Sóknarfæri í landbúnaði

Í einu vetfangi hefur mannfrekasta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, hrunið af orsökum, sem spekingar, spámannlega vaxnir og hinir, sáu ekki fyrir. Engum datt í hug, að á örfáum sólarhringum yrðu yfir 90 % allra farþegaflugvéla kyrrsettar á jörðu niðri vegna rétt einnar öndunarfæraveirunnar, sem frá Kína hefur borizt um heiminn.  Þetta gerðist samt í marz 2020 og hvorki ferðaþjónustan né hagkerfi heimsins hafa borið sitt barr síðan, enda eru viðbrögð stjórnvalda í ríkjum heimsins fordæmalaus.  Aðallega virðast þau hafa helgazt af ótta við, að heilbrigðisþjónustan myndi oflestast og engu öðru geta sinnt, eins og sást daglega í fréttum, m.a. frá Evrópu.

Landbúnaðurinn hefur gríðarlegu hlutverki að gegna við heilsueflingu, og þar með eflingu ónæmiskerfis einstaklinganna, í hverju þjóðfélagi. Íslendingar eiga því láni að fagna, að nægilega margir á meðal þeirra eru enn fúsir að yrkja jörðina og gera það með heilnæmari hætti en flestir starfsbræðra þeirra og -systra á Vesturlöndum.  Óværan SARS-CoV-2 frá Kína beinir athyglinni að nauðsyn þess, að hér sé ræktað og framleitt það, sem hægt er aðstæðna vegna.  Það er furðulegt, að fólk skuli ekki vanda betur til matarinnkaupanna og neyzlunnar í ljósi þeirrar vitneskju, sem fyrir hendi er um tilurð og grundvöll landbúnaðarafurða víða erlendis, t.d. í Evrópu. 

Gríðarleg tækniþróun og framleiðniaukning hefur átt sér stað í íslenzkum landbúnaði á þessari öld.  Enn geta innlendir framleiðendur aukið markaðshlutdeild sína á flestum sviðum starfseminnar, e.t.v. mest á grænmetis- og blómamarkaði.  Gæði innlendrar framleiðslu fara ekki á milli mála, og heilnæmi matvæla verður stöðugt þungvægara við val neytandans, ekki sízt eftir mikla umræðu í Kófinu um mismunandi styrk ónæmiskerfisins eftir lifnaðarháttum fólks. Það, hversu þungt veiran lagðist á fólk, fór að miklu leyti eftir styrk ónæmiskerfisins og getu þess til að mynda mótefni gegn veirunni.  Ef höfundur túlkar rétt, er þetta ein af niðurstöðum rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar, sem hún, í samstarfi við fyrirtæki vestanhafs, notar nú við þróun bóluefnis, sbr einkaþotu, sem flutti þessi efni í byrjun júní 2020 vestur um haf úr "sterkum" Íslendingum, sem höfðu sýkzt.  

Eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010 gripu bændur gæsina og efldu mjög getu sína til móttöku ferðamanna.  Þeir ásamt fjölskyldum sínum eru kjörnir til þess verks, enda hefur mikil framleiðniaukning skapað þeim sumum svigrúm til þess í tíma.  Nú hefur hins vegar illilega sýnt sig, að ekki er á vísan að róa með erlenda ferðamenn.  Nýjar stoðir undir starfsemina væru því mörgum bændum kærkomnar. 

Á flestum hinna Norðurlandanna er skógarhögg og skógrækt mikilvæg atvinnugrein, og er stóriðnaður í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.  Ýmsir Íslendingar hafa kynnzt þessari starfsemi þar.  Næg grundvallarþekking er fyrir hendi í landinu til að hefja þessa starfsemi til vegs og virðingar í landinu undir forystu Skógræktarinnar og Landbúnaðarháskóla Íslands.  Það er lag núna og sjálfsagt að ganga á lagið. 

Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur, hefur skrifað mikið í Morgunblaðið um landsins gagn og nauðsynjar.  Þann 18. maí 2020 birtist í blaðinu grein eftir hann undir fyrirsögninni:

"Íslenzk skógrækt er verðmætasköpun og snjöll atvinnugrein".

Hún hófst þannig:

"Mikil verðmætasköpun gæti átt sér stað, ef markmið rætast um að fimmfalda þekju skóga á Íslandi á næstu 20 árum og fara úr t.a.m. [rúmlega] 1 % í 6 % af flatarmáli Íslands, og ná þannig að standa undir atvinnusköpun og sjálfbærri byggðaþróun.  

Verðmæti lands eykst verulega með aukinni skógrækt, en öll ræktun í skjóli skóga verður hagkvæmari og verðmætari.  [Þetta á ekki sízt við um hina vaxandi kornrækt á Íslandi - innsk. BJo.] 

Landsbyggðin á Íslandi er sannkallaður óslípaður demantur, og það er ljóst, að skógrækt með skipulögðum hætti hefur mikil áhrif til styrkingar byggðar um allt land.  Það er ekki ólíklegt, að vörzlumönnum muni fjölga, sem gæta ómetanlegra verðmæta, sem eru í náttúru og náttúruauðlindum Íslands.  Gæta þarf að mikilvægi sjálfbærrar þróunar, sem hefur að leiðarljósi að byggja upp og varðveita skógarauðlind, sem þjónar hagrænum umhverfismarkmiðum og lækkar samfélagskostnað."

 Skilyrði til landbúnaðar hafa batnað á Íslandi frá náttúrunnar hendi og vegna tækniþróunar, þróunar verkmenningar og meiri eftirspurnar á innlendum markaði (fleiri munnar að metta) og erlendis (aukin kaupgeta og versnandi ræktunarskilyrði).  Skapazt hefur spánýr markaður með gasið koltvíildi, CO2, sem íslenzkir skógarbændur verða í góðum færum að keppa á. 

Nokkru seinna í greininni skrifaði Albert um fjárfestingarhliðina:

"Ef skógræktarverkefni, þar sem horft er til lengri tíma og ávöxtun m.t.t. áhættu er innan þeirra marka, sem lífeyrissjóðir gera, væri hægt að hefjast handa við stórfellda skógrækt á Íslandi í samstarfi íslenzkra lífeyrissjóða, stjórnvalda, skógræktarfélaga og bænda um allt land. Þjóðarátak í skógrækt á Íslandi með aðkomu helztu aðila, s.s. stjórnvalda, opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar, einkafyrirtækja og einstaklinga um allt land, getur gert það mögulegt að hefja stórsókn í skógrækt og ná þannig metnaðarfullum markmiðum um sjálfbærni og verðmætasköpun fyrir Ísland og Íslendinga." 

Málið er, að með markaðsmyndun fyrir koltvíildiskvóta er skógrækt orðin arðsöm á Íslandi.  Trjátegundirnar eru mjög misjafnar, og það þarf að velja þær af kostgæfni m.v. aðstæður, þ.e. landsins, sem planta á í og nytjanna, sem ætlunin er að hafa af skóginum.  Á meðal fagfólks á þessu sviði er fyrir hendi öll nauðsynleg þekking og mælitækni, sem völ er á.  Er þar ólíku saman að jafna við endurvætingu uppþurrkaðra mýra, sem er í raun fát út í loftið og ætti að stöðva nú þegar, nema þar sem Landbúnaðarháskólinn mælir með því og hefur eftirlitið með höndum. 

Karl Gauti Hjaltason, Alþingismaður Miðflokksins, ritaði um skógrækt í Bændablaðið 4. júní 2020 undir fyrirsögninni:

"Sveiflum haka og ræktum nýjan skóg".

Hún hófst þannig:

""Í þá tíð var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru", ritaði Ari, prestur fróði, Þorgilsson í upphafskafla Íslendingabókar. Talið er, að við landnám hafi um þriðjungur landsins verið þakinn birkiskógum og kjarri, en nú vex birki á um 1,5 % landsins, og ræktaðir skógar þekja 0,5 % þess. Íslendingar eru í þeirri óvenjulegu stöðu, að nær allir skógar landsins eyddust, og á eftir fylgdi hrikaleg jarðvegseyðing og hnignun landgæða, sem er okkar alvarlegasta umhverfisvandamál."

    Hér er hvergi hallað réttu máli, en samt mætti af almennri umræðu ráða, að núlifandi kynslóð manna á Íslandi, starfsemi hennar og inngrip í náttúruna, oftast til að beizla krafta hennar til verðmætasköpunar, sé alvarlegasta umhverfisvandamálið. Þá hafa margir malarbúar gripið á lofti hráan áróður um, að endurvæting lands sé mikilvægari en að kljást við jarðvegseyðingu og endurheimt skóganna.  Sá áróður ber keim af heilaþvotti loftslagsumræðunnar, þar sem látið er í verðri vaka, að mokstur ofan í framræsluskurði á Íslandi hafi einhver áhrif á þróun loftslags á jörðunni.  Allt er það bull og vitleysa.

"Skógrækt er ung búgrein á Íslandi, og vöxtur trjáa er til muna öflugri en menn hafa þorað að vona.  Fyrir hendi er mikið ónýtt landnæði, og trjárækt getur auðveldlega komið til stuðnings og viðbótar við aðra atvinnuvegi landsmanna."

Hér kemur Karl Gauti að samkeppnisstöðu Íslendinga á þessu sviði, sem er einstök vegna mikils landrýmis, sem hægt er að leggja skógræktinni til án þess að ganga á hlut annarrar starfsemi. Vaxtarhraðinn fer vaxandi með hækkandi meðalhitastigi, hærri koltvíildisstyrk í lofti og aukinni úrkomu, svo að hér er kjörið sprotatækifæri.  

"Afurðir nytjaskóga verða að verðmætu lífrænu hráefni, timbri og smíðaviði.  Á líftíma sínum skapar skógur margvísleg efnisleg verðmæti, fyrst brennsluvið, girðingarstaura, jólatré, trjákurl og arinvið, og síðar meir timbur og aðrar viðarafurðir, sem nýta má á ótal vegu. Verð á timbri hefur lengi farið hækkandi á heimsmarkaði, og ekkert, sem bendir til, að draga muni úr eftirspurn á næstunni.  Sumar spár gera reyndar ráð fyrir því, að trjáviður muni í æ ríkari mæli koma í stað steinsteypu sem byggingarefni."

Loftslagsumræðan ýtir undir hið síðast nefnda hjá Karli Gauta, því að hvert tonn sements skilur eftir sig stórt kolefnisspor, sem ekki minnkar með aldri steypunnar, eins og á við um t.d. álið, sem hægt er að endurvinna takmarkalaust, og notkun þess í t.d. samgöngutæki minnkar í raun kolefnisfótsporið, sem myndast við frumvinnsluna. Það væri óskandi, að hér mundu skapast skilyrði fyrir skógariðnað, sem er mikilvægur þáttur í hagkerfi flestra hinna Norðurlandanna og er gjaldeyrissparandi. 

 

Nú sjáum við, hversu atvinnustigið á Íslandi er hverfult.  Að reiða sig á ferðaþjónustu í þeim efnum er ekki hægt.  Ef skógariðnaður gæti komið sem aukabúgrein í landbúnaði, myndi hann bæta bæði atvinnuöryggi og afkomuöryggi á landsbyggðinni. Hvað skrifaði Karl Gauti um þetta ?:

"Nú með þverrandi atvinnu er unnt með aðgerðum stjórnvalda að skapa fólki arðbær störf við að undirbúa stórátak til að efla skógrækt.  Strax má vinna að því að hirða um og grisja þá skóga, sem fyrir eru, og auka þannig gæði þeirra og hámarka árangur.  Arður af skógi kemur reyndar ekki í sviphendingu, en býsna skjótt má fá tekjur af skógi vöxnu landi vegna grisjunar.  Með vexti skógar aukast tekjur af honum og störfum fjölgar, og trjáviður er uppspretta ótal tækifæra til nýsköpunar á ýmsum sviðum iðnaðar.  Skógrækt sem tiltölulega ný atvinnugrein mun þannig stuðla að jákvæðri byggðaþróun og skapa fjölmörg afleidd störf og vera framtíðarauðlind fyrir komandi kynslóðir landsmanna."

Varðandi tekjuhlið skógræktarinnar má ekki gleyma umtalsverðum þætti, sem vara mun svo lengi, sem mannkynið berst við að draga úr koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, en það er sala á bindingu CO2 í viði og jarðvegi.  Rannsóknir hafa sýnt nettó bindingu í mjög ungum ræktunarskógi.  Það er engum blöðum að fletta um mátt trjáa til bindingar CO2, því að af 560 mrdt kolefnis í gróðri jarðar eru um 390 mrdt í skógunum eða 70 %.  Alaskaöspin er langöflugusta trjátegundin hérlendis í bindingu og bindur að jafnaði yfir 20 t CO2/ha á ári.  Barrtrén afkasta rúmlega 40 % af því, en birkið er hægvaxnast og bindur aðeins um 3,5 t CO2/ha á ári.  Með fjórföldun á fjölda núverandi gróðursetningarplantna á ári má fljótt fá bindingu, sem nemur 535 kt CO2 ár, sem er 11 % af skráðri losun Íslands. Það er ekki vafi, að þetta er hjálplegt við að ná markmiði Íslands í samflotinu með EES gagnvart Parísarsáttmálanum, en það er enn óljóst, hversu mikið Ísland má telja fram á sviði bindingar.  

Losun frá umferðinni fer nú minnkandi og sama má segja um útgerðirnar.  Landsmenn ættu þess vegna ekki að þurfa að lenda í miklum þvinguðum kaupum á koltvíildiskvóta.  Samt verður þörf á bindingu til viðbótar við minnkandi bruna jarðefnaeldsneytis, því að millilandaskip, flugvélar og ýmsar greinar iðnaðarins munu fram yfir árið 2030 verða háð orku úr jarðefnaeldsneyti.  Á þessum sviðum geta þó orðið óvænt gegnumbrot, t.d. á sviði áliðnaðar, þar sem rannsóknir fara fram á kolefnisfrírri rafgreiningu súráls. Við rafgreininguna verður þá til súrefni, O2, í stað koltvíildis, CO2. Með Elysis verkefni Rio Tinto og Alcoa í Voreppe í Frakklandi er ráðgert að hefja framleiðslu áls með kolefnisfríum hætti fyrir árslok 2021 með fullum iðnaðarstraumi, sem er 1000 sinnum hærri en straumur í tilraunaverkefni, sem nýlega var kynnt hérlendis til sögunnar og er í raun 20 árum á eftir tímanum og getur því varla nokkurn tímann orðið barn í brók, en meira um það síðar. 

Í lokin skrifaði Karl Gauti:

"Gróðursetning hefur dregizt verulega saman hér á landi frá efnahagshruni, og í fyrra [2019] voru aðeins gróðursettar 3 M trjáplantna.  Nauðsynlegt er að auka þar verulega við og margfalda plöntun.  Undirbúningur þess tekur nokkur ár og því mikilvægt að hefjast þegar handa.  Aðgerðir stjórnvalda eru því miður í hænuskrefum að þessu leytinu, á sama tíma og innan fárra ára kemur að uppgjöri á kolefnisbókhaldi landsins.

Fram undan eru því tækifæri til að draga úr áhrifum niðursveiflu í efnahagslífinu, ná verulegum árangri í loftslagsmálum og byggja upp auðlind til hagsbóta fyrir land og þjóð í framtíðinni.  Á erfiðum tímum þarf að horfa til framtíðar og byggja upp.  Fátt eykur bjartsýni fólks eins mikið og gróðursetning trjáa.  Nýtum það lag og blásum til grænnar sóknar - og ræktum skóga."

Það er óskandi, að þessi herhvöt Karls Gauta gangi eftir nú, þegar harðnandi samkeppni verður um fjármagnið.  Efnahagur hins opinbera og atvinnulífsins er mjög aðþrengdur og allt gert með bullandi skuldsetningu. Flýtur á meðan ekki sekkur. Nú ríður á að fara vel með fé.  Falskenningar eru á lofti um langmesta skilvirkni endurvætingar lands til að draga úr gróðurhúsaáhrifunum.  Nýjar rannsóknir sýna, að ávinningurinn er mun minni en áður var talið, og hann er auk þess alveg undir hælinn lagður og getur jafnvel snúizt upp í andhverfu sína vegna þess, að land, sem þurrkað var fyrir meira en 50 árum, er komið í jafnvægi og sendir ekki frá sér koltvíildi af völdum þurrkunar.  Réttast væri að hætta að svo stöddu fjárveitingum til ofanímoksturs skurða og beina fénu til skógræktar.  

 

  Kjarnorka í samkeppni við kol

 

 


Stórtækar og öfgafullar friðlýsingartillögur

Umhverfis- og auðlindaráðherra án þingsætis hefur viðrað tillögur um risavaxinn Hálendisþjóðgarð, sem engin þörf er fyrir og yrði varðveizlu náttúru að engu leyti hjálplegri en núverandi fyrirkomulag, þar sem sveitarfélög og íbúar (bændur) þeirra koma mest við sögu.  Nóg um það.  Nú hefur hann gengið fram með tillögu, e.t.v. "spill for galleriet", sýndarleik, sem fjallar um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.  Jón Gunnarsson, Alþingismaður, sýndi almenningi fram á það með Morgunblaðsgrein sinni 26. maí 2020:

"Að friðlýsa landið og miðin",

að hér er um löglaust framferði ráðherrans að ræða, sem engin sátt getur orðið um á meðal meirihluta þingheims, enda er málið á leiðinni fyrir dómstóla.  

Öfgafullt hugarfar og viðhorf umhverfis- og auðlindaráðherra til reglusetninga um það, hvernig nýta má hálendið og reyndar hefðbundnar orkulindir, hvar sem þær er að finna hérlendis, er sorglegt.  Hvers vegna vill hann stöðugt breyta leikreglunum sínum skoðunum í vil ?  Það verður að þræða hinn gullna meðalveg í þessum efnum, sem felst í að nýta þær orkulindir, sem spurn er eftir, ef fórnarkostnaðurinn "að beztu manna yfirsýn" og með blessun Alþingis er minni en hinn þjóðhagslegi ávinningur.  Spriklið í umhverfis- og auðlinda bendir til, að hann sætti sig ekki við þessa nálgun.  Hann á dálítið bágt að geta ekki spurt kjósendur sína ráða, því að þeir eru engir.  Hann getur aðeins hlustað í bergmálshelli Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Það er ógæfulegt til ákvarðanatöku í þágu þjóðar. 

Nú verður vitnað til hinnar öflugu greinar Jóns:

"Tillaga verkefnisstjórnarinnar og þar með þingsályktunin var því unnin áður en málsmeðferðareglur laganna tóku gildi.  Í þeim felast m.a. verklagsreglur, sem verkefnisstjórn og faghópar skulu fylgja.  Verkefnisstjórn rammaáætlunar 2 vann sem sagt aldrei eftir þessum reglum, því að þær voru ekki til.  Verkefnisstjórnin hafði ekki á þessum tíma (fyrir 2011/2013) það hlutverk að afmarka virkjunarsvæði eða virkjunarkosti.  Af því leiðir, að afmörkun virkjunarsvæða eða virkjunarkosta var ekki hluti af tillögu verkefnisstjórnar og þar með heldur ekki hluti af ályktun Alþingis.  Rammaáætlun 2 skorti því öll fyrirmæli um, hver væru mörk virkjunarsvæða eða virkjunarkosta og þingsályktunin því mjög ófullkomin að þessu leyti."

 

"Það er greinilega úr vöndu að ráða fyrir ráðherra umhverfis- og auðlindamála, þegar ákveða skal leiðina.  En ráðherrann ákvað sem sagt, að lög og verklagsreglur, sem ekki voru til, þegar verkefnisstjórn vann tillögu að ramma 2, og ekki voru í gildi, þegar þingsályktunin frá 2013 var samin og samþykkt, skuli veita leiðsögnina um mörk friðunar."  

 Þetta er góð röksemdafærsla fyrir því, að umhverfis- og auðlindaráðherra veður reyk í tilraunum sínum til friðlýsingar vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.  Gjörðir ráðherrans eru ólögmætar og út í hött.  Það gengur ekki, að ráðherra gangi erinda sérhagsmunaafla í landinu, sem draga úr möguleikum núverandi og komandi kynslóða til að taka ákvarðanir um atvinnutækifæri, gjaldeyrissparnað eða gjaldeyrissköpun. 

Síðan heldur Jón áfram:

"Í engu tilviki voru heil vatnasvið sett í verndarflokk í rammaáætlun 2, þingsályktun 13/141.  Í öllum tilvikum er talað um virkjunarkosti.  Friðanir eða tillögur þar um verða að taka mið af þessu.  Ekki kemur til álita að friða vatnasvið og árfarvegi, nema rammaáætlun segi það berum orðum."

Jón Gunnarsson er betur að sér en flestir aðrir menn á þingi um þessi mál, baksvið lagasetningar um orkumál og ætlun löggjafans.  Hann er ennfremur víðsýnn þingmaður með þau viðhorf, að fjölbreytileg nýting landsins gæða eigi að fá að njóta sín.  Jón Gunnarsson mun ekki láta ráðherra komast upp með rangsleitni, yfirgang og öfugsnúna lagatúlkun. 

"Ég sat á sínum tíma í þingnefndinni, sem um þetta fjallaði, og í þeim nefndum, sem síðan hafa fjallað um þennan málaflokk.  Vilji löggjafans er alveg skýr í þessum efnum.  Ljóst er, að ef skýringar og stefna ráðherrans fengju að ráða, þarf ekki mikið að velta fyrir sér nýtingu orkuauðlinda okkar.  Ef henni yrði beitt í ýtrasta tilgangi, yrði landið nánast allt friðað fyrir frekari virkjunum.  Það liggur í augum uppi, að löggjafinn var ekki að færa svo mikilvægar ákvarðanir í hendur eins manns, þ.e. umhverfis- og auðlindaráðherra."

Ráðherrann er með brambolti sínu að troða sjónarmiðum jaðarhóps í þjóðfélaginu að sem stefnu ríkisvaldsins.  Þessi stefna er ekki reist á neinum haldbærum rökum, heldur aðeins þeirri tilfinningu, að "náttúran verði að njóta vafans", þótt þjóðin verði að éta, það sem úti frýs.  Þetta er afturhaldssjónarmið reist á rökvillu um, að maðurinn sé eini breytingavaldurinn í náttúrunni.  Hið rétta er, að náttúran sjálf er öflugasti breytandinn og sjónræn áhrif vatnsaflsvirkjanaframkvæmda á náttúruna eru flest lítil og sum til bóta og mörg eru afturkræf.  Kosti og ókosti þarf auðvitað að vega saman og málamiðlanir að gera, en ofstæki á ekki heima í þessum málaflokki frekar en öðrum, þar sem fjallað er um tæknilegar lausnir. 

"Ákvarðanir um friðlýsingarmörk verða augljóslega að vera hluti af ákvörðunum um að setja virkjunarkost í verndarflokk.  Ég vil taka það skýrt fram, að ég er ekki á móti friðlýsingum, en öfgar og útúrsnúningar sem þessir eru í andstöðu við vilja löggjafans.  Ef skilningi ráðherrans yrði fylgt til hins ýtrasta varðandi virkjanakosti í verndarflokki, yrðu möguleikar til nýtingar orkuauðlinda okkar skertir stórkostlega og gerðu út af við möguleika okkar til sóknar á þeim vettvangi."

Þetta er mergurinn málsins.  Ráðherrann stefnir að því að leggja höft á komandi kynslóðir um nýtingu landsins gæða.  Það er í senn ólýðræðislegt og andstætt heilbrigðri skynsemi, því að nýjar kynslóðir búa við nýjar þarfir og ný úrræði til að beizla náttúruna.  Þessi ríkisstjórn er ekki studd af meirihluta þings og þjóðar til slíkra óhæfuverka. 

"Hér eru gríðarlegir þjóðhagslegir hagsmunir undir, og við höfum ekki efni á að skerða möguleika þjóðarinnar til að skapa verðmæti með nýtingu auðlinda sinna.  Málamiðlun í þessu sem öðru þarf að vera það leiðarljós, sem við fylgjum.  Það eru mörg tækifæri til að friða viðkvæmar náttúruperlur án þess, að gengið sé á möguleika okkar að öðru leyti."

 Hér er vel að orði komizt um kjarna málsins.  Það er engin glóra í því að útiloka virkjunartilhögun fyrirfram áður en hún hefur verið sett fram.  Slíkt eru handabakavinnubrögð og fórn verðmæta með bundið fyrir augun.  Þetta virkjanahatur er heimskulegt í ljósi umhverfismála heimsins og í ljósi þarfar þjóðarinnar fyrir aukna gjaldeyrissköpun um 50 mrdISK/ár til að halda í horfinu fyrir vaxandi þjóð, sem er að eldast.   

 Dettifoss

 

 


Vindmylluriddarar og aðrir einstefnumenn

Það er undarleg tilhneiging hérlendis til útskúfunar heilla atvinnugreina og að fella um þær palladóma, sem reistir eru einvörðungu á fordómum og þekkingarleysi. Iðulega styðjast þessi viðhorf við innflutt sjónarmið úr gjörólíku umhverfi, sem engan veginn eiga við hér.  Þar með bíta þessir talsmenn höfuðið af skömminni, svo að á þeim er lítt mark takandi. 

Hér verður tvennt gert að umræðuefni: áhugi á uppsetningu vindorkuvirkjana hérlendis og hernaðurinn gegn nýjum hefðbundnum íslenzkum virkjunum á sviði jarðgufu og vatnsafls.

Vindmyllur eru neyðarbrauð, sem gripið var til í örvæntingu erlendis til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í löndum, þar sem hlutdeild þeirra í raforkuvinnslu var yfirleitt undir 10 %.  Hérlendis er þessi hlutdeild næstum 100 %, þökk sé vatnsorkuvirkjunum og jarðgufuvirkjunum.  Frumskilyrði fyrir vindorkuver vantar þess vegna hérlendis.

  Vindmyllurnar eru litlar að uppsettu afli, oft 3-5 MW, og nýting þeirra er slæm á landi (betri úti fyrir ströndu).  Raforkuvinnsla þeirra er slitrótt, og jafngildir orkuvinnsla þeirra yfir árið því, að þær séu á fullu afli minna en 30 % af árinu á heimsvísu, en hérlendis líklega um 40 % að teknu tilliti til viðhalds.  Að sama skapi hefur orkan frá þeim verið dýr, um 70 USD/MWh, en með bættri framleiðslutækni og lækkun verðs þeirra frá verksmiðju á hvert MW hefur e.t.v. náðst að lækka þennan vinnslukostnað niður í 50-60 USD/MWh.  Þetta er þó einfaldlega ekki samkeppnishæft verð á Íslandi án niðurgreiðslna, á meðan nægt framboð er af raforku frá hefðbundnum íslenzkum virkjunum. 

Hvað sem líður áformum um nýjar slíkar virkjanir, sem eru fremur fátækleg, nema helzt smávirkjanir vatnsafls og endurnýjun gamalla virkjana með aukin afköst og meiri orkuvinnslu í huga, þá er nóg af ónýttum virkjanakostum í gildandi Rammaáætlun, svo að ekki sé minnzt á biðflokkinn.  Skynsamlegasta notkun vindmyllna hérlendis er að láta þær jafnan vera á mestu mögulegu afköstum og spara á móti vatn í miðlunarlónum, en engin þörf er á þessu á sumrin í góðum vatnsárum.  Við venjulegar aðstæður er takmarkaður og óviss markaður fyrir vindmyllur á Íslandi. Er einhver spurn eftir þessari orku, eða fyrir hvað eru vindmylluriddarar nútímans að sverma hérlendis ?

 

Framleiðsluferli vindmyllna skilur eftir sig umtalsvert kolefnisfótspor, og í þeim eru verðmætir og sjaldgæfir málmar.  Spaðarnir eru yfirleitt úr glertrefjum, og þeir slitna vegna loftmótstöðu og sandfoks og þarfnast skiptingar.  Þeir gömlu eru yfirleitt urðaðir. Enn vex kolefnissporið, þegar jarðvinna og gríðarleg steypuvinna hefst á virkjanasvæði vindsins.  Það er gríðarleg graftrarvinna fyrir stórar steyptar undirstöður, vegalagning og strengjaskurðir fyrir vindmyllurnar.  Umhverfisraskið er gríðarlegt á stóru svæði vindorkuversins og miklir þungaflutningar þangað.  Allt er það fyrir heldur rýra eftirtekju.  

Spaðaendarnir geta hæglega verið á hraðanum 70 km/klst.  Fuglar sjá margir illa upp fyrir sig, og hafa t.d. hafernir í Noregi slasazt tugum saman árlega til ólífis af höggi ofanfrá.

Mikil útlitsbreyting til hins verra verður á víðernum, þar sem vindorkuverum hefur verið skellt niður, og vegna hæðar sinnar, allt að 200 m frá efra borði undirstöðu að spaðatoppi, sjást þau marga tugi km að.  Þegar kostir og gallar vindmylluorkuvera á Íslandi eru vegnir og metnir, virðast gallarnir vera yfirgnæfandi og yfirþyrmandi. 

Forystugrein Morgunblaðsins 26. maí 2020 fjallaði um þetta og hét:

 "Stundum verður að berjast við vindmyllur".

Þarna er skírskotað til þekkts miðaldaverks á Spáni, enda verður að telja það fremur forneskjulegt að mæla fyrir vindmyllum til raforkuvinnslu á Íslandi.  Þar er svo sannarlega farið yfir lækinn til að sækja vatnið:

"Baráttan gegn því, að efnt yrði til vatnsfallsvirkjana, sem hagstæð skilyrði stóðu til, varð stundum mjög hatrömm [deilurnar um Búrfellsvirkjun eru pistilhöfundi í fersku minni-innsk. BJo].  Iðulega tók hún sama blæ og brag og baráttan gegn hersetu, þótt að henni kæmu stórir hópar fólks, sem innvígðist aldrei í þau mál.  En nú var rætt um "hernaðinn gegn landinu" og fast kveðið að og fullyrt, að þeir, sem slíkt styddu, væru eins og landsölumennirnir, óvinir þjóðarinnar og svikarar við málstað hennar.

En meginþáttur í huga margra, sem börðust gegn því, að landinu væri spillt, svo [að] fegurð þess og yndi fengi áfram að njóta sín, snerist að sjónmenguninni, sem væri skemmdarverk af risavöxnu tagi." 

 Þetta er hárrétt athugað hjá leiðarahöfundinum, en hávær og innistæðulítill andróður gegn virkjun íslenzkra jökulvatna á borð við Þjórsá og Tungnaá reyndist stormur í vatnsglasi.  Það var gert allt of mikið úr skemmdarverkum á náttúrunni og ekkert hugað að þjóðhagslegu mikilvægi raforkuvinnslunnar, sem varð afrakstur framkvæmdanna. 

Ekkert af þessu á við um vindmyllurnar.  Þær setja mjög neikvæðan svip á landslag á stórum landsvæðum, þar sem þær hafa verið settar upp (erlendis), enda er engin spurn á íslenzkum raforkumarkaði eftir þessari frumstæðu og óhentuga aðferð við raforkuvinnslu hérlendis. 

"Á laugardaginn var [23.05.2020] birtist stutt grein frá lesanda blaðsins og vakti athygli.  Kannski var hún merkilegust fyrir það, að þar var opnað á umræðu, sem illskiljanlegt er, að hafi ekki fyrr verið tekin af alvöru hér á landi. Greinarhöfundur, Halldór S. Magnússon, fjallar um vindmyllur og bendir í upphafi sinnar greinar á það alkunna, að "virkjun náttúruauðlinda  hefur lengi verið eitt vinsælasta deiluefni Íslendinga.  Annars vegar eru þeir, sem telja nauðsynlegt að virkja sem allra mest  til þess að efla þjóðarhag, og hins vegar þeir, sem telja brýnt að virkja alls ekki meir til þess að vernda náttúru landsins."

Ef einhverjum hefur dottið í hug, að vindmyllur gætu brúað bilið á milli þessara hópa, þá lýsir það viðhorf fullkomnu skilningsleysi á skaðsemi vindmyllna í íslenzkri nátturu.  Umhverfislega er verið að fara úr öskunni í eldinn.  Flestir hérlandsmenn eru hófsamir m.t.t. nýrra virkjana, vilja leyfa nýjar virkjanir, ef þörf er á orkunni og nýta á beztu tækni til að draga úr umhverfisáhrifunum eftir föngum, t.d. með lunganum af mannvirkjunum neðan jarðar (sprengd inn í fjöll). Þessu er ekki fyrir að fara með vindmyllur. Þar er ekki val, nema á milli stærðar hverrar vindmyllu og fjölda þeirra.  Hver sækist eftir slitróttri orku frá þeim, og eðli máls samkvæmt setja þær hræðilegan svip á ósnortin víðerni.  Þetta hefur nú runnið upp fyrir mörgum þjóðum í Evrópu, t.d. Norðmönnum.

"Greinarhöfundi þótti lítið hafa heyrzt frá talsmönnum náttúruverndar um vindmylluáform.  Enda er það umhugsunarefni, að almenningur hafi ekki látið þetta mál til sín taka áður en það er um seinan.  Kannski er það vegna þess ofsa, sem einkennir umræðu um loftslagsmál, þar sem sérhver spurning er kaffærð, falli hún ekki að "réttum sjónarmiðum".  Kannski óttast fólk, að taki það á móti þeim, sem vilja slá upp risavöxnum vindmyllum í náttúru landsins með óþolandi hvini og ónotum, verði það sakað um að stuðla að þeim aldauða, sem verði, fái loftslagsmenn ekki sitt fram."

Það er rétt hjá Morgunblaðinu, að erlendis eru náin tengsl á milli hvatamanna vindmylluorkuvera og loftslagsspámanna.  Í löndum annarra endurnýjanlegra orkulinda, þar sem að auki enn er nóg af þeim, falla loftslagsrök fyrir vindmyllum algerlega um sjálf sig. Vindmyllur hafa stórt kolefnisfótspor, og eiga engan rétt á sér, þar sem nóg er af öðrum endurnýjanlegum orkulindum.  Þetta er hin mikla meinloka vindmylluriddara nútímans á Íslandi.

"Halldór S. Magnússon bendir réttilega á, að þögn talsmanna náttúruverndar veki einkum furðu, "þar sem þeir hafi talið það fyrst og fremst vatnsaflsvirkjunum og jarðhitavirkjunum til foráttu, að þær séu óþolandi aðskotahlutir í íslenzkri náttúru, sem skemmi fyrir upplifun manna af landinu og stórkostlegri fegurð þess." 

Þessi einkunnargjöf afturhaldsmanna um útlit og ljótleika vatnsaflsvirkjana og jafnvel jarðgufuvirkjana eru tilbúin falsrök þeirra fyrir vondum málstað.  Vatnsaflsvirkjanir falla í langflestum tilvikum, ef ekki öllum, mjög vel að landslaginu, og miðlunarlónin eru yfirleitt til fegurðarauka í landslaginu, ekki sízt á gróðurlitlu og þyrrkingslegu hálendinu.  Svipaða sögu má segja af jarðgufuvirkjunum, þótt gufumekkir og röralagnir falli vafalaust ekki öllum í geð.  Þegar gríðarlegt notagildi og umhverfisvæn orkuvinnsla er höfð í huga, eru flestir tilbúnir til að horfa í gegnum fingur sér með þessi mannvirki.  Fórnarkostnaðurinn er aðeins lítið brot af hinum þjóðhagslega ávinningi.  Engu slíku er hins vegar til að dreifa um slitrótta orkuvinnslu hundruða vindmyllna, sem stinga í stúf við heilbrigða skynsemi á Íslandi.  

"Og í tímamótagrein sinni spyr Halldór í framhaldinu: "En hvað með vindmyllur, geta þær fallið inn í landslagið ?"  Og hann bætir við: "Í flestum tilvikum munu myllur vindorkuvera verða áberandi á fjöllum og hásléttum landsins og sjást víða að.  Getur það samrýmzt skoðunum umhverfis- og náttúruverndarsinna, að reistar verði vindmyllur uppi á heiðum og fjöllum landsins í ósnortinni náttúru ?"

Þetta eru gildar spurningar og tímabærar og sætir reyndar nokkrum ugg, að dauðaþögn hafi ríkt um þessi mál þar til nú."

Spurningum téðs Halldórs er fljótsvarað.  Það samrýmist alls ekki sönnum náttúruverndarsjónarmiðum að styðja reisningu fjölda vindmyllna, ekki einu sinni með þögninni.  Þetta er ástæðan fyrir því, að andstaðan gegn vindmyllum fer nú sívaxandi í Noregi.  Norðmenn hafa nú áttað sig á því, að útdjöflun ósnortinna víðerna þeirra er allt of dýru verði keypt. Norðmenn framleiða um tífalt meira af raforku með vatnsafli en Íslendingar, svo að þeir eru mjög vanir vatnsaflsvirkjunum (mörg stöðvarhús eru reyndar sprengd í fjöll af öryggisástæðum), miðlunarlónum og háspennulínum í ósnortnum víðernum. Miðlunarlónin eru meira en tíföld hámarksflatarmál íslenzkra miðlunarlóna, því að þau voru sniðin við þarfir norskrar stóriðju og húshitunar fyrir daga sæstrengstenginganna við Noreg. Nú hefur hins vegar verið gengið algerlega fram af norskum náttúruunnendum, enda er engin þörf fyrir vindmyllur inn á norska raforkukerfið.  Raforka vindmyllanna fer nánast öll til útlanda um aflsæstrengi, og fjárfestarnir, margir frá meginlandi Evrópu, mökuðu krókinn, á meðan verðið var þar nægilega hátt, en við núverandi markaðsaðstæður lepja þeir dauðann úr skel.

Svo virðist sem núverandi umhverfisráðherra á Íslandi sé hallari undir vindmyllur en vatnsorkuver, og er það til vitnis um furðulegan öfugsnúning þessa ráðherra án þingsætis. Hér kemur inngangur að baksviðsgrein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, 29. maí 2020, sem hann nefndi:

"Setja viðmið við uppbyggingu vindorku":

Umhverfisráðherra er að undirbúa frumvarp til laga um umgjörð nýtingar vindorku í landinu.  Ráðuneyti hans og ráðuneyti iðnaðarmála hafa verið að vinna að því að móta viðmið um það, hvar leyfa megi vindorkugarða og hvar ekki.  Skipulagsstofnun vinnur í þessu sambandi að gerð viðauka við landskipulagsstefnu, þar sem sett verða viðmið fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga um vindorku.  

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir, að litið hafi verið til viðmiða erlendis og nefnir, að sums staðar hafi friðlýst svæði og svæði, sem farleiðir fugla liggja um, verið tekin út fyrir sviga."

Þetta er mjög ógæfulegt, því að við höfum fátt eitt til annarra þjóða að sækja í þessum efnum annað en sorgleg mistök, eins og dæmið af Noregi hér að ofan sýnir.  Reglan um þetta getur verið mjög einföld.  Alls ekki á að leyfa vindmyllur í ósnortnum víðernum.  Ef áhugi er á að reisa vindmylluorkuver annars staðar, skal leita umsagnar Landsnets um þörf á aukinni innmötun þar.  Það er eins og fyrri daginn.  Flækjufótum Stjórnarráðsins leyfist að gera einföld mál flókin.  Er ekki meirihluti á þingi fyrir einföldu reglunni ?

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur horn í síðu nýrra vatnsorkuvera.  Alþingismaðurinn, Jón Gunnarsson, reit gagnmerka grein um þetta í Morgunblaðið 26. maí 2020, sem hófst þannig, en henni verða gerð betri skil síðar:

"Að friðlýsa landið og miðin":

"Umhverfisráðherra kom fram í fjölmiðlum sunnudaginn 17. maí [2020] og reyndi að réttlæta ákvörðun sína um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.  Sú skýring hans, að þetta sé gert til að framfylgja vilja Alþingis, stenzt enga skoðun.  Ég tel, að ráðherra skorti lagaheimild fyrir þessari ákvörðun.  Ráðherranum hefur nú verið stefnt fyrir dóm af landeiganda vegna þessa."

Ráðherra þessi hagar sér að ýmsu leyti eins og kvíga, sem sleppt er út að vori.  Hann gerir, það sem honum sýnist, og fullyrðir síðan, að hann hafi fullan rétt til þess.  Það kom vel á vondan, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landverndar, að verða sjálfur kærður fyrir embættisafglöp, sá kæruglaði maður.  Fróðlegt verður að sjá, hvernig deilumálinu reiðir af í dómssölum.  Ráðherra þessi varð alræmdur fyrir kærugleði sína í sínu fyrra starfi og hefur á samvizku sinni gríðarlega kostnaðarsamar tafir framkvæmda um allt land.  Auðvitað sá hinn stórskrýtni þingflokkur vinstri grænna ástæðu til að verðlauna þennan mann fyrir afrekin, sem kostað hafa skattborgarana stórfé.  

 Sigalda

 

 

 

 


Efnileg nýsköpun mætir sums staðar mótlæti

Laxeldi í sjókvíum og úrvinnsla afurðanna í landi er gríðarlega efnileg viðbót við íslenzkt atvinnulíf og verðmætasköpun.  Nú hefur orðið verulegt tekjutap íslenzka hagkerfisins við brottfall erlendra ferðamanna, sem dregur allt í einu upp nýja mynd af þessari grein, ferðaþjónustunni; sem sagt þá, að framtíð hennar er mikilli óvissu undirorpin; hún gæti hæglega átt sér afar skrykkjótta framtíð og aldrei náð hámarkinu fyrir COVID-19. 

Mengunarsjónarmið og sjálfbærniþörf mæla heldur ekki með þessari grein sem stendur.  Það er viss lúxuslifnaður að ferðast, og ferðalög með núverandi tækni eru ósjálfbær.  Út yfir allan þjófabálk tekur, þegar stjórnmálamenn bulla um, að "náttúran verði að njóta vafans", og þess vegna skuli sjókvíaeldi settur stóllinn fyrir dyrnar, t.d. í Eyjafirði, m.a. til að trufla ekki ferðir stórskipa, eins og farþegaskipa.  Þar tekur steininn úr, því að farþegaskip eru einhverjir verstu mengunarvaldar, sem þekkjast, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Ef velja þarf á milli farþegaskipa og sjókvíaeldis í Eyjafirði, er enginn vafi á, hvor kosturinn verður ofan á út frá hagrænum og umhverfislegum sjónarmiðum. 

Á Vestfjörðum hefur fiskeldi í sjó umbylt atvinnuástandi og byggðaþróun til hins betra. Nú er verið að auka úrvinnsluna, og til þess er nýtt nýjasta tækni frá hvítfiskvinnslunni.  Mikil sjálfvirkni kallar á sérfræðinga á staðnum á sviðum hugbúnaðar, rafbúnaðar og vélbúnaðar.  Gæði, framleiðni og aukin verðmætasköpun skjóta stoðum undir styrkari samkeppnisstöðu og veitir ekki af, því að innreið er hafin á verðmætan markað með bullandi samkeppni.

Helgi Bjarnason reit baksviðsgrein í Morgunblaðið 20. maí 2020, sem hann nefndi:

"Aðstaða til að framleiða hágæða afurðir":

"Fiskvinnslan Oddi hefur starfað í um 50 ár.  Skjöldur Pálmason segir, að til þess að stækka fiskvinnsluna á hefðbundinn hátt þurfi að fjárfesta í kvóta fyrir fiskiskipin og í vinnslunni fyrir marga milljarða [ISK]. Hann gefur ekki upp kostnaðinn við að koma upp vinnslu á laxi, en segir hann aðeins brot af kostnaði við að stækka hvítfiskvinnsluna.  Þetta sé því ódýr leið til að stækka og styrkja fyrirtækið.  Laxinn er verðmætari en annar fiskur og er reiknað með, að velta fyrirtækisins tvöfaldist með því að bæta 2,5 kt-3,0 kt af laxi við þau 4,5 kt-5,0 kt af fiski, sem nú fer í gegnum fiskvinnsluna [á ári]."

  Þetta er frábært dæmi um arðbært sambýli hefðbundinnar og rótgróinnar fiskvinnslu annars vegar og laxeldis hins vegar.  Með því að bæta um 60 % við afkastagetuna á ári næst tvöföldun á veltu með aðeins litlum hluta (e.t.v. 25 %) fjárfestingarupphæðar, sem þyrfti að verja í jafnmikla afkastaaukningu í hvítfiski.  Eins og fram kemur hér að neðan, er þar að auki verið að auka verðmæti laxafurðanna frá því, sem áður var, væntanlega um a.m.k. þriðjung.  Þessi nýsköpun er borðleggjandi viðskiptahugmynd.  Það eru furðuviðhorf og afturúrkreistingsleg að hafa allt á hornum sér varðandi atvinnugrein hérlendis, sem býður upp á vaxtarbrodda af þessu tagi.  

"Vegna staðsetningar Fiskvinnslunnar Odda á fiskeldissvæðinu á suðurfjörðum Vestfjarða og nálægðar við stærsta laxasláturhús landsins á fyrirtækið að geta framleitt hágæða flök, sem unnin eru áður en dauðastirðnun laxins hefst.  Afurðir af þeim gæðum eru m.a. eftirsóttar í sushí-rétti um allan heim.

Megnið af íslenzka eldislaxinum er flutt heilt og ferskt í frauðkössum á markaði austan hafs og vestan og einnig til Asíu.  Nokkur fiskvinnslufyrirtæki hafa flakað lax fyrir eldisfyrirtæki eða keypt og flakað á eigin reikning og selt á erlenda markaði.  Fleiri eru að huga að þeim málum. 

Verðmæti laxafurða eykst minna við laxflökun, og kostnaður við hráefnið er hærra hlutfall en við almenna fiskvinnslu.  Þess vegna er mikilvægt, að nýting hráefnisins sé sem bezt og nýttir séu þeir markaðir, sem gefa hæst verð."

Hér er frábært frumkvæði á ferð, þar sem ætlunin er að beita nýjustu tækni til að auka enn verðmæti eldislaxins og skapa um leið fjölbreytileg störf á Vestfjörðum.

"Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði hefur fjárfest í nýjustu og beztu vinnslulínunni, sem nú er völ á hjá Marel, og hefst flökun þar og útflutningur í haust.  Nýting hráefnisins á að verða, eins og bezt verður á kosið.  Vinnslulínan er tölvustýrð og sjálfvirk, allt frá innmötun til hausunar, flökunar, snyrtingar og pökkunar.  Áætlað er, að þörf verði á að bæta við 14-16 starfsmönnum til að vinna úr 2,5 kt - 3,0 kt af laxi á ári."

Það verður góð nýting og nákvæmni búnaðar ásamt hárri framleiðni, sem standa munu undir arðsemi þessara fjárfestinga.  Nýju störfin eru vafalítið ársverk, þ.e. heilsársstörf, með miklu atvinnuöryggi og vel borguð. Framleiðnin, 5,5 störf/kt, er góð. Þetta er ósambærileg atvinnustarfsemi við ferðaþjónustu, sem er gríðarlegri óvissu undirorpin á alla kanta og enda.

Að lokum stóð í þessari frétt: 

"Stjórnendur fyrirtækisins [Odda] og sölumenn eiga mikið verk fyrir höndum. Skjöldur segir, að gríðarlega hörð samkeppni sé á þessum markaði.  Þar eru fyrir á fleti stórar verksmiðjur.  Bindur hann vonir við, að góð nýting og hágæðavara, sem minna framboð er af í heiminum en almennum laxi, skapi fyrirtækinu sérstöðu og hjálpi því að komast inn á markaðinn.  Markaðsstarf er í fullum gangi.  Reiknar Skjöldur með, að hluti af viðskiptavinum fyrirtækisins í hvítfiski kaupi af þeim lax til dreifingar, og vonandi bætist nýir kaupendur við."

 Hér fara saman áræðni frumkvöðulsins, þekking og reynsla af hliðstæðri starfsemi í hvítfiski og skilningur á því, að hagnýting nýjustu innlendrar tækni á þessu sviði sé nægilegt afl til að ryðja nýjum birgi braut inn á bullandi samkeppnismarkað, þar sem meiri gæði vegna hreins umhverfis og minni sýklalyfjagjafar og eiturefnanotkunar (vegna lúsar) geta riðið baggamuninn. 

Þessi viðhorf á Vestfjörðum eru til fyrirmyndar og andstaðan við hjárænuleg viðhorf meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar gagnvart sjókvíaeldi í sjó, sem sami Helgi Bjarnason gerði að umfjöllunarefni tveimur dögum síðar í baksviðsfrétt 22. maí 2020 undir furðufyrirsögninni:

"Bæjarstjórn vill friða fjörðinn".

 Án þess að gefa staðreyndum mikinn gaum hljóp þessi meirihluti upp til handa og fóta og varð að athlægi með yfirlýsingu, sem einkennist af þröngsýni, þekkingarleysi og fordómum í garð sjókvíaeldis á laxi.  Bar hann fyrir sig hinn fáránlega frasa, að náttúran eigi að njóta vafans, en leggur um leið blessun sína yfir komur farþegaskipa til Eyjafjarðar, sem þó eru gríðarlegir mengunarvaldar.  Barninu er þarna kastað út með baðvatninu.  Í stað þess að leita til Hafrannsóknarstofnunar um ráðgjöf, þá er öllu laxeldi, einnig í lokuðum kvíum, einstrengingslega hafnað.  Þar setti yfirvöld Akureyrar, þess góða og snotra bæjar, niður.

Helgi Bjarnason hóf baksviðsfrétt sína þannig:

"Meirihluti fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að leggja til við sjávarútvegsráðherra, að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi.  Meirihlutinn klofnaði við afgreiðslu tillögunnar, því að tveir fulltrúar hans samþykktu tillöguna ásamt öllum fulltrúum minnihlutans, en fjórir fulltrúar úr meirihlutanum sátu hjá og lögðu til mildari leið.

Skoðanir eru skiptar í Eyjafirði um sjókvíaeldi.  T.d. var unnið að því í Fjallabyggð að koma upp aðstöðu til rekstrar fiskeldis frá höfninni í Ólafsfirði.

Nokkurt fiskeldi var í Eyjafirði fyrir nokkrum árum, en því hefur öllu verið hætt.  Tvö fyrirtæki hafa undirbúið stóreldi í sjókvíum og voru komin áleiðis í rannsóknum og matsferli, þegar ferlið var stöðvað með breytingum á fiskeldislögum á síðasta ári." 

Það er fáheyrt, að eitt sveitarfélag skuli ætla að setja öðru stólinn fyrir dyrnar við nýtingu náttúruauðlinda að lögum, þótt það hafi ekki sjálft áhuga á slíkri nýtingu.  Segja má, að með þessari samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar sé hún komin út fyrir sitt verksvið.  Vinnubrögðin eru óvönduð, hvernig sem á þau er litið. 

"Þau áform, sem lengst voru komin, voru borin fram af norska fyrirtækinu AkvaFuture, sem hugðist koma upp lokuðum sjókvíum innarlega í Eyjafirði á grundvelli nýrrar tækni, sem fyrirtækið hefur hannað og notað við eldi í Noregi.  Ætlunin var að framleiða 20 kt/ár.  Telur fyrirtækið, að minni umhverfisáhrif verði af eldi í lokuðum kvíum af þessu tagi."

Það lýsir einstrengingshætti bæjarstjórnar Akureyrar að hafna samstarfi við þetta framúrstefnufyrirtæki og Hafrannsóknarstofnun um þróun á nýrri eldistækni í Eyjafirði, sem veitt gæti allt að 400 manns fasta vinnu allt árið um kring.  Stjórnmálamenn í krossferð eru illa fallnir til leiðsagnar, hvort sem er á Akureyri eða í Reykjavík.

"Umræðan, sem leiddi til bókunar meirihluta bæjarfulltrúa á Akureyri,  kemur til af því, að landeigendur við austurhluta Eyjafjarðar og ferðaþjónustufyrirtæki hafa sent erindi til sveitarstjórna, þar sem varað er við áhrifum sjókvíaeldis á hagsmuni þeirra.  Einnig kveikti það umræðu, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti í lok marz [2020] aðgerðir á sínu málasviði vegna kórónuveirufaraldursins.  Ein af þeim er að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi, enda gæti það leitt til mikilla fjárfestinga og fjölgunar starfsfólks."

Á tímum, þegar leita þarf öld aftur í tímann til að finna sambærilegan samdrátt hagkerfisins ásamt metatvinnuleysi sökum hruns ferðaþjónustunnar, er alveg einboðið, að stjórnvöld liðki til fyrir efnilegasta vaxtarsprota hagkerfisins, hætti að standa þar á bremsunum, heldur leysi úr læðingi fjármagn, sem bíður eftir að komast í vinnu á þessu sviði.  Það hefur ekki verið sýnt fram á það með haldbærum rökum, að laxeldið skaði aðra starfsemi í landinu.  Starfsgreinar, sem ekki treysta sér til að keppa við laxeldið, t.d. um mannafla, þurfa að hugsa sinn gang áður en vaðið er fram með útilokunarstefnu í afturhaldsanda. 

Helgi Bjarnason hefur eftirfarandi eftir Gunnari Gíslasyni, oddvita sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Akureyrar, flutningsmanni umræddrar tillögu:

"Við viljum frekar láta náttúruna njóta vafans og vernda ásýnd fjarðarins en að taka áhættu, sem við vitum ekki, hver er, og fórna þannig meiri hagsmunum fyrir minni."  

Þessi stefnumörkun var sem sagt skot út í loftið, fullkomlega óupplýst ákvörðun.  Hvernig hefði nú verið að afla sér fyrst þekkingar á téðri áhættu með vandaðri áhættugreiningu í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun ?  Ef þessi orð eru ekki algerlega marklaus, hlýtur sami maður að beita sér gegn komu farþegaskipa til Eyjafjarðar, því að þau skemma mjög "ásýnd fjarðarins" og menga ótæpilega, á meðan þau staldra við og sigla inn og út fjörðinn.  Hjá leiðandi stjórnmálamönnum er hægt að gera kröfu um, að það sé "system i galskapet".

Auðvitað er samþykkt af þessu tagi eins og blaut tuska í andlit nágranna, sem vilja þróa sjókvíaeldið.  Í lok téðrar baksviðsfréttar stóð þetta:

"Ólafsfirðingar höfðu vonir um að fá innspýtingu í samfélagið með starfsstöð þar.  Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, telur bókun bæjarstjórnar Akureyrar nokkuð bratta.  Bæjarstjórn Fjallabyggðar hafi viljað horfa til þessarar greinar, eins og annarra, við fjölgun atvinnutækifæra."

Ríkisstjórn, sem horfir nú framan í ríkissjóðshalla upp á mrdISK 500 á tveimur árum og viðskiptajöfnuð í járnum hlýtur að fagna áhuga stjórnenda Fjallabyggðar á nýrri gjaldeyrissköpun og atvinnueflingu.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 


Bakkabræður moka ofan í skurð

Það er upp lesið og við tekið, að uppþurrkaðar mýrar valdi meiri losun gróðurhúsalofttegunda en venjulegir móar eða mýrarnar sjálfar. Þó er vitað, að frá mýrum með tiltölulega lágt vatnsyfirborð getur streymt mikið magn metans, CH4, sem er meira en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, CO2, sem frá nýþurrkuðum mýrum streymir.

Með flausturslegum hætti hefur ríkisvaldið látið undan einhvers konar múgsefjun á grundvelli rangra losunartalna og greitt styrki til að moka ofan í skurði án þess t.d. að mæla losun viðkomandi móa fyrir og mýrar eftir ofanímokstur.  Það er svo mikill breytileiki frá einum stað til annars, að þessi vinnubrögð er í raun ekki hægt að kalla annað en fúsk, og eru þau umhverfisráðuneytinu til vanza.

  Það er líka ráðuneytinu til vanza að hafa ekki nú þegar leiðrétt gróft ofmat á losun uppþurrkaðra mýra á grundvelli nýrra upplýsinga, sem stöðugt koma fram.  Fyrir þessu gerði Hörður Kristjánsson nákvæma grein í Bændablaðinu miðvikudaginn 20. maí 2020.

Í fyrsta lagi er viðmiðunarlengd framræsluskurðanna ekki mæld stærð,  heldur áætluð 34 kkm, sem er að öllum líkindum of langt, t.d. af því að hluti skurða er aðeins ætlaður til að veita yfirborðsvatni frá og á ekki að vigta í þessu sambandi.

Í öðru lagi er áhrifasvæði hvers skurðar reiknað 2,6 falt það, sem nú er talið raunhæft.  Þetta ásamt nokkurri styttingu veldur því, að þurrkaðar mýrar spanna sennilega aðeins 38 % þess flatarmáls, sem áður var áætlað. 

Í þriðja lagi styðst Umhverfisráðuneytið við gögn að utan um losun á flatareiningu þurrkaðs lands, en vísindamenn hafa bent á, að hérlendis er samsetning jarðvegar allt önnur, og meira steinefnainnihald hér  dregur úr losun.  Umhverfisráðuneytið notar stuðulinn 2,0 kt/km2=20 t/ha, en höfundur þessa pistils telur líklegra gildi vera 40 % lægra og nema 1,2 kt/km2. Er það rökstutt með tilvitnunum í vísindamenn í þessum pistli.

Í fjórða lagi hefur verið sýnt fram á, að jafnvægi niðurbrots hefur náðst 50 árum eftir uppþurrkun.  Þar verður þá engin nettó losun.  Höfundur þessa pistils áætlar, að nettó losunarflötur minnki þá um 38 % niður í 1,0 kkm2, og er það sennilega varfærin minnkun, sbr hér að neðan.

Þegar nýjustu upplýsingar vísindamanna eru teknar með í reikninginn, má nálgast nýtt gildi um núverandi losun gróðurhúsalofttegunda frá uppþurrkuðum mýrum þannig (áætluð heildarlosun):

  • ÁHL2=1,0 kkm2 x 1,2 kt/km2=1,2 Mt CO2eq

Gamla áætlunin er þannig (og var enn hærri áður):

  • ÁHL1=4,2 kkm2 x 2,0 kt/km2=8,4 Mt CO2eq

Nýja gildið er þannig aðeins 14 % af því gamla, og er sennilega enn of hátt, sem gefur fulla ástæðu til að staldra við og velja svæði til endurvætingar af meiri kostgæfni en gert hefur verið og minnka umfangið verulega.  Þessi losun er ekki stórmál, eins og haldið hefur verið fram af móðursýkislegum ákafa.

Grundvöll þessa endurmats má tína til úr Bændablaðsumsumfjölluninni, t.d.:

"Þá hafa bæði dr Þorsteinn Guðmundsson, þá prófessor í jarðvegsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, og dr Guðni Þorvaldsson, prófessor í jarðrækt við LbhÍ, bent á í Bændablaðinu mikla óvissu varðandi fullyrðingar um stærð mýra og losun."

Þeir hafa m.a. bent á, að ekki sé nægt tillit tekið til "breytileika mýra og efnainnihalds".  Af þessum sökum er nauðsynlegt að mæla losun í hverju tilviki fyrir sig til að rasa ekki um ráð fram.  Í grein í Bbl. í febrúar 2018 skrifuðu þeir ma.:

"Íslenzkar mýrar eru yfirleitt steinefnaríkari en mýrar í nágrannalöndunum, m.a. vegna áfoks, öskufalls, mýrarrauða og vatnsrennslis í hlíðum, og lífrænt efni er að sama skapi minna."

"Þá benda þeir á, að samkvæmt jarðvegskortum LbhÍ og RALA sé lítill hluti af íslenzku votlendi með meira en 20 % kolefni, en nær allar rannsóknir á losun, sem stuðzt hafi verið við, séu af mýrlendi með yfir 20 % kolefni."

""Það þarf að taka tillit til þessa mikla breytileika í magni lífræns efnis, þegar losun er áætluð úr þurrkuðu votlendi", segir m.a. í greininni." 

"Þorsteinn og Guðni telja líka, að mat á stærð lands, sem skurðir þurrka, standist ekki.  Í stað 4200 km2 lands sé nær að áætla, að þeir þurrki 1600 km2.  Þá sé nokkuð um, að skurðir hafi verið grafnir á þurrlendi til að losna við yfirborðsvatn, þannig að ekki sé allt grafið land votlendi.  Mat sitt á umfangi votlendis byggja þeir m.a. á því, að algengt bil á milli samsíða framræsluskurða á Íslandi sé 50 m, en ekki 130 m, eins og miðað er við í útreikningum, sem umhverfisráðuneytið hefur greinilega byggt á.  Áhrifasvæði skurðanna geti því vart verið meira en 25 m, en ekki 65 m út frá skurðbökkum."

Áhrifasvæði skurðanna er lykilatriði fyrir mat á losun frá uppþurrkuðum mýrum. Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun virðast hafa kastað höndunum til þessa grundvallaratriðis áður en stórkarlaleg losun gróðurhúsalofttegunda var kynt með lúðraþyt og söng.  Miðað við auðskiljanlegan rökstuðning ofangreindra tveggja vísindamanna er líklegt flatarmál uppþurrkaðra mýra hérlendis aðeins 38 % af handahófskenndu opinberu gildi.  Þetta er óviðunandi frammistaða opinberra aðila.  Betra er að þegja en að fara með fleipur.

Hugsandi fólk hefur áttað sig á því, að niðurbrot lífrænna efna í uppþurrkuðum mýrum hlýtur að taka enda, og þar af leiðandi er stór hluti þeirra orðinn áhrifalaus á hlýnun jarðar.  Þetta er staðfest í neðangreindu:

"Í meistararitgerð Gunnhildar Evu Gunnarsdóttur við Háskóla Íslands frá 2017 var reynt að meta losun kolefnis í þurrkuðum mýrum.  Niðurstöður hennar benda til, að losun sé mest fyrstu árin, en sé síðan hlutlaus að 50 árum liðnum. Það er ekki í samræmi við þær viðmiðunartölur, sem yfirvöld á Íslandi styðjast við í sínum aðgerðaráætlunum.  Það þýðir væntanlega, að losunartölur geti verið stórlega ýktar og mokstur í stærstan hluta skurða á Íslandi kunni því að þjóna litlum sem engum tilgangi.  Jarðraskið, sem af því hlýzt, gæti hins vegar allt eins leitt til aukinnar losunar."

Hér er kveðið sterkt að orði, en allt er það réttmætt, enda reist á rannsóknum kunnáttufólks á sviði jarðvegsfræði.  Höfundur þessa pistils dró aðeins úr virkum losunarfleti um 38 % (minnkaði 1600 km2 í 1000 km2), sem er mjög varfærið, sé ályktað út frá tilvitnuðum texta hér að ofan.  Umhverfisráðuneytið virðist þess vegna vera á algerum villigötum, þegar það básúnar heildarlosun frá þurrkuðum mýrum, sem er a.m.k. 7 falt gildið, sem nokkur leið er að rökstyðja út frá nýjustu niðurstöðum í þessum fræðaheimi.  Taka skal fram, að mun meiri rannsóknir og mælingar eru nauðsynlegar á þessu sviði áður en nokkurt vit er í að halda áfram ofanímokstri skurða til að draga úr hlýnun jarðar.    

 

 


Hömlulosun

Ætíð er fengur að blaðagreinum Jóhannesar Loftssonar, verkfræðings.  Hann setur oftast fram frumleg og vel rökstudd sjónarmið.  Oft fjallar hann um það, sem efst er á baugi.  Allt á þetta við um Morgunblaðsgrein hans 

"Sumarið er tíminn".

Þar leggur hann til með rökstuddum hætti, að opna ætti landið nú þegar án sýnatöku og greiningar við komuna.  Hann nefnir ekki tilmæli yfirvalda um smitrakningarapp í farsíma ferðamanna, enda kostar slíkt fjárhagslega lítið, og Persónuvernd er búin að leggja blessun sína yfir gjörninginn með þeim varnöglum, sem þar eru. (Áður var reyndar svo að skilja, að appið yrði krafa.)

Við upphaf greinarinnar veltir Jóhannes vöngum yfir þróun bóluefnis.  Hann færir fyrir því rök, að það muni ekki vera væntanlegt á næstunni:

"Þróun bóluefnis fyrir kórónuvírus er vandasamt verkefni.  Slíkt bóluefni hefur aldrei verið þróað fyrir þessa tegund vírusa og óvíst er, hvort það takist frekar en fyrir HIV-vírusinn. Ef það tekst, mun þróunin alltaf taka langan tíma, enda er að mörgu að huga, þegar heilbrigt fólk er "sýkt" með bóluefni.  Bæði þarf að tryggja, að lækningin sé ekki hættulegri en sjúkdómurinn, og verndin, sem bólusetningin veitir, sé nægjanleg, til að áhættan borgi sig.  Óhætt er að segja, að fyrstu væntingar yfirvalda um skjóta úrlausn á kórónufaraldrinum fyrir lok maí [2020] hafi verið óskhyggja.  Nú sjá flestir, að langt er í bóluefni, og gefur framtíðarsýn Lyfjastofnunar Evrópu til kynna, að ár sé í slíkt, ef það þá yfirhöfuð finnst."

 Hafi einhver talið, að vandamál samfara SARS-CoV-2 veirunni á heimsvísu mundu hverfa í maí 2020, er sá hinn sami ekki með báða fæturna á jörðunni.  Þótt veiran hverfi af Íslandi í maí, sem gerðist ekki alveg, þá er hún grasserandi í mörgum löndum, sem við eigum í miklum samskiptum við og verðum að hefja eðlileg samskipti við eigi síðar en 15. júní 2020, ef efnahagurinn á að eiga sér viðreisnar von á næstunni. Nú hefur dómsmálaráðherra tilkynnt, að við munum fylgja Evrópusambandinu (Schengen) að málum, sem ætlar ekki að opna ytri landamæri sín fyrr en í fyrsta lagi 1. júlí 2020.

Bólusetning kann að vera moðreykur einn, því að áhættulítið bóluefni verður varla komið í almenna dreifingu fyrr en 2022 (og verður líklega rándýrt), og þar sem téð veira er "ólíkindatól", kann hún að hafa breytzt nægilega, þegar þar kemur sögu, til að bóluefni virki ekki sem skyldi.  Vona verður, að breytingarnar verði hvorki í átt til meira smitnæmis né þungbærari sýkinga. Venjulega hafa stökkbreytingar virkað til minni skaðsemi þessara veira, en það flýgur fjöllunum hærra, að þessi sé manngerð.  

Hins vegar hafa verið gerðar rannsóknir á virkni veirulyfs, sem beitt hefur verið gegn malaríu og eyðni með góðum árangri, á COVID-19 sjúkdóminn, og gefa niðurstöður til kynna, að sjúklingunum batni fyrr og dauðsföllum fækki mikið.  Ekki var getið um aukaverkanirnar.  Heilbrigðisyfirvöld í mörgum löndum eru nú að leyfa notkun þessa lyfs gegn COVID-19, og mun því áreiðanlega verða beitt hérlendis og annars staðar í Evrópu, ef önnur bylgja faraldursins ríður hér yfir.  

 

 "Lág dánartíðni er ekki það eina, sem svipar með kórónuveiki og flensu.  Vísbendingar eru þegar komnar fram um, að árstíðasveiflur séu í kórónusmitum líkt og þekkt er fyrir flensu.  Á sama tíma og hægt hefur á smitum á norðurhveli jarðar, hefur orðið stökk í smitum í nokkrum löndum á suðurhveli (Síle, Argentínu og Suður-Afríku) samhliða því, að vetur hefur gengið í garð."

 Rúmlega 1800 manns er vitað til, að smitazt hafi hérlendis.  Það er aðeins um 0,5 % íbúanna.  Slembiúrtak ÍE gaf til kynna innan við 1 % smit, en mælingar á ónæmisefnum í blóði bentu til 1,5 %. Það er trúlegt, að þrefalt fleiri hafi smitazt en skráðum smitfjölda nemur.  Sóttvarnalæknir hefur nefnt, að smitfjöldi gæti numið allt að 5 % þjóðarinnar.  Ef svo er, nemur fjöldi dauðsfalla af völdum COVID-19 sjúkdómsins aðeins 0,05 % smitaðra, sem er sambærilegt við venjulegan flensufaraldur.  Í ljósi þessa virðast viðbrögð yfirvalda vítt og breitt um heiminn hafa verið úr hófi fram.  Annars konar áherzlur verður að leggja við næsta sambærilega faraldur.  Beitt hefur verið aðgerðum, sem viðeigandi væru væntanlega við ebólu. 

Þjóðverjar náðu góðum árangri með viðbrögðum sínum.  Þeir notuðu sýnatökur og greiningar til að beina athyglinni að miklum smitstöðum.  Sláturhús landsins reyndust slíkir staðir.  Ástæðan er sú, að þessi kórónuveira þrífst vel og lifir lengi á köldu yfirborði, og kemur þetta heim og saman við skrif Jóhannesar hér að ofan. Hann reit reyndar fleira athyglisvert um áhrif hitastigs og rakastigs:

"Loftraki er einn stærsti áhrifaþáttur í skaðsemi flensu á veturna.  Kalt vetrarloft verður mjög þurrt, þegar það er hitað upp innandyra.  Í þurru lofti endast vírusar lengur, og smitdropaagnir verða minni, þannig að þær svífa lengur í loftinu og smita því lengur. Einnig er varnarkerfi líkamans gegn smiti mun veikara í þurru lofti, og smit minni dropa berast dýpra í öndunarfærin og virðast hættulegri.  

Hlýtt smuarloft ber margfalt meiri raka en kalt vetrarloft.  Það lokar þannig á smitleiðir og eflir náttúrulegar varnir líkamans.  Einnig hjálpar til, að með hækkandi sól batnar D-vítamínstaða líkamans, sem hefur sýnt sig að gagnast gegn kórónuveikinni.  Þessi liðsauki gerir sumarið að bezta tímanum til að eiga við þessa óværu."

Með þessum upplýsingum er Jóhannes að reisa stoðir undir þá ráðleggingu, að nú sé rétti tíminn til að opna landamærin og leyfa óhefta starfsemi í hverju landi um sinn.  Með þessu má draga úr gríðarlegu efnahagstjóni, sem annars er fyrirsjáanlegt, og verður það þó óhjákvæmilega mjög mikið. Jóhannes hélt áfram: 

"Í ljósi þess gríðarlega skaða, sem öll hindrun á komu erlendra ferðamanna mun hafa á möguleika Íslendinga til að takast á við þá erfiðu tíma, sem fram undan eru, er afar mikilvægt, að gengið sé sem vasklegast fram við að opna landið sem fyrst, [á] meðan sumarið er með okkur í liði.  Þó að einhver viðbótar smit berist hingað með sumum þeirra, eru sterkar líkur á, að slíkt verði ekki til vandræða, því [að] ef það er rétt hjá sóttvarnalækni, að allt að 5 % Íslendinga hafi smitazt fram að þessu, þýðir það, að 90 % allra smita á Íslandi urðu til og hurfu af sjálfu sér, án þess að nokkur tæki eftir.  Ef smit verða mildari með hækkandi sól, mun þetta hlutfall skaðlausra smita hækka enn meira á næstu mánuðum."

Þetta er mikilvæg röksemdafærsla.  Þótt hæpið sé, að um sé að ræða svo víðtæk smit í samfélaginu, sem þarna kemur fram, má hiklaust reikna með, að a.m.k. annar hver smitaður hafi ekki orðið var við smit sitt.  Þegar þar við bætist, að 80 % hinna, sem verða varir við einkenni, veikjast aðeins vægt og það hlutfall er sennilega hærra að sumarlagi, virðist áhættan vera svo lítil, að vert sé að taka hana.

Þar sem dánartíðni hefur verið hæst, hefur mistekizt að vernda viðkvæma hópa.  Það verður þess vegna áfram að gæta ýtrustu varkárni gagnvart þeim.  Þetta á við alla þá, sem eru með veiklað ónæmiskerfi eða lítið mótstöðuþrek gagnvart sjúkdómum almennt.  Þetta á t.d. við um dvalarheimili aldraðra og sjúkrahúsin. 

Síðan heldur Jóhannes því fram, og hér skal undir það taka, að farsælast sé að opna landið strax alveg án allra óþarfa og íþyngjandi takmarkana:

"Þær rándýru prófanir, sem yfirvöld ætla að gera á hverjum ferðamanni, eru vanhugsaðar.  Í fyrsta lagi geta slíkar prófanir aldrei tryggt, að smit berist ekki hingað til lands.  Enn verra er þó, að með því að halda vírussmiti niðri yfir sumartímann, [á] meðan auðvelt er að eiga við sjúkdóminn, er verið að flytja vandann yfir á næsta haust, þegar smithætta vex og smit verða lífshættulegri.  Aukið ónæmi yfir sumarið mun draga úr hættunni, sem skapast næsta haust."

Misvísandi upplýsingar hafa borizt um kostnaðinn við sýnatökur og greiningar vegna COVID-19.  Frá Sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans, Karli G. Kristinssyni, hafa borizt upplýsingar um tækni, sem lækki kostnaðinn niður í kISK 5-6/greiningu, en við kynningu á þessum valkosti við sóttkví var nefnd talan kISK 50/greiningu.  Ætlunin er að láta þennan kostnað falla á ríkissjóð fyrst um sinn, en síðan að taka kISK 15 gjald af hverjum ferðamanni.  Ætla yfirvöld einhverra annarra þjóða að leggja út í þessa miklu fyrirhöfn með takmörkuðum ávinningi ?  Þessar tafir og óþægindi fyrir ferðamenn auk kostnaðarbyrðar virðast ekki vera réttlætanlegar.  

 

 

 

 

 

 

 


Þingmaður stingur á kýli

Sjálfstæðasti þingmaðurinn á núverandi Alþingi, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á ófremdarástandi skipulagsmála verklegra framkvæmda í innviðum á Íslandi í Morgunblaðsgrein 20. maí 2020:

"Tafaleiðir framkvæmda og stjórnun í þágu fjöldans".

  Í mörgum tilvikum þvera þessir innviðir fleiri en eitt sveitarfélag, og slík tilvik eru skipulagslega erfiðust.  Hér er um að ræða klúður löggjafans, sem hann verður að bæta úr.  Hann verður að einfalda og straumlínulaga þetta ferli, sem er allt of dýrt í framkvæmd.  Sumir ráðherranna hafa verið að grisja reglugerðarfrumskóginn frá ráðuneytum sínum, þótt sparnaðurinn af því nemi aðeins broti af því, sem sparast mundi með einföldun að hætti Ásmundar. 

Grein sína hóf Ásmundur á því að minna á, hversu léttvægar gjörðir mannanna eru enn gagnvart náttúruöflunum, og innviðaframkvæmdir snúast nú á dögum í mörgum tilvikum um að auka nothæfni innviða, þegar verulega reynir á þá, t.d. vegna náttúruaflanna.  

"Í vetur hafa náttúruöflin svo sannarlega minnt okkur á, hvaða kraftar það eru, sem raunverulega ráða ríkjum.  Veikleikar í raforkukerfinu, sem Landsnet hefur í mörg ár bent á, voru afhjúpaðir.  Samgöngur stöðvuðust, og hefur Öxnadalsheiðin til dæmis verið ófær 12 sinnum í vetur.  Þá lágu fjarskipti niðri."

Nú er ekki víst, að lokið væri nýrri 220 kV Byggðalínu alla leið frá Klafastöðum í Hvalfirði og til Hryggstekks í Skriðdal, þótt nýtt straumlínulagað skipulags- og leyfisveitingaferli hefði verið við lýði í t.d. 5 síðastliðin ár, en hún hefði örugglega verið komin vel á veg, sem hefði hugsanlega nýtzt til að draga úr því stórtjóni, sem varð á Norður- og Austurlandi í vetur vegna mjög langdregins straumleysis.  Fjarskiptin lágu niðri vegna straumleysis, þó í allt of langan tíma, en það er önnur sorgarsaga.

Síðan bendir Ásmundur á, að kerfið sjálft fari ekki að lögum, heldur hundsi tímafresti mjög gróflega.  Í raun ætti kerfið að vera þannig, að opinberar stofnanir komist ekki upp með að taka sér lengri afgreiðslutíma en áskilinn er í lögum. Ef ekkert gerist í máli að áskildum tíma liðnum hjá viðkomandi stofnun, sé viðkomandi tillaga eða umsókn talin samþykkt, og málið haldi þannig áfram í ferlinu. Ásmundur hélt síðan áfram:

"Uppi er gríðarlegur vandræðagangur við uppbyggingu og viðhald raforku- og vegakerfisins í landinu.  Sérlega verndað umhverfi hefur skapazt, þar sem stöku sveitarfélög, hagsmunasamtök og einstaklingar, geta leyft sér að troða á hagsmunum samfélagsheildarinnar, þrátt fyrir að málefnaleg rök liggi fyrir um nauðsynlega uppbyggingu grunninnviða okkar. Þetta eru ára- og áratugalangar tafir.  Við búum við svo margflókið kerfi leyfisumsókna og kæruferla, að ekkert nágrannaríki okkar býr við annan eins reglufrumskóg.  Hér verða rakin raunveruleg dæmi, sem Landsnet hefur þurft að þreyta í gegnum kerfið mánuðum og árum saman, langt fram úr öllum lögbundnum frestum áður en hægt er að byrja hina eiginlegu vinnu við framkvæmdina.  Þá hafa sveitarstjórnir nýtt sér tafaleiðir laganna þrátt fyrir að hafa áður samþykkt kerfisáætlun Landsnets."

Þetta er ljót lýsing á hegðun Skipulagsstofnunar, nokkurra sveitarfélaga og félagasamtaka, sem brugðið hafa fæti fyrir framfaramál.  Ef skýr rök eru fyrir hendi um notagildi eða jafnvel nauðsyn opinberrar framkvæmdar, þá eiga að vera mjög þröngir tafamöguleikar fyrir hendi, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa innleitt hjá sér.  Hvernig stendur á því, að hér hafa flækjufætur komið ár sinni rækilega fyrir borð, svo að laga- og reglugerðafrumskógur um téðar framkvæmdir er hreinn óskapnaður ?

"Tökum sem dæmi Reykjanesbrautina, þar sem nú er unnið að því að ljúka tvöföldun brautarinnar, sem er um 50 km löng að Hafnarfirði. Lokaáfanganum, 5 km kafla frá Hvassahrauni að Krísuvíkurafleggjara, hefur verið breytt í samræmi við nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðar innan iðnaðarsvæðis, og þarf breytingin að fara í kerfislega þungt, langt og rándýrt umhverfismat þrátt fyrir augljósan kost við breytinguna."

Umræddur kafli færist frá því að eiga að fara ótroðnar slóðir sunnar og að gamla veginum.  Heilbrigð skynsemi kallar ekki á umhverfismat fyrir slíka breytingu.  Löggjafinn verður að opna á skemmri skírn greinargerðar um umhverfisáhrif, þegar í raun er eingöngu verið að breikka gamlan veg eða annað sambærilegt.  Það er engu líkara en kerfissnötum hafi í sumum tilvikum tekizt að búa til algerlega óþörf verkefni í tengslum við framkvæmdir.

Að lokum skrifaði Ásmundur: 

 "Líkt og ég hef rakið hér að framan, er ljóst, að kerfið er ekki í neinu samræmi við almennan vilja í samfélaginu.  Það er því nauðsynlegt, að endurskoðun laganna horfi til einföldunar, svo að fámennir hópar geti ekki stöðvað eða tafið framkvæmdir, sem varða afkomu og lífsgæði íbúa á heilum landsvæðum árum og áratugum saman."

 

 


Orkumál í deiglu

Nú hefur olíu- og gasverð á heimsmarkaði rúmlega helmingazt og raforkuverð u.þ.b. helmingazt.  Á þessu verður vart mikil breyting í bráð, því að allir vita, að lágt orkuverð mun mjög flýta fyrir efnahagsbatanum, nema í olíu- og gasframleiðslulöndunum. 

Það hefur lengi verið stefnumið Evrópusambandsins, að orkuverð sé hátt, þótt kalla megi Evrópu orkusnauða af náttúrunnar hendi. ESB hefur því rekið upp á sker í orkumálum, eins og í fleiri mikilvægum málum, þar sem Sambandið virðist vera komið á endastöð. 

Hvers vegna hefur ESB rekið þessa stefnu, sem hefur reynzt íbúunum dýrkeypt og verið dragbítur á hagvöxt innan ESB ?  Hátt orkuverð átti að tryggja nægar fjárfestingar einkageirans í orkuvinnslu til að hindra aflskort.  Eldsneytismarkaðurinn hefur svo séð um, að næg orka væri fyrir hendi.  

Hátt orkuverð átti líka að beina fjárfestingum í endurnýjanlegar orkulindir, sem eru enn dýrari á hverja MWh en eldsneytisstöðvarnar.  Þessi stefna er ágætlega samþættanleg metnaðarfullri markmiðssetningu ESB varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.  Ljóst er, að losun gróðurhúsalofttegunda mun minnka miklu meira alls staðar í heiminum en ráð var fyrir gert árið 2020 og líklega einnig 2021 án beitingar skattalegra þvingana á borð við síhækkandi gjald fyrir losun koltvíildis, CO2, umfram heimildir, eða háa opinbera gjaldtöku af rafmagni til almennings.  Hagkerfi heimsins hafa öll veikzt umtalsvert, og þá er spurning, hvort stjórnmálamenn telji sig hafa umboð lengur til íþyngjandi ráðstafana vegna losunar út í andrúmsloftið. Mál málanna víðast hvar verður að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og fólki aftur til starfa.  Ný verðmætasköpun mun vonandi spretta fram, og jafnvægi verða komið á rekstur ríkissjóðs að nýju á fyrri hluta næsta kjörtímabils ásamt minnkun skulda hans.  Að öðrum kosti stöndum við of berskjölduð gagnvart næsta efnahagsáfalli, sem mun mjög líklega verða innan áratugar af hvaða tagi, sem það verður.  

Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði fróðlega grein um orkumálin að vanda í Morgunblaðið 13. nóvember 2019, sem hann kallaði:

"Rautt viðvörunarljós".

Segja má, að umfjöllunarefnið sé, hversu illa orkustefna ESB, eins og hún birtist í orkulöggjöf Sambandsins, s.k. orkupökkum 1-4, samræmist íslenzkum þjóðarhagsmunum.  Verður nú vitnað í greinina:

"ESB ásælist ekki eignarrétt yfir orkulindunum, heldur stjórnun orkuvinnslunnar eftir sínum þörfum.  ESB vill ekki takmarka rétt okkar til að nýta orkulindirnar, heldur tryggja, að fjárfestar innan EES hafi þar sömu tækifæri og opinberu íslenzku fyrirtækin."

Þetta er að mati pistilhöfundar kjarni orkupakkamálsins og nauðsynlegt að átta sig á honum.  Með Orkupakka 3 (OP#3) öðlaðist ESB ítök í stjórnkerfi landsins á sviði orkumála með sérstökum fulltrúa sínum, Landsreglara, sem á Íslandi gegnir einnig starfi Orkumálastjóra, en er í Noregi sjálfstætt embætti, RME (Reguleringsmyndighet for energi), til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur.  RME rekur þá stefnu ESB, en norski Orkumálastjórinn mun starfa í anda norsku kenningarinnar um "handlingsrommet", "aðgerðasvigrúm" Norðmanna gagnvart Evrópuréttinum. 

Landsreglarinn situr í samkundu landsreglara allra EES-landanna, sem starfar innan vébanda ACER (Orkustofnunar ESB).  Þar er framkvæmd orkulöggjafar ESB samræmd og ágreiningsmál um fyrirkomulag og rekstur samtenginga á milli landa rædd. Ný reglugerð, (ESB) 2019/942, sem er endurskoðuð reglugerð um ACER, er hluti af OP#4.  EES/EFTA metur nú, hvort hún á erindi inn í lagasafn EFTA-ríkjanna í EES.  Hún felur í sér aukna valdtilfærslu frá aðildarlöndunum til ACER og gæti þar af leiðandi valdið lagalegum og stjórnmálalegum ágreiningi í Noregi og á Íslandi.  Eigi síðar en í september 2021 verða þingkosningar í báðum löndunum, og fáir munu hafa hug á að bæta OP#4 við deilumál í kosningabaráttunni. 

Stjórnun orkuvinnslunnar eftir þörfum ESB þýðir einfaldlega markaðsvæðingu hennar, þannig að orkan fari til hæstbjóðanda hverju sinni. Þeir, sem borið geta hæst orkuverð, eru að öðru jöfnu þeir, sem eru með starfsemi sína næst mörkuðum sínum. Allt ber að sama brunni.  Kerfið þjónar ekki hagsmunum jaðarríkjanna. 

Raforkuverðið hefur að sjálfsögðu hrunið á uppboðsmörkuðum ESB, t.d. Nord Pool, í "Kófinu", enda hefur eftirspurnin lamazt.  Nú er Landsnet að hanna uppboðsmarkað fyrir Ísland með hjálp aðallega erlends ráðgjafa, og hafa margir áhyggjur af því, hvernig til muni takast, í ljósi samsetningar íslenzka markaðarins. Slæm niðurstaða yrði hækkun raforkuverðs til heimila og atvinnurekstrar á þessum markaði. 

Hitt atriðið, að ESB vilji með orkulöggjöf sinni og Landsreglara tryggja jafnræði allra áhugasamra fjárfesta við innlenda aðila, ekki sízt opinber fyrirtæki, er sýnu alvarlegra.  Norska ríkisstjórnin með stuðningi Stórþingsins hefur einarðlega hafnað þessu, en sú íslenzka ekki.  Það er afar slæm staða. 

"Samkvæmt skilningi ESB á EES-samningnum skulu öll samskipti hins opinbera við aðila á raforkumarkaði og í raforkuvinnslu byggjast á markaðslögmálum og tryggt skal vera, að markaðurinn starfi óáreittur af hálfu hins opinbera.  ESB hagræðir síðan viðskiptareglum og kostnaðarforsendum raforkumarkaðarins til að ná fram sínum markmiðum.  Eins og í öllu öðru, sem EES-samninginn varðar, er aðeins tekið eitt skref í einu, þar til við ráðum ekki lengur eign okkar, orkulindunum."  (Undirstr. BJo.)

   ESB aftengir með löggjöf sinni bein áhrif og stjórnun ríkis og sveitarfélaga á raforkumarkaðnum. Norðmenn hafa farið í kringum þetta, væntanlega á grundvelli kenninga sinna um "aðgerðasvigrúm" og niðurgreitt stórlega orkuverð til stóriðju undanfarin misseri úr opinberum sjóðum.  Það er þess vegna engin goðgá, að eignarhaldi hins opinbera á orkufyrirtækjum hérlendis sé beitt í sama augnamiði, enda tíðkast enn ýmis opinber inngrip í orkumarkaðinn í Evrópusambandinu sjálfu. Síðasta málsgrein Elíasar hér að ofan er mjög umhugsunarverð fyrir íslenzka fullveldissinna.  Ísland verður í raun nýlenda þeirra erlendu afla, sem ná að klófesta stjórnun auðlinda landsins, t.d. fiskveiða og orkulinda. 

Síðan gerði Elías að umtalsefni samþykkt ríkisstjórnarinnar 19.05.2016 á kröfu ESA um markaðsvæðingu nýtingarréttar hins opinbera á landi og auðlindum þess, t.d. orkulindum.  Þessi eftirgjöf íslenzkrar ríkisstjórnar er reginhneyksli, enda tóku Norðmenn algerlega öndverðan pól í hæðina gagnvart sams konar kröfu ESA og höfnuðu henni einfaldlega.  Hér hafa Nefjólfssynir sótt í sig veðrið á seinni árum, en Þveræingar andæfa. 

 "Það er erfitt að sjá, hvernig þessum úrskurði [ESA] verður framfylgt án þess að bjóða vinnsluleyfi fyrir raforkuver út innan EES, þannig að erlendir fjárfestar geti keppt á jafnræðisgrundvelli við íslenzk fyrirtæki í almannaeigu.  Það er ekki alveg í samræmi við hugmyndir almennings um full yfirráð yfir orkulindunum."

Þetta er hárrétt athugað, og það er alveg með ólíkindum, ef íslenzk stjórnvöld hafa ekki áttað sig á þessu í maímánuði 2016, þegar þau samþykktu að framfylgja úrskurði ESA á Íslandi, sem jafngildir að gefa öflugum erlendum orkufyrirtækjum tækifæri til að klófesta íslenzkar orkulindir í opinberri eigu í nafni markaðsvæðingar orkugeirans og frjálsrar samkeppni, eins og orkulöggjöf ESB kveður á um.  Íslenzk stjórnvöld eru ekki svo skyni skroppin, að þau hafi ekki áttað sig á afleiðingum þessa ESA-úrskurðar.  Þau skulda Alþingi og þjóðinni allri útskýringar á því, hvað þeim gekk til að gangast við úrskurði, sem opnar greiða leið að afsali yfirráða yfir íslenzkum orkulindum í hendur erlendum lögaðilum, sem lúta lögsögu Evrópuréttar. Föðurlandssvik hafa verið nefnd af minna tilefni.   

Í lok tímabærrar greinar sinnar, reit Elías:

"EES-samningurinn er lifandi samningur og tekur tíðum breytingum með nýjum og breyttum reglugerðum.  Úrskurðir ESA og dómar EFTA-dómstólsins hafa mikið gildi og stundum óvænt áhrif. Alþingi taldi, að orkulindir Íslands hefðu fulla vernd í EES-samningnum, en nú er ESB á annarri skoðun.  Hafi ekki við samþykkt EES-samningsins verið í honum fótfesta fyrir ásókn ESB í íslenzkar orkulindir, þá er svo nú.  Þarna logar stórt, rautt viðvörunarljós.  Við þessar aðstæður verður smáríki, eins og Ísland, að gæta vel að fullveldi og yfirráðum yfir auðlindum sínum." 

Frá tímanum, þegar gengið var frá EES-samninginum, 1992-1993, hefur ESB tekið miklum breytingum, og nægir að nefna stjórnarskrárígildið - Lissabonsáttmálann, þar sem Evrópusambandinu voru færðar heimildir gagnvart orkumálum aðildarlandanna, og er síðari tíma orkulöggjöf Sambandsins reist á þessum heimildum.  Þá má nefna dómsuppkvaðningu EFTA-dómstólsins, sem er bundinn við Evrópurétt og dómafordæmi ESB-dómstólsins, um eignfærslu norskra vatnsréttinda og virkjana frá einkafyrirtækjum, oft í eigu erlendra fyrirtækja, til norska ríkisins, án bóta eftir 65-80 ár í rekstri.  Þetta dæmdi EFTA-dómstóllinn óleyfilega mismunun eignarhaldsfyrirkomulags, en Norðmenn eru sleipir og beittu "aðgerðasvigrúmi" sínu til að taka bitið úr þessum dómi.  Þeir settu lög um lágmarkseignarhaldshlutfall ríkisins í vatnsréttindum og virkjunum yfir ákveðinni stærð, og hvorki ESB né Carl I. Baudenbacher hafa gert opinbera athugasemd við þessa málsmeðferð.  Á Íslandi hefðu þessi gömlu lög um "hjemfallsretten" einfaldlega verið tekin úr sambandi til að þóknast Carl I. Baudenbacher, sbr það að taka lögin frá 2009 um sóttvarnir vegna innflutnings matvæla úr sambandi eftir EFTA-dóm.

Það er hægt að fá það á tilfinninguna, að hérlendis kasti skessur á milli sín fjöreggi fullveldis landsmanna með hlátrasköllum, eins og í þjóðsögunum.  Full yfirráð Alþingis yfir auðlindum Íslands eru grundvöllur raunverulegs fullveldis landsins. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband