Háskaleg tilhneiging til kæruleysis

Loftslagsmál og orkumál eru óaðskiljanleg nú á dögum.  Það er beint samband á milli aukningar í orkunotkun heimsins og losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Þótt Íslendingar losi tiltölulega lítið af gróðurhúsalofttegundum við raforkuvinnsluna, nota þeir tiltölulega mikið jarðefnaeldsneyti á mann vegna samgöngutækja á láði, á legi og í lofti og vegna fastra og hreyfanlegra atvinnutækja.  Varðandi losun málmiðnaðarins, sem notar mikið af kolum í sínum framleiðsluferlum, verður jafnan að hafa í huga, að það er stærsta framlag Íslendinga, enn sem komið er, til að hægja á aukningu styrks koltvíildisjafngilda í andrúmsloftinu, og þar með að hægja á súrnun sjávar, að hýsa ál- og kísiliðnað, því að sú framleiðsla erlendis hefur í för með sér allt að 10 sinnum meiri losun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn Al eða Si en hérlendis.

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra, reit hugvekju um vána, sem að lífi á jörðunni í núverandi mynd steðjar, í Morgunblaðið 18. febrúar 2019:

"Loftslagsháskinn, uppreisn æskufólks og íslenzk viðhorf".

Hann beindi orðum sínum að gefnu tilefni sérstaklega að æskunni, en það er þó óvíst, að varnaðarorð Hjörleifs hafi náð til hennar, því að hún virðist vera föst inni í farsímanum sínum í tíma og ótíma við ólíklegustu athafnir frá 5 ára aldri og beinir athyglinni hvorki að bókum né blöðum, enda tíminn eðlilega takmarkaður eftir langdvalir í netheimum. Þetta er ógæfuleg þróun, sem er varla fallin til víðsýni og gagnrýninnar hugsunar.  Slík þróun er hættuleg lýðræðinu, og óprúttnir náungar kunna að notfæra sér slíkt til eigin framdráttar.

Um loftslagsvána skrifaði Hjörleifur m.a.:

"Samkvæmt Parísarsamkomulaginu á árið 2030 að vera viðmiðun fyrir þjóðir heims, sem þá eiga að hafa náð tökum á aukningu í losun, þannig að meðalhiti [meðalhitastigsaukning frá 1850-innsk. BJo] fari ekki yfir 1,5°C fyrir miðja öldina og framvegis.  Aðeins áratugur er þannig til stefnu, og hann verður að nota til markvissra ákvarðana, eigi ekki allt að fara á versta veg.  Enn er allt í óvissu um, hversu til tekst, og á síðasta ári mældist meðalhiti hærri en nokkru sinni fyrr.  Nýlegir útreikningar brezku veðurstofunnar (MetOffice) benda til, að á næstu 5 árum kunni meðalhiti eitthvert þessara ára að ná umræddum 1,5-gráðu mörkum, og eykur það ekki bjartsýni á framhaldið."

Það er vonlaust að halda hitastigshækkuninni innan við 1,5°C, því að til þess hefði viðsnúningur í losun gróðurhúsalofttegunda þegar þurft að hafa átt sér stað, en losunin eykst hins vegar enn, eins og fram kemur hér að neðan.  Það þarf kraftaverk til að halda hlýnuninni innan 2°C markanna.  Slíkt kraftaverk væri t.d. gegnumbrot í þróun nýrra orkugjafa, sem fjárfestar eru tilbúnir til að ráðstafa um 100 mrdUSD/ár í smíði og uppsetningu á í a.m.k. tvo áratugi.

Það er þess vegna  úr þessu viturlegt að verja fjármunum í varnaraðgerðir gegn afleiðingum mikillar losunar CH4-metans úr freðmýrum Síberíu, en sú gastegund er öflug gróðurhúsalofttegund, yfir 20 sinnum öflugri en CO2. Þetta mun leiða til mikillar bráðnunar jökla og pólíssins með hækkun sjávarborðs og kólnun sjávar, minni seltu og hugsanlega minni krafts í Golfstraumnum sem afleiðingu.

