Færsluflokkur: Bloggar
16.9.2019 | 14:09
Það fer að krauma undir
Jón Gunnarsson, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum), ritaði grein í Morgunblaðið 6. september 2019 og sýndi þar rétt einu sinni, hversu árvökull, athugull og ákveðinn þingmaður hann er, enda er hann nú orðinn ritari flokksins. Hann gerði þar m.a. að umræðuefni aðfarir umhverfisráðherrans við friðlýsingu á öllu vatnasviði Jökulsár á Fjöllum, en þar virðist sá fara offari miðað við lagaheimildir sínar. Ef þingið ekki ómerkir þessa gjörð hans, er hætt við málssóknum á hendur ríkinu og jafnvel skaðabótakröfum. Þarna er flaustur á ferð í stað lýðræðislegra viðræðna við viðkomandi sveitarfélög, hagsmunaaðila og umræðna á Alþingi. Málið hlýtur að hafa verið reifað í ríkisstjórn fyrst, og má furðu gegna, að enginn ráðherra virðist hafa gert athugasemd eða hreyft mótmælum.
Jón segir óstjórn vera á orkumálum landsins og skal taka undir það. Þar hlýtur ANR (auðlinda-, nýsköpunar og ferðamálaráðuneytið), sem hýsir orkumálin, að eiga höfuðsök. Ráðherra þar er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og var tímabært, að þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyndi að ráðsmennsku hennar, sem mest einkennist af þekkingarleysi (OP#3) og athafnaleysi (aflskortur yfirvofandi í vetur samkvæmt Landsneti).
Jón Gunnarsson hóf grein sína:
"Lífið eftir orkupakkann",
þannig:
"Þá er búið að afgreiða orkupakkamálið í bili. Það hefur verið okkur góð lexía um mikilvægi þess, hvernig staðið verður að sambærilegum málum tengdum EES-samningnum í framtíðinni. Ég var einn af efasemdarmönnum í Sjálfstæðisflokknum, en eftir þá vinnu, sem fram fór, voru þær áhyggjur ekki lengur til staðar. Að þessu máli loknu tel ég, að mikilvægasta umræðan sé eftir; það, hvernig við ætlum að tryggja heimilum og fyrirtækjum þessa lands næga raforku á lægsta verði, sem þekkist í þeim löndum, sem við berum okkur saman við."
Textinn þarfnast útleggingar: Orkupakkamálið mun reka á fjörur okkar aftur. Umræðan sýndi, að undirbúningi ráðuneytanna var mjög ábótavant, og það verður að kryfja málin betur næst m.t.t. íslenzkra hagsmuna. Ég óttaðist í upphafi, að hagsmunir Íslands væru fyrir borð bornir, en eftir sameiginlega yfirlýsingu Miguels Canetes og Guðlaugs Þórs og setningu fyrirvara í þingsályktanir og lög tel ég hagsmunum okkar borgið. Nú er málið að hindra afl-og orkuskort og að tryggja áframhaldandi samkeppnisforskot íslenzkra fyrirtækja í krafti lágs raforkuverðs.
Blekbóndi deilir ekki áhyggjuleysi Jóns út af skaðleysi OP#3, en "den tid, den sorg". Framtíðin mun leiða það í ljós. Það er alveg rétt hjá Jóni, að það er verk að vinna á orkumálasviði við að tryggja hagsmuni almennings, heimila og fyrirtækja, því að flotið hefur verið sofandi að feigðarósi, á meðan raforkuverð til heimila hefur hækkað að raunverði um 7 % - 8 %, síðan OP#1 var innleiddur hérlendis. Ef almenningur hefði ekki verið snuðaður um beinan ávöxt eigna sinna sinna í orkugeiranum, hefði raunverðlækkun átt sér stað á þessu 15 ára tímabili. Um allt þetta má lesa í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019.
Framtíðarvandinn er sá, að OP#3 felur í sér hættu á enn meiri raunverðhækkunum á næstu 15 árum, og Jón, Alþingismaður og ritari, mun hafa svipt sig völdum til áhrifa á þessu sviði með því að lúta flokksaga 02.09.2019 á Alþingi.
"Það er kynleg staða og óásættanleg, sem orkumálaráðherra okkar er komin í, þegar hún þarf að ræða útfærslur á skerðingu á afhendingu raforku á næstu árum. Í mínum huga er einfalda svarið við þeirri spurningu, að á vakt Sjálfstæðisflokksins kemur ekki til skerðinga í raforkukerfi okkar. Við munum sjá til þess, að heimili og fyrirtæki í þessu orkuríka landi hafi næga ódýra raforku og að sköpuð verði tækifæri til að byggja upp nýjungar í verðmæta- og atvinnusköpun um allt land."
Þetta er gott og blessað, en staðan er einfaldlega sú núna, að verið er að brenna olíu til raforkuvinnslu vegna staðbundins raforkuskorts, og í vetur býst Landsvirkjun við aflskorti á landsvísu, en veit ekki, hvar hann muni koma niður. Allt gerist þetta á vakt orkuráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem virðist samt hvorki hræra legg né lið.
Þegar Jóhann Már Maríusson var aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar minnist blekbóndi þess, að hann kallaði fulltrúa helztu viðskiptavina fyrirtækisins á sinn fund til að kynna þeim þá stefnu Landsvirkjunar að eiga að lágmarki 250 GWh varaforða í kerfinu. Þessu var mjög vel tekið af viðskiptavinum. Nú þyfti varaforðinn að vera meiri, en þessi stefna Landsvirkjunar hefur hins vegar verið lögð fyrir róða, illu heilli. Hvers vegna koma ekki fyrirmæli frá fulltrúa eiganda Landsvirkjunar, ríkisstjórninni, um, að Landsvirkjun skuli tafarlaust koma sér upp tilteknum varaforða ?
Á sama tíma og forsætisráðherra segir loftslagsmálin hafa algeran forgang í landinu, er minna framboð en spurn eftir endurnýjanlegri orku. Setja verður enn meiri kraft í að afnema alla flöskuhálsa í kerfinu.
"Baráttan um Hvalárvirkjun er kannski skýrasta dæmið, sem við okkur blasir í dag. Í umræðum á Alþingi á sínum tíma bentu þeir, sem skemmst vilja fara mér og öðrum á þennan virkjanakost, sem Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, setti í nýtingarflokk. "Nýtið þennan virkjunarkost áður en þið biðjið um aðra möguleika", var haft á orði. Nú, þegar sá kostur hefur farið allt torsótta ferlið, fer þetta sama fólk í baklás og vill koma í veg fyrir framkvæmdir."
Þetta er réttmæt ábending. Ferlið að framkvæmdaleyfi fyrir virkjanir og flutningsmannvirki er allt of torsótt og seinlegt. Tímafrestir fyrir kærur og úrlausn þeirra eru of rúmir. Núverandi þunglamalega kerfi gerir undirbúning og framkvæmdir óþarflega dýrar, sem auðvitað kemur niður á neytendum. Flokkunin í nýtingu, bið og vernd er of losaraleg. Taka þarf með í reikninginn þjóðfélagslegar og efnahagslegar afleiðingar af að leyfa ekki virkjun. Áður en virkjanakostur er settur í vernd þarf að tiltaka virkjanaútfærsluna, sem miðað er við, svo að hægt sé að endurskoða flokkunina með minna umhverfisraski.
"Umhverfisráðherra hefur ekki getað lagt fram nýja rammaáætlun vegna þess, að hann á rætur sínar í þeim hópi fólks, sem telur, að ekki eigi að virkja meira á Íslandi. Þess sé ekki þörf. Lög um rammaáætlun gera ekki ráð fyrir stöðnun, og auðvitað er það svo, að umræða um þriðja orkupakkann eða önnur umræða um orkuauðlindina væri óþörf, ef slíkri stefnu væri framfylgt. Ég fullyrði, að það var ekki skilningur þingmanna, þegar málið var á sínum tíma afgreitt í víðtækri sátt á Alþingi.
Umhverfisráðherra er upptekinn af því þessa dagana að efna til friðlýsingar á grundvelli þessara laga. Aðferðafræði hans stenzt að mínu mati enga skoðun, og hafa margir hagsmunaaðilar fullyrt, að ekki sé farið að lögum í þeirri útfærslu, sem hann boðar. Ég er sammála því, að verklag hans samræmist ekki lögunum. Í því sambandi má nefna, að dettur einhverjum í hug, að Alþingi hafi framselt slíkt vald til eins manns, að hann geti að eigin geðþótta ákveðið friðlýsingarmörk. Það er annarra að gera það og Alþingis að afgreiða samhliða rammaáætlun hverju sinni."
Það var misráðið að láta umhverfisráðherra eiga frumkvæði að vinnu við Rammaáætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta. Eðlilegra er að fela ráðherra orku, iðnaðar, ferðamála og nýsköpunar þetta hlutverk, og viðkomandi þingnefndir ættu auðvitað að geta tekið frumkvæði líka. Þingviljinn á að ráða þessu, og núverandi umhverfisráðherra er ekki þingmaður, sem gerir málið enn ólýðræðislegra. Það er nauðsynlegt að ógilda umræddar gerræðislegar friðlýsingar hans á Jökulsá á Fjöllum; annars er afar líklegt, að málarekstur hefjist gegn ríkinu, og þeim málum mun ríkið líklega tapa, eins og allt er í pottinn búið. Orkumálastjóri tók undir með Jóni Gunnarssyni um þessar friðlýsingar umhverfisráðherra í fjölmiðlaviðtali 7. september 2019, og fjármála- og efnahagsráðherra gerði það efnislega daginn áður.
Formaður þingflokks sjálfstæðismanna hefur að vísu séð ástæðu til að taka fram, að Jón tali ekki fyrir hönd þingflokksins, en vegna þess, að forsætisráðherra ber ábyrgð á þessum umhverfisráðherra og styður hann í vafasömum gjörningum hans, er ljóst, að um alvarlegt mál er að ræða fyrir ríkisstjórnina. Jón Gunnarsson er áreiðanlega ekki einn á báti á meðal stjórnarliða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2019 | 13:50
Skrýtin afstaða þingmanna til orkumálanna
Í Morgunblaðinu 2. september 2019 gat að líta skoðun nokkurra þingmanna á umræðunum um Orkupakka #3 (OP#3) undanfarið. Sínum augum lítur hver á silfrið, og ástæða er til að staldra við eitt dæmi:
"Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, segir ekkert hafa komið fram undanfarið, sem gefi tilefni til annars en málið verði samþykkt, eins og stefnt hafi verið að. Birgir telur, að umræða um stefnumótun í orkumálum haldi áfram í framhaldinu. "Mörg af þeim atriðum, sem andstæðingar orkupakkans hafa haldið á lofti, tengjast annarri stefnumótun en þeirri, sem felst í þriðja orkupakkanum sjálfum", segir hann og nefnir, að þar sé t.d. ekki fjallað um eignarhald á orkuauðlindum og -fyrirtækjum og ekki um lagningu sæstrengs."
Með samþykkt Alþingis á OP#3 er Ísland gengið í Orkusamband Evrópu (Energy Union of Europe), sem stjórnað er af framkvæmdastjórn ESB. Þar með hefur Alþingi gert orkustefnu ESB að orkustefnu Íslands varðandi rafmagn (ekki jarðgas). Þeir þingmenn (stjórnarliðsins) eru að vísu til, sem halda því fram, að Orkusamband Evrópu sé ekki til, en þeir ættu að kynna sér málin betur áður en þeir túðra út í loftið:
Í orkustefnu ESB er kveðið á um, að öll aðildarlöndin skuli tengjast Innri orkumarkaðinum. Á honum fara viðskipti fram í orkukauphöllum, og þess vegna þarf Ísland að taka upp markaðsstýringu raforkuvinnslunnar með kostum hennar og göllum. Það verður að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að t.d. Nord Pool, áður en hann tengist Innri markaði ESB fyrir raforku. Þannig er ekkert val um það, hvort markaðurinn eða t.d. hagsmunir notenda m.t.t. orkuöryggis eiga að ráða ferðinni. Það er þó fullveldisréttur Íslands að ráða þessu, en hann er brotinn með OP#3. Ekkert hefur sézt frá lagaspekingum um þessa hlið fullveldisframsals til ESB með innleiðingu OP#3. Þetta skapar lagalega óvissu (hættu á málshöfðunum) við þá framkvæmd.
Til þess að tryggja "frelsin fjögur" í framkvæmd á þessum markaði vill ESB ganga úr skugga um, að ríkisvaldið hygli ekki fyrirtækjum sínum á þessum markaði. Í því skyni er í raun reynt að ýta ríkisfyrirtækjum út af þessum markaði og reynt að fá einkafyrirtæki inn á hann í staðinn. Þar með eru líkur á, að fjárfestingarvilji í þessum geira aukist, sem er talið einkar mikilvægt varðandi vatnsorkulindina, því að vatnsorkuver geta "spilað" mjög vel með vindorkuverum, sem eru uppistaðan í orkuverum Evrópu án koltvíildislosunar. Til þess þarf hins vegar að auka mjög uppsett afl vél- og rafbúnaðar í vatnsorkuverunum, sem útheimtir mikið fé.
Við þessar aðfarir beita Framkvæmdastjórnin og ESA þremur gögnum fyrir sig gagnvart Noregi, þ.e. þjónustutilskipun 2006/123/EB, tilskipun um opinber innkaup nr 2014/23/EB og ákvæðum um athafnafrelsi í sáttmálanum um virkni ESB, TFEU, gr. 49 og 56. Þessum gögnum er hægt að beita gegn EFTA-löndunum á grundvelli EES-samningsins, en OP#3 kemur þar ekki sérstaklega við sögu. Gagnvart Íslandi var hins vegar beitt EES-samninginum, gr. 61(1) um bann við ríkisaðstoð við fyrirtæki á samkeppnismarkaði og tilskipun 2000/60/EB, sem er hluti af EES-samninginum og var innleidd hér með vatnsnýtingarlögum nr 36/2011. Verður nánari grein gerð fyrir úrskurði ESA nr 075/16/COL um brot á ákvæðinu um bann við ríkisaðstoð við úthlutun orkunýtingarréttinda í vefpistli síðar. Þar kemur fram grundvallarmunur á afstöðu íslenzkra og norskra stjórnvalda til þessara mála.
Því er haldið fram, að þessi barátta Framkvæmdastjórnarinnar og ESA jafngildi ekki kröfu um einkavæðingu vatnsorkuvirkjana. Það er hálmstrá þeirra, sem ríghalda vilja í EES-samninginn, hvað sem tautar og raular. Í reynd fara þessar stofnanir þó fram á útboð á orkunýtingarleyfum vatnsréttinda ríkisins til um 30 ára í senn innan ESA, svo að allir sitji við sama borð og markaðsverð fyrir réttindin séu tryggð.
Allir sjá, að íslenzk fyrirtæki standa höllum fæti á þeim markaði, einnig hin öfluga Landsvirkjun, gagnvart erlendum risum í orkuvinnslugeiranum. Afleiðingin verður, að nýtingarrétturinn til 30 ára og þar með viðkomandi virkjun lendir hjá fjársterkum erlendum einkafyrirtækjum. Slíkt er óviðunandi fyrir Íslendinga, og þessar aðfarir stríða sennilega gegn Stjórnarskrá, því að þær eru þvingaðar fram af erlendu valdi. Þessi erlendu fyrirtæki gætu sótzt eftir að margfalda uppsett afl viðkomandi virkjana, þegar búið væri að tryggja tengingu Íslands við Innri markaðinn. Auðvitað þyrftu þau leyfi Orkustofnunar og fleiri stofnana til þess, en eftir samþykkt OP#3, svo að ekki sé minnzt á "Hreinorkupakkann"-HP (OP#4), munu íslenzk yfirvöld lenda í miklu stímabraki við ESA og jafnvel fjárfestana, sem kann að enda fyrir EFTA-dómstólinum, ef þau ætla að standa í vegi fyrir leyfisveitingum til fjárfestinga í endurnýjanlegum orkulindum.
Það er einkennilegt af Birgi Ármannssyni að segja, að OP#3 fjalli ekki um sæstreng, þótt "submarine cable" komi kannski ekki upp í leitarvélinni hans. OP#3 fjallar að mestu leyti um regluverk fyrir uppbyggingu og rekstur innviða til samtengingar landa við Innri markaðinn. Það eru svo miklar yfirþjóðlegar heimildir í OP#3 til að greiða götu fjárfesta í millilandatengingum, að ólíklegt má telja, að íslenzka ríkið geti staðið í vegi slíks, ef verulegur áhugi er fyrir slíku innan ESB, eins og greinilega kom fram hjá fjölda íslenzkra lögfræðinga í umræðunni í aðdraganda innleiðingar á OP#3.
Hér mun ákæra Framkvæmdastjórnarinnar á hendur belgísku ríkisstjórninni 25.07.2019 fyrir að taka til sín endanlegt ákvörðunarvald um m.a. tengingu belgíska flutningskerfisins við útlönd verða prófmál fyrir Ísland.
Ráðuneytin UTR og ANR halda því samt fram, að engin líkindi séu með belgísku og íslenzku innleiðingunni. Að forminu til er það rétt, en að inntakinu til eiga þessar innleiðingar aðalatriðið sameiginlegt, þ.e. að draga úr völdum Landsreglara í blóra við það, sem fyrirskrifað er í OP#3. ESB-dómstóllinn setur EFTA-dómstólinum fordæmi. Þess vegna veltur á mjög miklu fyrir Ísland, hvernig dómur ESB-dómstólsins fellur. Lítilla tíðinda er að vænta af þessum vettvangi fyrr en eftir þann dóm, e.t.v. 2020.
Því miður virðast þingmenn reiða sig á matreiðslu ráðuneytanna á öllum hliðum þessa orkupakkamáls. Glöggskyggni ráðuneytisfólks hefur þó reynzt alvarlega ábótavant varðandi Evrópuréttinn, eins og "kjötmálið" sýnir, þar sem Alþingi samþykkti regluverk ESB á landbúnaðarsviði með fyrirvara, sem reyndist "húmbúkk", einskis virði, og varð landsmönnum rándýr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2019 | 17:30
Orkumálin reka á reiðanum
Iðnaðarráðherrann, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fékk á sig réttmæta gagnrýni úr eigin kjördæmi, þ.e. frá bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, fyrir stefnuleysi í málefnum orkukræfs iðnaðar, í lok ágúst 2019, en þessi starfsemi á nú undir högg að sækja á Íslandi, m.a. út af háu raforkuverði.
Sannleikurinn er sá, að flestar framleiðslugreinar og þjónustugreinar í landinu berjast í bökkum, á meðan raforkuvinnslufyrirtækin, jafnvel flutningsfyrirtækið, Landsnet, græða á tá og fingri. Þetta er óeðlilegt, og sérstaklega er undarlegt, að verðlagsstefna Landsvirkjunar virtist breytast árið 2010, og síðan þá er hún ónæm gagnvart afkomu viðskiptavina sinna.
Þetta hafa allir skynjað, sem nálægt Landsvirkjun hafa komið, og vissulega hafa óánægjuraddir heyrzt, en nú eru þær komnar á nýtt stig, svo að iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra geta ekki lengur skotið sér á bak við orkustefnunefnd og stjórn Landsvirkjunar, heldur verða að setja Landsvirkjun eigandastefnu hið fyrsta, þar sem upphafleg stefnumörkun um uppbyggingu og viðhald samkeppnishæfs atvinnulífs í landinu fær sess í þeim mæli, sem samrýmist OP#3.
Því miður er hætt við, að Landsreglarinn fetti fingur út í slíka eigandastefnu á grundvelli banns við ríkisstuðningi til atvinnurekstrar. Er þetta smjörþefurinn af erfiðleikunum, sem OP#3 á eftir að valda íslenzku atvinnulífi ?
Þann 2. september 2019 birtist frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu um nýjar vendingar í þessu máli undir fyrirsögninni:
"Ríkisstjórnin endurskoði stefnu sína".
Hún hófst þannig:
"Bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar skora á ríkisstjórnina að endurskoða stefnu sína í málefnum orkukræfs iðnaðar og setja Landsvirkjun eigendastefnu án tafar.
Áskorunin var samþykkt á sameiginlegum fundi sveitarstjórnanna í síðustu viku, en þar kemur fram, að fundurinn hafi verið haldinn vegna "þeirrar alvarlegu stöðu, sem upp er komin í atvinnumálum á Grundartanga og leitt getur til verulegs samdráttar í starfsemi orkukræfs iðnaðar og fækkunar starfa".
Fram kemur í áskoruninni, að rekstrarumhverfi þessa iðnaðar á Íslandi hafi versnað til muna, og það samkeppnisforskot, sem hér hafi verið í orkuverði, sé nú algerlega horfið. Kjörnir fulltrúar á svæðinu kalli eftir svörum um, hver hafi tekið ákvörðun um þessa stefnubreytingu og á hvaða vettvangi hún hafi verið tekin."
Hér fer ekkert á milli mála. Landsvirkjun hefur gengið fram af offorsi, ekkert tillit tekið til þess, að umsamið raforkuverð skyldi styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á alþjóðlegum markaði, eins og hún jafnan gerði fyrrum tíð. Ráðherra iðnaðar hefur ekki farið ofan í saumana á nýjustu orkusamningunum með þetta í huga og á sennilega óhægt um vik vegna ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem hefur tekið sér það hlutverk frá 2003. Eðlilega er samt spurt um eigandastefnu Landsvirkjunar, og hvernig stefnubreyting Landsvirkjunar sé komin undir. Hver veit, nema hana megi rekja allt aftur til OP#1 (2003) ?
Hér sjáum við svart á hvítu, að Landsvirkjun er á rangri braut með verðlagsstefnu sína og er komin yfir þolmörk íslenzks atvinnulífs. Rétt viðbrögð eru þá að taka skref til baka og endursemja til að tryggja framtíð fyrirtækjanna og afkomuöryggi þeirra, sem þar vinna, beint og óbeint. Einnig ætti hún að eiga frumkvæði að lækkun heildsöluverðs á almennum markaði. Sé einhver samkeppni virk, koma hin fyrirtækin á eftir.
Nú er hins vegar komið babb í bátinn. Alþingi hefur innleitt OP#3, og eftir það er Landsreglarinn (undir ESA/ACER) innsti koppur í búri orkumálanna og ráðherrarnir í aukahlutverkum. Það ber vissulega keim af fullveldisframsali, ef ráðherra getur ekki haft áhrif á verðlagsstefnu ríkisfyrirtækja með útgáfu eigandastefnu, sem ríkisstjórnin samþykkir.
Þetta er smjörþefurinn af því, sem koma skal, þ.e. verðhækkanir á rafmagni, sem ógna tilveru fyrirtækja og afkomu heimila. Stjórnvöld klumsa í eigin landi. Innleiddu orkupakka með neytendavernd á vörunum. Hvílíkir stjórnarhættir. O, sancta simplicitas.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.9.2019 | 15:03
Lísa í undralandi orkunnar
Þær eru margar Lísurnar, sem hreiðrað hafa um sig í undralandi orkumálanna og tjá sig nákvæmlega samkvæmt því að vera staddar í gerviveröld embættis- og stjórnmálamanna, sem átta sig ekki á orkustefnu Evrópusambandsins (ESB) og orkulöggjöfinni, sem þeim er gert að innbyrða í sneiðum, s.k. orkupökkum.
Eina birtingarmynd þessa hugarheims gat að líta í Fréttablaðsgrein Bryndísar Haraldsdóttur, Alþingismanns sjálfstæðismanna í "Kraganum", 30. ágúst 2019,
"Betri raforkumarkaður":
Greinin hófst þannig:
"Frá gildistöku EES-samningsins árið 1994 hafa átt sér stað gríðarlegar breytingar og framfarir í orkumálum hér á landi."
Þessi hástemmda lýsing er rétt, en þessi þróun varð án atbeina EES-samningsins. Árið 1996 var hafizt handa við að reisa kerskála 3 og að stækka raforkukerfi ISAL fyrir hann og fleiri ofna í steypuskála. Samtímis hófst Landsvirkjun handa við Sultartangastöð, og í kjölfarið kom Norðurál og Vatnsfellsstöð. Árið 2007 var Fljótsdalsstöð, stærsta virkjun landsins, 690 MW, 5000 GWh/ár, tekin í notkun ásamt álveri Alcoa, Fjarðaáli, á Reyðarfirði.
Hafizt var handa við allar þessar virkjanir og viðreigandi flutningsmannvirki á grundvelli orkusölusamninga við engilsaxnesk fyrirtæki með heimilisfesti utan EES. Tollfrjáls aðgangur fyrir ál til ESB var þegar tryggður með viðskiptasamningi Íslands og ESB frá 1973, svo að EES-samningurinn kom ekkert við sögu þessa mikla framfaraskeiðs í iðnvæðingu Íslands. Það er alveg út í hött að tengja uppbyggingu íslenzka raforkukerfisins, sem nú er hið langstærsta m.v. íbúafjölda, við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Tiltölulega litlar fjárfestingar hafa komið þaðan hingað til, hvað sem síðar verður.
"Um leið og ný lög tóku gildi [2003], tók uppbygging raforkumarkaðar á Íslandi mið af reglum EES-svæðisins og um leið innri markaðar Evrópusambandsins og hefur gert allar götur síðan. Ákvörðun var tekin um, að vinnsla og sala raforku yrði í markaðskerfi, á samkeppnisgrundvelli - sem er í anda sjálfstæðisstefnunnar. Reglur voru settar um starfsemi orkufyrirtækja samhliða í því skyni að stuðla að aukinni samkeppni og koma neytendum til bóta [sic !?]."
Hér er frjálslega farið með sannleikann, svo að úr verður villandi texti fyrir þá, sem ekki vita betur. Reglur um markaðsfyrirkomulag, sem mælt er með í OP#2 og gilda á innri raforkumarkaði ESB, hafa enn ekki verið innleiddar á Íslandi. Landsreglarinn mun fá það sem eitt af sínum aðalverkefnum eftir innleiðingu OP#3, auk ákvörðunar gjaldskráa Landsnets og dreifiveitna, að innleiða hér markaðsstýringu raforkuvinnslunnar.
Með þessu fyrirkomulagi innri markaðarins bjóða framleiðendur tiltekið afl, MW, fyrir hverja klukkustund sólarhringsins, og notendur/smásalar bjóðast til að kaupa tiltekin MW á hverri klukkustund fyrir tiltekin verð. Þar sem framboðs- og eftirspurnarferlar skerast, ákveður markaðsstjórinn verðið. Seljendur, sem buðu hærra verð og kaupendur, sem buðu lægra verð, missa af viðskiptum í það skiptið.
Þetta fyrirkomulag verður skylt að innleiða samkvæmt OP#3, þótt það henti ekki alls kostar hérlendis. Með þessu fyrirkomulagi einskorðast starfsemi orkuvinnslufyrirtækjanna við að hámarka tekjur sínar, en enginn þarf að huga að afhendingaröryggi orkunnar, hvað þá, að nokkur sé ábyrgur fyrir því. Þannig er hætt við, að fyrirtækin tæmi lón sín, því að skammtímaviðhorf þeirra er að nýta allt sitt miðlunarvatn, á meðan verðið er hátt. Þetta getur komið harkalega niður á neytendum, því að tjón þeirra er margfalt meira en seljendanna vegna orkuskorts.
Hér þarf að sníða agnúana af óheftri markaðsstýringu orkukauphallarinnar til að verja neytendur tjóni vegna mistaka við innleiðingu, sem stafa af því, að horft er framhjá gjörólíku eðli íslenzka orkukerfisins m.v. orkukerfi meginlandsins. Þingmaðurinn hefur ekki orð á neinu af þessu í sinni grein, sem þó var bent á í aðdraganda samþykktar Alþingis á OP#3 og er fjallað um í skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019.
Hér skal fullyrða, að orkupakkarnir eru ekki "í anda sjálfstæðisstefnunnar" með vísun til Landsfundarsamþykkta, þótt þingmaðurinn fullyrði það út í loftið. Sem lægst og stöðugast raforkuverð ásamt áherzlu á afhendingaröryggi raforku, þ.e.a.s. orkulindastýring, er hins vegar í anda sjálfstæðisstefnunnar. Það staðfesti Jón Gunnarsson, Alþingismaður sjálfstæðismanna í Kraganum, í tímamótagrein sinni í Mogganum, 6. september 2019. Henni verða gerð betri skil á þessu vefsetri seinna.
Bryndís Haraldsdóttir vill líta á rafmagn sem vöru. Fyrir okkar aðstæður hérlendis er þá þjóðhagslega hagkvæmast að líta á rafmagnið sem hráefni, sem er nauðsynlegt til að framleiða flestar vörur og til að veita margháttaða þjónustu. Fyrir samkeppnishæfni á innanlands- og utanlandsmörkuðum er þá augljóslega lykilatriði, að meðalverðið sé sem lægst og verðsveiflur sem minnstar. Það er fullveldisréttur okkar að haga nýtingu og markaðssetningu náttúruauðlindanna eftir eigin höfði, en þurfa ekki að taka við fyrirmælum um það frá yfirþjóðlegu valdi. Yfirþjóðlegt vald á Íslandi hefur yfirleitt gefizt illa og er alger tímaskekkja nú á tímum. Skaðlegt inngrip erlends valds í orkuvinnslustýringu landsins er einmitt það, sem gerist við innleiðingu Landsnets og Landsreglara á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, eins og Evrópusambandið vill hafa hana, svo að Ísland verði aðlagað Innri markaðinum, ef/þegar sæstrengurinn kemur. Margir munu verða hundóánægðir með virkni þessa kerfis og telja sig bíða tjón af. Af þeim sökum má búast við málaferlum, e.t.v. hópmálssókn á hendur Landsreglaranum, sem á þessum ósköpum ber ábyrgð.
"Nú er komið að þeim þriðja [orkupakka], sem enn byggir á hugmyndinni um raforkumarkað, þar sem neytendur hafa valfrelsi. Að baki þriðja orkupakkanum búa sjónarmið um hvata til hagræðingar innan raforkugeirans, að raforkukaupendum sé tryggt samkeppnishæft raforkuverð, betri þjónusta og stöðugri og öruggari afhending rafmagns. Þá er í þriðja orkupakkanum einnig að finna ákvæði um neytendavernd með það að markmiði að bæta og samþætta samkeppnishæfa raforkumarkaði innan EES."
Af þessum texta er ljóst, að þingmaðurinn, höfundur greinarinnar, er að lýsa áhrifum innleiðingar OP#3 á meginlandinu, en hún hefur ekki hugmynd um, að áhrifin verða allt önnur og miklu verri af innleiðingu hans í umhverfi, sem hann er ekki sniðinn fyrir. Hún og hinir 45 þingmennirnir, sem samþykktu þessa innleiðingu, eru með samþykktinni að leggja miklar byrðar á landsmenn. Þeir voru varaðir við því í aðdragandanum og eiga sér þess vegna engar málsbætur.
Í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, er sýnt fram á, að raunhækkun raforkukostnaðar fjölskyldna á tímabilinu 2003-2018 nemur 7 %-8 % á hverja kWh. Á sama tímabili lækkuðu skuldir orkugeirans sem heildar, og þess vegna hefði átt að verða raunlækkun raforkukostnaðar, en ekki hækkun, ef allt væri með felldu. Byrðar fjölskyldna og atvinnulífs af OP#1-2 nema líklega 10 %- 20 % af rafmagnskostnaði, og byrðarnar munu margfaldast með OP#3 vegna gjaldskrárhækkana af völdum Landsreglarans, eins og orðið hafa t.d. í Svíþjóð, og af orkuverðshækkunum, sem tíundaðar eru hér að ofan.
Þessar verða afleiðingarnar fyrir almenning, þegar ríkisstjórn og Alþingi vita ekki, hvað felst í viðamikilli erlendri löggjöf, sem verið er að lögleiða hér.
Til að sýna lesendum, hversu gjörsamlega þingmenn geta verið úti á þekju, er hér birt niðurlag greinarinnar, sem hér hefur verið til umfjöllunar:
"Öflugur raforkumarkaður er mikilvægur íslenzkum heimilum, og er þriðja orkupakkanum ætlað að styðja enn frekar við þá góðu vegferð, sem við erum á. Andstæðingar þriðja orkupakkans hafa ekki rökstutt heimsendaspár sínar um glötuð yfirráð yfir íslenzkum auðlindum, enda eiga spádómarnir ekki við rök að styðjast."
Þessi málflutningur er óboðlegur frá þingmanni í utanríkismálanefnd, þar sem umfjöllun orkupakka hefur verið einna mest, en hann er ekki einsdæmi úr þeim ranni. Orkupakkarnir hafa ekki gagnazt heimilunum, heldur hafa þeir orðið þeim fjárhagsleg byrði, og keyrt getur um þverbak með OP#3. Dæmi um skert fullveldi yfir orkulindunum er einmitt, það sem minnzt er á hér að ofan, að sennilega mun Landsreglarinn, sem mun starfa hér sem ríki í ríkinu, ekki leyfa að aðlaga markaðsstýringu raforkuvinnslunnar að íslenzkum aðstæðum með því að heimila beitingu orkulindastýringar, þegar nauðsyn krefur, því að slíkt trufli frjálsa samkeppni á milli orkuvinnslufyrirtækjanna.
Það er fremur óvarlegt af þingmanninum að fullyrða, að reynslan muni afsanna varnaðarorð efasemdarmanna um OP#3. Þvert á móti bendir reynslan frá öðrum löndum, sem innleitt hafa OP#3, ekki sízt vatnsorkulöndum, til þess, að miklar væringar séu framundan, þar sem hlaupa mun á snæri efasemdarmanna. Nægir að nefna deilur Framkvæmdastjórnarinnar út af úthlutun ríkisins á orkunýtingarleyfum vatnsréttinda til ríkisfyrirtækja, bréf ESA sama efnis til ríkisstjórna Íslands og Noregs, og stefnu Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart ríkisstjórn Belgíu fyrir ESB-dómstólnum. Þar er um óleyfilega takmörkun á valdsviði Landsreglara að ræða, þótt annað form sé á valdtakmörkuninni en hérlendis. Einnig er líklegt, að tiltektir Landsreglarans muni mælast illa fyrir, eins og reynslan frá Svíþjóð sýnir. Stjórnarliðar, nema Ásmundur Friðriksson, og aðrir samþykkjendur OP#3 eiga því ekki náðuga daga framundan fram að næstu Alþingiskosningum, ef að líkum lætur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2019 | 11:16
Raforkulöggjöf sniðin við ólíkar aðstæður
Það er grundvallarmisskilningur, að raforkulöggjöf, sem sniðin er að stefnumörkun Evrópusambandsins (ESB) í orkumálum, hljóti að geta gagnazt Íslendingum, jafnvel betur en orkulöggjöf, sem sniðin yrði að orkustefnu fyrir Ísland, sem enn hefur ekki verið mótuð, en hlyti sjálfstæða umfjöllun á Alþingi án nokkurs þrýstings frá EES. Hvers vegna ?
Fyrir því eru 2 meginástæður, að orkulöggjöf Íslands þarf að sníða við íslenzkar aðstæður. Sú fyrri er, að orkukerfi landsins er gjörólíkt orkukerfi ESB, og sú síðari er, að orkumarkaðurinn er líka gjörólíkur. Báðar valda þessar aðstæður því, að óheft markaðsstýrikerfi ESB á raforkuvinnslunni verður hér til óþurftar, hækkar raforkuverð (án sæstrengs) og gerir afhendingaröryggi raforku mun ótryggara en nú er, eins og tíundað hefur verið á þessu vefsetri.
Sumir boða þó allt annað. Þá þarf að kryfja það. Þann 14. ágúst 2019 birtist í Fréttablaðinu grein eftir Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar:
"Raforkulöggjöf sem hefur reynst vel".
Þetta er illa rökstudd lofgjörð um orkupakka Evrópusambandsins, sem minnir á grátstafi sama forstjóra á sinni tíð af áhyggjum út af hag Landsvirkjunar, ef íslenzka ríkið myndi ekki ganga í ábyrgð fyrir "Icesave". Greinin hófst þannig:
"Breytingar á orkulöggjöf Evrópusambandsins og innleiðing þeirra á Íslandi hefur skipt miklu fyrir framþróun raforkumarkaðarins og m.a. skapað orkufyrirtækjunum sterkari stöðu í samningum við erlenda stórnotendur."
Forstjórinn hefði þurft að útskýra þetta betur, svo að það yrði trúverðugt. Það er hins vegar háttur hans að vaða á súðum í orkumálaumræðunni. Það liggur ekki í augum uppi, hvers vegna uppskipting raforkufyrirtækjanna í vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki, dreifingarfyrirtæki og sölufyrirtæki, hefur styrkt íslenzk orkufyrirtæki í samningum við erlend stórfyrirtæki um raforkuviðskipti. Þvert á móti veikti þessi uppskipting íslenzku raforkufyrirtækin, og orkukaupendur þurftu að semja um orkukaup við eitt eða fleiri fyrirtæki og um orkuflutningana við annað.
Þetta er aðeins meira fráhrindandi fyrir hina erlendu aðila, jafnvel ruglingslegt, svo að þessi staðhæfing forstjórans stenzt ekki. Það er enda þannig, að markaðskerfi ESB gerir ekki ráð fyrir langtímasamningum, eins og hér hafa tíðkazt, heldur er það stefna ESB, að öll orka fari á heildsölumarkað í orkukauphöll. Þar með sæju málmverksmiðjurnar sína sæng út breidda. Hangir slíkt á spýtunni hjá einhverjum ? Það yrðu krókódílstár, sem grátið yrði í ýmsum ranni, en efnahagslegar afleiðingar yrðu alvarlegar, eins og fram kemur í skýrslunni í viðhengi þessa pistils.
Landsreglarinn mun vafalaust reyna að beina öllum orkuviðskiptum í orkukauphöll, þegar hann fer að stýra hér og stella. Ef/þegar honum tekst að fá þeirri stefnu ESB framfylgt, að landið verði tengt innri raforkumarkaði ESB með sæstreng, þá verður það svanasöngur stóriðju á Íslandi vegna þess, að hún getur ekki keppt á sama markaði og iðjuver í hjarta Evrópu sökum óhagræðis fjarlægða. Til að glöggva sig á þessu ætti fólk að lesa 8. kafla Ragnars Árnasonar, hagfræðiprófessors, í meðfylgjandi skýrslu Orkunnar okkar (í viðhengi).
Forstjóri þessi reri að því öllum árum að fá OP#3 innleiddan hér og er áfram um að fá ESB-styrktan sæstreng til landsins. Á sama tíma þykist ríkisstjórnin ekki hafa það á sinni dagskrá að fá hingað sæstreng frá útlöndum. Það er holur hljómur í þeim málflutningi á sama tíma og téður forstjóri ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar leikur lausum hala og boðar allt annað. Hvers konar ringulreið er þetta eiginlega hjá ríkisstjórninni ? Er hún með allt á hælunum í orkumálum landsins (eigendastefna í skötulíki) ?
"Með breytingunni [OP1-2] voru raforkusamningar við stórnotendur færðir í viðskiptalegt umhverfi án afskipta stjórnmálamanna. Með því var sköpuð skynsamleg umgjörð um þessa flóknu viðskiptasamninga, sem gerðir eru við stór alþjóðleg fyrirtæki, þar sem hver hugsar vel um eigin hag. Reynslan hefur sýnt, að í öllum nýjum samningum og endursamningum við stórnotendur hefur raforkuverð hækkað án þess, að dregið hafi úr eftirspurn eða framleiðslu. Raforkuverð stórnotenda hefur nálgazt það verð, sem er í boði í öðrum löndum, enda er engin ástæða fyrir Íslendinga til að undirverðleggja íslenzkar orkuauðlindir - ekki frekar en íslenzkan sjávarútveg."
Forstjórinn hefur lamað eftirspurnina, eins og tóftir álvers Norðuráls í Helguvík eru til marks um og ýmislegt fleira mætti tína til í þeim efnum. Það er út í hött að líkja rafmagni við fiskafurðir á erlendum mörkuðum. Nær er að líkja rafmagni við hráefni fyrir verðmætaskapandi starfsemi.
Það er erfitt að sjá, að OP1-2 hafi gert nokkuð annað en að flækja viðskiptaumhverfið fyrir erlenda fjárfesta. Áfram er Landsvirkjun ríkisfyrirtæki (100 %) og með algerlega markaðsráðandi yfirburðastöðu á markaði langtímasamninga. Hið eina, sem hefur breytzt, er, að ESA rýnir nú orkusamningana m.t.t. þess, hvort í þeim kunni að felast ríkisstuðningur.
Það varð alls engin jákvæð breyting með nýju raforkulögunum 2003, sem gerir Ísland áhugaverðari valkost fyrir fjárfesta. Breytingin varð 2010, þegar téður Hörður var ráðinn forstjóri Landsvirkjunar. Þá var tekin upp óbilgjörn afstaða til viðskiptavina fyrirtækisins, sem þurftu að endurnýja orkusamninga sína við fyrirtækið. Var þá ekki lengur horft til upphaflegs hlutverks Landsvirkjunar um að stuðla að þróun iðnaðar og annarrar orkutengdrar starfsemi í landinu til að auka gjaldeyristekjur landsins, verðmætasköpun og atvinnufjölbreytni. Afleiðingin frá endurskoðun orkusamninganna 2010-2018 er dúndurtap ISAL í Straumsvík og neyðarkall frá bæjarstjórn Akraness vegna ástandsins á Grundartanga.
Það var ógæfulegt að hverfa frá því ágæta fyrirkomulagi að tengja raforkuverðið við verð afurðanna, sem rafmagnið er notað til að framleiða. Þar með var að vissu marki létt undir með kaupandanum á erfiðleikatímum, og orkuseljandinn naut ávaxtanna, þegar vel gekk. Þannig er þetta enn hjá Fjarðaáli og mjög víða erlendis. Nú blasir óvissa við hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar, og ástandið fer væntanlega ekki framhjá sæstrengsfjárfestum, sem eru með almannatengla hér í vinnu.
Þeir, sem sjá ekkert athugunarvert við þessa þróun mála, ættu að kynna sér þá ókræsilegu framtíðarsýn, sem hér blasir við, ef farið verður að selja rafmagn utan um sæstreng í stað þess að framleiða hér vörur til útflutnings. Sérstaklega má í því sambandi benda á skýrslu OO, 16.08.2019, t.d kafla 8, eftir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði.
Áfram skal vitna í forstjóra LV:
"Í öllum meginatriðum hafa þær grundvallarbreytingar, sem gerðar voru með setningu raforkulaganna [2003] reynzt vel. Í stuttu máli má segja, að horfið hafi verið frá áætlunarbúskap til markaðsbúskapar með tilheyrandi ávinningi fyrir þátttakendur á raforkumarkaði og þjóðarbúið í heild."
Þetta eru rakalausar fullyrðingar og rangar. Mælikvarði á árangur breytinganna 2003 með innleiðingu OP#1 og innleiðingu OP#2 2008 er þróun rafmagnsverðs til heimila tímabilið 2003-2018. Það sést á grafi á bls. 45 í meðfylgjandi skýrslu. Hækkunin hefur orðið 7 % - 8 % að raunvirði, en ef allt hefði verið með felldu, hefði raunverðið átt að lækka, af því að skuldir orkugeirans lækkuðu mikið á tímabilinu og megnið af kostnaði orkugeirans er fjármagnskostnaður. Ætla má, að OP#1-2 hafi að lágmarki snuðað almenning um 10 % að raunvirði (og gæti slagað í 20 %). Ástæðan er t.d. sú, að með gamla fyrirkomulaginu rann fé frá orkuvinnslunni til línubygginga, en Landsnet fjármagnar framkvæmdir sínar að nokkru leyti með lánum, sem gjaldskrá fyrirtækisins stendur undir.
Með OP#3 mun keyra um þverbak, því að Landsreglarinn mun ákvarða gjaldskrána, og orkufyrirtækin þurfa að standa undir kostnaði við embætti Landsreglara ásamt ríkissjóði.
Affarasælast verður að taka stefnuna út úr Orkusambandi Evrópu, fá undanþágur frá öllum orkupökkunum, enda verður engin sátt í landinu um yfirþjóðlegt vald yfir öllum þáttum orkugeirans, eins og OP#3 kveður á um og OP#4 enn ákveðnar.
"Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því, að baráttan um raunveruleg yfirráð og eignarhald á orkulindum landsins, a.m.k. þeim, sem Landsvirkjun hefur verið treyst fyrir, mun um ókomna framtíð snúast m.a. um, hvernig okkur gengur að semja við alþjóðlega stórnotendur um raforkuverð, enda nota þeir um 80 % af raforku Íslands. Til að tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af auðlindinni verður hún að fá sambærilegt verð og greitt er annars staðar í hinum vestræna heimi."
Þetta er alrangur málflutningur, sem bendir til, að forstjóra Landsvirkjunar skorti allan skilning á orkumálum Íslands. Eignarhald orkulindanna tengist endanlegum notanda, stóriðju eða öðrum, ekki neitt. Afnotarétturinn ("raunveruleg yfirráð") á orkulindinni ekki heldur, þ.e. orkunýtingarrétturinn. Hann er núna mestmegnis í höndum opinberra fyrirtækja, en hann er í uppnámi, því að ESA og Framkvæmdastjórnin vilja gefa einkafyrirtækjum kost á að bjóða í hann og virðast vilja ýta opinberum fyrirtækjum út úr orkuvinnslunni. Þar á samkvæmt orkustefnu ESB "frjórfrelsið" að ríkja án ríkisafskipta.
ESB vill hleypa fjársterkum einkafyrirtækjum að til að stórefla fjárfestingar í endurnýjanlegum orkulindum. Þetta þýðir, að Íslendingar munu glata erfðasilfri sínu til útlendra stórfyrirtækja. Það er stórfurðulegt, að forstjóri Landsvirkjunar skuli ekki tjá sig um þessa yfirvofandi ógn, heldur tengja yfirráð orkulindanna við það, hvernig gengur að semja við stórnotendur. Það er alveg út í hött. Ef Landsvirkjun í sinni núverandi mynd verður lögð niður, eins og ESA virðist stefna að, falla langtímasamningar hennar um koll, svo einfalt er það. Orkan fer þá öll á Innri raforkumarkaðinn. Þessa þróun verður að hindra með öllum tiltækum ráðum, jafnvel uppsögn EES-samningsins, ef það reynist nauðsynlegt til að halda yfirráðum orkulindanna í höndum landsmanna sjálfra (almannavaldsins).
Það er meinloka hjá forstjóra Landsvirkjunar, að hér geti verið sambærilegt verð til stóriðju og á meginlandi Evrópu. Það er líka viðurkennt í Noregi, að þar verður að stuðla að samkeppnishæfni orkukræfs iðnaðar með því að veita afslátt af miðevrópsku raforkuverði, sem svarar til meiri fjarlægðar verksmiðjanna í Noregi frá hráefnaupptökunum og frá afurðamörkuðunum.
Vandamálið, sem við er að kljást, eftir að orkupakkar Evrópusambandsins voru innleiddir, er, að ESA rýnir orkusamninga við ríkisorkufyrirtæki m.t.t. þess, hvort þeir feli í sér ríkisstyrki, og ESA viðurkennir ekki þessa fjarlægðarreglu, sem þó alltaf hefur verið við lýði á þeim mörkuðum, þar sem Landsvirkjun hefur keppt um að fá fjárfesta til Íslands. Þar að auki er það stefna ESB, að öll raforkuviðskipti fari fram í orkukauphöll, sem þýðir, að langtímasamningar munu líða undir lok. Það verður íslenzka þjóðarbúinu afar óhagfellt, því að mikil verðmætasköpun á sér stað í landinu með nýtingu raforkunnar í miklum mæli, og margir hafa af því atvinnu. Raforkan stendur undir umtalsverðum hluta landsframleiðslunnar. Samþykkt OP#3 magnar ófrið í landinu um orkumálin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2019 | 09:14
Spurningar um Orkupakka #3
Málefnalega er ríkisstjórnin sem örfoka eyðimörk, þegar kemur að efnislegri vörn hennar fyrir innleiðingu Þriðja orkupakkans (OP#3) hérlendis. Hún getur ekki einu sinni útskýrt, hvers vegna það er ekki ástæða núna til að grípa í "neyðarhemilinn". Svar iðnaðarráðherra jafngildir "af því bara". Frammistaða hennar í umræðunum um OP#3 á Alþingi var afspyrnuléleg. Hún skilur ekki um hvað Orkusamband Evrópu snýst. Hún heldur, að neytendavernd á meginlandi Evrópu sé neytendavernd á Íslandi. Hún hafði ekki roð við Ólafi Ísleifssyni í umræðunum á Alþingi á "síðsumarstúfinum". Reyndar var orðræða hennar eitthvað á þá leið, að þau (ríkisstjórnin) tækju ekki í neyðarhemilinn, bara af því að við megum það. Svona léttúðugur ráðherra um lífshagsmunamál þjóðarinnar á einfaldlega skilið að fá sparkið frá kjósendum við fyrsta tækifæri. Því fyrr, þeim mun betra, mundi einhver segja (einnig í NV-kjördæmi).
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er forstokkaður, eins og reyndar hinir tveir þingflokkar ríkisstjórnarinnar. Við slíka er erfitt að tala og jafnvel tímasóun. Engu að síður verða þessir og aðrir þingflokkar að velta fyrir sér nokkrum aðkallandi spurningum jafnt fyrir og eftir atkvæðagreiðslu um OP#3 á Alþingi:
1) Hvernig getur utanríkisráðherra og Alþingi brugðizt við, telji Evrópusambandið (ESB) innleiðingu tilskipunar ESB nr 72/2009, rafmagnstilskipunar, ófullnægjandi og ekki veita Landsreglara það svigrúm til óháðra ákvarðana, sem tilskipunin mælir fyrir um ?
OP#3 verður innleiddur í heilu lagi, en síðan settur fyrirvari ("back-stop"), sem kemur afar spánskt fyrir sjónir og er fordæmalaus í sögu EES, enda brot á 7. gr. samningsins.
Í þingskjali 1252-791. máli, er svohljóðandi breytingartillaga við þingsályktun:
"Ekki verður ráðizt í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng, nema að undangengnu samþykki Alþingis. Skal það samþykki liggja fyrir áður en framkvæmdir, sem varða slíka tengingu, geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skal leggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar og framkvæmda vegna hennar."
Það er undarlegt að hafa þennan fyrirvara í þingsályktun, en ekki í lögum. Það leiðir af sér tvennt. Auðveldara er að breyta fyrirvaranum, og hann stendur vissulega skör lægra en OP#3, sem fær lagagildi hér eftir innleiðingu hans. Samkvæmt OP#3 eiga Landsreglarar við sitt hvorn enda sæstrengsins að fjalla um tæknilega og fjárhagslega skilmála sæstrengsins. Ef þeir komast ekki að niðurstöðu sín á milli, verða þeir að leggja málið fyrir ACER, sem úrskurðar. Það er hvergi í reglum OP#3 gert ráð fyrir neins konar aðkomu löggjafans að einstökum verkefnum, enda er það undarleg stjórnsýsla að láta löggjafann sýsla með framkvæmdaatriði. Hann á að leggja meginlínur og lýsir yfir vilja sínum til að tengja landið Innri raforkumarkaðinum með samþykkt OP#3.
Hér er þess vegna komin upp sú staða, að við innleiðingu OP#3 eru hendur Landsreglarans á Íslandi bundnar með þingsályktunartillögu og reyndar með lögum, sbr þingskjal 1253-792, sem er frumvarp um breytingu á raforkulögum nr 65/2003, sem vísa í þessa þingsályktunartillögu, og hljóðar svo:
"Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku."
Ríkisstjórn, sem leggur slíkt fram, virðist ekki skilja, hvað felst í OP#3. Markaðinum er falið að fjármagna og standa að millilandatengingum, og ESB beitir bæði fjárhagslegum og reglusetningarlegum örvunaraðgerðum í því skyni. Annað helzta hlutverk Landsreglarans eftir samþykkt OP#3 samkvæmt tilskipun 72/2009 verður að útrýma öllum hindrunum í vegi millilandatenginga við Ísland. Samkvæmt OP#4 mega stjórnvöld ekki standa að þingsályktun, eins og þeirri, sem að ofan greinir. Það eru þess vegna yfirgnæfandi líkur á, að ESA muni fá EFTA-dómstólinum þetta deilumál til úrlausnar, þegar fordæmi kemur frá ESB-dómstólinum í deilumáli Framkvæmdastjórnarinnar við ríkisstjórn Belgíu. Má þá einu gilda, hversu margir sótraftar eru á sjó dregnir hér við land til að vitna um, að dómur ESB-dómstólsins í Belga-málinu veiti EFTA-dómstólinum ekki fordæmi. Útskýringar á því eru hlálegar og gætu hafa komið frá karlinum í Tunglinu. Allt mun þetta fólk verða sér rækilega til skammar, þegar afleiðingar þessarar innleiðingar koma í ljós. Þær verða almenningi ekki ódýrar.
2) Hefur farið fram sértæk hagræn athugun á áhrifum stefnu ESB, eins og hún kemur fram í OP#3 og nánar í OP#4 á þjóðarbúskap Íslendinga og samfélagslegum áhrifum til lengri tíma, og hyggst ráðherra leggja niðurstöður slíkrar athugunar fyrir Alþingi áður en OP#3 verður samþykktur [sem er borin von], eins og nauðsynlegt er ?
Sá undarlegi málflutningur hefur verið hafður í frammi af boðberum OP#3 hérlendis, að hann muni lítil sem engin áhrif hafa á efnahaginn, nema þá helzt til batnaðar með bættri neytendavernd. Þessi málflutningur vitnar um fullkomið skilningsleysi á því, sem þessi Evrópulöggjöf felur í sér, og fullkomið skeytingarleysi um almannahag. Strax með innleiðingu markaðsstýringar raforkuvinnslunnar, sem verður eitt af fyrstu verkum Landsreglarans á eftir ákvörðun gjaldskráa Landsnets og dreifiveitnanna, verður raforkuverð sveiflukennt, og þar sem hillir undir orkuskort, mun meðalverðið hækka. Neytendavernd er ekki til í þessu kerfi hérlendis. Það er fásinna.
Neytendavernd getur falizt í harðri samkeppni, en henni verður aldrei til að dreifa á íslenzkum raforkumarkaði. Það sannar reynslan af OP#1 og OP#2. Iðnaðarráðherra heldur því fram, að niðurhlutun fyrirtækja í smærri einingar hafi orðið neytendum til hagsbóta. Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi í fjármagnsfrekri starfsemi, enda er reyndin sú,að raunhækkun raforkuverðs til heimila tímabilið 2003-2018 hefur orðið 7 % - 8 % samkvæmt gögnum Hagstofunnar og útreikningum prófessors Ragnars Árnasonar í skýrslu Orkunnar okkar, 16. ágúst 2019.
Ragnar skrifaði fróðlega grein í skýrslu Orkunnar okkar um hagræn áhrif innleiðingar OP#3, en slíkar upplýsingar hefur sárlega vantað í umræðuna, og ríkisstjórnin hefur engan gaum gefið að þessum þætti. Ragnar ver mestu rými greinarinnar í að greina afleiðingarnar af samtengingu Íslands við Innri raforkumarkað EES, enda er líklegast, að ESB fái vilja sínum fyrr en síðar framgengt um að tengja jaðarsvæði EES við Innri markaðinn, eftir að þau eru gengin í Orkusamband Evrópu:
"Samkvæmt viðtekinni hagfræði má fullvíst telja, að hindrunarlaus orkumarkaður muni verða efnahagsleg lyftistöng fyrir ESB í heild og ýta undir hagvöxt. Það er hins vegar ekki þar með sagt, að slíkur orkumarkaður styrki efnahagslífið á öllum svæðum sambandsins. Hindrunarlaus orkuviðskipti munu einkum nýtast efnahagslegri þungamiðju sambandsins, þar sem orkuþörfin er mest. Á hinn bóginn munu þau svæði, sem orka verður flutt frá, að öðru jöfnu verða fyrir búsifjum við þessa breytingu. Það er vegna þess, að þau missa af hluta af sinni orku og þar með möguleikum til nýtingar hennar."
Með því að samþykkja OP#3 göngum við í Orkusamband ESB og játumst undir regluverk ESB um orkuviðskipti á milli landa. Inntak þess er, að ríkisstjórnir og þjóðþing komi ekki nálægt þessum málum, hvorki til hindrunar né örvunar, heldur véli landsreglarar, ACER og fyrirtæki á orkumarkaði alfarið um þau. Ríkisstjórnarflokkarnir o.fl. á Alþingi eru hins vegar haldnir þeirri meinloku, að fullveldi Íslands til að ráða þessum málum verði óskert með OP#3. Það verður afdrifaríkur misskilningur í ljósi þess, að ágreiningur verður útkljáður fyrir EFTA-dómstólinum.
"Úrvinnsla raforku hér á landi leggur nú þegar talsvert af mörkum til landsframleiðslunnar og skapar verulega atvinnu. Tækifæri til frekari og verðmætari úrvinnslu eru mikil, enda aðgangur að ódýrri og tryggri raforku ein helzta forsenda nútímaframleiðslu af fjölmörgu tagi."
Það er fullveldisréttur þjóða að ráða nýtingu náttúruauðlinda sinna. Sá réttur verður tekinn af íslenzku þjóðinni varðandi nýtingu orkulindanna, því að fulltrúar hennar verða ekki hafðir með í ráðum, þegar Landsreglarinn mun sjá til þess, að Landsnet innleiði hér markaðsstýringu raforkuvinnslunnar. Vegna sérstöðu orkukerfisins getur hún ekki orðið hér í þágu almannahags. Hún mun auka tekjur orkufyrirtækjanna á kostnað almennings og orkuöryggis. Orkulindastýring, sem er vel þekkt hérlendis, mundi sníða af þessu kerfi agnúana í þágu almannahags, en Landsreglarinn mun sennilega banna hana á þeim forsendum, að hún feli í sér óleyfileg ríkisafskipti af frjálsum markaði.
Í Orkusambandi Evrópu eiga viðskipti með alla raforku að fara fram í orkukauphöll. Það merkir, að ESB vill langtímasamninga feiga. Þar með sér stóriðjan í landinu sína sæng út breidda. Þetta mun minnka atvinnu, verðmætasköpun og hagvöxt í landinu, sbr texta Ragnars Árnasonar, hagfræðings.
"Á hindrunarlausum raforkumarkaði muni raforkan fara til þeirra nota, sem hæst verð bjóða. Því muni raforka verða flutt frá því landi, þar sem raforkuverð er lægra, og sá útflutningur muni halda áfram, þar til skilaverðið til framleiðenda á raforku til innanlandsnota og útflutnings er orðið jafnhátt. Raforkuverðið í útflutningslandi raforku muni því hækka til samræmis við raforkuverðið erlendis. Jafnframt muni raforkuframleiðsla í útflutningslandinu vaxa, séu slík tækifæri á annað borð fyrir hendi, þar til framleiðslukostnaður í nýjum orkumannvirkjum þar er orðinn jafnhár hinu hærra raforkuverði."
Sæstrengur til Íslands nýtur svo mikillar velvildar framkvæmdastjórnar ESB, að hún hefur valið hann af Kerfisþróunaráætlun ESB og inn á "The Union list of projects of common interest" - Sambandslista verkefna í þágu almannahags, en þau verkefni verða sjálfkrafa samþykkt af landsreglurum landanna, sem í hlut eiga, þegar fjárfestar gefa sig fram. Jafnframt eru slík verkefni styrkhæf úr mrdEUR 30 innviðasjóði ESB. Þótt slíkt verkefni geti ekki staðið á eigin fótum m.v. raforkuverð núna, gæti svo farið, að flutningskostnaður um slíkan streng í byrjun verði aðeins um 20 USD/MWh og færi lækkandi. Þá gæti skilaverð til raforkuseljenda hérlendis orðið 80-20=60 USD/MWh, og raforkuverðið hérlendis hækkað um 50 % og meira, er frá líður. Flutningsgjaldskrá Landsnets mun vart hækka minna vegna kostnaðar við uppbyggingu flutningskerfis innan lands vegna sæstrengs. Þar með sér öll framleiðsla innan lands, sem er háð því, að raforkuverð hækki ekki frá því, sem nú er, sína sæng út breidda.
Ragnar dró mál sitt saman í 4 atriði:
- "Í fyrsta lagi myndi raforkuverð á Íslandi hækka bæði til fyrirtækja og heimila. Framleiðendur myndu ekki vilja ótilneyddir selja raforku á lægra verði til sumra notenda en annarra. Þar að auki myndi slíkt flokkast undir markaðsbrenglandi niðurgreiðslur og/eða verðmismunun, sem er óheimil samkvæmt EES-ESB reglum. Verðið myndi ugglaust fyrst hækka, þar sem orkukaupendur eru ekki varðir af langtímasamningum, en smám saman myndi allt raforkuverð hækka. Innlendir raforkunotendur myndu með öðrum orðum tapa á samtengingunni við orkumarkað ESB."
- "Í öðru lagi myndi raforkunotkun á Íslandi minnka. Hún minnkar, þar sem orkuverðið hækkar og minnkar mest, þar sem tiltöllulega lágt orkuverð er forsenda viðkomandi starfsemi. Ætla má, að það sé einkum í tiltölulega orkufrekum iðnaði miðað við framleiðsluverðmæti, eins og t.d. í ylrækt, fiskimjölsverksmiðjum, rekstri gagnavera og auðvitað svokallaðri stóriðju. Atvinnutækifærum, sem byggjast á raforku, mun þá fækka að sama skapi."
- "Í þriðja lagi myndi samtenging íslenzks raforkumarkaðs við evrópskan sennilega leiða til aukinnar raforkuframleiðslu á Íslandi. Þar sem framleiðendur geta nú selt miklu meira magn en áður og á væntanlega hærra verði, munu þeir hafa áhuga á að auka framleiðslu sína. Þetta mun skapa þrýsting á, að virkjað verði (vatn, jarðhiti og vindorka) til að mæta eftirspurninni í Evrópu. Samkvæmt bæði grunnreglum og sértækum reglum ESB skulu markaðsöfl ráða. Því er að öðru jöfnu óheimilt að hindra virkjanir og banna lagningu sæstrengja, ef einkaaðilar vilja leggja í slíkar framkvæmdir. Slíkt myndi að öðru jöfnu flokkast undir skaðlegar markaðshindranir."
- "Í fjórða lagi myndu orkuframleiðendur hagnast. Eftir samtenginguna geta þeir selt meira orkumagn á hærra verði. Þar sem notendur raforku innanlands tapa vegna hærra orkuverðs, hefur samtengingin því í för með sér breytta tekjudreifingu milli framleiðenda og notenda raforku."
Nú þegar glittir í klærnar á þessu kerfi. Landsvirkjun hefur við framlengingu gamalla stóriðjusamninga við 3 orkukræfa málmframleiðendur neytt yfirburða stöðu sinnar á markaði og þröngvað þessum fyrirtækjum til að ganga að raforkusamningum, sem eru þungbær byrði í núverandi árferði. Skynsamleg og sanngjörn tenging raforkuverðs við framleiðsluverð hefur verið rofin að kröfu forstjóra Landsvirkjunar og boginn spenntur langt umfram getu fyrirtækjanna við núverandi markaðsaðstæður, svo að framtíð fyrirtækjanna er í uppnámi og stórtap á rekstrinum. Í fréttum hefur t.d. verið greint frá mrdISK 5,0 tapi í fyrra á ISAL í Straumsvík, og í júlí 2019 varð fyrirtækið fyrir rekstrarlegu áfalli, þegar um 40 % framleiðsluminnkun varð. Framleiðslutækin urðu fyrir skemmdum og endurræsingin verður rándýr.
Bæjarstjórn Akraness hefur lýst yfir miklum áhyggjum af stöðunni á Grundartanga og kennir miklum nýlegum raforkuverðshækkunum um bágborna stöðu fyrirtækjanna. Það er stórfurðulegt, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skuli hafa sveigt mjög af leið í verðlagsstefnu sinni án nokkurrar umfjöllunar, að því er virðist, í ríkisstjórn, á Alþingi og í þjóðfélaginu. Er ástæða til að ætla, að ekki sé lengur hugað að upprunalegu hlutverki Landsvirkjunar að skapa fyrir sitt leyti samkeppnishæfar aðstæður fyrir orkukræfan iðnað í landinu, sem þá myndi auðga umhverfið með margvíslegum hætti og skapa örugga og trausta vinnu innan girðingar og utan. Nú getur Landsvirkjun skákað í því skjólinu, að fari allt á versta veg hjá viðskiptavinum hennar, geti hún flutt orkuna utan um sæstreng til Evrópusambandsins, sem það hefur mikinn hug á, að komið verði á laggirnar vegna orkuskorts þar á bæ.
Hér er Landsvirkjun að feta inn á stórhættulega braut, sem ríkisstjórnin þarf að stöðva. Það getur varla verið, að stjórn fyrirtækisins hafi umboð frá ríkisstjórninni til að ganga á milli bols og höfuðs á stóriðjunni vegna þess, að hingað megi alltaf fá sæstrengstengingu frá útlöndum til að koma orku í lóg, sem stóriðjan hefur gefizt upp á að kaupa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.8.2019 | 11:35
Málarekstur Evrópusambandsins
Þeim, sem efast um, að Evrópusambandinu (ESB) sé full alvara með Orkusambandi sínu ("The Energy Union of Europe") og halda jafnvel, að innlend yfirvöld, ríkisstjórn, sveitarstjórnir, skipulagsyfirvöld, Umhverfisstofnun o.s.frv., geti þvælzt endalaust fyrir áformum ESB um nýtingu meira eða minna endurnýjanlegra orkulinda Íslands í almannaþágu Evrópu, eins og slíkar virkjanir og flutningsmannvirki eru nú kölluð á þeim bænum, vaða í villu og svíma.
Til vitnis um þetta eru fréttir og fréttatilkynningar framkvæmdastjórnar ESB af víðtækum málarekstri hennar gegn ríkisstjórnum 8 ESB-landa vegna lokaðrar "vildarvina" úthlutunar orkunýtingarleyfis vatnsréttinda í eigu ríkisins til langs eða ótilgreinds tíma. Líta verður á bréf ESA, dags. 20.04.2016, til íslenzku ríkisstjórnarinnar og bréf ESA, dags. 30.04.2019, til norsku ríkisstjórnarinnar, sem undanfara sams konar stefnu spegilmyndar Framkvæmdastjórnarinnar EFTA-megin í EES, ESA. Noregur og/eða Ísland verða dregin fyrir fyrir EFTA-dómstólinn, og löndin munu verða dæmd til útboðs á orkunýtingarrétti opinberra fyrirtækja innan EES. Í fyrstu umferð mun dómurinn spanna vatnsorkuverin, af því að innan ESB er raforka vatnsorkuvera metin verðmætust vegna auðstýranleika þessarar gerðar raforkuvera, en er frá líður munu jarðgufuverin falla sömuleiðis í útboðsflokkinn. Íslendingar hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að halda í nýtingarrétt sinn á þessum markaði. Þannig munu þeir glata nýtingarrétti á orkulindum sínum, og hitaveiturnar kunna að fylgja með í 5. orkupakkanum. Það er verið að kippa stoðunum undan velferðarþjóðfélagi á Íslandi, þótt þetta gagnist heildarhagsmunum EES. Að stjórnmálamenn skuli dirfast að taka þessa risavöxnu áhættu með hagsmuni þjóðarinnar með því að ganga Orkusambandi Evrópu á hönd, er óskiljanlegt.
Í öllum þessum tilvikum Framkvæmdastjórnarinnar og ESA gegn ríkisstjórnum er um að ræða vatnsorkuver vegna sérstakrar stöðu þeirra í orkuskiptum ESB. Þar virðast vindmyllur gegna veigamiklu hlutverki, og á hlutdeild þeirra í raforkuvinnslunni að rúmlega tvöfaldast á næstu 10 árum. Nú þegar er þó tekið að hægja á fjölgun vindmyllna vegna vaxandi andstöðu almennings, sem setur fyrir sig kostnað, slitróttan rekstur og umhverfisbyrði.
Embættismenn ESB sjá fyrir sér, að nýir eigendur gamalla vatnsaflsstöðva muni ráða yfir nægri fjárfestingargetu og áhuga á að allt að því þrefalda uppsett vélaafl í vatnsaflsvirkjununum án þess að auka árlega orkuvinnslugetu. Á Íslandi mundi þetta auka uppsett afl um 4,0 GW, sem munar um við að fylla í framboðsskarðið, sem myndast á daginn, þegar lygnir í Evrópu. Hagsmunir ESB gagnvart Noregi og Íslandi eru skýrir í þessu sambandi.
Þá hefur ESB gefið út fréttatilkynningu um málssókn vegna ófullkominnar innleiðingar ríkisstjórnar Belgíu á OP#3 í landsrétt. Kjarni hennar er, að við innleiðingu OP#3 í belgískan rétt eru völd Landsreglarans varðandi flutningskerfi orku innanlands og samtengingar við útlönd takmörkuð við tillögurétt til ráðherra. Ríkisstjórn Íslands leggur til við Alþingi að innleiða OP#3 í íslenzkan rétt, eins og orkupakkinn kemur af skepnunni, en þingið setji síðan fyrirvara með þingsályktun, lagabreytingu og heimild til ráðherra um reglugerðarútgáfu, sem allt á það sammerkt að takmarka valdsvið Landsreglarans á Íslandi langt umfram það, sem ákveðið er með OP#3.
Það er þannig bein hliðstæða á milli Belgíu og Íslands varðandi ranga innleiðingu á OP#3. Þannig er yfirvofandi hátta á samningsbrotamáli ESA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinum, þegar dómsfordæmi kemur frá ESB-dómstólinum. Þar með munu allir fyrirvarar Íslands falla niður dauðir og ómerkir, og leiðin fyrir sæstrengsfjárfestana verður greið inn í landið. Leggi stóriðjufyrirtæki upp laupana vegna okurstefnu Landsvirkjunar í garð fyrirtækjanna í krafti einokunaraðstöðu sinnar við framlengingu samninga, mun Landsvirkjun heimta sæstrengstengingu við útlönd. Þessi þróun er með hreinum ólíkindum. Almenningur á Landsvirkjun, en ríkisstjórnin lætur, eins og málið komi sér ekki við. Þingmenn, sem rænulitlir horfa á þessa skaðvænlegu þróun, ættu að lesa 8. kaflann eftir hagfræðiprófessorinn Ragnar Árnason í nýlegri skýrslu Orkunnar okkar til að glöggva sig á til hvers þessi þróun leiðir. Ef þingmenn ekki vakna af dvalanum, bíður þeirra hörð svipa kjósenda í næstu kosningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2019 | 10:29
Stórhættuleg braut mörkuð af ríkisstjórn
Margt bendir til, að Evrópusambandið (ESB) hafi í örvæntingu sinni yfir árangursleysinu við að ná loftslagsmarkmiðum sínum ákveðið að "sprengja" sér leið að endurnýjanlegum orkulindum Íslands og Noregs, og þá munu jarðhitaauðlindir Íslands fylgja í kjölfarið. Hér verður vikið að þeirri sviðsmynd, að undirlægjuháttur ríkisstjórnar Íslands gagnvart EES muni leiða til þess, að nýtingarréttur þessara íslenzku auðlinda hverfi úr landi.
Við stjórnvölinn sitja nú blindingjar á orkumálin, en þingmenn Miðflokksins virðast hafa áttað sig á þýðingu þessa máls fyrir þjóðarhag, og er málflutningur formannsins í Bítinu á Bylgjunni að morgni 21. ágúst 2019 til marks um það. Sama má segja um ræðu hans á fundi á Selfossi að kvöldi 22. ágúst 2019, þar sem um 170 manns hlýddu á 5 ágæta ræðumenn úr öllu hinu flokkspólitíska litrófi. Blekbóndi var staddur austanfjalls og brá sér á fundinn.
Þriðji orkupakkinn er ákveðið skref inn í orkusamstarf, sem mun hafa þær hörmulegu afleiðingar í för með sér, að íslenzka þjóðin mun að fullu missa stjórn á orkulindum sínum til markaðsafla og búrókrata ESB þrátt fyrir eignarhald ríkisins á þeim í mörgum tilvikum. EES-samningurinn spannar ekki eignarhald á náttúruauðlindum. Ríkið má eiga auðlindirnar, en "fjórfrelsið" skal ríkja um ráðstöfunarréttinn, og hið vanheilaga bandalag búrókrata og fjármagnseigenda, sem stjórnar Evrópusambandinu undir forystu Tevtónans Martin Selmayr, hægri handar forseta Framkvæmdastjórnarinnar, ræður fyrirkomulaginu með útgáfu reglugerða og tilskipana.
Téður Martin fær bráðlega löndu sína, Ursulu von der Layen, sem yfirmann, en hún var landvarnarráðherra Þýzkalands og skildi Bundeswehr eftir í rjúkandi rúst. Hefur þýzki herinn aldrei verið í jafnslæmu ásigkomulagi og nú. Dæmi: hjá Luftwaffe eru aðeins 4 bardagahæfar orrustuvélar og hjá Kriegsmarine álíka fjöldi bardagahæfra kafbáta. Hjá Bundeswehr var fagnað ótæpilega fréttinni um flutninginn til Brüssel, og haldin "tappalosunarhersýning" í kveðjuskyni.
Leyfisveitingar til nýtingar og stjórnunar á orkulindunum munu að óbreyttu falla undir reglur ESB, og réttur Íslendinga til að nýta orkulindirnar og stjórna þeim í þágu þjóðarinnar verður lítils virði. Þarna er fullveldisréttur Íslands lítilsvirtur. Lagaákvæði, sem gefa íslenzkum notendum rafmagns eitthvert forskot á erlenda innan EES, getur EFTA-dómstóllinn dæmt ólögmæt í kjölfar kvörtunar frá ESB til ESA. Erlendir auðmenn munu fá jafngóð eða betri tækifæri í krafti auðs síns en íslenzkir aðilar, þannig að arður af auðlindunum mun flytjast úr landi. Hvernig í ósköpunum getur þetta gerzt fyrir framan nefið á okkur ? Er um að ræða fávizku og skilningsleysi íslenzkra embættismanna, sem um þetta véla, eða fjarstýra harðsvíruð hagsmunaöfl stjórnmálamönnunum ? Spyr sá, sem ekki veit.
Í þessu sambandi má benda á þá kröfu Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarríkjum ESB, þar sem vatnsréttindi eru á hendi ríkisins, t.d. Frakklandi, Þýzkalandi, Austurríki, Póllandi, Portúgal og Svíþjóð, að ríkisvaldið verði að bjóða út orkuvinnsluleyfi þessara vatnsréttinda á opnum markaði EES. Útboðið skal aðlaga að þörfum einkafjárfesta, t.d. skal gildistími vinnsluleyfis vera aðeins 30 ár, en einkafjárfestar vilja endurheimta fjárfestingu sína ásamt öllum kostnaði innan þessara tímamarka. Þetta eitt út af fyrir sig þýðir óhjákvæmilega hækkun raforkuverðs til almennings og getur grafið alvarlega undan gildandi langtímasamningum um raforkusölu án tillits til sæstrengs.
Þegar ESA mun krefjast þessa sama hérlendis, mun krafan einnig spanna útboð vinnsluleyfa jarðgufusvæða til raforkuvinnslu, og er frá líður (OP#4-5) einnig lághitasvæði fyrir húshitun. Ætlunin er að ræna landsmenn um hábjartan dag. Viðskipti með orkuauðlindir í eigu hins opinbera (ríkis & sveitarfélaga) munu þá fara fram sem viðskipti með nýtingarleyfi. Yfirvöld landsins stefna nú málefnum landsmanna í algert óefni. Orsakir þess eru ekki aðalatriðið, afleiðingarnar eru aðalatriðið, og þær verða stórskert lífskjör landsmanna. Þetta verður gott fóður í næstu kosningabaráttu, ef stjórnarflokkarnir vaða út í foraðið.
ESA hóf þetta ferli gagnvart Íslandi með bréfi til ríkisstjórnarinnar 20. apríl 2016. Þann dag kvað þessi Eftirlitsstofnun EFTA, sem speglar Framkvæmdastjórnina EFTA-megin í EES-samstarfinu, upp eftirfarandi úrskurð:
"Ísland þarf að breyta lögum til að tryggja, að orkufyrirtæki, sem nýta auðlindir í almannaeigu til raforkuframleiðslu, greiði ávallt markaðsverð fyrir slíka nýtingu."
Hið skrýtna er, að ríkisstjórnin þumbast við að svara þessu grafalvarlega bréfi, líklega af ótta um afdrif OP#3 á þingi, en norski orku- og olíuráðherrann svaraði snöfurmannlega slíku bréfi á 5 vikum og stóð uppi í hárinu á ESA. Ekkert slíkt hvarlar að heimóttarlegum íslenzkum ráðamönnum, sem hræðast átök við pappírstígrisdýrið, sem ruggað getur hinum heilaga Graal, EES-samninginum.
Eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans í íslenzka löggjöf mun slíkt markaðsverð ráðast af aðstæðum á Innri markaði ESB, en ekki á þeim alþjóðlegu orkumörkuðum, þar sem íslenzk orkufyrirtæki hafa í meira en hálfa öld verið í samkeppni um orkusækna raforkukaupendur. Á þeim mörkuðum er mikið tillit tekið til fjarlægða orkubirgis frá hráefna- og afurðamörkuðum. Langtímasamningar hérlendis um raforkusölu verða augljóslega í uppnámi með þessu fyrirkomulagi, því að virkjanir, sem þeir eru reistir á, munu skipta um eigendur, og nýir eigendur munu heimta endurskoðun raforkusamninga til að gera viðskipti sín með nýtingarleyfi arðsöm.
Ekki er vafi á, að nýir virkjanaeigendur munu leita liðsinnis ESA, enda mun allur Evrópumarkaðurinn standa þeim opinn, þegar búið verður að dæma fyrirvara ríkisstjórnarinnar um hömlur á völd Landsregara óleyfilega með vísun til dóms ESB-dómstólsins vegna rangrar innleiðingar OP#3 í landsrétt Belgíu. Með þessu móti munu Íslendingar ekki aðeins missa forræði yfir orkulindum sínum, heldur mun vinnan og verðmætasköpunin, sem raforkunýtingin skapaði ásamt hagnaði raforkuvinnslunnar, hverfa úr landi. Þá er ljóst, að uppsögn EES-samningsins verður eina úrræðið til að forða efnahagslífinu frá stórfelldu tjóni. Norðmenn munu vafalítið komast að sömu niðurstöðu af norska svarbréfinu frá 5. júní 2019 að dæma.
Augljóslega er hér flotið sofandi að feigðarósi í íslenzka stjórnarráðinu og við blasir, að affarasælast er til að forða stórfelldum vandræðum, að Alþingi neiti að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara og leitað verði eftir undanþágum í Sameiginlegu EES-nefndinni. Ekki veldur sá, er varir. Hitt vekur furðu, hvers vegna flestir flokkanna, þ.á.m. píratarnir, hafa lagzt gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, en hún myndi án nokkurs vafa skera á hnútinn. Málið hefur leitt í ljós, að píratar eru ekki (lengur) uppreisnarflokkur gegn ríkjandi kerfi, heldur eru orðnir samdauna því og hafa lagzt upp að hlið Samfylkingarinnar. Það gæti orðið banvænt faðmlag fyrir þá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2019 | 11:10
Hégilja
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir heitir Alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur ekki vandað þeim kveðjurnar, sem varað hafa við innleiðingu Orkupakka #3 (OP#3) hérlendis. Framkomu hennar þarf að hafa í huga í næsta prófkjöri og næstu kosningum, sem hún tekur þátt í. Þar virðist ekki vera frumlegt leiðtogaefni á ferð.
Henni er lítt gefin andleg spektin til að kafa af sjálfsdáðum ofan í OP#3, en meir étur hún upp eftir öðrum og veður ótæpilega á súðum. Áslaug ritaði pistil á leiðarasíðu Morgunblaðsins 12. ágúst 2019, sem hún af smekkvísi sinni, þröngsýni og dómhörku nefndi:
"Bábiljur um orkupakka".
Verður nú drepið á reiðilestur þennan yfir flokksmönnum hennar og öðru efasemdarfólki um það, að nauðsynlegt og æskilegt sé, að Ísland gangi í Orkusamband ESB, en um það snýst OP#3. Lönd, sem verða í þessu Orkusambandi, eiga að stunda frjáls viðskipti með raforku og jarðgas undir regluverki og stjórn ACER, en alfarið án afskipta ríkisvaldsins í viðkomandi löndum.
Það er einmitt meginbreytingin með OP#3, að orkusamvinna aðildarlandanna breytist í Orkusamband þessara landa um að starfa á Innri markaði ESB og gera hann svo vel virkan og samhæfðan, að orkuverðið verði svipað, hvar sem er á þessum markaði (orkumverðsmunur mest 2,0 EUR/MWh eða innan við 0,3 ISK/kWh).
Lítum á skrif ritarans:
"Oft hefur verið haldið fram röngum og villandi fullyrðingum um málið, m.a. í bláa bæklingnum, sem fylgdi Morgunblaðinu í síðustu viku. Þar var gefið í skyn, að markmið þriðja orkupakkans fæli í sér, að Íslendingum væri skylt að leggja sæstreng til Evrópu. Markmið orkupakkans er vissulega að efla innri markaðinn, sem við höfum verið partur af síðan 1993, en breytir engu um, að endanlegt vald um millilandatengingar er hjá hverju landi fyrir sig. Það er margstaðfest af helztu sérfræðingum um EES- samninginn og einnig framkvæmdastjóra orkumála hjá ESB."
Það er auðvitað kolröng framsetning hjá Áslaugu Örnu, að einhver hafi haldið því fram, að íslenzka ríkinu eða Landsneti verði gert skylt að leggja sæstreng til útlanda. Það er langur vegur frá því og til þess, að ríkisvaldinu innan Orkusambandsins sé óheimilt að leggja stein í götu millilandatenginga. Þetta leiðir líka af fjórfrelsinu, sem annað virðist þurfa að víkja fyrir í Evrópuréttinum. Allt er þetta svo áréttað í rafmagnstilskipun 2019/944 í OP#4. Þar segir í gr. 3, að aðildarlöndin eigi að tryggja, að innlend löggjöf hindri ekki með óeðlilegum hætti raforkuviðskipti yfir landamæri og nýjar millilandatengingar fyrir raforku. Þetta er áréttað í gr. 51.1.
Héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson hefur í blaðagreinum varað við því, að sæstrengsfjárfestir geti á grundvelli réttinda, sem honum eru tryggðir til að fjárfesta í millilandatengingum, höfðað skaðabótamál gegn íslenzka ríkinu; samningsbrotamál ESA gegn ríkinu fyrir EFTA-dómstólinum er heldur ekki útilokað, ef Alþingi setur fyrirvara í íslenzkan rétt við reglugerðir eða tilskipanir í OP#3.
Áslaug Arna skrifar, að allir helztu sérfræðingar um EES-samninginn séu sömu skoðunar og hún um rétt íslenzkra yfirvalda til að banna sæstrenginn. Því er nú varlegt að treysta. Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson skrifuðu ítarlega skýrslu um OP#3, og meginráðlegging þeirra var sú, að neita að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af þessum orkulagabálki ESB. Eyjólfur Ármannsson, sérfræðingur í Evrópurétti, skrifaði umsagnir til Alþingis um þingsályktanir og frumvarp tengd þessari innleiðingu og varaði eindregið við samþykkt orkupakkans m.a. á þessum forsendum um valdframsal vegna sæstrengs.
"Þá er fullyrt, að með innleiðingunni komi samræmd evrópsk löggjöf í stað íslenzkrar. Það er alrangt, því að við ákváðum árið 1999 að taka upp evrópska löggjöf í orkumálum og innleiddum hana fjórum árum síðar [stjórnskipulegum fyrirvara var aflétt af OP#1 árið 2000]. Þriðji orkupakkinn er því ekki frávik, heldur framhald á áratugalangri stefnu Íslands. Það er alfarið á hendi Íslands að taka ákvörðun um lagningu sæstrengs, eins og fram kom í samdóma áliti fræðimanna, sem komu fyrir utanríkismálanefnd. En til þess að taka af öll tvímæli hefur verið lagt fram lagafrumvarp, þar sem kveðið er á um, að ekki verði ráðizt í tengingu með sæstreng, nema að undangengnu samþykki Alþingis."
Þarna vísar Áslaug Arna til samþykktar á OP#1 í Sameiginlegu EES-nefndinni árið 1999. Hann fjallaði hins vegar ekkert um millilandatengingar. Það, sem gerist með OP#3 er, að með honum verður innleiddur Evrópuréttur á sviði millilandatenginga með bakhjarl í sameiginlegri orkustofnun ACER. Áslaug hefur líka hengt sig í það, að í OP#2 er skrifað í aðfararorðum, að þetta sé ætlunin. Af því dregur hún þær kolröngu ályktun, að lítil sem engin breyting verði með OP#3. Hefur manneskjan aldrei heyrt minnzt á Orkustefnu ESB og Lissabonsáttmálann, sem festi þessa stefnu í sessi ? OP#3 er aðferð ESB til að færa orkustefnu sína í lög aðildarlandanna, en EFTA-ríkin hafa aldrei samþykkt gildissvið Lissabonsáttmálans hjá sér. Lögfræðilegur barnaskapur virkar ekki traustvekjandi til leiðsagnar í evrópsku umhverfi.
OP#3 hefur þær afleiðingar, að markaðurinn (fjórfrelsið) ræður á sviði millilandatenginga, og ríkisinngrip verða þar með óheimil. Það er sama, hversu mörg lögfræðiálit ríkisstjórnin kaupir eða skjöl um gagnkvæman skilning orkukommissars ESB og utanríkisráðherra verða undirrituð, það verður á endanum EFTA-dómstólsins að dæma í deilumálum, sem upp munu rísa, og hann er bundinn við dómafordæmi ESB-dómstólsins. Það er allt á sömu bókina lært í EES.
Í því efni er nýleg málshöfðun Framkvæmdastjórnarinnar á hendur belgísku ríkisstjórninni fyrir gallaða innleiðingu á OP#3 víti til varnaðar. Belgíska þingið batt hendur belgíska Landsreglarans þannig, að lokaorðið um nýjar millilandatengingar yrði á hendi ríkisstjórnarinnar, en ekki Landsreglarans. Þetta er keimlíkt því, sem ætlunin er að gera hér. Það er ljóst, að ríkisstjórnin ráðleggur Alþingi að taka gríðarlega áhættu með því að samþykkja OP#3.
"Í orkupakkanum felst ekki afsal á forræði yfir auðlindinni. Takmarkað og afmarkað valdaframsal á einungis við um tiltekin afmörkuð málefni, ef Ísland ákveður að tengjast sæstreng til Evrópu."
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gerir sér alls enga grein fyrir, hvað felst í OP#3. Fyrir utan það, að hlutverk hans er að ryðja brott öllum hindrunum, sem verða í vegi millilandatenginga, þá er hlutverk hans að koma á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar að fyrirmynd orkukauphalla í löndum ESB. Þetta kerfi getur hins vegar ekki virkað hérlendis, eins og á meginlandi Evrópu, því að þar sjá eldsneytismarkaðir fyrir nægri orku, en markaðsstýring raforkuvinnslu getur aðeins séð fyrir nægu afli. Kerfið mun bjóða hér upp á viðvarandi seljendamarkað, orkuskort og sveiflukennt orkuverð.
Vilji landsmenn fremur orkulindastýringu, eins og Landsvirkjun hefur tíðkað undanfarna áratugi fyrir sín miðlunarlón og jarðgufuver, þá mun Landsreglari segja nei. Hún jafngildir nefnilega ríkisafskiptum á markaði í viðleitni til að koma í veg fyrir orkuskort. Þarna mun strax koma fram, að Íslendingar tapa forræði á auðlindinni með OP#3, af því að hann skyldar þá til að leyfa markaðinum að ráða, óheftum.
Þetta er aðeins angi af orkustefnu ESB, þar sem grunnstef er, að raforkuvinnslan skal vera markaðsknúin og án afskipta ríkisvaldsins. Þess vegna ýtir Framkvæmdastjórnin eignarhaldi ríkisins á vatnsorkuvirkjunum út úr þessum geira.
Seint í pistli sínum kórónar Áslaug Arna vitleysuna:
"En ef Alþingi tæki þá ákvörðun að tengjast landi innan ESB, sem Bretland verður t.d. ólíklega innan skamms, myndi virkjast tveggja stoða fyrirkomulagið, þannig að Eftirlitsstofnun EFTA [ESA] tæki ákvörðun, en ekki ACER. Því er í engu tilviki um að ræða framsal til stofnana Evrópusambandsins, hvort sem við tengjumst eða ekki."
Sú lausn að nota ESA sem millilið á milli Landsreglarans og ACER er blekking til að láta líta svo út, að íslenzk orkumál verði ekki undir yfirþjóðlegri stjórn eftir samþykkt OP#3. ESA afritar allt, sem frá ACER kemur, og hefur ekki vald til að víkja frá textanum, því að þá kemur upp misræmi, sem getur endað með deilum fyrir dómstólum. Áslaug lætur eins og þessi samskipti Landsreglara og ACER hefjist fyrst með sæstreng. Það er misskilningur. Þau hefjast strax og Landsreglari tekur til starfa á Íslandi, enda verður Landsreglari öllum óháður, nema ACER.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2019 | 22:06
"Ótrúverðugur málflutningur" - hverra ?
Á opnum fundi með þingmönnum sjálfstæðismanna í Valhöll laugardaginn 10. ágúst 2019 varð formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, tíðrætt um það, sem hann nefndi "ótrúlega ótrúverðugan málflutning" miðflokksmanna á Alþingi. Þessi tegund orðræðu er flótti frá málefninu sjálfu, sem er Orkupakki#3 (OP#3). Okkur varðar lítið um, hvað fyrrverandi framsóknarmenn og aðrir sögðu og gerðu á tímabilinu 2014-2016 og jafnvel fyrr, auðvitað á grundvelli upplýsinga og athugana, sem þá voru fyrir hendi um mál, sem opinberlega lá í þagnargildi. Það er afstaða manna hér og nú og stefnumörkun til framtíðar, sem máli skiptir. Þetta er samt snöggtum skárri málflutningur en sá, sem utanríkisráðherra temur sér, enda verður vart neðar komizt.
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ÞKRG, notar pistilpláss sitt á Vettvangssíðu Morgunblaðsins 11. ágúst 2019 til endurtekinnar lofgjarðar um OP#3 og heldur í raun uppteknum hætti að berja hausnum við steininn. Ekkert nýtt kemur fram hjá ráðherranum, og hún kemur ekki með nein frambærileg rök fyrir því, að Alþingi aflétti stjórnskipulegum fyrirvara af OP#3. Þessi einstrengingsháttur er þyngri en tárum taki fyrir Sjálfstæðisflokkinn, af því að óbreytt stefna forystunnar mun leiða til kollsteypu Sjálfstæðisflokksins, en að sjálfsögðu ekki sjálfstæðisstefnunnar, sem mun rísa upp sem fuglinn Fönix, þegar búið verður að leiðrétta kúrsinn í einstaka málum.
Pistil sinn hóf ÞKRG þannig:
"Þú, lesandi góður, getur valið af hverjum þú kaupir rafmagn. Þú getur farið á netið, hvenær sem er, gert verðsamanburð með einföldum hætti og skipt um orkusala á augabragði."
Ráðherrann þakkar OP#1 og OP#2 þetta, en með þeim var komið á samkeppni á sviði heildsölu og smásölu raforku, en rafmagnsflutningar urðu einokunarstarfsemi um allt land og dreifing til neytenda varð samkvæmt úthlutun sérleyfis á tilgreindum landsvæðum. Kerfi þessu var komið á með fjölgun og sérhæfingu fyrirtækja, þannig að þau minnkuðu og yfirbyggingin í heild jókst. Raforkugeirinn sjálfur var andvígur þessu á sinni tíð og varaði við kostnaðarhækkunum fyrir neytendur. Það hefur gengið eftir.
Á tímabilinu 2003-2018 hefur raunhækkun gjaldskráa orðið 7 %- 8 % samkvæmt ritgerð Ragnars Árnasonar, prófessors í hagfræði við HÍ, í skýrslu Orkunnar okkar frá ágúst 2019. Það er kaldhæðnislegt, að ÞKRG skuli tíunda þessa orkupakka sem sérstaka neytendavernd, af því að neytendur geti valið sölufyrirtæki. Þau eru fá og neytendum þess vegna aðeins boðið upp á fákeppni. Við íslenzkar aðstæður snýst neytendavernd upp í andhverfu sína með orkupökkunum, og um þverbak mun keyra með OP#3, og með OP#4 mun náttúruverndin heldur betur fá að finna fyrir Evrópuréttinum, sem setur nýtingu endurnýjanlegra orkulinda í forgang.
"Árið eftir [2000] aflétti Alþingi stjórnskipulegum fyrirvara við þessa ákvörðun [OP#1]. Það var heillaskref fyrir neytendur, sem hafa í dag valfrelsi, sem þeir höfðu ekki þá. Og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu, að aðskilnaður sérleyfis- og samkeppnisrekstrar hefði leitt af sér þjóðhagslega hagkvæmara raforkukerfi."
Eins og að ofan greinir, er þetta mjög málum blandið hjá ráðherranum, og málflutningur hennar veður á súðum innantómra fullyrðinga. Valfrelsið hefur ekki leitt til annars en óþarfa raunhækkana vegna þess, að dregið hefur úr hagkvæmni stærðarinnar og heildaryfirbygging vaxið. Hvernig í ósköpunum HHÍ kemst að því við þessar aðstæður, að aðskilnaðurinn hafi orðið þjóðhagslega hagkvæmur, er ráðgáta.
"Ótrúlegum ósannindum hefur verið haldið að fólki um, að þriðji orkupakkinn feli í sér grundvallarbreytingar á skipan orkumála hér á landi. Það er einfaldlega ekki satt. Þriðji orkupakkinn breytir engu um eðli þeirrar frelsis- og markaðsvæðingar á framleiðslu og sölu rafmagns, sem ákveðin var með fyrsta orkupakkanum fyrir tuttugu árum - og sem var í fullu samræmi við stefnumörkun og aðgerðir Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma, sem allar miðuðu að bættum hag neytenda."
Þarna fýkur moldin í logninu og ljóst, að höfundurinn er haldinn djúpstæðri vanþekkingu á viðfangsefni sínu, OP#3. Það er róttæk breyting, sem blasir við með OP#3. Orkusamvinna EES-ríkjanna breytist þá í Orkusamband með yfirþjóðlegu valdi yfir orkumálunum. Ekkert tiltökumál fyrir ESB-löndin, en óviðunandi breyting fyrir Ísland og Noreg vegna valdframsals til ESA/ACER. Orkusambandið er myndað með heimildum í Lissabonsáttmálanum, sem Ísland hefur aldrei undirgengizt. Æðsta eftirlits- og reglusetningarvald í raforkugeira Íslands verður í höndum ESB með ESA sem afritandi millilið fyrirmæla og upplýsinga. Þessi valdsmaður hefur hér verið nefndur Landsreglari (National Regulator). Þá var með OP#3 lagður grunnur að sameiginlegum orkumarkaði ESB, þótt tæpt hafi verið á millilandatengingum í formálsorðum OP#2. OP#3 snýst allur um millilandatengingar og innri markað orku.
"Voru þeir, sem þá stýrðu landinu, að afsala forræði á auðlindinni til Evrópusambandsins ? Nei, sannarlega ekki."
Orkupakkarnir fela í sér lögfestingu orkustefnu ESB í áföngum. Þegar EES-samningurinn var gerður 1991-1992, var rætt um orkusamvinnu á milli ríkjanna og hún sett í 4. viðauka samningsins. Með Lissabonsamninginum 2007 var stefnan mörkuð í átt að orkusambandi, og það var stofnað með OP#3. Orkusambandinu er stjórnað af ACER, sem er undir yfirstjórn Framkvæmdastjórnarinnar. Það er pólitískt nauðsynlegt að innleiða orkustefnu ESB í áföngum, af því að engin þjóð er tilbúin að afsala völdum yfir orkumálum sínum til Framkvæmdastjórnarinnar í einum rykk.
Með OP#3 myndast t.d skylda í stað valfrelsis til að innleiða markaðsstýringu raforkuvinnslunnar. Landsvirkjun neyðist þá til að gefa orkulindastýringu sína upp á bátinn. Hana er hins vegar nauðsynlegt að innleiða á landsvísu við íslenzkar aðstæður til að forðast orkuskort og viðvarandi seljendamarkað. Það mun Landsreglarinn ekki leyfa, því að orkulindastýring jafngildir opinberu inngripi, sem reglur "fjórfrelsisins" banna. Orkuvinnslufyrirtækin munu starfa með það eitt fyrir augum að hámarka tekjur sínar, en að treina vatn í miðlunarlónum eða að girða fyrir ofálag á virkjaðan jarðgufuforða verður aukaatriði í þessu fyrirkomulagi. Þetta verður afleiðingin af því að fórna forræði yfir orkulindunum til markaðarins undir reglusetningarvaldi ESB.
Svo kemur rúsínan í pylsuenda ráðherrans:
"Í þriðja orkupakkanum felst ekkert afsal á forræði yfir auðlindinni. Ekkert raunverulegt valdaframsal á sér stað, vegna þess að Ísland er ótengt. Engar erlendar stofnanir öðlast valdheimildir hér á landi við innleiðinguna. Allir fræðimenn, sem fjallað hafa um málið, eru sammála um, að innleiðingin standist stjórnarskrá."
Þetta er allt saman rangt hjá iðnaðarráðherra, enda rökstuðningur vesældarlegur, þ.e.a.s. "vegna þess að Ísland er ótengt". Það má kalla þetta "hundalógikk".
Eftirlits- og reglusetningararmur ACER á Íslandi, sem virðist eiga að hýsa innan vébanda Orkustofnunar og skapa þar með stórfellda hagsmunaárekstra þar innanbúðar, hér eftir nefndur Landsreglari, fær það sem sitt fyrsta hlutverk að koma hér á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar að fyrirmynd ESB, þótt þetta fyrirkomulag sé ófært um að tryggja hagsmuni neytenda við íslenzkar aðstæður, þar sem hér verður markaðsstýringunni bæði ætlað að sjá markaðinum fyrir nægu afli og nægri orku, en eldsneytismarkaðirnir sjá um hið síðar nefnda á meginlandinu.
Setjum sem svo, að Íslendingar mundu fremur kjósa þrautreynt kerfi við íslenzkar aðstæður, orkulindastýringu, sem hefur verið við lýði innan Landsvirkjunar áratugum saman, en þarf að útvíkka til alls landsins (orkuvinnslufyrirtækja) með lagaheimildum, enda óvíst, hversu lengi Landsvirkjun heldur núverandi markaðsstöðu sinni. Orkulindareglari þarf að fá lagaheimild til að treina vatnið í miðlunum vatnsorkuvera og til að takmarka álag á virkjaðan jarðgufuforða til að hámarka orkuvinnsluna til lengdar og forða landsmönnum frá orkuskorti.
Landsreglari mun að öllum líkindum ekki heimila þetta, því að það jafngildir opinberu inngripi í rekstur fyrirtækja á samkeppnismarkaði, sem er heilög kýr í heimi "fjórfrelsis" EES. Hvað þýðir þetta ? Það þýðir, að Íslendingar hafa misst forræði eigin orkulinda í hendur yfirþjóðlegs valds, ACER, sem stjórnar Landsreglara gegnum "leppinn" ESA (Eftirlitsstofnun EFTA).
Það er mjög frjálslega farið með staðreyndir að slengja því fram í pistli, að engir fræðimenn, sem fjallað hafa um málið, hafi efasemdir um, að það standist stjórnarskrá. Nægir að nefna skýrslu Friðriks Árna og Stefáns Más frá í vor, sem er ein samfelld aðvörun til Alþingis og ráðlegging um að senda OP#3 aftur til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Fréttir af fundi utanríkismálanefndar Alþingis með þessum lagasérfræðingum bendir til, að þeir gefi aðferð iðnaðarráðherra falleinkunn, þ.e. að leiða OP#3 í lög með reglugerð og taka þar fram, að ákvæði millilandatenginga komi ekki til framkvæmda fyrr en sæstrengur hefur verið lagður. Þetta er aðferð, sem býður upp á samningsbrotamál að dómi þeirra tvímenninganna.
Í lok pistils síns ritar ráðherrann, eins og hún sé úti á þekju:
"Fremur en að hverfa aftur til hafta og einokunar ættum við að mínu viti að horfa til framtíðar og freista þess að nýta kosti samkeppninnar enn betur en hingað til, í þágu neytenda, ásamt því að tryggja betur afhendingaröryggi og auka jafnræði varðandi dreifingarkostnað raforkunnar, eins og við höfum fullar heimildir til að gera."
Aðgerðir samkvæmt OP#1-2 til að efla samkeppni hafa því miður hingað til engan árangur borið fyrir neytendur. Þvert á móti hefur rafmagnsreikningur margra, einkum í dreifbýli, hækkað mjög mikið umfram verðbólgu síðan 2003 og um 7 % - 8 % að raunvirði að jafnaði yfir landið allt. Með OP#3 mun keyra um þverbak, því að þá verður tekin upp markaðsstýring raforkuvinnslunnar, sem hafa mun skelfilegar afleiðingar fyrir hag allra raforkunotenda á Íslandi. Mikil er ábyrgð þeirra, sem ætla að böðlast áfram með þetta mál þrátt fyrir alvarlegar aðvaranir.
Dreifingarkostnaður landsbyggðarinnar er hneyksli, en á eftir að hækka umtalsvert, þegar Landsreglarinn fer að gefa út reglur sínar um útreikninga gjaldskráa. Ef ráðherrann heldur, að hún geti loks eftir dúk og disk farið að hafa áhrif á þessa verðlagningu, eftir að hún hefur afhent Landsreglaranum völdin með innleiðingu OP#3, þá ætti hún að líta til Svíþjóðar og skoða tugprósenta hækkun hjá dreifiveitum, eftir að Landsreglari Svíþjóðar tók til starfa. Þar ætlaði ráðherra að grípa inn og láta lækka gjaldskrána. Hann var gerður afturreka með bréfi frá Framkvæmdastjórninni og hótun um málssókn fyrir ESB-dómstólinum. Þannig fór um sjóferð þá. Það eiga ýmsir eftir að iðrast innleiðingar á OP#3.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)