Hræðslubandalagið

Núverandi stjórnarandstaða hefur enga sameiginlega sýn á viðfangsefni stjórnmála nútímans og næsta kjörtímabils. Hið eina, sem sameinar hana, er valdafíknin og hatrið á borgaralegum öflum.  Furðumálum sérvitringa er veifað framan í kjósendur annað veifið, en þeim er þó lítt hampað, þegar í ljós kemur, að þau standast illa gagnrýni, eins og t.d. öll vitleysan, sem borin er á borð um stjórnun fiskveiða.  Stjórnarandstaðan hefur gripið til þess hálmstrás að krefjast kosninga strax, sem er bæði ólýðræðisleg afstaða vegna ónógs undirbúnings og óþingræðisleg afstaða, þar sem góður þingmeirihluti er starfhæfur á Alþingi. Samkvæmt þingræðisreglunni má ekki rjúfa þing fyrir lok kjörtímabils, ef starfhæfur meirihluti er fyrir hendi á Alþingi. Það verður hins vegar ekki sagt, að minnihlutinn á Alþingi sé starfhæfur, því að hann einkennist af ráðleysi og hugmyndafátækt, orðhákum, innantómum gífuryrðum og óþingræðislegu atferli.

Þetta undirmálslið rembist nú við að mynda hræðslubandalag gegn borgaralegum öflum fyrir næstu kosningar.  Þessi myrkraöfl samfélagsins reyna nú að rotta sig saman undir einkennisheitinu "umbótaöfl", en slíkt heiti á þessu tætingsliði eru alger öfugmæli, því að miklu nær er að gefa þeim heitið "afturhaldsöflin".  Atvinnustefna þessara lýðskrumara  minnir á eyðimörk, og má þá lýsa erindrekstrinum sem eyðimerkurgöngu. 

Það má t.d. varla reisa nokkra virkjun, þó að æpandi raforkuskortur sé í landinu, og ekki verði staðið við skuldbindingar landsmanna gagnvart Parísarsamkomulaginu í desember 2015 án verulegrar aukningar raforkuvinnslunnar.  Þá er allt gert til að tefja nauðsynlega samtengingu raforkukerfa Norður- og Suðurlands, og þvælzt er fyrir frekari iðnvæðingu.

  Alþjóðlega viðurkennt fiskveiðistjórnunarkerfi er sagt óalandi og óferjandi og verði kastað út í hafsauga, ef trúðarnir komast í færi til þess.  Fórna á hinum heilnæma íslenzka landbúnaði fyrir innflutning á kjöti af sýklalyfjafylltum sláturfénaði, og þar fram eftir götunum. 

Í núverandi stjórnarandstöðu eru ekki umbótaöfl, heldur kostasnauð afturhaldsöfl.  Ætlar almúginn að hverfa af leið stöðugt batnandi lífskjara og verða leiksoppur sundurlyndis, hæfileikaleysis, vanþekkingar, ofstækis og trúðsláta í Stjórnarráðinu að afstöðnum næstu Alþingiskosningum ?  Er fólk búið að gleyma hörmulegu stjórnarfarinu á síðasta kjörtímabili ?  Halda menn, að stuðningur stjórnleysingja við vinstri stjórn gangi raunverulega upp ?  Stefna pírata og vinstri grænna blandast álíka vel saman og olía og vatn. 

Um þessi mál varð Óla Birni Kárasyni, varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins, tíðrætt í Morgunblaðsgrein 20. apríl 2016:

"Klisjur, frasar og umbúðastjórnmál "umbótaaflanna".:

"Reykvíkingar hafa kynnzt "umbótaöflunum" síðustu árin; gatnakerfið er í molum, fjárhagur borgarsjóðs ósjálfbær, enda eytt um efni fram, skorið er niður hjá leik- og grunnskólum, en ráðizt í fjárfrek gæluverkefni, stjórnkerfið þanið út, þjónusta við eldri borgara skert, götur eru skítugar og borgin sóðaleg."

Þegar jafnsundurleitir hópar og vinstri grænir og píratar eru leiddir saman í eina sæng til að stjórna borg eða ríki, þá útheimtir það góða stjórnunarhæfileika að mynda skilvirkt stjórnendateymi.  Stjórnunarhæfileikum er alls ekki fyrir að fara hjá núverandi borgarstjóra, og reynslan af síðasta kjörtímabili á þingi segir okkur, að hæfileikaleysið tröllríði húsum á vinstri vængnum, og píratar eru á móti stjórnun og stjórnendum, eins og stjórnleysingjarnir eru.  Þetta kemur fram í flokkstarfi pírata, en þar má enginn formaður vera og stöðugt er verið að skipta um t.d. þingflokksformann.

Þegar svona er í pottinn búið, myndast engin stjórnarstefna, og engin markmið standast, tekjur hins opinbera aukast lítið þrátt fyrir aukna skattheimtu, útgjöldin þenjast stjórnlaust út og báknið sömuleiðis.  Þjónustan við borgarana koðnar niður, og innviðir grotna niður.  Þetta var reynslan af síðustu ríkisstjórn, og þetta er reynslan af núverandi borgarstjórn.  Ætla kjósendur að setja hag sinn og samborgaranna í uppnám með því að kjósa hæfileikaleysið til valda á ný ?  Það getur orðið dýrt spaug.

Óli Björn vitnar í einn af formannsframbjóðendum Samfylkingarinnar, Magnús Orra, til að gefa lesendum nasasjón af túðrinu og innihaldsleysinu, sem streymir frá lýðskrumurunum á vinstri vængnum.  Þar á bæ telja menn alls ekki vænlegt að sýna sitt hatursfulla stéttastríðsfés fyrir kosningar, sem snýst um að hækka jaðarskattheimtuna og þrúkka þannig niður ráðstöfunartekjum þeirra, sem mikið hafa á sig lagt til aukinnar tekjuöflunar, annaðhvort með löngu og dýru námi eða með löngum vinnutíma, nema hvort tveggja sé.

Þá er auðlegðarskattur vinstri stjórnarinnar, sem borgaralega ríkisstjórnin framlengdi ekki 2014, alræmt dæmi um óréttláta skattheimtu.  Gamalt og tekjulágt fólk hafði sumt hvert önglað saman eignum á starfsævinni, sem vinstri stjórninni þótti refsivert, svo að hún lagði á þetta fólk eignaskatt.  Sú skattheimta gat hæglega á hverju ári numið u.þ.b. öllum tekjum gamlingjans og jafnvel hærri upphæð en tekjurnar námu.  Þá neyddist sá aldraði eða sú aldraða í mörgum tilvikum til að losa um eignir, og stundum varð viðkomandi að selja ofan af sér til að borga "auðlegðarskattinn".  Allt var þetta argasta óréttlæti og tvísköttun í eðli sínu, en samt dirfðust vinstri menn að halda því fram, að með því að framlengja ekki auðlegðarskattinn væri hin borgaralega ríkisstjórn "að afsala ríkissjóði tekjum".  Það er engu líkara, en hinir dómgreindarskertu vinstri menn telji ríkissjóð eiga meiri rétt til eigna fólks og sjálfsaflafjár en sjálfa eigendurna.  Þarna skín gamli Karl Marx í gegn um lygahjúpinn, sem vinstra liðið telur venjulega bezt við hæfi að hylja sig undir. 

"Það eru öfl, sem vilja nýja gerð af pólitík og nýjar áherzlur í stjórn landsmála.  Það er mikill áhugi á að reka nýja gerð af pólitík, segja skilið við þessa gömlu pólitík og reka framtíðarpólitík."

Þetta gól Magnúsar Orra er eitt versta holtaþokuvælið, sem heyrzt hefur frá íslenzkum stjórnmálamanni um langa hríð.  Að bjóða kjósendum upp á fullkomlega innihaldslausar umbúðir af þessu tagi er móðgun við þá. Stjórnmálamaðurinn, sem hér á í hlut, er reyndar svo lítill bógur, að hann er sennilega alls ekki í færum til að útskýra nánar, hvað hann á við.  Þessa heimskulegu frasa lepja vinstri menn og píratar hver eftir öðrum, en það vantar allt kjöt á beinið.  Ætla þeir að fara kviknaktir og kjötlausir í kosningar ?

Ágætri grein sinni lýkur Óli Björn þannig:

"Þannig er "heiðarlegri" pólitík fólgin í því að hafa endaskipti á hlutunum, og ganga gegn meginreglu réttarríkisins um, að enginn sæti ákæru, nema því aðeins, að meiri líkur en minni séu taldar á sakfellingu. (S.b.r. Landsdóm á síðasta kjörtímabili - innsk. BJo.) Dómstólar eru ekki tilraunastofur eða afgreiðslustofnanir, sem gefa "stimpla".

Fundurinn í Iðnó síðasta laugardag (16. apríl 2016 - innsk. BJo) kann að reynast fyrsta skrefið í samvinnu og jafnvel kosningabandalagi fögurra stjórnarandstöðuflokka á Alþingi, sem mynda einnig meirihluta í borgarstjórn.  Þannig skýrst línurnar í íslenzkum stjórnmálum, þótt kjósendur séu lítt fróðari um stefnu "umbótaaflanna", sem hafa tileinkað sér frasa og fagurgala, umúðastjórnmál án innihalds."

Þessi tilraun afturhaldsaflanna til að rotta sig saman bendir til uppgjafar þeirra gagnvart þeirri lýðræðislegu skyldu hvers starfandi stjórnmálaflokks að kynna baráttumál sín fyrir kjósendum fyrir kosningar, því að frá hræðslubandalagi kemur aldrei annað en moðsuða, sem er lítt eða alls ekki upplýsandi um þá stjórnarstefnu, sem kjósendur eiga í vændum, ef þeir styðja þetta moðverk. Þá er það og í hæsta máta ólýðræðislegt, að stjórnmálaflokkar berjist ekki í kosningabaráttu á eigin verðleikum, heldur aðeins til að hindra framgang annarra.  Það er refsháttur, sem kjósendur kunna ekki að meta.

 

 


Andstæð stjórnkerfi

Mannkynið hefur séð margs konar stjórnkerfi fyrir þjóðfélögin koma og fara og fyrir um aldarfjórðungi hvarf eitt þeirra, sovézki kommúnisminn, í aldanna skaut.  Þá hafði þetta eins flokks miðstýrða kúgunarkerfi gengið sér siðferðislega og fjárhagslega gjörsamlega til húðar. Í kjölfarið urðu til nokkur sjálfstæð ríki, sem í Mið-Evrópu tóku upp þingræðisstjórn að hætti Vesturlanda og gengu Evrópusambandinu og NATO á hönd. Segja má, að fullreynt sé með miðstýrt þjóðfélag eins flokks, þar sem öll helztu atvinnutæki og fjármálastofnanir eru á höndum ríkisins að hætti hagfræðingsins Karls Marx. Siðferðislegt og fjárhagslegt gjaldþrot Venezúela nú eftir um 15 ára vinstri stjórn sannar, að daufari útgáfur af Karli Marx en ráðstjórnin virka ekki heldur.

Kínverjar hafa þróað sérútgáfu af einræði kommúnistaflokks, þar sem þeir hafa virkjað auðhyggjuna, kapítalismann, í atvinnulífinu, til að knýja fram mikinn hagvöxt með miklum lántökum og bætt lífskjör allra, og þá hafa auðvitað orðið til allmargir auðmenn um leið. Kínverska kerfið er líklega komið á endastöð núna, því að fjölmennasta miðstétt heims, sem orðið hefur til frá þessari umbyltingu Li Hsiao Pin fyrir aldarfjórðungi, krefst nú meira andlegs frelsis og valds yfir eigin lífi og stjórnun nærumhverfis og ríkis en kommúnistaflokkurinn er reiðubúinn til að láta af hendi. 

Í ágúst 2015 tók hlutabréfavísitalan í Shanghai að falla og þar með orðstír kínversku ríkisstjórnarinnar sem stjórnvald rökhyggju, hæfileika og jafnvel heilbrigðrar skynsemi, sem hún hafði innprentað lýðnum.  Það, sem verra var: vonlaus viðbrögð stjórnvalda, þegar loftið fór úr hlutabréfablöðrunni, sem þau höfðu með áróðri sínum átt þátt í að þenja út, voru aðeins ein af mörgum mistökum valdhafanna.  Miklum fjármagnsfótta frá Kína í kjölfarið hefur fylgt gengissig kínverska gjaldmiðilsins, yuan (renminbi), og stjórnvöldum hefur ekki tekizt vel upp við að ná tökum á þessari neikvæðu þróun kínverskra fjármála, sem endað getur með ósköpum.  Hún leiðir til kjaraskerðingar almennings og vaxandi atvinnuleysis, þó að stjórnvöld reyni nú að söðla um frá gegndarlausri og víða glórulausri iðnaðaruppbyggingu flokkspótintáta í héruðum landsins til þjónustustarfsemi.  Flokksforkólfarnir hafa verið metnir eftir framleiðsluaukningu, en ekkert verið hugað að arðseminni, og nú er skuldabyrðin tekin að sliga efnahaginn. 

Grafalvarleg sprenging í hinni norðlægu borg Tianjin leiddi í ljós ógnvekjandi óstjórn.  Allar ríkisstjórnir gera mistök, en sú kínverska reisir tilverurétt sinn á færni sinni fremur en umboði frá íbúunum.  Nú spyrja útlendingar og kínverskir borgarar sig þeirrar spurningar, hvort ríkisstjórnin hafi misst taumhaldið á þróun ríkisins ? 

Fáeinar slæmar vikur eiga þó ekki að verða allsráðandi um um mat á kínverska kerfinu, sem hefur náð ágætum efnahagslegum árangri undandarin 25 ár.  Það sem réttlæta á þetta valdboðna eins flokks kerfi er röð og regla í þjóðfélaginu og vitur forysta, sem tryggi hagvöxt og almenna velmegun.  Stuðningsmenn þessa kerfis bera gjarna saman feril kínverskra leiðtoga og leiðtoga lýðræðisríkjanna, t.d. Bandaríkjanna, BNA.  Barack Obama segja þeir hafa orðið forseta út á lítið annað en hrífandi mælskulist og getu til að safna í kosningasjóð. Eftir á að hyggja er erfitt að andmæla því. Andstætt þessu hafi Xi Jinping, þegar hann varð flokksformaður 2012, unnið sig upp eftir metorðastiga flokks og ríkisstjórnar og hafi unnið bæði í miðlægri stjórnsýslu flokksins og í 4 fylkjum, sem hvert um sig er stærra en mörg ríki heims.

Aðdáendum Kommúnistaflokksins finnst, að Hr Xi sitji á toppi pýramída, þar sem prelátar hljóta framgang á grundvelli eigin verðleika við að leysa verkefni og próf.  Þetta sé kerfi, sem verðlaunar hæfileika og hafi marga kosti umfram lýðræðislegar kosningar.  Kerfið verði ekki fórnarlamb skammtíma lýðskrumsfreistinga, þegar nálgist næstu kosningar.  Þá hafi kerfið enga hagsmuni af að fiska í gruggugu vatni þjóðfélagslegrar spennu til að afla atkvæða.  Það hafi heldur ekki tilhneigingu til að verða andsnúið þeim, sem ekki hafa kosningarétt, t.d. framtíðarkynslóðum og útlendingum.  Um þetta er fjallað í nýútgefinni bók eftir Daniel Bell, kanadískan háskólamann, sem kennir við Tsinghua háskólann í Beijing ("The China Model: Political Meritocracy and the Limits of Democracy").  Kínverska líkanið kann að henta Kínverjum um takmarkaðan tíma, en það á áreiðanlega ekki erindi við Vesturlönd.

Ef áfram heldur að fjara undan efnahag Kínverja allt þetta ár og jafnvel inn í næsta, þá mun molna undan kínverska stjórnkerfinu, því að það mun þá renna upp fyrir fólki, að stjórnendur ríkisins eru ekki starfi sínu vaxnir, þó að höfuðáherzla hafi verið lögð á að telja almenningi trú um hið gagnstæða.  Af þessum ástæðum má búast við vaxandi hernaðarbrölti Kínverja, eins og merki sjást nú þegar um á Suður-Kínahafi, í tilraun til að beina athygli almennings að málefnum, sem líkleg eru til að þjappa þjóðum Kína saman að baki valdhöfunum.  

Vesturlönd, Japan, Eyjaálfa o.fl. búa við mismunandi útgáfur af þingræðisfyrirkomulagi.  Í BNA er valdamikill forseti, forsetaræði, þar sem meirihluti þingsins getur þó sett honum stólinn fyrir dyrnar. Á Íslandi situr tiltölulega valdalítill, þjóðkjörinn forseti, og Stjórnarskráin er of loðin um valdsvið hans.  Þess vegna er nauðsynlegt að taka öll ákvæði hennar, er varða forsetann til endurskoðunar, og þar sem hann er og væntanlega verður þjóðkjörinn, er eðlilegt að fela honum veigameiri hlutverk en hann hefur nú.  Þau geta t.d. verið á sviði öryggismála ríkisins, utanríkismála, og hægt er að búa svo um hnútana, að ríkisstjórnin starfi í raun á pólitíska ábyrgð forsetans, eins og í Frakklandi. 

Á Norðurlöndunum ríkir hefð um þingbundnar ríkisstjórnir, en forseti Finnlands hefur samt nokkur völd, einkum á sviði utanríkismála, þó að hluti þeirra hafi síðar verið færður til þingsins.  Á Íslandi er eðlilegt að fela valinkunnum stjórnlagafræðingum að taka til í Stjórnarskránni, þegar forsetaembættið er annars vegar, og kveða skýrt á um valdsvið og valdmörk embættisins.  Forseti á að fela þeim, sem hann telur njóta mests stuðnings kjósenda að afloknum Alþingiskosningum, ríkisstjórnarmyndun, og forseti lýðveldisins ætti einn að hafa þingrofsheimildina.  Nýleg tilraun til misbeitingar á þessari heimild til skylminga á þinginu styður þessa skoðun. 

Forsetinn á að vera verndari Stjórnarskráarinnar, og með undirskrift sinni við ný lög á hann að staðfesta, að lagasetning sé í samræmi við Stjórnarskrá.  Sé hann í vafa, á hann að geta vísað lögum, fyrir undirritun sína, til úrskurðar Hæstaréttar , en hann á ekki að geta synjað lögum staðfestingar, ef Hæstiréttur telur þau í lagi, nema 40 % þingmanna fari fram á það. Ef forseti synjar lögum staðfestingar að beiðni þessa drjúga minnihluta þingheims, sem skal þó vera hans val, verður að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi lög, nema meirihluti Alþingis afturkalli þau. 

Ennfremur er rétt að þróa hérlendis annars konar beint lýðræði og setja ákvæði þar að lútandi í Stjórnarskrá að fengnum tillögum stjórnlagafræðinga.  Þannig geti ákveðinn fjöldi kjósenda farið fram á við forseta lýðveldisins, að haldin verði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, og annað hærra hlutfall kjósenda geti farið fram á, að haldin verði ákvarðandi atkvæðagreiðsla um tiltekið mál.  Til að draga úr kostnaði er rétt að taka tölvutæknina í þjónustu lýðræðisins. 

Frelsi eintaklinganna fer alltaf til lengdar saman við lífskjör þeirra. Það hefur verið sýnt fram á skýra fylgni á milli frelsis í þjóðfélögum og velmegunar þar. Hluti af frelsinu felst í að ráðstafa tekjum sínum að vild.  Þess vegna er sjálfsagt stefnumál, að launþegar haldi sem mestu af tekjum sínum til eigin ráðstöfunar og rekstur og umsvif hins opinbera sé að sama skapi í lágmarki.  Samt hefur gefizt illa, t.d. í Kaliforníu, að kjósendur megi kjósa um tekjuöflun ríkisins, en það mætti íhuga að veita þeim rétt til að kjósa á milli einkarekstrar og opinbers rekstrar, einkafjármögnunar framkvæmda hins opinbera o.s.frv.  Allar tilraunir með Stjórnarskrárbreytingar verður þó að framkvæma af varfærni og að beztu manna yfirsýn.   

 


Píratar - dýrt spaug

Píratar eru angi alþjóðlegrar hreyfingar, sem hvergi hefur hlotið umtalsverðan stuðning, hvorki í kosningum né í skoðanakönnunum, nema á Íslandi. Hugmyndum þessa fólks svipar til hugmynda stjórnleysingja, anarkista 19. og 20. aldarinnar.  Þeir eru í uppreisn gegn ríkjandi stjórnskipulagi Vesturlanda, hvort sem það er kennt við þingræði eða forsetaræði, og þeir vilja rífa niður ríkisvaldið.  Þess vegna segja margir þeirra, að þeir vilji ekki setjast í ríkisstjórn. 

Þeir vilja stigmagna óreiðuna í þjóðfélaginu, þar til spennan verður óviðráðanleg og ríkisvaldið splundrast. Þetta er ófögur sýn, en þessa nöðru næra kjósendur nú við brjóst sér.  Á meðan fitnar púkinn á fjósbitanum, sem í þessu tilviki er Vinstri hreyfingin grænt framboð, sem gælir við píratana, þó að þessir tveir hópar fólks séu á öndverðum meiði. Þessir tveir flokkar hafa sem sagt algerlega öndverða meginstefnu, annar vill rífa niður ríkisvaldið, en hinn vill svæla alla starfsemi undir pilsfald ríkisins, og til þess grefur hann undan einkaframtakinu og dregur fjárhagslegan þrótt úr einstaklingunum undir fölsku flaggi jöfnunar lífskjara. Um þetta geta nöðrurnar sameinast. 

Sem dæmi um einstrengingslega og óþingræðislega hegðun kapteins pírata, sem nú gegnir víst stöðu þingflokksformanns þeirra, Birgittu Jónsdóttur, má grípa niður í það, sem frá henni kom í pontu þingsins 12. apríl 2016.  Þar talar utangerðsmanneskja, sem engan veginn er tilbúin að laga sig að siðaðra manna háttum og nota tíma sinn í pontu Alþingis til að leggja eitthvað jákvætt til málanna þjóðinni til heilla, heldur hefur hún, stjórnleysinginn, í hótunum um að hefta þingræðið og lama starfsemi þingsins. Er það í anda stefnu stjórnleysingja um að hámarka öngþveitið á þjóðarheimilinu. 

Hegðun Birgittu Jónsdóttur er dónaskapur gagnvart Stjórnarskrá landsins, sem hún þó á að hafa svarið trúnaðareið, því að þar er mælt fyrir um þingræðisstjórn á landinu, en ekki meirihlutaræði samkvæmt skoðanakönnunum eða tilfinningum einstakra þingmanna um "háværar kröfur" á torgum úti. Eitt einkenna lýðskrumara er einmitt að þykjast tala "í nafni þjóðarinnar".  Þannig hafa loddarar sögunnar réttlætt moldvörpustarfsemi sína gagnvart löglega kjörnum fulltrúum, sem myndað hafa meirihlutastjórn á þingi, og eru dæmin frá Reichstag í Berlín um 1930 víti til varnaðar.:

"Þetta er óboðlegt ástand.  Að ætla okkur að fara í hefðbundin þingstörf og láta, eins og ekkert hafi gerzt á landinu, er ekki í boði.  Látið okkur fá dagsetningu.  Það kom mjög skýrt fram, forseti, á fundi forseta, að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að fá dagsetningu.  Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti."

Það er engin leið að semja við offors pírata, eins og þarna kemur fram, og geðslagið er þannig, að Birgitta getur rokið upp eins og naðra upp úr þurru og kynnt nýjar kröfur til sögunnar.  Flokksmenn hennar eru búnir að fá nóg af baktjaldamakki hennar og baknagi, svo að hún er "rúin trausti".  Hún hefur enn ekki sýnt nokkurn lit á málefnalegri umræðu um "hefðbundin þingstörf", sem henni sennilega leiðast.  Við þessar aðstæður verður kjörtímabilið ekki stytt um heilt þing.  Skilyrði þeirrar hugmyndar eru einfaldlega enn ekki uppfyllt. Það er þingræðisfyrirkomulag í landinu, en hvorki skrílræði né meirihlutaræði samkvæmt skoðanakönnunum.  Fyrir hag almennings er stöðugleiki í stjórnarfari grundvallarmál.

Í Morgunblaðinu, 13. apríl 2016, var frétt á viðskiptasíðu: "Fitch varar við aukinni áhættu":

"Fitch bendir á, að stjórnvöld séu þegar langt komin við losun fjármagnshafta, og væntir fyrirtækið þess, að þeirri áætlun verði framfylgt, á meðan núverandi ríkisstjórn situr.  Hins vegar kunni sú staðreynd, að kosningum verður flýtt um ár að hafa töluverðar pólitískar afleiðingar til lengri tíma litið.  Segir í tilkynningu Fitch, að fyrirtækið muni í lánshæfismati sínu fylgjast sérstaklega með því, hvort pólitískri uppstokkun fylgi breytt efnahagsstefna, sem geti leitt til ofhitnunar í hagkerfinu. 

Í því sambandi vísar Fitch sérstaklega til ráðstöfunar stöðugleikaframlaga slitabúa föllnu bankanna, sem núverandi stjórnvöld hyggjast nýta til að greiða niður skuldir ríkisins.  Verði þeim fjármunum hins vegar varið til ríkisútgjalda, muni þensluhætta aukast verulega. 

Bendir matsfyrirtækið á mikinn uppgang Pírata, sem dæmi um pólitíska óvissu hér á landi, en þar sé um að ræða nýlegan flokk með óljósa stefnu í efnahagsmálum."

Traust alþjóðlegra matsfyrirtækja á lánshæfi íslenzka ríkissjóðsins er landsmönnum mikilvægt, því að vaxtakjör hans fara að miklu leyti eftir þessu mati, og þau eru leiðbeinandi um vaxtakjör ríkisfyrirtækja, og vextir til annarra fyrirtækja og heimila draga dám af þessum vöxtum.  Hagur atvinnulífs og almennings er þess vegna háður mati Fitch og annarra slíkra.  Það má draga þá ályktun af tilvitnuðu áliti Fitch, að matsfyrirtækið næri efasemdir í garð núverandi stjórnarandstöðuflokka, hvað varðar getu þeirra og vilja til að halda aga á ríkisfjármálunum.  Saga vinstri flokka við völd á Íslandi er skelfileg m.t.t. halla á ríkisbúskapi, skuldasöfnun og verðbólgu þrátt fyrir skattpíningu miðstéttarinnar.

Fylgi við pírata felur í sér óvissu um stjórnarstefnu ríkisstjórnar, sem þeir hugsanlega munu eiga aðild að.  Ástæðan er sú, að stefnumörkun þeirra í efnahagsmálum er í þoku, enda hafa þeir ekki hug á að fara með ríkisvald, heldur að mola það niður.  Stjórnleysingjum er illa við ríkisvald.  Ef þeir munu fást til stjórnarþátttöku, gæti hún orðið alger skrípaleikur til að skapa glundroða og upplausnarástand. 

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður pírata, veitti innsýn í sýktan hugarheim sinn, er henni varð á að hrópa: "Þetta er valdarán !", þegar kunngert var, að varaformaður Framsóknarflokksins og formaður Sjálfstæðisflokksins hygðust halda stjórnarsamstarfinu áfram, enda myndu 38 þingmenn verja ríkisstjórnina vantrausti. Þessi upphrópun bendir til, að þegar hér var komið sögu, hafi Birgitta talið, að hennar tími væri kominn og að ekkert nema öngþveiti, draumastaða Birgittu, blasti við, þ.e. valdataka þeirra, sem hún gerði sér tíðar ferðir til að hitta á Austurvelli í byrjun apríl 2016.  Þetta hugarfar á ekkert skylt við þingræðisstjórnarfyrirkomulag, sem varð ofan á hina örlagaríku daga 4. -  6. apríl 2016 fyrir tilstyrk Stjórnarskrárinnar, forseta lýðveldisins og þingflokka stjórnarflokkanna.  Allt þetta hatast téð Birgitta alveg sérstaklega við.  Hún er eins konar meinvættur fyrir stöðugt stjórnarfar í landinu. 

Fyrir smurt gangverk hagkerfisins er stöðugt, fyrirsjáanlegt og frjálslynt stjórnarfar í landinu lykilatriði.  Ríkisstjórnin og þingmenn hennar eiga þess vegna drjúgan heiður skilinn fyrir methagvöxt, metkaupmátt, lágmarksatvinnuleysi og lágmarksverðbólgu á Íslandi á þessu kjörtímabili. Um samspil stjórnarfars og heilbrigðs hagkerfis skrifar Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, í Markaðinn 13. apríl 2016 undir fyrirsögninni:

"Hagfræði stjórnmálakreppu":

"Í öðru lagi, og þetta skiptir meira máli að mínu mati, er það, sem bandaríski hagfræðingurinn, Robert Higgs, hefur kallað "stjórnaróvissu".  Stjórnaróvissa vísar til almenns trausts til lagalegs og stofnanalegs umhverfis í hagkerfinu.  Ef það er mikil óvissa um þessa innviði, getur það varanlega dregið úr fjárfestingum og þar af leiðandi framleiðniaukningu í hagkerfinu."

Sú "stjórnaróvissa", sem hér er gerð að umræðuefni, heldur nú innreið sína á Íslandi, því að kosningar til þings gætu hugsanlega farið fram að 5 mánuðum liðnum, og enginn veit, hvers konar stjórnarstefna verður við lýði í kjölfar þeirra. Það skiptir öllu máli fyrir hagkerfið, hagvöxtinn, kaupmáttinn og arðsemi fjárfestinga, hvort haldið verður áfram á sömu braut á næsta kjörtímabili og á núverandi kjörtímabili, en ekki innleitt hér öngþveiti eða skattaáþján og verðbólga vinstri sinnaðra stjórnarhátta með ögn af stjórnleysisívafi frá pírötum að hætti borgarstjórnar, þar sem þetta stjórnarmynztur er við lýði. 

Kjósendur ákvarða með atkvæðaseðli sínum, hvort hérlendis verður afturhvarf til fortíðar og þjóðfélagslegur sirkus eða stöðug framþróun til lægstu ríkisskulda og beztu lífskjara í Evrópu.

"Hins vegar er meginspurningin ekki um, hvað gerist í íslenzku efnahagslífi á næstu 2-3 ársfjórðungum, heldur hvort þessi stjórnmálakreppa setji af stað meiriháttar breytingar á hinu pólitíska landslagi á Íslandi, sem gætu hugsanlega breytt efnahagslegu og pólitísku valdakerfi landsins.  Persónulega tel ég þetta mikilvægustu spurninguna, þegar litið er til næsta áratugarins eða svo.", skrifaði Lars Christensen ennfremur.

Landsmenn þurfa nú að feta hinn gullna meðalveg, sem hefur ekki ávallt reynzt þeim auðrataður.  Hann er sá, að gera strangar kröfur um heiðarleika í orði og verki til stjórnmálamanna sinna og sín einnig, en hlaupa ekki í múgæsingu á eftir ofstækismönnum af báðum kynjum á jaðri stjórnmálanna, sem beita óprúttnum meðulum til að efna til galdrabrenna, þar sem ofstækismennirnir hirða ekkert um sekt eða sakleysi þeirra, sem kastað er á bálköstinn.  Aðalatriðið virðist vera að búa til fórnarlömb og ná sér niðri á  pólitískum andstæðingum sínum.  Ekkert er nýtt undir sólunni í mannlegri hegðun. Það er hámark lýðskrumsins að hrópa:

"Hann er í Panamaskjölunum, á bálköstinn með hann".  Slíkir loddarar munu hitta sjálfa sig fyrir í vítislogum almennrar fordæmingar, þegar menn ná áttum, áður en yfir lýkur, og dómur sögunnar hefur aldrei orðið ofstækismönnum og -konum vilhallur. 

       Alþingishúsið

 

 


Óánægja með auðvaldið

Hvað sem öðru líður, hefur auðhyggjan (kapítalisminn) reynzt öflugasti drifkraftur nýbreytni, framþróunar, lífskjarabóta og hagvaxtar af öllum þjóðfélagskerfum, sem fram hafa komið og reynd hafa verið í mannheimum. Dreifing lífsgæðanna á meðal þegnanna, þ.e. sköpun fjölmenns hóps öflugra neytenda, hefur einnig reynzt öflugust og sums staðar jöfnust í markaðshagkerfum frjálsrar samkeppni. Að undanförnu hefur mikil lífskjarasókn átt sér stað á Íslandi, og á sama tíma hefur kjarajöfnuður aukizt á mælikvarða GINI-stuðulsins. Það má þess vegna álykta sem svo, að hérlendis sé nú í grófum dráttum við lýði sjálfbært hagkerfi, sem nefna mætti markaðshagkerfi með félagslegu ívafi. Í þessu kerfi þarf hins vegar tvímælalaust að auka samkeppnina til að knýja fram framleiðniaukningu, sem öllum er hallkvæm.

Sameignarstefnan beið skipbrot og jafnaðarstefnu Norðurlandanna rak upp á sker risavaxinna ríkisútgjalda, sem urðu skattgreiðendum, fyrirtækjum og einstaklingum, þ.e. hagkerfunum, að lokum um megn.  Sparnaði náðu Svíar í ríkisrekstrinum, eftir téð útgjaldafyllerí ríkisins, m.a. með því að leyfa samkeppni með útboðum og einkarekstri á þjónustu, sem hið opinbera þó tekur mestan þátt í að fjármagna. Ofvaxin opinber afskipti af hagkerfinu, þegar umsvif opinbera geirans, ríkis og sveitarfélaga, fara yfir 50 % af landsframleiðslu, leiða skjótlega til fátæktar þegnanna.  Þar sem hið opinbera skilur meira eftir til ráðstöfunar einstaklinga og fyrirtækja, ríkir mun meiri velmegun. 

Vinstri öflin hafa þrátt fyrir lélegan árangur sinn við stjórnvölinn sums staðar fengið byr í seglin nýlega, og er ástæða til að velta vöngum yfir því.    Í Bretlandi hélt Verkamannaflokkurinn fyrsta flokksþing sitt í október 2015 eftir kjör öfgavinstrimannsins Jeremy Corbyn sem formanns flokksins. Þeir, sem kusu Corbyn til forystu, leggja meira upp úr, að flokkurinn leggi rækt við ómengaða vinstri stefnu í flokksstarfinu en hann breyti brezka ríkisvaldinu sem ríkisstjórnarflokkur, því að málflutningur Corbyns og félaga er róttækari en flestum Bretum, einkum Englendingum, fellur í geð.  Reyndar er hægt að falla allur ketill í eld við lestur stefnumála þessa villta vinstris, svo gamaldags og gjörsamlega úreltur er stéttastríðs áróður þessara pólitísku hugsjónamanna og án minnsta jarðsambands.  Kominternmenn hefðu klappað fyrir Corbyn, væru þeir ofar moldu, því að varnarmálin eru sett í skammarkrókinn með sama hætti og vinstri grænir gera á Íslandi, en vinstri græn eru enn á móti NATO og veru Íslands þar. 

Formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs fór af hjörunum, þegar fréttist af tillögu um miaISK 2,7 til fjárlaga 2017 í BNA um breytingar á flugskýli o.fl. á Keflavíkurflugvelli til að hýsa Orion P8A kafbátaleitarflugvél bandaríska sjóhersins.  Þessi nývakti áhugi Pentagons fyrir aðstöðu á Íslandi er þó aðeins fagnaðarefni, þó að tilefnið sé síður en svo fagnaðarefni.  Katrín Jakobsdóttir vill hins vegar, eins og hún er vön, stinga hausnum í sandinn, þegar vandamál koma upp. Það er hin óskrifaða stefna vinstri grænna. 

Á Grikklandi og á Spáni hafa nýir vinstri flokkar komið fram á sjónarsviðið á síðustu árum og skákað þeim vinstri flokkum, sem fyrir voru. Gríska Sýriza vann tvær kosningar í röð 2015, þótt Brüsselvaldið træði stóryrðum flokksforystunnar ofan í kokið á henni, þar sem þau hafa síðan að mestu haldið kyrru fyrir síðan.  Spænska Podemos varð mikið ágengt í landsþingskosningum í desember 2015, og hefur flokkurinn höggvið skarð í fylgi spænska jafnaðarmannaflokksins. 

Í Bandaríkjunum, BNA, hefur Bernie Sanders, sem lýsir sjálfum sér sem óháðum sósíalista, náð góðum árangri í forkosningum Demókrata. Frans, páfi, hefur, ekki alls fyrir löngu, beint Vatíkaninu á nýja braut í pólitíkinni með fordæmandi yfirlýsingu um "ósýnilega harðstjórn markaðarins" og ráðleggur "að beina hagkerfinu að þjónustu við fólk".  Þetta er athygliverð yfirlýsing páfans, sem fer fyrir auðugri stofnun, sem kom m.a. aflátsbréfum í verð forðum tíð og hefur rekið talsvert umfangsmikla bankastarfsemi við misjafnan orðstír um aldaraðir. Sagt er, að batnandi mönnum sé bezt að lifa, en hér er enginn venjulegur maður á ferð, heldur fulltrúi Guðs á jörðu, samkvæmt kaþólskri trú, svo að orð páfa vega meira en annarra í eyrum margra. Kannski er páfi þarna aðeins að predika fyrir "markaðshagkerfi með félagslegu ívafi", sem ýmsir hérlendis aðhyllast og gefizt hefur vel í þýzka Sambandslýðveldinu.

Ríkjandi stétt um allan heim úthlutar sér ríflegum greiðslum án tillits til árangurs, sem hún hefur náð fyrir eigendur fyrirtækis síns. Dæmi um þetta er viðskilnaður Martins Winterkorns, fyrrverandi aðalforstjóra Volkswagen-samstæðunnar, sem tók á sig ábyrgð á hugbúnaði, sem stýrði hreinsun reyks frá vissum dísilvélum og hafði þar með áhrif á eldsneytisnotkun þeirra með sviksamlegum hætti, og beðizt hefur verið afsökunar á fyrir hönd VW-samstæðunnar.   Þetta hefur valdið VW álitslegum og fjárhagslegum hnekki, sem skiptir tugum milljarða evra.  Téður Herr Winterkorn var leystur frá störfum í kjölfar játningar með gjöf frá stjórn fyrirtækisins upp á MEUR 60 (miaISK 8,5).  Minna mátti ekki gagn gera við þann viðskilnað.  Þetta er hneisa og kórónar mistökin. Þessi gerningur hefur vakið hneykslun til hægri og vinstri, og VW-samstæðan er nú í iðrunar-og yfirbótaferli um leið og hlutabréf hennar hafa fallið um tugi af hundraði.  Markaðurinn hefur þó tekið afsökunarbeiðnina góða og gilda ásamt loforði um bót og betrun og lætur yfirsjónina ekki aftra sér frá að fjárfesta áfram í orðlögðum gæðum samsteypunnar.  

Þann 25. september 2015 skrifaði Charles Moore, opinber ævisöguritari Margrétar Thatcher, fyrrverandi formanns brezka Íhaldsflokksins og frægs forsætisráðherra, í Wall Street Journal, að Karl Marx hefði haft mikilsverðan skilning á "misskiptu vægi eignarhalds á auði".  Þegar gallharður íhaldsmaður er farinn að vitna í höfund Kommúnistaávarpsins þannig, að úr penna þessa misheppnaða postula hafi þrátt fyrir allt hrotið algildur vísdómur inn á milli, þá er það merki um mikla þjóðfélagslega gerjun, og hún á sér líklega stað um allan heim þessi misserin án þess, að rætur hennar hafi verið krufnar til mergjar og án fullnægjandi valkosta um nýja þjóðfélagsskipan.  Hver þjóð verður að leita þess fyrirkomulags, sem henni hentar bezt.

Gallup-skoðanakönnun á trausti almennings til bandarískra stofnana sýndi nýlega, að stórfyrirtækin voru þar næstneðst, nokkru ofan við öldungadeild bandaríska þingsins, þar sem aðeins 21 % spurðra lýsti miklu eða þónokkru tausti á stórfyrirtækjum. Það er sem sagt ekki einsdæmi, að þjóðþingið njóti lágmarks trausts.  Þetta er brýnt að laga, og á Íslandi er áfangi á þeirri leið að styrkja agavald forseta þingsins og veita honum meiri völd yfir dagskrá þingsins.  Bættur bragur á þinginu á formi efnislegri umræðna og banns við langlokum og töfum mundi strax bæta úr skák án þess að rýra möguleika stjórnarandstöðu markvert á að koma efnislegum sjónarmiðum sínum á framfæri. 

Á Íslandi ríkir líka tortryggni í garð fyrirtækja, vaxandi með stærð þeirra, og er þetta þjóðfélagslegt sjúkdómseinkenni, sem vert er að gefa gaum, og það er mjög mikilvægt fyrir stjórnmálalegan stöðugleika að vinna bug á þessu.  Ef fólk er fullt vantrausts gagnvart höndinni, sem brauðfæðir það, er voðinn vís.  Eitt ráð við þessu er að gera almenning að beinni þátttakendum í fyrirtækjarekstri með "Mitbestimmung" eða meðákvörðunarrétti launþeganna í stjórnum fyrirtækjanna, að hætti Þjóðverja, og annað að efla mjög eignarhald almennings með almenningshlutafélögum.  Reyndar er almenningur nú þegar stór eignaraðili atvinnulífsins á Íslandi með aðild sinni að lífeyrissjóðum landsins, en ekki er víst, að fólk sé almennt nægilega meðvitað um sameiginlega hagsmuni sína og fyrirtækjanna í landinu. 

Auðhyggjufólk (kapítalistar) vilja gera greinarmun á fyrirtækjahegðun og auðhyggju (kapítalisma). Því miður hefur hegðun stjórnenda sumra fyrirtækja, hvort sem er kennitöluflakk, einokunartilhneigingar, daður við skattaskjól eða annað, svert auðhyggjuna í hugum þónokkuð margra, með svipuðum hætti og rónarnir  hafa komið óorði á brennivínið með misnotkun sinni. Stuðningsmenn auðhyggjunnar segja þá, að bezta ráðið gegn göllum "slæmrar auðhyggju", t.d. einokunar og vinahygli, sé að sleppa lausum kostum "góðrar auðhyggju", þ.e. samkeppni og nýsköpunar. 

Góðu tíðindin fyrir slíka boðbera frjáls markaðar eru, að góða auðhyggjan styrkist nú á dögum.  Sjáið bara, hversu erfitt er núna fyrir stórfyrirtæki og stórforstjóra að tryggja stöðu sína.  Meðaltími fyrirtækis á Fortune 500 listanum hefur stytzt úr 70 árum árið 1930 í um 15 ár nú, og meðaltími forstjóra í starfi hjá fyrirtækjum á Fortune 500 hefur stytzt úr 10 árum árið 2000 í 5 ár árið 2015.

Alþjóðavæðing viðskiptanna og tölvuvæðingin hafa flýtt fyrir hinni skapandi eyðileggingu.  Árangursrík fyrirtæki geta nú sprottið upp á ólíklegustu stöðum, t.d. í Eistlandi (Skype) og í Galisíu (Inditex), og náð heimsútbreiðslu. Tölvutæknin gerir fyrirtækjum kleift að vaxa mjög hratt. "WhattsApp", skilaboðaskjóða fyrir farsíma, fékk 500 milljón notendur á innan við 5 árum frá stofnun. 

Ekki er allt jafnglæst fyrir launþegana hjá þessum sprotum.  Þau eru venjulega létt á fóðrum, hvað fólk og eignir snertir, sumpart af því að tölvuþjónusta er mjög sjálfvirk og sumpart vegna úthýsingar.  Fyrir 10 árum hafði Blockbuster 9000 starfstöðvar í BNA með 83000 starfsmönnum.  Netflix er með 2000 manns í vinnu og leigir tölvukerfi fyrir sitt efnisstreymi af Amazon.  

Gerald Davis við Ross viðskiptadeildina við Háskólann í Michigan hefur reiknað út, að þau 1200 fyrirtæki, sem hafa verið opinberlega skráð á hlutabréfamarkað í BNA síðan 2000 hafi hvert um sig skapað færri en 700 störf að jafnaði á heimsvísu síðan þá. Þar er engin miskunn sýnd; þessi nýju stjörnufyrirtæki standa í stöðugri sjálfsendurnýjun og umbyltingum til að forðast örlög fyrri stjörnufyrirtækja á borð við AOL og Nokia. Hjá "framsæknum" fyrirtækjum á að heita, að starfsmenn geti tekið sér frí að vild, þ.e. þegar þá lystir og svo lengi sem þá fýsir, en í reynd þorir varla nokkur maður að fara í frí, því að þá lendir hann á eftir áætlun með verkefnin sín, og slíkt er afar illa séð.  Það er ekki allt sem sýnist í glansheiminum. 

Þessi fyrirtæki í upplýsingageiranum þurfa aðallega á sérhæfðu fólki að halda, t.d. forriturum.  Þar sem þau hafa verið vaxtarbroddur, t.d. í BNA, hefur fólk án sérfræðimenntunar að miklu leyti legið óbætt hjá garði í þeim skilningi, að störfum við þess hæfi hefur ekki fjölgað mikið, sem hefur valdið stöðnun lífskjara hjá þorra almennings. 

Íslendingar eru sem betur fer í þeirri stöðu, að allt hagkerfið vex hratt, þ.e. það er fjölbreytni í vextinum, og langflestir fá vinnu við hæfi, þó að það geti tekið tíma, enda eru undirstöður atvinnulífsins allfjölbreytilegar.  Hins vegar er Akkilesarhæll atvinnulífsins of lítil framleiðni, og á því viðfangsefni bera stjórnendur höfuðábyrgð.  Lág framleiðni er áfellisdómur yfir viðkomandi stjórnendum, en lág framleiðni er þó alls ekki alls staðar.  T.d. ber há framleiðni sjávarútvegsins af á heimsvísu og einingarverð afurða hans á útflutningsmörkuðum sömuleiðis, og er það vegna gæða vöru hans og þjónustu.

Fylgjendur auðhyggju þurfa að muna tvennt:

Hið fyrra er, að fæstir greina á milli góðrar og slæmrar auðhyggju; flestir sjá heim, þar sem þeir, sem ofan á fljóta, sigurvegararnir, valda flóðbylgju óánægju og réttlátrar reiði, auka þjóðfélagsóróa, um leið og þeir taka frá fyrir sig lúxusrými í björgunarbátunum. 

Hið síðara er, að kraftarnir, sem leika um auðhagkerfið, leika þá einnig um stjórnmálin.  Gömlu flokksvélarnar gefa eftir, og pólitískir framagosar hafa nú meira svigrúm til að yfirtaka gamla stjórnmálaflokka og mynda nýja.  Andauðhyggja er aftur orðið afl, sem fást þarf við, þrátt fyrir gjaldþrot sameignarstefnunnar.   

 


Ekkert er öruggt

Uggvænleg tíðindi berast af erlendum fjármálamörkuðum vestan hafs og austan.  Spár um fjármálakreppu 8 árum eftir hámark síðustu alþjóðlegu kreppu skjóta mönnum skelk í bringu, þegar bjarg á borð við Deutsche Bank er sagt riða vegna hárra skulda og gríðarlegra tapa á afleiðuskuldbindingum, Credit Default Swaps, CDS.  Væntanlega hafa undanfarið átt sér stað mikil útlánatöp stórra banka vegna efnahagserfiðleika þróunarríkjanna, og er Kína þar þyngst á metunum. Botnverð á hrávörumörkuðum síðan 2014 hafa valdið töpum á "fjármálagjörningum" bankanna á borð við CDS. 

Þrátt fyrir "rífandi gang" í íslenzka hagkerfinu hefur erlend óáran smitazt hratt yfir á íslenzkan verðbréfamarkað, sem reyndar efldist mjög árið 2015, en menn töldu þó eiga talsvert inni 2016.  Hvað við tekur hérlendis á kosningaári 2016 til Alþingis er enn á huldu, en skoðanakannanir á viðhorfum landsmanna boða meiri óvissu en oft áður.  Ástæðan er sú, að fari svo sem horfir, að Píratar verði með stærsta þingflokkinn að kosningum loknum, er forseti, hver sem hann nú verður, líklegur til að fela "kapteini Pírata" fyrst stjórnarmyndunarumboðið.  Það yrði í fyrsta sinn í heimssögunni, að forkólfi stjórnleysingja (anarkista) yrði falin ríkisstjórnarmyndun, og yrði vafalítið ávísun á skrípaleik og öngþveiti í stjórnmálum landsins. 

Hvort kapteinninn telur vænlegra að koma málefnum sínum til framkvæmda með borgaralegu flokkunum eða "vinstra mixinu", veit enginn, en það skýtur skökku við, ef "uppreisnarflokkurinn" ætlar að leggja lag sitt við forræðishyggjuflokkana í stað þess að berjast með borgaralegum öflum og fá "báknið burt". 

Píratar og kerfissnatar hljóta eðli sínu samkvæmt að fara saman eins og olía og vatn, og yrði það undirfurðuleg samsuða og hefði í för með sér snöggan stjórnmálalegan dauðdaga fyrir píratahreyfinguna. Hér verður að bæta því við, að verstu kerfissnatarnir hljóta að vera aðdáendur Evrópusambandsins, því að þar er versta "búrókratí", sem heimurinn hefur kynnzt frá falli Ráðstjórnarríkjanna 1991.

Við þessar óvissu aðstæður í alþjóðlegum fjármálaheimi og innlendum stjórnmálaheimi er ómetanlegt, að kjölfesta finnist í atvinnulífinu.  Þrátt fyrir áföll blómstraði sjávarútvegurinn 2015 og er tvímælalaust orðin kjölfesta íslenzks efnahagslífs, þótt ekki sé nú umsetningin mest í gjaldeyri talið.  Stærsta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, slítur nú barnsskónum sem risinn á leikvanginum, en á eftir að sanna sig sem sjálfbær og viðvarandi risaatvinnugrein.  Ferðaþjónustan á Íslandi nútímans gengur á náttúruauðlindina með náttúruspjöllum, eins og fráfarandi Landgreæðslustjóri hefur bent á, og er þess vegna ósjálfbær atvinnugrein.  Sé gríðarleg losun hennar á gróðurhúsalofttegundum meðtalin, verður ljóst, að ferðaþjónustan leikur lausum hala í hagkerfinu, skilur eftir sig gríðarlegt kolefnisspor, og þess vegna þarf hún að búa sig undir háa kolefnisskattheimtu. 

Við þessar aðstæður er fáheyrt, að þessi atvinnugrein skuli telja sig þess umkomna að setja sig upp á móti sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og uppsetningu nauðsynlegra flutningsmannvirkja til að flytja þessa orku á milli landshluta, þó að 97 % erlendra ferðamanna líti með velþóknun á mannvirki tengd þessari nýtingu á Íslandi, 3 % tóku ekki afstöðu, og enginn lýsti sig andvígan.  Það er tóm vitleysa hjá forkólfum náttúruverndarsamtaka og ferðaiðnaðarins, að sá síðast nefndi mundi verða fyrir tjóni vegna nýrra virkjana og flutningslína.  Allt fer þetta ágætlega saman.  Nýtum og njótum !  

  Eftirfarandi tíðindi gat að líta í Fiskifréttum, 4. febrúar 2016:

"Útflutningur sjávarafurða á árinu 2015 jókst um tæpan 21 milljarð kr frá árinu áður eða um 8,5 % að því, er fram kemur í upplýsingum á vef Hagstofunnar.

Árið 2015 fluttu Íslendingar út sjávarafurðir fyrir tæpa 265 miakr, en árið 2014 nam þessi útflutningur 244 miakr. 

Alls voru fluttar út vörur frá Íslandi fyrir 626,3 miakr FOB á síðasta ári, og var verðmæti vöruútflutnings um 36 miakr eða 6,1 % hærra, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður. 

Iðnaðarvörur voru 52,9 % alls vöruútflutnings, og var verðmæti þeirra 6,8 % hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna útflutnings á áli.

Sjávarafurðir voru 42,2 % alls vöruútflutnings.  Aukning varð einkum vegna útflutnings á fiskimjöli.  Verðmæti mjöls jókst um 85 % á milli ára."

Hér eru mjög jákvæð hagtíðindi á ferð af árinu 2015.  Þrátt fyrir mótlæti af völdum tapaðs Rússlandsmarkaðar, minni loðnuveiði og efnahagsstöðnunar víða í heiminum, tókst sjávarútveginum að auka verðmætasköpun sína og gjaldeyrisöflun. Sannar það styrk vöruþróunar og markaðssetningar sjávarútvegsins, og sennilega má þakka þetta líka veðurfyrirbrigðinu El Nino, sem dró mjög úr ansjósugengd í Suður-Ameríku og hækkaði þar með mjölverð í heiminum.  

Eiginfjárhlutfall sjávarútvegsins er um þriðjungur af heildareign, svo að efnahagurinn er traustur, þó að hann beri merki mikilla fjárfestinga. Þær eru undirstaða framtíðarteknanna.  Íslendingar eru í 3. sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir Evrópu og eiga að njóta sannmælis sem slíkir í samningum um deilistofnana.  Evrópusambandið verður að láta af kúgunartilburðum sínum gagnvart Íslandi um auðlindir hafsins.  Hafrétturinn er Íslands megin, og með  vísindin að vopni, lögum og þrautseigju, mun sanngjörn hlutdeild Íslands af makríl og öðrum slíkum stofnum verða viðurkennd. Nýr og efnilegur utanríkisráðherra Íslands skrifaði þann 16. apríl 2016 góða grein í Morgunblaðið, þar sem hún fagnaði því, að Sameinuðu þjóðirnar hefðu nýlega samþykkt mikinn hluta af umráðakröfum Íslendinga til landgrunnsins út af Reykjanesi.   

Alls starfa um 8´000 manns í greininni við veiðar og vinnslu, og voru launagreiðslur alls 82 miakr og bein opinber gjöld 25 miakr árið 2014. Beint og óbeint þiggja vart færri en 25´000 manns laun af greininni eða um 14 % af vinnuaflanum.  Greinin er talin standa undir um fjórðungi landsframleiðslunnar.

Iðnaðurinn, utan matvælaiðnaðar, er með stærstu hlutdeildina í vöruútflutninginum, og nemur hún yfir helmingi.  Að iðnaðurinn nái að auka verðmætasköpun sína á sama tíma og álmarkaðir eru í algerri ládeyðu, vitnar um ótrúlegan kraft og sýnir, að fjölbreytni útfluttra iðnaðarvara hefur vaxið gríðarlega síðast liðinn áratug. 

Þó að herði að efnahagi fólks, verður það alltaf að borða.  Um allan heim, og ekki sízt á helztu mörkuðum Íslendinga fyrir matvæli, er vaxandi meðvitund almennings um mikilvægi heilnæmrar fæðu fyrir heilsufarið.  "Fish from Iceland" hefur ímynd matvöru úr hreinu umhverfi, sem verður að varðveita.  Að síun skolps frá hreinsistöðvum frárennslis á Íslandi standist ekki gæðasamanburð við danskar og sænskar hreinsistöðvar, hvað agnir úr plasti og öðru snertir, eru þess vegna vonbrigði, því að þetta eru vísast heilsuskaðleg efni. Hér þarf hið opinbera, aðallega sveitarfélögin, að bæta frammistöðu sína.   

Fregnir berast nú um, að Norðmenn séu búnir að skrínleggja áform um olíuleit á norðurslóðum, þ.á.m. á Drekasvæðinu, en engin slík tíðindi eru frá fyrirtækjum, sem Össur Skarphéðinsson, þáverandi olíumálaráðherra Íslands, úthlutaði leitar- og vinnsluleyfum á íslenzka Drekasvæðinu.  Fáfnir offshore, leitarfyrirtæki, á nú mjög erfitt uppdráttar, en í þessu fyrirtæki hafa a.m.k. 2 íslenzkir lífeyrissjóðir fest fé.  Eru það auðvitað hrapalleg mistök og forkastanlegt af lífeyrissjóðum að kasta fé á glæ í "rússneska rúllettu", sem samræmist heldur ekki markmiðum Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna frá desember 2015 um hámarkshitnun andrúmslofts 2°C, en til þess verður að láta "óbrennanlegt jarðefnaeldsneyti" liggja, þar sem það er.  Er ekki að spyrja að gáfnafari og gæfu íslenzkra vinstri manna, þegar kemur að stefnumörkun í hinum örlagaríkari málum.

 

 

 


Ríkjandi stétt í tilvistarvanda

Um öll Vesturlönd næðir um valdhafa og forystu hefðbundinna valdaflokka, þótt í stjórnarandstöðu sé.  Ísland er þar engin undantekning. Lítið umburðarlyndi gagnvart valdhöfum er tímanna tákn. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram til skýringa á þessari óvenjulegu stöðu, sem einhverjir spekingar kynnu að kalla "postmoderníska", en fáir eru nokkru nær með þann orðalepp.

Taugaveiklun stjórnarandstöðunnar á Íslandi birtist ljóslega, þegar stjórnarkreppa vofði yfir á Íslandi í kjölfar Fésbókarfærslu SDG þann 5. apríl 2016, en þá skaut hann yfir markið með því að stilla bæði forseta lýðveldisins og þingflokki sjálfstæðismanna upp við vegg auk þess að móðga sinn eigin þingflokk.  Því fer fjarri, að stjórnarandstaðan hafi hreinan skjöld varðandi aflandsfélög.  T.d. reyndist innsti koppur í búri Samfylkingar, gjaldkerinn, hafa siglt undir fölsku flaggi, vera erkikapítalisti og dylja félagana þess að vera eigandi aflandsfélags. Orðrómur er um, að háttsettir menn innan verkalýðshreyfingarinnar úr röðum stjórnarandstöðuflokkanna séu á meðal eigenda aflandsfélaga.  Það væri óskandi, að nöfn allra þessara íslenzku eigenda verði birt sem fyrst, svo að hreinsa megi andrúmsloftið.  

Algeng skýring erlendis er, að "elítan", hafi misst traust almennings og trúverðugleika á flestum sviðum með mistökum sínum, úrræðaleysi og jafnvel spillingu. Á dögum borgarabyltinga 17. aldar (England), 18. aldar (Frakkland) og 19. aldar (Norðurlönd) var talað um úrkynjun aðalsins. Borgarar og bændur veltu aðlinum úr sessi.  Á Íslandi voru yfir 90 % mannskapsins leiguliðar og þurrabúðarmenn.  Þeir eignuðust loks jarðirnar og bátana á 19. og 20. öld, og sú breyting leiddi til kjarabyltingar á Íslandi. Hvað nú, er byltingarhugur í almúganum á Íslandi ?   

Á Íslandi hefur stéttaskiptingunni stundum verið lýst svo af alþýðu manna, að hrossataðskögglarnir fljóti jafnan ofan á, en menntakerfið hefur mjög dregið úr stéttaskiptingu á Íslandi. Á sumum vettvöngum þjóðfélagsins er þó erfitt að mótmæla þessu með hrossataðskögglana, en annars staðar á þessi myndlíking ekki við, því að við stjórn eru víða hinir mætustu menn og fremstir á meðal jafningja, eða eins og Rómverjar kölluðu Octavianus, sem síðar varð Augustus, fyrsti keisari Rómarveldis, "Primus inter Pares".

Einn þeirra, sem hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að leita skýringa á þjóðfélagsstöðunni, sem við blasir, er prófessor Ívar Jónsson í Morgunblaðsgrein 24. október 2015.  Þar skrifaði hann m.a.:

"Ógæfa Sjálfstæðisflokksins stafar af því að hafa lagt ofuráherzlu á að tileinka sér engilsaxneska nýfrjálshyggju Thatcherismans í stað þýzkrar nýfrjálshyggju Ordoliberalismans, sem leggur höfuðáherzlu á að tryggja samkeppni og réttlæti með sérstökum aðgerðum og regluverki gegn fákeppni.  Um leið er markmiðið að stemma stigu við samþjöppun efnahagslegs og stjórnmálalegs valds einokunar- og fákeppnisfyrirtækja.

Umræða um slíka nýfrjálshyggju var áberandi í Sjálfstæðisflokkinum á 6. áratuginum og Viðreisnarárunum, og þar var fremstur í flokki hugmyndafræðingurinn Birgir Kjaran, ritstjóri Frjálsrar verslunar.  Á þeim árum einkenndist stefna Sjálfstæðisflokksins af raunsæi og pragmatisma, en ekki hreinni hugmyndafræði.  Útgangspunkturinn var samfélagsleg ábyrgð, sem fólst í áherzlum á hagsmuni þjóðarinnar, stétt með stétt, frjálsri verzlun, raunverulegri samkeppni og umhverfisvernd grænu byltingarinnar."

Það er gott og blessað að rifja upp forna dýrðartíma Sjálfstæðisflokksins frá valdatíma Ólafs Thórs og Bjarna Benediktssonar, eldri.  Flokkurinn sló þá á strengi, sem endurómuðu í brjóstum þjóðar, sem var að feta sig áfram á braut sjálfstæðis, og var þá enn eftirbátur margra í lífskjörum, enda ríkti hér harðsvírað haftakerfi, sem vinstri flokkarnir höfðu smeygt um háls þjóðarinnar í Kreppunni miklu, og Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka barðist gegn og afnam síðan að mestu með Alþýðuflokkinum í upphafi valdaferils Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971. Viðreisnarstjórnin er líklega sú ríkisstjórn Íslands, sem mestum vatnaskilum olli í hagkerfinu á 20. öld til hagsbóta fyrir almenning. Núverandi ríkisstjórn með Bjarna Benediktsson, yngri, sem fjármála- og efnahgsráðherra er þegar orðin sú ríkisstjórn, sem mestum hagsbótum hefur komið í kring fyrir almenning á fyrstu tveimur áratugum 21. aldarinnar.  Afrek hennar með uppgjöri við slitabú föllnu bankanna til að greiða fyrir afnámi gjaldeyrishafta verður seint fullþakkað.

Til að fást við vandamál nútímans dugir hins vegar ekki að horfa til fortíðar, þótt hún sé glæst á köflum.  Það er ekki nóg að beita gömlum ráðum á viðfangsefni nútímans, þó að hugmyndafræði Ludwigs Erhards og Konrads Adenauers um að stöðva svartamarkaðsbrask í Vestur-Þýzkalandi eftirstríðsáranna og að stemma stigu við auðsöfnun og valdasamþjöppun með valdbeitingu ríkisins til að sundra risum á markaðinum til að tryggja frjálsa samkeppni, hafi gefizt vel í Vestur-Þýzkalandi eftir fall Þriðja ríkisins og geti áreiðanlega verið gagnleg á Íslandi nútímans einnig að breyttu breytanda. 

Nú dugir fólki þó ekki lengur efnaleg velferð, heldur vill það móta samfélag sitt með því að koma að ákvarðanatöku.  Það er brýnt að svara þessu með því að móta reglur um atkvæðagreiðslur í nærsamfélaginu og um málefni ríkisins á netinu, og nýta þannig tæknina til eflingar lýðræðinu, svo að það nái að þróast án óheyrilegs kostnaðar, sem atkvæðagreiðslum með pappír og blýanti upp á gamla móðinn fylgir.  Sjálfstæðisflokkinum væri í lófa lagið að ríða hér á vaðið í einu af sveitarfélögunum, þar sem hann hefur einn farið með völdin um langt árabil. 

Síðar í grein sinni,

"Sjálfstæðisflokkur í sjálfheldu - Fjórflokkurinn í kreppu", segir Ívar Jónsson:

"Samkvæmt stefnuskrá Pírata eru þau ekki andvíg verðtryggingu lána, en vilja kanna lögmæti verðtryggingarinnar.  Þau vilja lögfesta lágmarkslaun, en styðja ekki afgerandi skipulagsprinsipp norræns velferðarkerfis, þ.e. jafnan rétt til aðstoðar óháð tekjum viðkomandi.  Þau eru opin fyrir nýfrjálshyggjukerfi með tilheyrandi mati á þörf hvers og eins.  Píratar vilja einnig auka einkavæðingu velferðarkerfisins með því að styrkja hlut einkafyrirtækja í kerfinu til að minnka skrifræði í kerfinu.  Þau vilja einfalda skattakerfið, en skýra ekki, hvernig þau vilja gera það, eða hvort það feli í sér andstöðu við skattakerfi, sem byggist á mörgum stighækkandi skattþrepum. Þá má nefna, að Píratar hafa ekki stefnu í vaxtamálum, og þau eru ekki andvíg hávaxtastefnu nýfrjálshyggjunnar.  Loks hafa þau enga skýra stefnu gegn fákeppnisfyrirtækjum."

Hér orkar margt tvímælis hjá prófessor Ívari.  Út af fyrir sig ættu Píratar, sem eru uppreisnarflokkur gegn ríkjandi stétt, að geta tekið undir hið gamla slagorð sjálfstæðismanna, "Báknið burt", og þess vegna kemur ekki á óvart, að þeir vilji einfalda opinbera stjórnsýslu og þar með skattakerfið, sem reyndar er og hefur verið í einföldunarferli á þessu kjörtímabili, þó að óskandi væri, að Sjálfstæðisflokkinum hefði orðið betur ágengt með samstarfsflokkinn í þeim efnum en raun ber vitni um. Ef kjósendur veita pírötum verulegt brautargengi í næstu Alþingiskosningum, blasir við, að Sjálfstæðisflokkurinn gæti hugmyndafræðilega og fylgislega myndað tveggja flokka ríkisstjórn með pírötum, en hvort slíkt verður raunhæft fer eftir því, hvernig þingflokkur pírata verður skipaður.  Þessi hreyfing stjórnleysingja er enn að mestu óskrifað blað, en eðli málsins samkvæmt eiga stjórnleysingjar meira sameiginlegt með frjálshyggjumönnum en forræðishyggjufólki, sem leynt og ljóst vinnur að útþenslu báknsins.  

Jafnaðarstefnan hefur gjörsamlega gengið sér til húðar á Vesturlöndum, og hún er alls óskyld hinni þýzku markaðshyggju með félagslegu ívafi. Að allir fái sömu bætur úr ríkissjóði án tillits til efnahags er hagfræðilegt óráð.  Þá yrðu upphæðirnir svo lágar, að þeir, sem virkilega þurfa á öryggisneti hins opinbera að halda, stæðu í sömu sporum í sinni neyð. Þetta jafnaðarkerfi er löngu hrunið hvarvetna, enda var það hagfræðilegt óráð. Öldrunarsamfélög Vesturlanda hafa ekki lengur efni á jafnaðarmönnum við völd.  Þess vegna hrynur af þeim fylgið.

Dæmi um óréttlætið, sem í þessu felst, er fyrirætlun félagsmálaráðherra að hækka fæðingarorlofsfé miðlungs- og hátekjumanna, en láta ungar mæður, sem ekki hafa verið á vinnumarkaðinum, liggja óbættar hjá garði.  Það er fullkomin ósvinna, að samfélagið skuli ekki fremur kjósa, og það strax, að leggja út öryggisnet sitt til slíkra mæðra, hvort sem þær eru einhleypar eður ei, og greiða þeim fæðingarorlofsfé, sem dugir til að framfleyta slíkum mæðginum eða mæðgum.  

Prófessor Ívar klínir mörgu á nýfrjálshyggjuna, sem hún á ekki.  Eitt er hávaxtastefnan.  Nú ríkir fyrrverandi Trotzkyisti í Seðlabankanum við misjafnan orðstír, maður, sem sóttur var til Basel í Sviss, af því að hann var ekki talinn hallur undir "nýfrjálshyggju", heldur hafði starfað fyrir dr Ólaf Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra og formann Alþýðubandalagsins (Alþýjasleifarlagsins). Hann versnaði þó varla við að vinna fyrir dr Ólaf. 

Þessi maður hefur ásamt sinni peningastefnunefnd haldið raunvöxtum í landinu í hæstu hæðum, svo háum, að menn hafa aldrei séð annað eins, og er líklega heimsmet sem meðaltal í 3 ár og gerir öllum atvinnurekstri erfitt fyrir, svo að ekki sé nú minnzt á kaupendur sinnar fyrstu íbúðar. Gagnsemin er mjög umdeilanleg við ríkjandi stöðnun og jafnvel verðhjöðnun erlendis. Verðbólguspá Seðlabankans undir stjórn þessa manns hefur reynzt vera kerfisbundið allt of há, og hefur bankinn þannig orðið sekur um að skapa allt of miklar verðbólguvæntingar í þjóðfélaginu, sem eru þensluhvetjandi.  Hávaxtastefna dregur úr hagvexti, og það er þess vegna órökrétt að klína henni á nýfrjálshyggju. Fjármálakerfið hefur ekki frekar reynzt skjólstæðingur frjálshyggjumanna en jafnaðarmanna, nema síður sé, sbr tímabilið 2003-2008 á Íslandi.  

Því skal mótmæla með vísun í Landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins 2015, að nýfrjálshyggja eigi sér heimilisfesti í flokkinum. Stefnu Sjálfstæðisflokksins svipar, ef eitthvað er, meira til markaðshyggju með félagslegu ívafi í anda CDU í Þýzkalandi en til Thatcherisma eða Reaganisma, en þau tvö hafa mest verið kennd við nýfrjálshyggju á Vesturlöndum undanfarna áratugi. 

Í lok greinar sinnar skrifar téður Ívar Jónsson:

"Það er því ekki sjáanleg nein alvarleg ógn við núverandi nýfrjálshyggjukerfi.  Líklegt er því, að pólitísk óvissa ríki áfram og að Fjórflokknum muni halda áfram að hnigna, nema ef ske kynni, að þau öfl eflist innan Sjálfstæðisflokksins, sem vilja fara þýzku nýfrjálshyggjuleiðina." 

Ef prófessor Ívar telur vísitölutryggingu fjárskuldbindinga verðskulda heitið "núverandi nýfrjálshyggjukerfi", þá verður að benda honum á, að lögin um hana, Ólafslög, eru kennd við fyrrverandi formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, prófessor Ólaf Jóhannesson, og að fyrsta tæra vinstri stjórn lýðveldisins, 2009-2013, virtist engan áhuga hafa á að draga úr vísitölutengingum, hvað þá að afnema þær, enda reyndist sú ríkisstjórn draga taum alþjóðlegs fjármálavalds í hvívetna. 

Vísitölutengingar í einu hagkerfi eru sjúkdómseinkenni, en ekki sjúkdómur. Sjúkdómurinn er óstöðugt hagkerfi.  Íslenzka hagkerfið er nú betur í stakk búið en nokkru sinni fyrr að fóstra stöðugleika.  Það er vegna fjölbreytilegra og stórra tekjustofna í erlendri mynt. Jón Daníelsson, fræðimaður við London School of Economics, er með athygliverðar kenningar um, að hávaxtastefna Seðlabanka Íslands vinni gegn stöðugleikamarkmiðum ríkisstjórnarinnar. 

Frelsi innlánseigenda og lántakenda til að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra skuldbindinga hefur verið aukið, og stefnumiðið hlýtur að vera, að hér verði slíkur stöðugleiki í hagkerfinu, að vísitölutengingar verði óþarfar til skemmri og lengri tíma.  Hingað til virðist markaðurinn þó ekki hafa viljað útrýma verðtryggingu. Fullt valfrelsi í þeim efnum er eðlilegt. 

Sú almenna krafa að fá meiri aðkomu að ákvörðunum um málefni, sem almenningur ber fyrir brjósti, hefur myndað sér farveg í Pírötum.  Slíkt beint lýðræði á sér góðan samhljóm í grunngildum Sjálfstæðisflokksins um einstaklingsfrelsi til orðs og æðis.  Hér, eins og í öllum öðrum málum, er varða Stjórnarskrána, er hins vegar nauðsynlegt að vanda til verka, og fúskarar eiga ekki að fá að véla um hana, heldur verður að fá verkefnið stjórnlagafræðingum, svo að fullt samræmi verði innan Stjórnarskrárinnar eftir sem áður, og svo að ákvæðin um þjóðaratkvæðagreiðslu verði hafin yfir allan vafa, séu sanngjörn og leiði ekki til öngþveitis eða mikilla viðbótar útgjalda.  

 

 

 


Skrílræði eða stjórnskipulegt lýðræði

Mótmæli á Austurvelli , feb-2010Píratar, vinstri grænir o.fl. hafa dögum saman lagt leið sína niður á Austurvöll í aprílmánuði 2016 og efnt þar til skrílsláta í anda stjórnleysingja (anarkista) og kommúnista, en báðir þessir hópar fyrirlíta þingræðið og hafa í sögulegu samhengi notað hvert tækifæri til að kasta skít í tannhjól þess.  

Það er fullkomlega löglegt að safnast saman til friðsamlegra mótmæla, en þegar þau eru orðin hávaðasöm, t.d. í grennd við hátíðahöld á Austurvelli að morgni 17. júní, eins og mjög hvimleitt dæmi er um, eða valda stórfelldum sóðaskapi eða jafnvel eignaskemmdum, þá gegnir allt öðru máli.  Steininn tekur þó úr, þegar skrílslæti eiga sér stað við Alþingishúsið á starfstíma þess, og er beinlínis ætlað að trufla starfsfrið þingsins.  Slíkt er forkastanlegt, enda stjórnarskrárbrot, sem á alls ekki líðast.  Lögreglan ver að sönnu þinghúsið gegn innrás, en þegar hávaði upphefst þar, eða skríll tekur að fleygja matvælum eða öðru í átt að þinghúsinu, þá hefur stjórnlagabrot verið framið, sem útheimtir virkar lögregluaðgerðir.  Kröfur fólks, sem rýfur friðhelgi Alþingis og raskar friði þess og frelsi, eru að engu hafandi, enda eru slík skrílslæti brot á 36. greinar Stjórnarskrárinnar. Slíkir afbrotamenn eru ómerkingar og ber að sæta hæfilegri refsingu eftir lögreglurannsókn og dómsuppkvaðningu. 

Vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar á fyrsta starfsdegi ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, dýralæknis, var felld með 38 atkvæðum gegn 25, og þar með getur ríkisstjórnin starfað út kjörtímabilið eða svo lengi, sem hún hefur meirihlutafylgi á Alþingi.  Stjórnarandstaðan lagði samt fram aðra tillögu um kosningar strax, þ.e. innan 45 daga, og var hún einnig kolfelld, en með 37 gegn 26.  Í geðshræringu mikilla atburða og óláta gáfu þingmenn stjórnarinnar ádrátt um styttingu kjörtímabilsins um eitt þing, en það er óþingræðislegur gjörningur á meðan ríkisstjórnin hefur traustan þingmeirihluta. Ber að líta svo á, að ráðherrarnir telji sig ekki hafa traustan þingmeirihluta á síðasta þingi kjörtímabilsins.  Það væri miður, því að ríkisstjórnin þarf allt kjörtímabilið til að treysta í sessi þær aðgerðir, sem flokkarnir voru kosnir til og sem þeir einsettu sér að vinna að allt kjörtímabilið. Má þar nefna haftalosunina, umbætur á skattakerfinu, sölu ríkiseigna, endurreisn heilbrigðiskerfisins, aukna fjölbreytni í menntakerfið og að auðvelda fólki að eignast sína fyrstu íbúð. Offors stjórnarandstöðunnar eru ólýðræðislegir tilburðir til að draga úr árangri þessa stjórnarsamstarfs með því að færri mál verði til lykta leidd á kjörtímabilinu en efni stóðu til.

Það hefði ennfremur verið í hæsta máta óþingræðislegt að ganga nú í vor til kosninga áður en öll kurl eru komin til grafar í hinu mikla hitamáli, sem skók ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, áður en ný framboð fá tækifæri til að kynna sig almennilega, ofan í forsetakosningarnar og þrátt fyrir, að báðir stjórnarflokkar kjósi helzt að halda samstarfinu áfram til að leiða mikilvæg mál til lykta. Stjórnarandstaðan er afar seinheppin í sínum málatilbúnaði, sem bendir til svipaðrar hrakfallasögu á næsta kjörtímabili og hinu síðasta (2009-2013), ef sömu flokkar ná að tæla pírata til fylgilags við sig eftir kosningar.  Nú er reyndar alveg eftir að sjá, hvernig pírötum mun ganga í sínum framboðsraunum í öllum kjördæmum landsins.  Ná þeir að halda hópinn, eða springur púðurtunnan undir sjóræningjunum.  Þreyta er komin í samstarfið innan þingflokksins og óvíst, að meðferð vinnusálfræðingsins dugi, þegar streita kosningabaráttunnar fer að segja til sín.  Fari Birgitta þá að naga eins og rotta, en samkvæmt Helga Hrafni rægir hún fólk "þónokkuð oft og mikið", þá mun sjóræningjafleyið springa í loft upp áður en það kemst í höfn.  Kannski dugir andstæðingunum þá að hitta á réttan stað í einu skoti, eins og Bismarck tókst gegn Hood vestur af Íslandi 1941. 

Lögfræðingurinn, Skúli Magnússon, gerði breytilega lengd kjörtímabils að umræðuefni 9. apríl 2016 í Morgunblaðsgrein sinni:

"Stjórnskipulegt lýðræði og krafan um kosningar":

"Á allra síðustu dögum hafa ýmsir tekið svo til orða, að ríkisstjórnin sé "rúin trausti" og í samfélaginu sé uppi "hávær krafa" um, að gengið verði til kosninga tafarlaust.  Er þá yfirleitt vísað til mótmæla almennings, einkum á Austurvelli, og mælinga í skoðanakönnunum.  Ekki fer á milli mála, að þeir, sem hafa þennan málflutning í frammi, telja sig fulltrúa lýðræðislegra sjónarmiða."

Það er ekki í anda gildandi Stjórnarskráar að taka ákvörðun um Alþingiskosningar á grundvelli háværra mótmæla, þar sem fullyrt er út í loftið, að stjórnin sé "rúin trausti", eða á grundvelli skoðanakannana, sem allar hafa sína annmarka, og eru alls ekki ígildi leynilegra kosninga. 

Ríkisstjórn, sem nýtur stuðnings meirihluta Alþingismanna, ber samkvæmt Stjórnarskrá að starfa út kjörtímabilið.  Meirihluti þingsins getur hins vegar ákveðið að dagsetja kosningar áður en kjörtímabilinu á að ljúka, en þá aðeins, af því að hann treystir sér ekki til að styðja ríkisstjórnina lengur.  Annars gætu ríkisstjórnarflokkar freistað þess að framlengja umboð sitt, þegar þeir telja byrlega blása fyrir sig á meðal kjósenda.  Slíkt er ekki sanngjarnt gagnvart stjórnarandstöðu og ekki í anda núverandi Stjórnarskráar.  Athugum, hvað téður Skúli skrifaði um þetta:

"Af umfjöllun Ólafs (Dr Ólafs Jóhannessonar, fyrrverandi forsætisráðherra - innsk. BJo) er hins vegar ljóst, að sú lýðræðishugmynd, sem hér er vísað til, gerir ekki ráð fyrir því, að "almannaviljinn", eins og hann er mældur eða talinn af sumum vera á hverjum tíma, ráði ferðinni í hverju og einu máli. Þegar litið er yfir íslenzku stjórnarskrána, uppruna hennar og meginreglur, er þannig ljóst, að hún byggist á þeirri hugmynd, að vernd grundvallarréttinda, svo og skýrar og fyrirsjáanlegar leikreglur í anda réttarríkisins, séu bæði forsenda lýðræðislegrar ákvarðanatöku og setji þeim mörk.  Með öðrum orðum er íslenzk stjórnskipun reist á hugmynd um stjórnskipulegt lýðræði, sem líta má á sem andstæðu óhefts meirihlutaræðis, skrílræðis og lýðhyggju (poppúlisma)."

Þetta er merkileg lögfræðileg niðurstaða, sem virðist vera rökrétt túlkun Stjórnarskráarinnar. Til að hnykkja á þessu þyrfti að bæta við einu ákvæði í íslenzku Stjórnarskrána, sem er t.d. í þeirri norsku, þ.e. að kjörtímabilið séu 4 ár og hvorki þinginu né ríkisstjórn sé heimilt að breyta því.  Það mætti hafa varnagla um, að forseti lýðveldisins hafi þessa heimild, sem hann megi beita til styttingar eða lengingar kjörtímabils um eitt ár vegna óviðráðanlegra ytri afla eða vegna stjórnarkeppu.  Að þingmenn geti með pólitískum refshætti og loddaraskap, af þæginda- eða hagkvæmnisástæðum, stytt kjörtímabilið, eru ekki góðir stjórnarhættir.  Það er hætt við, að margur þingmaðurinn eigi eftir að sjá eftir því að hafa hvatt til þessa óheillaráðs.

Skúli Magnússon klykkir út með eftirfarandi, sem einnig geta orðið lokaorðin hér:

"Hver geta þá verið rökin fyrir kröfunni um, að boðað sé til kosninga áður en stjórnarskráin gerir ráð fyrir því, að svo sé gert ?  Frá sjónarhóli stjórnarskrárinnar og stjórnskipulegs lýðræðis eru slík rök vandfundin." Unnur Brá Konráðsdóttir


Panama galdrafárið

Hegðun og málflutingur vinstri grænna ásamt meðreiðarsveinum þessa óþingræðislega stjórnmálaflokks er farin að líkjast galdrafárinu á Íslandi á 17. öld. Þá var nóg, að sinnisveikur ofstækismaður fullyrti, að eymd hans og pína væri af völdum forsendingar einhvers, sem hinum sinnisveika var í nöp við, til að meintur seyðkarl eða seyðkerling var tekinn höndum og yfirheyrður með harkalegum og ósvífnum hætti, jafnvel píndur til játningar, og að lokum brenndur á báli til fullnustu refsingar, lýðnum til hugarhægðar í vesöld sinni, andlegri og líkamlegri. Þá gilti ekki reglan um, að maður sé saklaus, þar til sekt hans er sönnuð, heldur varð fórnarlamb "réttvísinnar" að afsanna sekt sína, alveg eins og hjá dómstóli götunnar nú á dögum.  Leið til þess í Panama-fárinu er að birta skattaframtöl sín nokkur ár aftur í tímann, eins og David Cameron hefur gert.  

Í annars ágætan morgunþátt Óðins Jónssonar, fréttamanns, á Gufunni föstudaginn 8. apríl 2016, eftir að mikið gerningaveður hafði gengið yfir íslenzk stjórnmál og fellt forsætisráðherran, þó að tækist með harðfylgi að halda í stöðugleika stjórnarfarsins og koma í veg fyrir þingkosningar að kröfu Alþingis götunnar ofan í forsetakjör, var mætt Svandís nokkur Svavarsdóttir, hafði fengið "blod på tanden" og heimtaði nú meira blóð, enda eigi einhöm.  "Rökin" hjá henni eru samkynja "forsendingarrökunum" á galdraofsóknartímanum, en eru engan veginn boðleg á 21. öld og ber að vísa út í hafsauga.  Þau voru:

"hann er í Panama-skjölunum". Skýring á þessum galdraofsóknarmálflutningi er siðrof og siðblinda. Lögmenn nú á tímum fordæma málflutning af þessu tagi, og siðfræðingar ættu að gera það líka. Hugarheimur téðrar Svandísar minnir á myrkviði miðalda, og hún æsir skrílinn upp, alveg eins og sumir prelátar og sýslumenn gerðu á miðöldum til að skara eld að eigin köku.  Svandís heldur, að sér muni aftur skola upp í valdastólana á öldu múgæsingar, en hún hefur enga verðleika til að þjóna þar hagsmunum alþýðunnar.  

Vinstri hreyfingin grænt framboð stundar óþingræðisleg vinnubrögð innan þings og utan.  Á Austurvelli er verið með skrílslæti, sem eiga að svipta Alþingi starfsfriði og valda upplausn. Til þess eru refirnir skornir að torvelda þingmeirihlutanum störfin og þreyta hann. Þinghelgin er vanvirt, sem var alvarlegt afbrot til forna. Innan þings eru settar á langar ræður um allt á milli himins og jarðar í því augnamiði að drepa málefnalegum umræðum á dreif og tefja afgreiðslu mála, sem þingmeirihlutinn ber fyrir brjósti. Þarna er þingræðið tekið kverkatökum, og allt er þetta sett á svið til að grafa undan þingræðinu í landinu í þeirri von, að kjósendur gefist upp á ástandinu og komi þessum andlýðræðislegu öflum til valda á ný í flýttum Alþingiskosningum.  Það má ekki verða. Þetta er sama aðferð og þjóðernisjafnaðarmenn beittu til að brjótast til valda í Þýzkalandi og steypa Weimarlýðveldinu í glötun. Það er ekki leiðum að líkjast. Mega kjósendur á Íslandi búast við langþráðri siðbót í stjórnmálunum, ef þeir láta glepjast þannig ? Nei, það er af og frá, eins og nú skal rekja.

Valdatími vinstri grænna 2009-2013 vitnar ekki um siðbót, nema síður sé.  Að setja fólk á borð við Svandísi Svavarsdóttur til valda nú eða síðar á árinu væri að fara úr öskunni í eldinn.  Það voru hún, Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur Sigfússon og allt liðið, sem stóð að vinstri stjórninni, alræmdu 2009-2013, sem neitaði ósk úr röðum þáverandi stjórnarandstöðu um að opinbera nöfn eigenda félaganna, sem voru kröfuhafar föllnu bankanna.  Ætli það hafi ekki verið maðkur í mysunni  þá, sem var valdur að höfnun þeirra á þessari sjálfsögðu beiðni ?  Af hverju mátti þá ekki vitnast, hvaða persónur og leikendur stæðu að Wintris, svo að eitt alþekkt dæmi sé tiltekið ?  Af hverju eru vinstri menn svona veikir fyrir auðkýfingum og hygla spákaupmönnum fram í rauðan dauðann, sbr afhendingu nýju bankanna á silfurfati til kröfuhafanna 2010 ? Af hverju samþykkti þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar græns framboð ekki tillögu Lilju Mósesdóttur á síðasta kjörtímabili um að gera gangskör að því að upplýsa um aflandsfélögin og hagsmunaaðila, sem að þeim stæðu ?  Líkleg skýring er, að vinstri menn hafi óhreint mjöl í pokahorninu.  Tvískinnungur forkólfanna, ekki sízt formannsins, Katrínar Jakobsdóttur, ríður ekki við einteyming.

Þá birtist á Sjónarhóli Morgunblaðsins þann 7. apríl 2016 grein, "Undanskot eigna í tvö ár", eftir Hauk Örn Birgisson, hæstaréttarlögmann, sem sýnir svart á hvítu, að valdhöfunum 2009-2013 er engan veginn treystandi til að fara fyrir baráttunni á Íslandi "gegn skattaskjólunum", því að þessir loddarar sýna með verkum sínum, að þeir draga taum fjársvikara og skattsvikara, eins og eftirfarandi tilvitnun í nefnda grein sýnir svart á hvítu:

"Undanfarin ár hefur borið á því, að einstaklingar, sem áður töldust auðmenn, hafa haldið því fram, að þeir séu uppiskroppa með fé, eða hafa jafnvel verið teknir til gjaldþrotaskipta, sem leitt hafi til þess, að takmarkað af eignum fannst í búum þeirra.  Hafa kröfur á þessa aðila því verið afskrifaðar í stórum stíl eða fallið niður af öðrum ástæðum. 

Meginreglan í íslenzkum gjaldþrotaskiptarétti er sú, að ef eignir gjaldþrota einstaklings finnast, eftir að gjaldþroti viðkomandi hefur lokið, eru skiptin tekin upp og eignirnar greiddar út til kröfuhafa. 

Í desember 2010 var gerð breyting á gjaldþrotaskiptalögum nr 21/1991, þar sem mælt var fyrir um, að allar kröfur á hendur þrotamanni fyrndust á tveimur árum frá skiptalokum.  Töldu margir á þessum tíma, að tvö ár væru of skammur fyrningartími, og í umræðunni fór einnig fyrir því sjónarmiði, að fjársterkir einstaklingar gætu skotið eignum undan og kröfuhafar hefðu takmörkuð úrræði, þegar svo bæri undir."

"Það verður fróðlegt fyrir kröfuhafa, sem nú hafa glatað kröfuréttindum sínum á hendur gjaldþrota einstaklingum vegna fyrningar, að skoða lista yfir eigendur aflandsfélaga, sem á næstu dögum eða vikum munu líta dagsins ljós í fjölmiðlum.  Mig grunar, að einhverjir þessara kröfuhafa muni sjá á eftir kröfum sínum og hugsa Alþingi þegjandi þörfina fyrir að hafa ekki tekið á slíkum undanskotum, þegar löggjöfinnni var breytt árið 2010." 

Það er með ólíkindum, að menneskja með slíka lagasetningu sem þessa frá stjórnarárum sínum í farteskinu, skuli dirfast að margendurtaka á blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar í Alþingishúsinu þriðjudagskvöldið 5. apríl 2016, að henni og hennar flokki sé bezt, jafnvel einni, treystandi í baráttunni við aflandsfélögin.  Vinstri stjórnin dró augljóslega taum óreiðumanna, sem forðuðu fé undan gjaldþroti í skattaskjól.  Vinstri flokkunum er alls ekki á nokkurn hátt betur treystandi en borgaralegu flokkunum til að fást við skattaundanskot, hvort sem er á aflandseyjum eða annars staðar.  Í tíð núverandi fjármálaráðherra hefur verið unnið markvissara og með meiri árangri við að klófesta skattsvikara en allt tímabilið 2009-2013.  Skattrannsóknarstjóri hafði þegar keimlík lekagögn undir höndum og Panama-skjölin, þegar tekið var að birta úr þeim.  Fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar er sá fyrsti og eini, sem opinberlega sannast á í þessari lotu, að hafi orðið uppvís að skattsvikum.  Um það segir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 8. apríl 2016:

"Fram til þessa hefur einungis verið upplýst, að fv. gjaldkeri Samfylkingarinnar hafi sparað sér 70 milljónir króna í sköttum með því að borga þá ekki á Íslandi.  Árni Páll Árnason hefur lýst því, að framganga gjaldkerans sé til fyrirmyndar !"

Helgi,  þingmaður og pírati, heldur því fram, að orðið hafi siðrof í íslenzkum stjórnmálum með ömurlegu máli SDG, fyrrverandi forsætisráðherra, án þess að útskýra málið.  Ef siðrof verður, hlýtur einhver siður að hafa verið fyrir. Hér skal halda því fram, að siðrofið eigi sér stað hjá stjórnarandstöðunni á tveimur vettvöngum:

Í fyrsta lagi er óvirðingin, sem mótmælendur á Austurvelli sýna Alþingishúsinu ný af nálinni, ef Búsáhaldabyltingin er undanskilin.  Skrílslæti mótmælendanna eru til marks um siðrof og stjórnarskrárbrot og staðfesta fyrirlitningu stjórnarandstöðunnar á þingræðisfyrirkomulaginu. 

Í 36. gr. Stjórnarskrárinnar stendur:

"Alþingi er friðheilagt.  Enginn má raska friði þess né frelsi."

Austurvöllur er illa fallinn til mannsafnaðar síðvetrar og á vorin, þegar jörð er blaut og gróður að taka við sér.  Þarna hafa orðið gróðrarspjöll, svo að ekki sé minnzt á ruslið á jörðu og matvælin, sem fólkið, margt á framfæri hins opinbera,  spillir og fleygir í þinghúsið.  Það er kominn tími til, að lögreglan stöðvi þessi skrílslæti, sem eru gróft brot á 36. gr. Stjórnarskrárinnar.

Í öðru lagi felst siðrofið í, að logið er skattsvikum upp á stjórnmálamenn.  Þannig er því haldið fram með vísun í Panamaskjölin, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi gerzt sekur um tilraun til skattaundanskota með skráningu félags á aflandseyju.  Hér hefur ein fjöður orðið að 100 hænsnum í meðförum ómerkilegra manna.  Landsmenn hafa margir hverjir, eins og bekbóndi, hlýtt á ráðherrann, nú síðast í Kastljósi RÚV í gjörningahríðinni í viku 14/2016, gera skilmerkilega grein fyrir því, að um var að ræða bæði löglega og siðlega fjárfestingu í íbúð í auðugu smáríki við Persaflóann, Dubai, sem hætt var síðan við og allt féð flutt heim og skattyfirvöldum skilmerkilega gerð grein fyrir málinu. Þetta var allt fyrir opnum tjöldum og aldrei ætlunin að flýja í skattaskjól, enda var féð talið fram til skatts á Íslandi.  Það er siðrof að japla á þessu lon og don og fullyrða, að ráðherrann sé vanhæfur út af þessu máli til að gegna sínu mikilvæga embætti.  Það er siðblinda að átta sig ekki á hróplegu óréttlæti og ósanngirni, sem ofsóknir af þessu tagi fela í sér.

Hér er við hæfi að lokum að vitna til greinar Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögfræðings,

"Aðför", sem hann ritar í Morgunblaðið þann 7. apríl 2016:

"Við skulum hafa það á hreinu, að stjórnmálamenn, sem gerast sekir um brot gegn landslögum, til dæmis með því að svíkja undan skatti, verða að víkja úr embættum sínum.  Fjölmiðlar hafa hlutverki að gegna við að upplýsa um slíkar sakir með gagnaöflun og umfjöllun.  Við þá starfsemi þeirra hljóta að gilda almennar reglur, sem samfélagið viðhefur og lúta að því að fjalla af sanngirni og málefnalegum heilindum um þau málefni, sem um er að ræða."

 

 

 

 

 


Hýenur baktjaldamakksins

Þann 11. marz 2016 var forsætisráðherra Íslands veitt fyrirsát í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.  Hann var blekktur til að veita sænskum rannsóknarblaðamanni viðtal um endurreisn Íslands eftir hrun fjármálakerfisins, en í raun var ætlunin að klekkja á honum með Panamaskjölunum svo kölluðu og særa hann þannig til ólífis. Þetta kom ráðherranum í opna skjöldu, vörn hans reyndist arfaslök, og hann hvarf illa særður af vígvellinum. Hildarleikurinn var þó rétt að hefjast. 

Ráðherrann virðist hafa notað tímann fram að fyrirhuguðum aftökudegi sænsku og íslenzku slátraranna, 3. apríl 2016, mjög illa, þannig að vopnabræður hans voru árásinni óviðbúnir. Þetta ótrúlega andvaraleysi átti eftir að reynast banabiti ráðherrans. 

Stjórnarandstaðan var nokkra stund að bögglast með, hvernig hún ætlaði að bregðast við.  Hún boðaði fyrst vantrauststillögu á þingi á forsætisráðherra, en fékk þá að vita hjá starfsmönnum þingsins, að slík tillaga væri markleysa, og var tillögunni þá breytt þann 4. apríl í að verða vantrauststillaga á forsætisráðherra og ríkisstjórnina. 

Þann 5. apríl 2016 lék fráfarandi forsætisráðherra enn nokkra grófa afleiki.  Hann hugðist stilla bæði formanni Sjálfstæðisflokksins og forseta lýðveldisins upp við vegg, en reyndist þá ekki vera nokkur bógur til að standa í slíkum stórræðum.  Forseti lýðveldisins átti mótleik, sem kom stjórnlagafræðingum og sagnfræðingum á óvart, en reyndist vera hárréttur í stöðunni.  Með þessum leik var fráfarandi forsætisráðherra mát.  Hinn mátaði forsætisráðherra lék einleik téðan morgun, sem eðlilega hugnaðist ekki þingflokki hans, sem steypti honum fremur mjúklega af stóli á fyrsta fundi sínum eftir Bessastaðafundinn.

Það má hverju barni ljóst vera eftir sviptingar í málefnum íslenzka ríkisins þann 5. apríl 2016, hver hinn sterki maður núverandi stjórnarsamstarfs er.  Hann mætti í Kastljósþátt RÚV að kvöldi þessa dags, sýndi þar mikla vígfimi og gerði algerlega hreint fyrir sínum dyrum.  Hann hafði aldrei í hyggju að flýja með sitt fé í eitthvert skattaskjól, heldur var ætlunin að fjárfesta í íbúð á miklu uppgangssvæði við Persaflóann.  Slíkar fjárfestingar erlendis voru þá fullkomlega löglegar, og þær munu verða það, þegar þessum manni, Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, tekst ætlunarverk sitt í þágu landsmanna allra að losa um gjaldeyrishöftin.

Hýenur baktjaldamakksins, formenn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hafa nú beint spjótum sínum að þessum manni og ríkisstjórninni allri og heimta kosningar strax.  Atferli þeirra og handbenda þeirra, innan þings og utan, er óþingræðislegt. Þau hafa samt enga kosti að færa þjóðinni, enga stefnu hafa þau kynnt, sem þau hafi sammælzt um að framfylgja í ríkisstjórn eftir kosningar.  Þau standa nú sem fyrr fyrir aðför að þingræðinu, sem þau virðast fyrirlíta. Hér er um sömu svikahrappana að ræða, sem með bolabrögðum hugðust fórna efnahagslegu sjálfstæði landsins með því að samþykkja afarkosti Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á skuldum óreiðumanna, s.k. "Icesave-reikningum", og fórna stjórnmálalegu sjálfstæði þjóðarinnar í hendur kommissara ESB-klíkunnar í Brüssel, sem nú er að krebera sökum eigin úrræðaleysis. 

Það verða senn haldnar Alþingiskosningar, og þá munu þessar hýenur baktjaldamakksins verða krafðar sagna um, hvað fór raunverulega fram á bak við tjöldin, þegar þessir tveir vinstri sinnuðu og þjóðhættulegu flokkar, sem hengu á völdunum eins og hundar á roði án starfshæfs þingmeirihluta og eftir afhroð í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um fjöregg þjóðarinnar, véluðu um örlög íslenzku þjóðarinnar. Hýenurnar munu líka verða krafðar svara við því, hvað frábrugðið verði í stjórnarháttum þeirra, komist þær til valda, m.v. stjórnarhætti ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem að ýmissa mati jaðraði við landráð.

Hýenur baktjaldamakksins hafa sýnt og sannað, að þær eru óhæfar til að fara með ríkisvald.  Mistakaferill þeirra á ráðherrastóli er svo langur og ljótur, að það má furðu gegna, að þær hangi enn sem formenn sinna flokka.  Þær hanga ekki á hvönn, eins og Þorgeir Hávarsson forðum, heldur á einskærri græðgi, valdagræðgi. Aldrei aftur vinstri stjórn.  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband