Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Rangar ákvarðanir í orkumálum verða afdrifaríkar

Ef hrapað er að stefnumörkun í orkumálum, getur það hæglega haft afdrifaríkar afleiðingar á þjóðarbúskapinn, því að nýttar orkulindir landsins leika stórt hlutverk í verðmætasköpun þjóðfélagsins.  Jafnvel Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem oft hefur opinberlega sýnt megna andúð á starfsemi stóriðjufyrirtækja í landinu af ástæðum, sem ekki styðjast við rökræna hugsun, þykist þó átta sig á mikilvægi "skynsamlegrar" orkulindanýtingar.  Hætt er þó við, að "skynsamleg orkulindanýting" leiði umræðuna út um víðan völl og út í "eitthvað annað", því að það er eins og gengur; það, sem einum þykir skynsamlegt, finnst öðrum óskynsamlegt.  Að henda inn þessu lýsingarorði án þess að útskýra merkinguna neitt nánar er þess vegna út í hött og leiðir umræðuna aðeins í hringi, sem eru endalausir, eins og kunnugt er.

Björt skrifaði rislitla grein í Morgunblaðið 27. febrúar 2020, sem hún nefndi:

 "Landsvirkjun og Rio Tinto".

Hún kveður "Mining Journal" hafa sagt frá samrunatilraun Rio Tinto og Glencore og heldur, að við það versni samningsstaða einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar við stóriðjuna á Íslandi. Hún lætur sér hins vegar einokunarstöðu Landsvirkjunar á sviði stórsölu raforku í réttu rúmi liggja og horfir algerlega fram hjá því tjóni, sem misbeiting Landsvirkjunar á þeirri einokunarstöðu í landinu hefur haft og mun hafa, ef stjórnendur á þeim bæ ekki bæta ráð sitt.  Miðað við þögn stjórnar Landsvirkjunar  hingað til og hrokafullt framferði forstjórans er slíkt borin von. 

Það hefur reyndar lengi verið ljóst, að boltinn eða öllu heldur "heita kartaflan" er hjá ríkisstjórninni, og hún þarf ekki að halda, að CoVid-19 dragi úr nauðsyn þess, að hún grípi til aðgerða á þessu sviði, því að veiran sú hefur þegar valdið aðalmjólkurkúnni doða (ferðamannastarfseminni), og þá ríður á að gefa hinum kúnum í fjósinu betra hey en hingað til, svo að þær veslist ekki upp og drepist.  Þetta verður einn af prófsteinum ríkisstjórnarinnar á síðari hluta þessa kjörtímabils.  Hún á að geta ráðið við þetta, en til þess nægir þó ekki fagurgali eða reykmerki, heldur verður að hafa bein í nefinu til framkvæmda.  Ef það er ekki fyrir hendi, eru nægir slíkir í þingliði Sjálfstæðisflokksins til að taka við keflinu, þegar á reynir.  Þeim mun ekki vaxa þetta verkefni í augum.

Téð grein Bjartrar Ólafsdóttur hófst þannig:

"Þessa dagana er tekizt á um mikla hagsmuni Íslendinga í deilu Rio Tinto og Landsvirkjunar.  Ég er með raunveruleikann alveg á hreinu.  [Svona skrifa aðeins sanntrúaðir, en þessi sanntrúaði lifir reyndar í sýndarveruleika, eins og fram gengur síðar í þessum pistli - innsk. BJo.] 

Skynsamleg auðlindanýting hefur verið undirstaða allra þeirra ríkja í heiminum, sem hefur í gegnum söguna vegnað vel.  [Það er ekkert annað, en hvað með þær, sem hafa ekki komizt "í gegnum söguna" ?  Þær hafa líklega ekki beitt "skynsamlegri" auðlindanýtingu að mati Bjartrar.  Það mun fara eftir duttlungum Bjartrar, hvað er "skynsamlegt" í þessum efnum, en hvorki mati einkaframtaksins né Skipulagsstofnunar.]  Ef ríkjum hefur svo tekizt að bæta þar ofan á fjölbreyttum leiðum til verðmætasköpunar, í gegnum [svo !?] nýsköpun og aðra snilli, þá hefur þeim áfram vegnað vel, og lífsskilyrði borgaranna hafa verið stöðug og góð."

Þetta er loftkenndur, dönskuskotinn og flatneskjulegur texti, enda vantar raunverulega hugsun í hann, þ.e. að drifkraftur fjárfestinga, atvinnusköpunar og framfara er auðvitað markaðurinn, en ekki stjórnvöld.  Þá gildir einu, hvort um er að ræða nýtingu náttúruauðlinda eða úrvinnsluiðnað, og þessi markaður verður að hafa hvata til að starfa, þ.e. starfsskilyrðin verða að vera samkeppnishæf.  Þar stendur hnífurinn í kúnni núna á Íslandi, og þess vegna er hluti gjaldeyrissköpunarinnar hérlendis að stöðvast um þessar mundir. 

Mannvitsbrekkan, hin stóriðjufjandsamlega Björt Ólafsdóttir, hefur áttað sig á því, að stefna og verk Landsvirkjunar eru nú að rústa stóriðjunni í landinu, sem Björt hefur lengi dreymt um, að gerast mundi, og þess vegna tók hún sig til í lok þessa fimbulfambs og bar lof á Hörð Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson, sem eru hetjurnar hennar Bjartrar nú um stundir, en skamma hríð verður hönd höggi fegin.  Grein sinni lauk Björt þannig:

 "Það hefur því miklu meiri áhrif á Rio Tinto að fara fram af ruddaskap [hver er ruddinn ? - innsk. BJo] við Íslendinga, sem lætur þá líta illa út í öllu samstarfi (lækkar þeirra ESG) [= "Environment, Social and Governance" samkvæmt útskýringu Bjartrar] en að lækka raforkusamning hér.  Verkefni stjórnmálanna hlýtur því að vera það að styðja við þá Hörð Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson til að standa fast á okkar.  Stjórnmálamenn og hagsmunasamtök geta einmitt gert gagn með því að láta þau skilaboð berast skýrt til þeirra erlendu aðila á mörkuðum, sem Rio Tinto reiðir sig á í miklu stærra samhengi en bara á litla Íslandi.  Svo væri lag að ræða um framtíðina, hvernig ætlum við að halda áfram að auka verðmætasköpunina fyrir auðlindina okkar." 

Þetta er nú meiri endemis samsetningurinn og ekki amalegt fyrir þá Landsvirkjunarkumpána að geta nú hóað í þetta ESG, sem ekkert hefur þó spurzt til áður, þegar mest liggur við.  Ef hins vegar Björt, þessi, Ólafsdóttir hefði snefil af jarðsambandi, þá myndi hún spyrja og svara því í sömu grein, hvernig á að útvega þeim 1250, sem Hagfræðistofnun HÍ kveður hafa beinan og óbeinan starfa af starfseminni í Straumvík, vinnu, sem ekki er síður vel borguð en sú, sem þau hafa nú.

 

 

 

 

 


Bölmóður "Besserwisser"

Það er stórfurðuleg fullyrðingagirni, sem gætir hjá sumum "beturvitum", um atvinnustarfsemi, sem þeim virðist vera mjög mjög í nöp við, en hafa þó sáralítið vit á.  Á þetta benti skarpur, en þó ekki óskeikull (frekar en aðrir), pistilhöfundur Viðskiptablaðsins, Óðinn, 31. október 30. janúar 2020, í pistlinum:

"Bölmóður spámaður, álskallinn & orkubúskapur".

Upphaf pistilsins gaf tóninn:  

"Óðinn undrast það reglulega, hve sumir þeir, sem búa á þessari litlu, afskekktu eyju [svo ?], eru iðnir við að tala hagsmuni fólksins í landinu niður. Veitir eyjarskeggjum þó varla af uppörvun nú eða bara áminningu um staðreyndir málsins: að landið er fagurt og frítt, þjóðin hugmyndarík og harðdugleg og að hún hefur náð einstæðum árangri við að þrífast, eflast og að auðga mannlífið þrátt fyrir fásinnið, erfið búsetuskilyrði og óblíð náttúruöfl.  

Það hefur ekki sízt gerzt með aukinni, en ábyrgri nýtingu náttúrugæða landsins, sem vísindi og verkþekking hafa á innan við einni og hálfri öld fært Íslendinga úr hópi fátækustu þjóða í röð þeirra, þar sem almenn velmegun er mest í heimi."

Þarna kemst Óðinn á skáldlegt flug, en sannleikurinn er sá, að úrtölumenn framfaranna hafa á öllum tímum reynt að láta að sér kveða, en undir mismunandi formerkjum og í ólíkum gæruskinnum.  Eftir fólksflutningana miklu úr sveitum landsins og "á mölina" á sjö fyrstu áratugum 20. aldarinnar, skapaðist atvinnupólitískur grundvöllur fyrir því að stofna til stóriðnaðar í grennd við þéttbýli, sem knúinn væri af virkjaðri orku vatnsfalla.  Landsmenn höfðu hins vegar hvorki næga þekkingu þá né fjárhagslegt bolmagn til að reisa slík mannvirki, og erfitt reyndist að finna fúsa áhættufjárfesta til að ríða á vaðið. 

Viðreisnarstjórninni undir forystu dr Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafstein tókst þetta samt á tímabilinu 1960-1966, en mættu þó feiknarlegu pólitísku moldviðri þeirra, sem töldu eða létu sem erlendar fjárfestingar væru tilræði við sjálfstæði landsmanna.  Þessi áróður var runninn undan rifjum kommúnista, sem skildu ekki, að landsmenn þurftu á að halda erlendu fjármagni og þekkingu fyrir sjálfbæra verðmætasköpun og að hún er undirstaða fjárhagslegs og þar með pólitísks sjálfstæðis landsins.

Nú hefur landsmönnum vaxið fiskur um hrygg, og þeir eru fyrir löngu færir um að hanna og reisa sjálfbærar virkjanir á eigin spýtur og að reka stóriðnað í fremstu röð, og íslenzka ríkið hefur jafnvel bolmagn til að eignast meirihluta í fyrirtæki um stóriðjurekstur á borð við Norsk Hydro, eins og norska ríkið, en það er hins vegar ekki minnsta vitglóra í að festa skattfé í svo áhættusömum rekstri.  Þess vegna var upprunaleg stefnumörkun ríkisins um að hafa öruggar tekjur af raforkusölu til stóriðjunnar ásamt skatttekjum af viðkomandi fyrirtækjum og starfsmönnum, hvernig sem kaupin gerðust á eyrinni með afurðir hennar, hárrétt.  

Nú eru hins vegar komin fram á sjónarsviðið þjóðfélagsöfl, sem setja sig upp á móti nánast öllum framkvæmdum í landinu, sem tengjast frekari orkunýtingu og jafnvel bráðnauðsynlegum endurbótum á núverandi flutningskerfi raforku á milli landshluta.  Áfram er þessi barátta háð á hugmyndafræðilegum grunni, en nú algerlega laus við atvinnupólitíska skírskotun eða vísun til sjálfstæðis þjóðarinnar, eins og voru ær og kýr kommúnistanna "í den", heldur er nú hamrað á útliti og meintu skaðlegu inngripi í náttúruna.  Málflutningurinn einkennist af tilfinningaþrungnum frösum um náttúruvernd, eins og "náttúran á að njóta vafans", þótt náttúran sjálf sé mesti mögulegi breytingavaldurinn í íslenzku umhverfi, og maðurinn léttvægur í því tilliti, eins og dæmin sanna.   

Hér þarf auðvitað að koma að almennri skynsemi og láta ákvarðanatöku fara fram á grundvelli fjárhagslegs mats á kostum og göllum, þar sem fórnarkostnaður náttúru er metinn á móti tekjum af mannvirkjum og tjóni af að láta vera að framkvæma.

"Einmitt til þess [að halda öfgakenndum náttúruverndarsjónarmiðum á lofti- innsk. BJo] var Bölmóður spámaður tekinn tali í Silfrinu á dögunum, en þar var kominn Tómas Guðbjartsson læknir, Lækna-Tómas sjálfur.  Sá sparaði ekki stóru orðin og sagði, að álverið í Straumsvík væri í líknandi meðferð, eins og þar væri dauðvona sjúklingur, en það líkingamál af eigin starfsvettvangi notaði hann vafalaust, til þess að enginn efaðist um, að hann vissi um, hvað hann væri að tala."

Bölmóður þessi í læknislíki lætur ósnotrar tilfinningar sínar í ljós í garð starfseminnar í Straumsvík, þegar hann hrapar illilega að niðurstöðu sjúkdómsgreiningar sinnar á ISAL.  Innyfli fyrirtækisins eru nefnilega í góðu lagi og að töluverðu leyti aðeins um 8 ára gömul vegna mikilla fjárfestinga Rio Tinto í Straumsvík í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008, þegar Íslendingar þurftu einmitt mest á fjárfestingum í atvinnustarfsemi að halda.  Aðföngin eru hins vegar of dýr m.v. afurðaverðið, en það stendur til bóta, þar sem verð á súráli og kolum er að þokast niður.  Raforkuverðið er hins vegar hið hæsta á Norðurlöndunum til sambærilegrar starfsemi, enda t.d. niðurgreitt af ríkissjóði í Noregi til að viðhalda starfsemi stóriðju í dreifðum byggðum Noregs.  Er út af fyrir sig einkennilegt, að Samkeppniseftirlitið í Noregi eða ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, skuli ekki opinberlega fetta fingur út í slíka ríkisaðstoð á Innri markaði EES. Ef ISAL er líkami, eins og Tómas, læknir, stillir upp, má líkja raforkuverðinu við blóðtöku, sem ekki gengur lengur, enda raforkukostnaður tæplega 30 % af tekjum fyrirtækisins.  Enginn aðili í landinu er tilbúinn að kaupa orkuna, sem ISAL nú notar, eða drjúgan hluta hennar, á viðlíka skilmálum og ISAL má búa við, enda er það langhæsta verðið til áliðnaðarins í landinu og sennilega á Norðurlöndunum.  Verðið er þess vegna gjörsamlega ósamkeppnishæft.  Samningurinn er óviðunandi og að alþjóðarétti á Rio Tinto þá rétt á endurupptöku samningsins, enda eru forsendur um verðþróun á afurð ISAL brostnar. Ef Landsvirkjun þrjózkast við að semja, verður ISAL lýst gjaldþrota og Rio Tinto mun krefjast þess fyrir rétti með vísun til misbeytingar Landsvirkjunar á einokunarstöðu sinni að losna undan orkukaupskyldu raforkusamningsins.  Hér er um leiftursókn stjórnar Rio Tinto að ræða áður en Landsvirkjun gefst kostur á að sýna fram á, að hún hafi aðra viðskiptavini fyrir umrædda orku við fjarlægan enda aflsæstrengs.

 Ofangreind ummæli Tómasar, læknis, eru þýðingarlítil í þessu samhengi, en þau eru hins vegar ósmekkleg og bera vott um ótrúlega meinfýsi, sem jaðra við illgirni.  Um þau hafði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Ágúst Bjarni Garðarsson, eftirfarandi orð á bls. 39 í Morgunblaðinu, 6. febrúar 2020:

"Nýlega sagði Tómas Guðbjartsson, læknir, álverið í Straumsvík vera dauðvona og á líknandi meðferð.  Það er dapurlegt að skynja þau viðhorf, sem fram koma í ummælum læknisins til þessa stóra vinnustaðar í landinu og þeirra einstaklinga, sem þar starfa. Í álverinu í Straumsvík starfa um 400 starfsmenn með ólíka menntun og reynslu ásamt því, að álverið er einn stærsti útflytjandi vara frá Íslandi. Það gefur því augaleið, að fyrirtækið er samfélaginu mikilvægt og er eitt af okkar góðu og traustu fyrirtækjum.  Málflutningur sem þessi er því óásættanlegur og í raun með öllu óboðlegur." 

Það fer ekki á milli mála eftir þennan lestur, að Tómas, læknir, Guðbjartsson, hefur unnið málstað virkjana- og iðnaðarfénda eftirminnilegt tjón með málflutningi sínum.

 

Téður Bölmóður beitti þó ýmsum áróðursbrögðum í þessum Silfursþætti til að vekja samúð með málflutningi sínum, sem er samt eins loftslagsfjandsamlegur og hugsazt getur.  Reyndi hann m.a. að líkja alræmdum fjandskap sínum í garð umhverfisvænstu raforkuvinnslu á jörðunni við baráttu Íslendinga fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á 200 mílna lögsögu sinni í kringum Ísland. Þessi samanburður var algerlega út í hött hjá lækninum. Þar voru Íslendingar að berjast fyrir efnahagslegri tilveru sinni, en Bölmóður Besserwisser berst hins vegar gegn því, að orkulindir landsins séu nýttar með aðferðum beztu tækni hvers tíma til að skapa vinnu í landinu og gjaldeyri til að viðhalda jákvæðum viðskiptajöfnuði við útlönd. Áfram með Óðin:

"Íslendingar framleiða ál með endurnýjanlegri og hreinni orku, mestmegnis frá vatnsaflsvirkjunum.  Kínverjar framleiða 87 % af áli sínu með kolabruna.  Það felst því gríðarlegur tvískinnungur í því að segjast vera umhverfisverndarsinni og vera á móti álverum á Íslandi.  Kallar raunar annaðhvort á einbeittan brotavilja eða fádæma vanþekkingu.  Því [að] þó að það kunni að vera hægt að halda smitsjúkdómum í skefjum með landamæravörðum, þá virðir mengunin engin landamæri."

Óskir Bölmóðs Besserwissers um, að allar frekari virkjanaframkvæmdir í landinu verði stöðvaðar, eru ósanngjarnar, óraunhæfar og taka ekkert tillit til þess, sem um þessar mundir er kölluð mesta umhverfisvá jarðar; hættan á óviðráðanlegri hlýnun af völdum koltvíildis í andrúmsloftinu.  Þessar óskir eru ósanngjarnar vegna þess, að þær vinna gegn eðlilegri þróun verkmenningar og atvinnulífs í landinu, sem fjöldi manns mun hafa lífsviðurværi sitt af og er eitt helzta skattaandlagið til tekjuöflunar fyrir sífellt dýrara heilbrigðiskerfi og annarrar samfélagslegrar þjónustustarfsemi.  Óskirnar um að stöðva þessa þróun eru óraunhæfar vegna þeirra gríðarlegu viðbótar verðmæta, sem nýjar virkjanir geta skapað.  Þá hefur fólksfjölgun í landinu í för með sér aukna orkuþörf, og orkuskipti á landi, legi og í lofti eru ekki möguleg án nýrra virkjana.

Ávinningur og fórnarkostnaður af virkjunum endurnýjanlegrar orku er hins vegar misjafn. Vítt og breitt um heiminn hafa þjóðir veitt háum fjárhæðum til að niðurgreiða raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum vegna þess, að þær hafa ekki í önnur hús að venda með endurnýjanlega orku. Ríkisstjórnir hafa jafnvel niðurgreitt raforkuverð til stóriðju á byggðapólitískum eða þjóðhagslegum grunni. 

Hérlendis hefur slíkt sem betur fer ekki komið til tals, en hins vegar hafa ýmsir uppi áform um að reisa vindmyllugarða, sem tengdir yrðu inn á stofnkerfi raforku. Hár fórnarkostnaður fylgir þó vindmyllum.  Landnýting þeirra er léleg, mæld í MWh/ár/km2, í samanburði við hefðbundnar íslenzkar virkjanir á fallorku vatns og jarðgufu.  Þetta þýðir, að vindmyllugarðar þurfa tiltölulega mikið land og vegna hæðar sinnar sjást þeir mjög víða að.  Þeir eru til lýta langt að. Frá vindmyllum stafar skaðlegur hvinur á lágum tíðnum, og fuglum er hætta búin af spöðum á miklum hraða (spaðaendar). 

Á Íslandi er ekki sambærileg þörf á að taka á sig þennan fórnarkostnað og víða erlendis, af því að enn er nóg af virkjanakostum endurnýjanlegrar orku í landinu með lægri fórnarkostnað í ISK/MWh/ár en vindmyllugarðar. Þess vegna er áhugi fyrir vindmyllugörðum á Íslandi ótímabær, og kannski verða þær aldrei réttlætanlegar.  Það eru þó helzt íbúar í grennd við fyrirhugaða vindmyllugarða, t.d. á Hróðnýjarstöðum við Hvammsfjörð, sem látið hafa andstöðu sína opinberlega í ljós.  Á þessu vefsetri hefur verið bent á tiltölulega stórt kolefnisspor uppsettra vindmyllna.

"Tómas sagði í pistli sínum, að ef álverið hætti starfsemi, gæti "Landsvirkjun beitt sér fyrir sölu á raforku til annarrar og uppbyggilegri starfsemi, t.d. grænmetisbænda, og flýtt fyrir rafvæðingu bíla og skipaflotans".

 Þetta er aumkvunarverður málflutningur hjá Bölmóði Besserwisser.  Á Landsvirkjun að mismuna viðskiptavinum og flokka þá eftir því, hvort þeir stunda "uppbyggilegri starfsemi" en álver eða ekki ?  Reyndar hefur Bölmóður sjálfur gefið þarna forskriftina.  Það er misskilningur hjá honum og dæmigert fyrir "rörsýn", að orkusala Landsvirkjunar eigi að snúast um annaðhvort eða.  Hjá Landsvirkjun á valið að vera hvort tveggja.  Rafmagnsálag gróðurhúsa getur verið tiltölulega jafnt, a.m.k. lungann úr árinu, og hefur þess vegna svipuðu hagstæðu einkenni og álag álvers fyrir orkuvinnslufyrirtækið.  Ef langtímasamningar takast, ætti Landsvirkjun að geta teygt verðlagningu til gróðurhúsa í átt að því, sem gildir um álverin.  Orkunotkun meðalstórs gróðurhúss er hins vegar innan við 0,7 % af orkunotkun minnsta álversins á Íslandi á ári.  Gróðurhúsabændur gætu e.t.v. haft samflot um orkusamninga, ef Samkeppnisstofnun leyfir slíkt, en það er varla hægt að bera saman orkusölu til gróðurhúsa og álvera vegna stærðarmunar á samningum. 

Það er enn fráleitara að stilla álveri og orkuskiptum bíla- og skipaflotans upp sem valkostum, hvorum gegn öðrum, og tæknin fyrir rafvæðingu alls skipaflotans er enn ekki fyrir hendi.  Það er mjög óheilbrigt, þegar læknir fer að bölsótast út í tiltekna atvinnustarfsemi og leggja eitthvað til í staðinn, þegar hvorugur kostanna útilokar hinn.  Því miður veður læknirinn á súðum, þegar kemur að umfjöllun um virkjanir og iðnaðarmál.  Vonandi heldur hann samt ótrauður áfram að tjá sig, því að hann er duglegur við að varpa ljósi á, hversu lítið ofstækisfullir náttúruverndarsinnar hafa til síns máls.

Óðinn bendir svo á aðra hlið þessa máls, sem eru gróðurhúsaáhrifin, ef farið yrði að tillögu læknisins:

"En hvort ætli skili meiri árangri í minnkun útblásturs að rafvæða íslenzkan bílaflota eða nota endurnýjanlega orkugjafa við framleiðslu áls í heiminum.  Svarið er auðvitað augljóst hverjum þeim, sem hugsar um það eitt augnablik."

Allir bölmóðar og "Besserwisserar" þurfa að fara að gera sér grein fyrir því, að þegar meta á, hvort virkja á eða vernda, og einnig, þegar ákveða á til hvers á að nota hina endurnýjanlegu orku, þá verður nú á dögum að taka áhrif orkunýtingarinnar á koltvíildisstyrk andrúmslofts jarðar með í reikninginn. Það virðist hafa farið framhjá "Lækna-Tómasi" í öllum bægslaganginum.

Síðan kemur ályktun Óðins af þessari fremur lágreistu orkumálaumræðu; umræðu, sem fremur sorglegt er, að þurfi að fara fram árið 2020, því að hún er af svipuðum rótum runnin og orkumálaumræðan fyrir 55 árum, þ.e. frá afturhaldinu í landinu:

"Mergurinn málsins er sá, að hér er ekki um annaðhvort eða að ræða.  Ekkert er því til fyrirstöðu, að raforka verði nýtt í auknum mæli innanlands til þess að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi, líka til þess að rækta banana fyrir lýðveldið, en að áfram leggi Íslendingar sitt af mörkum til þess að framleiða ál með umhverfisvænum hætti og minnki fyrir vikið losun gróðurhúsalofttegunda."

Við þetta má bæta, því sem er ekki á allra vitorði, að rafgreining súráls fer í íslenzku álverunum fram með fast að því tæknilega mögulegri lágmarksmyndun CO2 og algengt er, að í öðrum álverum verði til a.m.k. tvöfalt lágmarksmagn koltvíildis við framleiðslu hvers áltonns.  Þetta stafar af því, að íslenzku verksmiðjurnar hafa náð mjög góðum tæknilegum tökum á rekstrinum við venjulegar aðstæður.  

 

 

 

 

 

 


Hálendisþjóðgarður þenur út ríkisbáknið

Það hefur ekki verið sýnt fram á neina raunverulega þörf á að stofna Miðhálendisþjóðgarð á Íslandi. Það þýðir að um gæluverkefni einstaks ráðherra eða smáflokks er að ræða, sem að öllu eðlilegu næði ekki langt í þingsal, þar sem brýn fjárþörf fjölmargra þjóðþrifamála ætti að krefjast allrar athygli þingmanna.  Vonandi sópa þeir þessum óþarfa undir teppið. 

Málefnum þjóðlendna á miðhálendinu er einfaldlega vel fyrir komið núna í samvinnu heimamanna, sveitarstjórna og forsætisráðuneytisins.  Það eru ekki haldbær rök, að með slíkri stofnun yrði til stærsti þjóðgarður í Evrópu, sem tæki yfir stjórnsýslu á allt að 2/5  landsins. Ásókn í hálendisferðir gæti aukizt við slíka auglýsingu , en umhverfisvernd á þessu viðkvæma svæði yrði enginn greiði gerður með slíku.

Spor stjórnsýslu ríkisins á þessu sviði hræða frá Vatnajökulsþjóðgarði.  Þar ku nú vera 40 stöðugildi, og fjármálastjórnunin þar var a.m.k. um tíma í svo miklum ólestri, að tiltökumál þótti í fréttaumfjöllun, og kalla landsmenn þó ekki allt ömmu sína, þegar kemur að meðferð opinbers fjár, því miður.  Fróðlegt væri að sjá árangursmælikvarða þessarar stofnunar borna saman við árangurinn eða ánægjumælingar viðskiptavina hennar. Í stuttu máli er óheillavænlegt að fá "kontóristum" í Reykjavík umsjón með viðkvæmri náttúru. Þar er umsjón heimamanna eðlilegri og heillavænlegri.  Ferill miðstýringaráráttunnar er almennt ókræsilegur frá sjónarmiði skattborgara og neytenda.

Núna hvílir stjórnun á þjóðlendum miðhálendisins á sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga, sem spanna þessar þjóðlendur, og uppgræðslustörf hvíla að miklu leyti á bændum í sjálfboðastarfi.  Nauðsynleg samræming þessara starfa er fyrir hendi samkvæmt lagasetningu þar um, og það er mjög mikill kostur, að frumkvæðið komi frá heimamönnum á hverjum stað, enda eiga þeir mestra hagsmuna að gæta, að vel takist til um hið gullna jafnvægi náttúrunýtingar og náttúruverndar.  Ríkisbákn mun kæfa þetta frumkvæði byggðanna og draga úr því, að þekking og reynsla þeirra, sem bezt þekkja til á hverjum stað, fái notið sín.  Ríkisvæðing þessarar starfsemi er þess vegna algerlega óþörf og alvarlegt skref aftur á bak í náttúruvernd og náttúrunýtingu á Íslandi. Einhæfni er aldrei til góðs. 

Ætlun umhverfisráðherra er að koma upp ríkisbákni með háu flækjustigi, sem verður ópersónulegt og ófært um að veita almennilega þjónustu og með óljósa ábyrgðarskiptingu.  Nýtt silkihúfuapparat, Þjóðgarðastofnun, verður yfir öllum þjóðgörðum, þ.á.m. Miðhálendisþjóðgarði, og síðan verður stjórn yfir hverjum þjóðgarðsverði.  Hér gengur "Parkinson" ljósum logum, og ábyrgðin týnist í holtaþoku.  Það er með ólíkindum, ef þetta gæluverkefni umhverfisráðherra fær framgang á Alþingi, sem þarf að kljást við mörg brýnni verkefni, t.d. innviðauppbyggingu, um þessar mundir.  

Forystugrein Morgunblaðsins 20. janúar 2020 bar nafnið 

"Hálendisþjóðgarður" ,

og þar voru viðraðar réttmætar efasemdir um réttmæti þessa þjóðgarðs:

"Áform um hálendisþjóðgarð hljóma vel, en hvað þýða þau í raun, og hverju eiga þau að skila, sem ekki má ná með einfaldari hætti og í meiri sátt ?  Á vef umhverfisráðuneytisins segir, að markmiðin með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu séu "margþætt, svo sem að vernda náttúru og sögu miðhálendisins og skapa umgjörð um svæðið, sem gefur almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess, menningu og sögu."  Með þessu er líklega aðallega átt við að koma upp gestastofum, sem veita upplýsingar um þjóðgarðinn, ráða landverði og kynna reglur um umgengni um svæðið.  Ekkert hindrar stjórnvöld í að ná þessum markmiðum og ýmsum öðrum, svo sem um rannsóknir á svæðinu, án stofnunar þjóðgarðs."  

Hætt er við, að Þjóðgarðastofnun og Miðhálendisþjóðgarður skari hlutverk ýmissa annarra stofnana, og hefur Minjastofnun þegar kvartað undan því.  Bendir það til, að hér sé ætlunin að koma gaukseggi fyrir í stofnanahreiðri ríkisins á forsendum annarlegra stefnumiða græningja.  Þegar þannig er um hnútana búið, er hugmyndin í rauninni andvana fædd.  

"Enn fremur segir:"Þjóðgarðinum er einmitt ætlað að efla samfélög og styrkja byggð og atvinnustarfsemi, ekki sízt heima í héraði."  Þetta er umdeilanlegra, og þegar hafa komið fram efasemdir um, að svo víðtækur þjóðgarður sé til þess fallinn að ná þessu markmiði.  Þá hafa heimamenn áhyggjur af því, að áhrif þeirra um, hvernig gengið skuli um svæðið, og hvernig það skuli nýtt, færist frá þeim og til annarra.  Og þeir hafa fulla ástæðu til að óttast, þegar þeir sjá, að eitt af markmiðum með stofnun þjóðgarðsins er að tryggja aðkomu félagasamtaka að stefnumótun svæðisins og ákvarðanatöku um landnýtingu." 

Valddreifing og metnaður heimamanna fyrir hönd síns sveitarfélags varðandi þróun þjóðlendna innan marka þess er lykilatriði fyrir lýðræðislega málsmeðferð og stjórnun verndar og nýtingar þessara verðmætu landssvæða.  Það hefur ekkert verið upp á heimamenn að klaga í þessum efnum, svo að vitað sé, og heilbrigð samkeppni á milli sveitarfélaganna er miklu vænlegri til árangurs en dauð hönd miðstýringar skrifstofufólks  í Reykjavík með yfirborðslega þekkingu á hagsmunum þjóðarinnar á hálendinu.  Gullfoss er víti til varnaðar.  Bláskógabyggð vildi reisa þar gestamóttökuaðstöðu til heiðurs Sigríði í Brattholti, en þegar ríkið komst með klærnar í málið, var húsinu breytt í salerni, og nú mun ríkið vera að gefast upp á rekstri þessara salerna.  

Miðstýring á þessum vettvangi hentar illa og er alger óþarfi, enda málum vel fyrir komið, eins og er.  Útgjaldaauki ríkissjóðs verður ærinn, og fjárveitingar munu illa nýtast til þarfra umbóta, en brenna upp í vafstri í kringum kerfið sjálft.  

"Augljóst er, þegar þau sjónarmið, sem umhverfisráðherra hefur sett fram, eru skoðuð, að meginmarkmiðið með þjóðgarði, sem spannar allt hálendi landsins, er að koma í veg fyrir frekari virkjanir á svæðinu.  Öðrum markmiðum mætti ná fram á annan hátt." [Undirstr. BJo.]

Þessi niðurstaða Morgunblaðsins er kjarni þessa máls og meginástæða þess, að því fer víðs fjarri, að víðtækt samkomulag geti náðst um það.  Þetta er heldur ekki stefna ríkisstjórnarinnar.  Þetta kunna að vera blautir draumar umhverfisráðherrans og forsætisráðherrans, en enginn borgaralegur stjórnmálaflokkur getur lagt nafn sitt við svo öfgafulla verndunarstefnu og þar með tekið brauðið frá komandi kynslóðum.  Það er ábyrgðarleysi núna, þegar við sjáum, hversu fallvaltur ferðamannaiðnaðurinn er, að ætla að útiloka aðrar orkuframkvæmdir en þær, sem nú þegar eru í nýtingarflokki á miðhálendinu. Þessi gamla nauðhyggja um, að eitt útiloki annað, er fyrir löngu orðin óviðeigandi, því að tækniframfarir gera nú kleift að velja framkvæmdakosti, sem falla afar vel að umhverfinu. 

Orkuskiptin munu skapa fjölbreytileg orkunýtingartækifæri, sem öll eru gjaldeyrissparandi eða gjaldeyrisskapandi.  Af hinum síðar nefndu má nefna rafgreiningu vatns til útflutnings á vetni.  Sveitarfélög á NA-Englandi hafa í hyggju að leysa jarðgas af botni Norðursjávar til upphitunar húsnæðis af hólmi með vetni, og Íslendingar geta með verkfræðikunnáttu sinni framleitt hundruði þúsunda tonna af vetni á sjálfbæran hátt, ef þeir láta ekki þröngsýna og fordómafulla stjórnmálamenn taka frá sér lífsbjörgina með brögðum.  Með nútíma tækni og verkkunnáttu má fella virkjanamannvirki mjög vel að umhverfinu.  Framtíðin ber væntanlega í skauti sér jafnstraumsjarðstreng á milli Norður- og Suðurlands.  Inn á slíkan streng gæti orka virkjana á hálendinu farið.  Það þarf þess vegna ekki að óttast loftlínur þar.  

"Annað, sem stjórnvöld verða að svara, er, hvernig það að hindra uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuframleiðslu fer saman við markmið í loftslagsmálum, þar sem allt kapp er lagt á að draga úr losun kolefnis (nema e.t.v.,þegar flogið er með flokk manna á ráðstefnur um loftslagsmál). 

Fram hefur komið, að framleiðsla á áli er t.d. að færast til Kína, sem framleiddi um aldamót 10 % áls í heiminum, en framleiðir nú 56 % alls áls.  Þessi framleiðsla er að langstærstum hluta með jarðefnaeldsneyti.  Væri ekki nær fyrir Ísland, í ljósi loftslagsmarkmiða, að auka orkuframleiðslu og draga þannig úr notkun kola og olíu við margvíslega framleiðslu eða rekstur gagnavera ?

Þetta er meðal þess, sem stjórnvöld verða að taka afstöðu til og útskýra fyrir landsmönnum, hvernig markmið í loftslagsmálum fara saman við að hindra frekari uppbyggingu á framleiðslu endurnýjanlegrar orku."

Hér fitjar Morgunblaðið upp á gríðarlega mikilvægu máli, sem spannar miðlægt mál í stjórnmálaumræðu dagsins.  Það hefur dregið mjög úr trúverðugleika fullyrðinga stjórnvalda í Þýzkalandi, að þau á sama tíma og þau leggja þungar byrðar á skattgreiðendur og neytendur (sama fólkið) til að stemma stigu við losun koltvíildis út í andrúmsloftið, hafa fyrirskipað lokun kjarnorkuvera 2021 og lagt bann við nýjum, þótt kjarnorkan ein sé í færum til að leysa kolaorkuverin af hólmi án áfalla fyrir hagkerfið og afhendingaröryggi raforku. 

Það er heldur ekki hægt að taka íslenzk stjórnvöld alvarlega og hástemmdar yfirlýsingar þeirra um hlýnun sjávar og andrúmslofts af völdum gróðurhúsaáhrifa CO2, á sama tíma og þau leggja stein í götu nýtingar endurnýjanlegra orkulinda landsins.  Sú nýtingarfjandsemi er blind afturhaldsstefna, reist á bábiljum um skaðsemi hagvaxtar og annað í þeim dúr, en sama fólk hefur þó ekki opinberlega enn lagzt gegn kjarabótum almennings.  Þær kjarabætur verða aðeins tryggðar með aukinni verðmætasköpun, sem verður í askana látin.

 

 


Drottningarviðtal og forsíðufrétt

Þann 22. janúar 2020 birtist langt viðtal Stefáns E. Stefánssonar við forstjóra Landsvirkjunar, Hörð Arnarson, í Morgunblaðinu.  Þar gætir ósamkvæmni og ranghugmynda um samkeppnishæfni viðskiptavinar Landsvirkjunar með hæsta raforkuverðið í langtíma samningi við fyrirtæki forstjórans. Hugmyndaheimur hans á ekki samleið með raunveruleikanum.  Það birtist síðan svart á hvítu á forsíðu Morgunblaðsins þremur dögum síðar.  Þar gaf á að líta í frétt sama Stefáns E. Stefánssonar:

"Draga úr raforkukaupum-Álver Rio Tinto í Straumsvík hefur ákveðið að draga úr framleiðslu sinni um 15 % á þessu ári-Samdrátturinn jafngildir 28 þúsund tonnum-Landsvirkjun verður af 20 milljónum dollara". 

Þar birtist hin nöturlega afleiðing stórtaps álversins undanfarin ár.  Það er raforkuverðið til ISAL, sem er að sliga fyrirtækið.  Markaðurinn vill ekki greiða fyrirtækinu verð fyrir afurðir sínar, sem duga því fyrir breytilegum kostnaði. Ástæðan er offramboð hrááls á markaðinum, sem vonandi er tímabundið, því að hin gríðarlega framleiðsluaukning Kínverja er ósjálfbær (niðurgreiðslur, mengun). ISAL bregst nú við með því að lágmarka breytilegan kostnað sinn, og það er gert með því að draga úr raforkukaupum niður að kaupskyldumarkinu, en kaupskylduna verður fyrirtækið að inna af hendi til Landsvirkjunar samkvæmt upprunalegum og núverandi raforkusamningi, þótt það myndi nota minni orku en henni nemur. Þetta var ein af forsendum lágs raforkuverðs í upphafi, og hlutfallið, 85 % af forgangsorku, hefur ekki verið lækkað þrátt fyrir meira en tíföldun upphaflegs orkuverðs í bandaríkjadölum talið á hálfrar aldar rekstrartíma ISAL.

Málflutningur forstjóra Landsvirkjunar er hins vegar á allt öðrum nótum, og jarðsambandsleysi hans er grafalvarlegt og sýnir, að stjórn fyrirtækisins og ráðherrar verða að grípa í taumana með nýrri stefnumörkun fyrir þetta kjölfestufyrirtæki ríkisins.  Forstjórinn gaf í skyn, að breytilegur kostnaður álveranna á Íslandi væri undir 1800 USD/t Al.  Þetta er ekki rétt gagnvart þeim, sem hæst borgar orkuverðið.  Þar er einfölduð staða þessi: Ksúrál+Kskaut+Krafmagn=3x600 USD/t Al=1800 USD/t Al.  Þá er launakostnaður o.fl. eftir. 

Úr drottningarviðtalinu:

"Á meðan verðið er 1800 USD/t, þá hafa fyrirtækin upp í breytilegan kostnað, en til þess, að menn sjái ástæðu til þess að auka framleiðslu að nýju, þá þarf heimsmarkaðsverðið að fara í 2200 eða 2300 USD/t."

Þetta eru skrýtnar fullyrðingar m.v. kostnaðartölurnar hér að ofan, þar sem eftir er að bæta við launakostnaði, verktakakostnaði og efniskostnaði viðhalds, og allir þessir kostnaðarliðir eru háðir framleiðslumagni og teljast því til breytilegs kostnaðar. Ekkert hefst upp í fasta kostnaðinn við þessar aðstæður. 

Meðalverð á LME-markaðinum var nálægt 1800 USD/t árið 2019 og lækkaði töluvert frá árinu áður, en framleiðsla ISAL er hins vegar öll sérvara (stengur), sem viðbótar verð fæst fyrir. Hefur sú sérhæfing haldið fyrirtækinu fjárhagslega á floti að undanförnu. Engu að síður mun tap ársins 2019 hafa verið nálægt 325 USD/t Al. 

Við þessar aðstæður er hæsta raforkuverð á Norðurlöndum til álvera einu fyrirtæki augljóslega sem drápsklyfjar, og endurskoðun raforkusamninga þess brýn nauðsyn.  Landsvirkjun verður að gæta að stöðu sinni. Hlutverki fyrirtækisins sem kjölfestu iðnvæðingar, atvinnu- og gjaldeyrissköpunar hefur ekki verið breytt af fulltrúum eigendanna, Alþingi, þótt stjórn fyrirtækisins virðist vera á allt öðru róli.

  Við endurskoðun langtímasamninga er Landsvirkjun í einokunaraðstöðu, því að viðskiptavinirnir hafa ekki í önnur hús að venda, nema fyrir brot af þörfinni.  Við slíkar aðstæður er ótækt, að ríkisfyrirtækið stilli erlendum viðskiptavinum, sem starfað hafa hér áratugum saman og vilja halda samstarfinu við landsmenn áfram, þreyja þorrann og góuna, upp við vegg, "take it or leave it", eins og virðist hafa átt sér stað hjá Landsvirkjun síðan 2010.  Síðan hafa markaðsaðstæður hríðversnað vegna vaxandi álútflutnings frá Kína. Fátt fælir nýja fjárfesta meira frá landinu en hegðun af þessu tagi að hálfu ríkisfyrirtækis og er það síðasta, sem Ísland þarf á að halda á fjárfestingasviðinu. Erlendar fjárfestingar á Íslandi eru hlutfallslega mjög litlar í samanburði við önnur Vesturlönd.   

Hörður Arnarson ver framgöngu sína með nauðsyn þess, að Landsvirkjun greiði háan arð, en málið er ekki svo einfalt.  Þessi arður er ósjálfbær sem stendur og þar af leiðandi ótraustur, þar sem hann er fenginn með því að blóðmjólka viðskiptavinina.  Það er þó enginn að tala um að selja orku Landsvirkjunar með tapi.  Síður en svo, en það er óeðlilegt að fara fram á það, að gamlir viðskiptavinir greiði jaðarkostnaðarverð fyrir alla orkuna, sem þeir kaupa, þótt eðlilegt megi telja, að þeir greiði jaðarkostnaðarverð fyrir viðbótar orkuna, sem samið er um við endurskoðun samninga. 

Þá er það innihaldslaus alhæfing hjá forstjóranum, að álverin muni ekki fara að auka framleiðslu sína aftur fyrr en verð umbræðsluáls á LME-markaði nái 2200-2300 USD/t, þ.e. hækki um fjórðung frá meðalverðinu 2019.  Það fer eftir kostnaðarþróun fyrirtækjanna, viðbótarverði þeirra á sérvörur sínar og markaðshorfum, svo og tæknilegri stöðu þeirra, hvenær þau munu auka framleiðslu sína aftur. Aftur gerist téður Hörður sekur um sleggjudóma. Þegar verðið er komið upp fyrir breytilegan kostnað fyrirtækjanna, borgar sig að auka framleiðsluna, og í tilviki ISAL, sem þarf aðeins að hækka kerstraum til að auka framleiðsluna, þarf aðeins um helmingshækkun á við það, sem forstjóri Landsvirkjunar heldur fram til að auka framleiðsluna að nýju.

Ef samningar takast um nýtt fyrirkomulag við ákvörðun raforkuverðsins, þannig að framlegð (EBITDA) fyrirtækisins verði jákvæð, þá er líklegt að fyrirtækið muni sjá sér hag í að auka framleiðsluna strax aftur í kjölfarið, svo að sölutekjur og hagnaður Landsvirkjunar aukist á ný.  Allir tapa á núverandi þvermóðsku forstjórans á grundvelli þess, að hann hefur spennt bogann til hins ýtrasta á vitlausum tíma.  Slíkt er aldrei ráðlegt að gera, nema í blússandi góðæri hjá viðskiptavinunum. Hvort það kemur aftur í áliðnaðinum ræðst af því, hvort Kínverjar halda sínum undirboðum á álmarkaðinum áfram á einhvers konar vegferð til að ná þar varanlegum undirtökum. 

Stefán E. Stefánsson minntist á gagnrýni Samtaka iðnaðarins á framgöngu Landsvirkjunar við endurnýjun langtímasamninga í téðu drottningarviðtali sínu:

"Hörður segir, að nýjar virkjanir, sem nú hafa verið teknar í notkun, styðji enn við getu félagsins í þessa veru [til að greiða eigandanum arð-innsk. BJo].  Það geri einnig nýir orkusölusamningar.  Það eru sömu samningar og hafa verið harðlega gagnrýndir af Samtökum iðnaðarins að undanförnu.  Í málflutningi samtakanna hefur því verið haldið fram, að LV hafi gengið of hart fram í samningsgerðinni og að hátt raforkuverð sé farið að skaða samkeppnishæfni landsins."

"Það verður að minnast þess, hvað þessir nýju samningar þýða fyrir fjárhag félagsins, bætt lánshæfismat og lægri vaxtakostnað.  Þetta hefur gríðarleg áhrif á það, hvernig okkur tókst að bæta fjárhagsstöðu félagsins.  Það hefur mikið að segja upp á trúverðugleika okkar gagnvart fjármálamörkuðum, að menn sjái, að við getum endursamið og náð betri verðum á vöruna, sem við erum að selja.  Auk þess er ábyrgð okkar mikil.  Landsvirkjun er eitt fyrirtæki með fáa starfsmennn, en því er falið að gæta einna mestu hagsmuna Íslands.  Verkefnið felst í að semja við alþjóðleg stórfyrirtæki um verðið á afurðum, sem við fáum úr einni verðmætustu auðlind landsins."

Á meðal nýju virkjananna, sem forstjórinn telur hér, vafalaust með réttu, að séu reknar með hagnaði, er Búðarhálsvirkjun.  Hún var byggð til að anna viðbótar orkuþörf ISAL samkvæmt endurnýjuðum rafmagnssamningi fyrirtækjanna á milli árið 2010 og komst í full afköst 2014.  Það er eðlilegt, að orkusala frá nýjum virkjunum standi undir kostnaði við þær og skili góðri raunávöxtun fjármagns.  Verðið, sem ofan á varð í samningunum, gerir það, en það átti ekki um leið að hækka allt rafmagn frá gömlu, bókhaldslega afskrifuðu virkjununum, sem reistar voru til að standa straum af orkusölu til ISAL (Búrfellsvirkjun, Sigölduvirkjun) á frumbýlingsárunum og annarra.  Þetta er gagnrýnivert og við þessu hafa Samtök iðnaðarins brugðizt.  

Það skal draga í efa, að nýir afarkostasamningar hafi hækkað lánshæfismat Landsvirkjunar. Að trúverðugleiki Landsvirkjunar gagnvart fjármálamörkuðum aukist við að setja viðsemjendum fyrirtækisins afarkosti ("take it or leave it"), er mjög hæpinn málflutningur forstjórans.  Samningarnir eru ósjálfbærir og hafa fælingarmátt fyrir aðra áhugasama fjárfesta.  Þeir eru nú þegar teknir að slá til baka fyrir Landsvirkjun með minni orkusölu, bæði til stóriðnaðarins og til gagnaveranna.  Fulltrúar eigenda Landsvirkjunar verða nú þegar að leiðrétta kúrsinn, því að stefna hennar er tekin að valda þjóðhagslegum skaða með minnkun útflutnings með rætur í innlendri orkuvinnslu.   

Frétt um þetta í Markaði Fréttablaðsins, bls. 8, 30. janúar 2020, hófst þannig:

"Raforkukaup gagnavera á Suðurnesjum hafa dregizt saman á síðasta ári vegna minni eftirspurnar frá viðskiptavinum.  Forstjóri Advania Data Centers segir notkun viðskiptavina fyrirtækisins hafa dregizt saman um 10 MW frá því í lok árs 2018.  Orkuverðið, sem gagnaverum býðst á Íslandi, sé ekki samkeppnishæft og hætta sé á frekari samdrætti, þegar kemur að endurnýjun samninga við stóra viðskiptavini."

Þetta heitir að skjóta sig illilega í fótinn með því að ofmeta gróflega verðmæti afurða auðlindanna, sem fyrirtækinu (Landsvirkjun) er falið að ávaxta.  Betra væri, að forstjóri Landsvirkjunar sýndi sanngirni, hófstillingu og framsýni við samningagerð fyrir hönd fyrirtækisins líkt og forverar hans, en hann vitnaði reyndar í fyrsta stjórnarformann fyrirtækisins í viðtalinu:

"Hann segir, að Landsvirkjun sé um þessar mundir að komast í þá stöðu, sem Jóhannes Nordal skrifaði um á sínum tíma, þegar verið var að hleypa Landsvirkjun af stokkunum.  "Hann sagði, að það myndi taka tíma og mikið fjármagn að byggja fyrirtækið upp.  Það yrði skuldsett, og að greiða þyrfti þær niður, en það myndi hafa mikil jákvæð áhrif ekki sízt, þegar stundir liðu fram.  Hann benti einnig á, að í fyrstu þyrfti að bjóða raforkuna á tiltölulega lágu verði, á meðan við værum að fá fyrirtæki til landsins, sem hefðu áhuga á orkunni.  Hins vegar myndi sú staða breytast, og orkuverðið myndi færast nær því, sem gerist annars staðar.""

Það var rétt hjá dr Jóhannesi Nordal, að greiða varð fórnarkostnað á frumbýlingsárum stóriðjunnar, á meðan landsmenn voru að sýna fram á viðunandi afhendingaröryggi raforku á Íslandi, og að þeir stæðu öðrum á sporði við framleiðslu málma, þ.e. í orkukræfum þungaiðnaði.  Landsvirkjun hefur villzt af leið, skotið yfir markið, og stjórnendur hennar þurfa að lifa eftir þeim gildum, sem forstjórinn heldur fram í eftirfarandi tilvitnun, en passar engan veginn við raunveruleikann:

"Við erum með 3 stóra viðskiptavini af þeim toga, og í mínum huga skiptir mestu máli að styðja vel við þeirra þróun og hóflegan vöxt, sem bætir arðsemi þeirrar framleiðslu, sem þeir standa í."

Ef forstjóri Landsvirkjunar gengur í þeirri dulunni, að ofangreint sé rétt lýsing á framferði hans, þá skortir hann allt raunveruleikaskyn og er sennilega á rangri hillu.

 

 


Íslenzkur sjávarútvegur er grundvöllur velmegunar í landinu

Af nýlegri umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið íslenzka mætti ætla, að sumir stjórnmálamenn líti á sjávarútveginn sem leikvöll sinn (eða kannski vígvöll ?). Sporin hræða mjög í þeim efnum.  Affarasælla er að líta á sjávarútveginn, veiðar, vinnslu og markaðssetningu, sem vettvang einkaframtaks, sem hafi það hlutverk að hámarka sjálfbæra atvinnusköpun um allt land og sömuleiðis að hámarka verðmætasköpun úr lífríki hafsins. 

Sjávarútveginum er spáð miklum vexti, en rekstur hans er reyndar undirorpinn meiri óvissu en rekstur flestra greina, því að afkoman veltur að miklu leyti á duttlungum náttúrunnar, og þróun lífríkis hafsins getur tekið óvænta stefnu í nánustu framtíð, eins og reyndar oft áður. 

Í "Á bak við yztu sjónarrönd", riti útgefnu af "Íslenzka sjávarklasanum", eru samt settar fram spár um aukningu veltu veiða og vinnslu úr mrdISK 300 árið 2019 í mrdISK 444 árið 2029 (48 % aukning á 10 árum) og í mrdISK 657 árið 2039 (119 % aukning á 20 árum).  Hvernig er þessi bjartsýna spá rökstudd ?

Til að skýra það skal vitna í 200 mílur Morgunblaðsins, 4. desember 2019:

"Þór Sigfússon er stofnandi íslenzka sjávarklasans og einn af höfundum ritsins.  Hann segir vöxt í veiðum og vinnslu m.a. skýrast af því, að vænta má verulegra hækkana á fiskverði á komandi áratugum í takti við fólksfjölgun í heiminum og vaxandi kaupmátt neytenda í öllum heimshlutum.  Þá megi reikna með, að íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki láti að sér kveða erlendis og taki t.d. þátt í verkefnum af ýmsum toga í Evrópu og Bandaríkjunum.  Sjávarklasinn spáir hins vegar hlutfallslega meiri vexti í fiskeldi og áætlar, að þar aukist veltan nærri sautjánfalt á næstu 20 árum."

Í fyrra hækkaði fiskverð erlendis á mörkuðum íslenzkra fyrirtækja meira en sem nemur fólksfjölgun og hækkun kaupmáttar þar.  Það eru fleiri kraftar en þessir, sem styðja við spádóm Sjávarklasans. Í fyrra gekk mikil svínapest, og skáru Kínverjar niður meira en helming síns svínastofns.  Þeir herða ekki sultarólina að sama skapi, heldur auka innflutning á matvælum, ekki sízt fiskmeti, enda hefur það jákvæða umhverfisímynd og hollustuyfirbragð.  Ekki er ólíklegt, að kolefnisspors vottaðra matvæla verði getið á umbúðum eða í kjöt- og fiskborðum verzlana, og þar mun fiskmetið standa sterkt að vígi í samanburði við margt kjötmeti. Á sama tíma fer framboð villts fiskmetis þverrandi vegna breytinga í hafinu og ofveiði. Afli fiskveiðiflota ESB-ríkjanna minnkaði 2019 m.v. 2018, en eftirspurnin jókst, svo að dæmi sé tekið.  Þetta olli yfir 30 % verðhækkun í evrum talið.  Það er mjög mikið á einu ári og mun ganga til baka, ef framboðið nær fyrri mörkum. 

Sjávarútvegurinn er stundaður út frá útgerðarstöðum í öllum landshlutum hérlendis.  Vöxtur og viðgangur hans mun efla landsbyggðina, góðu heilli, og styrkja jafnframt viðskiptajöfnuð landsins, gengi ISK og þar með hag allra landsmanna.  Dreifing veltunnar er um allt þjóðfélagið, eins og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, gaf ágætt yfirlit um að gefnu tilefni í grein í Fréttablaðinu, 10. janúar 2020, sem hét:

"Slóð makrílmilljarða rakin".

Þar vísar hann í Fréttablaðsgrein sína 18. desember 2019, þar sem hann áætlaði, "að meðalverð hvers útflutts kílós af makríl hefði numið 130 kr/kg."  Síðan segir:

"Sé skattspor KPMG fyrir Vinnslustöðina yfirfært á íslenzkan sjávarútveg í heild, er skipting útflutningsverðmætis makríls [árin 2006-2018] sýnd í töflu, sem greininni fylgir."

Töfluna birti Sigurgeir til að sýna, að Kári Stefánsson, læknir og frumkvöðull á sviði erfðavísinda, óð reyk, er hann illkvittnislega sáði fræjum tortryggni í garð útgerðarmanna og vændi þá um að stela  frá íslenzka þjóðarbúinu, eins og eftirfarandi tilvitnun í grein Sigurgeirs Brynjars sýnir: 

"Kári birti hér í Fréttablaðinu grein 3. desember [2019] undir fyrirsögninni Landráð ? og taldi líklegt, að útgerðarmenn hefðu stolið 300 milljónum króna af verðmæti makríls af íslenzkri þjóð.  Ég sýndi fram á það með rökum hér á sama vettvangi 18. desember, að sú þjófnaðarkenning stæðist enga skoðun." 

Þeir, sem slá sér á brjóst, uppfullir af heilagri vandlætingu yfir framferði útgerðarmanna og ýja jafnvel að landráðum í því sambandi án þess að hafa krufið málin til mergjar, eru greinilega í einhvers konar krossferð gegn núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og telja sig um leið koma höggi á hóp útgerðarmanna, sem þeir meðhöndla sem þjóðaróvini og sérhagsmunaseggi. Hér er verið að draga upp útlínur sýndarveruleika, sem ætlað er að gagnast í áróðursstríði, en mun hitta þessa ofstækisfullu hatursmenn fiskveiðistjórnunarkerfisins fyrir sem bjúgverpill, þegar þeir verða krafðir um valkostina. Að því verður vikið betur í þessum vefpistli, en næst er að skoða makríltöflu Sigurgeirs Brynjars:

  •                mrdISK   %    Skipting 130 ISK/kg
  • Alm. rekstrark.   88   44      57
  • Laun starfsf.     37   18      24
  • Skattar & lífsj.  47   24      31
  • Afkoma VSV        17    9      11
  • Fjármögnun        10    5       7
  • _______________________________________________
  • Samtals          200  100     130     
 
Stærsti liðurinn, almennur rekstrarkostnaður, er orkukostnaður, kostnaður viðhalds og viðgerða, löndunarkostnaður og útflutningskostnaðurn, nemur 44 %. Næst stærsti útgjaldaliðurinn fer til hins opinbera og samtryggingar okkar í lífeyrissjóðunum, 24 %, og þá koma laun starfsmanna, 18 %. Sá liður, sem hælbítar útgerðarmanna fjargviðrast mest út af, án þess að hafa vit á útgerð, er afkoman.  Hún er í þessu tilviki 11 ISK/kg af þessum 130 ISK/kg, sem fengust að jafnaði fyrir makrílinn, eða 9 %. Hún gengur til afborgana af lánum, til nýfjárfestinga og til arðgreiðslu.  Með sanngirni og samanburði við fyrirtæki utan sjávarútvegs er ekki hægt að halda því fram, að 9 % sé hátt hlutfall fyrir allt þetta.
 
Þetta sýnir, að það er engin auðlindarenta í þessum makrílveiðum.  Þá væri afkoman betri en í öðrum greinum atvinnulífsins.  Það er eins og mörgum finnist útgerðarmenn vera forréttindastétt, sem græði óeðlilega á eign þjóðarinnar, aflahlutdeildum í nytjastofnum við Ísland, sem þeir hafi þegið að gjöf frá ríkinu.  Allt er þetta öfugsnúið í meira lagi, því að útgerðarmenn hafa fjárfest í dýrum búnaði til að nýta stofnana, og langflestir þeirra hafa keypt þessar aflahlutdeildir á frjálsum markaði. Ríkið getur ekki hirt þær af þeim si svona á pólitískum forsendum. Það væru kommúnistískir stjórnarhættir.
Þeir gerðu, það sem ríkisvaldið ætlaðist til af þeim á sinni tíð, kvóti gekk kaupum og sölum og útgerðarmönnum og fiskiskipum fækkaði, svo að hallarekstri var snúið í hagnað í sjávarútveginum sem heild.
Íupphafi (1983) var aflahlutdeildum úthlutað á grundvelli veiðireynslu til þeirra, sem þá stunduðu útgerð. Þetta var aðferð, sem Alþingi samþykkti eftir mikla umfjöllun.  Enginn á óveiddan fisk í sjó, en íslenzka ríkið hefur hins vegar óskoraðar stjórnunarheimildir og gjaldálagningarheimildir á miðunum samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögunum og hefur góðu heilli falið Hafrannsóknarstofnun ráðgjöfina og fylgt henni í seinni tíð, en verið ærið mislagðar hendur með gjaldaálagninguna og fjármögnun Hafró. Er ámælisvert, að fjármögnun Landhelgisgæzlunnar og Hafrannsóknarstofnunar skuli skuli vera ábótavant þrátt fyrir nægt fé fyrir veiðileyfin frá útgerðunum til að fjármagna þessar grundvallar stofnanir sómasamlega.   
 
Lok tilvitnaðrar greinar Sigurgeirs Brynjars voru þannig:
""Skylt er að hafa það heldur, er sannara reynist", sagði Ari fróði forðum.  Hér liggur sem sagt fyrir gróflega áætluð skipting tekna af makrílveiðum Íslendinga.  Á grunni talna, en ekki sögusagna eða rakalausra fullyrðinga, geta nú Kári Stefánsson og aðrir rökrætt, hvað teljist "sanngjarn hlutur" hvers og eins.  Þá vænti ég þess, að áframhaldandi blaðaskrif hans byggist á þeirri vísindalegu aðferðafræði, sem fleytt hefur honum í hóp færustu vísindamanna heims."
 
 Á það hefur skort, að gagnrýnendur sjávaútvegsins íslenzka bentu á fýsilegri kosti en núverandi kvótakerfi. Á meðan sú staða er uppi, missir gagnrýnin marks. Þar eru mest áberandi gamlar lummur og afdankaðar stjórnunaraðferðir fyrir þessa mikilvægu auðlind. Allt er þetta óboðlegt.  Aðallega er bent á tvær aðferðir:
  1. Að færa byggðunum (sveitarstjórnum, bæjarstjórnum) kvótann.  Kerfi bæjarútgerða var aflóga, þegar kvótakerfið var samþykkt á Alþingi 1983.  Bæjarútgerðir voru reknar með dúndrandi tapi, enda hvernig á annað að vera ?  Það er ekki hægt að ætlast til þess, að stjórnmálamenn hafi meira vit á útgerð en meðallandkrabbi.  Að setja slíkt fólk yfir útgerðirnar er ávísun á ófaglegan, óskynsamlegan og óskilvirkan rekstur, sem mun enda sem baggi á byggðarlögunum og þjóðhagslegt tap upp á tugi milljarða ISK á ári hverju. Það tap er af slíkri stærðargráðu, að það mun verða dragbítur á hagvöxt og rýra lífskjör allra landsmanna til muna.  
  2. Uppboðskerfi veiðiheimilda.  Samfylking og Viðreisn hafa talað fyrir þessu kerfi á Alþingi, en hætt er við, að ESA-Eftirlitsnefnd EFTA með framkvæmd EES-samningsins muni krefjast þess, að slíkt uppboð fari fram á öllum EES-markaðinum, eins og krafan hljómar frá ESA/ESB um uppboð virkjanaleyfa fyrir vatnsorkuver innan EES.  Sannleikurinn er sá, að þetta fyrirkomulag hefur alls staðar gefizt illa, þar sem það hefur verið reynt, og það hefur verið aflagt eftir misstuttan tíma, þar sem það hefur leitt til samþjöppunar, þ.e. fækkunar útgerða, og aukinnar skammtíma hugsunar fyrirtækjanna, sem hafa veikzt og orðið að minnka nauðsynlegar fjárfestingar í nýjustu tækni.  Dæmi eru Eistland og Rússland og nú síðast Færeyjar.  Hér að neðan er byrjun á frétt úr Fiskifréttum, 9. janúar 2020:

"Færeyingar hætta að bjóða upp kvóta":

 

"Veiðiheimildir hafa að hluta verið boðnar upp á opinberum markaði í Færeyjum undanfarin ár.  Frá þeirri leið verður nú horfið.

Færeyska lögþingið samþykkti stuttu fyrir áramót breytta fiskveiðistjórnunarlöggjöf.  Þar er m.a. fallið frá uppboðsleiðinni, en hún fól í sér, að 15 % uppsjávarkvóta og 15 % botnfiskkvóta í Barentshafi hafa verið boðin upp á opinberum markaði.

Áfram verður sóknardagakerfi í gildi um botnfiskveiðar í færeyskri lögsögu, en veiðileyfakerfið notað sem fyrr í uppsjávarveiðum og veiðum á fjarlægum slóðum."

Sjávarútvegi, eins og öðrum atvinnugreinum, hlýtur að vera bezt fyrir komið þannig, að verðmætasköpun hans með sjálfbærum hætti verði í hámarki.  Þannig verður hagur landsmanna sjálfra bezt tryggður. Til að réttlæta umbyltingu stjórnkerfis, sem í heildina hefur reynzt vel og er horft til sem fyrirmyndar sums staðar erlendis, þarf að sýna fram á yfirburði annars kerfis með gildum rökum og helzt vitna til reynslu annarra.  Erlendis er slík fyrirmynd ekki til, enda hefur engum tekizt að sýna fram á, að annað fyrirkomulag hérlendis en núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé þjóðhagslega hagkvæmara. 

Hópur manna stendur á hliðarlínunni og hrópar, að skipting teknanna af sjávarútvegsfyrirtækjum sé ósanngjörn.  Dæmið hér að ofan um makrílinn bendir ekki til, að svo sé, en sínum augum lítur hver á silfrið.  Þegar stjórnmálamenn fara að krukka í tekjuskiptinguna, er sú afskiptasemi oftast til bölvunar, þ.e. til þess fallin að draga úr verðmætasköpun greinarinnar og þar með úr hagvexti á landsvísu í tilviki sjávarútvegsins.

Dæmi um þetta er s.k. veiðileyfagjald.  Hugmyndafræðin að baki því er, að fyrirtæki, sem sækja hráefni í greipar náttúrunnar, búi við minni tilkostnað en hin, sem kaupa hráefni sitt á markaði, og þess vegna verði hagnaður hinna fyrrnefndu meiri en hinna, sem þá þurfi að jafna (með skattheimtu) til að gæta réttlætis.  Mismuninn, s.k. auðlindarentu, eigi ríkisvaldið með öðrum orðum rétt á að hirða. Gallinn við þessa kenningu er tvíþættur:

  Hún er fjarri því að vera algild, og t.d. hefur, að því bezt er vitað, enn engum tekizt að sýna fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi, og styður makríldæmið hér að ofan þá ályktun, að hún sé þar ekki fyrir hendi.  Þá virkar auðlindagjald á sjávarútveginn sem hver önnur viðbótar skattheimta, og slík dregur alltaf úr verðmætasköpun og nýsköpunarkrafti og veikir samkeppnishæfnina í bráð og lengd um fé, fólk og markaði.  Það er vegna þess, að fjárfestingargeta fyrirtækjanna minnkar með aukinni skattheimtu, og þar með hægir á tækniþróun, sem er grundvöllur aukinnar skilvirkni á öllum sviðum, og fyrirtækin eiga á hættu að dragast aftur úr samkeppnisaðilunum.

Hinn gallinn við auðlindagjald á íslenzka sjávarútveginn er einmitt sá, að það tíðkast yfirleitt hvergi, nema á Íslandi og í Færeyjum, heldur þvert á móti nýtur sjávarútvegur víðast hvar ríkisstyrkja á mismunandi formi, meira að segja í Noregi, sem Ísland keppir við á ýmsum fiskmörkuðum. Stærstu útgerðarfyrirtæki Noregs eru þó talsvert stærri en þau stærstu hérlendis, enda má aflahlutdeild þeirra í hverri tegund verða hlutfallslega meira en tvöfalt stærri (25 %) en hér (12 %), og í heildina eru umsvif (velta) norsks sjávarútvegs a.m.k. þreföld á við umsvif hins íslenzka.  

Að tala, eins og sumir stjórnmálamenn tala hér um veiðileyfagjaldið, að það sé sérstakt réttlætismál fyrir landsmenn í ljósi fiskveiðistjórnunarlaganna að hækka gjaldið verulega, er í raun ekkert annað en að saga í sundur greinina bolmegin við okkur öll, sem á henni sitjum.  Talið er helbert lýðskrum, sem auðvelt er að sjá í gegnum.

 

 

 

 


Ógnarlegar náttúruhamfarir - það sem koma skal ?

Ógurlegt ástand hefur skapazt í suð-austanverðri Ástralíu af völdum skógarelda vegna mikilla þurrka á þessu svæði. Úrkoma í Ástralíu sveiflast lotubundið og er nú nálægt hefðbundnu lágmarki. Jafnframt hafa hitamet verið slegin á þessu sumri í Ástralíu, og er þó hefðbundið heitasta tímabil ekki enn gengið í garð. Við vesturjaðar Sidneyborgar fór hitastig yfir 49°C í viku 02/2020.      Í Indónesíu, sem er norðan við Ástralíu, hafa á sama tíma orðið heiftarlegustu flóð í langan tíma.

Þarna virðist hafa orðið hliðrun á veðrakerfum, a.m.k. um stundarsakir, og sökinni er skellt á aukningu styrks koltvíildis í andrúmsloftinu úr 0.03 % í 0.04 % á 170 árum.  Hér skal ekki kveða upp úr með það, heldur viðra röksemdir með og á móti.  

Hvað sem því líður, þá hafa fjárfestingarbankar og tryggingafélög nú tekið til við að hringja viðvörunarbjöllum út af loftslagsbreytingum. Þetta á t.d. við um borgir í Bandaríkjunum, þar sem sjávarflóð geta valdið miklum usla.  Þar er nærtækt að óttast um Flórídaskagann, sem er flatur og lágur allur saman.  Nú er slíkum ríkjum ráðlagt að búast við  meðaltalstjóni af völdum loftslagsbreytinga, sem nemur 0,5-1,0 % á ári af VLF. Ef þetta er heimfært upp á íslenzka efnahagskerfið, fást 15-30 mrdISK/ár.  Tjónið, sem varð á Íslandi í norðanáhlaupinu á jólaföstu 2019 nam e.t.v. þriðjungi af lágmarki þessa bils, og þar var líklega um að ræða óveður, sem búast má við á 10 ára fresti.  Þetta er áhætta, sem Íslendingar hafa búið við frá landnámi, en þá var hlýrra hér en nú er. 

Hagur Íslands er hins vegar háður náttúrunni í meiri mæli en flestra annarra landa, og jafnvægi hennar er óstöðugt. Því má slá föstu, og maðurinn (homo sapiens) er orðinn svo öflugur nú á tímum, að hann getur truflað jafnvægi náttúrunnar.  Náttúrulegar hitasveiflur má m.a. sjá í löngum borkjörnum úr Grænlandsjökli. 

Viðkvæmt jafnvægi á t.d. við um Golfstrauminn, sem veikzt hefur á undanförnum árum, og um lífríki hafsins.  Flytji nytjastofnar sig um set, getur hæglega orðið efnahagslegt tjón hérlendis á ofannefndu bili.  Loðnan sannar þetta.  Hvarf hennar jafngildir um 20 mrdISK/ár tapi útflutningstekna, en á móti hefur makríllinn komið upp að ströndum landsins í ætisleit (étur um 3,0 Mt/ár) og bætt tjónið, þótt ekki séu allir nágrannar okkar þeirrar skoðunar, að við megum nýta hann þrátt fyrir þetta.  Það þykir okkur ósanngjarnt sjónarmið, og þar er verk að vinna fyrir íslenzka hafréttarfræðinga, fiskifræðinga, útgerðarmenn og stjórnarerindreka. Alþjóðlega gæðavottunarstöðin MSC leggur nú lóð sitt á þessar vogarskálar með því að svipta ríkin við norðanvert Atlantshafið gæðavottun á nýtingu norsk-íslenzku síldarinnar.  Innan ESB eru miklar áhyggjur um fiskveiðiaðstöðu ESB-ríkjanna eftir útgöngu Breta.  ESB leggur til, að fyrsta viðfangsefni útgöngusamninganna verði fiskveiðiheimildir innan brezkrar lögsögu.  Bretar geta aðeins fallizt á skammvinna aðlögun ESB að algeru brotthvarfi úr brezkri landhelgi, því að mestu hagsmunirnir eru í hefðbundnum kjördæmum Verkamannaflokksins, sem Íhaldsflokkurinn vann á sitt band í desemberkosningunum 2019, og Boris Johnson lofaði kjósendum þar því strax eftir kosningarnar að ríkisstjórnin myndi standa við bakið á þessum nýju kjósendum Íhaldsflokksins.  

Á hinn bóginn er einsýnt, að landbúnaðurinn hérlendis mun njóta góðs af hlýnun með aukinni uppskeru og fleiri mögulegum tegundum, og aukin úrkoma er jafnframt fylgifiskur hlýnunar, svo að ekki ætti að væsa um vatnsbúskapinn í framtíðinni. Það þýðir, að rekstur vatnsorkuvera verður enn hagkvæmari í framtíðinni en verið hefur.   

Sé líkan IPCC nærri lagi, má nú ljóst vera, að meðalhitastig á jörðu mun hækka meira en var viðmið Parísarsáttmálans, 1,5°C-2,0°C.  Þessu veldur losun manna á 43 mrdt/ár af koltvíildi, CO2, sem er auðvitað til viðbótar enn meiri náttúrúlegri losun.  Til að minnstu líkur yrðu á að halda hlýnun undir 2°C, þyrftu helztu losunarþjóðirnar að draga mun meira úr losun en þær skuldbundu sig til í París, og fæstar þjóðir eru komnar á rekspöl minnkandi losunar.  Aðeins Evrópusambandið, ESB, hefur sýnt vilja til þess nú undir forystu Ursulu von der Leyen, sem senn mun kynna "Græna samninginn" sinn (Green Deal), sem kveða mun á um a.m.k. 55 % samdrátt í losun ESB-landa 2030 m.v. 1990. Þetta er kjörið tækifæri fyrir ESB til að öðlast langþráða stjórnun orkumála Evrópusambandslandanna.  Til þess gagnast óttastjórnun með ragnarök ("inferno") á næstu grösum, nema styrk hönd miðstýringar í Brüssel stemmi á að ósi.  

Það er hins vegar hægara sagt en gert að minnka CO2-losun; "The Devil is in the Detail", og lausn án kjarnorku er ekki í sjónmáli án þess að skaða samkeppnishæfni ESB-landanna meira en góðu hófi gegnir, og þá verður verr farið en heima setið, því að án fjárhagslegs styrkleika er verkefnið vonlaust. Þetta hefur hins vegar Greta Thunberg og hennar fylgifiskar, einnig hérlendis, ekki tekið með í reikninginn.  Ef fótunum verður kippt undan hagvextinum, t.d. með mjög háum koltvíildisskatti, mun hagkerfið skreppa saman, velferðarkerfið hrynja og  fjöldaatvinnuleysi skella á.  Þetta er efnahagskreppa, og í kreppu minnkar auðvitað neyzlan, en ekkert afl verður til reiðu til að knýja fram orkuskipti. Bretar eru líklegir til að taka forystu á þessu sviði, því að þeir hafa ekki útilokað kjarnorkuna sem þátt í lausninni, og hún er sem stendur eini raunhæfi valkosturinn við kolaorkuverin.  Bretar ætla að loka síðasta kolaorkuveri sínu 2025, en Þjóðverjar 2035. Á Íslandi og í öðrum löndum eru núllvaxtarsinnar talsvert áberandi.  Þeir telja hagvöxt ósjálfbæran.  Þetta fólk mun aldrei geta leitt orkuskipti, því að þau krefjast öflugs þróunarstarfs og mikilla fjárfestinga, sem er nokkuð, sem afturhaldsstefnur geta aldrei staðið undir.  Þær bjóða aðeins upp á aukið atvinnuleysi og versnandi lífskjör.

Það var fyrirséð við gerð Parísarsamkomulagsins í desember 2015, að samdráttur í losun (hún hefur á heimsvísu aukizt síðan þá) myndi ganga of hægt til að halda hlýnun undir 2°C m.v. árið 1850 (þá var enn "Litla ísöld" !).  Þess vegna var í samkomulaginu gert ráð fyrir að sjúga CO2 úr iðnaðar- og orkuverareyk og jafnvel beint úr andrúmsloftinu og binda það í stöðugum efnasamböndum neðanjarðar.  Að draga CO2 úr andrúmsloftinu er erfitt, því að þar er það aðeins í styrk 0,041 %.  Þetta er líka mjög dýrt í álverum vegna mjög lítils styrks koltvíildis í kerreyk þeirra (<1 %, í kolaorkuverum hins vegar um 10 %).

Á vegum ESB hefur verið stofnaður sjóður að upphæð mrdEUR 10, sem á að styrkja þróunarverkefni á sviði endurnýjanlegra orkulinda og brottnáms CO2 úr iðnaðarreyk.  Fyrsta auglýsing hans eftir styrkumsóknum verður 2020, og líklegt er, að frá Íslandi muni berast umsóknir til að þróa áfram aðferðir ON (Orku náttúrunnar) á Hellisheiði.  Hjá ON á Hellisheiði er þessi förgun koltvíildis sögð kosta 30 USD/t, sem er aðeins 1/3 af kostnaði þessa ferlis erlendis.  Fyrir álverin er þetta áreiðanlega miklu dýrara en í jarðgufuvirkjuninni á Hellisheiði.  Hvers vegna velja þau ekki fremur hinn örugga kost að semja við skógarbændur á Íslandi um bindingu á a.m.k. hluta af 1,6 Mt/ár CO2 fyrir jafngildi um 30 USD/t ?

Hér sjáum við í hnotskurn vanda baráttunnar við koltvíildi í andrúmsloftinu.  Með því að ferfalda koltvíildisskattinn upp í 100 USD/t CO2 væri hugsanlega hægt að þvinga fyrirtæki til að setja upp CO2-brottnámsbúnað í afsogskerfi sín, en það mundi hins vegar setja viðskomandi starfsemi á hliðina, og þar með hefðu yfirvöld kastað barninu út með baðvatninu.  Eins og sást á 25. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid í desember 2019, skortir samstöðu á meðal ríkja heims um sameiginlegar aðgerðir, og þar stendur hnífurinn í kúnni.  Fyrir vikið er rétt að beina hluta af fénu, sem til ráðstöfunar er, til rannsókna á brýnustu mótvægisaðgerðum gegn hlýnun upp á meira en 3,0°C.  

IPCC gaf það út 2018, að til að halda hlýnun undir 2°C þyrfti að fjarlægja 100-1000 mrdt af CO2 úr andrúmsloftinu og/eða losunarreyk fyrir næstu aldamót, og miðgildið var 730 mrdt CO2, þ.e.a.s 17 ára núverandi losun.  Einmitt þetta hafa þörungar og jurtir gert í meira en einn milljarð ára.  Viðarbrennsla er talin kolefnishlutlaus orkuvinnsla, af því að skilað er til andrúmsloftsins því, sem nýlega var tekið þaðan.  Þetta auðveldar viðarkurlsnotendum á borð við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga leikinn.  

Hængurinn við bindingu með skógrækt er mikil landþörf skógræktar. Nýskógrækt að flatarmáli á við Rússland áætlaði IPCC 2018, að myndi aðeins draga 200 mrdt CO2 úr andrúmsloftinu til aldamóta, sem ekki hrekkur til að halda hlýnuninni nægilega í skefjum samkvæmt IPCC. Til mótvægis þessum vanda mætti þá grisja skóga, endurplanta og breyta nokkrum hundruðum af um 2500 kolakyntum orkuverum heims í sjálfbær viðarkurlsorkuver (pellets).  500 slík umbreytt kolaorkuver mundu þá spara andrúmsloftinu 5 mrdt/ár CO2 eða 12 %, og munar um minna.  

Ísland býður hins vegar upp á mikla möguleika fyrir íslenzkan iðnað til að verða kolefnishlutlaus fyrir tilskilinn tíma (2040). Vegna hlýnandi og rakara loftslags eykst gróðursældin hérlendis með hverjum áratugi.  Til að kolefnisjafna núverandi áliðnað á Íslandi þarf 260 kha lands, og slíkt landrými er fyrir hendi í landinu án þess að ganga á aðrar nytjar.  Slíkt gróðursetningarátak mundi skapa talsverða vinnu í landbúnaðinum og efnivið úr grisjun til kurlbrennslu í iðnaðinum og til (kolefnisfrírrar) orkuvinnslu og síðar meir viðarnytjar til húsbygginga o.fl.  Hvers vegna hefur ekki Loftslagsráð frumkvæði að því að koma á samstarfi Skógræktarinnar, skógarbænda og iðnaðarins í þessu skyni ? Slíkt væri ólíkt þarfara en að eiga viðtöl við fjölmiðla með kökkinn í hálsinum út af meintu svartnætti framundan.

Aðeins 19 af koltvíildisspúandi orku- og iðjuverum heimsins fjarlægja hluta af koltvíildismyndun sinni úr reyknum og binda hann neðanjarðar.  Alls nemur þetta koltvíildissog aðeins 40 Mt/ár eða 0,1 % af losun manna.  Hér þarf að geta þess, að hafið sogar til sín 1/4 og landgróður 1/4.  Staðan er engu að síður þannig, að samkvæmt IPCC er orðið vonlaust að halda hlýnun undir 2,0°C og líklegast, að hún verði yfir 3,0°C.

Fólk af alls konar sauðahúsi tjáir sig um loftslagsmálin og á fullan rétt á því, þótt af mismiklum skilningi sé.  Hrokinn og stærilætið leynir sér þó ekki, þegar efasemdarmenn um ýtrustu áhrif aukningar koltvíildisstyrks í andrúmsloftinu eru uppnefndir "afneitunarsinnar". Það er gefið í skyn, að efasemdarmenn afneiti staðreyndum.  Ekkert er fjær sanni. Þetta er hins vegar tilraun til að þagga niður í þeim, sem vilja rökræða þessi mál í stað þess að játast undir hin nýju trúarbrögð um "hamfarahlýnun".  Ein lítil spurning til þöggunarsinna gæti t.d. verið, hvernig kenningar um "hamfarahlýnun" koma heim og saman við þá staðreynd, að þann 2. janúar 2020 var slegið kuldamet á Grænlandsjökli, er þar mældust -66°C ?

Í Morgunblaðinu 29. nóvember 2019 birtist "baksviðsviðtal" Baldurs Arnarsonar við Andra Snæ Magnason, rithöfund, sem hafði þar nánast ekkert fram að færa annað en yfirborðskennda frasa, einhvers konar loftslagsfroðu, sem hann gerir út á í opinberri umræðu.  Viðtalinu lauk með spádómi í dómsdagsstíl án þess að setja málið í tölulegt samhengi af viti.  Umræða af þessu tagi hefur verið kölluð "tilfinningaklám".  Það er gert út á ótta við breytingar:

"Ég held, að sá fjöldi ferðamanna, sem nú koma, sé ágætur.  Ég held, að 5 milljónir ferðamanna væru hvorki æskilegt markmið menningarlega né umhverfislega fyrir Ísland.  Eins og ég ræði um í fyrirlestri mínum [í Borgarleikhúsinu-innsk. Mbl.], held ég, að heimurinn sé að fara að breytast mjög hratt.  Það verða settar hömlur á flug á næstu árum; styttri ferðir verða ekki sjálfsagðar.  Ég held, að Íslendingar þurfi að laga sig að því, að við fáum færri ferðamenn í lengri tíma; að það verði jafnmargir ferðamenn á hverjum tíma.  Það verði hins vegar ekki talið siðferðilega rétt að skreppa í þriggja daga ferðir til útlanda, heldur heldur muni fólk fara [svo ?; verða] miklu lengur og betur [svo ?], þegar það ferðast."

Þótt rithöfundurinn haldi, að núverandi ferðamannafjöldi sé kjörfjöldi hérlendis, þá segja staðreyndir ferðageirans annað.  Gistirými er vannýtt, og tekjur eru of litlar m.v. þann fjölda, sem þar starfar nú, og hefur þó umtalsverð fækkun starfsmanna átt sér stað frá undirritun Lífskjarasamninganna, svo að nú er heildarfjöldi atvinnulausra í landinu kominn í 7600.  Hugmyndafræði rithöfundarins er hugmyndafræði stöðnunar, afturhalds, sem leiða mun til aukins landflótta kunnáttufólks héðan.

Hann heldur, að 5 M ferðamanna sé meira en landið ræður við með góðu móti, en útskýrir ekki, hvað hann á við.  Heildarfjöldinn 5 M getur t.d. verið samsettur af 2 M millilendingarfarþega og 3 M gistifarþega.  Með því að hluti þeirra fljúgi beint til Akureyrar eða Egilsstaða má dreifa þeim betur um landið og takist einnig að dreifa þeim betur yfir árið, þarf lítið að fjárfesta til viðbótar við núverandi innviði, gistirými og afþreyingaraðstöðu.  Góð nýting fjárfestinga er lykillinn að góðum rekstri og traustri atvinnu.  

Rithöfundurinn virðist halda, eins og Greta Thunberg, að flugið sé stórskaðlegt andrúmsloftinu.  Þetta er misskilningur hjá þeim.  Koltvíildislosun flugvéla er innan við 3 % af heildarlosun manna, og innanlandsflug í heiminum losar sennilega innan við 1 %.  Hvers vegna ætti að leggja hömlur á það, eins og rithöfundurinn spáir, að verði gert ?  Heldur hann virkilega, að þetta sé vænleg aðferð til betra lífs ?

Hugarórar rithöfundar eru ekki vænlegur grundvöllur spádóma.  Það, sem nú þegar er í gangi á þessu sviði, er þróun rafknúinna flugvéla fyrir vegalengdir undir 1000 km, nánar tiltekið tvinn flugvélar, þar sem bæði verða rafhreyflar og hreyflar knúnir jarðefnaeldsneyti.  Sennilega munu bæði birtast flugvélar með rafhlöðum og vetnishlöðum á þessum áratugi, fyrst í litlum flugvélum, <20 manna, og síðar í hinum stærri.  Þessar vélar munu smám saman leysa jarðefnaeldsneytisvélar af hólmi á öllum vegalengdum, enda umhverfisvænni og lágværari og auk þess hagkvæmari, er frá líður, í rafhami.

Hinn pólinn í loftslagsumræðunni gaf á að líta í Morgunblaðinu 6. desember 2019, en þar birtist greinin "Loftslagsvísindi hrjáð af fölsunum",

eftir Friðrik Daníelsson, efnaverkfræðing. Þar var óspart vitnað í raunvísindamenn og valvísi gastegunda á bylgjulengd geislunar fyrir varmaupptöku. Friðrik skóf ekki utan af skoðunum sínum frekar en fyrri daginn; hann nýtti sér eðlisfræði gasa, og ólíkt færði hann betri rök fyrir máli sínu en rithöfundurinn, sem veður á súðum og reynir að framkalla hagstæð hughrif áheyrenda og lesenda fyrir áróður sinn. Slíkt hefur lítið vægi í umræðunni til lengdar.  Það ætti að vera tiltölulega fljótgert að sannreyna staðhæfingar Friðriks.  Grein hans hófst þannig:

"Hin 123 ára gamla kenning Arrheniusar um hlýnun loftslags af völdum koltvísýrings frá mönnum hefur nú vakið spár um "hamfarahlýnun".  Arrheniusi yfirsást meginatriðið, áhrif loftrakans.  Hálfum áratug eftir, að kenningin kom fram, var hún hrakin af Knut Ångström, en hefur samt skotið upp kollinum, þegar veðurlag hefur hlýnað (eftir 1920 og 1980)."

Þessari hressilegu grein sinni með tilvitnunum í merka raunvísindamenn lauk Friðrik með eftirfarandi hætti:

"Eðlisfræðileg lögmál sýna, að þau litlu áhrif, sem koltvísýringurinn hefur á hitastigið í lofthjúpnum, eru þegar að mestu komin fram.  Koltvísýringurinn, sem er nú þegar í lofthjúpnum, tekur upp nær alla varmageislun, sem hann getur tekið upp, en það er á bylgjulengdunum 2,7, 4,3 og 15 míkron. Útstreymi varmageislunar út úr lofthjúpnum er ekki á þeim bylgjulengdum, heldur á 8-12 míkrón, sem koltvísýringurinn getur ekki tekið upp.  

Aukið magn af koltvísýringi í loftinu breytir þessu ekki, sem þýðir, að styrkur koltvísýringsins í andrúmsloftinu hefur hverfandi áhrif á hitastigið á jörðinni. Metan hefur sömuleiðis hverfandi áhrif af sömu ástæðum.  Það er geislaupptaka loftrakans, sem er yfirgnæfandi og veldur obbanum af gróðurhúsaáhrifunum.

"... það hefur ekki verið sýnt fram á með sannfærandi hætti, að aukning CO2 í andrúmsloftinu hafi ákveðin áhrif á loftslag." (Prof. em. D. Thoenes, Hollandi.)

Af rannsóknum færustu óháðra vísindamanna er orðið ljóst, að aukinn koltvísýringur í lofthjúpnum hefur hverfandi áhrif á loftslagið á jörðinni." (Undirstr. BJo.)

Hér eru mikil tíðindi á ferð, ef sönn eru, þ.e. að útgeislun jarðar sé á tíðnibilinu 8-12 míkrón og hvorki koltvíildi né metan geti sogað í sig geislaorku á því bylgjusviði.  Það var einmitt skýringin á áherzlunni, sem lögð var á hámarks leyfilega hlýnun 2°C á Parísarráðstefnunni í desember 2015, að við meiri hlýnun mundi ekki ráðast við hana, þ.e. hitastigsþróunin myndi þá lenda í óviðráðanlegum hækkunarspíral, t.d. vegna þiðnunar sífrera Síberiu, sem myndi losa úr læðingi gríðarmagn metans, sem er sögð meira en tvítugfalt sterkari gróðurhúsalofttegund en koltvíildi.  Ef hvorug þessara lofttegunda getur tekið til sín útgeislun jarðar, fellur þessi hamfarakenning um sjálfa sig.  Tiltölulega einfalt ætti að vera að grafa þetta upp.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Raforku- og fjarskiptaöryggi - stórfelldir almannahagsmunir

Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja öryggi almennings, og Alþingi ber að hafa eftirlit með stjórnvöldum.  Það hefur nú opinberazt, að hvorki fjarskiptakerfi landsins né raforkukerfi eru í stakk búin til að standast þann veðurham, sem búast má við í einhverjum landshlutum á hverjum áratugi. Þetta er áfellisdómur yfir stjórnvöldum, sem þingið verður að láta til sín taka 2020 og hóf reyndar þá vegferð 2019.

Það virðist nú vera samdóma skoðun allra, leikra og lærðra, þingmanna og embættismanna, að við svo búið megi ekki standa. Eftir er þó að sjá, hver hvort hugur fylgir máli. Af umræðunum leiðir, að nægur einhugur ætti að vera fyrir hendi til að gera tafarlaust fjármagnaða áætlun um endurbætur, sem dugi til að koma í veg fyrir straumleysi og fjarskiptaleysi í veðurhami, sem er sambærilegur við jólaföstuóveðrið 2019 á norðanverðu landinu, þegar umbótum lýkur samkvæmt þeirri áætlun.  Það ætti ekki að vera seinna en við árslok varðandi 2025 varðandi rafmagnsöryggið. 

Nú vita viðkomandi fyrirtæki, aðallega Landsnet og RARIK, hvaða viðmiðun þarf að leggja til grundvallar á hverju landsvæði á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, í norðanroki eða fárviðri með ísingu og seltu. Áður hafa þessi fyrirtæki haft reynslu af slíku í suðlægum áttum.  Það verður ætlazt til þess, að fyrirtækin leggi nú ekki upp með lausnir, sem ekki standast verður, sem vænta má á 10 ára fresti. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt að hefja umbætur, sem ekki koma í veg fyrir milljarða ISK tjón á 10 ára fresti (áætlun BJo: mrdISK 5,0 í desember 2019).

Til þess verður ætlazt, að þessi fyrirtæki komi rafmagnsöryggismálum á norðanverðu landinu í þetta horf fyrir árslok 2025.  Það er reyndar ekki hægt að ætlast til þess svo fljótt fyrir sumarhúsabyggðir, en fyrir alla staði, þar sem atvinnustarfsemi er stunduð og föst búseta er, verður að ætlast til þess. 

Ef í ljós kemur, að fyrirtækin hafa ekki dregið rétta lærdóma af fyrrnefndu jólaföstuveðri, heldur lagt upp með lausnir, sem ekki duga, þá verður það stjórnendum og stjórnum viðkomandi fyrirtækja til mikils hnjóðs, og Alþingismenn, sem verða að vera yfirgæzlumenn almannahagsmuna hér sem endranær, verða að ganga eftir því við ríkisstjórnina, að ekki sé verið að sóa fé í útfærslur, sem menn nú mega vita, að eru of veikar fyrir veður, sem búast má við á hverjum áratugi.

Þann 21. desember 2019 skrifaði Höskuldur Daði Magnússon frétt í Morgunblaðið, sem hann nefndi:

"Raforkustjórar kvaddir til".

Þar tók hann tali þingmann, sem góðu heilli hefur m.a. látið orkumálin sig miklu varða, eins og þingmönnum ber, og sveitarstjóra Húnaþings vestra á Hvammstanga, sem varð einna verst úti í óveðrinu vegna þess m.a., að aðveitustöð Hrútatunga stendur berskjölduð gagnvart ísingu og seltu í norðan hvassviðri við 0°C og vararafstöð vantar í þéttbýlinu þar í sveit:

""Mér hafa fundizt menn ekki vera að taka þetta nægilega alvarlega í gegnum tíðina.  Ég held, að það hafi ekki verið almenn vitneskja á svæðinu um það, hversu illa kerfið stóð allt saman", segir Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður."

Þetta er alveg rétt hjá þingmanninum.  Það hefur áratugum saman verið látið, eins og Byggðalínan væri nógu örugg, og að styrrinn um hana stæði aðeins um flutningsgetuna.  Nú vita menn betur, og menn vita jafnframt fyrir hvers konar veðuráraun þarf að hanna nýja Byggðalínu.  Það þýðir ekki lengur fyrir Landsnet að koma með tillögu um eitthvað, sem ekki þolir veðurham og seltu, sem vænta má á 10 ára fresti, eins og kom nú á jólaföstunni.  Orkuráðherrann getur á þingi vænzt spurningar á borð við þá, hvort fram komin tillaga Landsnets sé hönnuð til að standa af sér sambland af roki, ísingu og seltu, sem starfsmenn og verktakar Landsnets börðust við af seiglu og harðfylgi á jólaföstu 2019 og ásamt björgunarsveitunum björguðu því, sem bjargað varð.  Hin heilbrigða grasrót landsins bregst aldrei, en meiri áhöld eru um stjórnendurna (elítuna), sem minna stundum á vafagemlinga, svo að ekki sé nú minnzt á ormaveika rollu.

""Þetta var gagnlegur fundur [með Guðmundi I. Ásmundssyni og Tryggva Þ. Haraldssyni-innsk. BJo]. Við fengum yfirlit yfir það, hvernig þessi mál hafa þróazt og stöðuna.  Ég held, að það hljóti flestir að sjá, hversu mikilvægt er að styrkja og byggja upp flutningskerfi raforku.  Maður vill helzt ekki hugsa þá hugsun til enda, hvernig hefði farið, ef 65 % strengjanna hefðu ekki verið komin í jörð", segir Njáll Trausti."  

Það eru vafalaust nógu margir nú, sem sjá, að norðanvert landið býr við ófremdarástand, og skömm væri að að láta raunhæfar úrbætur reka lengur á reiðanum. Vel færi á, að áhugasamir þingmenn um þessi málefni legðu  fram þingsályktunartillögu um nýja Byggðalínu á milli Fljótsdals og Brennimels (Klafastaða) fyrir árslok 2025, og að allt dreifikerfi landsins til þéttbýlis og atvinnurekstrar fari í jörð á sama tíma og jafnframt dreifistöðvar (rofar og spennar, rafgeymar o.fl.) í hús.  Þá hljóta að koma fram stjórnarfrumvörp til nauðsynlegra laga, sem duga til að tryggja framgang þessa máls. Endalausar nefndaskipanir og skýrslugerðir duga ekki einar og sér.  Úr því, sem komið er, verður að hraða sér að teikniborðinu og láta verkin tala eða að játa uppgjöf sína gagnvart viðfangsefninu og fá aðra til verksins. Kjósendur munu senn vega það og meta, hverjir og hverjar eru á vetur setjandi.

""Við lögðum áherzlu á það, að hér hafi ekki verið varaafl til staðar og ekki hafi verið mönnuð stöðin í Hrútatungu.  Við viljum fá mönnun á svæðið og stærri spenni á Laxárvatn, svo að hægt sé að fá varaafl þaðan, ef það bregzt Hrútatungumegin", segir sveitarstjórinn [í Húnaþingi vestra]." 

Varðandi varaaflsþörfina er sjálfsagt af RARIK og öðrum dreifiveitum ásamt Landsneti eftir atvikum að gera nýjar áhættugreiningar í ljósi reynslunnar og nýrra áforma eftir jólaföstuóveðrið 2019. Slíkar áhættugreiningar ættu að fara fram með þátttöku heimamanna.  

Varðandi fjarskiptakerfi, sem reyndust vera alltof háð veiturafmagni m.v. mikilvægi þeirra, reynast fjarskiptafyrirtækin ekki hafa haft áhuga fyrir að keppa um viðskiptavini á grundvelli þess, hversu langvarandi samband þau byðu viðskiptavinum sínum í straumleysi.  Póst- og fjarskiptastofnun var meðvituð um ófullnægjandi neyðarafl hjá fyrirtækjunum, en ber því við eftir á, að lagaheimild sé ekki fyrir hendi til að ákvarða lágmarks neyðarafl.  Þessi embættisfærsla er anzi dauf, svo að ekki sé nú fastara að orði kveðið.  Setja þarf hið fyrsta lög, sem skylda Póst- og fjar til að ákvarða lágmarkstímalengd fullrar fjarskiptaþjónustu í straumleysi á hverjum stað og til að hafa virkt eftirlit með neyðaraflkerfum fjarskiptafyrirtækjanna og refsiúrræði, ef út af er brugðið.  Í lögum skal taka af tvímæli um, að samstarf fjarskiptafyrirtækjanna um neyðaraflgjafa sé leyfilegt.  Ótækt er, að túlkun samkeppnislaga á annan veg valdi verðhækkun til neytenda vegna sjálfsagðs neyðarafls m.v. mikilvægi.

Elías B. Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði vel ígrundaða grein um afhendingaröryggi raforku, sem birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2019,

"Eftir storminn":

"Jólaföstuveðrið og afleiðingar þess sýndu fram á, að flutningskerfið er ekki hannað fyrir þau veður, sem hér geta komið.  Stjórnvöld og almenningur áttuðu sig á því og vill ráðstafanir.  Fólk á landsbyggðinni, bæði til sveita og í minni bæjarfélögum, býr ekki við það raforkuöryggi, sem þarf í nútíma þjóðfélagi.  Stóriðjufyrirtæki kunna að leggja mat á mikilvægi orkuöryggis og verða að taka tillit til þess kostnaðar, sem Landsnet og orkusali bera af öryggiskröfum þeirra, en þegar um öryggi almennings er að ræða, sofa stjórnmálamenn meðan sveitarstjórnir með skipulagsvaldið, náttúruverndarsamtök og einstakir landeigendur þvælast fyrir."

Það er hárrétt, að kjörnum fulltrúum almennings ber að gæta hagsmuna hans gagnvart flutnings-, dreififyrirtækjum og orkusölum (orkuvinnslu) með því að setja fram kröfur um gæði rafmagns, afhendingaröryggi og spennugæði. Þetta geta sveitarstjórnir gert með ályktunum sínum og  Alþingismenn t.d. með þingsályktunartillögu með tölusettum viðmiðum og markmiðum fyrir stjórnvöld og lagafrumvarpi um fjármögnun viðbótar kostnaðar vegna hærri öryggiskrafna en Landsnet hingað til hefur áætlað vegna Byggðalínu.

Í "den" fór Landsvirkjun fumlaust þá leið, þegar neikvæð reynsla kom á hefðbundnar 220 kV línur í íslenzkum óveðrum, að veita hagnaði af orkusölunni til að fjárfesta í traustari flutningslínum en evrópskir staðlar kváðu á um.  Þetta var og er nauðsynlegt til að veita íslenzkum almenningi og fyrirtækjum hérlendis sams konar raforkugæði, afhendingaröryggi og spennustöðugleika, og almenningur annars staðar í Evrópu býr við. 

Þetta var gert með því að reisa 3 línur á Suð-Vesturlandi með einangrunargildi fyrir 400 kV til að standast seltuáraun, þótt málgildi rekstrarspennunnar væri áfram 220 kV.  Í framtíðinni kann að verða hagkvæmt og jafnvel nauðsynlegt að hækka þessa 220 kV  rekstrarspennu. Sömu leið borgar sig að fara með nýja Byggðalínu um norðanvert landið, því að truflanir, sérstaklega langvinnar, eru dýrar.  Seltutruflanir geta einmitt verið langvinnar.

Elías skrifaði í seinni hluta greinarinnar:

"Hér á Íslandi búum við í stóru og fjöllóttu landi og þurfum að fá rafmagn okkar um langan veg frá vatnsorkuverum langt frá næsta þéttbýli í stað þess að byggja kolastöð við bæjarmörkin. Tengingar milli byggðarlaga eru langar og liggja yfir hálendi, þar sem veður eru válynd.  Allt hækkar þetta kostnaðinn, sem hver einstaklingur verður að standa undir.  Þessi munur á því að rafvæða Ísland og Evrópu var að koma betur og betur í ljós á síðari hluta aldarinnar, sem leið, og stjórnmálamenn fylgdust vel með og voru með í ráðum, þegar þurfti.  

Þar varð breyting á með nýjum raforkulögum 2003, þegar innleidd voru lög ESB um markaðsvæðingu raforkunnar. Þar með höfðu stjórnmálamenn minni möguleika á að fylgjast með, og þeim virðist ranglega hafa verið talin trú um, að markaðurinn mundi sjá fyrir nægu öryggi.  Þeir sofnuðu á verðinum.  Eitthvað hafa þeir rumskað við veðrið nú, en þeir, sem telja flutningslínur vera mengun, rumska ekki." 

Hér víkur Elías að miklum kostnaði flutningskerfis raforku fyrir Íslendinga vegna landshátta, veðurlags og dreifðrar byggðar.  Hinn valkosturinn (við öflugar samtengingar á milli héraða) er að virkja í hverju héraði og reka nokkur að mestu óháð raforkukerfi í landinu.  Sú stefna hefur hvergi í Evrópu verið farin, og Íslendingar hurfu í raun frá þeirri stefnu með uppbyggingu stórvirkjana í landinu, sem grundvallaðar voru á hugmyndinni um hagkvæmni stærðarinnar, sem almenningur um allt land skyldi njóta góðs af.

Til þess þarf öflugar samtengingar á milli landshluta. Þess vegna var Byggðalínan reist, sem taka skyldi við raforku frá Þjórsár/Tungnaársvæðinu og flytja hana til Vestfirðinga, Húnvetninga, Skagfirðinga og Eyfirðinga. Ekki voru allir sammála þessu, og þess vegna var Kröfluvirkjun reist í kjölfar Laxárævintýrisins, en Kröfluvirkjun (jarðgufuöflunin) lenti í miklum hremmingum í byrjun, og haldið var áfram með 132 kV Byggðalínu þangað og síðan áfram að Hryggstekk í Skriðdal árið 1978. Gallinn var sá, að um sýndaröryggi var að ræða, því að í flýti og fjárskorti var ekki  nægur gaumur gefinn að afhendingaröryggi og spennugæðum.  Nú eru aðrir tímar.  

Árið 1973 hækkaði olíuverð á heimsmarkaði um a.m.k. 70 %, og þá var Orkuskiptum #2 hleypt af stokkunum hérlendis, sem aðallega fólust í að leysa olíu af hólmi með rafmagni og jarðhita til upphitunar  húsnæðis.  Það var yfirvofandi alvarlegur raforkuskortur á Norðurlandi í kjölfarið, og þess vegna var Byggðalínu flýtt eftir föngum, og hún var í raun og veru reist af vanefnum og fullnægði aldrei skilyrðinu um "trausta" samtengingu á milli landshluta. 

Það hefur dregizt taumlaust úr hömlu að bæta úr þessu. Það er t.d. vegna meingallaðrar löggjafar um skipulag og leyfisveitingar verklegra framkvæmda. Hér ætti fjármálalega, skipulagslega og leyfisveitingalega að vera um "ríkismálefni" að ræða, þannig að framkvæmdir geti átt sér stað eins snurðulaust og kostur er, þótt sveitarstjórnir kunni að hafa mismunandi skoðanir um framkvæmd. Kæruferlum ætti að stilla í hóf svo sem gert er annars staðar á Norðurlöndum.

Hiklaust ætti að taka aftur upp þann hátt, sem hafður var á um fjármögnun flutningslína 1969-2005, að hagnaði af raforkuvinnslu og heildsölu rafmagns var m.a. varið til uppbyggingar flutningskerfisins.  Annað leiðir til svo hás flutningsgjalds, að raforkan verður ósamkeppnishæf hérlendis, eins og dæmin sanna. Eðlilegt er, að fjármagnið haldist þannig innan raforkugeirans, á meðan fjárfestingarþörf hans er mikil og brýn.

Landsreglarinn (The National Energy Regulator) hefur lítið tjáð sig opinberlega um stöðu raforkukerfisins í kjölfar óveðursins, en ætla má, að hann telji slíka fjármögnun ekki samræmast orkulöggjöf Evrópusambandsins, sem er í gildi hér vegna aðildar Íslands að EES og "Orkupakka" 3, sem yfirtók OP#2. Á þetta verður að láta reyna, jafnvel fyrir dómstólum.

Það er hins vegar líka mjög æskilegt út frá öryggislegu sjónarmiði að staðsetja bitastæðar virkjanir utan við hin eldvirku svæði landsins.  Þar koma Vestfirðir vissulega upp í hugann, þar sem þar er lítil jarðskjálfta- og gjóskuhætta og talsvert um vatnsafl og auk þess hratt vaxandi orkuþörf og kröfur um raforkugæði frá atvinnulífinu.  

Í lok téðrar greinar skrifaði Elías:

"Það sleifarlag, sem núverandi löggjöf veldur í nauðsynlegum endurbótum á flutningskerfinu gengur ekki lengur. Næsti stormur, jafnvel enn verri, getur látið bíða eftir sér í mörg ár, en hann getur líka komið í næsta mánuði. Hér á landi gengur ekki, að stjórnvöld axli ekki að sínum hluta ábyrgð á raforkuöryggi þjóðarinnar.  Raforkufyrirtækin þurfa vinnufrið til að tryggja öryggið að sínu leyti, en fá ekki nægan stuðning í gallaðri löggjöf.  Alþingi þarf að láta til sín taka og setja réttan hlut ábyrgðarinnar á rétta aðila." 

Hér er komið að kjarna máls.  Núgildandi raforkulöggjöf er hreinlega ekki sniðin við íslenzkar aðstæður. Stjórnkerfið og Alþingi hafa flutt inn löggjöf, sem hentar ekki hér, þ.e.a.s. myndar ekki réttan ramma til lausnar á aðsteðjandi vanda landsins. Stjórnarráðið og sumir þingmenn kunna að hafa haldið, að það gerði ekkert til, en nú hafa náttúruöflin vonandi sjálf komið vitinu fyrir þá opinberu starfsmenn og stjórnmálamenn, sem um orkumálin eiga að véla.  Markaðurinn og Landsreglarinn geta ekki leyst aðsteðjandi vanda, af því að spilað er á tætingslega löggjöf til að koma í veg fyrir þá lausn, sem Landsnet og í sumum tilvikum orkuvinnslufyrirtækin hafa lagt til.  Alþingismenn bera ábyrgð á að gera orkulöggjöfina þannig úr garði, að ekki verði hér langvarandi aflskortur vegna vöntunar á nýjum virkjunum og tímabundinn orkuskortur vegna bilana í rafkerfinu af völdum veðurs, sem vænta má á hverjum áratugi.

Afleiðing eldingar ágúst 2012

   

 

 

 

 

 

 


Innviðabrestir og nútímaþjóðfélag fara ekki saman

Tæknivætt nútímasamfélag reiðir sig algerlega á tæknilega innviði landsins.  Ef þeir bresta, verður stórtjón, og af geta hlotizt slys. Ofmat á áreiðanleika innviða er jafnframt stórhættulegt og leiðir til rangra fjárfestinga með óþarfa áhættu fyrir fólk og fyrirtæki. Sem dæmi er lítið hald í að aflfæða þorp úr tveimur áttum, ef báðar eru frá sömu aðveitustöð í núverandi Byggðalínu. Hún var í upphafi (1974-1976) af vanefnum gerð í tímaþröng til að tengja byggðir Norðurlands, sem orkuskortur blasti við, með sem skjótvirkustum hætti við virkjanir sunnanlands, aðallega Akureyri með viðkomu í Varmahlíð í Skagafirði, á Laxárvatni í Húnaþingi, í Hrútatungu í Hrútafirði og í Vatnshömrum í Borgarfirði. Árið 1978 var Austurland tengt við Byggðalínu um aðveitustöð á Hryggstekk í Skriðdal. Tjaldað var til einnar nætur með stöðugleika,  flutningsgetu og veður- og seltuþol, og sofnuðu menn Þýrnirósarsvefni og sváfu þannig við ljúfan undirleik Landverndar o.fl. í næstum hálfa öld. Veturinn 2019 voru menn vaktir upp með andfælum, en hvað svo ?

Fyrir vikið skipta uppsafnaðar tapaðar tekjur af völdum orkuvöntunar, t.d. í Eyjafirði, tugum milljarða ISK, og tjónið af völdum straumleysis sömuleiðis.  Tjónið af völdum óveðurs og straumleysis á landinu 10.-12. desember 2019 má að töluverðu leyti rekja til veikleika í þessari löngu úreltu 132 kV Byggðalínu. Í heildina gæti þetta óveðurstjón numið mrdISK 5,0.

Það er því eftir miklu að slæðast að hámarka afhendingaröryggi raforku á landinu öllu, ekki sízt frá meginflutningskerfinu, hringtengingunni, sem nú er rekin á 132 kV, ásamt Vesturlínu á sömu spennu. Að velja dýrasta kostinn, sem er 220 kV jarðstrengur alla leið með spóluvirkjum á leiðinni til að vinna gegn rýmdarvirkni jarðstrengs á þessari spennu, er þó ekki þjóðhagslega hagkvæmasti kosturinn. Til þess er hann of dýr m.v. næstdýrasta kostinn og sparnaðurinn vegna minni rekstrartruflana of lítill m.v. hann. Slík jarðstrangslausn kostur kostar e.t.v. 300 MISK/km með spóluvirkjum (að aðveitustöðvum meðtöldum). 

Lækkun tjónkostnaðar með jarðstrengslausn er væntanlega lítil m.v. að reisa Byggðalínu sem 400 kV loftlínu og reka hana á 220 kV. Hefðbundnar 220 kV línur hafa ekki staðið sig nógu vel gagnvart seltu sunnanlands, og sama verður vafalaust uppi á teninginum í Byggðalínu.  Hins vegar hafa 400 kV línur staðið sig mjög vel, og þær eru ekki yfirskot, eins og sannaðist á Hallormsstaðahálsi á jólaföstu 2019, en þar eru nú 2 af 5 slíkum línum á landinu.  Kostnaðarmunur á þeim og hefðbundnum 220 kV línum er innan við 20 MISK/km.  Á innan við 20 árum myndi minni tjónkostnaður vega upp þennan fjárfestingarmun. Þess vegna er hann þjóðhagslega hagkvæmastur. Það verður að leggja áherzlu á það, að ekki verði nú tekin ákvörðun á grundvelli þess, sem hagkvæmast er fyrir orkufyrirtækin, því að þá verður ódýrarari og of óáreiðanleg útfærsla valin, heldur ber að velja lausn að teknu tilliti til tjóns almennings, heimila og fyrirtækja, sem forðast má með traustari lausn. Það heitir að láta almannahagsmuni ráða og velja þjóðhagslega hagkvæmustu lausnina.  

Vestfirðir voru sér á báti í þessu straumleysisveðri. Vesturlína gaf sig sem endranær í óveðrum og ætti Landsnet að undirbúa endurbætur á línunni með jarðsetningu og/eða styrkingu, þar sem reynslan sýnir, að bilunarhættan er mest.  Olíuknúin neyðarrafstöð á Bolungarvík, sem ætlað er að koma í stað Vestfjarðatengingar nr 2 við stofnrafkerfi landsins, var ræst og mun hafa gengið hnökralítið, þar til Vesturlína komst aftur í gagnið, þegar veðrinu slotaði. 

Samt sem áður drápust 400 þúsund laxaseyði á Tálknafirði vegna súrefnisleysis, en sjókvíarnar héldu, reyndar alls staðar á landinu.  Þegar spennuflökt er á orkufæðingunni, er alltaf hætta á, að dæluhreyflar dragi of mikinn straum, svo að varnarbúnaður þeirra rýfur hreyfilinn frá rafkerfinu.  Þetta tjón er mikið og tilfinnanlegt, því að það er hörgull á laxaseyðum í landinu, sem reyndar stendur laxeldinu fyrir þrifum sem stendur.  Fiskeldið þarfnast stöðugleika rafkerfisins, sem ekki fæst með loftlínum á Vestfjörðum.

Að sjókvíar fiskeldisfyrirtækjanna á Vestfjörðum og Austfjörðum skyldu standa af sér óveðrið 10.-12. desember 2019, sýnir, að þessar kvíar eru orðnar miklu traustari en áður, enda hafa fiskeldisfyrirtækin innleitt ströngustu staðla um búnað, rekstur og viðhald, í Evrópu, að fordæmi nýrra fjárfesta í greininni.  Sannast þar enn, að öflugir erlendir fjárfestar koma með nýja verkþekkingu, öryggiskröfur og stjórnunarhætti til landsins, sem annar atvinnurekstur dregur síðan dám af. Vestfirðingar og Austfirðingar hafa af þessu langa (bráðum tveggja alda) og góða reynslu.  Þetta var síðast staðfest í viðtali Morgunbaðsins 13. desember 2019 undir fyrirsögninni:

"Eldisfyrirtæki vel undirbúin":

"Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis á Austfjörðum, sem ræktar lax í sjókvíum á Reyðarfirði, segir, að sjóbúnaður félagsins sé hannaður til að standa af sér mjög vond veður.  "Kvíarnar geta staðið af sér 7-8 m ölduhæð, mun meira en það, sem gekk á núna í vikunni.  Einu áhrifin, sem veðrið hafði, voru, að það var ekki hægt að fara með fisk til slátrunar frá Reyðarfirði og til Búlandstinds á Djúpavogi í 2 daga", segir Jens í samtali við Morgunblaðið."

 

Laxeldi og öll þjónustustarfsemin í kringum það ásamt orkuskiptum krefjast þess, að virkjað verði á Vestfjörðum. Það er bæði vegna mjög aukinnar raforkuþarfar og nútímakrafna um raforkugæði. Þar eru vatnsaflskostir, sem ber að nýta strax í þessu augnamiði til að þjóna vaxandi orkuþörf Vestfjarða og auknum kröfum til afhendingaröryggis raforku, um leið og 66 kV kerfi og lægri spennustig landshlutans eru færð í jörðu. Við þetta þurfa Landsnet og Orkubú Vestfjarða með tilstyrk ríkisins (með arði frá orkusölu) að láta hendur standa fram úr ermum. Þróun innviðanna má ekki standa þróun athafnalífsins fyrir þrifum lengur. Flutningskerfi rafmagns, þjóðvegir og fjarskiptakerfi eiga löggjafarlega og skipulagslega að vera ríkismálefni. Með nútímalegri virkjanatilhögun samkvæmt Rammaáætlun Alþingis verður fórnarkostnaður (vegna minni ósnertra víðerna) mun minni en ávinningurinn.

Fiskeldi er hlutfallslega öflugasti vaxtarsproti íslenzka hagkerfisins um þessar mundir. Söluandvirði afurða fiskeldis hérlendis árið 2019 verður rúmlega mrdISK 20, og á 10 árum er búizt við rúmlega ferföldun upp í mrdISK 85, og á 20 árum er búizt við tæplega fjórtánföldun upp í mrdISK 270 samkvæmt hugmyndum Sjávarklasans.  Það er leitun að grein með viðlíka vaxtarvæntingar. Þetta gæti verið reist á væntingum um 200 kt/ár framleiðslu af laxi 2040 og verðinu 1350 ISK/kg að núvirði.  Vestfirðir gætu hugsanlega staðið undir helmingnum af þessu, hugsanlega með úthafseldi í bland við hefðbundið sjókvíaeldi, en aðeins með öflugum innviðum. Ríkinu ber að greiða götu þeirra.

Ástæða áætlaðrar verðhækkunar (70 %) er sú, að búizt er við skorti á próteinum á markaðinum vegna fólksfjölgunar og rýrnandi fiskveiða, vegna ofveiði, og landbúnaðar vegna rýrnandi jarðvegs af völdum ósjálfbærrar ræktunar (ofnýtingar rætarlands).  Þess vegna muni verð á kjöti og fiski hækka mun meira en almennt verðlag. 

Síðan er ný tækni að ryðja sér til rúms innan laxeldisins, þar sem er úthafseldi í enn stærri og öflugri kvíum en fjarðakvíarnar eru, sem innbyrða tífalt magn af fiski eða 10 kt og þola mikla ölduhæð.  Talið er, að burðarþol íslenzkra fjarða, þar sem laxeldi er leyfilegt, sé 150 kt/ár. Þá þyrfti 7 úthahafskvíar til að komast upp í 200 kt/ár og 270 mrdISK/ár. Einhverjar mætti hugsanlega staðsetja úti fyrir Vestfjörðum, aðrar úti fyrir Austfjörðum, og  myndu Vestmannaeyingar ekki einnig hafa hug á slíkum rekstri í framtíðinni ?   

Íslenzk yfirvöld hljóta að vera farin að huga að svæðum fyrir úthafskvíar.  Þar er að mörgu að hyggja, og fljótt á litið virðist grennd við Vestmannaeyjar koma til greina og einnig úti fyrir núverandi laxeldisfjörðum.  Norsk yfirvöld hafa þegar tekið frá 25 kkm2 (fjórðung flatarmáls Íslands) fyrir úthafskvíar. Í þeim er minni hætta á laxalús og enn minni hætta á erfðablöndun við villta laxa, og sterkari straumar en í fjörðunum hindra uppsöfnun úrgangs.  Þar þarf þess vegna ekki að "hvíla svæði". 

Í 200 mílum Morgunblaðsins, 20. desember 2019, var gerð grein fyrir þessu og birt  viðtal við Friðrik Sigurðsson, ráðgjafa á sviði fiskeldis og sjávarútvegs hjá norska fyrirtækinu INAQ: 

"Aðstæður til laxeldis á Íslandi eru svipaðar og í Norður-Noregi og framleiðslukostnaður í sjó ekki ósvipaður og þar.  Aftur á móti er kostnaðurinn mun hærri á Íslandi, þegar kemur að því að taka laxinn úr kvíunum, slátra honum og koma á markað erlendis, en í krafti stærðarhagkvæmni er vinnslu- og flutningsgeta norska laxeldisins allt önnur og kostnaðurinn lægri."

Í ljósi þessa er tvennt áhyggjuefni.  Leyfisveitingaferlið hérlendis fyrir starfs- og rekstrarleyfi í íslenzkum fjörðum, sem löggjafinn þó hefur afmarkað fyrir laxeldi, er torsótt og hægvirkt, eins og fyrir annars konar framkvæmdir. Stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir, að með torsóttu leyfisveitingaferli fyrir framkvæmdir er verið að draga úr fjárfestingarhvata, sem er neikvætt fyrir lífskjörin til skamms og langs tíma. Þetta hefur tafið nýja verðmætasköpun hérlendis og þar með veikt vaxtarsprota, þegar grein á borð við laxeldið ríður á að vaxa skjótt fiskur um hrygg. 

Að Hafrannsóknarstofnun skuli hafa dregið lappirnar í Ísafjarðardjúpi, er skrýtið m.v. aðstæður þar.  Er vitað um einhverja sjálfstæða innlenda laxastofna þar, eða eru þeir aðfluttir ?  Líkindi á skaðlegri erfðablöndun í Ísafjarðardjúpi verða hverfandi með nútíma tækni og skaðlegar afleiðingar stroks úr kvíum nánast engar.  Því ber að leyfa að hefja sjókvíaeldi þar í áföngum á grundvelli umhverfismats og reynslu af áföngunum. 

Þá er farið offari við álagningu auðlindagjalds á greinina, þegar heildarsölutekjur á kg í ágúst-október eru lagðar til grundvallar árið eftir.  Fyrir grein í miklu uppbyggingarferli er þessi skattheimta varasöm.  Eðlilegra er að leggja framlegðina (EBITDA) til grundvallar og gæta þess, að ekki sé tekið meira en 5,0 % af henni í auðlindagjald.  

Vonandi mun markaðssetning íslenzks laxeldis verða sem mest reist á fullvinnslu í neytendapakkningar. Þá munu fást svipuð verð og Færeyingar fá fyrir sín tæplega 90 kt/ár, því að heilbrigði eldisfisksins hér er tiltölulega gott.  Þá þarf hérlendis öflug fóðurframleiðsla, eins og í Færeyjum, að komast á legg.

Friðrik Sigurðsson hélt áfram: 

""Við erum að komast á það stig, að umgjörðin fyrir hefðbundið fiskeldi á Íslandi sé jafnlangt á veg komin og í Noregi, en því miður hefur kunnáttuleysi íslenzkra stjórnvalda litað umhverfi greinarinnar.  Stjórnvöld þurfa líka, fyrr en síðar, að marka stefnu um úthafseldi með aðkomu hagsmunaaðila og rannsóknarstofnana, þar sem m.a. væri gætt vandlega að líffræðilegum og umhverfislegum þáttum og þess freistað að greina, hvaða svæði myndu henta bezt til að stunda úthafseldi, s.s. m.t.t. hrygningarsvæða, verðmætra fiskstofna og áhrifa á viðkvæm haf- og botnsvæði á borð við kóralrif", segir Friðrik og bendir á, að sennilega myndu úthafskvíarnar þurfa að vera sunnan og austan við landið, svo að lítil sem engin hætta yrði á skemmdum af völdum hafíss.  "Eins þarf að taka með í reikninginn, að úthafseldið falli vel að umferð bæði fiskiskipa og vöruflutningaskipa, svara ýmsum hafréttarlegum spurningum og greina, hvort úthafseldið gæti haft áhrif á fiskveiðar.""

Það er leitt til þess að vita, að þekking á fiskeldi skuli vera af skornum skammti í atvinnuvegaráðuneytinu.  Þar verða menn að hrista af sér slyðruorðið og marka strax stefnuna til að greiða götu laxeldisins til vaxtar í samræmi við burðarþol og faglega unnið umhverfismat.  Strax á næsta ári (2020) þarf að leggja línuna fyrir úthafseldið, eins og Norðmenn hafa þegar gert.  Það er óþarfi að finna upp hjólið.

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismaður, er öllum hnútum kunnugur um fiskeldið.  Hann skrifaði grein í Fréttablaðið 4. desember 2019 undir fyrirsögninni:

"Að spila lottó með sannleikann":

"Landssamband veiðifélaga berst gegn uppbyggingu á laxeldi í sjó.  Erlendir auðkýfingar hafa keypt laxveiðiréttindi og jarðir hér á landi og vinna leynt og ljóst gegn atvinnuuppbyggingunni.  Stjórnvöld hafa frá upphafi verið varkár gagnvart sjókvíaeldinu.  Laxeldið er aðeins leyft á afmörkuðum svæðum, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum.  Annars staðar er það bannað.  Það er gert til að vernda innlenda laxastofna fyrir mögulegri blöndun við eldisstofninn, sem er upprunalega norskur.  Uppbygging sjókvíaeldisins hefur að öllu leyti fylgt þessum ráðstöfunum."

 

 "Laxveiði í vestfirzkum ám er lítil og tekjur óverulegar.  Enda er það ástæða þess, að laxeldið var leyft á Vestfjörðum.  Tekjur af allri stangveiði í landinu eru aðeins 4,9 milljarðar króna á ári.  Það er því ólíku saman að jafna framlagi þessara tveggja atvinnugreina til lífskjara íslenzku þjóðarinnar.  Nái Landssamband veiðifélaga markmiði sínu og kæfi í fæðingu laxeldi á Íslandi, verða afleiðingarnar alvarlegar, og almenningur fer á mis við mjög bætt lífskjör á næstu árum."

Landssamband veiðifélaga reisir andstöðu sína við laxeldið í sinni núverandi mynd á rangri áhættugreiningu.  Þar koma við sögu úrelt líkindi á stroki úr sjókvíunum og öfgakennd hugmynd um afleiðingarnar.  Í fyrsta lagi ná ekki allir stroklaxar upp í árnar; í öðru lagi tekst ekki alltaf hrygning hjá þeim og í þriðja lagi kemur náttúrulegt úrval í veg fyrir, að varanleg erfðablöndun eigi sér stað.  Þess vegna hefur hingað til engin merkjanleg erfðablöndun átt sér stað af völdum sjókvíaeldis hérlendis. 

Samanburður við Noreg er út í hött.  Norðmenn eru á hverjum tíma með um 1,0 Mt (milljón tonn) af eldislaxi í kvíum úti fyrir helztu laxveiðiám Noregs og voru um 40 ára skeið með mun veikari útbúnað, minna regluverk og slappara eftirlit en nú er við lýði.

"Rökin gegn laxeldinu eru veik.  Umhverfismengun er lítil.  Kolefnisspor er lágt.  Hvergi á Íslandi hafa laxastofnar spillzt eða eyðilagzt vegna blöndunar við eldislax.  Þrátt fyrir langvarandi markvissa blöndun innlendra stofna í fjölmörgum laxveiðiám um langt árabil á vegum veiðiréttarhafa, er ekki talin ástæða til að hafa áhyggjur af varanlegri erfðablöndun."

Í ljósi þessara upplýsinga, sem voru kunnar, að veiðiréttarhafar hafa staðið fyrir tilraunastarfsemi með erfðaeiginleika í íslenzkum laxveiðiám, virðast þeir vissulega kasta steinum úr glerhúsi, þegar þeir stunda áróður gegn laxeldi á afmörkuðum svæðum hérlendis í nafni hreinleika íslenzkra laxastofna.  Einhver mundi ávinna sér hræsnaraheitið af minna tilefni.  

"Blöndun milli eldisfiska og villtra á sér stað, en til þess að áhrifin leiði til varanlegra breytinga, þarf hún að vera mjög víðtæk og langvarandi.  Annars ganga áhrifin til baka tiltölulega fljótt fyrir tilstilli náttúruúrvalsins."

Erfðafræðin virðist ekki leika í höndum þeirra veiðiréttarhafa íslenzkra laxveiðiáa, sem harðast hafa gengið fram í gagnrýni sinni á laxeldi í sjókvíum.  Þeim væri sæmst að láta af árásum sínum og gera þess í stað hreint fyrir sínum dyrum um það, sem kalla má fikt þeirra með blöndun laxastofna í laxveiðiám landsins.  

Að lokum fylgir hér tilvitnun í grein Kristins H. Gunnarssonar um, að sífelldar vísanir veiðiréttarhafa til Noregs varðandi áhættuna hérlendis séu úr lausu lofti gripnar:

"Jón Helgi Björnsson vísar til laxeldis í Noregi og setur fram fullyrðingar um laxeldið þar.  Þar er ólíku saman að jafna.  Norskt laxeldi er um 100 sinnum umfangsmeira, og staðsetning eldiskvía þar er víða nálægt gjöfulum laxveiðiám.  Því er mun meiri hætta á varanlegri erfðablöndun í Noregi en á Íslandi.  Laxeldið er bannað á Íslandi nálægt öllum helztu laxveiðiám landsins.  Á Vestfjörðum er nánast engin laxveiði.  Það er ekki hægt að draga ályktanir af stöðu í Noregi og færa þær óbreyttar yfir á Ísland."

Ákvörðun Alþingis á sinni tíð um mjög miklar landfræðilegar takmarkanir á staðsetningu laxeldis í sjókvíum átti að þjóna sátt á milli hagsmunaaðila um þessa tiltölulega nýju atvinnugrein.  Öll þróun síðan þá hefur verið til minni áhættu við þessa starfsemi.  Það er mest að þakka nýjum fjárfestum í laxeldinu hérlendis, sem hafa mikla þekkingu til að bera bæði á starfseminni og markaðssetningunni.  Þessi atvinnustarfsemi er hreinlega að umbylta samfélaginu á Vestfjörðum til hins betra og tryggja sess Vestfirðinga í nútímasamfélaginu.  Svo sterkt er ekki hægt að kveða að orði um austfirzkt laxeldi, þar sem þar var sums staðar fyrir öflugt atvinnulíf, en laxeldið þar hefur þó þegar reynzt byggðum í vörn öflug kjölfesta.  

Þessi öfluga atvinnugrein, sem getur hæglega orðið ein af kjöfestu útflutningsatvinnugreinunum og að 20 árum liðnum skapað svipaðar útflutningstekjur og málmiðnaðurinn núna, sem stundum er kallaður orkukræfi iðnaðurinn.  Grundvallarþörf beggja þessara greina er stöðugleiki.  Þær gera báðar miklar kröfur til raforkugæða, og þær, ásamt fólkinu, sem þar starfar, á sama rétt til raforkugæða og þau fyrirtæki og fólk, sem nú býr við beztu raforkugæðin á landinu.  Það á ekki að slá af þeim kröfum.  Þær eru bæði tæknilega og fjárhagslega raunhæfar.  Vönduð vinnubrögð eru allt, sem þarf.  Fúsk er aldrei fýsilegur kostur.

 

 

 

 

   


Orkan, loftslagið og framlag Íslendinga

Orkumál heimsins eru samofin aukningu koltvíildis í andrúmsloftinu, af því að rúmlega fjórðungur árlegrar losunar, sem nú nemur 43 mrdt CO2/ár, myndast við raforkuvinnslu eða rúmlega 11 mrdt CO2/ár, og losun vegna umferðar í lofti, á láði og á legi er líklega svipuð.  Hinn helmingurinn kemur frá framleiðslutengdri starfsemi, stálvinnslu, sementframleiðslu, álvinnslu frá báxíti til áls, landbúnaði o.fl. Til samanburðar myndar bruni jarðolíu um þessar mundir um 15 mrdt/ár CO2.

Þjóðir heims hafa flestar staðfest s.k. Parísarsamkomulag um að draga úr losun CO2-jafngilda (a.m.k. 6 aðrar gastegundir eru sterkar gróðurhúsalofttegundir, og er CH4 (metan) þeirra algengust), svo að losun þeirra verði í mesta lagi 60 % árið 2030 af losuninni árið 1990. M.v. viðbrögð þjóða heims frá staðfestingu fulltrúa þeirra á Parísarsamkomulaginu 2016, en losun margra þeirra eykst enn, er borin von að ná þessu markmiði í heild.

Parísarsamkomulagið er án viðurlaga við að standa ekki við skuldbindingarnar og er að því leytinu til með sams konar ágalla og Kyoto-samkomulagið.  Frá Austur-Asíulöndunum kemur meira en helmingur heildarlosunar, svo að allt veltur á, hvernig þar tekst til. Þar er misjafn sauður í mörgu fé, og losun þar eykst enn, þótt aðallosarinn, Kína, hafi sýnt lit um tíma.

Hingað til hafa þjóðir farið í aðgerðir til að draga úr losun CO2, sem þær telja sig sjálfar hafa ávinning af. Ábyrgðartilfinning gagnvart gróðurhúsaáhrifum losunar er ekki mikil. Þar vegur þyngst hin heilsufarslega nauðsyn á að draga úr mengun, t.d. loftmengun í stórborgum, súrt regn og mengun grunnvatns.

Fáir eru í jafnhagstæðri stöðu og Íslendingar að geta undið sér í orkuskiptin með því að virkja sjálfbærar orkulindir og spara fé með því að leysa olíuvörurnar af hólmi með rafmagni, metani og repjuolíu, svo að eitthvað sé nefnt.  Nú er eitt norðanskot hins vegar búið að svipta hulunni af þeirri voveiflegu staðreynd, að flutningskerfi Landsnets er reist á brauðfótum og á öllu norðanverðu landinu stenzt það ekki norðanáhlaup. Við þær aðstæður er fullkomið óráð að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með rafmagni.

Evrópa, vestan Rússlands, með fáeinum undantekningum, aðallega Noregi, eru háð löngum aðdráttum orku á formi jarðefnaeldsneytis.  Þetta er ógn við þjóðaröryggi til lengdar og kostar mikil gjaldeyrisútlát, því að þessi orkuviðskipti eru í USD.   Það er þess vegna eftir miklu að slægjast að þróa raforkuvinnslu úr mengunarlitlum og kolefnisfríum orkulindum. Þar stendur samt hnífurinn enn í kúnni, því að meginland Evrópu, nema Frakkar, vill ekki kjarnorku og hefur fjárfest gríðarlega í vindmyllum og sólarhlöðum með tiltölulega litlum árangri.  Þegar eitthvað bjátar að veðri, eru þessir orkugjafar hins vegar fullkomlega gagnslausir, og allar virkjanir eru það, ef flutnings- og dreifikerfi landsins þola ekki aðstæður, sem orðið geta og orðið hafa í ólíkum landshlutum á hverjum áratugi frá rafvæðingu landsins, en afleiðingarnar eru hins vegar miklu verri í tæknivæddu nútímaþjóðfélagi.  (Það er t.d. ekki nóg að plægja í jörðu ljósleiðara um allt land, ef enginn hugsar út í þörf varaafls fyrir tengistöðvarnar.)

Hingað til hafa Evrópuþjóðirnar ekki þróað raunhæfan valkost við kolaorkuverin, sem hvert um sig er iðulega um 1 GW (1000 MW) að afkastagetu og geta verið stöðugt í rekstri með árlegum viðhaldshléum.  Vindmyllur eru yfirleitt nú um 5 MW og ganga slitrótt og framleiða aðeins um 28 % af fullri vinnslugetu sinni yfir árið á heimsvísu.  Á vindasömum svæðum, t.d. í Noregi, á Íslandi og í Færeyjum, getur nýtingin þó farið yfir 40 %.  Af þessum sökum þarf mjög margar vindmyllur í orkuskiptin, en uppsett afl þeirra í heiminum er yfir 350 GW, og til samanburðar er uppsett afl vatnsorkuvera um 990 GW og jarðgufuvera um 11 GW.

Nú hefur þing Evrópusambandsins (ESB) lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, sem hlýtur að ýta mjög á orkuskiptin þar á bæ.  Þar hefur t.d. hægt mjög á uppsetningu nýrra vindmyllna vegna mótmæla íbúanna, sem verða fyrir skertum lífsgæðum þeirra vegna, og þær eru skaðræði fyrir fuglalífið.  Mótmæli gegn nýjum kolefnislausum virkjunum mætti væntanlega berja niður með harðri hendi á grundvelli þessa yfirlýsta neyðarástands. Hér glepst Alþingi vonandi ekki á því að setja slíka löggjöf, en það verður að einfalda lykilframkvæmdaaðila orkustefnunnar störf sín með lagasetningu um að fella framkvæmdir við meginflutningskerfi raforku (tenging á milli landshluta) undir lög um landsskipulag.  Samgönguráðherra hefur lýst yfir skilningi á þessu í ljósi óverjandi tafa á nýrri 220 kV línu frá Brennimel norðan Hvalfjarðar um Vestur-, Norður- og Austurland, að Fljótsdalsvirkjun.  

Sama (og um vindorkuverin) er að segja af miklum samtengiáformum Framkvæmdastjórnar ESB á milli raforkukerfa álfunnar. Þau hafa á síðustu misserum sætt aukinni gagnrýni vegna fyrirferðarmikillar ásýndar, svo að ekki sé nú minnzt á almenning í Noregi og á Íslandi, sem óttast afleiðingar þess fyrir ásýnd landsins og fyrir verðlag orkunnar heima fyrir að senda stóran hluta afurða orkulindanna utan með sæstreng, en núverandi ástand flutningskerfa Landsnets krefst hins vegar tafarlausra úrbóta fyrir hag og velferð landsmanna sjálfra.

Þessi neyðarástandsyfirlýsing getur valdið því, að tryppin verði harðar rekin frá Brüssel við öflun verðmætrar kolefnisfrírrar orku frá Norðurlöndunum til að fylla í skörð vindmyllurekstrarins.  Með slíka orku í handraðanum að norðan þarf ekki lengur að brenna jafnmiklu jarðgasi á álagstímum, þegar vind lægir í stórum vindmyllugörðum Evrópu. Við eigum að sameinast í andstöðu við að tengja Ísland slíkum áformum.

Á Íslandi vill svo til, að lunginn af orkuskiptunum átti sér stað á tímabilinu 1940-1990, þegar kol, koks, gas og olía voru að mestu leyti leyst af hólmi fyrir eldamennsku og  upphitun húsnæðis.  Þetta var gert af öryggis- og fjárhagsástæðum, og bætt loftgæði voru viðbótarkostur, en hugtakið gróðurhúsaáhrif var þá ekki til, nema á meðal vissra vísindamanna.  Í lok þessa tímabils hófst hagnýting jarðgufu til raforkuvinnslu, en til að sjá, hversu mikla þýðingu hagnýting jarðhitans hefur fyrir orkubúskap Íslendinga, er eftirfarandi yfirlit áhugavert.  Þar er sýnd orkunotkun landsmanna í PJ (PetaJoule) ásamt hlutfalli hvers þáttar af heild árið 2016.  Við olíuvörur hefur verið bætt keyptu eldsneyti hérlendis á millilandaflugvélar og -skip, sem nemur 21,8 PJ, sem er 59 % af öðru eldsneyti og hefur aukizt síðan:

  • Vatnsorka   48,5 PJ = 18,5 %
  • Jarðhiti   149,2 PJ = 57,1 %
  • Olíuvörur   59,0 PJ = 22,6 %
  • Kol          4,8 PJ =  1,8 %
  • _____________________________
  • Alls       261,5 PJ = 100 %
Yfirlitið hér að ofan sýnir í sviphendingu, hversu góð staðan er á Íslandi fyrir orkuskiptaátak til að verða kolefnishlutlaus, því að hlutfall kolefnisfrírrar orkunotkunar landsmanna er nú þegar 75,6 % að millilandasamgöngum meðtöldum og 82,4 % án þeirra.  Yfirleitt sjást ekki hærri tölur en 50 % án millilandasamgangna, og Evrópusambandið sem heild er ekki hálfdrættingur á við það.
 
Nú hafa Færeyingar ákveðið að fara í sín fyrstu orkuskipti, en megnið af raforku Færeyinga og húshitunarorku kemur úr jarðolíu, því að þeir hafa hvorki á eyjum sínum jarðhita né vatnsorku, sem hagkvæmt sé að virkja í verulegum mæli.  Þeir hafa nú ákveðið að nýta vindorku eyjanna í þessu skyni í stað þess að óska eftir sæstreng frá Íslandi.  Það merkilega er þó, að þeir hafa leitað samstarfs við Íslendinga um vindmyllugarð, sem hafa mjög takmarkaða þekkingu og reynslu af rekstri vindmyllna, og sniðgengið þar með þjóðina, sem þeir eru í ríkjasambandi við, Dani, sem eru mikil útflutningsþjóð á vindmyllum og hafa þjóða mesta þekkingu og reynslu af rekstri þeirra. Eftir veðurhaminn á Íslandi í viku 50/2019 rifjast upp, að oft hvessir rækilega í Færeyjum, og við slíkar aðstæður verða vindmyllur ónothæfar.  Færeyingar verða þess vegna að halda í núverandi hitunarkerfi sín til vara, ef ekki á illa að fara. 
Um þessa baksviðsfrétt fjallaði Stefán E. Stefánsson í Morgunblaðinu 6. desember 2019 undir fyrirsögninni:
 
"Leiða orkuskipti í Færeyjum".
Verður nú gripið niður í þessi baksviðstíðindi af frændum vorum:
"Í dag koma 85 % þeirrar orku, sem nýtt er til húshitunar í Færeyjum, frá jarðefnaeldsneyti.
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, segir, að p/f Magn [dótturfyrirtæki Skeljungs] hafi séð tækifæri í því, þegar stjórnvöld í landinu settu á laggirnar verkefnið "2030", sem miðar að því, að stærstur hluti orkunotkunar heimila og bílaflota Færeyja eigi árið 2030 að koma frá endurnýjanlegri orku.
"Ef þær áætlanir eiga að ganga eftir, þurfa um 18 þúsund fjölskyldur að skipta úr olíukyndingu yfir í rafmagn", segir Árni Pétur. Hann bendir á, að í Færeyjum séu ekki sömu tækifæri til nýtingar jarðhita og fallvatns til raforkuframleiðslu og hér á landi og því hafi vindorkan orðið fyrir valinu.
"Stjórnvöld í Færeyjum stefna að því að vera með a.m.k. tvo vindorkugarða.  Í því skyni efndu þau til útboðs um uppbyggingu og rekstur slíks garðs í sumar, og þar varð Magn hlutskarpast.  Ríkið hefur svo skuldbundið sig til þess að kaupa alla þá orku, sem þar verður framleidd.""
 
Það er klókt hjá Færeyingum að láta ríkið kaupa alla þá orku, sem vindmyllurnar geta framleitt, því að þannig tryggja þeir íbúunum lágmarksverð, þar sem áhætta vindmyllufjárfestanna, Magns og færeyskra lífeyrissjóða, verður í lágmarki.  Væntanlega hefur færeyska ríkið möguleika á að draga niður í öðrum virkjunum, þegar framboð verður umfram eftirspurn.
Hér er um að ræða heildarfjárfestingu (samkvæmt fréttinni) upp á 2,2 mrdISK í framleiðslugetu 64 GWh/ár.  Hér er þá um að ræða uppsett vindmylluafl 21 MW m.v. 35 % nýtingu vindmyllnanna, og eru þetta þá líklega aðeins 6 vindmyllur.
 
Blekbóndi hefur reiknað vinnslukostnað þessara vindmyllna m.v. árlegan rekstrar- og viðhaldskostnað 3 % af stofnkostnaði, og varð niðurstaðan 29 USD/MWh (3,6 ISK/kWh), sem er ótrúlega lágur vinnslukostnaður. Íslenzk vindmylluverkefni gera yfirleitt ráð fyrir a.m.k. 70 % hærri vinnslukostnaði, svo að einhver kostnaðarliður kann að vera undanskilinn í baksviðsfrétt Morgunblaðsins, t.d. landnotkun og/eða uppsetningarkostnaður, nema Magn njóti betri kjara við t.d. innkaup en fjárfestar á Íslandi. Ef þetta er hins vegar rétt niðurstaða, getur hún skýrt áhugaleysi Færeyinga á rafmagni frá Íslandi, því að það er orðið dýrara en þetta í heildsölu, og er þá flutningskostnaðurinn alveg eftir.  Enn sýnir sig, að verðlagning raforku á Íslandi er ósamkeppnishæf.
 
Hér ríkir verðlagsstefna á raforku, sem felur í sér yfirverðlagningu, sem er bæði langt yfir meðalkostnaðarverði og yfir verði, sem samkeppnishæft getur talizt í alþjóðlegu samhengi.  Það hefur komið fram hjá garðyrkjubændum og gagnaverseigendum, og það á ekki síður við um málmiðnaðinn á Íslandi, kísiliðju, járnblendi og áliðnað.  Nýjasta dæmið er af áliðnaðinum, þar sem eitt fyrirtækjanna hefur leitað fyrir sér um kaup á 10 MW, en ekki fengið á sanngjörnu verði m.v. samkeppnisaðila þessa fyrirtækis.  Talsmenn Landsvirkjunar segja, að þeim beri að hámarka afrakstur þeirra auðlinda, sem þeim er falin forsjá fyrir.  Halló, þetta er heimalöguð sósa, sem kemur þannig út, að fyrirtækið lætur orkuna fremur renna framhjá virkjunum sínum en að selja hana á samkeppnishæfu verði.
 
Landsvirkjun hefur enn enga eigandastefnu og er á kolrangri braut undir núverandi stjórn, sem sveigt hefur af upphaflegri braut Landsvirkjunar, sem fólst í að efla atvinnu- og útflutningsstarfsemi í landinu með hóflegum eigin hagnaði.  Nú er aðeins horft á eigin hagnað, og ríkissjóður fitaður þá leiðina.  Hægt er að fita ríkissjóð enn meira, með því að Landsvirkjun stuðli beinlínis að aukinni verðmætasköpun og þar með atvinnusköpun í landinu.  Alþingi, þar sem sitja fulltrúar eigenda Landsvirkjunar, verður að marka þessu stóra og mikilvæga ríkisfyrirtæki heilbrigðari braut en það nú er á.  
 
Framlag Íslendinga til loftslagsvanda heimsins liggur í augum uppi.  Það er að nýta orkulindir sínar innanlands með hagnýtingu beztu fáanlegu tækni til hámarksnýtingar á virkjuðu afli og orku m.v., að mannvirkin falli sem allra bezt að umhverfinu og að framkvæmdir valdi engu óþarfa raski í náttúrunni. Á meðan völ er á að virkja vatnsföll og jarðgufu til raforkuvinnslu á Íslandi með ásættanlegum umhverfiskostnaði að flestra mati og með samkeppnishæfum tilkostnaði á hverja kWh, er líklegt, að þessar orkulindir verði ofan á til að anna vaxandi afl- og orkuþörf fyrir vaxandi mannfjölda og til orkuskiptanna. 
Í flestum tilvikum er umhverfiskostnaðurinn og vinnslukostnaður hærri fyrir annars konar virkjanir.  Í nafni loftslagsins og baráttunnar gegn hlýnun jarðar til skamms tíma, jarðsögulega séð, verða landsmenn þó líklega að slá af ýtrustu kröfum sínum um óraskaða náttúru. Það fer illa saman að hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og að vera samtímis á móti nánast öllum framkvæmdum í orkugeira, sem reistar eru á sjálfbærri nýtingu.
 
Spádómar um hámarksolíuvinnslu hafa hingað til ekki rætzt, en nú er ýmislegt, sem bendir til, að hún geti átt sér stað um 2020, en ekki árið 2030, eins og Alþjóða orkumálastofnunin býst við.  Hámarkið verður þá um 36 mrdtunnur/ár.  Olíuforðinn í jörðu er talinn nema 2000 mrdtu, sem þá mun endast í hálfa öld enn m.v. hámarksvinnsluna.
 
Á þessu ári, 2019, sem að vísu er með lítinn hagvöxt á heimsvísu, hefur olíueftirspurnin aðeins aukizt um 0,8 %.  Tilraunir OPEC-ríkjanna til að hækka verðið með vinnsluminnkunum hafa ekki tekizt, og þegar helmingur olíuvinnslu Sádanna lá óvígur um tíma á þessu ári, hafði það mjög skammvinn og lítil áhrif til verðhækkunar.  Viðskiptabann Bandaríkjanna á Venezúela og Íran, sem ráða yfir mesta og fjórða mesta olíuforða í heimi, hefur haft lítil áhrif á markaðinn.  Á þessu ári hefur olíuverðið hæst komizt í 75 USD/tu í apríl og síðan lækkað í rúmlega 60 USD/tu.  Því veldur að nokkru leyti leirbrotsolíuvinnsla ("fracking") Bandaríkjamanna, en hún hefur aukizt um 12 % frá í fyrra.
Segja má, að Sádar og Bandaríkjamenn ráði olíuverðinu.  Þegar olívinnsluríki skapa offramboð, minnka Sádar sína vinnslu, en þegar hillir undir skort, auka Bandaríkjamenn leirbrotið.  
Fjárfestar vilja sjá meiri hagnað af leirbrotinu í Bandaríkjunum, og þess vegna verður lagt í minni kostnað, sem fljótlega mun draga úr framleiðslu, en þróunin annars staðar mun auka framboðið strax á næsta ári.  Exxon-Mobil eykur nú framleiðsluna undan ströndum Guyana, og árið 2021 munu fjárfestingar undan ströndum Brasilíu skila sér í jafnvel 18 % meiri framleiðslu en í ár.
 
Á vegum norska olíusjóðsins var tilkynnt í október 2019, að hann myndi selja eignir sínar í olíuleitar- og -vinnslufélögum, en Equinor, norska olíufélagið, tilkynnti á svipuðum tíma, að á Johan Sverdrup, risavinnslusvæði í Norðursjó, væri byrjað að dæla upp olíu. 
M.v. núverandi olíuverð virðist offramboð olíu blasa við.  Þá mun verðið lækka, sem aftur mun auka eftirspurn.  Að öðru óbreyttu mun þá eftirspurnin enn vaxa, og hámarksvinnsla ("peak oil") verður ekki 2020, heldur á síðari hluta áratugarins. Það, sem getur kippt stoðunum undan eftirspurnaraukningu eru efnahagsleg stöðnun eða samdráttur hagkerfa heimsins og nýir orkugjafar.  Nýtni sprengihreyfilsins eykst með hverju árinu, um allt að 1,5 %/ár frá aldamótum, og úrval kolefnisfrírra farartækja mun aukast mikið á allra næstu árum.  Allt bendir þetta til hjöðnunar á olíunotkun á allra næstu árum.
 
Engu að síður má búast við, að a.m.k. þriðjungi olíuforðans verði dælt upp og honum brennt eða um 600 mrd/tu.  Tæplega 2000 mrdt CO2 koma frá þessum bruna, og til viðbótar kemur annar bruni, t.d. kola- og gasbruni.  IPCC telur, að fjarlægja þurfi 730 mrdt CO2 af núverandi koltvíildi í andrúmsloftinu til að halda megi hækkun lofthitastigs frá 1850 innan 1.5°C-2,0°C.  Þetta magn koltvíildis, sem fjarlægja þarf, mun þá 3,7 faldast , og það er ógjörningur að fjarlægja það allt.  Samkvæmt líkani IPCC, sem er reyndar ekki óskeikult, mun hitastigshækkunin þá nema yfir 3°C og skynsamlegast er að rannsaka, hvernig bezt verði brugðizt við. Þurfum við t.d. að hanna innviði m.v. meiri öfgar í veðri ?
 
 
 
 

 


Er rétt að breyta lífsháttum í þágu loftslagsins ?

Því er haldið að fólki, að heimurinn sé á heljarþröminni.  Dæmi um þennan áróður birtist landsmönnum á s.k. Borgarafundi Kastljóss RÚV í viku 47/2019, og í haust hafa verið sagðar dramatískar fréttir af bráðnun jökla á Íslandi, og hið sama gerist nú í Ölpunum.  Það er látið í veðri vaka, að þetta sé eitthvert einsdæmi, en það er fjarri lagi.  Á Landnámsöld voru jöklar minni en nú, og var t.d. Vatnajökull aðeins svipur hjá sjón og í a.m.k. tvennu lagi, enda nefndur Klofajökull. Hverju sæta hitastigstoppar með um 1000 ára millibili á núverandi 10 þúsund ára hlýskeiði ?  Ekki koltvíildislosun manna, þótt hann þeir hafi að vísu notað eldinn, þegar þeir brutu undir sig land til landbúnaðar.

Það er engum blöðum um það að fletta, að á síðustu öld hlýnaði á tímabilunum 1920-1940 og 1980-2000 og líklega er enn að hlýna.  Ágreiningurinn stendur um af hvers kyns völdum, og hversu mikil áhrif aukinn styrkur koltvíildis úr um 290 ppm við upphaf iðnvæðingar og upp í núverandi 410 ppm koltvíildisjafngildis og áfram upp eru og verða munu.  Sömuleiðis er bullandi ágreiningur um, hvernig viðbrögðunum á að verða háttað. Eitt virðast þó flestir vera sammála um; það er að fara í aðgerðir, sem minnka losun koltvíildis og koma viðkomandi þjóðfélagi jafnframt beint að gagni að öðru leyti.  Vegna stöðu orkumálanna, landrýmis og gróðurfars  hérlendis dugar þetta langleiðina hérlendis innan tímamarkanna til 2040, en á heimsvísu alls ekki, m.v. núverandi tæknistig.  

Þegar reyndar eru aðferðir hérlendis, sem hafa einvörðungu kostnað í för með sér, en engan ávinning umfram að minnka lítilsháttar CO2 í andrúmsloftinu, er vert að hafa í huga, að losun af völdum fólks á Íslandi er aðeins brot af því, sem landið sjálft, náttúran, losar, og þess vegna munar lítið um streð okkar íbúanna og nánast ekkert í heimssamhengi. Losun frá eldfjallinu Kötlu hefur verið mæld af vísindamönnum og reynzt vera 12-24 kt/shr eða um 6,6 Mt/ár CO2, sem er 30 % meira en öll losun manna, nema frá flugi og millilandaskipum.  Eldfjöllin eru nokkur, og þegar gýs, að jafnaði á 5 ára fresti, margfaldast losunin.  Áhrif "homo sapiens" hérlendis eru dvergvaxin, þegar þau eru sett í náttúrulegt, samhengi. Við mat á kröfum um róttækar breytingar á lífsháttum hérlendis til að draga úr losun, sem engu breytir, ber að setja hana í þetta náttúrulega samhengi.  Einelti á hendur þeim, sem setja fram efasemdir við hjarðhegðunina, eins og greina mátti á s.k. Borgarafundi Kastljóss RÚV í nóvember 2019, verður að flokka sem sefasýkislega hegðun fremur en hún sé reist á rökhugsun um gagnsemi við að draga úr hitastigssveiflum á jörðunni.   

Öll viðbrögð, sem eitthvað munar um, hafa mikil áhrif á lífshætti manna.  Tökum dæmi af fluginu. Gróðurhúsaáhrif af bruna jarðefnaeldsneytis í háloftunum eru miklu meiri en á jörðu niðri, talin vera allt að þreföld og vera þá 9,0 t CO2eq á hvert tonn þotueldsneytis.  Ekki virðist alltaf vera tekið tillit til þessa í útreikningum.

Fyrirtæki í Evrópu eru nú farin að beina starfsfólki sínu, sem "þarf" að leggja land undir fót, í járnbrautarlestir í stað flugvéla.  Fyrirtækið Klarna Bank AB, sem er sprotafyrirtæki á sviði greiðslumiðlunar, bauð 600 starfsmönnum höfuðstöðva sinna í Stokkhólmi til veizlu í Berlín í september 2019 til að fagna söfnun MUSD 460 hlutafjár í sprotafyrirtækinu.  Fólkinu var ekki stefnt út á Arlanda í 1,5 klst flug til Tempelhof, eins og búast hefði mátt við fyrir nokkrum misserum, heldur á aðaljárnbrautarstöð Stokkhólms í 15 klst lestarferð til Berlin Hauptbahnhof. 

Fyrirtækið hefur bannað starfsmönnum allar flugferðir á sínum vegum innan Evrópu og latt til langflugs.  Robert Büninck, yfirmaður Klarna í Þýzkalandi, segir, að það sé stefna fyrirtækisins að verða kolefnishlutlaust. (Landsvirkjun hefur sett sér slíkt markmið 2025 og ætti ekki að verða skotaskuld úr því.)  Það verður að taka fram, að þótt sænska lestin sé knúin rafmagni, er hún ekki þar með kolefnisfrí, að vísu mun kolefnisfrírri á sænskri jörð er þýzkri. Ef kolefnisspor járnbrautarlestarinnar og flugvélarinnar á þessari leið yrði greint út í hörgul með stáli, áli og landþörf og öðrum þáttum, gæti brugðið til beggja vona um, hvor ferðamátinn hefur vinninginn, hvað kolefnisspor á mann áhrærir.  Ef þau hefðu hins vegar siglt á seglbáti að hætti Grétu Thunberg, hefðu þau minnkað kolefnissporið verulega, en slíkt hefði orðið sprotafyrirtækinu afar dýrt vegna langrar fjarvistar starfsmanna, og sennilega lækkað virði þess á hlutabréfamarkaði verulega, og jafnvel riðið því að fullu.  Þetta sýnir vel ógöngurnar, sem Vesturlandabúar geta ratað í fyrir hreinleikaímyndina.

"Flygskam", flugskömm eða flugsamvizkubit er nú tekið að hrella Svía, og SAS AB tilkynnti í haust, að flugkm þeirra hefði fækkað um 2 % á tímabilinu 1.11.2018-31.07.2019 m.v. sama tímabil árið áður. SAS ætlar kannski að bæta þetta upp með fjölgun flugferða til Íslands, sem þegar hefur verið tilkynnt. Sænska Isavia afgreiddi 9 % færri innanlandsflugfarþega á sama tímabili í ár m.v. jafnlengd 9 mánuðum áður.  Þannig virðist innanlandsflug á undanhaldi víðar en hér, og sumir stjórnmálamenn í Evrópu eru að undirbúa lagafrumvörp um að banna innanlandsflug að mestu.  Spurningin er, hvort vönduð greining á afleiðingum slíkra þvingunaraðgerða liggur að baki, eða leiða þær e.t.v. úr öskunni í eldinn ?

Þar sem við höfum engar járnbrautarlestir á Íslandi, og fyrir þeim er heldur enginn rekstrargrundvöllur, virkar innanlandsflugið sem okkar lestir og ætti að líta á sem þátt í almenningssamgöngum til að tengja saman landshlutana. Það er slæmt, hversu hratt fjarar undan því núna, því að slíkt leiðir aðeins til meiri umferðar á vegum landsins með aukinni hættu, sót- og tjörumyndun í lofti (nagladekk) og jafnvel kolefnisspori, sem slík breyting hefur í för með sér.

Innanlandsflug mun sennilega um árið 2030 verða umhverfisvænna en nokkur fararmáti á landi, þar sem innanlandsvélar verða með tengiltvinn orkukerfi og munu taka á loft og lenda með litlum hávaða og mengunarlaust.  Innanlandsflug getur orðið aðalalmenningssamgöngumátinn á milli landshluta, því að það sparar mikinn tíma og verður tiltölulega ódýrt með mun lægri rekstrarkostnaði en nú, þótt stofnkostnaður verði fyrst um sinn hærri.

  Innanlandsflug á þess vegna framtíðina fyrir sér, og tímabært fyrir stjórnvöld að hætta að greiða niður strætóferðir, sem skekkja samkeppnisstöðuna, hringinn í kringum landið, um leið og fella ætti niður opinber gjöld af innanlandsfluginu og niðurgreiða það tímabundið, eins og áform eru uppi um á Alþingi.

Þann 25. nóvember 2019 birtist í Morgunblaðinu áhugaverð grein um þessi tímamót flugsins:

"Rafmagnsflug og orkuskipti",

eftir Friðrik Pálsson, fyrrverandi forseta Flugmálafélags Íslands, og Matthías Sveinbjörnsson, núverandi forseta Flugmálafélags Íslands.  Verður nú gripið niður í grein þeirra:

"Við ætlum ekki í þessari stuttu grein að þreyta lesendur á tölum, en getum fullyrt, að rafvæðing flugsins er komin á fulla ferð.  Þegar í dag eru nokkrar tilraunaflugvélar að fljúga, og þeim fjölgar bara á næstu mánuðum.  Fyrst um sinn eru það litlar flugvélar til kennslu og þjálfunar, en mjög fljótlega koma fram stærri vélar til farþegaflugs á styttri flugleiðum.  Fjöldi fyrirtækja er að hanna, þróa og prófa rafmagnsflugvélar, og vitað er um samstarf risafyrirtækja í flug- og rafmagnsiðnaðinum, sem mun skila merkilegum flugvélum á markaðinn innan tíðar."

Hér eiga höfundarnir sennilega við þróunarsamstarf þýzka raftæknirisans Siemens og evrópsku samsteypunnar Airbus, og ekki er að efa, að bandarískir framleiðendur og jafnvel kínverskir ætla sér að sinna þessum markaði líka.  Á 4. áratugi þessarar aldar munu flugfarþegar frá Íslandi til Evrópu vafalítið fara megnið af leiðinni á farkosti knúnum íslenzkri orku. Þetta mun hafa byltingarkennd áhrif á viðhorf almennings til flugs og flugvalla.  Reykjavíkurflugvöllur getur t.d. gengið í endurnýjun lífdaganna með meiri notkun og minni takmörkunum vegna meiri eftirspurnar og minni hávaða, óþefs og sótagna.

"Margir telja, að innanlandsflug með rafflugvélum á styttri leiðum bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, og þar með hérlendis, verði orðið að veruleika mun fyrr en ætla mætti, jafnvel innan 7-10 ára.  Rekstrarkostnaður við floginn km í rafflugi hefur verið áætlaður u.þ.b. 70 %-75 % lægri [en í] flug[i] með hefðbundnum flugvélum.
 
Þetta er svipað hlutfall og á við um rafmagnsbíla við íslenzkar aðstæður og gæti þýtt 25 % lækkun á árlegum kostnaði flugvélar og þar með verði farmiða í upphafi tengiltvinnflugvéla og síðan lækkandi árlegan kostnað með lækkandi stofnkostnaði rafmagnsflugvélanna, og hefur þá ekki verið tekið tillit til hugsanlegra kolefnisgjalda á innanlandsflug í framtíðinni.
 
 "Talið er, að um leið og innanlandsflug með rafflugvélum verður að veruleika, muni mikilvægi flugs í samgöngum aukast til muna, jafnvel þannig, að flugvellir, sem lagðir hafa verið af, verði opnaðir á ný, og fjölgun farþega í flugi á styttri flugleiðum muni verða mikil."
 
Þetta er trúleg framtíðarsýn fyrir þróun umferðar á Íslandi, þótt svipuð þróun (orkuskipti) verði í bílaflota landsmanna.  Ástæðan er tímasparnaðurinn og öryggið, en það er meira í loftinu en á vegunum og svo mun áfram verða, jafnvel fluginu enn meir í hag, vegna fjölgunar bíla á vegum landsins.  
 
"Á Íslandi mun þetta þýða gjörbreytt landslag í samgöngum innanlands, þar sem mikilvægi flugsins mun vaxa, mikilvægi Reykjavíkurflugvallar mun verða öllum ljósara en nokkru sinni fyrr, og aðgengi landsbyggðarinnar að stjórnsýslu og heilbrigðisþjónustu þjóðarinnar verður betra en áður hefur þekkzt.  Rafflug til annarra landa mun fylgja í kjölfarið."
 
Nýtni þotuhreyfla hefur batnað um u.þ.b. þriðjung á undanförnum þremur áratugum, en vegna samhliða fjölgunar farþegakm hefur eldsneytisnotkun flugvélanna samt vaxið, og á þessu ári, 2019, munu þær losa tæplega 1 milljarð tonna (1 Gt) af CO2, aðallega í háloftunum.  Þetta er þó aðeins um 2,5 % af heildarlosun mannsins, en er þó einn aðallosari koltvíildisígilda, að undanskildum orkuverum og öðrum vélknúnum fartækjum, og hækkar upp í rúmlega 7 %, ef tekið er tillit til aukinna gróðurhúsaáhrifa við losun í háloftunum.
 
Losun vegna lestarferða per farþegakm er háð orkugjafanum, en hefur verið áætluð að vera á bilinu 0-25 % af losuninni per farþegakm í flugi, en spurning er, hvort þar er tekið tillit til kolefnisspors framleiðslunnar á efniviðunum (járnbrautarspor, lestarvagnar, flugvélar) eða einvörðungu rekstrarins.  
Þá er það mataræðið og kolefnissporið.  Landbúnaðurinn sem atvinnugrein er einn mesti losunarvaldurinn á heimsvísu, og það er hægt að minnka þessa losun verulega með breyttum aðferðum og neyzlu. Á sl. 60 árum hefur kjötneyzla í heiminum meira en tvöfaldazt, og hún eykst enn. Neyzlunni er misskipt, og neyta Bandaríkjamenn þrefalds meðaltals kjötneyzlu heimsins á mann.  
Búfénaður veldur 12 % heildarlosunar koltvíildis, sem flokkaður er af mannavöldum, og kemur mest frá kúnum. Hungur í heiminum hefur farið minnkandi undanfarna áratugi, þar til fyrir 5 árum, að það tók að vaxa á ný.  Ef hitastig hækkar enn um 1,2°C, spá sumir vísindamenn því, að hveitiuppskeran muni minnka um 10 %, og hitabylgjur skemma aðra uppskeru, sem mannkyn og dýr lifa á.
 
Það er þess vegna nauðsynlegt, einnig heilsunnar vegna, að snúa sér að öðrum próteingjöfum.  Þar kemur villtur fiskur til skjalanna, en veiðar fara árlega minnkandi vegna ofveiði og breyttra lífsskilyrða í höfunum, svo að fiskeldi hlýtur að eiga sér mikla framtíð.  Ef mannkynið myndi hætta að leggja sér kjöt til munns (óraunhæft dæmi), þá mundi losun af þess völdum minnka um 8 mrd t/ár (8 Gt/ár)-svipað og losun myndi minnka við að loka 2000 kolakyntum orkuverum.  Með öðrum orðum, 1 meðalstórt kolakynt raforkuver, með uppsett afl 1 GW, losar 80 % af allri áætlaðri losun íbúa Íslands.
 
 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband