Færsluflokkur: Dægurmál

Fjaðrafok út af ECT

Það varð töluverður ys og þys út af engu í viku 38/2019, þegar vefmiðill nokkur tók af óþekktum ástæðum að bera saman alþjóðlegan sáttmála, "Energy Charter Treaty" og Orkupakka 3 (OP#3).  Eins og sjá má í viðhengi með þessari vefgrein, er þarna ólíku saman að jafna.  

Engu var líkara en með þessu upphlaupi hafi átt að koma höggi á Miðflokkinn vegna þess, að formaður og varaformaður hans gegndu stöðum forsætisráðherra og utanríkisráðherra, þegar Ísland gerðist aðili að þessum alþjóðlega sáttmála, þar sem jafnvel Sviss á aðild.  Potturinn og pannan í þessu máli hefur hins vegar væntanlega verið fagráðherrann, ráðherra orkumála, iðnaðarráðherrann Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra Sjálfstæðisflokksins.  

Utanríkisráðherra kemur hins vegar að öllum slíkum samningum við erlend ríki, og hann undirritaði fyrir Íslands hönd, og dr Ólafur Ragnar Grímsson, fullgilti þennan samning.  Það er athyglisvert í þessu sambandi, að Norðmenn, sem búa yfir gríðarlegum orkulindum, eru aðilar að samninginum, en hafa enn ekki fullgilt hann.

Það er jafnframt athyglisvert, hversu litla þinglega meðferð samningar af þessu tagi fá.  Látið er duga að kynna mál, sem ekki þarfnast lagabreytingar og ekki fela í sér fjárhagsskuldbindingar, í utanríkismálanefnd, ef þá svo mikið er viðhaft.  Leikmanni virðist eðlilegra, að samnin sé þingsályktunartillaga og fjallað um hana í þinginu, en Skrifstofa Alþingis hefur staðfest, að við afgreiðslu ECT var alls ekki brugðið út af vananum, eins og þó hefur verið látið liggja að. 

Hvers vegna var talið rétt, að Ísland gerðist aðili að ECT ?  Líklegast er, að þrýstingur hafi verið á það að hálfu íslenzkra fyrirtækja, sem stunda fjárfestingar, rannsóknir, ráðgjöf og verktöku, utan EES, t.d. í Þriðja heiminum, svo kallaða, þar sem eignarréttur og lagarammi um framkvæmdir er með öðrum hætti en hérlendis.  Íslenzk fyrirtæki hafa t.d. stundað starfsemi í Afríku og Asíu á sviði jarðhitanýtingar, og þeim gæti gagnazt ECT, ef í harðbakka slær.

ECT var vissulega hugsaður til að hvetja til orkuflutninga yfir landamæri, eins og OP#3, en lengra nær samanburðurinn ekki.  Það er fátt annað sameiginlegt með þessum tveimur gjörningum, og þess vegna fánýtt að taka að sér að bera saman þessa tvo gjörninga.  Annar er sáttmáli jafnrétthárra þjóða um fjárfestingar í orkugeiranum og meðferð ágreiningsmála, sem þær kunna að leiða af sér, en hinn er samningur með yfirþjóðlegu sniði, þar sem víðtæk völd eru veitt embætti (Landsreglara), sem fært er undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og ACER - Orkustofnun ESB, sem er undir stjórn Framkvæmdastjórnar ESB, sjá nánar viðauka með þessum pistli.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Það fer að krauma undir

Jón Gunnarsson, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum), ritaði grein í Morgunblaðið 6. september 2019 og sýndi þar rétt einu sinni, hversu árvökull, athugull og ákveðinn þingmaður hann er, enda er hann nú orðinn ritari flokksins. Hann gerði þar m.a. að umræðuefni aðfarir umhverfisráðherrans við friðlýsingu á öllu vatnasviði Jökulsár á Fjöllum, en þar virðist sá fara offari miðað við lagaheimildir sínar.  Ef þingið ekki ómerkir þessa gjörð hans, er hætt við málssóknum á hendur ríkinu og jafnvel skaðabótakröfum.  Þarna er flaustur á ferð í stað lýðræðislegra viðræðna við viðkomandi sveitarfélög, hagsmunaaðila og umræðna á Alþingi.  Málið hlýtur að hafa verið reifað í ríkisstjórn fyrst, og má furðu gegna, að enginn ráðherra virðist hafa gert athugasemd eða hreyft mótmælum. 

Jón segir óstjórn vera á orkumálum landsins og skal taka undir það.  Þar hlýtur ANR (auðlinda-, nýsköpunar og ferðamálaráðuneytið), sem hýsir orkumálin, að eiga höfuðsök.  Ráðherra þar er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og var tímabært, að þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyndi að ráðsmennsku hennar, sem mest einkennist af þekkingarleysi (OP#3) og athafnaleysi (aflskortur yfirvofandi í vetur samkvæmt Landsneti).

Jón Gunnarsson hóf grein sína:

"Lífið eftir orkupakkann",

þannig:

"Þá er búið að afgreiða orkupakkamálið í bili.  Það hefur verið okkur góð lexía um mikilvægi þess, hvernig staðið verður að sambærilegum málum tengdum EES-samningnum í framtíðinni.  Ég var einn af efasemdarmönnum í Sjálfstæðisflokknum, en eftir þá vinnu, sem fram fór, voru þær áhyggjur ekki lengur til staðar.  Að þessu máli loknu tel ég, að mikilvægasta umræðan sé eftir; það, hvernig við ætlum að tryggja heimilum og fyrirtækjum þessa lands næga raforku á lægsta verði, sem þekkist í þeim löndum, sem við berum okkur saman við."

Textinn þarfnast útleggingar:  Orkupakkamálið mun reka á fjörur okkar aftur.  Umræðan sýndi, að undirbúningi ráðuneytanna var mjög ábótavant, og það verður að kryfja málin betur næst m.t.t. íslenzkra hagsmuna.  Ég óttaðist í upphafi, að hagsmunir Íslands væru fyrir borð bornir, en eftir sameiginlega yfirlýsingu Miguels Canetes og Guðlaugs Þórs og setningu fyrirvara í þingsályktanir og lög tel ég hagsmunum okkar borgið. Nú er málið að hindra afl-og orkuskort og að tryggja áframhaldandi samkeppnisforskot íslenzkra fyrirtækja í krafti lágs raforkuverðs. 

Blekbóndi deilir ekki áhyggjuleysi Jóns út af skaðleysi OP#3, en "den tid, den sorg".  Framtíðin mun leiða það í ljós.  Það er alveg rétt hjá Jóni, að það er verk að vinna á orkumálasviði við að tryggja hagsmuni almennings, heimila og fyrirtækja, því að flotið hefur verið sofandi að feigðarósi, á meðan raforkuverð til heimila hefur hækkað að raunverði um 7 % - 8 %, síðan OP#1 var innleiddur hérlendis.  Ef almenningur hefði ekki verið snuðaður um beinan ávöxt eigna sinna sinna í orkugeiranum, hefði raunverðlækkun átt sér stað á þessu 15 ára tímabili. Um allt þetta má lesa í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019.

Framtíðarvandinn er sá, að OP#3 felur í sér hættu á enn meiri raunverðhækkunum á næstu 15 árum, og Jón, Alþingismaður og ritari, mun hafa svipt sig völdum til áhrifa á þessu sviði með því að lúta flokksaga 02.09.2019 á Alþingi.  

"Það er kynleg staða og óásættanleg, sem orkumálaráðherra okkar er komin í, þegar hún þarf að ræða útfærslur á skerðingu á afhendingu raforku á næstu árum.  Í mínum huga er einfalda svarið við þeirri spurningu, að á vakt Sjálfstæðisflokksins kemur ekki til skerðinga í raforkukerfi okkar.  Við munum sjá til þess, að heimili og fyrirtæki í þessu orkuríka landi hafi næga ódýra raforku og að sköpuð verði tækifæri til að byggja upp nýjungar í verðmæta- og atvinnusköpun um allt land."

Þetta er gott og blessað, en staðan er einfaldlega sú núna, að verið er að brenna olíu til raforkuvinnslu vegna staðbundins raforkuskorts, og í vetur býst Landsvirkjun við aflskorti á landsvísu, en veit ekki, hvar hann muni koma niður.  Allt gerist þetta á vakt orkuráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem virðist samt hvorki hræra legg né lið.

Þegar Jóhann Már Maríusson var aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar minnist blekbóndi þess, að hann kallaði fulltrúa helztu viðskiptavina fyrirtækisins á sinn fund til að kynna þeim þá stefnu Landsvirkjunar að eiga að lágmarki 250 GWh varaforða í kerfinu.  Þessu var mjög vel tekið af viðskiptavinum.  Nú þyfti varaforðinn að vera meiri, en þessi stefna Landsvirkjunar hefur hins vegar verið lögð fyrir róða, illu heilli.  Hvers vegna koma ekki fyrirmæli frá fulltrúa eiganda Landsvirkjunar, ríkisstjórninni, um, að Landsvirkjun skuli tafarlaust koma sér upp tilteknum varaforða ?  

Á sama tíma og forsætisráðherra segir loftslagsmálin hafa algeran forgang í landinu, er minna framboð en spurn eftir endurnýjanlegri orku.  Setja verður enn meiri kraft í að afnema alla flöskuhálsa í kerfinu.

"Baráttan um Hvalárvirkjun er kannski skýrasta dæmið, sem við okkur blasir í dag.  Í umræðum á Alþingi á sínum tíma bentu þeir, sem skemmst vilja fara mér og öðrum á þennan virkjanakost, sem Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, setti í nýtingarflokk.  "Nýtið þennan virkjunarkost áður en þið biðjið um aðra möguleika", var haft á orði.  Nú, þegar sá kostur hefur farið allt torsótta ferlið, fer þetta sama fólk í baklás og vill koma í veg fyrir framkvæmdir."

Þetta er réttmæt ábending.  Ferlið að framkvæmdaleyfi fyrir virkjanir og flutningsmannvirki er allt of torsótt og seinlegt. Tímafrestir fyrir kærur og úrlausn þeirra eru of rúmir.  Núverandi þunglamalega kerfi gerir undirbúning og framkvæmdir óþarflega dýrar, sem auðvitað kemur niður á neytendum. Flokkunin í nýtingu, bið og vernd er of losaraleg.  Taka þarf með í reikninginn þjóðfélagslegar og efnahagslegar afleiðingar af að leyfa ekki virkjun.  Áður en virkjanakostur er settur í vernd þarf að tiltaka virkjanaútfærsluna, sem miðað er við, svo að hægt sé að endurskoða flokkunina með minna umhverfisraski. 

"Umhverfisráðherra hefur ekki getað lagt fram nýja rammaáætlun vegna þess, að hann á rætur sínar í þeim hópi fólks, sem telur, að ekki eigi að virkja meira á Íslandi.  Þess sé ekki þörf.  Lög um rammaáætlun gera ekki ráð fyrir stöðnun, og auðvitað er það svo, að umræða um þriðja orkupakkann eða önnur umræða um orkuauðlindina væri óþörf, ef slíkri stefnu væri framfylgt.  Ég fullyrði, að það var ekki skilningur þingmanna, þegar málið var á sínum tíma afgreitt í víðtækri sátt á Alþingi.  

Umhverfisráðherra er upptekinn af því þessa dagana að efna til friðlýsingar á grundvelli þessara laga. Aðferðafræði hans stenzt að mínu mati enga skoðun, og hafa margir hagsmunaaðilar fullyrt, að ekki sé farið að lögum í þeirri útfærslu, sem hann boðar.  Ég er sammála því, að verklag hans samræmist ekki lögunum.  Í því sambandi má nefna, að dettur einhverjum í hug, að Alþingi hafi framselt slíkt vald til eins manns, að hann geti að eigin geðþótta ákveðið friðlýsingarmörk.  Það er annarra að gera það og Alþingis að afgreiða samhliða rammaáætlun hverju sinni."

Það var misráðið að láta umhverfisráðherra eiga frumkvæði að vinnu við Rammaáætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta.  Eðlilegra er að fela ráðherra orku, iðnaðar, ferðamála og nýsköpunar þetta hlutverk, og viðkomandi þingnefndir ættu auðvitað að geta tekið frumkvæði líka.  Þingviljinn á að ráða þessu, og núverandi umhverfisráðherra er ekki þingmaður, sem gerir málið enn ólýðræðislegra.  Það er nauðsynlegt að ógilda umræddar gerræðislegar friðlýsingar hans á Jökulsá á Fjöllum; annars er afar líklegt, að málarekstur hefjist gegn ríkinu, og þeim málum mun ríkið líklega tapa, eins og allt er í pottinn búið.  Orkumálastjóri tók undir með Jóni Gunnarssyni um þessar friðlýsingar umhverfisráðherra í fjölmiðlaviðtali 7. september 2019, og fjármála- og efnahagsráðherra gerði það efnislega daginn áður.

Formaður þingflokks sjálfstæðismanna hefur að vísu séð ástæðu til að taka fram, að Jón tali ekki fyrir hönd þingflokksins, en vegna þess, að forsætisráðherra ber ábyrgð á þessum umhverfisráðherra og styður hann í vafasömum gjörningum hans, er ljóst, að um alvarlegt mál er að ræða fyrir ríkisstjórnina.  Jón Gunnarsson er áreiðanlega ekki einn á báti á meðal stjórnarliða. 

  

 

 


Stjórn Landsnets fær yfirkápu samkvæmt OP#4

Samkvæmt rafmagnstilskipun, RT, Orkupakka #4 (OP#4), #2019/944, er gengið ótrúlega langt í að taka völdin úr höndum stjórnar Landsnets, sem ríkisstjórnin nú stefnir á, að ríkissjóður eignist beint.  Í RT gr. 47.10 stendur, að Landsreglari eigi að votta, að Landsnet fari eftir gr. 47.

Til að gulltryggja, að Landsneti sé stjórnað að forskrift og fyrirmælum Evrópusambandsins (ESB), þá hefur ESB búið svo um hnútana, að stofnað verður embætti samræmingarstjóra (compliance officer), sem á að fylgjast með starfsemi Landsnets og vakta stjórnendur þess.  Starfið skal vera á vegum stjórnar Landsnets, en Landsreglarinn skal fá allar meginákvarðanir um embættið til samþykktar.  Það er ljóst, að æðsta stjórn Landsnets fær þarna yfirfrakka, sem á að halda Landsneti á línunni, sem mörkuð verður hjá ACER.

 Samræmingarstjórinn á að senda fjárfestingaráætlun Landsnets fyrir flutningskerfið til Landsreglarans og ACER, um leið og hún fer til stjórnar Landsnets.  Sé ósamræmi á milli fjárfestingaráætlunarinnar og 10-ára áætlunar ESB um þróun raforkuflutningskerfa álfunnar, þá ber samræmingarstjóranum að vekja athygli Landsreglarans á því í skýrslu.  Samræmingarstjórinn hefur rétt til fundarsetu á öllum fundum innan Landsnets, sem varða stofnraforkukerfi landsins.  Landsnet á að koma sér upp verklagsreglum, sem tryggja samræmi áætlana fyrirtækisins við fyrirætlanir ESB.

Af þessum heimildum Evrópusambandsins í OP#4 er ljóst, að ESB mun yfirtaka stjórnun á Landsneti.  Þótt íslenzka ríkið muni eiga sína fulltrúa í stjórn fyrirtækisins, verða stefnumarkandi völd ekki í þeirra höndum.  Með samþykkt OP#4 færi fram altækt valdframsal íslenzka ríkisins til ESB á sviði raforkuflutninga.  Mun ESA verða milliliður fyrir samræmingarstjórann, eins og fyrir Landsreglarann.  Fremur er það ólíklegt.  Þetta er gjörsamlega ótækt fullveldisframsal, sem ber að kæfa í fæðingunni með höfnun OP#3.  Að öðrum kosti er verið að gefa undir fótinn um samþykki við OP#4.

HVERNIG FÆR ESB VILJA SÍNUM FRAMGENGT UM TENGINGU AFLSÆSTRENGJA Á MILLI LANDA ?

Samkvæmt rafmagnstilskipun OP#4, gr. 52, ber Landsneti annað hvert ár að senda Landsreglaranum Kerfisáætlun sína fyrir næstu 10 ár með tímaáætlun fyrir öll verkefni. Þar skal að fullu ("fully take in account") taka tillit til nýjustu útgáfu Kerfisþróunaráætlunar ESB og fyrirætlana um þróun svæðisbundinna flutningskerfa.

Landsreglaranum ber samkvæmt RT gr. 51.5 að gaumgæfa og sjá til þess, að Kerfisáætlun Landsnets sé í samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB fyrir næstu 10 ár.  Ef minnsti vafi leikur á um, að svo sé, skal gera ACER grein fyrir þeim efa.  Samtímis getur Landsreglarinn sjálfur farið þess á leit við Landsnet að breyta áætlunum sínum til samræmis við ESB. Með öðrum orðum: ef ESB hefur sett aflsæstreng til Íslands inn á Kerfisþróunaráætlun sína, eins og raun er á núna með "Ice-Link", þá mun Landsneti bera skylda til að setja þennan sama sæstreng inn á sína Kerfisáætlun, þótt lög frá Alþingi banni fyrirtækinu þetta, eins og ætlunin er með innleiðingu OP#3. Hér er ríkisstjórnin augljóslega að efna til mikils ófriðar við ESB og deilna, sem EFTA-dómstóllinn vafalaust mun dæma ESB í vil, lendi deilumálið þar.   

Ef Landsnet lætur hjá líða í 3 ár að framkvæma 10 ára áætlun sína, þá yfirtekur Landsreglarinn formlega stjórn Landsnets.  Samkvæmt RT gr. 51.7 munu Landsneti þá verða gerðir eftirtaldir úrslitakostir:

  1. að ráðast í fjárfestinguna
  2. að fela öðrum fjárfestinguna eða
  3. fara í fjármagnsöflun til framkvæmdanna með þátttöku annarra fjárfesta
Þegar fjárfesting er komin inn á áætlun Landsnets, þá verður engrar undankomu frá ESB auðið að raungera hana.  Gjaldskrár flutningskerfisins eiga að standa undir öllum þessum kostnaði, svo að raforkunotendur á Íslandi, almennir og stóriðjan, geta búizt við verulegum gjaldskrárhækkunum.  Sú hefur raunin orðið annars staðar undir Landsreglara, t.d. í Svíþjóð.
 
Hér hefur einvörðungu verið fjallað um yfirtöku Evrópusambandsins á raforkuflutningskerfi landsmanna við samþykkt OP#4.  Undirbúningur þessarar yfirtöku á sér stað með OP#3.  ESB ætlar markaðnum hins vegar að ráða yfir raforkuvinnslunni sjálfri, eins og bezt sést með málarekstri Framkvæmdastjórnarinnar gegn 8 löndum ESB, þar sem hún fettir fingur út í úthlutun ríkisins á vatnsréttindum til ríkisfyrirtækja. 
Finna á markaðsverð fyrir þessi réttindi að kröfu Framkvæmdastjórnarinnar, og það er einvörðungu hægt með uppboði eða útboði, sem líklega verður á sameiginlegum EES-markaði.  
Nýleg rekistefna ESA í garð norska ríkisins mun óbeint  leiða í ljós, hvort vatnsréttindi Landsvirkjunar verða að fara sömu leið á markað.  Stjórn landsmanna á orkumálum landsins fer út í veður og vind með samþykkt OP#3 og OP#4.  Hinni verðmætu afurð orkulinda landsins verður þá beitt fyrir vagn hagkerfis ESB-landanna undir yfirskyni loftslagsverndar.  Þannig horfa þessi mál við, þegar umbúðum "sjálfstæðrar Orkustofnunar fyrir bætta neytendavernd" hefur verið svipt burt.
  
 
 

 


"Um lagalega óvissu, sem fylgir orkupakkanum"

Þann 19. júní 2019 birtu 2 aðstoðarmenn utanríkisráðherra, faðir annars þeirra og 5 aðrir hæstaréttarlögmenn yfirlýsingu í Morgunblaðinu, sem átti að vera andsvar við yfirlýsingu 5 hæstarréttarlögmanna í Morgunblaðinu nokkrum dögum áður um hættuna á skaðabótakröfum á hendur íslenzka ríkinu vegna rangrar og ófullkominnar innleiðingar á Þriðja orkupakkanum, OP#3.

 Áttmenningarnir reisa málflutning sinn á sandi, eins og nú skal rökstyðja, og þar með fellur hinn lagalegi grundvöllur undan þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, sem stjórnarflokkarnir ætla nú, illu heilli, að innleiða 2. september 2019. Spurningin er um það, hvort valdheimildir stofnana EES/ESB nái til ákvarðana um, hvort sæstrengur verði lagður.  Áttmenningarnir eru með eftirfarandi skrýtnu kenningu:

"Þessar valdheimildir gilda einungis, þegar slík tenging er til staðar".

Hvar stendur það í OP#3, að valdheimildir stofnana ESB um millilandatengingar nái aðeins til millilandatenginga í rekstri, en ekki til millilandatenginga á verkefnastigi ?  Þessi fráleita túlkun áttmenninganna virðist þá þýða, að valdheimildir ESB nái ekki til sæstrengs nr 1 til Íslands, en myndi hins vegar ná til sæstrengs nr 2 og áfram.

Hér er grundvallarmisskilningur á ferðinni hjá áttmenningum og þar með hjá ráðherrunum og þingliði ríkisstjórnarinnar.  Þetta er svipað og að fullyrða, að engin umferðarlög gildi, ef engin er umferðin.  Það er ljóst, að þau verða virk, um leið og fyrsti vegfarandinn birtist.  Með sama hætti verða allar valdheimildir Evrópusambandsins (ESB) um millilandatengingar virkar, hvað Ísland áhrærir, þegar fyrsta sæstrengsverkefnið um Íslandsstreng verður stofnað og alls ekki síðar en við afhendingu verkefnisumsóknar til Orkustofnar Íslands og orkustofnunar með lögsögu í hinum enda sæstrengsins.

  Þar sem málatilbúnaður deiluaðila í orkupakkamálinu snýst mikið um sæstrenginn, verður nú gerð nánari grein fyrir því, hvernig ESB fer að því að ryðja úr vegi hindrunum í einstökum aðildarlöndum EES, eftir að þau hafa innleitt OP#3 og þar með Evrópulöggjöfina á sviði millilandatenginga fyrir raforku.  Það, sem hér verður greint frá, ætti engum kunnugum OP#3 að koma á óvart, því að þar er á nokkrum stöðum skrifað, að eitt aðalhlutverk hans sé að liðka til fyrir millilandatengingum og að ryðja einstökum staðbundnum hindrunum úr vegi.

ESB, ACER, Landsreglari, PCI, ESA og EFTA-dómstóllinn:

Eitt af verkefnum ACER-Orkustofnunar ESB er eftirfylgni við Kerfisþróunaráætlun ESB og við  forgangsverkefni ESB, s.k. PCI-verkefni (Projects of Common Interest).  ACER og Landsreglarinn í hverju landi eiga að fylgjast grannt með því, hvort kerfisáætlanir flutningsfyrirtækjanna, Landsnets og systurfyrirtækja hennar, taki mið af og séu í fullu samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB, sbr raforkutilskipun 2009/72/EB, gr. 37, nr 1(g).  Eins og allir, sem fylgjast með þessu orkupakkamáli, ættu að vita (Björn Bjarnason lemur hausnum við steininn um þetta mál), er IceLink, aflsæstrengur á milli Bretlands og Íslands, í gildandi Kerfisþróunaráætlun ESB, og er jafnframt PCI-verkefni.  Það er viðamikið matsferli að baki áður en framkvæmdastjórn ESB að lokum samþykkir verkefni inn á PCI.  Einstakar ríkisstjórnir hafa ekki síðasta orðið um það, og heldur ekki með að taka verkefni út af listanum.

Landsreglaranum ber að gefa ESA-Eftirlitsstofnun EFTA og ACER skýrslu um tilvik, þar sem óhlýðni við Kerfisþróunaráætlun ESB gætir hjá flutningsfyrirtækjunum, hér Landsneti.  Þannig mun Landsreglarinn fylgjast náið með áætlanagerð Landsnets, fjárveitingum til hennar og framkvæmdum fyrirtækisins.  Ef t.d. Landsneti mun ganga illa að fá framkvæmdaleyfi fyrir flutningslínum til að tengja IceLink við stofnrafkerfi landsins, mun koma til kasta ACER og ESA.  ACER myndi þá biðja formlega um, að Kerfisþróunaráætlun ESB verði haldið í heiðri, og ef allt um þrýtur gæti ESA höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi vegna tafa við framkvæmd, og strengfjárfestarnir gætu síðan höfðað skaðabótamál gegn íslenzka ríkinu fyrir íslenzkum dómstólum vegna tapaðra tekna.

Evrópusambandið leggur verulega áherzlu á það við yfirvöld í hverju landi, að umsóknir um  millilandatengingar á PCI séu samþykktar og framkvæmdaleyfi veitt í kjölfarið.  Ef yfirvöldin, hér Orkustofnun, hins vegar hafna umsókn, eins og OS verður að gera, ef OP#3 verður innleiddur og Alþingi síðan setur lög, sem banna tengingu íslenzka raforkukerfisins við útlönd, þá getur fjárfestirinn kvartað við ESA.  Við þessar aðstæður verður ekki séð, að íslenzk stjórnvöld geti komið í veg fyrir málarekstur fyrir EFTA-dómstólinum.

Hversu djúptækar valdheimildir ESB hefur skapað sér til að ná markmiðum Sambandsins um eflingu millilandatenginga til að auka aflflutningsgetu á milli landa, sést enn greinilegar, þegar við virðum fyrir okkur OP#3 í samhengi við innviðareglugerð ESB, gerð 347/2013, sem ESB gerir ráð fyrir að tekin verði inn í EES-samninginn, eftir að gengið hefur verið frá innleiðingu OP#3 í hann, enda skarast innviðareglugerðin við gerðir OP#3 og eflir völd ESB til að fylgja eftir ákvæðum OP#3.

PCI-verkefni - eins og IceLink - skulu samkvæmt innviðareglugerðinni, gr. 7, njóta hæsta forgangs innan ESB og í kerfisáætlunum hvers aðildarlands og við afgreiðslu leyfisumsókna.  Bann Alþingis við því, að Landsnet setju aflsæstreng til útlanda inn á framkvæmdahluta kerfisáætlunar sinnar, eins og lagafrumvarp Þórdísar, iðnaðarráðherra, gerir ráð fyrir, gengur þvert gegn þessu ákvæði og verður auðvitað brotið á bak aftur með höfðun samningsbrotamáls gegn íslenzka ríkinu að hálfu ESA.  Fyrirhugaðir fyrirvarar ríkisstjórnarinnar eru reistir á vanþekkingu á Evrópurétti, eru haldlausir til lengdar og skapa ríkinu skaðabótaskyldu til skemmri tíma litið.  Landið væri miklu betur sett án nokkurra fyrirvara, því að þeir eru í raun gagnslausir og geta reynzt ríkinu dýrkeyptir.

Í téðri innviðareglugerð eru jafnframt ákvæði í gr. 10 til að undirstrika mikilvægi PCI-verkefna.  Það verður ekki hægt að draga afgreiðslu leyfisumsókna á langinn, því að þar er kveðið á um, að afgreiða skuli umsókn innan 18 mánaða.  Orkustofnun getur sótt um 9 mánaða viðbótar frest til Landsreglara/ACER, en aðeins með góðum rökstuðningi verður hún samþykkt.  Ef Alþingi samþykkir OP#3, þá ofurselur það Orkustofnun valdi ACER varðandi sæstrengsumsóknir.  Það er tóm ímyndun ráðherranna, að allt verði einfaldlega, eins og áður var.  Fullveldi ríkisins varðandi millilandatengingar verður einfaldlega flutt til ACER/ESB með samþykkt OP#3.  Þetta óttaðist norska stjórnarandstaðan og setti fyrirvara um þetta o.fl.  Bréf þessa efnis var sent Sameiginlegu EES-nefndinni, en eftir rúmt ár hefur enn ekki borizt svarbréf frá ESB, sem þýðir hundsun.  Fyrirvararnir voru ekki pappírsins virði.  

Í innviðagerðinni eru settar reglur um mat á umsóknum um leyfi fyrir millilandatengingum, þannig að hér verður ekki hægt að beita séríslenzkum lögum og reglum til að hafna umsókn.  Aðalreglan er sú, að sé verkefnið samfélagslega hagkvæmt, þar sem samfélagið er ESB, þá ber að samþykkja það.  Það er líka meginskilyrðið fyrir að komast inn á PCI-skrána, svo að fyrirsjáanlega verður að samþykkja IceLink, ef umsókn um hann berst eftir innleiðingu OP#3 í landsrétt hér.  Það er stórhættulegt og heimskulegt viðhorf, sem margir Alþingismenn hafa gert sig seka um, að samþykkt OP#3 breyti engu fyrir Íslendinga.  Ef við samþykkjum, að lög og reglur Evrópusambandsins skuli ríkja hér, þá verðum við að lúta þeim.  Annað kostar stríð við Evrópusambandið, sem getur komið hrottalega niður á okkar lífskjörum á næstu árum.  Höfnun pakkans er aftur á móti fullkomlega lögleg og leiðir sjálfvirkt til samningaviðræðna í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem öllum er í hag að ná samkomulagi, sem allir geta sætt sig við.  

Samkvæmt #347/2013, gr. 11, eiga raforkuflutningssamtök ESB, ENTSO-E, þar sem lönd utan ESB í Evrópu einnig eiga aðild, að semja samræmdar og vel útfærðar reglur til að reikna út samfélagslega hagkvæmni millilandaverkefna.  Þær þarfnast síðan samþykkis ACER og framkvæmdastjórnar ESB.  Evrópusambandið hefur þannig alla þræði í hendi sér í þessum efnum.  Aðeins blindingjar sjá það ekki, eru með gorgeir og þykjast með innlendri lagasetningu geta haft í fullu tré við Evrópusambandið.  Slíkt tal minnir á ræður Ketils, skræks, í Skugga-Sveini.

Í innviðareglugerðinni eru ákvæði um viðbrögð við þversku einstakra stjórnvalda gegn millilandatengingum og hvers konar öðrum hindrunum, sem þessi verkefni kunna að verða fyrir.  Samkvæmt #347/2013, gr. 6, skal þá setja á stofn evrópska eftirlitsnefnd til að framfylgja því, að samræmdum reglum sé fylgt alls staðar við umfjöllun verkefnisins hjá hinu opinbera. Ennfremur skal þá útnefna hæft yfirvald í viðkomandi landi, sem beri ábyrgð á fyrirgreiðslu og samræmdri málsmeðferð PCI-verkefnis.  Þetta gæti t.d. þýtt það, að reki sæstrengsumsókn upp á sker hér, taki ACER hana úr höndum Orkustofnunar og feli Landsreglaranum að afgreiða hana.  Landsreglarinn fylgir þá eftir öllum hliðum málsins hér innanlands, ekki sízt þætti Landsnets við að hanna, fjármagna og fá framkvæmdaleyfi fyrir línu frá stofnrafkerfi landsins og niður að landtökustað sæstrengsins.

Það er ljóst af þessum heimildum Evrópusambandsins í innviðareglugerðinni, að engum vettlingatökum á að beita þá, sem draga lappirnar eða tefja fyrir framkvæmd PCI-verkefnis Evrópusambandsins.  ESA verður beitt og dómstólaleiðin farin til að knýja fram allar nauðsynlegar leyfisveitingar í nafni fjórfrelsins og skuldbindinga Íslands með innleiðingu OP#3.  Munu enn gala gaukar um, að OP#3 skipti Ísland engu máli ? 

Hér hafa verið nefnd nokkur atriði, sem samanlögð gera það ómögulegt að koma í veg fyrir sæstrengstengingu, standi vilji ESB á annað borð til þess, því að landslög víkja fyrir Evrópurétti. Þá verður eina úrræðið til að skakka leikinn að segja upp EES-samninginum.  Í þessu andrúmslofti verður ekki gæfulegt að semja við Evrópusambandið um valkosti við EES-samninginn.   

Að baki þessu öllu saman stendur stefnumörkun ESB um landamæralausan orkumarkað með tengingu við öll lönd og landssvæði innan ESB/EES.  Í nýrri, endurskoðaðri ACER-reglugerð, sem er hluti af OP#4, stendur þetta í formálanum, atriði 6: 

"Despite significant progress in integrating and interconnecting the internal electricity market, some Member States or regions remain isolated or not sufficiently interconnected, in particular insular Member States and Member States located on the periphery of the Union."

Af þessum texta ætti hverju mannsbarni að vera ljóst, að fullyrðingar um, að valdheimildir Evrópusambandsins um millilandatengingar lúti aðeins að slíkum innviðum í rekstri, eru algerlega úr lausu lofti gripnar.  Höfundur þessa tilvitnaða texta hefur að líkindum haft Ísland sérstaklega í huga við ritun hans, því að ESB sárvantar og tekur fegins hendi við allri þeirri orku úr endurnýjanlegum orkulindum, sem það getur komið höndum yfir.  Evrópusambandið verður með öll tæki og tól í sínum höndum til að knýja fram vilja sinn í þessum efnum gagnvart Íslendingum eftir innleiðingu Alþingis á OP#3 og #347/2013, sem óhjákvæmilega kemur í kjölfarið.  

 

 

 

 

 

 


Baudenbacher-áhrifin

Svisslendingurinn prófessor dr juris Carl Baudenbacher hefur verið einn þriggja dómara við EFTA-dómstólinn frá 1995, tilnefndur af Liechtenstein, þar til nýlega, að hann hætti fyrir aldurs sakir. Liechtenstein er í tollabandalagi við Sviss og notar svissneska frankann. Lífsviðhorfum Baudenbachers er lýst sem "dökkbláum", og hann hefur gjarna þótt vera "kaþólskari en páfinn" í túlkunum sínum á Evrópuréttinum, þ.e. jafnvel gengið lengra en ESB-dómstóllinn sjálfur.  Fáir efast þó um hæfni hans og kunnáttu á sviði Evrópulöggjafarinnar.

Mestallan tíma EES-samningsins hefur Carl Baudenbacher verið umdeildur maður í Noregi, eins og sjá má í viðhengi þessa pistils.  Hann hefur deilt við norska samdómara sína og verið ósáttur við dómara við norska dómstóla, allt upp í Hæstarétt.  Þeir hafa sjaldan leitað umsagnar EFTA-dómstólsins í málum, þar sem Evrópurétturinn hefur komið við sögu, þeir hafa hundsað umsögn EFTA-dómstólsins og jafnvel dæmt þvert á ráðleggingu hans.  Baudenbacher hefur haft á orði fyrir vikið, að norskir dómarar grafi undan EFTA-dómstólnum, sem gæti síðan leitt til hruns EES-samningsins.  

Baudenbacher þykir vera afar hallur undir ESB og vill helzt ekki sjá neinar undanþágur frá gerðum Sambandsins, heldur vill steypa alla í sama ESB-mótið. Þetta kann að ráða miklu um afstöðu hans til þess, hvað gerist, ef Alþingi segir nei við OP#3. Að fá slíkan "unionista" með stormasöm samskipti við eitt EFTA-ríkið í farteskinu til að veita umsögn um OP#3, er afar umdeilanleg og jafnvel skrýtin ráðstöfun.  

Hvers vegna ættu Evrópusambandið og EFTA-ríkin ekki að fallast á þá ósk eyjarskeggja norður í Atlantshafi, sem núna eru ótengdir við raforkukerfi ESB og vilja flestir vera þannig áfram, að fá undanþágur frá Þriðja orkupakkanum um öll atriði, er millilandatengingar varðar ?  Bezt væri að fá varanlega undanþágu frá reglugerðunum 713/2009, 714/2009, 543/2013 og tímabundna undanþágu frá tilskipuninni 2009/72/EB og leyfi til að þróa hér takmarkað markaðskerfi með nauðsynlegri auðlindastýringu.  Þannig gætum við innleitt OP#3 og Norðmenn og Liechtensteinar yrðu í Orkusambandi ESB án atkvæðisréttar, eins og þjóðþing þeirra hafa samþykkt.

Eins og kunnugt er, er nú rekið mál fyrir þingréttinum í Ósló gegn norska ríkinu vegna meints brots ríkisstjórnar Noregs og meirihluta Stórþingsins á stjórnarskránni, þegar ákveðið var að fylgja ekki ákvæði stjórnarskrárinnar, sem áskilur aukinn meirihluta Stórþingsins fyrir samþykkt á tilgreindu fullveldisframsali til erlendra stofnana, þar sem Noregur ekki á aðild.  Afgreiðslu dómsins er vænzt í haust, þ.e. ákvörðunar um, hvort taka á ágreiningsmálið til efnislegrar meðferðar eða að vísa því frá. 

Verði það tekið til efnislegrar meðferðar, getur dómur haft mikla þýðingu fyrir EFTA-löndin í EES-samstarfinu.  Málið mun þá vafalaust fara alla leið upp í Hæstarétt.  Ef hann dæmir, að afgreiða hefði átt OP#3 með auknum meirihluta, mun málið hljóta slíka þinglega meðferð í Stórþinginu.  Á þeim 14 mánuðum, sem liðnir eru frá atkvæðagreiðslunni í Stórþinginu um OP#3, hafa efasemdir í Noregi og ótti við afleiðingar OP#3 fyrir almannahag aukizt, svo að líklegra er en ekki, að OP#3 verði felldur í Stórþinginu.  

Þeir, sem hagnast á þeirri stöðu, sem er á góðri leið með að verða ofan á í orkumálunum á Íslandi og í Noregi núna, eru raforkuvinnslufyrirtækin, nokkur orkusveitarfélög í Noregi og í fyrsta umgangi ríkissjóðirnir, en ríkissjóðirnir fórna framleiðslugreinum fyrir sjóðasöfnun, og óvíst er, að þeir ríði feitum hesti frá þessum viðskiptum, þegar upp verður staðið. 

Tapararnir verða norskir og íslenzkir orkunotendur - almennir notendur rafmagns, atvinnulífið og opinberar stofnanir, en alveg sérstaklega orkusækinn iðnaður.  Við munum öll þurfa að horfa fram á hærra rafmagnsverð, og iðnaðurinn missir sitt mikilvægasta samkeppnisforskot - lágt raforkuverð (heita vatnið mun líka hækka, af því að raforkuþörf hitaveitnanna er umtalsverð).  

Hvers vegna mun þetta gerast á Íslandi án sæstrengs ?  Væntingar um sæstreng munu virka til hækkunar, orkukauphöll mun  að líkindum valda kostnaðarauka hjá fyrirtækjunum, og ef samkeppnissjónarmið leiða til minni og fleiri fyrirtækja í orkuvinnslunni, mun tilkostnaður vaxa og auðlindastýringin, sem þó er að finna núna innan Landsvirkjunar, mun hverfa með þeim afleiðingum, að nýting orkulindanna versnar.  Þetta síðasta  verður dýrast, en er samt fyrirferðarminnst í umræðunni.

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Verður orkan okkar ?

Þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Ari Trausti Guðmundsson, ATG, jarðeðlisfræðingur, tjáði sig um orkumál Íslands í ljósi umræðunnar um Orkupakka 3, OP#3, eins og hún snýr við honum um þessar mundir, í Kjarnanum á baráttudegi verkalýðsins 1. maí 2019. Grein sína nefndi ATG "Orkan er okkar". Það má til sanns vegar færa núna, en heldur hann, að bezta leiðin til að varðveita þá stöðu mála sé að halda áfram á þeirri vegferð lagainnleiðinga frá ESB, sem hófst hérlendis árið 2003 með OP#1 ?  Í þessari grein þingmannsins eru engin bitastæð rök færð fyrir slíku viðhorfi, og þar er margt, sem orkar tvímælis.

Í ljósi lokaorða hins "gamla byltingarseggs" er sárt að horfa upp á hann láta algerlega hjá líða í téðri grein að tengja saman mátt og verkun auðmagnsins og lagasmíð Evrópusambandsins, ESB.  Með því færir hann vanheilögu bandalagi búrókrata og auðmagns Evrópu vopn í hendurnar til að vinna óhæfuverk á íslenzkri löggjöf, sem rutt getur þessu vanheilaga bandalagi brautina að nýtingarrétti yfir íslenzkum orkulindum.

Neista af byltingaranda Fylkingarinnar má greina í eftirfarandi orðum ATG.  Hann verður hins vegar að átta sig á, að baráttan er núna.  Ekki dugar að varpa vandanum margföldum yfir á komandi kynslóðir:

"Við getum lagfært innviði, bætt lífskjör fjöldans, aukið félagslegt réttlæti og jafnrétti innan ríkjandi hagkerfis, með víðtækri samstöðu ólíkra afla.  Kerfið tryggir allt slíkt ekki til langframa né leysum við loftslagsvandann og umhverfismál, nema með nýju sjálfbæru hagkerfi, sem byggir [á] samstöðu, jafnrétti og mannúð.  En baráttan fyrir því öllu saman er annað og flóknara mál."

Mótsögnin í þessu er sú, að með stuðningi sínum við OP#3 á Alþingi fjarlægist ATG hið fagra stefnumið sitt frá fornu fari.  Með markaðsvæðingu raforku á Íslandi, sem OP#3 áskilur, og aðlögun íslenzka raforkumarkaðarins að sameiginlegum raforkumarkaði ESB, fjarlægist ATG það, að nýta megi orkulindirnar hérlendis með samfélagsleg sjónarmið að leiðarljósi. 

ATG minnist í upphafi greinar sinnar á raforkuna sem vöru og telur, að þar sem 80 % raforkunnar hérlendis fari til orkukræfs iðnaðar, þá sé "varla óeðlilegt, að hún teljist vara í viðskiptum".  Þetta eru engin rök.  Það var á sínum tíma stjórnmálaleg ákvörðun, tekin á Alþingi árið 1965, að stofna Landsvirkjun til að virkja stórt, nýta þannig hagkvæmni stærðarinnar og traustar umsamdar framtíðartekjur  frá stórnotendum til að fá hagstæð lán til að byggja upp öflugt raforkukerfi, vinnslu- og flutningskerfi, sem almenningur nyti góðs af með öruggri orkuafhendingu og lágu orkuverði, er fram liðu stundir.  Allt hefur þetta gengið eftir, og nú er ögurstund að renna upp varðandi það, hvort samfélagsleg stjórn verður áfram við lýði í raforkugeiranum, eða hvort hættunni verði boðið heim með því að innleiða ESB-löggjöf fyrir millilandatengingar og gefa þannig til kynna öðrum þræði, að Alþingi óski eftir, að Ísland verði hluti af sameiginlegum raforkumarkaði ESB.

"Háspennudreifing er í höndum Landsnets."  Þetta er röng fullyrðing hjá ATG.  Rétt er, að flutningskerfi raforku á 66 kV og hærri spennu er í höndum Landsnets, skipulagning þess (Kerfisáætlun), hönnun, nývirki og rekstur.  Um er að ræða lögbundna einokunarstarfsemi.  Til að tryggja óvilhalla afstöðu flutningsfyrirtækisins gagnvart frameiðendum og kaupendum raforkunnar, stefnir ríkisstjórnin á að kaupa núverandi eigendur, LV, OR, RARIK og OV, út úr fyrirtækinu, og er það í samræmi við forskrift allra orkupakkanna.  Dreifiveiturnar sjá um raforkudreifingu samkvæmt sérleyfi hver á sínu svæði á 33 kV og lægri spennu.  Þær eru flestar í opinberri eigu á Íslandi.  Iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun (OS) hafa nú eftirlit með starfsemi orkugeirans, einkum einokunar- og sérleyfisfyrirtækjanna, en eftirlitshlutverkið mun færast í hendur Landsreglarans. 

"Markaðsvæðing í hagkerfi er ekki sjálfkrafa vinsamleg alþýðu manna, en hún merkir heldur ekki, að vald ESB, EFTA eða annarra fjölþjóðabandalaga sé þar með orðið, eða verði, óhjákvæmilega yfirþjóðlegt, og ráði innri orkumálum ríkja.  Stjórnmálaákvarðanir innan og á milli ríkja þarf til þess, og eflaust fleira."

Þetta er ótrúlega léttvæg umfjöllun á lykilatriði í sambandi við OP#3.  Með OP#3 verður ekki lengur undan því vikizt að taka hér upp frjálsa samkeppni um raforku á heildsölumarkaði að fyrirmynd ESB.  Þar er um að ræða uppboðsmarkað í orkukauphöll.  Viðskiptakerfið er sniðið við orkukerfi og orkumarkað í þungamiðju iðnaðarframleiðslu ESB.  Þessar aðstæður eru gjörólíkar íslenzkum aðstæðum, og þessi mismunur getur leitt til þess, að þetta markaðskerfi muni aðallega virka orkuseljendum til hagsbóta á kostnað orkunotenda.  Í þessum efnum þurfa Íslendingar að fá frið til að þróa sitt eigið orkumarkaðsfyrirkomulag, sem útheimtir auðlindastýringu.  Hún er óleyfilegt ríkisinngrip í frjálst markaðskerfi ESB.

ATG er augljóslega meðvitaður um hætturnar, sem hag "alþýðu manna" stafar af markaðsvæðingu raforkugeirans á Íslandi.  Hins vegar skjöplast honum illilega um á hvaða stig hið yfirþjóðlega vald um "innri orkumál  ríkja" kemst með OP#3.  Reglugerð nr 713/2009 um ACER og millilandatengingar er skýrt dæmi um, að fjölþjóðleg stofnun, Orkustofnun ESB, fær vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir fyrir Ísland varðandi millilandatengingar, ef/þegar Alþingi afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.

ACER hefur þegar úrskurðað í deilumálum aðildarríkja ESB um millilandatengingar.  Skömmu eftir að OP#3 öðlaðist lagagildi í ESB í kjölfar staðfestingar Ráðherraráðsins og ESB-þingsins árið 2014, kvað ACER upp úrskurð í deilumáli Póllands annars vegar og Eystrasaltslandanna hins vegar út af kostnaðarskiptingu við gaslögn yfir landamæri.  Úrskurðurinn hljóðaði upp á greiðslur til Gaz System S.A., Póllandi, frá þremur félögum í Eystrasaltslöndunum, að upphæð MEUR 85,8 (mrdISK 12), á grundvelli 713/2009 og 347/2013.

Það er ekki lengur hægt að draga neina dul á völd ESB yfir innri orkumálum ríkja, þ.á.m. varðandi afnotarétt náttúrulegra orkulinda.  Þann 8. marz 2019 sendi Framkvæmdastjórn ESB bréf til frönsku ríkisstjórnarinnar og 7 annarra ríkisstjórna ESB-landa og bað þær að sýna fram á, að raforkusamningar opinberra fyrirtækja, sem selja raforku frá vatnsorkuverum, séu í samræmi við ESB-löggjöf.  Þetta þýðir að lágmarki, að þessi opinberu fyrirtæki verða að sýna fram á, að raforkusamningar þeirra endurspegli markaðsverð.  Það getur líka þýtt, að segja verði núverandi samningum upp, ef þeir renna ekki bráðlega út, og að bjóða verði orkuna upp á markað til skamms tíma, e.t.v. eins árs í senn.  

Í Frakklandi er ríkisraforkufyrirtækið EdF með yfirburðastöðu á markaði í svipuðum mæli og Landsvirkjun hérlendis.  Framkvæmdastjórnin hefur í nokkur ár haft uppi kröfur á hendur franska ríkinu, að það einkavæði virkjanaleyfi sín fyrir vatnsaflsvirkjanir, sem að mestu eru reknar af EdF.  Að einkavæða virkjaneyfi þýðir jafnframt einkavæðingu viðkomandi virkjana.  Í fyrra gafst franska ríkisstjórnin upp gagnvart þessari einkavæðingarkröfu framkvæmdastjórnar ESB, og í ár á þessi einkavæðing að fara fram.

Þessi einkavæðingarkrafa Framkvæmdastjórnarinnar er reist á því, að nú hefur frjálst markaðskerfi fyrir raforku verið innleitt í Frakklandi, enda skylda samkvæmt OP#3, og innan þessa kerfis er stór markaðshlutdeild ríkisfyrirtækis "tabú".  Vatnsorkuver framleiddu 12,5 % raforkuvinnslu Frakklands 2018, og í þeim er um 19 % af uppsettu afli í orkuverum Frakklands.  

Af þessari reynslu Frakkanna og annarra ESB-landa getum við Íslendingar dregið alveg óyggjandi lærdóm.  ESA mun gera þá kröfu, eftir að markaðsvæðingin hefur farið fram hér í anda ESB, að virkjanaleyfi ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar verði að mestum hluta einkavædd.  Þetta er stórfellt inngrip yfirþjóðlegs valds í "innri orkumál" Íslands, sem veldur gjörbyltingu á þeirri orkustefnu, sem íslenzk stjórnvöld hafa mótað og þokkaleg sátt hefur verið um í landinu.  Franskir starfsmenn EdF hótuðu verkfalli, ef einkavæðing vatnsorkuvera EdF færi fram.  Hérlendis mun verða gríðarleg óánægja með það, hvað innleiðing orkupakka ESB í EES-samninginn hefur leitt yfir þjóðina.  Til að forða landinu frá þessari alvarlegu stöðu er tvennt til: fresta afgreiðslu OP#3 á Alþingi og leita hófanna um samningaviðræður innan EES eða að fella OP#3, og þá fer hann í sáttaferli í Sameiginlegu EES-nefndinni.

"Hvernig sem fer, er ljóst, að raforka til útflutnings um sæstreng (500 - 1000 MW) er fjarri lagi."

Þessi fullyrðing er hæpin í ljósi þess, að stærsta raforkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, hefur rekið harðan áróður fyrir því síðan 2010, að einmitt slíkur útflutningur verði að raunveruleika.  Á vefsetri LV er fjálgleg kynning á þessum útflutningshugmyndum.  Landsvirkjun vill stækka sinn markað og fá sterkari samningsstöðu við raforkukaupendur á innanlandsmarkaði.  Gallinn á gjöf Njarðar er sá, fæst orkukræf fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. í landbúnaði, geta keppt við hið erlenda raforkuverð, sem verður flutt inn með aflsæstreng frá öðru Evrópulandi til Íslands. Hætt er við, að atvinnurekendasamtökin eigi eftir að iðrast þess að hafa ekki lagzt á árarnar með verkalýðssamtökunum gegn OP#3.  

"Land tengist inn á netið að eigin ákvörðun, metur orku aflögu til sölu og ákveður, ef svo ber til, að auka framleiðsluna, landinu í hag.  ...... Hún [ACER] er ekki yfirþjóðleg valdastofnun, sem getur skipað fyrir um orkusölu (magn, nýjar línur eða fleiri orkuver)."

Hér er gert ótrúlega lítið úr áhrifum lögleiðingar OP#3 og áhrifum og völdum ACER. Það er horft framhjá samverkandi áhrifum OP#3, samkeppnislöggjafar Evrópuréttarins og markaðskraftanna. Innleiðing OP#3 felur í raun í sér þá stefnumörkun að hálfu Alþingis að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að sameiginlegum raforkumarkaði ESB í því skyni að tengja þessa tvo raforkumarkaði snurðulaust saman.  Strax og reynir á bann Alþingis við að setja sæstreng inn á framkvæmdahluta Kerfisáætlunar Landsnets, munu þau lög verða felld úr gildi að kröfu ESA sem brot á EES-samninginum, gr. 7, um skilyrðislausa innleiðingu reglugerða og tilskipana, eins og þær koma frá Sameiginlegu EES-nefndinni. 

Núna er sæstrengurinn "Ice-Link" inni á Kerfisþróunaráætlun ESB, og það er alveg óvíst, að ESB samþykki að taka hann út af PCI-forgangsverkefnalista sínum um millilandatengingar, þótt Landsnet eða Landsvirkjun óski þess, ef Alþingi samþykkir að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.  

Það má hugsa sér, að fjárfestir sæki um leyfi til að leggja sæstreng á milli ESB-lands og Íslands. Hann fær umsóknina samþykkta hjá orkustofnun í hinum enda strengsins, en henni er hafnað hér vegna banns Alþingis.  Þá er komið upp vandamál, sem landsreglarar í sitt hvorum enda sæstrengsins ekki geta leyst, og þeir vísa þá málinu umsvifalaust til ACER.  ACER gefur skýrslu um málið til framkvæmdastjórnar ESB, sem kvartar við ESA yfir broti við innleiðingu OP#3, þar sem pakkinn var ekki skilmálalaust innleiddur.  Þetta leiðir til þess, að EFTA-dómstóllinn dæmir lög um bann Alþingis við sæstreng ólögmætt.  Þá verður Landsnet að taka sæstrenginn inn á Kerfisáætlun sína, enda er Landsreglarinn eftirlitsaðili með Landsneti og ber að fylgja því eftir, að Landsnet aðlagi Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem "Ice-Link" er.  Orkustofnun hefur þá ekki lengur nein rök fyrir því að hafna leyfisveitingu, enda vofir þá yfir stjórnvöldum brot á reglum EES-samningsins, sem banna útflutnings- og innflutningshindranir.  

Regluverk OP#3 skyldar ekki aðildarlöndin beinum orðum til að standa undir kostnaði við eflingu flutningskerfis raforku að og frá aflsæstreng, en hver annar á að standa undir þeim kostnaði hérlendis en Landsnet ?  Málið er, að þetta verður óhjákvæmileg afleiðing af tæknilegri nauðsyn hérlendis, ef ákveðið verður að leggja einn eða fleiri sæstrengi til landsins. Til að anna flutningsþörfinni og tryggja stöðugleika raforkukerfisins eftir megni verður Landsnet að setja upp ný tengivirki, leggja jarðstrengi og loftlínur, sem tengja saman stofnrafkerfi Norðurlands og Suðurlands og stofnrafkerfið við sæstrengina.  Kostnaðurinn af þessu mun leggjast alfarið á innanlandsnotendur og gæti tvöfaldað flutningsgjald raforku um tíma.  Ef ekki verður ráðizt í þessar framkvæmdir, mun verða litið á slíkt sem hindrun á vegi notkunar sæstrengsins, sem er útflutningshindrun samkvæmt EES-samninginum, gr. 12.

Það er ljóst, að með leyfi fyrir aflsæstreng á milli Íslands og sameiginlegs raforkumarkaðar ESB mun ásókn í rannsóknarleyfi og virkjanleyfi aukast hérlendis.  Þar sem íslenzk stjórnvöld munu engu ráða um orkuflæðið um sæstrenginn, þá mun hann hafa mjög mikil áhrif til hækkunar raforkuverðs, sem skapar enn meiri hvata til aukinnar orkusölu inn á strenginn.  Kerfisþróunaráætlun ESB jafngildir ákvörðun Evrópusambandsins um snurðulausa orkuflutninga innan EES.  Markaðurinn lætur orkuna fljóta frá stöðum með lágan vinnslukostnað til staða með hátt raforkuverð.

  ACER þarf ekki að skipa fyrir hér um nýjar virkjanir.  Markaðurinn mun sjá um verkið.  Ef yfirvöld ætla að draga lappirnar með leyfisveitingar fyrir framkvæmdir í tengslum við virkjanir og flutningskerfi, þá má ætla, að látið verða reyna á það, hvort þyngra vegi fyrir ESA skipulagsreglur og umhverfisvernd eða bann EES-samningsins við útflutningshindrunum á vöru.  

Ef þetta er allt saman misskilningur, þá eru búrókratar og stjórnendur ESB bjánar, sem ekkert vita, hvað þeir eru að gera með því að unga út með harmkvælum reglugerðum og tilskipunum um tilhögun orkumála.  Hvergi á byggðu bóli annars staðar en hér er gerð tilraun til að halda því fram, að orkupakkar ESB hafi engin áhrif umfram það, sem aðildarríkin kæra sig um.  Hið sanna er, að orkupakkarnir eru brimbrjótur Framkvæmdastjórnarinnar til að ná fram stefnumiði ESB um einn samfelldan, hnökralausan orkumarkað með sjálfbæra raforkuvinnslu.

Af ofangreindum ástæðum fer ATG í geitarhús að leita ullar í eftirfarandi leit sinni:

"Hvergi hefur mér tekizt að finna dæmi um, að ríki sé birtur úrskurður um, að það skuli bæta við raforku til útflutnings, leggja nýjar háspennulínur að landamærum eða leggja rafstreng í sjó."

Varðandi síðast nefnda atriðið, horfir málið alveg þveröfugt við.  Einkaaðilar um sæstrengslögn njóta forgangs umfram ríkisfyrirtæki.  Eitt af 8 skilyrðum Norðmanna fyrir því að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3 þar í landi 22. marz 2018 var, að allar millilandatengingar yrðu áfram í eigu Statnetts, norska Landsnets.  Þá þegar var umsókn einkafyrirtækis um eyfi fyrir NorthConnect á milli Noregs og Skotlands til afgreiðslu hjá NVE, norsku orkustofnuninni.  Hún stöðvaði ekki matsferlið, þótt Statnett og stjórnarandstöðuflokkarnir á Stórþinginu óskuðu eftir því, svo að Statnett gæfist kostur á að kaupa eigendur NorthConnect út.  ESA mun tæplega samþykkja slíka ríkiseinokun á öllum millilandatengingum, ef OP#3 verður staðfestur í öllum EFTA-ríkjum EES.

"Auðvelt er að halda fram fölskum orðum um yfirþjóðlegt vald ACER, en sýna aldrei fram á dæmi þess, að það hafi leitt til valdboða, sem ríki neyðist til að hlíta."

Þetta er ótrúlegur texti hjá ATG.  Það er engu líkara en hann beri brigður á yfirþjóðlegt vald ACER, sem þó var sýnt fram á í lögfræðilegri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar til utanríkisráðuneytisins.  Úrskurður ACER í milliríkjadeilu um kostnaðarskiptingu á milli 4 ríkja ESB frá 11. ágúst 2014, þar sem einu ríkjanna voru úrskurðaðar MEUR 85,8 í bætur, sannar, að ACER getur beitt "valdboði, sem ríki neyðast til að hlíta", þótt íþyngjandi sé.

ATG viðurkennir, að "[í] sumum tilvikum er unnt að fara fram á viðamiklar tilslakanir eða undanþágur frá tilskipunum, en þá þarf samþykki allra 28 ESB-ríkjanna", og síðan bætir hann við:

"Beiðni um slíkt "eftir á" verður ólíklega samþykkt".

Það er hagur ESB, að Noregur og Liechtenstein verði í Orkusambandi ESB.  Það verða þau ekki, ef Ísland hafnar OP#3 og ekkert samkomulag næst í sameiginlegu EES-nefndinni (um undanþágur fyrir Ísland).  

Noregur getur hins vegar hæglega að mati Henrik Björnebye, lagaprófessors í Ósló, gert tvíhliða samkomulag við ESB um orkuviðskipti.  Það verður þá utan EES-samningsins, sem ESB mun þykja verra.  

Af þessum sökum stenzt ekki fullyrðing ATG. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Orkupakki #3 er ekki í tómarúmi

Þegar það er metið, hvað Alþingi á að gera við Orkupakka #3 (OP#3), er ekki nóg að rýna í tilskipun og reglugerðir OP#3, þótt nauðsynlegt sé, heldur verður að virða fyrir sér umhverfi hans, stefnumörkun ESB á sviði orkumála, þar sem hann er aðeins einn hluti af mörgum þáttum, og markaðsaðstæðurnar, fjórfrelsið í EES-samninginum, sem virkar sterkt á OP#3. 

OP#3 felur í sér yfirþjóðlega þætti um lagalega bindandi ákvörðunarvald ACER, Orkustofnunar ESB, sem fyrri orkupakkar innihéldu ekki. Þess vegna hafa ráðherrar utanríkis- og iðnaðarmála, sem með þetta mál hafa farið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, lagt lykkju á leið sína og lagt til þingsályktanir og lagasetningu, sem eiga að krækja fyrir þessa keldu.  Er þetta sýndarmennskan ein eða lagalega bindandi á einhvern hátt fyrir ESB ? Til að leita svara við þessari mikilvægu spurningu, er nóg að fara í smiðju til Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar.  Þingmenn, sem átta sig ekki á gloppunum í málatilbúnaði iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra, hafa ekki lesið heima, eins og þar stendur.  Það er grafalvarlegt, því að áformað er, að þeir taki senn vorpróf í OP#3. Þannig stendur á, að þau, sem kosta þá í skólann, eru hins vegar langflest með öll svörin rétt við spurningum úr þessum efniviði, er Ísland varðar.  Það verður ekkert endurtekningarpróf í OP#3, og þeir sem kosta þessa óburðugu nemendur, munu ekki allir hafa hug á að senda tossana aftur í skólann.

Það er skemmst frá því að segja, að frá bæjardyrum ESB hlýtur lagasetning um að áskilja samþykki Alþingis fyrir "Ice-Link"  eða öðrum aflsæstreng inn á Kerfisáætlun Landsnets í kjölfar innleiðingar í landsrétt á allri samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar á OP#3 að virka sem skrípaleikur, ef ekki beinlínis móðgun við samstarfsaðila í EES. 

Þetta er að líkindum skýringin á því, að 14 mánuðum eftir loforð sitt um lögfestingu skilyrðanna 8 til hluta norsku stjórnarandstöðunnar gegn stuðningi við OP#3 á Stórþinginu, bólar enn ekkert á þessu lagafrumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar.  

Sannleikurinn er sá, að lagasetning af þessu tagi á atriðum, sem ekki eru umsamin við ESB fyrirfram, t.d. í Sameiginlegu EES-nefndinni, hafa ekkert lagagildi að Evrópurétti og eru þess vegna ekki pappírsins virði í samskiptum við ESB, þegar á reynir. Hér eru prúðuleikararnir af fullkominni ósvífni og ábyrgðarleysi að setja upp leikrit fyrir landsmenn, sem þó flestir sjá gegnum svikavefinn.

Ef ESA ekki gerir athugasemd við þetta "sæstrengsbann" fljótlega eftir innleiðinguna á Alþingi til að girða fyrir frekari misskilning og gerir síðan ríkisstjórnina afturreka með þessa lagasetningu með lögsókn fyrir EFTA-dómstólinum, þá má hugsa sér eftirfarandi ferli:

  • Fjárfestir fær stuðning ACER til að hvetja Landsreglarann til að fá  Kerfisstjórann í einu nágrannalanda Íslands á EES-svæðinu til að taka aflsæstreng til Íslands inn á Kerfisáætlun sína með vísun í Kerfisþróunaráætlun ESB. Í Kerfisþróunaráætlun ESB er enn sæstrengurinn "Ice-Link", og hann er enn inni á forgangsverkefnalista ESB, PCI, um millilandatengingar og verður þar áfram svo lengi sem ESB er þess fýsandi, og öll þróun orkumála og stefnumörkun ESB bendir til stöðugt vaxandi áhuga á "grænum rafgeymi norðursins" fyrir meginland í orkuhallæri. Bréf frá Íslandi um að taka "Ice-Link" út af PCI verður sennilega hlegið út af borðinu, ef/þegar Ísland tilkynnir um innleiðingu OP#3 í landsrétt.  Innleiðingin jafngildir viljayfirlýsingu um að tengjast hinum sameiginlega raforkumarkaði ESB.  Tvískinnungur af þessu tagi er forkastanlegur og ávísun á vandræði.
  • Landsreglarinn á Íslandi mun strax tilkynna ACER, að Kerfisstjórinn á Íslandi, Landsnet, megi ekki að landslögum setja sæstrenginn á framkvæmdahluta Kerfisáætlunar sinnar, en hann má aftur á móti setja hann á langtímaáætlun sína.  Við þetta er kominn upp ágreiningur, sem landsreglarar landanna tveggja, sem sæstrengurinn á að tengja, geta ekki leyst sín á milli, og þá fer skýrsla frá ACER til framkvæmdastjórnar ESB.  ESB tilkynnir ESA um brot Íslands á EES-samninginum, gr.7, og þá verður ríkisstjórnin í klóm ESA/EFTA-dómstólsins með þessa lagasetningu, sem virðist hafa blekkt þingflokk Sjálfstæðisflokksins til fylgilags við trúðslegar tiltektir utanríkisráðuneytisins.  

Í þessari stöðu verður Ísland eins og fluga í köngulóarneti Evrópusambandsins, sem spinnur vef sinn til þess að tryggja sér sem mesta "græna" orku.  Sæstrengur verður lagður, og þá mun raforkan einfaldlega fara til hæstbjóðanda, því að ACER stjórnar reglusetningu um nýtingu strengsins, og útflutningshömlur til að draga úr verðhækkunum innanlands eða jafnvel draga úr hættunni á orkuskorti hérlendis verða kærðar sem ríkisstuðningur og/eða brot á EES-samninginum, gr. 12, um bann við útflutningshömlum á vörum.

Hvernig horfir framtíðin svo við í orkupakkamálum ESB ?:

  • Lögfræðilegi ramminn um orkusamband ESB er nú tilbúinn.  Með OP#4, sem inniheldur 4 nýjar tilskipanir og 4 reglugerðir, lauk gerð þessa lagaramma í desember 2018. Eins og með OP#3, stendur samþykktarferlið í aðildarlöndunum.  Í apríl 2019 er formlegt samþykktarferli ESB-þingsins og ESB-ráðsins eftir fyrir eina tilskipun og tvær reglugerðir OP#4.  Eftir samþykkt hverrar tilskipunar og gerðar hefur sú verið send til kynningar hjá EFTA-ríkisstjórnunum, en það hefur ekkert heyrzt af þessu hérlendis. Það er ills viti, því að 5. maí 2017 féllu embættismenn þáverandi á prófi í OP#3.  Eins og dæmin sýna, er afar varasamt að láta embættismenn utanríkisráðuneytisins eina um að véla um jafntæknileg mál og orkupakkarnir eru.  Norska ríkisstjórnin, þótt höll sé undir ESB, sendi jafnharðan þessar orkupakkagerðir til umsagnar sérfræðinga.  Hógvær neikvæð umsögn barst frá Statnett, norska Landsnetinu.  Hún var um lífshagsmuni Norðmanna, afhendingaröryggi raforku.  Hún var á þá leið, að ekki mætti útvista ábyrgðinni á afhendingaröryggi rafmagns út fyrir valdsvið ríkisins.  Öll stjórnun raforkumála í aðildarlöndum ESB er á leiðinni til Framkvæmdastjórnarinnar. 
  • Sams konar þróun verður að sjálfsögðu í EFTA-löndum EES-samstarfsins, nema þau spyrni við fótum.  Fyrir íbúa á eyju langt norður í Atlantshafi er þessi þróun mála leiðin til glötunar. Þess vegna yrði samþykkt OP#3 glapræði. Meira um þetta í seinni pistlum.
  • Í viðhengi er umsögn höfundar vegna þingsályktunartillögu iðnaðarráðherra í tengslum við OP#3.  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Musteri óttans við Rauðará

Ekkert lát er á hræðsluáróðri utanríkisráðuneytisins um voveiflegar afleiðingar þess, að Alþingi notfæri sér samningsbundinn rétt sinn í EES-samninginum til að neita því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af EES-samninginum.  Utanríkisráðherra hefur haldið fjarstæðum fram, sem hér verða gerðar að umræðuefni, og einn aðstoðarmanna hans bætt um betur, t.d. á Snjáldru (FB).  Þá hefur iðnaðarráðherra gert sig seka um fjarstæðukenndan málflutning nýlega í viðtali við vel upplýstan spyril á Harmageddon.  Þar óð iðnaðarráðherra á súðum.  Traust til hennar sem ráðherra orkumála óx ekki við að hlýða á þá grunnfærni.

  1. Synjun sé fordæmalaus og upphaf óvissuferðarÞetta er ósatt, eins og Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur rakið.  Fordæmi um að hafna tillögu ESB um upptöku tilskipunar í EES-samninginn er frá því snemma á þessum áratugi.  Þá var við völd í Noregi ríkisstjórn AP-SP-SV.  Frétzt hafði af mikilli andstöðu SP og SV við Pósttilskipun IV, sem ESB ætlaði að leggja fyrir Sameiginlegu EES-nefndina til samþykktar. Framlagningunni var því frestað. Síðan var andstaða samþykkt á Landsfundi AP, Verkamannaflokksins, og þá gaf norska ríkisstjórnin út yfirlýsingu um andstöðu við Pósttilskipun IV.  Norski utanríkisráðherrann fór síðan til fundar við ESB og EFTA og tilkynnti, að Norðmenn myndu ekki fallast á tilskipunina. Hún var þess vegna ekki lögð fyrir Sameiginlegu EES-nefndina, og engar frekari ráðstafanir gerðar að hálfu EFTA eða ESB.  Þótt OP#3 hafi verið samþykktur í Sameiginlegu EES-nefndinni, breytir það engu um skýlausan rétt Alþingis til að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara, sem er á þessari samþykkt.  Að bera brigður á þetta er bjarnargreiði við EES-samninginn.  Þau, sem reka hamslausan hræðsluáróður um afleiðingar höfnunar Alþingis, grafa í raun undan trausti almennings á þessum samningi og samstarfsaðilum Íslendinga innan EES.  Það er hráskinnaleikur.
  2. Er líklegt, að viðbrögð ESB verði öðruvísi gagnvart Íslendingum í orkupakkamálinu ?: Þá er vænlegt að spyrja, eins og Rómverjar forðum: "Cuo bono"-hverjum væri það í hag ?  Það er engum í hag að setja EES-samstarfið í uppnám, með því að ESB fari út fyrir samningsbundnar heimildir sínar til gagnráðstafana, og líklegast er, að þær verði engar, eins og í tilviki Norðmanna um árið.  Aðalatriðið er, að samkvæmt EES-samninginum eru það aðeins atriði í núverandi samningi, sem eru náskyld OP#3 eða OP#3 mundi leysa af hólmi, sem mætti ógilda, þ.e.a.s. þættir í OP#2, s.s. gasmarkaðstilskipun 2, raftilskipun 2, gerð 1775/2005 (gasflutningar) og gerð 1228/2003 (stofnrafkerfi að og frá flutningsmannvirkjum á milli landa). Ef ESB fer út fyrir heimildir gagnráðstafana, sem fyrirskrifaðar eru í EES-samninginum, brýtur Evrópusambandið EES-samninginn og hægt verður þar með að stefna því fyrir EFTA-dómstólinn.  Það má nánast útiloka, að ESB leggi í þá óvissuferð, enda getur ESB ekkert haft upp úr krafsinu.  Allar getgátur um slíkt hérlendis eru eintómir hugarórar, viðkomandi embættismönnum og þingmönnum o.ö. til minnkunar.
  3. Terje Söviknes, orkuráðherra Noregs, staðfesti í skriflegu svari til Stórþingsins 5. marz 2018, að það er aðeins sá hluti EES-samningsins, sem hefði tekið breytingum eða horfið við innleiðinguna, sem hugsanlega verður ógiltur af ESB.  Ráðherrann skrifaði síðan: "Spurningin um, hvaða hluta viðaukans málið snertir beint, er stjórnmálalegt viðfangsefni, sem ekki er hægt að fá úrskurð um fyrir EFTA- eða ESB-dómstólinum."  Með öðrum orðum skulu málsaðilar finna sameiginlega lausn á þessu í samningaviðræðum.  Túlkun íslenzka utanríkisráðuneytisins á þessu er hins vegar fyrir neðan allar hellur, hrein ímyndun og hræðsluáróður, sem þingmenn margir hverjir hafa kokgleypt.  
  4. Stendur íslenzkum fyrirtækjum einhver ógn af því, að Alþingi neiti að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara ?  Nei, alls engin, og um þetta hafa verið skrifaðar lærðar ritgerðir í Noregi um áhrifin á norskan útflutningsiðnað.  Verður gerð nánari grein fyrir málinu á eftir þessum tölulið pistilsins.  Skörin hefur færzt upp í bekkinn, þegar utanríkisráðuneytið gerir því skóna, að íslenzk útflutningsfyrirtæki sjálfvirkra vinnslukerfa á borð við Marel, Skagann, 3X, Völku o.fl. muni verða fyrir einhvers konar tæknilegum viðskiptahindrunum að hálfu ESB vegna þess, að ESB muni fella úr gildi ákvæði í Viðauka IV, sem hafa engan skyldleika við OP#2 eða OP#3, s.s. kvaðir um orkumerkingar.  Það hefur farið framhjá ráðuneytinu, að þessar kvaðir eiga einvörðungu við um heimilisraftæki.  Er það mjög ámælisvert hjá ráðherranum og aðstoðarkonu hans að fara á flot með slíka endemis vitleysu, en dæmið sýnir, að á þeim bænum helgar tilgangurinn meðalið, þegar verjendur slæms málstaðar eru orðnir rökþrota.  

Stjórnmálamenn, sem dásama gjarna EES-samninginn, nefna þá gjarna, að samkvæmt honum þurfi ekki að taka upp allar gerðir og tilskipanir ESB.  Utanríkisráðherra tönnlast gjarna á hlutfallinu 13,5 %.  Talning gefur þó skakka mynd af hlutfallslegum áhrifum.  Nær væri að taka  umfangið og reyna að meta inngripið í þjóðlífið, t.d. kostnað vegna stjórnsýslu og kvaða á atvinnulífið, og umfang valdframsals til ESB. 

Í þessu sambandi er lykilatriði, að EES-samningurinn áskilur EFTA-ríkjunum skýlausan rétt á að hafna lagabálkum ESB, annaðhvort í Sameiginlegu EES-nefndinni eða í þjóðþingunum.  Að láta eins og með þessu sé lagt upp í einhverja óvissuferð er fáránleg tilraun til að slá ryki í augu almennings, því að neitunarvaldið var grundvöllur þess, að Alþingi samþykkti EES-samninginn 1993. Neitunarvaldið er skráð í EES-samninginn, gr. 93, og í Samninginn um fastanefnd EFTA, gr. 6.  Án neitunarvalds hefði löggjafarvald Alþingis verið framselt ESB 1993 við samþykkt EES-samningsins.  Hræðsluáróður  iðnaðarráðherra o.fl. í þessa veru er mjög ótraustverður og í raun kjánalegur. Trúir hún eigin vitleysu ? 

Líklegast er, að Evrópusambandið sætti sig við það, að Alþingi neiti að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara við samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar án nokkurra sérstakra mótaðgerða.  Hvers vegna ?  Þar vegur nokkuð sjónarmið um fyrirsjáanleika, sbr norska fordæmið, og hlýðni við samninginn.  Gr. 3 í EES-samninginum leggur samningsaðilum á herðar þá skyldu að sýna samninginum hollustu, og enginn samningsaðila, heldur ekki sá stóri (ESB), má skapa vandræði í samstarfinu.  Þetta styður það, að haft verði að leiðarljósi, að hugsanlegar gagnráðstafanir ESB hreyfi sem minnst við innihaldi og virkni EES-samningsins.  Með öðrum orðum: núverandi frjálsu viðskipti skulu haldast.  

ESB má ekki og getur ekki samkvæmt EES-samninginum hafið einhvers konar refsiaðgerðir gegn Íslandi, en getur gert tillögu í Sameiginlegu EES-nefndinni um ógildingu þess hluta EES-samningsins, sem hefði breytzt við innleiðingu OP#3 (ógilding, gr. 102). Þetta er til að jafna út ávinning Íslands af að hafna innleiðingu viðkomandi tilskipunar eða reglugerðar.  Aðalsamningurinn og bókanirnar gilda áfram.  Reglurnar um m.a. frjáls vöruviðskipti og bannið við aðgerðum gegn undirboðum verða áfram í gildi.

 Öllum tilskipunum og reglugerðum í EES-samninginum er raðað á kerfisbundinn hátt í 22 viðauka eftir efni.  Orka er í viðauka #4.  Þar verður Þriðja orkupakkanum með ACER-gerðinni, sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar, skipað niður, ef þau mistök verða framin að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum.  Það er EES-nefndin, sem ákveður, hvort og hvaða þætti samningsins á að ógilda.  Þar eru EFTA, þ.e.a.s. Ísland, Noregur og Liechtenstein ásamt ESB, jafngildir aðilar, og samþykkt krefst samþykkis allra.  

Orkustofnun ESB er tiltölulega ný af nálinni, og engin samningsákvæði til um hana í núverandi EES-samningi.  ACER-gerðin breytir þess vegna ekki núverandi EES-regluverki.  Þannig snertir ekkert í núverandi samningi höfnun á OP#3.  Þótt ESB myndi krefjast ógildingar á þáttum í núverandi orkuregluverki og EFTA-löndin samþykkja, mundu íslenzk fyrirtæki án nokkurs vafa geta starfað með öllu hindrunarlaust áfram í þeim EES-löndum, þar sem þau hafa starfsemi nú eða viðskipti.  Hið sama á við um fyrirtæki frá hinum EES-löndunum, sem nú reka einhvers konar starfsemi á orkusviðinu á Íslandi.  EES-samningurinn á að verja áunnin réttindi fólks og fyrirtækja, sbr gr. 102:

"Réttindi og skyldur, sem fólk og markaðsaðilar þegar hafa áunnið sér samkvæmt þessum samningi, skulu áfram verða við lýði."

    

 


Gaukseggið og óvissan

Hugmyndin í lögfræðilegri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) (tæplega 8 línur í 43 blaðsíðna ritgerð), sem utanríkisráðherra reisir síðan þingsályktunartillögu um Þriðja orkupakkann (OP#3) á, er af öllum sólarmerkjum að dæma aðskotadýr í annars ágætri skýrslu, afrakstur fjölda funda með lögfræðingaher utanríkisráðherra og hinum prýðilegu skýrsluhöfundum.  Gauksegg þetta kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í téða skýrslu, er sannkallaður gallagripur og skapar stórskaðlega réttaróvissu hérlendis, sem getur reynzt ríkissjóði og landsmönnum öllum dýr áður en yfir lýkur.  Þingmenn, sem leiða munu þessi ósköp yfir þjóðina, eru engir bógar til að rísa undir ábyrgðinni og ættu að hugsa sig um tvisvar áður en þeir láta til leiðast.  Þeir gera sig með því seka um óafsakanlega vanrækslu í hinni eilífu hagsmunagæzlu fyrir þjóðina út á við.

Réttaróvissan skapast af tvennu, eins og fram kemur í skýrslunni:  

Í fyrsta lagi er það Stjórnarskrárbrot að samþykkja lagasmíð, sem stenzt ekki Stjórnarskrá, þótt svo standi á við lögfestinguna, að hin brotlegu lög eigi ekki við, þ.e. að enginn sæstrengur sé fyrir hendi.  Höfundar skýrslunnar segja, að miða verði við þá stöðu, að sæstrengur muni koma, og þess vegna verði að útkljá Stjórnarskrárviðfangsefnið fyrst.  Á þessum grundvelli munu hagsmunaaðilar geta látið reyna á réttmæti afléttingar hins stjórnskipulega fyrirvara og lögfestingu á OP#3 með fyrirvaranum. Þá lendum við jafnvel í umfangsmeiri málaferlum út af OP#3 en Norðmenn núna.

Í öðru lagi má ekki innleiða samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar í landslög með breytingu, eins og fyrirvari utanríkisráðherra felur í sér.  Það er brot á EES-samninginum, kafla 7.  Umræður á norska Stórþinginu um haldleysi heimalagaðrar íslenzkrar undanþágu ýta undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) að fetta fingur út í þessa undanþágu, og hagsmunaaðilar geta líka kært hana fyrir íslenzkum dómstóli.  Þetta leiðir af kröfunni um einsleita framkvæmd ESB-gerða í EES.

Undanþágan hangir á lögfræðilegum bláþræði.  Fari allt á versta veg, hefur Alþingi orðið sér til minnkunar fyrir að trúa vitleysunni úr utanríkisráðherra, og landsmenn sitja uppi með ESB-lög í lagasafni sínu, sem vel kunna að verða fundin brotleg við Stjórnarskrá fyrir íslenzkum dómstólum.  Þá er komin upp stjórnlagakreppa í landinu, því að ESB-lög eru æðri bæði íslenzkum lögum og Stjórnarskrá , þar sem þau greinir á, og innleiðing ESB-gerða er óafturkræf.  Við þessar aðstæður eru aðeins 2 leiðir færar: að breyta Stjórnarskrá eða að segja upp EES-samninginum.  Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.

Lagasérfræðingarnir orða fyrra atriðið þannig í skýrslu sinni:

"Með vísan til framanritaðs er það álit höfunda, að ekki séu að óbreyttu forsendur til þess, að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, sbr 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins, nema tryggt sé, að reglugerð nr 713/2009 verði innleidd í íslenzkan rétt á þann hátt, að samræmist stjórnarskránni, sjá nánar kafla 4.1 og 4.3.3."

Sú aðferð, sem utanríkisráðherra hefur valið í þingsályktunartillögu sinni um innleiðingu OP#3, samræmist ekki Stjórnarskránni, ef marka má álitsgerð FÁFH og SMS, því að þeir skrifa í 4.1, að ákvörðun Alþingis um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara verði að miða við, "að grunnvirkjum yfir landamæri verði komið á fót hér á landi".  Þar með er innleiðing að þeirra mati Stjórnarskrárbrot, þrátt fyrir fyrirvara um samþykkt Alþingis á, að leggja megi sæstreng til Íslands.  Lögfræðingarnir hnykkja á þessari niðurstöðu sinni í lok gr. 4.1:

"Verður því að hafna því sjónarmiði [lögfræðingahers utanríkisráðuneytisins-innsk. BJo], að álitaefni tengd valdframsali til ESA skipti ekki máli á þessu stigi, þar sem grunnvirki yfir landamæri eigi enn eftir að líta dagsins ljós hér á landi, og því sé Alþingi fært að að samþykkja þriðja orkupakkann, hvað svo sem líði stjórnskipulegum álitaefnum varðandi valdframsal til ESA."

Þetta orðalag bendir til, að höfundar skýrslunnar hafi lent í rökræðum og jafnvel orðaskaki við lögfræðingaher utanríkisráðuneytisins, og er það mjög ámælisverð verkstjórn að hálfu utanríkisráðherra, ef satt er.  Hafi þá orðið úr að skilyrða gildistöku hinnar umdeildu gerðar nr 713/2009 við framtíðar lagaheimild Alþingis um lagningu sæstrengs og úrlausn Stjórnarskrárvandans.  Þar er þá komin skýringin á gauksegginu í hreiðri höfunda skýrslunnar.  Þeir hnýta þó þar við, að gaukseggið sé eigi gallalaust, og er það eins vægt að orði komizt og hugsazt getur.  Er "understatement" ársins.  Hver er þá gallinn ?

Hann er sá, að umgetinn varnagli hangir á bláþræði geðþótta Evrópusambandsins.  Þegar ESB hentar, getur Framkvæmdastjórnin kvartað við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) eða bent t.d. sæstrengsfjárfesti á að kvarta við ESA út af innleiðingu OP#3 í landsrétt, sem brýtur í bága við EES-samninginn, kafla 7, sem kveður á um undanbragðalausa innleiðingu gerða ESB, eins og Sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt þær.  Þar með fellur varnagli ríkisstjórnar og Alþingis eins og spilaborg.  Það var aldrei um annað að ræða en trúðslega tilburði utanríkisráðherrans með Pótemkíntjöld hér innanlands.  Margir hafa látið blekkjast af Pótemkíntjöldum bæði fyrr og síðar, en falli þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í þessa gildru, mun Sjálfstæðisflokkurinn ganga með böggum hildar til næstu kosninga og væntanlega ekki bera sitt barr fyrr en hann hefur bætt ráð sitt með einhverjum hætti.  

Hvað skrifa hinir mætu skýrsluhöfundar um þennan "galla".  Það gefur að líta í grein 6.4:

"Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana) [eins og þingsályktunartillagan fjallar um-innsk. BJo], þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. gr. EES-samningsins. Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.  Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. gr. reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar þriðja orkupakkans, ef því er að skipta) standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar."   [Undirstr. BJo.]

Þessi mikilvæga niðurstaða skýrsluhöfundanna hefur ekki verið véfengd.  Lagalegur varnagli Alþingis heldur ekki, því að þar sem lög landsins og ESB-rétturinn stangast á, þar skal ESB réttur ráða.  EES-samningurinn kveður á um þetta, og það eiga Alþingismenn að vita.  Alþingi mun baka landsmönnum þjóðréttarlega skyldu til að innleiða OP#3 undanbragðalaust, ef það afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af honum.

  Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er þess vegna í raun og veru um það að innleiða OP#3, eins og hann kom til Íslands frá Sameiginlegu EES-nefndinni, og það er Stjórnarskrárbrot samkvæmt skýlausri niðurstöðu FÁFH og SMS.  Skýrsluhöfundarnir sjá fyrir sér, að Alþingi verði knúið til að fella fyrirvarann úr gildi, og þess vegna taka þeir fram, að leysa verði Stjórnarskrárvandann áður en innleiðingin á sér stað. Að öðrum kosti mun skapast hér réttaróvissa, þar til dómstóll hefur dæmt um það, hvort OP#3 standist Stjórnarskrá eður ei.

Framferði utanríkisráðherra er eins slæm stjórnsýsla og hugsazt getur.  Framferðið bitnar á samstarfi okkar við bæði EFTA-þjóðirnar og ESB.  Verst er þó, að með þessu ráðslagi verður gert skylt að aðlaga stefnumörkun um ráðstöfun íslenzkra orkulinda að innri orkumarkaði Evrópusambandsins.  ESB mun geta beitt Íslandi til að hjálpa Sambandinu til við að ná markmiðum sínum í orkumálum.  Þar sem hagsmunir Íslands og Evrópusambandsins fara alls ekki saman á þessu sviði fremur en á sviði fiskveiðistjórnunar og nýtingar sjávarauðlindanna, er hér verið að stofna til stórfelldra hagsmunaárekstra og ófriðar. 

Þar sem fullveldi landsins á sviði raforkumála verður fórnað með samþykki OP#3, rænir Alþingi landsmenn sínu beittasta vopni í viðureigninni við ESB um orkuauðlindirnar.  Aflétting hins stjórnskipulega fyrirvara verður óafturkræf, svo að eina ráðið til að öðlast yfirráð orkumálanna að nýju verður uppsögn EES-samningsins.  Að neyðast til þess í ágreiningi við Evrópusambandið er hið versta mál.  Slík uppsögn, ef til hennar kemur, þarf að gerast í vinsamlegu andrúmslofti í kjölfar gerðar víðtæks fríverzlunarsamnings, helzt á milli EFTA og ESB.  Umrædd þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er argasta glapræði, og samþykkt hennar mun draga langan ógæfuslóða á eftir sér.  

 

 

 

 

 

 

 

 


Ólögmætt framsal valds yfir orkukerfinu

Lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst (FÁFH) og Stefán Már Stefánsson (SMS) skiluðu greinargóðri skýrslu til verkkaupans, utanríkisráðuneytisins, þann 19. marz 2019 "um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB".   

Viðfangsefnið var nánar til tekið, "hvort það standist ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr 33/1944, að ESA sé falið vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir um grunnvirki yfir landamæri, sem haft geta bein og óbein áhrif á hagsmuni einstaklinga og lögaðila hér á landi, svo og almannahagsmuni, tengda raforkukerfinu og nýtingu þess".

Hér kveður strax við annan en tón en þær innantómu fullyrðingar margra ráðamanna, lögfræðinga og stjórnmálamanna, að ekkert valdaafsal felist í samþykkt Þriðja orkupakkans.  Gagnvart EFTA-löndunum er, eins og kunnugt er, til málamynda gert ráð fyrir, að ESA fari með völd ACER-Orkustofnunar ESB, m.a. valdheimildir, sem ESA eru veittar í reglugerð 713/2009 um "lagalega bindandi ákvarðanir, er varða grunnvirki yfir landamæri".  Utanríkisráðuneytið hefur aldrei komið auga á hættuna, sem í þessu felst, og er enn við sama heygarðshornið. Nú hefur það ákveðið að hundsa eftirfarandi meginniðurstöðu hinna mætu lögspekinga í téðri skýrslu:

"Með vísan til framanritaðs er það álit höfunda, að ekki séu að óbreyttu forsendur til þess, að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, sbr 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins, nema tryggt sé, að reglugerð nr 713/2009 verði innleidd í íslenzkan rétt á þann hátt, að samræmist stjórnarskránni, sjá nánar kafla 4.1 og 4.3.3."

Skoðun höfundanna á þeirri fráleitu aðferðarfræði, sem felst í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í landslög, kemur einmitt fram í grein 4.1, sem þeir vísa til og veitir þingsályktunartillögu utanríkisráðherra í raun og veru falleinkunn, hvað sem öðru líður:

"Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði, sem ekki fá staðizt íslenzka stjórnarskrá, þó að svo standi á, að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn.  Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt, að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna, sem tengjast þriðja orkupakkanum, nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.

Verður því að hafna því sjónarmiði, að álitaefni, tengd valdframsali til ESA, skipti ekki máli á þessu stigi, þar sem grunnvirki yfir landamæri eigi enn eftir að líta dagsins ljós hér á landi, og því sé Alþingi fært að samþykkja þriðja orkupakkann, hvað svo sem líði stjórnskipulegum álitaefnum varðandi valdframsal til ESA. Vikið verður nánar að þessu atriði hér síðar."

Utanríkisráðherra göslast samt áfram með þingsályktunartillögu sína, sem snýst einmitt um að innleiða orkubálk #3 í landsrétt, en setja síðan lög, sem eiga að gera gerð 713/2009 óvirka, þar til stjórnlagavandinn hefur verið gerður upp, og þar til Alþingi ákveður, að lagður skuli sæstrengur.

Leið utanríkisráðherrans er rökleysa og lögleysa, hún mun verða okkur til hneisu í EES-samstarfinu við EFTA og ESB, og hún mun baka íslenzka ríkinu stórfelldar skaðabótakröfur, því að Alþingi mun efna til mikillar réttaróvissu með því að fara leið utanríkisráðherrans. Þetta er algerlega óafsakanlegt ábyrgðarleysi. 

Hvers vegna utanríkispólitísk hneisa ?  Það er vegna þess, að EES-samningurinn, kafli 7, er brotinn með því að innleiða gerð í landsrétt, samþykkta af sameiginlegu EES-nefndinni, en með skilmálum síðar í landslögum.  Þetta er fordæmi, sem stríðir gegn anda EES-samningsins, og verður væntanlega ekki látinn óátalinn af ESA, enda getur hvaða hagsmunaaðili sem er kvartað undan þessu við Eftirlitsstofnunina. 7. kaflinn, sem vitnað er til, hljóðar þannig:

"Gerðir, sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila, og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir: a) gerð, sem samsvarar reglugerð EBE, skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila; b) gerð, sem samsvarar tilskipun EBE, skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina." 

Í þessu sambandi getur vart skipt máli, hver staðan er, þegar innleiðingin á sér stað, í þessu tilviki enginn millilandaaflstrengur fyrir hendi.  Það er alveg ljóst, að Evrópusambandið, sem hungrar eftir raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og leggur í 4. orkupakkanum sérstaka áherzlu á að tengja jaðarsvæði Evrópu við stofnkerfi meginlandsins í þungamiðju iðnaðarins, mun verða þess hvetjandi, að hagsmunaaðilar, t.d. sæstrengsfjárfestar, muni láta reyna á þessar heimalöguðu undanþágur Íslendinga.  Þessar "undanþágur" eru algerlega fordæmalausar í EES-samstarfinu og grafa undan starfsemi Sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem segja má, að sé kjarninn í samstarfi EFTA og ESB vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Að leggja upp með innleiðingu á reglugerðum og tilskipunum ESB á Íslandi á sviði millilandatenginga fyrir raforku á þvílíkum brauðfótum, sem hér hefur verið lýst, er forkastanlegt og fordæmanlegt.  Málið er af slíkri stærðargráðu, að það getur skipt sköpum um afstöðu margra til ríkisstjórnar og stjórnmálaflokka.  Eru ríkisstjórnarflokkarnir tilbúnir til að greiða pólitískt ofurgjald fyrir mál, sem hefur enga kosti í för með sér, hvorki pólitíska né fjárhagslega fyrir þjóðarbúið ?  Ef svo er, þá er áreiðanlega maðkur í mysunni.  Sá maðkur þolir ekki dagsljósið, en það verður "engin miskunn hjá Magnúsi".

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband