Umrót í Þjóðmálum

Tímaritið Þjóðmál er bæði virðingarvert og fróðlegt ársfjórðungsrit.  Þar á Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, fastan samastað, "Af vettvangi stjórnmálanna". Þarna hefur hann í undanförnum heftum hrist úr klaufum og slett úr hala um Þriðja orkupakkann, eins og honum einum er lagið.  Er þar þó lítt af setningi slegið og skjóta þessi skrif skökku við málefnalegar greinar tímaritsins. Það er til að æra óstöðugan að elta ólar við téðan Björn, en í sumarheftinu 2019 keyrir þó svo um þverbak, að ekki verður með góðu móti hjá komizt að leiðrétta þennan fasta penna Þjóðmála, lesendanna vegna:

"Í ályktun landsfundarins segir: "Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."  Þessi ályktun snýr ekki að þriðja orkupakkanum þótt andstæðingar hans láti þannig.  Í honum felst ekkert valdaframsal."

Báðar fullyrðingarnar á eftir tilvitnuninni í ályktun Landsfundar eru alrangar, eins og nú skal sýna fram á. 

Téður Björn hefur lesið rafmagnstilskipun Þriðja orkupakkans, eins og skrattinn Biblíuna, þannig að hann hefur öðlazt á orkupakkanum í heild öfugsnúinn skilning.  Hann gerir lítið úr áhrifum hans, og þau helztu séu aukið sjálfstæði Orkustofnunar til bættrar neytendaverndar.  Þetta éta þau hvert upp eftir öðru, sem helzt vilja sjá Alþingi aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.

Eftirlits- og reglusetningarstofnun ESB á orkusviði, ACER (Orkustofnun ESB), er með skrifstofustjóra á sínum vegum í hverju aðildarríki, og svo verður einnig í EFTA-löndunum þremur, sem aðild eiga að EES, eftir samþykkt OP#3, nema þar verður ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) milliliður fyrir samskipti við skrifstofustjórann, sem hefur verið nefndur Landsreglari á íslenzku (National Energy Authority).  Þessi æðsti valdsmaður raforkumála á Íslandi eftir innleiðingu OP#3, sem verður algerlega óháður íslenzkum stjórnvöldum, en skyldugur til að framfylgja stefnu ESB í orkumálum, mun samkvæmt þessum orkulagabálki ESB (tilskipanir og reglugerðir OP#3) fá 2 meginverkefni:

a) að stuðla að myndun vel virks raforkumarkaðar, sem sé samhæfanlegur við raforkumarkaði ESB.

b) að ryðja öllum hindrunum úr vegi tengingar Íslands við hinn sameiginlega innri raforkumarkað ESB um aflsæstreng.

Verkefni a felur í sér að koma hér á fót markaðsstýringu raforkuvinnslunnar.  Hún felur það í sér, að vinnslu virkjananna verður alfarið stýrt eftir því verði, sem markaðsstjóri orkukauphallar úrskurðar, að feli í sér jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar.  Framleiðendum í þessu markaðskerfi ber engin skylda til að koma í veg fyrir orkuskort, og horfur á orkuskorti munu þrýsta orkuverðinu upp. Aðalviðmið framleiðendanna verður að hámarka tekjur sínar.  Eftir samtengingu íslenzka raforkukerfisins við innri markaðinn (með aflsæstreng), mun verðið til raforkunotenda á Íslandi ekki lengur ráðast af aðstæðum hérlendis, heldur munu íslenzkir raforkukaupendur þurfa að bjóða hærra verð en keppinautarnir erlendis til að fá orku, úr íslenzkum orkulindum eða með innflutningi um sæstreng. 

Er ekki deginum ljósara, að ályktun Landsfundarins hittir beint í mark að þessu leyti ?  Hann hafnaði frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana ESB, en eftir innleiðingu OP#3 verða yfirráðin yfir íslenzka raforkumarkaðinum í höndum Landsreglara, sem er fulltrúi ACER, Orkustofnunar ESB.  Þeir, sem þræta fyrir þetta, hafa annaðhvort fallið í freistni orðhengilsháttar eða  ekki áttað sig á merkingu OP#3.

Felur þessi innleiðing á markaðsstýringu orkuvinnslunnar að hætti ESB í sér valdframsal ?  Já, það er enginn vafi á því.  Þetta verður þvingað ferli, sem hugsanlega verður innleitt í óþökk yfirvalda, sem kunna að kjósa fremur þá orkulindastýringu, sem þróuð hefur verið um árabil innan vébanda Landsvirkjunar, en þarf að innleiða á landsvísu, ef fullur árangur á að nást (með lagabreytingu).  Þetta felur í sér að stofna til orkulindaskrifstofu, t.d. innan þess hluta Orkustofnunar, sem ekki mun heyra undir Landsreglara.  Þessi skrifstofa þarf að fá gögn frá öllum helztu virkjunum landsins, og hún þarf að hafa vald til að takmarka minnkun vatnsforðans í miðlunarlónum til að draga úr hættu á orkuskorti og sömuleiðis til að halda álaginu á gufuforðabúr virkjaðra jarðgufusvæða innan vissra marka til að endingartími forðabúrsins verði sem lengstur. "Orkulindastjóri" þarf líka að geta beitt hvötum til að hefja nýja virkjun í tæka tíð til að forða aflskorti.   

Það er mjög líklegt, að Landsreglari/ESA/ACER muni telja þetta óleyfilegt inngrip ríkisvaldsins í frjálsan markað, þar sem óheft fjórfrelsið á að ríkja, svo að ríkisstjórn og Alþingi muni ekki komast upp með nýja lagasetningu, sem nauðsynleg er, til að orkulindastýring Landsvirkjunar verði útvíkkuð á landsvísu.  

Þessi rökleiðsla varpar ljósi á, að innleiðing OP#3 felur í sér valdframsal, sem bannað er í tilvitnaðri Landsfundarályktun sjálfstæðismanna frá marz 2018.  Hér er reyndar um að ræða valdframsal til erlendrar stofnunar, sem bindur hendur stjórnvalda og löggjafa og kallast þess vegna fullveldisframsal.

Þjóðmál vetur 2011

   

 

   

 


Bloggfærslur 11. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband