Færsluflokkur: Dægurmál

Musteri óttans við Rauðará

Ekkert lát er á hræðsluáróðri utanríkisráðuneytisins um voveiflegar afleiðingar þess, að Alþingi notfæri sér samningsbundinn rétt sinn í EES-samninginum til að neita því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af EES-samninginum.  Utanríkisráðherra hefur haldið fjarstæðum fram, sem hér verða gerðar að umræðuefni, og einn aðstoðarmanna hans bætt um betur, t.d. á Snjáldru (FB).  Þá hefur iðnaðarráðherra gert sig seka um fjarstæðukenndan málflutning nýlega í viðtali við vel upplýstan spyril á Harmageddon.  Þar óð iðnaðarráðherra á súðum.  Traust til hennar sem ráðherra orkumála óx ekki við að hlýða á þá grunnfærni.

  1. Synjun sé fordæmalaus og upphaf óvissuferðarÞetta er ósatt, eins og Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur rakið.  Fordæmi um að hafna tillögu ESB um upptöku tilskipunar í EES-samninginn er frá því snemma á þessum áratugi.  Þá var við völd í Noregi ríkisstjórn AP-SP-SV.  Frétzt hafði af mikilli andstöðu SP og SV við Pósttilskipun IV, sem ESB ætlaði að leggja fyrir Sameiginlegu EES-nefndina til samþykktar. Framlagningunni var því frestað. Síðan var andstaða samþykkt á Landsfundi AP, Verkamannaflokksins, og þá gaf norska ríkisstjórnin út yfirlýsingu um andstöðu við Pósttilskipun IV.  Norski utanríkisráðherrann fór síðan til fundar við ESB og EFTA og tilkynnti, að Norðmenn myndu ekki fallast á tilskipunina. Hún var þess vegna ekki lögð fyrir Sameiginlegu EES-nefndina, og engar frekari ráðstafanir gerðar að hálfu EFTA eða ESB.  Þótt OP#3 hafi verið samþykktur í Sameiginlegu EES-nefndinni, breytir það engu um skýlausan rétt Alþingis til að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara, sem er á þessari samþykkt.  Að bera brigður á þetta er bjarnargreiði við EES-samninginn.  Þau, sem reka hamslausan hræðsluáróður um afleiðingar höfnunar Alþingis, grafa í raun undan trausti almennings á þessum samningi og samstarfsaðilum Íslendinga innan EES.  Það er hráskinnaleikur.
  2. Er líklegt, að viðbrögð ESB verði öðruvísi gagnvart Íslendingum í orkupakkamálinu ?: Þá er vænlegt að spyrja, eins og Rómverjar forðum: "Cuo bono"-hverjum væri það í hag ?  Það er engum í hag að setja EES-samstarfið í uppnám, með því að ESB fari út fyrir samningsbundnar heimildir sínar til gagnráðstafana, og líklegast er, að þær verði engar, eins og í tilviki Norðmanna um árið.  Aðalatriðið er, að samkvæmt EES-samninginum eru það aðeins atriði í núverandi samningi, sem eru náskyld OP#3 eða OP#3 mundi leysa af hólmi, sem mætti ógilda, þ.e.a.s. þættir í OP#2, s.s. gasmarkaðstilskipun 2, raftilskipun 2, gerð 1775/2005 (gasflutningar) og gerð 1228/2003 (stofnrafkerfi að og frá flutningsmannvirkjum á milli landa). Ef ESB fer út fyrir heimildir gagnráðstafana, sem fyrirskrifaðar eru í EES-samninginum, brýtur Evrópusambandið EES-samninginn og hægt verður þar með að stefna því fyrir EFTA-dómstólinn.  Það má nánast útiloka, að ESB leggi í þá óvissuferð, enda getur ESB ekkert haft upp úr krafsinu.  Allar getgátur um slíkt hérlendis eru eintómir hugarórar, viðkomandi embættismönnum og þingmönnum o.ö. til minnkunar.
  3. Terje Söviknes, orkuráðherra Noregs, staðfesti í skriflegu svari til Stórþingsins 5. marz 2018, að það er aðeins sá hluti EES-samningsins, sem hefði tekið breytingum eða horfið við innleiðinguna, sem hugsanlega verður ógiltur af ESB.  Ráðherrann skrifaði síðan: "Spurningin um, hvaða hluta viðaukans málið snertir beint, er stjórnmálalegt viðfangsefni, sem ekki er hægt að fá úrskurð um fyrir EFTA- eða ESB-dómstólinum."  Með öðrum orðum skulu málsaðilar finna sameiginlega lausn á þessu í samningaviðræðum.  Túlkun íslenzka utanríkisráðuneytisins á þessu er hins vegar fyrir neðan allar hellur, hrein ímyndun og hræðsluáróður, sem þingmenn margir hverjir hafa kokgleypt.  
  4. Stendur íslenzkum fyrirtækjum einhver ógn af því, að Alþingi neiti að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara ?  Nei, alls engin, og um þetta hafa verið skrifaðar lærðar ritgerðir í Noregi um áhrifin á norskan útflutningsiðnað.  Verður gerð nánari grein fyrir málinu á eftir þessum tölulið pistilsins.  Skörin hefur færzt upp í bekkinn, þegar utanríkisráðuneytið gerir því skóna, að íslenzk útflutningsfyrirtæki sjálfvirkra vinnslukerfa á borð við Marel, Skagann, 3X, Völku o.fl. muni verða fyrir einhvers konar tæknilegum viðskiptahindrunum að hálfu ESB vegna þess, að ESB muni fella úr gildi ákvæði í Viðauka IV, sem hafa engan skyldleika við OP#2 eða OP#3, s.s. kvaðir um orkumerkingar.  Það hefur farið framhjá ráðuneytinu, að þessar kvaðir eiga einvörðungu við um heimilisraftæki.  Er það mjög ámælisvert hjá ráðherranum og aðstoðarkonu hans að fara á flot með slíka endemis vitleysu, en dæmið sýnir, að á þeim bænum helgar tilgangurinn meðalið, þegar verjendur slæms málstaðar eru orðnir rökþrota.  

Stjórnmálamenn, sem dásama gjarna EES-samninginn, nefna þá gjarna, að samkvæmt honum þurfi ekki að taka upp allar gerðir og tilskipanir ESB.  Utanríkisráðherra tönnlast gjarna á hlutfallinu 13,5 %.  Talning gefur þó skakka mynd af hlutfallslegum áhrifum.  Nær væri að taka  umfangið og reyna að meta inngripið í þjóðlífið, t.d. kostnað vegna stjórnsýslu og kvaða á atvinnulífið, og umfang valdframsals til ESB. 

Í þessu sambandi er lykilatriði, að EES-samningurinn áskilur EFTA-ríkjunum skýlausan rétt á að hafna lagabálkum ESB, annaðhvort í Sameiginlegu EES-nefndinni eða í þjóðþingunum.  Að láta eins og með þessu sé lagt upp í einhverja óvissuferð er fáránleg tilraun til að slá ryki í augu almennings, því að neitunarvaldið var grundvöllur þess, að Alþingi samþykkti EES-samninginn 1993. Neitunarvaldið er skráð í EES-samninginn, gr. 93, og í Samninginn um fastanefnd EFTA, gr. 6.  Án neitunarvalds hefði löggjafarvald Alþingis verið framselt ESB 1993 við samþykkt EES-samningsins.  Hræðsluáróður  iðnaðarráðherra o.fl. í þessa veru er mjög ótraustverður og í raun kjánalegur. Trúir hún eigin vitleysu ? 

Líklegast er, að Evrópusambandið sætti sig við það, að Alþingi neiti að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara við samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar án nokkurra sérstakra mótaðgerða.  Hvers vegna ?  Þar vegur nokkuð sjónarmið um fyrirsjáanleika, sbr norska fordæmið, og hlýðni við samninginn.  Gr. 3 í EES-samninginum leggur samningsaðilum á herðar þá skyldu að sýna samninginum hollustu, og enginn samningsaðila, heldur ekki sá stóri (ESB), má skapa vandræði í samstarfinu.  Þetta styður það, að haft verði að leiðarljósi, að hugsanlegar gagnráðstafanir ESB hreyfi sem minnst við innihaldi og virkni EES-samningsins.  Með öðrum orðum: núverandi frjálsu viðskipti skulu haldast.  

ESB má ekki og getur ekki samkvæmt EES-samninginum hafið einhvers konar refsiaðgerðir gegn Íslandi, en getur gert tillögu í Sameiginlegu EES-nefndinni um ógildingu þess hluta EES-samningsins, sem hefði breytzt við innleiðingu OP#3 (ógilding, gr. 102). Þetta er til að jafna út ávinning Íslands af að hafna innleiðingu viðkomandi tilskipunar eða reglugerðar.  Aðalsamningurinn og bókanirnar gilda áfram.  Reglurnar um m.a. frjáls vöruviðskipti og bannið við aðgerðum gegn undirboðum verða áfram í gildi.

 Öllum tilskipunum og reglugerðum í EES-samninginum er raðað á kerfisbundinn hátt í 22 viðauka eftir efni.  Orka er í viðauka #4.  Þar verður Þriðja orkupakkanum með ACER-gerðinni, sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar, skipað niður, ef þau mistök verða framin að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum.  Það er EES-nefndin, sem ákveður, hvort og hvaða þætti samningsins á að ógilda.  Þar eru EFTA, þ.e.a.s. Ísland, Noregur og Liechtenstein ásamt ESB, jafngildir aðilar, og samþykkt krefst samþykkis allra.  

Orkustofnun ESB er tiltölulega ný af nálinni, og engin samningsákvæði til um hana í núverandi EES-samningi.  ACER-gerðin breytir þess vegna ekki núverandi EES-regluverki.  Þannig snertir ekkert í núverandi samningi höfnun á OP#3.  Þótt ESB myndi krefjast ógildingar á þáttum í núverandi orkuregluverki og EFTA-löndin samþykkja, mundu íslenzk fyrirtæki án nokkurs vafa geta starfað með öllu hindrunarlaust áfram í þeim EES-löndum, þar sem þau hafa starfsemi nú eða viðskipti.  Hið sama á við um fyrirtæki frá hinum EES-löndunum, sem nú reka einhvers konar starfsemi á orkusviðinu á Íslandi.  EES-samningurinn á að verja áunnin réttindi fólks og fyrirtækja, sbr gr. 102:

"Réttindi og skyldur, sem fólk og markaðsaðilar þegar hafa áunnið sér samkvæmt þessum samningi, skulu áfram verða við lýði."

    

 


Gaukseggið og óvissan

Hugmyndin í lögfræðilegri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) (tæplega 8 línur í 43 blaðsíðna ritgerð), sem utanríkisráðherra reisir síðan þingsályktunartillögu um Þriðja orkupakkann (OP#3) á, er af öllum sólarmerkjum að dæma aðskotadýr í annars ágætri skýrslu, afrakstur fjölda funda með lögfræðingaher utanríkisráðherra og hinum prýðilegu skýrsluhöfundum.  Gauksegg þetta kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í téða skýrslu, er sannkallaður gallagripur og skapar stórskaðlega réttaróvissu hérlendis, sem getur reynzt ríkissjóði og landsmönnum öllum dýr áður en yfir lýkur.  Þingmenn, sem leiða munu þessi ósköp yfir þjóðina, eru engir bógar til að rísa undir ábyrgðinni og ættu að hugsa sig um tvisvar áður en þeir láta til leiðast.  Þeir gera sig með því seka um óafsakanlega vanrækslu í hinni eilífu hagsmunagæzlu fyrir þjóðina út á við.

Réttaróvissan skapast af tvennu, eins og fram kemur í skýrslunni:  

Í fyrsta lagi er það Stjórnarskrárbrot að samþykkja lagasmíð, sem stenzt ekki Stjórnarskrá, þótt svo standi á við lögfestinguna, að hin brotlegu lög eigi ekki við, þ.e. að enginn sæstrengur sé fyrir hendi.  Höfundar skýrslunnar segja, að miða verði við þá stöðu, að sæstrengur muni koma, og þess vegna verði að útkljá Stjórnarskrárviðfangsefnið fyrst.  Á þessum grundvelli munu hagsmunaaðilar geta látið reyna á réttmæti afléttingar hins stjórnskipulega fyrirvara og lögfestingu á OP#3 með fyrirvaranum. Þá lendum við jafnvel í umfangsmeiri málaferlum út af OP#3 en Norðmenn núna.

Í öðru lagi má ekki innleiða samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar í landslög með breytingu, eins og fyrirvari utanríkisráðherra felur í sér.  Það er brot á EES-samninginum, kafla 7.  Umræður á norska Stórþinginu um haldleysi heimalagaðrar íslenzkrar undanþágu ýta undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) að fetta fingur út í þessa undanþágu, og hagsmunaaðilar geta líka kært hana fyrir íslenzkum dómstóli.  Þetta leiðir af kröfunni um einsleita framkvæmd ESB-gerða í EES.

Undanþágan hangir á lögfræðilegum bláþræði.  Fari allt á versta veg, hefur Alþingi orðið sér til minnkunar fyrir að trúa vitleysunni úr utanríkisráðherra, og landsmenn sitja uppi með ESB-lög í lagasafni sínu, sem vel kunna að verða fundin brotleg við Stjórnarskrá fyrir íslenzkum dómstólum.  Þá er komin upp stjórnlagakreppa í landinu, því að ESB-lög eru æðri bæði íslenzkum lögum og Stjórnarskrá , þar sem þau greinir á, og innleiðing ESB-gerða er óafturkræf.  Við þessar aðstæður eru aðeins 2 leiðir færar: að breyta Stjórnarskrá eða að segja upp EES-samninginum.  Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.