Árið 2017 varð eftirtalin breyting á losun þeirra 5, sem minnkuðu mest, og þeirra 5, sem juku hana mest,  samkvæmt "BP Statistical Review of World Energy, 2018", í milljónum tonna CO2:

  • Minnkuðu losun mest 2017, Mt/ár:
  • Bandaríkin     40
  • Úkraína        20
  • Mexíkó         15
  • Bretland       10
  • Suður-Afríka    7
  • Alls           92
  • Juku losun mest 2017, Mt/ár:
  • Íran           35
  • ESB            45
  • Tyrkland       50
  • Indland        95
  • Kína          120
  • Alls          345
 

Mismunurinn, þ.e. nettóaukning losunar þessara 10 ríkja og ríkjasambanda, er um 50-föld öll losun frá orkutengdri starfsemi Íslendinga, sem sýnir, að hún hefur engin merkjanleg áhrif á hlýnun jarðar.

Kína og Indland geta hins vegar með ábyrgðarlausri fjölgun kolakyntra orkuvera sinna komið í veg fyrir, að heimsbyggðinni takist að halda hlýnun andrúmslofts jarðar undir 2°C.  Athygli vekur árangur Bandaríkjamanna á fyrsta valdaári Donalds Trumps, sem þó hefur lýst sérstakri velþóknun sinni á kolanámum og kolabrennslu.  Markaðurinn hefur hins vegar ekkert hlustað á þetta lýðskrum, heldur leyst fjölmörg kolaorkuver af hólmi með gasorkuverum, sem menga minna, eru ódýrari í stofnsetningu og rekstri, og álagsstýring þeirra spannar auk þess víðara svið en kolaorkuveranna. Sem dæmi var 11,2 GW afkastageta í kolaorkuverum tekin úr rekstri 2018 í BNA, sem er um 4,5-föld afkastageta núverandi íslenzkra orkuvera. 

Þannig dró úr losun Bandaríkjanna á CO2 árið 2017 um 2,7 %, en losun ESB jókst mun meira að tiltölu.  Samt var hagvöxtur meiri í BNA en í ESB.  Hverju sætir þetta ?  Það eru 2 meginskýringar.  ESB-löndin hafa skekkt orkumarkað sinn (Innri markaðinn) með niðurgreiðslum á vind- og sólarorku, sem hafa hrakið gasorkuverin út af markaðnum, því að þau eru þar ekki til að sinna grunnaflsþörf, heldur toppaflsþörf.  Hins vegar ríkir ótti í ESB-löndunum við að verða enn háðari erlendum ríkjum, t.d. Rússlandi, um gasaðdrætti, en Bandaríkjamenn hafa ekki vílað fyrir sér að þróa nýja tækni, "fracking", leirsteinsbrot, sem gefið hefur af sér mikið jarðgas og jarðolíu, en nýtur ekki velvildar í ESB af umhverfisástæðum.  

Í ESB eykst nú örvænting yfir skuldbindingum sambandsins á Parísarráðstefnunni í desember 2015, sem eru í uppnámi, eins og nærri má geta.  Þess vegna eykst ásókn sambandsins í endurnýjanlegar orkulindir, hvar sem þær er að finna, t.d. á Norðurlöndunum.  Við þessar aðstæður er hættulegt og skaðlegt fyrir orkuskiptin hérlendis að afhenda ESB ákvörðunarvald, hverju nafni sem það nefnist, yfir orkumálum hérlendis og yfir tengingum raforkukerfis landsins við útlönd.  Þrýstingur úr þessari átt um virkjanir hérlendis til stórfellds raforkuflutnings utan þjónar ekki hagsmunum landsmanna, því að nýting orkulindanna innanlands er landsmönnum mun hagfelldari.

Í Bandaríkjunum hefur þróun losunarmála verið miklu jákvæðari en í Evrópu, sem er áfellisdómur yfir orkustefnu ESB.  Árið 2007 var notað svipað magn af kolum og eldsneytisgasi í BNA, en nú er framleitt tvöfalt meira af rafmagni með gasi en kolum þar. Þetta gas kemur að mestu leyti úr iðrum jarðar í BNA. Hins vegar standa endurnýjanlegar orkulindir undir aðeins 10 % raforkuvinnslunnar í BNA, en t.d. tæplega 30 % í Þýzkalandi. Það er ekkert einhlítt í þessum efnum. 

Frá árinu 2010 hefur 40 % bandarískra kolaorkuvera verið lokað eða lokun þeirra er ákveðin á næstunni, en í ESB-löndunum hefur kolaorkuverum í rekstri fjölgað á sama tímabili.  Þetta er þungur áfellisdómur yfir orkustefnu ESB.  Með sama áframhaldi verður koltvíildislosun Bandaríkjamanna 17 % minni árið 2025 en árið 2005. Minnkunin nær þó ekki markmiði Parísarsamkomulagsins um  26 %-28 % minnkun á þessu tímabili, enda losaði Donald Trump Bandaríkin undan þessum skuldbindingum, en árangur Bandaríkjamanna skín samt eins og gull af eiri í samanburði við ömurlegt árangursleysi ESB-ríkjanna, sem hafa barið sér á brjóst með hástemmdum viljayfirlýsingum, sem reynzt hafa verið orðin tóm.

Ef Bandaríkin mundu setja á kolefnisskatt, þá gætu kjarnorkuver orðið þar hagstæðari en gasorkuverin.  Núverandi húsbóndi í Hvíta húsinu hefur ekki léð máls á því, en nú eru nýkjörnir þingmenn demókrata á Bandaríkjaþingi farnir að vinna að mótun "Grænnar nýbreytni", "Green New Deal", þar sem boðskapurinn er að gera Bandaríkin kolefnishlutlaus árið 2030.  Fyrir þessum hópi fer Alexandria Ocasio-Cortez, sem hefur verið orðuð við forsetaframboð árið 2020.  Hér er um gríðarlega metnaðarfullt markmið að ræða, næstum ofurmannlegt, en þannig leit líka markmið Bandaríkjamanna út um að verða fyrstir til að lenda mönnuðu geimfari á tunglinu og ná geimförunum til baka heilum og höldnum, sem tókst árið 1969.

Það eru þrátt fyrir allt ekki öll sund lokuð í loftslagsmálunum, ef menn eru fúsir til að ganga á hólm við vandamálin og að beita beztu tækni fordómalaust við lausn viðfangsefnanna. Fyrir okkur hér ríður á að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar af skynsamlegu viti í þessu augnamiði og að beita beztu tækni við þá iðju.  Að fá fleiri kokka til að hræra í þeim potti, kokka með gjörólíkan bakgrunn og hagsmunavörzlu á vegum Evrópusambandsins, kann ekki góðri lukku að stýra og mun verða þeim ófagur bautasteinn, sem að slíku standa.  Sérstaklega yrði slíkt skammarlegt fyrir sjálfstæðismenn, ef ráðherrar Sjálfstæðisflokksins standa að slíku glapræði á níræðisafmæli flokks þeirra, sem er í ár.

 

 


BREXIT og kunnuglegt bitbein

BREXIT-ferlið hefur tekið dapurlega stefnu, þar sem nú er útlit fyrir óreiðukennda útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, ESB. Hún kann þó að verða Bretum skárri kostur en hálfvelgjulegur viðskilnaður, þegar upp verður staðið. Bretar hafa átt í höggi við forystu ESB, sem er í vörn og óttast um framtíð sambandsins og vill gjarna, að útganga Stóra-Bretlands verði öðrum innanborðs víti til varnaðar. Hvort forystan sér að sér og hægir ótilneydd á samrunaferlinu, er þó alls óvíst.  Vitað er, að þjóðir, sem lengi hafa skipt mikið við Breta og hafa fylgt þeim að málum innan ESB, t.d. Danir, Svíar og jafnvel Hollendingar, gætu séð sér hag í að fylgja Bretum, ef Bretum mun vegna vel utan við ESB.

Ekki þarf að orðlengja vanda Ítala.  Skuldir ríkissjóðs Ítalíu nema yfir 130 % af VLF, og Ítalir hafa flotið á lágum vöxtum hingað til, því að hagkerfið hefur ekkert vaxið í áratug.  Nú hækkar skuldatryggingarálagið ört á Ítölum; eru vextirnir, sem ítalska ríkið greiðir, nú um 4 % hærri en þeir, sem þýzka ríkið greiðir.  Með sama áframhaldi mun ítalska ríkið lenda í greiðsluþroti (við 7 % álag) síðar á þessu ári.  Þá hrynur evran, og þá mun hrikta í innviðum Evrópusambandsins.

Pólitísk sameining Evrópu gengur ekki upp, og hún er í raun algerlega óþörf frá praktísku sjónarmiði.  Skynsamlegra hefði verið að halda sig við hugmyndir Breta um samstarf á viðskiptasviðinu, sem einskorðist við tollabandalag og staðlasamræmingu á öllum sviðum.

Eitt þeirra sviða, sem pólitískir hugsuðir ESB töldu nauðsynlegt að fella undir yfirstjórn ESB, var orkusviðið.  Þar hafði um áratugaskeið ríkt valfrjálst samstarf á milli grannþjóða um orkuviðskipti yfir landamæri, ekki sízt með raforku.  Norðurlandaþjóðirnar stofnuðu til slíks samstarfs innan NORDEL einna fyrstar í Evrópu, og buðu Íslendingum að fylgjast með því samstarfi.

Á Evrópugrundvelli starfaði félagsskapur raforkuflutningsfyrirtækja, ENTSO-E, og er Landsnet aðili þar, en þegar ESB ákveður að taka stjórn þessa málaflokks í sínar hendur með útgáfu Fyrsta orkumarkaðslagabálksins 1996, breyttist samstarf Evrópuþjóða frá valfrjálsri tæknilegri samvinnu yfir í þvingað, miðstýrt samstarf, sem lýtur pólitískri stefnumörkun æðstu stjórnar Evrópusambandsins.  Þá hættir málið að vera áhugavert fyrir eyþjóð, lengst norður í Atlantshafi, þótt það kunni að þjóna hagsmunum þjóða í miðri Evrópu.

17 milljón kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni á Bretlandi í júní 2016 voru þeirrar hyggju, að ókostir ESB-aðildar Bretlands væru meiri en kostirnir, og mörgum þóttu ókostirnar fara vaxandi með aukinni miðstýringu, eftir því sem samrunaferlinu til sambandsríkis Evrópu vatt fram. Steininn tók úr 2009 eftir innleiðingu stjórnarskrárígildis ESB, Lissabon-samningsins.  Það var löngum vitað, að slík þróun var Bretum ekki að skapi, hvorki verkalýðsstétt Bretlands né húsráðendum í Whitehall, sem löngum hafa í utanríkismálum haft að leiðarljósi orðtak Rómverja,  "divide et impera", að deila og drottna í Evrópu. 

Það er reyndar sáralítið fylgi á meginlandinu við hugmyndina um sambandsríki.  Ferlið er rekið áfram af búrókrötum í Brüssel á grundvelli stjórnarskrárígildisins, Lissabonsáttmálans. Fjármálamógúlar Evrópu hafa barið bumburnar.  Mikillar og vaxandi óánægju gætir á meginlandinu með það, hvernig forréttindastéttin rekur trippin.  Franska þjóðfylkingin, (Norður) bandalagið á Ítalíu, Alternative für Deutschland og Svíþjóðardemókratarnir eru skýr dæmi um þetta.

Í BREXIT-viðræðunum tókst ekki að ná samkomulagi um fiskveiðistjórnun innan brezku lögsögunnar.  Það er eftirtektarvert fyrir Íslendinga, að samninganefnd ESB krafðist áframhaldandi fiskveiðiréttinda fyrir togaraflota ESB-landanna innan brezku lögsögunnar upp að 12 sjómílnum, brezkum sjómönnum til mikillar gremju og tjóns fyrir þá og útgerðirnar. 

Þetta ber vott um óbilgirni að hálfu Barnier & Co. í ljósi þess, að fiskveiðar nema aðeins um 0,1 % af VLF ESB-landanna.  Jafnvel í útgerðarhéruðum ESB, skozku hálöndunum og eyjunum, Galicíu á Spáni og grísku eyjunum á Jónahafi, er hlutdeild sjávarútvegs litlu meiri en 2 % af viðkomandi hagkerfum.  Sjávarútvegurinn hefur hins vegar mun meiri pólitísk áhrif en fjárhagslegi styrkurinn gefur til kynna, og kann það að hvíla á mikilvægi greinarinnar til fæðuöflunar fyrir Evrópu, og að mikil innflutningsþörf er á fiski til flestra ESB-landanna.

Hagsmunir brezks sjávarútvegs höfðu töluverð áhrif á úrslit BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar, þótt sömu viðhorf endurspeglist ekki í afstöðu meirihluta þjóðþingsins.  Brezkir sjómenn kröfðust brottvikningar erlendra togara úr brezkri lögsögu, þar sem þeir veiða 8 sinnum meira en Bretar í erlendri lögsögu.  Lausn ágreiningsins var frestað til sumars 2020, en aðlögunartíma útgöngunnar á að ljúka þá um haustið.  Þessu reiddust báðar brezku fylkingarnar, og um 20. nóvember 2018 skrifuðu Íhaldsþingmenn frá Skotlandi (Skotland kaus með veru í ESB) Theresu May, forsætisráðherra, þar sem þeir lýstu sig andvíga hvers konar samkomulagi, sem gengi skemur en að ná fullum yfirráðarétti yfir brezkri lögsögu ("full sovereignty over our waters").

Það verður þó á brattann að sækja, því að ríkisstjórnir strandríkja innan ESB, þ.á.m.  Frakklands, Belgíu og Portúgals, heimta tryggingu fyrir áframhaldandi aðgangi togara sinna landa.  Frakkar hafa gengið lengst í yfirganginum og heimta, að slík trygging verði skilyrði fyrir útgöngusamningi. Allt þetta þref er sett á svið vegna um 6000 sjómannsstarfa á meginlandinu og geira í brezka hagkerfinu, sem skapar svipuð verðmæti og skógarhögg eða framleiðsla á leðurvörum.

Þessi deila hefur áhrif á hagsmuni Íslendinga.  Verði gengið að kröfum ESB, mun brezkum fiskimiðum og brezkum sjávarútvegi enn hrörna.  Eins dauði er annars brauð.  Þetta mun skapa öðrum fiskveiðiþjóðum, Íslendingum, Norðmönnum, Rússum og Kínverjum, ný viðskiptatækifæri á Bretlandi.  Hafi Bretar sitt fram, sem verður að vona þeirra vegna, gæti útflutningsmarkaður þeirra fyrir fisk á meginlandinu lokazt um sinn, en um 2/3 aflans fara þangað.  Þessi fiskur mun þá fara á innanlandsmarkaðinn í Bretlandi, sem herða mun samkeppnina á fiskmörkuðum þar til muna.  Jafnframt lokast þá sú leið Íslendinga að landa í Grimsby og Hull og flytja fiskinn á teinum undir Ermarsundið til Frakklands og víðar.  Í staðinn munu beinir flutningar frá Íslandi með fisk í lofti og á sjó inn til meginlands Evrópu aukast, því að þörfin þar fyrir "villtan" fisk og eldisfisk eykst stöðugt.   

 

 

 

 


Hversu teygjanleg er Stjórnarskráin ?

Merkingu textans í Stjórnarskránni er auðvitað ekki hægt að teyggja og toga endalaust í þá átt, sem valdhafar á hverjum tíma óska.  Þetta var Viðeyjarstjórninni ljóst 1992, er hún fékk hóp valinkunnra lögfræðinga til að rýna drög að EES-samninginum m.t.t. Stjórnarskrárinnar.  Lögspekingarnir komust að þeirri sameiginlegu niðurstöðu, að samningurinn reyndi til hins ýtrasta á þanþol Stjórnarskrárinnar. 

Lögfræðihópur á vegum þáverandi stjórnarandstöðu komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að þáverandi EES-samningur væri handan þolmarka Stjórnarskrárinnar.  Síðan hefur mikið bætzt við þennan samning af atriðum, sem höggva í frelsi landsmanna til að haga málum að eigin vild, en þvinga þá undir ákvörðunarvald erlends ríkjasambands, á leið til sambandsríkis, og stofnana þess, þar sem Ísland á ekki aðild.  Með einfaldri almennri rökfræði má nú álykta, að mælirinn sé löngu fullur og að lengra verði alls ekki gengið í frelsisskerðingu landsmanna að óbreyttri Stjórnarskrá.

Nú hefur ríkisstjórnin boðað framlagningu þingmáls, sem enn heggur í þennan knérunn.  Er þar um að ræða innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Hér á þessu vefsetri hefur því verið haldið fram með tiltækri röksemdafærslu, að samþykkt Alþingis á þessu væntanlega þingmáli myndi fela í sér kúvendingu á íslenzkri orkustefnu frá lágorkuverðsstefnu til háorkuverðsstefnu, og er þá nærtækt að vísa til nýjustu fórnarlamba þessarar stefnu, frænda okkar og frænkna í Noregi.  

Ein aðferðin til að réttlæta samþykkt þessa Orkubálks #3 er að gera lítið úr honum.  Það er barnaleg afstaða og ber annaðhvort vitni um þekkingarskort á viðfangsefninu eða dómgreindarskort.  Tómas Ingi Olrich skrifar bitastæða grein í Morgunblaðið 12. febrúar 2019, þar sem hann kemur víða við og ritar á grundvelli yfirgripsmikillar þekkingar og reynslu, t.d. af samskiptum við ESB-"apparatið", einnig á sviði orkumála:

"Hvað er í pakkanum ?".

Greinin hófst þannig:

"Nú eru skiptar skoðanir um hinn svokallaða orkupakka.  Þeir, sem aðhyllast innleiðingu pakkans, virðast byggja afstöðu sína einkum á tvenns konar fullyrðingum.  Annars vegar eru þeir, sem halda því fram, að í tilskipuninni sjálfri sé ekki að finna það, sem þar stendur.  Aðrir halda því fram, að flest, ef ekki allt, sem í þriðju orkutilskipuninni stendur, hafi þegar verið í fyrri tilskipunum, sem Íslendingar hafa innleitt án athugasemda."

Þegar menn hafa tekið trú á eitthvað, í þessu tilviki Evrópusambandið, ESB, er það jafnan háttur þeirra að afneita því, sem óþægilegt er við átrúnaðargoðið.  Sú strútshegðun er alþekkt og er áberandi í umræðu um Orkupakka #3.  Hinum, sem halda því fram, að í Orkupakka #3 felist ekki nýmæli, má benda á embætti Landsreglara, sem verður einsdæmi á Íslandi, og, að með innleiðingu Orkupakka #3 mun Evrópurétturinn spanna nýtt svið á Íslandi, sem hvorugur fyrri orkupakka spannaði, sem eru millilandatengingar fyrir orkuflutninga. Fjallað verður nánar um þann þátt síðar í þessari vefgrein. 

Um þessi atriði skrifar Tómas Ingi:

"Ef sá skilningur er réttur, þýðir það, að Íslendingar hafa ekki vald yfir sínum orkumálum."

Þetta er hárrétt athugað, og þar með er fullveldið rokið út í veður og vind.  Landið verður einfaldlega ekki lengur fullvalda, ef landsmenn verða háðir Evrópusambandinu um ráðstöfun auðlinda sinna eða orkunnar úr orkulindunum.  

Nokkru síðar í greininni hnykkti Tómas Ingi á þessu:

"Ég hygg, að stjórnvöldum sé ekki heimilt að koma í veg fyrir tengingu um sæstreng og í þriðja orkupakkanum séu ákvæði, sem styrkja þá fullveldisþrengingu.  Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður með LLM í orkurétti, staðfestir þann skilning minn.  Telur hann, að það sé með öllu óheimilt að setja reglur, sem banna fyrirtækjum eða ríkjum ESB aðgang að íslenzkri orku, en bendir mér kurteislega á, að svo hafi verið lengi."

Það hefur ekki verið svo lengi (eða frá innleiðingu orkubálks ESB #2 eða #1), að fyrirtæki í ESB hafi getað öðlazt aðgang að íslenzkum orkulindum með því að leggja hingað sæstreng, en þann rétt öðlast þau með Orkupakka #3.  Það staðfestir dágóður fjöldi norskra lagaprófessora, t.d. Peter Örebech, í fyrirlestri hérlendis 22. október 2018. 

Hins vegar hafa  fyrirtæki af EES-svæðinu mátt sækja um virkjunarleyfi hér til jafns við innlend fyrirtæki frá innleiðingu Orkubálks #1. Þau munu þó varla fá áhuga á því fyrr en orkukauphöll að hætti ESB hefur tekið hér til starfa, en slíkt verður skylda og undir eftirliti Landsreglara eftir samþykkt Orkupakka #3 (og var valfrjálst eftir Orkupakka #2).

Næst gerði Tómas Ingi frelsisafsal í orkumálum og Stjórnarskrána að umræðuefni og tók Ara Guðjónsson, yfirlögfræðing Icelandair Group, til bæna.

"Engu að síður finnst lögmanninum, sem telur, að valdaframsal orkupakkans standist ekki skoðun, vissara að leggja til, að í stjórnarskrá Íslands verði mælt skýrt fyrir um heimild til þess að framselja vald til tollabandalagsins.  Sú varfærni lögfræðingsins kann að benda til þess, að honum finnist hann hafa farið örlítið fram úr sjálfum sér.  Alla vega finnst mér það."

Það er nokkuð ljóst, að lögfræðilega má ekki við svo búið standa.  Upptaka hverrar gerðar ESB á fætur annarri brýtur Stjórnarskrána.  Lausnin á því viðfangsefni er hins vegar ekki að gefast upp á sjálfstæði landsins og veikja fullveldisvarnir Stjórnarskrárinnar, heldur að leita hófanna innan EFTA um að endursemja við ESB um aðganginn að Innri markaði þessa tollabandalags.

Ýmsar furðuhugmyndir um Stjórnarskrárbreytingar hafa sézt á þessari öld, s.s. um að gera Ísland að fylki í Noregi og önnur af svipuðum toga um að fastbinda EES-aðild Íslands í Stjórnarskrá.  Um hina síðari ritaði Sigurbjörn Svavarsson, formaður Frjáls lands, grein í Morgunblaðið, 4. janúar 2019:

"Að beygja stjórnarskrána undir EES samninginn":

"Það er ljóst, að stjórnvöld vilja ekki styggja miðstjórnina í Brussel; það sést bezt á sjálfvirkri afgreiðslu mála inni í Sameiginlegu EES-nefndinni; samþykkt þar er skuldbindandi fyrir Ísland, þrátt fyrir stjórnmálalegan fyrirvara um samþykkt Alþingis.  Gagnrýni á málið er afgreidd með tilvísun um fyrri samþykkt utanríkismálanefndar.  Þessa ólýðræðislegu, sjálfvirku afgreiðslu ESB-gerða vilja ráðamenn kalla stjórnskipunarhefð eða reglu til að réttlæta ferlið.  Með þessu eru íslenzkir ráðamenn í raun að leiða þjóðina hægt og bítandi inn í ESB, án þess að hún fái nokkru um það ráðið."

Síðan er Sigurbjörn ómyrkur í máli um hina fáránlegu tillögu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, "að festa aðildina að EES eina í stjórnarskrána":

"Greininni [Björns Bjarnasonar-innsk. BJo] í heild er ætlað að draga fjöður yfir gagnrýni á, að þróun til miðstýringar í ESB sé verið að yfirfæra á Ísland í gegnum EES-samninginn, og í stað þess að ræða og takast á við þá óheillaþróun er stjórnarskránni kennt um að vera fyrir EES-samningnum.

Það er verið að afvegaleiða og blekkja almenning með slíkri umræðu og er hættulegt sjálfstæði landsins þegar fylgispekt ráðamanna við ESB er orðin slík að gera tillögu um, að viðskiptasamningur sé felldur inn í stjórnarskrána, eins og hann verði þar um ókomna framtíð."

Fáránleiki tillögu téðs Björns er slíkur, að enginn viti borinn maður er líklegur til að gefa henni jákvæðan gaum, en hún er hins vegar til þess fallin að sýna flestum á hvaða stig undirlægjuhátturinn við Evrópusambandið er kominn.  Hér vantar ekkert annað en að leggjast marflatur og sleikja skósóla búrókratanna í Brüssel.

Þá víkur sögunni að núverandi iðnaðarráðherra Íslands.  Tómas Ingi víkur að henni í téðri grein:

"Það má skilja iðnaðarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, á þann veg í Bændablaðinu 15. nóvember síðastliðinn, að ekki sé útilokað, að grunnreglur EES-samningsins um frjálst vöruflæði geri það að verkum, "að óheimilt sé að leggja fortakslaust bann við lagningu strengs (til Íslands), þó að eftir sem áður yrði hann háður leyfum samkvæmt málefnalegum sjónarmiðum." Án þess að taka afstöðu til málsins bætir ráðherrann við: "Sé það raunin, er sú staða uppi nú þegar, hefur verið það, frá því að EES-samningurinn var samþykktur fyrir um aldarfjórðungi og er með öllu ótengt þriðja orkupakkanum.""

Iðnaðarráðherrann skilur ekki, hvernig EES-samningurinn virkar.  Þótt Viðauki IV í EES-samninginum hafi verið fyrir hendi frá upphafi, þá var í Viðaukanum ekkert, sem virkjaði almenn ákvæði samningsins um Innri markaðinn fyrir rafmagn fyrr en Fyrsta orkumarkaðslagabálkinum var komið þar fyrir árið 1996.

Sjö árum síðar bætti Annar orkumarkaðslagabálkurinn um betur, en þar var útfært nánar, hvernig orkumarkaðurinn skyldi virka á Innri markaðinum með uppboði á orku í okkrum orkukauphöllum innan ESB (EES), þar sem einnig færu fram afleiðuviðskipti með orku í anda harðsvíraðrar spákaupmennsku.  Við ríkjandi aðstæður innan ESB átti þetta fyrirkomulag að tryggja kaupendum lægsta verðið, en þar sem þessar aðstæður eru ekki fyrir hendi á Íslandi, tryggja þær seljendum hér hæsta verðið.

Það er hins vegar ekki fyrr en með Þriðja orkumarkaðslagabálkinum frá 2009, sem almenn ákvæði EES-samningsins um Innri markaðinn, t.d. bann við inn- og útflutningstakmörkunum, virkjast fyrir milliríkjaviðskipti með orku.  Það er kominn tími til, að ráðherrann átti sig á þessu og hætti að tuða um, að Orkupakki #3 breyti sáralitlu fyrir Íslendinga, en miklu fyrir Norðmenn, og þess vegna eigum við einfaldlega að halda lengra út á þá braut, sem er þegar mörkuð.  Þetta er algerlega óyfirveguð nauðhyggja, sem er ósæmileg ráðherra og varaformanni  Sjálfstæðisflokksins.  

Tómas Ingi Olrich greiddi atkvæði með EES-samninginum á Alþingi, og sagðist í téðri grein ekki hafa haft hugmynd um, að með því væri hann að afsala okkur valdi yfir íslenzkum orkumálum.  Eins og rakið er hér að ofan, er það kolrangt hjá Þórdísi Kolbrúnu, að Tómas Ingi og allir hinir hafi með samþykkt EES-samningsins gerzt sekir um slíkt á Alþingi í janúar 1993. Sá, sem gerzt ætti um þetta að vita, guðfaðir samningsins að Íslendinga hálfu, Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, telur það fráleitt, að slíkt afsal hafi farið fram á þeim tíma.

Í lokakafla greinar sinnar, "ESB og örlagahyggja", hittir Tómas Ingi heldur betur naglann á höfuðið.  Kaflinn hófst þannig:

"Í samskiptum okkar við ESB sýnist mér, að fleiri Íslendingar en góðu hófu gegnir séu farnir að aðhyllast örlagahyggju.  Við erum að missa tökin á því að haga seglum eftir vindum íslenzkra hagsmuna.  Í því máli geng ég ekki lengra en að segja: við skulum anda rólega og spyrna við fótum, þar sem það á við.  Síðan skulum við leita leiða til að hægja á og stöðva aðlögun Íslendinga að fjölþjóðlegu tollabandalagi, sem þeir vilja ekki verða aðilar að."

Raunafl og launafl-þýzkt

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband