Færsluflokkur: Evrópumál

Hviklyndi leiðir til kviksyndis

Hviklyndi ríkisstjórnarinnar stendur öllum málum fyrir þrifum, sem hún kemur nálægt.  Hún hefur jafnvel slegið úr og í varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna um staðfestingu eða synjun á þrælalögunum, sem hún þrælaði gegnum Alþingi í lok árs 2009, en forseti lýðveldisins synjaði staðfestingar.  Svo langt hefur hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar gengið, að oddviti hennar spurði á Alþingi, þegar minna en vika var til atkvæðagreiðslu, til hvers þessi atkvæðagreiðsla væri eiginlega. 

Segja má, að ekki verði á þessa ríkisstjórn logið.  Það er sama, hvaða asnastrik væri framið eða dómgreindarleysi sýnt, því væri trúandi á þessi endemis stjórnvöld landsins.  Hvers á Ísland að gjalda að sitja uppi með slíka hryggðarmynd í stjórnarráðinu, þegar hæst á að hóa ?  Ríkisstjórninni væri trúandi til að fremja hvaða heimskupör, sem hugsazt gæti.  Slík er af henni reynslan.

Þá má spyrja: til hvers situr þessi ríkisstjórn ?  Hún er klofin í herðar niður í öllum meginmálum, frá Brüssel til Bakka, og algjörlega óhæf til að stjórna.  Afturhaldsstjórnin átti að segja af sér, þegar forseti synjaði þrælalögum hennar staðfestingar, úr því að hún dró lögin ekki til baka.  Sú staðreynd, að lögin eru enn í gildi, er nægt svar við spurningu forsætisráðherra um ástæður atkvæðagreiðslunnar. 

Ríkisstjórnin hefur líka þruglað um að seinka þjóðaratkvæðagreiðslunni.  Það væri hins vegar stjórnarskráarbrot, því að kveðið er á um, að skera skuli úr um ágreining þings og forseta svo fljótt sem verða má með þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þangað til ríkir stjórnlagakreppa í landinu ofan á aðra eymd.

Úrtölumenn þessarar atkvæðagreiðslu hafa allt á hornum sér og telja málefnið illa fallið til þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem um þjóðréttarlegan samning sé að ræða og fjalli um fjármál.  Hvort tveggja er tóm vitleysa.  Samningurinn er einkaréttarlegs eðlis; það var hin mikla meinloka vinstrigræningjanna Steingríms, Svavars og handbendis þeirra, Indriða.  Þá má benda á, að Svisslendingar efna til þjóðaratkvæðagreiðslna um skatta til kantóna og ríkis, og hefur slíkt fyrirkomulag gefizt þeim vel, þannig að óvíða eru skattar lægri en í Sviss. 

Ánægður Svisslendingur að störfum

Svisslendingar eru svo ánægðir með þjóðfélag sitt, að þeir vilja alls ekki ganga í ESB, þó að þeir séu staðsettir inni í ESB, landfræðilega.  Þeir vildu ekki einu sinni vera í EFTA/EES.  Til gamans er hér til hliðar sýnt eintak af lukkulegum rafmagnsverkfræðingi, svissneskum, Max Wiestner, að störfum í frítíma sínum. 

Það hefur komið berlega fram í viðtölum við útlendinga og af viðbrögðum Hollendinga og Breta, að téðar kosningar á Íslandi eru heimssögulegar og munu þess vegna styrkja íslenzkan málstað, þó að ríkisstjórn Íslands setji upp hundshaus og reyni að gera lítið úr þessu beittasta vopni, sem Íslendingum er tiltækt í núverandi stöðu.  Þessu er þannig varið, að víðast hvar á Vesturlöndum jusu ríkisstjórnir úr fjárhirzlum og yfir í svarthol fjármálageirans, sem fallinn var að fótum fram með skuldavafninga, afleiður og önnur uppátæki af fjölbreytilegasta tagi, sem losað höfðu um mikið fé og þanið út fjármálageirann án nokkurrar innistæðu.  Gissur gullrass var að falli kominn, þegar "Samfylkingarleiðtogi" Bretaveldis, hinn viðskotailli Gordon Brúnn, sem reyndar er hrossheiti á Íslandi, bjargaði honum frá gjaldþroti á Bretlandi með feiknarlegum austri skattfjár í vasa Gissurar gullrass.  Brezka þingið var ekki spurt um þetta.  Skotinn Gordon Brúnn, sem að sögn brezkra blaða hagar sér þannig á vinnustað, að starfsfólk þarf áfallahjálp, sparkaði reyndar í liggjandi íslenzka banka í Lundúnum og gaf þannig íslenzka bankakerfinu náðarhöggið, sem ella hefði þó að líkindum orðið sjálfdautt vegna alvarlegra innanmeina. 

Eðlilega er kraumandi óánægja í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar með þjóðnýtingu taps fjármálastofnana.  Íslenzka þjóðin er sú fyrsta, sem tækifæri fær til að tjá hug sinn til slíks.  Til landsins er komið a.m.k. hálft hundrað (jafnvel stórt hundrað) fréttamanna hvaðanæva að úr heiminum til að segja fréttir af þessum heimssögulega atburði, sem hér er í uppsiglingu.  

Skrifræðisveldi ESB er skíthrætt við þá lýðræðisvakningu, sem orðið getur í Evrópu í kjölfarið.  Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.  Af þessum ástæðum er Samfylkingin eins og hænurass í vindi um þessar mundir og slær úr og í.  Talsmenn Brüsselfylkingarinnar tuða um markleysi þjóðaratkvæðagreiðslunnar og frestun, en það er brennt fyrir, að ríkisstjórnin grípi gullið tækifæri til gagnsóknar. 

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gætti hagsmuna íslenzku þjóðarinnar hraksmánarlega illa með samkomulaginu 5. júní 2009 við Breta og Hollendinga.  Alþingi sætti sig ekki við gjörninginn og setti margvíslega fyrirvara í lögin um ríkisábyrgð þessa óþurftarsamkomulags.  Andstæðingarnir höfnuðu þessum lögum, og þar með áttu þau að falla úr gildi.  Samt er sagt í bæklingi Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem sendur hefur verið inn á hvert heimili í landinu í tilefni kosninganna, að téð lög taki gildi, hafni þjóðin þrælalögunum, sem nú eiga að koma til atkvæðagreiðslu.  Þetta fær ekki staðizt, og ljóst er, að deilumál þetta fær nýtt upphaf, ef þjóðin tekur fram fyrir hendur óhæfrar ríkisstjórnar og Alþingis með böggum hildar.  

Allt, sem ráðherrar hafa sagt þjóðinni um "Icesave" málið, orkar mjög tvímælis, svo að vægt sé til orða tekið.  Fullyrðingin um, að lengra verði ekki komizt í samningaviðræðunum en að samningi þeim, sem nú á að greiða atkvæði um ríkisábyrgð á, er augljóslega tóm vitleysa.  Framganga ríkisstjórnar Íslands í þessu árans "Icesave"-máli er frá upphafi til enda með þeim hætti, að hún hefur sýnt eindæma undirlægjuhátt gagnvart erlendu ofríki og sett sjálfa sig að veði fyrir framgangi vilja ESB (Evrópusambandsins) hérlendis, þó að hún þori ekki að kannast við það.  Öll hennar dagskrá hefur verið undirlögð þessu viðundri í samningsmynd.  Meira að segja umsóknin um aðlögunina að ESB er í uppnámi, og er hollast að eyða ekki meira púðri í þá sjálfstortímingu en orðið er. 

Þingmenn Samfylkingar og vinstri grænna hafa í raun afsalað Alþingi lunganum úr fullveldinu í hendur Breta og Hollendinga með því að fela þeim hér skattheimtuvald.  Þetta er fullkomlega forkastanlegur gjörningur, sem ætti að dæma þessa stjórnmálaflokka út í yztu myrkur um langa framtíð.  Ríkisstjórnin reyndist fullkomlega ófær um að leiða samningaviðræður við Hollendinga og Breta, og viðreisn hagkerfisins og efnahags heimilanna er henni algerlega ofviða.  Hún er fallin á prófinu með 0,0 og á ekki að fá að reyna aftur. 

Gold Diplom Blauburgunder 


Afhjúpun aðstoðarmanns

Laugardaginn 6. febrúar 2010 birti aðstoðarkona fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, upprifjun sína á aðdraganda svo kallaðs "Icesave"-máls ásamt greiningu sinni á atburðarásinni fram til þessa.  Kristrún Heimisdóttir er greinilega vel kunnug málavöxtum, enda starfaði hún í utanríkisráðuneytinu eftir að að það komst í hendur Brüsselfylkingarinnar og þar til Össur Skarphéðinsson tók þar við taumunum. 

Við hugleiðingu að loknum lestri rennur upp fyrir lesanda, hvað Vinstri-hreyfingunni grænu framboði, með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar og í sæti fjármálaráðherra, raunverulega gekk til, þegar hún skyndilega og án samráðs sveigði af markaðri braut Alþingis í leyfisleysi.  

Steingrímur hafði sem stjórnarandstöðuleiðtogi lýst yfir á Alþingi og ritað greinar í blöð um andstöðu sína gegn samningum við Breta og Hollendinga, sem Alþingi samþykkti leiðarvísi að, s.k. Brüssel viðmið, þann 5. desember 2008.  Jafnframt hafði hann lýst sig algerlega andsnúinn samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, AGS. Afstaða Steingríms áður en hann varð ráðherra 1. febrúar 2009 var öllum kunn, sem vita vildu, innanlands sem utan.  

Af þessum orsökum var úr vöndu að ráða fyrir Steingrím að taka að sér lausn "Icesave"-málsins á vegum ríkisstjórnarinnar.  Úrræði Steingríms og ráðuneytisstjóra hans í fjármálaráðuneytinu, félaga Indriða H. Þorlákssonar, reyndust vera hrapallega misráðin, og slíkt hefði blasað við hverjum heilvita manni þá þegar, ef stefnumörkunin hefði átt sér stað fyrir opnum tjöldum. 

Félagarnir rufu tengsl sáttaumleitana við afgreiðslu AGS, og þeir rufu tengslin, sem mynduð höfðu verið við ESB sem sáttasemjara.  Þeir kúventu án samráðs við kóng eða prest og sveipuðu málið leyndarhjúpi, enda í raun engin heimild, t.d. frá Alþingi, fyrir þessari glópskulegu kúvendingu. 

Þeir ákváðu á eigin spýtur að færa málið úr þjóðréttarlegum farvegi, sem Alþingi hafði mælt fyrir um 5. desember 2008, og yfir í einkaréttarlegan farveg, sem snerist um fjármálaleg skilyrði skuldabréfs útgefnu af ríkissjóðum Bretlands og Hollands á hendur ríkissjóði Íslands vegna útgjalda hinna erlendu ríkissjóða til bóta innistæðueigendum í útibúum Landsbankans.  Íslenzki ríkissjóðurinn kom að sjálfsögðu hvergi nærri skuldbindingum og fjárútlátum Breta og Hollendinga og ber ekki á þeim nokkra ábyrgð.  Þessi leynilega stefnumörkun tvímenninganna voru stjórnmálaleg og lögfræðileg afglöp.  

Til að geta í raun snúið við blaðinu gagnvart útlendingunum í upphafi vegferðarinnar þurfti fjármálaráðherrann að setja málið í einkaréttarlegan farveg og gat þar með haldið því á bak við luktar dyr reykfylltra bakherbergja. Vegna leyndarinnar fékk hann aðeins sér handgengna menn til starfans.  Vinstri hreyfingin-grænt framboð ber á þessu máli fulla ábyrgð frá því að fyrra ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur var myndað.  Nú hefur þessi endemis málatilbúnaður afturhaldsins á Íslandi steytt á skeri.  Útlendingarnir neita að tala við Steingrím og félaga eina sér.  Þegar Steingrímur er kominn upp að vegg, gefur hann kost á samstarfi við stjórnarandstöðuna í stærsta máli lýðveldisins.

Nú hafa þeir félagarnir, Steingrímur og Indriði, bitið höfuðið af skömminni.  Sá síðar nefndi hefur í útvarpsviðtali og í blaðagrein fullyrt, að ómögulegt sé Íslendingum að ná hagstæðara samkomulagi við Breta og Hollendinga vegna þess, að þegar í desember 2008, þegar málið var á forræði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, hafi þáverandi ríkisstjórn skuldbundið íslenzka ríkissjóðinn til að greiða skuldabréf Breta og Hollendinga.  Í ljósi þess, að Indriði er þrautþjálfaður embættismaður, t.d. fyrrverandi skattstjóri, er óþarfi að fara í grafgötur um það, að aðstoðarmaður fjármálaráðherra hefur framið þennan verknað með vitund og samþykki yfirmanns síns.  Þessi hefndaraðgerð þeirra félaganna er fáránlegt og afspyrnu heimskulegt frumhlaup um leið og það er algerlega óábyrgt, þar sem í hlut á æðsti maður fjármálaráðuneytisins og hjálparkokkur hans. Þeir svífast einskis og skirrast ekki við í þjónkun sinni við hið erlenda vald að gera tilraun til að færa því vopn upp í hendurnar á viðkvæmu andartaki, þegar verið er að reyna að snúa ofan af endemis vitleysunni, sem garmarnir voru búnir að vefja málið í. 

Að birta upp úr þurru skjal, sem að efni til lítur út fyrir að vera tillaga Breta, en var sennilega aldrei kynnt utanríkisráðherra og aldrei rætt í ríkisstjórn, og að halda því síðan fram, að tilvist þessa skjals varði endanlega veginn að "Icesave"-samkomulagi og að þar verði engu um þokað, vitnar um endemis  þrælslund þeirra félaga.  Verður með engu móti séð, að réttlætanlegt sé að hafa slíka menn á launaskrá íslenzka ríkisins.    

Forsætisráðherra hefur sagt þjóðinni, að hún efist um, að heppilegt hafi verið að velja Svavar Gestsson til að leiða þessar erfiðu samningaviðræður við Breta og Hollendinga.  Bragð er að, þá barnið finnur.  Þegar þessi formaður samninganefndarinnar kom heim með þrælahlekki, sem ekki er hægt að kalla samning, skrifaði Steingrímur undir í skjóli nætur ásamt Jóhönnu.  Hvers konar stjórnsýsla er það ?  Það eru áhöld um, að þau hafi vitað, hvað þau gerðu.  Keyra átti málið síðan gegnum þingið án efnislegra umræðna, enda áttu þingmenn að fá aðeins mjög takmarkaðar upplýsingar um samninginn. 

Þjóðin var blekkt og því haldið að henni, að snilldarlausn hefði fundizt. Grein Kristrúnar Heimisdóttur fjallar um vítavert gáleysi að hálfu stjórnvalds við gæzlu mikilla þjóðarhagsmuna. 

Þessi gæfusnauðu, óviturlegu og ólýðræðislegu vinnubrögð Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs hafa auðvitað dregið dilk á eftir sér og munu hitta VG og formann hennar fyrir áður en yfir lýkur.  Það mun verða krafizt rannsóknar á ferli, sem jaðrar við landráð. 

Þessi leikflétta VG hefði gengið upp, þrátt fyrir að leyndarhyggjan hafi að mestu mistekizt vegna einarðrar baráttu stjórnarandstöðu og gagnrýnenda úr hópi vinstri-grænna, ef forseti lýðveldisins hefði ekki synjað þrælalögunum staðfestingar.  Við það komu vöflur á heybrækur Brüsselfylkingarinnar, og forsætisráðherra hennar sá sér þann kost vænstan að afneita formanni samninganefndar Steingreíms, Svavari Gestssyni.  Þar með er orðin vík á milli vina og uppdráttarsýki herjar á stjórnarheimilið.   

Eftir téða Fréttablaðsgrein Kristrúnar Heimisdóttur, lögfræðings, sem starfaði beint fyrir ráðherra Brüsselfylkingarinnar fram í janúar 2010, stendur Steingrímur J. Sigfússon afhjúpaður, almenningi til athlægis, sem persónulega og stjórnmálalega ábyrgur fyrir dýrustu mistökum íslenzks ráðherra á öllu Heimastjórnartímabilinu frá 1904 til þessa dags.  Þegar vinnubrögð vinstri stjórnarinnar renna upp fyrir mörgum, sem í reiði og sárindum vegna Hrunsins greiddu vinstri flokkunum atkvæði sitt í Alþingiskosningunum í apríl 2009, má ætla, að vinstri hreyfingarnar í landinu kembi ekki hærurnar, enda vandséð, hvaða stjórnmálalegu hlutverki þær ætla að gegna í framtíðinni eftir það, sem á undan er gengið.

Engin eftirsjá verður að þeim úr Stjórnarráðinu, enda hafa þeir kolfallið á prófinu og ekki reynzt hafa neitt af því til að bera, sem þarf til að leysa vandamál með affarasælum hætti.  Að vera utan gátta hæfir þeim bezt.  Farið hefur fé betra. 

Hausaskeljastaður   


Geðþótti yfir leyfilegum mörkum

Nú hefur geðþótta stjórnvalds á Íslandi tekið út yfir allan þjófabálk.  Af vizku dæmigerðrar vinstri mannvitsbrekku hefur umhverfisráðherra úrskurðað, að hrepparnir við Neðri-Þjórsá hafi farið á svig við lög með því að fá kostunaraðila til skipulagsverks.  Þetta er rökstutt sem ólöglegt, af því að það sé ekki tekið fram í lögum, að þetta megi.  Öllu er snúið á haus.  Grundvallarreglu Rómarréttar er fórnað.

 _jorsa_nedri_virkjanir

"Er þetta hægt, Matthías ?"  Með öðrum orðum; það sem ekki er leyft með lögum, er ólöglegt að mati ráðamanna vinstri flokkanna.  Svona vilja sameignarsinnarnir, að málum sé fyrir komið á Íslandi, en svo er þó ekki enn; hér á enn að heita réttarríki, og þess vegna verður að spyrna við fótum.  Sveitarfélögin, sem í hlut eiga, hljóta að sækja rétt sinn fyrir dómi.  Ofstækisfullur og dómgreindarlaus ráðherrann hlýtur að fá á sig stjórnsýsluákæru fyrir gróft lögbrot.  Um er að ræða misbeitingu valds í þágu sérvitringa og gegn almannahagsmunum. 

tungnaa_ofan_sigolduRíkisstjórnin fitjar upp á engum nýjungum í atvinnumálum, heldur drepur allt í dróma og kæfir allt frumkvæði einkageirans til nýrra atvinnutækifæra, hvort sem um er að ræða innlend eða erlend fyrirtæki.  Höfundi þessa vefpistils er vel kunnugt um stórt alþjóðlegt fyrirtæki, sem er fúst til að taka upp viðræður við ríki, sveitarfélög, virkjanafyrirtæki og aðra hagsmunaaðila hérlendis um áætlunargerð, sem miða mundi að gríðarlegum fjárfestingum á íslenzkan mælikvarða til að skapa vinnu og verðmæti úr íslenzkri orku og mannauði.  Slík samningsgerð þarf hins vegar að fara fram að siðaðra manna hætti; annars verður ekkert úr henni.  Slíkir láta ekki bjóða sér, að talað sé við þá með tveimur hrútshornum.  Þeim bjóðast góð tækifæri annars staðar. Núverandi stjórnvöld landsins setja upp hundshaus vegna þess, að þau eru haldin fordómum gagnvart erlendum fjárfestingum og virkjunum fallvatna.  Fáránlegur úrskurður VG-ráðherrans um óleyfilega kostun við skipulagsgerð brýtur jafnframt jafnræðisreglu um framkomu gagnvart lægra stjórnstigi og er til þess gerður að tefja smíði þegar hannaðra rennslisvirkjana í Neðri-Þjórsá og þar með að seinka endurreisn atvinnulífsins og uppbyggingu gjaldeyrisskapandi starfsemi.

SultartangastöðSkipulagsstjóri ríkisins, sem gjörþekkir lagaumhverfi skipulagsmála á Íslandi, hefur opinberlega sagt, að engin lög banni sveitarfélögum að fá fyrirtæki, í þessu tilviki ríkisfyrirtæki, til að taka þátt í kostnaði við gerð skipulags.  Hann hefur þannig opinberlega snuprað yfirmann sinn, enda sjálfsagt, þegar annar eins endemisgerningur á sér stað.  Nú sjá kjósendur VG og Brüsselfylkingarinnar skriftina á veggnum.  Með því að kjósa þessa flokka eiga þeir jafnan á hættu að leiða yfir landsmenn móðuharðindi af mannavöldum.

