30.7.2022 | 11:31
Eimreiðar atvinnulífsins
Nýlega hækkaði seðlabanki evrunnar, ECB, stýrivexti sína úr -0,5 % í 0,0, og var aðgerðin sögð til að hamla verðbólgu, sem nú nemur 8,6 % á evrusvæðinu að meðaltali, en er þar á bilinu 6,5 % - 22,0 %. Verðbólgan í Þýzkalandi er 8,2 %, en á þann samræmda mælikvarða, sem þarna liggur til grundvallar, er hún 5,4 % á Íslandi og þar með næstlægst í Evrópu. Ekki kemur á óvart, að verðbólgan skuli vera lægst í Sviss, 3,2 %, enda er CHF, svissneski frankinn, fyrir nokkrum vikum orðinn verðmætari en EUR, evran. Svissneski seðlabankinn barðist lengi vel við að halda verðgildi frankans undir verðgildi evrunnar, en nú horfir satt að segja mjög óbjörgulega með evrusvæðið, enda lofaði evrubankinn að koma skuldugum ríkjum evrusvæðisins til hjálpar með skuldabréfakaupum, um leið og hann hækkaði vextina. Ríkisstjórn Marios Draghi á Ítalíu er fallin, af því að ítalska þingið neitaði að samþykkja aðhaldsaðgerðir stjórnar hans á ríkisfjármálunum.
Deutsche Bank spáir þverrandi krafti þýzka hagkerfisins á næstu misserum. Reyndar fjarar svo hratt undan Þjóðverjum núna, að bankinn spáir jafnmiklum samdrætti þýzka hagkerfisins 2023 og íslenzka hagkerfisins 2009 eða 6 %, og er hið síðara kennt við Hrun, enda fór þá fjármálakerfi landsins á hliðina, en útflutningsatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og orkukræfur iðnaður, björguðu því, sem bjargað varð. Hjá Þjóðverjum verður það væntanlega öfugt. Útflutningsatvinnuvegirnir, tækjaframleiðsla ýmiss konar, mun dragast saman, því að orkukræfir birgjar þeirra munu ekki fá þá orku, sem þeir þurfa, og það, sem þeir fá af jarðefnaeldsneyti og rafmagni, verður mjög dýrt (tíföldun frá í fyrra).
Þjóðverjar eru fastir í gildru, sem prestsdóttirin frá DDR-Deutsche Demokratische Republik, Angela Merkel, væntanlega óafvitandi, en undir áhrifum illmennisins, sem nú er blóðugur upp fyrir axlir í Úkraínu sem einvaldur í Kreml, leiddi þá í. Hún lét undir höfuð leggjast að útvega aðrar aðdráttarleiðir fyrir gas en frá Síberíu, t.d. móttökustöðvar í þýzkum höfnum fyrir LNG - jarðgas á vökvaformi, sem hægt hefði verið að flytja til Þýzkalands á skipum, en verður vart hægt fyrr en 2024. Hún lét Bundestag samþykkja lög, sem bönnuðu vinnslu jarðgass með leirsteinsbroti - "fracking", þótt mikið sé af slíku gasi í þýzkri jörðu. Putin laug því, að slíkt væri hættulegt og að þýzk heimili gætu átt á hættu að fá svartagall, jafnvel logandi, út um vatnskrana sína. Hún samþykkti Nordstream 2, sem hefði gert Þjóðverja algerlega háða jarðgasi frá Rússlandi, en þegar hún fór frá, nam hlutdeild Rússagass í heildareldsneytisgasnotkun Þýzkalands 55 %, en hefur nú í júlí 2022 minnkað niður í 30 %, enda hafa Rússar nú sýnt Þjóðverjum vígtennurnar og minnkað flæði um Nordstream 1 niður í 20 % af flutningsgetu lagnarinnar. Rússar eru nú með réttu skilgreindir sem hættulegir óvinir vestrænna bandamanna vegna villimannlegrar innrásar sinnar og löðurmannlegs hernaðar síns gegn óbeyttum borgurum þar í landi, sem flokkast undir þjóðarmorð.
Þá fékk Angela Merkel Bundestag til að samþykkja þá glórulausu ráðstöfun 2011 að loka nokkrum kjarnorkuverum, banna ný og loka síðustu kjarnorkuverunum fyrir árslok 2022. Allar þessar aðgerðir Angelu Merkel voru eins og að forskrift forseta Rússlands til að færa honum sem allra beittast orkuvopn í hendur. "Der Bundesnachrichtendienst" hefur að öllum líkindum vitað, eins og sumar aðrar vestrænar leyniþjónustur, hvað í bígerð var í Kreml (endurheimt tapaðra nýlendna með hervaldi), en Angela Merkel skellti skollaeyrum við öllum viðvörunum. Það er alls ekki einleikið og grafalvarleg pólitísk blinda, en nú hervæðast Þjóðverjar að nýju og undirbúa að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu, en Þjóðverjar og Frakkar hafa hingað til þótt draga lappirnar í hernaðarstuðningi sínum við aðþrengda Úkraínumenn, og er það mikið óánægjuefni í Bandaríkjunum og í Austur-Evrópu og Eystrasaltslöndunum.
Hagkerfi allra Vesturlanda eða mikilvægir þættir þeirra eru orkuknúin. Á Íslandi er mikilvægasta útflutningsatvinnugreinin knúin innfluttri olíu, sem frá ársbyrjun 2022 hefur hækkað í innkaupum um 60 % á tonnið, þótt frá norska ríkisolíufélaginu Equinor sé. Útgerðarkostnaður hefur þannig hækkað gríðarlega og sömuleiðis flutningskostnaður á markað, en vegna tiltölulegs stöðugleika í verði innlendrar orku hefur framleiðslukostnaður neytendavöru af íslenzkum fiskimiðum þó hækkað minna.
Vegna hækkunar tilkostnaðar hefur sjávarútvegur í ESB þegið neyðaraðstoð hins opinbera í tvígang síðan 2020, og það er engin furða, þótt íslenzkar útgerðir leiti leiða til hagræðingar. Slíkt sáum við, þegar almenningshlutafélagið SVN festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík. Um þau viðskipti og fáránlegt moldviðri sumra stjórnmálamanna og blaðamanna út af þeim skrifaði Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, í Morgunblaðið 21. júlí 2022, undir fyrirsögninni:
"Veiðigjöld og samruni sjávarútvegsfyrirtækja".
Hún hófst þannig:
"Viðbrögð vinstri manna við kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi hf. koma ekki á óvart og eru í takti við fyrri ummæli þeirra um íslenzkan sjávarútveg. Oft veit maður ekki, hvort þetta fólk talar þvert um hug sér, eða hvort það skortir innsýn í atvinnugreinina. Hærri veiðigjöld valda samþjöppun í sjávarútvegi ! Það er eins augljóst og verið getur; en það er ekki neikvætt fyrir íslenzkt samfélag !"
Gunnar Þórðarson hefur góða innsýn í rekstrargrundvöll íslenzks sjávarútvegs. Honum er vel ljóst, hvað léttir undir með atvinnugreininni, og hvað er íþyngjandi fyrir samkeppni hans hér innanlands um fólk og fjármagn og á fiskmörkuðum erlendis, þangað sem yfir 95 % framleiðslunnar fer. Þegar ytri aðstæður versna, hvort sem er fyrir tilstuðlan þingmanna og ráðherra, aðfanganna, flutninganna eða vegna harðari samkeppni á vörumörkuðum, verður aukin tilhneiging til að draga sig út úr starfseminni. Þetta gerðist nú síðast í Grindavík, og það er fagnaðarefni, þegar traust innlent almenningshlutafélag í sjávarútvegi ákveður að hlaupa í skarðið og efla starfsemina í nýkeyptri eign. Það ætti öllum að vera ljóst, að nýja staðsetningin er verðmæt fyrir kaupandann, en engu að síður hafa slettirekur í hópi þingmanna og blaðamanna kosið að vera með svartagallsraus um allt annað en þó blasir við og kaupandinn hefur lýst yfir.
"Ef ekkert hefði breytzt undanfarna áratugi í sjávarútvegi og fyrirtæki ekki verið sameinuð eða yfirtekin, væri engin umræða um veiðigjöld; enda væru engin veiðigjöld, og afkoman væri slök. Svona svipað og ástandið var á 10. áratugi síðustu aldar, og lítil sem engin fjárfesting átti sér stað. Þá væri sennilega allt í góðu lagi, og vinstrimenn ánægðir með ástandið !"
Hér væri allt með öðrum brag, ef afturhaldssinnar hefðu komið í veg fyrir þróun íslenzks sjávarútvegs í krafti markaðsaflanna og stjórnmálamenn sætu uppi með rekstur atvinnugreinar, sem þeir hafa ekkert vit á og engan áhuga á, nema þeir geti beitt honum fyrir sig á atkvæðaveiðunum. Lífskjör í landinu væru í samræmi við óstjórnina, og þær hræður, sem hér hefðust við, væru sennilega augnkarlar í verstöð Evrópusambandsins hér úti í Dumbshafi.
Í lokin reit Gunnar Þórðarson:
"Tækifæri Síldarvinnslunnar við kaupin á Arctic Fish og Vísi blasa því við hverjum þeim, sem vill horfa hlutlægt á þessi mál: Aukin verðmæti fyrir íslenzkan sjávarútveg og íslenzka þjóð. Með því að taka til sín stærri hluta virðiskeðjunnar, verða bæði til verðmæti og eins spennandi störf fyrir Íslendinga í framtíðinni. Síldarvinnslan er fyrirtæki á markaði með þúsundir eigenda. Það er eðlileg krafa til stjórnmálamanna að ræða svona mál af alvöru, en ekki bara til að tala inn í tiltekna hópa. Bolfiskvinnsla Vísis er ein sú fullkomnasta í heimi og er ekki á leið frá Grindavík í framtíðinni. Þar er mannauðurinn, nálægð við fiskimið og markaðinn."
Sú neikvæða umræða, sem fór af stað um þessi viðskipti, eftir að þau voru tilkynnt, sýndi ljóslega fram á, að þau, sem að henni stóðu, höfðu lítið vit á málefninu og voru ekki í stakkinn búin til að bera neitt gagnlegt á borð. Slíkt fólk er bara að fiska í gruggugu vatni undir kjörorðinu, að betra sé að veifa röngu tré en öngu. Leiðinlegast er, hvað þessir gjammarar eru orðnir fyrirsjáanlegir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2022 | 11:15
Hóflaus skattheimta er hagkerfinu skaðleg
Íslendingar eru ein skattpíndasta þjóð í heimi. Þetta kemur auðvitað fram í samanburði á samkeppnishæfni þjóða, en þar eru Íslendingar eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna, og til að festa góð lífskjör (kaupmátt) í sessi, þarf að bæta samkeppnishæfnina. Skattheimtan leikur þar stórt hlutverk, en hvað er hófleysi í þessu sambandi ? Margar snilldarhugmyndir og drög að lausnum á viðfangsefnum hafa orðið til með uppdráttum á munnþurrkum á matarborðinu undir góðum málsverði. Ein slík er kennd við bandaríska hagfræðinginn dr Arthur B. Laffer - Laffer ferillinn og sýnir, að til er skattheimtugildi (optimum-beztunargildi) á hverju sviði skattlagningar, sem hámarkar beinar heildartekjur (skattspor) hins opinbera af skattlagningunni, en bæði við lægri og hærri skattheimtu verða heildarskatttekjurnar minni.
Staksteinar Morgunblaðsins 25. júlí 2022 báru heitið:
"Skyndilegt áhugaleysi um skatta".
Þar stóð m.a. þetta:
"Afgangurinn [af kaupverði útgerðarfélagsins Vísis], mrdISK 6,0, er greiddur með peningum, en eins og greint var frá í frétt Morgunblaðsins á laugardag [23.07.2022], fer stærstur hluti þeirrar fjárhæðar í skattgreiðslu eða vel á fimmta milljarð króna. ....
Þetta [áhugaleysi ýmissa fjölmiðla á þessari háu skattheimtu] kemur nokkuð á óvart ekki sízt í ljósi þess, að gagnrýnendur viðskiptanna fundu m.a. að því, að ríkið fengi ekkert út úr þeim. Fyrrverandi ríkisskattstjóri, sem hefur jafnan miklar áhyggjur, ef einhvers staðar liggur óskattlögð króna, sagði t.a.m., að viðskiptin færu fram "án þess að þjóðin fengi krónu í sinn hlut"."
Þessi viðskipti eru ofureðlileg og stórfurðulegt að halda því fram, að skattalöggjöfin hérlendis spanni ekki viðskipti af þessu tagi. Það er deginum ljósara, að lítilsigldir vinstri menn ruku upp til handa og fóta vegna viðskipta, sem þá varðar ekkert um, og fóru að fiska í gruggugu vatni í von um, að einhver teldi sig hafa verið hlunnfarinn.
Að lokum stóð í þessum Staksteinum:
"Þjóðin hefur notið þess ríkulega, bæði beint og óbeint, að hér á landi er sjávarútvegur rekinn með hagkvæmum hætti, en er ekki niðurgreiddur, eins og almennt tíðkast í nágrannalöndum okkar. Eigi hann áfram að skila miklu í þjóðarbúið, þarf hann að búa við viðunandi rekstrarumhverfi, ekki sízt stöðugleika í regluverki."
Hér munar mestu um regluna um frjálst framsal nýtingarréttarins, sem var að verki í hagræðingarskyni, þegar almenningshlutafélagið Síldarvinnslan á Neskaupstað festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík, og önnur regla um sjávarútveginn á við veiðigjöldin, sem er ekkert annað en sérskattur á sjávarútveginn og auðvitað íþyngjandi sem slíkur, enda nemur hann þriðjungi framlegðar fyrirtækjanna (framlegð er það, sem fyrirtækin hafa upp í fastan kostnað sinn). Veiðigjaldið var á sínum tíma réttlætt með því, að í sjávarútveginum væri fólgin auðlindarenta, en sú hefur aldrei fundizt.
Nýjasta dæmið um, að í sjávarútveginum fyndist engin auðlindarenta (þ.e. hagnaður umfram annan atvinnurekstur), kom fram í grein Svans Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Bláa hagkerfisins og sjávarútvegsfræðings, í Morgunblaðinu 21. júlí 2022. Hún hófst þannig:
"Í oft og tíðum ruglingslegri umræðu um sjávarútveginn hafa margir lagt lykkju á leið sína til þess að halda því fram, að hagnaður og afkoma fyrirtækja þar sé önnur og betri en þekkist í íslenzku samfélagi. [Þetta er hin ósanna fullyrðing um auðlindarentu, sem skapi ríkinu rétt til viðbótar skattheimtu - innsk. BJo.] Það geri síðan fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að kaupa "upp" aðrar atvinnugreinar [so what ?]. Ekkert er fjær lagi, því [að] fyrirtæki í sjávarútvegi eru ekki með betri afkomu en gengur og gerist, og arðsemi þar er sízt meiri en við eigum að venjast á íslenzkum fyrirtækjamarkaði. Því miður, liggur mér við að segja, en sem betur fer eru mörg fyrirtæki í sjávarútvegi vel rekin og skila góðri afkomu, þó [að] þau starfi í mjög krefjandi umhverfi, þar sem alþjóðleg samkeppni er hörð, á sama tíma og þau þurfa sífellt að laga sig að breytingum, sem lúta að grunnþáttum greinarinnar."
Svanur Guðmundsson bar síðan saman framlegð í % af veltu fyrirtækja með a.m.k. 80 % af veltu í hverri af 10 atvinnugreinum samkvæmt ársreikningum 2020-2021. Framlegð sjávarútvegs, sem ein atvinnugreina sætir því af hálfu löggjafans, að framlegðin sé skattstofn, nam 25 %, en meðaltal 10 greina var 26,3 %. Hann bar líka saman hagnaðinn sem % af eigin fé fyrirtækjanna. Hjá sjávarútveginum nam hagnaðurinn 14 %, en meðaltal 10 fyrirtækja nam 13,5 %.
Þrátt fyrir að þessi athuguðu 2 ár hefðu verið sjávarútveginum tiltölulega hagfelld, er alls enga auðlindarentu að finna í fórum hans. Hvað veldur því, að sumir hagfræðingar búa til spuna um atvinnugrein, sem gefur skattasjúkum pólitíkusum, embættismönnum, blaðamönnum o.fl. tilefni til að krefjast viðbótar skattlagningar á atvinnugrein, sem á í höggi við niðurgreiddar vörur á erlendum mörkuðum ?
Skattspor sjávarútvegsins er stórt, því að hann veitir mörgum vinnu, bæði beint og óbeint, og greiðir há laun. Hærri skattheimta af honum en nú tíðkast yrði aðför að dreifðum byggðum landsins, þar sem sjávarútvegur er kjölfesta byggðarlaga víða. Óhjákvæmilega drægi hærri skattheimta úr getu sjávarútvegsins til fjárfestinga, sem drægi strax úr hagvexti í landinu, og innan skamms kæmist hann á vonarvöl, því að fólk og fé tæki að forðast hrörnandi atvinnugrein, og hann yrði hreinlega undir í samkeppninni á erlendum mörkuðum.
Í stað þess að vera flaggskip íslenzks atvinnulífs yrði hann að ryðkláfi, sem ríkissjóður yrði sífellt að hlaupa undir bagga með í nafni byggðastefnu. Sú tíföldun veiðigjalda, sem aldurhnignir Berlínarkommar og vizkubrekkur í Icesave-hlekkjum úr HÍ hafa talað fyrir, er ekki einvörðungu svo langt til hægri á X-ási Laffer-ferilsins, að hann sé kominn að núlli (0), heldur hefur Laffer-ferillinn í þessu tilviki skorið X-ásinn, og ríkið fær þá ekki lengur skatttekjur af brjálæðislegri skattheimtu, heldur verður ríkissjóður fyrir útgjöldum við að halda atvinnugreininni á floti. Það er einmitt draumsýn kommúnistans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.7.2022 | 17:26
Ánægjuleg þróun matvælaframleiðslu
Kjötframleiðsla á Íslandi á undir högg að sækja. Kjötneyzla á mann er mjög mikil eða um 50 kg/ár, en hún fer minnkandi á sama tíma og grænmetisneyzla góðu heilli vex. Innlenda kjötið keppir bæði við innflutt kjöt og vaxandi framboð af fiski; bæði er fjölbreytt úrval villtra fisktegunda og af eldisfiski. Þessi misserin á sér stað gríðarleg aukning í eldisfiski, bæði á sjó og landi. Vegna mikillar nýtniaukningar og vöruþróunar innan hefðbundins sjávarútvegs er samt ekki líklegt, að útflutningsverðmæti eldisfisks verði meiri en villts fisks á þessum eða næsta áratugi. Mikil aukning framleiðslu á próteinríkri fæðu með tiltölulega lítið kolefnisspor er fagnaðarefni.
Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, gerði þróun í fiskeldi að umræðuefni í Morgunblaðinu, 16. júlí 2022, undir fyrirsögn, sem vísar til merkra tíðinda á þeim vígstöðvum:
"Strategískar ákvarðanir um fisk".
Greinin hófst þannig:
"Frá því var skýrt undir lok júní [2022], að færeyska fiskeldisfyrirtækið Bakkafrost hefði keypt Boeing-757 þotu til að ná forskoti í keppninni um að koma ferskum laxi á borð veitingastaða á Manhattan á innan við 24 tímum frá slátrun.
Í frétt brezka blaðsins The Guardian um þotukaupin segir, að stjórnendur Bakkafrosts, sem einnig eigi Scottish Salmon Company (nú Bakkfrost Scotland), svari gagnrýni á kolefnisspor þotuflugsins yfir Atlantshaf á þann veg, að sporið minnki með því að fara ekki um Heathrow-flugvöll með laxinn; jafnframt minnki matarsóun, þegar tíminn styttist [á] milli slátrunar og matargerðar bandarísku viðskiptavinanna.
Í Færeyjum tala þeir um eldislaxinn sinn sem "kampavínslaxinn". Hann sé sem sagt allra laxa beztur. Seiðin í þennan hágæðalax koma héðan, þar sem eldisfyrirtæki verða sífellt öflugri. Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins (7. júlí [2022]) um öran vöxt landeldis, einkum á laxi og bleikju, en 5 fyrirtæki, sem stundi "þauleldi fisks á landi", hafi nýlega stofnað samtökin Eldís, Landeldissamtök Íslands."
Það er saga til næsta bæjar, þegar fyrirtæki kaupir stóra vöruflutningaflugvél til að spara flutningatíma og skjóta keppinautunum ref fyrir rass, með því að bjóða ferskari vöru en jafnvel framleiðendur í heimalandinu eða í nágrannaríkjum, t.d. Kanada í þessu tilviki, geta gert. Þetta er áreiðanlega framkvæmt að vel athuguðu máli og sýnir, hversu mikils kröfuharðir viðskiptavinir meta ferska matvöru, enda eru þeir fúsir að greiða meira fyrir hana en hina.
Við Ísland eru ekki síðri aðstæður til fiskeldis en við Færeyjar. Þótt sjórinn sé hlýrri við Færeyjar og vöxturinn þar með hraðari, fylgir sá böggull skammrifi, að lúsin er þar vágestur allt árið. Hér lifir laxalúsin ekki vetrarkuldann í sjónum. Eitrun er því beitt í meira mæli þar en hér.
Íslendingar eru þar að auki með ás uppi í erminni í samkeppninni við fiskeldisfyrirtæki annars staðar við Norður-Atlantshaf, þar sem er landrými, nægt ferskvatn, raforka á hagstæðu verði og síðast en ekki sízt víða jarðvarmi, sem gefur af sér hitaveituvatn til að stýra vaxtarhraðanum. Þá losna landeldisfélögin við alla áhættu af blöndun eldisfisks við villtan lax, og lækkar þá eftirlitskostnaður og viðhaldskostnaður kera. Það hefur reyndar verið gert allt of mikið úr áhættu erfðablöndunar hérlendis, þar sem sjókvíaeldi er bannað á Vesturlandi og Norðurlandi (nema í Eyjafirði), og er ekki stundanlegt úti fyrir Suðurlandi, nema í úthafskvíum framtíðarinnar. Þá er langur vegur á milli þess, að eldislax sleppi og að hann æxlist með villtum laxi og að erfðaeinkenni eldislaxins komi fram í lífvænlegum afkvæmum.
Þessari fróðlegu grein lauk Björn Bjarnason þannig:
"Fjórum vikum fyrir Vísis-kaupin birtust fréttir um, að Síldarvinnslan hefði keypt 34,2 % hlut í norska laxeldisfélaginu Arctic Fish Holding AS fyrir um mrdISK 14,8. Arctic Fish Holding á 100 % hlutafjár í Arctic Fish ehf., einu af stærstu laxeldisfyrirtækjunum hér; rekur það eldisstöðvar á Vestfjörðum með rúmlega 27 kt/ár leyfi fyrir eldi í sjó.
Án þess á nokkurn hátt sé gert lítið úr eignarhaldi á þorskígildistonnum og gildi veiða og vinnslu þeirra, blasir við, að hér verði sama þróun og í Noregi: eldi í sjó og á landi og útflutningur á slátruðum eldisfiski vegi meira við sköpun verðmæta en gamalgrónu veiðarnar.
Alls eru 98 % íslenzks sjávarfangs flutt á erlenda markaði. Þar er samkeppni hörð og kröfur miklar. Flugvélarkaup Bakkafrosts sýna, að keppinautar um beztu markaðina vilja skapa sér forskot með ofurgæðum. Sjávarútvegsfyrirtæki hér keppa við þá beztu.
Í þessu ljósi ber að skoða strategískar ákvarðanir öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þær eru teknar til að styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar allrar sem framleiðanda matvæla í hæsta gæðaflokki. Er fagnaðarefni, að fyrirtækin hafi fjárhagslegan styrk til stórsóknar án þess að vera háð opinberri fyrirgreiðslu."
Undir þetta allt, ályktanir og fullyrðingar Björns, skal heils hugar taka. Íslendingar hafa borið gæfu til að skjóta stoðum undir öflugan sjávarútveg. Hann færir nú út kvíarnar og fjárfestir í fiskeldi, bæði í sjó og á landi. Þröngsýnis- og smammsýnismenn hérlendir hafa gagnrýnt erlent eignarhald á fiskeldinu. Það er óviturleg gagnrýni, enda hefur erlendu fjármagni fylgt þekking, tækni og markaðssambönd. Nú þegar fiskeldinu vex fiskur um hrygg, eru Íslendingar að flytja fjármagn í þessa grein, m.a. úr hefðbundnum sjávarútvegi. Hælbítar sjávarútvegsins hafa af þekkingarleysi og almennri bölsýni sinni gagnrýnt hann fyrir að fjárfesta í öðrum greinum, þótt þeim komi það lítið við. Er það óeðlilegt m.v. þær þröngu skorður, sem íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum eru settar um aflahlutdeildir ? Skyldu sömu aðilar þá vilja leggjast þversum gegn fjárfestingum sjávarútvegsins í fiskeldinu ? Þessir gagnrýnendur sjávarútvegs og fiskeldis virðast vera gjörsamlega úti á þekju. Þetta er yfirleitt sama fólkið og gagnrýnir fiskveiðistjórnunarkerfið af talsverðri heift. Það skilur ekki enn löngu viðtekin sannindi um, að framseljanlegar nýtingarheimildir aflahlutdeilda eru grundvöllur allrar vel heppnaðrar auðlindanýtingar. Það klifar á þeirri illa ígrunduðu fullyrðingu í anda marxista, að þetta fyrirkomulag feli í sér arðrán, en það er öðru nær, því að þetta er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmasta fyrirkomulagið. Evrópusambandið býr við annað fiskveiðistjórnunarkerfi, og þar er nú verið að ausa út í annað skiptið á stuttu tímabili fé úr opinberum sjóðum í "björgunarpakka" handa sjávarútvegi ESB.
Stærsti vaxtarbroddur innlendrar matvælaframleiðslu í fjárfestingum talið og tonnum próteins er laxeldi á landi. Á þessum áratugi gæti landeldið numið yfir 130 kt/ár til slátrunar, sem gætu gefið um 150 mrdISK/ár í útflutningstekjur. Ef slátrun upp úr sjókvíum undir lok þessa áratugar verður rúmlega tvöföld að magni m.v. 2021, þá gæti andvirði hennar numið um 100 mrdISK/ár, svo að eldið gefi þá alls um 250 mrdISK/ár. Árið 2021 nam heildarútflutningsverðmæti hefðbundins sjávarútvegs mrdISK 296, og binda má vonir við hækkun þessarar upphæðar að raunvirði vegna vaxandi gæða, meiri úrvinnslu, hækkandi nýtingar og vaxandi afla, þar sem ástand lífríkis í hafinu umhverfis Ísland lofar góðu um framhaldið. Þess vegna hillir ekki undir meiri tekjur af fiskeldi en hefðbundnum sjávarútvegi, hvað sem síðar verður. Alkunna er, að í Noregi hefur fiskeldið farið tekjulega fram úr hefðbundnum sjávarútvegi, en þar eru ekki viðlíka takmarkanir á laxeldi í sjó, eins og hér við land.
Bændablaðið fjallaði um þann efnilega vaxtarbrodd, landeldi, 7. júlí 2022. Undir fyrirsögninni:
"Landeldi í örum vexti",
stóð þetta m.a.:
"Rúnar [Þór Þórarinsson] segir umfang landeldis hér á landi vera í örum vexti.
"Samherji rekur eldisstöð í Öxarfirði, þar sem áherzlan er á áframeldi á laxi og bleikju, en þar að auki rekur Samherji bleikjueldi á landi í Grindavík og við Vatnsleysuströnd. Fyrirtækið áformar enn fremur að stórauka framleiðsluna á laxi með uppbyggingu sinni á Reykjanesi, [í] svo nefndum Auðlindagarði. Áformar Samherji að auka þannig framleiðslu sína á landöldum laxi upp í 45 kt/ár.""
Líklega er Samherji með þessum fjárfestingum að skipa sér sess sem brautryðjanda í heiminum á sviði landeldis laxfiska. Það hefur glímt við hælbíta í fjölmiðlaheiminum, og jafnvel Seðlabankanum undir fyrrverandi Seðlabankastjóra, sem aldrei hafa skapað nein verðmæti og líklega aldrei neitt annað en niðurrif og skítkast, eins konar eiturnöðrur.
Með aðgerðum sínum nú á sviði fjárfestinga í laxeldi sýnir fyrirtækið í hnotskurn, hversu framsækið og verðmætt það er, þar sem það haslar sér völl á sviði ferskvatnsnýtingar og hitaveitunýtingar til matvælaframleiðslu, sennilega að langmestu leyti í framtíðinni úr íslenzku fóðri. Þróun fiskeldis hérlendis í samstarfi Norðmanna og Íslendinga og í auknum mæli í krafti fjárfestinga íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja er ævintýri líkust.
"Saman tekið eru því 131,5 kt af landöldum laxi á ársgrundvelli við sjóndeildarhringinn hjá þessum 5 landeldisfélögum. Langmest eru uppbyggingaráformin, hvað landeldi varðar, á Suðurlandi og [á] Reykjanesi, segir Rúnar og bætir við, að til samanburðar hafi heildarmagn þess lax, sem slátrað var úr sjókvíum við Ísland árið 2021 verið alls 44,5 kt. Nam útflutningsverðmæti þess rúmum mrdISK 20 á síðasta ári."
Ef engir óvæntir erfiðleikar koma upp í landeldinu, stefnir það hraðbyri í að verða með talsvert meiri framleiðslu en sjókvíaeldið, þar til tæknin leyfir úthafseldi. Verður spennandi að sjá, hvort einhver verðmunur verður á afurðum þessara tveggja greina, en kostnaðarmunurinn er verulegur. Það vekur athygli, að samkvæmt ofangreindum upplýsingum hefur verð fyrir sjókvíaafurðirnar aðeins numið um 450 ISK/kg, sem er svipað og fyrir t.d. þorskinn, en yfirleitt hefur verð laxins verið a.m.k. tvöfalt þorskverðið.
""Lífrænn úrgangur og hliðarafurðir eru orðnar enn mikilvægari auðlindir en áður til áburðarnotkunar í ljósi mikilla hækkana á innfluttum, tilbúnum áburði. Hlutverk BÍ og Eldís næstu mánuði verður að vinna að sameiginlegri umsókn í samkeppnissjóði á sviði loftslags- og umhverfismála á grundvelli þeirrar hugmyndafræði, að með innlendri endurnýtingu á lífrænum efnum, sem falla til við landbúnað og landeldi, sé hægt að framleiða áburð, sem mætir þörfum innanlandsmarkaðar, og þannig stuðla að aukinni sjálfbærni í íslenzkum landbúnaði", segir í sameiginlegri tilkynningu félaganna. Með samstarfsverkefninu sé hafin ein af þeim framtíðaraðgerðum, sem lögð var til í spretthópi matvælaráðherra."
Þetta hljómar mjög vel, og ekki er að efa, að efnainnihaldið og áburðargildið er ríkt, en það verður að leggja rannsóknir til grundvallar á því, hversu mikið þarf að bera á til að fá æskilega uppskeru á hverju ræktarlandi fyrir sig. Skemmst er að minnast hraklegrar ofstjórnar ríkisstjórnar Sri Lanka á bændum þar, en hún bannaði þeim að nota tilbúinn áburð, og allir bændur skyldu umsvifalaust leggja fyrir sig lífræna ræktun. Afleiðingin varð hrun landbúnaðarframleiðslunnar á Sri Lanka, gjaldeyrisvarasjóðurinn varð uppiskroppa með fé, og hungursneyð hélt innreið sína í landið. Ekki má gleyma því, að vegurinn til heljar er varðaður góðum áformum.
Orkuverð í Evrópu mun ekki lækka niður í jafngildi 70 USD/tunnu hráolíu, sem það var í um áramótin 2021/2022. Það gæti rólað um 100 USD/tunnu næstu árin, og gasverðið verður áfram hátt, því að gasflæðið frá Rússlandi til Evrópu er nú aðeins um 40 % af því, sem var, og stefnt er að því, að það verði ekkert á næstu árum. Í staðinn mun koma jarðgas víða að, t.d. frá gaslindum úti fyrir ströndum Ísraels um lögn til Krítar, Kýpur og meginlands Grikklands. Jarðgas á gasformi frá Ísrael og á vökvaformi (LNG) annars staðar frá, verður dýrara en Rússagasið, og þessi viðskipti munu auðga Ísrael mjög (tugmilljarða USD tekjur á mánuði). Þannig er líklegt, að rekstrargrundvöllur verði fyrir vetnis- og ammoníakframleiðslu með raforku hérlendis og arðsamt rafeldsneyti og áburð úr þessu "hráefni".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2022 | 17:30
Lítt af setningi slegið
Þegar tilkynnt var um ofureðlileg kaup almenningshlutafélagsins Síldarvinnslunnar á Neskaupstað á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík, gaus upp moldviðri loddara og lýðskrumara, sem létu aðalatriði málsins lönd og leið, en einbeittu sér að hugðarefnum sínum, sem eiga það sameiginlegt að vera sjávarútveginum skaðleg. Sjávarútvegur er höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar, og hann verður að reka á viðskiptagrundvelli. Með rekstur hans er ekki hægt að hlaupa eftir illa ígrundaðri hugmyndafræði um "réttlæti" í ráðstöfun hagnaðar af fjárfestingum í greininni.
Aðalatriði málsins er, að hlutverk íslenzks sjávarútvegs er að skapa hámarksverðmæti úr auðlind íslenzkra fiskimiða fyrir íslenzkt þjóðarbú, enda er auðlindin í þjóðareign, þótt enginn eigi óveiddan fisk í sjó, og þar með hefur ráðherra það mikla vald til inngripa í þessa atvinnugrein að setja aflamark í hverri tegund á hverju fiskveiðiári, og Hafrannsóknarstofnun getur lokað svæðum fyrir fiskiskipum í verndarskyni.
Hverjir fá að stunda sjóinn og eiga aflahlutdeild í hverju settu aflamarki réðist í upphafi af aflareynslu og síðan 1989 af markaðinum upp að hámarksaflahlutdeild í hverri tegund. Algengast er 20 % kvótaþak, en þó aðeins 12 % í þorski per fyrirtæki. Þetta fiskveiðistjórnunar fyrirkomulag hefur tryggt Íslendingum skilvirkasta sjávarútveg í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Greinin varð arðbær í flestum árum, eftir að nægilegri lágmarks samþjöppun var náð, og hún greiðir meira til samfélagsins en aðrar atvinnugreinar. Er það réttlátt, t.d. gagnvart almenningshlutafélögum í greininni, sem berjast við fyrirtæki í öðrum greinum um fjármagn ?
Íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin flytja yfir 96 % afurða sinna á erlendan markað og eiga þar í flestum tilvikum í höggi við stærri fyrirtæki en þau eru sjálf, fyrirtæki, sem njóta þar að auki fjárhagsstuðnings hins opinbera í sínu landi og greiða sáralítið þangað í samanburði við íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin. Alþingismenn hafa ekki látið sinn hlut eftir liggja við að skekkja samkeppnisstöðu þessarar greinar á erlendum fiskimörkuðum og innlendum fjármagns- og vinnumarkaði. Verða þeir að gæta að sér að mismuna ekki þessari grein úr hófi fram.
Hælbítar íslenzks sjávarútvegs spanna litrófið frá vinstri-sósíalistum með böggum aflóga hugmyndafræði austur-þýzka alþýðulýðveldis Walters Ulbricht og Erichs Honecker til áhangenda kenningarinnar um, að Íslandi sé bezt borgið alfarið innan vébanda Evrópusambandsins - ESB, þ.e. "við borðið", en ekki bara á Innri markaði ESB, eins og 2 önnur EFTA-ríki með EES-samninginum, sem gildi tók 1. janúar 1994.
Sameiginlegt málflutningi allra þessara aðila er að mæla fyrir ráðstöfunum, sem veikja mundu samkeppnisstöðu íslenzka sjávarútvegsins stórlega, og þar með óhjákvæmilega draga úr getu hans til verðmætasköpunar fyrir íslenzka þjóðarbúið úr auðlind þjóðarinnar í lögsögunni og utan hennar samkvæmt samningum ríkisstjórnarinnar. Þessi málflutningur hælbítanna er þess vegna klæddur í búninga, sem eiga að hætti lýðskrumara að höfða til mismunandi fólks. Annars vegar er lofað gríðarlega auknum skatttekjum ríkissjóðs af sjávarútveginum, og hins vegar er lofað uppboðsmarkaði veiðiheimilda og um leið árlegum afskriftum veiðiheimilda þeirra, sem fengu þær úthlutaðar á grundvelli veiðireynslu og/eða hafa keypt þær hingað til. Í raun er þetta sami grautur í sömu skál, sem endar í þjóðnýtingu útgerðanna, þegar öllu er á botninn hvolft. Hvorug aðferðanna er til þess fallin að hámarka verðmæti auðlindar þjóðarinnar í hafinu, heldur munu þær rýra hinn þjóðhagslega hagnað frá því, sem hann getur orðið, ef atvinnugreinin fær að þróast í friði fyrir loddurum, sem lítið skynbragð bera á það, hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi, til að atvinnugreinar fái að njóta sín. Engin góð reynsla frá öðrum þjóðum mælir þessum dillum málsbót.
Sjónarhólsgrein um alþjóðaviðskipti birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2022 eftir Stefán E. Stefánsson, blaðamann, undir fyrirsögninni:
"Skref í rétta átt".
Þar stóð m.a.:
"Kaupin á Vísi eru því áhættudreifing í sinni tærustu mynd. Það má ekki sízt sjá, þegar borið er saman úthlutað aflamark [aflahlutdeild] Síldarvinnslunnar annars vegar og Vísis hins vegar í mikilvægum botnfisk- og uppsjávartegundum. Fyrir kaupin var Síldarvinnslan aðeins með 2,7 % hlutdeild í þorski, en Vísir 5,4 %. Í ýsu var hlutdeild Síldarvinnslunnar 3,8 %, en Vísis 6,1 %, og í síld og loðnu er hlutdeild Síldarvinnslunnar í úthlutuðu aflamarki annars vegar 16 % og hins vegar 18 %, [á] meðan hlutdeild Vísis er 0 %. Styrkurinn, sem felst í kaupunum á Vísi er því að efla Síldarvinnsluna í botnfiski."
Þetta er vafalaust hárrétt athugað hjá Stefáni E., og slíkar aðgerðir fyrirtækja eru öllum í hag og koma hvorki Samkeppnisstofnun né stjórnmálamönnum við. Með öflugri stoðir mun Síldarvinnslan standa betur að vígi í samkeppninni á erlendum mörkuðum, þar sem hún samt verður tiltölulega lítil. Sterkari staða á markaði þýðir, að hún getur fengið betri viðskiptakjör á fiskmörkuðum. Þetta er aðalatriði máls, og að hóta fyrirtækjunum enn hærri skattheimtu, af því að þau eru öflug og vel rekin og hafa í sér stækkunarkraft, eins og jafnvel innviðaráðherra gerði sig sekan um, er fyrir neðan allar hellur.
Hér er um að ræða almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands, sem sækir sér fé á hlutabréfamarkað, t.d. til lífeyrissjóða, og stjórnmálamenn verða að gæta að sér og kunna sér hóf í málflutningi, svo að ekki sé hægt að saka þá um atvinnuróg og brot á stjórnarskrárreglu um jafnræði til atvinnufrelsis.
"Við kaupin á Vísi upphófst gamalkunnur söngur þeirra, sem alla tíð hafa öfundazt út í sjávarútveginn hér á landi og þann glæsta árangur, sem náðst hefur í uppbyggingu margra fyrirtækja á þessu sviði. Þeir hinir sömu skella skollaeyrum við öllum þeim rökum, sem borin eru á borð varðandi styrkleika íslenzka kvótakerfisins og þá þrotlausu vinnu, sem lögð hefur verið í uppbyggingu þessara sömu fyrirtækja. Engu er líkara en þessir sömu aðilar telji kerfisbreytingar æskilegar, sem mundu draga enn frekar úr fyrirsjáanleika og ganga af þeirri áhættudreifingu, sem þó er fyrir hendi innan greinarinnar, gjörsamlega dauðri."
Sjávarútvegur er sjálfstæð atvinnugrein, en ekki tilraunaleikhús stjórnmálamanna og annarra viðvaninga á sviði fyrirtækjarekstrar. Fiskveiðiauðlindin er eign þjóðarinnar, en stjórnmálamenn seilast um hurð til lokunnar, þegar þeir halda, að þetta gefi þeim heimild til að ráðskast með sjávarútveginn á leiksviði fáránleikans. Þjóðin er ekki lögaðili, en ákvæðið gefur ríkisvaldinu í nafni þjóðarinnar heimild til að stjórna nýtingu auðlindarinnar og gengur auðvitað ekki út yfir eignarrétt útgerðanna og stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi.
"Söngurinn er allur sniðinn í kringum þá rómantísku hugmynd, að allir eigi að geta róið til fiskjar og að það sé óheppilegt, að fyrirtækin stækki og eflist. Þar er horft fram hjá þeirri staðreynd, að fyrirtækin keppa á alþjóðavettvangi við fyrirtæki, sem í sumum tilvikum eru stærri en allur íslenzki sjávarútvegurinn til samans. Nær allur afli, sem dreginn er á land við Ísland fer á markaði erlendis, og því eiga samkeppnissjónarmið, sem alla jafna mundu gilda um fyrirtæki á innlendum markaði, ekki við. Hvert er annars markmiðið með íslenzkum sjávarútvegi ? Er það ekki að hámarka verðmætin, sem sótt eru í greipar Ægis ?"
Þetta er mergurinn málsins. Alls konar sótraftar eru á sjó dregnir með skoðanir á þessari atvinnugrein, og sameiginlegt málflutningi þeirra er tvennt: atvinnugreinin sé óalandi og óferjandi eins og hún er rekin núna, og stjórnmálamenn (Alþingi og ríkisstjórn) verði að gjörbreyta leikreglunum. Hugmyndafræði þessa svartagallsrauss rekstrarviðvaninga og loddara er öll því markinu brennd, að rekstrarlegur og þjóðhagslegur arður sjávarútvegsins mun minnka, verði reynt að framfylgja hugmyndafræði þeirra.
Það er rangt, sem haldið er fram, að mikil samþjöppun sé í íslenzkum sjávarútvegi, hvort sem litið er til samanburðar við aðrar íslenzkar atvinnugreinar eða til erlendra samkeppnisaðila, eins og Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf og sjávarútvegsfræðingur, sýndi fram á í grein í Morgunblaðinu 14.07.2022. Samkeppnisstofnun, sem er á góðri leið með að eyðileggja tæplega mrdISK 80 viðskipti Símans með Mílu, fer í geitarhús að leita ullar vegna kaupsamnings Síldarvinnslunnar við Vísi í Grindavík. Eftirlitsiðnaðurinn hérlendis gín yfir þáttum, sem honum kemur ekki við og sem hann ræður illa við í þokkabót.
"Myndi þetta sama fólk, sem sífellt talar öflugan sjávarútveg niður, tala fyrir því, að Marel yrði klofið upp í margar smáar einingar, sem gætu svo keppt sín á milli, en þó í baráttu við alþjóðlega risa, sem ættu auðvelt með að ryðja þeim öllum út af markaðinum ?"
Munurinn er sá, að það eru engir beturvitar áberandi um þessa grein iðnaðar, en það er hins vegar enginn hörgull á skrýtnum og fjandsamlegum hugdettum beturvita um íslenzka sjávarútveginn. Þeir eru með sérvizkuhugmyndir, sem ekki væru taldar gjaldgengar í neinu öðru landi.
Hvernig á að ákvarða hámark aflahlutdeildar, s.k. kvótaþak ? Eðlilegast er að hafa hliðsjón af þróun þeirra mála í samkeppnislöndum sjávarútvegsins. Sé það skoðað, kemur í ljós, að kvótaþakið hér hefur setið eftir, sérstaklega í þorskinum, þar sem það er aðeins 12 % hér, en t.d. um 25 % í Noregi. Hið tiltölulega lága kvótaþak hérlendis er farið að standa íslenzkum útgerðarfélögum fyrir þrifum og hefur e.t.v. ýtt undir krosseignatengsl þeirra á milli.
Í lok greinar sinnar skrifaði Stefán E. Stefánsson:
"Nákvæmlega sömu sjónarmið eiga við um íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin. Eftir því sem þeim fækkar og þau eflast að innri styrk, því betur mun íslenzkt þjóðarbú standa. Úrtölufólkinu finnst ekki gaman að heyra þetta. Raunar þolir það alls ekki að horfast í augu við þessa staðreynd. En svona er það nú samt."
Þetta er hárrétt hjá höfundinum, en hvers vegna ? Það vefst fyrir "úrtölufólkinu", en er samt sára einfalt, og í stuttu máli er aðallega um að ræða hagkvæmni stærðarinnar. Kostnaður útgerðanna á hvert veitt tonn fer lækkandi með aukinni stærð þeirra og þar með verður framlegð þeirra meiri, og þau geta þá aukið framleiðni sína með fjárfestingum í nýrri tækni án eða með lítilli skuldsetningu. Afleiðingin verður betri aðbúnaður sjómanna um borð og hærri tekjur þeirra með auknum afla á skip. Jafnframt eykst hagnaður fyrirtækjanna og þar með skattstofninn og arðgreiðslur, sem er allra hagur, ekki sízt eigendum hlutafjárins, sem fjármagna fyrirtækin, t.d. lífeyrissjóða í tilviki almenningshlutafélaga á borð við Síldarvinnsluna á Neskaupstað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2022 | 09:55
Finnlandisering í Evrópu er liðin tíð
Dr Otto von Habsburg (1912-2011) vakti athygli á því í ræðu árið 2003, að Vladimir Putin, þá nýskipaður arftaki verkfræðingsins Borisar Jeltsin á forsetastóli Rússlands, hefði í ræðu í Minsk í Hvíta-Rússlandi (Belarus) árið 2000 viðrað hugmyndir sínar um endurheimt nýlendna Rússlands í Evrópu, en útþenslukeisarar Rússlands höfðu gert Úkraínu, Eystrasaltslöndin, Finnland, Pólland o.fl. lönd að nýlendum Rússlands. Þessi kaldrifjaði og einræðissinnaði nýi forseti, þá undir sýndarmerkjum lýðræðis, en nú einvaldur til æviloka, vissi, að hann yrði að beita hervaldi til að framkvæma hugmyndafræði sína, en í svívirðilegri innrás í Úkraínu 24. febrúar 2022, misreiknaði þessi ógnarstjórnandi sig herfilega. Hann ímyndaði sér, að úkraínski herinn myndi lyppast niður og leggja niður vopn og að Vesturveldin myndu líka lyppast niður og samþykkja innlimun Úkraínu á nýjan leik. Ef menn af gamla Kaldastríðsskólanum á borð við Henry Kissinger, bundnir í þrælaviðjar áhrifasvæða stórvelda, Finnlandiseringu, hefðu mátt ráða, hefði svo vafalítið orðið, en ofan á urðu réttmæt sjónarmið að alþjóðalögum um, að ekkert ríki mætti komast upp með það að beita fullvalda nágrannaríki sitt hervaldi. Putin er ofbeldismaður, sem hættir ekki fyrr en hann er stöðvaður, nákvæmlega eins og Adolf Hitler. Þess vegna ber höfuðnauðsyn til að reka rússneska herinn út úr Úkraínu, þ.m.t. Krímskaga.
Umsóknir Finnlands og Svíþjóðar um NATO-aðild eru kjaftshögg á granir Kremlarherranna, sem reyndu að réttlæta óverjanlega ákvörðun sína um innrás í Úkraínu með því, að þar með væru þeir að koma í veg fyrir að fá NATO upp að vesturlandamærum sínum. Nú hafa yfirgangssamir og ósvífnir Kremlarherrar orðið að kyngja því, að handan 1300 km landamæra við Finnland verður NATO-ríki með einn öflugasta her í Evrópu og öflugasta stórskotaliðið.
Hortugar og ógnandi yfirlýsingar þeirra um, að innganga Úkraínu í NATO mundi hafa hernaðarlegar afleiðingar, eru aðeins skálkaskjól nýlenduherra í landvinningahug. Þeim stendur engin ógn af varnarbandalaginu NATO, og þeir eiga alls ekki að ráða ákvörðunum fullvalda nágranna sinna um utanríkis- og varnarmál. Það er kominn tími til að vinda ofan af þeirri vitleysu, að þessir grimmlyndu og gjörspilltu stjórnendur Rússlands hafi einhver áhrif á það, hvernig aðrar þjóðir í Evrópu haga sínum málum, enda hefur styrkur Rússlands verið stórlega ofmetinn hingað til, og Rússland hefur nú beðið siðferðislegt skipbrot og bíður vist í skammarkróki heimsins.
Rússlandsforseti hefur haldið því fram, að stækkun NATO til austurs, að þrábeiðni þjóðanna þar eftir fall Ráðstjórnarríkjanna, sé brot á samkomulagi, sem James Baker, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi gefið Ráðstjórnarríkjunum í febrúar 1990. Margir stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur á Vesturlöndum átu það upp eftir Kremlarherrum, að stækkun NATO til austurs væri óskynsamleg, af því að Rússum stæði ógn af slíku. Angela Merkel fór illu heilli fyrir þessum sjónarmiðum á NATO-fundi 2008, þar sem umsókn Úkraínu var til umfjöllunar og knúði Bandaríkin til undanhalds um þetta. Undirlægjuháttur hennar gagnvart Rússlandi reið ekki við einteyming.
Ef innganga Úkraínu hefði verið samþykkt, hefði Úkraínumönnum verið hlíft við þeim hörmungum, sem síðan hafa á þeim dunið fyrir tilverknað glæpsamlegra afla í Rússlandi. "Partnership for Peace" eða bandalag við NATO um frið veitir þjóðum ekki öryggistryggingu í viðsjárverðum heimi, og þess vegna sóttu Svíar og Finnar um inngöngu.
Þessi málatilbúnaður Rússa um samkomulag við Baker 1990 er að engu hafandi, enda finnst ekkert skriflegt um það. Orð Bakers áttu ekki við löndin í Austur-Evrópu, heldur var hann að tala um Austur-Þýzkaland, og við Endursameiningu Þýzkalands áttu þau ekki við lengur. Eftir upplausn Varsjárbandalagsins um 18 mánuðum eftir að orð Bakers féllu, hrundu forsendur þeirra.
Samkomulag á milli NATO og Rússlands var undirritað árið 1997, og þar voru engar hömlur lagðar á ný aðildarríki NATO, þótt stækkun hefði verið rædd þá þegar. Tékkland, Ungverjaland og Pólland gengu í NATO u.þ.b. 2 árum seinna. Samkomulagið, sem hefur verið brotið í þessu samhengi, er loforð Rússlands gagnvart Úkraínu frá 1994 (Búdapest-samkomulagið) um að beita Úkraínu hvorki efnahagsþvingunum né hernaðaraðgerðum. Samkvæmt þessu samkomulagi Úkraínumanna, Rússa og Breta afhenti Úkraína Rússlandi kjarnorkuvopnin, sem hún erfði frá Ráðstjórnarríkjunum.
NATO á fullan rétt á að stækka. Skárra væri það nú. Samkvæmt lokaútgáfu Helsinki-samningsins 1975, sem var m.a. undirritaður af hálfu Ráðstjórnarríkjanna, er ríkjum frjálst að velja sér bandamenn. Varsjárbandalagsríkin þjáðust mjög undir rússnesku ráðstjórninni. Hvers vegna skyldu aðildarríkin ekki leita skjóls gagnvart ríki, sem þau þekkja af grimmilegri kúgun ?
Í mörg ár töldu Finnar og Svíar hagsmunum sínum betur borgið utan NATO. Þetta breyttist, þegar þessi ríki horfðu upp á algert virðingarleysi Rússlands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum og lögum 24. febrúar 2022. Eitt af mörgum grundvallarmálum, sem nú eru í húfi í Úkraínu, er réttur fullvalda ríkja til að ákvarða sjálf örlög sín.
Var stækkun NATO til austurs viturleg ráðstöfun ? Hún hefur hingað til tryggt öryggi þessara ríkja, sem augljóslega hefði verið í uppnámi annars samkvæmt reynslunni frá 24. febrúar 2022. Þannig var hún viturleg ráðstöfun, og að sama skapi hefði átt að skella skollaeyrum við geltinu úr Kreml 2008 og verða við ósk Úkraínu um aðild. Sífelld friðþæging Þýzkalands og Frakklands með því að henda beinum í Kremlarhundinn var óábyrg og skammsýn. Rússar láta eins og þeir hafi ástæðu til að óttast árás að fyrra bragði frá NATO, en það er helber áróður, og stækkun NATO breytir því ekki. Kaldrifjaður Putin hefur ýtt undir rússneska þjóðerniskennd og notað rétttrúnaðarkirkjuna til að efla völd sín. Hún hefur nú lýst stríð Rússlands í Úkraínu heilagt, hvorki meira né minna, enda fá Rússar að heyra, að þar stundi rússneski herinn afnazistavæðingu, sem er eitthvert vitlausasta áróðursbragð, sem heyrzt hefur frá nokkrum einræðisherra um langa hríð.
Meintar ógnanir við rússneskumælandi fólk handan landamæranna voru skálkaskjól Putins fyrir innrásinni í Georgíu 2008 og í Úkraínu 2014. Merkja menn ekki sömu klóförin hér og í Súdetahéruðum Tékkóslavikíu 1938 og í Póllandi 1939 (Danzig-hliðið og Slésía). Í báðum tilvikum höfðu stórveldi misst spón úr aski sínum og leituðust við með ólögmætum hætti að rétta hlut sinn. Í ljós hefur komið, að Wehrmacht var þó miklu öflugri en þessi Rússaher við framkvæmd skipana alræðisherrans.
NATO var ekki annar orsakavaldur í þessu sjónarspili nú en sá að veita Austur-Evrópuríkjunum, sem í það gengu, skjól gagnvart árásargirni risans í austri. Hið eina, sem stöðvar villimennina, sem þar hafa hrifsað til sín völdin með fláræði, er samstaða og einarður viðnámsþróttur Vesturveldanna og heilsteyptur stuðningur við Úkraínu á öllum sviðum.
Finnar og Svíar nutu Bandalags um frið (Partnership for Peace) við NATO, en treystu ekki lengur á, að það dygði þeim til öryggis eftir 24. febrúar 2022. Nú liggur í augum uppi, að hefði NATO hafnað aðildarbeiðnum fyrrverandi Varsjárbandalagsríkja, mundi hafa myndazt öryggislegt tómarúm í Austur-Evrópu vestan Úkraínu, sem hefði freistað Rússa að fylla. Finnland og Svíþjóð komust að réttri niðurstöðu um það, að Rússlandsforsetinn Putin er hættulegur og ófyrirsjáanlegur - ekki vegna NATO, heldur þess, hvernig hann stjórnar Rússlandi. Umsókn þeirra ætti að samþykkja við fyrsta mögulega tækifæri, enda mun aðild þeirra styrkja NATO, einkum á Eystrasalti, við varnir Eystrasaltsríkjanna og á norðurvængnum almennt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2022 | 10:13
Dregur til tíðinda í orkumálum Evrópu ?
Klukkan 0400 að morgni 11. júlí 2022 var lokað fyrir Nordstream 1 jarðefnaeldsneytis gaslögnina frá Rússlandi (Síberíu) til Evrópu vegna viðhalds. Þar með minnkaði gasflæðið umtalsvert til Vesturveldanna, t.d. um þriðjung til Ítalíu. Þar með verða þau að ganga á forða, sem þau voru að safna til vetrarins. Þau óttast, að Rússar muni ekki opna aftur fyrir flæðið 21. júlí 2022, eins og þó er ráðgert. Næsti vetur verður þungbær íbúum í Evrópu vestan Rússlands, ef vetrarhörkur verða.
Þegar miskunnarlaust árásareðli rússneska bjarnarins varð lýðum ljós 24.02.2022, rann um leið upp fyrir Þjóðverjum og öðrum, hvílíkt ábyrgðarleysi og pólitísk blinda einkenndi kanzlaratíð Angelu Merkel, sem bar höfuðábyrgð á því, að Þjóðverjar o.fl. Evrópuþjóðir urðu svo háðir Rússum um afhendingu á eldsneytisgasi sem raun ber vitni (allt að 50 % gasþarfarinnar kom frá Rússum). Þjóðverjar máttu vita, hvaða hætta þeim var búin, með því að atvinnulíf þeirra og heimili yrðu upp á náð og miskunn kaldrifjaðs KGB-foringja komin, sem þegar í ræðu árið 2000 gerði grein fyrir fyrirætlunum sínum um stórsókn Rússlands til vesturs í anda keisara á borð við Pétur, mikla, og keisaraynjuna Katrínu, miklu.
Otto von Habsburg, 1912-2011, gerði grein fyrir þessu í ræðu árið 2003, sem nálgast má í athugasemd 3 við pistilinn "Þrengist í búi", 09.07.2022.
Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, ritaði markverða grein á umræðuvettvangi Morgunblaðsins laugardaginn 9. júlí 2022, enda má segja, að orkumálin hafi nú bein áhrif á framvindu sögunnar. Greinin bar fyrirsögnina:
"Kjarnorka, gas og jarðvarmi".
Hún hófst þannig:
"Á þingi Evrópusambandsins voru miðvikudaginn 6. júlí [2022] greidd atkvæði um mikið hitamál. Meirihluti þingmanna (328:278 - 33 sátu hjá) samþykkti umdeilda tillögu um að skilgreina fjárfestingar í kjarnorkuverum og nýtingu á gasi sem "sjálfbærar"."
Þetta eru stórtíðindi og vitna um öngþveitið, sem nú ríkir í orkumálum ESB. Samkvæmt skilgreiningu á sjálfbærri orkuvinnslu má hún ekki fela sér, að líf næstu kynslóða verði hættulegra eða erfiðara á nokkurn hátt. Þessu er ekki hægt að halda fram um raforkuvinnslu í kjarnorkuverum, sem nýta geislavirka klofnun úrans. Þótt geislavirka úrganginn megi nota aftur til raforkuvinnslu í sama kjarnorkuveri, verður samt að lokum til geislavirkur úrgangur í aldaraðir, sem engin góð geymsla er til fyrir.
Bruni jarðgass við raforkuvinnslu eða upphitun felur í sér myndun CO2-koltvíildis, sem er s.k. gróðurhúsalofttegund, sem margir telja valda hlýnun andrúmslofts jarðar.
Þetta er augsýnilega neyðarúrræði ó orkuskorti, samþykkt til höfuðs kolum og olíu, sem menga meira og valda meiri losun CO2 á varmaeiningu.
Úr því að fjárfesting í kjarnorku er orðin græn í ESB, hlýtur núverandi kjarnorkuverum í ESB að verða leyft að ganga út sinn tæknilega endingartíma, og þar með verða dregið úr tjóni flaustursins í Merkel. Þetta varpar ljósi á glapræði þeirrar fljótfærnislegu ákvörðunar Angelu Merkel 2011 að loka þýzkum kjarnorkuverum fyrir tímann og í síðasta lagi 2022. Um það skrifaði Björn:
"Þegar kjarnorkuslysið varð í Fukushima í Japan fyrir 11 árum, ákvað Angela Merkel, þáv. Þýzkalandskanzlari, á "einni nóttu" að loka þýzkum kjarnorkuverum. Við það urðu Þjóðverjar verulega háðir orkugjöfum frá Rússlandi. Reynist það nú hættulegt öryggi þeirra og Evrópuþjóða almennt. Í aðdraganda stríðsins hækkaði orkuverð í Evrópu [og] nær nú hæstu hæðum."
Með þessari fljótræðisákvörðun, sem kanzlarinn keyrði í tilfinningalegu uppnámi í gegnum Bundestag, sem fundar í þinghúsinu Reichstag í Berlín, spilaði hún kjörstöðu upp í hendur miskunnarlauss Kremlarforseta, sem þá þegar var með stríðsaðgerðir í Evrópu á prjónunum, eins og Otto von Habsburg sýndi fram á, og hugði gott til glóðarinnar að kúga (blackmail") Evrópuríkin til undirgefni með orkuþurrð, þegar hann léti til skarar skríða með sína landvinninga.
Þetta er eins konar Finnlandisering þess hluta Evrópu, sem háðastur er jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Afleiðingar af óeðlilegu pólitísku daðri austur-þýzku prestsdótturinnar við hinn grimma KGB-foringja í Dresden, sem ábyrgur er fyrir böðulshætti Rússahers í Úkraínu, eru m.a. þær í Þýzkalandi núna, að Þjóðverjar hvetja Kanadamenn til að senda Siemens-gashverfil úr Nordstream 1 úr viðgerð og til sín, og þýzkum almenningi er nú sagt, að fjarvarmaveitur geti ekki hitað ofnana á heimilum hans upp í hærra hitastig en 17°C í vetur.
Orkufyrirtæki með samninga um fast verð við sína viðskiptavini riða nú til falls, og ESB hefur veitt undanþágu frá reglum um fjárhagslegt inngrip ríkisins á orkumarkaði til stuðnings heimilum og fyrirtækjum.
Í Japan eru nú aðeins um 10 % orkunotkunarinnar úr innlendum orkugjöfum að meðtöldum kjarnorkuverum í rekstri, og þrátt fyrir að Japanseyjar séu fjöllóttar með vatnsföll og jarðhita. Hvað skrifaði Björn um Japan ?:
"Í Japan var ákveðið eftir atburðina í Fukushima [2011] að minnka stig af stigi hlut kjarnorku sem raforkugjafa. Nú standa Japanir hins vegar í þeim sporum, að óvissa ríkir um aðgang að jarðefnaeldsneyti, og orkuverð sligar efnahaginn. Vegna kosninga til efri deildar japanska þingsins hefur verið tekizt á um, hvort virkja eigi að nýju kjarnorkuver, sem staðið hafa verkefnalaus [síðan 2011]. Í kosningunum á morgun, 10. júlí [2022], er lagt í hendur kjósenda að breyta japanskri orkustefnu. Við kjósendum blasir sú staðreynd, að orkuframleiðsla Japana sjálfra stendur aðeins undir 10 % af orkuneyzlu þeirra. Stórátak er nauðsynlegt til að auka orkuöryggið."
Sjálfsagt er löngu runnið upp fyrir japönskum almenningi, að viðbrögðin við umræddu Fukushima slysi voru yfirdrifin og aðeins örfá dauðsfallanna vegna geislunar, en hin vegna flóða og óðagots, sem greip um sig. Þess vegna er litlum vafa undirorpið, að íbúarnir munu verða alls hugar fegnir að fá raforku frá nú ónotuðum kjarnorkuverum á lægra verði en nú býðst.
Flutningaskipum með LNG (jarðgas á vökvaformi) hefur undanfarna mánuði verið beint frá Asíu til Evrópu, af því að í Evrópu er hæsta orkuverð í heimi um þessar mundir. Lánið leikur ekki við Þjóðverja að þessu leyti heldur, því að þeir eiga enga móttökustöð í sínum höfnum fyrir LNG og munu ekki eignast slíkar fyrr en 2024, þótt þeir hafi nú stytt leyfisveitingaferlið til muna. Mættu íslenzk yfirvöld líta til afnáms Þjóðverja á "rauða dreglinum" í þessu sambandi.
Þessu tengt skrifaði Björn:
"Þegar litið er til þessarar þróunar [orkumála á Íslandi] allrar, sést, hve mikilvægt er í stóru samhengi hlutanna að festast ekki hér á landi í deilum, sem verða vegna sérsjónarmiða Landverndar og annarra, sem leggjast gegn því, að gerðar séu áætlanir um virkjun sjálfbærra, endurnýjanlegra orkugjafa, sem enginn getur efast um, að séu grænir."
Höfundur þessa pistils hér er sama sinnis og Björn um fánýti þess að ræða íslenzk orkumál á forsendum Landverndar. Svo fráleit afturhaldsviðhorf, sem þar eru ríkjandi, eru að engu hafandi, enda mundi það leiða þjóðina til mikils ófarnaðar að fylgja þeim eftir í reynd. Tólfunum kastaði, þegar Landvernd lagði það til í alvöru að draga úr rafmagnssölu til iðnaðarfyrirtækja með langtímasamninga um allt að 50 % til að skapa svigrúm fyrir orkuskiptin hérlendis. Sönn umhverfisverndarsamtök leggja ekki fram slíka tillögu. Hins vegar gera þeir það, sem færa vilja neyzlustig hér, og þar með lífskjör, aftur um áratugi og koma síðan á stöðnun. Þetta eru s.k. núllvaxtarsinnar, sem spruttu fram í kjölfar bókarinnar "Endimörk vaxtar" á 7. áratugi 20. aldar.
Grein sinni lauk Björn Bjarnason þannig:
"Hér er almennt of lítil áherzla lögð á að efla samstarf opinberra aðila og einkafyrirtækja til að efla grunnstoðir samfélagsins. Við setningu opinberra reglna, eins og nú innan ESB vegna grænna fjárfestinga í kjarnorku og við nýtingu á gasi, eru aldrei allir á einu máli. Skrefin verður þó að stíga og fylgja þeim fastar eftir við aðstæður, eins og myndazt hafa vegna stríðs Pútíns í Úkraínu.
Augljóst er, að ekki er eftir neinu að bíða við töku ákvarðana, sem búa í haginn fyrir stóraukna nýtingu íslenzks jarðvarma. Jafnframt er óhjákvæmilegt að virkja vatnsafl af miklum þunga."
Þarna er á ferðinni snjall samanburður á aðstæðum við ákvarðanatöku um orkumál á tímamótum í ESB og á Íslandi. Þeir, sem um orkumál véla í ESB eru ekki svo skyni skroppnir að skilja ekki, að hvorki jarðgas né geislavirka úraníum samsætan í hefðbundnum kjarnorkuverum eru sjálfbærar og algrænar orkulindir. Þetta eru ósjálfbærar orkulindir, þar sem kjarnorkan að vísu veldur engri losun gróðurhúsalofttegunda, og jarðgasið aðeins minni losun og minni loftmengun en olía og kol.
Í sama anda verða þeir Íslendingar, sem um orkumálin véla, að vinna á þessum alvarlegu tímum. Allar virkjanir náttúrulegra orkulinda hafa einhverjar breytingar í för með sér á virkjunarstað, og það þarf að leiða raforkuna af virkjunarstað og til notenda, en sé þess gætt að nota beztu fáanlegu tækni (BAT=Best Available Technology) við hönnun og framkvæmd verksins og ef framkvæmdin er að auki afturkræf, þá verður umhverfislegi, fjárhagslegi, samfélagslegi og þjóðhagslegi ávinningurinn nánast örugglegi mun meiri en meint tjón af framkvæmdunum. Það er nauðsynlegt, að almenningur, þingheimur, stjórnkerfið og orkugeirinn geri sér grein fyrir þessari raunverulegu stöðu orkumálanna hið fyrsta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2022 | 10:30
Orðagjálfur um samkeppnishæfni dugar skammt
Það er rétt, að íslenzkar orkulindir eru samkeppnishæfar sem stendur í alþjóðlegu samhengi, en enginn veit, hversu lengi það varir, og það er auðvitað ekki hægt að tala um, að vara eða þjónusta, hér rafmagn, sem verður fyrst til reiðu eftir 5 ár, sé samkeppnishæf. Sinnuleysi orkufyrirtækja og seinagangur yfirvalda og Alþingis í þessum efnum veldur því, að Ísland getur ekki nú þegar tekið þátt í lífsnauðsynlegum umskiptum úr jarðefnaeldsneyti í rafeldsneyti. Eftir 5 ár, þegar Íslendingar fyrst losna út úr klaufalegri skortstöðu á raforku, gæti nýr og vinsæll orkugjafi verið orðinn tiltækur í fjöldaframleiðslu og þar með samkeppnishæfur við íslenzkar orkulindir. Það er vel þekkt, að í ófremdarástandi verður tækniþróun hröð. Má nefna þóríum kjarnorkuver, stór og lítil, sem skilja eftir sig mun minna geislavirkan úrgang með helmingnartíma, sem telst í áratugum, en ekki árhundruðum eða árþúsundum.
Staksteinar Morgunblaðsins 9. júlí 2022 hittu naglann á höfuðið, eins og fyrri daginn, nú undir fyrirsögninni:
"Ónýtt tækifæri".
Þeir hófust þannig:
"Ísland fylgir sem betur fer ekki jafnvitlausri orkustefnu og löndin á meginlandi Evrópu, sem eru búin að koma sér í mikil vandræði með því að elta öfgafull sjónarmið af ýmsu tagi. Þessar þjóðir eru farnar að gjalda orkustefnuna dýru verði, en þó að Ísland standi betur, hefur það ekki alveg sloppið."
Einkenni á orkustefnu landanna, sem þarna er átt við, er, að þau hafa framselt hluta af sjálfsákvörðunarrétti sínum á sviði orkumála til Evrópusambandsins, ESB. Megininntak orkustefnu ESB er að samtengja orkuflutningskerfi aðildarlandanna með öflugum hætti og að samræma orkustefnur landanna til að búa til samræmdan orkumarkað með jarðgas og rafmagn, sem stjórnað er af ACER-Orkuskrifstofu ESB. Ekki verður séð, að markvert gagn hafi hlotizt af þessu brambolti fyrir aðildarríkin, nú þegar harðnar á dalnum. Orkuskortur hefur leitt til svimandi orkuverðshækkana til heimila og fyrirtækja, þótt ríkisstjórnir hafi varið tugmilljörðum EUR til niðurgreiðslna.
Uppboðsmarkaður orku, sem ESB fyrirskrifar í orkulöggjöf sinni, verður að skrípaleik við þessar aðstæður. Nú vill svo illa til, að EFTA-ríkin í EES glöptust á að innleiða hjá sér þessa orkulöggjöf við gjörólíkar aðstæður þeim, sem ríkja á meginlandinu. Undir umsjón Orkustofnunar hefur Landsnet nú tilkynnt, að fyrirtækið vinni að og sé langt komið með undirbúning innleiðingar á orkukauphöll fyir heildsölumarkað raforku á Íslandi. Við þær skortaðstæður, sem búið er að koma upp á íslenzka raforkumarkaðinum, liggur í augum uppi til hvers þetta feigðarflan mun leiða fyrir neytendur hérlendis.
"Hér hefur of lítið verið virkjað á síðustu árum vegna þess, að of auðvelt er að þvælast fyrir virkjanaáformum eða öðrum framkvæmdum alveg óháð því, hvort þær framkvæmdir hafa verulega skaðleg áhrif á náttúruna eða ekki."
Þetta er hárrétt, og nú hefur Orkustofnun bætzt við dragbítaflokkinn af öllum stofnunum, því að afgreiðsla hennar á umsóknum virkjanafyrirtækja um virkjunarleyfi hefur dregizt úr hömlu, eftir að nýr Orkumálastjóri fór að setja mark sitt á verkefnastjórnina þar. Orkumálastofnun hefur misst sjónar á hlutverki sínu, sem er að leggja faglegt mat á tillögu virkjunarfyrirtækis um virkjunartilhögun. Þetta snýst m.a. um það að meta, hvort bezta tækni sé nýtt við að virkja aflið á virkjunarstað með hliðsjón af lágmarks raski á þeirri náttúru, sem er undir. Stofnunin á að gera þetta sjálf, en ekki að hlaupa út um allar koppagrundir til að leita umsagna. Það er hlutverk annarra.
Athygli vekur, að núverandi Orkumálastjóri virðist vera upptekin af því í hvað orkan fer. Það kemur henni ekki við. Samkvæmt orkulöggjöfinni, sem hún á að standa vörð um, ræður markaðurinn því. Það er ennfremur rangt hjá henni að halda því fram, að "endalaus" spurn sé eftir íslenzkri grænni orku. Svo er alls ekki, enda væri raforkuverð á Íslandi þá í hæstu hæðum. Alvörueftirspurn er takmörkuð með verðlagningunni. Þegar Orkumálastjóri virðist vilja beina nýrri orku einvörðungu í orkuskiptin, er um forræðishyggju að ræða hjá Orkustofnun, sem á ekki heima þar undir núverandi löggjöf, enda virðist hún alveg gleyma því, að atvinnulífið allt þarf meiri orku til að halda uppi atvinnustigi, bættum lífskjörum og sífellt dýrara heilbrigðis- og velferðarkerfi hins opinbera.
"Þetta hefur orðið til þess, að orkuskortur hefur gert vart við sig, sem er með ólíkindum í landi fullu af orku, og nú er svo komið, að við getum ekki nýtt þau tækifæri, sem standa til boða við að skapa meiri tekjur fyrir þjóðarbúið."
Þetta er hverju orði sannara hjá þeim, sem handfjallaði staka steina í þetta skiptið, en svo er helzt að skilja á Orkumálastjóra, að hún sé ekki sama sinnis, af því að ekki hafi enn komið til rafmagnsskömmtunar á heimilum. Forstjóri Landsvirkjunar hefur þó viðurkennt, að raforkukerfið sé þanið til hins ýtrasta, og það er auðvitað alger falleinkunn á framkvæmd orkustefnunnar, sem síðasta ríkisstjórn fékk samþykkta, því að á sama tíma eru 5 ár í, að næsta virkjun fyrirtækisins komist í gagnið.
Framkvæmd kerfisáætlana á að vera þannig, þar sem vel er haldið á málum, að fullnýting aflgetu kerfis og gangsetning nýrrar virkjunar, 35 MW eða stærri, beri upp á sama tíma. Hvernig í ósköpunum má það vera, að Orkumálastjóri komist upp með það við þessar aðstæður að stinga hausnum í sandinn og láta sem ekkert sé ?
Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 9. júlí 2022 undir fyrirsögninni:
"Ísland í kjörstöðu á orkumarkaði",
er viðtal við Pál Erland og hófst þannig:
"Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, segir sterka samkeppnisstöðu íslenzkra orkufyrirtækja um þessar mundir skapa tækifæri til að laða hingað viðskiptavini, sem nýta græna orku til verðmætasköpunar.
"Við Íslendingar þurfum áfram að nýta ýmis tækifæri, sem okkur bjóðast til gjaldeyrissköpunar til að halda uppi lífskjörum á Íslandi. Jafnframt þurfum við að eiga orku í orkuskiptin til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum í loftslagsmálum, sem að er stefnt", segir Páll. Skýrt samhengi er [á] milli orkuframboðs og hagvaxtar á Íslandi."
Það er til lítils að fjölyrða um sterka samkeppnisstöðu íslenzkra orkufyrirtækja, þegar þau eiga enga nýja orku til að selja. Hvað verður, ef/þegar þau eignast raforku til að selja nýjum viðskiptavinum, veit enginn, því að bæði er óvíst um kostnað þeirrar raforku og verðið, sem þá mun bjóðast í öðrum löndum. Með töfum hér innanlands hafa dragbítar framfara valdið töfum á orkuskiptum og valdið efnahagslegu tjóni, sem kemur niður á lífskjörum landsmanna. Orkugeirinn er varla nógu beittur til að fást við ormana, sem búnir eru að grafa um sig.
"Haft var eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í Morgunblaðinu í gær [08.07.2022], að fyrirtækið geti ekki annað eftirspurn eftir orku. Varðandi hækkandi raforkuverð beggja vegna Atlantshafsins benti Hörður á, að hagkerfin hefðu farið skarpt af stað, eftir að faraldrinum lauk, og að það ætti, ásamt örvandi efnahagsaðgerðum og innrás Rússa í Úkraínu, þátt í hækkunum á orkumarkaði."
Sú staðreynd, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun situr uppi með 2 hendur tómar (og báðar í skauti) og mun halda því áfram næstu árin, þegar kemur að nýjum viðskiptasamningum við raforkukaupendur, sem eru fúsir til að greiða uppsett verð fyrir raforkuna, og eru t.d. í matvælaframleiðslu eða í starfsemi, sem tengist orkuskiptum, er reginhneyksli á tímum, þegar heimurinn glímir við mjög alvarlegan orkuskort. Þessi staða sýnir grafalvarlega brotalöm í orkulöggjöfinni og stofnanir ríkisins, sem við sögu koma til að hindra ófremdarástand af þessu tagi, í fyrstu atrennu Orkustofnun, gera aðeins illt verra. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur verk að vinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.7.2022 | 14:11
Þrengist í búi
Það hefur vakið athygli í fyrirlitlegum og glæpsamlegum landvinningahernaði Rússa í Úkraínu, hversu frumstæð, illa skipulögð og mistakagjörn hervél Rússa er í baráttunni við mun fámennari her hraustra og hugrakkra Úkraínumanna, sem fram að þessu hefur skort þungavopn. Hið síðast nefnda stendur nú til bóta vegna síðbúinna vopnasendinga Vesturveldanna. Úkraínumönnum berast nú vopn, sem hermenn þeirra hafa hlotið þjálfun á, og vonir standa til, að í krafti þeirra muni Úkraínumönnum verða vel ágengt í gagnsóknum með haustinu (2022).
Stórbokkaháttur og ósvífni forystu Rússlands er með eindæmum í þessu stríði, en nýjasta stóra asnasparkið í þessum efnum kom frá Medvedev, þekktum kjölturakka Putins, í þá veru, að það stappaði nærri geggjun að ætla að saksækja forystu Rússlands, mesta kjarnorkuveldis heims, fyrir stríðsglæpi. Á öllum sviðum hernaðar hefur geta Rússlands hingað til verið stórlega ofmetin. Það hefur opinberazt í stríði þess við Úkraínu. Það er litlum vafa undirorpið, að þetta frumstæða og árásargjarna ríki færi sjálft langverst út úr því að hefja kjarnorkustríð. Það er kominn tími til að jarðsetja það yfirvarp Rússlandsforystunnar og dindla hennar, að Rússum hafi staðið slík ógn af NATO og mögulegri aðild Úkraínu að þessu varnarbandalagi, að þeir hafi séð sig til neydda að hefja innrás í Úkraínu og ekki skirrast við stríðsglæpum og þjóðarmorði þar. Þetta er falsáróður og helbert skálkaskjól heimsvaldasinnaðs og árásargjarns ríkis.
Á einu sviði hefur Rússland kverkatak á Vesturlöndum þrátt fyrir almennan vanmátt, en það er á orkusviðinu, en sú tíð verður vonandi liðin eftir 2 ár. Vesturlönd hafa stöðvað kolakaup af Rússlandi og eru þegar farin að draga úr kaupum á olíuvörum og jarðgasi þaðan og reyna að beina kaupum sínum annað og til lengri tíma að framkvæma orkuskipti, en það er víðast risaátak. Þetta hefur valdið miklum verðhækkunum á jarðefnaeldsneyti á heimsmarkaði, sem, ásamt annarri óáran í heiminum, gæti valdið eftirspurnarsamdrætti og efnahagskreppu af gerðinni "stagflation" eða verðbólgu með samdrætti og stöðnun.
Þetta virðist nú veita þjóðarbúskap Íslendinga högg, sem óhjákvæmilega mun bitna á lífskjörum þjóðarinnar. Ef aðilar vinnumarkaðarins semja ekki um kaup og kjör í haust með hliðsjón af versnandi stöðu þjóðarbúsins, gæti brotizt hér út verðbólgubál, stórhættulegt fyrir atvinnulífið og hag heimilanna.
Tíðindi af þessum umsnúningi til hins verra bárust með Morgunblaðsfrétt 07.07.2022 undir fyrirsögninni:
"Olíuverðið farið að bíta".
Hún hófst þannig:
"Vísbendingar eru um, að viðskiptakjör þjóðarinnar hafi gefið eftir á 2. [árs]fjórðungi [2022] samhliða hækkandi olíuverði. Höfðu þau þó ekki verið jafnhagfelld síðan haustið 2007."
Þótt hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun þjóðarinnar sé aðeins um 15 %, vegur kostnaður þess þó þungt við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og á viðskiptajöfnuðinn, einkum þegar þegar svo mikil hækkun verður á eldsneytinu, að það dregur úr kaupmætti almennings og framleiðslugetu fyrirtækja á meðal þjóða, þar sem hlutdeild jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun er yfir 2/3, eins og víðast er, eða jafnvel 85 %, og slíkt á við um ýmsar viðskiptaþjóðir okkar. Frá ársbyrjun 2022 til 06.07.2022 hefur verð Norðursjávarolíu hækkað úr 75 USD/tunna í 114 USD/tunna eða um 52 %. Íslendingar eru þó í þeirri kjörstöðu að geta dregið úr þessum sveiflum viðskiptakjara, en þó með töfum vegna fyrirhyggjuleysis við orkuöflun, eins og minnzt verður á hér á eftir.
""Fiskverð sem hlutfall af hráolíuverði hefur lækkað verulega á einu ári eða um rúm 30 %. Svipaða sögu er að segja af álverði, en lækkunin er ekki jafnmikil vegna hás álverðs. Bæði álverðið og olíuverðið eru kauphallarverð, en fiskverðið kemur í grunninn frá Hagstofunni, en mælikvarðinn þar er s.k. verðvísitala sjávarafurða", segir Yngvi [Harðarson hjá Analytica]."
Í þessu tilviki kann að vera um árstíðabundinn öldudal að ræða ásamt leiðréttingu á skammtímatoppi eftir Kófið, en einnig kann að vera um verðlækkun sjávarafurða og áls að ræða vegna minni kaupmáttar neytenda á mörkuðum okkar sakir mikils kostnaðarauka heimila og fyrirtækja af völdum verðhækkana jarðefnaeldsneytis, en verð afurða okkar voru reyndar í hæstu hæðum í vetur eftir lægð Kófsins.
Megnið af eldsneytisnotkun íslenzka sjávarútvegsins er á fiskiskipunum, og hann hefur tæknilega og fjárhagslega burði til að laga vélar sínar að "rafeldsneyti" eða blöndu þess og hefðbundins eldsneytis. Þessa aðlögun geta líka flutningafyrirtækin á landi og sjó framkvæmt, sem flytja afurðirnar á markað, en lengra er í það með loftförin.
Innlent eldsneyti mun draga úr afkomusveiflum sjávarútvegs og þjóðarbús og hjálpa til við að ná loftslagsmarkmiðunum, sem stjórnvöld hafa skuldbundið þjóðina til á alþjóða vettvangi án þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að liðka fyrir orkuöflun virkjanafyrirtækja. Þarna er allt innan seilingar, svo að ekki er eftir neinu að bíða öðru en raforku frá nýjum virkjunum, en hún virðist raunar lítil verða fyrr en e.t.v. 2027. Það er til vanza fyrir landsmenn í landi mikilla óbeizlaðra, hagkvæmra og sjálfbærra orkulinda.
Aðra sögu er að segja af áliðnaðinum. Þar er enn ekkert fast í hendi með að verða óháður kolum, en þau eru notuð í forskaut og bakskaut rafgreiningarkeranna, um 0,5 t/tAl. Morgunblaðið birti 07.07.2022 útreikninga á rekstrarkostnaði álvers Century Aluminium í Hawesville, Kentucky, þar sem raforkuverðið hefur síðan í ársbyrjun 2021 stigið nánast stöðugt úr 25 USD/MWh í 100 USD/MWh í júlíbyrjun 2022. Þetta hefur skiljanlega snúið hagnaði af verksmiðjunni í rekstrartap, svo að þar verður dregið úr framleiðslu og jafnvel lokað. Þannig hefur orkukreppan náð til Bandaríkjanna, a.m.k. sumra ríkja BNA, og er þar með orðin að heimskreppu minnkandi framboðs og eftirspurnar, þar sem svimandi hátt orkuverð kæfir báðar þessar meginhliðar markaðarins.
Þetta sést bezt með því að athuga meginkostnaðarliðina í USD/t Al og bera saman við álver á Íslandi:
- Kentucky Ísland
- Rafmagnskostnaður 1500 600
- Súrálskostnaður 760 800
- Rafskautakostnaður 500 600
- Launakostnaður 200 200
- Flutningur afurða 50 150
- Alls 3010 2350
Markaðsverð LME fyrir hráál er um þessar mundir um 2400 USD/t Al, svo að rekstur íslenzka álversins með hæsta raforkuverðið slyppi fyrir horn, þótt ekkert sérvöruálag (premía) fengist fyrir vöruna, en hún er um þessar mundir um 500 USD/t Al, svo að framlegð er um 550 USD/t Al m.v. núverandi markaðsaðstæður eða tæplega fimmtungur af tekjum fyrir skattgreiðslur. Þarna skilur á milli feigs og ófeigs. Það borgar sig ekki að halda Kentucky-verksmiðjunni í rekstri, nema þar sé kaupskylda á verulegum hluta raforkusamnings, en þar sem raforkuverðið sveiflast eftir stöðu á orkumarkaði, er álverið líklega ekki bundið af kaupskyldu. Þetta sýnir kosti þess fyrir kaupendur og seljendur raforkunnar að hafa langtímasamninga sín á milli, og það kemur líka mun betur út fyrir launþegana og þjóðarhag.
Það er yfirleitt ládeyða á álmörkuðum yfir hásumarið. Nú hafa Kínverjar heldur sótt í sig veðrið aftur við álframleiðslu, en Rússar eru lokaðir frá Evrópumarkaðinum, og álverksmiðjur víða um heim munu draga saman seglin eða þeim verður lokað vegna kæfandi orkuverðs. Þess vegna má búast við hóflegri hækkun álverða á LME, þegar líða tekur á sumarið, upp í 2700-3000 USD/t Al. Það dugar þó ekki téðu Kentucky-álveri til lífs, nema kostnaður þess lækki.
Iðnaðurinn á Íslandi er í tæknilega erfiðari stöðu en sjávarútvegurinn við að losna við losun gróðurhúsalofttegunda. Tilraunir eru í gangi hérlendis með föngun koltvíildis úr kerreyknum, og það eru tilraunir í gangi erlendis með iðnaðarútfærslu með byltingarkennt rafgreiningarferli án kolefnis. Rio Tinto og Alcoa standa saman að tilraunum með nýja hönnun í Kanada, og Rio Tinto á tilraunaverksmiðju í Frakklandi. Þar er að öllum líkindum sams konar tækni á ferðinni og frumkvöðlar á Íslandi hafa verið með á tilraunastofustigi.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), reit stuttan og hnitmiðaðan pistil í Fréttablaðið, 06.07.2022, undir fyrirsögn, sem vitnar um bjartsýni um, að jarðarbúum muni með kostum sínum og göllum takast að komast á stig sjálfbærni áður en yfir lýkur:
"Bætt heilsa jarðar".
Pistlinum lauk undir millifyrirsögninni:
"Aukin orkuöflun í þágu samfélags".
"Eigi þessi framtíðarsýn [Ísland óháð jarðefnaeldsneyti 2040-innsk. BJo] að verða að veruleika, þarf að afla meiri orku á Íslandi og nýta hana betur. Til þess eru mörg tækifæri án þess að ganga um of á náttúruna. Þannig er hægt að nýta gjafir jarðar og njóta þeirra á sama tíma [jafnvel betur en ella vegna bætts aðgengis og fræðslu í stöðvarhúsum nýrra virkjana-innsk. BJo].
Vonandi verður tilefni til að fagna árangri í loftslagsmálum árið 2040. Íslenzkur iðnaður mun ekki láta sitt eftir liggja til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og að skapa aukin verðmæti."
Það er stórkostlegt, að Íslendingar skuli vera í raunhæfri stöðu til að verða nettó-núll-losarar gróðurhúsalofttegunda eftir aðeins 18 ár og auka jafnframt verðmætasköpunina. Eins og orkumál heimsins standa núna (raunverulega enginn sjálfbær, stórtækur frumorkugjafi), eru Íslendingar orkulega í hópi örfárra þjóða í heiminum, en hafa skal í huga, að sitt er hvað gæfa og gjörvileiki. Íslendingar mega ekki láta villa sér sín, þegar kemur að því að velja orkulindir til nýtingar. Það má ekki skjóta sig í fótinn með því að ofmeta fórnarkostnað við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir og vanmeta samfélagslegan ábata þeirra og hrökklast síðan í neyð sinni í vindorkuveravæðingu, jafnvel úti fyrir ströndu, eins og þjóðir, sem skortir téðar orkulindir náttúrunnar. Tíminn líður, og embættismenn Orkustofnunar draga enn lappirnar við úthlutun sjálfsagðra virkjanaheimilda, og geta vissulega gert landsmönnum ókleift að standa við markmiðið um Ísland óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.7.2022 | 18:41
Landvernd afhjúpuð
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allt frá útkomu bókarinnar "Limits to Growth" (Endimörk vaxtar) á 7. áratugi 20. aldar, einmitt þegar grundvöllur var lagður að fyrsta meiriháttar virkjanaátaki Íslendinga til að stíga fyrstu umtalsverðu skref til iðnvæðingar í krafti íslenzkra orkulinda, hefur verið við lýði sérlundaður hópur á Vesturlöndum, sem trúir því, að auðlindir jarðar séu að klárast vegna þess, sem þeim finnst vera neyzluæði og kenna að sjálfsögðu auðmagnshagkerfinu um, sem þurfi stöðugan hagvöxt til að þrífast. Þetta þröngsýna viðhorf er reist á fákunnáttu og misskilningi og má alls ekki fá að móta þjóðfélagsþróunina.
Þennan sérvitringahóp hefur dagað uppi, því að ekkert af heimsendaspánum rættist, því að höfundarnir hugsuðu ekki málið til enda. Þeir gleymdu mikilvægum þætti auðmagnshagkerfisins, sem er verðmyndun, en hún er fall af framboði og eftirspurn og mikilvægi vörunnar/þjónustunnar í framleiðslukeðjunni og því, hvort til sé staðkvæmdarvara, sem nota megi í staðinn. Þá þróast ytri aðstæður, t.d. tækni á öllum sviðum, sem lítill gaumur var gefinn í "Endimörkum vaxtar".
Allt hefur þetta leitt til þess, að ekkert þeirra efna, sem spáð var, að yrðu uppurin innan tilgreinds tíma á 20. öldinni, hefur horfið af markaðinum enn. Markaðskraftar ýta í raun undir sjálfbæra auðlindanýtingu, því að hún er hagkvæmust til lengdar. Hringrásarhagkerfið þrífst með vörur, sem ódýrara er að endurvinna en að frumvinna. Gott dæmi um þetta er álið, sem hægt er að vinna aftur og aftur með lítilli rýrnun og tiltölulega lítilli orkunotkun.
Orkulindir Íslands eru fjarri því að vera fullnýttar að teknu tilliti til hófsemi í vernd og nýtingu. Nú hafa verið virkjaðar um 20 TWh/ár í vatnsföllum og jarðgufu til raforkuvinnslu, og hiklaust á með varfærni að vera unnt að bæta a.m.k. 15 TWh/ár við úr sams konar orkulindum. Síðan er spurning, hversu mikið verður ásættanlegt að framleiða með vindmyllum til að anna allri orkueftirspurn um árið 2040, þegar orkuskiptum og kolefnishlutleysi á að verða náð. Þau, sem þá þurfa að velja á milli orkulinda, munu e.t.v. hafa um fleiri kosti að velja en þau, sem nú taka ákvörðun, t.d. þóríum-kjarnorkuver af ýmsum stærðum.
Þau, sem móta stefnuna núna, eru Alþingismenn. Þar er margur sauður í mörgu fé, og spurning, hvort þeir glutra völdunum úr höndum sér með fáfræði og ábyrgðarleysi, t.d. til ACER, orkustofnunar Evrópusambandsins. Reyndar er embættisfærsla æðsta fulltrúa ACER á Íslandi nú um stundir, Orkumálastjóra, alveg afleit, og stærsta dæmið um það er, að Orkustofnun hefur lagzt á umsókn Landsvirkjunar um leyfi til að reisa Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá og tafið afgreiðslu óeðlilega í tæpt ár, en komnir eru um 13 mánuðir síðan stofnunin fékk þessa sjálfsögður umsókn loks í hendur. Þeir eru víða Júmbóarnir og dragbítar embættiskerfisins.
Jónas Elíasson, fyrrverandi verkfræðiprófessor, gerði þingmenn, orkumál og umhverfisvernd að viðfangsefni sínu í Morgunblaðsgrein 30. júní 2022:
"Þingmenn í biðflokki".
Þar gat m.a. að líta þetta:
"Það er alltaf forvitnilegt að fylgjast með umræðum um orku- og umhverfismál á Alþingi. [Það er þó fremur sorglegt en forvitnilegt - innsk. BJo.]. Margir þingmenn nota tækifærið til að belgja sig út í miklum æsingi yfir því, hversu miklir náttúruverndarmenn þeir séu, ekki megi skemma náttúruna fyrir nokkurn mun, "íslenzk náttúra er það dýrmætasta, sem við eigum", sem er satt og rétt, en menn verða að vita, hvað eru náttúruspjöll og hvað ekki, til að geta fylgt þessu eftir."
Sá málflutningur, sem þarna er vitnað til, er endurómur af talsmáta Landverndar og kemur í raun vernd einstakra náttúruminja ekki við, heldur er einfaldlega afturhaldsstefna undir fölsku flaggi rekin af trúflokki, sem trúir því, að til að bjarga jörðunni frá glötun verði að stöðva framleiðsluaukningu á jörðunni og þar með vöxt hagkerfanna, sem þó er undirstaða bættra lífskjara.
Þessu fólki hryllir við aukinni raforkuvinnslu á Íslandi, þótt úr endurnýjanlegum orkulindum sé og engu einstæðu gróðurlendi, landmyndunum eða vatnsföllum sé fórnað fyrir vikið. Þau leggja einfaldlega allar breytingar á náttúrunni af mannavöldum til jafns við óafturvirkt tjón. Þetta ofstækisviðhorf gengur auðvitað ekki upp í siðuðu samfélagi, sem vill reisa auðlindanýtingu á beztu fáanlegu þekkingu. Málamiðlun á milli nýrrar verðmætaköpunar og ósnortinnar náttúru verður að finna, og löggjöf um Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda var tilraun til þess, en þar skipta mælikvarðarnir öllu máli, og illa rökstudd slagsíða til verndunar hefur einkennt þá. Á tímum orkuverðs í himinhæðum í heiminum og orkuskorts, sem sums staðar má jafna við kreppu, er tímabært, að fram fari hlutlæg rýni og endurskoðun á þessum mælikvörðum og vægi þeirra, sem ráða því, hvort Verkefnisstjórn um Rammaáætlun raðar virkjunarkostum í verndar- eða nýtingarflokk. Mikið er í bið vegna meints skorts á gögnum.
"En hvað er til í þessu tali um, að virkjun sé náttúruspjöll ? Nánast ekki neitt. Ef menn eiga að nefna einhver náttúruspjöll, sem íslenzk virkjanagerð hefur valdið, vefst flestum tunga um tönn. Þau eru til, en æstir náttúruverndarmenn hafa bara sjaldnast hugmynd um, hver þau eru. Þeir kunna nöfnin á nýlegum orkuverum, hafa mótmælt þeim öllum, en sitja svo uppi með, að enginn teljandi skaði varð af byggingu þeirra."
Fyrrverandi verkfræðiprófessor, Jónas Elíasson, er ekki líklegur til að fara með neitt fleipur, svo að það má slá því föstu, að virkjanir hingað til hafi ekki valdið neinu óafturkræfu tjóni á íslenzkri náttúru. Ef þessi tilgáta er rétt, má telja afar sennilegt í ljósi stöðugra tækniframfara við slíka hönnun og framkvæmd, að niðurstöður verkefnastjórna Rammaáætlunar hingað til séu gróf yfirskot í þágu verndunarsjónarmiða. Þetta bendir aftur til rangrar aðferðarfræði við mat á kostum og löstum virkjunar. Almennilegar (hlutlægar) skilgreiningar á mælikvörðum matsins vantar.
"Þá gera virkjanir heilmikið gagn í verndun náttúrunnar. Bezta dæmið er líklega Efra-Fall. Þá var útrennsli Þingvallavatns stíflað, og þar með hvarf möguleiki rennslisins til að til að grafa gil í haftið niður í farveg Sogsins og tæma Þingvallavatn, rétt eins og Jökulsá á Brú tæmdi Hálslón og Tungnaá Sigölduvatn á sínum tíma, en Sigöldugljúfur tæmdi vatnið alveg. Það vatn er nú komið til baka sem Sigöldulón, en með heldur lægra vatnsborði en gamla vatnið.
Nær allir ferðamenn á leið til Landmannalauga fara fram hjá virkjanaröðinni í Þjórsá-Tungnaá og hafa ánægju af, enda eru stöðvarhúsin haganlega gerð. Sumir leggja lykkju á leið sína til að skoða Sigöldulónið. Það neikvæða við þessa þróun er, að umferð um Dómadalsleið hefur næstum lagzt af, sem er synd, því [að] sú leið í Landmannalaugar er mjög falleg."
Hægt er að taka undir hvort tveggja hjá verkfræðiprófessornum fyrrverandi, að vatnsaflsvirkjanir draga úr eða stöðva stöðugar náttúrulegar breytingar á náttúrunni, sem flestir eru sammála um, að séu til hins verra, og þess vegna eru vatnsaflsvirkjanir oft til bóta fyrir þróun náttúrunnar. Jöfnun rennslis neðan við virkjaðar ár er jákvæð fyrir fiskgengd í árnar og dregur jafnframt úr landbroti og tjóni á ræktarlandi í flóðum og vegna ísjakareks. Dæmi um þetta eru Neðri-Þjórsá og Blanda, en framburður þeirra á seti og ísi stöðvast að mestu í miðlunarlónunum, svo að þær breytast í góðar veiðiár.
Hitt atriðið er alþekkt staðreynd í öllum löndum vatnsaflsvirkjana, að mannvirkin, stíflur og stöðvarhús, virka sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn, einkum ef virkjunareigandinn setur upp móttökuaðstöðu fyrir áhugasama ferðalanga. Við mat á virkjanakostum hérlendis hefur allt of mikið varið gert úr neikvæðum áhrif virkjana á ferðamennsku. Jákvæðu áhrifin eru yfirgnæfandi.
Að lokum reit Jónas Elíasson:
"Nú er búið að samþykkja nýja [nr 3-innsk. BJo] rammaáætlun á Alþingi. Það telst til tíðinda, að nokkrir þingmenn ákváðu að skella sér í biðflokkinn og styrkja hann. Kjalölduveita og Héraðsvötn voru færð í þann flokk. Þetta er ekki stórt skref, en verulega til bóta. Full þörf er á að virkja jökulvatnið og draga þar með úr landbroti, og þetta á við um báða þessa virkjunarkosti. Bændur í Skagafirði verða oft fyrir búsifjum af völdum Héraðsvatna, en virkjun getur bægt landbroti frá jörðum þeirra, eins og gerzt hefur meðfram Þjórsá og Blöndu. Þannig hjálpa virkjanir til við að varðveita náttúruna. Vel gert, þingmenn."
Það er rík ástæða til að leggja meiri áherzlu á jöfnunaráhrif virkjana á rennslið og þar með á öryggi fólks og fénaðar neðan virkjunar og auðveldari landnotkun og aukið notagildi ánna ásamt eflingu ferðamennskunnar, sem af virkjunum leiðir. Þessir þættir hafa verið vanmetnir hingað til af verkefnisstjórnum um Rammaáætlun. Þessi atriði auk framfara í virkjanatilhögun og mikil verðmætaaukning raforkunnar á síðustu misserum vegna orkuskipta og landvinningastríðs Rússa í Úkraínu getur hæglega lyft virkjanakostum úr verndarflokki og í nýtingarflokk, ef aukin hlutlægni fær að ráða för, og valdið því, að fleiri færist úr biðflokki í nýtingarflokk en í verndarflokk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2022 | 13:46
Blekkingaleikur Landverndar
Margir hafa veitt mótsagnakenndum málflutningi Landverndar athygli, en talsmaður hennar og framkvæmdastjóri, Auður Önnu Magnúsdóttir, hefur reynt að skáka lygalaupinum Munchhausen í fjarstæðukenndum frásögnum af því, hvernig lifa mætti betra lífi í landinu með því að kippa um 150 mrdISK/ár út úr hagkerfinu með því að draga saman seglin í orkukræfum iðnaði og setja stoppara á ný virkjanaverkefni.
Það bezta, sem um svona Munchhausen málflutning má segja er, að einfeldningar hafi ofmetnazt og farið inn á svið, sem þeir ráða ekki við. Líklegra er þó, að um vísvitandi blekkingar sé þarna að ræða, þar sem gerð er ósvífin tilraun til að kasta ryki í augu almennings varðandi þjóðhagslega þýðingu iðnaðarins og þörfina á nýjum virkjunum í landinu til að spara jarðefnaeldsneyti og efla hagvöxt sem undirstöðu lífskjarabata almennings og bætts velferðarkerfis.
Það er eins og ábyrgðarlausir viðvaningar véli um mál hjá Landvernd. Hvaða áhrif halda menn, að yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um, að hún óskaði eftir því í nafni orkuskipta, að orkufyrirtæki með samninga við orkukræfan iðnað tilkynntu þessum viðskiptavinum sínum, að þau stefndu á helmingun orkusölunnar til þeirra við fyrsta tækifæri. Traust fjárfesta, erlendra sem innlenda, í garð íslenzkra stjórnvalda og Íslands sem fjárfestingarlands mundi gufa upp í einni svipan.
Þetta mundi leiða til fjármagnsflótta frá landinu og lækkunar á gengi ISK að sama skapi. Þetta yrði bara upphaf stórfelldrar kjaraskerðingar almennings, og samneyzlan yrði að sjálfsögðu að laga sig að tekjulækkun ríkissjóðs og sveitarsjóða. Þetta er svo foráttuvitlaus boðskapur Landverndar, að vart er á hann orðum eyðandi, en samt hefur framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, SI, dr Sigurður Hannesson, séð sig knúinn til að leggja hér orð í belg. Landvernd hefur á undanförnum árum farið mikinn, tafið mörg framfaramál, ekki sízt með rekistefnu fyrir dómstólum, en nú hefur hún skotið sig í fótinn með yfirgengilegum fíflagangi.
Í Morgunblaðinu 30. júní 2022 tjáðu Sigurður Hannesson og Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, sig við blaðamenn Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:
"Afleiðingin yrði lakari lífskjör".
Upphaf fréttarinnar var þannig:
"Talsmenn Samtaka iðnaðarins (SI) og Viðskiptaráðs eru ósammála þeirri afstöðu framkvæmdastjóra Landverndar til orkumála, sem kom fram í Morgunblaðinu á þriðjudag [28.06.2022].Ekki nægi að forgangsraða þeirri orku, sem þegar er framleidd, til að mæta aukinni orkuþörf í stað þess að fjölga virkjunum, eins og framkvæmdastjóri Landverndar hefur lagt til, að mati Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI."Íslenzkt samfélag hefur hagnazt ríkulega á orkusæknum iðnaði. Innlendur kostnaður álveranna á síðasta ári var mrdISK 123. Það er það, sem varð eftir hér", segir Sigurður. "Nærri 2 þús. manns eru á launaskrá hjá þessum fyrirtækjum ásamt verktökum auk afleiddra starfa." Það er ekkert til, sem heitir "forgangsröðun orku", sem þegar hefur verið samið um, nema í skömmtunarástandi. Landvernd endurvarpar kreppu- og ofríkishugarfari, sem getur ekki leitt til annars en tjóns og líklega lögsókna fyrir dómstólum, jafnvel athugasemda frá ESA og lögsókna gegn orkufyrirtækjunum og/eða eigendum þeirra fyrir ómálefnalega mismunum, þegar aðrar og mun nærtækari lausnir eru í boði. Landvernd er gegnsýrð af forræðishyggju og boðar, að orkufyrirtækin skuli sitja og standa, eins og ríkið (í höndum trúfélaga Landverndar) skipar fyrir. Það er einfaldlega óleyfilegt samkvæmt reglum Innri markaðar EES, og innan ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) er áreiðanlega engin samúð með þeim sérlundaða boðskap Landsverndar, að á Íslandi megi ekki virkja meiri endurnýjanlegar orkulindir, á sama tíma og orkuskorturinn er svo grafalvarlegur í Evrópu, að verið er að ræsa gömul kolaorkuver og hætt er við að loka um 7 kjarnorkuverum um sinn. Der Zeitgeist (andi tímans) er á móti Landvernd, þótt hún þykist boða nútímalega stefnu. Stefna Landverndar er fátæktarstefna, og hún hefur þegar valdið miklu samfélagslegu tjóni með því að tefja orkuframkvæmdir úr hófi fram. Þegar tekið er tillit til fjölda á launaskrá orkukræfs iðnaðar, verktakanna, sem fyrir þennan iðnað vinna, bæði innan verksmiðjugirðinga og utan, til starfsmanna orkufyrirtækjanna og flutningafyrirtækjanna, sem vinna í aðfanga- og frálagskeðju orkukræfs iðnaðar, er varfærið að áætla, að um 12 þúsund ársverk sé þar að ræða, og fleiri bætast þar við á tímum verulegra nýframkvæmda. ""Við yrðum verr sett sem samfélag, ef við ætluðum að fórna verðmætasköpun orkusækins iðnaðar til að framleiða rafeldsneyti í þágu orkuskipta", segir Sigurður. Þá megi ekki gleyma því, að orkusækinn iðnaður, og hugverkaiðnaður að einhverju leyti, séu einu útflutningsgreinarnar, sem nýta eingöngu hreina orku. Aðrar útflutningsgreinar, eins og ferðaþjónusta og sjávarútvegur, noti fyrst og fremst [aðallega] olíu til að knýja verðmætasköpun, sem byggir mikið á flutningum í lofti, á landi og á sjó. Orkuskipti muni þá ganga út á að nota hreina raforku til að framleiða hreina orkugjafa fyrir þessar greinar. Sigurður segir, að þróun í þá átt sé komin á fleygiferð og rifjar upp, að Samskip hafi nýlega fengið myndarlegan styrk úr norskum sjóði til að gera tilraunir með hreina orkugjafa á skip." Umrædd stefnumörkun Landverndar er aðeins enn eitt dæmið um þá þröngsýni, sem ríkir á þeim bæ. Hvergi á Vesturlöndum mundi það verða talið ábyrg ráðstöfun íslenzkra orkufyrirtækja að undirlagi ríkisvaldsins að hætta að selja allt að helming þeirrar sjálfbæru raforku, sem nú fer til orkukræfs iðnaðar á Íslandi, því að sú framleiðsla og jafnvel meira mundi þá færast til landa, sem bjóða raforku að mestu leyti framleidda með jarðefnaeldsneyti. Þannig er boðskapur Landverndar eins umhverfisfjandsamlegur og hugsazt getur á tímum stórfelldrar vöntunar á endurnýjanlegum og kolefnisfríum orkugjöfum. Við ættum yfir höfði okkar útskúfun á alþjóðavettvangi sem umhverfissóðar og blindingjar, sem ekki skilja þá alvarlegu stöðu, sem orkumál heimsins eru í og verða, þar til orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti hafa farið fram. Landvernd getur ekki notið snefils af trausti eða tillitssemi eftir þetta síðasta útspil, sem setur hana í hóp umhverfissóða á alþjóðavísu. "Hann [dr Sigurður] bendir á, að við séum engu bættari með að taka orku af iðnaði og nýta til annarra greina. Það auki ekki verðmætasköpun, heldur leiði til stöðnunar og verulegrar afturfarar varðandi lífskjör landsmanna. "Við breytum hvorki lögmálum hagfræðinnar né eðlisfræðinnar. Raunveruleikinn er eins og hann er, og við þurfum að laga okkur að því. Markmið stjórnvalda eru metnaðarfull, og hér er verið að taka ábyrga afstöðu í umhverfismálum í þágu okkar og heimsins alls. Við hljótum að vilja róa að því öllum árum að ná þeim metnaðarfullu markmiðum", segir Sigurður." Þarna flettir framkvæmdastjóri SI á sinn hátt ofan af sértrúarsöfnuðinum, sem kallar sig "Landvernd", en ástundar ekki "ábyrga afstöðu" til umhverfismála og er þess vegna ekkert annað en forstokkaður hópur um stöðnun samfélagsins á öllum sviðum, "núllvöxt", sem auðvitað leiðir óhjákvæmilega til hrörnunar samfélagsins, aukinnar eymdar og fátæktar. Eina leiðin fram á við er að auka skilvirkni á öllum sviðum til að gera landið samkeppnishæfara við útlönd, varfærin og sjálfbær aukin nýting auðlinda með beztu þekkingu og tækni að vopni til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi og auka framleiðslu landsmanna til að standa undir hagvexti og bættum lífskjörum. Téðri frétt Morgunblaðsins lauk þannig: "Jóhannes [Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs] ítrekar, að fjórðungur srarfa á Íslandi sé í iðnaði og þaðan komi fimmtungur landsframleiðslu. Hann segir [því] enn þá ósvarað, hvað eigi að koma í staðinn fyrir stóriðjuna, og hver annar eigi að greiða fyrir uppbyggingu á dreifikerfinu [flutningskerfi raforku-innsk. BJo].Bætir hann við, að Auður nefni ferðaþjónustuna sem betri kost en stóriðju, en að hans mati er ferðaþjónusta ágæt, þangað til hún er það ekki. Vísar hann þá til kórónuveirufaraldursins, og hversu sveiflukenndur ferðamannageirinn er. Að auki tekur hann fram, að ferðaþjónusta sé ekki með háa framleiðni, heldur þvert á móti og krefjist mikils vinnuafls. "Auðvitað þarf alltaf að huga að forgangsröðun orku, en ef við ætlum að viðhalda efnahagslegri velferð þjóðarinnar, verður það ekki gert með því að draga úr orkunotkun þjóðarinnar. Það eru draumórar", tekur Jóhannes fram í lokin." Orkukræfur iðnaður og ferðaþjónusta eru ósambærilegar atvinnugreinar, andstæður að flestu leyti hérlendis. Þar sem hagsmunir þeirra rekast þó engan veginn á hérlendis, fara þessar tvær atvinnugreinar ágætlega saman og höfða til ólíkra aðila í þjóðfélaginu. Saman gera þær hagkerfi og samfélag sterkara. Það er rangt, að virkjanir fæli ferðamenn frá og loftlínum fækkar í landinu. Hérlendar virkjanir eru aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en öðru máli gegnir um vindorkuverin. Það er þó önnur saga.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)