Lagasérfræðingarnir orða fyrra atriðið þannig í skýrslu sinni:

"Með vísan til framanritaðs er það álit höfunda, að ekki séu að óbreyttu forsendur til þess, að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, sbr 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins, nema tryggt sé, að reglugerð nr 713/2009 verði innleidd í íslenzkan rétt á þann hátt, að samræmist stjórnarskránni, sjá nánar kafla 4.1 og 4.3.3."

Sú aðferð, sem utanríkisráðherra hefur valið í þingsályktunartillögu sinni um innleiðingu OP#3, samræmist ekki Stjórnarskránni, ef marka má álitsgerð FÁFH og SMS, því að þeir skrifa í 4.1, að ákvörðun Alþingis um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara verði að miða við, "að grunnvirkjum yfir landamæri verði komið á fót hér á landi".  Þar með er innleiðing að þeirra mati Stjórnarskrárbrot, þrátt fyrir fyrirvara um samþykkt Alþingis á, að leggja megi sæstreng til Íslands.  Lögfræðingarnir hnykkja á þessari niðurstöðu sinni í lok gr. 4.1:

"Verður því að hafna því sjónarmiði [lögfræðingahers utanríkisráðuneytisins-innsk. BJo], að álitaefni tengd valdframsali til ESA skipti ekki máli á þessu stigi, þar sem grunnvirki yfir landamæri eigi enn eftir að líta dagsins ljós hér á landi, og því sé Alþingi fært að að samþykkja þriðja orkupakkann, hvað svo sem líði stjórnskipulegum álitaefnum varðandi valdframsal til ESA."

Þetta orðalag bendir til, að höfundar skýrslunnar hafi lent í rökræðum og jafnvel orðaskaki við lögfræðingaher utanríkisráðuneytisins, og er það mjög ámælisverð verkstjórn að hálfu utanríkisráðherra, ef satt er.  Hafi þá orðið úr að skilyrða gildistöku hinnar umdeildu gerðar nr 713/2009 við framtíðar lagaheimild Alþingis um lagningu sæstrengs og úrlausn Stjórnarskrárvandans.  Þar er þá komin skýringin á gauksegginu í hreiðri höfunda skýrslunnar.  Þeir hnýta þó þar við, að gaukseggið sé eigi gallalaust, og er það eins vægt að orði komizt og hugsazt getur.  Er "understatement" ársins.  Hver er þá gallinn ?

Hann er sá, að umgetinn varnagli hangir á bláþræði geðþótta Evrópusambandsins.  Þegar ESB hentar, getur Framkvæmdastjórnin kvartað við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) eða bent t.d. sæstrengsfjárfesti á að kvarta við ESA út af innleiðingu OP#3 í landsrétt, sem brýtur í bága við EES-samninginn, kafla 7, sem kveður á um undanbragðalausa innleiðingu gerða ESB, eins og Sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt þær.  Þar með fellur varnagli ríkisstjórnar og Alþingis eins og spilaborg.  Það var aldrei um annað að ræða en trúðslega tilburði utanríkisráðherrans með Pótemkíntjöld hér innanlands.  Margir hafa látið blekkjast af Pótemkíntjöldum bæði fyrr og síðar, en falli þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í þessa gildru, mun Sjálfstæðisflokkurinn ganga með böggum hildar til næstu kosninga og væntanlega ekki bera sitt barr fyrr en hann hefur bætt ráð sitt með einhverjum hætti.  

Hvað skrifa hinir mætu skýrsluhöfundar um þennan "galla".  Það gefur að líta í grein 6.4:

"Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana) [eins og þingsályktunartillagan fjallar um-innsk. BJo], þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. gr. EES-samningsins. Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.  Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. gr. reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar þriðja orkupakkans, ef því er að skipta) standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar."   [Undirstr. BJo.]

Þessi mikilvæga niðurstaða skýrsluhöfundanna hefur ekki verið véfengd.  Lagalegur varnagli Alþingis heldur ekki, því að þar sem lög landsins og ESB-rétturinn stangast á, þar skal ESB réttur ráða.  EES-samningurinn kveður á um þetta, og það eiga Alþingismenn að vita.  Alþingi mun baka landsmönnum þjóðréttarlega skyldu til að innleiða OP#3 undanbragðalaust, ef það afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af honum.

  Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er þess vegna í raun og veru um það að innleiða OP#3, eins og hann kom til Íslands frá Sameiginlegu EES-nefndinni, og það er Stjórnarskrárbrot samkvæmt skýlausri niðurstöðu FÁFH og SMS.  Skýrsluhöfundarnir sjá fyrir sér, að Alþingi verði knúið til að fella fyrirvarann úr gildi, og þess vegna taka þeir fram, að leysa verði Stjórnarskrárvandann áður en innleiðingin á sér stað. Að öðrum kosti mun skapast hér réttaróvissa, þar til dómstóll hefur dæmt um það, hvort OP#3 standist Stjórnarskrá eður ei.

Framferði utanríkisráðherra er eins slæm stjórnsýsla og hugsazt getur.  Framferðið bitnar á samstarfi okkar við bæði EFTA-þjóðirnar og ESB.  Verst er þó, að með þessu ráðslagi verður gert skylt að aðlaga stefnumörkun um ráðstöfun íslenzkra orkulinda að innri orkumarkaði Evrópusambandsins.  ESB mun geta beitt Íslandi til að hjálpa Sambandinu til við að ná markmiðum sínum í orkumálum.  Þar sem hagsmunir Íslands og Evrópusambandsins fara alls ekki saman á þessu sviði fremur en á sviði fiskveiðistjórnunar og nýtingar sjávarauðlindanna, er hér verið að stofna til stórfelldra hagsmunaárekstra og ófriðar. 

Þar sem fullveldi landsins á sviði raforkumála verður fórnað með samþykki OP#3, rænir Alþingi landsmenn sínu beittasta vopni í viðureigninni við ESB um orkuauðlindirnar.  Aflétting hins stjórnskipulega fyrirvara verður óafturkræf, svo að eina ráðið til að öðlast yfirráð orkumálanna að nýju verður uppsögn EES-samningsins.  Að neyðast til þess í ágreiningi við Evrópusambandið er hið versta mál.  Slík uppsögn, ef til hennar kemur, þarf að gerast í vinsamlegu andrúmslofti í kjölfar gerðar víðtæks fríverzlunarsamnings, helzt á milli EFTA og ESB.  Umrædd þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er argasta glapræði, og samþykkt hennar mun draga langan ógæfuslóða á eftir sér.  

 

 

 

 

 

 

 

 


Ólögmætt framsal valds yfir orkukerfinu

Lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst (FÁFH) og Stefán Már Stefánsson (SMS) skiluðu greinargóðri skýrslu til verkkaupans, utanríkisráðuneytisins, þann 19. marz 2019 "um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB".   

Viðfangsefnið var nánar til tekið, "hvort það standist ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr 33/1944, að ESA sé falið vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir um grunnvirki yfir landamæri, sem haft geta bein og óbein áhrif á hagsmuni einstaklinga og lögaðila hér á landi, svo og almannahagsmuni, tengda raforkukerfinu og nýtingu þess".

Hér kveður strax við annan en tón en þær innantómu fullyrðingar margra ráðamanna, lögfræðinga og stjórnmálamanna, að ekkert valdaafsal felist í samþykkt Þriðja orkupakkans.  Gagnvart EFTA-löndunum er, eins og kunnugt er, til málamynda gert ráð fyrir, að ESA fari með völd ACER-Orkustofnunar ESB, m.a. valdheimildir, sem ESA eru veittar í reglugerð 713/2009 um "lagalega bindandi ákvarðanir, er varða grunnvirki yfir landamæri".  Utanríkisráðuneytið hefur aldrei komið auga á hættuna, sem í þessu felst, og er enn við sama heygarðshornið. Nú hefur það ákveðið að hundsa eftirfarandi meginniðurstöðu hinna mætu lögspekinga í téðri skýrslu:

"Með vísan til framanritaðs er það álit höfunda, að ekki séu að óbreyttu forsendur til þess, að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, sbr 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins, nema tryggt sé, að reglugerð nr 713/2009 verði innleidd í íslenzkan rétt á þann hátt, að samræmist stjórnarskránni, sjá nánar kafla 4.1 og 4.3.3."

Skoðun höfundanna á þeirri fráleitu aðferðarfræði, sem felst í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í landslög, kemur einmitt fram í grein 4.1, sem þeir vísa til og veitir þingsályktunartillögu utanríkisráðherra í raun og veru falleinkunn, hvað sem öðru líður:

"Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði, sem ekki fá staðizt íslenzka stjórnarskrá, þó að svo standi á, að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn.  Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt, að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna, sem tengjast þriðja orkupakkanum, nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.

Verður því að hafna því sjónarmiði, að álitaefni, tengd valdframsali til ESA, skipti ekki máli á þessu stigi, þar sem grunnvirki yfir landamæri eigi enn eftir að líta dagsins ljós hér á landi, og því sé Alþingi fært að samþykkja þriðja orkupakkann, hvað svo sem líði stjórnskipulegum álitaefnum varðandi valdframsal til ESA. Vikið verður nánar að þessu atriði hér síðar."

Utanríkisráðherra göslast samt áfram með þingsályktunartillögu sína, sem snýst einmitt um að innleiða orkubálk #3 í landsrétt, en setja síðan lög, sem eiga að gera gerð 713/2009 óvirka, þar til stjórnlagavandinn hefur verið gerður upp, og þar til Alþingi ákveður, að lagður skuli sæstrengur.

Leið utanríkisráðherrans er rökleysa og lögleysa, hún mun verða okkur til hneisu í EES-samstarfinu við EFTA og ESB, og hún mun baka íslenzka ríkinu stórfelldar skaðabótakröfur, því að Alþingi mun efna til mikillar réttaróvissu með því að fara leið utanríkisráðherrans. Þetta er algerlega óafsakanlegt ábyrgðarleysi. 

Hvers vegna utanríkispólitísk hneisa ?  Það er vegna þess, að EES-samningurinn, kafli 7, er brotinn með því að innleiða gerð í landsrétt, samþykkta af sameiginlegu EES-nefndinni, en með skilmálum síðar í landslögum.  Þetta er fordæmi, sem stríðir gegn anda EES-samningsins, og verður væntanlega ekki látinn óátalinn af ESA, enda getur hvaða hagsmunaaðili sem er kvartað undan þessu við Eftirlitsstofnunina. 7. kaflinn, sem vitnað er til, hljóðar þannig:

"Gerðir, sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila, og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir: a) gerð, sem samsvarar reglugerð EBE, skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila; b) gerð, sem samsvarar tilskipun EBE, skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina." 

Í þessu sambandi getur vart skipt máli, hver staðan er, þegar innleiðingin á sér stað, í þessu tilviki enginn millilandaaflstrengur fyrir hendi.  Það er alveg ljóst, að Evrópusambandið, sem hungrar eftir raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og leggur í 4. orkupakkanum sérstaka áherzlu á að tengja jaðarsvæði Evrópu við stofnkerfi meginlandsins í þungamiðju iðnaðarins, mun verða þess hvetjandi, að hagsmunaaðilar, t.d. sæstrengsfjárfestar, muni láta reyna á þessar heimalöguðu undanþágur Íslendinga.  Þessar "undanþágur" eru algerlega fordæmalausar í EES-samstarfinu og grafa undan starfsemi Sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem segja má, að sé kjarninn í samstarfi EFTA og ESB vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Að leggja upp með innleiðingu á reglugerðum og tilskipunum ESB á Íslandi á sviði millilandatenginga fyrir raforku á þvílíkum brauðfótum, sem hér hefur verið lýst, er forkastanlegt og fordæmanlegt.  Málið er af slíkri stærðargráðu, að það getur skipt sköpum um afstöðu margra til ríkisstjórnar og stjórnmálaflokka.  Eru ríkisstjórnarflokkarnir tilbúnir til að greiða pólitískt ofurgjald fyrir mál, sem hefur enga kosti í för með sér, hvorki pólitíska né fjárhagslega fyrir þjóðarbúið ?  Ef svo er, þá er áreiðanlega maðkur í mysunni.  Sá maðkur þolir ekki dagsljósið, en það verður "engin miskunn hjá Magnúsi".

 

 

 

 


Sálarháski þingmanna

Ef þingmenn stjórnarflokkanna hafa látið tælast af fagurgala ráðherra um, að innleiðing Orkupakka #3 sé í góðu lagi m.v. öll lögfræðiálit um málið, sem fyrir hendi eru, þá ættu þeir að lesa sem fyrst Álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar frá 19. marz 2019.  Þar kveður við allt annan tón.  Þann tón skynjar líklega almenningur sem þann tærasta og bezta, sem fram hefur komið hjá innlendum lögfræðingum opinberlega í þessu orkupakkamáli.  Ef Alþingismenn ætla að breyta allt öðruvísi en ráðlagt er í þessari Álitsgerð, þá munu þeir lenda í alvarlegum hremmingum heima í kjördæmi sínu, ef marka má tæplega ársgamla skoðanakönnun, sem fram fór um Þriðja orkupakkamálið.

Dæmi úr grein 6.2 í Álitsgerðinni:

"Jafnvel þó að lagt væri til grundvallar, að ákvarðanir ESA beindust einungis að innlendum eftirlitsstjórnvöldum (t.d. Orkustofnun), þá verður engu að síður að hafa í huga, að ákvörðunarvald hinnar erlendu stofnunar samkvæmt reglugerð nr 713/2009 tekur a.m.k. óbeint til skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar. Slíkt valdframsal getur ekki talizt minni háttar í skilningi viðmiðana, sem líta ber til við mat á stjórnskipulegu lögmæti valdframsals til alþjóðlegra stofnana á sviði EES-samningsins. Þessu má, með einhverri einföldun, líkja við, að ESA væri falið vald til að ákveða leyfilegan hámarksafla ríkja á sviði sjávarútvegs.  Af framangreindum ástæðum, og þar sem umrætt valdframsal til ESA lýtur að nýtingu og ráðstöfun orkuauðlinda, verður valdheimildum ESA samkvæmt reglugerð nr 713/2009 ekki jafnað til áþekkra valdheimilda, sem ESA hefur fengið eftir gildistöku EES-samningsins, s.s. á grundvelli reglna um fjármálamarkaði, flugöryggi og losunarheimildir."

Hér eru komin nauðsynleg og nægjanleg rök fyrir Alþingismenn til að hafna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, því að með henni verður gerð 713/2009 leidd í landsrétt, og síðari löggjöf um, að 713/2009 taki ekki gildi, nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, er lögleysa, brot á EES-samninginum, kafla 7, og hefur ekkert réttarlegt gildi gagnvart ESA og EFTA-dómstólinum, þegar þessir aðilar fá deilumál út af þessum gjörningum Alþingis til úrlausnar og dómsuppkvaðningar.  Í þessu verður sálarháski þingmanna fólginn.

Þingmenn hafa verið blekktir hrapallega af ráðherrum og embættismönnum. 

Dæmi 1:

"Einu áhrifin hér á næstu árum, sem við verðum vör við, er tilvist nýrrar, sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar, sem skorin er út úr Orkustofnun (en verður í sama húsnæði)". 

Landsreglarinn verður æðsti embættismaður landsins á sviði orkumála. Hann fer í raun með ráðherravald á þessu sviði, en verður óháður ríkisvaldinu og öllum hagsmunaaðilum í landinu.  Landsreglarinn mun lúta boðvaldi ESA, en drög að öllum helztu ákvörðunum og fyrirmælum til hans verða samin hjá ACER-Orkustofnun ESB.  Ísland mun ekki hafa atkvæðisrétt í ACER, heldur áheyrnarrétt og málfrelsi.  Fyrir þjóð, sem vill ekki vera í ESB, er valdframsal af þessu tagi til ESB yfir raforkumálum landsins, gjörsamlega óviðunandi.

Dæmi 2:

"Gildistöku ákvæða, sem varða tengingu við sameiginlegan orkumarkað ESB, er í reynd frestað.  Þau taka ekki gildi fyrr en og ef a) Alþingi ákveður að leggja raforkusæstreng og b) stjórnskipulegri óvissu hefur verið eytt."

Hér er fölsku öryggi hampað.  Það er engin frestun á ferðinni, af því að með þingsályktunartillögunni er allur Orkupakki #3 innleiddur, óafturkræft samkvæmt EES-samninginum, sem þýðir, að innlend takmarkandi löggjöf á þessa innleiðingu hefur ekkert gildi að Evrópurétti og er reyndar brot á EES-samninginum, 7. kafla.  Þetta er lögfræðilega algerlega haldlaus leið, og það kemur fram í téðri álitsgerð lögfræðinganna tveggja, gr. 6.4.  Í þessari álitsgerð kemur jafnframt fram, að engin heimild er í lögum til að innleiða stjórnlagaleg vafaatriði, þótt svo standi á, að ekki reyni strax á þau.

Dæmi 3: 

"Það er algerlega á valdi íslenzka ríkisins að taka ákvörðun um, hvort raforkusæstrengur verður lagður.  Einungis Alþingi getur tekið slíka ákvörðun."

Þarna stendur nú einmitt hnífurinn í kúnni.  Með samþykkt Orkupakka #3 fer fram valdframsal ríkisins til ESA/ACER/ESB til að ákveða, hvort aflsæstrengur verður lagður, og þess vegna er bægslagangurinn með frávikslöggjöf í kjölfar innleiðingarinnar.  Sú löggjöf verður hins vegar brot á EES-samninginum og fellur þar með dauð og ómerk frammi fyrir ESA og EFTA-dómstólinum.  Þingmenn verða að fara að átta sig á, að samkvæmt Evrópurétti víkja landslög og Stjórnarskráin fyrir ESB-samninginum í tilviki ágreinings.  

Dæmi 4: 

"EES-samningurinn hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar.  Þetta kemur skýrt fram í 125. grein samningsins.  Af því leiðir, að EES-samningurinn haggar ekki forræði íslenzka ríkisins á náttúruauðlindum í þeim skilningi, að Ísland hefur heimild til þess að ákveða, hvort náttúruauðlindir skuli vera í eigu ríkisins eður ei."

Hér er margs að gæta.  Fyrst er þar til að taka, að EFTA-dómstóllinn hefur dæmt gegn norska ríkinu í s.k. "heimfallsmáli", þar sem sett voru lög um, að vatnsaflsvirkjun einkaaðila félli án kvaða í hendur ríkisins að tilteknum tíma liðnum.  Þetta var úrskurðuð óleyfileg eignaupptaka að hálfu norska ríkisins.  Íslenzka ríkið mætti sennilega setja lög, EES-samningsins vegna,um, að allar orkulindir Íslands skyldu verða í þjóðareign, eins og fiskimiðin, en það er hins vegar ekki ætlun meirihluta þingsins.  Samkvæmt EES-samninginum má ekki mismuna fyrirtækjum innan EES um aðgang til nýtingar íslenzkra orkulinda, og ríkið á ekki að hafa neinn forgang í þeim efnum.  Því fer þess vegna fjarri, að íslenzka ríkið hafi óskipta stjórn á orkulindunum, og "reglugerð 713/2009 tekur a.m.k. óbeint til skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar" að mati lögfræðinganna FÁFH og SMS. Orkulindirnar sjálfar eru í húfi.

Dæmi 5: 

"Við drögum umsókn Landsvirkjunar um "Ice-Link" til baka, og hann hverfur af kortum."

Þetta mál er ekki svona einfalt.  Það eru samtök orkuflutningsfyrirtækja í Evrópu, sem gera tillögu um millilandatengingar, ACER raðar þeim í forgangsröð og framkvæmdastjórn ESB staðfestir.  "Ice-Link" er nú á PCI-forgangslista #3, og það er ekki hægt að taka hann þaðan út.  PCI#4 verður afgreiddur 2020, og það er fyrirskrifað í Innviðagerð 347/2013, sem bíður tilbúin til umræðu í Sameiginlegu EES-nefndinni, hvernig meðhöndla á breytingartillögur. Bréf frá ríkisstjórn Íslands er aðeins eitt innlegg í málið, en alls ekki ákvarðandi. (Barnaskapur utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra ríður ekki við einteyming.)

Ríkisstjórnir EFTA-landanna vega ekki sérlega þungt í þessu ferli.  Halda menn, að framkvæmdastjórn ESB, sem þessu ræður, muni líta vinsamlega á slíka beiðni frá Íslandi, sem á sama tíma lýsir yfir vilja til að sameinast innri raforkumarkaði ESB (með samþykki pakkans), en vill samt eyða áætlunum um slíkt (í Kerfisþróunaráætlun ESB).  Það rekur sig hvað á annars horn hjá stjórnarþingmönnum og ríkisstjórn í þessu máli.  Slíkur málatilbúnaður er afar ótraustvekjandi bæði inn á við og út á við.  

Hafna ber Orkupakka #3.  Þá verður hægt að ræða undanþágur við hann, sem duga, á réttum vettvangi.  

 

 

 

 

 

 

 


Þingsályktunartillaga í blekkingahjúpi

Margir þingmenn vaða í villu og svíma um afleiðingar samþykkis við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um Þriðja orkupakkann. Þeir halda jafnvel, að lögfræðileg "Álitsgerð um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB", eftir Friðrik Árna Friðriksson Hirst og Stefán Má Stefánsson, sé grundvöllur þess lögfræðilega klúðurs, sem þingsályktunartillagan er.  Því fer víðs fjarri og er ein af blekkingunum, sem haldið er á lofti að hálfu þeirra ráðherra, sem hér eiga hlut að máli.  þessu til sönnunar er nóg að benda á grein 6.4 í téðri álitsgerð:

"Fram hefur komið, að ekki standi til að innleiða 8. grein reglugerðar nr 713/2009 í landsrétt, jafnvel þótt þriðji orkupakkinn væri tekinn upp í EES-samninginn (að undangengnu samþykki Alþingis á fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017), þar sem Ísland sé ekki tengt við innri orkumarkað ESB (t.d. gegnum sæstreng).  

Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. grein EES-samningsins.  Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.  Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. grein reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar orkupakkans, ef því er að skipta), standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar."

Utanríkisráðherra hundsar þessa góðu ráðgjöf lagasérfræðinganna og fer öfugt að.  Hann leggur til brot á EES-samninginum og stjórnarskrárbrot með þessari dæmalausu þingsályktunartillögu, eins og líka má sjá af athugasemdum lagaprófessors Peter Örebech í viðhengi með þessum pistli.  Alþingismenn verða að stöðva þessi afglöp ráðherrans áður en þau valda landsmönnum stórtjóni og álitshnekki í Evrópu.  Allt er þetta fallið til að hafa slæm áhrif á þeirra pólitíska feril, sem þessa þingsályktunartillögu munu styðja.  Hún er í einu orði sagt hneisa.

Fullyrðing 1:Þriðja orkupakkann er í lagi að innleiða í íslenzk lög, af því að hann hefur enga raunhæfa þýðingu á meðan enginn sæstrengur tengir landið við sameiginlega raforkumarkaðinn:

Á meðan aflsæstrengir eru ekki fyrir hendi til útlanda, getur Ísland haft lágt raforkuverð, sé ekki raforkuskortur.  Með því að ganga í orkubandalag Evrópusambandsins, skuldbindur Ísland sig til að láta í té raforku á landamæralausan innri markað ESB, og ACER skal sjá til, að svo verði, enda segir um þetta í ofangreindu lögfræðiáliti tvímenninganna: "Engin heimild er að setja í lög ákvæði, sem fá ekki staðizt íslenzka stjórnarskrá, þó að svo standi á, að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn.  Verður því að telja rökrétt og reyndar óhjákvæmilegt, að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna, sem tengjast þriðja orkupakkanum, nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann."  Þetta les utanríkisráðherra, eins og fjandinn biblíuna, þ.e. aftur á bak, og snýr öllu á haus. 

Fullyrðing 2: Lagatextanum um ACER í gerð 713/2009 skal ekki taka inn í íslenzkan rétt samkvæmt eigin lögum.

Slík lagasetning er merkingarlaus að Evrópurétti, og verður vegin og léttvæg fundin af ESA og EFTA-dómstólinum, ef/þegar ágreiningur rís, sem telja má fullvíst, að verði fljótlega.  Þetta staðfesta íslenzku lagasérfræðingarnir tveir í grein 6.4 í Álitsgerð sinni, dags. 19.03.2019.

Fullyrðing 3: Tryggja skal sjálfstæði landsins í orkumálum með lagaákvæði um endurskoðun á íslenzku lögunum, sem nú er ætlað að hindra sæstrengslögn hingað, ef sæstrengur kemst á ákvörðunarstig.

EES-samningurinn leyfir ekki að hverfa frá innleiðingu, sem  þegar hefur verið samþykkt.  Bann Alþingis við lagningu sæstrengs er þess vegna haldlaust, ef upp koma deilur á milli Íslands og ESB um þetta.  ESA og EFTA-dómstóllinn hljóta að telja slík lög vera brot á EES-samninginum, kafla 7, 11 og 12 um bann við einhliða breytingu á ESB-lögum við innleiðingu í landsrétt og bann við útflutnings- og innflutningshindrunum.

Fullyrðing 4: Ákvæði laganna um utanlandstengingar (gerð 713/2009) verða ekki gerð virk fyrr en að lokinni endurskoðun laganna, sem fylgja innleiðingunni.

Við samþykkt þingsályktunartillögunnar verður allur Orkupakki #3 gildandi lög á Íslandi, og falla þau ekki úr gildi, nema ESB felli gerðina úr gildi, eða samningi Íslands við EFTA/ESB um EES verði sagt upp.

Fullyrðing 5: Við endurskoðun laganna, þegar sæstrengur verður á döfinni, skal ganga úr skugga um, hvort reglugerð 713/2009 stangast á við Stjórnarskrá Íslands.

Þriðji orkupakkinn snýst um það að búa til innri orkumarkað ESB-landa og annarra landa, sem ganga í orkubandalagið.  Við mat á árekstrum ESB-laganna við Stjórnarskrá þarf að ganga út frá þessu meginatriði, og hvort þetta samræmist Stjórnarskrá verður auðvitað að rannsaka áður en Orkupakki #3 verður innleiddur.  Að mati ESB er ESB-löggjöf og ESB-dómstóllinn hafin yfir löggjöf hvers lands að Hæstarétti og Stjórnarskránni meðtöldum.  Varðandi EFTA löndin 3 í EES gildir hið sama, nema EFTA-dómstóllinn er æðsta dómstigið á sviðum, þar sem Evrópurétturinn er í gildi.  

Fullyrðing 6: Innleiðing Orkupakka #3 hefur ekki í för með sér skyldu eða samþykki við tengingu við innri orkumarkað ESB með sæstreng eða á annan hátt.

Einhliða íslenzkar yfirlýsingar hafa ekkert gildi að Evrópurétti.  Samkomulag á milli íslenzks ráðherra og framkvæmdastjóra hjá ESB hefur heldur ekki nokkra réttarlega þýðingu.  Með því að innleiða Þriðja orkupakkann í íslenzk lög, mun Alþingi skuldbinda Íslendinga til að taka þátt í að þróa innra orkumarkað ESB án hindrana, "fimmta frelsi" ESB. Að neita að samþykkja sæstreng til landsins er sama og að segja, að þessi "innri markaður" eigi ekki að spanna Ísland. Í þessu felst augljós mótsögn.

Með því að samþykkja Þriðja orkupakkann hefur Alþingi viðurkennt valdsvið ACER-Orkustofnunar ESB og hjáleigu hennar á Íslandi, Landsreglarann.  Báðum ber þeim skylda til að fylgjast með, hvort kerfisþróunaráætlun ESB sé fylgt.  Ef henni er ekki fylgt, skulu þau fara þess á leit við íslenzk yfirvöld, að henni verði fylgt.  Verði íslenzk yfirvöld ekki við þessari málaleitan, þá skal afhenda Framkvæmdastjórn skýrslu um það.  Framkvæmdastjórnin getur farið með málið fyrir EFTA-dómstólinn.

Fullyrðing 7: Íslenzk yfirvöld draga "Ice-Link" út úr Kerfisþróunaráætlun ESB, og þar með út af skrá hennar um forgangsverkefni-PCI:

Ekkert hefur heyrzt um viðbrögð við þessu, enda getur ríkisstjórnin ekki tekið þennan sæstreng út af lista, sem gildir 2018-2020, s.k. 3. lista.  Árið 2020 verður gefinn út 4. listinn.  Um þetta atriði mun ESB fara eftir Innviðagerðinni, #347/2013, sem er tilbúin til afgreiðslu í Sameiginlegu EES-nefndinni, þegar Alþingi hefur innleitt Orkupakka #3.  Hvorki Ísland né Noregur hafa ýkja mikil áhrif samkvæmt þessari gerð.  Það eru rekstraraðilar stofnkerfisins, hér Landsnet, sem gera tillögur, ACER ráðleggur, og framkvæmdastjórn ESB samþykkir Kerfisþróunaráætlun ESB, og hvaða verkefni þar skal setja í forgang, PCI-verkefni.

Framkvæmdastjórninni ber við mat sitt að virða ósk Íslands, en ber engin skylda til að verða við ósk stjórnvalda landsins.  Mun hún kunna að meta erindi frá landi, sem hefur ákveðið að ganga í Orkubandalag ESB, en biður samtímis um viðurkenningu á því, að það skuli ekki spanna Ísland ?  Teikn á lofti um, hvernig þetta mál ræðst, er samþykkt ESB-þingsins 26. marz 2019 um endurskoðaða ACER-gerð ST-7711-2019 í Orkupakka #4, þar sem Ísland er greinilega "í skotlínu":

"(6) Þrátt fyrir marktækan árangur við samþættingu og samtengingu innri rafmagnsmarkaðarins, þá eru enn sum aðildarlönd eða svæði einangruð eða ekki nægjanlega vel tengd, einkum eyríki og jaðarríki Sambandsins.  Í störfum sínum ætti ACER að taka tillit til sérstakra aðstæðna í þessum ríkjum eða svæðum, eins og við á." 

 

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ráðherra um víðan völl

Iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, kom víða við í ræðu sinni á ársfundi Landsvirkjunar, 28. febrúar 2019, eins og eðlilegt er. Það var hins vegar varla eðlilegt hjá henni að nota tækifærið til að gera lítið úr þeim viðvörunarorðum, sem höfð hafa verið í frammi á fullkomlega málefnalegum grundvelli. Sízt af öllu var það viðeigandi af henni í ljósi þeirra "undanþága", sem hún og utanríkisráðherra flagga með í fréttatilkynningu 22. marz 2019.  Gagnvart Evrópusambandinu eru þessar "undanþágur" haldlausar, en meira um það síðar.

  Ef Þórdís myndi spyrja kjósendur í NV-kjördæmi, þangað sem hún sækir umboð sitt, hvort þeir hafi átt í erfiðleikum með að fylgja umræðunni "út um víðan völl", mundu þeir líklega velflestir svara því neitandi og hafa á þessu máli þá bjargföstu skoðun, að ekki eigi að stíga skref til frekara valdframsals yfir raforkumarkaðinum í hendur Evrópusambandsins með því að samþykkja Orkumarkaðslagabálk #3. Orkumálum sínum eiga, vilja og geta Íslendingar stjórnað sjálfir án atbeina Landsreglara, sem stjórnað er af ESB (gegnum ESA).  

Það skuggalegasta við þessa ræðu ráðherrans var áróður hennar fyrir því að samþykkja aflsæstreng til Íslands frá útlöndum. Rökin eru eins veigalítil og hugsazt getur:

"Afgangsorka fer til spillis".  "Það er ekki hægt að selja hana, af því að það er ekki hægt að tryggja, að hún verði til reiðu í óvenjulega þurrum árum." 

Hún sagði í ræðunni, að hér væri um að ræða 2,0 TWh/ár (meira en 10 % af heildarorkuvinnslu landsins) í meðalári og líkti því við "brottkast" af fiskiskipum að nýta ekki þessa orku.  

Þessi samlíking ráðherrans er út í hött.  Með brottkasti er verið að fleygja mat og má í mörgum tilvikum líkja við að kasta útsæðinu á glæ.  Í staðinn þarf að afla annars fiskjar.  Ekkert af þessu á við um þá vatnsorku, sem annaðhvort stendur eftir í miðlunarlóni eftir veturinn, þegar leysingar hefjast, eða fer á yfirfall framhjá virkjun síðsumars.  

Það er góð auðlindastýring, ef tekst að nýta miðlunargetu lóna, þannig að innan við 10 % sé eftir af hámarks vatnsmagni í lóni, þegar vatnsstaðan er í lágmarki að vori.  Þegar stefnir í vatnsskort, er vatnshæðinni stýrt með því að draga úr sölu á "ótryggðri" orku, sem er mun ódýrari en forgangsorkan. 

Af einhverjum ástæðum hefur Landsvirkjun undanfarin ár dregið úr framboði "ótryggðrar" orku, og er það vissulega vottur af orkuskorti.  Í því ljósi skýtur skökku við, að Landsvirkjun skuli ekki standa í neinum virkjanaframkvæmdum nú um stundir.  Þótt hingað yrði lagður aflsæstrengur frá útlöndum, væri algert óráð að tæma miðlunarlónin á vorin, því að þá myndast "venesúelskt" ástand á Íslandi við strengbilun.  Það er þannig ekkert vit að ganga meir á miðlunarforðann en nú er venjulega gert.  

Það, sem iðnaðarráðherra sennilega er aðallega með í huga í þessu sambandi, er yfirfallsorkan úr miðlunarlóni.  Það er hins vegar af og frá, að þessi orka nemi að jafnaði um 2 TWh/ár. Hér er mestmegnis um að ræða 2 miðlunarlón, Þórisvatn og Hálslón.  Í fyrra var lokið við nýja virkjun, Búrfell #2. Henni er ætlað að nýta yfirfallsvatn úr Þórisvatni og annað vatn, sem fyrri virkjanir ekki geta nýtt.  Búrfell #2 er miklu minni en ofangreind orkutala ráðherrans gefur til kynna, að til ráðstöfunar sé í efri Þjórsá, eða 100 MW að afli og 300 GWh/ár að orku.  Framhjá þessum virkjunum mun sáralítið vatn renna eftir þetta í venjulegu árferði.  Ef aðrennslið eykst marktækt á næstu árum vegna hlýnunar, þá er ólíkt nærtækara að stækka miðlunarlónið Þórisvatn en að leggja aflsæstreng til útlanda.  Það væri vissulega að fara yfir lækinn að sækja vatnið.

Þá víkur sögunni að Fljótsdalsvirkjun, stærstu virkjun landsins, með aflgetu 690 MW og orkuvinnslugetu 5000 GWh/ár.  Aðalálagið á þessa virkjun er frá Fjarðaáli. Það er um 550 MW og núverandi orkuþörf versins er um 4800 GWh/ár.  Þetta þýðir að auka má álag Fljótsdalsvirkjunar um allt að 140 MW frá grunnálagi álversins og keyra inn á stofnkerfið, gegn álagslækkun, t.d. í jarðgufuvirkjunum, á móti, og verður þá hægt að "hvíla" jarðgufugeyminn og stunda viðhald á búnaði.  Lítil flutningsgeta núverandi Byggðalínu takmarkar mjög möguleikana á aflkeyrslu á milli landshluta.  Þegar 220 kV loftlína/jarðstrengur verður komin frá Fljótsdalsvirkjun og til Akureyrar og jafnvel vestur fyrir Eyjafjörð, þá verða engin vandkvæði á að keyra Fljótsdalsvirkjun á fullum afköstum, þegar vel gengur að fylla Hálslón og koma þannig í veg fyrir megnið af yfirfalli úr Hálslóni og grugg í Jökuldalsá, sem nú rennnur í farvegi Jöklu, er tær og orðin þokkaleg veiðiá.  Þarna fengjust e.t.v. 200 GWh í góðum vatnsárum.  

Þessi aðgerð kallar ekki á neinar fjárfestingar, því að styrking Byggðalínu er nauðsynleg, hvort sem er.  Þannig er ljóst, að yfirfallsorka verður ekki fyrir hendi í neinum umtalsverðum mæli í nánustu framtíð. Hugmyndir um hana sem einhvers konar undirstöðu fyrir orkusölu inn á sæstreng eru úr lausu lofti gripnar.  Að líkja umframorkunni við "brottkast" og réttlæta raforkusölu inn á sæstreng með henni er algerlega óboðlegt á Íslandi og hneisa að iðnaðarráðherra skuli bera þetta á borð á ársfundi Landsvirkjunar. 

Getur verið, að ráðuneytisfólkið hafi heyrt röksemdir Norðmanna fyrir aflsæstrengjum og haldið, að hægt væri að yfirfæra þær hráar á milli þessara tveggja vatnsorkulanda ?  Það eru 2 meginástæður fyrir því, að það er ekki hægt.  Önnur er gríðarleg umframaflgeta í norska kerfinu utan kaldasta tímans, af því að húsnæði er yfirleitt rafhitað í Noregi.  Á Íslandi er umframaflgeta nánast engin.  Hin er umframmiðlunargeta lóna í 9 af hverjum 10 árum að jafnaði í Noregi.  Þetta veldur því, að Noregur hefur undanfarin ár haft úr að spila 8-16 TWh/ár (góð vatnsár) inn á sæstrengina, sem er um 9 % af vinnslugetu kerfisins. 

Það er þó önnur hlið á þessu íslenzka sæstrengsmáli, sem er miklu alvarlegri en sú gloppa eða vanþekking á afgangsorku/yfirfallsorku, sem lýst er að ofan.  Hún snýr að fjárhagshlið málsins.  Formælendur aflsæstrengstengingar við útlönd fullyrða, án þess að leggja fram nokkra útreikninga því til stuðnings, að orkuseljendur muni hagnast mikið á því að selja raforku inn á slíkan sæstreng.  Er þá reynt að halda því að þjóðinni, að verkefnið sé þjóðhagslega hagkvæmt og að hér sé um fundið fé fyrir eigendur orkufyrirtækjanna að ræða, sem að mestu er hið opinbera á Íslandi.  Þarna er maðkur í mysunni.

Hér er um eintóma loftkastala að ræða samkvæmt norska hagfræðiprófessornum Anders Skonhoft, en ritgerð hans um þetta efni, "Kraftkabler, samfunnsnytten, miljöet og industrien", er birt sem viðhengi við þennan pistil.  Niðurstaða hagfræðilegrar greiningar prófessors Skonhoft er sú, að aukinn hagnaður norskra orkuseljenda af orkusölu inn á næsta aflsæstreng frá Noregi verði alfarið sóttur til verðhækkunarinnar innanlands, sem af viðbótar tengingu við hærra verðlagssvæði leiðir.  Þetta er afar athyglisverð niðurstaða og stingur algerlega í stúf við málflutning talsmanna raforkusölu frá Íslandi.  

Orðrétt segir í ritgerð prófessors Skonhft:

"Merk ellers, at gevinsten for produsentene utelukkende er knyttet til, at innenlandsk pris öker som fölge av utvekslingen.  Uten ökt innenlandsk pris har kraftprodusentene dermed ikke noe ökonomisk motiv for å önske utenlandsk kraftutveksling velkommen."

Þessu snarar pistilhöfundur þannig:

"Veitið annars athygli, að hagnaður raforkuvinnslufyrirtækjanna [af orkusölu inn á sæstreng] er alfarið tengdur því, að innanlandsverð [raforkunnar] hækkar vegna utanlandsviðskiptanna.  Án raforkuverðhækkunarinnar innanlands hafa raforkuvinnslufyrirtækin enga fjárhagslega ástæðu til að bjóða utanlandsviðskipti með rafmagn velkomin."

Þetta eru vissulega stórtíðindi, en þá er spurningin, hvort hægt sé að yfirfæra þessa niðurstöðu á Ísland ?  Noregur er vatnsorkuland með vaxandi vinnnslu raforku með vindmyllum, með margar millilandatengingar fyrir raforku og frjálsan samkeppnismarkað fyrir hana. Á Íslandi koma yfir 70 % raforkunnar frá vatnsorkuverum, tæplega 30 % frá jarðgufuverum og vindorkuver ásamt frjálsum samkeppnismarkaði raforku eru í undirbúningi. Flutningsgeta fyrsta aflsæstrengsins frá Íslandi gæti numið meiri orku en þeirri, sem hér verður í byrjun á frjálsum markaði.  Í Noregi verður þetta hlutfall aðeins um 10 % fyrir næsta sæstreng (Þýzkalandsstrengur-NORGER).

Af þessu er hægt að draga þær ályktanir, að sömu lögmál muni gilda á Íslandi og í Noregi um fjárhagslegar afleiðingar sæstrengstengingar, en þær munu þó verða miklu stórtækari á Íslandi, rýra lífskjör almennings, veikja samkeppnishæfni og launagreiðslugetu fyrirtækjanna, og þetta mun vafalaust verða mörgum þeirra, ekki sízt þeim minni, um megn. Að tala um þjóðhagslega hagkvæmni af aflsæstreng héðan til útlanda stenzt ekki skoðun.  Af honum verður stórfellt þjóðhagslegt tap. 

Verður þá enginn hagnaður af utanlandsviðskiptunum með rafmagn ?  Hér á Íslandi verður ónýtanleg afgangsorka í miðlunarlónum og yfirfallsorka sáralítil eftir tilkomu Búrfells #2 og 220 kV tengingar Fljótsdalsvirkjunar við Norðurland.  Þessi tenging mun gera kleift að keyra Fljótsdalsstöð á fullum afköstum inn á Fjarðaál og stofnkerfið, þegar þess gerist þörf, t.d. til að hindra myndun fossins Hverfanda niður í Jökulsárgljúfur í góðum vatnsárum fyrir austan.  Af þessum sökum verður að reisa nýjar virkjanir fyrir útflutning um sæstreng frá Íslandi (í Noregi eru það litlar vatnsvirkjanir og vindmyllur).  Kostnaður þessara framkvæmda verður miklu hærri en núverandi meðalkostnaður í orkuöflunarkerfinu.  Útflutningurinn sjálfur leiðir þess vegna ekki til hagnaðarauka hjá vinnslufyrirtækjunum, heldur lendir allur hagnaður útflutningsins, ef einhver verður, hjá eigendum millilandatengingarinnar.  

Í Noregi á norska Landsnet, Statnett, allar núverandi millilandatengingar raforku og hefur notað hagnaðinn af þeim m.a. til að byggja upp flutningskerfið innanlands, enda hefur verulegur kostnaður fallið til við að tengja sæstrengina við stofnkerfið.  Líklega þykir framkvæmdastjórn ESB óeðlilegt, að Günther og Hildegard í Þýzkalandi borgi uppbyggingu flutningskerfis Noregs, því að í Orkupakka #3 er búið að reisa skorður við þessari ráðstöfun hagnaðar, og hert á í Orkupakka #4, og aðalreglan verður þá sú, að allur hagnaður mililandatenginga gangi til endurnýjunar og fjölgunar millilandatenginga við ESB-löndin.  Þetta veldur ekki hrifningu í Noregi. 

Þessi greining hins norska prófessors í hagfræði sýnir, að það er maðkur í mysunni, þegar kemur að þeim málflutningi, að raforkusala um sæstreng til útlanda sé fundið fé fyrir íslenzka virkjanaeigendur, sem að mestu eru í eigu opinberra aðila á Íslandi, og íslenzka hagkerfið. Hið síðara er ekki rétt. Samkvæmt Skonhoft kemur aukinn hagnaður alfarið úr vasa innlendra raforkukaupenda, og slíkur sæstrengur virkar þá eins og viðbótar skattheimta á heimilin og fyrirtækin í landinu.  Alþingi á við þessar aðstæður ekki að stíga neitt skref, sem auðveldar erlendum fjárfestum að fá heimild til lagningar aflsæstrengs til útlanda.  Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er tvímælalaust tæki Evrópusambandsins til að fá á framkvæmdastig verkefni, sem það hefur sett á forgangsverkefnalista sinn, PCI, þ.á.m. "Ice-Link".

Þessi sæstrengur verður ekki fjarlægður af forgangs verkefnalista ESB/ACER með einu pennastriki, eins og látið er að liggja í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar 22.03.2019.  Hann hefur verið staðfestur þar inn með undirritun margháttaðra skjala, sem farið hafa einnig ril Ráðherraráðsins og ESB-þingsins.  Það er að líkindum ekki skilyrði, að yfirvöld viðkomandi landa óski eftir verkefni inn á PCI.  Það eru verkefniseigendurnir (Sponsors-hvatamennirnir), sem gera tillögur um verkefnaval til Framkvæmdastjórnarinnar, ekki löndin, og aðildarlöndin eru þá bara einn af mörgum aðilum, sem ákveða valið.  Út frá þessu er engin trygging fyrir því, að "Ice-Link" geti ekki staðið áfram á PCI-listanum, þrátt fyrir óskir íslenzku ríkisstjórnarinnar.  Löndin virðast ennfremur ekki hafa neitunarvald í þessum efnum.  

Valið inn á PCI-listann er grundvallað á Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER ásamt samevrópskri áætlun um meginflutningaleiðir (corridors) orku (Trans European Network for Energy).  Allt þetta mælir gegn því, að framkvæmdastjóri hjá ESB geti tekið ákvörðun um að fjarlægja verkefnið.  Er verið að reyna með lúðrablæstri og söng að slá ryki í augu Alþingismanna og almennings ? 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Litlu verður vöggur feginn

Málefnafátækt og lítt eða ekki rökstuddar fullyrðingar einkenna málflutning þeirra, sem mæla með samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki Evrópusambandsins, ESB.  Sneitt er hjá að færa óyggjandi rök fyrir því, að samþykktin standist Stjórnarskrá, t.d. um framsal ríkisvalds til erlendrar stofnunar, þar sem Ísland á ekki fullgilda aðild, og á  valdsvið Landserglara ("National Energy Regulator"), sem skal í störfum sínum verða algerlega óháður íslenzkum stjórnvöldum, er sjaldan minnzt á þeim bæjum.  

Áhrif inngöngu Íslands (með áheyrnaraðild aðeins) í ACER-Orkustofnun ESB, t.d. á málsmeðferð umsókna um leyfi til að leggja aflsæstrengi til Íslands, eru afgreidd í fljótheitum sem engin og fullyrt, gegn málflutningi sérfræðings í Evrópurétti, norska lagaprófessorsins Peter Örebech, sem alltaf vísar mjög nákvæmlega í gerðir og tilskipanir ESB um þessi efni máli sínu til stuðnings, sbr ritgerð eftir hann í viðhengi með þessum pistli, að Alþingi og íslenzk yfirvöld muni eiga síðasta orðið um afgreiðslu sæstrengsumsókna hingað.

Eitt af því, sem "fylgjendur" Þriðja orkupakkans hengja sig í, þegar kemur að fullveldisframsalinu, er, að við framkvæmd þessa lagabálks hérlendis verði tveggja stoða kerfi EES-samningsins haldið í heiðri.  Þetta er rétt, en aðeins að nafninu til, því að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) hvorki getur né er til þess ætlazt af henni í þessu tilviki, sbr tilvitnun  hér á eftir í greinargerð með norska lagafrumvarpinu um innleiðingu Orkupakka #3, sinnt sjálfstæðu hlutverki sem Orkustofnun EFTA, spegilmynd ACER.

Upplýsingar, tilmæli og skipanir frá ACER til embættis Landsreglara, fulltrúa ESB yfir orkumálum á Íslandi samkvæmt Orkubálki #3, munu þess vegna verða afritaðar og kannski þýddar hjá ESA og sendar áfram til Landsreglarans, og sama gildir um boð til baka.  Hér er um að ræða tveggja stoða kerfi í orði, en ekki á borði.  Er hér með ólögmætum hætti verið að fara á svig við stjórnarskrár Íslands og Noregs ?  Hvað Noreg varðar verður því vonandi svarað í norska réttarkerfinu senn hvað líður (mál er þar fyrir þingrétti), og vonandi mun prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, svara því fyrir sitt leyti í skýrslu, sem hann mun eiga að skila til utanríkisráðuneytisins og er sennilega þegar búinn að.

Tilvitnun á bls. 26 í Frumvarp 4 S (2017-2018) um staðfestingu á ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017 (þýðing pistilhöfundar):

"Eftirlitsstofnun EFTA [ESA] skal grundvalla samþykkt sína á drögum frá ACER, þegar hún [ESA] gerir slíka samþykkt. Slík drög eru ekki lagalega bindandi fyrir Eftirlitsstofnun EFTA. Það er undirliggjandi forsenda fyrir þessu umsamda fyrirkomulagi, að Eftirlitsstofnun EFTA skuli, skömmu eftir móttöku slíkra draga frá ACER, gera samhljóða eða næstum samhljóða samþykkt."

Hér fer ekki á milli mála, að ekki er ætlazt til, að ESA taki neina sjálfstæða ákvörðun á grundvelli Þriðja orkumarkaðslagabálksins, heldur er hún hrein afgreiðslustofnun fyrir ESB/ACER, enda er grundvallaratriði fyrir ESB, að framkvæmd stefnumótunar hjá ESB sé sú sama alls staðar innan EES.  Að halda því fram, eins og fylgjendur Orkupakka #3 gera, að ESB/ACER fái engin völd hér, af því að við séum í EFTA, er einhvers konar lögfræðilegur kattarþvottur, og það fær varla staðizt fyrir dómi, að þetta fyrirkomulag sé í samræmi við Stjórnarskrá.

Önnur aðalfullyrðing þeirra, sem mæla með téðri orkupakkainnleiðingu, er, að á meðan Ísland ekki er tengt við raforkukerfi ESB, þá hafi ACER engin völd hér, og ESB/ACER geti ekki komið fram þeim vilja sínum, sem þó virðist vera fyrir hendi, sbr forgangsverkefnaskrána PCI (Projects of Common Interest) með "Ice-Link" innanborðs, að hingað verði lagður sæstrengur frá ESB-ríki. Þessi óraunsæja staðhæfing er hrakin í ritgerð prófessors Peter Örebech, sjá viðhengi með þessum pistli, bls. 11.

Sannleikurinn er sá, að orkuauðlindir ESB-landanna og tengdra EFTA-ríkja , þ.e. innan EES, skulu verða meðhöndlaðar samkvæmt stefnumörkun í hverju landi, en hún verður hins vegar að vera í samræmi við markmið ESB um Innri markaðinn fyrir orku.     Höfuðstefnumið ESB í þessum efnum er að "tryggja hátt stig afhendingaröryggis rafmagns", sbr gerð 714/2009, kafla 1 b, og að koma á "vel starfhæfum" markaði (formálinn, atriði 24) og "samkeppnishæfum verðum" (formálinn, atriði 1).  Eftir að Orkupakki #3 hefur tekið gildi hér, munu íslenzk stjórnvöld ekki geta mótað og rekið orkustefnu hér, sem ekki tekur tillit til stefnu ESB um að auka notkun endurnýjanlegra orkulinda í heild, eins og kostur er, og að samtengja alla afkima EES við hið miðlæga raforkukerfi ESB, sem allt snýst um, að fái næga orku.  Fjórði orkupakkinn leggur áherzlu á, að raforkan sé úr umhverfisvænum orkulindum. 

Í gerð nr 713/2009, kafla 8 (4) stendur: "Framkvæmdastjórnin getur samþykkt reglur um þau tilvik, að stofnunin [ACER] fái völd til að taka ákvörðun um skilmála og skilyrði fyrir aðgangi að [stofnkerfi] og rekstrarlegu öryggi í sambandi við innviði á milli landa."

Hér stendur "skilyrði fyrir aðgangi að .... innvið[um] á milli landa".  Það stendur  hins vegar ekkert um, að ACER geti aðeins skipt sér af millilandatengingum, sem þegar eru komnar á, enda væri slíkt í mótsögn við fyrirætlunina með Orkupakka #3, sem er að fjölga þeim, svo að flutningsgeta þeirra nemi a.m.k. 20 % af orkuvinnslugetu ESB árið 2030. 

Setjum sem svo, að Bretar gangi úr ESB og ACER og Ísland samþykki Þriðja orkupakkann.  Síðan komi tvær tillögur um sæstreng frá Íslandi, önnur til Englands og hin til Írska lýðveldisins.  Þá getur ACER sagt sem svo, að öll "umframorka" á Íslandi eigi að fara inn á Innri markað ESB/EES, og þar með skuli aðeins tengja Írlandsstrenginn við íslenzka raforkukerfið.  

Þeim hræðsluáróðri hefur verið beitt hérlendis, að með því að beita neitunarvaldi sínu gagnvart samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar 05.05.2017 sé Alþingi að setja EES-samninginn í uppnám og jafnvel að brjóta hann, svo að búast megi við refsingum af hendi ESB.  Þessi áróður er úr lausu lofti gripinn, enda var honum t.d. aldrei beitt í Noregi, þótt harðar deilur stæðu þar nánuðum saman um sama efni fram til 22.03.2018.  Sannleikurinn er sá, að Alþingi er fullkomlega frjálst að beita neitunarvaldinu, þegar því sýnist, og ESB getur ekki með neinu móti refsað Íslandi fyrir það, enda fengu Norðmenn engar kárínur fyrir slíka synjun á sinni tíð.  Það, sem ESB getur gert, er að ógilda Viðauka IV í EES-samninginum gagnvart Íslandi, en þar eru aðallega Orkupakki #1 og #2.  Það þýðir, að Alþingi getur að eigin vild sniðið þessa löggjöf að íslenzkum aðstæðum.  Er það verra ?

Að "samningaviðræður" fari fram í Sameiginlegu EES-nefndinni, takmarkar á engan hátt neitunarvald Alþingis, enda fer samþykkið í téðri Brüsselnefnd fram með fyrirvara um samþykki Alþingis (þjóðþinga EFTA-landanna þriggja í EES).  Þingið hefur alls ekki veitt samþykki sitt, þótt 3 þingnefndir hafi verið upplýstar um gang mála af embættismönnum.  Þannig er þetta líka í Noregi. Hví skyldu aðrar reglur gilda um þetta hér en þar. Það er hreinn skáldskapur, að þetta upplýsingaferli hafi á einhvern hátt bundið hendur Alþingis.  

Aðalatriðið er, að þetta neitunarvald Alþingis er grundvallaratriði EES-samningsins fyrir EFTA-löndin og kann að hafa ráðið úrslitum á sinni tíð um, að Alþingi staðfesti samninginn í janúar 1993.  Ef neitunarvaldið væri ekki áskilið, þá væri EES-samningurinn einfaldlega annars eðlis, þ.e.a.s. hann væri "yfirþjóðlegur" í þeim mæli, að hann hefði ekki staðizt Stjórnarskrá, eins og hann var í upphafi, hvorki hérlendis né í Noregi, og síðan hefur hallazt á merinni.  Vegna neitunarvaldsins er það samt svo, að Alþingi og Stórþingið eru hinir formlegu löggjafar.  

Að neitunarvaldið hefur verið svo lítið notað stafar einfaldlega af því, að meirihluti Stórþingsins hefur lengst af frá gildistöku EES-samningsins, 01.01.1994, oftast verið hallur undir aðild Noregs að ESB, þótt norska þjóðin hafi að meirihluta allan tímann verið andvíg aðild.  Þannig hefur myndazt þrýstingur á íslenzka fulltrúann í Sameiginlegu EES-nefndinni frá báðum hliðum, ESB og EFTA, að samþykkja tillögu Framkvæmdastjórnarinnar um innleiðingu viðbóta í EES-samninginn.  Nú ber nauðsyn til að stinga við fótum.  Mikill meirihluti Norðmanna yrði því feginn, og Noregur myndi einfaldlega gera tvíhliða samning um orkuviðskipti án þess að vera bundinn aðild að ACER. Slíkt veitir Noregi vafalaust meira svigrúm í samningaviðræðum, svo að ekki þurfa Íslendingar að óttast, að þeir geri á hlut frænda sinna í Noregi með því að beita neitunarvaldi á Þriðja orkupakkann.  

Þann 9. marz 2019 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmann, sem hann nefndi:

"Til Michaels Manns, sendiherra ESB á Íslandi".

Einar hælir sendiherranum fyrir Morgunblaðsgrein hans 15. nóvember 2018 um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þar sem Íslendingar voru að sjálfsögðu hvattir til að láta af andstöðu sinni við hann og innleiða hann vafningalaust í íslenzk lög.  Flestum Íslendingum hefur sennilega þótt grein sendiherrans óviðeigandi afskipti af innanríkismálum hér, sem sendiherrar jafnan forðast.  Einar S. Hálfdánarson tekur hins vegar þennan sendiherra sem fullgilda heimild um það, sem rétt er í þessu máli, en ber ekki við að vísa í neina gerð eða tilskipun "pakkans" máli sínu til stuðnings.  Það er vissulega nýtt af nálinni síðan á dögum vinstri stjórnarinnar 2009-2013 að gera sendiherra ESB svo hátt undir höfði.  Þannig reit Einar:

"Þannig staðfesti hann (sem vitað var), að Íslandi er ekki skylt að opna raforkumarkað sinn né að veita þriðja aðila aðgang hér að fjárfestingartækifæri.  Jafnframt, að þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, muni ACER ekki hafa neitt vald hér á landi.  Þau málefni, er lúta að Íslandi, séu á hendi ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), en ekki ACER."

Hér að ofan eru sett fram haldföst rök um hið gagnstæða við það, sem þarna er haldið fram.  Pistilhöfundur hefur ýmist vitnað til gerða ESB, norska lagaprófessorsins Peter Örebech eða greinargerðar með frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn, en Einar S. Hálfdánarson hefur vitnað í sendiherra Evrópusambandsins sem heimild.  Lesendum er eftirlátið að bera þetta saman og mynda sér skoðun.

Síðan skrifar Einar:

"Það skiptir ESB ekki nokkru, hvort Ísland innleiðir þriðja orkupakkann og Ísland væntanlega minnstu."

Ef þetta er rétt, hvers vegna skrifaði Michael Mann þá umrædda grein í Morgunblaðið 15.11.2018 ?

Eins og vænta mátti, vitnaði Björn Bjarnason, formaður nefndar utanríkisráðherra um mat á reynslu Íslands af EES, í þessa grein Einars í dagbókarfærslu sinni 10. marz 2019, og má um það segja, að litlu verður vöggur feginn.  Björn hefur ekki komið fram með neinar skýringar á því, hvers vegna Íslendingar eigi að innleiða Þriðja orkupakka ESB, sem ekki hafa verið marghraktar, m.a. hér að ofan.  Hann er samt nógu ósvífinn til að skrifa eftirfarandi undir fyrirsögninni,

"Þegar haldföstu rökin skortir":

"Þetta [grein Einars] er athyglisverð staðfesting á því, sem hér hefur verið margítrekað.  Haldið hefur verið fram órökstuddum fullyrðingum um afleiðingar þess að innleiða 3ja orkupakkann.  Þessi blekkingarherferð er ekki reist á neinum "haldföstum rökum", svo að tekið sé undir orð Einars ... "

Hér kastar Björn Bjarnason steinum úr glerhúsi, enda færir hann sjálfur aldrei nein bitastæð rök fyrir því, að Íslendingar eigi að samþykkja Orkupakka #3. Hann hefur hins vegar látið sig hafa það að kasta fýlubombum á við þá sjúklegu samsæriskenningu, að hérlendir andstæðingar Orkupakka #3 séu á mála hjá norska Miðflokkinum til að stoppa það, sem þessum stjórnmálaflokki mistókst að stoppa fyrir ári í Noregi.  Guðlaugur Þór Þórðarson, sem sigraði téðan Björn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á sinni tíð, en virðist treysta honum núna, hefur lapið þessa bölvuðu vitleysu upp eftir Birni.  

Þegar Miðflokkurinn, norski, var hins vegar inntur eftir þessu, kannaðist enginn þar á bæ við að gera slíka útsendara út á Íslandi, og engin skjöl fundust þar um.  Þegar greint var frá því, að utanríkisráðherra Íslands héldi þessu þó blákalt fram, kváðu við þvílík hlátrasköll í Ósló, að annað eins hefur ekki heyrzt í Víkinni síðan Haraldi, hárfagra, var greint frá því þar á sinni tíð, að höfðingjar Vesturlandsins, norska, sem eigi vildu þýðast ríki hans, hygðust hafa sig á brott með fjölskyldur sínar og búsmala til nýfundinnar eyjar norður við Dumbshaf.  

Síðan lætur Björn Bjarnason í ljós undrun á því, að hann skuli ekki hafa hlotið nokkurn hljómgrunn fyrir áróður sinn fyrir innleiðingu Þriðja orkupakkans.  Téður Björn er þó ekki óvanur því að hljóta dræmar undirtektir á meðal flokksfélaga og á meðal almennings.  Það gerðist t.d., er Friðrik Sófusson sigraði hann í kjöri um formann Sambands ungra sjálfstæðismanna og í borgarstjórnarkosningum, þar sem hann galt afhroð sem borgarstjóraefni.

Þessa undarlegu undrun sína tjáir Björn með eftirfarandi ósmekklega hætti í téðri dagbókarfærslu:

"Í raun er ótrúlegt, hve margir hafa kosið að elta þá, sem kveiktu villuljósin vegna 3ja orkupakkans.  Sýnir sú vegferð, hve auðvelt er að leiða menn í ófærur með aðstoð samfélagsmiðla og í andrúmslofti, sem einkennist af því, að menn telja sig hafa höndlað dýpri sannleika en sjá [má] með því einu að kynna sér staðreyndir."

Er skrýtið, þótt sá, sem sendir frá sér þennan yfirlætisfulla texta, hljóti engan hljómgrunn ?

 

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mögnuð umvöndun Morgunblaðsins

Frægar eru magnaðar umvandanir meistara Jóns Vídalíns við leika, lærða og höfðingja, úr predikunarstóli á sinni tíð.  Fann hann að líferni almúgans, grautarlegum boðskap geistlegra, óvandaðri málafylgju höfðingja og níðangurslegri meðferð á fátækum og umkomulausum.  Er ekki að efa, að undan hefur sviðið á sinni tíð, enda mun orðstír meistara Jóns verða uppi, svo lengi sem land þetta byggist.

Sjaldan hafa valdsmenn borgar og ríkis á seinni tíð fengið aðra eins yfirhalningu frá ritstjórn Morgunblaðsins og gaf að líta í forystugrein þann 5. marz 2019.  Hún hét:

"Verðskuldað vantraust",

og hófst þannig í nafni ritstjórans:

"Síðustu kannanir um trúverðugleika opinberra stofnana eru eftirtektarverðar.  Þær sýna, að minnst álit alls hafa menn sameiginlega á stjórn höfuðborgar landsins.  Hvorki meira né minna en 84 % þeirra þykir ekki mikið til hennar koma.  Og verður ekki sagt, að þessi hraksmánarlegi dómur þurfi að koma á óvart.  Hvert dæmið rekur annað um stjórnleysi, áhugaleysi, skort á þjónustulund hjá fyrirtæki, þar sem fyrsta boðorðið og flest hinna eiga að snúast um að veita eigendum sínum, borgarbúum, góða þjónustu.  Sú krafa á meira en fullan rétt á sér, og þá ekki sízt, þar sem gjaldtaka fyrir hana hækkar stöðugt og langt umfram þróun verðlags í landinu." 

Það þarf ekki að orðlengja það, að stjórnun Reykjavíkurborgar er í molum og að þar er skattfénu sólundað purkunarlaust í gæluverkefni, sem ekki þjóna almannahagsmunum, heldur einvörðungu sérvizku borgarfulltrúa meirihlutans og e.t.v. í einhverjum mæli duttlungum æðstu embættismanna borgarinnar.

Nú hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um sparnað í borgarrekstrinum, lækkun gjaldskráa fyrirtækja OR, og minnkun arðgreiðslna frá samsteypunni og til borgarsjóðs ásamt útsvarslækkun, og borgarstjórnarmeirihlutinn hefur af fullkomnu ábyrgðarleysi gagnvart íbúum borgarinnar og kjaraviðræðunum hafnað þessum ágætu tillögum. 

Þeim gafst þarna tækifæri til samstillts átaks borgarstjórnar við að bæta stjórnarhætti borgarinnar og gera yfirbót eftir gegndarlaust sukk og svínarí með skattfé borgarbúa.  Nú er ljóst, að Dagur Bergþóruson, borgarstjóri, verður við sama heygarðshornið, sem í hans tilviki er reyndar úti á þekju.  Óli Björn Kárason, Alþingismaður, reifaði málið í Morgunblaðsgrein sinni, 6. marz 2019:

"Sveitarfélögin og kjarasamningar":

"Í heild greiðir íslenzkt launafólk meira í útsvar en tekjuskatt. Árið 2017 fengu sveitarfélögin nær 193 milljarða [króna] í sinn hlut af launatekjum í formi útsvars, en ríkissjóður 139 milljarða, að teknu tilliti til barna- og vaxtabóta.  Lækkun útsvars er því stærra hagsmunamál fyrir flesta en að lækka tekjuskattsprósentu ríkisins.

Launamaður með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir helmingi meira í útsvar en í tekjuskatt til ríkisins, ef hann greiðir þá nokkuð, að teknu tilliti til bóta.  Þannig hefur skattastefna sveitarfélaga meiri áhrif á ráðstöfunartekjur launafólks en stefna ríkisins í álagningu tekjuskatts.  Lagfæringar á tekjuskattskerfi ríkisins bera takmarkaðan árangur gagnvart þeim, sem hafa lág laun."

Borgarstjórnarmeirihlutinn kýs að halda uppteknum hætti með útsvar í toppi og að blóðmjólka fyrirtæki sín með arðgreiðslum, sem skapast af okri á rafmagni og hitaveitu, þótt íbúarnir ættu réttu lagi að njóta arðs af auðlindum sínum með tiltölulega lágu verði á þessum lífsnauðsynjum. 

Reykjavík beitir íbúa nágrannasveitarfélaganna fjárkúgun með okri á einokunarstarfsemi á borð við hitaveitu og dreifingu rafmagns, þegar afrakstur sölunnar rennur í borgarsjóð.  Orkustofnun verður að grípa í taumana, þegar hitaveituvatn OR á höfuðborgarsvæðinu er orðið dýrara en á "köldu" svæði á borð við Egilsstaði.  Er hitaveitan látin greiða niður dýra raforkuvinnslu á Hellisheiði, sem er í samkeppni ?  

Óli Björn heldur áfram:

"Ekkert sveitarfélag er í betri stöðu en Reykjavík til að leggja sitt af mörkum, þegar kemur að kjarasamningum.  Ekki aðeins vegna þess, að í höfuðborginni er útsvar í hæstu hæðum, heldur ekki síður vegna eignarhalds á Orkuveitu Reykjavíkur. ....

Á mánudag [04.03.2019] kynnti borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins tillögur um lækkun útsvars og lækkun rekstrargjalda heimilanna.  Með þessu eigi höfuðborgin að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að greiða fyrir samningum á vinnumarkaði.  Það er því ekki tilviljun, að sjálfstæðismenn tali um "kjarapakkann", þegar þeir kynna tillögurnar.  

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka útsvarið úr 14,52 % niður í 14,0 %.  Árlega skilar lækkunin um 84 þúsund krónum í vasa fjölskyldu með tvo sem fyrirvinnu á meðallaunum.  Lagt er til, að aðgerðin verði fjármögnuð með bættum innkaupum, sem felast í auknu aðhaldi og útboðum á öllum sviðum borgarinnar.  Þrátt fyrir þessa lækkun yrði útsvarið í Reykjavík nokkru hærra en það er í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

Þá leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til, að árleg rekstrargjöld heimila verði lækkuð um 36 þúsund krónur með lækkun á hitunarkostnaði, raforkuverði, sorphirðugjaldi og vatnsgjaldi.  Það kemur eflaust einhverjum á óvart, að í Reykjavík er hitun húsa dýrari en á Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum.  Kostnaður við að kynda hús í Reykjavík er 30 % hærri en á Egilsstöðum. ( Í Reykjavík er raforkuverð einnig hærra.)  Í tillögunum er lagt til, að 13 milljarða [króna] áformaðar arðgreiðslur frá fyrirtækjum borgarinnar verði að mestu nýttar til að standa undir lækkuninni."

Það virðist vera að krystallast út sá munur á stefnumörkun hægri og vinstri manna í orkumálum, að hægri menn vilja skapa markaðsforsendur fyrir sem lægstu orkuverði til almennings og almennrar atvinnustarfsemi og samkeppnishæfu orkuverði til stóriðju, en vinstri menn (og ESB-sinnar) vilja okra á orkuverði til almennings og stóriðju, þannig að þessar náttúruauðlindir landsins veiti ekki lengur landinu neitt samkeppnisforskot.

Hægri menn telja með öðrum orðum, að inngrip í náttúru landsins, sem allar virkjanir eru, séu aðeins verjanleg til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar í landinu sjálfu, en vinstri menn vilja varpa auðlindarentunni inn í orkufyrirtækin, m.ö.o. orkan skal vera svo dýr, að hún verði skorin við nögl, en orkufyrirtækin græði samt á tá og fingri.

Jafnaðarmenn vilja flestir, að Íslendingar gangi í ESB, og þar er við lýði uppboðskerfi á raforku, sem við fákeppnisaðstæður á Íslandi og dyntóttar orkulindir náttúrunnar útheimtir samræmda auðlindastýringu, ef nýting orkulindanna á ekki að fara úr böndunum, notendum mjög í óhag.  Slík samræmd auðlindastýring samræmist hins vegar ekki  samkeppnisreglum ESB á frjálsum markaði, og þess vegna er glapræði að innleiða hér uppboðskerfið, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn skyldar aðildarþjóðirnar til að gera.  Alþingi verður að gera einhvern ábyrgan fyrir því, að lágmarka hér hættu á orkuskorti.  Eðlilegast er, að Landsvirkjun fái það hlutverk, en hún virðist nú vera búin að verðleggja sig út af markaðnum, svo að hún stendur ekki í neinum virkjanaframkvæmdum núna.  Er hún að framkalla orkuskort til að fá átyllu til að hækka raforkuverðið ?

Aftur að téðri forystugrein Morgunblaðsins:

"Því fer fjarri, að gengið sé um landið af þeirri hófsemi, sem það á skilið.  Og meira en það, landið á til þess kröfu, sem ekki verður andmælt með neinum sanngjörnum rökum.  Það hefnir sín, verði sú krafa hunsuð.

Það þarf ekki að taka nema örskotsstund að laska mynd Íslands mjög, og þar með eyðileggja sjálft aðdráttaraflið með óafturkræfum hætti.  Það gildir það sama og um landráð gegn landinu, sem ístöðulausir ráðamenn segjast neyddir í af erlendum dómstólum, sem ekki hafa lögsögu hér.  Árið 2006 nýttu menn færið, þegar aginn var farinn úr herbúðunum, til að færa EES-samninginn yfir ómengaðan íslenzkan landbúnað, þvert ofan í það, sem þjóðinni hafði verið lofað við samningsgerðina.  Verði sú ógæfugata gengin til enda, má augljóst vera, að samningurinn sá er orðinn þjóðinni verri en enginn."

Þetta er hárrétt mat hjá ritstjóra Morgunblaðsins, EES-samningurinn verður þjóðinni þá verri en enginn, ef auka á innflutning á verksmiðjuframleiddum matvælum hingað frá löndum með gríðarlega sýklalyfjagjöf og þar af leiðandi fjölónæma sýkla, sem er mikill vágestur hér, auk aukinnar hættu á dýrasjúkdómum.

Um annan vágest, sem EES-samningurinn býður nú upp á hér á Íslandi, hafa einnig verið viðhöfð þau orð af ráðamönnum, að þeir "eigi bara ekki neitt val".  Þar er um að ræða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, og alveg dæmalausa nauðhyggju, sem fellur vel að yfirborðslegum málflutningi utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem aldrei virðist kryfja nokkurt mál að gagni, heldur láta duga að fara með frasa. 

Ein vitleysan er sú, að EES sé miklu betra fyrir Ísland en ESB, af því að EFTA-ríkin hafi aðeins þurft að innleiða 13,4 % af gerðum og tilskipunum ESB.  Það, sem máli skiptir er auðvitað ekki fjöldinn, heldur umfangið.  Gerðirnar, sem ESB ætlast til að EFTA-ríkin innleiði, fara sístækkandi (og fjöldinn vex líka hratt).  Nú er farið að vöðla tilskipunum og gerðum saman í lagabálka, sem löndunum er gert að samþykkja, og vöndlarnir eru meira að segja framhaldssögur, sem enginn veit, hvernig enda.

Gott dæmi um það eru orkumarkaðslagabálkar ESB.  Sá fyrsti kom út 1996 og var innleiddur hér samhliða nýjum orkulögum 2003.  Þar er áskilinn aðskilnaður orkuvinnslu, flutnings, dreifingar og sölu.  Flutningsfyrirtækið, Landsnet, hefur þó enn ekki verið gert fyllilega sjálfstætt frá hinum.  Ríkisstjórnin hyggur fyrst núna á að bæta úr því. 

Hefur orðið merkjanlegur árangur af þessu brölti á Íslandi ?  Hann er ekki merkjanlegur í smásöluverði raforku, sem hefur heldur hækkað að raungildi.  Þess var aldrei að vænta á stórmarkaði raforku (langtímasamningar), enda er Landsvirkjun ríkjandi þar.  Líklega hefur þetta brölt ekkert gagnast almenningi.  

Annar orkumarkaðslagabálkurinn var gefinn út 2003 og innleiddur hér 2007.  Þar er frjáls samkeppni með raforku í orkukauphöll skilgreind sem það fyrirkomulag, sem gagnast muni raforkukaupendum bezt.  Það hafa ekki verið bornar brigður á, að það eigi við um aðstæður meginlands Evrópu, en það hafa hins vegar verið leidd sterk rök að því í ritgerð eftir Elías Elíasson, verkfræðing, sem fylgir þessum pistli í viðhengi, að slíkt uppboðskerfi geti orðið stórskaðlegt almennum raforkunotendum á Íslandi, hækkað meðalverðið og aukið hættu á orkuskorti.  Landsnet er samt með innleiðingu slíks markaðskerfis raforku í undirbúningi, þótt það sé valfrjálst nú, en það verður hins vegar skylda samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, eins og lesa má um í Orkumarkaðstilskipun 2009/72/EB, kafla 6. 

Í 2009/72/EB, kafla 37, er greint frá hlutverki og verkefnum Landsreglarans, og þar fer ekkert á milli mála, að Landsreglarinn verður æðsta embætti orkumála landsins.  Það er raunalegt að horfa upp á hæstaréttarlögmanninn Einar S. Hálfdánarson hengja sig í formsatriði og halda því fram, að ACER muni engin völd fá hér, af því að Ísland er ekki í ESB.

Í grein sinni,

"Til Michaels Manns, sendiherra ESB á Íslandi",

skrifar Einar S. Hálfdánarson m.a.:

"Þannig staðfesti hann [MM] (sem vitað var), að Íslandi er ekki skylt að opna raforkumarkað sinn né að veita þriðja aðila aðgang hér eða fjárfestingartækifæri.  Jafnframt, að þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, muni ACER ekki hafa neitt vald hér á landi.  Þau málefni, er lúta að Íslandi, séu á hendi ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), en ekki ACER."

Til hvers heldur téður Einar eiginlega, að ESB gerð nr 714/2009 sé samin og gefin út ?  Hún fjallar um Kerfisþróunaráætlun ESB, og þar er útlistað, að aðildarlöndin (EES) skuli aðlaga stofnkerfi sín að Kerfisþróunaráætlun ESB.  Landsreglarinn getur krafizt þess af Landsneti að gera þetta og á að tilkynna öll frávik til ACER.  Með samþykkt Orkupakka #3 skuldbindur Alþingi landsmenn til að hlýða því, sem í honum stendur, þótt allt sé þar ekki enn lagalega skuldbindandi, t.d. 714/2009.  Þá má benda á grein 12 í EES samninginum, sem bannar útflutningshömlur á vörur innan EES.  Rafmagn er vara að Evrópurétti og að neita sæstrengsfyrirtæki um aðgang að íslenzka raforkumarkaðinum er brot á grein EES #12.  

Á bls 26 í frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar 4 S (2017-2018) um samþykkt á ákvörðun Sameiginlegu EES nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017, segir svo á frummálinu um nánast algert valdaleysi ESA gagnvart ákvörðunum og beiðnum/skipunum frá ACER:

"EFTAs overvåkningsorgan skal, når det fatter slike vedtak, basere vedtaket på et utkast fra ACER.  Et slikt utkast er ikke rettslig bindende for EFTAs overvåkningsorgan.  Det er en underliggende forutsetning i den fremforhandlete modellen, at EFTAs overvåkningsorgan, kort tid etter mottak av et slikt utkast fra ACER, vil fatte et likelydende eller tilnærmet likelydende vedtak."

Hér fer ekkert á milli mála, hvor ræður, ACER eða ESA, þegar ACER vill koma málum áfram til Landsreglarans, og sama gildir til baka.  Að taka Michael Mann, sendiherra ESB, til vitnis um valdaleysi ACER hérlendis eftir innleiðinu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, er röksemdafærsla, sem engan veginn heldur máli í þessari umræðu. 

 

 

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af fjölónæmum sýklum

Sérfræðingar á sviði sýkla og veira hafa varað stjórnvöld og landsmenn alla við ógn, sem steðjar að heimsbyggðinni og þá ekki sízt afskekktri eyju, sem laus hefur verið að mestu við alvarlegar pestir, sem herjað hafa á dýrastofna og mannfólk og illa ræðst við með nútíma læknisfræði. Ofnotkun lyfja kemur nú niður á mannkyni. Í heilsufarslegum efnum eru engar haldbærar skyndilausnir til.

Hér er m.a. um að ræða sýkla, sem myndað hafa ónæmi gegn sýklalyfjum og verða þar með óviðráðanlegir, ef ónæmiskerfið er veikt fyrir.  Ótímabærum dauðsföllum fjölgar mjög af þessum sökum, og telja sérfræðingar, að lýðheilsunni stafi einna mest ógn af þessari vá í náinni framtíð. Það ætti að vekja almenning til umhugsunar um lífshætti sína, og hvað má bæta til að styrkja ónæmiskerfið.

Af þessum sökum þurfa yfirvöld nú þegar að leggja sitt að mörkum með því að hefja sinn viðbúnað og beita beztu þekktu aðferðarfræði á þessu sviði.  Hún er m.a. fólgin í auknum kröfum á hendur birgjum um upprunavottorð og gæðatryggingar varðandi matvæli, sem flutt eru til landsins, og með mótvægisaðgerðum á sjúkrahúsum.

Yfirvöldum ber siðferðisleg skylda til að hlusta meira á sérfræðinga á heilbrigðissviði en á heildsala og að hlýða vandlega á aðvörunarorð og ráðleggingar manna á borð við prófessor Karl G. Kristinsson, sýkla- og ónæmisfræðing.  Það verður einfaldlega að grípa til þeirra aðgerða, sem duga að mati sérfræðinga um sýkla og veirur, þótt þær kunni að brjóta í bága við reglur EES-samningsins um óheft viðskiptafrelsi.  Þær reglur voru ekki samdar með sérstöðu Íslands í huga. Að samþykkja, að erlendar reglusetningar, sem að beztu manna yfirsýn eru ógn við lýðheilsu og geta valdið stórfelldu tjóni hér á bústofnum, gildi hér framar ströngustu varúðarráðstöfunum, hlýtur að vera í blóra við stjórnarskrá lýðveldisins, sem kveður á um fullveldi rétt kjörinna fulltrúa þjóðarinnar til að taka nauðsynlegar ákvarðanir í þágu hennar hagsmuna.

Nýja sjúkrahúsið við Hringbraut þarf að verða miðstöð varna gegn þessum vágesti.  Verður að vona, að hönnuðir "meðferðarkjarnans" hafi fengið fyrirmæli um að hanna beztu fáanlegu aðstöðu til að einangra sjúklinga í sóttkví og að sótthreinsa allt með fljótlegum hætti, sem út af slíkum sóttkvíum fer.

  Líklegast til árangurs er að sækja fyrirmyndir um tæknilegar útfærslur og lausnir til Hollands, en Hollendingar hafa náð næstbeztum árangri í viðureigninni við "ofursýkla" á borð við MRSA ("methycillin-resistant staphylococcus aureus") og CRE ("carbapenem-resistant Enterobacteriaceae") og eiga sérhannaða aðstöðu á sjúkrahúsum sínum fyrir þessar varnir.

Árið 2015 var fjöldi dauðsfalla á 100´000 íbúa í nokkrum Evrópulöndum af völdum ofusýkla eftirfarandi, og þeim fer ört fjölgandi:

  • Ítalía       18
  • Grikkland    15
  • Portúgal     11
  • Frakkland     8
  • Rúmenía       7
  • Bretland      4
  • Þýzkaland     3
  • Noregur       1
  • Holland       1
  • Eistland      1

 

Ofursýklar þessir geta verið á húðinni, í nefinu eða í þörmunum, þar sem þeir eru þó venjulega óskaðlegir.  Ef þeir hins vegar sleppa í sár eða komast inn í blóðrásina, verða þeir hættulegir.  Í Evrópu má rekja 73 % dauðsfalla af völdum ofursýkla til sýkinga á sjúkrahúsum. Almennt hreinlæti á sjúkrahúsum er ódýr og árangursrík aðferð í þessari baráttu. 

Í nóvember 2018 gaf OECD út samanburð á aðferðum til að fást við ofursýkla.  Stofnunin setti bættan handþvott á sjúkrastofnunum efst á blað til að fækka dauðsföllum og stytta sjúkrahússvist.  Að framkvæma ráðleggingar OECD til fullnustu á 70 % sjúkrastofnana er áætlað, að kosti USD 0,9-2,5 á hvern íbúa á ári, sem við núverandi aðstæður á Íslandi gæti kostað um 360 kUSD/ár eða rúmlega 40 MISK/ár, sem eru smápeningar í heilbrigðisgeiranum.  Ef hins vegar ekki er verið á verði í þessum efnum, mun árlegur kostnaður hlaupa á tugum milljarða í framtíðinni.  

 


Innviðagerðin, "NorthConnect og Ice-Link"

Hvað gerist, ef Ísland eða Noregur hafnar umsókn um leyfi til að leggja sæstrengingina Ice-Link og NorthConnect ?  Höfnun er ekki hægt að rökstyðja með því, að Íslendingar og/eða Norðmenn vilji koma í veg fyrir verðhækkun á raforku.  Slíka yfirlýsingu mun Evrópusambandið, ESB, líta á sem mismunun (eftir búsetu), sem er ólögleg að Evrópurétti.  

Í Noregi hefur fyrirtækið NorthConnect sótt um leyfi fyrir sæstreng til Skotlands (Petershead).  Enn hefur engin umsókn borizt hingað til lands um Ice-Link, svo að vitað sé, en fyrirhuguð lega hans er frá Suðaustur-Íslandi til Skotlands. Eðlilega bíða fjárfestar eftir BREXIT.  Hvort Bretar verða áfram í Orkusambandi ESB (ACER) veit enginn, en hitt er öruggt, að þeir munu halda áfram miklum orkuviðskiptum gegnum aflsæstrengi til meginlandsins. 

Í Noregi var það eitt átta skilyrða Verkamannaflokksins fyrir samþykki Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Stórþinginu í marz 2018, að ekkert skyldi verða af NorthConnect verkefninu, a.m.k. ekki fyrr en reynsla hefði fengizt af áhrifum sæstrengja til Þýzkalands og Bretlands, sem fara eiga í rekstur 2020-2021.  Hérlendis boðaði iðnaðarráðherra haustið 2018 framlagningu lagafrumvarps um, að Alþingi skuli eiga síðasta orðið um leyfisveitingu fyrir aflsæstreng til útlanda, en ekkert bólar á því, enda mundi slíkt verða á skjön við samþykki Orkubálks ESB #3.  Þannig bærust gagnstæð skilaboð frá Reykjavík til Brüssel. Hún virðist nú hafa haft buxur með, að slík lagasetning verði út í loftið, því að hún hefur haft á orði, að ákvæði EES-samningsins, sem banna hömlur á inn- og útflutningi vöru og þjónustu, ógildi slíka lagasetningu Alþingis. 

  Hins vegar eru bæði NorthConnect og Ice-Link innfærðir í Kerfisþróunaráætlun ESB, og báðir eru á forgangsverkefnaskrá (PCI) um sameiginleg hagsmunaverkefni ESB.  Að búa í haginn fyrir vel virkt orkukerfi og orkumarkað í ESB, með innviðauppbyggingu, er verkefni nr 1 hjá Orkusambandi ESB og orkustofnun þess, ACER. 

Innviðagerðin á að mynda snurðulausan feril fyrir samtengiverkefnin.  

Það eru þó áfram orkustofnanirnar, t.d. OS og NVE, sem eiga að afgreiða umsóknir um millilandatengingar, en Innviðagerð ESB torveldar mjög höfnun eða frestun.  Innviðagerðin frá 2013 (#347/2013) er ekki hluti af Orkupakka #3, en er ein af mörgum ESB-reglugerðum á orkumálasviði, sem hafa verið settar í bið á skrifstofum EES, þar til Ísland, Noregur og Liechtenstein ganga í ACER án atkvæðisréttar. Það gæti staðið í þeim, ef þau væru látin gleypa of stóra munnbita í einu. Hér birtist enn hin alræmda spægipylsuaðferð ESB, einnig nefnd gúrkuaðferðin, sem slævir vitundina í þjóðríkjunum gagnvart ásælni hins fjölþjóðlega valds.  

Engum blöðum er þó um það að fletta, að verði Orkupakki #3 felldur inn á EES-samninginn, mun koma þrýstingur á þessi EFTA-lönd að innleiða orkutengdar reglugerðir og tilskipanir, sem hafa verið settar í  bið.  Orkupakki #3 kann því að líta sakleysislegri út í augum einhverra en efni standa til.  Hér eru nokkur atriði úr téðri innviðagerð:

  • Samkvæmt grein 7 í #347/2013 skulu PCI-verkefni njóta forgangs í Kerfisáætlun viðkomandi lands, hér Landsnetsáætlun til skemmri og lengri tíma, og við afgreiðslu leyfisumsókna.  Þetta þýðir, að Landsnet og Orkustofnun hafa ekki lengur (eftir innleiðinguna) frjálsar hendur um röðun verkefna og fjárveitingar, heldur verður að taka flutningsmannvirki innanlands fyrir Ice-Link fram fyrir önnur verkefni í þeim mæli, sem nauðsynlegt er, til að gæta samræmis við tímaáætlun ESB. Það vitnar um skammsýni orkumálayfirvalda hérlendis, að þau skyldu fallast á, án ráðfærslu við Alþingi, að aflsæstrengur til útlanda færi inn á verkefnaskrá ESB.  Eftir aðild að ACER verður þess ekki langt að bíða, að ACER taki sjálfstæða ákvörðun um slíkt, jafnvel þótt viðkomandi yfirvöld séu því ósamþykk. Íslendingar fá ekki atkvæðisrétt í ACER fyrr en við inngöngu í ESB.  Vilja Íslendingar með þessum hætti láta spenna sig fyrir vagn ESB, sem bráðvantar endurnýjanlega orku frá Norðurlöndunum, þar til nýjar, sjálfbærar orkulindir hafa verið þróaðar í ESB ?  Það er ekkert vit í því og alger óþarfi. Þeir, sem vilja þetta, eru með bundið fyrir bæði augu.
  • Samkvæmt grein 10 skal ekki vera neitt sleifarlag á afgreiðslu umsókna um PCI-verkefni hjá orkustofnunum, heldur skal afgreiða umsókn innan 18 mánaða frá móttöku. Þó má fresta afgreiðslu um 9 mánuði upp í 27 mánuði að hámarki, en þá þarf að rökstyðja frestunina rækilega fyrir ACER. Þannig á ACER að fylgja forgangsverkefnum ESB fast eftir. Nú er í vinnslu hjá NVE umsókn frá NorthConnect.  Statnett (norska Landsnet) hefur lagzt gegn þessum sæstreng að svo komnu máli.  Hér verður um prófmál að ræða, ef Alþingi samþykkir inngöngu Íslands í ACER, því að Noregur og Liechtenstein hafa þegar samþykkt, en samþykki Íslands þarf til staðfestingar. 
  • Grundvöllur mats á umsókn um millilandaverkefni er samfélagsleg arðsemi þess.  Samfélagið í þessu sambandi er hvorki Noregur né Ísland, heldur EES.  Samkvæmt grein 11 skal rafmagnsflutningsfélag Evrópu, ENTSO-E, þar sem Landsnet og Statnett eru aðilar, semja samræmdar matsreglur, sem bæði ACER og framkvæmdastjórn ESB verða að staðfesta. Þessar samræmdu matsreglur munu þess vegna alveg áreiðanlega þjóna hagsmunum ESB framar öðru.  Það verður lítil sem engin hagsmunagæzla fyrir Ísland sjáanleg í skjali, þar sem gæta á hagsmuna 500 milljóna. Að láta sér detta í hug að undirgangast þetta vitnar um fullkomið dómgreindarleysi.  
  • Samkvæmt grein 6 skal útnefna evrópska samræmingaraðila fyrir verkefni, sem steyta á skeri, þ.e. mæta andstöðu í einhverju landi. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að lítið land verður ekki tekið neinum vettlingatökum, ef það verður með uppsteyt.  
  • Í viðkomandi landi skal mynda faglegt yfirvald, sem ber ábyrgð á að undirbúa og samræma rekstur PCI-verkefnis. Landsreglarinn, sem gefur skýrslur beint til ESA/ACER, en ekki til íslenzkra yfirvalda, mun áreiðanlega gegna lykilhlutverki við þetta verkefnaeftirlit.

Hvað gerist, ef Ísland eða Noregur hafnar umsókn og skozki meðeigandinn kærir höfnunina til framkvæmdastjórnar ESB og ESA ?

 

Þá kemur ACER til skjalanna. Í Skotlandi eiga einkafyrirtæki helmingshlut í aflsæstrengjum og þurfa að fjármagna þá samkvæmt því. Þau hafa nú þegar lagt í útgjöld vegna strengjanna, sem hér eru til umræðu, a.m.k. vegna NorthConnect,  sem kominn er lengra í undirbúningi, og ekki er við því að búast, að þau taki höfnun Noregs eða Íslands góða og gilda.  

ACER var stofnuð til að fjölga millilandatengingum innan ESB og til að leysa úr deilum þeirra vegna á milli ríkja.  Ef PCI-verkefni rekst á hindranir, sem er alvarlegt, ef þær eru af pólitískum toga, á ACER að gefa strax um málið skýrslu til framkvæmdastjórnar ESB, sem mun áreiðanlega bregðast skjótt við til að kveða andstöðu niður, andstöðu, sem vanvirðir Kerfisþróunaráætlun ESB og hundsar forgangsverkefnaskrána, PCI.  Halda menn, að íslenzk stjórnvöld muni hafa bein í nefinu til að standa gegn þrýstingi Framkvæmdastjórnarinnar ?  Ekki núverandi utanríkisráðuneyti, sem þegar er gengið í björg (ESB).

ACER á að leita lausnar á deilunni, en um þetta hlutverk halda meðmælendur ACER-aðildar því fram, að ACER geti aðeins úrskurðað um tæknileg viðfangsefni og deilur um skiptingu útgjalda og tekna. Er það rétt ?

Austurríki gerði ágreining við Þýzkaland um mörk flutningsgjalds millilandatenginga.  ACER tók ákvörðun, og nú er deilumálið hjá ESB-dómstólnum.  Þetta er alls ekki "bara tæknilegt" viðfangsefni, heldur í hæsta máta rekstrarlegs og viðskiptalegs eðlis.  Meðmælendum ACER-aðildar er alveg sama um hætturnar, sem hag landsins stafar af ACER-aðild.  Allt verður undan að láta, þegar þjónkun við Sameiginlegu EES-nefndina og Framkvæmdastjórnina er annars vegar.

Þann 7. febrúar 2018 samþykkti framkvæmdastjórn ESB heimild til takmarkana á orkuflutningum til 6 ESB-landa.  Það voru útflutningstakmarkanir m.t.t. afhendingaröryggis orku í viðkomandi löndum, sem málið snerist um.  Þýzkaland og Belgía höfðu sitt fram, en aðeins um stundarsakir.  Hér kom ACER ekki við sögu, þótt merkilegt megi telja, heldur úrskurðaði Framkvæmdastjórnin á grundvelli banns við ríkisstyrkjum.  Framkvæmdastjórnin tók sem sagt ákvörðunina á þeim grundvelli, að afskipti hins opinbera af orkuútflutningi mætti jafna til ríkisstyrkja til atvinnurekstrar í viðkomandi landi.  

Gagnvart Íslandi þýðir þetta, að hlutist íslenzk stjórnvöld til um takmörkun á orkuútflutningi um sæstreng til að draga úr líkum á orkuskorti í landinu og um málið rís ágreiningur, sem fer fyrir dómstól, t.d. EFTA-dómstólinn, þá ríkir óvissa, eins og sakir standa, um dómsniðurstöðuna, þótt túlkun Framkvæmdastjórnarinnar á reglunum sé ljós. Hún vegur þungt og er í þessu tilviki ógnvænleg fyrir Íslendinga.

Almennt er líka lagt bann við takmörkunum á millilandaviðskiptum með vöru og þjónustu í EES-samninginum.  Með öflugan aflsæstreng á milli Íslands og útlanda, þar sem íslenzk yfirvöld mega ekki grípa í tauma rekstrarins fyrr en allt er komið í óefni, setur allt þjóðlífið í uppnám. Þetta er aðeins eitt af mörgum atriðum, sem gera lögsögu ACER/ESB yfir millilandatengingum orkuríkrar eyjar norður í Atlantshafi gjörsamlega óaðgengilega fyrir eyjarskeggja.

Hvernig verður að rökstyðja höfnun á Ice-Link eða NorthConnect ?:

Það er aðeins hægt, ef kostnaðar- og nytjagreining leiðir til þeirrar niðurstöðu, að verkefnið sé ekki samfélagslega arðsamt, þar sem samfélagið er EES, og ACER viðurkennir, að niðurstaðan sé rétt fengin.   Samkvæmt samræmdri aðferðarfræði kostnaðar- og nytjagreiningar, sem mælt er fyrir um í gerð #347/2013, má ganga út frá því sem vísu, að öll PCI-verkefni, og ofangreind verkefni eru slík forgangsverkefni, séu samfélagslega arðsöm.  

Höfnun er t.d. ekki unnt að rökstyðja með því, að yfirvöld í viðkomandi landi vilji halda tiltölulega lágu orkuverði til almennings.  Frá sjónarhóli ESB jafngildir slíkt ríkisstuðningi og mismunun ESB-borgara og ESB-iðnaðar.  Íslendingar virkjuðu orkulindir og iðnvæddust af takmörkuðum efnum, en samt án þess að láta af hendi stjórn á erfðasilfrinu.  Nú ætla stjórnvöld að glopra þessari stjórn úr höndum sér með endemis klaufagangi og færa hana á silfurfati til ACER og framkvæmdastjórnar ESB. Þetta er í senn hneyksli og sorgarsaga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband