Færsluflokkur: Bloggar
26.9.2020 | 13:48
Tækifærin í hrönnum, en doðinn veldur stöðnun
Hagkerfi Íslands, eins og annarra landa, er mjög illa leikið eftir "Wuhan-veiruna", sem þó er ofmetnasta veira, hvað hættu áhrærir, sem um getur. Þótt hún hafi verið viðkvæmum skeinuhætt, er samt barnaleikur að eiga við hana í samanburði við það, sem skotið getur upp kollinum veirukyns, og nægir að nefna hina skelfilegu ebólu, sem olli mörgum fjörtjóni í Vestur-Afríku fyrir nokkrum árum og var með 10-100 sinnum hærra dánarhlutfall sýktra en SARS-CoV-2-veiran, sem fyrst varð vart við í Wuhan-borg í Kína, svo að vitað sé, í nóvember-desember 2019.
Fjármála- og efnahagsráðherra Íslands hefur sagt, að rétta leiðin út úr kreppunni sé að auka tekjur þjóðarbúsins, auka gjaldeyristekjur og verga landsframleiðslu. Undir þetta er hægt að taka, en vandinn og e.t.v. vonbrigðin eru þau, að ríkisvaldið skuli ekki liðka til fyrir einkaframtakinu, þar sem það liggur beint við og er ríkinu útlátalítið, á heildina litið.
Áliðnaðurinn er einn af þeim geirum, sem býður upp á þetta, þótt það stingi í stúf við ýmsar fréttir að undanförnu. Álverðið hefur verið að braggast, og vaxandi skilningur er á því á Innri markaði EES, að sanngjarnt og umhverfislega æskilegt á heimsvísu sé að tollleggja vöru með hliðsjón af kolefnisspori hennar. Er þá ekki að orðlengja, að staða álvera á Íslandi og í Noregi á markaðinum mundi batna, enda verða samkeppnisskilyrðin þar með eðlilegri.
Njáll Trausti Friðbertsson, Alþingismaður, ritaði góða grein í Morgunblaðið 1. september 2020, sem hann nefndi:
"(Ál)iðnaður, ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs".
Það er mjög ánægjulegt, að þingmaður skuli skilmerkilega í blaðagrein vekja athygli á útflutningsgrein, sem moldvörpur hafa af kunnri smekkleysu sinni grafið undan um langa hríð.
Því miður hefur sá og höggvið, er hlífa skyldi, en fjandskapur ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar við þessa atvinnustarfsemi frá 2010 hefur fáum dulizt. Á sama tíma og mætir þingmenn benda á fjárfestingar einkaaðila, t.d. í laxeldi, sem eru strandaðar í leyfisveitingafrumskógi hins opinbera, þvermóðskast Landsvirkjun við að hleypa nýju lífi í fjárfestingar í íslenzkum áliðnaði.
Ef samið verður um lækkun orkuverðs til ISAL úr hæstu hæðum, verður hleypt lífi í framkvæmdir í Straumsvík, sem frestað hefur verið í nokkur ár vegna slæms fjárhags, en lágt afurðaverð og mjög hátt raforkuverð hefur sligað fjárhaginn með alvarlegum afleiðingum fyrir stöðu ISAL innan samsteypu Rio Tinto.
Á Grundartanga eru merkileg fjárfestingaráform á döfinni, sem eru þó skilyrt við endurnýjaðan raforkusamning við Landsvirkjun. Landsvirkjun hefur dagað uppi með stefnu sína um stórgróða og arðgreiðslur eftir því. Hvernig stendur á því, að nú, þegar hæst þarf að hóa, skuli eigandinn, ríkissjóður, ekki beita sér fyrir því, að Landsvirkjun liðki með verðlagningu raforku fyrir nýjum fjárfestingum í landinu, eins og hún var stofnuð til að gera ? Það væri algerlega í anda boðskapar fjármála- og efnahagsráðherra nú um leið landsmanna út úr kreppunni.
Grípum niður í grein Njáls Trausta:
"Það er þó staðreynd, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að stóriðjan á Íslandi og raforkuframleiðsla hefur byggt mikilvægan grunn undir íslenzkt efnahagslíf. Sem dæmi má nefna mikilvægi álframleiðslunnar í framhaldi af bankahruninu, þar sem gjaldeyristekjur af álframleiðslu ásamt vexti í ferðaþjónustu kom okkur Íslendingum á undraskömmum tíma út úr erfiðri kreppu."
Það munaði mjög mikið um fjárfestingar Rio Tinto í Straumsvík á tímabilinu 2010-2013. Þá var þar fjárfest fyrir MUSD 500, sem á núverandi gengi nemur tæplega mrdISK 70. Fjárfest var í stækkun afriðlastöðvanna þriggja og nýju þétta- og síuvirki til að hækka aflstuðul við inntak aðveitustöðvar yfir 0,98, keyptir voru viðbótar straumteinar til að kerskálar gætu tekið við hærri straumi frá afriðlastöðvum og framleiðslubúnaði steypuskála var umbylt, svo að í stað álbarra (rétthyrningslaga í þversnið allt að 30 t) yrðu framleiddar álstengur (hringlaga í þversnið), o.fl. var gert til að styðja við aukna og verðmætari framleiðslu. (Hár aflstuðull bætir nýtingu búnaðar virkjana og flutningskerfis.)
Þá voru og reistar 2 nýjar hreinsistöðvar fyrir kerreykinn til að uppfylla nýjar og strangar kröfur um hámarkslosun flúoríðs í ögnum út í andrúmsloftið og vetnisflúoríðs á gasformi á hvert framleitt tonn áls. Hefur þetta allt reynzt vel, en Rio Tinto hætti við uppsetningu straumteinanna, þótt slíkir hafi verið settir upp í systurverksmiðjunni, SÖRAL, í Noregi, og sú ákvörðun hefur takmarkað framleiðsluaukninguna og þar með þá framleiðniaukningu, sem að var stefnt með fjárfestingunni.
Þegar ISAL tók til starfa 1969, var síldin horfin, svo að þessar miklu og stefnumarkandi fjárfestingar í Straumsvík og í Búrfellsvirkjun linuðu kreppuna, sem af síldarleysinu leiddi, og iðnvæðingin, sem í hönd fór, bætti lífskjörin og dró úr efnahagssveiflum í landinu. ISAL hefur þannig alla tíð frá 1967 (framkvæmdir) jafnað hagsveiflurnar á Íslandi. ISAL getur enn stuðlað að viðspyrnu, ef fyrirtækið fær raforkuna á samkeppnishæfu verði, sem er fjarri lagi nú (tæplega 40 USD/MWh með flutningsgjaldi).
Nú skal enn vitna í Njál Trausta:
"Álframleiðslan á Íslandi er í dag um 16 % af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar [2019: 214/1344], eins og við þekkjum síðustu árin, og kostnaður álvera á Íslandi í fyrra nam um mrdISK 91 innanlands. Það eru beinharðar gjaldeyristekjur fyrir íslenzkt þjóðarbú. Samkeppnishæfni íslenzkrar álframleiðslu snýr því einna helzt að tveimur þáttum; annars vegar að því, að Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar að aðgengi að grænni raforku á hagstæðum kjörum."
Raforkuverðið, sem ISAL býr við, er um þessar mundir hið hæsta í Evrópu, og þótt víðar væri leitað. Það er fjarri lagi, að rafmagnið sé á hagstæðum kjörum fyrir alla stórkaupendur, og það er ekki hagfellt fyrir seljandann heldur, því að kaupendur hafa af þessum sökum dregið úr kaupunum sem mest þeir mega, og í Straumsvík mun eigandinn neyðast til að stöðva verksmiðjuna löngu áður en samningstímabilið rennur út (2036), ef svo heldur fram sem horfir.
Rio Tinto/ISAL hefur nú fært ágreining sinn við Landsvirkjun til Samkeppnisstofnunar, og það kann að verða aðeins fyrsta skrefið í langvinnri lögfræðilegri þrætuvegferð, sem getur vel borizt alla leið til ESA í Brüssel. Það er tæplega eftirsóknarvert fyrir einokunarfyrirtækið Landsvirkjun, sem er sem bergþurs á íslenzkum orkumarkaði. Frá sjónarmiði ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA gæti þörfin á að skapa raunverulega samkeppni á íslenzka raforkumarkaðinum blasað við og liður í því verið að búta Landsvirkjun niður, en er það þjóðhagslega hagkvæmt ? Varla.
Áfram hélt Njáll Trausti:
"Í umræðunni, eins og vill oft gerast, þegar um orkusækinn iðnað er að ræða, gleymist að huga að því, að á bak við framleiðsluna er fólk, sem dregur lífsviðurværi sitt af því að starfa þar. Árið 2019 voru tæplega 1500 manns, sem störfuðu í álverum. Þá voru stöðugildi verktaka innan álvera 435 og starfsmenn í stóriðjuskóla 105."
Á meðal þessara 1500 á launaskrá álveranna eru mjög fjölbreytilegar starfsgreinar, sérhæfðir starfsmenn, iðnaðarmenn, iðnfræðingar, verkfræðingar, viðskiptafræðingar o.fl. Fjölmargir verktakar starfa einnig utan verksmiðjanna auk þessara 435 innan verksmiðjanna, e.t.v. 200-300 ársverk, svo að alls gætu verið 2200 ársverk unnin hérlendis á vegum álveranna, og til viðbótar eru s.k. óbein störf. Það munar um minna á íslenzka vinnumarkaðinum, því að meðallaun hverrar starfsgreinar í álverunum eru tiltölulega há. Vaktavinnufólk hefur þar mjög góð kjör, bæði á tvískiptum og þrískiptum vöktum, og bakvaktir drýgja tekjurnar, en eru oft erilsamar.
Að lokum skrifaði Njáll Trausti:
"Verkefnið, sem við stöndum frammi fyrir, hlýtur þar af leiðandi að felast í því að treysta samkeppnisstöðu íslenzks áliðnaðar. Ég vil því taka undir orð fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, um, að það er orðið löngu tímabært að fara fram á það í þeirri Evrópusamvinnu, sem Ísland er þátttakandi í, að staðinn verði vörður um [framleiðslu] iðnaðarvöru innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem augljóslega fer fram með mun umhverfisvænni hætti en sú framleiðsla, sem seld er inn á svæðið.
Okkar verkefni er að tryggja orkusæknum iðnaði hér á landi sjálfbærar rekstrarforsendur. Ég mun því á nýju löggjafarþingi, þegar það kemur saman 1. október n.k., leggja fram skýrslubeiðni til utanríkisráðherra, þar sem óskað verður umfjöllunar um stöðu íslenzkrar álframleiðslu á Íslandi gagnvart EES-samningnum, auk umfjöllunar um framleiðslu og sölu á umhverfisvænni iðnaðarvörum innan Evrópska efnahagssvæðisins."
Evrópusambandið (ESB) er á pappírnum mjög metnaðarfullt f.h. aðildarlanda sinna og samstarfslanda á Innri markaði EES um, að engin nettólosun verði þaðan á gróðurhúsalofttegundum 2050. Vegna hættu á s.k. kolefnisleka til slóða á þessu sviði er sjálfsagt, að ESB leggi á kolefnistolla, eins og Bjarni Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson eru talsmenn fyrir. Ef utanríkisviðskiptaráðherra getur ásamt Norðmönnum veitt þessu máli þann stuðning, sem dugir til að leiða þetta mál til lykta í Brüssel, mun það leiða af sér verðhækkun á áli í Evrópu. Hafa ber í huga, að megnið af áli Kínverjanna í Evrópu fer í umbræðslu, en t.d. ISAL selur einvörðungu vöru, sem er tilbúin til að fara beint í þrýstimótunarverksmiðjur, þar sem alls konar prófílar, pípur, burðarbitar og rammar, verða til.
Þann 2. september 2020 birtist viðtal í Markaði Fréttablaðsins við Gunnar Guðlaugsson, rafmagnsverkfræðing og forstjóra Norðuráls á Grundartanga, undir fyrirsögninni:
"Tilbúið að fjárfesta fyrir 14 milljarða".
Af þessu viðtali er ljóst, að það er hugur í mönnum í áliðnaðinum, enda vaxandi markaður fyrir ál, sem tengist orkusparnaði. Það má ekki láta ríkisfyrirtækið Landsvirkjun þursast áfram og eyðileggja þann vaxtarsprota, sem hagkerfinu nú býðst með erlendri fjárfestingu, áhættulausri fyrir Íslendinga, að koma á legg á Grundartanga. Ef verkefnið fer í vaskinn vegna ósveigjanleika Landsvirkjunar, þá meina stjórnvöld ekkert með fagurgala um að hvetja til sem mestra fjárfestinga í Kófinu til að slá á atvinnuleysið og leggja grunn að framtíðartekjum. Verður það ófagur minnisvarði um feril núverandi ráðherra, ekki sízt nýsköpunar-, iðnaðar- og ferðamálaráðherra:
Viðtalið var mjög fróðlegt.
Þar stóð m.a.:
""Það er eðlilegt, að það sé tekizt á um þetta mál [verðlagningu raforku til stóriðju]", nefnir Gunnar. "Við erum í þeirri sérstöku stöðu hér á Íslandi, að fá fyrirtæki eru að kaupa langstærstan hluta raforkunnar í gegnum langtímasamninga. Það segir sig auðvitað sjálft, að ef eitthvert þessara fyrirtækja hættir starfsemi, þá er enginn til þess að taka við þeirri raforku, sem þá losnar. Markaðurinn hér á Íslandi gæti ekki tekið við allri þeirri raforku, sem þá losnar. Markaðurinn hér á Íslandi gæti ekki tekið við allri þeirri raforku með stuttum fyrirvara.
Við þessu hefur verið brugðizt með því að taka upp ríka kaupskyldu í samningum. En þá er í sjálfu sér búið að aftengjast hefðbundnum markaðslögmálum. Það er frumréttur á markaði að geta ákveðið að kaupa ekki þá vöru eða þjónustu, sem verið er að bjóða til sölu.
En þegar þetta hefur verið tekið úr sambandi, þarf að finna einhverja aðra aðferð til að ákvarða verðið. Við höfum viljað tengja þetta álverði, og ég held, að það hafi gefið mjög góða raun. Það hefur afar sjaldan gerzt, að álfyrirtæki hér dragi úr framleiðslu, þegar álverð er lágt vegna þesss, að rafmagnsverðið hefur lagað sig að álverðinu. Svo þegar álverð er hátt, þá njóta raforkufyrirtækin þess líka.
Með þessu kerfi hafa byggzt upp stór og öflug orkufyrirtæki á grunni álverðstengdra orkusölusamninga. Mín skoðun er einfaldlega sú, að það kerfi hafi reynzt okkur vel, og við eigum að hugsa okkur vel um áður en við köstum því fyrir róða."
Allt er þetta satt og rétt metið hjá Gunnari Guðlaugssyni. Það fylgdu kaupskyldunni fleiri kostir fyrir orkuseljanda en hann nefnir. Einn var tekjutrygging yfir allt greiðslutímabil lána vegna fjárfestingar. Út á hana fengust mun hagstæðari lánakjör en ella, þar sem áhætta lánveitenda var sáralítil. Þar sem kostnaður virkjunar lækkaði umtalsvert við að auka byrðar orkukaupandans með þessum hætti, var og er sanngjarnt að aðilar deili með sér ávinninginum með lækkuðu raforkuverði. Auk mjög jafns álags álvera á raforkukerfið, sem færir því betri nýtingu fjárfestinganna, má nefna háan aflstuðul álvera, sem eykur framleiðslugetu virkjana á raunafli og þar með seljanlegum MWh (megawattstundum).
Allt gerir þetta álver að ákjósanlegum viðskiptavinum íslenzkra orkufyrirtækja, en þorri kostnaðar þeirra eru afborganir og vextir af stofnkostnaði, en rekstrarkostnaður er tiltölulega lágur. Á öllu þessu ríkti góður skilningur innan Landsvirkjunar á tímabilinu 1965-2010. Árið 2010 varð óheillavænleg stefnubreyting innan fyrirtækisins, reist á vanþekkingu á eðli íslenzka orkugeirans og kolröngum viðhorfum til verðlagningar raforku og þar með skilningsleysi á hlutverki Landsvirkjunar frá upphafi.
"Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2019 var meðalverð til stóriðju 23 USD/MWh; eitthvað í kringum þá tölu yrði ásættanlegt fyrir Norðurál. Þó að Nord Pool-verðið sé lægra en það í augnablikinu, þá værum við reiðubúin að ganga út úr núgildandi samningi við Landsvirkjun gegn því að fá nýjan samning til lengri tíma á þessu bili, t.d. til 20 ára.
Gunnar bætir því við, að ef hægt væri að klára langtíma raforkusamning upp á í kringum 23 USD/MWh, sé Norðurál tilbúið að ráðast í fjárfestingar á Grundartanga."
Til að varpa ljósi á hina gríðarlegu mismunun Landsvirkjunar á álversviðskiptavinum sínum, sem Rio Tinto hefur kært til Samkeppnisstofnunar sem markaðsmisbeitingu í skjóli einokunaraðstöðu og mun vafalítið halda áfram með til ESA, ef ekkert vitrænt ætlar að koma frá þessari stofnun, þá er verðið (án flutningsgjalds) til ISAL tæplega 60 % hærra en meðalverðið. Þarna er ríkisfyrirtækið sekt um að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja í sömu grein herfilega.
Á Grundartanga bjóðast Íslendingum um 85 störf á meðan framkvæmdir standa yfir við að breyta framleiðslulínum steypuskála Norðuráls, svo að þar verði unnt að framleiða álstengur, eins og nú er gert í Straumsvík. Við þessar nýju framleiðslulínur verða síðan til 40 ný ársverk hjá Norðuráli. Hér er enn eitt tækifærið, sem ríkinu stendur til boða að liðka fyrir, að verði að raunveruleika. Allt hjal ráðamanna, iðnaðarráðherra þar á meðal, um nauðsyn fjárfestinga einkaframtaksins til að skapa ný störf og aukin verðmæti fyrir þjóðarbúið, er út í loftið og aðeins marklaust hjal, ef þau skella skollaeyrum við þessu kostaboði.
Gunnar nefnir, að álverðstenging við orkuverð sé æskileg, sem er alveg rétt. Hér hlýtur að vera samningsgrundvöllur með 23 USD/MWh m.v. núverandi markaðsverð og síðan hækkandi raforkuverð með hækkandi álverði eftir umsaminni formúlu. Ríkisstjórnin getur ekki látið steingervinga í Landsvirkjun koma í veg fyrir stækkun þjóðarkökunnar sem leið landsmanna út úr vandanum. Það verður að beita Landsvirkjun fyrir vagninn, sem nú er fastur í forarpytti. Þar er nóg afl.
Gunnar Guðlaugsson er með ákveðna sýn á framtíð álvera á Vesturlöndum í samkeppninni við lönd á borð við Kína. Hann telur, að gæðaál, framleitt með "grænni" raforku og með eins umhverfisvænum hætti og tæknin leyfir hverju sinni, sé "hugsanlega bezti möguleiki álframleiðenda staðsettra á Vesturlöndum". Við þetta þarf að bæta, að þessi "græna" orka verður að vera til reiðu á verði, sem endurspeglar kostnaðinn við öflun hennar, en ekki á okurverði, sem einokunarfyrirtæki dettur í hug til að geta skilað eigandanum sem hæstum arði. Arðurinn á að koma fram "í hinum endanum" til ríkisins, eins og Franklin Delano Roosevelt sagði um "New Deal".
Í lok viðtalsins sagði Gunnar:
"Ég er sannfærður um það, að orkuverð verði mjög samkeppnishæft hér á Vesturlöndum til frambúðar. Ég get líka nefnt það, að áliðnaður í Noregi er á mjög góðum stað í augnablikinu; því er þetta líka spurning um það, hvernig ríkisstjórnir einstakra landa búa um hnútana, þegar kemur að samkeppnishæfu orkuverði."
Þarna gæti Gunnar verið að vísa til þess, að íslenzka ríkisstjórnin þarf ekki að óttast viðbrögð ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA við ráðstöfunum, sem hér hafa verið viðraðar, því að sambærilegar tilhliðranir hafa átt sér stað annars staðar í EES, m.a. í Noregi, án athugasemda af hálfu ESA, að því bezt er vitað. Hvers vegna ríkir þessi ægilegi doði í íslenzka stjórnarráðinu ? Skyldu eyru ráðherranna vera köld ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2020 | 17:53
Hagkerfi í ógöngum
Umsvif hins opinbera hafa þanizt út meira en góðu hófi gegnir á þessari öld. Á 6 ára tímabilinu 2013-2019 jókst rekstrarkostnaður hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) um 4,5 %/ár að jafnaði á föstu verðlagi 2019. Þetta er talsvert meira en nam meðalhagvexti á tímabilinu (3,8 %), og þess vegna er þetta ávísun á skattahækkanir í framtíðinni. Þetta er óæskileg þróun, sem þarf að snúa við, því að opinber umsvif hérlendis voru og eru hlutfallslega á meðal þeirra hæstu í OECD (Alþjóða efnahagssamvinnustofnunin í París). Þjóðir með mest opinber umsvif búa ekki við beztu lífskjörin, og þær eru yfirleitt skuldugastar. Að lifa á kostnað framtíðarinnar er ósiðlegt og heimskulegt, því að fjármagnskostnaðurinn hamlar lífskjarabata í núinu líka. Skuldasöfnun er áfellisdómur yfir valdhöfum.
Nú hefur heldur betur snarazt á meri ríkisbúskaparins vegna sóttvarnaraðgerða hér og um heim allan vegna COVID-19. Óli Björn Kárason gerir grein fyrir því í Morgunblaðsgrein sinni 26. ágúst 2020 ásamt því, hvernig opinberi geirinn hefur að raungildi vaxið að umsvifum (rekstrarútgjöldum) um yfir 87 % tímabilið 2000-2019. Núverandi skuldasöfnun er svakaleg. Með henni verður ekkert borð fyrir báru til að mæta næsta áfalli, sem þá skellur af fullum þunga á þjóðinni strax.
Núverandi aðferð að láta ríkissjóð taka skellinn í upphafi er varasöm og kallar á mjög trausta hagstjórn á næstu árum, því að þessi mikla skuldasöfnun skapar hættu á vítahring lítils hagvaxtar og skattahækkana. Þess vegna ríður nú meira á en oftast áður að efla útflutningsgreinarnar og skapa nýjar. Það útheimtir lækkun raforkuverðs til atvinnuveganna og að liðka fyrir útgáfu starfs- og rekstrarleyfa fyrir fiskeldið. Stjórnmálamenn eiga að hætta fikti sínu með sérálögur á sjávarútveginn. Hann þarf á öllu sínu að halda til fjárfestinga til að standast alþjóðlega samkeppni.
Mikil eftirspurnaraukning hefur orðið eftir íslenzku grænmeti í Kófinu, og mundi landbúnaðurinn, og þar með neytendur, njóta góðs af orkuverðslækkun, eins og aðrir atvinnuvegir. Það er með öllu óskiljanlegt við þessar aðstæður, að ríkisstjórnin skyldi ákveða að rífa í neyðarhemilinn þann 19.08.2020 á landamærunum og kæfa þar með aðalgjaldeyrislind þjóðarinnar algerlega að þarflausu. Þrátt fyrir það gaus upp "Bylgja 3" af COVID-19 smitum tæpum mánuði síðar í landinu. Slíkum "bylgjum" má búast við í þjóðfélaginu, á meðan hjarðónæmi hefur ekki myndazt. Bóluefni mun ekki leysa vandann næstu 2 árin. Erlendir ferðamenn eru ekki sekir um þessa stöðu, enda nýgengi smita miklu lægra á landamærunum en á meðal landsmanna. Orsökin er breytt hegðunarmynztur. Fólk slakar á persónulegum sóttvörnum og er þá oft í slagtogi við Bakkus, sem aldrei hefur tileinkað sér sóttvarnir af neinu tagi. Af þessum sökum má búast við slíkum "bylgjum", þar til hjarðónæmi hefur myndazt. Að rembast, eins og rjúpan við staurinn, við að gera Ísland "veirulaust" er fánýt barátta, ofboðslega dýrkeypt og jafngildir harðsvíraðri ofstjórnun og meiri inngripum í persónulega hagi fólks en stjórnvöld hafa leyfi til samkvæmt Stjórnarskrá, þar sem alls engin neyð er á ferðum, fremur en í harðvítugum flensufaraldri. Tveir COVID-19 sjúklingar á sjúkrahúsi sýna fram á þetta.
Óli Björn skrifaði:
"Á örfáum mánuðum hefur staða efnahagsmála gjörbreytzt til hins verra. Í stað hagvaxtar er samdráttur. Ríkissjóður safnar skuldum í stað þess að greiða, líkt og gert hefur verið á síðustu árum.
Reiknað er með því, að halli á ríkissjóði (A-hluta) verði um 10 % af vergri landsframleiðslu á þessu ári og um 8 % á því næsta. Samtals verða gjöld ríkissjóðs umfram tekjur, að öðru óbreyttu, því um 18 % af landsframleiðslu eða rúmlega mrdISK 500 á tveimur árum. Þetta er lítillega lægri fjárhæð en nemur raunhækkun útgjalda hins opinbera á síðustu 20 árum."
Gert mun vera ráð fyrir, að skuldasöfnun ríkissjóðs 2020-2023 muni nema mrdISK 850. Hana má rekja til sóttvarnarráðstafana gegn COVID-19 innanlands og utan (Schengen-aðild Íslands og tréhestaleg ákvarðanataka þar á bæ). Ef ekki tekst að blása lífi í atvinnustarfsemina, munu þessar ráðstafanir skilja eftir sig eyðimörk gjaldþrota fyrirtækja og heimila, og ríkissjóður verður berskjaldaður fyrir næsta áfalli. Það gæti verið barnaleikur að fást við SARS-CoV-2 í samanburði við næstu nýju veiru, sem fer á kreik, og er þá skemmst að minnast hinnar bráðsmitandi ebólu-veiru, sem orsakaði innri blæðingar og 60 % smitaðra á sjúkrahúsum féllu í valinn fyrir.
Það er lífsnauðsynlegt að stöðva þessa skuldasöfnun og hægt og sígandi að greiða niður skuldir. Hættan er líka sú að lenda í vítahring lítils hagvaxtar og skattahækkana vegna skuldabyrðarinnar. Óráðsíufólk hefur haft sitt fram um gagnslitlar sóttvarnir gagnvart komufarþegum til landsins, en þessar ráðstafanir hafa þegar valdið gríðarlegu efnahagstjóni og ógæfu fjölda manns.
"Ekki verður hins vegar séð, að hallarekstur ríkisins hafi dregið úr kröfum um aukin útgjöld. Kröfurnar eru til staðar, líkt og ríkið sé uppspretta verðmæta og velmegunar. Þeir eru fáir (eða a.m.k. ekki háværir), sem beina sjónum að meðferð opinbers fjár - spyrja, hvort samhengi sé á milli aukinna útgjalda og bættrar opinberrar þjónustu. Í velgengni síðustu ára hefur sinnuleysi náð að festa rætur og við leyft okkur þann munað að líta á hagkvæma ráðstöfun og meðferð sameiginlegra fjármuna sem aukaatriði. Og aukning útgjalda hefur orðið mælikvarði á pólitíska frammistöðu einstakra þingmanna og stjórnmálaflokka."
Nú eru gjörbreyttar aðstæður í ríkisbúskapinum og í þjóðfélaginu öllu. Geigvænleg skuldasöfnun á sér stað hjá hinu opinbera, þannig að öll útgjaldaaukning er tekin að láni hjá þeim, sem í framtíðinni munu standa undir hinu opinbera. Að stíga ekki nú þegar á útgjaldahemilinn er siðlaus óráðsía; í einu orði sagt stjórnleysi. Þetta stjórnleysi mun framkalla hér viðvarandi óstöðugleika og varnarleysi gagnvart næsta áfalli. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga ekki að láta svefngengla og vingla teyma sig inn á þá þjóðhættulegu braut. Nú er góðum þingmönnum nauðsyn að hafa bein í nefinu. Lánshæfismat sveitarfélaga og ríkisins mun lækka, sem auka mun við fjármagnskostnað þeirra. Svo illa hefur verið haldið á málefnum Landsvirkjunar, að við blasir lækkun lánshæfismats þar. Nýleg skuldabréf fyrirtækisins eru í uppnámi, af því að útgáfa þeirra var tengd ákveðinni lágmarkssölu á rafmagni, sem ekki hefur náðst vegna okurálagningar fyrirtækisins á rafmagn, einkum til ISAL og PCC á Bakka, og öðrum viðskiptavinum hefur einnig verið sýnd óbilgirni.
"Í heild var rekstrarkostnaður 2019 um mrdISK 500 hærri, og þar af var launakostnaður um mrdISK 195 meiri en aldamótaárið. Raunhækkun kostnaðar [hins opinbera] var liðlega 87 % á þessum 20 árum. Launakostnaður hækkaði um 86 % [að raungildi]. Rekstrarkostnaður ríkisins hækkaði að raungildi um nær mrdISK 387; þar af laun um mrdISD 209."
Hér hefur óheillaþróun átt sér stað, sem í senn hefur lækkað ráðstöfunartekjur heimilanna, dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og minnkað mótstöðuafl hins opinbera, því að skattahækkanir til að mæta mótlætinu munu hafa mjög neikvæð á hagkerfið. Eina ráðið í stöðunni, sem hrífur vel, er sú leið, sem fjármála-og efnahagsráðherra hefur boðað, er að vera með öll spjót úti til að stækka þjóðarkökuna, auka verga landsframleiðslu, en þá, eins og skrattinn úr sauðarleggnum, stekkur forsætisráðherra fram og þrífur í neyðarhemil lestarinnar og dregur viljandi úr gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Svona gera menn ekki, en það er margt skrýtið í kýrhausnum. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þeirrar grafalvarlegu stöðu, sem uppi er á vinnumarkaði, styrkir ekki atvinnuöryggi launþega og gefur atvinnulausum enga von. Hún er óábyrg með öllu, því að hún tekur ekkert mið af raunveruleikanum. Málflutningur mannvitsbrekkna í hópi verkalýðsforkólfa minna á sögu Münchhausens af því, þegar hann togaði sig upp á hárinu.
"Í raun skiptir engu, hvaða tölur um útgjöld hins opinbera eru skoðaðar. Sameiginlegur kostnaður landsmanna hefur hækkað gríðarlega á síðustu áratugum. Aukning útgjalda hefur verið nauðsynleg og skynsamleg, s.s. í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, þar sem verið er að tryggja aðgengi sjúkratryggðra - okkar allra - að nauðsynlegri þjónustu. En jafnvel innan heilbrigðiskerfisins eru fjármunir ekki nýttir, eins og bezt verður á kosið. Framlög til almannatrygginga hafa stóraukizt, og hið sama á við um menntakerfið."
Þannig hefur spilazt úr heimsfaraldrinum COVID-19, að við eigum ekki lengur fyrir útgjöldum hins opinbera. Gríðarlegur halli er á rekstri sveitarfélaga og ríkissjóðs. Við þær aðstæður verður ríkisvaldið að víkja til hliðar pólitískum kreddum um rekstrarform; þess í stað verður að leita allra leiða til aukinnar skilvirkni fjármagns og framleiðni vinnuafls á öllum sviðum þjóðlífsins. Þetta leiðir einfaldlega til þess, að virkja verður markaðsöflin og frjálsa samkeppni eftir föngum í þeirri þjónustu, sem greidd er af ríkissjóði og sveitarfélagasjóðum. Innantóma frasa á borð við það, að ekki megi græða á heilbrigðisþjónustu, verður að grafa í jörð. Tvískinnungur íslenzka ríkisins er alger í þessu sambandi, því að það sendir sjúklinga á einkaklínik í Svíþjóð út af kreddum í garð innlendra fyrirtækja, sem eru fullkomlega hæf til sambærilegrar þjónustu með miklu minni kostnaði fyrir ríkissjóð. Hvers konar eintrjánings hugmyndafræði getur búið að baki slíkrar meðferðar opinbers fjár ?
Engum dylst, að þegar í stað er hægt að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og minnka kostnað við ýmsar bæklunaraðgerðir. Þetta væri hægt að gera með einu pennastriki í heilbrigðisráðuneytinu, en þar skortir bæði skilning á viðfangsefninu og pólitískan vilja til að hætta að fjandskapast út í einkaframtakið innanlands undir því pempíulega slagorði, að ekki megi græða á heilbrigðisaðgerðum. Af hverju má það ekki ? Hvað er ósiðlegt við, að í raun allir græði ? Hagnaður er uppspretta fjárfestinga og framfara. Sú pólitíska stefna, sem glæpavæddi gróða, er löngu gjaldþrota. Kínverski kommúnistaflokkurinn gekk í endurnýjun lífdaganna með því að lögleyfa fyrirtækjagróða. Íslenzkir harðjaxlar (e. "die-hards") af þessu sauðahúsi verða að víkja úr valdastólum, því að við höfum ekki lengur efni á þeim þar. Nú þarf ráðdeildarfólk í ráðherrastóla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2020 | 10:27
Í verkfærakistu orkuskiptanna
Beðið er tíðinda af sviði þróunar kjarnorku. Brýn þörf er á nýrri kynslóð kjarnorkuvera, sem tekið geti við af hefðbundinni tækni núverandi kjarnorkuvera, sem kljúfa ákveðna samsætu (ísótóp) frumefnisins úran. Slík kjarnorkuver hafa í sér innri óstöðugleika við alvarlega bilun í verinu, eins og mörgum er í fersku minni frá "Three Mile Island" í Bandaríkjunum, Chernobyl í Úkraínu og Foukushima í Japan. Slík þróun nýrrar gerðar kjarnorkuvera er að líkindum langt komin, jafnvel á verum, sem nýtt geta plútónium, sem er mjög geislavirkt úrgangsefni frá hefðbundnum kjarnorkuverum, og fáein önnur frumefni, t.d. þóríum. Þróun vind- og sólarorkuvera hefur gengið mjög vel, þannig að kostnaður við raforkuvinnslu þeirra hefur náð niður að kostnaði raforkuvinnslu í jarðgasorkuverum eða í um 40 USD/MWh, þegar bezt lætur.
Þessir tveir "hreinu" orkugjafar eru samt með miklum böggum hildar, því að þeir eru óáreiðanlegir. Þegar sólin skín og vindur blæs, getur orðið offramboð raforku, og þá dettur raforkuverð jafnvel niður fyrir 0, þ.e. raforkunotendum er borgað fyrir að kaupa rafmagn. Þegar þannig stendur á, er kjörið að ræsa vetnisverksmiðjur á fullum afköstum og rafgreina vatn. Við það myndast vetni, H2, og súrefni, O2. Vetnið mun sennilega leika stórt hlutverk í orkuskiptunum og eftir þau, því að markaður verður fyrir vetni til að knýja þung ökutæki, vinnuvélar, skip og flugvélar.
Vetnið getur líka leyst jarðgas af hólmi, þar sem það er notað til upphitunar húsnæðis. Fyrir slíka vetnisnotkun er að myndast stór markaður núna á Norður-Englandi. Bretar hafa sett sér markmið um að verða kolefnisfríir árið 2050. Fyrir Íslendinga geta innan tíðar skapazt viðskiptatækifæri sem framleiðendur vetnis með umhverfisvænum og endurnýjanlegum orkulindum, sem Bretar sækjast eftir. Í stað þess að leita hófanna hjá brezkum yfirvöldum um viðskipti á milli landanna með rafmagn með talsverðum orkutöpum á langri leið, ættu utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra að taka upp þráðinn við brezk stjórnvöld um vetnisviðskipti. Íslenzk orkufyrirtæki ættu að geta fengið allt að 30 USD/MWh, að viðbættu flutningsgjaldi til vetnisverksmiðju, fyrir raforkuna m.v. núverandi orkunýtni rafgreiningarbúnaðar og markaðsverð á vetni. Það er vel viðunandi verð, því að meðalkostnaður íslenzkrar raforkuvinnslu er undir 20 USD/MWh.
Ýmis bílafyrirtæki, t.d. Hyundai í Suður-Kóreu, eru að undirbúa markaðssetningu á fólksbílum með vetnisrafala um borð í stað rafgeyma. Orkuþéttleikinn á massaeiningu er um 33 kWh/kg, en í rafgeymunum um 50 Wh/kg, þ.e. 0,2 %, og orkuþéttleiki jarðefnaeldsneytis (benzín, dísel) er um 13 kWh/kg, þ.e. 39 % af orkuþéttleika vetnis.
Unnið er að því að leysa kol og kox af hólmi með vetni við stálframleiðslu. Ef allar hugmyndir um vetnisnotkun heppnast, má tala um vetnishagkerfi í stað hagkerfa, sem nú eru knúin áfram með jarðefnaeldsneyti. Nú er aflþörf rafgreiningar vatns í heiminum um 8 GW og annar aðeins 4 % markaðarins. Megnið af vetni heimsins er framleitt úr kolum, olíu og jarðgasi, sem er ósjálfbær aðferð. Allur núverandi heimsmarkaður mundi þurfa 200 GW og þennan markað má sennilega tvöfalda á 20 árum. Hann þarf þá 400 GW, sem er 80-föld afkastageta íslenzkra orkulinda, sem líklegt er, að virkjaðar verði.
Það hefur þótt ljóður á ráði vetnisnotkunar, hversu lág orkunýtnin er við framleiðslu og notkun þess, en hún er um þessar mundir 70 %-80% við framleiðsluna og lægri í vetnisrafölum. Nú á sér stað mikil þróunarvinna til að auka nýtnina, og er búizt við, að hún verði 82 %-86 % við framleiðsluna árið 2030. Þar að auki fer kostnaður rafgreiningarbúnaðarins í USD/MW lækkandi. Þegar við þetta bætist viðurkennd þörf á að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis í heiminum, þá er kominn verulegur hvati til vetnisnotkunar.
Það er ljóst, að víðast hvar krefjast orkuskiptin styrkingar raforkukerfanna; ekki aðeins nýrra virkjana endurnýjanlegra orkulinda eða kjarnorkuvera, heldur einnig nýrra og öflugri flutningsmannvirkja (loftlína, jarðstrengja, aðveitustöðva). Ef hitun húsnæðis á að fara fram með rafmagni, krefst hún enn meiri eflingar flutningskerfisins, sums staðar tvöföldunar flutningsgetunnar. Það gæti þess vegna víða verið þjóðhagslega hagkvæmast að nota vetni til þess, þar sem nú er notað jarðefnaeldsneyti.
Fram að árinu 2019 unnu stjórnvöld Bretlands að því markmiði að hafa dregið úr losun jarðefnaeldsneytis um 80 % árið 2050 m.v. árið 1990. Árið 2019 setti ríkisstjórnin markið enn hærra og vildi, að brezka hagkerfið yrði fyrsta stóra hagkerfi heimsins til að verða 100 % kolefnisfrítt árið 2050. Nú er þetta aðeins talið mögulegt með verulegri vetnisnotkun.
Á Íslandi er markaður fyrir vetni m.a. í flutningageiranum í vinnuvélum, vörubílum, langferðabílum (rútum), skipum og flugvélum. Rafvæðing fólksbílaflotans sækir hratt í sig veðrið og fylgir þar fordæmi frá Noregi, sem einnig býr við lágt raforkuverð úr vatnsfallsvirkjunum þar í landi. Nú, (ágúst 2020) eru rúmlega 5000 fólksbílar alrafknúnir hérlendis. Það er lágt hlutfall eða um 2 %, en fjölgunin er hröð, því að á 5 árum hefur fjöldinn 21 -faldazt, en með bjartsýni um þróun efnahagsmála og viðvarandi hvata til kaupa á rafmagnsbílum má gizka á, að fjöldi alrafknúinna bíla muni tífaldast á næstu 5 árum. Þeir munu þurfa um 222 GWh/ár frá virkjunum, sem er rúmlega 1 % aukning frá núverandi vinnslu.
Vetnismarkaðurinn í landinu árið 2025 gæti numið 2,8 kt, ef 10 % langferðabíla og vörubíla og 15 % sendibíla verða þá vetnisknúnir að óbreyttri nýtni vetnisrafala. Til þess að framleiða það með rafgreiningu og núverandi nýtni rafgreiningarbúnaðar þarf 183 GWh. Heildarraforkuþörf fartækjageirans mæld við virkjanir verður þá um 405 GWh/ár, sem er aðeins um 2 % aukning núverandi raforkuvinnslu. Samt útheimtir þessi aukning nýjar virkjanir, ef umtalsverðir notendur falla ekki úr skaptinu. Til samanburðar er þetta aðeins um 13 % raforkunotkunar ISAL í Straumsvík í góðu árferði.
Núverandi meginframleiðsluaðferðum vetnis verður að breyta, ef vetnisnotkun á að gagnast loftslaginu. Samkvæmt skýrslu "International Energy Agency", "The Future of Hydrogen", sem út kom 2019, nam CO2 losun vetnisvinnslu út í andrúmsloftið svipuðu magni og öll samanlögð losun Bretlands og Indónesíu á koltvíildi.
Vetnisverksmiðjur henta vel til að taka við umframafli frá orkuverum endurnýjanlegrar orku. Kjörstærð þeirra fyrrnefndu er talin vera 25 %-30 % af uppsettu afli hinna síðarnefndu.
Það, sem að auki ræður staðsetningu vetnisverksmiðja, er nánd við markað og opinbert regluverk í viðkomandi landi. Talað er um Chile, Bandaríkin og Spán sem líkleg hýsingarlönd. Ef þetta hlutfall er heimfært á Ísland, fæst uppsett aflþörf vetnisverksmiðja hér um 350 MW (jarðgufuvirkjunum sleppt). Með því að nýta umframorku í vatnsorku- og væntanlegu vindorkukerfi mætti flytja út 85 % framleiðslunnar í slíkum vetnisverksmiðjum og nýta 15 % innanlands.
Ísland býr við orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), og það er æskilegt og fróðlegt að fylgjast með fyrirætlunum Framkvæmdastjórnar Úrsúlu von der Leyen á orkusviðinu. Í ljós kemur, að hún ætlar vetninu stórt hlutverk í framtíðinni. Þannig hefur hún nýlega gefið út skýrsluna "Powering a climate-neutral economy: an EU Strategy for Energy System Integration" og einnig skýrsluna "A hydrogen strategy for climate-neutral Europe".
Höfundarnir sjá fyrir sér hæga uppbyggingu á framleiðslugetu vetnisverksmiðja í Evrópu, sem nýta umhverfisvæna orku. Á árabilinu 2020-2024 verði reistar slíkar verksmiðjur í Evrópu að aflþörf a.m.k. 6 GW og framleiðslu a.m.k. 1 Mt/ár. Í öðrum áfanga (2025-2030) er ætlunin að setja upp rafgreiningarverksmiðjur með aflþörf 40 GW og framleiðslu allt að 10 Mt/ár. Á lokatímabilinu (2030-2050) verði svo tekin enn stærri skref með framleiðslu gríðarlegs magns vetnis með rafmagni frá kolefnisfríum orkuverum.
Hlutdeild Íslendinga í þessum markaði verður lítil, en traustur vetnismarkaður mun verða til. Það virðist þannig verða tiltölulega áhættulítið að fjárfesta í ísenzkum orkulindum og breyta orkunni frá þeim í vetni og beinharðan gjaldeyri með útflutningi á því frá Íslandi til Bretlands og/eða meginlands Evrópu.
Vetnisvæðinguna á að styrka með stofnun "European Clean Hydrogen Energy Alliance". Þessi samtök munu hafa innan sinna vébanda iðnaðinn, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök til að styðja við bakið á Stefnumörkuninni ("The Strategy") og til að mynda farvegi fyrir fjárfestingar. Það er einboðið fyrir íslenzka aðila á orkusviði og jafnvel áhugasama fjárfesta að ganga í þessi samtök til að vinna að framgangi vetnisvæðingar á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.9.2020 | 10:53
Hræðsluáróður og raunsæi
Það er mikil áherzla lögð á það af hálfu sóttvarnaryfirvalda nú í s.k. Bylgju 2 af COVID-19 að fækka smitum, sem berast inn í landið. Er það skynsamleg stefnumörkun í ljósi kostnaðar af hverju smiti og þeirra gríðarlegu fórna, sem færa þarf til að fækka smitum inn í landið með aðferð stjórnvalda, þ.e. tveimur skimunum með um 5 daga sóttkví þar til upplýsingar berast ferðalangi um neikvæða niðurstöðu seinni skimunar ? Nei, fórnarkostnaðurinn er allt of hár m.v. ávinninginn.
Ferðamönnum til landsins hefur líklega fækkað um 70 % - 80 % við þá breytingu sóttvarna á landamærum að krefjast tveggja skimana og 5 daga sóttkvíar í stað einfaldrar skimunar við komu og smitgátar fram að niðurstöðu eða 14 daga sóttkvíar. Ef notað er lægra hlutfallið og búizt við 3500 farþegum á sólarhring að hausti og vetri (í Kófinu) með einfaldri skimun, þá nemur fækkun ferðamanna 2450 manns á sólarhring. Ef hver ferðalangur, sem hættir við að koma til landsins, veldur nettó tekjutapi íslenzka þjóðarbúsins upp á kISK 100 (100 þúsund krónur), þá nemur nettó tapið 245 MISK/dag (M=milljón).
Hver er ávinningurinn af tvöfaldri skimun ? Hann er háður fjölda smitaðs fólks, sem sleppur inn í landið með einfaldri skimun, en ekki með tvöfaldri skimun. Hér þarf að taka tillit til þess, að samkvæmt Sóttvarnalækni eru 60 % þeirra, sem greinast með virk smit á landamærunum búsett á Íslandi. Sennilega er smithætta frá þeim a.m.k. þreföld að jafnaði á við smithættu frá erlendum ferðamönnum hér innanlands. Þess vegna er rétt, að þessi hópur haldi áfram að fara í tvöfalda skimun við komuna til landsins. Fjöldi þeirra, sem greinzt hafa neikvæðir í fyrra skiptið og jákvæðir í seinna skiptið, kemur fram í neðangreindri tilvitnun í ágæta grein Þorsteins Siglaugssonar í Morgunblaðinu 11. september 2020:
"Þegar fókusinn brenglast",
Þar stendur m.a. þetta:
"Í annarri skimun á landamærum hefur 21 smit greinzt. Því færri ferðamenn, því færri smit greinast. Og því færri ferðamenn, því færri störf. Það er kaldhæðnislegt, að því betri sem "árangur" aðgerðanna verður - færri ferðamenn og færri greind smit - því fleiri dregur atvinnuleysið til dauða fyrir hvert smit, sem forðað er."
Í ljósi fremur lítils álags á heilbrigðiskerfið í s.k. Bylgju 2, þar sem aðeins 1 sjúklingur hefur þurft í senn á sjúkrahúsvist að halda og enginn hefur látizt, orkar mjög tvímælis, að yfirvöld landsins skuli þvermóðskast við að halda íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum sínum á landamærunum og innanlands til streitu. Eins og fram gengur af tilvitnuninni hér fyrir ofan, liggur fólk í valnum vegna þarflausra aðgerða stjórnvalda.
M.v. upplýsingarnar hér að ofan um fjölda smitaðra, sem seinni skimun hefur gripið, en ekki sú fyrri, má ætla, að meðalfjöldi þeirra, sem með einfaldri skimun slyppu inn í landið smitaðir sé 3,9 á sólarhring, en af þeim eru aðeins 1,6 erlendir ferðamenn. Miðað við tiltölulega litla smithættu af þeim, mundi daglegum smitum fjölga um 3. Ætla má, að sparnaðurinn, sem það leiðir af sér að komast hjá þessum smitum, nemi 9,3 MISK/dag, en skimunarkostnaðurinn við seinni skimunina er aftur á móti um 15 MISK/dag (sóttkvíarkostnaði á milli skimana sleppt). Tekjutap og auka skimunarkostnaður er að lágmarki 260 MISK/dag og hlutfallið 260/9,3=28 er algert lágmark á milli kostnaðar og sparnaðar af tvöfaldri skimun m.v. einfalda skimun. Þessi ráðstöfun er ekki verjanleg, eins og s.k. Bylgja 2 hefur lengst af þróazt hérlendis.
Grein sína hóf Þorsteinn Siglaugsson þannig:
"Þann 19. ágúst [2020] var Íslandi í raun lokað fyrir ferðamönnum. Ferðaþjónusta hefur nánast stöðvazt. Verzlun og þjónusta verður fyrir miklum skakkaföllum. Fasteignafélög lenda í vanda. Bankarnir fá skuldirnar í fangið. Skatttekjur ríkisins hrynja. Getan til að halda uppi mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi skerðist. Þúsundir missa vinnuna, enda stór hluti starfa háður ferðaþjónustu. Margir hafa hvatt til, að aðgerðirnar verði endurskoðaðar. Viðbrögðin lofa ekki góðu."
Ríkisstjórnin hefur stórlaskað hagkerfi landsins með ráðstöfunum sínum í sóttvarnarmálum, sem gerðar eru í nafni lífs og heilsu landsmanna, en ógna lífi og heilsu fleira fólks í landinu en þær verja. Þetta blasir við, en forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra virðast heillum horfnar og þar með ríkisstjórnin öll, þótt einhverjir ráðherrar maldi í móinn.
Nokkru síðar í greininni færði Þorsteinn rök fyrir skaðsemi ráðstafananna á líf og heilsu fólks. Samtök atvinnulífsins hafa lítið gagnrýnt stjórnvöld nú í s.k. Bylgju 2, og einkum hefur skort á, að samtök launþega taki upp hanzkann fyrir sína félagsmenn. Þar á bæ er talið mikilvægara að berjast við "kapítalismann", sem nú er á hnjánum sums staðar, t.d. í ferðageiranum, og þar af leiðandi hafa mörg störf farið í súginn og öðrum ógnað. Forgangsröðun verkalýðsforkólfa er óskiljanleg, og almennt ræður hjarðhegðun för í þjóðfélaginu á röngum forsendum, eins og oft áður.
"Það er löngu sannað, að atvinnuleysi veldur dauðsföllum. Hjartasjúkdómar eru fyrirferðarmestir. Samkvæmt nýlegri rannsókn veldur 1 % aukning atvinnuleysis 6 % aukningu á dánarlíkum ári síðar. Fjöldi annarra rannsókna víða um heim sýnir slíkt samhengi."
Í júlí 2020 voru 17´100 manns atvinnulaus. Ef hinar vanhugsuðu aðgerðir stjórnvalda í sóttvarnarmálum, einkum á landamærum, valda atvinnumissi 4000 manns, þá vex atvinnuleysið um a.m.k. 20 %. Samkvæmt því samhengi aukningar atvinnuleysis og dánarlíkinda atvinnuleysingja ári síðar, má ætla, að dánarlíkur yfir 20´000 manns á næsta ári aukist um 120 %, ef ekki rætist verulega úr atvinnuástandinu fljótlega. Dettur einhverjum í hug, að dánarlíkur einhvers annars 20´000 manna hóps á landinu meira en tvöfaldist við það að slaka á sóttvarnaraðgerðum í landin, sem sannanlega eru fyrirtækjum svo mikill fjötur um fót, að þau neyðast til að fækka starfsfólki ?
Þorsteinn Siglaugsson hélt áfram:
"Enginn má leggjast á spítala vegna Covid-19. En enginn hefur misst vinnuna til að fækka í þeim 25.000 manna hópi, sem árlega þarf að leggjast á spítala af öðrum orsökum. Enginn krefst allsherjarútgöngubanns til að fækka þeim 2300 dauðsföllum, sem verða af öðru en Covid-19. Hvers vegna þetta hrópandi misræmi ?"
Ætli fjöldi innlagna á spítala af völdum COVID-19 verði ekki undir 100 á árinu 2020. Það er 0,4 % af öllum innlögnum. Dauðsfallahlutfallið af völdum COVID-19 af öllum dauðsföllum verður líklega svipað á þessu ári. Stærsta atvinnugrein landsins er ein rjúkandi rúst, ríkissjóður safnar skuldum, sem nálgast mrdISK 1000, viðskiptajöfnuðurinn er í járnum og nú gengur á gjaldeyrisvarasjóðinn til að verja ISK, sem fallið hefur um næstum fimmtung frá upphafi Kófs. Allt er þetta með miklum ólíkindum og þarfnast sennilega alþjóðlegrar, geðfræðilegrar rannsóknar. Þorsteinn Siglaugsson nálgaðist útskýringu fyrir sitt leyti:
"Ástæðan er, að fókusinn á það, sem máli skiptir, er horfinn. Eitthvað eitt fær skyndilega vægi úr öllum takti við tilefnið. Þetta er ekki í fyrsta sinn. Í galdrafárinu varð galdrakukl, sem miðaldakirkjan leit á sem hindurvitni og fæstir höfðu áhyggjur af, skyndilega undirrót alls ills."
Það, sem máli skiptir hér og það, sem stjórnvöld hafa algerlega misst sjónar af, er að lágmarka hið samfélagslega tjón af þessum veirufaraldri. Í upphafi faraldursins var lítið vitað um hegðun veirunnar SARS-CoV-2 og áhrif hennar á líkamann, og þess vegna hilltust yfirvöld víða til að setja sóttvarnaraðgerðir á oddinn án tillits til alvarlegra efnahagslegra afleiðinga, sem aftur munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar og lífslíkur fjölmennra hópa ásamt þjónustugetu heilbrigðiskerfisins. Það ríkti og ríkir enn allt of mikil þröngsýni og skammsýni í þessum efnum með hrikalegum afleiðingum fyrir efnahag hins opinbera og margra fyrirtækja og einstaklinga.
Höfuðábyrgðina á þessum stórskaðlegu stjórnarháttum ber forsætisráðherra. Hún er ekki ábyrg fyrir kreppunni, en hún er ábyrg fyrir því, að ekki náðist viðspyrna í ferðaþjónustunni í sumar, heldur hélt allt áfram að síga á ógæfuhliðina f.o.m. 19. ágúst 2020.
"Yfirlýsingar forsætisráðherra um "meintan" árangur sýna, hvernig stjórnmálamenn geta misst sjónar á ábyrgð sinni gagnvart heildarhagsmunum samfélagsins. Ekkert skiptir lengur máli, nema fjöldi smita. Hið upphaflega markmið að tryggja afkastagetu heilbrigðiskerfisins og verja um leið þá hópa, sem viðkvæmastir eru, er löngu fokið út í veður og vind hérlendis."
Þegar hin göfugu stefnumið, sem Þorsteinn nefnir, fuku út um gluggann, og við tóku óljós stefnumið um "veirulaust" Ísland, þá tók að bera á gagnrýnisröddum, enda blasir við mörgum, að slíku má jafna við baráttu don Kíkóta við vindmyllurnar forðum, nema barátta ríkisstjórnarinnar er bein ógn við fjármálastöðugleikann í landinu, en barátta don Kíkóta fór mest fram í hans ruglaða höfði.
Frásögn Þorgerðar Önnu Gunnarsdóttur í Morgunblaðinu 11. september 2020 af upplýsingafundi Almannavarna um stöðu farsóttarinnar var með óttalegri fyrirsögn:
"Hlutfall virkra smita við landamæri tífaldast"
og hófst þannig:
"Hlutfall þeirra, sem greinast með virk smit við landamærin fer vaxandi, og skýrist það líklega af vaxandi útbreiðslu kórónaveirunnar erlendis. Hlutfall þeirra, sem höfðu virk smit við greiningu á landamærunum í júní og júlí var 0,03 %, en undanfarnar 3 vikur er hlutfallið 0,3 %."
Því ber að halda til haga, að vegna mikillar fækkunar komufarþega frá 19. ágúst 2020 hefur sýktum lítið sem ekkert fjölgað, þótt hlutfall þeirra hafi hækkað mikið. Er 0,3 % sýktra af COVID-19 í þýði hátt hlutfall á íslenzkan mælikvarða ? Því er hæpið að halda fram, því að það er aðeins 1/3 af hlutfalli íslenzku þjóðarinnar, sem talið er hafa smitazt af veirunni.
Ef nýgengið á landamærunum er athugað á tímabilinu 12. ágúst - 11. september 2020, þá hækkar það til 20. ágúst upp í 12,5, en lækkar síðan nánast stöðugt í 6,8 þann 11. september 2020. Þetta er hærra gildi en í júní - júlí, en þarf ekki að skjóta neinum skelk í bringu. Nýgengið á landamærunum er aðeins um helmingur af nýgenginu innanlands. Nýgengið á landamærunum um miðjan september 2020 var orðið svipað og í sumar.
Niðurstaðan er sú, að lítið aukin smithætta stafi yfirleitt af erlendum ferðamönnum, þótt seinni skimun og 5 daga sóttkví verði afnumin, t.d. fyrir þá, sem koma frá og eru frá landi með nýgengisstuðul NG<50, en væri þá haldið til streitu fyrir aðra, og öllum lögmætum ferðamönnum jafnframt heimiluð för til landsins. Einnig er rétt að viðhalda tvöfaldri skimun og sóttkví fyrir þá, sem búsettir eru hérlendis, því að smithættan frá þeim er mun meiri en frá öðrum. Það kom fram í téðri frétt Þorgerðar Önnu, að 60 % þeirra, sem greindir eru með virk smit á landamærunum, eru búsett á Íslandi, og 24 % eru íslenzkir ríkisborgarar. Í fréttinni stóð þetta einnig:
"Að sögn Þórólfs er skynsamlegast að fara mjög hægt í að aflétta takmörkunum á landamærum, og að ekki sé rétt að aflétta ráðstöfunum samtímis innanlands og á landamærum. Vinna við framtíðarútfærslu á skimunum m.t.t. mismunandi hagsmuna þarf að fara fram sem fyrst að sögn Þórólfs."
Það er almenn regla, þegar tilraunastarfsemi á sér stað, að breyta aðeins einni stærð í einu til að geta lagt mat á áhrif þeirrar breytingar. Þegar efnahagslegir hagsmunir landsins eru teknir með í reikninginn, er ekki hægt að skrifa undir það, að skynsamlegast sé að draga á langinn að létta á mest íþyngjandi ferðahömlununum á landamærunum, enda er ekki sama, hvernig það er gert. Það ætti að setja í forgang breytingar á sóttvarnaraðgerðum á landamærunum, og taka þar með aðra mikilvæga hagsmuni með í reikninginn, eins og Þórólfur segir. M.v. hina jákvæðu þróun ferðamannastraums til landsins í ágúst, sem stjórnvöld eyðilögðu með einu pennastriki 19. ágúst 2020, má gera ráð fyrir nettótapi gjaldeyristekna mrdISK 20-30 frá 19.08-31.12.2020. Það er líklegt, að ferðamenn leiti í auknum mæli eftir fámennum áfangastöðum í löndum með tiltölulega litla smithættu. Það er þess vegna ekki hægt að draga ályktanir fyrir Ísland af þróun ferðalaga t.d. til Spánar, eins og sézt hefur bregða fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2020 | 10:45
Stjórnkerfi sóttvarna er ábótavant
Hlutverk Sóttvarnarlæknis er að varpa upp valkostum fyrir yfirvöld um sóttvarnaraðgerðir eða að gera til þeirra tillögur um sóttvarnir. Eðli máls samkvæmt eru tillögur Sóttvarnarlæknis gerðar út frá þekkingu hans og mati á því, sem sóttvarnarlega er bezt, en er það endilega þjóðhagslega bezt eða bezt til þess fallið að lágmarka hið samfélagslega tjón af heimsfaraldri ? Svarið markast af því við hvers konar heimsfaraldur er að eiga.
Ef heimsbyggðin hefði t.d. þurft að kljást við þann skelfilega sjúkdóm ebólu, sem geisaði í Vestur-Afríku 2013-2016, en tókst með harðfylgi að kveða niður, og nú hefur verið þróað bóluefni gegn, þá er lítill vafi á því, að beztu sóttvarnaraðgerðirnar eru jafnframt samfélagslega hagkvæmastar, af því að þær lágmarka tjónið. Ebóluveiran var bæði bráðsmitandi og bráðdrepandi. Alls er vitað, að 28´616 sýktust og af þeim létust 11´310 úr þessum innvortis blæðingasjúkdómi, sem gefur dánarhlutfall CFR=40 %, og dánarhlutfall sýktra á sjúkrahúsum var 60 %.
Til samanburðar er dánarhlutfall COVID-19 greindra á Íslandi CFR=0,5 % og IFR=0,3 %, þ.e. dánarhlutfall þeirra, sem taldir eru hafa sýkzt af SARS-CoV-2-veirunni hérlendis. Fyrir aldurshópinn 0-70 ára er IFR=0,1 %, sem er sambærilegt við það, sem þekkist í inflúenzufaröldrum. Þegar þannig háttar til með hættuna, sem af faraldri stafar, eins og COVID-19, þá aftur á móti þarf að taka tjónið af sóttvarnaraðgerðunum með í reikninginn áður en ákvörðun um þær er tekin. Gagnrýnisefnið er, að það virðist alls ekki hafa verið gert hingað til hérlendis.
Allar sóttvarnaraðgerðir eru íþyngjandi fyrir atvinnulíf og einstaklinga. Í Morgunblaðsgrein Þorsteins Siglaugssonar 11. september 2020 kom fram, að fyrir hvert 1 % viðbótarstig atvinnuleysis ykjust dánarlíkur þeirra, er fyrir því yrðu, um 6 % ári seinna. Þegar aukið atvinnuleysi í landinu af völdum núverandi sóttvarnaraðgerða, einkum á landamærunum, er athugað, kemur í ljós, að lífslíkur fleira fólks en smitazt hafa af kórónaveirunni hingað til hérlendis munu rýrna umtalsvert á Íslandi af völdum sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Þessu verða gerð betri skil síðar. Sóttvarnaraðgerðir eru þannig dauðans alvara frá fleirum en einu sjónarhorni. Hamlandi aðgerðir fyrir komufarþega eru mestar á landamærum Íslands af öllum EES-löndunum samkvæmt samantakt Evrópusambandsins. Það eitt ætti að hringja aðvörunarbjöllum á skrifstofum ráðherranna og í þingflokksherbergjum. Íslenzk stjórnvöld hafa farið offari í þessum efnum, þvert á það, sem þau fullyrða sjálf, og þannig fórnað meiri hagsmunum fyrir minni. Þessi staða ber vott um óvönduð vinnubrögð og dómgreindarleysi forsætis- og heilbrigðisráðherra.
Gunnlaugur H. Jónsson skrifaði merka grein í Fréttablaðið 10. september 2020 undir fyrirsögninni:
"Opnum landamærin fyrir farþegum sem ólíklega smita".
Hún hófst þannig:
"Í þessari grein eru færð rök fyrir breyttum aðferðum við skimun á landamærum. Við þurfum að opna landamærin, því [að] það er mikilvægt heilbrigðis- og félagsmál. Þetta snýst ekki eingöngu um sóttvarnir. Jafnmikilvægt er almennt heilbrigði í landinu, og þar er atvinnuleysi mikill áhættuliður. Rannsóknir sýna, að atvinnumissir er eitt alvarlegasta áfall, sem fullorðnir einstaklingar verða fyrir á eftir ástvinamissi og skilnaði (Holms and Rahe)."
Þarna kveður við allt annan tón en heyrzt hefur frá stjórnvöldum, og það má furðu gegna, að þau skuli vera gjörsamlega vanbúin til að fást við þetta viðfangsefni á vitrænan hátt. Gunnlaugur mælir fyrir svipaðri nálgun á viðfangsefninu og pistlahöfundur þessarar vefsíðu o.fl.
Tillaga Gunnlaugs er að skipta komufarþegum í 3 hópa eftir smithættu í heimalandi og brottfararlandi til Íslands. Farþegar í A-flokki (vegabréf og brottfararland) fari í einfalda eða enga skimun. Farþegar í B-flokki fari í tvöfalda skimun án sóttkvíar. Farþegar í C-flokki fari í tvöfalda skimun með sóttkví.
Þetta eru virðingarverðar tillögur, en flokkur B skilar takmörkuðum ávinningi m.v. flokk A, því að sýktir, sem ekki greinast í fyrri skimun, smita í 5 daga fram að seinni skimun. Á móti telur höfundur þessa pistils engan komufarþega nægilega örugglega heilbrigðan til að sleppa við skimun, nema hann geti sýnt gilt vottorð um ónæmi.
Meginhugsunin er góð, þ.e. að opna landamærin gegn nægilegum sóttvarnarráðstöfunum. Þar mætti t.d. fyrst um sinn nota viðmiðunargildi Evrópusambandsins (ESB) í skjalinu
"Travel and transportation during the coronavirus pandemic",
en það er nýgengisstuðullinn NG=50. Ef NG<50 verði skimað einu sinni og ef NG_> 50, þá verði skimað tvisvar með sóttkví á milli.
Þann 8. september 2020 birtist mjög góð grein í Morgunblaðinu eftir Karl Rútsson, rafeindavirkja og tækjahönnuð, sem hann nefndi:
"Og hvað svo og hvað svo".
Karl telur stjórnvöld hér og erlendis hafa farið offari í viðbrögðum sínum við SARS-CoV-2-veirunni með alvarlegum afleiðingum fyrir efnahag landsins og fjárhag fjölda heimila. Þetta blasir nú við, og það er með eindæmum, að yfirvöld landsins skuli ekki sjá þetta og grípa í taumana áður en óþarfa tjón verður enn þá meira.
Karl skrifaði m.a.:
"Bara á Íslandi deyja tugir úr lungnabólgu árlega, mun fleiri en hafa dáið hér úr COVID-19 til þessa. Það er ekki mikið í fréttum. Árlega deyja milli 10 og 20 manns á Íslandi í umferðarslysum, ungir sem aldnir. Það væri auðvelt að breyta því, ef beitt væri jafnharkalegum aðgerðum og gegn COVID-19. Er vilji fyrir því ?"
Þarna þrýstir Karl á kýli, sem búið hefur um sig í öllu Kófinu. Hvers vegna eru hafðar uppi íþyngjandi og kostnaðarsamar sóttvarnaraðgerðir gegn COVID-19, þegar önnur og skeinuhættari fyrirbrigði leika lausum hala ? Nú er tekið að halda því fram, að sóttvarnaraðgerðir íslenzkra stjórnvalda séu ekki öfgafullar í samanburði við útlönd. Þetta er villandi málflutningur, því að þær eru mjög öfgafullar, þegar tekið er tillit til þess, sem er í húfi. Dauðsföll á tíma Kófsins hafa hérlendis hingað til verið færri en að meðaltali á sama tímaskeiði undanfarin 3 ár.
Í Bylgju 2 hefur fjöldi samtíma innlagna á sjúkrahús ekki farið yfir 1 og yfirleitt enginn verið í gjörgæzlu. Enginn hefur látizt af völdum COVID-19 í Bylgju 2. Samt er haldið uppi sóttvarnaraðgerð á landamærum, sem er að kyrkja stærstu atvinnugrein landsins og haldið er uppi skrýtnum fjöldatakmörkunum í þreksölum og sundlaugum auk íþyngjandi fjöldatakmarkana á mannamótum, þ.á.m. í réttum landsins, og þar má helzt ekki hafa söngvatn um hönd. Öðru vísi mér áður brá.
Er yfirvöldum landsins ekki sjálfrátt ? Lögmenn hafa bent á, að slík hegðun stjórnvalda styðjist hvorki við Stjórnarskrá né stjórnsýslulög. Samt lemja stjórnvöld hausnum við steininn og þykjast vera að verja líf og heilsu landsmanna. Þau eru á kolröngu róli.
"Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig öll heimsbyggðin hefur sameinazt í allsherjar múgsefjun við að forðast jafnhættulitla veiru og hér um ræðir; líklega er hér að raungerast máttur nútíma fjölmiðla og samskiptamiðla, upplýsingarnar berast beint í vasa allrar heimsbyggðarinnar á sekúndubroti, og svo apar hver eftir öðrum og allri gagnrýni er ýtt til hliðar; hræðslan við dauðann kyndir bálið. Þó er dauðinn það eina, sem víst er, að alla hendir, og aldnir og veikburða eiga augljóslega stytzt eftir."
Það á eftir að gera Kófið upp, reyna að útskýra viðbrögð stjórnvalda og leggja mat á árangur þeirra, kostnað og tekjutap landsins. Ekki er ólíklegt, að niðurstaðan verði sú, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi víða farið á taugum, þegar þeir stóðu andspænis nýrri veiru frá Wuhan í Kína. Kostnaðurinn verður líklega metinn margfaldur á við ávinning aðgerðanna.
Það er hárrétt að reyna að einangra hópsmit, eins og Þjóðverjar hafa einhent sér í og Kínverjar gerðu með árangri í Wuhan, en þaðan og til þess að drepa heila atvinnugrein í dróma á heimsvísu og þar með stærstu atvinnugrein sumra landa er langur vegur. Það er líka sjálfsagt að verja viðkvæma hópa, beita persónulegum sóttvörnum og skimun á landamærum að vissu marki.
Með því að valda fjöldaatvinnuleysi með aðgerðum stjórnvalda eru þau hins vegar að kalla yfir þjóðfélagið mikið böl og persónulega harmleiki, sem eru líklega þungbærari en þeir, sem reynt er að forða með aðgerðunum. "The Show must go on."
"Nú er heimsbyggðin nánast rjúkandi rúst efnahagslega, og afleiðingarnar samt varla farnar að koma í ljós, framundan eru óteljandi gjaldþrot, atvinnuleysi og eignamissir, og víða í heiminum mun fólk á bezta aldri deyja í þúsundavís beint og óbeint af völdum þessara manngerðu hamfara.
Stundum er lækningin verri en sjúkdómurinn; ég held, að það eigi heldur betur eftir að koma í ljós í þessu tilfelli."
Karl Rútsson er glöggur og réttsýnn maður, sem ekki fer með neitt fleipur. Það er því miður líklegt, að yfirvöld víða hafi verið of ómarkviss og valdið miklu meira tjóni en nemur tjóninu, sem aðgerðirnar áttu að afstýra. Yfirvöld þykjast vera að bjarga mannslífum, en afleiðingar gjörða þeirra hafa valdið heimskreppu og orðið og munu verða fjölmörgum að fjörtjóni.
Á Íslandi náði sjúklingafjöldinn hámarkiinu 122 í Bylgju 2 þann 18. ágúst 2020 og hefur síðan lækkað yfir 40 %. Sjúkrahúsin eru fjarri þolmörkum. Hvað réttlætir þá hænufet, eins og hækkun aðgengis þrekstöðva og sundstöðva úr 50 % í 75 % og samkomutakmarkana úr 100 í 200 ? Hvers vegna ekki 100 % og 1000 með persónulegum sóttvörnum og tilslökun á landamærunum í von um, að meira líf færist í ferðamannaiðnaðinn og fólk verði vart minni þvingana innanlands ? Það verður að hafa í huga, að sóttvarnarráðstafanir eru rándýrar, og sumar skila þær sáralitlu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.9.2020 | 13:17
Er aðferðarfræðin óboðleg ?
Fréttablaðið hefur haldið uppi málefnalegri gagnrýni á sóttvarnarstefnu stjórnvalda í ritstjórnargreinum a.m.k. frá tilkynningu ríkisstjórnarinnar um tvöfalda skimun og sóttkví komufarþega til landsins, enda er það skoðun ýmissa, að í ljósi þeirra tiltölulega fáu landa, sem ferðamenn eru leyfðir frá til Íslands, sé um allt of íþyngjandi aðgerðir m.v. tilefni að ræða og keyri fram úr meðalhófi af þeim sökum.
Fréttablaðið hefur líka birt viðtal við læknaprófessorinn Jón Ívar Einarsson. Sá fræðimaður í Harvard á heiður skilinn fyrir framlag sitt til umræðunnar á Íslandi. Fyrir það hefur hann þó hlotið ómálefnalega ágjöf (Kárínu) úr Vatnsmýrinni, sem ber að harma.
Kolbrún Bergþórsdóttir skrifaði m.a. í forystugrein Fréttablaðsins 3. september 2020:
"Á tímum, eins og þessum, er mikilvægt að spyrja spurninga, en taka ekki boði og bönnum stjórnvalda, eins og algerlega sjálfsögðum hlut. Það þarf að þráspyrja, hvort aðgerðir, sem takmarka mannréttindi fólks, valda því stórfelldum fjárhagsskaða og atvinnumissi, séu raunverulega nauðsynlegar. Ein mikilvægasta spurningin er, hvort ástæða hafi verið til að leggja efnahagskerfi heimsins svo að segja í rúst vegna COVID. Það þarf að spyrja, og svörin verða að koma og mega ekki vera: "Af því bara".
Kolbrún minnist á heimshagkerfið, sem er að vísu ekki í rúst, þótt hlutar þess (ferðaþjónustan) séu það, en það er mjög illa laskað með 10 % - 20 % samdrætti vergrar landsframleiðslu (VLF) víða. Á Íslandi var höggið deyft með hrikalegum hallarekstri hins opinbera, sem er umdeilanleg hagspeki. Opinberar hlutfallstölur um dauðsföll sýktra hafa verið að lækka á þessu hálfa ári, sem COVID-19 hefur hrellt heiminn (a.m.k. 9 mánuði í Kína), en heildarfjöldinn mun nú nema um 0,9 M (M=milljón).
Árlega látast um 8,0 M manns af tóbaksneyzlu og 3,0 M manns vegna ofneyzlu áfengis. Ekki hefur höfundur þessa pistils séð áætlaðar tölur um, hversu mörgum sóttvarnaraðgerðir yfirvalda í heiminum hafi bjargað, en það eru varla fleiri en þeir, sem árlega hverfa yfir móðuna miklu af völdum glímu sinnar við Bakkus. Sóttvarnaraðgerðir yfirvalda á Íslandi valda meiri mannlegum harmleik en þær hindra og kunna að valda fleiri dauðsföllum en þær koma í veg fyrir. Þetta er vegna hinna voveiflegu afleiðinga, sem sóttvarnaraðgerðir hafa á efnahag fyrirtækja og fjárhag einstaklinga.
Að missa atvinnuna er eitt versta áfallið, sem fólk verður fyrir, og það hefur margvísleg neikvæð áhrif á heilsufarið. Að skrúfa fyrir megnið af ferðamannastrauminum til landsins 19.08.2020, sem þó var áður stórlega skertur, er dæmi um kolranga aðgerð og langt utan þess meðalhófs, sem skynsamlegast er að viðhafa í þessum efnum. Trilljónir bandaríkjadala hafa farið í súginn á heimsvísu í þessum faraldri á 6 mánaða tímabili, en árangurinn virðist vera sorglega lítill m.v. tilkostnaðinn, svo að ekki sé minnzt á þá mannlegu harmleiki, sem stjórnvöld hafa valdið með aðgerðum sínum (fjárhagshrun).
Til að færa sig á heimaslóðir með þetta mál er rétt að vitna í forystugrein Fréttablaðsins 4. september 2020, sem Hörður Ægisson skrifaði og hann nefndi:
"Traustið farið".
"Ráðherrar hafa fullyrt, að ekki sé stefnt að veirufríu samfélagi, en með síðustu aðgerðum, þegar landamærum var í reynd lokað, vegna þess að ekki náðist að stöðva alfarið, að sýktir einstaklingar kæmust inn í landið, fer hljóð og mynd ekki lengur saman.
Sjónarmið, sem byggjast að hluta á órökstuddri hræðslu og kvíða, eru nú látin ráða för. Afleiðingarnar af slíkri stefnu, sem eru síður sýnilegar og koma fram yfir lengri tíma, eiga eftir að valda gríðarlegu samfélagslegu tjóni, m.a. á lífi og heilsu fólks, og snerta yngra fólk frekar en eldra.
Við vitum nú, að dánartíðni af völdum veirunnar er mun minni en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir. Samkvæmt nýrri rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar er dánartíðni þeirra, sem sýkjast hérlendis, um 0,3 %, en 0,1 % hjá þeim, sem eru yngri en 70 ára. Slíkar staðreyndir hljóta að skipta lykilmáli við ákvarðanir um, hversu langt eigi að ganga í sóttvarnaraðgerðum. Staðan er sú hin sama í öðrum ríkjum. Tíðni smits hefur vissulega aukizt, en á sama tíma er ekki að merkja neina aukningu hjá þeim, sem veikjast alvarlega eða deyja. Ungu fólki, stærsta hópnum sem er að greinast, stendur ekki alvarleg ógn af veirunni - og það er engum greiði gerður með því að ala á hræðsluáróðri, sem fullyrðir hið gagnstæða. Fólk er ekki fífl, og ef gögnin sýna annað en skilaboð stjórnvalda, þá mun almenningur hætta að taka mark á þeim.
Ljótt er, ef satt er, að sjónarmið, reist á "órökstuddri hræðslu og kvíða" ráði nú för sóttvarnaryfirvalda. Gera þau sér grein fyrir því gríðarlega tjóni, sem þau hafa með sóttvarnaraðgerðum, samþykktum af heilbrigðisráðherra með handayfirlagningu ríkisstjórnar, valdið þjóðinni, efnahagskerfi hennar og hag og heilsu einstaklinganna ? Hver er ávinningur þessara aðgerða í fækkun sýkinga, fækkun innlagna á spítala, fækkun gjörgæzlusjúklinga og fækkun dauðsfalla ? Hvaða áhrif mundi það hafa á nýgengi COVID-19, ef fjöldatakmarkanir sóttvarnayfirvalda að sundlaugum og líkamsræktarstöðvum yrðu afnumdar strax og skorður við hópamyndun, innan og utanhúss, t.d. í réttum, hækkaðar úr 200 í 1000 gegn grímu- og hanzkaskyldu, þar sem fleiri en 200 koma saman innanhúss ?
Sennilega myndi innlögnum ekkert fjölga, og lítið sem ekkert hægja á lækkun nýgengis. Í bylgju #2 hefur heildarnýgengisstuðull, NG, aldrei nálgazt viðmið Evrópusambandsins, ESB, um lönd, sem óráðlegt er talið að ferðast til og taka við farþegum frá án skimunar, en það er NG>50. Þetta eitt og sér bendir til brots yfirvalda á meðalhófsreglu Stjórnsýsluréttar, því að hingað má aðeins fólk frá löndum, völdum af ESB, ferðast. ESB setur ekki skilyrði um neina skimun á landamærum. Þegar jafneinfalt ákvörðunartökulíkan er notað og hérlendis, þ.e. að fara þá leið, sem Sóttvarnalækni finnst gefa bezta sóttvarnarlegu niðurstöðu hverju sinni, verður meðalhófsreglan óhjákvæmilega í stöðugu uppnámi.
Mikilvægast fyrir efnahag landsins er þó að móta stefnu í sóttvarnarmálum landamæranna. Það er algerlega óráðið ferli, sem virðist ráða því, hvaða skilyrðum komufarþegar hafa sætt síðan 15.06.2020 og munu sæta. Fálm út í loftið mætti segja. Þetta ástand hefur kollsteypt ferðaþjónustunni í landinu, valdið og mun valda persónulegum harmleikjum og efnahagskreppu í landinu. Að láta sem svo, að "bezta sóttvarnaraðgerðin" sé sjálfsögð lausn á flókinni stöðu, er ofeinföldun og má líkja við hegðun strútsins, sem velur þá aðgerð, þegar hann mætir vanda, að stinga hausnum í sandinn.
Það á að setja reglu um einfalda skimun allra komufarþega og smitgát fram að niðurstöðu hennar, á meðan fjöldi sjúklinga COVID-19 í landinu er undir fjöldanum X, en þá verði sett á núgildandi tvöfalda skimun. Þennan fjölda X þarf að reikna út, hver má vera án þess að hverfa aftur til tvöfaldrar skimunar á landamærum. Hann er vafalaust miklu hærri en nokkurn tímann varð í s.k. Bylgju 2 og sennilega hærri en hámark veikra af COVID-19 í Bylgju 1.
Þann 5. september 2020 birtist viðtal við Jón Ívar Einarsson, læknaprófessor við Harvard-háskóla í Fréttablaðinu. Hér verður gripið ofan í það:
""Það hefur sumum fundizt undarlegt, að kvensjúkdómalæknir sé að tjá sig um þessi mál, en ég er líka með meistaragráðu í lýðheilsufræði frá Harvard og doktorsgráðu frá HÍ og hef verið á kafi í vísindastarfi í mörg ár. Ég er því frekar að tala út frá þeirri reynslu og sjónarhorni og velti vöngum yfir því, hvaðan þessi gagnrýni kemur. Eru þetta fordómar gagnvart konum ? Væri hún hin sama, ef ég væri hjartalæknir ?, spyr Jón."
Framlagi Jóns Ívars til umræðunnar á Íslandi ber að fagna, enda er það á meðal þess fróðlegasta, sem hérlendis hefur komið fram. Önugheit út í hann vegna starfsgreinar hans eða starfsstaðar eru óskiljanleg og ókurteisleg, jafnvel götustráksleg, að öllu leyti.
"Hann bendir á, að gögn um það, hve margir, sem greinzt hafi, hafi látið lífið vegna sjúkdómsins (e. Case Fatality Rate) [CFR], sé um 3 %. "Og er reyndar líka u.þ.b. 3 % fyrir inflúenzu. Þetta skiptir máli vegna þess, að það er enginn að segja, allra sízt ég, að COVID sé ekki alvarlegur sjúkdómur, en það þarf samt að byggja allar ráðstafanir og ákvarðanir á raunverulegum tölum.""
Ef CFR fyrir COVID-19 og inflúenzu eru jafnar, þá er réttmætt að spyrja yfirvöld í landinu, hvernig standi á margfalt umfangsmeiri og dýrari sóttvarnaraðgerðum vegna annarrar pestarinnar en ekki hinnar, eða hvort búast megi við nákvæmu eftirliti með því á landamærunum í vetur, að komufarþegar beri ekki með sér flenzuveiruna ? Í þessu ljósi eru síðustu ráðstafanir um hækkun fjöldatakmarkana úr 100 í 200 og í sundlaugum og þreksölum úr 50 % í 75 % hégómlegar og án annars rökstuðnings en um fækkandi sjúklinga og lækkandi nýgengi. Hvers vegna þá ekki 1000 og 100 %.
"Stjórnmálamenn þurfa að hafa réttar upplýsingar, svo að þeir geti tekið ákvarðanir, sem eru í meðalhófi, sem eru beztar fyrir heildina."
Stjórnmálamenn þurfa meira en réttar upplýsingar. Þeir þurfa verkfæri, líkan, sem reiknar fyrir þá bezta valkostinn hverju sinni m.t.t. lágmörkunar hins samfélagslega tjóns. Hið frumstæða tréhestalíkan heilbrigðisráðherra gefur oftast ranga niðurstöðu, og í núverandi stöðu eins COVID-19 sjúklings á spítala af um 70 sjúklingum og NG tæplega 20 (nýgengi) gefur tréhestalíkanið kolranga niðurstöðu, sem leiðir til gríðarlegs þjóðhagslegs taps. Tréhestalíkanið varpar tillögunni, sem sóttvarnarlæknir telur þjóna sóttvörnum bezt, yfir á lausnarhliðina sem beztu lausn. Forsætisráðherrann telur sömuleiðis tréhestalíkanið fullnægjandi. Ferðamálaráðherrann fær ekki rönd við reist.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt, að núverandi sóttvarnarfyrirkomulag á landamærum og annars staðar verði ekki látið standa deginum lengur en nauðsyn krefur. Hann ætti núna að berja í borðið og segja nóg komið af öfgaaðgerðum. Héðan í frá samþykki hann ekki annað en það, sem flokka má til meðalhófs, og sýna verði fram á lágmörkun samfélags kostnaðar með þeirri leið, sem lögð er fram til samþykktar.
Síðan víkur Jón Ívar að verðmætamati á lífi, sem yfirleitt er reynt að víkjast undan, nema valþröng komi upp í neyðarástandi:
""En svo er önnur umræða, sem er eiginlega enn þá erfiðari: eru öll líf jafndýrmæt ? Auðvitað er fyrsta hugsun allra, sem spurðir eru: já. En hins vegar má alveg færa rök fyrir því, að líf konu á þrítugsaldri, sem er tveggja barna móðir, er það kannski meira virði en líf 85 ára gamallar konu ?"
Jón Ívar segir, að þessi umræða sé fyrirferðarmikil innan læknavísindanna. Hann bendir á, að við sem samfélag höfum þegar sett ákveðið fjárhagslegt mat á líf.
"T.d. ef það verður dauðsfall af læknamistökum við fæðingu barns, versus ef það verða læknamistök hjá einstaklingi, sem er á áttræðisaldri, að þá eru skaðabæturnar margfalt hærri í tilfelli barnsins, því [að] okkur finnst sem samfélagi, að líf þess sé þá meira virði í raun. En þetta er anzi flókin umræða og tilfinningahlaðin. Það er kannski ekki alveg rétt að taka eitt dauðsfall á móti einu dauðsfalli; það flækir þessa umræðu svo frekar"."
Þegar hannað er líkan til að aðstoða við ákvarðanatöku um sóttvarnaraðgerðir, þarf að taka bæði meðalkostnað af sýkingu og dauðsföllum með í reikninginn. Þessar vangaveltur eiga þess vegna erindi inn í umræðuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.9.2020 | 11:38
Of kröftugt meðal fyrir sjúklinginn
Alræmt er orðtakið: "meðalið læknaði sjúkdóminn, en drap sjúklinginn". Þótt furðulegt megi heita, hefur ríkisstjórnin valið þá leið í smitvörnum gegn COVID-19, sennilega af dómgreindarleysi fremur en vilja til að leggja fyrirtæki í rúst og senda fjölda manns á vonarvöl atvinnuleysis.
Afleiðingin af slíku er auðvitað bullandi hallarekstur ríkissjóðs, viðskiptahalli og fjármálalegur óstöðugleiki með gengisfalli ISK. Svona gera menn ekki, nema önnur neyð og öllu verri skapist annars. Engin slík þróun var í augsýn um miðjan ágúst 2020, þegar tilkynnt var um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um tvöfalda skimun komufarþega fyrir COVID-19 og 5 daga sóttkví, þar til niðurstaða beggja skimananna væri ljóslega neikvæð.
Það er hræðsluáróður, að ella hefði eðlileg starfsemi í landinu verið í húfi. Þá er gengið út frá öfgafullum og ónauðsynlegum viðbrögðum við lítils háttar fjölgun smita, sem trufla mundu eðlilega starfsemi í landinu algerlega að þarflausu. Stefnumið um Ísland laust við SARS-CoV-2 er óraunhæft, og sú stefna útheimtir aðgerðir, sem engin stoð er fyrir, hvorki í Stjórnarskrá né lögum. Slík öfgastaefna kostar margfalt meira en hún sparar. Alþingi þarf að taka í taumana, þegar það kemur næst saman.
Kolbrún Bergþórsdóttir hefur orðið þess áskynja, að stjórnmálamenn saga nú greinina, sem margir sitja á, frá stofninum, sem er tekjustreymi frá útlöndum um ferðaþjónustuna. Hún hefur áttað sig á, að "something is rotten in the state of Danemark", þar sem Danmörk í þessu tilviki stendur fyrir Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu. Leiðari hennar í Fréttablaðinu 3. september 2020 hét "Spurningar" og hófst þannig:
"Þótt fréttaflutningur bendi æði oft til annars, þá eru jarðarbúar ekki að stráfalla úr COVID, þótt pestin sé vissulega skæð. Tölur yfir það, hversu margir hafa látizt, eru háar, svona einar sér, en þegar þær eru settar í samhengi við fjölda jarðarbúa, má velta fyrir sér, hvort heimsbyggðin, og þar með fjölmiðlar, hafi hreinlega farið á taugum á síðustu vikum og mánuðum. En sumt má víst ekki tala um, og vangaveltur í þessa átt eru sízt fallnar til vinsælda nú um stundir."
Þetta er rétt athugað. Óaflátanlegar fréttir af smitum, mannslátum og yfirkeyrðum sjúkrastofnunum erlendis í vetur og vor voru til þess fallnar að skapa almennan ótta og gagnrýnisleysi á sóttvarnaraðgerðir. Nú er ráðrúm til að skoða tölfræði Kófsins og setja tölur þess í samhengi til að átta sig á því, hvers konar skepna þetta er (Wuhan-veiran).
Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, birti lofsverðar upplýsingar í grein sinni:
"Hversu líklegt er að deyja af völdum Covid ?"
í Morgunblaðinu, 3. september 2020. Hann nefnir til sögunnar stærðirnar IFR ("Infection Fatality Rate"), sem er hlutfall sýktra (ekki aðeins greindra), sem deyja, og CFR (Case Fatality Rate), sem er hlutfall greindra, sem deyja. Ný rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) bendir til, að hérlendis sé IFR=0,3 %, en hins vegar er CFR=0,47 %. Hjá fólki yngra en sjötugu er IFRy70=0,1 %. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, áætlaði dánartíðni af völdum COVID-19 sjúkdómsins 3,2 % í marz 2020, líklega á grundvelli talna frá Kína. Daglegar dánarhlutfallstölur frá Kína voru reyndar þegar í upphafi grunsamlegar, því að þær hefðu getað verið fyrirskipaðar, svo stöðugar voru þær. Þessi áætlun WHO er meira en tífalt íslenzka dánarhlutfallið, IFR. Nú reynist dánarhlutfallið, IFR, afar misjafnt eftir löndum og einna lægst á Íslandi.
Fróðlegt er að bera dánarhlutfall af völdum COVID-19 saman við dánarhlutfall af völdum inflúenzu. Á Íslandi er IFRi: 0,1 %-0,2 %, þrátt fyrir bólusetningar. Það má segja, að dánarhlutfallið sé sambærilegt fyrir þessa 2 sjúkdóma, en eftirköst eru algengari og e.t.v. alvarlegri eftir COVID-19. Langvinn og margvísleg eftirköst eru þó algeng í kjölfar veirusjúkdóma.
Í ljósi þessa má draga þá ályktun, að ekkert samræmi sé í tillögum sóttvarnaryfirvalda til ríkisstjórnarinnar um sóttvarnaraðgerðir, þegar litið er til hættunnar af hinum mismunandi sjúkdómum, nema gagnvart umönnunarstofnunum veiklaðra einstaklinga, COVID-19 sækir þá harkalega heim. COVID-19 er þeim hættulegur sjúkdómur, og þeir þarfnast sérstkrar verndar. Að öðrum kosti munu þeir yfirlesta sjúkrahúsin. Þessi þáttur er til fyrirmyndar hérlendis og er ein skýringin á litlu sjúkrahúsálagi og lágu dánarhlutfalli sýktra af COVID-19.
Jón Ívar Einarsson rekur dánartíðnina eftir aldri:
"T.d. sýnir nýleg rannsókn, þar sem tekin eru saman gögn frá mörgum löndum (m.a. Íslandi), að IFR fyrir 0-34 ára er 0,01 % (1/10´000), og 35-44 ára 0,06 % (1/1´667). Hins vegar er IFR fyrir aldurshópinn 75-84 ára 7,3 % og fyrir 85 ára og eldri 27,1 %. Þetta tekur ekki inn í myndina áhættuþætti. Þannig myndi hraustur ungur einstaklingur hafa enn lægri dánartíðni, en eldri einstaklingur með undirliggjandi sjúkdóma enn hærri dánartíðni."
Hvaða ályktanir ber að draga af þessari tölfræði Jóns Ívars Einarssonar ? Í fyrsta lagi eru sóttvarnarráðstafanir á landamærunum fram úr öllu hófi íþyngjandi, því að þær hafa kippt fótunum undan ferðaþjónustunni í landinu og valdið samfélaginu milljarðatjóni án teljandi sparnaðar, jafnvel þótt sýna mætti fram á, að nýgengisstuðullinn fari lækkandi vegna miklu færri erlendra ferðamanna í landinu. Leggja ætti af takmarkanir á ferðafrelsi til og frá landinu, þ.e. öllum lögmætum farþegum verði heimil för, gegn einfaldri skimun og smitgát fram að niðurstöðu ellegar 14 daga sóttkví á kostnað ferðalangs.
Spyrja má, hvort ætlunin sé að setja samfélagið á annan endann, ef hingað berst skæður flenzufaraldur í vetur, en dánarlíkur af völdum slíks eru svipaðar og af COVID-19.
Í öðru lagi þarf að beina sóttvörnum aðallega að eldri borgurum og að fólki með langvarandi sjúkdóma og/eða veiklað ónæmiskerfi.
Í þriðja lagi eiga íþyngjandi almennar sóttvarnaraðgerðir innanlands á borð við 200 manna samkomutakmörkun og 75 % fjöldatakmörkun á sundstöðum og í þreksölum engan rétt á sér lengur. Engin rök standa gegn afnámi þessara takmarkana gegn fullri smitgát á borð við andlitsgrímur og plasthanzka á viðburðum yfir 200 manns og sótthreinsun hvers tækis í þreksölum eftir brúk. Sjálfsagt er að viðhafa 1,0 m fjarlægðarreglu þar. Sótthreinsun í verzlunum er líka mikilvæg, enda mun hún jafnframt draga úr umgangspestum á vetri komanda. Á veitingahúsum þarf að gæta að smitgát með grímum og plasthönzkum starfsfólks.
Einstaklingsbundnar sóttvarnarráðstafanir eru nauðsynlegar til að s.k. smitstuðull, þ.e. fjöldi þeirra, sem hver sýktur smitar, verði minni en 1 að jafnaði. Þannig verða veirur, sem til landsins berast, og það munu þær óhjákvæmilega gera, skaðlitlar. Bakkus gefur skít í sóttvarnir, og hans staðir verða að taka afleiðingunum af aðgangstakmörkunum. Verst, að sóttvarnir skána ekki undir yfirborði jarðar.
Hér kemur meira úr grein Jóns Ívars:
"Það er hlutfallslega fleira yngra fólk að smitast í þessari bylgju, og það skýrir sennilega að mestu, að hún virðist vægari. Nýleg rannsókn frá Oxford-háskóla, byggð á gögnum Medical Research Council Biostatistics Unit á Englandi, sýnir líka, að IFR hefur farið lækkandi í sumar, en á tímabilinu júní til ágúst 2020 lækkaði IFR úr u.þ.b. 0,7 % niður í 0,3 % og virðist enn á niðurleið. Það er ekki ólíklegt, að þetta sé a.m.k. að hluta vegna þess, að nú séu hlutfallslega fleiri ungir og hraustari einstaklingar að sýkjast."
Nú eru þjóðfélögin að aðlagast SARS-CoV-2 veirunni með því að halda uppi sérstökum smitvörnum fyrir þá, sem fremur ólíklegir eru til að ráða niðurlögum veirunnar sjálfir. Þá hafa og komið fram lyf, sem virðast hjálpa sjúklingum í baráttunni við veiruna. Það eru hins vegar engin "Wunderwaffen" eða dásemdarvopn handan við hornið. Ekki er skynsamlegt að búast við viðurkenndum bóluefnum innan árs, því að langan tíma tekur að ganga úr skugga um virkni og skaðleysi bóluefnis og að framleiða það í magni, sem dugi til hjarðónæmis í samfélögum.
"IFR er einn af þeim þáttum, sem þarf að taka tillit til, þegar teknar eru ákvarðanir um samfélagslegar aðgerðir út frá heildrænu sjónarmiði. Vissulega eru afleiddir kvillar Covid líka mikilvægir, og þarf að rannsaka [þá] betur. Það er hins vegar ekki heillavænlegt að keyra á hræðsluáróðri til lengdar, því [að] fólk á Íslandi er skynsamt og vel upplýst, og ef gögn styðja ekki skilaboðin, þá fjarar smám saman undan samstöðunni. Það er líka mikilvægt, að stjórnmálamenn taki ákvarðanir sínar, byggðar á nýjustu og beztu upplýsingum."
Ríkisstjórnin, þá aðallega heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra, hafa algerlega brugðizt í þessu máli. Ráðherrarnir hafa ekki haft uppi neina tilburði til að leggja sjálfstætt mat á málið. Ráðherrarnir ættu þó að vita af biturri reynslu áranna 2009-2013, þegar þær sátu í ríkisstjórn, að þegar fjarar undan ríkisstjóði, þá er þess skammt að bíða, að fjari undan fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Ríkisstjórnin hafði enga tillögu frá Sóttvarnalækni um næsthörðustu atlögu að ferðaþjónustunni næst á eftir 14 daga sóttkví komufarþega. Hún valdi valkost sinn úr vopnabúri hans. Nú hefur hann gert tillögur um tilslakanir innanlands 7. september 2020, sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt, sem ganga allt of skammt m.v. stöðu sjúkdómsins innanlands. Þann 4. september 2020 var enginn á sjúkrahúsi af 96 sjúkum, 7 ný smit, 579 í sóttkví og nýgengi innanlands, NGi=16,6. Það er brýnt, að heildrænt mat komi á ákvarðanatöku í þessum efnum.
Enn bólar ekkert á hugbúnaði, sem gerir stjórnendum kleift að ákvarða aðgerðir út frá lágmörkun samfélagslegs kostnaðar. Hvers vegna í ósköpunum er ekki smíðað slíkt líkan ? Það er hundódýrt m.v. þann geigvænlega kostnað, sem sóttvarnaraðgerðir hafa í för með sér. Sóttvarnarlæknir bleytir þumalfingurinn, rekur hann upp í loftið og við liggur, að heilbrigðisráðherra jesúsi sig í bak og fyrir af hrifningu yfir hinni "faglegu" niðurstöðu. Þetta eru frumstæðir stjórnarhættir, sem við getum varla verið þekkt fyrir á árinu 2020.
"Það er áfram mjög mikilvægt að halda áfram aðgerðum innanlands, þ.e.a.s. iðka smitvarnir, vernda viðkvæma hópa o.s.frv. Mér finnst raunar sums staðar, að ekki hafi verið nægilega langt gengið, t.d. ættu þeir, sem sinna aðhlynningu á hjúkrunarheimilum alltaf að vera með grímu í vinnunni. Það var ekki gert lengi vel, en vonandi hefur það beytzt. Hins vegar þykja mér aðgerðir á landamærum ekki í samræmi við þá stöðu, sem við erum í nú, og utan meðahófs."
Undir þetta skal taka. Við eigum að gæta vel að persónulegum smitvörnum, en þegar kemur að fjöldatakmörkunum af öllu tagi, nema líklega á skemmtistöðum, þar sem áfengissala er ótæpileg, þá ber að fara mjög varlega. Má ekki ná sama árangri með áfnámi fjöldatakmarkana gegn grímuskyldu og plasthanzkaskyldu, þar sem fleiri en 200 m koma saman ?
Ástæðan fyrir þessum vangaveltum eru nýjar upplýsingar um dánarlíkur, og að við verðum að fara að venja okkur við að lifa með þessari veiru og þá sem eðlilegustu lífi, eins og við erum vön.
Í lok greinarinnar reit Jón Ívar, læknir, og skal taka undir þann málflutning heilshugar og þakka honum fyrir framlag hans til umræðunnar á Íslandi, sem þó hefur ekki gengið kárínulaust fyrir hann:
"Við vitum, að það er óraunhæft, að við [munum] búa í veirufríu landi, og neikvæð umræða, sem elur á ótta, er ekki heillavænleg til langframa.
Ég tel, að nýjustu gögn bendi til, að dánartíðni Covid hafi verið ofmetin, en við erum nú að ganga í gegnum eitt mesta efnahagsáfall sögunnar og því afar mikilvægt að hlúa að innviðum, andlegri heilsu og lágmarka skaðann fyrir sem flesta."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.9.2020 | 10:31
Olíuvinnsla á hverfanda hveli
Nú bendir allt til, að "peak oil", þ.e. hámarki olíuvinnslu hafi verið náð árið 2019 með um 35 mrdtu vinnslu úr jörðu (35 milljarðar tunna). Nú sjást merki þess, að olíurisar á borð við BP og Shell hafi áttað sig á vatnaskilunum og séu að selja óhagstæðari olíulindir sínar og lækka verðmæti óunnins olíuforða síns í bókhaldi. Þetta stafar af verulega lækkuðum spám þeirra um framtíðar olíuverð og lækkuðum spám þeirra um eftirspurn. Grundvöllur slíkra spáa eru minni væntingar um hagvöxt í heiminum, og valda þar nokkru um ýfingar Bandaríkjanna og Kína, en orkuskiptin leika einnig orðið stórt hlutverk.
Dæmi um þessi umskipti er ákafi BP í að selja hinar fyrrum gjöfulu olíulindir sínar í Prudhoe-flóa, en 1300 km olíulögn þaðan og til Valdez þótti tæknilegt afrek árið 1977, þegar starfsemin þar hófst. BP og Royal Dutch Shell afskrifuðu í viku 28/2020 olíulindir að verðmæti mrdUSD 17,5 og mrdUSD 22,0.
Skýringin á þessu er sú, að fyrirtækin telja, að borun og dæling úr þessum olíu- og gaslindum verði aldrei arðbær. Með öðrum orðum telja þau, að verðið muni aldrei ná sömu hæðum og fyrr, heldur verða á bilinu 40 USD/tu - 60 USD/tu fram yfir miðja þessa öld eða þar til tímabili jarðefnaeldsneytis lýkur. Þetta er afar athyglisverð breyting, sem gefur von um, að takast muni að hemja loftslagshlýnunia, en aðalsökudólgurinn, kolin, eru þó ekki nefnd hér.
Bretar höfðu áform um að hætta kolanotkun árið 2025 og Þjóðverjar rúmum áratug síðar. Aðalkolabrennararnir, Kínverjar, hafa þó enn ekki birt slíkar áætlanir, svo að vitað sé. Kófið setur þó strik í reikninginn í þessum efnum sem öðrum, þar sem öll hagkerfi veikjast af þess völdum, og það mun seinka fjárfestingum í orkuskiptunum. Hefur það þegar komið fram við áætlunargerð Evrópusambandsins, ESB, en orkupakkar þess hvetja til hás orkuverðs til að fjármagna ný orkuver, aðallega af vistvænni tegundinni.
Samkvæmt Rystad Energy, sem er ráðgjafarfyrirtæki um orkumál, mundi verða unnt að vinna úr 90 % af þekktum olíubirgðum heimsins með a.m.k. 10 % arðsemi, ef Brent-verðið færi yfir 100 USD/tu. Nú er Brent-verðið rúmlega 40 USD/tu, og við slíkt verð fellur u.þ.b. helmingur þekktra olíubirgða út sem óarðbær.
Í síðustu ársskýrslu sinni gerði Shell ráð fyrir, að Brent-verðið næði USD 60/tu, en í Kófsfárinu gerir fyrirtækið ráð fyrir 40 USD/tu árið 2021 og 50 USD/tu árið 2022. BP gerir ráð fyrir, að meðal-Brent-verð á tímabilinu 2021-2050 verði 55 USD/tu. Aðeins fyrir nokkrum mánuðum var meginspá fyrirtækisins sú, að á næstu 20 árum yrði þetta verð að jafnaði 70 USD/tu. Þetta jafngildir verðlækkunartilhneigingu um a.m.k. 20 %.
Gasverð frá Henry Hub, sem er viðmiðunarstaður fyrir eldsneytisgas, er spáð hjá BP, að lækki til langs tíma úr 4,0 USD/MBThU í 2,9 USD/MBThU (MBThU=milljón brezkar hitaeiningar) eða um tæplega 30 %. Þessi snöggu umskipti eru merkileg, og olíufélögin ætla ekki að brenna inni með verðlausar eignir. Þessi þróun verður hagkerfum iðnþróuðu ríkjanna hagstæð, en hvati orkuskiptanna dvínar. Sú þróun er nú komin á skrið, sem ekki verður stöðvað.
Sums staðar, þar sem olíufyrirtæki eru í ríkiseigu, er núverandi verð nógu hátt til arðsamrar vinnslu, en ekki nógu hátt til að koma jafnvægi á ríkisreksturinn, t.d. í Miðausturlöndum, þar sem staðan krefst róttækra samfélagsbreytinga. Annars staðar þýðir núverandi verð, að olíunni verður einfaldlega ekki dælt upp. Í Kanada verður aðeins unnt að nýta 42 % olíuforða í jörðu á meðan Brent-verðið er undir 60 USD/tu, og hlutfallið fellur í 16 % við 40 USD/tu. Orkan, sem þarf til að nýta og vinna þykkan olíusand Kanada gerir þennan olíusand (Bitumen) verðlítinn. Angóla hefur á síðustu árum beitt skattaívilnunum til að örva olíuvinnslu undan ströndum sínum, en hár kostnaður hindrar fjárfestingar. Norski olíusjóðurinn gæti tekið að skreppa saman, því að norska ríkið er farið að jafna reksturinn með honum.
Allt eru þetta merki um, að halli undan fæti hjá olíuiðnaðinum vegna dræmrar eftirspurnar. Það eru ný tíðindi, sem olíurisarnir hafa brugðizt merkilega fljótt við. Þeir kjósa að eiga aðeins lindir, sem þola verðsveiflur og hægt verður að nota áfram, þótt yfirvöld setji strangari mörk á mengun við bruna jarðefnaeldsneytis. Risarnir hafa einnig lækkað hjá sér rekstrarkostnaðinn. Árið 2019 var verðið, sem dugði 5 stærstu fyrirtækjunum - ExxonMobil, Shell, Total, Chevron og BP - fyrir nægri framlegð upp í fjárfestingar og arðgjöf aðeins helmingur þess, sem þurfti árið 2013 samkvæmt Goldman Sachs. Þetta er stórkostlegur árangur, og nú hafa neikvæð áhrif COVID-19 faraldursins dregið enn úr fjárfestingum fyrirtækjanna. Fyrir sum fyrirtækjanna á þessi þróun sér stað samhliða því, að þau hafa lagt fyrir sig nýtingu hreinni orkugjafa. "Við snúumst ekki um magn - við snúumst um verðmæti", sagði Bernard Looney, aðalforstjóri BP nýlega.
Þessi saga bendir til, að háorkuverðstímabilið sé liðið. Íslendingar þurfa auðvitað að laga sig að þessari stöðu, en ekki að ríghalda í úreltar spár um sívaxandi orkuverð, eins og okkar stærsta orkufyrirtæki, Landsvirkjun, því miður virðist gera, landinu til stórtjóns, því að samkeppnishæfni landsins líður undir lok, ef ekki verður strax söðlað um og tekin einfaldlega upp upphaflega verðlagsstefna Landsvirkjunar. Hún snerist um það að verðleggja orkuna rétt ofan við meðalkostnað fyrirtækisins við orkuöflunina, en ekki m.v. jaðarkostnað orkuöflunar (næstu virkjun). Arðinn af orkuöflun og orkuvinnslu fær ríkið þá með skattlagningu fyrirtækja, sem nýta þessa orku til framleiðslustarfsemi og með skattlagningu starfsmanna, sem þar vinna, og af þeirra neyzlu. Þetta var kjarni "New Deal", sem reif Bandaríkin upp úr eymd Kreppunnar miklu og mörg önnur ríki tóku upp með góðum árangri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.9.2020 | 10:54
Hvernig á að mæla árangur ?
Forsætisráðherra heldur því fram, að árangur hafi náðst af aðgerðum þeim, sem hún fór í fylkingarbrjósti fyrir, að teknar yrðu upp á landamærunum og kynnti með brauki og bramli 14. ágúst 2020 og tóku gildi 19. ágúst 2020.
Þá (14.08.2020) var fjöldi COVID-19 sjúklinga 112, þar af 1 á sjúkrahúsi og enginn í gjörgæzlu. Nýgengi innanlands var NGi=21,0 og á landamærum NGl=5,5 eða alls NG=26,5. Þann 1. september 2020 eða 13 dögum síðar var fjöldi sjúklinga 99 og enginn á sjúkrahúsi. NGi=16,9 og NGl=8,2 eða alls NG=25,1. Þetta er í rétta átt, en það er hæpið að halda því fram, að batinn stafi af tvöföldun skimana og sóttkví komufarþega. Þær aðgerðir eru aftur á móti dýrar í framkvæmd og hafa valdið íslenzka þjóðarbúinu gríðarlegu tekjutapi, sett mörg fyrirtæki í mikinn rekstrarvanda og svipt fjölda manns atvinnu sinni. Ef reynt er að leggja mat á kostnað og sparnað aðgerðanna, kemur í ljós, að hlutfall gjaldeyristaps vegna fækkunar ferðamanna og sparnaðar af völdum færri COVID-19 sýkinga er 30-40. Af þessu má draga þá ályktun, að hrapað var að þessari ákvörðun með hrapallegum afleiðingum fyrir hag þjóðarbúsins. Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra bera hina stjórnmálalegu ábyrgð, þótt ríkisstjórnin öll hafi dregizt með.
Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra skipað starfshóp, sem á að reyna að koma vitinu fyrir stjórnendur landsins við framtíðar ákvarðanatökur í sóttvarnarmálum. Sóttvarnarmál eru efnahagsmál, því að allar sóttvarnaraðgerðir eru samfélaginu dýrar og sumar þungbærar. Hlutverk stjórnvalda er ekki að velja á hverjum tíma, það sem Sóttvarnarlæknir telur vænlegast til árangurs, heldur að lágmarka samfélagslegt tjón af faraldrinum, sem við er að etja. Það er nóg af tölulegum gögnum fyrir hendi til að unnt sé að gera þetta af skynsamlegu viti. Það er búið að valda þjóðfélaginu allt of miklu tjóni með rangri aðferðarfræði og þröngsýnu sjónarhorni í andrúmslofti óttans. Nú er mál að linni.
Hörður Ægisson sá, hvað verða vildi, og ritaði strax 21. ágúst 2020 gagnmerka forystugrein í Fréttablaðið undir heiti, sem lýsir skoðun hans á þeim, sem fóru fyrir þessari ákvörðun:
"Farið á taugum".
Hún hófst þannig:
"Það hefur orðið óskiljanleg kúvending í stefnu stjórnvalda. Fyrr í sumar, eftir að ákveðið var að taka það sjálfsagða skref að liðka fyrir frjálsri för fólks til og frá landinu og reyndist afar vel, var ráðizt í fjárfestingar, svo [að] mögulegt væri að auka skimunargetuna á landamærunum í 5 þúsund manns. Flestir stóðu í þeirri trú, að það væri gert til að halda áfram á sömu braut. Hægt yrði að halda landamærunum opnum með varúðarráðstöfunum, þannig að ferðafrelsið - sem telja má til mikilvægra mannréttinda í opnu, frjálsu lýðræðisríki - væri ekki skert, og ferðaþjónustan gæti aflað þjóðarbúinu gjaldeyristekna. Þetta reyndist allt vera misskilningur."
Ísland er nú með mest íþyngjandi sóttvarnir á landamærum sínum, sem þekkjast innan Schengen, e.t.v. þó að Noregi undanskildum. Þetta var þó ekki lagt til af Sóttvarnarlækni að þessu sinni, heldur tók hann það fram, að þetta væri öflugasta sóttvarnaraðgerðin á meðal þeirra 9 valkosta, sem hann tíndi til og afhenti heilbrigðisráðherra. Engu að síður virðist engum detta í hug að leyfa öðrum en Schengen-þjóðunum og örfáum öðrum, sem Schengen-stjórnin í Brüssel taldi "örugg", komur hingað. Þetta er stórfurðulegt, því að hvorki íbúum á Íslandi né annars staðar á Schengen-svæðinu getur stafað smithætta af fólki, sem farið hefur í tvöfalda skimun við SARS-CoV-2 og 5 daga sóttkví á milli. Það er ekki heil brú í því, að við séum með miklu strangari sóttvarnir á okkar landamærum en Schengen miðar við, en séum samt bundin við að taka einvörðungu við fólki frá löndum, sem Schengen telur örugg. Hér er utanríkispólitískt vandamál á ferðinni, en ekki lýðheilsulegt vandamál, sem veldur landinu stórtjóni.
"Ísland, sem á hvað mest undir ferðaþjónustunni af öllum ríkjum Evrópu, framfylgir nú einna hörðustu aðgerðum við landamærin í allri álfunni. Þeir, sem vonuðust til, að þessar nýju reglur myndu vara í skamman tíma, urðu fljótt fyrir vonbrigðum, þegar sóttvarnalæknir lýsti yfir, að þær ættu að gilda í marga mánuði. Enginn ráðherra hefur séð ástæðu til að mótmæla þeim ummælum.
Gríðarlegur fjöldi fyrirtækja á nú ekki annarra kosta völ en að fara í tímabundið greiðsluskjól eða óska eftir gjaldþrotaskiptum. Þúsundir munu bætast við á atvinnuleysisskrá. Það er frostavetur í vændum."
Sóttvarnarlæknir hefur enga heimild til slíkrar yfirlýsingar. Hafi hann lýst þessu yfir, sem Hörður Ægisson heldur fram, varpar það ljósi á, að sóttvarnarmálin eru komin út í öfgar. Þegar um tiltölulega vægan veirufaraldur er að ræða, eins og á við um COVID-19 sjúkdóminn, þótt veiran sé bráðsmitandi, þá eru sóttvarnir ekki lýðheilsumál, heldur efnahagsmál. Aðgerðir þarf þá að vega og meta kostnaðarlega. Sé það reynt, kemur strax í ljós, að tvöföld skimun og sóttkví á milli er algerlega óverjandi úrræði m.v. stöðuna, sem var hér á faraldrinum, þegar til þess var gripið. Tekjutap og kostnaður, sem þetta úrræði leiddi til, er líklega á bilinu 30-40 sinnum meira en nemur sparnaði af völdum færri smita og sóttkvía, sem úrræðið hefur í för með sér. Úrræðið er þess vegna fráleitt, nema við mun alvarlegri aðstæður, miklu hærra nýgengi og álag á heilbrigðiskerfið.
"Efnahagslegar afleiðingar þessarar misráðnu ákvörðunar hafa strax komið fram. Fyrir utan þúsundir afbókana ferðamanna til landsins hafa erlendir fjárfestingarsjóðir, stærstu eigendur íslenzkra , ríkisskuldabréfa, í vikunni selt þær eignir fyrir marga milljarða [ISK] með tilheyrandi gengisveikingu krónunnar - sem Seðlabankinn reynir að sporna við með sölu gjaldeyris - og verðbólguvæntingar hafa snarhækkað. Ekki er að sjá, að sú atburðarás hafi verið tekin með í þeim dæmalausu útreikningum, sem voru að baki þeirri ákvörðun, byggðri á minnisblaði fjármálaráðuneytisins, að það væri efnahagslega skynsamlegt að skella landinu í lás."
Ekki er að sjá, að nokkurt vitrænt fjárhagslegt mat á aðgerðum hafi legið að baki ákvörðun ríkisstjórninnar, heldur örvænting út af því, að nýgengið væri komið yfir 10 og að Norðmenn settu Ísland þess vegna á rauðan lista hjá sér, eins og önnur lönd, þar sem svipað var ástatt. Enn er nýgengið um 25 (í septemberbyrjun 2020), og það er mun lægra við landamærin en innanlands. Það er vandséð, að hinar einstæðu og dýru sóttvarnaraðgerðir á landamærunum hafi skipt nokkrum sköpum um þróun faraldursins hérlendis, en hins vegar blasir við hverjum manni, að þær hafa valdið efnahag landsins stórtjóni, og það er auðvelt að sýna fram á, að tjónið er meira en einni stærðargráðu meira en líklegur sparnaður vegna færri smita. Í dag, 3. september 2020, er afar fróðleg grein í prentútgáfu Morgunblaðsins um dánarlíkur af völdum SARS-CoV-2 og inflúensu í ljósi sóttvarnaraðgerða yfirvalda, og er öllum áhugasömum bent á að lesa þá grein í viðleitni til að mynda sér skoðun um þessi mál. Kunna þá að renna 2 grímur á marga varðandi réttmæti núverandi meðhöndlunar yfirvalda á þessum málaflokki.
Það er bráðnauðsynlegt, að Alþingi taki þetta mál til alvarlegrar umfjöllunar í viðleitni til að víkka sjóndeildarhring stjórnvalda. Þannig þyrfti þingumræðum að ljúka með þingsályktunartillögu, sem yrði yfirvöldum leiðarljós í aðgerðum þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.8.2020 | 21:21
Óforsjálni og skipulagning fara illa saman
Íslendingar búa við aðstæður frá náttúrunnar hendi, sem einstæðar eru í Evrópu, og þótt víðar væri leitað. Forfeður okkar bjuggu hér mann fram af manni í stöðnuðu þjóðfélagi, þar sem tækniþróun, t.d. við mannvirkjagerð, var lítil. Menn reistu íbúðarhús, fjárhús og fjós úr grjóti og torfi á listilegan hátt, en timbur var löngum af skornum skammti, og fór það í að halda uppi þakinu, sem síðan var tyrft, en lítt var þiljað innanstokks og moldargólf víða. Má kalla kraftaverk, hvernig fólk lifði af við þessar aðstæður, sem í mörgum tilvikum má kalla vosbúð með vatnsleka, trekki, raka, myglu og kulda.
Nú er öldin önnur, en þá bregður svo við, að við landskipulag gleymist að horfa til sérstöðu landsins, veðurfarslegrar og jarðfræðilegrar. Úr þessu verður að bæta og taka upp strangar áhættugreiningar, þegar staðsetja á þéttbýli, umferðaræðar, orkuæðar og flugvelli.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, ritar tíðum skilagóðar greinar í Morgunblaðið, oft tengdar náttúrunni. Þann 4. ágúst 2020 birtist þar eftir hann grein um ofangreint efni með fyrirsögninni:
"Eldgosahætta, jarðskjálftar og skipuleg viðbrögð gegn náttúruvá".
Nú verður gripið niður í þessa hugvekju:
"Jarðskjálftar og eldgos hafa gengið sem rauður þráður gegnum Íslandssöguna og borið fréttir víða af þessu sérkennilega eylandi. Öðrum þræði erum við stolt af þessari sérstöðu, en hefur þó enn ekki lærzt sem skyldi að búa við hana af forsjálni og taka tillit til hennar í skipulagi."
Þetta þurfa sveitarfélög landsins, sem með skipulagsvaldið fara, að taka til sín. Umbætur hafa þó víða orðið, eins og snjóflóðavarnir og jarðgöng eru dæmi um, en betur má, ef duga skal. Landið hefur verið kortlagt m.t.t. til jarðskjálftavár, og byggingarstaðlar m.t.t. burðarþols og jarðskjálftaþols sniðnir að nýjustu þekkingu í þessum efnum, og sama er að segja um burðarþol þaka og veggja gagnvart snjóþyngslum. Það, sem helzt skortir nú á, er að taka tillit til eldvirkninnar, þar sem hún á við, og um það fjalla næstu tilvitnanir í Hjörleif:
"Stóraukin þekking á jarðeldum ásamt góðri vöktun hefur átt þátt í þessu [að koma í veg fyrir slys - innsk. BJo] sem og aðvaranir og bætt aðgengi fyrir almenning. Við þurfum þó að vera meðvituð um, að vel heppnuð sambúð við þessi náttúruöfl er ekki sjálfgefin, og miklu skiptir að taka tillit til náttúrufarslegrar áhættu við skipulag og aðgengi ferðamanna."
Miklu meira máli skiptir að huga að flóttaleiðum fyrir íbúa þéttbýlis við mannskæða jarðskjálfta, sem valda hruni bygginga, og eldgos. Reyjanesskaginn er eldvirkt svæði a.m.k. frá Garðabæ og suður á Reykjanestá. Á Miðnesheiðinni er yfirleitt mikil starfsemi og langmikilvægasti flugvöllur landsins. Eftir gerð Suðurstrandarvegar, sem er víða sérlega vel heppnaður, eru 2 flóttaleiðir landleiðina frá Reykjanesi og góðar hafnir utarlega á nesinu gera sjóleiðina greiðfæra í neyð, þótt flugvöllurinn yrði ónothæfur.
Orkuverið í Svartsengi getur orðið algerlega óvirkt bæði fyrir rafveitu og hitaveitu. Flutningsgeta núverandi Suðurnesjalínu nægir Suðurnesjamönnum ekki, ef Svartsengisvirkjun verður ótiltæk. Það er mikill ábyrgðarhluti að seinka samfélagslega mikilvægum framkvæmdum árum saman.
Það er alveg dæmalaus óforsjálni fólgin í hugmyndum um að flytja starfsemi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni yfir á nýjan alþjóðlegan flugvöll í Hvassahrauni. Hér er um hundraða mrdISK fjárfestingu að ræða á eldvirku svæði. Hraunelfur gæti gert þá fjárfestingu að engu á nokkrum dögum, t.d. skömmu eftir að búið yrði að gera Vatnsmýrarvöllinn algerlega óstarfhæfan. Í versta tilviki yrði enginn alþjóðaflugvöllur starfhæfur á Suð-Vesturlandi. Slíkt hlýzt aðeins af skammsýni og heimsku. Reykjavíkurflugvöllur er perla, sem fyrir enga muni má kasta fyrir svín. Þar eru ein albeztu flugskilyrði frá náttúrunnar hendi á landinu. Stöðva verður þegar í stað tilburði borgarstjórnarmeirihlutans til þjóðhættulegra spellvirkja í Vatnsmýrinni. Með vísun til þjóðaröryggis ætti Alþingi að setja lög um það, að í Vatnsmýrinni skuli um ótilgreinda framtíð vera varaflugvöllur fyrir alþjóðlegt flug og miðstöð innanlandsflugs. Sérfræðingar á sviði flugmála þurfa síðan að gera tillögu um það, hvaða framkvæmdir eru nauðsynlegar til að Vatnsmýrarvöllurinn geti þjónað hlutverki sínu af fullri reisn á komandi áratugum.
"Jarðsögulegar heimildir frá ísaldarlokum benda til, að búast megi við tíðari eldgosum í kjölfar þess, að jöklar eru nú að rýrna hér sem annars staðar og landris á sér stað af þeim sökum. Þetta varðar megineldstöðvar, eins og Kötlu og Öræfajökul, sem nú eru undir jökulfargi, sem og Bárðarbungu og Grímsvötn. Í sömu átt bendir landris á Reykjanesskaga, og að innan ekki langs tíma megi þar búast við eldsumbrotum eftir goshlé, sem varað hefur frá árinu 1240. Atburðir síðustu mánaða í Grindavík og Svartsengi benda í þessa átt, og sömuleiðis er talið, að hlé á gosvirkni á skaganum öllum frá Brennisteinsfjöllum og vestur úr sé orðið óvenjulangt í sögulegu samhengi."
Það er ótækt að skella skollaeyrum við þessum aðvörunarorðum, þótt alræmd óvissa á breiðu bili fylgi jafnan forspá jarðvísindamanna, svo að nánast virkar hlægileg, er á er hlýtt. Í þessu ljósi má vera einkennilegt, að engin umræða sé opinberlega farin af stað um ráðstafanir til að verja mannvirki á þessu svæði gegn hraunrennsli. Slíkt er ekki hægt að stöðva, en það má e.t.v. beina því í skaðlitlar áttir, eins og snjóflóði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)