenda í gjörgæzlu vegna alvarlegs C-19, ef fólk hefur verið bólusett. Það er engin ástæða til að halda, að eitthvað sé öðruvísi með þetta bóluefni.
Höldum áfram og lítum á öryggishliðina. Öryggisgögn voru einvörðungu birt fyrir undirhóp sjúklinga og þá aðeins fyrir fyrstu 35 dagana eftir bólusetningu með fyrsta skammti. Það litla, sem þarna var þó, virkaði ekki uppörvandi. Það voru tvöfalt fleiri alvarleg sjúkdómstilvik, sem þörfnuðust læknismeðhöndlunar, í hópi bólusettra en óbólusettra (13 á móti 6), og tvöfalt fleiri bólusettir með mjög alvarleg einkenni í hópi bólusettra en óbólusettra (2 á móti 1). Til að gæta þó sanngirni verður að geta þess, að sjúklingafjöldinn er allt of lítill til að gera það kleift að draga nokkrar ályktanir um öryggið á grundvelli þessara takmörkuðu gagna, svo að við bíðum með að kveða upp dóm.
Snúum okkur að annarri rannsókninni í röðinni, sem birt var í "The New England Journal of Medicine" í september [2021]. Þetta var mun stærri rannsókn en sú fyrsta með 15´187 manns á Bretlandi, sem með slembivali fengu annaðhvort Novavax eða saltvatnslyfleysu.Eins og við fyrri rannsókn var verið að athuga getu bóluefnisins til að koma í veg veg fyrir smit með einkennum. Rannsóknin stóða yfir frá síðla 2020 þar til snemma árs 2021 á tíma, þegar alfa-afbrigðið var ríkjandi, svo að niðurstöður hennar eiga aðallega við um það afbrigði. Af þátttakendum voru 45 % haldnir sjúkleika, sem mundi geta leitt yfir þá alvarlegan sjúkdóm, og meðalaldur þátttakenda var 56 ár.
Hver varð svo niðurstaðan ?
Á meðal þátttakenda, sem fengur 2 skammta af bóluefninu, voru 96 C-19 smit í lyfleysuhópnum, en aðeins 10 í bóluefnishópnum á 3 mánaða tímabili eftir seinni sprautuna. Þetta gefur skilvirkni á fyrstu mánuðunum upp á 90 %, sem er svipað og í Moderna- og Pfizer-bóluefnarannsóknunum. Einn endaði á spítala vegna C-19 í lyfleysuhópnum, en enginn í bóluefnahópnum - svo að því miður aftur voru ekki nægilega margar sjúkrahússinnlagnir, til að hægt væri að segja nokkuð um getu bóluefnisins til að hindra alvarleg veikindi (þó er nokkuð ljóst af þessari rannsókn, að jafnvel í tilviki fólks í hópi með tiltölulega mikla áhættu er heildaráhætta sjúkrahússinnlagnar vegna C-19 lítil - af 96 manns í lyfleysuhópinum, sem fengu C-19, þarfnaðist aðeins einn innlagnar á sjúkrahús.
Snúum okkur nú að örygginu. Öryggisgögn eru aðeins fáanleg fyrir tímabilið frá 1. sprautu þar til 28 dögum eftir seinni sprautu, svo að við vitum ekkert um langtíma áhrifin, en á þessum tíma voru engin merki um alvarlegt heilsutjón af völdum bólusetninganna. Það voru þó 44 alvarleg slæm tilvik í bólusetningarhópnum, og 44 alvarleg slæm tilvik í lyfleysuhópnum. Einn í bólusetningarhópnum veiktist af hjartavöðvabólgu þremur dögum eftir seinni skammtinn, sem veitir vísbendingu um, að Novavax geti valdið hjartavöðvabólgu, alveg eins og Pfizer- og Moderna-bóluefnin gera.
Snúum okkur þá að lokarannsókninni, sem birtist í "The New England Journal of Medicine" í desember [2021]. Hún var gerð í BNA og Mexíkó fyrri hluta árs 2021. Eins og í áður greindri rannsókn, eiga niðurstöðurnar aðallega við alfa-afbrigðið. 29´949 þátttakendur voru slembivaldir fyrir annaðhvort Novavax-bóluefnið eða saltlausnarlyfleysu. Eins og í fyrri rannsóknunum tveimur var ætlunin að komast að, hvort bóluefnið kæmi í veg fyrir smit með einkennum og þau aftur skilgreind sem kunnugleg einkenni um C-19 auk jákvæðrar PCR-greiningar. Miðtölualdur þátttakenda var 47 ár, og 52 % þeirra voru haldnir sjúkleika, sem gæti valdið þeim alvarlegri sjúkdómi en ella, ef þeir veiktust af C-19.
Hverjar voru þá niðurstöðurnar ?
Að 70 dögum liðnum frá seinni sprautu höfðu 0,8 % lyfleysuhópsins greinzt með C-19, en aðeins 0,1 % bóluefnahópsins. Þetta gefur hlutfallslega áhættuminnkun 90 %, sem er sambærilegt fyrri athugun. Því miður voru engar upplýsingar veittar um sjúkrahússinnlagnir, sem ég býst við að þýði, að af þessum 29´949 þátttakendum hafi enginn þarfnazt sjúkrahússþjónustu vegna C-19, þannig að eins og í fyrri tilvikum er ómögulegt að segja til um, hvort bólusetningin dregur markvert úr sjúkrahússinnlögnum.
Að 28 dögum liðnum frá annarri sprautu höfðu 0,9 % þátttakenda í bóluefnishópnum orðið fyrir alvarlegum sjúkleika í samanburði við 1,0 % þátttakenda í lyfleysuhópnum. Það er uppörvandi.
Jæja, tökum þetta saman. Hvaða ályktanir getum við dregið af niðurstöðum þessara athugana ?
Í fyrsta lagi verndaði bóluefnið fólk með skilvirkum hætti gegn sýkingu af alfa-afbrigði C-19 með einkennum 2-3 mánuðum eftir bólusetningu (sem auðvitað segir okkur ekkert um verndarskilvirkni bólusetningarinnar 6 mánuðum eða ári eftir sprautun). Þessar upplýsingar eru nú að mestu einvörðungu af sögulegu tagi, þar sem alfa er löngu horfið, og við lifum á skeiði ómíkron. Ef Novavax-bóluefnið er svipað að verndaráhrifum og bóluefnin 4, sem áður hafa verið samþykkt, þá er það líklega gagnslaust við að hindra smit af ómíkron.
Í öðru lagi er ómögulegt út frá þessum bóluefnisprófunum að ákvarða, hvort Novavax-bóluefnið dregur eitthvað úr hættu á þörf á sjúkrahússinnlögnum vegna C-19, af þeirri einföldu ástæðu, að ekki varð nægilega mikið um sjúkrahússinnlagnir þátttakendanna. Að því sögðu gizka ég á, að bóluefnið verndi e.t.v. í einhverjum mæli gegn þörf á sjúkrahússinnlögnum og vist á gjörgæzlu, eins og hin samþykktu bóluefnin gera. Í raun gerir þetta bóluefni hið sama og hin - veldur ónæmisviðbragði við broddpróteininu, sem fannst í upphaflega Wuhan-afbrigðinu, og heildarniðurstöðum prófananna svipar mjög til prófunarniðurstaðna fyrir Moderna- og Pfizer-bóluefnin.
Í heildina benda gögnin til góðs öryggis bóluefnisins, með jafnvægi á milli bóluefnishóps og lyfleysuhóps varðandi alvarleg slæm tilvik af öðrum toga en C-19. Sjaldgæfar aukaverkanir koma þó ekki í ljós í slembiúrvalsathugunum með aðeins nokkur þúsund þátttakendum. Til að komast að þeim er langtíma eftirfylgd miklu stærra þýðis nauðsynlegt. Það er núna ómögulegt að vita, hvort Novavax-bóluefnið getur valdið hjartavöðvabólgu, eins og mRNA-bóluefnin, eða blóðtappa, eins og ferjubóluefnin, eða einhverjum allt öðrum slæmum aukaverkunum. Núna er þess vegna ógerlegt að kveða upp úr með það, hvort þetta bóluefni er öruggara, síður öruggt eða öryggislega jafngilt þegar samþykktum bóluefnum."
Þótt bóluefnið, sem hér var til umfjöllunar, sé annarrar gerðar en bóluefnin, sem notuð hafa verið á Íslandi gegn C-19, á það sammerkt með þeim að vera úrelt, þ.e. það gagnast ekki gegn ómíkron-afbrigðinu og endingin gagnvart vernd gegn alvarlegum veikindum er mjög léleg, og alvarleg sjúkdómseinkenni eru mjög sjaldgæf af völdum ómíkron. Ofuráherzla íslenzkra yfirvalda á bólusetningar gegn ómíkron, einnig bólusetningar barna, er óskiljanleg og felur í sér sóun opinbers fjár og tíma fólks, svo að ekki sé minnzt á óþarfa töku áhættu með heilsufar, einkum ungs fólks (undir fertugu).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.1.2022 | 09:31
Þjóðfélagið og sjúkrahúsið
Nú hefur verið upplýst um samsæri vísindamanna, embættismanna og stjórnmálamanna á Vesturlöndum, aðallega í Bandaríkjunum (BNA), um að kveða í kútinn þann þráláta orðróm, að veiran SARS-CoV-2, hafi sloppið út úr rannsóknarstofnun í veirufræðum í Wuhanborg í Kína, sem naut fjárveitinga frá BNA, líklega af því að rannsóknir í Kína eru ódýrari en í BNA vegna starfsmannakostnaðar og mismunandi varúðarráðstafana.
Sum lyfjafyrirtæki reyndust snör í snúningum gegn hinum nýja vágesti, sem WHO skírði COVID-19 (C-19). Sjúkdómurinn lýsti sér yfirleitt sem inflúensa, en gat hæglega orðið að lungnabólgu, þar sem varnir voru veikar, og allir vita, að þá er voðinn vís. Ekki verður farið út í uppbyggingu bóluefnanna, sem öll hafa verið ný af nálinni og með tvennu móti, þótt kenna megi báða hópana við genatækni. Er annar kenndur genaferjur og er AztraZeneca-bóluefnið þeirra þekktast, en hinn við genaboðefni mRNA, og eru bóluefnin frá Pfizer og Moderna þeirrar gerðar. Þriðja tegundin, Novavax, er nýsamþykkt af Evrópusambandinu (ESB). Það inniheldur broddprótein veirunnar, en fyrstu tilraunirnar benda ekki til, að það sé skárra en hin.
Öll bóluefnin hafa valdið svo miklum vonbrigðum, að kalla má þau gjörsamlega misheppnuð. Kemur þar aðallega þrennt til.
Endingin er til skammar, þar sem verndarvirkni þeirra gegn smiti og gegn alvarlegum einkennum er að engu orðin að hálfu ári liðnu frá bólusetningu. Virðist sem líkaminn sé fljótur að hafna þessum aðskotaefnum. Bóluefnin halda ekki máli, sem leyfisveitendur venjulega setja, sem er yfir 50 % virkni að ári liðnu. Hefði eftirlitsaðilum ekki legið lífið á, hefðu þeir þess vegna hafnað þessum bóluefnum sem ónothæfum.
Neikvæðar aukaverkanir eru fleiri og alvarlegri en sézt hefur frá þalídomíð-ósköpunum. (Lyf þróað á 6. áratugi 20 aldar, notað í 46 löndum og olli vansköpun fóstra.) Í BNA hefur verið tilkynnt um þrefalt fleiri neikvæðar aukaverkanir af bóluefnum gegn C-19 en alls á 35 árum áður(1985-2019). Víða er hætt að nota AstraZeneca vegna blóðtappamyndunar, og tíðni hjartavöðvabólgu hjá fólki undir fertugu margfaldast eftir 2. bólusetningu með Pfizer og í enn meiri mæli með Moderna, þar sem skammturinn þar er sterkari. Örvunarbólusetningin mun vafalaust valda aukningu á tíðni hjartavöðvabólgu líka.
Bóluefnin eru þröngt virkandi í mótsetningu við náttúrulegt ónæmi (eftir veikindi). Þau voru þróuð m.v. broddprótein upphaflegu veirunnar frá Wuhan, en veiran stökkbreytist oft, og bóluefnin virka lítið sem ekkert gegn ríkjandi afbrigði, ómíkron. Vísindamenn í Hollandi, sem birtu niðurstöður rannsókna sinna á ómíkrón-afbrigðinu í viku 2/2022, ályktuðu, að ómíkrón sé nægilega breytt frá fyrri stökkbreytingum til að geta talizt upphaf að nýjum hópi veira af tegundinni SARS-CoV-2. Ekki fylgdi sögunni, hvort náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron muni duga gegn stökkbreyttu ómíkron.
Sá er hins vegar kosturinn við hið gríðarlega smitandi ómíkron-afbrigði, að það veldur vægum einkennum, sem þó geta magnazt upp í sjúklingum með veikt ónæmiskerfi fyrir. Einkennum ómíkron má líkja við hálsbólgu.
Sóttvarnaryfirvöld á Íslandi hafa reynzt glámskyggn. Þau lofuðu hjarðónæmi, ef yfir 70 % landsmanna létu bólusetja sig. Ekkert hjarðónæmi náðist þrátt fyrir yfir 90 % þátttöku, og ekkert hjarðónæmi mun nást fyrr en nægilega margir hafa smitazt til að mynda náttúrulegt lýðónæmi. Það er bágborið, að sóttvarnaryfirvöld skuli nú reka harðan áróður fyrir örvunarbólusetningu og barnabólusetningu. Fyrir hvorugu eru nein haldbær rök lengur.
14. janúar 2022 hertu sóttvarnaryfirvöld tökin á landsmönnum með ýmsum hætti í nafni þess, að vegna Landsspítalans þyrfti að ná daglegum smitfjölda úr 1100-1200 og niður í 500 til að draga úr álagi á Landsspítalann. Hann er þó nýlega búinn að fá öfluga blóðgjöf úr einkageiranum og innlagnafjöldi er minni en bjartsýnasta spá Aspelunds.
Það gengur auðvitað ekki, að eftir tæplega 2 ára farsótt og með fullbólusetta þjóð skuli vera talið réttlætanlegt að sveifla þjóðfélaginu til og frá með gríðarlega kostnaðarsömum hætti eftir því, hvernig Landsspítalanum gengur að fást við hálsbólguveiru. Það er barnaskapur að halda, að það unga fólk, sem aðallega sækir staði, sem nú er búið að loka eða takmarka gestafjölda mjög á og hefði e.t.v. sýkzt þar, muni eftir herðingu ekki sýkjast annars staðar. Þótt náttúran sé lamin með lurki, þá leitar hún út um síðir, sögðu Rómverjar.
Þegar óttinn er ekki lengur fyrir hendi, þá mun fólk halda áfram að hittast. Daglegur smitfjöldi var hættur að aukast áður en aðgerðir voru hertar 14.01.2022, og þeim mun fækka á næstu vikum, hvað sem sóttvarnaryfirvöld taka sér fyrir hendur. Seinni partinn í febrúar 2022 mun náttúrulegt lýðónæmi að öllum líkindum nást í landinu.
Sóttvarnaryfirvöld ættu að hætta rándýrum leikaraskap sínum og hreinum skrípaleik með því að sleppa þríbólusettum einum við einkennalausa sóttkví. Þríbólusettir eru ekki ólíklegri en aðrir til að smita út frá sér af ástæðum, sem hér hafa verið raktar. Afleggja ætti einkennalausa sóttkví með öllu og einfaldlega biðja fólk um að hafa hægt um sig heima við, ef það finnur fyrir einkennum. Botnlausum sýnatökum og rakningum má hætta og spara þannig stórfé, sem betur væri komið í fjárveitingum til sjúkrahúsa landsins.
Þann 10. janúar 2022 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Jóhannes Loftsson, verkfræðing, sem aflað hefur sér mikillar þekkingar á tölfræði Kófsins. Greinin hét einfaldlega:
"Ekki hlýða Víði".
Þar gat m.a. að lesa þetta:
"Ómíkron er svo smitandi, að vírusinn er óstöðvandi. Frekari frelsisskerðingar munu litlu breyta, og stríðið er tapað. En þó ekki í raun, því [að] stríðið fyrir eðlilegu lífi er að vinnast. Hið milda ómíkronkvef býr til svo góða vörn gegn deltalungnabólgunni, að hún er að hverfa. Fyrir eldheita bólusetningarsinna má kalla þetta "bóluefni, sem virkar", til að aðskilja það frá tilraunabóluefnunum, sem virka ekkert á Ómíkron samkvæmt nýjustu tölfræðiupplýsingum á covid.is.
Þessu hafa sumir áttað sig á, og í Suður-Afríku og Ástralíu eru menn hættir og farnir að bíða eftir ómíkronhjarðónæminu. Óumfjýjanlegt er, að fleiri fylgi eftir, því [að] svo ört fjölgar smitum um allan heim.
Sú ákvörðun heilbrigðisráðherra að bólusetja börn með þessu gagnslausa efni við þessar aðstæður á eftir að verða komandi kynslóðum ráðgáta. Börn eru í hverfandi hættu af covid og enn minni hættu af ómíkron. Tilraunalyfið, sem þau verða sprautuð með, verður hins vegar á tilraunastigi fram til 2026. Börn, sem eru sprautuð á mánudaginn [10.01.2022] munu svo ekki verða "fullbólusett" fyrr en 14 dögum eftir seinni bólusetningu eða 14. febrúar. Líklegt verður að telja, að þá verði síðasta eftirlifandi afbrigði, sem tilraunabólusetningin hefur virkni gegn, deltalungnabólgan, löngu horfin. Tilraunin virðist því algjörlega tilgangslaus. Skaði barnanna getur hins vegar orðið margs konar."
Undir allt þetta skal taka heilshugar. Dr Robert Malone, aðalhöfundur mRNA-tækninnar, flutti um áramótin 2021/2022 ávarp til heimsbyggðarinnar um skaðsemi þessarar tækni fyrir börn, sem sóttvarnaryfirvöld alls staðar hefðu betur tekið mark á, en sums staðar virðist það þó hafa verið gert. Það er óskiljanleg rökleysa að baki ákvörðun um að leggja heilsu barna í hættu gegn engum ávinningi fyrir heilbrigð börn. Glámskyggnin ríður ekki við einteyming. Að bólusetja börnin svo í miðjum faraldrinum stríðir gegn hefðbundinni aðferðarfræði á þessu sviði. "Something is rotten in the state of Danemark (and Iceland)."
Þorsteinn Siglaugsson, hagfræðingur, hefur manna ötulastur verið við skriftir um Kófið. Þann 11. janúar 2022 birtist eftir hann í Morgunblaðinu greinin:
"Þórólfur í Undralandi".
Henni lauk þannig:
"Misráðin áform sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra um bólusetningu 5-11 ára barna og mismunun fólks eftir sprautufjölda, sem þegar eru að hluta komin til framkvæmdar, því miður, grundvallast á úreltum gögnum. Samkvæmt gögnum frönsku læknaakademíunnar hafa heilbrigð ung börn engan ávinning af bólusetningunni, hvað þá þegar hið nýja afbrigði virðist leiða til þess, að hún auki smittíðni í stað þess að minnka hana. En hætta á alvarlegum aukaverkunum er óbreytt. Sérréttindi til þeirra, sem nú smitast mest [og þar af leiðandi dreifa veirunni mest - innsk. BJo] eru bersýnilega fjarstæðukennd ráðstöfun.
Lísa var í Undralandi. Eru sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra þar líka ?"
Sóttvarnarlæknir lemur hausnum við steininn. Hann virðir staðreyndir að vettugi og neitar að láta af ofurtrú sinni á þessa nýju tækni við bóluefnagerð, sem reynzt hefur þó gjörsamlega haldlaus og óvenju skaðleg m.v. hefðbundin bóluefni, sem fengið hafa markaðsleyfi.
Sóttvarnarlæknir Íslands er orðinn sjálfstætt heilbrigðisvandamál, efnahagsvandamál og jafnréttisvandamál. Þetta hefst upp úr því að veita einum manni heimild til að hræra upp í tilfinningum fólks með hræðsluáróðri gagnvart nýjum sjúkdómi, og að láta hann síðan um að ráðleggja ráðherra, sem á óhægt um vik með að taka sjálfstæða ákvörðun, þegar sóttvarnarlæknir er búinn að undirbúa jarðveginn (manípúlera) á fjölmiðlunum og með grátkór lækna á Landsspítalanum háværan að ógleymdum ónefndum lækni með vinnustað í Vatnsmýrinni.
Alþingi verður að taka stjórnkerfi sóttvarna til rækilegrar endurskoðunar með það í huga, að sóttvarnarráð, skipað farsóttarsérfræðingum og hagsmunaaðilum úr þjóðfélaginu, geri ígrundaðar og vel vegnar sóttvarnartillögur til ráðherra, en stundi ekki hræðsluáróður í fjölmiðlum.
Þann 8. janúar 2022 birtist líka grein eftir Þorstein Siglaugsson í Morgunblaðinu. Hún var undir fyrirsögninni:
"Minnkar bólusetning vörn gegn smiti ?"
Það er ekki vafa undirorpið, að hún gerir það fyrst í stað, því að ónæmiskerfið "fer á hliðina" við að fást við aðskotaefnin, en Þorsteinn hefur fundið út leitni til tíðari smita þríbólusettra, er frá líður, enda er léleg ending þessarar nýju bóluefnatækni í líkamanum vel þekkt:
"Nokkuð skýr leitni er í þessum gögnum. Með sama áframhaldi má vænta þess, að mjög fljótlega verði sú litla vernd, sem þreföld bólusetning veitir enn gegn smiti, alveg horfin - þeir verði jafnlíklegir til að smitast og óbólusettir og bólusett börn einnig."
Þorsteinn er sannspár, enda hafa aldrei staðið neinar líkur til þess, þrátt fyrir fullyrðingar sóttvarnarlæknis, að 3. sprautan mundi endast eitthvað betur en 1. og 2. sprautan. Líkaminn losar sig við efnin. Lendir ruslið í lifrinni ?
Þorsteinn lauk grein sinni þannig:
"Það vekur furðu, að þessi stórfellda breyting á smittíðni skuli enn ekki hafa ratað í fjölmiðla og ekki síður, að grundvallarforsendubreyting af þessu tagi virðist engin áhrif hafa á fyrirætlanir stjórnvalda, annars vegar um bólusetningu ungra heilbrigðra barna hverjum veiran er afar hættulítil, og hins vegar fyrirætlanir um að mismuna fólki eftir fjölda bóluefnaskammta. Það er skylda stjórnvalda að grundvalla aðgerðir á staðreyndum og endurskoða þær, þegar forsendur breytast. Það hljóta þau að gera nú."
Það er í fersku minni, hversu afdráttarlaust sóttvarnarlæknir fullyrti á sínum tíma, að 3. bólusetningin, örvunarsprautan, mundi skipta sköpum í viðureigninni við C-19. Þetta fullyrti hann, þótt spá hans eða kannski loforð til landsmanna um hjarðónæmi, ef þeir almennt létu bólusetja sig tvisvar, hefði reynzt alröng, og sérfræðiheiður hans hefði þannig beðið hnekki.
Leikmönnum, sem lítillega höfðu kynnt sér rannsóknir á virkni og endingu þessara bóluefna í líkamanum, var þó ljóst, að fullyrðing sóttvarnarlæknis um töframátt 3. sprautunnar, var án vísindalegs rökstuðnings, og þess vegna aðeins til vitnis um örvæntingu manns með gjaldþrota málstað, þar sem var misheppnuð tilraun á þjóðinni með nýja bóluefnatækni, sem hefur valdið fleiri og skaðlegri verkunum á líkamann en áður eru dæmi um með bóluefni með markaðsleyfi til almennrar notkunar. Þegar sami sóttvarnarlæknir síðan gerði tillögu um forréttindi í þjóðfélaginu til handa þríbólusettum, fór traustið fyrir lítið sums staðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.1.2022 | 11:39
Svíþjóð er enn fyrirmynd á vissum sviðum
Hrollvekjandi eru ógnartíðindi af glæpagengjum í sumum sænskum borgum, sem sýna, að sænska samfélagið er ekki lengur samstöðusamfélag, eins og það var, þegar Svíar voru einsleit þjóð með eina þjóðmenningu eða kannski tvær (Samar í Lapplandi). Fjölmenningarsamfélagið hefur fyrir löngu leitt til innri baráttu og togstreitu ólíkra menningarhópa. Trúarhópar leitast við að viðhalda forneskjulegum venjum og siðum úr átthögum sínum, sem fáa grunaði, að yrðu lífseig í Svíþjóð, þegar þessum innflytjendum og flóttamönnum var hleypt inn í landið, en annað kom á daginn, og þess vegna er fjandinn laus. Það gildir enn hið fornkveðna, er Þingeyingurinn Þorgeir Ljósvetningagoði kvað upp úr með á Alþingi á Þingvöllum 999-1000, að ef vér slítum í sundur lögin, þá munum vér og slíta friðinn.
Í sóttvörnum gegn C-19 fárinu, sem með ómíkron hefur breytzt úr lungnabólgu í hálsbólgu, hafa Svíar að mörgu leyti fetað sínar eigin brautir með vægari samkomutakmörkunum og rekstrarhömlum en aðrir, svo að frelsisskerðingar fólks hafa verið þar minni en víðast annars staðar, sem og kostnaður atvinnulífs og hins opinbera. Dauðsföll voru samt færri í Svíþjóð en í mörgum löndum, sem beittu íþyngjandi hömlum, enda náðist lýðónæmi strax vorið 2021. Strangar opinberar sóttvarnarhömlur á Íslandi og annars staðar missa marks gegn háum smitstuðli ómíkron og minnka þar af leiðandi álagið á heilbrigðiskerfið sáralítið, ef nokkuð. Það er ekki hægt að hemja vatnsflóð með stíflubúti.
Dánarhlutfall Svía af völdum C-19 er lægra en í meira en 50 löndum, þar sem beitt var meiri opinberum sóttvarnaraðgerðum en í Svíþjóð. Segir það ekki töluverða sögu um vanhugsaðan grundvöll opinberra sóttvarnaraðgerða gegn pest á borð við C-19.
Heimurinn brást illa við sóttvarnarhugmyndafræði Svía og fordæmdi landið og sóttvarnarlækni þess, Anders Tegnell. Aflokunarfólk spáði Svíum hörmungum, en dánarhlutfallið sýnir Svía komast betur af en þá, sem beittir voru langvarandi aflokunum og öðrum frelsissviptandi úræðum forsjárhyggjunnar.
Anders Tegnell fékk aftökuhótanir frá almenningi og var hæddur af stéttarsystkinum. Hann var fordæmdur af fjölmiðlum á borð við Time Magazine, New York Times, The Guardian, Focus, La Republica, CNN, BBC o.fl. Á hvaða vegferð eru flestir fjölmiðlamenn eiginlega í þessum faraldri ? Þeir vöruðu við hörmungum af stefnu Tegnells. Það gerðu líka norsku Aftenposten og Dagens Næringsliv, hvattir áfram af ritstjórnum og sjálfskipuðum sérfræðingum í NRK (norska RÚV) og TV2. Eru afleiðingar þess að kynda undir fjöldamóðursýki í þjóðfélögunum aðeins fáum fjölmiðlamönnum ljósar ?
Væri Svíþjóð eitt af ríkjum Bandaríkjanna, mundu Svíar veru með 3. lægsta dánarhlutfallið í BNA. Svíar fylgdu aðeins hefðbundnum vestrænum ráðum gagnvart smitsjúkdómum.
Svíþjóð fylgdi ekki Kína. Svíar fóru hefðbundnar leiðir, sem heilbrigðisstarfsfólk hefur farið til að fást við smit. Svíar lögðust ekki í þjóðfélagslega tilraunastarfsemi. Það gerðu hins vegar flestir hinna með því að setja í gang óreyndar, frelsisskerðandi aðgerðir í sögulegri þjóðfélagstilraun, sem spannaði allan heiminn. Þetta var gert án vísindalegrar kostnaðar- og ábatagreiningar og kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum frá Kína.
Svíþjóð hefur náð betri árangri en ýmis lönd, sem beitt hafa aflokunum að hætti Kínverja.
Með bráðum 2ára reynslu og gögn um 21 mánaðar skeið frá 50 löndum, er myndin að skýrast. S.k. samfélagsnýsköpun með óreyndum aðgerðum er dýrkeypt. Dánarhlutfall sýnir, að Svíar hafa komið betur út úr Kófinu en þjóðir, sem beitt hafa langvinnum aflokunum og öðrum íþyngjandi aðgerðum.
Samkvæmt opinberu talnayfirliti Eurostat eru Bretland, BNA, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Spánn, Argentína og Belgía með hærra dánarhlutfall af C-19 en Svíþjóð. Í nóvember 2021 voru 50 lönd með hærra dánarhlutfall en Svíþjóð vegna C-19. Tölur fyrsta árs Kófsins, 2020, sem þótti ganga brösuglega í Svíþjóð, setja þó Svía í 21. sæti af 31 landi, sem Eurostat sýnir um dánarhlutfall af völdum C-19. Borin saman við 50 ríki BNA, er Svíþjóð með þriðja lægsta dánarhlutfallið.
Samkvæmt Worldometer var dánarhlutfall í % af íbúafjölda í 9 löndum febrúar 2020-nóvember 2021 (Ísland til 12.01.2022) eftirfarandi:
- Tanzanía 0,001
- Rúanda 0,010
- Ísland 0,011
- Indland 0,033
- Ísrael 0,087
- Svíþjóð 0,148
- Úkraína 0,182
- Bretland 0,209
- Ítalía 0,220
- Bandaríkin 0,238
Athygli vekur, að lítt bólusettar Afríkuþjóðir eru með lægsta dánarhlutfallið. Talið er, að á Indlandi og í Svíþjóð hafi myndazt hjarðónæmi veturinn 2021, svo að þessi lönd sluppu að mestu við smit haustið 2021, og það er ekki fyrr en nú með ómíkrón-afbrigðinu, að smitum tekur að fjölga, en þau eru þó enn tiltölulega færri í Svíþjóð en á Íslandi. Athygli vekur einnig, að Ísraelar, sem fyrstir urðu til að bólusetja sína þjóð, eru samt með hærra dánarhlutfall en Ísland og Indland.
Ísland kemur alveg sérstaklega vel út í þessum samanburði, sem gæti stafað af tiltölulega litlum tóbaksreykingum landsmanna, hreinu lofti og tiltölulega dreifðri byggðl ásamt tiltölulega lágum meðalaldri þjóðarinnar. Ef litið er til Svíþjóðar, er ekki líklegt, að samkomutakmarkanir og rekstrarhömlur í sóttvarnarskyni hafi bjargað mörgum mannslífum á Íslandi, og sízt af öllu getur slíkt átt við veirusjúkdóm með dreifingarstuðul ómíkrón, sem augljóslega er alls staðar í þjóðfélaginu. Það yrði að stöðva samfélagið til að hemja faraldurinn, en til þess er alls engin ástæða, þegar hálsbólga á í hlut.
Áfengisbannið í BNA var líka tilraun.
Söguleg tilraun: 17. janúar 1920 gekk í gildi algert bann við sölu áfengis í BNA. Það var stærsta þjóðfélagslega tilraunin fram að því, ef bylting bolsévika og alræði öreiganna í Rússlandi er undanskilin. Árið eftir mótmæltu 20 þús. manns banninu á götum Nýju Jórvíkur. Mótmælendurnir litu á bannið sem gerræðislega skerðingu persónulegs frelsis. Bannið leiddi til útbreiddra átaka og glæpa, en var þó ekki afnumið fyrr en 1933. Þótt flestir séu sammála um, að tilraunin hafi mistekizt gjörsamlega, stendur hún þó í huga forræðishyggjufólks sem "eðaltilraun í góðum tilgangi".
Nú horfa landsmenn upp á sóttvarnarlækni í hlutverki don Kíkóta berjast við vindmyllur. Þar er átt við máttvana, en rándýrar opinberar sóttvarnarráðstafanir að undirlagi hans á formi endalausra skimana, rakninga, sóttkvía og einangrunar að ógleymdum 4 farsóttarsjúkrahúsum; allt í því skyni að hemja hálsbólgu með óvenju háan smitstuðul. Dánarhlutfallið á Íslandi af völdum kórónuveirunnar er svo lágt, að látnir af hennar völdum eru aðeins um 1 % af fjölda látinna af öðrum völdum, og eru dauðsföll þó skráð á C-19, þótt aðrir sjúkdómar hafi komið við sögu. Þegar um jafnbráðsmitandi veiru er að ræða og ómíkron, geta einstaka lokanir og samkomutakmarkanir ekki hamlað framrás veirunnar sem neinu nemur.
Hið athyglisverða er, að opinberar sóttvarnarráðstafanir eru framkvæmdar með sams konar röksemdafærslu og aðferðum í lýðræðisríkjum og einræðisríkjum. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni fyrir Vesturlönd.
Nú er heimurinn allur í þjóðfélagstilraun með sams konar höft á frelsi fólks og mannréttindi og í sama göfuga augnamiðinu að bjarga mannslífum. Löggjafinn verður að fjalla af alvöru og vandvirkni um það til hvaða ráðstafana framkvæmdavaldinu er heimilt að grípa við mismunandi aðstæður án þess að fá til þess sérstaka heimild frá löggjafanum. Það hefur komið í ljós, að embættismönnum og ráðherrum hættir mjög til að fara offari í ráðstöfunum sínum. Það gengur ekki að setja heilt þjóðfélag í spennitreyju í nafni heilbrigðiskerfisins, þegar búið er að bólusetja yfir 90 % þjóðarinnar gegn sjúkdóminum og hann er jafnvægur og raunin er með ríkjandi afbrigði þessarar kórónuveiru.
Fjöldi óháðra sérfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna lýsa að vísu bólusetningunum sem viðamestu læknisfræðilegu tilraun sögunnar. Hún er framkvæmd með bráðabirgða genatækni, sem á skömmum tíma hefur kostað tugþúsundir manna lífið. Heilsufarslegar langtíma afleiðingar bólusetninganna, t.d. á ónæmiskerfi líkamans, eru óþekktar. Astrid Stuckelberger, læknir, rannsakandi og uppeldisfræðingur, sem í mörg ár hefur unnið við að hemja sjúkdómsfaraldra, sagði við norska miðilinn hemali: - Opinberar tölur frá BNA sýna, að aukaverkanir kórónu-bóluefnanna fram að þessu eru þrisvar sinnum fleiri en summan af aukaverkunum bólusetninga síðastliðin 35 ár. - Þetta er grátlegt í ljósi haldleysis þessara sömu bóluefna. Hafa lyfjafyrirtækin gefið mannkyninu langt nef og samtímis haft það að féþúfu ?
Svíar gerðu ekki þjóðfélagstilraun, en það gerðu hinir. Fyrir vikið hefur verið reynt að setja Svíþjóð og sóttvarnarlækninn Tegnell í slæmt ljós.
Smitsérfræðingar, örverufræðingar og faraldursfræðingar, í Svíþjóð og annars staðar, töldu, að frelsið, sem Svíar urðu aðnjótandi í Kófinu, yrði þeim dýrkeypt. Fræðimenn við Uppsalaháskóla, Karólínska sjúkrahúsið og Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi notuðu tölvutæk líkön til að reikna út, að 96 þúsund Svíar myndu deyja sumarið 2020 (stærðargráðuvilla). Á alþjóða vettvangi spáðu fræðimenn við Imperial College, John Hopkins og fleiri háskóla, að milljónir íbúa Bretlands og BNA mundu deyja af völdum hinnar "nýju og óþekktu" veiru á árinu 2020.
Þrátt fyrir þessar dómsdagsspár má marka af þremur greinum eftir faraldursfræðinginn og tölfræðinginn John Ioannidis við Stamford University, að á heimsvísu varð dánarhlutfallið ekki hærra árið 2020 en árin á undan. Það hefur verið útskýrt þannig, að faraldurinn hafi lagzt þyngst á þá, sem áttu stutt eftir, og flensur hafi ekki náð sér á strik, en árlega deyr viðkvæmt fólk úr lungnabólgu. Til hvers var verið að skjóta lýðnum skelk í bringu ? Það er ekki fallega gert.
Útreikningar spálíkana um smit mynda ekki góðan grundvöll fyrir ákvarðanatöku um sóttvarnaraðgerðir.
Lærdómar ? Fólk er flóknara fyrirbæri en þjóðfélagsleg nýsköpun ræður við.
Veirulíkön, reist á kenningum um smitdreifingu, eru mjög óáreiðanleg og ónothæf sem grundvöllur fyrir íþyngjandi inngrip í líf fólks. Nokkrir óháðir fræðimenn, eins og dr Stephan Lanke, fullyrða, að líkönin séu reist á úreltri og rangri smitkenningu, sem rakin er aftur til Luis Pasteur á 9. áratug 19. aldar (um 130 ára).
Annar lærdómur er , að frelsið kostar. Frjálst samfélag veltur á einstaklingum, eins og Tegnell, sem hafa þrek til að ganga undir það jarðarmen að standa gegn valdsæknum valdhöfum ríkisvaldsins og fordæmingu margra, jafnvel almennings, ef búið er að kynda undir ótta í samfélaginu við hinn ósýnilega og jafnvel lítt þekkta óvin.
Bloggar | Breytt 16.1.2022 kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sænski læknirinn Sebastian Rushworth birti á vefsetri sínu 09.01.2022 umfjöllun um viðamikla enska rannsókn, sem leiddi í ljós með óyggjandi hætti, að áhætta fólks undir fertugu af að veikjast af hjartavöðvabólgu eykst svo mikið eftir bólusetningu með mRNA-efnunum, að ekki er læknisfræðilegur grundvöllur fyrir þessum bólusetningum í ljósi tiltölulega vægra veikinda af sjúkdóminum, C-19, einkum nýjasta afbrigðinu, ómíkron.
Þar að auki hefur nú verið sýnt fram á, sbr Morgunblaðsgrein Jóhannesar Loftssonar, "Ekki hlýða Víði", að mRNA-bóluefnin virka ekki gegn ómíkron-afbrigðinu, enda hefur lyfjaiðnaðurinn boðað nýtt bóluefni gegn því í marz 2022, en þá verður víðast hvar, einnig hérlendis, komið hjarðónæmi gegn því. Það munar mjög lítið um samkomutakmarkanir og rekstrarhömlur stjórnvalda, þegar smitstuðullinn er jafnhár og raunin er með ómíkron. Rakning og sóttkví fólks, sem ekki hefur verið greint jákvætt og er án einkenna, á ekki lengur við. Nú hefst grein Sebastians Rushworth í þýðingu höfundar þessa vefseturs:
"Það hefur verið ljóst um hríð, að Pfizer og Moderna bóluefnin valda hjartavöðvabólgu. Það, sem samt hefur verið óljóst, er, hvort hættan á hjartavöðvabólgu eftir bólusetningu er meiri en eftir smit [af C-19]. Ef áhættan í kjölfar smits er jafnvel meiri en í kjölfar bólusetningar, þá getur verið fram komin nokkuð góð ástæða fyrir því að hafa ekki áhyggjur af hjartavöðvabólgu, sem bólusetningin veldur að því gefnu, að nánast allir óbólusettir munu fyrr eða síðar fá covid og verða þannig fyrir áhættu af eftir-smits hjartavöðvabólgu.
Ef hins vegar áhættan er meiri eftir bólusetningu, þá þarf að fara í nákvæmara áhættumat. Fyrir þá stóru hópa þýðisins, sem geta búizt við hverfandi lítilli hættu fyrir sig af covid-19 (í grundvallaratriðum allir undir fertugu, sem eru ekki í yfirþyngd og ekki með undirliggjandi heilsufarslega veikleika), væri jafnvel aðeins lítil hætta á alvarlegum sjúkdómi af völdum bólusetningar nóg til að metaskálarnar yrðu þyngri þeim megin, að rétt væri að sleppa þessum bólusetningum.
Enginn skyldi fara í grafgötur um það, að hjartavöðvabólga er alvarlegur sjúkdómur. Upp á síðkastið hef ég oft heyrt þessa setningu: "en hjartavöðvabólga vegna covid-bóluefnanna er væg !". Fyrir covid hafði ég aldrei heyrt um væga hjartavöðvabólgu. Fyrir covid var hjartavöðvabólga alltaf talin alvarlegur sjúkdómur. Það, sem fólk á við með þessari yrðingu, er, að sjúklingar lagðir inn á sjúkrahús með hjartavöðvabólgu stuttu eftir bólusetningu, geta vanalega farið heim eftir nokkra daga og enda sjaldan á gjörgæzludeild. Þetta má til sanns vegar færa.
Við segjum samt ekki, að flest hjartaáföll séu "væg", bara af því að þau verði ekki til innlagnar á gjörgæzludeild og bara af því að sjúklingurinn er venjulega útskrifaður af spítalanum innan viku. Hjartaáfall er hjartaáfall og er í sjálfu sér alvarlegt. Hið sama á við um hjartavöðvabólgu. Hjartavöðvarnir eru ekki mjög hæfir til viðgerða á sjálfum sér, og núna er ómögulegt að vita í hversu miklum mæli hjartavöðvabólga af völdum bóluefnis eykur áhættu sjúklingsins á að verða í framtíðinni fyrir alvarlegum langvarandi einkennum á borð við stöðuga hjartveiki eða gáttatif.
Þannig er hjartavöðvabólga alltaf alvarleg án tillits til, hvort sjúklingurinn lendir í gjörgæzlu eður ei, og við þurfum að vita, hvort líkindi á hjartavöðvabólgu af völdum bóluefnanna eru meiri en líkindi á hjartavöðvabólgu af völdum smits [C-19].
Sem betur fer var nýlega birt rannsóknarskýrsla í "Nature Medicine", sem hjálpar okkur við að svara þessari spurningu af einhverju viti. Það, sem rannsakendurnir gerðu, var að safna gögnum um alla yfir 16 ára aldri, sem voru bólusettir gegn covid-19 í desember 2020-ágúst 2021. Þetta reyndust vera um 40 milljón manns (meira en helmingur brezku þjóðarinnar). Fyrir þetta risastóra þýði var gögnum síðan safnað um tilvik hjartavöðvabólgu og jákvæð covid-próf. 8 % af þessum 40 M greindust smitaðir af covid-19 á rannsóknartímabilinu. Fyrirætlun rannsóknarinnar var að meta áhættu hjartavöðvabólgu innan 28 daga frá bólusetningu í samanburði við hjartavöðvabólgu eftir smit, og að setja þetta í samhengi við bakgrunnsupplýsingar um hjartavöðvabólgu.
Það er einn hængur á að taka tölur úr þessari rannsókn, eins og þær koma fyrir af skepnunni, og hann er sá, að í rannsókninni var notazt við fjölda greindra sem mælikvarða á covid-smitaða. Við vitum hins vegar, að allt að helmingur covid-sýkinga er einkennalaus, og þar að auki er óþekktur fjöldi fólks, sem fær einkenni, en lætur hjá líða að fara í greiningu. Þannig er raunfjöldi smita líklega a.m.k. tvöfaldur fjöldi greindra. Þetta gefur ósanngjarnan samanburð við bólusetningarnar, því að vitað er um alla, sem eru sprautaðir. Það eru ekki margir, sem hafa verið sprautaðir á laun og ekki skráðir. Þannig þarf a.m.k. að helminga hlutfall tilvika hjartavöðvabólgu af greindum til að nálgast rétt hlutfall.
Jæja, þá að niðurstöðunum:
Það fyrsta, sem mikilvægt er að gaumgæfa, er, að hættan á hjartavöðvabólgu eftir bólusetningu í samanburði við hjartavöðvabólgu eftir smit, er, að tíðni hjartavöðvabólgu er gríðarlega háð aldri bólusettra. Fyrir aldurshópa yfir 40 sáust alls engin merki um, að bólusetningar ykju þessa tíðni. Jákvæð covid-19 greining á hinn bóginn jók líkindin 12-falt fyrir eldri en 40. Þannig var áhætta fólks eldra en 40 á að fá hjartavöðvabólgu eftir smit miklu meiri en hættan á slíku eftir bólusetningu.
Hins vegar var áhætta fólks 16-40 ára allt önnur. Í þessum hópi jókst hættan á hjartavöðvabólgu innan 28 daga eftir jákvæða greiningu covid-19 "aðeins" ferfalt, og áhættan eftir fyrsta skammt af Moderna bóluefninu jókst nú ferfalt.
Munum nú, að covid-prófin ná sennilega aðeins helmingi smitaðra í mesta lagi, svo að raunveruleg áhættuaukning eftir smit er nær því að vera tvöföld, en ekki fjórföld. Með öðrum orðum þá veldur fyrsti skammtur af Pfizer-bóluefninu nokkurn veginn sömu tíðni hjartavöðvabólgu og sýkingin sjálf, en fyrsti skammtur af Moderna-bóluefninu veldur gróflega tvöfaldri tíðni á við sýkinguna sjálfa.
Jæja, snúum okkur þá að annarri bólusetningunni í röðinni [í upphafi bólusetninga gegn C-19 nefndur seinni skammtur-innsk. BJo]. Annar skammtur af Pfizer-bóluefninu þrefaldaði hættuna á hjartavöðvabólgu, en af Moderna-bóluefninu 21-faldaðist áhættan.
Það er óhætt með vissu að álykta, að sú ákvörðun yfirvalda í mörgum Evrópulöndum fyrir nokkrum mánuðum að gera hlé á bólusetningum fólks undir 30 ára með Moderna, var viturleg. Eitt er víst, að annar skammturinn af bæði Pfizer og Moderna eykur áhættuna verulega í samanburði við áhættuna af fyrsta skammtinum. Þetta leiðir hugann að spurningunni, hversu viturlegt sé að ráðleggja fólki undir 40 þriðju sprautuna. Það er rökrétt að halda, að 3. skammturinn muni auka hættuna á hjartavöðvabólgu enn frekar. [Ábyrgð yfirvalda á Íslandi er mikil, að hvetja alla niður að 16 ára aldri til 3. bólusetningarinnar með því að undanskilja þá einkennalausri sóttkví. Það er einboðið að afnema alfarið regluna um sóttkví án einkenna - innsk. BJo.] Það er ljóst af gögnum þessarar rannsóknar, að það er brattur aldurshnigull áhættu, þ.e. hættan á hjartavöðvabólgu eykst gríðarlega með lækkandi aldri. Í raun var það svo fyrir yngsta hópinn (16-29 ára), að hættan á hjartavöðvabólgu jókst 74-falt eftir annan skammtinn af Moderna !
Með það í huga, að lækkandi aldur þýðir líka minnkandi hættu á slæmum afleiðingum covid (þ.m.t. minnkandi hætta á hjartavöðvabólgu eftir covid), er skynsamlegt að gera ráð fyrir ákveðnum aldri, þar sem skaði bólusetninganna verður meiri en gagnið. Þar að auki eru fram komin sönnunargögn um, að með auknum fjölda bólusetningarskammta aukist hættan á hjartavöðvabólgu. Með þessar 2 staðreyndir í huga er það rökstudd skoðun mín, að "örvunarbólusetningar" ungs og heilsuhrausts fólks, og þá einkum barna, sé óviturlegt. Auk þess hafa margir, ef ekki flestir, ungir fullorðnir, unglingar og börn, þegar fengið covid og hafa þar af leiðandi eins gott ónæmi gegn veirunni og mögulegt er að fá. Þess vegna setja örvunarsprautur þessa hópa í hættu á að verða fyrir heilsutjóni án nokkurs mögulegs gagns. Þegar gagnsemi bólusetninga er engin (núll), þá er öll áhætta, hversu lítil sem hún kann að vera, ósamþykkjanleg."
Harðvítugur áróður íslenzkra sóttvarnaryfirvalda fyrir bólusetningum barna og ungmenna virðist ekki vera reistur á beztu þekkingu á þessu sviði, eins og lesendum þessarar greinar Sebastians Rushworth ætti að verða ljóst, hafi þeir ekki þegar áttað sig á því eða a.m.k. rennt grun í það. Það verður að söðla um hið fyrsta áður en enn meira heilsutjón hlýzt af. Bóluefnin, sem fram hafa komið gegn C-19 eru meingölluð og virka lítið sem ekkert gegn ómíkron-afbrigði SARS-CoV-2 veirunnar. Þar sem afbrigðið veldur vægum einkennum hjá annars heilbrigðu fólki, eiga við rök Sebastians Rushworth um, að öll áhætta af bóluefnum sé óásættanleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.1.2022 | 09:35
Falleinkunn í orku- og loftslagsmálum
Sú einstæða staða er nú uppi, að forgangsraforkan má heita upp urin í landinu, eins og sést af höfnun Landsvirkjunar á nýjum viðskiptum, og þetta ríkisfyrirtæki, langstærsta orkufyrirtæki landsins, er tekið til við að skerða verulega (75 MW af 100 MW til fiskimjölsverksmiðjanna) þjónustu sína við viðskiptavini með skammtíma samninga um ótryggða raforku.
Það, sem er einstætt núna, er, að á sama tíma eru engar verulegar virkjunarframkvæmdir í gangi hjá Landsvirkjun, og eina orkufyrirtækið, sem eitthvert lífsmark er með, er einkafyrirtækið HS Orka, sem er með nýja orkuöflun á prjónunum (a.m.k. 35 MW).
Veitir Suðurnesjamönnum sannarlega ekki af auknu orkuöryggi, því að eina tenging þeirra við stofnkerfi landsins, 132 kV Suðurnesjalína 1, annar ekki lengur hámarksþörf þeirra. Allt er á sömu bókina lært í orkumálunum. Þar ríkir doði og drungi vegna ráðleysis og jafnvel áhugaleysis stjórnvalda við að kljást við afturhaldsöfl, sem bera fyrir sig umhverfisvernd, þegar þau þvælast fyrir nýjum orkuöflunar- og orkuflutningsframkvæmdum í landinu. Þarna er um lítinn og illvígan hóp sérvitringa með núll-hagvöxt á heilanum að ræða, sem virðist hafa tekið stjórn og þing í gíslingu í krafti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þessi pattstaða veldur nú stórtjóni, sem á eftir að margfaldast á næstu árum, því að raforkuþörfin vex jafnt og þétt (orkuskiptin) og ekki hillir undir virkjun, sem um munar (um 100 MW).
Dæmi um óánægju landsmanna með sjálfskaparvíti orkumála landsins gat að líta í Fréttablaðinu 14. desember 2021 í stuttri klausu undir fyrirsögninni:
"Eyjamenn vilja tryggt rafmagn".
""Það er með öllu ótækt, að upp sé komin sú staða, að keyra þurfi fiskimjölsverksmiðjur á olíu í stað grænnar raforku vegna ónógrar raforkuframleiðslu og/eða lakrar flutningsgetu á rafmagni", segir bæjarráð Vestmannaeyja í bókun vegna skerðingar Landsvirkjunar á afhendingu rafmagns í vetur.
Bæjarráðið segir skerðinguna þýða, að fiskimjölsverksmiðjur um allt land þurfi á komandi loðnuvertíð að framleiða rafmagn með olíu í stað grænnar raforku.
"Slíkt er í andstöðu við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og orkustefnu, sem stjórnvöld hafa boðað. Þá er það alvarlegt mál, ef sú staða kemur upp, að ekki verði hægt að afhenda Herjólfi rafmagn til siglinga, sem var mikið framfaraspor í loftslagsmálum", bókar bæjarráðið og skorar á stjórnvöld að tryggja afhendingu raforku um allt land."
Nú er spurningin, hvernig orku-, umhverfis- og loftslagsráðherrann bregst við þessari þörfu brýningu úr Vestmannaeyjum. Á tímum meintrar loftslagsvár og hás verðs á jarðefnaeldsneyti, sem væntanlega mun vara út orkuskiptatímabilið, er einfaldlega uppi sú krafa í þjóðfélaginu, að á hverjum tíma sé nægt tiltækt virkjað afl og orka úr endurnýjanlegum orkulindum landsins, til að ekki þurfi að keyra eldsneytisknúið varaafl í landinu mánuðum saman ár eftir ár, eins og nú gæti verið uppi á teninginum. Til þessa varaafls á aðeins að þurfa að grípa til að brúa bil í stuttan tíma vegna ófyrirséðra atvika. Nú gæti þetta ástand varað á háálagstímabilinu næstu árin, þar til t.d. virkjun í Neðri-Þjórsá verður tekin í gagnið.
Langtíma samningar um ótryggða raforku, t.d. hjá álverunum, hafa enn ekki verið nýttir til skerðinga. Sú hætta vofir yfir, að til þess muni koma í vetur (2022) og jafnvel oftar fram að næstu verulegu virkjun í gagnið. Að hámarki má skerða 700 GWh/ár til stóriðjunnar, og það gæti jafngilt útflutningstapi upp á 160 MUSD/ár eða 21 mrdISK/ár. Þetta gefur til kynna það ógnartjón, sem dráttur á að taka nýja virkjun í gagnið hefur í för með sér, og að það er til mikils að vinna að hafa borð fyrir báru á tímum tiltölulega hraðfara aukningu raforkuþarfarinnar. Það er forkastanleg frammistaða ríkisvaldsins að geta ekki útvegað rafmagn til búnaðar hjá fyrirtækjum, sem sýnt hafa mikinn metnað við fjárfestingar til að greiða fyrir orkuskiptum í landinu.
Þessi afspyrnu lélega frammistaða var gerð að umfjöllunarefni í Staksteinum Morgunblaðsins 8. desember 2021 undir fyrirsögninni:
"Raforkumál í ólestri, en næg orka".
Þessir Staksteinar hófust þannig:
"Ástandið í raforkumálum landsins er augljóslega orðið grafalvarlegt. Morgunblaðið greindi frá því fyrir nokkrum dögum, að fiskimjölsverksmiðjur, sem hafa rafvæðzt til að nýta innlenda orku, hefðu orðið fyrir skerðingu rafmagns. Síðan hefur það gerzt, að Landsvirkjun sendir frá sér tilkynningu um enn frekari skerðingar og að þær taki þegar gildi. Fyrir þessu eru nefndar þær ástæður, að ekki sé til næg orka auk þess, sem flutningskerfi raforkunnar sé flöskuháls."
Það er orðum aukið hjá Landsvirkjun, að Byggðalínu sé um að kenna, hvernig komið er. Landsvirkjun gæti sent meira en 200 MW alls frá Fljótsdalsvirkjun eftir þessari "hringlínu" til norðurs og suðurs, ef aflgeta Fljótsdalsvirkjunar mundi leyfa það til viðbótar Austurlandsálaginu, en Fljótsdalsvirkjun hefur ekki afl til þess, og þá yrði teflt á tæpasta vað með forða Hálslóns í vor. Þetta er frekar ódýr smjörklípa hjá Landsvirkjun.
Það, sem jók vanda landskerfisins og flýtti fyrir skerðingu, var, að Landsvirkjun missti einn rafala úr rekstri í Búrfelli 1 vegna bilunar og að tafir eru á, að rafali á Nesjavöllum komi aftur í rekstur. Þetta sýnir, hversu tæpt kerfið stendur. Í því er ekki bara orkuskortur, heldur aflskortur, sem er skýrt merki um, að nýja virkjun bráðvantar inn á kerfið. Þangað til hún kemur, verða uppi vandamál á vetrum, sem bitna á einhverjum raforkunotendum með stórtapi fyrir þjóðarbúið. Sú staða, að nú eru 4-5 ár í næstu verulegu virkjun, lýsir mjög slæmri stjórnun orkumála, fávísi eða algeru ábyrgðarleysi, enda fá Staksteinar heldur ekki orða bundizt:
"Að þetta skuli gerast á Íslandi, þar sem nóg er til af virkjanlegu fallvatni og jarðvarma, er með miklum ólíkindum."
Það, sem er óvenjulegt og "með miklum ólíkindum" er, að ekki hillir undir nýja virkjun í rekstur, þegar orkuskortur dynur á hérlendis. Enginn veit, hvar verður virkjað næst, eða hvenær verður hafizt handa. Þessari óreiðu um brýnt hagsmunamál landsins verður að bæta úr á þessu misseri 2022, ef orkuskiptin eiga ekki að lenda í öngþveiti og landið að verða fyrir stórfelldu efnahagstjóni. Ætla draugarnir, sem þessum gjörningum hafa valdið, að taka á sig ábyrgðina ? Nei, þeir flýja ofan í holurnar, þegar óhugnaðurinn af starfsemi þeirra kemur í ljós. Það er ekkert umhverfisvænt við það það að flækjast fyrir nýjum virkjanaframkvæmdum á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.1.2022 | 11:39
Væringar í ESB út af sjálfskaparvíti á orkusviði
Hefur ACER (Orkustofa ESB - samstarfsvettvangur orkulandsreglara EES-landanna) rétt fyrir sér ? Er sameiginlegur orkumarkaður ESB nauðsynlegur til að skapa samfélög, reist á endurnýjanlegri orku ? Er hátt raforkuverð kostnaðurinn við þessa orkubyltingu ?
Eins og sést á þessum spurningum, sem fólk á hinum sameiginlega orkumarkaði ESB (Evrópusambandsins) veltir núna vöngum út af, eiga viðfangsefni ACER afar takmarkaða eða enga skírskotun til Íslands. Að álpast til að ganga löggjöf ESB á orkusviðinu á hönd, getur ekki bætt stöðu Íslands á nokkurn hátt, og röksemdafærslan fyrir því á sínum tíma var ýmist út í hött eða hreinn sparðatíningur, en þessi aðild getur valdið vandræðum innan EFTA og í samskiptum við ESB, ef Eftirlitsstofnun EFTA-ESA fer að fetta fingur út í innleiðingu Orkupakka 3, sem var ekki samkvæmt bókstaf EES-samningsins, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Flokkarnir, sem að nýju norsku ríkisstjórninni standa, komu sér saman um að leggja 4. orkupakka ESB í saltpækil allt þetta kjörtímabil (2021-2025), og Norðmenn ráða afstöðu EFTA-landanna innan EES.
Frakkland, Grikkland, Ítalía og Rúmenía (allt vatnsorkulönd í nokkrum mæli) vilja, að verðlagning raforku innan Orkusambands ESB fari fram á grundvelli meðaltalsvinnslukostnaðar rafmagns. Á fundi orkuráðherra ESB 02.12.2021 réðust orkuráðherrar þessara 4 landa á grundvöll ACER fyrir verðlagningu raforkunnar, sem er jaðarkostnaðarreglan, þ.e. að síðasta kWh, sem framleidd er í kerfinu, ákvarði verðið. Núna kemur þessi síðasta kWh frá jarðgasi, og gasverðið hefur fjórfaldazt á skömmum tíma.
Þessi 4 lönd hafa mikið til síns máls. Hvers vegna eiga t.d. Norðmenn, heimili og fyrirtæki, sem orðnir eru þræltengdir við raforkukerfi ESB og reyndar Bretlands einnig, að greiða yfir 100 Naur/kWh (14,6 ISK/kWh), þegar meðaltalskostnaðurinn við raforkuvinnsluna í Noregi er undir 10 Naur/kWh (1,46 ISK/kWh) ? Á öllum öðrum sviðum vöru og þjónustu, sem almenningur verður að hafa aðgang að á hverjum degi, ákvarðar meðaltalskostnaður við framleiðsluna verðið. Hvers vegna á annað að gilda um rafmagn, er nú spurt í ráðherraráði ESB ?
Völdin liggja þar hjá Þýzkalandi, sem fékk til liðveizlu við sig 8 önnur lönd í þessu máli. Þarna togast rétt einu sinni á germanskur og rómanskur hugarheimur. Röksemdirnar fengu germönsku þjóðirnar úr hraðsoðinni, en þó viðamikilli skýrslu ACER um verðlagningu á orku, sem er að finna í viðhengi með þessum pistli.
ACER fullyrðir í skýrslunni, að raforkuvinnsla framtíðarinnar verði æ breytilegri eftir því sem vinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum vindur fram. Það þýðir, að orkuvinnslan verður sífellt háðari jöfnunarorku, þegar náttúran bregst með vind- og sólarleysi. Ef á að verða arðsemi í fjárfestingum á borð við rafgeyma, orkugeymslu í miklu magni, vetni og öðrum tæknilausnum, þá verður að ákvarða orkuverðið á grundvelli kostnaðar síðustu kWh, sem þörf er á. ACER er með skýrt mótaða stefnu: verðþak eða meðaltalsverð ógna sameiginlegum orkumarkaði ESB. Þessi stefna hentar Íslendingum illa.
Hefur ACER rétt fyrir sér ? Er sameiginlegur orkumarkaður nauðsynlegur fyrir þróun samfélaga til endurnýjanlegrar orkunotkunar ? Er hátt rafmagnsverð gjaldið, sem greiða verður fyrir sjálfbærnina ?
Taka má dæmi af Noregi, sem hefur nú verið rækilega tengdur, þótt enn bíði umsókn um aflsæstreng til Skotlands afgreiðslu af pólitískum ástæðum. Þegar hafizt var handa um að virkja vatnsföll Noregs, var það gert á grundvelli verðlagningar á raforkunni samkvæmt tilkostnaði. Þegar sama fyrirtæki virkjaði meira, gilti meðaltalskostnaður fyrirtækisins við verðlagningu nýrrar orku. Þegar framboðshliðin ein á að ráða markaðsverðinu, þá verður það dýrasta virkjunin per kWh, sem ræður verðinu. Þessi ófélagslega hlið á þeirri samfélagslegu innviðaþjónustu, sem útvegun rafmagns er, virðist varða leiðina að endurnýjanlegri raforkunotkun á hinum sameiginlega orkumarkaði ESB, og hún er illa til þess fallin að njóta lýðhylli, sem aftur torveldar orkuskiptin. Á Íslandi vofir yfir innleiðing á þessu framandi uppboðskerfi raforku, sem í raun á hingað ekkert erindi og getur aðeins skaðað samkeppnishæfni rafknúins samfélags.
ACER hefur lengi litið hýru auga til Norðurlandanna til orkuöflunar fyrir meginlandið og þá aðallega útvegun jöfnunarorku, sem æ meiri þörf verður fyrir á meginlandi Evrópu og ný gasknúin raforkuver sjá um nú í auknum mæli. Talsmenn ACER halda því fram, og endurómurinn hefur birzt hérlendis, t.d. í skrifum varaformanns Viðreisnar, að verðhækkanir megi að nokkru skýra með því, að sveiflugeta miðlunarlónanna á vatnsforðanum verði verðmætari (með lágum framleiðslukostnaði teygist raforkuverð vatnsorkuveranna auðvitað upp í átt að verðinu á sameiginlega markaðinum, og þetta hefur valdið gríðarlegri óánægju í Noregi). Meðaltal raforkuverðs í Noregi á 3. ársfjórðungi 2021 var 76,3 Naur/kWh eða 11,1 ISK/kWh, sem er tvöföldun m.v. meðaltal síðast liðinna 5 ára, og þetta er tæplega tvöfalt verð frá orkuveri til íslenzkra heimila.
Það geta varla verið aðrir en raforkuframleiðendur, sem sjá sér hag í því að taka þátt í þessum sameiginlega orkumarkaði, hvort sem Ísland eða Noregur á í hlut. Bæði löndin flæktust í Orkusamband Evrópu með lögfestingu Þriðja orkupakka ESB, en aðeins annað landanna sýpur seyðið af því, enn sem komið er, en vonandi ná Norðmenn að losa um klær ACER, svo að þeir geti sjálfir stjórnað raforkuflutningum inn og út úr landinu, sjálfum sér til hagsbóta.
Hins vegar eru óánægjuraddir með þetta Orkusamband víðar innan EES. Þótt ACER búist við lækkun gasverðs í apríl 2022 (allt er það undir hælinn lagt eftir ákvörðun Þjóðverja, með tilstyrk Bandaríkjamanna, að opna ekki fyrir gas frá Rússlandi um Nord Stream 2, nema Rússar haldi sig á mottunni gagnvart Úkraínu), þá mun jaðarkostnaðarregla ACER við verðlagningu raforku leiða til hás raforkuverðs á áratugum orkuskiptanna. Þetta kemur sér sérlega illa fyrir fátæk lönd á borð við Grikkland og er ekki til hagsbóta fyrir lönd, sem eru sjálfum sér nóg um raforkuöflun, eins og Frakkland, Búlgaría og Tékkland eru.
Alls staðar í Evrópu aukast mótmælin gegn þessari stefnu ACER/ESB. ESB, sem hlustar meira á ACER en borgarana í aðildarlöndunum, mun ekki lægja öldurnar.
Því má svo bæta við þetta rifrildisefni innan ESB, að Frakkar, sem nú fara með æðstu stjórn ESB, embætti forseta ráðherraráðsins, hafa nú lagt til, græningjum Evrópu til armæðu, að kjarnorkuknúin og gasorkuknúin raforkuver verði af ESB viðurkennd sem græn og umhverfisvæn mannvirki. Þetta hefur sett ríkisstjórnina í Berlín, með græningja innanborðs, í vanda. Þjóðverjar lokuðu 3 kjarnorkuverum sínum í fyrra [2021], og eru nú enn háðari kolum og jarðgasi en áður. Þetta er gott dæmi um mótsagnakennda loftslagsstefnu. Kjarnorkunni mun verða veitt brautargengi á ný í heiminum, því að hún er hið eina, sem leyst getur kolaorkuver almennilega af hólmi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.1.2022 | 11:28
Plága ofríkis og ofverndar
Hérlendis hafa dauðsföll af völdum kórónuveirunnar illræmdu, SARS-CoV-2, verið afar fátíð í samanburði við flest önnur lönd eða um 1 % af heildarfjölda dauðsfalla á ári. Til samanburðar deyja um 13-falt fleiri (meðaltal undanfarinna ára er 263) af völdum reykinga hérlendis. Samt eru reykingar hér fátíðar í samanburði við önnur lönd. Sú staðreynd ásamt tiltölulega hreinu lofti, litlu þéttbýli og lágum meðalaldri þjóðarinnar á ásamt dugnaði og þrautseigju heilbrigðisstarfsfólks í ófullnægjandi aðstöðu þátt í, að dauðsföll af völdum veikinda af C-19 sjúkdóminum (SARS-CoV-2) eru einna fæst í heiminum á Íslandi í hlutfalli við mannfjölda. T.d. er fjöldi látinna í Bandaríkjunum af völdum C-19 tæplega 22 sinnum hærri í Bandaríkjunum í hlutfalli við mannfjölda.
Um áramótin 2021/2022 höfðu rúmlega 27 k manns greinzt sjúkir af C-19, og voru þá 6,4 k sjúkir, á sjúkrahúsi voru 21 og í gjörgæzlu 6. Summa nýgengis innanlands og á landamærum var 1847 og hafði aldrei verið svo há hérlendis. Af þessu má áætla, að allt að 120 k manns hafi smitazt og að náttúrulegt ónæmi náist síðla í febrúar 2022, ef sóttvarnaryfirvöld leyfa pestinni, ómíkron afbrigðinu, sem lýsir sér í megindráttum sem hálsbólga, en er í mörgum tilvikum einkennalaus, að geisa í þjóðfélaginu nokkurn veginn óáreittri.
Við þessar aðstæður eiga hvorki smitrakning né einkennalaus sóttkví við. Ekki hefst undan í smitrakningunni og sóttkvíin veldur mjög miklum truflunum í atvinnulífinu og á stofnunum, ekki sízt á Landsspítalanum, þar sem mannekla var fyrir. Þess má geta, að náttúrulegt ónæmi Svía, sem þeir voru búnir að ávinna sér á undan stökkbreytingunni yfir í ómíkron, virðist að mestu halda gagnvart þessu gjörbreytta afbrigði. Smitum hefur fjölgað í Svíþjóð með ómíkron, en þar er samt engin bylgja.
Nú stendur fyrir dyrum hjá sóttvarnaryfirvöldum að bjóða upp á almenna bólusetningu barna, 5-11 ára gamalla, í skólum landsins. Þetta er óskiljanleg ráðstöfun í ljósi nánast einskis gagns og mikillar heilsufarsáhættu og kostnaðar. Börnum verður yfirleitt lítið meint af pestinni, sem í hlut á, svo að hér er gengið óhóflega langt í ráðsmennskunni með heilbrigði barnanna, sérstaklega í ljósi grafalvarlegra aðvarana dr Róberts Mallone, sem mun vera aðalhöfundur mRNA-tækninnar (að eigin sögn).
Hann segir í myndbandsávarpi, að mikilvæg líffæri barnanna á borð við heila, hjarta, æðakerfi og æxlunarfæri geti orðið fyrir óafturkræfum skaða af völdum bóluefnanna og ónæmiskerfi líkamans geti beðið hnekki. Það er ekki hægt að skella skollaeyrum við þessu og setja bara upp sauðarsvip.
Þann 30. desember 2021 birtist alvarleg varúðargrein gegn þessum bólusetningum í Morgunblaðinu eftir sérfræðing í heimilislækningum, Guðmund Karl Snæbjörnsson, undir fyrirsögninni:
"Hvernig getum við gert það bezta fyrir börnin".
Þar sagði m.a.:
"Vernd bóluefnanna hefur verið klén, ef nokkur, eins og öllum ætti að vera orðið ljóst.
Rannsóknir á milljónum barna í Evrópu hafa verið gerðar, á um 2 milljónum í Svíþjóð og enn fleirum í Þýzkalandi. Í þeim öllum kemur skýrt fram, að mjög fá börn urðu alvarlega veik af Covid og engin dauðsföll [urðu]. Fjöldi rannsókna sýnir ótvírætt fram á, að afar sjaldgæft er, að börn veikist alvarlega af Covid og segja má, að andlát meðal þeirra séu engin (faraldsfræðilega séð). Sænsk rannsókn Ludvigssons á 1´951´905 börnum í Svíþjóð á aldrinum 1-16 ára, sem sóttu skóla að mestu án nándartakmarkana eða notkunar andlitsgríma, sýndi engin dauðsföll hjá börnunum. Þrátt fyrir að Svíþjóð hafi haldið leikskólum og grunnskólum sínum opnum, kom í ljós mjög lág tíðni alvarlegra Covid-19-einkenna hjá þessum börnum.
Nýleg þýzk rannsókn, SARS CoV-2-KIDS, varðandi börn og unglinga, sem lagzt hafa inn á sjúkrahús í Þýzkalandi með annaðhvort SARS-CoV-2 eða PIMS-TS (Pediatric Inflammatory Multisystem Syndrome), sýndi, að ekkert barn á aldrinum 5-18 ára lézt."
Niðurstöður umfangsmikilla rannsókna sýna sem sagt, að veiruafbrigðin delta og fyrirrennarar ollu litlum veikindum barna og urðu engum að fjörtjóni í þessum 2 löndum. Þótt fleiri börn kunni að veikjast af ómíkron en áður á jafnlöngu skeiði, verða veikindin ekki alvarleg. Börnin verða þannig síður en svo betur sett eftir bólusetningu en áður, en hættan á aukaverkunum er umtalsverð. Í þessu ljósi er heldur ekki verjandi að nota börnin sem skjöld fyrir fullorðna, enda segir dr R. Mallone, að fullorðnum starfi engin hætta af smiti frá börnum.
"Verndin [frá bóluefnunum] er engin, en óvissa aukaverkana er nokkur. Hver er ávinningurinn, ef aukaverkanirnar eru bara eftir."
"Hjarðónæmið bíður enn síns tíma, þótt 90 % þjóðarinnar séu að fullu tví- eða þrísprautuð, en vitað er núna, að bóluefnið virkar ekki gegn Ómíkron. Ekki frekar en það gagnast Dönum, frændum okkar, þar sem flest Ómíkronsmitin virðast borin uppi af tví- og þrísprautuðum einstaklingum undir fertugu. Nú er ekki verið að ræða skaðsemi bólulyfjanna til lengri eða skemmri tíma, sem eðlilega hefur ekkert verið rannsakað; það bíður enn þá niðurstaðna rannsókna."
Læknirinn hefur á réttu að standa. Vernd bóluefnanna er engin gegn ómíkron-afbrigðinu, sem er orðið æði ólíkt upphaflegu kórónuveirunni erfðalega séð, þ.m.t. hið alræmda broddprótein. Sóttvarnaryfirvöld rembast eins og rjúpan við staurinn með velþóknun lyfjaframleiðendanna að reyna að telja landsmönnum trú um hið þveröfuga.
"Svo miklar hafa stökkbreytingarnar orðið, að nýju bóluefnin virka ekki lengur, né virðast þau vernda þá, sem hafa fengið Covid áður eða verið meðhöndlaðir með einstofna mótefnum (monoclonal antibodies)."
Ekki er víst, að náttúrulegt ónæmi sé jafnhaldlítið og bóluefnin, því að ný bylgja hefur ekki risið, þar sem náttúrulegu ónæmi hafði verið náð, t.d. í Svíþjóð. Þá getur vel verið um falska jákvæða greiningu á smiti að ræða, því að greiningartæknin er ekki nákvæm, og sýktir af ómíkron hafi þannig aldrei áður veikzt af SARS-CoV-2, þótt PCR-próf hafi reynzt jákvætt.
Síðan kom ákall til foreldra um að hugsa sitt ráð tvisvar áður en þau samþykkja bólusetningu barna sinna:
"Ef barnið mitt hefur litla sem enga áhættu af Covid; enga áhættu alvarlegra afleiðinga sjúkdóms eða dauða; engan ávinning af bólusetningu, en mögulegan skaða til skamms tíma, til lengri tíma hugsanlegan skaða vegna óþekktra skaðlegra afleiðinga af bólusetningunni: Hvers vegna ætti ég þá að vera að útsetja barnið mitt fyrir óþarfa áhættu með þessari bólusetningu ?
Morgunblaðið er skeleggur málsvari sjálfstæðrar og gagnrýninnar hugsunar, sem reist er á þekkingu á viðkomandi málefni. Sóttvarnarmálefni voru eðlilega fyrirferðarmikil í ritstjórnardálkum blaðsins á gamla árinu, 2021. Þann 27.12.2021 birtist þar ritstjórnargrein undir fyrirsögninni:
"Réttarríkið og plágan".
Þar sagði m.a.:
"Hann [Arnar Þór Jónsson í jómfrúarræðu á þingi] velti upp þeirri spurningu, hvort "hættan, sem við stöndum frammi fyrir [sé] slík, að það sé réttlætanlegt að stýra nú landinu með reglum, sem eru settar án þinglegrar umræðu, án lýðræðislegrar temprunar". Og hann hélt áfram og spurði, hvort það gæti verið, að hér væri að birtast einhvers konar nýtt stjórnarfar og að almenningur áttaði sig ekki á því og mögulega þingheimur ekki heldur.
Þá ræddi Arnar Þór stöðu þingsins og sagði það alls ekki mega láta sniðganga sig. Hér væri þingbundin stjórn, og framkvæmdavaldið ætti að lúta eftirliti og temprun Alþingis og dómstóla.
Í framhaldi af því vék hann að sjónarmiðum um neyðarástand, sem aðgerðir vegna kórónuveirunnar hafa gjarnan byggzt á, og sagði, að stjórnarskráin fæli ekki í sér neina almenna heimild til að lýsa yfir neyðarástandi. Hann nefndi, að ástandið, sem hér hefur ríkt í næstum 2 ár væri "til þess fallið að deyfa mörkin í hugum almennings og mögulega í hugum þingmanna milli þess, sem við getum kallað lögmætt lýðræðislegt stjórnarfar annars vegar og þess, sem ég kalla ofríkisstjórnarfar hins vegar". Og hann sagðist óttast, að smám saman væri verið að grafa undan réttarríkinu.
Neyðaraðgerðir hefðu verið skiljanlegar í upphafi faraldursins, en hann efaðist um, að þær væru skiljanlegar eða réttlætanlegar nú."
Þetta voru orð í tíma töluð á Alþingi. Engum blöðum er um það að fletta, að í skjóli ímyndaðs og sviðsetts neyðarástands hafa sóttvarnaryfirvöld tekið völdin í sínar hendur með minnisblaðafarsa frá sóttvarnarlækni og sniðgengið Sóttvarnarráð og Alþingi. Þetta er hættulegt fordæmi, enda ólöglegt að beita slíku ofríkisstjórnarfari í skálkaskjóli neyðarástands. Innihald minnisblaðanna er mjög umdeilanlegt, og reglugerðirnar á grundvelli þeirra hafa valdið gríðarlegu tjóni, og árangurinn er lítill sem enginn, enda stóð aldrei nein vá fyrir dyrum. Meiri vá stafar af reykingum landsmanna og óheilbrigðum lifnaðarháttum af ýmsu tagi. Verið er með barnalegum og ólögmætum hætti að ryðja brautina fyrir einhvers konar barnfóstrusamfélagi, sem endar með ósköpum. Brýn þörf er á nýrri og vandaðri löggjöf um sóttvarnir, sem gætir jafnvægis og temprar völd og áhrif embættismanna.
Téðri forystugrein lauk þannig:
"Varnaðarorð Arnars Þórs Jónssonar eiga ríkt erindi við Alþingi, ríkisstjórn og allan almenning, nú þegar faraldurinn hefur geisað í tæp 2 ár. Nauðsynlegt er, að borgaraleg réttindi og réttarríkið standi pláguna af sér og að almenningur fái sem allra fyrst um frjálst höfuð strokið."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)