14.1.2020 | 18:28
Öflugt orkukerfi grundvöllur vaxandi verðmætasköpunar
Það er til fyrirmyndar, að kunnáttumenn raforkufyrirtækjanna skrifi greinar í dagblöðin um stefnu þeirra og verkefni í fortíð, nútíð og framtíð, almenningi til glöggvunar á þessum mikilvæga málaflokki, sem snertir hag allra landsmanna. Slíkt hefur Gnýr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur og yfirmaður greininga hjá Landsneti, tekið sér fyrir hendur meðal annarra, og birtist ágæt grein hans:
"Hvernig bætum við afhendingaröryggi raforku á landsbyggðinni"
í Fréttablaðinu 7. janúar 2020.
Segja má, að tilefnið sé ærið, þ.e.a.s. langvarandi straumleysi á norðanverðu landinu vegna bilana í loftlínum og aðveitustöðvum vegna óveðurs 10.-12. desember 2019.
Gnýr telur lykilatriði að reisa nýja Byggðalínu með meiri flutningsgetu en sú gamla og að hýsa aðveitustöðvarnar. Í þessu skyni ætlar Landsnet að reisa 220 kV línu á stálmöstrum í líkingu við nýju línuna frá Þeistareykjavirkjun að kísilverksmiðjunni á Bakka við Húsavík. Hún þótti standa sig vel í jólaföstuóveðrinu í desember 2019, en þó þurfti að stöðva rekstur hennar í 3 klst til að hreinsa af henni ísingu næst sjónum.
Það var s.k. 10 ára veður á jólaföstunni, og það er ekki ásættanlegt fyrir neytendur, að meginflutningskerfið láti undan óveðri í tugi klukkustunda samfleytt á 10 ára fresti að meðaltali. Engin aðveitustöð í meginflutningskerfinu á að verða straumlaus lengur en 1,0 klst á ári vegna óvænt vegna bilunar.
Á grundvelli margra ára ísingar- og selturannsókna Landsnets ætti fyrirtækið að geta veitt forsögn um hönnun styrkinga fyrir nýju Byggðalínuna, þar sem mest mæðir á vegna ísingar og vinds (samtímis). Einnig er mikilvægt að hagnýta þekkingu á seltustöðum til að auka s.k. skriðlengd ljósboga yfir einangrunarskálarnar með því að velja skálar með stærra yfirborði en hefðbundnar skálar og að fjölga þeim eftir þörfum. Möstrin og þverslárnar þurfa að taka mið af þessu. Fé er ekki vel varið í nýja Byggðalínu, nema hún tryggi viðunandi rekstraröryggi, einnig í 10 ára veðri, en við verðum hins vegar að búast við lengra straumleysi í 50 ára veðri og verra ásamt óvenjulegum jarðskjálftum og eldgosum. Á sumum stöðum (veðravítum) kann þá að vera þörf á hönnun lína m.v. 400 kV rekstrarspennu, eins og reyndar er í 5 220 kV línum á landinu og gefizt hafa vel. Burðarþol og seltuþol þeirra er meira en venjulegra 220 kV lína.
Verður nú vitnað í grein Gnýs:
"Í kerfisáætlun má m.a. finna langtímaáætlun um nýja kynslóð byggðalínu. Hún verður byggð úr stálmöstrum, sambærilegum þeim, sem byggð voru á NA-landi [Þeistareykjalínur-innsk. BJo], sem síður brotna þrátt fyrir ísingu, og mun hafa flutningsgetu, sem fullnægir þörfum landsins næstu áratugina. [Það er mikilvægt, að hægt verði án línutakmarkana að flytja orku á milli landshluta eftir Byggðalínu til að jafna stöðu í miðlunarlónum, því að innrennsli er misskipt í þau frá ári til árs eftir landshlutum - innsk. BJo.]
Þegar verkefninu verður lokið, verða virkjanakjarnar í mismunandi landshlutum samtengdir með fullnægjandi tengingum, og þannig minnka líkur á, að einstök svæði verði rekin í s.k. eyjarekstri og þar með í hættu á að verða fyrir straumleysi við truflun. Einnig mun ný kynslóð byggðalínu gefa nýjum framleiðsluaðilum víða á landinu færi á að tengjast kerfinu og auka þannig skilvirkni og afhendingaröryggi enn frekar."
Með nýjum framleiðsluaðilum á Gnýr sennilega við smávirkjanir og vindmyllugarða, en hængurinn á tengingu þeirra er í mörgum tilvikum hár tengingarkostnaður vegna fjarlægðar. Viðbótar kostnaðurinn lendir á virkjunaraðilum, en samkvæmt Orkupakka #4 á Landsneti.
Það er brýnt að flýta framkvæmdum Landsnets frá því, sem miðað er við í núgildandi kerfisáætlun, þannig að ný 220 kV lína frá Klafastöðum (Brennimel í Hvalfirði) til Fljótsdalsvirkjunar verði tilbúin í rekstur fyrir árslok 2025. Til að hindra að sú flýting valdi hækkun á gjaldskrá Landsnets er eðlilegt, að arður af Landsvirkjun fjármagni flýtinguna. Alþingismenn þurfa að beita sér fyrir þessu á vorþingi 2020, sjá tilvitnanir í tvo stjórnarþingmenn í lok pistils.
"En uppbygging meginflutningskerfis dugir ekki ein og sér til að tryggja afhendingaröryggi. Samkvæmt stefnu stjórnvalda eiga allir afhendingarstaðir [Landsnets-innsk. BJo] í landshlutakerfum að vera komnir með tvöfalt öryggi eigi síðar en árið 2040 (N-1).
Eins og staðan er í dag, eru þó nokkrir afhendingarstaðir í flutningskerfinu, þar sem ekki er um að ræða tvöfalt öryggi, m.a. á Norðurlandi, en einnig á Austurlandi, Vestfjörðum og á Snæfellsnesi. Kerfisáætlun Landsnets hefur m.a. tekið mið af þessari stefnu, og í framkvæmdaáætlun má finna áætlun um tvítengingar hluta af þessum afhendingarstöðum. Má þar nefna Sauðárkrók, Neskaupstað og Húsavík, en aðrir staðir eru einnig á langtímaáætlun, s.s. Dalvík, Fáskrúðsfjörður og sunnanverðir Vestfirðir."
Það er allt of mikill hægagangur í stefnu stjórnvalda við að tvöfalda orkumötun inn að þéttbýlisstöðum, þ.e. að gera rafmagnsflutninginn innan landshlutakerfa að (n-1) kerfi (hringtenging). Þá má önnur fæðingin detta út án þess, að neytendur verði þess varir. Stjórnvöld ættu tafarlaust að breyta markmiðinu um þessa tvítengingu úr 2040 í 2030 og fjármagna flýtinguna, eins og hina, með vaxandi arði af starfsemi Landsvirkjunar. Allir þessir notendur rafmagns, sem hér um ræðir, eiga fullan rétt á því að sitja við sama borð og aðrir landsmenn með tvítengingu frá stofnkerfi rafmagns, og það er skylda stjórnvalda, að gera raunhæfar ráðstafanir til að koma því í kring. Alþingi verður að koma orkuráðherranum í skilning um þetta og/eða styðja við bakið á henni til að svo megi verða á einum áratugi frá jólaföstuóförunum 2019.
Sem dæmi má nefna, að á Dalvík og á sunnanverðum Vestfjörðum á sér stað mikil og vaxandi verðmætasköpun, þar sem fjárfest hefur verið í milljarðavís ISK í atvinnutækjum. Að bjóða íbúum og fyrirtækjum þessara staða upp á bið í allt að tvo áratugi eftir viðunandi rafmagnsöryggi er óásættanlegt, og Alþingi hlýtur að vera sama sinnis. Þingmenn, sem hafna þessari flýtingu, geta varla horft framan í kjósendur í NV- og NA-kjördæmi í næstu kosningabaráttu.
"Kostnaður við lagningu jarðstrengja á 66 kV spennu er á pari við loftlínur, og lagning 66 kV jarðstrengja er víðast hvar tæknilega möguleg. Þó eru svæði, þar sem skammhlaupsafl er það lágt, að ekki er unnt að leggja allar nýjar 66 kV línur í jörðu, og er bygging loftlínu því óhjákvæmileg á þeim svæðum."
Á Vestfjörðum er einmitt ein af orsökum ónógra spennugæða m.v. þarfir nútíma tækjabúnaðar og mikillar sjálfvirkni í atvinnurekstri, að skammhlaupsafl raforkukerfis Vestfjarða er lágt. Það stafar af langri 132 kV geislatengingu við stofnkerfi landsins og fáum og litlum virkjunum á svæðinu. Það er auðvelt að bæta úr hinu síðarnefnda, því að hagkvæmir virkjanakostir finnast á Vestfjörðum, og er a.m.k. einn þeirra kominn í nýtingarflokk Rammaáætlunar og er þegar í undirbúningi. Það er brýnt að virkja sem mest af virkjanakostum í Rammaáætlun á Vestfjörðum. Þar með eru slegnar a.m.k. tvær flugur í einu höggi. Skammhlaupsaflið vex þá nægilega mikið til að hægt sé að færa allar loftlínur Vestfjarða í jörðu, og afhendingaröryggi raforku eykst til mikilla muna án þess að þurfa að grípa til olíubrennslu í neyðarrafstöðinni á Bolungarvík.
Það er vaxandi skilningur á Alþingi fyrir því, að núverandi áform stjórnvalda um uppbyggingu raforkukerfis landsins taka allt of langan tíma. Sigurður Bogi Sævarsson birti frétt í Morgunblaðinu 27. desember 2019 undir yfirskriftinni:
"Þjóðaröryggi í orkumálum verði tryggt".
Hún hófst þannig:
"Endurskoða þarf löggjöf á Íslandi, þar sem helztu innviðir samfélagsins eru greindir og staða þeirra tryggð m.t.t. þjóðaröryggis. Vegir, brýr, virkjanir, flugvellir og fjarskipti geta fallið undir þessa löggjöf og síðast en ekki sízt flutningskerfi raforku.
Þetta segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem eftir nýárið ætlar að óska eftir skýrslu frá stjórnvöldum um stöðu þessara mála. Sé ástæða til, megi leggja fram lagafrumvarp um málið."
Gríðarleg og vaxandi verðmætasköpun á sér stað á þeim landssvæðum, sem urðu fyrir rafmagnstruflunum á jólaföstu 2019. Það er ein af forsendum frekari fjárfestinga þar, að nægt raforkuframboð og afhendingaröryggi þess til jafns við Suð-Vesturlandið verði tryggt. Það er jafnframt réttur íbúanna. Það má skoða þetta í samhengi við fína grein Jóns Gunnarssonar, ritara og þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, í Fréttablaðinu, 20. nóvember 2019,
"Nei, er svarið".
Hún hófst þannig:
"Tækifæri okkar í uppbyggingu verðmætasköpunar, sköpun nýrra og fjölbreyttari starfa í tengslum við öfluga byggðaþróun, eru mikil. En stefnu- og aðgerðarleysi okkar í raforkumálum ásamt heimatilbúnum erfiðleikum við uppbyggingu dreifikerfis raforku gerir það að verkum, að fjölmörg tækifæri fara forgörðum eða eiga mjög erfitt uppdráttar."
Ritari Sjálfstæðisflokksins finnur, hvar skórinn kreppir, og veit, hvað þarf til að koma stöðunni í viðunandi horf. Það er ástæða til að ætla, að sama eigi við um meirihluta þingheims. Nú er hagkerfið staðnað og þar af leiðandi vaxandi atvinnuleysi. Til að brjótast út úr stöðnuninni þarf að hefjast handa sem fyrst við virkjanir, sem komnar eru vel á veg í undirbúningi, setja aukinn kraft í styrkingu flutnings- og dreifikerfa raforku og bæta samgöngukerfi landsins, í þéttbýli og í dreifbýli, af nýjum þrótti. Til að viðhalda samkeppnisstöðu landsins dugar ekki að láta innviðina grotna niður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2020 | 14:59
Ógnarlegar náttúruhamfarir - það sem koma skal ?
Ógurlegt ástand hefur skapazt í suð-austanverðri Ástralíu af völdum skógarelda vegna mikilla þurrka á þessu svæði. Úrkoma í Ástralíu sveiflast lotubundið og er nú nálægt hefðbundnu lágmarki. Jafnframt hafa hitamet verið slegin á þessu sumri í Ástralíu, og er þó hefðbundið heitasta tímabil ekki enn gengið í garð. Við vesturjaðar Sidneyborgar fór hitastig yfir 49°C í viku 02/2020. Í Indónesíu, sem er norðan við Ástralíu, hafa á sama tíma orðið heiftarlegustu flóð í langan tíma.
Þarna virðist hafa orðið hliðrun á veðrakerfum, a.m.k. um stundarsakir, og sökinni er skellt á aukningu styrks koltvíildis í andrúmsloftinu úr 0.03 % í 0.04 % á 170 árum. Hér skal ekki kveða upp úr með það, heldur viðra röksemdir með og á móti.
Hvað sem því líður, þá hafa fjárfestingarbankar og tryggingafélög nú tekið til við að hringja viðvörunarbjöllum út af loftslagsbreytingum. Þetta á t.d. við um borgir í Bandaríkjunum, þar sem sjávarflóð geta valdið miklum usla. Þar er nærtækt að óttast um Flórídaskagann, sem er flatur og lágur allur saman. Nú er slíkum ríkjum ráðlagt að búast við meðaltalstjóni af völdum loftslagsbreytinga, sem nemur 0,5-1,0 % á ári af VLF. Ef þetta er heimfært upp á íslenzka efnahagskerfið, fást 15-30 mrdISK/ár. Tjónið, sem varð á Íslandi í norðanáhlaupinu á jólaföstu 2019 nam e.t.v. þriðjungi af lágmarki þessa bils, og þar var líklega um að ræða óveður, sem búast má við á 10 ára fresti. Þetta er áhætta, sem Íslendingar hafa búið við frá landnámi, en þá var hlýrra hér en nú er.
Hagur Íslands er hins vegar háður náttúrunni í meiri mæli en flestra annarra landa, og jafnvægi hennar er óstöðugt. Því má slá föstu, og maðurinn (homo sapiens) er orðinn svo öflugur nú á tímum, að hann getur truflað jafnvægi náttúrunnar. Náttúrulegar hitasveiflur má m.a. sjá í löngum borkjörnum úr Grænlandsjökli.
Viðkvæmt jafnvægi á t.d. við um Golfstrauminn, sem veikzt hefur á undanförnum árum, og um lífríki hafsins. Flytji nytjastofnar sig um set, getur hæglega orðið efnahagslegt tjón hérlendis á ofannefndu bili. Loðnan sannar þetta. Hvarf hennar jafngildir um 20 mrdISK/ár tapi útflutningstekna, en á móti hefur makríllinn komið upp að ströndum landsins í ætisleit (étur um 3,0 Mt/ár) og bætt tjónið, þótt ekki séu allir nágrannar okkar þeirrar skoðunar, að við megum nýta hann þrátt fyrir þetta. Það þykir okkur ósanngjarnt sjónarmið, og þar er verk að vinna fyrir íslenzka hafréttarfræðinga, fiskifræðinga, útgerðarmenn og stjórnarerindreka. Alþjóðlega gæðavottunarstöðin MSC leggur nú lóð sitt á þessar vogarskálar með því að svipta ríkin við norðanvert Atlantshafið gæðavottun á nýtingu norsk-íslenzku síldarinnar. Innan ESB eru miklar áhyggjur um fiskveiðiaðstöðu ESB-ríkjanna eftir útgöngu Breta. ESB leggur til, að fyrsta viðfangsefni útgöngusamninganna verði fiskveiðiheimildir innan brezkrar lögsögu. Bretar geta aðeins fallizt á skammvinna aðlögun ESB að algeru brotthvarfi úr brezkri landhelgi, því að mestu hagsmunirnir eru í hefðbundnum kjördæmum Verkamannaflokksins, sem Íhaldsflokkurinn vann á sitt band í desemberkosningunum 2019, og Boris Johnson lofaði kjósendum þar því strax eftir kosningarnar að ríkisstjórnin myndi standa við bakið á þessum nýju kjósendum Íhaldsflokksins.
Á hinn bóginn er einsýnt, að landbúnaðurinn hérlendis mun njóta góðs af hlýnun með aukinni uppskeru og fleiri mögulegum tegundum, og aukin úrkoma er jafnframt fylgifiskur hlýnunar, svo að ekki ætti að væsa um vatnsbúskapinn í framtíðinni. Það þýðir, að rekstur vatnsorkuvera verður enn hagkvæmari í framtíðinni en verið hefur.
Sé líkan IPCC nærri lagi, má nú ljóst vera, að meðalhitastig á jörðu mun hækka meira en var viðmið Parísarsáttmálans, 1,5°C-2,0°C. Þessu veldur losun manna á 43 mrdt/ár af koltvíildi, CO2, sem er auðvitað til viðbótar enn meiri náttúrúlegri losun. Til að minnstu líkur yrðu á að halda hlýnun undir 2°C, þyrftu helztu losunarþjóðirnar að draga mun meira úr losun en þær skuldbundu sig til í París, og fæstar þjóðir eru komnar á rekspöl minnkandi losunar. Aðeins Evrópusambandið, ESB, hefur sýnt vilja til þess nú undir forystu Ursulu von der Leyen, sem senn mun kynna "Græna samninginn" sinn (Green Deal), sem kveða mun á um a.m.k. 55 % samdrátt í losun ESB-landa 2030 m.v. 1990. Þetta er kjörið tækifæri fyrir ESB til að öðlast langþráða stjórnun orkumála Evrópusambandslandanna. Til þess gagnast óttastjórnun með ragnarök ("inferno") á næstu grösum, nema styrk hönd miðstýringar í Brüssel stemmi á að ósi.
Það er hins vegar hægara sagt en gert að minnka CO2-losun; "The Devil is in the Detail", og lausn án kjarnorku er ekki í sjónmáli án þess að skaða samkeppnishæfni ESB-landanna meira en góðu hófi gegnir, og þá verður verr farið en heima setið, því að án fjárhagslegs styrkleika er verkefnið vonlaust. Þetta hefur hins vegar Greta Thunberg og hennar fylgifiskar, einnig hérlendis, ekki tekið með í reikninginn. Ef fótunum verður kippt undan hagvextinum, t.d. með mjög háum koltvíildisskatti, mun hagkerfið skreppa saman, velferðarkerfið hrynja og fjöldaatvinnuleysi skella á. Þetta er efnahagskreppa, og í kreppu minnkar auðvitað neyzlan, en ekkert afl verður til reiðu til að knýja fram orkuskipti. Bretar eru líklegir til að taka forystu á þessu sviði, því að þeir hafa ekki útilokað kjarnorkuna sem þátt í lausninni, og hún er sem stendur eini raunhæfi valkosturinn við kolaorkuverin. Bretar ætla að loka síðasta kolaorkuveri sínu 2025, en Þjóðverjar 2035. Á Íslandi og í öðrum löndum eru núllvaxtarsinnar talsvert áberandi. Þeir telja hagvöxt ósjálfbæran. Þetta fólk mun aldrei geta leitt orkuskipti, því að þau krefjast öflugs þróunarstarfs og mikilla fjárfestinga, sem er nokkuð, sem afturhaldsstefnur geta aldrei staðið undir. Þær bjóða aðeins upp á aukið atvinnuleysi og versnandi lífskjör.
Það var fyrirséð við gerð Parísarsamkomulagsins í desember 2015, að samdráttur í losun (hún hefur á heimsvísu aukizt síðan þá) myndi ganga of hægt til að halda hlýnun undir 2°C m.v. árið 1850 (þá var enn "Litla ísöld" !). Þess vegna var í samkomulaginu gert ráð fyrir að sjúga CO2 úr iðnaðar- og orkuverareyk og jafnvel beint úr andrúmsloftinu og binda það í stöðugum efnasamböndum neðanjarðar. Að draga CO2 úr andrúmsloftinu er erfitt, því að þar er það aðeins í styrk 0,041 %. Þetta er líka mjög dýrt í álverum vegna mjög lítils styrks koltvíildis í kerreyk þeirra (<1 %, í kolaorkuverum hins vegar um 10 %).
Á vegum ESB hefur verið stofnaður sjóður að upphæð mrdEUR 10, sem á að styrkja þróunarverkefni á sviði endurnýjanlegra orkulinda og brottnáms CO2 úr iðnaðarreyk. Fyrsta auglýsing hans eftir styrkumsóknum verður 2020, og líklegt er, að frá Íslandi muni berast umsóknir til að þróa áfram aðferðir ON (Orku náttúrunnar) á Hellisheiði. Hjá ON á Hellisheiði er þessi förgun koltvíildis sögð kosta 30 USD/t, sem er aðeins 1/3 af kostnaði þessa ferlis erlendis. Fyrir álverin er þetta áreiðanlega miklu dýrara en í jarðgufuvirkjuninni á Hellisheiði. Hvers vegna velja þau ekki fremur hinn örugga kost að semja við skógarbændur á Íslandi um bindingu á a.m.k. hluta af 1,6 Mt/ár CO2 fyrir jafngildi um 30 USD/t ?
Hér sjáum við í hnotskurn vanda baráttunnar við koltvíildi í andrúmsloftinu. Með því að ferfalda koltvíildisskattinn upp í 100 USD/t CO2 væri hugsanlega hægt að þvinga fyrirtæki til að setja upp CO2-brottnámsbúnað í afsogskerfi sín, en það mundi hins vegar setja viðskomandi starfsemi á hliðina, og þar með hefðu yfirvöld kastað barninu út með baðvatninu. Eins og sást á 25. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid í desember 2019, skortir samstöðu á meðal ríkja heims um sameiginlegar aðgerðir, og þar stendur hnífurinn í kúnni. Fyrir vikið er rétt að beina hluta af fénu, sem til ráðstöfunar er, til rannsókna á brýnustu mótvægisaðgerðum gegn hlýnun upp á meira en 3,0°C.
IPCC gaf það út 2018, að til að halda hlýnun undir 2°C þyrfti að fjarlægja 100-1000 mrdt af CO2 úr andrúmsloftinu og/eða losunarreyk fyrir næstu aldamót, og miðgildið var 730 mrdt CO2, þ.e.a.s 17 ára núverandi losun. Einmitt þetta hafa þörungar og jurtir gert í meira en einn milljarð ára. Viðarbrennsla er talin kolefnishlutlaus orkuvinnsla, af því að skilað er til andrúmsloftsins því, sem nýlega var tekið þaðan. Þetta auðveldar viðarkurlsnotendum á borð við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga leikinn.
Hængurinn við bindingu með skógrækt er mikil landþörf skógræktar. Nýskógrækt að flatarmáli á við Rússland áætlaði IPCC 2018, að myndi aðeins draga 200 mrdt CO2 úr andrúmsloftinu til aldamóta, sem ekki hrekkur til að halda hlýnuninni nægilega í skefjum samkvæmt IPCC. Til mótvægis þessum vanda mætti þá grisja skóga, endurplanta og breyta nokkrum hundruðum af um 2500 kolakyntum orkuverum heims í sjálfbær viðarkurlsorkuver (pellets). 500 slík umbreytt kolaorkuver mundu þá spara andrúmsloftinu 5 mrdt/ár CO2 eða 12 %, og munar um minna.
Ísland býður hins vegar upp á mikla möguleika fyrir íslenzkan iðnað til að verða kolefnishlutlaus fyrir tilskilinn tíma (2040). Vegna hlýnandi og rakara loftslags eykst gróðursældin hérlendis með hverjum áratugi. Til að kolefnisjafna núverandi áliðnað á Íslandi þarf 260 kha lands, og slíkt landrými er fyrir hendi í landinu án þess að ganga á aðrar nytjar. Slíkt gróðursetningarátak mundi skapa talsverða vinnu í landbúnaðinum og efnivið úr grisjun til kurlbrennslu í iðnaðinum og til (kolefnisfrírrar) orkuvinnslu og síðar meir viðarnytjar til húsbygginga o.fl. Hvers vegna hefur ekki Loftslagsráð frumkvæði að því að koma á samstarfi Skógræktarinnar, skógarbænda og iðnaðarins í þessu skyni ? Slíkt væri ólíkt þarfara en að eiga viðtöl við fjölmiðla með kökkinn í hálsinum út af meintu svartnætti framundan.
Aðeins 19 af koltvíildisspúandi orku- og iðjuverum heimsins fjarlægja hluta af koltvíildismyndun sinni úr reyknum og binda hann neðanjarðar. Alls nemur þetta koltvíildissog aðeins 40 Mt/ár eða 0,1 % af losun manna. Hér þarf að geta þess, að hafið sogar til sín 1/4 og landgróður 1/4. Staðan er engu að síður þannig, að samkvæmt IPCC er orðið vonlaust að halda hlýnun undir 2,0°C og líklegast, að hún verði yfir 3,0°C.
Fólk af alls konar sauðahúsi tjáir sig um loftslagsmálin og á fullan rétt á því, þótt af mismiklum skilningi sé. Hrokinn og stærilætið leynir sér þó ekki, þegar efasemdarmenn um ýtrustu áhrif aukningar koltvíildisstyrks í andrúmsloftinu eru uppnefndir "afneitunarsinnar". Það er gefið í skyn, að efasemdarmenn afneiti staðreyndum. Ekkert er fjær sanni. Þetta er hins vegar tilraun til að þagga niður í þeim, sem vilja rökræða þessi mál í stað þess að játast undir hin nýju trúarbrögð um "hamfarahlýnun". Ein lítil spurning til þöggunarsinna gæti t.d. verið, hvernig kenningar um "hamfarahlýnun" koma heim og saman við þá staðreynd, að þann 2. janúar 2020 var slegið kuldamet á Grænlandsjökli, er þar mældust -66°C ?
Í Morgunblaðinu 29. nóvember 2019 birtist "baksviðsviðtal" Baldurs Arnarsonar við Andra Snæ Magnason, rithöfund, sem hafði þar nánast ekkert fram að færa annað en yfirborðskennda frasa, einhvers konar loftslagsfroðu, sem hann gerir út á í opinberri umræðu. Viðtalinu lauk með spádómi í dómsdagsstíl án þess að setja málið í tölulegt samhengi af viti. Umræða af þessu tagi hefur verið kölluð "tilfinningaklám". Það er gert út á ótta við breytingar:
"Ég held, að sá fjöldi ferðamanna, sem nú koma, sé ágætur. Ég held, að 5 milljónir ferðamanna væru hvorki æskilegt markmið menningarlega né umhverfislega fyrir Ísland. Eins og ég ræði um í fyrirlestri mínum [í Borgarleikhúsinu-innsk. Mbl.], held ég, að heimurinn sé að fara að breytast mjög hratt. Það verða settar hömlur á flug á næstu árum; styttri ferðir verða ekki sjálfsagðar. Ég held, að Íslendingar þurfi að laga sig að því, að við fáum færri ferðamenn í lengri tíma; að það verði jafnmargir ferðamenn á hverjum tíma. Það verði hins vegar ekki talið siðferðilega rétt að skreppa í þriggja daga ferðir til útlanda, heldur heldur muni fólk fara [svo ?; verða] miklu lengur og betur [svo ?], þegar það ferðast."
Þótt rithöfundurinn haldi, að núverandi ferðamannafjöldi sé kjörfjöldi hérlendis, þá segja staðreyndir ferðageirans annað. Gistirými er vannýtt, og tekjur eru of litlar m.v. þann fjölda, sem þar starfar nú, og hefur þó umtalsverð fækkun starfsmanna átt sér stað frá undirritun Lífskjarasamninganna, svo að nú er heildarfjöldi atvinnulausra í landinu kominn í 7600. Hugmyndafræði rithöfundarins er hugmyndafræði stöðnunar, afturhalds, sem leiða mun til aukins landflótta kunnáttufólks héðan.
Hann heldur, að 5 M ferðamanna sé meira en landið ræður við með góðu móti, en útskýrir ekki, hvað hann á við. Heildarfjöldinn 5 M getur t.d. verið samsettur af 2 M millilendingarfarþega og 3 M gistifarþega. Með því að hluti þeirra fljúgi beint til Akureyrar eða Egilsstaða má dreifa þeim betur um landið og takist einnig að dreifa þeim betur yfir árið, þarf lítið að fjárfesta til viðbótar við núverandi innviði, gistirými og afþreyingaraðstöðu. Góð nýting fjárfestinga er lykillinn að góðum rekstri og traustri atvinnu.
Rithöfundurinn virðist halda, eins og Greta Thunberg, að flugið sé stórskaðlegt andrúmsloftinu. Þetta er misskilningur hjá þeim. Koltvíildislosun flugvéla er innan við 3 % af heildarlosun manna, og innanlandsflug í heiminum losar sennilega innan við 1 %. Hvers vegna ætti að leggja hömlur á það, eins og rithöfundurinn spáir, að verði gert ? Heldur hann virkilega, að þetta sé vænleg aðferð til betra lífs ?
Hugarórar rithöfundar eru ekki vænlegur grundvöllur spádóma. Það, sem nú þegar er í gangi á þessu sviði, er þróun rafknúinna flugvéla fyrir vegalengdir undir 1000 km, nánar tiltekið tvinn flugvélar, þar sem bæði verða rafhreyflar og hreyflar knúnir jarðefnaeldsneyti. Sennilega munu bæði birtast flugvélar með rafhlöðum og vetnishlöðum á þessum áratugi, fyrst í litlum flugvélum, <20 manna, og síðar í hinum stærri. Þessar vélar munu smám saman leysa jarðefnaeldsneytisvélar af hólmi á öllum vegalengdum, enda umhverfisvænni og lágværari og auk þess hagkvæmari, er frá líður, í rafhami.
Hinn pólinn í loftslagsumræðunni gaf á að líta í Morgunblaðinu 6. desember 2019, en þar birtist greinin "Loftslagsvísindi hrjáð af fölsunum",
eftir Friðrik Daníelsson, efnaverkfræðing. Þar var óspart vitnað í raunvísindamenn og valvísi gastegunda á bylgjulengd geislunar fyrir varmaupptöku. Friðrik skóf ekki utan af skoðunum sínum frekar en fyrri daginn; hann nýtti sér eðlisfræði gasa, og ólíkt færði hann betri rök fyrir máli sínu en rithöfundurinn, sem veður á súðum og reynir að framkalla hagstæð hughrif áheyrenda og lesenda fyrir áróður sinn. Slíkt hefur lítið vægi í umræðunni til lengdar. Það ætti að vera tiltölulega fljótgert að sannreyna staðhæfingar Friðriks. Grein hans hófst þannig:
"Hin 123 ára gamla kenning Arrheniusar um hlýnun loftslags af völdum koltvísýrings frá mönnum hefur nú vakið spár um "hamfarahlýnun". Arrheniusi yfirsást meginatriðið, áhrif loftrakans. Hálfum áratug eftir, að kenningin kom fram, var hún hrakin af Knut Ångström, en hefur samt skotið upp kollinum, þegar veðurlag hefur hlýnað (eftir 1920 og 1980)."
Þessari hressilegu grein sinni með tilvitnunum í merka raunvísindamenn lauk Friðrik með eftirfarandi hætti:
"Eðlisfræðileg lögmál sýna, að þau litlu áhrif, sem koltvísýringurinn hefur á hitastigið í lofthjúpnum, eru þegar að mestu komin fram. Koltvísýringurinn, sem er nú þegar í lofthjúpnum, tekur upp nær alla varmageislun, sem hann getur tekið upp, en það er á bylgjulengdunum 2,7, 4,3 og 15 míkron. Útstreymi varmageislunar út úr lofthjúpnum er ekki á þeim bylgjulengdum, heldur á 8-12 míkrón, sem koltvísýringurinn getur ekki tekið upp.
Aukið magn af koltvísýringi í loftinu breytir þessu ekki, sem þýðir, að styrkur koltvísýringsins í andrúmsloftinu hefur hverfandi áhrif á hitastigið á jörðinni. Metan hefur sömuleiðis hverfandi áhrif af sömu ástæðum. Það er geislaupptaka loftrakans, sem er yfirgnæfandi og veldur obbanum af gróðurhúsaáhrifunum.
"... það hefur ekki verið sýnt fram á með sannfærandi hætti, að aukning CO2 í andrúmsloftinu hafi ákveðin áhrif á loftslag." (Prof. em. D. Thoenes, Hollandi.)
Af rannsóknum færustu óháðra vísindamanna er orðið ljóst, að aukinn koltvísýringur í lofthjúpnum hefur hverfandi áhrif á loftslagið á jörðinni." (Undirstr. BJo.)
Hér eru mikil tíðindi á ferð, ef sönn eru, þ.e. að útgeislun jarðar sé á tíðnibilinu 8-12 míkrón og hvorki koltvíildi né metan geti sogað í sig geislaorku á því bylgjusviði. Það var einmitt skýringin á áherzlunni, sem lögð var á hámarks leyfilega hlýnun 2°C á Parísarráðstefnunni í desember 2015, að við meiri hlýnun mundi ekki ráðast við hana, þ.e. hitastigsþróunin myndi þá lenda í óviðráðanlegum hækkunarspíral, t.d. vegna þiðnunar sífrera Síberiu, sem myndi losa úr læðingi gríðarmagn metans, sem er sögð meira en tvítugfalt sterkari gróðurhúsalofttegund en koltvíildi. Ef hvorug þessara lofttegunda getur tekið til sín útgeislun jarðar, fellur þessi hamfarakenning um sjálfa sig. Tiltölulega einfalt ætti að vera að grafa þetta upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.1.2020 | 21:13
Umhverfisvernd og afturhaldssemi fara illa saman
Það verður ekki hægt samtímis að ná árangri í umhverfismálum og halda uppi velferðarþjóðfélagi, jafnvel með enn bættum kjörum almennings, eins og kröfur standa til, án þess að nýta nýjustu tækniþróun og koma á nútímalegum innviðum á sviðum, þar sem þeir eru ekki enn fyrir hendi. Af Morgunblaðsgrein Páls Gíslasonar, verkfræðings, frá Hofi í Vatnsdal, þann 28. desember 2019,
"Svartnætti í skipulagsmálum",
er ljóst, að honum er öllum lokið, þegar kemur að stjórnsýslu hérlendis á sviði svo kallaðrar umhverfisverndar. Sannast sagna er, að í höndum íslenzku stjórnsýslunnar snýst umhverfisvernd iðulega upp í andhverfu sína. Það, sem gert er í nafni umhverfisverndar, gengur meir á auðlindir jarðar og eykur mengun meir en valkostur, sem hafnað er í nafni umhverfisverndar. Þröngsýnin er svo yfirgengileg, að hún byrgir stjórnvöldum sýn á afleiðingar ákvarðana, og hæfileikann til að greina hismið frá kjarnanum, að sjá skóginn fyrir trjánum, virðist vanta. Þetta er í einu orði sagt slæm stjórnsýsla, sem krystallast í Kjalvegarbúti, sem Skipulagsstofnun, án skynsamlegra raka, vill nú senda í umhverfismat. Hvenær verður mælirinn fullur hjá framfarasinnuðum öflum í þjóðfélaginu ?
Gefum Páli orðið, en hann hóf téða grein þannig:
"Táknrænt er, að á sama tíma og sólin nær lágpunkti sínum á norðurhveli jarðar, og svartnætti skammdegis lætur undan síga, birtast okkur enn einu sinni svartnættisviðhorf úreltrar aðferðafræði skipulagsmála: ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2019 um að vísa bráðnauðsynlegum og eðlilegum endurbótum á kafla Kjalvegar í mat á umhverfisáhrifum."
Fyrir hendi er full vitneskja um umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda Vegagerðarinnar á grundvelli verklýsingar hennar og sams konar umbóta á Kjalvegi sunnan Árbúða. Skipulagsstofnun hefði verið nær að gera athugasemdir við þetta þekkta fyrirkomulag Vegagerðarinnar í stað þess, sem jaðrar við hreinræktaðan fíflagang stofnunarinnar, að biðja um skýrslu um framkvæmd, sem verður að öllu leyti sambærileg við aðra þekkta framkvæmd á sama vegslóða.
Þetta er misnotkun á opinberu valdi, sem sýnir, að Skipulagsstofnun kann ekki með vald sitt að fara. Það verður að draga úr þessum völdum, og það er t.d. hægt að gera þannig, að sá, sem með skipulagsvald viðkomandi verkefnis fer, yfirleitt sveitarfélag á viðkomandi stað, ákveði, hvort það óski eftir úrskurði Skipulagsstofnunar um það, hvort tiltekið verkefni skuli fara í lögformlegt umhverfismat eða ekki, og aðeins sá, sem skipulagsvaldið hefur, geti farið fram á slíkt við Skipulagsstofnun. Hér er nefnilega um kostnaðarsamt og tafsamt ferli að ræða, og það er eðlilegt, að kjörnir fulltrúar íbúanna taki ábyrgð á þessari ákvörðun.
Páll Gíslason lýsti umræddu verkefni nánar:
"Kjalvegur er einn fjögurra stofnvega á miðhálendinu og staða hans vel skilgreind í landsskipulagsstefnu. Fyrr á þessu ári [2019] lagði ríkisstjórnin fjármuni í lagningu rafstrengs meðfram Kjalvegi til að flýta fyrir orkuskiptum. Á sama tíma berjast félagasamtök og einstaklingar þeim tengdir stöðugt gegn endurbótum á hálendisvegunum, ef ekki beint, þá með kröfum um matsferla og skrifræði. Þetta er sagt vera gert í nafni umhyggju fyrir miðhálendinu, en er beinlínis í andstöðu við orkuskipti í samgöngum á þessu svæði landsins !"
Rafstrengurinn er þarfur og orka um hann mun vonandi mörgum gagnast til að endurhlaða rafgeymana í farskjótum sínum, en vegalengdin að hleðslustöðinni getur reynzt mörgum rafbílaökumönnum áhættusöm vegna mikillar orkunotkunar á vegum, þar sem hraðabreytingar eru tíðar og mótstaða mikil í bleytu og frá sterkum vindi, en ekki sízt er rafkerfi í botni bílsins hætta búin, þar sem grjót stendur upp úr slóðum. Þessi slóðaútgerð yfirvalda í ferðamannalandinu Íslandi er alger tímaskekkja.
Það, sem höfundurinn skrifaði um leyfisveitingaferli framkvæmda, sýnir, að ferlið er löggjafarlegt klúður, sem þjónar ekki hagsmunum almennings, heldur sérhagsmunum búrókrata, ráðgjafa og sérvitringa, sem engar framfarir vilja sjá á þessu sviði samgangna:
"Kjalvegarframkvæmdir og fjöldi annarra mála undanfarin ár sýna og sanna, að leyfisferli framkvæmda á Íslandi hefur leitt samfélagið í hreinar ógöngur, enda er það mun lengra og flóknara en gerist í grannríkjunum okkar. Ferlið virðist raunar engan enda ætla að taka, þegar kærugleði ríkir, eins og dæmin sanna.
Sjö skilgreind stig stjórnvaldsákvarðana gefa kærurétt hérlendis, en eitt til tvö annars staðar á Norðurlöndum. Ekki bara það. Hvergi nema á Íslandi er til staðar opin heimild til að kæra matsskylda ákvörðun efnislega !"
Hér er líklega komið enn eitt dæmi þess, að íslenzkir laga- og reglusmiðir taka erlenda fyrirmynd og flækja hana til mikilla muna, svo að ferlið verður óskilvirkara og dýrara en nokkurs staðar þekkist á byggðu bóli. Stjórnlyndi og vanþekking í einni sæng, og afleiðingin verður hreint skelfileg. Það er löngu tímabært að gera á þessu örverpi uppskurð á grundvelli reynslunnar.
Í lok greinar sinnar skrifaði téður Páll:
"Flækjustig leyfisveitingaferils framkvæmda hérlendis og viðmið í mati á umhverfisáhrifum samræmast ekki nútímakröfum um sjálfbærni og standa reyndar beinlínis í vegi fyrir því, að orkuskipti í samgöngum nái þeim markmiðum, sem að er stefnt. Það þjónar nefnilega loftslagsmarkmiðum að gera stofnvegi á hálendi Íslands akfæra."
Þetta er þungur áfellisdómur yfir stjórnkerfi og löggjöf um ferli verklegra framkvæmda á Íslandi. Annaðhvort hefur þessu kerfi verið komið á af ókunnugleika á aðstæðum og meðvitundarleysi um þann kostnað, beinan og óbeinan, sem flókið ferli og endalausir kærumöguleikar geta haft í för með sér, eða embættismenn og/eða löggjafinn hefur meðvitað verið að leggja stein í götu ákvörðunar réttmætra yfirvalda og stofnana, sem ábyrgð bera á samgönguæðum, orkuæðum og öðrum innviðum í landinu. Það er ekki hlutverk félagasamtaka á borð við Landvernd eða einstaka hagsmunaaðila eða einstaklinga með sterkar skoðanir á tiltekinni framkvæmd að ráða því, hvort eða hvenær af henni verður. Hins vegar er öllum frjálst að koma ábendingum sínum og skoðunum á verkefnum á framfæri við yfirvöldin.
Dýrkeyptar tafir hafa orðið á að reisa nýja Byggðalínu, og kennir ábyrgðaraðili hennar, Landsnet, Landvernd og landeigendum um þær. Allir ættu að vita nú, hversu alvarlegt það er fyrir nútímaþjóðfélag að búa við feyskna innviði. Okkar tímar kalla jafnframt á orkuskipti, og ef einhver heldur, að þau geti orðið hérlendis án mikilla fjárfestinga í virkjunum, flutningskerfi rafmagns og stofnvegum ásamt dreifikerfi rafmagns og hleðslustöðvum (áfyllistöðvum) um allt land fyrir nýorkusamgöngutæki, þá veður sá hinn sami í villu og svíma. Þar sem ríkisstjórnin hefur marglýst því yfir, heima og erlendis, að hún setji baráttuna við hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsaáhrifa í forgang, þá verður hún að ryðja í brott hindrunum í vegi orkuskiptanna. Ef hún gerir það ekki á því sviði, sem hér hefur verið fjallað um, þá missir hún allan trúverðugleika.
Morgunblaðinu blöskrar staða þessara mála. Því til staðfestingar birtist leiðari í blaðinu 30. desember 2019:
"Vegabætur í umhverfismat ?".
Seinni hlutinn var á þessa leið:
"Vegagerðin vill ráðast í þessa uppbyggingu vegarins, sem full þörf er á, enda vegurinn almennt illa farinn á vorin, sem kallar á miklar lagfæringar. Að sögn oddvita Bláskógabyggðar er vegurinn á aðalskipulagi, uppbyggður, og Skipulagsstofnun samþykkti aðalskipulagið í fyrravor. Þá hlýtur einnig að skipta máli, að vegurinn er þarna nú þegar.
Óhóflegar tafir hafa orðið á mörgum innviðaframkvæmdum á liðnum árum, ekki sízt vegna umhverfismats og kæruleiða, sem því tengjast. Ekki þarf að efast um, að allir vilja náttúrunni vel, en það felur ekki í sér, að réttlætanlegt sé að beita umhverfismati til að tefja eða reyna að koma í veg fyrir sjálfsagðar framkvæmdir. Og það er þeim sjónarmiðum, sem að baki umhverfismati búa, ekki til framdráttar, nema síður sé, ef þetta tæki er misnotað. Þetta verða opinberar stofnanir að hafa í huga. Geri þær það ekki, hlýtur löggjafinn að grípa inn í."
Nærliggjandi túlkun á framferði Skipulagsstofnunar ríkisins er, að hún sé misnotuð til að þvælast fyrir framförum. Svar löggjafans við slíkri valdníðslu gæti t.d. verið, að setja það í hendur skipulagsvaldsins á staðnum, hér Bláskógabyggðar, hvort Skipulagsstofnun verði falið að ákvarða, hvort fyrirhuguð framkvæmd skuli undirgangast umhverfismat. Í þessu tilviki segir heilbrigð skynsemi, að Bláskógabyggð hefði ekki talið þörf á umhverfismati, og þá hefði Skipulagsstofnun ekki fengið málið til slíkrar ákvörðunar, og sú ákvörðun Bláskógabyggðar hefði verið endanleg og framkvæmdin einfaldlega farið í leyfisveitingaferli hjá Bláskógabyggð í stað þessa fáránlega tafaleiks Skipulagsstofnunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2020 | 14:06
Ranghugmyndir og hálendisþjóðgarður
Orkumálasjóri birti gagnmerka jólahugvekju til landsmanna á jólaföstu 2019 eftir jólaföstuóveðrið á norðanverðu landinu og ófarir þess. Þar benti hann á varasamar ranghugmyndir Landverndar um, hverjum flutningskerfi raforku þjónaði, og lævíslega atlögu auðlindaráðuneytisins að fjölbreytilegri auðlindanýtingu hálendisins, sem virðist sjálfsögð, sé sjálfbærni gætt. Verður nú gripið niður í þennan jólaboðskap Orkumálastjóra, sem nú, "nota bene", gegnir hlutverki Landsreglara á Íslandi samkvæmt Orkupakka 3 (e. National Energy Regulator) fyrir ACER (Orkustofnun Evrópusambandsins). Enn hefur þó ekki frétzt af beinum gjörningum hans í því hlutverki, en þeir eru þó óhjákvæmilegir áður en langt um líður.
Hann getur væntanlega staðfest, að hvergi á Evrópska efnahagssvæðinu setja stjórnvöld upp viðlíka girðingar gagnvart nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og auðlindaráðuneytið er með í undirbúningi hérlendis, og hvergi eru viðlíka kæruheimildir við lýði gagnvart stjórnvaldsákvörðunum um framkvæmdir og hér. Við erum eins og hross í hafti fyrir eigin tilverknað, af því að stjórnkerfi ríkisins gengst upp í því að vera kaþólskari en páfinn. Sjálfskaparvítin eru verst.
Stjórnkerfi íslenzka ríkisins er á algerum villigötum með samspil nýtingar og verndunar, og framganga þess er í andstöðu við heilbrigða skynsemi og vinnur þess vegna beinlínis gegn orkuskiptum og loftslagsvænni orkunýtingu. Alþingi verður hér að leiðrétta mjög rangan kúrs, svo að raforkukerfi og samgöngukerfi landsins geti komizt á réttan kjöl sem fyrst.
Úr jólaboðskap Orkumálastjóra 2019:
"Þeir, sem hafa á undanförnum árum barizt harðast gegn nýjum flutningslínum í raforkukerfinu og lagt stein í götu leyfisveitinga og framkvæmda, hvar sem tækifæri gefast, eiga nú í vök að verjast, þegar menn sjá afleiðingar mikilla veikleika í flutnings- og dreifikerfinu. Þeir reyna nú að setja þetta í þann búning, að þeir séu ekki andsnúnir línum, sem þjóna hinum almenna hluta kerfisins, heldur einungis framkvæmdum, sem þjóna stóriðju.
Í umsögn Landverndar um kerfisáætlun Landsnets segir: "Landsnet sem fyrirtæki í eigu almennings ætti að sjá sóma sinn í því að taka þetta [aðgreiningu álags eftir notendahópum-innsk. BJo] skýrt fram í allri umfjöllun um afhendingaröryggi og ætti alls ekki að hafa frumkvæði að hræðsluáróðri, eins og fyrirtækið stóð fyrir í tengslum við ársfund sinn, þar sem talað var um skert þjóðaröryggi. Ef dregið hefur úr þjóðaröryggi vegna lítillar flutningsgetu raforkukerfisins, þarf að tengja það beint við orsakavaldinn: stóriðju.""
Hér varpar Orkumálastjóri ljósi á fádæma ábyrgðarleysi Landverndar, sem snýr út úr eða misskilur gjörsamlega málflutning Landsnets og Orkustofnunar á undanförnum árum um hlutverk flutningskerfis raforku fyrir velferð landsmanna.
Þegar ákvörðun var tekin um 2. orkuskipti landsins vegna olíukreppunnar 1973 og a.m.k. 70 % hækkunar olíuverðs þá, var jafnframt tekin ákvörðun um að tengja alla landsmenn við stærstu og hagkvæmustu virkjanir landsins á Þjórsár/Tungnaársvæðinu með s.k. Byggðalínu. Þessar hagkvæmu virkjanir voru eingöngu mögulegar sem slíkar vegna langtímasamninga um mikla raforkusölu frá þeim til stóriðjuvera. Það er að snúa staðreyndum á haus að halda því fram, eins og Landvernd ítrekað gerir sig seka um, að Byggðalína sé fyrir stóriðju. Það er ekki heil brú í slíkum boðskap, hvorki fyrr né síðar, og þessi málflutningur hennar er aðeins ósvífin tilraun til að sá ranghugmyndum á meðal landeigenda og alls almennings um hlutverk þessarar línu nú og í sögulegu samhengi.
Það verður svo að segja hverja sögu, eins og hún er, að sú staðreynd, að stjórnvöld skuli hafa opnað þröngsýnum og ábyrgðarlausum afturhaldsöflum leið til að þvælast nær endalaust fyrir sjálfsögðum framfaramálum landsins alls og þeim réttlætismálum landsbyggðar að sitja við sama borð og flestir íbúar Suð-Vesturlands gera nú, er vanrækslusynd, sem löggjafinn verður að lagfæra hið fyrsta.
Hálendisþjóðgarður er gæluverkefni, sem fólk af sauðahúsi Landverndar, t.d. auðlindaráðherrann (fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar og kæruglaður þar með afbrigðum), ber mjög fyrir brjósti. Að setja þetta gæluverkefni á oddinn nú vitnar um óábyrga forgangsröðun. Þegar innviðaþörfin hrópar á meira fjármagn, er ekki fjárhagslegt bolmagn til óþarfa leikaraskapar, sem setur skorður við fjölbreytilegri verðmætasköpun úr auðlindum hálendisins.
Auðlindaráðherra veifar gatslitinni dulu um, að hver króna, sem varið er til þessa hálendisþjóðgarðs, muni skapa 22 krónur. Þetta er blaður út í loftið. Hálendisþjóðgarður er ekki gullgæs, heldur byrði og gæluverkefni forræðishyggjunnar, sem ekki getur skapað meira fé en sveitarfélög og fyrirtæki innan þeirra og/eða með starfsleyfi frá þeim geta skapað á þessum vettvangi. Virðisaukinn verður þar af leiðandi enginn við allt þetta umstang.
Það er alger óþarfi að svæla með þessum hætti þriðjung landsins undir forræði ríkisins, þegar ekki hefur enn komið í ljós neinn augljós kostur við eða þörf á miðlægri ákvörðunartöku ríkisins á hálendinu, eins og hins vegar hefur berlega komið í ljós varðandi ýmislegt annað, s.s. þjóðvegi og meginflutningskerfi rafmagns.
Orkumálastjóri, sem er í stöðu til að afla sér víðtækrar yfirsýnar um þessi mál, fordæmdi þessar hálendisþjóðgarðsfyrirætlanir auðlindaráðuneytisins í jólahugvekju sinni í desember 2019:
"Öll starfsemi þar [í auðlindaráðuneyti Íslands-innsk. BJo] virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla, og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum. Allt er þetta gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum, eins og stofnun hálendisþjóðgarðs og friðlýsingar náttúrusvæða, en hins vegar vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja." [Undirstr. BJo.]
Orkumálastjóri skrifar hér beinum orðum, að undirbúningur auðlindaráðuneytisins fyrir stofnun hálendisþjóðgarðs fari fram undir fölskum formerkjum og að með endemum einstrengingslegum aðferðum sé beitt, þar sem þröngsýni fremur en víð sýn á náttúruvernd ráði för. Hér eru svo alvarlegar ásakanir um óheilindi og fúsk ráðuneytis á ferðinni, að nauðsynlegt er fyrir Alþingi að grafast fyrir um þetta mál og stöðva það, ef nauðsyn krefur. Svona vinnubrögð verða engum til gagns, þegar upp er staðið, heldur munu enda sem bjúgverpill í fangi stjórnvalda. Á skal að ósi stemma.
Í Morgunblaðinu birtist efst á bls. 2 þann 27. desember 2019 frétt Sigurðar Boga Sævarssonar með viðtali við Pál Gíslason, verkfræðing, frá Hofi í Vatnsdal, undir fyrirsögninni:
"Þjóðgarðurinn stöðvi landnýtingu".
Páll Gíslason er öllum hnútum kunnugur um sjálfbæra nýtingu hálendisins, enda hefur hann stundað starfsemi í Kerlingarfjöllum um árabil, sem þykir til fyrirmyndar. Ljóst er af orðum Páls, að þjóðgarðsstofnun þessi leysir ekkert vandamál, heldur eykur kostnað ríkisins og verður öllum til ama með skrifræði og einstrengingslegri stefnumörkun og stjórnun, enda hræða sporin frá Vatnajökulsþjóðgarði. Að óþörfu verður gengið hér á forræði sveitarfélaganna yfir skipulagsmálum innan þeirra núverandi vébanda. Forræðishyggjan mun leggja dauða hönd sína á þróun hálendisins, en það er einmitt höfuðatriði að þróa það með aðstoð nútímatækni og fjölbreytilegum viðhorfum. Fréttin hófst þannig:
"Hugmynd um um hálendisþjóðgarð ber að taka með fyrirvara, enda er ávinningurinn óljós. Náttúruvernd á öræfum landsins er forgangsverkefni, en það starf mætti fyrst efla með svæðisbundnu samstarfi sveitarfélaga. Ríkið á að vinna áfram að uppbyggingu stofnvega og flýta orkuskiptum. Aðgerðir, er varða umgengni, byggingu og rekstur þjónustumiðstöðva og fleira eru dæmi um verkefni, sem sveitarfélög eða einkaaðilar gætu sinnt betur. Þetta segir Páll Gíslason hjá Fannborg í Kerlingarfjöllum."
Ríkið á ekki að troða sér inn á svið, sem aðrir geta sinnt betur og eru þekkingarlega betur í stakkinn búnir til að annast. Útþensla ríkisbáknsins er vandamál. Báknið ræður ekki við öll þau verkefni, sem það gín yfir núna, þrátt fyrir mjög íþyngjandi skattheimtu, og ýmis innviðauppbygging, sem eðlilegt er að ríkisvaldið sinni, er í skötulíki. Það er engin ástæða fyrir ríkisvaldið á þessari stundu að þenja sig yfir mestallt hálendi Íslands.
""Ég sé ekki ábata af þunglamalegu stjórnkerfi, þar sem ofuráherzla er lögð á að stöðva nýtingu fallvatna, en það virðist [vera] markmiðið. Blönduð landnýting áfram væri farsælli, þar sem þróa má samspil landbúnaðar, ferðaþjónustu og afþreyingar og orkuvinnslu", segir Páll og heldur áfram:
"Í frumvarpsdrögunum greini ég sterkan vilja til að þrengja [að] eða stöðva frekari nýtingu lands, þ.e. þróun orkuvinnslu og ferðaþjónustu. Slíkt tel ég hvorki mæta nútímakröfum um sjálfbærni né hugmyndum um afþreyingarmöguleika. Virkjanir og uppistöðulón á hálendinu geta stungið í augun, en á móti kemur, að orkan, sem þaðan fæst, er umhverfisvæn og skilar samfélaginu miklu.""
Það er samhljómur með Orkumálastjóra og Páli Gíslasyni, þegar þeir færa fram röksemdir sínar gegn tillögu auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð. Framgangsmáti ráðherrans er ótækur. Við ákvörðun um það með hvaða hætti hálendið verður skipulagt og nytjað, er forkastanlegt að ganga einstrengingslega fram, þannig að aðeins eitt sjónarmið, verndunarsjónarmiðið, ráði ríkjum. Þetta er hættan við að fela einu ráðuneyti í Reykjavík yfirstjórnun þessara mála.
Sjálfbæra nýtingu og afturkræf mannvirki samkvæmt fjölþjóðlegri skilgreiningu á að leggja til grundvallar á hálendinu, þar sem öll sjónarmið mega sín nokkurs. Aðeins þannig næst sæmileg sátt um fyrirkomulag hálendismála. Ráðherrann er á annarri línu og mun þess vegna mæta harðri andstöðu. Saga hans sýnir, að hann á það til að vera nokkuð herskár, þótt mjúkur sé á manninn í fjölmiðlum nú um stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2019 | 11:19
Raforku- og fjarskiptaöryggi - stórfelldir almannahagsmunir
Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja öryggi almennings, og Alþingi ber að hafa eftirlit með stjórnvöldum. Það hefur nú opinberazt, að hvorki fjarskiptakerfi landsins né raforkukerfi eru í stakk búin til að standast þann veðurham, sem búast má við í einhverjum landshlutum á hverjum áratugi. Þetta er áfellisdómur yfir stjórnvöldum, sem þingið verður að láta til sín taka 2020 og hóf reyndar þá vegferð 2019.
Það virðist nú vera samdóma skoðun allra, leikra og lærðra, þingmanna og embættismanna, að við svo búið megi ekki standa. Eftir er þó að sjá, hver hvort hugur fylgir máli. Af umræðunum leiðir, að nægur einhugur ætti að vera fyrir hendi til að gera tafarlaust fjármagnaða áætlun um endurbætur, sem dugi til að koma í veg fyrir straumleysi og fjarskiptaleysi í veðurhami, sem er sambærilegur við jólaföstuóveðrið 2019 á norðanverðu landinu, þegar umbótum lýkur samkvæmt þeirri áætlun. Það ætti ekki að vera seinna en við árslok varðandi 2025 varðandi rafmagnsöryggið.
Nú vita viðkomandi fyrirtæki, aðallega Landsnet og RARIK, hvaða viðmiðun þarf að leggja til grundvallar á hverju landsvæði á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, í norðanroki eða fárviðri með ísingu og seltu. Áður hafa þessi fyrirtæki haft reynslu af slíku í suðlægum áttum. Það verður ætlazt til þess, að fyrirtækin leggi nú ekki upp með lausnir, sem ekki standast verður, sem vænta má á 10 ára fresti. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt að hefja umbætur, sem ekki koma í veg fyrir milljarða ISK tjón á 10 ára fresti (áætlun BJo: mrdISK 5,0 í desember 2019).
Til þess verður ætlazt, að þessi fyrirtæki komi rafmagnsöryggismálum á norðanverðu landinu í þetta horf fyrir árslok 2025. Það er reyndar ekki hægt að ætlast til þess svo fljótt fyrir sumarhúsabyggðir, en fyrir alla staði, þar sem atvinnustarfsemi er stunduð og föst búseta er, verður að ætlast til þess.
Ef í ljós kemur, að fyrirtækin hafa ekki dregið rétta lærdóma af fyrrnefndu jólaföstuveðri, heldur lagt upp með lausnir, sem ekki duga, þá verður það stjórnendum og stjórnum viðkomandi fyrirtækja til mikils hnjóðs, og Alþingismenn, sem verða að vera yfirgæzlumenn almannahagsmuna hér sem endranær, verða að ganga eftir því við ríkisstjórnina, að ekki sé verið að sóa fé í útfærslur, sem menn nú mega vita, að eru of veikar fyrir veður, sem búast má við á hverjum áratugi.
Þann 21. desember 2019 skrifaði Höskuldur Daði Magnússon frétt í Morgunblaðið, sem hann nefndi:
"Raforkustjórar kvaddir til".
Þar tók hann tali þingmann, sem góðu heilli hefur m.a. látið orkumálin sig miklu varða, eins og þingmönnum ber, og sveitarstjóra Húnaþings vestra á Hvammstanga, sem varð einna verst úti í óveðrinu vegna þess m.a., að aðveitustöð Hrútatunga stendur berskjölduð gagnvart ísingu og seltu í norðan hvassviðri við 0°C og vararafstöð vantar í þéttbýlinu þar í sveit:
""Mér hafa fundizt menn ekki vera að taka þetta nægilega alvarlega í gegnum tíðina. Ég held, að það hafi ekki verið almenn vitneskja á svæðinu um það, hversu illa kerfið stóð allt saman", segir Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður."
Þetta er alveg rétt hjá þingmanninum. Það hefur áratugum saman verið látið, eins og Byggðalínan væri nógu örugg, og að styrrinn um hana stæði aðeins um flutningsgetuna. Nú vita menn betur, og menn vita jafnframt fyrir hvers konar veðuráraun þarf að hanna nýja Byggðalínu. Það þýðir ekki lengur fyrir Landsnet að koma með tillögu um eitthvað, sem ekki þolir veðurham og seltu, sem vænta má á 10 ára fresti, eins og kom nú á jólaföstunni. Orkuráðherrann getur á þingi vænzt spurningar á borð við þá, hvort fram komin tillaga Landsnets sé hönnuð til að standa af sér sambland af roki, ísingu og seltu, sem starfsmenn og verktakar Landsnets börðust við af seiglu og harðfylgi á jólaföstu 2019 og ásamt björgunarsveitunum björguðu því, sem bjargað varð. Hin heilbrigða grasrót landsins bregst aldrei, en meiri áhöld eru um stjórnendurna (elítuna), sem minna stundum á vafagemlinga, svo að ekki sé nú minnzt á ormaveika rollu.
""Þetta var gagnlegur fundur [með Guðmundi I. Ásmundssyni og Tryggva Þ. Haraldssyni-innsk. BJo]. Við fengum yfirlit yfir það, hvernig þessi mál hafa þróazt og stöðuna. Ég held, að það hljóti flestir að sjá, hversu mikilvægt er að styrkja og byggja upp flutningskerfi raforku. Maður vill helzt ekki hugsa þá hugsun til enda, hvernig hefði farið, ef 65 % strengjanna hefðu ekki verið komin í jörð", segir Njáll Trausti."
Það eru vafalaust nógu margir nú, sem sjá, að norðanvert landið býr við ófremdarástand, og skömm væri að að láta raunhæfar úrbætur reka lengur á reiðanum. Vel færi á, að áhugasamir þingmenn um þessi málefni legðu fram þingsályktunartillögu um nýja Byggðalínu á milli Fljótsdals og Brennimels (Klafastaða) fyrir árslok 2025, og að allt dreifikerfi landsins til þéttbýlis og atvinnurekstrar fari í jörð á sama tíma og jafnframt dreifistöðvar (rofar og spennar, rafgeymar o.fl.) í hús. Þá hljóta að koma fram stjórnarfrumvörp til nauðsynlegra laga, sem duga til að tryggja framgang þessa máls. Endalausar nefndaskipanir og skýrslugerðir duga ekki einar og sér. Úr því, sem komið er, verður að hraða sér að teikniborðinu og láta verkin tala eða að játa uppgjöf sína gagnvart viðfangsefninu og fá aðra til verksins. Kjósendur munu senn vega það og meta, hverjir og hverjar eru á vetur setjandi.
""Við lögðum áherzlu á það, að hér hafi ekki verið varaafl til staðar og ekki hafi verið mönnuð stöðin í Hrútatungu. Við viljum fá mönnun á svæðið og stærri spenni á Laxárvatn, svo að hægt sé að fá varaafl þaðan, ef það bregzt Hrútatungumegin", segir sveitarstjórinn [í Húnaþingi vestra]."
Varðandi varaaflsþörfina er sjálfsagt af RARIK og öðrum dreifiveitum ásamt Landsneti eftir atvikum að gera nýjar áhættugreiningar í ljósi reynslunnar og nýrra áforma eftir jólaföstuóveðrið 2019. Slíkar áhættugreiningar ættu að fara fram með þátttöku heimamanna.
Varðandi fjarskiptakerfi, sem reyndust vera alltof háð veiturafmagni m.v. mikilvægi þeirra, reynast fjarskiptafyrirtækin ekki hafa haft áhuga fyrir að keppa um viðskiptavini á grundvelli þess, hversu langvarandi samband þau byðu viðskiptavinum sínum í straumleysi. Póst- og fjarskiptastofnun var meðvituð um ófullnægjandi neyðarafl hjá fyrirtækjunum, en ber því við eftir á, að lagaheimild sé ekki fyrir hendi til að ákvarða lágmarks neyðarafl. Þessi embættisfærsla er anzi dauf, svo að ekki sé nú fastara að orði kveðið. Setja þarf hið fyrsta lög, sem skylda Póst- og fjar til að ákvarða lágmarkstímalengd fullrar fjarskiptaþjónustu í straumleysi á hverjum stað og til að hafa virkt eftirlit með neyðaraflkerfum fjarskiptafyrirtækjanna og refsiúrræði, ef út af er brugðið. Í lögum skal taka af tvímæli um, að samstarf fjarskiptafyrirtækjanna um neyðaraflgjafa sé leyfilegt. Ótækt er, að túlkun samkeppnislaga á annan veg valdi verðhækkun til neytenda vegna sjálfsagðs neyðarafls m.v. mikilvægi.
Elías B. Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði vel ígrundaða grein um afhendingaröryggi raforku, sem birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2019,
"Eftir storminn":
"Jólaföstuveðrið og afleiðingar þess sýndu fram á, að flutningskerfið er ekki hannað fyrir þau veður, sem hér geta komið. Stjórnvöld og almenningur áttuðu sig á því og vill ráðstafanir. Fólk á landsbyggðinni, bæði til sveita og í minni bæjarfélögum, býr ekki við það raforkuöryggi, sem þarf í nútíma þjóðfélagi. Stóriðjufyrirtæki kunna að leggja mat á mikilvægi orkuöryggis og verða að taka tillit til þess kostnaðar, sem Landsnet og orkusali bera af öryggiskröfum þeirra, en þegar um öryggi almennings er að ræða, sofa stjórnmálamenn meðan sveitarstjórnir með skipulagsvaldið, náttúruverndarsamtök og einstakir landeigendur þvælast fyrir."
Það er hárrétt, að kjörnum fulltrúum almennings ber að gæta hagsmuna hans gagnvart flutnings-, dreififyrirtækjum og orkusölum (orkuvinnslu) með því að setja fram kröfur um gæði rafmagns, afhendingaröryggi og spennugæði. Þetta geta sveitarstjórnir gert með ályktunum sínum og Alþingismenn t.d. með þingsályktunartillögu með tölusettum viðmiðum og markmiðum fyrir stjórnvöld og lagafrumvarpi um fjármögnun viðbótar kostnaðar vegna hærri öryggiskrafna en Landsnet hingað til hefur áætlað vegna Byggðalínu.
Í "den" fór Landsvirkjun fumlaust þá leið, þegar neikvæð reynsla kom á hefðbundnar 220 kV línur í íslenzkum óveðrum, að veita hagnaði af orkusölunni til að fjárfesta í traustari flutningslínum en evrópskir staðlar kváðu á um. Þetta var og er nauðsynlegt til að veita íslenzkum almenningi og fyrirtækjum hérlendis sams konar raforkugæði, afhendingaröryggi og spennustöðugleika, og almenningur annars staðar í Evrópu býr við.
Þetta var gert með því að reisa 3 línur á Suð-Vesturlandi með einangrunargildi fyrir 400 kV til að standast seltuáraun, þótt málgildi rekstrarspennunnar væri áfram 220 kV. Í framtíðinni kann að verða hagkvæmt og jafnvel nauðsynlegt að hækka þessa 220 kV rekstrarspennu. Sömu leið borgar sig að fara með nýja Byggðalínu um norðanvert landið, því að truflanir, sérstaklega langvinnar, eru dýrar. Seltutruflanir geta einmitt verið langvinnar.
Elías skrifaði í seinni hluta greinarinnar:
"Hér á Íslandi búum við í stóru og fjöllóttu landi og þurfum að fá rafmagn okkar um langan veg frá vatnsorkuverum langt frá næsta þéttbýli í stað þess að byggja kolastöð við bæjarmörkin. Tengingar milli byggðarlaga eru langar og liggja yfir hálendi, þar sem veður eru válynd. Allt hækkar þetta kostnaðinn, sem hver einstaklingur verður að standa undir. Þessi munur á því að rafvæða Ísland og Evrópu var að koma betur og betur í ljós á síðari hluta aldarinnar, sem leið, og stjórnmálamenn fylgdust vel með og voru með í ráðum, þegar þurfti.
Þar varð breyting á með nýjum raforkulögum 2003, þegar innleidd voru lög ESB um markaðsvæðingu raforkunnar. Þar með höfðu stjórnmálamenn minni möguleika á að fylgjast með, og þeim virðist ranglega hafa verið talin trú um, að markaðurinn mundi sjá fyrir nægu öryggi. Þeir sofnuðu á verðinum. Eitthvað hafa þeir rumskað við veðrið nú, en þeir, sem telja flutningslínur vera mengun, rumska ekki."
Hér víkur Elías að miklum kostnaði flutningskerfis raforku fyrir Íslendinga vegna landshátta, veðurlags og dreifðrar byggðar. Hinn valkosturinn (við öflugar samtengingar á milli héraða) er að virkja í hverju héraði og reka nokkur að mestu óháð raforkukerfi í landinu. Sú stefna hefur hvergi í Evrópu verið farin, og Íslendingar hurfu í raun frá þeirri stefnu með uppbyggingu stórvirkjana í landinu, sem grundvallaðar voru á hugmyndinni um hagkvæmni stærðarinnar, sem almenningur um allt land skyldi njóta góðs af.
Til þess þarf öflugar samtengingar á milli landshluta. Þess vegna var Byggðalínan reist, sem taka skyldi við raforku frá Þjórsár/Tungnaársvæðinu og flytja hana til Vestfirðinga, Húnvetninga, Skagfirðinga og Eyfirðinga. Ekki voru allir sammála þessu, og þess vegna var Kröfluvirkjun reist í kjölfar Laxárævintýrisins, en Kröfluvirkjun (jarðgufuöflunin) lenti í miklum hremmingum í byrjun, og haldið var áfram með 132 kV Byggðalínu þangað og síðan áfram að Hryggstekk í Skriðdal árið 1978. Gallinn var sá, að um sýndaröryggi var að ræða, því að í flýti og fjárskorti var ekki nægur gaumur gefinn að afhendingaröryggi og spennugæðum. Nú eru aðrir tímar.
Árið 1973 hækkaði olíuverð á heimsmarkaði um a.m.k. 70 %, og þá var Orkuskiptum #2 hleypt af stokkunum hérlendis, sem aðallega fólust í að leysa olíu af hólmi með rafmagni og jarðhita til upphitunar húsnæðis. Það var yfirvofandi alvarlegur raforkuskortur á Norðurlandi í kjölfarið, og þess vegna var Byggðalínu flýtt eftir föngum, og hún var í raun og veru reist af vanefnum og fullnægði aldrei skilyrðinu um "trausta" samtengingu á milli landshluta.
Það hefur dregizt taumlaust úr hömlu að bæta úr þessu. Það er t.d. vegna meingallaðrar löggjafar um skipulag og leyfisveitingar verklegra framkvæmda. Hér ætti fjármálalega, skipulagslega og leyfisveitingalega að vera um "ríkismálefni" að ræða, þannig að framkvæmdir geti átt sér stað eins snurðulaust og kostur er, þótt sveitarstjórnir kunni að hafa mismunandi skoðanir um framkvæmd. Kæruferlum ætti að stilla í hóf svo sem gert er annars staðar á Norðurlöndum.
Hiklaust ætti að taka aftur upp þann hátt, sem hafður var á um fjármögnun flutningslína 1969-2005, að hagnaði af raforkuvinnslu og heildsölu rafmagns var m.a. varið til uppbyggingar flutningskerfisins. Annað leiðir til svo hás flutningsgjalds, að raforkan verður ósamkeppnishæf hérlendis, eins og dæmin sanna. Eðlilegt er, að fjármagnið haldist þannig innan raforkugeirans, á meðan fjárfestingarþörf hans er mikil og brýn.
Landsreglarinn (The National Energy Regulator) hefur lítið tjáð sig opinberlega um stöðu raforkukerfisins í kjölfar óveðursins, en ætla má, að hann telji slíka fjármögnun ekki samræmast orkulöggjöf Evrópusambandsins, sem er í gildi hér vegna aðildar Íslands að EES og "Orkupakka" 3, sem yfirtók OP#2. Á þetta verður að láta reyna, jafnvel fyrir dómstólum.
Það er hins vegar líka mjög æskilegt út frá öryggislegu sjónarmiði að staðsetja bitastæðar virkjanir utan við hin eldvirku svæði landsins. Þar koma Vestfirðir vissulega upp í hugann, þar sem þar er lítil jarðskjálfta- og gjóskuhætta og talsvert um vatnsafl og auk þess hratt vaxandi orkuþörf og kröfur um raforkugæði frá atvinnulífinu.
Í lok téðrar greinar skrifaði Elías:
"Það sleifarlag, sem núverandi löggjöf veldur í nauðsynlegum endurbótum á flutningskerfinu gengur ekki lengur. Næsti stormur, jafnvel enn verri, getur látið bíða eftir sér í mörg ár, en hann getur líka komið í næsta mánuði. Hér á landi gengur ekki, að stjórnvöld axli ekki að sínum hluta ábyrgð á raforkuöryggi þjóðarinnar. Raforkufyrirtækin þurfa vinnufrið til að tryggja öryggið að sínu leyti, en fá ekki nægan stuðning í gallaðri löggjöf. Alþingi þarf að láta til sín taka og setja réttan hlut ábyrgðarinnar á rétta aðila."
Hér er komið að kjarna máls. Núgildandi raforkulöggjöf er hreinlega ekki sniðin við íslenzkar aðstæður. Stjórnkerfið og Alþingi hafa flutt inn löggjöf, sem hentar ekki hér, þ.e.a.s. myndar ekki réttan ramma til lausnar á aðsteðjandi vanda landsins. Stjórnarráðið og sumir þingmenn kunna að hafa haldið, að það gerði ekkert til, en nú hafa náttúruöflin vonandi sjálf komið vitinu fyrir þá opinberu starfsmenn og stjórnmálamenn, sem um orkumálin eiga að véla. Markaðurinn og Landsreglarinn geta ekki leyst aðsteðjandi vanda, af því að spilað er á tætingslega löggjöf til að koma í veg fyrir þá lausn, sem Landsnet og í sumum tilvikum orkuvinnslufyrirtækin hafa lagt til. Alþingismenn bera ábyrgð á að gera orkulöggjöfina þannig úr garði, að ekki verði hér langvarandi aflskortur vegna vöntunar á nýjum virkjunum og tímabundinn orkuskortur vegna bilana í rafkerfinu af völdum veðurs, sem vænta má á hverjum áratugi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2019 | 14:34
Innviðabrestir og nútímaþjóðfélag fara ekki saman
Tæknivætt nútímasamfélag reiðir sig algerlega á tæknilega innviði landsins. Ef þeir bresta, verður stórtjón, og af geta hlotizt slys. Ofmat á áreiðanleika innviða er jafnframt stórhættulegt og leiðir til rangra fjárfestinga með óþarfa áhættu fyrir fólk og fyrirtæki. Sem dæmi er lítið hald í að aflfæða þorp úr tveimur áttum, ef báðar eru frá sömu aðveitustöð í núverandi Byggðalínu. Hún var í upphafi (1974-1976) af vanefnum gerð í tímaþröng til að tengja byggðir Norðurlands, sem orkuskortur blasti við, með sem skjótvirkustum hætti við virkjanir sunnanlands, aðallega Akureyri með viðkomu í Varmahlíð í Skagafirði, á Laxárvatni í Húnaþingi, í Hrútatungu í Hrútafirði og í Vatnshömrum í Borgarfirði. Árið 1978 var Austurland tengt við Byggðalínu um aðveitustöð á Hryggstekk í Skriðdal. Tjaldað var til einnar nætur með stöðugleika, flutningsgetu og veður- og seltuþol, og sofnuðu menn Þýrnirósarsvefni og sváfu þannig við ljúfan undirleik Landverndar o.fl. í næstum hálfa öld. Veturinn 2019 voru menn vaktir upp með andfælum, en hvað svo ?
Fyrir vikið skipta uppsafnaðar tapaðar tekjur af völdum orkuvöntunar, t.d. í Eyjafirði, tugum milljarða ISK, og tjónið af völdum straumleysis sömuleiðis. Tjónið af völdum óveðurs og straumleysis á landinu 10.-12. desember 2019 má að töluverðu leyti rekja til veikleika í þessari löngu úreltu 132 kV Byggðalínu. Í heildina gæti þetta óveðurstjón numið mrdISK 5,0.
Það er því eftir miklu að slæðast að hámarka afhendingaröryggi raforku á landinu öllu, ekki sízt frá meginflutningskerfinu, hringtengingunni, sem nú er rekin á 132 kV, ásamt Vesturlínu á sömu spennu. Að velja dýrasta kostinn, sem er 220 kV jarðstrengur alla leið með spóluvirkjum á leiðinni til að vinna gegn rýmdarvirkni jarðstrengs á þessari spennu, er þó ekki þjóðhagslega hagkvæmasti kosturinn. Til þess er hann of dýr m.v. næstdýrasta kostinn og sparnaðurinn vegna minni rekstrartruflana of lítill m.v. hann. Slík jarðstrangslausn kostur kostar e.t.v. 300 MISK/km með spóluvirkjum (að aðveitustöðvum meðtöldum).
Lækkun tjónkostnaðar með jarðstrengslausn er væntanlega lítil m.v. að reisa Byggðalínu sem 400 kV loftlínu og reka hana á 220 kV. Hefðbundnar 220 kV línur hafa ekki staðið sig nógu vel gagnvart seltu sunnanlands, og sama verður vafalaust uppi á teninginum í Byggðalínu. Hins vegar hafa 400 kV línur staðið sig mjög vel, og þær eru ekki yfirskot, eins og sannaðist á Hallormsstaðahálsi á jólaföstu 2019, en þar eru nú 2 af 5 slíkum línum á landinu. Kostnaðarmunur á þeim og hefðbundnum 220 kV línum er innan við 20 MISK/km. Á innan við 20 árum myndi minni tjónkostnaður vega upp þennan fjárfestingarmun. Þess vegna er hann þjóðhagslega hagkvæmastur. Það verður að leggja áherzlu á það, að ekki verði nú tekin ákvörðun á grundvelli þess, sem hagkvæmast er fyrir orkufyrirtækin, því að þá verður ódýrarari og of óáreiðanleg útfærsla valin, heldur ber að velja lausn að teknu tilliti til tjóns almennings, heimila og fyrirtækja, sem forðast má með traustari lausn. Það heitir að láta almannahagsmuni ráða og velja þjóðhagslega hagkvæmustu lausnina.
Vestfirðir voru sér á báti í þessu straumleysisveðri. Vesturlína gaf sig sem endranær í óveðrum og ætti Landsnet að undirbúa endurbætur á línunni með jarðsetningu og/eða styrkingu, þar sem reynslan sýnir, að bilunarhættan er mest. Olíuknúin neyðarrafstöð á Bolungarvík, sem ætlað er að koma í stað Vestfjarðatengingar nr 2 við stofnrafkerfi landsins, var ræst og mun hafa gengið hnökralítið, þar til Vesturlína komst aftur í gagnið, þegar veðrinu slotaði.
Samt sem áður drápust 400 þúsund laxaseyði á Tálknafirði vegna súrefnisleysis, en sjókvíarnar héldu, reyndar alls staðar á landinu. Þegar spennuflökt er á orkufæðingunni, er alltaf hætta á, að dæluhreyflar dragi of mikinn straum, svo að varnarbúnaður þeirra rýfur hreyfilinn frá rafkerfinu. Þetta tjón er mikið og tilfinnanlegt, því að það er hörgull á laxaseyðum í landinu, sem reyndar stendur laxeldinu fyrir þrifum sem stendur. Fiskeldið þarfnast stöðugleika rafkerfisins, sem ekki fæst með loftlínum á Vestfjörðum.
Að sjókvíar fiskeldisfyrirtækjanna á Vestfjörðum og Austfjörðum skyldu standa af sér óveðrið 10.-12. desember 2019, sýnir, að þessar kvíar eru orðnar miklu traustari en áður, enda hafa fiskeldisfyrirtækin innleitt ströngustu staðla um búnað, rekstur og viðhald, í Evrópu, að fordæmi nýrra fjárfesta í greininni. Sannast þar enn, að öflugir erlendir fjárfestar koma með nýja verkþekkingu, öryggiskröfur og stjórnunarhætti til landsins, sem annar atvinnurekstur dregur síðan dám af. Vestfirðingar og Austfirðingar hafa af þessu langa (bráðum tveggja alda) og góða reynslu. Þetta var síðast staðfest í viðtali Morgunbaðsins 13. desember 2019 undir fyrirsögninni:
"Eldisfyrirtæki vel undirbúin":
"Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis á Austfjörðum, sem ræktar lax í sjókvíum á Reyðarfirði, segir, að sjóbúnaður félagsins sé hannaður til að standa af sér mjög vond veður. "Kvíarnar geta staðið af sér 7-8 m ölduhæð, mun meira en það, sem gekk á núna í vikunni. Einu áhrifin, sem veðrið hafði, voru, að það var ekki hægt að fara með fisk til slátrunar frá Reyðarfirði og til Búlandstinds á Djúpavogi í 2 daga", segir Jens í samtali við Morgunblaðið."
Laxeldi og öll þjónustustarfsemin í kringum það ásamt orkuskiptum krefjast þess, að virkjað verði á Vestfjörðum. Það er bæði vegna mjög aukinnar raforkuþarfar og nútímakrafna um raforkugæði. Þar eru vatnsaflskostir, sem ber að nýta strax í þessu augnamiði til að þjóna vaxandi orkuþörf Vestfjarða og auknum kröfum til afhendingaröryggis raforku, um leið og 66 kV kerfi og lægri spennustig landshlutans eru færð í jörðu. Við þetta þurfa Landsnet og Orkubú Vestfjarða með tilstyrk ríkisins (með arði frá orkusölu) að láta hendur standa fram úr ermum. Þróun innviðanna má ekki standa þróun athafnalífsins fyrir þrifum lengur. Flutningskerfi rafmagns, þjóðvegir og fjarskiptakerfi eiga löggjafarlega og skipulagslega að vera ríkismálefni. Með nútímalegri virkjanatilhögun samkvæmt Rammaáætlun Alþingis verður fórnarkostnaður (vegna minni ósnertra víðerna) mun minni en ávinningurinn.
Fiskeldi er hlutfallslega öflugasti vaxtarsproti íslenzka hagkerfisins um þessar mundir. Söluandvirði afurða fiskeldis hérlendis árið 2019 verður rúmlega mrdISK 20, og á 10 árum er búizt við rúmlega ferföldun upp í mrdISK 85, og á 20 árum er búizt við tæplega fjórtánföldun upp í mrdISK 270 samkvæmt hugmyndum Sjávarklasans. Það er leitun að grein með viðlíka vaxtarvæntingar. Þetta gæti verið reist á væntingum um 200 kt/ár framleiðslu af laxi 2040 og verðinu 1350 ISK/kg að núvirði. Vestfirðir gætu hugsanlega staðið undir helmingnum af þessu, hugsanlega með úthafseldi í bland við hefðbundið sjókvíaeldi, en aðeins með öflugum innviðum. Ríkinu ber að greiða götu þeirra.
Ástæða áætlaðrar verðhækkunar (70 %) er sú, að búizt er við skorti á próteinum á markaðinum vegna fólksfjölgunar og rýrnandi fiskveiða, vegna ofveiði, og landbúnaðar vegna rýrnandi jarðvegs af völdum ósjálfbærrar ræktunar (ofnýtingar rætarlands). Þess vegna muni verð á kjöti og fiski hækka mun meira en almennt verðlag.
Síðan er ný tækni að ryðja sér til rúms innan laxeldisins, þar sem er úthafseldi í enn stærri og öflugri kvíum en fjarðakvíarnar eru, sem innbyrða tífalt magn af fiski eða 10 kt og þola mikla ölduhæð. Talið er, að burðarþol íslenzkra fjarða, þar sem laxeldi er leyfilegt, sé 150 kt/ár. Þá þyrfti 7 úthahafskvíar til að komast upp í 200 kt/ár og 270 mrdISK/ár. Einhverjar mætti hugsanlega staðsetja úti fyrir Vestfjörðum, aðrar úti fyrir Austfjörðum, og myndu Vestmannaeyingar ekki einnig hafa hug á slíkum rekstri í framtíðinni ?
Íslenzk yfirvöld hljóta að vera farin að huga að svæðum fyrir úthafskvíar. Þar er að mörgu að hyggja, og fljótt á litið virðist grennd við Vestmannaeyjar koma til greina og einnig úti fyrir núverandi laxeldisfjörðum. Norsk yfirvöld hafa þegar tekið frá 25 kkm2 (fjórðung flatarmáls Íslands) fyrir úthafskvíar. Í þeim er minni hætta á laxalús og enn minni hætta á erfðablöndun við villta laxa, og sterkari straumar en í fjörðunum hindra uppsöfnun úrgangs. Þar þarf þess vegna ekki að "hvíla svæði".
Í 200 mílum Morgunblaðsins, 20. desember 2019, var gerð grein fyrir þessu og birt viðtal við Friðrik Sigurðsson, ráðgjafa á sviði fiskeldis og sjávarútvegs hjá norska fyrirtækinu INAQ:
"Aðstæður til laxeldis á Íslandi eru svipaðar og í Norður-Noregi og framleiðslukostnaður í sjó ekki ósvipaður og þar. Aftur á móti er kostnaðurinn mun hærri á Íslandi, þegar kemur að því að taka laxinn úr kvíunum, slátra honum og koma á markað erlendis, en í krafti stærðarhagkvæmni er vinnslu- og flutningsgeta norska laxeldisins allt önnur og kostnaðurinn lægri."
Í ljósi þessa er tvennt áhyggjuefni. Leyfisveitingaferlið hérlendis fyrir starfs- og rekstrarleyfi í íslenzkum fjörðum, sem löggjafinn þó hefur afmarkað fyrir laxeldi, er torsótt og hægvirkt, eins og fyrir annars konar framkvæmdir. Stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir, að með torsóttu leyfisveitingaferli fyrir framkvæmdir er verið að draga úr fjárfestingarhvata, sem er neikvætt fyrir lífskjörin til skamms og langs tíma. Þetta hefur tafið nýja verðmætasköpun hérlendis og þar með veikt vaxtarsprota, þegar grein á borð við laxeldið ríður á að vaxa skjótt fiskur um hrygg.
Að Hafrannsóknarstofnun skuli hafa dregið lappirnar í Ísafjarðardjúpi, er skrýtið m.v. aðstæður þar. Er vitað um einhverja sjálfstæða innlenda laxastofna þar, eða eru þeir aðfluttir ? Líkindi á skaðlegri erfðablöndun í Ísafjarðardjúpi verða hverfandi með nútíma tækni og skaðlegar afleiðingar stroks úr kvíum nánast engar. Því ber að leyfa að hefja sjókvíaeldi þar í áföngum á grundvelli umhverfismats og reynslu af áföngunum.
Þá er farið offari við álagningu auðlindagjalds á greinina, þegar heildarsölutekjur á kg í ágúst-október eru lagðar til grundvallar árið eftir. Fyrir grein í miklu uppbyggingarferli er þessi skattheimta varasöm. Eðlilegra er að leggja framlegðina (EBITDA) til grundvallar og gæta þess, að ekki sé tekið meira en 5,0 % af henni í auðlindagjald.
Vonandi mun markaðssetning íslenzks laxeldis verða sem mest reist á fullvinnslu í neytendapakkningar. Þá munu fást svipuð verð og Færeyingar fá fyrir sín tæplega 90 kt/ár, því að heilbrigði eldisfisksins hér er tiltölulega gott. Þá þarf hérlendis öflug fóðurframleiðsla, eins og í Færeyjum, að komast á legg.
Friðrik Sigurðsson hélt áfram:
""Við erum að komast á það stig, að umgjörðin fyrir hefðbundið fiskeldi á Íslandi sé jafnlangt á veg komin og í Noregi, en því miður hefur kunnáttuleysi íslenzkra stjórnvalda litað umhverfi greinarinnar. Stjórnvöld þurfa líka, fyrr en síðar, að marka stefnu um úthafseldi með aðkomu hagsmunaaðila og rannsóknarstofnana, þar sem m.a. væri gætt vandlega að líffræðilegum og umhverfislegum þáttum og þess freistað að greina, hvaða svæði myndu henta bezt til að stunda úthafseldi, s.s. m.t.t. hrygningarsvæða, verðmætra fiskstofna og áhrifa á viðkvæm haf- og botnsvæði á borð við kóralrif", segir Friðrik og bendir á, að sennilega myndu úthafskvíarnar þurfa að vera sunnan og austan við landið, svo að lítil sem engin hætta yrði á skemmdum af völdum hafíss. "Eins þarf að taka með í reikninginn, að úthafseldið falli vel að umferð bæði fiskiskipa og vöruflutningaskipa, svara ýmsum hafréttarlegum spurningum og greina, hvort úthafseldið gæti haft áhrif á fiskveiðar.""
Það er leitt til þess að vita, að þekking á fiskeldi skuli vera af skornum skammti í atvinnuvegaráðuneytinu. Þar verða menn að hrista af sér slyðruorðið og marka strax stefnuna til að greiða götu laxeldisins til vaxtar í samræmi við burðarþol og faglega unnið umhverfismat. Strax á næsta ári (2020) þarf að leggja línuna fyrir úthafseldið, eins og Norðmenn hafa þegar gert. Það er óþarfi að finna upp hjólið.
Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismaður, er öllum hnútum kunnugur um fiskeldið. Hann skrifaði grein í Fréttablaðið 4. desember 2019 undir fyrirsögninni:
"Að spila lottó með sannleikann":
"Landssamband veiðifélaga berst gegn uppbyggingu á laxeldi í sjó. Erlendir auðkýfingar hafa keypt laxveiðiréttindi og jarðir hér á landi og vinna leynt og ljóst gegn atvinnuuppbyggingunni. Stjórnvöld hafa frá upphafi verið varkár gagnvart sjókvíaeldinu. Laxeldið er aðeins leyft á afmörkuðum svæðum, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Annars staðar er það bannað. Það er gert til að vernda innlenda laxastofna fyrir mögulegri blöndun við eldisstofninn, sem er upprunalega norskur. Uppbygging sjókvíaeldisins hefur að öllu leyti fylgt þessum ráðstöfunum."
"Laxveiði í vestfirzkum ám er lítil og tekjur óverulegar. Enda er það ástæða þess, að laxeldið var leyft á Vestfjörðum. Tekjur af allri stangveiði í landinu eru aðeins 4,9 milljarðar króna á ári. Það er því ólíku saman að jafna framlagi þessara tveggja atvinnugreina til lífskjara íslenzku þjóðarinnar. Nái Landssamband veiðifélaga markmiði sínu og kæfi í fæðingu laxeldi á Íslandi, verða afleiðingarnar alvarlegar, og almenningur fer á mis við mjög bætt lífskjör á næstu árum."
Landssamband veiðifélaga reisir andstöðu sína við laxeldið í sinni núverandi mynd á rangri áhættugreiningu. Þar koma við sögu úrelt líkindi á stroki úr sjókvíunum og öfgakennd hugmynd um afleiðingarnar. Í fyrsta lagi ná ekki allir stroklaxar upp í árnar; í öðru lagi tekst ekki alltaf hrygning hjá þeim og í þriðja lagi kemur náttúrulegt úrval í veg fyrir, að varanleg erfðablöndun eigi sér stað. Þess vegna hefur hingað til engin merkjanleg erfðablöndun átt sér stað af völdum sjókvíaeldis hérlendis.
Samanburður við Noreg er út í hött. Norðmenn eru á hverjum tíma með um 1,0 Mt (milljón tonn) af eldislaxi í kvíum úti fyrir helztu laxveiðiám Noregs og voru um 40 ára skeið með mun veikari útbúnað, minna regluverk og slappara eftirlit en nú er við lýði.
"Rökin gegn laxeldinu eru veik. Umhverfismengun er lítil. Kolefnisspor er lágt. Hvergi á Íslandi hafa laxastofnar spillzt eða eyðilagzt vegna blöndunar við eldislax. Þrátt fyrir langvarandi markvissa blöndun innlendra stofna í fjölmörgum laxveiðiám um langt árabil á vegum veiðiréttarhafa, er ekki talin ástæða til að hafa áhyggjur af varanlegri erfðablöndun."
Í ljósi þessara upplýsinga, sem voru kunnar, að veiðiréttarhafar hafa staðið fyrir tilraunastarfsemi með erfðaeiginleika í íslenzkum laxveiðiám, virðast þeir vissulega kasta steinum úr glerhúsi, þegar þeir stunda áróður gegn laxeldi á afmörkuðum svæðum hérlendis í nafni hreinleika íslenzkra laxastofna. Einhver mundi ávinna sér hræsnaraheitið af minna tilefni.
"Blöndun milli eldisfiska og villtra á sér stað, en til þess að áhrifin leiði til varanlegra breytinga, þarf hún að vera mjög víðtæk og langvarandi. Annars ganga áhrifin til baka tiltölulega fljótt fyrir tilstilli náttúruúrvalsins."
Erfðafræðin virðist ekki leika í höndum þeirra veiðiréttarhafa íslenzkra laxveiðiáa, sem harðast hafa gengið fram í gagnrýni sinni á laxeldi í sjókvíum. Þeim væri sæmst að láta af árásum sínum og gera þess í stað hreint fyrir sínum dyrum um það, sem kalla má fikt þeirra með blöndun laxastofna í laxveiðiám landsins.
Að lokum fylgir hér tilvitnun í grein Kristins H. Gunnarssonar um, að sífelldar vísanir veiðiréttarhafa til Noregs varðandi áhættuna hérlendis séu úr lausu lofti gripnar:
"Jón Helgi Björnsson vísar til laxeldis í Noregi og setur fram fullyrðingar um laxeldið þar. Þar er ólíku saman að jafna. Norskt laxeldi er um 100 sinnum umfangsmeira, og staðsetning eldiskvía þar er víða nálægt gjöfulum laxveiðiám. Því er mun meiri hætta á varanlegri erfðablöndun í Noregi en á Íslandi. Laxeldið er bannað á Íslandi nálægt öllum helztu laxveiðiám landsins. Á Vestfjörðum er nánast engin laxveiði. Það er ekki hægt að draga ályktanir af stöðu í Noregi og færa þær óbreyttar yfir á Ísland."
Ákvörðun Alþingis á sinni tíð um mjög miklar landfræðilegar takmarkanir á staðsetningu laxeldis í sjókvíum átti að þjóna sátt á milli hagsmunaaðila um þessa tiltölulega nýju atvinnugrein. Öll þróun síðan þá hefur verið til minni áhættu við þessa starfsemi. Það er mest að þakka nýjum fjárfestum í laxeldinu hérlendis, sem hafa mikla þekkingu til að bera bæði á starfseminni og markaðssetningunni. Þessi atvinnustarfsemi er hreinlega að umbylta samfélaginu á Vestfjörðum til hins betra og tryggja sess Vestfirðinga í nútímasamfélaginu. Svo sterkt er ekki hægt að kveða að orði um austfirzkt laxeldi, þar sem þar var sums staðar fyrir öflugt atvinnulíf, en laxeldið þar hefur þó þegar reynzt byggðum í vörn öflug kjölfesta.
Þessi öfluga atvinnugrein, sem getur hæglega orðið ein af kjöfestu útflutningsatvinnugreinunum og að 20 árum liðnum skapað svipaðar útflutningstekjur og málmiðnaðurinn núna, sem stundum er kallaður orkukræfi iðnaðurinn. Grundvallarþörf beggja þessara greina er stöðugleiki. Þær gera báðar miklar kröfur til raforkugæða, og þær, ásamt fólkinu, sem þar starfar, á sama rétt til raforkugæða og þau fyrirtæki og fólk, sem nú býr við beztu raforkugæðin á landinu. Það á ekki að slá af þeim kröfum. Þær eru bæði tæknilega og fjárhagslega raunhæfar. Vönduð vinnubrögð eru allt, sem þarf. Fúsk er aldrei fýsilegur kostur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2019 | 14:34
Óveður á Íslandi
Á hverjum áratugi virðast geisa 1-2 óveður á Íslandi, sem setja raforkukerfi landsins og fjarskiptakerfi í einhverjum landshluta á hliðina; aldrei þó á öllu landinu í einu. Hvar tjónið verður, hefur farið eftir vindáttinni.
Þetta mikla tjón og truflun á framleiðslukerfum er þó ekki óhjákvæmilegt, og nú eigum við þess kost að fjárfesta okkur út úr þessu ófremdarástandi, sem er búið að vera of lengi við lýði vegna vanefna í upphafi fremur en þekkingarleysis á aðstæðum. Menn ákváðu einfaldlega að hraða Byggðalínu, og að þjóðfélagið, sem þá var vant straumleysi, yrði í staðinn að taka á sig tjónið, þegar það dyndi yfir. Þessi tími er liðinn. Nútímaþjóðfélag krefst öryggis og stöðugleika. Tjónið verður svo hátt, að það borgar sig einfaldlega ekki að velja ódýrustu lausnina.
Landsmenn búa enn utan Suð-Vesturlands við búnað frumbýlingsáranna. Í minnum er hvassviðri og mikil ísing, sem sleit í sundur einu tengingu Búrfellsvirkjunar við höfuðborgarsvæðið í byrjun 8. áratugarins. Þá bjargaði neyðarrafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík ISAL-verksmiðjunni frá langvarandi framleiðslustöðvun, og íbúar höfuðborgarsvæðisins nutu jafnframt góðs af orku frá þessari stöð þá. Nú hefur þessari mikilvægu neyðarrafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík verið lokað á þessum áratugi að vegna skrifborðsákvörðunar um hagræðingu í rekstri og hún seld. Rökin voru jafnframt þau, að afhendingaröryggi raforku hefði aukizt svo mikið, að hennar væri ekki lengur þörf. Það er því miður ekki rétt mat, eins og slæmt ástand 220 kV lína á SV-landi í saltroki hefur hvað eftir annað verið til vitnis um. Þá hefur orðið að lækka rekstrarspennu meginflutningskerfisins svo mikið, að yfirálag ógnaði búnaði og draga hefur orðið úr framleiðslu. Íbúar SV-lands búa við falskt öryggi, eins og aðrir íbúar landsins, þótt í minni mæli sé.
2.-4. febrúar 1991 gekk óveður yfir suðvestanvert landið með suðlægum áttum, ísingu og mikilli seltu. Slitnuðu þá 220 kV línur í Hvalfirði og í Gnúpverjahreppi með þeim afleiðingum, að höfuðborgarsvæðið og álverksmiðjan í Straumsvík (ISAL) urðu straumlaus. Þá var varastöðin í Straumsvík keyrð á fullum afköstum, og tíðar ferðir olíubíla þangað urðu verksmiðjunni til bjargar. Rafmagn kom ekki á verksmiðjuna aftur fyrr en um 8 klst síðar. Það kom á síðustu stundu til að bjarga verksmiðjunni frá algerri stöðvun, því að neyðarrafstöðin var orðin of lítil fyrir langvarandi straumleysi og raflausn keranna, sem flytur strauminn frá forskautunum, var við frostmark sitt, þegar spenna kom aftur á línur. Rúmlega 6 % keranna frusu, svo að taka varð þau úr rekstri og endurfóðra.
Algert framleiðslutap varð, á meðan stofnkerfið var á hliðinni, og afkastaminnkun vegna fækkunar kera í rekstri og vegna lægri straumnýtni lengi á eftir. Endurfóðra þurfti kerin, sem stöðvuðust, og ending hinna rýrnaði mikið.
Alls má áætla tjón ISAL vegna þessa straumleysis að upphæð MUSD 20 eða mrdISK 2,5. Það gefur einingarkostnað ISAL vegna óafhentrar orku í það skiptið 13 kUSD/MWh eða 1,6 kISK/kWh. Þetta var af stærðargráðunni 1000 sinnum sölutap Landsvirkjunar. (Landsvirkjun átti og rak þá jafnframt flutningskerfið.) Þetta er rakið hér til að sýna, að kostnaður straumleysis leggst að langmestu leyti á orkukaupandann. Mjög svipað á við mikilvirka kúabændur og álver. Kýrnar framleiða lítið sem ekkert í straumleysi, sumar veikjast jafnvel og drepast, en allar hinar selja ver lengi á eftir og endast jafnvel ver en ella. Tryggingar bæta iðnaðinum hluta tjónsins. Er vonandi, að bændum verði bætt að einhverju leyti hlutfallslega mikið tjón þeirra.
Evrópusambandið miðar við, að tapskostnaður notenda á hverja óafhenta orkueiningu sé á bilinu 5-25 EUR/kWh, og þetta kostnaðarbil ber að leggja til grundvallar hönnun raforkukerfa. Hjá ISAL nam hann í þetta skiptið 12 EUR/MWh. Ef straumleysið hefði varað hálftíma lengur, hefði verksmiðjan stöðvazt og tjónið farið í um 30 kUSD/MWh eða nokkuð upp fyrir efri mörk ESB, enda gerast atburðir af þessu tagi nánast aldrei þar vegna meira afhendingaröryggis raforku. Við getum komizt þangað, og það borgar sig. Ef téð straumleysi 1991 hefði staðið helmingi skemur, hefði tjónið náð að neðri mörkum ESB.
Þann 12. desember 2019 birtist á forsíðu Fréttablaðsins snemmbúin og snöggsoðin áætlun aðalhagfræðings Íslandsbanka, Jóns Bjarka Bentssonar, sem var með allt of lága kostnaðaráætlun um tjónið í óveðrinu í viku 50/2019. Hann reiknar með vinnutapi 2 klst að meðaltali fyrir allt starfandi fólk. Þetta kann að vera svo fyrir þá að hámarki 150 k starfsmenn, sem ekki lentu í ófærð og langvarandi straumleysi, en fyrir þá að lágmarki 30 k starfsmenn, launþega og sjálfstætt starfandi, sem lentu í ófærð og langvarandi straumleysi, nam vinnutapið a.m.k. 20 klst að meðaltali. Þá verður kostnaður vinnutaps að lágmarki mrdISK 3,6, sem er 2,6 sinnum meira en aðalhagfræðingurinn áætlar. Heildartjónið hefur vart verið undir mrdISK 5,0, en aðalhagfræðingurinn áætlaði heildartjónið aðeins um mrdISK 2,0.
Það er óskynsamlegt að gera minna úr tjóni af völdum óveðurs og straumleysis en efni standa til, því að þá verður hvatinn minni til úrbóta. Það ríður á að gera innviðina traustari, því að hættan á tjóni sem þessu verður annars viðvarandi. Ef svipaður vindstyrkur verður næst í suðlægum áttum, þá mun verða mikið tjón á Suður-Vesturlandi, kannski meira en varð nú á norðanverðu landinu. Með SV-átt kemur mikil selta, sennilega meiri en varð á Norðurlandi vegna hærra sjávarhitastigs. Við frostmark hleðst saltur ís á víra, einangra og burðarvirki, sem teygir á vírum allt niður að jörðu og skapar ljósbogahættu, sem getur valdið straumleysi á höfuðborgarsvæðinu og stórtjóni á atvinnustarfsemi SV-lands. Þar er mikið um viðkvæma starfsemi gagnvart straumleysi og lítið um neyðarrafstöðvar.
Jón Bjarki Bentsson rifjaði einmitt upp í Fréttablaðsviðtalinu óveðrið mikla í febrúarbyrjun 1991. Þá hrundi 220 kV lína í Hvalfirði og önnur í Gnúpverjahreppi vegna veðurofsa og ísingar, og seltu gætti líka á einangrurum. Við þetta varð straumlaust á höfuðborgarsvæðinu og hjá ISAL í Straumsvík í um 8 klst, eins og áður segir. Jón Bjarki telur, að framreiknað tjón þá hafi aðeins numið um mrdISK 3,6. Það er allt of lágt, vegna þess að einvörðungu hjá álverinu í Straumsvík varð búnaðartjón og framleiðslutjón uppfært um MUSD 20 eða mrdISK 2,5. Jón Bjarki virðist hafa gleymt þessum kostnaði, þannig að heildarkostnaðurinn þá hefur ekki orðið undir mrdISK 6,1.
Þarna skall hurð nærri hælum í Straumsvík, og munaði aðeins nokkrum mínútum, að framleiðsla allra keranna stöðvaðist. Sum þeirra stöðvuðust, og ending hinna styttist verulega vegna áraunar, og slíkt er dýrt. Þetta tjón jafngilti, að óafhent orka, orka, sem Landsvirkjun gat ekki afhent, en ISAL gat tekið við, hafi kostað notandann 13 kUSD/MWh að jafngildi 1,6 kISK/kWh, sem þá var næstum 1000 sinnum sölutjón Landsvirkjunar.
Af þessu sést, að orkukaupendur eiga miklu meiri hagsmuna að gæta en orkuseljendur, og þetta ójafnræði verður Alþingi og ríkisstjórn að hafa í huga, þegar viðbrögðum vegna straumleysis í viku 50/2019 verður hleypt af stokkunum. Það er ríkið, sem verður að gæta hagsmuna notenda gagnvart orkugeiranum, og þingmönnum ber að fylgjast gaumgæfilega með, hvernig málum vindur fram og krefjast upplýsinga, eins og þeir hafa nú gert.
Í þetta skiptið slapp áliðnaðurinn fyrir horn. Sú staðreynd, að aðeins önnur 400 kV lína Landsnets af tveimur (n-1 kerfi) yfir Hallormsstaðaháls og niður til Reyðarfjarðar gaf sig í aftakaveðri og ofankomu á Hálsinum, sýnir, að það er hægt að hanna, setja upp og viðhalda rafkerfi, sem þolir veður, sem búast má við á 10 ára fresti að sögn forsætisráðherra, og það ætti einmitt að verða krafan. Þar með er ekki sagt, að kerfið (400 kV) þoli meira og sjaldgæfara veður, eins og bilunin á Hallormsstaðahálsi sýndi, og þess vegna verður ekki hjá neyðarrafstöðvum komizt, þar sem mest er í húfi.
Vandi raforkugeirans er þríþættur. Skipulagsmálum fyrir framkvæmdir hans er beinlínis óskynsamlega fyrir komið, svo að undirbúningskostnaður verður að óþörfu allt of hár, og ekki sér fyrir endann á töfunum. Mestur er þó tjónkostnaðurinn, sem af töfunum leiðir. Hagsmunir þeirra, sem töfunum valda, eru dvergvaxnir í samanburði við hagsmuni hinna, sem fá ekki orku vegna tafa, bæði vegna takmarkaðrar flutningsgetu og tjónkostnaðar við bilanir.
Nú er komið á daginn, að tafir við leyfisveitingar hafa gert slæmt ástand enn verra um allt norðanvert landið í norðanáhlaupi, sem gerði 10. desember 2019 og stóð í þrjá sólarhringa með fannfergi. Í slíku neyðarástandi verður kostnaður notenda vegna hverrar kWh, sem ekki fæst, hæglega meira en þúsundfalt verð orkunnar, sem ekki fæst, og undir hælinn er lagt, hvort ástandið veldur fjörtjóni.
Það er í raun fáránlegt að ætlast til þess, að framkvæmdaaðili semji um legu línu, sem tengja á saman landshluta, við hverja sveitarstjórn um sig. Þær geta t.d. haft ólíkar skoðanir á legunni á mörkum sveitarfélaganna. Samgönguráðherra hefur nefnt þá lausn, að "landsskipulag" höggvi á þennan hnút, og slíkt fyrirkomulag virðist eðlilegt fyrir vegalagningu og línulagnir. Nú þurfa stjórnvöld og Alþingi að hafa hraðar hendur við stefnumörkun þessara mála í ársbyrjun 2020. Almannahagur liggur við.
Í öðru lagi þarf að ákveða, hvers konar veður flutnings- og dreifikerfin eiga að standa af sér. Meginflutningskerfið (hringtengingin) þarf að geta staðið af sér vind, ísingu og seltu, sem búast má við hérlendis í einhverjum landshluta (af mismunandi áttum) a.m.k. einu sinni á áratug, þ.e. sambærilegar aðstæður þeim, sem komu upp á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, í viku 50/2019. Þetta þýðir, að útleysing á nýrri Byggðalínu ætti að verða sjaldnar en á 10 ára fresti. Til þess þarf að reisa nýja línu frá Brennimel og norður um land til Fljótsdalsvirkjunar. Hún þarf að vera sérstyrkt eftir aðstæðum og sennilega er þjóðhagslega hagkvæmast, vegna kostnaðar raforkunotenda við hverja óvænta útleysingu, að byggja hana sem 400 kV línu, þótt hún verði rekin á 220 kV. Sú lausn gafst vel á Hallormsstaðahálsi í norðanbálinu í v. 50/2019, þar sem önnur 400 kV línan gaf sig, en hin stóðst veðurhaminn, og sú lausn hefur gefizt vel (og betur en 220 kV línur) í óveðrum og saltviðri á Suð-Vesturlandi, en þar eru 3 slíkar línur. Línurnar á Hallormsstaðahálsi eru af sterkustu útfærslu 400 kV lína.
Þá verða aðveitustöðvarnar að vera í húsi, og þá stefnu hefur Landsnet þegar markað. Annars verða aðveitustöðvarnar óboðlega veikir hlekkir í keðjunni, og þá getur sá búnaður verið hefðbundinn 220 kV búnaður, sem er ódýrari en 400 kV búnaður. Landsnet og dreifiveiturnar ættu síðan að hafa val um annaðhvort að halda sig við tréstæður á 66 kV og neðar og vera þá með varaafl fyrir allt viðkomandi þéttbýli eða að leggja jarðstrengi úr ólíkum áttum, þar sem a.m.k. annar leggurinn fær afl frá nýrri Byggðalínu, og láta varaafl duga fyrir viðkvæmasta álagið, s.s. sjúkrahús og hitaveitu.
Í þriðja lagi er svo fjármögnunin. Hjá Landsneti og dreifiveitunum eru gjaldskrárnar látnar fjármagna fjárfestingar og rekstur. Það veldur því, að þær verða of háar fyrir samkeppnishæfnina. Þar sem átak er nú framundan, til að útrýma núverandi veikleikum, þurfa þessi fyrirtæki viðbótar fjárstreymi, og það er fullkomlega eðlilegt, að það komi frá arðgreiðslum raforkuvinnslufyrirtækjanna. Sú var staðan fyrir innleiðingu Orkupakka ESB nr 1, að arði af raforkuvinnslunni var veitt til uppbyggingar flutningskerfisins.
Hvað sagði forstjóri Landsnets, Guðmundur Ingi Ásmundsson, um stöðu Landsnets eftir ófarir óveðursins í viku 50/2019 ? Það kom m.a. fram í viðtali við Morgunblaðið föstudaginn 13. desember 2019 undir fyrirsögninni:
"Óskilvirkt leyfisveitingakerfi tefur fyrir":
"Landsnet telur, að styrkja þurfi flutningskerfi raforku á Norðurlandi og fjölga varaleiðum. Uppbygging kerfisins, t.d. byggðalínunnar á Norðurlandi, hefur tafizt. Ástæðan er óskilvirkt leyfisveitingakerfi og óskýrar reglur að sögn Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra."
Það er deginum ljósara, að viðbót við núverandi Byggðalínu er löngu tímabær af nokkrum ástæðum. Núverandi 132 kV Byggðalína hefur allt of litla flutningsgetu m.v. flutningsþarfir, hún er að megninu til á tréstæðum, og þær elztu orðnar hálffimmtugar og líklegt, að fúi og tæring séu tekin að draga úr burðarþoli hennar, sem verður ófullnægjandi, þegar rok og ísing herja á hana samtímis. Einangrunargetan minnkar einnig með tímanum, svo að bilunarhættan verður mikil, þegar rok, ísing og selta herja á hana samtímis. Það má búast við slíku a.m.k. 2 á áratugi í hverjum landshluta, en búast má við óveðri, sambærilegu óveðrinu 10.-12. desember 2019, á 10 ára fresti samkvæmt munnlegri skýrslu forsætisráðherra til Alþingis á lokadegi þingsins fyrir þinghlé í desember 2019.
Við þessar aðstæður er ljóst, að engir hagsmunir eru svo ríkir, að þeir eigi að komast upp með margra ára tafir á úrbótum, sem varða þjóðaröryggi. Hlutverk löggjafans hlýtur að vera að grípa nú í taumana, þótt fyrr hefði verið, með löggjöf, sem losar um þá framkvæmdastíflu, sem Landsnet hefur búið við.
Þá vaknar spurningin um, hvaða úrbótaáform hefur Landsnet ? Fyrirtækið hefur áform um að reisa 220 kV línu frá Klafastöðum (Brennimel) nálægt Grundartanga norður um land og austur að Fljótsdalsvirkjun. Fyrirhugað er að reisa hana á röramöstrum, svipuðum og eru í nýju Þeistareykjalínunni að Bakka, sem reyndar bilaði í óveðrinu fyrir norðan í viku 50/2019. Aflflutningur yfir Hallormsstaðaháls frá Fljótsdalsvirkjun að Reyðarfirði hélzt óskertur í óveðrinu 10.-12. desember 2019, þótt önnur línan af tveimur, sem eru sterkasta útgáfa af 400 kV línum, gæfi eftir undan veðurhami og ísingu, enda er Hallormsstaðaháls alræmt veðravíti.
Í ljósi nútímakrafna til afhendingaröryggis raforku, sem hljóta að vera að standast öll veður, sem búast má við á 10 ára fresti og skemmri fresti og í mesta lagi 2 klst straumleysi við 50 ára veður, er ástæða til að meta, hvort verjanlegt er að fjárfesta í 400 kV línu á a.m.k. hluta þessarar um 500 km leiðar. Kostnaðarmunurinn alla leið er líklega aðeins mrdISK 10, og þegar þess er gætt, að tjónið af völdum jólaföstuóveðursins 2019 (v.50) nam e.t.v. um mrdISK 5,0 og fer vaxandi með tímanum, er ljóst, að 400 kV lína myndi borga sig upp á viðunandi tíma (innan við 20 árum). Rekstraröryggislega munar líklega mest um miklu meiri einangrunargetu og mótstöðu gegn hrævareldum yfir einangrun af völdum seltu, sem verður tíðara og meira vandamál hérlendis með hækkandi sjávarhita og tíðari hvassviðrum.
Hér ber að hafa í huga, að í ljósi slæmrar reynslu af 220 kV línum í óveðrum, þar sem selta náði í hvössum SV-áttum alveg upp að Sigölduvirkjun, var farin sú leið að tengja saman Sultartangavirkjun og Búrfellsvirkjun með 400 kV línu ásamt því að tengja Sultartangavirkjun við aðveitustöðina á Brennimel og Búrfellsstöðina við aðveitustöð á Lyklafelli (Sandskeiði) með slíkum línum, sem þá eru alls 5 á landinu um þessar mundir. Allar þessar þrjár 400 kV línur SV-lands eru hryggjarstykkið í auknu afhendingaröryggi Suð-Vestanlands, og íbúar annarra landshluta eiga fullan rétt á, að sams konar búnaður verði notaður til að draga úr hættu á rafmagnstruflunum vegna veðurs þar.
Aftur að téðu viðtali við Guðmund Inga:
"Við fengum gríðarlegan vind og mikla ófærð, og svo hlóðst saltmengaður ís á línurnar, sem liggja með ströndinni. Á Norður- og Austurlandi var afar slæmt veður, en í raun fengum við útleysingu rafmagns um allt land. Þetta reyndi mikið á raforkukerfið. Það stóðst mjög vel á Suður- og Vesturlandi, en það sama er ekki hægt að segja um stöðuna á Norðurlandi, þar sem verulegar skemmdir urðu og á tímabili á Austurlandi."
Það gerist örsjaldan, að rafmagn fari af sunnan heiða í norðan bálviðri, og hið sama á við norðan heiða, þegar hvassviðri geisa af suðlægum áttum. Þess vegna var það enginn mælikvarði á gæði raforkukerfa á Suður- og Vesturlandi, að þau skyldu verða fyrir litlum sem engum truflunum í viku 50/2019. Þau geta hæglega hrunið í næsta suð-vestanroki, sérstaklega ef hitastigið verður þá nálægt 0°C. Það er bitur reynsla fyrir því, að jafnvel 220 kV línurnar sunnanlands loga allar í slíku veðri, en 400 kV línurnar haldast inni. Landsnet verður þá að lækka 220 kV kerfisspennuna niður úr öllu valdi, sem getur valdið skemmdum á búnaði, og dugar ekki alltaf til, svo að viðkomandi línur rofna sjálfvirkt frá (liðavernd).
Tjón hjá notendum í langvarandi straumleysi getur hæglega orðið meira en 1000-föld töpuð orkusala. Tjón Landsnets varð mikið, en mest verður alltaf tjón orkukaupendanna. Þegar stóriðjan gerir langtímasamninga, setur hún fram kröfur um gæði raforkunnar og þar með afhendingaröryggi. Oftast njóta almennir notendur góðs af því, t.d. er sú reyndin á höfuðborgarsvæðinu. Enginn er hins vegar í aðstöðu til að verja hagsmuni almennings sem raforkunotenda, nema fulltrúar hans á Alþingi.
Þingmönnum ber í störfum sínum að verja hag umbjóðenda sinna gagnvart raforkugeiranum, t.d. með lagasetningu. Það er sanngirnismál, sem þingmenn allra kjördæma ættu að geta sameinazt um, að allir íbúar landsins búi við sambærilegt afhendingaröryggi að hálfu flutningsfyrirtækisins Landsnets, a.m.k. á hæstu kerfisspennunni, sem er 220 kV. Nú stendur til að reisa nýja 220 kV línu um norðanvert landið allt frá Hvalfirði til Fljótsdals. Það er mjög til bóta fyrir rekstraröryggið, að Landsnet hefur ákveðið, að nýjar aðveitustöðvar fyrirtækisins verði innanhúss. Hins vegar hefur fyrirtækið ekki skoðað lagningu 400 kV línu, síðan Búrfellslína 3 var lögð að Lyklafelli á Sandskeiði.
Það verður aldrei hægt að tryggja landsmönnum öllum jafnan og réttlátan aðgang að stofnrafkerfi landsins, sem þeir eiga þó að jöfnu, nema beitt sé beztu fáanlegu tækni í öllum landshlutum, og hún er í þessu tilviki lína, rekin á 220 kV, en einangruð fyrir 400 kV. Það mundi strax stórbæta stöðuna, að slík lína yrði lögð frá Brennimel til Varmahlíðar um Hrútafjörð og Blöndu.
Síðan ræddi Guðmundur Ingi ástæður þess, að framkvæmdir fyrirtækisins eru alltof seint á ferðinni:
" Það er fyrst og fremst vegna þess, hversu hægt hefur gengið að fá leyfi til framkvæmda. Undanfarin 3 ár höfum við ekki getað framkvæmt nema ríflega helminginn af því, sem við höfum áætlað."
Það er ólíklegt, að Landsnet hefði verið orðið óháð gömlu 132 kV Byggðalínunni á Norðurlandi, þótt fyrirtækið hefði engu mótlæti mætt að hálfu Landverndar og landeigenda, en ófarirnar í óveðrinu 10.-12. desember 2019 hefðu ekki orðið jafnsvakalegar og raun bar vitni. Tjón og angist hefðu orðið minni.
Stjórnarráðið ber hins vegar ábyrgð á, að dráttur á drátt ofan er látinn viðgangast árum saman með þeirri afleiðingu, að allt norðanvert landið er látið reiða sig á flutningslínu, sem reist var af vanefnum, er úrelt orðin, óáreiðanleg í stórviðrum og stendur atvinnuþróun stórra byggðarlaga fyrir þrifum vegna lítillar flutningsgetu og veikburða hönnunar. Þetta er gríðarlegur áfellisdómur yfir undanförnum ríkisstjórnum og embættismönnum þeirra. Auðvitað tók Stjórnarráðið í fullkomnu ábyrgðarleysi einn "Yes, Minister" á vandamálið núna,og ríkisstjórnin skipaði toppembættismenn Stjórnarráðsins, sem sofið hafa á verðinum, til að gera tillögur um úrbætur. Ánægjulegt er hins vegar, að Alþingi glórir í, að ríkisvaldið hefur brugðizt almenningi í landinu, sem byggt hefur upp tæknivædda atvinnustarfsemi, sem reiðir sig á, að samfélagslegir innviðir rafmagns og fjarskipta séu traustir, og samþykkt einróma kröfugerð um svör við áleitnum spurningum á hendur ríkisstjórninni.
Ríkisstjórnin og embættismenn hennar hefur hátíðirnar til að hugleiða svörin, en Stjórnarráðið getur ekki frestað mikið lengur að straumlínulaga leyfisveitingaferlið, og samgönguráðherra virtist gera sér grein fyrir því, þegar ósköpin dundu yfir, að sumar framkvæmdir ættu aðeins heima undir nýrri lagasetningu um landsskipulag á forræði ríkisvaldsins. Forstjóri Landsnets virðist vera orðinn hundleiður á að starfa, bundinn í báða skó:
""Það þarf að endurskoða allt ferlið, einfalda það og hafa reglur skýrari. Síðan þarf að setja mannskap og fjármagn inn í þær stofnanir, sem um þetta fjalla." Hann nefnir umhverfismat og skipulagsmál í þessu efni."
Guðmundur Ingi nefnir hins vegar ekki þá ríkisstofnun, sem hefur eftirlit með fyrirtæki hans, en það er Orkustofnun, OS. Í Orkustofnun er farið yfir fjárfestingar- og rekstraráætlanir Landsnets, en í eftirlitsstofnuninni er engan veginn sambærileg kunnátta, fagþekking, á viðfangsefnum flutningskerfisins og hjá Landsneti. Orkustofnun er ekki í neinum færum að velja á milli tveggja eða fleiri tæknilegra kosta á grundvelli hagsmuna umbjóðendanna, almennings í landinu, til langs tíma. Þess vegna er ábyrgðarleysi fólgið í því, að OS geti skorið niður viðhaldskostnað eða fjárfestingar, sem tæknimenn Landsnets hafa lagt til í nafni rekstraröryggis, starfsmannaöryggis eða kerfisþarfa til skamms eða langs tíma.
Fjármögnun Landsnets og dreifiveitnanna er ábótavant. Þetta hefur leitt til hárra gjaldskráa. Það er ekkert vit í því, að á meðan innviðir grotna niður með gríðarlegum kostnaði fyrir notendur, skili orkuvinnslufyrirtækin gróða til eigenda sinna. Þessum gróða á að beina til Landsnets og dreifiveitnanna til að fjármagna átak til styrkingar flutningskerfisins og til að færa dreifikerfin í jörð og dreifistöðvar í hús.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.12.2019 | 11:34
Að halda hlýnun undir 2°C er ekki hægt úr þessu
Samkvæmt reiknilíkani IPCC er tómt mál úr þessu að tala um að takmarka hlýnun andrúmslofts við 1,5°C-2,0°C, eins og stefnumörkun Parísarsamkomulagsins 2015 hljóðaði upp á. Ástæðan er sú, að árlega hefur losun á heimsvísu aukizt um 1,5 % síðan þá og nemur nú 43 mrdt/ár CO2. Þá gengur hvorki né rekur að þróa viðunandi tækni við að fjarlægja koltvíildi úr andrúmsloftinu, en á næstu 80 árum þarf að fjarlægja mrdt 730 af CO2 úr andrúmsloftinu samkvæmt miðgildi útreikninga IPCC, og einnig að minnka árlega losun um 7,6 % á hverju ári, þar til nettó-losun verður engin. M.v. undirtektir á alþjóðlegri loftslagsráðstefnu í desember 2019, COP 25, næst þessi minnkun losunar ekki á næstunni.
Afköstin við að fjarlægja CO2 eru nú aðeins um 40 Mt/ár eða 0,4 % af því, sem nauðsyn er samkvæmt IPCC. Öll þessi barátta er vonlaus, eins og barátta Don Kíkóta við vindmyllurnar var á sinni tíð. Skynsamlegra er að veita fé í aðlögun að hlýnun um 3°C til viðbótar við hlýnunina frá kuldaskeiði "Litlu ísaldar" (0,8°C), t.d. með því að búa innviði landsins undir meiri öfgar í veðurfari, sem okkur er sagt, að búast megi við. Forsætisráðherra sagði á Alþingi 17.12.2019, að búast mætti við óveðri eins því, sem hrjáði norðanvert landið 10.-12. desember 2019, á 10 ára fresti.
Samkvæmt þekktum lotubundnum hitastigssveiflum á jörðunni mun samt e.t.v. á þessu árþúsundi kólna aftur mun meir en þessari hlýnun nemur. Til lengri tíma verður þá kuldinn skæðari óvinur lífs á norðurhveli en hitinn.
Morgunblaðið hefur gert góða grein fyrir straumum og stefnum í loftslagsmálum, og þann 27. nóvember 2019 flutti það frétt undir ískyggilegri fyrirsögn:
"Losunin eykst enn og nú stefnir í 3,2 stiga hlýnun":
"Ríki heims missa af tækifærinu til að koma í veg fyrir mjög alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga, ef ekki verður gripið til tafarlausra aðgerða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda að því, er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisverndarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP.
Stofnunin segir, að losun gróðurhúsalofttegunda þurfi að minnka um 7,6 % að meðaltali á hverju ári til 2030 til að koma í veg fyrir, að hlýnun jarðar verði meiri en 1,5°C m.v. áætlaðan hita á jörðinni fyrir iðnbyltinguna. Sú blákalda staðreynd blasi hins vegar við, að losunin hafi aukizt að meðaltali um 1,5 % á ári á síðustu 10 árum."
Af viðbrögðum þjóða heims við ákalli UNEP má ráða, að ekki sé tekið fullt mark á þeirri stofnun, eða aðrir hagsmunir þjóðanna vega þyngra. Hvað þýðir það á heimsvísu að draga úr losun CO2 um 7,6 %/ár ? Það jafngildir 3,3 mrdt/ár CO2 (3,3 milljörðum tonna á ári) eða bruna um 1 mrdt af kolum. Þetta nemur um 13 % af kolabruna á heimsvísu. Í ljósi þess, að kolabrennsla á heimsvísu jókst um 0,9 % árið 2018 (um 70 Mt), er algerlega óraunhæft að búast við nokkrum samdrætti á næstu 5-10 árum í námunda við það, sem UNEP telur nauðsynlegt til að halda hlýnun innan 2°C.
"Umhverfisverndarstofnun SÞ segir, að jafnvel þegar loforð aðildarríkja samningsins séu tekin með í reikninginn, stefni í, að hlýnunin verði 3,2°C. Vísindamenn hafa sagt, að svo mikil hlýnun hafi mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðir heims. Stofnunin sagði, að þótt horfurnar væru slæmar, teldi hún enn mögulegt að ná því markmiði, að hlýnunin yrði ekki meiri en 1,5°C, en viðurkenndi, að til þess þyrfti að gera fordæmalausar breytingar á hagkerfi heimsins, sem byggðist enn að miklu leyti á notkun olíu og jarðgass."
Þetta er skrýtinn texti, þar sem versta mengunarvaldinum, kolunum, er sleppt. Að hjá Umhverfisstofnun SÞ skuli enn vera talið, að unnt sé að halda hlýnun undir 2°C m.v. 1850, bendir til, að þar á bæ treysti menn ekki hlýnunarlíkani IPCC, sem reist er á áhrifum gróðurhúsalofttegundanna á hitastig lofthjúpsins.
Ari Trausti Guðmundsson, Alþingismaður, hefur tjáð sig um loftslagsmál og gerði það t.d. í Morgunblaðinu 11. nóvember 2019 í grein sinni:
"Olía og gas - nei, enn einu sinni".
Hún hófst þannig:
"Til þess að ná því mikilvæga markmiði að halda aftur af hlýnun loftslagsins og jafnvel snúa þróuninni þarf að ríghalda í ákveðið markmið: Aðeins má vinna og nota 30 %-40 % þekktra birgða í jörð af kolum, olíu og gasi. Um þetta er þarflaust að deila."
Þetta er engin röksemdafærsla hjá þingmanninum, sem slær þarna fram fullyrðingu, sem honum væri í lófa lagið að sanna á grundvelli kenninga IPCC. Hvers vegna er þarflaust að deila um það, að ekki megi brenna meiru en 30 % -40 % af þekktum birgðum kola, olíu og jarðgass ? Þessi framsetning hangir í lausu lofti hjá þingmanninum.
Þekktar birgðir þessa eldsneytis eru u.þ.b. 1500 mrdt olíujafngildi, sem myndu gefa frá sér meira en 4600 mrdt koltvíildi við bruna. Þriðjungurinn nemur um 1500 mrdt CO2 út í andrúmsloftið. Það eru 35 ár með núverandi losun og tvöfalt gildið, sem IPCC telur, að draga þurfi út úr andrúmsloftinu til næstu aldamóta til að halda hlýnun innan 2°C markanna frá 1850 eða hækkun um 1,2°C frá núverandi meðalhitastigi andrúmslofts jarðar.
Ef Ari Trausti Guðmundsson heldur, að óhætt sé að brenna svona miklu jarðefnaldsneyti, þá er hægt að álykta, að hann telji líkan IPCC ofáætla stórlega hlýnun andrúmslofts af völdum koltvíildis. Það gætir víða tvískinnungs í þessari lofthjúpsumræðu.
Á grundvelli þess, sem hér hefur verið tínt til um forða jarðefnaeldsneytis, en ekki á grundvelli greinar Ara Trausta, er þó hægt að samþykkja meginboðskapinn í grein hans, sem er þessi:
"Íslendingar eiga að hafna því að opna á mögulega vinnslu olíu og gass við Jan Mayen. Gildir einu, þótt hagnast megi á henni."
Það eru bæði siðferðileg, pólitísk, umhverfisleg og efnahagsleg rök, sem mæla með þessari höfnun. Með því leggjum við okkar litla lóð (max mrdt 10 (6 % af ol.)af áætluðum forða 168 mrdt af olíu og 200 mrdt af gasi) á vogarskálar þess, að stigið verði á bremsur nýtingar þekkts olíu- og gasforða með þróun kolefnisfrírra orkugjafa, við tökum mjög sjaldgæft skref á meðal ríkja, sem ráða yfir lindum jarðefnaeldsneytis, við tökum ekki áhættu af mengunarslysi af eldsneytisvinnslu í íslenzkri efnahagslögsögu, og við tökum enga fjárhagsáhættu vegna uppbyggingar dýrra innviða vegna vinnslu, sem kannski verður aldrei arðsöm. Fyrir arðsemi þarf olíuverð sennilega að fara yfir 80 USD/tu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
14.12.2019 | 15:22
Orkan, loftslagið og framlag Íslendinga
Orkumál heimsins eru samofin aukningu koltvíildis í andrúmsloftinu, af því að rúmlega fjórðungur árlegrar losunar, sem nú nemur 43 mrdt CO2/ár, myndast við raforkuvinnslu eða rúmlega 11 mrdt CO2/ár, og losun vegna umferðar í lofti, á láði og á legi er líklega svipuð. Hinn helmingurinn kemur frá framleiðslutengdri starfsemi, stálvinnslu, sementframleiðslu, álvinnslu frá báxíti til áls, landbúnaði o.fl. Til samanburðar myndar bruni jarðolíu um þessar mundir um 15 mrdt/ár CO2.
Þjóðir heims hafa flestar staðfest s.k. Parísarsamkomulag um að draga úr losun CO2-jafngilda (a.m.k. 6 aðrar gastegundir eru sterkar gróðurhúsalofttegundir, og er CH4 (metan) þeirra algengust), svo að losun þeirra verði í mesta lagi 60 % árið 2030 af losuninni árið 1990. M.v. viðbrögð þjóða heims frá staðfestingu fulltrúa þeirra á Parísarsamkomulaginu 2016, en losun margra þeirra eykst enn, er borin von að ná þessu markmiði í heild.
Parísarsamkomulagið er án viðurlaga við að standa ekki við skuldbindingarnar og er að því leytinu til með sams konar ágalla og Kyoto-samkomulagið. Frá Austur-Asíulöndunum kemur meira en helmingur heildarlosunar, svo að allt veltur á, hvernig þar tekst til. Þar er misjafn sauður í mörgu fé, og losun þar eykst enn, þótt aðallosarinn, Kína, hafi sýnt lit um tíma.
Hingað til hafa þjóðir farið í aðgerðir til að draga úr losun CO2, sem þær telja sig sjálfar hafa ávinning af. Ábyrgðartilfinning gagnvart gróðurhúsaáhrifum losunar er ekki mikil. Þar vegur þyngst hin heilsufarslega nauðsyn á að draga úr mengun, t.d. loftmengun í stórborgum, súrt regn og mengun grunnvatns.
Fáir eru í jafnhagstæðri stöðu og Íslendingar að geta undið sér í orkuskiptin með því að virkja sjálfbærar orkulindir og spara fé með því að leysa olíuvörurnar af hólmi með rafmagni, metani og repjuolíu, svo að eitthvað sé nefnt. Nú er eitt norðanskot hins vegar búið að svipta hulunni af þeirri voveiflegu staðreynd, að flutningskerfi Landsnets er reist á brauðfótum og á öllu norðanverðu landinu stenzt það ekki norðanáhlaup. Við þær aðstæður er fullkomið óráð að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með rafmagni.
Evrópa, vestan Rússlands, með fáeinum undantekningum, aðallega Noregi, eru háð löngum aðdráttum orku á formi jarðefnaeldsneytis. Þetta er ógn við þjóðaröryggi til lengdar og kostar mikil gjaldeyrisútlát, því að þessi orkuviðskipti eru í USD. Það er þess vegna eftir miklu að slægjast að þróa raforkuvinnslu úr mengunarlitlum og kolefnisfríum orkulindum. Þar stendur samt hnífurinn enn í kúnni, því að meginland Evrópu, nema Frakkar, vill ekki kjarnorku og hefur fjárfest gríðarlega í vindmyllum og sólarhlöðum með tiltölulega litlum árangri. Þegar eitthvað bjátar að veðri, eru þessir orkugjafar hins vegar fullkomlega gagnslausir, og allar virkjanir eru það, ef flutnings- og dreifikerfi landsins þola ekki aðstæður, sem orðið geta og orðið hafa í ólíkum landshlutum á hverjum áratugi frá rafvæðingu landsins, en afleiðingarnar eru hins vegar miklu verri í tæknivæddu nútímaþjóðfélagi. (Það er t.d. ekki nóg að plægja í jörðu ljósleiðara um allt land, ef enginn hugsar út í þörf varaafls fyrir tengistöðvarnar.)
Hingað til hafa Evrópuþjóðirnar ekki þróað raunhæfan valkost við kolaorkuverin, sem hvert um sig er iðulega um 1 GW (1000 MW) að afkastagetu og geta verið stöðugt í rekstri með árlegum viðhaldshléum. Vindmyllur eru yfirleitt nú um 5 MW og ganga slitrótt og framleiða aðeins um 28 % af fullri vinnslugetu sinni yfir árið á heimsvísu. Á vindasömum svæðum, t.d. í Noregi, á Íslandi og í Færeyjum, getur nýtingin þó farið yfir 40 %. Af þessum sökum þarf mjög margar vindmyllur í orkuskiptin, en uppsett afl þeirra í heiminum er yfir 350 GW, og til samanburðar er uppsett afl vatnsorkuvera um 990 GW og jarðgufuvera um 11 GW.
Nú hefur þing Evrópusambandsins (ESB) lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, sem hlýtur að ýta mjög á orkuskiptin þar á bæ. Þar hefur t.d. hægt mjög á uppsetningu nýrra vindmyllna vegna mótmæla íbúanna, sem verða fyrir skertum lífsgæðum þeirra vegna, og þær eru skaðræði fyrir fuglalífið. Mótmæli gegn nýjum kolefnislausum virkjunum mætti væntanlega berja niður með harðri hendi á grundvelli þessa yfirlýsta neyðarástands. Hér glepst Alþingi vonandi ekki á því að setja slíka löggjöf, en það verður að einfalda lykilframkvæmdaaðila orkustefnunnar störf sín með lagasetningu um að fella framkvæmdir við meginflutningskerfi raforku (tenging á milli landshluta) undir lög um landsskipulag. Samgönguráðherra hefur lýst yfir skilningi á þessu í ljósi óverjandi tafa á nýrri 220 kV línu frá Brennimel norðan Hvalfjarðar um Vestur-, Norður- og Austurland, að Fljótsdalsvirkjun.
Sama (og um vindorkuverin) er að segja af miklum samtengiáformum Framkvæmdastjórnar ESB á milli raforkukerfa álfunnar. Þau hafa á síðustu misserum sætt aukinni gagnrýni vegna fyrirferðarmikillar ásýndar, svo að ekki sé nú minnzt á almenning í Noregi og á Íslandi, sem óttast afleiðingar þess fyrir ásýnd landsins og fyrir verðlag orkunnar heima fyrir að senda stóran hluta afurða orkulindanna utan með sæstreng, en núverandi ástand flutningskerfa Landsnets krefst hins vegar tafarlausra úrbóta fyrir hag og velferð landsmanna sjálfra.
Þessi neyðarástandsyfirlýsing getur valdið því, að tryppin verði harðar rekin frá Brüssel við öflun verðmætrar kolefnisfrírrar orku frá Norðurlöndunum til að fylla í skörð vindmyllurekstrarins. Með slíka orku í handraðanum að norðan þarf ekki lengur að brenna jafnmiklu jarðgasi á álagstímum, þegar vind lægir í stórum vindmyllugörðum Evrópu. Við eigum að sameinast í andstöðu við að tengja Ísland slíkum áformum.
Á Íslandi vill svo til, að lunginn af orkuskiptunum átti sér stað á tímabilinu 1940-1990, þegar kol, koks, gas og olía voru að mestu leyti leyst af hólmi fyrir eldamennsku og upphitun húsnæðis. Þetta var gert af öryggis- og fjárhagsástæðum, og bætt loftgæði voru viðbótarkostur, en hugtakið gróðurhúsaáhrif var þá ekki til, nema á meðal vissra vísindamanna. Í lok þessa tímabils hófst hagnýting jarðgufu til raforkuvinnslu, en til að sjá, hversu mikla þýðingu hagnýting jarðhitans hefur fyrir orkubúskap Íslendinga, er eftirfarandi yfirlit áhugavert. Þar er sýnd orkunotkun landsmanna í PJ (PetaJoule) ásamt hlutfalli hvers þáttar af heild árið 2016. Við olíuvörur hefur verið bætt keyptu eldsneyti hérlendis á millilandaflugvélar og -skip, sem nemur 21,8 PJ, sem er 59 % af öðru eldsneyti og hefur aukizt síðan:
- Vatnsorka 48,5 PJ = 18,5 %
- Jarðhiti 149,2 PJ = 57,1 %
- Olíuvörur 59,0 PJ = 22,6 %
- Kol 4,8 PJ = 1,8 %
- _____________________________
- Alls 261,5 PJ = 100 %
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.12.2019 | 15:14
Gefið hefur á bátinn, en áfram siglir hann þó
Nú eru rúmlega 7000 manns á atvinnuleysisskrá eða um 4 % af vinnuaflinu og enn hærra hlutfall af starfsmannafjölda einkageirans, en atvinnuleysingjar koma að langmestu leyti þaðan. Svo margir hafa ekki verið án atvinnu hérlendis síðan 2012, sem vitnar um aðlögun atvinnulífsins að tekjutapi og hækkandi kostnaði, þótt verðbólga sé blessunarlega lág.
Allir höfuðatvinnuvegirnir eiga við erfiðleika að stríða, en mismikla. Meðalhagvöxtur heimsins fer minnkandi og er rétt ofan við núllið í Evrópu. Bloomberg metur líkur á samdrætti í stærsta hagkerfi heims á tímabilinu desember 2019-nóvember 2020 vera 26 % og lækkandi, þrátt fyrir íþyngjandi tollastríð Bandaríkjanna (BNA) og Kína. Bandaríkjaforseti skekur enn tollavopnið, en hann virðist halda, að hægt sé að beita því "to make America great again", en Bandaríkjamenn finna þegar á eigin skinni, að tollavopnið virkar sem bjúgverpill.
Stærsta atvinnugreinin á Íslandi, ferðaþjónustan, hefur orðið harðast úti 2019, þrátt fyrir stöðugt vaxandi áhuga ferðamanna hvaðanæva að úr heiminum fyrir norðurslóðum, þökk sé loftslagsumræðunni og myndum af bráðnandi ísbreiðum. Noregur nýtur þessa vaxtar enn, enda er gjaldmiðill þessarar jarðolíu- og -gasþjóðar búinn að vera ótrúlega veikur allt styrkingartímabil ISK. Er það til merkis um ruðningsáhrif olíu- og gasvinnslu Norðmanna í atvinnulífi þeirra.
Ferðaþjónusta er vinnuaflsfrek, var komin yfir 30 k manns áður en hallaði undan fæti 2018. Þess vegna má ætla, að ferðaþjónustan hafi orðið ósamkeppnishæf 2018 og að enn hafi hallað undan fæti við gerð "Lífskjarasamninganna" 2019, því að greinin er dæmigerð lágtekjugrein, og mestar urðu launahækkanirnar á meðal lágtekjufólks. Áætlanir Isavia um farþegafjölgun og þörf á stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar virðast nú hafa verið reistar á sandi. Höfundar þeirra hafa flaskað á mótvægi gjaldmiðilsins ISK við öfgum. ISK rís við "óeðlilega" hratt flæði gjaldeyris inn í landið, þar til útflutningsgreinarnar, þ.m.t. ferðamennskan, verða ósamkeppnisfærar. Með sama hætti fellur ISK við mótlæti og gerir útflutningsgreinarnar aftur samkeppnishæfar. Þetta ferli er þó þyrnum stráð, því að af hljótast verðhækkanir á innflutningi og yfirleitt verðbólga. Á meðan meðan viðskiptajöfnuðurinn er jákvæður, eins og nú, verður þó ekki djúp dýfa.
Fall VOW air varð bæði af of lágum tekjum og of miklum kostnaði. Fækkun ferðamanna í kjölfarið dró úr vinnu innanlands, en tekjur af ferðamönnum lækkuðu samt ekki, því að tekjur af hverjum ferðamanni hækkaði í gjaldeyri og í ISK, sem er merkileg og jákvæð þróun. Nú horfir illa með spurn eftir ferðaþjónustu í vetur, einkum utan höfuðborgarsvæðisins. Einkum fækkar ferðamönnum frá Bandaríkjunum (BNA) og EES-löndunum. Aukning frá Asíu gæti vegið þetta fall upp með tímanum, því að Kínverjar fjölmenna nú til Evrópu. Fljúga þeir beint, m.a. frá Sjanghæ til Helsinki í Finnlandi, og hafa nú tilkynnt áframhaldandi flug þaðan til Keflavíkurflugvallar í vetur. Þarna er komin nýrík miðstétt Kína, sem telur 300-400 k manns, og heimsviðskiptakerfi auðhyggjunnar hefur með samþykki kínverska kommúnistaflokksins lyft úr örbirgð til bjargálna.
Nýtt millilandaflugfél er í undirbúningi hérlendis, en hingað til virðist ekki hafa verið rekstrargrundvöllur fyrir tveimur slíkum flugfélögum hérlendis, enda eru nú um 25 flugfélög, sem keppa á flugleiðum til Íslands. SAS hefur t.d. tilkynnt um áform um reglubundnar ferðir til Keflavíkurflugvallar. Gleðilegt er, að hlutabréfaverð Icelandair er nú að jafna sig eftir áföll þessa árs. Munu evrópsk flugmálayfirvöld leyfa notkun Boeing 737 MAX á fyrsta ársfjórðungi 2020 ? Það er enn á huldu og skiptir marga gríðarlegu máli.
Flugvallarmálin eru í deiglunni hér og víðar. Samgönguráðherra landsins kynnti nýlega sérfræðingaskýrslu "stýrihóps" undir formennsku Eyjólfs Árna Rafnssonar, verkfræðings og formanns Samtaka atvinnurekenda, um flugvallarvalkosti á SV-landi. Hópurinn kvaddi erlenda flugvallarsérfræðinga sér til ráðuneytis. Samgönguráðherra ætlar í kjölfarið að fá fé í rannsóknir á flugvallarskilyrðum í Hvassahrauni og gerði samkomulag við borgarstjóra um áframhaldandi tvær flugbrautir í Vatnsmýri í 15 ár hið minnsta. Fremja á skemmriskírnar rannsóknir á umhverfi (vatnsvernd) og veðurfari í Hvassahrauni. Er það gagnrýnt, að ekki sé ætlunin að fylgja alþjóðlegum stöðlum um tímabil nákvæmra rannsókna á veðurfari á hugsanlegu flugvallarstæði (minnst 4 ár). Millilandaflugvöllur og innanlandsflugvöllur í Hvassahrauni eru sagðir munu kosta samtals mrdISK 300, en innanlandsflugvöllur einn og sér mrdISK 44. Mun ódýrara er þó að fjárfesta í Vatnsmýrarvellinum til notkunar fyrir einkaflug, kennsluflug, sjúkraflug og áætlunarflug innanlands og til Færeyja ásamt því að nota hann sem varaflugvöll fyrir millilandaflugið. Það má þróa Vatnsmýrarvöllinn með lengingu flugbrautar út í sjó. Veðurfarslega er þetta flugvallarstæði líklega hið bezta á landinu, og því má ekki fórna frekar en orðið er á altari lóðaviðskipta undir íbúðir. Slíkt væri aðeins verjanlegt, ef hörgull væri á byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu, sem er alls ekki.
Það er sömuleiðis mun ódýrara en Hvassahraunsvöllur að fjárfesta á Keflavíkurflugvelli til að gera hann hæfan fyrir afgreiðslu allt að 20 M farþega á ári, sem hann er talinn geta annað með nauðsynlegum fjárfestingum. Það hillir ekkert undir, að glíma þurfi þar við þann farþegafjölda, því að áætlanir Isavia hafa reynzt vera alveg út úr kortinu. Það er heldur ekki skynsamlegt að fjárfesta í öðrum flugvelli á sama eldvirka svæðinu, og öruggari kostur að fjárfesta í flugvelli utan eldvirkra svæða, ef/þegar hillir undir, að núverandi flugvellir á SV-horninu verði fulllestaðir. Sá flugvöllur, sem verður fyrir valinu þá, þarf jafnframt að þjóna sem heppilegur varafluvöllur fyrir hina. Isavia hefur nú tilkynnt um fjárveitingar til fyrirhugaðs viðhalds og fjárfestinga í endurbótum á Egilsstaðaflugvelli sem varaflugvelli Keflavíkurflugvallar, sem staðið geti undir nafni. Í kjölfarið getur þá þróazt beint flug erlendis frá til Egilsstaða.
Miðað við þá gríðarlegu fjárþörf, sem er í framtíðar samgöngukerfi með framkvæmdum á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllum, jarðgöngum, brúargerð, fjölgun akreina, mislægum gatnamótum og stígagerð fyrir gangandi og hjólandi, er engan veginn verjanlegt að hefja framkvæmdir við langdýrasta flugvallarkostinn, sem er jafnframt illa staðsettur og óþarfur.
Þá að sjávarútvegi: veiði villtra botnfiska fer minnkandi í heiminum, en fer vaxandi á Íslandi, og á næsta ári er spáð um 10 kt aukningu m.v. 2019. Jafnframt er spáð um 17 % heildaraukningu á veiðum íslenzkra skipa á næsta ári. Þá er spáð um 23 % aukningu í vinnslu og útflutningi eldisfisks á Íslandi, og getur sú vinnsla þrefaldazt á einum áratugi að magni. Þokkalegt verð er fyrir afurðirnar, enda eru matvælamarkaðir hvorki næmir fyrir hagsveiflum né sveiflum á hrávörumörkuðum, svo að framtíð sjávarútvegs og fiskeldis á Íslandi virðist björt, og skjóta þessar greinar æ traustari stoðum undir hagstæðan viðskiptajöfnuð, sem er ein af undirstöðum trausts gengis, lágrar verðbólgu og velmegunar í landinu. Vaxandi próteinskortur er í heiminum, sem íslenzkir matvælaframleiðendur geta og eru að nýta sér. Laxeldið er sérlega efnilegt í þessu sambandi, hefur þegar bætt hlut Vestfirðinga og hefur vaxtarstyrk, sem duga mun Vestfirðingum til uppbyggingar fjölbreyttra atvinnuhátta og mikillar velmegunar. Atvinnusaga Vestfjarða er glæst, og nú eru forsendur fyrir nýju blómaskeiði þar fyrir hendi. Athyglisvert er, að aftur knýr norsk þekking og fjármagn þessa þróun áfram.
Jákvætt er, að nú stefnir í meiri viðskiptaafgang við útlönd en í fyrra, og staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum hefur aldrei verið betri í eignalegu tilliti. Þessi tíðindi styrktu gengi ISK um 3 % í byrjun desember 2019, og við það situr enn.
Fiskveiðistjórnunarkerfið er lífseigt umræðuefni hérlendis, og tilefni þótti til að endurlífga þá umræðu í kjölfar umfjöllunar Kveiks/RÚV um starfsemi Samherja í Namibíu, en Samherji virðist hafa komið til skjalanna sem samstarfsaðili namibískra stjórnvalda í sjávarútvegi í kjölfar brottvísunar suður-afrískra útgerða frá Namibíu 2011, en ferill Suður-Afríkumanna í Namibíu er ekki til fyrirmyndar, svo að vægt sé til orða tekið, heldur virðast þeir hafa verið í hlutverki nýlenduherra þar. Vart er að efa, að þeir sækja aftur á sömu mið og þurfa þá að hrekja þá brott, sem Namibíumenn kusu heldur að starfa með. Er þetta sýnidæmi um það, að hollast er nýfrjálsum þjóðum að taka stjórn auðlinda sinna í eigin hendur sem allra fyrst. Frá fullveldi Íslendinga liðu 58 ár, þar til þeir öðluðust óskoraðan yfirráðarátt yfir 200 sjómílna lögsögu sinni. Nú eru 59 ár liðin frá því, að þessi fyrrum þýzka nýlenda öðlaðist sjálfstæði. Á þessu ári hafa þeir atburðir orðið á Íslandi, að löggjöf Evrópusambandsins um milliríkjaviðskipti með rafmagn hefur verið leidd í íslenzk lög. Þótti ýmsum hérlandsmönnum það of áhættusamur gjörningur, en framtíðin mun skera úr um það, hvort fullveldisrétti landsmanna yfir orkulindunum verður með þeim gjörningi og síðari gjörningum í orkusviðinu stefnt í tvísýnu.
Ekki er að efa, að hatrömm barátta stendur yfir um náttúruauðlindir í Namibíu, og gengur ýmislegt á, á meðan Namibíuþjóðin öðlast stjórn á þeim, en langt er í land með að dreifa arði auðlinda til almennings þar í landi. Svo virðist sem Samherji hafi lent í skotlínu hatrammra átaka á milli hinnar nýfrjálsu Namibíu og drottnaranna í Suður-Afríku, þar sem Namibíumenn hafa fengið Samherja til að hjálpa sér við auðlindanýtinguna í kjölfar brottrekstrar Suður-Afríkumanna. Í þessu sambandi ber að spyrja spurningar Rómverja: "cuo bono"-hverjum í hag ? Stöðvun starfsemi Samherja í Namibíu opnar e.t.v. Suður-Afríkumönnum aftur leiðina að sjávarauðlind Namibíumanna. Það er ekki allt sem sýnist.
Á Íslandi hefur betur tekizt til, enda veiðar og vinnsla í höndum landsmanna sjálfra, sem er nauðsynlegt og nægjanlegt skilyrði fyrir því, að náttúruauðlindanýtingin gagnist þjóðinni sem heild, ef réttum leikreglum er fylgt og eftirlitsaðilar vinna vinnuna sína.
Deilt er um kvótaþakið, þ.e. hámarksaflahlutdeild á tegund hjá hverju fyrirtæki. Hún er hér 12 %, en í Noregi er hún tvöfalt hærri. Íslenzku fyrirtækin eru í harðri samkeppni við mun stærri norsk fyrirtæki, og verði kvótaþakið lækkað hérlendis, mun framleiðni íslenzku fyrirtækjanna minnka, sem er ávísun á það að verða undir á alþjóðlegum mörkuðum, og það mun þýða veikingu ISK og lakari lífskjör á Íslandi. Stjórnmálamenn verða að huga vel að gjörðum sínum varðandi fyrirtæki í grimmri alþjóðlegri samkeppni og varast fljótræðislegar aðgerðir til að þóknast hávaðaseggjum. Með því að komast inn á og halda stöðu sinni á bezt borgandi mörkuðunum, fæst hæsta mögulega verð fyrir sjávarauðlind landsmanna, sem seytlar um allt hagkerfið. Það er einmitt það, sem gerzt hefur.
Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, upplýsir Gunnlaug Snæ Ólafsson á 200 mílum Morgunblaðsins, eins og birtist 04.12.2019, um vísitöluþróun magns og verðmæta í sjávarútvegi tímabilið 1999-2019. M.v. við vísitölu hvors tveggja 100 í byrjun, er hún 101 í lokin fyrir magnið (t) og 163 fyrir verðmætin í erlendri mynt.
"Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, segir það ekki einungis framboð og eftirspurn á mörkuðum, sem ýti undir hærra verð fyrir afurðirnar, heldur geti verð einnig hækkað vegna aukinna gæða. Þessi auknu gæði má m.a. rekja til fjárfestinga í hátæknilausnum, sem gera það að verkum, að meira fæst fyrir þann fisk, sem veiddur er. "Þrátt fyrir að útflutningur sjávarafurða sé að dragast saman að magni til, sem má einna helzt rekja til loðnubrests, er lítilsháttar aukning í útflutningsverðmætum sjávarafurða á föstu gengi á fyrstu 10 mánuðum ársins. Kemur það til af hagstæðri verðþróun sjávarafurða undanfarin misseri. Sem endranær er ekkert gefið í þessum efnum, en þar gegnir fjárfesting í nýsköpun og tækni lykilhlutverki sem og markaðssetning afurðanna erlendis, þar sem hörð samkeppni ríkir", útskýrir Ásta Björk."
Auðlindanýting íslenzkra fiskimiða getur varla fengið betri umsögn en þessa, og hún er beztu meðmæli, sem íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið getur fengið. Það er einfaldlega ekkert betra kerfi þekkt fyrir þessa auðlindanýtingu. Ef auðlindagjaldið hefði verið haft hærra, hefðu fjárfestingarnar óhjákvæmilega orðið minni, og að sama skapi hefði verðmætasköpunin fyrir samfélagið orðið minni. Það hefði verið afar óskynsamleg ráðstöfun.
Hugmyndin um veiðileyfagjaldið er reist á auðlindarentu, sem hefur gengið erfiðlega að sýna fram á. Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrekur, og arður af fjármagni þar er ekki hærri en í mörgum öðrum greinum. Honum er nauðsyn á að hafa bolmagn til fjárfestinga. Þær hafa skilað sér í svo miklum eldsneytissparnaði, að sjávarútveginum mun fyrirsjáanlega takast að ná losunarmarkmiðum koltvíildis 2030 um 40 % minnkun frá 1990. Þær hafa líka skilað honum framleiðniaukningu, sem hafa gert honum kleift að greiða góð laun og að standast alþjóðlega samkeppni fram að þessu.
Sjávarútvegurinn er í samkeppni um fjármagn og fólk hér innanlands og á í samkeppni við allar fiskveiðiþjóðir Evrópu, Kínverja og Kanadamenn, á hinum kröfuharða evrópska markaði og víðar. Nefna má fiskútflytjendur á borð við Norðmenn og Rússa. Engin þessara fiskveiðiþjóða, nema Færeyingar, leggja veiðileyfagjald á sinn sjávarútveg, en nokkrar hafa gefizt upp á því, t.d. Rússar, sem gáfust upp á sínu uppboðskerfi, því að útvegurinn var við að lognast út af undir því kerfi. Þvert á móti nýtur sjávarútvegur yfirleitt fjárhagslegra hlunninda eða fjárstuðnings úr hendi opinberra aðila í sínu landi í nafni fæðuöryggis, auðlindanýtingar og byggðastefnu. Við þessar aðstæður er vandasamt að leggja auðlindagjald á íslenzkan sjávarútveg, og stjórnmálamenn og embættismenn geta hæglega gert herfileg mistök, sem vængstífa atvinnugreinina og gera hana ósamkeppnishæfa. Ekki er að spyrja að því, að þá mun verðmætasköpunin koðna niður.
Lengst allra í vitleysunni ganga þeir, sem halda því fram, að leiguverð kvóta endurspegli markaðsverð á endurgjaldi til ríkisins fyrir aðgang að auðlindinni. Leiguverð á bolfiski mun vera yfir 200 ISK/kg og er jaðarverð, sem leigutakinn telur sér hagfellt vegna lágs kostnaðar við að afla viðbótarafla, og eftir atvikum að verka hann og fullvinna. Ef ríkið mundi innheimta þessa upphæð sem auðlindagjald, jafngilti það þjóðnýtingu, og enginn myndi hafa hug á að draga bein úr sjó. Við sætum uppi með ríkisútgerð og bæjarútgerðir með stjórnmálamenn og embættismenn við stjórnvölinn, sem hvorki hafa vit á né áhuga á útgerð, og öll þjóðin myndi stórtapa, af því að þá væri náttúruauðlindin hennar í tröllahöndum getuleysins, sem er ekkert skárra fyrir hana en arðrán útlendinga á sjávarauðlind landsmanna fyrr á tíð. Hvort tveggja leiðir til fátæktar.
Fiskveiðistjórnunarlöggjöfin tryggir ríkisvaldinu óskoraðan rétt til að stjórna auðlindanýtingunni innan efnahagslögsögunnar. Þetta er gott fyrirkomulag, á meðan við völd eru stjórnmálamenn, sem vilja leggja beztu vísindalegu þekkingu til grundvallar hámarksnýtingu nytjastofnanna til langs tíma. Því fer fjarri, að einhugur sé um slíkt í Evrópu, hvað þá annars staðar. Þetta kemur fram við skiptingu flökkustofna. Hún er í ólestri, og niðurstaðan er ofveiði, af því að Evrópusambandið (ESB), Noregur og Færeyjar, hafa myndað skúrkabandalag gegn Íslendingum, Grænlendingum og Rússum. Þegar Bretar hafa gengið úr ESB, geta þeir annaðhvort magnað vandann með því að ganga í skúrkabandalagið, eða þeir geta beitt áhrifum sínum til að kalla alla þessa aðila að samningaborðinu, þar sem tekizt verður á um skiptinguna með tiltækum rökum.
Þriðja undirstaða hagkerfisins, útflutningsiðnaðurinn, má muna sinn fífil fegri, því að verð á málmmörkuðum hefur verið lágt undanfarin ár. Á sama tíma hefur tilkostnaður hans hækkað mjög, hráefni, starfsmannahald og orka. Viðskiptastríð BNA við Kína og ESB hefur orðið til bölvunar, keyrt Evrópu í stöðnun (Þýzkaland í samdrátt), minnkað hagvöxt Kína í 6 % og Bandaríkjunum sjálfum er aðeins spáð 2 % hagvexti 2020. Íslenzkur hátækniiðnaður, sem að miklu leyti er afsprengi sjávarútvegs og málmiðnaðarins, hefur þó dafnað vel og næstum tvöfaldað útflutningsverðmæti sín 2019 m.v. við 2018.
Kraftgjafi iðnaðarins og almennt góðra lífskjara er lágur raforkukostnaður á kWh að flutningi, dreifingu og sköttum meðtöldum. Í þessum efnum hefur sigið á ógæfuhliðina hérlendis með innleiðingu ESB-regluverks, sem á ekki við hér. Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna. Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregizt á langinn að hefja nýjar virkjanir. Frá iðnaðarráðuneytinu kemur engin leiðsögn út úr þessum ógöngum, heldur vitleysa á borð við það, að samkeppni á milli fyrirtækja (á örmarkaði) tryggi hag neytenda. Þar er étinn upp áróður að utan. Íslendingar eru orðnir bundnir í báða skó á raforkusviðinu vegna innleiðingar þvingandi löggjafar frá Evrópusambandinu, sem hentar landinu engan veginn. Reyna þarf að sníða af þessu kerfi vankantana m.v. íslenzkar aðstæður í samráði við ESB eða leita eftir annars konar samstarfi á viðskipta-, vísinda- og menningarsviðinu. Þegar stærsta orkufyrirtæki landsins, sem jafnframt er að fullu í ríkiseign, telur hagsmunum sínum og eigandans betur borgið með því að láta vatn renna framhjá virkjunum en að selja málmframleiðanda, sem vantar 10 MW, afl og orku á samkeppnishæfu verði, þá er maðkur í mysunni og sýnilega vitlaust gefið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)