Færsluflokkur: Bloggar
15.8.2019 | 10:54
Framsal fullveldis yfir auðlindum landsins
Stefna Evrópusambandsins í orkumálum er að búa til einn samhæfðan orkumarkað fyrir rafmagn, þar sem öll landssvæði og lönd EES eru rækilega samtengd. Meginorkuflutningarnir og dreifing til neytenda eru einokunarstarfsemi, en innan orkuvinnslunnar skal fjórfrelsið ríkja óheft og óbjagað af ríkisvaldinu.
Framkvæmdastjórnin vill einkavæða vatnsorkuver í ríkjum, þar sem þau eru í talsverðum eða miklum mæli í höndum ríkisfyrirtækja. Ástæðan er sú, að hún vill fá aukna fjárfestingargetu og fjárfestingaráhuga inn í þennan geira til að búa í haginn fyrir mikla aukningu uppsetts vélaafls í vatnsorkuverum, jafnvel tvö- til þreföldun, til að bæta orkuframboðsmissi frá vindmyllunum upp, þegar lygnir á álagstíma.
Til þess að gera þetta þykir einfaldast að beita Þjónustutilskipun #123/2019 á ríkisvaldið, og er það þá sakað um úthlutun takmarkaðra gæða á ógegnsæjan og ívilnandi hátt til ríkisfyrirtækja. Þarna séu samkeppnisreglur brotnar, og þessum gæðum verði að ráðstafa til hæstbjóðanda í útboði á um 30 ára fresti. Fyrirtæki, sem öðlast afnotarétt á orkulindinni, hér vatnsréttindunum, geta sett virkjunareigandanum stólinn fyrir dyrnar og samið um "sanngjarnt" verð á virkjun. Það er jafnframt ljóst, að 0,36 M manns á Íslandi geta ekki staðið gegn 460 M manns (eftir BREXIT) á opnum markaði.
Þetta mál, sem þegar hefur rekið á fjörur íslenzku ríkisstjórnarinnar, sem ólíkt norsku ríkisstjórninni hefur enn ekki svarað því, að því bezt er vitað, varðar fullveldisrétt þjóðarinnar, þótt lögfræðileg umræða hafi ekki verið áberandi um það. (Norska ríkisstjórnin var 5 vikur að semja svar til ESA við fyrirspurn um úthlutunarfyrirkomulagið norska.) Það er fullveldisréttur þjóðarinnar, og ríkisvaldið fer með það vald, að ráðstafa afnotarétti yfir auðlindum sínum án afskipta erlends valds, hvað þá yfirþjóðlegs valds. Þessu þarf að gera ESA bréflega grein fyrir, en síðasta ríkisstjórn og sú núverandi hafa heykzt á því að halda fram fullveldisrétti þjóðarinnar í þessu máli. Það lofar ekki góðu um framhald innleiðingar á Orkustefnu ESB hérlendis með orkupökkunum.
Af þessum sökum stangast orkustefna ESB á við fullveldi landsins, og allir orkupakkarnir eru reistir á henni, og þess vegna er nauðsynlegt að synja OP#3 samþykkis. Í raun þarf að fá undanþágu frá orkustefnu ESB og þar með öllum orkupökkunum.
Í grein sinni í sumarhefti Þjóðmála 2019,
"Umrót vegna orkupakka",
hafði Björn Bjarnason, formaður nefndar um mat á reynslunni af EES, eftirfarandi eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi 22. marz 2018 um OP#3:
"Hér er um að ræða í efnisatriðum mjög stórt mál, sem á yfirborðinu, hugsanlega, varðar ekki með beinum hætti raforkumarkaðinn vegna þess, að boðvald viðkomandi sameiginlegrar stofnunar [ACER] virkjast ekki fyrr en íslenzki markaðurinn tengist þeim evrópska."
Þessi málflutningur stenzt ekki skoðun, eins og sýnt var fram á í pistlinum:
https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2238491
Þar kemur fram, að íslenzk yfirvöld munu þurfa að sæta því, að Landsreglarinn innleiði hérlendis markaðsstýringu raforkukerfisins að hætti ESB, þótt yfirvöld kynnu að kjósa fremur orkulindastýringu, sem stunduð hefur verið innan Landsvirkjunar um árabil, en þarf að verða opinber stefnumörkun í lögum og spanna allt landið, þ.e. öll virkjanafyrirtæki yfir tiltekinni stærð. Þetta verður fyrsta aðalverkefni Landsreglarans, því að honum ber að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að þeim evrópska áður en hingað verður lagður sæstrengur. Að boðvald ACER "virkist" fyrst með sæstreng er rangt. Það virkjast strax við innleiðingu OP#3.
Björn Bjarnason bætir síðan við:
"Þarna sló Bjarni strax varnagla vegna sæstrengsins. Athuganir lögfræðinga og álit hafa síðan áréttað þennan grundvallarþátt. Það verði ekkert framsal án sæstrengs, og þrátt fyrir strenginn telja sumir ekki um neitt framsal að ræða."
Varðandi álit lögfræðinga er það eitt að segja, að á meðal þeirra eru deildar meiningar um OP#3. Verður að segja alveg eins og er, að ólíkt hafa nú komið traustari röksemdafærslur frá þeim, sem varað hafa við innleiðingu OP#3 en hinum. Nægir að nefna þá hæpnu kenningu, sem ekki styðst við neitt dómafordæmi frá ESB-dómstólinum, að Evrópuréttur víki fyrir Hafréttarsáttmálanu. Það er þvert á móti. Hitt er undarlegra, að þeir skuli ekki hafa athugað þá afleiðingu innleiðingar Orkustefnu ESB hér, sem reist er á Lissabonsáttmálanum frá 2009, sem hefur ekkert gildi hér, að orkulindarnar munu margar hverjar lenda í höndum sterkra erlendra orkufyrirtækja, sem eru líkleg til að bjóða hæst í afnotaréttinn. Það verður að spyrna við fótum og beita fullveldisréttinum yfir auðlindum landsins til að koma í veg fyrir þá einkavæðingu, sem ESA og Framkvæmdastjórnin stefna að.
Síðan kom tilvitnun í Bjarna Benediktsson úr sömu umræðu á Alþingi við Þorstein Víglundsson:
"Það, sem ég á svo erfitt með að skilja, er áhugi háttvirts þingmanns og sumra hér á þinginu á að komast undir boðvald samevrópskra stofnana. Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi ? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á að komast undir boðvald þessara stofnana ?"
Því miður virðist hér um að ræða einskæra "retorikk", málskrúð, hjá formanninum, nokkuð sem nú tíðkast að kalla "poppúlisma", sem er auðvitað lýðskrum, þ.e. að slá um sig með einhverju, sem aldrei er ætlunin að standa við. Það hefur nú komið á daginn hjá þessum formanni Sjálfstæðisflokksins, að honum liggur svo mikið á að koma þjóðinni undir boðvald ACER og inn í Orkusamband ESB, að hann ljær ekki máls á að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara til að skapa frekara svigrúm til samninga, þótt til þess hafi löggjafinn fulla heimild.
Ekki tekur betra við, þegar íhuguð eru ummæli varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, um OP#3, í viðtali í Fréttablaðinu 13.07.2019:
"Málið snýst um réttindi neytenda og upplýsingaskyldu orkufyrirtækja, sem eru að mestu opinber. Umræðan hefur að miklu leyti snúizt um sæstreng. Alveg óháð þriðja orkupakkanum væri hægt að leggja sæstreng. Það er jafnerfitt að gera það núna og áður. En vegna umræðunnar höfum við girt fyrir það, að hægt sé að leggja sæstreng með ákvörðun eins ráðherra einhvern tíma í framtíðinni. Nú er það Alþingi, sem þarf að samþykkja slíka framkvæmd, og opnað hefur verið á þjóðaratkvæðagreiðslu um framkvæmdina, ef einhvern tímann kæmi til þess, að slík framkvæmd kæmist á dagskrá. Því hún er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar."
Þessi lesning er algerlega með ólíkindum frá ráðherra og er, frómt frá sagt, alveg út úr kú:
1) Réttindi neytenda verða fyrir borð borin á altari markaðsstýringar raforkuvinnslunnar. Í því kerfi er ein stefnumörkun öðrum framar: að hámarka tekjur orkubirgjanna.
2) Ef snuðri Landsreglarans verður ekki sinnt, getur hann lagt fésektir á viðkomandi fyrirtæki allt að 10 % af árlegri veltu.
3) Fyrir Íslendinga þýðir OP#3 sæstreng, svo að það er ekki undarlegt, að umræðan snúist um hann. Allur OP#3 snýst um millilandatengingar í Orkusambandi ESB.
4) Ef Alþingi samþykkir OP#3, tekst ríkisvaldið á hendur alvarlegar skyldur. Þær eru að sjálfsögðu ekki fólgnar í að leggja sæstreng, heldur að byggja upp alla innviði í landinu, sem nauðsynlegir eru fyrir sæstreng samkvæmt "Union List of Projects of Common Interest". Einnig verður um að ræða s.k. neikvæðar skyldur, sem verða fólgnar í að leggja engan stein í götu sæstrengslagnar. Að áskilja samþykki Alþingis fyrir tengingu sæstrengs við kerfi Landsnets er klárt brot á þessari skyldu samkvæmt OP#3 og verður brotið á bak aftur með vísun ESA til dóms ESB-dómstólsins í máli Framkvæmdastjórnarinnar gegn Belgíu 2019 eða með skaðabótamáli frá sæstrengsfjárfesti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2019 | 15:06
Umrót í Þjóðmálum
Tímaritið Þjóðmál er bæði virðingarvert og fróðlegt ársfjórðungsrit. Þar á Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, fastan samastað, "Af vettvangi stjórnmálanna". Þarna hefur hann í undanförnum heftum hrist úr klaufum og slett úr hala um Þriðja orkupakkann, eins og honum einum er lagið. Er þar þó lítt af setningi slegið og skjóta þessi skrif skökku við málefnalegar greinar tímaritsins. Það er til að æra óstöðugan að elta ólar við téðan Björn, en í sumarheftinu 2019 keyrir þó svo um þverbak, að ekki verður með góðu móti hjá komizt að leiðrétta þennan fasta penna Þjóðmála, lesendanna vegna:
"Í ályktun landsfundarins segir: "Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins." Þessi ályktun snýr ekki að þriðja orkupakkanum þótt andstæðingar hans láti þannig. Í honum felst ekkert valdaframsal."
Báðar fullyrðingarnar á eftir tilvitnuninni í ályktun Landsfundar eru alrangar, eins og nú skal sýna fram á.
Téður Björn hefur lesið rafmagnstilskipun Þriðja orkupakkans, eins og skrattinn Biblíuna, þannig að hann hefur öðlazt á orkupakkanum í heild öfugsnúinn skilning. Hann gerir lítið úr áhrifum hans, og þau helztu séu aukið sjálfstæði Orkustofnunar til bættrar neytendaverndar. Þetta éta þau hvert upp eftir öðru, sem helzt vilja sjá Alþingi aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.
Eftirlits- og reglusetningarstofnun ESB á orkusviði, ACER (Orkustofnun ESB), er með skrifstofustjóra á sínum vegum í hverju aðildarríki, og svo verður einnig í EFTA-löndunum þremur, sem aðild eiga að EES, eftir samþykkt OP#3, nema þar verður ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) milliliður fyrir samskipti við skrifstofustjórann, sem hefur verið nefndur Landsreglari á íslenzku (National Energy Authority). Þessi æðsti valdsmaður raforkumála á Íslandi eftir innleiðingu OP#3, sem verður algerlega óháður íslenzkum stjórnvöldum, en skyldugur til að framfylgja stefnu ESB í orkumálum, mun samkvæmt þessum orkulagabálki ESB (tilskipanir og reglugerðir OP#3) fá 2 meginverkefni:
a) að stuðla að myndun vel virks raforkumarkaðar, sem sé samhæfanlegur við raforkumarkaði ESB.
b) að ryðja öllum hindrunum úr vegi tengingar Íslands við hinn sameiginlega innri raforkumarkað ESB um aflsæstreng.
Verkefni a felur í sér að koma hér á fót markaðsstýringu raforkuvinnslunnar. Hún felur það í sér, að vinnslu virkjananna verður alfarið stýrt eftir því verði, sem markaðsstjóri orkukauphallar úrskurðar, að feli í sér jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar. Framleiðendum í þessu markaðskerfi ber engin skylda til að koma í veg fyrir orkuskort, og horfur á orkuskorti munu þrýsta orkuverðinu upp. Aðalviðmið framleiðendanna verður að hámarka tekjur sínar. Eftir samtengingu íslenzka raforkukerfisins við innri markaðinn (með aflsæstreng), mun verðið til raforkunotenda á Íslandi ekki lengur ráðast af aðstæðum hérlendis, heldur munu íslenzkir raforkukaupendur þurfa að bjóða hærra verð en keppinautarnir erlendis til að fá orku, úr íslenzkum orkulindum eða með innflutningi um sæstreng.
Er ekki deginum ljósara, að ályktun Landsfundarins hittir beint í mark að þessu leyti ? Hann hafnaði frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana ESB, en eftir innleiðingu OP#3 verða yfirráðin yfir íslenzka raforkumarkaðinum í höndum Landsreglara, sem er fulltrúi ACER, Orkustofnunar ESB. Þeir, sem þræta fyrir þetta, hafa annaðhvort fallið í freistni orðhengilsháttar eða ekki áttað sig á merkingu OP#3.
Felur þessi innleiðing á markaðsstýringu orkuvinnslunnar að hætti ESB í sér valdframsal ? Já, það er enginn vafi á því. Þetta verður þvingað ferli, sem hugsanlega verður innleitt í óþökk yfirvalda, sem kunna að kjósa fremur þá orkulindastýringu, sem þróuð hefur verið um árabil innan vébanda Landsvirkjunar, en þarf að innleiða á landsvísu, ef fullur árangur á að nást (með lagabreytingu). Þetta felur í sér að stofna til orkulindaskrifstofu, t.d. innan þess hluta Orkustofnunar, sem ekki mun heyra undir Landsreglara. Þessi skrifstofa þarf að fá gögn frá öllum helztu virkjunum landsins, og hún þarf að hafa vald til að takmarka minnkun vatnsforðans í miðlunarlónum til að draga úr hættu á orkuskorti og sömuleiðis til að halda álaginu á gufuforðabúr virkjaðra jarðgufusvæða innan vissra marka til að endingartími forðabúrsins verði sem lengstur. "Orkulindastjóri" þarf líka að geta beitt hvötum til að hefja nýja virkjun í tæka tíð til að forða aflskorti.
Það er mjög líklegt, að Landsreglari/ESA/ACER muni telja þetta óleyfilegt inngrip ríkisvaldsins í frjálsan markað, þar sem óheft fjórfrelsið á að ríkja, svo að ríkisstjórn og Alþingi muni ekki komast upp með nýja lagasetningu, sem nauðsynleg er, til að orkulindastýring Landsvirkjunar verði útvíkkuð á landsvísu.
Þessi rökleiðsla varpar ljósi á, að innleiðing OP#3 felur í sér valdframsal, sem bannað er í tilvitnaðri Landsfundarályktun sjálfstæðismanna frá marz 2018. Hér er reyndar um að ræða valdframsal til erlendrar stofnunar, sem bindur hendur stjórnvalda og löggjafa og kallast þess vegna fullveldisframsal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.8.2019 | 15:06
Þingmenn skoði hug sinn til Orkupakka #3
Iðnaðarráðherra, sem er ábyrg fyrir orkumálum landsins, hefur látið í ljós, að samþykkt OP#3 sé eðlilegt framhald á lögleiðingu OP#1 og OP#2 hérlendis og að aðaláhrif hans verði að auka sjálfstæði Orkustofnunar (OS) til að framfylgja bættri neytendavernd fyrir raforkukaupendur.
Þetta er allt saman kolrangt hjá ráðherranum, og þegar af þeirri ástæðu verða þingmenn að staldra hér við og hugsa sinn gang. Bæði utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafa tekið skakkan pól í hæðina í þessu máli og eru í þann veginn að leiða þjóðina í hinar verstu ógöngur með glámskyggni sinni. Styrkur lýðræðisþjóðfélagsins er, að slík grundvallarmistök ráðherra, þingmanna og stjórnmálaflokka þeirra, draga pólitískan dilk á eftir sér. Þess sjást nú þegar merki, sem þó eru smáræði hjá því, sem búast má við, ef allt fer á versta veg.
Grunnstefið í orkustefnu Evrópusambandsins (ESB) er að búa í haginn fyrir og þróa innri raforkumarkað með samtengdum og snurðulaust samrekanlegum raforkukerfum aðildarlanda. OP#1, sem var innleiddur hér með raforkulögum 2003, átti að leggja grundvöll að frjálsri samkeppni á sviði raforkuvinnslu og -sölu; með OP#2, innleiddum hér 2008, átti (valfrjálst þó) að koma á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, en Landsnet, sem er með verkinn, hefur enn ekki látið af því verða, heldur er hér orkulindastýring Landsvirkjunar við lýði að mestu leyti, þar eð Landsvirkjun er ríkjandi á markaðinum.
Með OP#3 verður sú meginbreyting, að á grundvelli Lissabon-sáttmálans, sem er stjórnarskrárígildi ESB, breytist orkusamvinna aðildarlandanna í Orkusamband ESB með stofnsetningu yfirþjóðlegrar Orkustofnunar ESB-ACER. Stofnað var til valdamikils embættis á orkusviði í hverju landi, Landsreglara, sem tekur við eftirlits- og reglusetningarskyldum og -völdum orkuráðuneyta og orkustofnana í hverju landi og verður undir beinni stjórn ACER með ESA sem millilið fyrir EFTA-löndin.
Á Íslandi er ætlunin að hafa þetta nýja embætti, sem á að verða óháð íslenzkum stjórnvöldum, innan vébanda OS, og jafnvel gegni Orkumálastjóri þessu starfi. Hann þarf þá að þjóna tveimur herrum, sem býður upp á óhjákvæmilega hagsmunaárekstra. Í Noregi verður þetta sjálfstætt embætti, enda óvíst, að ESB sætti sig við samkrull trúnaðar við landsyfirvöld og við ACER í sömu persónu. Það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum. Stjórnlagalega orkar Landsreglari tvímælis hérlendis, og það birtist enn skýrar með OP#4, en látum það liggja á milli hluta hér.
Til að gera langa sögu stutta má segja, að Landsreglari hafi tvö meginhlutverk samkvæmt OP#3:
Í fyrsta lagi ber honum að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn fullkomlega að innri raforkumarkaði ESB með því að koma hér á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar.
Þetta óhefta markaðskerfi mun hafa slæmar hliðarverkanir vegna sérstöðu íslenzka orkukerfisins. Þetta ESB-kerfi er hannað til að sjá neytendum fyrir nægu afli á hverjum tíma, og á meginlandi Evrópu (og á Bretlandi) er það hlutverk eldsneytismarkaða að sjá orkuverunum fyrir nægri frumorku.
Hér á landi verður aftur á móti ætlazt til þess af þessu kerfi, að það sjái bæði fyrir nægri frumorku (vatn í miðlunarlónum og gufa í virkjuðum jarðhitageymum) og nægu rafafli. Markaðsstýring raforkuvinnslu er ófær um það. Eftir innleiðingu hennar hér eykst þess vegna hættan á orkuskorti verulega, og hér verður viðvarandi seljendamarkaður, af því að orkuvinnslufyrirtækin munu ekki sjá sér hag í að auka framboð orku mikið í einu.
Þetta ástand er augljóslega andstæða neytendaverndar, því að hætta á orkuskorti þýðir hækkun raforkuverðs í þessu kerfi og tíðar skerðingar eða afnám á framboði ótryggðrar orku, sem er ódýrari en forgangsorka. Hér þarf í staðinn sérsniðna orkulindastýringu fyrir allt landið (öll helztu orkuvinnslufyrirtækin), en Landsreglarinn mun vafalaust banna hana, þar sem hún felur í sér óleyfilegt inngrip hins opinbera í frjálsan samkeppnismarkað. Þar á hvert fyrirtæki að leitast við að hámarka tekjur sínar, og enginn ber ábyrgð á því, hvort næg orka verður fyrir hendi í kerfinu í næstu viku.
Með orkulindastýringu raforkuvinnslunnar er ekki verið að finna upp hjólið, því að Landsvirkjun hefur lengi þróað slíkt kerfi innan sinna vébanda. Það má byggja á þeim grunni og útvíkka kerfið fyrir allt landið. Hætt er við, að Landsvirkjun muni afleggja sína orkulindastýringu, ef/þegar Landsreglari kemur hér á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, og undir Landsreglara, fjórfrelsinu og beitingu ESA á Þjónustutilskipun 123/2013 er líklegt, að fljótlega kvarnist út úr Landsvirkjun, sem verður raforkukaupendum sízt til hagsbóta.
Hitt meginhlutverk Landsreglara samkvæmt OP#3, eftir að hafa aðlagað hér raforkumarkaðinn að innri markaði ESB, verður að ryðja brott öllum hindrunum úr vegi raunverulegrar tengingar landsins við innri markað ESB.
Þar með vinnur hann að aðalstefnumiði ESB á orkusviði, þ.e. að samtengja öll lönd Orkusambandsins með öflugum hætti á einum markaði, þar sem fjórfrelsið ríkir. Lönd, sem kunna að vera aflögufær um raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, vekja alveg sérstakan áhuga Framkvæmdastjórnarinnar, eins og berlega kemur fram í OP#4. Þessu til sannindamerkis varðandi Ísland er, að ESB hefur valið "Ice-Link"-verkefnið, sem er um 1000 MW sæstrengur á milli Íslands og Skotlands, inn á "Union List of Projects of Common Interest" eða Sambandslista verkefna sameiginlegra hagsmuna. Inn á þessa skrá Evrópusambandsins fara aðeins verkefni af Kerfisþróunaráætlun ESB, sem hæstu einkunn hljóta í ströngu matsferli ENTSO-e, Samtaka evrópskra kerfisstjóra, þar sem fulltrúi Landsnets á sæti.
Það má þannig slá því föstu, að á meðal stefnumarkenda ESB sé ótvíræður áhugi á "Ice-Link". Það er vafalaust áhugi hjá brezka Landsreglaranum á þessu verkefni, því að hann hefur hvatt mjög til lagningar "NorthConnect", 1400 MW sæstrengs á milli Hörðalands í Vestur-Noregi og Petershead á Skotlandi. Vegna hitans í norsku sæstrengsumræðunni bað ríkisstjórnin norsku Orkustofnunina, NVE, um að fresta afgreiðslu umsóknar um "NorthConnect" fram yfir sveitarstjórnarkosningar í september 2019 í Noregi.
Komi upp ágreiningur á milli íslenzka og brezka Landsreglarans um "Ice-Link" eða þess íslenzka og írska, ef Bretar ganga úr ACER, sem er spurning, þótt ekki sé lengur spurning um BREXIT 31.10.2019, þá mun ACER úrskurða um þann ágreining. Eftir að Alþingi hefur innleitt OP#3 í íslenzk lög, og úrskurði ACER, að sæstrenginn skuli leggja, verður engin leið fyrir íslenzk yfirvöld til að hindra lagningu slíks strengs og tengingu við íslenzka meginflutningskerfi raforku án þess að baka ríkissjóði stórfellda skaðabótaskyldu, eins og m.a. Arnar Þór Jónsson, dómari hefur bent á. Hún getur numið tugum milljarða ISK, sem verður útreiknað tjón sæstrengsfjárfesta, sem orðið hafa hlutskarpastir í útboði ACER, yfir eitthvert árabil. Við þetta bætist hið pólitíska tjón, því að slík málaferli munu líklega hafa slæm áhrif á EES-samstarfið og forkólfum ESB mun þykja sem Íslendingar hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar, sem þeir tókust á hendur við innleiðingu OP#3.
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga nýlega málshöfðun Framkvæmdastjórnarinnar gegn ríkisstjórn Belgíu fyrir ESB-dómstólinum fyrir ranga innleiðingu OP#3. Þar ætlaði ríkisstjórn Belgíu sér m.a. að eiga síðasta orðið um millilandatengingar.
Þess má að lokum geta, að samkvæmt tilskipun 2019/944, gr. 3, sem er í OP#4, eiga aðildarlöndin að tryggja, að innlend löggjöf hindri ekki með "með óeðlilegum hætti" nýjar millilandatengingar fyrir raforku. Allt ber hér að sama brunni. Málatilbúnaður ríkisstjórnar Íslands í orkupakkamálinu stendur á brauðfótum .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2019 | 10:42
"Vér mótmælum allir"
Arnar Þór Jónsson,(AÞJ), héraðsdómari, greindi afleiðingar EES-samningsins með hliðsjón af Orkupakka #3 (OP#3) meistaralega í sögulegu, réttarfarslegu og lýðræðislegu ljósi í grein sinni,
"Fullveldið skiptir máli",
í Morgunblaðinu 27. júlí 2019. Verður að mælast til þess, að allir þingmenn kynni sér grein þessa rækilega áður en þeir gera upp hug sinn til OP#3 og greiða um hann atkvæði á Alþingi. Sú atkvæðagreiðsla mun fara á spjöld sögunnar og ráða miklu um hina pólitísku framvindu á landi hér næstu árin. Verður nú vitnað ótæpilega í þessa lærdómsríku ritsmíð:
"Í ljósi frétta og vaxandi þunga í almennri umræðu um málið, tel ég ekki ofmælt, að ágreiningur um innleiðingu O3 sé að umbreytast í djúpstæða pólitíska krísu, sem skekur ekki aðeins ríkisstjórnarflokkana á grunninum, heldur einnig flokka í stjórnarandstöðu."
Sé þetta rétt athugað hjá AÞJ, sem djúpstæður ágreiningur í stjórnarflokkunum ber vott um, þá má vissulega vænta umbrota í þeim og jafnvel stefnubreytingar með tíð og tíma. Þessi grein AÞJ er þungt lóð á þá vogarskál og mun e.t.v. marka þáttaskil.
"Ég tel m.ö.o., að rætur ágreiningsins um innleiðingu O3 liggi djúpt í réttarvitund almennings og stöðu Íslands gagnvart ESB á grunni EES-samstarfsins."
AÞJ telur m.ö.o., að EES-samstarfið samræmist ekki lengur réttarvitund almennings, hafi það nokkurn tíma gert það. Við þær aðstæður er ljóst, að einhverjir stjórnmálaflokkanna munu fljótlega endurskoða afstöðu sína til EES-samstarfsins, og það er nákvæmlega það, sem búizt er við í Noregi líka. Þar er reiknað með, að EES-samstarfið verði kosningamál í kosningabaráttunni 2021 fyrir Stórþingskosningarnar. Sama ár verður Alþýðusambandsþing í Noregi, og þar er reiknað með, að meirihluti þingfulltrúa hafi fengið sig fullsadda af einkavæðingarfyrirskipunum ESA á raforkuvinnslu og járnbrautarekstri og réttindaskerðingum verkafólks. Ályktun LO-þingsins gegn EES mun, ef að líkum lætur, hafa áhrif á afstöðu Verkamannaflokksins til EES og við ríkisstjórnarmyndun eftir þingkosningarnar haustið 2021.
Þetta ólýðræðislega EES-fyrirkomulag, sem getur framkallað djúpstæðar samfélagsbreytingar, sem aldrei hafa þó verið ræddar í kosningabaráttu eða innan stjórnmálaflokkanna til neinnar hlítar, er að nálgast leiðarenda og hefur farið fé betra.
"Það er ekkert feimnismál að segja eins og er, að í EES-samstarfinu hafa Íslendingar verið móttakendur reglna, en ekki tekið þátt í mótun þeirra. Það er heldur ekkert ljótt að segja það hreint út, að slík staða er engu lýðræðisríki sæmandi til lengdar. Slík staða er heldur ekki í neinu samræmi við þann lagalega grunn, sem lagður var að stofnun Alþingis árið 930 og mótað hefur lagahefð Íslendinga alla tíð, þrátt fyrir löng tímabil niðurlægingar, undirokunar og kúgunar."
Þegar dómari kemst að þeirri niðurstöðu, að EES-samningurinn samræmist ekki grundvellinum að stofnun Alþingis við Öxará 930, þá er ljóst, að EES-aðildin er að verða fleinn í holdi þjóðarinnar, sem verður að fjarlægja hið allra fyrsta, ef ekki á verra að hljótast af.
Brezka þjóðin, eða öllu heldur Englendingar, þoldi ekki lengur við í ESB, og sat hún þó við borðið, þar sem reglur eru samdar og ákvarðanir teknar. Hún gekk hins vegar sjaldnast í takti við öxulríkin Frakkland og Þýzkaland, sem dunda við stefnumótun tvær einar að hætti stórvelda. Er nú ljóst með yfirburðasigri Borisar Johnson í formannskjöri brezka Íhaldsflokksins, að draga mun til tíðinda í útgöngumálum Breta í 31.10.2019.
Æskilegast er, að EFTA, með Svissland innanborðs, geri í kjölfarið víðtækan fríverzlunarsamning við Bretland, og Boris og Donald munu mynda einhvers konar öxul yfir Atlantshafið og fríverzlunarsamningur á milli landa þeirra mun fljótlega sjá dagsins ljós. Mun þá styttast í fríverzlunarsamning Bretlands og ESB, og tiltölulega einfalt ætti síðan að verða að leysa EES-samninginn af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningi EFTA og ESB, er einnig spanni menningar- og vísindasamstarf.
"Í þessu samhengi blasir líka við, að það er alger öfugsnúningur á hlutverki löggjafa og dómstóla, ef hinum síðar nefndu er ætlað að taka á sig nýtt hlutverk og fara að marka samfélagslega stefnu. Dómurum er ætlað það stjórnskipulega hlutverk að finna og beita lögum þess samfélags, sem þeir þjóna til að verja rétt þeirra, sem brotið hefur verið gegn. Þetta er mikilvægasta skylda dómara, en ekki að vera viljalaust handbendi ríkjandi valdhafa eða þeirra, sem telja sig vera fulltrúa siðferðilegs meirihluta á hverjum tíma."
Sumir dómar ESB-dómstólsins og EFTA-dómstólsins, sem notar dómafordæmi hins fyrr nefnda, en ekki öfugt, hafa komið verulega á óvart og þótt vera á skjön við Evrópuréttinn. Eitt dæmi um slíkt er dómur EFTA-dómstólsins í máli ESA gegn norska ríkinu í s.k. "Hjemmfallssak", sem fjallaði um þjóðnýtingu vatnsorkuvirkjana í Noregi að ákveðnum tíma frá gangsetningu virkjunar liðnum (a.m.k. 70 ár). Áður hafði verið talið, að EES-samningurinn spannaði ekki eignarréttinn né afnotarétt auðlindanna, en annað er nú komið á daginn. EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, að lögin mismunuðu eigendum, bæði eftir þjóðernum og eignarformi, þ.e. í sumum tilvikum erlend einkaeign viki í tilviki norsku laganna fyrir ríkiseign. Hvort tveggja er óleyfilegt samkvæmt "fjórfrelsinu", og "fjórfrelsið" trompar allt innan EES. Í kjölfarið á þessum dómi voru sett lög í Noregi, eftir stímabrak við ESA, um að öll vatnsorkuver í Noregi yfir 5,0 MW skyldu a.m.k. að 2/3 hlutum vera í opinberri eigu. Hið einkennilega er, að þetta þótti ESA á sínum tíma vera fullnægjandi fyrir lögmæti yfirfærslu einkaeignar á virkjunum til norska ríkisins að afskriftatímanum löngu liðnum, en annað er nú komið á daginn um vatnsréttindin eða virkjunarréttindin sjálf. Ljóst er t.d., að ef Landsvirkjun missir vatnsréttindi sín í Þjórsá/Tungnaá í hendur E'ON, sem er þýzkur orkuvinnslurisi, þá mun Landsvirkjun neyðast til að selja E'ON virkjanirnar í Þjórsá/Tungnaá. Þetta er í samræmi við orkustefnu ESB, þar sem "fjórfrelsið" á að ríkja á sviði raforkuvinnslu, og ríkisafskipti eiga þar engin að vera, því að þau geta skekkt samkeppni um "vöruna" rafmagn. Fæstir Íslendingar vilja líta á rafmagn sem "vöru", eins og ESB gerir, enda geta þeir ekki skilað keyptri "vöru" þessarar gerðar. Rafmagn á að vera samfélagsgæði, sem unnin eru úr náttúrunni hérlendis. Sátt í anda hugmyndafræði þeirra, sem lögðu grunn að Alþingi 930, verður tæpast um annað.
Nú hefur aftur brotizt út stríð á milli ESA og norska ríkisins út af eignarhaldi vatnsorkuvera, því að 30. apríl 2019 barst norsku ríkisstjórninni bréf frá ESA með spurningum og áréttingum varðandi úthlutun vatnsréttinda í Noregi til virkjunaraðila með vísun til Þjónustutilskipunar ESB #123/2013. Hér er greinilega sams konar mál á ferðinni og rekið hefur verið gegn Frakklandi í 30 ár og gegn Íslandi síðan 2016, sem legið hefur í þagnargildi.
Norðmenn hins vegar svöruðu kokhraustir, að þeir hefðu við innleiðingu þessarar tilskipunar lýst því yfir, að þeir teldu hana ekki eiga við raforkuvinnslu. ESA/ESB hlustar ekkert á svoleiðis píp. Undanþágur verður að geirnegla með skriflegum samningum, sem öðlast lagagildi við staðfestingu Framkvæmdastjórnar, Ráðherraráðs og ESB-þings.
"Skilaboð alríkisins eru þau, að menn eigi fremur að hlýða en að andæfa, því að í alríkinu kemur valdið ofan frá og niður, en ekki öfugt. Þegar svo er komið, hefur gjörbylting átt sér stað, frá því sem áður var lýst. Í stað þess að reglur séu settar af fjölskyldum, í nábýli manna og mótist innan eins og sama samfélagsins, koma lögin frá yfirvaldi, sem vill þröngva sér inn í hversdagslíf okkar, jafnvel hugsanir okkar. Nútímatækni gefur slíku miðstýrðu valdi nánast takmarkalausa möguleika á slíkri áleitni. Jafnvel einveldiskonungar fyrri alda blikna í samanburði. Í stað umhyggju í nærsamfélagi býr alríkið til stofnanir, sem sýna okkur gerviumhyggju, en krefja okkur um algjöra hollustu."
Þarna leiðir AÞJ okkur fyrir sjónir, hvert yfirþjóplegt vald ESB/EES hefur leitt okkur. Okkar gamli löggjafi, sem mismikil reisn hefur verið yfir frá 930 til þessa dags, er nú á niðurlægingarskeiði vegna hins yfirþyrmandi yfirþjóðlega valds, sem hér er orðið allt umlykjandi í krafti EES-samningsins. Þar segir, að Evrópurétturinn sé ríkjandi gagnvart landsrétti, og þar með verður Stjórnarskráin að víkja líka. Þegar nú á að nota þennan rétt til að hrifsa orkulindir landsins undir "alríkið", er flestum orðið ljóst, að við svo búið má ekki standa.
"Þegar ríkisvald sýnir tilburði í þá átt að umbreytast í alríki, eru margar ástæður fyrir því, að viðvörunarbjöllur hringi. Yfirþjóðlegt lagasetningar-, framkvæmda- og dómsvald rýfur það samhengi, sem hér hefur verið lýst milli laga og samfélags, rýrir lagalega arfleifð, lítur framhjá hagsmunum þeirra, sem standa næst vettvangi, og vanvirðir í stuttu máli samhengi lýðræðishugsjónarinnar við réttarríkið. Slíkt er augljóslega á skjön við stjórnskipun Íslands."
Við þetta er ekki öðru að bæta en því, að stjórnkerfi, sem vanvirðir samhengi lýðræðishugsjónarinnar við réttarríkið er forkastanlegt og ekkert annað að gera en að kasta því á glæ með vel undirbúinni uppsögn EES-samningsins, helzt í samráði við Norðmenn, sem senn kunna að komast á sömu skoðun, og EFTA geri síðan víðtækan fríverzlunarsamning við ESB.
Hjáróma raddir (Viðreisnar o.fl.) hafa auðvitað heyrzt í kjölfar birtingar greinar AÞJ, að nú sé ekkert annað að gera en að dusta rykið af ESB-umsókn Íslands frá júlí 2009, sem enn hvílir í skúffu í Brüssel, en ekkert er fjær sanni eða væri heimskulegra í utanríkismálum nú á BREXIT-tíma.
"Afleiðingarnar blasa við í málum eins og O3. Þingmenn hyggjast taka að sér að innleiða í íslenzkan rétt reglur, sem erlendir skriffinnar hafa samið út frá erlendum aðstæðum og erlendum hagsmunum; lögfræðingar taka að sér hlutverk einhvers konar spámanna og freista þess með kristalskúlum að segja fyrir um, hvernig íslenzkum hagsmunum muni reiða af við framkvæmd hinna erlendu reglna; löggjafarþing tekur hinar erlendu reglur ekki til efnislegrar umræðu og endurskoðunar, en lætur sér nægja að leika hlutverk löggjafans."
Hér er á ferðinni flengjandi gagnrýni þegns í þjóðfélaginu, sem séð hefur í gegnum blekkingarvefinn. Þingmenn eru bara leikendur á sviði í leikriti, sem samið er í Brüssel, og íslenzkir búrókratar hafa síðan tekið að sér uppfærslu og leikstjórn. "Hvar er þín fornaldar frægð, frelsið og manndáðin bezt ?" Þingmenn verða að hrista af sér slenið (hlekkina) nú í þessu alræmda orkupakkamáli.
"Á móti spyr stór hluti íslenzkrar þjóðar, hvað sé lýðræðislegt við það ferli, sem hér um ræðir. Fyrir mitt leyti sé ég ekkert lýðræðislegt við það, að maður í teinóttum jakkafötum rétti upp hönd til samþykktar á lokuðum fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar og málið eigi þar með að heita "lýðræðislega útkljáð". Þetta er í mínum huga afskræming á lýðræðislegum rétti fullvalda þjóðar, og mætti með réttu kallast lýðræðisblekking."
Hérlendir búrókratar og handbendi þeirra hafa einmitt haldið þessu fram, að of seint sé í rassinn gripið fyrir Íslendinga að grípa í taumana, þegar OP#3 kemur til þingsins. Það er "lýðræðisblekking", og með því eru hinir sömu að gefa lýðræðinu og okkar fornfræga Alþingi langt nef. Það gengur ekki.
"Íslendingar eru ekki í neinu raforkusamfélagi með þjóðum, sem búa handan við hafið. Við höfum því ekki haft nein áhrif á eða aðkomu að reglum, sem þar hafa verið samdar um raforku og flutninga raforku milli ríkja. Í ljósi alls framanritaðs er vandséð, svo [að] ekki sé meira sagt, hvers vegna við eigum að innleiða þessar reglur í íslenzkan rétt og veikja auk þess um leið stöðu okkar í hugsanlegum samningsbrotamálum, sem höfðuð verða í kjölfarið."
Hér bendir AÞJ á tvö mikilsverð atriði. Í fyrsta lagi er það órökrétt með öllu, að við innleiðum hér lög, sem eru sniðin við samtengdan raforkumarkað Evrópu, þrátt fyrir að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna óttist versnandi landshagi, efnahagslega, umhverfislega og stjórnarfarslega, við slíka tengingu.
Í öðru lagi bendir hann á, og hefur gert í fleiri greinum, stórhættu á því, að t.d. umsækjendur um aflsæstreng, sem ekki fá að tengja hann við stofnrafkerfi Íslands, muni krefjast stórfelldra skaðabóta í málaferlum fyrir EFTA-dómstólinum. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar er afspyrnu veikur, ber vott um skammsýni og ótrúlegan heimóttarskap í utanríks- og iðnaðarráðuneytum. Þar virðast ólæsir Bakkabræður ráða ríkjum:
Að lokum ritaði AÞJ:
"Ég rita þessar línur til að andmæla því, að Íslandi sé bezt borgið sem einhvers konar léni ESB eða MDE, sem lénsherrar, ólýðræðislega valdir, siði til og skipi fyrir eftir hentugleikum, án þess að Íslendingar sjálfir fái þar rönd við reist. Slíkt verður ekki réttlætt með vísun til þess, að Íslendingar hafi kosið að "deila fullveldi sínu" með öðrum þjóðum."
Hér er við hæfi að skrifa í nafni þjóðararfs og lýðræðis:
VÉR MÓTMÆLUM ÖLL
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.8.2019 | 11:01
ESB leggur áherzlu á einkavæðingu vatnsorkuvera
Sérstakt og samstillt átak er nú í gangi hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) og spegilmynd hennar EFTA-megin, ESA, til að sá hluti virkjanageirans í EES, þar sem ríkiseign virkjana er mest áberandi, vatnsorkuverin, hverfi sem mest úr ríkiseign og einkaframtakið fái tækifæri á jafnréttisgrundvelli að bjóða í þessi vatnsréttindi, þegar þau renna út, og hefur þá verið miðað við stuttan tíma samanborið við endingartímann eða 30 ár. Eigendaskipti af þessu tagi og stytting bókhaldslegs afskriftatíma ein og sér eru til þess fallin að hækka raforkuverð frá þessum virkjunum, en ESB fórnar þarna neytendaverndinni á altari vaxandi fjárfestingarþarfar vegna endurnýjanlegra orkulinda. Stækkun vatnsorkuveranna hangir á spýtunni.
Tvennt vakir fyrir ESB-mönnum í þessu sambandi. Í fyrsta lagi að framfylgja orkustefnu ESB, sem m.a. kveður á um frjálsa samkeppni í raforkuvinnslunni án nokkurra ríkisafskipta. Í öðru lagi að fá aukið fjármagn inn í eignarhaldsfélög vatnsorkuveranna til að fjárfesta í stækkun orkuveranna, sérstaklega að stórauka þar uppsetta aflgetu, sem sé þess þá umkomin að fylla upp í framleiðslulægðir endurnýjanlegrar orku, sem valda aflskorti á virkum dögum á meginlandi Evrópu, sem nú þarf að bæta upp með rafafli frá orkuverum knúnum jarðefnaeldsneyti.
Í júlí 2018 birtist fróðleg grein í "Le Monde diplomatique" um baráttu Frakka við framkvæmdastjórn ESB út af útboði á vatnsréttindum. Hún hét:
"Baráttan um vatnið" og í undirfyrirsögn stóð:
"ESB krefst þess, að Frakkland skapi samkeppni um vatnsaflið. Opinber rekstur á vatnsorkulindum Frakklands hefur lengi verið kostur fyrir hagkerfi landsins og náttúruna. Nú hefur ESB ákveðið, að vatnsorkulindirnar verði einkavæddar."
Þessi barátta Frakka við framkvæmdastjórn ESB hefur tekið á sig mynd verkfallshótana og verkfalla starfsmanna vatnsorkuvera til að knýja stjórnvöld til að standa í lappirnar gagnvart Framkvæmdastjórninni. Líklegt má telja, að hún vísi nú þessum ágreiningi til ESB-dómstólsins. Dómur hans mun vísa EFTA-dómstólinum veginn, ef/þegar hann fær sams konar deilumál norsku ríkisstjórnarinnar og ESA til úrskurðar. Ekki er vitað til, að íslenzka ríkisstjórnin hafi gert nokkurn ágreining við ESA út af bréfi þessarar Eftirlitsstofnunar EFTA, dags. 20. apríl 2016 til Íslands. Er slíkt ráðleysi og sofandaháttur með miklum eindæmum.
Électricité de France (EdF) var stofnað við þjóðnýtingu raforku- og gasvinnslunnar í Frakklandi 1946. Frá 10. áratuginum hefur verið dregið úr veldi fyrirtækisins með lögum frá Brüssel, sem innleidd eru í París. Árið 1993 samþykkti ríkisstjórn jafnaðarmannsins Pierre Bérégovoy s.k. Sapin-lög að kröfu Brüssel, sem takmörkuðu gildistíma virkjunarleyfa, og innfærði jafnframt kröfuna um útboð og samkeppnisvæðingu geirans.
Árið 2004 varð EdF hlutafélag, og það gat þá í raun ekki lengur forðazt samkeppni, þegar virkjanaleyfi rann út, en allt þar til nú hefur samt verið komið í veg fyrir einkavæðingu vatnsorkuvera í Frakklandi með mismunandi hætti.
Þann 22. apríl 2010 tilkynnti þáverandi umhverfis- og orkuráðherra, Jean-Louis Borko, að 51 útrunnið virkjanaleyfi, sem jafngiltu 20 % af frönskum vatnsorkuverum, skyldi endurnýja með útboði. Ríkisstjórn Francois Fillons tvísté á milli skipana frá Brüssel og harðrar andstöðu verkalýðsfélaga starfsmanna EdF, og bauð virkjanaleyfin aldrei út. "Nicolas Sarkozy og Francois Fillon efndu ekki loforð sitt við framkvæmdastjórn ESB um að opna lúgurnar fyrir frjálsri samkeppni í staðinn fyrir að fá að stýra raforkuverðinu áfram", sagði Marc Boudier, formaður Félags óháðra franskra raforku- og gasvinnslufyrirtækja, Afieg; stærsti þrýstihópur orkugeirans með mörg dótturfyrirtæki stórra evrópskra orkusamstæðna innan sinna vébanda. Það er algerlega í blóra við orkustefnu ESB og lög um frjálsa samkeppni fyrir vörur (og þjónustu), að ríkið stýri raforkuverðinu, og sýnir, að París er á allt annarri bylgjulengd en Brüssel í þessum efnum.
Umhverfisráðherrann 2012-2013, Delphine Batho, lagðist gegn markaðsvæðingunni og bætti við, að hún vildi halda í opinbert vatnsorkufyrirtæki (EdF). Markaðsvæðingarmenn gerðu þegar gagnárás á hana. Batho var tekin fyrir af Pierre Moscovski - sem nú er fjármálaframkvæmdastjóri ESB - og hætti við áhættusamt verkefni sitt um vissa þjóðnýtingu raforkuvinnslunnar. Hún er nú þingmaður flokksins Génération Écologie, sem er umhverfisverndarflokkur. Hún er þar formaður núna og gerir eftirfarandi athugasemd við aðgerðir frönsku ríkisstjórnarinnar í þessu máli undanfarin 20 ár.
"Frakkland hefur ekki hafið báráttu, nema þá með hangandi hendi, fyrir því að varðveita opinbera stjórnun á vatnsorkunni. Franska ríkið felur sig á bak við framkvæmdastjórn ESB, en það er það sjálft, sem er ábyrgt fyrir löggjöfinni, allt frá Sapin-lögunum."
Framkvæmdastjórnin krefst þess, að útrunnin virkjanaleyfi með "fljótandi gildistíma" (leyfin framlengjast sjálfvirkt) fyrir um 30 vatnsorkuver verði strax endurnýjuð á grundvelli útboðs. Þann 7. maí 2018 lét hún 8 ríkisstjórnir ESB-landa vita formlega, að "bæði löggjöfin og framkvæmd hennar hjá frönskum og portúgölskum yfirvöldum brjóti í bága við ESB-réttinn".
Þann 22. október 2015 sendi Framkvæmdastjórnin frönsku ríkisstjórninni bréf, þar sem fram kom, að Framkvæmdastjórnin teldi, að viðhald óbreytts ástands skapaði ójafnræði á milli markaðsaðila varðandi aðgang að vatnsauðlindinni fyrir raforkuvinnslu, sem gefi EdF kost á að varðveita eða styrkja "... ríkjandi stöðu sína á raforkumarkaði Frakklands."
Fram að árinu 2023 mun 1/3 af frönskum leyfum fyrir vatnsorkuvirkjanir renna út, þ.e.a.s. fyrir 150 miðlunarlón. Ráðherra grænna orkuskipta, Francois de Rugy, hefur gefið í skyn, að "í haust", þ.e. haustið 2018, muni markaðsvæðingin hefjast, en ríkisstjórnin gæti mætt miklum andbyr á þinginu, og það reyndust orð að sönnu. Hubert Wulfranc frá franska kommúnistaflokkinum lagði 5. apríl 2018 fram þingsályktunartillögu, þar sem þess er krafizt, að ríkisstjórnin biðji framkvæmdastjórn ESB um að undanskilja vatnsaflið frá markaðsvæðingu, eins og Þýzkaland gerði eftir mikil mótmæli alþýðu þar í landi. 113 þingmenn af 577 frá öllum þingflokkunum skrifuðu undir þingsályktunina.
"Hugmyndina um, að markaðsvæðing sé alltaf hagstæð, ber að endurskoða. Það er mikilvægt, að þingið taki fast á vatnsaflsmálinu og hefji baráttu við Brüssel. Landið verður að vakna", sagði Julien Aubert, varaformaður hins íhaldssama flokks "Lýðveldissinnanna", sem venjulega styður frjálsa samkeppni á markaði á flestum sviðum, á sameiginlegum blaðamannafundi ábekinga þingsályktunartillögunnar.
Þessi frásögn í "Le Monde diplomatique" er mjög athyglisverð og sýnir, að afstaða fólks til vatnsréttindanna er svipuð í Þýzkalandi, Frakklandi, Noregi og á Íslandi og áreiðanlega víðar. Andstæðingar markaðsvæðingar afnotaréttar vatnsorkuauðlindarinnar koma bæði úr röðum frjálslyndra markaðssinna á flestum sviðum og kommúnista.
Á Íslandi sannast þetta með markaðssinnana á sjálfstæðismönnum, en þeir eru flestir andvígir því að leiða orkustefnu ESB til öndvegis á Íslandi með innleiðingu hvers orkupakkans á fætur öðrum í landsrétt. Vilja þeir nú spyrna við fótum. Enn halda vinstri grænir sig við hrossakaupin, sem þeir gerðu við hina ríkisstjórnarflokkana, þar sem þeir skuldbundu sig til að styðja OP#3 gegn stuðningi við fóstureyðingafrumvarp Svandísar. Til að bjarga sér fyrir horn verða þeir nú að gera hinum stjórnarflokkunum grein fyrir því, að þeir verði að hverfa frá stuðningi sínum við OP#3 í ljósi upplýsinga um orkustefnu ESB, sem leiðir til skefjalausrar einkavæðingar raforkuvinnslunnar. Með svipuðum hætti ætti Framsóknarflokkinum að vera farið, ef allt er með felldu þar á bæ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.7.2019 | 11:10
Glámskyggni orkupakkasinna á Íslandi
Því er haldið fram í fúlustu alvöru í opinberri umræðu á Íslandi, að innleiðing Orkupakka #3 (OP#3) muni engu breyta fyrir Íslendinga, og síðan er hausinn bitinn af skömminni með því að bæta við, að OP#3 muni hins vegar miklu máli skipta fyrir Norðmenn. Jafnvel iðnaðarráðherra, sem ætti að vita betur, heldur því blákalt fram, að OP#3 sé "bara" framhald af OP#2 í viðleitni ESB til að auka við neytendavernd. Með þessum málflutningi hefur iðnaðarráðherra sett á svið leikverk fáránleikans og dæmt sig úr leik sem ábyrgur stjórnmálamaður, sem hægt er að treysta og taka mark á. Væri henni og öðrum fylgispökum áhangendum OP#3 innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins nú hollast í sálarháska sínum að lesa vel og vandlega Morgunblaðsgrein Arnars Þórs Jónssonar, dómara, þann 27. júlí 2019, sem nefnist "Fullveldið skiptir máli", en þar er um að ræða sígild andmæli vel upplýsts og hugsandi manns við því ólýðræðislega ferli, sem EES-samningurinn býður upp á, og nú krystallast í stórmáli, OP#3. Meðferð stjórnvalda á þessu máli er í hrópandi mótsögn við réttlætistilfinningu þorra fólks og rótgrónar hugmyndir um lagasetningu í réttarríki, sem Arnar Þór rekur allt aftur til ársins 930.
Sú grundvallarbreyting frá OP#2 felst í OP#3 að stofnsetja Orkustofnun ESB, ACER, sem á að einbeita sér að eflingu millilandatenginga og fær til þess töluverðar valdheimildir, eins og lesa má um í skýrslu Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar, og þær munu síðan aukast verulega með OP#4, eins og sést af minnisblöðum höfundar þessa pistils um OP#4 í viðhengi með honum.
ACER fær líka völd innanlands, einkum yfir Landsneti, og yfir raforkumarkaðinum, sem á að laga að Innri markaði ESB. Þá leiðir samþykkt OP#3 til stofnunar embættis Landsreglara ("National Energy Authority") undir stjórn ACER/ESA, sem verður algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum, en verður samt æðsta yfirvald raforkumála í landinu og tekur við mörgum skyldum Orkustofnunar og Iðnaðarráðuneytis á orkumálasviði.
Meginskyldur Landsreglara verða 2 samkvæmt OP#3:
1. Að stuðla að myndun vel virks markaðar
2. Að ryðja öllum hindrunum úr vegi tengingar Íslands við Innri raforkumarkað ESB um sæstreng
1. skylda Landsreglara felur í sér, að markaðurinn mun stjórna allri raforkuvinnslu á Íslandi á grundvelli raforkuverðs, og vinnslufyrirtækin munu þá leitast við að hámarka tekjur sínar án tillits til þjóðarhagsmuna hvað þá neytendaverndar, sem felast í orkuöryggi, t.d. að koma í veg fyrir tæmingu miðlunarlóna að vetri áður en leysingar hefjast að vori, með samræmdri orkulindastýringu fyrir allt landið. Þetta kerfi verður síður en svo neytendavænt, því að hér mun strax myndast seljendamarkaður, eins og við sjáum þegar glitta í, þar sem orkuvinnslufyrirtækin munu stýra framboðinu m.v. að hámarka tekjur sínar. Það er mikil glópska og/eða yfirdrepsskapur að halda því fram, að Landsreglarinn muni auka hér neytendavernd. Slíkt munu reynast hér alger öfugmæli. (Kjósendur iðnaðarráðherra þurfa endilega að fá skýringu á þessari gerð neytendaverndar beint frá henni sjálfri.)
2. skylda Landsreglarans mun án vafa leiða til lagningar aflsæstrengs til útlanda innan áætlaðs tíma fyrir Ice-Link á forgangsverkefnaskrá ESB um millilandatengingar, sem er 2027.
Viðskiptahugmyndir, sem hingað til hafa verið viðraðar um aflsæstreng, þ.e. annaðhvort að virkja framleiðslugetu 5-10 TWh/ár fyrir stöðugan útflutning um einn eða tvo sæstrengi eða að virkja lítið og flytja út afgangsorku á dýrum tímum í Evrópu, eru orðnar úreltar með orkustefnu ESB og innleiðingu OP#3-4 á Íslandi. Hvernig víkur því við ?
Raforkuvinnsla með vindmyllum í Evrópusambandinu nemur nú um 13 % af heildar raforkuvinnslu þar, og markmið ESB er 28 % árið 2030 og enn meir árið 2050, þegar ESB ætlar að verða kolefnishlutlaust. Af því að vindmyllur (og sólarhlöður) framleiða raforku slitrótt af náttúrulegum ástæðum, sárvantar ESB afl úr umhverfisvænum orkulindum til að fylla í skarðið að deginum, þegar lygnt er. Hugmyndin er sú, að Noregur og Ísland, "die umweltfreundliche, europäische Batterien", hjálpi til við að fylla upp í þetta skarð, þótt meira þurfi þar til að koma, og þar munu vatnsorkuver meginlands Evrópu þjóna veigamiklu hlutverki eftir gríðarlega aukningu vélaafls þeirra.
Til þess að Ísland geti tekið þátt í þessum leik, þarf að auka aflgetu íslenzkra virkjana feiknarlega, a.m.k. að tvöfalda uppsett afl í núverandi virkjunum og virkja fleiri vatnsföll með aflgetu í yfirstærð, svo að virkjanirnar geti sent frá sér miklu meira afl í nokkrar klukkustundir í senn en svarar til mögulegs meðalafls í virkjun vegna takmarkaðs miðlunarforða vatns. Jarðgufuverin henta rekstrarlega illa í þetta, því að þau eru tregstýranleg og þurfa að mestu fast álag til að virka vel. Þessi rekstrarháttur vatnsorkuvera er umhverfislega mjög gagnrýniverður hérlendis.
Til þess að þessar hugmyndir hugmyndafræðinga ESB á orkusviði raungerist, þarf að auka mjög fjárhagslegan styrk og fjárfestingarlöngun vatnsorkufyrirtækja í eigu ríkisins. Þar er kominn grundvöllurinn að ásókn Evrópusambandsins í einkavæðingu vatnsorkuveranna. Til að efla þennan fjárfestingarþrótt enn meir á Íslandi, mun ACER/Landsreglari sennilega beita sér fyrir uppskiptingu Landsvirkjunar, svo að erlendir fjárfestar fái hér enn meira svigrúm til að fjárfesta í vatnsorkuverum. Til þess þarf ekki annað en kæru til ESA um brot á samkeppnisviðmiðunum ESB (allt of stór markaðshlutdeild). Með uppskiptingu Landsvirkjunar rýkur öll viðleitni til orkulindastýringar í þágu orkuöryggis og sanngjarns raforkuverðs fyrir neytendur út í veður og vind.
Vatnsréttindin og vatnsorkuvirkjanir verða boðin út á EES-markaðinum til að brjóta einkavæðingunni leið. Þjóð, sem telur tæplega 0,4 M manns, mun ekki hafa roð við tæplega 500 M manns á þessum frjálsa markaði. Vatnsorkuvirkjanirnar munu hver á fætur annarri lenda í eigu erlendra stórfyrirtækja á sviði raforkuvinnslu. Þau munu halda sínum réttindum í 30 ár, og ávöxtunarkrafa þeirra verður miklu hærri en nú tíðkast í raforkuvinnslu á Íslandi.
Fjárfestingarþörfin verður gríðarleg, og Landsnet verður jafnframt skyldað til að leggja öflugar loftlínur frá virkjununum og niður að lendingarstað sæstrengjanna. Þetta stendur svart á hvítu í OP#4, en OP#3 er eins konar bráðabirgða útgáfa af honum. Raforkuverð á Íslandi hækkar óhjákvæmilega upp í evrópskt verð (verð umhverfisvænnar orku í Evrópu að frádregnum flutningskostnaði). Hið sárgrætilega er, að þetta verður allt hægt að gera í óþökk þjóðarinnar á grundvelli lögleiðingar orkupakkanna frá ESB. Þar á bæ sitja menn ekki auðum höndum undir forystu Martins Selmayr, aðstoðarmanns forseta Framkvæmdastjórnarinnar, sem stjórnar Evrópusambandinu með harðri hendi frá degi til dags. Það er þjóðhættuleg glámskyggni fólgin í því að yppa öxlum, brosa í sjónvarpsmyndavélina og segja við fréttamenn, að OP#2 sé bara "eðlilegt" framhald á OP#3, sem við verðum að innleiða út af EES-samningnum. Þetta er líklegast ljótasta nauðhyggja valdamanna, sem sézt hefur á Íslandi frá landnámi.
Lítum á eina hlið umhverfisþáttar þessa máls. Slík slitrótt sala raforku til Evrópu þýðir mjög ójafna miðlun úr lónum hér, sem geta þá farið frá hraðri lækkun vatnsyfirborðs og upp í hækkun að nóttu, þegar borgar sig að kaupa rafmagn til landsins við þessar ömurlegu aðstæður. Slíkt er vafalaust ekki hollt fyrir lífríkið þar og bakka lónanna, en verst verður það fyrir lífríki ánna og getur reynzt fólki, sem nytjar árnar neðan miðlananna, skeinuhætt.
Snögg minnkun vatnsrennslis þurrkar upp bakka og eyrar og veldur hæglega fiski- og seiðadauða. Klakar geta að vetri botnfrosið, stækkað síðan ört, beint vatnsrennslinu að mótlægum bakka og sorfið hann þá illilega, svo að til landskaða horfi. Sömuleiðis getur klaki brotnað, farið af stað og myndað klakastíflur. Afleiðingin getur orðið rennslistruflanir inn í virkjanir og stórflóð að vetri yfir tún og annað gróðurlendi. Þessi ójafni rekstrarháttur íslenzkra virkjana hentar þess vegna afkaplega illa og ber að forðast hérlendis, en það er engin von til þess, að stjórnendur orkumála ESB, ACER og Landsreglarinn á Íslandi taki nokkurt tillit til þess, þegar baráttan við loftslagsvána og orkuöryggi Evrópu eru annars vegar. Landsmenn geta maldað í móinn, en meira geta þeir varla gert, og geta þeir þakkað glámskyggnum þingmönnum sínum það að verðleikum, sem lögðu blessun sína yfir Orkupakka #3.
Eina ráðið til að koma í veg fyrir þessa martröð er að fella OP#3 á Alþingi og vísa málinu þar með í samningaferli í Sameiginlegu EES-nefndinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2019 | 11:36
Glittir í ljóta afleiðingu af OP#1 og OP#2
Það hefur verið margsýnt fram á, hversu illa orkubálkalöggjöf Evrópusambandsins á við íslenzkar aðstæður. Sú stefnumörkun að taka upp löggjöf Evrópusambandsins (ESB) á sviði raforkumála um EES-samninginn fyrir Ísland var röng og hefur dregið langan dilk á eftir sér. ESB stefnir á einkavæðingu raforkuvinnslunnar, og ríkisafskipti af þeirri starfsemi eru bönnuð. Þar af leiðandi var sú kvöð tekin af Landsvirkjun með raforkulögum 2003, sem reist voru á OP#1, að sjá landsmönnum jafnan fyrir nægu framboði af forgangsorku, bæði heimilum og fyrirtækjum. Markaðurinn átti að sjá um þetta, en markaðsaðstæður á Íslandi eru þannig, að markaðurinn bregzt þessu hlutverki. Að innleiða hér markaðsstýrt viðskiptakerfi raforku mun óhjákvæmilega framkalla hér viðvarandi seljendamarkað og þar með talsverða raforkuverðhækkun, þótt engin verði aflsæstrengur til útlanda.
Nú er komið í ljós, að hætta er á aflskorti í landinu frá 2022 og þar til virkjun, sem verulega munar um, kemst í gagnið, en engin slík er á döfinni. Hér getur þannig orðið stórfellt samfélagslegt tjón í boði Alþingis og innleiðingar þess á löggjöf ESB á orkusviði. Hætt er við, að enn meira tjón verði hér eftir innleiðingu OP#3 og markaðsstýringar á raforkukerfinu í kjölfarið. Þetta stafar af því, að markaðsstýringin er ekki þess umkomin að tryggja bæði nægt afl og orku, enda útvega eldsneytismarkaðirnir orkuna í ESB. Það vantar hér fjárhagslega hvata til að bæta við nýjum orkuverum, og það vantar samræmda orkulindastýringu fyrir allt landið, sem tekur mið af að viðhalda afhendingaröryggi raforku til allra neytenda í stað þess að hámarka tekjur hvers orkuvinnslufyrirtækis, eins og markaðsstýringin er hönnuð fyrir. Á meginlandi Evrópu lækkar orkuvinnslukostnaður fyrirtækis, sem bætir við nýju orkuveri. Það er vegna bættrar nýtni og meiri sjálfvirkni í nýjum orkuverum en gömlum. Á Íslandi hækkar hins vegar orkuvinnslukostnaðurinn með nýrri virkjun vegna þess, að hagkvæmustu kostirnir hafa þegar verið virkjaðir.
Ef/þegar embætti Landsreglara kemst á koppinn, sem fylgir samþykkt OP#3, þá mun hann koma hér á laggirnar orkukauphöll. Orkuvinnslufyrirtækin munu verðleggja raforkuna m.v. að hámarka tekjur sínar, alveg óháð því, hvort of lítil orka verður tiltæk (úr miðlunarlónunum) næstu vikurnar. Á Íslandi veldur markaðsstýring orkuvinnslunnar viðvarandi seljendamarkaði, sem alls staðar jafngildir háu verði. Orkustefna ESB, en orkupakkar ESB eru aðferð ESB við að innleiða orkustefnu sína í aðildarlöndunum, felur þess vegna í sér lífskjararýrnun fyrir íslenzka neytendur og verulega lakari samkeppnishæfni fyrirtækjanna, sem mun koma niður á þjóðartekjum og atvinnustigi í landinu, sjá minnisblað um OP#3 í viðhengi með þessum pistli.
Landsreglarinn, væntanlegur hæstráðandi á landinu í raforkugeiranum, mun ekki taka í mál að gera eitthvert eða einhver fyrirtæki ábyrg fyrir nægu raforkuframboði. Slíkt yrði brot á ætlunarverki yfirboðara hans hjá ESB um einkavæðingu og frjálsan samkeppnismarkað á raforkuvinnslusviði. Reyni íslenzk yfirvöld slíkt, mun Landsreglarinn óðara setja reglugerð til ógildingar slíkrar tilraunar rétt kjörinna yfirvalda landsins. Þetta er eitt dæmi af mörgum um yfirþjóðlegt vald, sem hér verður leitt til öndvegis, ef Alþingi afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.
Frétt Ásgeirs Ingvarssonar í Morgunblaðinu 8. júlí 2019,
"Aukin hætta á aflskorti" , hófst þannig:
"Samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets er hætta á því, að á einhverjum tímapunkti árið 2022 verði framboð á raforku á Íslandi ekki nægilegt til að svara eftirspurn. ... Núna sýnir spáin, að árið 2022 fara líkur á aflskorti yfir viðmiðunarmörk og gæti leitt til þess, að á álagstímum þurfi að draga úr framboði á raforku á vissum svæðum eða til tiltekinna kaupenda."
Þann 12. júlí 2019 lét forstjóri RARIK opinberlega í ljós áhyggjur sínar af því, að ástandið væri í raun mun alvarlegra en Sverrir Jan Norðfjörð lætur þarna í ljós. Miðað við tíðarfarið undanfarið og drjúga aukningu orkunotkunar þarf ekki að koma á óvart, að um er að ræða yfirvofandi hættu á orkuskorti strax næsta vetur samkvæmt Tryggva Þór Haraldssyni. Aflskorturinn verður algerlega af mannavöldum, og það er hægt að skrifa hann með húð og hári á kostnað gildandi orkulöggjafar frá Evrópusambandinu (ESB) í landinu, þ.e. OP#2.
Í því lagaumhverfi, sem orkumarkaðinum er búið á Íslandi, ræður hann ekki við viðfangsefnið, sem þessi löggjöf ætlast til af honum. Hann ræður ekki einu sinni við að koma í veg fyrir aflskort, sem er þó hlutverk markaðsstýringar raforkukerfisins í EAB, en þar sjá hins vegar eldsneytismarkaðirnir um að sjá fyrir nægri orku. Innleiðing OP#3 getur hæglega leitt til öngþveitis á íslenzka orkumarkaðinum. Það verður farið úr öskunni í eldinn.
Í stað þess að fela í sér neytendavernd, eins og stuðningsmenn þessarar Evrópulöggjafar hampa í tíma og ótíma án þess að vita, hvað þeir eru að tala um, þá verður þessi ESB-löggjöf að martröð íslenzka raforkunotandans, sem verður sviptur aðgengi að "vörunni", sem er afkomu hans lífsnauðsynleg, rafmagninu. Þetta sýnir, að á eyju, eins og Íslandi, sem er rafmagnslega ótengd við umheiminn, gengur það ekki upp að skilgreina rafmagn sem vöru, enda er ekki hægt að skila keyptu rafmagni, eins og hægt er með vörur.
Rafmagn á að vera þáttur í grunnþjónustu samfélagsins við íbúana og þar með fyrirtækin, sem þeir lifa á. Þar af leiðandi þarf að koma hér á samræmdri orkulindastýringu, sbr viðhengið. Á Íslandi eru yfir 90 % innviðanna, sem þarf til að framleiða, flytja og dreifa þessari grunnþjónustu, í eigu hins opinbera. Valið stendur nú um að einkavæða raforkuvinnsluna með því að samþykkja OP#3 og OP#4 og búa til seljendamarkað fyrir raforku eða að hafna OP#3 og leita samninga við ESB á vettvangi Sameiginlegu EES-nefndarinnar um nauðsynlegar undanþágur frá OP#3, sem m.a. feli í sér leyfi til samræmdrar orkulindastýringar og raunverulegt vald Orkustofnunar til að hafna umsókn um sæstreng og vald Alþingis til að banna undirbúning sæstrengs hérlendis (hjá Landsneti). Þetta er val á milli missis forræðis orkulindanna með óheftri markaðshyggju innan EES og dálítillar forræðishyggju á þessu lífsnauðsynlega sviði landsmanna. Það þýðir ekki lengur að berja hausnum við steininn. Orkupakki#2 veldur stórtjóni á Íslandi, og OP#3 mun valda enn meira tjóni, sem við sjáum ekki fyrir endann á. Iðnaðarráðherra verður að hætta stuðningi sínum við OP#3. Að öðrum kosti axlar hún sem ráðherra orkumála fulla pólitíska ábyrgð af tugmilljarða ISK tjóni af völdum yfirvofandi afl- og orkuskorts.
Það er ekki nóg með, að orkustefna stjórnvalda, sem er orkustefna ESB, hafi beðið skipbrot, heldur hefur "loftslagsstefnan" strandað líka og markmið um orkuskipti rokið út í veður og vind, því að þau voru alfarið reist á hugmyndinni um nægt afl og orku, þ.m.t. næga ótryggða orku í flestum árum. Þetta kemur fram í tilvitnuðu viðtali við Sverri Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóra þróunar- og tæknisviðs Landsnets:
"Skýrslan skoðar raforkujöfnuð landsins í heild sinni, og segir Sverrir erfitt að segja til um, hvar í dreifikerfinu séu mestar líkur á, að vandinn komi fram, en væntanlega yrði brugðizt við með því að draga úr framboði á rafmagni til notenda, sem þegar eru skilgreindir sem skerðanlegir. Væru það t.d. fiskvinnslur, sem nota rafmagn til fiskbræðslu, og hitaveitur. "Þessir kaupendur geta í sumum tilvikum brugðizt við með því t.d. að nota olíu á meðan vöntun er á raforku.""
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.7.2019 | 11:58
Aflskortur í vændum og raforkuverð hækkar
Á viðskiptasíðu Morgunblaðsins 8. júlí 2019 var vakin athygli á nýrri skýrslu Landsnets, þar sem boðaður er aflskortur f.o.m. 2022, ef svo heldur fram sem horfir. Það þarf enginn að halda, að virkjanafyrirtækin hafi ekki vitað af þessu, enda kom fram hjá forstjóra RARIK skömmu síðar, að þar á bæ byggjust menn við orkuskorti þegar næsta vetur (2019/2020).
Slíkar fréttir boða gósentíma fyrir raforkuvinnsluna. Stjórnendur fyrirtækjanna vita, að í markaðskerfi virkar frétt af þessu tagi til hækkunar raforkuverðs, þótt tilkostnaðurinn vaxi ekki neitt. Í frjálsri samkeppni í orkukauphöll er þetta mjög áberandi, og eiga verðhækkanir þar einmitt að mynda hvata til að reisa nýjar aflstöðvar.
Hér er hins vegar aðdragandinn að nýjum vatnsorku- eða jarðgufuvirkjunum, tilbúnum og tengdum inn á netið, miklu lengri en fyrir sólarhlöður, vindmyllur eða gasknúin og kolaknúin raforkuver Evrópu. Þar af leiðandi virkar þetta óhefta markaðskerfi neytendum í óhag hérlendis, þ.e. raforkuverð mun stíga mikið og afl- og jafnvel orkuskortur síðustu veturna fyrir nýja virkjun getur orðið tilfinnanlegur. Enginn þarf að segja blekbónda það, að Landsvirkjun og öðrum orkuvinnslufyrirtækjum hafi ekki þegar í fyrra verið kunnugt um í hvað stefnir með framboð og eftirspurn afls árið 2022 og á næstu árum á eftir. Samt er engin virkjun, utan smávirkjana og Hvalárvirkjunar (55 MW), í deiglunni. Þetta er tilræði við raforkukaupendur, sem verða algerlega varnarlausir gagnvart gríðarlegum raforkuverðhækkunum í orkukauphöll, sem verður fylgifiskur Orkupakka #3 (OP#3).
Yfirvöldum landsins verða bönnuð öll inngrip í verðlagsþróunina eftir OP#3-4 og einnig bönnuð afskipti af orkufyrirtækjunum, t.d. til að hvetja þau til að virkja. Í Orkusambandi ESB á raforkuvinnslan að vera leiksvið einkafyrirtækja í frjálsri samkeppni. Það mun ekki líða á löngu innan þessa orkusambands, þar til ríkisstjórnir verða dæmdar af ESB-dómstólnum til að selja vatnsréttindi (virkjanaréttindi) á opnum markaði, og þær munu þess vegna ekki lengi fara með eigendahlutverk yfir vatnsaflsvirkjunum. Þar með verður ekki lengur hætta á, að ríkið skekki samkeppnisstöðuna á þessum markaði innan EES.
Samkvæmt orkustefnu ESB á raforkumarkaðurinn að sjá um nægt aflframboð, og eldsneytismarkaðurinn að sjá um nægt orkuframboð á hverjum tíma. Íslenzkur orkumarkaður er allt annars eðlis og getur ekki séð um hvort tveggja. Hér þarf annað fyrirkomulag, sem hentar orkulindum Íslands, en Landsreglarinn mun ekki leyfa án undanþágu frá ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni.
Hver sem örlög OP#3 verða á Alþingi, þarf ríkið í nafni fullveldisréttar síns að stofna til embættis orkulindastjóra, sem hafi með höndum samstýringu allra virkjana landsins, sem máli skipta fyrir orkubúskap landsins, með svipuðum hætti og Landsvirkjun stundar nú innan sinna vébanda. Með lagasetningu um embætti orkulindastjóra fái hann í hendur tæki, sem tryggi, að virkjanafyrirtækin hefji virkjanarannsóknir og virkjanaundirbúning í tæka tíð, til að nægt framboð raforku verði jafnan mögulegt, vald til að takmarka stærð jarðvarmavirkjana á hverju svæði, svo að aflrýrnun svæðis verði innan viðmiðunarmarka og jafnframt vald til að stýra vatnshæð miðlunarlóna, svo að orkuöryggi sé tryggt. Lagasetning um þetta nýja embætti þarf jafnframt að tryggja því aðgang að nægum upplýsingum um allar virkjanir, sem það telur máli skipta fyrir orkubúskap landsins, svo að það geti gegnt hlutverki sínu. Orkulindastjórinn á að tryggja beztu sjálfbæru nýtingu allra þessara virkjana landsins með því að hámarka vinnslu hverrar virkjunar til langs tíma, og ákvarðanir hans skapi orkumarkaðinum ramma til að starfa innan.
Það voru mistök á sinni tíð að reyna ekki að fá undanþágu frá orkubálkum Evrópusambandsins. Það er ekki seinna vænna en að stöðva þessa vegferð nú með því að hafna OP#3, svo að færi gefist á að ræða sérstöðu Íslands á orkusviðinu innan vébanda EES í sáttatóni við ESB.
Þann 10. júlí 2019 birtist í Morgunblaðinu afrakstur samtals Höskuldar Daða Magnússonar, blaðamanns, og Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, í tilefni fréttar blaðsins daginn áður af skýrslu Landsnets um væntanlegan aflskort.
Það er skemmst frá að segja, að Höskuldur virðist hafa fengið samband við geimveru, sem kallar sig Hörð Arnarson. Upphafið var þannig:
"Þetta snýst aðallega um að gera sér grein fyrir því, hvaða þarfir samfélagið hefur og að uppfylla þær þarfir."
Hvers vegna í ósköpunum hefur Landsvirkjun ekki þegar hafið framkvæmdir við næstu virkjun ? Þar á bæ fara menn ekkert í grafgötur með þróun eftirspurnarinnar. Það er algerlega óábyrg afstaða hjá ríkisfyrirtæki með rúmlega 70 % markaðshlutdeild að láta myndast hér aflskort og síðar orkuskort í ljósi þess gríðarlega samfélagslega kostnaðar, sem af slíku leiðir. Nú er samdráttur hagkerfisins hafinn, þannig að framkvæmdatíminn núna og á næstu árum er hagstæður.
"Aðspurður segir Hörður, að öryggi stórnotenda sé tryggt. Í þann flokk falla flest gagnaver, sem sprottið hafa upp á liðnum árum eða eru í undirbúningi."
Þetta er undarlega að orði komizt, en sýnir, að forstjóri Landsvirkjunar telur fyrirtæki sitt einvörðungu vera skuldbundið með orkuafhendingu til "stórnotenda". Þegar talað er um afhendingaröryggi raforku, er yfirleitt átt við forgangsorku, en ekki ótryggða orku. Almennir notendur, heimilin og fyrirtæki á almennum töxtum, eru áskrifendur að forgangsorku. Það má ekki skerða orkuafhendingu til almennings á undan forgangsorkuskerðingu fyrirtækja með samninga um forgangsorku og ótryggða orku. Að sjálfsögðu er ótryggt afl og orka skert fyrst. Hins vegar er í samningum ekki reiknað með þörf á afl- eða orkuskerðingu af mannavöldum, þ.e. tilbúnum skorti, eins og nú blasir við, heldur af náttúrunnar völdum (force majeur), t.d. í vatnsleysisárum, eða vegna bilana. Hér er annað uppi á teninginum nú, og ef þörf verður á skerðingu forgangsafls, þá verður skerðingin að vera hlutfallslega jöfn á alla viðskiptavini; "pro rata", eins og það heitir í samningum. Það er ekki hægt að fullyrða, að "öryggi stórnotenda sé tryggt", ef aflskortur reynist meiri en nemur ótryggðu afli. Hér kunna málshöfðanir að hefjast vegna markaðsmisnotkunar orkuvinnslufyrirtækjanna.
""Það þarf hins vegar að huga sérstaklega að orkuöryggi fyrir heimilin og smærri fyrirtæki", segir Hörður."
Þessi framsetning undirstrikar fáránleika núverandi stöðu. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingu forgangsorku til almennra notenda, og forstjórinn virðist halda, að þeir verði skertir á undan fyrirtækjunum, sem Landsvirkjun hefur sérsamning við. Þetta er algerlega fáránlegt.
Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum, sem sýnir í hvílíkt óefni búið er að stefna íslenzkum raforkumálum með OP#1 og OP#2. Vandinn er sá, að OP#2 ætlar markaðinum að sjá um þessi mál. Þegar Landsreglarinn kemur til skjalanna með OP#3, versnar staðan, því að eitt af hans hlutverkum er að hafa eftirlit með, að reglum Evrópusambandsins um frjálsan markað fyrir raforkuvinnslu og raforkusölu sé hlítt. Þá verður "engin miskunn hjá Magnúsi".
"Hann [Hörður] segir jafnframt, að eins og staðan er í dag sé óljóst, hver beri ábyrgð, komi upp sú staða, sem teiknuð er í skýrslu Landsnets, og hvaða úrræði viðkomandi [?] hafi. Stjórnvöld hafi með umræddri skýrslu Landsnets fengið hvatningu til úrbóta."
Samkvæmt núgildandi OP#2 og OP#3-4 ber markaðnum að sjá fyrir nægu afli og orku á hverjum tíma. Ekkert fyrirtæki og engin ríkisstofnun eru ábyrg. Ábyrgðin er löggjafans að hafa leitt lagabálka til öndvegis á Íslandi, sem þangað eiga ekkert erindi og geta ekki virkað, eins og þeim er ætlað, við íslenzkar aðstæður. Eðlilegast væri að afnema þessa lagabálka, þegar í ljós kemur, að þeir eru ónothæfir, en það er ekki hlaupið að því, þótt 63 þingmenn yrðu um það sammála, sem aldrei verður, heldur væri fyrsta skrefið á þeirri vegferð að stöðva OP#3 í stað þess að magna vitleysuna þannig, að eina undankomuleiðin úr öngþveiti verði að segja upp EES-samninginum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.7.2019 | 10:33
Sjálfstæði landsins er fallvalt
Haraldur Benediktsson, 1. þingmaður NV-kjördæmis, ritar grein um sjálfstæðismál landsins í Morgunblaðið 8. júlí 2019. Grein þessa þingmanns sjálfstæðismanna nefnist:
"Það sem gerir okkur að þjóð".
Að rekja það allt saman, "sem gerir okkur að þjóð", tæki nokkrar vefgreinar, en vegna þess, að í sömu grein er minnzt á bautasteina orkustefnu Evrópusambandsins, ESB, orkupakka 1,2,3, skal fullyrða, að innleiðing þeirra í íslenzka lögbók gerir okkur ekki að ríkari þjóð, en aftur á móti myndi höfnun OP#3 stuðla að því, að sjálfstæð þjóð með mikla hagvaxtarmöguleika verði í þessu landi áfram.
Ástæðan fyrir þessu er sú, að með samþykkt OP#3 verður yfirþjóðlegt vald yfir orkugeiranum leitt hér til öndvegis, þar sem Orkustofnun ESB, ACER, sem var stofnuð samkvæmt OP#3 2011, hlýtur hér lögsögu og mun framkvæma vald sitt fyrir tilstyrk Landsreglarans og Evrópuréttarins eftir innleiðingu OP#3 hér.
Stefnu ESB í raforkumálum, sem orkupakkarnir eru samdir til að hægt sé að hrinda í framkvæmd, má í fáum dráttum lýsa þannig:
a) Markaðurinn á að stjórna raforkuvinnslunni.
Af samkeppnisástæðum og til að koma í veg fyrir hugsanlega ríkisstyrki þarf ríkið að draga sig (að mestu) út úr þessum geira. Þetta mætir andstöðu almennings í löndum, þar sem ríkisrekstur á orkuvinnslusviði er umsvifamikill, t.d. í Frakklandi, Portúgal, í Noregi og á Íslandi. Í Þýzkalandi hefur almenningur í sumum fylkjum landsins mótmælt harðlega einkavæðingu vatnsorkuvera.
Til að ryðja þessari stefnu braut beita Framkvæmdastjórnin og ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) fyrir sig löggjöf ESB, þ.e.a.s. þjónustutilskipun #2006/123/EB, tilskipun um opinber innkaup #2014/23/EB og athafnafrelsisákvæðum Lissabonsáttmálans, TFEU - gr. 49 og 56.
Það má telja líklegt, að dómafordæmi í þessari deilu muni koma frá ESB 2020 og að deilunni um vatnsréttindi í eigu norska ríkisins verði vísað til EFTA-dómstólsins sama ár. EFTA-dómstóllinn fer jafnan að fordæmi ESB-dómstólsins. Málið er víða pólitískt viðkvæmt og hefur verið lengi í gerjun, sbr Frakkland, en Framkvæmdastjórn ESB virðist líta á það sem grundvallarmál fyrir orkustefnu sína, að virkjanir séu ekki í ríkiseigu. Með úrskurði frá EFTA-dómstólnum mun líklega koma forskrift að einkavæðingu vatnsorkuvirkjana í eigu íslenzka ríkisins. Þar er t.d. um að ræða allar virkjanirnar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu og Kárahnjúkavirkjun. Blekbónda er mjög til efs, að meirihluti geti orðið á Alþingi fyrir slíkri einkavæðingu raforkuvinnslunnar, en vegna EES-samningsins munu þingmenn ekki taka neina ákvörðun um þetta mál, sem máli skiptir. Hlýtur nú flestum að blöskra ólýðræðislegt eðli þessa milliríkjasamnings, og Stjórnarskráin liggur óbætt hjá garði í öllum atganginum. Hér mun eitthvað verða undan að láta, en Alþingismenn ætla þó flestir að kyssa á vöndinn og innleiða OP#3 og þar með Evrópurétt um utanlandsafltengingar við Ísland. Þar með mun áhugi erlendra orkufyrirtækja á íslenzkum virkjunum aukast til muna.
Norski olíu- og orkuráðherrann snerist snöfurmannlega til varna fyrir hagsmuni norska ríkisins með bréfi til ESA 5. júní 2019, sem var svar við opnunarbréfi málsins að hálfu ESA gagnvart Norðmönnum 30. apríl 2019. Svo virðist sem íslenzki iðnaðarráðherrann ætli hins vegar að bíða átekta, því að viðbrögð iðnaðarráðuneytisins við svipuðu bréfi ESA 2016 til Íslands voru að skipa nefnd, sem enn er "að störfum". Um þessa frammistöðu íslenzka iðnaðarráðherrans er líklega viðhöfð norska kaldhæðnin: "hun glimrer med sit fravær" (það ljómar af henni í fjarveru hennar).
Það stefnir víða í stórátök vegna kröfunnar um takmarkaðan gildistíma (hámark 30 ár) virkjanaleyfa og útboða á nýjum leyfum og gömlum starfsleyfum, sem reist eru á vatnsréttindum (eignarréttur). Hvar stendur íslenzka ríkisstjórnin og þingheimur í þessu máli ? Vonandi er meirihlutinn ekki úti að aka, því að þá glutrar hann niður erfðasilfri þjóðarinnar, um leið og sjálfstæði landsins rýrnar meira en landsmenn hafa efni á. Það er engu minni ástæða til að halda umráðarétti yfir nýtingu vatnsréttinda á landinu í höndum landsmanna en nýtingu lögsögunnar í kringum landið. Forysta ESB veit vel, að hún getur ekki stjórnað raforkumálum Evrópu, ef meðferð og nýting orkulinda af skornum skammti lýtur ekki löggjöf Sambandsins. Því miður eru ýmsir hérlendis með glýju í augum yfir markaðsvæðingu Evrópusambandsins, en skilja ekki, að hún er aðeins verkfæri stjórnendanna í Brüssel til að tryggja "framleiðsluvél" Sambandsins næg aðföng með hagstæðasta hætti.
b) Raforkuflutningar innanlands eru og verða einokunarstarfsemi Landsnets, en hún verður í gjörgæzlu Landsreglarans.
Samræmingarstjóri ("compliance officer") verður ráðinn til Landsnets, og verður hann varðhundur ESB, sem fylgist með starfsemi og áformum Landsnets og gætir þess, að fylgt sé reglum og áætlunum ESB. Hann gefur Landsreglaranum og ACER skýrslur. Landsreglarinn mun skilgreina forsendur að gjaldskrám Landsnets, rýna þær og hafna/samþykkja.
Niðurgreiðslur á flutningskostnaði verða óleyfileg ríkisafskipti. Alls konar aukakostnaður mun hlaðast á Landsnet vegna Landsreglarans og fyrirhugaðrar þátttöku í RCC-Svæðisbundinni samræmingarmiðstöð kerfisstjóra í norðanverðri Evrópu. Þar að auki verður Landsnet skyldugt að tengja allar umhverfisvænar virkjanir (án verulegrar koltvíildislosunar) og verður sjálft að greiða viðbótar kostnað vegna fjarlægðar frá flutningskerfi Landsnets. Fyrirfram ákveðnir tengistaðir Landsnets munu heyra sögunni til. Þetta er auðvitað gríðarlegur hvati til virkjana á endurnýjanlegum orkulindum.
c) Dreifiveiturnar munu starfa undir sérleyfisákvæðum útgefnum af Landsreglaranum.
Niðurgreiðslur á dreifingarkostnaði verða óleyfilegar, nema tímabundið, ef "almannahagur krefst", og "almannahagur" verður skilgreindur af ESB. Reynslan af Landsreglaranum, t.d. frá Svíþjóð, er, að hann hækkar gjaldskrár dreifiveitna langt umfram verðlagshækkanir. Þegar sænski orkuráðherrann ætlaði að knýja fram lækkun á gjaldskrám, þá sló framkvæmdastjórn ESB á fingurna á honum og upplýsti hann um, að samkvæmt lagabálkum OP#3 ætti ráðherra alls enga aðkomu að stjórnun dreifiveitnanna eða gjaldskrám þeirra. Aukning á arðsemiskröfu dreifiveitnanna er ætluð til að örva fjárfestingar í dreifiveitunum og draga úr orkutöpum, en viðskiptavinirnir stynja undan.
d) Heildsalan fer fer fram í orkukauphöll. Viðskipti takast, þar sem verðhugmyndir kaupenda og seljenda mætast. Enginn er ábyrgur fyrir því, fremur en nú, að heildarframboð afls og orku verði alltaf nægilegt. Verðið hækkar, þegar skortur er í augsýn. Í þessu kerfi er engan veginn víst, að nýjar virkjanir verði tilbúnar í tæka tíð frekar en í núverandi kerfi, þar sem stefnir í aflskort árið 2022 og jafnvel orkuskort veturinn 2019/2020 samkvæmt forstjóra RARIK. Þetta sýnir, að OP#2 hefur brugðizt landsmönnum. Hann getur ekki virkað í íslenzku umhverfi. Það er ótækt, að enginn beri ábyrgð á þessu ástandi.
Orkuráðherrann verður pólitískt ábyrgur fyrir stórtjóni, sem orðið getur af þessum völdum. Hún er með vinnuhóp að störfum í ráðuneytinu, sem á að skila af sér í haust. Það er hlægileg stjórnsýsla. Úrræði, ef einhver verða, koma alltof seint, og OP#2, og í enn meiri mæli OP#3, bindur algerlega hendur stjórnvalda. Ráðherrann er í vonlausri stöðu. Berst heitt og innilega fyrir innleiðingu löggjafar á orkusviði, sem gera iðnaðarráðuneytið valdalaust á þessu grundvallarsviði íslenzks þjóðarbúskapar. Enginn stuðningsþingmaður þessa ráðslags getur sloppið frá því heilskinnaður, því að kjósendur vita vel, hvað til þeirra friðar heyrir.
Auðlindastýring verður óleyfileg í markaðskerfi ESB, þ.e.a.s. miðlæg stjórnun nýtingar á miðlunarforða og jarðgufuforða verður bönnuð. Sú staða dæmir markaðskerfi ESB ónothæft stjórnkerfi í orkugeiranum hérlendis.
e) Fyrir millilandatengingar hafa ríkisstjórnir og þjóðþing enga aðkomu innan Orkusambands ESB, sem ríkisstjórn Íslands stefnir að með innleiðingu OP#3, að Ísland eigi aðild að.
Hin endurskoðaða ACER reglugerð #2019/942 eykur völd ACER varðandi nýlagnir á milli landa og rekstur millilandatenginga. Í þessari reglugerð, gr. 11, er ACER falið miðlægt hlutverk fyrir þróun nýrra verkefna á sviði millilandatenginga fyrir rafmagn og gas. Orðhengilsmenn og sleipir lögfræðingar geta þá ekki borið lengur þann fáránleika á borð, að valdheimildir ACER eigi aðeins við virki í rekstri, en eigi ekki við verkefni millilandatenginga.
Í því orkustjórnkerfi Evrópusambandsins, sem hér hefur verið lýst, er alls ekki gert ráð fyrir aðkomu rétt kjörinna stjórnvalda við neina ákvarðanatöku. Allir lagabálkar OP#3 snúst um að taka öll völd úr þeirra höndum og færa til embættismanna ESB. Með OP#4 eru flestir lausir endar hnýttir, hvað þetta varðar. Það er fullkominn misskilningur íslenzkra Alþingismanna, að þeir geti haldið áfram að setja lög um sæstrengi til útlanda eða gjaldskrár í blóra við Evrópuréttinn. Sé þeim talin trú um þetta núna, er verið að blekkja þá með ósvífnum hætti til fylgilags við OP#3.
Haraldur Benediktsson skrifar í umræddri grein:
"Yfirráð yfir orkunni eru okkur heilög. Það er því alvörumál að vera ætlað að vilja framselja yfirráð og eignarhald á orkuauðlindum landsins. Ekkert er fjær okkur."
Þessu trúir blekbóndi þessa vefseturs, en virðulegur Alþingismaður, Haraldur Benediktsson, og félagar hans í þingflokki sjálfstæðismanna verða (í Guðs bænum) að draga réttar ályktanir af þeirri yfirvofandi vá, sem landsmönnum stafar af því að innleiða stjórnkerfi Evrópusambandsins á orkumálasviði á Íslandi og lýst var hér að framan.
Nokkru síðar tekur Haraldur til við að rekja raunir dreifbýlisnotanda vegna "flutnings" á rafmagni. Þar sem hann nefnir RARIK, á hann sennilega við dreifingu rafmagns og þó hugsanlega summuna af þessu tvennu. Frá innleiðingu OP#1 (ný raforkulög 2003) hefur raunrafmagnsverð í landinu til almennra notenda hækkað um 7 %-8 % og enn meir til dreifbýlisnotendenda, sem mátt hafa sæta mikilli ósanngirni, sem orkuráðherra og þingmenn hafa því miður ekki leiðréttð með sameiginlegri gjaldskra þéttbýlis og dreifbýlis innan hverrar dreifiveitu. Téð hækkun er reist á gögnum Hagstofunnar og mun birtast í skýrslu, sem gefin verður út í næsta mánuði. Þetta er alger áfellisdómur yfir orkulöggjöf ESB hérlendis og ætti að fá dreifbýlisfólk til að bíta í skjaldarrendur og tjá þingmönnum sínum með skýrum og ótvíræðum hætti, að stuðning þeirra við Orkupakka#3 muni þeir ekki líða þeim.
Með OP#3 mun Landsreglarinn taka gjaldskrárkaleikinn af ráðherranum. Er hún þess vegna svona áfjáð í að innleiða OP#3 ? Hætt er þó við, að raforkunotendur fari úr öskunni í eldinn. Ráðherra mun þvo hendur sínar af því, en munu kjósendur, sem allir eru raforkunotendur, endurkjósa þennan ráðherra ? Það er ekkert vit í því.
"Veruleikinn er sagna beztur og reynslan. Dreifbýlisnotandi rafmagns hjá RARIK hefur séð reikning vegna flutnings á rafmagni frá árinu 2005-2018 hækka um 108 %, á meðan almennt verðlag hækkaði um 45 %. Þrátt fyrir að á sama tíma hafi niðurgreiðslur til jöfnunar á flutningskostnaði úr ríkissjóði hækkað um liðlega 30 %. Er því ekki að undra að vantraust sé á enn einum orkupakkanum."
Orkuráðherrann hefur haldið því fram í pistilplássi, sem hún hefur í SunnudagsMogganum, að orkuverð til notenda hafi staðið í stað að raunvirði frá innleiðingu OP#1. Það er rangt ("disinformation"), eins og greint er frá að ofan. Hún virðist þá alls ekki hafa verið að hugsa um dæmigerðan raforkunotanda þar í NV-kjördæminu. Haraldur verður að taka það að sér að jarðtengja þennan Alþingismann í NV og orkuráðherra.
Haraldur nefnir niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Eins og komið hefur fram, verða þær í uppnámi eftir OP#3, enda hvorki í verkahring ráðherra né þingmanna að ákveða þær þá, og með OP#4 verður alls ekki séð, að þær verði leyfilegar.
"Það er því fagnaðarefni, að iðnaðarráðherra hefur þegar hafið vinnu til að vinda ofan af því misrétti á milli landsmanna, sem innleiðing á orkupakka 1 og 2 var. Það er almennur stuðningur við, að allir landsmenn njóti þess að hafa sambærilegan aðgang að orkuframleiðslunni. Að því verður að vinna og er kannski ein helzta niðurstaða umræðunnar undanfarna mánuði um orkumál."
Hvernig í ósköpunum dettur þingmanninum í hug, að leiðin til að bæta böl dreifbýlisins, sem af innleiðingu OP#1 og OP#2 leiddi og þingmaðurinn lýsti í grein sinni, sé að bæta gráu ofan á svart og samþykkja innleiðingu á OP#3 ? Leiðin til þess að bæta úr þessu böli er að hafna OP#3, stöðva þessa vegferð og reyna að fá völdin yfir orkumálunum aftur í hendur kjörnum fulltrúum fólksins. Það gerist ekki með þjóðaratkvæðagreiðslu um sæstreng eftir innleiðingu OP#3. Iðnaðarráðherra þarf að útskýra, hvers vegna hún hefur látið umrætt misrétti viðgangast þann tíma, sem hún hefur verið ráðherra orkumála. Er það vegna þess, að hún rekst á lagalega veggi Evrópuréttarins, svo að jafnvel undir OP#2 hafi ráðherra ekkert svigrúm ?
Að lokum skal hér tilfæra þann þátt téðrar greinar, sem mesta umræðu hefur vakið:
"Sú hugmynd er hér sett fram að áskilja það í innleiðingu orkupakka 3 að setja lagaákvæði um, að slík [utanlands]tenging verði aðeins með samþykki þjóðarinnar í sérstakri atkvæðagreiðslu. Sæstrengur og bygging grunntengivirkja fyrir slíka tengingu verði því aðeins, að meirihluti landsmanna samþykki það í atkvæðagreiðslu."
Það er eins og Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, haldi, að hér verði allt við það sama, eftir að hann og félagar hans innleiða hér Evrópurétt á sviði millilandatenginga með því að innleiða OP#3. Hann skilur ekki, að með þeim gjörningi setur hann Evrópuréttinn og þar með lagabálkana í OP#3 skör hærra en íslenzk lög. Er hann virkilega svo barnalegur að ímynda sér, að þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi um sæstrengslögn, sem Evrópusambandið er áfram um, að verði að veruleika, hafi meira vægi gagnvart Landsreglara, ACER og framkvæmdastjórn ESB en "fyrirvarinn", sem nú er ætlunin að binda í landslög, en víkur, undir eins og sæstrengsverkefninu verður ýtt af stokkunum ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2019 | 18:44
Nýjar yfirþjóðlegar stofnanir samkvæmt OP#4
Það er deginum ljósara, að Evrópusambandið hefur komið sér upp lagalegri spennitreyju um aðildarlöndin með síðustu orkupökkum, OP#3 og OP#4. Enn er ekkert handfast um OP#5. Ein af áhrifameiri nýjungunum í OP#4 er stofnun svæðisbundinna samhæfingarmiðstöðva, eins og nú skal greina.
Samkvæmt rafmagnstilskipun OP#4, gr. 62, verður komið á laggirnar fáeinum samhæfingarmiðstöðvum innan ESB fyrir rafmagnsflutningakerfi hvers svæðis með eigin stjórn fyrir hverja miðstöð. Í OP#4 er þetta fyrirbrigði kallað "Regional Coordination Centre - RCC".
- Landsreglarinn er skyldugur að taka þátt í þessari starfsemi á sínu svæði og samþykkja stofnun RCC með þeirri auknu kerfismiðstýringu og kostnaði fyrir Landsnet, sem hún hefur í för með sér.
- Kostnaðinum af RCC er skipt á milli orkuflutningsfyrirtækjanna og er greiddur af notendum innanlands með hækkun gjaldskráa. Hvernig skiptingin verður er enn óákveðið. Verði skipt eftir orkunotkun innanlands, mun RCC leggjast kostnaðarlega tiltölulega þyngst á Íslendinga.
- Stjórn RCC ákveður, hvernig kosningafyrirkomulag við ákvarðanir verður viðhaft, þ.e. hvort einhvers konar vigtun fer fram.
- Stjórn RCC getur sjálf lagt til við ACER aukin völd sér til handa gagnvart aðildarlöndum á svæðinu. Svæðismiðstöðvarnar, RCC, gætu þróazt í kerfisstjórnstöðvar, sem yfirtaki kerfisstjórnir aðildarlandanna.
- RCC skal tryggja, að löggjöf ESB sé framfylgt, sérstaklega um millilandatengingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)