Ekki er betri sú músin, sem læðist, en hin, sem stekkur.  Helzti talsmaður innlimunar Íslands í Stór-Evrópu, utanríkisráðherrann, og vinstri-græninginn á formannsstóli utanríkismálanefndar Alþingis, hafa nú orðið berir að gjörningi, sem væntanlega á eftir að sæta rannsókn sem innherjasvik.  Nú er beðið eftir svæsnum umfjöllunum og "Kastljósviðtölum" í sorpritum og ríkisstjórnarvörpum.  Harðsvíraða gróðapunga er ekki síður að finna undir hjúpi "sameignarstefnunnar" en annars staðar.  

Það er þyngra en tárum taki, að þegar er hafinn alvarlegur atgervisflótti úr röðum sérfræðinga landsins til útlanda.  Vinstri flokkarnir fara hrikalega að ráði sínu.  Þeir leggja visna vinstri hönd ríkisvaldsins og ríkisrekstrar yfir atvinnulífið og gera einkarekstri og einstaklingum lífið eins leitt og þeir framast kunna. 

ESB-fáninnÁ sama tíma nær heimóttarskapur ráðherranna gagnvart útlendingum nýjum hæðum.  Störf þeirra ná hvergi máli, og framganga þeirra gagnvart erlendum ráðherrum, ráðamönnum ESB og blaðamönnum heimsmiðlanna er í sumum tilvikum beinlínis skammarleg.  Hér er um að ræða blöndu af ræfildómi og undirlægjuhætti gagnvart ríkisstjórnum ESB-landanna og Brüssel-valdinu.  Öðrum þræði er ríkisstjórnin föst í fortíðinni, og á hinn bóginn sér hún framtíðina aðeins gegnum Brüssel-skráargat.

Allt er þetta ótækt og með öllu óþolandi.  Siðleysið tröllríður aulahættinum í boði vinstri meirihluta á Alþingi. Það er algjör lágmarkskrafa, að ráðherrarnir verji hagsmuni landsins, innanlands sem utan, gegn erlendu óréttlæti og yfirgangi, en virki ekki sem málpípur þeirra, sem reka gegn landsmönnum viðskiptaofbeldi.  Eftir eins árs reynslu má fullyrða, að vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er lélegri en verstu hrakspár gerðu nokkurn tíma ráð fyrir í upphafi. 

Vættir landsins forði oss frá þessu föruneyti annað árið og frá öðrum örverpum vinstri flokkanna um alla framtíð. 

 

 


Á hringsóli

Ríkisstjórninni verður allt að vandamáli, hún fer í hringi sem villuráfandi sé í þoku.  Stefnumörkun er engin af viti og vinnubrögðin afleit.  Skárra væri að hafa Mikka mús sem forsætisráðherra og Ragnar Reykás sem fjármálaráðherra. 

Einkavæðing bankanna í fyrra var hneyksli.  Allt það ferli var fyrir luktum dyrum, og fátt er enn vitað um, hverjir eiga bankana.  Stjórnarflokkarnir núverandi gagnrýndu mjög einkavæðinguna upp úr aldamótunum síðustu, en frá sjónarmiði lýðræðis og opinnar stjórnsýslu var það ferli hrein hátíð hjá seinni einkavæðingunni, og stjórnendur bankanna eru hinir sömu í boði ríkisstjórnarinnar með fáeinum undantekningum. 

Bankakreppan hefur þess vegna tekið á sig nýja mynd, vegna þess að ríkisstjórnin gengur aldrei hreint til verks.  Gríðarleg mismunum á sér stað í atvinnulífinu, þar sem fyrirtæki í gjörgæzlu bankanna keppa við önnur, sem enn eru sjálfstæð, a.m.k. að nafninu til. 

Hagvaxtarþróun 2009-2011Ríkisstjórnin hefur sagt aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, stríð á hendur.  Þegar fimbulfamb kjaftaska og stjórnmálalegra púðurkerlinga hefur verið hreinsað úr umræðunni um fyrningu aflaheimilda, stendur eftir grímulaust eignarnám ríkisins á útgerðunum, sem minnir á eignarnám böðulsins,Jósefs Djúgaswilis Stalíns, Kremlarbónda, á fyrirtækjum og bújörðum Rússlands, Úkraínu og fleiri landa á sinni tíð. 

Málið snýst hér um það að flytja aflaheimildarnar með valdboði úr einkaeign og í hendur stjórnmálamanna, sem síðan eiga að endurúthluta þeim.  Þetta er eins ógæfuleg ráðstöfun og hugsazt getur.  Hún er ólögleg og brýtur gegn eignarréttarákvæðum Stjórnarskráar, enda veit ríkisstjórnin ekki, hvernig hún á að framkvæma þessa óláns fyrningu.  Rikisstjórnin má skerða og auka heildaraflaheimildir með vísindalegum stuðningi Hafrannsóknarstofnunar í nafni þeirrar greinar laganna um fiskveiðistjórnun, sem kveður á um þjóðareign aflaheimilda, en hún hefur ekki lagaheimild til að taka kvótaeign af einum eiganda og fá hana öðrum.  Ríkisstjórnin veit hvorki í þennan heim né annan, en þó hafa vinstri flokkarnir ekki gleymt því, að þeir ætluðu að koma höggi á útgerðina.  Það mun þó sannast hér sem endranær, að skamma stund verður hönd höggi fegin.  Þegar efnahagslíf landsins er í molum, er þessi heimskulegi hernaður gegn atvinnuréttindum fyrirtækja í sjávarútvegi algerlega óafsakanlegur og brottrekstrarsök úr Stjórnarráðinu.

Það er misskilningur, að íslenzkur sjávarútvegur hafi fengið gríðarlega forgjöf frá ríkinu á kostnað annarrar atvinnustarfsemi í landinu, og þess vegna hafi myndazt svo nefnd auðlindarenta í útgerðarfélögunum, sem almenningur í landinu eigi siðferðilegan rétt á, að ríkið geri upptækan.  Íslenzkur sjávarútvegur stendur í harðvítugri samkeppni á erlendum mörkuðum við ríkisstyrktan sjávarútveg, aðallega í Evrópu og þá einkum ESB.  Sá fyrr nefndi ræður ekki markaðsverðinu og verður að selja framleiðslu sína á því verði, sem býðst.  Stundum græðir hann og stundum tapar hann.  Með því að taka aflaheimildir eignarnámi er verið að kippa gjörsamlega fótunum undan íslenzkum sjávarútvegi í samkeppninni á erlendum mörkuðum.  Kemur þá að því, að sameignarsinnar stjórnarflokkanna taki bújarðir landsins eignarnámi, þegar skortur verður á landrými ?  

Nú hefur sú bábilja ríkisstjórnarinnar, að á Íslandi vilji enginn fjárfesta vegna óuppgerðra deilumála við Breta og Hollendinga, verið afsönnuð.  Rio Tinto Alcan hefur boðað umtalsverðar fjárfestingar í Straumsvík til að treysta starfsemi sína þar í sessi.  Fyrirtækið er auk þess með vandaða hagkvæmnikönnun í gangi á því að fjárfesta enn frekar með viðamiklum breytingum á framleiðslutækjunum til að auka framleiðsluna eins og kostur er með því að beita nútímatækni til hins ýtrasta við hönnun og framleiðslu. 

Vinstri flokkarnir hafa aldrei verið hrifnir af starfseminni, sem fram fer í Straumsvík, enda er þar um einkaframtak að ræða að hálfu erlends fyrirtækis, sem er eitur í beinum vinstri sinnaðra stjórnmálamanna. Er skemmst að minnast, hvernig Samfylking og vinstri-grænir lögðu stein í götu nýrrar verksmiðju í Straumsvík árið 2007.  Þeir komust lengi vel upp með, að þeirra stefna væri að "fá eitthvað annað", en nú sést berlega, að sá keisari er ekki í neinu; eitthvað annað í draumórum vinstra fólks er annað hvort ekki til eða tóm vitleysa frá atvinnulegu og fjármálalegu sjónarmiði.  Gagnrýnin um dýr störf í áliðnaði er óskiljanleg í ljósi þess, að erlend fjárfesting einkaframtaks stendur að baki þeim störfum, mikil fjárfesting veldur mikilli framleiðni, sem er grundvöllur góðra launa, og hár kostnaður hvers starfs eykur hagsmuni eigandans af stöðugleika og veitir þar með meira starfsöryggi.  Hver vill hlaupa frá dýrri og arðsamri fjárfestingu ?

Fyrirbrigðið, Vinstri hreyfingin grænt framboð, hélt flokksráðsfund fyrir skemmstu.  Þar kom í ljós, að fundarmenn voru algerlega úti á þekju.  Þeir ályktuðu gegn veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu af gömlum vana og gegn aðild að Evrópusambandinu, ESB, þó að þingflokkur þeirra hafi veitt umsókninni brautargengi á Alþingi 16. júlí 2009.  Þá var hvorki minnzt á "Icesave" né á ríkisfjármálin í ályktun fundarins.  Þetta eru þó lykilmál um afkomu almennings í landinu.  Þetta hlýtur að vera met í stjórnmálalegri eyðimerkurgöngu.  

Umsóknin um aðildarviðræður er andvana fæddur skrípaleikur, sem gefur Evrópuríkjunum kolröng skilaboð frá Íslandi.  Ein ástæðan fyrir óbilgirni andstæðinganna í "Icesave" málinu er, að þeir töldu sig hafa kverkatak á Íslendingum, sem upp til hópa þráðu það heitast að komast með þeim í eina sæng.  Rándýra og skaðlega umsókn á að draga hið snarasta til baka í ljósi stjórnmálastöðunnar. 

Enn tröllríður hégiljan um, að íslenzk stjórnvöld hafi skuldbundið Ísland til að greiða hverjum innistæðueiganda á "Icesave" allt að kEUR 21,887, umræðunni hérlendis, þó að hún sé að verða margbreytilegri erlendis.  Þann 23. janúar 2010 er eftirfarandi afturfótafyl á forsíðu Fréttablaðsins:

"Slíkar skuldbindingar er að finna í fjölda skjala, allt frá yfirlýsingum og fréttatilkynningum til samþykkta á Alþingi.  Til dæmis segir í samþykkt Alþingis frá 5. desember 2008: "Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innistæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum""   

Hér er vitnað til tilskipunar ESB nr 94/19, sem leidd var í lög á Íslandi árið 1999.  Þar er skilmerkilega tekið fram, að sú tilskipun feli alls ekki í sér ríkisábyrgð á skuldbindingum rétt stofnaðra innistæðutryggingarsjóða, sem séu sjálfseignarstofnanir, fjármagnaðar af bönkunum sjálfum.  Hér skýtur Fréttablaðið sig í fótinn, og með þessu markinu er allur áróður stjórnarsinna í "Icesave" málinu brenndur.  Stjórnvöld hafa enn ekki náð að skuldbinda landsmenn að þessu leyti.  Forseti lýðveldisins bjargaði málinu fyrir horn 5. janúar 2010. Umræðan er að mörgu leyti enn mörkuð fávísi um staðreyndir málsins, undirlægjuhætti og heimóttarskap í garð útlendinga.  

Með því að ganga að staðlausum kröfum Breta og Hollendinga, þar sem stjórnvöld reyna að klóra yfir eigin mistök og senda Íslendingum reikninginn, væri verið að kippa stoðunum gjörsamlega undan efnahagslífinu á Íslandi; lánshæfi þjóðar á gjaldþrotsbarmi er ekkert, gjaldmiðillinn ætti sér ekki viðreisnar von, og almenn fátækt héldi innreið sína á Íslandi á ný.  Þetta er himinhrópandi óréttlæti gagnvart afkomendum okkar og kemur þess vegna ekki til nokkurra mála.  Þá tökum við heldur skammvinna snerru nú en að búa við áratuga fátæktarhlekki útlendinga. 

Þann 25. janúar 2010 birtist grein á bls. 17 í Morgunblaðinu eftir tvo allólíka, mikils metna lögfræðinga, Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómara, og Sigurð Líndal, prófessor, undir fyrirsögninni, "Réttur íslensku þjóðarinnar til meðferðar fyrir dómi".  Þeir leggja til eftirfarandi opinbera kúvendingu við stjórnmálamenn allra flokka:

"Þeir ættu því að koma sér saman um að ríkisstjórn Íslands skuli nú tilkynna stjórnvöldum í Bretlandi og Hollandi, að umbeðin ríkisábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs innistæðueigenda verði ekki veitt nema að undangenginni niðurstöðu dómstóls, sem lögsögu hefur í málinu, um að ábyrgðin sé fyrir hendi."

Undir þessa tillögu er hægt að taka, og ekki verður betur séð en hún sé stjórnmálalega fyllilega raunhæf.  Um lagalega haldbærni tillögunnar þarf vart að efast, þegar slíkir menn eiga í hlut.  Með þessu er höggvið á þann Gordíonshnút, sem flækjufætur ríkisstjórnarinnar hafa reyrt þjóðina í.

Því miður er gæfusnauð óþurftarríkisstjórn ólíkleg til að samþykkja þennan kost.  Þegar ríkisstjórnin kemur að vandamáli á hringsóli sínu, þá þæfir hún það, en leysir ekki vandann.  Hún þæfist við, en hefur ekki leyst eitt einasta stórmál.  Dómurinn um hana, ári eftir valdatöku, er óhjákvæmilega - ÓHÆF.  Hún er verri en gagnslaus, hún þvælist fyrir og er einvörðungu til vandræða. 

Afleiðingin er auðvitað sú, að á Íslandi er enginn hagvöxtur og ekki útlit fyrir hann.  Eins og stöplaritið að ofan ber með sér, er vænzt 2 % hagvaxtar í ríku löndunum 2010 og 5 % hagvaxtar í þróunarríkjunum.  Íslendingum ríður á að fá góðan hagvöxt strax nú árið 2010.  Undir vinstri stjórn er slíkt algerlega borin von. Bezta lausnin á núverandi þjóðfélagsvanda og á efnahagsvandanum er að vinstri stjórnin leggi upp laupana og fari frá völdum, þannig að ungir, vel menntaðir og öflugir forystumenn borgaralegra afla geti hafið hér löngu tímabært endurreisnarstarf. 

Margt bendir til, að ríkisstjórnin njóti ekki stuðnings meiri hluta Alþingis við helztu mál sín, hún hefur orðið fyrir áfalli með synjun forseta lýðveldisins á lagasetningu, þar sem hún lagði líf sitt undir, og miklar líkur eru á staðfestingu þjóðarinnar með miklum meirihluta á synjun forsetans.

                                                                                                        


Algjör veizla

Íslenzka landsliðið í handknattleik ver nú sóma Íslands í Evrópukeppninni í handbolta í Austurríki.  Sigurinn í Linz var stórkostlegur.  Danir lögðu sig alla fram, en íslenzka seiglan hafði samt sigur.  Höfundur þessa vefseturs ætlar að stilla sig um að nefna nokkur nöfn í þessu sambandi, af því að honum er ljóst, að það var liðsheildin sem sigraði. 

Hann vill þó draga fram hlut hinna yngri manna í liðinu um leið og hann leggur áherzlu á það gagnvart ágætri forystu liðsins að gæta þess að nýta jafnt styrk hinna yngri og eldri.  Hinir yngri eiga að brjótast fram til forystu með grimmd og hinir eldri að halda forystunni með yfirvegun og seiglu. 

Allir þeir, sem lagt hafa hönd á plóg við að styrkja liðið, andlega og líkamlega, í þessari erfiðu baráttu, sem nú er háð í Austurríki, eiga mikinn heiður skilinn. 

Barátta liðsheildarinnar fyrir sameiginlegu markmiði er það, sem máli skiptir í baráttu af þessu tagi og tryggir árangur.  Sérgæðingsháttur og ótímabær sýningarþörf á engan rétt á sér.  Einn fyrir alla og allir fyrir einn. Skjaldarmerki lýðveldisins


Skuldin

Spurningin um, hvort ríkisábyrgð sé á Tryggingarsjóði innistæðueigenda að lögum, er aðalatriði "Icesave-deilunnar við Bretland og Holland, og hún hverfist um tilskipun ESB nr 94/19, sem Alþingi leiddi í lög á Íslandi árið 1999.  Þar segir svo í 24. lið:

"Það er ekki bráðnauðsynlegt samkvæmt þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun þeirra kerfa, sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, m.a. vegna þess, að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa, og einnig vegna þess, að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingarskuldbindingarnar.  Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu." 

Með öðrum orðum skulu tryggingarsjóðirnir vera fjármagnaðir af bönkunum sjálfum, en samt eigi með íþyngjandi hætti fyrir þá eða viðskiptavini þeirra, enda gæti slíkt skekkt samkeppnistöðu.  Hvergi er hins vegar minnzt á ríkisábyrgð.  Ef ætlazt væri til hennar af höfundum tilskipunarinnar, mundi slíkt vafalaust hafa verið tíundað.  Á fjölmörgum fleiri atriðum má reisa þá fullyrðingu, að íslenzka ríkið hafi alls ekki undirgengizt neinar skuldbindingar um að tryggja greiðslugetu hins íslenzka Tryggingarsjóðs innistæðueigenda.  Fullyrðingin er studd lögfræðilegum rannsóknum hæfustu manna, og nægir í þeim efnum að vísa til frábærrar ritraðar í Morgunblaðinu, sem hófst 12. janúar 2010 með greininni "Lagarök um Icesave", eftir Lárus L. Blöndal, hrl. og Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor.  Hafa ber í huga í þessu sambandi, að enginn getur skuldbundið ríkissjóð á nokkurn hátt fjárhagslega, nema Alþingi.  

Í 25. lið tilvitnaðrar tilskipunar er hnykkt á því, að ríkisvald aðildarríkjanna verði ekki sjálfvirkt ábyrgðaraðili tryggingarsjóðanna.  Bretar sjálfir hafa bent á í deilu við Íra, að ríkisábyrgð sé andstæð ýmsum grundvallarreglum innri markaðar ESB, t.d. um frjálsa samkeppni, enda var bankakerfi þeirra svo risastórt, að brezka ríkið hefði misst lánshæfi, ef það hefði gengizt í slíkar ábyrgðir.  Þess má geta, að írski ríkissjóðurinn hefur af þessum sökum goldið fjárhagslegt afhroð í þessari fjármálakreppu. Ákvæðið í téðri tilskipun 94/19, sem tekur af öll tvímæli um, að ríkisábyrgð er ekki við lýði, hljóðar svo:

"Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innistæðueigendum, ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum, viðurkenndum af stjórnvöldum, sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja, að innistæðueigendurnir fái bætur og tryggingu í samræmi við þessa tilskipun." 

Hér er í tilskipuninni sjálfri kveðið á um, að innistæðutryggingarsjóðirnir skulu ekki njóta ríkisábyrgðar.  Hvert sækja Bretar og Hollendingar rök fyrir því, að íslenzkir skattgreiðendur skuli bæta ríkissjóðum þeirra með vöxtum að hafa rokið til í öngþveiti haustsins 2008 að bæta innistæðueigendum Landsbankans tap sitt ?  Hafa íslenzk stjórnvöld e.t.v. leikið af sér og skuldbundið íslenzka skattborgara til að axla byrðar, sem hvorki lagabókstafur né tilskipun mælir fyrir um ?  Lítum á aðdragandann.

Þann 7. ágúst 2008 sendi brezka fjármálaráðuneytið fyrirspurn um það til íslenzka Viðskiptaráðuneytisins, sem fór með málefni fjármálageirans og stjórnað var af ráðherra úr Samfylkingunni, hvort ríkisstjórnin mundi sjá til þess, að Innistæðutryggingarsjóðurinn geti tekið næg lán til að unnt verði að greiða EUR 20´887 til hvers innistæðueiganda.  Viðskiptaráðuneytið svaraði bréflega 20. ágúst 2008, þar sem m.a. kemur fram:

"Ef svo ólíklega vildi til, að sjóðsstjórnin gæti ekki útvegað nægilegt fé á fjármálamörkuðum, viljum við fullvissa ykkur um, að íslenzka ríkisstjórnin mundi gera allt, sem ábyrg stjórnvöld mundu gera í slíku tilviki, og í því felst að aðstoða sjóðinn við að útvega nægilegt fjármagn til þess að standa við lágmarkstrygginguna. ...... Í slíku tilviki mundi Seðlabanki Íslands, sem lánveitandi til þrautavara, sjá sjóðnum fyrir lausafé.  Ríkisstjórn Íslands mundi veita Seðlabankanum stuðning til þess.  Við þessar aðstæður yrði þetta aldrei vandamál fyrir Innistæðutryggingarsjóðinn.  Við viljum undirstrika, að ríkisstjórnin gerir sér glögga grein fyrir skuldbindingum sínum samkvæmt EES samninginum gagnvart Innistæðutryggingarsjóðinum og mun standa við þær skuldbindingar." 

Með bréfi þessu er býsna langt gengið að hálfu viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar til að friða Breta.  Í ljósi þess, sem síðar gerðist, má segja, að of langt sé gengið í yfirlýsingu um að tryggja sjóðinum fé með aðstoð Seðlabankans og ríkissjóðs m.v. kröfurnar í tilskipun 94/19 til ríkjanna á Innri markaði EES.  Samt verður því ekki haldið fram með gildum rökum, að bréf þetta sé ígildi yfirlýsingar um ríkisábyrgð.  Það sést bezt á því, að í byrjun október 2008 sendi Innistæðutryggingarsjóðurinn íslenzki eftirfarandi drög að yfirlýsingu til þáverandi forsætisráðherra, Geirs Haarde:

"Hér með staðfestist það, að ríkissjóður Íslands ábyrgist, að Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta geti staðið við lágmarksskuldbindingar sínar samkvæmt framangreindum lögum.  Ríkisábyrgðin nær til allra aðila að Tryggingarsjóðinum og útibúa þeirra á Íslandi og erlendis."

Ósk þessi um ríkisábyrgð er einsdæmi, og forsendur hennar og málsaðilar hljóta að sæta opinberri rannsókn ofan í kjölinn.  Íslenzka þjóðin stendur í mikilli þakkarskuld við Geir Hilmar Haarde, þáverandi forsætisráðherra, fyrir það, að hann staðfesti þessa yfirlýsingu ekki með undirskrift sinni. 

Verðmætarýrnun á heimsvísuNokkrum vikum seinna tóku brezka og hollenzka ríkisstjórnin þá ákvörðun að bæta innistæðueigendum föllnu íslenzku bankanna tap sitt, bæði í dótturfyrirtækjum og útibúum, úr vösum skattgreiðenda sinna.  Þetta gerðu þau til að létta af sér þeirri gagnrýni, að eftirlitsaðilar í þessum löndum hefðu brugðizt neytendum og fjármálaeftirlitin áttu auk þess að sjá um lausafjárstýringuna á heimavelli.  

Samt var í löndum þeirra talsverður fjöldi fólks, sem svipað var ástatt um eftir fall bandarískra fjármálastofnana, t.d. Lehmans bræðra 15. september 2008.  Höfundi þessarar vefgreinar er að minnsta kosti ekki kunnugt um, að brezk og hollenzk stjórnvöld hafi í hyggju að senda öðrum ríkisstjórnum en þeirri íslenzku reikning fyrir björgunaraðgerðum sínum.  Meðhöndlun þeirra á Íslendingum er líklega fordæmalaus, hún er dæmalaus, og hún styðst ekki við neinar lögheimildir.  Hún virðist einvörðungu styðjast við ofríki.  Nái þessi ósvífni fram að ganga með fjárkúgunarpíski aftan við bak, verða samskipti Íslands við þessi lönd og ESB eitruð á næstu áratugum, sem ber að forðast í lengstu lög. 

Fram á sjónarsviðið streymir nú, eftir athyglina, sem synjun forseta hlaut, málsmetandi fólk erlendis, sem styður í raun röksemdafærslu virtra lögspekinga innlendra.  Nú er viðkvæðið, að á engum lagarökum sé hægt að reisa kröfu á hendur Íslendingum um að axla téðar byrðar brezku og hollenzku ríkissjóðanna með vöxtum, heldur mundi t.d. Evrópudómstóllinn deila byrðunum á milli ríkjanna.  Þetta virðist vera sjónarmið Evu Joly, og þetta er sjónarmið Alain Lipietz, sem komið hefur að samningu tilskipana ESB um þessi efni.  Þar er kunnáttumaður og að líkindum (um tíma) innanbúðarmaður í Berlaymont á ferð.   

Alain Lipietz

Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands hafa lítið sem ekkert í höndunum annað til að reisa kröfugerðir sínar á en ofangreint bréf frá viðskiptaráðherranum í ríkisstjórn Geirs Haarde.  Þetta bréf veikir nú málstað Íslendinga og gerir það að verkum, að semja verður um málið á stjórnmálalegum nótum, en alls ekki á fjármálalegum nótum, eins og um óuppgert skuldabréf væri að ræða.  Íslendingar báðu hvorki Hollendinga né Breta um lán til að gera upp við innistæðueigendur föllnu bankanna.  Þegar Hollendingar og Bretar gengu til þess verks, höfðu þeir enga lagalega eða sanngirniástæðu til að ætla, að unnt yrði með réttu að senda íslenzka ríkissjóðinum reikninginn. Þess vegna er út í hött að heimta vaxtagreiðslur af Íslendingum vegna þessara útgjalda.  Vaxtakröfum þeirra á að hafna gjörsamlega.  Að leysa málið á stjórnmálalegum nótum þýðir, að byrðunum af mismuni eigna og skulda þrotabúa Landsbankans beri að skipta á milli aðseturslands útibúsins og heimalands móðurbankans í hlutfalli við ábyrgð á eftirliti og ábyrgð á því, að svo fór sem fór, að teknu tilliti til jöfnunar byrðanna á hvern skattborgara.  Kynning á þessum málstað virðist hafa farið í handaskolum hjá ríkisstjórn Íslands, enda er hún hallari undir hagsmuni Hollendinga og Breta en Íslendinga. Um það vitna fjölmörg ummæli.

Þá hafa lögfræðingarnir, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal, fært fyrir því gild rök í Morgunblaðsgrein sinni, "Möguleg bótaskylda ESB", þann 14. janúar 2010, að Íslendingar muni eiga endurkröfurétt á hendur ESB fyrir tjóni, sem tilskipanir þess hafa valdið þeim.  Sá réttur fyrnist á 5 árum, og er sjálfsagt að láta á hann reyna eftir að málalyktir hafa orðið, með dómstólaleið eða nýjum samningum, við Breta og Hollendinga.    

Það skilur hvert mannsbarn, að maður, sem heldur því statt og stöðugt fram, að ekki sé unnt að ná betri samningum fyrir Íslands hönd en raun hefur orðið á um, hann er ófær um að taka þátt í nýjum samningaviðræðum.  Fjármálaráðherrann er sem lík í lestinni, og aðrir ráðherrar, er tjáð hafa sig um gjörninginn, eru reyndar litlu skárri. 

Nýjar viðræður munu fara fram með nýju fólki, a.m.k. að hálfu Íslendinga.  Íslenzka samninganefndin mun þá verða grá fyrir járnum.  Ágætar blaðagreinar fyrrnefndra lögfræðinga, Lárusar og Stefáns, eiga að rata beint í vopnabúr samninganefndarinnar íslenzku.    

Það er alveg ljóst, að með nýjum samningum verða "Icesave" byrðarnar á Íslendinga aðeins brot af þeim fátæktarhlekkjum, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með Steingrím Sigfússon í broddi fylkingar ætlaði að leiða yfir þrjár kynslóðir Íslendinga í glópsku sinni eða vitandi vits.  Það ber þess vegna að fella þá lagasetningu vinstri flokkanna á Alþingi úr gildi og að semja upp á nýtt að beztu manna yfirsýn.    

 


Svona eiga sýslumenn að vera

Forseti lýðveldisins á mikið hrós skilið fyrir framgöngu sína.  Með einu pennastriki hefur hann gjörbreytt stöðu Íslands gagnvart útlöndum til hins betra.  Hann áttaði sig að sjálfsögðu á áróðurslegu gildi augnibliksins, er hann synjaði lögunum um hugsanlegar drápsklyfjar á þjóðina staðfestingar. 

Frammistaða hans síðan hefur verið frábær.  Loksins eignaðist þjóðin þungavigtarmann, sem beitir sér af snerpu og heldur staðfastlega fram málstað hennar á alþjóðavettvangi með sannfæringarkrafti, af þekkingu og með glæsibrag. 

Hegðun ríkisstjórnarómyndarinnar er til háborinnar skammar.  Það er niðurlægjandi að búa við stjórnvöld, sem senda til Bessastaða bréf, sem er barnalegur endurómur hótana andstæðinga okkar í þessu bölvaða "Icesave" máli.  Í bréfunum er málaður skrattinn á vegginn með þeim hætti, að bréfritarar eru augljóslega með öllu óhæfir til að tala fyrir málstað okkar.  Þeir tala máli andstæðinganna.  Þá var ömurlegt að heyra Milliband, utanríkisráðherra Breta, segja fátt annað eftir samtal við utanríkisráðherra Íslands en að Bretar mundu ekki standa í vegi fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Þetta var greinilega eina áhyggjuefni Össurar Skarphéðinssonar.  Þjóð með slíka forystu þarf ekki á andstæðingum að halda.  Fimmta herdeildin situr nú í Stjórnarráðinu við Lækjargötu. 

Þetta kom einnig berlega í ljós af fyrstu viðbrögðunum erlendis frá við yfirlýsingu forsetans.  Utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg hefur greinilega ekki verið beitt af neinu viti til að breiða út málstað Íslands.  Allt moraði af ranghugmyndum og upplýsingaskorti.  Ríkisstjórnin hefur gjörsamlega sofið á verðinum í hagsmunagæzlunni, sem henni ber þó skylda til að halda uppi, og hún hafði greinilega ekkert plan B, þegar yfirlýsingin barst frá Bessastöðum þann 5. janúar 2010.  Hún var tekin með allt á hælunum.  Í stað þess að grípa augnablikið, þegar augu heimsins beindust að Íslandi fyrir tilverknað forsetans, fór ríkisstjórnin í fýlu og upphóf nöldur og ónot í garð forsetans.  Þessi hegðun er svo lítilmannleg og lágkúruleg, að engu tali tekur.  Ríkisstjórninni er ekki við bjargandi.

Þessu fólki í stjórnarráðinu, skötuhjúunum í forystunni, húskörlum þeirra og griðkonum, er með engu móti treystandi til að tala máli okkar í þessu örlagamáli um ríkisábyrgð á Tryggingasjóð innistæðueigenda, eins og berlega hefur nú komið í ljós. 

Til skjalanna verður að koma nýtt fólk.  Það nýja fólk verður að leggjast í víking, bíta í skjaldarrendur og tala máli landsmanna í Berlín, París, Lundúnum, Washington, den Haag og víðar.  Ný landsforysta á að stofna einvala lið, samningateymi, skipað hæfasta fólki til þessara verka með djúpa þekkingu á lögfræðinni, hagfræðinni og samningatækni með seiglu og innri styrk til að reka andstæðingana á gat.  Það er ekki orðið of seint að leita í smiðju hjá Evu Joly og mörgu öðru fólki, innlendu sem erlendu, sem greint hefur kjarnann frá hisminu.  

Eva JolyHaustið 2008 riðuðu fjölmargir bankar Vesturlanda á barmi gjaldþrots.  Rikisstjórnir þessara landa tóku þá ákvörðun um að setja ógrynni af fé skattborgaranna inn í einkabanka til að bjarga þeim frá falli.  Brezka verkamannaflokksstjórnin var enginn eftirbátur annarra í þessum efnum, og rökin voru þau, að með þessum fjáraustri væri efnahagshruni forðað og neyzlunni yrði haldið við, þannig að féð mundi skila sér í ríkiskassann.  Þrátt fyrir þetta neituðu brezk stjórnvöld íslenzku bönkunum í Lundúnum um aðstöð og gripu meira að segja til aðgerða gagnvart þeim, sem riðu þeim að fullu á svipstundu.  

Aðgerðir yfirvalda á Vesturlöndum, þar með töldum Bretlandi og Hollandi, til björgunar bankakerfum landa sinna, voru einnig hugsaðar til að koma í veg fyrir áhlaup innistæðueigenda á bankana.  Ríkisstjórnir þessara landa stóðu frammi fyrir reiðum og örvæntingarfullum innistæðueigendum föllnu íslenzku bankanna.  Til að hindra ásakanir í sinn garð fyrir það, sem gerzt hafði, gagnrýni á aðgerðarleysi seðlabankanna og fjármálaeftirlitsstofnana í þessum löndum, þá var tekin skyndiákvörðun um að bæta innistæðueigendum tjón sitt samkvæmt reglum ESB með greiðslum úr ríkishirzlunum, enda munaði þær lítið um þessar greiðslur, einkum þá brezku.  Ekki er vitað til, að þessi gjörningur hafi verið borinn undir íslenzk stjórnvöld á nokkurn hátt áður en hann var framinn.   Þar rauður loginn brann-janúar 2010 

Það kemur vel fram í bókinni Umsátrinu eftir Styrmi Gunnarsson, að stjórnvöld Bretlands og Hollands töldu framgöngu íslenzku bankamannanna ögrandi og frammistöðu íslenzkra yfirvalda, t.d. Fjármálaeftirlits, ámælisverða.  Ísland lá vel við höggi, og framtíðarhorfur þess til lengri tíma í raun mun betri en Bretlands og Hollands, þar sem ríkisskuldir eru miklar, en skattstofnar munu fara rýrnandi vegna dvínandi olíu-og gaslinda, ört hækkandi meðalaldurs þjóðanna og lítils hagvaxtar.  Þess vegna var ákveðið að senda reikninginn til Íslands.  Ósvífnin felst m.a. í því, að peningarnir á þessum reikningum komu aldrei til Íslands og nýttust þannig landinu ekkert, en samt á að taka ógrynni fjár á íslenzkan mælikvarða út úr hagkerfi landsins og senda inn í hagkerfi Breta og Hollendinga með vaxtabótum til bæta ríkissjóðum þessara landa fé, sem ríkisstjórnir þeirra tóku ákvörðun um að nota til að smyrja eigin hagkerfi.  Þessi glórulausi vaxtabætti baggi hefði lent á íslenzkum skattborgurum fyrir tilstilli duglausrar ríkisstjórnar í Reykjavík og meðreiðarsveina hennar með draumóra um aðild að Evrópusambandinu, ESB, sem eru andvana fæddir, ef forseti lýðveldisins hefði ekki stöðvað ósómann og snúið taflinu við.  Framganga hans í harðri viðureign á BBC og víðar verður lengi í minnum höfð.  Mættum við fá meira að sjá og heyra.

 


Ár 2010

Leiðtogi ríkisstjórnarinnar og forseti lýðveldisins hafa flutt áramótaávörp sín.  Á forsætisráðherranum var lítið að græða, en forsetinn flutti sitt bezta áramótaávarp fram að þessu.  Kom hann víða við, lyfti huganum hátt og ræddi um það, sem honum þótti brýnast.  Var ekki annað að heyra á honum en eitt af því væri siðvæðing þjóðarinnar og þar með stjórnmálamanna, og þróun lýðræðisins í átt að beinu lýðræði.  Hér slær forsetinn tón, sem á sér víðfeðman hljómgrunn og sem vafalaust mun verða gaumur gefinn á Íslandi og verða eitt af úrræðunum til að græða þau sár, sem mynduðust við Hrunið með allsherjar vantrausti í þjóðfélaginu sem afleiðingu.  

Á morgun segir sá latiEf hugur fylgir máli hjá stjórnmálaflokkunum, undanskilja þeir ekkert mál sem tækt til þjóðaratkvæðagreiðslu.  Vinstri flokkarnir sviku kosningaloforð sín þann 30. desember 2009, er þeir felldu tillögu sjálfstæðismanna á Alþingi um að leyfa þjóðinni að tjá sig um það í almennri atkvæðagreiðslu, hvort hún vildi heldur taka þá áhættu að hafna ríkisábyrgð Skuldatryggingasjóðs innistæðueigenda eða að samþykkja hana.  Báðum valkostunum fylgir áhætta, en almenningi munu falla í skaut kostir og gallar þeirra beggja.  Hér fór meirihluti Alþingis leið ófriðar, sem koma mun honum í koll.

Til að festa í sessi téða framþróun lýðræðisins, ætti Alþingi að tryggja tilteknum minnihluta á þingi þann rétt í Stjórnarskrá að framkalla þjóðaratkvæði um mál á undan og/eða á eftir afgreiðslu máls, og verði úrskurður meirihluta þátttakenda í atkvæðagreiðslu bindandi fyrir þingið.  Þetta mun leiða til skynsamlegri og sáttfúsari vinnubragða á Alþingi en nú ríkja þar, þegar ríkisstjórnin virðist hanga saman á óvildarhug einum saman í garð Sjálfstæðisflokksins, en ganga annars með böggum hildar að hverju máli.  Tillaga vinstri flokkanna um, að meirihluti Alþingis geti sent mál í þjóðaratkvæði, er fáránleg.   

Herðubreið sumarið 2009Hvað er landinu mikilvægast, að gerist á nýhöfnu ári, 2010 ?  Það er að vinna bug á atvinnuleysinu.  Það þarf að stöðva þá sóun mannauðs, sem nú á sér stað, með því að koma öllum vinnufúsum hugum og höndum til verka.  Þetta verður einvörðungu gert með nýjum erlendum fjárfestingum og nýrri nýtingu náttúruauðlindanna.  Stjórnvöld eiga að gera bandalag við erlenda fjárfesta, sem tryggir traust uppbyggingar-og hagvaxtarumhverfi á Íslandi.  Braut núverandi stjórnvalda leiðir til glötunar og er alger tímaskekkja.  Á tímum opinna hagkerfa og frjáls flutnings vinnuafls, fjármagns, vöru og þjónustu á milli landa leiða hlutfallslegar skattahækkanir m.v. önnur lönd til flótta vinnuafls og fjármagns.  Þetta mun sannast á Íslandi og Bretlandi, þar sem vinstri stjórnir eru við völd.  Bretar óttast, að forysta á evrópskum fjármálamarkaði hverfi frá London til Parísar eða Frankfurt vegna skattahækkana, og Íslendingar mega óttast langvinna kreppu vegna hins sama og skorts á erlendum fjárfestingum. 

HeillaóskirÁrið 2010, sem og hið næsta, verður ár uppgjörs og sakfellinga. Á Íslandi verða engin Nürnberg-réttarhöld, en til uppgjörs við fortíðina verður þó að koma fyrir dómstólum.  Dómstólar munu hins vegar gera illt verra, ef þeir taka á þeim, sem alvarleg sök verður á sönnuð, með silkihönzkum.

Niðurstaða einstakrar rannsóknar í Íslandssögunni mun senn sjá dagsins ljós.  Alþingi skipaði rannsóknarnefnd, og Alþingi ber skylda til að vinna úr niðurstöðunum af festu og ábyrgð til heilla fyrir framtíð samfélagsins.  Það má ekkert draga undan.  Allt skal verða "uppi á borðum".  Alþingi ber nú þegar að ákveða verkferli fyrir úrvinnslu þessarar skýrslu.  Það verður að draga djúptæka lærdóma af niðurstöðunum og ekki að hika við að stokka upp stjórnkerfið á þeim sviðum, þar sem rannsóknarnefnd Alþingis kann að finna alvarlegar meinsemdir.  Þjóðverjar guldu afhroð 1945, voru trausti rúnir og siðferðilega og efnahagslega gjaldþrota.  Samt voru þeir ekki látnir greiða beinar stríðsskaðabætur.  Þjóðverjar byltu stjórnkerfi sínu og risu úr öskustó á undraskömmum tíma með "Wirtschaftwunder", efnahagsundri.  Svipað er á færi okkar Íslendinga, þó að byltingar verði tæpast þörf.  Eins og Þjóðverjar, er þjóðin vel menntuð, harðdugleg og þrautseig. 

Það hvarflar að manni, að ESB ætli að láta Íslendinga greiða "stríðsskaðabætur" fyrir glæfralega framgöngu á fjármálamörkuðunum.  Er þá ekki rétt að fá úr því skorið fyrir dómstólum áður en að greiðslum kemur, hvort land, sem verður fyrir allsherjar hruni bankakerfisins í djúpstæðri heimskreppu fjármálakerfisins, þurfi að evrópskum rétti að ábyrgjast skuldbindingar einkabanka erlendis, þó að svo sé gert innanlands með neyðarlögum til að forða þar allsherjar öngþveiti ?  

Það er slæmt, að landsmenn þurfi nú að eyða fé, orku og dýrmætum tíma í þetta uppgjör, þegar mikið liggur við, að þeir snúi bökum saman og snúi sér að því að skapa ný verðmæti til að greiða niður eigin skuldir og sameiginlegar skuldir.  Alþingismenn hafa ekki borið gæfu til að sameinast um úrlausn viðamestu viðfangsefnanna, nema sumarið 2009 í Icesave-málinu.  Af annarlegum ástæðum framdi vinstri stjórnin  griðrof í því máli, og hún hélt inn á ófriðarbraut með umsókn um aðild að Evrópusambandinu, ESB, og eyðileggingu skilvirks skattakerfis.  Því miður virðist núverandi ríkisstjórn vera ófær um að mynda samstillta þjóð og leiða hana fram í baráttunni fyrir fullri atvinnu og afgangi á rekstrarreikningi ríkisins, svo að hið fyrsta megi fara að vinna á geigvænlegum skuldum.  

Eitt af tækjunum til að skapa samstöðu um ákvarðanir er þjóðaratkvæðagreiðsla.  Það á að setja öll helztu deilumálin í þjóðaratkvæði, því að miklu auðveldar er fyrir þá, er undir verða, að sætta sig við þannig teknar ákvarðanir.  Það ríður á að finna leiðir til að sameina kraftana í þeirri baráttu fyrir bættum lífskjörum í þessu landi, sem framundan er.    


Gerzka ævintýrið

Efni þessarar vefgreinar er sú rússneska rúlletta, sem ríkisstjórnin vill spila með afkomu íslenzku þjóðarinnar. 

Nýlega birtist mat tveggja marktækra aðila á líkindum þess, að ríkið geti staðið við skuldbindingar sínar, ef Alþingi samþykkir ríkisábyrgð á samningunum við ríkisstjórnir Breta og Hollendinga, sem nú þegar hafa greitt öllum innistæðueigendum hávaxtareikninga Landsbankans, sáluga, í þessum löndum.  Mat annars var, að á þessu væru 90 % líkindi og hins, að á þessu væru 75 % líkindi.  Með öðrum orðum eru líkindi á þjóðargjaldþroti metin á bilinu 10 % - 25 % samkvæmt þessu. 

Þegar litið er til þess, hversu alvarlegt efnahgslegt og andlegt áfall þjóðargjaldþrot er, eru þessi háu líkindi á þessari þjóðarhörmung með öllu óásættanleg, nema það sé algerlega óhjákvæmilegt að taka þessa miklu áhættu.  Hætt er við, að ríkisstjórnin efni til mikils ófriðar í landinu, þröngvi hún Alþingi til að samþykkja svo kallað "Icesave" frumvarp sitt.  Til að koma í veg fyrir stjórnmálaólgu og þjóðfélagsleg vandræði er nauðsynlegt að þjóðin greiði atkvæði um örlög þessa frumvarps. 

Nú vill svo til, að enga nauðsyn ber til að flýta nýrri lagasetningu um þessa ríkisábyrgð.  Að hafna lítt skilyrtri ríkisábyrgð, eins og felst í frumvarpinu, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, hefur ekki í för með sér neinar hörmungar í líkingu við hitt að samþykkja hana.  Væntanlega mun þá eldri samþykkt Alþingis um skilyrta ríkisábyrgð standa.  Það, sem við gæti tekið, eru hugsanlega málaferli, og virtir lögfræðingar, íslenzkir og erlendir, hafa með skýrum rökum sýnt fram á, að íslenzka ríkið stæði sterkt að vígi í vörn gegn málsókn að hálfu Breta og/eða Hollendinga. 

Að guggna gagnvart óbeinum og beinum hótunum um fjárhagslegar refsiaðgerðir, skuldbindi Alþingi ekki ríkissjóð til að greiða með háum vöxtum það sem út af mun standa eftir uppgjör þrotabús Landsbankans, er ósæmilegt fullvalda ríki.  Í greinargerð hæfrar brezkrar lögfræðistofu, Mishcon de Reya, koma fram svo alvarlegir meinbugir á samningi íslenzku ríkisstjórnarinnar við þá brezku, að telja verður frágangssök að samþykkja.  Hin brezka lögmannsstofan, sem leitað var álitsgerðar hjá um samninginn, Ashhurst, er augljórlega vanhæf sökum ráðgjafar við samningsgerðina.  

AlþingishúsiðGerzka ævintýrið var á sínum tíma samið til að lofsyngja stjórnarfarið í Ráðstjórnarríkjunum.  Nú má spyrja, hverju óviturleg og stórhættuleg málafylgja vinstri flokkanna, sem að ríkisstjórninni standa, sæti ?  Fjármálaráðherrann, sem svikið hefur öll sín kosningaloforð, flutningsmaður þessa máls, gerir leynt og ljóst lítið úr Alþingi.  Hegðun hans vitnar um örvæntingu, og hann flýr úr einum ósannindunum í önnur.  Engu er líkara en hann hugsi sér að klína gjörningnum á borgaralegu flokkana, sem stóðu að einkavæðingu bankanna.  Segja má, að sú stjórnmálalega refskák hans jaðri við landráð.  Forsætisráðherrann ber bumbur Samfylkingarinnar um inngöngu í Evrópusambandið, ESB.  Bretar og Hollendingar geta stöðvað samningaferlið um inngöngu, og þess vegna gengur Samfylkingin með böggum hildar til þessa ljóta leiks.  Sannleikurinn liggur óbættur hjá garði rétt eins og í gerzka ævintýrinu (ævintýrinu frá Garðaríki).

Téður fjármálaráðherra gerir það hins vegar ekki endasleppt.    Auk þeirrar feigðarfarar, sem þessi ólánssamningur hans vegna uppgjörs Landsbankaútibúanna er, hefur hann rústað skilvirku skattkerfi.  Skattkerfi Steingríms Jóhanns er ekki hannað til að hámarka tekjur ríkissjóðs, heldur er það miðað við að hámarka þann fjölda, sem getur hugsað sér að kjósa VG.  Hér skýtur fjármálaráðherrann þó gróflega yfir markið, eins og koma mun í ljós, þegar fólk fer að finna fyrir ófögnuðinum.  

Ólíkt "Icesave" málinu er hér þó um afturkræfan gjörning að ræða.  Borgaralegu flokkarnir munu ekki geta búið við þann óskapnað, sem verknaður þeirra Indriða og Steingríms er, þegar hinir fyrrnefndu hafa tekið við ríkisvaldinu.  Þeir munu þá smíða nýtt skattkerfi, sem sameinar hvata til tekjuaukningar skattborgaranna og haldbærar og vaxandi tekjur ríkissjóðs vegna hagvaxtar.  Allar aðgerðir vinstri stjórnarinnar eru verðbólguhvetjandi og kæfa hagvöxt.                                                                                    untitled         


Þrándur í Götu

Í upphafi vefgreinar þessarar er við hæfi að biðja frændur vora og vini, Færeyinga, velvirðingar á því að nota þar tíðum nafn landsmanns þeirra, forns, til að draga fram verstu einkenni volaðra vinstri sauða nútímans á Íslandi, sem gjörsamlega virðast nú gengnir í björg (og sem betur fer á leið fyrir björg í stjórnmálunum). 

Fyrst ber að nefna, að hin volaða vinstri stjórn er Þrándur í Götu endurreisnar ríkisfjármálanna.  Þetta lýsir sér í eftirfarandi:

  • ríkisstjórnin eyðileggur skattstofnana með gegndarlausum skattahækkunum, sem gjörsamlega ríða afkomu einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja á slig.  Þetta sjá flestir í hendi sér, en viðurkenndar hagfræðikenningar færa á þetta sönnur.  Marxistar gefa lítið fyrir heilbrigða skynsemi, ef hugsjónirnar eru annars vegar.
  • ríkisstjórnin eyðileggur skattkerfið með fikti sínu við stighækkandi skattstigul, sem er dýr í framkvæmd og dýrkeyptur fyrir fórnarlömbin, flækir kerfið, dregur úr hvata fólks til að auka tekjur sínar með heiðarlegum hætti, hrekur kunnáttumenn úr landi og veldur þannig meira tjóni en gagni.  Aftur er félagshyggjan söm við sig og skeytir hvorki um skömm né heiður, þegar kemur að því að ráðast gegn þeim, sem mests afla fyrir samfélagið og fá jafnan skömm í hattinn fyrir frá siðlitlum jafnaðarmönnum.  
  • ríkisstjórnin hefur enga stjórn á útgjöldum ríkissjóðs, sem vaxa stjórnlaust, og þar með vex lánsþörf hans og vaxtakostnaður. Ráðherrarnir eru eins og stefnulaus reköld, þegar að útgjöldunum kemur.
  • ríkisstjórnin anar út í ófæru stórfelldrar kjaraskerðingar landsmanna til langframa í algeru dómgreindarleysi sínu og vanþekkingu, þar sem hún telur íslenzka ríkissjóðinn vera skyldugan að hlýða útlendum ránfuglum og greiða fyrir fall útibús íslenzks einkabanka í Lundúnum, þar sem stórfé tapaðist m.a. fyrir tilverknað brezku verkamannaflokksstjórnarinnar í október 2008.  Hvers konar heybrókarháttur pótintáta ESB á þingi er þetta gagnvart útlendu valdi ?  Öðru vísi mér áður brá, þegar Lúðvík Jósefsson færði landhelgina út í tvígang og vílaði ekki fyrir sér heitt og kalt stríð við bandamenn okkar í NATO.  Skammvinna snerru er betra að taka nú en að hálfhengja sig í skuldaólinni.  Hver lánar hvort eð er þjóð, sem er á yztu nöf ? Ætli þeir, sem harðast sækja það nú að hneppa íslenzku þjóðina í langvinnt fátæktarhelsi, megi ekki óttast lögsókn hérlendis, er fram líða stundir, fyrir að hafa með stjórnvaldsaðgerðum sínum bakað almenningi stórtjón ?

urridafoss_1Næst ber að nefna ríkisstjórnina sem Þránd í Götu endurreisnar athafnalífsins og atvinnusköpunar, sem lýsir sér þannig:

  • ríkisstjórnin fjandskapast við erlend fyrirtæki, sem sýna áhuga á að fjárfesta í landinu.  Hún gerir þetta t.d. með því að reka rýting í bak  fyrirtækja, sem nýbúin eru að semja við íslenzk orkuvinnslufyrirtæki um orkuverð, með því að leggja á þau orkuskatt sem og reyndar einnig á almenning, sem reyndar ekki hefur gert langtímaorkusamning og býðst það ei.  Framferði af þessu tagi er beinlínis fallið til þess að eyðileggja samningsstöðu íslenzkra orkusölufyrirtækja gagnvart erlendum fjárfestum.   
  • ríkisstjórnin kastar á glæ umræðulaust verðmætum stóriðjukvóta á sviði losunar koltvíildis.  Þetta mun leiða til þess, að stóriðjufyrirtækin munu til lengdar borga innlendum fyrirtækjum og hinu opinbera samsvarandi lægri upphæðir, sem núvirtar yfir 25 ára skeið með 6 % raunvöxtum geta numið ISK 1100 milljörðum.  Annaðhvort rétta stóriðjufyrirtækin samkeppnistöðu sína af með þessum hætti, eða þau hverfa á braut.  Launþegar, birgjar og orkuseljendur, tapa þessari upphæð. Af þessu sést, hversu gríðarlegt glappaskot vinstri stjórnin framdi með því að leggja upp laupana áður en haldið var á Loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í stað þess að berjast fyrir því þar að halda íslenzka losunarákvæðinu á lofti vegna haldbærra orkulinda Íslands. 

Grundarfjarðar höfnÞá ber að nefna, hvernig ríkisstjórnin er Þrándur í Götu þróunar í sjávarútvegi:

  • ríkisstjórnarflokkarnir hafa reynt að fljóta, eins og hrossataðskögglar á drullupolli, á óánægju, sem reynt hefur verið að magna upp í garð útgerðarmanna vegna kvótaeignar þeirra, sem þeir þó að langmestu leyti hafa keypt á markaði.  Vinstri flokkarnir settu "fyrningu eigna" í stjórnarsáttmála sinn.  Eins og alls staðar annars staðar, þar sem eignarnám að hætti Karls Marx er sett á dagskrá stjórnvalda, hefur slíkt leitt til stöðnunar; útgerðarmenn fjárfesta enda ekki lengur og halda viðhaldi í lágmarki.  Vinstri stjórnin er þess vegna alveg klárlega Þrándur í Götu framfara í sjávarútvegi.

Ríkisstjórnin er Þrándur í Götu frekari iðnvæðingar á Íslandi:

  • Vinstrimennskunni hefur verið líkt við sjálfsónæmissjúkdóm í þjóðarlíkömum Vesturlanda.  Vinstrimenn skulu ætíð taka upp á sína arma hvern þann málstað, sem Vesturlöndum kemur illa, en þó jafnan undir yfirskini mannúðar, manngæzku og mannréttinda.  Eftir fall Ráðstjórnarríkjanna vantaði vinstri menn sárlega málstað og fundu hann í öfgakenndri varðveizlu náttúru og þar með fjandskapi við nýtingu náttúruauðlinda ásamt baráttu við "gróðurhúsaáhrifin".  Hvort tveggja er reist á þröngsýni, vanþekkingu, hatri á auðvaldskerfinu og fyrirlitningu á neyzlusamfélaginu.  Allt norðurhvel jarðar var undir þykkri íshellu fyrir um 12 000 árum.  Síðan snögghlýnaði og fyrir um 10 000 árum var orðið mun hlýrra á Íslandi en nú er.  Frá því fyrir um 2500 árum hefur farið hægt kólnandi á jörðunni með hlýskeiðum og kuldaskeiðum sitt á hvað, og ekkert hefur hlýnað á jörðunni síðan um aldamótin síðustu.  Skammvinn hækkun koltvíildisstyrks í andrúmsloftinu úr 0,029 % í 0,038 % breytir engu um langtímaþróun hitafars á jörðunni.  Hvað halda menn, að árlega streymi mikið af koltvíildi upp úr jörðunni miðað við þá 30 milljarða tonna, sem mannkynið er talið láta frá sér fara ?  Hvernig má það vera, að 31 % aukning á styrk lofttegundar, sem aðeins veldur um 4 % af heildargróðurhúsaáhrifunum í gufuhvolfinu, geti valdið 3°C - 5°C  meðaltals hitastigshækkun á jörðunni ?  Vatnsgufa, H2O, er aðalgróðurhúsalofttegundin og vegur í þessu samhengi um 90 % og metan, CH4, megnið af afganginum.  Allt er þetta með ólíkindum, eins og góður maður sagði.  Allt tal um umhverfisvernd á Íslandi, leiksoppi náttúruaflanna elds og ísa, er augljóslega reist á draumórum og einhverju öðru en vizku; gæti þó verið fordómum og sérvizku.   Um þetta má hafa orð Ólafs pá í Laxdælu: "Þat vil ek, at þeir ráði, er hyggnari eru.  Því verr þykkir mér sem oss muni duga heimskra manna brögð er þeir koma fleiri saman."  Að Íslendingar láti úrtölumenn tefja frekari iðnvæðingu með vísun til neikvæðra gróðurhúsaáhrifa eða röskunar á umhverfi, sem er sjálft á gríðarlegu breytingaskeiði af náttúrulegum orsökum, er alveg út í hött og á að vera liðin tíð.  Var ekki verið að tala um framleiðsluþjóðfélagið ? Hins vegar er sjálfsagt að beita beztu tækni til að hámarka öryggi starfsmanna og verktaka, lágmarka mengun vinnuumhverfis og alla efnamengun, og til að iðnaðurinn valdi ekki öðrum hagsmunaaðilum í landinu tjóni, t.d. landbúnaði og ferðaiðnaði, en til þess er einmitt umhverfislöggjöf landsins ætluð.   

 Ríkisstjórnin er Þrándur í Götu viðreisnar þjóðfélagsins:

  • Hér ríkir nú mikið atvinnuleysisböl og fer vaxandi.  Af þessum sökum er mikill harmur kveðinn að mörgum fjölskyldum og landflótti hefur brostið á.  Ríkisstjórnin er Þrándur í Götu framkvæmdar á Stöðugleikasáttmálanum, en hann gerðu aðilar vinnumarkaðarins við ríkisstjórnina til að draga úr versta skelli bankahrunsins á atvinnulífið.  Langlundargeð þessara aðila vinnumarkaðarins gagnvart mistökum og lausatökum ríkisstjórnarinnar sætir tíðindum.  Ríkisstjórnin ferðast í þessum efnum á hraða snigilsins, og henni má hiklaust kenna um það geigvænlega atvinnuleysi og djúpstæðu kreppu, sem hér ríkir enn, þó að flest lönd séu nú að rétta úr kútnum.  Þar hefur verið beitt örvunarráðum á efnahagslífið, en ekki löngu úr sér gengnum trúarsetningum úr "Das Kapital".  Það er ekki kyn, þótt keraldið leki.  Samdráttur VLF á Íslandi er a.m.k. 25 % í bandaríkjadölum talið.  Annað eins er fáheyrt og líklega einsdæmi í heiminum í þessari kreppu.  Við þessu þarf auðvitað að bregðast með djörfung og dug, en ekki að hengja haus, horfa einvörðungu til baka og barma sér og setja allt sitt traust á, að einhverjir aðrir leysi vandann.

 

Ríkisstjórnin er Þrándur í Götu heilsteyptra samskipta við erlendar þjóðir:

  • Mitt í öllu fárinu, sem yfir þjóðina gekk, fékk vinstri stjórnin Alþingi til að samþykkja hinn 16. júlí 2009, að lögð skyldi fram umsókn um aðildarviðræður við ESB.  Að hlýða á þingmenn VG, og einkum suma ráðherrana, gera grein fyrir atkvæði sínu við það tækifæri, var í meira lagi neyðarlegt.  Umhverfisráðherrann, þóttafull að vanda, lýsti t.d. ESB sem höfuðvígi auðvaldsins í Evrópu og skilja mátti á henni, að í Berlaymont réðu húsum dólgar og illmenni, sem hún ekki vildi koma nálægt.  Samt léði hún því atkvæði sitt, að ráðsmenn íslenzku fjallkonunnar skyldu verja til þess hundruðum milljóna króna að ræða við þessa menn um, að hún skyldi ganga með þeim í eina sæng.  Íslenzka embættismannakerfið er heltekið af afleiðingum þessarar ákvörðunar og getur í raun ekki staðið almennilega að viðræðum ofan á það einstaka álag, sem bankahruninu fylgdi.  Það er ekki að undra.  
  • Með ákvörðun um þessa umsókn er ríkisstjórnin orðin Þrándur í Götu eðlilegra samskipta við útlönd.  Hún dinglar bara rófunni í hvert sinn sem Brüssel opnar þverrifuna, og verður að gjalti í öllum hagsmunaárekstrum við aðildarríkin.  Í undirlægjuhætti sínum og heimóttarskap heldur ríkisstjórnin, að með þessu hátterni geti hún farið á einhvers konar hraðferð inn í ESB.  Þetta vitnar um heimsku ráðherranna og sótthitakennda draumóra.  Engin slík sérmeðferð er á boðstólum að hálfu ESB.  Flaður ráðherranna vekur fyrirlitningu í Brüssel, eins og annars staðar. 
  • ESB-umsóknin er orðin Þrándur Götu þróunar samskipta við lönd utan ESB.  Dæmi um þetta er viðskiptasamningur við Kínverja, sem var í bígerð, en Kínverjarar stöðvuðu eftir að umsóknin varð staðreynd.  Brüssel gerir viðskiptasamninga fyrir aðildarlöndin.  Draga má í efa, að slíkt yrði Íslendingum til framdráttar til lengdar. 
  • Það hefur hlaupið snurða á þráð samskipta Íslands og Bandaríkjanna, BNA, eftir klúður forsetaembættisins með afturköllun á orðuveitingu á síðustu stundu til fyrrverandi sendiherra BNA.  Það er mjög óheppilegt, að starfsmenn utanríkisráðuneytis BNA virðast hafa móðgazt í garð Íslands, sem er óþarfi, því að utanríkisráðherra Íslands fer með öll málefni landsins gagnvart erlendum ríkjum í umboði forseta, sem er valdalaus.  Rikisstjórnin er þess vegna Þrándur í Götu bættra samskipta við BNA, en á þeim þurfum við mjög að halda núna, þegar Evrópa talar við okkur með tveimur hrútshornum (Bretlandi og Hollandi).

Þrándur í Götu heilbrigðrar skynsemi:

  • Ef reynt er að draga ályktun af endemisferli ríkisstjórna þeirra, sem hér hafa setið við völd frá 1. febrúar 2009, verður hún sú, að vinstri flokkarnir séu báðir óstjórntækir.  Meginástæðan er sú, að þinglið þeirra beggja virðist óhæft til stjórnunarstarfa, en hefur í tímans rás flotið á innantómum belgingi og komizt upp með hreinan þvætting á köflum.  Landeyður stjórna nú Íslandi.  Með öðrum orðum bjóða vinstri flokkarnir upp á minna mannval en dugar til að stjórna einu landi.  Þar er allt of mikið af undirmálsfólki, hlöðukálfum á ríkisjötunni með takmarkaðar siðferðiskröfur til sjálfra sín þrátt fyrir gaspur um slíkt í garð annarra.
  • Það er þó ofmælt, að þessi volaða vinstri stjórn gegni engu hlutverki.  Það er rangt, að hún sitji til einskis og geri einvörðungu illt verra.  Með gjörðum sínum opnar hún augu fjölmargra kjósenda fyrir staðreyndum, sem ekki voru þeim áður kunnar og bent hefur verið á í þessari vefgrein.  Átrúnaðargoð eru nú fallin af stalli og orðin að gjalti.  Íslenzkir kjósendur munu ekki láta það lengi um sig spyrjast, að þangað leiti klárinn jafnan, sem hann er kvaldastur.   

Þórshöfn í Færeyjum

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband